Í Tímanum 1995 fjallar Ari Trausti Guðmundsson um „Eldgos á Reykjanesskaga“ í fjórum liðum. Hafa ber í huga að skrif Ara Trausta eru árfjórðungstug áður en raunin varð á eldgosinu í Geldingadölum Fagradalsfjalls árið 2021:
I.
Ari Trausti Guðmundsson, jarðeðlisfræðingur.
„Stundum kviknar umræða um jarðskjálfta og eldgos nálægt byggð og oftast fjarar hún jafn skjótt út. Um daginn vakti Ragnar Stefánsson jarðskjálftafræðingur upp slíka umræðu með því að minna á að skjálftar á stærðarbilinu 6-7 geta orðið á Reykjanesskaga og ennfremur að þar geta orðið eldgos skammt frá bæjum eða frá Reykjavík.
II.
Árin 1929, 1933 og 1968 urðu jarðskjálftar á Reykjanesskaga á bilinu 6,0-6,3 á Richterskvarða. Á 10., 12. og 13. öld gengu eldgosahrinur yfir á skaganum, síðast gaus þar á 14. öld. Hrinurnar urðu í þremur af fjórum eldstöðvakerfum skagans; allar röð fremur lítilla sprungugosa. Reyndar féll töluverð gjóska úr sumum þeirra, vegna þess að þau urðu í sjó undan Reykjanesi, og hraun náðu allvíða, vegna þess aö eldsprungur opnuðust í skástígum og löngum reinum. Það rann m.a. til sjávar milli Krýsuvíkur og Grindavíkur og við Straumsvík. Núverandi byggð er sumsstaðar nærri eldstöðvum eða innan kerfanna, t.d. Grindavík, en annars staðar kynni hraun að ná inn í eða að byggð, t.d. í Hafnarfirði, Þorlákshöfn, Hveragerði og Reykjavík. Víða eru mannvirki í hættu, svo sem skíðamannvirki, vegir, stök hús, raflínur og vatnslagnir utan byggðanna.
III.
Stóra-Eldborg.
Ragnar minnti réttilega á þessi atriði og það hafa aðrir jarðvísindamenn oft gert, þ.á m. höfundur pistilsins; og stundum fengið bágt fyrir. Enginn, hvorki sérfræðingarnir né almenningur, má sýna of mikla viðkvæmni í þessu efni; hún skemmir fyrir réttum viðbrögðum.
Þrjú eldgos ofan Grindavíkur á árunum 2023 0g 2024.
„Auðvitað er hættan ekki ekki mjög mikil, en hún er raunveruleg og eykst með hverjum áratug sem líður frá síðasta stóra skjálfta eða síðustu goshrinu (sbr. 500-600 árin). Svo ber að gæta að því að sprungugos, sem framleiða 100-300 milljónir rúmmetra af gosefnum, valda seint miklu tjóni (vegna stærðar skagans) nema ef sprungur opnast mjög nálægt byggð. Því er vart svo farið á þessum slóðum, nema ef vera skyldi næst Grindavík.
Gos af umræddri stærð á Bláfjallasvæðinu ylli væntanlega litlu sem engu tjóni í þéttbýli skagans; fyrst og fremst á mannvirkjum á 20-50 ferkílómetra svæði hið næsta gosstöðvunum, ef svo bæri undir.“
Skjálfti í Bláfjöllum nærri 7,0 að stærð gæti hins vegar valdið nokkru tjóni á mannvirkjum og lögnum á miklu stærra svæði.
IV.
Eldgos í Geldingadölum 2021.
Ummæli Ragnars er í raun enn ein óbein beiðnin um að gerð verði vönduð úttekt á vá vegna eldgosa og jarðhræringa á öllum Reykjanesskaga. Samhliða þarf að útbúa upplýsingar um viðbrögð almennings og treysta þau viðbrögð og viðbúnað sem Almannavarnir hafa þegar undirbúið á landsvæðinu.
Jarðskjálftar á Reykjanesi í júlí 2004.
Skjálftahrinurnar á Hengils- og Hellisheiðarsvæðinu geta boðað meiri virkni, en þó ekki endilega. Gliðnun lands er samt óhjákvæmileg þar sem og innan hinna sprungukerfanna þriggja, og kvika er í nægu magni undir skaganum. Við megum ekki álykta annað og vera óviðbúin hristingi eða eldsumbrotum á hálendi skagans. Nú þarf að setja saman lag- og samhentan starfshóp.“
Faxi – forsíða 2020.
Í Faxa 2020 skrifar Dagný Maggýjar um að „Reykjanesið skelfur – Lifandi tilraunastöð jarðfræðinnar„:
„Reykjanesið minnti hressilega á sig á liðnu ári með töluverðum jarðhræringum svo mönnum þótti nóg um. Það má því segja að Reykjanesið sé lifandi tilraunastofa jarðfræðinnar enda skaginn einstakur á heimsvísu og viðurkenndur UNESCO Global Geopark.
Sérstaða Reykjaness felst í flekaskilunum á Mið-Atlantshafshryggnum sem ganga í gegnum Reykjanesskagann endilangan. Á flekaskilunum eiga sér stað bæði jarðskjálftar og eldgos sem er afleiðing kvikuhreyfinga þegar Norður-Ameríku- og Evrasíuflekinn færast í sundur, að jafnaði um tvo sentimetra á ári. Það eru þessir flekar sem eru grunnurinn að vinsælum áfangastað ferðamanna á Reykjanesi er kallast Brú milli heimsálfa en þar er hægt að ganga á milli Ameríku og Evrópu, svona hugmyndafræðilega séð.
Reykjanes – flekaskilin!? Stóra-Sandvík fjær.
Sýnileiki flekaskilanna gerir Reykjanes einstakt á heimsvísu og varð það til þess að það hlaut inngöngu í alþjóðlegt netjarðvanga, Global Geoparks Network og European Geoparks Network en samtökin eru studd af UNESCO (United Nations Educational, Scientific and Cultural Organization). Reykjanes Geopark er annar jarðvanga á Íslandi og er hann samstarfsvettvangur sem byggir á því að nýta sérstöðu svæðisins til verðmætasköpunar.
Jarðskjálftar í og við Fagradalsfjall.
Í janúar hófst skjálftahrina á Reykjanesi sem ekki sér fyrir endann á og gefur til kynna mikla spennulosun á Reykjaneshryggnum. Hún er sú öflugasta sem mælst hefur á Reykjanesi frá því að stafrænar mælingar hófust árið 1991 og hefur hún mælst frá Eldey og að Krýsuvík. Velta menn því fyrir sér hvort kominn sé tími á eldgos á Reykjanesi en sagan virðist styðja það. Stóra spurningin er hins vegar hvenær?
Land fer að rísa
Þorbjarnarfell – misgengi.
Upptökin voru við bæjarfjall Grindvíkinga, Þorbjörn, um 2 km austur af Svartsengisvirkjun en þar mældust margir skjálftar yfir þrá að stærð og land fór að rísa sem þótti gefa tilefni til þess að fylgjast sérstaklega náið með framvindu á svæðinu.
Svartsengisvirkjun.
Vegna nálægðar við Grindavík, Svartsengi og Bláa lónið olli það þó nokkrum áhyggjum og var boðað til borgarafundar vegna málsins og óvissustig almannavarna virkjað. Íbúar í Grindavík voru að vonum nokkuð skelkaðir en ef til eldgoss kæmi gæti þurft að flytja allt að fimm þúsund manns á brott, það er íbúa Grindavíkur og starfsmenn Svartsengisvirkjunar og Bláa lónsins, að ógleymdum ferðamönnum á svæðinu. Það lýsti vel ástandinu að margir íbúar voru með ferðatösku í skottinu sem dugði fjölskyldunni nokkra daga fjarri heimilinu ef til eldgoss kæmi og fólk þyrfti að flýja í skyndi. Landrisið mældist á flekaskilum og innan eldstöðvakerfis Svartsengis sem er ýmist talið sjálfstætt eldstöðvakerfi eða talið vera hluti stærra kerfis sem kennt er við Reykjanes. Að mati sérfræðinga gat það mögulega stafað af kvikuinnskoti sem svo framkallaði umtalsverða jarðskjálftavirkni á svæðinu norðan við Grindavík.
Orkuöryggi Suðurnesja í uppnámi
Svartsengi.
Ljóst varð að tryggja þurfti orkuöryggi Suðurnesja ef Svartsengisvirkjun yrði óstarfhæf um lengri eða skemmri tíma og reisa þyrfti viðeigandi mannvirki til að verja byggðina í Grindavík fyrir hraunstraumi. Var mælst til þess að grípa ætti til slíkra ráðstafana fyrr en síðar.
Kleifarvatn vestanvert.
Spennulosunin á Reykjanesi færði sig úr stað um sumarið en þann 19. júlí reið stór skjálfti yfir að stærðinni 5 og voru upptök hans sex kílómetra vestan við Kleifarvatn. Í kjölfar hans fylgdu mörg hundruð eftirskjálftar, þar af að minnsta kosti tveir yfir 4 stig en upptök þeirra voru vestar á Reykjanesi. Ekki urðu slys á fólki og eignatjón var smávægilegt.
Suðurnesjamenn eru vanir jarðskjálftum á Reykjanesi enda eru þeir alltíðir og má rekja það til þess að jarðfræði skagans er sérstök að mörgu leyti. Þar eru engar hefðbundnar megineldstöðvar heldur liggur brotabelti eftir skaganum endilöngum með mikilli skjálftavirkni sem markar skil milli jarðskorpuflekanna. Sú skjálftavirkni kemur í hrinum með nokkurra áratuga millibili en sumstaðar, eins og nærri Krýsuvík og á Reykjanesi, er jarðskjálftavirkni nánast viðvarandi.
Er Reykjanesið komið á tíma?
Gunnuhver á Reykjanesi.
Þótt að tímabil jarðskjálfta hafi áður gengið yfir Reykjanes hafa eldstöðvarnar látið lítið á sér kræla undanfarnar aldir, en hugsanlega er að verða breyting þar á.
Rannsóknir benda til þess að á síðustu árþúsundum hafi skipst á eldgosaskeið sem standa með hléum í fáeinar aldir en síðan komi um 700–800 ára hlé. Síðustu eldgos á Reykjanesskaga urðu fyrir um 800 árum og má því ætla að Reykjanesið sé komið á tíma. Talið er að eldgosaskeiðin hefjist austarlega á skaganum og færist síðar til vesturs og miðað við gossöguna síðustu árþúsundin mætti því álykta að líkur færu vaxandi á upphafi nýs eldgosaskeiðs á næstu áratugum eða öld. Slíkar ályktanir byggja þó ekki á langri reynslu og telja sérfræðingar varhugavert að taka of mikið mark á þeim þótt þær gefi vísbendingar.
Reykjanesskagi – sveimar.
Á Reykjanesskaga eru nokkur eldstöðvakerfi sem raðast eftir skaganum endilöngum. Vestast er Reykjaneskerfið, þá Svartsengi, síðan Fagradalsfjall, þá Krýsuvík, Brennisteinsfjöll og yfir skaganum gnæfir svo Hengillinn sem er stórt og öflugt eldfjall. Eldgos á Reykjanesskaga geta orðið á sprungusveimumsem teygja sig frá suðvestri til norðausturs og þar getur gosið hvar sem er. Yngstu hraunin hafa runnið á sögulegum tíma, eftir landnám, og sum þeirra ná niður í byggð, til dæmis í Grindavík og Vallahverfi í Hafnarfirði.
Kleifarvatn.
Stóri skjálftinn í júlí þótti boða tíðindi um fleiri stóra skjálfta í framhaldi. Sú spá rættist þann 20. október þegar einn stærsti skjálfti sem mælst hefur á Reykjanesi reið yfir en hann var 5 stig að stærð og fannst víða. Að þessu sinni voru upptök hans austan við Kleifarvatn sem þótti boða tíðindi því þar segir skjálftasagan okkur að skjálftar geti orðið öflugri en þeir sem eru vestan við Kleifarvatn.
Þar hafa stórir skjálftar átt upptök sín eins og skjálftinn í Brennisteinsfjöllum árið 1968 sem var af stærðinni 6 og enn stærri skjálfti reið yfir 1929 sem var 6,5 að stærð og olli þó nokkrum skemmdum í höfuðborginni.
Kleifarvatn.
Ekkert orsakasamband virðist vera á milli jarðskjálftanna stóru í júlí og október og goshættu í fjallinu Þorbirni við Grindavík að mati sérfræðinga. Þykja harðir jarðskjálftar í nágrenni Krýsuvíkur engin sérstök vísbending um yfirvofandi eldgos heldur eru þeir taldir vera hluti af sífelldri og langvarandi virkni á svæðinu. Slíkir skjálftar koma á nokkurra áratuga fresti og tengjast hreyfingum jarðskorpuflekanna.
Gígur í Illahrauni ofan Svartsengis.
Síðast gaus á Reykjanesi á 13. öld en þá urðu nokkur eldgos með hléum á tímabilinu 1210-1240 og voru kölluð Reykjaneseldar. Hins vegar eru litlar líkur taldar á sprengigosi á Reykjanesi þótt þau séu algengust á Íslandi en þó er Krýsuvík undanskilin en þar er jarðskorpan þynnri en víðast annars staðar á landinu.
Þorvaldur Þórðarson, eldfjallafræðingur.
Mikilvægt að meta hættuna sem getur fylgt gosi. Þorvaldur Þórðarson, eldfjallafræðingur, hefur sagt að eldgos gæti orðið hvað úr hverju á Reykjanesskaga en hann hefur rannsakað náttúruvá á svæðinu undanfarin ár ásamt samstarfsfólki sínu í Háskóla Íslands. Þorvaldur segir mikilvægt að meta hættuna sem fylgir yfirvofandi gosi svo hægt sé að bregðast við því viðbragðsaðilar munu aðeins hafa nokkra klukkutíma til stefnu eftir að eldgos hefst en byggðalög á Reykjanesskaga eru nær öll í grennd við „heit svæði“.
Mosahraun á Reykjanesskaga.
Í því skyni hefur eldgosa- og náttúruvárhópur jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands unnið að reiknilíkani fyrir jarðvá á Reykjanesi. Þar eru jarðfræðileg gögn notuð til að vinna áhættumat fyrir ákveðin svæði og reynt að meta hvar á svæðinu sé líklegast að gjósi.
Svartsengi austanvert.
Þannig er hægt að vinna áætlun um viðbrögð fari að gjósa og eins er hægt að hafa upplýsingarnar til hliðsjónar þegar unnið er skipulagt fyrir byggð í kring. Unnin hafa verið hermilíkön sem hægt er að nota til að spá fyrir um hvert hraunið muni flæða, hvert gjóska dreifist og hvernig gas breiðist út. Þannig verði hægt að gera viðbragðsáætlun í samræmi við upplýsingarnar. Flugsamgöngur niðri og mengað drykkjarvatn En hvernig skyldum við vera undirbúin undir eldgos ef af verður? Hraunflæði, öskufall og brennisteinsmengun gæti valdið skaða og óþægindum og þá myndu flugsamgöngur að öllum líkindum liggja niðri enda eru stærstu flugvellir landsins, Keflavíkur- og Reykjavíkurflugvöllur innan áhættusvæðisins. Þá getur eldgos haft áhrif á grunnvatnsgeyma og mengað drykkjarvatn.
Eldgos ofan Grindavíkur 8. febrúar 2024.
Eldgos á Reykjanesi er því efni í æsispennandi hamfaramynd, með Bruce Willis í aðalhlutverki.
En hvað það verður, veit nú enginn eins og segir í kvæðinu og engin leið að spá fyrir um eldgos. Að mati sérfræðinga má vera að styttist í næstu goslotu en aðdragandinn gæti þess vegna verið tugir eða hundruð ára, sem er kannski ekki langur tími í jarðfræðiárum.
En það er óhætt að segja að Reykjanesið hafi minnt allverulega á sig á liðnu ári og haldið okkur á tánum, eins og vera ber. Ég vona bara að það haldi í sér áður en Faxi kemur út svo þessi grein verði ekki hjákátleg.“ – Dagný Maggýjar.
Heimildir v/grein Dagnýjar:
-Jarðskjálftavirkni á Reykjanesskaga – jardvis.hi.is – Páll Einarsson, prófessor í jarðfræði.
-RÚV 20.10.2020, Enn líkur á jarðskjálfta allt að 6,5 að stærð.
-RÚV 27.1.2020. Tími kominn á eldgos á Reykjanesskaga. Ármann Höskuldsson, eldfjallafræðingur.
-Vefur Háskóla Íslands. Kortleggur jarðvá á Reykjanesi.
-Viljinn 27. Janúar 2020. Reykjanesið er eldbrunnið frá fjöru til fjalla. Halldór Geirsson jarðeðlisfræðingur.
-RÚV 21.10.2020. Meiri virkni eftir því sem austar dregur. Þorvaldur þorvaldsson eldfjallafræðingur.
-Vísir 5. október 2018. Reykjanesið komið á tíma og búast má við eldgosi hvenær sem er. Magnús Tumi Guðmundsson.
-DV 27.1.2020. Eldgos ekki það líklegasta í stöðunni.
-DV 20.10.2020. Magnús Tumi róar þjóðina – það er ekki að fara að gjósa.
-Yfirlit um jarðfræði Reykjanesskaga. Samantekt frá Kristjáni Sæmundssyni jarðfræðingi ÍSOR, birt árið 2010, teikningar uppfærðar í janúar 2020.
Heimildir um framangreindar greinar:
-Tíminn, 124. tbl. 07.07.1995, Eldgos á Reykjanesskaga, Ari Trausti Guðmundsson, jarðeðlisfærðingur, bls. 6.
-Faxi, 1. tbl. 2020. Reykjanesið skelfur – Lifandi tilraunastöð jarðfræðinnar, Dagný Maggýjar, bls. 30-33.
Í Brennisteinsfjöllum.