Tag Archive for: Eldvörp

Eldvörp

Leitin að Hamrabóndahelli hélt áfram.
EldvörpNú var ætlunin að leita sléttlendi eldra Eldvarpahrauns frá Bræðra- og Blettahrauni í átt að Lágafelli. Eldvarpahraunin voru að renna úr hinni löngu gígaröð á svo til beinni sprungureininni um það leiti er Kristur hélt Fjallræðuna fyrir botni Miðjarðarhafs fyrir u.þ.b. 2000 árum síðan. Þá opnaðist jörðin á Atlantshafshryggnum við vestanverða suðurströnd Grindavíkur, bæði í sjó og á landi. Sprungan teygði sig um 10 km upp til landsins, að mörkum Lats, sem sjá má skammt vestan við Bláa lónið, og að mörkum Arnarseturshrauns, en það hraun (1226) rann yfir efsta hluta þess. Hraungosið gekk á í hrinum með hléum á millum. Ef grannt er skoðað má sjá hraunskil víða á svæðinu. Um blandhraun eru að ræða, þ.e. bæði hellu- og apalhraun. Klepragígarnir á sprungureininni eru hver öðrum myndarlegri. Víða má finna skúta við þá sem og hella. Flestir og stærstir eru þeir þar sem gígaröðin rís hæst. Þar er t.d. hægt að ganga inn í einn myndarlegasta gíginn, u.þ.b. 12 metra djúpan, og feta sig í gegnum jörðina yfir í annan engu að síðri. Á nokkrum stöðum við Eldvörpin má sjá mannvistarleifar, en þær munu vera yngri en hraunin.
Nýrra Eldvarpagos, frá 13. öld, kom úr gígunum sunnarlega í gígaröðinni, gegnt Rauðhól og áfram til suðurs að Staðarbergi. Þeir gígar hafa svolítið suðlægari stefnu en gígarnir efra. Er líklegt að það hraun hafi fært neðri gíga eldri hraunsins í kaf. Hraunið vestan við þetta hraun heitir Klofningahraun og er Rauðhóll eini sjáanlegi gígurinn í því hrauni. Hann er í rauninni náttúrufyrirbrigði út af fyrir sig, með stutta, en fallega hrauntröð, stórar kvikuþrær og fallegan litskrúðugan gjóskugíg. Sumir hafa nefnt hraunið Rauðhólshraun, en það er talið vera 2000-3000 ára.
Eldvörp Yngra Eldvarpahraunið er jafnan talið hafa runnið árið 1226. Eldsumbrotin eru þó venjulega kennd við þrettándu öldina því þau stóðu með hléum frá um 1210 til 1240. Mest gekk á árið 1226, sem fyrr segir. Þessi hrina er oft nefnd Reykjaneseldar af fræðimönnum.
Samskipti Þorsteins í Hömrum og hreppsstjórans á Húsatóftum voru flestu fólki kunn hér fyrr á árum. Munnmæli þessa efnis hafa lifað og lýsa vel hvað skyndileg viðbrögð geta haft í för með sér. Rústir af grunni hússins sjást en neðan við þjóðveginn sakmmt vestan Tófta – fast við golfvöllinn. Þorsteinn var vinnumaður hjá hreppsstjóranum og þótti bæði iðinn og atorkumikill. Hann var vel af guði gerður, en skapmikill. Í staðinn fyrir starfann fékk Þorsteinn að beita fé sínu á landið.
Eitt sinn er snjór þakti jörð ætlaði Þorsteinn að beita fé sínu í fjöruna við Arfadalsvíkina, neðan við bæinn. Þegar hreppsstjóri sá hvers kyns var skipaði hann Þorsteini að fjarlægja féð úr fjörunni. Hann hefði aldrei gefið honum leyfi til þessa. Hreppsstjórinn stóð jafnan fastur á sínu og vildi manngæskan þá stundum gleymast. Í stað þess að þrátta við hreppsstjórann rauk Þorsteinn með fé sitt upp í hraunið norðan við Tóftir, hlóð fyrir skúta og hélt fénu þar um veturinn. Það hefur varla verið margt, enda skútinn lítill. Þorsteinn hefur þurft að fara margar ferðirnar upp í hraunið um veturinn og þá borið heyið á bakinu. Skúti, eða hellir, þessi hefur verið týndur um allnokkurt skeið og þrátt fyrir fyrirspurnir hafa þeir ekki borið árangur. Auk þessa hefur verið gerð nokkur leit að hellinum, en án árangurs – til þessa.

Helgi Gamalíelsson, fæddur á Stað árið 1947 og upp alinn í Staðarhverfi, kom tvisvar í hellinn í kringum fermingu. Í bæði skiptin var hann á ferð með föður sínum og bræðrum á traktor Staðarbræðra.
Eldvörp Ekið var eftir skriðdrekaslóðanum upp frá Tóftum, í gegnum hraunin og upp undir Þórðarfelli. Tilgangurinn var að sækja þangað oddmjóa járnstaura, um 70 cm langa, sem herinn hafði skilið þar eftir. Í hverri ferð var haldið með 20-30 staura á vagni, sem dreginn var af traktornum, og krakkarnir sátu á. Bræðurnir höfðu hlaupið frá dráttarvélinni þegar hlé var gert á akstrinum og þá séð hellisopið. Staurarnir voru hins vegar seldir útgerðarmönnum í Grindavík á kr. 60- stk, en þeir gerðu m.a. úr þeim netadreka.
Helgi lýsti opinu þannig: „Opið er nálægt þeim stað þar sem vegurinn er – vestan við skriðdrekaslóðann (gæti þó verið eitthvað ofar) – opið snýr í vestur, í átt að Stapafelli, í lítilli lægð, undir klöpp, hlaðið er um opið, sem er ferkantað.“
Helgi var mættur á svæðið, „tók veðrið“ og „exploraði“ minnið. Hann, snerist síðan í þrjá hringi og varð þá, sem fyrr, viss um að hellirinn væri þarna einhvers staðar. Slétthraunið norðan Sundvörðuhrauns, sem reyndar er eitt Eldvarpahraunanna, var skannað og síðan tekin stefnan til norðvesturs með vestanverðum slóðanum.
Gengið var til vesturs yfir slétt Eldvarpahraunið eldra. Árnastígur liggur um hraunið, markaður í klöppina. Skriðdrekaslóðinni, sem er samhliða stígnum, var fylgt og leitað vandlega vestan hans – reyndar í þriðja sinn á jafn mörgum árum. Vestar blasir Sandfellshæðin við. Hún er dyngja með stórum gíg í toppinn. Það er reyndar alveg þess virði að taka lykkju á leið sína og ganga upp á Sandfellshæð (90 m.h.).
Þegar upp er komið blasir hringlaga dalverpið við, en það nefnist Sandfellsdalur. Dalurinn þessi er dyngjuhvirfillinn. Hraunið er talið hafa runnið fyrir um 12 þúsund árum. Þegar norrænir menn komu til Íslands, síðla á níundu öld, var svæði þetta allt vel gróið en eftir hin mikilu eldsumbrot og öskufallá Reykjanesi á þrettándu öld hófst uppblástur á svæðinu. Ef grafið er niður í sandbollana í hrauninu þá er komið niður í jarðveg.
Eldvörp Þegar komið var yfir Eldvarpagígaröðina ýfðist hraunið, en slóðinn liggur áfram í gegnum það. Stígurinn er til hliðar við slóðina, en beygi síðan frá henni til vesturs. Slóðinni var fylgt í gegnum hraunið og síðan norður með vesturrönd þess, alveg upp í Gjár. Nokkur merkt greni urðu á leiðinni, reyndar nokkur af merkustu Grindavíkurgrenjunum, sem og hlaðið skjól fyrir grenjaskyttu. Efst tekur hin gríðarlega hrauntröð Gígsins við. Hún hefur áður verið fetur, skref fyrir skref.

Haldið var til baka og svæðaleit gerð með slóðanum vestan Eldvarpa, yfir þau og áfram til suðausturs austan þeirra.
Á leiðinni sáust m.a. ummerki eftir æfingar „varnarliðsmanna“ á svæðinu, fjöldinn allur af tómum skothylkjum og brunninn mosi. Nokkur óhöpp urðu við æfingar vegna þess að „hetjurnar“ gleymdu að þeir lágu hreinlega á eldiviðarkesti þegar hleypt var af skoti, með tilheyrandi afleiðingum.
Nú er búið að merkja Árnastíginn frá Húsatóftum til Njarðvíkur, en kaflinn austan og næst Eldvörpum hefur verið merktur svolítið norðar en hinn eiginlegi stígur liggur, þrátt fyrir að sjá megi hann greinilega markaðan þar í klöppina.
Skammt austar í sléttu mosahrauninu er stórt sporöskjulaga svæði rúið mosa svo skín í bera klöppina. Út frá svæðinu til suðurs liggur slóði, inn á skriðdrekastíginn við Árnastíg og áleiðis niður að Húsatóftum. Ef grannt er skoðað má sjá talsvert af braki flugvélar á svæðinu, m.a. svonefndan „chock“, hjólakubb úr tré, sem notaður var til að setja við hjól flugvéla á jörðu niðri. Númer má sjá á einum hlutnum, hringlaga með gleri í. Talsvert af álleiðslum og álbitum eru þarna einnig.
Heyrst hafði af því að flugvél, svonefnt „Fljúgandi virkið“, hafi nauðlent ofan við Húsatóftir á fimmta áratugnum. Vélin hafi skemmst lítið og áhöfnin sloppið heil á húfi.
Eldvörp Að sögn Friðþór Eydals er líklegt að þarna hafi verið um B-17 vél að ræða, fjögurra hreyfla, sem nauðlenti ofan við Tóftir í apríl 1943 á leið til Keflavíkurflugvallar, en hann hafði þá nýlega verið opnaður fyrir flugumferð. Vélin var nokkuð heil eftir óhappið, en var síðan bútuð niður og flutt á brott, en enn má sjá þarna hluti úr henni, sem fyrr sagði. Brak úr B-47 flugvél er hrapaði vestan Húsatófta, sést einnig enn ef grannt er skoðað.

Skv. upplýsingum frá Friðþóri Eydal „er brakið væntanlega brot úr þessari B-17 sprengjuflugvél sem lenti í villum á leið frá Bandaríkjunum til Bretlands með fyrirhugaðri viðdvöl á Keflavíkurflugvelli og nauðlenti þarna er eldsneytið þraut eftir 14 klst. flug þann 17. apríl 1943.
Kringlótta brotið á myndinni er úr hliðinnni á kúlulaga byssuturni í botni vélarinnar rétt aftan við vænginn sem skyttan, sem sat milli tveggja 50 cal. Browning vélbyssa sem hann miðaði með því að snúa kúlunni. Kúluna mátti draga upp svo botninn næmi við botn vélarinnar þegar þurfti ekki að sitja í honum eða í flugtaki og lendingu. Slíkur bydduturn var yfirleitt ekki í öðrum vélum sem leið áttu hér um.“
Myndin af vettvangi í apríl 1943 staðfestir að hér er um sömu vél að ræða – við svipaðar aðstæður og þegar brakið af henni fannst í mars 2006.
Enn vantar staðfestingu á staðsetningu „Hamrabóndahellis“ ofan við Húsatóftir. Ef einhver hefur komið auga á hann einhvern tímann eða getur gefið upplýsingar um hvar hann kann að vera að finna er sá (eða sú) sami vinsamlegast beðin/n að hafa samband.
Frábært veður. Leitin tók 3 klst og 3 mín.

Heimildir m.a.:
-Helgi Gamalíelsson.
-Kristján Sæmundsson.
-Friðþór Eydal.

Eldvörp

Eldvörp.

Eldvörp

Í  sléttu Eldvarpahrauni skammt norðan Sundhnúkahraun austan Eldvarpa, í sléttu mosahrauninu, er stórt sporöskjulaga svæði rúið mosa svo skín í bera klöppina.

Eldvörp

B-17 vélin í Eldvarpahrauni.

Út frá svæðinu til suðurs liggur slóði, inn á skriðdrekastíginn við Árnastíg og áleiðis niður að Húsatóftum. Ef grannt er skoðað má sjá talsvert af braki flugvélar á svæðinu, m.a. svonefndan „chock“, hjólakubb úr tré, sem notaður var til að setja við hjól flugvéla á jörðu niðri. Númer má sjá á einum hlutnum, hringlaga með gleri í. Talsvert af álleiðslum og álbitum eru þarna einnig.
Heyrst hafði af því að flugvél, svonefnt „Fljúgandi virkið“, hafi nauðlent ofan við Húsatóftir á fimmta áratugnum. Vélin hafi skemmst lítið og áhöfnin sloppið heil á húfi.
Að sögn Friðþór Eydals er líklegt að þarna hafi verið um B-17 vél að ræða, fjögurra hreyfla, sem nauðlenti ofan við Tóftir í apríl 1943 á leið til Keflavíkurflugvallar, en hann hafði þá nýlega verið opnaður fyrir flugumferð. Vélin var nokkuð heil eftir óhappið, en var síðan bútuð niður og flutt á brott, en enn má sjá þarna hluti úr henni, sem fyrr sagði. Brak úr B-47 flugvél er hrapaði vestan Húsatófta, sést einnig enn ef grannt er skoðað.

Í Eldvörpum

Skv. upplýsingum frá Friðþóri Eydal „er brakið væntanlega brot úr þessari B-17 sprengjuflugvél sem lenti í villum á leið frá Bandaríkjunum til Bretlands með fyrirhugaðri viðdvöl á Keflavíkurflugvelli og nauðlenti þarna er eldsneytið þraut eftir 14 klst. flug þann 17. apríl 1943.
Kringlótta brotið á myndinni hér að neðan er úr hliðinnni á kúlulaga byssuturni í botni vélarinnar rétt aftan við vænginn er skyttan, sem sat milli tveggja 50 cal. Browning vélbyssa sem hann miðaði með því að snúa kúlunni. Kúluna mátti draga upp svo botninn næmi við botn vélarinnar þegar þurfti ekki að sitja í honum eða í flugtaki og lendingu. Slíkur bydduturn var yfirleitt ekki í öðrum vélum sem leið áttu hér um.“
Brak úr vélinniMyndin af vettvangi í apríl 1943 staðfestir að hér er um sömu vél að ræða – við svipaðar aðstæður og þegar brakið af henni fannst í mars 2006.
Nú er búið að merkja Árnastíginn frá Húsatóftum til Njarðvíkur, en kaflinn austan og næst Eldvörpum hefur verið merktur svolítið norðar en hinn eiginlegi stígur liggur, þrátt fyrir að sjá megi hann greinilega markaðan þar í klöppina.
Skammt austar í sléttu mosahrauninu er stórt sporöskjulaga svæði rúið mosa svo skín í bera klöppina. Út frá svæðinu til suðurs liggur slóði, inn á skriðdrekastíginn við Árnastíg og áleiðis niður að Húsatóftum. Ef grannt er skoðað má sjá talsvert af braki flugvélar á svæðinu, m.a. svonefndan „chock“, hjólakubb úr tré, sem notaður var til að setja við hjól flugvéla á jörðu niðri. Númer má sjá á einum hlutnum, hringlaga með gleri í. Talsvert af álleiðslum og álbitum eru þarna einnig.
Hafa ber í huga þá þjóðtrú að ekki megi fjarlægja muni af slysavettvangi látinna. Þeir, sem slíkir, eru og eiga að vera minnisvarði um atburðinn. Taki einhver hluta þeirra mun sá hinn sami hljóta verra af. Dæmi er um fólk, sem tekið hefur gripi af slysavettvangi, en orðið fyrir vandræðum. Þannig missti einn FERLIRsfélaga farsíma, krítarkort og gleraugu eftir að hafa stungið „minjagrip“ af flugslysavettvangi, þrátt fyrir aðvaranir, í bakpoka sinn. Álögunum var ekki aflétt fyrr en hann hafði skilað gripnum á sama stað.
Á ferð

Árnastígur

 Gengið var upp Árnastíg frá Húsatóftum og beygt inna á Brauðstíg skammt sunnan Sundvörðuhrauns. Stígnum var fylgt framhjá “Tyrkjabyrgjunum” svonefndu undir hraunkantinum, og yfir hraunið að Eldvörpum þar til komið var að helli í Eldvörpum. Þar er jafnvel talið að Grindvíkingar hafi bakað sitt braut fyrr á öldum. Mannvistarleifar eru í hellinum.

Brauðstígur

Brauðstígur.

Elstu heimildir um brauðgerð á Norðurlöndum komu í ljós við fornleifauppgröft á Austur-Gautlandi árið 1908. Brauðgerð og neysla virðist hafa verið fremur lítil á Íslandi langt fram á 18.öld ef treysta má heimildum eða réttara sagt heimildarskorti því að lítið er getið um slíkt. Korninnflutningur eða kornrækt virðist ekki hafa verið mikil, en það korn sem fékkst var notað til grautargerðar, ölgerðar og brauðgerðar að vissu marki. Það er líklegt að verkþekking og áhöld, sem snéru að meðferð korns til brauðgerðar, ölgerðar og grautargerðar, hafi flust með norskum landnámsmönnum til Íslands. í Noregi var hefð fyrir brauðgerð á landnámstíð og því ekki óvarlegt að ætla að slík hefð hefði skapast hér á landi þótt litlar heimildir séu til um slíkt. Brauðtegundir er ekkert vitað um en í Noregi voru bakaðar linar kökur og brauðhleifar sem voru með þykkar rendum og hvilft í miðju.

Eldvörp

Í Brauðhelli.

Brauðgerð er ein elsta iðja sem til er. Til eru heimildir um brauðgerð fyrir um 5000 árum síðan, bæði í hinni gömlu Babylon og einnig í Kína. Trúlega hefur þó brauðgerð hafist miklu fyrr eða tiltölulega skömmu eftir að menn fóru að nota korn fyrir fæðu, en það mun hafa gerst á mismunandi tíma á ýmsum stöðum á jörðinni.

Á átjándu öld mun fyrst hafa verið farið að gera lyft brauð hér á landi. Þau voru kölluð pottbrauð. Ekki voru til bakaraofnar á Íslandi eins og fyrr sagði en þess í stað notaðir járnpottar sem hvolft var yfir brauðið. Eins og við flatbrauðsgerð, var heit glóðin að lokinni eldamennsku sléttuð vel að ofan, járnplata lögð á og þar ofan á brauðið. Ofan á allt saman var svo hvolft stórum potti. Síðan var skarað að glóð upp með og ofan á pottinn og breidd yfir aska, moð eða afrak. Brauðið var látið seyðast í sex til tólf tíma. Einnig var pottbrauð bakað þannig að pottur var smurður innan með góðri feiti og deiginu þjappað þar í, hlemmur settur á eða öðrum potti hvolft yfir. Potturinn var grafinn ofan í glóðina, glóð sett upp með og yfir og byrgt vel með ösku.

Hveragerði

Rúslahver / Önnuhver í Hveragerði.

Víkingar munu hafa bakað þrennskonar brauð, þ.e. grófir brauðhleifar bakaðir í ösku, þunnar byggmjölskökur bakaðar á grjóthellu og höfðingjabrauð-hveitikökur bakaðar á skaftpönnu. Á Íslandi á 18. og 19. öld voru engir ofnar til að baka brauð í og því var hverahitinn kærkominn búbót. Hverabrauð eru þekkt hér á landi um allnokkrun tíma. Í stað þess að láta brauðið bakast í potti umvafinn hlóðarösku var hverahitinn notaður til bakstursins.
Brauðstígurinn er vel greinilegur og hefur greinilega verið mikið genginn. Hann liggur út frá Árnastíg skammt sunnan við suðvesturhorn Sundvörðuhrauns. Stígamótin eru merkt með vörðu og frá henni sést Brauðstígurinn liggja inn í hraunið til vesturs. Honum var fylgt framhjá þyrpingu lítilla byrgja í kvos undir hraunkantinum, en ekki er með fullu ljóst hvaða hlutverki þeim var ætlað.

Tyrkjabyrgi

„Tyrkjabyrgi“.

Menn hafa furðað sig á því hversu lítil þau eru, hvert fyrir sig. Sumir segja að þau hafi átt að notast ef Tyrkirnir létu sjá sig á ný við Grindavík, aðrir að þar gætu útilegumenn hafa búið. Enn ein kenningin er sú að þarna gætu Grindvíkingar hafa bakað sín brauð fyrrum, enda yfirborðsjarðhitinn þá verið mun virkari en nú er. Ljóst er að hann hefur farið dvínandi í Eldvörpum og því skyldi hann ekki hafa gert það annars staðar á svæðinu?

Brauðstígur

Gengið um Brauðstíg í Eldvörpum.

Brauðstígnum var fylgt áfram inn á Sundvörðuhraunið og yfir að Eldvörpum. Þar var farið í helli, sem fyrir eru hleðslur í. Enn er nokkur hiti í hellinum, en þó ólíkt því sem var fyrir einungis nokkrum árum síðan. Þá sást varla handaskil fyrir gufu, en nú fer lítið fyrir henni. Ekki er ólíklegt að ætla að þarna hafi Grindvíkingar (Staðhverfingar) bakað sín brauð fyrrum.
Til baka var gengið út á Prestastíg og honum fylgt niður að Húsatóftum.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimild m.a.:
-http://www.akmus.is/frodleiksmolar.htm

Árnastígur

Mót Árnastígs og Skipsstígs.

Saltfiskur

Veiddur fiskur hefur verið verkaður með ýmsum aðferðum í gegnum aldirnar hér á landi.
Í „Þurrkhandbók“ Matís; Fjölbreyttar og gagnlegar upplýsingar um þurrkun á fiski, segir m.a.:

Skreiðalest

Skreiðalest.

„Þurrkun eða hersla fisks er ævaforn aðferð og er enn í dag mikilvæg aðferð til að lengja geymsluþol fiskafurða víða um heim.
Skreið og þurrkaðar fiskafurðir hafa verið verslunarvara í árhundruð í Evrópu og víðar. Fyrr á öldum var skreið mikilvæg verslunarvara í innlendum og erlendum vöruskiptum Íslendinga. Erlendir kaupmenn komu til landsins og fengu skreið í skiptum fyrir ýmsar nauðsynjavörur.
Skreiðar er nokkrum sinnum getið í Íslendingasögum og Sturlungu. Fyrst er hún nefnd um 1200 og eftir það kemur hún ítrekað fram í heimildum. Á fimmtándu öld er talað um að skreið sé orðin mikilvæg verslunarvara hjá þýskum og enskum kaupmönnum. Á verslunarmáli nefndist útflutningsskreiðin allmörgum nöfnum svo sem „plattfiskur“, „malflattur fiskur“, „kviðflattur fiskur“, „reithertur fiskur“, „hengifiskur“, „hnakkafiskur“, „ráhertur fiskur“ og „ráskerðingur“.
Mörg þessara orða vísa til tiltekinna verkunaraðferða og er rétt að benda á að mikinn fróðleik um skreið og skreiðarverkun fyrr á öldum er að finna í Íslenskum sjávarháttum eftir Lúðvík Kristjánsson.

Skeiðahjalli

Skreiðahjalli á Vestfjörðum.

Algengasta heitið á hertum fiski meðal landsmanna var harðfiskur eða skreið og víða var þetta meginuppistaða fæðu hér á landi. Algengast var að berja fiskinn og neyta hans með smjöri ef það var á boðstólum, en ekki mun það hafa verið algengt að bleyta upp fiskinn og sjóða eins og víða var gert erlendis.
Það þótti ekki gott ef fiskur sem hengdur hafði verið upp frysi, enda var það skemmd á vörunni í augum erlendra kaupmanna, en landanum þótti aftur á móti besta skreiðin vel verkuð freðýsa. Sýnir þetta m.a. að það sem okkur þykir gott er endilega ekki það sem öðrum hentar, enda er neysla landans á harðfiski með öðrum hætti en gerist almennt í helstu viðskiptalöndum okkar.

Hjallur

Dæmigerður fiskhjallur, til vinstri,  við býli fyrrum. Slíkur hjallar þóttu sjálfsagðir á nánast hverjum bæ allt fram til loka 20. aldar.

En það voru fleiri tegundir en þorskur þurrkaðar og má eiginlega segja að nánast allar tegundir væru þurrkaðar með einum eða öðrum hætti, enda litlir möguleikar á öðrum aðferðum til að verja fiskinn skemmdum hér á landi þar sem salt var lengi vel af skornum skammti og kæling og frysting ekki möguleg fyrr en á síðustu öld.
Það eru til frásagnir af þurrkun mjög margra tegunda, sumar voru þurrkaðar að fullu meðan aðrar þóttu betri signar eða kæstar fyrir þurrkun, svo eru til frásagnir af því að háfur hafi verið þurrkaður og nýttur sem eldiviður.

Skreið

Skreiðalest.

Þar sem þorskurinn var og er enn verðmætasta og best nýtta fisktegundin hér við land, þá eru til mestar upplýsingar um verkun og vinnslu hans. Skreiðarverkun var mjög mikilvæg atvinnugrein langt fram á síðustu öld þar sem heill hausaður spyrtur fiskur var hengdur á hjalla í öllum sjávarþorpum landsins. Aðrar tegundir eins og ufsi, langa og keila voru einnig nokkuð algengar tegundir sem fóru svipaða leið og þorskurinn.
Þegar leið á tuttugustu öldina og aflasamdráttur var orðinn staðreynd þá dró umtalsvert úr framleiðslu og útflutningi á skreið, einnig voru ýmsar blikur á lofti á stærsta markaðnum, Nígeríu, á þessum árum. Einhverra hluta vegna þótti hæfa að nota lakara hráefni í þessa vinnslu, jafnvel hráefni sem ekki þótti hæft til frystingar eða söltunar.
Með minni afla og hækkandi verðs á ferskum, frystum og söltuðum afurðum hefur hefðbundin skreiðarverkun minnkað verulega.“

Skreið

Selatangar

Selatangar – verminjar.

Í framangreint yfirlit vantar fiskinn, sem verkaður var í verum landsins allt frá landnámi til loka 19. aldar. Verin voru og eru órjúfanlegur hluti sögu þjóðarinnar. Hjallar voru víða að vísu, en í litlum mæli. Réðst umfang þeirra yfirlit af nálægum aðdráttum rekaviðs. Á hjöllunum var fiskurinn hengdur upp óflattur, þ.e. með haus og sporð. Annars var fiskurinn flattur og vind- og sólþurrkaður á hlöðnum grjótgörðum. Þess á milli var hann geymdur í hlöðnum steinbyrgjum þar sem loft var látið leika um hann svo sem kostur var. Verin voru jafnan mönnuð að vetrarlagi, þ.e. frá byrjun febrúar til lokadags 11. maí. Kuldinn skaðaði ekki verkunina, heldur þvert á móti,  og svartir hraungarðarnir auðvelduðu hana með aðstoð dagshitans frá sólinni.
Leifar mannvirkja, sem notuð voru við þessa vinnsluaðferð má enn finna víða á Reykjanesskaganum, einkum á honum sunnanverðum, s.s. á Selatöngum, í Slokahrauni, í Strýthólahrauni, ofan Húsatófta og í Eldvörpum. Síðastnefndi staðurinn var reyndar ekki verkunnarstaður, heldur geymslustaður. Ummerki má einnig finna á skaganum norðanverðum, s.s. ofan við Krossavíkurbjarg, við Juknkaragerði, Hafnir og Stafnes.

Hjallar/trönur

Trönur

Trönur ofan Grindavíkur.

Þegar Íslendingar uppgötvuðu trönubúskapinn má segja að fjandinn hafi náð að fanga tækifærið. Trönusvæðin spruttu allt umleikis þéttbýlisstaðina á Suðvesturlandi og útflutningur á skreiðinni jókst til mikilla muna. Heilu hjarðsveitirnar voru gerðar út með striga, pressur og sótstrimla… Í dag má sjá heilu hraunssvæðin þakin föllnum trjáspýrum með tilheyrandi rotnun.

Harðfiskur

Harðfisakur

Verðandi harðfiskur; skreið…

Harðfiskur var unninn úr framangreindri fiskverkun. Hann var þurrkaður og barinn fiskur, oftast unninn úr ýsu, steinbít eða þorski, en einnig þekkist harðfiskvinnsla úr ufsa, kolmunna og lúðu. Harðfiskur var áður fyrr einn helsti matur Íslendinga, og var hann gjarnan borðaður með smjöri eða sölvum. Er harðfiskur sérlega próteinrík næring, harðfiskur (ýsa) inniheldur 80-85% prótein.
Í seinni tíð hefur harðfiskur verið flakaður og síðan forunninn með heit loftþurrkun eftir að hafa verið baðaður upp úr 5% saltpækli, fiskurinn er síðan frystur, skorinn í bita og raðað á grind sem sett er inn í þurkklefa. Heita loftið veldur því að fiskurinn hitnar, en við það gufar vatn upp úr honum. Tekur þessi vinnsluaðferð um 36-48 klst.
Einnig hefur kæliþurrkun verið beitt, þar sem fiskurinn er handflakaður, flökin snyrt og hreinsuð og sjáanleg bein og blóð fjarlægð. Þá er fiskurinn látinn liggja í 2% saltpækli í um 30 mínútur. Loks er fiskurinn þurrkaður í þurrklefa, þar sem þurrkað er við -5 °C-0 °C.
Einungis um 10% af upphaflega hráefninu skilar sér í seljanlegri vöru eftir þurrkun. Endurspeglar hátt söluverð á harðfiski í dag þessa staðreynd.

Saltfiskur

Fiskverkun

Saltfiskverkun við útgerðarhús.

Saltfiskur er fiskur, oftast þorskur sem búið er að meðhöndla með söltun til að hann geymist betur. Salti er stráð á nýjan fisk og það dregur til sín vatn úr fiskholdinu, leysist upp og myndar pækil. Pækillinn þynnist eftir því sem hann dregur meira af vatni úr fiskinum og saltið fer smán saman inn í fiskholdið þangað til saltupplausnin í fiskinum er orðin jafnsterk og í pæklinum. Því meira salt sem er í pæklinum, þeim mun saltari verður fiskurinn og með minna vatnsinnihald. Söltunin breytir líka bragði fisksins.

Einarsreitur

Einarsreitur. Einn af fjölmörgum satfiskreitunum ofan Hafnarfjarðar fyrrum.

Ýmsar aðferðir hafa verið notaðar við saltfiskvinnslu. Nú á tímum er fiskur oftast forsaltaður í 2-3 daga með sprautun og pæklun eða pæklun eingöngu. Eftir það er fiskurinn þurrsaltaður eða kafsaltaður í ker og þá mettast fiskurinn af salti. Við söltun fer saltstyrkur í fiskvöðva úr 0,2% NaCI sem er náttúrulegt í rúm 20% í saltaðri afurð. Söltun breytir próteinum fisksins og það verða við það breytingar á bragði og lykt og áferð. Nauðsynlegt er að útvatna saltfisk fyrir neyslu vegna þess hve hátt saltinnihald hans er. útvötnun fer þannig fram að fiskurinn lagður í vatn í nokkra daga og vatnið endurnýjað með vissu millibili. Við útvötnunina flæðir salt úr fiskvöðva út í vatnið og vöðvinn tekur í sig vatn. Eftir útvötnun er vatnsinnihald fisksins svipað og í ferskum fiski en saltinnihaldið er 1-2% hærra. Fisk sem á að steikja eða nota í ofnrétti þarf að útvatna meira en ef sjóða á fiskinn því salt fer út í vatn sem fiskur er soðinn í. Útvötnun saltfisks þarf að fara fram í kæli.

Fiskreitur

Fiskreitur við Ljósutröð-Sólvangur fjær.

Algengast er að nota þorsk sem hráefni til saltfiskvinnslu en einnig má nota aðra bolfiska eins og ufsa, löngu, keilu, blálöngu og ýsu og er prótein og fituinnihald þessara tegunda svipað. Bolfiskar safna ekki fitu í holdið heldur lifrina.

Löng hefð er fyrir neyslu saltfisks í Suður-Evrópu og Rómönsku-Ameríku.

Fyrr á öldum var saltfiskverkun ekki mögulegt vegna þess að ekki var aðgangur að nægjanlegu miklu salti og var þá fiskur þurrkaður á ýmsan hátt, sem fyrr sagði. Elstu heimildir um saltfiskverkun á Íslandi eru frá því skömmu eftir 1600. Á 17. öld var mest um að saltað væri í tunnur eða fiski staflað beint í lestar skipa. Á 18. öld hófst saltfiskvinnsla á nokkrum stöðum á landinu en samkvæmt konungsbréfi frá 1760 þá skyldu kaupmenn sjá um að í hverri fiskihöfn dveldust í eitt eða tvö ár útlendir menn sem skyldu kenna verkun saltfisks.

Þegar leið á 18. öld var aðferð sem kölluð var „Terraneuf-aðferðin“ eða sú nýfundlenska mest notuð við saltfiskvinnslu en þá var fiskur blóðgaður og útflattur strax og hann var veiddur og þveginn úr vatni eða sjó. Eftir þvottinn átti fiskur að liggja nokkrar klukkustundir í kös áður en hann var saltaður til að vætan rynni úr fiskinum.

Saltfiskssetur

Saltfiskssetur Grindavíkur – Sögusýning saltfiskvinnslunnar.

Saltfiskverkun og saltfisksala var mikilvæg atvinnugrein á 19. og 20. öld og sá grunnur sem sjávarþorp byggðu á. Framleiddur var þurrkaður saltfiskur sem var saltaður í stæður og síðan oftast umsaltað áður byrjað var á vöskun og þurrkun. Það tók fjórar til sex vikur að þurrka fiskinn og þessi aðferð var vinnuaflsfrek því breiða þurfti fiskinn út að morgni ef veður leyfði og taka hann síðan saman um kvöldið. Saltfiskvinnslan stóð vanalega frá vori til hausts. Konur, börn og gamalmenni verkuðu fiskinn í landi en karlarnir voru á sjó. Vöskunarkonur tóku við fisknum þegar búið var að landa aflanum og þær snyrtu og hreinsuðu og himnudrógu og þvoðu fiskinn með strábustum. Fiskurinn var svo skolaður áður en hann var fluttur á fiskreitina til söltunar.

Kirkjusandur

Kirkjusandur – saltfiskþurrkun.

Alveg til 1900 var fiskurinn vaskaður utandyra en síðar voru reist vöskunarhús sem þó voru ekki upphituð. Á fiskireitunum tóku saltarar við fisknum og hlóðu honum í stæður og söltuðu. Fiskurinn var geymdur þar í um tvær vikur en þá hófst útbreiðsla sem fór þannig fram að fiskur var lagður á reitina ofan á grjót eða litlar trégrindur. Hann var þar allan daginn ef veður var gott en á kvöldin var honum aftur hlaðið í stakk og segldúkur breiddur yfir. Eins þurfti að taka hann strax saman ef það gerði rigningu. Fiskur taldist fullþurr ef greina mátti hendi hinnar handar í gegnum hann ef honum var haldið móti sól og hann hélst beinn ef haldið var í sporðinn og honum haldið láréttum. Þegar þurrkun var lokið var fiskur fluttur í hús og skipt eftir stærðum í málfisk, millifisk og smáfisk. Þaðan var honum skipað út á kaupskip og fluttur aðallega til Spánar og Portúgal. Spánarmarkaður lokaðist við borgarastyrjöldina þar 1936.

Það var skortur á vinnuafli á Íslandi eftir seinni heimsstyrjöldina og þá var farið að flytja út blautverkaðan fisk sem síðan var oft þurrkaður af kaupendum á Spáni og Portúgal þar sem vinnuafl var ódýrara. Stöðug aukning var í framleiðslu saltfisks allt fram undir 1930 og var útflutningur mestur 80 þúsund tonn á ári en oftast 30-50 þúsund tonn. Þegar líða tók á 20. öld gerðu bætt tækni og betri skipakostur kleift að flytja út ísfisk og saltfiskframleiðsla minnkaði.

Heimildir:
-https://is.wikipedia.org/wiki/Har%C3%B0fiskur
-https://is.wikipedia.org/wiki/Saltfiskur
-Þurrkhandbókin – Fjölbreyttar og gagnlegar upplýsingar um þurrkun á fiski, Matís.

Sloki

Fiskgarðar í Slokahrauni utan Grindavíkur.

Eldvörp

Í riti Orkustofnunar skrifar Jón Jónsson, jarðfræðingur; „Jarðfræðikort af Reykjanesskaga – skýringar við jarðfræðikort“. Þar lýsir hann m.a. Eldvarpahrauni (-hraunum):

Eldvörp

Eldvörp – loftmynd.

Eldvarpahraun er að því er virðist yngst hrauna á utanverðu Reykjanesi. Það skal þó tekið fram að Stampahraun yngra og Eldvarpahraun ná hvergi saman og verður því ekki séð hvort þeirra yngra er. Hitt ætla ég óhætt að fullyrða að þau hraun bæði séu au yngstu á utanverðu Reykjanesi, og að Eldvarpahraun sé ekki frá sögulegum tíma. Um gos á þessu svæði eru engar glöggar heimildir til, það ég veit, en þó er þessi getið í annálum að eldgos hafi oftar en einu sinni orðið á Reykjanesi og gæti eitthvað af því átt við t.d. Stampa. Austurendi gígaraðarinnar sjálfrar er nærri beint niður af Grindavík, en vesturendinn er suðvestur af Sandfellshæð. Þetta er sjálf gígaröðin en allmiklu neðar, þ.e. nær sjó, og vestar eru smágígir í röð örskammt frá og báðum megin við veginn milli Grindavíkur og Reykjanesvita. Ekki verður annað sé en þeir hafi gosið um leið og Eldey og tel ég þá til sama hrauns. Aðal gígaröðin er þá um 8.5 km á lengd, en bætist þessir litlu gígir við verður lengd gosstöðvarinnar ekki undir 10 km.

Eldvörp

Eldvörp – gígaröðin.

Gígaröðin er sundurslitin á nokkrum stöðum, sums staða alveg en annars staðar eru gígirnir, sem ávallt eru nokkrir saman, tengdir við næsta gígahóp með smágígum, sem lítið eða ekkert hraun hefur runnið frá. Það er því augljóst að hér sem víða annars staðar hefur eldvirknin fljótlega orðið bundin við vissa hluta gígaraðarinnar, en hún í heild verið virk aðeins á fyrsta stigi gossins. Það sýnist ljóst að hér hefur gosið á sprungubelti fremur en á einni sprungu enda vatnar mikið á að gosstöðin myndi eina samfellda línu.

Eldvörp

Eldvörp – Jarðfræðikort Jóns Jónssonar.

Hraunið frá Eldvörpum hefur runnið eingöngu til suðausturs eins og landinu hallar á þessu svæði. Vestast hefur það komist næst sjó skammt austan við Sandvík við Háleyjar. Einna líklegast sýnist að hraunið hafi numið staðar í lægð, sem þarna er og hafi aldrei náð til sjávar. Tangi úr Eldvarpahrauni hefur náð fast að Grænabergsgjá rétt norðan við, en þar austur af hefur það ekki náð eins langt fram. Myndast því allstórt vik í það ofan við Staðarhverfi (Tóttarkrókar).
Eldvarpahraun nær alveg austur að Arnarsetushrauni og er eldra en það og runnið fyrir 900.

Eldgos

Eldgos í Eldvörpum fyrrum.

Eldvarpahraun eldra hefur runnið yfir Sandfellshæðahraun og allt í sjó út milli Grindavíkur (Járngerðarstaða) og Húsatófta. Hraunið hefur runnið í breiðum straumi niður að sjó vestan við Grindavík. Það nær upp að Þorbjarnarfelli að vestan og vestur að Húsatóftum. Þetta hraun er í eðli sínu helluhraun, víða stórbrotið og líkt að úr dyngju væri. Í þessu hrauni er margar gjár og stórar austan við Húsatóftir og sýnir það að það hlýtur að vera talsvert gamalt.“

Rauðhóll í Eldvarpahrauni er hluti af eldri dyngjuhraunmyndunum á svæðinu. Í Eldvarpahrauni má finna fjölmargar mannvistaleifar. Sjá t.d. HÉR.

Heimild:
-Orkustofnun, Jarðfræðikort af Reykjanesskaga – skýringar við jarðfræðikort, Jón Jónsson, 1978, bls. 129-131.

Eldvörp

Eldvörp – gígur.

Sloki

FERLIR hefur tekið saman myndir af nokkrum fiskibyrgjum og fiskigörðum á Reykjanesskaganum. Um eru að ræða merkar minjar frá fyrri tíð – órjúfandi hluti sjósóknar allt fram á miðja 20. öld.
HÉR má sjá myndasafnið.

Strýthólahraun

Fiskbyrgi í Strýthólahrauni.

Tag Archive for: Eldvörp