Tag Archive for: FERLIR

Sveifluháls

FERLIR stóð upphaflega fyrir FErðahóp Rannsóknardeildar Lögreglunnar Í Reykjavík.

Í Gvendarhelli

Í Gvendarhelli (Arngrímshelli). Formaður Ferðafélags Grindavíkur, Erling Einarsson, skoðar aðstæður.

Áhugasamt lögreglufólk um útivist og hreyfingu frá hversdagsins önn, krefjandi rannsóknum og stuttum kyrrsetum þeirra á millum, tók sig saman árið 1999 og ákvað að líta svolítið í kringum sig – víttka sjóndeildarhringinn og kynnast betur sínu nærtækasta umhverfi. Umræðan um svonefnt „Burn out“; úti í heimi, nú túlkað sem „kulnun í starfi“, hafði þá verið til umræðu, án þess þó að njóta sérstakrar athygli annarra stétta hér á landi á þeim tíma. Reykjanesskaginn varð fyrir valinu, bæði vegna nálægðarinnar og ekki síður vegna lítils áhuga fólks almennt á því svæði (þótt undarlega megi teljast).

Ferlir

FERLIRsfélagar á göngu um Almenningsveginn á Vatnsleysuströnd í frábæru veðri.

Eftir að þátttakendur höfðu kynnt sér og rannsakað gaumgæfilega margvíslegar heimildir, -bæði gamlar og nýjar, skráðar og óskráðar – kom í ljós að Skaginn hafði upp á ótrúlega mikla fjölbreytni að bjóða.

Forn

Húshólmi – skáli.

Allt frá fornum minjum um búsetu frá upphafi norræns landsnáms til áþreifanlegrar atvinnuþróunarsögu frá fornöld til vorra tíma, þjóðsagnakennda staði, fornar þjóðleiðir, stórkostlega og síbreytilega náttúrufegurð, tímasetta jarðsögu, fjölbreytta flóru og fánu, sendnar strandir jafnt sem rísandi björg, magnþrungið brim, langa fjallgarða, formfagur fjöll, gróna dali, tifandi læki, fjölskrúðug jarðhitasvæði og svo mætti lengi telja.

Ferlir

FERLIRsfélaga á göngu um ofanverð Hraunin í frábæru veðri.

Til að gera alllanga sögu mjög stutta er rétt að nefna að þegar hafa verið farnar rúmlega 3300 gönguferðir um Reykjanesskagann, sem markast af hinu forna landnámi Ingólfs, vestan línu milli Hvalfjarðarbotns og Ölfusárárósa.

Ferlir

Ferlir á ferð um vetur á Sveifluhálsi.

Hópurinn, breytilegur frá einum tíma til annars, hefur notið leiðsagnar frábærs fólks, sem miðlar hefur fróðleik og sértæka vitneskju um einstök svæði. Því fólki verður seint fullþakkað fyrir móttökurnar.

Ferð

Undirbúningur næstu ferðar.

Auk texta má sjá fjölda mynda og uppdrætti af yfir 200 minjasvæðum. Margt mjög áhugasamt fólk hefur verið með í ferðum. Sumt af því hafði áður skoðað og skráð upplýsingar á afmörkuðum svæðum. Þátttaka þess hefur gert hópnum kleift að auka víðsýnið og fræðast um ýmislegt það, sem áður virtist óþekkt. Við leitir hefur hópurinn fundið áður óþekktar minjar og staðsett aðrar, sem heimildir voru um en virtust týndar. Alls staðar, þar sem bankað hefur verið að dyrum, hefur hópnum verið mjög vel tekið.

Ferlir

Reynir Sveinsson miðlar fróðleik við Hvalsneskirkju.

Þátttakendur hafa einnig átt frábært samstarf við ágæta fulltrúa Hellarannsóknarfélagsins, Ferðamálafélags Grindavíkur, kirkjuverði, skólastjórnendur, innfædda leiðsögumenn og margra fleiri á ferðum sínum. Sem dæmi má nefna að bæjarstjórinn í Grindavík. Ólafur Ólafsson, var sérstaklega áhugasamur um sitt umdæmi og mætt í margar ferðir er farnar voru innan umdæmisins.

Uppgötvanir

Í hellinum FERLIR í Brennisteinsfjölum.

Verður það að teljast einkar virðingarvert því talsverður tími hefur farið í ferðir um það víðfeðma umdæmi. Safnað hefur verið miklum fróðleik um Skagann, skráðir GPS-punktar á minjar, hella, skúta, sel og annað er merkilegt hefur þótt. Þá hafa einstök minjasvæði, s.s. Gömlu Hafnir, Húshólmi, Selatangar, Krýsuvík, Selalda, Strandarhæð, Kaldársel o.fl. staðir verið dregin upp skv. lýsingum eldra fólks, en fróðleiksmiðlun þess verður seint metin að verðleikum.

Selatangar

FERLIRsfélagar á Selatöngum.

Ágætt samstarf var við Örnefnastofnun á meðan hún var og hét. Naut stofnunin góðs að því með því að fá afrit af örnefnakortum er gjörð voru. Viðtöl hafa og verið tekin við fólk, sem enn man hvaða minjar voru hvar og hvað var gert á hverjum stað.
Afraksturinn má nú sjá hér á vefsíðunni… 

Ganga

Gengið um Sveifluháls – í frábæru veðri.

Ferlir

Sögulegt ferðalag hófst með tölvupósti eitt síðdegið; „Hér er einstaklingur, Þjóðverji, sem þarfnast leiðsagnar upp í Brennisteinsfjöll – í hellinn Ferlir. Getur þú bjargað því? Ég þekki engan, sem þekkir hann betur en þú.“

Brennisteinsfjöll

Efst í Kerlingarskarði.

Ég var nú ekki beinlínis að leiðsegja fólki þrátt fyrir að hafa gengið svæðið fram og aftur og auk þess lokið námi í svæðaleiðsögn á Reykjanesskaganum á vegum FSS.
En hvað gerir maður ekki fyrir vini sína. Svarið var: „Já, en þú þarft að sjá um innheimtu og tryggingar“. Sendandinn var Björn Hróarsson hjá Iceland Extreme, þaulreyndur í faginu (að ég hélt).
Sótti einstaklinginn, Carlottu, á hótel sitt í Reykjavík á umsömdum tíma. Með okkur í för var dyggur aðstoðarmaður, Alda; þaulkunnug í Brennisteinsfjöllum.
Í ljós kom að Carlotta hafði keypt ferð í Fjöllin í tilefni af fimmtugsafmæli sínu. Draumur hennar var að sjá „græna stöffið“ í hellinum Ferlir. Hún hafði séð stöffið á myndum og langaði að berja það eigin augum. Sjálf væri hún leiðsögumaður og hefði um stund átt íslenskan kærasta (sem var reyndar aukaatriði).
Spurð hvort hún treysti sér í a.m.k. 10 tíma göngu svaraði hún: „Að sjálfsögðu. Tju, hvað heldur’u að ég sé? Ég hef meira úthald en það.“
„Græna stöffið er mun óaðgengilegra en þú heldur“, svaraði ég, „og það er og verður þitt vandamál þegar þangað kemur“.

Brennisteinsfjöll

Á leið í Brennisteinsfjöll.

Ekið var á tveimur bílum á Suðurstrandarveg, öðrum lagt við veginn neðan við Lyngskjöld og hinum ekið til baka að Bláfjallavegi og lagt neðan Kerlingarskarðs. Þaðan héldum við þrjú áleiðis upp skarðið, ég studdur af göngustafnum „Staðföstum“ og Carlotta með bakpoka um axlir. Þegar komið var inn fyrir Kistufell skall á niðdimm þoka. Tekin var nestispása í skjóli undir stórbrotnum börmum gígsins.
Þokan var jafndimm sem fyrr. Að fenginni reynslu var ákveðið að feta sig blindandi áfram um kunnar lægðir Kistuhraunsins til suðurs uns ákveðið var að setjast niður um stund. Carlotta spurði hvort við værum villt.

Brennisteinsfjöll

Gígurinn í Brennisteinsfjöllum.

Svarið var: „Nei, við þurfum einungis að bíða hér stutta stund. Að baki okkar er hár gígur. Hann ekki sést núna, en þegar rofar til sjáum við hann og finnum við leiðina að hellinum Ferli.“ Við höfðum gengið í þrjár klukkustundir.
Ekki var að sökum að spyrja; þokunni létti. Við sátum undir gígnum umtalaða.
Stefnan var tekin niður að hellisopinu. Þegar inn var komið tók Calotta upp vasaljós og myndaði innvolsið á Iphone og spurði: „Hvar er græna stöffið?“
Við horfðum á hana – og síðan hvort á annað. Hún virtist ólíkleg til árangursríks klifurs eða skriðs um þröngar rásirnar.

Ferlir

Ferlir – Carlotta skoðar sig um í hellinum.

„Græna stöffið er innan við rás á efri hæð hellisins. Til þess að komast þangað þarftu að klifra þangað upp og skríða síðan um þrönga rás uns hún opnast í neðanverðum gangi. Innan við hann er uppgangur. Í honum er stöffið.“
Eftir svolitla umhugsun kvaðst Carlotta hvorki treysta sér í klifrið né í skriðið. Samkomulag náðist loks um að Alda tæki með sér tölvuna hennar, klifraði upp í rásina og næði á hana eftirsóknarverðum myndum. Þetta gekk eftir með tilheyrandi biðtíma, enda ferðalagið um ofanverð göngin allt annað en auðvelt. „Græna stöffið“ er lítill marglitur hraunfoss innst í einni rásinni, sem fyrr sagði. Nýbráðið bergið hafði náð að storkna þar áður en upprunalegu litir þess blönduðust og mynduðu hinn venjulega súpugráa hraunlit. Fyrirbærið er í rauninni einstakt á heimsvísu og vel þess virði að leggja á sig ferðalag til að berja það augum – treysti fólk sér til þess. Eitt er þó að rata inn og annað að finna leiðina til baka um ranghalana!

Ferlir

Hellisopið.

Þegar út úr hellinum var komið var um tvær leiðir að velja; að ganga til baka upp þokukenndar hlíðar Brennisteinsfjalla eða niður með augljósum hlíðum Vörðufells og Sandfells um Lyngskjöld að Suðurstrandarvegi.
Ákveðið var að halda áfram niður á við til suðurs. Eftir stutta göngu sagðist Carlotta ekki geta gengið lengra. Hún væri komin með gamalreyndan verk í mjöðm. Hún hefði fengið slíkan verk áður og þá fengið viðeigandi lyf er virkaði, en það gleymdist á hótelherberginu.

Ferlir

Leiðin að „græna stöffinu“.

Nú voru góð ráð rándýr. Tveir möguleikar voru í boði; annars vegar að kalla til þyrlu Landhelgisgæslunnar eða halda áfram á fæti.
Ég byrjaði á að taka bakpokann af Carlottu. Sá virtist óvenju þungur. Kíkti í pokann. Í ljós kom m.a. stórt vasaljós og tugir þungra rafhlaða, sem hún hafði fengið í fararteski hjá ferðaþjónustunni. Ákvað að axla pokann á annarri og styðja Carlottu með hinni, fetandi sporið í rólegheitunum með hana kvartandi áleiðis niður að Lyngskyldi. Carlotta var nokkrum sinni komin að því að gefast endanlega upp. Þykkur mosinn í hæðum og lægðum var torfær og allt annað en auðveldur yfirferðar. Við settumst því niður með jöfnu millibili. Alda ákvað að taka þungan bakpokann á bakið og halda ein áfram áleiðis niður að bílnum utar við Suðurstrandarveginn og færa hann mun nær þeim stað á veginum sem okkar var að vænta.

Regnbogi

Hluti regnbogans.

Ég bauð Carlottu göngustafinn Staðfast til stuðnings. Hún var í fyrstu treg til en þáði loks boðið og studdi sig dyggilega við hann í framhaldinu. Saman tókst okkur þannig, fet fyrir fet, að komast yfir mosahraunið og niður að Lyngskyldi. Ofan af brúninni sást til sjávar á annars bjartri sumarnóttunni. Handan við ströndina lék marglitur regnbogi alls kyns listir í næturskímunni.
Carlotta sat um stund þegjandi yfir dásemdinni, stóð síðan upp á báðum fótum og sagði þetta vera óútskýranlegt tákn um að hún væri hólpin. Almættið hefði brosað til hennar.
Við komust niður af Lyngskyldi 12 klukkustundum eftir að við lögðum á Kerlingarskarðið handan fjallanna.
Bæði vasaljósi og öllum rafhlöðunum var skilað á skrifstofu ferðaþjónustunnar tveimur dögum síðar. Björn var ekki við.  Aldrei hefur verið rukkað fyrir ómakið. – ÓSÁ

Ferlir

„Græna stöffið“.

Sogin

Hér á vefsíðunni má m.a. sjá ljósmyndir og uppdrætti af áhugaverðum svæðum Reykjanesskagans, fyrrum landnámi Ingólfs frá 874, hvort sem um er að ræða umhverfi eða minjar. Þá má t.d. sjá myndir af eldgosunum árin 2021, 2022 og 2023 í og við Fagradalsfjall. Eina sem áhugasamir/áhugasöm þurfa að gera er annað hvort að fara inn á flipann „Myndir“ hér að ofan eða skrifa viðkomandi heiti í leitargluggann (stækkunarglerið).
Njótið…

Húshólmi

Skálatóft við Húshólma.

Ferlir

Eftirfarandi er hugmynd, sem fæddist nýlega í einni FERLIRsgöngunni. Hún er áhugaverð, bæði fyrir íbúa höfðuborgarsvæðisins og aðra, en engu að síður fyrir aðila ferðaþjónustunnar á Reykjanesskaganum.

Búrfellsgjá

FERLIRsfélagar í Búrsfellsgjá; Jóhann Davíðsson og Björn Ágúst Einarsson. Ágúst Einarsson.

Hugur felst í að gera eitthvað óhefðbundið, en hagkvæmt í sumafríinu; að breyta íbúðinni tímabundið í sumarbústað og gerast ferðamaður á heimaslóðum, skoða dagblöðin og Netið, sjá hvað er í boði og nýta sér það. Sú athugun kæmi áreiðanlega mörgum á óvart og víst má telja, þótt einhver vildi leggja sig allan fram við að komast yfir sem mest, að hann kæmist hann aldrei yfir allt, sem í boði er. Hægt er að spássera um einstök útivistarsvæði með bakpoka, skoða söfn eða kirkjur, kíkja í búðir (oft töluð útlenska), sóla sig á ströndinni með Cervaza (víða fallegar sandstrandir) eða jafnvel taka fram gönguskóna, útbúa nesti og halda á vit náttúrunnar og sögulegra minja skammt utan við byggðina. Allt er þetta meira og minna ókeypis (nema kannski nestið). Hagnaðinum er hægt að verja til að kaupa eitthvað sérstakt í nágrannabyggðalögunum eða jafnvel nýta í eitthvað þarf síðar.

Lambafellsklofi

Í Lambafellsklofa.

Upplandið býður upp á falleg fjöll, dali, strandbjörg, eldborgir og hrauntraðir. Gróður er fjölbreytilegur (um 400 tegundir mosa) og landnemaplöntur á hverju strái.

Með því að skoða FERLIRssíðuna gætu vaknað hugmyndir um ferðir eða leiðir, sem hægt væri að nýta í þessu nýstárlega sumarfríi. Og ekki er verra að geta sofið í rúminu sínu á milli „ferðalaga“.

Til að komast að fallegum og fjölbreytilegum göngusvæðum þarf ekki að aka nema í innan við klukkustund (í mesta lagi) og þess vegna er hægt að nýta daginn vel. Einnig er hægt að breyta til og taka strætisvagn eða rútu á milli svæða eða byggðalaga.
Minna má á að bjart er svo til allan sólarhringinn og því hægt að njóta útiverunnar bæði vel og lengi hverju sinni. Fuglasöngur er ríkjandi, en umferðarniðurinn víkjandi. Og svo er ekkert sem mælir á móti því að setjast bara niður á fallegum stað, njóta umhverfisins og hvílast.

Arnarvatn

Arnarvatn á Sveifluhálsi.

Þeir, sem best þekkja til, segja að á Reykjanesskaganum sé alltaf sól (reyndar er hún stundum á bak við skýin) og syðst á honum komi ferskt ónotað súrefnið fyrst hér að landi í öllum góðum áttum.
Með þessu fyrirkomulagi er hægt að gera góðar áætlanir með stuttum fyrirvara og fátt ætti að vera því til fyrirstöðu að þær geti gengið eftir.
Njótið sumarsins, afslöppuð og upplýst, í fallegu umhverfi Reykjanesskagans (skrifað árið 2004).

Sogin

Horft yfir Sogin.

Snorri

Gengnar FERLIRsferðir um Reykjanesið eru nú um 3200 talsins. Hver ferð hefur að jafnaði verið 7 km. Skv. því hafa verið farnir 20. 700 km eða sem nemur u.þ.b. nokkrum hringferðum í kringum landið. Í þessum ferðum hafa verið skoðaðar:

Ferlir

Í hellinum FERLIR í Brennisteinshellum.

-90 fjárborgir,
-120 brunnar og vatnsstæði,
-283 gamlar göngu- og þjóðleiðir,
-60 greni,
-603 hellar og skútar,
-83 letursteinar,
-68 hlaðnar refagildrur,
-92 gamlar réttir,
-401 sel og nálæg mannvirki,
-32 skotbyrgi,
-193 sæluhús og sérstakar tóttir,
-23 vegavinnubúðir,
-17 vitar,
-320 vörður á sögulegum stöðum,

auk eldvarpa, eldgíga, gosrása, dala, fjalla, hóla, hæða, vatna, stranda, gjáa, hvera, gróðurs, hrauna, móa, mela, dysja, gatna, stíga, brúa, stekkja, kvía, vara, byrgja, nausta, sjóbúða, flóra og annarra mannvirka eða sögulegra staða.

Urriðakotsdalur

Gengið um Efri-Urriðakotsdal (þar sem nú er golfvöllur)

Ef gert er ráð fyrir að sérhver göngumanna hafi náð af sér um 0.5 kg í hverri ferð ætti 80 kg maður nú að hafa lést um 850 kg. Af því mætti draga þá ályktun að þeir, sem oftast hafa gengið, væru nú horfnir með öllu. En sem betur fer er það nú ekki svo. Þeir hinir sömu hafa fengið tækifæri til að næra sig á milli ferða og þannig tekist að vega upp þyngdartapið, en auk þess njóta þeir að einhverju leyti aukinna vistmuna, meiri vöðvabyggingar, efldrar notadrjúgrar þekkingar sem og aukins skilnings á landi og þjóð sem hverjum og einum er svo mikilvægur til enn meiri þroska og viðurværis. Með lögjöfnun má því segja að þeir, sem ekki hafa tekið þátt í FERLIRsgöngum, séu nú þeim fátækari því þær hafa hingað til ekki kostað þátttakendur neitt annað en milliferðir.

Húsfell - refagildra

Refagildra ofan við Húsfell.

Ferlir

Haldið var upp Mosaskarð með öflugri sveit HERFÍsmanna.
Á leiðinni var litið ofan í Mosaskarðshelli, en ekki farið niður í hann. Uppi við brún að vestanverðu fundu hinir vönu hellamenn strax lykt af opinni rás og fannst þá op (Mosaskarðshellir efri) er reyndist vera um 20 metra hellir í lítilli rás.

Ferlir

Í Ferli.

Gengið var beint upp hraunið yfir á jökulskjöldinn og þaðan á ská áleiðis í FERLIR. Hann var skoðaður í um 3 klst. Skoðaðir voru um 450 metrar af hellinum, en hann mun enn ekki vera fullkannaður. Kúbeinið góða var ekki með í för og takmarkaði það möguleikana að nokkru. Litið var á djásnin og ýmislegt fleira kom í ljós við nánari skoðun.
Björn Hóarsson lifir á reynslunni enda hefur hann ásamt félögum sínum skoðað flestalla hraunhella á Íslandi. Hann er ekki vanur að láta háfleyg lýsingarorð fylgja útlistunum á nýfundnum hellum, vill í seinni tíð hafa þá rúma og mikla um sig. Hann sagði þó litadýrðina í FERLIR vera sérstæðu hans, glerjunginn á veggunum og lengdina og þar með hliðarrásirnar.

K-4

K-4

Leitað var að opnum ofar eftir stækkaðri loftmynd. Reyndust þar vera göt, sem skoðuð voru í maímánuði í fyrra. Þær rásir eru heldur ekki fullkannaðar.
Þá var haldið niður á K-hellasvæðið og það skoðað. Fundust enn fleiri op en í síðasta leiðangri. Nefnast þau K-4, K-5 og K-6. Þá fannst K-7, en hann er framhald af K-6. Á svæðinu virðast vera hellingur af hellum.

K-4 er með fallega niðurgöngu. Um er að ræða gasuppstreymisop að hluta og upp úr því er liggur um 40 metra rás. Grönn rás liggur þvert á hana, en niðurleiðin skiptist í tvær rásir. Reyndist önnur vera um 80 metra og hin um 120 metra. Hellirinn er því um 240 metra langur.
K-5 er 60-70 m langur.

Brennisteinsfjöll

Í Brennisteinsfjöllum.

K-6 er víð og há rás. Liggur um 120 metra löng rás til hægri, en framundan er þverrás, bæði upp í hraunið og niður. Hliðarrásin opnast í jarðfalli og heldur síðan áfram niður um 60 metra. Þar er hann mjög hár og víður og var ís í botninum.
Ljóst er að hellasvæði þetta er að mestu ókannað, en þarna leynast áreiðanlega fjölmargar fallegar rásir sem og aðrar gersemar.
Í bakaleiðinni var gengið niður helluhraun, farið yfir fallega hrauntröð í apalhrauni og gróinni hlíð fylgt nokkra leið. Þá var gömlu girðingunni upp úr Mosaskaði henni fylgt áleiðis að skarðinu, farið yfir stóra og fallega hraunrás og síðan áfram niður skarðið. Á leiðinni niður voru nokkrar hraunbombur teknar til handargangs.
Hlýtt og bjart. Gangan tók 7 klst og 2 mín.

Mosaskardshellir

Í Mosaskardshelli. (BH)

Ferlir

Tveir fræknir FERLIRsfélagagar tóku að sér að kanna bestu hugsanlegar leiðir að FERLIR, m.a. til að undirbúa væntanlega för þangað með HERFÍsmönnum.

Ferlir

Í Ferli.

Skv. kortamælingum virtist vera jafn langt á svæðið frá öllum hugsanlegum nálgunarstöðum. En með því að fara upp Mosaskarð og síðan velja þaðan hentuga um tvo Óbrennishólma leið virtist nokkuð greiðfært að opinu. Gangan frá skarðinu tók um eina og hálfa klukkustund og tiltölulega greiðfært. Einnig er ætlunin að skoða hið nýfundna hellakerfi, auk þess sem næsta nágrenni FERLIRs verður gaumgæft.

Ferlir

Í Ferli.

Félagarnir skoðuðu hellinn, en ljóst er að í honum eru lágar rásir, sem virðast opnast inn í stærri rásir. Þær þarf að skoða nánar. Mikil litadýrð er í hellinum og virðist hann mjög viðkæmur fyrir ágangi, einkum vegna hins þunna glerjungslags, sem þekur svo til allar rásir.
Fleiri myndir úr hellinum munu birtast á næstunni (sjá HÉR).

Ferlir

Í hellinum FERLIR í Brennisteinshellum.

Skálafell

Eftirfarandi viðtal var tekið við einn FERLIRsfélaga og birtist í hinu virta dagblaði Morgunblaðinu fyrir nokkrum árum:

Hvað er FERLIR?

Stóra-Vatnsleysa

Letursteinninn við Stóru-Vatnsleysu – á hvolfi.

FERLIR er FErðahópur Rannsóknardeildar Lögreglunnar Í Reykjavík. Í hópnum eru auk starfsmanna deildarinnar fleira fólk, s.s. úr sektardeild embættisins, almennu deild, útlendingaeftirliti og fleiri deildum, allt eftir áhuga hvers og eins sem og á hollri og nauðsynlegri hreyfingu og vilja til að skoða áhugaverða staði eða minjar, sem virðast leynast víða. Þá hafa allir aðrir, áhugasamir, jafnan verið boðnir velkomnir í hópinn. Morgunblaðið ræddi á dögunum við einn forkólfa FERLIRs, Ómar smára Ármannsson, aðstoðaryfirlögregluþjón í Reykjavík.

Hvar og hvað hafðið þið verið að skoða að undanförnu?

Almannavegur

Gengið um Almannaveg.

“Við höfum einbeitt okkur að Reykjanesinu. Ætlum okkur að klára það áður en við snúum okkur að öðrum svæðum. Á þessu svæði átti norrænt elsti hluti norræns landsnáms sér stað. Það eru elstu minjarnar – ef vel er að gáð. Það er svo til öll atvinnusaga landans – í landinu. Minjar eru svo til við hvert fótmál. Það eina sem þarft til er að fara út og skoða. Stundum þarf að leggja svolítið á sig og að leita, en það er allt þarna við fætur fólks, sem hefur áhuga. Þarna eru t.d. gömlu tóttir bæjanna, sem fólkið, er lagði drög að nútíðinni, húkti í öld fram af öld. Þarna eru sjóbúðirnar, naustin, varirnar, siglingamerkin, sundvörðurnar, brunnarnir, selin, selstígarnir, vatnsstæðin, stekkirnir, kvíarnar, fjárhellarnir, vatnsstæðin og vörðurnar.

Borgarhraunsrétt

Borgarhraunsrétt.

Jafnvel réttirnar, útilegumannahellarnir, aftökustaðirnir, dómhringirnir og lögrétturnar eða hvaðanaæva er tengdist lifnaði eða lifnaðarháttum fólks liðins tíma. Það er allt þarna úti – ef einhver hefur áhuga.
Refabyrgin, refagildurnar eða grenin – bara nefndu það. Eða hinir fjölmörgu hellar og skútar, sem tengjast einstökum sögum, s.s. Arngrímshellir, og Sængukonuhelli.
Eða drykkjasteinarnir, eða letursteinarnir eða…. Að ekki sé minnst á náttúruna sjálfa og allt sem hún hefur upp á að bjóða. Bara nefndu það. Það er engin afsökun til að skoða þetta ekki. Lítið sem ekkert af þessu hefur verið haldið að fólki”.

Hvað er verið að skoða?

Bálkahellir

Í Bálkahelli.

“Allt, sem kann að vera áhugavert frá liðinni tíð. Leitað er í bókum, ritum, sögnum, lýsingum, minningarbrotum og örnefnaskrám og höfð viðtöl við eldra fólk, sem kann frá einhverju merkilegu að segja. Svo virðist sem þjóðsögurnar, sem gerast reyndar hlutfallslega fáar á Reykjanesi, eigi sér svo til allar tilvísun í staði eða staðhætti. Þannig má sannanlega sjá merki þeirra á Selatöngum, í Ögmundarhrauni, í Draughelli í Valahnjúk, í Arngrímshelli (Gvendarhelli) og í Bálkahelli í Krýsuvíkurhrauni, í Kerlingadal austan við Eldborg eða á Vörðufelli ofan við Selvog.

Selvogsgata

Gengið um Selvogsgötu.

Á þessu landsvæði m.a. sjá ein elstu mannvirki landsins, s.s. Skagagarðinn mikla, Fornagarð Í Selvogi, skálann og tóttirnar í Húshólma og Óbrennishólma, minjarnar fyrir ofan Stórubót í Grindavík, kapelluna í Kapellulág við Hraun, dysjarnar við Hraun og víðar, grafirnar við Hafurbjarnastaði eða á Draughól við Garðskaga og svona mætti lengi telja. Þá eru ekki upptaldir letursteinar, sem víða má sjá og hafa skýrskoutun til gamalla heimilda, s.s. letursteinninn við Prestsvörðuna er sr. Sigurður Sívertssen lét höggva í eftir að hafa lifað að harðviðri, rúnasteininn í Kistugerði, áletranir í Másbúðarhóla, leturstein neðan við Kálfatjörn frá 1674, skósteininn í brúnni vestan kirkjunnar, vörðuáletranir, s.s. í Stúlknavörðunni (1777) ofan við Stapann, letur- og ártalssteinana á Vatnselysuströnd, t.d. við Knarrarnes og svona mætti lengi telja.

Þá er ekki talað um allar þær fornu leiðir, sem farnar voru og enn má merkja ef ve er að gáð”.

Hafið þið skráð eitthvað af þessu?

Lambafellsklofi

Lambafellsklofi.

“Við höfum fram að þessu notað upplýsingarnar sem ákveðið tilefni til útivsitar. Stundum höfðum við þurft að fara nokkrum sinnum á sama stað til að finna það sem lýst var. Stundum finnum við annað en það sem lýst var og merkilegt kann að þykja. En við höfum fram að þessu ekki skráð það sérstaklega. Teljum það hlutverk annarra, einkum þeirra sem fram að þessu hafa einungis fengið tækifæri til að skrá og varðveita minjar, sem sögulegar kunna að teljast. Annars er það okkar mat að minjar eigi að varðveitast á staðnum Þær á ekki að færa í eitthvert miðlægt munsteri – víðs fjarri – jafnvel þótt fjöldinn kunni að vera þar. Enginn hefur gott að því – síst sagan eða munirnir. Þeir halda einungis gildi sínu á þeim stað er sagan skóp þeim tilvist – eða öfugt. Aðalatriðið fyrir okkur er hreyfingin. Allt annað bætir um betur. Við þolum hins vegar enga linkennd. Annað hvort er fólk tilbúið til að takast á við það sem bíður þess eða ekki. Ekki er hlustað á kvartanir. Ef einhver gefst upp er leitað að því sem kann að nýtast öðrum til framtíðar, t.d. göngustafnum”.

Hversu margir hafa ílengst frá upphafi og ekki gefist upp?
“A.m.k. tveir”.

Er ætlunin að halda áfram?

Ferlir

Ferlir á ferð um Húshólma.

“Já, svo lengi sem eitthvað er eftir óskoðað. Við höfum þegar farið 317 ferðir á Reykjanesið, en sýnt er að við höfum einungis skoðað það að hluta. Við eigum eftir að skoða selin norðan og austan Búfells og sandana ofan Selvogs svo eitthvað sé nefnt. Og margir hellar eru enn óskoðaðir. Þetta svæði er geysilega víðfeðmt og hefur upp á ótrúlega margt og mikið að bjóða. Jarðfræði landsins er t.d hvergi eins opin og áberandi og þar. Lesa má svo til alla landsmótunina frá vitsmunalegu upphafi á svæðinu og mörg hraunanna hafa runnið eftir að norrænt landnám hófst. Líklega þarf hver og einn að þekkja a.m.k. svolítið til um fortíðina til að geta skilið betur framtíðina. Nútíðin, þ.e. dagurinn í dag, var framtíðin í gær, en verður fortíðin á morgun. Með því má sjá hversu fortíðin getur verið, ekki bara okkur, heldur og öðrum, sem á eftir koma, dýrmæt. Sá veldur, sem á heldur. Þeir sem ekkert gera, vanrækja framtíðina. Viljum við það”.

Hvað er framundan?

Sveifluháls

Gengið um Sveifluháls.

“Meiri hreyfing – í fallegu mhverfi innan um minjar forfeðra og –mæðra og sögu þeirra, sögu liðins tíma – okkar tíma í fortíð, nútíð og framtíð”.

Ljóst má vera að framangreint er einungis svör við framkomnum spurningum, en ef spurt hefði verið nánar um eigindlega möguleika fyrirliggjandi upplýsinga, hugsanlega greiningu eða túlkun þeirra, aðferðir eða aðferðafræðileg hugtök, mögulegra kenninga eða væntanlegar niðurstöður hefðu svörin án efa orðið önnur. Þannig mótast svörin jafnan af spurningunum.

Túlkun niðurstaðna út frá fyrirliggjandi upplýsingum er jafnan talin gild – þá og þegar hún er lögð fram – en hún er líka fljót að breytast þegar til lengri tíma er litið. Svo virðist sem jafnvægi aukist með fjarlægðum – því lengra sem líður frá túlkun gagna því líklegra er að hún nálgist áreiðanleikann fyrrum.

Arngrímshellir (gvendarhellir)

Í Arngrímshelli (Gvendarhelli).

Fálkageiraskarð

“Stórkostlegasti hellir, sem ég hef séð. Sáuð þið litadýrðina, skærgult, rautt, blátt, grænt og allt þar á milli. Ekki rykkorn á gólfinu, Óendanlegur. Hef ekki séð gulan björgunarbát í helli áður. Það tekur a.m.k. viku að skoða hann allan”. Þetta voru viðbrögð FERLIRs félaga og félaga úr HERFÍ eftir að hafa fundið helli í Brennisteinsfjöllum eftir langa göngu og allnokkra leit. Áður höfðu þeir fundið nokkra hella til viðbótar, reyndar heilt hellakerfi, en það reyndist einungis sýnishorn af því sem koma skyldi.

Fálkageiraskarð

Efst í Fálkageiraskarði.

Gengið var upp Fálkageiraskarð (Falskageiraskarð skv. örnefnalýsinigu) með það fyrir augum að kanna hvort um væri að ræða hellagöt á ókönnuðu svæði í Brennisteinsfjöllum. Áætlaðir voru þrír tímar í göngu og síðan tvo tíma í leit á svæðinu því ganga þurfti til baka sömu leið. Hálfa klukkustund tók að ganga upp skarðið, en það er í sjálfu sér ekki erfitt uppgöngu. Leiðin upp er þakin fjölskúðugum plöntum, og utan í því er fallegur hraunhóll, sem (þegar upp var komið) kom í ljós að hafði runnið í þunnfljótandi hraunæð fram af brúninni og storknað jafnóðum utan í og neðan við bergbrúnina.  Síðan hafði brotnað út hömrunum efst og þeir fjarlægst hraunstandinn, sem stendur þarna einn og tignarlegur. Efst í skarðinu er hár klettadrangur, Fálkaklettur. Undir honum eru grasbrekkur og jafnframt fyrir ofan þegar komið er upp.

Fálkageiraskarð

Standur efst í Fálkageiraskarði – Fálkaklettur.

Ofan við skarðið tók við langt misgengi. Því var fylgt, haldið yfir apalhraun að ísaldarskyldi. Suðaustur úr honum lá þriggja metra breiður stígur áleiðis niður að Mosaskarði. Sennilega er hér um að ræða hluta leiðarinnar, sem Stakkavíkurbræður gengu þaðan yfir að Fagradalsmúla og niður í Hafnarfjörð með rjúpur á vetrum, sbr. frásagnir Eggerts og Þorkels undir viðtöl hér á vefsíðunni. Gengið var yfir ísaldarskjöldinn og síðan úfin apal- og helluhraun uns komið var í hraunið, sem átti að skoða. Strax fundust nokkur op. Rásirnar voru hverri annarri fegurri. Þunnfljótandi hraunlag hafði slétt út gólfin og myndað þunna skán á því. Afhellar voru hingað og þangað. Ein rásin lá þvert á meginrás og úr henni nokkrar aðrar. Fallegir bálkar með veggjum og litardýrð. Gljáfægðir separ í loftum.

Ferlir

Í Ferli.

Tvær hraunsúlur héldu loftinu uppi á einum stað og svona mætti lengi telja. Nokkrar 100 metra rásir voru þarna og fjölmargar styttri eða hringrásir. Þarna væri hægt að vera klukkustunum, eða jafnvel dögum saman og alltaf finna eitthv nýtt. GPS-punkar voru teknir af þremur opanna.
Á leiðinni til baka var haldið ofar í hlíðina og strikið þvert á hana því einn FERLIRsfélagi hafði veitt athygli gati þar á leiðinni upp eftir. Um er að ræða sæmilegt jarðfall. Sjá má lýsingarinnar á innihaldinu í upphafinu hér að framan. Hægt er að far niður rásina og þar greinist hún í margar nokkrar aðrar.

Ferlir

Í Ferli.

Fremst er bergið bláglerjað, hárrauð þverrás gengur inn úr henni og hægt er að ganga í hringi um ýmsa ganga. Ofar virðist rásin ekki mjög merkileg. Hún virðist enda eftir um 100 metra, en þegar betur er að gætt er rás upp undir lofti. Þegar skriðið er eftir henni opnast “konfektkassi” hellaháhugamanna í öllum litum og litbrigðum. Tvær fallegar súlur eru í rásinni. Allar rásir eru heilar og varla steinn á gólfi. Hliðarrásir ganga inn úr hverjum gangi, stundu í allar áttir. Sá litur, sem sker sig mest úr er skærgulur, en jafnframt má sjá silfurliðar berg. Þegar þessi hluti verður skoðaður þarf að hafa spotta er merkilínu.

Ferlir

Storknun í Ferli.

Varið var tveimur klukkustundum í skoðun á hellinum, en sýnt er að gefa þarf sér góðan tíma til að skoða hann allan.
Stungið var upp á nafni á hellinn og gengur hann framvegis undir vinnuheitinu FERLIR (beygist eins og HELLIR).
Gengið var niður með ísaldaskyldinum og austan misgengisins, en síðan var bjargbrúninni fylgt að Fálkageiraskarði. Blankalogn var svo auðvelt var að fylgjast með fýlnum í berginu og tilburðum hans. Sauðamergur, geldingahnappur, ljónslappi og burknategundir eru dæmi um jurtir í gilinu.

Ferlir

Í Ferli.

Skammt ofan við jökulskjöldinn fyrrnefnda fannst skarlatbikar (cladonic borealis), en hann vex á jarðvegi og mosa, oft yfir klettum og er algengur um land allt, en askhirslurnar, skærrauðar, sem voru á þessari einu litlu plöntu víðáttunni, eru fremur sjaldséðar.
Áætluð er fljótlega fer með HERFÍ á hellasvæðið. Þá verður farið með allan nauðsynlegan búnað og ljós, sem og það markmið að reyna áætla umfang þess nýfundna hellis. Mjög erfitt er að að koma auga á opið, auk þess sem það er á einu fáfarnasta svæði landsins. Slík svæði eru „veiðilendur“ FERLIRs.
Það var vel við hæfi að ferð nr. 666 tengdust undirheimunum.
Gangan tók 8 klst og 12 mín, eins og áætlað var. Fábært veður – sól og blíða.
Sjá MEIRA.

Ferlir

Jarðmyndanir í hellinum Ferlir.

Jafnan er leitað til FERLIRs um leiðsögn um hin og þessi svæði Reykjanesskagans, bæði í styttri og lengri gönguferðir – enda óvíða um meiri uppsafnaðan fróðleik og reynslu að finna um svæðið.
Prestastigur-911Reykjanesskagann má njóta til útivistar allan ársins hring, hvort sem áhugi er á fornminjum eða náttúruminjum. Segja má að hann endurspegli bæði sögu búsetu- og atvinnusögu þjóðarinnar frá upphafi landnáms, auk þess sem náttúran með öllum sínum tilbrigðum hefur upp á nánast allt að bjóða, sem aðrir landshlutar hafa. Á svæðinu má t.d. finna leifar u.m.b. 400 selstöðva, 130 rétta, 80 fjárborga, 67 refagildra, auk allra annarra minja sem og fornra þjóðleiða. Hellar og skjól eru yfir 300 talsins, auk námusvæða og tilkomumikilla hverasvæða.
Fyrir íbúa höfuðborgarsvæðisins, Suðurnesja, Grindavíkur og Þorlákshafnar er hvergi styttra að fara á kyngimögnuð útivistarsvæði. Í stað þess að verja tímanum í akstur að göngusvæðinu er hægt að nota hann til ánægjulegrar útivistar svo til allan daginn – og njóta síðan eigin rúms um kvöldið í stað þess að kaupa gistingu.
Hægt er að sníða gönguferðir að óskum og getu hvers og eins, hvort sem hann er einn á ferð eða í hóp…

Hafið samband við ferlir@ferlir.is – og við skoðum málið.

thorbjorn-221