Tag Archive for: fornleifafræði

Þjóðminjasafnið

Í Tímariti Máls og menningar árið 1966 er viðtal við Kristján Eldjárn, þáverandi þjóðminjavörð, undir fyrirsögninni „Ísland hefur enga forsögu„:

Tímarit Máls og menningar 1966„Kristján Eldjárn er löngu þjóðkunnur. Hann fæddist 6. des. 1916 að Tjöm í Svarfaðardal, lauk stúdentsprófi á Akureyri 1936, stundaði nám í fornleifafræði við Háskólann í Kaupmannahöfn 1936—39, kenndi við Menntaskólann á Akureyri 1939—41, lauk meistaraprófi í íslenzkum fræðum frá Háskóla Íslands 1944 og doktorsprófi við sama skóla 1956. Gerðist safnvörður í Þjóðminjasafni 1945, skipaður þjóðminjavörður 1947. Hefur gert allmarga uppgrefti hér á landi og tekið þátt í fornleifarannsóknum á Grænlandi og víðar erlendis. Gaf út bókina Gengið á reka 1948, Kuml og haugfé 1956, Staka steina 1958 og Hundrað ár í Þjóðminjasajni 1962. Hefur auk þess skrifað margar greinar í Árbók hins íslenzka fornleifafélags og nokkuð í erlend tímarit.
Hin síðari ár hefur margt verið ritað um forsögu og uppruna Íslendinga og komið fram nýstárlegar kenningar sem vakið hafa ágreining, en jafnframt aukinn áhuga almennings. Hér í tímaritinu hafa m.a. birzt greinar um þetta efni að undanförnu. Það hefur nú snúið sér til Kristjáns Eldjárns og leitað í spurningaformi álits hans sem fornleifafræðings á elztu sögu Íslendinga.

Hvað er fornleifafrœði? Er hún vísindi eða skáldskapur?

Kristján Eldjárn

Kristján Eldjárn.

Fornleifafræði er vísindi, og má segja að hún sé á mörkum þess sem nú er kallað hugvísindi og raunvísindi. Sumir hafa reyndar illan bifur á þessum orðum og vilja láta hugvísindin kallast frœði og raunvísindin aðeins vísindi. En fornleifafræðin er þá bæði fræði og vísindi. Fráleitt væri að kalla fornleifafræðina skáldskap, þótt niðurstöður hennar hafi oft orðið tilefni skáldskapar, og þá á ég við raunverulegan skáldskap eins og hjá Johannes V. Jensen, til dæmis að taka, en ekki heilaspuna, sem ýmist kallar sig skáldskap eða
vísindi, en er hvorugt. Og sjálfsagður hlutur er það, að fornleifafræðingi er nauðsynlegt að hafa auðuga innlifunargáfu, geta séð sýnir, en fari hann að sjá ofsjónir hættir hann að vera fræðimaður og verður þó ekki skáld að heldur. Það eru til fornleifafræðingar sem líkt og aldrei koma aftur upp úr holunni sem þeir hafa grafið sig niður í, aðrir sem aldrei virðast geta tyllt tá á fast land. Hvorirtveggju eru jafnómögulegir.

Þjóðminjasafnið

Þjóðminjasafnið.

Það er ekki áhlaupaverk að skapa heild, samhangandi menningarsögu úr þeim einhæfu brotabrotum, sem varðveitzt hafa. En húsið er þó að verða fokhelt, svo verður það tilbúið undir tréverk og einhvern tíma verður hægt að mála og dúkleggja. Ég þarf varla að taka fram, að ég er hér að tala um fornleifafræði almennt, ekki íslenzka fornleifafræði.

Nokkrir hafa leitt hugann að forsögu Íslands. Ég minnist skrifa Einars Benediktssonar. Hann kynnti sér hella á Suðurlandi og sagðist geta sannað með rökum að margir þeirra vœru eldri en hin norrœna landssaga. Hefur sú fullyrðing verið hrakin?
Það er einkennilegt og eiginlega sálfræðilegt rannsóknarefni, hvernig þessi hellarómantík Brynjúlfs frá Minna-Núpi (blessuð sé og verði hans minning hér í Þjóðminjasafni) og Einars Benediktssonar hefur runnið inn í Íslendinga. Menn halda dauðahaldi í þessar getgátur og hafa þær fyrir helgar kýr.

Einar taldi sig hafa fundið í einum hellinum, í Hellnatúni í Asahreppi, rómverskt letur frá 4. öld. Hefur það verið tekið til frekari athugunar?

Hellir

Krossmark á vegg í manngerðum helli á Suðurlandi.

Já, vissulega. Matthías Þórðarson rannsakaði fjölmarga manngerða hella í Árnessýslu og Rangárvallasýslu og skrifaði um þá framúrskarandi skýra greinargerð í Árbók fornleifafélagsins 1930—31. Það sem Einar Benediktsson sá í Hellnatúnshelli og las S J G IV og þýddi Saeculo Jesu Generationis Quarto, er í rauninni fangamark S J S, Sigurðar Jónssonar eða þvíumlíkt, vafalítið frá 17. eða 18. öld.

Þú komst einu sinni svo að orði um Jón Sigfússon á Bragðavöllum, þann er fann fyrsta rómverska peninginn, að hann hafi lengt sögu Íslands um 500 ár aftur í tímann. Hafa rannsóknir leitt eitthvað í ljós síðan er gefi vitneskju um þetta tímabil eða fylli þar í eyðurnar?
Það er langt síðan ég skildi, hvílík gífuryrði ég hafði látið mér um munn fara um þessa lengingu íslenzkrar sögu aftur í tímann. Ekkert hefur heldur komið í ljós síðan, sem réttlætt gæti svo glannaleg orð.

Rómverskir

Rómverskur peningur. Rómverskur koparpeningur fundinn á Bragðavöllum í Hamarsfirði í Suður-Múlasýslu. Peningurinn er sleginn í borginni Cyzicus í Litlu-Asíu í tíð Aurelians keisara er ríkti í Rómaveldi á árunum 270-275 eftir Krist. Peningurinn fannst árið 1933 í uppblásnum og eyddum fornbæjarrústum hjá Bragðavöllum og þar hafði fundist annar rómverskur peningur árið 1905. Aðrir hlutir, sem fundist hafa á þessum stað, eru hins vegar dæmigerðir norrænir gripir, sem algengt er að finna í fornbæjarústum hérlendis, perlur úr steinasörvi, klébergsbrot úr pottum og einfaldir smáhlutir. Þessir peningar hafa orðið kveikjan að þeirri hugmynd, að Rómverjar hinir fornu hafi komið til Íslands á 3. eða 4. öld eftir Krist og haft hér einhverja viðdvöl. Það verður þó vart ráðið af þessum peningum né öðrum rómverskum, sem hér hafa fundist. Engar aðrar rómverskar minjar hafa fundist hér og peningar eru vafasamir til tímasetningar nema aftur í tímann. Þriðji rómverski peningurinn fannst einn sér fyrir mynni Hvaldals austanvert við Lón í Austur-Skaftafellssýslu og hinn fjórði fannst árið 1966 við rannsóknir á byggðarleifum frá söguöld í Hvítárholti í Hrunamannahreppi.

Þú taldir allar líkur benda til um rómversku peningana sem fundust á Austfjörðum, að þeir hefðu borizt með brezk-rómversku skipi er þangað hefði hrakizt um 290 þegar mynt þessi var algeng. Nú hefur fundizt nýr rómverskur peningur á allt öðrum stað, Hvítárholti í Hreppum, ekki við strendur heldur inni í landi. Getur þá lengur gilt sama skýring og áður, eða hafa Rómverjar verið hér víðar á ferð kringum 300, og hví þá ekki höggvið letur í hella eins og Einar Benediktsson þóttist sjá?

Ég held enn að það sé engan veginn fráleitt, að skip frá rómverska skattlandinu Britanníu hafi hrakizt hingað til lands um 300 e. Kr. og rómversku peningarnir þrír frá Austfjörðum hafi þá orðið hér eftir, og þá sennilega miklu fleiri, og landnámsmenn hafi svo fundið þá, þegar þeir komu til landsins mörg hundruð árum seinna. Satt að segja finnst mér þetta eðlileg skýring. Peningurinn frá Hvítárholti er eins og hann væri úr sömu pyngju og hinir, og það held ég víst að hann sé. Allir þessir peningar hafa að líkindum komið hingað til landsins í sama sinn. Hitt er svo annað mál, að þeir hafa vel getað borizt hingað á annan hátt en þann, sem ég nefndi. Einhver Íslendingur eða landnámsmaður á leið til Íslands hefur getað verið í Englandi og komizt yfir hrúgu af þessum gömlu peningum þar og haft þá með sér hingað út. Önnur hvor þessara skýringa mun vera sú rétta.
Þegar við héldum víkingafundinn hér í Reykjavík 1956, vorum við svo heppnir að hafa með okkur hinn heimsfræga og stórsérkennilega fomleifafræðing, prófessor Gordon Childe. Í blaðaviðtali var hann að því spurður, hvernig á því stæði, að aldrei hefðu fundizt minjar eftir steinaldarmenn á Íslandi. Gordon Childe svaraði stutt og laggott: „Lélegir fornleifafræðingar“.

Landnáma

Landnáma.

Þú vilt ekki teygja fornfrœðina of langt út í skáldskap. Víkjum þá að þeim tímum sem nœr liggja. Fram á okkar daga treystu menn á Ara fróða og Landnámu og á sanngildi Íslendingasagna. Nú eru ýmsir farnir að vefengja þessi sögulegu frœði, gera sér nýjar hugmyndir um uppruna Íslendinga og halda því fram að hér hafi verið mannabyggð fyrir landnámstíð, jafnvel heil þjóð legið í felum. Geta ekki fornleifarannsóknir gefið hér gildandi úrskurð? En áður en kemur að beinu svari við því, viltu kannski segja mér eitthvað almennt um fornleifarannsóknir hér á landi?
Fornleifarannsóknir á Íslandi hófust með Sigurði Vigfússyni, þótt í smáum stíl væri, síðan gerði Daníel Bruun höfuðsmaður og Finnur Jónsson prófessor nokkra uppgrefti, sem voru á miklu fullkomnara stigi faglega séð en rannsóknir Sigurðar, sem von var til.

Matthías Þórðarson

Matthías Þórðarson (1877-1961).

Þá komu svo rannsóknir Matthíasar Þórðarsonar, en þær urðu aldrei eins miklar og hann hefði viljað, því að varla er von að önnum kafinn embættismaður, eins og hann var, komi miklu slíku til leiðar. Stærsta átakið í íslenzkum fornleifarannsóknum varð þó einmitt á hans dögum, rannsóknirnar í Þjórsárdal 1939, en í þeim tóku þátt fornleifafræðingar frá Danmörku, Finnlandi og Svíþjóð auk Íslendinga; Matthías Þórðarson hafði yfirumsjón með verki allra þessara manna. Á síðustu tveimur áratugum hefur verið unnið nokkuð að uppgröftum eftir því sem tími okkar fáu safnmanna hefur leyft, og þótt ekki sé meira, hafa þó þessar rannsóknir leitt margt í ljós, sem á ýmsan hátt varpar ljósi á menningarsögu Íslendinga.

Þið hafið grafið upp marga fornmenn og fundið ýmsa muni eftir þá. Hvaða fundi telur þú merkasta?
Jú, grafir frá heiðni eru einmitt drýgsta uppsprettan. Það finnst venjulega eitthvað af slíkum gröfum á hverju ári, og þá reynum við að komast sem fyrst á staðinn til þess að rannsaka þær. En það er hér eins og í flestum löndum öðrum nú orðið, að það eru jarðýtur, sem finna grafirnar, og það eru ekki mjúkar á þeim krumlurnar.
Kuml og haugféMér telst nú til, að fundarstaðir þekktra heiðinna kumla hér á landi sé 147, en einstakar grafir nær 290, því að oft eru fleiri grafir á sama fundarstaðnum, það köllum við kumlateiga. Hvað merkilegast sé af þessu öllu veit ég ekki. Til að nefna eitthvað skal ég telja fram kumlið, sem ég rannsakaði í litlum hólma í Úlfljótsvatni, rétt hjá Kaldárhöfða sumarið 1946, og bátkuml, sem Þór Magnússon safnvörður rannsakaði í Vatnsdal í Patreksfirði 1964. Íslenzkar fornmannagrafir upp og ofan eru heldur fátæklega úr garði gerðar, þegar borið er saman við önnur lönd á norrænu menningarsvæði á svonefndri víkingaöld.

Hvaða bendingar gefa þessar rannsóknir, í fyrsta lagi um uppruna Íslendinga?
Við skulum reyna að setja okkur í þau spor, að alls engar ritaðar heimildir væru til um það, hvenær og hvaðan Ísland byggðist, og yrðum að reyna að gera okkur grein fyrir þessu af fornleifum einum saman. Við mundum þá hiklaust komast að þeirri niðurstöðu, að landið hefði verið óbyggt allnokkuð fram á víkingaöld Norðurlanda, en síðan byggzt skyndilega frá Norðurlöndum nær miðju því tímabili eða ekki allfjarri 900. Síðan hefði hér heiðni haldizt um sinn, en þjóðin verið orðin kristin um einni öld síðar. Ég sé ekki betur en þetta fallist í faðma við okkar fornu sögur í stórum dráttum.

Barði Guðmundsson

Barði Guðmundsson (1900-1957).

Barði Guðmundsson véfengdi ekki að Íslendingar hefðu að meginstofni komið frá Noregi, en fœrði rök að því að verið hefði annar þjóðflokkur en sá sem nú byggir Noreg, með aðra siði og kominn austan eða sunnan að, frá baltnesku löndunum. Hvaða bendingar gefa fornleifafundir hér í þessa átt?
Greftrunarsiðir voru svipaðir um öll Norðurlönd á víkingaöld og verkfærakostur og skartgripir og vopnabúnaður líka. Þó er nokkur munur á, einkum í tízkubundnum smáatriðum í skartgripagerð. Flestar íslenzkar grafir eru með þeim ummerkjum, að þær hefðu getað eins vel fundizt í Noregi eða jafnvel í Svíþjóð eða Danmörku. Þó held ég, að sterkastur sameiginlegur svipur sé með íslenzkum og norskum legstöðum heiðinna manna. En svo kemur hitt, að hér hafa fundizt fáeinir forngripir, sem eiga sér lítt eða ekki samsvörun í Noregi, þótt allur þorrinn sé alveg eins og þar. Ekki er ólíklegt, að íslenzkir kaupmenn hafi siglt skipum sínum til verzlunarstaða við Eystrasalt, t.d. til Birka í Leginum, ellegar kaupmenn þaðan hafi komið hingað. Verzlun Íslendinga hefur áreiðanlega ekki verið einskorðuð við Noreg á söguöld. En það er reyndar eitt atriði í íslenzkum greftrunarsiðum, sem er sérkennilegt. Hér virðist áreiðanlega aldrei hafa verið viðhöfð líkbrennsla, en á Norðurlöndum var hún eins algeng á víkingaöld og jarðsetning, þó fátíðust í Danmörku.

Rómverskir peningar

Fundir rómverskra peninga hér á landi.

Aðrir halda fram stœrri hlut Íra í landnámi íslands. Hvaða minjar hafa fundizt hér eftir Kelta?
Líklega hafa margir Írar flutzt hingað á landnámsöld, eins og ævinlega hefur verið almennt talið. En minjar um þá hafa engar fundizt né heldur neina aðra Kelta.

Og hvað er þá að segja um mannlíf hér fyrir landnámsöld? Reynist kannski svo að Íslendingabók og Landnáma hafi rétt fyrir sér, að landnámsmenn hafi komið hér að óbyggðu landi?
Ég er ekki reiðubúinn til að véfengja okkar fornu heimildir, að hér hafi verið írskir munkar, þegar norrænir menn komu hingað, sennilega þó aðeins fáeinir menn á Suðausturlandi. Þetta má kannski kalla mannlíf, en annað mannlíf hefur ekkert verið hér á landi fyrir landnámsöld. Landnámsmennirnir komu hér að óbyggðu landi, eins og sögurnar segja. Einmitt þess vegna nefndust þeir landnámsmenn. Ísland hefur enga forsögu.

landnámsskáli

Reykjavík – minjar landmámsbæjar í Aðalstræti.

Gerðist ekki fornleifafundur hér í sjálfri Reykjavík sem bendir til byggðar alllöngu fyrir landnámstíð?
Fornleifarannsóknir hafa litlar verið hér í Reykjavík.

Hvað um þá röksemd Benedikts frá Hofteigi að landnámsmenn hafi ekki getað flutt með sér allan þann bústofn sem snemma er talinn í eigu Íslendinga?
Benedikt frá Hofteigi er mikill áhugamaður um frumsögu Íslands eins og aðra sögu. Hann hefur stundum sneitt að íslenzkum fornleifafræðingum, að þeir séu athafnalitlir, en alltaf hefur hann gert það mannúðlega, og sá tími er nú sem betur fer liðinn, að menn leggi fæð hver á annan eða rífist eins og rakkar, þótt þeir séu ekki sammála um fræðileg efni. Menn eru hættir að hatast ævilangt út af stafsetningu.

Benedikt Gíslason

Benedikt Gíslason frá Hofteigi (1894–1989).

Góðkunningi minn Benedikt mun því áreiðanlega ekki þykkjast við mig, þótt ég segi frá einu tilsvari, sem ég ætla að hafa eftir honum. Ég spurði hann einu sinni hvaða skýringu hann gæti gefið á því, að aldrei fyndist neitt, alls ekki sú minnsta agnarögn, af minjum eftir hina miklu og menntuðu þjóð, sem hann telur hafa búið hér á landi áður en landnámsmenn komu til landsins, kannski hundrað þúsund manna þjóð. Af hverju finnast aldrei neinar minjar eftir hana? Benedikt svaraði hiklaust:
„Það er af því að þið leitið ekkert að þeim.“

Björn Þorsteinsson grefur upp forna heimild um að Ísland sé nefnt Íraland, telur þá hafa búið í Fœreyjum á 8. öld, en síðan þokað sér hingað norður með búsmala og tekið að nema hér land. Bendir ekkert til að fyrir landnámstíð hafi hér verið aðrir Írar en þeir einsetumenn sem Ari nefnir?
Nei, ég segi það aftur, engar slíkar minjar hafa fundizt, ekki tangur né tetur. Ég hef leyft mér að kalla þessa trú á þjóð hér á landi fyrir landnámsöld andatrú hina nýju. Þetta er eiginlega spíritismi.

Snældursnúður

Snældusnúður úr steini, fundinn við rannsóknir á Bergþórshvoli 1927.

Og ef við víkjum nú lítilsháttar að sögutímanum. Er ekki svo að ýmsar rannsóknir sem þið hafið gert staðfesti sannleiksgildi fornsagnanna, t.a.m. Njálu?
Sigurður Vigfússon vildi nota fornleifarannsóknir fyrst og fremst til þess að sanna Íslendingasögumar. Nú teljum við hlutverk hennar vera að safna heimildum að menningarsögu. En þá er vitanlega vel, ef hún getur stöku sinnum varpað ljósi á almenna sögu eða bókmenntasögu. Stundum getur hún fyllt upp í einhverja sögulega eyðu, og einstöku sinnum, ef til vill, sannað eða afsannað eitthvað, sem stendur í fornsögum. Það var til dæmis skemmtilegt að koma niður á brunarústir frá söguöld á Bergþórshvoli, ekki sízt þar sem þær voru jafngreinilegar og þær voru, þótt ekki væru þær nema af fjósi.

Kristján EldjárnHvaða vísindagreinar standa fornleifafrœðinni nœst, eða eru henni helzt til stuðnings?
Fornleifafræði er menningarsaga og hlýtur vitanlega að haldast í hendur við almenna sögu, svo langt sem ritaðar heimildir ná. Ég hef þegar nefnt sem dæmi, hvernig fornleifafræði getur lagt veigamikið orð í belg um upphaf Íslandsbyggðar. Auk þess styðst fornleifafræði við þjóðfræði, sem svo er kölluð, etnografi, en að því er tekur til sjálfra fornleifarannsóknanna verður að styðjast við náttúruvísindi almennt, einkum þó jarðfræði. Þetta á við alls staðar, um alla fornleifafræði, einnig hér á landi, þótt við séum í þessari einkennilegu sérstöðu að hér er engin forsaga og allar okkar fornleifarannsóknir snúast um efni frá sögulega þekktum tíma. En stefnumark fornleifafræðinnar er fyrst og fremst menningarsaga.

Kristján Eldjárn

Sverð úr fornmannagröf á Kaldárhöfða við Úlfljóstvatn. Þrátt fyrir merkilegheitin er nákvæmlega ekkert á vettvangi sem bendir nútímafólki á fundarstaðinn.
Svona er fornleifafræðin vaxin enn í dag…

Þeir sem véfengt hafa norskt œtterni Íslendinga, hafa ekki sízt vitnað til bókmenntanna, viljað frekar rekja einkenni þeirra til Íra eða Herúla, eins og Barði. Menn hafa engan sambœrilegan skáldskap fundið í Noregi, en hvað er þá að segja um allar hinar nýju rúnarislur í Bergen?
Við erum nú orðnir svo langorðir, að ég verð að hliðra mér hjá að fjölyrða um þetta efni. Þó skal ég segja, að fornleifafundirnir í Björgvin, sem fram hafa komið á síðustu árum, ekki sízt hinar fjölmörgu og margvíslegu rúnaristur, eru einhver merkilegustu tíðindi þessarar fræðigreinar hér á Norðurlöndum á síðustu árum.

Nú langar mig til að víkja að starfi þínu við Þjóðminjasafnið. Hvenœr varðstu þjóðminjavörður?
Ég varð þjóðminjavörður 1. des. 1947, en hafði þá áður verið safnvörður hjá Matthíasi Þórðarsyni um tveggja ára skeið.

Þjóðminjasafnið

Þjóðminjasafnið.

Hvernig hefur þér fallið við nýju bygginguna?
Nýja byggingin olli tímamótum í sögu safnsins, eins og að líkum lætur. Það er ómetanlegt að safnið hefur sitt eigið hús, og nú orðið er það orðin eins og hver önnur fjarstæða að Þjóðminjasafninu væri holað niður einhvers staðar eða einhvers staðar. Húsið hefur sína kosti og galla, eins og gefur að skilja, það hafa öll hús. Mannkynið hefur verið að byggja hús alla sína tíð, en samt er alltaf sama vandamálið að búa til gott hús. Aðalvandamálið með okkar hús er að það er of lítið. Ég mundi segja, að það væri nógu stórt fyrir Þjóðminjasafnið, ef Listasafn ríkisins þyrfti ekki að vera hér. Nauðsynlegt er að byggja sérstakt Listasafnshús.

Þjóðminjasafnið

Á Þjóðminjasafninu.

Hver eru helztu verkefni safnsins? Hvað eru starfsmenn margir?
Verkefni safnsins eru mörg, en safnmennirnir fáir. Auk mín eru fjórir safnverðir með fullu starfi og einn með hálfu starfi og bókari, sem í raun og veru er allt í senn bókari, gjaldkeri og skrifstofustúlka. Þeim embættum, sem við safnmennirnir gegnum, fylgir alls engin lagaleg skylda til að gera neinar fornleifarannsóknir, þótt við teljum það siðferðilega skyldu og sjálfsagðan hlut að gera það sem efni og ástæður leyfa á því sviði. Það er stundum öskrað á okkur með frekju og jafnvel ásökunum um að við gröfum ekki þetta og gröfum ekki hitt, eins og við værum að svíkja okkar starf. Þetta er hreinn misskilningur. Ekkert rannsóknarembætti í fornleifafræði er til. Við erum safnverðir og minjaverðir, og því fylgir meira veraldarvafstur en margur hyggur.

Árbók fornleifingafélagsins

Árbók Hins íslenska Fornleifafélags 1969.

Árbók fornleifafélagsins? Á hvern hátt er hún á vegum safnsins?
Það er von þú spyrjir, eins og ég hagaði orðum mínum. Hið íslenzka fornleifafélag var stofnað árið 1879, æruverðugt félag að aldri. Markmið þess var að stuðla að fornleifarannsóknum á Íslandi og gefa síðan út ársrit um þau efni. Árbók fornleifafélagsins hefur komið út síðan, þótt rannsóknirnar hafi færzt yfir á hendur Þjóðminjasafnsins. Þú fyrirgefur þótt ég smygli hér inn þessari litlu auglýsingu, en þetta rit er sem sagt eina málgagnið fyrir íslenzka fornleifafræði og er á vissan hátt árbók Þjóðminjasafnsins ekki síður en félagsins.

Hvernig er háttað stuðningi hins opinbera? Hafið þið nœgilegt fé til rannsóknarstarfa?
Allt okkar fé kemur frá því opinbera. Erfitt er að svara því, hvort við höfum nóg fé til rannsóknarstarfa. Vitanlega höfum við lítið fé, en fornleifafræðingar, sem gætu stjórnað uppgröftum, eru líka fáir. Ég hef ekki ástæðu til annars en halda, að hægt væri að fá meira fé hjá því opinbera til fornleifarannsókna, en þær gera sig ekki sjálfar, þó að peningar séu fyrir hendi. Við komumst ekki yfir öllu meira en við gerum eins og sakir standa.

Safnið hefur stœkkað mikið? Ef þú lítur yfir þessi ár, hvað finnst þér hafa áunnizt? Hvernig er framtíðarviðhorfið?

Hallgrímshellan

„Hallgrímshellan“ í geymslum Þjóðminjasafnsins. Dæmi um geymd til varðveislu, hvorki til nokkurs tilgangs né varðveislugildis!

Þjóðminjasafnið er geymslustaður minja og sýningarstaður en auk þess rannsóknarstaður að nokkru leyti. Það heldur jafnt og þétt áfram að vaxa og færa út kvíarnar á ýmsum sviðum, og svo mun verða í framtíðinni. Hér er nú orðið svo miklu meira umleikis á öllum sviðum heldur en þegar ég kom að stofnuninni fyrir rúmum tuttugu árum, að það er varla hægt að þekkja þetta fyrir sömu stofnun. Líklega heldur þessi vöxtur áfram, ég vona það, eins og ég vona að það verði æ meiri menningarstofnun eftir því sem tímar líöa. En líklega þarf fljótlega nýja og fullkomnari sundurgreiningu starfa og að skipta þeim niður á fleiri hendur.

Kristján Eldjárn

Kristján Eldjárn varð síðar forseti landsins (Kristján Þórarinsson Eldjárn (fæddur á Tjörn í Svarfaðardal 6. desember 1916 – dáinn 14. september 1982).

Þú býst við að verkefnin greinist í stjórnarstörf og frœðistörf. Hvort mundirðu kjósa þér fremur?
Ég get búizt við því, að sú skipting verði í framtíðinni. Sú stefna er alls staðar ríkjandi. Hvernig eiga menn, sem allan liðlangan daginn og allan ársins hring eru á kafi í ys og erli dagsins, eru með leyfi að segja eins og útspýtt hundsskinn, að stunda rannsóknarstörf og skriftir? Hvort ég mundi sjálfur kjósa af þessu, sem þú nefndir? Hvað skal segja? Ég er nú orðinn svo vanur því að vera eins konar þjóðareign, að líklega fer að verða vonlítið fyrir mig að prótestera og vilja fara að rannsaka og skrifa eða jafnvel flytja háskólafyrirlestra.“

Heimild
-Tímarit Máls og menningar, 4. tbl. 01.02.1966, „Ísland hefur enga forsögu“ – Viðtal við dr. Kristján Eldjárn þjóðminjavörð, bls. 352-365.

Kaldárhöfðii

Kumlið á Kaldárhöfða – uppdráttur.

Bjarni F. Einarsson

Bjarni F. Einarsson, fornleifafræðingur, skrifaði grein í Skírni árið 1994 undir yfirskriftinni „Íslenskar fornleifar – Fórnarlömb sagnahyggjunnar?„:

Skírnir

Skírnir 1994 – forsíða.

„Frá því að Íslendingar fóru að gefa fornleifum gaum að einhverju marki í lok síðustu aldar og í byrjun þessarar, hafa þeir jafnan talið að þær væru bæði fáar og fátæklegar og harla ómerkilegar fyrir vitneskju okkar um sögu landsins. Í þessari grein mun ég andæfa þessu viðhorfi og halda því fram að íslenskar fornleifar geymi miklar og merkilegar upplýsingar sem nái langt út yfir sögu Íslands. Í framhaldi af því held ég því fram að íslensk fornleifafræði geti átt sér bjarta framtíð og skipað veglegan sess í evrópskri fornleifafræði, enda hafi hún efnivið sem fá lönd hafa önnur. Þetta er þó því skilyrði háð að fræðimenn hér á landi stundi fornleifafræði sem sjálfstæða grein vísinda en ekki sem ósjálfstætt hjálpargagn annarra fræðigreina.

Fornleifafrœði og sagnabyggja
Einfaldasta skilgreining á fornleifafræði er að hún sé sú fræðigrein sem fáist við áþreifanlega hluti úr fortíð og dragi af þeim ályktanir um hlutskipti mannsins á þeim tíma sem minjarnar rekja uppruna sinn til. Starf fornleifafræðings felst einkum í uppgreftri, skráningu og túlkun fornminja.

Bjarni F. Einarsson

Bjarni F. Einarsson.

Markmið fræðigreinarinnar er að auka skilning okkar á fortíðinni. Þó ekki með hreinum lýsingum á gripum og húsum, heldur viljum við skilja ástæðurnar fyrir því að gripir og hús litu út eins og þau gera og af hverju þau tóku breytingum. Við viljum einnig vita um daglegt líf þess fólks, sem ber ábyrgð á hinni áþreifanlegu arfleifð. Hvernig nýtti það umhverfi sitt, hvernig lagaði það sig að breyttum aðstæðum og hvers vegna skóp það þessa sérstæðu menningu? Af hverju eiga breytingar sér stað yfirleitt? Getum við lært eitthvað af fortíð okkar?
Oft hefur verið staðhæft að Íslendingar þekki upphaf sitt betur en aðrar þjóðir, þar á meðal greftrunarsiði forfeðranna og þróun hýbýlahátta. Forsenda þessarar skoðunar er sú hugmyndafræði sem gegnsýrt hefur íslenska fornleifafræði frá upphafi og ég nefni sagnahyggju. Sagnahyggja er það viðhorf að ritaðar heimildir séu þýðingarmeiri en fornleifar fyrir sögu landsins. Sagnahyggjan kemur hvað skýrast fram hjá þeim sem telja Íslendingabók og Landnámabók mikilvægustu heimildir okkar um upphaf byggðar í landinu.

Kristján Eldjárn

Kristján Eldjárn (1916–1982).

Kristján Eldjárn skrifar í anda sagnahyggjunnar: „Sú fornleifafræði, sem hægt er að stunda hér á landi, hlýtur að flokkast undir miðaldafornleifafræði, það er rannsókn fornleifa frá tímum, sem eru að einhverju leyti lýstir af rituðum heimildum“. Í doktorsritgerð sinni Kuml og haugfé skrifar Kristján ennfremur: „Eru fornleifar tímabilsins [þ.e.a.s. frá landnámsöld] engin undirstaða undir sögu þjóðarinnar“.
Árið 1817 bað dönsk nefnd, Commissionen for oldsagers opbevaring, Íslendinga um yfirlit yfir fornleifar í landinu. Skrifaði hún til allra presta í landinu í þessu erindi. Þegar afraksturinn er athugaður er athyglisvert hve fáar fornleifarnar eru taldar og hversu ómerkilegar mörgum finnst þær vera. Svo ómerkilegar að á þær er ekki minnst yfirleitt.
Á seinni hluta 19. aldar, eftir að Hið íslenska fornleifafélag var stofnað árið 1879, var mikill fornleifaáhugi ríkjandi hér heima sem og erlendis. Fræðigreinin var þó ekki orðin til í þeim skilningi að hún væri kennd að einhverju marki í háskóla, þó að það hafi verið að breytast um þessar mundir.

Landnáma

Landnáma.

Munurinn á þeim sem voru að fást við íslenska fornleifafræði og þeim sem fengust við evrópska var að höfuðheimildir Íslendinga voru ritaðar heimildir svo sem Íslendingasögur, Íslendingabók og Landnámabók. Erlendis voru það fornleifarnar sjálfar og gripir sem þær geymdu sem voru hið leiðandi afl í fræðunum. Hinar rituðu heimildir réðu algerlega ferðum hinna íslensku könnuða í leit þeirra að efnislegri staðfestingu hinna rituðu heimilda. Orðið könnuður er raunar lýsandi fyrir það starf sem þessir menn sinntu, enda fóru þeir vítt og breitt um Ísland í leit sinni að minjum heimildanna. Hinar rituðu heimildir stýrðu ferðum manna um landið.

Jón Sigurðsson

Jón Sigurðsson (1811–1879).

Jón Sigurðsson forseti var einn áhrifamesti sagnfræðingur og stjórnmálamaður 19. aldar og mótaði hann að miklu leyti þá hefð að beita sögulegum röksemdum í sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar. Sjálfur var hann að sumu leyti persónugervingur sjálfstæðisbaráttunnar. Hann hlaut því að hafa mikil áhrif á frumkvöðla íslenskrar fornleifafræði sem og aðra þá er fengust við sögu Íslands. Ísland var í bullandi sjálfstæðisbaráttu, eins og reyndar fleiri ríki í Evrópu, og sú staðreynd hafði mikil áhrif á sagnfræðina hér sem erlendis. Saga Íslands, og þá einkum sá tími sem glæsilegastur var talinn, fornöldin og þjóðveldistíminn, var notuð í sjálfstæðisbaráttunni gegn Dönum með beinum tilvísunum í einstaka atburði og kappa.
Einn athafnamesti fræðimaðurinn á þessu sviði um aldamótin var án efa Brynjúlfur Jónsson, kennari, frá Minna-Núpi í Rangárvallasýslu. Hann er einna þekktastur alþýðufræðimanna þeirra tíma, en eitt helsta einkenni þeirra er að, viðfangsefnið er yfirleitt ekki sett í stærra samhengi, fáar ályktanir dregnar, ekki settar fram neinar rannsóknarniðurstöður, og kenningar um markmið og framvindu sögunnar koma naumast fyrir.

Brynjúlfur Jónsson

Brynjúlfur Jónsson (1838-1914).

Brynjúlfur fór óteljandi ferðir um landið og skoðaði fornleifar, en gróf lítið. Áhugi hans á fornsögunum var áberandi og stýrði algerlega vali hans á viðfangsefnum.
Í lok 19. aldar komu til landsins fyrstu íslensku sagnfræðingarnir, sem höfðu haft sagnfræði sem aðalgrein við háskóla. Árið 1911 var Háskóli Íslands stofnaður og maður ráðinn til kennslu- og rannsóknarstarfa á háskólastigi í sagnfræði, eða í íslenskum fræðum eins og greinin hét þá. Miðstöð íslenskrar sagnfræði færðist á þessum tíma frá Kaupmannahöfn til Reykjavíkur og þjóðernishyggja og rómantík settu svip á umræðuna.
Fyrstu fornleifafræðingarnir, sem höfðu haft fornleifafræði sem aðalfag við háskóla, komu ekki fram á sjónarsviðið fyrr en um miðbik 20. aldar og er Ólafía Einarsdóttir, síðar lektor í sagnfræði við Kaupmannahafnarháskóla, trúlega fyrsti íslenski fornleifafræðingurinn. Hún lauk fornleifafræðinámi árið 1950 við University College í London. Ólafía hafði engin teljandi áhrif á fornleifafræðina hér á landi enda sneri hún sér að öðrum viðfangsefnum stuttu síðar.

Þorkell Grímsson

Þorkell Grímsson (1929-2010). Mynd frá Stöng, 1965, Ingólfur Stefánsson, Gísli Gestsson, Þorkell Grímsson og Hrólfur Ásmundsson.

Næstur til að ljúka námi í þessum fræðum var ugglaust Þorkell Grímsson, en hann lauk license-és-lettres námi í Montpellier í Frakklandi árið 1953. Hann lagði stund á fjórar greinar, listasögu, almenna sögu, fornleifafræði og forsögulega fornleifafræði, auk undirbúningsnáms í eitt ár. Eftir námið í Frakklandi dvaldi Þorkell í Þýskalandi, Danmörku og Englandi um hríð við nám í áðurnefndum fræðum. Nám Þorkels hefur óneitanlega yfirbragð klassískra fræða, þar sem ritaðar heimildir eru ekki síður mikilvægar en fornleifar. Þorkell starfaði fyrst í skamman tíma við Minjasafn Reykjavíkur (síðar Árbæjarsafn), en réðst síðan til Þjóðminjasafns Íslands árið 1958.

Þór Magnússon

Þór Magnússon.

Þriðji í röðinni er Þór Magnússon, síðar þjóðminjavörður. Hann lauk fil. kand. prófi í fornleifafræði við Uppsalaháskóla í Svíþjóð árið 1962. Lokaritgerð hans fjallaði um þróun hýbýla á Íslandi frá öndverðu fram á síðmiðaldir og jafnvel lengur. Þór var settur safnvörður við Þjóðminjasafnið árið 1964 og fastráðinn 1965. Árið 1968 varð hann síðan þjóðminjavörður Íslands.
Sá sem hefur haft mest áhrif á íslenska fornleifafræði er dr. Kristján Eldjárn, fyrrum þjóðminjavörður og síðar forseti Íslands. Kristján dvaldist í Kaupmannahöfn árin 1936-39 og lagði þar stund á tungumál fyrst um sinn en sneri sér síðan að fornleifafræði í byrjun árs 1937. Um sumarið sama ár bauðst honum að taka þátt í rannsóknarleiðangri til Grænlands sem aðstoðarmaður og dvaldi hann þar við fornleifauppgröft í tæpa þrjá mánuði. Sumarið 1939 tók hann þátt í samnorrænu fornleifafræðiverkefni í Þjórsárdal, sem var langstærsta verkefni af þessu tagi sem ráðist hafði verið í á Íslandi fram að því.
Kuml og haugféSíðla sumars það ár skall seinni heimsstyrjöldin á og Kristján varð um kyrrt á Íslandi án þess að ljúka námi í fornleifafræðum. Árið 1941 hóf hann nám í íslenskum fræðum við Háskóla íslands og lauk meistaraprófi í norrænum fræðum árið 1944. Doktorsritgerð sína Kuml og Haugfé ver Kristján við sama skóla árið 1956 og virðist Matthías Þórðarson hafa verið aðalstoð Kristjáns í þeim skrifum, en í formála ritgerðarinnar þakkar hann honum, Jóni Steffensen lækni og Gísla Gestssyni safnverði fyrir veittan stuðning ýmisskonar.
Kristján hóf störf fyrir Þjóðminjasafnið sumarið 1939 og var fastráðinn aðstoðarmaður þjóðminjavarðar árið 1945. Frá 1. desember 1947 var hann skipaður þjóðminjavörður og gegndi því embætti til ársins 1968, er hann varð forseti. Segja má að Kristján sé faðir íslenskrar fornleifafræði og hafi borið ægishjálm yfir aðra Íslendinga á þessu sviði. Enginn annar einstaklingur hefur náð að rjúfa þá rannsóknarhefð sem hann skóp og fáum af niðurstöðum hans hefur verið ögrað svo að heitið geti. Kuml og haugfé. Úr heiðnum sið á Íslandi, doktorsritgerð Kristjáns, er rit ritanna í íslenskri fornleifafræði. Hún er skrifuð í umhverfi þar sem hinar rituðu heimildir höfðu forgang, eins og merkja má af tilvitnuninni hér að framan. Ritgerðin er því einskonar afurð sagnahyggjunnar. En hún er einnig undir allsterkum áhrifum frá Noregi, bæði í sagnfræði og fornleifafræði.

Sprengisandur

Sprengisandur – varða, ein af mörgumer urðu upphafið af fornleifaskráningum hér á landi.

Hugmyndir Sveinbjarnar Rafnssonar, prófessors og formanns fornleifanefndar árin 1990-94, um fátækleika íslenskra fornleifa eru einnig afurðir sagnahyggjunnar, en ég mun víkja að þeim síðar. Annarskonar dæmi um sagnahyggju er gerð Þjóðveldisbæjarins í Þjórsárdal. Í þeirri byggingu ríkir mikil rómantísk trú á glæsileika fortíðarinnar, eins og hún kemur okkur gjarnan fyrir sjónir í Íslendingasögunum. Þar er hátt til lofts og skreytingar miklar. Gaflar rísa þar tignarlegir og þráðbeinir um fjögurra metra háir og gætu þeir verið að segja okkur að áður hafi meira að segja torfið verið betra til húsagerðar en síðar varð.
Það má ekki gleyma því að sagnahyggjan er fullkomlega eðlilegur þáttur í íslenskri fornleifafræði eins og hún hefur þróast. Hún á tilurð sína að þakka þeirri staðreynd að á Íslandi var fornleifafræði áður fyrr nær ætíð stunduð af áhugamönnum eða aðilum sem voru sannfærðir um sannleiksgildi hinna rituðu heimilda.

Skálafell

Tóft í Skálafelli. Væntanlega kornskáli Ingólfs, hins fyrsta „landmámsmanns“.

Upphaf fræðigreinarinnar sjálfrar má tengja beint við áhuga manna á fornsögunum og þau tengsl hafa varla slitnað enn. Helstu frumkvöðlar í íslenskri fornleifafræði voru ekki aldir upp við fornleifafræðilegan hugsunarhátt. Hjá þeim skipuðu fornleifarnar sjálfar og gripir ekki þann sess sem tíðkaðist erlendis. Menntun þeirra var á sviði tæknifræði, íslenskra eða norrænna bókmennta, sagnfræði og jarðfræði. Í þessum hópi voru bændur, prestar, kennarar og listamenn.
Þeir örfáu sem luku síðar grunnnámi í fornleifafræði fyrir árið 1980 og héldu heim til Íslands voru án reynslu í fornleifarannsóknum í þeim löndum þar sem þeir námu fræðin.

Kuml

Kuml eftir fornleifauppgröft.

Aðrir sem ekki höfðu lokið grunnnámi í fornleifafræðum, en hófu störf á Íslandi eftir sem áður voru einnig án reynslu yfirleitt. Reynslu sína fengu þeir hinsvegar allir seinna á Íslandi, og yfirleitt undir beinni stjórn þeirra er eldri voru eða jafnvel hjá sjálfum sér. Þannig var sagnahyggjunni haldið við mann fram af manni og var afraksturinn stöðnun.
Bakgrunnur íslenskra fornleifafræðinga er því óneitanlega margbreytilegur og undirstaðan mismikil. Í heildina verður að teljast að margbreytileiki sé að vissu marki af hinu góða þegar til lengdar lætur, en þegar til styttri tíma er litið vill það bregða við að persónulegur rígur og mismunandi hugmyndir um eðli fornleifafræðinnar sé mest til vandræða. Þegar þetta tvennt fer saman eru mál ekki efnileg.

Uppgröftur og saga, saga og uppgröftur

Jónas Hallgrímsson

Jóns Hallgrímsson (1807-1845).

Þá sjaldan er íslenskar fornleifar voru rannsakaðar með uppgreftri á 19. öld var það undantekningalaust vegna þess að þeirra var getið í heimildum. Nefni ég t.d. rannsókn Jónasar Hallgrímssonar skálds á Þingnesi árið 1841, en tilgangur þeirrar rannsóknar var að finna Kjalarnesþingi stað. Er sú rannsókn sennilega sú fyrsta sinnar tegundar á Íslandi. Áður höfðu ýmsir verið að pota í fornleifar, aðallega hauga eins og haug Gunnars á Hlíðarenda, en yfirleitt var um beina eyðileggingu að ræða og aldrei voru almennilegar skýrslur um þær framkvæmdir birtar.
Einnig er vert að geta rannsóknar á Þingvöllum árið 1880, sem var sú fyrsta og síðasta sem þar hefur verið gerð með uppgreftri en henni stjórnaði Sigurður Vigfússon gullsmiður. Sigurður var einn af fyrstu umsjónarmönnum Forngripasafnsins, síðar Þjóðminjasafn Íslands, og er hann stundum talinn fyrstur til að stunda fornleifauppgröft á Íslandi. Tilgangur rannsókna þeirra Jónasar og Sigurðar var að staðfesta hugmyndir manna um þinghald til forna. Hvorug rannsóknin gaf nokkuð til kynna, sem gagnast gat kenningum manna um það efni.

íslenskur söguatlas

Íslenskur söguatlas – kápa.

Í nýju og metnaðarfullu riti, Íslenskum söguatlas, er ýjað að því að Ísland sé eitt af fáum löndum í heiminum sem þekki upphaf sitt og að sú saga sé varðveitt í rituðum heimildum. Þessi ríkjandi skoðun hefur oft verið sett á blað. Ef heimildaskrá bókarinnar er athuguð kemur í ljós að aðeins þrír „fornleifafræðingar“ fá þar inni og eru það þeir Brynjúlfur Jónsson (frá Minna-Núpi), dr. Kristján Eldjárn og dr. Sveinbjörn Rafnsson prófessor í sagnfræði. Er ein grein tilgreind eftir hvorn þeirra Brynjúlf og Kristján, en fjórar heimildir eru eftir Sveinbjörn og er engin þeirra um fornleifafræði. Athyglisvert er að doktorsritgerð Kristjáns frá árinu 1956, Kuml og haugfé, er ekki nefnd. Athyglisvert er að fornleifarannsóknir fóru fram á Vesmannaeyjum síðast árin 1971-1983, er ekki getið í Íslenskum söguatlas. Var þar þó um að ræða einn viðamesta uppgröft sem fram hefur farið á Íslandi. Enginn núlifandi íslenskur fornleifafræðingur nema Sveinbjörn Rafnsson er kynntur til sögunnar í heimildaskránni. Því verður að draga þá ályktun að leitað sé í smiðju sagnfræðinga og að hugmyndir þeirra um upphaf Íslandsbyggðar séu ríkjandi varðandi íslenska forsögu og fornleifafræði.

Fátæklegar eru fornleifarnar og rýr er arfleifðin!

Hafnir

Fornleifarannsókn í Höfnum.

Sú rótgróna skoðun að íslenskar fornleifar séu fáar og fátæklegar hlýtur að hamla fornleifarannsóknum, sem og áhuga fræðimanna og möguleikum þeirra á að fjármagna slíkar rannsóknir þar sem fjárveitingavaldið veit ekki betur en að slíkum peningum sé ekki sérlega vel varið. Og hver nennir að leggja lag sitt við ómerkilegar þústir og þúfur sem eru aðeins hjákátlegt endurvarp stórkostlegra tíma þegar hetjur riðu um héruð og hjuggu mann og annan? Í bókum er geymd hin sanna mynd fortíðarinnar, sem hinar væskilslegu fornleifar megna ekki að lýsa eða gera grein fyrir.

Íslendingabók

Íslendingabók – formáli.

Íslendingasögurnar eru í hæsta máta gagnslitlar sem vitnisburður um forsögu þessa lands, en það rýrir á engan hátt gildi þeirra sem bókmennta. Landnáma, Íslendingabók og Íslendingasögurnar eru fyrst og fremst heimildir um þann tíma sem skóp þær, þá siði og þær venjur sem ríktu á ritunartíma þeirra.
Ég legg áherslu á að ég er að ræða um forsögu þessarar þjóðar eða 9. og 10. öldina. Varðandi aðrar aldir eiga fornleifafræði og sagnfræði að gegna sínu hlutverki sem sjálfstæðar greinar og hönd í hönd ef þurfa þykir. Dæmi um góðan árangur rannsókna þar sem sagnfræðilegum og fornleifafræðilegum aðferðum er beitt, svo til jöfnum höndum, eru rannsóknirnar á Sámstöðum, Stöng og í Viðey.
Þess má geta að víkingaöldin telst til miðalda á Bretlandseyjum og í Mið- og Suður-Evrópu, en hún tilheyrir forsögulegum tíma á Norðurlöndum. Þannig er verulegur áherslumunur á því hvernig menn nálgast þessi tímabil á þessum svæðum. Á Bretlandseyjum og annarsstaðar í Mið- og Suður-Evrópu eru til ritaðar samtímaheimildir og víðast hvar eldri en víkingaöld, en slíkar heimildir eru alls ekki til á Íslandi frá landnámsöld og skeikar fleiri hundruð árum. Því verður að skilgreina upphaf byggðar í landinu sem forsögulegan tíma og hann verður að nálgast með viðeigandi aðferðum og hugarfari.

Ísland og umheimurinn

Torfbær

Torfbær.

Ástæður þess að fornbæir eru jafn vel varðveittir hér á landi og raun ber vitni eru trúlega margar, en aðalástæðan er vafalaust sú tegund landbúnaðar sem hér hefur ríkt til svo langs tíma. Á Íslandi hefur plógurinn ekki farið þeim hamförum sem hann hefur gert í Evrópu. Kornrækt var varla stunduð hér á landi í neinum mæli og landið því sloppið bærilega frá þeirri bætiefnaviðbót og því skordýraeitri sem nauðsynlegt hefur verið talið erlendis. Þessi efni fara gjarnan illa með fornleifar og innihald þeirra.
Hér hefur einnig átt sér stað landeyðing sem hægt er að tengja við ákveðna tegund af skepnuhaldi og sú landeyðing hefur valdið mikilli jarðvegsþykknun á stöku stað og hlíft þeim fornleifum sem undir eru. Jarðvegsþykknun hefur líka orðið vegna eldgosa.

Litla Brekka

Litla Brekka – síðasti torfbærinn í Reykjavík. Bærinn stóð við Suðurgötu.

Byggðaþróun í landinu er trúlega þáttur sem þjónað hefur fornleifum vel, en víða hefur verið byggð í afdölum og á öðrum afskekktum stöðum í fyrndinni sem lagðist af eftir tiltölulega skamman tíma og var aldrei aftur upp tekin. Þessar leifar eru flestar frá landnámsöld og eru trúlega margar, án þess að tölu verði á þær komið. í þessu sambandi er vert að minna á umræðuna hér að framan um skráningarstöðuna, en skráning á svokölluðum föstum fornleifum (bæjarhólum, kumlum, beitarhúsum, fjósum, vörum o.s.frv.) hefur aðeins farið fram á örfáum stöðum hér á landi.
Ísland er annað tveggja landa í veröldinni þar sem þjóð á sér upphaf á seinni hluta járnaldar (400-1050 e. Kr.), en Nýja Sjáland byggðist einnig á níundu öld. Þó er sá munur á að Nýja Sjáland var numið aftur löngu seinna af mönnum úr gerólíkum menningarheimi en þeim sem fyrir var í landinu. Þessum séríslensku aðstæðum er vert að gefa gaum því þær gefa marga einstaka möguleika sem sjálfsagt er að nýta sér.

Papey

Papey – fornleifauppgröftur við Hellisbjarg.

Ísland er norðlægt land og að sumu leyti afar mikilvægt fyrir rannsóknir á þessum hluta jarðarinnar. Ísland og Færeyjar eru einu löndin þar sem landnám norrænna manna varð til frambúðar. Annars staðar hvarf búsetan með öllu eða týndist inn í þjóðarbrot sem fyrir voru í landinu. Á báðum stöðum er aðeins um landnám eins hóps að ræða sem þýðir að þegar rannsaka á þætti eins og þróun verktækninnar, þróun hýbýla, þróun landbúnaðarhátta, aðlögun í nýju landi, þróun stjórnsýslunnar svo eitthvað sé nefnt, er ekki um neina truflandi þætti að ræða. Það þarf ekki að glíma við þann vanda sem skapast þegar eldri minjar blandast þeim yngri sem dæmi eru um annarsstaðar þar sem búseta hefur varað í fleiri aldir á sama stað og oft af mismunandi menningarlegum uppruna.

Hvað er til ráða?

Urriðakot

Urriðakot – fornleifauppgröftur neðan bæjarins; fornt sel frá Hofstöðum.

Ef íslensk fornleifafræði á að geta vaxið úr grasi og þróast á svipaðan hátt og annarsstaðar í heiminum verða ýmsar forsendur að vera til staðar, sem nú vantar. Varla vex fræðigreinin af eða í sjálfri sér og alls ekki sem hjálparhella annarrar fræðigreinar. Fornleifar, lausar sem fastar, eru meginundirstaðan undir forsögu þjóðarinnar og fornleifafræðin meginfræðigreinin er fæst við þá sögu.
Með ákveðnum rétti er hægt að halda því fram að íslensk fornleifafræði sé ekki til því hér hefur engin kennsla í greininni farið fram, menntun verið af skornum skammti og engin eiginleg rannsóknastofnun til. Engin sjálfstæð þjóð í Vestur-Evrópu (og þó víðar væri leitað) er án háskóladeildar í fornleifafræði. Engin önnur þjóð í Vestur-Evrópu hefur jafn fáa fornleifafræðinga á launum og Ísland og engin þjóð í Vestur-Evrópu hefur jafn fáar fastar stöður í greininni og Ísland. Þetta þýðir að enginn eðlilegur farvegur er til fyrir málefnalega umræðu og nauðsynlega þróun fræðigreinarinnar. Allt verður hendingum háð.

Bjarni F. Einarsson

Bjarni F. Einarsson – fornleifauppgröftur að Stöð.

Við höfum litið á fornleifafræði sem tiltölulega takmarkaða vísindagrein enda fornleifarnar sem slíkar „engin undirstaða undir sögu þjóðarinnar“. Að auki eru þær bæði „fáar og fátæklegar“. Þegar þessi viðhorf eru ráðandi er eðlilegt að fornleifafræði eigi sér ekki ýkja mikla möguleika sem sjálfstæð fræðigrein.
Ef Ísland vill verða hluti af alþjóðlegu fornleifafræðiumhverfi verðum fornleifafræðingarnir sjálfir að vinna og vera duglegri við að koma niðurstöðum sínum á framfæri til fræðimanna, almennings og ráðamanna. Við verðum sjálf að skilgreina markmið okkar og leiðir og sjálf að gefa fornleifafræðinni það inntak sem hún getur haft hér á landi.

Þjóðminjasafnið

Í Þjóðminjasafninu.

Efla þarf sérstaklega Þjóðminjasafn Íslands, bæði að fé, mannafla og tækjum. Deild innan Háskóla Íslands myndi hafa heillavænleg áhrif á starf Þjóðminjasafnsins og önnur þau söfn sem stunda fornleifafræði og virka hvetjandi á faglegt starf þar í fornleifafræðum.
Fræðigrein sem ekki nýtur sjálfstæðis, ber takmarkaða virðingu fyrir sjálfri sér og viðfangsefnum sínum og er varla til, á erfitt með að taka þátt í þverfaglegu samstarfi við aðrar fræðigreinar á jöfnum grundvelli. En það er einmitt í viðfangsefnum hennar og þverfaglegu samstarfi sem framtíðarhorfur íslenskrar fornleifafræði liggja.“

Vefsíðuhöfundur varð þess heiðurs aðnjótandi að starfa með Bjarna að uppgreftri landnámsbæjarins í Vogum (Höfnum) um nokkurra vikna skeið í lok síðustu aldar…

Heimild:
-Skírnir, 01.09.1994, Íslenskar fornleifar: Fórnarlömb sagnahyggjunnar? – Bjarni F. Einarsson, bls. 377-400.

Bjarni F. Einarsson

Bjarni F. Einarsson.

Ari Þorgilsson

Helgi Þorláksson skrifaði grein í tímaritið Sögu árið 2013 undir yfirskriftinni „Deila um gildi fornleifa og ritheimilda?„. Greinin sem slík er lítt merkileg þrátt fyrir tilefnið, en þess merkilegri þrátt fyrir vangavelturnar um öll merkilegheitin þar sem léttvæg álitamál sagnfræðinnar og fornleifafræðinnar mætast á prentsvertunni. Sumir sagnfornfræðingar eru viðkvæmari en aðrir þegar að gagnrýni kemur:

Helgi Þorláksson

Helgi Þorláksson – prófessor emeritus .

„Ég tek undir með Steinunni Kristjánsdóttur þar sem hún segir í grein í síðasta hefti Sögu að fornleifar séu „engu ómerkari minningarbrot úr fortíðinni en þau sem varðveitt eru í texta“. Hún bætir við: „Annar heimildaflokkurinn er ekki áreiðanlegri en hinn, enda þarf að túlka þá báða, lesa sem texta og setja í samhengi við viðfangsefnið“. Undir þetta tek ég heilshugar. Steinunn fullyrðir hins vegar að um þetta standi deila milli fornleifafræðinga og sagnfræðinga og að hinir síðarnefndu hafi oft gengið svo langt að telja fornleifar „ómarktækar ef engar ritheimildir styðja það sem þær leiða í ljós“ (bls. 131). Um þessa skoðun vitnar hún til BA-ritgerðar í sagnfræði frá 2010 eftir Kristel Björk Þórisdóttur sem skrifar m.a.: „Skriðu klaustur var líklega frekar vistheimili en sjúkrahús með markvissa lækningastarfsemi.

Steinunn Kristjánsdóttir

Steinunn Kristjánsdóttir – Alltaf gaman þegar konur karpa um álitamál, sem í raun skipta engu máli.

Heimildir eru um fáa munka á klausturtímanum og er erfitt að styðjast eingöngu við fornleifar“. Út frá þessu ályktar Steinunn: „Niður stöður ritgerðarinnar eru því þær að ekki sé hægt að halda því fram að í klaustrinu hafi verið stundaðar lækningar að hætti miðaldafólks vegna skorts á rituðum heimildum um þær“. Þetta segir Kristel Björk ekki, hún telur að fornleifar sýni einmitt að lækningar hafi verið stundaðar í klaustrinu að einhverju marki. en hún þorir ekki að fullyrða að þarna hafi verið sjúkrahús í þeirri merkingu að sjúklingar hafi verið teknir inn til að fá markvissa meðhöndlun með lyf- og handlækningum.

Kristel Björk Þórisdóttir

Kristel Björk Þórisdóttir. Skrifaði loka BA-ritgerð í sagnfræði – Klaustur á Íslandi : sjúkrahús eða vistheimili á miðöldum? undir leiðsögn Helga.

Hún telur líklegt að fólk hafi leitað líknar og hjúkrunar í klaustrinu og jafnframt andlegs styrks og sáluhjálpar. Megi líklega líta á klaustrið sem líknarstofnun eða vistheimili þar sem áhersla hafi verið lögð á andlega umönnun og fyrirbænir en þó jafnframt veitt líkamleg umönnun og líkn.
Ekki skal ég fjölyrða frekar um rök Kristelar Bjarkar og skoðanir enda er hún best fær um að gera grein fyrir þeim sjálf. En út frá þessu dregur Steinunn almennar ályktanir um viðhorf sagnfræðinga til fornleifa; hún segir, eins og fram er komið, að það sé „oft“ litið svo á innan sagnfræði að fornleifar séu ekki marktækar nema þær hljóti staðfestingu af rituðum heimildum. Hverjir hafa sett þetta fram og hvar? Ég kannast ekki við það.
Undir lok greinar sinnar segir Steinunn að orðið sé tímabært að sagnfræðingar líti á fornleifafræði sem sjálfstæða á þann hátt sem þeir líti á sína eigin grein. Ekki veit ég hvert Steinunn sækir þá hugmynd að sagnfræðingar líti ekki á fornleifafræði sem sjálfstæða grein.

Eitt sinn var ekki ótítt að sagnfræðingar nefndu fornleifafræði hjálpargrein sagnfræðinnar. Þetta má ekki skilja svo að þar með hafi þeir talið fornleifafræði undir skipaða og óæðri.

Hrísbrú

Fornleifauppgröftur í Mosfellsdal.

Það væri í sjálfu sér jafneðlilegt að fornleifafræðingar nefndu sagnfræði hjálpargrein fornleifafræðinnar og myndi sennilega ekki valda óróa meðal sagnfræðinga.
Eftir því sem ég veit best munu flestir eða allir íslenskir sagnfræðingar sem fást við hina elstu sögu taka algjört mark á meginniðurstöðum í fornleifafræði. Miðaldasagnfræðingar hafa almennt, og fyrir löngu, hafnað Landnámu og Íslendingasögum sem grunnheimildum um þessa elstu sögu og eiga því mikið undir niðurstöðum fornleifafræðinga. Steinunn skilur þetta hins vegar svo að sagnfræðingar séu sífellt að reyna að sanna eða afsanna hinar rituðu heimildir út frá fornleifum, t.d. hvort landið hafi verið numið 874 eða ekki.

Ari Þorgilsson

Ari Þorgilsson (1068-1148).

Rétt er að sumir sagnfræðingar benda á að vitnisburður Ara fróða í Íslendingabók um upphaf landnáms, norræna forystumenn um landnámið og hvenær þeir námu land, komi merkilega vel heim við megin niðurstöður fornleifafræðinga. Og fyrst Ari nefnir Ingólf er varla hægt að finna að því að sagnfræðingar skuli reyna að svara því hvort norrænn maður með þessu nafni hafi verið til og verið í einhvers konar forystu um landnám hérlendis eða hvort hann sé uppspuni. Fari hins vegar svo að þorri fornleifafræðinga telji að almenn og varanleg búseta í landinu hafi hafist mun fyrr en Ari telur (hann segir að það hafi verið um 870) munu sagnfræðingar hafna Ara. Ástæðan er einföld: hann ritaði ekki heimild sína fyrr en nærri 1130, hún stenst því ekki kröfur sem gerðar eru til góðra ritheimilda, að þær hafi orðið til sem næst atburðatíma. ekki er heldur að hafa neina sjálfstæða innlenda ritheimild til samanburðar, Ari mun hafa átt einhverja aðild að landnámsskrifum og að samantekt Frumlandnámu og því er hún og Íslendingabók háðar heimildir.

Skriðuklaustur

Skriðuklaustur – fornleifauppgröftur.

Af þessu má ráða að sagnfræðingar líta á fornleifafræði sem sjálfstæða grein. Hitt er annað mál að um niðurstöður einstakra fornleifarannsókna getur ríkt efi, fornleifar má oft túlka á ýmsa vegu. Á þetta fellst Steinunn, eins og tilvitnuð orð hennar hér í upphafi pistilsins sýna. Í BA-ritgerð sinni treystir Kristel Björk sér ekki til að taka undir þá ályktun Steinunnar að á Skriðuklaustri hafi verið „hospital í þeirri merkingu að þar hafi verið stund aðar lyf- og handlækningar“. Ég leiðbeindi að vísu Kristel við ritgerðarsmíðina, en ólíkt henni hef ég ekki myndað mér neina skoðun á efninu. en Steinunn segir að hérlendir fræðimenn telji að starfsemi íslenskra klaustra hafi verið frábrugðin því sem tíðkaðist erlendis; þeir hafi ekki áttað sig á að þau skyldu stuðla „að bættu líferni manna á jörðu“ og á Skriðuklaustri hafi það snúist „fyrst og fremst um að sinna sjúkum“. Þetta hafi „margir“ fræði menn átt erfitt með að viðurkenna, segir hún, og vísar aftur til Kristelar Bjarkar en aðeins hennar. Hvar eru hinir mörgu? Það væri fróðlegt og sjálfsagt skemmtilegt að fá að sjá rökræður Steinunnar við þá. BA-ritgerð Kristelar Bjarkar er prýðileg en getur ekki talist almenn viðmiðun eða samnefnari fyrir skoðanir íslenskra fræðimanna á klaustrum.“

Heimild:
-Saga, 2. tbl. 2013, Deila um gildi fornleifa og ritheimilda? – Helgi Þorláksson, bls. 183-185.

Íslendingabók

Íslendingabók – formáli endurritunar.

Reykjanes

Í B.A.-ritgerð Bryndísar Súsönnu Þórhallsdóttur, „Munað og gleymt – Varðveisla landamerkja á Reykjanesi“ í fornleifafræði frá árinu 2021 segir m.a. um efnið [hafa ber í huga að hér er verið að fjalla um landamerkri á vestanverðum Reykjanesskaga, en ekki á Reykjanesinu sem slíku, enda er það einungis smábleðill á fyrrum landamerkjum Hafnahrepps og Grindavíkur]:

Saga landamerkja og örnefna á Reykjanesi

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – fyrrum landnám Ingólfs – kort Björns Gunnlaugssonar 1844.

Ekki hefur verið skrifað mikið um landamerki hérlendis. Iðulega virðast þau einungis vera partur af heildar örnefnaskráningu en eru yfirleitt ekki rannsökuð út af fyrir sig. Þau eru yfirleitt bara nýtt til þess, eins og nafnið bendir til, til að marka línuna milli tveggja eða fleiri jarða. En hér skal úr því bæta, að minnsta kosti fyrir Reykjanesið. [Hér hefur gleymst að geta um starf Óbyggðarnefndar HÉR og HÉR.]
Reykjanesskaginn er á suðvesturhorni Íslands, suður af Faxaflóanum og er svolítið í laginu eins og fótur sem teygir sig vestur í átt að Snæfellsnesinu. Skaginn er gerður upp af Reykjanesinu, Miðnesinu (áður Rosmhvalanes) og Garðskaganum. Á honum eru Keflavík, Njarðvík, Hafnir og Ásbrú, nú undir Reykjanesbær; Garður og Sandgerði, sem í dag heitir Suðurnesjabær; Grindavík og Vogar á Vatnsleysuströnd, sem eru sitthvort bæjarfélagið, ásamt stökum bújörðum.

Húshólmi

Húshólmi í Ögmundarhrauni. Minjar frá upphafi byggðar hér á landi.

Þó að ekki séu til mikið um skrifaðar heimildir fyrir búsetu á Reykjanesinu fyrstu 300 árin eða svo virðist það hafa þó verið svo til samfelld frá landnámi. Fyrstu heimildir um það má finna í Landnámu þar sem talað er um Rosmhvalanes (Landnáma, bók 1, bls. 392; bók 2, bls.167), Grindavíkur (Landnáma, bók 2, bls. 331) og Krýsuvík (Landnáma, 2, bls. 302, 132), en einnig á nokkrum stöðum í DI (DI II, bls. 76, DI VII, bls. 457-458). Það virðist vera sem magn jarða á Rosmhvalanesinu og Vatnsleysustrandarhreppi voru komnar í byggð á 13. öld þegar elstu öruggu skriflegu heimildirnar koma fram. Margar þær jarða sem eru nafngreindar í skjölum þessum eru í byggð í dag, ýmist sem bújörð eða bæjarfélag en þó er eitthvað um eyðijarðir. Bæjarfélögin verða því tekin fyrir hver á fætur öðru og skoðað verður merkin þeirra. Sumar jarðirnar hafa landamerkjabréf en þar sem þau eru ekki að finna verður rýnt í ýmis konar nýrra efni.

Njarðvík

Njarðvík

Innri-Njarðvík – Áki Grenz.

Njarðvíkurnar eiga sér langa sögu og virðist verið orðin kirkjujörð tiltölulega snemma. Þær skiptast í dag í Ytri- og Innri-Njarðvík en heyra þó báðar [nú] undir Reykjanesbæ.
Það eru ekki til miklar heimildir fyrir Njarðvíkurnar á miðöldum. Það er talað um þær í rekjaskiptaskránni fyrir Rosmhvalanes sem dagsett er um 1270. Þar segir að þær eigi viðreka inn í Keflavík á móts við Hólm (Leiru) (DI II, bls. 76). Hitt er kirkjuskrá Hítardalsbókar sem er dagsett 1367 og tala um eignir kirkjunnar (DI III, bls. 221) sem lítilfjörlega virðast vera.

Njarðvík

Ytri-Njarðvík – Áki Grenz.

Þarna virðist vera hálfkirkja, því Njarðvík syðri (til að aðskilja kirkjuna í Njarðvík í Borgarfirði eystri) var ekki eigna mikil og ekki kom hún fram í kirkjuskrá þó að kirkjur nágranna jarðanna á Hvalsnesi, Kirkjubóli, Útskálum og Kirkjuvogi voru taldar upp. En einhver hljóta landamerkin hafa verið. Eina merkið sem fannst og var fullvíst að væru landamerki í Njarðvíkurlandi er Kolbeinsskor í skrá Stóruvoga (DI VII, bls. 299). Kolbeinsskor er þekkt sem Innriskora í dag og situr á Landamerkjunum milli Voga og Reykjanesbæjar. Upp af henni, á hamrinum sem situr milli Innriskoru og Ytriskoru er varða sem ber heitið Kolbeinsvarða sem einnig situr á merkjalínunni (SÁM, Vogar, Ari Gíslason).

Njarðvík

Innri-Njarðvík – Áki Grenz.

Þannig er hægt að sjá að þó að gamla landamerkið hefur breytt um nafn, þá lifir það áfram í öðrum merkjum, þá líklegast því þau eru nýtt sem landamerki. Þegar borin eru saman landamerki Innri-Njarðvíkur annars vegar og Voga hins vegar má sjá smá mismun. Skráin fyrir Innri-Njarðvík ber einungis nýja heitið, það er Innriskora (skrifað Innri-Skora í skjalinu (SÁM. Innri-Njarðvík, Ari Gíslason) en Kolbeinsvarðan kemur fyrir í skrá Voga. Þar sem þetta örnefni kemur einungis einu sinni fyrir í miðaldar skjölum má gera sér hugmynd um að munnlega geymd hafi þarna hjálpað til. Skoran er einnig landsvæði sem ómögulegt er að færa til, og því líkleg ástæða að ekki hafi nafnið fallið niður.

Háaleiti

Tröllin á Háaleiti.

Annað stakt merki má finna fyrir Njarðvík og það er að finna í skrá fyrir Hvalsnes og Stafnes (sem rædd verður frekar neðar). Þar kemur fyrir landamerkið Hafa leiti (DI II, 81). Landamerkið kemur fyrir í landamerkjabók fyrir Hvalsnestorfuna, eins og hún er nefnd þar og segir. ‘’þaðan liggja merkin beina línu uppá Háa-leyti, fyrir sunnan kölku’’ (LAN, 1922, bls. 43). Þarna er því verið að tala um Háaleiti. Háleitið kemur aftur fyrir í skránni fyrir Stafnes ‘’Torfmýrar hafa verið til hér í hlíðinni, en það, sem hæst ber hér upp af, heitir Háaleiti og er nú komið undir flugvöllinn.’’ (SÁM, Stafnes, Ari Gíslason).
Flugvöllurinn er Keflavíkurflugvöllur, sem Bretar og Bandaríkjamenn byggðu upp á árum seinni heimsstyrjaldarinnar og er í dag alþjóðarflugvöllur okkar Íslendinga. Þarna má sjá að hernám Íslands hefur haft áhrif á landeignir og nýtingu enda skruppu Stafnes og Hvalsnes löndin töluvert saman við þetta.

Keflavík

Keflavík

Gamli Keflavíkurbærinn.

Í dag er Keflavíkur bóndabærinn í eyði og hefur verið lengi. Gamli Keflavíkurbærinn er sagður hafa verið upp á hrygg eða höfða sem var upp og suður af Grófinni. Því til staðfestingar áttu að hafa fundist mannvistarleifar þegar túnið var sléttað í tíð Duus eldri (Marta Valgerður Jónsdóttir, 1947, bls. 1). Duus hin eldri var fæddur 1795. Hann keypti Keflavíkurtorfuna 1848 og rak á henni verslun þar til 1864, þegar hann seldi syni sínum reksturinn (Skúli Magnússon, 1973, bls. 693). Túnið var því væntanlega sléttað milli 1848 og 1864.
Ekki er talað mikið um bújörðina Keflavík í máldögunum, heldur er aðeins vísað til hennar. Í henni eru bæjirnir Darrastaðir og Straglastaðir sem Árni Magnússon & Páll Vídalín segja ‘’að skynsamir menn ætla að þær sjeu hinar sömu, sem nú er kölluð Kothús og Ívarshús’’ (Árni Magnússon og Páll Vídalín, 1982, bls. 106).

Stóri-Hólmur

Stóri-Hólmur í Leiru – SG.

Þeir styrkja fullyrðingu sína á að ekki séu Darrastaðir og Straglastaðir til undir þeim nöfnum í dag en Kothús og Ívarshús standi aftur á móti í sömu röð og bæirnir úr eldri lýsingum. Í DI II eru þessar jarðir nefndir í skjali um rekaskipti milli jarða á Rosmhvalanesi en þar segir ‘’Jinn primis, Holmvur æ vidreka inn j keflavik til motz vid niardvík’’ Þarna virðist Keflavík í raun ekki vera búsetusvæði heldur vera mörk rekaskipta á milli Hólms í Leiru (þar sem í dag er Hólmsvöllur) og Njarðvíkur. Vitað er um verslun á svæðinu árið 1566 (DI XIV, bls. 472) en búseta fólks er ekki skráð fyrr en 1703, þegar Árni Magnússon og Páll Vídalín skrá þar jarðnytjar svæðisins (Árni Magnússon og Páll Vídalín, 1982, bls. 105). Þó má gera sér hugarlund að þarna hafi lengi verið byggð, bæði út frá hinum meintu tóftum í túni Duus, en líka var bæði verslun og gjöful fiskimið undan ströndum.

Kalka

Kalka – varðan var eyðilögð við gerð Meeksflugvallar.

Fyrsta heildstæða landamerkjaskráin fyrir jörðina Keflavík var ekki tekin fyrr en árið 1889, sem við höfum og varðveitum, og segir svo ‘’Frá svokölluðu Ós-skeri í fjörði (er liggur til suð-austur frá Nástrandargróf, ofan til við marbakka og merkjum jarðföstum kletti, þaðan strönd og beina stefnu, að vörðu í Háaleiti (Kölku), þaðan að svonefndri Keflavíkurberg, er liggur sunnan við Sandgerðisveginn, þaðan heima línu að Hellunefi innan Helguvík á Hólmsbergi. Á hallri klöpp ofan til á Hellunefi og jarðföstum steini á marbakkanum beint uppundan Ós-skeri er markað L.M., séu er einkennir landamerkjamark jarðarinnar, og þýðir landamerki.’’ (LM, Gullbringu- og Kjósarsýsla; Veðmálabók 1, 1889, bls. 240).
Þarna kemur fyrir Háleiti aftur og talað er um vörðu á því. Varða þessi kemur einnig fyrir í landamerkjaskrá Hvalsnes og Stafnes (DI II, bls. 81) og því má sjá að landamerkin virðast hafa verið þarna lengi. Varða þessi kemur aftur fyrir í skrá Ytri-Njarðvíkur og nefnist þá Grænásvarða. Það kemur heim og saman því eins og talað var um ofar, þá situr Háaleitið rétt hjá Grænásbrekkunni.

Keflavíkurflugvöllur

Keflavíkurflugvöllur – flugturninn er þar sem Kalka var.

Áhugavert er að sjá að hvorki Háaleiti né Kalka kemur fyrir í skrá Ara fyrir Keflavík (SÁM, Keflavik, Ari Gíslason) en hún er aftur á móti í skránni fyrir Ytri-Njarðvíkurnar (SÁM, Ytri-Njarðvík, Ari Gíslason). Þar vandar hann ekki orðið hernum og talar um eyðilegging menningu landsins. Eins og var um rætt ofar þá saxaði koma hersins á landsvæði Suðurnesjabúa. Sum annara nafnanna koma fyrir í skránni hans, en hann skrifar Vatnsnes (1) er allstórt nes, er gengur í sjó fram. Nú er það mikið orðið byggt. Óssker (2) er í fjöru suðaustur frá svonefndri Nástrandargróf (3), sem er jarðfall mikið, nyrzt í kaupstaðnum, sem nú er.

Njarðvík

Njarðvíkur 1950. Vatnsnes fremst.

Norðan á Vatnsnesi er Vatnsnesbás. Þar var lending í gamla daga. Við norðurendann á Vatnsnesi er stór klettur laus við, sem nefndur er Vatnsnessteinn, og Vatnsnestjörn. Þar innar er bás, sem nefndur er Gatbás. Yfir hann er hvelfing, svo er bás, og þá er komið að Hjallbás, þar sem garðurinn liggur fram. Þá er eins og há nípa fram, sem heitir Hrafnahreiður. Það er í höfninni. Norðan við Nástrandargróf er hluti af Hólmsbergi, og þar á merkjum er Hellunef innan við Helguvík. Svo er þar uppi i heiðinni Rósuselstjarnir og Keflavíkurborg.’’ (SÁM, Keflavík, Ari Gíslason).

Hvalsnes og Stafnes

Stafnes

Stafnes – uppdráttur ÓSÁ.

Bæirnir Hvalsnes og Stafnes standa í Suðurnesjabæ, sameiginlegu bæjarfélagi Garðs og Sandgerðis. Þessir tvö bæjarfélög sameinuðust undir einn hatt 2018 og tóku upp hið nýja nafn 7. janúar 2019 (Mbl.is, Heitir nú formlega Suðurnesjabær). Hvalsnes er og hefur verið kirkjujörð lengi en heyrir núna undir Útskálaprestakalli. Stafnes er í dag kölluð Stafnestorfan, en jörðinni var skipt upp í nokkrar jarðir. Í landamerkjaskrá fyrir Hvalsnes og Stafnes á Miðnesi segir: ‘’fra miosynde firi nordan tvnid aa starnesi ok til hlavp oss firi nordann vog: aa starnes vid hvalsnes þridivng j ollvm rekvm ok veidvm vtann storreka j hval. þat aa starnes firi avllv landi sínv. Hvallsnes aa j starnes land aa mela vt tveggía manada beit aa vor: Sambeit aa millvm garda firi nordan avgmvndar gerdi: Enn lyngrifa mork skilvr gata sv er liggur firi svnnann torfmýrar ok vp i hafa leiti til vordv þeirrar er standur aa letinv þar sem hæst er ok vo sydur sem hæst er leitid til motz vid kirkiv vog og niardvík. ok divpa vog. enn reka mork millvm divpa ogs ok starnes ok hvallsnes skilr grof sv er verdvr firi innann klettana til hægri handar er ridit er fra kirkiv vogi.’’ (DI II, bls. 81).

Hvalsnes

Hvalsnes – uppdráttur ÓSÁ.

Örnefnin eru öll þekkt eða í nýtingu í dag. Þar á meðal Torfmýar og Ögmundargerði, lítill grasblettur í landi Stafness (Magnús Þórarinsson, 1960, bls. 150). Ekki er vitað hver þessi Ögmundur var sem bletturinn er nefndur eftir (SÁM, Stafnes, Halldóra Ingibjörnsdóttir) en fornbréfaskráin þar sem nafnið kemur fyrir er dagsett um 1270. Torfmýrin var þekkt sem örnefni þegar skráin fyrir Stafnes var tekin (Ari Gíslason) en svæðið var ekki lengur í eign Stafness. Ekki eru miklar frekari upplýsingar um þessar jarðir í DI. Þær koma aðeins fyrir í öðrum skjölum en ekki eru frekari umræður um jarðirnar sjálfar heldur einungis skiptingu nytja þeirra og annarra jarða á Reykjanesinu (DI II, bls. 76). Þar eru þær einungis nefndar með nafni en frekari skráning örnefna er ekki að finna.
Nafnið hefur því haldist í nýtingu í gegnum tíðina án efa vegna stöðu þess sem landamerki en þegar flugvöllurinn var reistur á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar fékk hlutverk hans á svæðinu forgang.

Gufuskálar, Nýlenda, Akurhús og Lónshús

Gufuskálar

Gufuskálar – uppdráttur ÓSÁ.

Gufuskálar koma fyrst fyrir í Landnámu. Þar er talað um mann sem er kallaður Ketill gufa. Í heimildinni segir ‘’Ketill tók Rosmhvalanes; sat hann hinn fyrsta vetr að Gufuskálum, en um várit fór hann inn á Nes og sat at Gufunesi annan vetur.’’ (Landnáma, 1, bls. 167). Og seinna, ‘’Ketill fekk engan bústað á Nesjum, ok fór hann inn í Borgarfjord at leita sér at bústað ok sat hinn þriðja vetr á Gufuskálum við Gufá. Hinn fjórða vetr var hann á Snjófjallanesi at Gufuskálum’’ (Landnáma, 1, bls. 167) og en seinna ‘’Ketill gufa nam Gufufjord ok Skálanes til Kollafjarðar.’’ (Landnáma, 1, bls. 169). Gufuskálar á Romshvalanesi, það sem í dag er Suðurnesjabær í Gullbringusýslu, og Gufuskálar á Snæfellsnesi draga því báðir nafn sitt af sama manninum ásamt Gufunesi á höfuðborgarsvæðinu og Gufuá í Borgarbyggð.

Sjálfkvíar

Sjálfkvíar.

Gufuskálar eru í eyði í dag en þó má finna tvö landamerki sem hafa lifað af til nútímans.
Í rekaskjali Rosmhvalanes má finna ‘’og vt at gnvpe þeim er verdvr fyýrer innann sialfkviar; [sionhending rædvr þadann vr henni ok vt j tyslinga stein. Gvfuskaler eigv þadamm vt til midvardar os: Þa eigv Midhvs vt til býrdinga skers j vtskala oss.’’ (DI II, bls. 76).

Þrívörður

Þrívörður.

Sjálfkvíar og Þyrsklingasteinar eins og þeir eru skrifaðir í dag, tilheyra landi Gufuskála. Landið náði áður upp í Þrívörðurnar sem standa sunnan við Rockwill en hefur án efa smækkað töluvert við komu hersins. (SÁM, Gufuskálar, Símon Guðmundsson). Midvardar eru í dag Miðvör og Miðhús standa enn. (SÁM, Nýlenda, Akurhús, Lónshús, Ari Gíslason).
Ekki kemur nafnið Byrdinga sker neins staðar fyrir í nútíma skrám og ekki er víst hvort það hafi fengið nýtt nafn, eða að það hafi horfið vegna ágang sjávar.

Sandgerði, Garður og Hafnir

Varnarsvæði

Varnarsvæðið á Miðnesheiði – herforingjaráðskort.

Miðnesið er nes sem gengur norður úr Reykjanesinu og var áður kallað Rosmhvalanes. Rosmhvalur er gamalt heiti yfir Rostung og bendir það til að þar hafi verið rostungabygð en skjaldarmerki Sandgerðis ber þess vegna rostung. Nesið nær frá Ytri-Njarðvík og allt vestur að Kirkjuvogi (Höfnum). Samkvæmt Landnámu á Steinunn Gamla, frænka Ingólfs Arnarsonar að hafa numið allt Rosmhvalanesið.
‘’Steinuðr en gamla, frændkona Ingólfs, fór til Íslands ok var með Ingólfi enn fyrsta vetr. Hann bauð at gefa henni Rosmhvalanes allt fyrir útan Hvassahraun, en hún gaf fyrir heklu flekkótta og vildi kaup kalla; henni þótti það óhættara við riftingum.‘’ (Landnáma, 2, bls. , 302).

Hunangshella

Varða á Hunangshellu.

Frekari heimildir eru fyrir landnámi í Höfnunum og í Landnámu segir ‘’Þeim Herjólfi gar Ingolfr land á milli Vágs ok Reykjaness’’ (Landnáma, bók 2, bls. 393).
Forn landamerki fyrir nesið er sögð vera ‘’lína sú, sem dregin er frá Hunangshellu í Ósabotnum í Háleitisþúfu á Hafnarheiði og frá Háaleitisþúfu til Dungsgrófar í Keflavík.’’ (Gunnar M. Magnússon, 1963, bls. 10) (feirletrun mín).
Til er eldra skjal, dagsett um 1200 sem telur kirkjur í Skálholtsumdæmi (DI XII, bls. 1). Þar er verið að ræða um kirkjur sem þurfa á prestum að halda og má því sjá að þær sem koma fyrir eru ekki hálfkirkjur eða eigna litlar. Þar telur meðal annars telur kirkju í Njarðvík (DI XII, bls. 4).

Grindavík og Vogar

Grindavík

Grindavík – bæjarmerki.

Byggð í Grindavík kemur fyrir í Landnámu, en þar segir ‘’En um vorið eftir fóru þeir Molda-Gnúpur vestur í Grindavík og staðfestist þar; þeir höfðu fátt kvikfjár. Þeir voru þá fulltíða synir Molda-Gnúps, Björn og Gnúpur, Þorsteinn hrungnir og Þórður leggjaldi.’’ (Landnáma, bók 2, bls. 330). Moldar-Gnúpur er sagður hafa upprunalega hafa sest að á Álftaveri en flúið undan eldgosi (Landnáma, bók 2, bls. 331) og settust hann og synir hans að á landsvæði sem náði frá Selatöngum allt fram á Reykjanesið, það sem er nú Grindarvíkursvæðið. Þessir jarðeldar sem talað er um, er allra líklegast eldgosið sem kom upp í Eldgjá í kringum 934 (Björn Þorsteinsson, 1983, bls. 28).
Ekki er vitað hvernig byggð þróaðist eftir það fyrr en á 13. öld, þegar fyrsta dagsetta heimildin fyrir búsetu á svæðinu kemur fram. Þar höfum við elstu staðfestu heimildina á nafninu Grindavík og jörðinni sem því fylgir.

Staður

Staður fyrrum – fyrsti kirkjustaður í Grindavíkursókn.

Sú heimild kemur úr kirkjuskrá er gerð var í tíð Páls biskups Jónssonar, sögð vera skráð um 1200 (DI XII, bls. 9). Þar er listi yfir kirkjur sem þurfa presta þjónustu, það er, ekki hálfkirkja. Þar má sjá að komin var næg byggð í Grindavíkinni til að hafa kirkju sem er nógu stór til að þurfa prest og fulla prestþjónustu.
En hvernig þróuðust síðan byggðir á þessu svæði eftir að Molda-Gnúpur og hans fólk settust að? Jón Þ. Þór leggur fram áhugaverða pælingu. Hann bendir á að í Landnámu, er talað um Moldar-Gnúp og fjóra syni hans sem setjast að á svæðinu. Einungis er talað um konu eins bróðurins, Hafur-Björns (Landnáma, 2, bls. 332).

Þórkötludys

Þórkötludys – Sigurður Gíslason á Hrauni við dysina. Þórkötlustaðir í bakgrunni.

Hann vísar í þjóðsögu um stofnun Járngerðarstaði og Þórkötlustaði. Hún hermir að þessar jarðir hafi byggt Járngerður og Þórkatla og veltir hann fyrir sér hvort um sé að ræða tengdadætur Moldar-Gnúps. Þjóðsögur eru ekki endilega bestu heimildirnar en þó eru dæmi um að munnlega geymd hefur sinn sess í að viðhalda þekkingu kynslóð eftir kynslóð (Jón Þ. Þór, 1994, bls. 80).
Tvær DI skrár eru til fyrir landamerki í Grindavík. Þar koma fyrir bæirnir Grindavík, Járngerðarstaðir, Þórkötlustaðir og Vogar, í formi rekaskrár fyrir Skálholt. Þetta eru tvær útgáfur, nokkuð líkar en ekki alveg eins. Önnur (A) tekur einungis fyrir rekann nyrðra og eystra en hin skráin (B), tekur fyrir reka á Eyrum og Grindavík. Höfundur DI II bendir á að málfarið er eitthvað yngra en á skjali A, en er þó full marktægt.

Kálffell

Kálffell – fjárskjól frá Vatnsleysustrandarbæjum.

Landamerkin fyrir jarðirnar Voga á Vatnsleysuströnd og Grindavíkur kemur fyrir í skjali B og segir þar: ‘’Somuleidis voru þesse landamerki hofd og halldin millum voga a strond, og Grindarvijkur meir enn vppa xxx vetur akallslaust. So eg vissa, ad vogar ætti ecki leingra enn nedan frä ad kalfsfelle, og vpp ad vatnzkottlum fyrir jnnan fagradal. og vpp ad klettnum. þeim sem stendur vip skögfell. hid nedra. vid gỏtuna. enn þorkotlustader og Jarngerdarstadir ættu ofan ad greindum takmörkum.’’ (DI II, 76).
Þessi útgáfa er frá um kringum 1600 (DI II, bls. 72) og er sögð vera afrit af eldra skjali.
Jón Sigurðsson telur fyrir hæstarétti þann 5. október 1876, að skráin myndi vera frá tíð Árna biskups Þorlákssonar eða frá um 1270 (Di II, bls. 67).
VatnskatlarHér er gengið út frá að þessi eldri dagsetning sé rétt. Ef sú dagsetning er rétt, (þ.e. frá 1270) þá eru landamerkin frá um 1240 hið minnsta þar sem “XXX” í skjalinu stendur fyrir 30 í rómverskum tölum.
Aftur kemur landamerkjaskrá fyrir jarðirnar í skjali sem dagsett er um 1500. Sú skrá er nánast orðrétt þeirri hér fyrir ofan og því auðsýnilegt að um uppskrif sé um að ræða en ekki sjálfstæða skrá um sama efni. Skráin er eignuð tíð Stefáns Jónssonar Biskups í Skálholti en hann tók við titlinum 1491 og sinnti biskupsdómnum fram til andláts 1518. Þar segir: ‘’Ur mȁldaga sem skrifadur var i tijd Byskups Stephanar. Voru þesse landamerke hỏfd og halldin i millum voga ȁ strỏnd og grindavijkurmanna meir enn upp ȁ 30 vetur ȁkallslaust. Ad vogar ætte ecke leingra enn nedan fra ad Kȁlfsfelle og upp ad vatnskỏtlum fyrer innan fagradal og upp ad klettum þeim sem stendur vip Skỏgfell hid nedra vid gỏtuna enn Þorkỏtlustader og Jarngerdarstadir ættu ofan ad þessum takmörkum.’’ (DI VII, bls. 457-458). ‘’

Arnarklettur

Arnarklettur – landamerki Voga og Grindavíkur.

Hvort 1600 uppskrifin sé ritinuð úr 1500 skjalinu eða hvort þau séu bæði rituð upp úr 1270 skjalinu skal ekki sagt, en eitt er víst að upplýsingarnar koma úr sömu átt. Því virðist vera komin góð byggð þarna og jarðirnar það stórar að þær nái upp að landamerkjum við Voga. Jarðirnar Þórkötlustaðir og Járngerðarstaðir eru flokkaðar undir ‘’Grindarvíkur’’, þó sjálfstæðar séu en bendir þetta til að þeir heyra undir sömu heild. Jón þ Þór dregur þar inn það sem hann kallar Hverfin þrjú, það er, uppbygging Grindavíkur í formi hjáleigna út frá lögbýlum. Hann bendir á að svona hverfi eru ekki einsdæmi en vitað er um svipuð dæmi á meðal ananrs við Faxaflóa.(Jón Þ. Þór, 1994, bls. 81-82). Jarðirnar Ás, Belgsstaðaholt, Fiskilækur og Melar í Borgafjarðarsýslu eru gott dæmi um slíkt hverfi en þar má finna fjórar jarðir sem halda nánast óbreytt landamerki ( DI I, 271-272, SÁM, Belgsholt, Ari Gíslason, Fiskilækur).
Ekki er meir skrifað um landamerki þessara jarða fyrr en kemur fram á lok 19. aldar. Í landamerkja skjali sem dagsett er 16. Júní 1890 má finna þessi örnefni aftur, ‘’frá kletti þeim, er stendur við götuna, norðan við Skógfell hið neðra (Litla Skógfell) al Kálffelli, og þaðan að Vatnskötlum.’’ (LAN, Veðmálabók I, bls. 225). Þessi landamerki sem feitletruð eru, má finna í skrám Hrauns og Þórkötlustaða í dag á móts við Voga.

Skógfellavegur

Þórkötlustaðir – „Kletturinn við götuna“; landamerki millum Litla-Skógfells og Kálffells.

Þær skrár eru töluvert meiri um sig enda eru þar ekki bara að finna landamerki heldur öll örnefni á jörðunum. Með því að bera saman þessi skjöl má sjá að af þeim landamerkjum sem koma fyrir eru þau öll til í dag. Kȁlfsfelle heitir í dag Kálffell og kemur fyrir í örnefnaskrám Hrauns og Þórkötlustaða. Það gegnir hlutverki landamerkis og segir þar ‘’Þaðan til vesturs sunnanvert við Keili um Vatnskatla og í Kálffell, sem er lágt og frekar lítið áberandi fell.’’ (SÁM, Hraun, Ari Gíslason). Í þessum bút kemur einnig fyrir Vatnskatlarnir og hið sama gerir í örnefnaskrá Voga ‘’Austur af holtinu er svo Kálffell. Norðanvert við Litla-Skógfell er klettur, frá Kálffelli er svo línan í svonefnda Vatnskatla (SÁM, Vogar, Ari Gíslason, bls. 7).

Skógfellastígur

LM-merki á Stóra-Steini við Skógfellastíg, 1.5 km norðan við Litla-Skógfell.

Vegurinn sem um ræðir er líklegast Skógarfellsvegur en hann situr norður við Litla-Skógfell. Kletturinn sem um ræðir í skjölunum gæti verið Stóra-Skógfell en það stendur vestan við Skógfellsveginn (SÁM, Þorkötlustaðir, Ari Gíslason, Vogar, Ari Gíslason).
Elstu staðfestu heimildirnar eru því frá um 1240 og þær yngstu frá árunum 1940-1965, þegar Ari var að skrá. Þarna höfum við um 700 ára millibil, milli elstu og yngstu skránna en ljóst er að landamerkin eru ekki einungis þau sömu, heldur hafa nöfnin haldið sér mjög vel.
Þar sem Vogar og Grindavík ná saman bæði í fornskjölum sem og í dag er vert að taka Voga fyrir hér sem framhald af skrám Grindavíkur.
Áhugavert er að sjá hversu vel þessar jarðir hafa haldið sér og hversu lítið rask virðist hafa verið á landamerkjunum. Þau hafa haldið sér og sitja í dag á sýslumörkum milli Grindavíkur og Voga.

Kolbeinsvarða

Kolbeinsvarða – landamerkjavarða ofan Innri-Skoru.

Skjal er til fyrir landamerki Stór Voga í Vatnsleysuströnd. Það fer dýpra í landamerki Voga en fyrri skrá fyrir Voga og Grindavík. Það er dagsett 9. júlí 1496 og fjallar um gjöf Guðmundar Magnússonar til Viðeyjarklausturs á hálfri jörð Stærri voga. Vogar á Vatnsleysuströnd voru áður þekktir sem Stóru-Vogar og Minni-Vogar og voru tvær aðskildar jarðir. Þeir skiptust síðan í mörg minni smábýli og hjáleigur (SÁM, Vogar, Ari Gíslason). Í skjalinu segir ‘’Sagdi hann oc jiakalavsa jordina oc þessi landamerki at merkigardinvm æ mille Minne voga er gengr vpp fyrir nordan gardinn oc ofan j tjornena oc vr tiornvnni oc ofan at sjonvm oc vt at vppgongvnni j Kolbeinsskor med sionvm.’’ (DI VII, bls. 299).
Eins og var bent á í kaflanum fyrir Njarðvíkurnar þá er varða í dag á merkjunum Reykjanes og Voga, rétt fyrir ofan Innri-Skoru sem heitir Kolbeinsvarða. [Enn markar fyrir vörðunni.]

Heimild:
-Ritgerð til BA-prófs, Bryndís Súsanna Þórhallsdóttir, „Munað og gleymt – Varðveisla landamerkja á Reykjanesi“, 2021, bls. 6-16.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – Hans Erik Minor 1788.

Steinar

Í B.A.-ritgerð Guðrúnar Jónu Þráinsdóttur, „Steinar í íslenskri fornleifafræði„, er fjallað um, eins og nafnið bendir til, steina tengdum fræðigreininni, Þar segir m.a.:

Gripir úr íslenskum steini

Basalt

Basalt (grágrýti).

Basalt er algengasta bergtegundin á Íslandi. Basaltið er ýmist dulkornótt og dökkt eða jafnvel svart á lit og nefnist þá blágrýti, eða smákornótt og grátt að lit og nefnist þá grágrýti. Blágrýti er miklum mun algengara hér á landi en grágrýti. Ísland er eitt stærsta basaltsvæði jarðar, enda er 80–90% af öllu storkubergi hérlendis úr basalti.
Við gos undir jöklum verður til basaltaska. Askan þjappast og límist saman og verður að föstu bergi. Nefnist það móberg. Í upphafi hefur askan verið svartleit en hún breytist með tímanum í brúnt.
Steingripir finnast nær eingöngu á bæjarstæðum, enda eru þeir oftast áhöld til daglegs brúks.

Kolur

Kola

Kola.

Hvernig sáu menn til við vinnu sína fyrr á öldum? Ljósfæri landsmanna héldust trúlega óbreytt í um þúsund ár. Á söguöld hafa menn líklegast setið við langelda, sem þá var helsti ljósgjafinn, ásamt ljórum og gluggaopum. Einnig hafa kerti ábyggilega verið notuð allt frá fyrstu tíð.
Elstu ljósfæri sem fundist hafa hérlendis við fornleifarannsóknir eru kolur úr steini, einnig nefndar lýsiskolur, en kolur eru skálar sem ljósmeti var sett í ásamt kveik.

Kola

Kola – innflutt frá Noregi.

Allt fram á 19. öld urðu tiltölulega litlar breytingar á ljósfærum hérlendis, notast var við kolur, kerti og lýsislampa. Af heimildum er ekki alltaf ljós munurinn á kolu og lampa. Algengast mun þó hafa verið að kalla einfaldan lampa kolu, en lampa ef hann var tvöfaldur. Kolur gátu verið úr ýmsum efniviði, einkum steini, en lampar voru nær alltaf úr málmi.
Flestar steinkolur eru afar einfaldar að gerð. Oft eru þær úr venjulegu grágrýti, en stundum úr öðrum steini sem auðveldara var að móta, svo sem móbergi eða tálgusteini, sem var innfluttur. Hvilft eða bolli er klappaður í steininn og stundum er höggvin lítil rás í barminn fyrir kveikinn.

Kola

Kola.

Stundum voru öðuskeljar notaðar sem kolur. Þá var lýsi og fífukveikur látið í skelina. Lýsislamparnir gáfu furðu góða birtu ef ljósmetið var gott. Eflaust hafa ýmsir hlutir nýst sem kolur, svo lengi sem í þeim var hvilft til að setja í lýsi. Dæmi eru um að pottbrot, blekbyttur og tvinnakefli hafi verið notuð sem kolur. Höfuðskel af fullorðnu fé hefur verið notuð sem kola. Og meira að segja eru til sagnir um að höfuðkúpa af manni hafi verið notuð sem kola.

Sleggjur

Sleggja

Sleggja – brotin.

Sleggjur hafa margar verið gerðar úr grjóti í gegnum tíðina. Efniviðurinn í þær er misjafn, ýmist þétt berg eða holótt hraungrjót, sem mun auðveldara er að höggva til og bora í gat fyrir skaftið. Lábarðir steinar voru oft notaðir í sleggjur.
Sleggjur voru notaðar til ýmissa hluta. Með veggjasleggjum eða veggjahnyðjum var mold þjappað í veggjum við byggingu torfbæja. Með þökuhnöllum voru sléttuð tún eftir að hreinsað hafði verið undir grassverðinum og mold jöfnuð, þá voru þökurnar þjappaðar niður með þökuhnalli. Voru þær sleggjur stórar og varla á færi eins manns að meðhöndla. Með fiskisleggjum var harðfiskur barinn þar sem hann lá á fiskasteini.

Fiskasteinn

Fiskasteinn.

Fiskasteinar voru hafðir utan dyra, einnig í bæjardyrum og í búri.
Sleggjurnar eru oft stórar og þó nokkuð þungar svo að þurft hefur vel sterkan mann (eða fílefldan kvenmann) til að beita þeim.

Fiskasleggja og fiskasteinn voru nauðsyn á hverju heimili. Þrátt fyrir það eru þær ekki svo algengur fundur í uppgröftum frá fyrstu tíð, en eru algengari í rústum seinni alda. Að öllum líkindum voru þær ekki notaðar fyrr en á miðöldum. Fiskasleggjur virðast hafa verið miklu algengari úr steini en járni, að minnsta kosti á seinni öldum. Telja má að flestar sleggjur hér á landi séu úr blágrýti, en nokkrar úr móbergi.

Sleggja

Sleggja.

Sleggjurnar eru gegnumboraðar og víkkar gatið inn. Skaft var rekið í gatið og stundum fest með fleyg sem settur var í sleggjuaugað á undan og gekk inn í skaftið er það var síðan rekið í.
Ekki er mikið um sleggjur í rituðum heimildum. Elsta skriflega heimild um fiskasleggjur úr steini eru sennilega í Íslandslýsingu frá um 1590 og er talin vera eftir Odd Einarsson. Þar stendur: „Er hann [venjulegur fiskur] fyrst hertur nægilega í vindi og sól, þá barinn með lurkum eða fremur steinsleggjum, þar til hann er orðinn meyr“…
Gatið í sleggjurnar hefur mögulega verið gert með ýmsum hætti. En við uppgröft á Búðarárbakka í Árnessýslu á árunum 2005-2009 fundust fjórstrendir meitlar úr járni, alls 21 talsins, ásamt oddabrotum af meitlunum.

Sleggja

Sleggja – brotin.

Af ummerkjum er ljóst að bóndinn á Búðarárbakka framleiddi sleggjur í stórum stíl, enda fundust fjölmargar sleggjur og sleggjukjarnar ásamt meitlunum á verkstæði við bæinn.
Oftast eru sleggjurnar brotnar þegar þær koma í ljós við uppgrefti. Sumar finnast í eldstæðum og bera þess merki að hafa verið notaðar áfram, til dæmis sem soðsteinar, eða nýttar sem byggingarefni. Telja má að fólk hafi útvegað sér steina í sleggjur eða lóð á tiltölulega auðveldan hátt.

Lóð

Lóð

Lóð.

Við marga uppgrefti koma í ljós flatir steinar með gati á. Slíkir steinar hafa nokkuð víst verið notaðir sem einhvers konar lóð, svo sem sökkur fyrir net eða færi, kljásteinar til að strekkja vef, eða draglóð eða lokusteinar til að halda hurðum að stöfum. Draglóðið hékk í bandi utan á dyrakarminum en var fest við hurðina í gegnum gat á karminum. Lóðið lokaði dyrunum því sjálfkrafa með þunga sínum. Lokusteinn hékk í spotta í hurðinni og var dyrunum lokað þannig að snærið var sett upp á nagla í hurðarkarminum.
Steinar hafa einnig verið notaðir sem vigt, til dæmis með mörk sem einingu, en ein mörk samsvarar 250 grömmum.

Kljásteinar

Kljásteinn

Kljásteinn.

Ull hefur í gegnum tíðina verið mikilvægasta hráefnið sem notað var í fatnað og allan annan textíl. Ekki síst á það við hér á landi því að ekki er af mörgu öðru textílefni að taka, þó að hör hafi mögulega verið ræktaður í einhverjum mæli, eins og örnefni tengd líni benda til. Eins var nýtt bæði roð og skinn og hár af öðru en sauðfé, svo sem hestum, geitum og jafnvel nautgripum, en betra þótti að spinna dýrahárin saman við ull af sauðfé svo að af yrði grófara og sterkara band.
Merking orðsins kljár er „steinn í vefstól.“ Kljásteinar eru lóð úr steini er notuð voru til að hengja neðan í uppistöðu í vef og halda henni strengdri. Kljáir voru einnig notaðir sem sakka á neti.89 Kljásteinar geta verið með ýmsu lagi, enda eru þeir oftast teknir beint úr náttúrunni, gjarnan fjöru eða árfarvegi.
Gat var borað til að binda þráð í, en stundum er gatið af náttúrunnar hendi eða náttúrulegt gat sem var lagað til.

kljásteinn

Kljásteinn.

Kljásteinar finnast stundum margir saman í uppgröftum og er það yfirleitt talin vísbending um að þar hafi staðið vefstaður.
Uppréttur vefstaður hefur verið í notkun allt frá því í árdaga og fram á okkar daga í einhverri mynd. Vefstaðurinn hefur að öllum líkindum tekið litlum breytingum í gegnum tíðina.
En hvernig er hægt að þekkja kljásteinana úr? Eins og áður segir er jafnan talið nokkuð víst að um kljásteina sé að ræða þegar nokkrir lóðsteinar finnast saman í hrúgu, sem væntanlega hafa verið skildir eftir þegar vefurinn hefur verið tekinn. Best er að nota nokkuð flata og ávala steina sem flækjast ekki saman við vefnað.

kljásteinn

Kljásteinn.

Ágætt er að bera nýfundna steina saman við aðra sem fallið hafa til í uppgröftum og eru taldir nokkuð örugglega vera kljásteinar. Staðsetning steinanna í rústum gæti einnig gefið notkun þeirra til kynna, einkum í brunarústum, því að þá er líklegra að steinarnir séu á þeim stað sem þeir voru notaðir á.
Flestir kljásteinar hérlendis eru úr basalti, sem er mjög hart efni. Forvitnilegt væri samt að athuga hvort sjá megi merki um að reynt hafi verið að merkja steinana á einhvern hátt.
Kljásteinar úr klébergi geta verið mismunandi að lögun. Þeir geta verið nánast hringlaga með gati í miðju. Margir eru perulaga, rétthyrndir, sporöskju- og egglaga og einstaka jafnvel þríhyrndur, oftast með gat við annan endann, yfirleitt þann mjórri.

kljásteinn

Kljásteinn.

Flestir kljásteinar eiga það sameiginlegt að vera nokkuð flatir svo að þeir flækist síður saman þegar ofið er.
Við rannsókn á kljásteinum hefur komið í ljós að steinar úr sama vef eru nokkuð áþekkir að þyngd, en þyngdin getur verið mismunandi eftir vef. Í fínni vef þarf léttari steina. Þar sem ofið var með grófara bandi voru stundum notaðir tveir steinar saman, eða jafnvel fleiri. Kljásteinar úr vefstað frá seinni tímum eru yfirleitt þyngri, kannski vegna þess að ívafið í seinni tíma vefnaði er látið hylja uppistöðuþræðina svo að oft sést ekki í uppistöðuna.

Vaðsteinar

Vaðsteinn

Vaðsteinn.

Vaðsteinn er notaður sem lóð eða sakka á færi, en vaður merkir færi. Oft voru vaðsteinar lábarðir, flestir kúptir, oftast ögn flatir og sporöskjulaga. Slíkir steinar eru ýmist með gati á öðrum enda fyrir netið eða með djúpum skorum klöppuðum langsum hringinn í kring til þess að vefja í reipi utan um steininn. Stöku sinnum var einnig skora um þá miðja. Stundum, a.m.k. í seinni tíð, var stutt leðurræma lögð undir bandið í báða enda og var færið og öngullinn svo fest þar í.
Við sjóinn eru nokkrir staðir kenndir við vaðsteina, þar sem þeir hafa verið teknir. Sem dæmi um það má nefna Vaðsteinaberg í Hergilsey, Vaðsteinatanga og Vaðsteinavík
í Grímsey á Steingrímsfirði og á Flatey í Skjálfanda er Vaðsteinanes.
Vaðsteinar voru misþungir, oft 1-2½ kg og fór það líklega eftir því til hvers þeir voru notaðir. Sumir vildu hafa þá létta svo að færið gæti borist með straumnum sem lengst. Oft voru vaðsteinar og sökkur á hákarlavaði 8 – 12 pund.

Vaðsteinn

Vaðsteinn.

Til eru varðveittir steinar með ýmsum merkjum klöppuðum í, svo sem krossi eða upphafsstöfum eiganda og jafnvel ártali eða ýmsum öðrum táknum.
Síðar var farið að nota sökkur úr járni eða blýi og um þarsíðustu aldamót voru vaðsteinar víðast hvar úr sögunni.
Svo virðist sem vaðsteinar hafi tekið litlum breytingum í gegnum tíðina. Árið 1908 rannsakaði O. Nordgaard í Noregi 400 sökkur sem voru aldursgreindar allt frá steinöld og til hans samtíma. Í ljós kom að erfitt var að ákvarða aldur sakkanna eftir útlitinu einu saman.
Flokka má vaðsteina eftir útliti, rétt eins og kljásteina. Lögun steinanna virðast fara eftir því hversu mikið stýra þarf steinunum niður í sjó eða vatn.
Ýmis veiðarfæri eru talin með í eignaskrám kirkna og klaustra víða um land frá 16. öld.

Snældusnúðar

Snældusnúður

Snældusnúður.

Til þess að hægt sé að spinna og prjóna úr ull þarf að snúa ullina saman í þráð. Flestir þræðir eru af takmarkaðri lengd og þarf því að spinna þá saman í langan þráð.
Halasnældur voru gerðar úr þremur hlutum, snúð, hala og hnokka. Snældusnúðurinn var ýmist úr steini, blýi, beini, leir eða tré. Hann er kringlóttur í laginu, oft kúptur að ofan en flatur að neðan og gat á honum miðjum. Í gatið á snúðnum var rekið tré, langt og mjótt, svo nefndur snælduhali, sem yfirleitt mjókkaði niður frá snúðnum. Í efri halaendann, sem stóð upp úr snældusnúðnum, var festur krókur úr málmi, oftast járni, er hann nefndur hnokki. Þetta sést a. m. k. á snældusnúðum frá síðari tímum.

snældusnúður

Snældusnúður á halasnældu.

Spunnið var á halasnældu í tveimur áföngum. Lopi, eða lyppa, var fest í hnokkann (þ.e. krókinn ofan á), snældunni var þá snúið og spunnin ein löng færa úr lopanum. Síðan var þráðurinn undinn upp á snælduhalann með því að snúa honum hratt í hendi sér. Var ýmist staðið eða setið við snælduspuna.
Þyngd snældusnúðsins er notuð bæði til þess að vinda upp þráðinn og til þess að fá snúð á bandið. Snældusnúðarnir eru misþungir eftir því hvers lags þráður var spunninn. Þykkari þráður krefst þyngri snúðs. En léttari snúðar snúast hraðar og vinda þéttar upp á þráðinn svo að hann verður sterkari.

snældusnúður

Snældusnúður.

Keilulaga snældusnúðar snúast hraðar en kringlulaga. Af þessu má sjá að lögun og þykkt snældusnúðs skiptir máli fyrir spunann, en einnig lengd og þykkt halans.
Snældusnúðar eru hringlaga, eða því sem næst, og eru með holu í gegnum miðjuna. Lögun þeirra er breytileg að nokkru marki. Sumir eru kúlulaga að ofan en flatir að neðan, aðrir eru eilítið keilulaga, sumir líkjast stundaglasi en aðrir eru flatir. Norsk rannsókn leiddi í ljós að þeir eru sjaldnast meira en 50g að þyngd, flestir á milli 20 og 35 grömm. Snældusnúðar þyngri en það eru sjaldfundnir, þeir hafa þá frekar verið notaðir til annarra verka, annars konar spuna eða til borunar, svo eitthvað sé nefnt.
Venjan er að flokka snúðana fyrst eftir efni, svo lögun og þá stærð, þyngd og skreyti, ef um það er að ræða. Snældusnúðar úr steini eru yfirleitt stærstir.

snældusnúður

Snældusnúður.

Kléberg (e. steatite) er þrisvar sinnum algengari í snældusnúðum en önnur efni. Aðrir snældusnúðar þar eru úr steini sem kallast á ensku greenstone, gabbró, flögubergi og kalksteini. Ekki virðist vera neitt sérstakt samhengi á milli þyngdar steinanna og úr hvaða efni þeir eru.
Holan í miðju snældusnúðsins verður að vera sem beinust og eins nálægt miðju og hægt er til að snúningur snúðsins sé jafn. Svo virðist sem léttari snældusnúðar séu fremur skreyttir en hinir.
Oft finnast ófullkláraðir snældusnúðar við uppgrefti.

Snældusnúðar

Snældusnúðar – úr Esjunni.

Síðar meir tók fólk að nota rokk í staðinn fyrir halasnældu og margfaldaði afköst sín, en spunarokkar hafa fylgt vefstólunum. Elstu heimildir um rokka hér á landi eru í ritgerð frá um 1736-1737 eftir norskan mann, Mathis Iochimsson Vagel. Segir hann þar að þorri Íslendinga, bæði konur og karlar, spinni enn á halasnældu.
Snældusnúðar hafa fundist við uppgrefti hérlendis. Þegar þeir eru úr steini finnast þeir yfirleitt án halans, hann er þá eyddur og farinn veg allrar veraldar. Fáeinir snældusnúðar úr steini hafa fundist hér á landi með áklöppuðu rúnaletri og meira að segja tveir núna nýlega.
Stærsti gripaflokkurinn hér úr klébergi er snældusnúðar.

Kvarnarsteinn

Kvarnasteinn

Kvarnasteinn frá Knarrarnesi.

Handkvarnir til kornmölunar voru til á heimilum manna hér áður fyrr, allt frá landnámi. Í Þjórsárdal fundust samtals fimm kvarnarsteinar og eru þeir allir úr hraungrýti. Í Suðurgötu í Reykjavík fundust einnig fimm kvarnarsteinar og voru þeir einnig allir unnir úr hrauni.1 Elín Bjarnadóttir segir í BA-ritgerð sinni að best hafi þótt að nota hraungrýti í kvarnir. Vegna þess hversu holótt það er slitnuðu kvarnirnar síður og misstu mölunareiginleika sína. Flestar kvarnir á Íslandi eru enda úr hraungrjóti, eða tæp 72% greindra kvarna, líkast til úr hérlendu grjóti. Hér hafa kvarnir einnig verið úr sandsteini og flögusteini (skifer). 16 kvarnir reyndust vera af erlendum uppruna, þar af 14 úr flögubergi, einn úr sandsteini og einn skráður sem „erlent berg“. Erlendu steinarnir fundust á stórbýlum, flestum frá miðöldum, og því má tengja þá við yfirstétt.

kvarnasteinn

Kvarnasteinn.

Kvarnarsteinarnir voru gerðir úr gropnu hraungrjóti voru höggnir til sívalir kvarnarsteinar. Steinarnir voru tveir, efri og neðri steinn. Kornið var látið í gatið á efri kvarnarsteininum og var síðan malað á milli flatra steinanna, var þá efri steininum snúið með handfangi. Stundum var stokkur smíðaður utan um kvörnina, annars stóð kvörnin á fjölum sem lögð var á milli t.d. tveggja kistna. Mjölið var m. a. haft í grauta, kökur, lummur og pönnukökur.
Á einokunartímanum var mest flutt inn malað korn og var kornið oftar en ekki lélegt og skemmt er á leiðarenda var komið, enda geymist korn mun betur ómalað. Í lok 18. aldar var farið að flytja inn ómalað korn og handkvarnir og bændur fóru að búa til vatnsknúnar kornmyllur. Víðast var hætt að nota þær um 1920.
Kvarnarsteinar hafa verið afar lengi í notkun. Ekki er hlaupið að því að aldursgreina kvarnir út frá gerð og útliti, því að kvarnarsteinar hafa tekið litlum breytingum í gegnum tíðina. Þess vegna verður að aldursgreina út frá undasamhengi.

Rúnnaðir steinar

Rúnnaðir steinar

Rúnnaðir steinar.

Þegar búið var að vefa ull eða hör þurfti yfirleitt að meðhöndla voðina. Ull var gjarnan burstuð og þæfð, flos var klippt, dúkar litaðir og afurðin þvegin og mýkt. Ýmiss konar áhöld hefur þurft til þessara verka. Til dæmis hefur ull verið þvegin úr keytu og þæfð í stórum kerum frá örófi alda. Voðin var barin með stöfum eða klöppum (banketre á norsku) til að fá betri flóka, var hengd upp til þerris og nudduð með burstum og kömbum svo hún þæfðist enn betur. Hör var líka meðhöndlaður með barsmíðum til að mýkja hann og gera þjálli. Því miður eru ekki mörg merki eftir um þessi áhöld. Flest voru þau úr tré, en varðveisla á viði í jörðu er oft bágborin.

Rúnnaðir steinar

Rúnnaðir steinar.

Talið er að hör hafi verið mýktur og pressaður með kúlulaga steinum eða gleri, oft sléttari á annarri hlið og stundum eins og eilítið hvolflaga á hinni hlið, sem fer vel í lófa. Ofinn hördúkur var nuddaður með slíkum áhöldum, saumar á flíkum úr hör voru sömu leiðis mýktir og pressaðir um leið til að fá fram stíft og glansandi útlit.
Og sjálfsagt hefur verið tilvalið að nota rúnnaða steina til að merja með og mala, til dæmis korn eða jurtir. Ýmislegt þarf að steyta, svo sem krydd og korn og litunarefni og þá trúlega í mortélskál.
Einnig hafa sést svonefndir pottasteinar. Þeir eru flatir og sléttir og voru notaðir til að hreinsa hlóðarpotta að innan. Þeir gátu verið úr ýmiss konar steini. Dæmi er um pottastein úr vikri (frá Berjanesi í Landeyjum) og til er annar úr holóttu hraungrjóti (frá Hvallátrum norðan við Látrabjarg).

Vikursteinn

Vikursteinar.

Þess má og geta að vikursteinn var notaður til að verka kálfskinn. Eftir að skinnið var afhárað, skafið og þurrkað var það gjarnan fægt með vikursteini svo yfirborðið gljáði til þess að hægara væri að skrifa á það, skinnið var oftast annars of hrjúft. Vikursteinn var einnig notaður til þess að fægja járn og halda því gljáandi, til dæmis hnífa.
Vikur finnst oft við uppgrefti. Oft er hann í ómótuðum molum, en stundum er greinilegt að hann hafi verið notaður. Eins og áður segir var hann notaður til að fægja með, einnig til að pússa tré. Til eru einstöku gripir úr vikri. Líklegt má telja að vikursteinninn sé fenginn hérlendis. Það er þó ekki hægt að vita með fullri vissu nema með efnagreiningum.

Heimild:
-Steinar í íslenskri fornleifafræði, ritgerð til B.A.-prófs – Guðrún Jóna Þráinsdóttir, 2011, bls. 15-16.

Jobbasteinn

Jobbasteinninn í Garðaholti – vaðsteinn.

Fornleifar

Fornleifafræði er fræðigrein, sem fjallar um manninn út frá margvíslegum hliðum, t.a.m. út frá beinum (dýra- og manna), gripum (þ.m.t. byggingum), landslagi, ljósmyndum, kortum og öðrum skjölum. Helstu aðferðir fornleifafræðinga er fornleifaskráning og fornleifauppgröftur. Fornleifafræðingar fást við rannsóknir á ólíkum tímum, t.d. forsögulegum, miðöldum, og á minjum nútímasamfélaga.

Saga fornleifafræði á Íslandi fram til 1850

Ólafía Einarsdóttir

Ólafía Einarsdóttir (1924-2017). Margir hafa verið á þeirri skoðun, að dr. Ólafía Einarsdóttir hafi verið fyrsti íslenski fornleifafræðingurinn. Þess vegna er eitt af tímaritum fornleifafræðinga á Íslandi kallað Ólafía. Ólafía lauk gjaldgengu prófi í greininni. Hún stundaði nám í Lundúnum og í Lundi. Ekki gróf Ólafía þó mikið á Íslandi, og hvort það var karlremba í Kristjáni Eldjárn eða kvenremba í Ólafíu, þá var Ólafíu ekki stætt á Þjóðminjasafni Íslands, þar sem Kristján réði ríkjum. Ólafía meistraði í staðinn sagnfræðina og tímatal í fornbókmenntum og er ekki síðri fornleifafræðingur fyrir það. Ólafía er með vissu fyrsta íslenska konan sem varð fornleifafræðingur.

Á meginlandi Evrópu fór áhugi á fornminjum vaxandi samhliða hugmyndum um ríkisvald á 16. og 17. öld. Nýstofnuð ríki þurftu að geta sýnt fram á að ríkisbúar sínir ættu sameiginlega fortíð og upprunasögu; vegna þess beindist áhugi fólks að slíkum gripum og minjastöðum. Álíka var að gerast á Íslandi þar sem fornfræðingar heimsóttu merkilega sögustaði sem nefndir voru í Íslendingasögum.
Fyrsta heildarskráning fornleifa á Íslandi var á vegum dönsku fornleifanefndarinnar á árunum milli 1817 og 1823. Konungur Danmerkur sendi skipunarbréf árið 1807 um að skrá fornleifar í Danmörku og áttu skrásetjarar að vera sóknarprestur sem mundu skrifa ritgerð um fornleifar í sinni sókn. Prestar áttu að líta sérstaklega til staðbunda minja um fornsögur og elstu leifar stjórnvalds, t.d. dómhringi og þingstaði.

Fornleifaskráning

Litla-Botnssel

Litla-Botnssel við Hvalfjörð. Selsins er getið í örnefnalýsingu, en í fornleifaskráningu er staðsetningin óviss.

Fornleifaskráning er það að leita að minjum á afmörkuðu svæði, hvort sem það er á landi eða í sjó, til skráningar.

Bæði í jörðu og á sjó eru minjar sem hver kynslóð skilur eftir sig og eru þær heimildir um líf fólks. Í tímanna rás hefur það tekið breytingum hvað telst sem fornleifar. Framan af voru aðeins skráðar byggingar og gripir frá víkingaöld en færst hefur í vöxt að skrá minjastaði hvað sem líður aldri þeirra og fremur horft til rannsóknar eða táknrænt gildi þeirra, enda lýkur sögu ekki við ákveðið ártal, eins og 1900 e. Kr.

Skráning minjastaða

Brynjudalur

Brynjudalur – Þórunnarsel.

Fornleifaskráning felur í sér að leita að upplýsingum í rituðum heimildum, taka viðtöl við staðkunnuga og mæla upp minjar á vettvangi. Skipta má verklagi fornleifaskráningar í þrennt í samræmi við þrjú stig skipulagsvinnu:
Svæðisskráning: Í svæðisskráningu er upplýsingum safnað saman um staðsetningu og gerð minja úr rituðum heimildum. Skjöl eru til að mynda lesin og túnakort skoðuð. Úr þessu fæst grunnur að fjölda og dreifingu minja á tilteknu svæði. Það gefur möguleika á að finna staði sem þykja sérstaklega athyglisverðir til kynninga eða rannsókna og svæði sem eru í hættu. Þessu til viðbótar er svæðisskráning undirbúningur fyrir aðalskráningu.

Dyljáarsel

Í Dyljáarseli.

Aðalskráning: Á þessu stigi er farið út í mörkina og rætt við ábúendur eða aðrar manneskjur sem eru staðfróðar. Að svo búnu er farið af stað og leitað á svæðum sem sennilegt er að minjar leynist á. Þegar minjastaður er fundinn er hann skráður á staðlaðan hátt og lagt mat á ástand hans, hnattstaða fundin, staðurinn ljósmyndaður svo og uppdráttur teiknaður eftir því sem tilefni er til. Einnig er reynt að meta hvort staðurinn sé í hættu og þá af hvaða völdum.

Fiskaklettur

Fiskaklettur 2022 – fyrrum hluti af sögu Hafnarfjarðar; nú einangraður millum húsa.

Deiliskráning: Tilgangur deiliskráningar er að fá upplýsingar um minjastaði á (litlum) afmörkuðum svæðum. Verklag við deiliskráningu er álík og við aðalskráningu nema í deiliskráningu er gengið skipulega yfir allt svæðið og minjar mældar upp á nákvæmari hátt. Öðru hverju gæti verið nauðsynlegt að grafa könnunarskurð til þess að kanna aldur og hvort að um mannvirki sé ræða.

Minjavarsla

Dalurinn

Fjárskjólið í Dalnum – nú horfið vegna framkvæmda og áhugaleysis yfirvalda á varðveislu minja.

Fornleifaskráning er eitt mikilvægasta – ef ekki það mikilvægasta – verkefni fyrir minjavörslu hvers lands. Talið er að á Íslandi séu að minnsta kosti 130 þúsund fornleifastaðir en á ári hverju verður fjöldi þeirra fyrir eyðileggingu, til dæmis vegna byggingaframkvæmda, túnasléttunar eða sjávarrofs. Slík eyðilegging getur afmáð sögu sem aðrar heimildir eru fáorðaðar um. Fyrir þá sök er nauðsynlegt að vita hvar staðirnir séu og hvert ástand þeirra svo að hægt sé leggja mat á hvaða sögu samfélagið vill varðveita fyrir framtíðina.

Vísindarannsóknir

Krýsuvík

Krýsuvík neðan Baðstofu – fornleifar, nú horfnar vegna framkvæmda.

Fornleifaskráningar eru iðulega gerðar í tengslum við framkvæmdir, en skráning minjastaða getur að auki verið gerð í vísindalegum tilgangi (eða gögn framkvæmdaskráninga séu nýttar í rannsóknir). Markmið fornleifaskráninga í rannsóknarskyni er t.d. að finna minjastaði, kanna ævisögu landslags eða greina ákveðið mynstur minja. Allt er þetta gert í því skyni að svara ákveðnum spurningum. Þess konar rannsóknar geta verið allt frá því að rannsaka skipulagningu einstakra grafreita upp í feiknastór landsvæði. Með því að skrá form garðsins, staðsetningu minja innan hans og vísun þeirra í klassíska fornöld, þá sýndi rannsóknin fram á hvernig garðurinn var efnislegur vitnisburður sem voldugt tákn um samfélagslegt vald húsráðandans og hafði garðurinn mótandi áhrif á gesti og gangandi.

Viðey

Fornleifarannsóknir sýna að byggð var hafin í Viðey á 10. öld en árið 1225 var stofnað þar klaustur af reglu heilags Ágústínusar. Í meira en 300 ár var Viðeyjarklaustur mesta helgisetur í Sunnlendingafjórðungi af Skálholti frátöldu. Alþjóðleg hefð er fyrir því að klausturbyggingar myndi umgerð um klausturgarð. Túlka má rannsóknir á svæðinu á þann veg. Byggingar merktar A, B og C hafa verið grafnar upp og sýna langhús (stofu, skála og búr). Þar austur af er sennilega smiðjukofi (D). Aftur af langhúsinu eru lítið rannsökuð bakhús. Kirkjan (E) er tilgátuhús en fyrir myndir eru sóttar í kirkjur á Þingeyrum og á biskupsstólunum. Jarðsjármælingar sýna að fyrir framan Viðeyjarstofu og kirkju hafi verið byggingar, trúlega sjálf klausturhúsin (F), þau eru einnig tilgátuhús.

Í fornleifaskráningu í vísindaskyni eru samskonar verklagi beitt og í hefðbundinni fornleifaskráningu, einkum deiliskráningu. Tilgangurinn er að fá nákvæmar upplýsingar um minjastaðinn. Af þeim sökun er í fáeinum tilvikum notuð ýmis jarðsjátæki, til dæmis viðnámsmælir, til að skima eftir minjum undir jarðvegi. Í sumum tilvikum eru teknir könnunarskurði til þess að athuga hvort um mannvirki sé að ræða, vita aldur þess eða ná í sýni til efnagreiningar.

Hvað eru fornleifar?
Fornleifar eru það sem hefur orðið eftir frá gamalli tíð. Flest af því sem við höfum með höndum eyðist í tímans rás. Sumu er alls ekki ætlað að endast; við neytum matar og brennum kerti, föt endast sjaldan meira en í nokkur ár en aðrir hlutir geta enst í áratugi og jafnvel aldir, til dæmis hús og bækur.
Hlutir sem við notum mikið slitna, brotna og skemmast, sumt er hægt að endurnýta og gera við en fyrr eða síðar endar langflest af því sem við höfum í kringum okkur (oft með langri viðdvöl í kompu eða á háalofti) á öskuhaugum, þar sem því er annað hvort brennt eða það rotnar og eyðist smátt og smátt.

Öskuhaugur

Öskuhaugur í rannsókn.

Öskuhaugarnir sjálfir verða svo eyðingu að bráð; fyrir utan niðurbrot efnanna í jarðveginum geta þeir horfið vegna vind- og vatnsrofs, landbrots og framkvæmda og þess vegna getur verið mjög erfitt að finna nokkur einustu ummerki eftir fólk að nokkrum öldum eða árþúsundum liðnum.
Það sem varðveitist, annað hvort af því að því hefur verið haldið til haga, til dæmis handrit og listaverk, eða vegna þess að skilyrði í jarðvegi hafa verið góð, er því aðeins brot af því sem upphaflega var, en það brot getur gefið mikilvægar vísbendingar um þá tíma sem leifarnar eru frá. Það er vegna þess sem fornleifar eru rannsóknarefni sérstakrar fræðigreinar, fornleifafræði, en hún fæst við að finna fornleifar og túlka þær sem heimildir um liðna tíð.

Bárujárn

Fyrrum hús Brennisteinsfélagsins í Seltúni, elsta hús klætt bárujárni hér á landi, nú við Suðurgötu 10, Hafnarfirði.

Misjafnt er hvað hlutir þurfa að vera gamlir til að teljast fornleifar. Í íslenskum lögum er miðað við að allt sem er eldra en 100 ára teljist fornleifar en einnig þekkist að miðað sé við 500 ár eða allt sem er eldra en miðaldir (það er eldra en 1500 ára). Það er hins vegar ekki einber aldurinn sem gerir gamla hluti að fornleifum heldur fremur hvort þeir geta talist í einhverjum skilningi úreltir og hversu sjaldgæfir þeir eru. Við getum tekið sem dæmi að fáir myndi telja klaufhamar úr ryðfríu stáli sem framleiddur var árið 1927 til fornleifa. Slíkur hamar er eins og hamrar sem framleiddir eru í dag og hefur sama notagildi. 5 ¼ tommu tölvudiskur frá 1986 er hins vegar úrelt fyrirbæri sem erfitt er eða ómögulegt að nota lengur og við myndum því, í hálfkæringi að minnsta kosti, geta talað um sem fornleifar. Notagildið veldur því líka að hamrar geta auðveldlega orðið langlífir og sennilega leynast býsna gamlir hamrar víða í verkfærakistum en úreltir tölvudiskar eru hinsvegar orðnir mjög sjaldgæfir og þegar komnir á dagskrá hjá söfnum og áhugafólki um varðveislu gamalla hluta.

Kuml

Kuml.

Oft er gerður greinarmunur á hlutum sem hafa varðveist af því að passað hefur verið upp á þá, til dæmis kirkjuskrúð, handrit og gömul málverk, og hlutum sem varðveist hafa í jörðu. Jarðfundnum fornleifum má svo aftur skipta í tvennt eftir því hvort hlutirnir hafa verið skildir vísvitandi eftir undir mold, (einkum legstaðir manna og dýra, sumir með haugfé, og faldir fjársjóðir), eða hvort þeir eru úrgangur eða annað sem hefur verið hent eða skilið eftir (stundum óvart).
Þróunin innan fornleifafræðinnar hefur verið frá upphaflegri áherslu á að finna fagra gripi í átt að sífellt nákvæmari rannsóknum á úrgangi í víðasta skilningi. Þær rannsóknir beinast ekki eingöngu að rústum bygginga og gripum sem finnast í þeim og gömlum öskuhaugum, heldur einnig að dýrabeinum og öðrum matarleifum; ösku, gjalli og öðrum leifum eftir eldamennsku og iðnað; skordýra- og jurtaleifum og efnasamböndum sem geta gefið vísbendingar um lífshætti fólks til forna.

Fornleifar

Fornleifauppgröftur á bæjarstæði.

Fornleifafræðingar hafa þróað aðferðir til að setja saman mynd af horfnum samfélögum byggða á slíkum brotakenndum heimildum. Aðeins örlítill hluti af því sem var hefur varðveist og margt af því hefur varðveist fyrir eintóma tilviljun. Það er flókið mál draga skýrar ályktanir af slíkum efnivið en aðferðirnar sem hafa verið þróaðar til þess hafa einnig reynst vel til að rannsaka samtímann – það er ruslið sem við framleiðum og hvað það segir um okkur.
Allt rusl, gamalt og nýtt, er því viðfangsefni fornleifafræðinnar, en fornleifar má telja allt sem er nógu gamalt til að vera orðið úrelt og/eða sjaldgæft.

Hvaða aðferðir nota fornleifafræðingar við að tímasetja fornleifar?

Rúnasteinn

Rúnasteinn – sænskur.

Aðeins er hægt að tímasetja hluti sem bera læsilegar áletranir, nema eitthvað annað sé vitað um þá. Fyrir iðnbyltingu eru það einkum legsteinar og mynt sem bera áletranir. Tímasetningar slíkra áletrana eru sjaldnast ákveðin ártöl heldur til dæmis veldistími konunga eða annars konar tilvísanir í fólk eða atburði sem ritheimildir eru til um.
Áletranir eru mikilvægar en þær finnast aðeins á örlitlu brotabroti allra fornleifa og því hefur þurft að þróa sérstakar aðferðir til að aldursgreina fornleifar. Engin ein aðferð er til sem hægt er að beita á öll efni eða hluti undir öllum kringumstæðum heldur nota fornleifafræðingar yfirleitt margar aðferðir saman til að komast að niðurstöðu um aldur minjanna sem þeir rannsaka.
Þessar aðferðir má flokka í tvennt: annars vegar eru afstæðar tímasetningaraðferðir sem geta greint hvort tilteknar fornleifar eru eldri eða yngri en aðrar en ekki endilega hversu gamlar, og hins vegar algildar aðferðir sem gefa raunaldur hlutanna. Í fljótu bragði mætti ætla að síðarnefndu aðferðirnar væru augljóslega betri en þær eru ýmsum takmörkunum háðar og því liggja afstæðu aðferðirnar að mörgu leyti til grundvallar.
Afstæðar tímasetningaraðferðir

Christian Jörgensen

 Christian Thomsen (1788-1865).

Það var danski fornleifafræðingurinn Christian Thomsen (1788-1865) sem lagði grundvöllinn að flokkun fornleifa eftir aldri á fyrri hluta 19. aldar. Þá setti hann fram svokallaða þriggja alda kenningu. Hann hafði tekið eftir því að úr elstu jarðlögum komu eingöngu áhöld og gripir úr steini, en úr yngri lögum kæmu líka hlutir úr bronsi og úr enn yngri lögum gripir úr steini, bronsi og járni. Kenning hans var því sú að fyrst hefði verið steinöld, síðan bronsöld og síðast járnöld.
Þessi kenning liggur enn til grundvallar tímabilaskiptingu forsögunnar í Evrópu og Vestur Asíu en hún er fyrst og fremst mikilvæg fyrir það að með henni er hægt að raða hlutum í aldursröð eftir efni þeirra og fundarsamhengi. Elstu leirker finnast til dæmis iðulega í sömu lögum og pússuð steináhöld sem eru ólík slegnum steináhöldum í enn eldri lögum. Á þessari athugun byggir skipting steinaldarinnar í fornsteinöld og nýsteinöld og frá dögum Thomsens hafa fornleifafræðingar unnið sleitulaust að því að greina slík samhengi og skipta “öldunum” niður í æ styttri tímabil.

Leirker

Leirker eru afar sjaldgæfur fundur við fornleifarannsóknir frá landnámi og fram á 11 öld, tvö brot fundust í Vogum á Höfnum á Reykjanesi og þrjú brot við höfnina á Kolkuósi í Skagafirði.
Í öskuhaugnum í Firði hafa nú fundist yfir 20 brot sennilega öll af sama kerinu. Öskuhaugurinn er aldursgreindur frá 940-1100.

Þó að grófa flokkunin haldi fyrir heilar heimsálfur geta styttri tímabilin verið ólík frá einu landi eða svæði til annars en það helgast af því að skilgreining þeirra byggir á atriðum eins og tísku sem er oft staðbundin. Því má segja að efnin (steinn, kopar, brons, járn, en líka gler, stál, silki og gúmmí) gefi grófa rammann en tæknin (bæði aðferðir við að búa til hluti, til dæmis málmsteypa og postulínsgerð, og við að nýta þá, til dæmis plæging og tedrykkja) og tískan hjálpa til við að tímasetja með meiri nákvæmni. Tíska er lykilatriði í þessu, því að margir hlutir (einkum skartgripir og allskonar skreyti og munstur) geta breyst hratt og því meiri sem breytileikinn er þeim mun styttri eru tímabilin og þeim mun nákvæmar hægt að tímasetja. Það eru ekki bara manngerðir gripir sem fornleifafræðingar líta til í þessu samhengi heldur líka atriði eins og villt dýr í umhverfi bólstaða, hvaða jurtir eru ræktaðar, húsdýrahald og margskonar aðrar vísbendingar um líf og störf mannanna sem taka breytingum með tímanum.

Gjóskusnið

Unnið við að sniðgreina gjóskulög í jarðvegssniði.

Allt þetta byggir á því einfalda en mikilvæga lögmáli að afstaða jarðlaga og mannvistarlaga segir til um aldur þeirra: lagið sem er undir er eldra en það sem er ofan á. Ef gripasafn úr eldra lagi er til dæmis með ákveðna tegund af leirkerjum en það yngra ekki þá getur verið að sú tegund hafi fallið úr tísku, og ef sú breyting sést á mörgum stöðum má hafa þá breytingu sem aldursviðmiðun. Hún segir okkur hinsvegar ekki hvenær þessi leirker hættu að vera í tísku.
Fram um miðja 20. öld áttu fornleifafræðingar í erfiðleikum með að tengja tímabilin sín við rauntíma. Eina aðferðin var að nota gripi með áletrunum sem hægt var að tengja við sögulega atburði og einstaklinga en sú aðferð kemur aðeins að gagni eftir að ritmál var fundið upp, fyrir um 5000 árum síðan í gamla heiminum, en allt sem var eldra en það var erfitt eða ómögulegt að tengja við rauntíma. Þetta breyttist eftir 1950 með tilkomu aldursgreiningar með geislakoli en hún hefur valdið byltingu í tímasetningum í fornleifafræði.

Algildar tímasetningaraðferðir

C-14

C-14.

Áletrun getur gefið algilda tímasetningu, til dæmis má yfirleitt treysta því að mynt með nafni kalífa eða konungs sé frá veldistíma hans, en sú tímasetning segir bara til um aldur myntarinnar. Aðrir gripir sem finnast í sama lagi geta ekki hafa lent þar fyrr en eftir að myntin var slegin, en þeir geta annaðhvort verið eldri en hún (það er þeir voru gamlir þegar þeir lentu í laginu) eða miklu yngri (myntin var gömul þegar hún lenti í laginu).
Sú algilda tímasetningaraðferð sem mest áhrif hefur haft og mestu máli skiptir í fornleifafræði nútímans er hins vegar geislakolsaldursgreining, líka þekkt sem kolefnisaldursgreining eða C14. Þessi aðferð byggist á því að þrjár samsætur kolefnis (C) eru í andrúmsloftinu og hlutfallið á milli þeirra er stöðugt. Sama hlutfall er svo í öllum lífverum. Ein af þessum samsætum, C14, er geislavirk sem þýðir að hún er óstöðug og breytist í stöðugu samsætuna N14. Það sem skiptir máli fyrir tímasetningar er að geislavirk efni eyðast með stöðugum og ákveðnum helmingunartíma sem er hægt að ákvarða með mælingum í rannsóknastofu.

C-14

C-14.

Helmingunartími C14 er 5730 ár og með þessu má aldursgreina allar lífrænar leifar aftur til um 40.000 ára. Fara má nærri um raunaldur jarðlags með því að tímasetja hluti eins og fræ og dýrabein sem sjaldnast eru meira en nokkurra ára þegar þau lenda undir torfu, en aðalkosturinn við þessa aðferð er að hún er sjálfstæð, óháð bæði ritheimildum og flokkunarkerfum forngripa; og að henni má beita á öll lífræn efni, meðal annars þau sem lent hafa í eldi og kolast en kolaðar leifar geta varðveist þar sem varðveisluskilyrði eru að öðru leyti slæm fyrir lífrænar leifar.
Með þessu er ekki allur vandi leystur; ýmis vandamál eru við meðferð og túlkun geislakolsaldursgreininga, og aðferðin nær ekki til eldra skeiðs fornsteinaldar, langlengsta tímabils mannkynssögunnar (nærri 2 milljónir ára). Aðrar aðferðir sem einnig byggjast á stöðugri eyðingu geislavirkra efna (til dæmis úrans og kalín-argons) eru þó til og má nota þær á eldri hluti, fyrst og fremst berg.
Margar aðrar aðferðir eru til en þær eiga allar sammerkt að vera annað hvort staðbundnar (eins og gjóskulagatímatalið sem íslenskir fornleifafræðingar styðjast mikið við) eða að aðeins er hægt að beita þeim á sérstök efni. Þar á meðal er trjáhringaaldursgreining sem er nákvæmasta tímasetningaraðferð sem til er en henni er aðeins hægt að beita á sæmilega stóra búta úr tilteknum trjátegundum (til dæmis eik en ekki birki, enn sem komið er að minnsta kosti).

Kléberg

Kléberg í Glúfurgili í Esju.

Þegar fornleifafræðingur stendur frammi fyrir því að tímasetja fornleifar byrjar hann yfirleitt á því að reyna að staðsetja sig gróflega í tíma út frá efnum og gerð gripanna. Hér á Íslandi myndum við til dæmis næsta hiklaust telja að safn sem innihéldi svínabein, glerperlur og kléberg væri frá víkingaöld en að safn með leirkerjum og glerbrotum væri frá 17. öld eða yngra, og það þó að söfnin væru að uppistöðu hlutir úr járni og steini sem væru í aðalatriðum eins í báðum. Til þess að fá nákvæmari tímasetningu myndum við svo líta til gjóskulaga, en það getur verið háð aðstæðum hvort til staðar eru gjóskulög sem hægt er að nota sem tímatalsviðmið. Jafnframt myndum við láta gera geislakolsaldursgreiningar á völdum hlutum. Í öðrum löndum er samsetning aðferðanna oftast önnur en alls staðar á það við að efni og gerð hlutanna gefa rammann, en síðan beita menn öðrum aðferðum eftir efnum og aðstæðum, og oftast er geislakolsaldursgreining þar á meðal.

Hvar hafa leifar um víkinga varðveist?

Víkingar

Víkingur.

Þegar fjallað er um leifar eftir víkinga þarf fyrst að ákveða hvað við er átt með hugtakinu víkingur. Í íslenskum miðaldaritum hefur orðið alltaf þrönga merkingu, það þýðir „sæfari, sjóræningi“ og er fyrst og fremst notað um norræna menn þó að merkingin virðist ekki endilega bundin þjóðerni. „Víkingur“ er með öðrum orðum starfsheiti en fyrir löngu hefur skapast sú hefð að nota það sérstaklega um þá norrænu menn sem tóku að ræna, rupla, versla og berjast til landa í Norður-Evrópu á níundu og tíundu öld e. Kr.

Þetta tímabil er oft nefnt víkingaöldin og látið ná frá 793/800 til 1050/1066/1100 e. Kr. Það einkenndist í fyrstu af ránsferðum og strandhöggi norrænna manna við Eystrasalt, á Bretlandseyjum og í strandhéruðum Norður-Evrópu, en fljótlega einnig skipulegum hernaði og landvinningum sem leiddu til þess að þeir settust að í norðurhluta Englands, í borgum eins og Dublin (Dyflinni) á Írlandi, í Normandí í Frakklandi og á svæðinu í kringum Starja Ladoga (Aldeigjuvatn) í Rússlandi.

Víkingar

Víkingar.

Lítið er vitað um hversu stórar byggðir norrænna manna voru á þessum stöðum og víst að þeir samlöguðust fljótt þeim þjóðum sem þar voru fyrir.
Á sama tíma fundu norrænir menn áður óbyggð lönd í Norður-Atlantshafi – Færeyjar, Ísland og seinna Grænland – þar sem þeir settust að. Þeir settust líka að á svæðum sem lengi höfðu verið byggð í Skotlandi: á Hjaltlandi, Orkneyjum, Suðureyjum, Katanesi og einnig á eynni Mön í Írlandshafi. Öfugt við hinar norrænu byggðir í Englandi, Frakklandi og Rússlandi náðu norrænir menn algerum menningarlegum og pólitískum undirtökum á þessum svæðum og var til dæmis talað norrænt mál á Hjaltlandi og Orkneyjum fram yfir siðaskipti.
Vegna þess hve víkingaöldin er litríkt tímabil í sögunni og hve ránsferðir og hernaður norrænna manna skipti miklu fyrir þróun efnahags og stjórnkerfis í Norður Evrópu á þessu tímabili hefur hugtakið „víkingar“ fengið merkinguna „allir norrænir menn á víkingaöld“ í hugum margra.

Víkingur

Íslenskur víkingur á alþingishátíðinni 1930.

Þetta á einkum við um enskumælandi þjóðir en frá sjónarmiði íbúa Bretlandseyja voru sjóræningjar frá Norðurlöndum og norrænir menn almennt einn og sami hópurinn. Af þeim sökum er hugtakið „Viking“ á ensku mjög oft notað sem samheiti fyrir Norðurlandabúa á víkingaöld, friðsamt fólk jafnt sem atvinnusjóræningja. Á Norðurlöndum hefur hinsvegar tíðkast að gera greinarmun á þeim tiltölulega litla hópi sem lagðist í víking og hinum sem heima sátu eða námu óbyggð lönd í úthöfum til að búa þar í friði og spekt. Landnemar á Hjaltlandi og Íslandi voru því ekki víkingar – í mesta lagi fyrrverandi víkingar – samkvæmt íslenskum málskilningi.
Annað starfsheiti frá sama tíma sem einnig hefur fengið merkingu þjóðernis er „væringjar“ en það hugtak var upphaflega notað eingöngu um Norður-Evrópumenn sem mynduðu lífvarðasveit keisarans í Miklagarði (nú Istanbúl). Í henni voru alls ekki bara norrænir menn, heldur líka Engilsaxar og Þjóðverjar, en hugtakið er samt oft notað almennt um norræna menn sem versluðu, rændu og settust að í austurvegi, það er við austanvert Eystrasalt og í Rússlandi.
Leifar sem varðveist hafa eftir víkinga og væringja, það er norræna sjóræningja, kaupmenn og hermenn á 9.-11. öld e. Kr., eru ekki miklar. Það sem vitað er um þetta fólk er mest úr írskum, enskum, þýskum, frönskum og grískum annálum og sagnaritum frá þessu tímabili. Nokkrir rúnasteinar, flestir frá 11. öld og í Svíþjóð, geta einnig um ferðir nafngreindra manna í austur- og vesturvíking. Yngri heimildir, til dæmis íslenskar fornsögur, eru miklu meiri að vöxtum en ekki að sama skapi áreiðanlegar.

Þórshamar

Þórshamar eftir uppgröft.

Á sumum svæðum þar sem norrænir menn settust að, til dæmis í Englandi og Normandí, eru örnefni helstu heimildirnar um þá. Það eru bæði nöfn sem norrænir menn hafa gefið bólstöðum sínum og nöfn sem innfæddir hafa gefið stöðum sem tengdust norrænum mönnum með einhverjum hætti. Í Englandi og í Rússlandi hafa einnig fundist nokkur kuml, heiðnar grafir með haugfé, sem greinilega eru norræn. Mun erfiðara hefur verið að bera kennsl á byggingar norrænna manna á þessum svæðum og virðast þeir hafa samið sig mjög fljótt að siðum innfæddra.
Í Englandi og á Írlandi hafa verið gerðir umfangsmiklir uppgreftir í bæjum sem norrænir menn réðu á víkingaöld. Stærstu og frægustu uppgreftirnir eru í York (Jórvík) á Englandi og Dublin á Írlandi. Leifarnar sem hafa fundist á þessum stöðum eru ekkert sérstaklega norrænar – þær skera sig lítið sem ekkert frá leifum úr öðrum bæjum í Norður-Evrópu á sama tíma sem tengjast norrænum mönnum minna (til dæmis Dorestad í Hollandi, Hamwic á Englandi og Novgorod í Rússlandi). Hins vegar er vitað að York og Dublin voru undir stjórn norrænna manna, einkum á 10. öld, og að uppgangur þeirra tengist verslun á vegum víkinga.

Fornleifar

Munir uppgötvaðir eftir fornleifagröft.

Það á líka við um bæi sem urðu til á Norðurlöndum á víkingaöld, til dæmis Ribe og Hedeby í Danmörku, Birka í Svíþjóð og Kaupang í Noregi, en við uppgrefti á þessum stöðum hefur fundist ýmiskonar varningur sem ber verslunarsamböndum víkinga vitni. Norðurevrópskir og arabískir peningar frá víkingaöld hafa fundist í þúsundatali á Norðurlöndum, ekki síst á Gotlandi, og eru þeir mjög mikilvæg heimild um verslunarsambönd á þessum tíma.
Á Norðurlöndum hafa menn einnig talið sig geta bent á gripi, yfirleitt úr kumlum, sem gætu verið afrakstur ránsferða utan Norðurlandanna. Það eru til dæmis kirkjugripir og skraut af bókum sem ætla má að hafi verið rænt úr kirkjum eða klaustrum. Slíkir fundir eru þó fáir.

Fornleifar

Gripur endurheimtur eftir fornleifauppgröft. Hér verður vitleysunni í kringum klaustursrannsóknir ekki gerð séstök skil.

Miklu sjaldgæfara er að menn hafi talið sig finna ummerki um víkinga utan Norðurlanda (það er önnur en örnefni og ótvíræð kuml). Gripir sem eru klárlega norrænir, eins og til dæmis kúptar nælur sem voru hluti kvenbúnings og norræn mynt, hafa mjög litla útbreiðslu utan Norðurlanda. Sérstæðar leifar eftir norræna menn eru til dæmis rúnarista á styttu af ljóni sem nú er í Feneyjum en var upphaflega í Aþenu, og önnur sem Hálfdan nokkur risti í Hagiu Sofiu, kirkju í Istanbúl.

Mjög mikilvægar leifar sem tengjast víkingum eru skip sem fundist hafa, bæði í grafhaugum (til dæmis Ásubergs- og Gauksstaðaskipin í Noregi) og á hafsbotni (til dæmis fjölmörg í Hróarskeldufirði í Danmörku). Skipin voru tæknileg forsenda fyrir víkingaferðunum og landnámi norrænna manna í Norður-Atlantshafi.

Ásubergsskipið

Ásubergsskipið.

Þau eru flest geymd og mörg höfð til sýnis í víkingaskipasöfnunum í Osló og Hróarskeldu (Roskilde).
Leifar eftir norræna menn á víkingaöld er því fyrst og fremst að finna á Norðurlöndum, og eru gripirnir yfirleitt varðveittir á söfnum, bæði þjóðminjasöfnum viðkomandi lands og hérðassöfnum. Í Noregi er hægt að skoða aðfangaskrár forngripasafnanna á dokpro.uio.no.
Sama gildir um gripi sem hafa fundist utan Norðurlanda. Þeir eru flestir varðveittir á þjóðminjasöfnum (til dæmis Skotlands, Bretlands og Írlands) eða á héraðsminjasöfnum. Á svæðum þar sem norrænir menn settust að má víða skoða uppgrafnar byggingar (til dæmis á Jarlshof á Hjaltlandi), tilgátuhús (til dæmis á Borg í Lófóten) og sýningar (til dæmis í York).

Heimildir:
-https://is.wikipedia.org/wiki/Fornleifafr%C3%A6%C3%B0i
-https://is.wikipedia.org/wiki/Fornleifaskr%C3%A1ning
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=28898
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=50983
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=4377

Þjóðminjasafnið

Þjóðminjasafnið.

Þinghóll

Ef litið er á sögu fornleifafræðinnar á Íslandi þá er hún í rauninni ekki mikið styttri en hefur gerst og gengið annarstaðar í heiminum. Hins vegar hefur kannski minna gerst og þróunin orðið hægari hér en víða annarsstaðar. Það hefur þó varla komið að sök í ljósi stöðu greinarinnar. Hún hefur tekið allmiklum breytingum í seinni tíð með tilkomu nýrra og áreiðanlegri rannsókna í hinum ýmsu stuðningsgreinum hennar. Virkni fornleifafræðinnar hefur enn aukist á allra síðustu árum með tilkomu aukins fjármagns frá yfirvöldum þótt vissulega megi deila um forræði og skiptingu þess til tiltekinna verkefna.

Fornleifar

Í þróunarsögu fornleifafræðinnar hér á landi er stuðst að nokkru við frásagnir í kennslugögnum HÍ í fræðigreininni. Í þeim kemur m.a. fram að aðdragandi að kenningarsmíð og hugmyndafræðikenningum í fornleifafræði hér á landi sé bæði tilkominn vegna áhuga, reynslu og þekkingar útlendinga á fornleifum (Danska fornminjanefndin, Kålund, Daniel Bruun) sem og heimamanna, einkum á fornsögulegum staðbundnum mannvirkjum (Hið íslenska bókmenntafélag, Jónas Hallgrímsson) og skráningu fornminja. Með skráningunni voru efnisflokkar fornminja m.a. afmarkaðir, s.s. haugar, þingstaðir, rúnasteinar og hof. Og hvað sem ólíkum rannsóknaraðferðum leið, þá var ljóst að á árunum 1860-’75 hafi fornleifaskráning verið á blómaskeiði hér á landi.
Eftir miðja 19. öld hélt fræðimaðurinn Hans Hildebrand (1842-1913) röð fyrirlestra í Stokkhólmi um sögu og menningu Íslendinga til forna Árið 1867 komu þeir út í bók sem nefndist “Daglegt líf á Íslandi á söguöld”. Í bókinni reynir höfundur að láta heimildir fornleifafræðinnar tala sínu máli um hina sögulegu tíma. Hún stendur eins og minnisvarði um stöðu rannsókna og heimilda á þessum árum. Horfa ber til þess að höfundi var þá og þegar ófært að gefa yfirlit yfir fyrstu aldir Íslandssögunnar því hér á á landi voru ekki hafnar reglubundnar rannsóknir, hvort heldur uppgröftur eða skráning á fornleifum, enda kvartaði hann undan skorti á gögnum um fornleifar.

Fornleifar “Skipuleg skráning fornleifa á Íslandi fór fyrst fram á vegum Konunglegu dönsku fornminjanefndarinnar. Árið 1817 sendi hún út spurningalista til allra sóknarpresta í landinu og eru svör þeirra enn eina heildstæða yfirlitið sem til er um íslenskar fornleifar á landsvísu.
Undir miðja 19. öld var annarri fornleifaskráningu ýtt úr vör. Hið íslenzka bókmenntafélag sendi sóknarprestum spurningalista árið 1838, en viðbrögð presta voru öllu minni en fyrr á öldinni og töldu margir þeirra engar fornleifar að finna í sínum sóknum. Er líða tók á 19. öld fór þjóðerniskennd Íslendinga vaxandi og henni fylgdi aukinn áhugi á fortíð þjóðarinnar. Í vísindum og fræðum birtist þessi áhugi einkum í rannsóknum á fornsögum, en jafnframt var sjónum beint að staðháttum og fornleifum sem hægt var að fella saman við lýsingar í fornritum. Fornleifakönnun fluttist af höndum presta til sérfróðra manna.
Það var danski norrænufræðingurinn Kristian Kaalund sem fyrstur ferðaðist um Ísland í þeim tilgangi að finna staði sem getið er um í fornsögum og lýsa staðháttum og fornminjum sem sagnir voru um að vörðuðu atburði eða einstaklinga frá söguöld. Rit hans Bidrag til en historisk-topografisk Beskrivelse av Island, sem birtist á árunum 1877-1882 (íslensk þýðing Haraldar Matthíassonar var gefin út 1984-1986 undir heitinu Íslenskir sögustaðir), er enn þann dag í dag undirstöðurit í staðfræði Íslendingasagna og hinn vandaðasti leiðarvísir um söguslóðir.
Hið íslenzka fornleifafélag var stofnað 1879 og á vegum þess fóru fornfræðingar í rannsóknarleiðangra víðsvegar um landið næstu þrjá áratugina. Þar voru í broddi fylkingar Sigurður Vigfússon og síðar Brynjúlfur Jónsson. Markmið þeirra var áþekkt markmiði Kaalunds; að finna og lýsa fornleifum sem þeir töldu að gætu skýrt einstakar frásagnir í Íslendingasögum eða varpað ljósi á þjóðskipulag Íslands á söguöldinni.
Um aldamótin 1900 voru einnig á ferð hér danski kafteinninn Daniel Bruun og skáldið Þorsteinn Erlingsson, en þeir beittu til muna hlutlægari aðferðum en þeir Sigurður og Brynjúlfur höfðu gert. Báðir reyndu þeir að lýsa mismunandi tegundum fornleifa og Bruun gerði fyrstur manna skipulegar rannsóknir á landbúnaðarminjum frá síðari tímum og byggingarlagi íslenskra torfhúsa.
Fornleifar Fornleifaskráning í nútímaskilningi, þar sem leitast er við að skrá allar þekktar fornleifar, burtséð frá því hversu merkilegar þær kunna að þykja á hverjum tíma, hófst fyrst í Reykjavík á 7. áratugnum og hefur staðið þar með löngum hléum síðan. Ólíkt fornleifakönnun á 19. öld, sem hafði það að meginmarkmiði að finna áþreifanleg minnismerki um sögu lands og þjóðar, hefur áhugi á skráningu fornleifa síðastliðin 20-30 ár fyrst og fremst stafað af vaxandi áhyggjum af stórfelldri eyðileggingu fornleifa sökum þéttbýlismyndunar og vélvæðingar í landbúnaði.
Auk fornleifaskráningar á vegum opinberra aðila, hafa einstakir vísindamenn staðið fyrir fornleifaskráningu í rannsóknarskyni. Þar hefur fyrst og fremst verið um að ræða skráningu á eyðibyggðum og afdölum þar sem rústir eru í lítilli hættu. Síðast en ekki síst er rétt að minnast á að víða um land hefur áhugasamt fólk skráð fornleifar að eigin frumkvæði og á eigin kostnað. Slíkar skrár eru misjafnar að gæðum, enda upplýsingar skráðar á ýmsan hátt og misnákvæmlega, en reynast oft ómetanlegar heimildir um fornleifar sem síðar hefur verið hróflað við.”
Daniel Bruun var afkastamesti fornfræðingurinn á árunum 1894-1910. Hann rannsakaði minjastaði í öllum landshlutum , og ekki aðeins víkingaaldarminjar, heldur frá öllum tímaskeiðum íslenskrar menningarsögu.
Kristján Eldjárn var fyrsti Íslendingurinn, sem hlaut sérstaka menntun erlendis í fornleifafræði og þjálfun í fornleifarannsóknum undir leiðsögn fornleifafræðinga – (einkum í fornleifafræði Norðurlanda) á afmörkuðum fornminjum, s.s. kumlum , má segja að aðstaða hafi skapast til nánari skilgreininga á aldri, tilurð og uppruna þeirra. Einnig voru gerðar tilraunir til að horfa til þess frá hvaða fólki þær voru komnar, við hverjar aðstæður og reynt að leita svara við spurningunum “hvernig” og af hverju”. Á litlu öðru en skriflegum heimildum var þá að byggja lengi framan af – og í sumum tilvikum allt til vorra tíma. Í seinni tíð hefur athyglinni verið beynt að húsum og híbýlum þess fólks, sem hér nam land um og eftir 870 og síðar, þróun þeirra og gerð.
“Upp úr jarðvegi fornmenningaráhugans uxu tvær öflugar rannsóknarstefnur. Var það annars vegar um að ræða rannsóknir á hinum sameiginlega fornnorræna menningararfi frá lokaskeiði járnaldar, þ.e. hin svokallaða “víkingamenning”, og hinsvegar mjög þjóðleg fræði þars em áhersla er lögð á þjóðleg einkenni; þjóðmenningu”. Segja má því að þjóðmenningaráhuginn hafi verið undanfari menningarumleitunnar í fornfræðilegri merkingu. Hæg þróun var þó í þeirri viðleytni þangað til á allra síðustu árum. Hin menningarsögulega áhersla snerist fyrst og fremst um söfnun og varðveislu forngripa. Kristian Kålund skráði allt sem hann gat fundið um daglegt líf til forna(P.E.K. Kålund, Familielivet på Island í den förste sagaperiode (indtil 1030), Aarböger for nordisk Oldkyndighed og Historie, 1870) og Valtýr Guðmundsson tilfærði hverja vísun í húsagerð og húsbúnað og skrifaði um það heila doktorsritgerð en þetta eru aðeins dæmi um annars fjölskrúðuga fræðahefð þeirra daga.
Fornleifar Mikilvægt skref var tekið þegar athyglin beindist fyrst og fremst að forngripunum sjálfum og menningarsögulegu samhengi þeirra, en eftir sem fyrr í rómantísku ljósi. Í stað fornmenningar var sjónum nú beint að “venjulegri” bændamenningu og þekking um hana fengin úr áþreifanlegum munum, sem oft voru skýrðir með hliðsjón af gömlum hefðum, gömlu verklagi eða visku sem gamalt fólk bjó yfir og kunni. Nú hefur þessum þætti fornleifafræðinnar enn fleygt fram hvað áhuga, þekkingu og áreiðanleika varðar. Þar kemur að þætti hinnar kennilegu fornleifafræði – nálgun með nýjum hætti.
Klæði, tréskurður, íslenski torfbærinn og grafir sem og einstakir gripir eru m.a. nokkur af viðfangefnum kennilegrar fornleifafræði. Það er athyglisvert sérkenni á íslenskri fornleifafræði hve sjaldan hefur verið reynt að taka saman árangur rannsókna og draga upp þann heildarsvip sem vitnisburður fræðigreinarinnar hefur af sögu lands og menningar. Kaalund reið á vaðið árið 1882, en þá var frá litlu að segja. Bruun hafði gert sér grein fyrir gagnsemi þess, en enginn Íslendingur reyndi að draga fram heildarmyndina fyrr en á s.hl. 20. aldar. Það féll í hlut Krisjáns Eldjárns að semja fyrsta, frumlegasta og langítarlegasta yfirlitið um alla helstu þætti fornleifarannsókna hér á landi. Var það í tilefni af 1100 ára búsetu hér á landi; Saga Íslands. Þar er að finna jarðsögu Íslands, sögu veðurfars, gróðurs og eldvirkni, vitnisburð fornleifafræðinnar um landnám mannsins og menningu, og upphaf allsherjarríkis, upphaf kirkju og samskipti við útlönd. Hlutverk fornleifafræðingsins í þessu riti var mikilvægt og hefur framlag hns að geyma heildarmynd sem enn hefur ekki verið hrakin þótt vissulega hafi ágreiningur vaxið um einstök atriði á síðustu árum þar sem nýjar áherslu hafa komið fram. T.a.m. hafa fundist leifar af kornrækt, áhöld, rauðablæstri og ýmslegar aðrar efnislegar leifar manna. Kristján og samverkamenn hans skilgreindu fornleifafræðina fyrst og fremst se aðferð til að afla heimilda um verkmenningu, en ekki t.a.m. andlegt líf, samfélagsgerð, efnahag og fleira. Áherslan var lögð á að lýsa þeim þáttum daglegs lífs sem finna mátti áþreifanleg ummerki um. Þótt engin áhersla hafi verið lögð á að rannsaka samfélagið eða samfélagsgerð, þá er ljóst að menningarsögurannsóknir byggja á annarri pólitískri afstöðu en t.d. rómantíski skólinn. Rannsóknarsviðið er víðtækara, fornmennirnir verða nafnlaus almúgi, höfuðbólið er ekki tekið fram yfir hjáleiguna, hvert mannsins verk er jafnmerkilegt, ekki aðeins skrautmunir eða vopn. Það er alþýðumenningin sem verður lykilatriði. Virðing er borin fyrir lítilmagnanum í sögulegri framvindu. Það kostaði Kristján hörku að sannfæra menn um gildi smárra hluta, um verklag, um hag fátækrar alþýðu.
Fornleifar Uppgraftartækni, aldursgreiningar, byggðaþróun, áhrif veðurfars og meðvitund um gildi efnahags hefur knúið fram breytta hugsun; nýjar og þróaðri aðferðir. Framan af takmarkaðist hinar hefðubundnu spurningar í íslenskri fornleifafræði við hag þjóðarinnar, þ.e. hvers vegna ákveðnar byggðir lögðust í eyði, og hvers vegna járngerð, kornrækt og svínarækt lögðust af. Í stað mjög almennra rannsóknaspurninga um búsetuþróun, hefur orðið mikill vöxtur í nýjum upplýsingum um bústeuskilyrði á öllum tímum. Í stað þess að einblína á afdrif og örlög einstakra búsetuþátta hefur athyglin beinst að heildinni, hinu efnahagslega kerfi sem þróaðist í landinu frá landnámi og fram til iðnvæðingar og þéttbýlismyndunar. Starf fólks er ekki lengur skoðað sem fornir landbúnaðarhættttir eða verklag, heldur sem framleiðsluþættir, orka og afurðir, neysla og vöruviðskipti. Spurt er hvernig var kerfið, hvernig virkaði það, hvað olli breytingunum. Til þessar rannsókna hefur verið, sem fyrr sagði, notast við margvíslega tækni, s.s. frjókornagreininu, dýrabeinagreiningu og jarðvegsathuganir. Frjókornamælingar staðfesta að birkiskógar hopa fyrir graslendi og helstu dýrabein úr úrgangslögum landnámsbæja birta heildarsvip hefðbundins búfénaðar á hverju býli; nautgripir, sauðfé, geitur, svín og hestar. Jarðvegsrannsóknir á áhrifum mannsins á umhverfið sýna að framvindan þegar á landnámsöld hafi ekki aðeins verið hröð heldur hafi landnám mannsins haft mikil og afgerandi áhrif á gróður, jarðveg og landslag.
Rannsóknir á dýrabeinum og öskuhaugum hefur fleytt fram síðustu ár og árangur þeirrar myndar meginstofn heimilda um lífsviðurværi og afkomu fólks á fyrri tíð. Rannsóknir og greining á einstökum efnisleifum, s.s. keramiki, málmi og gleri, geta orðið sagt bæði til um tímatilurð og upprunastað og þar með um verslun og viðskipti sem og jafnvel um innihald. Nýjustu rannsóknir á ískjörnum geta mögulega auðveldað túlkun á breytingum sem birtast í t.d. húsagerð, landnýtingu, bústetumynstrum, samsetningu búfjárstofna eða mataræði.
Af fornvistfræðirannsóknum eru það einkum dýrabeinarannsóknir sem upp úr standa. Dýrabein eru heimild um efnahag til forna og þau endurspegla lífsviðurværi fólks á ýmsum tímum, þ.e. sýna hvaða veiðar voru stundaðar og hver var bústofn heimilanna.
Fornleifar Engar ritaðar heimildir eru til um lífsviðurværi þjóðarinnar fyrr en á síðari öldum og eru allar rannsóknir á þessu sviði því vel þegin viðbót fyrir aðrar vísbendingar sem forleifafræðin gefur um hina sögulausu fortíð. Beinin er talin og flokkuð og greind til dýrategunda, stærð og aldur dýranna metinn og jafnvel áverkar á beinunum, sem stundum gefa til kynna verkunaraðferð eða slátrun. Á grundvelli talningarinnar er hægt að áætla hlutföll á milli mismunandi tegunda og skoða vægi þeirra, s.s. fiðurfénaðar og fiska, sauðfé, nautgripa og svína. Þessi rannsókn býður upp á nýtt sjónarhorn til að skoða efnahag fólks á forsöguskeiðum. En hún kallar jafnframt á töluverða fyrirhöfn og enn er langt í land að hægt sé að lýsa með nokkurri nákvæmni lífsviðurværi eða afkomu þjóðarinnar á grundvelli beinarannsóknanna. Þó er ljóst að með þessum rannsóknum verður unnt að komast nær um ýmsa þætti, s.s. þátt veiðimennsku í upphafi landnáms og á síðari tímum, efnahagslegan mun á stórum býlum og smáum og í hverju hann felst, þróun sauðfjárbúskapar, nýtingu sjávarafurða, stærð og samsetningu búpenings á ýsum tímum, áhrif veðurlagsbreytinga á þjóðarhag og þróun íslensks efnahags frá landnámi fram á síðustu aldir.
Auk rannsókna á fornleifum og beinum og plöntuleifum, hafa einnig verið gerðar nýstárlegar athuganir á öllum smærri einingum, sem finnast við fornleifarannsóknir. Er þar annarsvegar um að ræða athuganir á leifum skordýra, sem varðveist hafa í jarðvegi, og hinsvegar míkróskópískar athuganir á innihaldi gólfefna húsa. Ýmis skordýr hafa fylgt manninum og tekið þátt í mannlífinu á ýmsa vegu í dul smæðar sinnar. Í undirlaginu spretta fram heillandi myndir af lítt könnuðum hliðum mannlegs eðlis, s.s. fornum mannasaur og innihaldi hans, hland, lýs og flær. Þessar athuganir sýna líf fólks og samfélag þeirra í nýju ljósi. Árangur umhverfisrannsókna í þágu fornleifafræðinnar er fyrst og fremst fólginn í nýrri aðferðafræði og umbótum á þessum aðferðum. Þessi fræði eru enn í mótun. En hafa ber í huga að ekki dugir að einblína á raunvísindalegar niðurstöður sem sýna breytingar eða þróun og orsakasamband milli náttúru og mannlífs, heldur þurfi einnig að þróa kenningar sem gera ráð fyrir samfélagslegum og pólitískum áhrifum breytinga eða kyrrstöðu. Vandinn liggur í fjölbreyttum möguleikum á túlkun gagnanna og reynslan á eftir að leiða í ljós að hve miklu leyti fornvistfræðin mun breyta núverandi hugmyndum um efnahag og áhrif umhverfis á hann á fyrri kynslóðir, eða staðfesta ríkjandi skoðanir sem sprottnar eru af sagnfræði og hefðbundinni fornleifafræði.

Heimildir:
-Kennileg fornleifafræði, Ian Hodder, Orri Vésteinsson og Uggi Ævarsson þýddu, Ritið, Tímarit hugsvísindastofnunar Háskóla Íslands, 2004, bls. 195-198.
-Úr “Lesköflum í íslenskri fornleifafræði” – handrit – HÍ, Adolf Friðriksson tók saman – 2003.
-Hans Olof Hildebrand, Livet på Island under sagotiden, Stockhom, Joseph Seligmanns bokhandel, Jos, 1867.
-http://www.instarch.is/instarch/rannsoknir/skraning/saga/
-Daniel Bruun, Fortidsminder og Nutidshjem paa Island (2°édition), Kaupmannahöfn, Gyldendal, 1928.
-Í handriti að varnarræðu Kristjáns við doktorsvörn hans 1956 sést að hann var undir handleiðslu Johannes Bröndström hjá National Museet í Kaupmannahöfn.
-Kristján Eldjárn, Kuml og haugfé 2, útg. 2000.
-Adolf Friðriksson – Leskaflar í fornleifafræði – HÍ – 2003.
-Valtýr Guðmundsson, Privatboligen paa Island I Sagatiden samt delvis I det övrige Norden, KH, 1889.
-P:E:K: Kaalund, Islands fortidslævninger, Aarböger for nordisk Oldkyndighed og Historie, 1882.
-Daniel Bruun, Fortidminder og nutidshjem paa Island, 1987 og 1928.
-Sigurður Línda ritstj., Saga Íslands, Reykjavík, Hið íslenska bókmenntafélag, Sögufélagið, I – 1974.
-Andrew J. Dugmore, Anthony J. Newton, Guðrún Larsen og Gordon T. Cook, Tephrochronology, Environmental Change and the Norse Settlement of Iceland, Environmental Archeaology, 2000.
-Thomas Amorsi, An Archaeofauna from Storaborg, Southern Iceland, Unpublished report on file at the National Museum and Hunter College, 1986.

Húshólmi

Minjasvæði í Húshólma.

Kápuskjól

Vanda þarf til fornleifaskráninga. Allt of mörg dæmi eru um hið gagnstæða. Allar slíkar virðast vera samþykktar nánast athugasemdalaust af hálfu hins „opinbera“.

Borgarhólaborg

Borgarhólaborg.

Eftir að fornleifaskráning um fyrirhugaðan Suðurstrandaveg var gerð opinber og auglýst hafði verið eftir athugasemdum sendi undirritaður inn 23 slíkar. Þær voru listaðar upp og nánar tiltaldar – hver og ein. Vísað var m.a. til þess að tiltekin fjárborg, staðsett í skráningunni við Litlaháls, var í u.þ.b. 7 km fjarlægð – á Borgarhólum. Fleiri slík dæmi voru tiltekin og öðrum óskráðum bætt við. Skráningaraðilanum var í framhaldinu gefinn kostur á að bæta skráninguna með því að taka tillit til athugasemdanna. Ný skýrsla var birt í framhaldinu. Með því hafði a.m.k. einhverjum áður vanskráðum fornleifum á svæðinu verið bjargað frá eyðileggingu. Undirrituðum var þó ekki þakkað sérstaklega fyrir ábendingarnar.

Gjásel

Gránuskúti.

Skipulagsstofnun auglýsti síðar eftir athugasemdum við fyrirhugaða Suðurlínu frá Hengli vestur eftir Reykjanesskaganum. Undirritaður sendi inn 32 athugasemdir vegna vanskráningu fornleifa á og við línuleiðina. Í framhaldinu barst honum eftirfarandi svar: „Þú verður að tiltaka hverjar þessar tilteknu fornleifar eru.“

Fornugötur

Fornugata í Selvogi.

Svaraði, vegna fyrri reynslu: „Er ekki í vinnu hjá ykkur að skrá fornleifar. Þið þurfið bara að yfirfara skráningarsvæðið að teknu tilliti til þess að í fornleifaskráninguna vantar a.m.k. 32 fornleifar.“ Um var m.a. að ræða óskráðar fornar leiðir, fjárskjól, markavörður, grensvörður, leitarvörður, skráð greni, refagildrur sem og önnur söguleg og jarðfræðileg merkilegheit.
Viðbrögð Skipulagsstofnunar komu svo sem ekki á óvart: „Fyrst þú getur ekki tiltekið einstakar fornleifar teljum við ekki ástæðu til að taka mark á athugasemdunum.“
Einhverjum efasemdafræjum virðist hins vegar hafa verið sáð hjá hinu heilaga yfirvaldi því í framhaldinu var fenginn annar fornleifafræðingur til að yfirfara fyrri skráninguna á svæðinu. Sá hafi samband við undirritaðan. Í framhaldinu bættust við fornleifaskráninguna 56 áður óskráðar fornleifar.
Vandvirkni skiptir máli, hvort sem um er að ræða fornleifaskráningar, eða annað…

Gjáselsstígur

Gjásels- og Fornaselsstígur.

Ísólfsskáli

Jafnan er þess gætt að vitnað sé í skráðar heimildir um nýskrif við hinu og þessu. Háskólanemendum er t.d. kennt að setja ekkert á blað, nema þeir geti vitnað í skráðar heimildir. Sjálfstæð öflun heimilda eða hrakning skráðra heimilda er yfirleitt ekki metin að verðleikum.

Heimildir
Háskólalært fólk forðast sjálfstæða heimildaleit, t.d. á vettvangi. Það dirfist heldur ekki að efast eða gagnrýna áður skráðar heimildir, jafnvel þótt þær virðist augljóslega rangar. Málið er að áður skráðar heimildir þurfa alls ekki að vera réttar, eins og dæmin sanna.

Fræðafólk vitnar yfirleitt í skráðar heimildir, gjarnan ritaðar. Flest gerir það athugasemdalaust þótt augljóst megi virðast að sumar heimildarnar eru í besta falli ótrúverðugar, ef ekki beinlínis rangar.

Þá er í skrifum oftlega stuðst við skráðar heimildir, t.d. við fornleifaskráningar. Það gerir það jafnan að verkum að u.þ.b. 40% minja á tilteknum svæðum fær nákvæmlega enga athygli, þrátt fyrir raunverulega tilvist þeirra. Dæmi um slíkt má nefna fjárborgirnar þrjár ofan við Staðarborgina á Vatnsleysuströnd. Þeirra var hvergi getið í skráðum heimildum og rötuðu því ekki inn í nýlega fornleifaskráningu af svæðinu.

Brunntorfufjárskjól

Brunntorfufjárskjóls er ekki getið í skráðum heimildum. Samt er það á þeim stað, sem það er.

Örnefnalýsingar eru oftast skráðar eftir einum aðila. Frásögn hans ratar inn í lýsinguna, en allt þar fyrir utan virðist ekki vera til, a.mk.  þegar vitnað er í skráðar heimildir, s.s. minjar, sem voru aflagðar löngu fyrir tíð hlutaðeigandi, eða minjar, sem voru þá í nýtingu, en þóttu ekki sérstaklega í frásögu færandi. Ágætt dæmi um slíkt eru selsminjar. U.þ.b. þriðjungi þeirra er getið í skráðum heimildum, þriðjungur finnst auk þess eftir áður óskráðum viðtölum við fólk, sem þekkir vel til staðhátta, og þriðjungur finnst við leit eftir fyrirliggjandi óskráðum örnefnum.

FERLIRshöfundi leiðist gjarnan þegar fræðafólk virðist svo upptekið að sjálfu sér við að vitna í skráðar heimildir að allt annað, sem engu minna máli virðist skipta, er látið liggja óskipt hjá garði.

Heimildir:
-https://skrif.hi.is/ritver/skraning-heimilda/
-https://www.ru.is/bokasafn/heimildavinna/apa-stadallinn/munnlegar-heimildir/
-https://is.wikipedia.org/wiki/Heimild

Túnakort

Á vefsíðu Þjóðskjalasafns Íslands má finna samantekin fróðleik um Túnakort, auk þess sem stofnunin hefur auðveldað áhugasömum aðgang að kortunum rafrænt.

Túnakort

Túnakortsbækur.

„Gerð uppdrátta af túnum og matjurtagörðum, túnakort, á rót að rekja til frumkvæðis Ræktunarfélags Norðurlands og Búnaðarfélags Íslands í upphafi tuttugustu aldar. Á búnaðarþingi árið 1913 var samþykkt að beina þessu máli til alþingis sem samþykkti lög um mælingar á túnum og matjurtagörðum númer 58 3. nóvember 1915. Á grundvelli laganna var sett reglugerð 28. janúar 1916.

Atvinnumálaskrifstofa stjórnarráðsins, síðar atvinnumálaráðuneytið, hafði yfirumsjón með framkvæmd mælinganna. Sýslunefndir og búnaðarsambönd sáu um framkvæmdina og réðu búfræðinga eða aðra sem metnir voru hæfir til að annast mælingar og uppdrætti.

Samkvæmt reglugerðinni skyldi mæla öll tún og matjurtagarða á landinu, utan kaupstaða, og átti mælingunum að vera lokið árið 1920. Það gekk að mestu leyti eftir, en þó lauk mælingum í Rangárvallasýslu og Vestur-Skaftafellssýslu ekki fyrr en 1927 og 1929.

Mæla skyldi flatarmál túnanna „og stærð þeirra tilgreind í teigum (hektörum) með einum desimal.“ Einnig átti að gera ummálsuppdrátt af túnunum í mælikvarðanum 1:2000. Þrátt fyrir þetta ákvæði er notaður mælikvarðinn 1:1000 á nokkrum hluta uppdráttanna úr Múlasýslum og Austur-Skaftafellssýslu af því að það þótti auðveldara með þeim tækjum sem menn höfðu. Stærð matjurtagarða átti að mæla „í flatarskikum (fermetrum).“

Stjórnarráðið ákvað hvernig pappír skyldi nota og útvegaði hann. Mest voru notuð teikniblöð af stærðinni 38 x 56 cm, en stundum var blöðunum skipt í tvennt eða jafnvel fleiri hluta.

Uppdrættirnir eru yfirleitt greinargóðir, en mjög misjafnlega hefur verið vandað til þeirra. Sumir eru hreinustu listaverk en aðrir miklu einfaldari að allri gerð. Í Þjóðskjalasafni eru varðveittir ríflega 5.500 uppdrættir úr 205 hreppum. Í sumum tilvikum eru uppdrættir af túnum og matjurtagörðum fleiri en einnar jarðar á sama blaði.

Myndir af túnakortunum eru á vefsetri Archives Portal Europe. Hægt er að skoða túnakortin með því að smella á tengilinn hér fyrir neðan.“

Skoða túnakort í skjalaskrá Þjóðskjalasafns.
Skoða túnakort hjá Archives Portal Europe.

Elín Ósk Hreiðarsdóttir ritaði um „Íslensk túnakort frá upphafi 20. aldar“ árið 2017.

Inngangur

„Heimatún bæja eru áhugavert rannsóknarefni. Túnin eru í raun réttri hjarta hverrar jarðar, þar bjó fólk, hélt skepnur, byggði smiðjur, ræktaði land o.s.frv. Í þeim standa sjálfir bæirnir, gjarnan á uppsöfnuðum bæjarhólum sem hafa að geyma ómetanlegan fróðleik um lifnaðarhætti og sögu lands og þjóðar. Umhverfis þá er svo oftast að finna fjölmörg hús og mannvirki, en dreifing minjastaða er hvergi eins þétt eins og innan gömlu túnanna sem hafa gjarnan verið á sama stað um aldir.
Með vélvæðingu um og eftir miðbik 20. aldar tóku íslensku heimatúnin miklum breytingum með stórfelldri sléttun, niðurrifi gamalla húsa og byggingu nýrra og eru forn útihús úr torfi og grjóti sá minjahópur sem hvað verst hefur orðið úti á 20. öld. Í langflestum tilfellum hafa hús úr torfi og grjóti horfið, oftast verið rifin og jafnað yfir hússtæðin eða ný hús úr steypu byggð á rústum hinna eldri. Ýmislegt bendir til að í gegnum aldirnar hafi verið talsverð samfella í notkun húsa, þannig að nýjum húsum hafi verið fundinn staður á grunni þeirra eldri. Lauslega má áætla að um 40.000 forn útihús hafi staðið í túnum landsins á einhverjum tímapunkti en líklega er innan við 2% þeirra enn við lýði í upprunalegri mynd.
Sökum þess að byggð í sveitum hér á landi er ekki eins þétt og víða annars staðar er landrými meira sem þýðir að minjar eru ekki í eins mikilli hættu og þar sem búið er mjög þétt og hver þumlungur lands ræktaður. Heimatún bæja eru þó undantekning frá reglunni og sá hluti menningarlandslagsins sem hvað verst er farinn hér á landi. Algengast er að lítil sem engin ummerki um eldri mannvistarleifar sjáist þar á yfirborði.
Túnakort
Að samanlögðu er ekki að undra að fornleifafræðingar hafi lagt á það talsverða áherslu á undanförnum árum að afla sér upplýsingar um minjar í túnum í þeim tilgangi að skrá þær og staðsetja.
Í fornleifaskráningu eru skráðar allar tiltækar upplýsingar um minjastaði, líkt og gömul bæjarstæði og útihús, og þeir staðsettir á vettvangi. Um útihúsin eru fáar heimildir og engar heildstæðar aðrar en túnakort sem gerð voru fyrir mestallt landið á árunum 1916-1925.
Á túnakortin voru merkt bæir, útihús og kálgarðar. Túnakortagerðina má með réttu telja fyrstu stórfelldu kortagerð Íslendinga og er hún gríðarlega merkileg sem slík. Túnakortin eru ólík flestri annarri kortagerð frá þessum tíma að því leyti að kortin voru teiknuð í mjög stórum mælikvarða (1:2000) og þau voru ekki ætluð til birtingar, heldur voru þau gerð til að styðja við framfarir í jarðrækt og auka yfirsýn yfir stöðu landbúnaðarins.
Kortin virðast hafa gleymst fljótt og lágu að stóru leyti ónýtt í skjalageymslu Þjóðskjalasafns Íslands allt fram á síðustu áratugi. Kortin voru því í raun gleymd heimild þegar fornleifafræðingar rákust á þau við yfirferð um heimildir í leit að vísbendingum um fornleifar á 10. áratug 20. aldar.
Þeir hófu skipulega notkun á þeim í tengslum við skráningu fornleifa og hefur notkun túnakortanna aukist gríðarlega á undanförnum árum enda túnakortin veigamesta heimildin um menningarlandslag og minjar í túnum á Íslandi fyrir vélaöld.
Þrátt fyrir að höfuðmarkmið túnamælinganna hafi verið að safna áreiðanlegum upplýsingum um stærðir túna og kálgarða er ljóst að það sem gerir túnakortin einstæð og gefur þeim gildi enn í dag er sjálf kortateikningin, þ.e. uppdrættirnir af sjálfum túnunum sem sýna tún, bæi og útihús. Túnakortin eru einstæð þar sem þau eru e.k. svipmynd (ensk. snapshot) af íslensku menningarlandslagi um áratugatímabili í upphafi 20. aldar.
Til að koma til móts við stækkandi notendahóp og bæta aðgengi að túnakortunum voru kortin nýlega ljósmynduð og gerð aðgengileg á vef Þjóðskjalasafns og á evrópsku gagnaveitunni Archives Portal Europe. Árið 2016 hlutu túnakortin svo talsverða upphefð en þá voru þau valin á landsskrá Íslands um Minni heimsins.

Túnakort

Þórkötlustaðahverfi – túnakort 1918.

Við skráningu fornleifa er jafnan reynt að hafa uppi á staðkunnugum heimildamönnum sem muna liðna tíð, þekkja minjastaði og geta aðstoðað við nýtingu kortanna enda stundum erfitt að staðsetja þau mannvirki sem sýnd eru á kortunum nákvæmlega þar sem þeim hefur oft verið rutt út, tún stækkuð og umhverfi gjörbylt auk þess sem áttahorf kortanna er ekki alltaf ljóst. Þeim heimildamönnum sem muna fyrstu áratugi 20. aldar, áður en vélvæðing og túnasléttun kemst á fullt skrið fer óðum fækkandi og því standa túnakortin æ meira sem sjálfstæð heimild, óstudd af öðrum frásögnum og heimildum. En hvað vitum við um þessa umfangsmiklu og metnaðarfullu kortagerð sem minjaskráning í túnum hvílir á og hversu áreiðanleg hún er?
Flest túnakortin sýna sömu grunnupplýsingar: útlínur túna og staðsetningu bæja, útihúsa, kálgarða og gatna auk þess sem skráðar eru á þau upplýsingar um stærð túna og garða, og hversu stórt hlutfall hvers túns taldist sléttað. Sum kortin eru nánast eins og listaverk, nákvæm og ítarleg og máluð í litum, en önnur eru grófgerð og einföld, næstum eins og riss, þó öll byggi þau á mælingum. Túnakortin voru unnin af heimamönnum í hverju héraði og endurspeglar fjölbreytileiki kortanna misjafna þekkingu, metnað, handbragð og nákvæmni einstakra kortagerðarmanna. En fjölbreytileikinn veldur því einnig að heimildagildi kortanna er mismikið, nokkuð sem fram að þessu hefur ekkert verið kannað. Nýverið fékk höfundur styrk úr Rannsóknarsjóði Sigrúnar Ástrósar Sigurðardóttur og Haralds Sigurðssonar til að kanna aðdraganda kortagerðarinnar, forsendur hennar, þær aðferðir sem notaðar voru, nákvæmniþeirra og kortanna og afla upplýsinga um mælingamennina sem unnu verkið og bakgrunn þeirra. Í ljósi sívaxandi notkunar kortanna þótti sýnt að slík rannsókn gæti orðið bæði fróðleg og nauðsynleg til að varpa ljósi á þær forsendur sem kortagerðamennirnir fylgdu við kortagerðina og nákvæmni kortanna.

Lög og reglugerðir
Þingsályktunartillaga um túnamælingar var lögð fram á Alþingi strax sama haust. Flutningsmaður var Sigurður Sigurðsson frá Langholti í Flóa, þingmaður Árnesinga, sem skoraði á Stjórnarráðið að undirbúa málið fyrir næsta Alþingi.

Túnakort

Túnakort – reglugerð.

Sigurður taldi hagkvæmast að vinna mælingarnar í samstarfi við búnaðarfélögin og nýta starfsmenn þeirra sem ynnu að mælingum vegna jarðabóta (sem búnaðarfélögin höfðu staðið fyrir). Hann lagði einnig til að kostnaði yrði skipt, t.d. að Landssjóður borgaði helming en landeigendur hinn helminginn. Til að hægt væri að framkvæma slíkar túnamælingar sagði Sigurður nauðsynlegt að semja lög og reglugerð um málið og taldi hann að ábyrgðin á því að koma slíku í framkvæmd hlyti að liggja hjá landsstjórn og löggjafarvaldi.
Helstu rök Sigurðar fyrir því að ráðast í þetta stóra verkefni sneru að upplýsingaþörf hinnar nýstofnuðu Hagfræðistofu Íslands. Stærð túna og kálgarða hafi verið skráð allt frá lokum 18. aldar (1787) þegar Rentukammerið skipaði fyrir um gerð búnaðarskýrslna. Skýrslurnar voru teknar saman af hreppstjórum en upplýsingar um stærð túna og kálgarða byggðu oftast aðeins á mati ábúenda/hreppstjóra en ekki á eiginlegum mælingum. Túnamælingin var að mati Sigurðar nauðsynleg svo að hægt væri að bæta hagfræði landsins og búnaðarskýrslur. Hann benti á að samkvæmt lögum um hagfræðiskýrslur frá 8. nóvember 1895 (3. gr.), hefði bændum verið gert skylt að veita nákvæmar upplýsingar um stærð túna sinna og sáðlands en bændur hafi engar forsendur til að meta slíkt og því væru þær skýrslur sem skilað hafi verið byggðar á ágiskunum og gagnslitlar. Sigurður lagði til að samhliða flatarmálsmælingu af túnum og matjurtagörðum yrði gerð ummálsteikning af öllum túnum og greint yrði á milli þess hlutar túnsins sem væri sléttur og þýfður. Hann fór þess á leit að landsstjórnin tæki málið upp á sína arma og legði fram frumvarp á Alþingi 1915. Þingsályktunartillagan var samþykkt í neðri deildinni.

Túnakort

Hóp – Túnakort 1918.

Rúmu ári seinna, þann 14. mars 1914, sendi Stjórnarráðið Búnaðarfélagi Íslands bréf þar sem það fór þess á leit að félagið setti fram tillögur um mælingu túna og matjurtagarða og gerði rannsókn á því hvað slíkt kynni að kosta. Stjórnarráðið fór þess einnig á leit að stjórn félagsins léti gera drög að lagafrumvarpi kæmi í ljós að nauðsynlegt væri að semja lög um framkvæmd mælinganna.
Sama sumar skrifaði Búnaðarfélagið fjórum af stærri búnaðarsamböndum sínum (Ræktunarfélagi Norðurlands og Búnaðarsamböndum Austurlands, Suðurlands og Vestfjarða) og fól þeim að kanna hver kostnaður við túnamælingar á þeirra svæði yrði. Í þessu skyni fengu samböndin fjögur mælingamenn til að mæla tún í vikutíma þá um sumarið, eftir þeim tilmælum sem komið höfðu fram í þingsályktunartillögunni. Gætt var að því að túnin væru fjölbreytileg að gerð en að sama skapi að ekki væri langt á milli túna. Mælingamönnunum var gert að greina á milli þess tíma sem fór í ferðir og mælingar og sömuleiðis að greina frá því ef einhverjar aðrar mælingar eða störf hefðu verið unnin samhliða túnamælingunum. Einnig skyldi taka fram hvaða aðstoðar mælingamennirnir nutu við mælingarnar. Niðurstöðurnar reyndust æði misjafnar. Sá mælingamaður sem var fljótastur (Jón Jónatansson á Suðurlandi) var um 5,4 klukkustund að mæla tún að meðaltali en sá sem lengstan tíma tók eyddi 19 ¼ klukkustund að meðaltali í hvert tún (Benedikt Blöndal á Austurlandi). Var þó tekið fram að stutt hefði verið á milli bæja hjá Jóni en langt hjá Benedikt og kortagerðin hjá þeim síðarnefnda hefði verið mjög vönduð og gerð í tvennu lagi. Allir mælingamennirnir höfðu með sér aðstoðarmann og einn eða tvo menn að nokkru leyti.
Niðurstaða Búnaðarfélagsins var sú að ætla mætti að mæling meðaltúns og matjurtagarða ásamt kortagerð tæki að meðaltali um 8,9 klukkustundir og væri því eitt dagsverk. Búnaðarfélagið ályktaði því að raunhæfast væri að áætla að kostnaður við mælingar og kortagerð á einu býli væri dagslaun mælingamanns, auk ferðakostaðar og launa aðstoðarmanns eða samtals um 8 krónur á býli. Þetta þýddi að ef mæld væru upp þau 6500 býli sem þá voru í landinu yrði kostnaður við mælinguna um 52.000 kr. Til að setja þessa fjárhæð í samhengi má nefna að áætlaðar meðaltals árstekjur verkamanna sama ár voru um 700 krónur. Það má því gera ráð fyrir að áætlaður kostnaður við mælingarnar hafi verið svipaður og 74 árslaun verkamanna á þessum tíma. Til samanburðar má nefna að um hundrað árum síðar (2013) voru meðalárslaun verkafólks ríflega 5 milljónir og 74 árslaun því 380 milljónir. Frá upphafi var því ljóst að allmikill kostnaður hlytist af verkinu og Búnaðarfélagið gerði ekki ráð fyrir að ráðist yrði í það strax. Það taldi þó gagnlegt að lagafrumvarp um mælingarnar yrði lagt fram á komandi þingi en ekki afgreitt, svo að kostnaður vegna þess væri ekki óvæntur heldur gætu menn þess í stað rætt málið milli þinga og undirbúið sig. Bréfi Búnaðarfélagsins fylgdu drög að lögum um mælingarnar sem innihéldu fimm greinar og skýringar við þær. Inntak laganna var að öll tún og matjurtagarða á landinu (fyrir utan kaupstaði) skyldi mæla á næstu sex árum frá lagasetningunni og gera samhliða því teikningar af túnunum. Gert var ráð fyrir að Stjórnarráðið fengi mælingar og kort til eignar en afrit af þeim skyldi gera og afhenda jarðeigendum. Sýslunefndir skyldu hafa umsjón með framkvæmd mælinganna. Tvær af lagagreinunum fimm fjölluðu um hvernig skipta skyldi kostnaði vegna mælinganna. Lagt var til að Landssjóður greiddi 2 kr. fyrir hvert býli sem metið væri til dýrleika en að auki 15 aura fyrir hvert hundrað. Hinn hluti kostnaðar átti svo að greiðast úr hreppssjóði þegar oddviti sýslunefndar hefði tilkynnt hreppsnefnd um á hvaða jörðum mælingar hefðu farið fram það árið og hver kostnaður við það hefði verið umfram þá greiðslu sem úr Landssjóði kæmi. Hreppsnefnd skyldi þá jafna kostnaði niður á þær jarðir sem mældar voru að hálfu eftir býlatölu en að hálfu eftir hundraðatölu, en það skyldi þó tryggt að kostnaður á býli vegna hundraðatölu yrði aldrei meira en 10 krónur. Í lagagreininni kom fram að ábúanda væri skylt að greiða þetta gjald og að það mætti taka lögtaki. Leiguliða væri hins vegar heimilt að halda því eftir af „eftirgjaldi“ jarðarinnar.

Túnakort

Nýibær í Krýsuvík – túnakort 1918.

Frumvarp til laga um mælingar á túnum og matjurtagörðum var lagt fram á Alþingi sumarið 1915. Flutningsmenn þess voru þeir Sigurður Sigurðsson og Þórarinn Benediktsson og var frumvarpið samþykkt þann 13. nóvember 1915 með litlum breytingum. Stærstu breytingarnar fólust annarsvegar í því að fest var í lögin að mælingum ætti að vera lokið 1920 og því áætlaður styttri tími í verkið en ráðgert var í upphafi og hins vegar hafði hlutur Landssjóðs í kostnaði lækkað þar sem samþykktu lögin gerðu ráð fyrir því að Landssjóður borgaði flata greiðslu, 3 kr. fyrir hvert mælt býli í stað 2 kr. og að auki 15 aura fyrir hvert jarðarhundrað.
Í reglugerðinni er kveðið á um að stærð túna skuli tilgreind í teigum (hekturum) með einum aukastaf og stærð matjurtagarða skuli koma fram í fermetrum á uppdrættinum. Einnig kemur fram að kortin skuli vera í mælikvarðanum 1:2000 og skuli gerð á þann pappír sem Stjórnarráðið muni tilgreina og útvega (gr. 3). Í reglugerðinni er tún skilgreint sem „….það land, sem borið er á og árlega slegið“ og matjurtagarðar „þeir, sem í daglegu máli eru kallaðir garðar og sáð er í til kartaflna, rófna eða annarra matjurta“ (gr. 4 og 5). Í reglugerðinni er kveðið á um að þess sé getið sérstaklega ef tún hafi nýlega verið færð út en útgræðslan ekki komin í rækt og einnig að nátthaga skuli mæla hvort sem hann sé áfastur túni eða stakstæður, ef hann sé girtur „sauðheldri girðingu, taddur og árlega sleginn“. Í reglugerðinni kemur fram að sáðlönd, sem gera á að túnum en sáð séu til bráðabirgða höfrum eða öðru, skuli talin með túnum en jafnframt að ef óræktaðir blettir, s.s. mýrasund eða móar, nema fjórðungi eða meira af teigi innan túns skuli draga stærð þeirra frá túnstærðinni og sýna svæðið á túnakortinu (gr. 4). Í reglugerðinni kemur skýrt fram (gr. 6) að við mælingarnar eigi að nota keðju eða mæliband og hornspegil eða krosstöflu, „eftir því sem þarf“ og mælistangir en þess getið að í stað þeirra megi nota alls konar sköft. Kveðið er á um að túnið „með hússtæðum og öðru, sem innantúns er,“ skuli mælt og staðsett en draga eigi matjurtagarða, bæjarstæði og önnur hússtæði og vegi frá túnstærðinni (gr. 6 og 7).

Ráðning mælingamanna

Túnakort

Staðarhverfi – túnakort 1918.

Í reglugerð um túnamælingar er kveðið á um að sýslunefndir geri tillögur að mælingamönnum í samvinnu við búnaðarfélögin en að það sé svo Stjórnarráðsins að útnefna þá. Svo virðist sem búnaðarfélögin hafi ýmist gert tillögur að mælingamönnum eða samþykkt þá mælingamenn sem sýslunefndir lögðu til og skrifað bréf þess efnis til sýslumanns. Hann sendi svo tillöguna til Stjórnarráðs sem þurfti að samþykkja hana formlega og tilkynna um mælingamanninn. Af bréfaskriftum að dæma virðist æði misjafnt hvernig var staðið að ráðningu mælingamanna eftir sýslum. Í reglugerðinni um túnamælingarnar er kveðið á um að sýslunefndum sé heimilt að fela búnaðarfélögum umsjón með mælingunum svo lengi sem þau hlíta reglum Stjórnarráðsins um mælingarnar.
Í mörgum sýslum landsins útnefndu sýslunefndir einn mælingamann fyrir alla sýsluna. Sú var raunin í Vestur-Ísafjarðarsýslu, Gullbringu- og Kjósarsýslu, Dalasýslu, Barðastrandarsýslum, Strandasýslu, Borgafjarðarsýslu, Mýrarsýslu og Snæfells- og Hnappadalssýslu þar sem allar mælingar voru gerðar af sama mælingamanninum. Í öðrum sýslum komu fleiri að mælingunum, oft talsvert fleiri, sérstaklega þegar fram liðu stundir. Ráðningarferli mælingarmanna virðist hafa verið mjög misjafnt. Sumstaðar virðist fyrsti mælingamaðurinn sem stungið var upp á hafa verið ráðinn án mikillar skriffinnsku en í öðrum sýslum er greinilegt að nokkrir sækja um eða bjóða í verkið og valið var úr hópnum eftir hæfni og hversu lágt mælingamennirnir buðu. Flóknast virðist ferlið hafa verið í Gullbringu- og Kjósarsýslu þar sem margir sóttu um og talsverð rekistefna varð út af því hvernig ætti að meta kostnað sökum fjölda þurrabúða.
Flestir mælingamennirnir virðast hafa verið ráðnir strax árið 1916. Síðasti mælingamaðurinn sem skjalfest er að var ráðinn til túnamælinga var hins vegar Eiríkur Ingibergur Eiríksson Sverrisson í Vestur-Skaftafellssýslu sem ráðinn var árið 1928 eftir að fyrri mælingamaður í sýslunni lést. Oftast luku þeir mælingamenn sem fyrst voru ráðnir einfaldlega því verki sem þeim var ætlað.
Þegar nánar er rýnt í störf og ævi mælingamannanna kemur ýmislegt fróðlegt í ljós. Margir þeirrar voru kennarar að starfi, a.m.k. hluta ævinnar, unnu fyrir búnaðarfélögin, voru sýslunefndarmenn og/eða sýslubúfræðingar, hreppstjórar eða jafnvel sýslumenn og nokkrir þeirra áttu á einhverjum tímapunkti sæti á Alþingi. Þar sem fundust minningargreinar eða skrif um mælingamenn var þeim gjarnan lýst sem framfarasinnuðum fræðimönnum sem lögðu metnað sinn í að breiða út og kenna góða búskaparhætti. Að samanlögðu má sjá að til verksins hafa verið valdir forystumenn á sviði búfræðinnar, gjarnan þekktir og virtir búfræðingar sem höfðu þegar látið talsvert að sér kveða eða áttu eftir að gera það. Kennslu í mælingaraðferðum höfðu þeir hlotið í námi sínu í búfræðinni og voru flestir útskrifaðir frá Hólum og Hvanneyri en nokkrir einnig frá Ólafsdal eða Eiðum. Svo virðist sem gert hafa verið ráð fyrir að þeir hafi haft fullkomið vald á mælitækni, a.m.k. finnast engin skrif eða skjöl um að þeim hafi verið veitt upprifjun eða þjálfun í þeim efnum áður en þeir hófust handa við mælingarnar og ekki er ólíklegt að flestir þeirra hafi unnið svipaðar mælingar áður enda virðist þjálfun í uppmælingum hafa verið hluti af námi, a.m.k. í Ólafsdal og sjálfsagt á flestum búnaðarskólunum.
Mælingamennirnir mældu mjög misjafnlega mikið. Fimm mælingamenn mældu aðeins einn hrepp og flestir, eða 24 (60%) mældu fimm hreppa eða minna. Aðrir mældu á bilinu 6-9 hreppa en fjórir mælingamenn mældu tíu hreppa eða fleiri (en þeir mældu allir heilar sýslur). Hrepparnir voru auðvitað misstórir og fjöldi bæja var mjög misjafn. Tíu mælingamenn mældu eitthundrað tún eða færri en flestir mældu á bilinu eitt til tvöhundruð tún (20 mælingamenn). Tíu mælingamenn mældu um 200 tún eða fleiri, en langflest túnin mældi Vigfús Guðmundsson í Gullbringu- og Kjósarsýslu, eða samtals ríflega 500 tún.

Vettvangsvinna

Túnakort

Krýsuvík – túnakort 1918.

Ekki er vitað hvernig ábúendur tóku mælingamönnum og engin gögn hafa varðveist á Þjóðskjalasafni sem varpa ljósi á samskipti mælingamanna og bænda. Í upphafi var gert ráð fyrir að mælingamenn hefðu aðstoðarmann með sér en síðar var fallið frá því og sagt að þess í stað gætu þeir leitað aðstoðar á bæjum og greitt þóknun fyrir það ef þyrfti. Engar heimildir fundust um hvort slíkar þóknanir voru greiddar og þá hversu háar. Í bréfaskriftum kemur fram að leitast var við að nota unglinga til þessara verka. Ekki er ólíklegt að bændur hafi haft nokkuð misjafnar skoðanir á mælingunni, sér í lagi þar sem greiðslur fyrir verkið lentu að talsverðu leyti á þeim.
Nokkrar vísbendingar fundust í bréfasafni um að bændur hefðu ekki alltaf tekið vel í mælingu túnanna. Eigandi Arnarholts í Stafholtstungnahreppi vildi ekki láta mæla hjá sér og sagðist ætla að gera það sjálfur og því voru öll tún í hreppnum nema Arnarholt send inn og svipaða sögu virðist hafa verið að segja með jarðareiganda Höskuldsstaða í Laxárdal sem fékk leyfi mælingamanns til að mæla sitt tún sjálfur en gerði það svo ekki þannig að mælingamaður þurfti að gera sér sérstaka ferð til að mæla það.61 Í fyrirspurn frá Búnaðarsambandi Austurlands frá 1917 er leitað álits á því hvort landeigandi geti neitað því að mælt sé sérstaklega fyrir hvert býli á jörð hans en Búnaðarfélagið sem fengið var til umsagnar um fyrirspurnina segir í svari sínu að það geti hann ekki en minnir á að aðeins verði krafist greiðslu frá honum fyrir þau býli sem metin séu til dýrleika. Þrátt fyrir einstaka dæmi um að ábúendur/landeigendur hafi ekki tekið vel í mælingarnar bendir flest til að mælingamönnunum hafi víðast verið vel tekið og er t.d. ekki að finna neinar vísbendingar um að þeir hafi átt í vandræðum með að fá aðstoðarmenn á bæjunum.
Eins og gefur að skilja virðast mælingamennirnir ekki hafa farið á stúfana að vetrarlagi en þeir hafa nýtt sér sumar, vor og haust í verkið. Á sjálfum túnakortunum má sjá að sumir mælingamenn nýttu sér vetrarmánuðina til að teikna upp þau tún sem mæld höfðu verið sumarið áður.

Skil á kortum og eftirlit með gæðum

Túnakort

Kirkjuvogshverfi – túnakort 1918.

Mælingar á túnum hófust sumarið 1916 og fyrstu kortunum var skilað 1917. Þrátt fyrir að reglugerð um túnamælingar væri að mörgu leyti skýr hvað varðar mælingatækni, hvað skyldi mælt og útlit korta þá eru túnakortin talsvert misjöfn og kemur þar ýmislegt til. Inni það spilar án efa áhugasvið, metnaður og þekking mælingamanna sem og skilgreining þeirra á því hvað væri mikilvægt að skrá. Umgjörð kortanna var þó svipuð; flest voru gerð á þann pappír sem kveðið var á um og voru þau undantekningalaust blekuð, enda neitaði Stjórnarráðið að taka við óblekuðum kortum sem gerð var tilraun til að skila inn úr Hrunamannahreppi. Langflest voru kortin líka í mælikvarðanum 1:2000 eins og reglugerð um túnamælingar kvað á um en Stjórnarráðið veitti Búnaðarsambandi Austurlands leyfi til að víkja frá þessum kvarða í mælingum sínum og mæla í 1:1500 eða 1:1000 ef það hentaði betur. Árið 1921 hafði uppdráttum verið skilað úr 172 hreppum eða um 84% af hreppum landsins en þá tók að hægja talsvert á skilum og var á bilinu 3-4 hreppum að meðaltali skilað inn á ári eftir það fram til 1930. Uppdráttunum var skilað til sýslumanns sem sá svo um að senda þá í Stjórnarráðið sem kom þeim áfram til Hagstofu Íslands þegar búið var að taka á móti uppdráttunum, telja túnin og yfirfara gæði. Í Stjórnarráðinu var það Atvinnumálaskrifstofan (síðar Atvinnumálaráðuneytið) sem hafði málið á sinni könnu en greinilegt er að Búnaðarfélag Íslands bar einnig mikla ábyrgð og virðist félagið í raun hafa tekið afstöðu til nærri allra fyrirspurna og deilumála sem upp komu í sambandi við mælingarnar.
Greinilegt er að athugasemdir voru stundum gerðar við einstök kort en ekki er ljóst hvort þær hafa upphaflega komið frá ábúendum sjálfum eða annars staðar frá. Af bréfaskriftum má ráða að tvö af þeim kortum sem teiknuð voru í Mjóafjarðarhreppi í Suður-Múlasýslu voru talin röng og ný kort voru send í þeirra stað til Stjórnarráðs árið 1922. Svipað var e.t.v. upp á teningnum í Auðkúluhreppi í Ísafjarðarsýslu. Þar neituðu hreppstjóri og sýslumaður að greiða Jóni Þórarinssyni mælingamanni nema hann gerði nokkra uppdrætti aftur. Verklok töfðust talsvert út af þessu (fram til 1921) en málið endaði þannig að Jón teiknaði sex tún aftur. Samkvæmt skilgreiningu túnamælingalaga átti öllum túnamælingum að vera lokið árið 1920 en það markmið náðist ekki. Árið 1924 virðist hafa verið gert átak í því að ljúka túnamælingum. Þá fór Stjórnarráðið yfir hvaða bæi og hreppa væri búið að mæla og skila inn og hvað væri eftir.
Niðurstaðan var að einhverjar mælingar væru ókomnar úr um 30% hreppa (61 hreppi af 205). Í kjölfarið var sýslumönnum þeirra sýslna þar sem mælingum var ekki lokið (sem var í 12 sýslum) send áminning um að ljúka þyrfti mælingum sem fyrst. Yfirlit um það sem enn vantaði árið 1929 er að finna í Búnaðarskýrslu ársins 1929. Samkvæmt skýrslunni voru mælingar alveg eftir í fimm hreppum en að hluta til í 19 hreppum. Af hreppunum fimm var eitt svæði sem aldrei stóð til að skrá (Vestmannaeyjar þar sem kortagerð var nýlokið þegar túnakortverkefnið hófst, og þrír hreppar sem hafði ýmist verið skilað eða var skilað í kjölfarið (Hvammshreppur, Dyrhólahreppur og Vestur-Landeyjahreppur). Eftir stendur því bara einn hreppur sem aldrei var skilað í heild sinni en það var Villingaholtshreppur í Árnessýslu.

Túnakortasafnið

Túnakort

Járngerðastaðahverfi – túnakort 1918.

Túnakortasafnið er geysistórt en samkvæmt talningu höfundar voru gerð túnakort fyrir 5947 tún í 204 hreppum.99 Markmiðið var að kortagerðin væri mjög samræmd, að allir notuðu sömu mælingatæknina, mældu sömu atriði, notuðu samskonar pappír og teikniblek. Til verksins voru aðallega ráðnir búfræðingar sem hlotið höfðu áþekka menntun og kennslu í mælingaraðferðum og þeim var ætlað að nota samræmdar mælingaaðferðir. Allt var þetta gert til að gæta samræmis og gera kortin sem áreiðanlegust og sambærilegust. Þrátt fyrir þetta urðu túnakortin mjög fjölbreytileg að gerð, þótt helstu upplýsingar sem komi fram á þeim séu áþekkar.

Útlit og einkenni kortanna

Túnakort

Ísólfsskáli – túnakort 1918.

Ákveðnar grunnupplýsingar koma fram á flestum kortunum, t.d. heiti jarðar og í hvaða hreppi hún var. Eins kemur stærð túna fram, hversu mikill hluti túnanna var sléttaður og hversu stórir kálgarðar voru á jörðinni. Að auki var algengt að mælingamenn merktu sér kortin með fullu nafni (56%) eða settu a.m.k. upphafsstafi sína á kortin (13%). Um 60% túnakortanna er einnig merkt ártali. Sum túnakort voru stimpluð með nafni mælingamanns, merki þess búnaðarfélags sem hafði umsjón með mælingunum eða mælikvarða. Kortin voru undantekningalítið gerð á pappír sem var nálægt A3 að stærð eins og kveðið var á um í reglugerðinni um túnamælingarnar, flest gerð á þykkan pappír sem Stjórnarráðið hafði milligöngu um að senda til mælingamanna en þó skera flestir hreppar í Eyjafjarðarsýslu og nokkrir hreppar í Þingeyjarsýslum sig úr þar sem þeir hafa greinilega samið við Prentsmiðju Odds Björnssonar á Akureyri um að sérprenta blöð fyrir sig. Umrædd kort eru því gerð á forprentuð blöð þar sem lykilbox voru stöðluð ásamt helstu upplýsingum og línulegum skala en mælingarmenn fylltu út aðrar upplýsingar og teiknuðu sjálft kortið. Þessi kort eiga það sameiginlegt að engar textaupplýsingar voru settar inn á sjálfa túnmælinguna og í raun lítið um aukaupplýsingar á þeim.
Í flestum tilfellum virðist afar líklegt að kortin hafi verið í mælikvarðanum 1:2000 eins og mælt var fyrir um í reglugerðinni um túnamælingar. Í um fjórðungi tilfella er sýndur línulegur mælikvarði á kortunum. Slík kort koma undantekningalítið frá Norðurlandi, úr Eyjafjarðar-, Þingeyja- og Skagafjarðarsýslum. Að auki eru kort úr Strandasýslu með línulegan mælikvarða og sömuleiðis kort úr Hofshreppi í Austur-Skaftafellssýslu.
Eitt af því sem getur valdið vandræðum við notkun kortanna í fornleifaskráningu er að áttatilvísun vantar á mörg þeirra. Í um 60% tilfella kemur ekki fram á kortinu hvernig túnið snýr við áttum. Sumir mælingamenn snéru kortum sínum kerfisbundið í tiltekna átt, eða létu kortin ávallt snúa á sama hátt gagnvart landslagi (t.d. upp í fjallshlíð dala eða út með firði), en stundum er ekki að sjá neitt augljósa reglu um hvernig kort á ákveðnum svæðum snúa. Þar sem áttatilvísun er á kortum er hún oftast í samræmi við málvenjur og legu landsins frekar en að hánorður sé merkt samkvæmt áttavita.

Nýting í fortíð og nútíð

Túnakort

Túnakort.

Ástæða þess að ráðist var í túnamælingar var sem fyrr segir þörf á því að afla áreiðanlegra upplýsinga um stærðir túna og kálgarða í sveitum landsins. Fram að þeim tíma er ráðist var í túnamælingar byggðu þær upplýsingar sem höfðu verið notaðar

í árlegum Búnaðarskýrslum um stærðir túna og kálgarða í flestum tilfellum á mati bænda en ekki á eiginlegum mælingum. Í Búnaðarskýrslum sem sendar voru inn var líka algengt að ekki væri fyllt út í reiti um túnstærð og kálgarða og því þurfti annað hvort að nota gamlar upplýsingar eða ágiskanir þegar stærð túna var áætluð í sumum hreppum/sýslum. Túnamælingunum var ætlað að bæta úr þessu.

Túnakort

Hraun – túnakort 1918.

Nýjar tölur um stærðir túna og matjurtagarða tóku að berast með túnakortum árið 1917 og var byrjað að nota þær, eins langt og þær náðu, við gerð búnaðarskýrsla strax sama ár.
Túnakortin urðu helsta heimild skýrslnanna hvað þessi atriði varðaði næstu ár. Upphaflega var gert ráð fyrir að túnamælingunum yrði lokið árið 1920 en verklokin töfðust allt fram til 1930 (þótt um 84% korta hafi verið komin inn 1921).
Strax í upphafi 20. aldar unnu bændur víða að því að stækka tún sín og matjurtagarða þótt aukningin hafi orðið enn meiri þegar komið var undir miðbik aldarinnar og vélvæðing jókst. Á tímabilinu 1900-1940 stækkuðu tún að meðaltali á landsvísu um 1-2% árlega en kálgarðar um 4%. Þegar skoðað er hvort hinar nýju mælingar hafi umbylt upplýsingum um stærð túna og kálgarða hér á landi verður að hafa þessa árlegu aukningu í huga. Þegar hún er höfð til hliðsjónar má sjá að einhverjar breytingar verða á tölum um tún- og kálgarðsstærðir umfram árlega meðaltalshækkun fyrstu árin sem tölur úr túnamælingum koma inn. Árið 1930 var síðustu túnamælingunum skilað og mætti því segja að það ári marki verklok. Þá voru 14 ár liðin frá fyrstu mælingum og elstu kortin orðin of gömul til að teljast fullkomlega sambærileg við þau yngstu. Sama ár var hætt að nota mælingar af túnakortum í Búnaðarskýrslum (nema þar sem slíkar mælingar vantaði) og má því segja að túnakortin hafið orðið úreld sem mæligögn um leið og kortagerðinni lauk. Vægi túnamælinganna fyrir hagtölur reyndist því ekki eins mikið og gert var ráð fyrir í upphafi en túnakortin urðu engu að síður gríðarlega mikilvæg heimild, þrátt fyrir að það hafi orðið á annan hátt en gert var ráð fyrir í upphafi.
Þrátt fyrir að túnakortin hafi fljótt fallið úr gildi sem heimild um stærð túna og kálgarða þá hafa kortin hlotið endurnýjun lífdaga á síðustu tveimur áratugum. Þau hafa orðið eitt helsta hjálpargagn fornleifafræðinga við að staðsetja minjar í túnum, sér í lagi þar sem yfirborðsummerki um fornar byggingar eru horfin.

Áreiðanleiki túnakortanna

Túnakort

Húsatóftir – túnakort 1918.

Fornleifafræðingar hafa nýtt sér túnakort við fornleifaskráningu allt frá upphafi og nú er svo komið að það telst sjálfsagður hluti fornleifaskráningar að skrá alla þá staði sem merktir voru á túnakortin á sínum tíma.
Til að fá mynd af notkun kortanna við fornleifaskráningu var gerð óformleg könnun á meðal þeirra fornleifafræðinga sem hvað mest höfðu skráð minjar á síðustu árum og þeir spurðir út í notkun kortanna. Spurt var um hversu áreiðanleg þeim þættu kortin og hvort þeir tækju eftir mun á nákvæmni/áreiðanleika eftir svæðum. Þar sem skrásetjarar höfðu tekið eftir áberandi villum á túnakortunum var reynt að afla upplýsinga um hvers konar villur þeir hefðu rekið sig á og hvort líklega væri um að kenna kerfisbundinni skekkju sem gæti verið afleiðing af þeim mælingaaðferðunum sem notaðar voru eða hvernig þeim var beitt, eða hvort um er að kenna mistökum eða ónákvæmni. Spurt var hvort skrásetjarar teldu algengara að finna skekkjur í stórum túnum en litlum, eða túnum í halla, hvort þeir hefðu tekið eftir meiri villum á ákveðnum svæðum en öðrum o.s.frv. Meginniðurstaða þeirrar notkunar er sú að túnakortin þykja í almennt merkilega áreiðanleg heimild hvað varðar megindrætti túna og grófa staðsetningu húsa og kálgarða.“

Heimildir:
-Íslensk túnakort frá upphafi 20. aldar; aðdragandi, aðferðir og áreiðanleiki mælinga og uppdrátta, Elín Ósk Hreiðarsdóttir, Fornleifastofnun Íslands ses, Reykjavík 2017.
-http://testbirting.manntal.is/