Tag Archive for: fornleifar

Borgarholt

Á Borgarholti norðan Úlfljótsvatns eru talsverðar tóftir.

Borgarholt

Borgarholt, nefnd fjárborg, en eru greinilegar minjar stekks.

Holtið dregur nafn sitt af nefndri fjárborg, sem þar hefur verið upphaflega, en síðar verið breytt í stekk. Stekkurinn er greinilegur ef vel er að gáð. Ástæðan hefur að öllum líkindum verið sú að skammt frá, undir holtinu hefur verið tímabundin selstaða frá bænum. Tóftin er tvískipt, grjóthlaðin að framanverðu (til austurs) með sitthvorum innganginum. Hliðarveggir og milliveggur er hlaðnir að lágum hamravegg.
Að einhverjum tíma liðum voru byggð tvö fjárhús norðaustan við selshúsin með heykumli fast vestan þeirra. Með því hafa bæði hlutverk selsrústanna og fjárborgarinnar fyrrnefndu breyst.

Borgarholt

Borgarholt – fyrrum selsminjar?

Kolbeinn Guðmundsson skrifar um Borgarholt og minjarnar þar í „Örnefni í landareign jarðarinnar Úlfljótsvatns í Grafningi, eins og þau voru um aldamótin 1900, skrifað 1944„. Þar segir:
„Hamrar heitir klapparbrún, sem nær frá Ljósafossi fram á móts við Írufoss. Borgarholt heitir kollóttur klapparhóll, syðst á Hömrunum upp undan Írufossi. Þar hefir verið fjárborg, og sér greinilega fyrir henni. Austan undir Borgarholtinu, á valllendisflöt, mótar aðeins fyrir einhverjum byggingum, en ógreinilega.
Borgarmýri heitir mýrarblettur fyrir vestan Borgarholtið. Mýri þessi er áföst við Keramýrina, með mjóu sundi að vestan.

Borgarholt

Borgarholt, rústir 54 I og 54 II.

Austan við Keramýrina, suður af Borgarholtinu, er móarimi. Á honum sést móta fyrir gömlum byggingum, tveimur eða þremur og þeim ekki litlum.
Fyrir sunnan Keramýrina er mosavaxin heiðarbunga með litlu skógarkjarri að norðan-verðu. Norðan í henni, vestarlega, er stór jarðfastur steinn. Hann hefir verið nefndur Brynkasteinn síðan 1898, kenndur við Brynjólf Jónsson frá Minna-Núpi. Hann var þá barnakennari á Bíldsfelli og fór til messu á Úlfljótsvatni í miklum snjó og ófærð.

Brynkasteinn

Brynkasteinn.

Komst hann að steini þessum, en var þá með öllu uppgefinn. Samferðamenn hans, sem voru tveir, skildu hann þá þarna eftir, en fóru sjálfir alla leið að Úlfljótsvatni, fengu þar sleða og drógu hann á honum til kirkjunnar. Veður var gott, svo allt fór vel.“

Í „Fornleifaskráningu vegna deiliskipulags við Sogsvirkjanir í Grímsnes- og Grafningshreppi“ frá árinu 2018 segir: „Borgarholt heitir kollóttur klapparhóll, syðst á Hömrunum upp undan Írufossi. […] Austan undir Borgarholtinu, á valllendisflöt, mótar aðeins fyrir einhverjum bygginum, en ógreinilega,“ segir í örnefnaskrá.

Bjarni F. Einarsson

Bjarni F. Einarsson.

Bjarni F. Einarssin skráði minjastaðinn í tengslum við deiliskráningu fornleifa í Úlfljótsvatni 2005, þar segir: „Undir kollóttum klapparhól, syðst í Hömrunum.. […]. Rústirnar fundust ekki þrátt fyrir leit.“ Minjastaðurinn var ekki hnitsettur í skýrslu Bjarna F. Einarssonar.“

Í „Aðalskráningu fornleifa vegna aðalskipulags í landi Úlfljótsvatns í Grafningshreppi í Árnessýslu“ segir Bjarni F. Einarsson eftirfarandi um minjarnar á Borgarholti:

Fornleif 53 – rúst
„Efst á hól við norðanverða Borgarvík, um 30 – 40 m norðvestur af Úlfljótsvatni og Hrútey.

Borgarholt

Borgarholt – Rúst 53 skv. fornleifaskráningu.

Rúst; 5×7 m (NV-SA), veggir úr grjóti, 1-1,5 m breiðir og 0,2-0,5 m háir. Garðlög eru greinileg á innanverðum langveggjum. Dyr snúa mót suðaustri. Rústin er vel gróin. Um 5 m suður af rústinni gætu leynst rústabrot.“

Bjarni tengir rústina hvorki við örnefnið Borgarholt né fjárborgina, sem þar á að hafa verið skv. örnefnalýsingu.

Fornleif 54:2 – fjárhús

Borgarholt

Borgarholt – fjárhús og heykuml.

„Í brekku mót norðri, um 5 m vestur af rúst 54:2. Norðan undir klettum, 11×16,5m (VNV-ASA). Veggir úr grjóti (og torfi?), 1- 2,5 m breiðir og 0,1-1 m háir. Þrjú hólf eru á rústinni (hólf A – C). Dyr eru á hólfum A og B til norðurs. Ekki eru sýnilegar dyr á hólfi C, en gætu hafa snúið inn í hólf B. Hólf C gæti verið hlaða. Garðlög sjást víða að innanverðu í öllum hólfum. Suðurhluti hólfs A og B er grafinn niður í hólinn eða brekkuna. Gaflar hólfanna eru þétt upp við bakkann. Kampar í hólfum A og B eru mjög greinilegir og vel farnir. Vestur veggur hólfs C er nær horfinn. Rústin er vel gróin grasi.“

Bjarni tengir hvorki fjárhúsin við tóftina 54:1 né upphaflega tilurð hennar í hinu sögulega samhengi.

Fornleif 54:1 – Rúst

Borgarholt

Borgarholt – Rúst 54:1.

Rúst í brekku að mót suðaustri, 5 metra austur af 54:1. Norðaustan undir klettum, 8,5×9 m (A-V). Veggir úr grjóti, 1,5-2 m breiðir og 0,1-2 m háir. A.m.k. tvennar dyr eru á rústinni (dyr A og B). Dyr A eru yfirbyggðar, en dyr B hafa hrunið. Þriðju dyrnar eða op er hugsanlega á vestur vegg (C). Þar gæti fóður hafa verið sett? Mikið af grjóti við vestur vegg og á gólfi rústarinnar. Rústin er vel gróin grasi.“

Op C hefur væntanlega upphaflega verið eldhúsaðgangur selstöðunnar.
Ljóst er að þörf er á að endurskoða notkunargildi minjanna á Borgarholti, þótt ekki væri fyrir annað en hið sögulega samhengi. Hafa ber í huga að fjársterkir aðilar hafa þegar fest kaup á hluta jarðarinnar sem og nærliggjandi jörðum með stórfellda skógrækt í huga með það eitt markmið í huga að gefa stóriðjum tækifæri til að „kolefnisjafna“ óþrifin. Aðferðarfræðin minni svolítið á aflátsbréfin fyrrum, sem er og verður væntanlega saga út af fyrir sig.

Í „Fornleifaskráningu í Grfanings- og Grímsneshreppi I„, Reykjavík 1999, er ekki minnst á Borgarholt.

Heimild m.a.:
-Örnefnalýsing Kolbeins Guðmundssonar á örnefnum í landaeign jarðarinnar Úlfljótsvatns í Grafningi, eins og þau voru um aldamótin 1900, skrifað 1944.
-Fornleifaskráning vegna deiliskipulags við Sogsvirkjanir í Grímsnes- og Grafningshreppi, Reykjavík 2018.
-Aðalskráning fornleifa vegna aðalskipulags í landi Úlfljótsvatns í Grafningshreppi í Árnessýslu, Bjarni F. Einarsson 2005.
-Endurskoðun fornleifaskráningar í Grímsnesi og Grafningi með viðbótum við eldri fornleifaskrá, Reykjavík 2018.
-Fornleifaskráning í Grímsneshreppi I, Orri Vésteinsson, Reykjavík 1999.

Borgarholt

Borgarholt – minjar.

Möðruvallarétt

Sesselja Guðmundsdóttir skrifaði í Skógræktarritið 2008 um „Fornminjar og skógrækt„:

Skógræktarritið

Skógræktarritið 2008.

„Tilgangurinn með þessum greinarskrifum er að hvetja skógræktarfólk til þess að gefa gaum að fornminjum í skógrækt eða á væntanlegum skógræktarsvæðum. Víða um landið eru fornminjar nú þegar kaffærðar í útlendum trjám og svo virðist sem ekkert eftirlit sé með þeim verknaði af hálfu hins opinbera. Fyrstu lög um verndun fornminja voru sett árið 1907 en þau nýjustu árið 2001. Allar götur frá því fyrstu lögin voru sett, er kveðið skýrt á um að ekki megi raska fornminjum án þess að áður fari fram mat á þeim. Gróðursetning ofan í fornminjar, eða í allra nánasta um hverfi þeirra, er bönnuð með lögum á Íslandi. Minjar sem eru 100 ára og eldri teljast til forn leifa.

Fornminjalög og fleiri lög

Sesselja Guðmundsdóttir

Sesselja Guðmundsdóttir.

Eins og áður segir, voru fyrstu fornminjalögin (Lög um verndun fornmenja) sett árið 1907 og í 1. kafla, 2. grein, er tilgreint hvað telst til „staðbundinna fornleifa“ og þar segir m.a.: „Til fornleifa teljast m.a. Þingbúðarústir, gömul mannvirki á fornum þingstöðum, sögustöðum og öðrum merkisstöðum, sem nokkurs er um vert fyrir menningarsögu landsins, rústir af hofum, hörgum og hvers konar blótstöðum frá heiðni, af kirkjum og kirkjugörðum, kapellum og bænahúsum,forn vígi eða rústir af þeim, forn garðlög, rústir af fornum bæjum, seljum, búpeningshúsum, farmannabúðum, naustum og öðrum fornbyggingum, ennfremur fornir öskuhaugar.“ Í þessum lögum er kveðið á um tilkynningaskyldu til yfirvalda og … „skal verkstjóri eða það stjórnarvald, sem hlut á að máli, skýra stjórnarráðinu frá málavöxtum, áður enn nokkuð er haggað við fornleifunum, og ákveður þá stjórnarráðið, hvað gjöra skuli.“
Fyrstu lög um Skógrækt ríkisins voru líka sett árið 1907 en gildandi lög eru frá árinu 1955 og í þeim er hvorki minnst á fornminjar né náttúruvætti.

Fossárrétt

Fossárréttin gamla 2009 – að hverfa í plantaðan skóg.

Í seinni tíma lögum um fornminjar eru svipuð ákvæði og árið 1907, en þó ítarlegri, varðandi minjar sem teljast til fornleifa (gamlar þjóðleiðir og vörður teljast nú til fornleifa). Í gildandi lögum (Þjóðminjalög 2001 nr. 107) segir m.a. í 1. kafla, 1. gr.: Tilgangur þessara laga er að stuðla að verndun menningarsögulegra minja og tryggja að íslenskum menningararfi verði skilað óspilltum til komandi kynslóða.“ Í 4. kafla, 10. gr., segir m.a.: „Fornleifum má enginn, hvorki landeigandi, ábúandi né nokkur annar, spilla, granda né breyta, ekki heldur hylja þær, laga né aflaga né úr stað flytja nema með leyfi Fornleifaverndar ríkisins.“

Möðruvallarétt

Möðruvallarétt – horfin í skóg.

Í 11. gr. segir m.a.: „Fornleifavernd ríkisins lætur, eftir föngum, skrá allar þekktar fornleifar og gefur út skrá um friðlýstar fornleifar og skal hún endurskoðuð á þriggja ára fresti.“ Í 11. gr. segir einnig: “Þeim minjum, sem friðlýstar eru, skal fylgja 20 metra friðhelgað svæði út frá ystu sýnilegu mörkum fornleifa og umhverfis nema kveðið sé á um annað.“ Í 14. gr. segir: „Nú telur landeigandi, ábúandi eða einhver annar, þar á meðal sá sem stjórnar opinberum framkvæmdum, að hann þurfi að gera jarðrask, svo sem vegna vegagerðar, veitu lagnar, framræslu eða skógræktar, er haggað geti við fornleifum og skal hann þá skýra Fornleifavernd ríkisins frá því áður en hafist er handa við verkið.“

Krýsuvík

Krýsuvík neðan Baðstofu – fornleifar eyðilagðar á fyrsta degi framkvæmda.

Í markmiðum Skipulags- og byggingarlaga, frá árinu 1997, segir m.a.: „…að stuðla að skynsamlegri og hagkvæmri nýtingu lands og landgæða, tryggja varðveislu náttúru- og menningarverðmæta og koma í veg fyrir umhverfisspjöll og ofnýtingu, með sjálfbæra þróun að leiðarljósi,…“

Trjárækt í og við fornminjar
Á fyrri helmingi 20. aldar plantaði fólk trjám við hús sín og býli, sér og sínum til yndisauka og skiljanlegt að á þeim tíma hafi menn ekki verið að velta því fyrir sér hvort plantað var í gamla bæjarhóla eða tóftir á landareigninni.

Rósel

Rósel 2020 – umlukið trjárækt.

Í árdaga skógræktar á Íslandi hefur almenningur ekki verið vel meðvitaður um gildandi lög um fornminjar. En nú er öldin önnur og skógræktar fólk ætti að vera vel upplýst um þessi mál, þó sérstaklega þeir sem starfa í félagasamtökum tengdum skógrækt. Hér verða tínd til nokkur dæmi um eyðileggingu fornminja af völdum gróðursetningar á Suður- og Suðvesturlandi:

Búðasandur (Maríuhöfn) í Hvalfirði, við norðanverðan Laxvog. Þar er talin hafa verið mesta kauphöfn á Suðvesturlandi á miðöld um og fjölsóttasta höfn landsins á 14. öld með tilheyrandi kaupstefnum.

Hálsnesbúðir

Hálsnesbúðir á Búðarsandi.

Margar búðarústir liggja í sveig á grasrima ofan við sandinn og vestan lónsins. Þar stendur gamall sumarbústaður og trjáreitur inn við hann hefur kaffært hluta tóftanna. Rústirnar á Búðasandi voru friðlýstar árið 1975 en sumar húsið á tóftasvæðinu hefur líklega verið byggt fyrir þann tíma og trjám plantað í tóftirnar, þrátt fyrir að þáverandi fornminjalög bönnuðu slíkt.

Sámsstaðir

Tóftir Sámsstaða.

Fornbýlið Sámsstaðir í Kjósarsýslu, norðan Leirvogsár en vestan Stardals. Friðun tóftanna var þinglýst árið 1938. Samkvæmt Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns (vegna ársins 1705) segja munnmæli (þá) að á Sámstöð um hafi verið kirkja. Gamall grenilundur er efst í túninu og engin veit nú hvort fornminjar leynast þar í trjárótunum. Fyrir örfáum árum var mörgum barrtrjáplöntum stungið niður í bæjarrústir Sámstaða þrátt fyrir að þar sé skilti um friðlýstar fornleifar.

Hrísakot

Hrísakot – uppdráttur.

Fjárréttarrústir í Hrísakoti í Brynjudal, Hvalfirði. Réttin var t.d. í notkun fyrir aldamótin 1900, samkvæmt örnefnaskrá, en er þó líklega miklu eldri. Vöxtuleg grenitré hafa nú kaffært hluta réttarinnar og því er ógerningur að sjá lögun hennar lengur. Landgræðslusjóður keypti fyrrnefnda landspildu á árunum 1975-1979 og stjórn sjóðsins hefði átt að sýna þá fyrirhyggju að leyfa réttarveggjun um að standa sem „vin í mörkinni“, sem og að virða lög um fornminjar.

Sveinagerði í Strandarkirkjulandi í Selvogi. Það er hringhlaðinn vörslugarður á milli tveggja kletta hóla og er svæðið innan hans 35–40 m í þvermál.

Sveinagerði

Sveinagerði í Selvogi.

Í lýsingu Selvogsþinga árið 1840 eru tilgreind munnmæli um að í Sveinagerði hafi Erlendur lögmaður Þorvarðsson (d. 1576) átt lystihús á öðrum hólnum og horft þaðan á sveina sína við „leiksæfingar“ í gerðinu. Nú hefur víði verið plantað fast við grjótgarðinn allan hringinn, þannig að varla sést örla á hleðslunni. Lúpínu hefur líka verið sáð þarna vegna uppblásturs og að vísu hefur leikflögin gróið upp á síðustu árum vegna þessa „gróður átaks“ en fornminjarnar horfið.

Baðsvallasel

Selsminjar í skógi á Baðsvöllum.

Baðsvallasel (Járngerðastaðasel) í Grindavík, norðan undir Þorbjarnarfelli. Selið var í notkun árið 1703 skv. Jarðabókinni. Fast ofan við eina tóftanna er gamall grenilundur og inni í honum er hluti selrústanna.

Austan Rauðavatns í Reykjavík eru tóftir Grafarsels en þær voru friðaðar árið 1987. Selstæðið er við gamlan lækjarfarveg, í lágum hlíðum sem heita Selbrekkur og snýr mót suðvestri. Eins og flestir vita, hefur skógrækt við Rauðavatn lengi verið við lýði og frá árinu 1946 í hönd um Skógræktarfélags Reykjavíkur.

Grafarsel

Grafarsel.

Við gróðursetningu þarna hefur verið að mestu tekið tillit til tóftanna og göngustígur liggur upp með þeim í átt til holtsins. Við gerð stígsins hefur ekki verið farið að fornminjalögum hvað varðar „20 metra friðhelgað svæði út frá ystu sýnilegu mörk um forn leifa …“. Tuttugu metra friðhelgi er ekki stórt svæði þegar skógrækt er höfð í huga, því tré stækka yfir leitt á alla kanta, ef svo má segja, fyrir utan það að svörðurinn breytist. Á öðrum stöðum í sömu skógrækt, hefur furutrjám verið plantað í fornminjar og það meira að segja fast við verndunarskilti. Það er vel framkvæmanlegt í mörg um til fellum, sérstaklega þar sem tré eru ung, að endurheimta fornminjarnar og sýna þeim þá virðingu sem þeim ber, samkvæmt lögum.

Reykjavíkursel

Reykjavíkursel við Selvatn.

Við Selvatn í Mosfellssveit voru tvö selstæði, samkvæmt örnefnaskrám og annað hefur mjög líklega verið frá Vík á Seltjarnarnesi (nú Reykjavík) og nefnt Víkursel. Á því selstæði stendur nú sumarhús í þéttum skógarlundi.

Aðgát skal höfð…
Í gönguferðum um vel skipulögð skóglendi, er það flestum til yndisauka að ganga fram á gamlar búsetuminjar, s.s. húsarústir, fjárréttir og stekki á opnum svæðum. Menn staldra við, setjast á veggjabrotin og velta fyrir sér sögu lands og þjóðar. Fornminjar á skógræktarsvæðum auka fjölbreytni og gera þau áhugaverðari en ella.

Fornasel

Við Fornasel 2008.

Í 2. tbl. Skógræktarritsins 2007 er grein eftir Björn Jónsson um Bjarnagarð í Landbroti en það er 7–8 km langur og mikill vörslugarður frá því um 1200. Greinin er falleg og skrifuð með mikilli virðingu fyrir fornminjum sem og skógrækt. Björn telur að trjáræktin hafi bjargað hluta Bjarnagarðs og segir að „án hennar væru þær [fornminjarnar] horfnar, þurrkaðar út í nafni framfara [stækkun túna o.fl.] …“ Hann nefnir líka að þess hafi verið vel gætt að gróðursetja hvergi í fornar minjar í þess um 20 ára gamla skógi. Mætti fleira skógræktar fólk temja sér slík vinnubrögð.

Heiðarbær

Tóftir Móakots í Þingvallasveit – horfnar í skóg.

Skógræktarfélag Íslands hefur nú gefið út góðar leiðbeiningar á vefnum sem heita Skógrækt í sátt við um hverfið og eru þær samdar af þverfaglegum starfshópi en í honum eiga m.a. sæti fulltrúar frá samtökum um skógrækt, fornleifavernd, landvernd, fuglavernd og náttúruvernd.
Í leiðbeiningunum segir: „Skógrækt veldur breytingum. Því er afar mikilvægt að hún falli sem best að heildarsvipmótum lands og eins að hún raski ekki náttúru- eða menningarminjum.“ Á þessum tímum tækni og upplýsingar ættu að vera hæg heimatökin að kortleggja minjar um leið og skógrækt er skipulögð.
Fornminjar og náttúruminjar eiga vel heima í skógrækt – en þær þurfa svo sannarlega sitt rými.“

Undirhlíðar

Undirhlíðar – girðingarleifar.

Málið er, eða a.m.k. virðist svo, að framangreindu að dæma, að launað starfsfólk fornminjavörslunnar hafi ekki hinn minnsta áhuga á að vernda fornleifar landsins. Og þá þarf ekki að minna skógræktarfólkið á að hirða eftir sig leifar skógræktargirðinganna, sem nú bæði hefta og skaða fætur göngufólks um hin annars áhugaverðu útivistarsvæði…

Heimild:
-Skógræktarritið, 1. tbl. 15.05.2008, Fornminjar og skógrækt – Sesselja Guðmundsdóttir, bls. 96-103.

Hvaleyrarsel

Hvaleyrarsel – stekkur.

Krýsuvík

Í Morgunblaðinu 2012 var viðtal við Ómar Smára Ármannsson um jarðrask það er fylgdi borunarframkvæmdum HS-orku á Reykjanesskaganum þar sem hvorki væri tekið tillit til umhverfissjónarmiða né minjaverndar.

Brennisteinsvinnsla

Brennisteinsnám á Reykjanesskaganum – fyrirliggjandi fornleifaskráning.

Viðtalið er að mörgu leyti merkilegt, ekki síst í ljósi þess að síðan það var tekið fyrir 13 árum hefur HS-orka hafið borun í Krýsuvík þar sem fyrirtækið byrjaði á því á fyrsta degi að eyðileggja fornar minjar, fyrrum brennisteinsnámuhús Krýsuvíkurbónda frá því á 18. öld, þrátt fyrir að athygli jarðfræðings fyrirtækisins hafði skömmu áður verið vakin á tóftunum, standandi á vettvangi. Auk þess hafði viðmælandi fornleifaskráð allar brennisteinsminjar á Reykjanesskaganum, án þess þó að HS-orka hefði sýnt þeirri fyrirliggjandi vinnu hinn minnsta áhuga.
Bæjarstjórn Hafnarfjarðar hafði gefið leyfi til framkvæmdanna án þess að krefjast eðlilega áður fornleifaskráningar á svæðinu sem verður að teljast verulega ámælisvert. Ekki er vitað hvort sú sérstaka stofnun Fornleifavernd ríkisins hafi æmt hið minnsta eða skræmt vegna alls þessa. Og hvers vegna eiga verktaktar að fá að ákveða hversu mikið jarðsrask vegna einstakra framkvæmda verður hverju sinni? Hafa ber í huga að fæstar ákvarðanir þeirra hafa hingað til verða að teljast vitsmunalegar, enda, að því er virðist, einungis byggðar á eigin hagsmunum.

Minnka mætti rask með minni borteigum

Ómar Smári

Ómar Smári Ármannsson Krýsuvík.

„Þetta snýst ekki um hvort það eigi að virkja eða ekki heldur að það verði gert þannig að menn geti verið sáttir við framkvæmdirnar,“ segir Ómar
Smári Ármannsson um fyrirhugaðar jarðhitaboranir á Reykjanesskaganum. Hann segir augljóst að við nýlegar og eldri virkjunarframkvæmdir á Suðurnesjum og víðar hafi ekki verið vandað nægilega vel til verka, hægt hefði verið að hafa borstæðin eða borteigana undir jarðborana mun minni, leggja vegi og pípur og reisa virkjanamannvirki þannig að minna beri á þeim í landslaginu.

Sogin

Sogadalur – efra borplanið.

Ómar Smári er vel þekktur fyrir áhuga sinn á náttúru og minjum Reykjanesskagans, einkum í tengslum við ferðahópinn Ferlir en einnig vegna þess að hann er aðstoðaryfirlögregluþjónn á höfuðborgarsvæðinu. Morgunblaðið fór í vikunni með Ómari um þrjú svæði á Suðurnesjum; að Trölladyngju og Sogum, Eldvörpum og Krýsuvík. Á öllum þessum svæðum, og raunar víðar á Suðurnesjum, stendur til að virkja jarðhita og svæðin raðast öll í nýtingarflokk samkvæmt rammaáætlun um vernd og nýtingu náttúrusvæða.

Sogadalur

Sogadalur – neðra borplanið.

Við Trölladyngju eru tvær nýlegar tilraunaborholur HS orku. Önnur þeirra og sú nýrri (frá 2006) er uppi í hlíð, við gönguleiðina að Sogunum sem er vinsælt útivistarsvæði og rómað fyrir náttúrufegurð. Þar var gert borplan sem Ómar og blaðamaður mældu að væri 45×70 metrar að stærð eða rúmlega 3.000 fermetrar. Það sem upp úr stendur af borholunni sjálfri – en hún reyndist reyndar ónothæf – er ekki nema 2,5×5 metrar.

Ómar Smári fylgdist með framkvæmdunum á sínum tíma og hann segir ljóst að planið hefði mátt vera mun minna, í það minnsta helmingi minna, ef viljinn hefði verið fyrir hendi. Hægt hefði verið að leggja plan undir borinn en síðan flytja aðföng að honum eftir því sem þurfti.

Sogadalur

Sogadalur – hér má sjá óskráða selið ofarlega t.v. sem naumlega slapp við vegslóðann og efra borplanið neðst t.h.

Rafstöðina hefði mátt hafa annars staðar og leggja raflínu meðfram veginum. Pípur hefði mátt hafa á neðra borplaninu og flytja þær upp eftir og varahlutir og vinnuskúra hefði sömuleiðis mátt hafa þar. Þess í stað hefði jarðýta gert ljótt sár í hlíðina og síðan hefði hundruðum tonna af möl verið ekið á staðinn til að útbúa óþarflega stórt borplan.
Hafa yrði í huga að jafnvel þótt borholan hefði virkað væri endingartími jarðhitavirkjana ekki nema 50-60 ár. Illgerlegt eða ómögulegt væri að fjarlægja ummerki um holuna að þeim tíma liðnum. Þá minnir hann á að rökin með virkjunum séu gjarnan þau að þær skapi atvinnu. „En það fá ekki færri vinnu við að virkja þótt borstæðið sé lítið,“ segir hann.

Sést yfir fornminjar

Sogadalur

Sogadalur – seltóft skammt frá vegarlagningunni upp á efra borplanið.

Ómar Smári tekur fram að hann er ekki andvígur því að auðlindirnar séu nýttar. Vinnubrögðin við borholurnar við Trölladyngju og víðar séu á hinn bóginn þannig að þau hljóti að draga úr stuðningi við virkjanir.
„Hér sjá menn bara eyðileggingu og hugsa: Verður þetta allt svona?“ Hann bendir einnig á að tilviljun ein hafi ráðið því að vegurinn sem liggur upp að borstæðinu hafi ekki farið yfir gamalt sel en tóftir þess kúra í hlíðinni. Raunar hafi vegurinn verið lagður án gilds framkvæmdaleyfis þá og þegar hann var
lagður. Leyfið fékkst eftir á og þá hjá viðeigandi sveitarfélagi. Sjaldan eru allar tóftir skráðar.

Krýsuvík

Krýsuvík neðan Baðstofu – fornleifar 2024.

Það gildir t.d. um tóftir í Krýsuvík sem að óbreyttu muni fara undir borplan, þar séu auðsjáanlega fornminjar sem hvergi hafi verið skráðar eða rannsakaðar. Aðspurður segir Ómar Smári að með tillögu HS orku vegna borunar í Krýsuvík hafi fylgt fornleifaskráning. „Í skýrslunni eru þessar tóftir ekki tilgreindar og það eru ekki nógu góð vinnubrögð.“
Þriðja svæðið sem farið var um var Eldvörp en þar vill HS Orka bæta við fimm borteigum, þar af tveimur sem eru á skilgreindu iðnaðarsvæði. Einn borteigur er þar fyrir, ríflega 3.100 fermetrar auk um 1.200 fermetra svæðis meðfram veginum sem var raskað.

Eldvörp

Eldvörp.

Ómar Smári segir að í Eldvörpunum verði að fara sérstaklega varlega enda sé svæðið ríkt af fegurð og sögu en um leið afar viðkvæmt. Ástundi menn sömu vinnubrögð og hingað til lítist honum hins vegar ekki á blikuna.

Ætla að fara varlega

Eldvörp

Eldvörp – borholuplan. Ekkert af nefndum borholuplönum á Reykjanesskaganum hafa komið framkvæmdaraðilum til góða úr því sem komið er.

Ásbjörn Blöndal, forstöðumaður þróunarsviðs HS Orku, segir að við Eldvörp standi til að fara eins varlega og framast sé unnt. Til standi að beita skáborun og bora í um 1.000-1.200 metra frá teigunum, miðað við lóðlínu, sem sé það mesta sem hægt sé að gera í jarðlögum sem þessum.
En hvað þá með stærð borteiganna? Ásbjörn segir að undanfarin ár og áratugi hafi menn reynt að taka sem minnst svæði undir borteiga. „Það er fyrst og fremst verktakinn sem ákvarðar hvað hann þarf til að hann geti unnið verkið sómasamlega. Það hefur allt kapp verið lagt á að hafa umfangið eins lítið og
kostur er.“

Eldvörp

Eldvörp – nýtt og nánast óþarfa borstæði.

Nokkuð frá Eldvörpunum er annar og mun stærri borteigur, um 6.000 fermetrar að stærð, samkvæmt lauslegri mælingu. Á honum eru tvær niðurdælingarholur fyrir Svartsengi og Ásbjörn segir að það hafi verið sú stærð sem þurfti fyrir tvær holur. Þá tekur Ásbjörn fram að HS Orka vinni náið með Grindavíkurbæ að undirbúningi framkvæmda við Eldvörp. Svæðið sé hverfisverndað og ekki verði hróflað við gígunum, enda séu þeir friðaðir. Teigarnir verði að mestu við núverandi veg og pípur og annað lagðar meðfram honum.

Eldvörp

Eldvörp – borplan. Hvenær skyldi „hraunhellur/hraungrýti verða lagðar þarna yfir? Hvers vegna ekki að minnka borteigana svo eftirkostnaðurinn verði minni en ella, af fenginni reynslu.

Meðal þess sem hefur verið rætt um að gera er að leggja hraunhellur/hraungrýti yfir þá borteiga sem ekki nýtast, þ.e. ef holurnar gefa ekki af sér orku. Þá megi nánast afmá ummerki um rask, líkt og hafi verið gert við hús Bláa lónsins. Slíkt sé ekki hægt að gera við vinnsluholur því þær þurfi að hreinsa reglulega með bortæki.
Deiliskipulagstillaga að framkvæmdum í Eldvörpum er nú til meðferðar hjá Grindavíkurbæ.

Óskráðar fornminjar

Ómar Smári bendir á að tilviljun ein hafi ráðið því að vegurinn sem liggur upp að efra borstæðinu við Trölladyngju hafi ekki verið lagður yfir gamalt sel en tóftir þess kúra í hlíðinni.

Krýsuvík

Krýsuvík – borsvæðið á upphafsdögum þess. Hér er búið að afmá fornminjar, bæði vegna ástæðu og án líklegra eftirmála.

Raunar hafi vegurinn verið lagður án gilds framkvæmdaleyfis. [Bæjarstjórn Voga gaf út leyfið, en þegar bent var á að umráðasvæðið væri innan marka Grindavíkur gaf bæjarstjórn Grindavík út afturvirkt framkvæmdarleyfi án nokkurrar umhugsunar.] Þessar fornminjar hafi raunar hvergi verið skráðar. Hið sama eigi við um tóftir í Krýsuvík sem að óbreyttu muni fara undir borplan. Þar séu auðsjáanlega fornminjar sem hvergi hafi verið skráðar eða rannsakaðar. Aðspurður segir Ómar Smári að með tillögu HS orku vegna borunar í Krýsuvík hafi fylgt fornleifaskráning sem unnin var af Fornleifavernd ríkisins. „Í skýrslunni eru þessar tóftir ekki tilgreindar og það eru ekki nógu góð vinnubrögð,“ segir Ómar Smári.

Krýsuvík

Krýsuvík. Grænavatn t.v. og Gestsstaðavatn t.h.

Þá mætti auðveldlega hafa borplanið á öðrum stað, aðeins nokkrum tugum metra frá séu ónýt útihús sem mætti rífa og nota svæðið sem borplan.“

Heimild:
-Morgunblaðið, 105. tbl. 05.05.2012, Minnka mætti rask með minni borteig – Óskráðar fornminjar, texti: Rúnar Pálmason, bls. 12-14.

Sogasel

Selin í og við Sogagíg, Sogalækur og vegslóðinn upp að efra borstæðinu. – Uppdráttur ÓSÁ.

Fornleifar

Fornleifafræði er fræðigrein, sem fjallar um manninn út frá margvíslegum hliðum, t.a.m. út frá beinum (dýra- og manna), gripum (þ.m.t. byggingum), landslagi, ljósmyndum, kortum og öðrum skjölum. Helstu aðferðir fornleifafræðinga er fornleifaskráning og fornleifauppgröftur. Fornleifafræðingar fást við rannsóknir á ólíkum tímum, t.d. forsögulegum, miðöldum, og á minjum nútímasamfélaga.

Saga fornleifafræði á Íslandi fram til 1850

Ólafía Einarsdóttir

Ólafía Einarsdóttir (1924-2017). Margir hafa verið á þeirri skoðun, að dr. Ólafía Einarsdóttir hafi verið fyrsti íslenski fornleifafræðingurinn. Þess vegna er eitt af tímaritum fornleifafræðinga á Íslandi kallað Ólafía. Ólafía lauk gjaldgengu prófi í greininni. Hún stundaði nám í Lundúnum og í Lundi. Ekki gróf Ólafía þó mikið á Íslandi, og hvort það var karlremba í Kristjáni Eldjárn eða kvenremba í Ólafíu, þá var Ólafíu ekki stætt á Þjóðminjasafni Íslands, þar sem Kristján réði ríkjum. Ólafía meistraði í staðinn sagnfræðina og tímatal í fornbókmenntum og er ekki síðri fornleifafræðingur fyrir það. Ólafía er með vissu fyrsta íslenska konan sem varð fornleifafræðingur.

Á meginlandi Evrópu fór áhugi á fornminjum vaxandi samhliða hugmyndum um ríkisvald á 16. og 17. öld. Nýstofnuð ríki þurftu að geta sýnt fram á að ríkisbúar sínir ættu sameiginlega fortíð og upprunasögu; vegna þess beindist áhugi fólks að slíkum gripum og minjastöðum. Álíka var að gerast á Íslandi þar sem fornfræðingar heimsóttu merkilega sögustaði sem nefndir voru í Íslendingasögum.
Fyrsta heildarskráning fornleifa á Íslandi var á vegum dönsku fornleifanefndarinnar á árunum milli 1817 og 1823. Konungur Danmerkur sendi skipunarbréf árið 1807 um að skrá fornleifar í Danmörku og áttu skrásetjarar að vera sóknarprestur sem mundu skrifa ritgerð um fornleifar í sinni sókn. Prestar áttu að líta sérstaklega til staðbunda minja um fornsögur og elstu leifar stjórnvalds, t.d. dómhringi og þingstaði.

Fornleifaskráning

Litla-Botnssel

Litla-Botnssel við Hvalfjörð. Selsins er getið í örnefnalýsingu, en í fornleifaskráningu er staðsetningin óviss.

Fornleifaskráning er það að leita að minjum á afmörkuðu svæði, hvort sem það er á landi eða í sjó, til skráningar.

Bæði í jörðu og á sjó eru minjar sem hver kynslóð skilur eftir sig og eru þær heimildir um líf fólks. Í tímanna rás hefur það tekið breytingum hvað telst sem fornleifar. Framan af voru aðeins skráðar byggingar og gripir frá víkingaöld en færst hefur í vöxt að skrá minjastaði hvað sem líður aldri þeirra og fremur horft til rannsóknar eða táknrænt gildi þeirra, enda lýkur sögu ekki við ákveðið ártal, eins og 1900 e. Kr.

Skráning minjastaða

Brynjudalur

Brynjudalur – Þórunnarsel.

Fornleifaskráning felur í sér að leita að upplýsingum í rituðum heimildum, taka viðtöl við staðkunnuga og mæla upp minjar á vettvangi. Skipta má verklagi fornleifaskráningar í þrennt í samræmi við þrjú stig skipulagsvinnu:
Svæðisskráning: Í svæðisskráningu er upplýsingum safnað saman um staðsetningu og gerð minja úr rituðum heimildum. Skjöl eru til að mynda lesin og túnakort skoðuð. Úr þessu fæst grunnur að fjölda og dreifingu minja á tilteknu svæði. Það gefur möguleika á að finna staði sem þykja sérstaklega athyglisverðir til kynninga eða rannsókna og svæði sem eru í hættu. Þessu til viðbótar er svæðisskráning undirbúningur fyrir aðalskráningu.

Dyljáarsel

Í Dyljáarseli.

Aðalskráning: Á þessu stigi er farið út í mörkina og rætt við ábúendur eða aðrar manneskjur sem eru staðfróðar. Að svo búnu er farið af stað og leitað á svæðum sem sennilegt er að minjar leynist á. Þegar minjastaður er fundinn er hann skráður á staðlaðan hátt og lagt mat á ástand hans, hnattstaða fundin, staðurinn ljósmyndaður svo og uppdráttur teiknaður eftir því sem tilefni er til. Einnig er reynt að meta hvort staðurinn sé í hættu og þá af hvaða völdum.

Fiskaklettur

Fiskaklettur 2022 – fyrrum hluti af sögu Hafnarfjarðar; nú einangraður millum húsa.

Deiliskráning: Tilgangur deiliskráningar er að fá upplýsingar um minjastaði á (litlum) afmörkuðum svæðum. Verklag við deiliskráningu er álík og við aðalskráningu nema í deiliskráningu er gengið skipulega yfir allt svæðið og minjar mældar upp á nákvæmari hátt. Öðru hverju gæti verið nauðsynlegt að grafa könnunarskurð til þess að kanna aldur og hvort að um mannvirki sé ræða.

Minjavarsla

Dalurinn

Fjárskjólið í Dalnum – nú horfið vegna framkvæmda og áhugaleysis yfirvalda á varðveislu minja.

Fornleifaskráning er eitt mikilvægasta – ef ekki það mikilvægasta – verkefni fyrir minjavörslu hvers lands. Talið er að á Íslandi séu að minnsta kosti 130 þúsund fornleifastaðir en á ári hverju verður fjöldi þeirra fyrir eyðileggingu, til dæmis vegna byggingaframkvæmda, túnasléttunar eða sjávarrofs. Slík eyðilegging getur afmáð sögu sem aðrar heimildir eru fáorðaðar um. Fyrir þá sök er nauðsynlegt að vita hvar staðirnir séu og hvert ástand þeirra svo að hægt sé leggja mat á hvaða sögu samfélagið vill varðveita fyrir framtíðina.

Vísindarannsóknir

Krýsuvík

Krýsuvík neðan Baðstofu – fornleifar, nú horfnar vegna framkvæmda.

Fornleifaskráningar eru iðulega gerðar í tengslum við framkvæmdir, en skráning minjastaða getur að auki verið gerð í vísindalegum tilgangi (eða gögn framkvæmdaskráninga séu nýttar í rannsóknir). Markmið fornleifaskráninga í rannsóknarskyni er t.d. að finna minjastaði, kanna ævisögu landslags eða greina ákveðið mynstur minja. Allt er þetta gert í því skyni að svara ákveðnum spurningum. Þess konar rannsóknar geta verið allt frá því að rannsaka skipulagningu einstakra grafreita upp í feiknastór landsvæði. Með því að skrá form garðsins, staðsetningu minja innan hans og vísun þeirra í klassíska fornöld, þá sýndi rannsóknin fram á hvernig garðurinn var efnislegur vitnisburður sem voldugt tákn um samfélagslegt vald húsráðandans og hafði garðurinn mótandi áhrif á gesti og gangandi.

Viðey

Fornleifarannsóknir sýna að byggð var hafin í Viðey á 10. öld en árið 1225 var stofnað þar klaustur af reglu heilags Ágústínusar. Í meira en 300 ár var Viðeyjarklaustur mesta helgisetur í Sunnlendingafjórðungi af Skálholti frátöldu. Alþjóðleg hefð er fyrir því að klausturbyggingar myndi umgerð um klausturgarð. Túlka má rannsóknir á svæðinu á þann veg. Byggingar merktar A, B og C hafa verið grafnar upp og sýna langhús (stofu, skála og búr). Þar austur af er sennilega smiðjukofi (D). Aftur af langhúsinu eru lítið rannsökuð bakhús. Kirkjan (E) er tilgátuhús en fyrir myndir eru sóttar í kirkjur á Þingeyrum og á biskupsstólunum. Jarðsjármælingar sýna að fyrir framan Viðeyjarstofu og kirkju hafi verið byggingar, trúlega sjálf klausturhúsin (F), þau eru einnig tilgátuhús.

Í fornleifaskráningu í vísindaskyni eru samskonar verklagi beitt og í hefðbundinni fornleifaskráningu, einkum deiliskráningu. Tilgangurinn er að fá nákvæmar upplýsingar um minjastaðinn. Af þeim sökun er í fáeinum tilvikum notuð ýmis jarðsjátæki, til dæmis viðnámsmælir, til að skima eftir minjum undir jarðvegi. Í sumum tilvikum eru teknir könnunarskurði til þess að athuga hvort um mannvirki sé að ræða, vita aldur þess eða ná í sýni til efnagreiningar.

Hvað eru fornleifar?
Fornleifar eru það sem hefur orðið eftir frá gamalli tíð. Flest af því sem við höfum með höndum eyðist í tímans rás. Sumu er alls ekki ætlað að endast; við neytum matar og brennum kerti, föt endast sjaldan meira en í nokkur ár en aðrir hlutir geta enst í áratugi og jafnvel aldir, til dæmis hús og bækur.
Hlutir sem við notum mikið slitna, brotna og skemmast, sumt er hægt að endurnýta og gera við en fyrr eða síðar endar langflest af því sem við höfum í kringum okkur (oft með langri viðdvöl í kompu eða á háalofti) á öskuhaugum, þar sem því er annað hvort brennt eða það rotnar og eyðist smátt og smátt.

Öskuhaugur

Öskuhaugur í rannsókn.

Öskuhaugarnir sjálfir verða svo eyðingu að bráð; fyrir utan niðurbrot efnanna í jarðveginum geta þeir horfið vegna vind- og vatnsrofs, landbrots og framkvæmda og þess vegna getur verið mjög erfitt að finna nokkur einustu ummerki eftir fólk að nokkrum öldum eða árþúsundum liðnum.
Það sem varðveitist, annað hvort af því að því hefur verið haldið til haga, til dæmis handrit og listaverk, eða vegna þess að skilyrði í jarðvegi hafa verið góð, er því aðeins brot af því sem upphaflega var, en það brot getur gefið mikilvægar vísbendingar um þá tíma sem leifarnar eru frá. Það er vegna þess sem fornleifar eru rannsóknarefni sérstakrar fræðigreinar, fornleifafræði, en hún fæst við að finna fornleifar og túlka þær sem heimildir um liðna tíð.

Bárujárn

Fyrrum hús Brennisteinsfélagsins í Seltúni, elsta hús klætt bárujárni hér á landi, nú við Suðurgötu 10, Hafnarfirði.

Misjafnt er hvað hlutir þurfa að vera gamlir til að teljast fornleifar. Í íslenskum lögum er miðað við að allt sem er eldra en 100 ára teljist fornleifar en einnig þekkist að miðað sé við 500 ár eða allt sem er eldra en miðaldir (það er eldra en 1500 ára). Það er hins vegar ekki einber aldurinn sem gerir gamla hluti að fornleifum heldur fremur hvort þeir geta talist í einhverjum skilningi úreltir og hversu sjaldgæfir þeir eru. Við getum tekið sem dæmi að fáir myndi telja klaufhamar úr ryðfríu stáli sem framleiddur var árið 1927 til fornleifa. Slíkur hamar er eins og hamrar sem framleiddir eru í dag og hefur sama notagildi. 5 ¼ tommu tölvudiskur frá 1986 er hins vegar úrelt fyrirbæri sem erfitt er eða ómögulegt að nota lengur og við myndum því, í hálfkæringi að minnsta kosti, geta talað um sem fornleifar. Notagildið veldur því líka að hamrar geta auðveldlega orðið langlífir og sennilega leynast býsna gamlir hamrar víða í verkfærakistum en úreltir tölvudiskar eru hinsvegar orðnir mjög sjaldgæfir og þegar komnir á dagskrá hjá söfnum og áhugafólki um varðveislu gamalla hluta.

Kuml

Kuml.

Oft er gerður greinarmunur á hlutum sem hafa varðveist af því að passað hefur verið upp á þá, til dæmis kirkjuskrúð, handrit og gömul málverk, og hlutum sem varðveist hafa í jörðu. Jarðfundnum fornleifum má svo aftur skipta í tvennt eftir því hvort hlutirnir hafa verið skildir vísvitandi eftir undir mold, (einkum legstaðir manna og dýra, sumir með haugfé, og faldir fjársjóðir), eða hvort þeir eru úrgangur eða annað sem hefur verið hent eða skilið eftir (stundum óvart).
Þróunin innan fornleifafræðinnar hefur verið frá upphaflegri áherslu á að finna fagra gripi í átt að sífellt nákvæmari rannsóknum á úrgangi í víðasta skilningi. Þær rannsóknir beinast ekki eingöngu að rústum bygginga og gripum sem finnast í þeim og gömlum öskuhaugum, heldur einnig að dýrabeinum og öðrum matarleifum; ösku, gjalli og öðrum leifum eftir eldamennsku og iðnað; skordýra- og jurtaleifum og efnasamböndum sem geta gefið vísbendingar um lífshætti fólks til forna.

Fornleifar

Fornleifauppgröftur á bæjarstæði.

Fornleifafræðingar hafa þróað aðferðir til að setja saman mynd af horfnum samfélögum byggða á slíkum brotakenndum heimildum. Aðeins örlítill hluti af því sem var hefur varðveist og margt af því hefur varðveist fyrir eintóma tilviljun. Það er flókið mál draga skýrar ályktanir af slíkum efnivið en aðferðirnar sem hafa verið þróaðar til þess hafa einnig reynst vel til að rannsaka samtímann – það er ruslið sem við framleiðum og hvað það segir um okkur.
Allt rusl, gamalt og nýtt, er því viðfangsefni fornleifafræðinnar, en fornleifar má telja allt sem er nógu gamalt til að vera orðið úrelt og/eða sjaldgæft.

Hvaða aðferðir nota fornleifafræðingar við að tímasetja fornleifar?

Rúnasteinn

Rúnasteinn – sænskur.

Aðeins er hægt að tímasetja hluti sem bera læsilegar áletranir, nema eitthvað annað sé vitað um þá. Fyrir iðnbyltingu eru það einkum legsteinar og mynt sem bera áletranir. Tímasetningar slíkra áletrana eru sjaldnast ákveðin ártöl heldur til dæmis veldistími konunga eða annars konar tilvísanir í fólk eða atburði sem ritheimildir eru til um.
Áletranir eru mikilvægar en þær finnast aðeins á örlitlu brotabroti allra fornleifa og því hefur þurft að þróa sérstakar aðferðir til að aldursgreina fornleifar. Engin ein aðferð er til sem hægt er að beita á öll efni eða hluti undir öllum kringumstæðum heldur nota fornleifafræðingar yfirleitt margar aðferðir saman til að komast að niðurstöðu um aldur minjanna sem þeir rannsaka.
Þessar aðferðir má flokka í tvennt: annars vegar eru afstæðar tímasetningaraðferðir sem geta greint hvort tilteknar fornleifar eru eldri eða yngri en aðrar en ekki endilega hversu gamlar, og hins vegar algildar aðferðir sem gefa raunaldur hlutanna. Í fljótu bragði mætti ætla að síðarnefndu aðferðirnar væru augljóslega betri en þær eru ýmsum takmörkunum háðar og því liggja afstæðu aðferðirnar að mörgu leyti til grundvallar.
Afstæðar tímasetningaraðferðir

Christian Jörgensen

 Christian Thomsen (1788-1865).

Það var danski fornleifafræðingurinn Christian Thomsen (1788-1865) sem lagði grundvöllinn að flokkun fornleifa eftir aldri á fyrri hluta 19. aldar. Þá setti hann fram svokallaða þriggja alda kenningu. Hann hafði tekið eftir því að úr elstu jarðlögum komu eingöngu áhöld og gripir úr steini, en úr yngri lögum kæmu líka hlutir úr bronsi og úr enn yngri lögum gripir úr steini, bronsi og járni. Kenning hans var því sú að fyrst hefði verið steinöld, síðan bronsöld og síðast járnöld.
Þessi kenning liggur enn til grundvallar tímabilaskiptingu forsögunnar í Evrópu og Vestur Asíu en hún er fyrst og fremst mikilvæg fyrir það að með henni er hægt að raða hlutum í aldursröð eftir efni þeirra og fundarsamhengi. Elstu leirker finnast til dæmis iðulega í sömu lögum og pússuð steináhöld sem eru ólík slegnum steináhöldum í enn eldri lögum. Á þessari athugun byggir skipting steinaldarinnar í fornsteinöld og nýsteinöld og frá dögum Thomsens hafa fornleifafræðingar unnið sleitulaust að því að greina slík samhengi og skipta “öldunum” niður í æ styttri tímabil.

Leirker

Leirker eru afar sjaldgæfur fundur við fornleifarannsóknir frá landnámi og fram á 11 öld, tvö brot fundust í Vogum á Höfnum á Reykjanesi og þrjú brot við höfnina á Kolkuósi í Skagafirði.
Í öskuhaugnum í Firði hafa nú fundist yfir 20 brot sennilega öll af sama kerinu. Öskuhaugurinn er aldursgreindur frá 940-1100.

Þó að grófa flokkunin haldi fyrir heilar heimsálfur geta styttri tímabilin verið ólík frá einu landi eða svæði til annars en það helgast af því að skilgreining þeirra byggir á atriðum eins og tísku sem er oft staðbundin. Því má segja að efnin (steinn, kopar, brons, járn, en líka gler, stál, silki og gúmmí) gefi grófa rammann en tæknin (bæði aðferðir við að búa til hluti, til dæmis málmsteypa og postulínsgerð, og við að nýta þá, til dæmis plæging og tedrykkja) og tískan hjálpa til við að tímasetja með meiri nákvæmni. Tíska er lykilatriði í þessu, því að margir hlutir (einkum skartgripir og allskonar skreyti og munstur) geta breyst hratt og því meiri sem breytileikinn er þeim mun styttri eru tímabilin og þeim mun nákvæmar hægt að tímasetja. Það eru ekki bara manngerðir gripir sem fornleifafræðingar líta til í þessu samhengi heldur líka atriði eins og villt dýr í umhverfi bólstaða, hvaða jurtir eru ræktaðar, húsdýrahald og margskonar aðrar vísbendingar um líf og störf mannanna sem taka breytingum með tímanum.

Gjóskusnið

Unnið við að sniðgreina gjóskulög í jarðvegssniði.

Allt þetta byggir á því einfalda en mikilvæga lögmáli að afstaða jarðlaga og mannvistarlaga segir til um aldur þeirra: lagið sem er undir er eldra en það sem er ofan á. Ef gripasafn úr eldra lagi er til dæmis með ákveðna tegund af leirkerjum en það yngra ekki þá getur verið að sú tegund hafi fallið úr tísku, og ef sú breyting sést á mörgum stöðum má hafa þá breytingu sem aldursviðmiðun. Hún segir okkur hinsvegar ekki hvenær þessi leirker hættu að vera í tísku.
Fram um miðja 20. öld áttu fornleifafræðingar í erfiðleikum með að tengja tímabilin sín við rauntíma. Eina aðferðin var að nota gripi með áletrunum sem hægt var að tengja við sögulega atburði og einstaklinga en sú aðferð kemur aðeins að gagni eftir að ritmál var fundið upp, fyrir um 5000 árum síðan í gamla heiminum, en allt sem var eldra en það var erfitt eða ómögulegt að tengja við rauntíma. Þetta breyttist eftir 1950 með tilkomu aldursgreiningar með geislakoli en hún hefur valdið byltingu í tímasetningum í fornleifafræði.

Algildar tímasetningaraðferðir

C-14

C-14.

Áletrun getur gefið algilda tímasetningu, til dæmis má yfirleitt treysta því að mynt með nafni kalífa eða konungs sé frá veldistíma hans, en sú tímasetning segir bara til um aldur myntarinnar. Aðrir gripir sem finnast í sama lagi geta ekki hafa lent þar fyrr en eftir að myntin var slegin, en þeir geta annaðhvort verið eldri en hún (það er þeir voru gamlir þegar þeir lentu í laginu) eða miklu yngri (myntin var gömul þegar hún lenti í laginu).
Sú algilda tímasetningaraðferð sem mest áhrif hefur haft og mestu máli skiptir í fornleifafræði nútímans er hins vegar geislakolsaldursgreining, líka þekkt sem kolefnisaldursgreining eða C14. Þessi aðferð byggist á því að þrjár samsætur kolefnis (C) eru í andrúmsloftinu og hlutfallið á milli þeirra er stöðugt. Sama hlutfall er svo í öllum lífverum. Ein af þessum samsætum, C14, er geislavirk sem þýðir að hún er óstöðug og breytist í stöðugu samsætuna N14. Það sem skiptir máli fyrir tímasetningar er að geislavirk efni eyðast með stöðugum og ákveðnum helmingunartíma sem er hægt að ákvarða með mælingum í rannsóknastofu.

C-14

C-14.

Helmingunartími C14 er 5730 ár og með þessu má aldursgreina allar lífrænar leifar aftur til um 40.000 ára. Fara má nærri um raunaldur jarðlags með því að tímasetja hluti eins og fræ og dýrabein sem sjaldnast eru meira en nokkurra ára þegar þau lenda undir torfu, en aðalkosturinn við þessa aðferð er að hún er sjálfstæð, óháð bæði ritheimildum og flokkunarkerfum forngripa; og að henni má beita á öll lífræn efni, meðal annars þau sem lent hafa í eldi og kolast en kolaðar leifar geta varðveist þar sem varðveisluskilyrði eru að öðru leyti slæm fyrir lífrænar leifar.
Með þessu er ekki allur vandi leystur; ýmis vandamál eru við meðferð og túlkun geislakolsaldursgreininga, og aðferðin nær ekki til eldra skeiðs fornsteinaldar, langlengsta tímabils mannkynssögunnar (nærri 2 milljónir ára). Aðrar aðferðir sem einnig byggjast á stöðugri eyðingu geislavirkra efna (til dæmis úrans og kalín-argons) eru þó til og má nota þær á eldri hluti, fyrst og fremst berg.
Margar aðrar aðferðir eru til en þær eiga allar sammerkt að vera annað hvort staðbundnar (eins og gjóskulagatímatalið sem íslenskir fornleifafræðingar styðjast mikið við) eða að aðeins er hægt að beita þeim á sérstök efni. Þar á meðal er trjáhringaaldursgreining sem er nákvæmasta tímasetningaraðferð sem til er en henni er aðeins hægt að beita á sæmilega stóra búta úr tilteknum trjátegundum (til dæmis eik en ekki birki, enn sem komið er að minnsta kosti).

Kléberg

Kléberg í Glúfurgili í Esju.

Þegar fornleifafræðingur stendur frammi fyrir því að tímasetja fornleifar byrjar hann yfirleitt á því að reyna að staðsetja sig gróflega í tíma út frá efnum og gerð gripanna. Hér á Íslandi myndum við til dæmis næsta hiklaust telja að safn sem innihéldi svínabein, glerperlur og kléberg væri frá víkingaöld en að safn með leirkerjum og glerbrotum væri frá 17. öld eða yngra, og það þó að söfnin væru að uppistöðu hlutir úr járni og steini sem væru í aðalatriðum eins í báðum. Til þess að fá nákvæmari tímasetningu myndum við svo líta til gjóskulaga, en það getur verið háð aðstæðum hvort til staðar eru gjóskulög sem hægt er að nota sem tímatalsviðmið. Jafnframt myndum við láta gera geislakolsaldursgreiningar á völdum hlutum. Í öðrum löndum er samsetning aðferðanna oftast önnur en alls staðar á það við að efni og gerð hlutanna gefa rammann, en síðan beita menn öðrum aðferðum eftir efnum og aðstæðum, og oftast er geislakolsaldursgreining þar á meðal.

Hvar hafa leifar um víkinga varðveist?

Víkingar

Víkingur.

Þegar fjallað er um leifar eftir víkinga þarf fyrst að ákveða hvað við er átt með hugtakinu víkingur. Í íslenskum miðaldaritum hefur orðið alltaf þrönga merkingu, það þýðir „sæfari, sjóræningi“ og er fyrst og fremst notað um norræna menn þó að merkingin virðist ekki endilega bundin þjóðerni. „Víkingur“ er með öðrum orðum starfsheiti en fyrir löngu hefur skapast sú hefð að nota það sérstaklega um þá norrænu menn sem tóku að ræna, rupla, versla og berjast til landa í Norður-Evrópu á níundu og tíundu öld e. Kr.

Þetta tímabil er oft nefnt víkingaöldin og látið ná frá 793/800 til 1050/1066/1100 e. Kr. Það einkenndist í fyrstu af ránsferðum og strandhöggi norrænna manna við Eystrasalt, á Bretlandseyjum og í strandhéruðum Norður-Evrópu, en fljótlega einnig skipulegum hernaði og landvinningum sem leiddu til þess að þeir settust að í norðurhluta Englands, í borgum eins og Dublin (Dyflinni) á Írlandi, í Normandí í Frakklandi og á svæðinu í kringum Starja Ladoga (Aldeigjuvatn) í Rússlandi.

Víkingar

Víkingar.

Lítið er vitað um hversu stórar byggðir norrænna manna voru á þessum stöðum og víst að þeir samlöguðust fljótt þeim þjóðum sem þar voru fyrir.
Á sama tíma fundu norrænir menn áður óbyggð lönd í Norður-Atlantshafi – Færeyjar, Ísland og seinna Grænland – þar sem þeir settust að. Þeir settust líka að á svæðum sem lengi höfðu verið byggð í Skotlandi: á Hjaltlandi, Orkneyjum, Suðureyjum, Katanesi og einnig á eynni Mön í Írlandshafi. Öfugt við hinar norrænu byggðir í Englandi, Frakklandi og Rússlandi náðu norrænir menn algerum menningarlegum og pólitískum undirtökum á þessum svæðum og var til dæmis talað norrænt mál á Hjaltlandi og Orkneyjum fram yfir siðaskipti.
Vegna þess hve víkingaöldin er litríkt tímabil í sögunni og hve ránsferðir og hernaður norrænna manna skipti miklu fyrir þróun efnahags og stjórnkerfis í Norður Evrópu á þessu tímabili hefur hugtakið „víkingar“ fengið merkinguna „allir norrænir menn á víkingaöld“ í hugum margra.

Víkingur

Íslenskur víkingur á alþingishátíðinni 1930.

Þetta á einkum við um enskumælandi þjóðir en frá sjónarmiði íbúa Bretlandseyja voru sjóræningjar frá Norðurlöndum og norrænir menn almennt einn og sami hópurinn. Af þeim sökum er hugtakið „Viking“ á ensku mjög oft notað sem samheiti fyrir Norðurlandabúa á víkingaöld, friðsamt fólk jafnt sem atvinnusjóræningja. Á Norðurlöndum hefur hinsvegar tíðkast að gera greinarmun á þeim tiltölulega litla hópi sem lagðist í víking og hinum sem heima sátu eða námu óbyggð lönd í úthöfum til að búa þar í friði og spekt. Landnemar á Hjaltlandi og Íslandi voru því ekki víkingar – í mesta lagi fyrrverandi víkingar – samkvæmt íslenskum málskilningi.
Annað starfsheiti frá sama tíma sem einnig hefur fengið merkingu þjóðernis er „væringjar“ en það hugtak var upphaflega notað eingöngu um Norður-Evrópumenn sem mynduðu lífvarðasveit keisarans í Miklagarði (nú Istanbúl). Í henni voru alls ekki bara norrænir menn, heldur líka Engilsaxar og Þjóðverjar, en hugtakið er samt oft notað almennt um norræna menn sem versluðu, rændu og settust að í austurvegi, það er við austanvert Eystrasalt og í Rússlandi.
Leifar sem varðveist hafa eftir víkinga og væringja, það er norræna sjóræningja, kaupmenn og hermenn á 9.-11. öld e. Kr., eru ekki miklar. Það sem vitað er um þetta fólk er mest úr írskum, enskum, þýskum, frönskum og grískum annálum og sagnaritum frá þessu tímabili. Nokkrir rúnasteinar, flestir frá 11. öld og í Svíþjóð, geta einnig um ferðir nafngreindra manna í austur- og vesturvíking. Yngri heimildir, til dæmis íslenskar fornsögur, eru miklu meiri að vöxtum en ekki að sama skapi áreiðanlegar.

Þórshamar

Þórshamar eftir uppgröft.

Á sumum svæðum þar sem norrænir menn settust að, til dæmis í Englandi og Normandí, eru örnefni helstu heimildirnar um þá. Það eru bæði nöfn sem norrænir menn hafa gefið bólstöðum sínum og nöfn sem innfæddir hafa gefið stöðum sem tengdust norrænum mönnum með einhverjum hætti. Í Englandi og í Rússlandi hafa einnig fundist nokkur kuml, heiðnar grafir með haugfé, sem greinilega eru norræn. Mun erfiðara hefur verið að bera kennsl á byggingar norrænna manna á þessum svæðum og virðast þeir hafa samið sig mjög fljótt að siðum innfæddra.
Í Englandi og á Írlandi hafa verið gerðir umfangsmiklir uppgreftir í bæjum sem norrænir menn réðu á víkingaöld. Stærstu og frægustu uppgreftirnir eru í York (Jórvík) á Englandi og Dublin á Írlandi. Leifarnar sem hafa fundist á þessum stöðum eru ekkert sérstaklega norrænar – þær skera sig lítið sem ekkert frá leifum úr öðrum bæjum í Norður-Evrópu á sama tíma sem tengjast norrænum mönnum minna (til dæmis Dorestad í Hollandi, Hamwic á Englandi og Novgorod í Rússlandi). Hins vegar er vitað að York og Dublin voru undir stjórn norrænna manna, einkum á 10. öld, og að uppgangur þeirra tengist verslun á vegum víkinga.

Fornleifar

Munir uppgötvaðir eftir fornleifagröft.

Það á líka við um bæi sem urðu til á Norðurlöndum á víkingaöld, til dæmis Ribe og Hedeby í Danmörku, Birka í Svíþjóð og Kaupang í Noregi, en við uppgrefti á þessum stöðum hefur fundist ýmiskonar varningur sem ber verslunarsamböndum víkinga vitni. Norðurevrópskir og arabískir peningar frá víkingaöld hafa fundist í þúsundatali á Norðurlöndum, ekki síst á Gotlandi, og eru þeir mjög mikilvæg heimild um verslunarsambönd á þessum tíma.
Á Norðurlöndum hafa menn einnig talið sig geta bent á gripi, yfirleitt úr kumlum, sem gætu verið afrakstur ránsferða utan Norðurlandanna. Það eru til dæmis kirkjugripir og skraut af bókum sem ætla má að hafi verið rænt úr kirkjum eða klaustrum. Slíkir fundir eru þó fáir.

Fornleifar

Gripur endurheimtur eftir fornleifauppgröft. Hér verður vitleysunni í kringum klaustursrannsóknir ekki gerð séstök skil.

Miklu sjaldgæfara er að menn hafi talið sig finna ummerki um víkinga utan Norðurlanda (það er önnur en örnefni og ótvíræð kuml). Gripir sem eru klárlega norrænir, eins og til dæmis kúptar nælur sem voru hluti kvenbúnings og norræn mynt, hafa mjög litla útbreiðslu utan Norðurlanda. Sérstæðar leifar eftir norræna menn eru til dæmis rúnarista á styttu af ljóni sem nú er í Feneyjum en var upphaflega í Aþenu, og önnur sem Hálfdan nokkur risti í Hagiu Sofiu, kirkju í Istanbúl.

Mjög mikilvægar leifar sem tengjast víkingum eru skip sem fundist hafa, bæði í grafhaugum (til dæmis Ásubergs- og Gauksstaðaskipin í Noregi) og á hafsbotni (til dæmis fjölmörg í Hróarskeldufirði í Danmörku). Skipin voru tæknileg forsenda fyrir víkingaferðunum og landnámi norrænna manna í Norður-Atlantshafi.

Ásubergsskipið

Ásubergsskipið.

Þau eru flest geymd og mörg höfð til sýnis í víkingaskipasöfnunum í Osló og Hróarskeldu (Roskilde).
Leifar eftir norræna menn á víkingaöld er því fyrst og fremst að finna á Norðurlöndum, og eru gripirnir yfirleitt varðveittir á söfnum, bæði þjóðminjasöfnum viðkomandi lands og hérðassöfnum. Í Noregi er hægt að skoða aðfangaskrár forngripasafnanna á dokpro.uio.no.
Sama gildir um gripi sem hafa fundist utan Norðurlanda. Þeir eru flestir varðveittir á þjóðminjasöfnum (til dæmis Skotlands, Bretlands og Írlands) eða á héraðsminjasöfnum. Á svæðum þar sem norrænir menn settust að má víða skoða uppgrafnar byggingar (til dæmis á Jarlshof á Hjaltlandi), tilgátuhús (til dæmis á Borg í Lófóten) og sýningar (til dæmis í York).

Heimildir:
-https://is.wikipedia.org/wiki/Fornleifafr%C3%A6%C3%B0i
-https://is.wikipedia.org/wiki/Fornleifaskr%C3%A1ning
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=28898
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=50983
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=4377

Þjóðminjasafnið

Þjóðminjasafnið.

Rauðhólssel

Í riti Egons Hitzlers, „Sel – Untersuchungen zur geschichte desislándischen sennwesens seit der landnahmzeit„, um seljabúskap frá árinu 1981 má t.d. lesa eftirfarandi:

Egon Hitzler

Egon Hizler (1942-2023) og  Gísli Sigurðsson (1903-1985).

„Það er enginn vafi á því, að seljabúskapur skipti í eina tíð miklu máli hér á landi. Um það vitnar hinn mikli sægur orða í málinu, sem á rætur sínar að rekja til hans, örnefnaforðinn og seljarústir víða um land. Með hjálp þeirra auk margskyns ritaðra heimilda, munnlegra heimilda og vettvangsrannsókna reynir höfundur að draga upp mynd af þróuninni frá
fyrstu tíð og fram á þennan dag. Helstu ritaðar heimildir frá miðöldum eru máldagar, kaup- og gjafabréf og dómar i fornbréfasafninu auk Landnámu, Íslendingasagna og lögbókanna. Frá síðari tímum er jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns drýgst.

Jarðabók

Jarðabók Árna og Páls 1703.

Ferðabækur og Íslandslýsingar frá 18. og 19. öld veita einnig mikinn fróðleik einkum um lífið og störfin í seljunum, sömuleiðis ritgerðir, sem skrifaðar voru á síðari hluta 18. aldar og um aldamótin 1900 til þess að reyna að blása nýju lífi í seljabúskapinn. Sýslulýsingar byggðar á spurningalistum Bókmenntafélagsins 1839-1873 gefa nokkra innsýn í ástandið á 19. öldinni og svör við spurningalista Þjóðháttadeildar Þjóðminjasafns 1962 um fráfærur varpa nokkru ljósi yfir síðasta skeið seljabúskapar hér á landi um aldamótin síðustu. Allar þessar heimildir hefur höfundur hagnýtt sér af stakri samviskusemi og útsjónarsemi, því að það er ekki auðvelt að hamra saman svo ólíka og sundurleita málma svo að úr verði samloðandi blanda.“

Í Árbók Hins íslenska fornleifafélags árið 2011 fjallar Gavin Lucas m.a. um seljabúskapinn. Skrif hans vöknuðu í framhaldi af uppgreftri á fyrstu seltóftunum hér á landi, „Pálstóftum„. Þær eru skammt austan við Jökulsá á Brú. Ástæður rannsóknarinnar voru fyrirhugaðar framkvæmdir við miðlunarlón Kárahnjúkavirkjunar, Hálslón.

Gavin Lucas

Gavin Lucas.

„Seljabúskapur er ein tegund af búskaparháttum þar sem búpeningur er fluttur frá heimabænum og haldið þar til beitar í því skyni að nýta heimalandið til að afla vetrarfóðurs. Víða um lönd er einnig þekkt að ýmis önnur verk eru unnin í seljum, einkum vinna við mjólkurmat, en einnig eru til dæmi um heyskap eða kolagerð og fer það eftir því á hvers konar stöðum selin eru. Talið er að seljabúskapur hafi borist til Íslands strax við landnám á síðari hluta 9. aldar og rekja megi hann til Noregs (þar nefnast sel sæter eða seter). Þar í landi er hægt að rekja þessa búskaparhætti aftur á járnöld. Ekki er heldur hægt að útiloka áhrif frá eyjunum norðan Skotlands og frá Írlandi, en þar tíðkuðust svipaðir búhættir (airge). Hér verður fjallað nokkuð um þátt seljabúskapar í norrænum búháttum.

Hraunssel

Hraunssel.

Fjörmargar seltættur eru hér á landi. Til þess benda bæði staðsetning, eðli mannvirkjann og lengd búsetunnar. Forvitnilegt að reyna að bera þessar minjar saman við þekktar seljaminjar frá sama tímabili í nálægum löndum.
Ýmsar rannsóknir hafa verið gerðar á Norðurlöndum þar sem reynt hefur verið að varpa ljósi á einkenni og eðli selja. Í Noregi gerði Hougen snemma (1947) úttekt á þessu efni, en mikilvægasta úttektin er eftir Reinton (1969). Hann skilgreinir þar þrjár gerðir selja og byggir skiptinguna á því hvað það var sem einkum var gert í selinu og hve langt þau voru frá býlinu sem þau tilheyrðu. Ein gerðin var sel sem höfðu margvíslega starfsemi („full shielings“), á öðrum var aðaláhersla á mjólkuröflun („dairy shielings“) og á hinum þriðju var heyjað („haymaking shielings“).

Sel

Sel – hús.

Algengt var að hús á seljum væru 2-4, en þau gátu einnig verið fleiri. Albrethsen og Keller studdust við þessa flokkun Reintons í rannsókn sinni á seljum á Grænlandi og komu fram með gagnlegar ábendingar um hvernig þekkja mætti slíka minjastaði á vettvangi.
Um sel á Íslandi hefur Þorvaldur Thoroddsen fjallað (1919) og byggði einkum á rituðum heimildum. Þá hefur E. Hitzler (1979) gefið út bók um íslensk sel og einnig notað ritheimildir til að ráða í uppruna seljabúskapar á Íslandi. Hann taldi sig sjá fjórar gerðir selja, sú skipting byggðist einkum á eignarhaldi og hvernig sambandi sels og býlis var háttað að lögum. Elst taldi hann að þau sel væru sem voru nálægt bæjum og urðu þau sel oft síðar sérstök býli.

Breiðholt

Breiðholtssel – uppdráttur ÓSÁ.

Algengast var á síðari öldum að þrjú hús væru á seljum. Í Íslenskum þjóðháttum Jónasar Jónassonar frá Hrafnagili er fjallað um seljabúskap á síðari hluta 19. aldar. Þá er gagnlegt yfirlit um íslenskan seljabúskap á ensku í riti Guðrúnar Sveinbjarnardóttur (1991).
Þó að til séu traustar heimildir sem styðja það að seljabúskapur hafi tíðkast alveg frá því á víkingaöld getur eðli þess búskapar hafa breyst og ekki er víst að hann hafi verið stundaður alltaf, eða alls staðar. Mest af þeim ítarlegu upplýsingum sem við höfum um þátt selja í búskapnum eru frá 18. og 19. öld og ekki er víst að auðvelt sé að nota þessar sögulegu heimildir sem hliðstæður til að skilja hvernig seljabúskap var háttað á víkingaöld.

Mosfellssel

Mosfellssel – tilgáta.

Albrethsen og Keller (1986) hafa fjallað um sel á Grænlandi. Þeir töldu það standa rannsóknum mjög fyrir þrifum að ekki hefði verið búið að skrá fornleifar á hálendi þar, þ.e. þær sem voru yfir 200 m yfir sjó. Nokkuð hefur verið bætt úr þessu síðar. Þeir settu fram hugmynd um þrískiptingu sem byggðist á verki Reintons, sem aðferð til að bera kennsl á hugsanleg sel og bentu á átta staði í Qordlortoqdal – sex þeirra töldu þeir einkum til mjólkurframleiðslu („dairy shielings“) og tvö sel fyrir margvíslega notkun („full shielings“), auk þess sem þar eru tvö fjallabýli. Enginn af þessum stöðum er hærra en 400 m yfir sjó og á flestum eru tvær eða fleiri byggingar, misstórar, sumar skiptast í fleiri hólf.

Vífilsstaðasel

Vífilsstaðasel – tilgáta – ÓSÁ.

Aðalmunurinn á þeim seljum sem þeir töldu hafa verið til margskonar nota og þeim sem aðeins voru fyrir mjólkurframleiðslu er að á þeim fyrrnefndu voru íveruhús og þau voru yfirleitt lengra frá bæ eða á stöðum sem hentuðu illa fyrir venjulegan búskap. Umfjöllun þeirra félaga byggist á skráningu sýnilegra minja og vistfræðilíkönum. Þeir voru einkum að velta fyrir sér áhrifum seljabúskapar á umhverfið og einnig að sýna fram á að sel hafi verið í norrænum byggðum á Grænlandi.
Sverri Dahl fjallaði um seljabúskap í Færeyjum á sjötta áratug 20. aldar og notaðist við örnefni til að bera kennsl á sel. Þó nokkrar selrústir fundust og var eitt sel síðar grafið upp.

Óttarsstaðasel

Óttarsstaðasel – tilgáta.

Á níunda áratug tuttugustu aldar hélt Ditlev Mahler áfram rannsóknum á þessu efni og studdist við skráningu á minjastöðum. Hann komst að þeirri niðurstöðu að flest sel í Færeyjum eru innan við 4-5 km frá bæ, og er meðaltalið 3 km og meðalhæð yfir sjó 76 m. Einnig lagði Mahler til að skipta mætti seljum í tvo flokka og studdist við lögun og stærð bygginga, einföld sel og flókin.
Fyrri rannsóknir á íslenskum seljum hafa einkum falist í skráningu fornminja í sambandi við örnefni. Guðrún Sveinbjarnardóttir skoðaði þrjú svæði og var athugun hennar hluti af stærra verkefni, rannsókn á eyðingu byggða á Íslandi. Hún komst að því að í flestum tilvikum voru sel fremur nærri heimabæ svo að auðvelt var að fara þar á milli, á seljum voru 1-2 mannvirki en 3-4 herbergi.

Litla-Botnssel

Litla-Botnssel – tilgáta.

Áhugavert er að sjá að þegar litið var á vegalengd milli býlis og sels kom fram greinileg tvískipting. Selin skiptust í stærri hóp sem lá að meðaltali 1,5 km frá býli og minni hóp í 3 km fjarlægð.
Helst er að sjá að þetta mynstur standi í sambandi við ríkidæmi býla. Selin á stórbýlunum eru lengra í burtu frá býlinu, trúlega vegna þess að jarðirnar voru stærri.
Sá ljóður er á flestum íslenskum úttektum að upplýsingar eru takmarkaðar. Tímasetning og greining minja byggist að miklu leyti á ritheimildum og örnefnum. Oftast hafa staðirnir verið í notkun á síðari öldum eða í mesta lagi seint á miðöldum.

Straumssel

Straumssel – tilgáta.

Annað sem flækir málið er að notkun staða hefur stundum breyst, sel hafa orðið að bæjum og öfugt, og ekki er víst að hægt sé að tengja tilteknar rústir við tiltekið tímabil eða notkun án uppgraftar. Ef litið er yfir þær upplýsingar sem til eru úr fornleifarannsóknum á selminjum umhverfis Norður-Atlantshaf, er eitt af því sem vekur mesta athygli hve margskonar staðirnir eru og byggingarnar margvíslegar. Ein ástæða fyrir mun á mannvirkjum gæti stafað af umfangi seljabúskaparins. Búast má við að auðugri býli með stærri hjarðir hafi komið upp seljum með stærri eða fleiri byggingum, allt eftir stærð hjarða og fjölda þess fólks sem sinnti skepnunum.

Arasel

Ara(hnúka)sel – tilgáta (ÓSÁ).

Einnig gætu reyndar auðugri býli hafa komið sér upp fleiri seljum og vel gæti það hafa verið hagkvæmara og betur fallið til að nýta sumarbeitina. Eins gætu staðir með mörgum byggingum alveg eins verið þannig til komnir að mörg minni býli hafi nýtt sama stað fyrir sel sín.
Að því er fram kemur í skráningu sem gerð hafði verið höfðu mörg býli verið yfirgefin þegar kemur fram á 12. öld og þá virðist hafa komið annað tímabil á 15. öld, þegar bæir voru yfirgefnir af ýmsum ástæðum, t.d. breyttu loftslagi.
Þegar á það er litið hvert var meginhlutverk selja í búskapnum, mætti ætla að víðtækari breytingar á búfjárhaldi kynnu að vera helsta ástæðan fyrir því að staðurinn var yfirgefinn.

Gjásel

Gjásel – uppdráttur ÓSÁ.

Margir fræðimenn hafa sýnt fram á að skepnuhald var fjölbreytilegra á fyrstu öldum eftir að landbúnaður hófst, bæði á Íslandi og öðrum samfélögum við Norður-Atlantshaf; ef til vill er skýringarinnar að leita í fækkun nautgripa og aukinni áherslu á sauðfjárbúskap.
Á síðari tímum tengdist seljabúskapur á Íslandi fremur sauðfé en nautgripum og bendir það til þess að samband selja og fjölbreytilegrar kvikfjárræktar sé í flóknara en ætla mætti. Þær vísbendingar sem við höfum af fornleifum benda í raun til þess að mörg venjuleg býli hafi lagst af eða bæjarstæði verið færð á 11. öld, bæði í jaðarbyggðum og frjósömum héruðum og kann þetta að vera merki um breytingar á samfélaginu fremur en breytingar á búháttum. Því gæti verið gagnlegt að horfa á selin, einkum fjarlæg sel þar sem búseta var á sumrin í því samhengi, líta á félagslega og pólitíska þætti, fremur en bara á efnahag og búskap.

Enginn vafi leikur á að skynsamlegar og hagnýtar ástæður eru fyrir því að nýta sumarbeit á fjalli og örugglega hafa menn nýtt sér beitina sem fyrir hendi var.

Selsvellir

Selsvellir – sel Grindvíkinga; uppdráttur ÓSÁ.

Ekki er þó víst að þarna hafi málnytupeningur verið hafður, en hugsanlegt er að það hafi fullt eins verið yfirlýsing um landnám að nýta þennan stað, að seljabúskapur hafi verið þáttur í að eigna sér land. Þegar á það er litið að stjórnarfar var óstöðugt á fyrstu öldum Íslandsbyggðar, má ætla að það hafi verið mjög gagnleg leið að eigna sér stórt landsvæði að koma sér upp „útstöð“ eins og seli. Ef til vill má því sjá það að selstöður voru yfirgefnar sem vísbendingu um að landakröfur hafi verið almennt viðurkenndar og eftir það hafi ekki verið þörf fyrir slíkan stað, – þetta gæti verið jafnlíkleg skýring á því að Pálstóftir aflögðust eins og breytingar á búskaparháttum hafi valdið því.
Í þessu sambandi verða „aukabúgreinarnar“ sem stundaðar voru á seljum líka mikilvægari. Hugsast getur að árstíðabundin búseta á stað eins og selin voru hafi verið þáttur í því að leggja undir sig land og hún sýni hvernig landnotkun og eignarhald á landi til fjalla gat verið margrætt. Ekki er víst að rétt sé að styðjast eingöngu við sögulegar hliðstæður eða einblína á hagnýta búskaparhætti. Selin eru hluti af heildarmynd hugmynda og samfélags ekki síður en atvinnuhátta og landbúnaðar og sér þess að sjálfsögðu stað í fornleifunum.“

Heimildir:
-Saga, 1. tbl. 1981, Egon Hitzler: Sel — Untersuchungen zur geschichte desislándischen sennwesens seit der landnahmzeit. Gefið út á vegum Institutt for sammenlignende kulturforskning af Universitetforlaget, Oslo — Bergen — Tromsa, 1979, 280 bls. með myndum og uppdráttum.
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 102. árg. 01.01.2011, Gavin Lucas, Pálstóftir, bls. 187-205.

Selsvellir

Sel á Selsvöllum

Fornistekkur

Til er áhugasamt fólk sem hefur gaman að skoða útgefnar fornleifaskráningar á Reykjanesskaganum, þ.e. þær skráningar sem yfirleitt eru gerðar opinberar.

Vetrarblóm

Vetrarblóm – fyrstu ummerki vorsins.

Fæstar skráninganna þykja ágætar, en margar eru vægast sagt hjákátlegar – þegar betur er að gáð. Sumar eru og beinlínis rangar, annars vegar að teknu tilliti til opinberra gagna og hins vegar með hliðsjón af ummerkjum á vettvangi að dæma.

Dæmi um ágæta skráningu er fornleifaskráning um Eldvörpin á vegum stjórnenda HS-Orku annars vegar og hins vegar hjá hinum þröngsýnu ráðamönnum Keflavíkurflugvallar.

Hvassahraun

Hvassahraunsstekkur II – uppdráttur ÓSÁ.

Þetta sama fólk hefur stundum verið að velta fyrir sér hvert hlutverk Fornleifarstofnunar Íslands er í að ákvarða áreiðanleika slíkra skráninga? Dæmi er um að stofnunin hafi hunsað framkvæmd mikilvægra fornleifaskráninga þrátt fyrir lögformleg tilmæli þess efnis. Auk þess hefur stofnunin látið hjá líðast að taka á misbrestum á ákvæðum gildandi laga í einstökum tilvikum. Sveitarfélög hafa jafnvel komist upp með að eyðileggja í óleyfi skráðar fornleifar, án áminningar. Þrátt fyrir allt framangreint hefur stofnunin tekið að sér að skrá fornleifar utanaðkominna í sérstaka opna „Minjavefsjá„. Inn í skrána hafa bæði slæðst alls kyns villur og mjög erfitt er fyrir áhugasamt fólk að nálgast og staðsetja einstakar minjar út frá „sjánni“.

Eldvörp

Eldvörp – fornleifaskráning.

Þegar skráningin fyrir Hvassahraun var t.d. skoðuð kom í ljós að á skráningarsvæðinu ættu t.d. að vera (skv. örnefnalýsingum) tveir heimastekkir, annar í Stekkjarnesi (Stekkjarnefi) og annar í Stekkjardal. Skv. fornleifaskráningu svæðisins fannst sá síðarnefndi ekki. Stekkurinn í Stekkjarnesi (Stekkjarnefi) er augljós ef örnefnalýsingar eru skoðaðar. Og þegar betur er að gáð, þrátt fyrir allt, má vel greina minjar stekksins neðst í Stekkjardal, fast ofan við sjávarkampinn.
Framangreint er einungis eitt tilgreint tilvik af fjölmörgum. Ef tíunda ætti þau öll myndi vefsíðan ein ekki duga til. Þess ber að gæta að sá er þetta skrifar fékk einkunnina 10.0 í fornleifaskráningu við nám í fornleifafræði við Háskóla Íslands á sínum tíma.

Framangreind umfjöllun er fyrst og fremst vinsamleg áminning um mikilvægi þess að vanda þarf vinnubrögð við fornleifaskráningar í hvívetna. Þær virðast kannski ekki skipta miklu máli þá og þegar þær eru gerðar, að teknu tilliti til kostnaðar hverju sinni, en þær munu vissulega gera það sem um munar er fram líða stundir…

Flekkuvíkurstekkur

Flekkuvíkurstekkur I – uppdráttur ÓSÁ.

Mundastekkur

Fornir stekkir, flestir nánast jarðlægir, virðast yfirleitt ekki vera áhugaverðar mannvistarleifar. En við nánari skoðun kemur annað í ljós. Þeir voru jú fyrrum órjúfanlegur hluti af búskaparsögunni.

Flekkuvíkurstekkur

Flekkuvíkurstekkur I – uppdráttur ÓSÁ.

Stekkir voru yfirleitt tvískiptir, hlaðnir úr grjóti og eða torfi, eins konar rétt með viðbyggðri „lambakró“. Í þeim var ám og lömbum haldið fráskildum þegar leið á vorið á meðan á mjöltum stóð sem og næturlangt.

Áður fyrr voru ær mjólkaðar jöfnum höndum í stekkjum nálægt bæ sem og í seljum, en í lok 19. aldar færðust þau búverk nánast alveg heim að bæ uns stekkjartíðin lagðist alveg af skömmu eftir aldamótin 1900. Þó var enn um sinn fært frá heima á bæ, enda þá víðast hvar hafin bygging sérstakra fjárhúsa, uns rekið var á afrétt. Eftir það stækkuðu heimastekkir til mikilla muna í takt við fjölgun fjárins, urðu líkari tvískiptum réttum. Þessir stekkir, eftir að þeir lögðust af sem slíkir, voru gjarnan síðar notaðir sem matjurtargarðar. Þannig má segja að vegghleðslurnar hafi þjónað tvenns konar hlutverki, fyrst að halda fénu innan og síðar utan þeirra.

Fornistekkur

Fornistekkur – uppdráttur ÓSÁ.

Bæði ummerki benda til og vitað er að stekkurinn var jafnan tvennskonar bygging. Rétt eða innrekstrar byrgi og kró eða lítið hús með þaki. Þar sem lömbin voru byrgð inni, þegar þeim var stíað frá ánum. Stekkurinn hefur jafnan verið valinn staður í skjólsælum hvömmum eða undir hólum, þó jafnan snertispöl frá bæ. Sælst var til að stutt væri í vatn frá stekknum, lækur eða árspræna.

Í seljunum var stekkurinn oftast tvískiptur, en í nærstekkir voru ýmist tví- eða þrískiptir.

Heimristekkur

Heimristekkur – uppdráttur ÓSÁ.

Ástæðan fyrir þriðja hólfinu er sennilega stækkun á lambakrónni á einhverjum tímapunkti, enda fjölgaði fé eftir því sem leið á. Þessi hólf eru jafnan hliðsett. Í sumum stekkjum er leiðigarður og jafnvel lítil „rétt“.

Tæplega kemur til mála að lambakróin hafi verið notuð sem fjárhús til þess var hún of langt í burt og of lítil. Þar sem svo hagaði til hefur vafalaust einhver ræktun myndast kringum stekkinn, og þá slegið þar, en um aðra ræktun hefur varla verið að ræða.
Dæmi eru um að stekkir ekki fjarri bæ hafi um stund verið notaðir sem „heimasel“, einkum eftir að selstöðurnar í heiðinni lögðust af og fólki fækkaði til sveita. Við þá stekki má gjarnan sjá hliðstæða tóft þar sem afurðirnar voru geymdar tímabundið milli flutninga. Þá eru og dæmi um að fjárborgum hafi um tíma verið breytt í stekki.

Borgarkotsstekkur

Borgarkotsstekkur – uppdráttur ÓSÁ.

Í Stekkjatíð var lömbunum stíað frá mæðrum sínum í viku til hálfan mánuð, byrjað var í miðjum júní og undir mánaðarmótin voru lömbin tekin frá mæðrum sínum fyrir fullt og allt. Talað var um að fara á stekkinn eða fara ofan á stekk. Lambféð var rekið á stekk um 9 leitið á kvöldin. Ærnar voru reknar inn í stekkinn og lömbin færð inn í stíuna. Síðan var ánum hleypt út og þær voru næturlangt í kringum stekkinn, þær höfðu að éta þar og fóru hvergi meðan þær heyrðu í lömbunum.

Færikvíar

Færikvíar.

Lömbin fengu broddmjólkina úr ánum og þegar byrjað var að stía var mjólkin orðin nógu góð til að hægt væri að nota hana í hvað sem var, enda var hún nýtt á svipaðan hátt og kvíamjólkin. Lömbin voru yfirleitt ekki mörkuð yngri en viku gömul en eftir það voru þau mörkuð, hvar sem náðist í þau. Börnum var oft gefið fráfærulamb á stekk en sjaldnast smalanum.

FERLIRsfélagar skoðuðu 22 þekkta stekki frá bæjum á Vatnsleysuströnd, milli strandar og Reykjanesbrautar.

Litlistekkur

Litlistekkur – uppdráttur ÓSÁ.

Þeir eru mislangt frá bæ, en þó aldrei lengra en svo að í þá væri ca. tuttugu mínútna gangur – stekkjargangur.

Stekkirnir eru misjafnir að gerð og lögun og hefur hvorutveggja væntanlega bæði markast af byggingaefni og aðstæðum á vettvangi. Stærð þeirra gefur til kynna fjölda mögulegs fjár frá viðkomandi bæ. Staðsetningin er nánast ávallt innan landareignar eða á mörkum.

Mannvirkin bera glögg merki fyrri búskaparhátta og eru því merkilegar fornleifar, ekki síst í heildar búskaparlandslagi hlutaðeigandi bæjar sem og alls sveitarfélagsins.

Miðmundarstekkur

Miðmundarstekkur.

Landmælingar

Víða um land má bæði sjá koparskildi á landmælingavörðum og steypustöplum með áletrun Landmælinga Íslands, auk málmpunkta eða -skrúfur í klöppum og á steinbjörgum. Bæði eru til dæmi um að fyrstu landmælingarmenn 20. aldar hafi nýtt sér fyrirliggjanfi vörðuhleðslur eða jafnvel hlaðið nýjar. Margar þeirra standa enn í dag.

Landmælingar

Koparskjöldur á landmælingavörðu (1958).

Á koparskjöldunum segir að „Röskun varði refsingu„. Hins vegar er hvergi að finna laga- eða reglugerðarbókstaf um það hver refsingin gæti verið. Hvorki er getið um refsiákvæði í „Lögum um landmælingar og kortagerð“ frá árinu 1997 né í „Lög um landmælingar og grunnkortagerð“ frá 2006. Í 12. gr. fyrrnefndu laganna segir að „Ráðherra setur nánari reglur um framkvæmd laga þessara“ og í 9. grein þeirra síðarnefndu er samskonar texti. Þær meintu reglugerðir er ekki að finna í Reglugerðarsafni ráðuneytanna, sbr. Island.is.

Margir þeirra sem leggja land undir fót um víðáttur landsins hafa eflaust rekist á framangreinda skildi á fjöllum og við forna vegi.

Landmælingar

Landmælingar – koparskjöldur á steinsteypustöpli.

Í því tilviki snertir röskun mannvirki en orðið röskun höfðar engu að síður til haga almennings og hinna margvíslegu verka hans og reglna. Siðmenntuð þjóðfélög setja vissar hömlur á athafnir þegna sinna og mynda lagalegan ramma um starfsemi og framferði þeirra, hvort sem þeim líkar betur eða verr. Í Biblíunni er t.d. varað við röskun landamerkja. Sama má segja um viðfangsefni íslenskra þjóðsagna. Í þeim er beinlínis bent á að sá eða þeir sem raska eða færa til vörður á merkjum verði refsað að afloknu þessu jarðlífi með því að þurfa að burðast með grjót það sem eftir er þegar yfrum er komið. Sennilega á koparskjaldaviðvörunin á landmælingamerkjunum að höfða til slíks, enda hvoru tveggja jafn mikilvægt, bæði landeigendunum og landmælingafólkinu.

LandmælingarEkki hefur verið ritað um hvenær Landmælingar Íslands byrjuðu að nota nefnda koparskildi, þrátt fyrir ítarlegt rit Ágústs Böðvarssonar, fyrrum forstjóri Landmælinga Íslands, um „Sögu landmælinga og kortagerðar Dana hér á landi“ og kom afraksturinn út á bók sem gefin var út í tilefni 40 ára afmælis Landmælinga Íslands árið 1996. Í bókinni er ekki minnst á merkingarnar, sem þó hefði verið merkilegur fróðleikur út af fyrir sig. Eflaust leynast innan LÍ frekari gögn um skildina þá ‘arna eða jafnvel á Þjóðskjalasafninu, en greinarhöfundur nennti ekki, að fenginni reynslu, að hafa samskipti við starfsfólk þessara stofnana. Viðbrögðin hafa oftar en ekki verið heldur neikvæð. Áletranirnar ÞR og MS á merkjunum ættu a.m.k. að vekja upp einhverjar spurningar.

Sum bæjarfélög létu hlaða vörður á mörkum og koma fyrir koparskjöldum með áletrun, s.s. Hafnarfjörður 1956. Á skildinum segir „Lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar“ með nr. og ártali. Það var endurtekið 1978, en í stað þess að hlaða vörður voru steyptir stöplar á mörkunum með áföstum skjöldum.

Landmælingar

Lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar 1978.

Dæmi var um að einhverjir landeigendur hafi ekki viljað sætta sig við staðsetninguna, einkum þegar um breytingar var að ræða, og fjarlægðu koparskildina – líkt og gerðist á Setbergshamri. Setberg hafði áður tilheyrt Garðabæ, en við breytingarnar varð hálf landareignin færð undir Hafnarfjörð í skiptum fyrir hraunspildu.

Þegar koparskildirnir á vörðunum og steinsteypustöplunum eru skoðaðir, a.m.k. á Reykjanesskaganum, má t.d. sjá á þeim ártölin 1957, 1958 og 1959. Dæmi eru þó til um eldri gerð slíkra skjalda annars staðar á landinu, jafnvel frá konungstímabilinu millum 1919-1044. Margir þeirra eru þó án ártala, einungis með skráðu númeri. Hafa ber a.m.k. tvennt í huga. Annars vegar að Landmælingar Íslands urðu til sem sjálfstæð stofnun árið 1956 og hins vegar að á skjöldum stofnunarinnar er skjaldarmerki Íslands frá 1944.

Skjaldarmerki

Kóróna í skjaldarmerki Íslands, hinu eldra af landvættaskjaldarmerkjunum og tók við af fálkamerkinu og þar áður því með útflatta þorskinum. Merkið var í gildi 1919-1944, þegar Ísland var enn í konungssambandi við Dani.

Á fundi Alþingis, sem haldinn var 17. júní 1944 á hinum forna þingstað Þingvöllum við Öxará, var lýst yfir því að lýðveldi væri endurreist á Íslandi. Síðan kaus Alþingi fyrsta forseta lýðveldisins til eins árs, en eftir það skyldi hann þjóðkjörinn. Á ríkisráðsfundi, sem haldinn var sama dag á Þingvöllum, gaf hinn nýkjörni forseti, Sveinn Björnsson, út forsetaúrskurð um skjaldarmerki lýðveldisins, þ.e. það skjaldarmerki sem vér þekkjum í dag.
Þessir kopaskildir eru vandlega boltaðir, stundum með einu og jafnvel með þremur hnoðum hver og hafa því flestir staðist mjög svo veðraða tímans tönn. Fáir hafa verið fjarlægðir með handafli, a.m.k. hingað til.

Sennilega hefur verið talin ríkari ástæða til að merkja og/eða viðhalda mikilvægum fyrrum mælipunktunum bæði fyrir og á fyrstu árum stofnunarinnar, ekki síst í hinu sögulega samhengi landmælinga í landinu, þegar einungis var stuðst við þrívíddamælingar en er síðar varð með tilkomu nútímalegri mæliaðferða þar sem hæðir og lægðir réðu meiru. Enda má segja að upp frá því hafi föstum hnoðpunktum og skrúfum fjölgað til mikilla muna á landinu. Við flesta þá punkta er stuðst við GPS-mælingarnar enn þann dag í dag.

Skjaldarmerki

Skjaldarmerki Íslands.

Eftirfarandi samantekt er að hluta unnin upp úr “Atriði úr sögu Landmælinga Íslands frá stofnun 1956 til ársins 2006” sem Svavar Berg skrifaði, án þess þó að minnst sé á fyrrnefnda kopaskildi eða „refsinguna“ þeim til handa:

Mælingar og kortagerð Dana á Íslandi
Árið 1956 urðu Landmælingar Íslands til sem sjálfstæð stofnun. Sögu þeirra verkefna sem stofnunin tók við árið 1956 má þó rekja aftur til aldamótanna 1900 þegar landmælingadeild danska herforingjaráðsins (síðar Geodætisk Institut) hóf landmælingar og kortagerð hér á landi. Verkefnið stóð yfir í 27 sumur á árunum 1900 til 1940. Afraksturinn var 670 kortatitlar en af þeim voru 227 útgefnir m.a. Atlaskortin og Herforingjaráðskortin sem margir þekkja.

Landmælingar

Landmælingar- herforingjakort af Álftanesi frá 1904.

Í tengslum við mælingarnar urðu til mikill fjöldi frumgagna sem geymdar voru hjá Geodætisk Institut s.s. teikningar, ljósmyndir og mælingabækur.
Ágúst Böðvarsson (seinna forstjóri LMÍ) lagði áherslu á að Íslendingar fengju þessi gögn til varðveislu og eignar. Samningar milli Landmælinga Íslands og Geodætisk Intstitut leiddu til þess að frumgögnin voru send til Íslands, í áföngum, sú síðasta árið 1985.
Loftmyndataka af Íslandi Danir höfðu einnig tekið ljósmyndir úr lofti af Íslandi árin 1937 og 1938 til að auðvelda gerð korta af hálendinu, en fyrirkomulag þeirrar myndatöku var annars eðlis en þeirrar sem almennt er notuð til kortagerðar (skámyndir).
Árið 1951 hófst nýr kafli í kortagerð á Íslandi; taka og gerð loftmynda til kortagerðar. Þar með hófst hjá Landmælingum Íslands tímabil þessarar sérhæfðu myndatöku sem stóð til ársins 2000 en alls voru teknar um 140.000 loftmyndir af landinu.

Landmælingar NATO og nýtt þríhyrningamælinet Hjörsey 1955

Kjalarnes

Kjalarnes – norðurhluti (AMS-kort).

Árið 1955 hófust umfangsmiklar landmælingar á Íslandi að frumkvæði Norður-Atlantshafsbandalagsins (NATO), en þær voru liður í stærra mælingaverkefni landa við Norður-Atlantshafi. Mælingunum lauk sumarið 1956 og hafði Kortagerðarstofnun bandaríska varnarmálaráðuneytisins, AMS, yfirumsjón verksins á Íslandi en samstarfsaðilar voru Landmælingar Íslands og Geodætisk Institut.
Afurðirnar úr þessu verkefni voru meðal annars nýtt og aukið þríhyrningamælinet af öllu Íslandi sem kennt var við Hjörsey á Mýrum og flokkur staðfræðikorta af Íslandi í mælikvarða 1:50 000. Kortin voru gerð í samvinnu við AMS og fór vinnan fram bæði vestanhafs og hér heima. Samkvæmt yfirliti yfir kortin þekja um það bil 200 kortblöð allt landið.

Landmælingar Íslands í Reykjavík 1956-1998

Landmælingar

Landmælingar á frumstigi.

Landmælingar Íslands voru stofnaðar árið 1956 og tóku við verkefnum á sviði landmælinga, loftmyndatöku og gerð korta af Íslandi. Fyrsti forstjóri stofnunarinnar var Geir G. Zoëga og tilheyrði stofnunin fyrst samgönguráðuneytinu.
Landmælingar hér á landi höfðu fram til þessa verið hluti Vegagerðar ríkisins en við stofnun Landmælinga Íslands var starfsemin flutt í hús Vitamálastofnunarinnar að Seljavegi 32 í Reykjavík. Árið 1961 flutti stofnunin í stærra húsnæði að Laugavegi 178 en árið 1959 hafði Ágúst Böðvarsson tekið við sem forstjóri stofnunarinnar.

Fara á alla punkta

Landmælingar

Landmælingar á nútíma við göml stöplana.

Þrátt fyrir alla tækni þurfa landmælingamenn eftir sem áður að fara um allt land og mæla eins og gert hefur verið frá því mælingar hófust hér á landi fyrir rúmri öld. „Við förum á alla punkta og setjum upp tækin. Við þurfum minna að klöngrast upp á fjöll en áður eftir að GPS-tæknin kom til. Punktarnir okkar eru ýmist steyptir stöplar eða koparboltar steyptir niður í klöpp. Við stillum
loftneti yfir þessa punkta, mælum hæðina og tækið er láta ganga. GPS-tæknin er mesta byltingin sem orðið hefur í þessum mælingum en síðan eru ýmsar aðrar breytingar eins og fjölgun gervitungla. Annars er mikil þróun í þessu um allan heim.

Landmælingar

Landmælingastöpull á Krýsuvíkur-Mælifelli.

Maður sér þetta kannski helst á því hve allar upplýsingar eru meira notaðar en áður eftir að GPS-tæknin kom í símana. Þeir eiga eftir að verða enn nákvæmari en núna er skekkjan í þeim um fimm metrar. Staðsetningatæki skipta gríðarlegu máli í nútíma samfélagi, ekki bara á landi heldur líka til sjós og í lofti.“ Guðmundur segir 3-4 menn frá Landmælingum Íslands verða við mælingarnar í sumar. „Það er komin mikil reynsla á GPS-mælingar hér. Tækin eru orðin betri og með endingarbetri rafhlöðum, þannig að nú getum við keyrt þetta á mun færri mönnum en við gerðum áður.“

Gerðir fastmerkja

Landmælingar

Landmælingar – bolti á Sýslusteini sunnan Lyklafells.

Algengustugerðir fastmerkja í landshæðarnetinu eru: bolti, láréttur bolti,bolti í steini og bolti í röri. Þegar talað er um bolta er átt við fastmerki sem steypt er niður á stað sem talist getur varanlegur s.s. klöpp, brúarundirstöður o.fl. Þegar því er ekki komið við er reynt að finna mannvirki þar sem hægt er að setja láréttann bolta. Á landsvæðum þar sem lítið er um klappir og byggingar hefur reynst nauðsynlegt að setja bolta í jarðfasta steina eða reka niður galvaniserað rör og steypa bolta í það. Möguleiki er á að hæð þessara fastmerkja hafi breyst frá því að þeir voru mældir t.d. vegna frostlyftingar.

Landmælingar

Landmælingar – mælistöpull.

Mælt er með því að notast sé við fastmerki á varanlegum stað sé þess kostur. Sé annað valið ber að kanna gaumgæfilega hvort ætla megi að fastmerkið hafi haggast síðan það var mælt. Á nokkrum stöðum var notast við skrúfur sem fast merki. Hæð þessara fastmerkja miðast alltaf við hæsta punkt skrúfunnar og ber að haga mælingu eftir því. Þá hafa verið mældir þeir stöplar í grunnstöðvanetinu sem mögulegt var að tengja við hæðarkerfið með ásættanlegum tilkostnaði og fyrirhöfn.“

LandmælingarÍ „Lögum um landmælingar og grunnkortagerð“ frá árinu 2006 segir í 2.gr.: „Meðal hugtaka sem hér eru skilgreind er hugtakið hæðarkerfi. Er hugtakið skilgreint sem net eða kerfi fastra hæðarmælipunkta, t.d. málmbolta, á yfirborði jarðar. Venjulega eru þessir málmboltar úr kopar sem steyptir eru í klappir eða stöplar með koparboltum„.

Heimildir:
-https://www-gamli.lmi.is/wp-content/uploads/2016/11/saga_lmi_56_16-1.pdf
-Lög um landmælingar og grunnkortagerð, 2006.
-Lög um landmælingar og kortagerð 1997 nr. 95 26. maí.
-Landmælingar og kortagerð Dana á Íslandi. Upphaf Landmælinga Íslands, Ágúst Böðvarsson, Landmælingar Íslands 1996.
– Atriði úr sögu Landmælinga Íslands frá stofnun 1956 til ársins 2006, Svavar Berg.

Landmælingar

Landmælingar – koparskjöldur í Hvassahrauni (1959).

 

Gvendarborg

Guðný Zoëga Sigríður Sigurðardóttir tók saman grein, „Lesið í landið – Vinisburður búsetuminja„, sem gefin var út í Smáriti Byggðasafns Skagfirðinga árið 2010. Hér má sjá hluta efnisins:

Formáli

Guðný Zoëga Sigríður Sigurðardóttir

Guðný Zoëga Sigríður Sigurðardóttir.

Uppflettirit þetta er fyrir þá sem hafa áhuga á að leita upplýsinga um gamla tíma og horfna búskaparhætti á ferð um landið. Falleg náttúra virkar eins og segull á sálina. Þangað þyrpist fólk til að njóta og nærast. Með vaxandi áhuga á ferðalögum innanlands hafa augu okkar opnast fyrir því að fleira er í umhverfi okkar sem skiptir máli en náttúran sjálf. Ef grannt er skoðað má finna og sjá menningarminjar sem landið geymir enn þar sem menn hafa ekki umbylt jörðu og kaffært með húsum. Það er spennandi viðbót á ferð um landið að geta lesið í gamlar tóftir og spáð í hvað var þar umleikis fyrir hundrað árum og jafnvel fyrr. Sagan talar til okkar frá gömlum tóftarbrotum og örnefni minna á þjóðhætti. Mörgum þykir lítið augnayndi í veggjabrotum og hálfhrundum húsum, en ef við þekkjum hlutverk þeirra og horfum á þau út frá handverkinu sem í þeim felst blasa við okkur heimildir sem geta sannarlega kryddað tilveruna.

Ögmundarhraun

Hin forna gata um Ögmundarhraun, áður en vagnvegurinn var lagður.

Með þessu smáriti er gerð tilraun til að skapa fólki, sem er á faraldsfæti möguleika til að lesa í landið og sjá við hverju má búast, og hvar og hvers vegna. Því þrátt fyrir alla náttúrfegurðina sem við njótum á ferð um landið okkar er það mikils virði fyrir marga að geta bætt inn í myndina væntingum um að sjá meira en augað nemur í fljótu bragði og átta sig á hvernig forfeður okkar nýttu sér þetta sama umhverfi og settu mark sitt á það. Fáir fara um lönd án leiðarvísa eða landakorta þar sem sjá má bæjarnöfn og örnefni. Með þetta litla kver í viðbót við landakortið er von okkar sú að ferðin verði enn meira spennandi. „Landslagið yrði lítils virði ef það héti ekki neitt“, sagði skáldið og til viðbótar má bæta við … og hvergi sæjust spor genginna kynslóða.

Búsetuminjar

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir í Hraunum – uppdráttur ÓSÁ.

Búsetuminjum má gróflega skipta í tvo flokka, minjar í túni og minjar utan túna. Stærsti minjaflokkurinn teljast útihús hverskonar. Innan túns má nefna fjós, fjárhús, hrútakofa, hesthús, hlöðu, lambhús, smiðju og skemmu. Utan túns eru beitarhús, stekkur, heytóft, rétt, smalakofi, sel og byrgi ýmiskonar og fleira. Aldur útihúsa er sjaldan þekktur. Oft voru þau byggð öldum saman á sama stað. Leifar eldri mannvirkja kunna því að leynast undir tóftum þeirra yngri.
Lega og útlit minja gefur oft til kynna hvaða minjar um er að ræða þó svo engar heimildir séu til um notkun þeirra. Í mörgum tilvikum er þó erfitt að ákvarða um notkun mannvirkisins.

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir; meint kirkja og bæjarhóll Kirkjuhafnar.

Bæjarhólar urðu til við það að sífellt var bætt við, endurbyggt og húsum breytt á sama stað. Við það hækkuðu hólarnir og breikkuðu eftir því hve lengi var búið á sama stað og hve húsin voru mörg og stór. Bæjarhólar eru gríðarlega mikilvægar heimildir um mannlíf fyrr á öldum því þeir varðveita upplýsingar um húsakost og lifnaðarhætti og þar eru mestar líkur á að verðmætir gripir finnist. Núverandi hús eru oft byggð ofan á eða inn í gömlu bæjarhólana, en oft má líka sjá þá sem grænar stórar þústir og hóla í landslaginu.

Minjar innan túns og heimalands

Elliðakot

Elliðakot – beðasléttur.

Minjar innan túns eru oft horfnar vegna jarðabóta eða annarra framkvæmda nútímans. Þó má enn finna merki um búsetuhætti á gömlum túnum, einkum þar sem bæir hafa farið í eyði um og fyrir vélvæðingu.

Beðasléttur – Leifar túnsléttunar frá um 1880-1925. Minjar um þúfnasléttun, jarðrækt sem unnin var í höndunum og hafa yfirleitt verið útmáðar. Helst sjáanlegar á eyðibýlum sem fóru í eyði fyrir vélvæðingu. Beðasléttur eru fremur mjóir, lítið eitt kýfðir teigar með rásum (ræsum) á milli þannig að vatn rennur af þeim.

Baðlaugar – Hér og hvar á landinu má enn finna náttúrulegar laugar þar sem fólk tók sér bað sér til heilsubótar. Nokkrar eru upphlaðnar. Á nokkrum stöðum voru laugarnar einnig notaðar til þvotta.

Stafnes

Stafnesbrunnur.

Brunnar – Brunnar og vatnsból voru mikilvæg enda var greiður aðgangur að vatni grunnforsenda þess hvar bæjum var valinn staður.
Brunnar voru oft grjóthlaðnir, gjarnan hringlaga en stundum ferkantaðir og gátu verið nokkurra metra djúpir. Vatnsból s.s. við uppsprettulindir voru einnig gerð aðgengileg með hleðslum, ef þurfti.

Fjárhús/kvikfénaðarhús/búpeningshús: Fjárhústóftir eru margvíslegar og stærð þeirra getur verið mismunandi og oft má greina garða eftir miðri tóftinni eða stalla við veggi.

Fjós – Fjóstóftir eru oft fast við bæinn sjálfan eða nálægt honum. Einkenni þeirra er flórinn, básarnir og jatan, við annan hvor vegginn.

GeymslaGeymsla – Skemma fyrir verkfæri, ull eða matvæli.

Heimreið – Síðasti spott afleggjarans heim á bæjarhlaðið. Oft upphlaðin meðfram götum í gegn um túnið og heim á hlað.

Hestasteinn – Var yfirleitt staðsettur á bæjarhlaði eða á stöðli. Til að binda á ferðahesta meðan staldrað var við eða á meðan menn bjuggu sig til ferðar.

Hesthús – Hús með stalli við annan langvegg. Ýmist heima við bæi, yst í túni eða við túngarð.

Heyhlaða – Hlöður voru yfirleitt áfastar við búpeningshúsin en þær gátu líka verið frístandandi.

HeykumlHeytóft/heykuml – Hey var hlaðið upp í fúlgur og tyrft yfir þannig að skepnur komust ekki að því. Hyllst var til að velja þurran og góð an stað þar sem vatn rann frá heyjum og hlaðinn garðstubbur umhverfis heyið. Sami staður var notaður ár eftir ár og smám saman myndaðist tóft sem oft eru með ógreinilegum „veggbrotum“.

Hjallur – Geymsla eða skúrbygging úr timbri, þiljuð til hálfs. Notuð til að þurrka og geyma í mat, s.s. þurrkað kjöt, skreið, hákarl og fleira.

Hlaða – Heygeymsla fyrir hey, hlaðið úr torfi og grjóti með þaki. Yfirleitt áföst við búpeningshús, en þekkjast stakar.

Hrútakofi

Hrútakofi.

Hrútakofar – Smærri torf- og grjóthlaðnir kofar, oft yst í túni, með jötu við langvegg.

Kálgarður – Nærri húsum eða utanvið túngarð þar sem sólar naut og var vel varinn fyrir búfénaði. Oftast með hlöðnum torf- eða grjótgörðum.

Kofar – Torf- og grjóthlaðnir kofar til geymslu búfjár, hænsna, eða annarra eigna.

Kvíar – Kvíar voru oftast í túni eða rétt utan þess. Þar voru kvíaær mjólkaðar. Kvíar voru oft hlaðnar úr torfi og grjóti, aflangar, fremur þröng rétt. Breiddin var tvær ærlengdir með gangvegi á milli. Bændur voru einnig með kvíar úr timbri, færikvíar, sem þeir gátu fært til eftir þörfum. Örnefnir kvíaból vísar til þess hvar kvíarnar stóðu.

KvíarLambhús – Smærri kofar eða hús oft sambyggð öðrum búpeningshúsum eða mannabústöðum.

Myllur – Kornmyllur knúðar vatni voru við marga bæi á 19. öld og fram á þá 20. Oft hafa myllusteinarnir einir, sem möluðu kornið, varðveist eftir að myllurnar sjálfar hrundu. Mylluörnefni á mörgum bæjum vísa til þess hvar myllurnar voru. Myllutóftir eru enn finnan legar við ár eða læki. Þær eru litlar, grjót- og torfhlaðnar og dyr eða op er á tóftinni þar sem vatnið var leitt inn og út. Grafnar rennur eru úr læk ofan við að tóftina sem vatnsmagninu var stýrt um.

Ræsi – Stungin rás fyrir vatn. Oft var brúað yfir og þá var einnig talað um ræsi.

Skemma

Skemma.

Skemmur – Geymsla fyrir verkfæri, áhöld, matvæli, ull, tjöru, of fleira sem búið þurfti. Yfirleitt hlaðin upp af torfi og grjóti, með framþili úr timbri.

Skurðir – Grafnar vatnsrásir til að ræsa fram vatn og þurrka upp landið. Verulegur munur eru á handgröfnum og vélgröfnum skurðum, sem þekkist best á stærð þeirra.

Smiðjur – Smiðjur voru oft við bæjarstæðið sjálft, en einnig eru dæmi þess að þær hafi staðið í túni dálítið frá bænum, vegna eldhættu. Oftast frekar smáar tóftir.

Túngarður – Hlaðinn garðveggur úr torfi og/eða grjóti, til að verja tún.

Minjar utan túns

Garðahverfi

Garðatúngarður.

Sá flokkur minja sem jafnan hefur varðveist best eru hverskyns minjar utan túns. Þær liggja gjarnan á stöðum þar sem nútíma jarðrækt hefur aldrei verið beitt.

Áveitu- og stíflugarðar – Víða á engjum, við ár og vötn, eru enn gamlir áveitu- eða stíflugarðar, frá þeim tíma er menn nýttu áburð vorflóðanna. Þegar flæddi hlóðu menn garða fyrir útfallið þannig að leðjan úr vatninu, sem var hinn besti áburður, settist til og varð eftir þegar vatnið gufaði upp eða sjatnaði.

Beitarhús/hagahús – Beitarhús voru oft byggð upp þar sem góður hagi var eða á gömlum selstæðum, allt upp í nokkurra kílómetra fjarlægð frá bæ. Þar var fé beitt yfir vetrartímann til að hlífa túnum og heimahögum. Beitarhúsatóftir samanstanda af myndarlegri fjárhústóft eða tóftum, og yfirleitt er hlaða áföst fjárhúsunum.

Nes

Fjárborg við Nes í Selvogi.

Borgir – Hrossaborgir, sauðfjárborgir. Hringlaga, yfirleitt hlaðnar úr grjóti, þykkir veggir, með dyrum á. Lágum fyrir sauðfé, hærri fyrir hross.

Brunnur – Þar sem ekki var hægt að ganga að uppsprettu eða rennandi læk með hreinu vatni grófu menn brunna nálægt bæjum sínum. Oft um 5-7 m. djúpir og grjóthlaðnir að innan. Með vindu yfir og oft svokölluðu brunnhúsi sem byggt var yfir brunnana. Víða má sjá merki hringlaga jarðfalls þar sem brunnurinn var, en sjaldnast er nokkuð eftir af þeim þar sem menn hafa sléttað tún umhverfis bæina og fyllt upp í brunnana.

Brú – Brúað var yfir ár með trjám, sem lögð voru á örugga kletta eða aðra undirstöðu, stundum hlaðna brúarstöpla. Og eru það oft einu sjáanlegu merki brúargerðar yfir ár og læki. Önnur brúargerð var þegar hlaðin var jarðvegsbrú úr gjóti og/eða torfi yfir mýrlendi. Einnig Jarðbrú.

Katlahraun

Fjárbyrgi í Katlahrauni.

Byrgi – Fjárbyrgi, lambabyrgi. Hlaðið skjól fyrir búfé líkt og fjárborgirnar. Einnig eru sumstaðar skotbyrgi, til tófu- og refaveiða á heiðum og upp il fjalla, en þau eru miklu minni en fyrir búfénað.

Búð – Tjaldbúð, þingbúð. Stundum er hægt að greina lága veggi úr torfi og/eða grjóti umhverfis „búðina“.

Dómhringir – Hugsanlega hringlaga garðaleifar, ef sjáanlegar. Fremur ólíklegt er að sjá dómhringi í minjaumhverfinu.

Dysjar/kuml – Heiðnir fornmenn voru dysjaðir í kumlum sem hægt er að sjá hér og hvar þar sem jörð hefur beitt og er ósnert frá þjóðveldistíma. Dysjar/kuml má þekkja á því að oft er steinum raðað í sporöskjulaga.

Villingavatn

Villingavatn – fjárborg á Borgarholti.

Fjárborgir – Fjárborgir voru hringlaga, hlaðnar úr torfi eða grjóti. Fjárborgir voru algengar sunnan lands og austan, en fáséðari norðan og vestan. Hlaðnar nær sama í toppinn og dyr miðaðar við sauðfé, sem borgirnar voru fyrir, oft fjarri bæjum.

Garðlög – Margskonar garðlög er að finna umhverfis tún og utan þeirra. Bæjarstæði voru oftast afmörkuð með hlöðnum túngarði þá oftast úr grjóti og torfi. Garðar umhverfis beitarhús geta verið vísbendingar um að áður hafi verið þar býli. Vallargarðar eru garðar utan túna. Oft er erfitt að geta sér til um not þessara garða en líklega hafa þeir þjónað þeim tilgangi að aðgreina land í nytjaeiningar. Svokallaðir landamerkjagarðar voru einnig hlaðnir á mörkum landeigna.

Hellisheiði

Forn gata á Hellisheiði.

Gata/götur – Leið sem menn og skepnur hafa farið aftur og aftur þar til myndast hefur greinileg slóð, gata, götur sem haldast árum og árhundruðum saman.

Gerði – Afgirt svæði yfirleitt með hlöðnum garðveggjum umhverfis. Sennilega eru þau í flestum tilfellum leifar fornbýla.

Gildrur – Refagildrur, fiskigildrur. Yfirleitt hlaðnar úr grjóti.

Gjafaréttir – Gjafagirðingar eru hringlaga opnar réttir eða aðhald fyrir sauðfé í útbeit. Yfirleitt hlaðnar úr grjóti og torfi.

Heytóftir – Þar sem hey var slegið á engjum eða mýrum voru hlaðnir upp garðstubbar um svokallaðar heytóftir. Þar var heyinu safnað saman og það sett upp í heyfúlgu sem byrgð til geymslu fram á vetur þegar þurfti að fóðra búsmalann. Slíkar tóftir eru oftast ferkantaðar eða sporöskjulaga með engum dyrum. Að vanda eru tóftirnar nokkru hærri en umhverfið til að halda heyinu þurru og til að varna því að búsmali kæmist að því.

Heytóft

Heytóft.

Heyvinnsla – Stundum má sjá minjar um fyrstu tilraunir til túnsléttu og kallast það beðasléttur. Frá aldamótum og fram um 1930 var unnið að túnasléttun og framræslu á flestum bæjum. Tímabilið er í þessu sambandi oft nefnt þaksléttutími. Fyrsta áratuginn voru notuð handverkfæri. Sléttað var í löngum ræmum eða beðum sem síðan settu svip á túnið. Sléttaðar voru tóftir næst bæjum og jafnað úr gömlum húsum sem staðið höfðu dreifð innan túns.

Hrossaborgir – Svipaðar og fjárborgirnar, með hestgengum dyrum. Af sama tagi voru skjólgarðar sem hlaðnir voru fyrir stóðhross á útigangi og svokallaðir krossgarðar, sem gegndu sama hlutverki og voru hlaðnir í kross.

Kartöflugarður/jurtagarður – Yfirleitt voru kál- og kartöflugarðar upp við bæinn eða utan túns, upp við túngarðinn, þannig að hann nýttist sem ein hlið garðsins. Hyllst var til að hafa jurtagarða á móti suðri. Garðveggir voru hlaðnir úr torfi.

Flekkuvíkursel

Flekkuvíkursel – kolagröf.

Kolagröf – Hér og hvar á heiðum og innst í dölum, oft á afréttarsvæðum, finnast grunnar, gryfjur eða grafir, þar sem gert var til kola fyrr á tíð. Þá var safnað hrísi, fjalldrapa og öðrum grófum runnagróðri. Greinarnar rifnar af og hafðar til eldiviðar en leggirnir högg nir í gryfjuna sem var fyllt. Þá var kveikt í gryfjunni og tyrft yfir þannig að lofttæming varð. Við þetta myndaðist mikill hiti og tréð þornaði. Brúnkol, eins og þetta efni var kallað, voru mun betri á smiðjuaflinn en t.d. mór.

Kláfar – Trékassar sem dregnir voru á strengjum yfir ár á milli gljúfurbarma. Merki þeirra eru hugsanlega vinduleifar eða hlaðnir stöplar.

Brennisel

Brennisel – kolagröf í miðið.

Kolagrafir – Þar sem áður var kjarr- og skóglendi má finna grafir sem í eru koluð tré. Það eru leifar eldiviðar sem unnin var í gröfum þessum. Þ.e. runnar voru rifnir og tré höggvin ofan í gryfjuna, kveikt í og allt byrgt með torfi. Við hitunina koluðust trén og gáfu mun meiri hita þannig.

Lambabyrgi – Skjól, byrgi eða kró, ýmist náttúruleg eða upphlaðin, til að hýsa lömb í.

Laug – Heitavatns uppsprettur og volgrur voru notaðar til baða og fataþvotta. Stundum voru þær upphlaðnar að hluta eða öllu leyti.
Yfirleitt eru þær utan túna en ekki var það regla.

Leiði – Legstaður grafinna í kirkjugarði. Oft sem aflangar risaþúfur í gömlum kirkjugörðum sem ekki hafa verð sléttaðir.

Krýsuvík

Krýsuvík – mógrafir.

Mógrafir – Má enn finna í mýrlendi þar sem er þykkur jarðvegur vel varðveittra lífrænna árþúsunda gamalla jurtaleifa. Yfirleitt eru þær fallnar saman og grunnar, uppgrónar og hættulausar.

Nátthagi – Torf og grjóthlaðnir yfirleitt hringlaga garðar, með hliði á. Nátthagar eru frá þeim tíma þegar fráfærur voru stundaðar í stórum stíl. Næturhólf til að bæla fráfærulömbin á stekktíðinni. Mylkum ám var haldið innan nátthagans á næturnar en sleppt út fyrir á daginn og haldið til haga. Lömbin voru lokuð inni í lítilli kró við stekkinn yfir nóttina, en sleppt með ánum á daginn. Innan nátthaganna, eða í næsta nágrenni var stekkur þar sem ærnar voru mjólkaðar.

Keflavík

Keflavík – rekafjara.

Rekavinnslustaður – Staður þar sem gott aðgengi var í rekafjöruna og öruggt fyrir sjávarágangi. Örnefni vísa til þessara staða, en þeir hafa vaflaust færst til eftir því hvernig/hvort strandlengjan breyttist.

Rétt – Réttir og gripheldi hverskonar finnast gjarna fjarri bæjum, oft mitt á milli bæja. Smærri réttir til heimabrúks voru þó nálægt bæjum. Lögréttir nefndust þær réttir sem byggðar voru upp sem skilaréttir fyrir heimfjallasmölun eða afaréttir. Oft hlaðnar úr grjóti, gjarnan upp við klettaveggi eða annað náttúrulegt aðhald. Réttir sem voru notaðar á einstakra bæja voru oftast smáar og einfaldar að gerð en stærri lögréttir svo sem til vorrúnings eða haustsmölunar voru stórar og oft margskiptar með dilkum.

Brunnastaðasel

Í Brunnastaðaseli.

Sel – Yfirleitt voru sel nokkurn veg frá bæjum, oftast við ár eða læki. Þangað var búsmali rekinn á sumrum og þar hafði fólk sumardvöl við að vinna mjólkurmat til vetrarins. Sel voru í notkun allt frá landnámstíð og fram undir 17-18. öld. Seltóftir eru jafnan leifar þriggja eða fleiri tófta, oft samfastar. Stundum voru þar líka krær eða gripheldi. Oft byggðust upp býli af þessum seljum og einnig beitarhús. Býli þessi tóku þá gjarnan nafn með viðskeytinu -sel. Erfitt getur verið að greina milli tófta selbúskapar eða smábýla þar sem búseta var í e.t.v. í skemmri tíma. Oft greina smábýlin á túngarðinum sem hefur verið hlaðinn umhverfis bæjarhúsin.

Skáli – Langhús, aflangt hús, íveruhús frá þjóðveldistíma.

Straumssel

Smalaskjól við Efri-Straumsselhella.

Smalakofar – Fé var smalað í haga að morgni og heim til mjalta að kveldi. Smalar sátu yfir fénu á daginn og voru það oft börn eða unglingar sem gegndu því starfi. Algengt var að smalar hlæðu sér smákofa eða afdrep fyrir veðri og vindum meðan setið var yfir. Tóftir smalakofa eru oft mjög litlar og standa í brekkum eða á hólum þar sem víðsýnt var.

Stakkgarður – Torf- eða heystakkur, þar sem torfi eða heyi var stakkað upp til geymslu. Líkist heytóftum í landslaginu.

Stekkir – Á stekkjum var fært frá, lömb færð frá ánum til að hægt væri að nýta mjólkina til manneldis. Þeir liggja gjarnan utan túna nokkurn spöl frá bæjum, svokallaðan stekkjarveg. Stekkir eru oftast hlaðnir úr grjóti, tvískiptir í rétt og lambakró. Króin var lítil og þakið reft og tyrft. Þeir eru gjarnan hlaðnir upp við stóra náttúrusteina eða klettaveggi.

Stöðull – Þurr valllendisbali eða hæð við túngarð þar sem kýr, kvíaær tóku sér stöðu, biðu t.d. eftir mjöltum og brúkshestar stóðu milli þess sem þeir voru á beit eða í notkun. Búféð vandist þangað, kynslóð eftir kynslóð. Nú er þar fátt að sjá, en örnefnið hefur varðveist á stöku stað.

Hellulofinn

Hellukofinn á Hellisheiði – byggður upp úr Biskupsvörðu.

Sæluhús – Torf- og/eða grjóthlaðnir kofar við fjallvegi. Tóftir sæluhúsa má finna við gamla fjallvegi þar sem áður lá alfaraleið. Rústir þeirra líkjast helst tættum húsa, s.s. skemma, heima við bæi.

Túngarður – Garður var hlaðinn umhverfis tún til að verja þau gagnvart búpeningi yfir sprettutímann. Túngarðarnir voru yfirleitt hlaðnir úr torfi og grjóti.

Vað – Þar sem götur liggja að vötnum, ám og lækjum er yfirleitt vað yfir og grynnra eða sléttara í botninn en annars staðar. Eða þægilegra að komast að því.

Varða – Uppmjó áberandi grjóthleðsla við götur, einkum fjallvegi, sem hlaðin hefur verið til að varða slóðina þar sem best er að fara.

Skipsstígur

Skipsstígur – vagnvegurinn norðan Lágafells.

Vegir – Varðveist hafa gamlar kerruslóðir og upphlaðnir vegir.

Virki – Verndaður staður, hús eða garður umhverfis bústað með háum vegghleðslum eða rammbyggðum úr tré. Yfirleitt löngu horfnir.

Þvottaból – Staður þar sem þvottur var þveginn við rennandi vatn, læk eða ár. Yfirleitt ekkert lengur sjáanlegt en örnefni vísa á þessa staði. Sjá einnig laugar.

Ærgötur – Mjóar götur, eftir sauðfé, sem þræða fjöll og heiðar. Yfirleitt er óhætt að treysta því að þær séu færar fólki, hvort sem þær
eru um mýrlendi eða skriður.

Við sjóinn

Selatangar

Selatangar – sjóbúðartóft.

Oft varðveitast menjar um sjósókn illa vegna nálægðar við hafið og vegna framkvæmda við þéttbýlismyndun og hafnargerð. Verstöðvar eða útgerðarstaðir voru oft notaðir frá mörgum bæjum/byggðarlögum og því kann þar að finna nokkuð fjölbreyttar minjar.
Fiskbyrgi: Oftast grjóthlaðnar einfaldar byggingar, ferhyrndar eða hringlaga, þar sem þurrkaður og saltaður fiskur var geymdur.
Hafnir: Varðveisla hafna er oft vond enda brjóta brim mannanna verk niður þar sem sjór nær til þeirra. Náttúrulegar hafnir eru yfirleitt enn þær sömu, þótt þær hafi margar breyst á mörg hundruð árum, eins og höfnin á Kolkuósi. Hafnir þar sem menn hafa reynt að hlaða var fyrir báta, eru langoftast löngu horfnar.

Skreið

Skreiðarhjallur á 19. öld – Gaimard.

Hjallur – Oft finnast hleðslur undan hjöllum, fiskhjöllum og geymslum. Slíkar hleðslur eru oft ferköntuðu upphleðsla sem myndar sléttan flöt eða grunn. Einnig er oft einföld grjótröð sem markar af grunninn.

Hróf – Staður þar sem skip voru dregin á land og komið fyrir til geymslu. Um hverfis þau var hróflað upp veggjum sem yfirleitt voru ekki mjög vönduð og líkjast hrúgöldum.

Lending – Hér og hvar í fjörum má enn sjá lendingar, þ.e. einskonar „rennur“ upp í og í gegn um grýttar fjörur þar sem bátum var lent þegar komið var úr róðrum. Breiddin er u.þ.b. bátsbreidd.

Gálgahraun

Garðahraun – naust.

Naust – Tóftir í eða við fjörur þar sem bátar voru dregnir upp og geymdir. Naust geta verið á ýmsa vegu, allt frá tóftum sem reft hefur verið yfir til einfaldra vegghleðsla sem bátar hafa verið lagðir á milli. Oft eru naust bátslaga, þar sem bátum hefur verið smeygt inn. Sjóhús/verbúðir voru íverustaðir sjómanna á meðan á vertíð stóð. Stundum voru þessi hús á tveimur hæðum. Geymsla undir veiðarfæri og annan búnað á neðri hæðinni en svefnstaður manna á þeirri efri. Grunnur húsanna var grjóthlaðinn en efri hæðin úr timbri. Einnig voru verbúðir oft einföld grjót- og torfhlaðin hús.

Uppsátur – Þar lögðu menn upp bátum. Uppsátur eru oft samsíða grjóthleðslur sem liggja í sjó fram. Upphlaðnir sjógarðar eða bryggjur eru voru líka til, en eru sjaldgæfari.

VarnargarðurVarnargarður – Þar sem brim brýtur land eða þar sem flóð geta skemmt vatnsbakka hafa menn reynt að verja bakkana, með grjóti.

Bás – Afmarkað svæði, milli stoða, hver fyrir eina kú.

Beitarhús – Sauðir voru langoftast hafði á beitarhúsum, allfjarri túnum. Stundum til fjalla. Þar sem var góð vetrarbeit, sem þýðir að þeim var beitt (látnir bíta gras) á meðan gaf á jörð, sem kallaða var. Menn gengu á beitarhúsin alla daga eftir að farið var að hýsa féð, til að reka það til beitar. Ef haglaust varvar hey gefið á garða. Í einstaka tilfellum voru hey geymd og tyrfð við húsin þannig að skepnur kæmust ekki í það, eða að menn báru hey í meis (rimlakassi úr tré) á bakinu til húsanna þá daga sem nauðsynlegt þótti að gefa á garðann.

Beitarhús

Beitarhús ofan Knarrarness.

Brúarstöpull – Stöpull, stallur fyrir brúarendann.

Búpeningshús – Fjárhús, fjós, hesthús og önnur hús yfir búpening, húsdýr.

Dilkur – Sá hluti af rétt, þar sem sauðfé og annar búfénaður er dreginn inn í þegar fé var dregið í sundur á vor- og haustsmölun.

Dysjað/grafið – Dys, legstaður ókristins manns eða dýrs.

Flór – Langur lítið eitt niður grafinn skorningur, yfirleitt lagður steinhellum sem þægilegt var að hreinsa.

Færikvíar

Færikvíar.

Færikvíar – Kvíar sem gerðar voru úr timburflekum og hægt var að færa til.

Haustsmölun – Þegar fé er smalað af fjalli að hausti.

Heimfjallasmölun – Hvert haust var farið til heiða og fjalla og öllu búfé smalað til rétta. Þar var féð dregið í sundur.

Heimiliskapella – Guðshús þar sem heimilisfólk fór með bænir.

Jarðabætur – Túnræktun, þurrkun lands og vinnsla til grasræktunar.

Jata – Stokkur úr tré, þar sem kúnum var gefið. Yfirleitt negld á stoðir við vegg. Í einstaka tilfellum eru jötur upphlaðnar úr grjóti og torfi, við langvegg húsa.

Knarrarnessel

Knarrarnessel – stekkur.

Kvíaær – Ærnar (kindurnar) voru mjólkaðar kvölds og morguns allt sumarið. Úr mjólkinni var gert rjómi og undanrenna, smjör, skyr og mysa. Eftir sauðburð var lömbum kvíaánna leyft að vera með þeim í 2-3 vikur. Á stekktímanum var þeim haldið á beit yfir daginn og að kvöldi voru þau reknar í stekkinn, sem var lítil rétt oft nokkuð langt frá bæ, og hafðar þar yfir nóttina. Lömbin voru sett inn í litla kró (lambakró) við stekkinn. Um morguninn voru ærnar mjólkaðar og svo var bæði ám og lömbum hleyp saman til beitar yfir daginn. Að fráfærum liðnum voru lömbin færð frá ánum og rekin til fjalls, en ærnar voru reknar heim og mjólkaðar kvölds og morgna á kvíunum.

Mylkar/mjólkandi ær – Ærnar voru mjólkaðar til skyr- og ostagerðar.

Reft – Raftar lagðir yfir grindarviði, undir torf, grjóthellur eða járn.

Litla-Hrauntún

Litla-Hrauntún; selstaða – uppdráttur ÓSÁ.

Selstæði – Staður þar sem haft var í seli. Þ.e. á sumrin var búsmalinn rekinn í þó nokkra fjarlægð frá heimilinu þar sem var góður sumarhagi. Þar var m.a. unnið úr mjólkinni.

Skjólgarður – Garður sem settur var upp fyrir búfénað til skjóls fyrir veðrum. Krossgarður hét svo ef hann var hlaðinn í kross.

Smiðjuafl – Aflinn, þar sem eldurinn logar, hlóðir.

Sprettutími – Sá tími sem mest grasspretta er snemma sumars.

Tyrft – Að tyrfa, setja torf yfir, þekja.

Ás

Ás – fjárhústóft.

Tættur – Tóftir, húsarústir, tætlur af húsum.

Valllendisbali – Þar sem er þurrt og slétt. Valllendi, völlur, sléttlendi. Bali – þurr og sléttur flötur.

Vorrúningur – Rúningur að vori. Rúningur. Rýað. Þ.e. þegar ullin er klippt, rúin er af sauðfénu.

Þaksléttutími – Snemma sumars þegar frost var farið úr jörðu var land sléttað.

Þúfnasléttun – Þegar þúfur voru skornar burtu eða barðar niður til að slétta út land og auðvelda það til ávinnslu og sláttar.

Ærlengdir – Hver ær um 50-70 cm á lengd. Tvær ærlengdir eru jafnlengd tveggja áa (kinda).

Heimild:
-Smárit Byggðasafns Skagfirðinga, Lesið í landið – Vitnisburður búsetuminja, Guðný Zoëga Sigríður Sigurðardóttir, 2010.

Húsatóftir

Vindheimar – tómthús við Húsatóftir.

Minjastofnun

Minjastofnun Íslands lýsti því opinberlega fyrir nokkrum árum að starfsfólk stofnunarinnar hefði mun meiri áhuga en áður að vinna með íbúum, staðkunnugum og áhugafólki um fornminjar sem og öðrum með þekkingu á efninu á einstökum svæðum landsins. Síðan hafa liðið misserin – án nokkurra sýnilegra viðbragða.

Minjastofnun

Minjastofnun.

Til hvers eru stofnanir ríkisins? Þær virðast, þegar betur er gáð, fyrst og fremst vera fyrir starfsfólkið sem og viðfangsefnin, oftast án nokkurra tenginga við þá/þau er þjónustunnar eiga að njóta? Oftar en ekki virðist starfsfólk opinberra stofnana fremur líta á skjólstæðinga sína sem „óþægindi“ en viðskiptavini. Hversu þægileg væri t.d. vinnan í hugum þess ef engin væru „óþægindin“, þ.e. skjólstæðingarnir? Möguleikar hinna síðarnefndu hafa a.m.k. verið takmarkaðir til muna í seinni tíð til að ná símasambandi við hlutaðeigendur.
Svo virðist, af fenginni reynslu áhugafólks um fornminjar, sem framangreint gildi einnig um starfsfólk Minjastofnunar Íslands.
Þegar hins vegar betur er að gáð virtust upphafleg fyrirheit stofnunarinnar hafa lofað góðu – en gleymst einhverra hluta vegna, líkt og gerist jafnan hjá opinberum stofnunum.
MinjastofnunÍ skýrslu Minjastofnunar Íslands; „Stefna 2022–2027 um verndun og rannsóknir á fornleifum og byggingararfi“ má m.a. lesa eftirfarandi um að „Auka samstöðu um vernd fornleifa og byggingararfs„: „Fornleifar og byggingararfur og vernd þeirra er ekki einkamál einnar ríkisstofnunar heldur kalla vernd og stýrð nýting minja á samstarf margra aðila. Vernd fornleifa og byggingararfs er nauðsynleg til að tryggja að þekking á þróun og breytingum samfélagsins á hverjum tíma varðveitist. Byggingararfurinn, einstakar fornleifar, samgöngumannvirki og búsetulandslag eru hlutar af heild sem skýrir þróun samfélagsins. Fornleifar og byggingararfur eru vernduð með friðun og friðlýsingu og skapa þarf samfélagslega sátt um mikilvægi þess að varðveita þau og efla skilning á tilgangi og tækifærum verndunarinnar.

Fornistekkur

Fornistekkur – uppdráttur ÓSÁ.

Nýting jarðfastra menningarminja hefur ýmsar hliðar, svo sem notkun byggingar, rannsókn á fornleifum eða nýting í ferðaþjónustu, m.a. með því að auka aðgengi að minjastað eða byggingu fyrir gesti. Byggingararfur er best varðveittur með notkun, þ.e. að byggingin hafi tilgang og henni sé viðhaldið til að þjóna þeim tilgangi. Stýrð nýting er því mikilvæg þegar kemur að verndun fornleifa og byggingararfs.
Ákvörðun um nýtingu þarf alltaf að taka út frá mati á ástandi og gildi í hverju tilfelli fyrir sig. Eftirfarandi áhersluatriði tryggja sameiginlega sýn á vernd menningarminja og mikilvægi hennar:

A. Samráð um vernd fornleifa og byggingararfs
B. Aukin áhersla á vægi fornleifa og byggingararfs
C. Skýr sýn á friðlýsingar
A. Samráð um vernd fornleifa og byggingararfs

Minna-Knarrarnes

Minna-Knarrarnes; selsminjar og beitarhús í Sauðholtum – uppdráttur ÓSÁ.

Vernd fornleifa og byggingararfs er þverfaglegt verkefni. Öllu máli skiptir að aðilar sem koma að málaflokknum á einhvern hátt tali saman og nýti þekkingu og samtakamátt heildarinnar. Mikilvægt er að hagsmunaaðilar eigi samtal um sameiginlega hagsmuni sem mikilvægt er að efla. Sameiginlegir snertifletir fornleifa, byggingararfs og náttúru eru víða og er nauðsynlegt að taka höndum saman um vernd og nýtingu slíkra svæða. Lögð verður áhersla á samvinnu vegna umfangsmikilla framkvæmda í umhverfinu þannig að öll sjónarmið fái að heyrast og sameiginleg ákvörðun sé tekin um bestu leiðir.
Stefna um vernd fornleifa og byggingararfs mun styðjast við sterkt, jákvætt bakland sem um leið skapar sterka stöðu minjavörslunnar. Auka þarf skilning á mikilvægi fornleifa og byggingararfs innan stjórnkerfis ríkis og sveitarfélaga og gildi þess að vernda þau, skrá og rannsaka.
Til að friðlýsingar skili tilætluðum árangri þurfa forsendur þeirra að vera skýrar.

Auðnasel

Auðnasel – uppdráttur ÓSÁ.

Forsendurnar, og þau fjölþættu gildi sem stuðst er við í ferlinu, t.a.m. við mat á sérstöðu og verndargildi, þurfa að vera gegnsæ og í samræmi við alþjóðlega staðla við vernd byggingararfs og fornleifa. Val á þeim fornleifum og byggingararfi sem talið er mikilvægt að friðlýsa þarf að byggja á víðtækri þekkingu og er mikilvægt að leita álits bæði íbúa og sérfræðinga.“

Auk þess er fjallað um að „Styrkja vitund um mikilvægi fornleifa og byggingararfs“:
„Vernd menningararfs er sameiginlegt verkefni allra landsmanna. Aukinn sýnileiki sögunnar er forsenda fyrir sterkari upplifun samfélagsins og þar með aukinni vitund um það virði sem í henni felst. Fornleifar og byggingararfur eru meðal þess sem mótar sjálfsmynd samfélaga og íbúa þeirra.
Nauðsynlegt er að almenningur átti sig á mikilvægi fornleifa og byggingararfs í þessu tilliti.

Selsvellir

Selsvellir – sel Grindvíkinga; uppdráttur ÓSÁ.

Fornleifar og byggingararfur, og vernd þeirra, hafa einnig hagrænt gildi fyrir samfélagið. Þau eru auðlind sem hægt er að nýta til góðs um allt land, svo sem í ferðaþjónustu og kennslu. Sérstök áhersla verður lögð á að miðla og fræða yngri kynslóðina um nærumhverfið og söguna og þýðingu hennar fyrir þjóðina. Sérstaklega er lögð áhersla á að dýpka áhuga og þekkingu almennings á fornleifum og byggingararfi með því að tengja þau við sögur og annan lifandi menningararf, ekki síst með notkun stafrænna leiða.
Lögð er áhersla á að styrkja ímynd og veg fornleifa og byggingararfs með auknu samtali fagaðila og heimafólks. Í samtakamætti felast tækifæri til að efla stöðu fornleifa og byggingararfs um land allt.
Áhugamannafélög og hollvinasamtök af ýmsu tagi sýna málaflokknum áhuga og sinna honum af krafti. Mikilvægt er að virkja þá orku sem í þeim er fólgin með því að útfæra leiðir til að auka aðkomu þeirra að vernd fornleifa og byggingararfs. Minjaráðin eru kjölfesta minjaverndar í héraði. Þau hafa skilgreint hlutverk í minjalögum og er mikilvægt að hlúa að þeim og efla rödd þeirra.

Knarrarnessel

Knarrarnessel – uppdráttur ÓSÁ.

Auka þarf þátttöku heimamanna í minjavernd og skilgreina aðkomu þeirra að staðbundnum verkefnum.
Leita þarf samráðs við minjaráð og íbúa hvers landsvæðis við val á fornleifum og byggingararfi sem vert væri að friðlýsa.
Móta þarf farveg fyrir almenning til að koma á framfæri upplýsingum um menningararfinn.
Samstarf þarf við viðeigandi stofnun um söfnun upplýsinga um fornleifar og byggingararf í tengslum við örnefnasöfnun í landinu.“

Líkt og í upphafi sagði virtust fyrirheit stofnunarinnar, a.m.k. í fyrstu, hafa lofað góðu. Svo virðist sem starfsfólk hennar hafi þó hvorki haft hinn minnsta áhuga á að framfylgja framngreindri stefnu stofnunarinnar né hafi gert nokkra tilraun til að samhæfa sig framangreindum samstarfsáhuga við þá hlutaðeigendur er nefndir eru í „Stefnu stofnunarinnar 2022–2027„.
Hafa ber þó í huga að enn lifa a.m.k. tvö ár af líftíma nefndrar „stefnu„….

Heimild:
https://www.minjastofnun.is/static/files/stefnumotun/fornleifar-og-byggingararf-2022-2027.pdf

Borgarhraunsrétt

Borgarhraunsrétt – uppdráttur ÓSÁ.