Tag Archive for: Garðabær

Finsstaðir

Gengið var um minjarnar vestan Vífilsstaðalækjar, skammt norðan Flóttamannavegar. Þar má enn sjá heillegar tóftir, garða og gerði frá Vífilsstöðum. Göngustígur liggur framhjá megintóftinni. Ljóst er af mannvirkjunum þarna sem og í hrauninu, þ.á.m. Jónshellar, en þeim liggur hlaðinn stígur á köflum í hrauninu, að þarna hafa verið talsverð umsvif á öldum fyrrum.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir – gerði.

Gengið var að Finnsstöðum við norðanvert Vífilstaðavatn. Þar fyrir ofan Flóttamannveginn, í vestanveru Smalaholtinu er há og stór tóft, sem sést vel frá. Utan í henni að sunnanverðu er önnur minni. Á kortum er tóft þessi nefnd Finnsstaðir, en engar heimildir eru til um hann. Ekki er útilokað að þetta gæti um tíma hafa verið stekkur frá Vífilsstöðum. Rústin er tvískipt. Einnig gætu þarna um tíma hafa verið beitarhús frá Vífilsstöðum því Björn Konráðsson ráðsmaður á Vífilsstöðum taldi að þarna hefði verið býli og peningshús, sem var seinna breytt í beitarhús.

Finnsstaðir

Finnsstaðir.

Gengið var austur með Smalaholtinu, sem er vesturhlíð Rjúpnahlíðar, ofan við Leirdal og að Selshrygg norðan hlíðarinnar. Þar eru tóftir undir hlíðinni. Þær munu hafa verið notaðar sem beitarhús frá Fífuhvammi, en nefnið bendir til þess að þarna gæti hafa verið selsstaða frá þeim bæ. Fyrir miðjum Selshrygg heitir Selsvellir. Þar er vatn. Gengið var með Rjúpnahlíðinni, niðu Kjóavelli og áfram upp í Básaskarð suðaustan við Vífilstaðavatn. Ofan við skarðið eru fjárhúsatóftir frá Vatnsenda, greinilega mjög gamlar, á fallegum stað. Frá tóttunum sést yfir að Arnarbæli, vörðu á Hjöllunum ofan Grunnuvatna syðri. Frá vörðunni var gengið yfir að Vatnsendafjárborgini. Borgin, sem er syðst á Hjöllunum, þar sem þeir eru hæstir, er nokkuð stór og heilleg, en fallin að hluta. Frá henni er gott útsýni yfir Löngubrekkur í suðri og að Búrfelli.
Gangan tók 2 klst. Veður var frábært; milt og hlýtt.

Jónshellar

Í Jónshellum.

Kristjánsdalir

Ekið var að Kristjánsdalahorni og þaðan gengið til suðurs inn með hlíðinni, inn Kristjánsdalina.

Kristjánsdalir

Tóft ofan Kristjánsdala.

Þegar komið var í dalverpi fyrir miðjum dölum blöstu við tvær tóttir. Sú nyrðri er hlaðið hús, greinilega gamal. Hin syðri eru tveir veggjastubbar og hleðsla bakvið. Á milli þeirra hefur sennilega staðið timburhús. Skv. upplýsingum Ólafs Guðmundssonar og Sigurðar Arnórssonar voru þessi hús notuð ar- og rjúpnaskyttum er lágu þarna úti við veiðar. Hlaðið byrgi refaskyttu er norðar í hrauninu, en þarna eru augsjáanlega nokkur greni í hrauninu. Nyrðri tóttin gæti einnig verið frá tímum brennisteinsnámsins því þarna eru ágætir bithagar. Vatnsstæði er norðvestar, en frá því liggur stígur á ská niður að Selvogsgötu.

Grindaskarðavegur

Selvogsgatan um Grindarskörð.

Á miðri þeirri leið er gatan klöppuð í bergið, greinilega fjölfarin eða farin um langan tíma. Líklega er þarna um hluta af svonefndum Grindarkarðsvegi að ræða, en hann lá norðar en Kerlingarkarðsvegurinn, sem nú er svo til eingöngu farinn.
Kerlingaskarðið er við Grindarskarðshnúka, en Grindarskarðsvegur nokkru norðar. Grindarkarðsvegur virðist liggja þarna á ská niður hlíðina og því gæti staðsetningin á þessum götustubb vel passað við lýsingu á þeim gamla vegi. Hann er varðaður á þessum kafla með tveimur vörðum, sem virðast standa einar sér. Á milli þeirra er þó þessi sýnilegi vegur, sem fyrr segir. Efst á brúninni er varða.
Við Kerlingarskarðsveg er hlaðið skýli brennisteinsnámumanna, sem skiptu þar á hestum. Annars vegar var lest, sem kom neðan úr Brennisteinsfjöllum með brennistein, og hins vegar var lest, sem kom frá Hafnarfirði og sótti brennisteininn upp í þessa skiptistöð. Meira síðar.
Gengið var til baka um Kerlingarskarðsleið að upphafsstað.
Gangan tók 2 klst og 11 mín.
Fábært veður.

Selvogsgata

Gengið um Selvogsötu.

Vífilsstaðaborg

Mikil leit hefur verið gerð að Vífilstaðafjárborginni. Misvísandi upplýsingar hafa verið um staðsetningu hennar og var jafnvel talið að hún hefði farið undir nýja veginn í gegnum Heiðmörk vestan Vífilstaðahlíðar. En nú er hún fundin – á ólíklegasta stað.

Vífilsstaðahlíð

Fjárborg og fjárhús frá Urriðakoti undir Vífilsstaðahlíð.

Um er að ræða hlaðnar tvískiptar tóftir auk fjárborgarinnar. Augljóst er að grjót hefur verið tekið úr borginni í fjárhúsin. Önnur tóttin, sú stærri, liggur frá til norðurs. Garðar eru fyrir suðugafli, en dyr eru á norðurgafli. Hitt húsið er samhliða og samfast vestan við hið fyrra. Dyr eru þar einnig á norðurgafli. Bálkur er við þveran suðurgaflinn. Austan við húsin er falleg, stór, hringlaga tótt, augljóslega fjárborg. Opið snýr mót norðri. Birkihrísla stendur upp úr austanverðri borginni. Veggir eru þykkir og greinilegir. Engar heimildir eru til um þennan stað, en líklegt er að mannvirkin hafi tilheyrt Garðapresti líkt og selin í Selgjá og Búrfellsgjá.

Urriðakot

Fjáhús í Urriðakotshrauni.

Gengið var til vesturs frá borginni, um Hraunflatirnar og yfir í kant Urriðakotshrauns. Þar uppi í kantinum er fallega hlaðið og heillegt beitarhús frá Urriðakoti. Frá því gekk Guðmundur, bóndi á Urriðakoti, með hey á bakinu austur yfir hraunið og í sauðahelli, sem þar er í austurjaðri þess undir Vífilstaðahlíð, neðan Ljósukollulágar. Fyrir hellinum eru V-laga hleðslur.

Urriðakot

Sauðahellir Urriðakots undir Vífilsstaðahlíð.

Gengið var sömu leið og Guðmundur forðum, eða á fyrsta fjórðungi síðustu aldar, yfir að hellinum og hann barinn augum.
Gangan tók um ½ klst, en leitin að fjárborginni tók eina klst.
Veður var frábært – milt og hlýtt.

Vífilsstaðaborg

Vífilsstaðaborg.

Bakki

Ætlunin var að ganga um svæðið neðan við Garðakirkju á Álftanesi. Neðan Kirkjugarðs er Lindarflöt og lá Lindargata eftir henni að Garðalind. Vestan við Garðalind var í eina tíð Garðhúsabrunnur með allgóðu neysluvatni. Þar drapst sauðkind og var þá brunnurinn fylltur með grjóti og jarðvegi. Þar var um tíma þurrabúð, Garðhús [tóftir þess eru vestan við núverandi aðkeyrslu að Garðakirkju]. Ofar var Höll í Hallargerði. Sjást leifar gerðisins enn.
Leifar BakkaVestan við Garðamýri var hjáleigan Háteigur. Vestan við Garðamýri var býlið Miðengi. Neðan við Miðengi er breið klapparfjara og klapparnef, Miðengisklappir. Miðengisbrunnur var austan til í Miðengistúni.
Fjaran sunnan við Garðahverfi var oft nefnt einu nafni Garðafjara. Þar var áður góð skelfiskfjara og sölvatekja. Vestan við Bakka tók við Garðagrandi, allt vestur í Garðavarir (Háteigsvör, Ráðgerðisvör, Miðengisvör), milli Garðatjarnar og Garðamýrar. Þar var Garðamýrartjörn. Í Garðavörum var uppsátur skipa Garðaprests og margra annarra bæja í hverfinu. Garðabúð stóð ofan varanna og þar var Skiptivöllurinn.
Byrjað var á því að taka hús á Guðjóni Jósepssyni í Pálshúsi. Hann er uppalinn á staðnum og þekkir því vel til kennileita. Hann benti líka hiklaust á fyrrum bæjarstæði Bakka austast á Garðagranda. Það er sunnan við núverandi fjárhús frá bænum. Þrátt fyrir sléttanir mótar enn fyrir veggjum og görðum. Enn mótar fyrir hlöðnum veggjum skemmu, sem nú hefur verið fyllt af rusli. Gegnt hefur verið úr skemmunni um göng niður á sjávarkambinn þar sem sjórinn hefur náð að brjóta verulega framan af. Sagði Guðjón að verulega sæi á bakkanum á tiltölulega skömmum tíma.

Garðagrandi

Ekki er langt um liðið að allar tóftirnar voru landmegin, en nú hefur sjórinn náð að brjóta hluta þeirra undir sig. Smá má móta fyrir hleðslum í moldarbakka sjávarmegin.Guðjón sagði að faðir hans, Jósep, hefði róið frá útræði vestan við Bakka, þ.e. austast í Garðafjöru. Bakki hefði farið í eyði 1927.
Guðjón benti á að þegar komið væri vestur yfir Grandann mætti þar sjá greinilega Sjávargötu upp frá vörunum áleiðis að Görðum.
Í Jarðabókinni 1703 er greint frá nokkrum Garðakirkjujörðum sem höfðu aðgang að skógi eða hrísi í staðarins landi. Skerseyri var hjáleiga Garða og hafði eldiviðartak í landi staðarins. Pálshús voru einnig hjáleiga Garða sem höfðu eldivið bæði af torfi og skógi í óskiptu landi kirkjunnar. Nýibær var eign Garðakirkju en um þá jörð segir Jarðabókin: „Selskarð og Hraunsholt voru einnig Garðakirkjujarðir og höfðu báðar hrístak til kolgerðar og hríshestskvöð í Garðakirkjulandi.

Tóft vestast á Garðagranda

Eftirtaldar Garðakirkjujarðir höfðu hríshest meðal virkra eða aflagðra kvaða sinna: Dysjar, Ráðagerði, Garðabúð, Miðengi, Hlíð, Móakot og Hausastaðakot.“  Ekki er getið um að þær eigi skóg, aðeins sagt að þær eigi eldiviðartak af móskurði í landi staðarins, og því verður að ætla að hríshesturinn hafi verið sóttur í Garðakirkjuland. Loks skal minnst á Vífilsstaði sem voru Garðakirkjujörð.
Garðalind var aðalvatnsból Garðhverfinga, aðallega Garðastaðar og bæjanna autast í hverfinu (G.S.) Austan kirkjustaðarins lá Lindargata að Garðalind. Árni Helgason segir í lýsingu sinni á Garðaprestakalli 1842: „…mikill steinn stendur sem á hleðslu yfir Garða vatnsbóli sem heitir Garðalind.“

Sjávargata og tóft vestast í Garðamýri

Markús Magnússon segir í lýsingu sinni á Görðum: „Ekki eru hér nein Grettistök en tveir klettar eru hér innan túns eða afgirts heimalands prestsetursins Garða, tveir sem mannaverk er á. Annar klettanna liggur yfir brunni eða lind sem sér prestsetrinu og þeim sem nærri búa fyrir hinu besta vatni. Kletturinn er að þvermáli 13 álnir en 3 3/4 álnir að hæð, í laginu eins og píramídi, snýr frá austri til suðvesturs, liggur á jarðfastri klöpp, en til suðurs eru á báðar hliðar settir þungir óhræranlegir steinar sem afmarka sjálfan brunninn sem kletturinn liggur yfir og skýlir að ofan fyrir snjó og frostum sem að hann fennir aldrei í kaf eða frýs. Þar sem klettur þessi er svo stór að ekki virðist unnt að hræra hann af þessum stað hefur honum líklega annað hvort verið velt ofan á steinana sem hann hvílir á nú eða verið lyft upp að framan til þess að koma þeim undir hann. Annars er brunnurinn afmarkaður á báðar hliðar inni undir klettinum með stórum steinum, óhræranlegum, enda hvílir kletturinn á þeim.“
Garðamýri var niður undan Garðatúni og var til forna allmikið flæmi en hefur nú verið minnkað með ári hverju (G.S.). Í Jarðabókinni 1703 segir: „Þessum bæ [Bakka] fylgdi til forna Garðamýri… Mýrina tók hjer frá Sr. Þorkell Arngrímsson og lagði til heimastaðarins sökum eklu á torfristu og útiheysiss slægjum og færði so aftur landskuldina, item tók burt eina kúgidið og mannslánið.“
Í lýsingu Markúsar um Garðatún fjallar hann um klett í miðju túninu. Þar segir: „Hinn kletturinn hér – í miðju túni prestsetursins – er 13 álnir að umfangi og 1 1/3 alin að hæð og liggur flatur. Hann hvílir á undirlagi úr litlum steinum og sýnir það augljóslega að klettinum hefur verið lyft og steinarnir lagðir undir hann.

Miðengisbrunnur

Það er merkilegt við þennan klett sem liggur um 160 faðma frá sjónum, að hann er sorfinn á annarri hliðinni, alveg eins og þeir klettar sem liggja á sjávarmálinu eru sorfnir af sjávarganginum. Af því mætti ætla að svo stór klettur hafi verið fluttur svo langan veg frá ströndinni, en reynslan er þó gagnstæð þessari ætlan því að sjá má að sjórinn brýtur stöðugt landið hér í nágrenninu.“
Gengið var vestur eftir Garðagranda og um Garðafjöru að Garðavörum. Vestast í þeim er gróinn hóll, fremur lítill. Beint ofan við hann er brunnur; Miðengisbrunnurinn.
Í Jarðabókinni 1703 segir um Garðabúd: „Gardabud, hjáleiga í óskiptu staðarins heimalandi, hefur grasnautn hina sömu sem ðaur fylgdi hjáleigu þeirri heima við staðinn, er Skemma var kölluð, og er það nú að kalla sú sama hjáleiga“. Um Skemmu segir: „Skiemma, útihús heima við staðinn á Görðum. hefur um féina tíma ljeð manni einum til ábúðar so sem hjáleiga, og fylgdi því þá grasnyt, er sú er með hjáleigunni, er Garðatún heitir, og var hún óbyggð á meðan Skemma bygðist so sem getið er áður við Garðabúð“. Skemma stóð ofan við Garðavarir líkt og Garðabúð. Í Örnefnalýsingu GS segir: „Garðabúð stóð ofan við Garðavarir með Skiptivöllinn þar sem hlutum var skipt“:
Garðavarir voru vestan við Garðamýri. Þar var uppsátur skipa Garðaprests og margra annarra bæja í Garðahverfi, Háteigsvör, Ráðagerðisvör og Miðengisvör.“
GötusteinninnGarðabúð, auk Garðalindar, eru einu friðlýstu fornleifarnar á þessu svæði, þó svo að fleiri slíkra hafi t.d. verið getið í lýsingum prestsins á Görðum í skýrslu sinni til dönsku fonleifanefndarinnar á ofanverðri 19. öld (sjá hér á eftir).
Þegar staðið var við fyrrnefndan hól var að sjá skeljasandsrákir í honum, auk steina á stangli. Fljótt á litið virtust þarna hafa verið leifar af sjóbúð, en ekki kotbýli. Hafa ber þó í huga að land hefur bæði breyst á þessu svæði í aldanna rás og sjórinn tekið talsvert af því til sín, einkum í útsinningi líkt og verið hefur að undanförnu [desember 2007]. Eftir að hafa skoðað Miðengisbrunninn var tekið hús á Ágústi Kristjánssyni í Miðengi. Hann var við gegninga úti við og tók fagnandi á móti FERLIRsfélögum (þekkti suma þeirra aftur af fyrri heimsóknum).
Ágúst sagði að ekki væri ólíklegt að Garðabúð hefði verið þar sem hóllinn er nú vestast í Garðafjöru, en skeljasandsrákirnar bentu þó fremur til þess að þar hefði verið minni sjóbúð svo framarlega á kampinum. Skeljalögin bentu til þess að þar hefði verið unnin beita úr skelfiski. Benti hann á aðra gróna tóft vestast í Garðamýri, sem hefði verið þar svo lengi sem hann myndi eftir sér, en Ágúst er fæddur í Miðengi 1931, ólst þar upp og hefur búið síðan á staðnum.Túnsteinninn
Tvennu vildi Ágúst vekja athygli á; annars vegar Götusteininum norðvestan við bæinn á Miðengi, og hins vegar Lindargötunni þar sem hún hafði legið frá Garðalind til suðvesturs suður fyrir bæinn og siðan upp með honum að vestanverðu með stefnu að bænum Hlíð [og Grjóta skammt ofar]. Hliðstólpinn sæist enn í griðingunni austan við bæinn og Götusteinninn væri enn ágætt kennileiti þess hvar gatan hefði legið fyrrum – þótt engin sæjust þess merki nú vegna túnsléttna.
Ágúst benti á ferkantaða hlaðna garða norðaustan við Miðengi; sagði það þar væru Hólsgarðar. Ef vel væri gáð mætti sjá leifar bæjarins þar í norðausturhorninu. Sunnar hefði Sjávargatan heim að Görðum legið.
Um Miðengisbrunninn sagði Ágúst að hann hefði ávallt verið notaður til að brynna dýrum. Vatnið hefði verið saltkeimað. Brunnurinn hefði verið hlaðinn þannig að neðst var sett trétunna, hlaðið um hana og siðan upp fyrir yfirborð. Brunnurinn hafi verið alldjúpur, en fylltur þegar vatn kom rennandi heim til bæja og brúkun hans var hætt.
GarðalindUm „Túnsteininn“ fyrrnefnda sagðist Ágúst ekki vera alveg viss, en allt benti til þess að um væri að ræða tiltekinn stein sunnan við suðausturhornið á Háteigsgarðinum. Garðatúnið hefði fyrrum náð bæði allnokkru vestar og austar. Þrátt fyrir hjáleigurnar hefði veriðum óskipt land að ræða, m.a.s. þegar faðir hans fluttist að Miðengi hefði því enn verið þannig háttað.
Þegar steinninn í túninu var skoðaður passaði hann  vel við framangreinda lýsingu. Steinninn er um þriðjungur á hæð á við steininn yfir Garðalindinni og svipaður að sverleika. Hann er greinilega ekki jarðfastur, en nú hefur gróið í kringum hann svo ekki loftar undir. Sagði Ágúst að bóndinn í Háteig hafi jafnan haft á orði að ýmislegt væri um þennan stein að segja og að ekki væri hægt að skýra það allt með eðlilegum hætti. Taldi hann álög hvíla á steininum og að honum mætti ekki raska, enda hefði hann fengið að vera í friði allt til þessa dags. Hins vegar væri alveg eins líklegt að einhverjir framkvæmdamenn myndu ekki hika við að raska steininum ef þeir fengju að leika lausum hala á svæðinu eins og útlit væri fyrir um því búið væri að skipuleggja byggð á þessu svæði til lengri framtíðar. Taldi Ágúst það miður þvi þetta svæði væri síðasti óraskaði sveitarbletturinn á höfðuborgarsvæðinu og ætti fremur að varðveitast sem slíkur – í besta falli að endurbyggja þau bæjarhús, sem fyrir væru, enda mörg hver orðin æri lúin eins og á bárum mátti sjá.
Þegar Hólsgarðar voru skoðaðir virtist augljóst að leifar húsa voru þar í norðausturhorninu; grónar hleðslur, – veggir og stuttur gangur. Hóll skammt austar hefur gjarnan verið talinn til bæjarstæðis Hóls, en við athugun á honum virtist augljóst að þar hefur ekki staðið bær. Hleðslur eru í hólnum vestanverðum, í skjóli fyrir austanáttinni. Líklega hefur þar verið um að ræða gerði eða heimastekk.
BLindargataeint niður af Hóli er fyrrnefnd tóft, sem Ágúst hafði bent á, vestast í Garðamýri. Um er að ræða hóllaga þúst er stendur upp úr mýrinni. Sunnan hennar mótar fyrir götu; Sjávargötunni. Líklegt má telja að Garðavörin hafi verið þarna beint fyrir neðan og gatan verið notuð til að komast milli hennar og bæjar, enda styst að fara um hana heim og að heiman. Þústin gæti mögulega hafa verið fyrrnefnd Garðabúð. Hafa ber í huga að land hefur sigið á þessu svæði á löngum tíma, auk þess sem mýrin hefur áður fyrr þótt arðvænleg, bæði til mó- og torftekju, auk þess sem ætla má að hjáleigan (kotið) hafi fyrst og fremst grundvallast á útræði. Þurrara hefur verið þarna fyrrum því sjávarkamburinn hefur færst mun innar, jafnvel sem nemur hálfum hundraði metra á einum mannsaldri. Mýrin sjálf hefur því verið framar og kotið þá staðið á þurru. Garðhúsabrunnurinn skammt austar gaf það a.m.k. vel til kynna.
Í lýsingum er sagt að Garðhúsabrunnur hafi verið „vestan við Garðalind“. Svo mun og vera. Skammt vestsuðvestan við lindina má enn sjá leifar brunnsins. Hann er nú efst í Garðamýri, en hefur líklegast verið í jarðri hennar á meðan var. Brunnurinn hefur verið fylltur, svo vel að upphlaðningur hefur myndast á honum og gert hann greinilegan.
Skammt austar er Garðalind. Garðaflöt er í raun hallandi þurrþýfi neðan við kirkjugarðinn. Undir grágrýtisklöpp er uppspretta, sem mótuð hefur verið með holu í klöpp. Hlaðið afrennsli (yfirfall) liggur suður úr henni. Á því er hlaðin brú á Lindargötunni, sem lá frá henni bæði til austurs og vesturs. Ofan lindarinnar eru ummerki eftir seinni tíma „tækninýjungar“, þ.e. hlaðið brunnhýsi til að geyma rafmagnsdælu er tengt var við brunninn, sem gefur vel til kynna ágæti innihaldsins til langs tíma.
Lindargötunni var loks fylgt áleiðis að Pálshúsi (Dysjum).
Ljóst er að Garðasvæðið er ómetanlegt menningarminjasvæði. Telja má víst að minjar þess muni týna tölunni, ein af annarri þegar fram líða stundir, en vonandi fær það að verða sem mest óraskað sem lengst.
FERLIR stefnir að því að rissa upp allar minjar á svæðinu og koma á uppdrátt er gæti orðið innlegg í heilstæða mynd af búsetusögu þess um aldir.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 11 mín.

Heimild m.a.:
-Örnefni og leiðir í landi Garðabæjar – Guðlaugur Rúnar Guðmundsson – 2001.
-Frásagnir um fornaldarleifar, bls. 242-243.
-Gísli Sigurðsson – örnefnalýsing.
-Guðjón Jósepsson – Pálshúsi.
-Ágúst Kristjánsson – Miðengi.

Hólsgarðar - gula línan sýnir legu Lindargötu

Seldalur

Gengið var frá Bleiksteinshöfða norðvestan við Hvaleyrarvatn, um Kaldársel og endað við Kershelli.

Selhöfði

Selhöfði – fjárborg.

Bleiksteinshöfði ber nafn af hinum bleika lit er slær á brekkuna. Hún er í rauninni melar. Höfðinn er einn af mörgum á þessu svæði, s.s. Húshöfði, Selhöfði, Stórhöfði, Fremstihöfði og Miðhöfði. Að þessu sinni var gengið niður að Hvaleyrarseli suðaustan við Hvaleyrarvatn. Þar höfðu Hvaleyrrabændur í seli fram undir aldamótin 1900, en þá varð þar hörmulegur atburður er selsráðskonan fannst illa leikin við vatnsborðið. Var talið að nykur, sem bjó í vatninu, hafi orsakað lát stúlkunnar. Ássel er þarna skammt austar.
Gengið var yfir að tóftum vestan í Húshöfða, beitarhúsi frá Ófriðarstöðum, og síðan haldið upp á Selhöfða. Á honum eru leifar fjárborgar og væntanlega stekks. Sunnan undir höfðanum, í Seldal, er hlaðið gerði, gæti hafa verið stekkur. Seldalur hefur verið vel gróinn áður, en er nú að mestu flag.

Rauðshellir

FERLIRsfélagar við Rauðshelli.

Gengið var upp á Húshöfða. Af honum er ágætt útsýni yfir Stórhöfðastíginn þar sem hann liggur suður um hraunið sunnan fjallsins. Haldið var niður af höfðanum sunnanmeginn og hraunkantur Stórhöfðahrauns rakinn upp í Kaldársel.
Í Kaldárseli var litið á staðinn þar sem gamla selið hafði staðið norðan við Kaldá, haldið austur með Lambagjánni að Helgadal og kíkt í Rauðshelli. Þar var þá mannfagnaður mikill, enda hellirinn tilvalinn staður til samkomuhalds.
Selvogsgatan var rakin niður Mosa og með suðurbrún Smyrlabúðarhrauns að Kershelli norðan Sléttuhlíðar.

Rauðshellir

Rauðshellir.

Grásteinn
Gengið var áleiðis að Grásteini á Álftanesi. Tilraun var gerð til að kljúfa steininn og fjarlægja úr vegstæði, en tæki biluðu og menn meiddust við það verk. Steinninn er því enn á sínum stað. Sumir segjast hafa séð álfa við steininn. Segir sagan að ef farið er rólega framhjá honum farnist mönnum vel, en ef farið er með gassagangi geti eitthvað óvænt gerst.
Sagt er að til séu þrenns konar álfar, þeir sem búa undir jörðinni, þeir sem búa í sjónum og svo þeir sem búa í klettum og hólum.

Grásteinn

Grásteinn á Álftanesi.

Til eru margar álfasögur þar sem álfarnir eru ýmist góðir eða vondir. Góðir álfar gerðu mönnum gott sérstaklega ef menn hjálpuðu þeim með eitthvað og eru til margar sögur um það að menn hafi átt góða ævi eftir að hafa aðstoðað álfa. Aðrar sögur segja að álfarnir séu ekki allir góðir og eigi það til að hefna sín ef illa er látið í kringum heimili þeirra.

Á okkar tímum hefur ekki frést mikið af álfum en þó hefur verið sagt frá því að vegagerðarmenn hafi lent í vandræðum með tækin sín ef þeir þurfa að leggja vegi við heimili álfa.

Kópavogur

Álfhóll í Kópavogi.

Sem dæmi má nefna Álfhól í Kópavogi þar sem reynt var nokkrum sinnum að leggja veg en því var á endanum hætt því það bilaði alltaf eitthvað hjá vinnumönnunum og talið var að álfarnir væru að vernda heimili sín með þessum verkum.
Sögn greinir svo frá, að í upphafi hafi Guð skapað konu af moldu fyrir Adam. En þessi kona var svo ókyrr hjá honum og stygg að hvorki Adam né Guð gátu neinu tauti við hana komið. Fór svo að lokum, að Guð skapaði henni mann eftir hennar eðli og nefndi hann Álf, en hana Alvör og eru af þeim komin öll tröll og álfar.

Álfakirkja

Álfakirkjan.

Svo virðist sem íslensk þjóðtrú geri ekki greinarmun á álfum annars vegar og huldufólki hins vegar, enda þótt þessar tvær nafngiftir hafi verið viðhafðar um huldar verur í hólum og klettum frá öndverðu. Þannig er huldufólkið að mörgu leyti líkara mannfólkinu, og jarðneskt í útliti og klæðaburði. Sagt er að huldufólkið sé ekki meiri álfar en mennirnir. Álfar berast meira á með litklæðum sínum og íburðarmiklum híbýlum sem oft minna meira á sagnaveröld ævintýra en þjóðtrúarsagna.

Grásteinn

Grásteinn.

Álfar geta ýmist verið góðar eða illa innrættar verur. Huldufólk virðist hins vegar hvorki illt né gott að upplagi, heldur sýnir það sínar betri og verri hliðar eftir tilefnum.

Erla Stefánsdóttir, álfafræðingur, sagði einhverju sinni að þessar verur virðast vera á þróunarleið til hliðar við mannþróunina. “Sjálfsagt stefna þær allar að auknum þroska eins og við. Huldufólkið er líkt mannfólkinu að því leyti að það virðist vera miklar félagsverur – ég sé það aldrei eitt sér heldur lifir það alltaf saman í bæjum. Álfar búa hins vegar margir einir sér og eins eru tívarnir, sem eru mjög háþróaðar verur, venjulega útaf fyrir sig.

Hafnarfjörður

Álfaklettur við Merkurgötu.

Ef til vill er auðveldast fyrir menn að komast í snertingu við huldufólkið af öllum þessum verum þar sem því virðist svipa til okkar að mörgu leyti, eins og ég sagði áðan. Huldufólkið virðist þurfa að hafa töluvert fyrir lífi sínu, það stritar eins og við og allmikill munur virðist vera á efnum þess sem ráða má af klæðnaði og híbýlum.
Athyglisvert er að krossinn á öllum álfakirkjum er sérstakrar gerðar og öðruvísi en krossinn sem við notum þar sem þverslárnar eru tvær og vísa í hinar fjórar höfuðáttir.”

Heimildir m.a.:
-Ólína Þorvarðardóttir – Álfar og tröll, Bóka- og blaðaútgáfan sf., Rvík 1995
-http://www.ismennt.is/vefir/ari/alfar/
-http://www.simnet.is/isrit/greinar/alfar.htm

Grásteinn

Grásteinn í Urriðakotshrauni.

Helgafell

Í jólablaði Fjarðarfrétta 2022 er saga af „Jólasveininum í Helgafelli„, samin af Þórarni Reykdal á næturvöktum í Íshúsi Reykdals um miðjan sjötta áratuginn:

Jólasveinn„Jólasveinninn í Helgafelli vaknaði af værum blundi. Hann settist fram á rúmstokkinn og geispaði óskaplega og teygði úr sér. Það var nú reyndar engin furða, því að nú var kominn fyrsti vetrardagur, en eins og þið vitið þá sofa allir jólasveinar frá þrettándanum og fram til fyrsta vetrardags.
Jólasveinninn klæddi sig í skyndi og opnaði sjónvarpið sitt, til þess að gæta að hvað börnin niðri í byggðinni hefðust að.
-„Það er nú einhver munur síðan ég fékk sjónvarpið,“ sagði hann við sjálfan sig.
-„Nú get ég setið hér og horft í sjónvarpið mitt og séð alla krakkana, í stað þess að hlaupa um allar jarðir og kíkja á gluggana.“
Í sjónvarpinu sá hann hvítt hús með rauðu þaki. Það var Móberg í Garðahreppi. Hann sá krakkana fjóra sitja inni í stofu. Þau voru að lesa og skoða blöð. Þá varð honum litið á kamínuna.
jólasveinn
-„Já, nú skal ég reyna að gera það sem jólasveinarnir í útlöndum gera, “ sagði hann við sjálfan sig.
-„Ég heyrði það í útvarpinu einu sinni, að þeir færu niður um strompinn og settu jólagjafir í sokka sem hengdir eru á kamínuhilluna og ég sá einmitt svona jólasokka hér í fyrra. Ég vona að þau hengi þá aftur á hilluna núna á jólunum.“
Svo liðu dagarnir fram að jólum.
Jólasveinninn var önnum kafinn við að búa til jólagjafir og að horfa í sjónvarpið sitt. Hann sá inn í öll hús í Garðahreppi og Hafnarfirði og miklu víðar. Stundum sá hann krakka sem voru óþekk, en þau voru nú sem betur fer ekki mörg og þegar jólin fóru að nálgast urðu öll börn miklu þægari. Því að allir vildu fá jólagjafir frá jólasveininum. Þegar aðfangadagur kom var poki jólasveinsins orðinn fullur og svo hélt hann af stað.
jólasveinn
Jólasveinninn á heima einhvers staðar í toppinum á Helgafelli og hann fer alltaf í gegnum gatið á Helgafelli þegar hann fer niður í byggðina.
Þegar jólasveinninn var kominn svolítið niður fyrir Helgafell mætti hann trölli.
-„Sæll vertu,“ sagði Jóli, -„og hver ert þú eiginlega?“
-„Ég heiti Narfi nátttröll. Ég átti einu sinni heima í Valabóli, en síðastliðin fjögur hundruð ár hef ég staðið eins og klettur hérna utan í Valahnúkunum. Ég fór suður í Kleifarvatn að veiða eitt sinn en varð of seinn heim og sólin skein á mig svo að ég varð að steini“.
-„Já, nú man ég eftir þér,“ sagði Jóli. -„Ég var nú bara jólasveinastrákur þegar þetta skeði, en nú er ég orðinn fjögurhundruð og fjórtán ára. En segðu mér annars hvað þú ert að gera hér núna“.
jólasveinn-„Jú sjáðu,“ sagði tröllið „ég er búinn að standa þarna svo agalega lengi að ég var orðinn dauðþreyttur í fótunum, svo að ég mátti til með að liðka mig svolítið. Ég skrapp áðan heim í gamla hellinn minn Valaból. Þar er nú orðið fínt maður. Það er komin hurð og allskonar fínirí, svo að mig dauðlangar að halda þar jólaveislu eins og í gamla daga, enn nú þekki ég ekki lengur neinn sem ég get boðið. Kannske getur þú hjálpar mér,“ sagði tröllið og klóraði sér vandræðalega í hraunskegginu.
-„Ég skal nú sjá til,“ sagði Jóli og kvaddi tröllið og hann flýtti sér af stað.
Þegar Jóli kom niður í Gráhelluhraun mætti hann tveimur litlum grænklæddum körlum.
-„Sælir verið þið,“ sagði hann „og hvaða fuglar eruð þið nú eiginlega?“
jólasveinn-„Ég heiti Síðskeggur,“ sagði annar þeirra -„og hann bróðir minn þarna heitir Stuttskeggur. Við erum dvergar og eigum heima hérna í Gráhellu“.
-„Rétt er nú það,“ sagði Jóli.
-„En heyrið þið mig annars. Hann Narfi nátttröll ætlar að halda jólaveislu í Valabóli. Viljið þið nú ekki vera svo góðir að koma, því að trölli greyið þekkir svo fáa og hefur ekki talað við nokkurn mann í fjögur hundruð ár“. Það vildu dvergarnir og svo kvaddi Jóli þá og þrammaði áfram.
Jólasveinninn var kominn niður á Svínholt, þegar hann sá einhverja skrýtna veru koma hoppandi á móti sér. Hann staðnæmdist, setti frá sér pokann og hló svo mikið að hann varð að halda um magann. „Ha, ha, sæll vert þú og ha, ha, ha hvað heitir þú?“ gat Jóli loksins stunið upp. Aldrei hafði hann séð svona skrýtinn karl.
jólasveinn-„Ég er tunglpúki,“ sagði karlinn, sem var eins og hjól í laginu.
-„Þú lítur út fyrir að vera skemmtilegur náungi,“ sagði Jóli -„viltu ekki koma í jólaveislu til nátttröllsins í Valahnúkum?“
-„Jú það vil ég,“ sagði tunglpúkinn og svo hoppaði hann og skoppaði sína leið, en jólasveinninn hélt áfram ferð sinni.
Jólasveinninn hafði ekki gengið lengi er hann mætti stórri og ljótri kerlingu.
-„Sæl Grýla mín,“ sagði hann.
-„Mikið ertu nú vesældarleg núna“.
-„Já það er nú von,“ sagði Grýla, -„ég er nú nú búin að vera á flakki um allar sveitir frá morgni til kvöld um langan tíma og ekki fengið eitt einasta krakka krýli í pokann minn. Sko sjáðu. Hann er alveg tómur“.
jólasveinn-„Já, Grýla mín,“ sagði Jóli, -„blessuð jólin eru nú að koma og þá eru öll börn góð og þæg, svo að það er ekki von að þú finnir marga óþekka krakka þessa dagana. En heyrðu nú greyið mitt. Hann Narfi nátttröll ætlar að halda jólaveislu í Valabóli. Vilt þú ekki koma þangað, svo að þú farir ekki á mis við alla jólagleði í ár?“
Grýla var ósköp þakklát fyrir boðið og svo kvöddust þau og Jóli flýtti sér á stað því hann var búinn að tefjast svo oft á leiðinni. Hann sá nú ljósin í bænum, það var víða búið að kveikja á jólaljósum úti.
Jæja, þarna er þá Móberg. Það er best að fara þangað fyrst. Fyrir utan húsið á Móbergi stóð snjókarl. Jólasveinninn gekk til hans og heilsaði honum.
-„Sæll vert þú Snjólfur minn.“
-„Komdu sæll,“ sagði Snjólfur snjókarl“.
-„Hvað er þú að gera hér um miðja nótt?“
jólasveinn-„Það skal ég segja þér,“ sagði Jóli. „Ég ætla nú að reyna svolítið, sem enginn jólasveinn á Íslandi hefur gert. Þú veist, að það er kamína hérna og nú ætla ég, lagsmaður, að stinga mér niður um strompinn, eins og þeir gera í útlöndum, jólasveinarnir. Þá þarf ég ekki að vekja neinn til þess að opna fyrir mér.“
-„Niður um strompinn,“ sagði snjókarlinn, -„hvernig í ósköpunum ætlar þú að fara að því? Þú, sem ert svona feitur“.
-„O, við jólasveinar kunnum nú ráð við slíku,“ sagði Jóli, -„við getum gert okkur stóra og litla eftir þörfum“.
-„Jæja, þú um það,“ sagði Snjólfur, -„en hræddur er ég um að þú verðir allur kolsvartur á þessu“.
-„Við sjáum nú til,“ sagði Jóli -„en nú verð ég að fara að koma mér að verki, því að víða verð ég að koma í nótt. En heyrðu kunningi, það verður nú hálf kuldalegt fyrir þig að híma þarna úti um jólin.
jólasveinn-Viltu ekki koma í jólaveislu til hans Narfa nátttrölls í Valabóli?“
Jú, snjókarlinn vildi það og svo klifraði Jóli upp á þak og stakk sér niður í strompinn. Þetta gekk nú ekki eins vel og til stóð. Jóli stóð nefnilega fastur í strompinum. Í ákafanum hafði hann gleymt að gera sig lítinn. „Æ, hver skollinn,“ sagði hann og gerði sig svo lítinn að hann losnaði. En þá tók ekki betra við. Hann gerði sig of lítinn, svo að hann datt nú allt í einu niður og valt með brauki og bramli inn á mitt stofugólf.
-„Æ, þetta var nú meiri klaufaskapurinn,“ hugsaði Jóli -„nú vakna krakkarnir“. Og það var einmitt það sem skeði. Jói, Gréta, Tóta og Iðunn hlupu öll fram í gang. Hurðin á stofunni var opin og þau sáu jólasveininn sitja á gólfinu. „Það er bara jólasveinninn,“ sögðu þau „við megum ekki trufla hann, þegar hann er að koma með jólagjafirnar“.
Og svo fóru þau öll í bólin sín aftur og sofnuðu. En morguninn eftir sögðu þau öll að þau hefði dreymt að jólasveinninn hefði komið.

Valaból

Valaból.

En það er af jólasveininum að segja að hann hét því að gera betur næst.
-„Þá hef ég æfinguna,“ sagði hann. Svo flýtti hann sér að útbýta öllum gjöfunum úr stóra pokanum sínum, og þegar því var lokið hélt hann aftur til fjalla til þess að sitja jólaveisluna í Valabóli.
– Og svo komu sjálf jólin. Öll góð börn fengu einhverjar jólagjafir. Það voru jól í hverju húsi og það voru líka jól í Valabóli. Narfi nátttröll var ánægður með jólaveisluna sína. Það var nóg að borða og það var svo gaman að fá að tala við einhvern, þegar maður hefur þagað í fjögur hundruð ár. Allir í Valabóli skemmtu sér vel. En Snjólfur snjókarl var samt dálítið hræddur um að hann myndi bráðna áður en veislan væri búin. Honum þótti vissara að sitja næst dyrunum og hann borðaði lítið af heita hangikjötinu, sem hann Kjötkrókur hafði sent, en hann át mest af eftirmatnum, sem var rjómaís. Það var óhætt fyrir snjókarl.“

Góða nótt og gleðileg jól
gott er sig að hvíla.
Ef krakkar eru komin í ból
kemur engin Grýla.

Höfundur texta og mynda er Þórarinn Reykdal. Sagan hefur ekki áður komið út á prenti og er birt með leyfi afkomenda.

Heimild:
-Fjarðarfréttir 20 des. 2022, Jólasveinninn í Helgafelli, Þórarinn Reykdal, bls. 15 og 19.

Helgafell

Tröllin á Valahnúk. Helgafell fjær.

Selgjá
Gengið var að Urriðakotsnátthaga í Urriðakotshrauni, skammt austan við golfvöllinn.

Selgjá

Fjárhellir í Selgjá.

Vestan við hraunklett eru hleðslur og hlaðið er upp í vik á klettinum. Skammt austar eru hleðslur, op Norðurhella. Opið er á gangi niður í hellana. Gangurinn er hlaðinn. Vinstra megin eru og er hægt að fara í gegnum þá og upp vestar. Hægra megin er nokkurs konar viðverustaður. Sunnan við opið er fjárhellir í jarðfalli (Suðurhellir). Einnig er hægt að ganga í gegnum hann og koma upp nær opi Norðurhella. Norðan við þá er einnig fjárhellir (Norðurhellir) í jarðfalli. Hleðslur er skammt innan við opið. Hægt er að fara ofan í hellinn og upp í gegnum Selgjárhellir nyrðri. Hann er nyrst í Selgjánni þarna suður af og eru hleðslur við op hans þar sem hann opnast út í jarðfall við enda gjárinnar.
Enn norðar er op Skátahellis syðri. Varða er við opið. Þegar farið er niður í það er haldið til vinstri og þá birtist hraunrásin, sem nær alllangt inn í hraunið. Skátahellir nyrðri er nokkru norðar. Vörðumynd er ofan við opið. Opið er fremur lítið og ekki auðvelt að finna það. Þar er því greiðfært niður og í fallega hraunrás, sem þar er.

Selgjá

Selgjá – uppdráttur ÓSÁ.

Selgjáin sjálf er vel gróin. Hún nær að Búrfellsgjá. Samkvæmt Jarðarbókinni 1703 voru 11 sel frá Görðum í gjánni. Gengið var suður með vesturkanti gjárinnar. Strax birtist stekkur við kantinn. Ofan hans, í hraunveggnum er skúti, sem notaður hefur verið sem aðstaða. Síðan tekur hver stekkurinn við af öðrum. Á einum stað að vestanverðu er augljóst sel. Einnig þegar komið er í vik sunnarlega í gjánni. Þar er sel utan í gjárveggnum. Hlaðið er fyrir skúta og framan við hann er stekkur. Skammt sunnar er fjárhellir, Selgjárhellir syðri. Óþarfi er að ganga lengra inn með gjánni ef einungis er ætlunin að sjá minjar því engar virðast vera sunnan við þessa línu. Þar er mun meira kjarr í gjánni sem og hraun. Girðing virðist einhvern tímann hafa legið þarna yfir gjána og sjá má háa vörðu á Vífilstaðahlíðinni hinum megin. Við hornið er langur mjór stekkur og handan þess annar minni. Bendir til þess að þar hafi verið fráfærusel. Við öndverðan gjárvegginn eru tóttir nokkurra selja á tiltölulega afmörkuðu svæði. Haldið var til norðurs frá seljunum með austurveggnum. Þá var komið að steini, sem stóð stutt frá veggnum. Á honum er höggvinn bókstafurinn B. Norðar eru minjar sels, rétt áður en hringurinn lokast við Selgjárhelli nyrðri.
Frábært veður.

Selgjá

Skilti við Selgjá.

Garðakirkja

Á vefsíðu Garðakirkju er m.a. fjallað um kirkjuna fyrr og síðar. Fyrrum var kirkjan sóknarkirkja Hafnfirðinga og þurftu þá bæði bæjarbúar og sóknarbörn Garðaprestakalls, sem bjuggju sunnan bæjarins, að sækja þangað messur. Í þá daga var ekki þyrlum fyrir að fara svo nota þurfti annað hvort tvo jafnfljóta eða þess umfram tveimur fljótari.

Garðavegur

Kirkjugatan – gamla sjávargatan.

Löngum fetaði fólkið austan kirkjunnar fjörugötuna, en fljótlega um og eftir aldarmótin 1900 var farið að huga að því að leggja slóða og götur um hið strjála kofaþyrpingasvæði Hafnarfjarðar ofan strandarinnar. Ein af fyrstu götunum, sem lagðar voru í byrjun aldarinnar var Garðavegur – kirkjugatan, sem þá lá upp frá austanverðu Akurgerði og nefndist Kirkjuvegur.
Garðavegurinn hefur týnst að hluta, einkum þar sem hann lá um Víðisstaði og núverandi byggingarsvæði Norðurbæjar Hafnarfjarðar að ofanverðum Hleinum (þar sem Hrafnista trjónir nú ofan við gamla Allianz fiskreitinn). Í nýlegri fornleifaskráningu fyrir Hafnarfjörð hefur láðst að skrá Garðaveginn þar sem hann lá fyrrum í gegnum Norðurbæinn. Þar er einungis vitnað í þekkta fiskreiti og hlaðna garða (sem flestir eru reyndar frá nútíma).
Hér verður reynt að gefa fólki mynd af legu þessa gamla tímabundna kirkjuvegar, er þjónaði sínu hlutverki allt fram yfir fyrsta áratug 20. aldar.

Garðavegur

Garðavegur 1942.

„Garðakirkja hefur staðið í Görðum frá fornu fari. Garðakirkja var frá upphafi Péturskirkja en algengt var, er menn fóru að reisa kirkjur hér á landi eftir kristnitöku, að þeir helguðu kirkjur sínar Pétri postula. Máldagar greina frá, að Bessastaðakirkja sé í fyrstu talin Maríukirkja og síðar Nikulásarkirkja, og bendir það til þess, að Garðakirkja sé eldri. Í Vilkins-máldaga frá 1397, þar sem skráðar eru allar eignir kirkna í Skálholts- biskupsdæmi, vekur það sérstaka athygli, að eignir Garðakirkju eru þá þegar orðnar ótrúlega miklar, og það svo, að landaeignir hennar munu ekki hafa aukist svo neinu næmi eftir það. Í þessu felst skýr ábending um háan aldur hennar, því svo miklar eignir hlóðust ekki á kirkjur yfirleitt nema þá á all löngum tíma. Sterk rök virðast því hníga að því, að Garðar séu hin forna landnámsjörð Ásbjarnar Össurarsonar, bróðursonar Ingólfs Arnarsonar, og jafnframt með elstu kirkjustöðum þessa lands.

Jón Vídalín

Jón Vídalín.

Í Görðum er fæddur séra Jón Þorkelsson Vídalín (1666-1720), sem var biskup í Skálholti 1698-1720. Jón biskup Vídalín samdi “Guðrækilegar predikanir yfir öll hátíða og sunnudaga guðspjöll” og gaf út í húspostillu sinni, sem prentuð var fyrst á Hólum í Hjaltadal 1718-20. Árið 1995 var Vídalínspostilla gefin út í fimmtánda sinn, og hefur sú bók lengst, ásamt Passíusálmunum, dugað íslensku þjóðinni til guðrækilegrar iðkunar, allt þar til að húslestrar lögðust af eftir að Ríkisútvarpið tók til starfa og útvarpsmessur hófust árið 1930.

Árið 1875 vísiterar Dr. Pétur Pétursson biskup í Görðum. Þá stóð þar gömul timburkirkja í miðjum gamla hluta kirkjugarðsins og svo hrörleg orðin, að hún verður ekki talin nothæf öllu lengur að dómi biskups. Séra Þórarinn Böðvarsson, sóknarprestur í Görðum og prófastur í Kjalarnesprófastdæmi, hvatti til þess, að kirkjan yrði endurreist en ágreiningur varð um hvort byggja skyldi í Görðum eða í Hafnarfirði og náðist ekki samkomulag.

Garðavegur

Garðavegur 1957.

Séra Þórarinn lét því árið 1879 byggja nýja kirkju í Görðum á eigin kostnað. Hann velur kirkjunni nýjan stað ofar og hærra en aðrar Garðakirkjur höfðu áður staðið og ákvað, að þessi nýja kirkja yrði gjörð af steini og var grjót til hennar tekið úr holtinu fyrir ofan kirkjuna. Þórarinn leggur allan sinn metnað í það, að kirkjan verði svo vönduð og vegleg sem verða má. Til marks um hve vel var vandað til alls, sem að kirkjusmíðinni laut, má geta þess, að þegar Garðakirkja var rifin, nær 60 árum síðar, sást hvergi ryðblettur á þakjárni hennar, og hafði þakið þó aldrei verið málað.

Garðakirkja

Garðakirkja 1879.

Kirkjuhúsið var hlaðið úr tilhöggnum steini, eins og fyrr er sagt.. Blámálað hvolfþak var í ferhyrndum reitum með gylltri stjörnu í hverjum reit og þótti kirkjan eitt glæsilegasta guðshús landsins á þeim tíma. Ekki hefur fundist skráð hvenær kirkjan var vígð, en trúlega var það á annan í hvítasunnu 1880.

Eftir vígslu nýrrar kirkju í Hafnarfirði hinn 20. desember 1914 er Garðakirkja lögð af sem sóknarkirkja, en kirkjulegar athafnir fóru þó fram í Garðakirkju eftir það, enda sat sóknarpresturinn, séra Árni Björnsson, prestsetrið að Görðum og flutti ekki til Hafnarfjarðar fyrr en um haustið 1928. Séra Árni kom að Görðum frá Reynistað í Skagafirði árið 1913. Hann varð prófastur í Kjalarnesprófastsdæmi 1916. og þjónaði Garðaprestakalli til dauðadags 26. mars 1932.

Garðavegur

Garðavegur – loftmynd 1952.

Útfarir fóru fram öðru hverju frá Garðakirkju þegar jarðsett var í Garðakirkjugarði, einnig eftir að kirkjan var seld í nóvember 1917. og fór síðasta athöfnin fram í maí 1937.
Eftir byggingu Hafnarfjarðarkirkju var söfnuðurinn í fjárþröng. Á aðalsafnaðarfundi 31. október 1915 var smþykkt einróma að selja Garðakirkju og í apríl næsta ár er auglýst eftir tilboðum. Þrjú tilboð bárust og voru opnuð á sóknarnefndarfundi 10. maí. Hæsta tilboðið reyndist sautján hundruð krónur. Horfið var frá því að taka nokkru tilboði þar eð fundinum barst eindregin ósk frá herra Þórhalli Bjarnarsyni biskupi, sem lofaði í þess stað tvö þúsund króna láni úr almennum kirkjusjóði með veði í Garðakirkju.

Garðavegur

Garðavegur – loftmynd 1952 m.v. loftmynd 1992.

Sú orðsending fylgdi frá biskupi, “að hann mætti ekki til þess hugsa að hið fornmerka kirkjuhús væri niður rifið, og það því fremur, sem Garðakirkja væri minnisvarði þjóðhöfðingjans, Þórarins heitins Böðvarssonar, sem hafði byggt hana og lagt til hennar mjög stóran skerf úr eigin vasa”. Á safnaðarfundi 29. október 1916 eru á ný flutt eindregin tilmæli frá Þórhalli biskupi um, að frestað yrði enn að selja Garðakirkju. Biskup hafði þá sótt um heimild stjórnarráðsins um að Garðakirkja yrði keypt af Thorchillisjóði er síðar kæmi þar upp “barnauppeldisstofnun”. Áður en stjórnarráðið svaraði þessu erindi lést biskup hinn 15. desember 1916. Hinn 21. maí 1917 ritar sóknarnefnd eftirmanni hans, herra Jóni Helgasyni biskupi langt bréf með beiðni um að málið yrði tekið upp að nýju en sú málaleitan bar engan árangur.

Garðakirkja

Garðakirkja 1956.

Loks kemur að því, að Garðakirkja er auglýst til sölu öðru sinni. Hinn 11. nóvember 1917 eru tvö tilboð opnuð, hið hærra kr. 2.000 og er báðum tilboðum hafnað. Á fundinn voru komnir þeir Ágúst Flygenring og Einar Þorgilsson og tjá sóknarnefnd að þeir og átta menn aðrir hafi bundist samtökum um að kaupa Garðakirkju, svo að hún yrði ekki rifin niður, og var tilboð þeirra kr. 2.800. Sóknarnefnd samþykkti tilboð þeirra. Þeir aðrir, sem að kaupunum á Garðakirkju stóðu, voru: Carl Proppé, Christian Zimsen, Gunnar Egilsson, Jes Zimsen, Jón Einarsson, dr. Jón Þorkelsson, Sigurgeir Gíslason og Þórarinn Egilsson. Árið 1938 var Garðakirkja orðin mjög illa farin og turn hennar að falli kominn. Hvorki þeir, sem eftir lifðu af eigendum hennar né sóknarnefnd töldu sér fært að gera á kirkjunni bráðnauðsynlegar endurbætur og fór svo að kirkjan var rifin næsta ár.

GarðakirkjaSvo var komið um miðja tuttugustu öldina að eftir stóð af Garðakirkju tóftin ein, þak- og gluggalaus og hinir hlöðnu steinveggir Þórarins Böðvarssonar óvarðir fyrir veðri og vindum. Kom jafnvel til tals að brjóta þá niður og flytja grjótið í fyllingu í Hafnarfjarðarhöfn. Því menningarslysi varð þó forðað og komu konurnar í nýstofnuðu kvenfélagi Garðahrepps þar til sögunnar og ákváðu að hefjast handa og endurreisa Garðakirkju. Þær máttu ekki til þess hugsa, að þessi forni og merki kirkjustaður legðist af. Garðar höfðu skipað virðingarsess í íslenskri kirkjusögu um aldir. Meðal fyrstu verkefna Kvenfélags Garðahrepps var endurreisn Garðakirkju. Á fundi félagsins hinn 6. október 1953 voru þrjár konur, þær Úlfhildur Kristjánsdóttir, Dysjum, Ásta G. Björnsson, Reynihlíð og Ólafía Eyjólfsdóttir, Hausastöðum, kosnar í nefnd til að vinna að þessu mikla áhugamáli. „

Hátíðarræða flutt í Garðakirkju 6. mars 2016.

Garðavegur

Garðavegur í dag – Fátt markvert að sjá….

Við hátíðarguðsþjónustu, sem haldin var þann 6. mars af tilefni 50 ára vígsluafmæli Garðakirkju, fluttu hjónin Steinar J. Lúðvíksson og Gullveig Sæmundsdóttir afar fróðlega og skemmtilega hátíðarræðu um sögu Garðakirkju.

„Hér erum við stödd í helgu húsi á sögufrægum stað. Senn eru liðin 50 ár frá því kirkjan okkar hér í Görðum var endurreist og endurvígð til þeirra mikilvægu verkefna sem unnin eru í kristilegu starfi í bæjarfélaginu okkar. Garðakirkja er eitt af kennileitum bæjarfélagsins. Kennileiti sem okkur þykir einkar vænt um og vístum til með virðingu og stolti. Að stofni til er kirkjubyggingin senn 140 ára sem telst hár aldur í byggingasögu landsins. Hún var á sínum tíma reist af miklum stórhug og þótti þá ein glæsilegasta kirkjubygging landsins.

Garðavegur

Garðavegur í gegnum Norðurbæinn fyrrum (1952).

Á þeim tímamótum að minnst er 50 ára endurvígslu Garðakirkju er ekki nmea eðlilegt að hugurinn reiki til fyrra tíma og hann sé borinn saman við þann tíma sem við lifum nú. Það er undarlegt að hugsa til þess að það eru ekki nema nokkrir mannsaldrar síðan að næfellt fjórðungur íslensku þjóðarinnar var á flótta. Voru flóttamenn í eigin landi og að á tveimur árum fórst nærfellt fimmtungur þjóðarinnar af fátækt og hungri. Miðað við það alsnæktaborð sem við sitjum nú við er hollt fyrir okkur að minnast þess að hér á þessu svæði bjó kynslóð afa okkar og önnu við það að vita ekki hvort til væri málungi matar næsta dag, – hvort unnt yrði að gefa börnunum eitthvað að borða þótt ekki væri nema þang eða fiskruður.

Garðar

Garðar í nútíma..

Og vert er líka að geyma í minni að það eru innan við hundrað ár síðan hreppsnefnd Garðahrepps sat á rökstólum í þinghúsinu hérna á holtinu og freistaði þess að útdeila mat til nánast allra heimila í hreppnum. Það var ekki auðvelt hlutskipti, ekki síst vegna þess að þá vildi enginn sem átti veraldleg verðmæti lána þau Garðahreppi.

Þótt fátækt og erfiðleikar væru miklir hér á svæðinu hélt kirkjustaðurinn Garðar jafnan reisn sinni. Í gegnum tíðina urðu margir Garðaklerkar nafntogaðir og landsþekktir og höfðu mikil áhrif á samtíð sína. Enginn þó eins og Jón Vídalín sem fæddist og ólst upp hér. Var hér sóknarprestur í eitt ár en lengst af starfsævi sinnar biskup í Skálholti.

Garðakirkja

Garðakirkja 2023.

Hér er ekki staður né stund til að fjalla um þann merka mann en aðeins sagt að enginn einn maður hefur haft eins djúpstæð áhrif á trúarlíf Íslendinga í langan tíma sem hann, auk þess sem hann lagði mikilvæg lóð á vogaskálar menntunar og uppbyggingar landsins á mörgum sviðum. Faðir Jóns, Þorkell Arngrímsson, sonur Arngríms lærða, var prestur hér í tvo áratugi. Hann var sagður lærðasti maður samtíðar sinnar – fyrsti Íslendingurinn sem lauk háskólanámi í læknisfræði og var einnig hámenntaður í jarðvísindum en mun aldrei hafa lokið námi í guðfræði. Marga aðra mætti nefna svo sem séra Jón Kráksson sem sat embættið í 50 ár, séra Guðlaug Þorgeirsson, séra Árna Helgason sem jafnan var nefndur „biskupinn í Görðum.“ Honum margstóð til boða biskupsdómur en afþakkaði jafnan, séra Helga Hálfdánarson sálmaskál, séra Þórarin Böðvarsson og séra Jens Pálsson. Og meðal merkra presta hér má vissulega líka nefna samtímamann okkar, séra Braga Friðriksson.

Garðaholt

Garðaholt 1952.

Fáum sögum fer af kirkjubyggingum í Görðum. Líklega hafa þær verið eins og víðast annars staðar á Íslandi, fyrst byggðar úr torfi og grjóti en síðar úr timbri. Ugglaust hefur það verið timburkirkja sem á sínum tíma fauk í ofvirði alla leið út á Svið. Vildi til að þar sat maður undir árum á báti sínum og sá svarta flyksu stefna til sín. Greip hann flyksunar og reyndist hún vera Garðakirkja. Lét hann sig ekki muna um að hengja hana aftan í bátinn er hann reri til lands og koma henni fyrir á grunninum. Ekki var kannski alveg að marka söguna, þótt góð væri, því sá er hana sagði var Vellygni Bjarni sem sjaldan gerði lítið úr afrekum sínum.

Garðavegur

Garðavegur í dag (2022).

Þegar leið á 19. öldina tók byggðamynstrið hér á svæðinu verulegum breytingum. Með skútuútgerðinni myndaðist þéttbýli í Hafnarfirði og þá fóru að heyrast raddir um að sóknarkirkjan væri best komin þar. Hafnfirðingar þóttu latir að ganga illfæra leið út að Görðum til kirkjulegra athafna. Á sama tíma var kirkjan í Görðum orðin svo hrörleg að endurbygging var nauðsynleg. Þegar ekkert gerðist í málinu bauð séra Þórarinn Böðvarsson sókninni að byggja hér steinkirkju á eigin kostnað. Var það ekki eina stórgjöfin sem séra Þórarinn færði sveitarfélaginu þar sem hann og eiginkona hans Þórunn Jónsdóttur gáfu líka skóla – Flensborgarskólann – til minningar um son þeirra, Böðvar, sem þótti einstakur efnismaður en lést ungur, þegar hann var við nám í Lærða skólanum.

Víðistaðir

Garðavegurinn um Víðistaði.

Nýja kirkjan var reist á árunum 1878-1880. Hleðslugrjótið var tekið hér í Garðaholti en gífurleg vinna var að höggva það til. Kalkið sem notað var til að líma steinana saman var úr Esjunni, unnið í kalkofni sem stóð skammt frá Arnarhól. Ekki hafa fundist heimildir um vígsludag kirkjunnar en séra Bragi Friðriksson taldi líklegt að hann hefði verið hvítasunnudagur árið 1880.

Nú þarf að gera langa sögu stutta.

Hafnarfjarðarkirkja

Hafnarfjarðarkirkja.

Árið 1909 var ákveðið að byggja sóknarkirkju í Hafnarfirði og var hún vígð 20. desember árið 1914. Eftir stóð yfirgefin kirkja að Görðum sem nýbyggð var talin ein glæsilegasta kirkja á Íslandi. Nú laut hún allt í einu lögmálum yfirgefinna bygginga, – að láta smátt og smátt undan veðri og vindum og grotna niður. Árið 1938 var turn kirkjunnar rifinn svo og þak og gluggar. Eftir stóð gapandi steintóft sem enginn vissi hvað átti að gera við. Til stóð reyndar að rífa hleðsluna og nota sem uppfyllingu í hafnarmannvirki í Hafnarfirði en þegar á herti var slíkt ekki talið svara kostnaði. Úr varð að kirkjan var auglýst til sölu og barst í hana tilboð upp á tvö þúsund krónur. Enn átti kirkjan sér velunnara?. Nokkrir menn sem áttu rætur í Garðahverfinu yfirbuðu og keyptu rústirnar á 2.800 krónur.

Garðakirkja

Garðakirkja 2022.

Og árin liðu. Garðakirkja hafði verið traustlega byggð og steinhleðslan stóð eins og hún vildi sýna að hennar tími myndi koma. Og sá tími kom þegar konur í Garðahreppi tóku málin í sínar hendur.  Stórt skref var stigið er Garðasókn var endurvakin árið 1960 en þá tók sóknarnefnd undir forystu Óttars Proppé við framkvæmdum við kirkjuna.

Garðakirkja var endurvígð 20.mars 1966. Var það vel við hæfi þar sem þá var þess minnst að þrjár aldir voru liðnar frá fæðingu Jóns Vídalín.“

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – herforingjaráðskort frá 1903. Hér sjást báðir kirkjuvegirnir á milli Garða og Hafnarfjarðar.

Í framgreindum fróðleik kemur ekki fram hvaða veg og torfærur allan ársins hring Hafnfirðingar og útliggjandi Garðhreppingar þurftu að feta til að komast að og frá Garðakirkju til að hlusta á guðspjallið er annað er klerkinum lá að hjarta, þá og meðan kirkjan var við líði. Hér hefur verið úr því bætt…

Heimild:
-http://gardasokn.is/gardakirkja/

Garðakirkja

Garðakirkja.

Vífilsstaðahraun

Lagt var af stað inn í Heiðmörkina til að finna Regnbogann. Fyrst var þó farið í Maríuhellana norðan Dyngjuhóls (Hádegishóls), en þeir eru þrír talsins. Þeir voru fyrrum notaðir sem fjárhellar.

Maríuhellar

Maríuhellar.

Urriðakot átti um aldir fjárskjól í hellunum sem oft voru einungis nefndir Fjárhellar. Syðri hellirinn heyrði til Urriðakots og var nefndur Urriðakotshellir, en hinn Vífilsstöðum og því nefndur Vífilsstaðahellir.
Sá hellir, sem er mest áberandi, er næst veginum inn í Heiðmörk (Urriðakotshellir). Hann er stór opin hraunrás í stóru jarðfalli. Gengið var ofan í hana að vestanverðu og síðan í gegnum nálægt 20 metra langa rás uns komið var í stórt, grasi grói, jarðfallið. Í framhaldi af því heldur rásin áfram inn í skemmtilegan sal. Innst í honum er gat í háu loftinu þar sem sér til himins.

Draugahellir

Í Draugahelli.

Vestasti hellirinn (Draugahellir) er skammt norðvestar. Farið var ofan í hann um tiltölulega þrömgt op í sprungu. Þegar niður ar komið opnaðist stór hraunrás. Fremst í henni er sver hraunsúla, sem hægt er að ganga í kringum. Rásin heldur áfram um 30-50 metra til norðvesturs – allt eftir því hvað fólk vill beygja sig mikið niður. Út frá henni til norðurs (hægri) liggur önnur rás. Opið inn í hana er tiltölulega lágt, en fyrir innan er rúmgóður hellir. Tilvalinn krakkahellir.

Draugshellir

Í Draugshelli.

Nyrsti Maríuhellirinn (Vífilsstaðahellir) er í hraunkatli skammt norðar. Kanturinn liggur norðvestur og austur. Hægt er að ganga beint inn í hellinn til norðurs í stóru jarðfalli og einnig beggja vegna í kantinum. Þegar farið er inn í eystri rásina er gengið utan í hruni annars vegar og utan í rásveggnum hins vegar. Þessi hluti er stuttur. Hins vegar er hægt að fara nokkurn spöl eftir vestari hlutanum. Opið er grýtt og nokkuð þröngt, en þegar inn er komið er hægt að ganga eftir rásinni nokkurn spöl niður í hraunið.

Maríuhellar

Í Maríuhellum.

Ef einhvern tímann hafa verið fallegar hraunmyndanir í þessum hellum þá eru þær horfnar núna. Hins vegar eru hellarnir mjög aðgengilegir – inni í miðju höfuðborgarsvæðinu – og hægt að fara með börn í þá til að sýna þeim hellafyrirbæri.
Eftir svolitla leit í hrauninu kom göngufólkið auga á Regnbogann. Hann er steinbrú, sem hefur haldið sér þegar umhverfð hrundi niður í hraunhvarf. Þegar gengið var undir Regnbogann óskaði sérhver göngumanna sér í þegjanda hljóði því sagan segir að “sá sem kemst undir Regnbogann öðlist eina ósk og muni hún rætast undantekningarlaust”. Vinsælt er að óska sér huglægra heilla sjálfum sér og öðrum til handa. Það er þó undir hverjum og einum komið.
Frábært veður – bjart og hlýtt, nema í hellunum. Gangan tók 25 mínútur.

Maríhellar

Maríuhellar – uppdráttur ÓSÁ.