Tag Archive for: Garðabær

Vífilsstaðir

Í Fornleifaskráningu í Garðabæ árið 2009 er ma.a. fjallað um Vífilsstaði:

1547-1548: Í Fornbréfasafni er Vífilsstaða tvisvar getið í Fógetareikningum af konungsjörðum í Borgarfirði, Viðeyjarklaustursjörðum og öðrum konungsjörðum í Kjalarnesþingi. „Jtem met Weuelstedom ij legekior. xij for. landskyldt en guelde. ij lege vj forenger smör dt. her ij foder iiij lamb oc aff foder 4 lam oc ij landskyldt en 4 ar gamle ko dt.“ DI, XII, 113.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir – gerði.

1549-1550: Í fógetareikningum af konungsjörðum í Borgarfirði, Viðeyjarklaustursjörðum og öðrum konungsjörðum í Kjalarnesþingi er greint frá Vífilsstöðum. „Jtem mett Wiüelstedom ij kiör xij foer landskiöld jc n lege vij förenger smör etc. oc j lege til geffuit for en geldmelckeko oc j landsskyldt en vj ar gamel ko etc.“ DI, XII, 154.
1550: Í afgjaldarreikningum Kristjáns skrifara, svo og sjávarútgerðarbók.“Jtem mett Wiiüelstedom ij kiör xij foer landskyldt jc ij lege vij förenger smör etc. oc j lege tilgeffurt for en geeldmelckeko oc j landskyldt en sex ar gamel ko etc.“ DI, XII, 174.
1552: Í fógetareiknungum yfir ofangreindar jarðir. „Jtem mett Wiuelstedom iiij kör. vj faar. landskyld jc. ij leger j vett smör. dt. och ij landskyld j iij aars gamel ko. dt.“ DI, XII, 400.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir – aðhald.

1553. Í hlutabók og sjávarútgerðarreikningi Eggerts hirðstjóra. „Jtem Ion Pouelsson aff Vijuelsted viij alne vattmell.“ DI, XII, 577.
1558: „Kirkjujörðin Hlið lögð til Bessastaða, en til Garða í staðinn Viðeyjarklausturjörðin Vífilsstaðir.“ DI, XIII, 317.
1565: Bygging jarða Garðakirkju. ,,Wifilstader Jone Pälssyne fyrer malnytu kugillde og mannslän. med
jördunne ij kugillde.“ DI, XIV, 437.
1703: Garðakirkjueign. JÁM, III, 224.
1847: Jarðardýrleiki ekki tilgreindur. JJ,92.
1974: Búrekstur lagðist niður á Vífilsstöðum. GRG, 45.
Túnakort 1919: Tún allt sléttað, stærð ekki gefin upp.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir – gamli bærinn 1910.

„Býli í Garðahreppi, fyrrum Álftaneshreppi. Þar hefur verið sjúkrahús (Berklahæli) frá 1910…Vífilsstaðabærinn stóð nær því í miðju túni vestanverðu. Rústir nú.“ segir í örnefnaskrá Vífilsstaða. Rústir Vífilsstaðabæjarins eru horfnar en þó er nokkuð auðvelt að átta sig á staðsetningu bæjarins út frá afstöðu hans gagnvart spítalanum samkvæmt túnakorti frá 1919. Á túnakortinu er jafnframt sýndur kálgarður, austan og sunnan við bæinn sem enn sjást leifar af. Fjarlægð bæjarstæðisins vestsuðvestur frá spítalanum er um 150 m. Austan við kálgarðsleifarnar er lítill timburkofi.
Rústir bæjarins hafa nú verið sléttaðar og eru nú í túni. Ekki er hægt að tala um eiginlegan bæjarhól.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir – túnakort 1918.

Kálgarður er sýndur á túnakorti, fast austan og sunnan við gamla bæinn. Leifar austur- og suðurveggja hans sjást enn allgreinilega. Fjarlægð norðurenda austurveggjar að spítalanum, er um 140 m. Þýfður óræktarmói innan túns. Skógarlundur er austan og norðaustan við kálgarðinn.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir – loftmynd 1954. Hér sést gamla bæjarstæðið neðst t.h.

Kálgarðurinn er grjóthlaðinn og er hleðsluhæð mest um 0,5 m. Lengd austurveggjar er um 25 m en suðurveggurinn er um 20 m að lengd. Austurveggurinn er mun greinilegri en suðurveggurinn.

Útihús er sýnt á túnakorti frá 1919. Er það nú horfið. Nú er slétt grasflöt á þessum stað.

Útihús er sýnt á túnakorti frá 1919 um 140 m norðvestur af spítalanum. Virðist það vera á svipuðum slóðum og útihús sem nú standa. Ekki er ljóst hvort um sama útihús er að ræða.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir 1908.

„Býli í Garðahreppi, fyrrum Álftaneshreppi. Þar hefur verið sjúkrahús (Berklahæli) frá 1910…“ segir í örnefnaskrá Vífilsstaða. Spítalinn er sýndur á túnakorti frá 1919 og stendur hann enn.

[Reyndar er getið um Vífilsstaði í Landnámu, sbr. : (Sturlubók) – 8. kafli: „Vífli gaf Ingólfur frelsi, og byggði hann að Vífilstóftum; við hann er kennt Vífilsfell; þar bjó (hann) lengi, varð skilríkur maður„.]

Í Jarðabók Árna og Páls segir: „Torfrista og stúnga nægileg.“ Óljóst er hvar torf hefur verið rist þegar Jarðabókin var tekin saman á 18. öld, en ekki er þó ólíklegt að það hafi verið í Vatnsmýri eða Vetrarmýri.
Vetrarmýri er um 330 m NNA við Vífilsstaði, milli Vífilsstaða og Hnoðraholts, en Vatnsmýri er um 100-150 m SSA við Vífilsstaði. Vetrarmýri er búið að breyta í golfvöll, en Vatnsmýri er deig og þýfð mýri, gróin grasi og mosa.
Ekki sáust ummerki torfristu við vettvangsathugun.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir 1909 – hornsteinn lagður að Vífilsstaðaspítala.

„Garður af torfi og grjóti lá umhverfis túnið, norðan, austan og sunnan Engjarnar að neðan og lækurinn,“ segir í örnefnaskrá. Vífilsstaðatúngarður er nú að mestu horfinn utan þess að sjá má slitrur af honum meðfram austurjaðri gamla túnsins.
Vestan við garðinn er trjálundur, en austan við hann er þýfður grasmói.
Garðurinn er mikið siginn. Torf er einungs allra nyrst annars yfirleitt um að ræða grjótnibbur í reglulegri röð. Heildarlengd garðlagsins er um 85 m. Hleðsluhæð hans er mest nyrst, um 0,4-0,5 m og er hann jafnframt breiðastur þar eða um 1,3 m neðst.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir – garðar. Gamla bæjarstæðið ofar.

„Brú yfir lækinn niður undan bænum.“ segir í örnefnaskrá. Steinsteypt brú er yfir lækinn beint niður undan gamla bæjarstæðinu. Upphlaðnar traðir eru frá brúnni til norðausturs.
Þýfðir og grasigrónir lækjarbakkar. Lækurinn er nokkuð breiður fyrir ofan (austan) brúnna, en þrengri við og fyrir neðan hana.
Brúin er um 1,6 m á breidd og um 3,3 m á lengd. Sjá má greinilegar hleðslur í bakkanum beggja vegna brúarinnar. Ekkert handrið er á brúnni. Þar sem brúin er steinsteypt þá er hún líklega frá svipuðum tíma og spítalinn og telst því ekki til fornleifa. Spítalinn og þau mannvirki sem honum tilheyra eru þó í sjálfu sér menjar um þá mikilsverðu starfsemi sem rekin hefur verið á Vífilsstöðum frá upphafi 20. aldar. Því fær brúin að fljóta með hér.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir – Suðurtraðir.

Suðurtraðir „lágu heiman frá bænum niður að lækjarbrúnni.“ samkvæmt örnefnaskrá. Traðir þessar sem eru upphlaðnar, má enn sjá á kafla frá brúnni, norðan lækjarins. Þær eru einnig sýndar á túnakorti frá 1919. Þar sem traðirnar sjást ennþá, liggja þær um þýfðan grasmóa. En eftir það tekur við slétt tún. Traðirnar liggja í norðaustur frá brúnni um 50 m, en beygja eftir það til austurs og eru þær greinilegar á um 40 m kafla eftir það. Samkvæmt túnakortinu beygja þær síðan aftur til norðausturs eftir þetta allt að aðalveginum að Vífilsstöðum. Er líklegt að þessi síðastnefndi hluti sé sá sem kallaður er Norðurtraðir og er sá hluti alveg horfinn. Hleðsluhæð traðanna er líklega mest um 0,5 m og breidd þeirra um 3 m.

Í örnefnaskrá segir: „Norðurtraðir: Var eiginlega troðningur af Alfaraveginum heim að bæ.“ Norðurtraðir eru horfnar með öllu. Á túnakorti eru sýndar samfelldar traðir sem liggja frá aðalveginum að spítalanum meðfram austanverðum kálgarðinum sem er austan og sunnan við bæjarstæðið. Eftir það beygja liggja þær fyrir sunnan kálgarðinn á kafla en beygja síðan til suðvesturs eftir það. Er þessi síðasti hluti líklega sá sem nefnist Suðurtraðir í örnefnaskrá.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir – Jónshellnastígur.

Í örnefnaskrá segir: „Stígur þessi liggur frá Brúnni suður að Hellunum.“ Þessi stígur er enn allgreinilegur og auðvelt að fylgja honum að Jónshellum („Hellunum“). Stígurinn liggur í gegnum hraunbreiðu. Um er að ræða mjóan troðning sem hlykkjast í gegnum hraunið.

Í örnefnaskrá segir: „Vatnsbólið var í læknum niður undan bænum við Brúna. Þýfðir og grasigrónir lækjarbakkar. Lækurinn er nokkuð breiður fyrir ofan (austan) brúnna, en þrengri við og fyrir neðan hana.

Í örnefnaskrá segir: „Finnsstekkur: Stekkur var þarna í eina tíð við voginn.“ Finnsstekkur er um 1 km austnorðaustur frá Vífilsstaðaspítala. Hann er rétt norðan við veginn að Elliðavatni, undir „suðvestur horni“ Smalaholts. Reiðvegur liggur hjá tóftinni. Á grasi- og lyngi grónum hjalla við brekkurætur. Tóftin er um 14×6 m stór. Hún skiptist í tvö hólf, rétt og lambakró. Er lambakróin byggð við réttina að suðaustanverðu, bæði hólfin norðvestur-suðaustur. Ekki eru greinilegar dyr á milli hólfanna. Dyr eru hins vegar allgreinilegar á norðvestur enda réttarinnar hólfsins. Réttin er um 11×6 m að stærð og lambakróin um 4x3m. Hleðsluhæð er mest um 1 m. Hleðslur eru yfirleitt grónar þótt sjáist í hleðslugrjót hér og þar.

Finnsstaðir

Finnsstaðir – Finnstekkur.

Í örnefnaskrá: „Í gömlum skjölum segir að þarna [við Finnstekk] hafi verið hjáleiga.“ Engar aðrar minjar eru sjáanlegar við Finnstekk og er mögulegt að hann sé byggður upp úr tóftum hjáleigunnar. Fær hjáleigan sömu hnit og stekkurinn. Örnefnaskrá SP talar um Finnstekk og Finnstaði sem einn og sama staðinn: „Milli Skyggnisholts og Smalaholts eru rústir á lágum hól, sem nefnast Finnsstekkur eða Finnsstaðir.“

„Hér í norður, bak við Smalholt, er Rjúpnahlíð og þá Rjúpnadalur og svo Rjúpnahæð með Rjúpnahæðarvörðu sem héðan liggur landamerkjalínan í í miðja Kjóavelli, en þar var Kjóavallavarða,“ segir í örnefnaskrá GS. Varðan hefur áður verið á Rjúpnahæð um 200 m norðan við Elliðavatnsveg. Á Rjúpnahæð er nú sendistöð fyrir höfuðborgarsvæðið.

Vífilsstaðavatn

Vatnsgeymir við Vífilsstaðavatn.

Í örnefnaskrá segir: „Hann [vatnsgeymirinn] er upp í hlíðinni upp frá vatnsósnum, byggður 1910. Vatnið svo leitt heim í Vífilsstaðahælið.“ Vatnsgeymirinn er um 190 m NA við Grímssetu, fast við göngustíg sem liggur upp að henni. Geymirinn er í norðaustanverðri Vífilsstaðahlíð í lúpínu- og mosagrónu umhverfi og stórt basaltgrjót stendur upp úr gróðrinum hér og þar.
Steinsteyptur tankur, hringlaga sívalningur grafinn í jörðu. Tankurinn er ríflega 4 m í þvermál og stendur 1,2 m upp úr jörðinni.

Nokkuð ógreinileg tóft er rúmlega 3 km suður af Vífilsstöðum og um 550 m SV af Vífilsstaðaseli. Tóftin, sem líkast til er af beitarhúsi, er fast austan við göngustíg sem liggur N-S milli skógar og hrauns. Gras, mosa- og skógivaxinn mói. Birkihríslur vaxa inni í tóftinni. Tóftin er 12 m löng, 5 m breið og snýr N-S. Veggjahæð er 0,6-0,8 m en breidd 1-1,5 m. Tóftin er eitt hólf og inngangur er ekki greinanlegur. Engar grjóthleðslur eru sjáanlegar í tóftinni og er hún algróin grasi og mosa.

Urriðakot

Sauðahellir Urriðakots undir Vífilsstaðahlíð.

„Flatahraun nær norður á móts við Kolanef. Í Vífilsstaðahlíð. Í Flatahrauni hefur verið gróðursett talsvert [af] furu og greni. Í norðaustur frá rústum beitarhússins í norðausturbrún hraunsins gegnt Kolanefi í Vífilsstaðahlíð við Kolanefnsflöt … Er lítill hellir, sem nefnist Sauðahellir. Veit op hans að hlíðinni, og eru hlaðnir kampar báðum megin við innganginn. Við hann var sauðum frá Urriðakoti gefið á gadd (á jörðinni) allt frá því að heimildamaður man fyrst eftir sér til 1933. Heyið var borið heiman frá Urriðakoti í poka á bakinu“, segir í örnefnaskrá SP. „Sauðahellir: Allgóður hellir í hraunbrúninni inn með Vífilsstaðahlíð undir Kolanefi,“ segir í Skrá yfir örnefni og fiskimið í Álftaneshreppi. Hellirinn er um 450 m ANA af beitarhúsi, hinu megin við Flatahraun og um 20 m SV af göngustíg undir Vífilsstaðahlíð. Hellirinn sést þó ekki frá stígnum vegna hraunkarga sem er á milli. Skammt sunnar og hinu megin við göngustíginn er skilti sem á stendur „Almennar Tryggingar H/F lét gróðursetja þennan lund vorið 1958“.
Hellirinn er í úfnu hrauni, sem að nokkru leyti er gróið grasi, mosa og lyngi. Hellismunninn er um 3 m víður, um 1 m hár og opnast til NA. Frá sitthvorum enda hellisopsins ganga stuttir garðar og mynda aðhald framan við hellinn. Garðarnir ganga ekki alveg saman fyrir framan hellismunnann, heldur er rúmlega 0,5 m bil á milli þeirra fjærst munnanum. Hvor garður er um 5 m langur,
1-1,5 m á breidd og mest rúmlega 1 m hár. Að jafnaði eru 5 umför í hvorum garði. Garðarnir eru haganlega hlaðnir úr ótilklöppuðu grjóti.

Heiðmörk

Fjárborg og fjárhús í Heiðmörk.

„Réttarflatir: Þar eru við Hraunbrúnina undir hlíðinni, vel grónar…Réttir: Rústir gamalla rétta eru þarna við hraunbrúnina,“ segir í Skrá yfir örnefni og fiskimið í Álftanesi. „Á flötum niður undan Svínahlíð norður með var Stekkurinn í svonefndu Stekkatúni og þar norðar voru Réttarflatir og þar Réttir, rétt við brún Svínahrauns,“ segir í örnefnaskrá GS. Réttirnar voru um 100 m NNV af stekknum í Stekkatúni og rúmlega 200 m norðaustur af Maríuhellum. Þar sem réttin var áður er nú malbikaður vegur og bílastæði.

Hnoðraholt

Hnoðraholt – skotbyrgi.

Skotbyrgi frá síðari heimsstyrjöldinni er á svonefndu Hnoðraholti um 1 km norðnorðaustur frá Vífilsstaðaspítala og um 90-100 m suðaustur af íbúðarhúsinu við Háholt 1.
Melholt sem að mestu er vaxið þéttum lúpínubreiðum. Gott útsýni er frá byrginu, einkum í norður og vestur. Byrgið er 3,5 x 3,5 m að stærð og er það hálf niðurgrafið, en um 1,20 m standa upp úr jörðu (og annað eins er niðurgrafið). Byrgið er steinsteypt með um 9 cm breiðum og 20 cm háum skotraufum, tveim á vestnorðvesturhlið, og einni á norðaustur og suðvestur hlið. Inngangur er niður í byrgið á austsuðausturhlið.

Hnoðraholt

Hnoðri á Hnoðraholti.

Varða er á dálitlu klapparholti norðvestan til á hábungu Hnoðraholts, um 370 m norðaustur frá skotbyrginu. Gott útsýni til allra átta, einkum þó norður og vestur. Varðan er um 80 sm á hæð og um 1 x 1 m að flatarmáli, en mjókkar upp. Varðan er fremur hroðvirknislega hlaðin.

Í örnefnaskrá segir: „Vífilsstaðabeitarhús: Í Hraunbrúninni er fjárhústótt, jötustallar.“ Tóftin er um 280 m SSA af Sauðahellinum nyrðri og rúmlega 50 m SV við veg undir Vífilsstaðahlíð. Beitarhúsið er um 2,5 km SSA af bæ. Rúmlega 3 m austur af tóftinni er rúst fjárborgar og um 10 m vestan við er garðbrot.
Umhverfis tóftina er úfið mosavaxið hraun, en fyrir framan tóftina og fjárborgina er hraunið vel grasivaxið á smá bletti, sem er eflaust leyfar túnbleðils. Tóftin er tvö hólf, hið stærra er austanmegin og er að líkindum fjárhús en hið minna kann að vera hlaða. Hún er hlaðin úr þurri hraungrýtishleðslu, úr hraunhellum sem sumar hverjar kunna að hafa verið klappaðar til. Utanmál tóftarinnar er 10,5 x 7,5 og snýr hún N-S. Hleðsluhæð er mest um 1,5 m, en víðast kringum 1 m og mesti fjöldi umfara er 7-8. Tóftin er gróin mosa, grasi og lyngi og er austurveggur mest yfirgróinn. Óvíst er hvort veggirnir hafi verið einangraðir að utan með torfi.

Heiðmörk

Fjárborg í Heiðmörk.

Í örnefnaskrá: „Þarna hefur átt að gera fjárborg. Aðeins undirstaðan.“ Fjárborgin er rúmlega 3 m austur af Vífilsstaðabeitarhúsi, rúmlega 50 m SV af vegi undir Vífilsstaðahlíð og um 20 m frá göngustíg sem liggur samhliða veginum. Umhverfis borgina er úfið mosavaxið hraun, en fyrir framan hana og Vífilsstaðabeitarhús er hraunið vel grasivaxið á smá bletti, sem er eflaust leyfar túnbleðils. Borgin er vel yfirgróin mosa og lyngi og að NA-verðu vex á henni birki.
Hringlaga fjárborg með dyr sem opnast til norðausturs. Borgin er sigin og yfirgróin og greinilega ekki fullhlaðin. Hún er hlaðin úr miðlungs og stóru hraungrýti eða hraungrýtishellum. Hleðsluhæð er ekki nema um 0,3-0,4 m, nema að utanverðu að austan er hægt að greina 5 umför og er hleðslan þar um 1 m há. Borgin heldur hringlaga formi sínu mjög vel þó sumsstaðar sé grjótið nokkuð tilgengið. Hún er 8,5 m í þvermál.

Vífilsstaðahlíð

Fjárborg og fjárhús frá Urriðakoti undir Vífilsstaðahlíð.

Í örnefnaskrá: „Hann [Vífilsstaðaselsstígur] mun hafa legið heiman frá bæ, undir Svínahlíð og með Vífilsstaðahlíð skáhalt upp eftir Ljóskollulág upp á hálsinn að Selinu austan Víkurholta.“ Heiman frá Vífilsstaðabæ að Ljóskollulág hafa Vífilsstaðaselstígur og Gjáréttargötur verið sami slóðinn, þaðan hafa þeir greinst og Vífilsstaðaselsstígur sveigt austur að Vífilsstaðaseli. Í dag er malaborinn göngustígur meðfram Vífilsstaðahlíð, en upp eftir Ljóskollulág er erfitt að greina gömlu leiðina sökum skógræktar og
annars gróðurs, en þó vottar fyrir gróinni götu, um 0,5 m breiðri sem liggur upp holtið í ANA.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir – Víkurholtsvarða.

Í örnefnaskrá segir: ,,Víkurholt: Tvö klapparholt uppi á Hálsinum ofan til við Eyjólfshvamm. Víkurholt Nyrðra: Nyrðra holtið, sem var hærra, kallað svo. Víkurholtsvarða Nyrðri: Allstór varða uppi á klapparholtinu.“. Víkurholtsvarða nyrðri er landamerkjavarða. Hún er uppi á háu holti, um 200 m NA af Víkurholtsvörðu syðri, um 790 m ASA af Vífilsstaðabeitarhúsi og um 640 m SSA af Vífilsstaðaseli.
Varðan er hlaðin úr hraungrýti, um 1,5 m há og 2×1 m að þvermáli. Varðan er ekki ýkja gróin.

Í örnefnaskrá: Allstór varða uppi á Klapparholtinu. Er þá komið í suðurmarkalínu.“ Víkurholtsvarða syðri er á vesturbrún Víkurholts, um 200 m SV af Víkurholtsvörðu nyðri, um 700 m SA af Vífilsstaðabeitarhúsi og um 610 m S af Vífilsstaðaseli. Víkurholtsvarða syðri er landamerkjavarða. Varðan er á klettabrún, gróinni grasi, lyngi, lúpínu og á stöku stað.
Víkurholtsvarðan syðri er grjóthlaðin, um 1,5 m á hæð og 2 m að ummáli. Varðan er ógróin.

Vífilsstaðir

Flóttamannavegur við Camp Russel á Urriðaholti.

„Úr Suðurtraðarhliði lá Urriðakotsstígurinn …En neðan frá Urriðakotsstíg lá svokölluð Norðlingagata upp á hálsinn og áfram austan í holtinu, þá leið sem nú liggur Flóttavegurinn, Vatnsendavegur eða Elliðavatnsvegur“, segir í örnefnaskrá Urriðakots GS. „Vífilsstaðastígur: Lá úr Urriðakotsholti yfir hraunið undir Dyngjuhól neðan Svínahlíðar að ósnum og þaðan af Vífilsst.
Nordlingagata: Stígur þessi var einnig kallaður svo,“ segir í Skrá yfir örnefni og fiskimið í Álftanesi. „Norðlingagata (Norðlingastígur) var gatan kölluð sem lá undir Flóðahjalla sunnan frá Oddsmýrarlæk. Gatan lá sunnan frá Norðlingahálsi, sunnan við Flóðahjalla, milli Klifs og Sandahlíðar að Vífilsstaðahlíð,“ segir í Örnefni og leiðir í landi Garðabæjar. Á þeim slóðum sem Vífilsstaðastígur er sagður vera er nú malbikaður vegur (Elliðavatnsvegur eða Flóttavegur), en ekkert sást til gamalla gatan við
vettvangsskoðun.

Vífilsstaðir

Gunnhildur – Grímsseta.

„Norðurendi hennar (Vífilsstaðahlíðar) kallast Hlíðarhorn og þar uppi er varða, sem kölluð var Grímssetur, en í seinni tíð er farið að nefna hana Gunnhildi, en það gæti verið komið af ensku „Gunhill“ byssuhæð, því að nálagt vörðunni er steypt skotbyrgi frá hernámsárunum,“ segir í örnefnaskrá SP. Byrgið er á norðurbrún hæðar vestan við Vífilsstaðavatn, um 50 m vestan við vörðuna Grímssetu og u.þ.b. 1 km suður af Vífilsstöðum. Mikið af stóru grjóti er í kringum byrgið og fast uppvið það, en fjær eru lúpínubreiður. Skotbyrgið er steypt ofan í sand-og malarundirlag.
Byrgið er niðurgrafið og stendur um 0,5 – 1 m upp úr jörðinni. Það er 5 m á lengd og 4 m á breidd og snýr A-V. Skotraufin vísar til norðvesturs og er á horni byrgisins. Innanmál er 2,5 x 2,5 m og lofthæð er ríflega 1,8 m. Veggir eru steinsteyptir og um 0,3 m á þykkt. Niðurgrafinn inngangur er á austurhlið. Hann er um 1 m djúpur, steinsteyptur og 2 x 1 m að flatarmáli A-V. Umhverfis innganginn er hlaðinn veggur úr hraungrýti. Hann er um 1 m hár og samanstendur af 7 umförum og er steypt á milli þeirra. Mikið af grjóti er inni í byrginu.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir – Gunnhildur/Grímseta.

„Allstór varða og gömul upp á holtinu. Gunnhildur: Svo var Grímsseta kölluð af vistfólki Hælisins,“ segir í Skrá yfir örnefni og fiskimið í Álftaneshreppi. Norðurendi hennar (Vífilsstaðahlíðar) kallast Hlíðarhorn og þar uppi er varða, sem kölluð var Grímssetur, en í seinni tíð er farið að nefna hana Gunnhildi, en það gæti verið komið af ensku „Gunhill“ byssuhæð, því að nálagt vörðunni er steypt skotbyrgi frá hernámsárunum,“ segir í örnefnaskrá SP. Grímsseta er um 50 m NA af steyptu skotbyrgi úr Síðari heimsstyrjöld. Varðan er fremst á norðurbrún holtsins vestan við Vífilsstaðavatn og sést til hennar langar leiðir.
Allt í kringum vörðuna er landið gróið mosa, grasi og lúpínu, en víða stendur stórgrýti upp úr gróðrinum.
Grímsseta er haganlega hlaðin úr fremur stóru grjóti, 1,8 – 2 m á hæð og þakin skófum. Þvermál hennar er 4 x 3 m. Efsti hluti vörðunnar er hruninn og er því stór grjóthrúga sunnan við hana.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir – Vífilsstaðasel.

„Það lá í grunnu dalverpi vestur af Vatnsás. Þar eru allmiklar rústir. Hefur verið vel hýst,“ segir í Skrá yfir örnefni og fiskimið í Álfaneshreppi. „Ef farið er…upp á Vífilsstaðahlíð, þar sem Einarsnef gengur fram og haldið til norðausturs, þar sem Ísallínan liggur, er fljótlega komið á klapparás suðaustan háspennulínunnar, sem Selás nefnist. Suðvestan undir ásnum er grasi gróin[n] slakki á móts við mastur nr. 29 í Ísallínu. Suðaustast í slakkanum eru rústir Vífilsstaðasels,“ segir í örnefnaskrá SP. Vífilsstaðasel er hátt í 3 km suður af bæ. Vífilsstaðasel er um 550 m NA af Vífilsstaðabeitarhúsi, 40 m VSV af kvíum 045 og um 100-150 m sunnan við línuveg.
Tóftirnar eru á um 1-2 m háum hól, mjög þýfðum og grónum háu grasi og mosa. Selrústin er falin innst í smáum hvammi milli Seláss að austan og Selholts að vestan.
Selið er aflangt, um 30 x 10 m og snýr N-S. Fimm hólf virðast vera í því, öll í röð og inngangur í þau hefur verið á vesturhlið. Veggir tóftanna eru um 2-3 m breiðir og um 0,5 -1,2 m háir. Ekki sést til grjóthleðslna. Tóft sem gæti verið af kvíum er 40 m VSV frá selinu.

Vífilsstaðasel

Vífilsstaðasel – uppdráttur ÓSÁ.

Í örnefnaskrá: ,,Hann [Vatnsendavegur] liggur um Vífilsstaðaland, yfir hraunið hjá Dyngjuhól, um Svínahlíð yfir lækinn á brú við Ósinn. Upp í Skygnisholt, um Finnsstekk og upp á Vífilsstaðaháls þaðan um Rjúpnadal og ofan Vatnsenda á Suðurlandsveginn við Rauðavatn. Vegur þessi var upphaflega kallaður Flóttavegur.“ Gatan kallast Elliðavatnsvegur þar sem hún liggur um land Garðabæjar og er enn nýtt sem akvegur.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir – Dyngjuhóll.

„Suður af hellunum rétt sunnan við Heiðmerkurveginn er stór hraunhóll, sem áður var með einni vörðu, en nú með mörgum. Hann kallaði Urriðakotsfólkið Dyngjuhól, en Vífilsstaðafólkið Hádegishól, og var hann eyktarmark þaðan“, segir í örnefnaskrá SP. Hóllinn er um 1350 m SSV af Vífilsstöðum og er bein sjónlína þar á milli. Um 10-15 m hár hóll úr hraungrýti, vaxinn mosa, birkikjarri og berjalyngi.
Á Hádegisholti eru a m k 9 vörður, allar hlaðnar úr hraungrýti. Engin þeirra er hærri en 0,6 m eða meira en 1,5 m í þvermál.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir – Maríuhellar.

„Í Svínahrauni rétt norðaustan við vegamót Flóttavegar [Elliðavatnsvegar] og Heiðmerkurvegar eru Maríuhellar. Þeir eru tveir og eru á mörkum Urriðakots og Vífilsstaða. Hellarnir voru fyrrum notaðir sem fjárhellar. Nyrðri hellirinn var notaður frá Vífilsstöðum, en hinn frá Urriðakoti. Þessir hellar eru oftast kallaðir Vífilsstaðahellar“, segir í örnefnaskrá SP. Maríuhellar eru skammt norðan við Heiðmerkurveg þar sem hann liggur þvert á Elliðavatnsveg og eru merktir með skilti. Hellarnir eru rúmlega 150 m NNV af Hádegisholti og 1,2 km SSV af Vífilsstöðum.
Maríuhellar eru tveir náttúrulegir hellar í Vífilsstaðahrauni. Í fyrndinni hefur verið um einn helli, eða hraunrás, að ræða, en þak hans er að hluta fallið svo úr verða tveir hellar andspænis hvor öðrum, sinn hvoru megin við hrunið. Hraunið er að nokkru leyti mosa- og grasivaxið.
Um 25 m N-S eru milli munna hellanna tveggja. Nyrðri hellirinn er um 20 m langur NV-SA, 12 m breiður og um 3 m hár. Stærri munni hellisins er við suðausturendann og vísar að syðri hellinum, en jafnframt er mjög lítið op við norðvesturendann. Syðri hellirinn er um 20-25 m langur N-S, 10 m breiður og um 3-4 m hár. Í þaki syðri hellisins er 2×1 m stórt gat og grjóthrun á gólfi hans fyrir neðan. Hrunið skiptir syðrihellinum í tvö hólf. Engar hleðslur er að finna innan í Maríuhellum.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir – Maríuhellar – kort.

„Stekkatúnið: Svo voru Máríuvellir einnig kallaðir. Stekkur frá V[ífilsstöðum],“ segir í Skrá yfir örnefni og fiskimið í Álftaneshreppi. „Í hraunjaðrinum fast uppi við Vífilsstað[a]hlíð beint vestur af Grímssetri er lítil flöt og kallast sá hluti hennar, sem nær er hlíðinni, Maríuvellir, en hlutinn, sem er nær hrauninu, Stekkjartún. Í Stekkjartúni var rétt eða rústir af rétt. Þegar Flóttavegurinn [nú Elliðavatnsvegur], sem liggur um norðurjaðar flatarinnar, var lagður, var réttin rifin,“ segir í örnefnaskrá SP. „Á flötum niður undan Svínahlíð norður með var Stekkurinn í svonefndu Stekkatúni og þar norðar voru Réttarflatir og þar Réttir, rétt við brún Svínahrauns,“ segir í örnefnaskrá GS. Rúst stekksins á Maríuvöllum er um 10 m vestur af rótum Svínahlíðar, rúmlega 1,1 km SSV af bæ og um 250 m norðaustur af Hádegisholti.
Tóftin er á lítilli gras- og mosavaxinni flöt milli Svínahlíðar og Flatahrauns. Birkihríslur vaxa fast norðan og sunnan við rústina.
Stekkjartóftin er 9 x 5 m að ummáli og snýr N-S. Rústin er sigin og er hæð veggja um 0,5 m en breidd um 1 m. Einungis er um 0,5 m bil milli austur og vestur langveggja. Óljóst er hvort tóftin er eitt hólf eða hvort hún sé tvískipt, en þúst er fast við vesturvegg að norðan, sem kann að vera leifar annars hólfs.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir – Guðnýjarstapi.

„Norðan í háholtinu er varða, sem heitir Guðnýjarstapi,“ segir í örnefnaskrá AG. „Norðan í háholtinu var varða, Guðnýjarstapi…Nú er allt Hofstaðaholtið komið undir byggingar,“ segir í örnefnaskrá SP. „…eftirfarandi lýsing passar betur „Norðan í holtinu er Guðnýjarstapi, klapparhóll með grasþúfu. Guðnýjarstapi er nú inn á lóð Holtsbúðar 87,““ segir í örnefnaskrá EBB (viðauka við skrá SP).
„Markavarðan: Hún mun hafa verið norðan og neðan við Guðnýjarstapa,“ segir í Skrá yfir örnefni og fiskimið í Álftaneshreppi. Sunnan, austan og vestan við Guðnýjarstapa eru Holtsbúð 87, 89 og 91.
Guðnýjarstapi er náttúruleg smáhæð, um 8×6 m að flatarmáli NV-SA og allt að 1,5 m há. Hér og þar standa hraunbjörg upp úr grasigrónum stapanum og efst á honum er stór þúfa. Mögulegt er að þúfan sé yfirgróin varða, en líklegra er að Markavarðan sé komin undir byggð.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir – Guðnýjarstapi.

„Norðan í háholtinu er varða, sem heitir Guðnýjarstapi. Einnig er varða, hlaðin af sjúklingum, á holtinu. Sú varða heitir Hallbera,“ segir í örnefnaskrá AG. „Nú er allt Hofstaðaholtið komið undir byggingar,“ segir í örnefnaskrá SP. „Hallbera varða austan í Hofsstaðaholti hvarf, þegar byggð reis á holtinu. Hún stóð, þar sem lóð Gígjulundur 6 er nú,“ segir í örnefnaskrá EBB (viðauka við skrá SP). Varðan var um 610 m SSA við Vífilsstaði.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir – Arnarsetursvarðan.

„Arnarsetur (-> Arnarbæli, Arnarstapi) er hæð norður af Hjallabrún og landamerki fyrir Vatnsendajörðina…Í beinni stefnu til suðurs frá Kjóavöllum og þar sem hæst ber til að sjá er klapparborg sem ber nafnið Arnarsetur,“ segir í Örnefni og leiðir í landi Garðabæjar. Landamerkjavarðan á Arnarseti er um 1,5 km ANA af Vífilsstaðaseli. Varðan er uppi á hárri hæð í grýttu landslagi.
Varðan er um 1,2 m há og 3 x 2 m að flatarmáli NA-SV og er nokkuð strýtulaga. Hún sést langt að. Neðri hluti vörðunnar er grasivaxinn en að ofan má greina mjög óreglulega hleðslu og stendur þar tréprik upp úr, sem bendir til að bætt hafi verið við vörðuna fyrir skömmu síðan.

Rúmlega 40 m austur af Vífilsstaðaseli eru kvíar. Kvíarnar eru á mosa- og grasivöxnum kletta- og grjótás sem snýr N-S, rofinn að hluta.
Kvíarnar eru hlaðnar úr hraungrýti. Þær eru tvö hólf, um 14 m langar, 3-6 m breiðar og snúa NA-SV. Norðeystra hólfið er hringlaga, um 6 m í þvermál og hefur dyr á SA hlið. Suðvestara hólfið er aflangt NA-SV, rúmlega 7 m langt og 3 m breitt og opnast til SV. Veggir kvíanna eru nokkuð signir, 0,3-0,6 m háir og 0,4-0,6 m á breidd.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir – Draugahellir.

„Ofanvert við Maríuhella var svo Draugahellir,“ segir í örnefnaskrá GS. „Draugahellir er á svæði skátanna, þarf að síga í hellinn. Hann er stór og hár. Opið þröngt. Maður kemur fyrst niður á syllu (með vasaljós meðferðis). Nú hafa skátarnir sett upp borð í honum. Hellirinn er ekki langt frá Heiðmerkurveginum,“ segir í örnefnaskrá EBB. Draugahellir er um 15 m norður af Maríuhellum og um 200 m norður af Hádegishól. Hellisopið sést ekki frá vegi þó það sé um 40 m ANA af gatnamótum Heiðmerkurvegar og Elliðavatnsvegar.
Hraunhellir sem snýr NA-SV og tilheyrir eflaust sama kerfi og Maríuhellar. Munni hans er um 0,5×0,5 m.
Örnefnið Draugahellir bendir til að þjóðsaga kunni að vera til um hellinn, þó skrásetjari hafi ekki fundið heimildir þar að lútandi.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir – fjósið.

„Norðan Vífilsstaða liggur stórt mýrasvæði, Vetrarmýri. Í suðvesturhorni þess er Bjarnakriki. Þar er talið að verið hafi á tímabili reimleikar miklir,“ segir í örnefnaskrá GS. „Suðvesturhorn Vetrarmýrar við fjósið á Vífilsstöðum heitir Bjarnakriki. Þar þótti reimt og var sagt, að óeðlilegur skepnudauði hefði verið í fjósinu fyrst eftir að það var tekið í notkun, svo að sóknarpresturinn var fenginn til að vígja fjósið. Tók þá fyrir reimleikana,“ segir í örnefnaskrá SP. „Bjarnarkriki í túni Vífilsstaða er horfinn undir Reykjanesbraut, þar var sleða- og skíðabrekka ofan í krikann,“ segir í örnefnaskrá EBB (viðauka við skrá SP). Bjarnarkriki er um 180 m NNV við Vífilsstaði.
Reykjanesbraut liggur yfir Bjarnarkrika og norðaustan við götuna er golfvöllur.

Heimild:
-Fornleifaskráning í Garðabæ, Fornleifastofnun Íslands 2009.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir – fjárhús fyrrum, sem hvergi hefur verið minnst á…

Setbergssel

Í Fornleifaskráningu í Garðabæ 2009 er ma.a fjallað um Setberg, sem var fyrrum í Garðabæ:

Setberg

Setberg 1958 – loftmynd. Tóftir gamla bæjarins sjás ofan við fjósið.

1505: „var þad setberg fyrir sunnan land vid hafnarfiord. ok þar med ij. kvgilldi edvr iij huortt ed uæri. iij uættir smiors vr holom. leigur fra haugatungu vppa .iij. ar. var þetta allz .x. vætter. sagdist grimr hafa likt þoruardi adr .xxxiiij. kugilldi. heyrdum vær þa aunguan aaskilnad þessara þratt greindra manna. helldr kom þeim alltt uel samann suo uær heyrdum.“ DI VII, 797. 1523: var Tómas Jónsson kvittaður af jörðinni Setbergi af Pétri og Halli Björnssonum. Þá voru landamerkin: „Vr midium kietheller og i stein [þan er stendur i fremsta tiorn ) hollte. vr honum og i Hellv þa er stendur i lambhaga. þadan og i [nedstu jardbru). So epter þui sem lækurinn af skier [j tungards endan. þadan i silungahellu. so þadan og i þufuna sem sudur a holltenu stendur. vr henne og i midian kietheller. hier ad auk a Garda stadur tolf hesta [Reidings ristu ) i setbergs lande. en opt nefnt setbergs budarstödu vid skipaklett i garda lande.“ DI IX, 146.

Setberg

Setbergsbærinn 1772 – Joseph Banks.

1658, selur Tómas Björnsson sr. Þorsteini Björnssyni 8 hndr. í Setbergi. 1664 setur Tómar Björnsson fógetanum 8 hndr í Setbergi. 1665 eignast Guðrún Björnsdóttir 8 hndr í Setbergi. Jarðabréf, 15. 16 hndr 1703.

Gráhella

Gráhella.

1772 heimsótti Joseph Banks Setbergsbæinn.1912 keypti Hafnarfjörður Setbergsland allt til Lækjarbotna. „Samkvæmt dómi frá 5. des 1924 eru landamerki milli Setbergs og þess hluta Garðakirkjulands, sem með lögum nr. 13, 1912 var selt Hafnarfjarðarkaupsstað, sem hér segir: „Úr neðstu jarðabrú í Kaplakrika eftir Kaplalæk í hraunjaðrinn beint vestur af þeim stað þeim, þar sem Kaplalæk er nú veitt úr eldri farveg sínum, rétt norðan við Baggalágar vestur af Setbergslandi, þaðan beina línu í stíflugarð rafstöðvartjarnarinnar, þá eftir garðinum og úr honum beint í markþúfu suður og uppi á holtinu þaðan í upptök lækjar þess, sem Hafnarfjarðarkaupstaður fær neyzluvatn sitt úr, þá í Gráhellu og þaðan í miðjan Ketshelli. …“

Setberg

Setbergsbærinn í dag – tóftir.

„Lönd jarðanna Þórbergs, Setbergs og Hlébergs, sem eru innan lögsagnarumdæmis Hafnarfjarðarkaupstaðar, mun Hafnarfjarfjarðarbær eignast innan tíu ára, sbr. samning við landeigendur, dagsettan í júlí 1980.“ ÁG: Saga Hafnarfjarðar 1908-1983 I, 122 1703: „Engjar á jörðin nokkrar þó litlar sjeu.“ JÁM III, 176. 1918: Tún 6,5 teigar, nær allt sléttað, garðar 1600 m2.

Setberg

Setberg – túnakort 1918.

Útihús er sýnt á túnakorti við austurjaðar túns, tæplega 170 m norðaustur frá gamla bæjarstæðinu. Rústir þess eru enn sjáanlegar, byggðar utan í túngarðinn að austanverðu. Stór hlaðinn kálgarður er sambyggður útihústóftinni að norðanverðu en mun hann vera síðari tíma verk að sögn Óttars Geirssonar heimildamanns. Þessi hluti túnsins er í landi Garðabæjar.
Tóftin er í jaðri gamla heimatúnsins sem að mestu hefur verið breytt í golfvöll
Eitthvað virðist vera búið að ryðja þessari rúst til og því erfitt er að átta sig á nákvæmri lögun hennar. Hún virðist þó hafa verið um 15 x 15 m að stærð og er hleðsluhæðin mest um 0,5 m.

Flóðahjalli

Flóðahjalli – minjar.

Hernaðarmannvirki hlaðin úr grjóti, leifar úr Seinni heimsstyrjöld, eru á Flóðahjalla þar sem hann rís hæstur. Flóðahjalli er allhár grágrýtisrani suður af Urriðakotsvatni. Mannvirkin eru um 330 m SA af Flóðahjallavörðu [055] sem er nyrst á Flóðahjallatá. Mannvirkin eru leifar vígis frá Bretum sem ætlað var til varnar mögulegri innrás Þjóðverja um Hafnarfjarðarhöfn (skv. grein í MBL 13.01.2002).

Flóðahjalli

Tóftin á Flóðahjalla.

Hernaðarmannvirkin eru hlaðin á og í kring um klöpp og umhverfis er melur. Mannvirkin samanstanda af garðlagi úr grágrýti og grjóthlöðnum tóftum innan þess. Allar hleðslur eru þurrhleðslur úr ótilklöppuðu grjóti. Garðlagið er nokkuð hring- eða sporöskjulaga en óreglulegt, um 45×33 m N-S að utanmáli. Hleðslurnar eru mjög tilgengnar og því víða breiðar og lágar, t.d. allt að 5 m breiðar nyrst.
Um miðbik austurhluta garðlagsins eru hleðslurnar heillegastar, allt að 1,3 m háar, ríflega 1 m breiðar og 5-6 umför. Innan garðlagsins er mikið af lausu grjóti og jarðföstum klöppum. Tóftirnar eru einna syðst innan garðsins. Tvær eru greinilegar, ein ferhyrnd og önnur hringlaga, en einnig eru í kring tilgengnir veggir sem hugsanlega hafa áður verið hluti annarra tófta. Ferhyrndatóftin er syðst fyrir miðbik, örskammt frá suðurvegg garðlagsins. Hún er heillegri en hringlaga tóftin, um 6×6 m að utanmáli (4×4 m að innan) og með dyr til austurs. Veggir tóftarinnar eru hæstir um 1,5 m og 7 umför.

Setbergshamar

Setbergshamar – skotbyrgi.

Hringlaga tóftin er skammt VNV af þeirri ferhyrndu. Hún er um 6×6 m í þvermál og afar tilgengin, ekki nema 2 umför og grjótdreif er í kring. Norðan, austan og suðvestan við ferhyrndu tóftina eru tilgengin veggjarbrot sem kunna að vera leifar annarra mannvirkja. Í grein sem birtist í Morgunblaðinu þann 13.01.2002 færðu Þorkell Jóhannesson og Óttar Kjartansson rök fyrir því að hringlaga tóftin gæti hafa hýst byssustæði, en sú ferhyrnda gæti hafa verið íverustaður hermanna. Á náttúrulega klöpp innan garðlagsins er klappað ártalið 1940 sem og nafnið J. E. Bolan og fangamarkið D. S. Þar skammt við er svo klappað ártalið 1977 og fangamörkin J. A. og G. H.

Kietshellir

Kétshellir

Ketshellir / Setbergsselsfjárhellir.

Elstu heimildina um Kjöthelli (Kietsheller) er að finna í fornbréfasafni (DI IX), en það er landaskiptabréf dagsett 6. júni 1523 og er hellirinn þar suðvestur landamörk Setbergs. „Selstöðu á jörðin þar sem heitri Kietsheller, eru þar hagar góðir, en vatnsból ekkert nema snjór í gjá, sem sólhiti bræðir,“ segir í jarðabók Árna og Páls frá 1703. „Úr Gráhellu liggur línan í Setbergssel. … Landamerkjalínan liggur í Markvörðu á Selhellinum, því undir vörðunni er þessi hellir, og honum mun hafa verið skipt milli Setbergs og Hamarskots,“ segir í örnefnaskrá GS. Kjöthellir er á suðvesturmörkum Setbergs, við stóra og steypta landamerkjavörðu sem þar er, um 3,5 km SA af bæ. Tveir hellar eru við landamörkin á þessum slóðum og er talsverður nafnaruglingur á milli þeirra. Samkvæmt heimildamanni kallast hellirinn sem hér um ræðir Kethellir (Kjöthellir) eða Selhellir, en hinn hellirinn, sem er öllu stærri og er rúmlega 180 m austar, heitir Kershellir og annar lítill hellir inn af honum Hvatshellir.
Í Þjóðminjaskráningu Hafnarfjarðar segir að hellirinn sé: „Upp í grasivöxnu holti við jaðar Gráhelluhrauns,“. Nokkuð mikill snjór var á svæðinu þegar skráning á vettvangi fór fram.

Setbergssel

Setbergssel – uppdráttur ÓSÁ.

Kjöthellir snýr nokkurn veginn norður-suður og er opinn í báða enda. Innangegnt er um bæði op hans. Hann er um 20 m langur, breiðastur um 4 m og mest lofthæð er vel rúmlega 2 m. Um miðbik hellisins er hlaðið skilrúm sem skiptir honum í tvennt og hefur nyrði helmingurinn að líkindum tilheyrt Setbergi. Skilrúmið er hátt í 1,6 m þar sem það er hæst að vestanverðu og 8 – 9 umför, en megin hluti þess er munlægri og hrundari, frá 0,5 – 1,2 m.

Hamarskotshellir

Hamarskotsfjárhellir.

Inngangur um syðri hellismunnann er stærri en sá nyrði, mest um 2 m breiður og rúmlega 2 m hár, en hlaðið er að hluta upp í hann með um 1,2 m hárri hleðslu. Inngangur um nyrði hellismunnann, sem er Stbergsmegin, er u.þ.b. 1,5 m breiður og hátt í 2 m hár. Nokkuð meira er lagt í hleðslurnar fyrir honum, en hlaðin, bogadregin göng liggja að munnanum og eru þau að hluta undir hlöðnu þaki. Hleðslan er allt að 7 m löng og er hæst allt að 1,8 m og hlaðið hefur verið þak yfir innganginn að hluta með hraunhellum, þó það sé nú að nokkru leyti hrunið. Umhverfis Kjöthelli er gróið hraun og tvær tóftir eru í næsta nágrenni sem að líkindum tengjast Selstöðunni. Tóft sem er líklega stekkur er um 25 m SV af hellinum og hlaðið aðhald í náttúrulegri lægð er um 70 m til NA.

Markasteinn

Markasteinn

Markasteinn – huldufólkshús.

„Á mörkum Setbergs, Urriðakots og Garðakirkjulands er Markasteinn og átti að búa huldufólk þar,“ segir í örnefnaskrá SP. Markasteinn stendur á landamörkum, um 6,3 km SA af bæ 001 og um 1,1 km NA af Kjöthelli.
Markasteinn er afar stórt hraungrýti, um 3 m að flatarmáli og 2,5 m hátt, með gróinni fuglaþúfu á toppnum.
Amma heimildamanns (f. 1864) heyrði sem ung stúlka strokkhljóð berast úr Markasteininum og taldi það til marks um bústörf steinbúa.

Markavarða

Hamarskotssel

Hamarskotssel – markavarðan.

„Landamerkjalínan liggur í Markvörðu á Selhellinum, því undir vörðunni er þessi hellir, og honum mun hafa verið skipt milli Setbergs og Hamarskots. Kethellirinn liggur örlítið hærra.“ Markavarðan er á suðvestur mörkum Setbergslands, við Kjöthelli [023]. Varðan er við Kjöthelli, í hálfgrónu hrauni. Varðan er hlaðin úr hraungrýti og steypt er á milli umfara.
Á toppi vörðunnar er stendur stök hraunhella upp á rönd og er henni haldið með steypu. Varðan er rúmlega 2 m há og um 1,5 m að grunnfleti.

Húsatún tóft beitarhús

Setbergssel

Setbergssel.

„En landamerkjalína milli Setbergslands og upplands Garðakirkju lá úr hellunum norðaustur eftir Smyrlabúðarhraunbarmi, norður í Markasteininn á Tjarnarholtinu syðsta. Frá þessu hornmarki liggur línan um Efridal. Síðan um Selhjahlíð og þaðan í Fljóðahjallavörðu. Þegar komið er fyrir Hánef og komið þar upp á holtið, er komið í Húsatún, og þar eru beitarhúsin frá Setbergi,“ segir í örnefnaskrá. Húsatún er á vestanverðri Setbergshlíð um 80 m NA af vörðu. Húsatún er um 2,9 km SA af bæ 001 og um 930 m ASA af Gráhellu.

Húsatún

Húsatún – beitarhús.

Í kringum beitarhúsið er melur og vex á honum lyng á stangli, en fjær er kjarrgróður. Tóftin er algróin þykkri sinu að innan og einnig er smá grasblettur fast vestan við tóftina, gróinn þykkri sinu. Beitarhúsið er hlaðið úr grágrýti og virðist hleðslan vera nokkuð vönduð þó hún sé nú tilgengin á stórum hluta. Mest hleðsluhæð er um 1,5 m, á norðurvegg einna austast og eru þar 5-6 umför.
Grjótið í hleðslunni er af öllum stærðum, en mest er þó af miðlungs og stóru grjóti. Utan með grjóthleðslunni er sigin torfhleðsla, um 1 m breið og 0,5 m há. Beitarhúsið er um 17 x 11 m að stærð A-V og er innanmál um 14 x 8 m. Vestur hlið tóftarinnar er að mestu opin og hefur þar að líkindum verið timburþil fyrir.

Kershellir

Í Kershelli.

1523 voru landamerkin: „Vr midium kietheller og i stein [þan er stendur i fremsta tiorn ) hollte. vr honum og i Hellv þa er stendur i lambhaga. þadan og i (nedstu jardbru). so epter þui sem lækurinn af skier [j tungards endan. þadan i silungahellu. so þadan og i þufuna sem sudur a holltenu stendur. vr henne og i midian kietheller. hier ad auk a Garda stadur tolf hedta [Reidings ristu ) i setbergs lande. en opt nefnt setbergs budarstödu vid skipaklett i garda lande.“

Hamarskotssel

Hamarskotssel – stekkur.

Í Þjóðminjaskráningu Hafnarfjarðar frá 1988 segir: „Stekkur…Um 40 m Austur af landamerkjavörðu við Kethelli.“ Aðhaldið er hátt í 70 m NNA af Markavörðu við Kjöthelli. Aðhaldið er í nokkuð grónu hrauni.
Aðhaldið, sem mögulega er stekkur, er myndað af náttúrulegu, ferköntuðu sigi í hrauninu sem snýr nokkurnveginn NV-SA og hlaðið er fyrir NV og SA enda. Innanmál er um 20×10 m. Hleðslurnar fyrir báðum endum eru um 10 m langar og um 0,5 m háar og sjást 2-3 umför. Norðvestari hleðslan er aðeins tilgengnari og allt að 1 m breið. Langveggir aðhaldsins eru náttúrulegir hraunveggir, allt að 3 m háir og er sigið dýpst fyrir miðju. Botninn er nokkuð ójafn en gróinn. Nálægt miðju norðvestari hleðslunnar er líklegur inngangur, um 1 m breiður, en mögulegt er að einnig sé inngangur vestarlega á suðeystri hleðslunni, heldur þrengri en hinn.

Heimild:
-Fornleifaskráning í Garðabæ, Fornleifastofnun Íslands 2009.

Setberg

Setberg 1958 – loftmynd.

Arnarnes

Í Fornleifaskráningu í Garðabæ 2009 er m.a fjallað um Arnarnesbæina, Arnarnes og Litla-Arnarnes:

1703: Konungseign. JÁM, III, 227.
1918: „Tún er …sléttað, farið að þýfast, telst 4 teigar. Kálg. 900 m2“

Arnarnes

Arnarnesbærin og nágrenni.

„Arnarnesbær stóð í Arnarnestúni, …“ segir í örnefnalýsingu GS. Á túnakorti frá 1918 eru sýnd á bæjarstæðinu allmörg lítil hús, aðallega í tveimur röðum samhliða. Arnarnesbærinn var áður um miðja vegu á útivistarsvæði sem liggur suðvestur af baklóðum Blikaness 5 og 7 og niður að sjó.

Arnarnes

Arnarnes – loftmynd 1954.

Þar sem Arnarnesbærinn var áður er nú sléttað, grænt útivistarsvæði, með fótboltavelli og róluvelli.
Útivistarsvæðið er rammað inn af íbúðabyggð til allra átta, nema að suðvestan en þar liggur það að Arnarnesvogi.
Ekki sést til bæjarhólsins, en flötin er þó ekki fullkomlega rennislétt heldur eru á henni nokkrar mjög lágar aflíðandi bungur sem renna fyllilega inn í umhverfið. E-ð af þeim misfellum gætu verið leifar þess efnis sem rutt var þegar bæjarhólinn var sléttaður, en það gerðist að líkindum þegar farið var að byggja á Arnarnesinu á sjöunda áratugnum.

Í fógetareikningum fyrir árin 1547-48,1548-49, 1549-50, og 1550 er getið um 2 kirkjukúgildi í Arnarnesi. Staðsetning bænhússins/kirkjunnar er ekki þekkt, en þó er hugsanlegt að bænhúsið/kirkjan sé í Smiðjuhól, sbr. álögin.

Arnarnes

Arnarnes – túnakort 1918.

Á túnakorti frá 1918 sést útihús 120-130 m norður af bæjarhúsum Arnarness. Útihúsið var líklega þar sem nú stendur íbúðarhúsið að Blikanesi 11 eða 13. Þar sem útihúsið var áður eru nú steypt einbýlishús með kjallara, umkringd trjágrónum lóðum.

Á túnakorti frá 1918 sést útihús áfast við túngarð um 140 m norður af bæjarhúsum Arnarness. Útihúsið var líklega þar sem nú stendur íbúðarhús að Blikanesi 10. Þar sem útihúsið var áður stendur nú steypt einbýlishús með kjallara, umkringt trjágróinni lóð.

Arnarnes

Þormóðsleiði.

Þormóðsleiði/Þormóðsdys er „á háholtinu vestan [Hafnarfjarðarvegar]. Þar er stór þúfa, og liggur alfaraleiðin rétt hjá. Hér er Þormóðsleiði eða Þormóðsdys. Enn vestar er svo Kulhesleiði eða Kulhesdys. Þormóður var dæmdur á Kópavogsþingi til lífláts fyrir þjófnað, en Kulhes, þýzkur maður, dæmdur þar fyrir mannvíg. Vó mann, íslenzkan, á Bessastöðum,“ segir í örnefnalýsingu.

Smiðjuhóll

Smiðjuhóll við Arnarnes.

„Smiðjuhóll er hóll suðaustur frá bænum í túninu. Á hólnum eiga að vera mikil álög og hörð ummæli. Við honum má ekki hrófla, og hann mátti ekki slá.“ segir í örnefnalýsingu. Smiðjuhóll var áður þar sem nú er sléttað útivistarsvæði á vestanverðu Arnarnesi. Smiðjuhóll var norðvestur af Hegranesi 24 og suðvestur af Blikanesi 3. Hóllinn hefur að líkindum verið um 50 – 60 m ASA af bæ.
Smiðjuhóll sést ekki í dag og hefur honum að líkindum verið rutt niður og jafnaður út.

Arnarnes

Arnarnessker.

„Vestan túns er svo Nesið og fer lækkandi niður að sjó. Framan við það er Arnarnessker. Þar var þangtekja býlisins,“ segir í örnefnalýsingu. Arnarnessker (Arnarneshólmi) gengur norðvestur út af Arnarnesi, nánar tiltekið norðvestur af götunni Mávanesi, en baklóðir hennar liggja að sjó.
Lágur tangi og sker skammt undan honum, sem er laust frá landi. Tanginn er alþakinn fersku þangi og fer hann undir sjó á flóði.

Arnarnes

Arnarnes – Gvendarbrunnur.

„Nokkru þar fyrir innan [Bæjarsker], spöl uppi í holtinu, er Gvendarbrunnur, lind sem Guðmundur biskup góði á að hafa vígt. Frá brunninum rennur Brunnlækurinn til sjávar,“ segir í örnefnalýsingu. „Gvendarbrunnur er á há-Arnarneshálsi.“ segir í örnefnalýsingu AG. „Gvendarbrunnur er sunnan vogsins, í hálsbrúninni, rétt upp af svo-kölluðum Bæjarsteinum, sem eru þar úti í leirunni, og er lítil laug skammt framar í vognum, að sögn Þuríðar [Guðmundsdóttur, f. 21.9.1855 í Kópavogi]. Þarna á að hafa verið bær í fyrndinni [líklega átt við Arnarneskot]. Mun það hafa verið þar sem enn er mjög grasgefinn mói, rétt við voginn. Ekkert sést þar til tófta. Við brunninn, sem er raunar dálítil lind, er lagleg eggslétt grasflöt. Brunnurinn er sjálfsagt kenndur við Guðmund biskup góða, eins og aðrir Gvendarbrunnar.“ Gvendarbrunnur er um 10 m austur af Súlunesi 27, á óbyggðri lóð Súluness 29.

Garðabær

Þorgautsdys.

„Þar enn innar með fjöru er svo Arnarneskot, Arnarnes gamla eða Arnarnes litla,“ segir í örnefnalýsingu. „[Þorgautsdys] er að austanverðu við gamla veginn, skammt suður frá Litla-Arnarnesi, er Þuríður [Guðmundsdóttir, f. Í Kópavogi 21.9.1855] kvað svo heita. Þar sést enn á flöt niður við voginn, norðan gamla vegarins, litlar og óglöggar tóftir eftir kot, sem var þar fyrrum.“ Bæjarstæði Litla Arnarness er ríflega 50 m NA af Súlunesi 33, á austurströnd Arnarness við Kópavog suðanverðan.

Arnarnes

Litla-Arnarnes- bæjarstæði. Kópavogur fjær.

Bæjarhóllinn er algróinn grasi og lyngi. Næstum fast við hólinn að norðanverðu er ógróinn, rofinn bakki, 4 m hár, sem liggur niður að strönd.
Hóllinn er sýnilega 13×13 m að stærð, en fornleifarnar kunna að ná yfir stærra svæði þótt hóllinn renni saman við umhverfið. Hann er mest um 1,3 m á hæð. Hólinn er þýfður og ójafn, en þó er greinilegt eitt hólf á honum miðjum, sem er um 3×2 m og snýr N-S. Þó er hólf þetta jafnframt þýft og ólögulegt. Ekkert grjót sést í hólnum og ekkert sem bendir til fornleifa (s.s. Viðarkol eða aska) sést í sárinu á rofabarðinu norðan við hólinn. Gömul leið liggur framhjá hólnum að sunnan (snýr A-V) og leifar túngarðs eru skammt frá.

Arnarnes

Arnarnes – Kulhesdys.

„Ofan til við [Arnarneskot] er dys, nefnist Þorgautsdys. Þar var réttaður þjófur, og gekk hann mjög aftur og var lengi á ferli í Seltjarnar- og Álftaneshreppum,“ segir í örnefnalýsingu. „Neðar [en Kulhesdys], á norðanverðum hálsinum. Kvað [Þuríður Guðmundsdóttir, f. Í Kópavogi 21.9.1855] vera dys Þorgarðs, sem svo miklar þjóðsögur gengu um, sbr. Þjóðs. Jóns Árnas., I, 388-91. Mun sú dys þó frá fyrri tímum en Þorgarður á að hafa verið á, eftir þjóðsögunum. Annars er svo að sjá að sumt í þeim, einkum frásögnin um glæp þann er Þorgarður á að hafa verið drepinn fyrir, stafi frá máli Sigurðar á Árbæ. En hvað sem um það er, þá er líklegast að þessi dys sé yfir einhverjum, sem hafi verið líflátinn hér skammt frá eftir dómi á Kópavogsþingi. Ögmundur skólastjóri Sigurðsson hefir sagt mér, að Filippus heitinn Filippusson, sem ólst upp í Arnarnesi, hafi skýrt svo frá, að þetta væri dys Steinunnar frá Árbæ. Ekki er það fortaksmál, þótt það komi ekki heim við frásögn Þuríðar. Dysin er úr grjóti og allstór. Að norðanverðu hefir henni verið rótað mikið upp, fyrir nokkrum árum, og kann þá að hafa verið tekið nokkuð grjót úr henni. Hún er að austanverðu við gamla veginn, skammt suður frá Litla-Arnarnesi …“

Arnarnes

Arnarnes 1958 – loftmynd. Gatan upp frá Litla-Arnarnesi sést vel vestan Hafnarfjarðarvegar.

Merki dysjarinnar eru enn greinileg um 20 m norðan við Hafnarfjarðarvegi en um 5 m norðan við hljóðeinangrandi upphækkun sem liggur meðfram veginum. Dysin er um 65 m austan við Súlunes 26 og hefur að líkindum verið 10-20 m suðaustan við gömlu alfaraleiðina. Að líkindum er þetta Þorgarðs-/Þorgautsdys en sagnir eru um þrjár dysjar á þessum slóðum. Hinar tvær hafa líklega verið ofar á hálsinum. Guðmundur Ólafsson skráði staðinn 1983 fyrir Þjóðminjasafn Íslands og taldi að um Þorgarðsdys væri að ræða.
Umhverfis eru lyngi, mosa og grasi vaxnir móar í aflíðandi halla að sjó.
Dysin er sporöskjulaga og samanstendur af fremur smáum, ávölum steinum. Flestir steinanna eru um 20 cm í þvermál en nokkrir stærri steinar eru í ysta lagi dysjarinnar. Steinarnir eru vaxnir mosa og skófum. Svo virðist sem einhvern tíma hafi verið rutt úr dysinni eða hún rænd/skemmd með öðrum hætti. Þó stendur hún hærra en umhverfið, mest um 0,3 á hæð. Lyng og annar gróður vex yfir jaðar dyjarinnar. Stærð hennar nú er um 5X4 m.

Arnarnes

Gamla þjóðleiðin frá Kópavogi yfir Arnarnesháls. Litla-Arnarnes t.v.

„Frá Danskavaði lá alfaraleiðin með vognum sunnan og ofan Arnarneskots upp holtið á Arnarneshálsi.“ – „Framan í Arnarnesbrekku var á veginum, fram til áranna 1940 – 1945, Arnarnesess.“ – „Síðan lá gatan áfram inn með holtinu, sem nefndist Móholt.“ – „Alfaraleiðin lá niður af holtinu, niður með túngarði, niður að Arnarneslæk,“ segir í örnefnalýsingu. Gamla alfaraleiðin er enn greinileg austan við Súlunes og að Hafnarfjarðarbraut. Samkvæmt heimildamanni lá leiðin þaðan framhjá Tjaldhól, yfir Arnarneslækjarvað, meðfram ströndinni yfir Strympumel, Neðrifossavað og út á Garðabæjarhraun og áfram út á Álftanes (og kallaðist þá Álftanesgata).

Arnarnes

Arnarnesbærinn 1958 – loftmynd.

Greinilegust er leiðin vestast. Þar sést hún fyrst skammt austan við Súlunes 26 og liggur í rúma 30 m áður en hún er rofin af vegruðningi sem rutt hefur verið upp í framhaldi af malbikaðri götu Súluness. Þessi vestasti hluti er mjög skýr. Þar er gatan nokkuð breið og allt að 1,4 m frá botni hennar og upp á norðurbarminn. Leiðin er rofin á um 25 kafla en heldur svo áfram til austurs, nokkuð grynnri og ógreinilegri en vestast. Gatan liggur þaðan, óslitin allt að Hafnarfjarðarbraut eða tæpa 200 m. Á þessum kafla er slóðinn yfirleitt fremur grunnur eða innan við 10 cm djúpur. Undantekning er þar sem slóðinn liggur sunnan í bæjarhól Litla-Arnarness frá áætluðum lóðamörkum lóðar 33 við Súlunes og að túngarði Litla-Arnarness. Á þessum slóðum eru allt að 1,5 m frá botni slóðans og að brúnum hans.
Greinilegt er hvar slóðinn liggur yfir túngarðinn. Slóðinn sást á Strympumel þar til fyrir um 20 árum, en var skt. heimildamanni eyðilagður af jarðýtum í e-m framkvæmdum.

Wegenerstöpull

Wegenerstöpull – Wegenerstöpull er annar tveggja steinstöpla (svipaður stólpi var reistur í Öskjuhlíð) sem reistur var af Alfred Wegener, þýskum vísindamanni, hér á landi vafalaust til viðmiðunar til að sýna fram á landrekskenninguna sína. Stöpulinn reisti Wegener í aprílmánuði árið 1930. Árið 2000 voru settar plötur með söguágripi á stöpulinn. Stöpullinn er ferkantaður, steyptur og rúmlega 3 m hár. Flatarmál er 1 x 1 m. Hann stendur við gangstétt efst á götunni Hegranes við gatnamót Arnarnes og Hegranes.

Wegenerstöpull er á horni Hegarness og Arnarness. Stöpullinn stendur við gangstétt. Steinsteyptur stöpull, ferkantaður. Rúmlega 3 m hár og um 1×1 m að flatarmáli. Reistur af Alfred Wegener í apríl 1930 í tengslum við landrekskenninguna. Stöpullinn er ekki fornleif en hefur ótvírætt menningarsögulegt gildi.

Heimild:
-Fornleifaskráning í Garðabæ, Fornleifastofnun Íslands 2009.

Arnarnes

Arnarnes 1968.

Hofstaðir

Í Fornleifaskráningu í Garðabæ árið 2009 er m.a. fjallað um sögu byggðar:

Byggðasaga

Langeyri

Landamerkjavarða Garðabæjar við Hvíluhól.

„Til að geta sett niðurstöður fornleifaskráningar í fræðilegt samhengi er nauðsynlegt að hafa hugmynd um sögu byggðar á svæðinu sem er til rannsóknar. Byggðasaga er einn sá grunnur sem áætlanir um frekari rannsóknir, t.d. uppgrefti, ættu að byggja á. Vitneskja um sögu byggðar eykur líkur á að rannsóknarefni fornleifafræðinga séu mótuð og þar af leiðandi fáist markvissari niðurstöður.

Garðabær

Garðabær – loftmynd 1954.

Ekki hefur mikið verið ritað um byggðasögu Garðabæjar, eða þeirra jarða sem bærinn byggðist úr. Fyrir áhugasama um sögu og þróun byggðar í Garðabæ má þó benda á Garðabær: Byggð milli hrauns og hlíða sem út kom 1992 en þar er að finna úttekt á upphafi byggðar innan marka bæjarfélagsins og þróun hennar allt fram á síðustu ár og Örnefni og leiðir í landi Garðbæjar frá 2001, en þar er teknar saman all ítarlegar upplýsingar um örnefni innan marka bæjarfélagsins sem og gamlar leiðir og flestar þeirra merktar samviskusamlega á loftmyndir og kort. Sökum þess að lítið hefur verið fjallað um byggðarsögu Garðabæjar er markmiðið hér að draga saman helstu staðreyndir um landnám og byggðarþróun sem þegar hafa verið settar fram en jafnframt nota fornleifaskráningu og þær fornleifarannsóknir sem gerðar hafa verið allt fram á síðustu ár til að bæta við myndina og dýpka skilning á byggðarþróuninni. Auk fornleifa nýtast fjölmargar ritaðar heimildir við ritun byggðasögu s.s. Landnáma, Sturlunga og Íslendingasögur, Íslenzkt fornbréfasafn, tölur um dýrleika jarða og upplýsingar um staðsetningu kirkna og bænhúsa. Sú umfjöllun sem hér fylgir um byggðasögu Garðabæjar, eins og reyndar skýrslan í heild, afmarkast við mörk bæjarfélagsins eins og þau eru nú.

Smiðjuhóll

Smiðjuhóll við Arnarnes.

Land Garðabæjar tilheyrði Álftaneshreppi, að líkindum allt frá upphafi hreppaskipulags sem á rætur að rekja í það minnsta aftur á 13. öld og sennilega allt aftur til 11. aldar, og var svo allt til 1878 er skipting varð milli Garðahrepps og Bessastaðahrepps. Almennt er álitið að bæir, þar sem kirkjur eða bænhús stóðu, hafi byggst snemma, enda hafi slík hús oftast verið stofnsett fljótlega eftir árið 1000.

Garðabær

Garðabær; Hofstaðir – loftmynd 1954.

Aðeins ein kirkja er skráð innan marka Garðabæjar, Garðakirkja, enda greinilegt að á Görðum var þungamiðja byggðar fyrr á öldum. Ritaðar heimildir eru um eitt bænhús innan Garðabæjar og sem var landi Arnarness. Vel má vera að fleiri slík hafi verið á hinum lögbýlunum en heimildir um þau glatast. Þá eru kuml óræk sönnun um forna byggð sem komin var á fyrir 1000. Engin kuml hafa fundist innan núverandi marka Garðabæjar né örnefni sem gefa slíkt til kynna. Það er áhugavert og líklegt að kumlunum hafi verið raskað, þau ekki verið til staðar á svæðinu eða þekking um staðsetningu þeirra glatast. Landamerki og landamerkjagarðar sem skilja á milli jarða geta einnig verið fornir og gefið til kynna aldur býlanna. Tvenn slík garðlög eru skráð í Garðabæ. Hið fyrra skilur á milli Setbergs og Urriðakots en hið seinna á milli Setbergs, Hraunsholts, Urriðakots, Hagakots og Vífilsstaða. Einnig koma bæjarnöfn að góðu gagni þegar á að reyna að ákvarða í hvaða röð jarðir hafi byggst. Selstaða er þekkt frá þremur lögbýlum í Garðabæ, Görðum, Setbergi og Vífilsstöðum. Það getur verið vísbending um að býlin séu eldri en önnur á svæðinu.
Samkvæmt tiltækum vísbendingum mætti ætla að elsta byggða ból innan bæjarmarkanna væri Garðar. Garðastaður var metinn á 60 hundruð árið 1697, en til samanburðar var Setberg metið á 16 hundruð árið 1703. Enginn vafi er á því að öll býlin í Garðahverfi byggðust út úr Görðum og árið 1703 voru flest býlin í Garðhverfi enn hjáleigur í óskiptu landi Garðastaðar.

Garðar

Garðar.

Örnefnið ‘Garðar’ er að líkindum frumlegra en ‘Bessastaðir’og virðist hæfa betur fyrsta býlinu á Álftanesi, en að auki eru Garðar metnir nokkru verðmætari í jarðabók 1703,10 þó svo að þar kunni að liggja aðrar ástæður að baki.11 Samkvæmt Landnámu var bróðursonur Ingólfs Arnarsonar, landnámsmaður á stórum hluta þess svæðis sem Garðabær nú byggir: Ásbjörn Össurarson, bróðurson Ingólfs, nam land milli Hraunholtslækjar og Hvassahrauns. Álftanes allt, og bjó á Skúlastöðum. Hans son var Egill, faðir (Össurar, föður) Þórarins, föður Óláfs, föður Sveinbjarnar, föður Ásmundar, föður Sveinbjarnar, föður Styrkárs.

Skúlatún

Skúlatún og Skúlatúnshraun. Helgafell fjær.

Staðsetning Skúlastaða er, eins og áður kom fram, ekki þekkt, en tvær megin kenningar hafa verið á lofti varðandi staðsetningu landnámsbæjarins. Sú fyrri er sú að annað hvort hafi hann verið þar sem seinna byggðust Garðar eða Bessastaðir. En sú síðari sem verður að teljast ósennilegri, er að þeir hafi verið í Skúlatúni, sem er grasigróinn blettur á hraunbreiðu vestur af Helgafelli, við afrétti Garðabæjar og Bessastaðahrepps. Það verður að teljast afar ósennilegt að landnámsbærinn hafi staðið í Skúlatúni enda er þar með öllu vatnslaust og slægjulaust. Hraunið sem Skúlatún er hluti af er að líkindum eldra en landnám Íslands og auk þess er ótrúlegt að fyrsta byggðin á svæðinu hafi verið upp til fjalla, en ekki á grónari og búsælli svæðum niður við sjó. Sá hluti Garðabæjar sem stendur utan ætlaðs landnáms Ásbjörns, var samkvæmt Landnámu byggt Vífli, leysinga Ingólfs: Vífli gaf Ingólfur frelsi, og byggði hann að Vífilstóftum; við hann er kennt Vífilsfell; þar bjó (hann) lengi, varð skilríkur maður.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir fyrrum.

Vífilsstaðir draga því samkvæmt þessu nafn sitt af Vífli þessum og taldi Björn Þorsteinsson að frásögnina mætti telja vitnisburð um fyrsta kotið á landinu. Hvaða trúnað sem fólk kann að leggja á Landnámu, er ljóst að á svipuðum tíma og þeir atburðir sem hún lýsir komust fleiri jarðir, eða hjáleigur, í byggð innan núverandi marka Garðabæjar. Fornleifauppgröftur við Hofstaði í miðbæ Garðbæjar leiddi m.a. í ljós skála frá landnámstíð. Mannvirkið er næststærsti víkingaaldarskáli sem grafinn hefur verið upp hér á landi, eða um 30 x 8 m að flatarmáli og því virðist ekki hafa verið um kotbúskap þar að ræða, þó svo að á seinni öldum hafi Hofsstaðir verið metnir sem hálflenda.
Þéttbýli byrjaði að myndast í landi Garðabæjar í kringum 1950 í kjölfar skorts á einbýlishúsalóðum í Reykjavík. Fyrsti vísirinn af þéttbýli byrjaði að myndast í landi Sveinatungu og Hraunsholts og um 1960 risu ný hverfi fyrst í Flötum, sunnan Vífilsstaðavegar og í Arnarnesi. Árið 1960 var Garðabær löggiltur sem verslunarstaður og 1975 fékk bæjarfélagið kaupstaðaréttindi.“

Ritaðar heimildir um jarðir í Garðahverfi

Garðar

Garðar fyrrum.

„Garðastaður er sú jörð innan marka Garðabæjar sem elstar og mestar heimildir eru til um.
Í Hrafnkels sögu Freysgoða sem flestir telja ritaða um 1300 er minnst á Þormóð Þjóstarson sem sagður er búa í Görðum á Álftanesi. Garðar koma tvisvar fyrir í Sturlungu í báðum tilfellum í sögum sem líklega voru ritaðar á seinni hluta 13. aldar. Í Íslendingasögu segir að Gizur jarl hafi gist nokkrar nætur á Görðum hjá Einari bónda Ormssyni. Þar hitti Gizur Óláf jarl Oddson í kirkjugarðinum í Görðum. Í Þórðar sögu kakala segir frá því þegar Þórður Bjarnason dvelur hjá Einari Ormssyni í Görðum og var á endanum höggvinn í “ytri stofunni” á Görðum.
Elsta heimildin um Garða er líklega í kirknaskrá Páls biskups Jónssonar í Skálholti, frá um 1200, og er því ljóst að Garðastaður er gömul kirkjujörð. Þar stóð fram að siðaskiptum á 16. öld Péturskirkja, helguð Pétri postula. Í kirkjumáldaga frá 14. öld sést að Garðakirkja var nokkuð vel stæð og voru eignir hennar dæmigerðar fyrir kirkjur á stórbýlisjörðum.

Garðakirkja

Garðakirkja fyrir 1960.

Garðakirkja var aflögð í upphafi 20. aldar er Garðasókn var sameinuð Hafnarfjarðarsókn og var síðasta messan haldin 15. nóvember 1914. Árið 1960 var Garðasókn hins vegar upptekin að nýju og fáum árum seinna var ný Garðakirkja vígð, byggð að hluta á veggjarústum hinnar eldri kirkju.
Frá árinu 1307 er varðveitt bréf er varðar tilkall Garðastaðar til rekaviðs og landrekins hvals við Grindavík en samkvæmt því áttu Garðar allan: “vidreka og hvalreka fra Ranganiogre og [i] Leitu kvenna bása. ad kalftiorninga fiouru.“ Í Hítardalsbók er máldagi frá 1367 sem segir að Garðakirkja, sem sé helguð Pétri postula, eigi allt heimland, Hausastaði og Selskarð. Í Vilchinsmáldaga frá 1397 er jörðunum Hlíð, Bakka, Dysjum, Hraunsholti og Hjallalandi, auk afréttar í Múlatúni, bætt við upptalninguna á eignum. Rúmlega 150 árum síðar, eða 1558, fóru fram jarðaskipti að undirlagi Knudt Stensson, Konglig Mejestetz Byfalningsmann, við séra Lopt Narfason í Garðakirkju, er færðu Hlíð undir Bessastaði og í konungseign, en í staðinn fengu Garðar Vífilsstaði, sem fram að því höfðu tilheyrt Viðeyjarklaustri. Samkvæmt Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns voru Garðar metnir á 60 hndr árið 1697.

Bali

Balavarða (landamerkjavarða).

Í örnefnaskrá Kristjáns Eiríkssonar segir að Hafnarfjörður eigi þá 16 ha þríhyrning úr landi Garða, frá gömlu marklínunni í átt að Álftanesvegi, þar sem nú er hluti af Norðurbænum í Hafnarfirði. Görðum tilheyrir landið sjávarmegin við Hafnarfjarðarveg inn að Arnarneslæk sem ræður til sjávar. Er Hafnarfjarðarkaupstaður var stofnaður 1907 voru honum ákveðin norðurmörk “Úr sjó utanvert við Balatún, sjónhending eftir takmörkum Hafnarfjarðarhrauns og Dysjamýrar, þar til kemur á hinn forna veg frá Görðum til Reykjavíkur.

Engidalsvarða

Engidalsvarðan.

Eftir þeim vegi í Engidal. Þaðan eftir nyrðri brún Hafnarfjarðarhrauns, þar til kemur á móts við austurhorn Hraunholtstúns …”. Land þetta tilheyrði þó Garðastað eftir sem áður en 1912 keypti Hafnarfjarðarkaupstaður það mestallt og heimilaði Alþingi það með lögum nr. 12, 22.10.1912 með þessum merkjum: “Bein lína úr Balaklöpp við vesturenda Skerseyrarmalar í veginn frá Hafnarfirði til Reykjavíkur, þar sem hann fer að fara lækkandi frá norðurbrún hraunsins. Þaðan bein lína í Hádegishól, hádegismark frá Hraunsholti, nálægt í hásuður frá bænum, spölkorn frá hraunjaðrinum…”
Hamarskotstún var eftir sem áður eign Garðastaðar. Görðum tilheyrir landið sjávarmegin við Hafnarfjarðarveg inn að Arnarneslæk sem ræður til sjávar. Í Garðahverfi eru nokkrar litlar jarðir og hjáleigur sem byggst hafa út frá Görðum og sem frá fornu fari hafa tilheyrt kirkjujörðinni. Ágangur sjávar og landbrot virðist hafa hrjáð allar jarðirnar í Garðhverfi, t.a.m. segir í Jarðabók Árna og Páls að bæjarhús Bakka hafi þurft að færa þrisvar frá sjó og árið 1918 var búið að færa Austurbæjarkálgarðinn á Dysjum fimm sinnum síðustu 28 árin á undan sökum landbrots.

Á Dysjar er fyrst minnst í Vilchinsmáldaga frá 1397 og er jörðin sögð eign kirkjunnar á Görðum. Í skrá frá 1565 yfir byggðar jarðir Garðakirkju er minnst á Dysjar og er jörðin þá ekki lengur talin hjáleiga. Í Jarðabók Árna og Páls frá 1703 eru Dysjar enn eign Garðakirkju og teljast lögbýli í óskiptu Garðastaðalandi og er jarðadýrleiki því óviss, því vitanlega borgaði jörðin enga tíund. Árið 1971 eignaðist Hafnarfjörður hluta úr landi Dysja.

Garðahverfi

Dysjar og Vestur-Dysjar (h.m.).

Líkt og Dysjar kemur Bakki fyrst fyrir í Vilchinsmáldaga frá 1397 og svo aftur í skrá yfir byggðar jarðir í eign Garðastaðar frá 1565 og telst þar ekki hjáleiga.
Í Jarðabók Árna og Páls frá 1703 segir að Bakki sé lögbýli og hafi fullt fyrirsvar, en standi í óskiptu landi Garðastaðar og því er dýrleiki óviss. Í Jarðabók segir jafnframt: „Þessum bæ fylgdi til forna Garðamýri (ein mýri þarí hverfinu … Mýrina tók hjer frá Sr. Þorkell Arngrímsson og lagði til heimastaðarins sökum eklu á torfristu og útheyss slægjum og færðist so aftur landskuldina …” Byggð á Bakka lagðist af árið 1910.

Garðahverfi

Pálshús.

Elstu heimildir um Pálshús eru frá 1565 og er býlið þá hjáleiga í landi Garða. Árið 1703 er Pálshús enn fyrirsvarslaus hjáleiga í óskiptu Garðastaðalandi.
Svipaða sögu er að segja af Nýjabæ, á jörðina er fyrst minnst 1565 í skrá yfir byggðar jarðir í landi Garða. Í jarðabók frá upphafi 18. aldar er Nýibær kallaður hálfbýli, „því þarer ekki fyrirsvar (eða hreppamanna hýsing) nema að hálfu. Stendur þetta býli í óskiftu Garðastaðar landi og samtýniss við Garða eins og hin í hverfinu, er hjáleigur kallast.”
Á Ráðagerði og Miðengi er ekki minnst í heimildum fyrr en 1703 og þá sem hjáleigur Garða í óskipu Garðastaðalandi. Þar að auki segir í Jarðabók að Miðengi hafi fyrst byggst úr Hlíðarlandi á fyrri hluta 17. aldar og hafi í manna minnum haft hálft fyrirsvar.

Garðahverfi

Hlíð.

Móakot byggðist einnig úr Hlíð og segir í jarðabók frá 1703 að það hafi gerst fyrst „í þeirra manna minni, sem nú lifa” og er elsta heimildin um Móakot einungis 5 árum eldri, frá 1698. 16. febrúar það ár var Oddi Ásbjarnarsyni ábúanda á Móakoti stefnt fyrir Kópavogsþing sökum lönguhöfuðs sem reist hafði verið á grenispýtu, en á þinginu gekkst vinnumaður á Görðum við því að hafa reist stöngina í þeim yfirnáttúrulega tilgangi að kalla fram betra veðurfar til fiskveiða. Móakot fór í eyði árið 1930.
Árið 1397 er Hlíð eign kirkjunnar á Görðum og er árið 1565 er á lista yfir byggðar hjáleigur í landi Garða. Í Jarðabók Árna og Páls árið 1703 er Hlíð enn hjáleiga Garða og tekið fram að jörðin hafi verið „lögbýli áður en Miðengi var þar frá tekið og var þar þá fyrirsvar að menn meina.”.

Hausastaðir

Hausastaðir – minnismerki um Hausastaðaskóla fremst.

Hausastaðir og Selskarð voru eign Garða þegar árið 1367, og eru það einu jarðirnar sem minnst er á í Hítardalsbók sem voru í landi Péturskirkjunnar á Görðum. Því er mögulegt að Hausastaðir og Selskarð séu elstu jarðirnar sem byggðust út frá Garðastað, en á aðrar jarðir er ekki minnst fyrr en í fyrsta lagi 1397. Á báðar jarðirnar er svo minnst árið 1565, í skrá yfir byggðar jarðir staðarins sem ekki voru hjáleigur. Í Jarðabók Árna og Páls frá 1703 eru Hausastaðir „lögbýli kallað því það hefur fult fyrir svar en stendur þó í óskiftu Garðastaðar landi so sem hjáleigur. Jarðadýrleiki óviss.” Frá sama ári segir um Selskarð í jarðabók að jarðadýrleiki sé einnig óþekktur og að árið 1703 hafi verið einn ábúandi, 1 kúgildi og landskuld hafi verið 60 ánir.

Garðahverfi

Garðahverfi – örnefni.

Síðasta jörðin í Garðahverfi er Hausastaðakot. Á þá jörð er ekki minnst fyrr en í Jarðabók Árna og Páls frá 1703 og er því ljóst að hún er að líkindum eitthvað yngri en hinar jarðirnar. Hausastaðakot var hjáleiga í óskiptu Garðastaðalandi, en samkvæmt Jarðabókinni var það mál manna að „hún hafi til forna legið til Hausastaða og verið þar frá tekin og lögð undir staðinn fyrir mannslán og mjeltunnu, sem hvorutveggja var áður skilið í landskuld auk þeirra sem nú er.“

Hofstaðir

Hofstaðir – dæmi um vel frágengnar fornleifar í þéttbýli. Fornaldarskálinn sést vel á loftmyndinni.

Ritaðar heimildir um jarðir utan Garðahverfis Nú verður rakin stuttlega byggðasaga þeirra jarða sem eru utan Garðahverfis. Jarðirnar koma fremur sjaldan fyrir í gömlum ritheimildum. Elsta heimildin um Hofstaði er frá 1395, en á hinar er ekki minnst fyrr en á 16. og 18. öld. Þó er ljóst að flestar jarðanna hljóta að vera þó nokkuð eldri en ritheimildir gefa vísbendingar um. Slíkt má fullyrða, m.a. vegna tiltækra upplýsinga um landnámsskála á Hofstöðum og þeirra upplýsinga sem nú hafa komið í ljós í Urriðakoti. Í Landnámu er einnig talað um Vífilstóftir, sem án efa er undanfari Vífilsstaða og er það án efa vísbending um háan aldur jarðarinnar. Jarðirnar utan Garðahverfis verða hér teknar fyrir í þeirri röð sem þær komu fyrir í Jarðatali Johnsens frá 1847.

Setberg

Setbergsbærinn 1772 – Joseph Banks.

Setberg er vestust jarðanna innan marka Garðabæjar og tilheyrir að hluta Hafnarfirði. Elstu varðveittu ritheimildir um Setberg eru frá fyrri hluta 16. aldar. Til er kvittunarbréf frá árinu 1505 er staðfestir að Grímur Pálsson sé skuldlaus Þorvarði Erlendssyni vegna kaupa þess fyrrnefnda á jörðinni Setbergi. Átján árum síðar, eða 1523, var útgefið annað sölubréf fyrir eignaskiptum á jörðinni, en Tómas Jónsson hafði þá greitt bræðrunum Pétri og Halli Björnssonum að fullu fyrir Setberg en í þessu bréfi eru landamerki jarðarinnar m.a. talin upp. Af jarðabréfum má ráða að upp úr miðri 17. öld skipti Setberg nokkrum sinnum um eigendur. Samkvæmt Jarðabók Árna og Páls frá 1703 var Setberg metið á 16 hndr og er í eign Þóru Þorsteinsdóttur. Á þeim tíma er Setberg eina jörðin innan núverandi marka Garðbæjar sem var í einkaeign og hafði svo verið í það minnsta frá því fyrir 1505 samkvæmt þeim eignaskiptabréfum sem varðveist hafa. Árið 1912 keypti Hafnarfjörður hluta af Setbergslandi, allt til Lækjarbotna úr neðstu jarðabrú í Kaplakrika.

Urriðakot

Urriðakot.

Óvíst er um aldur Urriðakots, en jörðin virðist hafa verið í eigu kirkjunnar fram á miðja 16. öld. Nafn Urriðakots kemur fyrst fyrir í jarðaskiptabréfi frá 1563 en jörðin er þá ein 19 jarða sem renna til konungs í skiptum fyrir jafnmargar jarðir til Skálholtsstóls. Næstu heimildir er varða Urriðakot eru frá 18. öld og er þá jörðin enn í konungseign. Í Jarðabók frá 1703 er jarðadýrleiki óviss, en Urriðakot er þar kallað hálfbýli því það hefur ekki fyrirsvar nema til helmings á móti lögbýlisjörðum og er í konungseign. Árið 1847 var Urriðakot svo komið í bændaeign og metið á 16 hndr. Ekki er loku fyrir það skotið að Urriðakot hafi á sínum tíma byggst út frá Setbergi. Nú liggja mörk Setbergs og Urriðakots um Urriðakotsvatn og um miðjan Hrauntanga sem skagar út í vatnið að norðanverðu. Á Hrauntanga er fornt garðlag sem kallast Lambhagagarður og teygir það sig inn á báðar jarðir. Lambhagagarður er eldri en landamerkjagarðurinn sem skiptir jörðunum norður af Urriðakotsvatni og sem gengur þvert á Lambhagagarð. Hið forna garðlag er því líklegur vitnisburður þess að eitt sinn hafi Setberg og Urriðakot verið ein og sama jörðin. Nöfn jarðanna gætu gefið vísbendingu um hvor sé eldri, en „kot” örnefni eru yfirleitt talin yngri en nöfn sem vísa í náttúruaðstæður, líkt og „Setberg”.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir fyrrum.

Byggð á Vífilsstöðum á mögulega upphaf sitt á landnámsöld, eins og áður kemur fram, en annars eru ritheimildir hljóðar varðandi Vífilsstaði fram undir miðja 16. öld, en frá þeim tíma eru til talsvert af heimildum, allar stjórnsýslulegs eðlis.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir – loftmynd 1954.

Í Fornbréfasafni er Vífilsstaða tvisvar getið í Fógetareikningum af konungsjörðum í Borgarfirði, Viðeyjarklaustursjörðum og öðrum konungsjörðum í Kjalarnesþingi 1547-1548 og aftur getið í fógetareikningum 1549-1550. Vífilsstaðir koma einnig fyrir í afgjaldarreikningum Kristjáns skrifara frá 1550 og í fógetareikningum 1552. Ári síðar, eða 1553, er nefndur ábúandi á Vífilsstöðum í hlutabók og sjávarútgerðarreikningi Eggerts hirðstjóra. Að undirlagi Knudt Stensson Konglig Majestetz Byfalningsmann gengu Vífilsstaðir undir Garðakirkju árið 1558, en jörðin hafði fram að þeim tíma tilheyrt Viðeyjarklaustri. Var það gert í skiptum fyrir Hlíð sem var tekin undir konungsjörðina Bessastaði. Minnst er á Vífilsstaði í skrá yfir byggðar jarðir Garðakirkju frá árinu 1565. Í Jarðabók Árna og Páls frá 1703 er dýrleiki jarðinnar sagður óviss sökum þess að Vífilsstaðir eru þá enn Garðakirkjueign,75 og dýrleiki er ekki heldur tilgreindur Jarðatali Johnsens frá 1847. Vífilsstaðir eru líklegast einna þekktastir fyrir að vera aðsetur heilsuhælis fyrir berklasjúklinga, en það var sett á laggirnar árið 1910. Árið 1974 lagðist búrekstur lagðist af á Vífilsstöðum.

Hagakot

Fyrrum bæjarstæði Hagakots – Tjarnarflöt 10.

Litlar heimildir frá fyrri öldum hafa varðveist um Hagakot. Árið 1703 var jörðin í konungseign og hálflenda með fyrirsvar til hálfs á við lögbýli. Bæjarrústir Hagakots eru nú horfnar með öllu, en voru áður þar sem nú stendur íbúðarhúsið að Tjarnarflöt 10.

Björn Konráðsson

Björn Konráðsson, oddviti Garðahrepps í 28 ár.

Hofsstaðir eru næsta jörð norðan Hagakots og er ljóst að búseta hófst þar mjög snemma. Skáli frá landnámsöld fannst við fornleifauppgröft skammt vestur af núverandi bæjarstæði Hofstaða. Hofstaðabærinn stóð þar frá upphafi og fram á 13. öld, en var síðan fluttur, mögulega á þann stað sem núverandi bæjarhús stendur. Elsta byggingarstigið er veglegur víkingaaldarskáli sem ber þess vitni að stórbýli hafi verið á Hofstöðum í fornöld, þó ekki sé minnst á jörðina í Landnámu. Fyrst er minnst á Hofstaði í rituðum heimildum á 14. öld en þá komust Hofsstaðir í eigu Viðeyjarklausturs. Í Jarðabók Árna og Páls frá 1703 eru Hofsstaðir sagðir í eigu konungs og hafa að líkindum orðið það við siðaskiptin um miðja 16. öld. Í Jarðatali Johnsens frá 1847 voru Hofsstaðir enn í konungseign og metnir á 10 hdr.82 Búskapur lagðist af á Hofstöðum árið 1965 og keypti Garðahreppur jörðina undir íbúðahúsalóðir ári seinna.

Garðabær

Þorgarðsdys í Arnarnesi.

Fátæklegar ritheimildir hafa varðveist um Arnarnes. Í Jarðabók Árna og Páls frá 1703 er Arnarnes konungsjörð og jarðadýrleiki því óviss.84 Telja má þó líklegt byggð í Arnarnesi sé mun eldri en þar er eina þekkta bænhúsið innan núverandi merkja Garðabæjar. Á nesinu eru þekkt tvö býli, Arnarnesið sjálft og svo Litla Arnarnes, sem einnig er þekkt sem Arnarnes gamla og Arnarneskot. Ekkert er minnst á kotið í jarðabókinni og gæti það verið vísbending um að Litla Arnarnes kunni að vera yngra en frá árinu 1703 eða ekki í byggð á þeim tíma. Á Arnarnesinu eru þekktar þrjár dysjar sakamanna sem teknir voru af lífi á Kópavogsþingi og ein þeirra, mun vera dys Hinrik Kules sem dæmdur var til dauða fyrir morð þann 23. febrúar 1582. Minna er þekkt um hinar dysjarnar tvær, en þær ganga jafnan undir nöfnunum Þorgarðsdys og Þormóðsleiði. Í Jarðatali Johnsens frá 1847 var Arnarnes enn í konungseign og metin á 20 hdr, og því hæst metna jörðin innan núverandi marka Garðabæjar utan Garðastaðar sjálfs.

Garðabær

Garðabær 1969.

Ekki er vitað hvenær Hraunsholt byggðist fyrst, en líkt og með fleiri jarðir innan marka Garðabæjar þá kann jörðin að vera býsna gömul þótt nafn hennar komi ekki fyrir í mörgum ritheimildum fyrri alda. Elsta þekkta heimildin um jörðina er frá árinu 1565, og er Hraunsholt þá ein jarða Garðakirkju. Í byrjun 18. aldar var jörðin enn í eigu Garðakirkju, en óvíst var á þeim tíma hvort kalla skildi jörðina hálflendu eða lögbýli „því þar er margoft ekki fyrirsvar nema til helminga, utan þegar vel fjáðir menn hafa ábúið, og stendur þetta býli í óskiftu Garðastaðar landi”.
Þó svo að vísbendingar ritheimilda séu fremur þöglar um upphaf og þróun byggðar innan Garðabæjar er ýmislegt sem bendir til að byggð hafi snemma hafist á þessu svæði og jafnvel orðið nokkuð þétt. Til þess benda m.a. uppgreftir á Hofstöðum og í Urriðaholti og Garðahverfið allt. Einnig má vera að á næstu árum/áratugum muni frekari fornleifarannsóknir á svæðinu leiða í ljós mun ítarlegri vitnesku um elstu byggð á svæðinu og þróun hennar.“

Heimild:
-Fornleifaskráning í Garðabæ, Fornleifastofnun Íslands 2009.

Garðabær

Núverandi bæjarstjóri Garðabæjar, Gunnar Einarsson.

Hagakot

Í ritinu „Listin að lifa“ frá árinu 2007 skrifar Sigurður Björnsson greinina „Gengið um Garðabæ“. Umfjöllun Sigurðar birtist annars staðar á vefsíðunni, en í greininni minnist hann m.a. í stuttu máli á Hagakot í Garðabæ. Nefnt kot, eða öllu heldur ábúendur þess, skyldi eftir sig allnokkrar minjar í Hafnarfjarðarhrauni, auk þess sem Hagakotsstígurinn, þ.e. hinn forni selsstígur frá Hofstöðum að seli bæjarins að Urriðavatni, lá um Hagakot.

Hagakot

Hagakot – Tjarnarflöt 10.

„Suður frá Hofsstöðum stóð býlið Hagakot. Bærinn stóð þar sem nú er Tjarnarflöt 10. Gatan dregur nafn sitt af seftjörn, sem fyrrum var í ofanverðu túninu.“
Í manntalinu 1703 eru 5 íbúar skráðir í Hagakoti; 1703: „hálflenda so kölluð, því það hefur ekki fyrirsvar nema til helmings á móts við lögbýlisjarðir.“
Konungseign. JÁM, III, 225.
1703: „Engjar litlar.“ JÁM, III, 226.
Túnakort ekki til.

Hagakotsstígur

Hagakotsstígur. Urriðavatn framundan.

Hagakotsbær: „Býli í Garðahreppi, fyrrum Álftaneshreppi. Er nú í eyði [1964]. Átti sitt eigið tún, en beit í óskiftu Garðastaðalandi, fyrir fénað þann sem túnið framfleytti. Munmæli herma svo: Hagakot á utan túns, beit fyrir kýr í hafti og hest í stokk. Hagi er býli þetta nefnt í fornum bréfum Viðeyjarklausturs…Hagakotsbærinn: Stóð í túninu miðju, þar sér nú aðeins rústirnar,“ segir í

Hagakot

Hagakot – loftmynd 2023.

Skrá yfir örnefni og fiskimið. ,,Hagakot var jörð í Garðakirkjulandi…. Bæjarrústirnar eru horfnar með öllu.
Bæjarstæði Hagakots var þar sem nú er Tjarnarflöt 10″ segir í Örnefni og leiðir í landi Garðabæjar. ,,Á móts við Brekkutögl liggur stígur út í hraunið, sem nefnur var Hagakotsstígur. Um hann var farið milli Urriðakots og Hagakots, en Hagakot var skammt norðan við Vífilsstaðalæk, en suður af Hofsstöðum“, segir í örnefnaskrá SP yfir Urriðakot.
Þar sem Hagakotsbærinn var áður er nú þétt og gróin byggð. Tjarnargata 10 er einbýlishús og bílskúr og er mikið af trjágróðri á lóðinni. Ekkert markar fyrir bæjarstæði Hagakots á yfirborði, þó leifar þess kunni að leynast undir sverði.“
2001: Bæjarrústir með öllu horfnar, þar er nú Tjarnarflöt 10. GRG, 102.

Í Tímanum 1970 segir frá Birni Konráðssyni, oddviti í Garðahreppi í nær þrjá áratugi. Í viðtali við hann segir Björn m.a. frá Hagakoti og nágrenni:

Björn Konráðsson

„Björn Konráðsson er seztur í helgan stein eftir langt og mikið dagsverk, rúmlega 75 ára að aldri, ern og hress í anda með hugann fullan af áhugamálum um Garðahreppsbyggðina og sístarfandi að hugðarefnum. Hann hefur haft fingurinn á slagæð þessarar byggðar allt hið hraða vaxtarskeið hennar og man tímana tvenna. Fáir hafa orðið vitni að og átt ríkari þátt í slíkum umskiptum sveitar sinnar.
Björn er Skagfirðingur að ætt, lagði ungur að árum leið sína til Noregs og kom þaðan búfræðingur frá Ási og réðst ráðsmaður að ríkisbúinu á Vífilsstöðum.
—Hvenær komst þú í Vífilsstaði, spyr ég Björn, þegar við erum setztir inn í stofu.
—Það var 1923. Berklahælið var þá tekið til starfa, sem kunnugt er og ríkisbúið við það stofnað, en lítið var farið að rækta. Þúfnabaninn frægi hafði þó komið þangað og ráðizt á mýrina vestan við bæjarásinn. Þetta er gamall vatnsbotn, mýrin mjög seig, og þurfti að ræsa hana fram. Það var ekki gert til hlítar í öndverðu, en síðar bætt um það.
Það kom í minn hlut að rækta tún úr umbroti þúfnabanans, og þetta varð gott tún, hefur gefið af sér margan hestburðinn. Það kól aldrei fyrr en 1952, en náði sér fljótt aftur, enda sáði ég í kalið.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir og nágrenni 1954.

— Hve stórt var búið á Vífilsstöðum, þegar þú tókst við, Björn?
— Bústofninn var einar 16 kýr og túnið gaf af sér um 200 hesta af íöðu. Síðar gáfu túnin af sér um 3 þús. hesta og auk þess voru tún ræktuð til beitar. Á þeim bletti, sem þetta hús stendur nú á hér á Flötunum, var einmitt kúabeit frá Vífilsstöðum framan af árum. Hér var kóngsjörð lítil, nefnd Hagakot. Þar var hætt búskap um 1920. Einnig var landið upp með læknum ræktað til beitar.

Hagakot

Hagakot – auglýsing 1895.

Mest varð búið hjá mér um 70 kýr mjólkandi, auk geidneyta, svo að nær hundrað var í fjósi stundum. Ég fékk mjaltavélar 1928.
Bústofninn var lítið annað en kýrnar, aðeins lítið eitt af svínum og hænsn.
— En óræktað land Vífilsstaða, var það beitt?

— Nei, það var snemma friðað, og síðan hefur mikið verið gróðursett af trjám í hlíðinni. Gróðurinn þar og í hrauninu hefur tekið ótrúlega miklum stakkaskiptum, og nú er hraunið orðið sannkallaður unaðsreitur með birkikjarri sínu, skjólbollum og hraunmyndum. Þessa lands getur fólkið hér í byggðinni nú notið, en ég treysti því til þess að verja það og vernda.
— Hve lengi hefur þú verið oddviti, Björn?
— Ég var kjörinn í hreppsnefnd hér 1931, og fer úr henni á þessu herrans ári 1970, svo að nú geturðu reiknað. Eru það ekki nær 40 ár? Oddviti var ég í 28 ár.“

Í Ísafold 1895 er Hagakot auglýst til leigu:

Hagakot

Hagakot – auglýsing 1896.

„Umboðsjörðin Hagakot í Garðahreppi, 8,3 hndr. að dýrleika eptir mati nýju mati, er laus til ábúðar í næstkomandi fardögum. Eptirgjaldið er; landskuld 40 álnir og leigur 20 álnir eptir smjörverði.
Umboðsmaður í Kjósar- og Gullbringusýslu, 14. desember 1895 – Franz Siemsen“

Í Ísafold 1896 er Hagakot aftur auglýst til útleigu:

„Umboðsjörðin Hagakot í Garðahreppi er laus til ábúðar í næstkæmandi fardögum. Eptirgjaldið er; landskuld 40 álnir og leigur 20 pd. smjörs.
Þeir, sem óska að fá ábúð á jörðu þessari, snúi sjer sem fyrst til mín sem umboðsmanns tjeðrar jarðar.
Skrifst. Kjósar- og Gullbringusýslu 17 des. 1896 – Franz Siemsen“

Í Ísafold 1898 er enn ein auglýsingin um leigu á Hagakoti:

„Hagakot í Garðahreppi, að dýrl. 8,3 hdr. n.m. Landskuld 40 álnir, leigur 20 pd. smjörs.
Skrifstofu Kjósar- og Gullbringusýslu 23. janúar 1898 – Franz Siemsen“

Hagakot

Hagakot – herforingjakort 1919.

Lítill áhugi virðist vera á jörðinni enda ræktað landrými takmarkað. Svo fór, líkt og Björn lýsti, að jörðin lagðist í eyði um 1920.

Í Örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar segir um Hagakot:

„Hagakot, býli í Garðahreppi, fyrrum Álftaneshreppi. Hagi er býlið nefnt í skjali frá gömlum tímum.

Hagakot

Hagakot – stekkur.

Hagakotsbær stóð í Hagakotstúni því nær miðju, en það mun hafa fóðrað þrjár kýr eða þar um bil. Hagakotstúngarðar lágu að því austan, norðan og vestan. Hagakotstraðir lágu frá bænum vestanvert upp túnið í alfaraleiðina, sem lá rétt ofan við túnið. Hali eða Ranghali nefndist vesturhluti túnsins. Ofan eða bak við bæinn var Hagakotstjörn. Þangað var stundum sótt vatn. Á sumrum var hún gróin fergini. Hagakotsmýri lá neðan túnsins niður að Hagakotslæk, eins og lækurinn var kallaður, meðan hann rann meðfram landi býlisins. Beint niður undan bænum var vatnsbólið og vatnsgatan ofan frá bæ og þangað niður. Vestan túns var Vaðið yfir lækinn, þar sem hann nefndist Djúpilækur. Suðaustur frá túninu var Steinbrúin eða Stiklurnar yfir lækinn.

Hagakot

Hagakot – Hagakotshellir.

Austan túns var barð, og þar var mótekja, nefndist Móbarð. Hagakotsmelar lágu vestan, ofan og austan túns, og þar um lá alfaraleiðin. Austan túns niður undan melunum var Torfmýrin. Um hana var talið, að lægi landamerkjalínan milli Hagakots og Vífilsstaða. Þar upp af var lægð, Grófin. Ofar í holtinu var Sérstakaþúfa, eða eins og hún var kölluð frá Hagakoti, Syðriþúfa. Aðrir töldu, að landamerkin lægju nokkru innar um svonefnda Nautalind eða Nautadrykk og þá um Mýrarblettinn.

Hagakot

Hagakot – loftmynd 1954.

Hagakotsstígur lá frá Vaðinu suður um hraunið, Svínahraun, að Urriðakoti. Því var stígurinn allt eins nefndur Urriðakotsstígur. Spölkorn úti í hrauninu var Hagakotshellir, lítill skúti, en þó skjól fyrir fé. Þar lengra úti á hrauninu var Hagakotshóll eða (?) Hádegishóll, eyktamark frá Hagakoti.

Þjóðjörðin Hagakot í Garðahreppi á tún sitt, hefur eftir fornri venju notað mýri fyrir neðan túnið og mótak í barði austur af túninu og beit í Garðakirkjulandi fyrir fénað þann, sem framfleytist af mýrinni og túninu.“

Öllu umhverfis túnstæði Hagakots fyrrum hefur nú verið umverft undir þarfir nútímans…

Heimildir:
-Listin að lifa, 2. tbl. 01.06.2007, Gengið um Garðabæ, Sigurður Björnsson, bls. 46.
-Manntalið 1703.
-Tíminn, 113. tbl. 24.05.1970, Hann var oddviti í Garðahreppi nær þrjá áratugi – Björn Konráðsson, bls. 14 og 22.
-Ísafold, 96. tbl. 21.12.1895, auglýsing, bls. 884.
-Ísafold, 89. tbl. 23.12.1896, auglýsing, bls. 858.
-Ísafold, 6. tbl. 02.02.1898, auglýsing, bls. 24.
-Skrá yfir örnefni og fiskimið í Álftaneshreppi, 7; GRG, 102; Ö-Urriðakot SP, 4.
-Örnefnalýsing, Hagakot – Gísli Sigurðsson.
-Garðahraun Efra- Fornleifaskráning- og skýrsla. Antikva 2018.

Hagakot

Hagakot og nágrenni – herforingjakort 1919.

Garðahverfi

Í ritinu Harðjaxl réttlætis og laga 1924 skrifar „Gamall Garðhreppingur“ um „Átthagafræði Garðahrepps„. Um var að ræða verðlaunasamkeppni ritsins þar sem viðkomandi lýsir bæjum og ábúendum í Garðahreppi:

Hr. ritstjóri!

Lónakot

Lónakotsbærinn.

„Þegar eg las í blaði yðar Harðjaxl um hinn mikla framgang Harðjaxlsstefnunnar, sem ennþá er vitanlega mestur í höfuðborginni, datt mér í hug, að þegar þér farið að senda erindreka yðar út um sveitirnar, væri gott fyrir yður að vita nokkur deili á býlum þeim og bændum, þar sem erindrekar yðar fara um. Þess vegna sendi eg yður hér með stuttorða lýsingu á bæjarnöfnum og fleiru smávegis, í þeim hreppi, sem eg er tiltölulega kunnugastur í.
Syðsti bær hreppsins er Lónakot. þar bjó til skamms tíma Guðlaugur; var hann sveitarhöfðingi hinn mesti, og bætti jörð sína mjög, og fór vel með allar skepnur, sérstaklega sauðfé. En nú er hann fluttur til Hafnarfjarðar og mun það mest vera fyrir þá sök, að honum þótti of lítið útsvar lagt á sig í hreppnum. Nú býr í Lónakoti Þorsteinn frá Herdísarvík, sá sem ekki vildi dóttur þórarins. Er hann sagður búhöldur góður.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir.

Næsti bær fyrir innan Lónakot eru Óttarstaðir; þar er tvíbýli. Á öðrumum partinum býr Guðmundur strandamaður. þar bjó áður Guðjón, sem búnaðist best í Krýsuvík. Á hinum partinum býr Sigurður; var hann talinn góður bóndi áður en bílarnir komu. Skammt fyrir ofan Óttarstaði er býlið Eiðskot.
Þar búa bræður tveir, Sveinn og Guðmundur. Eru þeir smiðir góðir og gamlir skútumenn, en hafa nú í seinni tíð hneigst til sauða, eins og stórbóndinn á Hvaleyri. Einnig hafa þeir verið helstu skónálasmiðir hreppsins um mörg ár.
Nú kemur engin bygð. fyr en í Straumi. Þar bjó um langan aldur Guðmundur dýravinur. En nú er hann kominn til Hafnarfjarðar eins og Guðlaugur, og lifir þar á sauðfé sínu og guðs blessun. Bjarni skólastjóri hefir nú útibú í Straumi, og á margt auðfé. Þar er engum úthýst.

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnastaðir – tilgáta (ÓSÁ).

Í inn-hraununum eru nú sex býli í eyði, sem búið hefir verið á til skamms tíma, en liggja nú flest undir Straum.
Helsta býlið af þessum sex voru Þorbjarnarstaðir. Þar bjó lengi Þorkell faðir Árna, Ingólfs og Geira. Og var honum að sögn bygt út fyrir þá sök, að hann þótti ekki gresja nóg skóginn.
Hann hafði mikla ást á geldingum, sérstaklega mislitum. Nú er hann kominn til fjarðarins eins og Laugi. Í Péturskoti, sem er eitt af eyðibýlunum, bjó eitt ár Ingólfur sonur Þorkels, en af því að hann gat ekki tekið með köldu blóði að hafa þar margt fé á litlu, fór hann þaðan, og er nú kominn í velsæluna í firðinum. Á eyðibýlinu Litla-Lambhaga bjó fyrir nokkru Brynjólfur, gamall vinur Þorkels. Mun hann hafa farið þaðan fyrir þá sök að honum þótti of lág landskuldin. Í Gerðinu hefir nú Þórarinn sumarbústað; er hann sami maðurinn sem snéri trollurunum aftur við Reykjanes í fyrra, þegar hann komst ekki í bæjarstjórnina í firðinum. Þá grétu Emil og Gísli. Í Stóra-Lambhaga, sem nú er ein af hjálendum Straums, bjó fyrir nokkru Guðjón, sem nú býr á Langeyri við Hafnarfjörð, faðir Magnúsar hugvitsmanns…

Ás

Ás – tilgáta ÓSÁ.

Þegar hinum svokölluðu Hraunabæjum sleppir, er næsti bær Þorgeirsstaðir. Þar nam land Þorgeir hinn sterki. Nú býr þar Brynjólfur frá Litla-Lambhaga. Er hann víst allgóður bóndi, en heldur þykir hann óheppinn með sauðfé nú í seinni tíð. Skammt frá Þorgeirsstöðum er býlið Stekkur. Þar býr Sigurður. Þykir hann gera það gott eftir atvikum. Næsti bær við Stekk er Ás. Þar býr Oddgeir sonur Þorkels; er það sami maðurinn sem ekki bauð sig fyrir hreppstjóra hérna um árið, en varð hreppstjóri samt, eg man ekki hvað lengi. Nú er höfuðbólið Setberg næsti bær. Þar býr nú Jóhannes Reykdal, og hefir mikið um sig. Þar bjuggu áður Halldór og Anna, sem margir kannast við.

Urriðakot

Urriðakot.

Næsti bær við Setberg er Urriðakot. Þar býr Guðmundur. Er hann tengdafaðir Björns bolsivikka í firðinum, og er sagt, að Guðmundur sé ekkert upp með sér af þeim tengdum.
Þá koma næst Vífilsstaðir. Þar er nú rekinn fyrirmyndar búskapur á kostnað ríkissjóðs, undir stjórn Þorleifs. Og mundi vart betur vera búið, þótt einstakur maður ætti. Og sýnir það, að ríkisrekstur á fullkominn tilverurétt, á hvaða sviði sem er, ef honum er viturlega stjórnað. En heldur þykir bændum útsvarið vera lágt á búinu.
Skammt fyrir neðan Vífilsstaði er Hagakot; það er nú í eyði, en beljur látnar slá túnið á sumrum.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir fyrrum.

Þá koma Hofstaðir. Þar býr nú Gísli, sá sem ekki vill komast í hreppsnefndina. Þar bjó áður Jakob faðir Gísla, vel metinn maður. Fyrir neðan Hofstaði er Arnarnes. Þar býr nú prestsekkja með sonum sínum. Og hefir hún meira álit á hærri stöðum en sumir hreppstjórar. Þá er næst Hraunsholt. Þar hefir lengi búið Jakob; er hann með betri bændum hreppsins, og helsti brautryðjandi hreppsins í kaupfélagsmálum. Og sérstaklega er sagt að hann hafi gengið upp, síðan farið var að slá slöku við að mæla fitumagnið í mjólkinni.

Krókur

Krókur.

Þá tekur við Garðahverfið, og er þá best að byrja á Garðastað. Þar býr prófastur Árni Björnsson, tengdafaðir Gunnlaugs stórkaupmanns. Þá er næst Nýibær. Þar býr Magnús, allgóður bóndi, en heldur er sagt að búskap hans hafi hrakað síðan bæjarfulltrúinn tók heimasætuna. Skamt upp af Nýjabæ er Krókur. Þar bjó lengi Björn faðir Guðmundar. Er sagt að Guðmundur sjái um að blikkkassinn hjá gjaldkeranum springi ekki af offylli. Fyrir neðan Krók eru Pálshús. Þar býr nú Guðjón hreppstjóri, sem ekki fékk Arnarnesið.

Garðahverfi

Pálshús.

Fyrir neðan Pálshús eru Dysjar. Þar er tvíbýli. Á öðrum partinum býr Magnús Brynjólfsson. Og er sagt að bærinn hjá honum leki enn, þó að hann kysi Björn. Á hinum partinum býr Guðjón, mágur Steingríms og Óla H. Skamt frá Dysjum er Bakki. Þar býr nú Kristinn Kristjánsson. Þar bjó áður Isak, sem á meinlausu hundana. Þá er Miðengi. Þar býr Gunnar, sláttumaður góður. Þar næst er Móakot. Þar býr Einar, bróðir Steins rithöfundar. Sonur Einars er Sigurður sá, sem engin hjúkrunarkona vill ganga með, jafnvel þó hún sé launuð af bæjarstjórn. Fyrir ofan Móakot er Háteigur. Þar býr Stefán, faðir Páls.

Garðahverfi

Hlíð.

Þá kemur næst Hlíð. Þar hefir til skamms tíma verið tvíbýli. Nú hefir alla jörðina Gísli Guðjónsson. Þá er næsti bær Grjóti. Þar býr nú sprenglærður búfræðingur með mikilli rausn.
Á Hausastöðum býr nú Valgeir Eyjólfsson, talinn gott búmannsefni. Fyrir neðan Hausaataði er Katrínarkot. Þar hefir lengi búið Jónína, gömul vinkona Guðjóns. Þá er norðasti bær hreppsins, Selskarð. Þar bjó til skamms tíma Þórarinn, sem margir Hafnfirðingar kannast við. En nú hafa þeir félagar Jón og Gísli keypt jörðina, og er sagt að þeir ætli að setjast þar að þegar þeir eru búnir að tapa svo miklu á akkorðunum, að þeir haldist ekki lengur við í firðinum. Og telja kunnugir, að það geti vart dregist lengur en fram á næsta vor, sérstaklega, ef þeir hafa uppskipun úr 14 trollurum í vetur.
Þess skal getið réttum hlutaðeigendum til hróss, að þeir hafa sett mjög öfluga girðingu á milli Álftaness og Garðahverfis. En þó Álftnesingurinn sé ekki árennilegur, mun eg ef til vill, ef eg sé mér færi, skjótast í gegnum hliðið á girðingunni og rita þá lítilsháttar um bændur þar og búalið.“ – Gamall Garðhreppingur.

Heimild:
-Harðjaxl réttlæstis og laga, 16. tbl. 04.12.1924, Átthagafræði Garðahrepps – verðlaunasamkeppni, bls. 2-3.

Garðahverfi

Garðahverfi.

Gálgaklettar

Við hraunjaðar Garðahrauns, skammt frá Garðastekk, er skilti um Gálgahraun. Þar segir í texta:

„Gálgahraun tilheyrir víðáttumiklu hrauni sem rann frá Búrfellsgíg fyrir um 8.000 árum. Búrfellshraun ber nokkur mismunandi nöfn og heita nyrstu hlutarnir Flatahraun, Klettar og Gálgahraun en sameiginlegt nafn þeirra er garðahraun. Gálgahraun var friðað  samt fjörum og grunnsvævi Skerjafjarðar 6. október 2009. Friðunin spannar 1.0815 km2 svæði sem samsvarar 108 kekturum.

Áhugaverðar gönguleiðir í Gálgahrauni:

Fógetagata (Álftanesgata)

Fógetagata

Fógetagata.

Gatan var alfaraleið Álftnesinga áður en vagnfær vegur var lagður snemma á 20. öld. Þeir sem áttu erindi til bessastaða kölluðu leiðina Fógetagötu á meðan fulltrúar konungs sátu staðinn. Leiðin var greiðfær í björtu en gat verið þungbúin í dimmviðri og vetrarhríð. Gatan sést greinilega þar sem hún hefur grópast ofan í hraunhelluna í aldanna rás. Að austan liggur hún um grunnt skarð við Hraunvik og kvíslast í Nyrðri Fógetagötu og Syðri Fógetagötu við Litla Skyggni. Hún Sameinast á smákafla nærra Stóra Skyggni áður en hún skiptist aftur í Garðastíg sem tengist kirkjustaðnum Görðum og Álftanesgötu sem liggur út á Álftanesið.

Móslóði

Gálgahraun

Gálgahraun – kort.

Á meðan mór var notaður til að viðhalda glóðinni í eldstæðum þeirra sem bjuggu í kotnum á Álptaneshreppi hinum forn var hann tekinn í Hraunsholtsmýri, Lágumýri og Arnarnesmýri. leiguliðar Garðakirkju sem bjuggu í Hafnarfirði og Garðahverfi fóru ófár ferðir um Móslóða til að sækja mó í mýrarnar. Ennþá er hægt að sjá hvar vegslóðinn lá milli mýtranna og Vegamóta við Álftanesveg. Þar komu leiðirnar frá Garðahverfi, Hafnarfirði og Álftanesi saman.

Gálgaklettsleið

Gálgaklettar

Gálgaklettar – horft af Gálgaklettsleið.

Gálgaklettsleið sveigir út af Fógetagötu í miðju Gálgahrauni skammt frá Stóra-Skyggni. Auðvelt er að rata með því að taka stefnuna til norðurs og miða við Bessastaði. Nokkrar djúpar götur eru sunna Gálgakletta og hægt að fara austan eða vestan þeirra áður en komið er að Gálgaflöt.

Sakamannastígur

Gálgaklettar

Gálgaklettar – meintur grafreitur.

Sakamannastígur er í hraunjaðrinum sunnan Lambhúsatjarnar. leiðin var einnig nefnd Gálgastígur eða Aftökustígur og gefa nöfnin til kynna hvað þarna fór fram. Stígurinn virðist hafa verið fjölfarinn en hann liggur fram hjá Litla-Gálga áður en komið er að Gálgaklettum. Þokkaleg lending er við Gálgaflöt, líklega voru sakamenn stundum ferjaðir yfir Lambhústjörn frá Bessastöðum. þei sem hefja göngu við Hraunvik geta nálgast Gálgakletta með því að fylgja strandlengjunni. leiðin liggur framhjá Eskinesi og smátjörnum Vatnagarða áður en komið er að Gálgaklettum.

Helstu staðir í Gálgahrauni:

Gálgaklettar

Gálgaklettar

Gálgaklettar.

Gálgaklettar sem heita allt eins Gálgar eru þrír talsins; Vestur Gálgi, Mið Gálgi og Austur Gálgi. þeir virðast vera dekkri yfirlitum en klettarir umhverfis þá og nafnið hefur nægt til að skjóta fólki skelk í bringu í aldanna rás. Staðkunnugir kölluðu klettana einu nafni Gálgaklofning þar sem þetta var upphaflega einn klettur sem klofnaði í þrjá hluta. Samkvæmt munnmælum voru sakamenn hengdir í Gálgaklettum, en ekki eru til ritaðar heimildir sem staðfesta þetta. Samt sem áður hafa mannabein fundist nærri Gálgaklettum. Þau styðja þessar sagnir.

Eskines

Eskines

Eskines – tóftir.

Eskines er sá hluti Búrfelshrauns sem lengst nær frá eldstöðinni Búrfelli. Ysti hluti Eskiness er í 12 km fjarlægð frá miðhluta Búrfellsgígs. Nærri hraunarðrinum er kofarúst frá seinni hluta 19. aldar þegar Þórarinn Böðvarsson prestur að Görðum ætlaði að koma þar upp æðarvarpi. Hann lét byggja kofann og fékk vinnuhjú til að búa þar með hænsni yfir sumartímann, en æðarvarpið misheppnaðist. Eskines er nánast flæðisker sem hefur sigið í aldanna rás og drukknuðu þar 40-50 kindur í eina tíð. Huga þarf að sjávarföllum ef farið er út á nesið, einkum á stórstraumi. Ofan Eskineseyra eru Eskinesklettar.

Garðastekkur

Garðastekkur

Garðastekkur.

Garðar var einn ríkasti kirkjustaður landsins um aldir og umhverfis prestsetrið var fjöldi hjáleiga sem nefndust einu nafni Garðahverfi. Garðakirkja átti miklar lendur. Á veturnar var búsmalanum haldið til beitar í Garðahrauni og Garðastekkur gegndi mikilvægu hlutverki. Vestur af honum eru hústóftir og á hraunrana hraunin fjárborg. Þessar minjar vitna um horfna búskaparhætti.

Kjarvalsklettar

Garðahraun

Kjarvalsklettur í Garðahrauni.

Listmálarinn Jóhannes Sveinsson Kjarval var heillaður af hraunslandsagi og fór á sömu staðina á mismunandi árstímum til að mála. Ákveðnir drangar í Klettahrauni urðu honum hugleiknir en hann málaði einng aðra kletta sem finna má í grenndinni. Kjarvalsklettar í Garðahrauni koma fyrir í nokkrum tugum málverka meistarans. Kjarval nefndi þessi málverk ýmist Hraun, Úr Gálgahrauni, Úr Bessastaðahrauni eða Frá Álftanesi.“

Taka þarf framangreindar lýsingar, sem og meðfylgjandi uppdrátt, með hæfilegum fyrirvara.

Gálgahraun

Fiskigarðar í Gálgahrauni.

Camp Russel

Ofarlega á Urriðaholti hefur verið komið skilti um herkampinn „Russel“. Kampurinn sá er hluti af mörgum slíkum á stór-Hafnarfjarðarsvæðinu frá heimstyrjaldarárunum síðari. Í texta á skiltinu stendur eftirfarandi:

Urriðaholt

Urriðaholt – stríðssöguskiltið.

„Í landi Urriðakots og Vífilsstaða er víða að finna minjar um hernaðarumsvif í seinni heimstyrjöld.

Stórar herbúðir stóðu sunnan megin á Urriðaholti og voru varðstöðvar víða í hlíðunum. Búðirnar voru um skeið aðsetur símalagningarmanna bandríska seturliðsins og nefndust Camp Russel eftir Edgari A. Russel hershöfðingja sem farið hafði fyrir fjarskiptasveitum Bandarríkjahers í Frakklandi í fyrri heimstyrjöld.

Urriðaholt

Urriðaholt – Camp Russel; skilti.

Búðirnar samanstóði af íbúðarskálum (bröggum) og birgðaskemmum auk allmargra steinhúsa fyrir eldhús og salerni. Bandarískir braggar voru af svonefndri Quonsetgerð sem var almennt vandaðri smíð en Nissen-braggar sem Bretar byggðu. Má ætla að 80 braggar hafi staðið í búðunum en vorið 1943 bjuggu þar alls um 500 hermenn.

Hernám

Aðkoman að Camp Russel á Urriðaholti.

Við lok heimsstyrjaldarinnar glötuðu hernaðarmannvirki upphaflegu hlutverki sínu og voru nýtt til annarra þarfa eða fjarlægð og eyðilögð. Stærstur hluti Camp Russel er horfinn undir byggð. Þó má ská leifar hér og þar, til dæmis steinsteyptan vatnsgeymi, arinhleðslu og húsgrunna rétt norðan við Flóttamannaveginn (Setuliðsveg). Veginn lögðu Bandaríkjamenn á stríðsárunum til að tengja saman Suðurlandsveg og Hafnarfjörð ef senda þyrfti þangaðherlið frá Mosfellssveit og Hólmsheiði til að mæta þýskum innrásaher, en Íslendingar tóku að nefna hann flóttamannveg löngu síðar.

Grjóthleðslur og Hádegisvarða

Camp Russel

Kamp Russel – kort.

Flóðahjalli

Flóð'ahjalli

Flóðahjalli – uppdráttur.

Á klöppum á Flóðahjalla hlóðu hermenn miklar grjóthleðslur utan um 800 m2 svæði þar sem búist var til varna. Innan þeirra eru leifar af byrgjum.

Þar stendur einnig Hádegisvarða sem var eyktarmark fyrir Urriðakot.
Til að treysta varnir í Hafnarfirði og á Álftanesi voru í upphafi um 700 hermenn úr 1/7 herfylki Wellingtons hertoga sendir þangað. Áttu manvirki á Flóðahjalla og víðar að styrkja vígstöðu þeirra og varnir gegn mögulegri árás Þjóðverja. Syðst á klöppinni innan við hleðslurnar hafa verið höggnir nokkrir stafir og virðist þar að minnsta kosti mega greina áletrunina JE Bolan ásamt stöfunum DS og hernámsárið 1940.

Skotbyrgi

Braggi

Braggi í byggingu.

Steypt skotbyrgi er að finna á þremur stöðum í Garðabæ, á Hnoðraholti, í Vífilsstaðahlíð og tvö í Garðaholti. Gott útsýni er ú byrgjunum en þau eru hálfniðurgrafin með skotrauf á tveimur hliðum.

Hernámið

Camp Russel

Camp Russel – arinn…

Að morgni föstudagsins 10. maí árið 1940 gekk breskur her á land í Reykjavík og stóð þá Ísland ekki lengur utan styrjaldarátaka stórveldanna. Hernámið, sem hlaut dulnefnið „forkur“, kostaði þó ekki blóðsúthellingar. Þýskir herir höfðu náð Noregi og Danmörku á sitt vald en Íslendingar haldið fast við hlutleysisstefnu sína þrátt fyrir það og ekki viljað ganga til liðs við bandamenn.

Winston Churhill

Winston Churchill Reykjavík.

Winston Churchill, sem verið hafði flotamálaráðherra en varð þennan dag forsætisráðherra Bretands, gerði að sínum hin fleygu orð að sá sem réði yfir Íslandi beindi byssu að Englandi, Ameríku og Kanada. Til að koma í veg fyrir innrás Þjóðverja í Ísland ákvað hann að verða fyrri til og tryggja með því siglingaleiðir um Norður-Atlantshaf. Íslendingar mátu sjálfstæði sitt mikils og mótmæltu stjórnvöld hernáminu formlega. Fer þó ekki á milli mála að flestir voru fegnir að njóta verndar fyrir nasistastjórn Þýskalands.
Í stuttri heimsókn Churchills til Íslands árið 1941 sagði hann Hermanni Jónassyni forsætisráðherra að Bretar hefðu neyðst til að hertaka Íslands og hefðu gert það jafnvel þótt Þjóðverjar hefðu orðið á undan þeim.
Herverndarsamningur var undirritaður í júlí árið 1941 milli Bandarríkjanna, Bretlands og Íslands og fól í sér að bandarískar hersveitir myndu aðstoða og síðar leysa breska hernámsliðið að hólmi.“

Þrátt fyrir alla viðleitni um að varðveita söguna í formi skiltis ber að geta þess að allir hlutaðeigandi höfðu alla möguleika á að halda til haga minjum svæðisins áður en óðagot verktaka tók það yfir – með tilheyrandi eyðileggingu.

Urriðaholt

Urriðaholt – vatnsgeymir.

Rauðshellir

Í Árbók Hins íslenska fornleifafélags, „Rannsóknir fornleifa sumarið 1907“ eftir Brynjúlf Jónsson, segir um minjarnar í Helgadal ofan Hafnarfjarðar:

Helgadalur

Helgadalur – vatnsbólið, þurrt í júlí 2021.

„Í sama skiftið sem mér var bent á Skúlatún um leið, að skammt þaðan héti Helgadalur og skoðaði ég því þann stað, og reyndist þetta var þess getið sæist þar til rústa.
Helgadalur er skammt fyrir neðan Helgafell. Það er ofurlítil dalkvos, er þar gengur inn í austurenda Undirhlíða. Gengur melhól] norður úr hlíðinni, austanmegin við upptök Kaldár, myndar sá melhóll vesturhliðina á dalkvosinni. En að austan beygist hliðin lítið eitt að sér. Hraunflóð hefur runnið ofan fyrir austan enda Undirhlíða, og er það framhald hraunflákans, sem nú var getið að lægi kringum Skúlatún. Það hefir breitt sig vítt út og runnið út með Undirhlíðum. Liggur það þvert fyrir neðan dalkvosina yfir að melhólnum og byrgir þannig fyrir hana. Þar hefir það sprungið og myndað gjáhamar, sem snýr móti dalbrekkunni og heldur inni vatni, sem þar kemur upp, svo af því verður ofurlítil tjörn.

Helgadalur

Helgadalur – tóftasvæði.

Rústin er ofantil í miðri brekkunni. Það eru tvær tóftir, er hver gengur af enda annarar frá suðri til norðurs, eða því sem næst. Er hvor tóft nál. 10 faðm. löng og nál 2 faðm. breið út á veggjabrúnirnar; en þær eru raunar óglöggar víða. Dyr sjást á vesturhliðvegg suðurtóftarinnar við suðurgaflinn.

Helgadalur

Helgadalur – tóftir.

Á norðurtóftinni sá ógjörla til dyra og sama er að segja um miðgaflinn. Rústin er öll óglöggvari norðantil; sér aðeins fyrir ummáli hennar. Þeim megin hefir verið húsaþyrping á hlaðinu. Eru þar útflettar rústir, sem ekki er hægt að greina hverja frá annari, né ákveða lögun þeirra húsa, sem þar hafa verið. Ég dró upp mynd af rústinni. [Myndin sú var ekki birt með frásögninni].
Hraunið, sem nú var getið, hefir breitt sig yfir alt láglendi norður og vestur frá enda Undirhlíða og nær til sjávar við Hafnarfjörð. Holtin ein standa upp úr. Er feykilegt landflæmi byrgt undir hraunflákum þeim. Er þar ærið rúm fyrir marga bæi. Og þar eð víst má telja að það hafi verið kostaland, þá hafa þar óefað verið allmargir bæir, sem nú eru hrauni huldir. Eigi verður sagt nær hraun þessi hafa brunnið, heldur en önnur hraunin á Reykjanesskaganum, er þó hafa brunnið eftir landnámstíð og eyðilagt meiri eða minni bygðir svo sem fornu Krýsuvík o. fl. (Sbr. Árb. fornl.fél. 1903 bls. 43—44 og 47—50). Vegur Selvogsmanna til Hafnarfjarðarkaupstaðar, (Grindaskarðavegur) liggur um Helgadal hjá rústinni. Er eigi allskammt þaðan til Hafnarfjarðar.“

Helgadalur

Helgadalur – selsminjarnar.

Brynjúlfur virðist hvorki hafa áttað sig á staðsetningu minjanna með hliðsjón af öðrum selsminjum á Reykjanesskaganum, þ.e. þær eru í góðu skjóli fyrir austanáttinni, og auk þess eru þær við vatnsból fjarri byggðinni við ströndina. Aðstæður er dæmigerðar fyrir selstöðu; grasi gróinn selshúsahóll, gróinn stekkur og grasgróningar umhverfis. Engin ummerki eru eftir garða er gjarnan fylgja bæjarstæðum.

Helgadalur

Helgadalur – stekkur.

Skammt norðar í Helgadal er hlaðinn stekkur ofan við fjárskjól. Fyrirhleðslur eru framan við skjólin, sem einnig eru dæmigerðar fyrir selstöður á þessu svæði.
Selið, sem hefur verið frá Görðum á Álftanesi (það er í fyrrum Garðalandi), hefur verið vel mjög staðsett í upphafi á sínum tíma. Tvennt hefur væntanlega komið til eyðingar þess í framhaldinu. Í fyrsta lagi var það við gömlu Selvogsgötuna (Suðurferðarveginn) milli Hafnarfjarðar og Selvogs um Grindarskörð. Leiðin sú hefur orðið fjölfarnari eftir því sem bæjunum Hafnarfirði og Reykjavík óx fiskur um hrygg. Ekki hefur þótt vænlegt að halda úti selstöðu við svo fjölfarna sumarleið. Vatnsbólið hefur verið mjög eftirsóknarvert, enda fáum öðrum slíkum að dreifa á milli Strandardals og Helgadals, og dalurinn hefur auk þess þótt skjólgóður áningarstaður. Í öðru lagi má telja líklegt að vatn hafi þorrið í dalnum um miðsumar í heitum veðrum, mögulega ítrekað á tilteknu tímabili, líkt og gerst hefur nú í sumar (júlí 2021). Ítrekaðir þurrkað hafa hnúið bóndann á Görðum til að færa selstöðuna af framangreindum ástæðum, þ.e. fjær alfaraleiðinni og að öruggari vatnsöflun við Kaldá neðan Kaldárbotna. Sú selstaða hefur dugað vel um tíma, en fékk hins vegar lítinn frið, líkt og sú fyrri, fyrir ágangi ferðamanna í lok 19. aldar. Sjá má allnokkra umfjöllun um Kaldársel á vefsíðunni.

Helgadalur

Helgadalur – selsminjar.

Leifar selstöðunnar í Helgadal eru greinilega mjög fornar, enda mótar vart fyrir mannvirkjum þar, nema sjá má móta fyrir óvenjustórum stekk, tvískiptum, austan tvískiptra óljósra húsaleifanna, sem væntanlega fela í sér eldhús, búr og baðstofu – ef gaumgæft væri.

Helgadalur

Selvogsgata um Helgadal.

Minjarnar eru í landi Garðabæjar þótt skondið sé. Ástæðan er sú að landamerki Hafnarfjarðar og Garðabæjar voru miðuð við gömlu Selvogsgötuna. Hún liggur niður í Helgadal norðan vatnsbólsins, í sveig að vatnsbólinu og síðan upp með hlíðinni austanverðri sunnan tóftanna. Þær eru þó naumlega innan vatnsverndarsvæðis Kaldárbotna, en það ætti þó ekki að takmarka möguleika fornleifafræðinga að skoða þær nánar með t.t. aldurs og nýtingar fyrrum.

Heimild:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, Rannsóknir fornleifa sumarið 1907 eftir Brynjúlf Jónsson – Helgadalur, bls. 10-11.

Helgadalur

Helgadalur – tóftir.

Garðaholt

Á Garðaholti er skilti með upplýsingum um herkampana „Camp Gardar og Camp Tilloi„, sem þar voru þar á stríðsárunum. Í texta á skiltinu segir:

Garðaholt

Garðaholt – upplýsingar á skilti.

„Sumarið 940, í beinu framhaldi af hertöku landsins, hóf breski herinn varnarviðbúnað með ströndinni frá Kjalarnesi og suður á Hvaleyri í Hafnarfirði og einnig á helstu hæðum á höfuðborgarsvæðinu og austan þess. Fótgöngulið sem gætti strandlengjunnar á Álftanesi, kom sér fyrir á austanverðu Garðaholti og stórkostaliðsflokkur setti þar upp tvær stórar loftvarnarbyssur. Á Garðaholti og beggja vegna Garðaholtsvegar, sem breski herinn lagði upphaflega, má sjá ummerki eftir hersetuna.

Skálahverfin

Garðaholt

Garðaholt – upplýsingar á skilti.

Herflokkarnir bresku höfðust fyrst við í tjöldum en reistu síðan tvennar herbúðir, Camp Gardar norðan við Garðaveg og Camp Tilloi nokkru ofar í holtinu.
Loftvarnarbyssurnar stóðu ofan við veginn, í skógræktarlundinum þar sem Grænilundur er nú. Á holtinu má sjá leifar af loftvarnarbyssuvígjum ásamt varnarvirkjum frá stríðsárunum.

Garðaholt

Garðaholt – Gamp Tilloi.

Bandarískt herfylki tók við vörnum Hafnarfjarðar og Álftarness í árslok 1941 og leysti breska herflokkinn í Garða-búðunum af hólmi og dvaldi þar fram á sumar 1943. Bandaríkjamenn tóku einnig við loftvarnarvirkinu í Tilloi sumarið 1942 og gættu þess fram í febrúar 1944 þegar þeir fluttu til Keflavíkur.
Að jafnaði höfðu 300 til 340 hermenn aðsetur í báðum búðum og stóðu eftir 36 braggar og níu hús af öðrum gerðum þegar stríðinu lauk. Braggarnir voru af Nissen-gerð og var grjóti og mold hlaðið upp með hliðunum til styrktar. Á þeim grunni í Camp Gardar sem er best varðveittur eru tröppur inn í húsið á tveimur stöðum.
Skilin milli búðanna eru ekki vel greinileg á vettvangi.

Skotbyrgi og skotgrafir

Hernám

Skotbyrgi á Garðaholti.

Skammt norðvestur af Tilloi-búðunum eru tvö vel varðveitt steinsteypt og sprengjuheld skotbyrgi. Skotgrafir voru þar í kring til varnar byssuvíginu. Niður við sjó, þar sem bærinn Móakot stóð, er skotgröf úr torfi og grjóti. Skotbyrgi og aðrar minjar frá veru hersins í kringum Bakka og Dysjar eru horfnar, að hlyta til vegna landbrots.
Austur af búðunum eru skotgrafir með grjótveggjum.

Hernámið
Garðaholt
Að morgni föstudagsins 10. maí árið 1940 gekk breskur her á land í Reykjavík og stóð þá ísland ekki lengur utan styrjaldarátaka stórveldanna. Hernámið, sem hlaut dulnefnið „forkur“, kostaði þó ekki blóðsúthellingar. Þýskir herir höfðu náð Noregi og Danmörku á sitt vald en íslendingar haldið fast við hlutleysisstefnu sína þrátt fyrir það og ekki viljað ganga til liðs við bandamenn.

Garðaholt

Garðaholt – skilti við Camp Gardar og Camp Tilloi.

Winston Churchill, sem verið hafði flotamálaráðherra er varð þennan dag forsætisráðherra Bretlands, gerði að sínum hin fleygu orð að sá sem réði yfir íslandi beindi byssu að Englandi, Ameríku og Kanada. Til að koma í veg fyrir innrás Þjóðverja í Ísland ákvað hann að vera fyrri til og tryggja með því siglingaleiðir um Norður-Atlantshaf. Íslendingar mátu sjálfstæði sitt mikils og mótmæltu stjórnvöld hernáminu formlega. Fer þó ekki á milli mála að flestir voru fegnir að njóta verndar fyrir nasistastjórn Þýskalands.
Í stuttri heimsókn Churchills til Íslands árið 1941 sagði hann Hermanni Jónasyni forsætisráðherra að Bretar hefðu neyðst til að hertaka Ísland og hefðu gert það jafnvel þótt Þjóðverjar hefðu orðið á undan þeim.
Herverndarsamningur var undirritaður í júlí árið 1941 milli Bandaríkjanna, bretlands og Íslands og fól í sér að bandarískar hersveitir myndu aðstoða og síðar leysa breska hernámsliðið af hólmi“.

Garðaholt

Garðaholt – skotgrafir.