Tag Archive for: Garðabær

Bessastaðakirkja

Í Mbl.is 12. janúar 1997 er fjallað um „Moltke greifa á Bessastöðum„.

Molthes

Ehrenreich Christopher Ludvig Moltke greifi (1790–1864).

Nýjasta hefti danska tímaritsins Heraldisk Tidskrift er fróðleg grein, sem fjallar um skjaldarmerki aðalsættar, sem rekur kyn sitt til furstadæmisins Mecklenburg. Aðalsætt þessi kemur víða við sögu Þýskalands, Danmerkur og Íslands. Hér er um að ræða fjölda nafnkunnra manna, sem kenndu sig við Moltke, en höfðu í skjaldarmerki sínu þrjá fugla, af ætt orra. Svo sem fram kemur í grein Pouls Holtstein í tímaritinu sem til er vitnað, hefir Moltekættin tengst ýmsum öðrum aðalsættum og birtist með grein höfndar fjöldi tilbrigða við upprunalegt skjaldarmerki Moltkeættarinnar. Því hefir lítt verið haldið á loft, að einnig hér á landi hefir skjaldarmerki Moltkeættar lengi gnæft á sögufrægum stað, án þess að sérstök athygli væri á því vakin. Hér er átt við Bessastaði. Yfir dyrum Bessastaðakirkju er mótað skjaldarmerki E.C.L. Moltkes stiftamtmanns. Hann gegndi því embætti um fjögurra ára skeið. Hyggjum nánar að því síðar.

Margur ættarlaukur

Moltkes

Ættarsetur Molkets greifa.

Íslendingar hafa átt mikil og margvísleg samskipti við nafnkunna menn, sem teljast til Moltkeættar. Svo sem geta má nærri er þar margur ættarlaukur, en ekki feta gangvarar þeirra og gæðingar allir sömu braut. Knud Zimsen borgarstjóri, séra Bjarni Jónsson vígslubiskup og séra Friðrik Friðriksson í KFUM hefðu allir nefnt Joachim Moltke, hirðmeistara Friðriks prins síðar konungs, sem öðling á miklum ættarmeiði.

Einar Olgeirsson

Einar Olgeirssson.

Einar Olgeirsson foringi kommúnista hafði kynnst Kai Moltke, forystumanni danska kommúnistaflokksins. Einar segir um hann: „Kai Moltke var af hinni frægu og tignu Moltkeætt og var þess vegna kallaður rauði greifinn. Hann var afkastamikill rithöfundur.“ Við þessa lýsingu Einars má bæta því að skv. frásögn Kai Moltkes átti Stefán Pjetursson síðar þjóðskjalavörður fótum fjör að launa, er hann leitaði ásjár danska sendiráðsins og óskaði eftir því að vera fluttur heim frá Moskvu. Hann óttaðist ofsóknir réttlínumanna.

Þá deildu menn hart um það hverjir væru höfuðstoð borgarastéttarinnar. Seinna kom í ljós að þeir voru það allir með tölu.

Í frásögn Knuds Zimsens borgarstjóra kemur fram að Joachim Moltke greiðir götu margra fátækra stúdenta og veitir sumum þeirra fjárhagslega aðstoð.

Molkes

Skjaldarmerki Moltkers greifa.

„Moltke bjó í stórri höll. Hann hafði gaman af að safna til sín kristilega sinnuðum stúdentum, og einu sinni í mánuði hverjum mætti hjá honum stór hópur slíkra manna. Þegar þangað var komið, var haldin bænasamkoma, en að henni lokinni bauð hann öllum til matar. Moltke var vel menntaður og víðlesinn, og báru viðræðurnar í hinum stóra sal hans greinileg merki þess.“
Frásögn séra Bjarna Jónssonar af heimsókn í höll Moltkes er með sérstæðum blæ. Hún ber öll einkenni séra Bjarna, enda kann sá sem hlýðir að hlusta og segja frá. Matthías Johannessen ritstjóri skráir frásögn séra Bjarna: „Ég hef stundum verið spurður, hvað mér hafi komið mest á óvart fyrstu vikurnar í Kaupmannahöfn. Ég held það hafi verið höll Moltkes greifa í Breiðgötu. Olfert Richard sagði við mig, þegar ég hafði dvalist nokkurn tíma í Kaupmannahöfn: „Nú hef ég boð til greifa Moltke og við fylgjumst þangað að.“ Ég verð auðvitað undrandi, en þó fullur af tilhlökkun. Og hún breyttist í fögnuð, þegar ég gekk inn, því höll Moltkes greifa var fínasti staður, sem ég hafði séð á ævi minni, og langt hafin yfir allt annað. Hún var jafnvel ennþá fínni en torfbærinn heima í Mýrarholti. Greifanum kynntist ég síðar mjög vel í KFUM.“

Séra Bjarni Jónsson

Séra Bjarni Jónsson.

Naumast þarf að vekja athygli á því hve vel séra Bjarna tekst að varpa ljóma á æskuheimili sitt, lágreistan torfbæinn með skin frá steinolíuljósi á horni Vesturgötu og Bakkastígs.

Benedikt Gröndal hefir lýst Bessastaðakirkju í bók sinni Dægradvöl:

„Upp úr turninum er stöng úr járni og stór málmkúla neðan til á henni og var gyllt, á að giska tvær álnir að þvermæli; þar uppi yfir var gylltur veðurviti með nafni Kristjáns 7. (en turninn hlaut þó að hafa verið byggður eftir hans daga) en efst önnur kúla minni… Hvernig á þessu konungsnafni stendur, veit ég ekki, en ofarlega á turninum framanverðum var ferhyrnt skjaldarmerki úr steini, með þremur fuglum, og fjaðurbúskur upp úr höfði hvers þeirra, en þetta er einmitt skjaldarmerki Moltkes eða einhvers af þeirri ætt, en um þetta leyti var Moltke stiftamtmaður.

Bessastaðakirkja

Skjaldarmerki á turni Bessastaðakirkju?

Annars getur vel verið að turninn hafi verið byggður áður, eins og kirkjan, og hafi eitthvað verið gert við hann á þessum tíma, og hafi þá stiftamtmaðurinn tekið sér bessaleyfi til að setja þarna ættarmerki sitt (Moltke er nafn á einhverjum fugli, svörtum að lit, og er orðið líklega slafneskt eða vendiskt, því ættin er frá Mecklenburg eða Pommern). Það var í manna minnum, sem lifðu í mínu ungdæmi, að menn voru teknir frá róðrum í besta veðri (t.a.m. Bjarni í Sviðholti) til að róa með stiftamtmannsfólkið út um allan sjó til skemmtunar, og hafði þá viljað til, þegar þeir áttu að vaða með frúna út í skipið, að þeir duttu í sjóinn viljandi með hana, svo hætt var við þá sjóferð. Þetta var ein af kvöðunum í þá daga.“

Bjarni í Sviðholti, sá sem Benedikt Gröndal nefnir var Halldórsson. Hann var lögréttumaður. Um eitt skeið var hann ráðsmaður Bessastaðaskóla.

Bessastaðakirkja

Bessastaðakirkja og Bessastaðastofa fyrrum.

Bjarni var vel efnum búinn, talinn með ásjálegustu mönnum, segir Páll Eggert Ólason í æviskrám sínum. Vilji einhver vita deili á úrræðagóðum Álftnesingi, sem hafði ráð undir rifi hverju og kunni að koma sér undan kvöðum hefðarfólks, þá voru meðal afkomenda hans nafnkunnir lærdómsmenn og kraftajötnar.

Bjarni Jónsson (Johnsen)

Bjarni Jónsson rektor (Johnsen).

Bjarni Jónsson rektor Latínuskólans (Menntaskólans í Reykjavík) hét nafni afa síns, Bjarna í Sviðsholti. Móðir Bjarna rektors giftist síðar Birni Gunnlaugssyni yfirkennara. Hann var tengdafaðir Jens Sigurðssonar rektors. Og þá fer nú að styttast í Jóhannes og Jón Nordal. Af þessari ættarskrá má sjá að þeir bræður eru komnir af Bjarna í Sviðsholti, lögréttumanni, sem lét ekki kveðja sig frá verki um hábjargræðistímann til þess að sinna dyntum hefðarfólks.

Stiftamtmannsfrúin, sem vöknaði við sjóbaðið á Bessastöðum var systir Bardenfleths, sem var fulltrúi konungs við endurreisn Alþingis árið 1845. Faðir þeirra Bardenflethssystkina var flotaforingi, háttsettur og handgenginn við hirð Danakonunga. „Náðug frúin“ leit mjög stórt á sig.“ Eru um það margar sögur.

Moltke

Stríðsmerki Moltke-fjölskyldunnar.

Ludvig Moltke stiftamtmaður og kona hans eignuðust dóttur meðan þau dvöldust hér. Dóttir stiftamtmannshjónanna var vatni ausin að viðstöddu hefðarfólki íslenskrar embættistignar. Guðfeðgin telpunnar voru Magnús Stephensen konferensráð, Ísleifur Einarsson etasráð, Sigurður Thorgrímssen landfógeti, Ólafur Finsen sýslumaður og eiginkonur þeirra síðat nefndu, Mad. Thorgrimsen og Mad. Finsen.
Athöfnin fór fram í september 1820. Stúlkan hlaut þrjú nöfn. Hún var skírð Augusta, Vilhelmine, Thorveiga.

Kona Moltkes (gift 1819) var Reinholdine Frederikke Vilhelmine Bardenfleth (18. apríl 1800 – 14. ágúst 1890), systir Carls Emils Bardenfleth, sem síðar varð stiftamtmaður á Íslandi. Hún fluttist nýgift með manni sínum til Reykjavíkur. Á Íslandi fór orð af því að hún liti mjög stórt á sig. Þeim hjónum leist afar illa á þann bústað sem beið þeirra og fengu þau leyfi til að láta innrétta tugthúsið á Arnarhóli, sem þá stóð ónotað, sem embættisbústað og bjuggu þar. Var húsið eftir það stiftamtmanns- og síðar landshöfðingjabústaður og að lokum Stjórnarráðshús.

Bessastaðir
Moltke gekkst líka fyrir því 1820 að lögð var steinstétt eftir forarstíg sem kallaður var Tværgaden, frá Aðalstræti austur að læk, og skolpræsi meðfram henni. Þetta þótti mikið mannvirki og var stéttin kölluð Langafortóv. Þar er nú Austurstræti.

Bessastaðakirkja

Bessastaðakirkja 2023.

Stór málmkúla neðan til á henni [Bessastaðakirkju] og var gyllt, á að giska tvær álnir að þvermæli; þar uppi yfir var gylltur veðurviti með nafni Kristjáns 7. (en turninn hlaut þó að hafa verið byggður eftir hans daga) en efst önnur kúla minni . . . Hvernig á þessu konungsnafni stendur, veit ég ekki, en ofarlega á turninum framanverðum var ferhyrnt skjaldarmerki úr steini, með þremur fuglum, og fjaðurbúskur upp úr höfði hvers þeirra, en þetta er einmitt skjaldarmerki Moltkes eða einhvers af þeirri ætt, en um þetta leyti var Moltke stiftamtmaður. Annars getur vel verið að turninn hafi verið byggður áður, eins og kirkjan, og hafí eitthvað verið gert við hann á þessum tíma, og hafi þá stiftamtmaðurinn tekið sér bessaleyfí til að setja þarna ættarmerki sitt (Moltke er nafn á einhverjum fugli, svörtum að lit, og er orðið líklega slafneskt eða vendiskt, því ættin er frá Mecklenburg eða Pommern). Það var í manna minnum, sem lifðu í mínu ungdæmi, að menn voru teknir frá róðrum í besta veðri (t.a.m. Bjarni í Sviðholti) til að róa með stiftamtmannsfólkið út um allan sjó til skemmtunar, og hafði þá viljað til, þegar þeir áttu að vaða með frúna út í skipið, að þeir duttu í sjóinn viljandi með hana, svo hætt var við þá sjóferð. Þetta var ein af kvöðunum í þá daga.“

Heimildir:
-Mbl.is, 12. janúar 1997.
-https://is.wikipedia.org/wiki/Ehrenreich_Christopher_Ludvig_Moltke
-https://timarit.is/page/1870397#page/n19/mode/2up

Bessastaðir

Bessastaðir 2000.

Gálgaklettar

Í Melkorku árið 1954 birtist grein eftir Guðrúnu Sveinsdóttur undir fyrirsögninni „Gönguför um Gálgahraun„.

Melkorka„Á Álftanesi við Arnarnesvog er Gálgahraun. Fram við sjóinn, beint á móti BessastöÖum gnæfa Gálgaklettar. Við klettaræturnar þekur grasið gömul tóftarbrot. Í klettaskorum vex ljónslöpp, tófugras, burkni, þursaskegg o. fl. Efst uppi situr svartbakur, einn síns liðs, en annars er hér urmull fugla í sandbleytunni og smátjörnunum, sem útfirið hefur skilið eftir. Á milli grasigróinna sandlbala, vaða stelkar og sendlingar, en í þangbendunni, sem öldurnar hafa skolað langt upp á land, gösla rifnar og óhreinar rolluskjátur með lömbin sín. Smáfuglár þjóta á milli klettanna, sem endur fyrir löng báru uppi líkami ógæfusamra vesalinga, sem mannanna réttlæti dæmdi til lífláts á þessum stað. Við erum þrjár á ferð, frú Unnur Skúladóttir, Signý, bróðurdóttir hennar, 11 ára gömul, og sú er þetta ritar.

Gálgaklettar

Gálgaklettar.

Við nemum staðar og fáum okkur sæti í brekkunni, að vestanverðu við stóra klettinn. Landslagið er sérkennilegt og víður sjóndeildarhringurinn. Hér er friðsælt, við njótum veðurblíðunnar og finnum hve staðurinn er laus við ömurleg áhrif þess, sem hér hefur áður gerzt. Hinzta hvíla hinna ógæfusömu, sem fengu ekki að bera beinin í kristinna manna reit, hefur áreiðanlega hlotið sína vígslu, sem hrakið hefur á brolt allt óhreint og helgað staðinn.

Gálgaklettar

Gálgaklettar.

Gömul frásögn hermir, að einu sinni sat lítil stúlka undir Gálgaklettum. Var hún þá, sem í leiðslu, hrifin upp í ljóshvolf vítt og undrafagurt. Að eyrum hennar bárust tónar, fegurri en mannlegt eyra má heyra og var sem bylgjur hinna fögru tóna bæru með sér blikandi litskrúð. Loftið var þrungið angan blóma og hreinleika ópilltrar náttúru. Svo sterk voru áhrifin af þessari óviðjafnanlegu fegurð, að hún minntist þess ekki, kvort hún hafði séð fólk á þessum stað, en samt fannst henni sem þarna hefði farið fram einhver helgiathöfn. Þegar hún kom aftur til sjálfrar sín, þar sem hún sat í brekkunni, flutti hún með sér þessa vísu:
Æðra ljós, sem lyftir sál
lífið að mér rétti.
Mig vermir eilíft andans bál
undir Gálgakletti.

Esja

Esjan.

Þarna sátum við og virtum fyrir okkur umhverfið fjær og nær. Regnskúrirnar í Esjunni færðust lengra í vesturátt, en Snæfellsnesið og jökullinn voru enn umvafin skærri birtu og bláma, og andspænis okkur litum við höfuðbólið Bessastaði.

Bessastaðir

Bessastaðir 2023.

„Sjáðu nú Signý min, þarna á Bessastöðum fæddist hann pabbi þinn,“ sagði Unnur, „og þar var hún Unnur frænka þín heimasæta,“ bætti ég við. „Finnst þér ekki einkennilegt að horfa héðan heim að þeim stað, sem geymir svo margar minningar æskuáranna, þar sem þú þekkir hvern krók og kima inni og hverja þúfu úti fyrir?“ spurði ég Unni.
„Jú víst er það einkennilegt, ég átti þar heima í 9 ár. Ég man það eins og það hefði skeð í gær, þegar ég kom fyrst að Bessastöðum.“

Sveppir

Bessastaðasveppir.

Náttúran og sólskinið var hið sama og á sólskinsdögum æskuáranna, þegar Unnur var heimasæta á Bessastöðum. Það hlaut að vera hið ákjósanlegasta tækifæri til að fá að skoða í myndabók minninganna hjá henni. Það bar margt á góma þennan dag, atburðir alda og ára, og eilífðarinnar, sem geymir allt í fórum sínum. Svo fáum við kannske einbverntíma seinna að skoða og skilja allt, sem okkur langar til. Þegar ég kom heim, fannst mér samt, að það mundi ekki skaða að rissa á blað til minnis frásögn Unnar þennan dag, og nú vill Melkorka skrá þessar minningar. Frú Unnur er elzt af börnum Skúla Thoroddsen alþingsmanns og konu hans frú Theodóru, sem er nýlega látin í hárri elli. Þau voru bæð þjóðkunn og ætt þeirra og uppruna er óþarft að rekja hér. Þau eignuðust 13 börn og var heimili þeirra jafnan umfangsmikið. Það kom sér því vel, að þar voru tvær atkvæðakonur að verki, húsfreyjan sjálf og Guðbjörg Jafetsdóttir. Guðbjörg var dóttir Jafets Einarssonar gullsmiðs í Reykjavík. Jafet var bróðir Ingibjargar konu Jóns Sigurðssonar forseta. Bessastaðir
Guðbjörg ólzt að meslu leyti upp í Reykjavík, en var um tíma í Njarðvíkum hjá Ingveldi systur sinni, konu Ásbjarnar Ólafssonar. Guðbjörg var mjög glæsileg kona og vel gefin til munns og handa.

Breiðabólstaðir

Breiðabólstaðir.

Á milli tvítugs og þrítugs kemur hún á heimili séra Guðmundar á Breiðabólsstað og Katrínar konu hans. Theodóru dóttur þeirra, sem er 9 árum yngri en Guðbjörg, þykir mikill fengur að því að fá á heimilið Reykjavíkurstúlkuna, sem les og talar reiprennandi dönsku, og ber með sér nýjan og hressandi andblæ frá umheiminum. Árið 1884 giftist Theodóra, 21 árs að aldri, og fer þá Guðbjörg á undan til Ísafjarðar, til þess að setja heimilið á laggirnar. Ætlað er, að hún verð ungu hjónunum til aðstoðar fyrst í stað, en þegar von er á fyrsta barninu, finnst öllum nauðsynlegt að hún hafi hönd í bagga með fæðingu þess og fyrstu skrefum. Þegar þar að kemur er Guðbjörg orðin nátengd heimilinu, og með hverju barni verða böndin sterkari. Guðbjörg lézt á heimili Katrínar Thoroddsen læknis árið 1944, 90 ára að aldri.

Bessastaðakirkja

Bessastaðakirkja.

Vorið 1899 fór Guðbjörg fóstra okkar suður á Álftanes með bræður mína tvo, Þorvald og Skúla, sem þá voru 7 og 9 ára. Fenginn var ráðsmaður, áður bóndi, frá Ísafjarðardjúpi, Gunnar Sigurðsson að nafni, og tvær vinnukonur. Svo var hafinn búskapur á Bessastöðum. Þar var fyrir blindur maður, sem Ólafur hét, virðist hann hafa fylgt staðnum. Ólafur var skýr og greindur maður og afburða vel að sér í fornum fræðum. Síðan var fenginn fjósamaður, Guðmundur að nafni, ættaður sunnan með sjó, og svo drengur til snúninga. Auk þess fólk af bæjunum í kring, til aðstoðar þegar þörf gerðist.

Bessastaðir

Bessastaðir.

Um haustið bættumst við Guðmundur bróðir minn í hópinn. „Thyra“ gamla lá fyrir landi og bátur flutti okkur upp að Fischersbryggju. Þar var saman komið múgur og margmenni og mest áberandi í þeim hóp voru skólapiltarnir með fínu húfurnar sínar. Guðbjörg var þar komin til þess að taka á móti okkur og hún fór með okkur, fyrst til fröken Kristínar Thorlacius, sem lengi var hjá Jóni Árnasyni þjóðsagnaritara, en Katrín kona hans var ömmusystir okkar.
Seinna kom Katrín Magnússon, kona Guðmundar prófessors, til sögunnar, en hún var dóttir Skúla Sívertsen í Hrappsey, sem var ömmubróðir okkar. Katrín fór út með okkur til þess að skoða bæinn. Benti hún okkur á allt hið markverðasta og okkur þótti, sem von var, mikið til koma. Einhvern næstu daga var svo gengið suður Mela, suður í Skerjafjörð og þaðan róið úr Þormóðsstaðavör beint í Skansinn inn tjörnina. Nú vorum við komin heim að Bessastöðum. Ég sá, að þar var ákaflega fallegt, en ég saknaði fjallanna. Heima á Ísafirði voru þau svo nálægt okkur, en hérna voru þau óralangt í burtu.

Bessastaðir

Bessastaðir – Esjan að baki.

Ég reyndi að hugga mig við Esjuna og Jökulinn. Eitt sinn í svartasta skammdeginu, um jólaleytið, kom ég út og sá sólina. Ég hafði aldrei áður séð sólina um þetta leyti árs, ég stóð hugfangin, eins og kraftaverk hefði gerzt fyrir augum mínum, mér lá við gráti. Þá fann ég það fyrst, að ég gat sætt mig við að sakna fjallanna minna.
Að Grími Thomsen látnum hafði lítið verið hirt um húsið. Það var að mestu í sama horfi þegar við komum þangað. Mér fannst mikið til um, hversu veglegt anddyrið var, stofurnar stórar, hátt til lofts, þykkir veggir og djúpar gluggakisturnar. Uppi á loftinu var þó enn merkilegra. Þar voru 4 herbergi, 2 sitt í hvorum enda, en geimur þar á milli. Þetta var áður svefnloft skólapilta og enn mátti sjá hvar verið höfðu lokrekkjur þeirra.

Bessastaðastofa

Bessastaðastofa 1928.

Guðbjörg svaf með okkur börnin í svokölluðu Amtmannssonalofti, í austurenda hússins, en úr gluggunum blöstu við Gálgaklettar, þess vegna urðu þeir mér fljótt að umhugsunarefni. Á kvöldin þegar ég fór upp að hátta, hugsaði ég oft um hverjir hefðu sofið þarna í lokrekkjunum á loftinu og ég lék mér að því að skipa þeim hverjum á sinn stað. Það voru afar mínir, bæði Jón Thoroddsen og séra Guðmundur á Kvennabrekku, og svo Jónas Hallgrímsson og fleiri Fjölnismenn og fjöldinn allur af öðrum þjóðkunnum mönnum. Þrátt fyrir alla þessa heiðursmenn, fann ég oft til myrkfælni á loftinu, en sú tilfinning fékk byr í báða vængi, því að margir töldu sig sjá og heyra sitt af hverju, sem ekki þoldi dagsins ljós né hæfði heilbrigðu lífi. Einna helzt var það Ólafur gamli, sem varð var við ýmislegt „óhreint“ á sveimi kringum staðinn og alltaf áskildi hann sér að ganga síðastur frá bakdyrunum á kvöldin. Þar hrækti hann, fussaði og sveiaði, svo að ekkert óhreint kæmist inn.

Laugavegur

Laugavegur 32.

Um haustið var ráðinn til okkar heimiliskennari. Björn Jensson yfirkennari hafði verið beðinn að útvega gáfaðan og duglegan pilt til þeirra starfa. Fyrir valinu varð Björn Líndal, sem síðar varð lögfræðingur og alþingismaður.

Björn Líndal

Björn Líndal (1876-1931).

Hann kenndi okkur tvo næstu vetur, en las auk þess sjálfur undir 5. og 6. bekk. Smiðir úr Reykjavík voru fengnir til þess að vinna að nauðsynlegum umbótum og breytingum. Sveinn Jónsson, stofnandi Völundar, sá um smíðina. Þá var byggður kvistur, þvert í gegnum húsið að sunnan og norðanverðu, kirkjan var dubbuð upp að utan og innan, en allt var það gert í samræmi við það sem áður hafði verið. Á þessum árum, 1899—1901, var hafin smíði á húsi, sem ætlað var undir prentsmiðju Þjóðviljans, sem þá hafði verið gefinn út á Ísafirði. Það hús stóð niður við Bessastaðatjörn, á sjávarbakkanum. Seinna var það flutt til Reykjavíkur og stendur nú innarlega við Laugaveginn nr. 32.
Sumarið 1900 kom móðir mín snöggva ferð með systur mínar, Katrínu og Kristínu. Þær urðu eftir hjá okkur, svo þá vorum við orðin 6 systkinin á Bessastöðum. Foreldrar mínir voru enn einn vetur á ísafirði, en fluttu svo alfarin þaðan til okkar með yngstu systkinin, sem þá voru Jón, Ragnhildur og Bolli, sem þá var 7 vikna. Það var vorið 1901.

Jón Baldvinsson

Jón Baldvinsson (1882-1938).

Að vestan komu tveir prentarar. Var annar þeirra Jón Baldvinsson, sem síðar varð kunnur stjórnmálamaður, en hinn var Einar Sigurðsson frá Seli. Auk þeirra var einn lærlingur. Uppi á prentsmiðjuloftinu, sem oft var kallað Glymjandi, varð nokkurskonar latínuskóli. Þar lásu, auk bræðra minna, Jakob Smári og Sigurður Sigurðsson, síðar sýslumaður Skagfirðinga. Heimiliskennari var öll þau ár sem við vorum á Bessastöðum, og var það alltaf einhver duglegur latínuskólapiltur.
Þegar í upphafi var gestkvæmt og glaðværð mikil á Bessastaðaheimilinu, en eins og nærri má geta dró ekki úr því við komu foreldra minna. Hvorugt voru þau hneigð fyrir búsýslu, en þá hlið önnuðust þau enn sem fyrr Guðbjörg fóstra okkar og Gunnar Sigurðsson, auk fjölda vinnuhjúa.
Faðir minn var stopull við heimilið. Hann rak enn um nokkurt árabil verzlun á Ísafirði og um þingtímann dvaldizt hann að mestu í Reykjavík. Ritstjóri Þjóðviljans var hann frá 1887 til æviloka.

Bessastaðastofa

Móttaka forseta Íslands í Bessastaðastofu.

Heima á Bessastöðum sat hann löngum inni á skrifstofu sinni og oft sat móðir mín þar hjá honum. Sjaldan held ég að hann hafi látið blaðagrein eða annað af því tagi frá sér fara, svo að hún hafi ekki fylgzt með gangi málanna. Foreldrar mínir voru að mörgu leyti kynlegar andstæður að eðlisfari, en áttu þó svo óvenju vel saman, líklega fyrst og fremst vegna þess, að hugur þeirra stefndi að sama marki, að tímanlegri farsæld og menningarþroska í landinu, sem einungis gat dafnað hjá þjóð, sem var frjáls og óháð erlendu valdi. Á stjórnmálasviðinu var faðir minn einbeittur og gat verið harður í horn að taka, en í daglegu lífi voru þau bæði mannvinir, sem máttu ekkert aumt sjá. Þá var hans megin hlýjan og mildin, en hennar eðli var að ganga rösklega að verki með að rétta hjálparhönd, enda hafði hún þar frjálsar hendur.

Bessastaðir

Bessastaðir.

Hér er eitt lítið dæmi um hjálpsemi hennar: Móðir mín var eitt sinn stödd niður við höfnina. Þar var skip að fara í strandferð og stóð þar veikluleg og illa klædd kona með börn sín og farangur. Einhvernveginn fær móðir mín vitneskju um, að það eigi að flytja konu þessa sveitarflutningi. Það var kalt í veðri, og móðir mín gerir sér lítið fyrir, tekur af sér hlýja og góða sjalið sitt og vefur utan um konuna. Svo kom hún heim með mun lélegri flík, sem hún hafði fengið í næstu búð handa sjálfri sér.
Á Bessastöðum voru menn árrisulir. Þar var unnið af kappi að hverju sem var, búsýslu, heimilisstörfum, lestri, ritstörfum, prentiðn o. s. frv. Þó að mamma tæki ekki mikinn þátt í búsýslunni, hafði hún nóg að gera við að sinna gestum, innlendum og erlendum, og við að vaka yfir velferð barnanna og heimilisins á ýmsa vegu, en þegar pabbi kvaddi hana til aðstoðar og samfylgdar við sig, þá yfirgaf hún allt annað á augabragði og fylgdi honum hvert sem vera skyldi.

Bessastaðir

Glatt á hjalla í Bessastaðastofu 2023.

Eins og nærri má geta var oft glatt á hjalla þar sem var saman komið svo margt fólk í blóma aldurs síns, og alltaf bættist við álitlegur hópur gesta og gangandi. Stundum var slegið upp dansi í forstofunni, en annars skemmtu menn sér við tafl og spil. Sérstaklega var teflt mylla, refskák og kotra. Síðast en ekki sízt var til skemmtunar allskonar fróðleikur, sögur, söngur, ljóðalestur og kveðist á og látið fjúka í kviðlingum, því að bæði voru menn heima fyrir, sem gátu látið til sín taka í þeim efnum og margir þeirra gesta, sem að garði komu, voru heldur ekki í neinum vandræðum með að koma saman vísu, eins og t. d. Þorsteinn Erlingsson, Lárus Sigurjónsson, Jónas Guðlaugsson, Jóhann Gunnar og Guðmundur Kamban og margir fleiri, þótt eigi hafi þeir allir orðið þjóðkunnir á því sviði.

Þorsteinn Erlingse

Þorsteinn Erlingsson ((1858-1914) .

Af þeim mönnum, sem þegar hafa verið nefndir, má sjá að þessi staður hefur á ýmsum tímum haft að geyma marga af mætustu mönnum þjóðarinnar. Geta menn því gert sér í hugarlund, að það eru ljúfar minningar, að hafa átt sín beztu æskuár í hópi nokkurra þeirra og á þessum merka stað.
Frásögn þessi var rituð í ágústmánuði árið 1951. Birt með leyfi frú Unnar Skúladóttur.“

Hafa ber í huga að þrátt fyrir Bessastaðadekur til handa útvöldum með einskisvirðu skrauti hafa miklu mun fleiri og merkilegri landmenn og -konur lagt hönd á plóg ávöxtunar til framfara landsins er aldrei hafa hvorki náð eyrum né augum „elítunnar“ vegna eigin hógværðar. Allt þetta gleymda fólk eru „menn og konur“ að meiri og ber að virða með sæmilegri hætti en með prjáli Bessastaðaeilítunnar…

Heimild:
-Melkorka, 10. árg., 2. tbl. 1954, Guðrún Sveinsdóttir, Gönguför í Gálgakletta, bls. 39-43.

Bessastðir

Bessastaðir.

Búrfell

Í Listinni að lifa árið 2007 er grein eftir Sigurð Björnsson; „Gengið um Garðabæ„.

„Garðabær er hluti af Álftaneshreppi hinum forna, sem fyrst var skipt árið 1878 í Garðahrepp og Bessastaðahrepp. Síðar var Hafnarfjörður skilinn frá Garðahreppi og fékk kaupstaðarréttindi árið 1908. Þessi sveitarfélög heita nú Garðabær, Hafharfjarðarkaupstaður og Sveitarfélagið Álftanes.

Garðabær

Umhverfi og ásýnd Garðabæjar mótast að verulegu leyti af hrauninu, sem brann fyrir um það bil 7200 árum og rúmlega 3000 árum eftir að síðasta jökulskeiði lauk. Hraun þetta rann frá eldvarpinu Búrfelli, sem er suðvestan Heiðmerkur, 7,2 km í suðaustur frá Garðatorgi og 2,5 km norðaustur frá Helgafelli, sem er móbergsfjall myndað í eldgosi undir jökli á síðustu ísöld. Búrfellshraunið heitir ýmsum nöfnum eftir því hvar menn eru staddir hverju sinni, svo sem Smyrlabúðarhraun, Svínahraun, Vífilsstaðahraun, Urriðakotshraun, Garðahraun og Gálgahraun. Hluti Búrfellshrauns rann einnig vestar og heitir þar ýmsum nöfnum, sem ekki verða rakin hér, nema hvað Hafnarfjarðarhraunið er hluti þess.

Búrfell

Búrfell í Garðabæ.

Hér er því hvorki skortur á hraunum né örnefnum. Tómas Guðmundsson skáld komst snilldarlega að orði þegar hann sagði í kvæði sínu, Fjallganga: „Landslag yrði lítils virði, ef það héti ekki neitt.“
Mér er ætlað að rekja hér örnefni og greina frá kennileitum í Garðabæ frá fjöru og fram til fjalla. í bókinni Örnefni og leiðir í landi Garðabæjar eftir Guðlaug Rúnar Guðmundsson er örnefnaskrá á 78 blaðsíðum svo ljóst má vera, að hér verður aðeins stiklað á stóru í stuttri grein. í þeirri bók geta þeir, sem áhuga hafa, aflað sér nánari fróðleiks um Garðabæ og örnefni þar.

Skógtjörn

Við Skógtjörn.

Mörk Garðabæjar og Álftaness liggja um tvær tjarnir, Lambhúsatjörn og Skógtjörn. Eiðin, sem áður skildu þessar tjarnir frá sjó, eru nú horfin í hafið, þannig að þær eru raunar báðar orðnar að vogum. Afrennsli frá Skógtjörn var til suðurs um Oddakotsós við miðbik tjarnarinnar og lágu hreppamörkin um ósinn. Vestan óssins var Hliðsnesið í Bessastaðahreppi með samnefndum bæ, og lá nesið til suðurs frá Álftanesinu. Hafið rauf eiðið norðan bæjarins og stóð hann þá á eyju, erfiðara varð um aðföng og róa þurfti með börnin á báti til þess að þau kæmust í Bjarnastaðaskóla.

Hliðsnes

Hliðsnes – loftmynd 2023.

Fyrstu jarðýturnar í eigu Íslendinga komu til landsins 1942 og eina þeirra, e.t.v. þá fyrstu, áttu bræðurnir Eyþór og Gunnar Stefánssynir frá Eyvindarstöðum á Álftanesi. Þeir voru fengnir með ýtuna til þess ýta upp í gamla ósinn og koma Hliðsnesinu í vegasamband inn í Garðahrepp. Bæjamörkin liggja hins vegar óbreytt, þar sem áður var ósinn suður úr Skógtjörninni. Hér er land allt hægt og sígandi að hverfa í hafið eins og sjá má af því, að bæði á botnum tjarnanna og úti fyrir ströndinni suður af Garðaholti og umhverfis Álftanes eru víða myndarlegir móhleifar, en mór myndast af gróðurleifum í mýrum inni á landi en aldrei í söltu vatni, enda engar gróðurlendur þar.

Álftanes

Álftanes – herforningaráðskort 1903. Hér sjást landamerkimum Skógtjörnina.

Á báðum þessum tjörnum er fjölskrúðugt fuglalíf, einkum vor og haust, þegar norðlægir farfuglar hafa þar viðkomu og er margæsin þar áberandi. Á eiðinu milli Lambhúsatjarnar og Skógtjarnar, hægra megin við veginn þegar ekið er út á Álftanes, er lágur hóll með tóftarbroti. Þarna stóð bærinn Selskarð. Sunnan við Selskarð og austur af Skógtjörninni, vestan Álftanesvegar, heitir Álamýri. Suð-austur frá Skógtjörn rís Garðaholtið. Vestan í holtinu standa Garðar, höfuðból og kirkjustaður frá fornu fari. Garðakirkja var aflögð árið 1914 og um miðja öldina var svo komið að aðeins stóðu eftir grjótveggirnir opnir fyrir veðri og vindum, gluggalausir og þaklausir. Til tals kom að brjóta veggina niður og nota í hafnargarð við Hafnarfjarðarhöfn.
GarðakirkjaÞví menningarslysi var þó forðað, sem betur fer, fyrir atbeina nokkurra góðra manna og þó einkum vegna atorku kvennanna í nýstofnuðu Kvenfélagi Garðahrepps, og fórnfúsra starfa þeirra. Þær endurreistu Garðakirkju og var hún vígð af séra Sigurbirni Einarssyni biskupi hinn 20. mars 1966.
Sunnan og vestan í Garðaholtinu er Garðahverfið. Þarna voru 25 býli og þurrabúðir árið 1868. Mörg þessi býli standa þar enn.
Nyrst i Garðahverfinu, niður undir Skógtjörn, eru Hausastaðir. Þar er minnisvarði um einn fyrsta vísi að reglulegu skólahaldi fyrir börn og unglinga hér á landi.

Hausastaðir

Hausastaðir – minnismerki.

Þessi skóli var starfræktur á vegum Thorkillisjóðsins árin 1791-1812, en sjóður sá varð til samkvæmt ákvæði í arfleiðslubréfi Jóns Þorkelssonar fyrrum skólameistara í Skálholti og átti hann að standa straum af skólahaldi fyrir fátækustu og mest þurfandi börn í Kjalarnesþingi.
Skammt suðaustur frá Garðakirkju stendur félagsheimilið Garðaholt, sem upphaflega var reist árin 1908-11 sem skóli og þinghús hreppsins. Aukið hefur verið við húsið nokkrum sinnum og hefur það í mörg ár þjónað sem samkomuhús bæjarins. Kvenfélagið sér um rekstur Garðaholts. Örskammt til vesturs frá Garðaholti, neðan við veginn til Hafnarfjarðar, stendir býlið Krókur, sem Garðabær á nú og rekur þar byggðasafn. Fyrri eigendur gáfu bænum húsin ásamt öllu innbúi.

Garðahverfi

Garðahverfi – bæir.

Efst á Garðaholtinu er fagur og mikill skógarreitur. Holtið var áður autt, grýtt og gróðurvana, því þarna næða norðanvindar. Árið 1955 fékk Sigurður Þorkelsson, skipasmiður, þarna land á leigu, girti það og hóf uppgræðslu og trjáplöntun. Hann byggði sér bústað ásamt konu sinni, Kristínu Gestsdóttur, sem nú er nýlátin. Þennan stað gerðu þau að þeim unaðsreit, sem þar er orðinn, og nefndu hann Grænagarð. Á Garðaholti er hringsjá, sem Rótarýklúbburinn í Görðum lét gera. Sigurður Björnsson, verkfræðingur, sá er ritar þessa grein, mældi á holtinu og hannaði hringsjána. Hún sýnir fjallahringinn, hæðir fjallanna og fjarlægðir frá Garðaholtinu. Á skífunni er sólúr.

Gálgaklettar

Gálgaklettar.

Nyrst í Garðahrauni, skammt frá Lambhúsatjörn, er hraungúll, sem klofnað hefur og myndar tvo kletta eða þrjá. Klettana notaði Bessastaðavaldið sem aftökustað þeirra ógæfumanna, sem þeir töldu dauðaseka að þeirra tíma reglum og lagabókstaf.

Gálgahraun

Í Gálgahrauni.

Klettarnir nefndust Gálgaklettar eða Gálgaklofningar og hraunið Gálgahraun. Austan Gálgahrauns er Arnarnesvogur. Nyrsta spýja Garðahraunsins skagar í mjóum tanga út milli Arnarnesvogar og Lambhúsatjarnar og heitir þar Eskines.
Suður frá Arnarnesvogi rís Hraunsholtið og austan þess rennur Hraunsholtslækur til sjávar. Hann á upptök sín í Vífilsstaðavatni og nefnist efri hluti hans Vífilsstaðalækur. Lækurinn rennur með hraunjaðrinum sunnan við Flatahverfið. Úti í hrauninu er stakur hóll er nefnist Hádegishóll, eyktamark frá bænum Hraunsholti, og er á bæjamörkum Garðabæjar og Hafnarfjarðar.

Wegenerstöpull

Wegenerstöpull – Wegenerstöpull er annar tveggja steinstöpla (svipaður stólpi var reistur í Öskjuhlíð) sem reistur var af Alfred Wegener, þýskum vísindamanni, hér á landi vafalaust til viðmiðunar til að sýna fram á landrekskenninguna sína. Stöpulinn reisti Wegener í aprílmánuði árið 1930. Árið 2000 voru settar plötur með söguágripi á stöpulinn. Stöpullinn er ferkantaður, steyptur og rúmlega 3 m hár. Flatarmál er 1 x 1 m. Hann stendur við gangstétt efst á götunni Hegranes við gatnamót Arnarnes og Hegranes.

Austan við Arnarnesvog er Arnarnesið. Þar sem nú skerast göturnar Arnarnes og Hegranes, stendur „Wegenersúlan“, einn þeirra mælingastöpla, sem þýski visindamaðurinn Alfred Wegener lét steypa vorið 1930 í þeim rilgangi að mæla gliðnun landsins og sanna þar með landrekskenningu sína um rek meginlandanna á jarðarkringlunni. Honum auðnaðist ekki að færa sönnur á þá kenningu, hann varð úti á Grænlandsjökli það sama ár. Kenning Wegeners hefur nú fyrir löngu verið sannreynd með þeim nákvæmu mælingaaðferðum, sem nú eru tiltækar. Flekamót liggja um jarðeldabelti Íslands og Austur- og Vesturland gliðna í sundur til jafnaðar um 2 sentímetra á ári hverju.

Hofsstaðir

Hofsstaðir í Garðabæ.

Upp frá Arnarnesvogi og ofan Hafnarfjarðarvegar var byggður fyrsti þéttbýliskjarninn í Garðahreppi og nefnist hverfið Silfurtún. Í suðvestur frá Silfurtúninu rís Hofsstaðahæðin með bænum Hofsstöðum. í Hofsstaðalandi, norður af bænum, er nú risin Vídalínskirkja og safnaðarheimilið Kirkjuhvoll. Örskammt austur af kirkjunni og bænum og við hliðina á nýjum Tónlistarskóla Garðabæjar hafa verið grafnar upp minjar um forna byggð, sem talin er vera frá landnámsöld. Þar hafa bæjaryfirvöld látið gera minjagarð og er allur frágangur til fyrirmyndar og bæði skemmtilegt og stórfróðlegt að kynna sér þá sögu, er þar býr að baki. Suður frá Hofsstöðum stóð býlið Hagakot. Bærinn stóð þar sem nú er Tjarnarflöt 10. Gatan dregur nafn sitt af seftjörn, sem fyrrum var í ofanverðu túninu.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir – Gunnhildur.

Drjúgan spöl fyrir austan er sagt að Vífill, leysingi Ingólfs Arnarsonar, hafi reist bæ sinn og nefndi Vífilsstaði. Á Vífilsstöðum var reist berklahæli árið 1910. Nokkru austar er svo Vífilsstaðavatnið, en sunnan við vatnið eru Dýjakrókar með uppsprettulindum. Þar er nú vatnsból Garðabæjar og Álftaness, en í vændum er að það verði aflagt innan skamms. Umhverfis vatnið liggur fjölfarinn göngustígur. Frá Vífilsstaðavatni rennur Vífilsstaðalækur, sem fyrr segir, og um mýri suður af Vífilsstöðum, sem nefnist Vatnsmýri. Austur frá Vífilsstöðum og norður af vatninu er hæð, sem nefnist Skyggnir. Smalaholtið rís norðaustan vatnsins, en sunnan þess er Vífilsstaðahlíð og nefndist hún áður Svínahlíð.

Arnarnes

Arnarnes (MWL).

Inn frá Arnarnesi gengur Arnarnesholt og þar fyrir austan er Nónhæð, nú innan bæjarmarka Kópavogs, en eftir að Garðabær og Kópavogur sömdu um breytt bæjamörk hinn 18. maí 1983 skiptir Arnarnesvegurinn nýi löndum inn eftir holtunum innan við Bæjarbraut. Sunnan holtsins rennur Arnarneslækur. Hann á upptök sín í Vetrarmýri, norðan Vífilsstaða, þar sem nú er golfvöllurinn, og rann þaðan norðan Dýjakróka í Stórakrók og niður í Arnarnesvog. Dýjakrókar voru á því svæði þar sem nú er iðnaðarhverfið við Iðnbúð.

Hnoðraholt

Hnoðri á Hnoðraholti.

Norðan Vetrarmýrar rís Hnoðraholt og dregur nafn sitt af Hnoðranum á norðurbrún holtsins, sem er brattur hóll með dritþúfu. Um Hnoðrann lá fyrrum markalínan milli Vífilsstaða í Garðahreppi og Hvammkots í Seltjarnarneshreppi, en Hvammkot nefndist síðar Fífuhvammur.

Smalaholt

Smalaholt – lágmynd.

Austur af Hnoðraholti er Leirdalur, sem fyrrum virðist að mestu hafa verið í eigu Vífilsstaða en hefur í áranna rás fallið til Fífuhvamms. Suður af Leirdal rís Smalaholtið, sem fyrr er nefnt. Suðaustur frá Smalaholti eru Kjóavellir. Þar er nú hesthúsabyggð.
Sunnan Kjóavalla og suðaustanvert við Vífilsstaðavatn rís Sandahlíðin, hæst hæða á þessum slóðum, 160 m yfir sjávarmáli. Þar uppi er fagurt útsýni til allra átta og blasa þar suðurfjöllin við göngumönnum. Norðan undir Sandahlíðinni er útivistar- og leikjavæði Skógræktarfélags Garðabæjar.

Grunnuvötn

Tóftir við Grunnuvötn.

Lægðin milli Sandahlíðar og Vífilsstaðahlíðar nefnist Grunnuvatnaskarð, en í suðaustur eru Grunnuvötn, tvær tjarnir, sem nú þorna upp á sumrum. Austan við Grunnuvötn rís hæð eða hóll, sem nefnist Arnarbæli, hefur einnig verið nefndur Arnarstapi og Arnarsetur. Á Arnarbæli eru landamörk milli Garðabæjar og Kópavogs og liggja þaðan suður í Húsfell. Suðvestan Grunnuvatna er hæð uppi á Vífilsstaðahlíðinni er nefnist Selás. Suðvestan undir Selási stóð Vífilsstaðasel. Þegar haldið er til suðurs frá Selási göngum við yfir Víkurholt, en þau eru tvö, og komum að Hjöllum. Hjallarnir er misgengisstallur, sem er allt að 60 m hár þar sem hann er hæstur sunnan undir Vífilsstaðahlíð.

Hjallar

Hjallar – misgengi.

Sprungan við rætur Hjallanna er nærri 5 km á lengd. Berggrunnurinn er grágrýti og hinn sami bæði uppi á Hjöllunum og á landinu, sem sigið hefur sunnan þeirra. Á Hjallabrún, sunnan við Víkurholt, lét Skógræktarfélag Reykjavíkur árið 1967 gera hringsjá, þar sem skoða má fjallahringinn. Næst eru Húsfell, Búrfell, Valahnúkar og Helgafell. Fjær blasa við Hengillinn, Vífilsfell, Bláfjöll, Þríhnúkar, Stóribolli eða Bollinn, Tvíbollar, og Syðstubollar. Vestan við Stórabolla er Kerlingarskarð en milli Tvíbolla og Syðstubolla er Grindarskarð, um það liggur Selvogsgata. Þar fyrir vestan komu Langahlíð, Hellutindar, Fjallið eina, Grænadyngja, Trölladyngja og Keilir.

Grásteinn

Grásteinn í Urriðakotshrauni.

Nú höldum við að nýju norður á móts við norðurenda Vífilsstaðahlíðar, er nefnist Hlíðarhorn. Uppi á Hlíðarhorni stendur varða, sem kallast Gunnhildur. Sjúklingar á Vífilsstöðum, þeir sem voru sæmilega rólfærir, gengu gjarnan upp að Gunnhildi, var haft til marks um heilsufar þeirra, að kæmust þeir þangað upp án þess að spýta blóði, þá væru þeir á batavegi og gætu jafnvel farið heim.

Gunnhildur

Gunnhildur.

Vestur frá Hlíðarhorni rís Urriðakotsholt og vestan undir því er Urriðakotsvatn, vestan þess eru svo Setbergshamar og Setbergsholt. Um þau holt liggja nú bæjamörk Garðabæjar og Hafnarfjarðar. Áður fyrr var Setbergshverfið í Garðabæ.
Sunnan við Urriðakotsvatn heitir Dýjamýri og sunnan hennar rís Flóðahjalli og syðsti og hæsti hluti þeirrar hæðar nefnist Klif. Sunnan við Klifið kemur svo önnur Sandahlíð, því þær eru tvær með sama nafni á þessum slóðum. Sunnan Urriðakotsholts og norð-austan Flóðahjalla eru Urriðakotsdalir, þar og allt suður undir Sandahlíð hefur regla Oddfellowa búið sér glæsilegan golfvöll. Sunnan þess golfvallar eru þrjár hæðir, sem nefhast Tjarnholt. Sunnan Tjarnholta hefst Reykjanesfólkvangur og þar þekur Smyrlabúðarhraun stórt svæði og nær suður að Smyrlabúð, sem er hæð á Hjallabrún, rúman kílómeter vestan Búrfells.

Heiðmörk

Heiðmörk – tóft.

Suðvestan í Vífilsstaðahlíð hefur vaxið upp gróskumikill skógur sem er hluti Heiðmerkur. Í fyrstu var land Heiðmerkur aðeins innan Reykjavíkur. Sunnudaginn 25. júní 1950 var Heiðmörk opnuð almenningi við hátíðlega athöfn. Hinn 17. október 1957 jók Skógræktarfélag Reykjavíkur við upphaflegt svæði með samningi við stjórn ríkisspítalanna, sem leigði félaginu verulegt land frá Vífilsstöðum, m.a. Vífilsstaðahlíðina. Þessi hluti Heiðmerkur er innan Garðabæjar og 10. maí 1997 keypti bærinn það land af ríkinu.

Maríhellar

Maríuhellar.

Þarna er vinsælt útivistarsvæði og gönguleiðir í skjóli í norðannæðingi. Norður á móts við Hlíðarhorn er ekið inn í Heiðmörkina og liggur vegurinn um hraunið allt suður undir Hjalla. Þegar ekið er inn, þar sem áður var hlið á Heiðmerkurgirðingu, og upp á hraunkambinn verða Maríuhellar á vinstri hönd, rétt við veginn. Þetta voru fjárhellar frá Vífilsstöðum og Urriðakoti. Vestast í Maríuhellum er þröngur gangur niður í manngengan helli, sem liggur langt til norðurs undir Vífilsstaðahrauninu. Gegnt Maríuhellum, sunnan við veginn, er myndarlegur hraunhóll, Dyngjuhóll eða Hádegishóll, eyktamark frá Vífilsstöðum. Vestan undir miðri Vífilsstaðahlíðinni er bílastæði og grillaðstaða og í hlíðinni þar fyrir ofan er trjásýnireitur Skógræktarfélags Reykjavíkur, sem fróðlegt er að skoða. Göngustígur liggur frá Maríuhellum suður eftir hrauntungunni. Á móts við Tjarnholtin komum við að Selgjá, sem er grunn en nokkuð breið hrauntröð mynduð í Búrfellsgosinu. Nyrst í gjánni vestanverðri er Selgjárhellir. Upp við barma Selgjár hafa menn fundið margar vallgrónar seljarústir. Jarðabók 1703 greinir frá selstöðu þarna og virðast átta kóngsjarðir á Álftanesi hafa haft þar í seli. Þegar komið er suður á Hjallabrún sést, að

Selgjá

Selgjá – uppdráttur ÓSÁ.

Selgjá er í beinu framhaldi af Búrfellsgjá, og eru þær því í raun sama hrauntröðin. Búrfellsgjá er mjög áhugaverð hrauntröð frá Búrfellsgíg og er vel þess virði að ganga eftir henni suður í Búrfell og að skoða sköpunarverk náttúrunnar í leiðinni. Samfelldur hraunstraumur hefur runnið eftir gjánum báðum.

Búrfellsgjá

Búrfellsgjá.

Hér blasir við að þessi stórleikur náttúrunnar, myndun Hjallanna og landsigið sunnan þeirra, hefur orðið eftir að eldar brunnu í Búrfelli fyrir rúmlega 7000 árum. Sprungan, sem liggur yfir hraunið í misgengisstallinum milli Selgjár og Búrfellsgjár, heitir Hrafnagjá. Niðri á flötinni í Búrfellsgjá, sunnan Hrafhagjár, er Gjárrétt. Hér var lögskilarétt fram til 1920 en réttin var notuð eitthvað lengur. Gjárrétt var friðlýst árið 1964. Við hamravegginn norðan réttarinnar er Vatnsgjá, þar eru nokkur þrep niður í ágætt vatnsból. Nær miðja vegu milli Gjárréttar og Búrfells heita Garðaflatir. Kringlóttagjá er hrauntjarnarstæði sunnan við Búrfell, sem myndast hefur seint í Búrfellsgosinu. Góðan spöl suðvestur af Kringlóttugjá eru Mygludalir. Við sérstök veðurskilyrði myndast þarna eitthvað, sem líkist mygluskán, kynnu að vera kísilþörungar.

Mygludalir

Mygludalir. Valahnúkar fjær.

Suður af Húsfelli er sameiginlegt umráðasvæði Garðabæjar og Álftaness. Það nefndist fyrrum „Almenningsskógur Álptaneshrepps.“ Mörk Almenningsskógarins liggja frá Húsfelli suður á Hæstaholt á Dauðadölum og kallast markapunkturinn nú á seinni tímum Markraki. Af Markraka liggja mörkin til vesturs sunnanvert við Leirdalshöfða í Markrakagil í Undirhlíðum eða Melrakkaskarð. Þetta eru jafnframt austur- og suðurmörk Hafnarfjarðarkaupstaðar. Eins og nafnið „Almenningsskógur“ ber með sér var gróðurfar hér fyrrum allt annað en nú. Þarna óx gróskumikill skógur því sagnir herma, að úr honum hafi árlega verið fluttir hestburðir af trjám og hrísi til eldiviðar á Bessastöðum. í Leirdal milli Leirdalshöfða og Lönguhlíðar hefur Skógræktarfélag Garðabæjar hafið uppgræðslu og trjárækt.

Þríhnúkar

Þríhnúkar – þverskurður.

Austur- og suðurmörk Almenningsskógar Álftaneshrepps liggja af Húsfelli upp í Þríhnúka. Austasti hnúkurinn kallast Strompur og er innan stjórnsýslumarka Kópavogs. Hann er sérstætt náttúruundur. Hnúkurinn er hár og brattur klepragígur og í toppnum er brekka niður að gígopi um 10 m að þvermáli.

Þríhnúkagígur

Í Þríhnúkagíg.

Við lok gossins hefur bráðið hraunið runnið brott og við það myndast um 110 m djúpur hellir með lóðréttum veggjum. Þarna ber að fara með mikilli gát því hrasi maður í brekkunni ofan við gígopið og falli niður í hellinn þarf ekki að spyrja að leikslokum. Jón heitinn Jónsson, jarðfræðingur, nefndi hellinn Svartholið. Frá Þríhnúkum liggja mörk Almenningsskógarins í Bláfjallahorn, þ.e. suðurenda Bláfjalla, þaðan vestur í Litla-Kóngsfell, sem er, eins og segir í markalýsingu Krýsuvíkurlands 1890, „lág, mosavaxin eldborg umhverfis djúpan gíg á hægri hönd við þjóðveginn úr Selvogi til Hafnarfjarðar, örskammt frá veginum.“ Stórkonugjá er norðaustan við Kóngsfell. [Hér fer höfundur villu vegar því nefnt „Kóngsfell“ er hægra megin við gamla Kerlingarskarðsveginn úr Selvogi, ofan skarðsins, en það er ekki „Stóra-Kóngsfell“, eins og ætla mætti af lýsingunni. Það er miklu mun norðaustar og fjarri „gömlu götunni“. „Litla-Kóngsfell“ er gígur, hægra megin við „gömlu götuna“ á Grindaskarðsleiðinni frá Selvogi, allnokkru sunnar en „Kóngsfellið“. Þá er „Konungsfellið“, öðru nafni „Stóribolli“, efst í Grindarskörðum. Um þau lág Selvogsgatan, öðru nafni Grindaskarðavegur, fyrrum.]

Litla-Kóngsfell

Litla-Kóngsfell – Selvogsgatan.

Hér upphefst nokkur vandi. Markalýsingum fyrri tíma til vesturs frá Litla-Kóngsfelli ber ekki saman og deila menn um eignamörk. Landamerkjadómur frá 1971 og Hæstaréttardómur um sýslumörk frá 1996 eru misvísandi. Hér stangast hvað á annars horn. Óbyggðanefnd tók ekki, í úrskurði sínum hinn 31. maí 2006, afstöðu til ágreinings um staðarmörk sveitarfélaga og þar með ekki til þessa vanda. Bráðnauðsynlegt er að fá botn í málin, rugling þennan leiðréttan, og að ágreiningi verði rutt úr vegi. Læt ég svo lokið frekari bollaleggingum í bili.“  – Sigurður Björnsson, verkfræðingur.

Álftanes

Álftanes – Örnefnakort – ÓSÁ.

Heimild:
-Listin að lifa, 2. tbl. 01.06.2007, Gengið um Garðabæ, Sigurður Björnsson, bls. 44-47.

Kóngsfell

Kóngsfell.

Garðakirkja

Í Lesbók Morgunblaðsins 1955 fjallar Árni Óla um Garðakirkju á Álftanesi, sem „Bráðum fer að rísa úr rústum„:

Garðakirkja

„Garðar á Álftanesi eru ekki taldir með landnámsjörðum, en þó mun hafa verið sett byggð þar þegar á landnámsöld. Jörðin er í landnámi Ásbjarnar Özzurarsonar, bróðursonar Ingólfs Arnarsonar, og eftir því sem næst verður komizt, hét sá Þjóstarr, er þar bjó fyrstur. Hann var kvæntur Iðunni dóttur Molda-Gnúps, landnámsmanns í Grindavík, og er talið að þau hafi átt þrjá sonu. Einn þeirra var Þorkell, er fór einhver fyrstur manna hér á landi alla leið suður til Miklagarðs, dvaldist þar nokkur ár og var „handgenginrt Garðskonunginum.“Garðakirkja
Annar sonur Þjóstars var Þormóður, er bjó að Görðum eftir föður sinn. Hann var kvæntur Þuríði dóttur Avangurs hins írska, er fyrstur byggði að Botni í Hvalfirði, og smíðaði sér haffært skip úr skógi þeim er þar var þá. Getið er tveggja barna þeirra Þormóðar, Barkar er átti Hallvöru dóttur Odda Ýrarsonar, og Jórunnar. — Landnáma segir frá því, að þeir Illugi rauði og Hólm-Starri hafi haft skifti á jörðum, konum og lausafé. Sigríður kona Illuga hengdi sig þá í hofinu á Hofstöðum í Reykholtsdal, „því að hún vildi ekki mannakaupið“. Ekki er getið um konu Starra, en líklega hefur hann tekið hana aftur þegar þannig fór um Sigríði, því að upp úr þessu fekk Illugi Jórunnar frá Görðum.

Garðakirkja

Garðakirkja 1960.

Um þessar mundir bjó i Vælugerði í Flóa sá maður er Öra hét. Svo er sagt að eftir ráðum Marðar gígju hafi hann orðið sekur þannig að hann skyldi falla óheilagur fyrir sonum Önundar bílds, nema í Vælugerði og örskotshelgi við landeign sína. Einu sinni rak Örn naut úr landi sínu og var þá veginn, og héldu allir að hann hefði fallið óheilagur. En Þorleifur neisti bróðir hans, keypti af Þormóði Þjóstarssyni í Görðum, er þá var nýkominn út á Eyrarbakka, að hann helgaði Örn. „Þormóður skaut þá skot svo langt af handboga, að fall Arnar varð í örskotshelgi hans“.
Má á þessu sjá, að Þormóður hefur verið íþróttamaður og nafnkunnur bogmaður. Synir Þjóstars hafa því þegar gert garðinn frægan, þótt ekki fari af þeim neinar sögur.

Garðakirkja

Garðakirkja 1956.

Og allt frá þeim tíma hafa Garðar verið merkur staður. Kirkja hefur sennilega verið reist þar skömmu eftir kristnitöku. Var hún helguð Pétri postula og er til skrá um presta þar síðan 1284. Þar var í gamla kirkjugarðinum svonefndur „vökumaður“. Var það trú hér á landi um eitt skeið, að sá, sem fyrstur væri grafinn í kirkjugarði, rotnaði ekki, heldur héldi stöðugt vörð um garðinn. Segir sagan, að eitt sinn er verið var að taka gröf í útnorðurhorni kirkjugarðsins, áður en hann væri færður inn“, þá var komið niður á rauðklæddan mann, órotinn, og skipaði prestur að byrgja gröfina þegar. Þetta hefur átt að vera einhver fornmaður í litklæðum, og hann vakir enn yfir kirkjunni, sem nú er líka utangarðs.
Garðakirkja
Torfkirkja var í Görðum öld fram af öld. En um miðja fyrri öld er komin þar timburkirkia. Hún entist illa og var orðin óhæf til messugerðar 1878. Þá var Þórarinn Böðvarsson prestur að Görðum. Hann vildi að söfnuðurinn tæki að sér kirkjuna og flytti hana til Hafnarfjarðar, en þar var þá meginhluti safnaðarins. Sóknarnefndin mun ekki hafa treyst sér til þessa, og varð það því úr, að ný kirkja var reist að Görðum og var hún hlaðin úr steini.
GarðakirkjaÞykir mér líklegt að notað hafi verið kalk úr Esjunni til þess að líma grjótið saman. Var kalkbrennslan í Reykjavík þá í fullum gangi, og þeir munu hafa verið vel kunnugir Egill Egilsen forstjóri kalkbrennslunnar og séra Þórarinn Böðvarsson. Kirkja þessi var reist árið 1879. Þótti hún merkilegt hús.

Þegar kom fram yfir aldamótin var farið að tala um það í fullri alvöru að reisa nýja kirkju í Hafnarfirði, og var séra Jens Pálsson því mjög fylgjandi. Hann átti þá 2500 kr. hjá kirkjunni, en bauðst til þess að láta þá skuld falla niður, ef söfnuðurinn vildi taka kirkjuna að sér og reisa nýtt guðshús í Hafnarfirði. Varð það svo úr, að með samningi gerðum 6. marz 1910, afhenti hann sóknarnefnd Garðakirkju til umsjónar og fjárhalds, og með þessum samningi gaf hann eftir skuld kirkjunnar við sig.

Garðakirkja

Garðakirkja – kertastjakar, nú í vörslu Þjóðminjasafnsins.

Eigi varð þó úr því þá þegar að farið væri að reisa kirkju í Hafnarfirði. En það sem reið baggamuninn í því efni var stofnun fríkirkjusafnaðar í Hafnarfirði veturinn 1913, og að hafin var bygging fríkirkju þar þegar á sama ári. Þá vildi þjóðkirkjusöfnuðurinn ekki láta sitt eftir liggja og reisti þar kirkju árið eftir. Var þá ákveðið að leggja Garðakirkiu niður og flvtja gripi hennar í nýju kirkjuna.
Þykir rétt að birta hér skrá yfir þá gripi, er Hafnarfjarðarkirkja fekk hjá Garðakirkju: Altaristafla (olíumálverk af upprisu Krists), harmoníum, skírnarfontur úr nýsilfri á tréfæti, tvö sálmanúmeraspjöld með tölum, 16 kerta ljósahjálmur úr látúni, 8 kerta ljósahiálmur kominn frá dómkirkjunni í Reykjavík, 6 kerta ljósahjálmur, 4 kerta glertalnahjálmur, tvær þríarmaðar ljósliljur úr látúni, 9 þríarmaðar ljósaliliur frá dómkirkjunni í Reykjavík, þrennir altarisstjakar og fvlgdu þeim tvö kertahvlki úr piátri, kirkjukaleikur úr silfri með patínu úr sama efni, oblátudósir úr nýsilfri, lítill þjónustukaleikur úr nýsilfri með tréhylki, lítill gamall þjónustukaleikur úr tini o. fl.

Garðakirkja

Hökull úr rósofnu flosi með gulum blómum stórgerðum og er ofið gullvír í, en gyltar smáþynnur (paillettur) saumaðar á: rósofinn gullvírsborði er við jaðra og um hálsmál og í krossi á baki: fóðrið úr ljósbrúnu lérefti: krækt á vinstri öxl. Getið fyrst í visitatiu 1769 (sbr. 1780), en virðist miklu eldri.

Auk þessa voru öll altarisklæði, gömul og ný, og ennfremur graftól.
Inni í kirkjunni að Görðum voru 8 minningarspjöld á veggjum. Þau voru ekki flutt til Hafnarfjarðar, heldur í Þjóðminjasafnið og eru nú geymd þar. (Á safninu er einnig fjöldi gripa frá Garðakirkju).
Seinasta guðsþjónusta var haldin í Garðakirkju 23. sunnudag eftir trinitatis 1914 (15. nóvember), en þjóðkirkjuna nýju í Hafnarfirði vígði Þórhallur Bjarnarson biskup 20. desember sama ár. Kom nú til orða að selja Garðakirkju til þess að afla fjár vegna kirkjubyggingarinnar, en það fórst þó fyrir.

Stóð nú Garðakirkja auð og hrörnaði óðum, svo að blöskraði öllum þeim, sem báru hlýjan hug til hennar. Og árið 1916 bundust 10 menn samtökum um að bjarga kirkjunni. Það voru þeir: Ágúst Flygenring kaupmaður, Carl Proopé kaupmaður, Chr. Zimsen umboðsmaður, Einar Þorgilsson kaupmaður, Gunnar Egilsson skipamiðlari, Jes Zimsen kaupmaður, Jón Einarsson verkstjóri, dr. Jón Þorkelsson, Sigurgeir Gíslason verkstjóri og Þórarinn Egilsson útgerðarmaður. Eru þeir nú allir látnir, nema hinn síðastnefndi. Einhver viðgerð fór nú fram á gömlu kirkjunni, en dugði lítt.

Garðakirkja

Minningartafla um séra Markús Magnússon, prest í Görðum á Álftanesi 1781-1825.

Tímans tönn gnagaði viði kirkjunnar jafnt og þétt, þótt lítið bæri á. Seinast var svo komið, að menn óttuðust að turninn mundi hrynja. Þá var hann rifinn, þakið tekið af og allt rifið úr kirkjunni innan veggja. Síðan hefur steintóttin staðið þarna gnapandi um langa hríð, en hún hefur látið furðu lítið á sjá. Vindar hafa gnauðað á henni, regnið hefur lamið hana, frost og snjór hafa kreist hana köldum greipum, en hún stóðst allt þetta. Má á því sjá hve vel hefur verið gengið frá veggjunum. Eru þeir og snilldar vel hlaðnir, og skyldi steinninn hafa verið límdur með kalki úr Esjunni, þá þarf engan að undra þótt kirkjurústin hafi staðið af sér öll veðraáhlaup um mörg ár, því að það kalk hefur reynzt óbilandi. Sama sumarið og Garðakirkja var reist, var reist steinhús í Reykjavík og límt með Esjukalki. Það stendur enn í Lækjargötu og sér ekki nein ellimörk á því, enda þótt það sé 75 ára gamalt. Eins hefði kirkjan getað staðið enn hnarreist og tíguleg, ef henni hefði verið sómi sýndur.

Garðakirkja

Garðakirkja fyrrum.

Þótt marga tæki það sárt hvernig fór um Garðakirkju, þá var eins og örlög hennar væri orpin þögn og hyldist í einhverri móðu. Það var engu líkara en að Hverfisdraugarnir sem séra Guðlaugur Þorgeirsson í Görðum, setti niður í Stíflishólum á leiðinni milli Hafnarfjarðar og Garða fyrir tvö hundruð árum, hefði losnað og villtu nú mönnum sýn hálfu meir en þeir höfðu áður gert. Það var eins og aðalsöfnuðurinn, sem nú átti heima í Hafnarfirði, gæti ekki séð út að Görðum. En öldruðu fólki úr Garðahverfinu, sem fór til kirkju inn í Hafnarfjörð, vöknaði jafnan um augu er það gekk fram hjá rústum Garðakirkju.
Nú er niðurlægingar tímabil gömlu Garðakirkjunnar senn á enda. Hún verður bráðum færð í sinn fyrra búning.
Árið 1053 var Kvenfélag Garðahrepps stofnað, og á stofnfundi þess var þegar rætt um, að eitt af því sem félagið ætti að beitast fyrir, væri að reisa Garðakirkju úr rústum. Síðan hafa 60 samhuga konur unnið að þessu í kyrrþey.

Garðakirkja

Grafskriftarspjald úr furu málað svart með úrskurði á, á báðum endum og við brúnir, gulmáluðum, og myndast við það eins og umgjörð: lengd mest 148 cm. og br. mest 73 cm.: útskurðurinn er í skelstíl, laglegt verk. Áletrunin er með gyltu skrifletri, nema nafnið, sem er með rómönsku upphafstafaletri. Grafskriftin er yfir norskan skipstjóra, Robert Walls, d. 9. ágúst 1788. – Grafskriftar þessarar er getið í visitatiu Hannesar biskups Finnssonar 1791.

Og þar sem konurnar leggjast á sveif, á við gamla vísan: Fram skal ganga haukur núna hvort hann vill eður ei. Hér mun og svo fara. Það er eins og sérstök blessun hafi fylgt þessu máli. Fjöldi manna, sem ber hlýjan hug til Garðakirkju, en hafði gleymt henni, hefur nú vaknað við, er konurnar voru komnar á stað, og ýmist lagt fram fé, eða lofað fé til viðreisnar kirkjunni. Aðrir munu á eftir koma. Og sóknarnefndin hefur þegar afhent félaginu kirkjurústina til eignar. Konurnar hafa fengið sérfróða menn til þess að athuga veggina til þess að ganga úr skugga um, að þeir sé enn svo sterkir að forsvaranlegt sé að byggja ofan á þá. Og veggirnir hafa staðizt prófið.
Verður nú brátt hafizt handa um að gera við veggina og koma þaki á kirkjuna. Er það ætlan Kvenfélagsins að gera kirkjuna aftur sem allra líkasta því er hún var áður, meðan hún var ein af snotrustu og merkilegustu kirkjum landsins. En þegar því er lokið er það annarra en Kvenfélagsins að ákveða hvort hún skuli gerð að sóknarkirkju aftur.
Margar minningar eru bundnar við Garða, og sú ekki sízt, að þar fæddist Jón biskup Vídalín árið 1666. Finnst mönnum ekki eðlilegt að kirkja ætti að vera einmitt á þeim stað, þar sem áhrifamesti kennimaður Íslands fæddist?
Garðakirkja var upphaflega helguð Pétri postula, þeim mikla kennimanni frumkristninnar. Nú þegar hún rís af grunni aftur, þá mætti hún vel heita Vídalínskirkja.“ -Á.Ó.

Í Fálkanum 1961 fjallar Sv.S um „Nútíma krossfara á Álftanesi“ og endurbyggingu Garðakirkju:

„Fálkinn heimsækir hóp erlendra sjáffboðaliða sem vinna í sumar vii að byggja upp Garðakirkju á Álftanesi.
Þeir, sem að undanförnu hafa átt leið fram Garðaholtið, hafa vafalaust tekið eftir framkvæmdum, sem nú eru hafnar við hina gömlu Garðakirkju. Þarna vinnur flokkur fólks frá fjórum löndum, og flest er fólkið komið langt að. Og þau sem þarna vinna, gera það ekki vegna vonarinnar um jarðneskan auð. Allt eru þetta sjálfboðaliðar, en fá húsaskjól og mat í samkomuhúsinu á Garðaholti.
Garðakirkja
Þegar við fórum þarna suðureftir fyrir nokkrum dögum, var heldur kalt í veðri, en vinnufólkið stóð snöggklætt við mokstur og akstur og það ríkti áhugi og starfsgleði. Stúlkurnar voru í meirihluta. Þær kepptust við að moka möl í hjólbörur, sem piltarnir óku, og í því að okkur bar að kom Hermann Ragnars danskennari, með fullar hjólbörur á fleygiferð, ók upp mjóan planka inn í kirkjuna og kom að vörmu spori með tómar börurnar út aftur. Meðan mokað var í börurnar hans, notuðum við tímann til spjalls.

Garðakirkja

Bragi Benediktsson.

—Hér vinnum við tuttugu og níu að viðgerð á kirkjunni, sagði Hermann, og þetta er fólk úr ýmsum áttum, fimmtán Bandaríkjamenn, sex Englendingar, einn frá Kanada, og svo erum við sjö Íslendingar.
— Hver kostar ferðir fólksins hingað?
— Hver og einn kostar sig sjálfur og margir eru komnir langt að. Bandaríkjafólkið hafði t. d. ekki sézt fyrr en í New York. Sama er að segja um Bretana. Þeir þekktust ekki fyrr en í ferðinni. Við, sem hér erum, búum öll í samkomuhúsinu hér á Garðaholti meðan á þessu stendur. Dagurinn er skipulagður, vinna og hvíldarstundir og alls vinnum við sjö tíma á dag. Fólkið, sem hér vinnur, er allt mótmælendatrúar, og ekki í neinum sértrúarflokki þar utan. Mér virðist það gera sér far um að fara eftir boðskap kristinnar trúar og hafa mjög heilbrigðar skoðanir.
Það er glatt og kátt, eins og æskufólki er lagið, og syngur og dansar á kvöldvökunum, sem við höfum öðru hverju.
Þetta sagði Hermann, og þá voru hjólbörurnar orðnar fullar og ekki til setu boðið. Ein stúlkanna, sem mokaði í hjá honum, er kona prests, sem gegnir líku starfi hjá æskulýðsráði kirkjusamtaka vestan hafs, og séra Bragi Friðriksson hér. Þetta var broshýr ung kona, frú Bash að nafni. Þau hjónin búa í Minneapolis. Þau ferðast mikið, sagði hún, og í fyrrasumar var maðurinn hennar lengst af í Noregi með vinnuflokk. Hún sagðist hafa mjög gaman af að dvelja hér og vinna við gömlu kirkjuna, — margháttað samstarf og svo hafði hún farið niður í Hafnarfjörð 17. júní, á þjóðhátíðina.
— Ég hélt, að landið væri allt hraun og grjót, því þegar við komum af flugvellinum, fórum við yfir svo hrjóstrugt land. En svo er þetta allt öðruvísi, og ég er hrifin af landinu.
GarðakirkjaLengra varð samtalið við prestsfrúna ekki, því að hár og grannur Breti, Richard að nafni, kom með sínar hjólbörur tómar, og stúlkurnar tóku til við moksturinn.
— Hvernig komuð þið Bretarnir hingað til lands?
— Við komum með skipi, Gullfossi. Uss, það var ljóta ferðalagið. Maður gubbaði allan tímann.
— Þú ert kannske ekki laus við sjóriðuna ennþá?
— Ég var alveg voðalega veikur. Hugsaðu þér það, að þegar við sáum Ísland rísa úr sæ, þá ruggaði það, – eða svo fannst mér.
— Eru nokkrar svona kirkjur í þínu heimalandi?
— Það held ég ekki, sagði Richard og varð hugsi. Það er annars skrítið hvernig þið byggið hús hérna á Íslandi, allt úr steinsteypu. Hvers vegna gerið þið það?
— Úr hverju ættum við annars að byggja?
— Úr múrsteini, auðvitað.
— Það er ekki nógu sterkt, og hús eins og þið byggið í Englandi, eru köld.
— Hvernig datt þér annars í hug að fara til Íslands í fríinu?
— Ég hef lesið dálítið um Ísland. Las t. d. stríðssögu Churchills og sitthvað í blöðum og tímaritum.
GarðakirkjaVið vesturgafl Garðakirkju var hópur manna að grafa. Þar á að byggja turn, og undir honum á að vera kyndiklefi.
Þar stóð Gary með skóflu í hönd og kunni auðsjáanlega tökin á því, sem hann var að gera.
— Ég á heima í Norður-Dakota, pabbi er bóndi og ég vinn alltaf heima á sumrin, milli þess sem ég er í skóla.
Gary vissi talsvert um Ísland áður en hann kom, og hafði m. a. gert tilraun til að hitta Richard Beck áður en hann lagði upp í ferðina. Eftir að hafa unnið um tíma við Garðakirkju, ætlaði Gary ásamt okkrum öðrum úr hópnum, til Norðurlanda, þar sem hann á ættingja, og það sama er að segja um Georg Engdahl frá Spokane í Washington ríki. Þeir eru báðir um tvítugt og þykir gaman að ferðinni.
— Ég bjóst við að eiga í erfiðleikum með að sofna á kvöldin í allri þessari birtu, sagði George, en svo er maður þreyttur eftir dagsverkið og þetta gengur bara vel. Þetta er annars undarlegt, að líta út klukkan ellefu á kvöldin, og það er næstum því sólskin. Það er varla að maður trúi sínum eigin augum.
Garðakirkja
Uppi á vinnupalli við suðurhlið kirkjunnar sátu fjórar stúlkur og losuðu gamla og lausa múrhúðun. Ragna Jónsdóttir sat á endanum og hamraði svo, að grjótið flaug í allar áttir.
— Þú ert þó ekki að brjóta niður kirkjuna?
— Hún verður bara betri á eftir.
— Er gaman að vinna hérna?
— Já, mér finnst það alveg stórfínt. Maður æfist svo vel í enskunni innan um alla þessa útlendinga. Þetta er líka gott fólk og góður andi.
— Ert þú í skóla?
— Já, í verknáminu.
— Hvað ertu gömul?
— Sextán, rétt bráðum.
— Hefurðu ekki reynt að kenna þeim íslenzku?
— Jú, þau geta sagt allt nema rababari!
Næst Rögnu sat Jane, átján ára, frá London.
— Ert þú lofthrædd þarna uppi?
— Ekkert að ráði. Þetta er ekki svo hátt.
— Komst þú með Gullfossi?
— Já, og var sjóveik.
— Hvað ætlið þið frá Englandi að vera hér lengi?
— Vitum það ekki nákvæmlega, líklega mánuð.
Og svo kom röðin að Myrna Hall. Hún er frá Seattle á Kyrrahafsströnd Bandaríkjanna, 23 ára og barnakennari að atvinnu.
— Þú ert kannske til í að hætta kennslunni og leggja fyrir þig byggingavinnu eftir þetta?
— Þetta er ágætt, en ég fer varla í það heima.
— Ætlar þú áfram til Norðurlanda?
— Já, auðvitað. Ég á fullt þar af frændfólki. Pabbi er sænskur og mamma norsk.
GarðakirkjaVið austurgaflinn voru nokkrra stúlkur að vinna. Þær hreinsuðu mosann, sem vaxið hafði upp á vegginn.
Rosin, nítján ára, frá Suður-Wales í Englandi, sagðist ekkert hafa verið sjóveik á Gullfossi, enda þetta ekki hennar fyrsta sjóferð. Rosin hefur ferðazt víða með foreldrum sínum, m. a. verið á Ítalíu, Hollandi og Frakklandi. Hún sagðist vera ákveðin í að fara norður, og þá helzt að Mývatni.
Ekki sagðist hún hafa vitað mikið um Ísland áður en hún kom hingað, en þó hafði verið mikið skrifað um landið meðan stóð á „Þorskastríðinu“.
— Ég hef alltaf verið löt að læra landafræði í skólanum, það er miklu betri landafræði að ferðast og sjá þetta sjálf, heldur en að lesa leiðinlegar bækur.
Sally Timmel frá Oconomowac í Wisconsin var næst Rosin í slagnum við mosann.
— Hvað þýðir nafnið á bænum þínum?
— Það veit ég ekki, þetta er Indíánamál.
— Hvenær datt þér í hug að fara til Íslands?
— Ég var ákveðin í að komast til Evrópu, og því þá ekki að byrja á Íslandi. Ég ætla að ferðast hérna um og mig langar til að sjá hverina.
— Þú hefur auðvitað haldið að við byggjum hér í snjóhúsum og kirkjan, sem þú ætlaðir að vinna við, væri úr ís?
— Nei, svo slæmt var það ekki, sagði Sally og hló við.
Rétt í þessu kom piltur hlaupandi ofan frá samkomuhúsinu, og mér datt í hug, að hann hefði sofnað eftir matinn og orðið of seinn. Það kom hins vegar í ljós, að Bob hafði verið í uppvaskinu.
— Er gaman að vinna í eldhúsinu?
— Nei, miklu betra að vinna úti.
– Verður þú lengi hér á landi?
— Nei, ekki mjög lengi. Ég er í skóla og verð að fara heim og nota síðari hluta skólafrísins til að vinna fyrir peningum til vetrarins.
Bob hafði, eins og fleiri, heyrt um Mývatn og um heitu gjána, þar sem maður getur farið niður í jörðina og synt í volgu vatninu. Hann sagðist iðka sund og knattleik í frístundunum og að sér þætti mjög gaman að vera hér í þessum vinnuflokki.
Séra Bragi Friðriksson, sem stjórnar framkvæmdum við Garðakirkju, sagði frá tildrögum þess, að þessi útlendu ungmenni komu hingað til uppbyggingarstarfsins.
Garðakirkja
Bragi sagðist hafa kynnzt starfsemi æskulýðsráða vestan hafs og hafa kynnzt nokkrum framámönnum mótmælendasafnaða í Bandaríkjunum og Kanada. Nú væri hafið margháttað samstarf í þessum efnum milli stofnana beggja megin hafsins og koma Bandaríkjamannanna og eins Bretanna, væri einn þáttur þess.

GarðakirkjaSéra Bragi sagði, að vinnan við kirkjuna gengi mjög vel og þetta væri úrvalsfólk. Þá sagði hann, að auk þessara sex Breta, væru hér nokkrir aðrir, sem ynnu sumarlangt, m. a. tveir við skátaskólann á Úlfrjótsvatni og einn við drengjabúðirnar í Reykholti.
Áður en langt líður, verður lagður nýr vegur að Garðakirkju. Hún mun nú á ný komast til þess vegs og virðingar, sem hún naut fram til ársins 1912, en þá var Hafnarfjarðarkirkja vígð, og eftir það var Garðakirkja lítið notuð.
Fyrir nokkru síðan var ekki annað fyrirsjáanlegt, en að þessi gamla kirkja yrði eyðileggingunni að bráð.
Er ég kvaddi þennan alþjóðlega vinnuflokk og hélt á braut, hljómuðu hamarshöggin og glaðværir hlátrar fólksins.
Hér áður fyrr fóru krossferðariddarar um lönd, brennandi og drepandi. Hér voru hins vegar krossfarar, sem komnir voru um langan veg til að byggja upp.“ – Sv. S.

Í Morgunblaðinu 22. mars 1966 er sagt frá endurvígslu Garðakirkju undir fyrirsögninni: „Meistara Jóns minnzt um land allt á sunnudag – Garðakirkja á Álftanesi endurvígð í tilefni þriggja aldar minningar hans„.
Garðakirkja„Meistara Jóns Vídalíns var minnzt með guðsþjónustu í öllum kirkjum landsins sl. sunnudag, en 300 ár eru liðin frá fæðingu hins mikla kennimanns og ræðuskörungs. Þá var minningarathöfn í hátíðasal Háskólans síðar um daginn. Flutti dr. Steingrímur J. Þorsteinsson prófessor þar erindi um Vidalin og guðfræðistúdentar sungu undir stjórn dr. Róberts A. Ottóssonar. Kl. 9 um kvöldið var haldin hátíð í Skálholtskirkju, sem helguð var minningu Vídalins. Biskup Íslands, hr. Sigurbjörn Einarsson, endurvígði Garðakirkju á Álftanesi þennan dag í tilefni þriggja aldar minningar meistarans.
Mikið fjölmenni var við endurvígslu Garðakirkju á Álftanesi. Voru þar viðstaddir éllefu prestar Kjalarnessprófastsdæmis, auk fyrrverandi biskups, Ásmundar Guðmundssonar. Gengu prestar og biskupar í skrúðgöngu til kirkjunnar ásamt sóknarnefnd. Vígsluvottar voru sr. Garðar Þorsteinsson sóknarpresturinn, sr. Björn Jónsson úr Keflavík, sr. Kristinn Stefánsson og sr. Bjarni Sigurðsson Mosfelli. Fyrir altari þjónuðu biskupinn og sr. Garðar Þorsteinsson. Eftir vígsluathöfnina hélt formaður sóknarnefndar, Óttar Proppé, ræðu í félagsheimili sveitarinnar á Garðaholti, og rakti bygginga sögu kirkjunnar.
Garðakirkja á Álftanesi var byggð árið 1879, að tilhlutan sr. Þórarins Böðvarssonar. Var hún þá með veglegustu kirkjum á landinu. Árið 1914 var hún síðan lögð niður og stóð ónotuð og vanrækt í 52 ár.
Garðkirkja[Árið] 1953 hóf kvenfélag sveitarinnar endurbyggingu og viðreisn kirkjunnar og 1960 var sérstök sókn mynduð þarna að nýju og leit sóknarnefndin á það, sem höfuðverkefni sitt að endurreisa kirkjuna. Arkitekt við endurbygginguna var Ragnar Emilsson og kirkjusmiður Sigurlinni Pétursson. Ragnar Emilsson arkitekt teiknaði einnig altari, skírnarfont og predikunarstól og smíðaði þau Friðgeir Kristjánsson Selfossi, en Ríkarður Jónsson myndhöggvari skar þau út. Er predikunarstóllinn helgaður minningu meistara Jón Vídalíns og setning úr einni ræðu hans skorinn í hann.
Á hátíðinni í Skálholtskirkju flutti dr. Steingrímur J. Þorsteinsson erindi um Jón Vídalín. Biskupinn las upp úr verkum hans og dr. Róbert A. Ottósson stjórnaði söng Skálholtskórsins og guðfræðistúdenta, forsöngvari var Kristinn Hallsson. Þá var almennur söngur og bænagjörð, sem sóknarpresturinn í Skálholti, sr. Guðmundur Ó. Ólafsson, annaðist.
Þess má geta, að dr. Steingrímur J. Þorsteinsson prófessor, flutti í útvarp erindi í tveimur hlutum um líf og starf meistara Jóns. Fyrri hlutinn var fluttur á sunnudagskvöld og nefndist Ævi og Athafnir. Seinni hlutinn var fluttur í gærkvöldi, og nefndist Kennimaðurinn.“

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, 34. tbl 25.09.1955, Árni Óla, Garðakirkja á Álftanesi fer bráðum að rísa úr rústum, bls. 519-521.
-Fálkinn, Nútíma krossfarar á Álftanesi, Endurbygging Garðakirkju, 26. tbl 05.07.1961, bls. 6-9.
-Morgunblaðið 22. mars 1966, Garðakirkja endurvígð, bls. 21.

Garðakirkja

Garðakirkja 2021.

Selgjá

Á Vísindavef HÍ var spurt; „Hverjar eru helstu fornleifar í Garðabæ?“
Svarið, að hluta, var: „Í Selgjá eru friðlýstar seljasamstæður sem telja má einstakar í sinni röð, byggðar upp við gjárbarmana með baðstofum, eldhúsi, kvíum og stekkjum. Þar er varla þverfótað fyrir margra alda gömlum tóftum.“

Búrfell

Búrfellsgígur.

Á vefsíðu Umhverfisstofnunar árið 2020 er m.a. fjallað um friðlýsingu Búrfells, Búrfellsgjár og Selgjár í Garðabæ friðlýst. Hafa ber í huga að minjarnar í Selgjá höfðu áður verið friðslýstar árið 1964.
„Í dag, 25. júní, undirritaði umhverfis- og auðlindaráðherra, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, friðlýsingu Búrfells, Búrfellsgjár og Selgjár í Garðabæ sem náttúruvætti.

Selgjá

Einn Selgjárfjárhellanna – Norðurgjárhellrir.

Svæðið er gott dæmi um jarðmyndanir sem eru sérstakar á landsvísu og hafa hátt vísinda- og fræðslugildi. Jafnframt er svæðið vinsælt útivistarsvæði. Búrfell og hrauntraðir frá gígnum, gjárnar og misgengi eru mjög áberandi í landi. Búrfell er stakur gjall- og klepragígur sem tilheyrir eldstöðvakerfi Krýsuvíkur. Snemma á nútíma fyrir um 8100 árum rann úr Búrfelli Búrfellshraun sem hefur breytilega ásýnd eftir svæðum. Innan svæðisins er talsvert af menningarminjum s.s. fjárskjól og seljarústir sem telja má einstakar í sinni röð, byggðar við gjárbarmana með baðstofum, eldhúsi, kvíum og stekkjum. Hluti svæðisins hefur verið friðlýstur sem hluti af Reykjanesfólkvangi síðan 1975.

Búrfellsgjá

Selgjá og nálæg friðlýsingarsvæði.

Markmið friðlýsingarinnar er að vernda jarðmyndanir, eldhraun, eldstöð og hraunhella sem myndast hafa eftir að jökull hvarf af landinu á síðjökultíma. Markmið friðlýsingarinnar er einnig að varðveita náttúrulegt gróður- og dýralíf svæðisins. Verndargildi svæðisins felst fyrst og fremst í jarðfræðinni og jarðmyndunum svæðisins. Markmið friðlýsingarinnar er jafnframt að auðvelda almenningi aðgengi og kynni af náttúruminjum þar sem svæðið er aðgengilegt og tilvalið til fræðslu og útivistar vegna nálægðar við höfuðborgarsvæðið.

Selgjá

Selgjá – uppdráttur ÓSÁ.

Undirritunin fór fram á vettvangi að viðstöddum fulltrúum Umhverfisstofnunar, Garðabæjar, Styrktar- og líknarsjóðs Oddfellowa, umhverfis- og auðlindaráðuneytis auk fleiri gesta.
Að lokinni undirritun var boðið upp á fræðslugöngu um svæðið sem var leidd af Snæbirni Guðmundssyni jarðfræðingi.“

Búrfell, Búrfellsgjá og Selgjá í Garðabæ var sem sagt friðlýst sem náttúruvætti þann 25. júní 2020.

„Svæðið er mjög gott dæmi um jarðmyndanir sem eru sérstakar á landsvísu og hafa hátt vísinda- og fræðslugildi. Búrfell og hrauntraðir frá gígnum, gjárnar og misgengi eru mjög áberandi í landi. Búrfell er stakur gjall- og klepragígur sem tilheyrir eldstöðvakerfi Krýsuvíkur. Snemma á nútíma fyrir um 8100 árum rann úr Búrfelli Búrfellshraun sem hefur breytilega ásýnd eftir svæðum. Næst upptökunum í Búrfelli er hraunið slétt helluhraun með hrauntröðum eða hraunrásum með hellum. Fjær upptökunum er það klumpahraun. Innan svæðisins er talsvert af menningarminjum s.s. fjárskjól og seljarústir sem telja má einstakar í sinni röð, byggðar við gjárbarmana með baðstofum, eldhúsi, kvíum og stekkjum. Hluti svæðisins hefur verið friðlýstur sem hluti af Reykjanesfólkvangi síðan 1975.

Svæðið er 380 ha að stærð.“

Selgjá

Skilti við Selgjá.

Í auglýsingu á vef Umhverfisstofnunar „nr. 687 25. júní 2020 um friðlýsingu Búrfells, Búrfellsgjár og Selgjár í Garðabæ“, segir:

1. gr.
Um friðlýsinguna.

Búrfellsgjá

Búrfell, Búrfellsgjá og Selgjá.

Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur ákveðið að tillögu Garðabæjar, Styrktar- og líknarsjóðs Oddfellowa og Umhverfisstofnunar að friðlýsa Búrfell, Búrfellsgjá og Selgjá sem náttúruvætti skv. 48. gr. laga um náttúruvernd nr. 60/2013.
Búrfell er stakur gjall- og klepragígur sem tilheyrir eldstöðvakerfi Krýsuvíkur. Snemma á nútíma fyrir um 8100 árum rann úr Búrfelli Búrfellshraun sem hefur breytilega ásýnd eftir svæðum.
Næst upptökunum í Búrfelli er hraunið slétt helluhraun með hrauntröðum eða hraunrásum með hellum. Fjær upptökunum er það klumpahraun.

Búrfell

Búrfell og Kringlóttagjá.

Merkar hrauntraðir eru í helluhraununum næst Búrfelli. Kringlóttagjá er sunnan við Búrfell og Lambagjá við Kaldársel. Búrfellsgjá og Selgjá liggja frá Búrfelli að Urriðakotshrauni. Þær eru í raun sama hrauntröðin, en hún skiptir um nafn við Hrafnagjá. Næst gígnum er Búrfellsgjá þröng og með bröttum veggjum. Þegar kemur niður á jafnsléttu verður hún lægri og víðari. Selgjá er slétt og breið með lágum veggjum. Hún hverfur á kafla þar sem hraunrásir með hellum taka við, en kemur aftur fram á kafla norðar í Heiðmörk. Fjölmargir hraunhellar og skútar eru í Búrfellshrauni. Margir þeirra hafa nýst sem fjárhellar og eru hleðslur við suma þeirra. Langflestir þeirra eru hraunrásarhellar sem myndast þegar hraunrásir tæmast. Margir slíkir eru rétt norðan við enda Selgjár og kallast þeir einu nafni Selgjárhellar. Fjölmargar sprungur og misgengi eru á svæðinu. Stefna þeirra er í langflestum tilvikum til norðausturs. Mestu og virkustu misgengin eru á mörkum Selgjár og Búrfells. Þar gengur Hjallamisgengið þvert yfir hraunið ásamt nokkrum minni misgengjum, þ. á m. Hrafnagjá og Vatnsgjá.

Búrfellsgjá

Við friðlýsingu Búrfellsgjár og Selgjár.

Helstu vistgerðir innan svæðisins eru birkiskógur. Þar er einnig að finna hraunlendi þar sem er fyrst og fremst um að ræða mosahraunavist en einnig lynghraunavist á milli og á stöku stað eyðihraunavist. Á skjólgóðum svæðum sem liggja lægra í landi er að finna lyngmóavist og grasmóavist.
Innan svæðisins er talsvert um friðlýstar fornminjar, fjárskjól og seljarústir sem telja má einstakar í sinni röð byggðar upp við gjárbarmana með baðstofum, eldhúsi, kvíum og stekkjum. Gjáarétt liggur í vesturenda Búrfellsgjár auk fyrirhleðsla, réttargerðis og vatnsbólsins Vatnsgjár. Menningarminjarnar eru friðlýstar samkvæmt lögum um menningarminjar nr. 80/2012.
Svæðið er kjörið til útivistar, umhverfisfræðslu, og rannsókna, en Búrfell og nágrenni er vinsælt
útivistarsvæði. Hluti svæðisins liggur innan Reykjanesfólkvangs.
Hið friðlýsta svæði er 3,4 km2 að stærð.

2. gr.
Markmið friðlýsingarinnar.

Selgjá

Selshellir í Selgjá.

Markmið friðlýsingarinnar er að vernda jarðmyndanir, eldhraun, eldstöð og hraunhella sem myndast hafa eftir að jökull hvarf af landinu á síðjökultíma. Markmið friðlýsingarinnar er einnig að varðveita náttúrulegt gróður- og dýralíf svæðisins. Verndargildi svæðisins felst fyrst og fremst í jarðfræðinni og jarðmyndunum svæðisins. Svæðið er mjög gott dæmi um jarðmyndanir sem eru sérstakar á landsvísu og hafa hátt vísinda- og fræðslugildi. Búrfell og hrauntraðir frá gígnum, gjárnar og misgengi eru mjög áberandi í landi.

Búrfellsgjá

Búrfellsgjá – upplýsingaskilti.

Markmið friðlýsingarinnar er jafnframt að auðvelda almenningi aðgengi og kynni af náttúruminjum þar sem svæðið er aðgengilegt og tilvalið til fræðslu og útivistar vegna nálægðar við
höfuðborgarsvæðið.

3. gr.
Mörk náttúruvættisins.
Mörk svæðisins eru sýnd á korti í viðauka I og afmarkast af þeim hnitum sem gefin eru upp í ISN93 hnitakerfi í viðauka II.

4. gr.
Verndun jarðminja.

Selgjá

Þorsteinshellir við Selgjá.

Óheimilt er að hrófla við, raska eða skemma jarðmyndanir innan náttúruvættisins nema til komi sérstakt leyfi frá Umhverfisstofnun og Garðabæ. Til verndunar jarðmyndana er heimilt, að fenginni umsögn frá Náttúrufræðistofnun Íslands, að fjarlægja gróður sem skyggir á jarðmyndanirnar.
Óheimilt er að planta hvers konar plöntum í jarðmyndunum.
Nánar skal fjallað um verndun jarðminja í stjórnunar- og verndaráætlun.

5. gr.
Verndun gróðurs og dýralífs.

Búrfellsgjá

Minjar í Búrfellsgjá.

Vernda skal náttúrulegt gróðurfar með það að markmiði að ekki verði raskað líffræðilegri fjölbreytni svæðisins.
Óheimilt er að spilla gróðri, öðrum en ágengum framandi tegundum, nema um sé að ræða gróður sem spillir útsýni að jarðmyndunum á svæðinu. Vinna skal að því að fjarlægja ágengar framandi tegundir plantna og/eða dýra sem hafa verið flutt inn á svæðið eða berast inn á það.
Óheimilt er að trufla dýralíf á svæðinu að undanskildum framandi tegundum.
Óheimilt er að sleppa eða dreifa framandi lífverum á verndarsvæðinu þ.m.t. rækta framandi plöntutegundir í náttúruvættinu sbr. reglugerð um innflutning, ræktun og dreifingu útlendra plöntutegunda nr. 583/2000.
Nánar skal fjalla um verndun gróðurs og dýralífs í stjórnunar- og verndaráætlun.

6. gr.
Vernd menningarminja.
Um vernd menningarminja fer eftir lögum um menningarminjar nr. 80/2012.

7. gr.
Umferð um verndarsvæðið.

Selgjá

B-steinninn í Selgjá.

Almenningi er heimil för um verndarsvæðið en er skylt að ganga vel og snyrtilega um svæðið og fylgja þeim umgengnisreglum sem gilda innan þess. Gestir skulu, eftir fremsta megni, fara eftir þar til gerðum stígum og stikuðum leiðum. Ríðandi mönnum er heimil för um svæðið á merktum reiðleiðum.
Akstur vélknúinna ökutækja utan vega er óheimill, sbr. 31. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Innan náttúruvættisins er óheimilt að hafa næturgistingu í tjöldum, tjaldvögnum, fellihýsum, hjólhýsum, húsbílum og öðrum sambærilegum búnaði.
Öll meðferð elds er óheimil á svæðinu, þ.m.t. notkun ferðagrilla.

Selgjá

Skilti við Selgjá.

Hundar og önnur gæludýr skulu ávallt vera í taumi innan verndarsvæðisins og þess skal gætt að þau séu undir tryggri stjórn og að þau valdi ekki truflun fyrir gesti og dýralíf svæðisins.
Notkun fjarstýrðra loftfara er óheimil innan náttúruvættisins nema að fengnu leyfi frá Umhverfisstofnun. Þó er heimilt að nota fjarstýrð loftför, ef nauðsyn krefur, vegna leitar- og björgunaraðgerða og vegna umsjónar og eftirlits Umhverfisstofnunar. Minjastofnun Íslands hefur sömu heimildir innan friðhelgunarsvæðis menningarminja. Að öðru leyti skal farið eftir reglugerð nr. 990/2017
um starfrækslu fjarstýrðra loftfara.
Nánar skal fjallað um umferð um verndarsvæðið í stjórnunar- og verndaráætlun og deiliskipulagi fyrir svæðið.

8. gr.
Umgengni um verndarsvæðið.
Óheimilt er að skilja eftir eða urða úrgang innan verndarsvæðisins og skal allur úrgangur settur í þar til gerð ílát eða hann tekinn með út af svæðinu.

9. gr.
Umsjón.

Selgjá

Fjárhellir í Selgjá.

Umhverfisstofnun hefur umsjón með verndarsvæðinu í samræmi við 2. mgr. 13. gr. og 79. gr. laga nr. 60/2013.
Umhverfisstofnun getur falið einstaklingum, sveitarfélögum eða öðrum lögaðilum umsjón og rekstur sbr. 85. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Til grundvallar samningi um umsjón og rekstur svæðisins skal liggja fyrir stjórnunar- og verndaráætlun fyrir svæðið. Í samningnum skal m.a. kveðið á um réttindi og skyldur samningsaðila, menntun starfsmanna og gjaldtöku.
Minjastofnun Íslands fer með umsjón menningarminja á svæðinu skv. lögum um menningarminjar nr. 80/2012.

10. gr.
Stjórnunar- og verndaráætlun.

Búrfellsgjá

Gróður við Búrfellsgjá.

Umhverfisstofnun ber ábyrgð á að gerð sé stjórnunar- og verndaráætlun fyrir friðlýsta svæðið í samræmi við 81. gr. laga nr. 60/2013. Í stjórnunar- og verndaráætlun skal m.a. fjalla um landnýtingu, mannvirkjagerð, starfsemi, menningarminjar, landvörslu, vöktun, verndun, uppbyggingu, fræðslu og miðlun upplýsinga, verndaraðgerðir, aðgengi og umferð gesta, þ. á m. aðgengi fólks með hreyfihömlun.
Stjórnunar- og verndaráætlun skal gerð í samvinnu við Náttúrufræðistofnun Íslands, Minjastofnun Íslands og eftir atvikum aðrar fagstofnanir og hagsmunaaðila.
Stjórnunar- og verndaráætlun er háð staðfestingu ráðherra.

11. gr.
Rannsóknir og vöktun.
Náttúrufræðistofnun Íslands ber ábyrgð á vöktun á verndarsvæðinu, sbr. 74. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Vöktunaráætlun skal vera unnin í samráði við Umhverfisstofnun og vera hluti stjórnunar- og verndaráætlunar.
Aðrar rannsóknir en rannsóknir Náttúrufræðistofnunar Íslands og Minjastofnunar Íslands sem kunna að hafa í för með sér jarðrask eða truflun dýralífs eru háðar leyfi Umhverfisstofnunar.
Veiting leyfa vegna rannsókna á menningarminjum fer eftir lögum um menningarminjar nr. 80/2012.

12. gr.
Fræðsla.

Selgjá

Selgjá.

Umhverfisstofnun, í samstarfi við Garðabæ, hefur frumkvæði að fræðslu um svæðið. Í fræðsluefni skal upplýst um m.a. umgengnisreglur sem gilda á svæðinu og sérstöðu svæðisins.
Nánar skal kveðið á um fræðslu í stjórnunar- og verndaráætlun svæðisins.

13. gr.
Landnotkun og mannvirkjagerð.

Garðaflatir

Garðaflatir – uppdráttur ÓSÁ.

Allar framkvæmdir, þ.m.t. mannvirkjagerð og aðrar breytingar á landi innan friðlýsta svæðisins eru háðar leyfi Garðabæjar, sbr. skipulagslög nr. 123/2010 og lög um mannvirki nr. 160/2010 og Umhverfisstofnunar, sbr. 2. mgr. 40. gr. laga um náttúruvernd, nr. 60/2013. Innan friðhelgunarsvæða menningarminja þarf einnig að afla leyfis Minjastofnunar Íslands. Framkvæmdir skulu vera í samræmi við samþykkt deiliskipulag og stjórnunar- og verndaráætlun fyrir svæðið.
Við framkvæmdir, starfsemi, rekstur og önnur umsvif utan friðlýsta svæðisins sem áhrif geta haft á verndargildi þess skal fyllstu aðgæslu gætt.
Vegna starfsemi eða framkvæmda, sem geta haft áhrif á friðlýsta svæðið, sem leyfisskyldar eru samkvæmt öðrum lögum, skal taka mið af því við ákvörðun um veitingu leyfis. Leita skal umsagnar Umhverfisstofnunar áður en leyfi er veitt.
Losun jarðefna og úrgangs er óheimil innan friðlýsta svæðisins.

14. gr.
Starfsemi innan svæðisins.

Selgjá

Fjárhellir í Selgjá.

Afla skal leyfis Umhverfisstofnunar vegna skipulagðra viðburða og verkefna sem kalla á jarðrask, aðstöðu, mannafla eða meðferð tækja innan verndarsvæðisins, s.s. vegna kvikmyndagerðar, listviðburða og samkomuhalds. Innan friðhelgunarsvæða menningarminja þarf einnig að afla leyfis
Minjastofnunar Íslands.
Starfsemi skal vera í samræmi við skipulag svæðisins.
Nánar skal fjallað um starfsemi innan svæðisins í stjórnunar- og verndaráætlun.

15. gr.
Notkun skotvopna.

Búrfellsgjá

Búrfellsgjá – hellir efst í gjánni.

Notkun skotvopna er bönnuð innan marka náttúruvættisins. Veiðar á ágengum framandi tegundum eru heimilar í samræmi við ákvæði laga nr. 64/1994, um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum enda skulu þær stundaðar á vegum Garðabæjar og í samráði við Umhverfisstofnun.
Nánar skal fjallað um veiðar innan náttúruvættisins í stjórnunar- og verndaráætlun svæðisins.

16. gr.
Viðurlög.
Um brot gegn friðlýsingunni fer samkvæmt lögum nr. 60/2013 um náttúruvernd.

17. gr.
Gildistaka.
Friðlýsingin öðlast þegar gildi.

Bráðabirgðaákvæði.

Selgjá

Stekkur í Selgjá.

Þar til staðfest deiliskipulag og stjórnunar- og verndaráætlun fyrir svæðið liggja fyrir er Umhverfisstofnun heimilt að veita leyfi fyrir framkvæmdum ef þær ganga ekki gegn verndarmarkmiðum friðlýsingarinnar.
Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, 25. júní 2020.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson.
Jón Geir Pétursson.

Selgjá

Selgjárhellir. Einnig nefndur Þorsteinshellir.

Í Örnefnaskrá 1964 segir um Selgjá: „Grunn en allbreið gjá syðst í Urriðakotshrauni. Nær allt suður í Hrafnagjá, við Gjáarrétt. Í þessari gjá mun vera að finna Norðurhellnasel Álftnesinga 1703.“ Einnig er þar: „Nær hún allt frá Sauðahelli suður á Norðurhellagjárbarm.“ Selgjárbarmar eru tveir, „annar að sunnan, hinn að vestan“, Norðurhellnagjárbarmur syðri er „nær Vífilsstaðahlíð“ en Norðurhellnagjárbarmur vestri „nær Tjarnholtinu“.
Í Ódagsettri Örnefnalýsingu segir: „Þegar komið er framhjá Sauðahellisvörðu hallar niður í Selgjána og nefnist þá stígurinn Selgjárstígur. Vestast í Selgjánni er Selgjárhellir Selgjárbyrgin og Selgjárselin eru 33 að tölu, í 11 sambyggingum, því hér höfðu Álftnesingar í seli lengi eða allt fram á 18.öld. Við Selgjárbarminn nyrðri er svokallaður B-steinn steinn með bókstafnum B. Á suðurhlið er svo Selgjárbarmurinn syðri. Við syðsta selið liggur stígurinn upp á barminn og er þar Selgjárvarðan. Þegar kemur hér spölkorn suður er komið að úfnu hrauni fram undan svarthömrum, nefnist Kargi. Selstæðið þarna var einnig nefnt: Norðurhellar, Norðurhellnasel og barmarnir því kallaðir Norðurhellnaselsbarmur nyrðri og Norðurhellnabarmur syðri.“ (Bls. 4).“

Selgjá

Eitt seljanna í Selgjá.

Í Örnefnalýsingu 1988 segir: „Úfna hraunið á móts við Svarthamra í Vífilsstaðahlíð kallast Kargi. Suður af Karganum er mikil hrauntröð, Selgjá. Hún er framhald Búrfellsgjár, sem nær upp í Búrfell. Í Selgjá eru rústir af mörgum gömlum byrgjum, og eru sum þeirra í Urriðakotslandi, en flest í Garðakirkjulandi. […] Í landamerkjabréfi er Selgjá nefnd Norðurhellagjá. Er það nafn þá dregið af Selgjárhelli og fleiri hellum í norðurenda hrauntraðarinnar, sem hafa þá heitið Norðurhellar.“ Í lýsingu á gjánni frá 1983 segir: „Á vinstri hönd, eða til suðurs, sjáum við af brúninni grunna, en nokkuð breiða gjá í hrauninu, sem er framhald af Búrfellsgjá. Þetta er Selgjá (Norðurhellragjá).

Selgjá

Selgjá – selsminjar.

Í Selgjá eru margar vallgrónar seljarústir, sem flestar eru fremur smáar í sniðum og minni en t.d. Vífilsstaðasel. Rústirnar standa flestar þétt við barma gjárinnar beggja vegna, en aðrar eru dálítið fjær. Selstaða þessi er nefnd í Jarðabók 1703 og virðast samkvæmt henni átta kóngsjarðir á Álftanesi hafa haft þar í seli. Athyglisvert er, að ávallt er rætt um selstöðu þarna í þátíð og jafnvel þannig, að hún virðist að því komin að falla í gleymsku.“ (Þ.J. og Ó.K.: 27). Minjarnar í Selgjá eru friðlýstar: „Urriðavatn: Seltóftir margar, hellar og önnur mannvirki í og við norðurenda Selgjár. Skjal undirritað af KE 30.04.1964. Þinglýst 05.05.1964.“

Selgjá

Selgjá – Norðurhellahellrir.

Sjá meira HÉR um minjarnar í Selgjá.

Heimildir
-Ari Gíslason: Ódagsett örnefnalýsing Urriðakots. 1990, Fornleifaskrá Skrá um friðlýstar fornleifar. Ágúst Ó. Georgsson tók saman.
-Gísli Sigurðsson: 1964, Skrá yfir örnefni og fiskimið í Álftaneshreppi hinum forna: Bessastaðahreppi: Garðahreppi: Hafnarfirði og Hraunum: Urriðakot nr. A154, 158, 162-3 / B155, 167-8.
-Svanur Pálsson, 1978, bætt 1988: Örnefnalýsing Urriðakots skráð eftir Guðbjörgu Guðmundsdóttur frá Urriðakoti.
-Þorkell Jóhannesson og Óttar Kjartansson, 1983: „Fjórar leiðir í Gjáarétt“. Hesturinn okkar. Bls. 46-59. Rvk.
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=28813
-https://ust.is/umhverfisstofnun/frettir/stok-frett/2020/06/25/Burfell-Burfellsgja-og-Selgja-i-Gardabae-fridlyst/
-https://ust.is/nattura/natturuverndarsvaedi/fridlyst-svaedi/sudvesturland/burfell-gardabae/
-https://ferlir.is/selgja-selin/

Sel í Selgjá

Sel í Selgjá – uppdráttur ÓSÁ.

Skansinn

Í Fréttabréfi Ættfræðifélagsins 2013 fjallar Guðfinna Ragnarsdóttir m.a. um „Óla Skans„.

Óli Skans, Óli Skans
ógnar vesalingur Vala hans, Vala hans
Veit nú hvað hún syngur…
Óli hlaut, Óli hlaut
auman reynsluskóla.
Vala braut, Vala braut
viðbeinið í Óla.
Óli, Óli, Óli skans.
Voðalegur vargur er hún
Vala konan hans.

Skansinn

Skansinn – uppdráttur ÓSÁ.

Allir kannast við þessar ljóðlínur. En hver var hann þessi Óli Skans?
Fullu nafni hét hann Ólafur Eyjólfsson og var sonur hjónanna Eyjólfs Jónssonar (1794-1861) og Málfríðar Ólafsdóttur (1804-1875) en þau bjuggu á Skansinum á Álftanesi. Ólafur var fæddur 26. nóvember 1842 og lést 11. júní 1914.

Skólanaust

Skólanaust við Skansinn.

Skansinn var hjáleiga frá Bessastöðum. Þar var einnig lendingin frá Bessastöðum. Skansinn var gamalt virki, kringlóttur, upphlaðinn garður fyrir fallbyssur fógetanna á Bessastöðum „og til skamms tíma voru kúlur úr byssum þessum uppi á lofti í Bessastaðakirkju“ segir í bókinni Sjósókn – Endurminningar Erlends Björnssonar Breiðabólsstöðum. Endurminningarnar voru skráðar af Jóni Thorarensen og gefnar út í Reykjavík 1945.
Á Skansinum, segir Erlendur enn fremur, var lítil torfbaðstofa með þili á suðurgafli. Túnbleðillinn fóðraði eina kú.

Niðursetningur að norðan

Skansinn

Skansinn og bær Óla skans.

Málfríður Ólafsdóttir, móðir Óla Skans, var ættuð að norðan. Hún er sögð niðursetningur á Litla-Vatnsskarði Holtastaðasókn í Húnavatnssýslu árið 1816. Hún fermdist 1819 frá sama stað. 1835 er hún komin suður og er þá á Hvaleyri í Garðasókn í Gullbringusýslu. Í Mt. 1845 er hún húsfreyja á Skansinum við Bessastaði og 1860 er hún sögð sjómannsfrú á sama stað.
Eyjólfur, faðir Óla Skans, er sagður fósturpiltur í Káraneskoti í Meðalfellssókn í Kjós í Mt. 1801, hann er léttadrengur á Reynivöllum í Reynivallasókn í Kjós árið 1816 og tómthúsmaður og veiðimaður á Hvaleyri í Garðasókn 1835 og sjómaður á Skansinum við Bessastaði 1860.

Lífsglaður
SkansinnÍ endurminningum sínum lýsir Erlendur Ólafi þannig: „Hann var meðalmaður að vexti, heldur grannur, dökkur í andliti, langleitur, ennið lágt, nefið frekar stutt, en allhátt. Gekk hann alltaf alrakaður. Hann var með frekar ljósleitt, slétt og sítt hár, sem var skipt fyrir miðju. Eyrun voru stór og áberandi. Hakan var óvenjulega breið. Hann var lotinn í herðum. Var hann þrifnaðarmaður hinn mesti, kátur, fjörugur og lífsglaður, en enginn söngmaður. Hann var kenndur við fæðingarstað sinn og kallaður Óli Skans, og er við hann kennt hið alkunna danslag, sem allir þekkja, en vísan er svona:

„Óli Skans, Óli Skans,
er nú hér á róli.
Fía hans, Fía hans
fær hjá honum skjólið.
Óla er kalt á kinnunum
Fía vill ei orna´honum.
Fram í eldhús til hennar
tíðum leggur göngurnar.

Bessastaðir

Bessastaðir – Skansinn; skilti.

Ekki stemmir þessi gamla vísa við þá romsu sem við syngjum og ekki er gott að vita hver þessi Fía er sem ekki vill orna honum um kinnarnar. Eftir því sem ég best fæ séð átti Ólafur aðeins eitt barn, og ekki var móðir þess nein „Fía“. Og Vala kemur heldur hvergi við sögu.“

Málfríður Ólína
Barnsmóðir Ólafs var Ragnheiður Illugadóttir var fædd 1855. Ragnheiður var langömmusystir mín. Hún lést 62 ára gömul, árið 1917, og hvílir í merktu leiði í Garðakirkjugarði á Álftanesi. Í Íslendingabók er hún er sögð lausakona og bústýra, lengst af í Hafnarfirði. Hún var ein fjögurra systra frá Skógtjörn á Álftanesi.

Skansinn

Skansinn – uppdráttur.

Foreldrar hennar voru Illugi Árnason (1806-1865) og Halldóra Gamalíelsdóttir (1820-1894). Þau bjuggu á Skógtjörn og Svalbarða á Álftanesi.
Dóttir Ólafs og Ragnheiðar fékk nafn föðurömmu sinnar og föður og var skírð Málfríður Ólína Lára. Hún var fædd 2. nóvember 1877 í Lásakoti á Álftanesi. Þegar hún fæðist eru báðir foreldrar Óla Skans látin og sömuleiðis Illugi faðir Ragnheiðar. Aðeins móðuramman Halldóra er á lífi, en hún virðist hvergi koma hér við sögu.

Hjá pabba sínum

Skansinn

Bessastaðir – Skansinn.

Þau Ólafur og Ragnheiður hafa ekki átt mörg ár saman, því í mt 1880, þegar Málfríður Ólína litla er aðeins tveggja ára, er hún á framfæri föður síns sem þá er í Hlíð á Álftanesi. Ragnheiður virðist fljótt hafa leitað á önnur mið og 14. júlí 1881, þegar Málfríður Ólína er á fjórða árinu, á hún soninn Níels Níelsson með dönskum sjómanni. Sá sonur dó erlendis, úr spönsku veikinni, árið 1918. Síðan virðist hún hefja sambúð með Sigurði Ólafssyni, húsmanni í Hafnarfirði. 1884 og 1886 eiga þau Ragnheiður og Sigurður svo dæturnar Jóhönnu, sem dó strax, og Halldóru. Í mt. 1890 er Ólína 12 ára og er þá til heimilis í Hraunprýði í Garðasókn, hjá móður sinni, 30 ára, og Sigurði sambýlismanni hennar, 50 ára, ásamt Halldóru, sem þá er 4 ára og Níelsi sem er 9 ára. Halldóra flutti til Noregs, var tvígift og átti amk 10 börn.

Skansinn

Ljóðið um Óla skans.

Hvenær sambúð þeirra Ragnheiðar og Sigurðar lauk veit ég ekki, en 1895 á Ragnheiður dótturina Júlíönu Guðmundínu með Guðmundi Jónssyni, ættuðum úr Borgarfirði. Júlíana var húsfreyja á Litlu-Strönd í Rangárvallasýslu. Hún lést 1945 aðeins fimmtug að aldri. Hún mun hafa átt tvo syni. [Saga þeirra sona kann að vera áhugaverð].

Liðlegur sjómaður

Um Ólaf kvað faðir skrásetjarans, Erlendur, efirfarandi vísu:
Eyjólfs greiða kund við kjörum,
kola og seiðum fargar sá.
Ólafur skeiðar Skans úr vörum
skeljungs breiðan völlinn á.
Og Erlendur heldur áfram: „Ólafur þessi var vinnumaður nokkur ár hjá móður minni, og var hann einn fyrsti háseti hjá mér, er ég byrjaði formennsku. Hann var liðlegur sjómaður, og féll mér ágætlega við hann.“

Holdsveiki
Skansinn
Af einkabarni Ólafs, Málfríði Ólínu, er það að segja að hún flutti til Reykjavíkur 1895 og giftist þar árið 1900 Jóhannesi Kristjánssyni, sem ættaður var úr Borgarfirði.
Í mt 1901 býr hún á Smiðjustíg 4 í Reykjavík, ásamt Jóhannesi manni sínum, og eins árs barni þeirra. Í fyllingu tímans eignuðust þau Ólína og Jóhannes sjö börn og er stór ættbogi frá þeim kominn.
LaugarnesAf Ólafi er það að segja að í mt 1890, þegar Málfríður Ólína er hjá móður sinni, stjúpa og hálfsystkinum í Hraunprýði, er hann vinnumaður í Landakoti á Álftanesi. En einhvern tíma á næsta áratug veikist hann af holdsveiki og flytur til Reykjavíkur 1898. 1901 er hann skráður sjúklingur á Holdsveikraspítalanum í Laugarnesi. Þar er hann enn í mat 1910 og þar kveður hann þetta jarðlíf 11. júní 1914. Þá hafði Málfríður Ólína, einkadóttir hans, nýlega eignast sitt sjöunda og síðasta barn. Málfríður Ólína lést 77 ára gömul 29. maí 1954.

Skansinn

Skansinn 2020.

Hvort hann Óli Skans, þessi fyrrum káti, fjörugi og lífsglaði maður, sem holdsveikin lék svo grátt, leit barnabörnin sín nokkurn tíma augum, fer engum sögum. Hann er orðinn veikur maður þegar það elsta fæðist og umgengnin við holdsveika var í algjöru lágmarki.
En trúlega munum við öll, eftir þennan lestur, skyld sem óskyld, minnast hans og örlaga hans, þegar við tökum sporið, dönsum og syngjum hástöfum Óli Skans, Óli Skans…“.

Heimild:
-Fréttabréf Ættfræðifélagsins; Óli Skans, Guðfinna Ragnardóttir, 3. tbl. 01.09.2013, bls. 14-15.
Ættriðngafélagið

Garðahverfi

Skúlastaðir var frumbýli Garða á Álftanesi.

Garðar

Garðar á Garðaholti í Garðahverfi.

Ingólfur Arnarsson, er fyrstur norrænna manna nam Reykjanesskagann, ánafnaði frændfólki, vinum og venslafólki er á eftir honum komu landkostum úr landnámi hans. Ásbjörn Össurarson, bróðurson Ingólfs, nam land milli Hraunholtslækjar og Hvassahrauns. Álftanes allt, og bjó á Skúlastöðum. Hans son var Egill, faðir (Össurar, föður) Þórarins, föður Óláfs, föður Sveinbjarnar, föður Ásmundar, föður Sveinbjarnar, föður Styrkárs (101. kafli Landnámu (Sturlubók). Skúlastaðir voru utan í hæðardragi ofan fjarðar gegnt Hvaleyri.
Skúlastaðir áttu kúaselstöðu í Litlumýri á Bessastaðanesi, auk sauðaselstöðu í Helgadal. Ásbjörn reyndi, líkt og aðrir landeigendur, að gera nágrönnum sínum mörk jarðarinnar ljós er á var herjað og nefndi í því sambandi vænlega gróninga eina með lækjarfarvegi úr Markraka á ystu mörkum hennar; „Skúlatún“, ókunnugt um að u.þ.b. 70 árum síðar áttu eftir að koma upp jarðeldar í Grindarskörðum er létu hraun renna niður hlíðarnar er nánast eyddu gróningunum, nema þeim er hæst stóð – og sést enn.

Skílatún

Skúlatún norðanvert.

Skúlastaðir gætu ekki hafa verið í Skúlatúni því allir bæir landnámsmanna á Reykjanesskaganum voru við sjávarsíðuna.

Hefur hóllinn sá hæsti æ síðan verið nefndur „Skúlatún“, til minningar fyrsta ábúandans. Hafur-Björn og bræður hans, afkomendur Molda-Gnúps, sem hafði byggt Krýsuvík (þar sem nú er Húshólmi undir (G)Núpshlíð, höfðu þá ásælst jarðnæðið, enda skammt norðan landamerkjanna, auk þess Molda-Gnúpur þótti lítt friðvænlegur.
Þegar selstaðan í Litlumýri lagðist af fékk afkomandi Skúla, Bessi, aðstöðuna til afnotar og byggði sér þar nálægan bæ, sem jafnan hefur verið nefndur „Bessastaðir“. Í nútíma hefði sá bær jafnvel mátt heita „Guðnastaðir“ eða „Höllustaðir“.

Urriðakot

Urriðakot – fornleifauppgröftur neðan bæjarins; forn sel frá Hofstöðum.

Annar afkomandi fékk Hofsstaði. Sá hafði kúaselstöðu við Urriðavatn og fjársel við Grunnuvötn.
Vífill, einn þræla Ingólfs, hafði fengið Vífilsstaði. Sá hafði í seli ofan Hlíða, þar sem nú eru tóftir Víðistaðasels.

Garðar

Garðar – Túnakort 1918.

Þegar fram liðu stundir eftir árþúsundið var kirkja reist á frumbýlinu. Húsráðendur, prestarnir fýsti lítt að kenna bæinn við heiðingjann þann er hann fyrst byggði, enda fátt þá til vitneskjunnar fyrrum. Þegar þar var komið höfðu nokkur kotbýli, búin leiguliðum, byggst upp í kringum bæjarstæðið. Einstaka ábúendur töldu ráðlegt að afmarka skika sína með garðshleðslum. Prestinum fannst að sér sorfið og fyrirskipaði slíkt hið sama svo enginn kotbændanna yrði í vafa um hvar mörk stórbýlisins væri versus þeirra. Varð þá til bæjarnafnið „Garðar“, enda þá orðið nauðsynlegt að aðskilja hinn forna sið frá hinum „nýja“.

Bessi reyndist drjúgur umfram efni, kom á fót ágætu búi og vildi láta að sér kveða. Hafði hann frumkvæði að því að Álftanesbændur sammæltust um selstöður í Selgjá, norðan Helgadals. Garðabóndi færði þá selstöðu sína úr Helgadal að Kaldá.

Magnús Már Lárusson

Magnús Már Lárusson.

Magnús Már Lárusson, prófessor, skrifaði grein í jólablað Alþýðublaðs Hafnarfjarðar árið 1960. Greinin var framhald greinar hans í blaðið árið 1957 er nefndist “Sitthvað um Fjörðinn”. Þar skrifar hann m.a. um Skúlastaði.
“Elzta saga byggðar á Reykjanesskaga er halla óljós og gloppótt. Heimildir eru fáar og stangast iðurlega á. Náttúruhamfarir, eldgos og landbrot hafa geisað án þess að setja teljandi spor í heimildir. Og örnefni hafa týnzt eða breyzt.
Í sóknarlýsingu sinni segir síra Árni í Görðum um eyðijarðir, að hann viti ekki um neina, “nema það skyldu vera Skúlastaðir, sem mælst er hafi verið jörð áður fyrr meir, og hvar af skuli finnast minjar uppi í hrauni, suður frá Hvaleyri.” Það er sorglegt að hann skuli ekki tilgreina staðsetninguna skilmerkilegar.“

Selgjá

Selgjá – uppdráttur ÓSÁ.

Svæði þetta er stórt mjög, en Jarðabók Árna Magnússonar segir, að staðurinn í Görðum eigi selstöðu, þar sem heitir við Kaldá, og eru þar bæði hagar og vatnsból gott. Í öllum máldögum Garða er svæði þetta nefnt; “Afrétt í Múlatún”, t.d. DI iv 108, vi 123, xv 638 og var síra Árna þetta kunnugt, enda er pláss þetta í Garðalandi. Skúlatún er vafalaust afbökun úr Múlatúni.”

Sé lýsing Brynjólfs frá Minna-Núpi í Árbók fornleifafélagsins 1908 [1903] athuguð, þá er hún ekki sannfærandi um, að þar hafi býli verið. Enda eigi heldur lýsing Þorvalds Thoroddsen í Ferðaból I.

Þekktustu staðir á Álftanesi eru Bessastaðir og Garðar. Í Landnámu er tveggja jarða getið innan þess svæðis sem Garðabær nær til. Ásbjörn Özurarson, bróðursonur Ingólfs Arnarsonar, er sagður hafa búið á Skúlastöðum, en Garðakirkja nam síðar land milli Hraunsholtslækjar og Hvassahrauns og Álftanes allt.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir – loftmynd 1954.

Eru munnmæli um að Skúlastaðir hafi verið ein jörðin en hin jörðin hafi verið Vífilsstaðir, eða Vífilstóftir, sem þó telst ekki til hinna eiginlegu landnámsjarða, en hún var byggð af Vífli. Vífilsstaðir munu fljótlega eftir landnám hafa komist í eigu kirkjunnar, fyrst Viðeyjarklausturs, en árið 1558 eignaðist Garðakirkja jörðina.
Talið er að kirkja hafi verið að Görðum á Álftanesi allt frá því að kristni var lögtekin á Íslandi árið 1000. Garðakirkju er fyrst getið í heimildum um 1200 í kirknamáldaga Páls biskups Jónssonar.

Bessastaðanes

Bessastaðanes – uppdráttur ÓSÁ.

Í „Bessastaðaannáli“ forsetaskrifstofunni frá 1968 segir um Skúlastaði:
Landnámabók segir að Ásbjörn Össurarson, bróðursonur Ingólfs Amarsonar, hafi numið land milli Hraunholtslækjar og Hvassahrauns, Álftaness allt, og búið að Skúlastöðum.

Bessastaðir eftir Tryggva Gíslason, lektor. Útvarpsþáttur fluttur 30. júní 1968 Sá, sem nam Álftanes, hét Ásbjörn Özurarson, bróðursonur Ingólfs. Bær hans er sagður hafa heitið á Skúlastöðum, en það bæjarnafn er ekki lengur til í hinu forna Landnámi Ásbjarnar milli Hraunsholtslækjar og Hvassahrauns, en í hrauninu undir Lönguhlíðum, suðaustan Hafnarfjarðar, heitir lítill grasgeiri Skúlatún og hraunið þar norður af Skúlatúnshraun, en óvíst er með öllu, að það eigi nokkuð skylt við hið forna bæjarheiti á Álftanesi, Skúlastaði.
Engar spurnir fara af manni þeim, Bersa eða Bessa, sem Bessastaðir gætu heitið eftir.

Garðaholt

Garðaholt – jarðnæði.

Garðakirkja í Görðum á Álftanesi er sóknarkirkja Garðasóknar. Kirkja hefur staðið í Görðum frá fornu fari. Garðakirkja var frá upphafi Péturskirkja en algengt var, er menn fóru að reisa kirkjur hér á landi eftir kristnitöku, að þeir helguðu kirkjur sínar Pétri postula. Máldagar greina frá, að Bessastaðakirkja sé í fyrstu talin Maríukirkja og síðar Nikulásarkirkja, og bendir það til þess, að Garðakirkja sé eldri. Í þessu felst skýr ábending um háan aldur hennar, því svo miklar eignir hlóðust ekki á kirkjur yfirleitt nema þá á all löngum tíma. Sterk rök virðast því hníga að því, að Garðar séu hin forna landnámsjörð Ásbjarnar Össurarsonar, bróðursonar Ingólfs Arnarsonar, og jafnframt með elstu kirkjustöðum þessa lands.

Heimildir m.a.:
-forseti.is
-alftanes.is
-Úrval, 11. hefti 01.11.1968
-https://timarit.is/page/8005106?iabr=on#page/n51/mode/2up
-Aðalheimild: Vilhjálmur Þ. Gíslason: Bessastaðir, Reykjavík 1947.
-https://gardasokn.is/gardakirkja/
-Forsetakynning, 2. tbl. 10.06.1968.
-https://timarit.is/page/5374305?iabr=on#page/n0/mode/2up
-Magnús Már Lárusson, Enn úr Firðinum, Alþýðublað Hafnarfjarðar (jólablað) 1960, bls. 4-5.

Garðahverfi

Garðahverfi – bæir.

Álftanes

Í þjóðsögunni um „Steinarnir á Álftanesi“ er getið um tvo staka steina sunnan og neðan við Grástein á Álftanesi. Grásteinn er þekktur af sögnum, en fáir hafa veitt framangreindum steinum sérstaka athygli. Sagan segir:

„Það vita allir að flestir hólar eða steinar sem nokkuð kveður að eru byggðir af fólki því sem álfar heita. Nú eru álfar misjafnir, sumir góðir, en sumir illir. Þeir góðu gjöra engum mein nema þeir sé áreittir af mönnum að fyrra bragði; hinir þar á móti vinna mörgum manni tjón.

Álftanes

Steinarnir tveir á Álftanesi – Grásteinn fjær.

Góðu álfarnir eru margir ef ei allir kristnir og halda vel trú sína. Mega þeir sín mikils og er það heill mikil að hjálpa álfum og koma sér vel við þá því þeir eru nokkurs konar andar eða verur. Flestir álfar eru alvarlegir og hafa óbeit á öllum gáska og gapaskap. Skyldi maður því forðast allt ósiðsamlegt nálægt bústöðum þeirra því annars getur hlotizt illt af því, því álfar reiðast illa. Þetta hefur og Álfa-Árni tekið fram. Hann varar menn við að ganga í steininn mikla sem stendur fyrir utan Hvamm í Hvítársíðu; þar búa illir álfar og alheiðnir.

Grásteinn

Grásteinn á Álftanesi.

Svo er t. a. m. um steina tvo á grandanum milli Brekku og Lambhúsa á Álftanesi. Þeir standa sunnanvert við götuna skammt fyrir neðan Grástein. Þessir steinar eru sjálfsagt álfabæir því ef maður hleypur af ásetningi á milli þeirra með gáska og hlátri eða ósiðsemi þá hlekkist þeim eitthvað] á sem það gjörði eða hann deyr jafnvel áður en langt um líður. Viti maður ei af þessum álögum á steinunum þá sakar ei þó milli þeirra sé gengið. Ei sakar heldur þó milli þeirra sé gengið með siðsemi og hæversku. Þegar Steindór Stefánsson heyrði sögu þessa þókti honum hún ótrúleg og gjörði hlátur að henni. Bar þá svo vel við að hann gekk frá kirkju þegar hann heyrði hana og hljóp hann þá milli steinanna með öllum illum látum. En álfar láta ei að sér hæða, Steindór drukknaði á SkerjafirÖi stuttu eftir. Við þetta minnkaði nú ekki trúin á steinunum því hefði Steindór ekki hlaupið á milli þeirra, þá hefði hann ekki drukknað. Veturinn 1844 tóku tveir piltar sig saman og ætluðu að reyna steinana; það vóru þeir Magnús Grímsson og Páll Jónsson. Þeir hlupu nú milli þeirra og gjörðu allt sitt til, en ekki hefur það á þeim séð; þeir lifa enn góðu lífi.“

Heimild:
-Íslenskar þjóðsögur og ævintýri, Jón Árnason, bókaútgáfan Þjóðsaga, bls. 8-9.

Grásteinn

Grásteinn

Búrfellshraun

Á upplýsingaskilti við Bala (Garðabæjarmmegin) í Hafnarfjarðarhrauni má lesa eftirfarandi um Búrfellshraun:

„Við stöndum á jaðri Búrfellshrauns sem stur sterkan svip á ásýnd Garðabæjar og Hafnarfjarðar.
Hér nefnist hraunið Klettar en norðan á nesinu nefnist sama hraun Gálgahraun þar sem það nær í sjó fram. Héðan eru 9 km í beinni loftlínu í gíginn Búrfell þar sem hraunið á upptök sín.

Náttúrulegt vinasamband
BúrfellshraunMeð þessu skilti innsigla Hafnarfjörður og Garðbær yfir náttúrulegu vinasambandi.
Markmið friðlýsingar er að vernda fjöru og útivistarsvæði í fögru hrauumhverfi sem vaxið er náttúrulegum gróðri svo sem mosa- og lynggróðri.
Jafnframt er það markmið friðlýsingarinnar að vernda búsetulandslag og menningarminjar, en á svæðinu eru tóftir, fiskreitir, grjóthleðslur, gerði, garðar og vagnslóðar. Aðgengi að svæðinu er gott og þar er því ákjósanlegt til fræðslu og útikennslu. Það er ósk bæjamma að þessi staður, Bali, sé táknrænn fyrir sambandið og að almenningur geti komið hér og notið náttúru og friðsældar.

Aldur

Búrfell

Búrfell.

Búrfellshraun rann frá Búrfelli í sjó fram fyrir um 8000 árum yfir gömul hraun og berggrunn svæðisins. Búrfell er stakur gígur á miklu sprungu- og misgengissvæði sem teygir sig frá Krýsuvík, um Heiðmörk og norður fyrir Rauðavatn. Búrfellsgígurinn er það eldvarp sem næst er höfuðborgarsvæðinu, af þeirri gerð sem nefnist eldborg.

Hrauntraðir

Búrfellshraun

Á þessu korti má sjá hversu víðfeðmt Búrfellshraunið er eða um 16 ferkílómetrar. Einng sést hvernig það hefur greinst í tvær meginkvíslar sem svo hafa sameinast og runnið í sjó fram, bæði í Skerjafjörð og Hafnarfjörð.

Búrfellsgjá

Skýringar með korti hér að ofan.

Miklar hrauntraðir mynduðust í Búrfellshrauni meðan á gosinu stóð þegar hrauná rann úr gígnum í lengri tíma og myndaði hraunfarvegi. Þekktastar eru Búrfellsgjá og Selgjá, en Búrfellsgjá á sér fáa sína líka. kringlóttagjá er all sérstæð og hefur orðið til í lokahrinu gossins. Hraunelfan rann meðfram Vífilsstaðahlíð og þar myndaðist Selgjá í tröð og rásum undir storknuðu yfirborðinu. Neðan við Selgjá undir Vífilsstaðahlíð rann hraunáin bæði á yfirborðinu og í rásum undir storknuðu yfirborðinu.

Hellar

Þorsteinshellir

Þorsteinshellir – fjárhellir.

Í Búrfellshrauni eru fjölmargir skútar og hraunhellar, þeir þekktustu Maríuhellar. Flestir hellarnir við Vífilsstaðahlíð eru svokallaðir hraunrásarhellar, sem mynduðust þegar kvikan barst ekki lengur til hraunrásarinnar, en rennsli úr henni hélt áfram þar sem landhalli var nægur. Þannig tæmdist hraunrásin og hellar mynduðust. Iðulega hefur þakið á hraunrásinni veriðs vo þunnt að víða hefur það fallið niður í hrauntröðina. Því er erfitt að segja hvar einn hellir endar og annar byrjar.

Jökulmenjar

Jökurispur

Jökulrispur í Heiðmörk.

Jökulruðningur sem ísaldarjökullinn skildi eftir þegar hann hopaði fyrir um tíu þúsund árum hylur víða holt og hæðir. Af jökulrákuðum klöppum má sjá síðasta skrið jökulsins á svæðinu. Ummerki hæstu sjávarstöðu í lok ísaldar eru í um 40 metra hæð yfir sjó hér í næsta nágrenni. Sjór hefur því náð í skarðið á milli Urriðaholts og Vífilsstaðahlíðar þegar hæst stóð í lok ísaldar.
Glögg ummerki eftir ísaldarjökulinn má finna víða í nágrenninu, s.s. á Hamrinum í Hafnarfirði, á holtunum ofan Garðabæjar og á hryggjarhæðum Kópavogs,s.s. Borgarholti og Víghólum.

Sprungur og misgengi

Vatnsgjá

Vatnsgjá í Búrfellsgjá.

Við Selgjá má víða sjá sprungur og misgengi sem hafa verið virk eftir að Búrfellshraun rann. Þar skera Hjallamisgengið og nokkur minni misgengi hraunið þvert og hefur land sigið austan þeirra um u.þ.b. 12 m síðan hraunið rann. Vatnsgjá er sprunga sem opin er niður í grunnvatnsborð, svo í botni hennar er ágætt neysluvatn. Sömu aðstæður má sjá við misgengið í Helgadal og í Kaldárbotnum.  Gleggstu misgengin á Reykjanesskagnum eru í Voga- og Strandarheiðinni.

Hin mörgu heiti Búrfellshrauns

Búrfellshraun

Nokkrir hellar í Búrfellshrauni.

Hraunstraumurinn sem rann frá Búrfelli nefnist einu nafni Búrfellshraun, en hefur fjölmörg sérnöfn svo sem Smyrlabúðarhraun, Gráhelluhraun, Lækjarbotnahraun, Svínahraun, Urriðakotshraun, Vífilsstaðahraun, Hafnarfjarðarhraun, Garðahraun og Gálgahraun.

Athyglisverðir staðir
Eldstöðin Búrfell, Búrfellsgjá með Gjáarrétt og Vatnsgjá, hrauntröðin Selgjá þar sem fundist hafa 11 seljasamsæður, Maríuhellar sem eru fyrrum fjárhellar, hrauntanginn út í Urriðavatn og Gálgahraun með Gálgakletti og Fógetagötu.“

Við Maríuhella er jafnframt upplýsingaskilti um Búrfellshraun og hellana. Þar stendur:

Maríuhellar

Maríuhellar

Maríuhellar.

„Maríuhellar er samheiti á þremur hellum í hrauninu á landamerkjum Urriðavatns og Vífilsstaða, Vífilsstaðahelli, Urriðakotshelli og Draugahelli. Tveir fyrstnefndu hellarnir voru áður fyrr notaðir sem fjárhellar en víða í Búrfellshrauni er að finna hella og skúta sem voru fjárskjól. Fjárhellar eru fornleifar og friðaðir samkvæmt þjóðminjalögum. Maríuhellar eru líklega kenndir við Maríu guðsmóður. Í landamerkjalýsingu Urriðakots frá 1890 er talað um „fjárhellra mót Vífilsstöðum sem fyrrum hjetu Maríuhellar“. Ef til vill er talið gæfulegt fyrir féð að kenna fjárhella við hana.

Draugahellir
Draugahellir er vestastur Maríuhella, um 65-70 m langur inn í botn en mjög lágur innst. Inngangurinn í hann er um þrönga gjótu sem liggur niður með vegg hraunrásarinnar og stórgrýtis úr hrundu loftinu.

Urriðakotshellir

Maríhellar

Urriðakotshellir – fjárhellir.

Urriðakotshellir er sá hellir sem mest ber á, opin hraunrás í miklu jarðfalli, 24 m á lengt. Gengið er ofan í hann að vestanverðu og niður nálega 20 m langa rás uns komið er í grasi gróið jarðfall. Í framhaldi af því heldur rásin áfram inn í sal og er gat í háu loftinu þar sem sér til himins. Fremst í hellismunnanum eru hleðslur og gólfin bera merki þess að þarna var fé geymt. Í jarðfallinu fyrir framan skútann mótar fyrir hleðslum. Virðist hafa verið hús þar og ef til vill kví.
Margir hafa tengt rás í austurhluta jarðfallsins við Vífilsstaðahelli, en það er misskilningur.

Vífilsstaðahellir

Vífilsstaðahellir

Vífilsstaðahellir.

Vífilsstaðahellir er nyrstur Maríuhella, skammt norðan Urriðakotshelli. Hann er í hraunkatli, kanturinn liggur norðvestur og austur og er 19 m langur. Hægt er að ganga beint inn í hann til norðurs í stóru jarðfalli og einnig beggja vegna í kantinum. Þegar farið er inn í eystri rásina er gengið utan í hruni annars vegar og rásveggnum hins vegar. Á gólfinu í hellinum sést að hann hefur verið notaður sem fjárskjól. Hleðslur eru ekki greinilegar við opið en þar hefur orðið nokkurt hrun á seinni tímum. Framan við opið er grasgróður, ólíkt því sem gerist umhverfis. Gróðurinn gefur skýra vísbendingu um nýtinguna.

Jónshellar

Jónshellar

Í Jónshellum.

Jónshellar eru þrír skútar og ekki hluti af maríuhellum. Þá er að finna rétt norðan við Draugahelli. Einn skútinn er sýnu mestur, um 50 m langur, og annar hefur greinilega verið fjárskjól. Hleðsla er fremst í þeim skútanum en fyrir innan er slétt moldargólf.

Fleiri hraunhellar eru þekktir í Búrfellshrauni. Þeir sem eru mektir á kortinu eru Ketshellir (22 m), Kershellir (34m), Hvatshellir (50 m), Sauðahellir syðri (Þorsteinshellir) (43m), Sauðahellir nyrðri (32m), Skátahellir syðri (237m), Skátahellir nyrðri (127 m), Selgjárhellir syðri (8 m), Selgjárhellir eystri (11 m) og Sauðahellir (12).

Fyrir utan kortið (hér að ofan) má m.a. finna Hundraðmetrahellir (Fosshelli) (102m ), Níutíumetrahellir (93 m), Rauðshelli (65m), Hraunsholtshelli (23 m) og Vatnshelli (23 m).“

Búrfellshraun

Búrfellshraun – loftmynd (FERLIR).

Urriðavöllur

Í fylgiblaði Morgunblaðsins 1997 skrifar Gísli Sigurðsson um, „Útivistaparadís í Urriðavatnslandi„:

Urriðavöllur

Urriðavöllur – grein Gísla Sigurðssonar í MBL.

„Urriðavatn er fallegt stöðuvatn, steinsnar norðan við Setbergshverfið í Hafnarfirði. Það blasir við af Flóttamannaveginum, sem svo hefur verið nefndur og Bretar lögðu á stríðsárunum. En framan frá sést vatnið í rauninni illa, því hraunið sem Reykjanesbrautin liggur yfir, hefur tekið á sig krók og runnið austur á bóginn og út í vatnið. Í hlíðinni norðan við vatnið má sjá tóftir eftir bæ og dálítill túnkragi hefur verið í kring. Þetta var sá bær sem hét Urriðakot til 1944, en síðan Urriðavatn. Þarna hefur verið búið með kindur og treyst á beit uppi í Urriðavatnsdölum og Heiðmörk.
Guðmundur Jónsson átti jörðina til 1939, en seldi hana þá sonarsonum sínum, Kára og Alfreð, sem síðar varð forstöðumaður Kjarvalsstaða. Síðasti ábúandi á Urriðavatni var hinsvegar Gunnlaugur Sigurðsson, sem bjó þar til 1957. Bærinn brann skömmu síðar.
Nokkru áður, 1946, hafði 30 manna hópur úr Oddfellowreglunni einast jörðina. Hún hafði verið auglýst til sölu og Reykjavíkurbær gerði tilboð, sem var hafnað. Þá var það að hópurinn úr Oddfellowreglunni bauð betur, svo kaupin gengu: Kaupverðið var 160 þúsund krónur. Síðar bættist við hópinn svo í honum varð 61 maður.

Urriðavöllur

Urriðavöllur.

Núna, eftir að Urriðavatnsland er orðið þekkt útivistarsvæði, hafa menn dást að þessari framsýni Oddfellowa. En þeir voru ekki með draumsýnir um það sem nú er orðið að veruleika þarna, heldur var annað sem stóð hug þeirra og hjarta nær á þeim tíma. Þeir höfðu fengið augastað á hlíðinni ofan við Urriðavatn fyrir sumarbústaði.

Þórður er einn úr hópnum
Þórður Kristjánsson, byggingameistari, er einn af fimm eftirlifandi félögum úr hinum upphaflega 30 manna hópi Oddfellowa sem keyptu landið. Hinir eru Björn G. Bjömsson, fyrrverandi forstjóri Sænska frystihússins, Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, fyrrverandi stórkaupmaður, Guðjón Sigurðsson múrarameistari og Jónas B. Jónsson fyrrverandi fræðslustjóri.

Urriðavöllur

Urriðavöllur.

Þórður er Dýrfirðingur að uppruna, en lærði húsasmíði á Ísafirði og fluttist síðan til Reykjavíkur 1943 og varð mikilvirkur í byggingastastarfsemi um sína daga byggði mörg stórhýsi, þar á meðal hótelið og aðrar byggingar Loftleiða á Reykjavíkurflugvelli, mörg hús Pósts og síma, flestar byggingar KR; þar á meðal KR-heimilið og svo byggði hann að sjálfsögðu blokkir.

Urriðavöllur

Urriðavöllur.

Þórður verður áttræður á þessu ári, og er í útliti og að líkamsburðum eins og alla dreymir um að geta orðið á þeim aldri, en fæstir ná. Hann kvaðst hafa dregið sig í hlé frá byggingarstarfsemi þegar hann var 75 ára.
„Þá nennti ég þessu ekki lengur og fór að leika mér“, segir hann.
Og hvað meinar hann með því?
Ójú, hann kynntist því aldrei í æsku að mega leika sér og á fullorðinsárunum hafði hann ekki tíma til þess. Núna leikur hann golf á hinum nýja golfvelli Oddfellowa í Urriðavatnslandi og nýtur þess. Hann sagði að það hefði verið afar skrýtin tilfinning í fyrstu að geta bara farið út og leikið sér. En hann kvaðst hafa kunnað því merkilega vel.

Urriðavöllur

Urriðavöllur.

En hvað varð um drauminn um sumarbústaðina? Um þær mundir var þjóðin í hlekkjum allskonar hafta. Til þess að kaupa bíl þurfti gjaldeyrisleyfi og til þess að fá að byggja sumarbústað þurfti fjárfestingarleyfi, – og öllu var úthlutað eftir pólitískum línum og geðþótta. Skömmtunarstjórunum þótti ekki nauðsynlegt að byggja sumarbústaði og fjárfestingarleyfi til þeirra fengust einfaldlega ekki.
Þá kom upp tvær hugmyndir, segir Þórður. Önnur var sú að selja landið í bútum og græða á því; hin var sú að gefa það Oddfellowreglunni. Það varð ofaná árið 1957 að gefa Urriðavatnsland og Oddfellowreglan þáði gjöfina með þökkkum.

Landamerki skilgreind 1986

Urriðakot

Urriðakot – landamerkjalýsing; örnefnaskráning Gísla Sigurðssonar.

Urriðavatnsland er í Garðabæ. Upphaflega náði það neðar í hraunið en Reykjanesbrautin liggur nú. En þegar Oddfellowreglan var búin að eiga landið í 40 ár, komst skriður á nýja þróun. Sá hluti landsins sem var norðan við Reykjanesbrautina, 5 ha., var seldur Garðabæ 1986. Í framhaldi af því tók stjórn Styrktar- og líknarsjóðs Oddfellowa undir stjórn Jóns Ótta Sigurðssonar að huga að nýtingu landsins. Í því augnamiði var unnið að bókum Urrðavatnsland sem út kom 1988. Ljóst var að efri hluti landsins yrði ekki byggður fyrr en eftir 2050 og Urriðavatnsdalir þar að auki á vatnsverndarsvæði. Í ljósi fjölbreyttrar náttúru og hrífandi fegurðar sem þarna er árið um kring, þótti augljóst að þarna gæti orðið útivistarparadís í næsta nágrenni við þéttbýlið á Reykjavíkursvæðinu. Eftir að sú ákvörðun var tekin að líta á Urriðavatnsland sem útivistarsvæði, fékk framkvæmdanefndin til liðs við sig fagmenn eins og Reyni Vilhjálmsson og Þráin Hauksson, landslagsarkitekta, og þá kom fljótlega upp hugmynd um golfvöll en jafnframt lögð áherzla á það að landið yrði almennt útivistarsvæði og girðing inn með Vífilsstaðahlíð var rifin niður.

Urriðakotsdalir

Urriðakotsdalir – úr fornleifaskráningu 2022.

Líknarsjóðurinn hefur lagt til efni í göngustíga, en unglingar í Garðabæ hafa unnið verkið. Nú eru komnir göngustígar inn eftir Búrfellshrauni, sem tengjast stígnum undir hlíðinni og hægt að ganga þar talsvert langan og framúrskarandi fallegan hring.
Inni í hrauninu hafði verið efnistaka, sem hætt var við, en útivistar- og leiksvæði útbúið í gryfjunni. Hún er nægilega stór til að rúma löglegan handboltavöll og þar verður púttvöllur að auki.
Í Urriðavatnsdölum var frá náttúrunnar hendi öll sú tilbreyting í landslagi sem þarf til þess að golfvöllur geti orðið í senn krefjandi og skemmtilegur. Leitað var til Hannesar Þorsteinssonar, líffræðings og golfvallarhönnuðar á Akranesi og á hann heiðurinn af skipulagi vallarins og útfærslu á teigum, brautum og flötum. Með honum unnu þeir Reynir Vilhjálmsson og Þráinn Hauksson.

Urriðavöllur

Urriðavöllur – minnismerki um gróðursetningu Oddfellowsfélaga.

Þriðji aðilinn sem þarna átti hlut að máli er Batteríið, arkitektastofa Sigurðar Einarssonar og Jóns Ólafs Ólafssonar, en þeir hafa teiknað framtíðar golfskála, sem um leið verður miðstöð útivistarfólks og liggja stígar frá skálanum út á stíginn í hrauninu.
Þegar skipulagstillögurnar lágu fyrir og höfðu verið samþykktar af þar til bærum yfirvöldum, voru þær gefnar út í veglegu riti og kynntar innan Reglunnar. Var strax mikill áhugi á stofnun golfklúbbs sem Oddfellowar ættu aðild að. Um leið og völlurinn var tilbúinn, hófu margir félagar í nýstofnuðum Golfklúbbi Oddfellowa að leika golf, sem aldrei höfðu snert á því áður, og uppgötvuðu nú, að Urriðavatnsdalir er unaðsreitur fegurðar og sú fegurð hefur farið vaxandi með ári hverju eftir því sem framkvæmdum miðar áfram.

Urriðavöllur

Urriðavöllur – Golfklúbburinn Oddur.

Síðar var stofnaður Golfklúbburinn Oddur, sem öllum er opinn. Golfvöllurinn verður með þeim beztu á Íslandi.
Ekki er það hrist framúr erminni að búa til boðlegan 18 brauta golfvöll. Venjulega tekur þ|ið áraraðir á Íslandi, en það er lýginni líkast hvað allt greri og dafnaði skjótt í Urriðavatnsdölum. Fyrst voru lagðar 9 brautir á golfvellinum og sáð í þær. Jafnframt voru teigar og flatir byggð upp og bráðabirgða golfskáli reistur.

Félagar hafa fjármagnað allt

Urriðavöllur

Urriðavöllur – gróðursetning.

Mörgum hefur þótt hraði framkvæmdanna ævintýralegur í Urriðavatnsdölum og því hefur verið slegið fram, að Oddfellowar hafi getað gengið í digra sjóði til þess í arna. En það er ekki svo. Félagarnir sjálfir hafa fjármagnað þetta, nema hvað Styrktar- og líknarsjóðurinn fjármagnar gróðursetningu á tijáplöntum, hönnun, svo og grasfræ á brautirnar. Tekin hafa verið lán vegna framkvæmda og ein stór er eftir: Golfskálinn, en hann verður látinn bíða; völlurinn gengur fyrir.
Bráðabirgðaskálinn hefur lítið eitt verið stækkaður, en draumurinn er að lítlu austar rísi nýr skáli, sem þjóni líka göngufólki.

Urriðavöllur

Urriðavöllur – gróðursetning.

Stofnfundur golfklúbbs Oddfellowa var haldinn 12. mai, 1990 og þá voru skráðir um 300 stofnfélagar. Nú eru klúbbfélagar yfir 500. Hraða framkvæmdanna má m.a. þakka hópi vaskra manna úr Oddfellowreglunni sem vann bæði við frágang hússins og þökulagningu á teiga, allt í sjálfboðavinnu. Þar að auki lögðu félagarnir á sig framkvæmdagjald og hafa á þann hátt fengizt 5-6 milljónir til framkvæmda. Óskar Sigurðsson, fyrsti formaður Golfklúbbs Oddfellowa, hefur unnið mikið og gott starf og einnig Gunnlaugur Gíslason, sem hefur verið formaður vallarnefndar frá upphafi og stjórnað framkvæmdum.

Urriðavöllur

Urriðavöllur – minnismerki um frumkvöðlana.

Byggð hefur verið vélageymsla, sem einnig hýsir aðstöðu fyrir starfsmenn og stjórn, en það veigamesta sem nú er á framkvæmdastigi er helmingur golfvallarins, sem kunnugir telja að sé ekki á síður á fögru og tilbreytingarríku landi en sá hluti sem við þekkjum, og jafnvel að svæðið þeim megin sé ennþá fegurra.
Í ágúst verður Oddfellowreglan á Íslandi 100 ára og stefnt er að því að opna þennan nýja hluta vallarins og leika á 18 brauta golfvelli á landsmóti Oddfellowa í sama mánuði.“

Við golfvöllinn er minnismerki um frumkvöðlana er stuðluðu að tilvist hans, en upplýsingar um það er hvergi að finna á vefsíðum Oddfellows. Þegar FERLIRsfélagi leitaði eftir staðasetningu þess við starfsfólk vallarsins virtist enginn vita um tilvist þess. Sporin eiga það til að fyrnast!?

UrriðavöllurUrriðakotshraun var friðlýst sem fólkvangur þann 10. janúar 2024 að beiðni landeiganda og Garðabæjar.

Heimildir:
-Morgunblaðið 27.03.1997, „Útivistaparadís í Urriðavatnslandi“, Gísli Sigurðsson, bls. 1-4.
-https://ust.is/nattura/natturuverndarsvaedi/fridlyst-svaedi/sudvesturland/urridakotshraun/

Urriðavöllur

Urriðavöllur – friðlýsing.