Færslur

Urriðakot

Gengið var um Urriðakot, minjarnar í kringum bæinn skoðaðar og síðan haldið upp á Urriðakotskamp (Camp Russel) og stríðsminjarnar skoðaðar.

Markasteinn

Markasteinn – huldufólkshús.

Þaðan var gengið með vestanverðu Urriðakotshrauni að Markasteini og til norðurs yfir í Selgjá. Skoðaðar voru selsminjarnar í gjánni sem og fjárskjólin norðvestan hennar.
Við Urriðakot var m.a. kíkt á leturstein í túninu. Á hann er klappað ártalið 1846 auk upphafsstafa. Það mun hafa verið ábúandinn á bænum er þetta hannaði á sínum tíma. Ofan við hlaðinn túngarðinn er Grjótréttin. Gengið var til austurs með garðinum, að vatnsleiðslu þeirri er hernámsliðið gerði og lá frá steyptum brunni neðst í brekkunni og upp á steyptan vatnsgeymi ofarlega í holtinu. Bækistöð hersins á holtinu nefndist Camp Russel. Þar má enn sjá minjar, t.d. grunna þeirra fjölmörgu húsa og bragga,s em þar voru. Steyptur skorsteinn stendur skammt frá veginum (Flóttamannaveginum), en hann er leifar aðalstöðvanna, sem þarna voru. Þá má sjá vatnsgeyminn í holtinu sem og göturnar, sem lágu á milli húsanna. Til er gamall uppdráttur af kampinum og var hann hafður til hliðsjónar í göngunni.

Urriðakot

Urriðakot – letursteinn.

Gengið var með vesturjarðri Urriðakotshrauns, framhjá hlaðinni Stekkjartúnréttinni og inn með Fremstahöfða. Við hann austanverðan er stórt og fallegt bjarg, Markasteinn. Steinninn stendur utan í holti og segir til um landamerki Urriðakots og Setbergs. Sagan segir að er Urriðakotsbóndi hafi eitt sinn verið að ganga framhjá steininum hafi hann heyrt rokkhljóð koma innan úr honum. Taldi hann þá að þar byggi huldufólk. Sagnir eru um að allan mátt dragi úr fólki er nálgast steininn.

Selgjá

Rjúpur í Selgjá.

Frá steininum var gengið beina leið í Selgjá og komið þar sem stærsti fjárhellirinn og greinilegustu selsrústirnar eru í sunnanverðir gjánni, en sagnir eru um að 11 sel hafi verið í gjánni þegar mest var um haft þar. Litið var á leturstein með merkinu B í norðanverðir gjánni, komið við í Selgjárhelli, Sauðahellinum syðri (Þorsteinshelli) og síðan litið ogfan í Sauðahellinn nyrðri. Staðnæmst var við op Skátahellis sem og op Norðurhellis áður en haldið var eftir Kúastíg að hlöðnu fjárskjóli norðan undir háum hraunkletti og síðan stígurinn genginn áfram með vestanverðum hraunkanti Urriðakotshrauns, framhjá Stekkjartúnsrétt og að upphafsreit.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Urriðaholt

Uppdráttur af Camp Russel á Urriðaholti.

Urriðakot

Friðlýsingu svæðisins sem fólkvangs er ætlað að tryggja aðgengi almennings að náttúru Urriðakotshrauns, sem býr yfir fjölbreyttum náttúru- og menningarminjum og miklum möguleikum til útivistar, náttúruskoðunar og umhverfisfræðslu, m.a. um göngu- og reiðstíga sem liggja um svæðið.

Urriðakotshraun - friðlýsing

Guðlaugur þór, Almar og aðrir viðstaddir friðlýsingu Urriðakotshrauns.

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, undirritaði í dag, 10. jan. 2024, friðlýsingu Urriðakotshrauns sem fólkvangs.

Friðlýsingin er staðfest að beiðni Garðabæjar og landeigendanna, Styrktar- og líknarsjóðs Oddfellowa, og unnin í samstarfi ráðuneytisins og Umhverfisstofnunar.

Urriðakotshraun er hluti af Búrfellshrauni sem rann fyrir um 8100 árum og er þar nokkuð um hraunhella. Markmið friðlýsingarinnar er einnig að vernda jarð- og hraunmyndanir sem og menningarminjar Urriðakotshrauns, sem eru fágætar á heimsvísu, sem og náttúrulegt gróðurfar svæðisins.

Urriðakotshraun - friðlýsing

Hið friðlýsta svæði Urriðakotshrauns.

„Það er afskaplega gott þegar hægt er að ljúka verkefnum svona farsællega eins og þessu. Friðun fólkvangsins hefur mikla þýðingu fyrir Garðbæinga, þetta verður til þess að samfella er í þeim svæðum sem eru friðlýst og heildarsýn er að myndast. Mér finnst líka gott í heilsueflandi samfélagi að greiða aðgengi almennings að þessu svæði á sama tíma og við verndum það,” segir Almar Guðmundsson bæjarstjóri.

Hið friðlýsta svæði er 1,05 km2 að stærð, en samhliða vinnu við friðlýsingu var unnið deiliskipulag fyrir svæðið sem nú hefur verið staðfest og auglýst af Skipulagsstofnun.

Deiliskipulagið gerir ráð fyrir að í náinni framtíð verði lögð golfbraut sem er hluti af golfvellinum Urriðavelli innan fólkvangsins.

Urriðakotshraun - friðlýsing

Urriðakotshraun og nágrenni.

Fólkvangurinn í Urriðakotshrauni er mikilvægur hlekkur í röð friðlýstra svæða sem nær frá upplandi Garðabæjar nær óslitið til sjávar.

Svæðin sem um er að ræða eru: Reykjanesfólkvangur (friðlýst 1975), Búrfell (friðlýst 2020), Garðahraun efra og neðra, Vífilsstaðahraun og Maríuhellar (friðlýst 2021), Gálgahraun (friðlýst 2009) og innan marka Garðabæjar (friðlýst 2009) og Bessastaðanes (friðlýst 2023) og nú bætist Urriðakotshraun við net verndarsvæða Garðabæjar.

Heimild:
-https://www.gardabaer.is/stjornsysla/utgefid-efni/frettir/urridakotshraun-fridlyst-sem-folkvangur

Urriðakotshraun - friðlýsing

Svæðið, sem friðlýst var í umræddum áfanga.

Urriðahraun

Gengið var um Kúadali innan við Urriðakotsdali með það að markmiði að reyna að rekja tvær gamlar götur inn á Urriðakotshraunið, þ.e. svonefndan Grásteinsstíg og Kúadalsstíg, og leita staðfestingar á svonefndri “Réttin gamla” og “Stekkjatúnsstekk”.
Urridakotshraun-2Örnefnin eru tilgreind í heimildum við og í nágrenni við stígana, s.s. Grásteinn, Einbúi og Sprunguhóll, auk þess sem nokkurra minja frá búskapnum á Urriðakotsbænum er getið á svæðinu, t.a.m. fyrrnefna rétt, stekk, fjárhús, skotbyrgi, fjárskjól o.fl.
Að þessu sinni var höfð til hliðsjónar fornleifaskráning Byggðasafns Skagafjarðar fyrir Urriðaholt (nærtækt Urriðakotslandið) frá árinu 2005. Í hluta skráningarinnar er fjallað um svæðið milli Vífilsstaðahlíðar og Tjarnarholts (-holta), þ.e. vestanvert Urriðakotshrauns.
Í nefndri skráningu segir m.a. um heimildir varðandi framangreint og niðurstöður vettvangsleitar: “
Um Grásteinsstíg í Urriðakotslandi segir m.a. í örnefnaskrá frá 1964: “Grásteinsstígur “liggur út á hraunið frá Hraunhorninu hjá Grásteini”, steini “á hrauninu út frá Hraunhorninu”.
Urridakotshraun-4Í örnefnalýsingu 1988 segir: “Nokkru sunnan við Dyngjuhólsflöt gengur smáhorn suðvestur úr hrauninu, sem kallast Hraunhorn. […] Nokkurn spöl suðaustur af Hraunhorni er vik inn í hraunið, og liggur Grásteinsstígur þar inn í hraunið. Hann dregur nafn af stórum, gráum steini, Grásteini, við stíginn í hrauninu.” Stígurinn lá að Kolanefsflöt [þar sem Sauðahellirinn nyrði er].
Skv. örnefnaskrá 1964 var “Réttin gamla” í hraunbrúninni “í hvammi neðan til við Kúadali” og “nokkru neðar er svo gamall stekkur, frá stekktíðinni.”
Skv. ódagsettri örnefnalýsingu lá Grásteinsstígur “þvert yfir hraunið frá Hraunhorni sem var nokkru sunnar með hraunbrúninni, en sunnan við það var svo Hraunshornflöt. Hér nokkru sunnar er komið í Stekkinn. Þar var Stekkatúnið […]”. Ekki er minnst á stekkinn í örnefnalýsingu 1988, aðeins túnið og réttina sem við hann eru kennd.
Í örnefnaskrá 1964 er Stekkatúnið sagt vera “gróinn hvammur kringum stekkinn”, “Stekkatúnsrétt var þarna, en er nú horfin með öllu. Þarna hafa nú verið byggðir sumarbústaðir þrátt fyrir vatnsleysi.” Skammt sunnan við vikið, sem Grásteinsstígur liggur um, er gömul rétt sem kölluð var Stekkjartúnsrétt, eða aðeins Stekkjartún. Í ódagsettri örnefnalýsingu segir: “Hér nokkru sunnar er komið í Stekkinn. Þar var Stekkatúnið, hvammur í hrauninu. Þarna var líka Stekkatúnsrétt eða 

Urridakotshraun-5

Gamla réttin sem var í hraunbrúninni nokkru sunnar.” Í örnefnalýsingu 1988 segir svo: “Skammt sunnan við vikið, sem Grásteinsstígur liggur um, er Stekkjartún. Við hraunið nokkru suðaustar er önnur rétt nafnlaus […]”. Skv. örnefnaskránni 1964 virðist sú rétt hins vegar hafa verið kölluð “Réttin gamla”.
Í örnefnaskrá 1964 er auk Stekkatúnsréttar nefnd Réttin gamla sem var “í hvammi neðan við Kúadali […] í hraunbrúninni. Innst í réttinni er lítill skúti”. Í ódagsettri örnefnalýsingu er hins vegar talið að um sömu rétt sé að ræða en eftir að Stekkatún hefur verið nefnt segir: “Þarna var líka
Stekkatúnsrétt eða Gamla réttin sem var í hraunbrúninni nokkru sunnar.” Loks segir Svanur Pálsson í örnefnalýsingu 1988: “Við hraunið, nokkru suðaustar er önnur rétt nafnlaus, sem byggð var í minni heimildarmanns. 

Urridakotshraun-6

Nánari lýsing: Nafnið Réttin gamla virðist gefa hugmynd um að hún sé eldri en Stekkatúnsrétt. Um aldur hinnar síðarnefndu er ekki getið en hin fyrrnefnda var ekki byggð fyrr en eftir 1906, fæðingarár heimildarmannsins, Guðbjargar Guðmundsdóttur. Af staðsetningunni “í hraunbrúninni” að dæma er Réttin gamla þó líklega sú sem Guðbjörg mundi eftir “við hraunið” og taldi nafnlausa.
Þegar Stekkjartúnsrétt og “önnur rétt nafnlaus” hafa verið nefndar segir í örnefnalýsingu 1988: “Norður af henni er áberandi hóll í hrauninu, sem heitir Einbúi. Suðaustur af Einbúa eru rústir beitarhúss, sem byggt var fyrir minni heimildarmanns. Austur og suðaustur af beitarhúsarústunum er hraunið tiltölulega slétt og lægra en umhverfið og nefnist Flatahraun.”

Urridakotshraun-7

Í örnefnaskrá 1964 segir um Kúadali: “Svo heita hvammar og flatir niður með hrauninu milli þess og Tjarnholtanna. Grónir vel og sléttir.” Í ódagsettri örnefnalýsingu er Einbúi sagður vera austur frá Stekknum en “hér framar er komið í Kúadali, og liggur Kúadalastígur upp og út í hraunið. Vestur frá Kúadölum er Skotbyrgi gamalt.” Í örnefnalýsingu 1988 segir: “Norð-austur af Byrginu er vik inn í hraunið, sem heitir Kúadalur. Þar liggur Kúadalsstígur inn í hraunið.”
Í örnefnaskrá 1964 segir um Kúadali: “Svo heita hvammar og flatir niður með hrauninu milli þess og Tjarnholtanna. Grónir vel og sléttir. “Í ódagsettri örnefnalýsingu er Einbúi sagður vera austur frá Stekknum en “hér framar er komið í Kúadali, og liggur Kúadalastígur upp og út í hraunið. Vestur frá Kúadölum er Skotbyrgi gamalt.” Í örnefnalýsingu 1988 segir: “Norð-austur af Byrginu er vik inn í hraunið, sem heitir Kúadalur. Þar liggur Kúadalsstígur inn í hraunið.”

Urridakotshraun-10

Skv. örnefnaskrá 1964 eru Kúadalir hvammar “niður með hrauninu milli þess og Tjarnholtanna” en út úr stærsta hvamminum liggur” Kúadalastígur “upp á hraunið út á Flatahraunið yfir í Vífilstaðahlíð”. Í örnefnalýsingu 1988 segir: “Norðaustur af Byrginu er vik inn í hraunið, sem heitir Kúadalur. Þar liggur Kúadalsstígur inn í hraunið. Rétt austan við Kúadalsstíg, inni í hrauninu, er krosssprunginn hóll, Sprunguhóll. Vestur af Byrginu er grýttur hóll, Grjóthóll.”
Í örnefnaskrá 1964 er nefndur Syðridalatroðningur: “Troðningur eða stígur, er lá upp holtið frá dal rétt við Grjóthól suður á Syðri dalinn.” Í ódagsettri örnefnalýsingu segir: “[…] milli Tjarnholta og Þverhlíðar er Dalurinn syðri eða eins og hann er stundum kallaður Urriðakotsdalur syðri og líka var hann nefndur Efri-Flatir. Hér um lá troðningur og niður um holtið, nefndist Syðridalatroðningur, hann lá framhjá svonefndum Grjóthól um Grjóthólsflöt niður undan honum, en hér var kallað holtið “Milli dala” og þá lá troðningurinn niður á Neðri-Flatir,

Urridakotshraun-8

Dalinn neðra eða Dalinn og Urriðakotsdalinn neðri, en svæði þetta sem nú hefur verið lýst nefndist einu nafni Urriðakotsdalir og lá stígurinn hér um miðjan dal í Gjáarréttarstíginn og síðan yfir á Hálsinn Flóðahjallaháls eða Urriðakotsháls, sem fyrr er talinn og síðan niður til bæjar.”
Í örnefnaskrá 1964 segir um Fjárhústóftina syðri: “Nokkru norðar en Skotbyrgið er rúst gamals fjárhúss við allstóran klett.”. Eða: “Nokkru vestan við Skotbyrgið, er stór klettur vestan undir honum er rúst gamals fjárhúss.”. Í ódagsettri örnefnalýsingu segir: “Vestur frá Kúadölum er Skotbyrgi gamalt. Þar vestar er hraunhóll mikill og við hann er Fjárhústóftin nyrðri eða austan við Kúadali er Fjárhústóftin syðri. Það var upphaflega reist sem sauðahús.” Líklega eru þetta sömu tóftir og getið er um í örnefnalýsingu frá 1978: “Rétt austan við Kúadalsstíg, inni í hrauninu, er krosssprunginn hóll, sem heitir Sprunguhóll. Skammt suðaustur af Sprunguhól eru gamlar fjárhústættur.

Urridakotshraun-9

Í örnefnaskrá 1964 segir um Fjárhústóftina nyrðri: “Nokkru norðar en gamla rústin”, þ.e. Fjárhústóftin syðri, “er fjárhústóft og standa veggirnir enn.” Eða: “Nokkru vestar er fjárhústóft yngri og standa enn veggirnir. Guðmundur bóndi Jónsson [í Urriðakoti] byggði fjárhúsið. […] Fjárhúsið er eftir sauðahús.” Í ódagsettri örnefnalýsingu segir: “Vestur frá Kúadölum er Skotbyrgi gamalt. Þar vestar er hraunhóll mikill og við hann er Fjárhústóftin nyrðri eða austan við Kúadali er Fjárhústóftin syðri. Það var upphaflega reist sem sauðahús.” Líklega eru þetta sömu tóftir og getið er um í örnefnalýsingu frá 1978: “Rétt austan við Kúadalsstíg, inni í hrauninu, er krosssprunginn hóll, sem heitir Sprunguhóll. Skammt suðaustur af Sprunguhól eru gamlar fjárhústættur.
Skv. örnefnaskrá 1964 var Skotbyrgið “gamalt skotbyrgi af grjóti vestan til við” Kúadalsstíg eða “rétt vestan til við Kúadali”. Í ódagsettri örnefnalýsingu segir: “Vestur frá Kúadölum er Skotbyrgi gamalt.”

Urridakotshraun-3

En í örnefnalýsingu 1988: “Vestur af Litla-Tjarnarholti er stór steinn og er annar steinn uppi á honum. Var það kallað Byrgi.”
Af framangreindu má ætla að “Gamlarétt” hafi ekki fundist við vettvangsleit, en gæti verið sama og nefnt er “Stekkjatúnsstekkur”. Hér kemur uppgötvun þessarar ferðar; leifar af bæði “Gömlurétt” og “Stekknum” er að finna á báðum tilgreindum stöðum. Þá er auðvelt að rekja bæði “Grásteinsstíg” og “Kúadalsstíg” yfir hraunhöftin. Grónar vörður gefa báða stígana til kynna. Austan hraunhaftanna sjást göturnar mjög vel, enn þann dag í dag. Og “Gamlarétt” virðist svo augljós.

Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Heimildir:
-Fornleifaskráning Byggðasafns Skagafjarðar 2005 – Urriðaholt.
-Gísli Sigurðsson: 1964, Skrá yfir örnefni og fiskimið í Álftaneshreppi hinum forna: Bessastaðah. /Garðahr.: Hafnarf. og Hraunum, bls. 139-40.
-Guðlaugur Rúnar Guðmundsson, 2001: Örnefni og leiðir í landi Garðabæjar Safn til sögu Garðabæjar III.
-Svanur Pálsson, 1978, bætt 1988: Örnefnalýsing Urriðakots skráð eftir Guðbjörgu Guðmundsdóttur frá Urriðakoti.

Grásteinn

Grásteinn við Grásteinsgötu.

Selgjárhellir

Gengið var að hellunum í Urriðavatnshrauni. Á litlu svæði eru a.m.k. sex hellar, þar af þrír nokkuð langir, en hinir hafa verið notaðir sem fjárskjól. Í einum þeirra, Þorsteinsshelli (Sauðahellirinn syðri), eru miklar hleðslur er mynda þverskiptan niðurgang í tvískiptan hellinn.

Selgjá

Norðurhellrar í Selgjá.

Annar fjárhellir (Selgjárhellir) er skammt norðaustar, í norðvesturenda Selgjár, sem einnig var nefnd Norðurhellragjá. Hleðslur eru fyrir opi hans. Þá eru fyrirhleðslur í helli skammt norðan hans (Sauðahellirinn nyrðri). Sá hellir hefur greinilega verið notaður sem fjárhellir. Einnig eru hleðslur í helli vestan við Þorsteinshelli. Hellar þessir gengu áður undir samheitinu Norðurhellar.
Selgjá hét Norðurhellragjá eða Norðurhellagjá. Í henni eru margar minjar selsbúskaparins fyrr á öldum. Í jarðabókinni 1703 er getið um sel frá átta kóngsjörðum á Álftanesi. Ávallt er getið um selstöðurnar í þátíð svo allnokkur tími virðist hafa verið síðan þær lögðust af. Í Selgjá hafa talist 11 seljasamstæður, sem allar eru byggðar upp við gjárbarmanna, a.m.k. um 20 byrgi og 10 eða 11 litlar kvíar.

Selgjá

Þorsteinshellir við Selgjá.

Sauðahellirinn syðri er hér nefndur Þorsteinshellir, en undir því nafni mun hann hafa gengið um tíma er samnefndur maður Þorsteinsson, þá ábúandi í Kaldárseli, notaði hellana sem fjárskjól um aldamótin 1900. Um hann er fjallað í lýsingu um Kaldársel hér á vefsíðunni. Urriðakotsdalastígur/Gjáarréttarstígur lá þarna skammt frá hellinum um Mið-Tjarnarholt.
Opnað hefur verið inn í langan helli í jarðfalli skammt norðvestan við Þorsteinshelli. Þá er Skátahellir alllangur. Varða er ofan við op hans. Þriðji langhellirinn er skammt norðar. Gróið er í kringum opið. Fara þarf niður undir lágt klapparholt. Þar opnast rás inn undir hraunið. Gömul mosavaxin varða er skammt frá opinu. Því miður gleymdist ljóskerið svo ekki var hægt að fara mjög langt inn eftir rásunum að þessu sinni. Ljósið frá farsímanum dugði þó fyrstu 30 metrana, svona til að skoða hvers konar rásir var um að ræða. Fyrir innan opið á síðastnefndu rásinni er hleðsla, líkt og einhver hafi haft þar bæli um tíma. Augsýnilega hafði þó ekki verið farið þangað niður um allnokkurn tíma.

Þorsteinshellir

Fjárskjól við Selgjá (Þorsteinshellir).

Urriðavatnshraun er hluti af Búrfellshrauni. Hraunið er komið úr Búrfellsgíg, sem blasir þarna við í enda Búrfellsgjár. Selgjáin hefur verið hluti þessarar hrauntraðar, en vegna misgengis og hreyfingu landsins, er hún nú allnokkru hærri en Búrfellsgjáin. Misgengið gengur þarna áfram við sunnanverðar Smyrlabúðir að vestanverðu og Hjallana að norðanverðu. Hraunið hefur runnið í tveimur kvíslum vestur milli grágrýtishæðanna og allt í sjó úr í Hafnarfirði og Skerjafirði. Á leiðinni heitir hraunið ýmsum nöfnum, s.s. Urriðvatnshraun, Vífilsstaðahraun, Svínahraun, Garðahraun, Flatahraun, Gálgahraun, Hafnarfjarðarhraun, Gráhelluhraun og e.tv. fleiri nöfnum. Guðmundur Kjartansson (1972) fékk gerða aldursákvörðun á mó undan Búrfellshrauni við Balaklett og samkvæmt því er hraunið um 7200 ára.

Setbergsselshellir

Í Setbergshelli.

Í syðri hraunkvíslinni eru t.d. Hvatshellir, Kershellir og Kethellir (Selhellir). Skammt norðar í nyrðri hraunkvíslinni (sömu og Norðurhellarnir) eru Maríuhellar, öðru nafni Urriðakotshellir og Vífilsstaðahellir.
Búrfellsgjá er engin gjá í venjulegri merkingu heldur hrauntröð, þ.e. farvegur, sem rennandi hraunkvika hefur eitt sinn fyllt upp á barma. Hraunrennslið þvarr mjög snöggt í Búrfellsgjá og farvegurinn tæmdist nær því í botn. Hellarnir við enda Selgjár eru við enda hrauntraðarinnar
Frá sjónarmiði hellafræðinnar er Búrfellsgjáin merkilegasta fyrirbærið í Búrfellshrauni, en í hrauninu eru einnig nokkrir hellar, m.a. þeir sem hér eru nefndir.

Frábært veður – stilla og hlýtt – Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Heimildir m.a.:
-Hraunhellar á Íslandi – Björn Hróarsson – 1990.
-Örnefni og leiðir í landi Garðabæjar – Guðlaugur R. Guðmundsson -2001.

Þorsteinshellir

Þorsteinshellir.

Valahnúkar

Gengið var norður gömlu Selvogsgötuna frá Bláfjallavegi neðan Grindarskarða. Selvogsgata er gömul leið á milli Hafnarfjarðar og Selvogs.

Selvogsgata

Selvogsgata á Hellunum.

Haldið var niður Hellurnar þar sem gatan er klöppuð í bergið á kafla undan fótum, klaufum og hófum liðinna alda. Litið var á Strandartorfur (Kaplatóur) og gengið um Mygludali að Valabóli þar sem áð var í Músarhelli. Loks var götunni fylgt niður í Helgadal með viðkomu í Rauðshelli og stefnan tekin þaðan að Kaldárseli.
Í jarðfræðilegu tilliti er Reykjanesskaginn mjög merkilegur. Hann er hluti af Atlandshafshryggnum mikla, sem liggur um þvert Ísland og er eini staðurinn þar sem hægt er að skoða hann ofansjávar. Að minnsta kosti 12 hraun hafa runnið á Reykjanesskaga síðan land byggðist. Það nýjasta sennilega á 14. öld. Eftir að jökul leysti af skaganum fyrir um 12-15 þúsund árum, hafa um 200 eldstöðvar á fjórum eldstöðvarkerfum, verið virkar á svæðinu og úr þeim runnið um 42 rúmkílómetrar af hrauni, sem þekur yfir 1000 ferkílómetra landssvæði. Má þar á meðal finna allar helstu gerðir íslenskra eldstöðva.

Selvogsgata

Gengið um Selvogsgötu.

Þar sem staðið er á upphafsstaðnum við Bláfjallaveg má sjá þessa virkni “ljóslifandi”. Þegar horft er upp í Bollana (Stórabolla, Miðbolla og Syðstubolla), má sjá hvernig hlíðin, sem þeir eru á, hefur opnast og hraunið runnið niður þá í stríðum straumum. Miðbolli er einstaklega fallegur hraungígur. Utan í honum eru tvö önnur gígop og síðan fleiri í hlíðinni norðan hans. Frá honum má sjá fallegar hrauntraðir og í þeim eru nokkir fallegir hellar. Langahlíð, Dauðadalir og Lönguhlíðarhorn eru á hægri hönd en Kristjánsdalir og Kristjánsdalahorn á þá vinstri.

Grindarskörð

Grindarskörð og nágrenni.

Selvogsgatan lá áfram upp um Grindarskörð austan Stórabolla og áfram niður með Litla-Kóngsfelli, um Hvalskarð og niður í Selvog. Einnig liggur gata, vel vörðuð upp Kerlingargil milli Miðbola og Syðstubolla. Ofan þeirra eru gatnamót. Frá þeim liggur Hlíðarvegur niður að Hlíðarskarði fyrir ofan Hlíð við Hlíðarvatn, þar sem Þórir haustmyrkur er talinn hafa búið við upphaf byggðar. Grindarskörð eru nefnd svo vegna þess að Þórir þessi á að hafa gert þar grindur til að varna því að fé hans leitaði norður og niður hlíðarnar.

Grindarskörð

Grindarskörð.

Selvogsgatan liggur niður Hellurnar um Húsfellsbruna sem eru ágætlega greiðfær, allt suður að hálendinu. Þarna má sjá nokkur hraun, bæði slett helluhran og úfin apalhraun. Austast er hrikalegt Rjúpnadalahraunið úr Drottningu og vestast má sjá Tvíbollahraunið.

Framundan sést Helgafell (vinstra megin – 340 m.y.s) og Húsfell (hægra megin – 278 m.y.s)). Milli þeirra eru Valahnúkar (201 m.y.s). Á þeim trjóna tröllin hæst. Segir sagan að þau hafi verið á leið í Selvog, en orðið sein fyrir og ekki verið komin lengra er sólin reis í austri, ofan við Grindarskörðin. Varð það til þess að þau urðu að steini og standa þarna enn.

Selvogsgata

Selvogsgata – varða.

Helgafellið er eitt af sjö samnefndum fjöllum á landinu. Þau eru t.d. í Mosfellssveit, vestmannaeyjum, Dýrafirði og Þórsnesi á Snæfellsnesi. Hugsanlega er nafnið tengt lögun þessara fjalla, en þau eru að minnsta kosti sum hver regluleg eða heilleg að útliti. Af einhverjum ástæðum var talin helgi á Helgafelli á Snæfellsnesi. Orðið helgur er samandregin mynd úr heilagur, sem er skylt orðinu heill. Örnefni með Helga- að fyrra lið geta einnig verið dregin af mannsnafninu Helgi.

Búrfell

Búrfell og Kringlóttagjá.

Búrfellið (179 m.y.s) er neðan við Húsfellið. Frá Búrfelli rann hraun það sem Hafnarfjörður stendur að hluta til á fyrir um það bil 7200 árum. Hrauntröðin frá fellinu er ein sú stærsta á landinu, Búrfellsgjá.
Gengið var í gegnum Mygludali, en undir þeim er talið vera eitt mesta ferskvatnsmagn á svæðinu. Dalurinn er talinn hafa verið nefndur eftir hryssu Ingólfs Arnarssonar, Myglu, en aðrir telja að nafnið sé til komið vegna myglu er leggst yfir dalinn er líða tekur á sumarið.

Valaból

Í Valabóli.

Litið var við í Valabóli norðaustan í Valahnjúkum. Þar er Músarhellir sem áður var notaður sem áningastaður en síðar sem gististaður Farfugla eftir að þeir girtu staðinn og ræktuðu upp gróðurvin í kringum hann. Fleiri hellar eru hér austur í hrauninu og reyndar víða á þessu svæði.

Að því búnu var haldið að opi Fosshellis og hann þræddur undir sauðfjárveikigirðinguna. Kíkt var á op Hundraðmetrahellis austan Helgadals og síðan á stekki norðaustan við Rauðshelli. Þá var haldið í hellinn og hann skoðaður. Í Rauðshelli er allnokkrar hleðslur, bæði utan hans og innan. Hangikjötslyktin ilmaði enn í hellinum, en hann er talinn hafa hýst margan manninn í gegnum aldirnar.

Helgadalshellar

Í Rauðshelli.

Um tíma var hellirinn nefndur Pólverjahellir eftir pólskri áhöfn báts, sem dvaldist um tíma í Hafnarfjarðarhöfn, en fengu ekki inni í bænum. Þá er talið að um tíma hafi verið sel í og við hellinn, auk þess ekki er ólíklegt að álykta að hann sé sá hellir þar sem 12 þjófar voru handteknir um 1440 og síðan hengdir. Í lýsingu Gísla Sigurðssonar, forstöðumanns Minjasafns Hafnarfjarðar, segir hann í lýsingu sinni um Selvogsgötuna að þeir hafi hafst við í helli í hraunrima austan við Helgadal.

Rauðshellir

Í Rauðshelli.

Um þá hugmynd er m.a. fjallað í öðrum FERLIRslýsingum eftir nokkrar ferðir um svæðið til að reyna að finna umrætt skjól. Rauðshellir liggur vel við vatni, hann hefur verið í hæfilegu skjóli frá mannabyggð, en þó nálægt skjólgóðum högum sauðfjárins. Þá hefur hann verið það nálægt þjóðleið að hægt hefur verið að fylgjast með mannaferðum og hugsanlega ræna þá, sem þar áttu leið um. Þess skal getið að útilegumenn dvöldu aldrei lengi á sama stað.

Helgadalur

Helgadalur – stekkur.

Hlaðinn stekkur er skammt frá Rauðshelli. Ekki langt frá, ofan við Helgadal eru fornar tóftir. Jarðfallið, sem gengið er úr í hellinn, er mikið gróið. Set, mold og gróður hafa hlaðist þar upp um aldir. Ekki er ólíklegt að undir þeim kunni að leynast minjar. Þær gætu bæði tengst hinum fornu tóftum í Helgadal, þarna 500 m frá, eða (sels)búskapnum í Kaldárseli. Einnig gætu þær verið frá Görðum á Álftanesi, en landssvæðið tilheyrði þeim fyrr á öldum.
Frá Rauðshelli sést gígurinn í Búrfelli mjög vel. Búrfell er eldborg. Frá henni rann hraun niður í Hafnarfjörð og Skerjafjörð. Þrátt fyrir samheitið Búrfellshraun, bera margir hlutar þess sín eigin nöfn, s.s. Hafnarfjarðarhraun, Garðahraun, Gálgahraun, Urriðakotshraun, Gráhelluhraun og Smyrlabúðahraun. Heildarflatarmálið er u.þ.b. 18 ferkílómetrar. Margir ganga gjarnan upp eftir hrauntröðinni innan girðingar Heiðmerkur, Búrfellsgjá (u.þ.b. 3,5 km) og Lambagjá. Hraunið er talið vera í kringum 7200 ára.

Helgadalur

Helgadalur – misgengi.

Helgadalur er ágætt dæmi um misgengi, líkt og á Þingvöllum. Hluta þessa misgengis má sjá þegar komið er upp á brúnina að vestanverðu. Það er handan Mosana og gengur í gegnum austanverðar Smyrlabúðir.

Helgadalur hefur verið afgirtur og er svæðið innan girðingarinnar, Kaldárbotnar, hluti af vatnsverndasvæði Vatnsveit Hafnarfjarðar. Hún var stofnuð 1904.

Kaldárbotnar

Kaldárbotnar – vatnslindin.

Vatnsból Hafnarfjarðar er í Kaldárbotnum. Þaðan liggur aðfærsluæð til bæjarins meðfram Kaldárselvegi um 6 km að lengd, síðan eftir stofnæðum og dreifilögnum sem flestar liggja í götum bæjarins. Fáeinar dælustöðvar innanbæjar sjá þeim bæjarhlutum sem hæst liggja fyrir vatni. Fyrstu tildrög að vatnsveitu í bænum munu vera þau að Vatnsveitufélag Hafnarfjarðar var stofnað 1904. Í fyrstu sóttu bæjarbúar vatn í vatnskrana, sem settir voru upp víðs vegar um bæinn. Vatn er leitt til bæjarins frá Kaldárbotnum. Núverandi aðveituæð er frá árinu 1950. Merkilegasta holan sem hefur verið boruð eftir köldu vatni í nágrenni Hafnarfjarðar er við Kaldársel og varð 987 m djúp. Sú hola var köld (2-5 gráður) niður á 750 m dýpi.
Kaldá er náttúrulegt afrennsli linda sem eru í Kaldárbotnum.

Vatnsveitan

Vatnsveitan yfir Lambagjá.

Frá upphafi byggðar í Hafnarfirði og fram til ársins 1909 höfðu bæjarbúar notast við vatn úr ýmsum brunnum innanbæjar. Vatnið var oft óhreint og stundum svo mengað að fólk veiktist alvarlega af því að drekka það. Þannig braust út taugaveikifaraldur fyrri hluta ársins 1908 sem rakin var til mengaðs drykkjarvatns.
Árið 1909 var farið að taka vatn úr lindum í svokölluðum Lækjarbotnum, sem eru í austurjaðri Gráhelluhrauns gegnt Hlíðarþúfum þar sem nú eru hesthús, en vegna þess að vatnið þar þraut í þurrkum og reyndist oft óhreint ákváðu menn að reyna að veita vatni úr Kaldá inn á vatnsvið lindanna. Í þetta var ráðist árið 1918. Þannig var byrjað að nota vatn frá Kaldá strax árið 1918 á óbeinan hátt. Enn má sjá undirstöður vatnsleiðslunnar þar sem hún liggur frá Kaldárbotnum og yfir Sléttuhlíð, þar sem vatninu var hleypt niður í hraunið. Það kom síðan upp í Lækjarbotnum, sem fyrr segir. Mest er mannvrikið þar sem leiðslan lá yfir Lambagjá.

Kaldárbotnar

Í Kaldárbotnum – stíflan.

Árið 1951 var svo tekin í notkun aðveituæð sem náði alla leið upp í Kaldá. Kaldá sjálf var stífluð og vatni úr ánni veitt í gegnum síu og þaðan inn í æðina. Á uppistöðulóninu sem myndaðist ofan við stífluna fóru að venja komur sínar fuglar ásamt því að sandur og allskonar gróðurleifar fóru að berast inn í aðveituæðina. Þess vegna var hlaðin steinþró utan um stærstu uppsprettuna í Kaldárbotnum sjálfum og þaðan lögð pípa sem tengd var beint við aðveituæðina.

Kaldá

Kaldá.

Náttúrulegar aðstæður í nágrenni Kaldár skýra af hverju svo mikið af vatni er í Kaldárbotnum. Eldgos í tugi þúsunda ára hafa hlaðið upp jarðmyndunum á svæðinu. Á meðan ísaldir ríktu hlóðust upp móbergsfjöll og bólstrabergshryggir. Á hlýskeiðum runnu hraun og gígir hlóðust upp en við öll þessi eldsumbrot brotnaði jarðskorpan og seig og reis. Þannig hafa myndast sigdalir og gapandi gjár, sem stundum fóru á kaf í ný hraun.

Kaldárbotnar sjálfir eru í bólstrabergsmyndun. Bólstrabergið er nokkuð gamalt á mælikvarða jarðmyndana á svæðinu og segja má að það sé umflotið ungum hraunum.
Bólstrabergið sjálft er afburða góð náttúruleg sía ásamt því að vera mjög vel vatnsleiðandi, sérstaklega eftir sprungum.

Kaldá

Kaldá.

Megin misgengið sem lindirnar í Kaldárbotnum tengjast hefur örugglega hreyfst oftar en einu sinni. Þannig eru yfirvegandi líkur á að opnast hafi gjá, í einhverjum hamförum á ísöld, undir ísaldarjöklinum og hún fyllst af jökulurð. Við gröft vegna framkvæmda árið 1997 komu í ljós setlög sem stefndu ofan í misgengið og núið grjót (sem við köllum héðan í frá hausagrjót ) kom upp af fimm metra dýpi, þegar grafið var niður með borholufóðringu. Ástæður fyrir þessu mikla vatni sem kemur upp austan við misgengið eru því þrjár. Vatnsleiðandi bergsprungur tengdar misgengjum, setfylling í megin misgenginu sjálfu og bólstrabergið

Kaldársel

Gengið um Kaldársel.

Í eldgosi sem líklega varð á tólftu öld, rann örþunnt hraun niður í Kaldárbotna sjálfa og þaðan niður fyrir Kaldársel og nam þar staðar. Þetta hraun hefur líklega verið mjög heitt og þunnfljótandi því að það fyllti í allar lægðir á leið sinni og storknaði án þess að í því mynduðust kólnunarsprungur og gjótur. Þegar grunnvatnsborð í Kaldárbotnum lækkar niður fyrir efri brún hraunsins hverfur Kaldá.
Eftir að kemur vestur fyrir meginmisgengið í Kaldárbotnum rennur Kaldá ofan á þessu þétta hraunlagi. Þar sem hraunið endar, fyrir neðan Kaldársel, hverfur Kaldá ofan í hraunin þar fyrir neðan.

Kaldársel

Kaldársel – fyrsti skáli K.F.U.M. Kaldársel sést aftan við húsið.

Í Kaldárseli eru reknar sumarbúðir á vegum KFUM og KFUK. Frumkvöðull starfs KFUM og KFUK á Íslandi var æskulýðsleiðtoginn sr. Friðrik Friðriksson, en hann hafði á námsárum sínum í Kaupmannahöfn kynnst starfi KFUM og tekið virkan þátt í því. Haustið 1897 kom hann heim til Íslands og myndaði eins konar undirbúningsfélag með nokkrum unglingspiltum úr Dómkirkjusöfnuðinum vorið 1898. Þann 2. janúar 1899 var KFUM formlega stofnað og fór starfsemin ört vaxandi er á leið vorið. Þá færðu nokkrar fermingarstúlkur það í tal við sr. Friðrik hvort hann gæti ekki einnig stofnað félag fyrir þær. Fékk sr. Friðrik nokkrar konur til liðs við sig og 29. apríl 1899 hafði KFUK einnig verið ýtt úr vör.

Kaldársel

Kaldársel 1965. Tóftir selsins sjást enn suðaustan við húsið.

Um það leyti sem starf KFUM og KFUK hófst hér á landi átti íslensk kirkja að ýmsu leyti í vök að verjast og félagsstarfsemi fyrir börn og unglinga var mjög af skornum skammti. Ýmsir höfðu því efasemdir um að slík kristileg félagsstarfsemi gæti átt framtíð fyrir sér, en ekki leið á löngu uns félögin tóku að blómstra í höndum sr. Friðriks. Augu hans voru næm á þarfir ungu kynslóðarinnar og innan félaganna spruttu fram starfsgreinar á borð við kvöldskóla, bókasafn, skátafélag, knattspyrnufélag, bindindisfélag, taflflokk, hannyrðadeild, lúðrasveit, söngflokka, sumarbúðir o.fl.

Kaldársel

Kaldársel – tilgáta ÓSÁ.

Sífellt leitaði sr. Friðrik nýrra leiða til þess að byggja upp félagsstarf á kristnum grunni sem mætt gæti þörfum æskunnar og skapað heilbrigða einstaklinga til líkama, sálar og anda. Einstakir persónutöfrar, manngæska og vitsmunir gerðu hann nánast að dýrlingi í lifanda lífi og í hjarta borgarinnar, við Lækjargötu, minnir stytta hans á mikilvægi þess að styðja æsku Íslands til bjartrar framtíðar.

Kaldársel

Kalsdársel – Teikning Daniels Bruun frá lokum 19. aldar. Inn á teikninguna eru felld inn líkleg upphaflegu selshúsin áður en bætt var við þau til búsetu.

Í Kaldárseli var sel um langan aldur, auk þess sem búið var þar um aldarmótin 1900. Ítarleg lýsing er á Kaldáseli í annarri FERLIRslýsingu (Sjá HÉR og HÉR.)
Sjá MYNDIR.

Frábært veður – sól og milt. Gangan tók 2 klst og tvær mínútur.

-Upplýsingar um Reykjaveginn fengnar af http://www.utivist.is
-Upplýsingar um Vatnsveitu Hafnarfjarðar eru fengnar af http://www.hafnarfjordur.is
-Upplýsingar um Helgafell eru fengnar af http://www.visindavefur.hi.is

Kóngsfell

Kóngsfell.

Vífilsstaðir

Á landnámstíð bjó sá maður, sem Sviði hét, í Sviðholti á Álftanesi.

Álftanes

Sviðholt.

Bær heitir Vífilsstaðir. Hann er einni og hálfri mílu ofar en Sviðholt. Þá jörð hafði Ingólfur Arnarsson gefið húskarli sínum, sem Vífill hét. Svo er mælt, að Vífill og Sviði hafi róið tveir saman á áttæringi og hafi Vífill gengið á Vífilsfell og gáð til veðurs áður en róið var. Bendir það til þess að hann hafi verið formaður. Þótt löng væri sjávargatan, fór Vífill ætíð heiman og heim þá er þeir reru.
Þeir Vífill og Sviði komu sér saman um að búa til mið, þar sem þeir hefðu best orðið fiskst varir. Er þá sagt, að Sviði hafi kastað heiman frá sér langlegg einum. Kom hann niður fjórar sjómílur sjávar frá landi. Heitir þar Sviðsbrún vestri. Vífill kastaði öðrum legg heiman frá sér. Þar heitir Sviðsbrún grynnri. Var vika sjávar milli leggjanna. Bilið kölluðu þeir Svið og mæltu svo um, að þar skyldi jafnan fiskvart verða, ef ekki var dauður sjór í Faxaflóa.

-Þjóðsögur Jóns Árnasonar II – 1961.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðahlíð.

Bessastaðir

Á Bessastöðum voru gerðar stórmerkilegar tilraunir í matjurtarrækt á ofanverðri 18. öld og þar heppnuðust fyrstu tilraunir til þess að rækta kartöflur á Íslandi, 1758, en ekki í Sauðlauksdal, eins og almennt hefur verið talið. Einnig var kartöflurækt snemma á Görðum.

Bessastaðir

Bessastaðir.

Erlendur grasafræðingur, kallaður Köning, sem hingað var sendur til að skoða jurtir landsins, virðist hafa haft vetursetu á Bessastöðum 1763-64, en var hér hvorki lofaður né lastaður eftir því sem Íslandsárbók segir.

Allan síðari hluta átjándu aldar var mikil garðrækt á Bessastöðum og hafði þessi garðyrkjuáhugi áhrif víðar um nesið. Þegar Skúli fógeti fluttist að nýju að Bessastöðum, fékk hann silfurverðlaun árið 1772-73 fyrir kartöflurækt, en gullverðlaunin hreppti Ólafur amtmaður Stefánsson í Sviðholti.

Ólafur Stephensen

Ólafur Stephensen, amtmaður.

Garðræktin á Bessastöðum virðist hafa verið í hvað mestum blóma í stiftamtmannstíð Jóhanns Levetzow, sem kom að Bessastöðum árið 1785.
Stanley segir í ferðabók sinni árið 1789 “að lokinni máltíð fórum við út í garðana, sem eru fegurri, fjölskrúðugri og skipulagðir af meiri smekkvísi en mig hefði órað fyrir. Þessar plöntur eru ræktaðar þar og dafna flestar ágætlega, grænkál, kál, kálrabí: planta, sem hefir betri rófur en næpa og vex eins vel hér og í Danmörku”.

Skúli Magnússon skrifaði á svipuðum tíma lýsingu Gullbringu- og Kjósarsýslu. Þar getur hann um jurtir sem ræktaðar eru á Bessastöðum, í Viðey, Nesi, Reykjavík, Keflavík og víðar. Þær eru einkum gulrætur, hvönn eða hvannarót, brúnt, grænt, hvítt og rautt kál, gulrófur, piparrót, Pétursselja, kartöflur, radísur, redíkur, rófur og salat.

Heimildir:
-Sturla Friðriksson – Úr 200 ára sögu kartöflunnar á Íslandi – 1959.

Bessastaðir

Bessataðir fyrrum.

Bessastaðir

“Ásbjörn hér maðr Özurarson, bróðurson Ingólfs, hann nam land millum Hraunholtslækjar ok Hvassahrauns, Álptanes allt, ok bjó á Skúilastöðum.”

Bessastaðir

Lágmynd á Bessastaðakirkju.

Þannig segir í Landnámu og eru því heimildir um byggð á Álftanesi allt frá því á landnámsöld. Landnám Ásbjarnar náði yfir nánast allan gamla Álftaneshrepp. Skiptar skoðanir erum um hvar Skúlastaðir hafi verið, en oftast hefur verið giskað á Bessastaði eða Garða á Álftanesi. Ákvæði í elsta máldaga Bessastaðakirkju segja frá því að afkomandi Ásbjarnar Özurarsonar í beinan karllegg, Sveinbjörn að nafni, hafi átt Bessastaði. Þar hefur verið um að ræða annað hvort Sveinbjörn Ólafsson, sem uppi var á elleftu öld, eða Sveinbjörn Ásmundarson, sem uppi var á tólftu öld. Það gæti verið vísbending um tengsl landnámsmannsins við staðinn.

Bessastaðir

Bessastaðir.

Nafnið Skúli tengist ekki landnámi á Álftanesi, né heldur nafn Bessa, og því enga ályktun hægt að draga af nöfnunum um það hvort Skúlastaðir hafi verið þar sem Bessastaðir eru nú.
Fornleifarannsóknir á Bessastöðum virðast ýta undir þá tilgátu að þar hafi bær verið þegar á landnámsöld og gætu þar með stutt þá kenningu að Skúlastaðir hafi verið Bessastaðir en ekki Garðar. Ummerki og rask fundust rétt undir landnámsgjóskunni og eru þá frá níundu öld. Öruggar minjar hafa fundist þar um búsetu þar frá elleftu öld.
Reyndar fara sérfræðingar og fræðimenn þarna villu vega. Minjar Skúlastaða eru í Helgadal, ekki langt frá Skúlatúni.

Heimild: Landnámabók og Álftanessega – Anna Ólafsdóttir Björnsson – 1996.

Bessastaðir

Bessastaðir.

Sveinn Björnsson

Í tímariti sjálfstæðismanna, Þjóðin, var árið 1941 fjallað um “Fyrsta ríkisstjóra Íslands”:

Þjóðin

Þjóðin 1941.

“17. júní síðastl. var merkisdagur í sögu Íslands. Þá var á Alþingi kjörinn hinn fyrsti ríkisstjóri landsins. Varð fyrir kjöri Sveinn Rjörnsson fyrrum sendiherra Íslands í Danmörku. Var það vel ráðið og viturlega, að velja þann mann í æðsta virðingarsæti ríkisins, sem allir landsmenn gátu borið óskert traust til og skipað hafði áður hinum vandamestu málum þjóðarinnar á erlendum vettvangi. Verður það að segjast, að fyrsta ríkisstjórakosningin hafi tekist vel og giftusamlega.
Alþingi hefir gert þá ráðstöfun, að velja Bessastaði á Álftanesi sem ríkisstjórabústað. Bessastaðir eru fornt höfuðból, allt frá dögum Snorra Sturlusonar, og þar hafa höfðingjar setið oft og tíðum. Er Bessastöðum vel í sveit komið sem ríkisstjórabústað, skammt frá höfuðstaðnum, en þó nógu langt í burtu til að vera ekki umsetinn af erindislausu fólki.
Ríkisráðsfundur Á Bessastöðum eru ýmsar sögulegar minjar, aðallega frá dögum höfuðsmannanna og veru latínuskólans þar á staðnum, og þarf að varðveita þær.
Til bráðabirgða hafa ríkisstjóranum verið fengin híbýli til umráða í Alþingishúsinu. Þar eru skrifstofur hans, og hefir Pétur Eggerz cand. jur. verið skipaður ríkisstjóraritari.
Fyrir skömmu átti ríkisstjóri viðtal við blaðamenn í þeim húsakynnum, og þar hefir hann og frú hans veitt erlendum fulltrúum og embættismönnum landsins móttöku. Þar hefir og verið haldinn hinn fyrsti ríkisráðsfundur hans, en allar þessar samkomur hafa einkennt virðuleiki ríkisstjórans sjálfs, lúfmennsku hans og nærgætni við háa sem lága.”

Heimild:
-Þjóðin, tímarit sjálfstæðismanna, “Fyrsti ríkisstjóri Íslands”, 4. árg 1941, 2. hefti, bls. 56-57.

Bessastaðir

Bessastaðir 2023.

Bessastaðir

Bessastaðir eru, líkt og Þingvellir, einn af helgustu minjastöðum landsins.

Bessastaðir

Bessastaðir 1720.

Bessastaða er fyrst getið í íslenskum heimildum í eigu Snorra Sturlusonar. Við dráp Snorra 1241 gerði kóngur eigur hans upptækar og þá komust Bessastaðir í konungs eign. Með tímanum urðu Bessastaðir aðsetur fulltrúa erlends konungsvalds á Íslandi allt til loka 18. aldar.Eftir siðaskiptin vænkast hagur Bessastaða, því að bestu og arðvænlegustu sjávarjarðir Skálholtsstóls á Suðurnesjum voru lagðar undir Bessastaði. Áður voru Bessastaðir heldur lítil og rýr jörð.

Grímur Thomsen

Grímur Thomsen.

Grímur Thomsen keypti Bessastaði 1867 og eftir hans dag voru ýmsir eigendur að Bessastöðum. Sigurður Jónsson gaf ríkinu Bessastaði fyrir ríkisstjórabústað árið 1941 og síðan hefur þar verið aðsetur þjóðhöfðingja Íslands.
Þegar Skúli Magnússon var skipaður landfógeti árið 1749, fyrstur íslenskra mann, vildi hann síður búa á Bessastöðum í sambýli við amtmann og fékk leyfi til að sitja í Viðey og reisa sér þar bústað 1753-55. Viðey var ein af fjölmörgum kirkjujörðum á Íslandi sem komust í hendur Danakonungs eftir siðaskiptin.
Bessastaðastofa er eitt af elstu húsum landsins. Hún var byggð á árunum 1760-65 í tíð fyrsta íslenska amtmannsins, Magnúsar Gíslasonar. Arkitekt var J. Fortling. Magnús flutti til Bessastaða er húsið var fullbúið vorið 1766, en var þar aðeins skamma hríð, því bæði hjónin létust þar á sama árinu, 1766. Veggir voru hlaðnir úr tilhöggnu grágrýti og múrað á milli. Kalk, sandur og timbur var flutt frá Danmörku. Veggir voru meira en 1 metri á þykkt og þak reist úr 28 “pommerskum” bjálkum.

Bessastaðir

Bessastaðir 1722.

Árið 1760 kom til Bessastaða nýútskrifaður læknir, Bjarni Pálsson, sem fyrsti landlæknir á Íslandi og eini lærði læknirinn á landinu. Hann bjó þar í þrjú ár, eða þar til reistur var yfir hann sérstakur bústaður að Nesi við Seltjörn.
 Árið 1804 lauk hlutverki Bessastaða sem aðsetur umboðsmanna konungs á Íslandi. Sá, sem þá tók við, Trampe greifi, settist að í fangahúsinu í Reykjavík og varð sú bygging opinberlega embættisbústaður umboðsmann konungs árið 1819. Meðan Bessastaðir höfðu enn það hlutverk var staðurinn stundum kallaður “Konungsgarður” og fluttist það heiti nú á hús það sem nú kallast Stórnarráð og hýsir forsætisráðherra og áður forseta Íslands, en var upprunalega byggt sem tukthús 1761-1771.
Ástæða er til að vekja athygli á að um miðja 18. öldina voru reist fjögur vegleg steinhús á því svæði sem nú kallast Stór-Hafnarfjarðarsvæði, þ.e. Viðeyjarstofa (1753-55), Nesstofa (1761-66), Bessastaðastofa (1761-66) og Tukthúsið, nú Stjórnarráð Íslands (1761-1771). Einnig var lokið við Hóladómkirkju árið 1763 og Landakirkju í Vestmanneyjum árið 1774.

Bessastaðir

Bessastaðir 1789.

Meðan Bessastaðir voru enn bústaður embættismanna konungs var sú kvöð á ábúendum annarra konungsjarða í nágrenninu að leggja fram vinnuafl á staðnum og jafnvel víðar svo sem á þeim bátum, sem fulltrúar konungs gerðu út á eigin vegum. Voru menn kvaddir til ýmissa starfa á Bessastöðum, s.s. vinnu við húsagerð, garðhleðslu, heyskap, maltgerð og torfskurð í mógröfum. Einnig voru menn sendir á eigin hestum til veiða í Elliðaánum og flytja laxinn til Bessastaða, sækja hrís suður í Hraun eða timbur austur í Þingvallaskóg.

Skólanaust

Skólanaust við Skansinn.

Einnig þurftu menn að leggja til eigin báta til að sigla með Bessastaðafólkið því til skemmtunar út um allan sjó. Ekki má gleyma þeirri kvöð að flytja fólk frá Bessastöðum yfir Skerjafjörð í Skildinganesi á Seltjarnarnesi eða jafnvel inn í Viðey.
Þegar hlutverki Bessastaða sem embættisbústaðar var lokið 1805 hófst nýr kafli í sögu staðarins. Árið 1805 fluttist þangað Latínuskólinn sem áður starfaði á Hólavelli í Reykjavík.
Skansinn, virki það, sem enn stendur, var byggt um 1668 og var það aðallega hugsað sem varnarvirki gegn “Tyrkjum”, sem hjuggu hér strandhögg 1627, ef þeir skyldu koma hingað aftur.

Bessastaðakirkja

Bessastaðakirkja

Bessastaðakirkja.

Kirkjan á Bessastöðum var byggð á árunum 1780-1823 að turninn var fullbyggður. Kirkjuturninn er 15 metra hár og varekki byggður fyrr en á árunum 1822-23. Í turninum eru tvær klukkur, önnur frá 1741 og hin frá 1828. Talið er að kirkja hafi verið á Bessastöðum frá því snemma í kristni eða frá 11. öld. Margt er hægt að sýna ferðamönnum, sem koma að skoða kirkjuna eins og t.d. legsteina Páls Stígssonar, höfuðsmanns (d. 1566) og Magnúsar Gíslasonar, amtmanns og konu hans, Þórunnar Guðmundsdóttur (d. 1766).
Gagngerðar viðgerðir og breytingar hafa farið fram á Bessastaðakirkju eftir að Bessastaðir urðu forsetasetur. Í henni er t.d. nýtt gólf (gamla gólfið heldur sér í anddyrinu) og loft. Herra Ásgeiri Ásgeirsson lét sé einkum annt um kirkjuna og að tilstuðlan hans fékk kirkjan margar góðar gjafir.

Bessastaðakirkja

Bessastaðakirkja.

Herra Sveinn Björnsson lét gera róðurkrossin, sem nú er á norðurveggnum. Hann gerði Ríkarður Jónsson og ætlaði Sveinn Björnsson að hafa hann í stað altaristöflu. Prédikunarstóll er einnig eftir Ríkarð Jónsson. Alataristaflan er eign Listasafns ríkisins og er eftir Guðmund Thorsteinsson (Mugg), 1891-1924. Frú Georgía Thorsteinsson ræktaði sjálf hörinn í altarisdúkinn. Hún var frá Hobro á Jótlandi. Dúkurinn er gerður af Unni Ólafsdóttur.
Gjafir, sem kirkjunni hafa borist, er t.d. eikarhurðir í útidyrum, smíðaðar af sr. Harald Hope, Ytre Arna í Noregi og sömuleiðis tveir stólar með gullskreyttu leðri, smíðaðir eftir stólum frá 1700. Skrá í útihurð er gjöf frá Meistara- og sveinafélagi járnsmiða til minningar um séra Hallgrím Pétursson, sem einnig hafði verið járnsmiður. Gluggar í kór eru gjöf til herra Ásgeirs Ásgeirssonar á 60 ára afmæli hans.

Bessastaðakirkja

Í Bessastaðakirkju – altaristafla eftir Guðmund Thorsteinsson (Mugg) – vinstra megin minningarskildir um Kristján Eldjárn og Halldóru Eldjárn, svo Svein Björnsson og Georgíu Björnsson. Hægra megin minningarskjöldur um Ásgeir Ásgeirsson og Dóru Þórhallsdóttur.

Róðan á altari er gjöf til hr. Ásgeirs og frú Dóru. Kristhöfðuð úr kopar er á kórgafli, afsteypa af kristslíkneski í Dómkirkjunni í Niðarósi (frá 1000), gjöf til Ásgeirs. Steinsbiblía liggur á lektara í kór og er gjöf frá dönskum presti (útg. 1728). Skírnarfontur af óþekktum uppruna (frá um 1200) er í kirkjunni, hefur hann e.t.v. fylgt kirkjunni um aldaraðir. Skírnarskál er úr tini frá 1702. Oblátur – dósir eða baktursöskjur er á altarinu. Þær voru upprunalega gefnar til minningar um Magnús Gíslason, amtmann og konu hans, og einnig fyrir legstað í kirkjunni. En Jón Vídalín, list- og fornmunasafnari, fékk þær keyptar og eru þær í Þjóðminjasafninu, en eftirlíking var gerð, og er það hún, sem við sjáum á Bessastöðum. Í kirkjunni eru nýlegir steindir gluggar eftir Finn Jónsson og Guðmund Einarsson. Fyrsti glugginn á norðurhlið (F.J.).

Bessastaðakirkja

Bessastaðakirkja – steindur gluggi.

Á altarinu eru oftast sex kertastjakar. Tveir eru 4-álma, gefnir af Guðrúnu Johnson árið 1956. Óvíst er um uppruna litlu koparstjakanna tveggja, en stærri koparstjaka tvo gaf Karen Hólm árið 1734 til minningar um Niels Fuhrmann, amtmann, sem kom að Bessastöðum 1718.
Nokkrum árum eftir að Niels Furhmann kom til Bessastaða kom þangað norsk stúlka, Appolonia Schwartzkopf, sem taldi að Furhmann hefði brugðið við sig heitorði. Hafði hún fengið hann dæmdan fyrir það í Hæstarétti og bar honum að eiga hana og sjá fyrir henni þangað tilþað gæti orðið. Á sama tíma voru á staðnum tvær danskar mæðgur, Katrín Holm og Karen, dóttir hennar. Þótti Appolinia amtmaður hafa meiri mætur á þeim en sér og taldi jafnvel að þær mæðgur vildu hana feiga. Að því kom að Appolonia lést í júni 1724 og upp kom sá kvittur að mæðgurnar hefðu byrlað henni eitur. Ekkert sannaðist um það, en Fuhrmann lést á páskum 1733. Karen Holm gaf kirkjunni tvo koparstjaka til minningar um Fuhrmann, amtmann. Er hann, mæðgurnar og Appolonina öll jarðsett að Bessastöðum.

Bessastaðir.

Bygging núverandi steinkirkju á Bessastöðum hófst 1773 og var hún vígð 1796.

Sá orðrómur er uppi að Appolonia gangi aftur á Bessastöðum. Um þetta mál hefur Guðmundur Daníelsson, rithöfundur, skrifað, skáldsöguna Hrafnhettu og Þórunn Sigurðardóttir hefur skrifað leikritið Haustbrúður.
Á norðurvegg kirkjunnar er platti með skjaldarmerki Íslands. Oft biðja ferðamenn um útskýringar á skjaldarmerkinu. Það sýnir landvættina skv. gamalli hefð eins og sagt er frá í Heimskringlu Snorra Sturlusonar. Um er að ræða fána Íslands, sem er krossfáni.

Bessastaðir eftir Vilhjálm Þ. Gíslason / Félagsblað 5/1975. Grein eftir Katrínu Sívertsen.

Bessastaðir fyrrum

Bessastaðir fyrrum.