Tag Archive for: Garðabær

Bessastaðir

Gengið var um Bessastaðanes með viðkomu í kjallara Bessastaða og á Breiðabólstað vestan Bessastaðatjarnar.

Bessastaðanes

Bessastaðanes – minjar og örnefni: ÓSÁ

Þegar farin er heimreiðin að Bessastöðum liggur leiðin framhjá Lambhúsum. Bærinn er horfinn en nálægt veginum og þar var m.a. stjörnuskoðunarstöð seint á 18. öld.
Bessastaða er fyrst getið í Íslendingasögu Sturlu Þórðarsonar, þá í eigu Snorra Sturlusonar. Að honum látnum urðu Bessastaðir fyrsta jörðin á Íslandi í konungseign. Þar varð brátt höfuðsetur æðstu valdamanna konungs hér á landi og var svo til loka 18. aldar. Sigurður Jónsson (1896-1965), forstjóri í Reykjavík,
gaf íslenzka ríkinu staðinn til búsetu fyrir ríkisstjóra vorið 1941. Kirkjur hafa staðið á Bessastöðum síðan árið 1000. Elztu heimildir um kirkju þar eru frá árinu 1200. Það tók u.þ.b. 20 ár að byggja núverandi kirkju og hún var vígð 1796. Hún er meðal elztu steinbygginga landsins.

Bessastaðanes

Bessastaðanes – örnefni.

Sem fyrr segir komust Bessastaðir í eigu íslenska ríkisins 1941 þegar maður að nafni Sigurður gaf ríkinu staðinn til bústaðar fyrir ríkisstjóra. Og frá því að Ísland varð lýðveldi 1944 hefur þetta verið bústaður forseta landsins. Árið 1805 var æðsta menntastofnun sem þá var í landinu “Lærði skólinn” fluttur hingað og starfaði hér í 40 ár. Forsetabústaðurinn er með elstu húsum á Íslandi reistur á árunum 1761-1766. Síðan hefur húsinu verið breytt og byggt við það, en er nú einungis notað sem móttökustaður. Forsetinn býr í nýju hús skammt norðar.

Reykjavík

Bessastaðir – gamla kirkjan.

Kirkjan er byggð utan um eldri kirkju sem þar var. Í kirkjunni eru steindir gluggar sem settir voru í hana 1956, og sýna þeir atriði guðspjallasögunni og kristnisögu Íslands.
Sögu byggðar á Álftanesi má rekja allt aftur til fyrstu Íslandsbyggðar og tilheyrði nesið landnámi Ingólfs Arnarsonar. Ásbjörn Össurarson, bróðursonur Ingólfs Arnarsonar, nam land á því svæði sem hét Álftaneshreppur.

Bessastaðir

Bessastaðir – nýja kirkjan.

Álftaneshreppur varð snemma til því byggð óx hratt á fyrstu öldunum eftir landnám. Sennilega hafa mörk Álftaneshrepps verið hin sömu frá upphafi hans fram til 1878 þegar hreppnum var skipt eftir kirkjusóknum í tvö sveitarfélög: Bessastaðahrepp og Garðahrepp.
FERLIR er þekktur fyrir áhuga á sögu og minjum svæðisins svo sjálfsagt þótti að verða við þeirri ósk hans að fá að líta í kjallara Bessastaðastofu. Þar eru minjar frá uppgrefti á svæðinu er stofan gekk í endurnýjun lífdaga á síðasta áratug 20. aldar. Mikið mun hafa gengið á, bæði við og í kringum uppgröft þann. Afurðirnar má t.a.m. sjá í kjallaranum, s.s. minjahluta eldri bæjarstæða, einstaka hluti, muni og sögulegar skýringar.

Bessastaðir

Bessastaðir – kort 1770.

Gengið var áleiðis norður að Bessastaðanesi. Á móts við útihúsin á Bessastöðum er tangi út í Bessastaðatjörn sem heitir Prentsmiðjutangi. Þar var prentsmiðja Skúla Thoroddsens alþingismanns og ritstjóra Þjóðviljans. Hann bjó á Bessastöðum frá 1901-1908. Skammt norðar er gamall brunnur frá Bessastöðum.
Dr. Kristján Eldjárn gerði fornleifakönnun á Bessastaðanesi og gaf hana út (Kristján Eldjárn. Örnefni og minjar í landi Bessastaða á Álftanesi. Árbók hins íslenska fornleifafélags 1981). Í henni eru tíundaðar helstu minjar, sem þar er að finna, s.s. brot af hlöðnum garði ofan við Músarvík, skotbyrgi, tóft, sennilega varðskýli á Rananum yst á Nesinu gegnt Eskinesi (norðan við hana er brunnstæði), tvær fjárborgir eða sauðabyrgi ofan Sauðatanga nyrst og síðan Skansinn norðvestan á því. Ferðin var notuð til að rissa upp minjarnar á svæðinu (sjá meðfylgjandi uppdrátt).

Skansinn

Skansinn við Bessastaði.

„Bessastaðaskans (Ottavirki) er við Skerjafjörð þar sem Dugguós var áður en stíflan var gerð milli Bessastaðatjarnar og sjávar. Skansinn er virki, í stórum dráttum fjórir moldarveggir, sem upphaflega hafa verið mjög háir en eru nú ávalir og grasi grónir.“
Í júní 1627 rændu Tyrkir Grindavík. Tíðindin spurðust fljótt til Bessastaða og lét höfuðsmaðurinn Holger Rosenkranz hlaða virki úr torfi og grjóti fyrir ofan Seyluna, en svo kallast víkin sem skerst inn í nesið Skerjafjarðarmegin.

Skansinn

Skansinn – uppdráttur ÓSÁ.

Á næstu áratugum var farið að hugsa til þess að hafa að staðaldri virki á Bessastöðum. 1667 var innheimtur af landsmönnum skattur til að byggja upp Bessastaðaskans næsta ár og voru Suðurnesjamenn fengnir til þess. Ekki var skansinum haldið við eftir þetta og greri yfir hann að mestu.
Þegar komið er að stíflunni eru rústir á hægri hönd, þær eru af Skansinum, virkinu og bænum þar sem Óli skans bjó. Konan hans hét reyndar Fía en ekki Vala. Þau bjuggu þar í smábýli, sem fór í eyði um aldamótin 1900. Á hægri hönd (þegar gengið er eftir stíflunni) er Seilan, víkin þar sem skip alsírskra sjóræningja strandaði fullt af herteknum Íslendingum árið 1627. Einstreymisloki á stíflunni milli Bessastaðatjarnar og sjávar, sem gerð var 1953. Lokinn heldur vatninu í tjörninni stöðugt í svipaðri hæð.

Breiðabólstaðir

Breiðabólstaðir.

Breiðabólsstaðir eru byggðir úr höggnu grjóti undir lok 19. aldar. Sumir segja að það hafi verið afgangsgrjót úr Alþingishúsinu, líkt og einn veggur fjárhússins á Minna-Knarrarnesi. Lítil tjörn, Breiðabólsstaðatjörn er rétt við Breiðabólsstaði. Nálægt Jörva er gamall varðturn frá stríðsárunum, uppistandandi menjar um stóran herskálakamp, Brighton-kamp, sem teygði loftnet sín um flest tún þar í kring.

Heimildir:
-Fornleifaskrá. Skrá um friðlýstar fornleifar. Ágúst Ó. Georgsson tók saman. Reykjavík 1990
-Kristján Eldjárn. Örnefni og minjar í landi Bessastaða á Álftanesi. Árbók hins íslenska fornleifafélags 1981.

Upplýsingar um Bessastaði eru m.a. af http://alftanes.is

Á Álftanesi

Í Besstaðanesfjöru.

Búrfell
Gengið var um Lambagjá, en hún hefur verið friðuð. Með í för voru skiptinemar á vegum Lionshreyfingarinnar, annar frá Króatíu og hinn frá Slóvaníu.
Rauðshellir

Rauðshellir.

Ætlunin var m.a. að gefa þeim innsýn í myndun landsins og sýna þeim hrauntraðir, hraunhella og eldgíga.
Í Lambagjá eru hlaðnar þverfyrirhleðslur á a.m.k. tveimur stöðum og einnig er hlaðið fyrir þar sem auðvelt hefur verið að komast upp úr gjánni miðsvæðis. Líklegt má telja að gjáin hafi verið notuð sem aðhald eða jafnvel nátthagi um tíma. Hraunhaft er í hrauntröðinni, en gengið var undir það. Þar niðri var fallegt þrastarhreiður og í því þrjú egg. Þrösturinn hafði greinilega verpt í það öðru sinni í sumar. Skammt ofar var annað þrastarhreiður, yfirgefið. Gengið var áfram upp að opi Níutíumetrahellis. Frá því var haldið upp að Selvogsgötu þar sem hún liggur niður í Helgadal og kíkt í Vatnshelli áður en haldið var upp með misgenginu að Rauðshelli. Við op hans var einnig þrastarhreiður á sillu með fjórum eggjum í.

Rauðshellir

Hleðslur í Rauðshelli.

Farið var inn í hellinn og m.a. skoðuð hlaðin fyrirhleðsla, sem þar er. Misvísandi lýsingar eru á Rauðshelli. Til er gömul lýsing, sem mun vera rétt, en einnig hefur verið giskað á að um Hundraðmetrahellinn gæti verið að ræða, en slíkt passar ekki við gömlu lýsinguna. Náttúrulegur bekkur hefur verið þarna þvert yfir hellinn, sem bæði hefur verið hægt að komast yfir og undir. Hún er nú fallin, en rauður liturinn í hellinum er enn áberandi. Hleðslur eru í jarðfallinu og án efa einnig undir gróðurþekjunni, sem þar er. Forn stekkur er skammt norðar.
Þá var gengið upp í Fosshelli og haldið í gegnum hann. Sást vel hversu fallegur hraunfossinn er sem og flórinn í efri hluta hellisins.

Búrfellsgjá

Hlaðið fyrir helli í Búrfellsgjá.

Gengið var yfir að Búrfelli. Í hrauntröðinni er m.a. skúti með fyrirhleðslu. Haldið var upp eftir tröðinni og litið niður í gíginn, sem er ótrúlega tilkomumikill. Háir veggir traðarinnar geyma ótrúlegar hraunmyndarnir, ef vel er að gáð.
Búrfell er eldborg. Frá henni rann hraun niður í Hafnarfjörð og Skerjafjörð. Heildarflatarmálið er u.þ.b. 18 ferkílómetrar. Hraunið er talið vera í kringum 7200 ára.
Búrfellið tilheyrir eldstöðvakerfi kennt við Krísuvík. Búrfell er hringlaga gígur úr hraunkleprum. Gígurinn er 179 metrar yfir sjó þar sem hann er hæstur og 140 metrar að þvermáli milli barmanna. Dýptin hefur mælst 58 metrar frá hæsta og 26 metrar frá lægsta barmi. Mismunurinn á barmi gígsins stafar af misgengi sem átti sér stað eftir að eldvarpið hlóðst upp.

Búrfellsgjá

Búrfellsgjá.

Búrfell gaus einu sinni, það var flæðigos og framleiðslan var fyrst og fremst Búrfellshraun. Meginuppistaðan í eldvarpinu eru kleprar, þeir eru lagskiptir og hallar lögunum bratt niður í gíginn. Rofist hefur ofan og utan úr Búrfelli og hefur myndast hvasst egg á toppi fjallsins sem er úr lausri gosmöl.
Búrfellshraun er innan marka Garðabæjar og Hafnarfjarðarbæjar. Tveir megin hraunstraumar hafa komið frá Búrfelli. Það sem aðgreinir þessar kvíslir er Helgadalshraun.

Búrfellshraun

Búrfellshraunin.

Búrfellið gengur undir ýmsum nöfnum eftir því hvar það er. Sá hraunstraumur sem er Hafnarfjarðarmegin hefur eftirfarandi nöfn: Næst Búrfelli er Smyrlabúðahraun (kennt við fuglinn smyril sem gerði sér hreiður þarna), Gráhelluhraun, Lækjarbotnahraun, Stekkjarhraun, Sjávarhraun, Arnarhraun og vestar heitir það Flatarhraun. Garðabæjarmegin er fyrst Garðahraun, Urriðakotshraun, Vífilstaðahraun, Hraunholtshraun, Gálgahraun og Balahraun. Hraunið er stórbrotið apalhraun og meðalþykkt þess er ekki undir 20 metrum.
Sá hraunstraumur sem runnið hefur í Heiðmörk og niður í Garðabæ hefur runnið eftir Búrfellsgjá. Búrfellsgjá þykir með fallegri hrauntröðum landsins. Gjáin er 3,5 km á lengd með meginstefnu í norðvestur. Búrfellsgjá er mjóst upp við gíginn eða um 20-30 metrar milli barma en breikkar þegar lengra dregur og verður mest 300 metrar. Í hrauninu út með Vífilsstaðahlíð grynnkar hrauntröðin og hverfur, sá endi Búrfellsgjár nefnist Selgjá. Á köflum eru gjárveggirnir þverhníptir og mynda sums staðar grunna hellisskúta sem eru með snarhöllu þaki. Barmar, veggir og botn hrauntraðarinnar er allt úr Búrfellshrauni.

Búrfellsrétt

Búrfellsrétt. Gerðið fjær.

Gengið var niður gjána og að Gjáarrétt. Réttin var skoðuð sem og Gerðið. Innst í því, undir slútandi klettaveggnum er hlaðið hús, nokkuð heillegt.

Gjáarrétt

Gjáarrétt og nágrenni.

Gjáarrétt hefur sennilega verið lögrétt Garðhreppinga, Bessataðahreppsbúa og Hafnfirðinga í nokkur hundruð ár (Ól. Þorvaldsson). Sigurður í Görðunum segir í minningum sínum: „Réttin okkar var í hrauninu, skammt fyrir sunnan Vatnsenda. Hygg ég, að það hafi verið ein sérkennilegasta rétt á landinu. Hún hét Gjárétt, enda var hún í gjá. Skammt frá eru víðir og fagrir vellir og þar var oft leikið sér og ekki sízt sprett úr spori bæði þegar komið var í réttina og eins þegar réttardeginum var lokið.“

Gjáarrétt

Gjáarrétt – uppdráttur ÓSÁ.

Gjáarrétt (Gjárétt) var fjallskilarétt (lögrétt) til 1920, en þá var hún flutt niður í Gráhelluhraun og nefndist Hraunrétt. Dilkar voru 12 talsins uns einum dilk Selvogsmanna var bætt við suðaustast í réttinni. Árið 1955 var gerð rétt við Kaldársel. Gjáarrétt var friðlýst að tilstuðlan þjóðminjavarðar 1964.
Frábært veður – hlýtt og stillt. Gangan tók 3 klst og 30 mín.

Upplýsingar um Búrfellshraun er m.a. fengið af http://www.flensborg.is/sisi/hafnarfj/burfellshraun.htm

Búrfell

Gígur Búrfells – upptök Búrfellshrauns.

Lækjarbotnar

Gengin var Selvogsgata upp frá Lækjarbotnum og áfram áleiðis upp með Setbergshlíð.

Selvogsgata

Selvogsgata vestan Setbergshlíðar.

Komið var að stíflu vatnsveitunnar í Lækjabotnum og kíkt á hleðslur undan húsinu, sem þar var yfir “vatnsuppsprettunni” nyrst undi Gráhelluhrauni. Enn má sjá leifar gömlu tréleiðslunnar í tjörnunum ofan við stífluna. Andarpar lá við annan bakkann með höfuð undir vængum. Lúpínan er farin svo að segja til um allar hlíðar, en innan um má sjá gytta í hrafnaklukka, blágresi, melasóley, lambagras og gleiri litskrúðugar blómategundir.
Þegar komið var á móts við Gráhellu var strikið tekið inn á hraunið og að henni. Undir hellunni er hlaðið hús og gerði norðan þess. Austan við helluna er lítil hleðsla, nokkurs konar skjól. Gráhelluminjanar eru frá Setbergi, líklega fyrir þann tíma er Jón Guðmundsson, áður frá Hvaleyri og þar áður frá Haukadal, bjó þar.

Lækjarbotnar

Inntakið í Lækjarbotnum.

Gengið var á ný að Setbergshlíð, með stefnu á háa vörðu uppi og framan í hlíðinni. Þegar upp að henni var komið, eftir að hafa fetað birkivaxna hlíðina, var þaðan fallegt útsýni yfir að Setbergsseli, Sléttuhlíð og Helgafelli. Sólbjarma sló á Grindaskörðin í fjarska.

Ofan við vörðuna eru tóftir af stóru fjárhúsi frá Setbergi. Setbergsselið var í alfararleið þar sem Selvogsgatan lá í gegnum það. Í kringum selið og í brekkunum ofan við það er ágæt beit, en segja má að aðstaða selsins hafi verið færð úr alfararleiðinni og upp á hlíðina, en ofan við það, með hraunbrúnum og hæðum, hefur einnig verið ágætis beit.

Fjárhús

Fjárhúsið.

Fjárhúsið hefur verið allstórt. Nyrst í því hefur verið hlaða. Ekki er auðvelt að mynda rústirnar þar sem sléttlent er allt í kring.
Haldið var upp og norður hlíðina. Um eyðimela er að fara í fyrstu, en síðan reynir lúpínan að hefta för, en hún er nú reyndar léttvægur farartálmi. Gengið var upp á Svínholt (eða Svínhöfða öðru nafni). Uppi á honum, á svonefndum Flóðhjalla, er mikið mannvirki eftir breska herinn, sem þarna var svo að segja út um öll holt og hæðir. Stór kampur var t.d. á Urriðakotshæð.

Flóðahjalli

Flóðahjalli – minjar.

Mannvirkið er hringlaga með byrgjum að innan. Hleðslurnar eru ekki eins vandaðar og verklegar eins og í fjárborgum þeir, sem Íslendingar hafa hlaðið í gegnum aldrirnar. Grjótinu er raðað í neðstu raðir, sumu hverju með vélum, og síðan reynt að raða upp á það, en smærra grjótinu kastað innan í og á milli, líkt og hleðslumenn hafi kappkostað að tæma holtið af grjóti og finna því stað í mannvirkinu. Líklega hefur verið bæði kalt og næðingssamt þarna á holtinu, ekki síst að vetri til.

Flóðahjalli

Flóðahjalli – áletranir.

Áletranir eru á klöpp inni í hringnum. M.a. má sjá þarna ártalið 1940.
Gengið var niður Svínhöfða að norðanverðu með útsýni yfir að Urriðavatnskoti (Urriðakoti). Gangan endaði við golfskálann ofan við Setberg þar sem ferðalöngum var veittur góður beini.
Frábært veður – sól og hiti. Gangan tók 1 klst og 59 mín

Setbergssel

Setbergssel. Helgafell fjær.

Fjárborg

Mikil leit hafði verið gerð að Vífilstaðafjárborginni. Misvísandi upplýsingar voru um staðsetningu hennar og var jafnvel talið að hún hefði farið undir nýja veginn í gegnum Heiðmörk vestan Vífilstaðahlíðar. En nú er hún fundin – á ólíklegasta stað.

Heiðmörk

Fjárhústóft í Heiðmörk.

Um er að ræða hlaðnar tvískiptar tóttir auk fjárborgarinnar. Augljóst er að grjót hefur verið tekið úr borginni í fjárhúsin. Önnur tóftin, sú stærri, liggur frá suðri til norðurs. Dyr eru á norðurgafli. Hitt húsið er samhliða og samfast vestan við hið fyrra. Dyr eru þar einnig á norðurgafli. Bálkur er við þveran suðurgaflinn.
Austan við húsin er falleg, stór, hringlaga tótt, augljóslega fjárborg. Opið snýr mót norðri. Birkihrísla stendur upp úr austanverðri borginni. Veggir eru þykkir og greinilegir. Engar heimildir eru til um þennan stað, en líklegt er að mannvirkin hafi tilheyrt Garðapresti líkt og selin í Selgjá og Búrfellsgjá. Nýlega var gerður vélgerður stígur svo til alveg við mannvirkin, en eins og flestum ætti að vera kunnugt njóta fornminjar ákveðinnar friðhelgi í tiltekinni fjarlægð frá nútímaframkvæmdum.

Heiðmörk

Heiðmörk – minjar.

Gengið var til vesturs frá borginni, um Hraunflatirnar og yfir í kant Urriðakotshrauns. Þar uppi í kantinum er fallega hlaðið og heillegt beitarhús frá Urriðakoti. Frá því gekk Guðmundur, bóndi á Urriðakoti, með hey á bakinu austur yfir hraunið og í sauðahelli, sem þar er í austurjaðri þess undir Vífilstaðahlíð, neðan Ljósukollulágar. Fyrir hellinum eru V-laga hleðslur. Í hlíðinni gegt hellinum er gamla leiðin upp í Vífilsstaðaselið, sem hvílir þar uppi, í gróinni kvos skammt sunnan við línuveginn. Ofan þess að norðanverðu sést móta fyrir stekknum.

Urriðakot

Sauðahellir Urriðakots undir Vífilsstaðahlíð.

Gengið var sömu leið og Guðmundur forðum, eða á fyrsta fjórðungi síðustu aldar, yfir að sauðahellinum og hann barinn augum. Hleðslurnar fyrir framan munnann hafa haldið sér nokkuð vel. Hann er í nokkurra metra fjarlægð frá göngustígnum undir Vífilsstaðahlíðinni.
Lóuþræll tyllti sér á nálægan hraunklett og fylgdist óhræddur með göngufólkinu. Margt fólk var á ferli á svæðinu, en ekkert virtist hafa áhuga á hinum gömlu minjum, sem þar eru. Líklega hefur það ekki vitað af þeim eða þær ekki verið gerðar nægilega sýnilegar áhugasömu fólki, sem vill nota tækifærið og skoða athyglisverða staði á göngu sinni um svæðið.
Veður var frábært – milt og hlýtt. Gangan tók um 43 mín.

Vífilsstaðahlíð

Fjárborg og fjárhús frá Urriðakoti undir Vífilsstaðahlíð.

Lækjarbotnar

Gengin var Selvogsgata upp frá Lækjarbotnum og áfram áleiðis upp með Setbergshlíð.

Lækjarbotnar

Lækjarbotnar – leifar af vatnsleiðslunni.

Komið var að stíflu vatnsveitunnar í Lækjabotnum og kíkt á hleðslur undan húsinu, sem þar var yfir “vatnsuppsprettunni” nyrst undi Gráhelluhrauni. Enn má sjá leifar gömlu tréleiðslunnar í tjörnunum ofan við stífluna. Andarpar lá við annan bakkann með höfuð undir vængum. Lúpínan er farin svo að segja til um allar hlíðar, en innan um má sjá gytta í hrafnaklukka, blágresi, melasóley, lambagras og gleiri litskrúðugar blómategundir.

Gráhella

Gráhella.

Þegar komið var á móts við Gráhellu var strikið tekið inn á hraunið og að henni. Undir hellunni er hlaðið hús og gerði norðan þess. Austan við helluna er lítil hleðsla, nokkurs konar skjól. Gráhelluminjanar eru frá Setbergi, líklega fyrir þann tíma er Jón Guðmundsson, áður frá Hvaleyri og þar áður frá Haukadal, bjó þar.
Gengið var á ný að Setbergshlíð, mð stefnu á háa vörðu uppi og framan í hlíðinni. Þegar upp að henni var komið, eftir að hafa fetað birkivaxna hlíðina, var þaðan fallegt útsýni yfir að Setbergsseli, Sléttuhlíð og Helgafelli. Sólbjarma sló á Grindaskörðin í bakgrunni.

Setberg

Setberg – fjárhústóft í Fjárhúsholti.

Ofan við vörðuna eru tóftir af stóru fjárhúsi frá Setbergi. Setbergsselið var í alfararleið þars em Selvogsgatan lá í gegnum það. Í kringum selið og í brekkunum ofan við það er ágæt beit, en segja má að aðstaða selsins hafi verið færð úr alfararleiðinni og upp á hlíðina, en ofan við það, með hraunbrúnum og hæðum, hefur einnig verið ágætis beit.
Fjárhúsið hefur verið allstórt. Nyrst í því hefur verið hlaða. Ekki er auðvelt að mynda rústirnar þar sem sléttlent er allt í kring.

Flóðahjalli

Tóftin á Flóðahjalla.

Haldið var upp og norður hlíðina. Um eyðimela er að fara í fyrstu, en síðan reynir lúpínan að hefta för, en hún er nú reyndar léttvægur farartálmi. Gengið var upp á Svínholt (Hádegisholt). Uppi á því, á svonefndum Flóðhjalla, er mikið mannvirki eftir breska herinn, sem þarna var svo að segja út um öll holt og hæðir. Stór kampur var t.d. á Urriðakotshæð.  Mannvirkið er hringlaga með byrgjum að innan. Hleðslurnar eru ekki eins vandaðar og verklegar eins og í fjárborgum þeir, sem Íslendingar hafa hlaðið í gegnum aldrirnar.

Flóðahjalli

Flóðahjalli – áletrun.

Grjótinu er raðað í neðstu raðir, sumu hverju með vélum, og síðan reynt að raða upp á það, en smærra grjótinu kastað innan í og á milli, líkt og hleðslumenn hafi kappkostað að tæma holtið af grjóti og finna því stað í mannvirkinu. Líklega hefur verið bæði kalt og næðingssamt þarna á holtinu, ekki síst að vetri til. Áletranir eru á klöpp inni í hringnum. M.a. má sjá þarna ártalið 1940.
Gengið var niður Svínhöfða að norðanverðu með útsýni yfir að Urriðavatnskoti (Urriðakoti). Gangan endaði við golfskálann ofan við Setberg þar sem ferðalöngum var veittur góður beini.
Frábært veður – sól og hiti. Gangan tók 1 klst og 59 mín.

Setbergssel

Setbergssel.

Rauðshellir

Ákveðið var að að taka hellahring í Kaldárseli.

Kétshellir

Ketshellir / Setbergsselsfjárhellir.

Byrjað var á að kíkja á Hamarkotsselshelli (Selhellir) og Setbergsselshelli (Ketshellir) undir Setbergshlíð. Hellirinn er um 15 metra langur og opnast í báða enda. Hleðslur eru fyrir opum, einkum Setbergsselshellismegin. Þverhleðsla skiptir hellinum fyrir miðju. Stórar hraunhellur hafa fallið úr þaki inngangsins að norðanverðu, en hellirinn sjálfur hefur veitt fé (og reyndar geitumundir það síðasta, gott skjól á meðan var. Gróið er í kringum Setbergsselið og fallegur stekkur er þar sem Selvogsgatan liðast upp hálsinn, í átt að Kershelli og Smyrlabúðahrauni. Selið er undir hæðinni, utan í Gráhelluhrauninu, en innan við hraunkantinn er enn eitt hellisopið.

Kershellir

Kershellir.

Kershellir er bæði aðgengilegur og rúmgóður. Hann opnast innan úr keri efst á hraunbrún. Ofan við opið er stór varða. Innan úr Kershelli er Hvatshellir, sá sem drengir Friðiks Friðrikssonar söfnuðust saman í á leið þeirra í Kaldársel. Síðar var lagður vegur að búðum KFUM er reistar voru þar. Gamla Kaldársel er undir suðurvegg búðanna (hússins).
Þá voru skoðaðir Kaldárselsfjárhellarnir er FERLIR opnaði fyrir u.þ.b. þremur árum. Þá voru engin spor við munnana og alls engin innan þeirra. Greinilegt er að margir hafa litið þarna við síðan þá.

Helgadalur

Helgadalur – stekkur.

Ummerki eftir heykuml er miðsvæðis, en í nyrsta fjárskjólinu er hlaðinn miðgarður. Syðsta fjárskjólið er stærst og aðgengilegast. Við munnann hafði þröstur verpt fjórum eggjum í hreiður á syllu við innganginn. Fylgdist hann vel með mannaferðum og lét í sér heyra.
Lokst var strikið tekið til austurs áleiðis að Helgadalshellunum; Hundraðmetrahelli og Rauðshelli. Gengið var eftir hleðslunni undir gömlu vatnsleiðsluna úr Kaldárbotnum, henni fylgt áleiðis til suðausturs yfir Lambagjá og síðan vent til austurs að Helgadal. Greinilegt var að einhverjir hafa verið duglegir að hirða grjót úr hleðslunni á köflum. Á leiðinni mátti sjá falleg hraunreipi í helluhrauninu. Ekki var litið inn í Níutíumetrahellinn að þessu sinn, en höfðinu hins vegarstungið niður í Vatnshelli. heyra mátti tónlist vatnsins er dropar þess lentu á sléttum tærum vatnsfletinum og bergmáluðu inni í holrúminu.

Rauðshellir

Rauðshellir.

Þegar komið var að Rauðshelli skein sólin á munnann og hleðslurnar þar fyrir. Einhverjir hafa í seinni tíð nefnt hellinn Pólverjahelli, en þegar hann er skoðaður gaumgæfilega fer hin gamla nafngift ekki á milli mála. Víða í hellinum hefur rauðleitt hraunið runnið upp á veggina og makað hann litskrúðugan. Hleðslurnar fyrir opum og gróið jarðfallið benda til þess að þarna hafi einhvern tímann verið selstaða. Þá staðfestir forn stekkur norðan við það þá kenningu. Misgengi liggur með norðanverðum Helgadal til austurs og vesturs. Undir því á einum stað sést móta fyrir hleðslum.

Helgadalur

Op Hundraðmetrahellisins.

Farið var inn í Hundarmetrahellinn og skoðaðir raunbekkirnir með veggum og einnig litið á hraunfossinn inn undir jarðfallinu við enda hans. Ofan við hraunfossin er rás upp úr hrauninu sunnan við og undir sauðfjárveikigirðinguna, sem þarna er.
Helgafell skartaði sínu fegursta í kvöldsólinni, sem og Valahnúkar og Kaldárbotnar.

Frábært veður.

Helgadalur

Hleðslur í Rauðshelli.

Brennisteinsfjöll

Gengið var frá Bláfjallavegi suður Selvogsgötu áleiðis upp Kerlingarskarð. Við götuna, þegar komið er svo til miðja vegu upp í skarðið, eru nokkrir hellar, hér nefndir Hallahellar eftir einum þáttttakenda, sem var hvað áhugasamastur um leitina.

Kerlingarskarð

Tóft brennisteinsvinnslumanna undir Kerlingarskarði,

Einn þeirra (vinstra megin við götuna) er í sæmilegu jarðfalli og gengið inn í hann til suðurs. Þegar inn er komið liggja rásir bæði til hægri og vinstri. Hægri rásin opnast út en sú vinstri lokast fljótlega. Í loftinu er einstaklega fallegt rósamynstur. Skammt norðar er mjög stórt jarðfall, sem band þarf til að komast niður í. Það hefur ekki verið kannað, svo vitað sé.
Rúst af búðum brennisteinsnámumanna er norðan til undir Kerlingarskarði. Efst í skarðinu (vinstra megin) er drykkjarsteinn, sem ferðalangar hafa löngum stólað á að væri vatn í. Svo reyndist vera að þessu sinni. Fokið hafði í skálina og var tækifærið notað og hreinsað upp úr henni. Drykkjarsteinn átti einnig að hafa verið í Grindarskörðum, en hann virðist hafa verið fjarlægður.

Brennisteinsfjöll

Kistufellsgígur.

Gengið var til vesturs ofan við Bolla, framhjá fallegum hraungígum, inn eftir tiltölulega sléttum helluhraunsdal og áleiðis að Kistufelli. Staðnæmst var við Kistufellsgíginn og litið yfir hann, en gígurinn er einn sá fallegasti og stórbrotnasti hér á landi. Vestan við gíginn eru nokkur stór jarðföll og í þeim hellahvelfingar. Í sumum þeirra er jökull á botninum og í jöklinum pollar eftir vatnsdropa. Þegar droparnir falla í pollanna mynda þeir taktbundna hljómkviðu í geimunum.

Brennisteinsfjöll

Brennisteinsfjöll – tóft af húsi námumanna í Námuhvammi.

Haldið var undan hlíðum, niður í brennisteinsnámurnar í Brennisteinsfjöllum. Ofan þeirra er tóft af búðum námumanna. Sést vel móta fyrir henni. Neðar er námusvæðið. Þar má sjá hvar brennisteinninn var tekinn úr kjarnaholum, en gjall og grjót forfært og sturtað í hauga. Sjá má móta fyrir götum við haugana, sem og nokkrum múrsteinum frá námuvinnslunni. Undir bakka er hægt að sjá einn ofninn, ef vel er að gáð.
Gengið var niður með suðurenda Draugahlíða. Þar fyrir ofan er gígur, sem mikið úfið hraun hefur runnið úr áleiðis niður í Stakkavík. Selvogsgatan var gengin upp að Kóngsfelli, en frá því má sjá a.m.k. tvö önnur fell með sama nafni, þ.e. Stóra-Kóngsfell austar (Kóngsfell) og Litla-Kóngsfell sunnar. Stóra-Kóngsfell er á mörkum þriggja sýslna og er sagt að þar í skjóli gígsins hafi fjárkóngar hist fyrrum og ráðið ráðum sínum.

Tvíbolli

Tvíbolli (Miðbolli).

Til baka var gengið austur og norður með Mið-Bolla og fyrir Stóra-Bolla og niður Grindarskörðin. Á sumum kortum er gamla gatan sýnd liggja milli Bollanna. Mið-Bolli er með fallegustu eldgígum á landinu. Reyndar er allt Brennisteinsfjallasvæðið mikið ævintýraland fyrir áhugafólk um útivist, jarðfræði og stórbrotið ósnert umhverfi. Varða er efst á hálsinum og síðan nokkrar á stangli á leið niður mosahlíðina. Þegar niður er komið má sjá vörðubrot og gömlu götuna markaða á kafla áleiðis að Selvogsgötunni þar sem hún liggur yfir Bláfjallaveginn og áfram áleiðis niður í Mygludali.
Veður var frábært. Gangan tók 5 klst og 2 mín.

Drykkjarsteinn

Drykkjarsteinn efst í Kerlingarskarði.

Búrfellsgjá

Gengið var í Búrfellsgjá, að Vatnsgjá og Gjáarrétt.

Þorsteinshellir

Þorsteinshellir.

Upplýsingaskilti er við göngustíginn að gjánni þar sem getið er um aldur réttarinnar, hvenær síðast var réttað í henni, helstu leiðir frá henni o.fl. Hraunréttin í Gráhelluhrauni tók við að Gáarrétt, en sú rétt er nú horfin. Gjáarétt var endurhlaðin, en er nú aftur farin að láta á sjá. Norðaustan í gjárbarminum má sjá skágötu upp úr gjánni. Þar er gamla gatan að Vatnsenda og Elliðavatni. Þá liggur gata upp úr gjánni að norðanverðu áleiðis til Vífilsstaða og Urriðakots og áfram áleiðis út á Álftanes (Görðum). Sunnan réttarinnar er Gerðið. Innst í því er hlaðið heillegt skjól fyrir fyrrum gangnamenn.

Vífilsstaðasel

Vífilsstaðasel.

Haldið var upp Vífilstaðahlíð og að Vífilsstaðaseli. A tóftum að dæma hefur selið verið nokkuð stórt á Reykjanesvískan mælikvarða. Stekkur er á klapparholti norðan tóftanna. Gengið var norðvestur eftir Vífilstaðahlíðinni, að skotbyrgi frá stríðsárunum þar nyrst utan í öxlinni. Skammt frá er Gunnhildarvarða (Gunhill) eða Grímsvarða, sem og hún var nefnd fyrrum. Sagt er frá hvorutveggja í Örnefnalýsingu Garðabæjar. Gengið var upp Svarthamar og yfir að Hjöllum, eitt af hinum miklu misgengjum á Reykjanesskaganum, þar sem Vatnsendaborgin stendur hvar hæst með ágætu útsýni yfir Heiðmörkina og niður að Elliðavatni.

Selgjá

Selgjá – tóftir.

Frá Vatnsendaborginni var gengið framhjá Grunnuvötnum syðri og vestur með Hjöllunum, yfir í Selgjá (Norðurhellragjá). Í Selgjá eru tóftir allt að 11 selja frá Görðum á Álftanesi. Nyrst í gjánni er Norðurhellragjárhellir, fjárskjól. Vestan hans er fallega hlaðið op ofan við fjárskjól Þorsteinshellis eða Efri-hella. Vestan hans er enn eitt fjárskjólið.
Gengið var til austurs yfir hraunið, að gamalli fjárborg í Heiðmörkinni. Enn sést móta fyrir hringlaga borginni í hrauninu, en nokkur gróður er bæði í henni og við hana. Þá hefur grjót verið tekið úr borginni í hlaðinn hús suðvestan við hana. Erfitt er að koma auga á mannvirkin vegna þess hversu vel þau falla inn í landslagið.

Urriðakot

Sauðahellir Urriðakots undir Vífilsstaðahlíð.

Gengið var yfir veginn og að sauðahelli Urriðakotsmanna skammt frá göngustígnum undir Vífilstaðahlíð. Hlaðið er framan við skútann. Þá var strikið tekið áleiðis yfir að Seljahlíð með viðkomu í hlöðnu útihúsi í Urriðakotshrauni skammt austan við golfvöllin og við hlaðið aðhald norðvestan undir kletti þar skammt suðaustar. Haldið var vestur um Þverhlíð niður að Lækjarbotnum þar sem gangan endaði.
Góð þversogkrussganga um fallegt og minjaríkt landslag.
Veður var frábært. Gangan tók 4 klst og 21 mín.

Vífilsstaðasel

Vífilsstaðasel – uppdráttur ÓSÁ.

Hvatshellir

Gengið var frá Sléttuhlíð upp að Selvogssgötu undir Smyrlabúðahrauni.

Stekkur við Hamarskotsfjárhelli

Stekkur við Hamrakotshelli.

Þaðan var gamla gatan gengin niður að helli, sem í seinni tíð hefur verið nefndur Kershellir, en Hvatshellir er afhellir innan af honum. Stór varða er á suðvesturbrún hans. Farið var niður í hellinn og hann skoðaður hátt og lágt. Hann liggur til vesturs úr jarðfallinu, um 40 metra langur. Segja má að hellirinn hafi verið óvenju fallegur því hæfilega löng grýlukert lágu niður úr svo til öllu lofti hans. Á leiðinni út var farið til vinstri, framhjá jarðfallinu, til austurs og þar inn þrönga hraunrás, sem séra Friðrik Friðriksson kom á spjöld sögunnar í frásögn hans af Sölva. Hellirinn er nefndur eftir göngufélaginu „Hvatur“, sem mun hafa farið þangað af og til og m.a. haldið samkomur sínar í honum. Hellirinn er nokkuð þröngur til að byrja með, en víkkar á ný í hvelfingu. Þá þrengist hann aftur, en opnast síðan inn í enn aðra hvelfingu. Alls er hellirinn um 100 m langur. Til leiðbeiningar skal þess getið að til skamms tíma voru þrjár litlar vörður á Kersbrún norðaustan við op hans (Ólafur Þorvaldsson 1949). Þessar vörður voru sameinaðar í eina um eða eftir 1960.
Ketshellir er sunnan við Kershelli/Hvatshelli. Hann er í gróinni hraunrás í um 30 metra fjarlægð og liggur í sömu stefnu og Kershellir (vesturs). Hellirinn er rúmgóður og um 30 metra langur. Hann er í fornum ritum nefndur Selshellir.

Hamarskotsselsfjárskjól

Hamarskotsselsfjárhellir.

Samkvæmt Jarðarbókinni sem Árni Magnússon og Páll Vídalín unnu að árið 1703 í Gullbringusýslu kemur fram: að jörðin á selstöðu þar sem heitir Kietsheller. Sami hellir var einnig nefndur í tengslum við Hamarskot, sem var hjáleiga Garðakirkju. Var greint frá því að selstöðu ætti Hamarskot í Garðakirkjulandi þar nærri sem heitir Sljettahlíð hjá hellir nokkrum og skuli þar kallast enn í dag Hamarskotssel. (Árni Magnússon og Páll Vídalín 1923-1942). Hellirinn var á mörkum jarðanna og opinn í báða enda og þar af leiðandi notaður af ábúendum beggja jarða til helminga og þá jafnan nefndur einu nafni Selhellir.

Setbergssel

Setbergssel – uppdráttur ÓSÁ.

Vestan við hellana sér niður á grassvæði. Selvogsgatan liggur niður að því og áfram í gegnum það uns hún sveigir að Setbergsshlíð. Á norðanverðu svæðinu er stekkur í kvos. Hleðslur eru til að hindra uppgöngu úr kvosinni. Op er til vesturs. Vestan opsins er hraunkantur. Handan og fast við kantinn er enn eitt op á helli. Hann er þó mun styttri en hinir. Frá opinu liggur hann til austurs, á móti hinum.

Sunnan við opið sést móta fyrir kví í skjóli fyrir austanáttinni. Sunnar, syðst á grassvæðinu eru tóttir Setbergssels. Bæði hefur jarðsig verið notað svo og tóttir, sem þarna eru. Fyrir framan hól eru bogadregnar hleðslur fyrir helli. Þar er Setbergsselsfjárhellir. Þegar komið er inn í hann miðjan er hlaðinn garður þvert fyrir hellinn. Hinn hlutinn er Hamarskotsselsfjárhellir. Hægt er að ganga í gegnum hellinn og er þá komið út þar sem verið hefur tótt Hamarskotssels. Geitur voru hafðar í helli þessum á fyrri hluta 20. aldar. Sunnan við Hamarskotshelminginn er hlaðinn stekkur.
Svæði þetta er tilvalið fyrir þá sem vilja fara í síðdegisgöngu, en jaf
nframt skoða mikið á stuttum tíma. Gerður var uppdráttur af svæðinu.Sjá meira HÉR.
Veður var með ágætum – bjart og stillt.

Kétshellir

Kétshellir / Setbergsselsfjárhellir.

 

Selgjá

Eftir að hafa skoðað fjárborg í kjarri vaxinni Heiðmörk og hlaðin tvískipt fjárhús, þ.e. annars vegar fyrir kindur og hins vegar fyrir sauði, var gengið yfir í Norðurhellagjá (Norðurhellragjá), eins og hún jafnan var nefnd. 

Sel í Selgjá

Gjáin dró nafn sitt af fjárhellum norðan hennar, en þeir voru jafnan nefndir Norðurhellar (Norðurhellrar). Síðar voru þeir aðgreindir og var þá hellir, sem er norðan úr Gjánni nefndur Selgjárhellir og hellar þar skammt vestur af nefndur Sauðahellirinn nyrðri og Sauðahellirinn syðri. Fyrrnefndi hellirinn gekk um tíma einnig undir nafninu Þorsteinshellir frá því að Þorsteinn Þorsteinsson í Kaldárseli nýtti hann um aldarmótin 1900. Sá hellir er fallega hlaðinn niður og tvískiptur. Sjá meira HÉR.

Selgjá

Norðurhellrar í Selgjá.

Hleðslur eru á mörgum stöðum beggja vegna í Selgjá. Vel sést móta fyrir a.m.k. þremur seljum enn þann dag í dag, en talið er að þau hafi verið allt að 11 talsins þegar mest var. Rústirnar sjást sumar vel, en aðrar síður. Flest hafa selin verið minni í sniðum en t.d. Vífilsstaðasel. Rústirnar standa fast upp við gjárbarmana. Selstaða þarna er nefnd í Jarðabók 1703 og virðist skv. henni átta kóngsjarðir á Álftanesi hafa haft þar í seli. Í öllum heimildum er talað um selstöðu þarna í þátíð svo hún virðist vera mjög gömul. Stekkir og kvíar, sem voru hlaðnir, sjást greinilega á flestum staðanna. Eins og kunnug var búsmalinn hafður í seli á sumrum frá fráfærum til tvímánaðar. Þangað var farið með allan ásauð og stundum kýr.

Selgjá

Tóft í Selgjá.

Í selinu var jafnan einn kvenmaður, selmatseljan (selráðskonan) og ef fé var mjög margt hafði hún með sér eina eða tvær unglingsstúlkur. Svo var smali sem fylgdi fénu úr kvíunum og var yfir því nótt og dag. Smalinn átti að sjá um að féð væri komið í kvíar á dagmálum og náttmálum til þess að það yrði mjaltað. Sniðugur smali kom sér upp nátthaga til að fé hlypi ekki út og suður á mðan hann hallaði sér um stund á annað eyrað. Selin voru venjulega þrjú hús; mjólkurhús, selbaðstofa og eldhús til hliðar eða frálaust. Vatn er ekki að finna í Selgjá, en hins vegar er gott vatn í Vatnsgjánni í Búrfellsgjá, sem er þarna skammt sunnar, lítt norðan við Gjáarréttina. Í raun er Selgjáin og Búfellsgjáin hluti af sömu hraunrásinni frá Búrfelli, en vegna misgengis og ris landsins hafa þær aðskilist a.m.k. hvað hæðarmismuninn varðar.
Mannvirki í SelgjáEftir gjánni lá Norðurhellagjástígur austur með gjánni. Við austurbrúnina er steinn með merkinu B. Annar samskonar steinn fannst skammt norðar, en snúa þarf honum við til að kanna hvort á honum er einnig merki. Steinar þessi hafa verið reistir upp á endann og “púkkað” með þeim. Telja má líklegt að þarna geti hafa verið um hestasteina að ræða. Áhugavert væri að skoða aðrar selstöður og kanna hvort svipaða steina geti verið þar að finna. Sjá meira HÉR. Stígurinn liggur síðan upp úr gjánni sunnan syðstu seljarústanna í austanverðri gjánni.

Selgjá

Selgjá.

Nokkuð glögg gróðurskil eru þarna í gjánni. Sunnar er mosinn ráðandi, en að norðanverðu er grasi gróið með gjárbörmunum þar sem minjarnar eru. Meginselstöðurnar hafa verið tvær, sitt hvoru megin í gjánni. Á báðum stöðunum eru leifar húsa, fjárskjóla, stekkja og vatnsbóla.

Á einum stað á austanverðri gjánni er skjól og hleðslur í því og fyrir. Hitastreymi virðist upp úr skjólinu því ekki frýs í því á vetrum.
Í raun er Selgjáin stórmerkilegur minjastaður, í einungis örskotsfjarlægð frá alfaraleiðinni um Heiðmörkina. Þegar gengið er um gjá er varla þverfótað fyrir leifum húsa, stekkja, fjárskjóla, brunna og öðrum margra alda gömlum mannvirkjum. Engar merkingar eru við eða í nánd við minjasvæðið.

Sel í Selgjá

Sel í Selgjá – uppdráttur ÓSÁ.

Gengið var eftir Norðurhellagjárstíg suður með austanverðri gjánni og síðan áfram þangað til komið var á móts við syðstu meginrústirnar að vestanverðu. Gengið var yfir að þeim og m.a. litið inn í fjárhellinn, sem þar er. Í honum eru hleðslur. Bæði norðan hans og austan eru talsverðar hleðslur. Þar við eru og leifa tveggja stekkja er benda til þess að þarna hafi verið selstöður tveggja bæja.
Síðan var haldið norður með vestanverðum barminum og endað á upphafsstað. Í hinni meginsselstöðunni við austurbarminn hafa einnig verið tvær selstöður. Þar sjást enn glögg merki húsa, stekkja og fjárskjóla. Á leiðinni var alltaf eitthvað sem bar fyrir augu. Hellarnir norðan og vestan gjárinnar voru ekki skoðaðir að þessu sinni, enda stutt síðan þeir litið var á þá. (Sjá uppdrátt betur HÉR.)
Veður var með ágætum þrátt fyrir svolítinn vind. Skúr gekk yfir smástund á meðan verið var að skoða fjárhellinn suðvestast í gjánni og kom því ekki að sök.
Það er stutt að komast í Selgjána, auk þess sem hún er auðveld yfirferðar. Í henni eru ótrúlega miklar minjar, sem leynast víða í henni, aðallega þó með gjárveggjunum. Sá, sem hefur áhuga á að skoða sig um þar, þarf að fara hægt yfir og hafa augun hjá sér. Það er líka fyllilega þess virði. Hægt væri að rita langa og lærða ritgerð um selstöðurnar í Selgjá og hlutdeild þeirra í búskaparháttum fyrri alda, en það verður ekki gert hér.
Frábært veður. Gangan tók um 1 og ½ klst. Tækifærið var notað og gerður meðfylgjandi uppdráttur af norðurhluta Selgjár.
Í göngum Þorsteinshellis