Færslur

Flatahraun

Gengið var frá Hraunsholtstúni upp á Gjárréttarstíg með norðanverðu Flatahrauni í Garðabæ. Stígnum var fylgt framhjá Stekkjartúnsrétt (neðri) og inn í Garðahraun, framhjá Miðaftanshól og yfir Reykjanesbraut, en stígurinn er undir brautinni á kafla, upp með Dyngjuhól, á Moldargötur og eftir Grásteinsstíg yfir Urriðakotshraun að Kolanefi og þaðan stíg upp í Selgjá.

Flatahraun

Flatahraun – uppdráttur ÓSÁ.

Á Flatahrauni eru hlaðnir garðar og sjá má móta fyrir öðrum minjum. Réttin er hlaðin utan í hraunhól og við hana er tóft. Sunnar liggur Hraunsholtsselsstígur upp í Hraunsholtssel sunnan undir Hádegishól og Hraunsholtsstígur um Álftanesstíg og Kirkjusstíg að Görðum. Norðvestar í hraunkantinum sést móta fyrir tóft í gróinni kvos. Hraunsholtshellir er í norðanverðum hraunkantinum skammt vestan við þar sem stígurinn liggur upp á hraunið.
Flatahraun og önnur hraun, sem nefnd verða hér á eftir, eru í rauninni öll komin frá Búrfellsgígnum; Búrfellshraun – 7270 ára gamalt -, en hafa verið nefnd ýmsum nöfnum á leið þeirra að endamörkum, s.s. Urriðakotshraun, Svínahraun, Vífilsstaðahraun, Garðahraun, Flatahraun, Hafnarfjarðarhraun og Gálgahraun að austanverðu og Smyrlabúðarhraun, Gráhelluhraun og Stekkjarhraun að vestanverðu.

Járnbrautarvegur

Járnbrautarvegurinn.

Ofan við Miðaftanshól er járnbrautargatan yfir Garðahraunið, eða sá hluti, sem eftir er af henni. Járnbrautin átti að ganga milli Hafnarfjarðar og Vífilsstaða, en gatan er vera átti undir teinana er það sem eftir er af þeirri framkvæmd. Um er að ræða tiltölulega slétta götu og miklar hleðslur á köflum. Fallegasti hluti hennar lá ofan við fiskreitina ofan við Hafnarfjörð, en byggt hefur verið á öllu því svæði. Eftir er u.þ.b. 100 metra kafli í Garðahrauni þar sem, að því er virðist, hafi verið hætt við framkvæmdina við norðurbrún hraunsins.

Jónshellar

Jónshellar.

Austan brautarinnar var stígnum fylgt til suðurs upp með Svínahrauni, en síðan vikið af honum og Jónshellnastíg fylgt að Jónshellum. Gróið er yfir hann að mestu, en þó má á stöku stað sjá móta fyrir henni og fallegar hleðslur á köflum. Skammt ofan við hellana liggja Moldargötur. Haldið var upp með vestanverðum hraunkantinum að Urriðakotshrauni, framhjá Maríuhellum og Dyngjuhól (var svo nefndur af Urriðakotsbúum, en Hádegishóll af Vífilsstaðafólki – eyktamark þaðan) með Dyngjuhólsvörðum og götunni fylgt langleiðina upp að Stekkjartúnsrétt (efri), en áður en komið var alveg að henni beygir gatan inn í hraunið, við Hraunholtsflöt.

Þar tekur Grásteinsstígur við og liggur síðan til austurs með norðanverðum hraunkantinum, framhjá heillega hlöðnu fjárhúsi (Gráhellufjárhúsi) við Gráhellu, áfram inn á Flatir.

Urriðakot

Urriðakot – fjárhústóft í Urriðakotshrauni.

Úr þeim liggur gatan upp á hraunhrygg, framhjá fjárskjóli utan í hraunklettum og áfram framhjá Sauðahellunum nyrðri undir Kolanefi. Þaðan liggur gata upp (suður) með Vífilsstaðahlíðinni og niður í Selgjá að norðanverðu. Grásteinsstígur nær að Kolanefninu. Ekki vannst að þessu sinni tími til að skoða fjárborgina norðan götunnar sem og fjárhústóftirnar við hana. Selgjá og minjarnar í henni eru hins vegar sérstakur kapítuli og verður hvorutveggja lýst í annarri FERLIRslýsingu.
Frábært veður – Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Heimildir m.a.:
-Örnefni og leiðir í landi Garðabæjar – 2001.

Maríuhellar

Maríuhellar.

Gjáarrétt

Hér er úrdráttur af lýsingu Kolhólsleiðar í Áföngum, ferðahandbók hestamannsins: “Við ríðum út úr hesthúsahverfi hestamannafélagsins Gusts í Kópavogi og stefnum ti austurs. Farinn er slóði. sem Tóftmyndast hefur á síðustu árum norðanvert í Hnoðraholti. Liggur hann að tveimur sérkennilegm hólum, nyrst og austast í Hnoðraholti. Hólar þessir heita Hádegishólar og eru gamalt eyktarmark frá Fífuhvammi.
Bærinn í Fífuhvammi blasti við af leiðinni að Hádegishólum. Hús voru þar að falli komin og voru rifin um mitt sumar 1982. Í Fífuhvammi hafði ekki verið búið frá því 1953. Þar var fyrrum allstórt kúabú. Voru þar tólf kýr í fjósi, sem þótti mikið. Kópavogskaupstaður keypti Fífuhvammslandið. Áður hét bærinn Hvammkot.
Nokkru fyrir sunnan og vestan Fífuhvamm, en neðan og til norðurs við Hádegishóla, voru gömul fjárhús, sem voru rifin sumarið 1983.
Farið er um Leirdal. Að austan og norðaustan takmarkast dalurinn af miklum hálsi, sem heitir Selhryggur. Um hann voru landamörk milli býlanna Breiðholts og Fífuhvamms.
Ef vel er að gáð má sjá Fífuhvammsseltóftir nokkuð uppi í hlíðinni á hægri hönd. Þetta eru gamlar fjár- og beitarhúsatóftir frá Fífuhvammi. Þar var síðast haft fé í tíð Þorláks Guðmundssonar (1834-1906). Fyrir miðjum Selhrygg að austanverðu og í landi Breiðholts hétu Selvellir. Þar var vatn og trúlega selstaða. Ekki er okkur kunnugt um hverjir hafa haft þar í seli. Í Jarðabók 1703 er hvorki talað um selstöðu í landi Hvammkots, nú Fífuhvamms, né í landi Breiðholts. Svæði þetta er komið undir byggð og verður því tæpast kannað héðan af.
Í Efri-Leirdal, í vesturtagli Vatnsendahvarfs, er Markasteinn. Í hann eru klappaðir verklegir járnkengir. Girðingarvír hefur verið strengdur í þessa kengi. Kengina festu að öllum líkindum í steininn þeir bræður í Fífuhvammi, Kristján og Guðmundur, skömmu fyrir 1940. Sáttargerð fá 1923 bendir til þess að Vífilsstaðir eigi land að steininum eða jafnvel norður fyrir hann.
StrípurVið ríðum upp á Flóttamannaveg og yfir hann til suðurs, norðaustanvert við Kjóavelli. Þaðan er fylgt ruddum bílevgi til austurs, norðan í Vatnsendahlíð og framhjá nokkrum sumarbústöðum, sem þar eru. Haldið er áfram þar til kemur á vegm sem liggur meðfram Elliðavatni vestanverðu. Vesturströnd vatnsins, norðanvert við Vatnsendahlíð, heitir Laxatangi. Áður en stífla var sett við Elliðavatn 1924-1925 vegna virkjunarframkvæmda í Ellðaánum, en þá hækkaði vatnsborðið að meðaltali um rúmlega einn metra, var þarna lítill tangi út í vatnið.
Á Hjallabrún er komið á Hjallaleið á stuttum kafla. Þegar komið er upp á Hjallabraut, sem er akvegur um þvera Heiðmörk, er Strípshtraun framundan til suðurs. Fremst í Strípshrauni austanverðu, mjög nærri bílveginum og til austurs við okkur, rís einstakur hraundrangur eða klettur, sem nefnist Strípur. Tekur hraunið nafn af honum. Um Stríp voru landamerki milli Vatnsenda og Elliðavatns.
GarðaflatirRiðið er um Heykrika og áfram að Kolhól. Þegar komið er að reiðhliði á Heiðmerkurgirðingunni verður fyrir við hliðið lítil hlaðin rétt eða aðhald í hraunbrúninni. Það gerði Guðmundur Magnússon í Engjabæ í Laugardal í Reykjavík árið 1949. Í réttinni má auðveldlega byrgja tíu hesta með því að loka með vír og grindum í girðinguna til norðurs.
Við Kolhól er Kolhólskriki. Nöfnin benda óneitanlega til þess að þar hafi verið stunduð kolagerð. Heimildir eru um mikla kolagerð í löndum Vatnsenda og Elliðavatns fyrr á öldum og jafnframt að nærri hafi verið gengið landinu.
Hinn mikilfenglegi gígur Búrfells blasir við. Við sneiðum því næst niður Búrfellsháls og niður á Garðaflatir. Flatir þessar eru allstórar og ná nokkuð norður með hraunbrún, sem liggur að Búrfellsgjá að austanverðu. Austanvert við flatirnar er mjög skammt í girðingu á vesturmörkum Heiðmerkur. Ólafur Þorvaldsson getur um útisamkomur á Garðaflötum.
Þá er haldið í Búrfellsgjá að Gjáarrétt.”

Heimild:
-Áfangar – ferðahandbók hestamannsins, 1986 – Þorkell Jóhannesson og Óttar Kjartansson.Búrfell

Járnbrautarvegur

“Merkilegar hleðslur eru enn sjáanlegar í hrauninu suðvestur af Flötunum, handan við Hraunsholtslækinn, sem heitir reyndar Vífilsstaðalækur örlítið ofar þar sem hann renndur úr Vífilsstaðavatni.
Hafnarfjardarhraun-2Þessar hleðslur vitna um vegasögu okkar og hægt er að aldursgreina þær nákvæmlega því þarna voru vinnuflokkar að störfum fyrri hluta árs 1918 á sama tíma og mikil harðindi með frosthörkum gengu yfir landið og atvinnuleysi var í sögulegu hámarki.
Þegar leið á fyrri heimsstyrjöldina fór að gæta atvinnuleysis víða á landinu. Fiskveiðar og fiskverkun drógust saman þar sem erfiðleikum var bundið að koma aflanum í verð. Kuldar voru miklir en aldrei hafði annað eins frost komið og frostaveturinn mikla árið 1917-18. Nauðþurftir voru af skornum skammti og yfir vetrarmánuðina þegar kaldast var gengu fullhraustir karlmenn um göturnar í von um að geta snapað vinnu stund og stund.
Hafnarfjardarhraun-4Ríkisstjórnin ákvað haustið 1917 að veita sveitastjórnum dýrtíðarlán úr landsjóði til að ráðast í framkvæmdir svo að hægt væri að ráða atvinnulausa fjölskyldumenn í vinnu. Bæjarstjórn Reykjavíkur samþykkti í lok nóvember 1917 að taka lán til að vinna grjót í námunum í Öskjuhlíð til margvíslegra nota. Fyrsta lánið var veitt í nóvemberlok en í ársbyrjun 1918 var lánum úthlutað til sveitastjórna víðar á landinu. Bæjarstjórnir Hafnarfjarðar og Reykjavíkur fengu sameiginlega 65.000 kr. til að leggja nýjan veg frá Suðurlandsbraut við Sogamýri í Reykjavík að Lækjargötu í Hafnarfirði. Að auki var 25.000 kr. lán veitt til kaupa á mulningsvélum og mótor til að brjóta niður stórgrýti.
Nýskipaður landsverkfræðingur Geir G. Zoega sem tók við af Jóni Þorlákssyni í febrúar 1917 kynnti sér hvar best væri að leggja veginn og mældi út fyrir honum.

Hafnarfjardarhraun-6

Vegurinn átti að vera 7 metra breiður þannig að hægt væri að leggja járnbrautarteina á eystri hluta hans en vestari hlutinn var ætlaður almennri umferð ökutækja og reiðmanna. Vegurinn átti að sveigja út af Suðurlandsveginum í Sogamýri, skammt frá Elliðavogi og liggja líkt og Breiðholtsbrautin er nú, vestan Blesugrófar upp að austurenda Digraneshálsins, skammt austan við bæinn Digranes. Þar átti hann að fylgja gömlum götum að Kópavogslæk á móts við Fífuhvamm. Síðan átti hann að liggja um mýrina að Nónskarði syðst í Arnarneshálsi á milli Nónhæðar og Hnoðraholts nánast á milli núverandi Búða- og Byggðahverfa í Garðabæ, ekki langt frá Karlabraut. Vegurinn átti þessu næst að fara yfir Arnarsneslæk og um Dýjakróka sem Gísli Sigurðsson lögregluþjónn í Hafnarfirði kallaði Kringlumýri.
Þaðan var honum ætlað að fara um Bjarnarkrika í suðvesturhorni Vetrarmýrar undir Hofstaðaholti sunnanverðu að Hafnarfjardarhraun-10Vífilsstaðalæk. Handan hans var vegurinn lagður suðaustan við Miðaftanshól í stefnu á melinn norðan Setbergshamars. Þar átti hann að liggja yfir Kaplakrikalæk í áttina að Sjávarhrauni framhjá þeim stað þar sem Sólvangur er nú og þaðan niður á Hörðuvelli. Þar átti vegurinn að tengjast Lækjargötu en síðan var ætlunin að leggja veg um Almenning á milli Móhálsa og suður með ströndinni um Selvog í Árnessýslu.
Verkið hófst 1. febrúar 1918 og var skipt í tvennt. Hófust verkamenn handa í Sogamýri þennan dag en þeir áttu að leggja veginn suður að Nónhæð, en Hafnfirðingar sem byrjuðu saman dag áttu að leggja veginn frá landamerkjum Fífuhvamms og Arnarness við Nónskarð að Lækjargötu í Hafnarfirði.
Vinna Hafnfirsku verkamannanna hófst við Miðaftanshól í Vífilsstaðahrauni, sem þá var aldrei kallað annað en Svínahraun. Sigurgeir Gíslason vegavinnuverkstjóri stjórnaði veglagningunni yfir hraunið í áttina til Hafnarfjarðar, en vinnuflokkur sem Jón Einarsson stjórnaði hélt í austurátt og hófst handa á þeim stað þar sem Reykvíkingarnir ætluðu að enda á mörkum Garðahrepps og Seltjarnarneshrepps.

Midaftansvarda-21

Báðir verkstjórarnir sem komu að málum Hafnarfjarðarmegin voru vanir vegavinnu, hvort heldur var í nágrenni Hafnarfjarðar eða úti á landi. Sigurgeir hafði stjórnað vinnu við flesta vegi í Hafnarfirði og næsta nágrenni, þ.á.m. þegar Hafnarfjarðarvegurinn var gerður vagnfær sumrin 1887 og 1888 og þegar Suðurnesjavegurinn (Keflavíkurvegurinn) var lagður 1904-1912. Þeir menn sem hann valdi í vinnuflokk sinn kunnu flestir til verka og voru vanir að hlaða grjótbrýr yfir hraungjótur og brjóta niður hraunkletta. Hann réð einnig unga og hrausta pilta til að bera grjótið og mulning á handbörum svo að hleðslumennirnir hefðu ætíð nægan efnivið til að moða úr.
Hafnarfjardarhraun-12Verkstjórarnir fengu 1 krónu á tímann í laun, en þeir sem voru næstir þeim fengu 90 aura á tímann. Venjulegir verkamenn voru með 75 aura á tímann. Kaupið var sæmilegt en vinnan var mjög slítandi og tók verulega á, sérstaklega í þessum mikla kulda. Það sem mestu máli skipti var að þetta var örugg vinna á meðan fjármagnið entist. Þar sem vinnustaðurinn var lengst uppi í hrauni langt frá allri mannabyggð varð mannskapurinn að vera vel mettur þegar lagt var af stað snemma að morgni. Vinnuflokkurinn hittist fyrir framan hús Jóns Einarssonar að Strandgötu 19 í bítið og síðan þræddi hópurinn sig eftir hraunstígum sem verkstjórarnir gjörþekktu upp eftir hrauninu að Miðdegishólnum.
Unnið var án áfláts til klukkan tólf en þá var gert hálftíma matarhlé.

Vinnan hófst aftur að því loknu og stóð til klukkan fimm síðdegis. Þegar aðeins var liðið á verkefnið var Sveinn Sigurðsson járnsmiður ráðinn til að skerpa og herða Hafnarfjardarhraun-15áhöld eins og járnkarla og fleyga. Hann flutti með sér einfalda smiðju til að sinna þessum starfa og var hún fyrst í stað undir berum himni. Ekki leið á löngu áður en vinnuskúr var fluttur upp í hraunið svo að Sveinn gæti sinnt sínu starfi í sæmilegu skjóli, þar sem það gat gustað hressilega og slyddað eða jafnvel snjóað enda var allra veðra von svo snemma árs. Þar kom að annað skýli flutt upp í hraunið og þar gátu vinnuflokkarnir matast til skiptis, en skúrinn var ekki stærri en svo að aðeins annar hópurinn komst þar fyrir í senn.
Vinnuflokkur Jóns Einarssonar náði að Miðaftanshól áður en verkinu var lokið og tók þá til við að aðstoða Sigurgeir og hans menn við vinnuna í hrauninu sem var erfiðari og seinfarnari en vinnan á holtunum og í mýrunum. Þegar fjármagnið var uppurið var þessari vinnu hætt og vegurinn var eins og sérkennileg lína fjarri allri mannabyggð og umferð, þar sem honum var aldrei lokið.
JarnbrautEr glæðast fór aftur um atvinnu gleymdist þetta verkefni og þegar í ljós kom að íslenska þjóðin hafði misst af járnbrautaröldinni féll þetta merka verkefni í gleymsku. Sáralítið er eftir af veginum, eingöngu sá hluti sem er sitthvoru megin við Miðaftanshól. Öðrum hlutum hans hefur því miður verið spillt svo gjörsamlega að það er engu líkara en þessi vegaframkvæmd hafi aldrei átt sér stað.”

Heimildir:
-Blaðagreinar frá 1898-1918.
-Frásögn Gísla Sigurðsson.
-Unnið af Jónatan Garðarssyni.

Atvinnubótavegur

Skilti við Atvinnubótaveginn.

Búrfellsgjá

Gjáarrétt stendur á flötum hraunbotni Búrfellsgjár, ekki langt frá misgengisbrúninni á mótum Selgjár og Búrfellsgjár.
GjáarréttRéttin er hlaðin úr hraungrýti enda er gnægð af því byggingarefni nærtækt. Veggir, sem enn standa, bera verklagi hleðslumanna gott vitni.
Líklegt er að Gjáarrétt hafi verið reist og gerð að fjallskilarétt árið 1840. Síra Árni Helgason prófastur í Görðum á Álftanesi (1777-1869) ritar sóknarlýsingu Garðaprestakalls árið 1942. Hann segir þar: “Rétt fyrir þennan hrepp er sett í kirkjulandinu næstliðið ár. Lengi að undanförnu var ekki skipt um slíkt; þá var og sauðfé hér miklu færra en nú er orðið.”
Í safnritinu Göngum og réttum er ekki rætt um fjallskil í Gullbringu- og Kjósarsýslu. Heimildir um Gjáarrétt og fjallskil þar eru þess vegna fremur litlar.
Gjáarrétt var ef að líkum lætur fjallskilarétt, lögrétt, í liðlega áttatíu ár eða fram yfir 1920. Þá var fjallskilaréttin flutt niður í Gráhelluhraun, ofan við Hafnarfjörð, og nefndist Hraunrétt. Árið 1955 var rétt gerð við Kaldársel. Þar er skilarétt nú (1986). Eftir þetta var þó smalað til Gjáarréttar á sumrin allt fram yfir 1940.
Gjáarétt var friðlýst að tilhlutan þjóðminjavarðar 1964.
Á uppdrættinum má sjá dikaskipan samkvæmt frumrissi Gísla Guðjónssonar og staðfest af Guðbjörgu Guðmundsdóttur frá Urriðakoti. Dilkar: 1 – Grindavík. 2. Vatnsleysuströnd. 3. Suður-Hafnarfjörður. 4. Setberg. 5. Hraunabæir. 6. Garðahverfi. 7. Vestur-Hafnarfjörður. 8. Urriðakot og Hofstaðir. 9. Vífilsstaðir. 10. Ómerkingar. 11. – Vatnsendi og fleiri bæir í Seltjarnarneshreppi. 12. Selvogur.

Gata við Gjáarrétt

Við Gjáarrétt er réttargerði. Fjársafnið var geymt í gerðinu nóttina áður en réttað var. Þar inn undir berginu er hlaðið byrgi, sem ýmsar skýringar eru á til hvers hafi verið notað. Víst er að menn notuðu þetta byrgi sem skjól meðan Gjáarrétt var fjallskilarétt. Það hefur líka verið notaðs em fjárbyrgi. Okkur kemur til hugar að byrgið gæti upphaflega verið eldra en Gjáarrétt eða frá sama tíma og seljarústirnar í Selgjá. Byrgið hefur nú látið allmikið á sjá, meðal annars var þar nokkurt hrun vorið 1982.

Heimild:
-Áfangar – ferðahandbók hestamannsins, 1986 – Þorkell Jóhannesson og Óttar Kjartansson.

Gjáarrétt

Gjáarrétt.

Kaldársel

Kaldársel og nágrenni (samantekt Ómar Smára Ármannssonar – úr “Sögu Hafnarfjarðar”, handskrifuðum Minningum Sigurðar Þorleifssonar og handriti Gísla Sigurðssonar á Bókasafni Hafnarfjarðar).

Kaldárssel

Kaldárssel 1882 – ljósm: Daniel Bruun.

Gamli bærinn í Kaldárseli stóð á túnblettinum, sem núverandi hús stendur á, þ.e. á móts við miðju þess er snýr að árbakkanum. Áður tilheyrði landið Garðakirkju og hafði hún þar í seli fram til ársins 1836. Frá árinu 1873 hafði Hvaleyri þar leigusel. Sel Garða voru flest í Selgjá vestan Búrfellsgjár. Enn sjást þar tóttir selja með hraunbarminum beggja vegna, einkum að sunnanverðu, svo og fallegir fjárhellar, bæði í gjánni og efst í Urriðavatnshrauni. Hafnarfjarðarbær keypti árið 1912 allmikinn hluta af Garðakirkjulandi og Kaldársel þar með.
Elsta heimild um Kaldársel er í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703. Þar sem heitir Hvaleyrarsel suður af Hvaleyrarvatni í Selshöfða, auk selstöðvar í Kaldárseli.
Aðrir munu ekki hafa nýtt það sel. Þegar Hvaleyrarbóndi hætti selförum að Kaldárseli lagðist selstöð þar niður með öllu, annað hvort 1865 eða 1866.

Kaldársel

Teikning Daniel Bruun af Borgarstandi í Kaldárseli.

Í húsvitjunarbók Garðaprestakalls má sjá að árið 1867 er kominn ábúandi í Kaldársel. Hann hét Jón Jónsson, en hann var þar stutt. Eftir það lagðist búskapur niður um nokkur ár.

Selgjá

Selgjárhellir. Einnig nefndur Þorsteinshellir.

Árið 1876 kom þangað Þorsteinn Þorsteinsson eða Þorsteinn í Selinu, eins og hann var jafnan nefndur. Enn er efst í Heiðmörkinni fallegur fjárhellir, Þorsteinshellir, sem lengi var talinn týndur. Þorsteinn var nokkuð sérkennilegur í háttum. Á hans tíma voru í Kaldárseli nokkar byggingar, matjurtargarður, sem lá frá bænum niður að ánni mót suðri og vörslugarður. Bæjarhús voru lítil en snoturlega byggð. Í því var baðstofa, búr, eldhús og bæjardyr. Tætturnar voru allar vel hlaðnar úr sléttum og þykkum hraunhellum, en hvergi mold eða torf á milli, svo sem venja var.

Kaldársel

Húsin í Kaldárseli – Daniel Bruun.

Jón Guðmundsson á Setbergi keypti húsin í Kaldárseli sem og kindur. Þau voru öll rifin, nema baðstofan, sem stóð uppi fram undir aldamót. Hún var ein notuð sem sæluhús fyrir fjármenn Setbergsbænda, sem þá heldu fé sínu, einkum sauðum, víðs vegar þar í högum. Einnig var gott fyrir Krýsvíkinga að hafa þarna afdrep á ferðum sínum. Haustleitarmenn Grindvíkinga leituðu alla leið að Kaldá og höfðu náttstað í Kaldárseli. Þá var mikil umferð útlendra ferðamanna til Krýsuvíkur, einkum til að skoða hinar nýyfirgefnu brennisteinsnámur, sem þar voru. Þeir gistu margir í Kaldárseli. Baðstofan bar þess merki. Í sperrur og súð voru skorin ófá mannanöfn af ýmsum þjóðernum.

Kaldársel

Kaldársel – tilgáta ÓSÁ.

Að liðnum aldamótum 1900 var ekkert hús lengur í Kaldárseli. Ferðum útlendinga fækkaði, Krýsvíkingar týndu ört tölunni, fjallleitir Grindjána styttust og hið stóra Setbergsheimili tvístraðist. Og fénaðurinn hvarf úr högunum.

Kaldársel

Heykuml við Kaldársel.

Árin 1906-1908 fékk Kristmundur Þorláksson Kaldársel til afnota, síðar stórbóndi í Stakkavík. Hann kom upp smáheyhlöðu í Kaldárseli fyrir sínar 50 kindur með því að byggja yfir hina gömlu baðstofutótt, sem þá stóð enn ófallinn. Þá byggði hann þar lambahús. Ekki hafði hann not af gömlu tóttunum að öðru leyti en því að hann gat nýtt úr þeim hraunhellurnar, sem hann gerði af miklum dugnaði. Kristmundur lá við í Hafnarfirði, en fór fótgangandi um veturinn beitarhúsaveginn í Kaldársel í myrkri kvölds og morgna. Ærnar hafði hann við gömlu hellana, sem eru skammt norður af Selinu. Lömbin voru í húsi, en músin vildi leggjast á þau. Kristmundur flutti loks fé sitt í Hvassahraun þar sem honum bauðst vist. Hann var því síðasti bóndinn í Kaldárseli.

Kaldársel

Uppdráttur af húsum í Kaldársseli í lok 19. aldar – Daniel Bruun.

Eins og sjá má á uppdrættinum er margt að skoða í nágrenni við Kaldársel. Vestan við Kaldá, fast við árbakkann, eru letursteinar frá upphafi veru KFUM og K á staðnum. Efst á Borgarstandi er fjárborgin og undir honum að norðanverðu eru tóttir gamals stekkjar og fjárhýsins. Enn norðar eru hleðslur í Nátthaganum. Austan hans eru fjárhellarnir og hleðslurnar í kringum op þeirra. Í einum hellanna er hlaðinn garður eftir honum miðjum.

Kaldársel

Kaldársel – fjárskjól.

Stærsti hellirinn er sá syðsti. Í honum er gott rými. Vatnsleiðslan gamla er austan Kaaldárselsvegar og er forvitnilegt að sjá hvar hún hefur komið yfirl Lambagjá, en í gjánni er mikil hleðsla undir hana. Sú hleðsla mun hafa að nokkru leiti hafa verið tekin úr austari fjárborginni á Borgarstandi. Í Gjám enn norðar eru hellar, hleðslur og hellisop. Austan við gamla veginn að Kaldárseli má enn sjá elstu götuna til og frá selinu, klappaða í bergið. Enn vestar, austan Fremstahöfða, er hálfhlaðið hús, líkt því sem sjá má á gömlum ljósmyndum Daniel Bruun frá 1892, að gamla selið í Kaldárseli hefur litið út.

Kaldársel

Kaldárssel – uppdráttur ÓSÁ.

Urriðakot

“Spor Jóhannesar Sveinssonar Kjarval liggja víða í hraununum umhverfis Garðabæ og Hafnarfjörð, en hann átti sér nokkra uppáhalds staði og þangað kom hann oftar en einu sinni.
Sumarið 1966 fékk urr-1Kjarval leigubílstjóra til að aka sér í áttina að Vífilsstöðum en hann málaði stundum myndir í Vífilsstaðahrauni, en í þetta sinn lá leiðin aðeins lengra. Bílstjórinn ók svokallaðan Flóttamannaveg. Þegar komið var á móts við Urriðakotsholt beygði bílstjórinn út af veginum og ók bifreið sinni til suðausturs. Hann ók eftir vallgrónum vegslóða sem lá að löngu yfirgefinni herstöð, Camp Russel, sem var í jaðri Urriðakotshrauns á stríðsárunum. Á þessum slóðum er núna golfvöllur sem félagar í Oddfellow reglunni á Íslandi létu útbúa og ruddu í leiðinni herstöðvatóftunum í burtu.

Kjarval fór út úr leigubifreiðinni og gekk af stað með trönur sínar, liti og striga upp í hraunið, sem nefnist á þessum slóðum Bruni, en heildarnafn þessa hluta Búrfellshrauns er Svínahraun, þó svo að Urriðakotshrauns nafnið sé oftast notað í dag. Kjarval fann sér stað á þægilega sléttum bala og horfði norður í áttina að Vífilsstöðum, sem sjást ekki frá þessu sjónarhorni þar sem norðvesturendi Vífilsstaðahlíðar skyggir á húsið. Þarna málaði hann sprungna hraunkletta og virðist hafa komið nokkrum sinnum frá vori og frameftir sumri á þennan sama stað því það eru til nokkur málverk sem hann málaði frá þessu sama sjónarhorni. Einhverju sinni hefur hann ákveðið að snúa málartrönum sínum í hina áttina og horft til suðurs í átt til Reykjanesfjalla.

urr-2

Beint fyrir framan hann blasti við reglulega löguð hleðsla, þrír veggir úr hraungrjóti, lítil og vel hlaðin húsatóft sem var opin í norðurátt. Hleðslan er þannig löguð að vel má hugsa sér að þarna hafi verið ætlunin að útbúa lítið fjárhús eða smalaskjól. Þessa húsatóft sem stendur ágætlega enn í dag málaði Kjarval í það minnsta einu sinni ásamt nánasta umhverfi og í baksýn málaði hann Grindaskarðahnúka og hluta Lönguhlíða. Að vísu færði hann aðeins í stílinn og lagfærði sjónarhornið lítilsháttar til að koma þessu öllu fyrir á málverkinu. Kjarval nefndi staðinn og málverkið einfaldlega “Fjárrétt”.

Svanur Pálsson tók saman merkilega örnefnalýsingu sem fjallar um land Urriðakots og er dagsett 30. mars 1988. Svanur nam örnefnafróðleikinn af móður sinni Guðbjörgu Guðmundsdóttur sem fæddist í Urriðakoti árið 1906 og bjó þar til 1939. Örnefnin nam hún af föður sínum Guðmundi Jónssyni bónda í Urriðakoti sem var fæddur 1866 og bjó í Urriðakoti til 1941. Foreldrar hans settust að í Urriðakoti árið 1846, þannig að þessi fjölskylda bjó á jörðinni í allt að eina öld.

Þegar Kjarval var á ferðinni á þessum slóðum sumarið 1966 var stutt í að vinnuflokkar mættu á staðinn til að setja upp risastór raflínumöstur sem þvera það sjónarhorn sem Kjarval hafði fyrir augum, er hann málaði “Fjárréttina”. Þetta er Búrfellslínan en hún var ein meginforsenda þess að álverið sem reis nokkrum árum seinna við Straumsvík gæti tekið til starfa. Nú hefur verið rætt um að taka þessa línu niður, en það verk mun tefjast eitthvað, en félagar í golfklúbbnum sækja það fast að fá að stækka golfvallarsvæðið og fara með brautir sínar út í Flatahraun sem er rétt norðaustan og neðan við fjárréttina, sem hér getur að líta.” – JG

Urriðakot

Fjárhús frá Urriðakoti í Urriðakotshrauni.

Vífilsstaðasel

Sel í landi Garðabæjar (Úr bókinni “Örnefni og leiðir í landi Garðabæjar”).

Sel í Selgjá

Sel í Selgjá – uppdráttur ÓSÁ.

Í bókinni Örnefni og leiðir í landi Garðabæjar er m.a. fjallað um selin í Selgjá, Vífilstaðasel, Setbergssel, Kaldársel og Hraunsholtssel.
“Selgjá (Norðurhellragjá, Norðurhellnagjá, Norðurhellagjá) er í Urriðakotshrauni. Selgjárhellir er vestast í norðurbrún gjárinnar… ”….nokkuð breið gjá er í hrauninu, sem er framhald af Búrfellsgjá. Þetta er Selgjá (Norðurhellragjá). Í Selgjá eru margar vallgrónar seljarústir, sem flestar eru fremur smáar í sniðum og minni en t.d. Vífilstaðasel. Rústirnar standa flestar þétt við barma gjárinnar beggja vegna, en aðrar eru dálítið fjær. Selstaða þessi er nefnd í Jarðabók 1703 og virðast samkvæmt henni átta kóngsjarðir á Álftanesi hafa haft þar í seli.
Athyglisvert er, að ávallt er rætt um selstöðu þarna í þátíð og jafnvel þannig, að hún virðist að því komin að falla í gleymsku”.
Seljabúskapur var að heita má algjörlega horfinn um aldamótin. Hér á landi hefur endanlegt hvarf seljabúskapar verið sett í samband við að fráfærur lögðust af enda voru það fyrst og fremst ær sem hafðar voru í seljum. Kýrnar skipti minna máli. Eyðing skóga hefur einng átt þátt í samdrætti seljabúskapar vegna þess að eldiviður var forsenda þess að hægt væri að hafa í seli (sjá Hitzler 1979).

Vífilsstaðasel

Vífilsstaðasel.

Búsmalinn var hafður í seli á sumrum frá fráfærum til tvímánaðar. Þangað var farið með allan ásauð og stundum flestar kýrnar. Í selinu var jafan einn kvenmaður, selmatseljan (selráðskona), og ef fé var mjög margt hafði hún með sér eina eða tvær unglingsstúlkur. Svo var smali sem fylgdi fénu úr kvíunum og var yfir ví nótt og dag. Smalinn átti að sjá um að féð væri komið í kvíar á dagmálum og náttmálum til þess að það yrði mjaltað. Selin voru venjulega þrjú hús; mjólkurhús, selbaðstofa og eldhús til hliðar eða frálaust. Oft var og selið í beitarhúsum ef þau voru langt frá bæjum. Kvíar voru til að mjalta ærnar í og kofi handa kúm ef þær voru hafðar í selinu (Jónas Jónasson 1945: 60-62).

Selgjá

Sel í Selgjá.

Í Selgjá hafa talist 11 seljasamstæður sem allar eru byggðar upp við gjárbarmana, að minnsta kosti um tuttugu byrgi og 10 eða 11 litlar kvíar. Að því er virðist hefur verið erfitt um vatn í Norðurhellagjárseljum en vatn mun hafa verið sótt í Gjáaréttarvatnsgjá (Vatnsgjá).
Eftir gjánni liggur Norðurhellagjárstígurinn austur eftir gjánni. Þar í norðurbrún gjárinnar er steinn og á hann klappað B. Stígurinn liggur svo austur og upp úr gjánni sunan syðstu seljarústanna undir norðurbrún gjárinnar.

Urriðakotssystur gáfu upplýsingar um þetta, Vilborg og Guðbjörg, einnig eiginmaður Guðbjargar, Páll Kjartansson, en þau höfðu upplýsingar þessar frá föður Guðbjargar, Guðmundi Jónssyni, sem fæddur var og uppalinn í Urriðakoti og bjóð þar um 50 ára skeið.

Vífilsstaðasel

Vífilsstaðasel – uppdráttur ÓSÁ.

Heiman frá Vífilstöðum lá Selstígurinn suður á Maríuflöt, suður með hraunjaðrinum, sneiddi sig upp Ljóskollulág, upp á háhálsinn og suður í lægðardragið þar sem Vífilstaðasel stóð. Nú er algengast að fylgja svokölluðum Línuvegi upp á Vífilstaðahlíð og þá blasa við rústir Vífilstaðasels með Selholt (Selshamar) að sunnan en Selás að norðan. Selkvíarnar eru uppi á Selásnum. Austan við Vífilstaðasel er lítill hóll, Selhóllinn. Gísli Sigurðsson hefur það eftir Sigrúnu Sigurðardóttir að gott hafi verið til beitar á sauðum niður um Grunnuvötn og suður á Hjallana.

Vífilsstaðasel

Vífilsstaðasel.

Um selið segja Þorkell Jóhannesson og Óttar Kjartansson: “Suðaustanhallt í hvamminum og undir ás, er nefnist Selás, eru rústir af seli frá Vífilsstöðum, sem að öllum líkindum hefur verið meiri háttar og sennilega lengi notað. Rústirnar eru greinilegar miðað við margar aðar seljarústir, sem við höfum séð. Þetta virðist hafa verið venjulegt sel með þremur vistarverum (væntanlega svefnhús, eldhús, mjólkurhús). Sunnanvert við rústirnar eru tvær aðrar rústir (kvíar, stöðull?). Selið hefur verið tiltölulega stórt. Aðalrústin er þannig einir 50 m2 að utanmáli. Vífilsstaðasels er ekki getið í Jarðabók 1703”.
Guðrún P. Helgadóttir orti eftirfarandi um Sigrúnu Sigurðardóttur á Hofstöðum: “Hefur þú séð rústirnar – samgrónar landinu – sem mynda torfveggi – í hallandi brekku – og nefndar eru sel – Vífilsstaðasel.

Kaldársel

Kaldársel – tilgáta ÓSÁ.

Í Kaldárseli var selstaða frá Görðum. Í Jarðabók Árna og Páls segir í lýsingu Garða á Álftanesi: “Selstöð á staðurinn þar sem heitir við Kaldá, þar eru bæði hagar og vatnsból gott” (Jarðabók III:180). Ólafur Þorvaldsson hefur ritað um Kaldársel í minningum sínum (sjá Ólafur Þorvaldsson 1968:119-140). Byggð mun hafa verið stuttan tíma í Kaldárseli. Mikill skógur hefur verið á þessu svæði og var óspart á hann gengið, rifinn til kolagerðar og eldiviðar og ofan af honum slegið á vetrum til fóðurs. Búpeningur gekk þarna sumar og vetur og hellar hafðir til fjárgeymslu og skjóls fjármönnum. Hrískvöð var á öllum jörðum á Reykjanesi til Bessastaða og Viðeyjar.

Setbergssel

Setbergssel – uppdráttur ÓSÁ.

Síðar var hrískvöðinni breytt í fiskakvöð. Um Kaldársel segir Þorvaldur Thoroddsen: “Við Kaldá var áður sel frá Hvaleyri, sem kallað var Kadársel, og þar eru víða í hraununum í kring rústir af mörgum fjárbyrgjum. Sumarið 1883 bjó þar gamall, sérvitur einsetukarl, Þorsteinn Þorsteinsson (d:1887), sem áður hafði verið á Lækjarbotnum. Hann þekkti allvel fjöll og örnefni á þessum slóðum og fylgdi mér um nágrennið”.

Setbergssel

Setbergssel.

Hraunsholtssel var sunnan við Hádegishól Hraunsholts og einnig nefnt Hraunsholtshella. Selstígurinn lá sunnan við Brunann, fram hjá Hádegishól, að selinu (G.S.). G. Ben. sá enn votta fyrir selinu 1987. 16)
Setbergssel var í Ketshelli samkvæmt Jarðabók Árna og Páls. Gísli Sigurðsson, varðstjóri og útivistarfrömuður; lýsti mörgum leiðum í nágrenni við Hafnarfjörð. Í riti um Selvogsgötuna kemur hann m.a. við í tveimur seljum; “Í miðri brekkunni er landið grænna en annars staðar enda var hér í gamla daga Setbergssel eða Setbergsstekkur. Á hægri hönd er varða.

Setbergssel

Í Setbergsseli.

Gengið er niður að Setbergsseli. Komið er að helli, sem tilheyrði stekk þessum, það er að segja helmingur hans. Hinn helmingurinn tilheyrði Hamarskoti, og hét því Hamarskotssel. Hellirinn er hólfaður sundur í tvennt með allveglegum garði”.

Kaldársel

Kaldárssel – uppdráttur ÓSÁ.

Sjáland er nafn á strandhverfi við Arnarnesvog í Garðabæ.
Hugmyndasmiður nafngifta gatna, torga Sjaland-2og svæða er Hallgrímur Helgason rithöfundur. Hallgrímur segir tilvalið að tengja götur og göngustíga við gömlu höfuðborgina við Eyrarsund, ekki síst þar sem heilt hverfi í Kaupmannahöfn sé lagt undir íslensk nöfn og örnefni. Tengingin eigi sérlega vel við þar sem verið sé að reisa nýja höfn og hafnarhverfi í Sjálandi.
Gert er ráð fyrir að um 760 íbúðir verði í fullbyggðu Sjálandi, þar af  200 fyrir eldri borgara. Íbúar hverfisins verða um 2000 talsins. Íbúðarhúsin munu mynda lága byggð, aðallega meðfram sjávarsíðunni. Uppfylling og kví sem nú er á staðnum verður framlengd út í voginn og lítil bátahöfn mynduð í skjóli nýja tangans sem við það myndast. Á tanganum verður til fallegt byggingarland. Meginhluti bygginganna verður íbúðir en jafnframt verða í Sjálandi leikskóli auk verslunar og þjónustu.
Meirihluti Sjaland-3bílastæða í hverfinu verður í bílageymslum undir húsunum en önnur meðfram götum og aðkeyrslum.
Arkitekt hverfisins, Björn Ólafs, segir að í hverfinu verði byggingarlist gert hátt undir höfði. Það verði gert með skilmálum sem veiti arkitektum einstakra húsa svigrúm til að setja sinn svip á húsin en
tryggja um leið heildarsvip hverfisins með ákveðnum skilmálum og lita- og efnisvali.
Framangreind lýsing á hinu nýja hverfi er frá árinu 2003. Nú, árið 2010 er hverfið að mestu risið með mótuðum strandlínum og göngustígum. Við leikskólann má m.a. sjá fallega afmarkaða og notadrjúga sandströnd, eitthvað sem gera mætti meira af við strandir Skagans.

Lambhúsatjörn

Í Ferðabók Eggerts Ólafssonar (1726-1768), en hann fór í rannsóknarferðir um Ísland með Bjarna Pálssyni, síðar landlækni, á árunum 1752-1757, fjallar hann um óvenjulegan sandstein: “En utan á berglag þetta hefir hlaðizt, vegna þess að sjór hefir skolazt um það, svo að það er venjulega ekki talið vera hraun.
Lambhusatjorn-21Sérstaklega mikið er af steintegund einni af þessu tæi í vík nokkurri milli Bessastaða og Garða á Álftanesi. Á meðan við dvöldumst við rannsóknir á Íslandi, átti að nota steintegund þessa í múra amtmannsstofunnar á Bessastöðum. Kölluðu menn þetta sandstein, en kvörtuðu þó undan því, að hann væri óvenjulega harður. Annars er hann fallegur og endingargóður til húsagerðar. Við könnuðum þetta og komumst að raun um, að steinn þessi, sem er grár að lit og harðara tilbrigði hans dálítið dekkra, hafði orðið fyrir áhrifum af hægum jarðeldi, bæði heil lög hans og einstakir hlutar. Áhrif þessi voru mismunandi mikil, þannig að sums staðar var steinninn aðeins gegnbakaður, en á öðrum stöðum var hann allur með fíngerðum, jafnstórum holum, líkt og beztu afbrigði Rínarsteinsins, og var þessi holótti steinn dökkur að lit. Þriðja tilbrigðið er eins konar millistig þessara tveggja. Það heldur gráa litnum, en er holótt, en það sést þó ekki, nema vel sé að gætt. Lakasta tilbrigðið er svart með stórum holum, líkt og grófustu hraunin og áðurnefndir sjávarklettar, sem ofan á því liggja. Garðahraun er hér rétt hjá.”

Heimild:
-Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar, bls. 199.

Bessastaðir

Bessastaðir og Lambhús – túnakort frá 1919.

Suðurnesjavegur

Sýsluvegurinn frá Reykjavík suður að Vogastapa.
Hér er ritað um sýsluveginn frá Reykjavík suður í sýsluna. “Ég ætla þá að fara úr Reykjavík suður eftir, og geta um ýmislegt, sem fyrir augun ber, hvað veginn snertir.
Foss-202 Þegar maður kemur niður í Fossvog, verða fyrir manni rásirnar þar. Þær eru að vísu þannig á sumrum, að fáum ókunnugum mundi til hugar koma, að við þær væri neitt að athuga; en á vetrum í leysingum verða þær lítt færar eða stundum ófærar.
Þá kemur Fossvogslækur, lækur þessi, sem er á sumrum ekki nema ofurlítil spræna, verður stundum á vetrum svo, að naumast verður yfir hann komist, og það ber við, að hann verður með öllu ófær.
Vegurinn upp Kópavogsháls er óhæfilega brattur, lítt fær með vagn, en vagnvegur á vegurinn milli Rvíkur og Hafnarfjarðar að verða úr þessu. Með því að sneiða hálsins lítið eitt utar, má fá hann mjög hallalítinn.
Þegar kemur suður að Kópavogi, kemur ein torfæran, þótt stutt sé; hún er rétt við landnorðurhornið á túngarðinum í Kópavogi; þar eru götutroðningar, djúpir mjög, og verður þar á vetrum kafhlaup, þegar snjóþyngsli eru. Þá kemur brúin yfir Kópavogslæk. Að henni er mesta vegarbót, og er furða, að hún skyldi ekki vera á komin fyrir mörgum tugum ára; en trén í henni eru mikils til of veik; brúin skelfur undan gangandi manni, hvað þá heldur þegar hún er riðin.
foss-203 Þá er nú úr því brýr yfir lækina, og vegur all góður þangað til kemur suður í Hafnarfjörð.
Þar er vegurinn lagður yfir Hamarinn hér um bil þar sem hann er brattastur; en auk þess er vegur þessi óruddur, ekkert í hann borið, og er hann fullur af lausu grjóti, og má það kallast hættulegt að ríða hann ofan að norðanverðu; í sunnanverðum Hamrinum neðst er sjórinn búinn að taka burtu hleðsluna úr veginum, og er honum því einnig hætta búin úr þeirri átt. Svo er þess að gæta, að rétt við endann á veginum er skipa-uppsátur þeirra manna, er búa þar í grennd. Af því, að sjórinn gengur þar rétt upp að veginum, standa skipin svo hátt, að ókunnugum mönnum, sem í myrkri fara um veginn, getur verið af þeim hætta búin; skipa-uppsátur er ekkert annað til þar í grennd.
Svo kemur nú suður undir Flensborg. Þar standa þilskip, og liggja járnkeðjur af þeim yfir þveran veginn, og er furða, að ekki skuli oft hafa hlotist slys af þeim. En þess ber að geta, að þar er enginn vegur lagður, nema hvað hrossin hafa unnið þar að vegavinnu. Flensborgarskóli á þar lóðina, sem skipin standa á, og leigir þar uppsátrið, og tekur 10 kr. fyrir hvert skip yfir veturinn. Ef skipin mega ekki hafa þar landfestar, þá er ekki til neins að ljá manni uppsátur; hafa þar að undanförnu legið 4 skip á vetrum; gjaldið eftir þau eru þá 40 kr., eður sama sem að skólaeignin sé 1000 kr. meira virði en ella. Eitt af tvennu er: annaðhvort verður að banna að hafa þar skipauppsátur, eða að leggja veginn annarsstaðar.

foss-204

Um stórstraumsflóð flæðir alveg upp undir túngarðinn í Flensborg, og verða menn þá að ríða sjóinn fram með garðinum, oft talsvert djúpt, og auk þess er þar mjög grýtt, svo að þar er mjög illt yfirferðar.
En þá tekur ekki betra við, þegar Ásbúðarmegin kemur; þar er hár bakki, sem upp verður að klöngrast; vinnist sú þraut, þá tekur við dý, sem hver hestur liggur í.
Þegar búið er að draga þá upp úr því, er haldið suður Hvaleyrarholt. Þetta holt hefur ekki verið rutt í ár, og er það mjög seinfarið. En þegar kemur suður fyrir Sandskörðin sunnanvert við Hvaleyrartjörn, þá liggur vegurinn svo lágt, að þar flóir yfir í stórstraumum.
Svo koma nú Hraunin, þ. e. Gráhelluhraun, Kapelluhraun, Almenningur og Afstapahraun. Um veginn gegnum þau ætla ég ekki að tala; hann er alkunnur, og líklega ekki þeirrar núlifandi kynslóðar meðfæri að bæta hann svo, að nokkru nemi; þó ætti það að vera vinnandi vegur, að ryðja veginn gegnum þau árlega; þegar það er gjört, er þó ólíku betra að fara yfir þau, heldur en þegar vegurinn er fullur af lausu grjóti og steinvölum.
Þegar Hraununum sleppir, kemur Vatnsleysuheiði. Yfir hana mestalla hefir verið lagður upphækkaður vegur, en hann er nú orðinn því nær ófarandi, og miklum mun verri en gamli vegurinn var. Þessi upphækkaði vegur er í daglegu tal oft kallaður Vatnleysu(heiðar)brú, en af sumum “Svívirðingin”, og þykir bera það nafn með rentu; það er sama smiðs-markið á henni og Svínahraunsveginum gamla, og þarf þá ekki lengra til að jafna.
Þessi upphækkaði vegur stefnir frá Kúagerði til Kálfatjarnar, og er honum sleppir, þá tekur við hfoss-205inn gamli vegur suður með bæjunum á Vatnsleysuströnd; þessi gamli vegur er allgóður á sumrum, enda er hann oftast vel ruddur; en á vorum og haustum, þegar bleyta og leysingar eru, er hann mjög illur yfirferðar, liggur sá vegur allt suður að Vogastapa og lengra ætla ég ekki að fara að sinni.
Hvað skal nú gjöra við þennan veg? Eins og er, er illa við hann unandi.
Í Fossvogi má ef til vill leggja veginn fyrir ofan rásirnar allar, nema hina syðstu; hana þarf að brúa.
Fossvogslæk ber brýna nauðsyn til að brúa, og það sem allra fyrst, og væri það lítill kostnaður.
Götutroðningana við Kópavogstún verður að brúa, og virðist það auðgjört.
Kópavogslækjarbrúna þarf að athuga; það er of seint að gjöra það eftir að slys er búið að hljótast af því, hversu veikgjörð hún er. Í öllu falli væri nauðsynlegt að láta áreiðanlega menn, sem vita hafa á því, dæma um það, hvort henni sé treystandi eins og hún er.
Veginn yfir Hamarinn í Hafnarfirði, þar sem hann er, ætti alveg að leggja niður. Þar sem hann liggur upp Hamarinn, er mikils til of bratt; það er ógjörningur, og líklega heldur engin lagaheimild til, að vísa mönnum burtu með skip sín, sem uppsátur hafa rétt fyrir sunnan Hamarinn, en skipa-uppsátur þar og vegur geta ekki samrýmst. Sama er að segja um þilskipa-uppsátrið hjá Flensborg; annaðhvort er, að banna skólanum að hafa þar uppsátur, eða að leggja af sýsluveginn þar fram hjá. Og þegar þess er gætt, að vegurinn þar er afar-illa lagður, þ. e. undirorpinn sjávargangi, og menn verða að sæta sjávarföllum til að komast hann, þá virðist lítil eftirsjón í honum þar sem hann er.
En hvar ætti þá að leggja hann?

foss-206

Hann ætti að leggjast sunnar upp Hamarinn en nú er, fyrir ofan bæinn “á Hamri” neðan til í Jófríðarstaðaholti, fyrir sunnan Ásbúð og svo suður Hvaleyrarholt hér um bil beina stefnu á Hjörskot. Það, sem ynnist við að leggja veginn þannig, hjá því sem nú er, mundi verða: vegurinn upp Hamarinn yrði ekki eins brattur, hann yrði ekki undirorpinn sjávargangi; vegfarendum yrði engin hætta búin af bátum, sem nú standa því nær yfir þveran veginn; skólaeigninni í Flensborg yrði ekki meinað að hafa þann hag af þilskipa-uppsátri, sem hingað til hefir oftast samsvarað vöxtum af 1000 krónum; menn kæmust hjá hinni afarillu torfæru hjá Ásbúð, og um stórstraumsflóð þyrfti ekki að klifra upp sandskörðin hjá Hvaleyri.
Veginn suður Hraunin ætti sannarlega að ryðja á hverju ári; minna má það ekki vera; hann er full-illur samt.
Af hinum upphækkaða vegi suður Strandarheiði (eða Vatnsleysu-heiði), þar sem hann nú er, ætti sýslunefndin alls ekki að skipta sér. Sá vegur liggur vestur Ströndina, og ef menn ætla t. a. m. suður í Voga eða þaðan af lengra, þá er það sá afarkrókur, að ríða niður á Ströndina, að ég er viss um, að það nemur fullum þriðjungi, móti því að fara beint úr Kúagerði á Reiðskarð (upp Vogastapa). Strandarmenn mundu þá halda við gamla veginum sem hreppsvegi. En eigi að halda við hinum gamla vegi sem sýsluvegi, þá mundi sú aðgjörð, sem hann þarfnast, ef hann á að geta kallast viðunanlegur, dragast að verðinu til hátt upp í það, sem nýr vegur, beint frá Kúagerði á Reiðskarð, mundi kosta.
Sumir berja því við, að með slíku fyrirkomulagi þyrfti svo víða að leggja vegi frá Ströndinni upp á sýsluveginn. Þetta fæ ég ekki séð að sé nauðsynlegt. Sá, sem ætlar að koma við á Ströndinni, ríður hreppsveginn; en ætli maður beint frá Kúagerði suður, án þess að eiga erindi á Ströndina, þá fer maður sýsluveginn.
Ritað á Fidesmessu 1890.
Vegfarandi.”

Ísafold, 26. apríl 1899, 26. árg., 26. tbl., bls. 103:

Almenningsvegur

Gengið um Almenningsveginn ofan Vatnsleysustrandar.

“Sumrin 1897 og 1898 lét sýslunefnd Kjósar- og Gullbringusýslu leggja mikið laglegan vagnveg milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur, frá Fossvogi, en þangað hafði bæjarstjórn Reykjavíkur lagt áður og hefir þessa ekki enn verið getið í blöðum vorum.
Vegur sá er sýslan lét byggja af nýju, er rúmar 5 rastir á lengd, einnig var borið ofan í og endurbættur gamall vegur (Hafnarfjarðarhraun) rúml. 1 ½ röst á lengd. Hver röst er 531 faðmur. Brýr voru gerðar yfir fjóra læki, og er ein þeirra þrjátíu áln. Lengd, með 50 álna löngum stöplum (þeir eru þrír) og 5 áln. Háum á fullum helmingi. Hinar eru 5-8 álna langar.
Til vinnu þessarar var varið 9.600 kr.
Brýrnar allar kostuðu 1.800 krónur. Aðgerð við gamla veginn um 800 kr. Kostar þá her um bil kr. 2,80 faðmurinn í hinum nýja vegi. Í gegnum veginn eru 16 rennur gerðar úr grjóti 50×100 cm., utan ein úr timbri 3×2½ alin. Mold og möl höfð undir í öllum veginum með torf og grjót á hliðunum, nema um 150 faðmar eru eingöngu úr grjóti (púkkvegur). Ofaníburður allstaðar frá 8-12 þuml. á þykkt. Við vinnuna voru 12 menn fyrra sumarið með 4 hestum, en 15 til 18 hið síðara með 6 og 8 hestum. Verkstjóri var bæði sumrin Sigurgeir Gíslason í Hafnarfirði.
Það var myndarlega til ráðist af sýslunefnd Kjósar- og Gullbringusýslu að leggja veg þennan, og væri óskandi að hún fengi styrk til þess að geta gert meira í líka átt sem þetta. Hefir talsverð vagnaferð verið eftir vegi þessum síðan hann var fullger, en talsverð óþægindi eru að því, að ógert er enn við hallann ofan í Hafnarfjörð, því þar er vegurinn mikils til of brattur fyrir vagna, og er vonandi að ekki bíði mjög lengi svo búið.”

Heimildir:
-Ísafold, 11. okt. 1890, 17. árg., 82. tbl., forsíða.
-Ísafold, 26. apríl 1899, 26. árg., 26. tbl., bls. 103.

Keflavíkurvegur

Hleðslur við gamla Keflavíkurveginn.