Tag Archive for: Grindavík

Húshólmi

Árið 2005 gaf Ferðamálafélag Grindavíkur út ritið „Húshólmi – merkilegur staður í umdæmi Grindavíkur„.

Húshólmi

Húshólmi – rit.

Á baksíðu ritsins segir: „Samantekt þessi er unnin af Ómari Smára Ármannssyni fyrir Ferðamálafélag Grindavíkur. Nefndin gaf út samantekt um Selatanga á 30 ára afmæli kaupstaðarins í Grindavík 10. apríl 2004. Hún stefnir að því að gefa út samantektir um fleiri merkilega staði í umdæmi Grindavíkur, s.s. Selöldu, Þórkötlustaðahverfi , Þórkötlustaðanes, Járngerðarstaðahverfi, Staðarhverfi, ströndina, Baðsvelli og Selsvelli svo eitthvað sé nefnt.
Það er von nefndarinnar að efnið, sem hingað til hefur verið dreift og hér er sett fram í samfelldan texta, auk göngulýsinga af svæðinu, myndum og uppdráttum, muni nýtast áhugasömu fólki, bæði til fróðleiks og gagns á vettvangi, en æ fleiri gera sér nú ferð í Húshólma til að skoða minjarnar og fá innsýn í hugsanlegan heim fólksins, sem þar bjó áður en Ögmundarhraun rann og færði byggðina í kaf að mestu. Þá kemur fleira fólk til Grindavíkur í þeim tilgangi að skoða forna staði, kynnast sögu fleirra og njóta fagurs umhverfis.

Húshólmi

Í Húshólma.

Í samantektinni er m.a. reynt að lýsa aðstæðum, staðháttum, minjunum, tengingu við nálægar minjar sem og umhverfið. Í ritinu er uppdráttur af Húshólma og minjunum, sem í honum eru“.

Ritið er nú upselt og ólíklegt er að það verði endurútgefið. Lesendur FERLIRs geta hins vegar skoðað innihaldið á vefsíðunni – sjá Húshólmi – rit.

Húshólmi

Húshólmi – uppdráttur ÓSÁ.

Ísólfsskáli

Í „Fornleifaskráningu í Grindavík, 3. áfanga árið 2004„, er m.a. fjallað um Ísólfsskála. Hér á eftir verður minnst á nokkurn fróðleik úr skýrslunni:

Ísólfskáli

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli 1915-1930; – Sæmundur G. Guðmundsson. Tóftir gamla bæjarins nær.

1703, eign Skálholtsstaðar. JÁM III, 8. Aðrar orðmyndir nafnsins eru Ísuskáli og Ísiskáli. „Við til húsabótar hefur ábúandinn af reka þegar hann heppnast…Tún sendið mjög og liggur undir skriðum. Engjar öngvar. Útigángur mjög lakur…Grasa og sölvatekja er í fjörunni að nokkru gagni. Selveiði hefur áður nokkur verið og kynni enn að vera, ef ágreiningslaust væri við Krýsuvíkur ábúendur. En hjer eru misgreiningar nokkrar um landamerki og vita menn óglögt, hvör þessi hlunnindi má með rjettu brúka…Heimræði er af jörðunni vetur og sumar, en lendíng bág og brimasöm…Torftekja til húsaþaks og heytorfs sendin, og mjög bæði gagnslítil og erfið.

Isólfsskáli

Ísólfsskáli – bærinn og útihús. Þjóðskrá segir að íbúðarhúsið sé byggt 1932, en líklegra er að það hafi verið byggt í kreppunni 1930.

Vatnsból er erfitt bæði til nautnar fyrir menn og peníng sumar og vetur…“

1840: „Slétt tún eru á Ísuskála, en lítil rækt er í þeim; litlir eru hagar þar og fremur graslítið pláss, því fellin þar um kring að norðanverðu eru ber og graslítil eins og líka hraunið þar strax fyrir sunnan, sem nær allt til og þó langt austur fyrir Selatanga. Er þar líka vatnsskortur mikill nema fjöruvötn, sem bæði eru brúkuð til neyzlu og handa fénaði.“ segir í sóknarlýsingu.

Gamli bærinn

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – gamli bærinn.

„Gamli Ísólfsskáli var upp af Skálabót undir Bjallanum vestast. Þar eru nú húsatættur.“segir í örnefnaskrá. Bjallinn er klettabelti sem liggur norður-suður ofan við túnið vestanvert, alveg frá sjó. Syðst og vestast í túninu, fast undir Bjallanum, er sumarbústaður en hann stendur í tóftum gamla bæjarins. Suðvestast í túninu, um 20 m norðan við sjávarkampinn.
„Á Ísólfsskála féll eldhús [í jarðskjálftum 28. og 29. janúar 1905].“ Athugasemd á túnakorti: „Bærinn fluttur frá sjó, byggður að stofni og kálgarðar árið 1916. Jörðin hafði þá verið í eyði 3 ár.“ Bærinn sem reistur var árið 1916 var timburhús og stóð hann á sama stað og steinsteypt íbúðarhús stendur nú (reist um 1930), í miðju túninu vestanverðu.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – fjárhús við gamla bæinn.

Um 150 m fyrir suðvestan íbúðarhúsið er sumarbústaður sem stendur í tóftum gamla torfbæjarins sem búið var í fyrir 1916. Þar er greinilegur bæjarhóll, um 30X25 m að stærð og um 1 m hár. Sunnan undir bústaðnum sést í hluta tóftanna, en bústaðurinn hefur spillt þeim að mestu. Þrjú hólf eru greinileg og liggja frá austri til vesturs, snúa mót suðri. Öll hólfin eru opin til suðurs. Þau eru grjóthlaðin að innanverðu en tyrft er yfir og utan með þeim. Hleðslur eru mest um 1,5 m á hæð og umför allt að átta. Fast vestan við tóftirnar liggur heimreiðin að bústaðnum norður-suður, en fyrir vestan hana liggur garðlag norður-suður. Skipan torfbæjarins var þannig að vestast var baðstofan og norðan við hana var hlóðaeldhús. Austan við baðstofuna var svo hesthús og þar austan við var skemma.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – túnakort 1918.

Bærinn snéri mót suðri og fyrir sunnan hann var kálgarður. Fyrir sunnan bæinn og kálgarðinn þar sem nú er sjávarkampur var brunnur, en hann var einnig notaður eftir að bærinn var fluttur. Í honum var ágætt vatn en dálítið salt.

Garðar

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – hlaðnir garðar ofan við bæinn.

„…Mælifellsskarð. Vestan þess tekur svo við fjall allmikið, sem heitir Slaga…Vestur af Slögunni er gróðurlítið svæði, sem nefnt er Melar.
Vestan við þá heitir Lágar. Þær eru vestan við veginn og langur grjótgarður hlaðinn þeim til varnar.“, segir í örnefnaskrá AG. Lágar heitir sléttlendið fyrir austan Festi, uppi á hæðinni áður en ekið er niður að Ísólfsskála. Þar eru stæðilegir grjótgarða beggja vegna vegarins. Gróið sléttlendi.
„Er mikið hér af slíkum görðum og víða með mjög fallegu handbragði.“, segir í örnefnaskrá AG. Garður liggur meðfram veginum, suðvestan við hann, en minni garðar sunnan við hann og einnig austan við veginn. Þeir sem eru vestan vegarins eru eldri, en þó hlaðnir eftir 1916. Þeir sem eru austan vegarins eru hlaðnir eftir 1950. Garðarnir eru mest um 1 m á hæð og sex umför. Um aldamótin 1900 var mikill uppblástur þarna og voru garðarnir hlaðnir til varnar honum. Nú er svæðið allt gróið. Garðarnir eru mörg hundruð metrar í heildina. Svæðið sem garðarnir ná yfir er um 300×300 m.

Skálarétt

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – Skálaréttin var hérna megin við bæinn, síðar matjurtargarður.

Fast norðan við núverandi íbúðarhús á Ísólfsskála, um 130 m norðaustan við bæjarhólinn, er gerði. Þar var áður rétt, en síðan nýtt sem kálgarður. Í túni. Gerðið er hlaðið úr torfi og grjóti, snýr í norður suður og er opið til suðurs. Það er um 16X14 m að stærð. Hleðslur standa grónar, um 1 m á hæð en umför ógreinileg. Úr norðvesturhorni þess liggur garðlag til vesturs í átt að Ballanum. Þarna var rétt eftir 1916, kölluð Skálarétt, en síðan var hún flutt norður að Borgarfjalli. Þá var gerðið nýtt sem kálgarður.

Verbúð

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – gamli bærinn. Sumarbústaður byggður á tóftunum. Framan við hann var gamla sjóbúðin.

„Brynjólfur biskup Sveinsson var fyrstur Skálholtsbiskupa til að hefja útgerð frá jörðinni, og lét hann reisa þar verbúð fyrir skipshöfnina á stólsskipinu. Hversu lengi útgerð stólsins á Ísólfsskála stóð, er óljóst, en 1734 fórst þar stólsskip og drukknuðu þá 10 menn.“ Ekki er vitað hvar verbúðin hefur staðið. Má vera að tóftirnar séu löngu horfnar undir kampinn en sjórinn gengur þarna mjög á landið. Ekki sést til fornleifar.“

Núverandi landeigendur hafa bæði vitneskju um brunninn, sem nú er horfinn undir kampinn, og gömlu sjóbúðina. Hún varð snemma hluti af útihúsum gamla bæjarins.

Heimild:
-Fornleifaskráning í Grindavík, 3. áfangi, Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2004, bls. 53-62.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – uppdráttur ÓSÁ.

Nótarhóll

Í skýrslu Minjastofnunar um „Eldsumbrot á Reykjanesskaga. Minjar í hættur og viðbrögð Minjastofnunar við náttúruvá„, má lesa eftirfarandi um fiskbyrgi og -garða við Nótarhól suðaustan Ísólfsskála:

Skýrsla Minjastofnunar„Í landi Ísólfsskála er að finna fjölmörg fiskbyrgi og herslugarða suðaustur af núverandi bæjarstæði, í Skollahrauni. Hraunið er talið vera allt að 1900-2400 ára gamalt11 og eru byrgin og garðarnir hlaðnir upp með hraungrýti. Lítið er til af rituðum heimildum um þessar minjar, en í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns kemur þó fram að heimræði hafi verið á jörðinni og að landeigandinn, Skálholtsstóll, hafi gert þaðan út eitt skip (áttæring) og að sjóbúð í eigu stólsins hafi verið á „lóð jarðarinnar“ sem nýtt hafi verið af áhöfn skipsins á vertíðum. Þar kemur einnig fram að sjóbúðin, eða „sjómannabúðin“, hafi verið byggð í tíð Brynjólfs Sveinssonar biskups (1639–1674) en fyrr hafi ekki verið útgerð á vegum stólsins á Ísólfsskála. Einnig er nefnt að ábúandinn hafi sjálfur gert út eitt skip, en stærð þess kemur þó ekki fram.
NótarhóllSjóbúðin er nú horfin undir malarfyllingu í heimreiðinni að sögn eins eigenda jarðarinnar. Vert er að taka fram að ekki er fjallað um verminjar á Ísólfsskála í riti Lúðvíks Kristjánssonar, Íslenzkir sjávarhættir II, sem tekur sérstaklega fyrir verstöðvar. Þar er Grindavík merkt á korti sem blönduð verstöð og austur með suðurströndinni er næsta stöð Selatangar og er hún skráð sem útstöð.
Var ákveðið að grafa í tvö fiskbyrgi á Ísólfsskála í þeim tilgangi að aldursgreina byrgin og með von um að skilgreina betur hlutverk þeirra.

Ísólfsskáli

Fiskbyrgi og – garðar við Nótarhól.

Grjóthrun var fjarlægt úr fiskbyrgjunum tveimur. Í öðru þeirra komu í ljós flatar steinhellur sem hafa sennilega verið hluti af gólfinu í byrginu. Þegar grjóthrunið og steinhellurnar höfðu verið fjarlægðar var komið niður á sendið jarðlag sem innihélt dökka og grófa gjósku sem má ætla að sé frá Reykjaneseldum 1211-1240.
Sýni voru tekin úr meintu gjóskulagi. Örfá fiski- og fuglabein fundust en því miður fundust engir gripir sem geta sagt til um aldur byrgjanna. Að öðru leyti var á litlu að byggja í fiskbyrgjunum. Mögulegt væri að senda beinin sem fundust í C14 greiningu til að fá upplýsingar um aldur þeirra en slík greining telst varhugaverð þar sem sjávaráhrifa gætir á þessum beinum sem gætu gefið ónákvæma aldursgreiningu.“

Heimild:
-Eldsumbrot á Reykjanesskaga. Minjar í hættur og viðbrögð Minjastofnunar við náttúruvá – stöðuskýrsla, bls. 17-18.

Ísólfsskáli

Nótarhóll – fiskbyrgi og þurrkgarðar.

Hetturvegur

Krýsuvíkurfjöll eru samnefni á fjöllunum á Sveifluhálsi ofan við Krýsuvík, s.s. Hettu, Hatti, Baðstofu, Hverafjalli og Engjafelli. Þá kemur örnefnið Smjördalahnúkur einnig við sögu.
Sveifluhals-gatnakerfiÍ örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir svæðið má m.a. lesa eftirfarandi: „Norður frá Drumbsdalavegi mun hálsinn hafa heitið Móhálsar, þótt það nafn sé nú glatað. Norður á hálsinum, á móts við Gestsstaðavatn, eru hnúkar og hæðir, sem mig vantar nafn á, og ef til vill eru þeir nafnlausir. Tekur þar við fjall það, sem heitir Hverafjall. Í Hverafjalli eru margir smádalir með hverum, bæði vatnshverum og brennisteinshverum, og heitir það svæði Hveradalir. Nokkuð suður og vestur frá Hatti er hæsti hnúkurinn þarna, og heitir hann Hetta. Er líkast, að hér sé komin allstórvaxin risafjölskylda.“
Ætlunin var að skoða Krýsuvíkurfjöllin og feta m.a. Ketilsstíg, Hettuskarðsstíg og nefndan Smjörbrekkustíg.
HettustigurÞegar örnefnalýsing Ara Gíslasonar er skoðuð er ekki að sjá framangreindan Hettuskarðsstíg. Þar segir: „Þá er vegur, sem heitir Hettuvegur eða Móhálsavegur. Ekki kann eg að staðsetja veg þennan.“ Ari minnist ekki á Hettuskarð eða Hettuskarðsstíg. Þá getur hann ekki um Smjörbrekkur, Smjördalahnúk eða Smjörbrekkustíg. Annars staðar á vefsíðunni er sérstaklega fjallað um nefndan Hettuveg.
Gísli Sigurðsson getur um Hettuskarðsstíg í sinni örnefnalýsingu: „Þá er komið á Ketilstíg þar sem hann kemur upp úr Katlinum og liggur framhjá Arnarvatni. Í vestur eru tveir hnúkar. Annar að sunnan heitir Hattur kúflaga en framan í honum eru Krýsuvíkurnámurnar og Seltún. Beint framundan er Hetta. Hattsmýri liggur milli hnúka þessara, en klofnar um Hattsmýrargil. Vestan undir Hettu er Hettuskarð og Hettuskarðsvegur eða Hettuskarðsstígur.“
SmordalahnukurGísli segir Hettuskarð vera vestan Hettu, en minnist ekki á Hettuveg, sem mun að öllum líkindum vera einn og sami.
Þá segir Gísli: „Niður undan brekkunni voru Seltúnsbörðin. Á einu barðinu var brennisteinshrúga, sem ekki hafði verið flutt burt er síðasta ferðin í Námur þessar var farin. Hér litlu vestar var Engjafell og þar var Engjafellshver. Neðan undir Engjafelli eru Vaðlarnir. Þá er komið að Vaðlalæknum. Upp með honum er farið og er þá komið í Hveradali. Þar var námagröftur í Hveradalanámum. Má enn sjá dálitla hrúgu brennisteins í Hveradalabrekkunni, sem ekki hefur verið hirt þegar námavinnslan hætti. Upp Námahvamminn lá Námastígurinn frá fyrrnefndri hrúgu upp þangað sem brennisteinninn var tekinn. Hér voru líka Smjörbrekkur. Smjörbrekkustígur upp í Smjörbrekkuskarð. Ketilsstigur 27Upp frá Hveradölum til suðurs var brött brekka, Baðstofubrekka, en þar uppi voru klettar með sérkennilegri lögun. Eru þeir nefndir Baðstofa af lögun sinni, en þeir eru eins og burstir tvær og gnæfa við himinn. Á flötum fremst í dölunum hafa nú risið Krýsuvíkurhúsin. Þar eru vermigróðurhús og íbúðarhús. Þar fram undan er Gestsstaðavatn.“
Ennfremur segir Gísli: „Upp frá Köldunámum er gengið í Folaldadali — miðdalinn. Nú er langur kafli, örnefnalaus. Þá er komið að Ketilstígssteini kletti allmiklum og liggur vegurinn frá honum upp á hálsinn og er þá komið að Katlinum og í hinn eiginlega Ketilstíg, sem liggur um austurhlíð og suðurhlíð Ketilsins og þar upp á brún, síðan áfram framhjá Arnarvatni niður með efsta hluta Seltúnsgils yfir á stall ofan Seltúns og niður Seltúnsbrekkuna í Seltúnshvamm.

Hetturvegur 28Stundum var öll leiðin frá Hafnarfirði í Seltún og að Krýsuvík kölluð Ketilstígur. Að fara Ketilstíg. Vestur með hálsi liggur leiðin áfram og blasir þá fyrst við Smjördalahnúkur og Smjördalir milli hans og hálsins. Héðan liggur svo slóðinn frá Hnúknum yfir dalinn að Vigdísarvöllum. Úr dölum þessum kemur lækur og rennur vestur norðan undir Hettu og tekur þar við læk úr Hettu og Hettumýri og nefnist þá Hettumýrarlækur. Enn bætist lítill lækur við, kemur í Kringlumýri og Kringlumýrartjörn með hnúkinn Slögu á hægri hlið þegar vestur er haldið. Síðan rennur lækur þessi um lægð er nefnist Bleikingsdalur.“
Þar með er að öllum líkindum komin nokkuð heilstæð mynd á gatnakerfið á Sveifluhálsi umleikis og norðaustan Hettu. Ketilsstígur lá yfir Hálsinn frá Katlinum, framhjá Arnarvatni að Seltúni. Hettuvegur og Hettuskarðsstígur er einn og hinn sami; lá frá Krýsuvíkurgötunni frá Sveiflu um Hettuskarð og niður með vestanverðri Hettu. Neðst greindist hann í tvær áttir, annars vegar niður gildrag til vesturs þar sem gatan lá síðan til norðurs að Vigdísarvöllum og hins vegar áfram til norðurs upp dalverpi og ás uns komið var niður á Undirhlíðarveg.

Smérbrekkustígur

Smérbrekkustígur.

Smjörbrekkustígur lá upp Smjörbrekkur norðan Hettu inn á fyrrnefndan Krýsuvíkurveg um Sveiflu. Þar neðanvert lá vegurinn inn í Smjördali og er Smjördalahnúkur ofan þeirra, svo til beint vestur af Arnarvatni á vesturmörkum Sveifluháls. Sjá má Smjörbrekkustíg austan og niður með norðanverðri Hettu.

Hetta-21Líklega er einungis um að ræða götu frá Krýsuvík í dalina. Skoða þarf betur hvort einhverjar tóftir kunni að leynast í Smjördölum, en svæðið virðist um langt skeið hafa verið jarðhitasvæði og því umbreytingum háð. Hugsanlega gæti stígurinn hafa tengst brennisteinsvinnslu, en það á eftir að kanna líkt og annað þarna í dölunum. Í Kringlumýri er, að öllum líkindum, leifar elstu selstöðu á Reykjanesskaganum. A.m.k. er og verður það tilefni til enn einnar FERLIRsferðarinar.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Heimildir m.a.:
-Ari Gíslason – örnefnalýsing fyrir Krýsuvík.
-Gísli Sigurðsson – örnefnalýsing fyrir Krýsuvík.

Arnarvatn

Arnarvatn.

 

Bláa lónið

Jón Jónsson, jarðfræðingur, fjallar um „Gönguleið; Bláa Lónið – Slaga“ í Morgunblaðinu árið 1991:
Jón Jónsson„Hér á eftir er stiklað á stóru í jarðfræði þess svæðis sem farið verður um. Sé gengið frá Bláa lóninu austur yfir, má fara hvort heldur vill norðan Svartengisfells eða suður yfir Selháls og austur eftir hraununum þar fyrir sunnan og austan. Hvor leiðin sem farin er þarf að ganga þvert yfir gígaröðina, sem þar gaus fyrir 2400 árum, en þá varð Þórkötlustaðanes til og Grindavík skapaðist. Gígaröð þessi er um 8 km löng og á þeirri sprungugrein hefur áður gosið.
Sé gengið norðan fellsins, er vert að veita því athygli hvað gróður breytist þegar kemur austur fyrir gilið, sem er upp af samkomustaðnum gamla [Svartsengi]. Vestan gilsins er fellið gróið upp eftir hliðinni og þar grænkar fyrr á vorin. Þetta stafar af jarðhita og gilið er tengt sprungu og ummyndun af jarðhita er þar mikil.

Sýlingafell

Sýlingafell – sýlingurinn (gígur/hvylft/laut).

Á háfellinu er myndarlegur gígur [Sýlin] og frá honum hafa hraun runnið og þekja fjallið.
Austan við Sundhnúkahraunið tekur Vatnsheiði við. Það er hraunskjöldur (dyngja) eða hraunskildir öllu heldur, því gosopin eru fleiri en eitt. Nyrsti skjöldurinn er þó þeirra mestur en hraunið er pikrít, mjög ólívínauðugt berg, sem sums staðar er nærri grænt af ólívínkristöllum, en þeir eru mjög dreifðir um bergið. Vatnsheiði er eldri en sprunguhraunin í kring og hverfur því hraunið úr dyngjunum undir þau.

Vatnsheiði

Gígur í Vatnsheiði.

Dyngjuhraunin hafa verið þunnfljótandi, heit og talið er að þau komi djúpt úr jörðu, jafnvel neðan úr möttli.
Fagradalsfjall er stapi og gígurinn er á norðurhorni þess og er all myndarlegur. Hraunborð er svo ofan á fjallinu og hallar borðinu til suðurs. Er talið líklegt að jökull hafi haldið að á báðar hliðar þegar komið var á lokastig gossins og þannig markað hrauninu rás svo úr verði þríhyrningur. Syðst á fjallinu eru yngri (nútíma) gígar og hraun í og við lítinn sigdal (snoturt umhverfi, góður hvíldarstaður).

Slaga
Sunnan frá séð er Slaga mest áhugaverð. Neðst ofan við skriðurnar koma fram gráir stuðlabergshamrar (grágrýti). Að ofan eru þeir rispaðir af jökli (sést ekki nema upp sé klifrað, varúð, grjóthrun getur átt sér stað).

Slaga

Slaga.

Ofan á þessu kemur svört brotabergskennd gosmyndun, sem þó er yngri en jökull sá er heflaði grágrýtið. Aðrennslisæð þessarar gosmyndunar má sjá norðaustan til í brúninni, ljósgrá brík, gangur, skerst þar upp í brún og fleiri gangar, þunnir, eru þarna. Á síðjökultíma hefur sjór fallið upp að fjallinu. Hraun hafa runnið þarna þarna og nokkuð austar eftir skapað væna sneið af nýju landi.“ – Höfundur er jarðfræðingur

Heimild:
-Morgunblaðið 3. maí 1991, Jón Jónsson „Gönguferð; Bláa lónið – Slaga“, bls. 25.

Slaga

Slaga – berggangur.

Varnarsvæði

Eftirfarandi birtist í Bæjarbót þeirra Grindvíkinga árið 1990 undir fyrirsögninni „Byggðin að mestu á hrauntaumi frá Sundhnúkagígaröð„. Efnið er úr ritinu Náttúrufar á sunnanverðum Reykjanesskaga, sem Náttúrufræðistofnun Íslands vann fyrir Samvinnunefnd um skipulagsmál á Suðurnesjum.
Bæjarbót„Á könnunarsvæðinu er Grindavík eini þéttbýlisstaðurinn og því er vert að fara fáum orðum sérstaklega um það svæði. Á meðfylgjandi mynd er einfaldað jarðfræðikort af Grindavík og næsta nágrenni.
Elstu jarðlögin eru móberg og bólstraberg í Þorbjarnarfelli, Sýlingarfelli (Svartsengisfelli), Hagafelli og Húsafelli. Grágrýtishettur eru á Lágafelli sunnan Þorbjarnarfells og á Húsafelli.

Grindavík

Grindavík – jarðfræðikort.

Nútímahraununum má sem áður skipta í tvennt, annars vegar dyngjur frá því snemma á nútíma og hins vegar yngri sprunguhraun. Dyngjuhraunin eru annars vegar hraun frá Sandfellshæð í vestri og hins vegar hraun frá Vatnsheiði norðan Húsafells.
Sprunguhraunin eru ýmist aðrunnin eða eiga upptök sín nærri byggðinni. Byggðin í Grindavík er að mestu á hrauntaum frá Sundhnúksgígaröð.
Sundhnúkshraun hefir runnið til sjávar í fjórum kvíslum. Vestasta kvíslin er sú sem megin hluti byggðarinnar er á, önnur mjórri hefir runnið ofan í mitt Hóp, þriðja myndar Þórkötlustaðarnes (Hópsnes) og sú fjórða og austasta fellur til sjávar við Hraun. Sundhnúksgígaröðin er um 8,5 km að lengd og mun hafa gosið fyrir um 2400 árum.

Eldvörp

Eldvörp.

Skammt vestur af byggðinni í Grindavík er stutt gígaröð sem nefnist Eldvörp og frá henni hefir runnið lítið hraun til suðausturs og liggur það innundir Sundhnúkshraun og er því eldra. Vestan við Grindavík eru tvö nokkuð stór sprunguhraun og nær það eldra allt til sjávar milli Stóru- og Litlubótar og austan til í Arfadalsvík. Þessi tvö hraun eiga upptök sín í gígaröðum við Eldvörp austan undir Sandfellshæð. Vestan við Þorbjarnarfell er Illahraun, sem er yngsta hraunið á þessu svæði og mun það hafa brunnið árið 1226 eða skömmu síðar.
Sprungur eru margar en flestar þeirra eru í elstu hraununum (dyngjuhraununum) og í móbergsmyndununum.

Sprungur

Hraunsprungur millum Vatnsleysustrandar og Grindavíkur.

Sprungurnar stefna flestar norðaustur/suðvestur en nokkrar N-S sprungur eru í Sýlingarfelli og ein NV-SA sprunga er í Sandfellshæðarhrauni norður af Húsatóftum. Engar sprungur eru í yngri sprunguhraununum, Illahrauni og hraununum sem koma vestan úr Eldvörpum. Ein sprunga er í Sundhnúkshrauni sunnan undir Hagafelli. Tvær sprungur eru aftur á móti í litla Eldvarpahrauni vestan við Grindavík. Nokkrar NA-SV sprungur stefna á byggðina í
Grindavík úr suðvestri en þær hverfa inn undir Sundhnúkshraun og hafa því ekki hreyfst í a.m.k. 2400 ár.“

Heimild:
-Bæjarbót, 7. tbl. 01.07.1990, „Byggðin að mestu á hrauntaumi frá Sundhnúkagígaröð“, bls. 5.

Grindavík

Grindavík – loftmynd 1954.

Grindavík

„Í landi Hrauns austan við Grindavík, í fjalllendinu austan við hina heimsfrægu Geldingadali, er djúp dalkvos sem ber heitið Meradalir.

Meradalir

Meradalir er djúp dalkvos í landi Hrauns. Bæði merar og geldingar, þá líkast til sauðir, hafa gengið á þessu svæði frá örófi alda. Hraun tók að renna í Meradali 5. apríl 2021 eins og sést á myndinni.

Þegar þetta er ritað er hraun tekið að renna þangað eftir að nýjar gossprungur mynduðust norðaustan við Geldingadali. Hvorugir dalanna eru raunar miklir dalir eins og heitið gæti bent til en tekið fram í örnefnalýsingu Hrauns að hugtakið sé hér einnig notað um brekkur og kvosir. Meradölum hefur verið lýst sem „gróðurlitlum leirflötum“ og sennilegt að þar hafi jarðvegsrof verið umtalsvert. Svæðið var notað til beitar, einkum að sumarlagi en sel frá mörgum jörðum í Grindavík voru austan við dalina, á svonefndum Selsvöllum auk þess sem örnefnið Selskál skammt vestan við gosstöðvarnar bendir til selstöðu. Þótt ótrúlegt megi virðast var einnig eldiviðartekja í nágrenninu sem er í upphafi 18. aldar sögð reitingur af lyngi, hrísi og slíku lítilvægu.

Meradalir

Meradölum hefur verið lýst sem „gróðurlitlum leirflötum“. Þeir sjást hér vel á loftmynd sem tekin var 5. apríl 2021 þegar hraun tók að renna niður í dalina. Meradalirnir breiða úr sér þar sem hrauntungan endar vinstra megin fyrir miðri mynd. Hægra megin á myndinni sést hraunið í Geldingdölum.

Örnefnið Meradalir eitt og sér er auðskilið og kemur kannski engum á óvart að bæði merar og geldingar, þá líkast til sauðir, hafi gengið á þessu svæði frá örófi alda. Fleiri búsmalanöfn af þessu tagi fyrirfinnast raunar í landi Hrauns, til dæmis Tryppalágar, Hrútadalur, Nauthóll og Kúalágar. Á hinn bóginn ber að hafa í huga að hér hafa sennilega ekki verið mjög stórir fjárhópar á fyrri öldum (þótt fjölgað hafi á 19.-20. öld) og tæplega nein stóð í Meradölum. Almennt séð eru landgæði rýr á þessum slóðum, enda hefur sjávarútvegur lengst af verið aðalatvinnuvegur í Gullbringusýslu en ekki landbúnaður og byggðin grundvallast á honum – ekki síst í Grindavík. Búfjárfjöldi er lítill svo langt sem tölur ná og til að mynda taldi bústofn Hrauns ekki nema tvo hesta og eina meri þegar jarðabók var rituð í upphafi 18. aldar – en auk þess þrjá sauði, fjórar kýr, ellefu ær, nokkrar gimbrar og lömb. Allt sauðfé gekk úti um 1840 og þá voru hvorki til fjárhús, beitarhús né fjárborgir í sókninni. Hesthús hafa áreiðanlega verið sjaldgæf líka og líklega hafa merar sem og önnur hross gengið úti árið um kring.

Hraun

Hraun í Grindavík.

Til marks um beitargæði eða öllu heldur skort á þeim er tekið fram í sóknarlýsingu að á Suðurlandi finnist eigi jafngraslítil og gróðurlaus sveit. Sömuleiðis er fullyrt að á Hrauni sé ekki höfð nokkur skepna heima á sumrum vegna beitarskorts heldur allir hestar daglega fluttir langt í burtu, „…á bak við Fiskidalsfell, þó brúka eigi strax að morgni“, en fellið er heldur vestar en dalirnir sem hér eru til umræðu. Kannski geyma Meradalir vísbendingu um slíkar nytjar, og eru þá kannski helst vitnisburður um skort á landgæðum og að augu manna hafi beinst að hverjum einasta bletti sem gat fóðrað skepnu eða tvær.“

Tilvísanir:
-Gullbringu og Kjósarsýsla. Sýslu- og sóknalýsingar Hins íslenska bókmenntafélags 1839-1855. Sögufélag 2007.
-Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns, 3. bindi. Kaupmannahöfn 1923-24.
-Örnefnalýsing Hrauns í Grindavíkurhreppi e. Ara Gíslason. Örnefnasafn Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum: https://nafnid.is/ornefnaskra/14146. (Sótt 5.04.2021).
-Örnefnalýsing Hrauns í Grindavíkurhreppi e. Loft Jónsson. Örnefnasafn Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum: https://nafnid.is/ornefnaskra/14147. (Sótt 5.04.2021).

Heimild:
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=81496#

Meradalir

Meradalir – herforingjaráðskort 1903.

 

 

 

Sog

Gengið var um „dyr“ Trölladyngju. Ferðinni var heitið um litskrúðugasta náttúrusvæði Reykjanesskagans. Ofan við „dyrnar“ er dyngjan, eða gígur Dyngnanna, Trölladyngju og Grænudyngju. Toppur þeirra síðarnefndu er tæplega 400 m.y.s. Munar 3-5 metrum á þeim stöllum.

Keilir

Keilir – Oddafell nær.

Á leiðinni mætti goslótt, veturgamalt lamb, ferðalöngum, ekki óspakt. Þegar gengið var um girðinguna umleikis beitarhólf Reykjanesbænda kom í ljós að hún var allnokkuð langt frá því að vera fjárheld. Líklega er það þó afleiðing vetrarins og verður lagfær næsta vor. Lambið er sennilegast frá Lónakoti því það sást ásamt öðrum sambærulegum ofan við Lónakotssel ekki fyrir alllöngu síðan.

Sogin

Í Sogum.

Stefnan var tekin á Sogin, hið litskúðugasta landssvæði Reykjanesskagas. Í þeim „fæddust“ bæði Höskuldarvellir og Sóleyjarkriki fyrir meira en 11 þúsund árum síðan.
Loks blasti litadýrð Soganna við. Með í för var m.a. Þorvaldur Örn Árnason. Þorvaldur er ekki einungis mikill náttúruunnandi heldur og mikill skynsemismaður þegar kemur að nýtingu svæða sem þessara.

Sogin

Í Sogum.

Skipulags- og byggingarnefnd Sveitafélagsins Voga hefur samþykkt umsókn Hitaveitu Suðurnesja um framkvæmdarleyfi fyrir borun tilraunaholu TR2 í Sogunum, einu fallegasta náttúrusvæði á Reykjanesskaganum. Holan verður staðsett upp með Sogalæk við mynni Soganna, nánar tiltekið á gróinni flöt sem hallar að Sogalæknum. Áætluð stærð borplans er um 3000m2 og nýr vegur verður lagður upp með Sogalæknum að fyrirhuguðu borplani. Framkvæmdir munu líklega hefjast í apríl eða maí og standa yfir í tvo mánuði.

Trölladyngja

Trölladyngja og nágrenni.

Við Trölladyngju eru hverir og ummyndun á skák sem nær austan frá Djúpavatni vestur á Oddafell. Hveravirknin fer minnkandi, en í Sogunum má enn sjá virka hveri. Sprengigígar og miklir gjallgígar eru í gossprungum þar sem þær liggja yfir ofannefnda skák. Ummyndun er mest í Sogunum þar sem stórt svæði er ummyndað af klessuleir.

Vestan í hálsinum frá Sogunum suður á móts við Hverinn eina er móbergið einnig ummyndað en hvergi nærri eins og í Sogunum. Þar eru stórir sprengigígar frá ísöld og vatn í sumum.

Djúpavatn

Djúpavatn.

Djúpavatn er myndað á sama hátt. Kalkhrúður finnst á tveimur stöðum. Hitarák með gufuhverum liggur frá Trölladyngju um Eldborg norður í Lambafell, bundin nánast við eina sprungu.
Í Trölladyngju eru tvær borholur, önnur við hverasprunguna norðan undir henni, hin á hverasvæðinu vestan undir hálsinum. Báðar sjá um 260 °C hita ofarlega, síðan hitalækkun, en dýpri holan endar í 320 °C hita á rúmlega tveggja km dýpi.

Trölladyngja

Trölladyngja – háhitasvæði.

Í skýrslu Skipulagsstofnunar um háhitasvæðið við Trölladyngju frá því mars 2003 segir m.a. að rannsóknarborholur séu staðsettar innan friðlýsts svæðis, Reykjanesfólkvangi, auk þess sem Keilis- og Höskuldarvallasvæðið er á náttúruminjaskrá. „Um viðkvæm verndarsvæði er að ræða og hætta er á að hverskonar framkvæmdir og rask muni rýra verndargildi þess og skerða notagildi þess til útivistar og náttúruskoðunar“, segir jafnframt í skýrslunni.
Skipulagsstofnun bendir á að ýmsar athuganir, sem gerðar hafi verið, séu ófullnægjandi og auk þess hafi ekki verið tekið mið af ýmsum fyrirliggjandi upplýsingum.

Sogasel

Sogasel undir Trölladyngju – fornleifar.

Fornleifafræðingur hafi ekki gaumgæft svæðið m.t.t. fornminja og gildi svæðisins hafi ekki verið metið með hliðsjón af útivist og náttúrufegurð. Vonandi er framangreint ekki dæmigert fyrir vinnubrögð Hitaveitu Suðurnesja, sem jafnan hefur tengt nafn sitt við slagorðið „Í sátt við umhverfið“. Sogasvæðið er nefnilega með fallegri útivistarsvæðum landsins.
Í grein, sem Þorvaldur skrifaði í Vogablaðið nýlega spyr hann að því hvort eitthvað verði skilið eftir fyrir barnabörnin?

Spákonuvatn

Spákonuvatn og Keilir.

„Það eru margar náttúruperlur í okkar sveitarfélagi, fleiri en við flest þekkjum. Við eigum margar skráðar náttúruminjar en engar friðaðar enn sem komið er. Hægt er að lesa um nokkrar þeirra á www.vogar.is og enn meira á www.ferlir.is og í bók Sesselju Guðmundsdóttur; Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi.

Sogasel

Í Sogaseli – sel frá Krýsuvík og síðar frá Kálfatjörn í skiptum fyrir útræði..

„Mér finnst stórfenglegasta svæðið vera í kringum Trölladyngju, Grænudyngju, Sog, Grænavatn og Selsvelli. Svæði þetta er í jaðri Reykjanesfólkvangs og það sem er utan fólkvangsins er á náttúruminjaskrá – frátekið til friðunar. Mjög fjölbreytt og hrífandi náttúrufar og eini staðurinn í okkar sveit sem jarðhiti setur mark sitt á með tilheyrandi litadýrð. Það er stutt að skreppa þangað, fólksbílafært á Höskuldarvelli.
Nú óttast ég að svæði þessu verði spillt á næstu árum vegna græðgi okkar í jarðvarma til að selja rafmagn á niðursettu verði til stóriðju. Hitaveita Suðurnesja lætur sér ekki nægja að þekja friðlandið við Reykjanestá með rörum og borplönum, heldur vill nú fá að rannsaka og virkja öll þau háhitasvæðin á Reykjanesskaga sem Hitaveita Reykjavíkur hefur ekki þegar helgað sér, þ.e. svæðin við Trölladyngju, Sandfell, Krýsuvík og Brennisteinsfjöll.

Sog

Sogalækur.

Ein rannsóknarholan á að vera í miðjum Sogunum við Trölladyngju og flestar holurnar verða í hinum friðaða Reykjanesfólkvangi. Sjálfsagt tengist þetta mikla virkjanaátak draumnum (martröðinni) um enn eitt álverið við Helguvík.
Hitaveita Suðurnesja hefur orð á sér fyrir að ganga vel um virkjunarsvæðin og gerir það vonandi einnig hér. Ég tel þó að okkur beri skylda til að varðveita ósnertar náttúruperlur fyrir komandi kynslóðir svo þær hafi eitthvað annað til útivistar en ruslahauga okkar kynslóðar. Svæðið við Sog er nánast óspillt af manna völdum og því er eftirsjá af því, jafnvel þótt hitaveitan gangi snyrtilega til verks. Ég harma því ef menn fara að fórna henni á altari erlendrar stóriðju.“

Þegar svæðið er skoðað með opnum augum og skynsamleg náttúrufegurð þess metin að verðleikum koma eðlilega upp vangaveltur og efasemdir um óþarflegt rask á svæðinu.

Grindavíkurær

Grindavíkurær ofan við Sogin.

Að sjálfsögu er skilningur meðal fólks um eðlilega nýtingu og mögulega áhrif hennar á umhverfið, en það verður að segjast eins og er að framkvæmdaraðilum, sem og þeim sem með leyfisveitingar hafa haft með að gera, hefur vart verið treystandi til að gæta að hag umhverfisins, þ.e. að tryggja lágmarksröskun miðað við þörf. Af þessu þarf nauðsynlega að hyggja, ekki síst í ljósi þess að hér er um ómetanlegar náttúruperlur að ræða, en ekki verða endurheimtar verði þeim spillt.

Sog

Í Sogum.

Í Trölladyngju eru hverir og ummyndun á skák sem nær austan frá Djúpavatni vestur á Oddafell. Hveravirknin fer minnkandi, en í Sogunum má enn sjá virka hveri. Sprengigígar og miklir gjallgígar eru í gossprungum þar sem þær liggja yfir ofannefnda skák. Ummyndun er mest í Sogunum þar sem stórt svæði er ummyndað af klessuleir. Vestan í hálsinum frá Sogunum suður á móts við Hverinn eina er móbergið einnig ummyndað en hvergi nærri eins og í Sogunum. Þar eru stórir sprengigígar frá ísöld og vatn í sumum. Djúpavatn er myndað á sama hátt. Kalkhrúður finnst á tveimur stöðum.

Eldborg

Eldborg undir Trölladyngju.

Hitarák með gufuhverum liggur frá Trölladyngju um Eldborg norður í Lambafell, bundin nánast við eina sprungu.
Í Trölladyngju eru tvær borholur, önnur við hverasprunguna norðan undir henni, hin á hverasvæðinu vestan undir hálsinum. Báðar sjá um 260 °C hita ofarlega, síðan hitalækkun, en dýpri holan endar í 320 °C hita á rúmlega tveggja km dýpi.
Í skýrslu Skipulagsstofnunar um háhitasvæðið við Trölladyngju frá því mars 2003 segir m.a. að rannsóknarborholur séu staðsettar innan friðlýsts svæðis, Reykjanesfólkvangi, auk þess sem Keilis- og Höskuldarvallasvæðið er á náttúruminjaskrá. „Um viðkvæm verndarsvæði er að ræða og hætta er á að hverskonar framkvæmdir og rask muni rýra verndargildi þess og skerða notagildi þess til útivistar og náttúruskoðunar“, segir jafnframt í skýrslunni.

Sogin

Hver í Sogunum.

Skipulagsstofnun bendir á að ýmsar athuganir, sem gerðar hafi verið, séu ófullnægjandi og auk þess hafi ekki verið tekið mið af ýmsum fyrirliggjandi upplýsingum. Fornleifafræðingur hafi ekki gaumgæft efra svæðið m.t.t. fornminja og gildi svæðisins hafi ekki verið metið með hliðsjón af útivist og náttúrufegurð. Vonandi er framangreint ekki dæmigert fyrir vinnubrögð Hitaveitu Suðurnesja, sem jafnan hefur tengt nafn sitt við slagorðið „Í sátt við umhverfið“. Sogasvæðið er með fallegri útivistarsvæðum landsins, eins og fyrr er lýst.

Sog

Sogadalur – Keilir framundan.

FERLIR hafði áður óskað eftir upplýsingum frá sveitarstjórn Voga um staðsetningu fyrirhugaðs vegstæðis, borstæðis og hvort svæðið hafi verið gaumgæft m.t.t. mögulegra minja, en fengið þögnina eina sem svar. Svo virðist sem hlutaðeigandi aðilar hvorki viti né vilji gefa upplýsingar um fyrirhugaðar framkvæmdir á þessu viðkvæma náttúruminja- og útivistarsvæði.
Hafa ber í huga að FERLIR er ekki að finna að fyrirhuguðum framkvæmdum – einungis að skoða og benda á mikilvægi þess að þær verði „í sátt við umhverfið“.

Sog

Ölkelda í Sogum.

Því hefur jafnan verið haldið fram að þeir, sem vilja vernda náttúruna og umhverfið hljótið að vera á móti virkjunum eða öðrum þörfum framkvæmdum. Þetta er mikill miskilningur. Einungis er verið að benda mikilvægi þess að umgangast landið af varfærni og raska ekki meiru en brýn þörf er á hverju sinni.
Benda má og á að Sogin eru nú innan lögsagnarumdæmis Grindavíkur svo erfitt er að sjá tengsl milli umsókna og nýlegra leyfisveitinga um borstæði þar af hálfu sveitarstjórnar Voga.
Frábært veður í frábæru umhverfi. Gangan tók 3 klst og 3 mín.
Sjá MYNDIR.

Heimild m.a.:
-http://www.os.is/jardhiti/krysuvik.htm

Sogin

Í Sogum.

Reykjanes

Jón Jónsson, jarðfræðingur okkar allra tíma, skrifaði í Náttúrufræðinginn 1974 um „Sundhnúkahraun við Grindavík„, hraunið norðaustan við Þorbjörn (Þorbjarnarfell):

Inngangur.

Grindavík

Grindavík – gjár, sprungur og misgengi.

Á Reykjanesskaga er mikill fjöldi eldstöðva og hrauna. Mörg þeirra hafa ekki nafn, svo vitað sé. Vafalaust hafa ýms örnefni fallið í gleymsku hin síðari ár og önnur brenglazt. Hraun eru allt umhverfis Grindavík, þorpið stendur á hrauni og á beinlínis hrauni tilveru sína að þakka, eins og hér mun verða sýnt fram á.

Sundhnúkahraun og Sundhnúkur.
Hluti af hrauninu ofan við Grindavík, milli Járngerðarstaðahverfis og Þorbjarnarfells, ber nafnið Klifhólahraun. Af þessu virðist mega ráða að til séu örnefnin Klifhólar og Klif, en hvar þau eru, hefur mér ekki tekizt að fá upplýsingar um. Hólar eru ekki á svæðinu, nema gíghólarnir suðvestur af Hagafelli, en samkvæmt korti herforingjaráðsins 1:50000 heitir sá hóll Melhóll. Þaðan er verulegur hluti hrauns þess, er Klifhólahraun er nefnt, án efa komið, því að hólarnir eru endinn á langri gígaröð. Sökum þeirrar óvissu, sem ríkir um þessi örnefni, hef ég leyft mér að nota hér nýtt nafn um hraunin og eldvörpin, sem þau eru komin frá. Það skal þó tekið fram, að þetta nafn er eingöngu hugsað sem jarðfræðilegt hugtak og breytir að sjálfsögðu ekki örnefnum, sem fyrir eru á svæðinu. Ennfremur gildir þetta aðeins fyrir eldvörp þau og hraun, sem til urðu í því gosi, sem síðast varð á þessu svæði.

Gígaröðin.
Gígaröð sú, sem Sundhnúkahraun er komið úr, byrjar suðvestan undir Hagafelli. Þar eru nokkrir gígir í röð, og er, eða öllu heldur var, einn þeirra mestur, því að nú hefur hann verið um langan tíma notaður sem náma fyrir rauðamöl, og er því farinn að láta á sjá. Þaðan liggur svo röð af smágígum upp suðvesturhlíðina á Hagafelli og eru þar snotrar hrauntraðir (1. mynd), sem sýna, að þarna hefur verið hraunfoss. Ur ofangreindum gígum er meginhluti þess hrauns kominn, sem á kortinu ber nafnið Klifhólahraun. Gígaröðin er svo lítt áberandi á kafla norðan undir Gálgaklettum, en þeir eru misgengi, sem stefnir eins og gígaröðin frá suðvestri til norðausturs. Hún er þar á kafla tvískipt og stefna hennar lítið eitt óregluleg, gígirnir smáir og hraunhellan, sem myndazt hefur kringum þá á sléttunni norðan við Gálgakletta, vafalaust þunn.

Hagafell

Gígur og hrauntröð sunnan Hagafells.

Frá þessum gígum hefur hraun runnið í þrjár áttir, til austurs norðan við Gálgakletta, til suðvesturs eins og áður er nefnt og loks til norðvesturs og norðurs. Örmjór hraunfoss hefur fallið niður á Selháls, þar sem vegurinn liggur nú, en numið þar staðar. Hefur hraunið runnið þar út á jarðhitasvæði, sem virkt hefur verið, þegar hraunið rann og væntanlega nokkru eftir það. Verður vikið að því síðar. Allbreiður hraunfoss hefur svo fallið norður af fellinu og runnið út á forna gjallgígi, sem þar eru fyrir. Er vegurinn skorinn gegnum nyrzta hluta þessarar hrauntungu. Verður nánar greint frá þessu svæði síðar.

Sundhnúkur

Sundhnúkur, á miðri mynd, ofan Grindavíkur.

Nokkurn spöl norðaustur af Hagafelli verður gígaröðin öllu fyrirferðarmeiri. Rísa þar háir gígir og nefnist Sundhnúkur sá þeirra, er hæst ber. Frá þessari gígaþyrpingu hefur meginhraunfióð það, er til suðurs rann, komið. Það hefur fallið eftir dalnum, sem verður milli Vatnsheiðar, sem er dyngja, og Hagafells. Það hefur fyllt dalinn hlíða milli og fallið beint í sjó fram og myndar þar um 2 km langan og rúmlega 1 km breiðan tanga, Þórkötlustaðanes, en vestan undir honum er vík sú, er Grindavík heitir og hefur frá fyrstu tíð verið ein mesta verstöð þessa lands.
Tilveru sína á víkin hrauninu að þakka, því að án þess væru þar engin hafnarskilyrði. Svo vikið sé að nafninu Sundhnúkur, hefur Ísleifur Jónsson, verkfræðingur, bent mér á, að nafnið muni vera komið af því, að hnúkurinn hafi verið notaður sem leiðarmerki fyrir siglingu inn sundið inn á höfnina í Grindavík. Nokkru norðan við Sundhnúk verður skarð í gígaröðina á ný, en norðar tekur hún sig upp aftur og heldur eftir það beinu striki að heita má austur að Stóra Skógfelli. Þessi kafli gígaraðarinnar er annar sá mesti hvað hraunrennsli snertir. Er ljóst, að hraunrennsli hefur að mestu verið bundið við ákveðna kafla gígaraðarinnar, og hefur hún því naumast verið virk öll nema rétt í byrjun gossins og sennilega um mjög stuttan tíma. Virðist þetta eiga almennt við um sprungugos (Jónsson 1970).

Sundhnúkur

Hraunssvæðið norðan Grindavíkur.

Frá þessum kafla gígaraðarinnar — kannski væri réttara að kalla það gígaraðir — hafa hraunstraumar fallið til norðurs og austurs, auk þess sem þaðan hafa hraun runnið niður í áðurnefndan dal milli Hagafells og Vatnsheiðar saman við hraunin úr Sundhnúkagígunum. Mikill hraunstraumur hefur fallið til norðurs frá þessum gígum, runnið vestur með Svartsengisfelli að norðan, og þekur allstórt svæði vestur af því, langleiðina norður að Eldvörpum. Þar hverfur það undir Illahraun, sem því er yngra.
Hraunin úr Eldvörpum, Illahraun og hraun úr stórum nafnlausum (P) gíg suðvestur af Þórðarfelli eru samtímamyndun, en ekki verða hér raktar sannanir fyrir því. Þessi hraunstraumur hefur fyllt skarðið milli Svartsengisfells og Stóra Skógfells. Virðist hraunið þar mjög þykkt, enda er sýnilegt, að hver straumurinn hefur þar hlaðizt ofan á annan. Geta má þess, að þrjár gossprungur eru í Stóra Skógfelli og stefna allar eins. Sjálft fellið er úr bólstrabergi.

Bláa lónið

Grindavík ofanverð – kort.

Til suðurs og suðausturs hefur hraunið náð lengst í mjóum tanga, sem liggur meðfram Vatnsheiðardyngjunni að austan. Mikill hraunfláki er milli ofangreindrar gígaraðar, Vatnsheiðar og Fagradalsfjalls. Ganga þau hraun undir nafninu Dalahraun (Bárðarson 1929), en aðeins lítill hluti þeirra er kominn úr því gosi, sem hér um ræðir. Það er hins vegar ljóst, að áður hefur gosið á sprungu, sem er lítið eitt til hliðar við Sundhnúkasprunguna.

Sumt af þessum hraunum á rætur að rekja til hennar, nokkuð til Vatnsheiðardyngjunnar og enn nokkur hluti til fornra eldstöðva norðaustan undir Hrafnshlíð. Loks má vel vera, að fleiri eldstöðvar séu faldar undir þessum hraunum. Það er greinilegt, að þarna hafa mörg gos átt sér stað frá því að ísöld lauk.
Yngsta hraunið á þessu svæði er það, sem komið er úr Sundhnúkagígnum, en það þekur ekki stórt svæði þarna austan til og hefur víðast hvar ekki runnið langt til suðurs frá eldvörpunum. Það er því mun minna, en virðast kann við fyrstu sýn.
Við suðurhornið á Stóra Skógfelli er gígaröðin lítið eitt hliðruð til suðausturs og stefnan breytist um hér um bil 7° til suðurs. Hraunið hefur runnið báðum megin við Stóra Skógfell, en nær þó ekki saman norðan þess. Milli Stóra Skógfells og Litla Skógfells eru mörk hraunsins sums staðar óljós, enda koma þar fyrir eldri hraun og eldstöðvar auk þeirra, sem eru í Stóra Skógfelli sjálfu og áður er getið. Suðurbrún hraunsins er víða óljós, enda svo skammt frá eldvörpunum, að hraunið hefur verið mjög heitt og því náð að renna í mjög þunnum straumum. Nú er það gróið mosa og mörk þess víða hulin. Að þessu leyti verður kort af hraunröndinni ekki hárnákvæmt.

Kálffell

Kálffell.

Fremur lítið hraun hefur runnið um gígaröðina eftir að kemur austur fyrir Stóra Skógfell. Gígirnir eru litlir, mest í þráðbeinni röð, sem heita má að sé óslitin úr því. Smáhraunspýja hefur runnið norður eftir vestanhallt við Litla Skógfell, en ekki náð alla leið norður á móts við það. Gígaröðin endar svo í smágígum, sem liggja upp í brekkurnar, suðaustur af Litla Skógfelli, en þær brekkur eru raunar hluti af dyngjunni miklu, sem er við norðausturhornið á Fagradalsfjalli. í heild er gígaröðin um 8,5 km á lengd. Nokkru norðan við austurenda gíganna er Kálffell. Það eru gígahrúgöld, ekki sérlega stór, og hefur hraun frá þeim runnið norðvestur og norður. Þessi eldvörp eru eldri en Sundhnúkahraun. Guðmundur G. Bárðarson (1929) er fyrstur til að nefna þessa eldstöð.

Útlit hraunsins og innri gerð.
Hraunið er venjulegt feldspat-pyroxen basalthraun. Í því er mjög lítið um ólívín en allmikið um tiltölulega stóra feldspatkristalla (xenokrist.).
Samsetning hraunsins er þessi:
-Plagioklas 43,59%
-Pyroxen 44,98%
-Olívín 0,68%
-Málmur 10,75%
-Plagioklas-dílar eru innan við 1% og sömuleiðis pyroxen-dílar.

Þeir síðarnefndu eru oft með svonefndri „stundaglaslögun“, en það einkennir titanágit. Hnyðlingar koma fyrir í þessu hrauni, og hafa fundizt í vestasta gígnum sjálfum. Ekki hefur tekizt að ná sýni af þeim, en ljóst er, að þeir eru af svipaðri gerð og þeir, er finnast víða annars staðar á Reykjanesskaga. Hér virðast þeir vera úr olívíngabbrói. Aðeins einstaka olívín-dílar koma fyrir í hrauninu og þá allstórir.

Eldri gígaröð.
Engum efa er það bundið, að áður hefur gosið svo til á sömu sprungu. Gígir eru suðvestan í Hagafelli aðeins austan við Sundhnúkagígina, og stefnir sú gígaröð alveg eins og þeir. Suðaustur af Stóra Skógfelli sér á stóran gjallgíg, sem opinn hefur verið til suðausturs. Hann er lítið eitt austan við Sundhnúkagígina og einmitt þar, sem sú gígaröð hreytir nokkuð um stefnu. Um 1,5 km austar er svo annar stór ösku- og gjallgígur og er gígaröðin fast við hann að norðan. Gígur þessi er líka eldri. Báðir eru þeir að nokkru leyti færðir í kaf í yngri hraun. Hraunflákinn vestur af Fagradalsfjalli virðist að mestu leyti vera kominn úr þessari eldri gígaröð, en þó eru þar fleiri eldstöðvar. Hraunin á þessu svæði ganga undir nafninu Dalahraun. Hraun frá Vatnsheiðardyngjunni hafa og náð alllangt þarna austur, því að þau koma fram í bollum í yngri hraununum, þar sem þau hafa ekki náð að renna yfir.

Vatnsheiði

Í Vatnsheiði – gígur.

Eftir þessu að dæma eru bæði gosin á Sundhnúkasprungunum yngri en dyngjugosin, sem skópu Vatnsheiði og Fagradalsdyngju. Loks endar þessi eldri gígaröð í litlum gjall- og klepragígum utan í vesturhlíð Fagradalsdyngju nokkur hundruð metrum sunnar en austustu gígirnir í Sundhnúkaröndinni, sem áður er getið.

Hvenær rann hraunið?

Grindavíkurvegur

Gígar sunnan Moshóls sunnan Hagafells.

Þess er getið hér að framan, að hraunfoss frá gígnum vestan við Gálgakletta hafi fallið vestur, eða réttara norðvestur af Hagafelli. Blasir þessi hraunfoss við, þegar komið er suður yfir hraunið við vesturhornið á Svartsengisfelli. Þessi hraunspýja hefur runnið út á forna gjallhóla vestan undir fellinu. Þar er það mjög þunnt, og hefur það verið skorið sundur við rauðmalarnám og vegagerð. Kemur þá í ljós, að hólar þessir hafa verið grónir, þegar hraunið rann. Leifar þess gróðurs má nú finna sem viðarkol undir hrauninu. Mest eru það smágreinar og stofnar, líklega af víði, lyngi og ef til vill fjalldrapa og birki. Jarðvegslagið hefur verið örþunnt, líkt og það er víða á gjallhólum ennþá. Viðarbútarnir eru sjaldan meira en 2—3 mm í þvermál. Þessar jurtaleifar hafa nú verið aldursákvarðaðar með C14-aðferð. Hefur dr. Ingrid U. Olsson á Rannsóknarstofnun Uppsalaháskóla gert það. Samkvæmt niðurstöðum af þeirri rannsókn eru jurtaleifarnar 2420 ± 100 C1 4 ára gamlar, talið frá árinu 1950, og hraunið hefur því runnið tæpum 500 árum fyrir upphaf okkar tímatals.

Bergsprungur.
Í hraunum kringum Grindavík er mikið um sprungur og gjár, en einkum eru þær áberandi í hinum eldri hraunum og í móbergsfjöllunum. Er Þorbjarnarfell ljósasta dæmið um það. í Sundhnúkahraununum ber lítið á sprungum yfirleitt og bendir það til, að fremur hægfara breytingar séu þar eða þá, og það virðist fullt eins líklegt, að þær séu bundnar ákveðnum tímabilum. Má telja sennilegt, að hreyfingar þessar eigi sér aðallega stað samfara jarðskjálftum. Má í því sambandi minna á jarðskjálftana á Reykjanesi 30. september 1967.

Sýlingafell

Sýlingafell – sýlingurinn (gígur/hvylft/laut).

Vestur af Svartsengisfelli má, ef vel er að gætt, sjá fyrir sprungum í þessu tiltölulega unga hrauni. Þær eru í beinu framhaldi af sprungum, er ganga í gegnum Þorbjarnarfell. Rétt við eina þeirra er jarðhitastaður sá, sem jafnan er kenndur við Svartsengi.

Ummyndun og jarðhiti.

Þorbjörn

Þorbjörn og nágrenni

Eins og áður var getið um, er jarðhiti í hrauninu vestur af Svartsengisfelli. Þar hefur mælzt yfir 60° hiti. Engum efa er bundið, að allstór hver hlýtur að vera þarna undir hrauninu, því líklegt má telja, að vart séu minna en 20—30 m niður á grunnvatnsborð á þessum stað.

Grindavík

Þorbjarnarfell og Baðsvellir. Selháls lengst t.v.

Við hagstæð veðurskilyrði, logn og nálægt 0° C má sjá gufur leggja upp úr hraununum víðs vegar á þessu svæði. Eru þær í áberandi beinum línum, sem sýnir, að þær eru bundnar við sprungur í berggrunni þeim, sem Sundhnúkahraun og önnur hraun hafa runnið yfir.

Rétt austan við veginn norðan í Selhálsi hefur hraunið runnið út á svæði, sem er mjög ummyndað af jarðhita. Það er athyglisvert, að hraunið sjálft er þarna líka nokkuð ummyndað, en það sýnir, að þarna hefur verið virkur jarðhiti, eftir að hraunið rann, þ. e. fyrir eitthvað skemur en um það bil 2400 árum.

Svartsengi

Orkustöðin við Svartsengi.

Ummyndun eftir jarðhita er þarna víða í kring, bæði í Þorbjarnarfelli og Svartsengisfelli. Sömuleiðis er mikil jarðhitaummyndun í austustu gígunum í Eldvörpum við hina fornu slóð milli Njarðvíkur og Grindavíkur. Boranir þær, sem gerðar voru á þessum stað 1971, hafa staðfest, að þarna er um háhitasvæði að ræða.

Illahraun

Gígur í Illahrauni, vestan Bláa lónsins – Rauðhóll.

Ef marka má af ummyndun, og eins því á hve stóru svæði vart verður við gufur í hraununum við hagstæð skilyrði, þá er svæðið ekki lítið. Eftir er nú að kanna takmörk þess.

Sjá fleiri upplýsingar á http://eldgos.is/reykjanesskagi/

Einnig HÉR og HÉR.

Sjá MYNDIR.

Heimild:
-Náttúrufræðingurinn-3.-4. tölublað (01.02.1974), bls. 145-153.

Tilvísanir:
-Jón Jónsson, 1978b. Jarðfræðikort af Reykjanesskaga (1:25 000). OS-JHD-7831. Orkustofnun, Reykjavík.
-Kristján Sæmundsson, 1995b. Jarðfræðikort af Svartsengi, Eldvörpum og Reykjanesi, 1:25.000. Blað 1. Orkustofnun, Hitaveita Suðurnesja og Landmælingar Íslands, Reykjavík.
-Kristján Sæmundsson, 1995b. Jarðfræðikort af Svartsengi, Eldvörpum og Reykjanesi, 1:25.000. Blað 1. Orkustofnun, Hitaveita Suðurnesja og Landmælingar Íslands, Reykjavík.
-Kristján Sæmundsson, 2002. Jarðfræði Þingvallavatns og vatnasviðs þess. Þingvallavatn. Undraheimur í mótun. Mál og menning, Reykjavík, 40-63.
-Sinton og fleiri, 2005. Postglacial eruptive history of the Western Volcanic Zone, Iceland. Geochemistry, Geophysics, Geosystems, 6, Q12009; doi: 10.1029/2005GC001021.
-Jón Jónsson, 1986b. Hraunið við Lambagjá. Náttúrufræðingurinn, 56, 209-212.
-Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson, 1988a. Aldur Illahrauns við Svartsengi. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 7.
-Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson, 1988b. Krísuvíkureldar I. Aldur Ögmundarhrauns og miðaldalagsins. Jökull, 38, 71-87.
-Jón Jónsson, 1973. Sundhnúkahraun við Grindavík. Náttúrufræðingurinn, 43, 145-153.
-Jón Jónsson, 1978b. Jarðfræðikort af Reykjanesskaga (1:25 000). OS-JHD-7831. Orkustofnun, Reykjavík.
-Kristján Sæmundsson, 1995b. Jarðfræðikort af Svartsengi, Eldvörpum og Reykjanesi, 1:25.000. Blað 1. Orkustofnun, Hitaveita Suðurnesja og Landmælingar Íslands, Reykjavík.
-Kristján Sæmundsson, 1997. Jarðfræðikort af Svartsengi, Eldvörpum og Reykjanesi, 1:25.000. Blað 2. Orkustofnun, Hitaveita Suðurnesja og Landmælingar Íslands, Reykjavík.
-Jón Jónsson, 1983a. Eldgos á sögulegum tíma á Reykjanesskaga.Náttúrufræðingurinn, 52, 127-139.
-Jón Jónsson, 1978b. Jarðfræðikort af Reykjanesskaga (1:25 000). OS-JHD-7831. Orkustofnun, Reykjavík.
-Sigmundur Einarsson, munnlegar upplýsingar.
-Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson, 1988a. Aldur Illahrauns við Svartsengi. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 7.
-Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson, 1988b. Krísuvíkureldar I. Aldur Ögmundarhrauns og miðaldalagsins. Jökull, 38, 71-87.
-Sigmundur Einarsson og Haukur Jóhannesson, 1989. Aldur Arnarseturshrauns á Reykjanesskaga. Fjölrit Nátturufræðistofnunar, 8. Náttúrufræðistofnun Íslands, Reykjavík.

Grindavík

Grindavík – séð frá Þjófagjá.

Selsvellir

Þrír lækir, Selsvallalækir, renna um Selsvelli en hverfa svo niður í hraunjaðarinn sem afmarkar vellina til vesturs. Sá nyrsti kemur úr gili fast sunnan Kúalága, en sá syðsti rennur fram sunnan og nokkuð nálægt Selsvallaselja. Bæði örnefnið og lækirnir benda til þess að kýr hafi verið hafðar í seli á Selsvöllum.

Selsvellir

Selsvellir – uppdráttur ÓSÁ.

Af minjum á Selsvöllum að dæma er ljóst að þar hefur verið haft í seli um langan tíma. Líklegt má telja að þar á austanverðum völlunum hafi fyrrum verið nokkrar selstöður frá Grindavíkurbæjunum þar sem bæði fé og kýr hafa verið hafðar í seli. Ef glögglega er skoðað má sjá a.m.k. minjar tveggja fjósa. Svo virðist sem selastaðan hafi lagst af um tíma, hugsanlega flust á Baðsvelli norðan Þorbjarnarfells líkt og heimildir herma. Frásögn er um ofbeit á Baðsvöllum svo aflögð selstaða Grindvíkinga hefur verið flutt á nýjan leik inn á Selsvelli, en bara á annan stað. Á meðfylgjandi uppdrætti má sjá afstöðu gömlu og nýju selstöðvanna á Selsvöllum.
Fróðlegt er að skoða aldurssamsetningu selsminjanna á Selsvöllum. Sjá má t.d. minjar fjósa á báðum svæðunum og einnig er áhugavert að skoða hvernig Grindvíkingar hafa veitt einum Selsvallalæknum að nýju selstöðunni – gagngert vegna kúaseljabúskapsins.
Nýrri selstóttirnar kúra í vesturhorni vallanna fast við hraunkantinn og þar eru a.m.k. þrjár kofaþyrpingar og tveir nokkuð stórir stekkir nálægt þeim. Úti í hrauninu, fast við tóttirnar, er einn kofi og lítið gerði á grasbletti.

Selsvellir

Selsvellir – Uppdráttur ÓSÁ.

Skúti er undir kletti á bak við miðtóttirnar. Í bréfi frá séra Geir Backmann Staðarpresti til biskups árið 1844, kemur fram að sumarið áður hafi sjö búendur úr Grindavíkurhreppi í seli á völlunum og að þar hafi þá verið um 500 fjár og 30 nautgripir. Út frá selsstæðinu liggur selsstígurinn til Grindavíkur í átt að Hraunsels-Vatnsfelli. Annar selsstígur liggur norður af völlunum, framhjá Hvernum eina. Er það hluti Þórustaðastígs.
Upp undir fjallshlíðinni, utan í Selsvallafjalli, að sunnanverðu við vellina, norðan við syðsta lækinn, eru eldri selstóttir, bæði ofan og neðan slóðans, sem liggur eftir endilöngum völlunum. Enn neðar á völlunum má sjá móta fyrir kví og stekk.
Deilur hafa löngum staðið með Grindvíkingum og Vatnsleysustrandarhreppsbúum um það hvorum megin landamerkja Selsvellir liggja.

Fyrrum höfðu þeir í seli á Baðsvöllum norðan Þorbjarnarfells og við Selsháls, en á báðum stöðum má enn sjá tóttir seljanna. Eftir ofbeit þar voru selin færð upp á Selsvelli.

Selsvellir

Selsvellir.

Moshóll er stór, reglulegur og skeifumyndaður gígur við norðurenda Selsvalla. Mosakápan á austurhlíð Moshóls er mjög illa farin eftir hjólför ökumanna sem hafa fundið hjá sér þörf að aka sem lengst upp í hlíðar hans. Jón Jónsson, jarðfræðingur, segir að gosið úr Moshól hafi líklega verið það síðasta í hrinunni sem myndaði Afstapahraun.
Selsvallafjall er 338 m hátt. Fjallið greinist frá Grænavatnseggjum af smá dalverpi eða gili en um það liggur Þórustaðastígurinn skáhalt upp fjallið. Vellirnir eru um 2 km að lengd en aðeins rúmlega 0.2 km ábreidd.
Selsvellir-224Á Selsvöllum var selsstaða frá bæjum Grindavíkur og í sóknarlýsingu þaðan frá árinu 1840 er sagt að allir bæir í sókninni nema Hraun hafi haft þar í seli. Hraun hafði í seli í Hraunssseli, sem er nokku sunnar með vestanverðum Núpshlíðahálsi, en það sel lagðist síðast af á Reykjanesi (1914).
Sagnir eru til um útilegumannahelli nálægt Hvernum eina, norðan selsvalla. Ólafur Briem segir í bókinni Útilegumenn á Reykjanesfjallgarði frá þremur þjófum, sem getið er um í Vallnaannál 1703: …”á Vatnsleysuströnd. Þar stálu þeir síðast í Flekkuvík og fóru svo til fjalls upp og allt suður um Selsvöllu, þar tóku þeir sér hæli undir skúta nokkrum…. Leist þeim eigi að vera þar lengur og fóru norður með fjallinu í helli þann, er skammt er frá hverinum Eini. Voru þar síðan þrjár vikur og tóku þrjá sauði þar í hálsinum, rændu ferðamenn….” Leit hefur verið gerð að hellinum, en hella er sögð hafa verið lögð yfir op hans til að varna því að sauðfé félli þar niður um.
Frábært veður. Gangan tók 5 klst og 5 mín.
Sjá MYNDIR.

Selsvellir

Selsvellir – uppdráttur.