Tag Archive for: Grindavík

Krýsuvíkurbjarg

„Hvernig þætti þér að taka heilt fuglabjarg á leigu? Ekki svo galið kannski, ef þú hefðir eitthvað við það að gera.. . og værir hvergi banginn við að síga í bjargið.
Þetta gera þeir björgunarsveitarmenn í björgunarsveit Fiskakletts í Hafnarfirði. Þeir félagar hafa síðustu fimm ár verið með Krýsuvíkurbjarg á leigu. Þangað fara þeir á hverju vori til eggjatöku, selja síðan eggin og ágóðinn rennur til endurnýjunar og viðhalds tækja björgunarsveitarinnar.
Fyrir skemmstu fóru björgunarsveitarmenn í leiðangur út í Krýsuvíkurbjarg. Við slógumst í för með þeim og fylgdumst með í ærandi fuglagargi.. .

Sigið í bjargið.

Þrjú til fjögur þúsund egg eftir vorið

Í björgunarsveit Fiskakletts eru 25 menn. Eggjatakan í Krýsuvíkurbjargi er orðin árviss viðburður, svo árviss að sumum finnst vorið og sumarið ekki komið fyrr en búið er að síga í bjargið.
„Við förum alltaf annað slagið hingað út þegar fer að vora, svona til að fylgjast með að
allt sé í lagi,“ segir einn björgunar- sveitarmanna, Einar Ólafsson. ,,En aðaleggjatakan fer fram um mánaðamótin maí-júní. Venjulega höfum við þetta þrjú til fjögur þúsund egg upp úr krafsinu og þau seljum við í verslanir í Hafnarfirði. En eggjatakan er ein fjáröflunarleiða björgunarsveitarinnar.“
— Þið leigið bjargið segirðu, hver á það?
„Það er í eigu Hafnarfjarðarbæjar. Við hirðum líka reka undir bjarginu en það fylgir þeim hlunnindum sem bærinn á. Þar er þó ekkert timbur, aðeins einstaka netabelgir.“
Þótt björgunarsveitarmenn séu 25 síga þeir ekki allir í bjargið. Það sér þriggja til fjögurra manna hópur einkum um. Hver þeirra á „sinn sigstað“, ef svo má að orði komast. Það er að segja, hann sígur nánast alltaf á sömu stöðum í bjargið. Þannig þekkir hann bjargið og um leið eykst öryggið. Það eru bílar björgunarsveitarinnar sem draga sigmennina og þeir eru í talstöðvarsambandi við viðkomandi bíl og gefa þannig fyrirskipanir um hvort eigi að slaka á eða draga.

Lipurð og hugrekki er það sem þarf

Krýsuvíkurbjarg

Krýsuvíkurbjarg.

— En er þetta ekki stórhættulegt þrátt f yrir allt öryggið?
„Ja, er ekki allt hættulegt? Ef varlega er farið gengur þetta slysalaust og það hefur það gert hjá okkur fram að þessu. Allur öryggisbúnaður hjá okkur er í mjög góöu lagi, svo í raun er ekkert að óttast. Það sem þarf hjá sigmönnunum er lipurð og hugrekki og það hafa þeir. Við höfum á að skipa mjög reyndum sigmanni, Bjarna Björnssyni, sem er ótrúlega fljótur og snar í snúningum þegar í bjargið er komið. Hann hefur sigið víða, meðal annars í Látrabjargi, svo hann er öllum hnútum kunnugur. Hann hefur líka verið að segja yngri mönnunum til og þeir eru smám saman að taka við af honum. Einn þeirra er sonur hans, allt efnilegir sigmenn. Það er viss sjarmi yfir þessu bjargsigi á vorin. Þetta er eiginlega fyrsta útiveran á árinu. Við liggjum gjarnan í tjöldum og erum þarna í nokkra daga. Og við borðum auðvitað egg, ýmist soðin eða étum þau hrá.“
Krýsuvíkurbjarg er nokkuð gróið, það gerir fugladritið. Þar verpir svartfugl, fýll og rita. Uppi á bjarginu er virkur gasviti enda eru fengsæl fiskimið fyrir utan og mikið af bátum.

Eggjaþjófar
„Við verðum töluvert fyrir ágangi þarna,“ segir Einar. „Ku það einkum menn sem vilja síga í bjargið og gera þeir það i óleyfi og í okkar óþökk. Það hefur gengið svo langt, að við höfum þurft að kæra menn fyrir vikið. Það hefur meira að segja verið reynt að komast sjóleiðina í bjargið enda til töluverðs að vinna því eggin eru eftirsótt vara.“
— Takið þið hvaða egg sem er?
„Nei.við tökum svartfuglsegg eingöngu. Við hirðum hvorki fýls- né rituegg. Þau síðarnefndu eru til dæmis svo viðkvæm að það væri varla hægt að koma þeim upp. Þau þola ekkert hnjask.“
— Þú talar um eftirsótta vöru. Hvað fáið þið fyrir eggið?
„Í vor seldum við stykkið á 14 krónur í verslanir. Þetta er því töluverð fjáröflunarleið hjá okkur þó ekki sé hún stærst. Það er kannski ekki aðalatriðið heldur hitt hversu gaman við höfum af þessum vorferðum í Krýsuvikurbjarg,“ sagði Einar Ólafsson. -KÞ.

Heimild:
-DV – laugardagur 18. júní 1983, bls. 12-13.

Krýsuvíkurbjarg

Krýsuvíkurberg.

Þótt maðurinn geti farið ferða sinna fótgangandi um vegleysur hafa götur og vegir jafnan leitt hann á milli áfangastaða.

Fornugata

Fornugata.

Fótspor hans og hófar hestsins skrifuðu rúnir sínar í grjót og svörð öldum saman áður en fyrstu lög þjóðveldisins voru af mönnum skráð.  Hjólið kom síðar til Íslands en nokkurs annars Evrópulands. Það var bæði af því, hve hestarnir voru góðir og landið slæmt.  Vagnar héldu ekki innreið sína í íslenskar sveitir fyrr en um aldamótin 1900, og urðu þá fljótt ómissandi á hverjum bæ.  Um svipað leyti hófust einnig reglulegar ferðir póstvagna frá Reykjavík um Suðurland, en víðast annarsstaðar var ekki hægt að koma slíkum ferðum við vegna vegleysis. En með aukinni bílaeign á þriðja áratugnum hurfu svo hestvagnar nær alveg af sjónarsviðinu.

Grindavíkurvegir

Grindavíkurvegir – rit.

Grindavík, bær á sunnanverðum Reykjanesskaga, er dæmi um aðra sambærilega staði hér á landi. Suður af bænum er Atlantshafið, en ofan og allt um kring eru hraun. Allt frá því að fyrsti  norræni landnámsmaðurinn steig á land í Grindavík um 930 hafa vegir, stígar og götur smám saman verið mótuð í hraunin. Göturnar lágu fyrrum sem nú  að og frá öðrum nytjastöðum aðliggjandi byggðalaga, s.s. Krýsuvíkur í austri, Voga og  Hafnarfjarðar í norðri, Njarðvíkna í norðvestri og og Hafna í vestri.

Grindavíkurvegur

Unnið við Grindavíkurveginn 1916.

Í þessari samantekt verður leitað heimilda og skrifa um fornar götur almennt hér á landi, fjallað um vörður, forsögu vegaumbóta og þróun samgöngumála með áherslu á elstu Grindavíkurleiðarnar. Minjunum, þ.e. götunum sjálfum, verður sérstaklega lýst sem og  vörðum, skjólum o.fl., sem þeim tengjast. Göturnar voru hnitsettar og  þær skilgreindar. Umfjöllun er um hugsanlegan aldur þeirra að teknu tilliti til heillegleika, staðsetningar og lögunar sem og vísan til ákvæða gildandi tilskipana, reglna og laga á hverjum tíma. Þá verður getið sagna og minja , sem tengjast umferð um vegina og stöðum í nálægð þeirra.

Skógfellavegur

Skógfellavegur.

Af elstu Grindavíkurleiðunum má t.d. nefna Skógfellaveg, Sandakraveg (tvískiptan), Skipsstíg, Árnastíg, Ögmundarstíg  og Prestastíg, auk vega sem annað hvort lítt eða ekkert hefur verið getið, en tekist hefur að rekja, s.s. veg um Lágafell, veg í Ósabotna og gamalla gatna milli Staðarhverfis, Járngerðarstaðahverfis og Þórkötlustaðahverfis í Grindavík. Fjallað verður ítarlega um gerð fyrsta akvegarins frá Hafnarfirði (Reykjavík) til Suðurnesja; Suðurnesjaveginn, og loks um aðdraganda að fyrsta akveginum til hins sögulega fiskiþorps á suðurströnd Reykjanesskagans;  Grindavíkur, ekki síst  í tilefni af því að ein öld er frá því að byrjað var að vinna að undirbúningi  vegarins.

Sjálf framkvæmdin á vettvangi  fór fram á árunum 1914 til 1918. Umfjöllunin um þessa tilteknu vegagerð er bæði tilefni og megintilgangur verksins.

Gíghæð

Vegavinnubúðir á Gíghæð við gamla Grindavíkurveginn.

Enn í dag má sjá leifar búða vegavinnumannanna á a.m.k. 10-12 stöðum við veginn þrátt fyrir að umhverfi vegstæðisins hafi verulega verið raskað, einkum við gerð núverandi bílvegar, sem að meginhluta leiðarinnar var lagður ofan á gamla vagnveginn.
Loks verður fjallað um aðrar afleiddar vegabætur út frá Grindavík, s.s. að Reykjanesvita og til Krýsuvíkur svo og þróun hins fyrsta akvegar til nútíma með hliðsjón af breyttum kröfum frá einum tíma til annars.
Meðfylgjandi er og fornleifakönnun á  og við vegstæði fyrsta akvegarins þar sem tilgreindir eru a.m.k. 20 minjastaðir, kort, uppdrættir, ljósmyndir, loftmyndir og hnit af minjum á og við götuna sem og heildstætt vörðu- og minjakort yfir nágrenni Grindavíkur – http://www.vegagerdin.is/vefur2.nsf/Files/Grindavikurvegir_saga_og_minjar/$file/Grindav%C3%ADkurvegir%20saga%20og%20minjar.pdf

Grindavíkurvegur

Grindavíkurvegur fyrrum – uppdráttur ÓSÁ.

Krýsuvíkurbjarg

Myndina [s/h] hér að neðan tók sænskur ljósmyndari, þá konunglegur hirðljósmyndari. Hann sagði, að stórfenglegri sýn hefði aldrei borið fyrir auga myndavélar sinnar, og svo áfjáður var hann í myndir, að fylgdarmenn hans urðu að halda í fæturna á honum, svo að hann steypti sér ekki fram af bjargbrúninni í algleymi sínu við myndatökuna.

Krýsuvíkurberg 1972

Krýsuvíkurberg 1972.

„Krýsuvíkurberg er undraheimur — dásamlegur staður öllum, sem ekki eru sneyddir öllu náttúruskyni. Það er að vísu hvergi sérlega hátt, en það er fimmtán kílómetrar á lengd, og það er kvikt af fugli. Þar eru svartfuglar milljónum saman, og þar  má oft sjá súlur i hundraðatali, komnar úr mestu súlnabyggð heims. Eldey. Það er svipmikil sjón að sjá þær steypa sér úr háalofti þráðbeint i sjó niður af svo miklu afli, að strókarnir standa upp úr sjónum, þar sem þær hafna, eins og þar sé allt i einu kominn gosbrunnur við gosbrunn.

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg v.m. við fossinn í Eystri-Læk. Hægra meginn við hann er Krýsuvíkurbjarg.

Fuglar hafa að miklu leyti átt griðland í Krýsuvíkurbergi í meira en hálfa öld. Bjargið hefur ekki verið nytjað að neinu ráði síðan 1916. Þá bjó í Krýsuvík Jón Magnússon, faðir Sigurðar endurskoðanda og Magnúsar frönskukennara. Hann hafði árum saman sérstakan bjargmann, kynjaðan austan úr Mýrdal, og var hann reiddur fram á bergið á morgnana um bjargtímann, og var hann þar síðan einn á daginn við fuglaveiðar og eggjatekju. Hann handstyrkti sig á vað með þeim hætti, að hann hringaði endann um steina og bar á grjót, og siðan rakti hann sig á vaðnum niður í bjargið og hafði af honum stuðning á göngu sinni um syllurnar. Enn þann dag i dag má sjá uppi á bjargbrúninni steinahrúgur, sem þessi maður og aðrir á undan honum, notuðu i bjargferðum sínum.

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg.

Kvöld hvert var svo bjargmaðurinn sóttur og dagsaflinn reiddur heim, bæði fugl og egg. Þessar bjargafurðir voru síðan fluttar á klökkum inn i Hafnarfjörð og Reykjavik, þar sem verðið á bjargfuglseggjunum var fjórir aurar fyrir heimsstyrjöldina fyrri. Það var í samræmi við annað verðlag þá, en þótt tuttugu og fimm egg þyrfti í hverja krónu voru það ótrúlega miklar tekjur, sem bjargið gaf af sér — mörg þúsund krónur árlega, jafnvel allt að tíu þúsund krónur að meðaltali, að blaðinu hefur verið tjáð.
Fiskimið voru fast upp að berginu, og var oft fjöldi skipa skammt undan landi, einkum skútur á skútuöldinni, þeirra á meðal Færeyingar. Vestan við bergið eru Selatangar, þar sem fyrrum var útræði. Þar sjást enn leifar sjóbúðanna gömlu, þar sem vermennirnir höfðust við.

Bergsendi eystri

Krýsuvíkurberg. Horft til vesturs á Bergsendum eystri.

Frá fjárréttinni sunnan við Eldborg við Krýsuvíkurveg er í mesta lagi fjörutíu mínútna gangur fram á bjarg, og er þar haldið ofurlítið til austurs. Þar [á Bergsenda eystri] má komast niður að sjó, og opnast allt austurbergið sjónum manna.

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg – Eystri-Lækur fellur fram af berginu, nafnlaus. Ofar nefnist „bergið“ -bjarg, en – berg að neðan (á myndinni).

Flestum verður ógleymanlegt að koma á þennan stað um varptímann, í maí og júní. Innlendir menn og erlendir gleyma sér bókstaflega, þegar þeir sjá hið iðandi líf, sem þrífst þarna á klettasyllunum.
Þegar þessi stutti spölur hefur verið ruddur og gerður bílfær, til dæmis fyrir forgöngu Ferðafélags Íslands, munu menn undrast, hversu lengi sú framkvæmd hefur dregizt.
En eins þarf jafnframt að gæta. Bjargið verður að alfriða og hafa þar vörzlu um varptímann og fram eftir sumri, unz ungar eru komnir á sjóinn, svo að griðníðingar og skemmdarvargar fái sér ekki við komið í þessum véum bjargfuglsins.

Krýsuvíkurbjarg

Krýsuvíkurbjarg (-berg).

Það er svo mikilfengleg sjón og lífsunaður að kynnast þessum stað, að hann ætti að vera einn þeirra, er hvað mest laðaði að sér fólk hér í nágrenni Reykjavikur. En allir, sem þangað kæmu yrðu að sjálfsögðu að hlíta ströngum reglum, svo að mannaferðir styggðu ekki fuglinn eða trufluðu hann við búskapinn, grjótkast allt að vera stranglega bannað, sem og hróp og köll til þess að styggja hann, svo að ekki sé nefnt óhæfa eins og byssuskot.
Krýsuvíkurberg er ein af perlum landsins, og þá perlu ber okkur að vernda og varðveita af umhyggju og ástúð og varfærni. Ef það er gert, getum við átt hana og notið hennar um langa framtíð, okkur sjálfum og ófæddum kynslóðum til sálubótar i skarkala hversdagslífsins“. JH

Heimild:
-Tíminn, föstudagur 21. júli 1972, bls. 8.

Krýsuvíkurbjarg

Krýsuvíkurberg.

Tyrkjabyrgi

Árið 2013 var gerð viðarmikil fornleifaskráning í Eldvörpum ofan Grindavíkur, „Fornleifaskráning í Eldvörpum og milli Prestastígs og Skipsstígs„. Áður hafði svæðið verið fornleifaskráð af ónákvæmni.

Eldvörp

Eldvörp – fornleifaskráning.

Í inngangi skýrslunnar, sem gefin var út í framhaldinu, segir m.a.:
„Að beiðni Ásbjörns Blöndal, forstöðumanns þróunarsviðs HS Orku, tóku skýrsluhöfundar, Ómar Smári Ármannsson fornleifafræðingur og Ragnheiður Traustadóttir fornleifafræðingur, saman fornleifaskrá um Eldvörp annars vegar og svæðisins milli Prestastígs og Skipsstígs hins vegar.
Skráningin og samantektin fól m.a. í sér athugun á fyrri skráningum, heimildasöfnun, vettvangsskráningu og úrvinnslu, mat á minjum innan skipulagssvæðisins, s.s. hættumat, og skýrslu- og kortagerð.
Ómar Smári sá um vettvangsvinnu, enda hefur hann um árabil gengið svæðið í þeim tilgangi að leita að minjum og skrá þær. Ragnheiður sá um úrvinnslu gagna, Margrét Valmundsdóttir fornleifafræðingur vann kort, Lísabet Guðmundsdóttir sá um innslátt á hnitum og Anna Rut Guðmundsdóttir annaðist uppsetningu á skýrslunni.

Eldvörp

Eldvörp – minjar.

Á umræddu svæði er m.a. að finna fornar leiðir, byrgi (Tyrkjabyrgin), hlaðin skjól, vörður, refagildru, garðs auk minja úr seinni heimsstyrjöld. Herminjar eru ekki verndaðar í lögum eins og þjóðminjar/fornleifar en vegna þess hve einstakar þær eru þykir rétt að skrá þær svo að framkvæmdaraðilar geti tekið tillit til þeirra við skipulagningu og framkvæmdir.
Skráningargögnin eru vistuð í landfræðilegum gagnagrunni og er öllum gögnum skilað rafrænt.“

Gerðar hafa verið afmarkaðar skráningar af svæðinu í gegnum tíðina. Hins vegar er þar að finna minjar, sem aldrei hafa verið skráðar eða settar í samhengi.

Hér má sjá fornleifaskráninguna í heild – Fornleifaskráning í Eldvörpum.

Eldvörp

Óraskað og áður óskráð byrgi í Eldvörpum.

Gunnuhver

Þjóðsagan um Gunnu við Gunnuhver á Reykjanesi er eftirfarandi:
„Vilhjálmur Jónsson lögréttumaður bjó á Kirkjubóli á Rosmhvalanesi; hann dó 1706. Hann átti illt útistandandi við kerlingu eina sem hét Guðrún Önundardóttir, út af potti semhann átti að hafa tekið af henni, líklega upp í skuld. Kerling tók sér það svo nærri að hún heitaðist við Vilhjálm.
Þegar hún var grafin var Vilhjálmur þar við, en leið hans lá um Skagann sem kallaður er fyrir utan Útskála. Hann fór heimleiðis um kvöldið, en fannst daginn eftir dauður á Skaganum og var þá allur blár og beinbrotinn.

Gunnuhver.

Lík hans var flutt í bænhúsið á Kirkjubóli og Gísli prestur á Útskálum fenginn til að vaka yfir því á næturnar, því allir þóktust vita að Gunna hefði drepið hann og væri nú afturgengin. Þóktist prestur eiga fullt í fangi að verja líkið fyrir kerlingu að ei drægi hún það úr höndum sér.

Gunnuhver

Við Gunnuhver.

Afturgangan magnaðist síðan mjög og nú dó ekkja Vilhjálms snögglega; var Gunnu það kennt. Fólk sem fór um Skagann villtist sumt, en sumt varð vitstola. Var það allt af völdum Guðrúnar og sáu menn nú óvætt þenna fullum sjónum. Gjörði þá Gunna skaða mikinn svo ekki var viðvært mönnum né málleysingjum.

Þegar í slíkt óefni var komið og enginn gat stemmt stigu fyrir afturgöngunni, þá voru tveir menn nokkuð kunnandi sendir til fundar við séra Eirík í Vogsósum til að biðja hann hjálpar. En með því prestur var ekki alténd vanur að taka slíkum málum greiðlega, þá voru þeir látnir færa honum nokkuð af brennivíni, því allir vissu að honum þókti það gott.

Gunnuhver

Gunnuhver – hverasvæðið.

Sendimenn fóru nú á fund Eiríks prests og gjörðu allt eins ogfyrir þá var lagt. Tók hann þeim vel, en þegar þeir fóru ástað aftur fékk hann þeim hnoða og sagði að þeir skyldu láta Gunnu taka í lausa endann á hnoðanu. Sagði hann að hnoðað mundi þá sjálft velta þangað sem hún mætti vera að ósekju.

Sneru sendimenn heim við þetta og gjörðu allt sem prestur hafði fyrir þá lagt. En undir eins og Gunna hafði tekið í lausa endann á hnoðanu valt það á stað, en hún fór á eftir. Sást það seinast til að hvort tveggja, hnoðað og Gunna, steyptist ofan í hver þann suður á Reykjanesi sem síðan er kallaður Gunnuhver. Hefir síðan ekki orðið meint við afturgöngu Gunnu.

Gunnuhver

Gunnuhver.

Sumir segja að hnoðað færi ofan í hverinn, en Gunna héldi í endann; var endinn svo langur að Gunna gat staðið hálfbogin uppi á hverbarminum og trítlar hún þannig einatt til og frá kringum hverinn á blábrúninni hálfbogin, því hún vill fyrir hvern mun sízt fara ofan í vilpu þessa“.

Í kringum svæði Gunnuhvers er mikil litadýrð og óvæntir möguleikar er fæstir ættu að láta fram hjá sér fara, sbr. meðfylgjandi FERLIRsmyndband…

Heimild:
-Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar.

Hermann

Í Mbl. þann 5. nóvember árið 1991 mátti lesa eftirfarandi frétt undir fyrirsögninni „Kindakjöt tekið úr innsigluðum gámi í Grindavík„:

grindviskir fjarbaendur-991Kindaskrokkar sem voru innsiglaðir í frystigámi í Grindavík var stolið sl. laugardag. Skrokkarnir voru settir í frystigám eftir að slátrun var stöðvuð í iðnaðarhúsnæði í lok september.
Skrokkarnir hafa verið í frystigámi meðan beðið var úrlausnar hvað ætti að gera við þá. Heilbrigðisnefnd Suðurnesja var búin að kveða upp úr með að kjötið skyldi afhent eigendum en yfirdýralæknir kærði þann úrskurð til heilbrigðisráðuneytis sem leitaði eftir umsögn Hollustuverndar og síðan var að lokum kveðið upp úr með að kjötinu skyldi fargað. Staðið hefur á fullnustu úrskurðarins og kjötið verið í frystigámi síðan til að verja það skemmdum.
Lögreglunni í Grindavík barst síðan tilkynning á laugardagskvöld að kjötið væri farið úr gáminum og kom þá í ljós að búið var að rjúfa innsiglið og kjötið, 125 skrokkar, var allt á bak og burt. Að sögn lögreglunnar er málið í rannsókn og verst hún allra frétta af því. Ekki er vitað hver eða hverjir stóðu að verknaðinum. Það er litið mjög alvarlega á það að rjúfa innsigli og það í sjálfu sér varðar við hegningarlög.“

Kjöthvarið

Hermann: „Við bara bárum kjötið yfir í bílinn“. Sigurður Ágústsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn, hlustar.

Í kjölfarið hófst umfangsmikil aðgerð og síðan rannsókn lögreglunnar í Keflavík, yfirheyrslur og leitir undir háværri fjölmiðlaumfjöllun – án árangurs.

Nú, tæplega 20 árum síðar hefur einn þátttakandanna, Hermann Ólafsson, upplýst rannsóknarfólk FERLIRs um málsatvik – þ.e. hvað raunverulega gerðist, í grófum dráttum. Öðrum nöfnum er haldið leyndum enn um sinn.

Kjöthvarfið

Kjöthvarfið – myndin er úr eftirlitsmyndavél.

„Þetta er viðurkenning á gömlu „glæpamáli“, upplýsti Hermann.  „Magnús heilbrigði frá heilbrigðiseftirlitinu krafðist þess að lögreglan innsiglaði [slátur]húsið. Tveimur eða þremur dögum seinna kröfðumst við að fá að setja kjötið í frystigám til að koma í veg fyrir að það eyðilegðist. Menn voru ekki alveg klárir á hvort urða ætti kjötið á þeirri stundu. Skömmu seinna kom maður á bíl frá Sorpeyðingustöðinni með nýjan gám og sagðist eiga að sækja kjötið. Við höfðum samband við lögregluna, sem sagði við manninn að enn væri ekki búið að klára málið. Við það hvarf hann á braut.

Um kvöldið fórum við þangað niðureftir og tökum úr sambandi ljósið stóra á planinu, höfðum fengið lánaðan bílinn hjá J, Econolinerinn stóra, bökkuðum honum inn á gólf, söguðum innsiglið hvasst við gáminn, bárum allt kjötið yfir í bílinn og gerðum allt klárt; lokuðum gámnum, límdum lásinn með tonnataki og límdum innsiglið á aftur.

Kjöthvarfið

Hermann: „Þetta var svo spennandi“.

R var með okkur á staðnum, en við D fórum tveir á bílnum. Ferðinni var heitið út í Garð. Þar átti kjötið að fara í gám hjá H, sem átti von á okkur.
Ég gleymi aldrei þeirri stundu er ég opnaði hurðina á húsinu með fjarstýringunni, bíllinn var svo þungur. Hann rétt hafði þetta. Ég man þetta alltaf, eins og það hefði gerst í gær.

Kjöthvarfið

Hermann: „Lögreglan yfirheyrði okkur, án árangurs“.

Við keyrðum Reykjanesleiðina úteftir. Þegar við komum út í Víkur var spennan orðin svo mikil að ég sagði við D: „Finnst þér þetta ekki gaman?“. „Jú“, svaraði D og hló.
Svo fórum við út í Garð. H átti að vera úti í Sandgerði, á afleggjaranum þar, og taka á móti okkur, en hann miskildi þetta eitthvað. Hann var a.m.k. ekki þar. Við komum kjötinu fyrir í gámnum í garði og keyrðum hina leiðina til baka. Þá fundum við H sofandi í aftursætinu á bílnum sínum þar. Ég varð svo reiður að ég stökk út og sló í þak bílsins til að vekja hann. Honum dauðbrá.

Kjöthvarfið

Hermann: „Það var búið að undirbúa þetta.“

Búið var undirbúa þetta þannig að einn okkar færi til Hveragerðis og hringdi í lögregluna úr tíkallasíma klukkan átta kvöldið eftir og tilkynnti að verið væri að stela kjötinu úr gámnum. Síðan átti hann einfaldlega að leggja á.  Í millitíðinni átti annar maður að fara upp að húsinu, þar sem gámurinn var, í myrkrinu, klippa á innsiglið, opna gáminn upp á gátt og láta sig hverfa að því búnu.

lögregla

Lögreglumenn að störfum.

Innan skamms kom svo lögreglan á staðinn, og það með ekki litlum látum. Gámurinn stóð opinn og tímafrek rannsóknin hófst.
Margir voru yfirheyrðir vegna málsins. Og auðvitað var þeirra á meðal rokið beint til mín. Allt gerðist þetta mjög hratt. 
Í framhaldinu byrjaði yfirheyrslan. Ég settist niður og lögreglumaðurinn byrjaði að vélrita án þess að spyrja mig um nokkurn skapan hlut. Ég var búinn að undirbúa mig, en nú þyrmdi yfir mig, fór að ókyrrast – vissi ekki á hverju ég átti von. Þögnin og óvissan voru yfirþyrmandi. 

Kjöthvarfið

Hermann: „Lögreglan spurði mig hvort ég ætti þátt, en ég svaraði neitandi.“

„Þú hefur ekkert komið að þessu innbroti?“, spurði lögreglumaðurinn allt í einu.
„Nei, nei“, svaraði ég – og virtist hissa. Ég hlít að hafa verið bara nokkuð sannfærandi – og bætti við: „Þetta er svo sem búið og gert; við höfum slátrað heima hingað til eins og um alllanga tíð“. 

Lögregla

Sveinn Björnsson, Jóhannes og Eddi í rannsóknarlögreglu Hafnarfjarðar.

Þá segir hann: „Já, ég skil ekki þessi fíflalæti!“
Við þetta viðhorf létti mér óumræðanlega. Eftirleikurinn varð því tiltölulega auðveldur.
Svona var þetta. Fáir hafa hingað til vitað hvernig þetta gekk í raun og veru fyrir sig. Margar getgátur hafa hafa verið á lofti, en ónákvæmar. „Dularfulla kjöthvarfið“, átti sér stað, sem fyrr sagði, fyrirr- u.þ.b. 32 árum síðan.“

Til nánari upplýsinga um aðdraganda framangreinds mál er rétt að rifja upp tvær aðrar blaðafregnir. Sú fyrri birtist í DV þann 27. september 1991 undir fyrirsögninni „Heimaslátrun stöðvuð í Grindavík“:

Vildum spara okkur akstur til Selfoss – segir Hermann Ólafsson fjáreigandi „Við erum búnir að eiga kindur síðan við vorum smábörn og heimaslátrun hefur viðgengist síðan sögur hófust.

Kjöthvarfið

Hermann á tali við fyrrverandi aðstoðaryfirlögregluþjón í Grindavík.

Ef við hefðum slátrað heima í fjárhúsunum hefði enginn sagt neitt en svo eru þessi læti þegar við ætlum að fara rétt að hlutunum,“ sagði Hermann Ólafsson, einn fjáreigendanna í Grindavík sem slátraði fé sínu sjálfur í gær.

Þrettán „hobbíbændur“ tóku sig saman og slátruðu 120 kindum í nýuppgerðu iðnaðarhúsnæði í Grindavík í gær. Þegar upp komst lét heilbrigðisfulltrúi innsigla húsnæðið. „Það var mættur bíll frá sorpeyðingarstöðinni og það átti að henda öllu kjötinu en lögreglan stöðvaði það sem betur fer og lögreglustjóri tekur væntanlega ákvörðun um það í dag hvað gert verður við kjötið.“
Hhrutar-991ermann sagði þá ekki hafa verið að fela neitt og að það hefði alltaf verið meiningin að nota allt kjötið til einkaneyslu. Þeir hefðu bara viljað spara sér 200 kílómetra akstur til Selfoss.“

Í seinni fréttinni, sem birtist í Tímanum 2. nóv. 1991 undir fyrirsögninni „Hverjir mega, hverjir ekki? segir:
„Í haust voru „hobbýbændur“ í Grindavík stöðvaðir af heilbrigðisyfirvöldum við heimaslátrun í þéttbýli. Kjötið var gert upptækt, en endanleg niðurstaða málsins hefur ekki fengist ennþá. Hvort sem menn vilja tala um það í hálfum hljóðum eða upphátt, er það staðreynd að heimaslátrun er algeng, bæði til einkanota, gjafa og sölu. Þetta á við um flestar tegundir kjöts, en að öllum líkindum er mest um að stórgripum sé slátrað utan sláturhúsa. En hvaða lög og reglugerðir gilda um heimaslátrun?

Greindavíkurréttir

Hermann í Stakkavík og Birgir á Hópi í Grindavíkurréttum.

Í lögum no. 30 frá 1966 um meðferð, skoðun og mat sláturafurða segir að heimaslátrun sé bönnuð öðru vísi en til einkanota. Í heilbrigðisreglugerð no. 149 frá síðasta ári segir hins vegar að í kaupstöðum og kauptúnum sé óheimilt að slátra búfé utan sláturhúsa, enda þótt afurðir séu ætlaðar til heimilisnota eingöngu. öll heimaslátrun utan kaupstaða og kauptúna sé óheimil; ábúandi lögbýlis í strjálbýli megi þó slátra hæfilegum fjölda af eigin búfé heima á lögbýlinu, sé það eingöngu ætlað til heimilisnota á lögbýlinu. Með öllu sé óheimilt að selja slíkt kjöt eða á annan hátt dreifa því frá lögbýlinu, til dæmis til gjafa, vinnslu og frystingar.“

Þar höfum við það. Kannski var þetta bara aldrei neitt mál? Hverjir áttu kjötið? Hver var að stela frá hverjum? Kannski var bara engu stolið þegar upp var staðið!?…

Hermann upplýsti síðar í viðtali við einn FERLIRsfélagann: „Að fenginni reynslu skil ég ekki hvers vegna við gerðum ekki þá kröfu á hendur ríkinu að það bætti okkur skaðann. Kjötið var jú í vörslu þess þegar það hvarf!?…

Heimild:
-DV, 27. september 1991, bls. 40.
-DV 30. september 1991, bls. 48.
-Morgunblaðið 1. okt. 1991, bls. 7.
-Tíminn 2. nóv. 1991, bls. 1.
-Mbl. 5. nóv. 1991.
-Uppljóstrari FERLIRs, Hermann Ólafsson í Stakkavík.

Thorkotlustadahverfi-pan-991

 

Drumbdalaleið

 Gengið var frá Bala á Vigdísarvöllum inn á Drumbdalastíg (-veg/-leið) er liggur yfir sunnanverðan Sveifluháls og áleiðis að Krýsuvíkurbæjunum undir Bæjarfelli.
DrumbdalastígurTil baka var ætlunin að ganga að hinum fornu bæjartóftum Gestsstaða og um Hettustíg að Vigdísarvöllum, en vegna óvæntra uppgötvanna á leiðinni var ákveðið að breyta út af upphaflegri leiðardagskrá. Sú ákvörðun leiddi til enn óvæntari uppgötvana, sem lesa má um hér á eftir.

Drumbdalastígur, er liggur millum Stóra- og Litla-Drumbs, hefur einnig verið nefndur Sveifla sbr. kort, sem gefið var út af Bókmenntafélaginu 1831, og auk þess, skv. korti Ólafs Ólavíusar (1775), þar sem hálsinn er nefndur  Austari Móhálsar, er leiðin nefnd Móhálsastígur. Þarna var gamla kirkjugatan milli Vigdísarvalla og Krýsuvíkur. Í raun er um svolítinn misskilning að ræða er stafar að því að þeir, sem færðu upplýsingarnar á blað, höfðu ekki gengið leiðirnar sjálfir; Sveifla er sunnan undir Hettur og um hana liggur gömul þjóðleið upp frá Gestsstöðum í Krýsuvík. Við suðaustanverða Hettu eru gatnamót, annars vegar götu er liggur áfram til norðurs að Ketilsstíg og hins vegar götu er liggur til vesturs að Vigdísarvöllum, svonefndur Hettustígur.
Tóftir Vigdísarvalla - Mælifell fjærir Nú var ætlunin að sannreyna hinar ýmsu „tilgátur“ um fyrrnefndan Drumbdalastíg. Gömul kort, t.d. kortið frá 1831, sýnir stíginn liggja norðan Drumbs, en nýrri kort, s.s. frá Hafnarfjarðarbæ (gildandi aðalskipulag) og Reykjanesfólkvangi, sýna stíginn liggja sunnan við Drumb (sem reyndar er algerlega út úr kú). Líkleg ástæða er sú að Drumbur hefur verið (við skrifborðið) yfirfærður á litla bróður hans norðanverðan. Þetta átti eftir að skýrast betur á leiðinni framundan. Í fyrrnefnda tilvikinu höfðu heimamenn (presturinn) greinilega lagt út leiðina, en í því síðara hefur gatan verið dregin upp eftir kortagrunni við skrifborð á bæjarskrifstofunum (eða annars staðar).
Þegar lagt var af stað frá tóftum Bala var ákveðið að ganga yfir tóftum Vigdísarvalla og hefja gönguna þar. Þrjú nýbýli risu í Krýsuvíkurlandi á 19. öldinni, öll í fyrri seljalöndum. Árið 1830 reis nýbýli á Vigdísarvöllum, kennt við þá. Í Jarðartali J. Johnsen 1847 eru taldar sjö hjáleigur með Krýsuvík og eru Vigdísarvellir og Bali meðal þeirra. Hvorug þessara hjáleiga er nefnd í Jarðarbók Árna og Páls. Bali lá syðst [vestast] á Vigdísarvöllum.
DrumbdalastígurÍ nýrri jarðarbók fyrir Ísland frá 1848 er getið um átta hjáleiga með Krýsuvík og hafa Fitjar bæst við. Fitjar voru vestast á Selöldu. Enn má finna rústir þessara kotbæja, enda eru þeir merktir inn á kort. Fitjar og Bali virðast hafa lagst í eyði eftir skamma hríð, en Vigdísarvellir héldust í byggð fram yfir aldamót, þrátt fyrir endurtekna skaða vegna jarðskjálfta. Ólíklegt er að Krýsuvíkurbændur hafi leigt úr selstöður eftir að þessi býli byggðust.”
Í samantekt Orra Vésteinssonar um menningaminjar í Grindavík frá árinu 2001 segir að Vigdísarvellir hafi verið hjáleiga Krýsuvíkur en nýtt sem selsstaða frá Þórkötlustöðum. “Selstöðu brúkar jörðin [Þórkötlustaðir] og hefur lengi brúkað í Krýsuvíkurlandi, þar em heitir á Vigdísarvöllum, segja menn að selstaðan sjé ljéð frá Krýsuvík, en Krýsuvík aftur ljeð skipstaða fyrir Þórkötlustaðalandi. Vigdísarvellir eru nýbýli frá 1830, en var áður selstaða. Var í eyði um 1880, en byggðist á ný fram yfir aldamótin 1900 [Saga Grindavíkur]. Baðstofan hrundi í jarðskjálfta 28. eða 29. janúar 1905 og stórskemmdust þá öll hús á Vigdísarvöllum og á Litla-Nýjabæ.

Vigdísarvellir

Vigdísarvellir.

Tóftir Bala virðast nú mest áberandi þarna undir Bæjarfelli (Grindvíkingar nefna það Bæjarháls sbr. merkingar á kortum). Ástæðan er fyrst og fremst sú að við bæinn sunnanverðan var hlaðin fráfærurétt, sem notuð var talsvert eftir að hann fór í eyði.

Drykkjarsteinn efst í Drumbdal.

Gengið var til austurs yfir að tóftum Vigdísarvallabæjarins. Þegar tóftirnar eru skoðaðar má vel sjá hvernig bæjarskipanin hefur verið; Þrjár burstir hafa verið á bænum mót suðri, en sú austasta verið án dyra. Þar var baðstofa og innan af henni afrými bændahjónana. Vestar var eldhús, innst, og framrými innan við aðalinnganginn. Vestan hans var skemma og vestast gerði með fjósi nyrst, fast við bæinn. Hugsanlega hefur verið innangengt úr bænum í fjósið. Rýmið gæti hafa hýst 3-4 kýr. Austar er matjurtargarður, sem eflaust hefur verið brúkaður eftir að búskapur lagðist af á Vigdísarvöllum.

Bali

Bali.

Aftan við bæinn eru tóftir, líklega sauðakofi. Garður umlykur heimatúnið, frá austanverðri fjallhlíð Bæjarfells (mót suðri) til austanverðs Núphlíðarhálsar. Annars er áhugavert að skoða fyrrnefnt kort Björns Gunnlaugssonar (Bókmenntafélagsins) frá árinu 1831 því þar nefndir hann hálsinn Vestari Móháls og Seifluháls Austari Móháls, þ.e. norðurhluta hans.

Drumbur

Svo virðist sem garður hafi verið innan heimatúngarðsins, en ljóst er að þar hefur verið gamall lækjarfarvegur. Lækurinn sá gerir jafnan vart við sig eftir miklar rigningar. Þótt lítill virðist vera öllu jöfnu hefur honum tekist að skapa Vigdísarvellina alla um árþúsundir, þegjandi og hljóðarlaust. Lækurinn, ónafngreindur, hefur hlaupið þarna um víða völlu, allt eftir aðstæðum á hverjum tíma. Honum hefur tekist að sigrast á þeim öllum, enda er hann um þessar mundir að undirbyggja framburð sinn í Ögmundarhrauni, sunnan Ísólfskálavegar, og gengur bara býsna vel. Ef af líkum lætur mun honum takast, smám saman, þótt lítill sé, að bera undir sig leir og jarðveg úr vesturhlíðum Sveifluhálsar; fylla upp í hraun og sprungur, allt þangað til hann mun renna fram af og blandast samdropum sínum í Atlantshafinu neðan Miðreka. Annars er „lækurinn“ tveir slíkir. Annar rennur um Vigdísarvelli og hinn frá Hettuhlíðum um Bleikingsdal. Lækirnir sameinast síðan á Klettavöllum (Suðurvöllum), nokkru sunnar. Þaðan rennur hann óheftur að „endalokunum“ (sunnan Ísólfsskálavegar).
Vegna mísvísandi upplýsinga um ætlaða legu Drumbdalastígs var ákveðið að láta þær allar lönd og leið, en byrja þess í stað á að nýju á upphafsstað.
Gata liggur frá framangreindum bæjarstæðum til suðausturs, yfir þýflendi, upp hlíð og áfram inn gróðursælan dal. Efst og fremst á brúnum hans er gatan djúpt mörkuð í móbergshelluna.

Drumbdalastígur

Drumbdalastígur um Drumbdal. Vigdísarvellir framundan.

Dalurinn innan af, hömrum girtur að austanverðu, hefur ekkert nafn. Einn þátttakendanna kom með þá tilgátu að þarna gæti verið um hinn eiginlega „Litla-Hamradal“ að ræða. Hálfnafni hans, Stóri-Hamradalur, væri mun framar í austanverðum „Vestari Móhálsi“, en það dalverpi, sem nú nýtur nafngiftarinnar „Litli-Hamradalur“ gæti í raun ekki státað af neinum hömrum. Sá dalur hefði stundum gengið undir nafninu Görnin. Samkvæmt upplýsingum Lofts Jónssonar í Grindavík nær görnin frá Stóra-Hamradal og að brún framan í Núpshlíð. Bílvegurinn liggur um hluta Garnarinnar. Til hennar hefur jafnan verið vísað í landamerkjalýsingum Krýsuvíkur og Ísólfsskála. Segja verður eins og er að þessi fallegi dalur, Stóri-hamradalur, hömrum girtur að austanverðu, hefur án efa verðskuldað nafngift fyrrum, enda lá kirkjugatan milli Vigdísarvalla og Krýsuvíkur um hann í u.þ.b. hálfa öld.

Drumbdalastígur

Drumbdalastígur.

Sunnan við „Litla-Hamradal“ beygir gatan til austurs, inn í sunnanverðan Bleikingsdal, þvert yfir hann og á ská upp hann að austanverðu. Ofan hans sést gatan vel, en síður þar sem hún beygir til norðausturs enn ofar. Þegar hlíðin þar var skágengin var komið upp í Drumbsdal. Efst á brúnum voru tröllkatlar; hin ákjósanlegustu drykkjarsteinar, fullir af vatni. Frá brúninni sást bæði heim að Vigdísarvöllum og yfir að Bæjarfelli framundan. Stóri-Drumbur ber þar hæst við á hægri hönd og Litli-Drumbur á þá vinstri. Millum eru tvær smávaxnir grágrýtishólar.

Gullhamrar

Gullhamrar.

Drumbdalastígur liggur niður Sveifluhálsinn austanverðan, að sunnanverðu. Þar beygir hann áleiðis niður að Einbúa uns komið er á gömlu þjóðleiðina millum Ísólfsskála og Krýsuvíkur. Skammt norðar á sunnanverðum hálsinum er gerði undir háum móbergsklettum; Gullhamrar. Vörðubrot má enn sjá við götuna, sem og hlaðna brú yfir moldarflag. Gatan kemur að Krýsuvíkurkirkju við réttina sunnnan í Bæjarfelli.
Hverfum nú svolítið til fyrri tíðar. Eftirfarandi er frásögn Gísla Sigurðssonar um leiðir í Krýsuvík þar sem hann lýsir Drumbdalastígnum og leiðum að honum frá Krýsuvík…
Drumbdalastígur að Vigdísarvöllum“Við höfum verið við guðsþjónustu í Krýsuvíkurkirkju. Við höfum notið góðgerða á heimili kirkjuhaldarans. Við kveðjum þá alla með virktum. Komnir fram á hlað ráðum við ráðum okkar, því um tvær leiðir er um að ræða. Við tökum þá sem liggur austur úr túni, enda verðum við samferða Norðurkotsbóndanum. Við förum ofan traðanna og yfir Dalinn í Norðurkotstraðir og eftir þeim. Norðurkotsbóndinn fer heim til sín, en við höldum austur og innar með Bæjarfelli. Erum áður en langt um líður komin að garði er liggur ofan úr fellinu og út á Rauðhólsmýrina, er garður þessi átti að liggja norðan og ofan við Litla-Nýjabæ, en verkinu lauk þarna úti í mýrinni. Þegar komið er alveg norður fyrir fellið verður fyrir okkur steinn mikill og n okkrar rústir kringum hann. Hér er Hafliðastekkur, en hvenær sá Hafliði bjó hér og hafði hér stekk er ekki að vita. Héðan stefnum við svo norður og upp mýrina austan við Skugga og þar upp á hálsinn.

Hús í selstöðunni

Við erum þá aftur stödd heima á hlaði í Krýsuvík. Og nú höldum við vestur um Dal í túninu og þar vestur úr Vesturtúngarðshliði og erum áður en varir komin á Alfaraleiðina gömlu, upp á Bæjarhálsi og höldum eins og leið liggur vestur yfir melana að Svartakletti, vestur frá honum norðan við Einbúa og þar upp á Hálsinn og erum þá komin að Stóra-Drumb.
Höldum svo norður um ofanverða Drumbsdali og yfir hálsinn hjá Litla-Drumb. Leið þessi nefnist Drumbsdalastígur. Þegar þangað kemur sveigir gatan nokkuð til norð-austurs og niður að læk. Þá er vert að staldra við. Ég var svo heppinn fyrir nokkru, að fá í hendurnar kort, sem út var gefið 1831 af Bókmenntafélaginu, eins og þar stendur “af hinu íslenska bókmenntafélagi”. Þegar ég leit á þetta kort og tók að lesa örnefni og fleira, hvað er það þá sem ég rekst á? Ekkert minna en að leiðin sem við erum að fara um, þegar kemur norður fyrir Litla-Drumb. Hún nefnist S V E I F L A: Og þá höfum við fundið hvers vegna Austurhálsinn er kenndur við, en eins og þið vitið nefnist hann SVEIFLUHÁLS: Vil ég einnig minna á að hálsarnir hér eru á korti Ólafs Ólavíusar (1775), kallaðir Móhálsar og leiðin hér, kirkjugatan frá Vigdísarvöllum er þar nefnd MÓHÁLSASTÍGUR. Einnig eru hálsarnir nefndir Núpshlíðarháls (Vesturháls) og Sveifluháls (Austurháls) eins og áður greinir.
Stekkur í Við höldum svo niður af hálsinum að Kringlumýrarlæk og austur með honum að vaði yfir hann. En áður en við höldum áfram er ómaksins vert að koma við þar sem lækurinn fellur vestur af og niður. Þar fellur hann um móbergsklappir. Hefur hann, þó lítill sé, grafið gil í móbergið og skilið þar eftir sig þvílíkan skúlptúr að aðdáunarvert er. Brestur mig orð til að lýsa hvílíka fegurð þar er að finna. En sjón er sögu ríkari og komið þið með með og skoðið listaverk þessa litla lækjar.
Við höldum svo niður af Hálsinum í dalinn milli Móhálsanna og yfir að Vigdísarvöllum. Það er af Vigdísarvöllum að segja, að um aldir var þar selstöð frá Þorkötlustöðum í Grindavík. Var selstaðan látin í té fyrir skipsuppsátur á Þorkötlustöðum. 1834 segja kirkjubækur fyrst frá því, að þar sé ábúandi, leiguliði frá Krýsuvík. Bali aftur á móti er ekki byggður fyrr en 1845 og er í byggð fram til 1870. En Vigdísarvellir voru í byggð fram um aldamótin síðustu. Um æði margar gönguleiðir er að ræða frá Vigdísarvöllum.”
Eins og segir fyrr í þessum texta var ákveðið að ganga til baka eftir mögulegum Drumbdalastíg. Af fyrri heimildum að dæma virtist hann hafa legið um „víða völlu“.
Til að gera langa göngu stutta kom í ljós að Drumbdalastígur liggur svo til beinustu leið milli Vigdísarvallabæjanna og Krýsuvíkur; allnokkuð fjarri hinum „opinberu leiðarmerkingum“.
Tóftir BalaÁ ferðalaginu uppgötvuðust óvæntar tóftir; að öllum líkindum ummerki eftir Þórkötlustaðaselið, allt til 1830. Um var að ræða hlaðinn stekk, hús og kví. Ummerkin, hver af öðrum, staðfestu grunsemdirnar. Selstaðan er staðsett á einstaklega skjólsælum stað og þarna hefur lækurinn líklega runnið fyrrum. Vigdísarvellirnir sjálfir hafa verið hinir ágætustu bithagar og með tilvist selsins er komin skýring á hlöðnu fjárskjóli þarna skammt frá. Bleikingsvellirnir suðaustanverðir hafa auk þess verið einstaklega góðir bithagar, auk þess sem svæðið allt hefur verið hið ákjósanlegast fyrir smalann.

Reykjanesskaginn býður upp á ótrúlega möguleika, ekki einungis í jarðvarmaorkuframleiðslu til skammrar framtíðar heldur og til nýtingarmöguleika ósnotinnar náttúru til langrar framtíðar.

Vigdísarvellir

Vigdísarvellir (Bali). Horft af Bæjarhálsi. Krýsuvíkur-Mælifell fjær.

Hingað til hafa ferðamenn, sem hingað koma, einkum verið að sækjast eftir ósnortinni náttúru. Það eitt gefur tilefni til að ætla hversu eftirsóknarverð og „dýrmæt“ ósnortin náttúra mun verða eftir s.s. eina öld – þ.e. þegar barnabörn okkar munu vera að vaxa úr grasi og þurfa á atvinnutækifærum að halda.
Um þessar mundir eru gróðaöflin því miður allsráðandi. Takmarkið er að gera sér mat úr öllu mögulegu, kaupa á kostakjörum og selja með margföldum gróða. Hvernig og á hvers kostnað sá gróði er fengin virðist ekki skipta neinu máli – enda fáir að velta slíku fyrir sér.
Nauðsynlegt er að horfa svolítið fram á veginn, yfir næstu hæðir og hálsa – jafnvel til langrar framtíðar!
Frábært veður. Gangan tók
4 klst og 4 mín.

Heimildir m.a.:

-Handrit Gísla Sigurðssonar – Landslag og leiðir – Útvarpið – Gönguleiðir út frá Krýsuvík.
-hafnarfjordur.is
-reykjanesfolkvangur.is
-kort – Björn Gunnlaugasson – 1931.
-Lýsing – Olafur Olavius.
-Orri Vésteinsson.

Þórkötlustaðasel

Þórkötlustaðasel við Vigdísarvelli – uppdráttur ÓSÁ.

Eldgos við Sundhnúk ofan Grindavíkur 18. des. 2023.

Eldgos hófst við Sundhnúk í Sundhnúkaröðinni ofan Grindavíkur klukkan 22:17 þann 18. desember 2023.

Eldgos

Sundhnúkur – eldgos.

Undanfari gossins var stutt skjálftahrina við Sundhnjúkagíga sem hófst skyndilega um kvöldið, klukkan 21:00. Almannavarnir lýstu þegar yfir neyðarástandi. Grindavíkursvæðið hafði verið rýmt.
Á öðrum tímanum var áætluð lengd sprungunnar um 4 km. Hún liggur nokkurn veginn á gamalli sprungu eldra hrauns skammt austan Sundhnúkagígaraðarinnar. Suðurendi hennar var í u.þ.b. 3 km ofan Grindavíkur.

Sundhnúkur

Sundhnúkagígaröðin að Stóra-Skógfelli.

Hraunið úr Sundhnúk og gígaröðinni norðan hans er talið vera yngra en 3000 ára og eldra en 2000 ára. Þá myndaðist Sundhnúkahraun. Eldra hraunið, sem myndaði Dalahraun, kom upp í gígaröðnni skammt austar, og nú gýs á, er talið vera yngra en 8000 ára og eldra en 3000 ára.
Ljóst er að draga muni hratt úr virkni á svo langri sprungu sem raunin er og virknin færast að mestu um miðbik hennar millum Sýlingafells og Stóra-Skógfells. Líklegt er að gosið verði lítið og skammvinnt.

Skógfellavegur

Skógfellavegur.

Fornleifar hafa farið undir nýja hraunið þar sem Skógfella- og Sandakravegur lágu um svæðið millum Grindavíkur og Voga annars vegar og Ísólfsskála hins vegar, sjá m.a. HÉR. Fornar götur hafa ekki hingað til verið í fyrirrúmi við skráningu fornleifa þrátt fyrir ákvæði þess efnis í fyrrum Þjóðminjalögum og núverandi Minjalögum.

Reukjanesskaginn

Reykjaneskagi – vörðukort.

Á vefsíðunni www.ferlir.is má sjá lýsingar, fróðleik, frásagnir, myndir og uppdrætti af öllum fornum þjóðleiðum á Reykjanesskagnum. Þú þarft einungis að skrifa áhugaefnið í leitina efst á vefsíðunni…

Sjá auk þess myndir af fyrsta degi eldgossins HÉR. Einnig má sjá myndir frá eldgosum við Litla-Hrút, í Geldingadölum og í Meradal.

Eldgos

Sundhnúkur – eldgos.

Leiðarendi

Leiðarendi er sá hellir á Reykjanesskaganum, sem einna styst er að frá þjóðvegi – og jafnframt einn sá margbreytilegasti á svæðinu, enda hefur umferð um hann síðustu misserin verið mikil – og fer vaxandi. Hellirinn er, líkt og aðrir hrauhellar á Íslandi, í einni af hinum fjölmörgu hraunbreiðum landsins er geyma steingerða ævintýraheima þar sem glóandi hraunelvur hafa runnið neðanjarðar og skilið eftir sig ranghala og hvelfingar. Í hraunhellunum er að finna einstakar jarðmyndanir, – dropasteina, hraunspena, straumfægða veggi og litríkar útfellingar.
Leiðarendi - opAllt þetta hefur Leiðarendi í Stórabollahrauni enn upp á að bjóða, nú 16 árum eftir að hann var fyrst kannaður. Hellirinn er 750 m langur, greiðfær og aðgengilegur, aðeins 36 km frá Grindavík og að honum er einungis 150 m. gangur, í mosagrónu hrauni, út frá við Bláfjallavegi.
Snjór þakti jörð, svo rækilega að hann hafði slétttað sérhverja misfellu í hrauninu. Það tók því nokkra stund að moka sig niður og inn eftir hellisloftinu innan við meginopið. Að því búnu varð eftirleikurinn auðveldur. Hátt í eitt hundrað þátttakendur skriðu inn eftir snjórásinni og niður í hellinn.
Stórabollahraunið er u.þ.b. 2000 ára gamall og hafa dropsteinar og aðrar myndanir lítið breyst allan þann tíma. Ástæða er enn og aftur til að brýna sérstaklega fyrir þátttakendum að raska engu og taka ekkert nema ljósmyndir. Yfir hrauninu er m.a. Tvíbollahraun, sem rann um 950 e.Kr. Auðvelt er að sjá skilin því síðarnefnda hraunið er apalhraun á þessu svæði, en Stórabollahraun rann lengstum sem helluhraun, líkt og Hellnahraunin eldra og yngra, sem einnig áttu för um þessar slóðir á mismunandi tímum. Stórbollahraunið hefur runnið í Leiðarenda á tveimur stöðum. Hellnahraun yngra umlykur m.a. Skúlatún, þýfkenndan grasigróin hól í miðju hrauninu. Það kemur eins og

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – jarðfræðikort; nútímahraun.

Hellnahraunið eldra úr Brennisteinsfjallakerfinu og er talið hafa runnið fyrir 1000 árum. Hraunið kom frá Tvíbollum í Grindaskörðum, var mikið og fór víða, enda bæði mjög slétt og þunnt.
Þess má geta að Kristintökuhraunið er frá sömu goshrinu. Nákvæmasta tímasetning á Yngra Hellnahrauninu (Breiðdalshraun og Tvíbollahraun) er sú að það hafi runnið á árunum 938-983 (Haukur, Sigmundur og Árný – 1991).
Eldra-Hellnahraunið mun hafa myndað stíflu fyrir dal þann er Ástjörn dvelur nú í sem og Hvaleyrarvatn. Hraunin eru ákaflega lík að ytri ásýnd og nokkuð erfitt að greina þau að. Eldra- Hellnahraun er um 2000 ára gamalt og líkt og Yngra – Hellnahraun komið frá eldstöðvum í eldstöðvakerfi Brennisteinsfjalla og hefur runnið svipaða leið til sjávar. Út frá þessu má ætla að Hvaleyrarvatn og Ástjörn hafi orðið til fyrir u.þ.b. 2000 árum. (Sjá meira undir  Fróðleikur). (Reyndir hraunamenn geta nú orðið lesið aldursmörkin, þ.e. út frá því hvaða hraun rann á á undan hinu – með ákveðin viðmið að leiðarljósi).
og áfram inn undir þaki hellisrásarinnar...Í stórvirki Björns Hróarssonar, jarð- og hellafræðings, „Íslenskir hellar“, bls. 209, er m.a. fjallað um Leiðarenda. Þar segir t.a.m.: “ Stóri-Bolli er austastur bollanna við Grindasköðr og þeirra stærstur eins og nafnið bendir til. Stóri-Bolli er um 150 metrar í þvermál og opinn til noðurs en gígbarmarnir til beggja hliða eru um 50 metra háir. Hraunið hefur fallið til norðurs og þekur svæðið norður að Undirhlíðum og Helgafelli en er mjög hulið yngri hraunum. Erfitt er að áætla stærð hraunsins þar sem svo mikill hluti þess er hulinn yngri hraunum en það gæti þó verið allt að 20 ferkílómetrar að flatarmáli.“
Um Leiðarenda segir meistari Björn: „Leiðarendi er um 900 metra langur hellir og hin mesta draumaveröld. Hellirinn gengur til beggja átta út frá niðurfalli og tengjast leiðirnar þannig að hellirinn liggur í hring (eins og merkilegur uppdráttur í bókinni sýnir). Hellirinn kvíslast og hefur þak vestari rásarinnar brotnað niður. Nokkru neðan niðurfallsins sameinast kvíslarnar á ný og þaðan liggja mikil og falleg göng til norðurs. Það er mjög sérstakt að fara í hellaferð innúr niðurfalli og koma svo út klukustundum síðar hinum megin niðurfallsins. Hreint ævintýri fyrir þá sem eru að gera slíkt í fyrsta skipti.
Leidarendi-222Hellisgöngin eru víðast hvar lítt hrunin og hellirininn auðveldur yfirferðar þótt auðvitað þurfi aðeins að bogra á einstaka stað og klungrast á öðrum. Sérstaklega lækkar verulega til lofts nyrst í hellinum. Töluvert er um skraut, dropsteina, hraunstrá og storkuborð auk þess sem hraunið tekur á sig hinar ýmsu myndir. Á einum stað má til dæmis sjá fyrirbæri í lofti hellisins sem hellamenn kalla  „Ljósakrónuna“ og svo mætti áfram telja. Þá er beinagrind af sauðkind innarlega í hellinum og má með ólíkindum telja hve langt kindin sú hefur ráfað inn dimman hellinn. Var hún e.tv. að forðast eitthvað?
Hellismunninn er skammt frá hraunjarðri Tvíbollahrauns sem raunar hefur runnið inn í Leiðarenda á tveimur stöðum syðst og vestast í hellinum enda liggur hann þar undir Tvíbollahraun. Tvíbollahraun rann á fyrstu árunum eftir landnám. Ef til vill kom kindin sú sem bar beinin í Leiðarenda til landsins með víkingaskipi. Og ef til vill gleymdi hún sér og lokaðist inni þegar Tvíbollahraun rann. 

Nafngiftin - kindin í botni Leiðarenda

Þegar svo ógnarheitur hraunkanturinn nálgaðist hljóp kindin ef til vill inn í kaldan hellinn til að forðast lætin og hitann og þar bar hún beinin. Atburðarrás þessi verður raunar að teljast harla ólíkleg en verður þó ekki afsönnuð fyrr en beinin verða aldursgreind. Fornminjar í íslenskum hraunhellum hafa hins vegar lítið verið rannsakaðar af sérfræðingum en merkileg bein er að finna í nær eitt hundrað hraunhellum og bíða þau rannsóknar. Leiðarendi var kortlagður í desember 1992 og júlí 1993″.
Innst í syðsta hluta Leiðarenda er stór „hrauntjörn“. Þar lækkar hellirinn, en  hækka um leið því hrauntjörnin hefur brætt sig niður í undirstöðu(grann)bergið uns hluti hennar fann sér áframhald, sem varla verður rekjanlegt nema með mikilli fyrirhöfn. Það mætti þó vel reyna þegar betri tími gefst til.

Leiðarendi

Í Leiðarenda.

Eitt af sérkennum Leiðarenda eru þunnar hraunflögur á kafla. Þær hafa fallið af veggjum og úr lofti. Þær gefa til kynna mismunandi hraunstrauma í gegnum rásina, hverja á fætur annarri. Má líkja þeim við endurteknar samfarir fullorðinnar hraunrásar við nýja strauma.
Ljósakrónan fyrrnefnda er í tengirás Leiðarenda við efri hellisrásina, sem flestir ættu að forðast. Komið hefur fyrir að þeir, sem þangað hafa fetað sporið og síðan haldið í gegnum hrun er rásin leiddi þá í gegnum, hafi ekki fundið leiðina til baka. Eftir hræðsluköst og formælingar hefur svolítil vonardagsskíma birst þeim úr annarri átt og þeir þá getað skriðið sér til lífs að jarðfallinu fyrrnefnda. Hins vegar má segja með sanni að einn heillegasti og fallegasti hluti Leiðarenda er í þessari rás, líkt og sjá má í bók Björns; „Íslenskir Hellar“ (fæst í öllum betri bókabúðum og er sérhverjum hellaáhugamanni og öðrum leitandi bráðnauðsynleg leiðsögn).
Ljósakrónan í LeiðarendaVið frásögnina af sauðkindinni, sem Björn lýsir og varð tilefni nafngiftarinnar, má bæta að öllum líkindum hefur sú arma mær verið að leita skjóls vegna einhvers, t.d. snjóa eða náttúruhamfara. Hafa ber í huga að mörg dýr geta gengið fram og til baka um niðmyrkra ranghala án ljóss. Það hefur hellaleitar-hundurinn Brá t.a.m. sannað margsinnis. Það hefur því verið eitthvað annað en eðlilegheitin, sem varð sauðkindinni að aldurtila, s.s. eiturgufur hraunkvikunnar er lagðist yfir hraunrásina umrætt sinn. Ef svo hefur verið má ætla að hér á landi hafi verið urmull sauðfjár – og það fyrir aðkomu norrænna landnámsmanna hingað í kringum 874 +/-02.

Leiðarendi

Í Leiðarenda.

Einhverjir hafa þá verið hér fyrir (sem flestum er reyndar orðið ljóst – nema kannski starfsfólki Þjóðminjasafnsins.) Ef til vill munu órækar minjar Skúlatúns og minjar í Húshólma /Óbrinnishólma í Ögmundarhrauni  hjálpa til að varpa ljósi á þá birtingarmynd?!
Taka verður undir með ákveðna og meðvitaða rödd Björns þar sem hann segir að; „fornminjar í íslenskum hraunhellum hafa hins vegar lítið verið rannsakaðar af sérfræðingum en merkileg bein er að finna í nær eitt hundrað hraunhellum og bíða þau rannsóknar.“
Þótt Leiðarendi sé bæði aðgengilegur og áhugaverður þarf að gæta vel að því að skemma ekkert er getur haft þar varanlegt gildi fyrir komandi kynslóðir.
Frábært veður (að og frá hellinum). Ferðin tók 3 klst og 3 mín.
Leidarendi-223

Húshólmi

Gengið var um Húshólma og síðan frá Hólmasundi um Miðreka og yfir að Selatöngum. Í Ögmundarhrauni eru ein merkustu minjasvæði landsins og ætlunin að skoða a.m.k. tvö þeirra.
Auðvelt var að ganga niður mosavaxið Ögmundarhraun því mosinn var frosinn. Þegar komið var niður í Húshólma var stefnan hiklaust tekin að hinum fornu minjum vestan hans. Þar er talið að Krýsuvík hafi verið fyrra sinni.
Forn skáli í ÖgmundarhrauniBúseta í Krýsuvík undir Bæjarfelli, var frá 12. öld þegar talið er að bærinn hafi verið  fluttur frá Húshólma,  til ársins 1942. Krýsuvík var talin höfuðból, enda stærsta jörð á Reykjanesskaga. Jörðin náði að sjó frá Selatöngum austur að sýslumörkum. Byggðin náði hámarki á miðöldum en 1860 var t.a.m. búskapur á 13 býlum. Eftir aldamótin 1900 fór fólki að fækka og kotin fóru í eyði. Það eina sem minnir á höfuðbólið Krýsuvík og hjáleigurnar er Krýsuvíkurkirkja sem stendur austast á bæjarhólnum. Umhverfis hólinn eru tóftir Hnausa, Lækjar, Norðurkots, Snorrakots og Suðurkots.

Ögmundarhraun

Ögmundarhraun – loftmynd.

Ögmundarhraunið, sem umlykur minjarnar við Húshólma, er talið hafa runnið 1151 (-1188). Ljóst er að hraunið hefur ekki myndast í einu lagi hefur smám saman í allnokkrum spýjum með mismunandi bergsamsetningu. Það átti glögglega eftir að koma í ljós þegar gengið var um Miðrekana.
Í Lesbók Mbl 17. sept. 1961 er m.a. fjallað um Ögmundarhraun: „Áður en það var rutt, varð að fara vestur fyrir hálsa fyrir endann á hraunsuppkomu
nni, þegar fara þurfti til Njarðvíkur eða Keflavíkur. Bóndinn í Njarðvík, að nafni Gissur, átti dóttur. Hennar bað lausingi nokkurm er Ögmundur hét, tröllmenni að stærð og kröftum. Bóndi vildi ei gifta dóttur sína fúlmenni þessu, en treystist ei að standa á móti honum; tekur hann því það ráð að lofa honum stúlku þessari, ef hann vildi vinna það til hennar að gera færan veg yfir hraunið, þar sem beinn yrði vegur til Suðurnesja. Þetta verk tókst hann á hendur og framkvæmdi það duglega, en lagðist til svefns að loknu verkinu, austan til við hraunbrúnina, en bóndi lá í leyni í hraungrjótu, ætlaði hinum stundir að sofna vært og drap hann sofandi. Þar er dys hans, sem drepinn var og hraunið síðan við hann kennt og kallað Ögmundarhraun. (Úr sóknarlýsingu 1840).“

Verkhús við vestustu sjóbúðina á SelatöngumÍ Lesbók Mbl. 31. jan. 1954 er grein eftir Árna Óla; „Svona var lífið fyrir einum mannsaldri“. Í henni fjallar hann m.a. frásögn Stefáns Filipssonar um Ögmundarhraun: „Ögmundarhraun, lítið fyrir vestan Krýsuvík, runnið vestan úr Almenningi, sem allur er líka hraun, en þó grasi og skógi vaxið – er hann stórt óskipt landspláss hvar Krýsuvík á líka skógarítak. Ögmundarhraun er ekki upp gróið, heldur svart og ljótt útlits; gengur það heilt fram í sjó rjett fyrir austan Selatanga. Austan til við hraun þetta er kallaður Húshólmi. Þar eru stórar húsatóftir niðursokknar og ein þeirra snýr eins og kirkjur vanalega; hefir það verið vel stórt hús; þó sjást tóftirnar allar því hraunið hefir hlaupið yfir þær að vestanverðu, hvað maður veit maður ekki, þó til að geta eftir sjón á því sjáanlega, yfir fullan helming, því þar hefir vafalaust verið stórbygging. Þar eru 2 túngarðshringar; og hjer um bil 20 faðmar milli þeirra. Meina menn að Krýsuvík hafi þar verið áður hraunið hljóp þar yfir, en við það tilfelli verið flutt upp í fjallavikið, sem þar er þó töluvert langt frá. Við sjóinn er vík, sem bærinn gat nafn af tekið, n.l. Hæslvík nú nefnd. Í hrauni þessu, spölkorn hjer frá, er og óbrunninn hólmi og ófært hraun alt um kring bema einn lítill stígur, sem síðar hefir verið ruddur. Hólmi þessi nefnist Óbrennishólmi. Þar er sagt samalinn hafi verið með heimilisfjeð meðan hraunið hljóp fram yfir heila plássið (þar eru og 2 misstórar fjárborga rústir) og að hann hafi ekki getað komist undan því annað en á hól þennan, sem hraunið umkringdi.
Hólmasund - Krýsuvíkurbjarg fjærVestan undir Krýsuvíkurhrauni er stór hellir og besta hagaland í kring, í og með hrauninu, samt víðar út um heiðina, svo alltíð má beita fje undir vind af hverri átt sem hann er. Hellir þessi er langr frá bæjum, er því erfitt að nota hann í vetrarharðindum. Fyrir hjer um bil 100 árum, eð máske nokkuð meir, var bóndi í Krýsuvík að nafni Arngrímur, mig minnir Jónsson, Hann tíundaði jafnan 50 hundruð. Hann hafði fje sitt við helli þenna, en skyldi hafa átt 99 ær grákollóttar. Systir hans átti iena á eins lit, og bætti hann ei fyr að fala hana af sysur sinni, en hún yfirljet honum ána sárnauðgu, Sama veturinn seint gerði áhlaupabyl, sem stóð 6 dægur. Hrakti þá alt hans fje fram af Krýsuvíkurbjargi hjer og þar til dauðs og algjörs taps, því sjórinn tók við fyrir neðan bergið en vindurinn rak til hafs. Í hengisfönninni framan í bergsbrúninni stóð grákoll aleins er hann fjekk hjá systur sinni, þegar hann eftir bylinn fór að leita að fjenu. Teur hann ána þá og reynir í 3gang að kasta henni fram af breginu, en gat aldrei kastað henni svo langt, að hún færi niður fyrir. Og jafnótt og hún losnaði í hvert sinn við hendur hans, brölti hún upp að knjám hans. Loksins gaf hann frá sjer, og skal hafa sagt löngu seinna, að út af þessari á hefði hann eignast 100 fjár.

Í Arngrímshelli

Þetta hef jeg af sögusögn og gef það eit út sem áreiðanlegan sannleik. Ævilok Arngríms urðu þau, að steinn datt á hann úr Krýsuvíkurbergi og marði hann í sundur og 2 manneskjur aðrar. Þetta er víst (Arngrímur þessi var Bjarnason, sonarsonur Arngríms lærða, og hafði lengi verið ráðsmaður í Skálholti. Hinn 9. ágúst 1724 fór hann á báti í sölvufjöru undir Krýsuvíkurbjargi „og með honum kalrmaður einn og kvenmenn tveir. Og er þau voru farin til að taka sölin, sprakk hella mikil fram úr breginu og kom á þau, svo að hún laust Arngrím í höfuðið til bana, og undir henni varð karlmaðurinn er honum fylgdi og önnur konan, en önnur komst lífs undan; tók hellan þó hælinn af öðrum fæti hennar, og skaðaði hana ekkia ð öðru. Var hella þessi 13 faðma löng og 11 faðam breið. Náðust lík allra þeirra þriggja, er ljetust“ (Vallaannáll). Öðrum annálunm ber saman um hve margir hafi farist þarna, en Hítardalsannaátt segir: – „Vinnukona hans mjög lömuð komst af og aðrir tveir sem af ofboði hlupu fram í sjó og náðu til skipsins“).

Krýsuvík

Bærinn Lækur í Krýsuvík – Garðhús nær.

Árið 1827 kom gamall bóndi til Krýsuvíkursóknar, Guðmdunrur Bjarnason, bygði nýbýlið Læk aldeilis að stofni, átti margt fje, hélt því við áðurnefndan helli. En þar honum þótti langt að hirða það þar, bygði hann þar annan bæ dásnotran sem hinn, með glæergluggum, sængurhúsi afþiljuðu með 2 rúmum; í hinum karminum geymsluhús. Bygði hann hús þetta framan við hellisdyrnar og rak fjeð gegnum göngin út úr og inn íhellinn, hlóð af honum þvervegg, bjó til lambastíu, gaf þeim þar þá henta þótti, bjó til jötur úr tilfengnum hellum alt um kring. Í stærra parti hellisins gaf hann fullorðna fjenu í innistöðum (sem verið mun hafa alt að 200 eftir ágiskun manna), flutti þangað talsvert hey og smiðju sína, og mun hafa starfað þetta að mestu, ef ei öllu leyti, aleinn á einu ári. Þarna var hann 10 vetur samfelt yfir kindum sínum aleinn, en á sumrum heima. Loks gafst hann upp yfir sjötugt og sagðist og sagðist hafa verið smali síðan hann hafði 6 ár að baki…“ 

Minjar í Ögmundarhrauni

Húshólmi er merkur minjastaður suður af   Krýsuvíkur Mælifelli, í austurjaðri Ögmundarhrauns, nær sjávarhömrunum. Þar hefur hraunið runnið til hvorrar handar við óbrennishólma sem nefndur er Hólmastaður í gömlum heimildum. Þar er m.a. fornt bæjarstæði, skálatóftir, garðhleðsla og gerði, en í hrauninu vestan Húshólma er Kirkjulág og fleiri minjar. Samkvæmt gamalli munnmælasögu stóð Krýsuvíkurkirkja í Kirkjulág og stóð uppi löngu eftir að hraunflóðið eyddi bænum.  Óbrennishólmi er spölkorn suður af Latstöglum sem ganga vestur úr Latsfjalli. Þetta er gróinn hólmi sem sker sig á sérkennilegan hátt úr grófu apalhrauninu. Þar eru fornar búsetuminjar, tvær fjárborgir og vegghleðslur. Önnur fjárborgin virðist vera mjög forn hringlaga hleðsla, en hin nokkuð yngri.
Áður hefur nokkrum sinnum verið fjallað um minjarnar í og við Húshólma og í Óbrennishólma hér á vefsíðunni, auk þess sem Ferðamálafélag Grindavíkur hefur gefið út bækling þar sem rifjaðar eru upp heimildir og minjar skýrðar heilstætt á svæðinu. Annars er táknrænt að staldra við hjá þessum fornu minjum því við þær er staur frá Fornleifavörslunni – án orða. Um er að ræða friðlýstar fonleifar, en hið litla vesæla skilti við þær er löngu afmáð.
Á MiðrekumEftir að hafa staldrað við ofan við Hólmasund var stefnan tekin vestur með ströndinni. Þessi u.þ.b. 6 km kafli er torfarin.
Í fyrstu er um úfið hraun að fara með stuttum helluhraunspöllum, en síðan tekur við sjóbakað apalhraun, laust í sér og seinfarið. Að vísu opnast u.þ.b. 500 m kafli ofan við sjálfa Miðrekana, neðan við Brúnavörður, en síðan verður aftur með það sama – ófæra hefði einhver óvanur látið hafa eftir sér, en með rólegheitum má ýmist þræða ofanverða ströndina eða fjöruna, einkum síðasta spölinn, áður en komið er í Eystri-Látur. Víða má lesa myndunarsögu bergsins út úr jarðlögum þar sem brimið hefur brotið allt mélinu smærra og hreinsað ofan af heilu bergflekunum. Víða á leiðinni eru einstaklega sérkennilegar myndanir og þótt ekki væri fyrir annað en þær verður svona ferð alveg þess virði. Auk þess er óvænt rekavonin á leiðinni, einkum ofan við Miðreka, góð ábót á ágóðan. Í þessari ferð var t.d. gengið fram á brak af björgunarbát, sem rak þar upp fyrir ári og varð að engu. Björgunarhringurinn var þó enn heill og var honum komið í Saltfisksetrið að ferð lokinni.
Austasta sjóbúðin á SelatöngumSelatangar er gömul verstöð suður af   Núpshlíð og vestan við Ögmundarhraun.Vestan við Selatanga eru Borgir eða Katlahraun, fallegar hraunlægðir með allskonar hraunmyndunum. Frá bílastæðinu er um hálftíma gangur í austur að fjölda verbúðartófta, hlaðinna fiskibyrgja og fiskgarða úr grjóti. Talið er að um 100 manns hafi stundað útræði frá Selatöngum þegar mest var. Vermenn hættu að stunda róður frá Selatöngum um 1884, en ábúendur í Krýsuvík og Ísólfsskála stunduðu útræði frá Selatöngum fram á fyrstu áratugi 20.aldar.  
Eftirfarandi umfjöllun Ólafs Einarssonar um Selatanga, „Útræði á Selatöngum“, birtist í Ferðablaði Lesbókar Mbl 25. nóv. 1989 (Ólafur var frá Garðshúsum í Grindavík): „Ef draga má ályktanir af því, að skoðanir fil. dr. Sveinbjarnar Rafnssonar séu réttar eða nálægt sanni, má áætla að útróðrar frá Selatöngum hafi hafist seint á 15. öld eða nálægt aldamótunum 1600. Má þá slá því föstu að stöðugt útræði hafi verið þaðan um nærfellt þriggja alda skeið. Ekki er nokkur leið að sannreyna með nokkurri nákvæmni hvenær sjóróðrar hafi hafist þaðan. Afur á móti er fullkomin heimild fyrir því, að þeir hafi verið stundaður þaðan allar götur fram til ársins 1884 [reyndar var róið frá Selatöngum frá á byrjun 20. aldar].
Þurkkbyrgi á Selatöngum (t.h.)Í bók Ólafs Þorvaldssonar „Harðsporum“ segir: „Útræði mun hafa að mestu lagst niður á Selatöngum á síðari hluta nítjándu aldar og munu síðustu útgerðarmenn þar hafa verið Beinteinn smiður í Arnarfelli og Sveinn ríki á Læk“.
Þórarinn Einarsson á Höfða á Vatnsleysuströnd skýrði Lúðvíki Kristjánssyni frá því á sínum tíma, að faðir hans, Einar, hafi verið þar við sjóróðra og að seinasta vertíð hans hafi verið 1884, en að þar með hafi líka sjóróðrar frá Selatöngum lagst niður [róið var þó lengur þaðan, bæði frá Krýsuvíkurbæjum og Ísólfsskála sbr. aðrar frásagnir]. Einar faðir Þórarins fæddist og ólst upp í Nýjabæ í Krýsuvík og koma að sjálfsögðu tengslin við sjóróðrana þaðan.
Rölti maður um það svæði á Selatöngum, sem vitað er að voru höfuðstöðvar þeirra, kemur greinilega í ljós að útræðið hefur verið talsvert. Má sjá það á þeim gróðri sem þar hefur myndast, þar sem annars er svartnættisgróðurleysi. Það er auðvitað slógið úr fiskinum, sem myndað hefur gróðurinn. Mörg fiskbyrgi eru þatrna tiltölulega vel á sig komin, en mannabústaðir gamlir, hrörlegir og niður fallnir. Gætu þeir varla kallast mannabústaðir í dag.
Hér má sjá viðgerð á austasta verkhúsinuHvað sem um þennan stað má segja, þá er það víst að á löngu tímabili var þar dregin nokkur björg í bú þeirra Krýsvíkinga. En aðstæðurnar hafa verið mjög erfiðar og mikið strit samfara veiðiskap og flutningum.
Varla er hægt að skrifa um útræðið frá Selatöngum, sem mun hafa hafist fljótlega eftir að Húshólmasund eyðilagðist með öllu í hamförunum þegar Ögmundarhraun rann, án þess að rifja upp eða lýsa þeim miklu reimleikum sem sagt er að þar hafi átt sér stað.
Draugur sá, sem magir kváðust hafa séð, var nefndur Tanga-Tómas og er hann sagður hafa gert mörgum búðarmönnum ýmsar skráveifur eða smáglettur.

Arnarfell

Bærinn Arnarfell undir Arnarfelli í Krýsuvík.

Á Arnarfelli í Krýsuvík bjó þá maður er Beinteinn hét, þrautreyndur í sjóróðrum frá Selatöngum, sem getið er hér að framan. Einu sinni var hann heylítill og flutti sig þá niður á Selatanga með fé sitt til fjörubeitar, einnig var ætlun hans að huga að reka. Var hann þarna um tíma og hafðist við í sjóbúð, er notuð var á vetrum. Kvöld eitt er Beinteinn kemur frá fénu kveikur hann ljós og tekur tóbak og sker sér í nefið. Tík ein fylgdi honum jafnan við féð og var hún inni hjá honum. Veit Beinteinn þá ekki fyrr til en ljósið er slökkt og tíkinni hent framan í hann. Þreif hann þá byssu sína og skaut út úr dyrum. Sótti Tanga-Tómas þá svo fast að honum að hann hélst ekki við í sjóbúðinni og varð að hrökklast út í illviðrið og fara heim til sín um nóttina. Eftir mikil átök við drauginn og illviðrið komst Beinteinn loks heim til sín um morguninn og var þá mjög þrekaður.
Það kom fyrir á Selatöngum einhverju sinni að unglingspiltur var orðinn mötustuttur. Buðust þá hásetar, á skipum þeim sem þar reru, til að gefa honum mötu til vertíðarloka ef hann kæmi nöfnum þeirra allra í eina þulu. Strákur kvað:

Tuttugu og þrjá Jóna telja má,
tvo Ara, Þorkel, Svein,
fimm Guðmunda og Þorstein þá,
þar með Guðlaug, Freystein, Einara tvo, Ingibjörn, Rafn,
Vilhjálmi Gesti verður jafn,
Selatanga sjóróðramenn
sjálfur Guð annist þá.

Þótt aldrei væri stórt útver á Selatöngum eru þar þó enn talsverðar verminjar. Þaðan var seinast róið 1884.“

Vestasta verbúðin á Selatöngum

Þór Magnússon skrifaði um „Þjóðminjar“ í Lesbók Mbl þann 27. júní 1976 fjallaði hann um „Verbúðarrústir á Selatöngum“: „Selatangar eru undarlegt ævintýraland og óvíða munu jafnskemmtilegar minjar um útræði hér á landi og einmitt þar, þótt staðurinn hafi verið líttþekktur fyrr en nú á síðustu árum.
Selatangar eru um það bil miðja vegu milli Grindavíkur og Krýsuvíkur. Þarna hefur Ögmundarhraun gengið í sjó fram og myndað tanga og er þar sæmileg lending. Hana hafa menn hagnýtt sér og smám saman myndazt þarna verstöð, sem harla lítið er þó vitað um úr rituðum heimildum. Hins vegar vitna rústirnar um það, sem þarna hefur farið fram. Hér er fjöldinn allur af fiskbyrgjum og nokkrar verbúðir, sem hægt er að greina, og er þetta listilega vel hlaðið úr hraunhellum og stendur allvel, þótt tímans tönn hafi unnið á sumu.
Síðast er talið, að róið hafi verið frá Selataöngum 1884. Fyrir mun hafa komið, að menn lentu á Selatöngum síðar ef lending var ófær annars staðar, en síðasti formaður af Selataöngum mun hafa verið Einar bóndi í Stóra-Nýjabæ í Krýsuvík Einarsson, afi Þorvaldar Þórarinssonar lögfræðings.
Ruddur vegur liggur af þjóðveginum, Ísólfsskálavegi, gegnum hraunið og niður á Selatanga, en hann er illfær litlum bílum [nú er hann að sjálfsögðu greiðfær öllum bílum]. En fjarlægðin er ekki meiri en svo, að þeir, sem röskir eru til gangs fara það á stuttri stundu og er vissulega ástæða til aðhvetja þá, sem áhuga hafa á minjum sem þessum, að kynnast þessum einkennilega minjastað.
Erfitt er nú að sjá, hverju hlutverki hver og ein rúst hefur gegnt, enda eru þær mjög misgamlar og hinar elztu nokkuð ógreinilegar. Þó má yfirleitt greina verbúðirnar af bálkunum, sem sofið hefur verið á, og sumar eru skiptar með vegg. Dagon (Raufarklettur), landamerkjasteinn á SelatöngumUppsátur sést einnig allglöggt, en rústirnar ná yfir talsvert stórt svæði með sjónum.
Vestan við rústirnar er sandfjara og í hraunjarðrinum þar vestan við er hellir, Nótarhellir, sem hægt er að komast í um fjöru. Hann mun draga nafn sitt af því, að Hraunsmenn í Grindavík geymdu þar selanætur sínar.“
Í forverkefnisskýrslunni „Plokkfiskur” – Íslensk strandmenning sem grunnur fyrir ferðaþjónustu í framtíðinni, sem gefin var út af Samgönguráðuneytinu, Siglingastofnun Íslands og Húsafriðunarnefnd ríkisins í júlí 2004, er m.a. fjallað um strandminjasvæðið á Seltaöngum. „Aðrar mjög áhugaverðar strandminjar eru Selatangar, suð-austur af Grindavík. Þetta svæði mun líka hafa verið miðstöð fyrir árstíðabundnar veiðar og hér eru rústir, hellar og aðrar minjar. Talið er að þarna hafi verið verstöðvar af svipaðri stærðargráðu og gömlu verstöðvarnar á Snæfellsnesi; Dritvík og Djúpalónssandur þar sem oft gistu hundruðir vermanna. Okkur skilst að áhugasamur einkaaðili hafi gert svæðið aðgengilegt fyrir almenning og sett upp upplýsingaskilti, gangstíga og gefið út bækling. Bæði Óttarsstaðir og Selatangar eru dæmi um aðgengilega sögustaði á Íslandi sem hafa mikla möguleika í ferðaþjónustu. Það ætti að koma af stað vinnuhópi, með það að markmiði að gera yfirlit yfir slíka staði á landinu öllu, forgangsraða þeim og meta ástand þeirra og möguleika innan ferðaþjónustu.“
Vestasta sjóbúðin á Selatöngum

Ekki var vart við Tanga-Tómas í þessari ferð, eins og svo jafnan áður. Á skilti við Selatanga er texti er segir að þaðan hafi síðast verið róið 1884. Þá eru myndir af tilgátuhúsum á Töngunum. Þar voru þrjár búðir, en ólíklegt verður að telja, af ummerkjum að dæma, að útlit þeirra hafi verið með slíkum hætti.
Dagon er nú varla svipur hjá sjón. Hann sést þó enn neðst í fjörunni á Selatöngum (þríkolla). Á síðustu árum hefur Ægir farið ómjúkum öldum um hann. „Kletturinn“ er þó enn ábending um að vestasta sjóbúðin og tilheyrandi mannvirki hafa tilheyrt Ísólfsskála. Líklegt má því telja, ef Beinteinn frá Arnarfelli hefur hafst við í sjóbúð á Selatöngum, að þar hafi hann verið í austustu búðinni, enda heillegust þeirra, sem enn má sjá á Töngunum.
Aflraunasteinarnir á Selatöngum voru nú horfnir undir sand og grjót, enda ströndin búið við mikla ágjöf í hinum hörðu rokum liðins vetrar.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Heimildir m.a.:
-Lesbók Mbl 17. sept. 1961.
-Lesbók Mbl. 31. jan. 1954.
-Lesbók Mbl 25. nóv. 1989.
-Lesbók Mbl 27. júní 1976.

Á Selatöngum

Á Selatöngum.

 

https://ferlir.is/husholmi-ii/https://ferlir.is/husholmi-i/

 

Tag Archive for: Grindavík