Tag Archive for: Grindavík

Kind

Sólarvé Tryggva Gunnars Hansen í Grindavík ætti enginn að láta fram hjá sér fara sem ferðast um Reykjanesskagann. Í bænum má finna fleiri hleðslur eftir Tryggva, s.s. við Hrafnsbúð.

Tryggvi Gunnar Hansen

Höfundur verksins „Sólarvé“ er heiðinn og er gott að hafa hin fornu trúarbrögð í huga þegar Sólarvéið er skoðað. Hringlaga formin gefa í skyn samfélagsmyndina. Þau eiga rætur sínar að rekja til bronsaldar, tíma frjósemi og lífsgleði, þegar sólin og jarðgyðjan voru dýrkaðar. Hringurinn með eldinn og vatnið innan sinna vébanda er tákn frumþorpsins. Í gegnum mitt Sólarvéið liggur gjá en hún er í farvegi annarrar gjár og er hluti sprungukerfis sem liggur í gegnum Grindavík endilanga, allan Reykjanesskagann, landið og landgrunnið, en Ísland er á mótum tveggja fleka milli heimsálfanna Evrópu og Ameríku.

Í Morgunblaðiðinu 15. júlí 1994 er fjallað um „Sólarvé í Grindavík„: „SÓLARVÉ er nafn á útivistarsvæði sem var vígt í Grindavík 21. júní.
ÁGrindavík þeim degi á að vera lengstur sólargangur samkvæmt tímatali fornmanna og var nafnið valið með hliðsjón af því. Svæðið er við íþróttamannvirkin í Grindavík og var útfært og teiknað af þeim Tryggva Gunnari Hansen steinsmiði og Jóni Sigurðssyni bæjartæknifræðingi.
Vígsluhátíð fór fram með bálkesti og rímkveðskap. Blásarasveit lék undir stjóm Siguróla Geirssonar. Að vígslu lokinni var haldið á Þorbjöm og fylgst með miðnætursólinni og kveiktur varðeldur en að lokum var gestum boðið að baða sig í Bláa lóninu.“

Tryggvi Gunnar Hansen

Tryggvi Gunnar Hansen.

Í Glatkistunni 2018 fjallar Helgi J. um Tryggva Gunnar Hansen: „Tryggvi Gunnar Hansen (1956-); Fjöllistamaðurinn Tryggvi Gunnar Hansen á tónlistarferil að baki en á tíunda áratugnum kom hann að útgáfu þriggja platna.
Tryggvi er fæddur á Akureyri 1956 og bjó nyrðra lengi vel, þar hófst myndlistaferill hans og hann varð einnig þekktur fyrir grjóthleðslufærni sína en hann hefur komið að ýmsum grjóthleðsluverkefnum í gegnum tíðina. Þá hefur hann starfað sem dagskrárgerðarmaður í útvarpi, blaðaútgefandi og grafískur hönnuður.

Tryggvi Gunnar Hansen

Tryggvi Gunnar Hansen.

Tryggvi, sem var forðum öflugur í starfi ásatrúarmanna, hafði verið að kveða rímur frá unglingsárum og hóf síðar að vinna með bókmenntaarfinn með ýmsum hætti, m.a. með því að blanda saman rímnakveðskap og raftónlist. Það fyrsta sem fjölmiðlar fjölluðu um Tryggva sem tónlistarmann var þegar hann flutti Völuspá með aðstoð örtölvu árið 1982 og tveimur árum síðar kom hann nokkuð við sögu á safnkassettu sem bar titilinn Bani 1.

Mörgum árum síðar stofnaði hann tónlistarhópinn Seiðbandið (um miðjan tíunda áratuginn) sem sérhæfði sig í slíkum kokteil raftónlistar og forns kveðskaps.

Tryggvi Gunnar Hansen

Tryggvi Gunnar Hansen.

Um svipað leyti (1995) sendi Tryggvi frá sér sjaldséða snældu sem bar titilinn Seiður, þar sem hann sótti einnig í bókmenntaarfinn en að þessu sinni voru eddukvæðin atkvæðamest, einkum Völuspá og Hávamál.

Þremur árum síðar (1998) sendi Seiðbandið ásamt Tryggva (TH) frá sér plötuna Vúbbið er að koma: Íslensk raf og danskvæði. Sú plata hlaut ekkert sérstaka almenna athygli en fékk þokkalega dóma í Morgunblaðinu og DV. Það sama ár kom út önnur snælda með Tryggva einum en hún bar heitið Inuals dansar en þar var raftónlistarmaðurinn Biogen (Sigurbjörn Þorgrímsson) honum innan handar. Snældan fékk nokkuð jákvæða dóma í Morgunblaðinu.

Tryggvi Gunnar Hansen

Tryggvi Gunnar Hansen.

Lítið hefur spurst til tónlistariðkunar Tryggva eftir það, hann birtist sem gestur á plötu Hallvarðs Ásgeirsonar, Los Casas, og söng kvæðið um Ólaf Liljurós á samnorrænni safnplötu með flytjendum frá Íslandi, Grænlandi, Færeyjum og Lapplandi (World music from the cold seas) árið 2015 en að öðru leyti hefur hann lítt verið viðloðandi tónlist.
Tryggvi hefur hin síðustu ár verið þekktastur fyrir að búa í tjaldi í skóglendi í útjaðri höfuðborgarsvæðisins, sem er svolítið í anda lífsspeki hans.“ Þar hefur hann fengið að vera í friði fyrir áreiti.

Í Morgunblaðinu 11. nóv. 1994 er grein eftir Tryggva Gunnar Hansen; „Þjóðmenning – framlag til heimsmenningar„.

Grindavík

Grindavík – Sólarvé.

Þar segir m.a.: „Í Morgunblaðinu 28. október er grein undir fyrirsögninni „Trúfrelsi er fjöregg“ eftir Einar Sigurbjörnsson prófessor í guðfræði. „Tilefni skrifanna eru þær deilur sem upp hafa komið vegna hofbyggingar í Grindavík. Þar sem mér er málið skylt sé ég mig tilneyddan að leiðrétta nokkrar rangfærslur og misskilning sem fram kemur í grein prófessorsins og í umræðunni allri. Undarlegt verður raunar að teljast að prófessor við Háskóla Íslands skuli ekki afla sér betri upplýsinga áður en hann tjáir sig opinberlega um málið.

Grindavík

Grindavík – Sólarvé.

Enn og aftur verð ég að taka fram að Ásatrúarfélagið stendur ekki að byggingu hofsins. Á þjóðveldisöld voru engin ásatrúarfélög. Íslenskir bændur byggðu sín blóthús sjálfir. Eftir kristnitöku byggðu sjálfstæðir bændur einnig kirkjur á eigin kostnað. Þessi siður hefur haldist alveg fram á tuttugustu öld, þótt oftast séu kirkjur byggðar fyrir almannafé nú á seinni tímum.
Það skal einnig leiðrétt hér að umhverfíslistaverkið Sólarvé í Grindavík var ekki byggt á vegum Vors siðar og þaðan af síður Ásatrúarmanna. Var það unnið sem átaksverkefni í atvinnumálum að tilstuðlan Grindavíkurbæjar. Ég hannaði verkið og vann það með hjálp vaskra Grindvíkinga. Það var þing til samveru og helgað sólinni á sumarsólstöðum 21. júní, en Sólarvé er ekki trúarlegt mannvirki í sjálfu sér.

Grindavík

Grindavík – Sólarvé.

Þjóðmenning og Vor siður Hofið í Grindavík er byggt í nafni félags sem nefnist Vor siður og tveggja einstaklinga. Annar þeirra er höfundur hofsins og heiðinn maður, sá sem þetta ritar, hinn er kristinn. Innan vébanda Vors siðar eru fleiri Ásatrúarmenn en ég, en þeir eru þó ekki í meirihluta í félaginu. Vor siður er þjóðmenningarfélag, ekki trúfélag. Ásatrúarmenn styðja hins vegar byggingu hofs í Grindavík heils hugar. Ég held að flestir Ásatrúarmenn telji það af hinu góða að veita íslenskri menningu lið.

Grindavík

Grindarvík – Sólarvé.

Ég byggi heiðið hof. Það hús er listaverk, sem hefur nálgun við fornan skála, gert af stafverki eða rekaviðarsúlum. Fjórir 6 metra langir stórviðir bera þakið uppi en tólf stafir eru meðfram veggjum. Reft og tyrft yfir þakið með torfi. Þetta er einskonar jarðhýsi, svolítið aflangt, skipslaga, með eldi í miðju gólfi og brann undir hamri. Moldargólf. Stórt op er fyrir miðju gólfi yfir eldinum. Bekkir meðfram veggjum og þiljað að hluta við veggina Húsið er byggt til samveru, til þinghalds og dansa. Ég byggi yfir frjálsa afstöðu nútímamannsins, þar sem hver hefur sína persónulegu mynd af heiminum og ætlar engum að sjá sömu sýnir af þessari annars óskiljanlegu tilvist. Ég vil efla dansa og leika af ýmsu tagi, kveðskap og sönglistir, það helst sem eflir samkennd með fólki.“

Grindavíkurbrim

Grindavíkurbrim.

Það er meginatriði, segir Tryggvi Gunnar Hansen, að upplifa það sem er sérstakt við menningu þeirrar þjóðar, sem heimsótt er. Þannig getur Vor siður allt eins þýtt „það sem við erum vön að gera sarnan“. Önnur merking orðsins siður er tengd siðferði. Siður getur vissulega þýtt átrúnaður í fomri merkingu orðsins og er það vel, flestir meðlimir Vors siðar bera að vonum sína persónulegu trú í hjarta sínu.

„Svo virðist sem fólk haldi að ég ætli að neyða ferðafólk til að láta vígjast til heiðni í hofinu, ferðafólkinu alsendis að óvörum.

Grindavík

Grindavík.

Ég held að það sé ljóst að svona málflutningur er út í hött og ætti að vera fyrir neðan virðingu hins siðavanda guðfræðiprófessors. En heimsóknir ferðafólks í trúarleg samkomuhús eru vel þekkt fyrirbæri.

Reykjavík

Reykjavík – Hallgrímskirkja.

Eflaust rekast ferðamenn inn í Hallgrímskirkju við og við, hver veit hvers siðar það fólk er. Flestir ferðamenn reyna að heimsækja hin frægu Shinto-hof og Zen-garða er þeir heimsækja Japan og ekki nema gott eitt um það að segja að fólk fái að kynnast mismunandi siðum og viðhorfum. Trúarlegar stofnanir draga að sér forvitið ferðafólk eins og hvaðeina sem sker sig úr.

Hvernig tengist hofbygging ferðamenningu? Ferðamenning er í raun samskipti. Hugsjón ferðamennskunnar er að auka samskipti og skilning milli þjóða og menningarsvæða. Vera má að ferðamenning geti „læknað“ jarðarbúa af því hatri og ótta sem hvílir eins og mara á samskiptum manna eins og er.

Brim

Grindavíkursjór.

Það er meginatriði að ferðamenn fái að upplifa það sem er sérstakt við menningu þeirrar þjóðar sem þeir heimsækja. Þannig er þjóðmenningin framlag til heimsmenningarinnar. Okkar er því að leggja rækt við þekkingu og ærlegan skilning á arfleifðinni og veita öðrum aðgang að henni bæði í orði og á borði.

Ekki er nóg að segja sögur og leika leikrit heldur ættum við að kynnast því fólki sem sækir okkur heim. Ferðalög með tilgangi heitir þessi áætlun.

Grindavík

Grindavík – Jónsmessusólin.

Samskiptamunstur eins og söngvar, matarveislur við elda og dansar í gömlum stíl era í fullu gildi. Allt sem eflir bein samskipti fólks er af hinu góða. Ferðamaðurinn er ekkert öðruvísi en við sjálf — erum við ekki öll fólk á ferð?
Þess má að lokum geta að jafnvel þótt teikningar af hofinu hafi verið samþykktar, hafa bygginganefnd og bæjarstjórn í Grindavík ekki enn gefið leyfi fyrir því að hofið rísi á þeim stað þar sem byrjað er á því, hvort sem það er stífni af trúarlegum rótum eða af öðrum „persónulegum“ ástæðum. Vil ég því velta boltanum áfram og spyrja þá sveitarstjómar- og bæjarstjómarmenn, sem þessi orð lesa, að hugleiða hvort þeir hafi hug á nýskapandi aðgerðum í ferðaþjónustu í sínu sveitarfélagi. Vera má að ég gæti orðið að liði.“ – Höfundur er listamaður og
hofbyggjandi í Grindavík.

Heimildir:
-Morgunblaðið, 15. júlí 1994, Sólarvé í Grindavík, bls. 6.
-https://glatkistan.com/2018/04/19/tryggvi-gunnar-hansen-1956/
-http://www.sudurnes.net/frettir/faerdu-tryggva-hansen-skjolfatnad-og-stigvel/
-https://www.grindavik.is/ahugaverdirstadir
-Morgunblaðið 11. nóv. 1994, Þjóðmenning – framlag til heimsmenningar, Tryggvi Gunnar Hansen, bls. 28.
-http://www.visir.is/afkomandi-huldufolks-byr-i-skogarrjodri-vid-reykjavik/article/2015150928779

Tryggvi Gunnar Hansen

Tryggvi Gunnar Hansen.

Dátahellir

Dátahellir norðan í Gíghæð vestarlega í Arnarseturshrauni ofan Grindavíkur heitir eftir hermönnum sem fundu beinagrind af manni í hellinum 15. júlí 1967. Lögreglan í Hafnarfirði fór með beinin í Fossvogskapellu þar sem þau voru brennd. Lögreglan taldi manninn hafa orðið úti fyrir nokkur hundruð árum síðan. Nokkrum dögum síðar fundu hermennirnir beltisól, sylgju og hnífsblað skammt frá þeim stað sem beinin höfðu legið. Enn síðar fundu þeir svo fataleifar á steini í hellinum sem er um 40 metra langur.

Dátahellir

Sveinn Björnsson, lögregluvarðstjóri í Hafnarfirði bendir á, að beinagrindin hlýtur að hafa verið af mjög stórum manni. Bandarísku sjóliðarnir eru frá v.: Jeffrey Haughton, Paul Gougeon og Lawrence Hampton. (Mynd: George Cates).

Í Morgunblaðið 19. júlí 1967 er sagt frá beinafundinum undir fyrirsögninni „Lá á bakinu með aðra höndina undir hnakkanum“ —Viðtal við einn Bandaríkjamannanna sem fann beinagrindina í hellinum við Grindavík.

„Beinafundurinn í hellinum skammt frá Grindavík hefur að vonum vakið mikla athygli, og í ráði er, að fornleifafræðingar frá Þjóðminjasafninu fari þangað innan skamms til þess að kanna hvort þar er einhverjar frekari leifar að finna. Hnífur og belti fundust einnig í hellinum og telur Gísli Gestsson, safnvörður, að þessir hlutir geti verið 4—500 ára gamlir.

Þeir lágu ekki við hlið beinagrindarinnar og því ekki víst að þeir hafi tilheyrt þeim sem þarna lét líf sitt.

Dátahellir

Sveinn Björnsson, lögregluvarðstjóri í Hafnarfirði skoðar hauskúpuna. Í horninu á myndinni má sjá beltissylgjuna og hnífinn, sem sjóliðarnir fundu. (Mynd George Cates).

Það voru þrír bandarískir sjóliðar sem fundu leifarnar, og Morgunblaðið hafði tal af einum þeirra, Paul Gougeon, í gær: „Við vinnum við radarstöðina hér í Grindavík og okkar besta tómstundaiðja er, að ganga út í hraunið og skoða hella sem við rekumst á. Við höfum farið margar ferðir og skoðað fjöldann allan af hellum og smágjótum. Það er ekki mikið að finna í þessum hellum og þetta er í fyrsta skipti sem við rekumst á eitthvað þessu líkt, en við höfum gaman að því engu að síður“.

„Hvað er hellirinn langt frá stöð ykkar í Grindavík?“

„Hann er eitthvað um sex mílur í burtu, í áttina til Keflavíkur.“

„Hvað er hellirinn stór?“

Dátahellir

Dátahellir.

„Það er erfitt að segja um það nákvæmlega. Við urðum að beygja okkur til að komast inn í hann, ég held að hann sé um fimm metra djúpur. Beinagrindin lá innst í hellinum. Okkur virtist þetta hafa verið mjög stór maður. Hann hafði legið á bakinu, með aðra hendina undir hnakkanum, eins og hann ætti sér einskis ills von. Ég get ekki ímyndað mér hvernig hann hefur fengið þetta gat á höfuðkúpuna, það lá að vísu stór steinn við aðra öxl hans, en okkur var sagt, að hann hefði fallið eftir að maðurinn var dáinn, og beinagrindin ein var eftir.“

„Funduð þið beltið og hnífinn hjá líkinu?“

Dátahellir

Í Dátahelli.

„Nei, hlutirnir voru framar í hellinum, nokkuð frá beinunum. Við erum ekki vissir um, að þetta hafi verið belti en teljum það mjög líklegt. Það var bara sylgja eftir og svo einhverjar druslur, sem við töldum vera belti. Hnífurinn var að sjálfsögðu illa farinn, en þó greinilega hægt að sjá að þetta er hnífur.“

„Sáuð þið nokkur merki um að þarna hafi verið mannabústaður, t.d. eldstæði eða eitthvað slíkt?“

Dátahellir

Dátahellir.

„Nei, við urðum þess ekki varir. Satt að segja leituðum við ekki mjög vandlega eftir að við fundum beinin og hnífinn. Íslenska lögreglan var strax látin vita, og þeir tóku málið í sínar hendur. Við höfum áhuga fyrir að fara þangað aftur og leita betur, en mér skilst að íslenskir fornleifafræðingar hafi hug á að kanna staðinn svo að þá er best fyrir okkur að vera ekki að róta við neinu, við gætum hæglega eyðilagt eitthvað, sem sérfræðingsaugað kynni að meta þótt við.“

Þjófagjá

Þjófagjá.

Af hverjum var beinagrindin? Hvernig voru höfuðáverkarnir til komnir og af hvers völdum? Gæti maðurinn hafa tengst ræningjunum í nálægri Þjófagjánni í Þorbjarnarfelli eða varð hann saklaus fyrir barðinu á þeim? Leitaði hann skjóls í hellinum á flótta eftir að hafa verið veittur áverki? Og þá undan hverju eða hverjum? Var maðurinn kannski fyrrum smali í Hópsseli utan í Selshálsi er gæti hafa orðið fyrir óhappi eða tengdist hann mögulega seljum Járngerðarstaðabænda á Baðsvöllum? Gat beltissilgjan gefið einhverja vísbendingu um manninn?
Hellirinn er í hrauni miðja vegu milli tveggja þjóðleiða fyrrum; Skógfellavegar og Skipsstígs. Langt er þeirra á millum. Vagnvegurinn frá Stapanum um úfið hraunið til Grindavíkur var lagður á þessum slóðum árið 1916. Í nágrenninu eru nokkrir hellar og skútar.
Öllum spurningum um dauða mannsins í Dátahelli er enn ósvarað. Hver var t.d. niðurstaða rannsóknar lögreglunnar í Hafnarfirði á dánarorsökinni og var einhver eða einhverjir grunaðir í málinu? Hver var niðurstaða nefnds fornleifafræðings varðandi aldur, aldurtila og dauðdag viðkomandi? Framangreindar niðurstöður hafa aldrei verið gerðar opinberar.

Dátahellir

Dátahellir – skýrsla.

FERLIR leitaði til Þjóðskjalasafnsins og óskaði eftir afriti af lögregluskýrslum um beinafundinn í Dátahelli. Starfsfólkið staðfesti að lögregluskýrslur frá þessum tíma væru í fórum safnsins, en þrátt fyrir ítrekaða nokkurrra mánaða leit hefðu skýrslur um þetta tiltekna mál ekki komið í leitirnar. Nokkrum mánuðum síðar kom eftirfarandi svar:

„Sæll,
Í viðhengi er afrit úr dagbók lögreglunnar í Hafnarfirði þar sem kemur fram að Lögreglan á Keflavíkurflugvelli tilkynni þeim um líkfund í hrauninu við Grindavík þann 15.7. og sama dag fóru tveir menn til Grindavíkur vegna málsins. Þeir sóttu beinin og fóru með þau í Fossvogskapellu. Daginn eftir tilkynnir varðsjórinn á Keflavíkurflugvelli að hermennn á vellinum hafi fundið belti, sylgju og hníf í sama helli og beinin fundust í. Varðstjórinn ætlar að koma mununum á varðstöðina um kvöldið, sem er svo gert, samkvæmt dagbókinni.

Dátahellir

Dátahellir – skýrsla 2.

Við erum búin að leita að lögregluskýrslu um málið bæði í skjalasafni frá lögreglunni í Hafnarfirði og Keflavík/Keflavíkurflugvelli. Einnig athuguðum við hvort að Ríkissaksóknari hafi fengið gögn um málið en svo sáum við ekki. Þá var leitað í mannskaðaskýrslum sem höfðu verið sendar Dóms- og kirkjumálaráðuneyti og Hagstofunni en án árangurs. Ekki fannst heldur dánarvottorð í gögnum frá Hagstofu.

Því miður verð ég að tilkynna þér að við finnum engar frekari gögn um málið en það sem er í viðhengi.“
kv. Helga Hlín

Svar:
Sæl Helga Hlín; „Þakka þér kærlega. Dáist af dugnaði þínum og eftirfylgni“.

Heimild:
-Morgunblaðið miðvd. 19. júlí 1967, bls. 28 og 20.

Dátahellir

Dátahellir – loftmynd.

Dýrfinnuhellir

Gengið var um Grindavík og m.a. hugað að Grindavíkurhelli og Dýrfinnuhelli við Skipsstíg í Skipsstígshrauni. Áhugasömum Grindvíkingum var boðin þátttaka. Upphafsstaður var í Kúadal suðvestan við Hesthúsabrekku.

Kúadalur

Kúadalur í Grindavík.

Við Kúadal er varða við gömlu leiðina frá Þórkötlustaðahverfi inn á Skipsstíg, hina gömlu þjóðleið milli Járngerðarstaða og Njarðvíkur. Frá henni var haldið yfir að Stamphólsgjá. Austan við gjána eru tvær aðrar vörður á sömu leið. Stamphólsgjá lá svo að segja í gegnum núverandi Járngerðarstaðahverfi, frá NA til SV. Hún var síðan fyllt upp eftir því sem byggðin óx. Nú sést gjáin einungs óskert á stuttum kafla efst í landinu norðan og ofan við byggðina, vestan íþróttasvæðisins. Á einum stað í gjánni er hægt að komast niður í hana. Því miður er niðurfallið fullt af rusli svo niðurgangurinn er lítt fýsilegur. Hægt er að komast inn undir hraunið í báðar áttir. Þrengsli eru í syðri hlutanum, en með lagni er hægt að feta sig áfram allnokkurn spöl. Einungis 30 metrar voru farnir að þessu sinni.

Grindavíkurhellir

Grindavíkurhellir.

Í 19. aldar ferðalýsingu er getið um Grindavíkurhelli. Hellinum er ekki lýst nánar en að hann sé alllangur. Slík lýsing gæti vel átt við svonefndan Gauahelli, sem áður var nefndur Jónshellir. Opið á honum er norðvestan við Stamphólsgjá. Fara þarf niður í gjána um op á hraunbólu. Í því er að sjá sem bólan sé þak á nýrra hrauni, rauðlituðu, en undir er eldra grágrýti.
Slæmt er að sjá hveru innopið hefur dregið að sér mikið af alls kyns drasli. Þegar inn er komið er hellirinn vel rúmgóður. Svo er að sjá sem gólfið hafi verið þakið viðarfjölum, sem nú eru farnar að fúna. Innar er stigi svo til lóðrétt niður í jörðina um sprungu í eldra hrauni.
Þegar niður er komið er fyrir rúmgóður hellir og hægt að fara suðvestur eftir gjánni. Áður fyrr var mögulegt að fara alllangt til suðvesturs og koma upp þar sem nú er félagsheimilið Festi. Opinu þeim megin var lokað þegar félagsheimilið var byggt.

Grindavíkurhellir

Grindavíkurhellir í dag – opið þakið rusli.

Fólk var jafnan varað við að fara um hellinn því hann er víða þröngur, auk þess sem dæmi eru um að menn hafi lokast inni í honum um tíma eftir jarðskjálfta. Segir sagan að tveir menn hafi verið í hellinum þegar jarðskjálfti reið yfir. Grunur lá á að hellirinn hafi þá verið notaður til brugggerðar um tíma líkt og Hesthellir í Arnarseturshrauni. Lokuðust mennirnir inni, en opnaðist aftur þegar annar jarðskjálfti fylgdi í kjölfarið. Töldu þeir sig heppna að komast út aftur. Sprungunni var ekki fylgt á leiðarenda að þessu sinni, einungis látið nægja að skoða innviðina næst opinu.

Þá var tekið hús á Tómasi Þorvaldssyni og hann spurður um staðsetningu Dýrfinnuhellis. Tómas tók vel á móti viðkomandi, rifjaði upp ferð sína um Skipsstíginn og lýsti opinu, hvorum megin við stíginn það væri og hversu langt frá honum.

Skipsstígur

Skipsstígur.

Þá var gengið yfir á Skipsstíg vestan Lágafells og honum fylgt áleiðis til norðurs. Stígurinn hefur verið endurgerður á kafla. Líklega hefur sú framkvæmd átt að þjóna vögnum eða bifreiðum. Þar sem kvöldsólin skein á stíginn og heillegar vörðurnar sást hvar hann liðaðist jafnbreiður í gegnum hraunið, vandlega gerður af mannanna höndum. Lítið sem ekkert er vitað um þessar úrbætur á Skipsstíg, sem lengst af var stysta leiðin milli Suðurnesjabyggðalaganna beggja vegna Reykjanesskagans. Það breyttist hins vegar með tilkomu Grindavíkurvegarins um Selháls og í gegnum Arnarseturshraun að Seltjörn og áfram upp á Keflavíkurveginn á Stapa á árunum 1913-1918. Skipsstígur er mjög fallegur á þessari leið þar sem hann liðast í gegnum hraunið.

Skipsstígur

Varða við Skipsstíg.

Norðan og vestan við Lágafellið er Dýrfinnuhellir. Segir Tómas Þorvaldsson frá því í einni bóka sinna að sögn hafi verið um að samnefnd kona hafi flúið þangað með börn sín eftir að „Tyrkirnir“ komu að Grindavík og fóru ránshendi um byggðalagið. Á hún að hafa hafst við í hellinum um tíma. Þá er ekki ólíklegt að vegavinnumennirnir á Skipsstíg hafi nýtt hellinn sem skjól. Gegnumgeng braggalaga hraunbóla er þarna skammt norðar, vinstra megin við stíginn. Hleðsla er við annan endann. Ekki er ólíklegt að ferðalangar og vegagerðamenn hafi einnig nýtt sér það sem skjól um tíma.

Dýrfinnuhellir

Dýrfinnuhellir.

Dýrfinnuhellir, skv. lýsingunni er stutt frá stígnum. Nokkrir hellar eða skútar eru einnig við hann eigi langt frá. Einn er vel manngengur og liðast undir hraunið. Dýrfinnuhellir er hins vegar rúmgóður, en ekki mjög hár til lofts. Hann hefur hins vegar veitt ágætt skjól þeim, sem í honum dvöldu. Þykkt lag af sandi er í gólfinu. Skammt frá honum er annar hellir, ekki síður ákjósanlegt skjól. Innhellar hans eru víða lágir. Sandur er í botninum.

Handan við stíginn, skammt frá er hins vegar mjög fallegur hellir, eða m.ö.o. stór hraunbóla. Botninn er alveg sléttur og hlaðið hefur verið upp í kantana. Opið er fremur lítið og að mestu þakið mosa. Mjög góður felustaður. Niðurstigið hefur verið lagað til. Þarna er mjög gott skjól fyrir marga menn.

Skipsstígur

Hellir við Skipsstíg.

Ef lýsingin hefði ekki verið svo nákvæm af staðsetningu Dýrfinnuhellis væri raunhæft að ætla að þarna hafi fólk getað hafst við um tíma og það með góðu móti. Hellir þessi verður skoðaður betur á næstunni.
Í göngunni villtist einn þátttakenda frá hópnum. En eins og jafnan er kynnt er ekki beðið eftir eða leitað að “eftirlegukindum”. Og þar sem þessi þátttakandi hafði ekki göngustað eða önnur verðmæti meðferðis var hann skilinn eftir. Vonandi ratar hann til byggða þá og þegar húmar að kveldi.

Gyltustígur

Gyltustígur (t.h.).

Í bakaleiðinni léku kvöldsólargeislarnir við Þorbjarnarfellið. Við það sást Gyltustígurinn upp vestanvert fellið mjög vel.
Hraunið er þarna víða mjög úfið, en inni á milli eru tiltölulega slétt apalhraun. Hraunkanturinn er u.þ.b. 6 metra hár og sést vel hvernig hann hefur stöðvast á graslendinu norðan Lágafells. Reykjavegurinn svonefndi liðast vestur með sunnanverðum hraunkantinum. Miðsvæðis sunnan við hann er sæluhús fyrir langþreytta ferðalanga.
Frábært veður.

Dýrfinnuhellir

Dýrfinnuhellir.

Vigdísarvellir

Á vefsíðu Minjastofnunar getur að lesa eftirfarandi um Vigdísarvelli austan við Núpshlíðarháls (Vesturás):

Vigdísarvellir

Vigdísarvellir – uppdráttur Minjastofnunar. Á hann vantar nokkrar minjar.

„Á Vigdísarvöllum má sjá mjög fallegt og heillegt minjasvæði kotbýla frá 19. öld.

Vigdísarvellir

Vigdísarvellir.

Samkvæmt Jarðabók Árna og Páls frá 1703 var á Vigdísarvöllum selstaða frá Þórkötlustöðum í Grindavík. Henni var lýst sem góðri en langt og erfitt að fara. Selstaðan var í landi Krýsuvíkur en Þórkötlustaðabændur fengu að nýta hana í skiptum fyrir skipsstöðu í Þórkötlustaðalandi.

Vigdísarvellir

Vigdísarvellir – Bali.

Á Vigdísarvöllum var og er eitt besta gróðurlendi í Grindavíkurhreppi en staðurinn var hins vegar afskekktur. Árið 1830 var þar reist nýbýlið Vigdísarvellir og skömmu síðar nýbýlið Bali. Ekki er alveg ljóst hvaða ár Bali byggðist, það er ekki nefnt í heimildum fyrir 1840 þegar fyrst er getið búsetu þar en árið 1846 bjó þar sex manna fjölskylda. Síðasta heimild um búsetu á Bala er frá árinu 1850.

Vigdísarvellir

Vigdísarvellir – útihús.

Á Vigdísavöllum var búið allavega til ársins 1901, mögulega með einhverju hléi milli 1870 og 1890. Þriðja nýbýlið á svæðinu sem heimildir eru um er býlið Fell. [Fell er reyndar ekki nálægt Vigdísarvöllum heldur sunnan Grænavatns]. Þar er getið búsetu í manntalinu 1855 en hvorki fyrr né síðar. Í lok janúar árið 1905 hrundu eða stórskemmdust öll hús á Vigdísarvöllum og fór bærinn eftir það í eyði.

Bærinn Vigdísarvellir eru í norðvesturhorni vallanna sem þeir heita eftir. Utan um túnið er mikill túngarður afar greinilegur og heill að mestu, alls rúmlega 1 km. að lengd. Bali er í austurhluta túnsins á Vigdísarvöllum. Tóftin er mjög greinileg með tveimur samföstum kálgörðum.

Þórkötlustaðasel

Þórkötlustaðasel við Vigdísarvelli – uppdráttur ÓSÁ.

Minjarnar eru vel varðveittar og menningarlandslagið í heild mjög skýrt. Þó svo minjarnar séu flestar ungar eða frá seinni hluta 19. aldar eru þær afar áhugaverðar sérstaklega sem minnisvarði um kotbýli frá þessum tíma sem annars staðar eru flest horfin vegna seinni tíma byggðar.“

Þess ber að geta að selstaða Þórkötlustaða fyrrum var á sunnanverðum Völlunum, sem þá hétu reyndar ekki Vigdísarvellir en voru norðurhluti Bleikingsvalla. Á þeim tíma var ekkert tún, sem síðar varð umleikis Vigdísarvelli og Bala sunnan undir Bæjarfelli.

Heimild:
-https://skyrslur.minjastofnun.is/Verkefni_2571.pdf

Vigdísarvellir

Vigdísarvellir – uppdráttur ÓSÁ.

Hraun

FERLIR grennslaðist fyrir um nýlegt niðurif gamla íbúðarhússins að Hrauni í Grindavík og sendi því byggingarfulltrúa bæjarins eftirfarandi fyrirspurn:

Hraun

Hraun í Grindavík. Gamla íbúðarhúsið handan „Sigurðarhúss“.

„Sæll, áttu afrit af nýlegu bréfi Minjastofnunar um íbúðarhúsið (1929) að Hrauni, sem nú hefur verið rifið. Kannski leynist þar gagnlegur fróðleikur um byggingarsögu hússins? sbr.

„Fundur 74.
Hraun 129179 – Umsókn um byggingarheimild Niðurrif – Flokkur 1, – 2304054.
Tekið er fyrir mál Harðar Sigurðssonar vegna einbýlishúss (N2092758) á jörðinni Hraun (L129179) meðumsækjendur eru Gísli Grétar Sigurðsson og Margrét Sigurðardóttir.

Hraun

Hraun í Grindavík.

Máli var frestað á síðasta fundi þar til niðurstaða minjastofnunar lægi fyrir.
Minjastofnun gerir ekki athugasemd við að húsið verði rifið.
Niðurrifsheimild er því veitt.“

Hverjir voru skráðir eigendur hússins (sem var tvískipt) áður en það var rifið?“
Svar barst um hæl;
„Sæll.
Sjálfsagt mál (sjá meðfylgjandi viðhengi).

Hraun

Hraun – svar Minjastofnunar v/ niðurrif íbúðarhússins að Hrauni.

Í bréfi Minjastofnunar má lesa eftirfarandi (leitt er þess að vita að ekki er hægt að nálgast bréf og erindi í opinberum fundargerðum bæjarfélagsins án þess að biðja um það sérstaklega. Það ætti það þykja sjálfsögð kurteisi að birta meðfylgjandi fylgiskjöl við tilfallandi erindum.

Svar: „Eigendur voru Hörður Sigurðsson, Gísli Grétar Sigurðsson, Margrét Sigurðardóttir“.

Innihald bréfs Minjastofnunar:

„Í tölvupósti dags 11. maí 2023 leitar Hörður Sigurðsson eftir áliti Minjastofnunar Íslands vegna íbúarhúss á Hrauni í Grindavík. Húsið hefur orðið fyrir vatnstjóni og nú er sótt um leyfi til að rífa húsið.
Gamla íbúðarhúsið á Hrauni er tvílyft bárujárnsklætt timburhús, kjallari og ris. Skv. Fasteignaskrá er það byggt árið 1929. Í lögum um menningarminjar nr. 80/2012 er eigendum húsa sem byggð voru 1940 eða fyrr skylt að leita álits Minjastofnunar ef þeir hyggjast breyta þeim, flytja eða rífa.

Hraun

Signingasteinn (skírnarsteinn) við Hraun. Gamla húsið v.m. og „Sigurðarhús“ h.m.

Áfast húsinu er svonefnt Sigurðarhús, reist 1956. Eigendur búa í því og það mun standa áfram.
Húsið Hraun er stórt og reisulegt, greinilega byggt af metnaði. Það var reist af bræðrum og samanstendur af tveimur sambyggðum íbúðum undir einu þaki, austur- og vesturhluta. Húsið hefur varðveislugildi og ánægjulegt hefði verið að sjá það gert upp með vönduðum hætti.
Undirrituð skoðuðu húsið ásamt eigendum þann 13. júní s.l. Ljóst er að það er illa farið eftir að hafa staðið autt í nokkur ár og ekki síst eftir vatnstjórn þegar hitaveituofnar á fyrstu hæð þess sprungu árið 2021 en það uppgötvaðist ekki fyrr en eftir nokkurn tíma. Víða eru augljósar rakaskemmdir, stórir myglublettir og sterk saggalykt í húsinu.

Hraun

Hraun 2020.

Minjastofnun gerir ekki athugasemd við að húsið verið rifið. Til fyrirmyndar væri að endurnýta húshluti, innréttingar, glugga, hurðir, snerla, ljósrofa o.fl. og styðja þannig við hringrásarkerfið. Ef ekki reynist unnt að nýta hlutina á staðnum mætti auglýsa þá á samfélagsmiðlum eða koma þeim til Efnismiðlunar Sorpu eða Húsverndarstofu.“

Undir bréfið skrifa Þór Hjaltalín og María Gísladóttir.

Hraun

Hraun í Grindavík 2019.

Efnisinnihald bréfs Minjastofnunar verður að teljast rýrt, svo ekki sé meira sagt. Hvorki er getið um byggingasögu hússins, fyrrum eigenda þess, hönnuðar eða skýrskotun til byggingahefðar þess tíma.

Hraun er skammt austan við meginbyggðina í Grindavík. Alls eru eigendur Hraunsjarðanna, og þar með gamla íbúðarhússins að Hrauni, sem eru í svonefndu Þórkötlustaðahverfi, um 20 talsins. Lönd þeirra ná talsvert til norðurs inn á hásléttuna og þeim tilheyrir meðal annars Fagradalsfjall og Geldingadalir, þar sem eldgos hefur gert sig heimankomið undanfarin ár.

Hraun

Hraun – eftir niðurrifið.

Í Fasteignaskrá ríkisins eru engir eigendur tilgreindir að fasteigninni Hrauni. Þar er einungis getið um svonefnt „Sigurðarhús“, sem byggt var vestan við gamla íbúðarhúsið frá 1929 árið 1956. Gamla húsið var tvískipt og tilheyrði a.m.k. tveimur fjölskyldum, sem á síðustu árum töluðust ekki við vegna álitamála.
Skv. upplýsingum Þinglýsingardeildar Sýslumannsins á Suðurnesjum voru Hörður Sigurðsson og Valgerður Söring Valmundsdóttir skráðir eigendur að íbúðarhúsinu að Hrauni í júní 2023.

Árni Konráð Jónsson

Árni Konráð Jónsson.

Árni Jón Konráðsson var fæddur 16. september 1926 að Móum Grindavík. Hann lést á Hrafnistu 7. mars 2017. Foreldrar hans voru Sigríður Jónsdóttir, f. 1 september 1895 að Hrauni Grindavík, d. 27. júní 1957, og Konráð Árnason, f. 22. Árni átti austurhluta íbúðarhússins að Hrauni, þegar síðast var vitað, og afkomendur hans eftir hans dag.

Skv. Lögbýlaskrá 2018 voru 15 skráðir eigendur að landareigninni Hrauni. Þeir hafa þá án efa verið fleiri því eiginkvenna eigenda er þar ekki getið.

Hraun

Hraun – lögbýlaskrá 2018.

Kirkja var á Hrauni frá 1226. Að sögn Sigurðar Gíslasonar var hún á hólnum austan við íbúðarhúsið þar sem síðar var byggt fjós. Vestan við kirkjuna var kirkjugarður. Bein fundust við umrótið. Sigurður fann þarna handunninn signingarstein þegar grafið var í hólinn og færði hann vestur fyrir íbúðarhúsið þar sem hann er enn. Sigurði var umhugað um að steinninn færi ekki á flakk vegna tengsla hans við kirkjusöguna að Hrauni fyrrum.

Heimild m.a.:
-Bréf Minjastofnunar 19. júni 2023 (MÍ202306-0021/ 6.06/ 6673.

Hraun - kort

Hraun í Grindavík – uppdráttur ÓSÁ.

Skansinn
Í júlí 1627 segir í Öldinni okkar:
Víkingar frá Algeirsborg ræna fólki og myrða – námu brott allt að fjögur hundruð manns, myrtu fjörutíu og rændu miklum fjármunum. Brenndu auk þess og eyðilögðu mikil verðmæti.

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir – uppdráttur ÓSÁ.

“Geigvænlegir atburðir hafa gerst: Víkingar frá Norður-Afríku hafa gengið á land í Grindavík, Vestmannaeyjum og víða á Austfjörðum, rænt fólki og fémæti og drepið fjölda manna. Meðal þeirra er séra Jón Þorsteinsson í Kirkjubæ í Eyjum. Minnstu munaði að víkingar þessir réðust einnig til atlögu að Bessastöðum, og tálmaði það fyrirætlan þeirra, að eitt skip þeirra tók niðri á boða á Skerjafirði.
Víkingar þessir, sem flestir voru frá Algeirsborg, komu hingað til lands á fjórum skipum. Það er talið að þeir hafi drepið hér um fjörutíu manns, flesta í Vestmannaeyjum, sært nokkra og haft á brott með sér hátt á fjórða hundrað Ísledninga og nálega tuttugu Dani, þar á meðal tvo Vestfjarðarkaupmenn. Fjögur kaupskip hremmdu þeir og höfðu tvö þeirra á brott með sér.

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir – teikning dr. Bjarna Sæmundssonar 12. apríl 1895.

Í Grindavík voru teknir tólf Íslendingar og þrír Danir og þar að auki áhöfn duggu þeirrar, sem átti að fara til Skutulsfjarðar.
Fyrsta víkingaskipið kom til Grindavíkur 20. dag júnímánaðar og varpaði akkerum á grunninu úti fyrir höfninni. Var sendur frá því bátur að dönsku kaupskipi er þar lá og létust víkingar vera hvalveiðimenn í þjónustu Danakonungs og báðust vista, en fengu ekki.
Grindavíkurkaupmaðurinn, Láritz Bagge, mannaði þá bát og lét róa út í skipið. Voru sendimenn þegar gripnir. Þessu næst greiddu víkingar atlögu, hremmdu kaupskipiðog réðust til uppgöngu í kaupstaðinn.

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir og Gerðavellir – uppdráttur ÓSÁ.

Flúði kaupmaður á land upp með öllum þeim, sem hjá honum voru í kaupmannshúsunum, en víkingar hófu að ræna búðirnar og byggðarlagið. Flest fólk fór að dæmi kaupmanns, nema Járngerðarstaðafólk, er féll í hendur víkingum. Engan drápu víkingar þó í Grindavík og ekki hirtu þeim um að hafa þá á brott með sér, er lasburða voru og einskis verðir sem þrælar á markaði.
Þegar víkingar létu út frá Grindavík, sáu þeir kaupfar danskt á leið vestur með landinu. Var þetta Skutulsfjarðarduggan. Tókst þeim að blekkja skipstjórnarmenn á henni með danskri veifu og ná henni á sitt vald. Sigldu þeir síðan á tveimur skipum fyrir Reykjanes og Garðskaga og inn Faxaflóa og huguðst ganga þessu næst á land á Álftanesi.

Bessastaðakirkja

Bessastaðakirkja og Bessastaðastofa fyrrum.

Fréttir af ráninu í Grindavík bárust þegar til Bessastaða, þar sem hirðstjórinn, Holgeir Rósinkrans, var fyrir á herskipi, sem lá á Seylunni. Lét hann undir eins safna liði um Nesin og halda vörð nótt og dag. Kaupför þau, sem komin voru, sendi hann inn á Leirvog í Mosfellssveit, en bændur voru kvaddir til virkishleðslu í Bessastaðanesi og þangað dregnar fallbyssur, sem heima voru á Bessastöðum. Aðkomumenn komu, voru kyrrsettir, og vildi svo til, að meðal þeirra voru þrír Frakkar, sem kunnu með skotvopn að fara, og hinn íslenski ævintýramaður, Jón Indíafari, sem hefur verið skytta á herskipum Danakonungs.

Víkingaskipin lögðu inn á Skerjafjörð laugardaginn 23. júní og stefndu á Seyluna. Steig þá hirðstjóri á hest með sveit manna, og reið flokkurinn fram og aftur með langar stengur, sem smíðaðar höfðu verið. Var það gert í því skyni, að víkingum virtist þar sveit altygjaðra hermanna.
Víkingar tóku að skjóta úr fallbyssum sínum, er þeir nálguðust, og var þeim svarað með fallbyssuskotum úr virkinu og af hirðstjóraskipinu á Seylunni. Véku þá víkingar skipum sínum undan norður á fjörðinn, en við það tók stærra skipið niðri, þar sem heita Löngusker, og stóð þar fast.

Skansinn

Skansinn við Bessastaði.

Lét hirðstjóri þá hætta skothríðinni, því að honum þótti ekki vogandi að egna víkingana til bardaga, ef vera kynni, að þeir létu sér strandið að kenningu verða. Hófu víkingar að flytja fanga og þungavarning úr hinu strandaða skipi yfir á hitt, en fleygðu því í sjóinn, er torveldast var viðfangs. Tókst þeim loks eftir hálfan annan sólarhring að ná skipinu af grynningunum og færðu skip sín þá utar, þar sem þeir voru óhultari. Þar selfluttu þeir fólk og varning á ný á milli skipanna, sigldu síðan brott og létu í haf með feng sinn.”

Árið 1628 komu nokkrir þeirra handteknu aftur heim. Þar á meðal voru tvo systkin frá Járngerðarstöðum við þriðja mann. Það var hollenskur kaupmaður sem leyst hafði Grindvíkingana út. Fólk þetta sagði þær fréttir að hinir herteknu væru flestir í ánauð í Algeirsborg, þeir sem ekki létust skömmu eftir komuna til Norður-Afríku.
Á Suðurnesjum eru nokkrar minjar og sagnir tengdar komu Tyrkjanna. Má þar nefna Ræningjastíginn í Heiðnabergi í Krýsuvík, komu Tyrkjanna í Krýsuvíkurselið ofan við bjargið, samskipti séra Eríks á Vogsósum við þá og Ræningjadysin austan við Ræningjahól, Eiríksvarðan á Svörtubjörgum ofan við Selvog, „Tyrkjavarðan“ vestan við Stað í Grindavík, sem ekki má raska, Fornavörin neðan við Járngerðarstaðahverfi, en þar er talið að Tyrkinn hafi varpað akkerum, blóðþyrnirinn (þistill) neðan við Sjólyst í Grindavík, hellir við Húsfjall ofan við Hraun, en þangað ætluðu Þórkötlustaðabúar að flýja ef Tyrkinn kæmi á ný, Dýrfinnuhellir, en sagan segir að þangað hafi samnefnd kona flúið með börn sín og dvalið meðan Tyrkir höfðust við í plássinu, byrgin undir Sundvörðuhrauni, en ein tilgátan er sú að þau hafi verið hlaðin til að veita fólki skjól ef Tyrkinn kæmi aftur til Grindavíkur og dysin á Hrauni, en þar eiga Tyrkir er Rauðka drap að hafa vera verptir skv. sögunni, svo eitthvað sé nefnt.
Við Bessastaði má enn sjá Skansinn og minjarnar umhverfis hann, auk fallbyssu í kjallara Bessastaðastofu.Tyrkjaránið

Fornubúðir

„Eins og kunnugt er lauk “Ensku öldinni” með bardaganum og drápi Englendinga í virki Jóhanns breiða ofan við Stórubót í Grindavík í júní 1532. Þar má enn sjá leifar virkisins sem og „Enskulágar“ þar sem hinir ólánssömu Englendingar voru grafnir. En sá bardagi átti sér langan aðdraganda. Árið 1518 varð t.d. stórbardagi í Hafnarfirði milli þýskra og enskra kaupmanna, sem lutu í lægra haldi eftir mjög mannskæða viðureign. Hrökkluðust þeir við svo búið úr bækistöðvum við Hafnarfjörð.

Gerðisvellir

Tómas Þorvaldsson við leifar virkis Jóhanns Breiða ofan við Stórubót.

Englendingarnir höfðu sest að í Fornubúðum við Hafnarfjörð og voru með fjölmenni á stóru skipi. Hamborgarar, sem ekki vildu una því, að ensku kaupmennirnir hefðu höfnina, söfnuðu liði meðal Þjóðverja á Vatnsleysuströnd, í Keflavík, Básendum og Þórshöfn (við Ósa) og fengu þaðan fjörutíu og átta menn til liðs við sig.
Hamborgarar klæddu síðan skip sín sængum í sjó niður og sigldu þannig búnir inn fjörðinn í útrænu. Elda kyntu þeir og á skipum sínum, svo að reykinn legði inn yfir Englendinga.

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir og Gerðavellir – uppdráttur ÓSÁ.

Þarna varð hinn grimmasti bardagi, og er til marks um mannfallið, að ekki komust heilir úr slagnum nema átta þeirra Þjóðverja, sem gengið höfðu í liðið á Suðurnesjum. Eigi að síður unnu Hamborgarar sigur á Englendingum, er nú eiga sér ekki lengur griðland annars staðar á Reykjanesskaga en í Grindavík.
Vorið 1532 sneru þýskir kaupmenn og skipstjórar sér til ráðsins í Hamborg og báðu það senda sér liðsauka, þar er þeir hefðu einsett sér að fara að Englendingum í Grindavík.
Það er skreiðin, sem í rauninni er bitist um. Hún er svo verðmæt, að Englendingar telja skreiðarfarm geta numið allt að fjórum fimmtu hlutum af verði skips, öllum úthaldskostnaði þess í Íslandssiglingu og vörufarmi, er það flytur til Íslands.“

-Úr Öldin okkar 1518 og 1532.

Hvaleyrarlón

Hvaleyrarlón við Hafnarfjörð. Fornubúðir voru á grandanum að handan.

Reykjanesskagi

Fjölmargir, bæði innlendir sem útlendir, fara að Reykjanesvita á hverju ári. Þar virða þeir fyrir sér hið fallega umhverfi, vitann á Vatnsfelli, Valahnúk og Karlinn utan við ströndina. Fuglakliðið í Hnúknum vekur jafnan mikinn áhuga sem og átök sjávar og strandar þegar hreyfing er á vindi og vatni.
En það er fjölmargt fleira að sjá og skoða við Reykjanesvita.

Reykjanesviti

Reykjanesviti.

Fellin við nýja vitann, sem tekinn var í notkun 1908, heita Hverhólmar, Írafell og Vatnsfell. Í því er dálítið vatn í dýjaveitum, sem safnast þar saman af snjó- og regnvatni.
Við strönd Reykjaness og báðu megin nessins hafa orðið mörg og mikil sjóslys á þessari öld (20. öldinni). Við Reykjanes strandaði m.a. eitt af stærstu skipum sem strandað hefur við Ísland, olíuskipið Clam. Það var 28. febrúar 1950. Skipið vari vélarvana eftir að hafa rekið upp í fjöru í Reykjavík og á leið til útlanda dregið af dráttarbáti, sem það slitnaði frá í ofsaveðri.

Clam

Clam á strandsstað.

Um borð voru 50 skipverjar. (Hvers vegna 50 manns voru um borð í vélarvana skipi sem draga átti til útlanda af dráttarbáti bíður sagnfræðinga að rannsaka). Þarna fórust 27 manns en 23 tókst að bjarga. Til eru og sagnir af björgun skipsáhafna er báta þeirra rak inn í Blásíðubás í vondum veðrum. Undir berginu austan Valbjargargjár eru margir sjávarhellar. Einn þeirra er opinn upp og hægt að komast áleiðis niður í hann og horfa á hvernig sjórinn er smám saman að grafa undan berghellunni.
Fyrsti ljósviti á Íslandi var reistur á Valahnjúki 1878.

Reykjanesvit

Reykjanesviti 1878.

Í miklum jarðskjálftum 8-9 árum síðar hrundi úr hnjúknum og sprungur mynduðust ofan á honum. Var þá talið að reisa yrði vitann á öruggari stað og var þá núverandi viti á Vatnsfelli byggður og tekinn í notkun 1908.
Annar viti (oft nefndur Litli viti), minni, var reistur sunnar á svonefndu Austurnefi. Ástæðan er sú að lítið eldfell, sem nefnist Skálarfell, skyggir á ljósið frá stóra vitanum á nokkru svæði þegar siglt er úr suðri. Hóllinn sem er á móti Vatnsfelli og er á vinstri hönd þegar ekið er fram hjá vitavarðarhúsinu á leið út að Valahjúk nefnist Bæjarfell.

Þegar gamli Reykjanesvitinn var reistur um 1878 voru auk þess bygður bær fyrir vitavörðinn sem og hlaðinn brunnur undir Bæjarfelli. Þetta var fallega hlaðinn brunnur, sem enn stendur. Gengið er inn í brunninn, sem þótti sérstakt. Slíka brunna má t.d. sjá við Merkines við Hafnir og á Snæfellsnesi (Írskabrunn). Nálægt brunninum er a.m.k þrjár tóftir.

Reykjanes

Reykjanesviti og nágrenni – uppdráttur ÓSÁ.

Til eru uppdrættir og riss af vitasmíðinni, umhverfinu og öðrum mannvirkjum á svæðinu. Verkinu var stjórnað af dönskum, sem lögðu fram verkfræðikunnáttuna, en íslenskir handaflið.
Frá vitavarðahúsinu var hlaðinn og flóraður stígur yfir að Valahnúk. Stígurinn sést enn vel. Gamli vitinn var hlaðinn úr grjóti og var sumt tilhöggvið. Sjá má leifar gamla vitans undir Valahnúk, skammt frá hlöðnu hesthúsi, sem enn stendur. Grjótið var sótt í yfirborðsklöpp norðan við Valahnúk. Þar hefur jafnþykk klöppin verið brotin niður af bakka og sést hlaðin gata liggja þar niður með kantinum.

Reykjanes

Reykjanesviti og nágrenni – uppdráttur ÓSÁ.

Norðan nýja vitans má sjá grunn af sjóhúsinu ofan við Kistu, en þangað var efni í hann flutt sjóleiðina og skipað á land. Enn austar með ströndinni er hlaðin tóft af húsi, líklega upp úr selstöðu, eða hugsanlega frá hinum gömlu Skjótastöðum.

Neðan við Bæjarfellið, við Keldutjörnina, er hlaðið gerði umhverfis klettasprungu. Í sprungunni er vatn þar sem gætir sjávarfalla. Áður var vatnið volgt, en hefur nú kulnað. Þarna lærðu ungir Grindvíkingar að synda og í kringum 1930. Ofan við Keldutjörn er hlaðinn túngarður.
Hlaðið er undir pall austan við Valahnúk. Þar höfðust menn frá Kirkjuvogi/Kotvogi við í tjöldum er þeir unnu m.a. reka á Valahnúkamölum. Til eru sagnir um iðju þeirra eftir mikla trjáreka. Dæmi eru og um að menn hafi gist í hellisskúta uppi í Valahnúkum, en ekki orðið svefnsamt vegna draugagangs.

Skálafell

Skálafell á Reykjanesi.

Í Skálfelli er djúpur hellir, Skálabarmshellir. Við op hans er torræð áletrun. Austan undir Skálafelli er hlaðið skjól, líklega fyirr refaskyttu, en mörg greni voru þaðan í sjónmáli niður á Rafnkelsstaðabergi.
Jarðfræðin á svæðinu er merkileg. Sprungurein gengur í gegnum það til SA. Sjá má hvernig gosið hefur á reininni á nokkrum stöðum (Stamparnir) og hvernig gosin hafa raðað sér upp eftir aldri. Ströndin ber glögg merki átakanna við Ægi. Landið hefur ýmist verið að stækka vegna nýrra gosa og minnka þegar sjórinn hefur verið að brjóta það miskunnarlaust niður þess á milli. Karlinn utan við ströndina er ágætt dæmi um það.

Heimild m.a.:
-Leó. M. Jónsson – Höfnum

Reykjanesviti

Reykjanesviti.

Seltún

Ásdís Dögg Ómarsdóttir jarðfræðingur, gönguleiðsögumaður og einn eigenda Asgard ehf. og starfsmaður Fjallakofans hefur smekk fyrir ævintýrum. Hún elskar náttúruna og dýrkar Ísland. Hún deilir hér með okkur gönguleið vikunnar sem er 5 km ganga sem tekur einn og hálfan tíma til tvo tíma að ganga og er erfiðleikstigið 2 á skalanum 1-5. Leiðin er Seltún – Arnarvatn.

Ketilsstígur

Upphaf Ketilsstíg við Seltún.

Hverasvæðið Seltún er staðsett um 40 mínútna akstur frá Reykjavík, við suðvesturenda Kleifarvatns á Reykjanesskaganum. Aksturinn frá höfuðborginni er upplifun útaf fyrir sig, eftir að komið er í gegnum Vatnsskarð. Vegurinn hlykkjast um stórkostlegt landsvæði sem er furðuleg blanda af aðlaðandi svörtum sandströndum og girnilegum grænum lautum og svo skuggalegum móbergsmyndunum og draugalegri jarðhitagufu sem minna mann á að hér er landið okkar unga með vaxtaverki og það þarf ekki mikið til að það teygi sig og hristi. Það er hollt að láta minna sig á að það er náttúran; jörðin sem stjórnar okkur, en ekki við sem stjórnum henni, þegar öllu er á botninn hvolft.

Arnarvatn

Ásdís Dögg Ómarsdóttir á Ketilsstíg.

Það fer ekki á milli mála þegar komið er að Seltúni. Þar rjúka gufustrókar úr hverum, líkt og stórtæk skýjaverksmiðja reki þar starfsemi sína. Veglegt bílastæði tekur á móti manni, sem alla jafna er fullt af bílaleigubílum, rútum og ferðamönnum.

Einu sinni var þarna mikil athafnastarfsemi og brennisteinsvinnsla í blóma. Því miður koma hvorki inn gjaldeyristekjur af brennisteini né ferðamönnum þessa dagana. Það býr þó til meira pláss fyrir okkur sem hér búum, til að njóta.

Arnarvatn

Arnarvatn.

Gengið er upp Ketilsstíg. Auðvelt er að koma auga á göngustíginn sem er merktur með skilti sem stendur við landvarðarhúsið. Leiðin liggur upp aflíðandi brekku að Arnarvatni. Stígur þessi var fjölfarinn um miðja 19. öld þegar brennisteinsvinnslan var á svæðinu. Þá lá hann yfir Sveifluháls norðan Arnarvatns og síðan um Hrauntungustíg til Hafnarfjarðar, og var flutningsleiðin fyrir brennisteininn.

Arnarvatn

Arnarvatn.

Tilvalið er að staldra við hjá Arnarvatni og njóta fagurs útsýnis. Þaðan má meðal annars sjá Stóra- og Litla Lamba­fell, Austurengjahver sem er aflmesti gufuhver Reykjanesskagans og Arnarnýpu sem er hæsti tindur Sveifluhálsins. Á meðan við nutum landslagsins hristist jörðin af eftirskjálftum meginskjálfta dagsins og drunur skriðufalla fylgdu í kjölfarið þetta stórskjálftasíðdegi, 20. október síðastliðinn.

Í logni síðdegissólarinnar staðfesti Veðurstofan síðar að skjálfti, 5,6, hefði riðið yfir fyrr um daginn og við fundum svo sannarlega fyrir eftirköstunum af á göngunni. Það fór ekki fram hjá okkur að stórir grjóthnullungar höfðu fallið í skriðum umleikis í stóra skjálftanum fyrr um daginn. Það var ekki laust við að maður yrði á vettvangi frekar lítill í sér í annars stórbrotinni náttúru skagans við þá sjón.

Folaldadalir

Folaldadalir.

Frá norðanverðu Arnarvatni liggja leiðir til allra átta, s.s. til norðvesturs að Katlinum með framhald að Hrauntungustíg, til suðurs að Hettuvegi yfir að Vigdísarvöllum, til norðurs um Folaldadali – en hringurinn sem við lýsum hér, fer með okkur hálfhring um vatnið og að frábærasta útsýnisstaðnum af þeim öllum, hvernum Pýni austan Baðstofu. Leiðin niður að Seltúni er brött á köflum, og þar þarf að fara varlega því undirlagið er laust í sér, hér getur veri gott að hafa með sér göngustafi.

Seltún

Í Seltúni.

Í lok göngunnar er tilvalið að rölta um veglega stíga háhitasvæðisins í Seltúni og hlusta á hviss og bubbl hveranna er eiga sér þá íslenskulegustu lykt sem til er og njóta litadýrðarinnar sem gefur Landmannalaugum og Sogunum sunnan Trölladyngju á Núpshlíðarhálsi lítið eftir.

Njótið útivistarinnar.

Heimild:
-https://www.mbl.is/ferdalog/frettir/2020/10/23/gonguleid_vikunnar_seltun_arnarvatn/

Arnarvatn

Arnarvatn.

Elvarpahraun

Gengið var um hið misgreiðfæra Berghraun vestan við Staðarhverfi í Grindavík. Berghraunið er ofan við Staðarbergið og sennilega eitt af Eldvarparhraunum. Þrátt fyrir úfið apalhraun eru helluhraunssléttur inni á milli og því auðveld yfirferðar.

Refagildra

Refagildra á Staðarbergi.

Næst berginu er sambland af hvorutveggja. Þegar gengið var ofan við Klaufir austarlega ofan við Staðarbergið sást glöggskyggnum heilleg hleðsla uppi í hrauninu, undir hraunbakka. Staðsetningin er augljós þar sem lágtófan er annars vegar, þá er „dældirnar smjó“. Þegar hleðslan var skoðuð kom í ljós alveg heil refagildra. Meira að segja fellihellan var enn fyrir opinu. Gildran er hlaðin úr hraunhellum, en stoðsteinarnir sitt hvoru megin við helluna eru úr grágrýti. Þetta var 26. hlaðna refagildran, sem FERLIR hafði skoðað á Reykjanesskaganum.

Staðarberg

Staðarberg – refagildra.

Skömmu síðar fundust tvær gamlar refagildrur austan við Ísólfsskála auk tveggja til viðbótar einni austan við Húsatóftir. Fyrir einungis nokkrum misserum var einungis talið að 3-5 slíkar væru til á Nesinu öllu. Ljóst er nú að mun fleiri slíkar eiga eftir að finnast á svæðinu. Þekktar refagildrur hafa allar verið skráðar, myndaðar og staðsettar með gps-hnitum.
Stuttu eftir að þetta var skrifað fór FERLIR aftur um svæðið í öðrum tilgangi. Í þeirri ferð var gengið fram á enn eina refagildruna, skammt norðvestan við hina fyrrnefndu. Sú gildra er einnig alveg heil. Talan er því komin yfir á átta tuginn.
Sjá meira um refagildrur HÉR.

Staðarberg

Staðarberg – refagildra.

 

Tag Archive for: Grindavík