Ætlunin var að ganga upp Fagradal og inn í Brennisteinsfjöll. Tilgangurinn var að skoða bæði Kistuhella og Kistufellshella, og jafnvel Eldborgarhella. Í Kistuhrauni eru þekktir á þriðja tug hella eins og KIS-24 (yfir 1000m langur), Snjólfur fullan af dropsteinum, KIS-21, KIS-07, KIS-09, KST-07, KST-06 og hellirinn KIS-09 er sérlega áhugaverður hellir og þar er margt að skoða. Í Kistufelli eru rúmur tugur hella og það stórir, líkt og KST-05 (Loftgeimur), KST-06 (Kistufellsgeimur), KST-07 (Jökulgeimur) og KST-08 (Ískjallarann). Í Eldborgarhrauni er vitað um á annan tug hella, margir af þeim smáir, en þó einnig stórir s.s. FERLIR(enn ókannaður að hluta) og Lýðveldishellir.
Svæðið á Brennisteinsfjöllum (Kistufell, Kista og Eldborg) er ótrúlegur undraheimur … ósnertir litskrúðugir hellar og einstök náttúrufyrirbæri … og því nauðsynlegt að standa vörð um þessa einstöku veröld.
Upp úr Hvammadal var fylgt gömlum stíg upp hraunfoss, sem kemur þar niður hlíðina að sunnanverðu. Þennan stíg var m.a. farið á milli Kaldársels og Krýsuvíkur, en í seinni tíð einkum af rjúpnaveiðimönnum og göngufólki. Þegar upp á brúnina var komið var beygt til vinstri því ætlunin var að fylgja stíg austur með brúninni yfir á slétta hraunshellu Kistuhrauns, sem liggur þar milli Kistufellshraunsins í austri og Eldborgarhraunsins í vestri. Undir hinu síðarnefnda og vestar sjást fleiri Eldborgarhraun.
Á leið upp á brúnina kom í ljós stórt gat niður í u.þ.b. 30 m rás. Neðri hlutinn endar þar sem koma saman gólf og loft. Hafri er í gólfi. Efri hlutinn endar í hruni, en annað minna op er ofar. Eflaust væri hægt að fara lengra inn og áfram undir hraunið með viðeigandi búnaði. Rásin var nefnd Hvammabrúnshellir.
Eftir að gengið hafi verið fyrir gróft apalhraunið ofan brúnarinnar var komið inn á slétt og bert helluhraunið. Að spölkorn genginni var komið var upp á brúnina. Þaðan blasti við hið fallegasta útsýni; Kistufell lengst til vinstri (602 m.y.s), Kistugígarnir í miðið og Eldborg (570 m.y.s.) (Eldborgir) lengst til hægri. Auðvelt var að sjá hvernig landið lá framundan. Handyrtur þátttakandi festi útsýnið á blað, enda ekki hægt að taka mynd af því á eitt myndskeið. Við þessa mikilfenglegu sýn hallaði einn leiðangursmanna sér að öðrum og sagði: „Veistu hvenær þú ert kominn á leiðarenda?'“ „Við dauðann“, svaraði hinn að bragði. „Nei“, ekki alveg, dauðinn er einungis lokaáfanginn. Þú ert loksins kominn á leiðarenda þegar þú getur snert sjóndeildarhringinn. Sjáðu“, sagði hann, og teygði fram höndina mót fjallahringnum þar sem himinn og jörð runnu saman.
Ofan Fagradals.
Á leiðinni upp eftir komu í ljós nokkur falleg vatnsstæði í grónum bollum grunnra hraunrása. Í einni þeirra voru op inn í sæmilegar rásir. Tekin voru hnit, en rásirnar ekki skoðaðar að þessu sinni.
Þegar komið var undir brúnir Kistu var haldið upp eftir vestanverðum hlíðunum og staðnæmst við op Lýðveldishellis (KIS-30). Hellir þessi er skammt neðan (suðaustan) undir lítilli eldborg austan undir brúnum Háborgar (Eldborgar þeirrar er stendur hæst á brúnum Brennisteinsfjalla, en Eldborgin sjálf er skammt norðar, mjög umfangsmikil, en stendur lágt í hrauninu. Hæst ber norðurbrún hennar). Guðmundur Löve og Þröstur Jónsson fundu þennan helli árið 1994, þann 17. júní. Þeir voru þá á ferð þarna í mikilli þoku og rigningu þegar þeir svo til duttu niður um opið á þessum 200 metra helli. FERLIR leitaði hans á sínum tíma og uppgötvaði þá Þjóðhátíðarhelli Norðamanna (HVM-07), en þann dag bar einmitt upp á 17. maí. Hellisopin eru ekki langt frá hvoru öðru, en reyndar í sitt hvoru hrauninu.
Þá var stefnan tekin á FERLIR suðvestan undir Háborginni. Hellirinn, sem er með þeim litskrúðugri á landinu, var skoðaður hátt og lágt. Í fyrstu virtist hluti neðri rásarinnar hafa hrunið að hluta því hinn fallegi og einstaki grænleiti hraunfoss fannst ekki við fyrstu sín. Þegar reyndari hellamenn fóru síðan um rásirnar og beygðu inn í þær á réttum stöðum kom hann í ljós, á sínum stað og óskemmdur.
Næst var tekið hús á Kistuhellunum nokkur austar. Kistuhraun er suðsuðvestan við Kistufell, nær miðja vegu milli Kistufells og Eldborgar í Brennisteinsfjöllum. Efst á brúnum er mikil hraunbunga sem nefnd hefur verið Kista. Eldstöðin samanstendur einkum af tveim stórum gígum. Gígarnir eru báðir sporöskjulaga og hvor um sig um 150 metrar á lengd. Kringum eldvörpin sem hafa verið virk samtímis hefur hlaðist upp mikil hraunbunga. Svo virðist sem hrauntjörn hafi verið í gígunum um tíma og þá haft afrennsli um hraunhella.
Hraunið leggst ofan á Kistufellshraun í norðri og Hvammahraun í suðri og því yngra en þau enda talið runnið nálægt árinu 1000 eða um það leyti sem íslenskir ráðamenn voru keyptir til þess af norsku hirðinni að taka upp kristna trú og má því með sanni kalla kristnitökuhraun. Hraunið er hér nefnt Kistuhraun í heild sinni en sumstaðar er sá hluti þess sem rann niður af Lönguhlíð ofan Breiðdals nefnt Breiðdalshraun.
Í nóvember 2002 héldu Björn Símonarson, James Begley og Jakob Þór Guðbjartsson til hellaleitar í Brennisteinsfjöll. Var gengið í átt að Kistufelli. Í hrauninu milli Kistufells og Eldborgar á Brennisteinsfjöllum skráðu þeir félagar 16 hella. Þeir tilheyra flestir sama kerfi og eru því göt í sama hraunstraumi. Heildarlengd hraunrásarkerfisins er um 600 metrar, þ.e. vegalengdin frá upptökum að þeim stað sem nýrri hraun renna yfir er um 600 metrar. Kerfið er nokkuð flókið og rennur í mörgum samsíða hraunrásum. Rásirna eru frá 10 m á lengd og upp í 1000m. Þarna eru m.a. tveir hellar hlið við hlið (KIS-5) með fallegum flórum. í KIS-07 renna þrjár rásir saman og mynda fallega og stóra rás. Góð lofthæð, rennslisform, fallegir bekkir og gljáandi veggir. Heildarlengd hellisins er um 130 metrar. Um nokkuð flókinn helli er að ræða með nokkrum hellismunnum. Í KIS-09, sem er um 130 metrar á lengd, er um að ræða flókið kerfi sem liggur í a.m.k. tveim samsíða rásum sem tengjast með þröngum göngum. Í hellinum eru fallegir hraunfossar og ísmyndanir. KIS-24 er mikill og glæsilegur hellir með mörgum fallegum göngum. Þunnfljótandi hraunlag hefur slétt út gólfin og myndað þunna skán. Afhellar eru hingað og þangað. Ein rásin liggur þvert á meginrás og úr henni nokkrar aðrar. Fallegir bálkar með veggjum og litadýrð. Gljáfægðir separ í loftum, hraunsúlur og svo mætti lengi telja. Nokkrar 100 metra rásir eru þarna og fjölmargar styttri eða hringrásir. Þarna væri hægt að dvelja klukkustundum, eða jafnvel dögum saman og alltaf finna eitthvað nýtt.
Hellirinn er langt í frá fullkannaður en heildarlengd hans hefur verið áætluð 800 metrar. Þá má nefna KIS-27, sem einnig hefur verið nefndur Sá græni. Þessi hellir sem fékk viðurnefnið „Sá græni“ er um 240 metra langur. Niðurfallið er djúpt og í því gróður sem hellirinn dregur nafn sitt af. Þaðan eru um 40 metra löng göng upp eftir rennslisstefnu hraunsins og tvenn göng niðureftir, önnur um 60 metrar og hin um 140 metra löng. Fremur þröngt er víðast í hellinum og á sumum stöðum skiptast göngin í þrenn göng sem sameinast síðan aftur.
Þá var haldið yfir að hraunróti norðaustan hellasvæðis Kistu. Á leiðinni var gengið fram á tvö op. Undir því fyrra var um 100m rás. Hafraður hraunflór var í botninum. Þegar gengið var upp eftir rásinni var hægt að komast upp um op þar. Skammt norðar var lítið gat niður í jörðina og grönn rás. Hún var ekki könnuð að þessu sinni. Hæðin, sem myndar undirstöðu Kistunnar er mun eldra, líklega frá sama tíma og Kistufellið. Gróið er í sauminn svo auðvelt var að fylgja honum upp í Kistuna. Kistan er, eins og fram hefur komið, tvö eldvörp, um 120m hvort. Út frá þeim liggja fallegar hrauntraðir, bæði til suðurs og norðurs.
Þegar komið var niður að hinum stóru Kistufellshellum var ákveðið að fara einungis inn í einn þeirra að þessu sinni, Jökulgeimi. Snjór var framan við opið, en þegar inn var komið blasti við hvítt jökulgólfið, grýlukerti úr loftum og fallegir „ísdropsteinar“ á gólfi. Hitastigið inni var rétt um frostmark og það í júlí. Ekki var haldið inn yfir hrunið og inn í rásina að þessu sinni.
Skammt norðvestan við hellasvæðið var myndarlegt vatnsból. Þegar komið var inn á slétt Eldborgarhraunið á nýjan leik með stefnu niður að Fagradalsbrún kom í ljós op. Inn undir þar var u.þ.b. 30m löng rás, alveg heil, sem opnaðist í hinn endann. Botninn er sléttur, hæðin um 2m og breiddin um 5 m. Henni var gefið nafnið Opið. Erfitt er að koma auga á það í annars sléttri hraunhellunni, en við það eru tveir steinar, annar ofan í hinum.
Ferðin niður að Fagradalsbrún gekk vel, sem og niðurgangan. Útsýni er fallegt ofan af brúninni yfir Breiðdal, Undirhlíðar, Háuhnúka, Móskarðshnúka og yfir nánast allt höfðuborgarsvæðið að handan.
Björn Hróarsson hafði fyrir skömmu farið á þær hellaslóðir, sem lýst hefur verið. Hann flaug þangað með þyrlu. Sú ferð tók hann 12 mín. Hann lenti þá við Lýðveldishellinn og varð þar eftir með öllum búnaði. Að því búnu heimsótti hann 18 hella og fann einn nýjan fullan af dropsteinum er hann nefndi Snjólf. Sá hellir fannst ekki í þessari FERLIRsferð.
Við athugun Björn kom í ljós að Lýðveldishellirinn er í Kistuhrauni en ekki í hraunum Eldborgar. Þá gekk hann á Eldborg, skoðaði gatið við Eldborgina (HVM-19), þá yfir í Þokuslæðing (Áttatíumetrahelli) og þaðan í Þjóðhátíðardagshelli Norðmanna, í Ferlir og dvaldi þar um stund, þá inn fyrir fimm hellismunna í KIS-24 og þvældist þar lengi … „Báða þessa hella þarf að kortleggja en það kæmi mér ekki á óvart þótt þær væru yfir kílómetri hvor um sig“ … gekk þá upp Kistuhraunið að meintum helli við hraundrýli (KIS-15) en var ekki markvert, gekk þá um eldvörp Kistunnar og fann þar hellinn Snjólf fullan af dropsteinum, þaðan var haldið í hellana vestur frá Kistu og margir þeirra skoðaðir og myndaðir, svo sem þessir og fleiri, KIS-21, KIS-07, KIS-09, KST-07, KST-06, hellirinn KIS-09 er sérlega áhugaverður hellir og þar margt að skoða … „Þá var gengið að Kistufellshellunum … og þar sem annars staðar á svæðinu tókst mér að laga lýsingar verulega“ … dvaldi hvað lengst í KST-05 (Loftgeimur) en einnig í KST-06 (Kistufellsgeim), KST-07 (Jökulgeim) og KST-08 (Ískjallarann) … gekk þaðan að gígnum og síðan töluvert á einhverja vitlausa punkta … og þaðan að götunum sem við tókum punkta á í snjónum (fyrir ári)… með mikilli leit í og með að götunum tveim … þau fundust ekki … og annað gatið sem við tókum punkt af í snjónum var ekki neitt…
En hitt alveg geggjað … það er um 7 metra djúp gjóta og mér tókst að klifra þangað niður (og upp aftur) við illan leik … á botni þessarar 7 metra djúpu gjótu sést niður í hellisrás milli tveggja grjóthnullunga sem varna för niður í hellinn … Þarna þarf sem sagt vaska menn með járnkarla …. til að opna niður og um að gera að benda þeim á sem næst verða þarna á ferðinni með járnkarla í hendi að fara niður og færa til grjótið …. hafa þarf þó línu því það er ekki á allra færi að klifra niður og upp úr holunni … þaðan var gengið fram á brún Kerlingargils og niður það við illan leik … enda byrðin mikil og þreytan enn meiri … úrvinda komum við niður að bifreið sem beið okkar neðan Kerlingargils …. þá var klukkan korter yfir eitt eitt eftir miðnætti … og tók ferðin þvi 17 klukkustundir … og mátti ekki lengri vera … en hefði tekið um 20 klukkustundir ef ekki hefði verið notast við þyrlu … en var held ek vel varið … í það minnsta batnaði lýsingin á svæðinu og hellum þess verulega.“
Lokaorðin verða Björns og er óhætt að taka undir sérhvert orð með honum: „Svæðið þarna uppi á Brennisteinsfjöllum (Kistufell, Kista og Eldborg) er ótrúlegur undraheimur … og ósnertur … við þurfum að standa vörð um þessa einstöku veröld.“
Ferðin, sem tók 12 klst, var í einu orði einstök – enda gengið um einstakt svæði. Af því var gengið í 5 klst og 45 mín. Frábært veður.
Í Brennisteinsfjöllum.