Tag Archive for: Grindavík

Ísólfsskáli
FERLIR bregst jafnan skjótlega við berist tilkynningar um áhugaverð og aðkallandi efni. Einn félaganna hafði haft spurnir að því að hellir hefði opnast við framkvæmdir við svonefndan Suðurstrandarveg austan Grindavíkur. Upplýsingarnar bárust svo til í beinu framhaldi af opinberuninni.
ÍsólfsskáliVegaframkvæmdir stóðu yfir á Suðurstrandarveginum ofan Grindavíkur, milli Hrauns og Ísólfsskála orið 2006. Þegar Arnar Helgason, stjórnandi stórrar (65 tonna) gröfu verktakans Háfells var [23. maí 2006] að grafa í Bjallarbrúnina vestan við Bólið, fyrrum fjárskjól frá Ísólfsskála, þar sem vegurinn á að liggja niður hann samhliða og austan núverandi vegstæðis, greip skóflan skyndilega í tómt. Í ljós kom að hún hafði verið rekin niður í geysistórt holrúm og stóð grafan uppi á miðju hvolfþakinu. Arnari brá skiljanlega í brún, dró þó andann djúpt og færði gröfuna varlega á örugga undirstöðu. Þarna hefði getað farið illa.
Verktakinn tilkynnti atvikið til jarðfræðings Vegagerðarinnar, sem á eftir að skoða fyrirbærið. Vegfarandi, sem leið átti þarna hjá um það leyti er jörðin opnaðist undan gröfukjaftinum, hafði þegar samband við þá er einna mestan áhuga hafa sýnt á svæðinu.
Þegar Björn Hróarsson, jarð- og hellafræðingur, og einn FERLIRsfélaganna, áhugamaður um útivist, minjar og náttúru- og jarðfræðifyrirbæri á Reykjanesskaganum, komu á vettvang skömmu eftir atvikið, blasti gímaldið við, 12-15 metra djúpt. Angar virtust liggja til norðurs og suðurs, m.a. undir núverandi vegstæði.
Gímaldið hefur myndast sem holrúm í blöndu af gjósku, jökulruðningi og sjávarmöl. Það er í jaðri móberghryggs ofan við Bjallann. Giskað er á að það hafi myndast er gos varð undir jökli er myndaði Slöguna. Risastórt klakastykki hefur þá brotnað úr jöklinum og jarðefni safnast umhverfis það. Ísstykkið hefur síðan bráðnað hægt og skilið þetta mikla holrúm eftir. Sjávarstaðan hefur þá verið þarna í brúninni. Vegna ísfargsins hefur landið legið mun lægra en nú er, en það síðan lyft sér við bráðnun jökulsins.  Einnig gæti verið um gamlan sjávarhelli að ræða, en það mun væntanlega upplýsast við nánari skoðun. Reynt var að nota arm og skóflu gröfunnar til Ísólfsskáliað koma manni til botns, en þrátt fyrir lengd hans náði hann einungis hálfa leið að botni.
Hér er að öllum líkindum um mjög sérstakt jarðfræðifyrirbæri að ræða, sennilega einstakt, jafnvel á heimsvísu. Það mun þó koma í ljós við nánari skoðun, sem væntanlega mun fara fram fljótlega. Þá þarf að taka ákvörðun um afdrif þess því það er í núverandi vegstæði.
Ekki ósvipuð myndun er á Höfðabrekkuafrétti við veginn upp í Lambaskarðshóla.
Benda má á að viðundirbúning Suðurstrandarvegar bentu félagar í Hellarannsóknarfélaginu m.a. á mikilvægi þess að vegstæðið yrði gaumgæft m.t.t. hella á svæðinu, því öruggt mætti telja að á því væru margir hellar og fleiri til viðbótar myndu koma í ljós þegar farið yrði að grafa fyrir veginum. Má segja að opinberun þessi séu sönnun þeirra orða og reyndar ekki sú fyrsta. Enn er verkið skammt á veg komið. Aðilar eru þó sammála um að vilja eiga með sér gott samstarf ef og þegar ástæða verður til eða gaumgæfa þarf eitthvað er finnst, líkt og í þessu tilviki.
Í örnefnaskrá fyrir Ísólfsskála, skráða af Ara Gíslasyni eftir heimildarmanninum Guðmundi Guðmundssyni, þáverandi bónda á Ísólfsskála, kemur m.a. eftirfrandi fram um þetta svæði og næsta nágrenni:
„Bjallinn er ofan við Ísólfsskála. Hjálmarsbjalli er fremstur. Rétt innan við bæinn skagar klapparnef fram úr Slögunni, sem heitir Skollanef. Skollahraun er suður af því. Niður af, austur af túni, út í hrauni, er klettur, sem sker sig úr að lögun og heitir Kista. [Kistan sést vel úti í Skollahrauni þegar komið er að Bjallnum eftir Ísólfsskálavegi úr vestri]. Fremst í Slögunni, rétt við túnið innanvert, er Fjárból, við alllangan hamravegg.
Vestur af Slögunni er gróðurlítið svæði, sem nefnt er Melar. Vestan við þá heitir Lágar. [Lágar eru ofan við Bjallan]. Þær eru vestan við veginn og langur grjótgarður hlaðinn þeim til varnar. Er mikið Ísólfsskálihér af slíkum görðum og víða með mjög fallegu handbragði.“
Loftur Jónsson skráði einnig örnefi á og við Ísólfsskála. Um þetta svæði segir hann: „Bjallinn er klettastallur og nær frá Hjálmarsbjalla og inn í Ból sem er undir fellinu Slögu vestast. Hæðarbunga vestan undir Slögu heitir Slögubringur. Stór klettur er þar sem Hattur heitir en er skráður á kort Grettistak.
Austan við Bólið eru smálautir sem heita Bólkvosir. Lengra austur með Slögu að sunnan, ofan við skriður, er bergstallur sem heitir Hrafnshreiður. Stórusteinar er stórgrýti sem fallið hefur hæst úr Slögu. Þar innan við er Langakvos. Upp af Löngukvos er móklettur sem kallaður er Móklettur. Fyrir austan Löngukvos er Skollanef og er nokkurs konar öxl eða klapparnef fram úr Slögu. Skollahraun er þar suður af. Í hrauninu austan við túnið er sérstæður klettur sem heitir Kista.“ Og þá erum við komin hringinn um nærsvæðið þar sem vegurinn kemur niður Bjallann vestan við Bólið.
Hér eru jafnframt tilfærð svör Ísólfs Guðmundssonar, Ísólfsskála, Grindavíkurhreppi, sem hann veitti við fyrirspurnum (ódagsettum) Örnefnastofnunar og dagsetti 20. apríl 1983 í Grindavík. Við spurningunni „Hvernig er Ból?“ svarar hann: „Hellisskúti þar sem fé var geymt í.“ Meðfylgjandi mynd er úr fjárskjólinu Ból undir Bjallnum.
Forvitnilegt verður að fylgjast með sérfræðingum er rannsaka munu gýmaldið nýopinberaða og skýringum þeirra á tilurð þess. Það mun þó kýrskýrt að þarna er um að ræða enn eina „dularperlu“ Grindavíkur, en sannlega má segja að fleiri slíkar séu enn óopinberaðar í umdæmi hennar.
[Nokkrum dögum síðar var gýmaldið fyllt og þannig gert að engu. Líkast til var það óhjákvæmilegt, bæði vegna þess að ekki var um annað vegstæði að ræða á þessum stað og auk þess var um talsvert grjóthrun að ræða úr opi þess. Því var vettvangurinn varhugaverður og beinlínis hættulegur fyrir óvana].
Framangreint efni varð einungis til vegna glöggskyggni FERLIRsfélaga og markvissra viðbragða hans – þökk sé honum. Í raun er fyrirbærið dæmigert fyrir hellamyndanir á móbergssvæðum, s.s. á Suðurlandi þar sem margir „manngerðir“ hellar ku vera.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli.

Svartiklettur

Örnefndin Svartiklettur og Svíri hafa verið til í Grindavík og þá sem mið á Járngerðarstaðasundið. Ætlunin var að reyna að staðsetja klettinn í fjörunni. Meðferðis var höfð gömul ljósmynd frá því í byrjun sjöunda áratugar síðustu aldar.
Í örnefnalýsingu Ara Gíslasonar fyrir Járngerðarstaði segir m.a.: „Austan við SvartikletturAkurhúsanef er komið að gömlu lendingunum. Þar var kallaður Gamlisjór. Næst nefinu var Stokkavör [Fornavör], þá Suðurvör og síðan Norðurvör sem hét öðru nafni Skökk. Næst austur af er Staðarvör. Þar var uppsátur Skálholtsskipa og síðar útgerðin. Þegar S.T. fékk lóð þarna og gróf niður í kálgarði sínum voru þar fyrir vaðsteinar og brýniskubbar o.fl. í axlardýpt.
Næstur er Svartiklettur austan við Staðarvör, upp úr sjó í fjörunni. Þar upp af heitir Svíri, klettahryggur sem aðskilur Hópið frá sjónum. Út af honum kemur vestri garður hafnarinnar. Vegur liggur eftir Svíra fram á bryggjurnar sem eru innan á hafnargarðinum. Á Svíra var hlaðin varða, Svíravarða, en áður bar Svartiklettur þetta nafn.“ Hér í lokin má sjá svolitla villu í lýsingunni, sennilega vegna þess að Svíri var horfinn þegar hún var gerð. Bæði Svartiklettur og Svíri (Svíravarða) voru til, en hin síðarnefnda var eyðilögð þegar bryggjur í Hópinu (Svíragarður) voru gerðar. Ekki er ólíku saman að jafna er unnið var undir Hraðfrystihús Þórkötlustaða. Þá var allt grjót sótt í nálæga grjótgarða. Þannig voru t.d. hinir löngu garðar ofan við Hraun sóttir og notaðir í undirlagið (Sigurður Gíslason). Í dag er mikil eftirsjá af þeim görðum. Þetta voru vandaðar hleðslur enda fékk bóndinn á Hrauni dannebrogsorðuna fyrir verkið á 19. öld.

SvartikletturÁ Svíravörðu og á Svartakletti voru þríhyrnd innsiglingarmerki. Þótt bæði hafi sjórinn brotið ströndina sem næst honum hefur legið, þ.m.t. af Svartakletti, og mennirnir brotið undir sig landið ofanvert og hlaðið á það varnargarði, má enn sjá það sem eftir er af Svartakletti í fjöruborðinu skammt austan við Staðarvör (Skálholtsstaðarvör). Steinsteypt ræsi liggur um Svartaklett svo segja má að nú sé Snorrabúð stekkur (eða Svartiklettur steinn).
Utan við Svartaklett urðu endalok þjónustufars og þar með hluta af sjó- og verslunarsögu Grindavíkur um aldarmótin 1900.
Þjónustufar þetta, gufuskip, nefndist Oddur, oftast nefnt Bakka-Oddur. Það var í eigu Lefoliiverslunarinnar á Eyrarbakka. Útgerðin gerði út skip, sem hún sendi til Grindavíkur og allt vestur fyrir Reykjanes með vörur að sumrinu til. Fyrsta skipið gekk undir nafninu Den Lille. Á eftir því kom bátur, sem hét Oddur (Bakka-Oddur eða Bakkabáturinn).
„Sumarið 1888 gerði Lefoliiverslun samning við Grindvíkinga, sem tryggði þeim fyrirgreiðslu við femrinhu og afffermingu vélbáts, sem þangað áti að sigla á vegum verslunarinnar. Undir samning þennan skrifuðu Einar Jónsson í Garðhúsum, Sæmundur Jónsson á Járngerðarstöðum og P. Nielsen, verslunarstjóri. Oddur V. Gíslason var vitundarvottur. Sumarið 1892 skrifaði hann gOddurrein í Sæbjörgu undir fyrirsögninni „Bravo „Oddur““. Í greininni segir Oddur m.a.: „Víst má Grindavík muna sína aðra, þegar saltfiskur var reiddur á hestum til Keflavíkur, og konur báru salt á baki sjer úr Vogum og Keflavík og ekki ólíklegt, að viðskipti Grindavíkur til Eyrarbakka fari vaxandi….“.
Helstu verkefni Bakka-Odds, sem var um 35-45 tonna járnskip, voru fisk- og saltflutningar en einnig flutti hann ýmsar vörur til vertíðarmannanna, s.s. smjör og rúgmjöl. Saltið var aðallega flutt á haustin en fiskurinn á vorin, þegar vetrarvertíð var lokið. Algengt var, að vermenn færu þá með bátnum austur á Eyrarbakka, og hefur Sæmundur Jónsson sagt svo frá ferðum Bakka-Odds í kringum lokadaginn 11. maí.: „Þá voru vermenn mjög önnum kafnir að binda þorskhausa og fleira í pakka til flutnings austur með Oddi, enda fóru þeir þá líka margir með bátnum austur á Bakka… Oft var skrítið að sjá þegar hann fór austur um lokin, því að þorskhausa baggarnir voru margir og þeim hlaðið hátt upp.“
Fyrir vermennina hafa ferðir Bakka-Odds verið til mikils hagræðis, enda ólíkt þægilegra að flytja færur og skreið með bátnum heldur en á reiðingshestum yfir hraun og vegleysur.
Sem strandferðaskip þjónaði Bakka-Oddur hlutverki sínu með sóma um árabil. Bakka-Oddur endaði daga sína uppi í fjöru í Grindavík haustið 1904. Átti hann í það sinn eitthvert smávægilegt erindi til Grindavíkur og var rétt nýlagstur við akkerisfestar utan við Svartaklett, þegar gerði suðaustan rok og hafrót svo mikið, að keðjurnar slitnuðu og bátinn rak upp í fjöru. Ekki var báturinn mikið brotinn eftir volkið, en svo fór að sjórinn braut hann þarna í fjörunni, og var hann þá rifinn og seldur í brotajárn.

Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsing AG fyrir Járngerðarstaði.
-Jón Þ. Þór – Saga Grindavíkur 1996, bls. 180-181.
-Sigurður Gíslason frá Hrauni.

Grindavík

Grindavík.

Sveifluháls

Þeir eru margir sauðahellarnir og sauðaskjólin á Reykjanesskaganum.
Til var þó einn slíkur er bar það nafn; Sauðahellir. Hann var og er á Sveifluhálsi sunnan Sandfellsklofa. Um er að ræða sérstaklega Sandfellsklofifáfarið svæði því gamla þjóðleiðin, Undirhlíðaleið, lá undir vestanverðum hálsinum, en mjög fáir fóru þá með honum ofanverðum. Gömul gata upp á hálsinn frá Sandklofa bendir þó til þess að sú leið hafi verið farin fyrrum, enda Sveifluhálsinn allur sérstaklega auðveldari yfirferðar en almennt hefur verið talið. Líklega má telja að þessi leið hafi verið fjölfarnari en ætla mætti, þótt engin séu þar sporin. Hafa ber í huga að yfirborðið er þarna móberg og basaltsandur. Öll ummerki á yfirborði hverfa því við fyrstu veðrabrigði, eins og dæmin sanna.
Sauðir voru jafnan í hávegum hafðir, einkum góðir sauðir. Á sumrum héldu þeir hópinn og er nefndur Sauðahellir til sanninda um það. Enn í dag (árið 2010) má finna sterka sauðalykt í hellinum. Raunar er hellirinn sá ekki einn, heldur tveir, með stuttu millibili, og ættu því að heita Sauðahellar.
Sveifluháls-4Annars er svæðið þar sem hellirinn/hellarnir eru bæði allnokkuð sérstakt en þó eðlilegt miðað við þróun eldgosa í gegnum árþúsundin. Sveifluhálsinn myndaðist í goshrinu undir jökli á ísaldarskeiði. Myndun hans er móberg. Gígarnir ofan við Sandfellsklofa og Norðlingasand mynduðust hins vegar á sprungurein á núverandi hlýskeiði. Um hefur verið að ræða lítið gos með litlu hraunrennsli og miðað við útlit þess og gróninga gæti verið um hraun að ræða frá svipuðum tíma og Ögmundarhraun, eða frá því á 12. öld. Afstaða þessi er ekki studd neinum vísindalegum rökum.
Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar um Krýsuvík segir m.a. um svæði þetta: „L.M. línan af Undirhlíðum liggur um Markrakagil, sem einnig ber ýms önnur nöfn, svo sem: Markrakagil, Marrakagil, Melrakkagil, Markrakkagil. Gil þetta á að vera fjórða gil í Undirhlíðum frá Vatnsskarði að telja, en öll eru þau nafnlaus. Niður undan Undirhlíðum liggur Undirhlíðavegur eða Krýsuvíkurvegur gamli, sem lá frá Hafnarfirði upp í Námur og Krýsuvík. 

Sauðahellir

Undan öðru gili er lítil flöt, nefnist Ráðherraflöt. Svo segir að eitt sinn á búskaparárum Jóns Magnússonar í Krýsuvík 1900–1912 þá hittust þeir þarna á flötinni Jón bóndi og Hannes Hafstein ráðherra. Þar af kom nafnið. Hér spölkorn vestar var komið að miklum gíg, sem nú er horfinn. Nefndist hann Hálsgígur. Vegurinn lá sunnan undir honum að Vatnsskarðshálsi hrygg lágum, sem lá út úr Undirhlíðum eða Undirhlíðarhorni. Vegurinn lá upp á hálsinn og niður af honum og sveigir þá inn undir Vatnsskarð.
Sveifluháls-5Hér á hrauninu rétt við voru tveir gígar, gjallhaugar miklir, er nefndust Rauðhólar, Rauðhóll eystri og Rauðhóll vestri. Milli þeirra lá Vatnsskarðsstígur út að Fjallinu eina. Við stíginn sagði Guðmundur Tjörvi bóndi í Straumi 1895–1925, að væri greni það sem við hefði átt að miða þegar landamerkin voru gerð 1890, því Vatnsskarð væri hið eiginlega Melrakkaskarð. Vatnsskarðsgreni er því þarna á hrauninu og Vatnsskarðsflöt neðanundir skarðinu. Frá Sandfellsklofagígum, Rauðhólum og Hálsgíg er runnið hraun það sem kallað er Nýjahraun og er nokkuð af því hér og heyrir því Krýsuvík til. Vegurinn liggur upp frá flötinni í norður og fyrir múla nafnlausan og síðan inn með honum. Hálsinn á aðra hönd, vinstri en á hægri hraunið. Í þessu hrauni er Sandklofahellir og Sandklofatraðir eða Hrauntraðir þaðan og langt niður á hraun, þar sem aðrar traðir koma inn á þessar. Vegurinn liggur allt innundir Sandfellsklofa, en beygir þar til norðurs og þar fyrir múla nafnlausan og þétt með hlíðinni vestur á sandflæmi, sem þar er og nefnist Norðlingasandur. Uppi hér á hálsinum er eldvarp. Þar rétt hjá er hellir, nefnist Sauðahellir. Þangað leituðu oft sauðir Hraunamanna. Þá kemur Norðlingaháls liggur fram og norður út hálsinum. Vegurinn liggur upp hann og niður af honum á svo nefndar Stórusteinaflatir. Stóri steinar hafa hrunið hér niður ofan úr klettabelti í hálsinum. Hér eru Köldunámur. Löngu kulnaður jarðhiti eða hver.
Upp frá Köldunámum er gengið í Folaldadali — Sveifluháls-6miðdalinn. Nú er langur kafli, örnefnalaus. Þá er komið að Ketilstígssteini kletti allmiklum og liggur vegurinn frá honum upp á hálsinn og er þá komið að Katlinum og í hinn eiginlega Ketilstíg, sem liggur um austurhlíð og suðurhlíð Ketilsins og þar upp á brún, síðan áfram framhjá Arnarvatni niður með efsta hluta Seltúnsgils yfir á stall ofan Seltúns og niður Seltúnsbrekkuna í Seltúnshvamm. Stundum var öll leiðin frá Hafnarfirði í Seltún og að Krýsuvík kölluð Ketilstígur. Að fara Ketilstíg.“
Svo mörg voru þau orð – enda standa þau óröskuð enn þann dag í dag. Af lesningunni má sjá að Gísli hafði ekki litið Sauðahelli auga. Hann er ekki í alfaraleið hefðbundinna leiða til og frá Krýsuvík, en engu að síður hefur hann verið vel kunnur kunnugum á Krýsuvíkuleiðunum. Sem fyrr sagði gátu kunnugir gjarnan haldið á hálsinn, hvort sem þeir komu Undirhlíðaleiðina um Sandsfellsklofa eða syðri Stórhöfðastíginn upp með austanverðri Hrútargjárdyngju í stað þess að þræða undirlendið með hálsrótinni að norðanverðu. Ætlunin er að rekja nyrðri Stórhöfðastíginn í næstu FERLIRsferð.
Sauðaanganin er a.m.k. enn í Sauðahelli/Sauðahellum á framangreindum stað.

Urriðakot

Sauðahellir Urriðakots undir Vífilsstaðahlíð.

 

Fjárskjólið

Ætlunin var að ganga niður frá Litlu-Eldborg um Litlahraun vestan Krýsuvíkurhrauns að Bergsenda (eystri).
GongusvaedisFylgja átti Bergsendastíg á Strandabergi ofanverðu neðan Klofninga, framhjá Keflavík, neðan Fjárskjólshrauns og að Háahrauni. Þar var ætlunin að koma við á Skyggnisþúfu og Hraunþúfu. Á báðum eru vörður. Á leiðinni átti að skoða hinar fjölskrúðugu bergmyndanir ofan bergsins. Til baka var ætlunin að fara Krýsuvíkurhraunið skágengið um Hellnastíg að upphafsstað. Annars var Krýsuvíkurbergið fyrrum skipt sbr.; „Austast er Strandaberg, þar átti Strandakirkja ítak til eggjatekju og fuglaveiða. Vestan við það er Kotaberg, þar áttu hjábýli Krýsuvíkur rétt á eggjatekju og fugla. Þar næst er Heimaberg, þar átti höfuðbólið fugla- og eggjatekju.“
KotabergÞegar skoðuð er örnefnalýsing Gísla Sigurðssonar af svæðinu má m.a. lesa eftirfarandi: „
Eldborg stóru, sem áður er á minnst, og Eldborg litlu, sem er aðeins neðar og liggur Akvegurinn milli þeirra. Krýsuvíkurhraun kallast allt hraunið, en niður af Eldborgunum er Klofningur eða Klofningshraun. Milli Eldborganna er reyndar talað um Eldborgahraun. Neðst á Klofningi er Kletturinn og þar rétt hjá er Klettsgreni. Stígurinn sem liggur af Breiðgötum nefnist Bergsendastígur. Neðan við Klett spölkorn liggur stígur upp á hraunið og austur um það, nefnist Hellnastígur. Í austur frá honum þar sem hann beygir niður og í suðurátt blasir við Hellnahæð, og á henni Hellnahæðarvarða. Þar spölkorn neðar á sléttu klapparhrauni eru hellar. Gvendarhellir er þeirra merkastur, tekur móti 200 fjár. Nokkru neðar er svo Bjálkahellir, og austur frá þessum hellum er svo Krýsuvíkurhellir og enn austar er Fjárskjólshellir í Fjárskjólshrauni.
BergsendastigurGuðmundur sá er byggði Lækjarbæinn hafði fé sitt í Gvendarhelli. Hann byggði sér skýli allgott við Hellismunnann. Að sunnan var íbúðarkompa hans, en að ofan var geymsla. Þar á milli var gangur, þar um fór féð í hellirinn. Við þetta bjó Guðmundur nokkra vetur: Þótti honum langt að fara að fé daglega heima frá Læk austur í hraunið.
Klettstrýta er hér ekki langt frá Hellunum, nefnist hún Arnarsetur. Héðan er skammt niður í Keflavík. Austur af Fjárskjólshrauni er Háahraun. Í því er Háahraunsskógur. Þar var gert til kola frá Krýsuvík. Tvær hraunnybbur eru þarna Keflaviká hrauninu, nefnast, önnur Skyggnisþúfa, hin Hraunþúfa. Er þá komið á Austurbrún hraunsins.“
Þegar framangreindar götur eru gegnar má sjá að
Gísli hefður greinilega ruglað saman Hellnastíg og Bergsendastíg. Báðir eru greinilegir í gegnum hraunin ofan bergsins. Fyrrnefndi stígurinn liggur beint að Gvendarhelli, en erfiðara er að rekja hann að Fjárskjólinu í Fjárskjólshrauni. Víða í sléttur og grónu hrauninu hafa verið hlaðnar litlar vörður, en þær vísa allar á greni. Síðarnefndi stígurinn er auðrakinn að Keflavík. Frá Víkinni liggur stígur yfir á gróna sléttu ofan bergsins og má telja augljóst að þar hafi fé úr Fjárskjólinu verið beitt fyrrum, enda Skyggnisþúfan beint þar fyrir ofan.
StrandarbergEn hvar voru nefndar Breiðgötur. Í örnefnalýsingunni segir: „Fitjagata lá austur og inn um lægð norðan undir Strákum og er komið var að Selöldu, þá lá hún upp í Heiðina upp á fyrr nefndan Húsmel. Vestan við Fitjalækinn liggur nú Bílaslóðin allt niður á berg og vestur að hraunbrúninni. Austan og sunnan Austurlækjar er Bleiksmýrin. Fram af henni niður og austur allt að hrauninu liggur svo Krýsuvíkuheiðin eystri eða Austurheiðin. Fátt er hér örnefna. Suður á heiðinni er Heiðarfjárhús. Beitarhúsið. Síðan ekki neitt fyrr en kemur fram á Berg. Frá Austurlækjarvaði og Áningaflöt liggja slóðir eða götur. Alfaraleið austur á allbreiða mela ofan Bleiksmýrar. Þar nefndust Breiðgötur. Er austar dregur liggja þær alveg neðst við Geitahlíðarskriður. Hér blasir Eldborgin við Stóra-Eldborg. Milli hennar og Geitahlíðar er skarð, nefnt Deildarháls.“
Alfaraleiðin er enn augljós undir Geitarhlíð og um Deildarháls. Þegar kvikmyndin „Flags of ours fathers“ var tekin á og undir Arnarfelli var hluta götunnar eytt við Grástein, þ.e. þar var gert bílastæði með samþykki Fornleifaverndar ríkisins. Svo undarlega vildi til að jarðýtan bilaði er tönninn rakst í steininn – og þótti kunnugum það ekkert undarlegt í sjálfu sér. Fornleifafræðingur á vegum stofnunarinnar sagði götuna vera „lækjarfarveg“, en öðrum minna menntuðum fannst skrýtið að lækur hefði runnið þar upp á móti. Steininum var þyrmt af sjálfsögðum ástæðum og sést hann enn í utanverðu stæðinu (sem var).
GvendarhellirMálið er að skoða þarf hlutina í samhengi; Gísli fór allra sinna ferða fótgangandi. Ein dagsferð (jafnvel eftir fullan vinnudag) til Krýsuvíkur „orkaði“ ekki lengri ferð en þangað, hvað þá að halda áfram inn í Klofninga eða um Bergsenda til Keflavíkur og jafnvel lengra til að meta aðstæður. Því má telja næsta víst að margt af því sem hann skráði hafði hann ekki hvorki haft tök á að sannreyna né haft yfirsýn yfir og því ekki ólíklegt að eitthvað hafi getað skolast til í lýsingunum, sbr. framangreint. Gísla til málsbóta má þó telja að allflest það sem hann skráði hefur við nánari skoðun átt við rök að styðjast, sumt reyndar með smá frávikum sem varla er orð á gerandi.
HellnastígurÍ öllum lýsingum hans er getið aragrúa örnefna svo telja verður af sanngjarni að einhver þeirrra kunni að orka tvímælis. Svo var t.d. um örnefnin „Skyggnisþúfa“ og „Hraunþúfa“ í þessari ferð. Þau eru bæði til og á nefndum stöðum, merkt með vörðum, en ekkert gefur í raun nákvæmlega til kynna hvar þau eru í landsaginu. Háahraun er t.a.m. allnokkuð ofan við þessi kennileyti sem og Háahraunsskógur.
Hafa ber í huga að Gvendarhellir var allflestum gleymdur á 20. öldinni. Á örnefnakorti fyrir Krýsuvík er hann t.d. staðsettur í Litlahrauni, en þar mun hafa verið selstaða um tíma frá Krýsuvík. Þá hafði einnig þjóðsagan um Grákollu frá því í byrjun 18. aldar fallið í gleymsku um Arngrím frá Læk, sem áður hafðist við í nefndum „Gvendarhelli“.
Frábært veðir. Gangan tók 5 klst og 5 mín.

Heimild m.a.:
-Örnefnalýsing Gísla Sigurðssonar fyrir Krýsuvík.

Keflavík

Keflavík – rekaítak Krýsuvíkurkirkju.

 

Eldvörp

Í Fréttablaðinu árið 2012 er umfjöllun;  „Gengu fram á óþekktar minjar„, eftir  Óla Kristján Ármannsson. Fjallað er um minjar í og við Eldvörp ofan Grindavíkur.

Óli Kristján Ármannsson

Óli Kristján Ármannsson.

„Ómar Smári Ármannsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn, fornleifafræðingur og áhugamaður um náttúru og menjar á Reykjanesi, telur að mannvistarleyfar í Eldvarpahrauni við Grindavík kunni að vera enn eldri en talið er. Í félagi við annan gekk hann fyrir nokkrum árum fram á byrgi sem enginn hefur komið nálægt í hundruð ára. Hann leiddi blaðamann og Gunnar V. Andrésson ljósmyndara um svæðið og fræddi um kenningar sínar. Minjarnar séu „Tortóla“ verkafólks við útgerð.

Fornminjar í Eldvarpahrauni þarf að rannsaka mun betur áður en tekin er ákvörðun um aðrar framkvæmdir á svæðinu, sem er í nýtingarflokki í drögum að rammaáætlun. Eldvörp eru norðvestur af Grindavík, ekki ýkja langt frá Bláa lóninu. Þar er að finna lítt rannsakaðar mannvistarleifar.

Gunnar V. Andrésson

Gunnar V. Andrésson.

„Og aldrei að vita hvað annað kæmi í ljós ef fram færi gagnger rannsókn á svæðinu,“ segir Ómar Smári Ármannsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn á höfuðborgarsvæðinu og fornleifafræðingur, sem safnað hefur margvíslegum fróðleik um náttúrufar og minjar á Reykjanesi. Hann telur að minjar sem er að finna í Eldvörpum séu jafnvel enn eldri en leitt hefur verið líkum að áður, því þær kunni að tengjast útgerð í Grindavík, en heimildir eru um verstöð þar frá miðöldum, allt frá tólftu og fram á fimmtándu öld.
„Menn hafa velt upp alls konar hugmyndum um þessi hlöðnu byrgi, þar á meðal hvort þarna kunni að hafa verið felustaðir sem fólk hafi komið sér upp eftir Tyrkjarán af ótta við fleiri árásir,“ segir hann, en telur sjálfur útilokað að þarna sé um einhverja mannabústaði að ræða, einkum smæðar þeirra vegna.

Ómar Smári Ármannsson

Ómar Smári Ármannsson.

„Mér finnst líklegra að þarna hafi verið fiskigeymslur. Nokkurs konar „Tortóla“ þess tíma þar sem verkafólk gat skotið fiski undan og sótt í þegar vistir þraut. Útvegsbændur áttu ekkert í þá daga – Skálholtsstóll átti allt. Sækja mátti þarna fisk til nauðþurfta. Um tveggja alda skeið sultu Grindvíkingar heilu hungri. Það skyldi því engan undra að þeir hafi reynt að koma einum og einum fiski í skjól til nota þegar í nauðir rak. Fólk þurfti ekkert að hlaða sér felustaði þarna í hrauninu þar sem nóg er um rúmgóða hella þar sem fjöldi fólks hefur getað látið fyrirberast. Auk þess líkjast byrgin í Eldvörpum öðrum fiskigeymslum með ströndinni, hvort sem er í Strýthólahrauni, við Nótarhól eða á Selatöngum.“

Fundu áður óþekkt byrgi
Um leið áréttar Ómar Smári að kenningar þessar kalli allar á mun meiri rannsóknir til þess að nálgast megi lausnina á þeirri ráðgátu sem þessar mannvistarleifar í Eldvörpum eru. Standist kenningin um undanskotið gæti þarna hins vegar verið um að ræða mannvistarleifar frá því ekki löngu eftir að gaus síðast í Eldvörpum 1228.
EldvörpÞá segir Ómar Smári annað benda til þess að hlöðnu byrgin hafi verið notuð undir eitthvað matarkyns. Á svæðinu eru nefnilega um sjötíu hlaðnar refagildrur sem enn sjást. „Og þá hafa menn viljað koma í veg fyrir að refurinn kæmist í eitthvað.“ Að auki voru refaskinn allmikil verðmæti hér áður fyrr og því eftir nokkru að slægjast með því að veiða refinn.
Eins bendir staðsetning byrgjanna til þess að um felustaði af einhverju tagi hafi verið að ræða. „Það fer enginn hingað lengst inn í torfarið hraun án einhvers sérstaks erindis,“ segir Ómar Smári. Enda er það svo að jafnvel nú, með vegi í grennd og göngufólk ágætlega búið, að handleggur er að komast að byrgjunum.
EldvörpNokkur hlaðin byrgi eru þekkt í Eldvarpahrauni og greinilegt að þangað hefur göngufólk komið til að skoða þau. Það svæði hefur verið þekkt frá því það fannst aftur, að sögn Ómars Smára, árið 1872. Seinna fjallaði Ómar Ragnarsson svo um það í einum af Stiklu-þáttum sínum í Sjónvarpinu. Alls er þar að finna um tólf hleðslur, að sögn Ómars Smára, byrgi og refagildrur.
Ómar Smári og félagi hans Óskar Sævarsson römbuðu svo fram á tvö til viðbótar nokkru fjær árið 2006 í einni af gönguferðum þeirra. „Það var eiginlega Óskar sem rak augun í þetta þar sem við stóðum þarna á gjábarminum. Eru þetta ekki hús, sagði hann og benti? Jú, sagði ég. Tvö!“ Einu sporin í mosanum við þessi byrgi eru eftir Ómar sjálfan. „Þarna væri kjörið að taka jarðvegssýni í öðru hvoru byrginu til aldursgreiningar,“ segir hann.

Verðgildi svæðisins gæti aukist
EldvörpByrgin eru hlaðin úr hraunhellum. „Síðan hefur verið hlaðið rekaviði ofan á og fergt með hraunhellum. Við þetta myndast kjöraðstæður til að geyma þurrkaðan fisk, annað hvort í stæðum eða hengja hann í rjáfur,“ segir Ómar Smári, en hraunið er náttúrulega þannig að ofan í það hverfur raki og svo blæs í gegn um hellurnar sem hjálpar til við að halda fiskinum þurrum. „Ofan í þessum byrgjum má núna sjá hellurnar sem hafa hrunið ofan í þau þegar rekaviðurinn hefur fúnað undan þeim í aldanna rás.“
Byrgin eru svo ekki einu leifarnar um mannvistir í hrauninu. Ekki langt frá borholu HS Orku í Eldvörpum er að finna stóran helli þar sem fjöldi fólks gæti látið fyrir berast. „Og inni í hellinum er hlaðinn garður þannig að ekki sést hvað er fyrir innan,“ segir Ómar Smári.

Eldvörp

Í Brauðhelli.

Alveg ofan í borholunni er svo svokallaður Brauðhellir, en hann opnaðist þegar jarðýta braut ofan af honum við framkvæmdir á svæðinu. „En hitaveitan má eiga það að þeir gengu vel frá í kringum hann og pössuðu upp á hann eftir að hann kom í ljós.“ Áður var bara á hellinum lítið op og mikil gufa í honum og hiti sem væntanlega hefur verið nýttur til að seyða brauð og nafnið af því dregið, en í hellinum má líka sjá fornar hleðslur.

Eldvörp

Í Eldvörpum.

„Allt þetta svæði þarf að kanna í leit að fornminjum,“ segir Ómar Smári og telur að varlega þurfi að fara í frekari orkuvinnslu í Eldvörpum. Í drögum að rammaáætlun eru Eldvörp í nýtingarflokki og áform uppi um að reisa þar allt að fimmtíu megavatta jarðhitavirkjun. „Ef þetta fær að vera óraskað í eitt til tvö hundruð ár þá margfaldast verðgildið í náttúruperlum eins og þessum. Nálægðin við þéttbýli gefur svæðinu líka aukið gildi.“

Eldvörp

Hellir nálægt Bláa lóninu.

Ómar Smári Ármannsson er aðstoðaryfirlögregluþjónn í lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og fornleifafræðingur. Hann er sérstakur áhugamaður um gönguleiðir, náttúru og sögu Reykjanesskagans og heldur úti ferðavefnum Ferlir.is, þar sem boðið er upp á margvíslegan fróðleik um svæðið, auk skipulegra gönguferða fyrir smærri og stærri hópa. Fram kemur á vefnum að upphaflega hafi FERLIR staðið fyrir „FErðahóp Rannsóknardeildar Lögreglunnar Í Reykjavík“ sem hóf starfsemi árið 1999. Verkefnið vatt svo upp á sig.
„Og ég fór í fornleifafræði, svona til þess að fræðimennirnir gætu ekki slegið mig af borðinu sem áhugamann,“ segir Ómar Smári kankvís.“

Heimild:
-Fréttablaðið, 125 tbl. 15.12.2012, Gengu fram á óþekktar minjar – Óli Kristján Ármannsson, bls. 36.
Eldvörp

Helghóll

Innan lögsagnarumdæmis Grindavíkur eru fjölmörg örnefni er minna á álfatrú og huldufólkssögur. Eftirminnileg dæmi er álfhóllinn á vinnsluplani „Risikó“ (Þorbjörn) ofan við Svíragarð, sem fékk að halda sér þrátt fyrir þörfina á athafnarými við vinnslustöðina. Segja má því með sanni að hóllinn sá sé virðingarverð afstaða hlutaðeigandi til slíkra minja.
SkipsstígurEnn einn huldufólkshóllinn í Grindavíkurlandi er Helghóll. Fáir Grindvíkingar vita hvar hann er að finna, enda eðlilegt. Hóllinn hefur verið afgirtur frá bæjarbúum og flestum öðrum í u.þ.b. 60 ár þrátt fyrir að hann er ekki nema í rúmlega örskotsfæri frá höfuðbýlinu Járngerðarstöðum.
Í örnefnalýsingu Járngerðastaða segir m.a.: „Upp af Silfru voru Eldvörpin, en þau eru nú horfin því herinn sléttaði þau út. Vestur af þeim er Eldborg. Þar upp af er graslendi sem nefnt er Lágafellsheiði. Um hana lá vegurinn til Keflavíkur [Skipsstígur]. Þar vestur af er Bjarnafangi (S.T.) eða Bjarnafles. Þetta er klöpp rétt vestur eða norðvestur af Eldborg. Hjá henni er Litliblettur. Þá er Stóriblettur og Langhóll vestur af Eldvörpum.“
Þegar hér er komið er rétt að geta þess að örnefnalýsingin miðast fyrst og fremst við tvennt; annars vegar heimabæina á Járngerðarstöðum og hins vegar hina fornu þjóðleið til Njarðvíkur, Skipsstíginn. Stígurinn sá liggur upp frá Járngerðarstaða-bæjunum svo til í beina línu upp með vestanverðu Lágafelli. 

Byrgi

Meginhluti leiðarinnar þarna er innan mannheldrar girðingar loftskeytastöðvar sem verður hefur þar í alllangan tíma, svo langan að fæstir hafa farið þar um fótgangandi í næstum einn mannsaldur (sjá þó meira HÉR).
Þegar FERLIR leitaði eftir því við starfsmenn Kögunar, sem rekur fjarskiptastöðina nú, að fá að skoða svæðið á ný m.t.t. örnefnalýsingarinnar, var leyfi til þess góðfúslega veitt. Hafa ber í huga að á svæðinu er mörg viðkvæm svæði og beinlínis hættuleg. Það er því full ástæða til að virða allar takmarkanir, sem gilda um aðgang að því.

Helghóll

Helghóll.

Þegar inn fyrir girðinuna var komið var örnefnalýsingin dregin upp að nýju: „Norður af Eldvörpum er grashóll sem heitir Helguhóll og kringum hann eru grasivaxnar lágar, Helghólslág (S.T.) eða Helghólslautir. Hóllinn sjálfur er toppmyndaður, þar var sagt að hefði verið huldufólkskirkja. Upp af Helghól er Lágafell.“ Auk þess segir: „Austan við gamla veginn ofan túns skammt frá Silfru er Garðhúsahraun. Þar er nú mikið af trönum. Hraunkriki inn í Garðhúsahraunið austanvert heitir Leynir. Þá er Strókabyrgjahraun [þar sem grunnskólinn er núna]  þar sem er t.d. hús Guðsteins Einarssonar. Þar upp af er Svartikrókur vestan við hraunið en Kúadalur í hrauninu þar sem vegurinn liggur.
Eldvarpahraun tekur við vestan við Kúadal. Lágafellsheiði heitir Skipsstígureinkum austur af gamla Keflavíkurveginum en þegar komið er upp fyrir Lágall heitir vegurinn Skipsstígur, sem áður er nefnt. Norður af Lágafelli er svo Skipsstígshraun.“
Við skoðun á vettvangi var Helghóll augljós; toppmyndaður gróinn hóll neðan við Lágafell. Að vísu er hóllinn gróinn mót vestri og suðvestri, þ.e. þegar horft er á hann frá Skipsstígnum, en annars er hann klettóttur mót suðri og suðaustri og sendinn mót norðri. Beggja vegna eru hinar grónu lágar, sem fyrr er lýst. Gæs hafði komið sér vel fyrir undir hólnum og verpt í lágina, á öruggum stað – innan girðingar. Á hólnum hefur verið hlaðið byrgi, sennilega frá því fyrir tíma girðingarinnar og þá af refaskyttum. Ekki er langt að bíða að byrgið verði að fornleif því skv. skilgreiningu Þjóðminjalaga verða allar mannvistarleifar eldri en aldargamlar sjálfvirkt að fornleifum. Á það líka við um álfa- og huldufólkshóla eins og Helghól. Að vísu er þá ekki miðað við myndun hólsins heldur hvenær skráðar voru heimildir um slíkan átrúnað – sem verður að teljast sérkennilegt því álfar og huldufólk verða jú miklu mun eldri en menn.
Til gamans má geta þess að starfsmenn fjarskiptastöðvarinnar voru mjög áhugasamir um allan fróðleik um örnefni og minjar á svæðinu. Með góðri vitneskju og vitund þeirra má ætla að minni líkur verði á ómeðvituðu raski á slíkum stöðum í framtíðinni.
Frábært veður. Gangan tók 18 mín.

Heimild:
-Örnefnalýsing fyrir Járngerðarstaði.

Helghóll

Helghóll sunnan Lágafells.

Grindavík

Eins og fram kemur á vefsíðu FERLIRs voru, að venju tvær, innsiglingavörður, önnur ofan við hina, hlaðnar sem mið að lendingum fyrrum.

Efri innsiglingarvardan vorid 2014

Efri innsiglingarvarðan vorið 2014.

Vörðurnar stóru (gulmáluðu) við Hóp eru þar engar undantekningar. Þær voru hlaðnar árið 1939 í framhaldi af inngreftri um ósinn inn í Hópið í Grindavík. Með því náðu Grindvíkingar að skapa sér hið ákjósanlegasta lægi fyrir nýgerða vélbáta sína. Í framhaldinu fylgdi hanargerð á hafnargerð ofan.
Í fyrstu voru vörðurnar bara eins og hverjar aðrar innsiglingar-vörður; mið af hafi til að rata rétta leið til lægis að róðrum loknum.
Komið var fyrir siglutrjám á vörðunum og á þeim voru innsiglingarmerki. Ekki eru til heimildir um hverjir hlóðu þessar vörður árið 1939, en eflaust voru það handhægir Grindvíkingar þess tíma. Í viðtali við Sigurð Garðarsson, fæddur ’34 á Sólbakka í Þórkötlustaðahverfi sagði hann að árið 1947 hefði hann, sem þá var ári fyrir fermingu, ásamt Benedikti Benónýsyni frá þórkötlustöðum, hræst steypuna í vörðuna og í framhaldi af því hefði hún verið gulmáluð að „framanverðu“. „Þetta var fyrsta launaða vinnan mín, enda bara strákpjakki“.

Efri innsiglingarvarðan 2014-endurgerd

Efri innsiglingarvarðan eftir viðgerð.

Stuttu síðar voru reistir staurar við vörðurnar og á þá sett ljós; grænt, hvítt og grænt. Gáfu þau sæfarendum innsiglingarstefnuna til kynna á nóttu sem degi. Síðar voru reist járnmöstur í þeirra stað með viðeigandi leiðbeiningarljósum fyrir sæfarendur. Steinsteyptur mastursfóturinn sést enn ofan við efri vörðuna fyrrnefndu.
Um vorið árið 2014 hrundi nánast hálf efri innsiglingavarðan við Hóp. Síðdegis í maímánuði sama ár löguðu FERLIRsfélagar innsiglingar-vörðuna. Hún átti 75 ára afmæli á árinu. Verkið var unnið í sjálfboðavinnu – enda kennileitið eitt helsta tákn útvegssögu Grindavíkur í gegnum tíðina – auk þess sem árlegi sjómannadagurinn var framundan. Minna gat það ekki verið…
Hafa ber í huga að mikilvægt er að varðveita vörður, eða kennileiti sem þessi – ekki síst í sögulegum skilningu viðkomandi bæjarfélaga. Grindavík er og hefur verið útvegsbændasamfélag frá örófi alda. Ástæðulaust er að gleyma því, jafnvel þótt minjar þess hverfi smám saman. Tómas Þorvaldsson, útgerðarmaður í Grindavík, nú látinn, lagði í lifandi lífi mikla áherslu á þetta atriði. Máli sínu til stuðnings nefndi hann Títublaðavörðuna við Skipsstíginn; fyrstu stóru vörðuna götuna ofan Járngerðarstaða. Sagði hann þá áhrínisorð til Grindvíkinga að halda þyrfti vörðunni þeirri við svo vegfarendum til og frá bænum myndi vel farnast. Á meðan Tómas lifði var vörðunni ávallt við haldið, en í dag er hún nánast gróið sjálfgildi. Vonandi mun nýstofnað minjafélag í Grindavík huga sérstaklega að þessum merkilegu þáttum sögu bæjarfélagsins.

Hópsvarða

Efri-Hópsvarðan í viðgerð 2010.

 

Heimildir:
-Sigurður Garðarsson.
-Tómas Þorvaldsson.

Snorrastaðatjarnir

Ísleifur Jónsson (f:1927), verkfræðingur frá Einlandi í Þórkötlustaðahverfi í Grindavík, hefur kynnt sér mjög vel landamerki Grindavíkur annars vegar og nágrannabyggðalaganna hins vegar. Hann er ekki í nokkrum vafa um að landamörk Grindavíkur og Vatnsleysustrandarhrepp séu rangt skráð á nýmóðins landakort sem og jafnvel sum þeirra eldri. Sneið norðan við Litla-Skógfell ætti með réttu að tilheyra Grindavík – og þar með Þórkötlustaða-hverfisbæjunum, sbr. landamerkjalýsingu frá árinu 1890, en ekki Vatnsleysustrandar-hreppi, eins og vilji væri til í dag – hvernig sem það væri nú allt til komið?
SkógfellavegurAð hans sögn voru öll hornmörk Grindavíkur fyrrum svo og Grindavíkur-jarðanna klöppuð með bókstöfunum „LM“. Þannig hefði t.d. mátt sjá LM á steini (Markasteini við Markalón) í fjöruborðinu ca. 60 m vestan við Þórkötlustaða-nesvita (Nesvita) þangað til óveður árið 1942 hefði þakið hann grjóti. Steinninn væri landamerki Hóps og Þórkötlustaða. Þaða hefði línan legið upp í Moshól og um Skógfellin (Stóra-Skógfell og Litla-Skógfell), í klett norðan við það síðarnefnda og áfram að mörkum Vatnsleysu-strandarhrepps, í klöpp austan gömlu götunnar (Skógfellavegar) þar sem hún beygir til norðurs að Vogum. Í klöppina hafi verið klappaðir bókstafirnir „LM“. Austan við merkið hefði verið reistur mannhæðahár steinn.
VarðaÞetta vissi hann því fyrir u.þ.b. 70 árum hefði hann verið sendur til að smala Grindavíkurlandið ásamt öðrum. Hefði hann verið vestastur smalanna (þ.e. farið var upp frá Vogum) að mörkum sveitarfélaganna og þeir beðið við steininn. Á klöppina, sem hann hafi síðan hafið smalagönguna áleiðis til Grindavíkur, u.þ.b. 1.5 km norðan við Litla-Skógfell, hefði þessi áletrun verið greinileg. Hún hafi verið vestan við nefndan stein. Allir fjárbændur í Grindavík fyrrum, ekki síst í Þórkötlustaðahverfi, hefðu vitað af klöppinni og merkingunni. Hún hafi verið í línu millum Arnarkletts sunnan Snorrastaðatjarna (þar sem „LM“ ætti að vera klappað). Ekkert merki hefði verið á þeirri klöpp norðan við Litla-Skógfell sem Vatnsleysustrandarbændur hefðu löngum talið mörkin liggja um. Þau hefðu fremur verið óskhyggja en staðreyndir og eru að öllum líkindum runnar undan rifjum Vogabænda.
HellaÞegar skoðaðar voru markalýsingar Grindavíkur annars vegar og Vatnsleysustrandarhrepps annars vegar kom ýmislegt áhugavert í ljós – og ekki allt samkvæmt bókinni.
Í lýsingu fyrir Voga segir m.a. um markalínuna á þessum slóðum: „Úr Vatnskötlum liggja mörkin til útsuðurs um Kálffell og í kletta við götuna nyrst í Litla-Skógfelli. Úr Litla-Skógfelli liggja mörkin á Arnarklett, allháan klett og auðkennilegan í brunahrauninu sunnan Snorrastaðatjarna.“ Þetta er eina lýsingin sem getur þess að mörkin liggi um Litla-Skógfell norðanvert. Í jarðalýsingu Vatnsleysustrandarhrepps segir hins vegar: „Þar austar er svo annað lágt fell á merkjum, Kálffell.“

Svæðið

Í lýsingu Þórkötlustaða segir: „Úr Stóra-Skógfelli liggur markalínan í gjána í Kálffelli en það er lágt fell eða bunga sem er framarlega í Kálffellsheiði. Frá Kálffelli liggja landamerkin í Vatnskatla í Fagradals-Hagafelli og þaðan í Innstuhæð á Vatnsheiði.“ Hafa ber í huga að Litla-Skógfelli er sleppt í þessari lýsingu, enda engin mörk þar. Þarna er Kálffellið á landamerkjum.
Í lýsingdu Þórkötlustaðahverfis segir ennfremur: „Samkv. þessu er Sandhóll sem er vestur af Kasti og Fagridalur sem er kvos inn í Fagradalsfjall austan við Aura í landi Þórkötlustaða. Fagradals-Vatnsfell sem er norðvesturöxl Fagradalsfjalls er sömuleiðis í landi Þórkötlustaða. Aurar heita melar innan við og austan Dalahraun og þar norður af eru grasflatir sem heita Nauthólaflatir. Þar var heyjað af bændum á Þórkötlustöðum. Vesturhluti Beinavörðuhrauns nær vestur í land Þórkötlustaða.“
ummerkiHér er augljóst að allt land innan við Litla-Skógfell, þar með talinn Fagridalur, tilheyrir Þórkötlustaðabæjunum sex; þ.e. Þórkötlustöðum I, II og III sem og Klöpp, Buðlungu og Einlandi.
Þegar skoðuð eru landamerki Hrauns kemur eftirfarandi fram: „Þaðan til vesturs sunnanvert við Keili um Vatnskatla og í Kálffell, sem er lágt og frekar lítið áberandi fell.“ Merkin eru gjarnan miðuð við Kálffell. Ágreiningurinn hefur hins vegar staðið um sneiðingin suðvestan við Kálffellið.
VörðurAri Gíslason segir m.a. í örnefnalýsingu sinni um Voga: „Suður frá Vogunum lá æfaforn vegur sem nefndur er Sandakravegur. Hefur hann verið mikið notaður ef marka má það að sumstaðar eru þar djúp för niður í hraunklappirnar. Vegur þessi lá að Ísólfsskála í Grindavík… Ofanverðu við Stóru-Aragjá skiptist vegurinn og heitir sá vestri Skógfellsvegur. Krókar heitir svo á Stóru-Aragjá niður af felli því sem heitir Litla-Skógfell.“
Samkvæmt lýsingu Ara, sem var nákvæmnismaður í lýsingum sínum (skrifaði fremur stuttar lýsingar en lengri ef skipin lágu þannig) voru Skógfellavegirnir tveir. Það verður að þykja athyglisvert því löngum hefur önnur gata, auk Skógfellavegar, verið merkt inn á landakort. Sú gata á að hafa legið um Fagradal (Nauthólaflatir), Mosadali og inn á Skógfellaveginn (Sandakragötuna) á fyrrnefndum mörkum.
BrakiðÍ vettvangsferð um Skógfellaveginn (algerlega í hlutlausum gír) var hann fetaður frá Vogum allt að Litla-Skógfelli (4.7 km í beinni línu). Þegar hnit voru tekin við Litla-Skógfell og gengið til baka (eftir símtal við Ísleif) var ljóst að ganga þurfti ca. 1.5 km bakleiðis. Eftir 1.2 km var gengið út úr apalhrauni austasta hluta Sundhnúkagíga-raðargossins (frá ca. 1220) inn á slétt helluhraun (Skógfellahraunið, ca. 11.500 > 8000 ára). Þar var komið inn á sléttar hellur í hrauninu þar sem gamla gatan var vel mörkuð. Á einum stað, þar sem gatan beygir til suðurs, mátti telja augljóst að væru mörk. Þrátt fyrir ítarlega leit í skamman tíma var ekki hægt að finna þarna áletrunina „LM“. Ef góður tími væri gefin til leitarinnar mætti eflaust finna hana þarna. A.m.k. gaf staðsetningin tilfinningu fyrir einhverju væntanlegu.
BrakÞegar staldrað var um stund á þessum stað virtist augljóst að um landamerki væri að ræða. Suðaustan við staðinn var skófvaxin varða með stefnu í Kálffell. Norðvestan við hann var hraunhóll með gróinni vörðu. Fjær hafði hella verið reist við með tilheyrandi stuðningi. Stefnan á framangreindu var á fyrrnefndan Arnarklett sunnan  við Snorrastaðatjarnir.
Þegar kennileiti á línunni milli Kálffells og Arnarkletts voru skoðuð kom margt forvitnilegt í ljós. Hvarvetna eru fallnar grónar vörður á hólum, hæðum og á gjám eða ummerki um slíkt, s.s. uppreistar hellur, hringhleðslur o.fl. Á einum stað virtist augljóst að vörðu hafði verið raskað, af óljósri ástæðu.
SkógfellavegurÍ landamerkjalýsingu Þórkötlustaða frá 1890, undirrituð af fulltrúum allra jarðanna og staðfest af sýslumanni, segir m.a. um markalínuna: „…sjónhending í toppinn á Stóra-Skógfelli, þá áfram sömu stefnu yfir Litla-Skógfell, að steini sem þar stendur við götuna, þaðan að Kálffelli… Einkennismark markalínunnar er L.M. er þýðir landmerki…“. Í lýsingunni er vitnað í landamerki frá 1270, endurnýjuðum 28. júní 1620.
Telja verður, af vettvangsferðinni lokinni, að landamerki Vatnsleysustrandar-hrepps og Grindavíkur hafi fyrrum legið um Arnarklett í Kálffell og þaðan í Vatnsfell-Hagafell (Vatnskatla). Því má telja, án efa, að Fagridalur og Nauthólaflatir hafi fyrrum tilheyrt Þórkötlustaðalandi, líkt og heimildir um selstöður (Dalssel) segja til um.
FERLIR hefur ógjarnan blandað sér í landamerkjamál og -deilur, hvort sem um er að ræða einstakar jarðir eða fyrrum hreppa. Í þessu tilviki verður þó varla hjá því komist sökum réttmæts rökstuðnings þess og þeirra er mest og best hafa kynnt sér málavexti.
Fljótlega verður farið aftur á vettvang og þá með Ísleifi Jónssyni með það fyrir augum að staðsetja L.M. merkið á hellunni við nefndan stein rétt við gömlu götuna, sem þar er enn mjög greinileg.
Þegar niður á neðanverða Vatnsleysustrandarheiðina kom mættu þátttakendum tokennilegt brak; sennilega af einhverjum beltabryndreka hernámsliðs fyrri tíðar.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín, enda voru gengnir 12.3 km með tilheyrandi frávikum fram og aftur um hraunhellurnar. 

Heimildir m.a:
-Ísleifur Jónsson, f: 22.05.1927.
-Örnefnalýsingar fyrir Járngerðarstaði, Þórkötlustaði og Hraun.
-Landamerkjalýsing fyrir Vatnsleysstrandarhrepp.
_Landamerkjalýsing Þórkötlustaðahverfis 20. júní 1890.
-Vettvangsferð.

Skógfellastígur

LM-merki á Steini við Skógfellastíg.

Selatangar

Farið var að Ísólfsskála og Selatöngum í fylgd Jóns Valgeirs Guðmundssonar, syni Guðmundssonar Hannessonar frá Vigdísarvöllum. Lýsing á hluta ferðarinnar fer hér á eftir.
GarðarHaldið var eftir Ísólfsskálavegi frá Hrauni. Jón benti m.a. á hvilft í vestanverðum Siglubergshálsi þar sem hann kemur í Fiskidalsfjall og nefndi hana Lyngbrekku. Hann benti og á gamla veginn, sem lagður var frá Hraunssandi, upp hálsinn og áfram áleiðis yfir að Skála. Hann sést vel ofanvert í hálsinum og áfram á milli og yfir Móklettana. Þar liggur vegurinn inn með hlíðinni uns hann liggur áleiðis norður fyrir Slögu austan við Litlaháls.
Jón sagðist muna vel eftir LM-merkinu í austanverðum Móklettum. Það var skoðað og benti Jón á merkið (ártal). Landamerkin að vestanverðu liggja úr Festisnýpu, í merkið á Móklettum og yfir í Rauðamelshól uppi á sunnanverðu Borgarfelli.
Ekið er yfir Litlaháls og þá er Lyngfjall á hægri hönd, síðan Festisfjall sunnan við það. Áður en haldið var að Ísólfsskála var farið inn í Drykkjarsteinsdal að Drykkjarsteini. Á leiðinni var farið framhjá grettistaki miklu suðvestan í Slögu, er Jón sagði heita Hattur. Jón sagði Símon Dalaskáld hafa ort fallegt kvæði um steininn, en hann er sunnan við þjóðleiðina austur að Mjöltunnuklifi og til Krýsuvíkur. Jón sagðist nú einn vera eftirlifandi þeirra, sem lögðu veginn árið 1933. Þeir hefðu þá verið fimm saman, en vegurinn hafi verið gerður að beiðni Hlínar í Krýsuvík og á hennar kostnað. Þeir hafi haft einn hest, Nasa, og einn vagn við vegagerðina.

Verkhús

Vegagerðin hafi verið tiltölulega auðveld að Méltunnuklífi, en þá hafi þeir þurft að ryðja sér braut í gegnum Leggjabrjótshraun, yfir Núpshlíðina og áfram yfir hraunið að Latfjalli. Þá hafi Ögmundarhraunið tekið við og liggur gamli vegurinn skammt norðan núverandi vegar. Við austurenda hans er komið inn á leið þá er Ögmundur lagði forðum. Gengið var að dysinni, teknir punktar og hún skoðuð. Þá var gengið spölkorn eftir gömlu leið Ögmundar. Enn sést vel móta fyrir henni í hrauninu.
Komið var að Ísólfsskála. Vestan við Huldukonustein er Bjallinn. Undir honum, þar sem hann er sléttastur og gamalt garðlag liggur að honum, voru Skálaréttir. Í þeim voru dilkar og almenningur. Þangað komu Grindvíkingar í réttir. Eftir að Borgarhraunsréttir voru hlaðnar lögðust þær af.
Á Ísólfsskála benti Jón á Gvendarvör, sem er innan í fallegu lóni utan við Nótarhól austan við túnin á Skála. Á hólnum og við hann eru mikil fiskibyrgi og þurrkgarðar frá þeim tíma er fiskur var verkaður og þurrkaður á staðnum. Jón sagði að fiskurinn hafi verið flattur eins og saltfiskur nú, hann síðan lagður inn í byrgin og þess gætt að roðið lægi saman. Þannig hafi fiskurinn verið um veturinn. Um vorið hafi hann verið tekinn og lagður á garðana uns honum var pakkað og skúturnar komu erlendis frá og sóttu hann. Þær hafi verið á legu utan við víkina, stundum margar saman. Utan við Nótarhól er Gvendarvör, eins og fyrr sagði og heitir ysta mark lónis Gvendarsker. Frá því myndast alnbogi til lands með því austanverðu og sker að vestanverðu.

Á Selatöngum

Lending var í Börubót, sem verið hafði beint neðan við bæinn. Bærinn sjálfur var þar sem nú er bílastæði vestan við græna sumarbústaðinn vestast á túninu, undir Bjallanum. Enn sést móta svolítið fyrir hleðslum hússins að hluta. Austan við veginn að bústaðnum eru einnig hleðslur gripahúsanna, en göng voru yfir í þau úr bænum. Sjóbúðin var framan og vestan við bæinn, fast við veginn að bústaðnum. Hleðslurnar sjást þar að hluta. Beint þar fyrir neðan sjóbúðina er hlið. Sjávarmegin við það, þar sem nú er sjávarkampurinn, var hlaðinn brunnur bæjarins. Kampurinn hefur gengið mikið upp síðan því tún var niður að honum allt að móts við Lambastapann, sem er austasti klettur Festisfjalls, Skálamegin. Ofan hans er Hjálmarsbjalli, nefndur eftir bróður Guðmundar. Hann ruddi svæðið ofan við bjallann, hlóð veggi og gerði þar túnblett. Norðan við húsið er stakur steinn er nefnist Huldukonusteinn. Segir sagan að huldukona hafi eitt sinn birst heimasætunni er var að leik við steininn og beðið hana um að lána sér dúkku, sem hún hafði. Heimasætian lánaði huldukonunni dúkkuna, en svo óheppilega vildi til að hún missti hana svo hún brotnaði. Varð af grátur og gnýstan tanna, en huldukonan hvarf inn í steininn.

Sjóbúð

Haldið var að “nýja” Skálahúsinu, sem byggt var 1931. Austan þess er stór steinn. Hann féll úr Bjallanum er faðir Jóns var níu vetra og lenti á höfði hans. Hlaut hann langt og mikið sá þvert yfir höfuðið svo leðrið hékk la. Varð að sækja lækni til Keflavíkur til að vinna saumaskapinn. Suðaustan við húsið, þar sem nú er grunnur, stóð Bergsstaðahúsið. Það var síðar flutt út í Þórkötlustaðahverfi og loks út í Járngerðastaðahverfi, a.m.k. hluti þess. Guðbergur Bergsson hefur búið þar. Í stefnu austur frá húsinu, ríst klettaborg úti í hrauninu. Hún nefnist Kista. Fjárbólið var uppi í klettunum norðan við bæinn. Jón sagðist muna eftir því, t.d. árið 1928, að mikið af skútum hafi verið við veiðar utan við ströndina. Hafi hann t.a.m. talið þar um 300 slíkar einn daginn. Þær voru franskar, færeyskar, danskar og hollenskar. Séð frá húsinu, í átt að Nótahól, er lágur grashóll og utan í honum hleðslur. Hann nefnist Hestagerði. Rangagerði er djúp skora utar með ströndinni og skerst hún allangt inn í bergið. Þangað komst t.d. sjómaður eitt sinn á bát sínum í vonskuverði og bjargaðist. Rangagerði varð áður fyrr austurmörk Ísólfsskála, eða eftir að bóndinn gaf Kálfatjörn rekann frá gerðinu að Dágon á Selatöngum sem sálargreiða. Í staðinn eftirlét Kálfatjörn Ísólfsskála grásleppuveiði utan við Kálfatjörn á Vatnsleysuströnd. Bárður, bóndi á Skála, keypti hann til baka árið 1916 svo nú eru austurmörkin aftur í Dágon.
Þegar haldið var áfram austur Ísólfsskálaveg lýsti Jón Hrafnsskriðu undir Slögu, Stórusteinum, Lágaskarði o.fl. stöðum. Vörður tvær á hægri hönd heita Bergsvarða (nær veginum) og Bárðarvarða. Bergur, faðir Guðbergs, hlóð þá veglegri er hann sat yfir fénu þarna og vildi hafa eitthvað um að sýsla. Gil eitt á vinstri hönd er merkilegt fyrir það að í því eru drykkjarskál. Þar settist vatnið og gat fé gengið að því vísu.
Fyrsta hornið við veginn á vinstri hönd heitir Fyrsta brekka í Méltunnuklifi. Síðan tekur við Önnur brekka í Méltunnuklifi. Þangað voru kýrnar frá Skála venjulega reknar til beitar. Loks er Méltunnuklifið. Þá hafi vegurinn um klifið bæði verið mjór og svo þröngur að erfitt gat verið að kmast með hesta þar um. Gamla þjóðleiðin, sem fyrr var líst, kemur ofan af klifinu skammt norðar. Þar heitir Innsta brekka í Méltunnuklifi. Grasi gróið dalverpi er þar austanvið. Farið er í gegnu gjallgíga. þeir heita Moshólar.
Jón Guðmundsson Áður en haldið var að Selatöngum var farin gamla leiðin í gegnum Ögmundarhraun, þá er Jón og félagar ruddu á sínum tíma. Jón lýsti leiðinni og vinnunni. Verst gekk að komast í gegnum hraunhaftið skömmu áður en komið er austur fyrir hraunið. Þar er komið inn á Ögmundarleiðina og er dysin þar skammt frá. Enn má vel sjá móta fyrir hleðslum í dysinni.
Á leiðinni niður að Selatöngum lýsti Jón Eystri lestarleiðinni frá Krýsuvík, Rekagötunni eða Vestari lestarleiðinni, um Katlahraun út að Ísólfsskála. Eystri leiðin liggur með hraunkantinum, sem er handan hraunssléttunar austan vegarins. Jón sagði að þeir hefðu verið svo til allt haustið að reiða reka heim frá Selatöngum. Tanga Móri hefði stundum gert vart við sig, en vitað var að hann hafi verið vesalingur, sem orðið hafði úti þarna við tangana. Fræg er sagan af viðureign hans og Arnarfellsbónda.
Gengið var að refagildrunum vestan við Selatanga. Faðir Jóns hlóð þær á sínum tíma. Jón sagði hann hafa verið meira gefinn fyrir veiðar en búskap. Gildrunar hafði hann ekki séð í u.þ.b. hálfa öld. Gengið var eftir Vestari lestargötunni í gegnum Katlahraun og að Smíðahelli. Á leiðinni benti Jón á skarð suðvestan í Katlinum, en af því var áður tekið mið í Geitahlíðarenda – fiskimið. Jón sagði vermenn á Selatöngum stundum hafa stolist í Smíðahelli í landlegum, tekið með sér rekavið, og dundað við að smíða úr þeim ausur, spæni, tögl o.fl. Þetta hefðu þeir ekki mátt, en í hellinum gátu þeir dulist án þess að nokkur yrði þeirra var.
Jón GuðmundssonÞar sem setið var utan við hellinn í kvöldsólinni benti Jón á Langahrygg í norðri. Hann sagðist hafa verið þarna niður á Töngunum haustið 1940 er hann og bróðir hans hefðu orðið var við hvítann flekk utan í hryggnum. Þeir hafi haldið heim, en síðan farið upp á hrygginn. Þegar þangað kom hafi þeir sé líkamsparta dreifa um hlíðina og brak úr flugvél upp og niður um hana alla. Þeir hafi gengið niður til Grindavíkur til að láta vita. Þaðan hafi verið haft samband við herinn, því þarna var um ameríska flugvél að ræða með marga háttsetta innanborð. Haldið var á hrygginn í bryndreka, en það hafi verið í fyrsta og síðasta skiptið sem hann hafi ferðast með slíku farartæki.
Litið var á fjárhellinn norðan Katlahrauns. Jón sagði hann hafa verið hlaðinn um 1870 af föður hans, sem þá hafi búið á Vigdísarvöllum, vegna þess að féð hafi leitað niður í sunnanverðar Núpshlíðar og alveg niður í fjöru á Selatöngum. Eftir að faðir hans flutti að Skála komu þangað íslensk kona og fylgd hennar var Þjóðverji. Þetta var á stríðsárunum. Þau hafi beðið um húsaskjól. Guðmundur hafði slíkt ekki á lausu, en vísaði þeim á fjárskjólið. Þar dvaldi parið um tíma eð þangað til þau voru sótt þangað af Bretum.
Jón vísaði á Nótahellir vestast á Seltöngum. Þar sagði hann bændur hafa lagt nótina yfir vík, sem þar er, til að veiða selinn, sem hafi verið fjölmennur á og utan við Tangana í þá daga. Hellirinn sést vel á lágfjöru, en erfitt er að komast að honum í annan tíma. Fé leitaði stundum inn í hellinn og flæddi þá stundum inni. Þess vegna var reynt að gera gerði utan við hornið landmegin, en það fór veg allrar veraldar.
Þá var gengið um Selatangasvæðið sjálft. Það skal tekið fram að eftir gönguna sáu þátttakendur svæðið í allt öðru ljósi Sjóbúðen áður. Þarna er svo margt og merkilegt að finna að erfitt er að lýsa því stuttum texta. Þess vegna var ákveðið að nota ferðina og gera uppdrátt af svo til öllum mannvirkjum á Seltaöngum, nefna þá og staðsetja svona nokkurn veginn. Vestan við sjálfa Selatangana eru brunnurinn, þar sem vatn aldrei þraut. Ofan hans eru Brunntjarnirnar. Jón sagði að hann og bróðir hans hefðu fyllt svo til alveg upp í brunninn eftir að dauð rolla fannst ofan í honum. Hann hafi áður verið meira en mannhæða djúpur.
Vestast á Selatöngum, austur undir kletti, er hlaðið hesthúsið. Á austurveggnum eru garðarnir. Sunnan hesthússins eru búðir þær, sem síðast var hafst við í. Innst, nyrst, er eldhúsið. Sjá má ennþá hlóðarsteinana í suðausturhorni þess. Framan við eldhúsið eru tveir bálkar, svefnhús. Austan við þá er hús, sem var hluti búðanna. Í þeim var hafst við allt til ársins 1880, en þá gerði faðir hans út bát frá Selatöngum Báturinn var jafnan í Tangasundinu, sem er neðan við vestasta fiskibyrgið á hól sunnan búðanna.

Tangarnir

Að því er gengið frá búðunum um hlaðið hlið. Byrgið stendur svo til heilt. Göt eru á báðum göflum. Jón sagði þau hafa verið lyklinn að önduninni. Fiskinum hafi verið staflað líkt og á Nótarhól og þess gætt að kjötið snertist ekki. Þannig hafi hann verið um veturinn. Um vorið hafi fiskurinn verið tekinn og borinn út, þurrkaður og ýmist fluttur út í skútur eða heim. Fiskibyrgin standa sum svo til heil, bæði með húslagi og ein hringlaga. Verbúðirnar eru við fyrstu sín illa sjáanlegar, en þegar betur er að gáð, sjást þær vel. Austustu búðirnar er vestan við Selalónið, en austan þess er klettaveggur. Hann heitir Vestari Látur. Austari Látur eru þar skammt austar.
Rétt sést móta fyrir austustu búðunum, sunnan við austasta þurrkbyrgið, sem stendur þar nokkuð heillegt. Búðirnar eru vestan við hlaðinn stíg er liggur frá fiskbyrginu niður að ströndinni. Ofan byrgisins er Smiðjan í klettasprungu. Austan þess er hlaðið hringlaga fallegt fiskibyrgi.
Dágon er nær horfinn. Hann sést þó í fjöruborðinu sem lítill klettur, suðaustan við vestasta fiskibyrgið. Vestan hans er hærri klettur og annar stór uppi á bakkanum á milli þeirra og byrgisins. Á tiltölulega sléttum grágrýtisklöppunum neðan við Dágon er klappað LM, en þar voru austurmörk Ísólfsskála og Krýsuvík tók við. Áletrunin sést einungis á lágfjöru. Jón sagðist hafa ætlað að skýra fyrsta bátinn sinn Dágon, en þegar hann frétti að nafnið þýddi “djöfull” á dönsku, hafi hann hætt við það.
Neðan við það fiskibyrgi, sem er heillegast miðsvæðis, er Skiptivöllurinn, bergrani út í sjó. Þar voru áður sléttar klappir og voru þær notaðar sem skiptivöllur líkt og vellirnir við Stokkasundið í Selvogi.
Þegar gengið er til vesturs á Töngunum má t.d. sjá þurrkgarða, fiskbyrgi fremst, verbúð austan undir kletti (þeirri er lýst var áður), hesthúsið norðar, fiskibyrgi, fjögur kringlótt fiskibyrgi, íveruhús, fullt að sandi, skiptivöllinn, hús, hringlaga fiskibyrgi, fiskibyrgi, tvö sandfyllt hús, tvo hringlaga byrgi, Smiðjuna, fiskibyrgi, hús, eldhús, bálka og loks fiskibyrgi. Utar er Selalón, eins og áður sagði. (Sjá meira í bæklingi Ferðamálafélags Grindavíkur um Selatanga. Í honum er m.a. fyrrnefndur uppdráttur af Töngunum).
Veður var í einu orði sagt frábært – logn, sól og hiti.

Selatangar

Selatangar – uppdráttur ÓSÁ.

Járngerðarstaðir
Í Landnámu (Sturlubók) er þess getið að Molda-Gnúpur Hróflsson hafi numið Grindavík, líkleg aum 934, og Þórir haustmyrkur Vígbóðsson nam Selvog og Krýsuvík
Synir Molda-Gnúps voru Gnúpur, Björn, Þorsteinn og Þórður. Einkona Gnúps var Arnbjörg Ráðormsdóttir og Björn giftist Jórunni dóttur Arnbjargar og Svertings Hrolleifssonar (á Hrauni). Í annarri útgáfu Landnámu (Hauksbók) segir að Gnúpur hafi fallið ásamt 2 sonum sínum í átökum við Kaplagarða um veturinn. Hinir synirnir; Björn, Þórður og Þorsteinn, hafi hins vegar numið land í Grindavík.

Herósdes

Heródes- letursteinn.

Lítið er vitað um byggð í Grindavík fyrstu 300 árin. Má það teljast eðlilegt því á ofanverðum þeim tíma hefur byggðin líklega tæmst um tíma. Um 1150 byrjaði að gjósa austan við Grindavík og aftur um 1188. Mikið hraun rann. Um svipað leyti byrjaði að gjósa að austanverðu. Um 1211 færist goshrinan nær (Eldvörpin) og enn 1226 þegar Illahraun og Afstapahraun ógna byggðinni. Ekki er ólíklegt að fólk hafi þá verið búið að fá nóg og því flutt sig til öruggari staða, a.m.k. um tíma.
Líklegt má telja að Molda-Gnúpur Hrólfsson, eða synir hans, hafi sest að þar sem nú er Hóp (aðrir nefna Þórkötlustaði). Fyrrnefnda nafnið bendir til þess þar sem bæ sinn í Álftaveri þar veturinn áður hafði hann nefnt Hof er gæti hafa breyst í Hóp eftir að kristni var innleidd. Önnur vísbending eru aðstæður þær, sem verið hafa þar á þeim tíma. Ferskt vatn rann undan klöppunum, en það er óvíða að fá á þessu svæði, nema ef vera skyldi í Gerðisvallabrunnum vestan við Járngerðarstaði. Fjörubeit hefur verið góð, auk þess sem skipalagi hefur hvergi verið betra en í Hópinu.

Grindavík

Grindavík – Grafið inn í Hópið 1939.

Áður en opnað var inn í Hópið var þar fyrir ós, sem hægt var að komast um á flæði. Grasbleðill hefur og verið þarna við ströndina og tiltölulega greiðfært til fjalla þar sem nýleg hraun voru ofar. Ströndin, bæði að austanverðu og vestanverðu hafa verið allt annars eðlis og legið miklu mun lengra inn í skagann. Há björg hafa einkennt austurströndina, en litlar grónar víkur verið á milli Ísólfsskála og Krýsuvíkurbjargs. Gróið hefur verið í hlíðum Þorbjarnarfells (elsta fellið á svæðinu) og því vænlegt til selstöðu.

Hóp

Hóp – tóftir gamla bæjarins.

Synirnir voru fullvaxta er hér var komið sögu. Gnúpur hefur væntanlega fyrst tekið sér kvonfang og þurft búsílag. Hinn veraldarvani Molda-Gnúpur, sem fengið hafði viðurnefni (virðingarheiti) sitt frá fæðingarstað hans í Moldartúni á Norðmæri í Norðmæri í Noregi, hefur væntanlega viljað tryggja land sitt að austan, þar sem búið var í Hlíð við Hlíðarvatn í Selvogi. Hann hefur því væntanlega fengið syni sínum land þar sem áður var við Krýsuvík, á ystu mörkum þess tíma. Ofar er Gnúpshlíðarháls og Gnúpshlíðarhorn syðst. Ögmundarhraun rann síðar yfir byggðina um 1151, en hlífði austasta hluta hennar að hluta. Byggðin þar hafði þá náð að þróast í u.þ.b. 211 ár. Líklega hefur Þórir haustmyrkur og hans afkomendur lagt einhverju af sínu fólki til land vestast á landssvæði sínu, til mótvægis við byggð Grindarvíkurbóndans. Þær minjar, sem nú sjást í Húshólma og Óbrennishólma, gætu verið leifar þeirrar byggðar. Byggðin hefur legið vel við sjósókn, fuglar í björgum og greiðfært hefur verið til upplandsins til hrísöflunar eftir hálsunum.

Hóp

Hóp – gamli bærinn.

Venjan var sú að elsti sonurinn tæki bú eftir föður sinn. Björn hefur því væntanlega verið elstur því ýmislegt bendir til þess að hann hafi tekið við búinu að Hópi eða flust þangað sem nú eru Járngerðarstaðir. Ekki er ósennilegt að í heiðni hafi Björn fengið viðurnefnið Þór, þ.e. elstur og æðstur bræðranna, en með kristninni hafi Hafurs-viðurnefnið orðið ofan á, sbr. draumasögnina um bergbúann og geithafurinn er kom í framhaldi af því til hjarðar Björns. Sagt var að landvættir allir hafi fylgt honum og bræðrum hans til þings og veiða. Fellið Þorbjörn ofan við Grindavík (Hóp) mun heita eftir Hafur-Birni.
Líklegt er að Þórði hafi verið fengið land á austurmörkum hins byggilega hluta landnámsins, þ.e. í Staðahverfi. Þórðarfellið ofan við Staðahverfi gæti bent til þess, en sagt er að fellið hafi verið nefnt eftir honum.

Hóp

Hóp – loftmynd.

Þá er Þorsteinn einn eftir. Þar sem mest land við sjó, þar sem fiskur, fugl, reki, þang og þari þóttu hlunnindi, var að mestu frátekið þegar lengra var litið, var ekki um annað að ræða en líta nær eftir landkostum. Þá komu annað hvort núverandi Járngerðarstaðir eða Þórkötlustaðir til greina. Rannsókn sem gerð var við byggingu hlöðu við Vesturbæ í Þórkötlustaðahverfi, bentu til þess að þar hafi komið upp tóft landnámsskála (Brynjúlfur Jónsson).

Skír skírskotun til sagna, sbr. heiðnar dysjar Járngerðar og Þórkötlu, benda til fornra bæjarstæða á hvorum staðnum fyrir sig. Á báðum þessara staða hafa sjósóknarskilyrði verið góð, en þó mun betri á Þórkötlustöðum. Bæði hefur þar verið afmarkaðra land frá Hópi og nærtækara að sækja búbjörg í björgin þar austan við.

Hóp

Hóp – minjar gamla bæjarins, þ.á.m. hofstóft.

Fiskimiðin leggja og betur við og rekamöguleikar þar hafa verið umtalsverðir. Húsafjall og Fiskidalsfjall ofan við Þórkötlustaði (Hraun), benda einnig til ákjósanlegrar búsetu á því svæði.
Hinar fornu þjóðleiðir, sem sjá má djúpt markaðar í bergið, jafnt frá Hópi, Járngerðarstöðum og Staðahverfi, benda til mikillar umferðar til og að þessum stöðum lengi og alllöngum í gegnum aldirnar. Skógfellahraunið, sem Skógfellastígur ofan við Hóp, liggur um, er einna mest markaður, enda hraunið mun eldra en landnámið.

Þórkötlustaðir

Þórkötlustaðir – flugmynd. Fornaldarskáli er á milli húsanna.

Þórkötlustaðahverfið freistaði Skálholtsstóls þegar á 12. öld. Þar þar var ein mesta útgerð stólsins þegar á 14. öld og í raun undirstaða útflutningsverslunar hans fram eftir öldum.
Járngerðarstaðahverfið byggðist síðast upp fyrir alvöru af hinum þremur hverfum er mynda Grindavík í dag. Ljóst er þó að þar hefur verið orðið mannmargt þegar verslun Þjóðverja og Englendinga stóð sem hæst á 15. og 16. öld. Það var skreiðin, sem í rauninni var bitist um. Hún var svo verðmæt, að Englendingar telja skreiðarfarm geta numið allt að fjórum fimmtu hlutum af verði skips, öllum úthaldskostani þess í Íslandssiglingum og vörufarmi, er það flytur til Íslands.

Strýthólahraun

Strýthólahraun – fiskibyrgi.

Af þessu má sjá að það var til mikil að vinna, bæði hvað snerti verslun og fiskvinnslu. Þar gegndi Grindavík lykilhlutverki lengi vel. Minjar fiskverkunarinnar má sjá á nokkrum stöðum við Grindavík, s.s. á Selatöngum vestan gömlu Krýsuvíkur, Í Skollahrauni austan Ísólfsskála, í Slokahrauni austan Þórkötlustaðahverfis, í Strýthólahrauni á Þórkötlustaðanesi og ofan við Staðarhverfi.
Á Járngerðarstöðum hefur „Tyrkjunum“ þótt vænlegt að lenda árið 1627 og þar hóf Einar Einarsson í Garðhúsum verslun sína fyrir 1890, en rekja má upphaf kaupstaðarins til þeirrar verslunar og athafnalífsins í kringum hana. Lengi vel voru aðeins tveir „kaupstaðir“ á Reykjanesskaganum, Grindavík og Hafnarfjörður. Tilkoma hafnarinnar í Hópinu árið 1939 hleypti lífi í þorpið og stækkun hafnarinnar þar upp úr 1950 lífi í athafnalífið, en fólksfjölgun og virkt athafnalíf hefur jafnan farið saman í Grindavík í gegnum aldirnar.
Grindavík flaggaði 30 ára kaupstaðarafmæli árið 2004, en bærinn er sá staður á landinu, sem hvað mest ógn hefur staðið af landinu, en getur að sama skapi þakkað farsæld sína hafinu. Nú er bæjarfélagið hins vegar á þeim tímamótum að geta einnig gert innlandið að verðmætum, þ.e. jarðorkuna, náttúruna og hið nýmótaða umhverfi þess. Og ekki má geyma möguleikum ferðaþjónustunnar, en það er sú atvinnugrein, sem er í hvað mestum vexti hér á landi. Útgerðin er ekki síst uppruninn, þ.e. landnámið og sögulegar minjar. Af þeim er Grindavík æði rík.

Hóp

Hóp – uppdráttur ÓSÁ.