Tag Archive for: Grindavík

Grindavík

 Á fyrri öldum, og allt undir síðari heimsstyrjöld, ýttu Grindvíkingar bátum sínum á sjó og lentu í vörum. Var þá oftast svo, að ein vör a.m.k. fylgdi hverju lögbýli. Þær voru flestar við vík eða víkur, sem gengu inn í ströndina. Í þeim var eilítið meira skjól en utar, brimaldan sumstaðar lítið eitt minni og setningurinn nokkru hægari. Í flestum þeirra var þó lending bæði bág og hættuleg.
Bátar í naustiEngum sögum fer af lendingabótum í Grindavík fyrir 1800. Bændur hafa vafalaust hreinsað varirnar eftir því sem þörf krafði og kostur var, en meira gátu þeir ekki. Gefur og auga leið, hve mikil og erfið vinna það hefur verið að halda vörunum sæmilega hreinum. Hafið er á sífelldri hreyfingu og skolar sandi og grjóti upp á ströndina, og þegar gerði stórbrim og flóð, bárust oft stórgrýtisbjörg upp í varirnar svo þær urðu ónothæfar.
Engar heimildir eru hedlur fyrir því, að hugað hafi verið að hafnargerð fyrr en kom fram á síðari hluta 18. aldar. Þá lét Guðmundur Runólfsson, sýslumaður, mæla Hópið og ósinn, en ekkert varð af framkvæmdum. Hefur verkfæraleysi og e.t.v. skortur á mannafla, að líkindum valdið mestu. Einu umtalsverðu framkvæmdirnar, sem sögur fara af, voru þær, að um 1840 réðist Jón Jónsson, hreppstjóri á Hrauni, í það stórvirki að gera nýja vör fyrir sunnan túnið á Hrauni.
GrindavíkurhöfnMeginástæða þeirra athafna var sú, að Hraunsmönnum þótti löng sjávargata fram í Þórkötlustaðanes, þar sem þeir höfðu átt uppsátur fram til þessa.
Á þessari öld hafa gríðarlegar breytingar orðið í harnarmálum í Grindavík og mun vart ofsagt, að hvergi annarsstaðar á landinu hafi skipt svo mjög um til hins betra í þessum efnum.
Það var ekki síðar en árið 1902 að hreppsnefnd fól þeim Einari Jónssyni, hreppsstjóra, og Erlendi Oddsyni, að mæla dýpi og stærð Járngerðarstaðavíkur og ef unnt er að gera uppdrátt af höfninni. Ári síðar ákvað hreppsnefndin að skoða Hópið og kanna hvað mundi kosta að gjöra innsiglingu fyrir haffær skip svo þar gæti orðið öruggt skipalægi. Ljúka átti því verki fyrir alþingi 1905.
Fjórtán árum síðar (1917) komust hafnarmálin aftur á dagskrá í Grindavík. Einar G. Einarsson, kaupmaður í Garðhúsum, tók sér penna í hönd og skrifaði Stjórnarráði Íslands. Í bréfinu óskaði hann eftir því, að varðskip yrði fengið til að gera frumkönnun á innsiglingu og höfn í Grindavík. Sumarið 1919 voru gerðar mælingar í Járngerðarstaðavík og lagt til að byggður yrði lítill steypugarður á rifið suðaustur af Akurhúsanefi til skjóls fyrir lendinguna. Þessari álitsgerð fylgdi uppdráttur, er sýndi legu garðsins. Dýrara var talið að dýpka Hópið og gera innsiglingu inn í það, og reyndar Bátarnir hafa stækkaðóvíst, hvort hugmyndin væri framkvæmanleg.
Árið 1925 gerði mikið sjávarfljóð í Grindavík er eyðilagði allmikið af húsum og skemmdi stórkostlega uppsátrið í annarri vörinni og eyðilagði hina að mestu. Einar G. Einarsson hélt áfram að ýta á Stjórnarráðið um úrbætur. Athuganir voru gerðar og tillögur lagðar fram. Einar lét gera teikningu af bryggju við varirnar í Járngerðarstaðahverfi og sendi Alþingi með beiðni um fjárstyrk. Benti hann m.a. á að allar vörur, sem fluttar voru til Grindavíkur sjóleiðis hafi orðið að bera á bakinu og klöngrast með langa leið yfir hált og óslétt fjörugrjót. Bryggjusmíði hófst þó ekki fyrr en á árunum 1931-1933, en þá voru gerðar þrjár bátabryggjur, ein í hverju hverfi. Þörf fyrir bryggju hafði vaxið í víkinni mjög er vélbátaútgerð hófst þar árið 1928.
Bryggjan í Járngerðarstaðahverfi var byggð á árunum 1931-1932. Hún var með steyptum veggjum og þekju, grjótfyllt og hallaði í sjó fram. Náði endi hennar u.þ.b. einn meter út fyrir stórstraumsfjöruborð. Alþingi greiddi þriðjung kostnaðarins en heimamenn tvo þriðju hluta. Þrátt fyrir mikinn fögnuð Grindvíkinga með bryggjuna þótti hún helst til of stutt. Árið 1933 var bryggjan lengd. Sama ár voru gerðar bryggjur í Þórkötlustaðahverfi og Staðahverfi, sem fyrr sagði.
Naust ofan við ÞórkötlustaðanesbryggjunaÞetta voru í rauninni löndunarbryggjur. Sem fyrr varð að setja bátana í naust að kvöldi. Næsta skref var að gera varanlega höfn, þar sem allur bátaflotinn ætti öruggt lægi í öllum veðrum. Enn tók Einar G. Einarsson sig til árið 1938 og ritaði vitamálsstjóra bréf. Bað hann um hæfan mann til að athuga hvort tiltækilegt væri að grafa skurð í gegnum grjót og malarrif það, sem lokar Hópinu. Einnig lagði hann til endurbætur á bryggjunni.
Árið 1939 hófust framkvæmdir við að opna Rifósinn. Get var ráð fyrir að reisa bráðabirgða stíflugarð við efra mynni væntanlegrar rásar, þannig að vatnið héldist inni í Hópinu um fjöru svo hægt væri að vinna 4-5 tíma að dýpkun um hverja fjöru. Handverkfæri voru notuð til að losa grjót og handbörur til að flytja það til. Í september var búið að gera 10 m breiða rás í gegnum eiðið og svo djúpt niður, að fiskibátarnir flutu inn og út um hálffallinn sjó. Hinn erfiði setningur bátanna eftir hvern róður heyrði þá sögunni til. Eftir affermingu voru bátarnir færðir inn í Hópið og lágu þar til næsta róðurs.
Löndun við GrindavíkurhöfnÁrið 1945 var “grafvél” Reykjavíkurhafnar notuð til að breikka og dýpka innsiglinguna og um leið grafin renna upp að bryggju í Hópinu, sem gerð var 1944. Árið 1947 var gerður skjólgarður frá svonefndum Svíra og fram á Rifið, auk þess sem byggð var ein bryggja af þremur, sem áætlæun hafði verið gerð um í Hópinu. Fé til framkvæmdanna var tekið að láni og þótti sumum nóg um. Aðkomubátum fjölgaði hins vegar svo ört við úrbæturnar að krafa var gerð um enn frekari framkvæmdir í höfnini. Síðan hefur stöðugt verið unnið að úrbótum og betrumbótum á hafnaraðstöðinni í Grindavík.
Byggingar- og framkvæmdarsaga Grindavíkurhafnar er ævintýri líkust. Árið 1939, þegar hafist var handa um dýpkun innsiglingarinnar, bjuggu grindvískir sjómenn enn við hafnleysi. Frá árinu 1939 hefur hver stórframkvæmdin rekið aðra, og þegar lauk því tímabili, sem hér er til umfjöllunar, áttu Grindvíkingar eina bestu og fullkomnustu höfn á suðurströnd landsins.

Grindavík - loftmynd

Heimild:
-Jón Þ. Þór – Árbók Sögufélags Suðurnesja IX. 1996-1997, bls 139 – 152.

Grindavíkurhöfn austanverð 2008

Garðhús

Í Grindavík standa nútíminn og fortíðin hlið við hlið, fjöldi nýrra íbúðarhúsa bera vott um góða afkomu, en niðri á sjávarkambinum standa nokkur rauðmáluð bárujárnshús og bera fortíðinni vitni.
Grindavik - gomlu husinLáta mun mærri að 30 bátar séu nú gerðir út frá Grindavík og sjálfsagt eru útgerðarmenn þar af leiðandi stærri hluti af bæjarbúum en víðast annars staðar. Nú færist þorpið upp á flatlendið ofan við gamla plássið og þar er víða fagurt, þegar sést austur mið ströndinni og þokan hylur ekki Þorbjörn. Frá fornu fari hefur byggð þarna verið skipt í þrennt, Staðahverfi, Járngerðarstaðahverfi, Þórkötlustaðarhverfi. Staðarhverfið mun nú vera komið í eyði. Þar stóð áður prestsetrið Staður.

Sagan um þær Járngerði og Þórkötlu er alkunn úr þjóðsögum og verður ekki rakin hér. Jafnframt því sem útgerð í Grindavík blómgast og nýbyggingar þjóta upp til norðurs og vesturs, hrakar þeim smám saman, gömlu húsunum á sjávarkambinum.
Þarna hafa orðið kapítulaskipti, ný kynslóð hefur tekið við og hún skeytir ekki alltaf sem skyldi um þau mannvirki, sem ekki eru lengur í notkun. En það er gagnlegt og fróðlegt að huga að fortíðinni og heiðra með því minningu þeirra manna, sem auðvelduðu öðrum lífsbaráttuna með framtaki sínu og brugðu stórum svip yfir dálítið hverfi. Einar í Garðhúsum var einn þessara manna. Hann var athafnamaður í beztu merkingu þess orðs og þess nutu Grindvíkingar og raunar fleiri um daga hans.

grindavik - einarsbud-231

Ennþá standa rauðmáluðu bárujárnshúsin á sjávarkambinum í Grindavík, sum ærið feiskin og veðruð eftir átök við storm og seltu. Þar á meðal er gamla búðin, verzlunarhús Einars í Garðhúsum og lengst af eina búðin í Grindavík. Nú er neglt fyrir glugga hennar og hún er sem hvert annað hrörnað gamalmenni á ytra borðinu. En öll eru þessi hús hjer af góðum viðum og gætu varðveizt um langan aldur, væri þeim sómi sýndur. Þarna voru pakkhús og netageymslur og ýmiskonar húsnæði vegna útgerðar Grindvíkinga fyrr á árum.
Skammt frá liggur gamall bátur, einnig hann fær að grotna þar niður í friði, en meðan eitthvað sézt eftir af honum, er hann brot af atvinnusögu Grindavíkur. Á sólbjörtum sumardegi ilmar þetta allt af seltu, en sumt er að fúna og hverfa í jörðina án þess að því sé gaumur gefinn. Sum þessara gömlu húsa eru í einhverri notkun. Þar geyma sumir hinna mörgu útgerðarmanna í Grindavík eitt og annað vegna útgerðar sinnar.
Þegar farið er frá gömlu húsunum vestur stíginn, blasa Garðshús við. Það má segja, að nú er hún Snorrabúð stekkur hjá því sem áður var. Andi Einars í Garðhúsum svífur að vísu ennþá yfir þeim gömlu byggingum, sem verða þó að teljast talsvert niðurníddar.
gardhus - byggt 1914Steinhús það, sem Einar í Garðhúsum byggði stendur enn með fullri reisn, og það er í rauninni erfitt að ímynda sér, hvað það hefur borið mikið af öðrum húsum í þessu plássi fyrir rúmlega hálfri öld. Yfir því hefur verið álíka reisn og húsi því, sem Thor Jensen byggði sunnan við Fríkirkjuna í Reykjavík á sínum tíma. Þeir Thor Jensen og Einar í Garðhúsum voru ef til vill ekki svo ólíkir um margt, hvorttveggja heiðarlegir framfaramenn, sem létu margt gott af sér leiða.
Bak við steinhúsið í Garðhúsum er lítið timburhús, sem raunar er áfast við aðalhúsið og lætur lítið yfir sér. Þetta hús á merkisafmæli um þessar mundir, það er 100 ára í ár, og mjög verðugt að þess sé minnst.
Til að segja sögu þess í fáum orðum, verður að byrja á Einari eldra Jónssyni í Garðhúsum, sem byggði þetta hús. Hann kvæntist Guðrúnu Sigurðardóttur árið 1860 og þau fóru að búa í Garðhúsum. Einar var innfæddur Grindvíkingur, og varð bráðlega frammámaður og hreppstjóri í Grindavík. Af þeim sökum var ærinn gestagangur þar, bæði af alþýðu manna og embættisstétt, og Einari þótti slæmt að geta ekki hýst menn sómasamlega. Þessvegna réðist hann í að byggja sérstakt gestahús árið 1868 og var efnið, rekaviður af fjörum, allt saman sagað niður á staðnum með stórviðarsög, sem enn er til í Garðhúsi. Þetta hús er eina og gefur að skilja ekki stórt að flatamáli, en það var gert úr góðum viði, sem enn er ófúinn með öllu, sex og allt upp í tíu tommu breið borð. Þar var lítið eldhús, svefnherbergi og stofa. Loft var haft yfir og þar er skarsúð.
gardhus - gestahusidEinar Jónsson var hin mesta driffjöður hvers konar athafna, og stundaði bæði búskap og útgerð. Einar yngri var orðinn formaður á báti hjá föður sínum kornungur og var formaður um nokkurra ára skeið áður en hann byrjaði að verzla áriS 1894. Þá verzlun rak hann ásamt útgerð fram á efri ár en, verzlun Einars í Garðhúsum var lögð niður árið 1959, fáum árum eftir dauða hans.
Einar yngri byggði steinhúsið árið 1914 og hann hélt áfram að nota gestahúsið, en síðar var það klætt að innan með pappír og málað. Er þetta tíræða hús án efa miklu fallegra í hinni upprunalegu gerð sinni og væri lítið verk að rífa niður pappírinn, svo gamla timburklæðningin fengi aftur að njóta sín. Um skeið var húsið notað sem sumarbústaður, en um allt langt árabil hefur það staðið tómt og gagnlaust að öðru leyti en því, að það eru geymdir nokkrir gamlir munir úr búi Einars í Garðhúsum. Þar er meðal annars gömul spunavél, handsmíðuð sem áður var í eign Kvenfélags í Grindavík, en Hlöðver sonur Einars bjargaði henni, þegar átti að henda henni þar eru einnig þrír kvensöðlar í góðu ástandi, harðviðarsögin, sem notuð var við húsbygginguna, skrifborð Einars í Garðhúsum og margt fleira. Þessi dugmikli framfaramaður hafði umsvif bæði á sjó og landi og vestan við bæinn standa vegleg peningshús, sem nú hafa raunar verið tekin til annarra nota. En allt hefur það verið vandlega gert á sínum tíma, og án efa talsvert á undan sinni samtíð.
gardhus - gestahus-3Atvikin höguðu því svo til að áframhald gat ekki orðið á verzlun Einars í Garðhúsum, því börn hans fluttust á aðrar slóðir. En Garðhús eru ennþá í þeirra eigu og nú hefur heyrzt að áhugamenn mundu vilja stuðla að því að koma upp einskonar byggðasafni í Garðhúsum. Mætti benda á, að þarna er líklega kjörið viðfangsefni fyrir Félag Suðurnesjamanna, hreppsfélagið í Grindavík, eða jafnvel Lionsklúbbinn þar á staðnum, sem skipaður er ágætum mönnum og hefur reynt að láta gott af sér leiða. Ýmsir gamlir Grindvíkingar hafa áhuga á því, að þarna gæti risið minjasafn um gamla atvinnuhætti í Grindavík. Hefur sumt af þessu fólki í fórum sínum merka gripi frá fyrri tíð og mundu þeir verða gefnir til safnsins yrði það stofnað. Kennir þar margra góðra grasa, og er einstakt að slíkir mumir skuli enn vera í eigu einstaklinga, en sýnir um leið, að ekki hafa allir til að bera skeytingarleysi gagnvart gömlum munum og minjum.
Það er smán og svívirða að láta húsið í Garðhúsum grotna niður í óhirðu og ekki á það síður við gestahúsið, sem áður er á minnst. Hér þarf að bregða við skjótt og bjarga því sem bjargað verður. Í fyrsta lagi þarf að flytja gömlu búðina af sjávarkambinum og koma henni fyrir nálægt Garðhúsabænum. Þar þarf að gera við glugga og að innan þyrfti að gera búðina sem líkasta því sem hún var. Vera má að önnur hús á sjávarkambinum séu þess virði að þau væru einnig flutt og ber að athuga það. Í hlöðunni, þar sem nú er netaverkstæði, væri hægt að koma upp sjóminjasafni Grindavíkur og þangað þyrfti að færa bátinn, sem nú er að fúna og grotna niður austur á fjöru. Án efa eiga Grindvíkingar enn merka hluti í sínum fórum, sem annað hvort ættu heima á sjóminjasafninu eða byggðarsafni Grindavíkur og eru raunar heimildir fyrir því, að fólk bíði með hluti, sem það ætlar að gefa þessu safni ef það verður stofnað.
Gestahús Einars eldra í Garðhúsum þarf að gera upp og hafa það sem líkast því, er það var. Í sjálfu steinhúsinu væri hægt að koma fyrir byggðasafni Grindavíkur og fengi þetta veglega hús þá verðskuldað hlutverk.“

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, Gísli Sigurðsson, 25. ágúst 1968, bls. 6-7.
Garðhús

Ísólfsskáli

 Gengið var frá Ísólfsskála inn á Skollahraun, litið á hlaðnar refagildrur á tveimur stöðum í hrauninu sem og byrgi refaskyttu og ströndinni síðan fylgt um Tranta og Hattvík inn í Kvennagöngubása þar sem kvenfólk baðaði sig fyrrum. Þar átti að vera „brimketill“, sem fáir hafa augum litið. Hið formfagra Hraunsnes var skammt utar. Ætlunin var að skoða það sem og Veiðibjöllunefið (Vondanef), samhangandi, vestan Mölvíkur.

Refagildra í Skollahrauni

Í örnefnalýsingu af Ísólfsskála (einni af fjórum) segir Guðmundur Guðmundsson, bóndi þar, m.a. frá þessu landssvæði að austanverðu: „Mölvík er vík þessi er með möl í botni. Þá tekur við berg með sjó, sem heitir ekki sérstakt, það er 1-2 mannhæðir, en svo ganga inn í það vik, básar og víkur. Þar vestar er svo Vondanef, og vestur og fram af því er Veiðibjöllunef. Þar hækkar hraunið og breytir um svip. Austar er það lágt og nokkuð sandborið. Þar vestar er bás, sem heitir Heimastibás. Hraun er þar vestur með, þar til kemur nafnlaus bás, svo er Rangagjögur. Austur og upp af honum er hóll, sem heitir Hattur. Enn vestar er hraun fram á kamb. Þar vestar er hraun fram á kamb. Þar vestar er vík, sem heitir Hattvík. Vestan við Hattvík tekur við skerjagarður, sem brýtur á um flóð, og heitir hann Trantar. Þar vestur af er sker, sem heitir Gvendarsker. Milli Tranta og Gvendarskers er mjó vör, sem breikkar þegar inn kemur, og heitir hún Gvendarvör. Upp af Gvendarvör er hóll, sem heitir Nótarhóll.“
Brimketill í KvennagöngubásÍsólfur Guðmundsson, sonur hans, upplýsti nánar um einstök örnefndi, s.s.: „
Veiðibjöllunef: Þegar mikið var um loðnu í Mölvík, sat veiðibjallan mikið á nefinu. Rangagjögur er dálítíð fyrir austan Ísólfsskála. Þetta er sprunga, sem liggur frá suðri til norðurs og frá austri til vesturs, liggur í kross. Þetta er stór og mikil gjá, sem sjórinn gengur í. Hattur er klettur uppí á hraunínu, og er gras á honum. Trantar eru austan við Gvendarvör. Hraun hefur runnið fram í sjó, en klettadrangar standa upp úr.“
Loftur Jónsson skráði sömu örnefni skv. eftirfarandi: „Austan Tranta er Hattvík, smámalarvík. Rangagjögur er lón inn í landið og fellur sjórinn um rifna klöpp. Þar austur af er klettur upp á kampinum með grastó í toppinn sem heitir Hattur. Þar austur af er smábás sem heitir Skálabás. Þar austur af er hraunnef í sjó fram og austur af því eru Kvennagöngubásar. Heimastibás er vestasti básinn. Hraunsnes skagar í sjó fram þar fyrir austan. Þar er talið hálfnuð leið frá Ísólfsskála að Selatöngum en þessi leið er talin um það bil klukkustundar gangur. Veiðibjöllunef, öðru nafni Vondanef , er þar fyrir austan og er það í vesturmörkum á Mölvík.“
Hraundrangur í HraunsnesiÍsólfur Guðmundsson svaraði svo spurningu um Kvennagöngubásana með eftirfarandi hætti. „Er nokkuð vitað um tilefni nafnsins Kvennagöngubásar? Sv.: Þar var kvenfólk sagt baða sig.“
Um vestanvert svæðið segir m.a. í  örnefnalýsingum um Nótarhól; „Á Nótarhól var byrgi. Fram af Nótarhól var annar hóll með sama nafni. En hann er nú horfinn í sjó.“ Jafnframt; „Nótarhóll er hóll upp af Gvendarvör, vestan við hraunið. Nótarhóll dregur nafn af því að dregið var fyrir sel í Gvendarvör og nótin síðan geymd á hólnum.
Norðvestur af Nótarhól er smágerði sem kallað er Hestagerði. Í fjörinni austur af Nótarhól eru tveir svartir klettar sem heita Svörtuklettar. Niður undan túninu er legan og ströndin kölluð Bót.“
Staðreyndin er hins vegar sú að innan við Nótarhól eru einar mestu verminjar á Reykjanesskaganum.

Ísólfsskáli

Nótarhóll – fiskbyrgi og þurrkgarðar.

Sem fyrr segir voru refagildrurnar í vestanverðu Skollahrauni fyrst barðar augum. Sú syðri er öllu heillegri. Fallhellan er þar enn og skammt suðvestar er byrgi refaskyttu. Mikið var um spor eftir refi í þunnföllnum snjónum. Sporin voru nánast öll frá því kvöldið áður svo líklegt má telja að þar hafi nokkrir refir verið á ferð í leit að æti. Í holu skammt ofan við ströndina hafði dauð æðarkolla verið dregin og verkhafi þegar búinn að éta af henni hausinn og öll bitastæðustu innyfli.
Hattur er áberandi kennileiti í sunnanverðu hrauninu, „skammt ofan strandar“. Neðan undir honum er Hattvíkin. Skammt ofan hennar er mosavaxinn hraunhóll. í honum norðanverðum er hlaðið hús, sem nú eru leifar þess. Líklega er hér um að ræða hluta af Nótarhólsminjunum, sem síðar verður vikið að.
Utar bar merkileg sjávarásýnd auga. Þegar létt alda barst að landi lyfti hún sér skyndlega á tilteknum stað utan við Fiskbyrgi við Nótarhólströndina, líkt og hún vildi rísa hátt úr sæ, en tókst það aldrei alveg. Líklega eru þarna drangar í sjónum er lyfta öldunni með þessum áhrifaríka hætti. Jón Guðmundsson frá Skála, lýsti einmitt svæðinu sem slíku í viðtali við FERLIR fyrir nokkrum árum. Sagði hann fiskinn laðast að dröngum þessum og þar hefði lóðningar jafnan bæði verið bestar og vísastar.
Ströndinni var fylgt til austurs með það að markmiði að leita brimketilsins við Kvennagöngubása. Fljótlega kom „Rásin“ í ljós og utar á básunum mátti berja brimketilinn auga. Um er að ræða merkilegt náttúrufyrirbæri. Hann er mun stærri en nafni hans á vestar á Reykjanesskaganum, en bæði dýpri og tilkomumeiri. Í góðu veðri, eftir nokkra sólskinsdaga, hefur þar verið hinn ákjósanlegasti baðstaður. Dýpið er mest um 2 metrar og botninn bæði sléttur og þægilegur. Óvíða er betra útsýni yfir Ægisásýndina í allri sinni dýrð.
Haldið var yfir að Hraunsnesi, þeim einstaka stað frá náttúrunnar hendi. Á tiltölulega litlu svæði í hrauninu hafa Nótarhóllmyndast sérstæðar hraunstrýtur, líkt og í Katlahrauni vestan við Selatanga. Hraun hefur runnið þarna í sjó og náð að mynda þak á hraunelfuna, sem síðan hefur fallið niður, en skilið strýturnar eftir sem augnayndi.
Gengið var yfir að Veiðibjöllunefi með útsýni yfir Mölvíkina. Handan hennar mátti sjá heim að Selatöngum. Eftir að hafa dást að hinu tilkomumikla útsýni austur með ströndinni var hún fetuð sléttfeld til vesturs. Komið var m.a. að sjávarhelli og einstakri ásýnd á Hraunsnesdrangana inn til landsins. Gengið var á millum þeirra og slóði síðan rakinn framhjá Hatti og yfir að Nótarhól.
Austan og norðaustan við Nótarhól er eitt margflóknasta „hraungarðakerfi“ er um getur hér á landi. Garðarnir voru að sjálfsögðu notaðir sem þurrkgarðar á tímum fiskhersluvinnslunnar. Skálholt hafði þarna útræði um tíma, líkt og á Selatöngum og á Þórkötlustaðanesi (Strýthólahrauni), en eftir að það lagðist af á 18. öld tóku heimamenn við mannvirkjunum og nýttu þau fram til loka 19. aldar.
Komið var við í Bótinni, sem Jón Guðmundsson nefndi gjarnan Börubót. Ástæðan var sú að ef ekki var hægt að lenda í Gvendarvör skammt austar, var lent í Bótinni. Þá þurfti að bera fiskinn á börum yfir að Nótarhól og gera að honum þar. Gvendarvör er sunnan af og á millum Nótarhóls og Bótarinnar.
Í óveðrinu s.l. vetur hefur Bótin gengið a.m.k. 10 metra inn á kampinn og sent grjót langt inn á túnsléttur Skálans. Það mun því verða eitt af verkefnum eigendanna n.k. vor að „túnhreinsa“ líkt og gert hefur verið á sjárvarjörðum Grindvíkinga um aldir.
Fr
ábært veður. Gangan tók 5 klst og 5 mín.
Bótin neðan við Ísólfsskála
Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsingar fyrir Ísólfsskála – GG, LJ og ÍG

Prestastígur

Nafnið Prestastígur er nýlegt heiti á fornri og fyrrum fjölfarinni þjóðleið á Reykjanesi. Sú skýring á nafninu er þó líkleg að með prestakallalögum frá 1907 var Kirkjuvogssókn í Höfnum lögð til Staðarprestakalls í Grindavík og hefur því Staðarprestur oft átt erindi um þessa fornu leið.

Prestastígur Þegar þessi forna þjóðleið er farin frá Höfnum liggur leiðin frá Kalmanstjörn um Hafnarsand fyrir norðan Presthól og um Kinn, þar sem farið er ofan í sigdalinn upp af Stóru Sandvík, þaðan hjá Haug og yfir Haugsvörðugjá og síðan með rótum Sandfellshæðar. Þar fylgir gatan hraunjaðri Eldvarpahrauns. Á vegi okkar verður þá nýlegur vegaslóði sem er tilkominn vegna lagningar ljósleiðara. Þegar kemur á móts við Rauðhól er farið yfir hraunhaft að hólnum og síðan hjá Eldvörpum og yfir Hrafnagjá og þaðan að Húsatóftum í Staðarhverfi.
Öll þessi leið [15 km] er vel vörðuð og ber þess merki að þar hefur verið fjölfarið um aldir. Víða sést hvar umferðin hefur markað alldjúpar götur í hraunið og lausagrjót hefur verið tínt úr götunni og lagt til hliðar. Þetta var aðalleið vermanna af Suðurlandi, sem sóttu sjó frá Höfnum og af Rosmhvalanesi og þar hafa skreiðarlestir verið á ferð. Eins hafa Grindvíkingar lagt leið sína þarna um á þeim tíma sem þeir þurftu að sækja verslun til Básenda, þótt þeir hafi einnig farið sjóleiðina, en á 17. og 18. öld urðu þeir að sæta því í nokkra áratugi að sækja verslun þangað sökum þess að kaupmenn treystu sér ekki til að sigla til Grindavíkur vegna skipskaða sem urðu þar á fyrri hluta 17. aldar. Þá hefur Sigvaldi Sæmundsson póstur verið þarna á ferð á leið sinni milli Básenda og Grindavíkur en hann var fyrsti póstur sem ráðinn var með skriflegum samningi til póstferða árið 1785.

Hafnir voru fyrr á öldum blómlegur útgerðarstaður og var þar stundaður umfangsmikill búskapur bæði til lands og sjávar. Vermenn fjölmenntu þangað á vertíðum og eru sagnir til um stórfellda útgerð Ketils VarðaKetilssonar í Kotvogi, en hann gerði út þrjú skip á árunum 1870 – 1880 og voru þá um 50 sjómenn á hans vegum auk 22 annarra heimilismanna. Ketill var meðal auðugustu manna landsins á sínum tíma. Hann byggði steinkirkju þá sem enn stendur á Hvalsnesi, en Ketill átti m.a. alla Hvalsnestorfuna og Járngerðarstaði í Grindavík.
Landkostum hefur á síðari árum hrakað mjög í Höfnum vegna sandágangs og margir bæir farið í eyði af þeim sökum, þar á meðal Haugsendar, sem fóru snemma í eyði. Haugsendar voru milli Kirkjuvogs og Merkisness, tún þar voru mikil, húsaskipan vegleg og myndarlega búið. Sagnir um mannlíf þar lifa í gömlum húsgangi:

Á Haugsendum er húsavist
sem höldar lofa.
Þar hefur margur glaður gist,
og gleymt að sofa.

Í seinni tíð er farið að nefna þessa fornu þjóðleið Prestastíg en hvergi finnast þess merki í gömlum heimildum. Geir Bachmann lýsir þeim þjóðleiðum sem frá Grindavík liggja í sóknarlýsingu frá 1840. Hann nefnir með nafni fyrstu þrjá aðalvegi yfir hraunin en segir svo: „Sá fjórði og síðasti vegur sem úr sókninni liggur og alþjóðarvegur má kallast, liggur upp frá Húsatóftum í útnorður ofan í Hafnirnar og er hann sá einni sem héðan farinn verður þangað“. Þetta er eini vegurinn frá Grindavík sem Geir nefnir ekki með nafni.
Jarðfræði (Haukur Jóhannesson)

PrestastígurPrestastígur liggur milli tveggja heimsálfa þar sem hann liggur yfir flekaskilin milli Evrópu- og Norðurameríkuflekanna, sem svo eru nefndir. Því má segja, að þegar Prestastígur er genginn, þá fari ferðalangar frá Ameríku og til Evrópu. Reykjanes er að vissu leyti einstakt í sinni röð þar sem þar er eini staðurinn á jarðríki þar sem sést greinilega hvernig úthafshryggur gengur á þurrt land. Best er að skoða sprungukerfið í Stóru-Sandvík eða sunnan við Valahnúk.
Þegar farið er frá Kalmanstjörn er gengið yfir nokkuð slétt, uppblásið helluhraun. Helluhraun þetta er hluti af stórri dyngju sem jarðfræðingar nefna Sandfellshæð. Í Sandfellshæð er stór gígskál, Sandfellsdalur, og þar á hraunið upptök sín. Hraunið er talið hafa runnið fyrir um 12 þúsund árum. Þegar norrænir menn komu til Íslands, síðla á níundu öld, var svæði þetta allt vel gróið en eftir mikil eldsumbrot og öskufall á Reykjanesi á öðrum fjórðungi þrettándu aldar hófst uppblástur á svæðinu. Ef grafið er niður í sandbollana í hrauninu þá er komið niður í jarðveg. Í hrauninu ber mikið á hraunhólum sem eru sprungnir í kollinn.

Þar sem Prestastígur liggur hæst er komið fram á gjábrún. Þar heitir Haugsvörðugjá. Uppi á bakkanum vestan megin eru gjallgígahrúgöld og nefnist þar Haugur. Í kringum gígana er þunnt gjallkennt hraun og er það eldra en 8000 ára.
Ef veður er gott er þess virði að taka stuttan útúrdúr og ganga á Einiberjahól sem er ævagamall, stakur gígur skammt sunnan við Prestastíg, suðvestur af Sandfellshæð.
HúsatóftirSunnan undir Sandfellshæð er stakur gíghóll, Rauðhóll og frá honum hefur runnið hraun til suðurs og suðvesturs og er Prestastígur milli hrauns og hlíðar, þ.e. liggur um slakkann þar sem Rauðhólshraunið rennur upp að Sandfellshæð. Rauðhólshraun er 2000-3000 ára.

Gengið er framhjá Rauðhól og austan við hann tekur við mosagróið apalhraun. Það er yngsta hraunið á svæðinu og rann árið 1226. Þá opnaðist liðlega 10 km löng gossprunga og nefnist hún Eldvörp. Meðal jarðfræðinga er hraunið nefnt einu nafni Eldvarpahraun en í tali heimamanna hétu einstök svæði þess ýmsum nöfnum, m.a. Sundvörðuhraun. Gígarnir í Eldvörpum eru fjölmargir og margir þeirra fallegir. Flestir eru gjall- eða klepragígar og eru nær allir óskertir og er gígaröðin ein af fáum á Reykjanesskaganum sem hefur [að mestur] verið hlíft við efnistöku. Um tveimur kílómetrum norðar en þar sem Prestastígur Prestastígurfer yfir gígaröðina er allnokkur jarðhiti og þar hefur verið borað á vegum Hitaveitu Suðurnesja. Eldsumbrotin á þrettándu öld yst á Reykjanesskaganum stóðu með hléum frá um 1210 til 1240. Mest gekk á árið 1226. Þessi hrina er nefnd Reykjaneseldar af fræðimönnum.

Þar sem Prestastígur fer yfir þetta sögulega hraun er það um 1,5 km á breidd. Þá er komið ofan í kima upp í hraunið og fyrst ber þar við stór og mikil gjá er nefnist Hrafnagjá og er hún í svonefndum Tóttarkrókum. Hraunið sem tekur við er blásið helluhraun og úr Sandfellshæð eins og vestar. Í Tóttarkrókum eru forn hlaðin byrgi sem menn vita nú ekki til hvers voru notuð. Austan við Eldvarpahraunið og niður að Húsatóftum ber mikið á stórum opnum gjám. Fyrr er nefnd Hrafnagjá og næst er Miðgjá og næst Húsatóftum er Baðstofa.

Heimild um jarðfræði: Kristján Sæmundsson. Jarðfræðikort af Svartsengi, Eldvörpum og Reykjanesi, blað 2. Unnið af Orkustofnun fyrir Hitaveitu Suðurnesja.

Ólafur Sigurgeirsson, var verslunarmaður í Reykjavík og um árabil einn af fararstjórum Ferðaf. Íslands.

Prestastígur

Rauðhóll

Eldvarpahraunið (það yngsta) kemur frá syðsta hluta Eldvarpanna og niður til sjávar á Staðarbergi á milli Klofningahrauns að vestanverðu og Sundvörðuhrauns að austanverðu. Neðst, austan þess að austanverðu, er Lynghólshraun, nokkuð gróið. Í örnefnalýsingu fyrir Stað segir að „Lynghólahraun er breitt og víðáttumikið. Dregur það nafn af Lynghólum, sem eru ávalar, líttgrónar hraunbungur, rétt ofan við gamla veginn – en hann liggur spölkorn fyrir neðan bílveginn“. Enn eitt hraunið, „Básahraun er á hægri hönd, ofan við Hróabása.“ Í Básum, skammt ofan við bergið, má m.a. finna eina af fallegri hlöðnu refagildrum á Reykjanesskaganum sem og aðra skammt ofar, í vörðu.

Eldvörp

Áður en lagt var af stað hafði verið haft samband við Kristján Sæmundsson, jarðfræðing, sem gengið hefur mikið um þetta hraunssvæði sem og önnur á Reykjanesskaganum. Kristján sagði m.a.: „Klofningahraunið er rúmlega 2000 ára.
Aðalgígurinn í því (og raunar sá eini) er Rauðhóll. Tvö stór jarðföll eru suðvestan við hann. Eldvarpagígaröðin (frá 13. öld) er 400-500 m austan við Rauðhól. Hraun úr henni nær að hólnum austan og norðan megin. Það er hleðsla í gígnum (í Rauðhól) þegar kemur dálítið inn í hann sunnan frá. Gat ekki séð til hvers hún hefði verið, sennilega þó skýli.
Sunnar eru gígar sem tilheyra Eldvarpagosinu (frá 13. öld) og austan við þá er stakur eldri gígur, nokkuð gróinn, sem stendur upp úr Eldvarpahrauninu. Annar álíka stór er norðaustar, með gróðurtorfu innanvert, í hávestur frá borholum Íslandslax, svo sem 500 m frá. Sá þriðji, er langminnstur suðvestan við þann fyrrnefnda (suðvestastur í röðinni).
Eldvörp Milli hans og þeirra eru 200-300 m. Ég er ekki alveg viss um aldur þessara gíga, fannst þeir myndu vera eldri en Rauðhóll. Það þarf samt að athuga betur. Þarna við gígana heitir einhvers staðar Mönguketill. Klofningar munu vera allhá brún, mjög sundurklofin, í Klofningahrauni. Þar heitir einhvers staðar Dringull. Gott væri ef hægt væri að staðsetja þessi örnefni og þá líka Bíldarholt sem á að vera 0,8-1 km suðvestur frá Rauðhól. Þessi örnefni fékk ég hjá Ólafi Gamalíelssyni skömmu áður en hann lést.“
Þarna kemur fyrir örnefnið Mönguketill og að hann geti verið suðvestan við neðstu gígana. Möngusel og Mönguselsgjá eru til efst í Hafnasandi, nálægt svonefndum Nauthólum. Selið er í hraunskál, opinni til norðurs. Ofan hennar er Mönguselsgjá. Spurningin er hvort þarna kunni að vera einhver tengsl?
Gengið var inni í Óbrennishóla. Ofarlega í þeim austasta virtist vera hlaðið aðhald. Stígur liggur upp úr hólnum efst með stefnu í sunnanverða Eldvarpagígaröðina suðaustan við Rauðhól.
Áður en lagt var af stað var rætt við Helga Gamalíelsson. Hann sagði Mönguketil auðfundinn. Vegslóði lægi upp í hann. Um km frá honum til austurs væru Klifsgrenin svonefndi, Efra- og Neðra. Hinum megin í Eldvarpahrauninu, að vestanverðu, væru á annan tug grena. Neðar í hrauninu væru örnefni sem hétu Einbúi og Kerling, en hann væri ekki viss um hvort væri hvað.
Klofningar eru löng læna upp úr Klofningahrauni og í gegnum Eldvarpahraun sunnan Rauðhóls. Í örnefnalýsingu fyrir Stað er heitið Klofningar samheiti fyrir hraunið, sbr. „Upp af hraunlægðinni (í Moldarlág austan við Reykjanesklif, en klifin eru tvö á sitt hvorum hábrúnum Berghrauns, Staðarklif að vestanverðu og Reykjanesklif að austanverðu) eru Klofningar eða Klofningshraun, sem ná austur að Lambagjá, en sú gjá er upp af Moldarláginni.“
Eldvörp Í Eldborgarhrauni liggur önnur hrauntunga til suðausturs. Í henni er m.a. Óbrennishólar. Sunnan þessarar hrauntungu er hraun er nefnist Berghraun.
Ætlunin var að ganga áfram upp úr hólunum í Eldvarpahrauni og síðan upp í Rauðhól. Rauðhóll er eini gígurinn í Klofningahrauni. Tekið átti hús á hann. Suðvestan hans eru tvö stór jarðföll. Þar eru sagðar hafa sést hleðslur, sem ætlunin var að kanna. Þá var ætlunin að skoða gígana sunnar í Eldvarpahrauni sem og hin miklu hrauntröð sunnan þeirra. Á leiðinni var ætlunin að finna fyrrnefnd örnefni Mönguketill, Klofningar og Dringull á þessu svæði. Ekki var ætlunin að líta á svonefnt Vatnstæði í Klofningahrauni ofan við Hróabás að þessu sinni.
Yfirleitt voru nöfnin á básum undir Staðarbergi (Sölvabásar eru þar einnig, en austar) þessum höfð í fleirtölu, þótt í rauninni sé hvor um sig bara einn bás. Hróabásar eru við vestari bergsendann. Í þeim var flóruð vör og sjást hennar enn nokkur merki. Bendir það til þess að þarna hafi eitt sinn verið útræði, en um það eru engar skráðar heimildir – aðeins munnmæli. Í Sölvabásum áttu Húsatóftir sölvatekju þó svo að vestari mörg Staðar hafi verið í „austanverðan Valagnúp“.
Í örnefnalýsingu fyrir Stað segir að „Dringull heitir stakur klettur, u.þ.b. 2-3 km norðvestur af Mölvík. Var hann alkunnugt kennileiti í smalamennskum hér áður. (Austur af honum er Stampahraun)“.
Eldvörp Samkvæmt þessu átti Dringull að vera á vesturmörkum Klofningahrauns og áberandi kennileiti þar. Vestan við Hróarbása er Mölvík og enn vestar Sandvík. Þetta, niður við ströndina, er nefnt hér til að auðveldara er að átta sig á kennileitum uppi í landinu. Beint upp af Hrófabásum, ofan þjóðvegarins er Vatnsstæðið. „Rétt við veginn ofan við Mölvík er smátjörn, nefnt Vatnsstæði eða Mölvíkurvatnsstæði til aðgreiningar frá samnefndum tjörnum við Húsatóftir og Járngerðarstaði.“ Jafnframt segir í örnefnalýsingunni að „norðaustur af Vatnsstæðinu er Mönguketill, einstakt eldvarp. Tófugreni er í Möngukatli.“
Ferðin upp í Rauðhól gekk vel, enda að mestu um slétta hraunlænu að fara milli úfnari hrauna. Á leiðinni var gengið framhjá Svinx þeirra Grindvíkinga, en hann gefur hinum egypska frænda sínum lítið eftir í reisn. Suðaustan við Rauðhól er stór kvikuþró og önnur mun stærri suðvestan við hann. Á milli hennar og Rauðhóls er mikil hrauntröð. Allt svæðið var gaumgæft með það fyrir augum að finna framangreindar hleðslur, en án árangurs að þessu sinni. Snjór þakti jörð að mestu og gerði það leitina erfiðari en ella. Fljótlega er ætlunin að fara með Kristjáni Sæmundssyni í Rauðhól og njóta leiðsagnar hans um svæðið.
Gengið var niður um Klofið, en síðan vent til austurs inn í Eldborgahraunið og síðan fljótlega til suðurs, að gígaröð þar niðri í hrauninu. Kristján hafði sagt þessa gíga vera hluta af nýrra Eldvarpagosi, frá 13. öld, en syðstu gígarnir að ofanverðu, austan Rauðhóls, tilheyra því einnig. Sjá mátti göt niður í annars slétt hraunið og smágígaröð. Þá var komið að stærsta gígnum í neðstu röðinni, fallegur gjall- og klepragígur. Sunnan hans er enn einn gígurinn, Mönguketill. Úr honum liggur falleg hrauntröð til suðurs.
Eldvörp Að þessu sinni var gengið til austurs frá stóra gígnum. Austan hans eru nokkrar smávörður við greni. Ljóst er að sum þeirra eiga íbúa því sumsstaðar sáust spor eftir skolla, ýmist tvo og tvo saman eða einn sér, og þá móóttan.
Reynt var að skoða klapparhæðir á leiðinni, en sagan segir að á tilteknu svæði hafi nokkrir Grindvíkngar haft bruggaðstöðu í myndarlegri hraunbólu. Gat hafi verið á þakinu, en undir vatn. Enn ætti að sjást móta fyrir tunnustöfum í bólunni. Hins vegar hafi henni verið lokað með hraunhellum og því torfundin, enda gekk það eftir – að þessu sinni.
Svæðið í heild er einstaklega fallegt og bíður upp á ýmsa möguleika til útivistar. Það eru ekki mörg svæðin við þröskuld Stór-Grindavíkursvæðisins sem og annarra hluta höfuðborgarsvæðisins er bjóða upp á slíka jarðfræðibirtingu sem þarna er; gígaröð á sprungurein, hraun frá sögulegum tíma, mannvistarleifar frá óskilgreindum tíma (sumir segja frá því fyrir norrænt landnám), óteljandi hraunmyndanir og gerðir hrauna, undirheima og allt annað það sem áhugavert gæti talist á ekki stærra svæði.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimildir m.a.:
-Kristján Sæmundsson, jarðfræðingur.
-Örnefnalýsing fyrir Stað í Grindavík.

Eldvörp

Eldvörp.

Hvítskeggshvammur

Í „Þjóðsögur og munnmæli“ skráðum af Jóni Þorkelssyni segir m.a. um Hvítskeggshvamm:
CLXXXVI. Hvítskeggshvammur – Eptir handriti Hvitskeggshvammur-1Brynjólfs Jónssonar frá Minnanúpi 1861 ( Landsbókasafni 542. 4to.].
Austan til upp af Deildarhálsi, milli hans og Kerlinga, er hvammur einn inn í Geitahlíð, sem kallast Hvítskeggshvammur. Þar upp undan er hnúkur á hlíðinni, sem kallast Æsubúðir. Kynleg sögn er til um uppruna þessara örnefna, og er hún sú, að í fornöld hafi sjór legið yfir öllu láglendi austan fjalls; er það sannað með gömlum sjávarkampi hjá Þurá í Ölfusi. Þá er sagt, að kaupstefna hafi verið í Æsubúðum, og því heiti þar búðir, en ekki er þess getið hvers vegna, þær eru kendar við Æsu, né heldur hver sú Æsa hafi verið. Í hvammi þessum var þá skipalega og hét skipið Hvítskeggur. Er það til sannindamerkis haft, að eptir Herdísarvfkurfjalli upp á hamrabrúninni, þar sem hraun hefur ekki hlaupið yfir, liggi götur í klöppunum líkt og á Hellisheiði, og að festarhringar hafi sézt í klettunum efst í hvamminum.
Aesubudir-1En síðan hefir brekkan og kletturinn í hvamminum hrapað niður, og ætti hringurinn því að vera í urðinni, enda gæti hún falið í sér það , sem stærra væri. — Svo sagði Jón bóndi Árnason í Herdísarvík, fróuir maður og ólyginn, — hann dó gamall og blindur 1855 eða 1856, — að hann hefði talað við þann mann, er sagt var, að hefði séd hringinn í hvamminum, en kvaðst ekki hafa munað eptir að spyrja hann að, hvort það væri satt, fyrr en þeir voru skildir, en þeir sáust ekki optar en í eitt skipti. Er þessi frásögn að mestu leyti eptir honum.

(Jón „ímyndaði sér, að skeð gæti, að tilefni þessara munnmæla um Hvítskeggshvamm, hefði verið í þeim írsku bókum, sem nefndar eru í sögubroti aptan við Knytlingu, eða Íslendingabók Ara“.)

Heimild:
-Þjóðsögur og munnmæli, Jón Þorkelsson skráði, 1899, bls. 310-311.

Æsubúðir

Geitahlíð og Hvítskeggshvammur lengst til hægri.

Húshólmi

Gengið var inn í Húshólma um Húshólmastíg (1.1 km). Með í för var m.a. hinn mæti Grindvíkingur Dagbjartur Einarsson. Skoðað var aðhald austast í hólmanum, stekkur eða rétt og brunnur sem og hugsanlegar seltóftir. Þá var litið á grenið nyrst sem og skotbyrgi refaskyttunar, auk gróins gerðis í hraunkrika. Allt eru þetta nýlegri minjar í hólmanum, en engu að síður minjar manna, sem þar voru í ákveðnum erindagjörðum, hvort sem var að sitja yfir ám eða liggja fyrir ref.

Húshólmi

Húshólmastígur um Ögmundarhraun.

Skammt vestar er forn fjárborg. Hún var skoðuð. Gengið var að fornum garði er legið hefur þvert yfir hólmann, en hefur nú látið verulega á sjá. Garðurinn er heillegastur að norðvestanverðu, næst hraunkantinum. Þá var gengið að bogadregnum garði skammt sunnar. Honum var fylgt inn í hraunið uns komið af að hinu fornu minjum ofan við Kirkjulág. Um er að ræða tvo skála. Hraunið frá 1151 hefur umlukið þann nyrðri. Í honum sjást stoðholur eftir miðju tóftar, jafnvel tvöföld. Svo virðist sem hraunið hafi einni brennt torfið utan af tveimur eða þremur hringlaga byggingum skammt suðaustan hans.
Meginskálinn virðist vera með sveigðum veggjum. Dyraop er mót suðri, en við austurenda hans er bygging. Dyraop er þar einnig mót suðri.
Í Kirkjuláginni eru garðar, tóft áætlaðrar kirkju sem og hugsanlegur skáli vestan hennar. Torfhlaðnir bogadregnir veggir eru norðan og austan hennar. Þeir umlykja og kirkjutóftina.

Brúnavörður

Brúnavörður að baki.

Vestan hennar er stígur er liggur að Brúnavörðunum, á hraunkantinum að suðvestanverðu. Hann er flóraður að hluta. Sagt er að sonur Guðmundar Bjarnasonar frá Krýsuvík hafi lagt stíginn, en áður hafi forn stígur úr Húshólma legið að Selatöngum sjávarmegin, en hann lagst af við áganginn.
Þar er fornt garðlag, forn fjárborg sem og hugsanlega tóft topphlaðins húss. Ofar og norðar í hólmanum er hlaðinn veggur er hraunið hafði stöðvast við fyrrnefnt ár. Skammt ofar í hrauninu er nýrra hringlaga skjól.
Húshólmastígur hefur greinilega verið mikið notaður í gegnum tíðina því óvíða má sjá markað í jarðfast grjót, en víðast hvar hefur grjóti verið kastað úr götunni og myndar smærra grjót undirlagið. Hann er auðveldur umferðar. Þegar komið er í Hólmann er við enda hans fyrirhleðsla til að varna því að fé leitaði eftir stígnum og út úr Hólmanum.

Húshólmi

Húshólmi – stekkur.

Í líklegum brunni ofarlega í hólmanum virðast vera hleðslur. Þar skammt frá er réttin eða stekkurinn, auk annarra ógreinilegra mannvirkja, s.s. lítil tóft og hlaðið hringgerði.
Megingarðarnir í Húshólma eru gerðir úr torfi. Undirlagið var steinhlaðið. Þvergarður um Kirkjuflötina virðist þó hafa verið hlaðinn með grjóti.
Efst er þvergarður til austurs og vesturs. Hraunið hefur runnið yfir hann vestast. Annar garður liggur skammt sunnar til suðausturs og í boga til suðvesturs. Á hann er þvergarðurinn. Innan hans að norðanverðu er skeifulaga gerði. Það sést best þegar sólin er tiltölulega lágt á lofti. Heitir þar Kirkjuflöt.
Á meginminjasvæðinu í hrauninu vestan Húshólma virðast vera þrír, skálar, kirkjutóft og garðar. Í nyrsta skálanum er stoðholuröð, sennilega tvöföld, miðskálinn er heillegur af útlitslínum að dæma og sá syðsti er þvert á þá efri. Austan við hann er kirkjutóftin, í svokallaðri kirkjulág. Til austurs frá henni inn í Húshólma liggur kirkjugatan.

Húshólmi

Beinteinsbúð í Húshólma.

Tóft (Beinteinsbúð) er skammt ofan rekagötuna niður að Hólamsundi. Hún gæti verið frá verið Krýsuvíkurbænda við útfræði þar árið 1917. Annars gerðu þeir fyrrum út frá Selatöngum. Húshólmastígur og stígurinn að Brúnavörðunum sem og stígurinn upp með vestanverðu Ögmundarhrauni gæti verið gömul vergata þeirra, en þá hefur Húshólminn verið á 1/3 leiðarinnar og þeir þá átt um 2/3 hennar eftir. Ekki er með öllu útilokað að einhverri tóftinni við Húshólma hafi enn verið haldið við sem skjóli á þeirri leið, t.d. kirkjutóftinni.
Frá því að fyrst var farið að búa í Krýsuvík, sem nú er, og fram á síðstu ár (ritað 1951), hafa alltaf verið þar menn, sem vissu að í Húshólma hefur endur fyrir löngu verið byggð, og hún ekki alllítil, svo sem sjá má af húsarústum og öðrum ummerkjum, sem eru þar enn í dag. Húshólmi – eða staður sá, sem svo hefur verið nefndur um langan aldur, er austast í Ögmundarhrauni, er það óbrenndur heiðalandsblettur, um 25-30 ha að stærð.

Húshólmi

Húshólmi – skáli.

Hinum sýnilegu minjum í Húshólma, sem vitna það í þögn sinni, en þó svo glöggt, að ekki verður um villst, að það hafi fólk búið endur fyrir löngu, hefur hraunflóðið þyrmt, þegar það beljaði þarna fram ís jó, yfir stórt og sennilega fagurt land og gott ásamt byggð, sem enginn veit, hve mannmörg hefur verið. – Þegar staðnæmst er við þessar fornu húsarústir, þá hlýtur hver hugsandi maður að fyllast undrun yfir þeirri algjöru þögn, sem svo rækilega hefur fram á þennan dag hvílt yfir þeim atburðum, sem hér hafa gerst.
Eggert Ólafsson segir í ferðabók sinni um jarðelda í Trölladyngju: “Að minnsta kosti er það víst, að krýsvíkingar kunna að segja frá ægilegum jarðeldi, er brann í fjöllum þessum í fornöld. Eldflóðið féll í sjó niður og eyddi nokkrum bæjum á því svæði, sem nú heitir Ögmundarhraun. Meðal þeirra var kirkjustaður, sem Hólmastaður hét, og sjást þar enn minjar kirkjugarðsins og húsatóftanna.”

Húshólmi

Skáli við Húshólma.

Þorvaldur Thoroddsen segir í ferðabók sinni um rústirnar í Húshólma: “Ein sú lengsta er 49 fet, en breidd hennar sést ei fyrir hrauni.” Og ennfremur segir hann: “Þessar tóttir, sem hraunið hefur runnið yfir, eru full sönnun fyrir því, að það hefur myndast síðan land byggðist, þótt hvergi finnist þess getið í sögum eða annálum.” Einnig getur Þorvaldur um allmarga garða, sem sjáist þar enn. Hann segir um Ögmundarhraun, að Jónas Hallgrímsson hafi giskað á, að það hafi runnið í kringum 1340, “án þess þó að færa heimildir fyrir því”.
Brynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi skrifar í Árbók Hins ísl. fornleifafélags 1903 um Húshólma og fornminjarnar þar. Þar getur hann garða og húsarústa á svipaðan hátt og Þorvaldur Thoroddsen. Í greins inni kemst Brynjúlfur þannig að orði á einum stað: “Krýsuvík hefur til forna staðið niður undir sjó, fyrir vestan endann á Krýsuvíkurbjargi. Nafnið Krýsuvík bendir til þess.” Brynjúlfur er sá eini af þessum þremur fræðimönnum, sem minnist á og telur víst, að Krýsuvík hafi verið upphafalega þar, sem nú er Húshólmi.

Húshólmi

Húshólmi – stoðhola.

Það, sem einkum styður þá kenningu, að Krýsuvíkin hafi í upphafi staðið við sjó, er aðallega þetta: Nafn byggðarinnar – Krýsuvík, eins og Brynjúlfur Jónsson bendir á, því að lítt hugsanlegt er, hafi byggðin staðið frá landnámi þar, sem nú er, að hún hefði þá fengið þetta nafn, því að þar er ekki um neina vík að ræða, ekki einasta að byggðin sé það nærri Kleifarvatni, að nafnið gæti þaðan verið komið. Í öðru lagi eru það hinar miklu húsarústir og önnur verksummerki í Húshólma, með nöfnum svo sem Kirkjuflöt og Kirkjulág. Nöfn þessi benda til, að þar hafi kirkja verið, en aldrei mun getið nema einnar kirkju í Krýsuvík, og er að ég hygg fyrst getið í máldaga 1275, en prests getið þar snemma á 14. öld. Mun þetta hvort tveggja áður en Ögmundarhraun myndaðist.

Húshólmi

Í Húshólma.

Nú mun vera vaknaður nokkur áhugi fyrir hinum fornu rústum í Húshólma. Vonandi tekst áður en langur tími líður að lyfta þeim huliðshjálmi, sem fram að þessu hefur hvílt yfir leifum þessara fornu byggðar, þessum leifum, sem segja má, að neitað hafi að láta ægivald elds og hrauns undiroka sig, til þess að síðar, þegar við værum þess umkomin, gætum lesið sögu þessara byggðar og að einhverju leyti sögu þess fólks, sem þarna lifði og starfaði – og “sat meðan sætt var”.

Strjálir munu róðrar hafa verið frá Húshólma síðustu aldirnar. Þó munu menn stöku sinnum hafa lent þar bátum sínum, einkum á seinni árum, til þess að sækja timbur og annað það, sem á land hefur þar skolað, því rekasælt er í Hólmanum í góðum rekárum.

Húshólmi

Húshólmi – skáli.

Eins hefur það borið við, að sjóhraktir menn hafa náð þar landi. Þannig tók þar land um eða laust fyrir 1920, skipshöfn af selveiðiksipinu “Kóp”, sem sökk út af Krýsuvíkurbjargi á leið til Austurlands með saltfarm.
Skipshöfnin barði skipsbátnum í norðanbáli og kulda vestur með landi, en landtaka víst vart hugsanleg fyrr en í Húshólma, enda norðanáttin besta áttin þar. Þeir lentu í Húshólma heilum bát sinum, settu hann undan sjó, gengu svo – einhverjir eða allir – til Krýsuvíkur, því að allir komust þeir þangað og fengu þar og í Stóra-Nýjabæ, sem voru einu bæirnir í byggð þá.
Þær viðtökur og viðurgerning, sem Íslendingar eru svo þekktir fyrir þegar svo stendur á, ekki einasta hérlendis, heldur og allvíða erlendis.

Húshólmi

Húshólmi – garður.

Vitað er það, að Krýsvíkingar höfðu á síðari öldum útræði nokkurt, en þeir reru ekki út úr Húshólma, heldur frá Selatöngum, sem liggja fjær en tvennar vegalengdir í Húshólma, og hefur þetta vitanlega orsakað af því einu, að eins og þá var komið, mun ófært hafa verið talið útræði úr Húshólma, en gott frá Selatöngum að öðru leyti en því, að vatnslaust má telja þar, en oftast nægt vatn í Húshólmanum.
Svo var það sumarið 1917, að bændur í Krýsuvík tóku að hugsa til fiskiróðra út frá Húshólma. Ekki var hér um stórútgerð að ræða, enda ætlaði eigandinn að taka á sig tapið, ef eitthvert yrði, svo sem þeir munu enn gera, sem sjósókn stunda á opnum fleytum. Í Krýsuvík bjó þá Þorvarður Þorvarðarason, með systur sinni Hallbjörgu. Í Stóra-Nýjabæ bjó Guðmundur Jónsson.
Gata lá frá Krýsuvík niður í Húshólma og í gegnum Ögmundarhraun, áleiðis yfir á Selatanga.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimildir m.a.:
-Ólafur Þorvaldsson – Harðsporar 1951.
-Ferðabók Eggerts Ólafssonar.
-Ferðabók Þorvaldar Toroddsens, I, bls. 186.

Húshólmi

Húshólmi – uppdráttur ÓSÁ.

 

Dýrfinnuhellir

Dýrfinnuhellir er skammt ofan við Grindavík, örskammt frá Skipsstígnum norðvestan við Lágafell. Þótt staðurinn sé nú flestum gleymdur lifði hann lengi vel í hugum Grindvíkinga, líkt og nokkrir aðrir staðir ofan við Plássið er tengdust komu „Tyrkjanna“.

Skipsstígur

Skipsstígur.

Þeir komu til Grindavíkur, skyndilega og öllum að óvörum, í byrjun sumars 1627, fyrir 379 árum síðan. Lífið hjá Grindavíkurbændum og búaliði gekk allt sinn vanagang. Vorverkunum var lokið og fé hafði verið fært til selja. Útvegsbændurnir voru vanir báts- og skipaferðum enda Grindavík þá einn helsti útgerðar- og verslunarstaður landsins. Þess vegna er kannski ekki svo víst að sigling Tyrkjaskipsins (sumir segja tveggja skipa), sem nálgaðist snemmmorguns þann 20. júní, hafi vakið svo mikla athygli, venju fremur. Grindvíkingar áttu ekki von á neinu nema góðu úr þeirri áttinni.
Tyrkirnir hertóku danskt kaupfar og nokkra úr áhöfninni, stökktu danska kaupmanninum og hans fólki á flótta, rændu verlsunina og réðust til atlögu við fólkið á Járngerðarstöðum.“Tyrkjunum“ þrjátíu lá mikið á því þeir töldu að kaupmaðurinn gæti snúið aftur með liðsafla. Þeir drógu húsmóðurina til skips, tóku syni hennar og bróðir, særðu tvo aðra er reyndu að verjast, losuðu sig við aldraðan bóndann og drógu 8 aðra Grindvíkinga og þrjá Dani til skips. Loks rændu þeir verðmætum úr bænum og sigldu síðan til hafs.
Tómas Þorvaldsson segir frá þessum atburði í æviminningum sínum, útg. 1986. Þar segir hann m.a. frá Dýrfinnuhelli: „Hellir einn, allstór, vestan við gamla veginn til Keflavíkur, norðan Lágafells, heitir Dýrfinnuhellir og sagan segir að kona með þessu nafni hafi falið sig þar þangað til ræningjarnir voru farnir“.

Dýrfinnuhellir

Í Dýrfinnuhelli.

Á meðan „Tyrkir“ rændu Járngerðarstaði flúðu Grindvíkingar upp í hraunið ofan við byggðina og dvöldu þar uns hættan var liðin hjá – sumir lengur – og lengra. Einhverjir þeirra eru sagðir hafa dvalið í helli suðvestan við Húsafjall, en sá hellir átti eftirleiðis að geta hýst um 100 Grindvíkinga ef til þess kæmi að „Tyrkirnir“ kæmu aftur. Sá hellir er nú hálffullur af sandi, sem fokið hefur af Vatnsheiðinni. Auk þess eru byrgi, sem sjá má bæði í Sundvörðuhrauni og í Eldvörpum sögð tengjast þessum sögulega atburði, ekki einungis í sögu Grindavíkur, heldur og í Íslandssögunni allri.
Dýrfinnuhellir er hið ágætasta skjól. Sjá má bein af lambi í hellinum. Skammt frá eru fleiri skjól, sem falið hafa getað fleiri Grindvíkinga með góðu móti. Þar skammt frá er m.a. skjól vegagerðarmanna, sem unnu að endurnýjun Skipsstígs á þeim kafla skömmu eftir aldarmótin 1900. Elsti „Grindavíkurvegurinn“, sem liggur um núverandi vegstæði var hins vegar lagður á árunum 1914-1918. Sá vegarkafli var síðan endurnýjaður nokkrum sinnum, nú síðast var hann lagður malbiki. Hið fyrsta sinni reistu vegagerðarmenn nokkur mannvirki á u.þ.b. 500 metra millibili við vegstæðið, sem brotið var í hraunið með handafli og örfáum verkfærum. Milli 32 til 40 Grindvíkingar fengu þó laun fyrir það erfiði, enda greiddu þeir helminginn mót landsstjórninni. Enn má á a.m.k. 12 stöðum sjá leifar þessara minja við veginn, en öðrum hefur verið eitt í ógáti með stórvirkum vinnuvélum. Sennilega er þó hér um einar merkustu minjar fyrrum vegagerðar á landinu, þ.e.a.s. þær sem eftir eru.
Ljóst er að víða við Grindavík leynast merkilegar minjar er gefa sögum bæjarins áþreifanlegari sín en sögurnar einar gefa tilefni til.
Ekki segir hvar nafngreind Dýrfinna hafi búið í Járngerðarstaðahverfi.

Heimild:
-Tómas Þorvaldsson – æviminningar – 1986, bls. 22.
-Saga Grindavíkur.
-Sigurður Gíslason – Hrauni.

Dýrfinnuhellir

Dýrfinnuhellir.

Dýrfinnuhellir

Dýrfinnuhellir er skammt ofan við Grindavík, örskammt frá Skipsstígnum norðvestan við Lágafell. Þótt staðurinn sé nú flestum gleymdur lifði hann lengi vel í hugum Grindvíkinga, líkt og nokkrir aðrir staðir ofan við Plássið er tengdust komu „Tyrkjanna“.

Skipsstígur

Skjól vegavinnumanna við Skipsstíg.

Þeir komu til Grindavíkur, skyndilega og öllum að óvörum, í byrjun sumars 1627, fyrir 379 árum síðan. Lífið hjá Grindavíkurbændum og búaliði gekk allt sinn vanagang. Vorverkunum var lokið og fé hafði verið fært til selja. Útvegsbændurnir voru vanir báts- og skipaferðum enda Grindavík þá einn helsti útgerðar- og verslunarstaður landsins. Þess vegna er kannski ekki svo víst að sigling Tyrkjaskipsins (sumir segja tveggja skipa), sem nálgaðist snemmmorguns þann 20. júní, hafi vakið svo mikla athygli, venju fremur. Grindvíkingar áttu ekki von á neinu nema góðu úr þeirri áttinni.
Tyrkirnir hertóku danskt kaupfar og nokkra úr áhöfninni, stökktu danska kaupmanninum og hans fólki á flótta, rændu verlsunina og réðust til atlögu við fólkið á Járngerðarstöðum.“Tyrkjunum“ þrjátíu lá mikið á því þeir töldu að kaupmaðurinn gæti snúið aftur með liðsafla. Þeir drógu húsmóðurina til skips, tóku syni hennar og bróður, særðu tvo aðra bræður hennar er reyndu að verjast, losuðu sig við aldraðan og laslegan bóndann í fjöruborðinu, en drógu 8 aðra Grindvíkinga og þrjá Dani til skips. Loks rændu þeir verðmætum úr Járngerðarstabænum og sigldu síðan hraðbyri til hafs. Utan við Grindavík náðu þeir vestfirsku kaupfari sem og áhöfn þess.
Tómas Þorvaldsson, hinn sagnafróði og mæti Grindvíkingur, segir frá þessum atburði í æviminningum sínum, útg. 1986. Um Dýrfinnuhelli segir hann: „Hellir einn, allstór, vestan við gamla veginn til Keflavíkur, norðan Lágafells, heitir Dýrfinnuhellir og sagan segir að kona með þessu nafni hafi falið sig þar þangað til ræningjarnir voru farnir“.

Dýrfinnuhellir

Í Dýrfinnuhelli.

Á meðan „Tyrkir“ rændu Járngerðarstaði flúðu Grindvíkingar upp í hraunið ofan við byggðina og dvöldu þar uns hættan var liðin hjá – sumir lengur – og lengra. Einhverjir þeirra eru sagðir hafa dvalið í helli suðvestan við Húsafjall, en sá hellir átti eftirleiðis að geta hýst um 100 Grindvíkinga ef til þess kæmi að „Tyrkirnir“ kæmu aftur. Sá hellir er nú hálffullur af sandi, sem fokið hefur af Vatnsheiðinni. Auk þess eru byrgi, sem sjá má bæði í Sundvörðuhrauni og í Eldvörpum sögð tengjast þessum sögulega atburði, ekki einungis í sögu Grindavíkur, heldur og í Íslandssögunni allri.

SkipssDýrfinnuhellir er hið ágætasta skjól. Sjá má bein af lambi í hellinum. Skammt frá eru fleiri skjól, sem falið hafa getað fleiri Grindvíkinga með góðu móti. Þar skammt frá er m.a. skjól vegagerðarmanna, sem unnu að endurnýjun Skipsstígs á þeim kafla skömmu eftir aldarmótin 1900. Elsti „Grindavíkurvegurinn“, sem liggur um núverandi vegstæði var hins vegar lagður á árunum 1914-1918. Sá vegarkafli var síðan endurnýjaður nokkrum sinnum, nú síðast var hann lagður malbiki. Hið fyrsta sinni reistu vegagerðarmenn nokkur mannvirki á u.þ.b. 500 metra millibili við vegstæðið, sem brotið var í hraunið með handafli og örfáum verkfærum. Milli 32 til 40 Grindvíkingar fengu þó laun fyrir það erfiði, enda greiddu þeir helminginn mót landsstjórninni. Enn má á a.m.k. 12 stöðum sjá leifar þessara minja við veginn, en öðrum hefur verið eitt í ógáti með stórvirkum vinnuvélum. Sennilega er þó hér um einar merkustu minjar fyrrum vegagerðar á landinu, þ.e.a.s. þær sem eftir eru.
Ljóst er að víða við Grindavík leynast merkilegar minjar er gefa sögum bæjarins áþreifanlegari sín en sögurnar einar gefa tilefni til.
Ekki segir hvar nefnd Dýrfinna hafi búið í Járngerðarstaðahverfi.

Heimild:
-Tómas Þorvaldsson – æviminningar – 1986, bls. 22.
-Saga Grindavíkur.
-Sigurður Gíslason – Hrauni.

skipsstígur

Varða við Skipsstíg.

 

Arngrímshellir

Gengið var niður í Fjárskjólshraunshelli í Krýsuvíkurhrauni (Fjárskjólshrauni) undir mosaþverskorinni Geitahlíð og áfram niður hraunið að Keflavík þar sem tilkomumikill gataklettur var skoðaður utan í Krýsuvíkurbergi, sem og gamla bergið þar sem á trjóna svonefndir Geldingasteinar. Haldið var vestur með bjarginu og síðan beygt til norðurs upp í Bálkahelli og loks farið í Arngrímshelli. Á göngunni var m.a. rætt um austurlandamerki Krýsuvíkur, sem eru þarna eða svolítið austar; allt eftir því við hvaða gögn er stuðst.

Fjárskjólshraun

Í Fjárskjóslhrauni.

Þegar gengið var frá opi Litlu Eldborgar, niður Eldborgarhraunin, lagðist regnbogi yfir þau þannig að göngufólkið gekk undir annan enda hans. Sjaldgæf sjón – og ósktæk.
FERLIR skoðaði Fjárskjólshelli árið 2004. Um er að ræða u.þ.b. 60 metra helli með sléttu gólfi. Innst lokast hann með fallegum hraungúlpi, sem virðist kom upp úr gólfinu. Að þessu sinni skartaði hellirinn hinum fegurstu grýlukertum og klakahnúðlum.
Niðri í Fjárskjólshrauni er fornt hlaðið fjárskjól. Líklega dregur hraunið nafn sitt af því týnda skjóli.
Opið á Fjárskjólshraunshelli er í stóru grónu jarðfalli. Nyrst í því er hægt að komast niður í stóra hraunrás, slétta í botninn. Rásin liggur til norðurs. Stutt rás liggur til hægri. Fremst er einnig stór hraungúlpur, sem virðist hafa komið upp úr gólfinu. Um er að ræða fallegt jarfræðifyrirbæri.

Bálkahellir

Bálkahellir – op.

Á leiðinni niður í Keflavík var komið við á Skyggnisþúfu. Hún er þar sem hraunið ofan við Krýsuvíkurberg ber hæst mót Herdísarvík. Á þúfunni er varða, Skilaboðavarða. Í hana voru sett boð, sem menn vildu að bærust á milli bæjanna.
Í Kirkjufjöru í Keflavík má sjá hluta af gamla Krýsuvíkurbjargi og fagurt útsýni er úr víkinni austur eftir berginu. Víkin dregur nafn sitt af keflunum, sem nóg virðist vera af, auk plastbelgja. Gatklettur stendur út af berginu að austanverðu. Svonefndir Geldingasteinar eru efst á bjargbrúninni, gulir af fuglaglæðu og öðrum grófari féttum.
Á kortum er Keflavík notað fyrir allt svæðið framan við og vestan og austan við Bergsenda. Af brún bjargsins ofan við víkina liggur gömul rekagata niður í hana. Götunni var fylgt niður. Niðri er skjólgott undir háum grágrýtisveggjunum. Framar er stóreflis lágbarið strandargrjótið. Útsýnið þarna eftir berginu er einstaklega fallegt.

Bálkahellir

Í Bálkahelli.

FERLIR leitaði að og fann Bálkahelli árið 2000. Hans er þó getið í gamalli sögn um þjóðsöguna af Grákollu og Arngrímshelli, sem er þar skammt vestar. Neðsti hluti Bálkahellis (um 150 m langur) er með sléttu gólfi, vítt til veggja og hátt til lofts. Dropsteinar og hraunstrá eru í þessum hluta. Nauðsynlegt er að hafa með sér góð ljós þegar hellirinn er skoðaður til að draga úr líkum á skemmdum. Hiti var í hellinum svo ekki sáust klakamyndanir.
Haldið var upp í gegnum efsta hlutann. Botninn er sléttur í fyrstu, en þegar komið er að stórri steinsúlu þarf að fara yfir hraun. Það er þó ekki ógreiðfært, en nauðsynlegt er að hafa góð ljós í Bálkahelli. Þegar komið var út úr þessum efsta huta hellisins mátti vel sjá af hverju hann dregur nafn sitt; steinbálkum beggja vegna. Líklegt er að sá er leit hellinn augum hafi nafngreint hann eftir fyrrnefndum bálkum.

Bálkahellir

Í Bálkahelli.

Gengið var í gegnum efsta hluta Bálkahellis (120 m). Klakasúla var næst innganginum. Gólfið er slétt í fyrstu, en þegar komið er að mikilli hraunsúlu tekur við hrun, sem þó er tiltölulega auðvelt yfirferðar. Efst í efsta hlutanum eru bálkar, sem hellirinn ber nafn sitt af. Þar er þrastarhreiður.
Arngrímshellir er með miklum mannvistarleifum. Við hann gerðist þjóðsagan af Grákollu. Þar segir af Arngrími á Læk um og eftir 1700 og (130 árum síðar) Krýsuvíkur-Gvendi Bjarnasyni, sem héldu fé sínu í hellinum. Gólfið er flórað að hluta, hleðslur eru við op og inni í hellinum, auk tóftar, sem gamlar sagnir eru um.
Þetta svæði er varla til í augum og hugum landans, hvað þá annarra. Um er að ræða nokkur hraun, bæði úr Eldborgum og eldvörpum ofan við Sláttudal og Brennisteinsfjöllum. Þau eru misjafnlega vel gróin og eru misgreið yfirferðar. Miðjan er þó vel greiðfær með lyngi og kjarri í brekkum.

Gvendarhellir

Í Gvendarhelli (Arngrímshelli).

Þjóðsagan segir að Arngrímur á Læk í Krýsuvík hafi haldið 99 grákollóttar ær á auk einnar grákollóttrar, sem systir hans átti, nefnd Grákolla. Þetta var um aldamótin 1700. Óveður geisaði og hraktist féð fram af Krýsuvíkurbjargi, allt nema Grákolla. Er talið að allt fé Krýsuvíkurbænda sé frá henni komið. Arngrímur lést síðan skömmu eftir aldamótin (1724) er hann var við sölvatekju undir bjarginu með öðrum. Silla féll úr bjarginu og varð hann og tveir aðrir undir henni. Mörðust þeir til bana. Einn maður bjargaðist og varð til frásagnar um atburðinn.
Um 130 árum síðar er getið um að nefndur Gvendur Bjarnason nokkur frá Krýsuvík hafi haft fé í hellinum. Hlóð hann þvervegg sem og stíur. Byggði hann og hús fyrir opið. Helst þótti til tíðinda að gler var í gluggum þess. Tóftir þess sjást enn, auk annarra nefndra minja í hellinum. Líta verður á minjar þessar sem fornleifar og varðar röskun refsingu.

Keflavík

Keflavík – rekagatan.

Þegar FERLIR gaumgæfði hellinn vel og vandlega kom í ljós ýmislegt er nefndur Gvendur virðist hafa skilið eftir sig, s.s. hangiketsleifar og brennivínstár, sem honum hafði ekki unnist tími til að ýta að gestum. Ketið virtist vel ætilegt eftir allan þennan tíma og ekki var loku fyrir það skotið að brennivínið væri jafnvel betra, en hefði það nýsoðið verið.

Þegar staðið var utan við tóftina lagði sólin geisla sína á hana svo hún yrði vel myndtæk.
Hraunið ofan við bergið er í umdæmi Grindavíkur, en skammt vestar er spilda umdæmisins, sem skv. afsalsbréfi tilheyrir Hafnarfirði. Hún sker í sundur Grindarvíkurlandið, sem nær austast að mörkum Herdísarvíkur/Selvogs/Árnessýslu (úr Seljabót í Sýslustein).
Þann 29. september 1941 afsalaði landbúnaðarráðuneytið f.h. ríkissjóðs til sýslunefndar Gullbringusýslu f.h. sýslusjóðs öllu tiltæku ræktanlegu beitilandi jarðanna Krýsuvíkur og Stóra-Nýjabæjar (Krýsuvíkurtorfunnar) í Grindavíkurhreppi í Gullbringusýslu, til sumarbeitar fyrir búfé.

Sveitarfélagsmörk

Sveitafélagsmörk.

Var þá undanskilið úr jörðunum það land, sem með afsalsbréfi ráðuneytisins dags. 20. febrúar 1941 var afsalað til Hafnarfjarðarkaupstaðar.
Krýsuvíkurland þetta er, skv. skilgreiningunni, “að vestan, beina stefnu í norður úr Hælsvík í Borgarhól, þar sem hann er hæstur, úr Borgarhóli eftri Sveifluhálsi vestustu vík Kleifarvatns, að bera í ysta odda Hvammholtstanga. Að norðan ræður Kleifarvatn, í syðsta odda víkur þeirrar, er gengur úr vatninu vestan við Geithöfða og að austan þaðan beina stefnu í réttvísandi suður til sjávar í Keflavík. Að sunnan ræður sjór..”.

Skyggnisþúfa

Skyggnisþúfa.

Af afsali þessu sést glöggt, að Gullbringusýsla öðlast beitarrétt með afsalinu, en grunnréttur til landsins er áfram í hendi ríkisins. Landspilda Krýsuvíkur er í landi Grindavíkurumdæmis, sbr. land bæði vestan og austan hennar. Alþingismaðurinn, er beitti sér fyrir málinu f.h. Hafnarfjarðar á Alþingi sem fulltrúi ríkisstjórnarinnar, var jafnframt bæjarfulltrúi í Hafnarfirði og síðar ráðherra. Slíkt myndi ekki samrýmast góðum stjórnsýsluháttum nútímans. Í ljósi þess, sem og eðlilegum sanngirnissjónarmiðum, ættu Hafnfirðingar þegar í stað, virðingu sinnar og sóma vegna, að afhenda Grindvíkingum landsumdæmi sitt á nýjan leik. Ekki síst í ljósi þess að veruleg villa er í framangreindri landamerkjalýsingu.
Deilur voru einnig um mörk Krýsuvíkurlands á 17. öld. Í byrjun aldarinnar virðist hafa koma upp vafi um mörkin. Fyrst austurmörk og svo vesturmörk. Um þetta málefni fjallar Magnús Már Lárusson um í ritgerð 1961. Þar segir m.a. að til séu 6 frumbréf Skálholtsstóls um austur landamerki Krýsuvíkur frá árunum 1603 og 1604 og Telur MML að varðveisla þeirra til þessa dags með stólsskjölum gefi til kynna, að bréf þessu geymi þau merki, sem talin hafi verið rétt.

Keflavík

Geldingasteinn ofan Keflavíkur.

Upp úr 1650 verður deila um rekarétt milli Krýsuvíkur og Ísólfsskála og eru allmargir vitnisburðir vegna merkja Krýsuvíkur að vestanverðu skjalfestir í bréfabók Þórðar biskups Þorlákssonar. Einn vitnisburðurinn segir Krísuvík eiga allt land austur á eystri hraunbrún á hrauni því, sem liggur fyrir austan Eilífðarhorn (á við Geitahlíð). Eitt segir að Krýsuvík eigi austur frá sér land allt að Skildi og þaðan sjónhending suður í sjó. Enn fremur segir, að Krísuvík eigi allt land austur yfir Háahraun, er liggur fyrir austan Geitahlíð. Annað segir að Krýsuvík eigi allt land að þeim steini, er stendur á Fjalli hjá Skildi.

Lyngskjöldur

Lyngskjöldur – loftmynd.

(Lyngskjöldur). Þrír vitnisburðir til viðbótar segja að Krýsuvík eigi allt land að steininum hjá Skildi. Þessar merkjalýsingar voru sá grundvöllur, sem stóllinn gat byggt á, ef merki Krýsuvíkur yrðu véfengd.
Árið 1786 keypti Jón Ingimundarson jörðina og leitaði hann vitnisburðar um merki hennar og meðal kirkjuskjala er frumrit vitnisburða þriggja manna um landamerki Krýsuvíkur. Þá bendir MML að lokum á að eftirtektarvert sé, að í sóknarlýsingu Jóns Vestmanns fyrir Krýsuvíkursókn sé þessi lýsing: “Vestari partur Brennisteinsfjalla allt vestur í Kleifar, norðan við Kleifarvatn, þaðan til sjávar á Selatöngum. Samkvæmt þessari lýsingu telst allstór þríhyrna ekki til Krýsuvíkursóknar.

Gvendarhellir

Gvendarhellir – Hús Krýsuvíkur-Gvendar framan við hellismunnann.

Þjóðsagan segir hins vegar að hin gömlu landamörk Krýsuvíkur og Herdísarvíkur liggja á milli dysja þeirra Krýsu og Herdísar, sem enduðu ævina með deilum um þau neðst í Kerlingardal austan við Deildarháls. Sagan segir að „Krýsuvík er austastur bær í Gullbringusýslu með sjávarsíðunni, en Herdísarvík er vestastur bær í Árnessýslu; hvort tveggja er landnámsjörð og svo að ráða sem sín konan hafi gefið hvorri nafn er þar bjuggu lengi, og hét sú Krýs er byggði Krýsuvík, en Herdís sú er setti bú í Herdísarvík.
Var nábúakritur megn á milli þeirra; því hvor öfundaði aðra af landgæðum þeim er hin þóttist ekki hafa, Krýs Herdísi af beitilandinu, en Herdís Krýs aftur af enginu. Svo hafði lengi gengið að hvor veitti annari þungar búsifjar; rak Krýs sauðfénað sinn í land Herdísar, en Herdís vildi aftur ná í engið, og beittust svo þessu á víxl með því landamerki virðast annaðhvort hafa verið óglögg eða engin í það mund.

Krýsa og Herdís

Dysjar Krýsu og Herdísar. Dys smalans er neðst á myndinni.

Þegar þær konur hittu hvora aðra fyrir þar á götunni sem hún liggur yfir hina nyrztu Eldborgina, þá kemur Herdís í flasið á henni að sunnan. Þegar þær hittust varð fátt af kveðjum, en því fleira af illyrðum á milli þeirra er hvor um sig þóttist eiga land það er þær stóðu á. Ekki er þess að vísu getið hvernig hvorri um sig hafi farizt orð, en svo lauk að hvor hézt við aðra vegna landadeildarinnar. Lagði þá Krýs það á Herdísi að allur ætur silungur skyldi hverfa úr veiðitjörn hennar, en verða aftur full af loðsilungi, sumir segja öfugugga. En Herdís lagði það aftur á Krýs að allur silungur í veiðivötnum hennar skyldi verða að hornsílum.

Bálkahellir

Í Bálkahelli.

Enn lagði Krýs það á Herdísarvík að þaðan skyldi týnast tvær eða þrjár skipshafnir. Herdís mælti aftur það um fyrir Krýsuvík að starengið þar skyldi smásökkva á hverjum 20 árum, en koma upp á jafnlöngum tíma.

Eftir þessi ummæli sprungu þær báðar þar sem þær stóðu og eru þær dysjaðar báðar til vinstri handar við götuna þegar riðið er út í Krýsuvík norðan til á Eldborginni nyrztu, og sér dysirnar þar enn; dys Krýsar er það sem nær er Krýsuvík, en Herdísar hitt sem fjær er. Dys þeirra grannkonanna eru enn kölluð Krýs og Herdís og þar með eru þau kölluð sýsluskil Gullbringusýslu og Árnessýslu, svo eru þau og talin landamerki milli Krýsuvíkur og Herdísarvíkur.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Heimildir m.a.:
-http://bokasafn.rnb.is/default.asp?cat_id=200
-Magnús Már Lárusson – ritgerð 1961.

Fjárskjólshraunshellir

Í Fjárskjólshraunshelli.