Á fyrri öldum, og allt undir síðari heimsstyrjöld, ýttu Grindvíkingar bátum sínum á sjó og lentu í vörum. Var þá oftast svo, að ein vör a.m.k. fylgdi hverju lögbýli. Þær voru flestar við vík eða víkur, sem gengu inn í ströndina. Í þeim var eilítið meira skjól en utar, brimaldan sumstaðar lítið eitt minni og setningurinn nokkru hægari. Í flestum þeirra var þó lending bæði bág og hættuleg.
Engum sögum fer af lendingabótum í Grindavík fyrir 1800. Bændur hafa vafalaust hreinsað varirnar eftir því sem þörf krafði og kostur var, en meira gátu þeir ekki. Gefur og auga leið, hve mikil og erfið vinna það hefur verið að halda vörunum sæmilega hreinum. Hafið er á sífelldri hreyfingu og skolar sandi og grjóti upp á ströndina, og þegar gerði stórbrim og flóð, bárust oft stórgrýtisbjörg upp í varirnar svo þær urðu ónothæfar.
Engar heimildir eru hedlur fyrir því, að hugað hafi verið að hafnargerð fyrr en kom fram á síðari hluta 18. aldar. Þá lét Guðmundur Runólfsson, sýslumaður, mæla Hópið og ósinn, en ekkert varð af framkvæmdum. Hefur verkfæraleysi og e.t.v. skortur á mannafla, að líkindum valdið mestu. Einu umtalsverðu framkvæmdirnar, sem sögur fara af, voru þær, að um 1840 réðist Jón Jónsson, hreppstjóri á Hrauni, í það stórvirki að gera nýja vör fyrir sunnan túnið á Hrauni.
Meginástæða þeirra athafna var sú, að Hraunsmönnum þótti löng sjávargata fram í Þórkötlustaðanes, þar sem þeir höfðu átt uppsátur fram til þessa.
Á þessari öld hafa gríðarlegar breytingar orðið í harnarmálum í Grindavík og mun vart ofsagt, að hvergi annarsstaðar á landinu hafi skipt svo mjög um til hins betra í þessum efnum.
Það var ekki síðar en árið 1902 að hreppsnefnd fól þeim Einari Jónssyni, hreppsstjóra, og Erlendi Oddsyni, að mæla dýpi og stærð Járngerðarstaðavíkur og ef unnt er að gera uppdrátt af höfninni. Ári síðar ákvað hreppsnefndin að skoða Hópið og kanna hvað mundi kosta að gjöra innsiglingu fyrir haffær skip svo þar gæti orðið öruggt skipalægi. Ljúka átti því verki fyrir alþingi 1905.
Fjórtán árum síðar (1917) komust hafnarmálin aftur á dagskrá í Grindavík. Einar G. Einarsson, kaupmaður í Garðhúsum, tók sér penna í hönd og skrifaði Stjórnarráði Íslands. Í bréfinu óskaði hann eftir því, að varðskip yrði fengið til að gera frumkönnun á innsiglingu og höfn í Grindavík. Sumarið 1919 voru gerðar mælingar í Járngerðarstaðavík og lagt til að byggður yrði lítill steypugarður á rifið suðaustur af Akurhúsanefi til skjóls fyrir lendinguna. Þessari álitsgerð fylgdi uppdráttur, er sýndi legu garðsins. Dýrara var talið að dýpka Hópið og gera innsiglingu inn í það, og reyndar óvíst, hvort hugmyndin væri framkvæmanleg.
Árið 1925 gerði mikið sjávarfljóð í Grindavík er eyðilagði allmikið af húsum og skemmdi stórkostlega uppsátrið í annarri vörinni og eyðilagði hina að mestu. Einar G. Einarsson hélt áfram að ýta á Stjórnarráðið um úrbætur. Athuganir voru gerðar og tillögur lagðar fram. Einar lét gera teikningu af bryggju við varirnar í Járngerðarstaðahverfi og sendi Alþingi með beiðni um fjárstyrk. Benti hann m.a. á að allar vörur, sem fluttar voru til Grindavíkur sjóleiðis hafi orðið að bera á bakinu og klöngrast með langa leið yfir hált og óslétt fjörugrjót. Bryggjusmíði hófst þó ekki fyrr en á árunum 1931-1933, en þá voru gerðar þrjár bátabryggjur, ein í hverju hverfi. Þörf fyrir bryggju hafði vaxið í víkinni mjög er vélbátaútgerð hófst þar árið 1928.
Bryggjan í Járngerðarstaðahverfi var byggð á árunum 1931-1932. Hún var með steyptum veggjum og þekju, grjótfyllt og hallaði í sjó fram. Náði endi hennar u.þ.b. einn meter út fyrir stórstraumsfjöruborð. Alþingi greiddi þriðjung kostnaðarins en heimamenn tvo þriðju hluta. Þrátt fyrir mikinn fögnuð Grindvíkinga með bryggjuna þótti hún helst til of stutt. Árið 1933 var bryggjan lengd. Sama ár voru gerðar bryggjur í Þórkötlustaðahverfi og Staðahverfi, sem fyrr sagði.
Þetta voru í rauninni löndunarbryggjur. Sem fyrr varð að setja bátana í naust að kvöldi. Næsta skref var að gera varanlega höfn, þar sem allur bátaflotinn ætti öruggt lægi í öllum veðrum. Enn tók Einar G. Einarsson sig til árið 1938 og ritaði vitamálsstjóra bréf. Bað hann um hæfan mann til að athuga hvort tiltækilegt væri að grafa skurð í gegnum grjót og malarrif það, sem lokar Hópinu. Einnig lagði hann til endurbætur á bryggjunni.
Árið 1939 hófust framkvæmdir við að opna Rifósinn. Get var ráð fyrir að reisa bráðabirgða stíflugarð við efra mynni væntanlegrar rásar, þannig að vatnið héldist inni í Hópinu um fjöru svo hægt væri að vinna 4-5 tíma að dýpkun um hverja fjöru. Handverkfæri voru notuð til að losa grjót og handbörur til að flytja það til. Í september var búið að gera 10 m breiða rás í gegnum eiðið og svo djúpt niður, að fiskibátarnir flutu inn og út um hálffallinn sjó. Hinn erfiði setningur bátanna eftir hvern róður heyrði þá sögunni til. Eftir affermingu voru bátarnir færðir inn í Hópið og lágu þar til næsta róðurs.
Árið 1945 var “grafvél” Reykjavíkurhafnar notuð til að breikka og dýpka innsiglinguna og um leið grafin renna upp að bryggju í Hópinu, sem gerð var 1944. Árið 1947 var gerður skjólgarður frá svonefndum Svíra og fram á Rifið, auk þess sem byggð var ein bryggja af þremur, sem áætlæun hafði verið gerð um í Hópinu. Fé til framkvæmdanna var tekið að láni og þótti sumum nóg um. Aðkomubátum fjölgaði hins vegar svo ört við úrbæturnar að krafa var gerð um enn frekari framkvæmdir í höfnini. Síðan hefur stöðugt verið unnið að úrbótum og betrumbótum á hafnaraðstöðinni í Grindavík.
Byggingar- og framkvæmdarsaga Grindavíkurhafnar er ævintýri líkust. Árið 1939, þegar hafist var handa um dýpkun innsiglingarinnar, bjuggu grindvískir sjómenn enn við hafnleysi. Frá árinu 1939 hefur hver stórframkvæmdin rekið aðra, og þegar lauk því tímabili, sem hér er til umfjöllunar, áttu Grindvíkingar eina bestu og fullkomnustu höfn á suðurströnd landsins.
Heimild:
-Jón Þ. Þór – Árbók Sögufélags Suðurnesja IX. 1996-1997, bls 139 – 152.