Færslur

Tyrkjabyrgi

Björn Þorsteinsson skrifaði eftirfarandi um “Rústirnar í Grindavíkurhrauni” í Þjóðviljann og Nýja Tímann árið 1950:

Undarleg mannvirki
Í SundvörðuhrauniÁ síðara hluta síðustu aldar fundu menn óvænt mannvirki inni í miðju  Grindavíkurhrauni og ollu þau ýmsum nokkrum heilabrotum. Brynjólfur Jónsson frá Minna-Núpi og Þorvaldur Thoroddsen athuguðu þau báðir, og skrifuðu um þau, annar í Árbók fornleifafélagsins 1903, en hinn í, Andvara, en síðan hafa menn ekki veitt þessum fornleifum frekari eftirtekt, þangað til síðastliðið vor. Eins og kunnugt er ritaði Halldór Kiljan Laxness „Litla samantekt um útilegumenn” í Tímarit máls og Menningar 1949 og komst að þeirri niðurstöðu, “að útilegumenn hefðu sennilega aldrei verið til á Íslandi”, að Fjalla-Eyvindi undanskildum. Unnendum útilegumanna fannst Kiljan gerast ærið stórhöggur í þessari grein  og tala gálauslega um viðkvæmt málefni. Útilegumenn hafa þess vegna komizt aftur á dagskrá, og á næstu árum mun verða úr því skorið, hverju menn eiga að trúa í þessu efni.
Síðastliðið vor tóku nokkrir menn sig til og leituðu rústanna, sem Brynjólfur og Þorvaldur geta um, að séu í Grindavikurhrauni, ef vera kynni að þar leyndust augljós merki um útilegumannabyggð.Eftir árangurslausa ferð fundu þeir rústirnar að tilvísan oddvitans í Grindavík, og nú kom í Ijós, að sízt hafði verið frá þeim logið. Þessar tættur eru þær langmerkustu slnnar tegundar, sem fundizt hafa, og sumar þeirra svo kyndugar, að engum getum er hægt að leiða að því, til hvers þær hafa verið notaðar. Eitt af þessum furðuverkum er rúst, sem minnir einna helzt á skýlin á áfangastöðum strætisvagnanna. Þetta eru þrjár skeifulaga tættur, sem snúa göflunum saman, en um 120 gráðu horn myndast milli opanna. Uppi á hraunbrúninni er rúst af hringlöguðum hrauk, innanmál 75 sm. á lengd og 60 sm. á breidd, mesta hæð 122 sm. Þetta eru ein tvö af þeim tíu undarlegu mannvirkjum, sem þarna getur að líta, og munu margir spyrja, hvers konar fólk hafi verið hér að verki.

Varnir gegn Tyrkjum?

Í Sundvörðuhrauni

Í Ferðabók Þ. Thoroddsens, I. b. Khöfn 1913, bls. 174—’75 segir Þorvaldur frá þessum fundi sínum:
„Frá Járngerðarstöðum í Grindavík fórum við upp í Eldvarpahraun. Það er mjög nýlegt og fjarska illt yfirferðar. Hesti er ómögulegt að koma við og illfært gangandi manni. Hraunið er grátt af gamburmosa, en mjög lítill jurtagróður er þar annar. Í því skoðaði ég á einum stað gamlar mosavaxnar rústir. Þær er mjög illt að finna: á afskekktum stað i versta brunahrauni. Þar hefur líklega einhverntíma í fyrndinni verið athvarf manns, sem einhverra orsaka vegna hefur orðið að flýja úr byggðinni. Ekki er hægt að sjá þessar rústir fyrr en maður er rétt kominn að þeim. Standa þær í kvos á flötum hraunbletti og há hraun allt í kring. Fram á miðjum fletinum eru þrír kofar, allir hlaðnir úr hraunhellum og hleðslan víðast einföld. Gjort hefur verið yfir byrgi þessi með stórum hraunhellum. Allir eru kofar þessir smáir, 15—18 fet á lengd, og snúa dyrnar til norðurs. Stærsti kofinn er inni í hraunviki. Hafa hraunbrúnirnar verið notaðar fyrir veggi. Bak við þennan kofa er hlaðin tóft djúp eins og tunnur. Þar fundum við hálfúna tiltelgda spýtu undir mörgum hraunhellum og mosa. Önnur hringmynduð rúst var þar í nánd. Uppi á hæstu hraun brúninni fyrir ofan var enn eitt byrgi alveg eins og það hefði verið notað til þess að skyggnast um. Allar eru rústir þessar mjög gamlar, því að á beim var nærri eins þykkt mosalag og hrauninu sjálfu.

Enginn veit neitt um þessa kofa. Þeir fundust af tilviljun 1872. Það er mjög ólíklegt, að hér hafi verið mannabyggð að staðaldri; líklegra er, að kofum þessum hafi verið hróflað upp til bráðabirgða á ófriðartímum, og að menn hafi flúið í hraunið úr Grindavík. Þar hefur oft verið agasamt. Englendingar og Þjóðverjar börðust þar 1532, og 1627 herjuðu Tyrkir á byggðina. Gamlar sagnir geta um stigamenn eða útilegumenn á Baðvöllum einhvers staðar nálægt Grindavík, en hvort rústirnar standa í nokkru sambandi við þá illvirkja er efasamt.”

Barnagarðar?

Í Sundvörðuhrauni

Þorvaldur veit auðsæilega ekki hvað hann á að halda um þessi mannvirki, og sömu sögu er að segja um Brynjólf frá Minna-Núpi. Þegar hann fór að leita rústanna var Sæmundur bóndi Jónsson á Járngerðarstöðum, sá sem fylgdi Þorvaldi Thoroddsen um Grindavíkurhraun orðinn blindur. Fékk hann þá með sér tvo kunnuga menn, og leituðu þeir „nær heilan dag, en fundu ekki”. Með tilvísan hins blinda manns tókst þeim þó að finna rústirnar í annarri atrennu. Í Árbók fornleifafélagsins heldur Brynjólfur helzt, að tætturnar 3 í kvosinni „hefðu getað verið geymsluhjallar, t.a.m. fyrir þurrkað kjöt. Í kvosarbotninum er hringmynduð tóft svo lág, að veggirnir eru áð mestu mosa huldir. Það gæti verið niðurhrunin fjárrétt, en eigi bendir það þó til þess er Sæmundur sagði; að í henni hefði hann fundið ösku og skörung úr járni”. Brynjólfur fellst á, að þarna hafi verið gott fylgsni, ,,en ólíklegt er, að menn hafi getað dvalizt til lengdar á þessum stað. Þar hefur víst verið „á flestu góðu mesta óhægð”,” og bendir á, að þar hafi hvorki verið vatn né eldivið að fá. Kunnugir menn í Grindavík segja, að vatnsból sé sæmilegt í djúpri gjá sunnan við Eldvarpahraun um 20-30 mín. gang frá rústunum, en eldiviður hefur auðvitað verið enginn nema mosi. Brynjólfur bendir á, að sumar af tóftum þessum em svo smáar, „að það er eins og börn hafi byggt þær að gamni, og trúa mundi ég, að þetta væri allt saman eftir stálpuð börn, t. a. m. 10—14 ára gamla drengi, ef líklegt væri að þeir hefðu komið á þennan stað, en það sýnist mér ekki vera. Á vorum dögum mundu flestir drengir kjósa annað til skemmtunar en að leita leiksviðs í ófæru hrauni, og fyrrum hefur hraunið þó verið enn verra yfirferðar, er það var mosalaust og lítt saman sigið. Hafi drengir fyrri alda haft slíkar glæfraferðir og séu þessar menjar eftir þá, þá eru þær merkilegar fyrir þroskunarsögu vora, og þó þær séu eftir útilegumenn eru þær merkilegar, auk þess sem þær sýna eymdarstöðu slíkra manna og það þrek sem þurfti til að lifa í henni; þá sýna þær einnig það áræði, sem þrátt fyrir hættuna horfði ekki í að vera svo nærri mannabyggðum. „Karlmennskuhugurinn harði” lýsir sér á sinn hátt í hvoru tilfellinu sem er.”

Junkerar í Grindavík

Í Sundvörðuhrauni

Þorvaldur og Brynjólfur vilja ekkert fullyrða um það, hverjir hafi staðið að húsagerðinni í Grindavíkurhrauni, en rústirnar benda ótvírætt til þess, að einihvern tima í fyrndinni hafi menn hafzt þar við. Skammt frá sjálfum tóftunum sér móta fyrir aðhaldi og lítilli rétt, en hverjir áttu að smala á þessum slöðum? Ef einhverjir óbótamenn óbótamenn hafa búið þarna, er harla ólíklegt, að einhver sögn um þá hefði ekki varðveizt, og nú vill svo vel til, að meðal Grindvíkinga hefur varðveizt saga um „útilegumenn” á Reykjanessskaga. Brynjólfur frá Minna-Núpi skrásetur þessa sögu, og er hún prentuð í Huld, H. b., útg. 1892, bls. 58-60.
Einhvern tíma í fyrri daga höfðu nokkrir menn -— tólf eða átján — hafzt við í óbyggðinni milli Grindavíkur, Hafna og Njarðvíka. Áttu þeir sitt skip í hverri þessari veiðistöð og höfðu þar rammgjört gerði til að geyma skipið og það, er til þess heyrði. Enn heitir bær einn í Höfnum Junkaragerði, og gömul girðing, er leifar sjást af á Gerðavöllum milli Járngerðarstaða og Húsatófta í Grindavik, er líka kölluð Junkaragerði. Eiga þeir að hafa haldið sig þar, er þeir voru í Grindavík, og róið út úr Stóru-Bót, sem þar er hjá. Þar er að vísu ekki ræði, nema brimlaust sé, og vindur standi af landi. En junkarar reru heldur aldrei nema þar sem vindur stóð af landi, og þá er svo var hvasst að aðrir reru ekki. Þá er logn var, voru þeir í landi, komu þá til bæja og réðu einir öllu hjá konum, meðan karlmenn voru á sjó. Höfðu menn því illan hug á þeim, en þorðu ekki á þá að ráða, því að þeir voru mestu garpar. Og þó að að menn kæmist í gerði þeirra, þá er þeir voru ekki við, þorðu menn eigi að láta junkara sjá þess merki, þá var við hefnd að búast. Menn vildu samt fyrir hvern mun ráða þá af dögum og leituðu ýmissa bragða til þess. Einu sinni boruðu menn göt á skip þeirra upp við hástokk, þar sem ekkert bar á, fyrr en skipið var orðið hlaðið. Þá rann sjór inn um götin; en júnkarar flöttu þá fisk og lögðu fyrir þau og björguðust svo til lands. Í annað sinn voru dregnir af keiparnir, keipanaglarnir sagaðir sundur til hálfs og keiparnir svo reknir á aftur. Naglarnir brustu, þá er í land skyldi róa, því að þá var mótvindi. Þá reru junkarar við hné sér til lands. Í þriðja sinn voru skautarnir dregnir af árum þeirra, árastokkarnir svo sagaðir sundur til hálfs eða meira, skautarnir síðan negldir á aftur, svo að ekki bar neitt á neinu. Nú reru junkarar, er vindur stóð af landi, en í það sinn komu þeir ekki að landi aftur. Sagt er, að hverjir fyrir sig: Grindvíkingar, Hafnamenn og Njarðvíkingar hafi lengi eignað sér það, að þar hafi junkarar verið af dögum ráðnir.
Þessari sögu fylgir skýringarklausa frá Brynjólfi á Minna-Núpi: “Þessi munnmæli voru mér sögð í Grindavík 1861. En seinna hefur mér dottið í hug, að þessi sögn kunni að standa í sambandi við tóftarústir þær, er sjómenn frá Húsatóftum í Grindavík — einn af þeim var Guðmundur, bróðir minn — fundu veturinn 1872 norðan í Sundvörðuhrauninu, þar sem á stóru svæði er hvergi stingandi strá strá, og engin umferð af mönnum né skepnum, enda hafði þá enginn heyrt þeirra rústa getið áður. Þorvaldur Thoroddsen fann þær líka, er hann rannsakaði Rekjanesskagann, og áleit eins og hinir, að þar hefði verið mannahýbýli”.

Vafasamt junkaragerði
Junkaragerði ofan við Stóru-Bót í GrindavíkÞetta er eina sögnin, sem hægt er að tengja við tóftirnar í Sundvörðuhrauni, en hún hefur á sér ýmis einkenni góðrar þjóðsögu. Junkararnir eru 12 eða 18, en talan 18 er algeng í þjóðsögum um líkt efni. Í Grindavík lifði einnig saga um 15 þjófa í Þjófagjá í Þorbjarnarfelli en hún er farandsögn, sem ekkert á skylt við þessar rústir. Þrjár tilraunir eru gerðar til að ráða junkarana af dögum, og heppnast síðasta tilraunin, en slík efnisatriði eru einkenni allra góðra þjóðsagna.
Sannfræði þessarar sögu er því býsna vafasöm, en engu að síður standa rústirnar í Sundvörðuhrauni sem óbrotgjarnt vitni þess, að þar hafa menn verið að verki og sennilega dvalizt einhvern tima. Ef bófaflokkur hefur haft þar bækistöð sína ætti að finnast einhver urmull af beinum eða öðrum úrgangi þar í grendinni, en þess sér engin merki. Útilegumannadýrkendur benda þó rétti lega á, að tætturnar séu mjög gamlar, því að þær eru huldar þykku mosalagi. Fangamark útilegumanna getur því birzt einn góðan veðurdag undir mosalaginu.
Það er eftirtektarvert við rústirnar, að byggingarlag þeirra bendir til þess, að það sé miðað við þá möguleika, sem hraunhellurnar í nágrenninu skópu byggingameisturunum. Stærstu hraunhellurnar eru um 90 sm. á lengd, en tætturnar eru frá því um 50 sm til 80 sm. á breidd nema ein. Hún er um 150 sm., þar sem hún er breiðust. Þar hefur þó verið hlaðinn milliveggur, svo að þakhellurnar hafa ekki þurft að vera nema um 80 sm. til þess að ná milli veggja, Ef hér er um mannabústaði að ræða, þá er enginn öfundsverður af því að hafa hafzt þarna við.  Mér er ókunnugt, að orðið junkari komi fyrir annars staðar í þjóðsögum. Orðið kemur inn inn í íslenzkuna á ofanverðum miðöldum og er þá oft skrifað jungkæri, og bæjarnafnið Junkaragerði er skrifað Junkæragerði í Jarðabók Árna Magnússonar. Orðið jungkæri var notað um yngissveina af tignum ættum, en hefur festst t. a. m. í Þýzkalandi við landeigendaaðalinn. Inn í íslenzkuna er orðið auðvitað komið úr þýzku eða dönsku, en Þjóðverjar höfðu miklar bækistöðvar á þessum slóðum á 16. öld. Það er dálítið kátbroslegt, að tignarheiti! einnar illræmdustu landeigendastéttar Evrópu skuli tengt við kot eitt suður í Höfnum og þjóðsögn um kvennagull, sem eiga að hafa búið á óbyggðum Reykjanesskaga.

Heimildir m.a.:
-Rústirnar í Grindavíkurhrauni – Björn Þorsteinsson – Þjóðviljinn 3. september 1950, bls. 5 og 7.
-Rústirnar í Grindavíkurhrauni – Björn Þorsteinsson – Nýi Tíminn 28. september 1950, bls. 3 og 6.

Tyrkjabyrgi - uppdrattur

Konungsfell er merkt inn á herforingjakort árið 1908. Það var sem nú er merktur Stóribolli á kortum. Bollinn sá er hins vegar utan í norðvesturhlíð Konungsfells.
Konungsfell-kortLíklega hefur nafnið Konungsfell horfið með tímanum af tveimur ástæðum; vegna þriggja nálægra nafna þess, þ.e. Kóngsfells, Stóra-Kóngsfells og Litla-Kóngsfells og vegna þess að konungsnafnið hefur ekki þótt við hæfi þá og þegar sjálfstæðisbaráttan var í hámarki. Eða, sem verður að teljast sennilegasta skýringin, vegna þess að í fjarlægð virðist Konungsfell vera líkt og gígur tilsýndar. Og fáir, sem ganga á fellið, sjá Stórabolla.
Landamerkjalínur Krýsuvíkur, Garðabæjar [-hrepps] og Kópavogs eru dregnar um þetta Konungsfell á kortinu 1908. Að öllum líkindum er örnefnið ekki ýkja gamalt, sennilega nefnt svo af konunglegu dönsku mælingarmönnunum, sem unnu kortið á þessum tíma.

Kóngsfell

Gígur Kóngsfells/Konungsfells (Stóri-Bolli).

 

Selatangar

Þór Magnússon skrifaði um “Verbúðarrústir á Selatöngum” í Lesbók Morgunblaðsins 27. júní 1976:
Selatangar-2018“Selatangar eru undarlegt ævintýraland og óvíða munu jafnskemmtilegar minjar um útræði hér á landi og einmitt þar, þótt  staðurinn hafi verið litt þekktur fyrr en nú á síðustu árum.
Selatangar eru um það bil miðja vegu milli Grindavíkur og Krýsuvíkur, nokkru austan við Ísólfsskála. Þarna hefur Ögmundarhraun gengið í sjó fram og myndað tanga og er þar sæmileg lending. Hana hafa menn hagnýtt sér og smám saman myndazt þarna verstöð, sem harla lítið er þó vitað um úr rituðum heimildum. Hins vegar vitna rústirnar um það, sem þarna hefur farið fram.
Hér er fjöldinn allur af fiskbyrgjum og nokkrar verbúðir, sem hægt er að greina, og er þetta listilega vel hlaðið úr hraunhellum og stendur allvel, þótt tímans tönn hafi unnið á sumu.
Síðast er talið, að róið hafi verið frá Selatöngum 1884. Fyrir mun hafa komið, að menn lentu á Selatöngum síðar ef lending var ófær annars staðar, en síðasti formaður af Selatöngum mun hafa verið Einar bóndi í Stóra-Nýjabæ í Krýsuvík Einarsson, afi Þorvaldar Þórarinssonar lögfræðings.
Ruddur vegur liggur af þjóðveginum, Ísólfsskálavegi, gegnum hraunið og niður á Selatanga, en hann er illfær litlum bílum. En fjarlægðin er ekki meiri en svo, að þeir, sem röskir eru til gangs fara það á stuttri Selatangar - sjóbúðstundu og er vissulega ástæða til að hvetja þá, sem áhuga hafa á minjum sem þessum, að kynnast þessum einkennilega minjastað.
Erfitt er nú að sjá, hverju hlutverki hver og ein rúst hefur gegnt, enda eru þær mjög misgamlar og hinar elztu nokkuð ógreinilegar. Þó má yfirleitt greina verbúðirnar af bálkunum, sem sofið hefur verið á, og sumar eru skiptar með vegg. Uppsátrið sést einnig allglöggt, en rústirnar ná yfir talsvert stórt svæði með sjónum.
Vestan við rústirnar er sandfjara og í hraunjaðrinum þar vestan við er hellir, Nórarhellir, sem hægt er að komast í um fjöru. Hann mun draga nafn sitt af því, að Hraunsmenn í Grindavík geymdu þar selanætur sínar.”

Heimild:
-Verbúðarrústir á Selatöngum – Þór Magnússon – Lesbók Morgunblaðsins 27. júní 1976, bls. 12.
Selatangar - uppdráttur

Selatangar – uppdráttur ÓSÁ.

Grindavík

Í Tímanum 1950 fjallar G.Þ. um Grindavík undir fyrirsögninni “Grindavík orðin umsvifamikill útgerðarbær að nýju“:

Grindavík orðin umsvifamikill útgerðarbær að nýju”

Grindavík

Grindavík – bræðslan á fullu.

Í haust getur að líta marga tugi síldarskipa við bryggju í Grindavíkurhópi.
Í Grindavík hefir á fáum árum orðið merkileg atvinnuþróun. Fyrir tíu árum var þar aðeins útgerð lítilla trillubáta, vegna slæmra hafnarskilyrða fyrir stærri báta. Nú eru þar á þessu hausti helztu hafnarbækistöðvar síldarflotans við Suðurland. Síld er söltuð á þremur plönum, myndarlegt frystihús vinnur vetraraflann, en ný hverfi af snotrum íbúðarhúsum teygja sig upp um hraunið. Töfrasproti atvinnubyltingarinnar og tækninnar hefir snert Grindavík.

Gömul verstöð

Grindavík

Grindavíkurhöfn 1954 – loftmynd.

Grindavík hefur verið fiskiverstöð svo lengi, sem sögur fara af fiskiveiðum á Íslandi. Þar var stutt að róa á fengsæl mið, og fiskur brást sjaldan, ef gæfitir voru. Fyrr á árum var því blómlegt athafnalíf í Grindavík á þeirrar tíðar mælikvarða. Fjöldi manna komu í verið og fóru heim til sín með vænar klyfjar af skreið í vertíðarlok.
Svo varð Grindavík eftir ein og yfirgefin, þegar tæknin kom til sögunnar, og bæirnir risu fyrst þar sem hafnarskilyrðin voru bezt fyrir stærri báta. Blómleg verstöð var ein og yfirgefin að kalla, á móts við það, sem áður var.

Sjósókn fyrir opnu hafi

Grindavík

Grindavík – innsiglingin.

Þó hafa Grindvíkingar allt af stundað sjóinn af harðfengi og dugnaði, enda oft þurft á karlmennskunni að halda í baráttunni við úfinn sjóinn, úti fyrir ströndinni, þar sem úthafsöldur Atlantshafsins skella á hörðum skerjum í allri sinni tign og veldi. Fáum varð því þörf á stærri og betri bátum til Sjósóknar en einmitt Grindvíkingum, er stunduðu sjóinn eingöngu fyrir opnu úthafinu, og áttu oft allt undir því, að lendingin heppnaðist vel.

Höfnin og hraðfrystihúsið

Grindavík

Grindavík 1957 – loftmynd.

Á árunum fyrir styrjöldina var all mikil útgerð opinna trillubáta frá Grindavík. Hafnarskilyrðin leyfðu ekki notkun stærri báta þaðan. En þegar hafnarbæturnar byrjuðu að koma eftir 1940, stækkuðu bátarnir.
Árið 1942 gerður Grindvíkingar myndarlegt átak til að koma á fót frystihúsi og tókst það. Hraðfrystihús Grindavíkur á áreiðanlega sinn mikla þátt í því, auk hafnarbótanna, að Grindavík er það sem hún er. Jafnhliða hafnarbótum varð að sjá fyrir möguleikum til að hagnýta aflann, sem bezt. Þetta mun frystihúsinu líka hafa tekizt undir hagkvæmri stjórn Guðsteins Einarssonar, hreppstjóra í Grindavík. Það annast saltfiskþurrkun, þegar sú verkunaraðferð kallar að, og hefir með höndum um fangsmikla síldarsöltun, þegar síldin veiðist í Grindavíkursjónum.

Sameiginlegt átak Grindvíkinga

Grindavík

Grindavík – hraðfrystihúsið.

Grindvíkingar eiga frystihúsið svo til allir í félagi. Hreppsbúar tóku höndum saman og komu upp þessu atvinnutæki til að skapa sér betri aðstöðu í lísbaráttunni og lögðu hvorki mefra né minna en 100 manns fé af mörkum til að koma því upp. En hafnarmálin hafa verið erfiðust viðureignar fyrir Grindvíkinga, þó að nú horfi orðið vel um þau. Í fyrstu var unnið að bryggjugerð í Járngerðar- og Þórkötlustaðahverfi. En síðan ákveðið var að legja áherzlu á að gera bátahöfn í Hópinu og gera innsiglinguna í það færa stærstu fiskibátum, hefir hin nýja Grindavík einkum risið upp í Járngerðarstaðahverfinu. En skammt er á milli og öll hverfin þrjú eru Grindavík.

„Skipaskurðurinn” í Grindavík

Grindavík

Grindavík – Grafið inn í Hópið.

Verulegur skriður komst ekki á hafnarframkvæmdir í Grindavík, fyrr en 1945. En síðan hefur þeim miðað ört áfram, og nú er verið að vinna þar að byggingu rúmgóðrar bátbryggju, sem byggð er innan við sjóvarnargarðinn sem er steinsteyptur og traustur. Bryggjan, sem búið var að byggja út frá varnargarðinum, er nú orðin allt of lítil fyrir þá útgerð, sem nú er þegar orðin af stærri bátum frá Grindavík.
En sérstæðasta verkefnið við hafnargerðina í Grindavík er “skipaskurðurinn”, sem gerður hefur verið inn í Hópið. Þessi skurður er að vísu ekki skurður nema um fjöru, því þegar flóð er, flæðir yfir bakkana og klappirnar í kring, en eigi að síður verða bátarnir að sigla þarna eftir skurðinum, þótt flóð sé. Hefur verið komið fyrir háum stöngum á bökkunum, svo að sjómenn geti áttað sig á leiðinni, þegar hátt er í sjó.

Dýpkun innsiglingarinnar

Grindavík

Grindavík – Dýpkunarskipið Grettir annaðist m.a. dýpkun hafnarinnar.

Þessi miklvægu mannvirki er hvergi nærri lokið ennþá.
Í sumar hefir verið unnið að því að dýpka innsiglinguna, svo að hún er nú orðin það djúp, að stærstu bátar geta farið þar út og inn, hvernig sem stendur á sjó.
Næsti áfangi í framfaramálum Grindvíkinga er að auka hafnarbæturnar, svo að millilandaskipin geti komið þar að bryggju til að sækja afurðir til útflutnings og flytja nauðsynjavörur til atvinnurekstursins. Eins og nú er fara flutningarnir fram á landi til næstu útflutningshafnar, Keflavíkur.

Byrjuðu á áraskipum — en enda kannske á togara

Grindavík

Árabátar.

Gömlu mennirnir í Grindavík muna tímana þrenna í atvinnumálum kauptúnsins. Þeir sóttu sjó á áraskipunum gömlu um aldamótin, á opnum trillubátum fram að síðasta stríði og loks nú á stórum vélbátum.

Þróun bátaútvegsins í Grindavík fylgdi framþróun og endurbótum hafnarinnar
Segja má, að bátarnir hafi stækkað eftir því sem innsiglingin í Hópið dýpkaði. Þegar trillubátunum fækkaði komu í staðinn 4—8 smálesta vélbátar, því næst bátar 10—16 lesta og loks bátar 20—80 lesta. Var þannig skipt um bátastærðir þrisvar sinnum í Grindavík á fáum árum, meðan höfnin var að skapast, því að stóru bátarnir gerðu Grindvíkingum það kleyft að stunda sjóinn úti fyrir hinni brimóttu strönd betur en hægt var áður á litlu bátunum. Vel getur svo farið, að áður en mörg ár eru liðin, verði fyrsti Grindavíkurtogarinn kominn þar að bryggju, ef hafnarframkvæmdir verða jafn örar í Grindavík á næstu árum og þær hafa verið upp á síðkastið.

Gamla og nýja Grindavík á sama blettinum

Grindavík

Grindavíkurhöfn 1968 – loftmynd.

Grindavík hefur skipt um svip, Nú þessa dagana má oft sjá þar inn á höfninni 40—60 stóra og sterkbyggða síldarbáta. Þegar maður kemur þjóðveginn ofan úr hrauninu til Grindavíkur, heilsa manni hverfi fallegra íbúðarhúsa og reisulegur nýr barnaskóli. En niður við sjóinn er gamla og nýja Grindavík á svo til sama blettinum. Himinháum tunnustöflum er ekið eftir þröngum stígum milli gamalla, rauðmálaðra húsa.
Á sjávarbakkanum eru grasigrónar rústir gamalla búða, en gamall bátur brotinn og fúinn liggur undir búðarvegg. Hann er fulltrúi sama tímabilsins, og á bezt heima þarna undir búðarveggnum, og heldur sér við vegginn af gamalli tryggð, þó nú séu þar hænsni í kofa.

Sildarstúlkur og síldarstrákar — kokkurinn hleypur til skips

Grindavík

Grindavíkurbátar 1955.

Niðri á Hópinu liggja við bryggjur 40 — 60 stórir og sterklegir síldarbátar, meðan losaður er aflinn, sem fenginn er úr Grindavíkursjó. Síldartunnubreiðunum fjölgar upp við hraunið, og hraðfrystihúsið gnæfir hátt við rústir gamalla verbúða ofan við myndarleg hafnarmannvirki, sem enn eru í smíðum.
Á bryggjum og götum kauptúnsins er líf og fjör, síldarstúlkur og síldarmenn. Strákarnir af síldarbátunum þykir illt að komast ekki að til löndunar, en þeir kunna líka að meta þann frið, sem þeir fá til þess að ganga upp um götur og hraun. Áður en varir kemur kokkurinn kannske hlaupandi fyrir blint horn með ótal pakka í fanginu. Líklega er báturinn hans að leggja frá, og guð má vita nema hann týni einhverjum pakkanum á leiðinni.” – GÞ.

Heimild:
-Tíminn, 211. tbl. 26.09.1950, Grindavík orðin umsvifamikill útgerðarbær að nýju – G.Þ., bls. 7 og 8.

Grindavík

Grindavík 2021.

Ögmundarstígur

Gengið var yfir Sveifluháls eftir gamalli þjóðleið frá austri til vesturs, framhjá Drumbi og áfram niður í Bleikingsdal.

Ögmundardys

Jón Guðmundsson við Ögmundardys.

Lækur rennur þar niður hraunið sunnan Vigdísarvalla, um svonefnda Suðurvelli og Klettavelli ofan við Krýsuvíur-Mælifell og niður Ögmundarhraun. Hann kemur úr hvilftunum suðvestan Hettu í Sveifluhálsi og hefur smám saman rutt á undan sér sandi og leir úr hlíðunum, líkt og Selsvallalækurinn og Sogadalslækurinn. Gróið er á bökkum læksins, því meira sem norðar dregur. Ljóst er að fé hefur nýtt sér vatnið í gegnum tíðina og launað fyrir sig með því að leggja sitt af mörkum við uppgræðsluna næst læknum. Til skamms tíma náði lækurinn niður í hraunið norðan þjóðvegarins milli Krýsuvíkur og Ísólfsskála, en nú er hann kominn suður fyrir hann og ætlar greinilega alla leið áfram til sjávar, jafnvel þótt það taki tíma.
Læknum var fylgt niður að Ögmundardys, við gömlu þjóðleiðina yfir hraunið. Dysin er við austanvert hraunið, við eina stubbinn, sem enn er óbreyttur frá því sem var. Gatan var jafnan lagfærð með seinni tíma vegarlagningum (1932) og síðar.

Ögmundarstígur

Ögmundarstígur.

Þjóðsagan segir að áður en gatan var rudd varð að fara vestur yfir hálsa fyrir endann á hraunsuppkomunni þegar fara þurfti til Njarðvíkur eður Keflavíkur. Bóndinn í Njarðvík átti dóttur. Hennar bað lausingi nokkur er Ögmundur hét, tröllmenni að stærð og kröptum.

Ögmundarhraun

Ögmundarhraun – bóndinn tekst á við tröllið.

Bóndi vildi ei gefa dóttur sína fúlmenni þessu en treystist ei að standa í móti honum. Tekur hann því það ráð að lofa honum stúlkunni ef hann vildi vinna það til hennar að gera færan veg yfir hraunið, þar sem beinn yrði vegur til Suðurnesja. Þetta verk tókst hann á hendur og framkvæmdi það duglega en lagðist til svefns að loknu verkinu austan til við hraunbrúnina en bóndi lá í leyni í hraungjótu. Ætlaði hann inum stundir að sofna vært og drap hann sofandi. Þar er dys hans sem drepinn var og er hraunið síðan við hann kennt og kallað Ögmundarhraun.
Jón Jónsson, jarðfræðingur segir aldur Ögmundarhrauns vera C14 945 ± 85, þ.e. að hraunið hafi runnið árið 1005?
Frábært veður.
Gangan tók 1 klst og 61 mín.

Heimild m.a.:
-http://bokasafn.rnb.is/default.asp?cat_id=276
-J.J. 81

Ögmundardys

Ögmundardys austast við Ögmundarstíg.

Sauðabrekkur

Gengið var frá Krýsuvíkurvegi um Hrútargjárhraun yfir að Markhellu eða Markhelluhól eins og hún er stundum nefnd. Frá henni var gengið niður að Búðarvatnsstæði, upp um Sauðabrekkur að Sauðabrekkugjá og norður eftir henni um Sauðabrekkugíga á leið til baka niður hraunið. Í leiðinni var gengið framhjá Gapinu, mikilli holu í miðju hrauninu.

Markhella

Við Markhellu.

Á Markastein, oftar nefnd Markhella, á einnig að vera klappað “ÓTTA” “STR” “KRYSU”. Síðan lá línan að liggja frá þessum Markasteini í stefnu upp í Krýsuvíkurland. Merkingarnar fundust á Markasteini, en ekki á Klofakletti eða Klofningskletti,eins og hans er getið í sumum landamerkjalýsingum. Hér gæti verið um einhverja misvísun að ræða.
Landamerkjabréf milli Óttarstaða og Hvassahrauns er ritað 26. maí 1890 og undirritað vegna Óttarstaða, Hvassahrauns og Krýsuvíkur. Lýsing merkja er svona: “Landamerki milli Óttarstaða og Hvassahrauns byrja í Mið-Krossstapa, frá honum í Klofningsklett, sem varða er hjá, sunnanvert við Einirhól. Frá Klofningskletti í Búðarvatnsstæði, frá þeim stað í Markhelluhól, sem er hornmark frá Óttarstöðum, Hvassahrauni og Krýsuvík; í hann er klappað: Ótt, Hvass, Krv.”

Sauðabrekkur

Skjól í Sauðabrekkum.

Landamerkjabréf er til milli Hvassahrauns, Lónakots og Óttarstaða ritað 13. júní 1890, samþykkt frá öllum þremur jörðunum. Lýsing merkja er þessi:
“Merkin byrja í svonefndum Markaklett við sjóinn austanvert við Hraunsnes, úr Markakletti í Skógarhól, úr Skógarhól í Stórgrænahól, úr Stóragrænhól í Hólbrunnsvörðu, úr henni í Skorásvörðu, úr henni í Miðkrossstapa, sem er horn mark á Lónakotslandi, svo heldur áfram sömu stefnu millum Hvassahrauns og Óttarstaða úr Miðkrossstapa í Klofningsklett með vörðu sunnanvert við Einirhól, úr Klofningskletti í Búðarvatnsstæði, úr Búðarvatnsstæði í Markhelluhól, sem er hornmark frá Hvassahrauni, Óttarstöðum og Krýsuvík.”
Vatn var í Búðarvatnsstæðinu. Vestan við það er klettur, einnig nefndur Markhella eða Markhelluhóll. Stundum hefur verið áhöld um við hvorn klettinn hafi verið miðað í landamerkjalýsingum. Búðavatnsstæðið hefur áreiðanlega skipt miklu máli fyrir beit í heiðinni og ferðir um hana hér fyrrum. Margir slóðar liggja að vatnsstæðinu og vel gróið er í lægðum í kring.

Sauðabrekkugígar

Sauðabrekkugígar.

Haldið var upp í Sauðabrekkur og fram á barm Sauðabrekkugjár. Honum var fylgt til norðurs, um svonefnda Sauðabrekkugíga. Um er að ræða fallega gígaröð ofan við gjána. Austar hafa verið aðrir gígar, en þunnfljótandi hraun fyllt í þá að mestu. Í einum gígnum er bæli, slétt gólf og hraunbekkur. Gluggi er í bælinu, en steinn hafði verið settur fyrir.
Ginið er hluti gamallar gjár, sem nýrra hraun hefur runnið ofan í og fyllt að mestu. Eftir stendur þessi hluti, óuppfylltur. Dýpið er um 20 metrar.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Sauðabrekkur

Gígur í Sauðabrekkugígaröðinni.

Hraunsvík

Gengið var frá Hrauni til norðurs með austurhlíðum Húsafell, upp í sandnámur er áður hýstu eina af útstöðvum varnarliðsins, áfram upp Berjageira og norður með vesturhlíðum Fiskidalsfjalls. Haldið var um Stórusteina milli fjallsins og Vatnsheiðar, inn í Svartakrók og áfram upp með Hrafnshlíð.

Festarfjall

Festarfjall og Hraunsvík.

Gengið var áfram um Tryppalágar og inn á gömlu götuna frá Ísólfsskála um Siglubergsháls milli Fiskidalsfjalls og Festisfjalls, niðurmeð Skögugili og beygt til suðurs niður á Hraunssand þar sem Dúnknahellir var m.a. barinn augu. Ofan Hraunssands að vestanverðu er Skora, Skarfaklettur sunnar, en síðan taka við Hvalvík og Hrólfsvík. Hraunsvíkin er utar.
Húsafell, Fiskidalsfjall, Hrafnshlíð og Siglubergsháls eru móbergsstapar, bólstraberg, móbergsþurs og túff, þakið grágrýti. Síðastnefndu fellsmyndirnar eru komnar úr Bleikhól, áberandi gíg nyrst í fjallinu. Grágrýti þetta er öfugt segulmagnað og runnið á segulmund sem kennd er við Laschamp í Frakklandi. Fleiri slíkar basalthettur er á þessum slóðum, t.d. á Skálamælifelli, Hraunsels-Vatnsfellum og Bratthálsi. Aldur bergsins er um 42.000 ár. Fyrir rúmum 40.000 árum lá þunnur jökull yfir Grindavíkurfjöllunum sem teygði sig um 4 km vestur og norður frá norðurhorni Fagradalsfjalls.

Hraunsvík

Hraunsvík – Dúknahellir.

Festafjall og Lyngfell eru stapar sem rof sjávar hafa klofið í herðar niður og myndað hæstu sjávarhamra á Rekjanesi. Einnig sjást innviðir þess, m.a. berggangur.
Þjóðsagan segir að austarlega í Grindavík, hér um bil miðja vegu milli bæjanna Hrauns og Ísólfsskála, er þverhnípt fell fram við sjóinn, sem heitir Festarfjall. Neðan undir felli þessu er hátt blágrýtisstandberg og ægisandur undir sem ganga má þurrum fótum með lágum sjó. Frá Hrauni blasir við í miðju berginu grá rák sem gengur þráðbeint upp í gegnum bergið og nefnist Festin. Sagan segir að rák þessi sé silfurfesti sem tröllkona ein hafi einhvern tíma í fyrndinni hengt fram af berginu með þeim ummælum að þá er dóttir bóndans á Hrauni, sú sem bæri nafn hennar, gengi þar neðan undir þá skyldi festin detta niður og verða eign stúlkunnar. Því miður lét tröllkonan ekki nafns síns getið svo að ekki hefir verið auðvelt að láta heita eftir henni, enda hangir festin óhreyfð enn í dag.

Siglubergsháls

Gamla Krýsuvíkurgatan um Siglubergsháls.

Þegar gengið var áleiðis niður Siglubergsháls eftir gömlu þjóðleiðinni ofan núverandi þjóðvegar varð ekki hjá því komist að sjá hið mikla malar og sandnám, sem átt hefur sér stað utan í Fiskidalsfjalli og Húsafelli. Rifjuð var upp umsögn

Skipulagsstofnunar um svonefndan Suðurstrandarveg, þ.e. mat á umhverfisáhrifum, frá því 10. desember 2003. Þar segir m.a. að fulltrúar stjórnar Landverndar hafi kynnt sér skýrslu um mat á umhverfisáhrifum Suðurstrandarvegar. “Svæðið sem fyrirhugaður vegur fer um er á margan hátt sérstakt og veðmætt vegna landslags, jarð- og menningarminja. Skýrslan ber með sér að framkvæmdaaðili gerir sér þetta ljóst og hann hefur lagt ríka áherslu á að finna vegstæði sem hefur sem minnst neikvæð áhrif á þessi verðmæti. Svo virðist sem ekki sé mögulegt að nota núverandi vegstæði miðað við þær tæknilegu kröfur sem gerðar eru og nýr vegur mun því óhjákvæmilega hafa nokkur sjónræn áhrif og skera samfellda hraunfláka í tvo.

Hraunsvík

Svæðið.

Námustæði við Húsafell og við Fiskidalsfjall eru í dag afar mikil lýti í landinu og efnistaka virðist óskipulögð. Suðurstrandarvegur kemur til með að fara um þessar námur og það væri til bóta ef hægt væri að nýta framkvæmdir til að gera umbætur á námunum.”
Fram kemur einnig að “vakin er athygli á því að framkvæmdum loknum verði hugað að lokun vegaslóða sem liggja að efnistökustöðum til að draga úr líkum á utanvegaakstri og eftir atvikum gera þar bílastæða sem nýta má sem upphafsstað fyrir gönguferðir og útvist.”

Gengið var niður á Hraunssand um einstigi, sandströndinni fylgt til vesturs að Dúnknahelli, sem sjórinn hefur smám saman verið að skila aftur eftir að hafa fyllt hann af sandi um tíma.

Hraunsvík

Bjargfuglar.

Fíllinn verpir á syllum í berginu, en rauðnefjuð svört teistan í hellum undir Festisfjalli. Dúnknahellis er getið í frásögn af strandi spænskrar skútu við ströndina og björgun áhafnarinnar, sem leitaði skjóls í hellinum uns hjálp barst. Erfitt getur reynst að komast upp úr fjörunni því þverhnípt bjargið er ofan hennar. Merkilegar hraunmyndanir eru í bjarginu; annars vegar hart grágrýtið í lögum og hins vegar meir rauðamölin þeirra á millum. Hennar vegna gengur Ægi svo vel sem raun ber vitni að brjóta bergið smám saman undir sig.
Frábært veður. Gangan tók 2 kls. og 2 mín.

Hraunsvík

Hraunsvík.

Eldvörp

Gengið var um sunnanverð Eldvörp, skoðaðar mannvistaleifar í helli og Árnastíg fylgt áleiðis að Sandfellshæð, með Sandfelli að Lágafelli.

Eldvörp

Í Eldvörpum.

Gengið var upp á Lágafell, gígurinn skoðaður og síðan haldið áfram niður á Árnastíg og gengið um Klifið í Klifgjá, austur með sunnanverðu Þórðarfelli, skoðaðir hellar þar í hrauninu, og síðan gengið upp á brún Gígsins, mikils eldgígs í hrauninu. Frá honum liggur stór hrauntröð til austurs og beygir síðan til suðurs. Henni var fylgt áleiðis að upphafsstað í Eldvörpum.
Eldvörp eru um 10 km löng gígaröð í stefnu suðvestur – norðaustur. Talið er að síðast hafi gosið þar fyrir meira en 2000 árum.

Eldvörp

Í Eldvörpum.

Nokkur yfirborðsjarðhiti er á afmörkuðu svæði í Eldvörpum og voru þar fyrrum stundum bökuð brauð sem vafalítið hefur komið sér vel í eldiviðarskorti. Örstutt vestan við meginborholuna er hellir í hrauninu. Þegar Hitaveita Suðurnesja lét bora eftir gufu þarna sumarið 1982 brotnaði hraunið undan jarðýtu sem vann við frágang í kringum holuna. Í ljós kom hellir með geinilegum mannvistarleifum, beinum og hleðslum. Ekki er vitað hver eða hverjir höfðust þarna við. Hellirinn er alllangur eða 25-30 m en hvergi hærri en 1,5 m og víðast hvar mun lægri eða 40-50 sentímetrar.

Gígur

Gígur sunnan Þórðarfells.

Árnastígurinn liggur um slétt helluhraunið norðan Sundhnúkahrauns og í gegnum Eldvörpin á leið hans að Þórðarfelli og áfram að Rauðamel þar sem hann sameinast Skipsstíg. Stígnum var fylgt spölkorn yfir hraunið uns vikið var út af honum utan í Sandfellshæð.
Á toppi Sandfellshæðar er stór gígur sem er um 450 m í þvermál og að minnsta kosti 20 m djúpur og vel þess virði að ganga upp á hæðina. Þótt Sandfellshæð sé ekki nema um 90 m y.s. er gríðarlega víðsýnt af henni. Í norðri blasa við fellin Sandfell, Lágafell, Þórðarfell, Súlur og Stapafell sem reyndar er að mestu horfið vegna efnistöku.

Sandfell

Sandfell.

Gengið var noður með vesturhlíðum Sandfells og upp á Lágafell. Í fellinu er stór gróinn gígur. Talsverðar minjar eru þarna eftir æfingar varnarliðsmanna, s.s. hleðslur og símalínur. Gengið var niður af Lágafelli að austanverðu og Árnastíg fylgt niður Klifið, áleiðis að Þórðarfelli. Þar var beygt upp á hraunið ofan við Klifgjá og skoðaðir nokkrir hellar á svæðinu. Loks var haldið upp á brún Gígsins og hann skoðaður. Hrauntröðinni miklu var síðan fylgt sem leið lá til austurs og síðan til suðurs með hraunkantinum. Í fordyrum hennar eru fallegar hraunmyndanir og rúmgóðir skúta. Þegar líða tekur á hana fellur hún inn í misgengi samhliða sprungureinum svæðisins.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Eldvörp

Gígur í Eldvörpum.

Selsvellir

Gengið var norður með vestanverðum Núpshlíðarhálsi og upp í Hraunssel neðan við Þrengslin.

Hraunssel

Hraunssel – stekkur.

Eftir að hafa skoðað selstóftirnar var gengið á hálsinn og honum fylgt niður að gígaröð syðst á honum austanverðum. Um er að ræða mjög fallega gíga, myndarlegar hraunæðar og hrauntraðir í hlíðinni neðanverðri. Vestan undir sunnanverðu Núpshlíðarhorni var, að sögn Jóns Jónssonar, jarðfræðings, einn fallegasti hraungígur landsins, en hann hefur nú að miklum hluta verið notaður sem ofaníburður í þjóðveginn.
Suður lægðina austan Méltunnuklifs, hefur tunga úr Leggjabrjótshrauni runnið vestur um skarð á milli Sandfells og Höfða og suður með honum að vestan. Slóði liggur nú þvert yfir Leggjabrjótshraunið og áfram upp með Núpshlíðinni, inn á Selsvelli og áfram niður á Höskuldarvelli suðvestan Trölladyngju.

Hraunssel

Hraunsselsstígur.

Gamlar vörður eru við slóðann yfir hraunið svo líklega hefur hann verið gerður ofan í eldri götu, sem þarna var, enda liggur gata þarna áfram upp á hálsinn við Línkrók, í móbergsskarð á honum og síðan í sneiðingum niður hann að austanverðu. Gatan sést síðan á ný sunnan Djúpavatnsleiðar skammt ofan við gatnamót Ísólfsskálavegar.
Gömul gata er á köflum grópuð í hraunið á þessari leið. Litlu norðar er Hraunsel en þar var sel frá Hrauni í Grindavík. Hér sér greinilega til tófta sem eru nú minnisvarði um löngu liðna búskaparhætti. Eftir að hafa skoðað stekkina í hrauninu norðan selsins, sem eru þrjár heillegar tóttir undir Núpshlíðarhálsinum, kom í ljós ein tótt, greinilega elst þeirra, neðar og á milli tóftana og stekksins. Sunnan við þennan hlaðna stekk var annar mun eldri. Selsstígur liggur frá selinu að suðurhlíð Hraunssels-Vatnsfells. Hraunsselið er síðasta selið, sem lengst var brúkað á Reykjanesi, eða allt til ársins 1914.

Leggjabrjótshraun

Gígur ofan Höfða – Leggjabrjótshraunsskapari.

Ofan við Hraunsselið eru Þrengslin, sem fyrr sagði. Neðan við Hraunsselið að sunnanverður heita einnig Þrengsli. Frá Hraunseli liggur leiðin eftir gamalli götu á milli hrauns og hlíðar norður með Núpshlíðarhálsi að vestan. Þegar komið er norður fyrir Þrengsli er fljótlega komið á Selsvelli, u.þ.b. 20 mín. ofar.
Selsvellir eru allmikið gróðurlendi sem myndast hefur með framburði lækja úr hálsinum.
Vellirnir eru eins og vin í eyðimörk, og hér var eftirsótt beitiland fyrir búfé. Selsvellir tilheyrðu Stað í Grindavík og notuðu Staðarprestar og hjáleigubændur þeirra selstöðuna. Um miðja nítjándu öld höfðu hér 6 bændur í seli ásamt prestinum á Stað og átti hver sitt selhús. Samtals voru þá um 500 fjár og 30 nautgripir á Selsvöllum.

Höfði

Hrauntröð við Höfða.

Núpshlíðarhálsinn er vel gróinn ofan við Hraunssel. Haldið var niður hálsinn og kíkt á hraungígana syðst á honum austanverðum. Þeir eru hver öðrum fallegri. Flestir eru opnir til suðausturs og hefur hraunið, sem rann undan hallanum og niður hlíðina, skilið eftir sig fallegar hraunæðar og traðir.
Moshóll var loks skoðaður niður undan suðvesturhorni hálsins. Jón Jónsson sagði hann merkilegan, ekki síst fyrir það að hægt væri að sjá í honum þversnið af gígrás. Því miður hefur þeirri ásýnd nú verið svipt á brott með stórtækum vinnuvélum.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Heimild m.a.:
-http://www.utivist.is/utivist/greinar/

Hraunssel

Hraunssel – uppdráttur ÓSÁ.

Markrakagil
Á vinstri hönd er Markrakagil, eða Markraki. Landamerki Garðakirkju lágu um gilið. Eins og svo títt er í landamerkjadeilum telja sumir að þar sem um sama skarð og ræða og Vatnsskarð, en aðrir að hið eiginlega Vatnsskarð sé undir Vatnsshlíðarhorninu þar sem fyrst sér til Kleifarvatns. Hvað sem þeim deilum líður er Markrakagil merkt á landakort við Markraka á Undirhlíðum.
Í Breiðdal er steyptur stólpi, sem komið hefur niður úr skarðinu. Hann mun einhvern tímann hafa staðið uppi á brúninni, en einhver séð sig knúinn til þess að spyrna við honum.

Markrakagil

Markrakagil.

Gilið mun áður hafa heitið Markagil á Marraka eða Marrakagil á Undirhlíðum, en síðar er það nefnt Marrakagil í skjalinu frá 21. júní 1849 um Álftanesskóga. Það er það sama og annar staðar er nefnt Markrakagil (Melrakkaskarð, Vatnsskarð) eða Melrakkaskarð (Vatnsskarð, Markrakaskarð) í Undirhlíðum eins og það er nefnt sitt á hvað í “Merki á landi Garðakirkju….” frá 7. júní 1890 og sem staðfest er í landslögum nr. 13. frá 22. október 1912 um merki í landi Garðakirkju. Auk þess virðist þetta kennileiti hafa verið stafað Markragil, Marakki, Markragil o.s.frv. og á sumum stöðum staðsett á röngum stað. Í dag er þetta skarð eða gil aðeins nefnd Vatnsskarð. Eigandi Krýsuvíkur er samþykkur aðalmarki Garðakirkju og Krýsuvíkur í Vatnsskarði (Markrakagili, Melrakkaskarði), samkvæmt fyrrgreindu skjali frá 1890 og bréfi frá 14. apríl þ.á. (undirritaður tekur Vatnsskarð út fyrir sviga).

Hraunhóll

Hraunhóll.

Námusvæði er í vestanverðum Undirhlíðum norðan Vatnsskarðs. Vestan þess, sunnan Krýsuvíkurvegar, er Hraunhóll, enn eitt jarðfræðifyrirbrigðið, sem skemmt hefur verið í gegnum tíðina. Úr honum rann Nýjahraun, síðar nefnt Kapelluhraun, um 1188. Gígurinn hefur verið eyðilagður sem og allt umhverfi hans, Hraunhóll, stundum nefndur Rauðhóll, var með fallegri gígum á Reykjanesi og í rauninni stolt svæðisins. En þegar ráðist er að stolti landsins er dregið úr verðmæti þess. Skammsýni, þegar landsgæði eru annars vegar, hefur því miður verið eitt af höfuðeinkennum Íslendinga, allt frá landnámi til vorra daga.

Hraunhóll

Hraunhóll – upptök Kapelluhrauns.

Með gengdarlausri eyðingu skóga kom landeyðingin, skjólið hvarf og landsmenn stóðu berrassaðir á berangri um aldir. Nú þegar ferðamennskan er að verða ein aðalatvinnugrein landsmanna standa þeir enn og aftur berrassaðir fyrir framan ferðamennina, með landið sundurkorið og með óafturkræfar námur á einum fallegustu og nærtækustu svæðunum. Þeir, sem fengið hafa að ráða ferðinni í þessum málum, eiga að verða verðlaunaðir með fálkaorðunni fyrir eindæma skammsýni í þessum efnum. Nóg um það í bili.
Haldið var suður með Sveifluhálsi, um Sandfellsklofa. Þessi leið var fyrrum farinn frá Kaldárseli til Krýsuvíkur, Undirhlíðavegur. Hún er sendin frá Vatnsskarði og upp fyrir Norðlingaháls, en þá taka við grónar brekkur og sléttur að Ketilsstíg. Svæðinu um Sandfellsklofa hefur nú verið spillt með efnistöku, auk þess sem vélhólafólk hefur sett för sín á landið.

Sandfellsklofi

Sandfellsklofi – hrauntröð.

Mikil og löng hrauntröð, sem nú er að mestu sandi orpin, liggur samhliða klofanum. Hún var elt upp í gígana, sem eru í brekkunni áður en beygt er upp að Hrútargjárdyngju. Vegurinn liggur um þá. Jarðföll taka við tröðinni, en í því efra er hægt að komast niður í Klofahelli.Hraunrennslið hefu nær eingöngu orðið úr syðstu gígunum. Stærð hraunsins nær ekki einum ferkílómetra, en raunveruleg stærð þess gæti verið mun meiri. Aldursákvörðun hefur verið gerð á gróðurleifum undir hrauninu (Jón Jónsson, 1983) og fékkst aldurinn 3010 +/-70 eða um 1060 ár f.Kr.

Sandfellsklofi

Sandfellsklofi – hellisop.

Nokkrir hellar ganga fáeina tugi metra inn frá miklum niðurföllum við suðurenda hrauntraðarinnar. Í þessum smáhellum hefur mikið hrunið, en þeir eru nafnlausir og hluti af Klofahelliskerfinu.
Inn frá litlu opi ofan við Djúpavatnsveginn. Inn frá því til norðausturs er Klofahellir. Fyrst er klöngrast niður þrönga rás, sem á stunum er á tveimur hæðum. Þar innanvið er mikil hvelfing með um fjögurra metra lofthæð og um átta metrar eru milli veggja. Aftur þrengist hellirinn nokkra vegalengd þar til komið er í “símaklefann”, en þar má rétta úr sér á ný. Inn frá símaklefanum eru um 10 m göng, en ákaflega þröng og ekki á færi allra að fara þar í gegn. Þar innan við stækkar hellirinn á ný, en endar svo í miklu hruni. Klofahellir er um 115 m langur.
Suðvestan við Klofahelli er enn einn hellir eða skúti. Heildarlengd er um 15 metrar. Í honum voru fjögur pör af skóm og fékk hellirinn því nafnið Skóhellir.

Sandfell

Sandfell – austurhliðin er snýr að Sandfellsklofa.

Sandfellið er auðvelt uppgöngu. Fallegt útsýni er af því yfir að Hraunhól, yfir Kapelluhraun og Óbrennisbrunahraun. Gengið var niður af fellinu að austanverðu og haldið yfir nokkuð slétt hraunið og sandsléttu að upphafsstað. Upp úr henni gægist ein og ein burnirót. Ósjálfrátt fara tvífætlingar að gaumgæfa hvar þeir stíga niður. Það, sem næst er, yfirsést – oftast.
Á leiðinni var gengið yfir tiltölulega litla hraunsprungu. Jarðvinnuvél hafði verið ekið af óskiljanlegri ástæðu yfir sprunguna og verið rótað með henni að hluta til yfir hana. Forvitnilegt skoðunarverkefni síðar.
Innst í Sandfellsklofa eru glögg merki þess hversu utanvegaakstur getur spillt annars fallegu landslagi.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Heimild m.a.:
-Hraunhellar á Íslandi – Björn Hróarsson.

Sandfellsklofi

Sandfellsklofi – ummerki eftir utanvegaakstur.