Tag Archive for: Grindavík

Eldvörp

Í  sléttu Eldvarpahrauni skammt norðan Sundhnúkahraun austan Eldvarpa, í sléttu mosahrauninu, er stórt sporöskjulaga svæði rúið mosa svo skín í bera klöppina.

Eldvörp

B-17 vélin í Eldvarpahrauni.

Út frá svæðinu til suðurs liggur slóði, inn á skriðdrekastíginn við Árnastíg og áleiðis niður að Húsatóftum. Ef grannt er skoðað má sjá talsvert af braki flugvélar á svæðinu, m.a. svonefndan „chock“, hjólakubb úr tré, sem notaður var til að setja við hjól flugvéla á jörðu niðri. Númer má sjá á einum hlutnum, hringlaga með gleri í. Talsvert af álleiðslum og álbitum eru þarna einnig.
Heyrst hafði af því að flugvél, svonefnt „Fljúgandi virkið“, hafi nauðlent ofan við Húsatóftir á fimmta áratugnum. Vélin hafi skemmst lítið og áhöfnin sloppið heil á húfi.
Að sögn Friðþór Eydals er líklegt að þarna hafi verið um B-17 vél að ræða, fjögurra hreyfla, sem nauðlenti ofan við Tóftir í apríl 1943 á leið til Keflavíkurflugvallar, en hann hafði þá nýlega verið opnaður fyrir flugumferð. Vélin var nokkuð heil eftir óhappið, en var síðan bútuð niður og flutt á brott, en enn má sjá þarna hluti úr henni, sem fyrr sagði. Brak úr B-47 flugvél er hrapaði vestan Húsatófta, sést einnig enn ef grannt er skoðað.

Í Eldvörpum

Skv. upplýsingum frá Friðþóri Eydal „er brakið væntanlega brot úr þessari B-17 sprengjuflugvél sem lenti í villum á leið frá Bandaríkjunum til Bretlands með fyrirhugaðri viðdvöl á Keflavíkurflugvelli og nauðlenti þarna er eldsneytið þraut eftir 14 klst. flug þann 17. apríl 1943.
Kringlótta brotið á myndinni hér að neðan er úr hliðinnni á kúlulaga byssuturni í botni vélarinnar rétt aftan við vænginn er skyttan, sem sat milli tveggja 50 cal. Browning vélbyssa sem hann miðaði með því að snúa kúlunni. Kúluna mátti draga upp svo botninn næmi við botn vélarinnar þegar þurfti ekki að sitja í honum eða í flugtaki og lendingu. Slíkur bydduturn var yfirleitt ekki í öðrum vélum sem leið áttu hér um.“
Brak úr vélinniMyndin af vettvangi í apríl 1943 staðfestir að hér er um sömu vél að ræða – við svipaðar aðstæður og þegar brakið af henni fannst í mars 2006.
Nú er búið að merkja Árnastíginn frá Húsatóftum til Njarðvíkur, en kaflinn austan og næst Eldvörpum hefur verið merktur svolítið norðar en hinn eiginlegi stígur liggur, þrátt fyrir að sjá megi hann greinilega markaðan þar í klöppina.
Skammt austar í sléttu mosahrauninu er stórt sporöskjulaga svæði rúið mosa svo skín í bera klöppina. Út frá svæðinu til suðurs liggur slóði, inn á skriðdrekastíginn við Árnastíg og áleiðis niður að Húsatóftum. Ef grannt er skoðað má sjá talsvert af braki flugvélar á svæðinu, m.a. svonefndan „chock“, hjólakubb úr tré, sem notaður var til að setja við hjól flugvéla á jörðu niðri. Númer má sjá á einum hlutnum, hringlaga með gleri í. Talsvert af álleiðslum og álbitum eru þarna einnig.
Hafa ber í huga þá þjóðtrú að ekki megi fjarlægja muni af slysavettvangi látinna. Þeir, sem slíkir, eru og eiga að vera minnisvarði um atburðinn. Taki einhver hluta þeirra mun sá hinn sami hljóta verra af. Dæmi er um fólk, sem tekið hefur gripi af slysavettvangi, en orðið fyrir vandræðum. Þannig missti einn FERLIRsfélaga farsíma, krítarkort og gleraugu eftir að hafa stungið „minjagrip“ af flugslysavettvangi, þrátt fyrir aðvaranir, í bakpoka sinn. Álögunum var ekki aflétt fyrr en hann hafði skilað gripnum á sama stað.
Á ferð

Arngrímshellir

Í aprílmánuði árið 1948 birtist eftirfarandi lýsing á „Mókollu“ í Lesbók Morgunblaðsins í dálknum „Fjaðrafok“:

Heimkynni Mókollu í Klofningum

Gvendarhellir (Arngrímshellir).

„Sú er sögn að í Krýsuvík hafi einu sinni búið bóndi, sem átti 900 fjár. Fóstra hans sagði honum á haustin hvað skera skyldi, en eitt haust, er hún leit á fje bónda, sagði hún að eins: „Lengi lifir Mókolla“ – og fekk bóndi ekki meira upp úr kerlingu.
Bóndi ljet skera fátt fje þetta haus, en um veturinn missti hann 300 fjár í Kleifarvatn, 300 í Kerið á Kirkjufjöru og 299 kindur fyrir berg, en Mókolla stóð ein eftir á bjargbrúninni þegar bóndi kom að. Varð hann þá svo reiður út af missi sínum að hann ætlaði að þrífa Mókollu og henda henni fram af líka, en hún hafði sig undan bónda, og segir sögnin að svo margt fje hafi æxlast út af henni að bóndi hafi orðið fjárríkur maður aftur.“

Krýsuvíkurbjarg

Krýsuvíkurbjarg.

Önnur saga segir: „Eitt sinn var bóndi í Krýsuvík sem átti 900 fjár. Fóstra hans sagði honum á haustin, hvað skera skyldi, en eitt haust er hún leit yfir fé bónda sagði hún aðeins: „Lengi lifir Mókolla,“
– og fékk bóndi ekki meira upp úr kerlingu, hvernig sem hann reyndi til.
Bóndi lét skera fátt fé þetta haust, en um veturinn missti hann 300 fjár í Kleifarvatn og 300 í Kerið á Kirkjufjöru; sjást þar enn kindabein, þegar smogið er inn í Kerið um fjöru, því að ekki er hægt að komast niður í það að ofan; 299 kindur missti bóndi niður fyrir berg, en mókollótt ær ein, sem bóndi átti, stóð á bergsbrúninni, þegar hann koma að; varð hann þá svo reiður yfir missi sínum, að hann ætlaði að fleygja Mókollu fram af líka, en hún hafði sig undan bónda, og segir sagan, að svo margt fé hafi æxlast út af henni, að bóndi hafi orðið fjárríkur maður aftur.“
(Þessi saga er til í nokkrum útgáfum.)
Heimild:
-Lesbók MBl. apríl 1948, bls. 188.
-Ólaf Davíðsson II 124.

Kirkjufjara

Keflavík neðan Klofninga.

Staðarhverfi

Klukknaportið í kirkjugarðinum á Stað í Staðarhverfi við Grindavík hefur verið endunýjað.

Staður

Nýtt og gamalt klukkuport í Staðarkirkjugarði.

Það voru þeir feðgar í H.H. smíði sem sáu um verkið undir stjórn Helga Sæmundssonar. Kemur það í stað klukknaports sem smíðað var af Jóni Engilbertssyni frá Arnarhvoli í Grindavík á þriðja áratug síðustu aldar. Nýja portið er smíðað eftir fyrirmyndinni en þó nokkuð stærra og með koparklæðningu á þakhvelfingunni, portið hefur margvíslega trúarlega tilvísun og er í alla staði vel hannað. Ákvörðun um að hafa hið nýja klukknaport stærra helgast m.a. af því að kirkjugarðurinn á Stað hefur verið í mikilli endurnýjun og stækkun, hafa m.a. verið hlaðnir miklir og glæsilegir veggir er afmarka og skipta garðinum.
Í klukknaportinu er bjalla úr Hull-togaranum Anlaby er strandaði utan við Jónsbáskletta 14. janúar 1902 og „spónbrotnaði“. Ellefu lík skipverja rak að landi, en lík skipstjórans, Carls Nilsonar, fannst aldrei.

Staðarkirkjugarður

Staðarkirkjugarður.

Hópsnes

Gengið var austur Hópsnesið frá Nesi og yfir á Þórkötlustaðanes, að þurrkbyrgjunum í Strýthólahrauni vestan við Þórshamar. Í þessari ferð var m.a. ætlunin að rifja upp sjóskaðana, sem orðið hafa á Nesinu sem og fiskverkun fyrri alda, en í Strýthólahrauni má enn sjá minjar hennar.

Strýthólahraun

Strýthólahraun – fiskibyrgi.

En þar sem lágsjávað var og tært vatnið streymdi undan hrauninu í Hópið þar sem fyrrum var vatnslind ábúenda á Hópi og þvotturinn og ullin voru þvegin, var staldrað við og fyrirbærið skoðað nánar. Það heitir Vatnstanginn. Straumurinn var stríður og líklegt má telja að hann hafi áður verið ein helsta ástæða búsetu á Hópi. Hugmyndir manna hafa verið þær að þar hafi einn sona landnámsmannsins Molda-Gnúps Hrólfssonar sest að, eða jafnvel hann sjálfur, við komu sína í Víkina eftir að hafa áður dvalið austar með landinu.
Ofan við Hópið eru gamlar búsetuminjar. Sjá má jarðlægar tóftir og garða í túninu. Þar eru og sundvörður eða innsiglingavörður, vel við haldið. Sú neðri heitir Svíravarða og hin Stamphólsvarða, sem lengra var uppi í landi. Stamphólsgjá er skammt vestan við hana, en sú gjá gekk niður í gegnum Járngerðarstaðahverfið, en hefur nú að mestu verið fyllt upp, nema efsti hluti hennar. Nú er hins vegar búið að skipuleggja nýtt hverfi á gjáarsvæðinu og ekki er ólíklegt, ef byggt verður yfir gjána, að þar kunni eitthvað að gliðna síðar.

Strýthólhraun

Strýthólahraun – fiskibyrgi.

Síra Geir Backman lýsir þessum tveimur vörðum sem og Heiðarvörðunni á Hópsheiði er var mið í Járngerðarstaðasundið ásamt Sundvörðunni er komið var austan að. Sundvarðan var á sjávarkambinum austan við sundið. Allar þessar vörður eru til enn þann dag í dag, en Sundvarðan, sú sem hefur verið næst sjónum, hefur látið mest á sjá.
Hópsnes er nesið milli Hraunsvíkur og Járngerðarstaðavíkur við Grindavík. Að austanverðu heitir það Þorkötlustaðanes. Vitinn, Hópsnesviti, er fremst á Nesinu, en er á Þórkötlustaðanesi. Landamerkin eru u.þ.b. 60 metrum vestan við vitann, í landamerkjastein, sem þar er. Klappað er í hann stafirnir LM og eiga þeir að sýna landamerkin. Hópsnesviti var reistur 1928. Áður en haldið var inn eftir Hópsnesinu til að huga að og rifja upp skipsskaðana var komið við í sjóbúðinni skammt austan við Nes. Hún er á grónum hraunhól við Síkin. Utan við Síkin voru áður sjóbúðir frá Hópi, en þeir fóru forgörðum þegar varnargarðarnir voru reistir. Enn sést þó móta fyrir Hópsvörinni utan við þá, einkum á fjöru.

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes – sundvörður.

Hér fyrr á öldum gátu sjómennirnir, sem fóru í róður að morgni, aldrei verið vissir um að komast heilir og höldnu að landi að kveldi. Enda eru mörg dæmi þessa. Sem betur fer eru einnig mörg dæmi og merkar sagnir um mannbjörg eftir ófarir manna á hafi úti. Veður gátu skipt um snögglega og þótt ekki hafi verið róið langt gat róðurinn að landi bæði tekið langan tíma og verið erfiður. Stundum urðu sjómenn að bregða á það ráð að leita annað en ætlunin var. Þannig gátu sjómenn frá Járngerðarstöðum oft treyst á var í Þórkötlustaðasbótinni þegar þannig skipaðist veður í lofti. Þann 24. mars 1916 fóru t.d. 24 árabátar í róður frá Grindavík að morgni. Óveður skall skyndilega á og komust bátsverjar fjögurra báta ekki að landi. Þeim var hins vegar öllum bjargað, 38 mönnum, af áhöfn kúttersins Esterar frá Reykjavík. Þegar komið var með skipverja að landi þremur dögum síðar urðu miklir fagnaðarfundir í plássinu. Sumir segja það hafi verið sá mesti gleðidagur, sem Grindvíkingar hafi upplifað.

Hóp

Hópsvör – uppdráttur ÓSÁ.

Um árið 1940 lenti Aldan frá Vestmannaeyjum upp á skerjum á Hellinum, en svo nefnist klettahlein, sem gengur fram úr kampinum, skammt austanvið Hópsvörina, og út í sjó. Mannbjörg varð, og báturinn náðist út aftur. Þótti öllum, sem fylgdust með siglingu bátsins, það með ólíkindum. Sigling inn í sundin var vandasöm, og fyrr á tímum fóru sjómenn eftir framangreindum sundvörðum og öðrum leiðarmerkjum á leið sinni inn á þau. En erfitt gat verið að stýra bátum inn þau því mikla þekkingu og reynslu þurfti til þess í vondum veðrum. Dæmi eru um að ekki hafi verið við neitt ráðið og að Ægir hafi annað hvort kastað bátunum upp á sker og strönd eða hreinlega fært þá á kaf. Þannig fylgdust t.d. íbúar Grindavíkur angistafullir og hjálparvana á sjötta áratugnum með því af ströndinni er lítill bátur með þremur mönnum innanborðs á leið inn í Hópið var skyndilega færður í kaf og sjómennirnir drukknuðu svo til fyrir framan nefið á þeim, án þess að það gæti fengið rönd við reist.

Þórkötlustaðanes

Lifrabræðslan á Þórkötlustaðanesi.

Rétt fyrir utan lendinguna á Járngerðarstöðum eru miklir þarar og grynningar, Rif kölluð. Á þeim hafa mörg skip af þeim beðið meira eða minna tjón og margur maður við þau látið lífið. Fyrrum var hættan mikil á leið inn Járngerðarstaðasundið er Svíravarða bar í Stamphólsvörðu. Þá voru þrengslin mest. Þá eru á stjórnborða Manntapaflúð, en Sundboði á bakborða. Aðstæðurnar urðu kannsi ekki síst til þess að álög Járngerðar á sundið, sem lýst er í þjóðsögunni, gengu eftir, en skv. henni áttu tuttugu bátar að farast þar eftir að hún hafði séð á eftir eiginmanni sínum og áhöfn hans í öldurótið.

Þórkötlustaðanes

Bryggjan í Þórkötlustaðanesi.

Austan við Helli eru tveir básar; Heimri-Bás og Syðri-Bás og þar fyrir utan Sölvaklappir, en þar mun hafa verið sölvataka frá Hópi. Fram af klöppunum er klettur, sem Bóla heitir, og upp af honum, uppi á kampinum, var varða, sem kölluð var Sigga og var mið af sjó. Grjótið úr henni var tekið í hafnargarðinn er hann var byggður. Sigga var síðar endurhlaðin af Lionsmönnum í Grindavík, en sjórinn hefur nú fært grjótið úr henni að mestu í lárétta stöðu á ný.

Þegar gengið er austur með Nesinu má sjá nokkur upplýsingaspjöld um strönd á síðustu öld.

Hópsnes

Skipsbrak í Hópsnesi.

Áður en komið er að fyrsta spjaldinu verður fyrir hluti braksins úr Hrafni Sveinbjarnarsyni, sem strandaði þarna utan við 1988. Sagt er að stýrimaðurinn hafi sofnað á leið til lands svo báturinn stýmdi beint upp á ströndina utan við Hellinn, austan við innsiglinguna. Mannbjörg varð, en þegar reyna átti að ná bátunum út gerði vonsku veður með þeim afleiðingum að bátinn tók í tvennt og Ægis spýtti leifunum síðan langt upp á land þar sem þær eru nú. Afl hamsjávarins sést vel á brakinu, þ.e. hvernig hann hefur hnoðað járnið og rifið það í sundur og fært hluta þess langt upp á land, upp fyrir háan malarkampinn.

Grindavík

Sjóslysaskilti í Þórkötlustaðnesi.

Fyrsta spjaldið um skipsskaðana er um Gjafar VE 300. Báturinn fórs þarna fyrir utan 27. febrúar árið 1973. Tólf manna áhöfnin var bjargað frá borði með aðstoð björgunarsveitarinnar Þorbjörns, en saga sveitarinnar gæti verið og verður umfjöllunarefni út af fyrir sig. Fáar sjóbjörgunarsveitir á landinu hafa bjargað jafn mörgum sjómannslífum og sveitin sú.

Næst er skilti um flutningaskipið Mariane Danielsen er fór þarna upp á ströndina í vonsku veðri eftir að hafa siglt út úr Grindavíkurhöfn þann 20. janúar 1989.

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes – brak.

Átta mönnum úr áhöfninni var bjargað í land með aðstoð þyrlu, en yfirmennirnir neituðu að yfirgefa skipið. Þeir voru síðan dregnir í land með aðstoð björgunarstóls daginn eftir.
Vélbátuirnn Grindvíkingur GK 39 fórst þarna utan við 18. janúar 1952. Fimm menn fórust. Lík fjögurra fundust daginn eftir, en lík þess fimmta fanns þar skammt frá daginn eftir. Neðan við kampinn, þar sem báturinn fórst, er langur skerjatangi út í sjó, svonefnd Nestá. Hún fer á kaf í flóðum.
Eldhamar GK 13 lenti uppi í grynningunum þann 22. nóvember 1991. Sjórinn kastaði skipinu fram og til baka uns það steyptist með stefnið niður í djúpa gjá. Af sex skipverjum um borð komst einn lífs af. Þetta óhapp varð neðan við vitann á Nesinu.

Cap Fagnet

Cap Fagnet á starndsstað.

Varðandi strand franska togarans Cap Fagnet, þá strandaði hann 24. mars 1931 við Skarfatanga við Hraun. Allri áhöfninni var bjargað, 38 manns, með fluglínutækjum sem þá voru tiltölulega nýkominn hingað til lands fyrir tilstuðlan Slysavarnafélags Íslands. Var þetta í fyrsta skipti á Íslandi sem fluglínutækin voru notuð hér við land til björgunar. Þarna eru enn ketillinn úr skipinu ásamt tveimur akkerum. Skrúfan af skipinu fyrir utan björgunarsveitarhúsið í Grindavík, minnisvarði um þessa fræknu björgun.
Annar tilgangur göngunnar var að skoða þurrkbyrgin í Strýthólahrauni.
Neðan við Vitann heitir Látur. Þarna var selalátur. Fleiri selanöfn eru á þessum svæði, s.s. Hópslátur og Kotalátur
Suðaustur af vitanum er grasflöt niður við kampinn; Stóra-Látraflöt. Kampurinn hefur nú að mestu þakið hana grjóti. Austur af vitanum er grasi vaxinn hóll; Tófuflatarhóll. Þar var tófugreni. Annað greni má sjá í hrauninu ofan við vestari hlutann af Hrafni Sveinbjarnarsyni. FERLIR merkti það áður en áfram var haldið.

Hópsnes

Upplýsingaskilti í Hópsnesi.

Austan við Tófuflatarhól eru Strýthólar, þ.e. Vestri-Strýthóll, með tveimur þúfum, en Eystri-Strýthóll er skammt austar niður við Kampinn. Austar er Þórkötlustaðabótin. Í henni hafa nokkrir bátar strandað, t.d. frönsk skúta um miðja 19. öld. Áhöfnin gat gengið í land og heim að Einlandi þar sem hún knúði dyra eftir að skipstjórinn hafði fallið í hlandforina framan við bæinn. Flest skipanna, sem þarna hafa strandað, hafa orðið þar til í fjörunni, en sjórinn hefur tekið það til sín, sem skilið hafði verið eftir. Austast, utan við Klöpp, varð eitt af stærstu sjóslysunum. Það var nóttina áður en Aldan rak upp í Nesið að vestanverðu að annan vélbát rak frá Vestmannaeyjum, Þuríði formann, sem einnig varð fyrir vélarbilun í sama veðrinu og rak þarna upp. En þar tóku höfuðskepnurnar öðruvísi á hlutunum. Þegar fólk kom á fætur á Þórkötlustöðum, varð það vart við óeðlilega mikið brak í fjörunni, og þótti all væri mjög maskað niður. Sást þó, að þarna hafði Þuríður formaður rekið upp og hún farist með allri áhöfn.

Blásíðubás

Blásíðubás.

Hinn 8. desember 1923 gerðist það í austan veðri og snjókomu, að þýskur togari strandaði utan við Grindavík. Áhöfnin komst í björgunarbáta og bjargðist í Blásíðubás. Þórkötlustaðanesmenn töldu, að eftir strand þetta hafi komist festa á veiðarfæri þeirra, sem ekki hefði verið þar áður, á leirbotni skammt út af víkinni, og veiðarfærin oft ryðlituð, er þau komu upp.

Hópið

Hópið – Vatnstangi nær.

Strýthólahraun, stundum nefnt Strútuhóalhraun, er nefnt eftir Strýtuhól vestari og Strýtuhól eystri, sem sjá má þarna inn í hrauninu. Í hrauninu eru fjölmörg hlaðin fiskbyrgi og þurrkgarðar. Ná þau svo til frá veginum niður að Leiftrunarhól, sem stendur á sjávarkambinum. Þessi byrgi eru fáum kunn, enda falla þau mjög vel inn í hraunið. Þegar hins vegar er staðið við byrgin sjást þau hvert sem litið er. Þegar staðið var á einum hraunhólnum mátti t.d. telja a.m.k. 14 sýnileg byrgi í hrauninu. Ekki er gott að segja hversu mörg þau eru í heildina. Norðan vegarins eru hlaðnir þurrkgarðar. Á þessu svæði má auk þess sjá standa undir vindmyllur, heimtraðir, veglegar sundvörður o.fl. o. fl. Þá má sjá, ef grannt er skoðað, mjög gamlar minjar sunnan og vestan við Flæðitjörnina.

Grindavík

Grindavík – Hópsnes- og Þórkötlustaðanes.

Þórkötlustaðanesið er einstaklega áhugavert til útivistar og ekki síður út frá sögulegum forsendum. Þurrkbyrgin í Strýthólahrauni eru t.d. engu ómerkilegri en þurrkbyrgin á Selatöngum og e.t.v. ekki yngri en byrgin, sem þar eru. Bændur og sjómenn frá Hrauni réru frá Þórkötlustaðanesinu og eflaust eru byrgi þessi minjar eftir þá. Þau gætu þess vegna, sum a.m.k., verið allt frá þeim tíma er Skálholtsbiskupsstóll gerði út frá sjávarbæjunum við Grindavík, en svæðið var eitt mesta og besta matarforðabúr stólsins um alllangt skeið og ein helsta undirstaðan undir fiskútflutningi hans.

Grindavík

Grindavík – neðri Hópsvarðan.

Fleiri lýsingar af Þórkötlunesinu, t.a.m. svæðinu austan Strýthólahrauns, má sjá á vefsíðunni undir Fróðleikur (Þórkötlustaðanes) þar sem Pétur Guðjónsson, skipstjóri lýsir því, en hann ólst upp í Höfn, einu af þremur húsunum í Þórkötlustaðanesi. Þá er ferð um Nesið lýst í FERLIR-473.
Tvískipt heitið á Nesinu eru líkt og dæmi eru um ýmis fleiri en eitt örnefni á kortum Landmælinga yfir sama stað, kennileiti eða náttúrufyrirbæri. Þannig er Grímmannsfell vestast á Mosfellsheiði jafnframt nefnt Grímarsfell á korti Landmælinga. Nafnaskiptingin kom við sögu dómsmáls á meðal bænda í Mývatnssveit, Hverfell versus Hverfjall, árið 1999, en í honum kemur fram að annað dæmi megi nefna um Hópsnes við Grindavík sem einnig er nefnt Þórkötlustaðanes á korti Landmælinga.

Þórkötlustaðanes

Athafnasvæðið í Nesinu – uppdráttur ÓSÁ.

Reykjanesskaginn býður upp á meira en fagra náttúru og útiveru. Þess má vel geta hér að gangan frá Saltfisksetrinu austur að Herdísarvík skammt austan gömlu bryggjunnar á Þórkötlustaðanesi tekur u.þ.b. 30 mínútur. Farið er um stórbrotið hraunsvæði á vinstri hönd og minjar skipsskaðanna á þá hægri. Þessi leið er, ef vel er á haldið sögulega séð, ein sú magnaðasta á gjörvöllu Reykjanesinu. Og til að skynja áhrifamátt hafsins og smæð mannsins er nóg að stíga upp á kampinn og þenja skynfærin.
Menningararfurinn er afar áhugaverður. Uppruninn og ræturnar eru við fæturna, hvert sem farið er – ekki síst í og við Grindavík.

Heimild m.a.:
-Saga Grindavíkur – Jón Þ. Þór 1994.

Hópsnes

Upplýsingaskilti í Hópsnesi.

Járngerðarstaðir

Gengið var að Járngerðardysinni í Járngerðarstaðahverfi ofan við Járngerðarstaðabót og gamla sjávargatan rakin áleiðis niður að Fornuvör, þá leið er Tyrkirnir rötuðu 1627 heim að Járngerðarstaðabænum og hnepptu á annan tug heimamanna í þrældóm.

Gerðisvellir

Gerðisvellir – leifar virkis Jóhanns breiða.

Skammt frá Fornuvör er Stokkavör. Vestan Fornuvarar eru Flúðirnar, þriggja stranda, og enn vestar er Litlabót. Þá tekur Hellan við ofan við Stórubót. Þar fremst á grasodda er Engelskalág og virki Jóhanns breiða (Joen Breen) þar sem 15 Englendingar voru drepnir á einni nóttu 1532 í atlögu hirðstjórans á Bessastöðum ásamt Þjóðverjum og landsmönnum úr Hafnarfirði, Njarðvíkum og Básendum, auk heimamanna í Grindavík. Þetta gerðist þann 11. júní kl. 02:00. Auk þeirra, sem drepnir voru, fórust nokkir Englendingar á flótta undan ströndinni. Með þessum atburði lauk “ensku öldinni” hér á landi.

Gerðavellir

Gerðavellir – leifar virkis Jóhanns.

Breski togarinn Trocadero frá Grimbsby strandaði utan við Stórubót 6. september 1936. Öllum 14 skipverjunum var bjargað. Ýtarleg umfjöllun um strandið er í árbók SVFÍ 1936 með mörgum myndum sem Einar í Krosshúsum tók meðan á björguninni stóð. Á fjöru má sjá ketilinn úr togarnum í bótinni beint fyrir neðan Rásina.
Gengið var yfir Rásina frá Gerðisvallabrunnum, yfir Gerðisvelli og eftir Gerðinu þar sem Junkarar munu hafa hafst við. Garðurinn sést enn nokkuð vel. Getið er um Junkara á þessum stað í einni þjóðsögu og munnmælum. Sumir telja að á Gerðavöllum kunni að leynast minjar allt frá landnámsöld – ef vel væri að gáð.

Gerðavellir

Gengið um Gerðavelli.

Skyggnisréttin á Skyggni var næsti áfangastaðurinn, en síðan var gengið yfir á Stekkhól og litið á stekkinn vestan undir hólnum, en hann er nú orðinn að mestu jarðlægur. Þá var haldið yfir að Hrafnagjá. Gjánni var fylgt til austurs, gengið um Hraunstekkina, framhjá Skjöldunni, fátækrahverfi þess tíma, og yfir í Einisdal. Einisdalur er falleg, stór, hraunlaut með vatni í botninn.
Þá var haldið að Stóruflöt skammt norðar, handan þjóðvegarins út á Reykjanes, en þar áttu skv. munnmælum að vera hlaðnar refagildrur. Það reyndist rétt. Þarna var a.m.k. að sjá eina refagildru og sporöskjulaga mosavaxna torráðna hleðslu. Loks var gengið til baka að upphafsstað, en að því búnu var boðið upp á bakkelsi í boði innbúa.

Skyggnir

Skyggnisrétt á Gerðavöllum.

Snorri

Hópur vaskra manna frá FERLIR og HERFÍ fór í hellinn Snorra, en hann fannst nýlega í Hvannahrauni. Tekinn var með 6 metra langur stigi, ljós og annar nauðsynlegur hellaskoðunarbúnaður, þ.á.m. hellamælingatæki er myndar og mælir slík fyrirbæri. Þoka var á fjöllum, en með aðstoð GPS-tækis fannst jarðfallið.

Snorri

Leiðangur kominn að Snorra.

Skriðið var niður í kjallara þess, stiginn dreginn niður á eftir og hann reistur upp við vegginn þar niðri. Klifrað var upp í rásina efst á veggnum, en einungis einn maður hafði farið þar upp áður með aðstoð stigans. Rásin liggur inn í meginrásina stóru, sem komið er að í jarðfallinu, og á bak við hraunið er lokar henni til norðurs. Þetta var heilleg rás á köflum og margt að sjá.
Tilgangur ferðarinnar var að skoða djásnið og kortleggja. Það sem gerir Snorra mjög sérstakan er kjallarinn, sem liggur neðan við meginrásin, en frá kjallaranum þurfti þennan 8 m stiga til að komast upp í göng sem liggja upp í aðalrásina. Það dylst engum sem komið hefur í kjallarann og horft upp þá nær tíu metra sem þarf til að komast upp í meginrásina að þar hefur verið mjög tignarlegur hraunfoss þegar hraun flæddi um rásina.

Snorri

Unnið að inngöngu í Snorra.

Samkvæmt kortlagningu er mjög líklegt að yfirborðsrásin hafi á einhverjum tímapunkti tengst meginrás hellisins. Hellirinn er nokkuð heillegur og aðeins eru nokkur meiriháttar hrun. Hann lokast með hruni, og var reynt án árangurs að komast fram hjá því. Heildarlengd hellisins gæti verið um 300 metrar en rásin innan við hraunfossinn er um 200 metra löng og meðalþvermál hennar um fjórir metrar.
Rétt er að geta þess, svona til upprifjunar, að FERLIR hafði mikið leita að opinu á Snorra. Nafni hans, Snorri Þórarinsson á Vogsósum, hafði bent á mikið jarðfall þarna í hrauninu, en þegar farið var að leita eftir lýsingu hans, rann allt hraunið saman í eitt.

Snorri

Klifrað upp í Snorra.

Mjög erfitt er að leita hraunið, enda hver hæðin upp af annarri. Það var ekki fyrr en hraunið var gengið fram og til baka að skyndilega var staðið á brún þessa stóra jarðfalls. Þegar rásirnar niðri í jarðfallinu voru skoðaðar kom í ljós að þær lokuðust til beggja enda. Geysistór hraunrás er í jarðfallinu, fallega formuð. Þegar farið var að rýna í grjótið á botni jarðfallsins virtist myrkur undir. Eftir að nokkrir stórir steinar höfðu verið fjarlægðir kom í ljós kjallari undir meginrásinni. Kjallarinn reyndist hraunhvelfing í stærra lagi. Upp undir veggnum kom hraunfoss út úr honum og þar virtist vera gat. Eftir að aðstæður höfðu verið kannaðar síðar með aðstoð stiga, kom framangrein rás í ljós. Hún er ein hin fallegasta, en jafnframt ein sú óaðgengilegasta í hraunhelli hér á landi.
Frábært veður.

Snorri

Inngangur Snorra.

Maístjarnan er einn dýrmætasti hraunhellir landsins. Hann er í Hrútagjárhrauni. Hvort sem litið er til staðsetningar og þeirra náttúru(jarðmyndana)-fyrirbæra er hann geymir er nauðsynlegt að varðveita hann til langar framtíðar. Þegar 

Maistjarnan-21

Í Maístjörnunni.

FERLIR heimsótti hellinn fyrir skömmu þakti snjór jörð og frost beit í kinn. Inni var hins vegar bæði hlýtt og hljótt. Ljóst var að umferð um hellinn að undanförnu hafði leitt af sér brotna dropsteina og fallin hraunstrá. Hvorutveggja verður erfitt að bæta eftir tæplega 6000 ára friðveislu.
Eftir stutta dvöl í kyrrðinni mátti heyra eftirfarandi, líkt og hvísl, ef mjög gaumgæfilega var lagt við eyru. Það var endurtekið aftur og aftur: 

Maistjarnan-22

Í Maístjörnunni.

Ó, hve létt er þitt skóhljóð.
Það er vetrarhret úti,
napur vindur sem hvín.
En ég veit aðra stjörnu
aðra stjörnu sem skín.
Það eru erfiðir tímar,
það er hrunaþref.
Í kvöld lýkur vetri
sérhvers vinnandi manns,
og á morgun skín maísól.
Það er maísólin mín,
Fyrir þér ber ég fána
þessa framtíðarlands.

Textinn var ekki nákvæmlega eins og í ljóði Halldórs Laxness um „Maístjarnan„. Sá texti hefur reyndar bæði verið fluttur af ýmsum í mismunandi útfærðum útgáfum og vitað er að Halldór sótti jafnan efni og hugmyndir í verk sín til annarra. Þannig telja jafnvel sumir að ljóðið og/eða lagið eigi uppruna að leita til verka Friedricks Hendels.
Sammerkt er þó með „Maístjörnunum“ tveimur, ljóðinu og hellinum, að hvorutveggja vekur hrifningu þess er nýtur á hverjum tíma.

 

Maístjarnan

Maístjarnan – op.

Þórkötlustaðir

Í Sjómannadagsblaði Grindavíkur árið 2006 er m.a. frásögn Benónýs Benediktssonar, fyrrverandi formanns Verkalýðsfélags Grindavíkur, um „Sjóferð úr Þórkötlustaðanesi í nóvember 1938„. Þar segir m.a.: „Haustið 1936 höfðu bræðurnir á Þórkötlustöðum, þeir Benedikt og Guðmundur, látið byggja fyrir sig bát. Báturinn var smíðaður í Staðarhverfi af Kristjáni frá Reynistað. Hann var skírður Svanur og bar einkennistafina GK428.

Benóný Benediktsson

Ógæftir höfðu verið miklar þetta haust. Ég vaknaði stundum á nóttunni þegar Guðmundur var að ganga stigann á Þórkötlustöðum. Þá var hann að líta á veðurútlit. Svo var það nótt eina undir lok nóvembermánaðar að Guðmundur ákvað að róa og það þrátt fyrir að veðurútlit væri tvísýnt. Hann kallaði saman mannskapinn með því að ganga á milli húsa og banka á glugga, bankað var á móti til að gefa til kynna að viðkomandi væri vaknaður.
Fundinn var til biti til að hafa með á sjóinn og að því loknu hófst skipsgangan sem var kortersgangur frá Þórkötlustöðum í Þórkötlustaðanes. Gangan gat verið torfær í svarta myrkri því það var bara fjósluktin til að lýsa sér með. Þegar komið var í Nesið fór Guðmundur í ískofann og rétti mönnum bjóðin.
Ískofinn var hlaðinn úr torfi og grjóti og reft yfir með timbri og járni og torf látið á þakið. Að innan var búinn til kassi sem var klæddur að utan með timbri en með sléttu járni að innan og timburlok yfir. Haft var ca, 15-320 sm millibil milli trés og járns. Reynt var að fá snjó í kofana í fyrstu snjóum á haustin og var oft mikið kapphlaup að vera fyrstur til að ná sér í bíl því bílar voru ekki á hverju strái á þessum tíma. Til að fá frost í kassann var blandað saman salti og snjó og var það sett í rýmið sem myndaðist milli trés og járns. Þetta þurfti að endurtaka með 2-3 daga bili svo að frost héldist í kælinum.

Þórkötlustaðir

Þegar bjóðin höfðu verið handlöguð upp úr ískofunum var þeim lyft upp á herðar á mönnum og þau borin niður á bryggju. Næsta verk var að setja niður bátinn, sem var í nausti. Oft var þetta erfitt verk. Þegar báturinn var kominn niður í vör þurfti að sæta lagi til að ýta á flot og þurftu þá menn að vera fljótir að koma sér um borð. Því næst var frið að bryggjunni og bjóðin tekin um borð.
Ekki var róið langt enda veðurútlit ekki gott og því var línan lögð um hálftíma siglingu frá Þórkötlustaðanesi. Heldur hafði vindur aukist á lagningunni og var orðið allhvasst þegar búið var að leggja línuna og var því ekki látið liggja lengi. Byrjað var að draga þó að enn væri svarta myrkur.

Bryggjan

Þegar heimsiglingin hófst var komið suðaustan rok og aðgæsluveður og var því siglt til lands á hægustu ferð [vél var í bátnum]. Í þessum bátum voru yfirleitt fornvélar og þurfti að passa vel að ekki kæmist raki að þeim.
Heimsiglingin gekk vel og var Svanurinn kominn að landi um hádegisbil. Afli í þessum róðri var aðeins nokkrir fiskar enda var mjög stutt lega á línunni.
Þegar að landi var komið þurfti fyrst að fara að bryggjunni til að losa fisk og bjóð. Oft var mikil lá við bryggjuna og þurfti þá að hafa mann til að halda í afturhaldið svo hægt væri að slaka á því þegar að álög komu. Þegar löndun var lokið þurfti að fara út á lónið og taka lag í vörina. Ekki voru þ
á fastir hlunnar og vélspilið kom síðar til sögunnar.“
Benóný er fæddur 1928. Hann var því tíu ára þegar umrædd sjóferð átti sér stað. Er frásögnin ágætt dæmi um minni og frásagnalist Þórkötlustaðabúa, sem of oft hefur verið vanmetin í gegnum tíðina.

Heimild:
-Benóný Benediktsson – Sjómannadagsblað Grindavíkur – 50 ára afmælisrit –  2006.

Bátar í nausti

Háleyjar

Gerð var þriðja tilraunin til að ná “Íslandsklukku” þeirri er Helgi Gamalíasson frá Stað hafði sagst hafa séð í fjörunni neðan við Háleyjabungu fyrir alllöngu síðan er hann var þar við minkaveiðar. Helgi vissi sjálfur til þess að gripurinn hafi verið þarna í fjörunni í tugi ára.

Háleyjar

Háleyjar – spilakoppur.

Nú voru þátttakendur orðnir betur undirbúnir en áður, höfðu reynslu af svæðinu, voru vel gallaðir og tilbúnir að bjóða náttúruöflunum byrginn, en í fyrri tilraunum höfðu þau látið öllum illum látum á meðan á leitum stóð.
Þrátt fyrir stilltan sjó með ströndinni brimaði talsvert neðan við Bunguna. Sjór gekk þó ekki yfir hleinina. Á meðan aðrir leituðu af sér allan grun beggja vegna sjávarmarka fór einn þátttakenda út á Háleyjahleinina svona til að draga athygli aflanna að sér, ef á þyrfti að halda. Enda kom það síðar á daginn að honum tókst það með ágætum.

Háleyjar

Háleyjahlein – brimið.

Leitað var í klofstígvélum eins langt frá landi og mögulegt var og skoðað var undir hvern stein ofan sjávarmarka. Eftir allnokkra leit fram og til baka, án þess að nokkrum kæmi til hugar að gefast upp, var eins og kippt hefði verið í einn þátttakandann í fjörunni. Hann féll við og viti menn; þarna var “klukkan” skorðuð á milli stórra steina. Gengið hafði verið nokkrum sinnum framhjá henni, án þess að hún gæfi kost á sýnileika.
Skyndilega gekk sjórinn yfir hleinina með miklum látum. Það var sem Ægir hafi verið vakinn og hann risið upp til að fylgjast með hvað væri nú um að vera. Ofurhuginn hvarf í holskefluna, en barðist við Ægi og ekki síst fyrir því að halda sér við hleinina. Hefði sjórinn náð að skola honum yfir hana og yfir í víkina milli hennar og lands hefði mátt spyrja að leikslokum.

Háleyjarbunga

Háleyjarbunga.

Útsogið úr víkinni var mikið og ofurhuginn hefði sennilega skolast á haf út án þess að geta haft nokkuð um það ráðið. Önnur holskefla gekk ufir hleinina, en maðurinn gat þokað sér nær landi með því að halda sér föstum í FERLIRshúfuderið með annarri hendi og þreifa sig áfram með hinni.

Á meðan var grafið hratt frá gripnum með járnkarli og hann losaður. Einn FERLIRsfélaganna, tók hann síðan í fangið og bar áleiðis á land. Í þá mund komst ofurhuginn heill og höldnu til lands, blautur og hrakinn. Ef hann hefði ekki haft húfuna er ekki að vita hvert hann hefði farið eða endað.

Saltfiskssetur Íslands

Saltfiskssetur Íslands.

“Klukkunni” var komið fyrir utan við aðaldyr Saltfiskseturs Íslands í Grindavík, eins og um var talað. Að því búnu var þátttakendum boðið í kaffi þar innan dyra.
Sú sögn er um Háleyjahlein að þar hafi brak úr þilfarsbát (Helga) frá Vestmannaeyjum rekið á land eftir að eldur kom upp í honum utan við ströndina. Ekki er ólíklegt að gripurinn gæti hafa verið úr þeim bát.
Þeir, sem eiga leið um Saltfisksetrið, geta barið klukkulaga ryðgaðan gripinn augum, þar sem hann stendur á stéttinni við aðaldyrnar að safninu.

Háleyjabunga

Háleyjabunga – gígur.

Þórkötlustaðir

Morð og manndráp eru engin nútímauppfinning, ekki einu sinni í fámennari byggðum landsins. Í „Sextándu öldinni“ er m.a. fjallað um morð, sem var framið á Þórkötlustöðum og aldarfjórðungi síðar á Stað: 

Staður

Staður fyrrum.

„Maður var veginn á Þórkötlustöðum í Grindavík [1562], Guðmundur Sigurðsson að nafni, og voru fjórir atvistarmenn. Bóndinn Ketill Ketilsson, kom út úr bæ sínum með atgeir á lofti, er menn hans komu skinnklæddir af sjó og lét kasta til þeirra vopnum. Hjó einn sjómanna til Guðmundar, en annar rotaði hann með steini. Fóru svo leikar að þeir gengu af Guðmundi dauðum.“
Um morð við kirkjugarðshliðið á Stað í Grindavík segir: „Maður var veginn að Stað í Grindavík í haust [1587]. Vegendur voru tveir, og hefur annar þeirra, Björn Sturluson, smiður á Þórkötlustöðum, verið dæmdur útlægur, nema konungur geri þar miskunn á. Þetta gerðist með þeim hætti, að maður nokkur, Ingimundur Hákonarson, kom inn í kirkjuna, þar sem Helgi Úlfhéðinsson var einn með prestinum á Stað, og manaði hann að koma út.

Þórkötlustaðir

Þreif Ingimundur síðan korða sinn, er hann geymdi við kirkjugarðshliðið, og hjó til Helga þrjú högg. Helgi náði þó af honum korðanum og hjó í höfuð hans, svo að hann seig á hnén. Tengdasonur Helga, Björn Sturluson, kom þá innan úr bænum og veitti Ingimundi fleiri sár. Hann lifði síðan tvær nætur eða þrjár, en Helgi var mjög örkumlaður, og var þýskur bartskeri sóttur til að gera að sárum hans. Samningar hafa tekist um vígabætur við erfingja Ingimundar. Helgi var sýknaður með dómi, þótt hann lýsti víginu á hendur sér, en sök felld á Björn.“
Fjórum áður höfðu orðið miklir mannskaðar austan Grindavíkur: „
Tuttugu og fimm menn af tveimur skipum drukknuðu við Þórkötlustaði í Grindavík árið 1583. Þetta bar svo til, að öðru skipinu hlekktist á, og ætluðu þá þeir, er á hinu voru, að fara til hjálpar, en fórust einnig.“

Fimmtán árum síðar, eða 1598, drukknuðu tíu menn er skiptapi varð á Hópi í Grindavík.
Aðrar frásagnir af atburðum eru til frá þessum tímum. Maður skaðbrennist af tjörueldi í Grindavík árið 1601. „Bóndinn á Járngerðarstöðum í Grindavík, Jón Teitsson, var að bræða skiptjöru á dögunum. Kynnti hann eld undir tjörukeri. Svo slysalega tókst til, að eldurinn komst í tjöruna og læsti sig í föt bóndans, svo að hann logaði allur. Hlaut hann við þetta svo mikil brunasár, að hann lifði ekki nema tvær nætur.“
Árið
1634 var hart í ári: „Vetur hefur verið allgóður sums staðar,en vorið hart. Hinn mikli fénaðarfellir í fyrra hefur dregið dilk á eftir sér, því að víða hefur fallið snautt fólk, er komið var á vergang. Í Grindavík dóu fjörutíu og í Útskálasókn og Hvalsnessókn tvö hundruð.“
 SjórEn ekki var allt svartnætti í Grindavík fyrrum. Í maí 1779 voru Grindavíkurbændur heiðraðir: „
Margir bændur í Grindavík hafa lagt stund á garðyrkju undanfarin ár, og sendi konungur þeim tíu ríkisdali að gjöf í vor. Þessari gjöf skipti Grindavíkurprestur á milli fjórtán bænda nú á dögum í viðurvist Skúla fógeta Magnússonar.“
Hinn 19. janúar 1925 er elstu Grindvíkingum enn í fersku minni því þá braut s
tórflóð hús og báta í Grindavík, auk þess það tók 12 saltskúra. „Í dag var brimið í Grindavík svo afskaplegt, að sjó gekk á land 150 metra upp fyrir venjulegt stórstaumsfjöruborð. Sjór tók marga báta, braut suma í spón en stórskemndi aðra. Sjór kom í kjallara margra húsa og tók burt 12 saltskúra og mikið salt. Fjöldi fjár drukknaði einnig í fjárhúsum við sjóinn og í fjörunni. Manntjón varð þó ekki.“
Þekkt er sagan af rymjandi þarfanautinu, sem flaut um á bás sínum eftir að sjórinn hafði brotið fjósið og flutt það um nálægar grundir.

Heimildir:
-Öldin sextánda.
-Öldin sautjánda.
-Öldin átjánda.
-Öldin okkar.
-www.svg.is

Þórkötlustaðir

Þórkötlustaðir – flugmynd.