Gengið var austur Hópsnesið frá Nesi og yfir á Þórkötlustaðanes, að þurrkbyrgjunum í Strýthólahrauni vestan við Þórshamar. Í þessari ferð var m.a. ætlunin að rifja upp sjóskaðana, sem orðið hafa á Nesinu sem og fiskverkun fyrri alda, en í Strýthólahrauni má enn sjá minjar hennar.
Strýthólahraun – fiskibyrgi.
En þar sem lágsjávað var og tært vatnið streymdi undan hrauninu í Hópið þar sem fyrrum var vatnslind ábúenda á Hópi og þvotturinn og ullin voru þvegin, var staldrað við og fyrirbærið skoðað nánar. Það heitir Vatnstanginn. Straumurinn var stríður og líklegt má telja að hann hafi áður verið ein helsta ástæða búsetu á Hópi. Hugmyndir manna hafa verið þær að þar hafi einn sona landnámsmannsins Molda-Gnúps Hrólfssonar sest að, eða jafnvel hann sjálfur, við komu sína í Víkina eftir að hafa áður dvalið austar með landinu.
Ofan við Hópið eru gamlar búsetuminjar. Sjá má jarðlægar tóftir og garða í túninu. Þar eru og sundvörður eða innsiglingavörður, vel við haldið. Sú neðri heitir Svíravarða og hin Stamphólsvarða, sem lengra var uppi í landi. Stamphólsgjá er skammt vestan við hana, en sú gjá gekk niður í gegnum Járngerðarstaðahverfið, en hefur nú að mestu verið fyllt upp, nema efsti hluti hennar. Nú er hins vegar búið að skipuleggja nýtt hverfi á gjáarsvæðinu og ekki er ólíklegt, ef byggt verður yfir gjána, að þar kunni eitthvað að gliðna síðar.
Strýthólahraun – fiskibyrgi.
Síra Geir Backman lýsir þessum tveimur vörðum sem og Heiðarvörðunni á Hópsheiði er var mið í Járngerðarstaðasundið ásamt Sundvörðunni er komið var austan að. Sundvarðan var á sjávarkambinum austan við sundið. Allar þessar vörður eru til enn þann dag í dag, en Sundvarðan, sú sem hefur verið næst sjónum, hefur látið mest á sjá.
Hópsnes er nesið milli Hraunsvíkur og Járngerðarstaðavíkur við Grindavík. Að austanverðu heitir það Þorkötlustaðanes. Vitinn, Hópsnesviti, er fremst á Nesinu, en er á Þórkötlustaðanesi. Landamerkin eru u.þ.b. 60 metrum vestan við vitann, í landamerkjastein, sem þar er. Klappað er í hann stafirnir LM og eiga þeir að sýna landamerkin. Hópsnesviti var reistur 1928. Áður en haldið var inn eftir Hópsnesinu til að huga að og rifja upp skipsskaðana var komið við í sjóbúðinni skammt austan við Nes. Hún er á grónum hraunhól við Síkin. Utan við Síkin voru áður sjóbúðir frá Hópi, en þeir fóru forgörðum þegar varnargarðarnir voru reistir. Enn sést þó móta fyrir Hópsvörinni utan við þá, einkum á fjöru.
Þórkötlustaðanes – sundvörður.
Hér fyrr á öldum gátu sjómennirnir, sem fóru í róður að morgni, aldrei verið vissir um að komast heilir og höldnu að landi að kveldi. Enda eru mörg dæmi þessa. Sem betur fer eru einnig mörg dæmi og merkar sagnir um mannbjörg eftir ófarir manna á hafi úti. Veður gátu skipt um snögglega og þótt ekki hafi verið róið langt gat róðurinn að landi bæði tekið langan tíma og verið erfiður. Stundum urðu sjómenn að bregða á það ráð að leita annað en ætlunin var. Þannig gátu sjómenn frá Járngerðarstöðum oft treyst á var í Þórkötlustaðasbótinni þegar þannig skipaðist veður í lofti. Þann 24. mars 1916 fóru t.d. 24 árabátar í róður frá Grindavík að morgni. Óveður skall skyndilega á og komust bátsverjar fjögurra báta ekki að landi. Þeim var hins vegar öllum bjargað, 38 mönnum, af áhöfn kúttersins Esterar frá Reykjavík. Þegar komið var með skipverja að landi þremur dögum síðar urðu miklir fagnaðarfundir í plássinu. Sumir segja það hafi verið sá mesti gleðidagur, sem Grindvíkingar hafi upplifað.
Hópsvör – uppdráttur ÓSÁ.
Um árið 1940 lenti Aldan frá Vestmannaeyjum upp á skerjum á Hellinum, en svo nefnist klettahlein, sem gengur fram úr kampinum, skammt austanvið Hópsvörina, og út í sjó. Mannbjörg varð, og báturinn náðist út aftur. Þótti öllum, sem fylgdust með siglingu bátsins, það með ólíkindum. Sigling inn í sundin var vandasöm, og fyrr á tímum fóru sjómenn eftir framangreindum sundvörðum og öðrum leiðarmerkjum á leið sinni inn á þau. En erfitt gat verið að stýra bátum inn þau því mikla þekkingu og reynslu þurfti til þess í vondum veðrum. Dæmi eru um að ekki hafi verið við neitt ráðið og að Ægir hafi annað hvort kastað bátunum upp á sker og strönd eða hreinlega fært þá á kaf. Þannig fylgdust t.d. íbúar Grindavíkur angistafullir og hjálparvana á sjötta áratugnum með því af ströndinni er lítill bátur með þremur mönnum innanborðs á leið inn í Hópið var skyndilega færður í kaf og sjómennirnir drukknuðu svo til fyrir framan nefið á þeim, án þess að það gæti fengið rönd við reist.
Lifrabræðslan á Þórkötlustaðanesi.
Rétt fyrir utan lendinguna á Járngerðarstöðum eru miklir þarar og grynningar, Rif kölluð. Á þeim hafa mörg skip af þeim beðið meira eða minna tjón og margur maður við þau látið lífið. Fyrrum var hættan mikil á leið inn Járngerðarstaðasundið er Svíravarða bar í Stamphólsvörðu. Þá voru þrengslin mest. Þá eru á stjórnborða Manntapaflúð, en Sundboði á bakborða. Aðstæðurnar urðu kannsi ekki síst til þess að álög Járngerðar á sundið, sem lýst er í þjóðsögunni, gengu eftir, en skv. henni áttu tuttugu bátar að farast þar eftir að hún hafði séð á eftir eiginmanni sínum og áhöfn hans í öldurótið.
Bryggjan í Þórkötlustaðanesi.
Austan við Helli eru tveir básar; Heimri-Bás og Syðri-Bás og þar fyrir utan Sölvaklappir, en þar mun hafa verið sölvataka frá Hópi. Fram af klöppunum er klettur, sem Bóla heitir, og upp af honum, uppi á kampinum, var varða, sem kölluð var Sigga og var mið af sjó. Grjótið úr henni var tekið í hafnargarðinn er hann var byggður. Sigga var síðar endurhlaðin af Lionsmönnum í Grindavík, en sjórinn hefur nú fært grjótið úr henni að mestu í lárétta stöðu á ný.
Þegar gengið er austur með Nesinu má sjá nokkur upplýsingaspjöld um strönd á síðustu öld.
Skipsbrak í Hópsnesi.
Áður en komið er að fyrsta spjaldinu verður fyrir hluti braksins úr Hrafni Sveinbjarnarsyni, sem strandaði þarna utan við 1988. Sagt er að stýrimaðurinn hafi sofnað á leið til lands svo báturinn stýmdi beint upp á ströndina utan við Hellinn, austan við innsiglinguna. Mannbjörg varð, en þegar reyna átti að ná bátunum út gerði vonsku veður með þeim afleiðingum að bátinn tók í tvennt og Ægis spýtti leifunum síðan langt upp á land þar sem þær eru nú. Afl hamsjávarins sést vel á brakinu, þ.e. hvernig hann hefur hnoðað járnið og rifið það í sundur og fært hluta þess langt upp á land, upp fyrir háan malarkampinn.
Sjóslysaskilti í Þórkötlustaðnesi.
Fyrsta spjaldið um skipsskaðana er um Gjafar VE 300. Báturinn fórs þarna fyrir utan 27. febrúar árið 1973. Tólf manna áhöfnin var bjargað frá borði með aðstoð björgunarsveitarinnar Þorbjörns, en saga sveitarinnar gæti verið og verður umfjöllunarefni út af fyrir sig. Fáar sjóbjörgunarsveitir á landinu hafa bjargað jafn mörgum sjómannslífum og sveitin sú.
Næst er skilti um flutningaskipið Mariane Danielsen er fór þarna upp á ströndina í vonsku veðri eftir að hafa siglt út úr Grindavíkurhöfn þann 20. janúar 1989.
Þórkötlustaðanes – brak.
Átta mönnum úr áhöfninni var bjargað í land með aðstoð þyrlu, en yfirmennirnir neituðu að yfirgefa skipið. Þeir voru síðan dregnir í land með aðstoð björgunarstóls daginn eftir.
Vélbátuirnn Grindvíkingur GK 39 fórst þarna utan við 18. janúar 1952. Fimm menn fórust. Lík fjögurra fundust daginn eftir, en lík þess fimmta fanns þar skammt frá daginn eftir. Neðan við kampinn, þar sem báturinn fórst, er langur skerjatangi út í sjó, svonefnd Nestá. Hún fer á kaf í flóðum.
Eldhamar GK 13 lenti uppi í grynningunum þann 22. nóvember 1991. Sjórinn kastaði skipinu fram og til baka uns það steyptist með stefnið niður í djúpa gjá. Af sex skipverjum um borð komst einn lífs af. Þetta óhapp varð neðan við vitann á Nesinu.
Cap Fagnet á starndsstað.
Varðandi strand franska togarans Cap Fagnet, þá strandaði hann 24. mars 1931 við Skarfatanga við Hraun. Allri áhöfninni var bjargað, 38 manns, með fluglínutækjum sem þá voru tiltölulega nýkominn hingað til lands fyrir tilstuðlan Slysavarnafélags Íslands. Var þetta í fyrsta skipti á Íslandi sem fluglínutækin voru notuð hér við land til björgunar. Þarna eru enn ketillinn úr skipinu ásamt tveimur akkerum. Skrúfan af skipinu fyrir utan björgunarsveitarhúsið í Grindavík, minnisvarði um þessa fræknu björgun.
Annar tilgangur göngunnar var að skoða þurrkbyrgin í Strýthólahrauni.
Neðan við Vitann heitir Látur. Þarna var selalátur. Fleiri selanöfn eru á þessum svæði, s.s. Hópslátur og Kotalátur
Suðaustur af vitanum er grasflöt niður við kampinn; Stóra-Látraflöt. Kampurinn hefur nú að mestu þakið hana grjóti. Austur af vitanum er grasi vaxinn hóll; Tófuflatarhóll. Þar var tófugreni. Annað greni má sjá í hrauninu ofan við vestari hlutann af Hrafni Sveinbjarnarsyni. FERLIR merkti það áður en áfram var haldið.
Upplýsingaskilti í Hópsnesi.
Austan við Tófuflatarhól eru Strýthólar, þ.e. Vestri-Strýthóll, með tveimur þúfum, en Eystri-Strýthóll er skammt austar niður við Kampinn. Austar er Þórkötlustaðabótin. Í henni hafa nokkrir bátar strandað, t.d. frönsk skúta um miðja 19. öld. Áhöfnin gat gengið í land og heim að Einlandi þar sem hún knúði dyra eftir að skipstjórinn hafði fallið í hlandforina framan við bæinn. Flest skipanna, sem þarna hafa strandað, hafa orðið þar til í fjörunni, en sjórinn hefur tekið það til sín, sem skilið hafði verið eftir. Austast, utan við Klöpp, varð eitt af stærstu sjóslysunum. Það var nóttina áður en Aldan rak upp í Nesið að vestanverðu að annan vélbát rak frá Vestmannaeyjum, Þuríði formann, sem einnig varð fyrir vélarbilun í sama veðrinu og rak þarna upp. En þar tóku höfuðskepnurnar öðruvísi á hlutunum. Þegar fólk kom á fætur á Þórkötlustöðum, varð það vart við óeðlilega mikið brak í fjörunni, og þótti all væri mjög maskað niður. Sást þó, að þarna hafði Þuríður formaður rekið upp og hún farist með allri áhöfn.
Blásíðubás.
Hinn 8. desember 1923 gerðist það í austan veðri og snjókomu, að þýskur togari strandaði utan við Grindavík. Áhöfnin komst í björgunarbáta og bjargðist í Blásíðubás. Þórkötlustaðanesmenn töldu, að eftir strand þetta hafi komist festa á veiðarfæri þeirra, sem ekki hefði verið þar áður, á leirbotni skammt út af víkinni, og veiðarfærin oft ryðlituð, er þau komu upp.
Hópið – Vatnstangi nær.
Strýthólahraun, stundum nefnt Strútuhóalhraun, er nefnt eftir Strýtuhól vestari og Strýtuhól eystri, sem sjá má þarna inn í hrauninu. Í hrauninu eru fjölmörg hlaðin fiskbyrgi og þurrkgarðar. Ná þau svo til frá veginum niður að Leiftrunarhól, sem stendur á sjávarkambinum. Þessi byrgi eru fáum kunn, enda falla þau mjög vel inn í hraunið. Þegar hins vegar er staðið við byrgin sjást þau hvert sem litið er. Þegar staðið var á einum hraunhólnum mátti t.d. telja a.m.k. 14 sýnileg byrgi í hrauninu. Ekki er gott að segja hversu mörg þau eru í heildina. Norðan vegarins eru hlaðnir þurrkgarðar. Á þessu svæði má auk þess sjá standa undir vindmyllur, heimtraðir, veglegar sundvörður o.fl. o. fl. Þá má sjá, ef grannt er skoðað, mjög gamlar minjar sunnan og vestan við Flæðitjörnina.
Grindavík – Hópsnes- og Þórkötlustaðanes.
Þórkötlustaðanesið er einstaklega áhugavert til útivistar og ekki síður út frá sögulegum forsendum. Þurrkbyrgin í Strýthólahrauni eru t.d. engu ómerkilegri en þurrkbyrgin á Selatöngum og e.t.v. ekki yngri en byrgin, sem þar eru. Bændur og sjómenn frá Hrauni réru frá Þórkötlustaðanesinu og eflaust eru byrgi þessi minjar eftir þá. Þau gætu þess vegna, sum a.m.k., verið allt frá þeim tíma er Skálholtsbiskupsstóll gerði út frá sjávarbæjunum við Grindavík, en svæðið var eitt mesta og besta matarforðabúr stólsins um alllangt skeið og ein helsta undirstaðan undir fiskútflutningi hans.
Grindavík – neðri Hópsvarðan.
Fleiri lýsingar af Þórkötlunesinu, t.a.m. svæðinu austan Strýthólahrauns, má sjá á vefsíðunni undir Fróðleikur (Þórkötlustaðanes) þar sem Pétur Guðjónsson, skipstjóri lýsir því, en hann ólst upp í Höfn, einu af þremur húsunum í Þórkötlustaðanesi. Þá er ferð um Nesið lýst í FERLIR-473.
Tvískipt heitið á Nesinu eru líkt og dæmi eru um ýmis fleiri en eitt örnefni á kortum Landmælinga yfir sama stað, kennileiti eða náttúrufyrirbæri. Þannig er Grímmannsfell vestast á Mosfellsheiði jafnframt nefnt Grímarsfell á korti Landmælinga. Nafnaskiptingin kom við sögu dómsmáls á meðal bænda í Mývatnssveit, Hverfell versus Hverfjall, árið 1999, en í honum kemur fram að annað dæmi megi nefna um Hópsnes við Grindavík sem einnig er nefnt Þórkötlustaðanes á korti Landmælinga.
Athafnasvæðið í Nesinu – uppdráttur ÓSÁ.
Reykjanesskaginn býður upp á meira en fagra náttúru og útiveru. Þess má vel geta hér að gangan frá Saltfisksetrinu austur að Herdísarvík skammt austan gömlu bryggjunnar á Þórkötlustaðanesi tekur u.þ.b. 30 mínútur. Farið er um stórbrotið hraunsvæði á vinstri hönd og minjar skipsskaðanna á þá hægri. Þessi leið er, ef vel er á haldið sögulega séð, ein sú magnaðasta á gjörvöllu Reykjanesinu. Og til að skynja áhrifamátt hafsins og smæð mannsins er nóg að stíga upp á kampinn og þenja skynfærin.
Menningararfurinn er afar áhugaverður. Uppruninn og ræturnar eru við fæturna, hvert sem farið er – ekki síst í og við Grindavík.
Heimild m.a.:
-Saga Grindavíkur – Jón Þ. Þór 1994.
Upplýsingaskilti í Hópsnesi.