Færslur

Krýsuvíkurkirkja

Í Sunnudagsblaði Tímans árið 1969 var rætt við Þórarinn Einarsson á Höfða á Vatnsleysuströnd undir fyrirsögninni “Daglegt brauð, sem drottinn gefur“. Í viðtalinu segir Þórarinn m.a. frá Árna Gíslasyni, sýslumanni í Krýsuvík, og Oddi V. Gíslasyni, presti á Stað í Grindavík:

Þórarinn Einarsson“Að þessu sinni tökum við tali gamlan mann suður með sjó. Hann hefur lengst ævi sinnar sótt deildan verð í greipar Ægis, hið daglega brauð, sem drottinn gefur sjómanninum — brauðið, sem við hinir viljum eignast hlutdeild í og Íslendingar fá vart nægju sína af.
En ekki hefur bátur vaggað honum á bárum allar ævistundir, og þess vegna berst talið að mörgu öðru en sjómennsku og fiskidrætti.
Hann kiprar dálítið augun og hleypir í brýnnar, þar sem hann situr andspænis okkur, líkt og hann hefur oft gert, þegar rýnt var í sortann, allkeikur og hressilegur, þó að mörg séu árin, sem hann á að baki sér. Þórarinn heitir hann, Einarsson, og á heima á Höfða á Vatnsleysuströnd.
— Hvar fæddist þú, Þórarinn?
— Ég fæddist í Stóra-Nýjabæ í Krýsuvík árið 1884. Þetta er hálfníræður maður, sem þið eigið tal við. Faðir minn, Einar Einarsson, bjó í Stóra-Nýjabæ, og þá voru í Krýsuvík fjórtán bæir, þar sem nú er enginn. Sá, sem öllu réði þar á bernskuárum mínum — það var Árni sýslumaður Gíslason.
— Var hann búinn að vera þar lengi?

Þórarinn Einarsson

Þórarinn Einarsson og Guðrún Þorvaldsdóttir Höfða ca. 1940.

— Nei, hann kom að austan nokkrum árum áður en ég fæddist. Hann var sýslumaður Skaftfellinga í tæp þrjátíu ár og bjó þá á Kirkjubæjarklaustri. En svo brá hann á nýtt ráð, sextugur maður.
Hann keypti Krýsuvík og Herdísarvík og gerðist sjálfur bóndi í Krýsuvík. Ég man vel eftir Árna. Hann var lítill vexti, rauðbirkinn og með kragaskegg og enskt kaskeiti aftan á hausnum. Það hefur komið í staðinn fyrir sýslumannshúfuna, sem hann lengi var búinn að bera.
— Hann var mikill fjárbóndi, minnir mig, að ég hafi heyrt?
— Það mátti nú segja — hann var um tíma fjárflesti bóndi á öllu landinu. Hann rak tólf hundruð fjár af Klaustrinu, þegar hann fluttist til Krýsuvíkur. En ekki komu nema sex hundruð fullorðnar kindur til skila fyrsta haustið sem hann var í Krýsuvík. Það leitaði austur aftur, féð, vildi komast í átthagana. Ég hef heyrt, að sex kindur kæmust alla leið austur að Klaustri. En leiðin er löng og vatnsföll mörg, og það fórst víst margt eða lenti í villum.

Stóri-Nýibær

Nýibær í Krýsuvík.

— Hvernig líkaði valdsmanninum bóndastaðan?
— Hann var nú ekki neinn venjulegur bóndi. Þeir voru vanir að ráða, sýslumennirnir í þá daga, og Árni var ráðríkur. Hann gat orðið bráðvondur, og þá rauk hann út eða burt frá þeim, sem hann reiddist við. En eftir nokkrar mínútur kom hann aftur, og þá var honum runnin reiðin. Hann var hjúum sínum ákaflega góður húsbóndi og hafði sama fólkið svo árum skipti. Skammaði það aldrei — rauk bara út.
— Lét hann mikið að sér kveða í byggðarlaginu?

Krýsuvík

Í Krýsuvík 1887. Árni Gíslason lengst t.h.

— Hann vildi láta alla í Krýsuvíkurhverfi sitja og standa eins og honum þóknaðist. Hann átti þetta allt — þetta voru eintómar hjáleigur, sem fylgdu heimajörðinni, höfuðbólinu. Körlunum þótti sem þeir hefðu ekki sama frelsi og áður, enda fór fljótt að fækka í sveitinni eftir að hann kom. Faðir minn hafði verið formaður hjá séra Oddi Gíslasyni á Stað í Grindavík áður en Árni kom, en nú varð hann að gerast formaður hjá honum. Hann skyldaði karlana til þess að róa hjá sér. Já — hann átti þetta allt saman.
— Hafði hann mikinn sjávarútveg?
— Mig minnir, að hann gerði út þrjú skip, og þau lét hann ganga frá Herdísarvík. Þá voru gerð út sex skip þaðan, svo að þar var þó dálítil verstöð. Sex skipshafnir — það var ekki svo lítill hópur.

Stóri-Nýibær

Stóri-Nýibær.

— Reri faðir þinn víða?
— Það var nú einkum í Grindavík. Í nokkur ár var hann hjá séra Kristjáni Eldjárn, afa forsetans okkar — hann var prestur á Stað í sjö eða átta ár. Það var vinsæll maður og skemmtilegur. Hann var ungur og glaðvær, þegar hann var í Grindavík, og ókvæntur — mig minnir, að hann hefði systur sína hjá sér ráðskonu. Frá Stað fór hann svo að Tjörn í Svarfaðardal, og þar ílentist hann. Séra Oddur tók við af honum, og hjá honum var pabbi formaður nokkrar vertíðir eins og ég sagði ykkur áðan.
— Var séra Oddur ekki formaður sjálfur?

Krýsuvík

Krýsuvík 1936 – Ásgeir L. Jónsson.

— Hann reri tvær vertíðir með pabba, en seinna var hann sjálfur formaður. Hann sótti sjóinn, þó að hann væri prestur, eins og margir Grindavíkurprestar hafa gert. Og hann gerði út skip og báta. Frostaveturinn mikla, 1881, gaddagóuna svokallaða, var séra Oddur á bát með pabba. Eitt sinn sem oftar voru þeir á færum á sundinu fyrir utan Grindavík. Fiskurinn var ör, sílfiskur, en frostið hart og nokkur gjóla. Bátinn ísaði, svo að hann var orðinn allsokkinn. Þá vildi pabbi hætta að draga, en séra Oddur var ekki á því. „Daglegt brauð, sem drottinn gefur, Einar minn“, sagði hann. Frá því vildi hann ekki hlaupast fyrr en í fulla hnefana. Þó varð úr, að þeir hættu, og henti þá séra Oddur fiskinum, sem hann var með á önglinum. En ekki mátti tæpara standa, því að báturinn sökk, þegar þeir komu í vörina.
— Og þetta var forvígismaður slysavarna á sjó á Íslandi?

Krýsuvík

Legsteinn Árna Gíslasonar að baki Krýsuvíkurkirkju.

— Já, þetta var forvígismaður slysavarna á sjó á Íslandi. Og forvígismaður um margt. Hann hafði farið til Englands og átt þangað mörg erindi. Hann vildi læra enska tungu og komast í kynni við ensk kristniboðsfélög, og þar kynntist hann líka slysavörnum og lærði að gufubræða lifur. Með því bætti hann lýsisverkunina. Og svo fór hann að vinna að slysavörnum og ferðaðist í því skyni um landið, talaði við sjómenn, gaf út bæklinga um slysavarnir, meira að segja blað, sem hét Sæbjörg. Til þess naut hann styrks frá Alþingi — mig minnir að hann fengi þrjú hundruð krónur á ári. —

Oddur V. Gíslason

Oddur V. Gíslason.

Já, séra Oddi voru hugleiknir sjómennirnir, enda áttu sóknarbörn hans í Grindavík alla afkomu sína undir sjónum og hann sjálfur sjómaður. Og nógu voru sjóslysin mörg og átakanleg til þess, að eitthvað væri reynt að sporna við þeim.
— Bárufleygur — var það ekki eitt af því, sem Oddur vildi láta menn nota?
— Jú, bárufleyginn fékk hann frá Noregi. Það var belgur eða poki með lýsi eða olíu til þess að lægja úfinn sjó. Hann kostaði átta krónur, ef mér bregzt ekki minni.”

Þórarinn Einarsson fæddist 12. apríl 1884 og dó 7. apríl 1980.
Árni Gíslason, sýslumaður, ljóðskáld og skrifari fæddist 14. september 1820 og dó 26. júní 1898.
Árni kvað þetta t.d. einhvern tíma á búskaparárum sínum í Krýsuvík;

Vorið blíða lífgar lýð,
lengist óðum dagur.
Gyllir fríða Geitahlíð
geislinn sólar fagur.

Oddur Vigfús Gíslason, guðfræðingur, sjómaður og baráttumaður fæddist 8. apríl 1836 og dó 10. janúar 1911.

Heimild:
-Tíminn Sunnudagsblað, 10. tbl. 16.03.1969, Daglegt brauð, sem drottinn gefur, rætt við Þórarinn Einarsson á Höfða á Vatnsleysuströnd, bls. 228-232.

Krýsuvík

Krýsuvík um 1880.

Krýsuvík

Í MS-ritgerð Helgu Stefánsdóttur, “Krýsuvík – á móti sólu“, frá Landbúnaðarháskóla Íslands er m.a. fjallað um sögu Krýsuvíkur:

Krýsuvík

Krýsuvík 1887.

“Gjóskulagarannsóknir sýna að Krýsuvík hefur verið í byggð allt frá landnámsöld. Samkvæmt Landnámu var jörðin hluti af landnámi Þóris haustmyrkurs
Vígbjóðssonar. Krýsuvíkurjörðin var snemma talin til stórbýla vegna mikilla landgæða, sjávarfangs og hlunninda, t.d. eggjatekju, trjáreka og bjargfuglatekju í Krýsuvíkurbergi. Um miðja 19. öld var Krýsuvík talin 31 1/3 hundruð að verðleika.

Heimildir eru um allt að 18 hjáleigur og kot í landi Krýsuvíkur, þó voru þau ekki öll í byggð á sama tíma.

Krýsuvík

Krýsuvík um 1900 – Howell.

Lengst af voru í byggð Suður- og Norðurkot, Stóri Nýibær 1 og 2, Litli Nýibær, Vigdísarvellir, Bali og Lækur. Heimabær Krýsuvíkur stóð á allháum hól er rís upp úr sléttlendinu skammt sunnan við Bæjarfell. Þangað var bæjarstæðið flutt um miðja 12. öld í kjölfar Krýsuvíkurelda en hraunið lagði undir sig mikinn hluta af undirlendi heimajarðarinnar.

Í Krýsuvík er fyrst getið um prestskylda alkirkju árið 1203. Krýsuvíkurkirkja átti mikil rekaítök, bæði hval- og trjáreka. Kirkja var reist árið 1857 og var hún endurbyggð og endurvígð árið 1964.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja 1936. Fyrir utan kirkjuna standa þrír menn og einn drengur. Annar frá vinstri er Magnús Ólafsson einsetumaður í Krýsuvík. Kirkjan var afhelguð árið 1929 og þess vegna nýtt sem íbúðarhús þegar myndin var tekin – Ásgeir L. Jónsson.

Árið 2010 brann síðan kirkjan til kaldra kola en um þessar mundir er unnið að endurgerð hennar. Krýsuvík var heil kirkjusókn og eitt mesta höfuðból landsins.

Um aldamótin 1900 bjuggu um 90% landsmanna í dreifbýli en 100 árum seinna bjó samsvarandi hlutfall Íslendinga á þéttbýlisstöðum með 200 íbúum eða fleiri. Í lok 19. aldar hófust miklir flutningar úr dreifbýli til þéttbýlisstaða við innanverðan Faxaflóa og síðan hefur byggð í Reykjavík og nágrenni vaxið hraðar en íbúafjöldi landsins. Krýsuvík fór ekki varhluta af þessari þróun og fækkaði þar mjög í byrjun 20. aldar.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja 1940.

Síðasti bóndinn í Krýsuvík var Magnús Ólafsson (1872-1950). Hann hóf búskap á eyðihjáleigunni Suðurkoti árið 1920 ásamt konu sinni Þóru Þorvarðardóttur (1884-1957). Þau bjuggu í gamla heimabænum í Krýsuvík þar til Þóra flutti til Hafnarfjarðar með börn þeirra svo þau gætu gengið í skóla. Magnús bjó áfram í Krýsuvík í 10 ár en eftir það dvaldi hann þar á sumrin og síðustu sumrin, eftir afhelgun kirkjunnar árið 1929, hafðist hann við í kirkjunni. Hann flutti alfarið burt vegna veikinda árið 1945.
Árið 1937 tók ríkið land Krýsuvíkur og Stóra Nýjabæjar eignarnámi. Árið 1941 var gengið frá kaupum Hafnarfjarðarbæjar á jörðunum Krýsuvík
og Stóra-Nýjabæ. Þetta landsvæði sem er um 43 ferkílómetrar að stærð var innlimað í lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar árið 1946.

Magnús Ólafsson

Magnús Ólafsson í Krýsuvík.

Árið 1945-1960 stóð Hafnarfjarðarbær fyrir búrekstri í Krýsuvík, túnrækt og smíði gróður- og gripahúsa. Nærri Grænavatni var byggð garðyrkjustöð, bústaður fyrir starfsmenn og íbúðarhús fyrir bústjóra kúabúsins. Frá 1949-1952 var íbúðarhúsið setið af bústjóra en frá 1953-1964 hýsti það stjórnendur vinnuskóla drengja sem Hafnarfjarðarbær rak í Krýsuvík. Síðan stóð húsið autt þar til Sveinn Björnsson (1925-1997), yfirlögregluþjónn og listamaður í Hafnarfirði, fékk húsið til afnota sem vinnustofu. Frá andláti hans hefur húsið verið varðveitt í minningu Sveins. Opnuð var sýningaraðstaða í húsinu árið 2000.

Nokkur svæði hafa verið hverfisvernduð vegna náttúruminja, þ.e. ströndin, Selalda, Sveifluháls, Seltún, Gestsstaðavatn, Grænavatn og Augað, Vesturengjar, strönd Kleifarvatns og Austurengjar. Eldborg við Litlahraun, sem er að mestu í Grindavík, er friðlýst sem náttúruvættur.

Þóra Þorvarðardóttir

Þóra Þorvarðardóttir.

Árið 1975 gerðu erlendir sérfræðingar samanburð á 10 stöðum á Íslandi sem líklegir þóttu fyrir staðarval fyrir hugsanlega uppbyggingu ferðaþjónustu. Í niðurstöðum var tekið sérstaklega fram að í Krýsuvík væri stórkostleg náttúra og staðhættir til uppbyggingar á fjölþættri ferðaþjónustu.
Krýsuvíkurskóli var reistur um miðjan áttunda áratuginn til að sinna unglingum sem þyrftu sérúrræði en ekkert varð af þeirri starfsemi. Húsið stóð autt til 1986 þegar Krýsuvíkursamtökin fengu það til afnota. Þar er rekið meðferðarheimili fyrir fíkniefnaneytendur.

Árið 1935 var Suðurstrandavegur lagður um Krýsuvík og árið 1945 var lagður vegur með Kleifarvatni. Árið 2012 var Suðurstrandarvegur endurgerður og hefur hann bætt mjög samgöngur á svæðinu (Aðalskipulag Hafnarfjarðar 2013-2025, 2014).

Krýsuvík

Krýsuvík – Suðurkot; tilgáta.

Árið 2016 samþykkti Hafnarfjarðarbær umsókn Gróðurs fyrir fólk í landnámi Ingólfs um stofnun vistvangs í Krýsuvík. Vistvangurinn tók til starfa sumarið 2016 þegar hafin var uppgræðsla á örfoka melum og gróðursetning trjáa. Svæðið er um 300 ha.”

Heimild:
– MS–ritgerð; Krýsuvík – á móti sólu, Helga Stefánsdóttir, Landbúnaðarháskóli Íslands okt. 2018.

Krýsuvík

Krýsuvík – uppdráttur ÓSÁ.

Krýsuvík

Í  Alþýðublaðinu 1963 mátt m.a. lesa eftirfarandi um Vinnuskólann í Krýsuvík:

Krýsuvík

“Starfsmaður” Vinnuskólans við vinnu í gróðurhúsi.

“Barnaverndarnefnd Hafnarfjarðar rekur á vegum Hafnarfjarðarbæjar Vinnuskóla í Krýsuvík og hefur gert það um 12 ára skeið. Alþýðublaðið skrapp upp í Krýsuvík í gær og heimsótti þar 55 drengi, sem eru þar á vinnuskólanum.
Vinnuskólinn í Krýsuvík byrjaði að þessu sinni hinn 18. júní síðastliðinn, en það er nokkru seinna en venja hefur verið. Ýmsar framkvæmdir og lagfæringar á staðnum ollu þessari töf.
Í sumar munu dveljast þarna tveir hópar drengja, hvor hópur í 25 daga. í fyrri hópnum, sem fór í vinnuskólann hinn 18. júní voru 55 röskir drengir á aldrinum 9 til 12 ára. Nú er þeirra tími á skólanum að verða útrunninn og fer þá annar álíka stór hópur upp í Krýsuvík til vinnu og leikja.

Krýsuvík

Starfsfólk Vinnuskólas í Krýsuvík. Rúnar er lengst til vinstri og Sævar lengst til hægri. Fróðlegt væri að fá nöfnin á annars myndarlegt starfsliðið.

Forstöðumaður vinnuskólans í Krýsuvík í sumar er Rúnar Brynjólfsson kennari og skátaforingi, en undanfarin fjögur ár hefur Haukur Helgason, skólastjóri, annast forstöðu skólans. Rúnar var starfsmaður skólans í fyrrasumar og kynntist þá háttum og starfsreglum hans, og taldi hann það hafa orðið sér til ómetanlegs gagns. Sævar Örn Jónsson heitir aðstoðarmaður Rúnars og skipuleggja þeir hvern dag og annast stjórn á drengjunum við hin daglegu störf. Sigurrós Skarphéðinsdóttir, kennari, er ráðskona skólans og hefur þrjár stúlkur sér til aðstoðar.

Stóriskógarhvammur

Piltar úr Vinnuskólanum í Krýsuvík í Stóraskógarhvammi ásamt Hauki Helgasyni.

Verkefni drengjanna eru hin margvíslegustu svo sem garða — og gróðurhúsavinna, trjárækt, vegavinna, ýmis fegrun og snyrting á umhverfinu og margt fleira, auk þess sem þeir hirða herbergi sín sjálfir, hjálpa til í eldhúsi og aðstoða við fleiri innanhússstörf. Vinnuskólinn hefur gróðursett yfir 100 þúsund trjáplöntur í Undirhliðum undanfarin ár.
KrýsuvíkDrengjunum er skipt í 10 flokka og er einn þeirra flokksstjóri fyrir hverjum flokki. —
Svo er verkefnum skipt á miili flokkanna. Vinnutíminn er um 4 klukkustundir á dag, og sagði Rúnar að drengirnir ynnu yfirleitt vel þennan tíma, meðan þeir voru að verki. Og kaup hafa drengirnir fyrir vinnu sína. Við, hin fullorðnu, myndum sennilega ekki vera ánægð með það fyrir okkur, en drengirnir eru ánægðir með sín daglaun, sem eru allt frá tveimur krónum og upp í 4.50 krónur. Upphæð launa fer ekki eftir aldri, heldur dugnaði.

Krýsuvík

Drengir í Krýsuvík við sundlaugagerð sunnan Bleikhóls.

Herbergin, sem drengirnir búa í eru fimm og er keppni milli herbergjanna, hvaða herbergi líti bezt út. Á hverju kvöldi ganga Rúnar og Sævar um herbergin og gefa fyrir, hvernig gengið hefur verið um það um daginn. Hæst eru gefin 10 stig. Þegar herbergið hefur náð samtals 100 stigum fær það verðlaunaskjal úr skinni, sem hengt er upp á einn vegginn í herberginu.
Seinasta kvöldið, sem hver hópur dvelst á skólanum, er athugað, hvaða herbergi hafi hlotið flest stig fyrir umgengnina allan tímann. Það herbergið, sem hlýtur hæstu stigatölu fær stóra og myndarlega rjómatertu í verðlaun og skipta íbúar herbergisins henni milli sín. Í gærkveldi, þegar úrslit voru birt í herbergjakeppninni, vildi svo til, að öll herbergin voru jöfn að stigum Þetta þýddi hvorki meira né minna en það, að fimm glæsilegar rjómatertur voru veittar í verðlaun og 55 drengir ljómandi af ánægju tóku hraustlega til matar síns.

Krýsuvík

Sundlaugin undir Bleikhól.

Þegar hver hópur kveður Vinnuskólann í Krýsuvík er skólanum slitið við hátíðlega athöfn og hver drengur fær í hendur einkunnabók frá skólanum, þar sem gefin er umsögn um vinnu, reglusemi, hreinlæti drengsins og framkomu hans við félaga sína. Í einkunnum eru fjórir möguleikar, prýðilegt, ágætt, gott og sæmilegt.
Einhver spyr kannski: Til hvers er þessi vinnuskóli? —
Svarið við þessu er skráð oftan á einkunnarbækur Vinnuskólans í Krýsuvík en þar stendur: „Vinnuskólinn vill leitast við að efla þroska nemenda sinna bæði í leik og starfi, kenna þeim gildi vinnunnar, vísa þeim leið til sjálfsbjargar og um leið efla félagsþroska þeirra”.

Krýsuvík

Krýsuvík – starfsmannahúsið. Í því dvöldu þátttakendur Vinnuskólans.

Að lokum skulum við athuga hvernig hver dagur er í stórum dráttum skipulagður í Vinnuskólanum í Krýsuvík. Fótaferð hefst klukkan 8 að morgni og morgunverður er snæddur klukkan 9. Klukkan 9.15 er fáninn dreginu að húni og síðan er unnið til hádegis. Þá er matur og hvíld. Klukkan 13.30 er aftur tekið til við vinnuna og unnið til klukkan 15.

Krýsuvík

Vinnan í gróðurhúsunum.

Svo er „kaffi” klukkan 15.30 og síðan leikir, íþróttir, gönguferðir og fleira. Kvöldverður er klukkan 19. Eftir kvöldmat er fáninn dreginn niður. Annað hvert kvöld er kvikmyndasýning, en hitt kvöldið fara fram margskonar íþróttir og keppnir. Klukkan 21.30 fá drengirnir „kvöldkaffið” sitt. Háttatími er klukkan 22. Þá er gengið í öll herbergin, umsjónarmennirnir fara með faðir vorið með drengjunum og bjóða góða nótt.
Drengirnir hverfa inn í draumalöndin, en framundan bíður þeirra heillandi og skemmtilegur dagur.”

Heimild:
-Alþýðublaðið 44. árg., laugardagur 13. júlí 1963, bls. 5.
-Alþýðublað Hafnarfjarðar 16. maí 1962, bls. 5.

Krýsuvík

Texti í Alþýðublaði Hafnarfjarðar 16. maí 1962, bls. 5, um Vinnuskólann.

Krýsuvík

Í Alþýðublaði Hafnarfjarðar árið 1949 mátti lesa eftirfarandi um framkvæmdir bæjarins í Krýsuvík:

Krýsuvíkurvegur

Krýsuvíkurvegurinn 1961 (yfir Vatnsskarð).

“Krýsuvíkin á að verða það haldreipi, sem Bæjarútgerðin gat ekki orðið fyrir 10—15 árum. Þegar Alþýðuflokkurinn á Alþingi 1935, tók að beita sér fyrir lagningu Suðurlandsbrautar um Krýsuvík til þess að fá snjóléttan vetrarveg milli Árnessýslu og Reykjavíkur, opnuðust möguleikar fyrir Hafnarfjörð, að færa sér í nyt auðsuppsprettur Krýsuvíkur.
Í Krýsuvík mun hafa verið byggð frá landnámstíð og allt fram á okkar daga. Samkvæmt manntali 1855 voru þá í Krýsuvíkursókn 12 býli með 72 manns, er þar höfðu sitt framfæri. Síðari hluta 19. aldar fækkaði svo þessum býlum ört, og byggð mun hafa lagst þar alveg af um 1935.
Oft mun hafa verið vel búið í Krýsuvík, enda sauðland gott og ræktunarmöguleikar miklir. Hins vegar munu erfiðar samgöngur, eða réttara sagt samgönguleysi, hafa valdið mestu um það, að byggðin lagðist niður. Með tilkomu hins nýja vegar var aftur þessari hindrun rutt úr vegi. En allir muna hvernig íhaldið snerist við þeirri vegarbót. Um fáa vegi á Íslandi mun hafa verið rifist meira.

Kleifarvatn

Kleifarvatn – vegurinn undir Hellunni.

Morgunblaðið eyddi fjölda dálka rúmi, viku eftir viku, og mánuð eftir mánuð til að reyna að færa líkur að því að þessi vegagerð væri vitleysa. Og jafnvel eftir að vegagerðinni var að mestu lokið, s.l. vetur, þegar vegurinn bjargaði mjólkurflutningunum um tveggja til þriggja mánaða skeið, barði blaðið enn hausnum við steininn og fullyrti að vegurinn væri til einskis gagns. — Þetta er nú íhald, sem segir sex. Látum vera að það berjist á móti nýmælum, það er mál útaf fyrir sig, en að neita staðreyndum, það er erfiðara, og þó harkaði Morgunblaðið af sér að gera það líka.
Hafnfirðingar nutu góðs af vegarlagningu þessari á margan hátt. Í fyrsta lagi nutu þeir góðs af því, eins og Reykjavík, að hægt var að halda sambandi þessu opnu, þegar allir aðrir vegir austur voru lokaðir. Í öðru lagi nutu þeir, á erfiðum tíma, mikillar atvinnu við lagningu vegarins. Í þriðja lagi opnaði vegurinn þeim leiðina til Krýsuvíkur.

Krýsuvík

Krýsuvík – starfsmannahúsið.

Næsta sporið var að eignast landið. Emil Jónsson bar fram á Alþingi 1935 frumvarp um eignarnám á þessu landi öllu, sem náði samþykki, þó ekki eins og upphaflega var til ætlast, heldur var það nokkuð rýrt í meðferð þingsins, en Hafnarfjarðarbær eignaðist þó allt ræktanlegt land milli Sveifluháls og Geitarhlíðar, og milli Kleifarvatns og sjávar, sem er geysilegt landflæmi, fyrir lítið verð eða innan við 50 þús. kr. með rétti til að nytja allan jarðhita í landi jarðarinnar. Það má óhætt fullyrða, að þessi kaup, á jörð og hitaréttindum, eru einhver þau hagkvæmustu, sem Hafnarfjarðarbær hefir nokkurntíma gert, miðað við allar aðstæður og miðað t.d. við verðið á jarðhitaréttindum þeim, sem Reykjavíkurbær hefir keypt í Mosfellssveit, og mikið lán að þessu skyldi vera lokið fyrir verðhækkun ófriðaráranna.

Krýsuvík

Krýsuvík – bústjórahúsið.

Um leið og landið var keypt, var einnig frá því gengið, að það yrði innlimað í lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar, svo að útsvör manna sem í Krýsuvík eiga heima, renna nú til Hafnarfjarðarbæjar, en ekki til Grindavíkurhrepps, en landið tilheyrði áður þeim hreppi. —
Sömuleiðis er með þessu tryggt að öll starfsemi bæjarins á þessu landi nú og í framtíðinni, verður ekki útsvarsskyld til annarra.

Nú leið og beið, því ekki var hægt að hafast að, fyrr en vegurinn var fullgerður suður fyrir Kleifarvatn, en þá hófust líka þegar framkvæmdir í allstórum stíl. Árið 1945 og ’46 var allt landið girt. Um sama leyti var hafist handa um undirbúning gróðurhúsabygginga og hús byggingar fyrir starfsfólk. Þessu verki var lokið um síðastliðin áramót eða uppúr þeim, og fyrstu gróðurhúsin voru tekin til notkunar í marzmánuði síðastliðnum.

Krýsuvík

Krýsuvík.

Eru gróðurhús þessi um 600 fermetrar að flatarmáli. Í sumar hefir svo verið unnið að því að stækka þau, bæta 1000 fermetrum við. Undirstöður og veggir, fyrir þessar viðbótarbyggingar, er nú fullsteypt. Járnsmíðin á að vera í fullum gangi, og gler og annað efni hefir verið fengið til byggingarinnar. íbúðarhús gróðurstöðvarinnar er stórt og vandað. Þar er, á aðalhæð, íbúð fyrir garðyrkjustj. og aðstoðarmann hans, tvær íbúðir Á neðri hæð er 1 íbúð og nokkur íbúðarherbergi að auki. Á þar með að vera séð fyrir húsnæði fyrir garðyrkjustöðina fyrst um sinn.

Hitaveita, vatnsveita og vegir, hefir einnig verið gert í sambandi við stöðina. Þessar framkvæmdir allar í sambandi við garðyrkjustöðina munu nú kosta samtals um 1,4 milj. kr. — Eins og áður er getið tók garðyrkjustöðin til starfa í marz s.l. og hefir því í ár starfað í 8—9 mán. og aðeins með 600 fermetra hús.

Krýsuvík

Krýsuvík 1962- fjósið (HH).

Reksturinn hefir gengið vel, þegar tekið er til greina, að hér er aðeins um byrjun að ræða, í smáum stíl, og ekki allt árið. Afurðir munu þegar vera seldar fyrir 60—70 þús. kr.
Á næsta ári verður væntanlega hægt að taka til afnota viðbótarbyggingarnar og þrefaldast þá nálega gólfflötur gróðurhúsanna.
Garðyrkja á jarðhitasvæðum er talinn hinn arðvænlegasti rekstur hér á landi og er ekki vafi á að hún muni verða einn af hyrningarsteinunum undir búrekstrinum í Krýsuvík. Ekki má telja ólíklegt að innan fárra ára geti garðyrkjubúið selt afurðir fyrir um 300—400 þús. kr. á ári miðað við svipað verðlag og nú er.
Framkvæmdastjóri garðyrkjubúsins er Óskar Sveinsson. Hefir hann sagt fyrir um gerð gróðurhúsanna og stjórnað verkinu frá upphafi með áhuga og dugnaði.

Krýsuvík

Krýsuvik – gróðurhúsin.

Ráðgert er að stofna til búreksturs til mjólkurframleiðslu í Krýsuvík með ca. 100 mjólkandi kúm, til að byrja með. Síðar verði kúnum fjölgað fljótlega upp í 300, og meira síðar. Með 300 kúm í Krýsuvík, og þeirri mjólkurframleiðslu, sem nú er í bænum og næsta nágrenni hans má gera ráð fyrir að hægt verði að fullnægja mjólkurþörf bæjarins fyrst um sinn. Væri með því stigið mikið heillaspor fyrir bæjarbúa, að geta ávalt fengið nýja mjólk og góða, í stað þeirrar, sem nú er flutt hingað um langan veg og vægast sagt er misjöfn að gæðum.

Krýsuvík

Borað á hlaðinu í Krýsuvík um 1950.

Framkvæmdir þessar hófust árið 1946. Jarðræktarframkvæmdirnar hafa verið fólgnar í skurðgrefti til að þurka landið. Gerðir hafa verið bæði stórir opnir skurðir og lokræsi. Land hefir einnig verið brotið til ræktunar, svo tugum hektara skiptir. Vegir hafa verið gerðir. Vatnsveita lögð. Tveir votheysturnar byggðir. Fjós er í byggingu og sömuleiðis íbúðarhús fyrir bústjóra.
Keyptar hafa verið vélar til jarðræktar, flutninga o.fl. Segja má að allt þetta sé komið svo vel á veg, að sá dagur sé ekki langt undan að rekstur búsins geti hafist. Það sem enn vantar fyrst og fremst, er íbúðarhús fyrir starfsfólk, að fullgera fjós og bústjórahús og að kaupa gripi.

Krýsuvík

Krýsuvík – fjósið 2022.

Bústjóri var ráðinn fyrir þrem ár um Jens Hólmgeirsson, og hefir hann undirbúið framkvæmdir og stjórnað þeim. Hann hefir lagt í það mikið verk að öllu verði sem haganlegast fyrir komið.

Krýsuvík

Krýsuvík – leikmynd True Detective í fjósinu 2023.

Auk staðgóðrar þekkingar og mikillar reynslu frá bústjóraárum sínum á Ísafirði, hefir hann gjörkynnt sér allar upplýsingar sem fram hafa komið hin síðustu ár á þessu sviði, — og þær eru margar, — og í samráði við fróðustu menn valið þær, það sem ætla má að geti orðið Krýsuvíkurbúinu að mestu gagni. Er því ekki vafi á að þegar það tekur til starfa verður það í fremstu röð hvað fyrirkomulag og tækni alla snertir.

Krýsuvík

Krýsuvík 2022.

Kostnaður við framkvæmdir allar snertandi kúabúið, mun nú vera orðinn um 1 millj. kr., ræktunarkostnaður, bvggingarkostnaður og vélakaup, en þar af hafa vélar verið keyptar fyrir um 300 þús. kr. Bæjarútgerðin hefir greitt allan þennan kostnað, en hún lagði fram eins og kunnugt er 1,25 millj. kr. til kúabússtofnunarinnar.”

Heimild:
-Alþýðublaðið, VIII. árg. Hafnarfirði 10. des. 1949, 8. tölublað, bls. 1-3.

Krýsuvík

Fjósið og turnarnir í Krýsuvík 2023. Bústjóra- og Starfsmannahúsið ofar. Hveradalur t.h.

Krýsuvík

Í Morgunblaðinu 1953 er m.a. fjallað um votheysturnana tvo í Krýsuvík:

Krýsuvík“Til þess að standa nokkuð gegn því misræmi, sem orðið var á skráðu gengi erlendrar myntar og verðlaginu hér á landi, var talið nauðsynlegt að taka upp stranga skömmtun á hverjum hlut. Gjaldeyrisskorturinn var ekki orðinn viðráðanlegur og eftirspurnin eftir gjaldeyri og erlendum vörum var gífurlegur. Það, sem þurfti að taka upp skömmtun á m.a. voru vörur til bygginga og var það fjárhagsráð, sem hafði öll völd um það, hvort menn fengu að byggja sér íbúð eða ekki, sem og aðra fjárfestingu. Virtist þar oft ráða meiru hverjir fengu slík fjárfestingarleyfi, dugnaður manna við að tala máli sínu, heldur en þörf manna fyrir að fá leyfin.
Má segja að það sé e.t.v. ekki óeðlilegt, þar sem útilokað er fyrir menn sem sitja inni á skrifstofu að gera sér fulla grein fyrir hlutunum og kanna hvað rétt er hverju sinni.

Krýsuvík

Fjósið í Krýsuvík 2023.

Hafnfirðingar þekkja það mæta vel, þegar óverðugir hafa hlotið hinn dýrmæta gjaldeyri til fjárfestingar. Er þar glöggt dæmi sú geysimikla fjárfesting, sem orðin er í Krýsuvík vegna fyrirhugaðs búreksturs þar. Öll sú fjárfesting hefur ekki orðið til annars en byrða og armæðu fyrir bæjarbúa, og svo vegna þess, að Hafnarfjarðarbær hefur getað beitt aðstöðu sinni til að fá slík leyfi, hefur og dugandi mönnum verið neitað, sem nú hefðu verið farnir að ávaxta sitt pund til hagsældar fyrir sig og þjóðarbúið.

Krýsuvík

Krýsuvík – fjósið (2022) notað fyrir kvikmyndatöku.

Eins og fólk, sem fer um Krýsuvík, hefur séð, þá standa þar votheysturnar miklir, að vísu ekki nema steinhólkarnir, því að lengra er ekki smíðinni komið. Þeir eru tveir að tölu og voru þeir steyptir upp á árinu 1949, svona rétt fyrir bæjarstjórnarkosningarnar. Á meðfylgjandi mynd sjást turnarnir og fjósbygging í smíðum, en síðan hefur hún verið gerð fokheld. Í reikningum bæjarsjóðs Hafnarfjarðar sést að turnar þessir kosta ekki undir 55 þús. kr. og er það að vísu lítið fé af öllu þvi, sem búið er að eyða í Krýsuvíkurframkvæmdirnar, en þó verða þessar kr. til að þyngja baggana á bæjarbúum.

Krýsuvík

Fjósið og turnarnir í Krýsuvík 2023.

Þegar Hafnarfjarðarbær fékk leyfi fyrir votheysturnunum sínum, þá var frá því sagt í fréttum, að veitt hefðu verið fjárfestingarleyfi til að byggja 10 votheysturna á öllu landinu og af þeim fóru tvö leyfi í Krýsuvík, þar sem hvorki var búið að rækta gras til að láta í þá, né heldur var nokkur skepna til að fóðra og er hvorugt fyrir hendi ennþá, nálega fjórum árum síðar. Fer ekki hjá því, að margur hugsi sem svo, að það hefði verið nær að láta eitthvað af þeim á annað hundrað bændum, sem sóttu um fjárfestingarleyfi til slíkra bygginga, en var synjað, hafa þessi tvö leyfi, því þeir munu bæði hafa haft grasið til að láta í turnana og skepnur til að fóðra á því.” – P
Nú, árið 2023, er fjósið í Krýsuvík að falli komið; norðurveggurinn fallinn út og þakið að mestu. Ef ekkert verður að gert munu leifar fjóssins fjúka út um nágrennið með tilheyrandi sóðaskap.

Krýsuvík

Krýsuvík – hluta af teikningu af fjósinu. Hér er gert ráð fyrir einum votheysturni.

Heimild:
-Morgunblaðið, þriðjudagur 31. marz 1953, bls. 6.

Draupnir

Halldór G. Ólafsson, kennari, skrifaði um “Flensborgarskólann í Hafnarfirði” í tímaritið Hvöt 1958. Þar lýsti hann bæði gamla skólahúsnæðinu sem og því nýja:

Ólafur Þ. Kristjánsson

“Síðastliðið vor var haldið hátíðlegt 75 ára afmæli Flensborgarskólans í Hafnarfirði.
Þann 10. ágúst 1878 gáfu prófastshjónin í Görðum á Álftanesi, síra Þórarinn Böðvarsson og frú Þórunn Jónsdóttir, húseignina Flensborg í Hafnarfirði, ásamt heimajörðinni Hvaleyri, sunnan bæjarins, til skólastofnunar til minningar um Böðvarson sinn, sem dáið hafði 1869, er hann var í 3. bekk lærða skólans í Reykjavík.

Síra Þórarinn festi kaup á húseigninni Flensborg um sumarið 1876, en heimajörðina Hvaleyri átti hann þegar. Er það sýnt, að þá þegar hafa þau hjónin verið búin að ásetja sér að stofna skóla í Flensborg til minningar um son sinn. Húseignin dró nafn sitt af borginni Flensborg á Suður-Jótlandi, en kaupmenn frá borg þeirri stofnuðu þar verzlun og ráku um all-langan aldur. Flensborg í Hafnarfirði varð verzlunarstaður á seinustu áratugum 18. aldar, eða á tímabilinu 1778—1801.

Þórarinn Böðvarsson

Þórarinn Böðvarsson.

Líklegast er, að Flensborg hafi ekki orðið til fyrr en eftir 1787, er verzlunin var gefin frjáls öllum þegnum Danakonungs, eða á síðasta áratug 18. aldar. Talið er, að Flensborgarhúsið, sem síðar varð skólahús og brann vorið 1930, hafi verið reist um 1816—1817. Um þetta er nú ekki frekara kunnugt, og má þetta vel rétt vera, þótt hitt virðist sennilegra, að húsið sé eldra og sé hið sama, sem reist hefur verið, þegar verzlun hófst þar fyrst. Verzlunin í Flensborg var lögð niður árið 1875.

Í gjafabréfi prófastshjónanna er það tekið fram og ítrekað í stofnunarskránni, sem gefin var út af stiftsyfirvöldunum 1878, að skóli þessi eigi fyrst og fremst að vera barnaskóli fyrir Garðaprestakall á Álftanesi, þ. e. fyrir hinn forna Álftaneshrepp, sem nokkru síðar var skipt í tvo hreppa, Bessastaðahrepp og Garðahrepp með Hafnarfirði.

Flensborg

Klennslustofa 1896 -Albert Anker.

Á þeim 5 árum, sem þessi eldri Flensborgarskóli starfaði, 1877—1882, fór þar engin framhaldskennsla fram, nema lítils háttar síðasta árið, en barnakennsla fór þar fram alla veturna. Um árið 1880 tók hreppsnefndin í Bessastaðahreppi sér fyrir hendur að koma upp sérstökum barnaskóla þar í hreppnum. Ákváðu nú prófastshjónin að breyta hinu fyrra gjafabréfi í þá átt, að stofna af gjöf sinni alþýðu- og gagnfræðaskóla í Flensborg. Gerðu þau bréf þar um árið 1882. Þar með var Flensborgarskólinn stofnaður í þeirri mynd, sem hann hefur síðan haft, með nokkrum breytingum að vísu, og tók hann til starfa haustið 1882.

FlensborgUm tíma var sýsluskrifstofan í landsuðurhorni hússins, en skólinn í austurendanum. Þegar gagnfræðaskólinn var stofnaður 1882, fluttist skólastjórinn, Jón Þórarinsson, sonur prófastshjónanna, í húsið og bjó uppi á lofti. Árið 1887 var sýslumannsíbúðinni í vesturhluta hússins breytt í heimavist, er sýslumaður fluttist í eigið hús. Síðar var svo sérstakt skólahús byggt árið 1906, skammt fyrir austan Flensborgarhúsið, og kennslustofurnar síðan fluttar þangað. Fór kennslan þar fram síðan, og var kennt þar allt til ársins 1937, er nýtt skólahús tók til starfa uppi á Hamrinum í Hafnarfirði. Síðar var gamla skólahúsið rifið. Er sérstakt skólahús var byggt árið 1906, var allt gamla húsið tekið til afnota fyrir heimavistina, fyrir utan íbúð skólastjóra uppi á lofti. Síðar bjó þar Ögmundur Sigurðsson, skólastjóri, sem tók við af Jóni 1908. Um sumarið 1930 kviknaði svo í húsinu, og var það rifið um haustið vegna mikilla skemmda. Lagðist þá heimavist við skólann niður að mestu. Þó mun Lárus Bjarnason, er síðar varð skólastjóri, hafa haft nokkra nemendur í heimavist að Óseyri í nokkur ár, en í því húsi, skammt frá skólanum, bjó skólastjóri skólans, er skólastjórahúsið var brunnið.
FlensborgarskóliBarnaskóli var starfræktur áfram í skólahúsinu, er gagnfræðaskólinn tók til starfa. Nutu þar kennslu börn úr Garðahreppi og Hafnarfirði allt til ársins 1895.
Árið 1892 var stofnaður kennaraskóli í Flensborg, þannig að um þriggja ára skeið voru þar samtímis 3 skólar, og mun þá oft hafa verið nokkuð lítið olnbogarýmið.
Fljótt var litið á gagnfræðaskólann í Flensborg sem landsskóla, en ekki sem héraðsskóla, og hafa nemendur víðs vegar af landinu jafnan sótt hann, þótt þeir séu tiltölulega miklu færri núna, enda skólar risnir upp um land allt. Kennaradeild sú, sem stofnuð var við skólann 1892, og starfaði þar síðan, þangað til Kennaraskólinn var stofnaður í Reykjavík 1908, er hinn fyrsti kennaraskóli þessa lands. Þótt barnaskólinn væri lagður þar niður árið 1895, starfaði æfingabekkur í sambandi við kennaraskólann þar fram yfir aldamótin.
Er Kennaraskóli Íslands tók til starfa árið 1938, varð einn af kennurum Flensborgarskólans, síra Magnús Helgason, skólastjóri hans, en Jón Þórarinsson, skólastjóri Flensborgarskólans, var valinn í nýtt embætti fræðslumálastjóra.
Hafnarfjörður 1954Á næstu árum var kennslan enn aukin, svo að nærri svaraði til þess, sem numið var í gagnfræðadeild menntaskólans, enda tóku Flensborgarar á þeim árum fyrst að ganga undir próf upp í 4. bekk menntaskólans.
Er Ögmundur Sigurðsson lét af skólastjórastörfum 1930, var síra Sveinbjörn Högnason settur skólastjóri og gegndi þeirri stöðu í eitt ár. Síðar varð Lárus Bjarnason skólastjóri, svo Benedikt Tómasson, en núverandi skólastjóri er Ólafur Þ. Kristjánsson.
Með lögum frá 1930 um gagnfræðaskóla hættir Flensborgarskólinn að vera sjálfseignarskóli, eins og hann var frá upphafi, heldur er hann þar eftir að öllu leyti rekinn á kostnað bæjar og ríkis.

Flensborg

Flensborgarhöfnin 1909.

Er skólinn tók til starfa í hinum nýju húsakynnum á Hamrinum í Hafnarfirði haustið 1937, var þar heimavist. Síðar varð að leggja hana niður vegna þrengsla og breyta herbergjum nemenda þar í skólastofur með því að brjóta niður skilrúm og veggi. Með hinum nýju fræðslulögum, er nemendur taka að sækja skólann ári yngri en áður og þeim er gert að skyldu að stunda þar nám í 2 ár, eykst nemendafjöldinn mjög og hefur nú aukizt ár frá ári, enda er skólinn nú fjögurra ára skóli, sem útskrifar gagnfræðinga eftir fjögurra ára nám, Nú á síðasta hausti fékk skólinn að lokum allt húsnæðið til kennslu, en Bókasafn Hafnarfjarðar flutti úr húsinu, og var húsnæði þess breytt í kennslustofur.

Flensborg

Flensborgarskóli á Hamrinum í smíðum.

Jafnframt flutti Iðnskóli Hafnarfjarðar úr skólahúsinu, Samt eru mikil þrengsli í skólanum, en í honum eru í vetur um 360 nemendur. Er nú mikið rætt um viðbyggingu við skólann, en landrými er nóg. Allar líkur eru á því, að byrja verði að tvísetja í skólann strax næsta vetur. Í skólanum er nú stór landsprófsbekkur með næstum 30 nemendum. Þar að auki eru tveir aðrir 3. bekkir, einn bóknámsbekkur og einn verknámsbekkur, 4. bekkir eru tveir, einn bóknámsbekkur og einn verknámsbekkur, samtals 38 nemendur, sem ganga munu undir gagnfræðapróf í vor. 2. bekkir eru svo fjórir, tveir bóknámsbekkir og tveir verknámsbekkir, 1. bekkir eru nú samtals fimm að tölu.
Þrengslin í skólanum eru öllu félagslífi fjötur um fót.

Hamarskot

Hamarskot á Hamrinum ofan við núverandi Flensborgarskóla – minjar, sem vert hefði verið að varðveita.

Hér eru að sjálfsögðu haldnar dansæfingar. Halda 1. bekkingar sérstakar dansæfingar, en hinir þrír árgangarnir hafa sameiginlegar dansæfingar. Félagslífið tekur nokkrum breytingum ár frá ári. Sum árin hafa verið gefin út skólablöð, en önnur ár hefur slíkt legið niðri. Skólablað kom hér út síðast í fyrravetur. Árshátíð er haldin síðari hluta vetrar. Nefnist hún „Kennaraskemmtunin“. Er þá kennurum og eiginkonum þeirra boðið til kaffidrykkju í skólanum. Tóku nemendur áður þátt í henni, en vegna þrengsla hefur orðið að takmarka veitingarnar við kennarana eina.

Flensborgarskóli

Viðbygging við gamla Flensborgarskólann.

Æfð eru leikrit og önnur skemmtiatriði undir skemmtun þessa. Síðan er dansað. Málfundafélag hefur oft verið starfandi í skólanum, en þessa stundina er það lítt sem ekkert starfandi. Árlega keppa bekkir innbyrðis um sundbikarinn. Hófst sú keppni síðastliðinn vetur. Sum árin fara fram keppnir milli bekkja í knattspyrnu eða handknattleik. Starfandi er hér bindindisfélag með mörgum meðlimum. Einnig iðka nemendur margir skák og halda stundum skákkeppnir í skólanum. Stundum fara bekkir í skíðaferðir, ýmist í nágrenni bæjarins eða upp á Hellisheiði, einnig er stundum farið í gönguferðir í nágrennið. Á vorin fara gagnfræðingar í langa ferð, einnig fara þeir, er landspróf taka, í aðra ferð. Njóta þeir þá góðs af ágóða þeim, er af dansæfingum verður.
Nemendur sækja einnig leikhús nokkrum sinnum á vetri í fylgd með kennurum, og virðist áhugi fyrir leiklist vera mikill og almennur meðal nemenda.

Fyrri hluti greinarinnar, þ. e. um fyrstu ár skólans, er að nokkru leyti úrdráttur úr „Minningariti Flensborgarskólans 1882—1932,“ útg. 1932, eftir Guðna Jónsson.”

Flensborg

Grunnurinn af gamla Flensborgarskólanum er enn á sínum stað – líkt og sjá má á meðf. loftmynd.

Í ár, 2023, eru liðin 145 ár frá stofnun Flensborgarskólans. Gamla skólahúsið brann 1930, eins og að framan er greint. Nú, 93 árum síðar, er lóð gamla skólans enn ófrátekin (líkt og sjá má á meðfylgjandi loftmynd). Selfyssingum hefur tekist að vekja upp gömul hús, jafnvel horfin, í miðju bæjarins með nýjum byggingaraðferðum svo eftir hefur verið tekið. Á meðal endurreistra bygginga þar má m.a. sjá tvær slíkar frá Hafnarfirði fyrrum, nú horfnar, þ.e. Hótel Björninn og “Valmaþakshúsið”. Hvers vegna ættu Hafnfirðingar ekki nýta lóðina millum Flensborgartorgs og Flensborgarhafnar og úthluta henni til byggingaverktaka með það fyrir augum að “endurbyggja” gamla Flensborgarskólann í tilefni dagsins? Slík bygging gæti falið í sér margvíslega möguleika í námunda við smábátahöfnina, s.s. safn að hluta, veitingastaður, íbúðir og/eða gistihús. Staðsetningin er a.m.k. góð, auk þess sem húsið myndi óhjákvæmilega undirstrika hina gömlu bæjarmynd, sem Hafnarfjörður er í upphafi sprottinn af.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður 1923-1930. Hér má sjá “Fjörðukrána” í miðið. 

Talandi um uppbyggingu og endurgerð gamalla húsa í hjarta Hafnarfjarðar. Nærtækt dæmi er umhverfi “Fjörukráarinnar”. Jóhannes “Fjörugoði” hefur áhuga á að rífa austurhluta gömlu Smiðjunnar og byggja hótel í hennar stað. Skv. framkomnum hugmyndum myndi slík bygging skyggja á útsýni íbúa á neðri Hamrinum til norðurs – með tilheyrandi ónægju þeirra sömu.
Hvernig væri nú að Jóhannes og bæjaryfirvöld myndu snúa saman bökum; leyfa “Hafnarfjarðarleikhúsmyndinni” sunnan Víkingastrætis (nafnið á götunni hefur reyndar aldrei verið samþykk formlega) og austan gistiheimilisins, að standa, en þess í stað að standa þétt saman um að endurbyggja hið glæsilega hús er fyrrum stóð norðan “Kráarinnar” til nota sem hótel eða gistiheimili sem og veitingastaðar. Lóðin er fyrir hendi. Slík uppbygging myndi, líkt og endurgerður Flensborgarskóli, undirstrika þróun byggðar í Hafnarfirði sem slíka – og jafnvel bæta að nokkru fyrir fyrri mistök.

Jóhannes ReykdalFulltrúar Hafnarfjarðarbæjar (með tveimur undantekningum) hafa í gegnum tíðina verið duglegir að útrýma hugsunarlaust minjum fyrri tíma (hugsið ykkur ef Hamarskot hefði t.d. fengið að standa sem síðasti torfbærinn (svæðið er enn á lausu á Hamrinum þrátt fyrir að hafa verið raskað að óþörfu)), örhugum hefði ekki verið leyft að kveikja í húsum, sem bænum hafði hlotnast til varðveislu, en virtust kalla á óþarflega kostnaðarsamar úrbætur, s.s. Eyrarkot, o.s frv.
Og hugsið ykkur ef einhverjum í nútímanum hefði t.d. látið sér detta í hug að “endurbyggja” Reykdalshúsið” við Brekkugötu (á nýnúverandi Dvergsreit) sem brann 1931. Hversu mikilli bæjarmyndinni væri saman að jafna?…

Í dag virðast því miður flestir horfa sér nær…

Heimildir:
-HVÖT, Málgagn Sambands Bindindisfélaga í skólum, S.B.S., 23. árg. marz 1.—3. tbl. 1958, bls 11-14.
-Tíminn, sunnudagur 11. apríl 1965, bls. 319 og 320.

Flensborg

Flensborg (fyrrum Hamarskot er sett inn á loftmyndina.).

Kiwanis

FERLIR var mað kynningu á Kiwanisfundi Eldborgar í Hafnarfirði um dásemdir Reykjanesskagans, auk þess sem tækifærið var notað til að kynna sér félagsskapinn. FERLIR notar jafnan tækifærið á samkomum sem þessum að fræðast um viðfangsefnin því meðlimir klúbbanna búa sem einstaklingar yfir mikilli alhliða vitneskju.

1. Staðreyndir um Kiwanishreyfinguna
KiwanisKiwanishreyfingin var stofnuð í Detroit í Michiganfylki í Bandaríkjunum þann 21.janúar 1915. Þann 1.nóvember 1916 var fyrsti klúbburinn stofnaður í Kanada í Hamilton í Ontarioríki. Sama ár var heitið “Kiwanisklúbbur” tekið upp á fundi í Cleveland í Ohio (USA). Átta árum síðar var heitinu breytt í “Kiwanis International” (Alþjóðahreyfing Kiwanisfélaga) og þá var stofnskrá sú og lög staðfest, sem gilda enn í dag, svo og meginmarkmiðin sex. Kiwanishreyfingin óx jafnt og þétt, bæði í Bandaríkjunum og Kanada, í nær hálfa öld áður en ákveðið var að breiða hana út til annarra heimsálfa og þjóða, en það var árið 1961.

Árið 1962 var fyrsti klúbbur utan Bandaríkjanna og Kanada stofnaður, en það var í Mexíco og skömmu síðar var annar stofnaður á Bahamaeyjum. Árið 1963 voru 7 klúbbar stofnaðir í Evrópu, sá fyrsti 25. febrúar í Vínarborg í Austurríki. Fyrsti klúbburinn á Norðurlöndum var stofnaður 10.janúar 1964 í Osló í Noregi og fjórum dögum síðar var komið að Íslandi, en þá var Kiwanisklúbburinn Hekla stofnaður í Reykjavík og var hann 9. klúbburinn sem stofnaður var í Evrópu.

Kiwanis á Íslandi

FERLIR

Fulltrúi FERLIRs rakti söguna…

Tveimur árum síðar eða 31.mars 1966 var annar klúbbur stofnaður en það var Kiwanisklúbburinn Katla í Reykjavík. Þar með má segja að Kiwanishreyfingin hafi náð fótfestu á Íslandi og voru fjölmargir klúbbar stofnaðir í kjölfarið. Kiwanisklúbburinn Helgafell sem starfar í Vestmannaeyjum var stofnaður af Kötlu 28.september 1967 og er nú langstærsti Kiwanisklúbbur á Íslandi og þó víðar væri leitað og hefur verið lengi. Félagafjöldi Helgafells starfsárið 1999-2000 er 78 félagar. Kiwanisklúbburinn Harpa var stofnaður 15.júní 1989 og var fyrsti klúbburinn sem eingöngu er skipaður konum.

2. Hvað er Kiwanis

Kiwanis

Á Kiwanisfundi.

Kiwanis er alþjóðleg þjónustuhreyfing manna og kvenna, sem hafa áhuga á að taka virkan þátt í að bæta samfélagið, og láta gott af sér leiða. Í samstarfi fá þessir aðilar áorkað því sem einstaklingar geta ekki einir. Frjálst samstarf gerir þeim kleift að vinna að alþjóðlegum verkefnum innan hinnar alþjóðlegu hreyfingar. Þeir vinna einnig að umbótum á landsvísu. Ekki síst vinna þeir að mannúðar og framfaramálum sem horfa til heilla fyrir bæjarfélag þeirra, sem opinberir aðilar annað hvort vilja ekki eða geta ekki sinnt. Þannig verða þeir leiðandi aðilar í sínu byggðarlagi.

Sem dæmi má nefna aðstoð við ungt fólk eða aldrað, náttúruvernd, þróun félagslegrar aðstöðu og eflingu vináttu og skilnings milli manna og þjóða. En hvert svo sem markmið Kiwanisfélaga er, er þeim öllum sameiginlegur þjónustuviljinn og löngunin til að eignast góða félaga innan klúbbsins síns og Kiwanishreyfingarinnar.

Nokkrar skilgreiningar:

Kiwanis

Nokkrir Kiwanisfélagar Eldborgar.

Kiwanishreyfingin er þjónustuhreyfing en ekki afþreyingarfélag. Þó geta menn eignast þar góða vini í samvinnu við aðra Kiwanisfélaga um ýmis þjóðþrifa- og framfaramál í hinum sanna Kiwanisanda.
Kiwanisfélagar starfa fyrir opnum tjöldum enda er hér ekki um leynilegan félagsskap að ræða. Kiwanisfélagar vilja einmitt gjarnan vekja athygli á störfum sínum til þess að afla sér stuðnings í þjónustustarfi sínu.
Kiwanishreyfingin leggur áherslu á manngildi og eflingu félagskenndar meðal félaganna.
Hver klúbbur reynir að þjóna sem best því samfélagi, sem hann starfar í. Kiwanishreyfingin skyldar hvorki klúbba né einstaka félaga þeirra til að taka þátt í neinni sérstakri starfsemi.

Nafnið
Nafnið “Kiwanis er tekið úr máli indíánaþjóðflokks sem eitt sinn byggði það svæði þar sem Kiwanishreyfingin var stofnuð. Upprunalega hljómaði þetta sem “Nunc Keewanis” í þeirra munni og þýðir nánast “sjálfstjáning”. Þetta var stytt í “Kiwanis” – “tjáning”.

3. Kjörorðin og hin sex megin markmið

Kiwanis

Í Kiwanis er meiri áhersla lögð á andleg verðmæti en veraldleg.

Undir kjörorðinu “Við byggjum” hefur Kiwanishreyfingin vaxið og dafnað og orðið víðkunn um allan heim. Undanfarin ár hafa íslensku umdæmisstjórarnir haft að leiðarljósi kjörorðið “Börnin fyrst og fremst” og hefur íslenska hreyfingin unnið að málefnum barna undir þessu kjörorði.

Hin sex megin markmið Kiwanishreyfingarinnar:
-Að láta andleg og mannleg verðmæti skipa æðri sess, en verðmæti af veraldlegum toga spunnin.
-Stuðla ber að því að dagleg breytni manna á meðal byggist á hinni gullvægu reglu: “Eins og þér viljið að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra”.
-Að beita sér fyrir bættum viðskiptaháttum, starfsháttum og félagslegri hegðun.
-Að efla borgaralegar dyggðir með góðu fordæmi.

Kiwanis

Á Kiwanisfundir Eldborgar.

-Að skapa, með stofnun Kiwanisklúbba, leiðir til þess að menn geti bundist varanlegum vináttuböndum og ósérhlífnir innt af höndum þjónustustörf og stuðlað að betra samfélagi.
-Að vinna saman að mótun og eflingu heilbrigðs almenningsálits og göfugrar hugsjónastefnu, sem er undirstaða aukinnar ráðvendni, bættrar stundvísi, vaxandi þjóðrækni og bræðralags.

4. Tímamót í Kiwanishreyfingunni

Árið 1915. Kiwanishreyfingin er stofnuð 21.janúar 1915. Þann dag var Kiwanisklúbbi nr. 1 í Detroit veitt stofnskjal frá Michiganríki í Bandaríkjunum.
Árið 1916. Fyrsti Kiwanisklúbburinn stofnaður utan Bandaríkjanna í Hamilton, Ontario, Kanada, í nóvember.
Árið 1964. Fyrsti klúbburinn stofnaður á Íslandi, Kiwanisklúbburinn Hekla.

5. Fjöldi Kiwanisklúbba og félaga
KiwanisHeildarfjöldi Kiwanisklúbba í heiminum er um 8600 og félagatala þeirra er rúmlega 310 þúsund manns. En ef teknir eru með meðlimir klúbba úr ungliðahreyfingu Kiwanis og fleiri hliðarklúbba hreyfingarinnar eru um 600 þúsund manns tengdir hreyfingunni.
Fjöldi Kiwanisklúbba í umdæminu Ísland-Færeyjar hefur mest orðið 49. Í dag eru starfandi 42 Kiwanisklúbbar í umdæminu með rúmlega ellefu hundruð félögum.
Lengi vel var Kiwanishreyfingin eingöngu skipuð körlum. En á árinu 1987 var samþykkt á heimsþingi Kiwanis, að leyfilegt væri að taka konur inn í hreyfinguna. Stuttu síðar hófst innganga kvenna í íslensku Kiwanishreyfinguna. Fyrsti Kiwanisklúbburinn sem eingöngu var skipaður konum var stofnaður 1989 en það er Kiwanisklúbburinn Harpa.

6. Sameiginleg verkefni Umdæmisins Ísland-Færeyjar

Kiwanis

Kiwanis þýðir “tjáning”.

Stærsta verkefni íslensku Kiwanishreyfingarinnar er sala K-lykilsins sem er landssöfnun. Ágóðinn af verkefninu hefur runnið til styrktar geðsjúkum, undir kjörorðinu “Gleymum ekki geðsjúkum”. K-dagur var fyrst haldinn árið 1974 og hefur síðan verið haldinn þriðja hvert ár frá þeim tíma.

Annað stórt verkefni sem íslenska Kiwanishreyfingin tekur þátt í er alþjóðlegt verkefni sem hófst árið 1993, og er unnið í samvinnu við UNICEF. Það miðar að því að útrýma joðskorti í heiminum fyrir árið 2000. Þetta er gert með byggingu saltverksmiðja í löndum þar sem joðskortur ríkir og er joði bætt í saltið. Joð skortur veldur því meðal annars að mæður fæða andvana eða þroskaheft börn.

Frá stofnun fyrsta íslenska Kiwanisklúbbsins hefur íslensk/færeyska Kiwanishreyfingin veitt 550 milljónum króna til líknarmála á Íslandi og í Færeyjum fram til 1999.

7. Kiwanisfréttir
KIwanisKiwanisfréttir er blað sem Kiwanishreyfingin í íslenska umdæminu gefur út þrisvar sinnum á ári. Í Kiwanisfréttum birtast fréttir og tilkynningar frá umdæmisstjórn, pistlar frá umdæmisstjóra og fréttir frá klúbbunum í íslenska umdæminu. Kiwanisfréttir eru kjörinn vettvangur til að koma fréttum af starfi klúbbanna á framfæri en einnig ágætur vettvangur til skoðanaskipta innan hreyfingarinnar.

8. Kiwanis – Eldborg

Kiwanis

Kiwanis – Eldborg.

Kiwanisklúbburinn Eldborg í Hafnarfirði var stofnaður 27. nóvember 1969. Móðurklúbburinn er Katla. Fundarstaður er Helluhraun 22. Fundartími er annan hvern miðvikudag kl. 19:30.
Forsetinn er Magnús P. Sigurðsson, netfang: eldborg@kiwanis.is, ritari Bergþór Ingibergsson, féhirðir Sigurður Sigurðsson, kjörforseti Kristján Hannes Ólafsson, formúlutengill Sigurður Sigurðsson og meðstjórnendur Guðjón Guðnason, Skúli Gunnarsson og Guðmundur Guðmundsson.

Gamansemi

Kiwanis

Á Kiwanisfundi.

Kiwanisfélagar eru gamansamir og eru þekktir fyrir að sjá hið jákvæða í tilverunni. Þessi var látinn flakka á fundinum: “Jón var lagður inn á spítala. Fjarlægja þurfti vinstri fótinn. Eftir aðgerðina kom í ljós að í misgripum hafði hægri fóturinn verið fjarlægður. Slæmu fréttirnar voru þær að fjarlægja þyrfti vinstri fótinn, en góðu fréttirnar voru að sjúklingurinn í næsta rúmi var tilbúinn að kaupa af Jóni báða inniskóna.”

Heimild:
-https://kiwanis.is/page/saga-kiwanis
-https://www.facebook.com/people/Kiwaniskl%C3%BAbburinn-Eldborg/100069024344466/
Kiwanis

Skotbyrgi

Leifar skotbyrgja frá tímum Síðari heimstyrjaldarinnar er að finna á 23 stöðum á og við höfuðborgarsvæðið. Á þessum 23 stöðum eru 49 minjar, s.s. á Valhúsahæð (10), í Öskjuhlíð (6), á Garðaholti (5) og á Ásfjalli (5). Ýmist er um að ræða grjóthlaðin hringlaga skjól eða steypt.

Öskjuhlíð

Öskjuhlíð – skotbyrgi.

Ofan við Setberg í Hafnarfirði, fyrrum Garðahreppi, á svonefndum Setbergshamri ofan við Þórsberg eru 4 grjóthlaðin byrgi. Þrjú þeirra má glöggt sjá á loftmyndum af Hafnarfirði frá árunum 1954 og 1958. Hið fjórða er í skjóli norðvestan undir hamrinum þar sem minna ber á því en hinum, sem ofar stóðu. Varðmönnum byrgjanna var greinilega ætlað að fylgjast með umferð norðan, vestan og sunnan hamarsins. Austar var Camp Russel á Urriðaholti (sem nú hefur verið þurrkaður út vegna nýrrar íbúðarbyggðar) og virkið á Flóðahjalla (Svínaholti).

Setberg

Setbergshamar – fornleifar.

Framangreind skotbyrgi ofan Setbergs eru augljós enn í dag (2023). Einhverra hluta vegna hafa misvísanir varðandi skráningu þeirra ratað inn í “Fornleifaskrá Hafnarfjarðar“. Þá hefur misfarist að skrá eina þá helstu, efst á standinum ofan Þórsbergs.

Í “Fornleifaskrá Hafnarfjarðar VII, Setberg 2021” segir m.a. um framangreindar minjar:
“Númer: 2625-12.

Setberg

Setberg – skotbyrgi.

Sveitarfélag: Hafnarfjörður. Landareign: Setberg. Tegund: Hleðsla. Hlutverk: Skotbyrgi. Ástand: Vel greinanleg. Aldur: 1900-1950. Lýsing: Kringlótt hleðsla sem er mikið hrunin, líklega skotbyrgi úr seinni heimsstyrjöldinni. Enginn sjáanlegur inngangur, gott útsýni í allar áttir. Veggjahæð er frá 0–0.2m og veggjabreidd þar sem hún er greinanleg er að jafnaði um 1m. Heimildir: Loftmyndir frá 1945, 1956 & 1958″

Setberg

Setberg – skotbyrgi.

“Númer: 2625-22
Sveitarfélag: Hafnarfjörður. Landareign: Setberg. Tegund: Tóft. Hlutverk: Útihús. Ástand: Vel greinanleg. Lengd: 8.6m. Breidd: 6.2m. Vegghæð: 0–0.7m. Breidd veggja: 0.6m. Lýsing: Grjóthlaðið útihús, inngangur í suður og timburleifar innan í rústinni. Töluvert hrunin. Veggjahæð er frá 0–0.7m og veggjabreidd er að jafnaði um 0.6m.”

“Númer: 2625-23
Sveitarfélag: Hafnarfjörður. Landareign: Setberg. Tegund: Hleðsla. Hlutverk: Stekkur. Aldur: 1550-1900. Lengd: 8.1m.
Breidd: 4.8m. Vegghæð: 0–0.3m. Breidd veggja: 0.4m. Lýsing: Stekkur, bogadregin hleðsla við klett sem myndar þannig aðhald, austur veggur er klettur. Vel siginn, mikill trjávöxtur í og við hleðsluna. Veggjahæð er frá 0–0.3m og upprunaleg veggjabreidd þar sem hún er greinanleg er að jafnaði um 0.4m.”

Setberg

Setberg – skotbyrgi.

Af framangreindu má sjá að þrjár fornleifar af fjórum eru í Fornleifaskránni skráðar á tiltölulega afmörkuðu svæði. Þá, sem vantar (skotbyrgi), má augljóslega sjá á loftmyndum frá því um miðja síðustu öld. Ein fornleifin af þremur er réttilega sögð vera “skotbyrgi”, hinar tvær eru sagðar vera “útihús” og “stekkur”, sem fer víðs fjarri. “Timburleifar innan í” meintu “útihúsi” segir ekkert um fyrrum nýtingu minjanna.

Nú mætti ætla, af loftmyndunum að dæma, að ofan Setbergs hafi verið hlaðnar fjárborgir, líkt og aðrar 97 slíkar á Reykjanesskaganum, en við skoðun á vettvangi var augljóst að um “skotbyrgi” hafi verið að ræða. Hermennirnir hefðu ekki fúlsað við vel og vandlega hlöðum fjárborgum Íslendinga þeim til skjóls og þar af leiðandi ekki talið ástæðu til að umbreyta þeim í þau hróf er dæmin eru um. Grjóthlöðnu skotbyrgin á stríðsárunum voru ekki “hlaðin” sem slík, líkt og þau voru fyrrum ætluð til að veita búfénaði skjól í snjóum og vondum veðrum, heldur var þeim “hrófað” skipulagslaust upp í svipuðum tilgangi; að veita hermönnum skjól fyrir veðri og vindum sem og mögulegum óvinum.

Setberg

Setberg – skotbyrgi.

Þegar minjarnar ofan Setbergshamars eru skoðaðar er augljóst að um skotbyrgi er um að ræða, en hvorki “útihús” né “stekk”. Útihús voru yfirbyggð og stekkir voru tvískiptir. Hvorugu virðist í fljótu fari fyrir að fara ofan Setbergshamars. Til að gæta þó allrar sanngirni gætu minjarnar nr. 2625-23 mögulega hafa verið stekkur fyrrum, en hafa ber í huga að “stekkjartíðin” lagðist af á þessu svæði fyrir aldarmótin 1900.

FERLIR er farið að lengja eftir góðum og gagnmerkum fornleifaskráningum á Reykjanesskaganum.

Heimild:
-Loftmyndir af Hafnarfirði 1954, 1956 og 1958.
-Vettvangsskoðun.
-Fornleifaskrá Hafnarfjarðar VII, Setberg 2021, bls. 25, 35, 42.

Setberg

Setberg – skotbyrgi.

Reykdal

Á vefsíðinni “Legstaðaleit.com” má lesa eftirfarandi um heimagrafreit Reykdalsfjöldskyldunnar við Setberg ofan Hafnarfjarðar:

Reykdal

Grafhýsi Reykdals.

“Heimagrafreiturinn Setbergi er staðsettur að Hólsbergi 13 í Hafnarfirði. Þar hvílir Jóhannes Jóhannesson Reykdal ásamt konu sinni Þórunni Böðvarsdóttur Reykdal og fimm börnum þeirra sem dóu þegar þau voru á aldrinum 12 til 34 ára (þau hjónin eignuðust alls 12 börn).

Jóhannes Jóhannesson Reykdal fæddist að Vallarkoti í Reykjadal í S-Þingeyjarsýslu þann 18. janúar 1874. Á Akureyri hóf hann trésmíðanám og fjórum árum síðar sigldi hann til Kaupmannahafnar til frekara trésmíðanáms. Eftir þriggja ára nám þar flutti hann heim til Íslands með það í huga að setjast að á Akureyri. Á leið sinni hitti hann þó unga konu, Þórunni Böðvarsdóttur, sem varð til þess að hann festi rætur sunnan heiða.

Jóhannes Reykdal

Jóhannes Jóhannesson Reykdal.

Fyrstu árin sinnti Jóhannes húsbyggingum en fljótlega leitaði hugurinn hærra, sem varð til þess að hann reisti verksmiðju við Lækinn, hans fyrsta stórvirki. Jóhannes virkjaði Lækinn til þess að knýja vélar verksmiðjunnar áfram. Þetta dugði Jóhannesi þó ekki lengi því árið 1904, þá þrítugur að aldri, fór hann til Noregs og festi þar kaup á rafal og með aðstoð íslensks raffræðings, Halldórs Guðmundssonar, setti Jóhannes rafalinn upp.

Þann 12. desember 1904 urðu þáttaskil í sögu þjóðarinnar með því að virkjun Jóhannesar neðst í læknum tók til starfa og ljós voru kveikt í 15 húsum í Hafnarfirði, auk trésmiðjunnar og fjögurra götuljósa. Með þessum atburði var rafvæðing Íslands hafin.
Mikil eftirspurn var eftir rafmagni virkjunarinnar og fór Jóhannes því aftur af stað, fékk vatnsréttindi ofar í Læknum og reisti á eigin spýtur nýja rafstöð á Hörðuvöllum. Sú rafstöð tók til starfa haustið 1906 og var að afli 37 kW, sem fullnægði allri eftirspurn eftir rafmagni í Hafnarfirði. Sú virkjun stendur enn og kallast Reykdalsvirkjun og var fyrsta sjálfstæða rafstöðin á Íslandi. Ellefu árum síðar reis þriðja rafstöð Jóhannesar nú enn ofar í Læknum.

Þórunn Reykdal

Þórunn Böðvarsdóttir Reykdal.

Í DV árið 2007 er m.a. fjallað um grafhýsi hér á landi. Þar segir:
“Lengi stóð grafhýsi í Setbergshverfi ofan Hafnarfjarðar. Athafnamaðurinn Jóhannes Reykdal var sá fyrsti sem þar hvíldi. Hann varð goðsögn í lifanda lífi þegar hann bókstaflega lýsti upp Hafnarfjörð árið 1904 með því að setja þar upp rafmagnsljós.
Fyrir nokkrum árum var hins vegar mokað yfir grafreitinn en áður voru þeir sem síðast voru þar greftraðir fluttir í kirkjugarð bæjarins og jarðaðir þar.”

Væntanlega hefur hvatinn fyrir stofnun heimagrafreita víða verið sá að fólk vildi hvíla á jörðinni sinni og vera áfram heima. Árið 1885 sótti Jón Bergsson í Brokey á Breiðafirði um að fá að gera heimagrafreit á eyjunni og þar kemur þetta viðhorf skýrt fram. Í bréfi sínu segir hann að „löng dvöl á þessum stað hefur gjört mjer hann svo kæran að jeg vil hvorki lífs nje liðinn hjeðan fara en óska innilega, að bein mín mættu hvílast hjer í friði“.

Reykdal

Minningarsteinn við grafhýsi Reykdals.

Frumbyggjar þessa lands á söguöld voru jarðsettir í túnjaðrinum heima, uppi á hólum, við haf eða vatn, á fjöllum og víðar. Eftir að kristni varð almennari í landinu tóku að myndast skipulagðir kirkjugarðar við kirkjur landsins og varð það venjan að fólk var jarðsett í slíkum görðum. Á síðari hluta 19. aldar virðist sem að aukið frjálslyndi í trúmálum hafi gert Íslendingum kleift að auka fjölbreytni við jarðsetningu látinna og eru einkagrafreitir engan veginn sér-íslenskt fyrirbæri, því þeir þekkjast vel í nágrannalöndum okkar. Árið 1963 var tekið fyrir stofnun nýrra heimagrafreita á Íslandi, en þá voru þeir orðnir 158 víða um land. En allt til dagsins í dag eru gamlir heimagrafreitir nýttir.

Reykdal

Minningarskjöldur við grafhýsið.

Stefán Ólafsson fjallar um „Heimagrafreiti á Íslandi“, í Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 2016:
“Hér verða til umfjöllunar leyfi til sjálfseignabænda um greftrun fyrir sig og fjölskyldu sína annars staðar en í sóknarkirkjugarðinum. Þessar lagabreytingar voru samþykktar 1901 og 1902 og fólst í þeim tækifæri fyrir þá sem það vildu, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, að jarða fólk í þar til gerðum heimagrafreit sem var í þeirra eigin landi. Þessar reglubreytingar urðu í kjölfar umsókna frá bændum til biskups og konungs á seinni hluta 19. aldar um að mega taka upp slíka grafreiti.

Reykdal

Fiskreitur þar sem nú er N1. Í baksýn er Setbergshamar. Húsið lengst til vinstri er Hléberg [Þórsberg]. Litla húsið efst í brekkunni (annað frá hægri) er grafhýsi Jóhannesar Reykdals og fjölsk, en hann bjó á Hlébergi [Þórsbergi]. Annað hús frá vinstri er byggt af Hans Kristiansen. Hús til hægri (að undanskildu grafhýsinu) eru sumarbústaðir. Jóhannes Reykdal byggði nýbýlið Þórsberg þegar hann hætti búskap á Setbergi. Hann hafði þar allmikla garðrækt.

Elsta umsókn um heimagrafreit er frá Þórði Sigurðssyni á Fiskilæk í Borgarfirði. Hugmyndina að heimagrafreitum má hugsanlega rekja til þekkingar bænda á kumlum eða haugum landnámsmanna sem almennt var álitið að væru heygðir á jörðum sínum.
Þá hafa margir þeirra vitað að til forna stóðu bænhús við marga bæi og í raun má ætla að þau hafi verið á svo til annarri til þriðju hverri jörð og þar var viðkomandi heimilisfólk jarðsungið. Út frá þessu má því ætla að hugmyndin um heimagrafreitina sé sprottin frá þjóðernisrómantík og frjálshyggju sem þá einkenndi tíðarandann en þessar tvær stefnur höfðu til að mynda mikil áhrif á sjálfstæðisbaráttu Íslendinga.
Í upphafi hefur vonin um að hvíla í sinni eigin jörð verið sterk því að það þurfti töluverða staðfestu að verða sér úti um slík leyfi.

Reykdal

Nöfn hvílenda.

Með lögum í byrjun febrúar 1963 var sett bann við gerð grafhýsa og heimagrafreita. Þegar hætt var að gefa leyfi til upptöku heimagrafreita 1963 voru þeir orðnir 158 talsins, þar af 5 í Gullbringu- og Kjósarsýslu. Leyfi til heimagrafreita hafa þó a.m.k. verið 159 því vitað er um eitt tilfelli þar sem heimagrafreitur var lagður niður og einstaklingurinn sem í honum var, grafinn upp og futtur í kirkjugarð þegar jörðin fór úr ábúð ættarinnar.”

Hjalti Hugason krifaði grein í Ritröð Guðfræðistofnunar HÍ árið 2021 undir fyrirsögninni „Jarðsett verður í heimagrafreit“ – Nýbreytni í greftrunarsið Íslendinga á nítjándu og tuttugustu öld:
“Lítið hefur verið ritað fræðilega um íslenska heimagrafreiti. Nýlega birti Stefán Ólafsson fornleifafræðingur þó grein í Árbók Hins íslenzka fornleifafélags þar sem hann fjallaði um upphaf heimagrafreitanna, ákvæði laga um þá, fjölda þeirra og dreifingu um landið.

HeimagrafreitirHöfundur þessarar greinar hefur á öðrum vettvangi grafist fyrir um almennar skýringar á því hvers vegna heimagröftur ruddi sér til rúms og hvaða ástæður umsækjendur gáfu upp fyrir óskum sínum um að stofna einstaka grafreiti, sem og sýnt fram á spennu sem nýbreytnin hafði í för með sér milli þeirra sem helst áttu hlut að máli: bænda, kirkjunnar manna og veraldlegra yfirvalda.
Í þessari rannsókn hafa fundist gögn um rúmlega 200 umsóknir um heimild til að stofna heimagrafreiti. Flestar fengu jákvæðar undirtektir, sumum var hafnað, nokkrar dagaði uppi eða fólk féll frá fyrirætlunum sínum. Leiddu þær til þess að stofnaðir voru 170 grafreitir eftir því sem næst verður komist.

Jóhannes Reykdal

Jóhannes við fyrsta rafalinn á trésmíðaverkstæðinu við Lækinn.

Heimagrafreitum fjölgaði ekki jafnt og þétt allt tímabilið 1878–1963. Í fyrstu fór fjöldi þeirra hægt vaxandi en 1910 voru þeir þó orðnir 19. Upp úr því hófst fyrsta fjölgunartímabilið af þrem og stóð til 1918. Þegar því lauk voru grafreitirnir orðnir rúmlega 40. Eftir 1918 var flestum umsóknum hafnað og fækkaði þeim þegar frá leið mjög vegna þessarar breyttu stefnu stjórnvalda. Árið 1928 hófst svo annað fjölgunartímabil sem fjaraði út 1936–1937. Á þeim tæpa áratug voru rúmlega 20 grafreitir teknir upp. Við lok þess tímabils voru þeir því samtals rúmlega 60. Þriðja og öflugasta fjölgunartímabilið hófst svo um 1940 og stóð með sveiflum næstu tvo áratugi er um 100 grafreitir bættust við. Athygli vekur hversu seint helsta fjölgunartímabilið gekk yfir.
Sigurbjörn Einarsson (1911–2008) sem gegndi biskupsembætti til 1981 var mjög andvígur heimagrafreitum og hafði beitt sér fyrir lagabreytingunni 1963.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll – grafhýsi Sigurðar, Valgerðar og Davíðs.

Nærtækasta skýringin á þeim vinsældum sem heimagrafreitir greinilega nutu hér á landi er að þá beri að skoða sem sýnilegt tákn þeirrar vakningarhreyfingar meðal bænda sem hér ríkti á tímabilinu frá um 1880 og lengst af blómatíma heimagrafreitanna. Þá má því skoða sem minjar um þær félagssálfræðilegu aðstæður sem ríktu í sveitum landsins á tímabilinu og einkenndust af ættarhyggju og átthagaást.”

Jóhannes seldi Hafnarfjarðarbæ virkjanirnar og trésmiðunum verksmiðjuna en keypti sjálfur jörðina Setberg 1931 og hóf þar myndarbúskap. Hafnarfjarðarbær hafði keypt jörðina af Jóni Guðmundssyni, bónda, 1912.

Setberg

Setbergsbærinn.

Hann var lengi með 20 kýr í fjósi og um 200 ær, keypti fystu mjaltavélina sem kom til landsins og fyrstu dráttarvélina, en hún var með framdrifna vél sem hægt var að tengja við ýmis vinnutæki. Jóhannes reisti síðan enn eina rafstöðina við Lækinn, árið 1917, sem fyrr sagði. Þá reisti hann timburverslun og trésmiðju neðan við Setbergsbæinn.
Jóhannes lést 1 ágúst 1946 og Þórunn kona hans lést 3. janúar 1964.”

ÞórsbergÍ Iðnaðarritinu 5.-6. XIX. 1946, segir m.a. um “Jóhannes J. Reykdal, trésmíðamestara og fyrirtæki hans“: “Jarðarför Jóhannesar var hin virðulegasta. Húskveðja að Þórsbergi, og Fríkirkjan í Hafnarfirði fullskipuð ættingjum og vinum. Hann var á sólbjörtum sumardegi lagður til hvíldar í garfhvelfingu fjölskyldunnar, sem hann sjálfur hafði byggt í hlíðinni milli Þórsbergs og Setbergs og ræktað iðngrænt tún í kringum. Þaðan sést vel til fyrirtækja hans, Lækjarins, sem hann meistaralega gerði að afls- og ljósgjafa fyrir 40 árum, til bæjarins, sem vaxið hafði með honum langa æfi og hann átt mikinn þátt í að byggja og út yfir hafðið breiða, sem sólin gyllir og himininn hvelfist yfir.” – S.J.

ReykdalÍ “Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940” segir um Jóhannes (18. jan. 1874– 1. ágúst 1946): “Framkv.stjóri, bóndi. Foreldrar: Jóhannes (d. 1889) Magnússon í Vallakoti í Reykjadal og á Litlu Laugum og kona hans Ásdís (d. 29. okt. 1905, 74 ára) Ólafsdóttir á Efsta-Samtúni, Jónssonar.

Var við nám nokkra mánuði eftir fermingu hjá Sigurði Jónssyni á Yztafelli. Lærði húsasmíði á Akureyri og í Kh. Settist að í Hafnarfirði 1902; reisti þar árið eftir trésmíðavinnustofuna „Dverg“, hina fyrstu hér á landi, er gekk fyrir vatnsafli; rak hana í 11 ár. Setti upp litla rafmagnsstöð til ljósa 1905 og aðra stærri 1907, hinar fyrstu á landinu, er komu Hafnarfjarðarbæ að notum; gengu báðar fyrir vatnsafli; seldi bænum stöðvarnar 1909. Bóndi á Setbergi við Hafnarfjörð 1909 –31 og síðan til æviloka á nýbýlinu Þórsbergi, er hann reisti; ræktaði nær 50 dagsláttur lands.

ReykdalReisti verksmiðju og íshús á Setbergi. Rak timburverzlun í Hafnarfirði, Var í hreppsnefnd Garðahrepps í 17 ár og oddviti um skeið; sýslunefndarmaður; í fasteignamatsnefnd frá 1918.

Jóhannes var lengi í stjórn Búnaðarsambands Kjalarnesþings. Virðingarmaður Búnaðarbankans og Nýbýlasjóðs. Kona (16. maí 1904): Þórunn (f. 21. nóv. 1884) Böðvarsdóttir í Hafnarfirði, Böðvarssonar. Börn þeirra sem upp komust: Kristín átti Hans Christiansen á Ásbergi við Hafnarfjörð, Ásgeir, Böðvar, Jóhannes, Friðþjófur, dóu allir ókv., Þórarinn á Setbergi, Þórður á Setbergi, Elísabet átti Einar Halldórsson á Setbergi, Ásdís átti Hermann Sigurðsson á Þórsbergi við Hafnarfjörð (Br7.; Óðinn X o. fl.).”

Til fróðleiks mátti lesa eftirfarandi í Nýja tímanum, fimmtudaginn 16. desember 1954 þar sem fjallað var um virkjanir Jóhannesar: “Ör þróun rafvirkjana hér á landi er eðlileg, en þó er jafnvel talið að allt vatnsafl landsins verði fullnotað til rafvirkjana eftir 66 ár, eða árið 2020.”

Heimildir:
-https://www.legstadaleit.com/heimagrafreitur-setbergi/
-https://timarit.is/files/51343345
-DV, föstudagur 30. nóv. 2007, bls. 6.
-Stefán Ólafsson, „Heimagrafreitir á Íslandi“, Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 2016, 2017, bls. 153–170.
-Ritröð Guðfræðistofnunar 52/2021, bls. 3–17 3 DOI: 10.33112/theol. Hjalti Hugason, Háskóla Íslands „Jarðsett verður í heimagrafreit“ Nýbreytni í greftrunarsið Íslendinga á nítjándu og tuttugustu öld – Önnur grein.
-MBL 18. janúar 2013.
-Iðnaðarritið 5.-6. XIX. 1946, Jóhannes J. Reykdal, trésmíðamestari og fyrirtæki hans.
-https://smb.adlib.is/islenzkar/2697
-Nýi tíminn, fimmtudagur 16. desember 1954 — 14. árgangur — 41. tölublað, bls. 12 og 8.

Reykdal

Reykdalshús við Brekkugötu. Það brann í maí 1930. Enginn var í húsinu.

Búrfell
Gengið var um Lambagjá, en hún hefur verið friðuð. Með í för voru skiptinemar á vegum Lionshreyfingarinnar, annar frá Króatíu og hinn frá Slóvaníu.
Rauðshellir

Rauðshellir.

Ætlunin var m.a. að gefa þeim innsýn í myndun landsins og sýna þeim hrauntraðir, hraunhella og eldgíga.
Í Lambagjá eru hlaðnar þverfyrirhleðslur á a.m.k. tveimur stöðum og einnig er hlaðið fyrir þar sem auðvelt hefur verið að komast upp úr gjánni miðsvæðis. Líklegt má telja að gjáin hafi verið notuð sem aðhald eða jafnvel nátthagi um tíma. Hraunhaft er í hrauntröðinni, en gengið var undir það. Þar niðri var fallegt þrastarhreiður og í því þrjú egg. Þrösturinn hafði greinilega verpt í það öðru sinni í sumar. Skammt ofar var annað þrastarhreiður, yfirgefið. Gengið var áfram upp að opi Níutíumetrahellis. Frá því var haldið upp að Selvogsgötu þar sem hún liggur niður í Helgadal og kíkt í Vatnshelli áður en haldið var upp með misgenginu að Rauðshelli. Við op hans var einnig þrastarhreiður á sillu með fjórum eggjum í.

Rauðshellir

Hleðslur í Rauðshelli.

Farið var inn í hellinn og m.a. skoðuð hlaðin fyrirhleðsla, sem þar er. Misvísandi lýsingar eru á Rauðshelli. Til er gömul lýsing, sem mun vera rétt, en einnig hefur verið giskað á að um Hundraðmetrahellinn gæti verið að ræða, en slíkt passar ekki við gömlu lýsinguna. Náttúrulegur bekkur hefur verið þarna þvert yfir hellinn, sem bæði hefur verið hægt að komast yfir og undir. Hún er nú fallin, en rauður liturinn í hellinum er enn áberandi. Hleðslur eru í jarðfallinu og án efa einnig undir gróðurþekjunni, sem þar er. Forn stekkur er skammt norðar.
Þá var gengið upp í Fosshelli og haldið í gegnum hann. Sást vel hversu fallegur hraunfossinn er sem og flórinn í efri hluta hellisins.

Búrfellsgjá

Hlaðið fyrir helli í Búrfellsgjá.

Gengið var yfir að Búrfelli. Í hrauntröðinni er m.a. skúti með fyrirhleðslu. Haldið var upp eftir tröðinni og litið niður í gíginn, sem er ótrúlega tilkomumikill. Háir veggir traðarinnar geyma ótrúlegar hraunmyndarnir, ef vel er að gáð.
Búrfell er eldborg. Frá henni rann hraun niður í Hafnarfjörð og Skerjafjörð. Heildarflatarmálið er u.þ.b. 18 ferkílómetrar. Hraunið er talið vera í kringum 7200 ára.
Búrfellið tilheyrir eldstöðvakerfi kennt við Krísuvík. Búrfell er hringlaga gígur úr hraunkleprum. Gígurinn er 179 metrar yfir sjó þar sem hann er hæstur og 140 metrar að þvermáli milli barmanna. Dýptin hefur mælst 58 metrar frá hæsta og 26 metrar frá lægsta barmi. Mismunurinn á barmi gígsins stafar af misgengi sem átti sér stað eftir að eldvarpið hlóðst upp.

Búrfellsgjá

Búrfellsgjá.

Búrfell gaus einu sinni, það var flæðigos og framleiðslan var fyrst og fremst Búrfellshraun. Meginuppistaðan í eldvarpinu eru kleprar, þeir eru lagskiptir og hallar lögunum bratt niður í gíginn. Rofist hefur ofan og utan úr Búrfelli og hefur myndast hvasst egg á toppi fjallsins sem er úr lausri gosmöl.
Búrfellshraun er innan marka Garðabæjar og Hafnarfjarðarbæjar. Tveir megin hraunstraumar hafa komið frá Búrfelli. Það sem aðgreinir þessar kvíslir er Helgadalshraun.

Búrfellshraun

Búrfellshraunin.

Búrfellið gengur undir ýmsum nöfnum eftir því hvar það er. Sá hraunstraumur sem er Hafnarfjarðarmegin hefur eftirfarandi nöfn: Næst Búrfelli er Smyrlabúðahraun (kennt við fuglinn smyril sem gerði sér hreiður þarna), Gráhelluhraun, Lækjarbotnahraun, Stekkjarhraun, Sjávarhraun, Arnarhraun og vestar heitir það Flatarhraun. Garðabæjarmegin er fyrst Garðahraun, Urriðakotshraun, Vífilstaðahraun, Hraunholtshraun, Gálgahraun og Balahraun. Hraunið er stórbrotið apalhraun og meðalþykkt þess er ekki undir 20 metrum.
Sá hraunstraumur sem runnið hefur í Heiðmörk og niður í Garðabæ hefur runnið eftir Búrfellsgjá. Búrfellsgjá þykir með fallegri hrauntröðum landsins. Gjáin er 3,5 km á lengd með meginstefnu í norðvestur. Búrfellsgjá er mjóst upp við gíginn eða um 20-30 metrar milli barma en breikkar þegar lengra dregur og verður mest 300 metrar. Í hrauninu út með Vífilsstaðahlíð grynnkar hrauntröðin og hverfur, sá endi Búrfellsgjár nefnist Selgjá. Á köflum eru gjárveggirnir þverhníptir og mynda sums staðar grunna hellisskúta sem eru með snarhöllu þaki. Barmar, veggir og botn hrauntraðarinnar er allt úr Búrfellshrauni.

Búrfellsrétt

Búrfellsrétt. Gerðið fjær.

Gengið var niður gjána og að Gjáarrétt. Réttin var skoðuð sem og Gerðið. Innst í því, undir slútandi klettaveggnum er hlaðið hús, nokkuð heillegt.

Gjáarrétt

Gjáarrétt og nágrenni.

Gjáarrétt hefur sennilega verið lögrétt Garðhreppinga, Bessataðahreppsbúa og Hafnfirðinga í nokkur hundruð ár (Ól. Þorvaldsson). Sigurður í Görðunum segir í minningum sínum: “Réttin okkar var í hrauninu, skammt fyrir sunnan Vatnsenda. Hygg ég, að það hafi verið ein sérkennilegasta rétt á landinu. Hún hét Gjárétt, enda var hún í gjá. Skammt frá eru víðir og fagrir vellir og þar var oft leikið sér og ekki sízt sprett úr spori bæði þegar komið var í réttina og eins þegar réttardeginum var lokið.”

Gjáarrétt

Gjáarrétt – uppdráttur ÓSÁ.

Gjáarrétt (Gjárétt) var fjallskilarétt (lögrétt) til 1920, en þá var hún flutt niður í Gráhelluhraun og nefndist Hraunrétt. Dilkar voru 12 talsins uns einum dilk Selvogsmanna var bætt við suðaustast í réttinni. Árið 1955 var gerð rétt við Kaldársel. Gjáarrétt var friðlýst að tilstuðlan þjóðminjavarðar 1964.
Frábært veður – hlýtt og stillt. Gangan tók 3 klst og 30 mín.

Upplýsingar um Búrfellshraun er m.a. fengið af http://www.flensborg.is/sisi/hafnarfj/burfellshraun.htm

Búrfell

Gígur Búrfells – upptök Búrfellshrauns.