Tag Archive for: Hafnarfjörður

Leiðarendi

Leiðarendi er sá hellir á Reykjanesskaganum, sem einna styst er að frá þjóðvegi – og jafnframt einn sá margbreytilegasti á svæðinu, enda hefur umferð um hann síðustu misserin verið mikil – og fer vaxandi. Hellirinn er, líkt og aðrir hrauhellar á Íslandi, í einni af hinum fjölmörgu hraunbreiðum landsins er geyma steingerða ævintýraheima þar sem glóandi hraunelvur hafa runnið neðanjarðar og skilið eftir sig ranghala og hvelfingar. Í hraunhellunum er að finna einstakar jarðmyndanir, – dropasteina, hraunspena, straumfægða veggi og litríkar útfellingar.
Leiðarendi - opAllt þetta hefur Leiðarendi í Stórabollahrauni enn upp á að bjóða, nú 16 árum eftir að hann var fyrst kannaður. Hellirinn er 750 m langur, greiðfær og aðgengilegur, aðeins 36 km frá Grindavík og að honum er einungis 150 m. gangur, í mosagrónu hrauni, út frá við Bláfjallavegi.
Snjór þakti jörð, svo rækilega að hann hafði slétttað sérhverja misfellu í hrauninu. Það tók því nokkra stund að moka sig niður og inn eftir hellisloftinu innan við meginopið. Að því búnu varð eftirleikurinn auðveldur. Hátt í eitt hundrað þátttakendur skriðu inn eftir snjórásinni og niður í hellinn.
Stórabollahraunið er u.þ.b. 2000 ára gamall og hafa dropsteinar og aðrar myndanir lítið breyst allan þann tíma. Ástæða er enn og aftur til að brýna sérstaklega fyrir þátttakendum að raska engu og taka ekkert nema ljósmyndir. Yfir hrauninu er m.a. Tvíbollahraun, sem rann um 950 e.Kr. Auðvelt er að sjá skilin því síðarnefnda hraunið er apalhraun á þessu svæði, en Stórabollahraun rann lengstum sem helluhraun, líkt og Hellnahraunin eldra og yngra, sem einnig áttu för um þessar slóðir á mismunandi tímum. Stórbollahraunið hefur runnið í Leiðarenda á tveimur stöðum. Hellnahraun yngra umlykur m.a. Skúlatún, þýfkenndan grasigróin hól í miðju hrauninu. Það kemur eins og

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – jarðfræðikort; nútímahraun.

Hellnahraunið eldra úr Brennisteinsfjallakerfinu og er talið hafa runnið fyrir 1000 árum. Hraunið kom frá Tvíbollum í Grindaskörðum, var mikið og fór víða, enda bæði mjög slétt og þunnt.
Þess má geta að Kristintökuhraunið er frá sömu goshrinu. Nákvæmasta tímasetning á Yngra Hellnahrauninu (Breiðdalshraun og Tvíbollahraun) er sú að það hafi runnið á árunum 938-983 (Haukur, Sigmundur og Árný – 1991).
Eldra-Hellnahraunið mun hafa myndað stíflu fyrir dal þann er Ástjörn dvelur nú í sem og Hvaleyrarvatn. Hraunin eru ákaflega lík að ytri ásýnd og nokkuð erfitt að greina þau að. Eldra- Hellnahraun er um 2000 ára gamalt og líkt og Yngra – Hellnahraun komið frá eldstöðvum í eldstöðvakerfi Brennisteinsfjalla og hefur runnið svipaða leið til sjávar. Út frá þessu má ætla að Hvaleyrarvatn og Ástjörn hafi orðið til fyrir u.þ.b. 2000 árum. (Sjá meira undir  Fróðleikur). (Reyndir hraunamenn geta nú orðið lesið aldursmörkin, þ.e. út frá því hvaða hraun rann á á undan hinu – með ákveðin viðmið að leiðarljósi).
og áfram inn undir þaki hellisrásarinnar...Í stórvirki Björns Hróarssonar, jarð- og hellafræðings, „Íslenskir hellar“, bls. 209, er m.a. fjallað um Leiðarenda. Þar segir t.a.m.: “ Stóri-Bolli er austastur bollanna við Grindasköðr og þeirra stærstur eins og nafnið bendir til. Stóri-Bolli er um 150 metrar í þvermál og opinn til noðurs en gígbarmarnir til beggja hliða eru um 50 metra háir. Hraunið hefur fallið til norðurs og þekur svæðið norður að Undirhlíðum og Helgafelli en er mjög hulið yngri hraunum. Erfitt er að áætla stærð hraunsins þar sem svo mikill hluti þess er hulinn yngri hraunum en það gæti þó verið allt að 20 ferkílómetrar að flatarmáli.“
Um Leiðarenda segir meistari Björn: „Leiðarendi er um 900 metra langur hellir og hin mesta draumaveröld. Hellirinn gengur til beggja átta út frá niðurfalli og tengjast leiðirnar þannig að hellirinn liggur í hring (eins og merkilegur uppdráttur í bókinni sýnir). Hellirinn kvíslast og hefur þak vestari rásarinnar brotnað niður. Nokkru neðan niðurfallsins sameinast kvíslarnar á ný og þaðan liggja mikil og falleg göng til norðurs. Það er mjög sérstakt að fara í hellaferð innúr niðurfalli og koma svo út klukustundum síðar hinum megin niðurfallsins. Hreint ævintýri fyrir þá sem eru að gera slíkt í fyrsta skipti.
Leidarendi-222Hellisgöngin eru víðast hvar lítt hrunin og hellirininn auðveldur yfirferðar þótt auðvitað þurfi aðeins að bogra á einstaka stað og klungrast á öðrum. Sérstaklega lækkar verulega til lofts nyrst í hellinum. Töluvert er um skraut, dropsteina, hraunstrá og storkuborð auk þess sem hraunið tekur á sig hinar ýmsu myndir. Á einum stað má til dæmis sjá fyrirbæri í lofti hellisins sem hellamenn kalla  „Ljósakrónuna“ og svo mætti áfram telja. Þá er beinagrind af sauðkind innarlega í hellinum og má með ólíkindum telja hve langt kindin sú hefur ráfað inn dimman hellinn. Var hún e.tv. að forðast eitthvað?
Hellismunninn er skammt frá hraunjarðri Tvíbollahrauns sem raunar hefur runnið inn í Leiðarenda á tveimur stöðum syðst og vestast í hellinum enda liggur hann þar undir Tvíbollahraun. Tvíbollahraun rann á fyrstu árunum eftir landnám. Ef til vill kom kindin sú sem bar beinin í Leiðarenda til landsins með víkingaskipi. Og ef til vill gleymdi hún sér og lokaðist inni þegar Tvíbollahraun rann. 

Nafngiftin - kindin í botni Leiðarenda

Þegar svo ógnarheitur hraunkanturinn nálgaðist hljóp kindin ef til vill inn í kaldan hellinn til að forðast lætin og hitann og þar bar hún beinin. Atburðarrás þessi verður raunar að teljast harla ólíkleg en verður þó ekki afsönnuð fyrr en beinin verða aldursgreind. Fornminjar í íslenskum hraunhellum hafa hins vegar lítið verið rannsakaðar af sérfræðingum en merkileg bein er að finna í nær eitt hundrað hraunhellum og bíða þau rannsóknar. Leiðarendi var kortlagður í desember 1992 og júlí 1993″.
Innst í syðsta hluta Leiðarenda er stór „hrauntjörn“. Þar lækkar hellirinn, en  hækka um leið því hrauntjörnin hefur brætt sig niður í undirstöðu(grann)bergið uns hluti hennar fann sér áframhald, sem varla verður rekjanlegt nema með mikilli fyrirhöfn. Það mætti þó vel reyna þegar betri tími gefst til.

Leiðarendi

Í Leiðarenda.

Eitt af sérkennum Leiðarenda eru þunnar hraunflögur á kafla. Þær hafa fallið af veggjum og úr lofti. Þær gefa til kynna mismunandi hraunstrauma í gegnum rásina, hverja á fætur annarri. Má líkja þeim við endurteknar samfarir fullorðinnar hraunrásar við nýja strauma.
Ljósakrónan fyrrnefnda er í tengirás Leiðarenda við efri hellisrásina, sem flestir ættu að forðast. Komið hefur fyrir að þeir, sem þangað hafa fetað sporið og síðan haldið í gegnum hrun er rásin leiddi þá í gegnum, hafi ekki fundið leiðina til baka. Eftir hræðsluköst og formælingar hefur svolítil vonardagsskíma birst þeim úr annarri átt og þeir þá getað skriðið sér til lífs að jarðfallinu fyrrnefnda. Hins vegar má segja með sanni að einn heillegasti og fallegasti hluti Leiðarenda er í þessari rás, líkt og sjá má í bók Björns; „Íslenskir Hellar“ (fæst í öllum betri bókabúðum og er sérhverjum hellaáhugamanni og öðrum leitandi bráðnauðsynleg leiðsögn).
Ljósakrónan í LeiðarendaVið frásögnina af sauðkindinni, sem Björn lýsir og varð tilefni nafngiftarinnar, má bæta að öllum líkindum hefur sú arma mær verið að leita skjóls vegna einhvers, t.d. snjóa eða náttúruhamfara. Hafa ber í huga að mörg dýr geta gengið fram og til baka um niðmyrkra ranghala án ljóss. Það hefur hellaleitar-hundurinn Brá t.a.m. sannað margsinnis. Það hefur því verið eitthvað annað en eðlilegheitin, sem varð sauðkindinni að aldurtila, s.s. eiturgufur hraunkvikunnar er lagðist yfir hraunrásina umrætt sinn. Ef svo hefur verið má ætla að hér á landi hafi verið urmull sauðfjár – og það fyrir aðkomu norrænna landnámsmanna hingað í kringum 874 +/-02.

Leiðarendi

Í Leiðarenda.

Einhverjir hafa þá verið hér fyrir (sem flestum er reyndar orðið ljóst – nema kannski starfsfólki Þjóðminjasafnsins.) Ef til vill munu órækar minjar Skúlatúns og minjar í Húshólma /Óbrinnishólma í Ögmundarhrauni  hjálpa til að varpa ljósi á þá birtingarmynd?!
Taka verður undir með ákveðna og meðvitaða rödd Björns þar sem hann segir að; „fornminjar í íslenskum hraunhellum hafa hins vegar lítið verið rannsakaðar af sérfræðingum en merkileg bein er að finna í nær eitt hundrað hraunhellum og bíða þau rannsóknar.“
Þótt Leiðarendi sé bæði aðgengilegur og áhugaverður þarf að gæta vel að því að skemma ekkert er getur haft þar varanlegt gildi fyrir komandi kynslóðir.
Frábært veður (að og frá hellinum). Ferðin tók 3 klst og 3 mín.
Leidarendi-223

Alfaraleið

Ætlunin var að ganga til baka og fram eftir Alfaraleiðinni, hinni gömlu þjóðleið milli Innnesja (Hafnarfjarðar) og Útnesja (Voga, Njarðvíkna, Hafna, Keflavíkur, Garðs og Sandgerðis). Vestari hluti leiðarinnar, milli Hvassahrauns og Voga, hefur jafnan verið nefnd Almenningsleið (Menningsleið), en kaflinn frá Hvassahrauni til Hvaleyrar Alfaraleið.
Alfaraleiðin í HvassahraunslandiGangan hófst við nýlegt bílastæði sunnan undirgangna Reykjanesbrautar innan (austan) við Hvassahraun. Þegar Reykjanesbrautin var breikkuð var tekinn hluti af Alfaraleiðinni á þessum kafla. Áður sást hún sunnan brautarinnar, liggja undir hana og síðan spölkorn af henni norðan brautarinnar, ofan við gömlu réttina.
Gengið var beint inn á Alfaraleiðina, gegnt gatnamótunum, þar sem hún byrjar núna. Framundan er nokkuð hæðótt og gróið hraun þar sem vörður sjást á stangli við götuna, þ.a. ein mjög myndarleg er stendur hátt á hraunhól hægra megin hennar. Þegar innar dregur liggur hún um nokkuð slétta, vörðulausa hraunfláka sem nefnast Sprengilendi. Í fyrstu er leiðin óljós en þegar komið er hálfa leið yfir „sléttuna“ skýrist hún verulega og hófför fara að sjást í klöppunum. Í götunni fannst m.a. skeifubrot frá löngu liðnum tíma. Gatan liggur ofarlega á þessu svæði en þó aldrei meira en 3-400 m frá Reykjanesbrautinni. Myndarleg varða við götuna sést á hæðarhrygg framundan.

Alfaraleið

Alfaraleiðin við gatnamót Lónakotsselsstígs.

Innan við Sprengilendið liggur slóðinn ofan við mjög klofinn og sérkennilegan hraunhól en ofan götunnar og hólsins er hæð sem heitir Taglhæð og á henni er merktur jarðsímastrengur. Þarna sveigir Almenningsvegurinn til austurs, hækkar dálítið og fjarlægist Reykjanesbrautina til muna. Næst er haldið yfir kennileitalítið svæði um nokkurn veg. Framundan til hægri við götuna og aðeins ofar er mjög sérkennilegur, stakur klettahóll sem er eins og hetta í laginu. Þessi hóll er mjög áberandi séður frá Reykjanesbrautinni þó hann sé ekki stór. Hér sjást lítil og fá vörðubrot við götuna. Við hólinn liggur Lónakotsselsstígur áleiðis upp í Lónakotssel. Nú fer útsýnið að víkka til muna og fljótlega sést í stóra sprungna klapparhæð í austurátt sem nefnist Smalaskálahæð og klapparhól í framhaldi af henni til suðurs. Stefna götunnar er fast hægra megin við hólinn í stefnu sem næst á Vífilfellið. Þarna liggur Óttarsstaðaselsstígur þvert á Alfaraleiðina. Gatnamótin eru nokkuð glögg. Neðar sést í Kristrúnarborg, fallega heillega fjárborg frá Óttarsstöðum sem sögð er hlaðin um 1870 af Kristrúnu Sveinsdóttur húsfreyju á Óttarsstöðum og vinnumanni hennar. Handan borgarinnar er svo Smalaskálhæðin með fallegum jarðföllum sem gaman er að skoða. Listaverkið Slunkaríki var þar til skamms tíma, en hefur nú verið fjarlægt.

Skeifubrot í Alfaraleiðinni

Þá er gengið um Draugakróka. Gvendarbrunnshæð heitir næsta hæð en sveigt er upp fyrir hana og farið um Löngubrekkur sem liggja utan í hæðinni ofanverðri. Nú sést í fjárskjól, Gvendarbrunnshæðarskjól, með hleðslum við op og er hellirinn í hæðinni við götuna. Fast austan við fjárskjólið er svo Gvendarbrunnurinn, gott vatnsból í klöpp en um brunninn þveran liggur gömul fjárgirðing, landamerki Straums og Óttarsstaða.
Austar er komið að hárri og uppmjórri vörðu en hún er önnur af þremur fallegum vörðum sem standa við götuna frá Gvendarbrunnshæð að Miðmundarhæð. Nú taka Þrengslin við en þar liggur hún þröngt á milli hárra hraunhóla. Næsta kennileiti er hár og brattur klapparhóll með rismikilli vörðu sem sést víða að. Neðan við hann er gatan mjög greinileg en frá hólnum og ofan eyðibýlisins Þorbjarnarstaða er hún óljós og hverfur loks undir háan hraunkantinn spöl fyrir ofan Gerði (starfsmannahúss á vegum álversins). Þar sem gatan lá upp á hraunið hét Brunaskarð syðra. Mótar enn fyrir því í hraunkantinum þar sem gatan liðast upp á hraunbrúnina.
Varða við Alfaraleiðina HvassahraunsmeginFramundan eru svo brunaruðningarnir á móts við álverið og að sjálfsögðu sést engin gata þar fyrr en komið er að Kapellunni sem stendur á hraunhól í miðju umrótinu rétt ofan við Reykjanesbrautina beint á móti álverinu. Gatan sést þar á um 10 m kafla. Kapellan, sem var endurhlaðin klúðurslega á sjöunda áratug 20. aldar, er friðlýst lítið grjótbyrgi úr hraunhellum og snúa dyrnar í suðvestur en veggirnir eru tæplega mannhæðar háir. Kapellan er tileinkuð heilagri Barböru, dýrðlingi úr kaþólskum sið. Fyrir innan Kapelluna tekur við rutt svæði, en göngustígur liggur um það áleiðis til Hafnarfjarðar. Þegar komið er inn á hraunið á ný sjást vörðubrot. Þeim er fylgt til norðurs uns gatan beygir undir Reykjanesbrautina þar sem hún fylgir hraunlægðum í áttina að hárri vörðu, sem nú er á golfvellinum. Héðan í frá sést ekki móta lengur fyrir gömlu Alfaraleiðinni milli Hvaleyrar og Hafnarfjarðar.
AlfaraleiðinÍ ljós hafði komið að leiðin er vel greinileg svo til alla leiðina, vel mörkuð í landið á körflum og því tiltölulega auðvelt að fylgja henni þar sem hún liggur framhjá Þorbjarnastöðum í Hraunum (fór í eyði um 1930), sunnan Reykjanesbrautar, og áfram vestur úr. Í rauninni er hægt að fylgja gömlu leiðinni frá Hvaleyri og áleiðis að Hvassahrauni þar sem hún kemur niður að Reykjanesbrautinni ofan við hin nýju mislægu gatnamót, sem þar eru.
Fyrsta varðan á leiðinni er nú inni á miðjum golfvellinum á Hvaleyri. Önnur varða, eða vörðubrot, er skammt sunnar. Þriðja varðan er sunnan Reykjanesbrautar. Síðan tekur við svæði Kapelluhrauns þar sem búið er að fjarlægja yfirborðslagið og þar með götuna. Gatan kemur síðan aftur í ljós við kapelluna á u.þ.b. 10 metra kafla og loks þar sem hún kemur niður Brunann ofan við tjarnirnar við Gerði. Efst á Brunanum við götuna er varða. Þá liðast hún með tjörnunum að austan- og síðan sunnanverðu í áttina að Miðmundarhæð. Hún er augsýnileg þar sem Miðmundarvarða stendur uppi á hæðinni.

Gerði

Gerði og Gerðistjörn.

„Gerði reisti Guðjón Jónsson frá Setbergi um aldamótin 1900. Alfaraleiðin út á Útnes lá svo að segja um túnblettinn. Hann lá yfir Kapelluhraunið, eða Brunann, eins og það var stundum nefnt, síðan lá leiðin áfram, þar til komið er í Brunaskarð vestra. Við hvort skarð eru vörður, er nefnast Stóravarðan eystri og Stóravarðan vestri. Sagnir voru um, að einn sveina Kristjáns skrifara, sem drepinn var á Kirkjubóli á Miðnesi, hafi verið dysjaður við Kapelluna. Var því þarna stundum kölluð Dysin eða Kapelludys. Úr skarðinu liggur alfaraleiðin vestur um Hraunin ofan eða sunnan garðs á Þorbjarnarstöðum. Þegar hér er komið, verður fyrir stígur, er liggur frá Gerðinu, nefnist Gerðisstígur. Lá stígur þessi suður með vesturbrún Brunans.“

Kapella

Alfaraleiðin við kapelluna.

Gengið var eftir Alfaraleiðinni gömlu frá Gerði þar sem hún kemur niður úr Brunanum sunnan við Hraunshornið, norðan Gerðis, og henni fylgt yfir að brunninum í Brunntjörninni. Flóruð brú liggur út að brunninum, sem er í tjörninni. Þarna var og þvottur þveginn og skammt austar var þvegin ull.
Gengið er framhjá túngörðum Þorbjarnastaða. Að þessu sinni var tækifærið notað og kíkt á tóftirnar sem og Gránuskúta. Þvottastæðið er neðan við Þvottastíginn þar sem er hlaðinn bakki út í tjörnina sunnanverða. Vel má sjá hleðslur gamla brunnsins í tjörninni. Ofan við götuna er Þorbjarnarstaðaréttin undir breiðum klapparhól. Hún er ekki ósvipuð Óttarstaðaréttinni, með tvo dilka, lambakró og fallega hlöðnum veggjum. Réttin var fyrrum nefnt Stekkurinn, en eftir að hann var færður út og réttargerði hlaðið norðan við stekkinn, var hann jafnan nefndur Réttin eða Þorbjarnarstaðarétt.
GvendarbrunnurAlfaraleiðin liggur áfram framhjá Miðmundarholti (-hól/-hæð), yfir Straumsselsstíg. Gatan er vörðuð meira og minna, ýmist með heilum vörðum eða endurupphlöðum. Við Miðmundarhæðina eru gatnamót götu heim að Þorbjarnarstöðum. Önnur gatnamót eru skammt austar. Mun þar vera um að ræða Skógargötuna frá Straumi er lá upp með vestanverðum túngarði Þorbjarnarstaða. Gránuskúti er þarna skammt sunnar, lítið en einstaklega fallegt fjárskjól frá Þorbjarnarstöðum.
Ekki er minnst á Alfaraleiðina í örnefnaslýsingu fyrir Þorbjarnastaði, sem verður að þykja sérstakt því leiðin liggur um land jarðarinnar og hefur án efa haft mikil áhrif á líf fólksins þar. Í örnefnalýsingu (GS) fyrir Straum er hins vegar getið um Alfaraleið. „Þá liggur hér vestur um hraunið Alfaraleiðin í miklum djúpum lægðum, sem nefnast Draugadalir. Hér mun og vera staður, sem nefnist Himnaríki. Tilefnið er það, að bóndi nokkur í Hraunum ætlaði að fara á Rauð sínum til himnaríkis – eftir viku drykkju. Hann lagði upp undir rökkur með nesti og nýja skó (en kvaðst ekki þurfa sokka, því að nóg væri af þeim í himnaríki). Hesturinn skilaði sér fljótt heim, og sjálfur kom bóndi undir vökulok. Í skrá G.S. segir, að hnakkurinn og beizlið hafi fundizt vestarlega í Draugadölum, en heimildarmenn sr. Bjarna segja, að þetta hafi legið í Stekkatúninu. Síðan er þarna kallað Himnaríki.

Varða við Alfaraleiðina

Þegar kemur vestur úr þessum þrengslum eða skorningum, má finna götu, sem liggur upp á klappir norðan við þær, og liggur gatan austur áleiðis að Þorbjarnarstöðum. Gata þessi nefnist Vetrarleið. Snjóþungt var í Alfaraleið, en snjóléttara hér og því var hún farin á vetrum.
Sunnan í klettahrauni því, sem hér er, vestan Miðmundahæðar (sjá Þorbjarnarstaði), liggur rani fram úr. Á þessum rana er vel hlaðið Skotbyrgi, sem stendur enn. Fjárgata liggur upp úr rétt hjá byrginu. Í skrá G.S. segir, að hér liggi fram úr hrauni þessu Mosastígurinn og Skógarstígurinn frá Þorbjarnarstöðum, en þennan Mosastíg kannast sr. Bjarni og heimildarmenn hans ekki við (sjá Þorbjarnarstaði).“ Skotbyrgið sést enn, við vestari Straumsselsstíginn, en er ekki í sjónlínu frá Alfaraleið.
Sunnan við Þorbjarnastaði er Stekkurinn eða Réttin undir háum hraunhól. Hún er vel hlaðin. Í henni er lambakró. Þar er Stekkatún.“

Alfaraleið

Varða við Alfaraleiðina á golfvellinum.

Gengið er þvert yfir vestari Straumsselsstíg að Hæðunum. Þá var komið að Gvendarbrunni, litið á fjárskjólið nálægt honum og síðan haldið áfram suður götuna. Brunnurinn er hola í miðjum grasbala á lítilli klapparhæð við götuna. Sagan segir að Guðmundur góði Hólabiskup hafi blessað hann á sínum tíma.
Annars eru Gvendarbrunnarnir a.m.k. fjórir á Reykjanesi, þ.e. þessi við Alfaraleiðina, Gvendarbrunnur í Vogum, Gvendarbrunnar í Heiðmörk og Gvendarhola í Arnarneshæð. Það er líkt með Gvendarbrunnum og Grettistökum að Gvendur og Grettir hafa að öllum líkindum aldrei litið hvorutveggja augum. En það er nú önnur saga. Sá átrúnaður fylgdi svonefndum Gvendarbrunnum (sem talið var að Guðmundur biskup hinn góði hefði blessað) að vatnið í þeim læknaði mein. Þannig var t.d. talið gott að bera það á augu eða á sár svo þau myndu gróa. Nokkrar heilar og fallega hlaðnar vörður eru á þessum kafla leiðarinnar. Skammt vestan Gvendarbrunns má sjá leifar af tveimur stórum vörðum, sem verið hafa beggja vegna götunnar.
Varða í DraugadölumÞegar komið er framhjá Óttarstaðaborginni (Kristrúnarborginni) liggur Óttarstaðaselsstíg (Skógargötuna) yfir hana. Líklega er hér um misskilning að ræða. Skógargötunnar er getið í lýsingu upp frá Straumi. Þar liggur hún til suðurs vestan túngarðs Þorbjarnarstaða með stefnu upp í Draugahraun. Neðan þess eru gatnamót götu er liggur síðan þvert á Óttarsstaðaselsstíg og áfram upp í Skógarnef. Þessi leið er auðfarin, en ógreinileg vegna gróninga, með föllnum vörðubrotum í fyrstu, en vestan Óttarstaðaselsstígs hafa vörðurnar verið endurreistar og því auðveldara um vik. Líklega er hér um hina eiginlegu Skógargötu að ræða.

Alfaraleiðin

Alfaraleiðin um Hafnarfjörð.

Smalaskálahæðir eru á hægri hönd. Skammt vestar liggur Lónakostsselsstígur yfir götuna og upp í hæðir. Varðan ofan við selið sést vel. Nú verður gatan óljósari, en ef farið er hægt og rólega og tekin mið af kennileitum og vörðubrotum má sjá hvar gatan hallar til vesturs og líður svo í bugðum áleiðis að Hvassahrauni. Skammt sunnan Reykjanesbrautar, áður en komið er á móts við Hvassahraun, hverfur hún svo til alveg, en Reykjanesbrautin hefur verið lögð yfir götuna á þessum kafla.
Alfaraleiðin er skemmtileg gönguleið um fallegt hraun. Á leiðinni ber margt fyrir augu, sem áhugavert er að staldra við og skoða nánar.
Leiðin milli Hvassahrauns og Þorbjarnarstaða er 6 km. Að ganga þennan kafla leiðarinnar tekur u.þ.b. 1 og 1/2 klst.
Frábært veður.

Heimild m.a.:
-Örnefni og gönguleiðir á Vatnsleysuströnd – Sesselja G. Guðmundsdóttir.
-Örnefnalýsing fyrir Straum.
-Gísli Sigurðsson.

Alfaraleiðin

Alfaraleiðin (gul lína).

Fagridalur

Gengið var inn á Dalaleið, hina gömlu þjóðleið milli Kaldársels og Krýsuvíkur, í Fagradal, gatan rakin upp hlíðina og upp á og yfir næstum óendanlega Vatnshlíðina. Götunni var síðan fylgt þvert yfir Hvammahaunið auk þess skoðaður var hugsanlegur stígur vestar í hrauninu. Þar liggur kindagata/fjárgata um þykkt mosahraunið. Loks var gengið til baka með ofanverðri Vatnshlíðinni og niður Vatnshlíðarhorn þar sem gamla gatan austan við Sveifluháls var skoðuð og henni fylgt spölkorn í átt að Breiðdal. Við hana eru tóftir tveggja „smáhýsa“, sem ekki er gott að segja hvaða tilgangi hafi þjónað.

Gata upp úr Fagradal

Gamlar þjóðleiðir og fornir stígar liggja vítt og breitt um Reykjanesfólkvang. Þessar leiðir hafa gleymst eftir að ökuvegir voru lagðir og menn hættu að þræða gamlar slóðir á ferð sinni um Nesið. Flestar leiðirnar tengdu byggðahverfin gömlu við útverin á Suðurnesjum. Á milli Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur lágu t.d. Undirhlíðaleið, Dalaleið, Vatnaleið, Stórhöfðastígur og Hrauntungustígur. Frá Hraunabæjunum við Straumsvík og Hvassahrauni lágu Straumsselsstígur, Rauðamelsstígur og Mosastígur til Krýsuvíkur, að Selatöngum eða Grindavíkur. Með Núpshlíðarhálsi lágu Hálsagötur og milli Vatnsleysustrandar og Vigdísarvalla lá Þórustaðastígur, sem nefnist Drumbsdalastígur þar sem hann þræðir sig frá völlunum austur að Krýsuvík.
Dalaleiðin lá upp frá Kaldárseli um Kúastíg, sem enn er áberandi suðaustan sumarbúða KFUMogK, suður með Undirhlíðum, upp Kýrskarð, upp fyrir norðurhorn Gvendarselshæða, suður með þeim austanverðum og um Slysadali, Leirdal (áður hétu dalirnir báðir Leirdalir), framhjá vatnsstæðinu syðst undir Lönguhlíðum með stefnu inn Fagradal. Ef vel er að gáð má sjá mjög grónar tóftir norðvestan Leirdals og norðaustan Fagradals.
Hraunkarl Erfitt er að segja til um hvaða hlutverki þær hafa gegnt nema að undangenginni nákvæmri rannsókn. Í fjarlægð lítur svæðið út eins og bæjarhóll undir brattri hlíðinni.
Þeir, sem farið hafa þessa svonefndu Dalaleið um Fagradag hafa eflaust farið inn dalinn að norðanverðu. Þar er hann vel gróinn í vöngum, einkum á kjálkum. Dalurinn er aflíðandi og því auðveldur uppgöngu. Hrauntunga liggur ofan í dalinn, kominn alla leið úr Kistufellsgígunum. Fjárgata ligur með hraunkantinum að sunnanverðu. Uppi í dalsendanum sést gatan mjög vel þar sem hún liggur skáhallt upp hraunhlíðina til suðurs. Þegar gatan er gengin er ljóst að ekki hefur hún nú verið fjölfarin hestagata. Líklegt þykir að gatan hafi mest verið sótt af fé og tiltölulega fáu fólki, enda er hún miklu mun lengri en Undirhlíðavegurinn frá Kaldárseli með vestanverðum Undirhlíðum og Sveifluhálsi, upp á Ketilsstíg.
Uppi á brún greinist leiðin, annars vegar til suðurs og hins vegar til suðvesturs um veðurbarða og grýtta „hásléttuna“. Vörður eru ofan brúnar að norðvestanverðu. Ein þeirra, sem næst er, er landmælingavarða. Sú, sem nær er brúninni hefur líklega, líkt og aðrar vestar með henni, verið hlaðnar af fólki, sem afrekað hefur göngu þangað upp, fundist mikið til koma og viljað skilja eftir „minningu“ um afrekið. Fólk ætti frekar að skilja eftir miða eða jafnvel geymsluþolinn mat fyrir aðra, sem á eftir koma. Vörður voru leiðarmerki hér fyrrum og höfðu því ákveðinn tilgang. Með nýjum vörðum brenglast sú mynd, sem upphaflega var máluð á þjóðleiðum sem þessari.
Gata Til að spara tíma var stefnan tekin beint, ofan gilja á frosnum mosanum (sem var eins og teppi undir fótum), á suðurbrún hásléttunnar þar sem útsýnið var stórbrotið yfir Hvammahraunið og Krýsuvíkurfjöllin. Á leiðinni lét hraunkarl á sér kræla. Reyndar kom mjög á óvart að hann reyndist vera hraunkona. Dalaleiðin sást þaðan þar sem hún lá um mjósta hraunhaftið í Hvammahrauni, yfir í óbrennishólman, sem þar er. Hún var rakin í gegnum hraunið. Innkoman er breið og leiðin skiptist stuttu síðar í tvennt, en kemur saman að nýju við endann hinum megin. Báðar eru þær ógreiðfærar og líklega verið 98,8% notuð af fé og því fáu fólki – og þá nánast eingöngu að sumarlagi.
Ólíklegt er að farið hafi verið með hesta þarna yfir hraunið. Óbrennishólminn er að mestu úr sandi, en þómá sjá móberg og brotaberg á stangli. Hann er sennilegast hluti af gömlu gosi, líklega frá þarsíðasta ísaldarskeiði, á sömu sprungurein og fæddi Gullbringu og sandfjöllin sunnan hennar (vestan Kálfadala).
Að sunnanverðu var vatn í grónum bolla og hægt var að fylgja götunni áfram með hraunkantinum að Gullbringu. Þar greinist hún í tvennt; annars vegar til vinstri upp sandbrúnir austan „hólsins“ og hins vegar niður með honum að norðanverðu.
Miðvert Hvammahraunið var skoðað svolítið betur vegna hagstæðra aðstæðna (mosinn var frosinn). Fjárgata sást liggja yfir hraunið nokkru vestan leiðarinnar og eflaust er fleiri slíkar að finna víðsvegar um hraunið. Lílklegt þykir að fleiri götur leynist þarna yfir hraunið og þá vestar. Það verður skoðað betur síðar.
Gengið var að vestanverðri hraunbrúninni í norðanverðum Hvömmum. Sjá mátti hvar hraunið hafði runnið niður hlíðarnar. Þunnfljótandi hraun var austar í hlíðinum og undir úfnu apalhrauninu í dölunum, en grófara hraun vestar. Hið þunnfljótandi hraun hefur líklega komið úr Kistufellsgígunum, en grófara hraunið úr eldborginnii víðfeðmnu norðvestan Eldborgar í Brennisteinsfjöllum. Sjá mátti þessa lagskiptingu sumsstaðar ofan Vatnshlíðar.
Fagridalur Götu var fylgt upp með hraunbrúninni og á hásléttuna. Gatan var greinileg drjúgan spöl eða þangað til komið var niður í ílanga hvylft í hlíðina. Hún var vel gróin bæði efra og neðra (nær Kelifarvatni). Fjárgata lá í henni milli hinna grónu svæða. Þá sást gatan vel þar sem hún lá upp hlíðina að norðanverðu. Henni var fylgt áfram norður yfir hásléttuna, en ekki leið á löngu að hún hvarf sjónum þar sem rann saman gata og vindsorfið grjót.
Framundan og ofanvert (hægra megin) var varða, vandlega hlaðin hringlaga, en nýleg. Ofan hennar (austar) var varða á klapparhól, sem skoðuð hafði verið á suðurleiðinni. Í norðri sást til vörðu, sem og tveggja ofan brúnar norðvestar. Engin gata fylgdi með vörðunum svo spurning er í hvaða tilgangi þær hafi verið hlaðnar. Allar virtust þær tiltölulega nýlegar. Ein varðan gaf þó augljóslega til kynna hellisop í grunnri rás.
Þunnfljótandi helluhraun (það eldra sennilega frá Kistufellsgígunum) hafði runnið þarna niður eftir og síðan fram af brún Vatnshlíðar á mjög afmörkuðu svæði. Neðan frá er það hinn tilkomumesti hraunfoss á að líta.
Rjúpa sást á stangli, en einungis ein í hóp. Ofan við Vatnshlíðarhornið er nýlega hlaðin varða og önnur nær brúninni, við uppgönguna (eða niðurgönguna eins og í þessu tilviki). Landmælingavarðan ofan Fagradalsgötunnar sást í norðaustri.
Farið var fetið niður Vatnshlíðarhornið, skref fyrir skref, enda eins gott að fara varlega. Frosið var undir og yfirborðið laust í sér. Feykivindur úr norðri bætti um betur. Ekki þurfti mikið til að komast á skrið í miklum brattanum. Allt gekk þetta nú vel, sem betur fer.
Tóft Niðri var skoðaður grunnur, sem talinn er hafa verið af gamla veitingahúsinu norðan við Kleifarvatn. Það var í rekstri áður en vegurinn var lagður undir Helluna á fimmta áratug 20. aldar. Gamla þjóðleiðin sést enn ofan (norðan við grunninn), en húsið hefur kúrt undir fyrrum Vatnsskarði, í skjóli fyrir norðanáttinni. Vatnsskarð það sem nú er nefnt hefur áður að öllum líkindum heitir Markrakagil. Það færðist að einhverjum ástæðum nokkru norðar með Undirhlíðum. Ástæðurnar eru taldar hafa verið landamerkjalegs eðlis.
Ofan við grunninn eru a.m.k. fimm litlar tóftir af einhverju, sem ekki er vitað hvað var. Fróðlegt væri að fá einhvern sérfræðinginn til að skoða aðstæður. Ekki er þó raunhæft að ætla að tóftir þessar hafi tengst veitingarekstrinum og þá verið geymslur. Þjóðleiðin gamla var þá aflögð og kominn akvegur nokkru austar með hlíðunum, á þeim stað sem hann er nú.
Þegar gengið var yfir „hásléttuna“ og götur þar skoðaðar, var stungið upp á því að nefna „Dalaleiðina“ miklu fremur „Dalaleiðirnar“ því við nákæma skoðun virtust þær mun fleiri en ein. Auk þess mun seint koma fram staðreyndir um hvar hún hafi í rauninni legið, ef hún hefur þá yfirleitt legið á einhverjum einum tilteknum stað.
Eftir að hafa elt fjárgötur í svo langan tíma var einungis eitt framundan – ofnbakaðar kótilettur.
Frábært veður. Gangan tók 5 klst og 5 mín.

Fagridalur

Tóftir í Fagradal.

Hrútagjárdyngja

Gengið var frá Djúpavatnsvegi um Hrútagjá og Hrútagjárdyngju, kíkt í Kokið, farið um mikla hrauntröð út úr henni að norðanverðu, um hellasvæði norðvestan hennar og síðan norður með austanverðum Almenningum með viðkomu í Gininu og fjárskjóli með fyrirhleðslum og fallega hlaðinni fjárborg við Brunntorfur.

Hrútagjárdyngja

Gengið um Hrútagjárdyngju.

Eitt af stærstu hraununum í kringum Hafnarfjörð er komið úr Hrútagjárdyngju. Upptök þess eru nyrst í Móhálsdal. Á gígsvæðinu er allmikil gjá sem heitir Hrútagjá og við hana er dyngjan kennd. Dyngjan sjálf, fallega löguð, er nokkuð vestar og frá henni liggja myndarlegar hrauntraðir. Hraunið hefur að mestu runnið til norðurs og til sjávar og hefur myndað ströndina milli Vatnleysuvíkur og Straumsvíkur. Í daglegu tali gengur stærsti hluti hraunsins undir nafninu Almenningur. Öskulög í jarðvegi ofan á hrauninu benda til að hún hafi myndast fyrir 5000 árum.

Hrútargjárdyngja

Hrútargjárdyngja – hraunið er varð undirstaða Hraunabæjanna.

Samsetning hraunsins samkv. rannsóknum Jóns Jónssonar, jarðfræðings, að meðaltali er Plagioklas um 48,4% og Pyroxen um 32,7%. Ólivín er 11,4% og málmur um 7,3%.
Á leiðinni í gegnum dyngjuna, skammt suðvestan hennar var komið að djúpum sprungum, greinilega gasuppstreymi út frá gígnum. Var þeim gefið nafnið Kokið. Föngulegur hópur hellaáhugamanna var með í för og var tilefni ferðarinnar m.a. að skoða niður í þessar “gjár”. Hér er um að ræða 15-20 m djúpa „sprungu“ í hrauninu. Ekki er ólíkt því að horfa niður í kok á einhverri furðuskepnu og horfa þarna niður í sprunguna. Búið var að skoða hluta hennar áður með takmörkuðum búnaði, en nú var ætlunin að láta fagmennina líta á fyrirbærið.

Húshellir

Við Húshelli.

Sprungan er þröng og því best að skilja bjórvömbina eftir heima. Þrír hellamanna nudduðu sér niður og telst Kokið því fullkannað. Svo virðist sem bráðið hraun hafi runnið í sprungunni, því nokkuð er um hraunfossa, rennslistauma og 8-10cm hraunskán sem þekur allt yfirborð sprungunar. Hraunskánin myndast jafnt á lofti sem veggjum. Sprungan hefur framhald bæði að ofan og neðan, en vegna ofvaxtar hellamannanna varð ekkert úr frekari landvinningum.
Húshellir er í hraunbrekkunni norðan dyngjunnar. Hleðsla í hellinum hefur verið ráðgáta. Hins vegar kann að vera skýring á henni. Í gömlum sögnum segir af útilegumönnum á Selsvöllum, sennilega á 17. öld.

Hverinn eini

Hverinn eini.

Í heimildinni segir að útilegumennirnir hafi haldið til við Vellina, nálægt Hvernum eina, en herjað á Vatnsleysuströnd. M.a. hafi þeir stolið frá bóndanum í Flekkuvík. Eftir að þeir hafi flutt sig „norður með fjöllunum, í helli sem þar er“, hafi þeir áreitt og rænt ferðalanga. Yfirvaldið hafi safnað liði, handtekið þá og fært til Bessastaða þar sem dæmt var í máli þeirra. Stórhöfðastígur liggur þarna niður með. Hann sést vel vestan við Hrútargjárdyngju og áfram niður með henni norðvestanverðri, niður með Fjallinu eina og síðan áfram yfir hraunið austan við Sauðabrekkur, niður í Brunntorfur nálægt Bláfjallavegamótum og áfram yfir hraunið að horni Stórhöfða. Stígurinn sést þarna vel á kafla, en mosi og lyng hefur þakið hann að mestu í grónu hrauninu vestan við Fjallið eina.
Önnur skýring á hleðslunum getur verið sú að þar hafi menn á leið um gömlu þjóðleiðina viljað getað leitað skjóls undan verðum. Einnig að menn hafi haldið þar til við refaveiðar, en þarna ekki langt frá er hestshræ (beinin). Bein eru í hellinum og væri fróðlegt að reyna að finna út af hvaða skepnu þau hafi verið.

Húshellir

Í Húshelli.

Þetta er einn möguleikinn á tilvist hleðslanna í Húshelli, en taka þarf honum með þeim fyrirvara að annað kunni einnig að koma þarna til greina. T.d. vantar þarna eldstæði eða önnur merki um að menn hafi haldið til þarna um einhvern tíma.
Önnur saga segir að yfirvaldið hafi lokað helli útilegumannanna eftir handtökuna til að koma í veg fyrir að aðrir settust þar að. Einnig gæti þarna hafa verið athvarf fyrir þá er stunduðu hreindýraveiðar á Reykjanesinu (síðasta dýrið drepið á Hellisheiði 1901 eða 1904) eða annan veiðiskap. T.d. er hlaðin refagildra í Hrútagjáryngjunni. En þetta eru bara vangaveltur – gaman að velta þessu fyrir sér.

Húshellir

Í Húshelli.

Húshellir er í alfaraleið og er nokkur hundruð metra langur. Eftir að hafa gengið á sléttu helluhrauninu, hoppað yfir sprungur og sokkið í mosa, var komið að Gininu. Það fannst nokkur áður er FERLIRsfélagar voru að koma þarammani niður frá gígaröð norðan við Sauðabrekkur. Blasti opið skyndilega við þeim í annars sléttu hrauninu. Ginið er magnaður hellir og er án efa mest „töff“ hellafundur síðan Eldhraunshellarnir fundurst að mati hellaramanna. Ginið er um 10-15m djúpt, trektlaga og snjór er í botni þess. Á yfirborði er ekki að sjá greinileg ummerki um gjall eða klepra, og því stendur þetta gat út í auðninni eins og skrattinn úr sauðaleggnum. Því miður vannst ekki tími til að skoða Ginið að fullu, en til að það sé hægt þarf að hafa klifurbúnað og góðan tíma. (Sjá aðar FERLIRslýsingu þar sem Ginið var sigrað).

Þorbjarnarstaðaborg

Þorbjarnastaðaborg.

Hraunspilda milli Kapelluhrauns og Afstapahrauns á Vatnsleysuströnd nefnist Almenningur. Var þar fyrrum skógi vaxið en hann eyddist af höggi og beit. Síðan um aldamót 19. og 20 . aldar hefur hraunið lítið verið breitt enda hefur það gróið nokkuð á ný. Norðan í honum er hlaðið fjárskjól í skútum. Norðvestan þeirra er Þorbjarnarstaðaborgin við Brunntorfur. Hún var hlaðin af börnum Þorbjarnarstaðahjónanna um aldamótin 1900, en stendur enn nokkuð heilleg rúmlega aldargömul. Sennilega hefur fjárskjólið einnig tilheyrt Þorbjarnastaðafólkinu og sennilega verið ástæðan fyrir gerð borgarinnar. Svo virðist sem hún hafi átt að verða topphlaðin, líkt og Djúpudalaborgin í Selvogi, en heimilsfaðirinn á Þorbjarnarstöðum var einmitt frá Guðnabæ í Selvogi.
Frábært veður – Gangan tók 3 klst og 33 mínútur.

Heimildir m.a.:
-Jarðfræði Hafnarfjarðar – flensborg.is
-speleo.is

Hrútagjárdyngja

Hrútagjárdyngja.

Kleifarvatn

„Svo er talið, að Ögmundarhraun hafi runnið (eða brunnið, eins og Snorri goði mundi hafa orðað það) um miðja 14. öld.

Austurengjahver

Austurengjahver.

Um stað þann, sem nú er kallaður Húshólmi, þar sem er miklu eldra hraun undir gróðrinum en Ögmundarhraun er, hefur hraunstraumurinn klofnað. Hefur önnur álman runnið fyrir vestan hólma þennan, en hin fyrir austan hann og báðar beint í sæ út. Rétt austan við vestari hrauntunguna eru bæjarrústir nokkrar, og er auðsætt, að eitthvað af húsunum hefur orðið undir hraunstraumnum.

Húshólmi

Vísan á Húshólmastíg.

Er og almennt álitið, að þarna hafi bærinn Krýsuvík upphaflega staðið, enda lítt hugsanlegt, að bænum hafi verið valið víkurnafnið, ef hann hefði frá öndverðu verið þar, sem hann nú er, nálega hálfa fimm kílómetra frá sjó, enda ekki um neina vík neins staðar að ræða. Bæjarrústir þessar eru og enn þann dag í dag jafnan nefndar gamla Krýsuvík eða Krýsuvík hin forna. Suður og suðvestur af bæjarrústum þessum verður lægð nokkur í hraunstrauminn, og álíta sumir, að einmitt þar hafi víkin sjálf verið, sú er bærinn dró nafn sitt af rétt vestan við Húshólmann við Húshólmafjöruna. Kirkjuflöt heitir og rétt hjá rústunum.

Húshólmi

Húshólmi – minjar.

Ráðleggja mætti þeim, sem skoða vildu tóftarbrot þessi og vinna sé það á sem auðveldastan hátt, að fara í bifreið úr Grindavík austur fyrir Ögmundarhraun, (akstur eins og vegurinn er nú), ganga síðan suður með austurjarðri hraunsins, þar til komið er að stíg þeim, sem liggur yfir eystri hraunálmuna út í Húshólmann, þar til komið er að bæjarrústunum. Mun ganga þessi vara eina klukkustund, þótt ekki sé allrösklega farið.

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

Svo sem mörgum er kunnugt liggur Kleifarvatn í klauf þeirri, sem verður millum Sveifluháls og Vatnshlíðarinnar, og þegar komið er sunnan við vatnið, virðist sem fjöll þessi nái saman við norðurenda vatnsins. Hyggja því sumir, að vatnið dragi nafn sitt af klofa þessum. Um háttsemi þessa stóra stöðuvatns og misvöxt þess hafa ýmsir mætir menn skrifað margt og mikið nú á síðari árum, og skal því ekki farið út í þá sálma hér, enda ekki leikmönnum hent að leggja þar orð í belg.

Víti

Víti.

Sá hluti af Krýsuvíkurengjunum, sem lægst liggur og næst vatninu að sunnan, heitir Nýjaland (hið inna og fremra). Misvöxtur vatnsins veldur því, að engjasvæði þessi liggja oft svo árum skiptir í senn undir ágangi Kleifarvatns, en mjór malarhryggur, sem gengur til vesturs frá norðurenda Hvammholtsins, skiptir Nýjalandinu í tvennt, hið innra og fremra, og kallast tangi sá Rif.

Nýjaland

Nýjaland.

Vestan við Fremralandið og við vesturenda Rifsins rennur lækur sá, er nefnist Ós inn á Innralandið og í vatnið sjálft. Á Ósinn upptök sín að mestu á Vesturengjunum og í Seltúnshverfunum, en smálindir koma þó í hann af Austurengi, úr Hvömmunum og Lambafellum.

Nýjaland

Nýjaland – tóft.

Svo er landslagi háttað, að Fremralandið var miklu lengur slægt en hið innra, og nam sá tími einatt nokkrum sumrum. Mátti í góðu grasári heyja um sex hundruð hestburði á hvoru Nýjalandi, þegar vatnið var svo þorrið, að unnt var að slá þau bæði.

Ekki er það fátítt, að stararstráin á Nýjalandi verði rúmlega álnarhá, því að oftast nær flæðir Ósinn yfir að vetrarengi, hvað sem vexti Kleifarvatns líður.

Kleifarvatn

Kleifarvatn – hverir.

Hverir eru í vatninu, og sjást reykir nokkrir leggja upp úr því í logni, en á vetrum eru þar jafnan vakir. Sjaldan leggur vatnið fyrir vetrarsólstöður.
Þegar lítið var í vatninu, var jafnan “farið með því”, þá er sækja þurfti til Hafnarfjarðar. Lá sú leið eftir allri vesturströnd vatnsins, milli þess og Sveifluháls, þar sem seinna var gerður akvegur. Er sá vegur greiðfærari miklu og talsvert skemmri en sá að fara Ketilsstíg og síðan “með hlíðunum”.

Á korti herforingjaráðsins er nafnið Ketilstígur sett fram með Sveifluhálsi að norðvestan, en það er ekki nákvæmt, því að Ketilsstígur heitir aðeins sá hluti þeirrar leiðar, sem liggur upp á Sveifluháls að Norðanverðu, og er stígur þessi innan í gömlum gíg, sem kallast Ketill.

Ketilsstígur

Ketilsstígur.

Austur og suðaustur af Arnarfelli er mýrarfláki, stór nokkuð, sem kallast Bleiksmýri, og var þar mikill áfangastaður á þeim tímum, sem þeir Árnesingar og Rangæingar fóru skreiðarferðir til verstöðvanna á Reykjanesskaga. Mátti einatt sjá marga tugi eða jafnvel nokkur hundruð hesta á Bleiksmýri í einu og fjöldi tjalda, þegar hæst stóðu lestaferðirnar. Mun og mörgum hestinum hafa þótt gott að koma í Bleiksmýri úr hagleysinu og vatnsskortinum á Reykjanesskaganum. Var og ekki óalgengt að menn lægju þar einn og tvo daga til þess að hestar þeirra fengju sem besta fylli sína, áður en lengra var haldið.

Víða í hraununum á Reykjanesskaga, eins og reyndar víðar á landi hér, getur að líta nokkuð djúpa götutroðninga í hraunhellunum eftir margra alda umferð. Má þar um segja: “Enn þá sjást í hellum hófaförin“.”

Ögmundarstígur

Ögmundarstígur.

Í Ögmundarhrauni mynduðust holur með þröskuldum á milli, og var hver hola um eitt fet í þvermál og hnédjúp hestum, og í rigningatíð stóðu holur þessar fullar af vatni. Fyrir nokkrum áratugum var gerð vegabót nokkur í Ögmundarhrauni, og holur þessar fylltar upp. Í gamalli og alþekktri vísu segir svo:
Eru í hrauni Ögmundar
ótal margir þröskuldar,
fáka meiða fæturna
og fyrir oss brjóta skeifurnar.

Fáni

Flaggað við Eiríksvörðu á Arnarfelli.

Það mun mega teljast hæpið hvort örnefnið Gullbringa sé sýnt á alveg réttum stað á korti herforingjaráðsins, þar sem það er sett á hæð eina, 308 metra háa, sunnarlega í Vatnshlíðinni. Þeir, sem kunnugir eru á þessum slóðum, hafa jafnan kallað Gullbringu lyngbrekku þá, sem er vestan í Vatnshlíðinni og nær niður undir austurströnd Kleifarvatns. Ýmsir telja, að sýslan dragi nafn sitt af þessari brekku. Mætti í því sambandi benda á það, að ekki eru þeir allir fyrirferðarmiklir staðirnir á Íslandi, sem heilar sýslur draga nafn sitt af.

Stóra-Eldborg

Stóra-Eldborg vestast undir Geitahlíð.

Þrjá til fjóra kílómetra austur frá bænum í Krýsuvík er Eldborgin, og svipar henni að mörgu leyti til nöfnu sinnar í Hnappadalssýslu – þeirrar, sem Hendersen gerði víðfræga með teikningu sinni. Skarð það, er verður millum Eldborgar og Geitahlíðar, heitir Deildarháls, og liggur alfaravegurinn yfir hann.
Dr. Þorvaldur Thoroddsen taldi gíginn í Eldborg vera 500 fet að ummáli að ofan og 105 á dýpt, en hæð fellsins telur hann 172 fet. Meinaði hann þar eflaust hæð Eldborgarinnar yfir jarðlendinu umhverfis hana, því að á korti herforingjaráðsins er hæð hennar yfir sjávarmáli talin 180 metrar.

Æsubúðir

Æsubúðir.

Efst í Geitahlíð er og gígur mikill, en hann er eldri en síðasta jökulöld, eins og reyndar hlíðin öll er. Barma gígs þessa ber hærra en aðra hluta Geitahlíðar, er heita Æsubúðir. Niður af Æsubúðum, en sunnan í Geitahlíð, verður hvammur sá, er kallast Hvítskeggshvammur eða Hvítskeifshvammur, og er til prentuð þjóðsaga um þessi örnefni, en eigi er sú sögn allsennileg.
Skammt fyrir austan Deildarháls og hvamm þennan eru Kerlingar (sagan um Krýs og Herdísi), Bálkahellir (lítt eða ekki kannaður), Gvendarhellir (bóndi í Krýsuvíkurhverfinu, Guðmundur að nafni, hýsti fé sitt í þessum helli þá er harðindi gengu, líklega á fyrri hluta 19. aldar), og Kerið á Keflavík (uppi á 6 metra háum hamri ofan við Keflavík er op, Kerið, niður í flæðamál).

Austurengjahver

Austurengjahver.

Leirhverin mikil í Krýsuvík, sá er myndaðist við sprengjugosið, er þar varð haustið 1924 og olli landskjálftum nokkrum víða um Surðurland, er þar, sem áður var vatnshver lítill og hét Austurengjahver. Virðist svo, að leirhverinn megi og vel halda sama nafninu. Fúlipollur er næstum á miðjum Vesturengjum, og er hann eitthvert stærsta hverastæðið, sem til er í Krýsuvík, virðist ekki þurfa að velkja það lengi fyrir sér, að endur fyrir löngu hafi þarna orðið sprengigos líkt því, er varð þá, er Austurnegjahver endurmagnaðist, haustið 1924. Auðsætt er, að hverinn er á hrörnunarskeiði. Ýms merki virðast og benda til þess, að Austurnegjahver muni ekki heldur verða neinn Ókólnir.

Arnarfellstjörn

Arnarfellstjörn.

Ekki skal hér rætt um breinnisteininn í Krýsuvík né þann í Brennisteinsfjöllunum, enda eru Brennisteinsfjöllin austan sýslumarkanna og því í Herdísarvíkurlandi.
Þess hefur orðið vart, að sumir menn halda, að örnefnið Víti sé hver, en svo er eigi. Víti er hraunfoss, sem fallið hefur vestur af hálendisbrún þeirri, sem verður norður af Geitahlíð, og er hraunfoss þessi sennilega á svipuðum aldri og Ögmundarhraun. Hann er nú storknaður fyrir löngu og allur gróinn þykkum grámosa.

Dysjar

Dysjar Herdísar, Krýsu og smalans í Kerlingadal.

Eiríksvarða á Arnarfelli er vel þekkt úr þjóðsögum, sem segja, að séra Eríkur Magnússon, hinn fjölkunnugi Vogsósaklerkur, hafi hlaðið hana og mælt svo um, að aldrei skyldu Tyrkir koma í Krýsuvík meðan varðan stæði uppi. Nú er varðan hrunin, næstum í grunn, en Bandaríkjamenn komu í Krýsuvík, þegar seta þeirra í landinu hófst.
Vestan í Geitahlíð og skammt fyrir neðan fjallsbrúnina sjálfa leggur jafnan á vetrum þykka fönn, langa en ekki breiða. Er fönn þessi sjaldan horfin með öllu fyrr en um Jónsmessu, og dregur hún nafn sitt af því.
Krýsuvík hefu lengi verið talin einhver mesta útigöngujörð fyrir sauðfé á landi hér, einkum þó þeirra jarða, sem ekki hafa fjörubeit, og ekki var það ótítt að sumt féð þar lærði aldrei átið.

Húshólmi

Húshólmi – einn hinna fornu garða.

Vægar jarðhræringar voru ekki sjaldgæfar í Krýsuvíkurhverfinu og voru þær kallaðar hverakippir þar.
Mótak er þar sums staðar í mýrunum, en ekki þykir mórinn þar góður til eldsneytis. Er hann allur mjög blandinn hveraleir, svo að af sumum kögglunum leggur brennisteinslyktina, þegar þeim er brennt.
Fremur þykir vera þokusamt í Þrýsuvík og lengi hefu verið við brugðið, hversu myrk þokan geti orðið þar. Er það haft eftir manni nokkrum, að eitt sinn hafi hann verið á ferð um Sveifluháls í svo miklu myrkviðri, að hann hafi séð þokuna sitja í olnbogabótinni á sér. Rigningasamt í meira lagi þykir og vera þar, svo einatt er þurrviðri í næstu byggðarlögum, þótt rigning sé í Krýsuvík.

-Úr sunnudagsblaði Tímans 2. júlí 1967 – Stefán Stefánsson.

Gullbringa

Gullbringa.

Krýsuvík

Stefán Stefánsson var kunnastur leiðsögumaður útlendra ferðamanna á landi hér. Hann gerþekkti landið af löngum ferðalögum á hestum hvert einasta sumar. Þó mun Krýsuvík hafa verið honum kærari en flestir aðrir staðir.

Stefánshöfði

Stefánshöfði – minningarskjöldur.

Við Kleifarvatn hefur skjöldur verið felldur í klett til minningar um hann og höfði, áður Innristapi, verið nefndur eftir honum. Á þeim stað var ösku hans dreift út á vatnið að fyrirlagi hans sjálfs. Grein þá, sem hér birtist, mun Stefán hafa ritað alllöngu áður en hann lést, og var það einn þátturinn í ræktarsemi hans við Krýsuvík.

Í embættisbókum Gullbringusýslu er landamerkjum Krýsuvíkur lýst þannig: “Maríukirkja í Krýsuvík í Gullbringusýslu á samkvæmt máldögum og öðrum skilríkjum heimaland allt, jörðina Herdísarvík í Árnessýsu og ítök, er síðar greina.
Landamerki Krýsuvíkur eru:

Selatangar

Dágon – nú horfinn.

Að vestan; sjónhending úr Dagon (Raufarkletti, sem er klettur við flæðamál á Selatöngum) í Trölladyngjufjallarætur að vestan, sem er útbrunnið eldfjall norðanvert í Vesturhálsi, þaðan bein stefna í Markhelluhól, háan steindrang við Búðarvatnsstæði.
Að norðan; úr Markhelluhól sjónhending norðanvert við Fjallið eina í Merrakkagil (Markrakkagil) í Undirhlíðum og þaðan sama sjónhending að vesturmörkum Herdísarvíkur eða sýslumörkum Gullbringu- og Árnessýslu.
A austan; samþykkt og þinglýst vesturmörk Herdísarvíkur, sjónhending úr Kóngsfelli, sem er lág, mosavaxin eldborg umhverfis djúpan gíg á hægri hönd við þjóðveginn úr Selvogi til Hafnarfjarðar, örskammt frá veginum í Seljabótanef, klett við sjó fram.
Að sunnan nær landið allt í sjó.”
Þessu næst eru talin ítök þau, sem kirkjan á loks “ítök, sem aðrir eiga í landi kirkjunnar.”

Arnarfellsrétt

Arnarfellsrétt í Krýsuvík.

Í jarðarbók sinni geta þeir Árni Magnússon og og Páll Vidalín þess, að ágreiningur nokkur sé um landamerki Krýsuvíkur og Ísólfsskála, en ekki skýra þeir neitt frá því, um hvað sá ágreiningur sé. Náðar þessar jarðir eru þá (1703) í eigu dómkirkjunar í Skálholti.
Í máldögum og öðrm skjölum þeirra Páls og Árna er svo sagt, að hraundrangurinn eða kletturinn Dagon (Raufarklettur) sé landamerki og auðvitað fjörumerki millum jarða þessara, en hitt mun lengi hafa orkað tvímælis, hvort af tveim brimsorfnum hraundröngum, sem standa í flæðamáli á Selatöngum, sé Dagon. Og eigi er langt síðan (árið 1897), að þras nokkurt varð og málaferli risu út af, hvor þessara tveggja kletta væri Dagon. Um þetta mál sýndist sitt hverjum. Vísast þetta mál í sýslubækur Gullbringuslýslu.

Selatangar

Selatangar – herforingjaráðskort frá 1903.

Á korti herforingjaráðsins danska, er Dagon sýndur mjög greinilega, en hér kemur til greina, eins og reyndar víða annars staðar, hversu öruggar heimildir þeirra mælingamanna hafi verið.
Bilið millum hinna tveggja hraundranga, eða föruræma sú, sem deilurnar hafa verið um, mun eigi lengri en það, að meðalstóran hval gæti fest þar.
Ummál Krýsuvíkurlandareignar, er um sextíu til sjötíu kílómetrar, en flatarmálið eitthvað á þriðja hundrað ferkílómetra. Er stórmikill hluti af þessu víða flæmi ýmist ber og nakin fjöll með smáa og strjála grasteyninga upp í ræturnar eða þá víðáttumiklar hraunbreiður, þar sem lítinn gróður er að finna annan en grámosa gnógan og svo lyng á stöku stað.

Krýsuvík

Minjar í Krýsuvíkurheiði.

Aðalgraslendið í landareigninni er í sjálfu Krýsuvíkurhverfinu og þar í nánd. Má segja, að takmörk þessa svæðis séu Ögmundarhraun að vestan, Sveifuháls að norðvestan, Kleifarvatn að norðan, gróðurlitlar hæðir og melar að norðaustan og svo Geitahlíð, Eldborg og Krýsuvíkurhraun að austan, en bjargið og hafið að sunnan. Þessi óbrunna landspilda er nálega sex kílómetra breið syðst – sem svarar allri lengd Krýsuvíkurbergs frá Ytri-Bergsenda til hins eystri, en mjókkar svo jafnt og þétt allt norður að Kleifarvatni og verður þar ekki breiðari en suðurendi vatnsins, einn til tveir kílómetrar.

Ýmis fell og hæðir rísa upp úr sléttlendi þessu, svo sem Lambafellin tvö, sem aðskilja Vesturengi og Austurengi.

Krýsuvík

Krýsuvík – Arnarfell (t.v.) og Bæjarfell.

Bæjarfellið er norðan við Krýsuvíkurbæina og Arnarfell, suður af bænum. Bæði þessi fjöll eru móbergsfjöll. Sunnar nokkur, er hálsdrag eitt austur af Fitatúni. Eru þar vestastir móbergstindarnir Strákar, þá Selalda, Selhóll (undir honum Krýsuvíkursel) og Trygghólar austastir. Suður af Selöldu er Skriða. Framan í henni er Ræningjastígur (hans er getið í Þjóðsögum J.Á og ef til vill víðar).

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg – Ræningjastígur.

Stígur þessi er gangur einn, sem myndast hefur í móberginu og liggur skáhallt ofan af bjargbrún og niður í flæðamál. Ræningjastígur hefur verið fær til skamms tíma, er nú er sagt, að svo mikið sé hrunið úr honum á einum stað, að lítt muni hann fær eða ekki.
Hjáleigur tvær austan við Núpshlíðarháls voru Vigdísarvellir og Bali með túnstæði sín og mýrarskika í nágrenninu.
Krýsuvík, með hjáleigum sínum öllum, var um langan aldur sérstök kirkjusókn, og mun kirkja jafnan hafa haldist þar frá ómunatíð. Líklegt má telja, að það hafi gerst í kaþólskum sið, að Krýsuvíkurkirkja eignaðist jörðina Herdísarvík í Árnessýslu, en eftir að kirkjan í Krýsuvík var lögð niður, var ekkert því til fyrirstöðu að jarðirnar yrðu aðskildar eignir, enda er nú svo. – Herdísarvík hefur jafnan alist til Selvogshrepps og fólk þaðan átti kirkjusókn að Strandarkirkju.

Krýsuvík

Vestari-Lækur í Krýsuvík.

Sé Stóri-Nýibær talinn tvíbýlisjörð, eins og oftast mun hafa verið fram undir síðastliðin aldamót, og sé því ennfremur trúað, að nokkurn tíma hafi verið byggð á Kaldrana verða hjáleigur Krýsuvíkur fjórtán að tölu,þær sem menn vita nú um, að byggðar hafi verið og heita svo:
1. Stóri-Nýjabær (austurbærinn)
2. Stóri-Nýjabær (vesturbærinn)
3. Litli-Nýjabær
4. Norðurkot
5. Suðurkot
6. Lækur
7. Snorrakot
8. Hnaus
9. Arnarfell
10. Fitar
11. Geststaðir
12. Vigdísarvellir
13. Bali
14. Kaldrani
(Hér vantar Eyri (Efri-Fitar) og Fell):

Krýsuvík

Fell – tóftir.

Óvíst er og jafnvel ekki líklegt, að hjáleigur þessari hafi á nokkrum tíma verið allar í byggð samtímis. Þeir Árni Magnússon og Páll Vídalín nefna Norðurhjáleigu og Suðurhjáleigu, og má telja vafalítið, að það séu sömu hjáleigurnar sem seinna kölluðust Norðurkot og Suðurkot. Einnig nefna þeir Austurhús og Vesturhús og er hugsanlegt, að Austurhús hafi verið þar, sem nefnt var Lækur. En engum getum skal að því leitt hér, hvar Vesturhús hafi verið.

Krýsuvík

Krýsuvík – uppdráttur ÓSÁ.

Heimajörðin sjálf og allar hjáleigurnar, nema Vigdísarvellir og Bali, voru í daglegu tali kallað Krýsuvíkurhverfi, en þessar tvær hjáleigur voru suðaustan undir Núpshlíðarhálsi, sem oft er nefndur Vesturháls, og skilur Sveifluháls þær frá aðalhverfinu, en þar um slóðir var Sveifluháls einatt kallaður Austurháls, eða aðeins Hálsinn.

Arnarnýpa

Arnarnýpa á Sveifluhálsi.

Í jarðbók sinni telja þeir Árni Magnússon og Páll Vídalín, að árið 1703 hafi sjö af hjáleigunum verið byggðar og er þá tvíbýli í Stóra-Nýjabæ. Þá geta þeir og þess,að Krýsuvíkin sé eign dómkirkjunanr í Skálholti og að kirkjan í Krýsuvík sé annexía frá Selvogsþingum. Telja þeir, að 41 sála sé í söfnuðinum en þess má geta hér, að um miðbik 19. aldar var sjötíu manns í Krýsuvíkursókn. Ef treysta má því, að þeim Páli og Árna hafi verið rétt skýrt frá sauðfjáreign þeira Krýsvíkinga, þá hefur hún verið næsta lítilfjörleg á slíkri afbragðs hagagöngujörð. Hrossafjöldi er svo mjög af skornum skammti, en mjólkurkýr telja þeir vera tuttugu og tvær. Sem hlunnindi telja þeir fuglatekju og eggver, einng nefna þeir sölvafjöru og sé “sérhverjum hjáleigumanni takmarkað pláts til sölvatekju”.

Selatangar

Sjóbúð á Selatöngum.

Þá geta þeir þess, að á Selatöngum sé útræði fyrirhverfisbúa, en “lending þar þó merkilega slæm”. En þrátt fyrir þess “merkiega slæmu” lendingu, mun þó útræði á Selatöngum hafa haldist fram um 1870, að minnsta kosti alltaf öðru hverju (sjá Selatangar undir Fróðleikurí Skrár). Til er gömulþula, þar sem taldir eru meðnöfnum vermenn á Selatöngum og er þetta upphaf: “Tuttugu og þrjá Jóna telja má.” En endar svo: “Á Selatöngum sjóróðramenn, sjálfur guð annist þá.”
Á Selatöngum hafðist við hinn nafnkunni Tanga-draugur (Tanga—Tumi, sem talinn var hversdagslegur fremur einlítill, en þá er á hann rann jötunmóður, gat hann orðið svo fyrirferðamikill að hann “fyllti út í fjallaskörðin”, að því er Beinteini gamla á Arnarfelli sagðist frá.

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

Ekki munu aðrar hjáleigur en þær sex, sem hér eru fyrstar, hafa átt rétt til fuglatekju í bjarginu, og þó aðeins í þeim hluta þess, sem kallaður er Kotaberg. Er það miðhlutibergsins austan heimabergisins, en vestan Strandarbergs. Þó leyfist hverri hjáleigu ekki að taka fleiri egg en hundrað og fimmtíu og ekki að veiða meir en þrjú hundruð fugla (svartfugl, álku og lunda).
Langt mun síðan Geststaðir hafa verið byggðir. Vigdísarvellir og Bali höfðu sínar eigin engjar. Snorrakot og Hnausar hafa verið smábýli ein eða næstum því tómthús. Hið svokallað Snorrakotstún er aðeins horn af Norðurkotstúni og skilur túnin smálækur einn.

Krýsuvík

Bærinn Arnarfell í Krýsuvík.

Í Arnarfelli mun hafa verið búið fram um eða fram yfir 1870, en túnið þar var jafnan slegið frá höfuðbólinu fram undir 1890. Á Fitum voru nokkur stæðilegar bæjartóftir fram yfir síðastliðin aldamót. Þar var og safngryfja, sem óvíða sást merki til annars staðar í hverfinu. Túnstæði er nokkuð víð á Fitum og útslægjur hefði mátt hafa þaðan á Efri-Fitum, Landatorfu eða í Selbrekkum. Eigi var og heldur heybandsvegur þaðan í Trygghólamýrina“. (Sjá leiðarlýsingu af FERLIRsferð um Arnarfellsvatn og Trygghólamýri í Krýsusvík).

Úr Sunnudagsblaði Tímans 25. júní 1967.

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

krýsuvíkurvegur

„Hinn nýi vegur til Krýsuvíkur, sem nú er í smíðum, hefur vakið mikið umtal, og hefur fyrirtæki þetta að mestu sætt áfellisdómum. Er því einkum borið við, að vegagerð þessi verði vitleysislega dýr, en gagnið af henni óvíst.

Krýsuvík

Hellan við Kleifarvatn.

Hér á Íslandi er vegagerð svo dýr, að nauðsyn er á að hver vegarspotti komi sem flestum að notum. En með þessu vegi virðist sú stefna þverbortin, því að þessi dýri vegur liggur um óbyggðir einar. Á allri leiðinni frá Hafnarfirði og austur í Selvog – um 50 km. – er engin byggð nema Herdísarvík. Frá Selvogi og inn í Ölfus er svo 20 km. Alls verður þá þessi nýa Suðurlandsbraut rúmir 70 km, eða snöggum mun lengri heldur en leiðin yfir Hellisheiði. En þetta á að verða vetrarvegur þegar Hellisheiði er ófær. Sumir hafa ekki mikla trú á því, að það sé miklum mun snjóléttara þarna suður í fjöllunum heldur en á Hellisheiði, og verður reynslan að skera úr því hvort réttara reynist.

Kleifarvatn

Kleifarvatn – vegurinn undir Hellunni.

En hitt er öllum ljóst, að þetta verður dýrasta vegargerð hér á landi, þar sem ekki eru brýr á leiðinni. Í Vatnsskarðinu verður vegurinn að Keifarvatni lang dýrastur og örðugast að leggja hann. En þó voru örðuleikarnir ekkert á móts við það, sem tekur við, þegar farið er að leggja veginn meðfram vatninu að vestan.
Í fljótu bragði virðist svo sem vegurinn hefði átt að liggja fram með vatninu að austanverðu og þar hefði verið miklu auðveldara að gera hann. En fróðir menn sögðu, að þeim megin væri miklu meiri snjóþyngsli. Kyngdi þarna aðallega niður snjó í austan og norðaustan veðrum, þótt varla festi snjó vestan megin vatnsins. Þetta mun hafa ráið um það, að kosið var að leggja veginn vestan megin vatnsins.

Kleifarvatn

Hellan við Kleifarvatn.

Rétt innan við norðurlónið hefur verið reistur veitingaskáli, og það er fyrsta framkvæmdin í sambandi við Krýsuvíkurveginn. Þangað sækir fólk skemmtanir um helgar á sumrin, eða safnast þar saman til að skemmta sér. Þar við vatnsbotninn þrýtur hinn lagða veg. En þar eru tjöld í brekkunum, og hafast þar við vegavinnumenn þeir, sem vinna að því að halda veginum áfram suður með vatninu. Taka þarna þegar við klettar við vatnið og gangur ekki á öðru en sprengingum. Er klettunum rutt niður í vatnið og hafðir fyrir undirstöðu vegarins. Þetta er erfitt verk og seinlegt, því að það er svo sem ekki að það sé almennilegt grjót þarna. Ónei, það er öðru nær. Það er samryskja, sem hvorki er hægt að kljúfa né sprengja, höggva né handleika. Og svona er það alla leið suður fyrir Stapann syðri, hraun, móberg, móhella og sandsteinn hvað innan um annað.

Kleifarvatn

Kleifarvatn um Stapana.

Vegurinn á fyrst að liggja undir klettunum suður í vikið fyrir norðan Stapann innri. Þarf hann að vera hár yfir vatnsborð það, sem nú er, ef duga skal. Bæði er að vatnið getur hækkað mikið frá því sem nú er, og svo er öldugangur mikill þarna í sunnanveðrum og gengur brimlöðrið langt upp í kletta. En fallegt vegarstæði er þetta, og væri óneitanlega skemmtilegast ef vegurinn lægi alls staðar meðfram vatninu, undir klettunum, enda þótt hann yrði nokkuð krókóttur fyrir það, þar sem fara yrði kringum báða Stapana.

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

Og alveg óvíst að þær beygjumar hefði orðið mikið lengri heldur en samanlagðar allar þær beygjur og krókar, sem verða á honum þegar kemur upp í brattan norðan við innri Stapann og þar áfram yfir mjög mishæðótt land fyrir ofan báða Stapana og suður á sand. Er það að vísu ekki nema 3 km. leið, en þarna er eitthvert hið argvítugasta vegarstæði, sem hugsast getur.

Víðast hvar er hliðhalli og verður að höggva veginn niður í móberg og móhellur, annars staðar verður að hlaða hann upp margra mannhæða háan, svo að hann verður tilsýndar þegar búið er að hlaða grjóti utan að honum, líkastur brimbrjóti eða hafnargarði. Efni í þessa miklu upphleðslu er vandfengið og mikið haft fyrir því. Sums staðar verður að brjóta niður klettaborgir sem verða fyrir, og á öðrum stöðum verður að lækka vegarstæðið með því að höggva hlið í gegn um móberg og móhelluhóla.

Krýsuvík

Krýsuvíkurhver.

Móhellan er ekki lambið að leika sér við. Hún virðist í fljótu bragði ósköp auðunnin þar sem hægt er að tálga hana með hníf og mylja hana undir fæti. En hún er ekki öll þar sem hún er séð. Þegar hún blotnar má hún heita óvinnandi. Það er svo sem sama hvaða verkfæri er þá beitt á hana. Það er eins og hún verði ólseig. Og þess vegna stendur móhellan í vegavinnumönnunum, þar sem grágrýti hefði ekki staðið þeim snúning.
Þannig er þá skilyrðin til vegarlagningar þarna, og er ekki að furða þótt hver meterinn verði dýr. Reynslan verður svo að skera úr um hvort þessi nýi vegur dugir, eða hvort vatnsflaumurinn, sem hlíðin kastar af sér stundum, verður þess eigi megnugur að sópa honum burt. Og hættulegur getur vegurinn orðið þegar svellbungu leggur yfir hann, eins og við má búast að verði á vetrum. En þá á þetta einmitt að vera aðalleiðin frá Reykjavík til Suðurlandsundirlendisins.

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

Það er von að mörgum ofbjóði þessi dýra vegarlagning. Og það er hreint ekki von að mönnum geti skilist það, að samgönguerfiðleikar yfir “fjallið” á vetrum geti réttlætt það, að ráðist er í svo dýrt og tvísýnt fyrirtæki, sem þetta, allra helst þegar góður vetrarvegur er kominn yfir Mosfellsheiði og frá Þingvöllum niður í Grímsnes.
Með lögum var Krýsuvík tekin eignarnámi handa sýslunni og Hafnarfjarðarbæ. Hefur það verið á prjónunum að Hafnarfjörður kæmi sér þar upp kúabúi. En ekki mundi nú þetta nægja, að Hafnfirðingar kæmi sér þarna upp kúabúi. Það myndi seint geta borgað hinn dýra veg. Hvað gæti þá réttlætt það?
Þessi staður hefur ýmis skilyrði fram yfir flesta eða alla staði á landinu til þess að geta orðið merkilvægur í framtíðarsögu þjóðarinnar.

Krýsuvíkurvegur

Krýsuvíkurvegur – Arnarfell framundan.

Þarna er jarðhiti mikill og á allstóru svæði. Og þarna eru brennisteinsnámur. Syðst í Kleifarvatni eru hverir, og hita upp vatnið, en sandströnd á löngum kafla, og því tilvalinn baðstaður. Geisikraftur í stórum hver er ónotaður.

Að öllu athuguðu virðist þarna vera framúrskarandi baðstaður, og ekki ólíklegt aðmeð tíð og tíma verði þarna reist stórt gistihús fyrir baðgesti. Og enn fremur að þarna rísi upp heilsuhæli, sem keppt gæti við frægustu heilsuhæli á meginlandi álfunnar. Heilsuhæli með brennisteinsgufuböðum, og hveraleðjuböðum, þar sem þúsundir manna gæti fengið heilsubót.

Seltún

Krýsuvík – Seltún.

Og engin goðgá er það, að vera svo bjartsýnn, að spá því, að hróður þess berist um víða veröld og að þangað sæki fólk úr öllum álfum og öllum löndum hins menntaða heims. Þegar svo er komið, þá hefur Krýsuvíkurvegurinn ekki orðið of dýr, og hann þarf þá ekki að ná lengra heldur en til Krýsuvíkur. Og þá gleymist það sennilega brátt að hann átti upphaflega að vera vetrarvegur milli höfðuborgarinnar og Suðurlands.

Krýsuvík

Krýsuvíkurvegur 1961.

Þá sér maður koma þarna stórkostlega ræktun við jarðhita. Umhverfis hagana, þar sem kýr Hafnfirðinganna eru á beit, og framleiða mjólk á sama hátt og formæður þeirra gerðu fyrir þúsundum ára, standa raðir af gróðurhúsum þar sem framleiddir eru suðrænir ávextir. Og í görðum, sem hitaðir er með jarðhita, vaxa óteljandi nytjajurtir bæði til manneldis og annarra þarfa. Verksmiðjur rísa þar upp til að vinna brennistein og máske ýmsu efni úr skauti jarðar (t.d. helium) og aðrar, sem vinna áburð úr loftinu og nota til þess gufukraft úr jörðinni. Öll byggðin er upphituð með gufu og við hvert hús standa fagrir trjálundir, sem veita skjól í hretveðrum og stormum.
Þá verður fagurt og búsældarlegt um að litast í Krýsuvík.“

Úr Landið mitt er fagurt og frítt – Árni Óla – 1944.

Krysuvik-607

Austurengjahver.

Krýsuvík

“Krýsuvík er sennilega landnámsjörð. Segir Landnáma að Þórir haustmyrkur hafi numið Selvog og Krýsuvík.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja 1940 – Sigríður Hansen Guðmundsdóttir.

Eftir að kristni var lögtekin var þarna kirkja, og helguð Maríu mey. Voru prestar búsettir í Krýsuvík fram yfir 1600. Síðar varð þarna útkirkja frá Strönd í Selvogi, og seinast útkirkja frá Stað í Grindavík þangað til hún var lögð niður fyrir 12 árum. Stendur þó húsið enn.
Gamalt íslenskt orðtak segir: “Honum líður eins og andskotanum í Krýsuvík”. Er þá átt við að einhver lifi eins og blóm í eggi. En varla geta það nú talist nein meðmæli með Krýsuvík, að andskotanum líði þar sérstaklega vel. Og bágt á maður með að trúa því, að þar sé vistarvera hans, þegar maður kemur þar um sólríkan sumardag.

Seltún

Krýsuvík – Seltún.

Manni finnst miklu fremur að þarna hljóti að vera góðra vætta vé, því að það er ótrúlega mikil viðbrigði að koma í þenna fagra gróðurreit utan úr hinni ömulegu auðn, sem er allt um kring. En málshátturinn mun eiga rót sína að rekja til þess, að þarna eru margir bullandi brennisteinshverir og sumir ægilegir. Og í meðvitund fyrri kynslóða var náið samband milli brennisteinshvera og Vítis.

Nú eru allir bæirnir í Krýsuvík í eyði. Stóri-Nýibær lagðist seinast í eyði og eru nú 6 ár síðan.

Túnakort

Krýsuvík – túnakort 1918.

En þó hefur ekki verið mannlaust þarna. Einn maður varð eftir, þegar allir aðrir flýðu af hólmi. Með órjúfandi tryggð við staðinn hefur hann aldrei gefist upp, heldur þraukað þar fjarri mannabyggðum aleinn, ósveigjanlegur og hiklaus og barist þar áfram með hinni ódrepandi íslensku seiglu. Þessi maður heitir Magnús Ólafsson, og er nú 67 ára að aldri.
Magnús er upp alinn í Hafnarfirði, en 18 ára gamall fór hann til Árna sýslumanns Gíslasonar í Krýsuvík. Er sagt að hann færi þangað nauðugur. Árni hafði útgerð í Herdísarvík og er að heyra á Magnúsi að hann hafi kviðið fyrir því að verða sendur þangað.

Jónsbúð

Jónsbúð á Krýsuvíkurheiði.

-Mér hefur aldrei verið um sjóinn gefið, segir hann, en ég var snemma hneigður til fjárgeymslu, og það starf fékk ég. Þá var hann ánægður.
Ábúendur komu og hurfu, margs konar breytingar urðu, en alltaf var Magnús kyrr í hverfinu. Var hann á bæjunum sitt á hvað. Að undanteknu einu ári, sem hann var á Setbergi í Hafnarfirði, og einum vetri, sem hann var þar í kaupstaðnum, hefur hann stöðugt verið í Krýsuvík. Og þegar allir voru flúnir þaðan, settist hann að í kirkjunni. Höfðu verið rifnir úr henni bekkir, altari og prédikunarstóll, loft sett yfir kórinn og hann þiljaður af. Enn fremur hafði verið afþiljuð ofurlítil kompa í framkirkjunni fyrir geymslu.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja 1940.

Menn hugsa sér kirkjur oft nokkuð stórar, en þessi var bæði fornfáleg og lítil. Hún var úr timbri og ekki manngegnt undir bita. Ekkert tróð mun í veggjum og gólfið sigið og gisið. Og hvernig sem á er litið er þetta heldur ömurleg vistarvera. Það hefur því þurft óvenju mikið sálarþrek til þess að geta hírst þarna aleinn árum saman, langt frá öllum mannabyggðum. En það sér ekki á Magnúsi að hann hafi gugnað neitt við einveruna. Hann er ern og teinréttur eins og herforingi.

Ég gerði mér ferð suður í Krýsuvík í sumar til þess að sjá þenna einkennilega mann. Kom ég þar um kvöld. Þá var besta veður, logn og hlýtt, og kvöldsólargeislarnir léku fagurlega um Arnarfell og grónar grundir. En á Krýsuvíkina og kirkjuna varpaði Bæjarfellið svörtum skugga. Það er ekki jafn langur sólargangur þar, eins og annars staðar í þessari fjallakvos.
Magnús bauð mér inn til sín. Hann var nú ekki einn, heldur voru hjá honum fjórir dvalargestir, hjón með tvö börn. Þrengslin voru mikil, en þar sem hjartarrúm er, þar er líka húsrúm.

Krýsuvík

Fjárskjólið í Bæjarfelli.

-Það hefur nú stundum verið þrengra hjá mér en þetta, sagði Magnús. Einu sinni í vetur gistu hjá mér 20 Grindvíkingar. Þá var þröngt. Það komust ekki allir fyrir á gólfinu og urðu sumir að sofa fyrir framan.
Magnús er orðvar maður og dulur á sína hagi. Og það er ekki fyrir ókunnugan mann að fá hann til að leysa ofan af skjóðunni. En margt gæti hann sagt um 50 ára dvöl sína þarna í Krýsuvík, og þær byltingar, sem þar hafa orðið í fásinninu. Mig fýsti þó mest að fræðast um hann sjálfan og lífskjör hans, sem eflaust eru efni í heila skáldsögu.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja 1936. Fyrir utan kirkjuna standa þrír menn og einn drengur. Annar frá vinstri er Magnús Ólafsson einsetumaður í Krýsuvík. Kirkjan var afhelguð árið 1929 og þess vegna nýtt sem íbúðarhús þegar myndin var tekin – Ásgeir L. Jónsson.

Ég komst að því, að hann er kvæntur og á fjögur upp komin börn. Hann sendi fjölskylduna til Hafnarfjarðar fyrir nokkrum árum, til þess að börnin gæti gengið í skóla. Og svo ílengdist fjölskyldan þar, og hefur ekki komið til hans aftur. Hann gerði eina tilraun til þess að yfirgefa Krýsuvík og setjast að hjá konu og börnum í Hafnarfirði. En hann hélst þar ekki við nema einn vetur. Þá fór hann aftur suður í Krýsuvík. Ég spurði hann hvernig á því hefði staðið.

-Það var stopul vinna í Hafnarfirði, og ég hafði meiri löngun til þess að huga um kindur en snapa eftir vinnu þar.

Litlahraun

Litlahraun – fjárskjól.

Þetta er sjálfsagt alveg satt, en ég hygg þó að fyrst og fremst hafi það verið fjallabyggðin, sem seiddi hann til sín. Maður getur orðið ótrúlega fast bundinn sínum heimahögum. Úr fjarlægð halda þeir í mann og seiða mann til sín með einhverjum töframætti. Og ég hygg að það hafi fyrst og fremst verið óyndi, sem flæmdi Magnús burtu úr Hafnarfirði. Sumir geta hvergi yndi sitt fest nema á einum vissum stað.
Ég reyndi að leiða talið að því við Magnús, hvort honum hefði ekki liðið illa þarna í einverunni.

Magnús Ólafsson

Magnús Ólafsson.

-Nei, mér hefur liðið ágætlega. Það er einna verst hvað kalt er í kirkjunni. Hún er svo gisin og gólfgöld. Þó ég kyndi eldavélina í mestu frostum og hún hitni svo, að 20 stig séu uppi við loftið, þá er svo kalt við gólfið að skórnir mínir verða stokkfreðnir undir rúminu. Og svo angrar rottan mig. Það varð einu sinni beinlínis stefnivargur af henni hérna. Nú hefur henni heldur fækkað aftur, en hún grefur sig alltaf inn íkirkjuna. Þó að ég troði í götin á kvöldin sem best ég get, rífur hún það allt úr á nóttunni og er komin inn til mín áður en ég veit af.
En hvernig er með aðdrætti og mat?

-Ég þarf nú ekki á miklu að halda. Mjölvöru hafa Grindvíkingar flutt til mín, en annað sæki ég í Hafnarfjörð. Og matreiðslan veldur mér ekki neinum vandræðum. Ég lifi mestmegnis á trosfiski, ét hann bæði heitan og kaldan svo að segja í öll mál og þykir það dýrindis matur.
Hvað geturðu haft þér til afþreyingar á veturna?
-Ég á nokkrar kindur og það fer drjúgur tími í að hugsa um þær. En þegar ég hef innt gegningar af höndum, þá sest ég við tóvinnu. Ég tæti allan veturinn.

Litlahraun

Litlahraun – fjárhústóft.

Ekki var hann fús á að segja mér hvað hann ætti margar kindur, en í tveimur fjárhúsum er þær á veturna. Magnús hefur tekið að sér að verja túnið í Krýsuvík fyrir ágangi og fyrir það fær hann að vera þarna og hefur nytjar túnisins á eyðihjáleigunni Suðurkoti og annan heyskap eftir þörfum.

En hvað um einmanaleikann?
-Það koma æði margir hérna til mín og margir hafa gist hjá mér. Þeir hafa ekki tekið til þess hvernig húsakynnin voru og viðtökurnar.

Krýsuvíkurheiði

Krýsuvíkurheiði – smalabyrgi.

Í sumar komu hingað tveir enskir hermenn í bíl alla leið heim í hlað. Þeir komu frá Grindavík og voru að leita að Þjóðverjum. En það var enginn Þjóðverji hér. Englendingarnir voru svangir og báðu um mat. Ég hafði ekki annað til en nokkrar flatbrauskökur, sem ég hafði bakað um morguninn. Og þeir átu þær með góðri lyst. Svo buðu þeir borgun, en ég sagðist ekki selja greiða. Þá sóttu þeir reyktóbaksbauk út í bílinn og gáfu mér.

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

Það leið að kvöldi. Sól var gengin til bak við fjöllin og nöpur gola stóð ofan frá Kleifarvatni. Magnús spurði hvar ég hefði hugsað mér að vera í nótt. Ég hafði nú ekki afráðið neitt um það, hélt að ég gæti fengið að sofa í heyi hjá honum. Nei, það gat ekki komið til mála. Þarna var engin hlaða, heykuml var á bersvæði og ekki hægt að hafast við í því, sagði hann.
-En þér er velkomið að sofa hérna í bælinu mínu.

Magnús Ólafsson

Magnús Ólafsson í Krýsuvík.

Og það varð úr, að ég svaf hjá honum um nóttina og leið ágætlega. Tvisvar varð ég var við að hann fór á fætur og út. Heyrði ég hann þá hóa úti fyrir og hundgá mikla. Hann var að stugga kindum burt frá túninu. Það er ónæðisamt að verja ógirt tún, þar sem þúsundir fjár eru allt um kring.
Það er alltaf einhver mannaferð á vetrum milli Selvogs og Grindavíkur. Þetta er löng leið og getur hæglega breyst veður í lofti á skemmri tíma heldur en þarf til að ganga hana. Og þá er gott að geta leitað skjóls í Krýsuvík. Ég minnist þess þó ekki að hafa heyrt minnst opinberlega á þörfina á því. Má vera að það hefði verið gert ef Magnús hefði ekki verið þarna og tekið að sér að skjóta skjólshúsi yfir hvern sem kom, og gera öllum greiða er hann gat bestan í té látið.
Hann á heiður skilið fyrir það og væri launa vert.“

Við þetta má bæta við eftirfarandi frá Lofti Jónssyni í Grindavík, en hann kom ungur í Krýsuvíkurkirkju þegar Magnús bjó þar:

Krýsuvík

Krýsuvík um 1950.

„Ég man nú ekki svo vel eftir öllum aðstæðum inni hjá Manga í Krýsuvík (Magnús Gíslason). Hér var hann alltaf kallaður Mangi í Krýsuvík. Þó man ég eftir óumbúnu rúmfleti inn við gafl í suð-austur horninu. Lítið borð var þarna og tveir stólar. Ekki man ég eftir eldavél sem þó hlýtur að hafa verið einhvers staðar. Ég man ekki eftir grátunum sem hljóta að hafa verið uppi, því það hafa verið mikil helgispjöll að fjarlægja þær. Fjöldamörgum árum síðar átti ég leið þarna um í bíl. Kirkjan var þá læst en þegar kíkt var á glugga sást að mýsnar voru búnar að naga neðan af stóllöppunum, misjafnlega mikið, þannig að þeir voru ekki góðir til ásetu.“

-Landið er fagurt og frítt – Árni Óla – 1944.

Krýsuvík

Krýsuvík – uppdráttur ÓSÁ.

Óttarsstaðaselsstígur

Gengið var um Straumsselsstíg/Rauðamelsstíg/Hrauntungustíg norðan við Hrútafell. Þeim síðastnefnda var fylgt um Hörðuvelli, Einihlíðar, Dyngnahraun og Mosa. Þar beygir stígurinn inn í Skógarnef og til norðurs vestan við Óttarsstaðasel. Norðan við selið liggja Rauðamelssígur og Óttarsstaðaselsstígur saman. Stígurinn hefur stundum verið nefndur Mosastígur milli Mosa og Óttarsstaðarselsstíg. Einnig Skógargata inn í Skógarnef. Leiðinni var fylgt áfram niður á Alfaraleiðina utan við Smalaskálahæð, yfir hana og áfram niður fyrir Rauðamel.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – fornar leiðir; Ólafur Þorvaldsson.

Sennilega er eðlilegast að nefna Hrauntungustíginn kaflann frá Hádegisskarði að Sauðabrekkum, Straumsselsstíginn kaflann frá Straumi upp fyrir Hrúthólma að gatnamótum Rauðamelsstígs og Rauðamelsstíginn kaflann, annað hvort frá Óttarsstöðum, eða mótum hans og Óttarsstaðarselsstígs norðan selsins að gatnamótum Straumsselsstígs norðan Hrútafells. Kaflinn frá þeim gatnamótum að Ketilsstíg gæti heitið hvort sem er Rauðameslsstígur áfram og/eða Straumsselsstígur.
Ólafur Þorvaldsson getur hvorki um Rauðamelsstíg né Straumsselsstíg í grein sinni um „Fornar slóðir milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar“ í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1943-48. Ætla mætti af því að þar hafi ekki verið alfaraleiðir milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar. Hraunin voru á þessum tíma ekki heldur hluti af Hafnarfirði heldur Garðahreppi. Af þeirri ástæðu hefur hann e.t.v. ekki talið ástæðu til að fjalla um þá stíga sérstaklega. Með greininni fylgir þó uppdráttur af hinum fornu slóðum og á honum eru bæði Straumsselsstígur og Rauðamelsstígur merktir skilmerkilega.

Mávahlíðar

Mávahlíðar – forn gata.

Auk þess að skoða Rauðamelsstíg frá Hrútafelli var skoðuð gata út frá norðvestanverðum Hrúthólma að Mávahlíðum. Gatan er á sléttu helluhrauni og bæði breið og greinileg á köflum. Ein lítil varða er á milli hólmans og fellsins. Þegar komið er að hlíðum þess liggur gata til suðurs með því austanverðu. Einnig til norðurs sömu megin. Að þessu sinni var fyrstnefnda gatan rakin áfram vestur yfir lágan sandháls og niður hlíðina að norðvestanverðu. Þar sést stígurinn vel þar sem hann liðast um slétta hraunhelluna neðanverða, áleiðis að Dyngjurana. Þar kemur hann inn á Rauðamelsstíginn.
Ástæða þótti til að skoða þessa leið sérstaklega, bæði vegna þess að hún er einstaklega falleg og greiðfær og auk þess er hún skemmtileg hliðar- og hringleið frá Rauðamelsstíg. Og ekki skemmir tignarleiki Mávahlíðanna fyrir útsýninu á leiðinni.

Mávahlíðar

Mávahlíðar – forn gata.

Þegar gengið er eftir Rauðamelsstíg frá Hrútafelli er í fyrstu gengið um slétt helluhraun. Stígurinn er vel greinilegur. Þegar nálgast tekur lága mosavaxna hraunbrekku mjókkar stígurinn. Hann liggur síðan gróinn, en þó greinilegur, með fallegum hraungíg og síðan áfram að norðurenda Fíflavallafjalls. Austan við endann er djúp gígskál og er stígurinn með austurbarmi hennar. Norðan skálinnar beygir stígurinn til norðurs þar sem hann liðast niður mosahlíð niður að Hörðuvöllum. Á leiðinni greinist stígurinn í nokkrar götur, en þær eru kindargötur er myndast hafa í mosasléttuna. Áberandi og breiður stígur liggur þó yfir að suðurhlíðum Mávahlíðar og er þar enn einn stígurinn í stígakerfi svæðisins.

Óttarsstaðasel

Rauðamelsstígur að Óttarsstaðaseli.

Ólafur teiknar Rauðamelsstíginn þarna niður hlíðina á uppdrátt er fylgdi umræddri grein hans í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1943-48 (útg. 1949), í beina stefnu á Ranann. Stígurinn beygir þó þarna til vesturs og síðan aftur til norðurs. Tekinn er bogadreginn krókur niður fyrir hærri hraunkant að neðanverðu. Kannaður var möguleiki á beinni leið þarna niður eftir, eins og uppdrátturinn sýnir, en stór gjá hindrar þar umferð.
Norðan við Ranann sést vel niður eftir stígnum þar sem hann liðast áfram til norðvesturs niður hlíðina, áleiðis að Lambafelli. Stígurinn er þarna nokkuð breiður, en ástæðan er sú að bíl hefur verið ekið eftir honum upp á brúnina og áfram upp fyrir enda Fíflavallafjalls. Gamla stíginn má þó sjá á köflum til hliðar við slóðann. Norðaustan við Lambafellið eru gatnamót og það greinileg.
Rauðamelsstígurinn liðast áfram til norðurs, en önnur gata liggur þarna til suðurs austan Lambafellsins. Líklega er þar um að ræða hestagötu er lá áfram inn með Eldborg, Trölladyngjurótum og áfram inn á Selsvelli þar sem hún hefur m.a. mætt Þórustaðastíg um hálsinn yfir til Vigdísarvalla. Auk þess hefur þarna legið leið t.a.m. til og frá Selatöngum. Á heforingjaráðkorti frá 1908 (endurgert 1936) sést gatan liggja áfram upp í Sogin og einnig inn með Núpshlíðarhálsi.

Rauðamelsstígur

Rauðamelsstígur.

Rauðamelsstígurinn liðast nú í gegnum hraunið, um þriggja metra breiður á kafla. Hestagatan, klöppuð í slétt bergið, sést þarna á nokkrum stöðum. Hún er lítillega til hliðar við meginleiðina. Með lagni má sjá lægðir í óhreyfðum mosanum og fylgja götunni nokkurn spöl. Síðan þrengist hann verulega og verður ógreinilegri. Einungis ein varða, og það vel mosaskeggvaxin, er við norðurenda hans – þar sem hann kemur niður í Mosana. Mosinn á vörðu þessari er sérkennilegur og öðruvísi en almennt gengur og gerist. Þarf ekki að undra að til skuli vera hátt í átta hundruð mosategundir hér á landi.
Þarna er gott útsýni yfir norðvestanverðar Einihlíðar. Stórbrotið er að sjá hvernig nýjasta hraunið, sennilega frá því í goshrinunni á 12. öld (1151-88) hefur runnið sem foss fram af og niður hlíðarnar á tveimur stöðum.
Þegar staðið er þarna virðist eðlilegra að stígurinn hafi legið svo til beint og á ská um hlíðina ofanverða til suðurs. Hún virðist greiðfær, en ekki mótaði fyrir heilstæðum stíg þar þrátt fyrir greinanlega útidúra.

Rauðamelsstígur

Rauðamelsstígur – vörður við gatnamót stígsins, Óttarsstaðaselsstígs og Skógargötu um Mosa.

Þegar niður á slétt helluhraun Mosanna er komið má sjá móta fyrir hestagötu klappaða í hraunhelluna við hlið hinnar almennu. Mosinn hefur víðast hvar þakið hana, en ef vel er að gáð má sjá götuna á köflum.
Ofarlega í Mosunum greinist gatan í tvennt; annars vegar beint áfram að Bökkuklettum og hins vegar til norðvestur niður með brún Eldborgarhrauns. Þá leið er m.a. hægt að komast niður í Seltóu í Afstapahraui og þræða síðan Tóurnar langleiðina niður að Kúagerði.

Þegar komið er niður að hraunnefi er skagar inn í Mosana úr norðaustri greinist gatan. Hin breiða almenna heldur áfram niður eftir, áleiðis að Bögguklettum, sem eru tveir klofnir klettastandar í annars sléttri hraunhellunni. Nýlegra hraun, mjög þunnfljótandi, hefur runnið líkt og vatn niður sléttlendið, smurt sig upp á klettana og síðan sjatnað á ný. Hraunhellan er ekki nema nokkrurra sentimetra þykk og hefur forstveðrun náð að brjóta hana í smærri einingar á stórum köflum.

Bögguklettar

Bögguklettar.

Hin gatan liggur til norðausturs með hraunbrúninni. Gróið er í kantinn svo ekki skal undra að hestamenn skuli hafa valið þess leið um Mosana. Leiðirnar tvær koma síðan saman á ný norðan Böggukletta þar sem hún kemur inn á lítillega hækkun í hrauninu.

Hestagatan sést vel svolítinn spöl. Þá greinist stígurinn í tvennt; annars vegar til hægri, sem hefur verið meginleiðin, bæði breið og greinileg og liggur áleiðis inn í Skógarnef, og hins vegar (að öllum líkindum) hestaleiðin (beint áfram), niður með hraunbrún Skógarnefsins. Þar liðast hún um grónina undir hraunbrúninni. Þessar leiðir koma síðan saman á ný við tvær vörður við norðanvert Skógarnef.

Skógarnef

Skógarnef – varða.

Stígurinn í gegnum Skógarnefið er óglöggur vegna þess að gróið hefur yfir hann að mestu. Ef vörðum er hins vegar fylgt þvert í gegnum Nefið má fylgja stígnum eins og hann var. Hann sést undir klapparhæðarbrún og síðan vel skömmu áður en komið er út úr því að norðanverðu. Þar er verklega hlaðin varða, líklega landamerkjavarða á sléttlendi, og síðan tvær aðrar er áður var minnst á.
Héðan er stígurinn vel varðaður niður að gatnamótum Óttarsstaðarselsstígs norðvestan selsins, skammt neðan Meitlanna. Sunnanverð vesturhlíð Almennings er þarna vel gróin og liggur Rauðamelsstígur á ská til norðurs um gróninga og hraunbolla. Nota þarf fulla athygli til að fylgja stígnum rétta leið um þetta svæði. Varða við skjól vestan Óttarsstaðasels sést í norðaustri og þegar lengra er komið sést selsvarðan ofan við selið. Frá gatnamótunum, þegar gengið er til suðurs milli vörðubrotanna er beint sjónlína í Trölladyngju.

Almenningur

Almenningur – kort.

Stígur gengur upp frá Óttarsstaðaseli að Búðarvatnsstæðinu og síðan áfram upp að norðanverðum Mávahlíðum. Þar kemur hann inn á stíg þann er fyrr var líst frá Hrúthólma að hlíðunum. Vörður eru við stíginn á stöku stað. Að og frá Búðarvatnsstæðinu er hann vel áberandi.
Við fyrrnefnd gatnamót eru tvær fallnar vörður, næstum jarðlægar. Frá þeim liðast Óttarsstaðaselsstígur (Rauðamelsstígur) niður hraunið, niður Bekkina, að og yfir Alfaraleiðina milli Innnesja og Útnesja og áfram áleiðis að Óttarsstöðum. Áður en námurnar voru teknar í notkun í Rauðamel hefur stígurinn legið norðan við Melinn og síðan áfram að Óttarsstöðum. Námurnar hafa tekið hann í sundur á stuttum kafla, en stígurinn kemur á ný í ljós norðvestan við þær. Þar lauk göngunni að þessu sinni.

Almenningur

Almenningur – vörðukort (ÁH).

Rauðamelsstígurinn er vel greinilegur mest alla leiðina milli gatnamótanna norðan Hrútafells að Óttarsstöðum.
Helstu leiðir milli Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur voru Stórhöfðastígur, Undirhlíðavegur, Dalaleið, Straumsselstígur og Rauðamelsstígur. Flestar leiðirnar lágu saman norðvestan við Ketilinn. Auk þess er vel vörðuð leið upp frá Lónakotsseli að Sauðabrekkum, en hennar hefur hvergi verið getið svo vitað sé. Stundum var um fleiri en eina götu að velja á köflum sömu leiðar.
„Gömlum vinum og gömlum götum á enginn að gleyma“. Á þessu gamla færeyska orðtaki byrjar Ólafur Þorvaldsson lýsingu sína á „Fornum slóðum milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar“ er birtust í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1943-48.

Almenningur

Almenningur – leiðir.

„Þessar gömlu götur og vegir, því að nokkuð af þeim kallaðist vegir, annað götur eða stígar, búa í þögn sinni og yfirgróningu yfir margra alda óskráðum minningum um alla þá menn sem þar hafa ferðast; um alla þá erfiðleika sem þeir áttu við að etja á jafntorfærum leiðum og margar þeirra voru – en voru þrátt fyrir allt leið manna um landið frá landnámstíð fram á vora daga. Þær búa líka yfir mörgum ánægjustundum vegfarenda, sem svo oft var vitnað til, að þetta eða hitt hefði borið við á þessum leiðum. Efast ég um að fólk, sem ferðast nú um landið eftir dýrum vegum, á dýrum farartækjum nútímans, eigi ánægjulegri og bjartari minningar að ferðalokum en þessar fornu og nú yfirgefnu slóðir veittu oft og einatt þeim sem um þær fóru á sínum tíma.

Fornaselsstígur

Fornasels og Gjálselsstígur.

Flestar hafa þessar götur orðið til smám saman af umferð manna og hesta, og hafa margar þeirra verið mjög fjölfarnar, t.d. sést víða, þar sem leiðir liggja yfir hraunhellur, að hesthófurinn með sínum pottuðu skeifum og líka oft pottuðu hestskónöglum hefur sorfið götur oft 10-20 sm djúpar. Til þess að djúpar götur myndist í hart hraunið eða grágrýtisklappir hefur umferð hlotið að vera bæði mikil og það um langan tíma.
Óvíða sér nema eina götu í hraunlendi eða þar sem grágrýtsiklappir eru. Þó ber aðeins út af. Þar sem vegir lágu um svona ógreitt land urðu menn oft að teyma lestir sínar hverja á eftir annarri. Vegna þess að aðdráttarferðir manna voru á nokkuð ákveðnum tíma, sér í lagi á vorin, sammæltust oft menn úr sömus veit til slíkra ferðalaga, og gátu oft slegist í förina fleiri menn með hesta í hópnum þar sem hver maður var oftast með 5-8 hesta. Þegar menn fóru lausríðandi og leið þeirra lá um slíkt land urðu þeir að „lesta sig“ sem kallað var, gátu ekki riðið hlið við hlið, og var þetta stundum kallaður „gæsagangur“. Aftur á móti þars em götur lágu eftir grónu landi, t.d. grasdölum, árbökkum eða meðfram sjó, sjást sums staðar allt að tuttugu götur hlið við hlið, þá gátu menn teymt lestir sínar samsíða, eða ef lausir voru, riðið hver við annars hlið, spjallar saman, rétt milli sín tóbaksílát og ef til vill vasafleyg sem hressti þá og lífgaði á margra daga lestarorri.“

Reipshögld

Reipshögld.

Ólafur heldur áfram að lýsa hinum gömlu götum: „Oftast nær var það svo að þeir sem fóru um þessar gömlu götur, þó lausríðandi væru, urðu að fara hægt yfir landið, þar eða þær götur voru víða þröngar eða ógreiðar yfirferðar. Þetta hafði vitanlega sína ókosti og líka kosti. Ókostirnir voru helst taldir þeir að menn voru lengur en ef gatan hefði verið greið – einnig það að oft voru á þessum götum klif eða skarpar beygjur sem varð að fara hægt yfir og fyrir, og gátu baggar rekist í og hrokkið af klakk. Sáust þess stundum merki meðfram fornum götum að slíkt hafði hent, þó jafnvel sjaldnar en búast mátti við. Athugull ferðamaður komst stundum auga á brotna högld af reipi utan við veginn, kom þá stundum í ljós, ef menn nenntu að taka upp og skoða þetta gamla, þögla vitni hinar fornu og miklu umferðar, að það var komið um óravegu, jafnvel yfir fleiri sýslur, úr fjarlægum landsfjórðungum. Reipshagldirnar voru þá alltaf brennimerktar bæði nafni eiganda og hreppsbrennimerki.

Skeifa

Skeifubrot í alfaraleið.

Það ber einnig við að menn sjá við þessar gömlu götur skeifubrot eða jafnvel heila skeifu, sem er kannske orðin tvöföld að þykkt frá uppruna af ryði og sandi samanblönduðu, má oft merkja aldur hennar bæði af lagi og gatafjölda…
Þá er að geta kostanna við þessar gömlu götur að nokkru, þeir voru ef til vill færri en ókostirnir, en þó skal nefnt hér t.d. aðþar gáfust ótal tækifæri til athugunar á því sem fyrir augu bar, svo sem landslagi, kennileitum, hvernig örnefni hefðu myndast o.fl. Út frá ýmsum þessum athugunum spunnust oft milli samferðamanna fróðlegar og skemmtilegar umræður.

Rauðamelsstígur

Rauðameslsstígur – vörður.

Til var það á leiðum milli byggðalaga, þar sem talin var hálfnuð leið, að menn nefndu t,d, Hálfnaðarklett, Hálfnaðarhól, Hálfnaðarskarð, Hálfnaðarsprungu. Öll þessi leiðarmerki af núttúrunnar hendi eru nú týnd eða að týnast með niðurlagðri umferð um fornar slóðir.“
Rétt er að láta þessi síðustu orð Ólafs Þorvaldssonar verða áhrínins- og áminngarorð til handa núlifandi kynslóð. Ástæðulaust er að láta þennan miklvæga þátt forsögunnar týnast eða gleymast. Glötuð gata er glataður menningartengill milli fortíðar og nútíðar. Framtíðin mun ekki varðveita slík verðmæti nema vitneskjunni verði komið á framfæri.

Stórhöfðastígur

Stórhöfðastígur.

Gamlar þjóðleiðir og fornir stígar liggja vítt og breitt um Reykjanesfólkvang. Þessar leiðir hafa gleymst eftir að ökuvegir voru lagðir og menn hættu að þræða gamlar slóðir á ferð sinni um nesið. Flestar leiðirnar tengja byggðahverfin gömlu við útverin á Suðurnesjum.
Á milli Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur lágu t.d. Undirhlíðaleið, Dalaleið, Vatnaleið, Stórhöfðastígur og Hrauntungustígur. Frá Hraunabæjunum við Straumsvík og Hvassahrauni lágu t.a.m. Straumsselsstígur, Rauðamelsstígur og Mosastígur til Krýsuvíkur, að Selatöngum eða Grindavíkur. Með Núpshlíðarhálsi lágu Hálsagötur og milli Vatnsleysustrandar og Vigdísarvalla lá Þórustaðastígur. Drumbsdalastígur þræðir sig áfram frá Bleikingsvöllunum sunnan Vigdísarvalla austur að Krýsuvík.
Rauðamelur var áður fyrr tveir rauðir gjallhólar en eru nú malargryfjur.

Hrauntungustígur

Hrauntungustígur.

Stígurinn, sem lá frá Rauðamel í suðurátt er, sem fyrr segir, nokkuð greinilegur á köflum og heitir ýmist Óttarstaðaselsstígur, Skógargata, Raftastígur eða Rauðamelsstígur en þegar ofar dregur mun hann heita Mosastígur og liggja upp að Dyngjum þar sem Hálsagötur taka við ýmist með eða yfir hálsinn eftir því hvert leiðin lá þaðan.
Vænlegt er að stika Rauðamelsstíg. Mikilvægt er að gera það eins nákvæmlega og vandlega og hægt er. Þetta er falleg, merkileg og áhrifarík leið yfir skagann. Hún var örugglega ein af höfuðleiðum vermanna og annarra ferðalanga sem komu langt að og fóru þessa leið (og margar aðrar) í vetríðarbyrjun síðla á þorranum eða byrjun góu og í lok vorvertíðar í maí. Hver veit nema þetta hafi einnig verið flutningsleið brennisteinsmanna að og frá Krýsuvík á meðan Þýskubúð var kaupvangur í Straumsvík á 15. öld og hluta 16. aldar og brennisteinninn var nýttur í Baðstofu og við Seltún.

Óttarsstaðaselsstígur

Óttarsstaðaselsstígur.

Umferð um Rauðamelsstíg hefur verið lítil sem enginn í áratugi, allt frá því að bíllinn kom til sögunnar. Víða er stígurinn að gróa upp og sennilega verður ekki langt að bíða þess að hann hverfi algerlega. Ástæða er til að hvetja fólk, sem treystir sér til, að feta hann og viðhalda þannig þessari gömlu þjóðleið. Fé hefur verið rekið um stíginn, en auk þess hefur hann verið farvegur fólks og fararskjóta um langan aldur. Það ber hin djúpmarkaða gata greinilegan vott um.
Eftir að hafa skoðað Rauðamelsstíginn vaknar grunur um að hann hafi verið hluti af mun eldri, almennari og lengri leið, þ.e. gleymdri götu, sem legið hefur frá Innnesjum út á sunnanverð Útnesin, en þar Krýsuvíkurleiðin einungis verið hliðarstígur frá Lambafelli. Þær grunsemdir verða gaumgæfðar nánar á næstunni.

Gengnir voru 21 km á 6 klst og 46 mín. Frábært veður um frábært land.

Heimildir m.a.:
-Ólafur Þorvaldsson 1949. Fornar slóðir milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar. Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1943-48. Bis. 81-95.

Rauðamelur

Litli Rauðamelur við Rauðamelsstíg.

Valahnúkar

Gengið var norður gömlu Selvogsgötuna frá Bláfjallavegi neðan Grindarskarða. Selvogsgata er gömul leið á milli Hafnarfjarðar og Selvogs.

Selvogsgata

Selvogsgata á Hellunum.

Haldið var niður Hellurnar þar sem gatan er klöppuð í bergið á kafla undan fótum, klaufum og hófum liðinna alda. Litið var á Strandartorfur (Kaplatóur) og gengið um Mygludali að Valabóli þar sem áð var í Músarhelli. Loks var götunni fylgt niður í Helgadal með viðkomu í Rauðshelli og stefnan tekin þaðan að Kaldárseli.
Í jarðfræðilegu tilliti er Reykjanesskaginn mjög merkilegur. Hann er hluti af Atlandshafshryggnum mikla, sem liggur um þvert Ísland og er eini staðurinn þar sem hægt er að skoða hann ofansjávar. Að minnsta kosti 12 hraun hafa runnið á Reykjanesskaga síðan land byggðist. Það nýjasta sennilega á 14. öld. Eftir að jökul leysti af skaganum fyrir um 12-15 þúsund árum, hafa um 200 eldstöðvar á fjórum eldstöðvarkerfum, verið virkar á svæðinu og úr þeim runnið um 42 rúmkílómetrar af hrauni, sem þekur yfir 1000 ferkílómetra landssvæði. Má þar á meðal finna allar helstu gerðir íslenskra eldstöðva.

Selvogsgata

Gengið um Selvogsgötu.

Þar sem staðið er á upphafsstaðnum við Bláfjallaveg má sjá þessa virkni “ljóslifandi”. Þegar horft er upp í Bollana (Stórabolla, Miðbolla og Syðstubolla), má sjá hvernig hlíðin, sem þeir eru á, hefur opnast og hraunið runnið niður þá í stríðum straumum. Miðbolli er einstaklega fallegur hraungígur. Utan í honum eru tvö önnur gígop og síðan fleiri í hlíðinni norðan hans. Frá honum má sjá fallegar hrauntraðir og í þeim eru nokkir fallegir hellar. Langahlíð, Dauðadalir og Lönguhlíðarhorn eru á hægri hönd en Kristjánsdalir og Kristjánsdalahorn á þá vinstri.

Grindarskörð

Grindarskörð og nágrenni.

Selvogsgatan lá áfram upp um Grindarskörð austan Stórabolla og áfram niður með Litla-Kóngsfelli, um Hvalskarð og niður í Selvog. Einnig liggur gata, vel vörðuð upp Kerlingargil milli Miðbola og Syðstubolla. Ofan þeirra eru gatnamót. Frá þeim liggur Hlíðarvegur niður að Hlíðarskarði fyrir ofan Hlíð við Hlíðarvatn, þar sem Þórir haustmyrkur er talinn hafa búið við upphaf byggðar. Grindarskörð eru nefnd svo vegna þess að Þórir þessi á að hafa gert þar grindur til að varna því að fé hans leitaði norður og niður hlíðarnar.

Grindarskörð

Grindarskörð.

Selvogsgatan liggur niður Hellurnar um Húsfellsbruna sem eru ágætlega greiðfær, allt suður að hálendinu. Þarna má sjá nokkur hraun, bæði slett helluhran og úfin apalhraun. Austast er hrikalegt Rjúpnadalahraunið úr Drottningu og vestast má sjá Tvíbollahraunið.

Framundan sést Helgafell (vinstra megin – 340 m.y.s) og Húsfell (hægra megin – 278 m.y.s)). Milli þeirra eru Valahnúkar (201 m.y.s). Á þeim trjóna tröllin hæst. Segir sagan að þau hafi verið á leið í Selvog, en orðið sein fyrir og ekki verið komin lengra er sólin reis í austri, ofan við Grindarskörðin. Varð það til þess að þau urðu að steini og standa þarna enn.

Selvogsgata

Selvogsgata – varða.

Helgafellið er eitt af sjö samnefndum fjöllum á landinu. Þau eru t.d. í Mosfellssveit, vestmannaeyjum, Dýrafirði og Þórsnesi á Snæfellsnesi. Hugsanlega er nafnið tengt lögun þessara fjalla, en þau eru að minnsta kosti sum hver regluleg eða heilleg að útliti. Af einhverjum ástæðum var talin helgi á Helgafelli á Snæfellsnesi. Orðið helgur er samandregin mynd úr heilagur, sem er skylt orðinu heill. Örnefni með Helga- að fyrra lið geta einnig verið dregin af mannsnafninu Helgi.

Búrfell

Búrfell og Kringlóttagjá.

Búrfellið (179 m.y.s) er neðan við Húsfellið. Frá Búrfelli rann hraun það sem Hafnarfjörður stendur að hluta til á fyrir um það bil 7200 árum. Hrauntröðin frá fellinu er ein sú stærsta á landinu, Búrfellsgjá.
Gengið var í gegnum Mygludali, en undir þeim er talið vera eitt mesta ferskvatnsmagn á svæðinu. Dalurinn er talinn hafa verið nefndur eftir hryssu Ingólfs Arnarssonar, Myglu, en aðrir telja að nafnið sé til komið vegna myglu er leggst yfir dalinn er líða tekur á sumarið.

Valaból

Í Valabóli.

Litið var við í Valabóli norðaustan í Valahnjúkum. Þar er Músarhellir sem áður var notaður sem áningastaður en síðar sem gististaður Farfugla eftir að þeir girtu staðinn og ræktuðu upp gróðurvin í kringum hann. Fleiri hellar eru hér austur í hrauninu og reyndar víða á þessu svæði.

Að því búnu var haldið að opi Fosshellis og hann þræddur undir sauðfjárveikigirðinguna. Kíkt var á op Hundraðmetrahellis austan Helgadals og síðan á stekki norðaustan við Rauðshelli. Þá var haldið í hellinn og hann skoðaður. Í Rauðshelli er allnokkrar hleðslur, bæði utan hans og innan. Hangikjötslyktin ilmaði enn í hellinum, en hann er talinn hafa hýst margan manninn í gegnum aldirnar.

Helgadalshellar

Í Rauðshelli.

Um tíma var hellirinn nefndur Pólverjahellir eftir pólskri áhöfn báts, sem dvaldist um tíma í Hafnarfjarðarhöfn, en fengu ekki inni í bænum. Þá er talið að um tíma hafi verið sel í og við hellinn, auk þess ekki er ólíklegt að álykta að hann sé sá hellir þar sem 12 þjófar voru handteknir um 1440 og síðan hengdir. Í lýsingu Gísla Sigurðssonar, forstöðumanns Minjasafns Hafnarfjarðar, segir hann í lýsingu sinni um Selvogsgötuna að þeir hafi hafst við í helli í hraunrima austan við Helgadal.

Rauðshellir

Í Rauðshelli.

Um þá hugmynd er m.a. fjallað í öðrum FERLIRslýsingum eftir nokkrar ferðir um svæðið til að reyna að finna umrætt skjól. Rauðshellir liggur vel við vatni, hann hefur verið í hæfilegu skjóli frá mannabyggð, en þó nálægt skjólgóðum högum sauðfjárins. Þá hefur hann verið það nálægt þjóðleið að hægt hefur verið að fylgjast með mannaferðum og hugsanlega ræna þá, sem þar áttu leið um. Þess skal getið að útilegumenn dvöldu aldrei lengi á sama stað.

Helgadalur

Helgadalur – stekkur.

Hlaðinn stekkur er skammt frá Rauðshelli. Ekki langt frá, ofan við Helgadal eru fornar tóftir. Jarðfallið, sem gengið er úr í hellinn, er mikið gróið. Set, mold og gróður hafa hlaðist þar upp um aldir. Ekki er ólíklegt að undir þeim kunni að leynast minjar. Þær gætu bæði tengst hinum fornu tóftum í Helgadal, þarna 500 m frá, eða (sels)búskapnum í Kaldárseli. Einnig gætu þær verið frá Görðum á Álftanesi, en landssvæðið tilheyrði þeim fyrr á öldum.
Frá Rauðshelli sést gígurinn í Búrfelli mjög vel. Búrfell er eldborg. Frá henni rann hraun niður í Hafnarfjörð og Skerjafjörð. Þrátt fyrir samheitið Búrfellshraun, bera margir hlutar þess sín eigin nöfn, s.s. Hafnarfjarðarhraun, Garðahraun, Gálgahraun, Urriðakotshraun, Gráhelluhraun og Smyrlabúðahraun. Heildarflatarmálið er u.þ.b. 18 ferkílómetrar. Margir ganga gjarnan upp eftir hrauntröðinni innan girðingar Heiðmerkur, Búrfellsgjá (u.þ.b. 3,5 km) og Lambagjá. Hraunið er talið vera í kringum 7200 ára.

Helgadalur

Helgadalur – misgengi.

Helgadalur er ágætt dæmi um misgengi, líkt og á Þingvöllum. Hluta þessa misgengis má sjá þegar komið er upp á brúnina að vestanverðu. Það er handan Mosana og gengur í gegnum austanverðar Smyrlabúðir.

Helgadalur hefur verið afgirtur og er svæðið innan girðingarinnar, Kaldárbotnar, hluti af vatnsverndasvæði Vatnsveit Hafnarfjarðar. Hún var stofnuð 1904.

Kaldárbotnar

Kaldárbotnar – vatnslindin.

Vatnsból Hafnarfjarðar er í Kaldárbotnum. Þaðan liggur aðfærsluæð til bæjarins meðfram Kaldárselvegi um 6 km að lengd, síðan eftir stofnæðum og dreifilögnum sem flestar liggja í götum bæjarins. Fáeinar dælustöðvar innanbæjar sjá þeim bæjarhlutum sem hæst liggja fyrir vatni. Fyrstu tildrög að vatnsveitu í bænum munu vera þau að Vatnsveitufélag Hafnarfjarðar var stofnað 1904. Í fyrstu sóttu bæjarbúar vatn í vatnskrana, sem settir voru upp víðs vegar um bæinn. Vatn er leitt til bæjarins frá Kaldárbotnum. Núverandi aðveituæð er frá árinu 1950. Merkilegasta holan sem hefur verið boruð eftir köldu vatni í nágrenni Hafnarfjarðar er við Kaldársel og varð 987 m djúp. Sú hola var köld (2-5 gráður) niður á 750 m dýpi.
Kaldá er náttúrulegt afrennsli linda sem eru í Kaldárbotnum.

Vatnsveitan

Vatnsveitan yfir Lambagjá.

Frá upphafi byggðar í Hafnarfirði og fram til ársins 1909 höfðu bæjarbúar notast við vatn úr ýmsum brunnum innanbæjar. Vatnið var oft óhreint og stundum svo mengað að fólk veiktist alvarlega af því að drekka það. Þannig braust út taugaveikifaraldur fyrri hluta ársins 1908 sem rakin var til mengaðs drykkjarvatns.
Árið 1909 var farið að taka vatn úr lindum í svokölluðum Lækjarbotnum, sem eru í austurjaðri Gráhelluhrauns gegnt Hlíðarþúfum þar sem nú eru hesthús, en vegna þess að vatnið þar þraut í þurrkum og reyndist oft óhreint ákváðu menn að reyna að veita vatni úr Kaldá inn á vatnsvið lindanna. Í þetta var ráðist árið 1918. Þannig var byrjað að nota vatn frá Kaldá strax árið 1918 á óbeinan hátt. Enn má sjá undirstöður vatnsleiðslunnar þar sem hún liggur frá Kaldárbotnum og yfir Sléttuhlíð, þar sem vatninu var hleypt niður í hraunið. Það kom síðan upp í Lækjarbotnum, sem fyrr segir. Mest er mannvrikið þar sem leiðslan lá yfir Lambagjá.

Kaldárbotnar

Í Kaldárbotnum – stíflan.

Árið 1951 var svo tekin í notkun aðveituæð sem náði alla leið upp í Kaldá. Kaldá sjálf var stífluð og vatni úr ánni veitt í gegnum síu og þaðan inn í æðina. Á uppistöðulóninu sem myndaðist ofan við stífluna fóru að venja komur sínar fuglar ásamt því að sandur og allskonar gróðurleifar fóru að berast inn í aðveituæðina. Þess vegna var hlaðin steinþró utan um stærstu uppsprettuna í Kaldárbotnum sjálfum og þaðan lögð pípa sem tengd var beint við aðveituæðina.

Kaldá

Kaldá.

Náttúrulegar aðstæður í nágrenni Kaldár skýra af hverju svo mikið af vatni er í Kaldárbotnum. Eldgos í tugi þúsunda ára hafa hlaðið upp jarðmyndunum á svæðinu. Á meðan ísaldir ríktu hlóðust upp móbergsfjöll og bólstrabergshryggir. Á hlýskeiðum runnu hraun og gígir hlóðust upp en við öll þessi eldsumbrot brotnaði jarðskorpan og seig og reis. Þannig hafa myndast sigdalir og gapandi gjár, sem stundum fóru á kaf í ný hraun.

Kaldárbotnar sjálfir eru í bólstrabergsmyndun. Bólstrabergið er nokkuð gamalt á mælikvarða jarðmyndana á svæðinu og segja má að það sé umflotið ungum hraunum.
Bólstrabergið sjálft er afburða góð náttúruleg sía ásamt því að vera mjög vel vatnsleiðandi, sérstaklega eftir sprungum.

Kaldá

Kaldá.

Megin misgengið sem lindirnar í Kaldárbotnum tengjast hefur örugglega hreyfst oftar en einu sinni. Þannig eru yfirvegandi líkur á að opnast hafi gjá, í einhverjum hamförum á ísöld, undir ísaldarjöklinum og hún fyllst af jökulurð. Við gröft vegna framkvæmda árið 1997 komu í ljós setlög sem stefndu ofan í misgengið og núið grjót (sem við köllum héðan í frá hausagrjót ) kom upp af fimm metra dýpi, þegar grafið var niður með borholufóðringu. Ástæður fyrir þessu mikla vatni sem kemur upp austan við misgengið eru því þrjár. Vatnsleiðandi bergsprungur tengdar misgengjum, setfylling í megin misgenginu sjálfu og bólstrabergið

Kaldársel

Gengið um Kaldársel.

Í eldgosi sem líklega varð á tólftu öld, rann örþunnt hraun niður í Kaldárbotna sjálfa og þaðan niður fyrir Kaldársel og nam þar staðar. Þetta hraun hefur líklega verið mjög heitt og þunnfljótandi því að það fyllti í allar lægðir á leið sinni og storknaði án þess að í því mynduðust kólnunarsprungur og gjótur. Þegar grunnvatnsborð í Kaldárbotnum lækkar niður fyrir efri brún hraunsins hverfur Kaldá.
Eftir að kemur vestur fyrir meginmisgengið í Kaldárbotnum rennur Kaldá ofan á þessu þétta hraunlagi. Þar sem hraunið endar, fyrir neðan Kaldársel, hverfur Kaldá ofan í hraunin þar fyrir neðan.

Kaldársel

Kaldársel – fyrsti skáli K.F.U.M. Kaldársel sést aftan við húsið.

Í Kaldárseli eru reknar sumarbúðir á vegum KFUM og KFUK. Frumkvöðull starfs KFUM og KFUK á Íslandi var æskulýðsleiðtoginn sr. Friðrik Friðriksson, en hann hafði á námsárum sínum í Kaupmannahöfn kynnst starfi KFUM og tekið virkan þátt í því. Haustið 1897 kom hann heim til Íslands og myndaði eins konar undirbúningsfélag með nokkrum unglingspiltum úr Dómkirkjusöfnuðinum vorið 1898. Þann 2. janúar 1899 var KFUM formlega stofnað og fór starfsemin ört vaxandi er á leið vorið. Þá færðu nokkrar fermingarstúlkur það í tal við sr. Friðrik hvort hann gæti ekki einnig stofnað félag fyrir þær. Fékk sr. Friðrik nokkrar konur til liðs við sig og 29. apríl 1899 hafði KFUK einnig verið ýtt úr vör.

Kaldársel

Kaldársel 1965. Tóftir selsins sjást enn suðaustan við húsið.

Um það leyti sem starf KFUM og KFUK hófst hér á landi átti íslensk kirkja að ýmsu leyti í vök að verjast og félagsstarfsemi fyrir börn og unglinga var mjög af skornum skammti. Ýmsir höfðu því efasemdir um að slík kristileg félagsstarfsemi gæti átt framtíð fyrir sér, en ekki leið á löngu uns félögin tóku að blómstra í höndum sr. Friðriks. Augu hans voru næm á þarfir ungu kynslóðarinnar og innan félaganna spruttu fram starfsgreinar á borð við kvöldskóla, bókasafn, skátafélag, knattspyrnufélag, bindindisfélag, taflflokk, hannyrðadeild, lúðrasveit, söngflokka, sumarbúðir o.fl.

Kaldársel

Kaldársel – tilgáta ÓSÁ.

Sífellt leitaði sr. Friðrik nýrra leiða til þess að byggja upp félagsstarf á kristnum grunni sem mætt gæti þörfum æskunnar og skapað heilbrigða einstaklinga til líkama, sálar og anda. Einstakir persónutöfrar, manngæska og vitsmunir gerðu hann nánast að dýrlingi í lifanda lífi og í hjarta borgarinnar, við Lækjargötu, minnir stytta hans á mikilvægi þess að styðja æsku Íslands til bjartrar framtíðar.

Kaldársel

Kalsdársel – Teikning Daniels Bruun frá lokum 19. aldar. Inn á teikninguna eru felld inn líkleg upphaflegu selshúsin áður en bætt var við þau til búsetu.

Í Kaldárseli var sel um langan aldur, auk þess sem búið var þar um aldarmótin 1900. Ítarleg lýsing er á Kaldáseli í annarri FERLIRslýsingu (Sjá HÉR og HÉR.)
Sjá MYNDIR.

Frábært veður – sól og milt. Gangan tók 2 klst og tvær mínútur.

-Upplýsingar um Reykjaveginn fengnar af http://www.utivist.is
-Upplýsingar um Vatnsveitu Hafnarfjarðar eru fengnar af http://www.hafnarfjordur.is
-Upplýsingar um Helgafell eru fengnar af http://www.visindavefur.hi.is

Kóngsfell

Kóngsfell.