Færslur

Kaldársel

Eftirfarandi frásögn um upphaf Kaldársel (sumarbúðanna) birtist í Bjarma árið 1967:
kaldarsel-990“Að aflokinni messu á Bessastöðum á annan hvítasunnudag árið 1921, var haldinn stuttur K.F.U.M.-fundur þar í kirkjunni. Þá var stofnaður sjóður, sem hafa skyldi þann tilgang að koma upp sumarbúðum fyrir K.F.U.M. Það voru tveir félagar úr K.F.U.M. í Hafnarfirði, sem lögðu fram hundrað krónur. Seinna mynduðu nokkrir félagsmenn í Hafnarfirði og Reykjavík samtök um þetta mál. Var ákveðið að koma saman fyrsta föstudag hvers mánaðar, annan hvern mánuð í Reykjavík en hinn í Hafnarfirði. Fundir þessir voru bænafundir, þar sem beðið var fyrir málefninu, og að því loknu var lögð fram fórn til sjóðsins. Allt fór þetta fram í mestu kyrrþey. Vorið 1925 var sjóðurinn orðinn nær fjögur þúsund krónur. Var þá farið að hugsa til framkvæmda og lét bæjarstjórn Hafnarfjarðar félaginu í té eignarhald á túninu umhverfis eyðibýlið Kaldársel.

Kaldársel 1930

Kaldársel 1930. Seltóftirnar hægra megin.

Þetta sama vor var hafizt handa um að byggja skálann. Minnast ýmsir þess enn í dag, er við hin erfiðustu skilyrði varð að bera efnivið allan yfir hraunhálsinn þaðan, sem bifreiðir komust lengst, og upp að Kaldárseli. Um miðjan júní var unnt að vígja skálann. Var þá í honum svefnsalur með 24 rúmum, auk þess lítið herbergi og eldhús. Síðar var hann stækkaður um helming, með því að byggð var fyrir vestan skálann álma til norðurs. Nú fyrir fjórum árum var enn hafizt handa um stækkun skálans, og eru vonir til, að henni verði nokkurn veginn lokið í sumar.
Skálinn var fyrst sameign félaganna í Reykjavík og Hafnarfirði, en eftir nokkur ár varð hann einkaeign kaldarsel-991Hafnarfjarðarfélagsins.
Fyrst framan af var skálinn mikið notaður í sambandi við útilegur um helgar. Snemma var farið að nota hann til dvalar flokka, og síðari árin hefur hann verið í látlausri notkun þrjá sumarmánuði. Skiptast K.F.U.M. og K.F.U.K. í Hafnarfirði á að nota skálann, og hafa drengjaflokkar heldur lengri tíma til umráða.
Aðsókn hefur undanfarin ár verið ákaflega góð að sumarstarfinu í Kaldárseli. Benedikt Arnkelsson, guðfræðingur, hefur veitt drengjastarf inu forstöðu mörg undanfarin sumur. Margar konur og stúlkur hafa skipzt á um að stjórna starfinu meðal stúlknanna.
Kaldárselsskálinn stendur í mikilli hraunbreiðu skammt frá Helgafelli. Þar er ákaflega mikil náttúrufegurð. Sérstaklega er kvöldfegurðin rómuð. Einkanlega þó síðari hluta sumars. Aðstaða er þarna mjög góð til útiveru og fjallgöngu. Margs konar náttúrufyrirbrigði er þarna að skoða, eins og yfirleitt er í brunalandi.”

Heimildir:
-Bjarmi, 61. árg. 1967, bls. 32.

Kaldársel

Kaldársel.

Jóhannes Reykdal

ÚRDRÁTTUR:

“Rafmagnið útrýmdi fljótlega öllum öðrum ljósgjöfum hvar sem það kom vegna yfirburða sinna, bæði hvað snertir birtumagn, þægindi og verð, og hafa rafljósin með sanni orðið ljós hins nýja tíma.”

Eldhús

Hlóðareldhús – Gaimard.

1. Híbýli manna hér á landi allt fram á þessa öld buðu ekki upp á mikla innanhússbirtu. Þykkir veggir torfbæjanna áttu að veita sem besta vörn gegn kula og dragsúg og á meðan ljósop voru raunveruleg op, eins og margt bendir til að þau hafi verið fyrst á landnámsöld, máttu þau hvorki vera mjög stór né mörg.
2. Mjög lítið er vitað með vissu hvernig ljósopum eða gluggum var háttað á húsum hér á öndverðu. Á meðan dagsbirtu naut við barst ljós að utan inn um ljóra. Ljóri, sem er samstofna orðinu ljós, var ljósop eða reykop sem var yfirleitt í þekjunni yfir langeldinum. Í ramma var settur skjár og var hann hafður til aðþétta reykopin þannig að þau gæfu samt svolitla birtu.

Gluggi

Steindur gluggi.

3. Glergluggar munu fyrst hafa verið nefndir í Páls sögu biskups þar sem þess er getið að hann hafði með sér tvo glerglugga og færði dómkirkjunni í Skálholti þegar hann kom heim árið 1195. Á 13. öld er alloft getið um glerglugga í íslensku fornbréfasafni og víðar, en eingöngu í kirkjum. Á venjulegum bæjarhúsum fara gluggar að tíðkast á síðari hluta miðalda í Skandinavíu, en á Íslandi líkega ekki fyrr en á 18. öld.

4. Helsti birtugjafinn í húsum landnámsmanna eftir að skyggja tók hefur að öllum likndum verið langeldurinn, sem upphaflega var á miðju skálagólfi.
5. Dagsbirtan, sem inn í húsin barst gegnum ljósop, var látin nægja á sumrin ásamt birtu sem lagði af eldum er á gólfinu brunnu á fyrstu öldum byggðar í landinu. Af seinni alda heimildum að dæma mun ljós ekki hafa verið kveikt sérstaklega til að lýsa upp vistarverur fólksins nema á svonefndum ljósatíma.

Langeldur

Langeldur.

6. Það var nokkuð á reiki hvenær ljósatími byrjaði að hausti. Algengast virðist hafa verið að ljós væru látin loga innahúss á kvöldin frá miðjum september fram í miðjan mars. Víða var miðað við tiltekinn atburð, t.d. göngur eða réttir. Ljósatíma lauk almennt á vorin um miðja góu eða í góulok.
7. Allt fram á 19. öld urðu tiltölulega litlar breytingar á ljósfærum hér á landi og notkun þeirra. Helstu ljósfærin voru kolur, lýsislampar og kerti.

Gluggi

Gloggi á torfbæ.

8. Algengast var að kalla einfaldan lampa kolu, en væri hann tvöfaldur nefndist hann lampi. Kolur gátu verið úr ýmsum efniviði, einkum steini, en lampar voru nær alltaf úr málmi.
9. Elstu ljósfæri sem fundist hafa við fornleifarannsóknir hér á landi eru kolur úr steini, einnig nefndar lýsiskolur. Víða er sagt frá slíkum ljósfærum í fornsögum og að líkundum hafa þær verið helsta ljósfæri sögualdarmanna.
10. Lýsislampar eru taldir hafa komið til sögunnar um miðja 17. öld.

Víkingaheimar

Kola í Víkingaheimum.

11. Algengast var að nota fífukveiki í kolur og lýsislampa og þóttu þeir langbestir. Fífunni var safnað í ágústmánuði eða þegar hún var fullsprottin.
12. Lýsi var það ljósmeti sem notað var í kolur og á lampa fram á þessa öld. Algengast var að nota sellýsi á lampa og kolur. Hákarlalýsi þótti mjög gott þar sem það fékkst.

Tólgarkerti

Tólgarkerti.

13. Kertaheitið er dregið af latneska orðinu ceratus, sem þýðir með vaxi á. Til forna voru kertin búin til úr býflugnavaxi. Kertavaxið varð að flytja inn erlendis frá og var því afar dýrt. Eftir að farið var að nota tólg til kertagerðar var komið efni sem allir áttu aðgang að og ekki þurfti að kaupa dýrum dómum.
14. Olíulampinn var fundinn upp árið 1855 af bandarískum efnafræðingi. Til Íslands fóru þeir að berast að marki á árunum 1870-1880. Fyrstu olíulamparnir voru nefndir flatbrennarar, þ.e.a.s. lampar með flötum kveik.

Lýsislampi

Lýsislampi.

15. Steinolíuampar voru hafðar í baðstofu fyrst eftir að þeir fóru að berast til landsins. Sjaldan var nema einn slíkur lampi á hverjum bæ. Í edhúsi, göngum eða útihúsum voru lýsislamparnir notaðir áfram. Einnig var algengt að menn reyndu sjálfir að búa sér til olíulampa. tekin voru lítil glös, flöskur eða jafnvel blekbyttur, sem tappi var settur á (tvinnakefli), gat borða í gegnum tappann og látúnspípa sett þar í. Kveikur úr bómullargarni var hafður í pípunni og varð að skara hann upp með nál. Þessi lampaglös voru nefndar týrur.
16. Eldfæri lndnámsmanna tóku litlum breytingum fram á 19. öld. Það var eldstál og tinna. Slegið var með stálinu á tinnuna og hrökk þá neisti í fnjóskinn og tendraði eld.

17. Eldspýtur voru fundnar upp á fyrri hluta 19. aldar.
18. Gas sem ljósagjafi áti sér stutta sögu á íslandi í byrjun þessarar aldar og mun varla hafa verið notaður utan Reykjavíkur.

Eldspýtur

Eldspýtur.

19. Rafmagnsljós komu með rafmagnsdýnamó Jóhannesar Reykdals í Hafnarfirði árið 1904.
20. Segja má að ljósfæri landsmanna hafi tekið sáralitlum breytingum í um þúsund ár. Á söguöld hefur langeldurinn verið aðal ljósgjafinn ásamt ljórunum. Elstu eiginlegu ljósfærin, sem við þekkjum, eru lýsiskolurnar sem voru í notkun alveg fram á þessa öld, lítið breyytar. Tvöföldu lýsislamparnir, sem sennilega fóru að tíðkast hér á 17. og 18. öld, eru líklega eina tækninýjungin sem fram kemur á þessu sviði fram á 19. öld. Kertin voru alla tíð einkum notuð í kirkjum og til hátíðarbrigða. Steinolíulamparnir sem hingað fóru að berast í lok 19. aldar valda straumhvörfum á heimilum manna og eru fyrstu boðberar væntanlegrar tæknibyltingar sem breytti á örskömmum tíma fornu bændasamfélagi með rætur í rótgróinni járnaldarmenningu í nútímaþjóðfélag.

-Íslensk þjóðmenning I – uppruni og umhverfi – 1987 Frosti F. Jóhannsson (bls. 195-366).
-Ljósfæri og lýsing – Guðmundur Ólafsson.

Jóhanne Reykdal

“Reykdalsstíflan” ofan Hörðuvalla.

Krýsuvík

Ólafur Einarsson skrifaði í Lesbók Morgunblaðsins árið 1986 um síðustu ábúendurna í Krýsuvíkursókn.
Hjónin í Stóra Nýjabæ héldu lengst út og komu öllum sínum seytján börnum til manns:
Storinyja-1
Stytzta og fljótfarnasta leiðin til Krýsuvíkur, að minnsta kosti fyrir þá, sem á höfuðborgar-svæðinu búa, er að aka til Hafnarfjarðar, suður og niður Hvaleyrarholtið og beygja við fyrstu vegamót til vinstri, halda síðan þvert yfir Kapelluhraun, þar til að Snókalöndum kemur. Aka þá til hægri og halda ferðinni áfram upp í Vatnsskarð og enn áfram eins og leið liggur meðfram Kleifarvatni, allt þar til kemur að Krýsuvík. En hún var, eins og mörgum er kunnugt, höfuðból Krýsuvíkursóknar, en fór í eyði um síðustu aldamót. Bærinn stóð undir samnefndu fjalli (Bæjarfelli) stuttan spöl frá Krýsuvíkurkirkju.
Um það bil 10 til 15 mínútna gangur var frá höfuðbólinu til Stóra-Nýjabæjar, sem var austan við Stóra-Kambafell á Austurengjum. Stóri-Nýjibær er þekktastur fyrir, að ábúendur, Guðmundur Jónsson frá Hiíð í Selvogi og kona hans, Kristín Björnsdóttir frá Herdísarvík, bjuggu þar myndarbúi og héldu lengst út við búskapinn allra þeirra, sem í Krýsuvíkursókn bjuggu. Þess ber að geta, að Guðmundur Jónsson frá Selvogi missti föður sinn, þegar hann var á fermingaraldri, með sviplegum hætti. En faðir hans féll niður um ís á Hlíðarvatni og drukknaði. Mikill harmur hefur það verið syninum. Og varð hann að taka að sér forsjá heimilisins strax eftir fermingu. En sú þolraun, sem föðurmissirinn hlýtur að hafa orðið syninum unga, mun óefað hafa mótað hann og hert, enda var Guðmundur alla tíð mikill búforkur, jafnhliða því að vera afbragðs formaður á vetrarvertíðum um áratugi.
Storinyja-2Næsti bær við Hlíð í Selvogi, var Herdísarvík. Það gat því varla hjá því farið, að þau Kristín frá Herdísarvík og Guðmundur frá Hlíð kynntust. Tókust með þeim ástir þegar á unglingsárum. Og voru þau gefin saman í hjónaband í Krýsuvíkurkirkju af séra Eggert Sigfússyni á Vogsósum, þann 8. september 1895. Hún 18, en hann 29 ára að aldri. Eins og fram hefur komið, var Guðmundur í Stóra-Nýjabæ afburða búforkur og jafnhliða því mikill formaður. Gerði út bát frá Herdísarvík árum saman í félagi við Símon á Bjarnastöðum í Ölfusi og var ennfremur formaður í Grindavík í þrjár eða fjórar vertíðir fyrir Júlíus Einarsson, ættaðan þaðan.
Undirritaður ræddi við þau Nýjabæjarsystkini, Hrafnhildi Guðmundsdóttur og Sigurð Guðmundsson. Þau voru sammála um, að ekki hafi verið einmanalegt á heimili þeirra í Nýjabæ. Alltaf nóg að gera, segir Sigurður. Auðvitað gat það verið erfitt á stundum, t.d. var um fimm kílómetra gangur milli að Krýsuvíkurbergi og þangað þurfti oft að fara til fugla- og eggjatöku frá heimili þeirra og austur að Herdísarvík var vegalengdin um það bil 10 kílómetrar. Og sama var að segja um leiðina vestur að Ísólfsskála, hún er svo til jafn löng. Þessi nefndu býli voru næstu nábúar okkar og oft heimsótt, þegar vel stóð á, og veður hamlaði ekki, segir Sigurður að lokum.
Storinyja-3Það voru Nýjabæjarhjónin, frú Kristín Bjarnadóttir, heimasætan frá Herdísarvík og Guðmundur Jónsson frá Hlíð í Selvogi, sem lengst héldu út. Þau hófu búskap að Stóra-Nýjabæ í Krýsuvík árið 1893 og fluttu þaðan alfarin 1933 til Hafnarfjarðar og bjuggu á Jófríðarstöðum 8B, allt til æviloka. Þegar á það er litið að Nýjabæjarhjónin þraukuðu lengst af við búskapinn í Krýsuvíkursókn, á erfiðleikaárum eftir fyrri heimsstyrjöldina, þá lýsir það skapgerð þeirra og dugnaði.
Í viðtali, sem Árni Óla átti við Guðmund árið 1932 segir svo: „Hlunnindi eru lítil, trjáreki er þó nokkur og eggja- og fuglatekja í Krýsuvíkurbjargi, en síga verður eftir hverju eggi og hverjum fugli. Í Geststaðavatni, sem er þar uppi í heiðinni, er dálítil silungsveiði. Var silungur fluttur þangað fyrir mörgum árum, að ráði Bjarna Sæmundssonar, og hefur hann þrifist þar vel. Það hefði einhverntíma verið kallað gott bú hjá bóndanum í Nýjabæ: 3 kýr, 14 hross og rúmlega 400 fjár framgengið. En hvað er gott bú nú?
Ég hefi reynt að halda í horfinu, segir Guðmundur, og búið hefur ekki gengið saman. En nú er svo komið, að það er einskis virði, nema það sem fæst af því til heimilisins. Í haust sem leið fékk ég 200 krónur fyrir jafnmargar kindur og lögðu sig á 1100 krónur á stríðsárunum. Ull og gærur telur maður ekki lengur. Fyrir 10 punda sauðagæru fékk ég t.d. kr. 1,50 í haust sem leið.”
Það var kreppan, sem skapaðist í heiminum eftir fyrri heimsstyrjöldina, sem svarf að Nýjabæjarheimilinu, eins og fleirum. En Guðmundur í Nýjabæ var ekki á þeirri reiminni að gefast upp, eða að óska eftir aðstoð. Ekki sótti hann um lán úr Kreppulánasjóði, og enga aðstoð þáði hann vegna ómegðar.
Þau Nýjabæjarhjónin komu öllum sínum sautján börnum vel til manns. Og öll urðu þau myndar- og dugnaðarfólk. Það verður að teljast þrekvirki.
Sautján afkomendur ög allt dugnaðarfólk. Það er hvorki meira né minna en ein til tvær skipshafnir. Hve mikils virði er það þjóðfélaginu, þegar að hjón frá afskekktu byggðarlagi skila slíku ævistarfi?”

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins 24. desember 1986, bls. 47.

Stóri-Nýibær

Stóri-Nýibær í Krýsuvík.

Kerlingarskarð

“Reykjavík hefir þá sérstöðu fram yfir margar aðrar höfuðborgir heims, að í hæsta nágrenni eru stór óbyggð svæði, sem eru tilvalin leikvangur þeirra, sem unna útiveru og gönguferðum. T.d. er svæðið frá Sandskeiði og suður að Keflavíkursvæðinu, svo óbyggt, að ekki er um að ræða einu sinni sumarbústaði. Að vísu er svæðið víða gróðurlítið, en sums staðar er líka mjög gróðurmikið, jafnvel kjarr. Sérkennileg fjöll og eldstöðvar frá fyrri tíð eru þarna margar, og er landið svo ósnortið, að glögglega má gera sér grein fyrir, hvernig þessar hroðalegu hamfarir eldsumbrotanna hafa farið fram.

Jón Kristinn

Jón Kristinn.

Óskandi er, að þessi stóru svæði fái að verða ósnortin af mannavöldum, svo að við útivistardýrkendur fáum að njóta lengi enn.
Ein af ákjósanlegri gönguleiðum á þessum slóðum er leiðin úr Kaldárseli og suður til Selvogs, eftir gamalli hestagötu, sem er rudd og óslitin frá Setbergshlíðinni fyrir ofan Hafnarfjörð og alla leið suður úr, til Selvogs. Leið þessi er vörðuð svo að segja alla leiðina, og standa flestar þeirra enn, þó að vafalaust séu mörg ár síðan þær voru hlaðnar.
Fyrir nokkru lögðum við þrír göngufélagar land undir fót og fórum þessa leið frá Kaldárseli, en þangað létum við aka okkur. Ferðafélagarnir voru, auk mín, þeir Björn Þorsteinsson sagnfræðingur og Gísli Sigurðsson lögregluvarðstjóri í Hafnarfirði, sem safnað hefir örnefnum á þessum slóðum, svo að báðir þekktu þessir menn svo að segja hvert fótmál.
Vegarslóðinn frá Hafnarfirði liggur í gegnum Helgadal, og gengum við þangað frá Kaldárseli, og síðan með Valahnúkum, en þar er hellir einn, sem Farfuglar hafa gert að bústað sínum með því að innrétta hellinn og setja í hann trégólf að nokkru. Fyrir nokkrum árum var þarna mannaferð um hverja helgi, en nú hefir þessi annars ágæti útilegubústaður verið vanræktur að nokkru. Farfuglar kalla þetta „hreiður” sitt Valaból og er hin gamla Selvogsgata rétt við hellinn.
Frá Valahnúkum liggur leiðin nokkurn veginn beint yfir hraunið og í áttina að Grindaskörðum Við gefum okkur góðan tíma til að skoða okkur um, því að leiðin þarna suður um er skemmtileg, margir hellar og skútar, sumir mjög forvitnilegir. Og sumir eiga jafnvel sína sögu í fórum Björns og Gísla. Ekki er vitað, hvenær ferðir hófust þessa leið, en vafalaust er langt síðan, því að útræð; var snemma frá Selvogi og Herdísarvík. en kaupskip komu oft í Hafnarfjörð. Ennfremur var þessi leið farin til að sækja brennistein í námurnar í Brennisteinsfjöllum en á árunum 1860—1890 var unninn brennisteinn á þessum slóðum til útflutnings. Var brennisteininum mokað í poka, en síðan tóku ýmsir hestaeigendur að sér að reiða brennisteininn til Hafnarfjarðar fyrir eina krónu hestburðinn. Í Hafnarfirði var brennisteininum skipað um borð í kaupskip til útflutnings. En nú er umferðin minni þarna um slóðir, og segir Gísli okkur, en hann er oft þarna á ferðinni, að það teljist til tíðinda, ef að fólk sjáist á ferð um þessar slóðir. Til sanninda um, hversu fjölfarin leið hefir verið þarna áður fyrr, má sjá, að hestarnir hafa markað með hófunum djúpar hvilftir í harðar klappirnar.
Á meðan við erum á gangi yfir hraunið finnst okkur hann gerast rigningarlegur í lofti. Það þótti góður og gegn siður, áður fyrr, að heita á helga menn og kirkjur sér til fulltingis, ef á lá, og finnst okkur það vel við eiga, eins og á stendur að gera áheit, ef veður haldist bjart og rigningarlaust á ferð okkar suður yfir fjöllin. Ekki kemur okkur saman um á hverja sé bezt að heita, en við ákveðum að heita tuttugu og fimm krónum hver. Gísli telur Strandakirkju öruggasta, en ég hafði áður heitið á heilagan Þorlák með góðum árangri undir svipuðum kringumstæðum. Taldi Gísli þá, að ekki lægi á að ákveða til hverra áheitið skyldi renna, en það tók Björn af, því að það gæti kostað átök á himnum, ef við ákvæðum ekki sjálfir fyrirfram, hverjir skyldu fá krónurnar. Varð það að samkomulagi, að við Björn skyldum heita á heilagan Þorlák, en Gísli skyldi senda sínar tuttugu og fimm krónur til Strandakirkju, ef við fengjum sólskin.
Vegarslóðinn upp í Kerlingarskarðið er í ótal krákustígum vegna brattans. örnefni eru þarna mörg, enda blasa hnúkarnir og skörðin vel við frá Stór-Reykjavík. Flestar eru hæðirnar gamlar dyngjur og eldfjöll, sem gosið hafa fyrr á öldum, sum jafnvel fyrir ísöld. Örnefni eins og Bollarnir, þeir eru einir sex, Kerlingarskarð, Draugahlíð, og mörg fleiri heyrast af vörum Björns og Gísla, þegar við göngum suður í gegnum skarðið.
grindarskord-322En hnúkarnir blasa einnig við langt utan af sjó, og sjómennirnir þekktu þá ekki alltaf til sömu örnefna og þeir, sem á landi ferðuðust. Höfðu þeir sinn hátt á í nafngiftum og til útskýringar góðum fiskimiðum. Sem dæmi má nefna, að utan úr Faxaflóa þóttust þeir sjá Þykkvalæri og Þunnalæri, en á milli þeirra var auðvitað Klofið. Þetta voru hnúkarnir í Grindaskörðum, en hins vegar var einn Valahnúka öðrum meiri, frá þeim að sjá, enda er hann mörgum kílómetrum nær sjó. Var sá kallaður Drellir á sjómannamáli. Þegar Drellir bar neðan til í Þykkvalærið, töldu sjómenn sig vera á öruggri fiskibleyðu út í Faxaflóa, í rennunnii á milli hrauna, eins og það var kallað. Þarna voru fengsæl togaramið, og fengu margir glöggir fiskimenn á togaratímanum góða afladaga á þessum slóðum, fyrr á árum. En tímarnir breytast og örnefnin á þessum slóðum hætta að hafa þá þýðingu í daglegu starfi manna, sem þau höfðu.
Ofanvert í Grindaskörðum [Kerlingaskarði] skiptist vegurinn, en slóðinn suður í Brennisteinsfjöllin liggur til vesturs, en leiðin til Selvogs áfram í suður. Við höldum áfram til suðurs.
Þrátt fyrir áheitin hafði Björn verið svo hygginn að hafa með sér feikimikla regnhlíf af enskri gerð, forláta grip, sem spannaði faðm eða meira í þvermál. Við Gísli efuðumst um, að slíkir gripir heyrðu ferðaútbúnaði til, en Björn taldi einmitt slíkan grip skara fram úr öðrum að notagildi, og það sannaði hann, þegar viö settumst til að borða nesti okkar, en þá spennti hann út regnhlífina góðu og snæddi í skjóli. En Björn hefir aldrei verið talinn feta troðnar slóðir í ferðamennsku.
Við félagarnir fórum okkur heldur hægt, þurftum margt að athuga á leiðinni, og margt að ræða, enda var okkur fæst mannlegt óviðkomandi. Þeir Gísli og Björn vitnuðu gjarnan til fyrri tíma og fornra heimilda, en þá varð ég að hafa mig allan við því að þar stóð ég svo langt að baki, hvað allan fróðleik snertir. En á söguslóðum eru sagnfróðir menn í essinu sínu, svo að þessu sinni skipaði ég sæti hins forvitna hlustanda.

Stóri-Bolli

Stóri-Bolli í Kóngsfelli.

Við gengum á Kóngsfell [Litla-Kóngsfell], sem er þarna á miðri heiði. Það er gamall reglulaga gígur, sem hefur merkilegu hlutverki að gegna að vera landamerki á milli Krýsuvíkur, Herdísarvíkur og á milli sýslnanna, Árnessýslu og Gullbringusýslu. Þaðan var gott útsýni yfir heiðina, en ekki er Kóngsfell svo tígulegt, að það veiti manni útsýn til höfuðborgarinnar, enda sést Kóngsfellið ekki frá Reykjavík. Á þessum slóðum er margt furðulegra steina, sem gaman er að skoða, en gjallið úr gígnum hefir tekið á sig hinar furðulegustu myndir. Ég vildi að ég hefði getað borið með mér helmingi meira en ég gerði.
Viö félagarnir komum víða við í umræðunum okkar í millum. Við ræðum um steina, jurtir og sagnfræði, en allt þetta freistar ferðalangsins. Einhvern tíma hefi ég lesið og ég sé nú, að í því er fólgin mikill sannleikur, að þegar maður ferðaðist til staðar í fyrsta sinn, að þá geri maður það einungis til að viðra sig og til að hafa komið á staðinn, en í annað sinn geri maður það til að glöggva sig enn betur á náttúrunni og fegurð hennar, en í þriðja sinn og fjórða fer maður að kafa dýpra og byrjar að forvitnast um sögu staðarins. Ef maður er í góðum félagsskap getur maður því gert sér það til erindis að ferðast um sömu staði aftur og aftur til aukinnar ánægju, vegna þess að maður sér ekki sama staðinn alltaf í sama ljósi. Þegar maður hefir kannað einn stað frá hinu náttúrufegurðar- eða frá jarðfræðilegu sjónarmiði, fer forvitnin að leiða mann inn á hin sögulegu sjónarmið, sem jafnvel eru óendanleg, því að ímyndunin getur leitt mann þangað, sem staðreyndirnar geta ekki. Þess vegna er líka gaman að sögunni.

Dauðsmannsskúti

Dauðsmannsskúti.

Sunnan Kóngsfells tekur við sérkennilegt landslag, gróðurmelar og brunnið hraun á víxl. Við komum að Dauðsmannsskúta, en þar áttu að hafa orðið úti menn í vetrarferð, og kann Gísli að segja fornar sögur um þá harmaatburði.
Nú tekur að halla á móti suðri, gróðurinn tekur að aukast, jarðvegurinn að verða meiri, og götuskorningurinn tekur að verða jafnvel dýpri, því að hestarnir ganga niður á fast jarðlag með tímanum.
Áheitin virðast hafa komið að fullkomnu gagni því að gott skyggni hélzt. Brátt kemur Selvogsviti í ljós, og suður á Selvogsbanka sjáum við óljóst togbátana vera að draga björg í bú, hvort sem þeir nú eru innan eða utan hinnar svokölluðu landhelgi.
Uppi á heiðinni hafði maður vart heyrt fuglakvak, enda gjörsamlega gróðurlaust, en eftir því sem sunnar dregur, heyrir maður fjölbreytilegar til fuglanna, og við heiðarbrún er samfelldur fuglaniður, enda horfir þarna á móti suðri og nýtur vel sólar. Við fylgjum hestagötunni alveg að þjóðveginum, enda bíður þar bíllinn, sem átti að flytja okkur heim aftur. Við höfum staðizt áætlun, því að við höfðum reiknað með sjö tíma hægri ferð og það reynist standa heima. Bíllinn reyndist ekki hafa þurft að bíða lengi.
Kaffisopi ferðalok er alltaf kærkominn, áður en við höldum í bæinn aftur, en elskuleg eiginkona beið með sopann í bílnum, enda átti hún í vændum miklu frískari eiginmann en þann, sem hún skildi við í Kaldárseli fyrir sjö tímum. – Jón Kristinn.

Heimild:
-Vísir, 18. júlí 1967, bls. 9-10.

Kerlingaskarð

Kerlingaskarð framundan.

Brattakinn 29

Í auglýsingu fasteignasölu um Bröttukinn 29 í Hafnarfirði, sem seld var árið 2015, segir m.a.: “Verð 25,9 – Stærð 71 m2 – Einbýli – Verð per fm 363 – Byggingarár 1954.

Otto Whatne

Ottó Wathne Björnsson – ófullgert málverk Halldórs Árna Sveinssonar.

Á lóðinni er skráð 19 fm. geymsla, geymslan er nánast ónýt. Það má byggja hana aftur.
Byggingaréttur er á lóðinni bæði fyrir stækkun á húsinu um helming einnig að byggja bílskúr. Byggja má einnig eina hæð ofan á húsið.
Komið er inn í forstofu með dúk á gólfi. Stofa og eldhús eru með viðarborðum á gólfi. Gengið er niður stiga á neðri hæð. Þar er lítið hol með máluðu steingólfi, Herbergi með steingólfi, skápur. Inn af herbergi er lítil hitakompa.
Baðherbergi og þvottahús með flísum á gólfi, sturta er á baði.
Vel staðsett og snoturt 2ja herbergja einbýli með góðri lóð á vinsælum stað í Hafnarfirði. Eign sem getur boðið upp á ýmsa möguleika.
Um er að ræða snotra og sjarmerandi eign á tveimur hæðum með góðri lóð á vinsælum stað í Hafnarfirði. Eign sem vert er að skoða.”

Í Alþýðublaði Hafnarfjarðar – jólablaði, árið 1962, er fróðleg grein eftir Magnús Jónsson (forstöðumann Byggðasafns Hafnafjarðar); “Bæir i bænum“.

Brattakinn 29

Brattakinn 29.

Þar segir m.a. um “bæ Ottós” að Bröttukinn 29:
“Árið 1908 komu til Hafnarfjarðar hjónin Halldór Sigurðsson frá Merkinesi í Höfnum og Pálína Pálsdóttir. Bjuggu þau fyrst í Gesthúsum. En þau vildu, eins og aðrir, búa undir eigin þaki og létu nægja lágreist bæjarlag á þeirri byggingu, þótt þá væri komið árið 1919. Gata var lögð framhjá bænum þrem árum síðar og þá lögð í hann vatnsleiðsla. Jafnframt hlaut hann númerið Krosseyrarvegur 5. Halldór dó árið 1920, en kona hans fimm árum síðar.
Fóstursonur þeirra, Janus Gíslason, bjó áfram í bænum, á dótturdóttur þeirra hjóna, Pálínu Arnadóttur. Hún giftist Hallbergi Péturssyni, og bjuggu þau í þessum bæ allt til ársins 1953. Þá var hann seldur Ottó W. Björnssyni og fluttur burt og stendur nú í góðu yfirlæti sem Brattakinn 29. Jafnframt var inngönguskúrinn lengdur, svo að nú er hann sem viðbygging jafnlöng bænum. Kjallarinn varð einnig allur ofanjarðar. Lengd bæjarins er 5,8 m, en breidd hans hefur upphaflega verið um 3,8 m. Með viðbyggingunni er hún orðin yfir 5 m. Hjá bænum hefur Ottó byggt útihús vegna atvinnu sinnar.”

Í “Húsakönnun” fyrir Kinnar, íbúðahverfi í Hafnarfirði, árið 2020 segir m.a.:

Kinnar

Kinnar í byggingu.

“Könnunin er unnin samkvæmt beiðni Umhverfis- og skipulagsþjónustu Hafnarfjarðarbæjar. Málfríður Kristjánsdóttir arkitekt FAÍ vann skráninguna. Björn Pétursson bæjarminjavörður Hafnarfjarðar skrifaði sögulega samantekt.
Málfríður Kristjánsdóttir skrifaði um uppbyggingu hverfisins Rósa Karen Borgþórsdóttir safnvörður á Byggðasafni Hafnarfjarðar aflaði sögulegra upplýsinga.
Elsa Jónsdóttir landfræðingur hjá umhverfis- og skipulagsþjónustu Hafnarfjarðarbæjar aðstoðaði við gerð korta.

Formáli

Brattakinn 29

Brattakinn 29.

Í janúar 2018 fól Umhverfis- og skipulagsþjónusta Hafnarfjarðarbæjar Málfríði Kristjánsdóttur arkitekt að gera húsaskráningu fyrir Kinnarnar í Hafnarfirði. Samkvæmt 16. gr. laga um menningarminjar nr. 80/2012 skal skráning fornleifa, húsa og mannvirkja fara fram áður en gengið er frá aðalskipulagi eða deiliskipulagi. Minjastofnun Íslands setur reglur um lágmarkskröfur sem gera skal til skráningar fyrir hvert skipulagsstig.
Minjastofnun Íslands lagði til húsaskráningarforrit og hefur veitt leiðbeiningar. Byggðasafn Hafnarfjarðar veitti aðgang að ljósmyndum og aðstoðaði við skráningu á sögu einstakra húsa. Hefur framlag safnsins verið ómetanlegt. Þá hafði höfundur skráningar ótakmarkað aðgengi að teikningasafni og skráðum heimildum byggingafulltrúaembættisins. Allar brunavirðingar fyrir tímabilið þegar Kinnarnar voru í uppbyggingu eru glataðar. Öll hús voru ljósmynduð og skoðuð á staðnum.

Brattakinn 29

Brattakinn 29.

Skráningin tekur alls til 153 bygginga. Þar af voru 9 friðaðar samkvæmt 29. grein laga um menningarminjar nr. 80/2012. Ellefu hús við Bröttukinn hafa verið flutt þangað og við Grænukinn er eitt flutningshús.
Samkvæmt Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2013-2025 er hverfisverndarákvæði um Kinnarnar sem hljóðar svo : „Smágerður mælikvarði sem einkennir hverfið haldist óbreyttur og þar með byggðamynstur hverfisins sem er heillegt og gott dæmi um einbýlishús byggð um 1950“.
Varðveislumat húsanna á svæðinu er almennt hátt með tilliti til hverfisverndarákvæðisins og tilurð húsanna. Það er mikilvægt að breytingar og viðbyggingar séu hóflegar og í samræmi við götumyndir.

Söguleg samantekt

Kinnar

Kinnahverfið í byggingu.

Á eftirstríðsárunum var nokkur húsnæðisskortur í Hafnarfirði sem brugðist var við með ýmsum hætti. Meðal þeirra úrræða sem gripið var til á þessum tíma var að skipuleggja smáíbúðahverfi í nýju hverfi sem kallað var „Kinnarnar“. Umrætt landsvæði tilheyrði einni af hinum fornu fjórum bújörðum Hafnarfjarðar, Hamarskoti en sú jörð var keypt af bæjarsjóði Hafnarfjarðar árið 1912 að undanskildu Hamarskotstúni innan girðingar og Undirhamarskotstúnbletti. Fyrstu heimildir um jörðina eru frá árinu 1579 en þá hafði hún fyrir alllöngu verið komin í eigu Garðakirkju.

Hamarskot

Hamarskot – tilgáta.

Í Jarðarbók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1703 er jarðardýrleiki talinn óviss þar sem jörðin tíundaðist engum en landskuld hennar var þá 60 álnir sem greiddust með 3 vættum fiska í kaupstað, engjar voru engar og vatnsból erfitt um vetur en þar var þó heimræði árið um kring og lending góð. Bærinn Hamarskot stóð þar sem Flensborgarskólinn stendur í dag.
Áður en uppbygging Kinnahverfisins hófst var landsvæðið nýtt um tíma til landbúnaðar. Þar stóð meðal annars allstórt fjós og hlaða sem byggt var 1931. Fjósið var byggt af og eftir teikningu Ásgeirs G. Stefánssonar fyrir Þorstein Björnsson. Þess má geta að Ásgeir teiknaði bæði og byggði fjölmörg hús í bænum á þessum árum. Fjós þetta vék fyrir byggðinni þegar hún tók að myndast í hverfinu.

Kinnar

Kinnahverfi.

Segja má að uppbygging Kinnahverfisins hafi hafist árið 1947 þegar fyrstu húsin voru byggð við Köldukinn. Flutningshús voru flutt á svæðið og sett niður árið 1949 en formlegt skipulag fyrir hverfið var ekki samþykkt fyrr en í desember 1951. Í frétt í Alþýðublaðinu frá þeim tíma segir meðal annars: „Milli 40 og 50 umsóknir um smáhúsalóðir í Hafnarfirði. Sérstakt hverfi ætlað húsunum, en bærinn leggur til teikningar ókeypis. /…/ Hafnarfjarðarbær hefur skipulagt sérstakt hverfi fyrir þessi hús ofarlega í bænum þar, sem eru svo kallaðar Kinnar. /…/ Þeir sem þess óska geta fengið ókeypis teikningar að húsum þessum hjá bænum, en einnig er þeim leyfilegt að láta teikna hús eftir eigin fyrirsöng.“ Nokkuð var um að eldri hús í bænum væru flutt í hverfið og olli það í sumum tilfellum deildum. Dæmi um það er hús sem áður var Reykjavíkurvegur 4 en það þurfti að víkja þaðan vegna breikkunar götunnar. Þá sendu fjöldi íbúa hverfisins bréf til bæjarins til að mótmæla þeim flutningi en í frétt Alþýðublaðsins sagði meðal annars um það mál „Hafnarfjörður fer að verða furðulegur bær. Ætli menn að byggja bílskúr, verða þeir að hlíta ströngum reglum byggingarsamþykktar en Pétur og Páll viðrast geta dröslað aflógahjöllum eftirlitslaust á grunna, a.m.k. í Kinnahverfinu. Flutningur Finnshúss upp í Grænukinn er bæjarstjórnarhneyksli og fyrir það verður „eigandi“ hússins ekki sóttur til saka.“

Brattakinn 29

Brattakinn 29.

Deiliskipulagsuppdrátturinn af svæðinu var gerður af þeim Sigurði Jóni Ólafssyni og Friðþjófi Sigurðssyni og afmarkaðist þá af Hringbraut, Bárukinn og læknum að norðan. Eins og fram kemur hér að framan var lóðarhöfum boðið að fá húsateikningar þeim að kostnaðarlausu frá bænum og varð úr að um þriðjungur húsa í þessu hverfi, 55 talsins, var byggður eftir þeim teikningum. Teikningarnar voru eftir þá Friðþjóf og Sigurð og gefa þessi hús og þéttleiki byggðarinnar í hverfinu því ákveðin heildarsvip. Aldur húsa í hverfinu er að stærstum hluta frá
miðri 20. öld en þó eru nokkur hús eldri sem flutt voru þangað og einnig er þar að finna nýleg hús.
Yngstu húsin voru byggð undir aldamótin 2000 eftir að Pípugerð Jóns Guðnasonar við Bröttukinn 1 vék fyrir nýjum húsum en hún hafði verið starfrækt á þeim stað allt frá árinu 1929.

Uppbygging hverfisins

Brattakinn 27

Flutningshús – Brattakinn 27.

Sigurður Jón Ólafsson og Friðþjófur Sigurðsson gerðu fyrsta deiliskipulagsuppdráttinn af svæðinu og var hann samþykktur 13. desember 1951. Svæðið var milli Hringbrautar og Bárukinnar en að norðan var Lækurinn. Þá voru 11 hús á svæðinu, þar af 5 aðflutt. Það má telja þá Sigurð og Friðþjóf feður byggðarinnar. Sigurður var bæjarverkfræðingur og byggingafulltrúi frá 1946-1959 en Friðþjófur var loftskeytamaður sem vann á þessum tíma við tæknistörf hjá Hafnarfjarðarbæ og varð síðan byggingafulltrúi í eitt ár 1961 og síðan frá árinu 1967. Samtals teiknuðu þeir 55 hús eða yfir en einn þriðja hluta allra húsa á svæðinu. Þetta átti sinn þátt að gefa hverfinu heildarsvip.
Fyrstu nýbyggingarnar í Kinnunum voru við Köldukinn nr. 7, 8 og 10 frá árinu 1947 en tveim árum síðar var farið að flytja þangað hús sem voru sett niður við Bröttukinn. Hverfið byggist upp á sama tíma og smáíbúðahverfið í Reykjavík en borgarstjórn Reykjavíkur hélt samkeppni meðal arkitekta um smáhús og vann Gunnar Ólafsson arkitekt þá samkeppni.

Otti Wathne

Tóbakspungur Ottós.

Tvö hús voru byggð samkvæmt hans teikningu annað við Köldukinn en hitt við Grænukinn. Bæði húsin eru mikið breytt í dag. Þá voru byggð fjögur hús eftir teikningu Guttorms Andrjessonar og Ólafs Guttormssonar sem einnig hafði verið byggt eftir í smáíbúðahverfinu.
Flest húsin á svæðinu risu á árunum 1951-1955 eða samtals 76 hús. Fyrstu húsin austan Bárukinnar voru flutningshús við Bröttukinn og eftir 1954 hófst uppbygging fyrst við Háukinn og Grænukinn og síðan Stekkjarkinn. Uppbygging austan Bárukinnar var hægari en var að mestu lokið 1970. Síðast var byggt á eignalóðum við Fögrukinn og Lækjarkinn.
Á þeim tíma sem hverfið var í byggingu var mikill húsnæðisskortur og innflutningshöft þar sem gjaldeyrir var af skornum skammti. Frá árinu 1947 giltu lög um fjárhagsráð, innflutningsverzlun og verðlagseftirlit en þá var heimilt að byggja íbúðarhús til eignaafnota án fjárfestingaleyfis ef stærð þess fór ekki yfir 350 rúmmetra. Fjárhagsráð var lagt niður í lok árs 1953 og þá var gert frjálst að byggja hús allt að 520 rúmmetra.
Mismunandi þættir sköpuðu þetta þétta byggðamynstur með þéttri byggð svo sem húsnæðisskortur, innflutningshöft, starfsemi fjárhagsráðs og teikningar af litlum einföldum einbýlis- og tvíbýlishúsum.”

Ottó W. Björnsson – Ottó Wathne Björnsson (7. júlí 1904 – 26. maí 1992)

Ottó Wathne

Ottó Wathne Björnsson.

Líkt og fram hefur komið keypti Otto W. Björnsson Krosseyrarveg 5 árið 1954 og flutti að Bröttukinn 29.
Í kveðjuorði Stellu, frænku Ottós í Morgunblaðinu miðvikudaginn 1. júlí árið 1992 segir m.a.: “Ottó Wathne Bjömsson er dáinn. Hann var kominn hátt á níræðisaldur, lá kvalafulla banalegu, sem loks tók enda daginn fyrir uppstigningardag. Guði sé lof fyrir það. Ottó dvaldi síðustu árin á Sólvangi í Hafnarfirði og hafði litla fótavist, svo sennilega er hann mörgum gleymdum sem könnuðust við hann úr bæjarlífinu hér áður fyrr, bæði í Reykjavík og Hafnarfirði.
Það er eðlilegt að mannlífið breyti um svip í tímanna rás og um margt er það til bóta, en ekki get ég neitað því að oft finnst mér það um leið verða fátæklegra. Nú eiga helst allir að vera eins. Þeir smá hverfa hinir kynlegu kvistir, sem settu svip á bæjarbraginn áður fyrr.
Ottó var einn þeirra. Hann batt ekki bagga með öllum. Í mörg ár vann hann sem fjósamaður eða gegningamaður í sveit, stundum mörg ár á sama stað, svo sem hjá Þorgeiri í Gufunesi. Á milli brá hann sér í bæinn, þá gjarnan til móður sinnar, Gunnhildar kaupakonu í Skálholti, sem allir eldri Hafnfirðingar muna. Nú eða að hann kom í heimsókn til ömmu minnar Pálínu, en hún var frænka Gunnhildar. Hjá ömmu minni dvaldi hann sem unglingur í þrjú ár við nám og var það hans einasta skólaganga. Þar var vinurinn kominn í fjósagallanum og lyktaði allavega, því þótt margt megi segja gott um Ottó frænda minn, þá verður aldrei sagt að fataprjál og baðferðir hafi verið hans uppáhald.
Sem betur fer vitkast maður með aldrinum. Það er sennilega líka ætlunin með dvöl okkar hér…” – Stella frænka.

Sveinn Björnsson skrifaði minningarorð um Ottó Wathne Björnsson 4. júlí 1992:

Ottó Wathne

Málverk Sveins Börnssonar af Ottó Wathne Björnssyni.

“Ottó Wathne Björnsson ­ Minning Ottó Wathne Björnsson, vinur minn, er látinn. Hann fæddist 7. júlí 1904 á Arnarstapa á Snæfellsnesi. Foreldrar hans voru Gunnhildur Bjarnadóttir og Björn Jónsson.
Ottó fluttist til Hafnarfjarðar 1920. Hann átti hús í Bröttukinn 29, Hafnarfirði. Þangað kom ég oft. Ottó var búinn að vera nokkur ár á Sólvangi. Hann var alltaf einsetumaður.
Ottó var sérstakur maður. Ég kynntist honum þegar ég kom í lögregluna 1954. Ég fékk fljótlega áhuga fyrir að mála hann en það gekk á ýmsu að til þess kæmi, hann var hálfhræddur við slíkt uppátæki og fór lengi undan í flæmingi. En loks tókst að fá hann til að sitja fyrir heima hjá honum. Hann vildi ekki koma í vinnustofu mína. Það var dálítið erfitt að fá hann til að sitja kyrran. Hann þurfti að vera að taka í nefið og alltaf að aka sér til og frá og með ýmsar brettur sem honum voru kannski eðlilegar. Einnig vildi hann alltaf vera að tala við mig. Þetta hafðist þó á endanum.
Ég var dálítið búinn að stúdera Ottó þegar hann kom á lögreglustöðina í Hafnarfirði, en það var mjög oft. Stundum kom hann seint á kvöldin og þá venjulega með flöskur í pokum og var þá oft þreyttur.
Hann kom til að hitta vini sína, þá einu eins og hann sagði stundum. Hann safnaði flöskum og keypti hingað og þangað, fór meira að segja til Keflavíkur og víðar.
Ottó hafði áður unnið almenn sveitastörf og ýmis verkamannastörf á ævinni. Hann var flöskukaupmaður 30 síðustu ár ævi sinnar. Í þá daga voru flöskur í verði og sérstaklega brennivínsflöskur.

Sveinn Björnsson

Sveinn Björnsson.

Það var ekki ósjaldan að við á lögreglustöðinni ókum Otta heim með pokana sína fulla af flöskum. Hann kom stundum með nokkra poka í strætó í síðasta vagni. Voru strætóbílstjórar góðir við Otta og leyfðu honum að flytja þessa poka í vögnunum. Síðan bar hann þá á sjálfum sér að lögreglustöðinni. Eftir klukkan 3 á nóttunni þegar um hægðist í bænum og allt var orðið rólegt var honum hjálpað heim með varning sinn í hús sitt og inn í kjallara. Þá lá vel á karli og stundum bauð hann upp á flotta vindla og maltöl. Ottó var nefnilega góður vinur vina sinna. Hann var sérstakur og sérsinna en hrekklaus, góð sál.
Á seinni árum var honum gefið sjónvarp af vinum sínum í Reykjavík, en það setti hann aldrei í samband. Hlustaði bara á útvarpið, gömlu, góðu Gufuna, og lagði kapal.
Hann talaði fallega íslensku og var gaman að ræða við hann. Það voru stuttar setningar og hnitmiðaðar sem minntu á Hemmingway, sem hann hafði aldrei heyrt um eða lesið.
Ottó kom stundum heim til mín að Köldukinn 12 enda stutt að fara. Hann var góður við börn, hugsaði mikið um þá sem áttu bágt, en lítið um sjálfan sig. Hann var stundum skemmtilegur og lék á als oddi.
Hulda og Jónatan í Köldukinn 8 voru alltaf góð við Otta, gáfu honum að borða á hátíðum og Hulda kom honum í bað sem var ansi erfitt.
Kristinn Hákonarson yfirlögregluþjónn og Sólveig Baldvinsdóttir sendu honum oft mat um jólin og öðrum hátíðisdögum. Einnig vinir hans í Reykjavík. Einstæðingar eru oft látnir eiga sig en fyrr á árum meira gert í því að gleðja þá á hátíðum.
Ottó Wathne var ekki allra, hann var einn af þeim mönnum sem setti svip á bæinn okkar. Nú eru flestir þessir sérstöku menn gengnir til feðra sinna og engir þeim líkir koma í staðinn. Þeir voru nefnilega ansi vel gefnir margir hverjir og kunnu að svara fyrir sig.
Ottó var saklaus sál sem fólki þótti vænt um. Hann kunni að drekka kaffi af undirskál sem hann hélt fallega á og ekkert fór niður þótt hann væri með kreppta fingur.
Ég man vin minn alltaf, veri hann kært kvaddur. Það verður tekið vel á móti honum.” – Krýsuvík, 29. maí ’92, Sveinn Björnsson.

Ottó Wathne
Í Þjóðviljanum 8. júlí 1984 ræðir MHG við Ottó Wathne Björnsson um hvernig nafn hans er til komið, hestamennsku, flöskuverslun og eggjasölu með meiru… Hér verður einungis drepið niður á sumt, er fram kom í viðtalinu:
“Er þá ekki hann Ottó Wathne Björnsson úr Hafnarfirðinum allt í einu kominn hingað inn á gólf. Hann er auðvitað spurður almæltra frétta úr Firðinum, en hann kveður þaðan ekkert
tíðinda, sem í frásögur sé færandi. -„Ekki nema það að þú ert að verða áttræður,” gellur þá í Lúðvík Geirssyni hér í næsta herbergi. Og þar náði blaðamaður þá í spotta, þökk sé Lúðvík.
Ekki þarf að efa að áttræður maður hafi frá ýmsu að segja og lyktir urðu líka þær að rabb okkar Óttós varð miklu léngra en svo að tök séu á að troða því í eitt blað, og því birtist hér aðeins lauslegt
og hraðsoðið hrafl.

Vitjað nafns
Ottó WathneBlaðamanni lék forvitni á að vita hvernig varið væri ættartengslum þeirra Ottós Wathne athafnmannsins á Seyðisfirði og Ottós Wathne þeirra Hafnfirðinga.
– Uss, við erum ekkert skyldir, ansar Hafnfirðingurinn.
– Og hversvegna berð þú þá þetta nafn?
– Ja, það er nú saga að segja frá því. Og er þar þá fyrst til máls að taka að ég er fæddur undir Jökli, á Arnarstapa. Foreldrar mínir, Björn og Gunnhildur, bjuggu þar.
Það var gamli Ottó Wathne sjálfur, sem endilega vildi að ég yrði skírður þessu nafni. Foreldrar mínir þekktu hann auðvitað ekkert og voru búin að ákveða mér allt annað nafn. En svo í hálfan mánuð áður en ég var skírður vitjaði Wathne móður minnar í draumi, á hverri einustu nóttu í hálfan mánuð. Það munaði ekki um það. Hún var hætt að geta sofið. Og seinast klykkir hann út með því að segja að láti hún ekki barnið heita þessu nafni þá verði það aumingi, ef það þá fái að lifa.
Og þá segir hún við pabba: – Við verðum bara að skíra drenginn þessu nafni. Og það var gert, Ottó Wathne Björnsson er mitt skírnarnafn, taktu eftir því, skírnarnafn en ekki ættarnafn.
„Hefurðu nú kannski eignast krakka…?”
En þetta átti nú eftir að hafa sín eftirköst, skal ég segja þér, þó að gamla Wathne hafi sjálfsagt ekki grunað það. Ég fékk nefnilega einu sinni bréf frá lögfræðingi.
Mér þótti það nú skrítið og mömmu ekki síður. Maður tengdi lögfræðinga helst við einhver afbrot og ég vissi ekki til þess að ég hefði brotið nein guðs eða
manna lög. En mér var skipað að mæta hjá lögfræðingnum. Það var meira helvítið. Og mamma segir: – Hefurðu nú kannski eignast krakka með einhverri
stelpu, sem þú vilt svo ekki meðganga?
– Nei, nei, nei, ég held nú síður.
– Nei, ég trúi því heldur ekki á þig, en hvað getur maðurinn viljað?
– Já, það veit ég fjandakornið ekki frekar en þú. Neitaðu og vertu ákveðinn.

Heimsókn að Bröttukinn 29

Brattakinn 29

Brattakinn 29.

FERLIR tók hús að Bröttukinn 29 að gefnu tilefni. Við skoðun á innviðum hússins var ljóst að bætt hafði verið við upphaflega húsið, sem flutt var frá Krosseyrarvegi 5 á sínum tíma. Gamla húsið er dæmigert fyrir hafnfirska byggingalist frá því í byrjun 2o. aldar; byggt af vanefnum, en hefur þrátt fyrir það þótt til mikilla framfara í híbýlagerð bæjarbúa frá fyrri tíð. Eftir sem tíma liðu varð þessi “nútímalegi” húsakostu, líkt og vera vill, þó fljótlega úreltur; bæði hvað varðar gerð og stærð. Mörg húsanna þurftu og að víkja fyrir skipulegri gatnagerð og voru ýmist rifin eða flutt til.

Brattakinn 29

Brattakinn 29.

Hugmyndir fólks um verndun gamalla húsa í bænum eru af ýmsum toga. Rétt að taka undir áhuga formanns Byggðasafns Hafnarfjarðar að koma slíkum sögulegum byggingum, sem ekki geta lengur þjónað sínu hlutverki í nútímanum, fyrir á afmörkuðu svæði, líkt og Árbæjarsafn er dæmi um í Reykjavík. Slíkt svæði er nærtækt í Hafnarfirði, þ.e. auðnin ofan Langeyris. Þar voru fyrrum t.d. húsin Eyrarhraun o.fl. slík. Allt voru þau dæmigerð hafnfirsk híbýli frá upphafi síðustu aldar. Með því að skipuleggja slíkan reit væru saman kominn á einum stað framtíðar dvalarstaður mikilla áður óæskilegra fortíðarverðmæta.
“Gamlar kreðslur eiga þó á stundum til að torvelda vænleg framtíðarskref”….

Heimildir:
-Fasteignauglýsing 2015.
-Alþýðublað Hafnarfjarðar – jólablað, 15.12. 1962; Bæir í bænum – Magnús Jónsson.
-Kinnar, íbúðahverfi Hafnarfirði – Húsakönnun: Hafnarfjörður 2020.
-Morgunblaðið, miðvikurdagur 1. júlí 1992 – Ottó W. Björnsson; kveðjuorð – www.mbl.is/greinasafn/grein/87872/
timarit.is/page/1765836#page/n45/mode/2up
-Morgunblaðið, Sveinn Björnsson, 4. júní 1992 – Minningargreinar.
-Morgunblaðið, 4. júní 1992 – Minningargreinar.
-Þjóðviljinn 8. júlí 1984, bls 4 og 6: Hún var skagfirsk eins og þú – – mhg rœðir við m Ottó Wathne Björnsson um hvernig nafn hans er til komið, hestamennsku, flöskuverslun og eggjasölu með meiru – timarit.is/page/2893813#page/n3/mode/2up

Brattakinn 29

Brattakinn 29 – Jóhannes Ármannsson er eigandi hússins.

Móðhola

Í örnefnalýsingu fyrir Hvaleyri eftir Ólaf Guðmundsson og Gísla Sigurðsson, lögregluþjón í Hafnarfirði, er m.a. getið um Móðholu.
Í lýsingunni er m.a. sagt frá Hvaleyrarsandi, norðvestan við Golfvöllinn. “Utan við MóðholaHvaleyri heitir Jónasarlending. Sker er þar skammt undan landi sem heitir Hrútur. Vestan við Hvaleyrarsund heitir Þvottaklettur. Þar kemur tært vatn undan hrauninu og er það af sumum talið vera vatn úr Kaldá. Þar næst heitir svo Gjögrin er ná að Skarfakletti. Innan við Skarfaklett[a] er víkin, nefnd Sandvík og við Skarfakletta[a] heitir Móðhola. Þar var kveðinn niður draugur endur fyrir löngu. Þar er smáhellisskúti og utar, fast við merkin móti Straumi, er vík sem heitir Þórðarvík.”
Í annarri örnefnalýsingu segir að Móðhola sé lítið jarðfall skammt ofan við ströndina. Sá, sem þar fer niður, getur átt í erfiðleikum með að komast upp aftur. Kannski það hafi þess vegna verið hentugt til að kveða niður draug.
Ætlunin var að athuga hvort Móðhola væri enn á sínum stað. Holan gæti verið komin inn fyrir mörk álversins og þá mögulega á þeim stað er fréttist af “mikilli rás” út frá ströndinni.
Í örnefnalýsingunni segir jafnframt að “hér upp frá sjónum er allúfið brunahraun sem heitir Hvelyrarhraun eða Hellnahraun. Upp frá Þórðarvík opnast dalir er ganga þaðan inn í hraunið og heita þeir Leynidalir. Þeir eru innantil við hæsta brunann. Þar eru Leynidalaskjól.” FERLIR skoðaði þau skjól á sínum tíma.
Hafnarfjarðarkaupstaður fékk afsalað til sín landi Garðarkirkju sem nú er innan staðarmarka kaupstaðarins árið 1913 og land Hvaleyrar var afsalað til Hafnarfjarðar 1956, nokkrum árum á undan Hraununum þar vestan af.
Alfaraleiðin Alfaraleiðin milli Innnesja og Útnesja lá í gegnum Hellnahraunið. Þrátt fyrir tilkomu golfvallarins, sem þekur nú hluta leiðarinnar, og byggingu skolpdælustöðvar með tilheyrandi raski í hrauninu má enn sjá búta af gömlu leiðinni, m.a. vegabætur utan í hraunhól. Það verður nú að segjast eins og er að ráðamenn hafa ekki lagt sig mikið fram við að reyna að varðveita hina gömlu leið. Í staðinn fyrir að sníða mannvirkin að umhverfinu hafa þau verið sett niður eftir geðþótta og síðan malbikaðir stígar lagðir umhverfis. Svolítið vanhugsuð aðgerð því vel hefði mátt nýta gömlu leiðina í þágu golfvallarins.
Gengið var með ströndinni skv. framangreindri lýsingu. Þegar komið var að Skarfakletti var gengið spölkorn upp fyrir hann. Þar er lítil varða á lágum hraunhól. Í hraunhólnum er jarðfall, sem að öllum líkindum er Móðhola. Af einhverri ástæðu hefur þessum bletti verið þyrmt og verður það að öllum líkindum að teljast hrein tilvikjun.
Jarðfallið er um þriggja metra djúpt og gróið er að hluta í botninn. Börn, sem farið hefðu þarna niður, ættu ekki afturkvæmt. Sennilegast hefur sagan af draugnum Móð átt að fæla þau frá holunni.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Móðhola

 

Dalurinn

Í örnefnalýsingu fyrir Ás segir að “suðvestur af eða í Grísanesi [við Ástjörn] er smáhellir sem heitir Grísanesskjól, en efst uppi milli nesjanna, upp undir svonefndum Ásflötum heitir Grófarhellir (AG)”. Þess hellis er jafnframt getið í örnefnaskrá sem Hellrardalshellisskjóls (fjárskjóls), en dalurinn mun hafa heitið Hellrardalur þótt hann gangi nú jafnan undir heitinu Dalurinn.”

Hellirinn

Hellir í Dalnum.

Í örnefnalýsingu fyrir Hvaleyri er átti landið sem svonefnt Grísanesskjól var, segir” skjólið er í háum hraunhól í hrauninu norður af Grísanesi (GS).”
Reyndar voru báðar lýsingarnar réttar – a.m.k. að hluta. Grísanesskjól var suðvestan við Grísanes og í hraunhól, en hins vegar er annað skjól í hrauninu norðan við Grísanes. Ekki liggur fyrir með óyggjandi hætti hvort skjólið hafi verið svonefnt Grísanesskjól. Hið fyrrnefnda er horfið, en hið síðarnefnda er enn á sínum stað, þrátt fyrir aðþrengingu frá nærliggjandi byggð.
Skjólið í hrauninu suðvestur af Grísanesi er nú komið undir byggð og horfið. Þegar komið var að því úr suðvestri, eftir gömlu götunni frá Hvaleyri upp að Hvaleyrarvatni og Stórhöfða, virtist þar vera hár hraunhóll eða hraunbakki, sem fara þurfti upp á til að komast í skjólið. Undir það síðasta hafði rýmið að mestu verið fyllt af alls kyns drasli. Síðan komu stórvirkar vinnuvélar og skjólið hvarf endanlega. Norðar, utan í suðvestanverðu Grísanesinu, er hlaðið fjárhús, sem væntanlega hefur tekið við hlutverki skjólsins á sínum tíma.
Vestan frá Grísanesi er hlaðið gerði utan í hraunbrúninni. Norðaustar eru þrjár tóftir, sem væntanlega hefur verið ástæðan fyrir tilurð gerðisins.
HellirinnNorðan gerðisins, ekki langt frá austurjarði hraunsins, sem lokar Ástjörn af, eru grasgróningar á afmörkuðu svæði, greinilega eftir fjárhald. Í jaðri gróninganna er skjólgott jarðfall, sem auðvelt er að komast niður í. Jarðfallið er gróið í botninn, enda hefur þar verið ágætt skjól fyrir fé. Í jarðfallinu norðanverðu hefur áður verið hlaðinn gangur fyrir framan sæmilega rúmgóðan munna. Hleðslurnar eru nú fallnar að mestu, en þó má enn sjá þær í vesturveggnum. Ekki er [nú á þessari stundu] vitað nákvæmlega hvert nafnið var á þessu skjóli. Í örnefnalýsingu fyrir Ás er getið um Hellirinn á þessum stað, “að mestu falinn saman”. Ekki er ólíklegt að þarna hafi verið hafðir sauðir því rýmið gefur slíkt til kynna.
Um Grófarhelli (fjárskjól) er fjallað í annarri FERLIRslýsingu.
Í kringum Ás sem og í Hvaleyrarlandi, sem náði upp undir Kaldárssel, má enn líta ýmiss mannvirki frá fyrri tíð. Þau eru nú hluti af búskaparsögu bæjanna, sem og svæðisins í heild. Það er slæmt að ekki skuli allar þessar minjar enn hafa verið skráðar og því eðlilega ekki í vitund þeirra, sem eiga að taka ákvörðun um varðveislu þeirra – en virðast gera það samt sem áður. Verra er að þeir hinir sömu vita í rauninni mjög takmarkað um hvað fer forgörðum þegar verið er að taka ákvarðanir um framkvæmdir á þessu svæði.
Frábært veður.

Skófir

Arnarklettur

Nýjar götur eru gjarnan látnar heita eftir nálægum örnefnum. Hér verða nefnd til sögunnar tvö slík í Hafnarfirði; Þúfubarð og Arnarhraun.
FuglstapaþúfaFyrrnefnda gatan er í hverfi er nefnist “Börðin”. Þar er Fuglstapaþúfa. Svæðið, sem hún er á, hefur verið látið óhreyft er segir nokkuð til um vægi þess í hugum fólks þegar hverfið var að bygjast upp. Ábúendur í nágrenninu fylgdust með því er farfuglarnir komu í holtið á vorin eða hópuðust saman við þúfuna á haustin á leið þeirra til baka. Síðarnefnda gatan er í “Hraununum”. Þar á millum eru óraskaðir hraunblettir og er svæðið umleikis Arnarkletta þess stærst.
Fuglstapaþúfa er á Hvaleyrarholti. Í deiliskipulagi er hverfisvernd skilgreind á svæði milli Kelduhvamms og Þúfubarðs, Fuglstapaþúfu sem skal vera opið og óraskað svæði. Þúfurnar voru á jökulsorfnum klöppum, syðri þúfa við Þúfubarð og nyrðri þúfan við olíutanka norðan Melabrautar. Fuglstapaþúfa voru landamerki milli Hvaleyrar og Ófriðarstaðalanda. Þann 22. nóv. 1907 var ákveðið í 1. grein laga um bæjarstjórn Hafnarfjarðar að takmörk kaupstaðarins yrðu sem hér segir: Úr sjó utanvert við Balatún, sjónhending eftir takmörkum Hafnarfjarðarhrauns og Dysjamýrar, þar til kemur á hinn forna veg frá Görðum til Reykjavíkur. Eftir þeim vegi í Engidal. Þaðan eftir nyrðri brún Hafnarfjarðarhrauns, þar til kemur móts við austurhorn Hraunsholtstúns. 

Arnarklettar

Þaðan bein stefna yfir neðanverðan Kaplakrika í vörðu á háholtinu fyrir ofan Jófríðarstaði, þaðan yfir í Fuglastapaþúfu efri beina leið í sjó fram. Á svæðinu eru hverfisverndarákvæði: “Innan hverfisverndar má hvorki raska landslagi né gróðri og eru allar framkvæmdir háðar framkvæmdaleyfi”.
Arnarklettar standa ásamt Krummakletti og Gnípu í grónu hrauni sem markast af Klettahrauni, Arnarhrauni, Sunnuvegi og neðra Álfaskeiði. Jafnframt eru gerði og aðrar mannvistarminjar í kringum klettana. Á svæðiunu eru einnig h
verfisverndarákvæði: “Hverfisvernd tekur til þess að þessum hraunmyndunum og minjum verði ekki raskað”.
Ólafur Þorvaldsson skrifaði grein í Lesbók Morgunblaðsins árið 1957 er bar yfirskriftina “Íslenski Örninn”. Fjallar hann þar t.d. um afleiðingar fyrir stofninn vegna eitrunar fyrir refi o.fl. Auk þess segir hann m.a.: “Árið 1913, þegar örninn var alfriðaður, voru aðeins fern arnarpör í landinu. Árið, sem þetta er skrifað eru pörin tíu talsins.
FuglstapaþúfaÁ síðustu tugum síðustu aldar voru í Gullbringusýslu þrír varpstaðir arnarins, sem mér eru kunnir. Þessir staðir voru: Arnarklettar við Hvaleyrarvatn, Helgafell í Garðakirkjulandi or Arnarnýpa í Krýsuvíkurlandi. Vel má vera, að víðar hafi varpstaðir arna verið í nefndri sýslu, þótt fram hjá mér hafi farið vitneskja um það.
Á eitrunartímabili síðustu aldar fór brátt að sjá á arnarstofninum, sem þar hafðist við, og svo illa var komið á síðasta tug aldarinnar, að allir umgetnir varpstaðir voru af lagðir, auðir og yfirgefnir. Þráttf yrir sýnilega fækkun arnarins á umgetnu tímabili var þó fram á síðasta tug aldarinnar svo til dagleg sjón t.d. þar sem ég er fæddur og uppalinn, að Ási skammt suðaustan frá Hafnarfirði, að sjá, þegar fram á sumarið kom, erni frá fjórum til sjö raða sér eftir brún Ásfjalls upp af bænum.

Arnarklettar

Þar sátu þessir tignarlegu fuglar, stundum mikinn hluta dags og biðu þess, að endur kæmu með unga sína, sem þá voru að verða fullvaxnir, út úr starar- og hófrótarbreiðum á autt vatnið. Þá tóku sig upp einn eða fleiri ernir, svifu ofan af brún lágt með jörð út yfir tjörnina og reyndu að klófesta eitthvað úr andarhónum. Þessar veiðiaðferðir báru stundum árangur, oft engan. Á þessum ári leið varla sá dagur, hvort heldur var sumar eða vetur, að ekki sæist örn, einn eða fleiri.
Á næstu árum eftir síðstu aldamót urðu mjög skörp umskipti hvað örninn snertir á svæðinu við sunnanverðan Faxaflóa. Þeir hættu sem sé að sjást, enda allmjög hert á eitrun á þessu tímabili, þar eð refum virtist fjölga þá allmikið.
Í þau fjörutíu ár, sem ég stundaði fugla- og refaveiðar, bæði með sjó fram og upp til fjalla, og hafði mikið samneyti við fjölda manna, sem stunduðu þetta verk, vissi ég aldrei til, að örn væri skotinn, og kom þó fyrir, að það hefði verið hægt.”
Arnarklettur-21Til eru gamlir Hafnfirðingar, sem muna sérstaklega eftir einum kletti umfram aðra í hrauninu við Arnarhraun er nefndur var Arnarklettur. Í deildiskipulagi fyrir Hafnarfjörð árið 2005 segir m.a. um hann og nágrennið (einkum af tilfinningarástæðum): “Samkvæmt aðalskipulagi er gert ráð fyrir að Arnarklettur og grænt svæði umhverfis hann, á horni Arnarhrauns og Álfaskeiðs, njóti hverfisverndar samkvæmt skipulags- og byggingarlögum. Í umsögn Byggðasafns Hafnarfjarðar segir m.a. að engar ritaðar heimildir hafi fundist um fornminjar á svæðinu en vettvangsferð hafi leitt í ljós bæði hleðslur og garða. Heimildarmenn safnsins fullyrða að um sé að ræða leifar garðlanda en svæðið var m.a. nýtt fyrir kartöflurækt í kring um seinna stríð. Byggðasafnið telur æskilegt að þessar minjar njóti hverfisverndar sem búsetuminjar og ágætt dæmi um hvernig Hafnfirðingar nýttu sér skjólgott hraunið til ræktunar.”

Heimildir:
-Aðalskipulag Hafnarfjarðar til 2016.
-Deildiskipulag Hafnarfjarðar, Miðbær – Hraun, árið 2005.
-Ólafur Þorvaldsson – Lesbók mbl 19. apríl 1957.
Fuglstapaþúfa

Kleifarvatn

“Sum vötn eru dularfull. Þeim er öðruvísi farið en öðrum vötnum, og enginn botnar í afbrigðilegri háttsemi þeirra. Slíkt vatn var og er Kleifarvatn. Um þess konar vötn myndast sögur, og þannig er því líka einmitt farið um Kleifarvatn.
Þar herma gamlar sagnir, að kleifarvatn-321sézt hafi skrímsli, en það hefur líklega ekki verið nógu athafnasamt skrímsli, sem bjó í Kleifarvatni, því að það hefur einhvern veginn lognazt út af í þjóðtrúnni, þó að Lagarfljótsormurinn lifi enn bezta lífi við slíka ástsæld austan lands, að fólk þar vill með engu móti missa hann. Hitt hefur aftur á móti haldið uppi frægð Keilfarvatns, að mikill áramunur er að því, hversu hátt er í því. Þeir, sem kunnugir voru á þessum slóðum, töluðu um tuttugu ára sveiflur. En eins og kunnugt er hefur Kleifarvatn enga afrás, nema hvað áll er í tengslum við litla tjörn (sem ekki hefur heldur neitt afrennsl) & meðan allhátt er í því. En þau árin, sem lágt er í vatninu, þornar þessi tjörn með öllu.

Kleifarvatn

Kleifarvatn – Ytri-Stapi.

Með því að við erum öll fædd á öld vísindanna, hafa menn ekki látið sér nægja alþýðlegar skýringar á fyrirbærinu nú hina seinni áratugi. Vísindamenn hafa farið á stúfana til þess að svipta hulunni af leyndardómum Kleifarvatns, svo að naktar staðreyndir geti komið í stað trúarlærdóma um hegðun þess Meðal þeirra, sem hafa gefið sig að slíkri könnun, eru þeir Geir Gígja, Guðmundur Kjartansson og Pálmi Hannesson, svo að nefnd séu nöfn, sem koma í hugann, þegar hann beinist að dulúð Kleifarvatns. Ef ég man rétt, þá er skýring vísindamanna sú, að vatnsborðið hækki þau árin (eða kannski öllu heldur eftir þau ár), er úrkoma er í meira lagi á svæðinu umhverfis Kleifarvatns, en lækki, þegar úrkoma er í minna lagi. Vatnsbúskap Kleifarvatns er með öðrum orðum svo háttað, að halli er á honum, þegar aðrennsli er í minna lagi, því að þá síður meira niður í hraunið, sem undir því er, heldur en í það bætist, en svo mjótt er á mununum, að hraunið hefur ekki undan að fleyta vatninu burt, þegar öllu meira berst að.
kleifarvatn-322Og ætli við verðum þá ekki að hafa það svo, úr því að vísindin hafa talað. En hitt getum við haldið okkur þeim fastar við, að það er ekki neitt fleipur, að miklu getur munað á vatnsborðinu. Það sýna myndirnar tvær, sem þessum línum fylgja, teknar á sama stað með átta ára millibili.
Árið 1931 var lágt í Kleifarvatni, og frá því ári er þessi mynd. Allra lægst mun þó vatnsborðið hafa verið árið 1932. Síðan fór hækkandi í vatninu. Það var ekki kreppan þar á þeim árum.
Svo fór Kleifarvatn að búa betur. Þessi mynd sýnir, að það hefur heldur hækkað vatnsborðið árið 1939. Drangurinn er hinn sami og sést á hinni myndinni, og nú varð ekkl aldeilis gengið út að honum þurrum fótum.

Kleifarvatn

Kleifarvatn – Indíaninn 2023.

Eins og nú standa sakir er hátt í Kleifarvatni, en ekki skal fullyrt, hvort heldur vatnsborðið fer hækkandi eða lækkandi þessi misserin. En víst er það, að lítið hefur verið lagt inn í bankareikning þess hjá náttúrunni þessar síðustu vikur, er sólskinið hefur oftast bakað brunafjöll Reykjanesskagans. Það kemur einhvern tíma fram sem yfirdráttur, eins og það heitir á bankamáli, nema himininn bæti það upp með því að opna gáttir sínar þeim mun rösklegar, þegar kemur fram á sláttinn, en það er ekki dæmalaust hér á Suðurlandi eins og einhverjir kunna að minnast. (Að minnsta kosti erum við hér sannfærð um, að Benedikt frá Hofteigi er það fast í minni.) Og eftir sumar kemur haust, og svo hressilegar eru haust rigningarnar oft, að þær geta hæglega jafnað metin á skömmum um tíma, ef landsynningarnir leggja sig fram. Þannig eiga veðurguðirnir marga leiki á borði til þess að bæta hag Kleifarvatns.”

Heimild:
-Tíminn Sunnudagsblað, 20 júní 1971, bls. 538-539 – (ljósmyndir; Stefán Nikulásson).

Kleifarvatn

Kleifarvatn 2021.

Ginið

Farið var í Ginið. Um er að ræða um 15 metra djúpt op í hrauninu suðaustan við Sauðabrekkur og Sauðabrekkugjá. Ofan við brekkurnar að norðanverðu er falleg gígaröð með klepragígum. Mikil litadýrð er í þeim. Í einum þeirra er skjól þar sem gólfið hefur verið flórað og hella sett fyrir gluggaop. Skammt norðanfrá skjólinu eru hleðslur eftir refaveiðimenn.

Sauðabrekkugígar

Sauðabrekkugígar.

Ginið er í tvískiptu hrauni. Annars vegar er um að ræða nokkuð gróið hraun og hins vegar slétt helluhraun. Ljóst er að þarna hefur áður verið mikil gjá í eldra hrauni, en nýrra hraun, tiltölulega afmarkað, sennilega úr Sauðabrekkugígum, hefur runnið til suðausturs og m.a. fyllt gjána að huta. Þetta hefur verið efsti hluti gjárinnar þannig að hraunið hefur ekki náð að fylla þennan hluta hennar nema að litlu leyti. Fallegar klepramyndanir eru í veggjunum. En ekki var vitað um það sem neðar var. Sennilega hefur maður aldrei stigið fæti þar niður á botn eða kannað hvað dýpið kynni að geyma.
Ákveðið var, a.m.k. fyrst um sinn, að segja ekkert um hvar það er að finna svo hér verður einungis sagt frá hluta þess. Ætlunin er að fara þangað aftur fljótlega.

Ginið

Ginið.

Hraunið hér er slétt helluhraun, sem fyrr segir, mosavaxið og mjög sprungið. Ginið gapti við og öskraði á okkur “komið niður”. Um er að ræða um 15 metra dýpi. Lofthræddir ættu ekki að standa á barminum. Ekki verður komist niður nema síga þangað á böndum. Efitt gæti reynst að komast upp aftur. Gengið var tryggilega frá öllum festum.
Til að gera langa sögu stutta kom í ljós jökull á botninum. Stórbrotið er að horfa niður í Ginið, en ennþá mikilfenglegra er að horfa upp úr því. Við austurendann er hægt að komast inn í sprunguna. Í henni má sjá hvernig hraunið hefur runnið niður í hana og fyllt upp í holrúm. Hér er því um merkilegt jarfræðifyrirbæri að ræða. Hægt væri að komast áfram inn eftir sprungunni, en það var látið ógert að þessu sinni.
Erfitt er að finna Ginið fyrr en staðið er á barminum. Varhugavert væri að vera þarna í snjóalögum, því sá sem færi þarna niður óviljugur kæmi aldrei upp aftur.
Frábært veður – Gangan tók 1 klst og 11. mín, en sigið tók drjúgan tíma (enda enginn að flýta sér).

Ginið

Ginið.