Færslur

Brattakinn 29

Í auglýsingu fasteignasölu um Bröttukinn 29 í Hafnarfirði, sem seld var árið 2015, segir m.a.: “Verð 25,9 – Stærð 71 m2 – Einbýli – Verð per fm 363 – Byggingarár 1954.

Otto Whatne

Ottó Wathne Björnsson – ófullgert málverk Halldórs Árna Sveinssonar.

Á lóðinni er skráð 19 fm. geymsla, geymslan er nánast ónýt. Það má byggja hana aftur.
Byggingaréttur er á lóðinni bæði fyrir stækkun á húsinu um helming einnig að byggja bílskúr. Byggja má einnig eina hæð ofan á húsið.
Komið er inn í forstofu með dúk á gólfi. Stofa og eldhús eru með viðarborðum á gólfi. Gengið er niður stiga á neðri hæð. Þar er lítið hol með máluðu steingólfi, Herbergi með steingólfi, skápur. Inn af herbergi er lítil hitakompa.
Baðherbergi og þvottahús með flísum á gólfi, sturta er á baði.
Vel staðsett og snoturt 2ja herbergja einbýli með góðri lóð á vinsælum stað í Hafnarfirði. Eign sem getur boðið upp á ýmsa möguleika.
Um er að ræða snotra og sjarmerandi eign á tveimur hæðum með góðri lóð á vinsælum stað í Hafnarfirði. Eign sem vert er að skoða.”

Í Alþýðublaði Hafnarfjarðar – jólablaði, árið 1962, er fróðleg grein eftir Magnús Jónsson (forstöðumann Byggðasafns Hafnafjarðar); “Bæir i bænum“.

Brattakinn 29

Brattakinn 29.

Þar segir m.a. um “bæ Ottós” að Bröttukinn 29:
“Árið 1908 komu til Hafnarfjarðar hjónin Halldór Sigurðsson frá Merkinesi í Höfnum og Pálína Pálsdóttir. Bjuggu þau fyrst í Gesthúsum. En þau vildu, eins og aðrir, búa undir eigin þaki og létu nægja lágreist bæjarlag á þeirri byggingu, þótt þá væri komið árið 1919. Gata var lögð framhjá bænum þrem árum síðar og þá lögð í hann vatnsleiðsla. Jafnframt hlaut hann númerið Krosseyrarvegur 5. Halldór dó árið 1920, en kona hans fimm árum síðar.
Fóstursonur þeirra, Janus Gíslason, bjó áfram í bænum, á dótturdóttur þeirra hjóna, Pálínu Arnadóttur. Hún giftist Hallbergi Péturssyni, og bjuggu þau í þessum bæ allt til ársins 1953. Þá var hann seldur Ottó W. Björnssyni og fluttur burt og stendur nú í góðu yfirlæti sem Brattakinn 29. Jafnframt var inngönguskúrinn lengdur, svo að nú er hann sem viðbygging jafnlöng bænum. Kjallarinn varð einnig allur ofanjarðar. Lengd bæjarins er 5,8 m, en breidd hans hefur upphaflega verið um 3,8 m. Með viðbyggingunni er hún orðin yfir 5 m. Hjá bænum hefur Ottó byggt útihús vegna atvinnu sinnar.”

Í “Húsakönnun” fyrir Kinnar, íbúðahverfi í Hafnarfirði, árið 2020 segir m.a.:

Kinnar

Kinnar í byggingu.

“Könnunin er unnin samkvæmt beiðni Umhverfis- og skipulagsþjónustu Hafnarfjarðarbæjar. Málfríður Kristjánsdóttir arkitekt FAÍ vann skráninguna. Björn Pétursson bæjarminjavörður Hafnarfjarðar skrifaði sögulega samantekt.
Málfríður Kristjánsdóttir skrifaði um uppbyggingu hverfisins Rósa Karen Borgþórsdóttir safnvörður á Byggðasafni Hafnarfjarðar aflaði sögulegra upplýsinga.
Elsa Jónsdóttir landfræðingur hjá umhverfis- og skipulagsþjónustu Hafnarfjarðarbæjar aðstoðaði við gerð korta.

Formáli

Brattakinn 29

Brattakinn 29.

Í janúar 2018 fól Umhverfis- og skipulagsþjónusta Hafnarfjarðarbæjar Málfríði Kristjánsdóttur arkitekt að gera húsaskráningu fyrir Kinnarnar í Hafnarfirði. Samkvæmt 16. gr. laga um menningarminjar nr. 80/2012 skal skráning fornleifa, húsa og mannvirkja fara fram áður en gengið er frá aðalskipulagi eða deiliskipulagi. Minjastofnun Íslands setur reglur um lágmarkskröfur sem gera skal til skráningar fyrir hvert skipulagsstig.
Minjastofnun Íslands lagði til húsaskráningarforrit og hefur veitt leiðbeiningar. Byggðasafn Hafnarfjarðar veitti aðgang að ljósmyndum og aðstoðaði við skráningu á sögu einstakra húsa. Hefur framlag safnsins verið ómetanlegt. Þá hafði höfundur skráningar ótakmarkað aðgengi að teikningasafni og skráðum heimildum byggingafulltrúaembættisins. Allar brunavirðingar fyrir tímabilið þegar Kinnarnar voru í uppbyggingu eru glataðar. Öll hús voru ljósmynduð og skoðuð á staðnum.

Brattakinn 29

Brattakinn 29.

Skráningin tekur alls til 153 bygginga. Þar af voru 9 friðaðar samkvæmt 29. grein laga um menningarminjar nr. 80/2012. Ellefu hús við Bröttukinn hafa verið flutt þangað og við Grænukinn er eitt flutningshús.
Samkvæmt Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2013-2025 er hverfisverndarákvæði um Kinnarnar sem hljóðar svo : „Smágerður mælikvarði sem einkennir hverfið haldist óbreyttur og þar með byggðamynstur hverfisins sem er heillegt og gott dæmi um einbýlishús byggð um 1950“.
Varðveislumat húsanna á svæðinu er almennt hátt með tilliti til hverfisverndarákvæðisins og tilurð húsanna. Það er mikilvægt að breytingar og viðbyggingar séu hóflegar og í samræmi við götumyndir.

Söguleg samantekt

Kinnar

Kinnahverfið í byggingu.

Á eftirstríðsárunum var nokkur húsnæðisskortur í Hafnarfirði sem brugðist var við með ýmsum hætti. Meðal þeirra úrræða sem gripið var til á þessum tíma var að skipuleggja smáíbúðahverfi í nýju hverfi sem kallað var „Kinnarnar“. Umrætt landsvæði tilheyrði einni af hinum fornu fjórum bújörðum Hafnarfjarðar, Hamarskoti en sú jörð var keypt af bæjarsjóði Hafnarfjarðar árið 1912 að undanskildu Hamarskotstúni innan girðingar og Undirhamarskotstúnbletti. Fyrstu heimildir um jörðina eru frá árinu 1579 en þá hafði hún fyrir alllöngu verið komin í eigu Garðakirkju.

Hamarskot

Hamarskot – tilgáta.

Í Jarðarbók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1703 er jarðardýrleiki talinn óviss þar sem jörðin tíundaðist engum en landskuld hennar var þá 60 álnir sem greiddust með 3 vættum fiska í kaupstað, engjar voru engar og vatnsból erfitt um vetur en þar var þó heimræði árið um kring og lending góð. Bærinn Hamarskot stóð þar sem Flensborgarskólinn stendur í dag.
Áður en uppbygging Kinnahverfisins hófst var landsvæðið nýtt um tíma til landbúnaðar. Þar stóð meðal annars allstórt fjós og hlaða sem byggt var 1931. Fjósið var byggt af og eftir teikningu Ásgeirs G. Stefánssonar fyrir Þorstein Björnsson. Þess má geta að Ásgeir teiknaði bæði og byggði fjölmörg hús í bænum á þessum árum. Fjós þetta vék fyrir byggðinni þegar hún tók að myndast í hverfinu.

Kinnar

Kinnahverfi.

Segja má að uppbygging Kinnahverfisins hafi hafist árið 1947 þegar fyrstu húsin voru byggð við Köldukinn. Flutningshús voru flutt á svæðið og sett niður árið 1949 en formlegt skipulag fyrir hverfið var ekki samþykkt fyrr en í desember 1951. Í frétt í Alþýðublaðinu frá þeim tíma segir meðal annars: „Milli 40 og 50 umsóknir um smáhúsalóðir í Hafnarfirði. Sérstakt hverfi ætlað húsunum, en bærinn leggur til teikningar ókeypis. /…/ Hafnarfjarðarbær hefur skipulagt sérstakt hverfi fyrir þessi hús ofarlega í bænum þar, sem eru svo kallaðar Kinnar. /…/ Þeir sem þess óska geta fengið ókeypis teikningar að húsum þessum hjá bænum, en einnig er þeim leyfilegt að láta teikna hús eftir eigin fyrirsöng.“ Nokkuð var um að eldri hús í bænum væru flutt í hverfið og olli það í sumum tilfellum deildum. Dæmi um það er hús sem áður var Reykjavíkurvegur 4 en það þurfti að víkja þaðan vegna breikkunar götunnar. Þá sendu fjöldi íbúa hverfisins bréf til bæjarins til að mótmæla þeim flutningi en í frétt Alþýðublaðsins sagði meðal annars um það mál „Hafnarfjörður fer að verða furðulegur bær. Ætli menn að byggja bílskúr, verða þeir að hlíta ströngum reglum byggingarsamþykktar en Pétur og Páll viðrast geta dröslað aflógahjöllum eftirlitslaust á grunna, a.m.k. í Kinnahverfinu. Flutningur Finnshúss upp í Grænukinn er bæjarstjórnarhneyksli og fyrir það verður „eigandi“ hússins ekki sóttur til saka.“

Brattakinn 29

Brattakinn 29.

Deiliskipulagsuppdrátturinn af svæðinu var gerður af þeim Sigurði Jóni Ólafssyni og Friðþjófi Sigurðssyni og afmarkaðist þá af Hringbraut, Bárukinn og læknum að norðan. Eins og fram kemur hér að framan var lóðarhöfum boðið að fá húsateikningar þeim að kostnaðarlausu frá bænum og varð úr að um þriðjungur húsa í þessu hverfi, 55 talsins, var byggður eftir þeim teikningum. Teikningarnar voru eftir þá Friðþjóf og Sigurð og gefa þessi hús og þéttleiki byggðarinnar í hverfinu því ákveðin heildarsvip. Aldur húsa í hverfinu er að stærstum hluta frá
miðri 20. öld en þó eru nokkur hús eldri sem flutt voru þangað og einnig er þar að finna nýleg hús.
Yngstu húsin voru byggð undir aldamótin 2000 eftir að Pípugerð Jóns Guðnasonar við Bröttukinn 1 vék fyrir nýjum húsum en hún hafði verið starfrækt á þeim stað allt frá árinu 1929.

Uppbygging hverfisins

Brattakinn 27

Flutningshús – Brattakinn 27.

Sigurður Jón Ólafsson og Friðþjófur Sigurðsson gerðu fyrsta deiliskipulagsuppdráttinn af svæðinu og var hann samþykktur 13. desember 1951. Svæðið var milli Hringbrautar og Bárukinnar en að norðan var Lækurinn. Þá voru 11 hús á svæðinu, þar af 5 aðflutt. Það má telja þá Sigurð og Friðþjóf feður byggðarinnar. Sigurður var bæjarverkfræðingur og byggingafulltrúi frá 1946-1959 en Friðþjófur var loftskeytamaður sem vann á þessum tíma við tæknistörf hjá Hafnarfjarðarbæ og varð síðan byggingafulltrúi í eitt ár 1961 og síðan frá árinu 1967. Samtals teiknuðu þeir 55 hús eða yfir en einn þriðja hluta allra húsa á svæðinu. Þetta átti sinn þátt að gefa hverfinu heildarsvip.
Fyrstu nýbyggingarnar í Kinnunum voru við Köldukinn nr. 7, 8 og 10 frá árinu 1947 en tveim árum síðar var farið að flytja þangað hús sem voru sett niður við Bröttukinn. Hverfið byggist upp á sama tíma og smáíbúðahverfið í Reykjavík en borgarstjórn Reykjavíkur hélt samkeppni meðal arkitekta um smáhús og vann Gunnar Ólafsson arkitekt þá samkeppni.

Otti Wathne

Tóbakspungur Ottós.

Tvö hús voru byggð samkvæmt hans teikningu annað við Köldukinn en hitt við Grænukinn. Bæði húsin eru mikið breytt í dag. Þá voru byggð fjögur hús eftir teikningu Guttorms Andrjessonar og Ólafs Guttormssonar sem einnig hafði verið byggt eftir í smáíbúðahverfinu.
Flest húsin á svæðinu risu á árunum 1951-1955 eða samtals 76 hús. Fyrstu húsin austan Bárukinnar voru flutningshús við Bröttukinn og eftir 1954 hófst uppbygging fyrst við Háukinn og Grænukinn og síðan Stekkjarkinn. Uppbygging austan Bárukinnar var hægari en var að mestu lokið 1970. Síðast var byggt á eignalóðum við Fögrukinn og Lækjarkinn.
Á þeim tíma sem hverfið var í byggingu var mikill húsnæðisskortur og innflutningshöft þar sem gjaldeyrir var af skornum skammti. Frá árinu 1947 giltu lög um fjárhagsráð, innflutningsverzlun og verðlagseftirlit en þá var heimilt að byggja íbúðarhús til eignaafnota án fjárfestingaleyfis ef stærð þess fór ekki yfir 350 rúmmetra. Fjárhagsráð var lagt niður í lok árs 1953 og þá var gert frjálst að byggja hús allt að 520 rúmmetra.
Mismunandi þættir sköpuðu þetta þétta byggðamynstur með þéttri byggð svo sem húsnæðisskortur, innflutningshöft, starfsemi fjárhagsráðs og teikningar af litlum einföldum einbýlis- og tvíbýlishúsum.”

Ottó W. Björnsson – Ottó Wathne Björnsson (7. júlí 1904 – 26. maí 1992)

Ottó Wathne

Ottó Wathne Björnsson.

Líkt og fram hefur komið keypti Otto W. Björnsson Krosseyrarveg 5 árið 1954 og flutti að Bröttukinn 29.
Í kveðjuorði Stellu, frænku Ottós í Morgunblaðinu miðvikudaginn 1. júlí árið 1992 segir m.a.: “Ottó Wathne Bjömsson er dáinn. Hann var kominn hátt á níræðisaldur, lá kvalafulla banalegu, sem loks tók enda daginn fyrir uppstigningardag. Guði sé lof fyrir það. Ottó dvaldi síðustu árin á Sólvangi í Hafnarfirði og hafði litla fótavist, svo sennilega er hann mörgum gleymdum sem könnuðust við hann úr bæjarlífinu hér áður fyrr, bæði í Reykjavík og Hafnarfirði.
Það er eðlilegt að mannlífið breyti um svip í tímanna rás og um margt er það til bóta, en ekki get ég neitað því að oft finnst mér það um leið verða fátæklegra. Nú eiga helst allir að vera eins. Þeir smá hverfa hinir kynlegu kvistir, sem settu svip á bæjarbraginn áður fyrr.
Ottó var einn þeirra. Hann batt ekki bagga með öllum. Í mörg ár vann hann sem fjósamaður eða gegningamaður í sveit, stundum mörg ár á sama stað, svo sem hjá Þorgeiri í Gufunesi. Á milli brá hann sér í bæinn, þá gjarnan til móður sinnar, Gunnhildar kaupakonu í Skálholti, sem allir eldri Hafnfirðingar muna. Nú eða að hann kom í heimsókn til ömmu minnar Pálínu, en hún var frænka Gunnhildar. Hjá ömmu minni dvaldi hann sem unglingur í þrjú ár við nám og var það hans einasta skólaganga. Þar var vinurinn kominn í fjósagallanum og lyktaði allavega, því þótt margt megi segja gott um Ottó frænda minn, þá verður aldrei sagt að fataprjál og baðferðir hafi verið hans uppáhald.
Sem betur fer vitkast maður með aldrinum. Það er sennilega líka ætlunin með dvöl okkar hér…” – Stella frænka.

Sveinn Björnsson skrifaði minningarorð um Ottó Wathne Björnsson 4. júlí 1992:

Ottó Wathne

Málverk Sveins Börnssonar af Ottó Wathne Björnssyni.

“Ottó Wathne Björnsson ­ Minning Ottó Wathne Björnsson, vinur minn, er látinn. Hann fæddist 7. júlí 1904 á Arnarstapa á Snæfellsnesi. Foreldrar hans voru Gunnhildur Bjarnadóttir og Björn Jónsson.
Ottó fluttist til Hafnarfjarðar 1920. Hann átti hús í Bröttukinn 29, Hafnarfirði. Þangað kom ég oft. Ottó var búinn að vera nokkur ár á Sólvangi. Hann var alltaf einsetumaður.
Ottó var sérstakur maður. Ég kynntist honum þegar ég kom í lögregluna 1954. Ég fékk fljótlega áhuga fyrir að mála hann en það gekk á ýmsu að til þess kæmi, hann var hálfhræddur við slíkt uppátæki og fór lengi undan í flæmingi. En loks tókst að fá hann til að sitja fyrir heima hjá honum. Hann vildi ekki koma í vinnustofu mína. Það var dálítið erfitt að fá hann til að sitja kyrran. Hann þurfti að vera að taka í nefið og alltaf að aka sér til og frá og með ýmsar brettur sem honum voru kannski eðlilegar. Einnig vildi hann alltaf vera að tala við mig. Þetta hafðist þó á endanum.
Ég var dálítið búinn að stúdera Ottó þegar hann kom á lögreglustöðina í Hafnarfirði, en það var mjög oft. Stundum kom hann seint á kvöldin og þá venjulega með flöskur í pokum og var þá oft þreyttur.
Hann kom til að hitta vini sína, þá einu eins og hann sagði stundum. Hann safnaði flöskum og keypti hingað og þangað, fór meira að segja til Keflavíkur og víðar.
Ottó hafði áður unnið almenn sveitastörf og ýmis verkamannastörf á ævinni. Hann var flöskukaupmaður 30 síðustu ár ævi sinnar. Í þá daga voru flöskur í verði og sérstaklega brennivínsflöskur.

Sveinn Björnsson

Sveinn Björnsson.

Það var ekki ósjaldan að við á lögreglustöðinni ókum Otta heim með pokana sína fulla af flöskum. Hann kom stundum með nokkra poka í strætó í síðasta vagni. Voru strætóbílstjórar góðir við Otta og leyfðu honum að flytja þessa poka í vögnunum. Síðan bar hann þá á sjálfum sér að lögreglustöðinni. Eftir klukkan 3 á nóttunni þegar um hægðist í bænum og allt var orðið rólegt var honum hjálpað heim með varning sinn í hús sitt og inn í kjallara. Þá lá vel á karli og stundum bauð hann upp á flotta vindla og maltöl. Ottó var nefnilega góður vinur vina sinna. Hann var sérstakur og sérsinna en hrekklaus, góð sál.
Á seinni árum var honum gefið sjónvarp af vinum sínum í Reykjavík, en það setti hann aldrei í samband. Hlustaði bara á útvarpið, gömlu, góðu Gufuna, og lagði kapal.
Hann talaði fallega íslensku og var gaman að ræða við hann. Það voru stuttar setningar og hnitmiðaðar sem minntu á Hemmingway, sem hann hafði aldrei heyrt um eða lesið.
Ottó kom stundum heim til mín að Köldukinn 12 enda stutt að fara. Hann var góður við börn, hugsaði mikið um þá sem áttu bágt, en lítið um sjálfan sig. Hann var stundum skemmtilegur og lék á als oddi.
Hulda og Jónatan í Köldukinn 8 voru alltaf góð við Otta, gáfu honum að borða á hátíðum og Hulda kom honum í bað sem var ansi erfitt.
Kristinn Hákonarson yfirlögregluþjónn og Sólveig Baldvinsdóttir sendu honum oft mat um jólin og öðrum hátíðisdögum. Einnig vinir hans í Reykjavík. Einstæðingar eru oft látnir eiga sig en fyrr á árum meira gert í því að gleðja þá á hátíðum.
Ottó Wathne var ekki allra, hann var einn af þeim mönnum sem setti svip á bæinn okkar. Nú eru flestir þessir sérstöku menn gengnir til feðra sinna og engir þeim líkir koma í staðinn. Þeir voru nefnilega ansi vel gefnir margir hverjir og kunnu að svara fyrir sig.
Ottó var saklaus sál sem fólki þótti vænt um. Hann kunni að drekka kaffi af undirskál sem hann hélt fallega á og ekkert fór niður þótt hann væri með kreppta fingur.
Ég man vin minn alltaf, veri hann kært kvaddur. Það verður tekið vel á móti honum.” – Krýsuvík, 29. maí ’92, Sveinn Björnsson.

Ottó Wathne
Í Þjóðviljanum 8. júlí 1984 ræðir MHG við Ottó Wathne Björnsson um hvernig nafn hans er til komið, hestamennsku, flöskuverslun og eggjasölu með meiru… Hér verður einungis drepið niður á sumt, er fram kom í viðtalinu:
“Er þá ekki hann Ottó Wathne Björnsson úr Hafnarfirðinum allt í einu kominn hingað inn á gólf. Hann er auðvitað spurður almæltra frétta úr Firðinum, en hann kveður þaðan ekkert
tíðinda, sem í frásögur sé færandi. -„Ekki nema það að þú ert að verða áttræður,” gellur þá í Lúðvík Geirssyni hér í næsta herbergi. Og þar náði blaðamaður þá í spotta, þökk sé Lúðvík.
Ekki þarf að efa að áttræður maður hafi frá ýmsu að segja og lyktir urðu líka þær að rabb okkar Óttós varð miklu léngra en svo að tök séu á að troða því í eitt blað, og því birtist hér aðeins lauslegt
og hraðsoðið hrafl.

Vitjað nafns
Ottó WathneBlaðamanni lék forvitni á að vita hvernig varið væri ættartengslum þeirra Ottós Wathne athafnmannsins á Seyðisfirði og Ottós Wathne þeirra Hafnfirðinga.
– Uss, við erum ekkert skyldir, ansar Hafnfirðingurinn.
– Og hversvegna berð þú þá þetta nafn?
– Ja, það er nú saga að segja frá því. Og er þar þá fyrst til máls að taka að ég er fæddur undir Jökli, á Arnarstapa. Foreldrar mínir, Björn og Gunnhildur, bjuggu þar.
Það var gamli Ottó Wathne sjálfur, sem endilega vildi að ég yrði skírður þessu nafni. Foreldrar mínir þekktu hann auðvitað ekkert og voru búin að ákveða mér allt annað nafn. En svo í hálfan mánuð áður en ég var skírður vitjaði Wathne móður minnar í draumi, á hverri einustu nóttu í hálfan mánuð. Það munaði ekki um það. Hún var hætt að geta sofið. Og seinast klykkir hann út með því að segja að láti hún ekki barnið heita þessu nafni þá verði það aumingi, ef það þá fái að lifa.
Og þá segir hún við pabba: – Við verðum bara að skíra drenginn þessu nafni. Og það var gert, Ottó Wathne Björnsson er mitt skírnarnafn, taktu eftir því, skírnarnafn en ekki ættarnafn.
„Hefurðu nú kannski eignast krakka…?”
En þetta átti nú eftir að hafa sín eftirköst, skal ég segja þér, þó að gamla Wathne hafi sjálfsagt ekki grunað það. Ég fékk nefnilega einu sinni bréf frá lögfræðingi.
Mér þótti það nú skrítið og mömmu ekki síður. Maður tengdi lögfræðinga helst við einhver afbrot og ég vissi ekki til þess að ég hefði brotið nein guðs eða
manna lög. En mér var skipað að mæta hjá lögfræðingnum. Það var meira helvítið. Og mamma segir: – Hefurðu nú kannski eignast krakka með einhverri
stelpu, sem þú vilt svo ekki meðganga?
– Nei, nei, nei, ég held nú síður.
– Nei, ég trúi því heldur ekki á þig, en hvað getur maðurinn viljað?
– Já, það veit ég fjandakornið ekki frekar en þú. Neitaðu og vertu ákveðinn.

Heimsókn að Bröttukinn 29

Brattakinn 29

Brattakinn 29.

FERLIR tók hús að Bröttukinn 29 að gefnu tilefni. Við skoðun á innviðum hússins var ljóst að bætt hafði verið við upphaflega húsið, sem flutt var frá Krosseyrarvegi 5 á sínum tíma. Gamla húsið er dæmigert fyrir hafnfirska byggingalist frá því í byrjun 2o. aldar; byggt af vanefnum, en hefur þrátt fyrir það þótt til mikilla framfara í híbýlagerð bæjarbúa frá fyrri tíð. Eftir sem tíma liðu varð þessi “nútímalegi” húsakostu, líkt og vera vill, þó fljótlega úreltur; bæði hvað varðar gerð og stærð. Mörg húsanna þurftu og að víkja fyrir skipulegri gatnagerð og voru ýmist rifin eða flutt til.

Brattakinn 29

Brattakinn 29.

Hugmyndir fólks um verndun gamalla húsa í bænum eru af ýmsum toga. Rétt að taka undir áhuga formanns Byggðasafns Hafnarfjarðar að koma slíkum sögulegum byggingum, sem ekki geta lengur þjónað sínu hlutverki í nútímanum, fyrir á afmörkuðu svæði, líkt og Árbæjarsafn er dæmi um í Reykjavík. Slíkt svæði er nærtækt í Hafnarfirði, þ.e. auðnin ofan Langeyris. Þar voru fyrrum t.d. húsin Eyrarhraun o.fl. slík. Allt voru þau dæmigerð hafnfirsk híbýli frá upphafi síðustu aldar. Með því að skipuleggja slíkan reit væru saman kominn á einum stað framtíðar dvalarstaður mikilla áður óæskilegra fortíðarverðmæta.
“Gamlar kreðslur eiga þó á stundum til að torvelda vænleg framtíðarskref”….

Heimildir:
-Fasteignauglýsing 2015.
-Alþýðublað Hafnarfjarðar – jólablað, 15.12. 1962; Bæir í bænum – Magnús Jónsson.
-Kinnar, íbúðahverfi Hafnarfirði – Húsakönnun: Hafnarfjörður 2020.
-Morgunblaðið, miðvikurdagur 1. júlí 1992 – Ottó W. Björnsson; kveðjuorð – www.mbl.is/greinasafn/grein/87872/
timarit.is/page/1765836#page/n45/mode/2up
-Morgunblaðið, Sveinn Björnsson, 4. júní 1992 – Minningargreinar.
-Morgunblaðið, 4. júní 1992 – Minningargreinar.
-Þjóðviljinn 8. júlí 1984, bls 4 og 6: Hún var skagfirsk eins og þú – – mhg rœðir við m Ottó Wathne Björnsson um hvernig nafn hans er til komið, hestamennsku, flöskuverslun og eggjasölu með meiru – timarit.is/page/2893813#page/n3/mode/2up

Brattakinn 29

Brattakinn 29 – Jóhannes Ármannsson er eigandi hússins.

Móðhola

Í örnefnalýsingu fyrir Hvaleyri eftir Ólaf Guðmundsson og Gísla Sigurðsson, lögregluþjón í Hafnarfirði, er m.a. getið um Móðholu.
Í lýsingunni er m.a. sagt frá Hvaleyrarsandi, norðvestan við Golfvöllinn. “Utan við MóðholaHvaleyri heitir Jónasarlending. Sker er þar skammt undan landi sem heitir Hrútur. Vestan við Hvaleyrarsund heitir Þvottaklettur. Þar kemur tært vatn undan hrauninu og er það af sumum talið vera vatn úr Kaldá. Þar næst heitir svo Gjögrin er ná að Skarfakletti. Innan við Skarfaklett[a] er víkin, nefnd Sandvík og við Skarfakletta[a] heitir Móðhola. Þar var kveðinn niður draugur endur fyrir löngu. Þar er smáhellisskúti og utar, fast við merkin móti Straumi, er vík sem heitir Þórðarvík.”
Í annarri örnefnalýsingu segir að Móðhola sé lítið jarðfall skammt ofan við ströndina. Sá, sem þar fer niður, getur átt í erfiðleikum með að komast upp aftur. Kannski það hafi þess vegna verið hentugt til að kveða niður draug.
Ætlunin var að athuga hvort Móðhola væri enn á sínum stað. Holan gæti verið komin inn fyrir mörk álversins og þá mögulega á þeim stað er fréttist af “mikilli rás” út frá ströndinni.
Í örnefnalýsingunni segir jafnframt að “hér upp frá sjónum er allúfið brunahraun sem heitir Hvelyrarhraun eða Hellnahraun. Upp frá Þórðarvík opnast dalir er ganga þaðan inn í hraunið og heita þeir Leynidalir. Þeir eru innantil við hæsta brunann. Þar eru Leynidalaskjól.” FERLIR skoðaði þau skjól á sínum tíma.
Hafnarfjarðarkaupstaður fékk afsalað til sín landi Garðarkirkju sem nú er innan staðarmarka kaupstaðarins árið 1913 og land Hvaleyrar var afsalað til Hafnarfjarðar 1956, nokkrum árum á undan Hraununum þar vestan af.
Alfaraleiðin Alfaraleiðin milli Innnesja og Útnesja lá í gegnum Hellnahraunið. Þrátt fyrir tilkomu golfvallarins, sem þekur nú hluta leiðarinnar, og byggingu skolpdælustöðvar með tilheyrandi raski í hrauninu má enn sjá búta af gömlu leiðinni, m.a. vegabætur utan í hraunhól. Það verður nú að segjast eins og er að ráðamenn hafa ekki lagt sig mikið fram við að reyna að varðveita hina gömlu leið. Í staðinn fyrir að sníða mannvirkin að umhverfinu hafa þau verið sett niður eftir geðþótta og síðan malbikaðir stígar lagðir umhverfis. Svolítið vanhugsuð aðgerð því vel hefði mátt nýta gömlu leiðina í þágu golfvallarins.
Gengið var með ströndinni skv. framangreindri lýsingu. Þegar komið var að Skarfakletti var gengið spölkorn upp fyrir hann. Þar er lítil varða á lágum hraunhól. Í hraunhólnum er jarðfall, sem að öllum líkindum er Móðhola. Af einhverri ástæðu hefur þessum bletti verið þyrmt og verður það að öllum líkindum að teljast hrein tilvikjun.
Jarðfallið er um þriggja metra djúpt og gróið er að hluta í botninn. Börn, sem farið hefðu þarna niður, ættu ekki afturkvæmt. Sennilegast hefur sagan af draugnum Móð átt að fæla þau frá holunni.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Móðhola

 

Dalurinn

Í örnefnalýsingu fyrir Ás segir að “suðvestur af eða í Grísanesi [við Ástjörn] er smáhellir sem heitir Grísanesskjól, en efst uppi milli nesjanna, upp undir svonefndum Ásflötum heitir Grófarhellir (AG)”. Þess hellis er jafnframt getið í örnefnaskrá sem Hellrardalshellisskjóls (fjárskjóls), en dalurinn mun hafa heitið Hellrardalur þótt hann gangi nú jafnan undir heitinu Dalurinn.”

Hellirinn

Hellir í Dalnum.

Í örnefnalýsingu fyrir Hvaleyri er átti landið sem svonefnt Grísanesskjól var, segir” skjólið er í háum hraunhól í hrauninu norður af Grísanesi (GS).”
Reyndar voru báðar lýsingarnar réttar – a.m.k. að hluta. Grísanesskjól var suðvestan við Grísanes og í hraunhól, en hins vegar er annað skjól í hrauninu norðan við Grísanes. Ekki liggur fyrir með óyggjandi hætti hvort skjólið hafi verið svonefnt Grísanesskjól. Hið fyrrnefnda er horfið, en hið síðarnefnda er enn á sínum stað, þrátt fyrir aðþrengingu frá nærliggjandi byggð.
Skjólið í hrauninu suðvestur af Grísanesi er nú komið undir byggð og horfið. Þegar komið var að því úr suðvestri, eftir gömlu götunni frá Hvaleyri upp að Hvaleyrarvatni og Stórhöfða, virtist þar vera hár hraunhóll eða hraunbakki, sem fara þurfti upp á til að komast í skjólið. Undir það síðasta hafði rýmið að mestu verið fyllt af alls kyns drasli. Síðan komu stórvirkar vinnuvélar og skjólið hvarf endanlega. Norðar, utan í suðvestanverðu Grísanesinu, er hlaðið fjárhús, sem væntanlega hefur tekið við hlutverki skjólsins á sínum tíma.
Vestan frá Grísanesi er hlaðið gerði utan í hraunbrúninni. Norðaustar eru þrjár tóftir, sem væntanlega hefur verið ástæðan fyrir tilurð gerðisins.
HellirinnNorðan gerðisins, ekki langt frá austurjarði hraunsins, sem lokar Ástjörn af, eru grasgróningar á afmörkuðu svæði, greinilega eftir fjárhald. Í jaðri gróninganna er skjólgott jarðfall, sem auðvelt er að komast niður í. Jarðfallið er gróið í botninn, enda hefur þar verið ágætt skjól fyrir fé. Í jarðfallinu norðanverðu hefur áður verið hlaðinn gangur fyrir framan sæmilega rúmgóðan munna. Hleðslurnar eru nú fallnar að mestu, en þó má enn sjá þær í vesturveggnum. Ekki er [nú á þessari stundu] vitað nákvæmlega hvert nafnið var á þessu skjóli. Í örnefnalýsingu fyrir Ás er getið um Hellirinn á þessum stað, “að mestu falinn saman”. Ekki er ólíklegt að þarna hafi verið hafðir sauðir því rýmið gefur slíkt til kynna.
Um Grófarhelli (fjárskjól) er fjallað í annarri FERLIRslýsingu.
Í kringum Ás sem og í Hvaleyrarlandi, sem náði upp undir Kaldárssel, má enn líta ýmiss mannvirki frá fyrri tíð. Þau eru nú hluti af búskaparsögu bæjanna, sem og svæðisins í heild. Það er slæmt að ekki skuli allar þessar minjar enn hafa verið skráðar og því eðlilega ekki í vitund þeirra, sem eiga að taka ákvörðun um varðveislu þeirra – en virðast gera það samt sem áður. Verra er að þeir hinir sömu vita í rauninni mjög takmarkað um hvað fer forgörðum þegar verið er að taka ákvarðanir um framkvæmdir á þessu svæði.
Frábært veður.

Skófir

Arnarklettur

Nýjar götur eru gjarnan látnar heita eftir nálægum örnefnum. Hér verða nefnd til sögunnar tvö slík í Hafnarfirði; Þúfubarð og Arnarhraun.
FuglstapaþúfaFyrrnefnda gatan er í hverfi er nefnist “Börðin”. Þar er Fuglstapaþúfa. Svæðið, sem hún er á, hefur verið látið óhreyft er segir nokkuð til um vægi þess í hugum fólks þegar hverfið var að bygjast upp. Ábúendur í nágrenninu fylgdust með því er farfuglarnir komu í holtið á vorin eða hópuðust saman við þúfuna á haustin á leið þeirra til baka. Síðarnefnda gatan er í “Hraununum”. Þar á millum eru óraskaðir hraunblettir og er svæðið umleikis Arnarkletta þess stærst.
Fuglstapaþúfa er á Hvaleyrarholti. Í deiliskipulagi er hverfisvernd skilgreind á svæði milli Kelduhvamms og Þúfubarðs, Fuglstapaþúfu sem skal vera opið og óraskað svæði. Þúfurnar voru á jökulsorfnum klöppum, syðri þúfa við Þúfubarð og nyrðri þúfan við olíutanka norðan Melabrautar. Fuglstapaþúfa voru landamerki milli Hvaleyrar og Ófriðarstaðalanda. Þann 22. nóv. 1907 var ákveðið í 1. grein laga um bæjarstjórn Hafnarfjarðar að takmörk kaupstaðarins yrðu sem hér segir: Úr sjó utanvert við Balatún, sjónhending eftir takmörkum Hafnarfjarðarhrauns og Dysjamýrar, þar til kemur á hinn forna veg frá Görðum til Reykjavíkur. Eftir þeim vegi í Engidal. Þaðan eftir nyrðri brún Hafnarfjarðarhrauns, þar til kemur móts við austurhorn Hraunsholtstúns. 

Arnarklettar

Þaðan bein stefna yfir neðanverðan Kaplakrika í vörðu á háholtinu fyrir ofan Jófríðarstaði, þaðan yfir í Fuglastapaþúfu efri beina leið í sjó fram. Á svæðinu eru hverfisverndarákvæði: “Innan hverfisverndar má hvorki raska landslagi né gróðri og eru allar framkvæmdir háðar framkvæmdaleyfi”.
Arnarklettar standa ásamt Krummakletti og Gnípu í grónu hrauni sem markast af Klettahrauni, Arnarhrauni, Sunnuvegi og neðra Álfaskeiði. Jafnframt eru gerði og aðrar mannvistarminjar í kringum klettana. Á svæðiunu eru einnig h
verfisverndarákvæði: “Hverfisvernd tekur til þess að þessum hraunmyndunum og minjum verði ekki raskað”.
Ólafur Þorvaldsson skrifaði grein í Lesbók Morgunblaðsins árið 1957 er bar yfirskriftina “Íslenski Örninn”. Fjallar hann þar t.d. um afleiðingar fyrir stofninn vegna eitrunar fyrir refi o.fl. Auk þess segir hann m.a.: “Árið 1913, þegar örninn var alfriðaður, voru aðeins fern arnarpör í landinu. Árið, sem þetta er skrifað eru pörin tíu talsins.
FuglstapaþúfaÁ síðustu tugum síðustu aldar voru í Gullbringusýslu þrír varpstaðir arnarins, sem mér eru kunnir. Þessir staðir voru: Arnarklettar við Hvaleyrarvatn, Helgafell í Garðakirkjulandi or Arnarnýpa í Krýsuvíkurlandi. Vel má vera, að víðar hafi varpstaðir arna verið í nefndri sýslu, þótt fram hjá mér hafi farið vitneskja um það.
Á eitrunartímabili síðustu aldar fór brátt að sjá á arnarstofninum, sem þar hafðist við, og svo illa var komið á síðasta tug aldarinnar, að allir umgetnir varpstaðir voru af lagðir, auðir og yfirgefnir. Þráttf yrir sýnilega fækkun arnarins á umgetnu tímabili var þó fram á síðasta tug aldarinnar svo til dagleg sjón t.d. þar sem ég er fæddur og uppalinn, að Ási skammt suðaustan frá Hafnarfirði, að sjá, þegar fram á sumarið kom, erni frá fjórum til sjö raða sér eftir brún Ásfjalls upp af bænum.

Arnarklettar

Þar sátu þessir tignarlegu fuglar, stundum mikinn hluta dags og biðu þess, að endur kæmu með unga sína, sem þá voru að verða fullvaxnir, út úr starar- og hófrótarbreiðum á autt vatnið. Þá tóku sig upp einn eða fleiri ernir, svifu ofan af brún lágt með jörð út yfir tjörnina og reyndu að klófesta eitthvað úr andarhónum. Þessar veiðiaðferðir báru stundum árangur, oft engan. Á þessum ári leið varla sá dagur, hvort heldur var sumar eða vetur, að ekki sæist örn, einn eða fleiri.
Á næstu árum eftir síðstu aldamót urðu mjög skörp umskipti hvað örninn snertir á svæðinu við sunnanverðan Faxaflóa. Þeir hættu sem sé að sjást, enda allmjög hert á eitrun á þessu tímabili, þar eð refum virtist fjölga þá allmikið.
Í þau fjörutíu ár, sem ég stundaði fugla- og refaveiðar, bæði með sjó fram og upp til fjalla, og hafði mikið samneyti við fjölda manna, sem stunduðu þetta verk, vissi ég aldrei til, að örn væri skotinn, og kom þó fyrir, að það hefði verið hægt.”
Arnarklettur-21Til eru gamlir Hafnfirðingar, sem muna sérstaklega eftir einum kletti umfram aðra í hrauninu við Arnarhraun er nefndur var Arnarklettur. Í deildiskipulagi fyrir Hafnarfjörð árið 2005 segir m.a. um hann og nágrennið (einkum af tilfinningarástæðum): “Samkvæmt aðalskipulagi er gert ráð fyrir að Arnarklettur og grænt svæði umhverfis hann, á horni Arnarhrauns og Álfaskeiðs, njóti hverfisverndar samkvæmt skipulags- og byggingarlögum. Í umsögn Byggðasafns Hafnarfjarðar segir m.a. að engar ritaðar heimildir hafi fundist um fornminjar á svæðinu en vettvangsferð hafi leitt í ljós bæði hleðslur og garða. Heimildarmenn safnsins fullyrða að um sé að ræða leifar garðlanda en svæðið var m.a. nýtt fyrir kartöflurækt í kring um seinna stríð. Byggðasafnið telur æskilegt að þessar minjar njóti hverfisverndar sem búsetuminjar og ágætt dæmi um hvernig Hafnfirðingar nýttu sér skjólgott hraunið til ræktunar.”

Heimildir:
-Aðalskipulag Hafnarfjarðar til 2016.
-Deildiskipulag Hafnarfjarðar, Miðbær – Hraun, árið 2005.
-Ólafur Þorvaldsson – Lesbók mbl 19. apríl 1957.
Fuglstapaþúfa

Kleifarvatn

“Sum vötn eru dularfull. Þeim er öðruvísi farið en öðrum vötnum, og enginn botnar í afbrigðilegri háttsemi þeirra. Slíkt vatn var og er Kleifarvatn. Um þess konar vötn myndast sögur, og þannig er því líka einmitt farið um Kleifarvatn.
Þar herma gamlar sagnir, að kleifarvatn-321sézt hafi skrímsli, en það hefur líklega ekki verið nógu athafnasamt skrímsli, sem bjó í Kleifarvatni, því að það hefur einhvern veginn lognazt út af í þjóðtrúnni, þó að Lagarfljótsormurinn lifi enn bezta lífi við slíka ástsæld austan lands, að fólk þar vill með engu móti missa hann. Hitt hefur aftur á móti haldið uppi frægð Keilfarvatns, að mikill áramunur er að því, hversu hátt er í því. Þeir, sem kunnugir voru á þessum slóðum, töluðu um tuttugu ára sveiflur. En eins og kunnugt er hefur Kleifarvatn enga afrás, nema hvað áll er í tengslum við litla tjörn (sem ekki hefur heldur neitt afrennsl) & meðan allhátt er í því. En þau árin, sem lágt er í vatninu, þornar þessi tjörn með öllu.

Kleifarvatn

Kleifarvatn – Ytri-Stapi.

Með því að við erum öll fædd á öld vísindanna, hafa menn ekki látið sér nægja alþýðlegar skýringar á fyrirbærinu nú hina seinni áratugi. Vísindamenn hafa farið á stúfana til þess að svipta hulunni af leyndardómum Kleifarvatns, svo að naktar staðreyndir geti komið í stað trúarlærdóma um hegðun þess Meðal þeirra, sem hafa gefið sig að slíkri könnun, eru þeir Geir Gígja, Guðmundur Kjartansson og Pálmi Hannesson, svo að nefnd séu nöfn, sem koma í hugann, þegar hann beinist að dulúð Kleifarvatns. Ef ég man rétt, þá er skýring vísindamanna sú, að vatnsborðið hækki þau árin (eða kannski öllu heldur eftir þau ár), er úrkoma er í meira lagi á svæðinu umhverfis Kleifarvatns, en lækki, þegar úrkoma er í minna lagi. Vatnsbúskap Kleifarvatns er með öðrum orðum svo háttað, að halli er á honum, þegar aðrennsli er í minna lagi, því að þá síður meira niður í hraunið, sem undir því er, heldur en í það bætist, en svo mjótt er á mununum, að hraunið hefur ekki undan að fleyta vatninu burt, þegar öllu meira berst að.
kleifarvatn-322Og ætli við verðum þá ekki að hafa það svo, úr því að vísindin hafa talað. En hitt getum við haldið okkur þeim fastar við, að það er ekki neitt fleipur, að miklu getur munað á vatnsborðinu. Það sýna myndirnar tvær, sem þessum línum fylgja, teknar á sama stað með átta ára millibili.
Árið 1931 var lágt í Kleifarvatni, og frá því ári er þessi mynd. Allra lægst mun þó vatnsborðið hafa verið árið 1932. Síðan fór hækkandi í vatninu. Það var ekki kreppan þar á þeim árum.
Svo fór Kleifarvatn að búa betur. Þessi mynd sýnir, að það hefur heldur hækkað vatnsborðið árið 1939. Drangurinn er hinn sami og sést á hinni myndinni, og nú varð ekkl aldeilis gengið út að honum þurrum fótum.

Kleifarvatn

Kleifarvatn – Indíaninn 2023.

Eins og nú standa sakir er hátt í Kleifarvatni, en ekki skal fullyrt, hvort heldur vatnsborðið fer hækkandi eða lækkandi þessi misserin. En víst er það, að lítið hefur verið lagt inn í bankareikning þess hjá náttúrunni þessar síðustu vikur, er sólskinið hefur oftast bakað brunafjöll Reykjanesskagans. Það kemur einhvern tíma fram sem yfirdráttur, eins og það heitir á bankamáli, nema himininn bæti það upp með því að opna gáttir sínar þeim mun rösklegar, þegar kemur fram á sláttinn, en það er ekki dæmalaust hér á Suðurlandi eins og einhverjir kunna að minnast. (Að minnsta kosti erum við hér sannfærð um, að Benedikt frá Hofteigi er það fast í minni.) Og eftir sumar kemur haust, og svo hressilegar eru haust rigningarnar oft, að þær geta hæglega jafnað metin á skömmum um tíma, ef landsynningarnir leggja sig fram. Þannig eiga veðurguðirnir marga leiki á borði til þess að bæta hag Kleifarvatns.”

Heimild:
-Tíminn Sunnudagsblað, 20 júní 1971, bls. 538-539 – (ljósmyndir; Stefán Nikulásson).

Kleifarvatn

Kleifarvatn 2021.

Ginið

Farið var í Ginið. Um er að ræða um 15 metra djúpt op í hrauninu suðaustan við Sauðabrekkur og Sauðabrekkugjá. Ofan við brekkurnar að norðanverðu er falleg gígaröð með klepragígum. Mikil litadýrð er í þeim. Í einum þeirra er skjól þar sem gólfið hefur verið flórað og hella sett fyrir gluggaop. Skammt norðanfrá skjólinu eru hleðslur eftir refaveiðimenn.

Sauðabrekkugígar

Sauðabrekkugígar.

Ginið er í tvískiptu hrauni. Annars vegar er um að ræða nokkuð gróið hraun og hins vegar slétt helluhraun. Ljóst er að þarna hefur áður verið mikil gjá í eldra hrauni, en nýrra hraun, tiltölulega afmarkað, sennilega úr Sauðabrekkugígum, hefur runnið til suðausturs og m.a. fyllt gjána að huta. Þetta hefur verið efsti hluti gjárinnar þannig að hraunið hefur ekki náð að fylla þennan hluta hennar nema að litlu leyti. Fallegar klepramyndanir eru í veggjunum. En ekki var vitað um það sem neðar var. Sennilega hefur maður aldrei stigið fæti þar niður á botn eða kannað hvað dýpið kynni að geyma.
Ákveðið var, a.m.k. fyrst um sinn, að segja ekkert um hvar það er að finna svo hér verður einungis sagt frá hluta þess. Ætlunin er að fara þangað aftur fljótlega.

Ginið

Ginið.

Hraunið hér er slétt helluhraun, sem fyrr segir, mosavaxið og mjög sprungið. Ginið gapti við og öskraði á okkur “komið niður”. Um er að ræða um 15 metra dýpi. Lofthræddir ættu ekki að standa á barminum. Ekki verður komist niður nema síga þangað á böndum. Efitt gæti reynst að komast upp aftur. Gengið var tryggilega frá öllum festum.
Til að gera langa sögu stutta kom í ljós jökull á botninum. Stórbrotið er að horfa niður í Ginið, en ennþá mikilfenglegra er að horfa upp úr því. Við austurendann er hægt að komast inn í sprunguna. Í henni má sjá hvernig hraunið hefur runnið niður í hana og fyllt upp í holrúm. Hér er því um merkilegt jarfræðifyrirbæri að ræða. Hægt væri að komast áfram inn eftir sprungunni, en það var látið ógert að þessu sinni.
Erfitt er að finna Ginið fyrr en staðið er á barminum. Varhugavert væri að vera þarna í snjóalögum, því sá sem færi þarna niður óviljugur kæmi aldrei upp aftur.
Frábært veður – Gangan tók 1 klst og 11. mín, en sigið tók drjúgan tíma (enda enginn að flýta sér).

Ginið

Ginið.

Straumssel

Gengið var frá Óttarsstaðafjárborginni (Kristrúnarfjárborg), hlaðin um 1870, yfir á Alfaraleið og upp í Brennisel.

Brennisel

Brennisel.

Brenniselshæð er þar nefnd skv. heimildum og sjá má selið í hraunkvos. Um erð að ræða tóft og fallega hlaðið skjól. Hlaðið er fyrir fjárskjól skammt austar. Norðan við Brenniselið eru enn eldri minjar um kolagerð. Þar smá sjá hlaðinn vegg í skjóli við hraunhærð. Gróið er yfir hleðsluna, en ef vel er að gáð má sjá móta fyrir henni.
Frá Brenniselinu, sem auðkennt er með vörðu ofan við það, var gengið að Álfakirkjunni og fjárskjólið undir henni skoðað. Um er að ræða tignarlega klofkletta. Undir þeim er skjól og hleðslur fyrir. Það var trú Hraunamanna að Álfakirkjan væri helgasti staður álfanna í Hraunum. Þá trúðu þeir því að álfarnir héldu verndarhendi yfir fénu er leitaði skjóls í skjólinu.

Bekkjaskúti

Bekkjaskúti.

Haldið var yfir hraunið og að Bekkjaskúta utan í jarðfalli skammt vestan við Óttarsstaðasel og þaðan í Sveinsskúta skammt ofar. Frá honum var stígnum fylgt að Norðurhelli og í Óttarsstaðasel. Litið var á tóftir selsins og brunnstæðið vestan selsins, stekkinn, Þúfhólsskútann, Nátthagann og Rauðhólsskúta áður en stefnan var tekin austur yfir hraunið að Efri-Straumsselhellum.
Efri-Straumsselshellar eru með miklum hleðslum umhverfis. Smalabyrgi er ofan á holtinu. Hlaðið er um opið á hellinum, sem er allrúmgóður, en einhvern tímann hefur gerðinu verið breytt í rétt.

Efri-Straumsselshellar

Efri-Straumsselshellar.

Frá Efri-Straumsselshellum var gengið norður að Neðri-Straumsselhellum og síðan niður í Straumssel. Hellarnir eru rúmgóð fjárskjól. Skammt ofan neðri hellanna er forvitnileg hleðsla, sennilega fallin hleðsla um op í enn eitt fjárskjólið. Þarf að skoðast betur síðar.
Ljóst er að stóra tóftin í Straumsseli, sem talin er hafa verið selið er líkast til af gamla bænum, sem búið var í er hann barnn skömmu fyrir aldamótin 1900. Straumsselið er skammt sunnar og sést það vel ef að er gáð. Vestan þess er gamall brunnur. Núverandi brunnur er hins vegar norðan við bæinn og var gott vatn í honum.
Frá Straumsseli var haldið norðvestur yfir brunahraunið og það skoðað, m.a. myndalegt jarðfall norðan selsins. Í botni þess vex falleg burknaþyrping.
Frábært veður.

Óttarsstaðasel

Óttarsstaðasel.

Óttarsstaðir

Eftirfarandi frásögn eftir Gísla Sigurðsson birtist í Lesbók Morgunblaðsins árið 1978. Myndirnar eru ekki síður áhugaverðar.
Hraunin-401“Þær byggðir, sem við taka á Reykjanesskaga sunnan Hafnarfjarðar, voru fyrr meir kallaðar einu nafni „suður með sjó”. Færi einhver að ná sér í skreið eða annað sjómeti „suður með sjó” þurfti ekki að skýra það nánar. Þessar byggðir voru ekki búsældarlegar; sjórinn var gjöfulli en landið. Fátæktin var einatt förunautur þeirra, sem bjuggu á kotunum suður með sjó, hvort heldur það var allar götur vestur í Leiru, í Höfnum, á Vatnsleysuströnd eða suður í Hraunum.
Nú er byggðin í Hraunum nánast að engu orðin. Eftir standa fáein hús, sem sumpart eru auð og mannlaus og sumpart hefur verið breytt í sumarbústaði. Enda þótt þessi gamla byggð sé í næsta nágrenni við þéttbýli Reykjavíkursvæðisins, munu þó næsta fáir, sem vita um tilvist hennar eða þangað hafa komið. Þeim sem óljósar hugmyndir hafa um Hraunin, skal bent á, að sú byggð hefst þegar komið er framhjá Álverinu í Straumsvík á leið til Keflavíkur. Sveigt er út á malarveg hjá Staumi, sem dregur trúlega nafn sitt af fallegum lindum með bergvatnsstraumi, og líður undan hrauninu og myndar fallegar tjarnir á leið sinni út í víkina. Leiðin liggur um hlaðið í Straumi, þar sem stendur þrístafna timburhús í herragarðsstíl og er þó í eyði. Þetta glæsilega íbúðarhús byggði Bjarni Bjarnason, sem síðar varð landskunnur maður sem skólastjóri á Laugarvatni. 

Hraunin-402

Hann var þá kennari og skólastjóri í Hafnarfirði, en hafði fjárbú og ráðsmann í Straumi og var þá kominn í kynni við Jónas frá Hriflu. Þaðan og frá Guðjóni Samúelssyni komu áhrifin, sem leiddu til burstabæjarins í Straumi og síðar var þessi stíll endurtekinn í byggingu héraðsskólans á Laugarvatni. Húsið í Straumi var byggt 1927.
Þegar ekið er inn á bílastæði álversins, verða tóftir þar sem hallar niður í fjöruna og standa vel uppi. Þar stóð bærinn Stóri Lambhagi og á hraunhrygg, sem skagar út í Straumsvíkina, stóð Litli Lambhagi. Báðir þessir bæir fóru í eyði fyrir löngu.
Annað bæjarstæði, sem ekki sést af veginum, er á vinstri hönd, þegar farið er suðurúr. Þar hétu Þorbjarnarstaðir og standa þar uppi túngarður og traðir ásamt með rústum af bænum. Þar var hætt búskap um 1930. Þurrabúð eða hjáleiga frá Þorbjarnarstöðum var nær veginum, þar sem nú stendur sumarbústaöur undir fallegri brekku. Þar hét í Gerði.
Sé farið um hlaðið í Straumi, liggur malarvegur áfram til norðurs og vesturs yfir hraunhryggi og gjótur, sem því miður hafa of oft orðið athvarf fyrir bílhræ og er til mikilla lýta.
Hraunin-403Út með víkinni stendur Þýzkabúð ennþá uppi og utar í hvarfi stóð Jónsbúð. Þýzkabúð fór
í eyði fyrir 1950 og telur Gísli fræðimaður Sigurðsson í Hafnarfirði, að nafnið sé dregið af því, að Þjóðverjar hafi verzlað þarna fyrir margt löngu.
Á graskraga, sem verður á hraunjaðrinum vestur meö ströndinni, nefur verið einna búsældarlegast í Hraunum og raunar er þar eini grasbletturinn, sem máli skiptir. Þar stóðu bæirnir Eystri og Vestari Óttarsstaðir og bærinn á Vestari Óttarsstöðum stendur enn með þeim glæsibrag, að ástæða væri til að varðveita hann. Heiðurinn af því eiga systur, sem þar ólust upp og eignuðust síðan jörðina og búa þar á sumrum. Þar er ævintýri líkast að koma; svo vel er allt varðveitt og bærinn snýr hvítmáluðum bárujárnsþiljum til suðurs.
Á Eystri Óttarsstöðum stendur timburhús, sem ekki er haldið við, en Guðmundur bátasmiður, sem þar er upprunninn, hefur byggt sér íbúðarhús lítið eitt austar og skýli yfir bátasmíðina. Þar stendur uppi í fjörunni flak af timburskipi, sem hefur orðið málurum yrkis
efni og fallegt á sinn hátt, enda þótt það hafi lokið hlutverki sínu.

Hraunin-407

Guðmundur bátasmiður hafði á orði við okkur Helga Sæmundsson að dregist hefði úr hömlu að bera eld að því, en við báðum hann lengstra orða að þyrma flakinu. Stundum er mönnum svo mikið í mun að eyða því, sem ónýtt er talið, að þeir gá ekki að því að það geti haft neitt annaö gildi. Í nánd við Hafnarfjörð stóðu ekki alls fyrir löngu nokkur falleg flök af timburskipum, sem ævinlega voru augnayndi. Mikið kapp var lagt á að fjarlægja þau með krafti stórvirkra véla og hefði verið nær að beina orkunni gegn mengun frá fiskimjölsverksmiðjunni ellegar smekkleysi Olíufélagsins, sem blasir við meira en flest annað í Hafnarfirði.Á bæjunum í Hraunum var nálega einvörðungu stundaður fjárbúskapur og stílað uppá beit.

Hraunin-410

Þar er snjólétt, en heyfengur hefur líka verið næsta lítill. Útræði var úr Óttarsstaðavör og Straumsvík. Sumarbústaðir hafa risið þarna í lautum, en ekki ber mikið á þeim og þurrabúðin Eyðikot frá Óttarsstöðum hefur verið byggð upp og er nú glæsilegur sumarbústaður.
Vestan við Óttarsstaði þrýtur graslendi og verður úfið hraun, sem runnið hefur fram í sjó. Er þar spölkorn, sem aldrei hefur byggzt, unz kemur að Lónakoti. Þar stendur íbúðarhúsið uppi að nokkru leyti, en ekki hefur verið búið þar síðan Lónakot fór í eyði eftir 1950. Síðasti bóndi þar var Sæmundur Þórðarson frá Vogsósum en nú á Kornelíus kaupmaður Lónakotið og hefur þar kindur. Beit þótti góð í Lónakoti, en túnið var aðeins örlítill bleðill og lá sífellt undir skemmtum af ágangi sjávar.
Ekki voru Hraunin-408skilyrði til lendingar við Lónakot og því ekkert útræði þaðan. En við Óttarsstaðavör hafa þeir staðið gallvaskir og skinnklæddir við sólarupprás og horft á Garðhverfinga róna eins og segir í vísunni.”
Við þetta má bæta að bátasmiðurinn Guðmundur var sonur Sigurðar Kristins Sigurðssonar síðasta bóndans á Óttarstöðum eystri og konu hans Guðrúnar Bergsteinsdóttir. Guðmundur hélt lengst allra tryggð við Hraunin. Hann smíðaði hér báta sem þóttu eftirsóknarverðir og hleypti þeim af stokkunum í Óttarstaðavör. Þegar Guðmundur lést 1985 var íbúðarhúsið jafnað við jörðu eftir að kveikt hafði verið í því.
Eyðikotið varð um tíma sumarhús. Sjá má letursteina við bæjardyrnar með áletrununum BS-1865 (vinstra megin) og BS-1896 (hægra megin). Þær gerði Bergsteinn Sveinsson þau árin þegar hann gerði bæinn upp.

Nefna má að bóndinn í Eyðikoti, Guðmundur Bergsveinsson, sótti sér kvarnarsteina í Brennuna í Hraunin-411Kapelluhrauni (Brunanum) og bar þá heim á bakinu. Setti hann mosa á bakið til að hlífa því, er hann bar hellugrjótið heim í Eyðikot. Sjá má einn slíkan (brotinn) í hleðslunni við dyrnar.

Í Jarðabókinni frá því skömmu eftir 1700 er einungis nefnd ein jörð sem heitir Óttarstaðir, en að auki þrjár hjáleigur; Eyðikotið var ein þeirra.
Eyðikot er nú þríbursta hús ofan við Kotabótina. Þriðjungi, þeim nyrsta, var bætt við húsið fyrir u.þ.b. 40 árum, en kotið var gert upp sem sumarhús árið 1950. Það gerðu þau Vilborg Ólafsdóttir og Erling Smith. Þá var hlaðið fallega upp með veggjum og húsið gert líkt og það var. Þá var húsið nefnt Alsæla. Letursteinar Bergsveins Sveinssonar hafa verið varðveittir í hleðslunum beggja vegna við innganginn.

Heimild:
-Suður í Hraunum – Gísli Sigurðsson, Lesbók Morgunblaðsins 7. maí 1978, bls. 8-9.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir eystri.

Fagridalur

Gengið var suður og vestur með Leirdalshöfða. Svæðið e rmjög gróið á köflum, en þess á milli hefur orðið þarna mikil jarðvegseyðing. Suðvestan í höfðanum er dalverpi, Leirdalur syðri. Sunnan hans er Leirdalsvatnsstæðið. Nokkurt vatn var í því. Ekki er að sjá að þarna gætu verið tóftir, en þó má, ef vel er að gáð, gefa sér hugsanlegar tóftir (mög gamlar) á einum stað í brekku þar sem gróðurinn er hvað mestur mót suðri nokkru norðan vatnsstæðisins.

Fagridalur

Hrútur við Leirdalstjörn.

Gengið var á móbergsholt, en frá því er ágætt útsýni inn í Fargradal og um Fagradalsmúla autan dalsins. Vestan hans er Vatnshlíðarhornið. Áður hefur verið gengið þarna með Lönguhlíðunum og var þá komið niður í Fagradal. Í fyrstu var engin ummerki að sjá er bent gætu til mannvista, en þegar betur var að gáð mátti greina tóft á grasi grónum hól undir Múlanum, ekki fjarri vatnsstæðinu. Umhverfi hólsins er mikið gróið. Hlíðin er nú einnig nokkuð gróin, en áður hefur þarna verið ber skriðan, kjörinn efniviður í húsbyggingu. Hóllinn er forvitnilegur og því fróðlegt að skoða hann betur við tækifæri.

Breiðdalur

Strýtur í Breiðdal.

Gengið var áfram til vestur sunnan Breiðdals. Þar var að sjá nokkra pýramídalagaða kassa í röð og voru þeir forskallaðir. Erfitt að sjá í fljótu bragði hvað þarna gæti verið á ferðinni. Gengið var ofan Breiðdals, niður í sunnanverðan dalinn og áfram til vesturs sunnan Breiðdalshnúka. Vestan þeirra var beygt upp holtin norðan höfðans. Í miðjum dalnum norðanverðum, skammt innan við Markrakagil, gætu verið gamlar tóftir. Þarna er dalurinn hvað mest gróinn og tiltölulega sléttur. Svo var að sjá sem garðhleðslur væru þar á köflum, jarðlægar.

Fagridalur

Tóftir í Fagradal.

Gengið var upp hálsinn, sem aðskilur Breiðdal og Leirdal nyrðri, nú nefndur Slysadalir. Efst á hálsinum norðanverðum trjónir klettur mikill líkt og hann hafi tekið sig til og aðskilist. Þegar staðið er autan við klettinn sést í honum greinilegt andlit. Svo virðist sem kletturinn hafi ákveðið að ganga þarna framar en fjallið – og tekist það. Ekki er vitað til þess að hann hafi fengið nafn og var því skírður Ing-var, í höfuðið á hinum fyrrum ástsæla góðkratabæjarstjóra Hafnfirðinga, sem varð sextugur um þessar mundir.

Slysadalur

Leirdalur/Slysadalur.

Gengið var niður í Slysadali. Nyrst á grónu svæði er upphækkun. Gæti þar verið um að ræða dys hestanna, sem urðu tilefni nafngiftarinnar. Útlendur ferðamaður var að koma frá Krýsuvík á 19. öldinni, hafði farið um Hvammahraun og FagradaL að vetrarlagi. Hin leiði var um Helluna þarna vestan af, í austanverðum hlíðum Sveifluhálsins ofan við Kleifarvatn, en það mun hafa verið óvegur og ekki fyrir hesta. Vilpur voru í dalnum og voru þær ísi lagðar. Fór svo að maðurinn missti tvo hesta sinna niður um ísinn, en mannskaði varð enginn.

Slysadalur

Slysadalur.

Gengið var áfram upp úr dalnum, í átt að Skúlatúni. Að sumra áliti gæti þar hafa verið landnámsbær, en þó er það talið ólíklegt. Skúlatún er þúfóttur óbrennishólmi í Tvíbollahrauni. Ekki skyldi þó efast fullkomlega eða útiloka með öllu að þar undir kynnu að leynast einhverjar minjar.
Frábært veður – Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Skúlatún

Skúlatún – Helgafell fjær.

Hjartartröð

Gengið var eftir Hjartartröðinni í Stórabollahrauni og skoðaðir hellastubbarnir á leiðinni. Úr vestasta niðurfallinu heldur rásin, víð og breið, áfram til vesturs undir nýrra hraun. Innan í henni er mikið hrun, en hægt er að komast áfram hægra megin í rásinni, fast við hellisvegginn. Þar fyrir innan er nokkurt hrun, en ef vilji er fyrir hendi er hægt að halda áfram yfir það og innar í rásina.

Þríhnúkar

Þrihnúkar – skjól.

Í Kristjánsdölum fannst hlaðið refabyrgi og greni þar nálægt. Gengið var á hraunrás undir Lönguhlíðum inn af Þjófadölum. Í henni er rás, nokkuð mjó, en mjög falleg. Hún var skoðuð lítillega. Þá var haldið á Þríhnúka og litið ofan í dýpsta helli á landinu, Þríhnúkahelli. Aðalgígur Þríhnúka er á milli hnúkanna, fallega sléttur hraundalur. Sunnan undir austasta hnúknum er hraunhóll, holur að innan og er hurð fyrir opinu. Inni var steinbekkur og borð. Yfir hólinn hafði verið lagður dúkur og hann hulinn. Einnig var hraunhóllinn klæddur plastdúk að innan. Svo virðist sem einhver, eða einhverjir, hafi notað stað þennan sem skjól um tíma. Norðan hólsins er mjög fallegur gervigígur.

Þríhnúkahellir

Sigið í Þríhnúkahelli.

Haldið var austur með sunnanverðu Þríhnúkahrauni, norðan Stórkonugjár, að mjög djúpu jarðfalli við enda mikillar hrauntraðar, milli hennar og Þríhnúkahellis. Ekki er hægt að komast þar niður nema á bandi. Þarna niðri gætu leynst göng til vesturs, í átt að hellinum. Við austurenda hrauntraðainnar er mikill gígur. Norður af honum liggur hrikaleg gjá. Við enda hennar, austanmegin, er hellisop; falleg hraunrás er liggur í beygju til vinstri og hallar niður með hlíðinni. Hún var skoðuð að hluta. Gólfið er grófur brúnleitur hraunfoss.
Á leið niður hlíðina vestan við Eyra var litið á Kristjánsdalahellana. Einn þeirra, sá austasti undir hraunbrún, er sá fallegasti af þeim. Hinir eru fremur lágir.
Dýrindisveður, logn og sól og útsýnið eftir því.

Hjartartröð

Hjartartröð.