Tag Archive for: Hafnarfjörður

Kaldársel

Á vef Umhverfisstofnunar má lesa eftirfarndi um friðlýsingu Kaldárhrauns og Gjárna, þ.m.t. Lambagjá.

Kaldársel

Kaldárhraun – Gjár.

Kaldárhraun og Gjárnar í Hafnarfirði voru friðlýst sem náttúruvætti árið 2009. Markmið með friðlýsingu Kaldárhrauns og Gjánna er að vernda helluhraunsmyndun og fagrar klettamyndanir í vestari hrauntröðinni frá hinni kunnu eldstöð Búrfelli.

Kaldárhraun er heillegt og óraskað helluhraun á vinsælu útivistarsvæði við Helgafell, en upptök hraunsins eru í gígum austan við norðurenda Gvendarselshæðar. Kaldárhraun er eitt síðasta dæmið um heillegt og óraskað helluhraun í landi Hafnarfjarðar og er fræðslu- og útivistargildi svæðisins metið hátt. Á svæðinu eru fornminjar sem tengjast selbúskap, m.a. gömul gata, Kaldárstígur.

Stærð hins friðlýsta svæðis er 208,9 ha.

Í auglýsingu um „náttúruvættið Kaldárhraun og Gjárnar í upplandi Hafnarfjarðar“ – nr. 396/2009 3. apríl 2009, segir:

1. gr.

Kaldársel

Gjár.

Um friðlýsinguna.
Umhverfisráðherra hefur ákveðið að tillögu Umhverfisstofnunar og Náttúrufræðistofnunar Íslands og með samþykki bæjarstjórnar Hafnarfjarðarkaupstaðar, sem landeiganda og sveitarstjórnar, að friðlýsa Kaldárhraun og Gjárnar, þ.e. Norðurgjá, Suðurgjá og Lambagjá, sem náttúruvætti, skv. 2. tölulið 53. gr. laga um náttúruvernd, nr. 44/1999.
Kaldárhraun er heillegt og óraskað helluhraun á vinsælu útivistarsvæði við Helgafell, en upptök hraunsins eru í gígum austan við norðurenda Gvendarselshæðar. Kaldárhraun er eitt síðasta dæmið um heillegt og óraskað helluhraun í landi Hafnarfjarðar og er fræðslu- og útivistargildi svæðisins metið hátt. Á svæðinu eru fornminjar sem tengjast selbúskap, m.a. gömul gata, Kaldárstígur. Stærð hins friðlýsta svæðis er 207,1 hektari.

2. gr.

Lambagjá

Hleðslur undir vatnsleiðsluna um Lambagjá frá 1919.

Markmið friðlýsingarinnar.
Markmið með friðlýsingu Kaldárhrauns og Gjánna sem náttúruvættis er að vernda helluhraunsmyndun og fagrar klettamyndanir í vestari hrauntröðinni frá hinni kunnu eldstöð Búrfelli.

3. gr.
Mörk náttúruvættisins.
Mörk náttúruvættisins afmarkast af eftirfarandi ISN-93 hnitum og eru sýnd á meðfylgjandi uppdrætti.
Lóð frístundahúss sem er innan útmarka náttúruvættisins er undanskilin friðlýsingunni.

4. gr.

Lambagjá

Lambagjá.

Umsjón náttúruvættisins.
Umsjón og rekstur náttúruvættisins skal vera í höndum umhverfisnefndar Hafnarfjarðarkaupstaðar, samkvæmt samningi Umhverfisstofnunar og Hafnarfjarðarkaupstaðar sem
umhverfisráðherra staðfestir. Umhverfisstofnun skal sjá um gerð verndaráætlunar fyrir náttúruvættið í samráði við Hafnarfjarðarkaupstað, sbr. d-lið 6. gr. laga um náttúruvernd, nr.
44/1999.

5. gr.
KaldárhraunUmferð um náttúruvættið.
Almenningi er heimil för um náttúruvættið, enda sé gætt góðrar umgengni. Í samræmi við samþykkt um hundahald er óheimilt að hafa hunda í náttúruvættinu án fylgdar og tryggrar stjórnar. Akstur vélknúinna farartækja utan akvega er óheimill í náttúruvættinu.

6. gr.
Verndun jarðmyndana, gróðurs, dýralífs og menningarminja.
Óheimilt er að hrófla við eða skemma á annan hátt jarðmyndanir í náttúruvættinu. Einnig er þar óheimilt að spilla gróðri og trufla dýralíf og eru skotveiðar bannaðar. Óheimilt er að hrófla við eða skemma á annan hátt menningarminjar á hinu friðlýsta svæði.

7. gr.

Kaldárhraun

Kaldárhraun – friðlýsing.

Landnotkun og mannvirkjagerð.
Allar framkvæmdir innan náttúruvættisins eru háðar leyfi Hafnarfjarðarkaupstaðar og Umhverfisstofnunar, sbr. 38. gr. laga um náttúruvernd, nr. 44/1999. Framkvæmdir skulu vera í samræmi við samþykkt skipulag og verndaráætlun. Gert er ráð fyrir að gömlum stígum og vegum verði viðhaldið sem gönguleiðum og einnig að fjölga merktum og stikuðum gönguleiðum og stígum um svæðið sem tengst geta öðrum gönguleiðum um uppland Hafnarfjarðar.

8. gr.

Kaldársel

Kaldárhraun og nágrenni – loftmynd.

Undanþágur.
Umhverfisráðherra getur, að fenginni umsögn Umhverfisstofnunar og umhverfisnefndar Hafnarfjarðarkaupstaðar, veitt heimild til þess að vikið verði frá reglum þessum í einstökum
tilfellum gangi það ekki gegn markmiðum friðlýsingarinnar.

9. gr.
Refsiákvæði.
Brot gegn friðlýsingu þessari varðar sektum eða fangelsi allt að tveimur árum, skv. 75. og 76. gr. laga um náttúruvernd, nr. 44/1999.

10. gr.
Gildistaka.
Friðlýsingin öðlast þegar gildi.
Umhverfisráðuneytinu, 3. apríl 2009.
Kolbrún Halldórsdóttir.
Steinunn Fjóla Sigurðardóttir

Kaldársel

Kaldársel – fjárborg á Borgarstandi.

Í Skrá um friðlýstar fornleifar, fyrsta útgáfa 1990, segir m.a. um minjar á hinu friðlýsa svæði: „Kaldársel. 1. Bæjarrústir, rétt sunnan við skála KFUM, svo og aðrar rústir í hinu gamla túni. 2. Fjárborg, nú hrunin, þar sem hæst ber á svonefndum Standi, skammt fyrir norðan bæjarrústirnar.
3. Fjárhústóft og gerði, rétt hjá borginni, þeim megin sem frá bæjarrústunum veit. 4. Hleðsla undir gamla vatnsveitustokkinn til Hafnarfjarðar, þvert yfir gjá. Skjal undirritað af KE 30.04.1964.
Þinglýst 05.05.1964.

Heimild:
-https://ust.is/nattura/natturuverndarsvaedi/fridlyst-svaedi/sudvesturland/kaldarhraun-og-gjarnar/
-Skrá um friðlýstar fornleifar, fyrsta útgáfa 1990.

Kaldárhraun

Kaldárhraun – samningur um náttúruvættið milli Ríkis og Hafnarfjarðarbæjar til 10 ára.

Krýsuvík

Benedikt Elínbergsson (09.09.1941) var í Vinnuskólanum í Krýsuvík á árunum 1953-’54.

Benedikt Elínbergsson

Benedikt Elínbergsson.

„Í þá daga fóru drengirnir heim á föstudögum og sneru aftur til vinnu á mánudögum. Síðar breyttist það í að drengirnir voru tvær vikur í senn í Krýsuvík, en fengu þá helgarfrí. Eyjólfur Guðmundsson og Snorri Jónsson, kennarar, veittu Vinnuskólanum forstöðu í fyrstu. Þeim til aðstoðar voru jafnan tvær til þrjár stúlkur, t.d. Guðrún Ágústsdóttir og Hulda Run. Viðdvölin tók breytingum eftir því sem tímar liðu“.
Benedikt var í framhaldinu við vinnu hjá Jóhannesi Trapp í garðyrkjustöðinni eitt sumar, tvö sumur hjá Reyni Ragnarssyni á búinu og eitt sumar hjá Hrafni Ólafssyni við fjárbúið. Jens Hólmgeirsson var þá kominn til starfa og turnarnir tveir við enda fjóssins byggðir.

Krýsuvík

Gróðurhúsin 1950.

Einungis vestari turninn var tekinn í notkun, enda hann þá með þaki. Í hann var blásið söxuðu heyi fyrir fjárhaldið. Díselknúin rafstöð (ljósavél) var í Krýsuvík og átti hún það til að „slá út“ þegar álagið á blásarann var hvað mest. Þegar upp var staðið voru þarna í fjósinu hátt í þúsund kindur. Krýsuvík var góð bújörð. Reynir var gamansamur. Eitt sinn spurði Jóhannes hann að því hvað tiltekinn tvíhornóttur lambhrútur í hjörðinni væri gamall. Reynir: „Hann er tveggja vetra“. Jóhannes: „Hvernig sérðu það?“. Reynir. „Á hornunum“. Jóhannes: „Huh, ég gat sagt mér það sjálfur“.
Ýmislegt var brasað í Krýsuvíkinni á þessum tíma, m.a. var Hlín Johnson í Herdísarvík veitt aðstoð við heyskap. Sagt var að jafnan rættist sú spá hennar að eftir að Herdísarvíkurtúnið hafði verið slegið tæki við fjögurra vikna þurrkur á Selvogssvæðinu.

Krýsuvík

Krýsuvík 1964 – bæjarhóllinn ruddur með jarðýtu. Ljósm. Þór Magnússon.

Hluti bæjarhóls gamla Krýsuvíkurbæjarins var ruddur með jarðýtu 1956 og restin af honum 1964. Söknuður er af mannvirkjunum þótt fátækleg hafi verið orðin. Í kirkjunni, sem Björn Jóhannesson, formaður „Krýsuvíkurnefndarinnar“ endurbyggði, var jafnan altaristafla, bogadregin að ofan. Hún var í kirkjunni að sumarlagi, en hékk uppi á vegg í Sólvangi þess á millum – eða þangað til Þjóðminjasafnið tók hana til handargagns. Ólíklegt er að almenningur fái að njóta altaristöflunnar eftir að hrammar safnsins hafi náð að klófesta hana.

„Þú mátt gjarnan fjalla um „Krýsuvíkurnefndina“ svokölluðu  sem og störf hennar“, stakk Benedikt upp á við viðmælanda. „Þá hafa störf Björns Jóhannessonar í Krýsuvík verið vanmetin. Hann endurbyggði t.d. Krýsuvíkurkirkju 1986“.

Krýsuvík

Krýsuvík 1936. Ljósm. Ásgeir L. Jónsson.

Stjórnmálamenn hafa deilt um byggingu mannvirkja og ýmsar framkvæmdir í Krýsuvík frá því að Hafnarfjarðabær keypti landið sunnan Kleifarvatns að Krýsuvíkurbergi af Ríkinu eftir að hafa verið tekið eignarnámi 1936. „Krýsuvíkurnefndin“ svonefnda, skipuð af bæjarstjórn Hafnarfjarðar, fór ekki varhluta af deilunum. Hér á eftir verður lesendum gefinn nokkur smjörþefnur af álitamálum þeim er að framangreindu laut:

Í Hamri 29. sept. 1954 segir: „Á bæjarstjórafundi [í Hafnarfirði], sem haldinn var 14. þ.m. samþykkti bæjarstjórnarmeirihlutinn að stofna til sauðfjárbúskapar í Krýsuvík. Samþykkt var tillaga Björns Jóhannessonar, formanns Krýsuvíkurnefndar, að keypt verði 100 gimbralömb um haustið.“ Aðrir í nefndinni voru Gísli Guðmundsson og Helgi S. Guðmundsson.

Krýsuvík

Fyrstu fulltrúar Hafnarfjarðabæjar meta aðstæður í Krýsuvík um 1940. Ljósm. Emil Jónsson.

Í Hamri 19. maí 1950, þ.e. um það bil fjórum árum fyrr er fjallað um kosningu fulltrúa í Krýsuvíkurnefnd: „Á bæjarstjórnarfundi 25. apr. s.l. var samþykkt í bæjarstjórn að kjósa sérstaka nefnd til að fara með málefni Krýsuvíkur.
Frestað var að kjósa í nefndina þar sem ekki mun hafa verið fundinn framsóknarmaður, sem Alþýðuflokkurinn gat fellt sig við. Loksins fannst maður, sem fært var talið að tæki sæti í nefndinni er það Sigurður Guðmundsson kaupmaður. Mun hann hafa verið tregur til starfans þar sem heilsa hans leyfir honum því miður ekki að leggja sitt lið fram eins og sakir standa. Á síðasta fundi voru kosnir í nefndina auk Sigurðar Ingólfur Flygenring og Vigfús Sigurðsson.“

Krýsuvík

Krýsuvíkurvegurinn lagður um Helluna við Kleifarvatn 1936-’37. Ljósm. Emil Jónsson.

Í Alþýðublaði Hafnarfjarðar 27. maí 1950 segir í fréttum „Frá bæjarstjórnarfundi“: „Fundur var haldinn í bæjarstjórn Hafnarfjarðar þiðjudaginn 16. maí s.l. Á þessum fundi var nokkuð rætt um garðyrkjustöðina í Krýsuvík og starfsemina þar. Samþykkt var á fundinum samkvæmt tillögu meirihluta bæjarráðs þeirra Emils Jónssonar og Óskars Jónssonar að fela bæjarstjóra að ráða garðyrkjumann að gróðrarstöðinni, þar, sem Einar Þórir, garðyrkjumaður, hefur sagt upp starfi sínu, og hann óskar að losna úr starfi sínu, eins fljótt og orðið getur, og að upplýst er að Óskar Sveinsson, sem hefur verið veikur um hálfs árs skeið, er enn ekki fær til fullrar vinnu.
Þá lögðu þeir Emil Jónsson og Óskar Jónsson til við bæjarstjórn, að Jens Hólmgeirssyni verði falin framkvæmdastjórn við garðyrkjustöðina í Krýsuvík ásamt framkvæmdastjórn búsins, og yfirumsjón að undirbúningi þess.
Á fundinum var kosin þriggja manna Krýsuvíkurnefnd, í henni eiga sæti: Vigfús Sigurðsson, Sigurður Guðmundsson og Ingólfur Flygenring.“

Krýsuvíkurvegur

Krýsuvíkurvegur ofan Kleifarvatns 1937. Sjá má hvernig vegurinn er „púkkaður“ skv. gamla laginu.  Ljósm. Emil Jónsson.

Í Hamri 21. mars 1954 er dálkur; „Eitt og annað…“. Þar segir m.a.: „Þegar veðurblíðan er svona mikil, þá er ekki óeðlilegt að þeir fari eitthvað, að hugsa til hreyfings, sem ætla að fást við landbúnað. Það var líka ekki látið bíða, að Krýsuvíkurnefnd legði land undir fót og héldi til Krýsuvíkur til að skoða öll herlegheitin þar. Enda fer varla hjá því, að margt hljóti að vera þar með myndarbrag, þar sem Krýsuvíkin mun vera orðin ein dýrasta jörðin á Íslandi.
Til er gamalt máltæki, sem segir að sjaldan launi kálfar ofeldið. Það virðist eitthvað því líkt hafa gerst í Krýsuvík. Þó að bændur þessa lands hafi ekki fengið nálægt því jafnmikið fé handa á milli og búandinn í Krýsuvík, þá hefur líklega enginn skilað eins litlum arði, ávaxtað sitt pund eins illa og hann. Það er ekki einungis, að það pund korni aftur án þess að vera ávaxtað, heldur kemur það aldrei allt aftur og ekki nóg með það, heldur dregur það til sín og sóar arði annarra punda, svo að til stórvandræða horfir.

Krýsuvík

Vinna í gróðurhúsunum.

Það vantar svo sem ekki, að í mörgu hefur verið vasast í Krýsuvík. Þar hafa verið byggð íbúðarhús yfir starfsfólk, og man fólk vel eftir því, þegar vatnið í steypuna var keyrt alla leið neðan úr Hafnarfirði. Að vísu voru fáir, sem skildu þá ráðdeildarsemi!! Það hafa verið byggð gróðurhús og minriast menn þess, að fyrstu gróðurhúsin máttu hafnfirzkar hendur ekki smíða ekki einu sinni íslenzkar, heldur voru þau flutt inn frá Noregi. Og Norðmenn eru oft gamansamir, enda höfðu þeir svo litlar dyr á húsunum, að varla var hægt að komast um þær með tómatkassa í fanginu og moldinni varð að sturta af bílunum utan dyra og moka henni svo aftur upp í hjólbörur og aka henni inn. Til þessa verks var þó notaður íslenzkur vinnukraftur.
Þá hefur verið látið mikið af ræktuninni í Krýsuvík. Þar hafa skurðir verið grafnir og lokræsi gerð. Jörðin hefur verið plægð og sums staðar herfuð. En — það hefur engan ávöxt gefið. Ekkert gras, ekkert hey, ekki einu sinni beit. Ekki hefur þó skort áburð, hann var keyptur fyrir nær áratug og er geymdur enn, að nokkru leyti og mun hann vera talinn elzti tilþúni áburðurinn á landinu.

Krýsuvík

Krýsuvík – Vinnuskóladrengir að störfum við túnrækt…

Tveir himinháir votheysturnar gnæfa þar efra á bökkum Grænavatns en þeir eru báðir þaklausir og að sjálfsögðu tómir, aðeins steinhólkarnir. Fyrir þeim fékkst fjárfestingarleyfi á mjög erfiðum tíma, því það voru að eins veitt leyfi til að byggja 10 slíka turna á landinu öllu. Þetta voru því fágætar byggingar og gaman að eiga þær. Það mun því hafa þurft mikinn dugnað til að fá fjárfestingarleyfin og sennilega ekki nokkur leið öðruvísi en að fórna leyfum, sem e.t.v. hefði verið hægt að fá fyrir öðrum framkvæmdum eins og t.d. yfirbyggingu sundlaugarinnar, steypu á Strandgötunni, byggingu húsmæðraskóla eða einhverju slíku niður í Hafnarfjarðarbæ.

Krýsuvík

Krýsuvík – fjósið og turnarnir tveir. Aðstaðan er nú (2022) notuð fyrir kvikmyndatöku.

Þessir turnar hafa líka verið vel varðveittir. — Þegar turnar þeir, sem bændurnir fengu að byggja hafa verið notaðir til heygeymslu og við það hafa þeir orðið blakkir að innan og loftið í þeim blandað heylykt, þá hafa turnarnir í Krýsuvík verið látnir standa auðir, svo að á þá félli ekki blettur og loftið í þeim er tært og ferskt, enda loftræsting með afbrigðum góð!!

Krýsuvík

Krýsuvík 2022.

En það eru fleiri byggingar í Krýsuvík. Þar hefur verið byggt fjós yfir á annað hundrað nautgripi. Það er að vísu ekki nema veggir og þak. Frá innri skipan hefur ekki verið gengið, né heldur hreinlætistækjum. Hins vegar eru geymd þar nokkur jarðvinnslutæki svona yfir vetrartímann. Fjós þetta á sér einna merkasta sögu fyrir það, að svo mikið lá á byggingu þess, að menn þeir, sem voru að byggja Sólvang, voru teknir úr þeirri vinnu til að hraða fjósbyggingunni. Sólvangur var því látinn bíða nokkuð það var meira aukaatriði, hvort hann yrði tekinn í notkun árinu fyrr eða síðar.

Krýsuvík

Seltún – borað með „höggbor“. Ljósm. Emil Jónsson.

Krýsuvíkurnefnd hefur nú skoðað alla þessa dýrð og rifjað upp söguna um allar framkvæmdirnar og hugsar „ráðstjórnar“-hluti nefndarinnar sér að sjálfsögðu eitthvað til hreyfings, þar sem nýbúið er að samþykkja stóra fjárveitingu til Krýsuvíkur. Einn ljóður er þó á þessu öllu saman. Í upphafi vega hafði verið ráðinn bústjóri. Var hann sendur utan til að forframast í búskap. Var einkum talað um það, að hann hefði kynnt sér, hvernig fara ætti með rauðar kýr, svo að þær gæfu sem beztan arð, en að sjálfsögðu hefur hann kynnt sér margt fleira og verið mjög vel að sér, þegar hann kom, að minnsta kosti skrifaði hann um nýja tegund kúa, sem hann nefndi „votheyskýr“, í Tímann eftir að hann kom úr utanför sinni.
En það var fleira, sem hann lærði í búvísindum, — Þegar hann gerði áætlun um rekstur kúabús í Krýsuvík, þá reiknaði hann alla mjólkina til tekna og svo reiknaði hann á móti til gjalda þá mjólk, sem fór til kálfaeldis. Það merkilegasta í þessu var það, að hann reiknaði hvern lítra 8 aurum meira til tekna en hann reiknaði hann til gjalda aftur. Þannig græddi hann 8 aura á hverjum lítra, sem kálfarnir drukku, náttúrlega auk gróðans af eldi kálfanna.

Krýsuvík

Krýsuvík – fjósið 2023.

En nú er bústjórinn horfinn með alla þekkinguna, sem Hafnarfjarðarbær var búinn að láta hann afla sér. „Ráðstjórnin“ þarf því að grípa til nýrra ráða í þessum efnum. En hver verða þau? Á að halda áfram að koma upp kúabúi og baka bæjarbúum þannig stórra fjárútláta í viðbót við það sem orðið er? Eða á að fara að tillögum Sjálfstæðismanna um að athuga möguleikana til að koma upp iðnaðarfyrirtæki eða tækjum í Krýsuvík og hagnýta þá fjárfestingu, sem þegar er orðin í Krýsuvík, til þeirra hluta, eftir því sem við verður komið? „

Svo mörg voru þau orð… eða eins og Benedikt orðaði það: „Ég man aldrei eftir, meðan ég dvaldi í Krýsuvík, að nokkurn skugga hafi fallið á starfsemina þar“.

Þrátt fyrir pólitískar deilur um uppbyggingu og framkvæmdir í Krýsuvík eftir miðja síðustu öld hefur engum slíkum verið að dreifa um Vinnuskólann…

Heimildir:
-Hamar VIII. árg. 29. sept. 1954, bls. 1.
-Hamar IV. árg. 19. maí 1950, bls. 1.
-Alþýðublað Hafnarfjarðar, 18. árg. 27. maí 1950, bls. 2.
-Hamar VIII. árg. 21. mars 1954, bls. 2 og 3.
-Viðtal ÓSÁ við Benedikt Elínbergsson (09.09.1941) 31. mars 2023.

Krýsuvík

Fjósið og turnarnir í Krýsuvík 2023. Bústjóra- og starfsmannahúsið, auk gróðurstöðvarinnar ofar. Hetta efst og Hveradalur t.h.

Hamarinn

Bær í byrjun aldar – Magnús Jónsson skrifaði bók, „Bær í byrjun aldar„, og gaf út handskrifaða, á eigin kostnað, árið 1967. Í henni fjallar hann m.a. um nánast alla íbúa sem og hús og bæi í Hafnarfirði árið 1902. Um Hamarskot segir hann:

Magnús Jónsson

Baksíða bókar Magnúsar Jónssonar „Bær í byrjun aldar“.

„Hamarskot; nú eru löngu horfin öll ummerki um hvar þetta kot stóð, en það var í slakkanum uppi á Hamrinum. Upphaflega hefur bærinn sjálfsagt dregið nafn af hamrinum, en svo var farið að kenna hamrinn við kotið, og hann nefndur Hamarskotshamar.
Í Hamarkoti var grasnyt, en túnið – sem sýslumaðurinn hafði afnot af – var harðbalakennt.
Alloft urðu íbúaskipti í Hamarskoti, og á þessum tíma voru þar hjónin Þorlákur Guðmundsson og Anna Sigríður Davíðsdóttir. Hann var fæddur 1842 í Hlíð í Garðahverfi?, en hún 1856 á Bakka í Vatnsdal. Árið 1876 giftust þau, þá að Undirfelli í Vatnsdal og voru fyrst í húsmennsku þar nyrðra. Í Hamarskot fluttust þau um 1897, en höfðu áður verið á þrem stöðum í Hafnarfirði. Þorlákur annaðist m.a. skepnuhirðingu fyrir sýslumanninn.
Börnin sem heima voru; Júlíus, bjó með Herdísi Stígsdóttur Auðunnarsonar, Kristmundur, kvæntist Láru Gísladóttur – þau bjuggu lengi í Stakkavík -, Sigurður Gunnlaugur trésmiður, kvæntur Ólöfu Rósmundsdóttur, Una, dó um fermingaraldur og Jarðþrúður, giftist fyrst Kjartani Jakobssyni en síðar Helga Kristjánssyni. Agnar var farinn að heiman og einnig Anna og Sigríður, en þeirra verður getið síðar.
Þorlákur dó 1926, en Anna kona hans 1930.
Sigurður Gunnlaugur Þorláksson trésmiður dó 1974 og kona hans Ólöf Rósmundsdóttir 1975.“

Hamarskot

Hamarskot – örnefni skv. lýsingum fyrrum.

Í Fornleifaskrá Hafnarfjarðar III – Suðurbær frá 2020 segir m.a. um Hamarskot: „Elsta heimild um Hamarskot er frá 1565 en það skjal segir frá byggingu jarða Garðakirkju á Álftanesi, þar segir að Hamarskot sé „bygt fyrer iij vætter fiska. Vallarslätt. Med jördunne j kugillde“.
Í annarri heimild frá 1579 segir að jörðin hafi fyrir allöngu verið komin í eign Garðakirkju.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 segir um Hamarskot að jarðadýrleiki sé óviss því að jörðin tíundast engum. Jörðin var þá enn í eigu Garðakirkju og ábúandinn var Jón Arason. Landskuldin var lx álnir sem borgaðist með iii vættum fiska. Heimilismenn voru sex og kvikfénaður var tvær kýr og einn kálfur. Hamarskot átti selstöðu nærri Sléttahlíð sem kallaðist Hamarskotsel.
Torfrista og stunga lök og lítil, lyngrif var nokkurt og móskurður til eldiviðar var slæmur. Engar engjar fylgdu jörðinni.

Hamarskot

Hamarskot fyrrum – tilgáta.

Hamarskot var að einhverju leiti sama jörð og konungsjörðin Akurgerði sem var seld 1804, þá í eyði. Kaupstaðurinn í Hafnarfirði mun hafa byggst í landi Akurgerðis en þar var ekki aflað til heys 1803 vegna þess að verslunarhúsin stóðu í slægjulandinu.
Í jarðatali Johnsens frá 1803 fékk jörðin númerið 172, þar segir að jörðin sé í Garðakirkjueign, landskuldin sé 0,4, kúgildið sé eitt og einn leiguliði.15 1854 var jörðin kirkjujörð hjá Görðum og var landskuldin 40 álnir, 1 kúgildi og leigur þar af 20 pd. smjörs.
Til eru úttektir á húsakosti Hamarskots frá 1818, 1822 og 1823. Sigurður Skúlason tók saman úttektina frá 1818 og lýsir húsakostinum svona: „ Af húsum eru hér talin: Baðstofa, búr, eldhús, göng milli baðstofu og bæjardyra og fjós.“

Hamarskot

Hamarskot – loftmynd 1954.

Samkvæmt manntölum var búið á Hamarskoti fram til ársins 1906 og þegar Magnús Jónsson skrifaði bók sína Bær í byrjun aldar árið 1967 voru „löngu horfin öll ummerki um hvar þetta kot stóð“.

Í fasteignamati Hafnarfjarðar frá 1918 var jörðinni og húsakosti lýst svona: „Hamarskot: Gripa og heygeymsluhús. Eigandi: Árni Björnsson prófastur í Görðum. Stærð á húsinu 6,50 x 4,40m. Hæð 1,50m með risi, bygt úr torfi og grjóti. Þak: járn á langböndum notað til heygeymslu. Gripahúsastærð: 6,50m x 3,80m, hæð 2m. Með vatnshallaþaki bygt úr torfi og grjóti, einn veggur og þak úr timbri járnvarið.“

Hamarskot

Hamarskot – Hafnarfjörður um 1930.

„Hamarskotstún. Eigandi: Kirkjujarðarsjóður leigir eignina afgjaldið gengur til Sóknarprestsins á Görðum. Stærð lóðarinnar er e. 9 dagsláttur. Öll girt með grjótgarði og við á stólpanum. Ræktuð í tún og notuð til matjurta. Gefur af sér í meðal ári 70 töðu og 8 af jarðávexti“. Ekki er til túnakort af Hamarskoti.

Einnig er á Hamarskotshamri ummerki eftir grjótnámu en grjótið úr honum var nýtt í kjallara og undirhleðslur eldri húsa í bænum og við hafnarframkvæmdir. Einn þeirra sem unnu við það að kljúfa grjót úr Hamrinum var Jón Jónsson, faðir Emils Jónssonar fyrrum alþingismanns og ráðherra, og segir í minningargrein um Emil að „Lyftitæki voru engin, en Jón var „þrautseigur við grjótverkið og vann að því myrkranna á milli““.

Hamarskot

Hafnarfjörður 1902.

Hamarskotshamar í Hafnarfirði var friðlýstur árið 1984 sem náttúruvætti og í friðlýsingunni segir að „Varðveita skal jarðmyndanir og lífríki svæðisins í núverandi mynd.
Hverskonar mannvirkjagerð eða jarðrask sem breytt getur útliti eða eðli svæðisins eru óheimil, nema komi til séstakt leyfi [Umhverfisstofnunar]. Þó er bæjarstjórn heimilt, í samræmi við skipulag Hamarssvæðisins og í samráði við [Náttúruvernd Ríkisins], að planta þar trjágróðri, leggja gangstíga og setja upp bekki og annan búnað í þágu útivistar á svæðinu.“
Þær minjar sem er að finna á Hamrinum njóta því verndar samkvæmt friðlýsingunni, en eru þó ekki friðlýstar sjálfar.

Dvergasteinn

Dvergasteinn við Hafnarfjarðarkirkju.

Þrjár þjóðsögur voru skráðar á landi Hamarskots, þær eru draugur, Dvergasteinn við Hafnarfjarðarkirkju og álfasögur við Hamarskotshamar.
Sagan um drauginn hljómar svona: „Fram undir 1910 hafðist við á Öldunum og í börðunum útburður. Var barn borið út í tjarnir neðan Setbergs og færðist upp þangað. Heyrðist oft til útburðarins og var fyrirboði um illviðri af sunnan og suðaustan.“
Kirkjugarður Hafnarfjarðar er nú á því svæði sem nefnist Öldurnar.

Dvergasteinninn við Hafnarfjarðarkirkju fékk að vera í friði þegar kirkjan var reist árið 1914, enda boðaði það mikla ógæfa að skemma hann.
Fjölmargar álfasögur tengjast Hamarskotshamri, einu helsta kennileiti Hafnarfjarðarbæjar. Þar er sögð stærsta álfabyggðin í bænum og innan í Hamrinum á að vera álfahöll með glæstum sölum.

Hamarskot

Hamarskot. Uppdráttur Jóns Víðis 1925-1926 af Hafnarfirði. Hamarskot neðst t.v.

Í örnefnalýsingu Ara Gíslasonar fyrir Hafnarfjörð segir m.a.:
„Þar innar [Vesturshamars] tekur svo við hið forna Hamarkotsland. Nú er allt Hamarkotsland innlimað í kaupstaðinn.
Þá er, eða réttara var, Hamarkotsmöl. Þar upp af austast var Hamarkotshamar, en milli hamranna uppi er stundum nefndur Austurhamar. Allmikið og gott útsýni er af Hamrinum. Neðan hans og inn með honum er undirlendi frá Hamarskoti, og heitir það Brekka, og neðan hennar Undir brekku eða Undirhamarstún. Frá Vesturhamri náði svo mölin alla leið að stærsta vatnsfallinu, er rennur í Hafnarfjörð, sem heitir Hamarkotslækur eða Hafnarfjarðarlækur. Lækur þessi kemur með suðurbrún Garðahrauns. Um það bil syðst í mölinni var lækur, sem hét Góðholulækur. Hann kom úr lítilli uppsprettulind, sem hét Góðhola og var vatnsbólið frá Hamarkoti. Við Hamarkotslæk, þar sem h/f Dvergur er nú, hét Moldarflöt. Yfir hana flæddi stundum, sökum þess, hve lág hún var, og rétt ofar var smáhólmi í læknum, er hét „Á Myllunni“. Þar hafði verið mylla áður fyrr. Sagt var, að þegar flúðir, sem voru í læknum, báru í Setberg, hafi verið rétt innsigling á Hafnarfjörð. Í svonefndu Loftsstaðatúni er steinn fastur við þjóðkirkjuna, sem heitir Dvergasteinn. Stein þennan vill enginn hreyfa, því munu hin huldu verndaröfl steinsins ekki láta óhegnt.“

Hamarskot

Ábúendur í Hamarskoti 1902.

Gísli Sigurðsson skráði örnefni Hamarskots:
„Hamarskot, jörð í Garðahreppi, fyrrum í Álftaneshreppi. Var fyrr meir hjáleiga frá Görðum á Álftanesi en allt frá stofnun kaupstaðar í Hafnarfirði hefur jörðin tilheyrt Hafnarfirði.
Hamarskotsbærinn stóð í Hamarskotstúni vestarlega, rétt ofan til við Hamarskotshól. Túnið liggur í slakka ofan, norðan frá Hamrinum sem gengið hefur undir nöfnunum Hamarskotshamar eða Hafnarfjarðarhamar. Syðsti hluti Hamarsins er nefndur Háhamar. Hamarskotstúngarðar lágu að túninu, að sunnan Suðurtúngarður, og austan Austurtúngarður. Ofan frá bænum lágu Suðurtraðir í Suðurtraðarhlið. Austur frá bænum lágu Austurtraðir í Austurtraðarhlið. Hamarskotsbrunnur lá í slakkanum suðvestur og niður frá bænum og þangað lá Brunngatan. Brunnurinn var þar sem nú er húsið nr. 25 við Brekkugötu [á að vera Selvogsgata 2]. Hamarskotsstígur lá frá bæ norður og niður í bæ. Rétt við Suðurgarðinn rann lækur ofan frá Öldum. Var að jafnaði vatnslítill en óx mjög oft í leysingum. Nefnist hann Aldnalækur hér efra.

Hafnarfjörður

Hamarinn.

Hér sunnan lækjarins lá Selvogsgatan og áfram upp á Öldurnar. Hér fram og upp sá Kvíholtið, þar á austurbrún var Kvíholtsvarðan, markavarða milli Hamarskots og Ófriðarstaða. Niður undan holtin[u] rann Kvíholtslækur. Varla til nema þegar leysingar voru. Þar voru gróin börð, nefndust Fagridalur, þar er nú byggðin Hlíðarbraut. Neðan lækjarins var Austurhamar, mest berar klappir. Þar var klapparbrún nefnd Strýta. Vestan við var slakki, þar um lá Ófriðarstaðastígur um Hamarsbrekkuna. Eftir að Suðurgatan var lögð þar um, nefndist hér Illubrekka. Var hún allbrött og hálka mikil þar á vetrum. Ennfremur gott sleðafæri og óspart notað. Hér vestur af tók við Vesturhamar. Norðan í honum sniðskar sig Alfaravegurinn, var þar þjóðbraut. Vesturhamar var einnig nefndur Sjávarhamar, Skiphamar og Knud Zimsen nefnir hann Flensborgarhamar. Á nyrstu brún hans var mark Hamarskots og Ófriðarstaða. Rétt austan við Ófriðarstaðastíg við Selvogsgötuna var lindin Góðhola. Var það besta vatnsból hér um slóðir.

Hamarskot

Fjárhellir við Hamarskotssel.

Austan við Hamarinn lágu götutroðningar nafnlausir upp á Öldur, þar voru melar og rofabörð suður eftir. Syðstu börðin nefndust Hvíldarbörð. Fram undir 1910 hafðist við á Öldunum og í börðunum útburður. Var barn borið út í tjarnir neðan Setbergs og færðist upp þangað. Heyrðist oft til útburðarins og var fyrirboði um illviðri af sunnan og suðaustan. Hér kom Selvogsgatan og lá inn á Mosahlíð en þar var í eina tíð Mosahlíðarvarða, landamerki milli Hamarskots og Ófriðarstaða. Héðan lá gatan niður á hraunspöngina við Lækjarbotna, Efri-. Vestan af Markaþúfu lá landamerkjalína hér um og upp á og suðaustur eftir Gráhelluhrauni, um Gráhellu upp í Kethellisvörðu á Kethelli eða Hamarskotsseli. Niður undir hrauninu sunnan Lækjarbotna lá Kaldárselsstígur inn með hrauninu. Var þar í hraunbrúninni Hraunréttin, Gamla-. Rétt innar, þar sem nú er Fjárhliðið, var upp á hryggnum Hlíðarþúfur og voru þar mörkin. Þessi hluti hraunsins er nú allur trjáræktargirðing. Spölkorn innar eru Flatirnar, þar var lagður skeiðvöllur í eina tíð. Út á hrauninu er Hraunréttin, Nýja- . Er nú langur vegur inn með hrauninu þar til komið er í Moldarkrika en í Moldarkrikavörðu eru mörkin og liggja svo héðan í Steinhús eða Steinhes á Fremstaholti. En úr Steinhúsi liggur línan um Sléttuhlíð vestanverða og Sléttuhlíðarhorn í Kethellisvörðu.“

Magnús Jónsson

Magnús Jónsson.

Í minningargrein um Magnús Jónsson í Morgunblaðinu 11. febrúar 2000 segir m.a.:
„Magnús Jónsson fæddist í Hafnarfirði 10. júlí 1926. Hann lést á Sjúkrahúsinu Sólvangi 3. febrúar síðastliðinn. Foreldrar hans voru hjónin Jón Helgason, f. 27.6. 1895 í Litlabæ, Vatnsleysustrandarhreppi, d. 30.12. 1986, og Halla Kristín Magnúsdóttir, f. 18.2. 1894 í Merkinesi, Akranesi, d. 16.7. 1985. Heimili þeirra var á Hverfisgötu 21b, Hafnarfirði frá 1922-1983. Auk Magnúsar eignuðust þau hjónin dreng árið 1924, sem lést 2ja daga gamall.
Árið 1959 kvæntist Magnús Dagnýju Pedersen, f. 8.10. 1926 í Resen, Skive Landsogn, Danmörku, og lifir hún mann sinn.
Magnús ólst upp í Hafnarfirði. Að loknu skyldunámi hóf hann störf hjá Raftækjaverksmiðjunni Rafha, lærði bókband og lauk sveinspróf frá Iðnskólanum í Reykjavík 1953. Útskrifaðist frá Kennaraskólanum 1957. Lauk eins árs námskeiði í bókasafnsfræðum í Kaupmannahöfn 1962. Stundaði almenn kennslustörf með hléum til ársins 1980 í Reykjavík, Hafnarfirði, Bessastaðahreppi og á Vatnsleysuströnd. Starfaði á árunum 1962-1967 í bókasafni Hafnarfjarðar. Loks var Magnús minjavörður við Byggðasafn Hafnarfjarðar árin 1980-1995. Auk þess starfaði hann nítján sumur í kirkjugarði Hafnarfjarðar. Magnús starfaði mikið af félagsmálum og bar hæst ártuga störf innan Góðtemplarareglunnar og Kvæðamannafélags Hafnarfjarðar. Magnús var mikill áhugamaður um sögu Hafnarfjarðar og er höfundur bókanna „Bær í byrjun aldar“ og „Hundrað Hafnfirðingar“ I, II og III.
Magnús og Dagný bjuggu allan sinn búskap í Hafnarfirði, lengst af á Skúlaskeiði 6.“

Heimildir:
-Bær í byrjun aldar – Magnús Jónsson, 1967, bls. 23-24.
-https://www.mbl.is/greinasafn/grein/518317/
-Örnefnaskrá fyrir Hamarskot – Gísli Sigurðsson skráði.
-Örnefnalýsing fyrir Hafnarfjörð – Ari Gíslason skráði.
-Fornleifaskrá Hafnarfjarðar III – Suðurbær, 2020, bls. 6-11.

Hamarskot

Hamarskot – tilgáta.

Þórukot

Þórukot var bær á holtinu ofan Litla-Hamars skammt frá Mýrarhúsum og Holti, norðan Ófriðarstaða (Jófríðarstaða). Norðan Þórukots var myndarlegur grjótgarður er afmarkaði umdæmið. Bærinn stóð skammt vestar þar sem [fyrrverandi] leikskóli austan St. Jósepsspítala var [áður en hann var rifinn].

Þórukot

Þórukot (Klapparholt) 1926 og lóð, sem gefin var st. Jósepssystrum.

Þjóðsaga var skráð á landi Þórukots. Tengist hún svonefndri „Þóruklöpp“, sem var innan nefnds túngarðs og var nefnd eftir síðasta ábúanda kotsins.
Sagan segir að hún hafi selt St. Jósefssystrum jörðina undir spítalann með því skilyrði að ekki yrði hróflað við klöppinni sem er í bakgarði spítalans. Þóra mun hafa sagt við nunnurnar að „í klöppinni byggi álfkona sem hafði verið góður nágranni alla tíð“ og hafa nunnurnar virt þessa ósk hennar þar sem mannvirkin voru reist allt í kring um klöppina án þess að hróflað væri við henni.

Önnur þjóðsaga tengist Jófríðarstaðahól, þar skammt sunnar, en hún segir frá manni sem klauf stein á hólnum til þess að nýta í kjallara á húsi sem hann byggði á árunum 1912-14. Þetta mun hann hafa gert þrátt fyrir að hafa heyrt sögur af álfabústaði í hólnum. Eftir þetta elti ógæfa manninn og á dóttir hans að hafa látist skömmu síðar.

Þórukot

Þórukot – uppdráttur settur ofan á loftmynd frá 2022.

Enn sést hluti grjótgarðs Þórukots, sem hlaðinn var á öðrum áratug síðustu aldar. Sumir hafa talið garðinn þann vera a.m.k. frá tímum siðaskipta og þar af leiðandi elstan slíkra í Hafnarfirði.

Garður þessi gæti vel verið sá elsti í Hafnarfirði, þótt ungur sé (gæti ekki verið heillegri), enda hafa bæjarbúar verið iðnir við að endurnýta allt tilfallandi grjót í gegnum tíðina og bæjaryfirvöld hafa á sama tíma verið sérstaklega dugleg við að horfa framhjá öllu því sem gamalt getur talist. Skv. fornleifaskráningu Byggðasafnsins 2020 er garðurinn þessi frá Þórukoti er stóð þarna skammt frá; sagður í fornleifaskráningu vera frá 1900-1950. Gamli túngarður Ófriðarstaða (Jófríðarstaða) skv. túnakorti náði langleiðina þangað niður eftir. Hamarskot var skammt norðaustar. Bærinn Holt var í millum. Holtsgata dregur nafn sitt af bænum. Þarna var landamerkjagarður fyrrum. Sá garður er horfinn undir nýja byggð fyrir löngu.

Þórukot

Þórukot – garður.

Ekki er með öllu hægt að útiloka að einhverjir steinar úr görðum á þessum slóðum, hvort sem þeir hafi verið hlaðnir í veggi um siðaskiptin eða jafnvel umhverfis einstaka kot í upphafi byggðarinnar millum Akurgerðis að austanverðu og Hvaleyrar að vestanverðu, hafi ratað í garðinn þann arna. Þó verður að telja ólíklegt að grjótið hafi verið borið í þá um langan veg. Steinarnir í garðinum eru margir allstórir. Ýtir það undir þau rök að hann hafi verið hlaðinn eftir að viðhlítandi tækjabúnaður hafi verið orðinn til.

Þóruklöpp

Þóruklöpp.

Hafa ber í huga að Jófríðarstaðir voru fyrrum jörð út frá Hvaleyri. Ófriðarstaðir (Jófríðastaðir) eru því mun yngri sbr. https://ferlir.is/sitthvad-um-fjordinn-magnus-mar-larusson/. Ef leita ætti að elstu garðleifunum í „Hafnarfirði“ (hafa ber í huga að bærinn fékk kaupstaðarréttindi 1908) væri nær að leita að eldri minjum á Hvaleyri og nágrenni. Þar hafa golfarar því miður farið offari við að afmá einstakar minjar frá fyrri tíð, líkt og bæjaryfirvöld hafa reyndar gert í gegnum tíðina.
Jón og ÞóraMikilvægt er að gefa fólki kost á að deila um „hluti“ sem þessa, sem í raun skipta engu máli í samhengi hlutanna. Merkilegustu fornleifar byggðalagsins hafa, því miður, síðustu árin, legið óbættar hjá garði.

Í bók Magnúsar Jónssonar, „Bær í byrjun aldar“ segir m.a.: „Hér verður einnig minnst á á önnur hjón sem voru á þessum stað? [Holti] stuttan tíma og máttu þá þröngt sáttir sitja. Það voru hjónin Jón Ólafsson og Þóra Elísabet Þorsteinsdóttir. Þau höfðu gifst 1892 og voru nýflutt til Hafnarfjarðar frá Svalbarða á Álftanesi. Bæði voru þau fædd í því byggðarlagi, hann á Gamla-Hliði 1864 og hún í Haugshúsum 1863?

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – kynning í Fréttablaðinu 31. mars 2023, bls. 4 (kynningarblað).

Þau voru með einkabarn sitt Sigríði, en hana misstu þau 1908. Þessi hjón komu sér upp bæ sem þau vildu nefna Klapparholt, en aðrir létu Holts-nafnið nægja. Sá bær er nú bílgeymsla st. Jósepssystra í Hafnarfirði. Jón Ólafsson dó 1916, en Þóra 1954.“

Vonir standa til að Hafnarfjarðarbær muni leggja sig fram um að varðveita eitthvað af framangreindum minjum er enn sjást, enda hafa bæjaryfirvöld gefið sig sérstaklega út fyrir að vilja „varðveita menningarminjar“ í bænum, sbr. Fréttablaðið 31, mars 2023, bls 4 (kynningarblað).

Heimild:
-Fornleifaskrá Hafnarfjarðar III, Suðurbær 2020, bls. 16 og 27.
-Bær í byrjun aldar, Magnús Jónsson, 1967, bls. 14.
-https://frettabladid.overcastcdn.com/documents/230331.pdf

Þóruklöpp

Þóruklöpp.

Krýsuvík

Í MS-ritgerð Helgu Stefánsdóttur, „Krýsuvík – á móti sólu„, frá Landbúnaðarháskóla Íslands er m.a. fjallað um sögu Krýsuvíkur:

Krýsuvík

Krýsuvík 1887.

„Gjóskulagarannsóknir sýna að Krýsuvík hefur verið í byggð allt frá landnámsöld. Samkvæmt Landnámu var jörðin hluti af landnámi Þóris haustmyrkurs
Vígbjóðssonar. Krýsuvíkurjörðin var snemma talin til stórbýla vegna mikilla landgæða, sjávarfangs og hlunninda, t.d. eggjatekju, trjáreka og bjargfuglatekju í Krýsuvíkurbergi. Um miðja 19. öld var Krýsuvík talin 31 1/3 hundruð að verðleika.

Heimildir eru um allt að 18 hjáleigur og kot í landi Krýsuvíkur, þó voru þau ekki öll í byggð á sama tíma.

Krýsuvík

Krýsuvík um 1900 – Howell.

Lengst af voru í byggð Suður- og Norðurkot, Stóri Nýibær 1 og 2, Litli Nýibær, Vigdísarvellir, Bali og Lækur. Heimabær Krýsuvíkur stóð á allháum hól er rís upp úr sléttlendinu skammt sunnan við Bæjarfell. Þangað var bæjarstæðið flutt um miðja 12. öld í kjölfar Krýsuvíkurelda en hraunið lagði undir sig mikinn hluta af undirlendi heimajarðarinnar.

Í Krýsuvík er fyrst getið um prestskylda alkirkju árið 1203. Krýsuvíkurkirkja átti mikil rekaítök, bæði hval- og trjáreka. Kirkja var reist árið 1857 og var hún endurbyggð og endurvígð árið 1964.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja 1936. Fyrir utan kirkjuna standa þrír menn og einn drengur. Annar frá vinstri er Magnús Ólafsson einsetumaður í Krýsuvík. Kirkjan var afhelguð árið 1929 og þess vegna nýtt sem íbúðarhús þegar myndin var tekin – Ásgeir L. Jónsson.

Árið 2010 brann síðan kirkjan til kaldra kola en um þessar mundir er unnið að endurgerð hennar. Krýsuvík var heil kirkjusókn og eitt mesta höfuðból landsins.

Um aldamótin 1900 bjuggu um 90% landsmanna í dreifbýli en 100 árum seinna bjó samsvarandi hlutfall Íslendinga á þéttbýlisstöðum með 200 íbúum eða fleiri. Í lok 19. aldar hófust miklir flutningar úr dreifbýli til þéttbýlisstaða við innanverðan Faxaflóa og síðan hefur byggð í Reykjavík og nágrenni vaxið hraðar en íbúafjöldi landsins. Krýsuvík fór ekki varhluta af þessari þróun og fækkaði þar mjög í byrjun 20. aldar.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja 1940.

Síðasti bóndinn í Krýsuvík var Magnús Ólafsson (1872-1950). Hann hóf búskap á eyðihjáleigunni Suðurkoti árið 1920 ásamt konu sinni Þóru Þorvarðardóttur (1884-1957). Þau bjuggu í gamla heimabænum í Krýsuvík þar til Þóra flutti til Hafnarfjarðar með börn þeirra svo þau gætu gengið í skóla. Magnús bjó áfram í Krýsuvík í 10 ár en eftir það dvaldi hann þar á sumrin og síðustu sumrin, eftir afhelgun kirkjunnar árið 1929, hafðist hann við í kirkjunni. Hann flutti alfarið burt vegna veikinda árið 1945.
Árið 1937 tók ríkið land Krýsuvíkur og Stóra Nýjabæjar eignarnámi. Árið 1941 var gengið frá kaupum Hafnarfjarðarbæjar á jörðunum Krýsuvík
og Stóra-Nýjabæ. Þetta landsvæði sem er um 43 ferkílómetrar að stærð var innlimað í lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar árið 1946.

Magnús Ólafsson

Magnús Ólafsson í Krýsuvík.

Árið 1945-1960 stóð Hafnarfjarðarbær fyrir búrekstri í Krýsuvík, túnrækt og smíði gróður- og gripahúsa. Nærri Grænavatni var byggð garðyrkjustöð, bústaður fyrir starfsmenn og íbúðarhús fyrir bústjóra kúabúsins. Frá 1949-1952 var íbúðarhúsið setið af bústjóra en frá 1953-1964 hýsti það stjórnendur vinnuskóla drengja sem Hafnarfjarðarbær rak í Krýsuvík. Síðan stóð húsið autt þar til Sveinn Björnsson (1925-1997), yfirlögregluþjónn og listamaður í Hafnarfirði, fékk húsið til afnota sem vinnustofu. Frá andláti hans hefur húsið verið varðveitt í minningu Sveins. Opnuð var sýningaraðstaða í húsinu árið 2000.

Nokkur svæði hafa verið hverfisvernduð vegna náttúruminja, þ.e. ströndin, Selalda, Sveifluháls, Seltún, Gestsstaðavatn, Grænavatn og Augað, Vesturengjar, strönd Kleifarvatns og Austurengjar. Eldborg við Litlahraun, sem er að mestu í Grindavík, er friðlýst sem náttúruvættur.

Þóra Þorvarðardóttir

Þóra Þorvarðardóttir.

Árið 1975 gerðu erlendir sérfræðingar samanburð á 10 stöðum á Íslandi sem líklegir þóttu fyrir staðarval fyrir hugsanlega uppbyggingu ferðaþjónustu. Í niðurstöðum var tekið sérstaklega fram að í Krýsuvík væri stórkostleg náttúra og staðhættir til uppbyggingar á fjölþættri ferðaþjónustu.
Krýsuvíkurskóli var reistur um miðjan áttunda áratuginn til að sinna unglingum sem þyrftu sérúrræði en ekkert varð af þeirri starfsemi. Húsið stóð autt til 1986 þegar Krýsuvíkursamtökin fengu það til afnota. Þar er rekið meðferðarheimili fyrir fíkniefnaneytendur.

Árið 1935 var Suðurstrandavegur lagður um Krýsuvík og árið 1945 var lagður vegur með Kleifarvatni. Árið 2012 var Suðurstrandarvegur endurgerður og hefur hann bætt mjög samgöngur á svæðinu (Aðalskipulag Hafnarfjarðar 2013-2025, 2014).

Krýsuvík

Krýsuvík – Suðurkot; tilgáta.

Árið 2016 samþykkti Hafnarfjarðarbær umsókn Gróðurs fyrir fólk í landnámi Ingólfs um stofnun vistvangs í Krýsuvík. Vistvangurinn tók til starfa sumarið 2016 þegar hafin var uppgræðsla á örfoka melum og gróðursetning trjáa. Svæðið er um 300 ha.“

Heimild:
– MS–ritgerð; Krýsuvík – á móti sólu, Helga Stefánsdóttir, Landbúnaðarháskóli Íslands okt. 2018.

Krýsuvík

Krýsuvík – uppdráttur ÓSÁ.

Krýsuvík

Í  Alþýðublaðinu 1963 mátt m.a. lesa eftirfarandi um Vinnuskólann í Krýsuvík:

Krýsuvík

„Starfsmaður“ Vinnuskólans við vinnu í gróðurhúsi.

„Barnaverndarnefnd Hafnarfjarðar rekur á vegum Hafnarfjarðarbæjar Vinnuskóla í Krýsuvík og hefur gert það um 12 ára skeið. Alþýðublaðið skrapp upp í Krýsuvík í gær og heimsótti þar 55 drengi, sem eru þar á vinnuskólanum.
Vinnuskólinn í Krýsuvík byrjaði að þessu sinni hinn 18. júní síðastliðinn, en það er nokkru seinna en venja hefur verið. Ýmsar framkvæmdir og lagfæringar á staðnum ollu þessari töf.
Í sumar munu dveljast þarna tveir hópar drengja, hvor hópur í 25 daga. í fyrri hópnum, sem fór í vinnuskólann hinn 18. júní voru 55 röskir drengir á aldrinum 9 til 12 ára. Nú er þeirra tími á skólanum að verða útrunninn og fer þá annar álíka stór hópur upp í Krýsuvík til vinnu og leikja.

Krýsuvík

Starfsfólk Vinnuskólas í Krýsuvík. Rúnar er lengst til vinstri og Sævar lengst til hægri. Fróðlegt væri að fá nöfnin á annars myndarlegt starfsliðið.

Forstöðumaður vinnuskólans í Krýsuvík í sumar er Rúnar Brynjólfsson kennari og skátaforingi, en undanfarin fjögur ár hefur Haukur Helgason, skólastjóri, annast forstöðu skólans. Rúnar var starfsmaður skólans í fyrrasumar og kynntist þá háttum og starfsreglum hans, og taldi hann það hafa orðið sér til ómetanlegs gagns. Sævar Örn Jónsson heitir aðstoðarmaður Rúnars og skipuleggja þeir hvern dag og annast stjórn á drengjunum við hin daglegu störf. Sigurrós Skarphéðinsdóttir, kennari, er ráðskona skólans og hefur þrjár stúlkur sér til aðstoðar.

Stóriskógarhvammur

Piltar úr Vinnuskólanum í Krýsuvík í Stóraskógarhvammi ásamt Hauki Helgasyni.

Verkefni drengjanna eru hin margvíslegustu svo sem garða — og gróðurhúsavinna, trjárækt, vegavinna, ýmis fegrun og snyrting á umhverfinu og margt fleira, auk þess sem þeir hirða herbergi sín sjálfir, hjálpa til í eldhúsi og aðstoða við fleiri innanhússstörf. Vinnuskólinn hefur gróðursett yfir 100 þúsund trjáplöntur í Undirhliðum undanfarin ár.
KrýsuvíkDrengjunum er skipt í 10 flokka og er einn þeirra flokksstjóri fyrir hverjum flokki. —
Svo er verkefnum skipt á miili flokkanna. Vinnutíminn er um 4 klukkustundir á dag, og sagði Rúnar að drengirnir ynnu yfirleitt vel þennan tíma, meðan þeir voru að verki. Og kaup hafa drengirnir fyrir vinnu sína. Við, hin fullorðnu, myndum sennilega ekki vera ánægð með það fyrir okkur, en drengirnir eru ánægðir með sín daglaun, sem eru allt frá tveimur krónum og upp í 4.50 krónur. Upphæð launa fer ekki eftir aldri, heldur dugnaði.

Krýsuvík

Drengir í Krýsuvík við sundlaugagerð sunnan Bleikhóls.

Herbergin, sem drengirnir búa í eru fimm og er keppni milli herbergjanna, hvaða herbergi líti bezt út. Á hverju kvöldi ganga Rúnar og Sævar um herbergin og gefa fyrir, hvernig gengið hefur verið um það um daginn. Hæst eru gefin 10 stig. Þegar herbergið hefur náð samtals 100 stigum fær það verðlaunaskjal úr skinni, sem hengt er upp á einn vegginn í herberginu.
Seinasta kvöldið, sem hver hópur dvelst á skólanum, er athugað, hvaða herbergi hafi hlotið flest stig fyrir umgengnina allan tímann. Það herbergið, sem hlýtur hæstu stigatölu fær stóra og myndarlega rjómatertu í verðlaun og skipta íbúar herbergisins henni milli sín. Í gærkveldi, þegar úrslit voru birt í herbergjakeppninni, vildi svo til, að öll herbergin voru jöfn að stigum Þetta þýddi hvorki meira né minna en það, að fimm glæsilegar rjómatertur voru veittar í verðlaun og 55 drengir ljómandi af ánægju tóku hraustlega til matar síns.

Krýsuvík

Sundlaugin undir Bleikhól.

Þegar hver hópur kveður Vinnuskólann í Krýsuvík er skólanum slitið við hátíðlega athöfn og hver drengur fær í hendur einkunnabók frá skólanum, þar sem gefin er umsögn um vinnu, reglusemi, hreinlæti drengsins og framkomu hans við félaga sína. Í einkunnum eru fjórir möguleikar, prýðilegt, ágætt, gott og sæmilegt.
Einhver spyr kannski: Til hvers er þessi vinnuskóli? —
Svarið við þessu er skráð oftan á einkunnarbækur Vinnuskólans í Krýsuvík en þar stendur: „Vinnuskólinn vill leitast við að efla þroska nemenda sinna bæði í leik og starfi, kenna þeim gildi vinnunnar, vísa þeim leið til sjálfsbjargar og um leið efla félagsþroska þeirra”.

Krýsuvík

Krýsuvík – starfsmannahúsið. Í því dvöldu þátttakendur Vinnuskólans.

Að lokum skulum við athuga hvernig hver dagur er í stórum dráttum skipulagður í Vinnuskólanum í Krýsuvík. Fótaferð hefst klukkan 8 að morgni og morgunverður er snæddur klukkan 9. Klukkan 9.15 er fáninn dreginu að húni og síðan er unnið til hádegis. Þá er matur og hvíld. Klukkan 13.30 er aftur tekið til við vinnuna og unnið til klukkan 15.

Krýsuvík

Vinnan í gróðurhúsunum.

Svo er „kaffi” klukkan 15.30 og síðan leikir, íþróttir, gönguferðir og fleira. Kvöldverður er klukkan 19. Eftir kvöldmat er fáninn dreginn niður. Annað hvert kvöld er kvikmyndasýning, en hitt kvöldið fara fram margskonar íþróttir og keppnir. Klukkan 21.30 fá drengirnir „kvöldkaffið” sitt. Háttatími er klukkan 22. Þá er gengið í öll herbergin, umsjónarmennirnir fara með faðir vorið með drengjunum og bjóða góða nótt.
Drengirnir hverfa inn í draumalöndin, en framundan bíður þeirra heillandi og skemmtilegur dagur.“

Heimild:
-Alþýðublaðið 44. árg., laugardagur 13. júlí 1963, bls. 5.
-Alþýðublað Hafnarfjarðar 16. maí 1962, bls. 5.

Krýsuvík

Texti í Alþýðublaði Hafnarfjarðar 16. maí 1962, bls. 5, um Vinnuskólann.

Krýsuvík

Í Alþýðublaði Hafnarfjarðar árið 1949 mátti lesa eftirfarandi um framkvæmdir bæjarins í Krýsuvík:

Krýsuvíkurvegur

Krýsuvíkurvegurinn 1961 (yfir Vatnsskarð).

„Krýsuvíkin á að verða það haldreipi, sem Bæjarútgerðin gat ekki orðið fyrir 10—15 árum. Þegar Alþýðuflokkurinn á Alþingi 1935, tók að beita sér fyrir lagningu Suðurlandsbrautar um Krýsuvík til þess að fá snjóléttan vetrarveg milli Árnessýslu og Reykjavíkur, opnuðust möguleikar fyrir Hafnarfjörð, að færa sér í nyt auðsuppsprettur Krýsuvíkur.
Í Krýsuvík mun hafa verið byggð frá landnámstíð og allt fram á okkar daga. Samkvæmt manntali 1855 voru þá í Krýsuvíkursókn 12 býli með 72 manns, er þar höfðu sitt framfæri. Síðari hluta 19. aldar fækkaði svo þessum býlum ört, og byggð mun hafa lagst þar alveg af um 1935.
Oft mun hafa verið vel búið í Krýsuvík, enda sauðland gott og ræktunarmöguleikar miklir. Hins vegar munu erfiðar samgöngur, eða réttara sagt samgönguleysi, hafa valdið mestu um það, að byggðin lagðist niður. Með tilkomu hins nýja vegar var aftur þessari hindrun rutt úr vegi. En allir muna hvernig íhaldið snerist við þeirri vegarbót. Um fáa vegi á Íslandi mun hafa verið rifist meira.

Kleifarvatn

Kleifarvatn – vegurinn undir Hellunni.

Morgunblaðið eyddi fjölda dálka rúmi, viku eftir viku, og mánuð eftir mánuð til að reyna að færa líkur að því að þessi vegagerð væri vitleysa. Og jafnvel eftir að vegagerðinni var að mestu lokið, s.l. vetur, þegar vegurinn bjargaði mjólkurflutningunum um tveggja til þriggja mánaða skeið, barði blaðið enn hausnum við steininn og fullyrti að vegurinn væri til einskis gagns. — Þetta er nú íhald, sem segir sex. Látum vera að það berjist á móti nýmælum, það er mál útaf fyrir sig, en að neita staðreyndum, það er erfiðara, og þó harkaði Morgunblaðið af sér að gera það líka.
Hafnfirðingar nutu góðs af vegarlagningu þessari á margan hátt. Í fyrsta lagi nutu þeir góðs af því, eins og Reykjavík, að hægt var að halda sambandi þessu opnu, þegar allir aðrir vegir austur voru lokaðir. Í öðru lagi nutu þeir, á erfiðum tíma, mikillar atvinnu við lagningu vegarins. Í þriðja lagi opnaði vegurinn þeim leiðina til Krýsuvíkur.

Krýsuvík

Krýsuvík – starfsmannahúsið.

Næsta sporið var að eignast landið. Emil Jónsson bar fram á Alþingi 1935 frumvarp um eignarnám á þessu landi öllu, sem náði samþykki, þó ekki eins og upphaflega var til ætlast, heldur var það nokkuð rýrt í meðferð þingsins, en Hafnarfjarðarbær eignaðist þó allt ræktanlegt land milli Sveifluháls og Geitarhlíðar, og milli Kleifarvatns og sjávar, sem er geysilegt landflæmi, fyrir lítið verð eða innan við 50 þús. kr. með rétti til að nytja allan jarðhita í landi jarðarinnar. Það má óhætt fullyrða, að þessi kaup, á jörð og hitaréttindum, eru einhver þau hagkvæmustu, sem Hafnarfjarðarbær hefir nokkurntíma gert, miðað við allar aðstæður og miðað t.d. við verðið á jarðhitaréttindum þeim, sem Reykjavíkurbær hefir keypt í Mosfellssveit, og mikið lán að þessu skyldi vera lokið fyrir verðhækkun ófriðaráranna.

Krýsuvík

Krýsuvík – bústjórahúsið.

Um leið og landið var keypt, var einnig frá því gengið, að það yrði innlimað í lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar, svo að útsvör manna sem í Krýsuvík eiga heima, renna nú til Hafnarfjarðarbæjar, en ekki til Grindavíkurhrepps, en landið tilheyrði áður þeim hreppi. —
Sömuleiðis er með þessu tryggt að öll starfsemi bæjarins á þessu landi nú og í framtíðinni, verður ekki útsvarsskyld til annarra.

Nú leið og beið, því ekki var hægt að hafast að, fyrr en vegurinn var fullgerður suður fyrir Kleifarvatn, en þá hófust líka þegar framkvæmdir í allstórum stíl. Árið 1945 og ’46 var allt landið girt. Um sama leyti var hafist handa um undirbúning gróðurhúsabygginga og hús byggingar fyrir starfsfólk. Þessu verki var lokið um síðastliðin áramót eða uppúr þeim, og fyrstu gróðurhúsin voru tekin til notkunar í marzmánuði síðastliðnum.

Krýsuvík

Krýsuvík.

Eru gróðurhús þessi um 600 fermetrar að flatarmáli. Í sumar hefir svo verið unnið að því að stækka þau, bæta 1000 fermetrum við. Undirstöður og veggir, fyrir þessar viðbótarbyggingar, er nú fullsteypt. Járnsmíðin á að vera í fullum gangi, og gler og annað efni hefir verið fengið til byggingarinnar. íbúðarhús gróðurstöðvarinnar er stórt og vandað. Þar er, á aðalhæð, íbúð fyrir garðyrkjustj. og aðstoðarmann hans, tvær íbúðir Á neðri hæð er 1 íbúð og nokkur íbúðarherbergi að auki. Á þar með að vera séð fyrir húsnæði fyrir garðyrkjustöðina fyrst um sinn.

Hitaveita, vatnsveita og vegir, hefir einnig verið gert í sambandi við stöðina. Þessar framkvæmdir allar í sambandi við garðyrkjustöðina munu nú kosta samtals um 1,4 milj. kr. — Eins og áður er getið tók garðyrkjustöðin til starfa í marz s.l. og hefir því í ár starfað í 8—9 mán. og aðeins með 600 fermetra hús.

Krýsuvík

Krýsuvík 1962- fjósið (HH).

Reksturinn hefir gengið vel, þegar tekið er til greina, að hér er aðeins um byrjun að ræða, í smáum stíl, og ekki allt árið. Afurðir munu þegar vera seldar fyrir 60—70 þús. kr.
Á næsta ári verður væntanlega hægt að taka til afnota viðbótarbyggingarnar og þrefaldast þá nálega gólfflötur gróðurhúsanna.
Garðyrkja á jarðhitasvæðum er talinn hinn arðvænlegasti rekstur hér á landi og er ekki vafi á að hún muni verða einn af hyrningarsteinunum undir búrekstrinum í Krýsuvík. Ekki má telja ólíklegt að innan fárra ára geti garðyrkjubúið selt afurðir fyrir um 300—400 þús. kr. á ári miðað við svipað verðlag og nú er.
Framkvæmdastjóri garðyrkjubúsins er Óskar Sveinsson. Hefir hann sagt fyrir um gerð gróðurhúsanna og stjórnað verkinu frá upphafi með áhuga og dugnaði.

Krýsuvík

Krýsuvik – gróðurhúsin.

Ráðgert er að stofna til búreksturs til mjólkurframleiðslu í Krýsuvík með ca. 100 mjólkandi kúm, til að byrja með. Síðar verði kúnum fjölgað fljótlega upp í 300, og meira síðar. Með 300 kúm í Krýsuvík, og þeirri mjólkurframleiðslu, sem nú er í bænum og næsta nágrenni hans má gera ráð fyrir að hægt verði að fullnægja mjólkurþörf bæjarins fyrst um sinn. Væri með því stigið mikið heillaspor fyrir bæjarbúa, að geta ávalt fengið nýja mjólk og góða, í stað þeirrar, sem nú er flutt hingað um langan veg og vægast sagt er misjöfn að gæðum.

Krýsuvík

Borað á hlaðinu í Krýsuvík um 1950.

Framkvæmdir þessar hófust árið 1946. Jarðræktarframkvæmdirnar hafa verið fólgnar í skurðgrefti til að þurka landið. Gerðir hafa verið bæði stórir opnir skurðir og lokræsi. Land hefir einnig verið brotið til ræktunar, svo tugum hektara skiptir. Vegir hafa verið gerðir. Vatnsveita lögð. Tveir votheysturnar byggðir. Fjós er í byggingu og sömuleiðis íbúðarhús fyrir bústjóra.
Keyptar hafa verið vélar til jarðræktar, flutninga o.fl. Segja má að allt þetta sé komið svo vel á veg, að sá dagur sé ekki langt undan að rekstur búsins geti hafist. Það sem enn vantar fyrst og fremst, er íbúðarhús fyrir starfsfólk, að fullgera fjós og bústjórahús og að kaupa gripi.

Krýsuvík

Krýsuvík – fjósið 2022.

Bústjóri var ráðinn fyrir þrem ár um Jens Hólmgeirsson, og hefir hann undirbúið framkvæmdir og stjórnað þeim. Hann hefir lagt í það mikið verk að öllu verði sem haganlegast fyrir komið.

Krýsuvík

Krýsuvík – leikmynd True Detective í fjósinu 2023.

Auk staðgóðrar þekkingar og mikillar reynslu frá bústjóraárum sínum á Ísafirði, hefir hann gjörkynnt sér allar upplýsingar sem fram hafa komið hin síðustu ár á þessu sviði, — og þær eru margar, — og í samráði við fróðustu menn valið þær, það sem ætla má að geti orðið Krýsuvíkurbúinu að mestu gagni. Er því ekki vafi á að þegar það tekur til starfa verður það í fremstu röð hvað fyrirkomulag og tækni alla snertir.

Krýsuvík

Krýsuvík 2022.

Kostnaður við framkvæmdir allar snertandi kúabúið, mun nú vera orðinn um 1 millj. kr., ræktunarkostnaður, bvggingarkostnaður og vélakaup, en þar af hafa vélar verið keyptar fyrir um 300 þús. kr. Bæjarútgerðin hefir greitt allan þennan kostnað, en hún lagði fram eins og kunnugt er 1,25 millj. kr. til kúabússtofnunarinnar.“

Heimild:
-Alþýðublaðið, VIII. árg. Hafnarfirði 10. des. 1949, 8. tölublað, bls. 1-3.

Krýsuvík

Fjósið og turnarnir í Krýsuvík 2023. Bústjóra- og Starfsmannahúsið ofar. Hveradalur t.h.

Krýsuvík

Í Morgunblaðinu 1953 er m.a. fjallað um votheysturnana tvo í Krýsuvík:

Krýsuvík„Til þess að standa nokkuð gegn því misræmi, sem orðið var á skráðu gengi erlendrar myntar og verðlaginu hér á landi, var talið nauðsynlegt að taka upp stranga skömmtun á hverjum hlut. Gjaldeyrisskorturinn var ekki orðinn viðráðanlegur og eftirspurnin eftir gjaldeyri og erlendum vörum var gífurlegur. Það, sem þurfti að taka upp skömmtun á m.a. voru vörur til bygginga og var það fjárhagsráð, sem hafði öll völd um það, hvort menn fengu að byggja sér íbúð eða ekki, sem og aðra fjárfestingu. Virtist þar oft ráða meiru hverjir fengu slík fjárfestingarleyfi, dugnaður manna við að tala máli sínu, heldur en þörf manna fyrir að fá leyfin.
Má segja að það sé e.t.v. ekki óeðlilegt, þar sem útilokað er fyrir menn sem sitja inni á skrifstofu að gera sér fulla grein fyrir hlutunum og kanna hvað rétt er hverju sinni.

Krýsuvík

Fjósið í Krýsuvík 2023.

Hafnfirðingar þekkja það mæta vel, þegar óverðugir hafa hlotið hinn dýrmæta gjaldeyri til fjárfestingar. Er þar glöggt dæmi sú geysimikla fjárfesting, sem orðin er í Krýsuvík vegna fyrirhugaðs búreksturs þar. Öll sú fjárfesting hefur ekki orðið til annars en byrða og armæðu fyrir bæjarbúa, og svo vegna þess, að Hafnarfjarðarbær hefur getað beitt aðstöðu sinni til að fá slík leyfi, hefur og dugandi mönnum verið neitað, sem nú hefðu verið farnir að ávaxta sitt pund til hagsældar fyrir sig og þjóðarbúið.

Krýsuvík

Krýsuvík – fjósið (2022) notað fyrir kvikmyndatöku.

Eins og fólk, sem fer um Krýsuvík, hefur séð, þá standa þar votheysturnar miklir, að vísu ekki nema steinhólkarnir, því að lengra er ekki smíðinni komið. Þeir eru tveir að tölu og voru þeir steyptir upp á árinu 1949, svona rétt fyrir bæjarstjórnarkosningarnar. Á meðfylgjandi mynd sjást turnarnir og fjósbygging í smíðum, en síðan hefur hún verið gerð fokheld. Í reikningum bæjarsjóðs Hafnarfjarðar sést að turnar þessir kosta ekki undir 55 þús. kr. og er það að vísu lítið fé af öllu þvi, sem búið er að eyða í Krýsuvíkurframkvæmdirnar, en þó verða þessar kr. til að þyngja baggana á bæjarbúum.

Krýsuvík

Fjósið og turnarnir í Krýsuvík 2023.

Þegar Hafnarfjarðarbær fékk leyfi fyrir votheysturnunum sínum, þá var frá því sagt í fréttum, að veitt hefðu verið fjárfestingarleyfi til að byggja 10 votheysturna á öllu landinu og af þeim fóru tvö leyfi í Krýsuvík, þar sem hvorki var búið að rækta gras til að láta í þá, né heldur var nokkur skepna til að fóðra og er hvorugt fyrir hendi ennþá, nálega fjórum árum síðar. Fer ekki hjá því, að margur hugsi sem svo, að það hefði verið nær að láta eitthvað af þeim á annað hundrað bændum, sem sóttu um fjárfestingarleyfi til slíkra bygginga, en var synjað, hafa þessi tvö leyfi, því þeir munu bæði hafa haft grasið til að láta í turnana og skepnur til að fóðra á því.“ – P
Nú, árið 2023, er fjósið í Krýsuvík að falli komið; norðurveggurinn fallinn út og þakið að mestu. Ef ekkert verður að gert munu leifar fjóssins fjúka út um nágrennið með tilheyrandi sóðaskap.

Krýsuvík

Krýsuvík – hluta af teikningu af fjósinu. Hér er gert ráð fyrir einum votheysturni.

Heimild:
-Morgunblaðið, þriðjudagur 31. marz 1953, bls. 6.

Draupnir

Halldór G. Ólafsson, kennari, skrifaði um „Flensborgarskólann í Hafnarfirði“ í tímaritið Hvöt 1958. Þar lýsti hann bæði gamla skólahúsnæðinu sem og því nýja:

Ólafur Þ. Kristjánsson

„Síðastliðið vor var haldið hátíðlegt 75 ára afmæli Flensborgarskólans í Hafnarfirði.
Þann 10. ágúst 1878 gáfu prófastshjónin í Görðum á Álftanesi, síra Þórarinn Böðvarsson og frú Þórunn Jónsdóttir, húseignina Flensborg í Hafnarfirði, ásamt heimajörðinni Hvaleyri, sunnan bæjarins, til skólastofnunar til minningar um Böðvarson sinn, sem dáið hafði 1869, er hann var í 3. bekk lærða skólans í Reykjavík.

Síra Þórarinn festi kaup á húseigninni Flensborg um sumarið 1876, en heimajörðina Hvaleyri átti hann þegar. Er það sýnt, að þá þegar hafa þau hjónin verið búin að ásetja sér að stofna skóla í Flensborg til minningar um son sinn. Húseignin dró nafn sitt af borginni Flensborg á Suður-Jótlandi, en kaupmenn frá borg þeirri stofnuðu þar verzlun og ráku um all-langan aldur. Flensborg í Hafnarfirði varð verzlunarstaður á seinustu áratugum 18. aldar, eða á tímabilinu 1778—1801.

Þórarinn Böðvarsson

Þórarinn Böðvarsson.

Líklegast er, að Flensborg hafi ekki orðið til fyrr en eftir 1787, er verzlunin var gefin frjáls öllum þegnum Danakonungs, eða á síðasta áratug 18. aldar. Talið er, að Flensborgarhúsið, sem síðar varð skólahús og brann vorið 1930, hafi verið reist um 1816—1817. Um þetta er nú ekki frekara kunnugt, og má þetta vel rétt vera, þótt hitt virðist sennilegra, að húsið sé eldra og sé hið sama, sem reist hefur verið, þegar verzlun hófst þar fyrst. Verzlunin í Flensborg var lögð niður árið 1875.

Í gjafabréfi prófastshjónanna er það tekið fram og ítrekað í stofnunarskránni, sem gefin var út af stiftsyfirvöldunum 1878, að skóli þessi eigi fyrst og fremst að vera barnaskóli fyrir Garðaprestakall á Álftanesi, þ. e. fyrir hinn forna Álftaneshrepp, sem nokkru síðar var skipt í tvo hreppa, Bessastaðahrepp og Garðahrepp með Hafnarfirði.

Flensborg

Klennslustofa 1896 -Albert Anker.

Á þeim 5 árum, sem þessi eldri Flensborgarskóli starfaði, 1877—1882, fór þar engin framhaldskennsla fram, nema lítils háttar síðasta árið, en barnakennsla fór þar fram alla veturna. Um árið 1880 tók hreppsnefndin í Bessastaðahreppi sér fyrir hendur að koma upp sérstökum barnaskóla þar í hreppnum. Ákváðu nú prófastshjónin að breyta hinu fyrra gjafabréfi í þá átt, að stofna af gjöf sinni alþýðu- og gagnfræðaskóla í Flensborg. Gerðu þau bréf þar um árið 1882. Þar með var Flensborgarskólinn stofnaður í þeirri mynd, sem hann hefur síðan haft, með nokkrum breytingum að vísu, og tók hann til starfa haustið 1882.

FlensborgUm tíma var sýsluskrifstofan í landsuðurhorni hússins, en skólinn í austurendanum. Þegar gagnfræðaskólinn var stofnaður 1882, fluttist skólastjórinn, Jón Þórarinsson, sonur prófastshjónanna, í húsið og bjó uppi á lofti. Árið 1887 var sýslumannsíbúðinni í vesturhluta hússins breytt í heimavist, er sýslumaður fluttist í eigið hús. Síðar var svo sérstakt skólahús byggt árið 1906, skammt fyrir austan Flensborgarhúsið, og kennslustofurnar síðan fluttar þangað. Fór kennslan þar fram síðan, og var kennt þar allt til ársins 1937, er nýtt skólahús tók til starfa uppi á Hamrinum í Hafnarfirði. Síðar var gamla skólahúsið rifið. Er sérstakt skólahús var byggt árið 1906, var allt gamla húsið tekið til afnota fyrir heimavistina, fyrir utan íbúð skólastjóra uppi á lofti. Síðar bjó þar Ögmundur Sigurðsson, skólastjóri, sem tók við af Jóni 1908. Um sumarið 1930 kviknaði svo í húsinu, og var það rifið um haustið vegna mikilla skemmda. Lagðist þá heimavist við skólann niður að mestu. Þó mun Lárus Bjarnason, er síðar varð skólastjóri, hafa haft nokkra nemendur í heimavist að Óseyri í nokkur ár, en í því húsi, skammt frá skólanum, bjó skólastjóri skólans, er skólastjórahúsið var brunnið.
FlensborgarskóliBarnaskóli var starfræktur áfram í skólahúsinu, er gagnfræðaskólinn tók til starfa. Nutu þar kennslu börn úr Garðahreppi og Hafnarfirði allt til ársins 1895.
Árið 1892 var stofnaður kennaraskóli í Flensborg, þannig að um þriggja ára skeið voru þar samtímis 3 skólar, og mun þá oft hafa verið nokkuð lítið olnbogarýmið.
Fljótt var litið á gagnfræðaskólann í Flensborg sem landsskóla, en ekki sem héraðsskóla, og hafa nemendur víðs vegar af landinu jafnan sótt hann, þótt þeir séu tiltölulega miklu færri núna, enda skólar risnir upp um land allt. Kennaradeild sú, sem stofnuð var við skólann 1892, og starfaði þar síðan, þangað til Kennaraskólinn var stofnaður í Reykjavík 1908, er hinn fyrsti kennaraskóli þessa lands. Þótt barnaskólinn væri lagður þar niður árið 1895, starfaði æfingabekkur í sambandi við kennaraskólann þar fram yfir aldamótin.
Er Kennaraskóli Íslands tók til starfa árið 1938, varð einn af kennurum Flensborgarskólans, síra Magnús Helgason, skólastjóri hans, en Jón Þórarinsson, skólastjóri Flensborgarskólans, var valinn í nýtt embætti fræðslumálastjóra.
Hafnarfjörður 1954Á næstu árum var kennslan enn aukin, svo að nærri svaraði til þess, sem numið var í gagnfræðadeild menntaskólans, enda tóku Flensborgarar á þeim árum fyrst að ganga undir próf upp í 4. bekk menntaskólans.
Er Ögmundur Sigurðsson lét af skólastjórastörfum 1930, var síra Sveinbjörn Högnason settur skólastjóri og gegndi þeirri stöðu í eitt ár. Síðar varð Lárus Bjarnason skólastjóri, svo Benedikt Tómasson, en núverandi skólastjóri er Ólafur Þ. Kristjánsson.
Með lögum frá 1930 um gagnfræðaskóla hættir Flensborgarskólinn að vera sjálfseignarskóli, eins og hann var frá upphafi, heldur er hann þar eftir að öllu leyti rekinn á kostnað bæjar og ríkis.

Flensborg

Flensborgarhöfnin 1909.

Er skólinn tók til starfa í hinum nýju húsakynnum á Hamrinum í Hafnarfirði haustið 1937, var þar heimavist. Síðar varð að leggja hana niður vegna þrengsla og breyta herbergjum nemenda þar í skólastofur með því að brjóta niður skilrúm og veggi. Með hinum nýju fræðslulögum, er nemendur taka að sækja skólann ári yngri en áður og þeim er gert að skyldu að stunda þar nám í 2 ár, eykst nemendafjöldinn mjög og hefur nú aukizt ár frá ári, enda er skólinn nú fjögurra ára skóli, sem útskrifar gagnfræðinga eftir fjögurra ára nám, Nú á síðasta hausti fékk skólinn að lokum allt húsnæðið til kennslu, en Bókasafn Hafnarfjarðar flutti úr húsinu, og var húsnæði þess breytt í kennslustofur.

Flensborg

Flensborgarskóli á Hamrinum í smíðum.

Jafnframt flutti Iðnskóli Hafnarfjarðar úr skólahúsinu, Samt eru mikil þrengsli í skólanum, en í honum eru í vetur um 360 nemendur. Er nú mikið rætt um viðbyggingu við skólann, en landrými er nóg. Allar líkur eru á því, að byrja verði að tvísetja í skólann strax næsta vetur. Í skólanum er nú stór landsprófsbekkur með næstum 30 nemendum. Þar að auki eru tveir aðrir 3. bekkir, einn bóknámsbekkur og einn verknámsbekkur, 4. bekkir eru tveir, einn bóknámsbekkur og einn verknámsbekkur, samtals 38 nemendur, sem ganga munu undir gagnfræðapróf í vor. 2. bekkir eru svo fjórir, tveir bóknámsbekkir og tveir verknámsbekkir, 1. bekkir eru nú samtals fimm að tölu.
Þrengslin í skólanum eru öllu félagslífi fjötur um fót.

Hamarskot

Hamarskot á Hamrinum ofan við núverandi Flensborgarskóla – minjar, sem vert hefði verið að varðveita.

Hér eru að sjálfsögðu haldnar dansæfingar. Halda 1. bekkingar sérstakar dansæfingar, en hinir þrír árgangarnir hafa sameiginlegar dansæfingar. Félagslífið tekur nokkrum breytingum ár frá ári. Sum árin hafa verið gefin út skólablöð, en önnur ár hefur slíkt legið niðri. Skólablað kom hér út síðast í fyrravetur. Árshátíð er haldin síðari hluta vetrar. Nefnist hún „Kennaraskemmtunin“. Er þá kennurum og eiginkonum þeirra boðið til kaffidrykkju í skólanum. Tóku nemendur áður þátt í henni, en vegna þrengsla hefur orðið að takmarka veitingarnar við kennarana eina.

Flensborgarskóli

Viðbygging við gamla Flensborgarskólann.

Æfð eru leikrit og önnur skemmtiatriði undir skemmtun þessa. Síðan er dansað. Málfundafélag hefur oft verið starfandi í skólanum, en þessa stundina er það lítt sem ekkert starfandi. Árlega keppa bekkir innbyrðis um sundbikarinn. Hófst sú keppni síðastliðinn vetur. Sum árin fara fram keppnir milli bekkja í knattspyrnu eða handknattleik. Starfandi er hér bindindisfélag með mörgum meðlimum. Einnig iðka nemendur margir skák og halda stundum skákkeppnir í skólanum. Stundum fara bekkir í skíðaferðir, ýmist í nágrenni bæjarins eða upp á Hellisheiði, einnig er stundum farið í gönguferðir í nágrennið. Á vorin fara gagnfræðingar í langa ferð, einnig fara þeir, er landspróf taka, í aðra ferð. Njóta þeir þá góðs af ágóða þeim, er af dansæfingum verður.
Nemendur sækja einnig leikhús nokkrum sinnum á vetri í fylgd með kennurum, og virðist áhugi fyrir leiklist vera mikill og almennur meðal nemenda.

Fyrri hluti greinarinnar, þ. e. um fyrstu ár skólans, er að nokkru leyti úrdráttur úr „Minningariti Flensborgarskólans 1882—1932,“ útg. 1932, eftir Guðna Jónsson.“

Flensborg

Grunnurinn af gamla Flensborgarskólanum er enn á sínum stað – líkt og sjá má á meðf. loftmynd.

Í ár, 2023, eru liðin 145 ár frá stofnun Flensborgarskólans. Gamla skólahúsið brann 1930, eins og að framan er greint. Nú, 93 árum síðar, er lóð gamla skólans enn ófrátekin (líkt og sjá má á meðfylgjandi loftmynd). Selfyssingum hefur tekist að vekja upp gömul hús, jafnvel horfin, í miðju bæjarins með nýjum byggingaraðferðum svo eftir hefur verið tekið. Á meðal endurreistra bygginga þar má m.a. sjá tvær slíkar frá Hafnarfirði fyrrum, nú horfnar, þ.e. Hótel Björninn og „Valmaþakshúsið“. Hvers vegna ættu Hafnfirðingar ekki nýta lóðina millum Flensborgartorgs og Flensborgarhafnar og úthluta henni til byggingaverktaka með það fyrir augum að „endurbyggja“ gamla Flensborgarskólann í tilefni dagsins? Slík bygging gæti falið í sér margvíslega möguleika í námunda við smábátahöfnina, s.s. safn að hluta, veitingastaður, íbúðir og/eða gistihús. Staðsetningin er a.m.k. góð, auk þess sem húsið myndi óhjákvæmilega undirstrika hina gömlu bæjarmynd, sem Hafnarfjörður er í upphafi sprottinn af.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður 1923-1930. Hér má sjá „Fjörðukrána“ í miðið. 

Talandi um uppbyggingu og endurgerð gamalla húsa í hjarta Hafnarfjarðar. Nærtækt dæmi er umhverfi „Fjörukráarinnar“. Jóhannes „Fjörugoði“ hefur áhuga á að rífa austurhluta gömlu Smiðjunnar og byggja hótel í hennar stað. Skv. framkomnum hugmyndum myndi slík bygging skyggja á útsýni íbúa á neðri Hamrinum til norðurs – með tilheyrandi ónægju þeirra sömu.
Hvernig væri nú að Jóhannes og bæjaryfirvöld myndu snúa saman bökum; leyfa „Hafnarfjarðarleikhúsmyndinni“ sunnan Víkingastrætis (nafnið á götunni hefur reyndar aldrei verið samþykk formlega) og austan gistiheimilisins, að standa, en þess í stað að standa þétt saman um að endurbyggja hið glæsilega hús er fyrrum stóð norðan „Kráarinnar“ til nota sem hótel eða gistiheimili sem og veitingastaðar. Lóðin er fyrir hendi. Slík uppbygging myndi, líkt og endurgerður Flensborgarskóli, undirstrika þróun byggðar í Hafnarfirði sem slíka – og jafnvel bæta að nokkru fyrir fyrri mistök.

Jóhannes ReykdalFulltrúar Hafnarfjarðarbæjar (með tveimur undantekningum) hafa í gegnum tíðina verið duglegir að útrýma hugsunarlaust minjum fyrri tíma (hugsið ykkur ef Hamarskot hefði t.d. fengið að standa sem síðasti torfbærinn (svæðið er enn á lausu á Hamrinum þrátt fyrir að hafa verið raskað að óþörfu)), örhugum hefði ekki verið leyft að kveikja í húsum, sem bænum hafði hlotnast til varðveislu, en virtust kalla á óþarflega kostnaðarsamar úrbætur, s.s. Eyrarkot, o.s frv.
Og hugsið ykkur ef einhverjum í nútímanum hefði t.d. látið sér detta í hug að „endurbyggja“ Reykdalshúsið“ við Brekkugötu (á nýnúverandi Dvergsreit) sem brann 1931. Hversu mikilli bæjarmyndinni væri saman að jafna?…

Í dag virðast því miður flestir horfa sér nær…

Heimildir:
-HVÖT, Málgagn Sambands Bindindisfélaga í skólum, S.B.S., 23. árg. marz 1.—3. tbl. 1958, bls 11-14.
-Tíminn, sunnudagur 11. apríl 1965, bls. 319 og 320.

Flensborg

Flensborg (fyrrum Hamarskot er sett inn á loftmyndina.).

Kiwanis

FERLIR var mað kynningu á Kiwanisfundi Eldborgar í Hafnarfirði um dásemdir Reykjanesskagans, auk þess sem tækifærið var notað til að kynna sér félagsskapinn. FERLIR notar jafnan tækifærið á samkomum sem þessum að fræðast um viðfangsefnin því meðlimir klúbbanna búa sem einstaklingar yfir mikilli alhliða vitneskju.

1. Staðreyndir um Kiwanishreyfinguna
KiwanisKiwanishreyfingin var stofnuð í Detroit í Michiganfylki í Bandaríkjunum þann 21.janúar 1915. Þann 1.nóvember 1916 var fyrsti klúbburinn stofnaður í Kanada í Hamilton í Ontarioríki. Sama ár var heitið „Kiwanisklúbbur“ tekið upp á fundi í Cleveland í Ohio (USA). Átta árum síðar var heitinu breytt í „Kiwanis International“ (Alþjóðahreyfing Kiwanisfélaga) og þá var stofnskrá sú og lög staðfest, sem gilda enn í dag, svo og meginmarkmiðin sex. Kiwanishreyfingin óx jafnt og þétt, bæði í Bandaríkjunum og Kanada, í nær hálfa öld áður en ákveðið var að breiða hana út til annarra heimsálfa og þjóða, en það var árið 1961.

Árið 1962 var fyrsti klúbbur utan Bandaríkjanna og Kanada stofnaður, en það var í Mexíco og skömmu síðar var annar stofnaður á Bahamaeyjum. Árið 1963 voru 7 klúbbar stofnaðir í Evrópu, sá fyrsti 25. febrúar í Vínarborg í Austurríki. Fyrsti klúbburinn á Norðurlöndum var stofnaður 10.janúar 1964 í Osló í Noregi og fjórum dögum síðar var komið að Íslandi, en þá var Kiwanisklúbburinn Hekla stofnaður í Reykjavík og var hann 9. klúbburinn sem stofnaður var í Evrópu.

Kiwanis á Íslandi

FERLIR

Fulltrúi FERLIRs rakti söguna…

Tveimur árum síðar eða 31.mars 1966 var annar klúbbur stofnaður en það var Kiwanisklúbburinn Katla í Reykjavík. Þar með má segja að Kiwanishreyfingin hafi náð fótfestu á Íslandi og voru fjölmargir klúbbar stofnaðir í kjölfarið. Kiwanisklúbburinn Helgafell sem starfar í Vestmannaeyjum var stofnaður af Kötlu 28.september 1967 og er nú langstærsti Kiwanisklúbbur á Íslandi og þó víðar væri leitað og hefur verið lengi. Félagafjöldi Helgafells starfsárið 1999-2000 er 78 félagar. Kiwanisklúbburinn Harpa var stofnaður 15.júní 1989 og var fyrsti klúbburinn sem eingöngu er skipaður konum.

2. Hvað er Kiwanis

Kiwanis

Á Kiwanisfundi.

Kiwanis er alþjóðleg þjónustuhreyfing manna og kvenna, sem hafa áhuga á að taka virkan þátt í að bæta samfélagið, og láta gott af sér leiða. Í samstarfi fá þessir aðilar áorkað því sem einstaklingar geta ekki einir. Frjálst samstarf gerir þeim kleift að vinna að alþjóðlegum verkefnum innan hinnar alþjóðlegu hreyfingar. Þeir vinna einnig að umbótum á landsvísu. Ekki síst vinna þeir að mannúðar og framfaramálum sem horfa til heilla fyrir bæjarfélag þeirra, sem opinberir aðilar annað hvort vilja ekki eða geta ekki sinnt. Þannig verða þeir leiðandi aðilar í sínu byggðarlagi.

Sem dæmi má nefna aðstoð við ungt fólk eða aldrað, náttúruvernd, þróun félagslegrar aðstöðu og eflingu vináttu og skilnings milli manna og þjóða. En hvert svo sem markmið Kiwanisfélaga er, er þeim öllum sameiginlegur þjónustuviljinn og löngunin til að eignast góða félaga innan klúbbsins síns og Kiwanishreyfingarinnar.

Nokkrar skilgreiningar:

Kiwanis

Nokkrir Kiwanisfélagar Eldborgar.

Kiwanishreyfingin er þjónustuhreyfing en ekki afþreyingarfélag. Þó geta menn eignast þar góða vini í samvinnu við aðra Kiwanisfélaga um ýmis þjóðþrifa- og framfaramál í hinum sanna Kiwanisanda.
Kiwanisfélagar starfa fyrir opnum tjöldum enda er hér ekki um leynilegan félagsskap að ræða. Kiwanisfélagar vilja einmitt gjarnan vekja athygli á störfum sínum til þess að afla sér stuðnings í þjónustustarfi sínu.
Kiwanishreyfingin leggur áherslu á manngildi og eflingu félagskenndar meðal félaganna.
Hver klúbbur reynir að þjóna sem best því samfélagi, sem hann starfar í. Kiwanishreyfingin skyldar hvorki klúbba né einstaka félaga þeirra til að taka þátt í neinni sérstakri starfsemi.

Nafnið
Nafnið „Kiwanis er tekið úr máli indíánaþjóðflokks sem eitt sinn byggði það svæði þar sem Kiwanishreyfingin var stofnuð. Upprunalega hljómaði þetta sem „Nunc Keewanis“ í þeirra munni og þýðir nánast „sjálfstjáning“. Þetta var stytt í „Kiwanis“ – „tjáning“.

3. Kjörorðin og hin sex megin markmið

Kiwanis

Í Kiwanis er meiri áhersla lögð á andleg verðmæti en veraldleg.

Undir kjörorðinu „Við byggjum“ hefur Kiwanishreyfingin vaxið og dafnað og orðið víðkunn um allan heim. Undanfarin ár hafa íslensku umdæmisstjórarnir haft að leiðarljósi kjörorðið „Börnin fyrst og fremst“ og hefur íslenska hreyfingin unnið að málefnum barna undir þessu kjörorði.

Hin sex megin markmið Kiwanishreyfingarinnar:
-Að láta andleg og mannleg verðmæti skipa æðri sess, en verðmæti af veraldlegum toga spunnin.
-Stuðla ber að því að dagleg breytni manna á meðal byggist á hinni gullvægu reglu: „Eins og þér viljið að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra“.
-Að beita sér fyrir bættum viðskiptaháttum, starfsháttum og félagslegri hegðun.
-Að efla borgaralegar dyggðir með góðu fordæmi.

Kiwanis

Á Kiwanisfundir Eldborgar.

-Að skapa, með stofnun Kiwanisklúbba, leiðir til þess að menn geti bundist varanlegum vináttuböndum og ósérhlífnir innt af höndum þjónustustörf og stuðlað að betra samfélagi.
-Að vinna saman að mótun og eflingu heilbrigðs almenningsálits og göfugrar hugsjónastefnu, sem er undirstaða aukinnar ráðvendni, bættrar stundvísi, vaxandi þjóðrækni og bræðralags.

4. Tímamót í Kiwanishreyfingunni

Árið 1915. Kiwanishreyfingin er stofnuð 21.janúar 1915. Þann dag var Kiwanisklúbbi nr. 1 í Detroit veitt stofnskjal frá Michiganríki í Bandaríkjunum.
Árið 1916. Fyrsti Kiwanisklúbburinn stofnaður utan Bandaríkjanna í Hamilton, Ontario, Kanada, í nóvember.
Árið 1964. Fyrsti klúbburinn stofnaður á Íslandi, Kiwanisklúbburinn Hekla.

5. Fjöldi Kiwanisklúbba og félaga
KiwanisHeildarfjöldi Kiwanisklúbba í heiminum er um 8600 og félagatala þeirra er rúmlega 310 þúsund manns. En ef teknir eru með meðlimir klúbba úr ungliðahreyfingu Kiwanis og fleiri hliðarklúbba hreyfingarinnar eru um 600 þúsund manns tengdir hreyfingunni.
Fjöldi Kiwanisklúbba í umdæminu Ísland-Færeyjar hefur mest orðið 49. Í dag eru starfandi 42 Kiwanisklúbbar í umdæminu með rúmlega ellefu hundruð félögum.
Lengi vel var Kiwanishreyfingin eingöngu skipuð körlum. En á árinu 1987 var samþykkt á heimsþingi Kiwanis, að leyfilegt væri að taka konur inn í hreyfinguna. Stuttu síðar hófst innganga kvenna í íslensku Kiwanishreyfinguna. Fyrsti Kiwanisklúbburinn sem eingöngu var skipaður konum var stofnaður 1989 en það er Kiwanisklúbburinn Harpa.

6. Sameiginleg verkefni Umdæmisins Ísland-Færeyjar

Kiwanis

Kiwanis þýðir „tjáning“.

Stærsta verkefni íslensku Kiwanishreyfingarinnar er sala K-lykilsins sem er landssöfnun. Ágóðinn af verkefninu hefur runnið til styrktar geðsjúkum, undir kjörorðinu „Gleymum ekki geðsjúkum“. K-dagur var fyrst haldinn árið 1974 og hefur síðan verið haldinn þriðja hvert ár frá þeim tíma.

Annað stórt verkefni sem íslenska Kiwanishreyfingin tekur þátt í er alþjóðlegt verkefni sem hófst árið 1993, og er unnið í samvinnu við UNICEF. Það miðar að því að útrýma joðskorti í heiminum fyrir árið 2000. Þetta er gert með byggingu saltverksmiðja í löndum þar sem joðskortur ríkir og er joði bætt í saltið. Joð skortur veldur því meðal annars að mæður fæða andvana eða þroskaheft börn.

Frá stofnun fyrsta íslenska Kiwanisklúbbsins hefur íslensk/færeyska Kiwanishreyfingin veitt 550 milljónum króna til líknarmála á Íslandi og í Færeyjum fram til 1999.

7. Kiwanisfréttir
KIwanisKiwanisfréttir er blað sem Kiwanishreyfingin í íslenska umdæminu gefur út þrisvar sinnum á ári. Í Kiwanisfréttum birtast fréttir og tilkynningar frá umdæmisstjórn, pistlar frá umdæmisstjóra og fréttir frá klúbbunum í íslenska umdæminu. Kiwanisfréttir eru kjörinn vettvangur til að koma fréttum af starfi klúbbanna á framfæri en einnig ágætur vettvangur til skoðanaskipta innan hreyfingarinnar.

8. Kiwanis – Eldborg

Kiwanis

Kiwanis – Eldborg.

Kiwanisklúbburinn Eldborg í Hafnarfirði var stofnaður 27. nóvember 1969. Móðurklúbburinn er Katla. Fundarstaður er Helluhraun 22. Fundartími er annan hvern miðvikudag kl. 19:30.
Forsetinn er Magnús P. Sigurðsson, netfang: eldborg@kiwanis.is, ritari Bergþór Ingibergsson, féhirðir Sigurður Sigurðsson, kjörforseti Kristján Hannes Ólafsson, formúlutengill Sigurður Sigurðsson og meðstjórnendur Guðjón Guðnason, Skúli Gunnarsson og Guðmundur Guðmundsson.

Gamansemi

Kiwanis

Á Kiwanisfundi.

Kiwanisfélagar eru gamansamir og eru þekktir fyrir að sjá hið jákvæða í tilverunni. Þessi var látinn flakka á fundinum: „Jón var lagður inn á spítala. Fjarlægja þurfti vinstri fótinn. Eftir aðgerðina kom í ljós að í misgripum hafði hægri fóturinn verið fjarlægður. Slæmu fréttirnar voru þær að fjarlægja þyrfti vinstri fótinn, en góðu fréttirnar voru að sjúklingurinn í næsta rúmi var tilbúinn að kaupa af Jóni báða inniskóna.“

Heimild:
-https://kiwanis.is/page/saga-kiwanis
-https://www.facebook.com/people/Kiwaniskl%C3%BAbburinn-Eldborg/100069024344466/
Kiwanis