Tag Archive for: Hafnarfjörður

Eldgos

Sunna Ósk Logadóttir skrifaði þann 20. janúar 2024 í Heimildina (heimildin.is) um „Krýsuvík er komin í gang“:

Reykjaneseldar„Í ljósi sögunnar má ætla að eldgosin verði stærri og fleiri eldstöðvakerfi vakna þegar líða tekur á það gostímabil sem nú er hafið á Reykjanesskaga. Hraunrennsli og sprunguhreyfingar munu þá ógna íbúabyggð og innviðum á höfuðborgarsvæðinu. „Þetta er náttúrlega háalvarlegt,“ segir eldfjallafræðingur.

„Við erum ekki í miðjum atburði, við erum í upphafi atburðar,“ segir Ármann Höskuldsson eldfjallafræðingur um Reykjaneseldana sem nú eru hafnir „alveg á fullu“. Þetta gostímabil gæti staðið í áratugi – jafnvel árhundruð. Í ljósi sögunnar má gera ráð fyrir að fleiri eldstöðvakerfi á Reykjanesinu láti til sín taka. Þau eru sex talsins og í tveimur þeirra hefur þegar gosið og tvö til viðbótar hafa rumskað og tekið þátt í atburðarásinni án þess að gjósa.

Ármann Höskuldsson

Ármann Höskuldsson, eldfjallafræðingur.

Þá er einnig líklegt, „svona ef maður horfir til fortíðar,“ segir Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur, „að gos muni frekar aukast eftir því sem líður á þessa atburðarás“. Það sýni til dæmis reynslan frá Kröflueldum. Gosin hafi verið lítil til að byrja með en skjálftarnir hins vegar miklir. „En síðan snerist þetta við,“ segir hann. „Eftir því sem á leið þá urðu skjálftarnir alltaf minni og minni en gosin stærri og stærri. Þannig að ef þetta dregst á langinn þá er mjög líklegt að það fari yfir í það.“

Á síðasta gostímabili gaus í öllum eldstöðvakerfum Reykjanesskagans, nema í því sem kennt er við Fagradalsfjall. „Það gaus á Reykjanesi. Það gaus í Svartsengi. Það gaus í Krýsuvík og það gaus í Brennisteinsfjöllum,“ segir Páll.

Í dvala í átta aldir

Eldgos

Geldingadalur; eldgos 2021.

Þegar eldgos hófst í Fagradalsfjalli í mars 2021 höfðu slíkir atburðir ekki átt sér stað á Reykjanesskaga í um 780 ár eða frá því á Sturlungaöld. Um 6.000 ár höfðu þá líklega liðið frá síðasta gosi í Fagradalsfjallskerfinu. Næstu tvö gos, í Meradölum 2022 og við Litla-Hrút 2023, urðu einnig í því kerfi en það fjórða sem varð norðan Sundhnúk í desember síðastliðnum varð í Svartsengiskerfinu, sem stundum er einnig kennt við Eldvörp. Sömu sögu má segja um það sem varð nú í janúar. Ekki hafði gosið í Sundhnúkagígaröðinni í líklega 2.400 ár.

Eldborg

Eldborg í Svínahrauni.

Síðasta goshrina á skaganum varð í vestari kerfunum og varði í þrjátíu ár. Hún var kölluð Reykjaneseldar og var jafnframt lokahrinan í löngu eldsumbrotatímabili sem stóð yfir í tæpar þrjár aldir, allt frá því um 950 og til 1240.

Almennt er talið að síðasta gostímabil á Reykjanesskaga hafi hafist á Hengilssvæðinu sem stundum er þó undanskilið kerfum skagans. Þar næst gaus í kerfi sem kennt er við Brennisteinsfjöll, þá í Krýsuvík og loks í Reykjanes- og Svartsengiskerfunum.

Páll Einarsson

Páll Einarsson, jarðeðlisfræðingur.

„Ég held að við séum enn að súpa seyðið af því að virknin á landinu var óvenjulítil um miðja síðustu öld þegar þetta nútímaþjóðfélag var að byggjast upp á Íslandi,“ segir Páll Einarsson, jarðeðlisfræðingur.
Þótt ýmislegt sé vitað um hegðun eldstöðvakerfanna er fjölmargt enn á huldu. Ármann bendir til dæmis á að stærri hraun hylji þau minni og því höfum við ekki „kórrétta atburðarás“ af „syrpunni“, eins og hann orðar það, sem varð á þrettándu öld. „Þannig að við erum bara með grófa mynd.“

Stóra-Eldborg

Stóra-Eldborg í Krýsuvík.

Upplýsingar þær sem við höfum séu meðal annars byggðar á lýsingum í annálum og þeirra sem aflað hefur verið með kortlagningu. Miðað við þau fræði gaus í Krýsuvík fyrir rúmum 1.100 árum, aftur fyrir um 900 árum og loks um árið 1150, eða fyrir um 830 árum.

Víti

Víti í Kálfadölum ofan Geitahlíðar í Krýsuvík.

„Það gerist örugglega einhvern tímann,“ segir Ármann spurður um líkur á því að það fari að gjósa í Krýsuvíkurkerfinu sem er fyrir miðju kerfanna sex. „Það er ekkert sem segir að það geti ekki gerst þó að við séum með þessa krísu út á Reykjanesi í kringum Grindavík.“

Spennulosun í Krýsuvík hafin

Krýsuvík

Krýsuvík – sprengigígar.

Aðdragandi gosa í því kerfi yrði að sögn Ármanns eflaust á svipuðum nótum og við höfum séð við Fagradalsfjall og Svartsengi: Fyrst yrðu jarðskjálftar, þá sprungumyndanir og loks færi hraun að flæða. „Því þetta byrjar með spennulosun,“ útskýrir hann. „Til að koma kvikunni upp verður að byrja á því að brjóta skorpuna. Þannig að það fer ekkert framhjá okkur þegar þetta fer í gang. Og Krýsuvík er komin í gang. Við erum búin að vera að mæla þar landris og sig á víxl í nokkur ár og búin að fá ansi hressilega skjálfta. Þannig að spennulosunin er byrjuð þarna.“

Og það gæti náttúrlega endað í eldgosi?

Sogagígur

Sogagígur sunnan Trölladyngju.

„Alveg klárlega,“ svarar Ármann. „En við gerum okkur vonir um að við sjáum þessi merki stífar áður en við náum því. Það er alveg klárt að það er farin að safnast fyrir kvika í Krýsuvíkurkerfinu.“

Páll tekur undir þetta og minnir á að Krýsuvík hafi verið „óróleg“ undanfarið – ekki síst seinni hluta ársins 2020. Land reis þá í nokkrar vikur. Og risinu fylgdu talsverðir jarðskjálftar, stærstu skjálftar þessara umbrota allra, segir Páll sem telur „frekar líklegt“ að gjósa muni í þessu kerfi í þeirri goshrinu sem nú er hafin.

Ögmundarhraun

Ögmundarhraun og nágrenni.

„Ef að þetta er eitthvað svipað og hefur gerst í jarðsögunni þá er líklegt að gosvirkni verði frekar mikil næstu 200–300 árin eða svo. Þá er nú frekar líklegt að Krýsuvíkurkerfið taki meiri þátt í þessu heldur en hingað til.“

Hann segir það hins vegar ólíklegt að gosin í kerfum Fagradalsfjalls og Svartsengis hafi með einhverjum hætti létt á Krýsuvíkurkerfinu.

Sprungusveimurinn mikli
Hættan af hræringum í því kerfi séu aðallega tvenns konar: Af völdum sprunguhreyfinga og hraunflæðis. Sprungusveimur þess liggi yfir stórt svæði; í gegnum Kaldársel, Búrfell, Heiðmörk, við Rauðavatn og upp í Hólmsheiði – jafnvel alla leið upp í Úlfarsfell. „Þannig að ef við fengjum gangainnskot alla þá leið, sem er vissulega möguleiki, þá er það kannski erfiðasti atburðurinn að fást við,“ segir Páll sem rannsakað hefur sveiminn og skrifað um hann greinar. Ef hreyfing kæmist á sprungurnar yrðu miklir innviðir í hættu. „Aðalmálið væri kannski vatnsbólin og það allt saman. Það er sviðsmynd sem er kannski ein af þeim verri.“

Búrfell

Búrfell ofan Garðabæjar.

Á þessu mikla sprungusvæði er auk þess íbúabyggð. Þótt hraunrennsli ógni henni ekki, meðal annars Norðlingaholtinu og Árbæjarhverfi, gætu sprunguhreyfingar gert það. Páll rifjar upp að í kringum 1980 hafi mikið verið deilt um hvort byggilegt væri í nágrenni Rauðavatns. Málið hafi orðið mjög pólitískt. Sumir sögðu að þetta væri stórhættulegt jarðskjálftasvæði en aðrir að sprungurnar væru gamlar og myndu ekki hreyfast meir.

Kerin

Kerin í Undirhlíðum – Helgafell fjær.

„Þeim tókst að deila um þetta og hafa allir rangt fyrir sér,“ segir Páll. Því að á sprungusvæðum sé hægt að byggja, en það er ekki sama hvernig það er gert. „Þarna eru vissulega sprungur en þetta eru ekki jarðskjálftasprungur heldur kvikuhlaupssprungur,“ heldur hann áfram. „Þær hreyfast mikið þegar þær hreyfast en það hreyfist hins vegar eiginlega ekkert á milli þeirra. Þannig að ef þú ert að byggja hús þarna, þá bara passar þú að byggja ekki yfir sprunguna. Þá ertu bara í góðum málum. Þetta er alveg byggilegt en það verður að byggja rétt.“

Norðlingaholt

Norðlingaholt.

Og heldur þú að okkur hafi borið gæfa til þess að byggja á milli sprungnanna?

„Ég er ekki alveg viss um það,“ svarar Páll. „En það var reynt og ef þú spyrð þá sem skipulögðu Norðlingaholtið þá munu þeir segja að þeir hafi tekið tillit til sprungnanna.“ Þegar farið var að grafa fyrir húsum í hverfinu hafi fundist gjár þar undir. Á þeim hafi ekki verið byggt enda megi sjá þrjú skörð í byggðinni. „Húsin sem eru á milli ættu að vera í góðu lagi,“ segir Páll. „Spurningin er bara: Gáðu þeir nógu vandlega?“

Klaufalegt að skipuleggja byggð á Völlunum
Þegar síðast gaus í Krýsuvíkurkerfinu í kringum 1150 runnu meðal annars Kapelluhraun til norðurs og Ögmundarhraun til suðurs. Og þá er komið að hinni vánni sem Páll vill vekja athygli á: Hraunrennsli. Hraun sem koma upp í norðurhluta Krýsuvíkurbeltisins gætu runnið niður í það dalverpi sem Vallahverfið í Hafnarfirði stendur í.

Gvendarselsgígar

Gvendarselsgígar vestan Helgafells.

Að mati Páls má segja að vissrar óvarkárni hafi gætt í skipulagsmálum hvað þetta varðar. Óþarfi hafi verið að taka þá áhættu að byggja á Völlunum því annað byggingarland hafi fundist innan Hafnarfjarðar. „Þetta er ágætis byggingarland í sjálfu sér,“ segir hann um Vellina og næsta nágrenni, „en ef hraun kemur upp, á þessum stað, þá rennur það þessa leið, það er óhjákvæmilegt. Það er ekki hægt að beina því neitt. Og það er þá klaufalegt að vera með mikla byggð þar.“

Ógnin komin heim í garðinn

Óbrinnishólar

Óbrinnishólar ofan Hafnarfjarðar.

Hafnfirðingar þurfa að mati Ármanns að endurskoða sín skipulagsmál, þeir geti ekki byggt „endalaust upp til fjalla“. Gos gæti hafist í Krýsuvík eftir einhver ár, áratugi eða öld. „Þetta er allt farið í gang,“ segir hann. „Reykjanesið sjálft er farið í gang. Og það þýðir þá að menn verða að hugsa um það og breyta skipulagsáætlunum í stíl við það.“

Hraunhóll

Hraunhóll undir Vatnsskarði.

Hvað Vellina varðar telur hann líkt og Páll að ef Krýsuvík færi að gjósa myndi steðja ógn að hverfinu. „Ég myndi halda að við ættum að hanna þá,“ svarar hann spurður um hvort hefja ætti undirbúning varnargarða við byggðina. „Við þurfum kannski ekki endilega að fara að rusla þeim upp strax en bara um leið og það fara að verða alvarleg merki þá setjum við vinnuna í gang. Þetta er komið heim í garðinn og þá gerir þú allt klárt. Þú ferð kannski ekki strax í framkvæmdirnar en byrjar að teikna og reikna.“

Bollar

Bollar.

Ef til annarra kerfa er litið, kerfa sem enn sofa þótt laust sé, minnir Ármann á Hengilinn sem markar endimörk eldstöðvakerfis Reykjanesskagans í austri. Ef hann færi að ræskja sig alvarlega gætu hamfarir fyrir byggð orðið miklar. „Ef hann fer að dæla hrauni yfir Nesjavelli og Hellisheiðarvirkjun þá yrði lítið heitt vatn fyrir höfuðborgarsvæðið,“ segir hann. „Þetta er náttúrulega háalvarlegt.“

Stóri-Bolli

Stóra-Bollagígur otan í Konungsfelli (Kóngsfelli).

Páll telur það eiga sér vissar skýringar að ákveðið var að byggja á svæðum þar sem vá vegna sprungusveima og hraunflæðis vofir yfir. „Ég held að við séum enn að súpa seyðið af því að virknin á landinu var óvenjulítil um miðja síðustu öld þegar þetta nútímaþjóðfélag var að byggjast upp á Íslandi,“ útskýrir hann. „Þá var þessi virkni óvenjulega lítil. Ef við horfum til baka, til fyrri alda, þá er 20. öldin framan af steindauð. Hún sker sig úr öllum öðrum öldum. Menn fengu skakka hugmynd um hvers eðlis virknin var. Og við sitjum uppi með þetta svona.“

Selvogsgata

Selvogsgata. Bláfeldur í Brennisteinsfjöllum fjær.

Upp úr 1960 hafi hins vegar hver atburðurinn tekið að reka annan; Surtseyjargos, Heklugos, Heimaeyjargos og hvað eina. Allt hafi svo „keyrt um þverbak“ er hrina hófst í Kröflu um miðjan áttunda áratuginn.

Og ekki er að fara að draga úr virkninni í fyrirséðri framtíð?

Bláfjöll

Stóra-Kóngsfell, gígur vestan fellsins.

„Ég held að þetta sé komið í venjulegt og eðlilegt horf,“ svarar Páll. „Svo það er eins gott að við lærum af því. Og breytum því sem þarf að breyta.“

Hvað getum við lært af því og hverju þurfum við að breyta?

„Við þurfum að reikna með að það geti orðið hraunstraumar hér og þar sem þarf að beina annað eða skipuleggja sig í kringum,“ svarar Páll. „Skjálftamálin eru í tiltölulega góðu standi. Jarðskjálftaverkfræðingar hafa staðið sig mjög vel. Þannig að hús á Íslandi virðast standast jarðskjálfta mjög vel. Við fengum reynslu af því árið 2000. Það hrundu engin hús sem skiptir máli því það er það sem veldur manntjóni. Þannig að það er í sæmilegu lagi. En þetta með sprunguhreyfingar og hraungos, þetta mætti alveg laga svolítið.“

Hrútagjá

Hrútagjárdyngja ofan Hafnarfjarðar.

Nú þýðir ekkert að stinga höfðinu í neinn sand?

„Nei, það þýðir ekki. Það verður að læra að lifa með þessu.“

Heimild:
-„Krýsuvík er komin í gang“, Heimildin (heimildin.is) 20. janúar 2024, Sunna Ósk Logadóttir.

Kistufellsgígur

Kistufellsgígur í Brennisteinsfjöllum.

Helgafell

Gestur Guðfinnsson skrifaði grein í Morgunblaðið árið 1967 um „Helgafell og nágrenni„:
„Það er með fjöllin eins og mannfólkið, manni geðjast vel að sumum, en miður að öðrum, og kemur sjálfsagt margt til. Svo kann jafnvel að fara, að mann langi til að hafa þau heim með sér í stofuna eða á ganginn, til að geta haft þau daglega fyrir augunum. Þannig var það með Helgafell þeirra Hafnfirðinga. Helgafell-991
Meiningin er að ræða svolítið um Helgafell og umhverfi þess í þessu greinarkorni. Þó er varla hægt að segja, að þetta sé neitt öndvegisfjall að útliti, og guð má vita, hvernig ég færi að útskýra ástæðurnar fyrir dálæti mínu á því, ef um það væri beðið. Ég hef aldrei hugsað út í það. Það er ekki einu sinni grasi gróið fyrr en niðri undir jafnsléttu, utan strá á stangli, sem enginn tekur eftir, nema kannski grasafræðingar og plöntusafnarar, en þeir fylgjast bezt með gróðurfarinu og beitilandinu ásamt blessaðri sauðkindinni. Annars veit ég ekki, hvort sauðkindin sést nokkurn tíma uppi á Helgafelli, það væri þá helzt, að hún færi þangað upp til að leggjast undir vörðuna og jórtra. Þar tökum við, flakkararnir, ævinlega upp nestisbitann, franskbrauð með áleggi eða annað þvíumlíkt, og drekkum hitabrúsakaffi framan í Þríhnúkunum og Kóngsfellinu og fílósóferum um landslagið og tilveruna.
helgafell-992Fjallaloftið örvar matarlystina og andríkið. Það er hvorki erfitt né tímafrekt að leggja leið sína á Helgafell.
Fært er á hvaða bíl sem er upp í Kaldársel og er venjulega ekið þangað, en þaðan er ekki mikið meira en kortersgangur að fellinu. Gönguferðin á fellið sjálft er heldur ekki mikið fyrirtæki, svo að nægur tími er að jafnaði afgangs til að skoða umhverfið í leiðinni.
Eins og ég sagði, er venjulega lagt upp frá Kaldárseli. Þar var áður sel, eins og nafnið bendir til, kennt við Kaldá, sem rennur meðfraim túnskikanum, en nú hefur K.F.U.M. og K. þar bækistöð fyrir sumarstarfsemi sína. Kaldá er ein af sérkennilegustu ám landsins að því leyti, að hún rennur ekki nema um kílómetra vegalengd ofanjarðar, sprettur upp í Kaldárbotnum rétt ofan við selið og rennur síðan spölkorn vestur eftir, en hverfur svo í hraunið og sést ekki meir.

Kaldá

Kaldá.

Sú var löngum trú manna, að Kaldá hefði fyrrum verið eitthvert mesta vatnsfall á Íslandi og átt upptök sín í Þingvallavatni, en runnið í sjó fram á Reykjanesskaga. Er þess m. a. getið í Þjóðsögum Jóns Árnasonar. „Hún skal hafa runnið fyrir norðan og vestan Hengil og ofan þar sem nú er Fóelluvötn og svo suður með hlíðum og í sjó á Reykjanesi. Er sagt að hún komi upp í Reykjanesröst.“ Um hvarf Kaldár fer þrennum sögum. Sú fyrsta er á þá leið, „að karl nokkur sem var kraftaskáld missti í hana tvo sonu sína og kvað hana niður.“ Önnur að hún hafi horfið í eldgangi á Reykjanesskaga, þegar „einn eldur var ofan úr Hengli út í sjó á Reykjanesi.“ Loks var þriðja skýringin, að Ingólfur kallinn landnámsmaður „hafi grafið Soginu farveg gegnum Grafningsháls eða rana úr honum og hafi þá Þingvallavatn fengið þar útfall, en Kaldá þverrað.“ Af því skyldi svo Grafningsheitið dregið.

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

Við meiri rök kynni að styðjast sú tilgáta, að Kleifarvatn hafi afrennsli að einhverju eða öllu leyti norður í Kaldá, en um það verður þó ekkert fullyrt að svo stöddu. Umhverfið meðfram Kaldá er geðþekkt, grasbakkar og hraunlendi, og snoturt er í Kaldárseli. Í Kaldá sækja Hafnfirðingar neyzluvatn sitt og þykir gott vatnsból.
Skammt norður af Kaldárseli er grasi gróið dalverpi með dálitlu vatni eða tjörn og heitir Helgadalur.

Helgadalur

Helgadalur – Vormót skáta 1954.

Þar halda hafnfirzkir skátar mót sín og margir Hafnfirðingar fara þangað um helgar og tjalda.
Eins og ég gat um, þá er Helgafell aðeins spölkorn frá Kaldárseli og blasir við, þegar þangað er komið. Það er móbergsstapi, sennilega orðinn til á ísöld við eldgos undir jökli. Móbergið er víða lagskipt og sérkennilega sorfið af veðrum og vindum í þúsundir ára og hefur sjálfsagt tekið miklum stakkaskiptum frá þvi sem það var í sinni upphaflegu mynd.

Það breytist margt á skemmri tíma en árþúsundum. Núna er það um 340 m yfir sjávarmál og ekki mikið um sig, svo það getur hvorki státað af stærðinni eða hæðinni.

Helgafell

Helgafell – úsýni til Hafnarfjarðar.

Samt er töluvert útsýni af kollinum á því, vegna þess hvað rúmt er um það og engin fjöll í næsta nágrenni, sem skyggja á.

Helgafell

Riddarinn á Helgafelli. Kóngsfell (Konungsfell) og Tví-Bollar fjær (Grindarskörð v.m. og Kerlingarskarð h.m.).

Ég sé þó ekki ástæðu til að fara að tíunda hvert fjall, sem sést af Helgafelli, enda yrði lítið á því að græða. En mörgum þykir umhverfið og útsýnið vel brúklegt, það held ég sé óhætt að bóka.
skulatun-990Suður frá Helgafelli heitir Skúlatúnshraun. Í því hattar á einum stað fyrir grænum bletti að sumarlagi, óbrennishólma, sem nefnist Skúlatún. Í Skúlatúnshrauni er líka Gullkistugjá, löng og djúp, og varasöm í myrkri, hún liggur í suðvestur frá Helgafelli. Annars er Helgafell meira og minna umkringt eldstöðvum hvert sem litið er, það rís eins og bergkastali upp úr mosagróinni hraunbreiðunni, sem runnið hefur í mörgum gosum og á ýmsum tímum, þar þar skráður merkilegur kafli í jarðeldasögu suðurkjálkans og einn sá nýlegasti.

Tröllin á Valahnúkum

Tröllin á Valahnúkum.

Rétt norðan við Helgafell eru lágir móbergsihnúkar, tvö hundruð metra yfir sjávarmál og einum betur, svokallaðir Valahnúkar. Í þeim norðanverðum er dálítill hraunskúti, sem Farfuglar hafa um alllangt skeið helgað sér og kalla Valaból. Áður hét skútinn Músarhellir og var gangnamannaból. Farfuglar hafa afgirt þarna dálítið svæði og prýtt á ýmsa lund, m.a. með trjám og blómum, en auk þess vaxa innan girðingarinnar hátt upp í 100 tegundir íslenzkra villijurta. Skútann sjálfan notuðu Farfuglar lengi sem gististað, settu í hann fjalagólf og glugga og hurð fyrir dyrnar, einnig áhöld og hitunartæki, en erfitt hefur reynzt að halda þessu í horfi, og í seinni tíð er gestabókin það markverðasta í skútanum í Valabóli, enda eiga fáir þar næturstað núorðið.
musahellir-990Einhverjar draugasögur hef ég heyrt úr Valabóli eða Músarhelli, en ég er víst búinn að gleyma þeim öllum. Hins vegar veit ég, að ýmsir höfðu mætur á gistingu í þessari fátæklegu vistarveru, og í Farfuglinum ségir af einum slíkum, sem lagði leið sína þangað á aðfangadagskvöld jóla einn síns liðs og átti þar dýrlega nótt ásamt tveim mýslum, sem líklega hafa átt þar heima. Bendir það ekki til drauma eða reimleika á staðnum, hvað sem fyrr kann að hafa gerzt í Valabóli.
Valaból er vinalegt og vel hirt og ætti enginn að fara þar hjá garði án þess að heilsa upp á staðinn, og það eins þótt húsráðendur séu ekki heima. En að sjálfsögðu ber að ganga þar vel um eins og annars staðar.
Fast norðan við Valahnúk um Mygludali lá Grindaskarðavegur inn gamli milli Hafnarfjarðar og Selvogs, sem er alllögn leið og yfir fjöll að fara. Sú leið mun þó talsvert hafa verið farin fyrr á tímum bæði gangandi og á hestum. Sjást þar enn „í hellum hófaförin“ í götunni yfir hraunið.

Valahnúkar

Gengið um Valahnúka.

Á síðustu árum hefur verið klöngrazt á jeppum frá Valabóli upp í Grindaskörð eftir gömlu troðningunum, en tæpast er hægt að mæla með þeirri leið sem akvegi, enda miklu greiðfærari leið meðfram Lönguhlíð og þó ekki nema fyrir jeppa og aðra fjallabíla.
Norðaustur af Valhnúkum er kollótt móbergsfell, Húsfell (278 m), en í norður Búrfell (179 m). Búrfell er í raun og veru gíglhóll, sem mikil hraun hafa úr runnið, m.a. Garðahraun og Hafnarfjarðarhraun, og liggja heljarmiklar eldtraðir frá gígnum, þar sem hraunið hefur runnið og er það hin fræga Búrefllsgjá. Þarna í nágrenninu eru líka nokkrir skoðunarverðir hellar, eflaust gamlir eldfarvegir.

Búrfell

Búrfell.

Norður af Búrfelli taka svo við Búrfellsdalir, en síðan Löngubrekkur, Tungur og Hjallar í Heiðmörk, sem naumast þarf að kynna, a.m.k. ekki fyrir Reykvíkingum. Eitt er vert að minnast á áður en sleginn er botninn í þetta spjall, en það er nafnið á fellinu.

Breiðdalur

Breiðdalur – Helgafell fjær.

Helgafell eru nokkuð mörg á landinu. Ekki eru allir á einu máli um hvernig nafnið sé til orðið. Sumir telja það dregið af fornum átrúnaði og ráða það m. a. af frásögn Eyrbyggju um Helgafell í Þórsnesi, sem segir, að Þórsnesingar höfðu mikla helgi á fjallinu og trúðu að þeir mundu deyja í fjallið. Engin slík saga mun þó til um Helgafell það, er hér um ræðir. Fleiri skýringar á uppruna nafnsins hafa skotið upp kollinum, þótt ekki verði hér raktar.“

Heimild:
-Morgunblaðið, 4. maí 1967, bls. 10.

Helgafell

Helgafell og nágrenni – örnefni.

Búrfell

Guðmundur Kjartansson skrifaði um „Hraunin kringum Hafnarfjörð“ í jólablað Þjóðviljans árið 1954:

Hafnarfjörður

Hraun ofan Hafnarfjarðar – uppdráttur GK.

„Ekki verður komist landveg til Hafnarfjarðar úr öðrum byggðarlögum án þess að fara yfir hraun, því að kvíslar úr hinu mikla hraunflæmi Reykjanesskagans ná út í sjó báðum megin fjarðarins. Auk þess stendur hálfur kaupstaðurinn (þ. e. fyrir norðan eða „vestan“ læk) í hrauni, en hinn hlutinn (fyrir sunnan læk) er hraunlaus. Hraunið í Vesturbænum er í meira lagi mishæðótt og setur einkennilegan og fáséðan svip á þennan bæjarhluta. Hraunhólar og drangar skaga jafnvel hærra upp en húsin; gömlu göturnar laga sig eftir landslaginu, brattar og krókóttar, en hinar nýrri, sem liggja beinna, eru ýmist hlaðnar Hátt upp yfir hraunbolla og gjár eða sprengdar djúpt niður í gegnum hraunkambana. Þarna í Vesturbænum, þar sem hraunið er hvað úfnast, er skrúðgarður Hafnfirðinga, Hellisgerði.

hellisgerði

Hellisgerði.

Að landslagi til, á sá skrúðgarður sér engan líka hér á landi. Þetta hraun, sem hluti Hafnarfjarðarbæjar stendur í, mun ég í þessu erindi kalla Hafnarfjarðarhraun til hægðarauka, því að það er ein heild, upp komið í einu gosi. En raunar heita ýmsir hlutar þess sérstökum nöfnum: Gálgahraun, Garðahraun, Vífilsstaðahraun, Svínahraun, Urriðakotshraun, Hafnarfjarðarhraun, Stekkjarhraun, Gráhelluhraun, Smyrlabúðarhraun o.fl.

Vífilsstaðahraun

Í Vífilsstaðahrauni.

Suðurbærinn í Hafnarfirði stendur í stórri eyju, sem hraun umkringja, og sunnan hennar (sunnan við Hvaleyri) tekur við mikil breiða af mörgum misgömlum hraunum, óslitin suður að Vogastapa. Hér verður aðeins getið þeirra tveggja af suðurhraununum, sem næst liggja Hafnarfirði. Þó að þetta greinarkorn eigi aðallega að fjalla um hraun, þá þykir mér hlýða að fara um það nokkrum orðum, hvernig umhorfs var hér í Firðinum, áður en hraunin urðu til. Ég ætla því að rekja í tímaröð helstu stórviðburði í sköpunarsögu Hafnarfjarðar frá ísöld.

Hvaleyrarhraun

Hvaleyrarhraun – loftmynd.

Röð viðburðanna má heita ljós, en því miður get ég ekki tímasett þá nema heldur ónákvæmt og skal ekki eyða mörgum orðum að því. Tímasetningin stendur þó til bóta við nánari rannsóknir.

Hamarinn

Markaðar klappir á Hamrinum.

Elsta bergmyndun Hafnarfjarðar, undirstaðan sem allt annað hvílir á, er grágrýti. Úr þeirri bergtegund er allt það, sem við myndum í daglegu tali kalla fasta klöpp, að undanskildum hraununum. Hamarinn, sem Flensborgarskóiinn stendur á, er úr grágrýti, ennfremur allar þær hæðir í grenndinni, sem hafa „holt“, „hlíð“, „brún, „hæð“ eða „alda“ að endingu í nafni sínu. Ásfjall er ein af rismestu grágrýtishæðunum. Víðast er grágrýtisklöppin hulin lausum jarðlögum, þ.e. ýmiss konar melum eða grónum jarðvegi, En hvar, sem til er grafið, kemur niður á klöppina fyrr eða síðar, og mjög víða liggur hún ber.

Ástjörn

Ástjörn og Ásfjall.

Hér verður ekki frá því sagt hvernig þetta öldótta grágrýtislandslag varð til, heldur hefjum við þar söguna, er það er að verða fullmyndað og hvert holt og hæð hefur fengið núverandi lögun sína í öllum stórum dráttum.

Búrfellshraun

Búrfellshraun – kort. Hraunið náði allt að Hraunum ofan Straumsvíkur (sjá Selhraun), en yngri hraun, s.s. Kapelluhraun, Óbrinnishólahraun, Skúlatúnshraun, Stóra-Bolla- og Tví-Bollahraun og Hraunhólshraun (Sandklofahraun) hafa þakið það að mestu leyti.

Einu hljótum við þó að veita athygli um uppruna þessa landslags: Sá, sem þar vann að síðastur hefur rist fangamark sitt skýrum stöfum í klappirnar. En það var jökulskjöldur sá, er lá yfir því nær öllu íslandi á síðasta jökulskeiði ísaldarinnar. Jöklar liggja ekki kyrrir, heldur mjakast undan hallanum og sópa með sér lausagrjóti og lausum jarðlögum; sem verða á vegi þeirra.

Hamarinn

Hamarinn – hvalbök.

Grjótið frýs fast í botnlagi jökulíssins og dragnast með. Með því grópar og rispar jökullinn klöppina líkt og skörðótt hefiltönn. Frostið sprengir nýtt lausagrjót upp úr botnsklöppinni, svo að það gengur meira til þurrðar. Flestar grágrýtisklappir í grennd við Hafnarfjörð eru skýrt rispaðar með þessu móti og rispurnar stefna allar h.u.b. frá SA til NV. Hreyfing jökulsins hefur verið undan hallanum, ofan af Reykjanesfjallgarði út í Faxaflóa. Einkar skýrar og fallegar jökulrispur eru uppi á Hamrinum fast norðan við Flensborgarskóla. Jökullinn hefur mætt fast á þessum grágrýtishnjót á botni sínum og fastast á þeim klöppum, sem hallar til suðausturs gegnt skriðstefnu hans; þar eru rispurnar dýpstar og allar brúnir ávalaðar og máðar.

Hamarinn

Hamarinn – upplýsingaskilti.

Um margar þúsundir ára svarf ísaldarjökull ofan af grágrýtisspildunni, sem þá mun hafa náð óslitin um allt það svæði, sem nú er sunnanverður Faxaflói og sveitir og heiðar upp frá honum allt til Þingvallavatns.
Í ísaldarlokin, sennilega fyrir fullum 10 þúsundum ára, bráðnaði þessi jökull fyrir batnandi loftslagi. En klappirnar bera æ síðan þær minjar hans, sem þegar er getið, og annars staðar eru þær þaktar jökulruðningi, þ.e. leir og grjóti, sem jökullinn ýtti með sér og lá eftir, er hann bráðnaði. Um þessar mundir leysti ísaldarjökla víða um heim, og við það hækkaði í öllum höfum. Fyrir þá hækkun var sennilega mikið af botni Faxaflóa ofan sjávar. Sjórinn hækkaði meir en upp að núverandi sjávarmáli. Mun hann hafa náð mestri hæð skömmu eftir að jökulinn leysti hér í grennd.

Hafnarfjörður

Ásfjall – útsýni yfir Hafnarfjörð.

Enn má glögglega sjá hér á holtunum við Hafnarfjörð og Reykjavík, hvar sjávarborðið hefur legið, er það var hæst. Þau merki köllum við efstu sjávarmörk. Þau liggja í 33 metra hæð yfir núverandi sjávarmál á Hvaleyrarholti sunnan við Hafnarfjörð, en um 10 m hærra á Öskjuhlíð í Reykjavík. Austur í Ölfusi er hæð efstu sjávarmarka um 60 m, uppi í Borgarfirði 80—100 m og Austur í Hreppum allt að 110 m.
Reykjaneseldar
Þessi mismunur stafar vitaskuld ekki af því, að sjávarfletinum hafi hallað, er hann lá sem hæst; heldur af því að þessir staðir hafa lyftst mismikið síðan. En ástæðan til þess, að sjórinn fjaraði aftur af undirlendinu, er sú, að landið tók að lyftast, er jökulfarginu létti af því. Áður hafði jökullinn sveigt það niður.

Fuglastapaþúfa

Fuglastapaþúfa.

En landið lyftist afar hægt, og því vann sjórinn á í bili og flæddi inn yfir láglendið, er hann hækkaði í ísaldarlokin, Markalínari efstu sjávarmörk kemur einna gleggst fram í því, að neðan hennar er stórgrýtið, sem jöklinum lá þar eftir, orðið að lábörðum hnullungum af að velkjast í brimi; en ofan línunnar verður þetta grjót snögglega með flötum hliðum og lítt slævðum brúnum, eins og jökullinn skildi við það. Þá hafa hnullungarnir einnig víða kastast upp í kamba, sem marka hæstu sjávarstöðuna einkar glöggt og eru í engu frábrugðnir nýmynduðum sjávarkömbum, nema hvað mold og þurrlendisgróður er nú kominn á milli steinanna.

Hrafna-Flóki

Minnisvarða um Hrafna-Flóka á Hvaleyrarholti.

Yzt á holtunum, “ þar sem brimasamast hefur verið, hafa sjóirnir sums staðar klappað bergstáli í þau. Efstu sjávarmörk eru einkar glögg hringinn í kringum Hvaleyrarholt, nema áð austan, þar sem mjótt eiði hefur tengt það við meginlandið. Frá Hvaleyrarholti má rekja þessa fornu fjöru í sömu hæð neðan við túnið á Jófríðarstöðum umhverfis hamarinn hjá Flensborg (sem aftur er fornt sjávarberg) og inn í Lækjarbotna. Þaðan heldur hún áfram, glögg malar- og hnullungafjara, en að vísu grasi gróin, laust neðan við Setbergsbæinn og um hlaðið á Þórsbergi. Loks hverfa þessi efstu sjávarmörk undir Hafnarfjarðarhraun, sem rann löngu eftir að sjórinn fjaraði frá þeim.

Rauðhóll

Rauðhóll – uppdráttur GK.

Fast sunnan undir Hvaleyrarholti stóð til skamms tíma lítill hóll að mestu úr rauðu hraungjalli og með grunna gígskál í kolli. Hann hét Rauðhóll. Nú er lítið eftir af Rauðhól. Í hans stað er komin stór malargryfja. Um 1940 var farið að taka þarna mikið af rauðamöl í vegi og fleira. Nú er hún upp urin að kalla, svo að undirlag hennar, sem er harðla fróðlegt, kemur í ljós. Eftir stendur þó stabbi í miðju, og sér enn fyrir botni gígskálarinnar uppi á honum. Þessi stabbi, sem er sjálfur hrauntappinn í gígnum, reyndist of fastur fyrir, er rauðamölinni var mokað á bíla, og því var honum leift.

Hraunhóll

Hraunhóll – námuvinnsla og sóðaskapur undir Vatnsskarði.

Rauðhóll er mjög lítið eldvarp. Þar hefur aðeins kornið upp eitt smágos, sem virðist ekki hafa afrekað annað en hrúga upp þessum gíghól. Ekki er að sjá, að neitt hraun hafi runnið frá honum. En því get ég Rauðhóls hér, að hann hefur að geyma furðu merkilegar og auðlesnar jarðsöguheimildir. Þær komu ekki í ljós fyrr en hann var allur grafinn sundur. Þessar heimildir eru vitaskuld jarðlög, og við lestur þeirra ber að byrja á neðstu línunni og lesa upp eftir. Þessi lög hafa eflaust myndast víðar, en máðst burt aftur, þar sem þau lágu ber en Rauðhóll hefur hreint og beint innsiglað þau og varðveitt með því að hrúgast ofan á þau og liggja þar eins og ormur á gulli.
Dýpst í malargryfjunni liggur einkennilegt leirlag allt að hálfum metra á þykkt. Þetta er svokölluð barnamold. Hún er mjúk og þjál og ljós-gulbrún að lit meðan hún er vot, en verður stökkari viðkomu og snjóhvít við þurrk. Ef barnamoldin er látin undir smásjá, kemur í ljós, að hún er því nær eingöngu úr örsmáum skeljum og skeljabrotum, af lífverum þeim, er nefnast kísilþörungar (eða eskilagnir eða díatómeur).

Rauðhóll

Rauðhóll 2020.

Þetta eru örsmáar svifverur, sem lifa víða í mikilli mergð í vatni, og teljast til jurtaríkisins, þó að margar þeirra syndi knálega um í vatninu. Þegar jurtirnar deyja, rotna þær upp, en skeljarnar falla til botns og mynda eðju eins og þá, sem hér var lýst. Danskur sérfræðingur hefur rannsakað fyrir mig lítið sýnishorn af barnamoldinni undan Rauðhól og fann í henni 117 tegundir kísilþörunga. Sú tegundagreining leiddi í ljós, að barnamoldin hefur sest til í ósöltu vatni, a.m.k. að mestu leyti. Af þessu er sýnt, að þarna hefur verið tjörn, oftast eða alltaf með ósöltu vatni, löngu áður en Rauðhóll varð til. Enn fremur sannar barnamoldin, að sjávarflóðið mikla í ísaldarlokin hefur þá verið að mestu fjarað, eða a. m. k. niður fyrir 10 m hæð yfir núv. sjávarmál, því að í þeirri hæð liggur hún.

Rauðamöl

Rauðamöl í Rauðhól.

Yfir barnamoldinni í Rauðhólsgryfjunni liggur fínn ægissandur morandi af skeljum og skeljabrotum. Skeljarnar eru allar af sjódýrum. Ég hef getað greint tíu tegundir af þeim örugglega, og eru allar þær tegundir enn algengar lifandi á sams konar sandbotni hér í Faxaflóa. Þetta lag sýnir, að sjórinn hefur hækkað aftur í bili og flætt inn yfir landið, þar sem tjörnin var áður.

Hraunhóll

Hraunhóll undir Vatnsskarði.

Enn fremur sýna dýrategundirnar, sem eru frekar kulvísar, að þetta hið síðara sjávarflóð var ekki öllu kaldara en Faxaflói er nú, og hefur því ekki getað átt sér stað fyrr en alllöngu eftir ísaldarlokin, er sjórinn var fullhlýnaður. Yfir þessum ægissandi liggur ennfremur þunnt lag af fínni, brúnni sandhellu, sem er miklu fastari í sér og hefur engar skeljar að geyma. Þykir mér sennilegt, að það sé fokmyndun, til orðin á þurrlendi, eftir að síðara sjávarflóðið fjaraði. Ekki hef ég fundið neinar gróðurleifar í þessu lagi, en það sannar engan veginn, að landið hafi verið ógróið. Ofan á þessu móhellulagi stendur loks Rauðhóll sjálfur. Hann hefur hrúgast þarna upp í litlu eldgosi, eins og fyrr segir, ofan sjávar, en. ef til vill nærri sjávarströndu. Rauðhóll er elsta gosmyndun í grennd við Hafnarfjörð — að undanskildu grágrýtinu, sem að vísu er hraun að uppruna, en runnið löngu fyrir ísaldarlok,; enda ekki kallað hraun í daglegu tali.

Rauðhóll

Rauðhóll – uppdráttur GK.

Nokkur rauðamöl er enn eftir í Rauðhól, en ekki auðvelt að ná henni. Það ber til, að hraunflóð eitt mikið hefur runnið kringum hólinn og ekki aðeins upp að honum, heldur yfir hin ystu börð hans, sem einnig eru úr Rauðamöl. Aðeins háhóllinn, sem stóð upp úr hrauninu, er burt grafinn. Hraunið kringum Rauðhól nefnist nú Hvaleyrarhraun. Það hefur runnið út í sjó sunnan við Hvaleyrarholt og komið að suðaustan, en verður ekki rakið lengra í átt til upptaka en að Stórhöfða. Þar hverfur það undir miklu yngra hraun, Brunann, sem síðar verður getið. í börmum malargryfjunnar í Rauðhól liggur Hvaleyrarhraunið víðast milliliðalaust á rauðamölinni. Það þótti mér lengi benda til, að aldursmunur væri lítill, jafnvel enginn, á hólnum og hrauninu.

Rauðamöl

Rauðamöl.

En þegar gryfjan stækkaði, kom reyndar í ljós á litlum kafla í nýja stálinu örþunnt moldarlag og þar yfir svart öskulag, hvort tveggja á milli rauðamalarinnar og hraunsins. Í öskunni fundust kolaðir lyngstönglar. Þetta þunna millilag með jurtaleifum sínum sannar ótvírætt, að þarna hefur þó verið komin lyngtó með þunnum moldarjarðvegi neðarlega í austurbrekku Rauðhóls, áður en Hvaleyrarhraun rann þar yfir. Askan er sennilega úr sama gosi og hraunið, sem yfir henni liggur.

Hellnahraun

Eldra-Hellnahraun (svart), Yngra-Hellnahraun (grátt), Óbrinnihólabruni (ljósgrár) og Kapelluhraun (blátt). Fært inn á nútíma loftmynd.

Hvaleyrarhraun er einna fomlegast hrauna í grennd við Hafnarfjörð, og má vel vera, að það sé elst þeirra allra. En það er helst ellimarka á því, að sjórinn hefur klappað í það nokkurra mannhæða háan bergstall um núverandi sjávarmál, þar sem nú heita Gjögrin sunnan við Hvaleyrarsand.
Ég hef áður getið að nokkru Hafnarfjarðarhrauns, þ.e. hraunsins sem nær út í Hafnarfjörð norðanverðan og kaupstaðurinn stendur að nokkru leyti í. Þetta hraun er auðvelt að rekja til upptaka. Það hefur komið upp í Búrfelli eða Búrfellsgíg skammt norðaustur frá Kaldárseli. Þaðan hafa runnið hraun eitthvað til suðurs og suðvesturs, en þau hverfra skammt frá upptökum undir yngri hraun, og verður eigi vitað, hvert þau hafa komist.

Garðahraun

Í Garðahrauni.

En langveigamesti hraunstraumurinn er Hafnarfjarðarhraun, sem teygist til norðvesturs og nær niður í sjó báðum megin við Álftanes, annars vegar að Lambhúsatjörn, sem er vogur inn úr Skerjafirði, er vogur inn úr Skerjafirði, hins vegar í Hafnarfjörð. Þetta er 12 kílómetra vegur mælt eftir miðjum hraunstraumnum. Minni kvísl úr þessum hraunstraumi hefur runnið sunnan við Setbergshlíð og breiðst þar yfir, sem nú heitir Gráhelluhraun; þaðan hefur hún runnið í mjóum taumi áfram ofan lækjargil og komið saman við meginhraunið aftur niðri á Hörðuvöllum.

Búrfell

Gígur Búrfells.

Í Búrfelli er stór og djúpur gígur, en það er lítið einstakt eldfjall, aðeins 179 m yfir sjó og fáir tugir metra frá rótum. Sennilegast þykir mér, að þar hafi gosið aðeins einu sinni og öll hraunin, sem þaðan hafa runnið, séu því jafngömul, en ekki er þetta óyggjandi, þó að ég ætli nú að gera ráð fyrir því. Hitt er fullvíst, að það sem hér er kallað Hafnarfjarðarhraun, hefur runnið allt í einu lagi.
Reynum nú að gera okkur í hugarlund, hvernig það land leit út, sem Hafnarfjarðarhraun breiddist yfir. Vitaskuld renna hraunflóð æfinlega undan halla og ekki skáhallt, heldur í þá átt sem hallinn er mestur. Það má því t. d. gera ráð fyrir, að hraun, sem lent hefur í árfarvegi, yfirgefi hann ekki úr því, heldur fylgi honum svo langt sem magn þess endist til.

Maríuhellar

Í Maríuhellum.

Nú liggur meginstraumur Hafnarfjarðarhrauns — sá sem lengstan veg hefur runnið frá upptökum — norðvestur á milli Setbergshlíðar og Vífilstaðahlíðar. Þá er varla heldur að efa, að vatn, sem komið hefði upp á sama stað og hraunið, hefði einnig runnið sömu leið.

Kaldá

Kaldárbotnar.

Með þetta í huga er fróðlegt að athuga hinar miklu vatnsuppsprettur skammt frá Búrfelli, þar sem heita Kaldárbotnar. Þar eru upptök Kaldár, eins og nafnið bendir til, og þar er enn fremur hið nýja vatnsból Hafnfirðinga. Kaldá er ólík flestum ám í því, að hún er vatnsmest í upptökunum, en minnkar stöðugt á leið sinni. Hún kemst ekki nema röskan kílómetra frá upptökunum; þá er hún öll sigin í jörð Þessa skömmu leið rennur hún eftir hrauni, sem er ættað úr Búrfelli og virðist helst jafngamalt Hafnarfjarðarhrauni eða með öðrum orðum hluti af því. En einnig í miðri höfuðkvísl Hafnarfjarðarhrauns, hjá Gjáarrétt norðvestur frá Búrfelli, sér í vatn niðri í djúpum gjám, og í því vatni er mjög greinilegur straumur til suðvesturs.

Kaldá

Kaldá – farvegur árinnar fyrrum, áður en Búrfellshraunin runnu.

Áður en Hafnarfjarðarhraun rann, hlýtur allt þetta vatn, sem nú rennur um upptakasvæði þess — bæði ofanjarðar (í Kaldá) og neðanjarðar (í gjám) — að hafa runnið ofanjarðar — sem vatnafall — þá leið, sem hraunið rann síðan. Við getum kallað þetta vatnsfall „Fornu-Kaldá“.  Að líkindum hefur hún verið drjúgum meira vatn en sú Kaldá, sem við þekkjum nú, því að botn hinnar fornu Kaldár lak ekki frá vatninu. Hún rann eftir hraunlausum dal undir Vífilstaðahlíð norður að Vífilsstaðatúni. En hvar rann hún í sjóinn? Hraunið gefur okkur einnig ákveðna bendingu um það: Meginhluti þess féll út í Hafnarfjörð. Og þar sem hraunið er þykkast, þar liggur árfarvegurinn enn undir því.

Kaldá

Kaldá.

Forna-Kaldá hlýtur að hafa runnið í Hafnarfjörð. En þá var fjörðurinn lengri en nú, ekki af því að sjórinn stæði hærra — hann var lækkaður niður að núverandi sjávarmáli, áður en hraunið, rann — heldur styttist fjörðurinn við það, að hraunið fyllti upp í innstu voga hans. Ekki verður vitað með vissu, hvar fjörðurinn endaði. Ef til vill hefur hann náð langleiðina upp að Vífilsstöðum, ef til vill skemmra. Vitaskuld mætti kanna þetta með því að bora gegnum hraunið og finna hvar undirlag þess kemst upp fyrir sjávarmál. Að sjálfsögðu hefur innsti hluti fjarðarins verið grunnur. Hann hefur smám saman verið að fyllast af framburði Fornu-Kaldár. Trúlegt er, að þar hafi verið leirur og mikið útfiri, og ef til vill voru grösugir óshólmar milli árkvíslanna. En nú er þetta allt innsiglað af hrauninu, nema sá leirinn, sem lengst barst út eftir firðinum. Hann stendur út undan hraunbrúninni og þekur þar fjarðarbotninn í þykku lagi. Það leirlag hefur reynst heldur ótraust undirstaða undir hina nýju hafnargarða. Þeir hafa hvað eftir annað sigið og sprungið.

Búrfell

Búrfell.

Af því, sem ég hef nú sagt frá Búrfelli og Hafnarfjarðarhrauni, mætti ætla, að Hafnarfjarðarbæ stafaði nokkur hætta af eldgosum og hraunflóðum: Þá leið, sem hraun hefur áður runnið, gæti hraun runnið aftur! En þessi hætta er miklu minni en ég hef til þessa gefið í skyn: Búrfell, þar sem hraunið kom upp, og stór landspilda hið næsta því öllum megin hefur sigið, eftir að hraunið rann. Hin signa spilda hefur brotnað sundur í rima milli sprungna, sem stefna allar frá norðaustri til suðvesturs. Barmarnir hafa sigið mismikið, svo að stallur er um sumar sprungurnar, eystri barmurinn þá jafnan lægri en hinn vestri, rétt eins og á Almannagjá. Sums staðar eru sprungurnar gínandi gjár, en annars staðar saman klemmdar og koma aðeins fram sem bergveggur. Einn slíkur sigstallur brýtur Hafnarfjarðarhraun um þvert við suðurenda Vífilsstaðahlíðar. Sá er 5—10 m hár og myndi einn sér veita verulegt viðnám nýju hraunflóði. En raunar er sigið meira en nemur hæð þessa stalls.

Búrfell

Misgengi í Helgadal – uppdráttur GK.

Önnur misgengissprunga liggur vestan við Helgadal, sem er sigdalur, og sú klýfur sjálft Búrfell í miðju. Misgengið veldur því, að eystri gígbarmurinn er nú lægri en hinn vestri. En þetta var öfugt, meðan Hafnarfjarðarhraun var að flæða upp úr gígnum. Það rann vestur úr honum, og eru þar mjög fagrar og lærdómsríkar hrauntraðir eftir rennsli þess. Þær nefnast Búrfellsgjá (þótt þær séu raunar engin gjá í venjulegri merkingu) og eru óslitnar um nokkurra kílómmetra veg vestur og norður frá fjallinu. Hraun, sem nú flæddi upp úr Búrfellsgíg, tæki ekki þessa stefnu, heldur rynni austur eða suður af.

Kaldá

Farvegir Kaldár.

Hrakningasögu Kaldár lýkur ekki með uppkomu Hafnarfjarðarhrauns. Það lokaði leið hennar til Hafnarfjarðar, eins og þegar er getið. En það er engan veginn óhugsandi, að hún hafi samt um þúsundir ára eftir allar þær ófarir komist ofanjarðar alla leið til sjávar — og þá fyrir sunnan Hafnarfjörð, litlu innar á ströndinni en þar, sem Straumsbæirnir eru nú. En hvort sem hún hefur nú komist til sjávar eða ekki, þá er fullvíst, að hún hefur um langt skeið náð miklu lengra áleiðis en nú.

Óbrinnishólar

Óbrinnishólar eru nú nánast óþekkjanlegri frá fyrri tíð vegna gífulegrar efnistöku.

Þá kemur enn upp eldgos, hið síðasta, sem orðið hefur í nágrenni Hafnarfjarðar. Að þessu sinni gaus úr sprungu, sem nú markast af gígaröð með fram Undirhlíðum, langleiðina frá Vatnsskarði til Kaldárbotna. Í syðsta og stærsta gíghólnum skammt frá Krýsuvíkurveginum eru nú stórar malargryfjur. Frá þessari sprungu rann hraun það, sem nú er kallað Bruninn í heild, en efri hlutinn Óbrinnishólabruni og fremsta totan, sem komst alla leið niður í sjó, Kapelluhraun.

Kapelluhraun

Kapelluhraun og nágrenni – fornar leiðir og örnefni.

Þetta hraun nær alla leið norður að Kaldá og hefur bersýnilega ýtt henni eitthvað norður á bóginn. Hún fylgir nú jaðri þess ofan á Búrfells- (eða Hafnarfjarðar-) hrauninu, sem fyrr getur. Vatnið úr Kaldá virðist allt hverfa inn undir þennan hraunjaðar. Ekki er nú annað sennilegra en hinn forni farvegur Kaldár liggi undir Brunanum þar, sem hann er þykkastur, og áfram í átt til sjávar undir hinni tiltölulega mjóu álmu Brunans, sem endar í Kapelluhrauni.

Smyrlabúð

Smyrlabúð – misgengi; uppdráttur GK.

Bruninn (að meðtöldu Kapelluhrauni) er unglegastur að sjá og vafalaust einnig yngstur allra hrauna, sem runnið hafa út í Faxaflóa sunnanverðan. Hann breiddist yfir allan suður- og vesturhluta Hvaleyrarhraunsins, sem fyrr var getið, og féll út í sjó fram af lágu sjávarbergi vestan við Gjögrin og myndaði þar dálítinn tanga út í sjóinn. Ekki hefur sjórinn enn brotið þann tanga að neinu ráði. Í Kjalnesinga sögu er getið hrauns, sem þar er kallað Nýjahraun, og er þar varla öðru til að dreifa en Brunanum. Og í máldaga, sem talinn er vera frá miðri 15. öld, er nafnið Nýjahraun haft alveg ótvírætt um það, sem nú heitir þykir nafnið Nýjahraun (sem nú hefur fyrnst) benda eindregið til, að menn hafi verið sjónarvottar að myndun hraunsins, það hafi ekki runnið fyrr en á landnámsöld eða söguöld. Að vísu hefur engin frásögn um það eldgos varðveist til þessa dags.

Bollar

Tvíbollar.

En annálariturum hefur löngum þótt annað merkilegra til frásagnar en náttúruviðburðir, og þögn þeirra sannar ekkert. Enda er fullvíst, að fleiri eldgos hafa orðið á Reykjanesskaga, löngu eftir að land byggðist, án þess að þeirra sé nokkurs staðar getið í annálum. Hér hlýt ég að enda þetta gloppótta söguágrip, þar sem aðeins stórviðburða er getið, því að síðan Kapelluhraun rann í sjó fram á fyrstu öldum Íslands byggðar, hafa engin þau tíðindi orðið í nágrenni Hafnarfjarðar, er sambærileg séu að mikilfengleika þeim sem nú var sagt frá.“

Heimild:
-Guðmundur Kjartansson, Hraunin kringum Hafnarfjörð. Þjóðviljinn 24. 12. 1954, jólablað, bls. 10-12.
-Náttúrufræðingurinn 19. árg. 1. hefti 1949, Guðmundur Kjartansson, Rauðhóll, bls. 9.-19.

Mygludalir

Búrfell – Kringlóttagjá nær.

Hafnarfjarðarhöfn

Byggð í Hafnarfirði varð til í kringum sjósókn, verslun og siglingar, enda þótti skipalægi sérlega gott í firðinum alla tíð. Bærinn varð snemma á öldum einn helsti verslunar- og hafnarbær landsins og á tímabili var Hafnarfjörður aðal verslunarhöfn á landinu.

Hafnarfjarðarhöfn

Hafnarfjarðarhöfn 2022.

Byggðin stóð við sjóinn og mestallt mannlíf í bænum byggðist á virkni í kringum höfnina. Svæðið við Flensborgarhöfn er staðsett í einum elsta hluta hafnar- og athafnasvæðis, í „hjarta“ bæjarins, og á sér því langa og mikilsverða sögu. Tengsl við sögu og arfleifð er þýðingarmikill þáttur í umhverfi fólks og er því mikilvægt að gera sögunni skil þegar hugað er að framtíðarskipulagi á þessum stað. Hér verður skyggnst í það helsta í sögu og þróun gömlu hafnarinnar og svæðisins við Flensborgarhöfn.

Hafnarfjarðarhöfn

Hafnarfjarðarhöfn – hafskipabryggjan; stálþilið komið.

Hafnarfjörður hefur lengi verið talinn vera ein besta höfn landsins frá náttúrunnar hendi, enda er heiti fjarðar og byggðar kennt við höfnina. Englendingar gerðu Hafnarfjörð að bækistöð sinni upp úr aldamótunum 1400, en þá byrjuðu þeir að stunda fiskveiðar og verslun við Ísland.

Flensborgarhöfn
Flensborgarhöfn er innan jarðarmarka Jófríðarstaða, sem upphaflega hétu Ófriðarstaðir.

Hafnarfjarðarhöfn

Hafnarfjarðarhöfn fyrrum. Hvaleyrarlónið var lengi notað til geymslu á skipum, nú er lónið friðað, meðal annars vegna varpstöðva fugla og fuglalífs og er lítið notað. Talsverðar landfyllingar og uppbygging á Suðurhöfninni hafa breytt landslagi mikið við Hafnarfjarðarhöfn. Auk Suðurhafnar er Straumsvíkurhöfn starfrækt í dag og í Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2013 – 2025 er svæði vestan Straumsvíkur til skoðunar til framtíðarþróunar fyrir höfnina. Á suðursvæðinu er umfangsmikil löndunar- og flutningsþjónusta, þar eru vörugeymslur fyrir frosnar, þurrar og blautar vörur og einnig viðhaldsþjónusta bæði í flotkví og slipp. Á Suðurhöfninni stendur Fiskmarkaðurinn, sem hefur starfað þar í tæp 30 ár (Már Sveinbjörnsson, viðtal 1, 2014; Hafnarfjarðarbær, 2014a).

Með tímanum var Jófríðarstaðalandi skipt upp í nokkur smærri lönd (Katrín Gunnarsdóttir, skv. tölvupósti, 28.3. 2014).

Hafnarfjarðarhöfn

Hafnarfjarðarhöfn 2022.

Fyrsti verslunarstaðurinn í firðinum reis á Háagranda, þar sem nú er norðurhorn smábátahafnarinnar við Óseyrarbryggju. Hann hét Fornubúðir og talið er að Englendingar hafi valið verslunarstaðnum þennan stað eftir að þeir fóru að koma til Hafnarfjarðar snemma á 15. öld, því við grandann var gott skipalægi (Ásgeir Guðmundsson, 1983).
Talið er að þýsku Hansakaupmennirnir hafi reist fyrstu lútersku kirkjuna á Íslandi á svipuðum slóðum. Þýska kirkjan er fyrst nefnd í heimildum 1537, þá sennilega nýbyggð. Kirkjan var tekin niður í kjölfar þess að danskri einokunarverslun var komið á. Álitið er að kirkjan hafi staðið við Óseyri (Sigurður Skúlason, 1933).

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – herforingjaráðsuppdráttur 1902.

Þýskir kaupmenn stofnuðu Flensborgarverslun undir lok 18. aldar og reistu verslunarhús við sunnanverðan botn Hafnarfjarðar. Kaupmennirnir voru frá Flensborg í Slésvík og nefndu verslunina eftir heimaborg sinni (Sigurður Skúlason, 1933). Verslunarbyggingin Flensborg stóð á svipuðum slóðum og Íshúsið stendur nú.
Farið var um Illubrekku eða sætt fjöru til að komast fyrir klettinn að Flensborg. Heimild: Byggðasafn Hafnarfjarðar Árið 1877 var gamla verslunarhúsinu breytt í skóla, sem nefndur var Flensborgarskóli. Önnur bygging reis við hliðina á gamla verslunarhúsinu árið 1906 og Flensborgartún var sunnan við húsin. Flensborgarskóli var upphaflega barnaskóli, síðar gagnfræðaskóli og kennaraskóli og einnig var þar heimavist. Gamla verslunarhúsið brann árið 1930, en skólahaldi var haldið áfram í nýrri byggingunni. Flensborgarskóla var fundin ný staðsetning á Hamrinum árið 1937 og lagðist þá skólahald af á þessum stað (Ásgeir Guðmundsson, 1983; Sigurður Skúlason, 1933).

Flensborgarverslun

Flensborgarhöfn

Fyrsta skipsmíðastöð landsins var í Hafnarfirði, athafnamaðurinn Bjarni Sivertsen kom henni upp árið 1805. Talið er að hún hafi verið staðsett á sömu slóðum og slippurinn við Flensborgarhöfn stendur nú. Árið 1918 tók Skipasmíðastöð Hafnarfjarðar til starfa á sama stað, en flutti sig um set nokkrum árum síðar. Skipasmíðastöðin Dröfn var sett á stofn árið 1941 og hóf upp úr því að byggja skipasmíðastöð og slippinn sem enn stendur við Flensborgarhöfn. Þar fór fram bæði nýsmíði á bátum af ýmsum stærðum og gerðum og einnig bátaviðgerðir (Ásgeir Guðmundsson, 1983; Jón Pálmason, á.á.).

Fyrsti hluti Íshúss Hafnarfjarðar við Flensborgarhöfn reis árið 1918, og byggðist það síðan áfram upp í áföngum. Elsti hlutinn hefur verið rifinn, en núverandi byggingar eru frá því um eða rétt fyrir miðja 20. öld allt fram til 1992, er nýjasta viðbyggingin reis. Upphaflega var þar aðallega fryst beitusíld og geymsla á kjöti. Í gegnum árin hefur ýmis konar starfsemi verið í byggingunum, en lengst af fiskvinnsla (Ásgeir Guðmundsson, 1983; Haraldur Jónsson, viðtal 8, 2014).

Hafnarfjarðarhöfn

Hafnarfjarðarhöfn – smábátahöfnin 2024.

Upphaf smábátahafnarinnar má rekja til ársins 1969 þegar flotbryggja var gerð við Óseyri. Óseyrarbryggja var síðan fullgerð árið 1976 og trillubátabryggja, rampi sem hallaði út í sjó, var byggð 1977. Árið 1989 varð mikil breyting á allri aðstöðu í smábátahöfninni þegar ráðist var í umbætur á henni, höfnin var dýpkuð og settar voru upp flotbryggjur fyrir allt að hundrað báta. Þá fékk smábátahöfnin nafnið Flensborgarhöfn og dró nafn sitt af Flensborgarskólanum, sem áður stóð skammt frá flotbryggjunum (Björn Pétursson & Steinunn Þorsteinsdóttir, 2012).

Hvaleyrarlón

Hvaleyrarlón – bygð smábátaeigenda.

Löng hefð er fyrir smábátaútgerð í Hafnarfirði og þykir aðstaða trillueigenda mjög góð í Flensborgarhöfn frá því henni var komið upp. Grásleppukarlar voru þarna og seldu afurðir sínar beint til viðskiptavina við höfnina. Þeir áttu margir netaskúra skammt frá flotbryggjum sem voru fjarlægðir (Björn Pétursson & Steinunn Þorsteinsdóttir, 2012), en í þeirra stað risu verbúðir um og upp úr miðjum níunda áratugnum. Verbúðirnar voru ætlaðar smábátaeigendum í útgerð, þar var aðstaða fyrir veiðarfæri, beitningu og fleira (Már Sveinbjörnsson, viðtal 1, 2014). Verbúðirnar eru staðsettar á Flensborgarhöfn og hýsa nú lítil fyrirtæki og starfsemi af ýmsum toga.

Þytur

Siglingaklúbburinn Þytur.

Siglingaklúbburinn Þytur fékk lóð sunnan Drafnarslippsins og byggði húsnæði þar, sem var tekið í notkun árið 1999. Þar er bátaskýli, verkstæði og félagsaðstaða klúbbsins (Siglingaklúbburinn Þytur, 2014). Umræða um framtíðaruppbyggingu á Flensborgarhöfn hefur staðið lengi. „Ef vel tekst til getur Flensborgarhöfn orðið perla Hafnarfjarðar“ segir í umfjöllun í Morgunblaðinu árið 1989 og um leið var því sjónarmiði lýst að „Flensborgarhöfn verði staður sem allir Hafnfirðingar og gestir þeirra hafi gaman af að heimsækja“ (Morgunblaðið, 1989). Þetta var um það leyti sem umbætur á smábátahöfninni voru gerðar og hún stækkuð. Síðan hefur umræða haldið áfram og fjöldi frumhugmynda verið unnar fyrir svæðið, ýmist að beiðni bæjaryfirvalda, lóðahafa eða hafnaryfirvalda (Bjarni Reynarsson, 2009;

Heimild:
-https://www.hafnarfjordur.is/media/flensborgarhofn/Soguagrip_Hafnarfj.+Flensborgarhof

Hafnarfjarðarhöfn

Hafnarfjarðarhöfn – í sögulegu samhengi,

Búrfell

Gengið var frá Kaldárseli að Valahnúkum. Steinrunnin tröllin trjónuðu efst á hnúkunum. Þau sáust langt að og reyndu heldur ekki að leynast. Tröllin virtust vera að bíða af sér veturinn.

Valahnúkar

Tröllin á Valahnúkum.

Annars eru tröll fallega ljót, hvert með sitt sérkenni. Þau eru afar misjöfn í útlit, sum stórskorin, önnur með horn og vígtennur, stór eyru og nef en lítil augu. Vörtur finnst þeim vera mesta prýði og oft virðast þau grimm á svip, en það segir bara hálfa söguna því flest eru þau gæðablóð og trygglindir náttúruvættir.
Tröllin eru bæði stór og sterk, í sumum þjóðsögum er sagt að þau séu líka heimsk, gráðug og oft svolítið grimm en í öðrum sögum eru þau góð og launa vel fyrir ef að eitthvað gott er gert fyrir þau. Tröll ferðast yfirleitt um á nóttunni og þá einkum að vetrarlegi. Tröllin búa í hömrum og klettum upp í fjöllum eða í hellum. Sum tröll mega ekki vera úti í dagsljósi og verða að steini þegar sólin kemur upp, þau heita nátttröll. Tröllin á Valahnúkum eru ágætt dæmi um tröll, sem hafa dagað uppi þegar þau voru of sein fyrir, sólin kom upp yfir Bláfjöllum og þau urðu að steini þar sem þau voru. Það eru til ýmsir skrítnir steinar í náttúrunni sem má kannski geta sér til um að hafi verið tröll sem ekki náðu heim til sín áður en sólin kom upp.
Tröllabörn
Talið er líka að sum önnur ummerki í náttúrunni séu eftir tröll því sumar sögur segja að þau hafi fært til fjöll. Grýla og Leppa-Lúði, sem svo margir hafa heyrt um og eru foreldrar jólasveinanna, eru tröllahjón. Vitað er um dvalarstað þeirra í einum hellanna í Arnarseturshrauni við Grindavík (sjá FERLI-783). Önnur tröllafjölskylda er talin búa í Rauðshelli skammt frá Valabóli, örskotslengd frá Valahnúkum. Maður úr Hellarannsóknar-
félaginu, sem sá tröllabarnastóðið og heyrði hroturnar á ferð sinni um hellinn, varð svo mikið um að hann flúði öfugur út aftur – og er hann þó talinn með stilltari mönnum. Síðar var nákvæm mynd af hópnum rissuð upp eftir lýsingu hans. Þá er vitað af tröllum í Trölladyngju. Sögn er a.m.k. um að hjón úr Vogunum hafi séð þar tröllabarni bregða fyrir síðla kvölds í hálfrökkrinu.

Valaból

Í valabóli.

Tröll eru líka stundum kölluð skessur, risar, jötnar eða þursar.
Komið var við í Músarhelli og síðan gengið eftir slóð í gegnum Mygludali, um Víghól að Húsfelli. Þar var haldið um Kringlóttugjá og upp á brún Búrfells. Gígurinn er stórbrotinn og hrauntröðin tilkomumikil þar sem hún liggur um og myndar Búrfellsgjána. Í stað þess að ganga niður gjána var haldið til norðurs yfir að Kolhól. Hólinn er landamerki. Sunnan undir honum, í grónum hvammi, má sjá hleðslur. Einnig eru hleðslur með hraunkanti skammt vestar.
Gengið var frá Kolhól niður um Garðaflatir og að Gjáarrétt.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Heimild m.a.:
-http://www.hi.is/~soleya/#TRÖLL

Tröllin á Valahnúkum

Tröllin á Valahnúkum.

Klaustur

Eftirfarandi frásögn er úrdráttur úr Riti krossins eftir systir Veroniku sem var karmelnunna í Hafnarfirði, síðar Hollandi:

Hugmynd að klaustrinu vaknaði 1929.
KarmelklaustriðSögu Karmelklaustursins á Íslandi má rekja til ársins 1929. Á því ári voru haldin hér á landi mikil hátíðarhöld vegna vígsludómkirkju Krists konungs á Landakoti. Montforteprestar önnuðust trúboð kaþólsku kirkjunnar á Íslandi á þessum tíma. Yfirmaður þeirra og umdæmisstjóri varHollendingurinn Dr. M.Hupperts sem fyrstur manna vakti athygli á nauðsyn þess að á Íslandi væru staðsettar nunnur. Hann orðaði það svo sjálfur „til að biðja fyrir því ágæta fólki sem var á Íslandi„. Þessi hugmynd varð kveikjan að því starfi sem nú er stundað af miklum dugnaði og ósérhlífni af karmelnunnunum í Karmelklaustrinu í Hafnarfirði.
KarmelklaustriðEftir að Dr. Huberts kom til baka til Hollands snéri hann sér til móður Elísabetar sem þá var príorinna Karmelklaustursins í Schiedam í Hollandi. Var hugmyndinnivel tekið af henni. Árið 1935 stakk móðir Elízabet upp á því við Dr. Hubberts að hann ræddi þessi mál í við einn af prestum reglunnar í Róm á Ítalíu en Dr. Hubberts var á leiðinni í visitasíuferð til Afríku.

Hugmyndinni um stofnun klausturs á Íslandi var líka vel tekið í Róm. Séra Jóhannes Gunnarsson, síðar biskup kaþólskra á Íslandi, heimsótti árið 1935 karmelnunnurnar í Egmond í Hollandi í þeim tilgangi að ræða þessi mál líka. Á þeim tímapunkti varð nú nokkur bið á frekari skipulagningu ýmsum ástæðum.

Karmelklaustur

Strandgata í Hafnarfirði um 1960. Á myndinni sjást vel helstu hús miðbæjar Hafnarfjarðar, þar á meðal Hafnarfjarðarkirkja, Karmelklaustrið í Hafnarfirði fyrir stækkun þess, gamla Dvergshús, Barnaskóli Hafnarfjarðar, Hafnarborg fyrir viðbyggingu og Góðtemplarahúsið. Ljósmyndari ókunnur.

Árið 1936 endurvakti Marteinn Meulenberg,biskup kaþólskra á Íslandi, aftur hugmyndina en sökum fjárskort á þeim tíma varð ekkert meira úr henni. En á ný var hugmyndinvakin og nú af góðvini karmelreglunnar, prófastsins í Rengs í Haarlem-biskupsdæminu. Ráðlagði hann móðir Elízabetu að ræða málið aftur við Dr. Hupperts, sem hún gerði og hófust þreifingar á ný árið 1937. Stakk biskupinn upp á því að 2 nunnur færu til Ísland til að kynna sér aðstæður. Þetta sama ár fóru saman til Íslands móðir Elízabet, systir Immaculata, séra Tímóteus og kona að nafni Mary Sweerts. Komu þau til hingað 9. ágúst 1937. Strax eftir komuna til Íslands var farið til Hafnarfjarðar og land í eigu Montfortepresta, efst á svokölluðum Öldum skoðað. Þar er nú Ölduslóð. 13. ágústsama ár var leyfi veitt til byggingar Karmelklaustursins í Hafnarfirði.

Karmelklaustur

Klaustrið 1973.

Sama sumar hófst fjársöfnun í Hollandi svo hefja mætti byggingu klaustursins í Hafnarfirði. Gekk hún vel og var Einar Erlendsson arkitekt fenginn tilað teikna hið nýja klaustur. 1. mars 1939 voru valdar nunnur af móðir Elízabetu til Íslandsfarar. Fyrstar fóru hún sjálf og systurnar Veronika og Marina. Þær lögðu stað 31. maí sama ár í þeim tilgangi að fylgjast með byggingu klaustursins. Með í för var bróðir systur Veroniku séra Tímóteus.Eftir nokkuð erfiða byrjun á ferðalaginu m.a. sökumslæms veðurs lagðist skip þeirra loksins að bryggju í Reykjavík 13. júní. Nokkrum dögum eftir komuna hreiðraði hópurinn um sig í skóla St. Jósefssystra í Hafnarfirði en þaðan var gott að fylgjast með klausturbyggingunni.

Klaustursmiðirnir.
KarmelklaustriðVerktakar að klausturbyggingunni voru Guðjón Arngrímsson, Bjarni Erlendsson, Kristmundur Georgsson og Gestur Gamalíelsson. Framkvæmdum átti að ljúka 10. maí 1940. Ein helsta hjálparhella nunnanna, á meðan á bygginguklaustursins stóð, var bróðir Jósef sem var einn Montfortetbræðra á Jófríðarstöðum. 3. september lýstu Englendingar og frakkar yfir stríði á hendur Þýskalandi og fljótlega upp úr því rofnaði sambandnunnanna við Holland.

Karmelklaustur

Karmelklaustrið.

Laugardaginn 14. október á hádegi voru fánar dregnir að húni á þaki Karmel-klaustursins. Þóttu þetta hin mestu tíðindi og var m.a. sagt frá þessu og fyrirhuguðu starfi nunnanna í útvarpinu. Þá var einnig sagt frá því að 9 nunnur myndu fljótlega bætist í hópinn. Fyrstu jól nunnanna á Íslandi voru þetta sama ár og gladdi þá nafnkunnur Hafnfirðingur hr. Eiríkur Jóhannesson starfsmaður og organisti á St. Jósefspítala nunnurnar með því að útbúa fyrir þær jötu sem hann setti upp í nýjuklausturbyggingunni.

Nunnurnar læra íslensku.

Karmelklaustur

Karmelsystur ásamt gesti í klaustursgarðinum.

Íslensku lærðu nunnurnar að mestu af séra Boots sem kom vikulega til þeirra að kenna þeim tungumálið. Þar sem bygging klaustursins kallaði á mikið fé þá leigðu nunnurnar breskum hermönnum húsnæði í klaustrinu. Fyrsta messan var haldin þar 18. júlí 1940 og hélt breski presturinn séra Gaffney þá guðsþjónustu en hann kom hingað til halds og trausts fyrir þá bresku hermenn sem voru í Hafnarfirði. Dagurinn var einnig sögulegur að því leiti að þetta var fyrsta og síðasta messa frumkvöðulnunnunnar móður Elísabetar sem unnið hafði þrotlaust að uppbyggingu klaustursins en hún lést í Bandaríkjunum árið 1944.

Seinni heimsstyrjöldin tefur uppbyggingu.
KarmelklaustriðÍ nóvember 1941 fluttu bandarískir hermenn í klaustrið í stað hinna bresku sem þar höfðu verið enda höfðu Bandaríkin tekið að sér varnir Íslands. Var nunnunum boðið til Bandaríkjanna á meðan stríðið stæði yfir og þáðu þær það boð enda var var systir Elízabet líka orðin mikill sjúklingur á þessum tíma. 1. ágúst 1941 sigldu þær því af stað til systra sinna í Bandaríkjunum.
10. ágúst, á leið sinni með skipinu, var þeim sagt að þær færu til Boston en um áfangastaðinn hafði ríkt óvissa. Skipið sem flutti nunnurnar var eitt margra í hópsiglingu 40 skipa á leið til Bandaríkjanna. Dvöldu nú nunnurnar þar í Karmelklaustri um nokkurn tíma. 4. desember 1941 lést móðir Elízabet.

Karmelklaustur

Karmelsystur í klaustrinu.

Rétt fyrir jólin þetta sama ár barst nunnunum bréf frá séra Boots þar sem hann tjáði þeim að enginn byggi nú lengur í klaustrinu í Hafnarfirði og að stríðinu væri lokið. Ætluðu nunnurnar að taka fyrsta mögulega skip til Íslands en móðir Aloysius sem þá hafði tekið við hlutverki móður Elízabetar óskaði eftir því að þær biðu með brottför þar sem hún taldi það slíkt ferðalag of hættulegt að svo stöddu. Stuttu seinna fréttist að skipið sem flytja átti nunnurnar hefði farist.

Karmelklaustur

Karmelsystur í klaustursgarðinum.

Nokkru seinna héldu þær svo síðan af stað til Íslands. Farkosturinn var herflutningaflugvél sem flutti þær frá New York til Íslands með viðkomu í Labrador.
28. apríl 1946 bættust síðan í hópinn tvær nunnur ásamt garðyrkjumanninum John. Nunnurnar sem komu hétu systir Aloysia og systir Bernadetta. Allmargir húsnæðislausir einstaklingar höfðu á stríðstímanum leitað sér skjóls í klaustrinu. Var það endanlega rýmt 4. Júní 1946. Strax var hafist handa við að hreinsa klaustrið. Var húsið síðan fljótlega eftir það blessað af séra Dreesens og blessaði hann garðinn á annan í hvítasunnu sama ár.

Fyrsta nóttin í klaustrinu.
Karmelklaustrið
25. júní dvöldu nunnurnar í fyrsta skipti næturlangt í Karmelklaustrinu. Messur gátu þær þó ekki sótt þar enn sem komið var þar sem kapellan var ekki fullkláruð. Sóttu þær messur í kapellunni á St. Jósefsspítala á Suðurgötu í Hafnarfirði. 5. ágúst bættust 3 nunnur í hópinn, systurnar Dominika, Miriam og María og stuttu seinna eða 27. ágúst var lesin fyrsta messan í kappelluklaustursins.

KarmelklaustriðNú fór að líða að þeirri stundu að klaustrið varð fullbúið til klausturlífs. 1. september 1947 komu síðustu nunnurnar að sinni, þær Jósefa, Elía og María. Allur hópurinn taldi nú 10 nunnur og var systir Dominika abbadís. 29. september kom biskupinn til að innsigla klaustrið að hætti karmelreglunnar. Það merkir að innilokun nunnanna hófst formlega eins og siður var á árum áður. Enn þá voru þó ekki þær nunnur komnar sem áttu að sinna hlutverki útinunna en það eru þær sem sjá áttu um samskipti við fólk utan klaustursins. Þar til þær komu voru valdar í það hlutverk þær systurnar Martina og Veronika.

Hænurnar koma.

Karmelklaustur

Karmelsystir með hænuunga.

12. október 1947 kom stærsti hópurinn. 52 hænur tóku sér stöðu í klaustrinu og dvelja afkomendur þeirra þar enn þá. Sá hópur hefur stærstur orðið um 300 fuglar. Sá bróðir Jósef aðallega um að hirða þennan stóra hóp á sínum tíma. Nunnurnar opnuðu fljótlega litla verslun með trúarlegum varningi og er sú verslun enn þá starfrækt. Úrvalið er þó umtalsvert meira en áður en það má m.a. sjá hér á þessum vef um hlekknum klausturverslunin. Í dag selja nunnurnar enn þá egg og eru þau auðvitað lífrænt ræktuð og hafa fengið vöruheitið hamingjuegg.

Karmelklaustur

Garðrækt innan klaustursveggja.

Í garðinum rækta þær grænmeti, kartöflur ofl. Mikil vinna fylgir þessu en heilög móðir Teresa sem endurbætti karmelregluna á mikið hér áður fyrr sagði ætíð „reynið að lifa af vinnu ykkar svo sér Drottinn um það sem á vantar„.
Á sama hátt mun hinn heilagi faðir Páll páfi VI hafa sagt: „Reynið að lifa af vinnu ykkar og þegar þið hafið nóg, gefið þá fátækum afganginn„.

Fyrsta lokaheitið unnið og prestvígsla.
Karmelklaustrið
18. nóvember 1946 var merkisdagur í sögu karmelreglunnar á Íslandi. Þá var unnið fyrsta lokaheitið á íslenskri grund af systir Elíu.

Karmelklaustur

Karmelsystur við hellulagningu innan garðs.

25. maí 1947 var Hákon Loftsson vígður til prests og las fyrstu messu sína í Karmelklaustrinu 1. júní. Sama ár bættust fleiri nunnur í hópinn, nú systir Mikaela sem gerð var að útinunnu og margir Íslendingar þekktu. Hún hefur nú gengið út klaustrinu. Með Mikaelu kom á sínum tíma systir Magdalena. Komu þær 28. júní 1947. Þetta sama ár eða nánar tiltekið 11. nóvember kom önnur ung kona til Íslands, Gonny nokkur sem var umsækjandi og hóf starf sitt að viku liðinni. Var ætlun hennar að verða útinunna. 1948 komst á talsímasamband við Karmelklaustrið í Hafnarfirði og síðar sama ár eða 19. nóvember fékk Gonny karmelslæðuna. Frá þeim tíma var nafn hennar systir Rafaela hins krossfesta Jesú og var mörgum Íslendingum líka að góðu kunn.

Páfi

Páfi á Þingvöllum 1989.

3. október 1949 kom systir Agnes. Hún var nýnunna sem var send til klaustursins frá Karmelklaustrinu í Egmond í Hollandi. Vann hún lokaheit sitt 25. febrúar 1951. Ári síðar vann systir Rafael klausturheit sitt. 1951 fékkst leyfi stjórnvalda til að afmarka þeirra eigin grafreiti í klausturgarðinum. Þar hvíla nú nokkrar nunnur. Eftir nokkurn aðdraganda tók Lais Rahm við búningi sínum af Jóhannesi Gunnarssyni biskupi. Gerðist þetta 6. apríl 1952. Ári síðar yfirgaf Lais klaustrið þrátt fyrir mikinn áhuga í upphafi. 2. júlí 1952 fengu nunnurnar Veronika og Martina íslenskan ríkisborgararétt og voru hinar fyrstu af nunnunum til að öðlast slík réttindi.

Karmelklalustur

Forsetafrú Póllands, frú Ögatu Kornhauser-Duda, sem fylgdi forseta Póllands, herra Andrzej Duda, sem tók þátt í tveggja daga Leiðtogafundi Evrópuráðsins á Íslandi, í heimsókn hjá Karmelsystrum.

Öll árin sem þessi hópur var á Íslandi sýndu margar konur frá ýmsum löndum því áhuga að ganga í klaustrið í Hafnarfirði. Frá Hollandi komu þrjár sem ílentust. Fyrsta er að telja Gonny sem varð útinunna. Síðan kom Annie Kersbergen í klaustrið 7. júní 1953. Hún var fædd árið 1900. Lagði hún m.a. stund á íslenskar fornbókmenntir og árið 1927 varði hún doktorsritgerð sína um Njálu. Annie þessi kom til landsins 1928 og ferðaðist um Ísland. Fékk hún síðar starf sem skjalavörður við skjalasafnið í Rotterdam og gegndi því til 1953. Dr. Kersbergen tók kaþólska trú 1942 og gekk í karmelregluna 1953 eftir að hafa hrifist mjög að ritum heilagrar Teresu frá Aviala. Dr. Kersbergen var betur þekkt sem systir Ólöf heilagrar Teresu. Fyrstu klausturheitin vann hún 11. janúar 1955 og lokaheitin þremur árum síðar. Þriðja kona sem kom í klaustrið og ílentist þar var Henrika van der Klein. Gekk hún í klaustrið 1962 og fékk nafnið María Teresía hins heilaga hjarta. Lokaheit sitt vann hún 2. júlí 1967. Allur þessi hópur hvarf svo af landi brott 10. júní 1983 og settist að í Drachten í Hollandi.

Ísland verður nunnulaust um tíma.
Karmelklaustrið
Tók nú við biðtímabil í klausturstarfi í Karmelklaustrinu í Hafnarfirði því engar nunnur voru þar lengur. En vegir Guðs eru órannsakanlegir og tekur sagan okkur nú alla leið til Póllands, nánar tiltekið til Elblag í norður Póllandi. Þar er staðsett klaustur og var þangað mikil aðsókn árið 1983. Klaustrið í Elblag hýsti þá 34 nunnur sem flestar voru ungar. 2. ágúst 1983 kom til þessa klausturs í heimsókn, Josef Glemp kardínáli og spurði hvort þær nunnur sem í klaustrinu í Elblag voru væru tilbúnar til að halda áfram starfsemi Karmelklaustursins í Hafnarfirði. Spurningin kom á óvart en nunnurnar í Elblag slógu til og hófu strax undirbúning.

Karmelklaustur

Karmelklaustrið í Hafnarfirði. Tvær heysátur fyrir utan steinvegginn. Myndin er framkölluð í október 1963

19. mars 1984 rann svo stóra stundin upp. 16 nunnur héldu til Íslands frá Póllandi. Þær yfirgáfu heimaland sitt til að biðja fyrir Íslendingum í nýju og framandi landi í Karmelklaustrinu í Hafnarfirði. Í ágúst þetta sama ár gladdi frú Vigdís Finnbogadóttir fyrrverandi forseti lýðveldisins nunnurnar með komu heimsókn sinni í klaustrið og bauð þær velkomnar til Íslands.

Klausturlífið heldur áfram sinn vanagang. Daglega er tekið á móti gestum í ýmsum erindagjörðum líklega er þó eftirminnilegasta heimsóknir fyrir nunnurnar þegar Jóhannes Páll páfi II kom til Íslands í júní 1989.

Næstu tíðindi eru þau helst að í hóp nunnanna bættust aftur nunnur frá Póllandi. 31. maí 1990 hélt klaustrið upp á 50 ára afmæli sitt.

Karmelklaustur

Klaustursgarðurinn að kvöldlagi.

Var haldin hátíðlega messa og áttu gestir þess kost að skoða klaustrið og garðinn auk þess sem haldin var vegleg veisla vegna þessara merku tímamóta. Sama ár bættist stór hópur af nunnum í klaustrið og voru þær nú orðnar 27. Síðar sama ár fóru 12 nunnur úr þessum hóp til Tromsö í Noregi til að stofna þar klaustur.

Árið 1998 fjölgaði aftur í klaustrinu og urðu nunnurnar 23. Sama ár fara svo aftur úr klaustrinu 9 nunnur til þess að stofna klaustur í Hannover í Þýskalandi. Þannig að áhugann á klausturstarfi hefur aldrei skort ! Þegar þetta er skrifað eru 12 nunnur í Karmelklaustrinu í Hafnarfirði. Það fer ágætlega um þær að eigin sögn og nægt rými er enn þá til að bæta í hópinn: Klausturstarfið færist sífellt í aukana og verður fjölbreyttara.

Karmelklaustur

Karmelklaustrið í Hafnarfirði – loftmynd.

Þakkarorð.

Karmelklaustur

Útsýni frá klaustrinu yfir Hafnarfjörð.

Án allra velunnara væri vonlaust fyrir nunnurnar að sinna klausturlífi sínu og vinnunni sem fylgir klausturbúskap. Þetta er myndarlegt og stórt klaustur, mikill garður sem þarf að sinna fyrir utan alltbænastarfið sem nýtur forgangs. Þess vegna þakka þær öllum þeim sem rétta reglulega hjálpfúsar hendur. Sérstaklega vilja þær þó beina þakklæti sínu til þeirra bæjarfulltrúa í Hafnarfirði sem hafa komið að málum klaustursins fyrr og nú sem og fyrirtækjunum Ístak, Nes hf og Valdimar Jónssyni. Þessir aðilar og fjölmargir aðrir hafa gert nunnunum það kleift að halda starfsemi í klaustursins í gangi, viðhalda því og þar með halda utan um þá grundvallarstarfsemi sem á sér hjá karmelnunnunum að þeim að biðja fyrir landi og þjóð.

Samantekt Árni Stefán Árnason.

Vigdís og páfi

Vigdís, forseti og páfi 1989.

Grænavatn

Í Krýsuvík er þyrping sprengigíga. Allir eru þeir líklega yfir 6000 ára, þekktastir eru Grænavatn og Gestsstaðavatn. Í þyrpingunni eru a.m.k. fjórar gígaraðir, þrjár liggja norður-suður og ein NA-SV. Sú vestasta og elsta hefur aðallega gosið gjalli (Gestsstaðavatn) en hinar grjótmylsnu með stórgrýti í bland (Grænavatn) auk gjalls sú austasta (vikið austast í Grænavatni).

Krýsuvík

Krýsuvík – Gestsstaðavatn (nær) og Grænavatn. Stampar h.m.v. Grænavatn.

Yngstar eru tvær gígaraðir sem liggja um Grænavatn. Aðalgígurinn í þeirri eldri er vestan megin í því. Þar gaus bergbrotum og bergmylsnu úr undirlaginu. Það myndar a.m.k. 10 m þykkt lag í gígbarminum sunnan megin. Úrkast þaðan hefur dreifst umhverfis og yfir nálæga gíga með því minni blokkum sem fjær dregur. Kleprahraun, morandi af gabbróhnyðlingum, er úr þeirri yngri austan megin í Grænavatni. Efsti hluti hraunsins er ósambrætt lausagjall. Grjót úr undirlaginu er þarna með.

Aldursmunur á Grænavatnsgígunum er sennilega lítill. Augun, smágígar með pollum báðum megin vegar eru á 300 m langri gígaröð með stefnu N50°A. Hún er tvískipt og partarnir standast ekki á.

Krýsuvík

Grænavatn (t.h.) og Stampar.

Sprengigígarnir raða sér í stefnu skjálftasprungna. Hraunmagn í gosunum hefur verið mjög lítið, þeim fylgdi mikið magn gabbróhnyðlinga og gossprungurnar voru stuttar. Því er líkast að gengið hafi yfir skjálftatímabil sem kom hreyfingu á storknandi kvikumassa í rótum megineldstöðvar Krýsuvíkurkerfisins. Gliðnunarsprungur hreyfðar eftir ísöld er ekki að sjá þarna nærlendis. Í Litla-Stampi sunnan Grænavatns er forn stekkur, sennilega frá bænum Fjalli, sem var þar skammt sunnar.

Sprengigígarnir raða sér í stefnu skjálftasprungna. Hraunmagn í gosunum hefur verið mjög lítið, þeim fylgdi mikið magn gabbróhnyðlinga og gossprungurnar voru stuttar. Því er líkast að gengið hafi yfir skjálftatímabil sem kom hreyfingu á storknandi kvikumassa í rótum megineldstöðvar Krýsuvíkurkerfisins.

Grænavatn

Grænavatn.

Grænavatn (Greenlake) er eldgígur sem fékk nafn sitt af óvenjulegum grænum lit. Liturinn er vegna mikils brennisteins í vatninu og dýpt þess. Vatnið er aðeins um nokkur hundruð metrar í þvermál. Þó vatnið sé lítið er það þó nokkuð djúpt eða 45 metrar. Þetta er sýnilegt þegar þú stendur við brúnina og þú getur séð hvernig liturinn breytist við strandlengjuna þar sem vatnið dýpkar. Grænavatn er talið af jarðfræðingum eitt athyglisverðasta jarðfræðifyrirbæri sinnar tegundar á Íslandi. Talið era ð gígurinn sé um 6.000 ára gamall.
Vegna óvenjulegs eðlis og litar hefur vatnið verið uppspretta þjóðsagnasagna í aldanna rás. Um miðja 16. öld sást til undarlegrar veru koma upp úr vatninu.

Krýsuvík

Krýsuvík – sprengigígar.

Krýsuvíkurbjarg

Myndina [s/h] hér að neðan tók sænskur ljósmyndari, þá konunglegur hirðljósmyndari. Hann sagði, að stórfenglegri sýn hefði aldrei borið fyrir auga myndavélar sinnar, og svo áfjáður var hann í myndir, að fylgdarmenn hans urðu að halda í fæturna á honum, svo að hann steypti sér ekki fram af bjargbrúninni í algleymi sínu við myndatökuna.

Krýsuvíkurberg 1972

Krýsuvíkurberg 1972.

„Krýsuvíkurberg er undraheimur — dásamlegur staður öllum, sem ekki eru sneyddir öllu náttúruskyni. Það er að vísu hvergi sérlega hátt, en það er fimmtán kílómetrar á lengd, og það er kvikt af fugli. Þar eru svartfuglar milljónum saman, og þar  má oft sjá súlur i hundraðatali, komnar úr mestu súlnabyggð heims. Eldey. Það er svipmikil sjón að sjá þær steypa sér úr háalofti þráðbeint i sjó niður af svo miklu afli, að strókarnir standa upp úr sjónum, þar sem þær hafna, eins og þar sé allt i einu kominn gosbrunnur við gosbrunn.

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg v.m. við fossinn í Eystri-Læk. Hægra meginn við hann er Krýsuvíkurbjarg.

Fuglar hafa að miklu leyti átt griðland í Krýsuvíkurbergi í meira en hálfa öld. Bjargið hefur ekki verið nytjað að neinu ráði síðan 1916. Þá bjó í Krýsuvík Jón Magnússon, faðir Sigurðar endurskoðanda og Magnúsar frönskukennara. Hann hafði árum saman sérstakan bjargmann, kynjaðan austan úr Mýrdal, og var hann reiddur fram á bergið á morgnana um bjargtímann, og var hann þar síðan einn á daginn við fuglaveiðar og eggjatekju. Hann handstyrkti sig á vað með þeim hætti, að hann hringaði endann um steina og bar á grjót, og siðan rakti hann sig á vaðnum niður í bjargið og hafði af honum stuðning á göngu sinni um syllurnar. Enn þann dag i dag má sjá uppi á bjargbrúninni steinahrúgur, sem þessi maður og aðrir á undan honum, notuðu i bjargferðum sínum.

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg.

Kvöld hvert var svo bjargmaðurinn sóttur og dagsaflinn reiddur heim, bæði fugl og egg. Þessar bjargafurðir voru síðan fluttar á klökkum inn i Hafnarfjörð og Reykjavik, þar sem verðið á bjargfuglseggjunum var fjórir aurar fyrir heimsstyrjöldina fyrri. Það var í samræmi við annað verðlag þá, en þótt tuttugu og fimm egg þyrfti í hverja krónu voru það ótrúlega miklar tekjur, sem bjargið gaf af sér — mörg þúsund krónur árlega, jafnvel allt að tíu þúsund krónur að meðaltali, að blaðinu hefur verið tjáð.
Fiskimið voru fast upp að berginu, og var oft fjöldi skipa skammt undan landi, einkum skútur á skútuöldinni, þeirra á meðal Færeyingar. Vestan við bergið eru Selatangar, þar sem fyrrum var útræði. Þar sjást enn leifar sjóbúðanna gömlu, þar sem vermennirnir höfðust við.

Bergsendi eystri

Krýsuvíkurberg. Horft til vesturs á Bergsendum eystri.

Frá fjárréttinni sunnan við Eldborg við Krýsuvíkurveg er í mesta lagi fjörutíu mínútna gangur fram á bjarg, og er þar haldið ofurlítið til austurs. Þar [á Bergsenda eystri] má komast niður að sjó, og opnast allt austurbergið sjónum manna.

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg – Eystri-Lækur fellur fram af berginu, nafnlaus. Ofar nefnist „bergið“ -bjarg, en – berg að neðan (á myndinni).

Flestum verður ógleymanlegt að koma á þennan stað um varptímann, í maí og júní. Innlendir menn og erlendir gleyma sér bókstaflega, þegar þeir sjá hið iðandi líf, sem þrífst þarna á klettasyllunum.
Þegar þessi stutti spölur hefur verið ruddur og gerður bílfær, til dæmis fyrir forgöngu Ferðafélags Íslands, munu menn undrast, hversu lengi sú framkvæmd hefur dregizt.
En eins þarf jafnframt að gæta. Bjargið verður að alfriða og hafa þar vörzlu um varptímann og fram eftir sumri, unz ungar eru komnir á sjóinn, svo að griðníðingar og skemmdarvargar fái sér ekki við komið í þessum véum bjargfuglsins.

Krýsuvíkurbjarg

Krýsuvíkurbjarg (-berg).

Það er svo mikilfengleg sjón og lífsunaður að kynnast þessum stað, að hann ætti að vera einn þeirra, er hvað mest laðaði að sér fólk hér í nágrenni Reykjavikur. En allir, sem þangað kæmu yrðu að sjálfsögðu að hlíta ströngum reglum, svo að mannaferðir styggðu ekki fuglinn eða trufluðu hann við búskapinn, grjótkast allt að vera stranglega bannað, sem og hróp og köll til þess að styggja hann, svo að ekki sé nefnt óhæfa eins og byssuskot.
Krýsuvíkurberg er ein af perlum landsins, og þá perlu ber okkur að vernda og varðveita af umhyggju og ástúð og varfærni. Ef það er gert, getum við átt hana og notið hennar um langa framtíð, okkur sjálfum og ófæddum kynslóðum til sálubótar i skarkala hversdagslífsins“. JH

Heimild:
-Tíminn, föstudagur 21. júli 1972, bls. 8.

Krýsuvíkurbjarg

Krýsuvíkurberg.

Selalda

Um 1930 var erfitt að stunda búskap í kringum Hafnarfjörð; bæjarbúar voru ekki sjálfum sér nógir um neyslumjólk og beitiland vantaði fyrir sauðfé. Ekki fékkst aukið ræktarland úr Garðakirkjulandi og var þá farið að svipast um eftir öðrum jörðum nærri bænum.

Krýsuvík

Krýsuvík – Norðurkot (tilgáta ÓSÁ).

Krýsuvík þótti álitlegust og ritaði bæjarstjórn Hafnarfjarðar Einari Benediktssyni bréf í janúar 1933 og spurðist fyrir um hvort jarðeignir hans í Krýsuvík eða Herdísarvík væru fáanlegar til kaups. Tveimur árum síðar átti bærinn kost á að kaupa Krýsuvík fyrir 50.000 krónur og tók jörðina á leigu á fardögum 1935 til eins árs, með það í huga að kaupa hana síðan með gögnum og gæðum.

Með lögum nr. 11, 1. febrúar 1936 var ríkissjóði heimilað að taka eignarnámi lönd í lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar og lönd sem liggja að Hafnarfirði.

Krýsuvíkurtorfan – uppdráttur.

Eftir það upphófst mikið mála þras um væntanleg kaup bæjarins á jörðum Krýsuvíkur og Stóra-Nýjabæjar og afnotaréttinn. Gekk á þessu í nokkur ár þar til lögunum var breytt og tóku lög nr. 101, gildi 14. maí 1940.

Krýsuvík

Stóri Nýibær í Krýsuvík.

Þar sagði að Gullbringusýsla skyldi fá í sinn hlut lítt ræktanlegt beitiland jarðanna Krýsuvíkur og Stóra-Nýjabæjar til sumarbeitar fyrir sauðfé samkvæmt skiptagerð frá 1. maí 1939, en Hafnarfjarðarkaupstaður fengi jarðirnar að öðru leyti með öllum gögnum og hlunnindum, sem þeim fylgdu og fylgja bæri, að undanteknum námuréttindum. Hinn 20. febrúar 1941 gaf Dóms- og kirkjumálaráðuneytið út afsal fyrir Krýsuvík til Hafnarfjarðar.

Krýsuvíkurvegur

Krýsuvíkurvegurinn 1961.

Árið 1935 var ákveðið að leggja Suðurlandsbraut um Krýsuvík til að fá snjóléttan vetrarveg milli Árnessýslu og Reykjavíkur. Árið 1945 var lagningu vegar fyrir Kleifarvatn lokið og árið eftir hófst borun eftir jarðhita í Krýsuvík. Gróðurhús voru reist og tekin í notkun í mars 1949 ásamt húsi fyrir starfsfólk. Tveimur árum síðar hófst bygging bústjórahúss og 130 gripa fjóss sem aldrei var lokið því 1950 var framkvæmdafé á þrotum. Þá hafði ræst úr mjólkurskorti bæjarbúa með bættum samgöngum við Suðurland. Framkvæmdir hófust að nýju í Krýsuvík 1954 er 15 hektarar voru teknir í fulla ræktun.

Krýsuvík

Krýsuvík – Suðurkot; tilgáta.

Keypt voru 100 gimbralömb og flest varð féð um 650 áður en þessum rekstri var hætt nokkrum árum síðar. Gróðrarstöðin og búskapurinn gengu ekki vel og illa hélst á starfsfólki. Var búrekstri af hálfu bæjarins hætt í Krýsuvík 1960. Eftir það voru húsin leigð til einstaklinga sem ráku þar ýmis konar starfsemi, þar á meðal gróðurhús, svínabú og refabú svo fátt eitt sé talið.

Vinnuskóli

Krýsuvík

Vinnuskóladrengir við vinnu í fjósinu í Krýsuvík (HH).

Árið 1953 kom Hafnarfjarðarbær á fót vinnuskóla í Krýsuvík fyrir drengi á aldrinum 10-13 ára. Dvöldust um 40-50 drengir í Krýsuvík frá júníbyrjun til ágústloka, en komu heim til sín aðra hverja helgi. Bjuggu þeir í íbúðarhúsi því sem reist hafði verið fyrir starfsfólk gróðrarstöðvarinnar. Drengirnir stunduðu ýmis störf meðan á sumardvölinni stóð, fóru í leiki, stunduðu íþróttir og fóru í gönguferðir um nágrennið. Árið 1960 var tekið við drengjum frá 8-12 ára og dvölinni skipt upp í tvö fimm vikna holl. Voru rúmlega 50 piltar í hvoru holli og var nú meiri áhersla lögð á léttari störf og leiki ýmis konar. Lauk þessari starfsemi árið 1964.
Bústjórahúsið í Krýsuvík var reist árið 1948 fyrir Jens Hólmgeirsson sem átti að stjórna kúabúinu í Krýsuvík. Hann flutti aldrei í húsið og aldrei kom til þess að kýr yrðu bundnar á bása í fjósinu.

Vinnuskólinn í Krýsuvík

Drengir úr Vinnuskólanum í Krýsuvík ofan Krýsuvíkurbjargs.

Árið 1952 sagði Jens stöðu sinni lausri og eftir það var húsið notað í stuttan tíma fyrir stjórnendur vinnuskólans í Krýsuvík. Árin liðu, húsið grotnaði niður og var mjög illa farið þegar Sveinn Björnsson listmálari fékk það til afnota 1974. Hann gerði húsið upp, flutti þangað málaratrönur, pensla, liti og húsbúnað og kom sér upp vistlegri vinnustofu. Sveinn hafði tekið þátt í að reisa þaksperrurnar á fjósinu í Krýsuvík á sínum tíma og þekkti því staðhætti. Þarna starfaði hann að list sinni þar til hann lést 1997.

Krýsuvík

Krýsuvík – bústjórahúsið; síðar Hús Sveins Björnssonar.

Húsið ber þess merki að þar hefur listamaður verið að störfum. Sveinn skreytti loft, veggi og hurðir hússins og lagði tröppurnar litskrúðugum teppabútum. Nú kallast bláa húsið með rauða þakinu ekki lengur Bústjórahúsið heldur Sveinshús eftir listmálaranum og rannsóknarlögreglumanninum Sveini Björnssyni, sem sá til þess að húsið endaði ekki sem gapandi tóft, heldur öðlaðist virðulegan sess sem listasetur.

Skátar í Hraunbúum reistu skátaskála við Hverahlíð við suðurenda Kleifarvatns 1945-46.

Hverahlíð

Skátaskáli í Hverahlíð.

Þennan skála nýttu skátar á sumrin og veturna um langt árabil. Á áttunda áratugnum fengu skátarnir afnot af hluta heimatúns Krýsuvíkurjarðarinnar og komu sér þar upp aðstöðu. Reistu þeir lítinn skála í gömlu fjárhústóftinni og sléttuðu túnið. Á þessum stað halda Hraunbúar árlegt vormót sitt á hvítasunnunni.

Hvergi er hins vegar minnst í „Aðalskipulaginu“ á meintar fornleifar á svæðinu, einungis endurtekin almenn klausa um skilgreiningu á fornleifum skv. þjóðminjalögum.

Jónsbúð

Jónsbúð á Krýsuvíkurheiði.

Þrátt fyrir mörg orð í „Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2013-2025“ eru t.d. tóft Jónsbúðar á Krýsuvíkurheiði, steinhlaðið veiðihús, heilleg fjárhústóft í Litlahrauni, steinhlaðin réttin sem og fjárskjólið þar í hrauninu, miðunarvarðan ofan Krýsuvíkurbjargs, tófta Krýsuvíkursels ofan Heiðnabergs, bæjartófta Eyris og Fitja, fjárhússins undir Strákum sem og annarra merkilegra fornleifa í heiðinni hvergi getið í „Aðalskipulaginu“ – http://ibuagatt.hafnarfjordur.is/meetingsearch/displaydocument.aspx? 

Heimild:
-Aðalskipulag Hafnarfjarðar 2013-2025.

Krýsuvíkurheiði

Hús í Krýsuvíkurheiði.

Þorbjarnastaðaborg

 Tilkomumikil heilleg hringlaga fjárborg stendur á hrauntungu sunnan til í vesturjarðri Brunans (Nýjahrauns/Kapelluhrauns), fast neðan við svonefndar Brundtorfur. Borgin er orðin mosavaxin og fellur því nokkuð vel inn í landslagið umhverfis. Kunnugt minjaleitarfólk á þó auðvelt með að koma auga á leifarnar. Ekki eru allmörg ár síðan hleðslurnar voru alveg heilar, en vegna seinni tíðar ágangs hefur norðvesturhluti veggjarins hrunið inn að hluta. Hraukar nálægt FjárborginniEinhverjum hefur þótt við hæfi að ganga á veggnum með fyrrgreindum afleiðingum – og er það miður því þarna er bæði um einstaklega fallegt mannvirki að ræða frá fyrri tíð og auk þess heillegt og áþreifanlegt minnismerki um fyrri tíma búskaparhætti.
Undirlag Fjárborgarinnar er blandhraun, sem rann úr alllangri gígaröð árið 1151, þeirri sömu og gaf af sér Ögmundarhraun og hluta Afstapahrauns. Uppruni þessa hluta hraunsins er úr Rauðhól undir Vatnsskarði (sjá meira undir.

Þorbjarnarstaðaborg

Þorbjarnastaðaborg.

Fjárborgin mun vera hlaðin af börnum Þorbjarnarstaðahjónanna, þeirrar Ingveldar Jónsdóttur (dóttur Jóns Guðmundssonar á Setbergi (Jónssonar frá Haukadal í Biskupstungum (ættaður frá Álfsstöðum á Skeiðum)), og Þorkels Árnasonar frá Guðnabæ í Selvogi, skömmu eftir aldarmótin 1900. Augljóst má telja að til hafi staðið að topphlaða borgina, ef marka má voldugan miðjugarðinn, lögun vegghleðslunnar og hellurnar, sem enn bíða upphleðslu utan við hana sem og umhverfis.

Djúpudalaborg

Djúpudalaborg í Selvogi.

Þorbjarnarstaðafjárborgin er svipuð að byggingarlagi og önnur fjárborg á Reykjanesskaganum, þ.e. Djúpudalaborgin í Selvogi, en bóndinn á Þorbjarnarstöðum var einmitt ættaður þaðan og hefur verið kunnugur hraunhelluhleðslulaginu er einkennir þá fjárborg. Hún stendur enn nokkuð heilleg, enda enn sem komið er orðið fyrir litlum ágangi manna.

Hrauntungustígur

Hrauntungustígur.

Í Örnefnaskrá fyrir Þorbjarnastaði má sjá eftirfarandi um mannvistarleifar og örnefni í Brundtorfum: „Halda skal nú hér fram með Brennu, allt þar til kemur í Hrauntungukjaft. Þar taka við Hrauntungur, sem liggja norðaustur eftir milli Brennu og Brunans. Þær eru nokkrar að víðáttu, og er skógurinn einna mestur þar, allt að 4 m há tré. Úr kjaftinum liggur Hrauntungustígur norðaustur og upp á Háabruna, út á helluhraunið og austur eftir því upp að Hamranesi vestan Hvaleyrarvatns. Er þetta skemmtileg gönguleið. Í Efrigóm Hrauntungukjafts er Hellishóll. Hér í hólnum eru Hrauntunguhellar (að sögn Gísla Guðjónssonar; Gísli Sigurðsson kallar þá hins vegar Hellishólshelli og Hellishólsskjól). Í vætutíð má fá þar vatn. Uppi á hólnum er Hellishólsker. Hér nokkru sunnar er Fjárborgin á tungu út úr brunanum. Hún stendur enn, og er innanmál hennar um 7 m.
Suður og upp frá brunanum eru Brundtorfur. Þar var hrútum hleypt til ánna forðum daga. Þar voru Brundtorfuvörður og Brundtorfuhellir.“

Hrauntunguskjól

Hrauntunguskjól (Hellisskjól).

Þá má nefna Brundtorfuskjólið. Við skoðun á vettvangi mátti m.a. sjá ýmislegt og skynja annað. Fyrst og fremst er Fjárborgin fulltrúi u.þ.b 80 slíkra, sem enn sjást, í fyrrum landnámi Ingólfs.
Í öðru lagi er hún dæmigerð fyrir skýli þau er bændur reistu fé sínu allt frá landnámsöld fram í byrjun 20. aldar. Fé var ekki tekið í hús, enda engin slík til, en skjól gert fyrir það í hellum og skútum. Jafnan var gólfið sléttað og hlaðið fyrir til skjóls. Á annað hundrað slík mannvirki má enn sjá á svæðinu. Eitt þeirra er fyrrnefnt Hellishólsskjól skammt frá Fjárborginni.
Fjárborgin framanverðStaðurinn er tilvalinn til að hlaða mannvirki á; gnægð hraunhellna. Norðan við Fjárborgina má sjá hvar hellunum hefur verið staflað í hrauka með það fyrir augum að bera þær að borginni. Hraukarnir, sem og hraunhellurnar norðan í borginni, benda til þess að hætt hafi verið við verkið í miðju kafi. Staðsetningin er hins vegar ekki góð með hliðsjón að því að fé leiti þangað inn af sjálfsdáðum. Til að mæta því hafa verið hlaðnir tveir langir leiðigarðar út frá opi borgarinnar til suðurs, að gróningunum framanverðum.

Í stuttu innskoti má geta þess að örnefnið „Brundtorfur“ virðist hafa verið afleitt af „Brunatorfur“, enda var hraunið löngum nefnt „Bruninn“ og í þeim eru nokkrar grónar „torfur“; óbrinnishólmar. Einnig hefur svæðið verið nefnt „Brunntorfur“, en á því má í rigningartíð finna vatn í lægðum.

Þorbjarnarstaðaborg

Þorbjarnarstaðaborg í Hraunum.

Mannvirkið sjálft er reglulega og vandlega hlaðið. Útveggurinn hallar inn á við eftir því sem vegghleðslan hækkar. Hætt hefur verið við hana í u,þ.b. tveggja metra hæð. Inni í miðjum hringnum er hlaðinn garður, þó ekki samfastur útveggnum. Hlutverk hans hefur verið að halda undir þakið er að því kæmi. Ef mannvirkið hefði verið fullklárað hefði líklega verið um að ræða stærsta sjálfbæra helluhraunshúsið á þessu landssvæði.

Hellukofinn

Hellukofinn á Hellisheiði.

Helluhúsið (sæluhúsið) á Hellisheiði er byggt með svipuðu lagi, en minna. Þessi Hellukofi er borghlaðið sæluhús byggt við alfaraleið í kringum 1830. Þvermál þess er 1,85 sm og hæðin er 2 m. Hellukofinn hefur getað rúmað 4 – 5 manns. Talið er að Hellukofinn hafi verið byggður á svipuðum stað og gamla „Biskupsvarðan“ . Biskupsvarðan var ævafornt mannvirki, krosshlaðið þannig að menn og hestur gætu fengið skjól fyrir vindum úr nær öllum áttum. Þessi varða stóð fram á 19. öld en henni var ekki haldið við og var farin að hrynja. Grjótið úr vörðunni var notað til þess að byggja Hellukofann.
DyrnarEkki er að sjá að annað og eldra mannvirki hafi staðið þar sem Fjárborgin stendur nú. Hvatinn að Hellukofanum var að byggja sæluhús fyrir fólk upp úr fyrrum krosslaga fjárskjóli. Slík fjárskjól þekkjast vel á Reykjanesskaganum, s.s. sunnan við Reykjanesbrautina ofan Innri-Njarðvíkur og við Borgarkot á Vatnsleysuströnd.
En hver var hvatinn að byggingu Fjárborgarinnar – þessa mikla mannvirkis? Sennilega hefur hann verið af tvennum toga; annars vegar frekari mannvirkjagerð og úrbætur á svæði, sem þegar hafði að geyma fjárskjól, bæði Hellishólsskjólið norðvestar og Brunntorfuskjólið suðaustar, og auk þess hefur, ef að ættarlíkum lætur, í verkefninu falist ákveðin útrás fyrir atorkusamt fólk er hefur við yfirsetuna viljað hafa eitthvað meira fyrir stafni.

Djúpudalaborg

Djúpudalaborg.

Þá má af líkum telja, sbr. framangreint, að heimilisfaðirinn hafi haft einhver áhrif þar á með frásögnum sínum af uppeldisstöðvum hans í Selvogi þar sem Djúpudalaborgin hefur verið böðuð mannvirkjaljóma, enda fá sambærileg og jafn stórkostleg mannvirki þá til á þessu landssvæði. Hafa ber þó í huga að Djúpudalaborgin er hálfu minni að ummáli og því auðveldari til topphleðslu. Umfang Þorbjarnastaðaborgarinnar hefur gert það að verkum fá upphafi að verkefnið var dæmt til að mistakast. Aðrar fjárborgir voru hálfhlaðnar og ekki að sjá að ætlunin hafi verið að hlaða þær hærra. Þó er þar ein undantekning á.
Fjárborgin innanverðFjárborgin á Strandarheiði ofan við Kálfatjörn er hringlaga, hlaðin eingöngu úr grjóti og er hverjum steini hagrætt í hleðslunni af hinni mestu snilld. Vegghæðin er um 2 m og þvermál að innan um 8 m., þ.e.a.s. nokkurn veginn jafnstór Þorbjarnarstaðaborginni. Gólfið inni í borginni er grasi gróið og rennislétt. Ekki er vitað hvenær borgin var upphaflega hlaðin en menn telja hana nokkurra alda gamla. Munnmæli herma, að maður að nafni Guðmundur hafi hlaðið borgina fyrir Kálfatjarnarprest.

Staðarborg

Staðarborg.

Guðmundur vandaði vel til verka, safnaði grjóti saman úr nágrenninu, bar það saman í raðir og gat þannig valið þá hleðslusteina sem saman áttu. Ætlun hans var að hlaða borgina í topp. En er hann var nýbyrjaður að draga veggina samað að ofanverðu, kom húsbóndi hans í heimsókn. Sá hann þá strax í hendi sér að fullhlaðin yrði borgin hærri en kirkjuturninn á Kálfatjarnarkirkju og tilkomumeiri í alla staði. Reiddist hann Guðmundi og lagði brátt bann við fyrirætlan hans. En þá fauk í Guðmund svo hann hljóp frá verkinu eins og það var og hefur ekki verið hreyft við borginni síðan. Staðarborg var friðlýst sem forminjar árið 1951.
Innviðir StaðarborgarÞessi frásögn af Staðarborginni gæti einnig hafa haft áhrif á hleðslufólkið frá Þorbjarnarstöðum. Hraunhellum hefur verið raðað, sem enn má sjá, undir vegg borgarinnar að utanverðu svo auðveldara væri að velja úr hentugt grjót hverju sinni. Á svipaðan hátt og við gerð Staðarborgarinnar hefur eitthvað komið upp á er varð til þess að hætt var við verkið í miðjum klíðum. Ólíklegt er að þar hafi prestur gefið fyrirmæli um, en öllu líklegra að annað hvort hafi hjáseta yfir fé í Brundtorfum verið hætt um þetta leyti eða breytingar hafa orðið á mannaskipan að Þorbjarnarstöðum. Hafa ber í huga að til er frásögn af dugmiklum vinnumanni á Þorbjarnarstöðum á fyrri hluta 19. aldar (sjá meira undir. Ef hann hefur átt þarna einhvern hlut að máli er Fjárborgin u.þ.b. hálfri öld eldri en áætlað hefur verið hingað til.

Þorbjarnastaðaborg

Þorbjarnastaðaborg.

Hvað sem öllum vangaveltum líður um tilurð og tilefni Þorbjarnarstaðafjárborgarinnar er hún enn mikilsumvert mannvirki; bæði áþreifanlegur minnisvarði um áræði forfeðranna er byggðu sína tilveru og framtíð afkomenda sinna á því sem til féll á hverjum stað hverju sinni og jafnframt vitnisburður um merkar búsetuminjar fyrri tíma.
Rétt er þó að geta þess svona í lokin að ekki er vitað til að starfsfólk Fornleifaverndar ríkisins hafi skoðað og metið mannvirkið til verðleika.

Heimild m.a.:
-Örnefnalýsing fyrir Þorbjarnastaði.

Þorbjarnarstaðafjárborg