Halldór G. Ólafsson, kennari, skrifaði um „Flensborgarskólann í Hafnarfirði“ í tímaritið Hvöt 1958. Þar lýsti hann bæði gamla skólahúsnæðinu sem og því nýja:
„Síðastliðið vor var haldið hátíðlegt 75 ára afmæli Flensborgarskólans í Hafnarfirði.
Þann 10. ágúst 1878 gáfu prófastshjónin í Görðum á Álftanesi, síra Þórarinn Böðvarsson og frú Þórunn Jónsdóttir, húseignina Flensborg í Hafnarfirði, ásamt heimajörðinni Hvaleyri, sunnan bæjarins, til skólastofnunar til minningar um Böðvarson sinn, sem dáið hafði 1869, er hann var í 3. bekk lærða skólans í Reykjavík.
Síra Þórarinn festi kaup á húseigninni Flensborg um sumarið 1876, en heimajörðina Hvaleyri átti hann þegar. Er það sýnt, að þá þegar hafa þau hjónin verið búin að ásetja sér að stofna skóla í Flensborg til minningar um son sinn. Húseignin dró nafn sitt af borginni Flensborg á Suður-Jótlandi, en kaupmenn frá borg þeirri stofnuðu þar verzlun og ráku um all-langan aldur. Flensborg í Hafnarfirði varð verzlunarstaður á seinustu áratugum 18. aldar, eða á tímabilinu 1778—1801.
Þórarinn Böðvarsson.
Líklegast er, að Flensborg hafi ekki orðið til fyrr en eftir 1787, er verzlunin var gefin frjáls öllum þegnum Danakonungs, eða á síðasta áratug 18. aldar. Talið er, að Flensborgarhúsið, sem síðar varð skólahús og brann vorið 1930, hafi verið reist um 1816—1817. Um þetta er nú ekki frekara kunnugt, og má þetta vel rétt vera, þótt hitt virðist sennilegra, að húsið sé eldra og sé hið sama, sem reist hefur verið, þegar verzlun hófst þar fyrst. Verzlunin í Flensborg var lögð niður árið 1875.
Í gjafabréfi prófastshjónanna er það tekið fram og ítrekað í stofnunarskránni, sem gefin var út af stiftsyfirvöldunum 1878, að skóli þessi eigi fyrst og fremst að vera barnaskóli fyrir Garðaprestakall á Álftanesi, þ. e. fyrir hinn forna Álftaneshrepp, sem nokkru síðar var skipt í tvo hreppa, Bessastaðahrepp og Garðahrepp með Hafnarfirði.
Klennslustofa 1896 -Albert Anker.
Á þeim 5 árum, sem þessi eldri Flensborgarskóli starfaði, 1877—1882, fór þar engin framhaldskennsla fram, nema lítils háttar síðasta árið, en barnakennsla fór þar fram alla veturna. Um árið 1880 tók hreppsnefndin í Bessastaðahreppi sér fyrir hendur að koma upp sérstökum barnaskóla þar í hreppnum. Ákváðu nú prófastshjónin að breyta hinu fyrra gjafabréfi í þá átt, að stofna af gjöf sinni alþýðu- og gagnfræðaskóla í Flensborg. Gerðu þau bréf þar um árið 1882. Þar með var Flensborgarskólinn stofnaður í þeirri mynd, sem hann hefur síðan haft, með nokkrum breytingum að vísu, og tók hann til starfa haustið 1882.
Um tíma var sýsluskrifstofan í landsuðurhorni hússins, en skólinn í austurendanum. Þegar gagnfræðaskólinn var stofnaður 1882, fluttist skólastjórinn, Jón Þórarinsson, sonur prófastshjónanna, í húsið og bjó uppi á lofti. Árið 1887 var sýslumannsíbúðinni í vesturhluta hússins breytt í heimavist, er sýslumaður fluttist í eigið hús. Síðar var svo sérstakt skólahús byggt árið 1906, skammt fyrir austan Flensborgarhúsið, og kennslustofurnar síðan fluttar þangað. Fór kennslan þar fram síðan, og var kennt þar allt til ársins 1937, er nýtt skólahús tók til starfa uppi á Hamrinum í Hafnarfirði. Síðar var gamla skólahúsið rifið. Er sérstakt skólahús var byggt árið 1906, var allt gamla húsið tekið til afnota fyrir heimavistina, fyrir utan íbúð skólastjóra uppi á lofti. Síðar bjó þar Ögmundur Sigurðsson, skólastjóri, sem tók við af Jóni 1908. Um sumarið 1930 kviknaði svo í húsinu, og var það rifið um haustið vegna mikilla skemmda. Lagðist þá heimavist við skólann niður að mestu. Þó mun Lárus Bjarnason, er síðar varð skólastjóri, hafa haft nokkra nemendur í heimavist að Óseyri í nokkur ár, en í því húsi, skammt frá skólanum, bjó skólastjóri skólans, er skólastjórahúsið var brunnið.
Barnaskóli var starfræktur áfram í skólahúsinu, er gagnfræðaskólinn tók til starfa. Nutu þar kennslu börn úr Garðahreppi og Hafnarfirði allt til ársins 1895.
Árið 1892 var stofnaður kennaraskóli í Flensborg, þannig að um þriggja ára skeið voru þar samtímis 3 skólar, og mun þá oft hafa verið nokkuð lítið olnbogarýmið.
Fljótt var litið á gagnfræðaskólann í Flensborg sem landsskóla, en ekki sem héraðsskóla, og hafa nemendur víðs vegar af landinu jafnan sótt hann, þótt þeir séu tiltölulega miklu færri núna, enda skólar risnir upp um land allt. Kennaradeild sú, sem stofnuð var við skólann 1892, og starfaði þar síðan, þangað til Kennaraskólinn var stofnaður í Reykjavík 1908, er hinn fyrsti kennaraskóli þessa lands. Þótt barnaskólinn væri lagður þar niður árið 1895, starfaði æfingabekkur í sambandi við kennaraskólann þar fram yfir aldamótin.
Er Kennaraskóli Íslands tók til starfa árið 1938, varð einn af kennurum Flensborgarskólans, síra Magnús Helgason, skólastjóri hans, en Jón Þórarinsson, skólastjóri Flensborgarskólans, var valinn í nýtt embætti fræðslumálastjóra.
Á næstu árum var kennslan enn aukin, svo að nærri svaraði til þess, sem numið var í gagnfræðadeild menntaskólans, enda tóku Flensborgarar á þeim árum fyrst að ganga undir próf upp í 4. bekk menntaskólans.
Er Ögmundur Sigurðsson lét af skólastjórastörfum 1930, var síra Sveinbjörn Högnason settur skólastjóri og gegndi þeirri stöðu í eitt ár. Síðar varð Lárus Bjarnason skólastjóri, svo Benedikt Tómasson, en núverandi skólastjóri er Ólafur Þ. Kristjánsson.
Með lögum frá 1930 um gagnfræðaskóla hættir Flensborgarskólinn að vera sjálfseignarskóli, eins og hann var frá upphafi, heldur er hann þar eftir að öllu leyti rekinn á kostnað bæjar og ríkis.
Flensborgarhöfnin 1909.
Er skólinn tók til starfa í hinum nýju húsakynnum á Hamrinum í Hafnarfirði haustið 1937, var þar heimavist. Síðar varð að leggja hana niður vegna þrengsla og breyta herbergjum nemenda þar í skólastofur með því að brjóta niður skilrúm og veggi. Með hinum nýju fræðslulögum, er nemendur taka að sækja skólann ári yngri en áður og þeim er gert að skyldu að stunda þar nám í 2 ár, eykst nemendafjöldinn mjög og hefur nú aukizt ár frá ári, enda er skólinn nú fjögurra ára skóli, sem útskrifar gagnfræðinga eftir fjögurra ára nám, Nú á síðasta hausti fékk skólinn að lokum allt húsnæðið til kennslu, en Bókasafn Hafnarfjarðar flutti úr húsinu, og var húsnæði þess breytt í kennslustofur.
Flensborgarskóli á Hamrinum í smíðum.
Jafnframt flutti Iðnskóli Hafnarfjarðar úr skólahúsinu, Samt eru mikil þrengsli í skólanum, en í honum eru í vetur um 360 nemendur. Er nú mikið rætt um viðbyggingu við skólann, en landrými er nóg. Allar líkur eru á því, að byrja verði að tvísetja í skólann strax næsta vetur. Í skólanum er nú stór landsprófsbekkur með næstum 30 nemendum. Þar að auki eru tveir aðrir 3. bekkir, einn bóknámsbekkur og einn verknámsbekkur, 4. bekkir eru tveir, einn bóknámsbekkur og einn verknámsbekkur, samtals 38 nemendur, sem ganga munu undir gagnfræðapróf í vor. 2. bekkir eru svo fjórir, tveir bóknámsbekkir og tveir verknámsbekkir, 1. bekkir eru nú samtals fimm að tölu.
Þrengslin í skólanum eru öllu félagslífi fjötur um fót.
Hamarskot á Hamrinum ofan við núverandi Flensborgarskóla – minjar, sem vert hefði verið að varðveita.
Hér eru að sjálfsögðu haldnar dansæfingar. Halda 1. bekkingar sérstakar dansæfingar, en hinir þrír árgangarnir hafa sameiginlegar dansæfingar. Félagslífið tekur nokkrum breytingum ár frá ári. Sum árin hafa verið gefin út skólablöð, en önnur ár hefur slíkt legið niðri. Skólablað kom hér út síðast í fyrravetur. Árshátíð er haldin síðari hluta vetrar. Nefnist hún „Kennaraskemmtunin“. Er þá kennurum og eiginkonum þeirra boðið til kaffidrykkju í skólanum. Tóku nemendur áður þátt í henni, en vegna þrengsla hefur orðið að takmarka veitingarnar við kennarana eina.
Viðbygging við gamla Flensborgarskólann.
Æfð eru leikrit og önnur skemmtiatriði undir skemmtun þessa. Síðan er dansað. Málfundafélag hefur oft verið starfandi í skólanum, en þessa stundina er það lítt sem ekkert starfandi. Árlega keppa bekkir innbyrðis um sundbikarinn. Hófst sú keppni síðastliðinn vetur. Sum árin fara fram keppnir milli bekkja í knattspyrnu eða handknattleik. Starfandi er hér bindindisfélag með mörgum meðlimum. Einnig iðka nemendur margir skák og halda stundum skákkeppnir í skólanum. Stundum fara bekkir í skíðaferðir, ýmist í nágrenni bæjarins eða upp á Hellisheiði, einnig er stundum farið í gönguferðir í nágrennið. Á vorin fara gagnfræðingar í langa ferð, einnig fara þeir, er landspróf taka, í aðra ferð. Njóta þeir þá góðs af ágóða þeim, er af dansæfingum verður.
Nemendur sækja einnig leikhús nokkrum sinnum á vetri í fylgd með kennurum, og virðist áhugi fyrir leiklist vera mikill og almennur meðal nemenda.
Fyrri hluti greinarinnar, þ. e. um fyrstu ár skólans, er að nokkru leyti úrdráttur úr „Minningariti Flensborgarskólans 1882—1932,“ útg. 1932, eftir Guðna Jónsson.“
Grunnurinn af gamla Flensborgarskólanum er enn á sínum stað – líkt og sjá má á meðf. loftmynd.
Í ár, 2023, eru liðin 145 ár frá stofnun Flensborgarskólans. Gamla skólahúsið brann 1930, eins og að framan er greint. Nú, 93 árum síðar, er lóð gamla skólans enn ófrátekin (líkt og sjá má á meðfylgjandi loftmynd). Selfyssingum hefur tekist að vekja upp gömul hús, jafnvel horfin, í miðju bæjarins með nýjum byggingaraðferðum svo eftir hefur verið tekið. Á meðal endurreistra bygginga þar má m.a. sjá tvær slíkar frá Hafnarfirði fyrrum, nú horfnar, þ.e. Hótel Björninn og „Valmaþakshúsið“. Hvers vegna ættu Hafnfirðingar ekki nýta lóðina millum Flensborgartorgs og Flensborgarhafnar og úthluta henni til byggingaverktaka með það fyrir augum að „endurbyggja“ gamla Flensborgarskólann í tilefni dagsins? Slík bygging gæti falið í sér margvíslega möguleika í námunda við smábátahöfnina, s.s. safn að hluta, veitingastaður, íbúðir og/eða gistihús. Staðsetningin er a.m.k. góð, auk þess sem húsið myndi óhjákvæmilega undirstrika hina gömlu bæjarmynd, sem Hafnarfjörður er í upphafi sprottinn af.
Hafnarfjörður 1923-1930. Hér má sjá „Fjörðukrána“ í miðið.
Talandi um uppbyggingu og endurgerð gamalla húsa í hjarta Hafnarfjarðar. Nærtækt dæmi er umhverfi „Fjörukráarinnar“. Jóhannes „Fjörugoði“ hefur áhuga á að rífa austurhluta gömlu Smiðjunnar og byggja hótel í hennar stað. Skv. framkomnum hugmyndum myndi slík bygging skyggja á útsýni íbúa á neðri Hamrinum til norðurs – með tilheyrandi ónægju þeirra sömu.
Hvernig væri nú að Jóhannes og bæjaryfirvöld myndu snúa saman bökum; leyfa „Hafnarfjarðarleikhúsmyndinni“ sunnan Víkingastrætis (nafnið á götunni hefur reyndar aldrei verið samþykk formlega) og austan gistiheimilisins, að standa, en þess í stað að standa þétt saman um að endurbyggja hið glæsilega hús er fyrrum stóð norðan „Kráarinnar“ til nota sem hótel eða gistiheimili sem og veitingastaðar. Lóðin er fyrir hendi. Slík uppbygging myndi, líkt og endurgerður Flensborgarskóli, undirstrika þróun byggðar í Hafnarfirði sem slíka – og jafnvel bæta að nokkru fyrir fyrri mistök.
Fulltrúar Hafnarfjarðarbæjar (með tveimur undantekningum) hafa í gegnum tíðina verið duglegir að útrýma hugsunarlaust minjum fyrri tíma (hugsið ykkur ef Hamarskot hefði t.d. fengið að standa sem síðasti torfbærinn (svæðið er enn á lausu á Hamrinum þrátt fyrir að hafa verið raskað að óþörfu)), örhugum hefði ekki verið leyft að kveikja í húsum, sem bænum hafði hlotnast til varðveislu, en virtust kalla á óþarflega kostnaðarsamar úrbætur, s.s. Eyrarkot, o.s frv.
Og hugsið ykkur ef einhverjum í nútímanum hefði t.d. látið sér detta í hug að „endurbyggja“ Reykdalshúsið“ við Brekkugötu (á nýnúverandi Dvergsreit) sem brann 1931. Hversu mikilli bæjarmyndinni væri saman að jafna?…
Í dag virðast því miður flestir horfa sér nær…
Heimildir:
-HVÖT, Málgagn Sambands Bindindisfélaga í skólum, S.B.S., 23. árg. marz 1.—3. tbl. 1958, bls 11-14.
-Tíminn, sunnudagur 11. apríl 1965, bls. 319 og 320.
Flensborg (fyrrum Hamarskot er sett inn á loftmyndina.).