Tag Archive for: Hafnarfjörður

Selvogsgata

“Þetta var æði”. Svona hljómaði ein lýsingin á ferðinni að henni lokinni.

Selvogsgata

Selvogsgata/Grindarskörð.

Gengið var inn á Selvogsgötu við Bláfjallaveg, en beygt út af henni til austurs skömmu síðar. Ætlunin var að feta Grindarskarðsgötuna upp að Stórabolla og síðan áfram áleiðis til suðurs. Venjan er að ganga Selvogsgötuna upp Kerlingarskarð og síðan áfram hana með Draugahlíðum, niður með Austurásum og síðan niður Hlíðarskarð. Þetta var ekki ferð um hefðbundna leið. Þetta var ferð um gömlu Selvogsgötuna eða Suðurfararleiðina eins og Selvogsbúar nefndur hana, en hún er liggur austar en Selvogsgata sú (stundum nefnd Hlíðarvegur, en var vetrarvegur (KB)) er kemur upp úr Kerlingarskarði og liggur niður með Draugahlíðum, að Hlíðarskarði.

Selvogsgata

Grindarskarðsgata á Hellunni.

Þegar komið var að jeppaslóðinni neðst í Grindarskörðum sást hvar hann liggur á gömlu götunni að hluta. Þegar komið var u.þ.b. þriðjung upp hlíðina beygði gamla gatan til hægri og síðan í hlykki upp hana. Auðvelt var að fylgja henni í hlíðinni því hún var mjög greinileg á köflum. Auðsýnt var að um hestagötu var að ræða. Gatan liggur að vörðu á hraunöxl svo til í miðri hlíðinni og síðan liðast hún áfram upp hana. Gatan hverfur þar sem vatn hefur lekið niður hlíðina og rutt með sér möl og grjóti, en kemur síðan í ljós í næst efstu brekkunni undir Stórabolla. Skammt neðar er varða. Þar liggur hún á ská upp hana og hefur greinilega verið lögið til. Efst við rætur Stórabolla er skarð í klöppina þar sem gatan liggur í gegn. Við skarðið er varða. Gangan upp í skarðið var auðveld, tók u.þ.b. 35 mín. í stað 50 mín. upp Kerlingarskarðið. Þaðan liggur gatan með gígnum að austanverðu og beygir með honum að sunnanverðu. Þar liggur hún til vesturs um gróna velli. Leifar gamallar girðingar er sunnan við Stórabolla. Hún liggur til vesturs og hefur verið hlaðið undir hana á kafla. Skömmu síðar var komið að gatnamótum.

Selvogsgata

Á Selvogsgötu.

Vörðuð leið lá til suðausturs að Stórkonugjá og önnur til suðurs. Eystri gatan er að öllum líkindum Heiðarvegurinn er liggur þaðan um Heiðina há og yfir á Ólafsskarðsveg. Vestari götunni var fylgt yfir slétt helluhraunið áleiðis að Litla-Kóngsfelli.
Veður hafði hangið þurrt þangað til komið var suður fyrir Stórabolla. Þá léku litlir regndropar sér að því að falla ofurvarlega lóðrétt til jarðar. Golan virtist hafa gufað upp. Stillilogn og bráðfallegt veður. Miðbolli og Kóngsfellið böðuðu sig í heiðskírunni og dulrænum bjarma sló á Draugahlíðarnar. Spóavellingur fyllti loftið. Kistufellið vildi greinilega ekki láta sitt eftir liggja til að gera þennan dag ógleymanlegan. Hvítur snjókollurinn reis hæst upp úr nágrannahlíðunum, eins og hann vildi að eftir honum væri tekið. Svona eiga háir tindar að haga sér.

Selvogsgata

Varða á Selvogsgötu.

Komið var að hárri vörðu. Við hana voru greinileg gatnamót. Gata lá við hana frá Selvogsgötunni og áleiðis yfir á Heiðarveginn.
Grindarskarðsgatan hélt áfram frá henni til suðurs. Hún var æ meir áberandi. Kastað hafði verið úr götunni á köflum – greinilega hesta- og lestargata. Hún lá niður með Litla-Kóngsfelli. Suðvestan við fellið, þar sem suðurgígur þess opnast, var komið að mótum þriggja gatna. Þrjár vörður voru við þau. Ein gatan lá áleiðis til norðvesturs að Selvogsgötu þar sem hún liggur efst við Draugahlíðar, önnur lá til suðausturs og sú þriðja til suðurs. Síðastnefnda gatan var greinilega framhalda af þeirri, sem fylgt hafði verið ofan frá Grindarskörðum. Hún var mjög áberandi og greinilega mikið notuð fyrrum.

Selvogsgata

Selvogsgata.

Kastað hafði verið upp úr götunni svo djúp för höfðu myndast. Tekið hafði verið úr hraunhöftum og gatan greinilega gerð eins greiðfært og unnt var. Henni var fylgt niður með hraunkanti sunnan Litla-Kóngsfells. Komið var að talsvert miklu gili í hlíðinni á vinstri hönd, sem vatn hafði mótað. Lækjarfarvegurinn var nú þurr, en einhvern tímann hefur verið þarna mikill lækur er streymt hafði niður með austanverðu apalhrauni, sem þarna er á hægri hönd. Loks hefur vatnið staðnæmst í krika og væntanlega myndað þar talsverða tjörn. Moldarbotn benti til þess að þarna hafi verið allnokkurt vatn fyrir ekki svo löngu síðan. Á kortum heitir þarna Stóri-Leirdalur. Gatan lá niður með lækjarfarveginum.
Nokkru neðan við gilið skiptist hún í tvennt. Stígur lá til vesturs í gengum apalhraunið þar sem það var mjóst og yfir á Selvogsgötuna (Hlíðarveg) þar sem hún krækir fyrir nef hrauns er runnið hefur úr Draugahlíðargígnum skammt þar fyrir ofan.

Selvogsgata

Selvogsgata – varða.

Varða er við hraunið þar sem stígurinn kemur út úr því. Hestagatan lá hins vegar áfram niður með hraunkantinum, fyrir hraunrana og síðan skiptist hún í tvennt; annars vegar liggur hún vestur og niður með Hvalhnúk og Austurásum og hins vegar áfram um Hvalskarð, í fallegum sneiðingi niður Litla-Leirdal, niður í Hlíðardal, um Strandardal, framhjá Kökuhól og áfram áleiðis niður í Selvog.
Fyrrnefnda gatan kom inn á Selvogsgötuna (Hlíðarveg – vetrarveginn) efst við vestanverða Austurása. Tvær vörður eru þar sem göturnar koma saman.

Hlíðarborg

Tóft í Hlíðarborg.

Þaðan í frá liggur Selvogsgatan niður heiðina, áleiðis niður að Hlíðarskarði, vel vörðuð. Svo er að sjá sem Selvogsgata, eins og hún er vörðuð í dag, sé önnur og nær Draugahlíðum en sú, sem sýnd er á gömlum uppdráttum. Sú mynd, sem þeir sýna, fellur betur að þeirri götu, sem lýst er hér að framan. Áður en komið er niður brekkuna vestan Austurása liggur gata þar til vesturs. Þrjár vörður eru þar við og ein þeirra fallin. Þarna gæti verið um að ræða Stakkavíkurselstíginn er liggur væntanlega út með Vesturásum sunnanverðum og síðan til suðurs að Selsstíg ofan við Höfða norðvestan við Hlíðarvatn.

Strandardalur

Strandardalur.

Í stað þess að fylgja Selvogsgötunni (Hlíðarvegi) áleiðis niður að Hlíðarskarði var gömlu hestagötunni fylgt niður Hvalskarð og áfram niður í Strandardal. Lítið er um vörður á þeirri leið, en hins vegar liggur gatan nokkuð vel við landslaginu. T.d. er um gróna velli er að fara í Litla-Leirdal. Suðvestur af Hvalskarði er Hvalhnúkur, mjór og allhár. Ólafur Þorvaldsson segir þjóðsöguna kveða á um að tröllkona norðan af fjalli hafi farið til fanga í Selvog og komið þar á hvalfjöru og haft þaðan með sér það, sem hún treysti sér til að komast með, en til hennar sást og hún elt. Varð henni allerfið undankoman, og náðist hún í skarði því, sem síðan er nefnt Hvalskarð og hnúkurinn þar suður af Hvalhnúkur. Undir hraunklettum vestan við götuna er komið er niður í Strandardal er Stínurétt. Slóði liggur upp í Strandardal, en gatan er liggur niður úr dalnum skammt vestan hans. Þar liggur hann áfram áleiðis niður að Strandarheiði, en girt hefur verið þvert fyrir hann.

Selvogsgata

Á Hlíðargötu.

Í fyrri FERLIRsferðum, þar sem gatan var rakin neðan frá Selvogi og áleiðis upp að dalnum, sést hún vel þar sem hún liggur upp heiðina. Við hana á einum stað er tóft, sem ekki er vitað hvaða tilgangi hefur þjónað.

Gengið var til vesturs með girðingunni þegar niður úr dalnum var komið. Valgarðsborg er innan girðingar svo hún var ekki “heimsótt” að þessu sinni. Hlíðarborg er hinsvegar “réttu megin” girðingar svo hún var barin augum. Frá borginni liggur gata. Við hana eru litlar gamlar vörður, sumar fallnar. Gatan sést vel af og til þars em hún liggur til vesturs niður heiðina, áleiðis að Hlíð. Henni var fylgt, m.a. framhjá hellinum Ána. Talsverðar hleðslur eru umhverfis opið. Einnig eru hleðslur sunnan við opið og norðan. Ekki er vitað annað en að hlaðið var um opið til þess að varna því að fé leitaði skjóls niður í hellinum.

Hlíðarborg

Hlíðarborg í Selvogi – síðar stekkur.

Gatan liggur áleiðis að borginni undir Borgarskörðum, svonefnd Hlíðargata skv. örnefnalýsingu. Hún hefur verið vegleg á sínum tíma. Bæði hún og Hlíðarborgin eru hlaðnar vestan undir hraunkletta í heiðinni. Neðan borgarinnar undir Borgarskörðum eru tóftir tveggja húsa utan í klettum, sennilega beitarhúsa frá Hlíð.

Gangan endaði síðan við einn bæjarhól bæjarins að Hlíð. Eldri tóftir eru norðan við þjóðveginn sem og á tanga sunnan við veiðihús SVFH, en útihús eru vestar með vatninu og hafa þau sennilega tilheyrt bænum, sem var við núverandi veiðihús.

Áni

Áni.

Í örnefnalýsingu segir að Hlíð hafi verið fyrr góðbýli og landnámsjörð í Selvogi. Var hún um aldaraðir eign Strandakirkju og er það enn. Jörðin hefur verið í eyði nú um 60 ára skeið. Þar eru nú rústir einar. Gamli bærinn stóð á Bæjarhól eða lágum hrygg, er lá fram í Hlíðarvatn.
Þessi ganga var á Jónsmessunni. Þjóðtrúin kveður á um um ýmsa dytti henni samfara. Án þess að ætla að fjalla í löngum texta um álfa og huldufólks, ekki sést á nefndu kvöldi, er rétt að geta þess, að sá sem ekki trúði á álfa og huldufólk áður en hann lagði af stað í þessa ferð, gerir það núna. Borgarskörð draga ekki nafn sitt af fjárborginni undir Skörðunum heldur háum og virðulegum klettastandi skammt ofan við skörðin. Hann sést vel þegar gengið er að skörðunum ofan frá, en gæta þarf þess vel að fylgja kennileitum því annars…

Selvogsgata

Selvogsgata – kort ÓSÁ.

Í lýsingu einni um þennan áfanga Selvogsgötunnar kemur eftirfarandi m.a. fram til frekari glöggvunar:
Selvogsgatan er gömul leið á milli Hafnarfjarðar og Selvogs og hefur líklega verið farin frá því að menn settust að í Selvogi. Þetta er skemmtileg leið um áhugavert landsvæði og hollt er að leiða hugann að þeim aðstæðum sem forfeður okkar þurftu að takast á við til þess að draga björg í bú.

Áfram er haldið um skýra götu sem hófar hestanna hafa markað í tímans rás. Framundan eru Lönguhlíðar og Grindaskörð. Stóribolli og fleiri bollar blasa við en þeir hafa verið notaðir sem mið af sjó. Þegar í Grindaskörð kemur er gott að líta til baka og horfa yfir leiðina sem lögð hefur verið að baki og sjá hvað gatan er mörkuð í mosann og klöppina.
Frá Grindaskörðum er stefnt að litlu fjalli með stórt nafn, Kóngsfell, en það mun bera nafn af fjallkóngi þeirra í Selvogi. Þarna greinist leiðin og kallast vestari leiðin Hlíðarvegur sem skiptist síðar í Stakkavíkurveg. Haldið verður austustu leiðina sem er hin eiginlega Selvogsgata eftir greinilegum götum um Grafning og Stóra-Leirdal þar sem menn áðu ávallt þegar þeir áttu þarna leið um og fengu sér nesti og kannski smá brjóstbirtu.

Selvogsgata

Gengið um Hvalskarð.

Síðan verður gengið upp í Hvalskarð eftir Hvalskarðsbrekkum með Urðarfelli að Hlíðarvatni. Tröllkona ein nappaði sér hval í Selvogi en til ferða hennar sást. Hún var elt og náðist þarna í skarðinu. Af fjallinu fyrir ofan Hlíðarvatn er fagurt útsýni. Þaðan sér yfir þessa afskekktu byggð Selvoginn, til Strandarkirkju og vitans. En það sem fangar augað er djúpblátt og óravítt hafið (Úr leiðarlýsingu Útivistar).
Við leiðarlýsinguna er rétt að bæta við ferðum námumanna í Brennisteinsfjöllum. Þeir munu hafa farið um Grindarskörðin með hestalestir sínar. Leiðir liggja frá námunum, bæði ofan við Draugahlíðar og neðan.

Frábært veður. Gangan tók 5 klst og 5 mín.

Selvogsgata

Selvogsgata – kort ÓSÁ.

Gullbringuhellir

Gengið var frá Herdísarvíkuvegi að Geitahlíð og síðan áfram norður með henni að Vegghömrum. Hamrabeltið er bæði fagurt og skjólsælt. Grösugt er undir veggjunum, en hvergi bar á minjum eða tóftum.

 Vegghamar

Vegghamar.

Þegar yfir hálsinn norðan Vegghamars var komið tóku við “tunglummyndað” umhverfi. Þangað komu t.a.m. til æfinga fyrstu bandarísku geimfararnir er stigu fæti á tunglið og þarna var tekin íslensk kvikmynd í árdaga innlendrar kvikmyndaleikgerðar er gerast átti að hluta til á tunglinu. Í henni eru m.a. myndskeið þar sem börn flækjast í kóngulóarvef og dýrið, risastórt, sækir að þeim. Enn má sjá slitrur úr “vefnum”, sem var úr girni, á móbergsklöppunum við einn skútann.

Kleifarvatn

Á ferð við Kleifarvatn.

Kálfadalir tóku við eftir skamma göngu. Þeir skiptast í tvennt. Á milli þeirra er þröngt gil, sem auðvelt er að ganga um. Niður í syðri dalinn hefur runnið mikil og myndarlegur hraunfoss niður Kálfadalahlíðarnar að austanverðu og skipt þeim hluta dalsins svo til í tvennt. Hraunið kom úr gígunum norðan við Æsubúðir, en þeir eru nokkrir þarna uppi á hraunsléttunni austan við dalina. Gróðurrönd er með hlíðinni að vestanverðu, en annars fyllir hraunið syðri dalinn að mestu leyti. Nyrst er hann þó grósugur, enda hraunið ekki náð þangað. Þegar komið var í gegnum gilið tók við nyrðri hluti Kálfadala, gróðurvænn og skjólgóður.

Kálfadalir

Í Kálfadölum.

Framundan blasti Gullbringan við (eins og hún er merkt á landakortum) austan við Kleifarvatnið. Aðrir segja að Gullbringa sé heiti á hlíðinni austan og ofan við sandfjallið, sem ber þetta nafn. Nafnið hafi komið til vegna þess þegar sólin er að setjast á bak við Sveifluhálsinn slái stundum gylltum roða á hlíðina alla. FERLIRsfélagar hafa nokkrum sinnum orðið vitni af því í kvöldferðum sínum um svæðið.

Þegar upp á Gullbringu var komið sáust vel verksummerki eftir jarðskjálftan 17. júní árið 2000. Stórum steinum hafði verið kastað upp á kollinum og þeir snúist við á leið niður. Mosinn, sem eitt sinn hafði verið ofan á steinunum var nú ýmist undir þeim eða á hlið. Sólin var að setjast á bak við Hádegishnúk og bjarma sló á hlíðina að baki. Hárnákvæm tímasetning á toppnum. Kleifarvatn spegilslétt fyrir neðan.

Gullbringa

Gullbringa að baki.

Gengið var niður af Gullbringu að norðanverðu og kíkt ofan í helli, sem þar er (Gullbringuhelli). Í honum er hlaðið bæli. Rás liggur lengra inn eftir, en þrengist. Svo virðist sem hún víkki á ný þegar innar dregur. Hún var ekki skoðuð nánar að þessu sinni. Hellisopið er við gömlu þjóðleiðina frá Krýsuvík yfir Hvammahraunið (Hvannahraun). Götunni var fylgt yfir úfið hraunið á kafla, en hún er vel greinileg þangað til yfir er komið. Handan þess gerist hún ógreinileg vegna jarðvegseyðingar. Gengið var framhjá veglegum kletti, sem hafði margsprungið við skjálftann.

Fagridalur

Fagridalur.

Haldið var norður með hlíðinni og síðan haldið upp á háhæðina ofan við Vatnshlíðarhornið og stefnan tekin á Fagradal. Yfir grjótbarinn berangur er að fara sem og mosaþembur á stangli. Gatan niður hlíðina er í breiðum hraunfossi, sem runnið hefur þar niður í Fagradal. Fagradalsmúlinn er handan við, en leiðin niður liggur í hlykkjum og er nokkuð greiðfær. Þegar niður í dalinn var komið tók við gróið sléttlendi og síðasti spölurinn að endastöðinni því vel greiðfær yfirferðar.
Frábært veður. Sól og kyrrviðri. Gangan tók 7 klst og 21 mín.

Vegghamar

Vegghamar.

Kapella

Gengið var að „kappellunni“, sem eitt sinn átti að hafa verið í Kapelluhrauni, Brunanum eða Nýjahrauni, eins og hraunið var nefnt eftir að það rann seint á 12. öld (1188).

Kapella

Kapellan með friðlýsingaskilti framan við.

Við „kapelluna“ er merki er segir til að þarna sé um friðlýstar fornminjar að ræða. Kristján Eldjárn, ásamt fleirum, gerði rannsókn á kapellunni í Kapelluhrauni árið 1950, en þá var kapellan í óröskuðu hrauni, “niðurgrafin” í það að mestu. Í rústinni fundust ýmsir munir, m.a. líkneski af heilagri Barböru, verndardýrlingi ferðalanga og síðar málmiðanaðarmanna. Um kapelluna er m.a. skrifað í “Heilög Barbara mær og kapella hennar” (Hundrað ár í Þjóðminjasafni. Rvk. 1973, bls. 88). Þá skrifaði Kristján Eldjárn um hana í grein sinni: “Kapelluhraun og Kapellulág” (Fornleifarannsóknir 1950 og 1954). Einnig í Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1955-1956, Rvk. 1957, bls. 5-34. Þá er fjallað um kapelluna í Þjóðsögum Jóns Árnasonar. II bindi. Rvk. 1954, bls. 78.

Kapellan

Kapellan – líklenski heilagrar Barböru endurgert.

Nú er “kapellan” skammt sunnan Keflavíkurvegar gegnt Álverinu, en hraunið dregur nafn sitt af kapellu þeirri er Kristján Eldjárn rannsakaði árið 1950. Síðan hefur mikið gengið á, hraunið fjarlægt, hinni fornu kapellu verið raskað og “ný” hlaðin á hraunhól í hennar stað. Eftir að Kristján Eldjárn rannsakaði kapelluna ásamt fleirum 1950 segir hann svo frá:

„Fyrir sunnan Hafnarfjörð liggur leiðin yfir úfinn brunafláka sem á upptök sín í gígaröð meðfram Undirhlíðum og hefur runnið þaðan allt norður í sjó. Í þessu hrauni er Kapellan og eftir henni heitir hraunið Kapelluhraun, en hefur heitið Nýjahraun á miðöldum, því að það hefur runnið eftir að land byggðist, líklega þó mjög snemma á öldum. Kapellan er lítil opin húsarúst rétt við gamla krákustíginn, sem ruddur hefur verið þegar eftir að hraunið rann og hefur verið alfaraleið út á nes öldum saman.“ Rétt er að geta þess í þessu sambandi að gamli stígurinn (Alfararleiðin) í gegnum hraunið lá (og liggur) sunnan Þorbjarnarstaða, ofan Gerðis, í krikann, sem þar er og þaðan lá hann í gegnum hraunið. Hefur hann stefnt á vörðu, sem enn sést og er sunnan vegarins skammt austan Álversins. Þaðan lá hann á ská í gegnum hraunið áleiðis að Hvaleyri.

Kapellan

Kapellan – sjá má leifar Alfaraleiðarinnar, sem lá framhjá henni.

Núverandi “kapella” er norðan við þennan stíg, sem þá var. Segja má að „kapellan“ haldi við að nokkru minningunni um gömlu kapelluna sem og tilgang hennar á langri leið í gegnum úfið hraun, sem reyndar var það eina á Alfararleiðinni því alls staðar annars staðar er um um greiðfært helluhraun að fara, nema ef vera skyldi við rönd Afstapahrauns í Kúagerði.
Núverandi “Kapella” er 2,40 m á lengd og 2,10 m á breidd að innanmáli. Veggirnir eru hlaðnir úr hraunhellum og að mestu uppistandandi. Ekki vottar fyrir mosató á veggjum, líkt og sjá má á myndunum af gömlu kapellunni frá 1950, en þá var rústin þakin gamburmosa.

Keflavíkurvegur

Hleðslur við gamla Suðurnesjaveginn.

Við uppgröftinn 1950 fundust allmargir gripir. Sá merkasti þeirra er lítið líkneski af heilagri Barböru, brotið um mjaðmir en nú um 3,3 cm á hæð. Líkneskið er varðveitt í Þjóðminjasafni (Þjms. 14293). Þessi fundur benti til þess að húsið væri í raun og veru kapella frá katólskum tíma og að ferðamenn um hraunið hafi komið þar við og gert bæn sína. Þann 4. des. 1981 var styttu af heilagri Barböru, gerð af W. Millmann, komið fyrir í hinni nýju „kapellu“ í Kapelluhrauni.
Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar segir frá því að einn af mönnum Kristjáns skrifara hafi verið drepinn í Kapelluhrauni og grafinn í kapellunni til hefnda eftir Jón biskup Arason og syni hans. Engin ummerki eru á staðnum (endar búið að raska öllu svæðinu meira og minna) benda þó til þess að þessi sögn eigi stoð í raunveruleikanum, en hins vegar styrkja frásagnir af aðförinni að Kirkjubóli á Rosmhvalanesi, þar sem sótt af að Kristjáni skrifara og þeim er hann hýsti eftir dráp Jóns Arasonar 1550, að nokkru þá frásögn. Þar voru drápsmenn Jóns handteknir, sumir drepnir en aðrir færðir áleiðis til yfirvaldsins á Bessastöðum. Á leiðinni leiddist mönnum þófið og stjaksettu við kapelluna í Kapelluhrauni. Það segir sagan að minnsta kosti. Líklega hefur verið erfitt að „grafa“ menn í hrauninu, en þá hefði verið hægt að husla.

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnarstaðir – tilgáta (ÓSÁ).

Frá “kapellunni” var gengið að Þorbjarnarstöðum í Hraunum. Á leiðinni var litið á síðustu leifar elsta hluta Keflavíkurvegarins í Hafnarfirði þar sem hann kom niður í Brunnann ofan við Straumstjarnir. Gengið var að gömlu heimaréttinni norðan við Þorbjarnarstaði, skoðað bæjarstæðið, en það er hið síðasta er hýsti „hafnfirskan“ torfbæ í þeirri gömlu mynd, kíkt á Gránuskúta og loks gengið suður yfir Alfararleiðina gömlu og upp að Þorbjarnarstaðarréttinni austan við Miðmundarhól (sem á er Miðmundarvarða). Falleg kvöldsólin gyllti grænt grasið innan réttarveggjanna.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – stekkurinn (réttin).

Hraunin lágu milli Straumsvíkur og Hvassahrauna og tilheyrðu Álftaneshreppi frá fornu fari. Árið 1878 urðu þau hluti Garðahrepps þegar Álftaneshreppi var skipt í Bessastaða- og Garðahrepp. Þegar Hafnarfjörður fékk kaupstaðaréttindi 1908 fleygaði bærinn Garðahrepp í tvennt, en Hraunin tilheyrðu áfram Garðahreppi. Árið 1948 keypti Hafnarfjarðarbær skika úr landi Straums sem var í eigu Bjarna Bjarnasonar fyrrum skólastjóra Flensborgar og Skógræktar ríkisins og 1955 var gerður makaskiptasamningur við Skógræktina um viðbótarhluta úr landi Straums. Árið 1964 höfðu Hafnarfjarðarbær og Garðahreppur makaskipti á löndum og komu Hraunajarðirnar sunnan bæjarins í hlut Hafnarfjarðar. Fyrir u.þ.b. tveimur árum keypti Álfélagið landið sunnan þess, umhverfis Þorbjarnarstaði, af Skógrækt ríkisins. Jafnhliða því “seldi” Hafnarfjarðarbær félaginu hluta af Þorbjarnarstaðalandi án þess kannski að gera sér grein fyrir því hvað var verið að selja í raun og veru. Svæðið, þótt lítið sé eftir að því, er í raun og veru hið merkilegasta í ljósi sögu og búskaparhátta í Hraunum í gegnum aldirnar. En því miður eru þeir ekki margir til, sem áhuga hafa á þeirri hlið umhverfis- og búsetumálanna. Nóg um það í bili.
Íbúum Reykjanesskagans hefur löngum verið skipt í útnesjamenn sem bjuggu utan Kúagerðis og innnesjamenn sem bjuggu í Álftaneshreppi og innan hans. Í Hraunum bjuggu Hraunamenn sem voru jafnframt innnesjamenn.

Alfaraleið

Alfaraleiðin ofan Þorbjarnarstaða.

Fornir stígar og götur vísuðu nesjamönnum og ferðalöngum veginn um Suðurnes fyrrum. Fjölförnustu göturnar voru svokallaðir Alfaravegir sem liggja út og inn Reykjanesið. Þvert á Alfaraveg eru síðan stígar eins og Rauðamelsstígur, sem liggja suður í Almenning og upp í fjöllin ýmist til Grindavíkur eða Krýsuvíkur. Innan Hraunahverfis voru einnig margir stígar og götur s.s. Sjávargata, Straumsvegur, Skógarstígur, Jónsbúðarstígur og Lónakotsgata.

Ekki er vitað með vissu hvenær búskapur hófst í Hraunum. Þó er talið, útfrá fornum rústum og skipan þeirra, að búskapur hafi verið við Óttarsstaðir í kringum árið 1200.
Fáein bæjarhús frá síðustu öld standa enn í Hraunum, en mun algengara er að sjá tóftir býla, hjáleiga og gripahúsa. Helstu lögbýli í Hraunum voru (talið frá suðri til norðurs): Stóri Lambhagi, Þorbjarnarstaðir, Straumur, Óttarsstaðir og Lónakot. Þessum býlum fylgdu hjáleigur og þurrabúðir s.s. Gerði, Péturskot, Litli Lambhagi, Þýskabúð, Jónsbúð, Kolbeinskot, Óttarsstaðargerði og Eyðikot. Túnskikar voru yfirleitt girtir vandlega hlöðnum tvöföldum grjótgörðum sem sjást enn, þá má víða sjá upphlaðna brunna og skjólgarða sem marka kvíaból, fjárréttir og nátthaga.

Straumssel

Straumssel.

Sunnan Reykjanesbrautar í Almenningi eru selin í 3 – 4 km fjarlægð frá bæjunum. Selin voru einskonar framlenging á búskap jarðanna. Snemma á sumrin flutti vinnufólk sig upp í selin með kindur og kýr og stundaði þar búskap til haustsins. Á þessum tíma var aflað matar og afurðir unnar fyrir komandi vetur.
Við helstu götur og við sum selin eru náttúrulegir brunnar í klöppum sem geymdu rigningarvatn fyrir ferðalanga, fjársmala, matselju og þá sem leið áttu hjá. Þá má ennfremur sjá nátthaga, fjárskjól og smalaskúta við selin.

Bekkjaskúti

Bekkjaskjúti.

Sauðfjárbúskapur var aðalbúgreinin í Hraunum. Sauðfé var haft á útigangi í Almenningi eða á fjörubeit. Sauðir voru ekki teknir á hús og leituðu sjálfir í skjól eða skúta í illviðrum. Fjárskjól leynast víða í Hraunum. Sauðamenn eða smalar fylgdu sauðum sínum og unnu einmanalegt og erfitt starf. Lömb sem sett voru á að hausti voru höfð í lambakofum og hrútar í hrútakofum. Víða má sjá réttir s.s. Þorbjarnarstaðarétt sem var haustrétt Hraunabænda, Óttarstaðarétt og réttina við Lónakot sem tók 70-80 fjár. Þessar réttir gegndu mikilvægu hlutverki þegar sá siður að færa frá var enn tíðkaður, en hann lagðist af seint á 19. öld.

Þorbjarnarstaðir

Gránuskúti – fjárskjól ofan Þorbjarnarstaða.

Á 18. öld var algeng búfjáreign í Hraunum 1-3 kýr og 18-20 kindur en fækkaði þegar bráðapestir eða fjárkláðar geisuðu. Um miðja 19. öld og fram á 20. öldina fjölgaði sauðfé í Hraunum og héldu bændur þá 80-100 kindur að meðaltali.
Mjólkandi kýr gátu verið tvær og kvíga til viðbótar. Oft fylgdu kýrnar með í selið eða voru hafðar nær bæjum í kúarétt á sumrin. Flestir bændur áttu tvo hesta, en kotungar engan eða í besta falli einn hest til flutninga.
Búskapur lagðist af að mestu á kreppuárunum eða um 1930. Búið var í Óttarsstöðum eystri til ársins 1952 og í þeim vestri til 1965. Síðasti ábúandi Hraunanna var Guðmundur Sigurðsson bátasmiður, sem lést árið 1986. Í dag eru aðeins sumarbústaðir í Hraunum og eru þar elst húsa Óttarsstaðir vestri og Eyðikot.
ÓttarsstaðirSjósókn var Hraunamönnum nauðsyn. Heimaræði kallaðist útræði sem stundað var frá jörðum sem lágu við sjó. Uppsveitarbændur fengu oft leyfi sjávarbænda til að stunda sjósókn frá jörðum þeirra og senda vermenn á vertíð. Var það kallað að hafa inntökuskip á jörðinni og bændur sem sendu menn í ver nefndust útvegsbændur. Minjar um útræði eru víða í Hraunum; þurrabúðir, vörslugarðar og fiskreitir. Í fjörunni innan skerjagarða mótar fyrir uppsátrum, fiskbyrgjum og vörum þar sem bátar voru dregnir upp öldum saman, t.d. Péturskotsvör, Straumsvör, Þýskubúðarvarir tvær, Jónsbúðarvör, Óttarsstaðavör og Eyðiskotsvör.

Óttarsstaðir

Straumur og Óttarsstaðir – uppdráttur ÓSÁ.

Söltekja, skeljafjara og hrognkelsafjara voru hlunnindi. Skelfiskur var oft notaður til beitu, en verðmeiri voru auðfönguð hrognkelsi, sem fjaraði undan í fjörupollum.
Sérhver þúfa, gjóta, hóll og hæð hefur sitt nafn, sem gefur umhverfinu merkingu og aukið gildi. Oft reyndust hólar og hæðir vera merkileg kennileiti eða vegvísar og gerðu mönnum auðveldara að ferðast um svæði og vísa til vegar þegar kennileiti hétu einhverjum nöfnum. Mörg örnefni hafa haldist óbreytt um aldir, en sum hafa breyst eftir búsetu fólks, t.d. er ekki óalgengt að kot eða túnskiki hafi breytt um nafn eftir því hvað ábúandinn hét.
Þá eru sum örnefni sem einungis hafa haft gildi fyrir afmarkað svæði. Í því sambandi má nefna nöfn hóla og hæða umhverfis bæjarhús Óttarsstaða, sem þjónuðu þeim tilgangi að segja til um sólargang, svokölluð eyktarmörk. Það eru örnefni eins og Hádegishæð (kl. 12:00), Miðmundarhæð (um kl. 13:30), Nónhóll (kl. 15:00), Miðaftansvarða (kl. 18:00) og Náttmálahóll (kl. 21:00). Slík eyktarmörk koma einnig fyrir að einhverju leyti við Þorbjarnarstaði og hafa þá einungis gilt fyrir það svæði. Svo eru mörg örnefni sem gefa skýra mynd af því hvaðan þau eru upprunnin, eins og t.d. Smiðjubali, Fjárhlið, Markhóll og önnur í svipuðum anda.

Textinn er að hluta til fenginn að láni frá UÚH.

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnastaðir – uppdráttur ÓSÁ.

Lækjarbotnar

Gengin var Selvogsgata upp frá Lækjarbotnum og áfram áleiðis upp með Setbergshlíð.

Lækjarbotnar

Lækjarbotnar – leifar af vatnsleiðslunni.

Komið var að stíflu vatnsveitunnar í Lækjabotnum og kíkt á hleðslur undan húsinu, sem þar var yfir “vatnsuppsprettunni” nyrst undi Gráhelluhrauni. Enn má sjá leifar gömlu tréleiðslunnar í tjörnunum ofan við stífluna. Andarpar lá við annan bakkann með höfuð undir vængum. Lúpínan er farin svo að segja til um allar hlíðar, en innan um má sjá gytta í hrafnaklukka, blágresi, melasóley, lambagras og gleiri litskrúðugar blómategundir.

Gráhella

Gráhella.

Þegar komið var á móts við Gráhellu var strikið tekið inn á hraunið og að henni. Undir hellunni er hlaðið hús og gerði norðan þess. Austan við helluna er lítil hleðsla, nokkurs konar skjól. Gráhelluminjanar eru frá Setbergi, líklega fyrir þann tíma er Jón Guðmundsson, áður frá Hvaleyri og þar áður frá Haukadal, bjó þar.
Gengið var á ný að Setbergshlíð, mð stefnu á háa vörðu uppi og framan í hlíðinni. Þegar upp að henni var komið, eftir að hafa fetað birkivaxna hlíðina, var þaðan fallegt útsýni yfir að Setbergsseli, Sléttuhlíð og Helgafelli. Sólbjarma sló á Grindaskörðin í bakgrunni.

Setberg

Setberg – fjárhústóft í Fjárhúsholti.

Ofan við vörðuna eru tóftir af stóru fjárhúsi frá Setbergi. Setbergsselið var í alfararleið þars em Selvogsgatan lá í gegnum það. Í kringum selið og í brekkunum ofan við það er ágæt beit, en segja má að aðstaða selsins hafi verið færð úr alfararleiðinni og upp á hlíðina, en ofan við það, með hraunbrúnum og hæðum, hefur einnig verið ágætis beit.
Fjárhúsið hefur verið allstórt. Nyrst í því hefur verið hlaða. Ekki er auðvelt að mynda rústirnar þar sem sléttlent er allt í kring.

Flóðahjalli

Tóftin á Flóðahjalla.

Haldið var upp og norður hlíðina. Um eyðimela er að fara í fyrstu, en síðan reynir lúpínan að hefta för, en hún er nú reyndar léttvægur farartálmi. Gengið var upp á Svínholt (Hádegisholt). Uppi á því, á svonefndum Flóðhjalla, er mikið mannvirki eftir breska herinn, sem þarna var svo að segja út um öll holt og hæðir. Stór kampur var t.d. á Urriðakotshæð.  Mannvirkið er hringlaga með byrgjum að innan. Hleðslurnar eru ekki eins vandaðar og verklegar eins og í fjárborgum þeir, sem Íslendingar hafa hlaðið í gegnum aldrirnar.

Flóðahjalli

Flóðahjalli – áletrun.

Grjótinu er raðað í neðstu raðir, sumu hverju með vélum, og síðan reynt að raða upp á það, en smærra grjótinu kastað innan í og á milli, líkt og hleðslumenn hafi kappkostað að tæma holtið af grjóti og finna því stað í mannvirkinu. Líklega hefur verið bæði kalt og næðingssamt þarna á holtinu, ekki síst að vetri til. Áletranir eru á klöpp inni í hringnum. M.a. má sjá þarna ártalið 1940.
Gengið var niður Svínhöfða að norðanverðu með útsýni yfir að Urriðavatnskoti (Urriðakoti). Gangan endaði við golfskálann ofan við Setberg þar sem ferðalöngum var veittur góður beini.
Frábært veður – sól og hiti. Gangan tók 1 klst og 59 mín.

Setbergssel

Setbergssel.

Seltúnssel

Gengið var frá Seltúni að tóftum bæjarins Fells skammt sunnan Grænavatns.

Arnarfellsrétt

Arnarfellsrétt.

Nafnið Seltún bendir til selstöðu frá einhverjum Krýsuvíkurbæjanna, en hvergi er hægt að greina ummerki eftir það svo glögglega megi teljast. Lítil tóft er á gróinni skák nálægt hverasvæðinu, en hún gæti einnig hafa verið eftir námumenn, sem unnu brennistein á svæðinu á 19. öld. Ágætt handunnið kort er til af námusvæðinu, sem reyndar voru þrjú, þ.e. upp í Baðstofu undir Hettu, utan í Hnakk og ofan við Seltún. Á síðastnefna svæðinu munu umsvifin hafa verið mest. Til eru ljósmyndir Englendinga er sýna háa brennisteinshrauka þar sem nú er bílastæði. Lækurinn var stíflaður með tréþiljum á nokkrum stöðum til að mynda þvottaþrær og má enn sjá leifar þeirrar neðstu austan þjóðvegarins. Frá Seltúni liggur Ketilsstígurinn upp á Austurháls.

Grænavatn

Grænavatn.

Grænavatn skammt frá Krýsuvík er ekki einvörðungu merkilegt fyrir sinn græna lit sem líklega orsakast af dýpt þess heldur einnig af því að margar sögur gengu af undarlegum skepnum sem komu stundum upp úr því. Einn maður fullyrti að hann hefði séð eina slíka skepnu, þó eigi mjög stóra, líkasta marsvíni. Hún hvarf fljótt.
Reyndar segir einnig af skrímsli í Kleifarvatni. 1755 sást undarleg skepna líkasta skötu að lit og lögun koma upp úr vatninu, yfirmáta stóra eins og öllum bar saman um að allar þær skepnur væru er menn þóttust sjá í þessu vatni; væru þær bæði stærri og lengur uppi en í Grænavatni.

Arnarfell

Arnarfell – bæjartóftir.

1750 þorði fólk eigi að veiða í Kleifarvatni þótt það væri fullt af fiski í uppivöðum vegna orms eða slöngu sem væri svört að lit og kæmi iðulega upp og léki sér í vatninu. Hún var að stærð við meðalhval, 30-40 metra löng.
Maður nokkur kvaðst oft, bæði einn og með öðrum, hafa séð hana og aðgætt vel því hún hefði oft verið uppi tvær mínútur. Hann bætti því líka við að menn og konur sem voru að vinnu við vatnið í stilltu veðri og sólbjörtu 1749 í ágústmánuði hefði allt séð þennan orm miklu betur en nokkrir aðrir áður þegar hann skaut sér upp úr vatninu og skreið upp á mjóan tanga eða nes og lá þar hér um bil tvo tíma uns hann fór aftur í vatnið. Fólkið þorði eigi að honum en flýði eigi heldur af því hann lá kyrr. Þó gat það eigi lýst hversu hann hreyfði sig frá og í vatnið, dróst saman og rétti úr sér á mis.

Krýsuvík

Fell í Krýsuvík.

Litið var á tóftir Fells, sem er í gróinni hvylft vestan í melhæð norðan Stóra-Nýjabæjar. Fáar sagnir eru til af bæ þessum, en hann mun hafa verið einn af fjórtán hjáleigum frá Krýsuvík. Aðrar má t.d. telja Eyri og Fitjar við Selöldu. Vigdísarvelli, Snorrakot, Suðurkot, Norðurkot, Læk, Litla-Nýjabæ og Hnausa. Gestsstaðir suðvestan Gestsstaðavatns og Kaldrani suðvestan Kleifarvatns eru með elstu minjum bæja á svæðinu.
Litið var á Augun, tvo gíga er þjóðvegurinn liggur millum, Sefið er tengist sögunni af barnsmorði ólánskonu frá Stóra-Nýjabæ, brunn við Litla-Nýjabæ og strikið síðan tekið að Grjóthólsrétt utan í Gráhól. Því miður hafa bæjarstæði fyrrnefndu bæjanna verið afmáð og sama gildir um réttina. Þegar þjóðvegurinn var lagður var hún tekin í undirlagið. Norðan við hólinn má sjá gamla veginn áleiðis til Krýsuvíkur og enn móta þar fyrir steinbrú, sem á honum hefur verið.

Stínuskúti

Stínuskúti.

Gengið var yfir Vestari-læk, um bæjartóftir Lækjar og stefnan tekin á Arnarfell. Norðan við fellið er hlaðinn stekkur og upp í fellinu að norðauatsnverðu er lítill skúti er jafnan hefur verið nefndur Stínuskúti. Frá Norðuröxl Arnarfells sést vel yfir Krýsuvíkurtorfuna. Suðvestan við kirkjuna er áberandi hóll og tóft austan í honum. Hóllinn heitir Ræningjahóll og tóftin Ræningjadys.
Svo er sagt að ræningjar hafi komið í land ekki langt frá Krýsivíkurlandi og hefði flokkur mikill af þeim komið gangandi og stefnt fram til Krýsuvíkur, en er til þeirra sást var strax sendur maður til Eiríks prests. Reið hann sem mest mátti, hitti prest og bjóst hann strax með sendimanni, en er þeir sáu heim að bænum þá hafði ræningjaflokkurinn staðar numið á hóli nokkrum fyrir sunnan kirkjuna í Krýsuvík og börðust í ákafa svo að þeir drápust þannig niður fyrir vopnum sjálfra sín, en komust aldrei heima að bænum.

Krýsuvík

Bærinn Arnarfell í Krýsuvík.

Gengið var um tóftir bæjarins undir Arnarfelli. Beinteinn var maður nefndur er bjó að Arnarfelli. Eitthvert sinn var hann að smíða skip við sjó frammi, þar sem heitir á Selatöngum. Hafðist hann þar við í verskála. Þar hafði hann alltaf hjá sér hlaðna byssu. Hannn lét einatt loga ljós í skálanum þegar kveldaði.

Eitt kvöld, er hann hefur kveikt í skálanum, heyrir hann allt í einu mjög mikinn brest og skarkala í skáladyrum. Lítur hann þangað og sér þá að ógurlegt skrímsli treður sér inn úr dyrunum; það hafði brotið tréð úr þeim, hafði dyraumbúninginn á herðunum og tróð sér svo áfram. En þröngt varð um það á milli grjótveggjanna. Það var eins og maður neðan en mjög ófreskjulegt eða dýrslegt ofan.

Krýsuvík

Arnarfell fjær.

Beinteinn var harðfær maður og alleinbeittur. Hann þrífur því byssu sína, lætur sér ekki bilt við verða og hleypir af á ófreskjuna. Henni bregður hvergi og treður sér því meir áfram. Beinteinn hleður aftur byssuna og hleypir af. Þá stansar þetta en ekkert sér á því. Enda var það allt að sjá hulið skeljarögg utan.
Beinteinn var í silfurhnepptri millifatapeysu. Hann man nú allt í einu að hann hefir heyrt sagt að þótt engin kúla vinni á skeljastakk skrímsla þá geri þó silfurhnappar það. Slítur hann því hnappana af peysunni sinni, hleður byssuna og hefur á fyrir högl eða kúlu og skýtur enn á skrímslið. Þá tók það snarpt viðbragð, reif sig út og hvarf til sævar. En Beinteinn hljóp út. Þá fyrst greip hann hræðsla. Tók hann til fóta og hægði eigi á sprettinum fyrr en heima við bæ, óður af hræðslu og nærri sprunginn af mæði og sagði söguna. Að morgni sáust aðgerðir skrímslisins en sjálft var það með öllu horfið.
Litið var á Arnarfellsrétt suðvestan undan fellinu. Um er að ræða fallega hlaðna rétt og er hún enn nokkuð heilleg.
Í bakaleiðinni var komið við í Krýsuvíkurétt, Krýsuvíkurkirkju og skoðaðar tóftir bæjanna að Hnausum, Norðurkoti og Snorrakoti, auk þess sem komið var í hinum fornu tóftum að Gestsstöðum, gengið með börmum Gestsstaðavatns og yfir á Seltún. Síðastnefndu stöðunum er lýst í annarri FERLIRslýsingu (sjá HÉR).

Seltúnssel

Seltúnsselið.

 

Straumur

Gengið var frá Straumi að Þýskubúð og síðan að Jónsbúð um Tjörvagerði. Gerðið mun hafa verið notað sem nátthagi. Við Þýskubúð er talið að hafi verið verslunarhöfn á miðöldum og þangað sigldu þýzkir kaupmenn.

Straumur

Straumur 1935.

Straumshúsið var byggt árið 1926 af Bjarna Bjarnasyni, skólastjóra Barnaskóla Hafnarfjarðar, sem ætlaði að reka þar stórbú. Árið 1948 keypti Hafnarfjarðarbær húsið og leigði það til ýmisskonar starfsemi.
Tóftir Jónsbúðar eru lýsandi fyrir kot þeirra tíma. Bjarni Einarsson, fornleifafræðingur segir svo um Jónsbúð í fornleifaskýrslu sinni: “Rústirnar við Jónsbúð eru nær óspilltar af mannavöldum og vélvæðing nútímans hefur ekki náð að eyða eða fela mannvirki sem þar hafa staðið. Minjar af slíku tagi er ekki að finna annars staðar á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Því eru minjarnar við Jónsbúð mikilvægur minnisvarði um ákveðna búskaparhætti fyrri tíma og styrkur þeirra fellst fyrst og fremst í heildinni, þ.e.a.s. staðurinn geymir allar þær minjar sem búast má við að þurrabúð/hjáleiga geymi svo sem bæjarhús, túngarð, skeppnuhús, vör, vörslugarð, sólþurrkunarreit, vatnsból o.fl.

Jónsbúð

Jónsbúð – uppdráttur BE.

Jónsbúðar er ekki getið í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns, en þess ber að geta að þurrabúða er ekki heldur getið við jarðirnar Lónakot, Óttarstaði og Þorbjarnarstaði, þó að enginn vafi sé á því að þurrabúðir hafi verið við eitthvert þessara býla, ef ekki öll. Hins vegar er hjáleiga getið við Óttarsstaði, Þorbjarnarstaði og Straums. Ekki er víst að greinarmunur hafi verið gerður á hjáleigu og þurrabúð og kemur jafnvel til greina að þær hjáleigur sem voru í eyði í byrjun 18 aldar hafi í raun verið þurrabúðir.

Straumur

Straumur 1935.

Í Manntali árið 1845 er þess getið að tómthúsmaður hafi verið í Straumi, Björn Pálsson að nafni. Var hann giftur Margréti Snorradóttur og áttu þau árs gamlan son, Jón að nafni (Manntal á Íslandi 1845. Suðuramt. Reykjavík 1982. :406). Bóndinn í Straumi hét þá Bjarni Einarsson. Ekki er tekið fram hvar Björn tómthúsmaður bjó nákvæmlega en vel getur verið að hann hafi búið í Jónsbúð.Â

Í manntali árið 1910 er Jónsbúð nefnd sem þurrabúð í landi Straums (Manntal á Íslandi 1910. IV. Gullbringusýsla og Kjósarsýsla. Reykjavík 1998.:228). Þá bjó þar Gunnar Jónsson, sjómaður á þilskipi, Sigríður Hannesdóttir kona hans og Sigríður dóttir þeirra. Þau komu frá Meðalholti í Flóa árið 1882

Jónsbúð

Jónsbúð – tilgáta ÓSÁ.

Í manntalinu er bæjarhúsum lýst og um Jónsbúð er sagt að þar hafi verið torfbær með einu heilþili og einu hálfþili.
Bæjarstæði Jónsbúðar er óspillt af seinni tíma athöfnum. Þar eru nær öll mannvirki byggð úr grjóti hvort sem um er að ræða bæjarhús, túngarð eða brunn. Grjótið er fengið úr næsta nágrenni, sérstaklega í hrauninu í kring, en yfirleitt ekki úr fjörunni eða sjávarkambinum. Sunnan við bæjarhúsinn er mikill og áberandi klettur og í gjótu við hann er sagt að hafi verið kolageymsla. Kletturinn er rakinn álfa- eða huldumannabústaður, þó ég þekki engar sögur af slíku um þennan klett.

Jónsbúð

Jónsbúð – tilgáta ÓSÁ.

Sennilega er ruslahaugurinn nokkra metra vestan við bæjarhúsið. Norðan megin við bæjarhúsið er rúst hjallsins (nr. 2) og austan við bæjarhúsið er sólþurrkunarreiturinn (nr. 3). Rúman metra vestan af bænum er garður (vörslugarður, nr. 4). Norðan við bæjarstæðið, í Jónsbúðartjörn sunnanverðri, er brunnur (nr. 7) og vatnsból (nr. 8). Skammt vestur af bænum er rúst, áfast við túngarðinn, sem er sennilega fjárhús (nr. 5). Vestan megin við túngarðinn hefur verið stekkur (nr. 9) og nátthagi umhverfis hann (ekki teiknað hér).
Austan við bæinn er vörin og þar má búast við að bátur eða bátar hafi verið dregnir yfir sjávarkambinn og hafðir á þurru vestan megin við sjávarkambinn.

Óttarsstaðir

Brunnur við Óttarsstaði eystri.

Gengið var um Óttarstaði, skoðaðar minjar, sem þar eru, s.s. útieldhús, útihús og brunnar. Yngsti brunnurinn er austan við Óttarstaði eystri (1944), annar sunnan við húsið og sennilega sá elsti norðan Óttarstaða vestri. Að sögn Bjarna eru eldri minjar verslunar norðan Óttarstaða. Sést móta fyrir útlínum húsa þar skammt ofan við fjörðugarðinn ef vel er að gáð. Miklir og fallegir grjótgarðar eru um Óttarstaðatúnin og fjárréttin er fagurlega formuð undir háum klapparhól sunnan vestari bæjarins.

Lónakot

Lónakotsbærinn.

Gengið var með fjörunni yfir að Lónakoti, minjarnar þar skoðaðar sem og vatnsbólið, sem er í tjörninni fast sunnan við tóftir bæjarins. Skeljasandsfjara er í lóninu næst bænum og skemmtilegt er fyrir börn að busla þar á góðviðrisdögum. Búið var í Lónakoti framundir 1930, en eftir það var byggt þar myndarlegt sumarhús, sem er löngu fallið. Umhverfis túnið eru Lónakotsvatnagarðar. Nyrst í því eru Norðurfjárhúsin. Sunnan tóftanna er Gjögur.
Haldið var upp eftir Lónakotsselsstíg og síðan beygt til austurs eftir varðaðri götu áleiðis að Straumi. Við háa vörðu á Sigurðarhæð var beygt til hægri og gengið að Kúaréttinni, tilvöldum skjólgóðum áningarstað. Þaðan er stutt í Straumsréttina við Urtartjörn (Brunntjörn) og yfir að Straumi.
Frábært veður – sól og hiti. Gangan tók 2 klst og 31 mín.

Straumur

Óttarsstaðir/Straumur – örnefni og minjar. Uppdráttur ÓSÁ.

Rauðshellir

Ákveðið var að að taka hellahring í Kaldárseli.

Kétshellir

Ketshellir / Setbergsselsfjárhellir.

Byrjað var á að kíkja á Hamarkotsselshelli (Selhellir) og Setbergsselshelli (Ketshellir) undir Setbergshlíð. Hellirinn er um 15 metra langur og opnast í báða enda. Hleðslur eru fyrir opum, einkum Setbergsselshellismegin. Þverhleðsla skiptir hellinum fyrir miðju. Stórar hraunhellur hafa fallið úr þaki inngangsins að norðanverðu, en hellirinn sjálfur hefur veitt fé (og reyndar geitumundir það síðasta, gott skjól á meðan var. Gróið er í kringum Setbergsselið og fallegur stekkur er þar sem Selvogsgatan liðast upp hálsinn, í átt að Kershelli og Smyrlabúðahrauni. Selið er undir hæðinni, utan í Gráhelluhrauninu, en innan við hraunkantinn er enn eitt hellisopið.

Kershellir

Kershellir.

Kershellir er bæði aðgengilegur og rúmgóður. Hann opnast innan úr keri efst á hraunbrún. Ofan við opið er stór varða. Innan úr Kershelli er Hvatshellir, sá sem drengir Friðiks Friðrikssonar söfnuðust saman í á leið þeirra í Kaldársel. Síðar var lagður vegur að búðum KFUM er reistar voru þar. Gamla Kaldársel er undir suðurvegg búðanna (hússins).
Þá voru skoðaðir Kaldárselsfjárhellarnir er FERLIR opnaði fyrir u.þ.b. þremur árum. Þá voru engin spor við munnana og alls engin innan þeirra. Greinilegt er að margir hafa litið þarna við síðan þá.

Helgadalur

Helgadalur – stekkur.

Ummerki eftir heykuml er miðsvæðis, en í nyrsta fjárskjólinu er hlaðinn miðgarður. Syðsta fjárskjólið er stærst og aðgengilegast. Við munnann hafði þröstur verpt fjórum eggjum í hreiður á syllu við innganginn. Fylgdist hann vel með mannaferðum og lét í sér heyra.
Lokst var strikið tekið til austurs áleiðis að Helgadalshellunum; Hundraðmetrahelli og Rauðshelli. Gengið var eftir hleðslunni undir gömlu vatnsleiðsluna úr Kaldárbotnum, henni fylgt áleiðis til suðausturs yfir Lambagjá og síðan vent til austurs að Helgadal. Greinilegt var að einhverjir hafa verið duglegir að hirða grjót úr hleðslunni á köflum. Á leiðinni mátti sjá falleg hraunreipi í helluhrauninu. Ekki var litið inn í Níutíumetrahellinn að þessu sinn, en höfðinu hins vegarstungið niður í Vatnshelli. heyra mátti tónlist vatnsins er dropar þess lentu á sléttum tærum vatnsfletinum og bergmáluðu inni í holrúminu.

Rauðshellir

Rauðshellir.

Þegar komið var að Rauðshelli skein sólin á munnann og hleðslurnar þar fyrir. Einhverjir hafa í seinni tíð nefnt hellinn Pólverjahelli, en þegar hann er skoðaður gaumgæfilega fer hin gamla nafngift ekki á milli mála. Víða í hellinum hefur rauðleitt hraunið runnið upp á veggina og makað hann litskrúðugan. Hleðslurnar fyrir opum og gróið jarðfallið benda til þess að þarna hafi einhvern tímann verið selstaða. Þá staðfestir forn stekkur norðan við það þá kenningu. Misgengi liggur með norðanverðum Helgadal til austurs og vesturs. Undir því á einum stað sést móta fyrir hleðslum.

Helgadalur

Op Hundraðmetrahellisins.

Farið var inn í Hundarmetrahellinn og skoðaðir raunbekkirnir með veggum og einnig litið á hraunfossinn inn undir jarðfallinu við enda hans. Ofan við hraunfossin er rás upp úr hrauninu sunnan við og undir sauðfjárveikigirðinguna, sem þarna er.
Helgafell skartaði sínu fegursta í kvöldsólinni, sem og Valahnúkar og Kaldárbotnar.

Frábært veður.

Helgadalur

Hleðslur í Rauðshelli.

Brennisteinsfjöll

Gengið var frá Bláfjallavegi suður Selvogsgötu áleiðis upp Kerlingarskarð. Við götuna, þegar komið er svo til miðja vegu upp í skarðið, eru nokkrir hellar, hér nefndir Hallahellar eftir einum þáttttakenda, sem var hvað áhugasamastur um leitina.

Kerlingarskarð

Tóft brennisteinsvinnslumanna undir Kerlingarskarði,

Einn þeirra (vinstra megin við götuna) er í sæmilegu jarðfalli og gengið inn í hann til suðurs. Þegar inn er komið liggja rásir bæði til hægri og vinstri. Hægri rásin opnast út en sú vinstri lokast fljótlega. Í loftinu er einstaklega fallegt rósamynstur. Skammt norðar er mjög stórt jarðfall, sem band þarf til að komast niður í. Það hefur ekki verið kannað, svo vitað sé.
Rúst af búðum brennisteinsnámumanna er norðan til undir Kerlingarskarði. Efst í skarðinu (vinstra megin) er drykkjarsteinn, sem ferðalangar hafa löngum stólað á að væri vatn í. Svo reyndist vera að þessu sinni. Fokið hafði í skálina og var tækifærið notað og hreinsað upp úr henni. Drykkjarsteinn átti einnig að hafa verið í Grindarskörðum, en hann virðist hafa verið fjarlægður.

Brennisteinsfjöll

Kistufellsgígur.

Gengið var til vesturs ofan við Bolla, framhjá fallegum hraungígum, inn eftir tiltölulega sléttum helluhraunsdal og áleiðis að Kistufelli. Staðnæmst var við Kistufellsgíginn og litið yfir hann, en gígurinn er einn sá fallegasti og stórbrotnasti hér á landi. Vestan við gíginn eru nokkur stór jarðföll og í þeim hellahvelfingar. Í sumum þeirra er jökull á botninum og í jöklinum pollar eftir vatnsdropa. Þegar droparnir falla í pollanna mynda þeir taktbundna hljómkviðu í geimunum.

Brennisteinsfjöll

Brennisteinsfjöll – tóft af húsi námumanna í Námuhvammi.

Haldið var undan hlíðum, niður í brennisteinsnámurnar í Brennisteinsfjöllum. Ofan þeirra er tóft af búðum námumanna. Sést vel móta fyrir henni. Neðar er námusvæðið. Þar má sjá hvar brennisteinninn var tekinn úr kjarnaholum, en gjall og grjót forfært og sturtað í hauga. Sjá má móta fyrir götum við haugana, sem og nokkrum múrsteinum frá námuvinnslunni. Undir bakka er hægt að sjá einn ofninn, ef vel er að gáð.
Gengið var niður með suðurenda Draugahlíða. Þar fyrir ofan er gígur, sem mikið úfið hraun hefur runnið úr áleiðis niður í Stakkavík. Selvogsgatan var gengin upp að Kóngsfelli, en frá því má sjá a.m.k. tvö önnur fell með sama nafni, þ.e. Stóra-Kóngsfell austar (Kóngsfell) og Litla-Kóngsfell sunnar. Stóra-Kóngsfell er á mörkum þriggja sýslna og er sagt að þar í skjóli gígsins hafi fjárkóngar hist fyrrum og ráðið ráðum sínum.

Tvíbolli

Tvíbolli (Miðbolli).

Til baka var gengið austur og norður með Mið-Bolla og fyrir Stóra-Bolla og niður Grindarskörðin. Á sumum kortum er gamla gatan sýnd liggja milli Bollanna. Mið-Bolli er með fallegustu eldgígum á landinu. Reyndar er allt Brennisteinsfjallasvæðið mikið ævintýraland fyrir áhugafólk um útivist, jarðfræði og stórbrotið ósnert umhverfi. Varða er efst á hálsinum og síðan nokkrar á stangli á leið niður mosahlíðina. Þegar niður er komið má sjá vörðubrot og gömlu götuna markaða á kafla áleiðis að Selvogsgötunni þar sem hún liggur yfir Bláfjallaveginn og áfram áleiðis niður í Mygludali.
Veður var frábært. Gangan tók 5 klst og 2 mín.

Drykkjarsteinn

Drykkjarsteinn efst í Kerlingarskarði.

Hvassahraunssel

Ákveðið var að freista þess að finna Skógarnefsskúta í Skógarnefi ofan við Krossstapa.

Loftsskúti

Loftsskúti.

Gengið var frá Reykjanesbraut upp að Loftsskúta þar sem mikil hleðsla er fyrir skúta í jarðfalli vestan undir hraunhæð. Varða er á hæðinni er gefur vísbendingu hvar skútann er að finna. Þaðan var haldið beina leið upp í Hvassahraunssel. Þangað er u.þ.b. hálftíma gangur. Rjúpur á stangli. Há varða er á austanverðum hraunhrygg, sem selið er norðvestanundir. Tóttir tveggja heillegra húsa eru í selinu, hvort um sig þriggja herbergja. Gróinn stekkur er undir hraunásnum og annar hlaðinn, heillegur vestan við tóttirnar. Tækifærið var notað og selið rissað upp.

Hvassahraunssel

Hvassahraunssel.

Haldið var áfram til suðurs upp frá selinu, framhjá Snjódölum, djúpum fallegum hraunlægðum, upp Mosana meðfram Eldborgarhrauni. Þegar komið var að hraunhæð ofarlega í þeim svo til alveg við hraunkantinn, var gengið eftir stíg yfir hraunið og inn á Skógarnefið. Svæðið er mikið gróið og fegurð þess endurnýjar snarlega sérhverja orkulind þreytts ferðalangs. Klukkustund liðinn frá upphafi ferðar.

Skógarnefsgreni

Skógarnefsgreni.

Gengið var niður með gróðursvæðinu og síðan svolítið inn á því. Mikið af rjúpu. Skömmu áður en komið var að landamerkjagirðingu Lónakots, sem liggur þarna niður að Krossstöpum, taka við brattur og gróinn hraunbakki. Ofan hans er nokkuð slétt Mosahraun, en ofar runnabrekkur Almennings. Leitað var að Skógarnefsskútanum, en árangurslaust að þessu sinni.

Neðan við bakkann var hlaðið umhverfis greni (Skógarnefsgreni). Þrjár litlar vörður voru allt um kring. Norðar má sjá litla vörðu við mosahraunskantinn. Við vörðuna liggur stígur stystu leið í gegnum hraunið í áttina að einum Krossstapanum. Lítil varða var hlaðin við stígsendann að norðanverðu.

Urðarásgreni

Urðarásgreni.

Skammt norðar var hlaðið í kringum greni (Urðarásgreni) og litlar vörður um kring. Framundan var mikill stórgrýttur urðarás, merkilegt jarðfræðifyrirbrigði. Þegar komið er að krossstöpunum þessa leið má glögglega sjá þrjá slíka. Sá austasti er greinilega stærstur, en um hann liggur landamerkjagirðingin. Lítill krossstapi er skammt vestar og sá þriðji mun lægri skammt norðvestar. Norðvestan við neðsta krossstapann var hlaðið umhverfis tvö greni (Krossstapagrenin). Fallegt ílangt jarðfall var sunnan þeirra.

Skorásvarða

Skorásvarða, landamerki Hvassahrauns og Lónakots.

Sjá mátti háu vörðuna ofan við Lónakotssel í norðri. Önnur varða var á hraunhól í norðvestri. Gengið var að henni og áfram í sömu átt niður hraunið. Lónakotsselsstígnum var fylgt að hluta, en þegar stutt var eftir niður að Reykjanesbraut var beygt til norðurs og tvær hlaðnar refagildrur, sem þar eru á kjarrgrónum hraunhól, skoðaðar. Önnur gildran virðist hafa verið hlaðin upp úr merkjavörðu, sem þarna var.
Þegar gengið er um ofanverð hraunin má segja að minjar séu við hvert fótmál. Mikilvægt er að kunna að lesa úr þeim. Vörðurnar eru t.d. af margvíslegum toga, s.s. leiðarvörður við götur og stíga, staðsetningavörður við einstaka merkilega staði, grenjavörður (þrjár umhverfis greni – tveir steinar í hverri), sögulegar vörður (er staðsetja sögulega atburði) og refagildrur í vörðulíki.
Gangan tók 2 og ½ klst. Veður var frábært – fjórðungssól og hlýtt.

Hvassahraunssel

Rjúpur við Hvassahraunssel.

Selvogsgata

Gengið var frá Bláfjallavegi áleiðis í Kristjánsdali. Á leiðinni eru tvær vörður. Á milli þeirra er markaður gamall stígur í klöppina. Sést hann vel á nokkrum kafla. Þarna mun vera um að ræða þann hluta Selvogsgötu er lá að veginum um Grindarskörð, en á seinni tímum hefur legið beinna við að fylgja stígnum upp Kerlingarskarð.

Kristjánsdalir

Tóft í Kristjánsdölum.

Skömmu áður en komið er í sjálfa dalina er komið að vatnsstæði. Í dalverpi eru síðan tvær tóttir. Önnur er húslaga en hin virðist vera hleðslur beggja vegna veggja timburhúss. Þarna var lengi sæluhús Selvogsmanna áður en þeir lögðu á heiðina í misjöfnum veðrum. Lengi vel voru hús þessi notuð af rúpna- og refaskyttum, sem þá höfðust við um skamman tíma í Kristjánsdölum þegar þeir voru við veiðar í Hlíðunum. Þegar haldið er upp krikann í dalbotninum er eins og ruddur stígur á ská upp hlíðina. Stígnum var fylgt upp, en áður en brúninni er náð virtist stígurinn enda. Ástæðan gæti verið hrun að ofan efst við brúnina eða hreinlega að engin stígur hafi verið þarna.

Bollar

Kóngsfell.

Haldið var áfram á ská upp brúnina og var þá komið að Stórabolla, einum bollanna sem Tvíbollahraun er komið úr og sjá má fyrir neðan. Varða var á brúninni norðan Bollans. Gengið var inn og niður með honum og inn að Kóngsfelli. Fellið er nokkuð sérstakt. Bæði stendur það eitt og sér austan við Grindarskörðin og í því miðju er hvilft þar sem fjárkóngar fyrrum hittust og réðu ráðum sínum. Í hvilftinni er gott skjól og því góður samkomustaður. Haldið var í suður frá fellinu og inn á Selvogsgötuna (Hlíðarveg). Nokkrar vörður eru á þeirri leið.

Stakkavíkurstígur

Á Stakkavíkurstíg efst í Selsskarði.

Selvogsgötunni var síðan fylgt niður með Draugahlíðum og í gegnum skarðið vestan Austurása. Þar skammt sunnar eru gatnamót. Í stað þess að vinda um og fylgja götunni áfram niður í Strandardal eða áfram niður að Hlíðarskarði var ákveðið að beygja til hægri og halda niður Stakkavíkurselsstíg. Gengið var vestur með Vesturásum og síðan niður með Dýjabrekkum og áfram niður með Grænubrekkum. Ofan þeirra er Stakkavíkurselið. Við stíginn eru einnig tóttir af enn eldra seli. Þegar komið var niður á brún Stakkavíkurfjall ofan við Hlíðarvatn tók Selsstígurinn við niður hlíðina. Þá var komið á Herdísarvíkurveg, u.þ.b. fjórum klukkustunum eftir að lagt var af stað frá Bláfjallavegi.
Veður var frábært – logn og sól.

Selvogsgata

Selvogsgatan.