Tag Archive for: Hafnarfjörður

Seltúnssel

Gengið var um Seltún í Krýsuvík og leitað Seltúnsselja, en gamlar heimildir kveða á um sel á túninu.
JóiSeltún er í Hveradal, en þar hafa orðið talsverðar (reyndar allmiklar) breytingar á landi síðan fyrrum. Síðast sprakk ein borholan í dalnum með miklum látum, en áður hafði hið ævintýralega brennisteinsnám farið þar fram með eftirminnilegum tilfæringum. Einu leifar þess ævintýris er hraukur af brennisteini sunnan Seltúnsgils, en þar var brennisteininum mokað upp eftir að hafa verið þveginn í þremur þróm og síðan fluttur á hestum til Hafnarfjarðar, óunninn. Það var enskt „milljónafélag“, sem að því stóð (sjá meira HÉR).
Þá var gengið upp Ketilsstíg, yfir Sveifluháls, framhjá Arnarvatni og Arnarnípu og niður Ketilinn í Móhálsadal, með hálsinum til suðurs og síðan upp á hverasvæðið er lækurinn um Bleikinsdal niður í Ögmundarhraun rennur úr. Þaðan var gengið áfram upp að Arnarvatni og til baka niður í Hveradal um Ketilsstíg. Um var að ræða létta göngu, 2-3 klst. Falleg gömul þjóðleið að hluta, sem æ fleiri fylgja nú á dögum.
Annars er frábært útsýni norður Sveifluhálsdalina þar sem staðið er norðan Arnarvatns. Þaðan sést vel hvernig hálsinn greinist um gígaröðina sem hann myndaði á síðasta jökulskeiði.
Frábært veður – sól og hiti.

Seltún

Seltún – minjar (ÓSÁ).

 

 

Stórhöfðastígur

Stórhöfðastígur var genginn frá fjárhellinum í Óbrinnishólum og stígurinn síðan þræddur í gegnum Óbrinnisbruna, Snókalönd og Stórhöfðahraun með viðkomu í Arnarklettum. Þar við fannst gamalt hlaðið hús, sem skoða þarf nánar síðar. Stígurinn er markaður í hraunið á kafla, en hefur því miður, af skammsýni, verið mokað burt á kafla. Frá Stórhöfða lá stígurinn í gegnum Stóhöfðahraun, upp fyrir Rauðhóla (sjá Rauðhólafjárskjólið), með stefnu til suðurs vestan við Fjallið eina, áfram norður fyrir Hrútargjárdyngju og áleiðis að Móhálsadal – til Krýsuvíkur um Ketilsstíg.

Seldalur

Tóft í Seldal.

Gengið var upp á Stórhöfða og niður að Selshálsi þar sem skoðað var gamalt fjárhús, sennilega frá Hvaleyri þegar bændur þar höfðu í seli við Hvaleyrarvatn um og eftir 1872. Gengið var um Selfjall, litið á forna fjárborg og aðra forna tóft skammt norðaustan hennar (sennilega stekkur eða fjárbyrgi frá Hvaleyrarseli). Síðan var haldið niður að spegilsléttu vatninu og komið við í Hvaleyrarseli, en þar gerðust um 1884 þeir hörmulegu atburðir, sem flestum eru kunnir. Selmatsstúlka fannst látinn, illa leikinn, við vatnið. Talið var að nykur, sem hélt til í vatninu, hafi valdið dauða hennar. Eftir að hafa rifjað upp atvikið var gengið í skóginn og haldið á Húshöfða og kíkt á gömlu beitarhúsin frá Ási, stekkinn og fjárhústóttirnar undir Bleiksteinshæð, gengið eftir hæðunum yfir að Ásfjalli, skoðuð skotbyrgi frá stríðsárunum og áð við Siglingavörðuna efst á fjallinu. Þaðan mátti líta einn fallegasta bæ á landinu – baðaðan kvöldsólinni.
Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Hvaleyrarvatn

Hvaleyrarvatn – minjar (ÓSÁ).

Óbrinnishólabruni

Fundin bein drengsins, sem týndist fyrir 5 árum úr Hafnarfirði.
Obrynnisholabruni-21„Laugardaginn 24. maí 1924 hvarf 7 ára gamall drengur úr Hafnarfirði, Þórður Guðjónsson, skósmiðs, Magnússonar. Var drengurinn á leið úr Hraunrétt til Hafnarfjarðar. Það er um kl.-stundar gangur. Hafði hann áður farið þá leið.
Eftir að drengurinn hvarf var hans leitað dögum saman. Var oftast fjöldi manna í leitinni. Einn daginn fóru nokkrir menn með hund af sporbundakyni með sér, ef vera kynni, að hann þefaði uppi slóð drengsins, en það varð ekki að notum. Öll leit varð árangurslaus. Spora varð vart við Ásfjall, skömmu sunnar en leiðin liggur frá réttinni tíl Hafnarfjarðar, en ekki urðu þau rakin áfram.
Á fimtudaginn var, 30. maí. meir en 5 árum síðar, var það svo um kvöldið, að Sigurjón Sigurðsson, lausamaður að Hlíð í Garðahverfi, og Þorvaldur Arnason, prests, Björnssonar, voru að leita að hesti. Voru þeir stadddir í Óbrynnishólabruna, fyrir neðan Snókalönd, á.að gizka niður undan miðjum Undirhlíðum, nokkuð neðarlega í hraunbrunanum. Við Undirhlíðar liggur gatan úr Hafnarfirði til Krýsivíkur, en þetta var miklu neðar og nálægt því, sem mætist land Hafnarfjarðar og Hraunabæja. Var þá Sigurði gengið fram á höfuðkúpu, þrjá leggi, svo og stígvél af unglingi, og voru i því tá- og ristarbein. Var þetta nokkuð tekið að hverfa i mosann.
Önnur vegsummerki fundust ekki að því sinni, en Sigurður obrynnisholabruni-22þóttist þegar viss um, að þetta væru bein Þórðar heitins. Flutti hann það með sér í klút til Hafnarfjarðar og afhenti sýslumanni þau. Voru þau Þegar flutt í líkhús þjóðkirkju-safnaðarins, en Sigurður skýrðí frá atvikum fyrir rétti.

Sýslumaðurinn bað Sigurð þá að fara aftur á staðinn, þar sem beinin fundnst og gera það, sem unt væri, til þess að leita þar í grend, ef vera kynni, að meira fyndist. Gerði Sigurður svo. Fór hann i gær og með honum Gísli Guðjónsson, bóndi í Hlið, og Jósef Guðjónsson í Pálshúsum í Garðahverfi. Hófu þeir nákvæma leit á staðnum, þar sem beinin fundust, og umhverfis hann. Leituðu þeir niður í mosann og rótuðu í honum upp með múrskeið. Á sama stað og áður, í hraungjótu undir klapparnefi, fundu þeir með þessu móti bein drengsins, svo að þeir telja ekki hugsanlegt, að neitt sé nú eftir ófundið af þeim. Sáu þeir merki þess, að mosi hefði verið losaður þar af mannavöldum, svo sem til þess að hvílast á. Benda líkur til, að þar hafi drengurinn búist um að lokum. Þeir fundu einnig hitt stígvél hans, sem áður var ófundið, svo og fataleyfar, sem ekki var unt að hirða. Hnappa fundu þeir eða tölur og fjörustein úr blágrýti, sem drengurinn hefir haft á sér, en ekki fleiri menjar.

obrynnisholabruni-23

Segja þeir, að staðurinn, þar sem beinin fundust, sé 10 faðma innan við gaddavírsgirðingu, sem sett hefir verið um bæjarland Hafnarfjarðar, og skilur hún það þar frá landi Hraunabæja. Var girðingin sett þarna fyrir þremur árum, eða tveimur árum eftir að drengurinn hvarf. Ber hæð eða bala á milli, svo að ekki sést frá girðingunni þangað í mosann, sem beinin voru. Þeir félagar fluttu beinin til Hafnarfjarðar og bíða þau greftrunar í líkhúsinu, sem og áður er getið. Síðan gáfu þeir þegar skýrslu fyrir rétti um ferðina og árangur hennar.
Spor þau eða mannaför, sem sáust í leitinní forðum, segja þeir Sigurður að hafi verið töluvert neðar heldur en beinin fundust, í vestur til útnorðurs þaðan. Bendir það til þess, að drengurinn hafi síðast stefnt til fjalls þegar dimma tók af nóttu.“

Heimild:
-Vikuútgáfa Alþýðublaðsins, 3. árg. 05.06.1929, bls. 3.

Kapelluhraun

Tóur í Kapelluhrauni.

Hvaleyrarvatn

Eftirfarandi umfjöllun um skógrækt Skógræktarfélags Hafnarfjarðar birtist í 24stundir í ágústmánuði árið 2008. „Mörg hundruð hektarar af skógrækt með yfir 200 tegundum af trjám – Náttúruperla í útjaðri Hafnarfjarðar. Í Hafnarfirði leynist sannkölluð náttúruperla sem enginn ætti að láta framhjá sér fara. Þar eru mörg hundruð hektarar af skógrækt með yfir 200 tegundum af trjám og runnum.

HólmfríðurÍ útjaðri Hafnarfjarðar leynist sannkölluð náttúruperla, fleiri hundruð hektarar af skógræktar og uppgræðslulandi.
„Hér er góður andi,“ segir Hólmfríður Finnbogadóttir, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Hafnarfjarðar en félagið hefur umsjón með upplandi bæjarins. „Við erum rík hér í Hafnarfirði að eiga þetta fallega útivistarsvæði alveg við bæjardyrnar. Þetta er ákaflega fallegt og hér er margt að sjá. Hér höfum við opnað fjóra útivistarskóga. Þetta eru glæsilegir skógar sem eru opnir almenningi. Svo erum við með trjásýnilund hérna rétt fyrir neðan þar sem búið er að gróðursetja og merkja yfir 200 tegundir af trjám og runnum. Steinar Björgvinsson sér um trjásafnið en hann er ræktunarstjóri gróðrastöðvarinnar Þallar ehf sem félagið á.“

Fjölbreytni og fegurð
Nýverið var opnuð skemmtileg útikennslustofa í Höfðaskógi enda koma bæði grunnskólar og leikskólar í heimsókn á vorin. „Á vorin koma grunnskólanemar og Fræðsluaðstaðagróðursetja tré og hlúa að gróðri en hver skóli er með sína landnemaspildu. Við reynum að auka fjölbreytnina í skógunum. Í gamla daga var þetta svo einsleitt en í dag setjum við rósir og alls kyns runna í skóginn enda viljum við hafa skóginn fjölbreyttan og fallegan. Við prófum okkur líka áfram og könnum hvað lifir í náttúrunni. Við söfnum íslenskum fræjum, berjum og öðru og fáum það líka sent víða að úr heiminum,“ segir Hólmfríður að lokum og hvetur alla til að koma og skoða þetta fallega svæði.“

Útikennslustofan var formlega tekin í notkun laugardaginn 3. maí, kl. 14:00. Það voru hjónin Hörður Zóphaníasson og Ásthildur Ólafsdóttir sem gáfu Skógræktarfélagi Hafnarfjarðar peningagjöf á 60 ára afmæli félagsins árið 2006. Gjöfinni fylgdi sú ósk að hún yrði notuð til að fræða ungt fólk um gildi skógræktar og uppgræðslustarfs og til að sýna hversu fjölbreytt not má hafa af skógum. Með þetta að leiðarljósi unnu starfsmenn og stjórn félagsins að því að þróa og móta þetta verkefni, sem nú er orðið að veruleika.

Minjar
BeitarhúsÍ Húshöfða, líkt og í næstu höfðum, Fremstahöfða, Selhöfða og Stórhöfða eru minjar fyrrum búskaparháttar, flestar tengdar selstöðunum, Hvaleyrarseli og Ásslei, við austanvert Hvaleyrarvatn.
Húshöfði dregur nafn sitt af gömlu beitarhúsi frá Jófríðarstöðum og eru tóftir þess enn sýnilegar við höfðann. Á síðustu árum hefur Skógræktarfélagið lagt göngustíga um Höfðaskóg og komið upp trjásýnireit sem áhugavert er að skoða. Ganga kringum Hvaleyrarvatn er í beinum tengslum við skógræktarsvæðið. Leiðin er auðveld því göngustígur hefur einnig verið lagður umhverfis vatnið.
Hlaðinn stekkur eða gerði er norðvestan við skála Skógræktarfélagsins. Hann tengist sennilega notkun beitarhústóftarinnar austar á hálsinum. Þar er nokkuð stór beitarhústóft og önnur minni skammt norðvestar. Hún virðist nokkuð eldri og er mun jarðlægari. Ekki er ólíklegt að beitarhúsið, sem var brúkað frá Jófríðarstöðum, hafi verið byggt þar upp úr eldri selstöðu eftir að hún lagðist af. Innan við beitarhúsatóftina er fyrrnefnd útikennslustofa.

Rós

Skammt austar í hlíðinni er minningarlundur um Kristmundsbörn er munu hafa tengst upphafi skógrækar í Hafnarfirði. Þar hjá er Ólafslundur til minningar um Ólaf Daníelsson, skógræktanda.
Efst á höfðanum er Höfðavarðan

Skógræktarfélag Hafnarfjarðar var stofnað árið 1946 og er því 62 ára (2008). Skóglendi þess eru Höfðaskógur, Seldalur, Skólalundur, Undirhlíðar og Gráhelluhraun. (Sjá meira um Hvaleyrarvatnssvæðið HÉR).

Heimild:
24stundir 6. ágúst 2008 – eftir Svanhvíti Ljósbjörgu.Húshöfði

Lambagjá

Farið var í hellana sunnan Þverhlíðar norðan Sléttuhlíðar, haldið í Náttaga norðan Kaldársels og þaðan austur yfir hraunið í Kaldárselsfjárhellana gegnt Smalaskála.

Fosshellir

Í Fosshelli.

Gengið var um Lambagjá, skoðuð hleðslan undir vatnsleiðsluna frá Kaldárbotnum. Farið var undir haftið í Lambagjá og upp í Áttatíumetrahellirinn, litið í hellana í norðanverðum Helgadal (Vatnshelli) og síðan gengið að Hundraðmetrahellinum og hann skoðaður. Ekki var farið í Rauðshelli að þessu sinni, en skammt frá honum er forn hlaðinn stekkur. Líklegt er að Rauðshellir hafi verið notaður sem aðhald eða jafnvel selstaða fyrrum. Hleðslur eru bæði fyrir opum hans og inni í honum. Vel gróið á milli opa. Kæmi ekki á óvart ef þar leyndust minjar undir. Gengið var í gegnum Fosshellirinn, en hann er einn sá allra fallegasti á svæðinu. Í bakaleiðinni var litið aftur í Rauðshelli og skoðuð bælin, sem þar eru og áletrun á norðanverðum barmi opsins. Þá var gamla Selvogsgatan gengin niður að Kershelli og Hvatshelli. Þeir hellar voru skoðaðir, auk þess sem gengið var um Setbergs-og Hamarkotssel og farið í gegnum Ketshelli áður en hringnum var lokað.
Gangan tók 2 ½ klst. Frábært veður.

Helgadalshellar

Rauðshellir.

Þorbjarnastaðir

Björn Möller í Hafnarfirði benti FERLIR á Minningu um forföður eiginkonu hans, Guðfríðar Guðmundsdóttur, Ólaf Jónsson, bónda á Geitabergi, Katanesi, er birtist í Íslendingaþáttum Tímans árið 1982. Ólafur var langafi Guðfríðar. Þar segir Valgarður I. Jónsson frá Eystra-Miðfelli frá Ólafi, en hann var m.a. um tíma lausamaður á Þorbjarnarstöðum í Hraunum.

Thorbjarnarstadir-2

„Ólafur Jónsson fæddist 25. 12. 1838 að Lambhaga í Mosfellssveit, sonur hjónanna Jóns Jónssonar og Maríu Eyjólfsdóttur. Þetta fólk mun hafa átt ætt sína og uppruna í Gullbringu- og Kjósarsýslu, Mosfellssveitinni og nágrenni Reykjavíkur, t.d. í Laxnesi, í Stardal og í Breiðholti. Ólafur átti tvö bræður og eina systur.
Ungur stundaði Ólafur jöfnum höndum landbúnaðarstörf og sjósókn. Það mun hafa verið 1869, sem Ólafur byrjar búskap, þá 31 árs gamall, sem leiguliði á jörðinni Þorbjarnastaðir í Straumsvík við Hafnarfjörð. Þar býr hann í 12 ár sem leiguliði.

Thorbjarnarstadir-3

Satt best að segja átta ég mig ekki á hvernig hægt er að kalla þetta jörð eða grasbýli, þarna er allt umhverfi svart brunahraun. En Ólafur vann það þrekvirki þarna að græða upp túnblett úr brunauðninni. Hann tíndi stærsta grjótið úr og hlóð úr því varnargarð umhverfis túnið, sem enn stendur að nokkru, svo vel hefur verið til verksins vandað. Síðan mylur hann hraunnibburnar með sleggju og breiðir mold yfir og fær hinn besta töðuvöll. Þarna var handaflið eitt að verki, við getum ímyndað okkur þrældóminn. Þarna reisti hann hús að grunni og gerði hinar ótrúlegustu umbætur, sem jarðeigandinn kunni vel að meta, það sýndu ýmsir góðir munir, sem hann gaf Ólafi, sem þakklætisvott, ég man t.d. eftir Vínstaupinu úr púra silfri og upphafsstafirnir hans faglega á grafnir.

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnastaðir – uppdráttur ÓSÁ.

Þessi 12 ár, sem Ólafur bjó þarna stundaði hann sjóinn jöfnum höndum og réri frá Óttarsstöðum með Guðmundir Halldórssyni mági sínum. Ólafur var mikill starfsmaður, sem ekki kunni að hlífa sér. Þarna hefur sannast, sem endranær, því talað var um að honum græddist fé og væri vel stæður maður, á mælikvarða þess tíma. Á þessum árum hefur starfsgetan verið óskert.

Svo var það á þessum árum að Ólafur fréttir af jörð til sölu í Hvalfjarðarstarndarhreppi, þar var Geitabergið í Svíndal. Ólafur handasalaði kaupin, en tók ekki strax við jörðinni því hann vildi borga jarðarverðið út í hönd þegar hann tæki við jörðinni, en hann vantaði lítillega og þurfti að afla þess. Þá stóðu munnleg loforð sem skrifaðir samningar og ekki var háttur manna að kaupa allt ís kuld, en fara að öllu með fyrirhyggju.
Ólafur flutti með allt sitt að Geitabergi á vordögum 1881. Þar bjó hann í 18 ár, en vorið 1899 skipti hann á jörðinni og Katanesi. hann lést þar 22. maí 1912.

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnastaðir – heimaréttin.

Það er á allra vitorði að sú kynslóð sem lifði samtíð Ólafs vann hörðum höndum að framgangi sinnar þjóðar til betra lífs. Af verkum þessa fólks uppskerum við enn í dag.
Ólafur var virtur af verkum sínum. Því til sönnunar má bend á að þrisvar sinnum voru honum veitt konungsverðlaun úr Ræktunarsjóði fyrir jarðabætur.“
Tóftir og tún á Þorbjarnarstöðum ofan við Straum er síðustu heillegu minjar framangreins tíma í Hafnarfirði, sem þá tilheyrði Garðahreppi. Bærinn stóð við gömlu þjóðleiðina, Alfaraleiðina milli Innnesja og Útnesja. Við bæinn eru enn allflestar þær minjar, sem gefa innsýn í búskaparhætti fyrri tíma.

Heimild:
-Íslendingaþættir Tímans – 30. júní 1882, 25. tbl. – Valgarður I. Jónsson.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – tilgáta.

Hvaleyrarvatn

Í Gráskinnu hinni meiri er þjóðsaga frá Hvaleyrarvatni ofan Hafnarfjarðar:

Hvaleyrarvatn

Hvaleyrarvatn.

„Sagt er, að nykur sé í Hvaleyrarvatni annað árið en hitt árið í Kasthúsatjörn á Álftarnesi. Var selstaða áður við Hvaleyrarvatn. Eitt sinn voru þar karl og kerling og gættu búpenings. Fór konan að sækja vatn og kom ekki aftur. Seinna fannst lík hennar mikið skaddað rekið upp úr vatninu og þótti líklegt að nykurinn hefði drekkt konunni. Hafa eldri menn oft heyrt skruðninga frá vatninu er ísa leysir og er það talið stafa af nykrinum. Sagt er ennfremur að eitt sinn hafi fjögur börn verið að leik út á Álftarnesi og séð þar eitthvað sem líktist hesti. Fóru öll á bak nema eitt barnanna, en það sagðist ekki nenna. Hristi þá dýrið börnin af sér og stökk út í tjörnina. Þóttust menn vita að þetta hefði verið nykur.“

Hvaleyrarsel

Hvaleyrarsel.

Önnur sögn segir að nykurinn sé jafnan annað árið í Hvaleyrarvatni, en hitt í Urriðavatni. Fari hann millum vatnanna um undirgöng.
„Sunnan við Hvaleyrarvatn, undir Selhöfða eru tóftir tveggja selja. Austar eru tóftir, líklega sels frá Ási, niður undan skátaskálanum Skátalundi, en vestar, á grónum tanga, eru tóftir Hvaleyrarselsins. Þar lagðist selsbúskapur af eftir að smali frá Hvaleyri fann selsstúlku látna og illa leikna niður við vatnið. Talið var að nykur, sem átti að hafa haldið til í vatninu annað hvert ár, hafi ráðist á og banað stúlkunni. Nykurinn átti, skv. sögnum, að búa hitt árið í Urriðakotsvatni, en hann mun hafa drepist þar frostaveturinn mikla árið 1918. A.m.k. sást aldrei til hans eftir það.“

Heimild:
-Sigurður Nordal og Þórbergur Þórðarson, Gráskinna hin Meiri. (Reykjavík: Bókaútgáfan Þjóðsaga, 1962), I, 258-259.

Hvaleyrarvatn

Hvaleyrarvatn.

Hafnarfjörður

Á skilti milli húsanna Hverfisgötu 43 og 45 í Hafnarfirði er upplýsingaskilti um „Vitann við Vitastíg„. Vitinn sést reyndar ekki frá skiltinu, en á því er eftirfarandi texti:

Hafnarfjörður

Vitinn við Vitastíg – að vestanverðu.

„Þrátt fyrir að Hafnarfjörður hafi verið ein helsta höfn landsins á Suður- og Vesturlandi í gegnum aldirnar var lengi vel ekku um nein öryggistæki að ræða þar utan þess að á helgaskeri úti fyrir höfninni voru varúðarmerki í einhverri mynd allt frá aldamótunum 1800. Árið 1900 brugðust stjórnvöd við þessu og létu reisa tvo vita í Hafnarfirði, annan niðri við höfnina en hinn hér efst uppi á háhrauninu ofan við bæinn. Árið 1910 sendi stjórnarráðið bæjarstjórn Hafnarfjarðar erindi og fór þess á leit að kaupstaðurinn tæki að sér resktur vitanna, að öðrum kosti yrðu þeir fjarlægðir. Varð það úr og frá ársbyrjun 1911 tók kaupstaðurinn við rekstri beggja vitanna. Hafnarfjarðarbær fékk vitana afhenta án endurgjalds gegn skilyrðum um viðhald og rekstur þeirra og að á þeim logaði ljós frá hálfri stundu fyrir sólarlag til hálfrar stundar eftir sólaruppkomu frá 1. ágúst til 15. maí ár hvert. Tveimur árum síðar, árið 1913, var ákveðið að færa neðri vitann að Fiskakletti og etta sama ár var efri vitinn hækkaður allnokkuð þar sem hin nýreista Fríkirkja við Linnetsstíg skyggði á hann.

Hafnarfjörður

Vitinn við Vitastíg – að austanverðu.

Olíugeymsla beggja vitanna var við Fiskaklettsvitann og þurfti að bera olíu þaðan, í brúsum, upp að efri vitanum á hverjum degi. Í vitunum voru olíulampar og á bak við logann var silfurhúðaður kúptur spegill sem kastaði ljósgeislunum frá sér en framan við lampann var dregin rauð rúða, því vitaljósin áttu að vera rauð. Þar sem ljósunum bar saman úr vitunum tveimur var innsiglingarleiðin inn í Hafnarfjarðarhöfn.

Árið 1931 voru gerðar miklar breytingar á rekstri vitanna sem fólust meðal annars í því að neðri vitinn, sá sem staðið hafði við Fiskaklett, var rifinn og í efri vitann var settur svokallaður blossviti sem var gasljós með mislitum hornum. Þetta varð til þess að ekki var lengur þörf á daglegri umsjón með vitunum og var þá Gísla Jónssyni vitaverði sagt upp störfum en han hafði gegnt því starfi frá árinu 1900, í rúm 30 ár. Eftir það var það hlutverk hafnsögumanna að þjónusta vitann, allt til ársins 1979 þegar vitinn var lagður niður og leiðarmerki tekin í notkun í hans stað. Í dag er vitinn í eigu Hafnarsjóðs Hafnarfjarðar og nýtur hann verndar samkvæmt lögum um menningarminjar.“

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – hús við Hverfisgötu og vitinn á háahrauninu ofar.

Hellisgerði

Við innganginn í Hellisgerði í Hafnarfirði er skilti með eftirfarandi upplýsingum:

Hellisgerði

Fjarðarhellir í Hellisgerði.

„Sögu Hellisgerði má rekja aftur til miðvikudagsins 15. mars árið 1922. Þá hélt Guðmundur Einarsson framkvæmdarstjóri trésmiðjunnar Dvergs framsögu á fundi er hann nefndi „Getur félagið Magni haft áhrif á útlit Hafnarfjarðar?“

Hellisgerði

Hellisgerði 2024.

Í framsögunni svaraði hann spurningunni játandi með að koma upp skemmti- og blómagarði sem yrði Magna til sóma og bænum til mikillar prýði. Í kjölfarið var stofnuð nefnd innan félagsins sem hafði það hlutverk að finna heppilegan stað fyrir garðinn. Komst nefndin að þeirri niðurstöðu að hið svokallaða „Hellisgerði“ á milli Reykjavíkurvegar og Kirkjuvegar værið kjörið fyrir garðinn. Þar var vísir að trjálundi en C. Zimsen verslunarstjóri hafði látið girða af svæði í kringum Fjarðarhelli um aldamótin.

Hellisgerði

Hellisgerði.

Haustið 1922 samþykkti bæjarstjórn Hafnarfjarðar að láta félaginu í té hið umbeðna garðstæði endurgjaldslaust. Það skilyrði fylgdi þó samþykkt bæjarstjórnar að skemmtigarðurinn yrði opinn almenningi á sunnudögum á sumrin og að ef eigi yrði búið að griða svæðið af og hefja ræktun þar innan tveggja ára, missti félagið rétt sinn til landsons. Vorið eftir var búið að girða Hellisgerði af og þann 24 júní var haldin þar útiskemmtun sem hafði þann tilgang að afla fjár til starfseminnar og kynna fyrir bæjarbúum. Við það tækifæri afhenti Magnús Jónsson bæjarfógeti Málfundafélaginu Magna Hellisgerði fyrir hönd bæjarfélagsins og óskaði þeim velfarnaðar í starfinu. Skemmtunin þótti takast svo vel að ákveðið var að halda Jónsmessuhátíð árlega til fjáröflunar. Til skemmtunar voru ræðuhöld, lúðrablástur, söngur og dvöl í gerðinu sjálfu.

Síðasta Jónsmessuhátíðin í Hellisgerði var haldin árið 1960.

Hellisgerði

Hellisgerði.

Í Skipulagsskrá fyrir garðinn kemur fram að tilgangur hans var fyrst og fremst þvíþættur. Í fyrsta lagi að vera skemmtigarður, þar sem bæjarbúar áttu kost á að njóta ánægju og hvúldar í tómstundum sínum. Í öðru lagi að vekja áhuga bæjarbúa á blóma- og trjárækt og í þriðja lagi að geyma óraskaðar minjar um hið sérkennilega bæjarstæði Hafnarfjarðar.

Hellisgerði

Í Hellisgerði.

Vorið 1924 hófst ræktun í Hellisgerði og var þá Ingvar Gunnarsson kennari ráðinn forstöðumaður. Upphafleg stærð garðsins var um 4000 m2 en árið 1960 samþykkti bæjarstjórn Hafnarfjarðar að láta Magna í té 6000 m2 land til viðbótar við Hellisgerði. Óhætt er að segja að enginn enn maður hafi ráðið eins miklu um útlit og rekstur Hellisgerðis frá upphafi og Ingvar Gunnarsson en að honum látum var Sigvaldi Jónsson garðyrkjumaður ráðinn forstöðumaður en eftirmaður hans vera Svavar Kjærnested. Eftir að starfsemi Magna og Garðráðs lagðist niður hefur umsjón og eftirlit Hellisgerðis verið í höndum garðyrkjustjóra Hafnarfjarðarbæjar.“

Hellisgerði

Hellisgerði.

Hvassahraun
Girðingu austan Hvassahrauns var fylgt til norðurs frá Skyggni. Skammt undan hólnum er gamla Hvassahraunsréttin, fallega hlaðin í hraunkvos.
Girðingin, eða öllu heldur undirhleðslan, endar niður við sjó skammt austan við Stekkjarhól. Gengið var austur með ströndinni, Hvassahraunsbót. Gatan er að mestu gróin og auðvel yfirferðar.

Hraunsnesskjól

Hraunsnesskjól.

Grjótkampurinn er mikið til sérkennilegt grágrýti, sem ber þess glögg merki að hafa storknað í sjó. Eftir u.þ.b. hálftíma göngu skipti um. Framundan var nokkuð langur, grasi gróinn, tangi, Hraunsnes. Framan við hann voru falleg vatnsstæði. Inn á nesinu er hlaðið fjárskjól. Svæðið ber með sér að þarna hafi verið beitt á árum áður.
Haldið var áfram austur með ströndinni. Framundan sást Markaklettur þar sem hann stóð upp úr hrauninu næst sjónum. Kletturinn er landamerki Hvassahrauns og Lónakots. Gömul girðing liggur upp frá honum. Ofan hans eru tveir staurar og hefur hlið verið á milli þeirra. Handan Markakletts var komið að nokkrum fallegum spegilsléttum tjörnum inn á milli Kindinhárra kletta. Við eina tjörnina var, að því er virtist, elliær sækind. Tókst að taka ljósmynd af kindinni með því að læðast að henni og koma að óvörum. Vel mátti sjá sauðasvipinn á henni ef vel var að gáð. Þegar hún varð mannaferða var stökk hún áleiðis til sjávar og hvarf sjónum.
Skammt austar eru háir klettar, Réttarklettar. Gróið er í kringum þá. Umhverfis eru hlaðnir garðar og mótar fyrir tótt norðan við klettana. Hlaðinn stekkur er utan í garði austan þeirra. Ekkert nafn virðist vera á þessu svæði því það virðist ekki vera til á kortum. Heimild er til um kot fyrrum á þessu vsæði, Svínakot. Í örnefnalýsingu fyrir Lónakot segir m.a. um þetta svæði: „Úr Söndugrjóti lá landamerkjalínan í Markhól eða Hól, sprunginn, með Markhólsþúfu. Þar er enga áletrun að finna. Frá norðurtúngarðshliði lá Sjávargatan vestur með sjónum.
Gata þessi vestur með sjónum var gerð fær hestvagni eftir 1920 og eftir henni ekið með reka af fjörunum. Lónakotsvör var vestan og neðan vesturtúngarðsins, en mun sjaldan hafa verið notuð nema að sumri til. Hér nokkru vestar var Brimþúfa, þúfa uppi á kletti. Niðri í fjörunni var Mávahella, þar sátu mávarnir og skarfarnir [og] viðruðu sig. Vestan var strýtumyndaður hóll, nefndist Nípa. Þar upp af í hrauninu var fjárskjól, Nípuskjól og Nípurétt, tóft réttar við hellisskúta syðst í lægðinni. Nokkru lengra vestur voru klettastrýtur, nefndust Réttarklettar.  Milli þeirra voru allvel grónar flatir og réttartættur, garðar og skjól.“
Sjávargötunni var fylgt til austurs, yfir hraunhaft, framhjá Nípu og áfram áleiðis að Lónakoti.
Ef fé hefur verið haldið þarna mátti draga þá ályktun að þar hlyti að vera einhver fjárskjól auk þessa vestan á nesinu. Þegar vel var skyggnst mátti greina hleðslu á hól í suðri. Stígur virtist liggja í þá áttina. Honum var fylgt og var þá komið að miklum hleðslum fyrir skúta, fjárhelli. Skútinn var í hárri hraunkvos og var vel gróið í kring. Ekki var að sjá merki mannaferða í eða við skútann, sem er vel hár og rúmgóður.
Sjávargötunni var fylgt til austurs, yfir hraunhaft, framhjá Nípu og áfram áleiðis að Lónakoti.
Tækifærið var notað og mannvistarsvæðið rissað upp.
Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Lónakot

Lónakot – uppdráttur ÓSÁ.