Tag Archive for: Hafnarfjörður

Stórhöfðastígur

Gengið var eftir Stórhöfðastíg frá Undirhlíðavegi að Stórhöfða.
Ólafur Þorvaldsson lýsir leiðinni í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1943-48, reyndar frá Ási upp á Undirhlíðaveg. Þar segir hann að „Stórhöfðastíg fóru stundum lausríðandi menn frá Krýsuvík til Hafnarfjarðar. Fóru þá sem leið lá inn með hálsum, þar sem sú leið er allgóður reiðvegur, þar til kom á móts við þar sem Stórhöfðastígurinn lá vestur á milli Fjallsins eina og Sandfells. Sá stígur var stundum tekinn því að við það féll úr mikill krókur inn með Undirhlíðum um Kaldársel en hitt bein lína til Hafnarfjarðar. Þó að Stórhöfðastígur sé frekar slitróttur var gott að láta hestinn njóta ferðarinnar, en jafnsnemma komið til Hafnarfjarðar eða fyrr þrátt fyrir stirðari veg.“
Ólafur lýsir og stígnum þar sem hann liggur milli Sandfells og Fjallsins eina „og er þá Sandfellið á hægri hönd, allnærri“.
Stórhöfðastígurinn hefur nú verið stikaður að hluta, frá Undirhlíðavegi niður á Sléttuna.
Undirhlíðavegur sést vel í rótum móbergshróka Grænklofa ofan Djúpavatnsvegar – fast ofan Sandfellsklofa. Þar eru gatnamótin, í beygju á þjóðveginum, áður en komið er að bílastæðinu við Hrútagjá. Sjást þau vel. Þaðan liggur hann augljós niður með lágum grónum hraunhrygg austan utanverðrar gjáarbrúnarinnar.
Gjábrúnin er þarna bæði há og tilkomumikil. Auðvelt er að sjá í vegg hennar fyrrum hraunþakhelluna er lyfst hefur vegna mikils kvikuþrýstings undir niðri. Þegar kvikan síðan storknaði undir hélst veggurinn í rúmlega 45° halla. Endi gjárinnar sést í norðausturhorni „veggsins“, stór og mikilfenglegur. Hrútfell er þarna á hægri hönd. Stígurinn er augljós með rótum Sandfellsins. Reykjavegurinn hefur verið stikaður þarna eftir nýrri leið, en Stórhöfðastígurinn er svolítið norðaustan hans og liggur samhliða á nokkrum kafla. Hinar nýju stikur höfðu verið settar með Reykjaveginum, en voru nú færðar yfir á hinn eiginlega Stórhöfðastíg. Hann fylgir síðan rótum Sandfellsins að mikilli gjá. Sú liggur til norðurs með vestanverðu Sandfellinu og er jafnframt misgengi.
Á sumum kortum hefur þessi gjá, sem liggur alveg niður að gígaþyrpingu suðaustan við Sléttuna sunnan Krýsuvíkurvegar, nafnið Fjallgjá. Önnur gjá, með sömu stefnu, en nokkru vestar, hefur og verið nefnd því nafni. Einhvern veginn virðist Fjallgjárnafnið eðlilegra á þessari gjá því hún liggur upp með Sandfellinu vestanverðu og Fjallinu eina austanverðu, en hin kemur eiginlega hvergi að fjalli. En hvað um það. Stórhöfðastígur liggur þarna niður gróna hraunbrekku milli fellanna. Þar greinist hann í tvennt með hrauntungu. Sama er hvor leiðin er valin því þær koma saman neðan tungunnar. Þar fylgir stígurinn rótum Fjallsins eina og síðan gróinni vesturbrún gjárinnar. Bæði er skjólsælt þar fyrir austanáttinni (sem kom berlega í ljós í þessari ferð) og auk þess er fallegt að horfa til baka, upp eftir stígnum þar sem hann liggur á milli fellanna með Hrútargjána sem bakgrunn.
Einir er áberandi á þessu svæði og ekki spilltu nýtilkomnu haustlitirnir í birkilaufinu fyrir litadýrðinni. Hraunssvæðin eru engu lík við þessar aðstæður.
Þegar komið var skammt ofan við gígaþyrpinguna nafnlausu (hér er stungið upp á hún verði nefnd Ásar í höfuðið á Ásbirni þeim er hefur verið með þeim duglegri að rekja gamlar götur og leiðir á þessu svæði auk þess sem nafnið minnir á upphaf stígsins að norðanverðu) fer gatan beggja vegna við lága hraunhæð og síðan með henni að þyrpingunni vestanverðri. Neðan (norðan) hennar breytir hraunið bæði um svip og yfirbragð. Við tekur ógrónara, ósléttara hraun og mosavaxnara, án þess að í því séu hæðir og lægðir. Með fránum augum má sjá hvar stígurinn lá með stefnu í næsta hraunnef að vestanverðu. Austan við það kemur stígurinn aftur mjög glögglega í ljós. Smám saman „birtir“ meir og meir yfir honum á sléttri hraunhellu Sléttunnar. Á kafla greinist hann þar í tvennt, en kemur saman á ný skammt norðar. Þar liggur stígurinn yfir austurmörk Straumslands og inn á Ásland með vestanverði brún Brunans, framhjá og í gegnum fallegan „gróðurvog“ þar sem „Tvídrangar“, tveir háir hraunstöplar rísa upp úr Brunanum og halla sér hvor að öðrum. Þarna er einn af fáum stöðum í öllum hraununum þars em sjá má áþreifanlega kynjaskiptingu hraunsins. Yfirleitt er talað um það í hvorukyni, en á þessum stað er það bæði í karlkyni og kvenkyni. Því getur í raun enginn trúað nema líta það eigin augum. Undir hraunbrúninni má sjá mannanna verk á tveimur stöðum, þakin mosa. Annað gæti hafa verið skjól eða jafnvel hús og hitt aðhald fyrir hesta eða fé. Skammt norðar er fallin fyrirhleðsla yfir stíginn.
Stórhöfðastíg var fylgt með hraunkantinum að skógræktargirðingu við slóða vestan gatnamóta Krýsuvíkurvegar og Bláfjallavegar. Áður en komið er þangað virðist stígurinn hverfa á stuttum kafla, en þegar betur er að gáð má sjá hvar hann liggur yfir sléttan klapparhrygg og síðan áfram niður gróna lænu. Þar virðast vera gatnamót. Líklega eru þau til komin vegna þess að ferðalangar á leið suður Stórhöfðastíg gleymdu að taka þar vinstri beygju. Hafi þeir haldið áfram hefur leið þeirra legið um hæðir og lægðir uns komið var að þeirri Fjallgjá, sem vestari hefur verið nefnd. Með góðum vilja hefur verið hægt að fylgja henni upp með Fjallinu eina vestanverðu. Þar liggur reyndar gata, sem sumir hafa tekið sem Stórhöfðastíg, en er í raun eitt afsprengi hans.
Norðvestan slóðans liggur Stórhöfðastígur í gegnum skógræktargirðinguna á stuttum kafla, niður með henni utanverðri og beygir síðan til norðurs yfir Krýsuvíkurveginn skammt vestan gatnamóta Bláfjallavegar, niður í ofanverðar Brunntorfur (Brunatorfur/Brundtorfur). Þar sést hann greinilega. Stígurinn liggur framhjá fallega hlöðnu ferköntuðu gerði í góðu skjóli. Skjól þetta hefur væntanlega verið notað til tilhleypinga frá Straumi eða Þorbjarnastöðum. Brunntorfurnar (Brundtorfurnar) gætu hafa dregið nafn sitt af því. Markagirðing Straums og Áss er þarna skammt austar. Líklega má finna fleiri mannvirki á þessu svæði ef vel væri leitað. Áfram til norðurs liggur stígurinn í gegnum gróið hraun, vestan brunabrúnar. Frá henni liggur gata til austurs, inn í Snókalöndin. Skammt norðar eru gatnamót. Gata liggur af stígnum til suðurs og síðan vesturs, um grónar hraunlænu milli klapparhóla, yfir Krýsuvíkurveginn með stefnu á vörður handan hans. Að öllum líkindum er um að ræða leið að hlöðnu fjárskjóli, sem nú er innan svæðis Skógræktarinnar, og síðan áfram niður að Straumi. Þessi gata er sýnd á uppdrætti Ólafs, sem og mörkin.

Varða framundan segir til um hvar Stórhöfðastígur fer inn á brunann. Á og með brúninni er hlaðinn garður utan í henni, sennilega fyrirstaða þegar fé var rekið eftir stígnum. Í gegnum brunann er stígurinn augljós, bæði gróinn og greiðfær. Eftir stutta göngu rífa gamlar malargryfjur stíginn, en ef línu er fylgt beint yfir þær má sjá bút af honum handan við brúnina. Eftir göngu um þann hluta óskerta brunans er aftur komið að malargryfjum sem hafa tekið gamla Stórhöfðastíginn. Nú er nýbúið að slétta þar undir verðandi trönusvæði. Norðan þess er klettur. Vestan við klettinn er Stórhöfðastígur enn ósnertur. Hægt er að fylgja honum af öryggi áfram í gegnum hraunið að suðausturhorni Stórhöfða. Þaðan liggur stígurinn til norðvesturs vestan hans, áleiðis að Ási. Lengra var ekki farið að þessu sinni. Stígurinn um Hellnahraunin, yngra og eldra, verða geymd til betri tíma. Þá er og ætlunin að skoða Snókalöndin betur við fyrsta tækifæri.
Snókalöndin fyrrnefndu, austan Stórhöfðastígs og norðan núverandi Krýsuvíkurvegar vestan gatnamóta Bláfjallavegar, eru heimur út af fyrir sig. Ólafur segir frá Snókalöndunum í fyrrnefndri grein sinni: „Í nýja brunanum, spölkorn austur af stígnum, eru tveir dálitlir blettir eða hólmar, sem bruninn hefur ekki náð að renna yfir. Ekki ber þau hærra en umhverfið og sjást því ekki lengra til og helst ekki fyrr en að er komið. Hestfær götuslóð liggur norður í Snókalönd, nokkur austar en þar sem Stórhöfðastígurinn kemur suður úr brunanum. Ekki eru Snókalöndin jafnstór, það vestra nokkur stærra og slóð á milli. Hvað liggur til grundvallar þessu nafni veit víst enginn lengur en á tvennt mætti benda. Í fyrra lagi að þarna hafi vaxið villihvönn, snókahvönn – geitla. Í öðru lagi að blettir þessi, sem hafa verið miklu gróðurríkari en umhverfið, hafi fengið nafnið land af töngum þeim og hornum sem hinn ójafni brunakantur myndar þarna í grennd og gæti því þýtt „Krókalönd“. Í orðabók Blöndals segir að snókur sé angi eða útskiki út frá öðru stærra. Gætu því tangar þeir, sem út úr brunanum ganga, verið stofn að þessu nafni. Þó finnst mér fyrri tilgátan sennilegri. Líkur benda til að þarna hafi verið nokkur skógur og máske verið gert að kolum fyrrum.
Gatan út í Snókaköndin bendir á nokkra umferð þangað. Sökum fjarlægðar þessa staðar frá alfaraleið óttast ég að svo geti farið að hann gleymist og nafnið týnist þar sem þeir, er mest fóru þar um og héldu með því við mörgum örnefnum, voru fjármenn og smalar en þeim fækkar óðum um þessar slóðir sem víðar.“
Gatan, sem Ólafur nefnir, er enn greinileg. Vörður eru við hana. Hún liggur inn á brunann og inn í vestari Snókalöndin og úr þeim inn í þau austari.
Með grein Ólafs fylgir kort með fornum leiðum milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar. Á því er Stórhöfðastígur sýndur liggja frá Undirhlíðavegi ofan við Hrútagjá, niður með gjárbarminum að austan og norðanverðu, milli Sandfells og Fjallsins eina, niður með Fjallgjá, niður að Stórhöfða og áfram heim að Ási.
Ofan Snókalanda heldur Ólafur áfram að segja frá leiðinni: „Þegar suður úr brunanum kemur liggur stígurinn upp með suðvesturbrún hans og fylgir maður brunanum þar til komið er móts við Vatnsskarð í Undirhlíðum sem farið er þá að nmálgast. Úr því liggur stígurinn meira til suðurs þar til komið er að Fjallinu eina. Er það fremur lágt, hrygglaga fjall með klettaborg á suðurenda. Austan undir því liggur stígurinn og er þá Sandfell á vinstri hönd allnærri. Er nú stutt þar til komið er á Undirhlíðaveginn, skammt suður af Sandfellsklofa.“
Fyrr á öldum lágu margar leiðir milli Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur og voru það ýmist vegir, götur eða stígar. Sú leið sem mest var farin, og aðallega þegar farið var með hesta, lá úr Hafnarfirði öðru hvorum megin við Hamarinn upp yfir Öldur, þar sem nú er kirkjugarðurinn, framhjá Lækjarbotnum og upp í Kaldársel. Þaðan lá leiðin að Undirhlíðum og síðan ýmist norðan við Undirhlíðar eftir svonefndum Undirhlíðavegi eða sunnan við Undirhlíðar eftir svonefndri Dalaleið. Undirhlíðavegur var aðalvegurinn milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar og var oftast farinn á sumrin þegar farið var lausríðandi eða með lest. Var þessi leið talin vera um 8 stunda lestargangur. Þegar Undirhlíðavegur var valinn var farinn Ketilstígur yfir Austurhálsinn yfir í Krýsuvík, en ef Dalaleið var valin var farið með norðurströnd Kleifarvatns að Krýsuvík.
Gangandi menn fóru oft um tvo stíga, Stórhöfðastíg og nokkru vestar Hrauntungustíg, milli Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur, svo og ef farið var með fáa hesta að vetrarlagi.
Þegar ferðamenn ætluðu Stórhöfðastíg var farið frá Hafnarfirði upp hjá Jófríðarstöðum, umhlaðið í Ási, og oft gist þar ef menn komu t.d frá Reykjavík. Frá Ási var farið suður úr Skarði, yfir Bleiksteinsháls og suður yfir Selhraun að Stórhöfða og þaðan áfram að Fjallinu eina og komið inn á Undirhliðaveg við Norðlingaháls.
Ef menn völdu Hrauntungustíg var farið frá Ási um Skarð vestan Ásfjallsaxlar yfir hraunhaft milli Grísaness og Hamraness og stefnan tekin á Hrútafell, en skammt þar sunnan við er komið inn á Ketilstíg (Ólafur Þorvaldsson 1949).
Margir eiga erfitt með að átta sig á gömlum leiðum og víða eru þær fáfarnari að gróa upp og hverfa og þar af leiðandi er mikilvægt að halda þeim við með einum eða öðrum hætti. Hvort um höfuðleið, alfaraleið, sýsluveg eða hvað annað er að ræða er ekki aðal atriði. Þær leiðir sem lýsingar eru til af, t.d. frá Ólafi Þorvaldssyni, eiga jafn mikinn rétt á sér hvort sem hann hefur talið þær fáfarnar eða fjölfarnar. Greinina „Fornar slóðir…“ birti hann í Árbók Fornleifafélagsins 1943-1948 – og það er sú lýsing sem Ferðafélagið endurprentaði í sérriti. Með gömlu greininni fylgir ágætt kort af hinum gömlu leiðum, en í sérritinu var gerð tilraun til að merkja leiðirnar inn á kort, af mikilli ónámkvæmni vægast sagt. Sérritið kostar kr. 1000 og er það 999 kr. of mikið. Það er því varla krónu virði umfram gömlu prentunina.
Leiðir á þessu svæði hafa fyrst og fremst verið varðaðar með ókunnuleika ýmissa ferðalanga og vermanna í huga, á svipaðann hátt og sýsluvegirnir voru mjög vandlega varðaðir og breikkaðir um og eftir 1890, enda meginleiðir eða alfaraleiðir. Sama gildir um Selvogsgötuna, sem var ágætlega vörðuð, en er mun betur vörðuð í dag en hún var fyrir rúmlega einni öld. Ferðafélagsfólk tók sig til um miðja síðustu öld og bætti við fjölda varða sérstaklega í hrauninu milli Helgadals og Kerlingaskarðs, en vörðurnar á sjálfri heiðinni eru án efa mun eldri og hafa verið jafn þéttar og raun ber vitni vegna þess að þar getur verið erfitt að rata í þokuslæðingi og súldarsudda, sem skellur oft á með litlum fyrirvara þar efra eins og menn þekkja. Þá hefur líka verið nauðsynlegt að hafa leiðina vel varðaða á vetrum vegna snjóa sem sitja oft lengi í Leirdölunum og víðar.

Hrauntungustígur, Stórhöfðastígur og Straumsselsstígur voru ekki síður farnir af heimamönnum, íbúum á Innnesjum og Útnesjum og Krýsuvíkingum en þær leiðir sem í dag eru taldar hafa verið höfuðleiðir. Þessar leiðir voru varðaðar með allt öðru móti en alfaraleiðirnar. Vörðurnar eru smærri, jafnvel ekki annað en svonefndar þrísteinavörður, en með stöku stórum vörðum á milli á lykilstöðum. Stórhöfðastígurinn lá sannalega austan við Fjallið eina og sameinaðist Undirhlíðaleið við Grænklofa við brún Hrútadyngjuhrauns.
Þrátt fyrir þá fullyrðingu Ólafs Þorvaldssonar að vetraferðir með hesta milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar væru fátíðar, verður að hafa það í huga að hann bjó í Herdísarvík þegar byggð var að fara í eyði í Krýsuvík. Hans sýn miðast að sjálfsögðu við samtíð hans og það sem hann hefur numið af sér eldra fólki er hann var barn í Ási og seinna þegar hann var í vinfengi við fólkið í Stóra-Nýjabæ, sem voru síðustu ábúendur þar. Þetta fólk (og þar með Ólafur sjáflur) áttu það til að ná sér í aukatekjur með rjúpnaveiði og sölu á afurðunum fyrir jólin. Á þeirri tíð voru vetrarferðir næsta fátíðar á þessum slóðum. Engu að síður hefur Ólafur fyrir því að greina frá því að: “Ef snjó setti niður af austri eða norðaustri, t.d. meðan menn höfðu viðdvöl í kaupstaðnum, var venjulega snjóléttara á þessum leiðum (Hrauntungustíg og Stórhöfastíg) en með Undirhlíðum og Hálsum.”
Þar af leiðandi voru þessar leiðir farnar á hestum og gangandi, en á þeirri tíð þegar hestaferðir voru eingöngu tíðkaðar enda vagninn eða bíllinn ekki kominn til sögunnar. Ekki er gott að átta sig á því hvað voru tíðar eða fátíðar ferðir. Það eina sem er alveg á hreinu er að það var ekki ósjaldan farið með hesta milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar á vetrum. Og þá voru helstu leiðirnar Undirhlíðaleið og Hálsaleið (þegar snjóalög voru ekki til vandræða) eða Vatna- og Dalaleið (einkum þegar lágt var í Kleifarvatni) eins og sagan af Slysadalsnafninu ber með sér auk munnlegra heimilda afkomenda þeirra sem bjuggu í Krýsuvík. Það áttu samt ekki allir hesta, samanbera gamla konan sem hafði flutt til Hafnarfjarðar og fann að dauðinn nálgaðist. Hún tók sig til einn morguninn að vorlagi og hélt sína leið (þá stystu) um Hrauntungustíg til Krýsuvíkur, sótti sér vígða mold úr skjóðu og bar á baki sér heim í Hafnarfjörð. Hún vildi hafa sína mold úr Krýsuvík þegar rekunum var kastað.
Auðvitað hafa menn (og konur) ekki verið að flengjast þessa leið í erindisleysu. Undirhlíðaleiðin var örugglega oftar ófær á veturna vegna snjóa en nú er og þá hafa Stórhöfðastígur, Hrauntungustígur eða janfvel Straumsselsstígur eða Rauðamelsstígur verið betri kostur. Veðurlag og fleira réð ferðalögum í þá daga, bæði yfir sumartímann og á veturna. Þetta er haft eftir gömlu og frómu fólki. Jón “í Skuld” Magnússon var t.d. vanur að fara þessar leiðir á hestum ásamt föður sínum og bræðrum í æsku.
Þegar endanleg ganga um Stórhöfðastíg er næstum á enda við utanverðan Ás er komið að tóftarbroti á vinstri hönd, norðan Hádegisskarðs, þar sem Stórhöfðastígur og Hrauntungustígur lágu fyrrum á milli vestri Ásfjallsaxlar og Grísaness. Ólafur Þorvaldsson segir í grein sinni um leiðir þessar frá Hafnarfirði að: „Þegar ferðamenn ætluðu Stórhöfðastíg var farið frá Hafnarfirði upp hjá Jófríðarstöðum, um hlaðið á Ási, oft gist þar ef menn t.d. komu frá Reykjavík.
Frá Ási var farið suður úr Skarði, yfir Bleiksteinsháls, suður yfir Selhraun, vestan undir Stórhöfða, nokkurn spöl suðaustur með honum, lagt á hraunið frá suðurhorni hans, fyrst um gamalt klapparhraun þar til komið var á nýrra brunabelti sem á sínum tíma hefur runnið eða gata sem enginn veit hvenær ruddur hefur verið, annars með öllu ófær hestum.“
Nú er búið að undirbúa nýbyggingarsvæði í vestanverðum Dalnum þar sem Stórhöfðastígur og Hrauntungustígur lágu fyrrum til suðurs frá Hádegisskarði. Búið er að kroppa í þann sýnilega hluta gatnanna, sem enn var sýnilegur á þessum slóðum. Kroppið virðist hafa verið ónauðsynlegt vegna framkvæmdanna, en líklega vegna meðvitunarleysis skipulagsyfirvalda og verktaka hefur þarna farið forgörðum kærkomið tækifæri til að varðveita innan bæjarmarkanna hluta þeirrar sögu er hér að framan greinir.
Stikun stíga eins og Stórhöfðastígs undirstrikar í raun mikilvægi þess að halda hinum gömlu þjóðleiðum við, auka líkur á varanlegri verndun þeirra og efla vitund áhugafólks um nokun þeirra til heilsueflingar, fróðleiks, andgiftar og skemmtunnar. Um er að ræða leiðir, stíga og götur í svo mikilli nálægð við helstu þéttbýliskjarna landsins og það svo nærtæka að hjákátlegt er að sleppa því auðvelda tækifæri að notfæra sér möguleikann.
Sem fyrr segir var gerð sérstök ferð um Snókalöndin og er þeim lýst annars staðar á vefsíðunni. Þar er um að ræða hraunsvæði sem máttarvöldin, sem stóðu að jarðeldunum 1151 og skópu Nýjahraun (Kapelluhraun/Brunann) virtust hafa haft áhuga á að hlífa. Háir hraunhryggir hafa hlaðist upp með þeim og beint glóandi hrauninu frá. Eftir standa gróðurvinar þær er Ólafur lýsir.
Lagt var af stað í þessa Stórhöfðastígsgöngu síðdegis, eftir vinnu, að haustlagi. Dimman gerði að lokum vart við sig. Gangan tók 3 klst og 3 mín. Frábært veður – að ekki sé talað um sólsetrið yfir hraunbrúnini vestanverðri.

Heimildir m.a.:
-Alþýðublað Hafnarfjarðar, 7. tbl. 52. árg., 18. maí 1994.
-Ólafur Þorvaldsson 1949. Fornar slóðir milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar. Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1943-48. Bis. 81-95.
-Sigmundur Einarsson, Haukur Jóhannesson & Árný Erla Sveinbjörnsdóttir 1991. Krýsuvíkureldar II. Kapelluhraun og gatan um aldur Hellnahrauns. Jökull 41. 61-80.
-Jónatan Garðason.

Stórhöfðastígur

Stórhöfðastígur.

Straumur
Kristjánsdalir

Viktor og Jóhanna (FERLIRsfélagar) voru nýlega á ferð um Brennisteinsfjöll. Þau komu m.a. við í námunum vestan Draugahlíða.

Tóftin

Tóft undir Skörðum.

Á leið þeirra niður Kerlingarskarð gengu þau óhefðbundna leið niður með rótum Tvíbolla (Miðbolla) og Stórabolla. Ofarlega, undir Tvíbollum, eru leifar af húsi námumannanna (hleðsluhús). Neðar taka við gróningar í rótum. Skammt neðan við mesta brettann má vel greina tóft á hægri hönd, fast upp við hlíðina. Hún er ferköntuð (2×3.50 m að innanmáli). Hleðslur sjást vel, einkum að þeirri hlið er snýr að hlíðinni. Hæð á hleðslum eru um 60-80 cm. Þær standa grónar.
Þegar tóftin var skoðuð komu í ljós a.m.k. þrjú umför í tvíhlaðinni hleðslu. Það bendir til þess að þarna sé um að ræða neðri hluta (hlaðinn) af timburhúsi. Grjót hefur fallið inn og út úr veggjum, en hvergi er að sjá timbur. Bendir það til þess að húsið getið verið a.m.k. frá fyrri hluta síðustu aldar eða eldra. Ekki er að sjá dyr á vegghleðslunni. Hurð hefur því einungis verið á timburveggnum (hugsanlega þó á austanverðum suðurveggnum).

Selvogsgata

Selvogsgata neðan Kerlingarskarðs.

Tilgangur hússins gæti verið einhver eftirfarandi: Athvarf fyrir rjúpnaveiðimenn í Lönguhlíðum og Brennisteinsfjöllum. Á fyrri hluta síðustu aldar gerðu athvæðamiklir veiðimenn út á rjúpuna á þessu svæði, enda leitaði sú litla gjarnan niður í hlíðarnar eftir að snjóa tók efra. Sagnir eru til af mikilli veiði. Þá héldu veiðimennirnir til í húsum undir hlíðunum, sem gott hefur verið að leita í, einkum þegar veður tóku skyndilega að versna þarna efra. Slíkar tóftir má t.s. sjá í Kristjánsdölum þarna skammt norðar með hlíðunum. Önnur tóftin þar (sú nyrðri) er svo til eins og þessi.
Þá gæti þarna hafa verið skjól eða sæluhús fyrir ferðamenn um Selvogsgötuna eða geymsla og/eða athvarf fyrir „aðflutningsmenn“ aðdrátta og afurða til og frá námumönnum í Brennisteinsfjöllum. Fyrstnefnda tilgátan er væntanlega sú er helst kemur til greina.
Frábært veður.

Varða

Varða við Selvogsgötu.

Sauðabrekkuskjól

Helstu leiðir milli Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur voru Stórhöfðastígur, Undirhlíðavegur, Dalaleið, Straumsselstígur og Rauðamelsstígur. Flestar leiðirnar lágu saman við Ketilinn þar sem Ketilsstígur tekur við.
HrauntungustígurÆtlunin var að fylgja enn einni leiðinni af Ketilsstíg/Rauðamelsstíg frá Hrúthólma að Hrauntungum. Þessi kafli leiðarinnar hefur einnig verið nefndur Hrúthólmastígur.
Götur og stígar, sem legið hafa saman, hafa gengið undir fleiru en einu nafni. Þannig var stígurinn er lá upp frá Óttarsstöðum, yfir Alfaraleið og um Óttarsstaðasel ýmist nefndur Óttarstaðaselsstígur, Skógargata, Raftastígur eða Rauðamelsstígur. Ein leiðin lá áfram upp úr selinu inn í Hrúthólma og önnur um Skógarnefið. Þar greindist hún í tvennt og hét hin anginn Mosastígur er lá upp að Dyngjum þar sem Hálsagötur taka við ýmist með eða yfir hálsinn eftir því hvert leiðin lá þaðan.
Lagt var af stað frá Katlinum með Hrútafelli í Hrúthólma, niður með Mávahlíðahnúk að Sauðabrekkugjá, framhjá Fjallsgreni, um Almenning, niður í og inn í Hrauntungur og að Krýsuvíkurvegi. Áætlaður göngutíma var 5 klst og 5 mín. Í leiðinni var tilgangurinn m.a. að rekja og staðsetja stíginn í hraununum ofan og neðan við Almenning, en þar greinist hann í nokkrar leiðir og er hvað ógreinilegastur í mosa, lyngi og kjarri. Hefur sérhver valið sér hentuga leið, allt eftir tilgangi og tilefni ferðar hverju sinni. Gatan er greinileg í sléttu hellihrauninu, en ógreinlegri þar sem hraunið verður fjölgrónara og óreglulegra. Með lagni er þó hægt að rekja nokkra anga hennar áleiðis niður í Hrauntungur, þar sem þær sameinast ofan þeirra.
Leiðin frá Katlinum liggur um veg undir vestanverðum Sveifluhálsi, að Djúpavatnsvegi. Við gatnamótin er hlið á beitarhólfsgirðingu. Í dag má þar sjá stikur Undirhlíðavegar sem liggur undir hlíðunum að Kaldárseli og Ketilsstígs er liggur áfram niður hraunið til norðurs. Í Hrúthólma liggja saman Rauðamelsstígur og Hrauntungustígur, sem fyrr segir.
sveppurKetilsstígurinn hefur, sem fyrr segir, verið stikaður spölkorn til norðurs, eða að mótum Reykjavegar (stika 58). Reykjavegur er nútímagöngustígur, 114 km langur, er stikaður var af stórhug milli Nesjavalla og Reykjanestáar. Færa þarf þær stikur ca. 30 m til austurs svo einungis ein leið verði stikuð þessa leið á þessu svæði. Gatan þar er greinileg þar sem hún liggur um slétt helluhraunið.
Þarna, austan Hrútafells, er gott útsýni til Fíflavallafjalls og gíganna norðvestan Hrútafells. Teljast verður til tíðinda að svona mikilfenglegir, mosavaxnir, hraungígar skuli vera nafnlausir. Norðar, undir Fíflavallafjalli, eru Stórusteinabrekkur.
Norðaustan Hrútafells eru gatnamót „Ketilsstígs“ og Reykjavegar. Þar eru um nýlega tilbúna götu að ræða þar sem Reykjavegur liggur að norðurhlíðum Hrútafells. Skammt norðar (GPS: 6356145-2203351) eru gömul gatnamót „Ketilsstígs“ og götu er liggur að Lækjarvöllum norðan Hrútafells. Eðlilegra hefði verið að láta Reykjaveginn liggja eftir þeiri götu, sem vel er mörkuð í landslagið.
Auðvelt er að rekja stíginn (sem enn er óstikaður) að Hrúthólma. Hann er í rauninni óbrennishólmi (hæð) umlukinn hrauni frá nútíma (sennilega 1151). Norðvestar eru Mávahlíðar, ílangar og tignarlegar. Norðar er Mávahlíðahnúkur. Á leiðinni er fallegur, stór, rauðleitur gjallgígur, enn einn slíkur frá nútíma – nafnlaus. Segja má með sanni að svona stór gjallgígur verði að hafa nefnu. Það myndi auka gildi hans til mikilla muna – og jafnframt varðveislugildi til lengri framtíðar (aldrei að vita hvað stórhuga athafnamenn með mikilvirk véltæki dettur í hug á skömmum tíma þegar efni eru annars vegar). Seinni tíma ferðalangar hafa reyndar gefið gíg þessum nafn: „Norðan götunnar er fallegur eldgígur (Drekagígur – sagt er að drekinn hafi rutt úr sér hrauni á daginn, en flogið um og spúið eldi á nóttunni)“. Sagan er vel við hæfi því þarna eru nokkur hraunskil er orðið hafa til á tiltölulega skömmu tímabili (á jarðsögulegum tímakvarða).
Hrauntungustígur Hrúthólmi er vel grasi gróinn í hlíðum, en ber á „skalla“ vegna gróðureyðingar seinni tíma. Af honum er gott útsýni til allra átta. Má af honum kenna fjallahringinn. Leiðin um stíg niður að Búðarvatnsstæði og áfram niður í Óttarsstaðarsel liggur norðvestur af honum, en gatan um Hrauntungustíg liggur til norðurs. Leiðin liggur með austanverðum hólmanum. Þaðan er auðvelt að glöggva sig á framhaldinu.
Í Hrúthólma er sérstakur sveppur á haustin (hér nefndur Hrúthólmasveppur). Hann er gulari, minni og fagurleitari en aðrir sveppir á og við leiðina sem og víðasthvar á þessu svæði.
Mávahlíðar eru norðvestan við Mávahlíðar og Mávahlíðahnúkur norðar. Ágætt útsýni er þarna yfir að Trölladyngju, Grænudyngju og Fíflvallafjalli. Ofar er Hrútargjárdyngja. Eitt af stærstu hraununum í kringum Hafnarfjörð er komið úr Hrútagjárdyngju. Upptök þess eru nyrst í Móhálsdal. Dyngjan er kennd við gjána við vesturjarðar hennar. Hraunið hefur að mestu runnið til norðurs og til sjávar og hefur myndað ströndina milli Vatnleysuvíkur og Straumsvíkur.
Í daglegu tali gengur stærsti hluti hraunsins undir nafninu Almenningur. Öskulög í jarðvegi ofan á hrauninu benda til að hún hafi myndast fyrir 5000 árum.
Á leiðinni er þarflegt vatnsstæði. Það er hægra megin götunnar, í skjóli við skeifulaga hraunhóla. Við þá eru gatnamót götu er liggur í gegnum úfið hraunið frá Hrútargjárdyngjubrúninni.
Skammt norðan við Hrúthólma er bæði sérkennilegt og stórbrotið jarðfræðifyrirbæri, ekki ólíkt brotahring. Hér mætti kalla fyrirbærið „brotaberg“. Það er austan götunnar. Um er að ræða afmarkað hraunssvæði. Hraunhellan, um 30-40 cm þykk, þá nýstorknuð, hefur brotnað upp vegna mikils undirliggjandi þrýstings glóandi hraunkviku er ekki hefur fundið sér auðveldari áframhaldandi leið undan hallanum. Glóandi kvikan hefur síðan náð að bræða grannbergið og þrýstingurinn minnkað. Í látunum, sem væntanlega hefur tekið mjög skamman tíma á jarðsöglegan mælikvarða, reis brotna hraunhellan upp í einingar og má berja þær augum á þessu tilkomumikla svæði.
Gatan er slétt og stefnir á Sauðabrekkur, sem sjást vel framundan. Varða á hraunbrún á hægri hönd. Við hana liggur gata upp með fyrrnefndri brotahraunraönd, að vesturbrún Hrútargjárdyngju (Reykjaveginum).
Sauðabrekkuskjól Að þessu sinni var ekki leitað að fyrri uppgötvun FERLIRs. Þá fundust í nálægri hraunæð gömul bein, m.a. stuttur, en mjög sver, leggur og stórt mjaðaspjald. Þá eru þarna rifbein og fleiri bein. Leggurinn var á sínum tíma tekinn til handargangs til að reyna að greina af hvers konar „dýri“ beinin gætu hafa verið. Að mati Sigurðar Sigurðarsonar, dýralæknis á Keldum, virðist vera um bóglegg af hrossi (hryssu) að ræða. Annað hvort hefur hún orðið til þarna eða refaveiðimenn borið út hræ og þetta verið leifarnar af því.
Hrauntungustígurinn liggur að og vestan við Sauðabrekkuskjólin. Syðsta skjólið er stærst og tilkomumest. Stundum haf skjólin verið nefnd Sauðabrekkuhellar. Smalar Hraunamanna nýttu þessi skjól fyrir sauði sína og nærsveitunga þegar veður voru válynd og ekki hundi út sigandi. Þá er og ekki ólíklegt að ferðalangar um Hrauntungustíg hafi haft þar athvarf um stund þegar veður voru hundum óhagstæð.
Í nyrsta skjólinu má sjá leifar beina af hrossi. Ekki er ólíklegt að þarna geti verið um hluta af fyrrnefna hrossinu að ræða. Beinin eru mosavaxin, en vel greinileg.
Frá Sauðabrekkukjólunum er gatan ógreinileg. Með lagni má þó rekja hana áleiðis að Sauðabrekkugjárgígunum, norðvestan gjárinnar. Gjáin sjálf er fallegt og tilkomumikið misgengi (N og S). Þegar sólin skín er veggurinn, sem snýr mót austri, ljós yfirlitum, en í regni verður hann svarleitur. Um svo til miðja gígaröðina liggur Hrauntungustígur þvert á gjána á greiðfærasta stað. Varða vísar leiðina.
Áður en komið er að gjánni, þ.e. austan við hana, liggur gata áfram til norðurs. Hægt er að velja hana ef halda á niður að Fornaseli. Þetta er beinasta leiðin þangað, en býsna óljós á köflum.

Ofan við Sauðabrekkugjár er gígaröð. Í syðri röðinni er bæli í einum gígnum. Gólfið hefur verið sléttar, hellur lagðar innst í fletið og steinhella felld fyrir glugga. Þegar hún er fjarlægð birtir verulega í skjólinu. Ekki er auðvelt að finna opið. Norðvestan við gígaröðina er nokkuð slétt helluhraun. Í því er varða. Skammt norðan og vestan við hana eru tvö hlaðin byrgi fyrir refaskyttu. Byrgi þessi eru greinilega mjög gömul. Stórholtsgrenin eru nokkru norðar, vestur undir Hafurbjarnarholti, en Gamlaþúfa er þar skammt vestar.
Þarna er Hrauntungustígurinn vel greinilegur, uns komið er að lágri hraunbrún. Með lagni, og réttum birtuskilyrðum, má sjá stíginn í gegnum mosahraunið, stundum grannan og stundum breiðan. Þá virðist hann hverfa, en Fjallsgrensvarðan framundan segir til um leiðina. Við hana greinist gatan í tvennt; annars vegar til hægri og hins vegar til vinstri. Hægri leiðin liggur beinna við Hrauntungunum, en hún er ógreinilegri. Vinstri leiðin, sem hér var valin, er greiðfærari og liggur með holtum og hæðum, áleiðis að Straumsselsstíg og Straumsseli. Vörður vísa leiðina (stundum reyndar litlar á löggiltan vörðumælikvarða alfaraleiðanna). Sú leið er rakin var greinir götuna á köflum þar sem hún kemur upp úr gróningunum og myndar áför á hraunhryggjum. Hún hlykkjast áleiðis að og austru fyrir Hafurbjarnaholt. Það mun vera kennt við Björn Gnúps-Bárðarson, Hafur-Björn, sem samninginn gerði við bergbúann forðum. Gerðu þeir helmingaskipti í fjáreign. Segir sagan að þá hafi komið hafur og hrútur í féð og var þá sem tvö höfuð væru á hverri skepnu. Gerðist Björn þá fjárríkasti bóndi á Suðurnesjum. Ekki má tengja þá frásögn Hafurbjarnastöðum innan við Sandgerði þar sem beinin fundust fyrrum og sjá má nú undir glergólfi Þjóðminjasafnsins.
Héðan verður að nota öll þau skilningavit, sem Guð gaf, ef rata á rétta leið. Með mikilli gaumgæfni, hiki, efassemdum og niðurstöðum er hægt að rekja sig eftir landslaginu, áleiðis niður að Brunntorfum. Gatan er hlykkjótt, en jafnan farið um lænur og gróninga. Jarðhallinn er bæði eðlilegur og sanngjarn; hvorki yfir sprungur að fara né brúnir.
Þegar komið var að brúnum Brunntorfanna var hægt að velja a.m.k. þrjár leiðir; um vestanvert Fornasel, leið um hraunlægð vestan hennar eða leið millum Fornasels og Gjásels. Þar eru gatnamót leiðar milli seljanna, vel greinileg og vörðuð. Valin var leiðin „á millum“. Þá var komið að skógarbrún Skógræktar ríkisins.
Hrauntungustígur Með góðu móti var hægt að rekja sig niður gróna hraunhlíðina og gegnum skóginn. Ljóst er að þar þarf að ráðast í léttvægt skógarhögg á einstaka stað til að greiða fyrir einni rein Hrauntungustígsins eins og hann var fyrrum. Það ætti bæði að þykja eðlilegt og sjálfsagt því skógræktarfólk hefur fyrr á áratugum farið allfrjálslega með staðsetningu sína á nýgræðlingum. Víða hefur verið plantað í gamlar götur og jafnvel fornminjar. En vitund og vitneskja hinna sömu hefur vonandi breyst með betri upplýsingu í seinni tíð.
Þegar komið var norður fyrir skógræktarlundinn lá gatan augljós framundan – í gegnum Hrauntungur. Á landakortum eru Hrauntungur rangt staðsettar (en það er nú önnur saga, eða sögur, því mörg eru rangnefnin á þeim greyjunum). Við götuna er Hrauntunguhellrar, fyrirhleðsla um skúta er birkihrísla hefur nú hlulið. Varða er ofan við. Sagt er að í Hrauntungum sé óhreint, þ.e. fólk hefur á ferðum sínum bæði séð og skynjað ýmislegt er „óhreint“ getur talist. Frásagnir um slíkt hleypti þátttakendu kappi í kinn, enda ekki vanþörf á eftir langa göngu.
Við enda Hrauntungustígsins, áður en hann fór upp á Brunabrúnina, situr nú settlegur hraunkarl er fylgist bæði vel með öllu er gerist og ekki gerist.
Í dag kemur Hrauntungustígurinn upp í nútímagryfjur Skógræktar ríksisins í Brunanum (Nýjabruna/Háabruna). Þær eru sem minnisvarði, eða a.m.k. áþreifanlegur vitundarvottur um það er þröngsýn hagsmunaöfl selja ómetanleg framtíðarverðmæti sýnum eigin metnaði til framdráttar. Ólafur Þorvaldsson segir í grein sinni um „Fornar leiðir…“ í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1943-48, að í gegnum Brunann hafi verið „rudd allgreiðfær gata, sennilega gerð á svipuðm tíma og Stórhöfðastígur, en hver það hefur látið gera veit víst enginn, en mjög gamlar eru þessr vegabætur og eru þær sennilega fyrstu vegabætur sem gerðar hafa verið til Krýsuvíkur“.
Vörðu hefur verið þyrmt á hraunhól í gryfjunum. Líklega hefur sú varða verið við stíginn í gegnum fyrrum hraunið. Önnur varða er norðvestanvert við gryfjurnar. Þar liggur Hrauntungustígurinn niður á slétt hellurhraun Hellnahrauns og áleiðis að skarðinu á Ásfjallsöxinni. Tilkomumikill hraunkarl er á hægri hönd við götuna.
Hrauntungustígur Í þessari ferð endaði gangan við sunnanverðan Krýsuvíkurveginn. Þar er slétt helluhraun á kafla milli úfins aplahrauns Nýjahrauns (Kapelluhrauns). Gatan lá áfram til norðurs norðan vegarins, en nú er búið að gera veg ofan í hann að fiskhjöllum. Frá þeim lá leiðin um Dalinn norðan Grísaness og um fyrrnefnt skarð (Hádegisskarð) á Ásfjallsöxlinni – að Ási og áfram niður til Hafnarfjarðar.
Áður fyrr lá leiðin millum staða, sem ferðalangar eða „þurfalingar“ þurftu að fara af ýmsum ástæðum. Þá var hún langt torfæri. Í dag er leiðin kærkomið tækifæri til að sjá og skynja, bæði fyrrum sögu og ekki síður stórbrotið útsýni og jarðsögu svæðisins. Það að ganga þessa leið, sem og aðrar, kostar í rauninni einungis þægilegt strit og eðlilegt skóslit, en ávinningurinn er slíkur að enginn, sem á annað borð er sæmilega göngufær og getur slitið sig frá sjónvarpsglápi eða öðrum ávana, ætti að láta slíkt tækifæri fram hjá sér fara.
Ekki er raunhæft að nefna Hrauntungustíg svo nema frá Hrúthólma. Þar koma saman Rauðamelsstígur, sem fyrr segir, og er liggur síðan áfram að Ketilsstíg. Hvort og hvaða götur megi telja svonefnda “heilsársstíga” er erfitt um að segja. Að öllum líkindum voru þeir allir, meira og minna eða misjafnlega, eftir aðstæðum, farnir allt árið. Ljóst er að Hrauntungustígurinn er einungis ein leiðin af nokkrum á þessu svæði. Auk þess ber að hafa í huga að Hrauntungustígurinn norðanverður var ekki „einn“ heldur og nokkrar leiðir milli sömu endamarka.
Hrauntungustígur„Gangandi menn fóru oft um tvo stíga, Stórhöfðastíg og nokkru vestar Hrauntungustíg, milli Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur, svo og ef farið var með fáa hesta að vetrarlagi.
Þegar ferðamenn ætluðu Stórhöfðastíg var farið frá Hafnarfirði upp hjá Jófríðarstöðum, umhlaðið í Ási, og oft gist þar ef menn komu t.d frá Reykjavík. Frá Ási var farið suður úr Skarði, yfir Bleiksteinsháls og suður yfir Selhraun að Stórhöfða og þaðan áfram að Fjallinu eina og komið inn á Undirhliðaveg við Norðlingaháls. Ef menn völdu Hrauntungustíg var farið frá Ási um Skarð vestan Ásfjallsaxlar yfir hraunhaft milli Grísaness og Hamraness og stefnan tekin á Hrútafell, en skammt þar sunnan við er komið inn á Ketilstíg“ (Ólafur Þorvaldsson 1949).
Það áttu samt ekki allir hesta, samanber gamla konan sem hafði flutt til Hafnarfjarðar og fann að dauðinn nálgaðist. Hún tók sig til einn morguninn að vorlagi og hélt sína leið (þá stystu) um Hrauntungustíg til Krýsuvíkur, sótti sér vígða mold úr skjóðu og bar á baki sér heim í Hafnarfjörð. Hún vildi hafa sína mold úr Krýsuvík þegar rekunum var kastað.
Ólafur Þorvaldsson greindi m.a. frá því að: “Ef snjó setti niður af austri eða norðaustri, t.d. meðan menn höfðu viðdvöl í kaupstaðnum, var venjulega snjóléttara á þessum leiðum (Hrauntungustíg og Stórhöfastíg) en með Undirhlíðum og Hálsum.” Þar af leiðandi voru þessar leiðir farnar á hestum og gangandi á þeirri tíð þegar hestaferðir voru eingöngu tíðkaðar enda vagninn eða bíllinn ekki kominn til sögunnar. Og ekki var ósjaldan farið með hesta milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar á vetrum (JG).
Gengnir voru 18 km, þ.e. milli Ketilsins í vestanverðum Sveifluhálsi að Krýsuvíkurvegi.
Frábært veður – sól og blíða. Gengið var í 4 klst og 40 mín. Alls tók ferðin, með leitum og áningum, 6 klst og 30 mín.

Heimildir m.a.:
-Ólafur Þorvaldsson 1949. Fornar slóðir milli Krísuvíkur og Hafnarfjarðar. Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1943-48. Bls. 81-95.
-Jónatan Garðason

Kvöldútsýni úr Hrauntungunum

Kvöldsýn í Hraunum.

 

Gvendarbrunnur

Í örnefnalýsingum fyrir Óttarsstaði er getið um þrjá hella eða skúta á tiltölulega afmörkuðu svæði í Óttarsstaðalandi. Fyrst segir frá Sjónarhólshelli sunnan undir Sjónarhól þeim er áheldur Sjónarhólsvörðu; „fjárhellir í stórum krika. Hann hefur verið yfirreftur, en nú er það dottið mikið niður“. Rétt norður af hólnum eru tvær vörður; Ingveldarvörður. Ekki er vitað hvernig stendur á nafngiftinni. Jakobsvarða er austar, á Jakobshæð. Norðan undir hæðinni er ævargamall stekkur eða rétt. Enn mótar vel fyrir hleðslunum.

Sjónarhólsskúti

Sjónarhólshellir.

Vestan við Rauðamel, sem nú er horfinn, en í staðinn komin djúp malargryfja, er mikil klapparhæð, sem nefnist Smalaskáli. Uppi á hæðinni er skotbyrgi eða leifar eftir smalahús. Syðst í hæðinni er Smalaskálaker, sporöskjulaga jarðfall með rauðamelshól í botni. Norðvestan undir hæðinni er Smalaskálaskúti, „hellir, sem fé lá í. Þar var skógarhrísla stór, sem óx fyrir hellismunnanum“: Suðvestur af Smalaskála er fjárborgin gamla; Borgin, fráþví fyrir aldamót. Kona, er Kristrún hét og bjó á Óttarsstöðum, hlóð hana ásamt vinnumanni sínum.
Skógargata (seljagata Óttarsstaða) lá suður yfir Rauðamel litla og austan við Rauðamel stóra (gryfjan), en Suðurnesjavegurinn liggur á milli Rauðamelanna. Austan við Rauðamel stóra er Gvendarbrunnshæð og þar liggur landamerkjalínan í Gvendarbrunn, sem er stór hola í klöpp við elsta veginn (Alfaraleiðina) milli Innnesja og Útnesja. „Í Gvendarbrunnshæð vestanverðri er fjárhellir, kallaður Gvendarbrunnshellir“.

Gvendarbrunnur

Gvendarbrunnsskjól.

Í annarri örnefnalýsingu segir að Smalaskálahellir sé ofan við Jakobsvörðu, „upp undir vegi, neðan Smalaskála. Þar austar, rétt neðan vegar, er Nónhólakerið, sem er skammt frá Rauðamel“. Í þessari lýsingu er hvorki minnst á Sjónarhólshelli né Gvendarbrunnshelli, en getið bæði um Sjónahól og Sjónarhólshæðir „upp af Vatnagörðum“, sem eru á vesturmörkum Óttarsstaða að Lónakotsmörkum. Við þau, Óttarsstaðamegin er Vatnagarðahellir (Vatnagarðafjárskjól/-skúti). Hellisins er getið bæði í lýsingum fyrir Óttarsstaði og Lónakot. Lónakotsfólkið mun þó hafa nýtt hann fyrir fé og stundum jafnvel til annars. Í örnefnalýsingu fyrir Straum er bæði getið um Gvendarbrunnshæð og Gvendarbrunn, en ekki um Gvendarbrunnshelli. Hann er rétt utan við austurmörk Straums, en mörkin liggja bæði um hæðina og brunninn.

Smalaskálaskjól

Smalaskálaskjól.

Gengið var fyrst frá Reykjanesbraut niður að Sjónarhólshelli. Hann er reyndar suðaustan við Sjónarhól, a.m.k. miðað við nútímaáttir. Hlaðið er fyrir skúta sunnan í stóru ílöngu jarðfalli. Um er að ræða mikla hleðslu. Skútinn hefur verið allgott skjól og rúmar fjölda fjár.
Þá var gengið til suðausturs, áleiðis að Smalaskála. Ofan við Reykjanesbrautina, samhliða henni, liggja bæði gamli Keflavíkurvegurinn sem og gamli Suðurnesjavegurinn. Keflavíkurvegurinn hefur að vísu verið lagður ofan í Suðurnesjaveginn, en sumsstaðar má sjá þann síðarnefnda hlyggjast út undan þeim fyrrnefnda.

Gvendarbrunnshellir

Gvendarbrunnshellir.

Upp undir Suðurnesjaveginum eru hleðslur fyrir skúta í grónu jarðfalli. Varða er skammt frá því. Gróið er fyrir opið og birkihríslur loka honum að hluta. Skúti þessi er norðvestan við Smalaskála, „upp undir (gamla) vegi“. Hér gæti verið um svonefndan Smalaskálaskúta að ræða.
Þá var haldið áfram til suðausturs vestan Rauðamels, í áttina að Gvendarbrunnshæð. Gengið var yfir á Alfaraleiðina og henni síðan fylgt til vesturs uns komið var að Gvendarbrunni. Austar eru Draugadalir og vestar eru Löngubrekkur. Brunnurinn er, eins og fyrr var lýst, „stór hola í klöpp“. Umhverfis holuna er gróið gras og einhver tíma hefur verið þar varða, sem nú er fallin. Hleðsla undir girðinguna á mörkum Óttarsstaða og Straums liggur þarna upp hraunið. Norðvestan við brunninn, undir hæðinni, er vel gróið. Þar er Gvendarbrunnshellir. Nokkrar hleðslur eru fyrir skúta og þar hefur verið þokkalegt fjárskjól þótt það hafi verið mót suðri.
Hraunið þarna er stórbrotið, en tiltölulega auðvelt yfirverðar. Ekki er ólíklegt að á svæðinu kunni að leynast ýmislegt forvitnilegt. T.d. var gengið fram á rýmilegan skúta í hrauninu skammt norðvestan Smalaskála (Smalaskálahæðar). Hann er niðri í litlu jarðfalli. Í því vex myndarleg birkihrísla. Þegar farið var niður í jarðfallið og undir hrísluna kom opið í ljós. Fyrir innan er hið ágætasta skjól.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 11 mín.

Vatnagarðahellir

Vatnagarðahellir.

Hamarinn

Á vef Umhverfisstofnunar má lesa eftirfarandi um friðlýsingu Hamarsins í Hafnarfirði:

Hamarinn

Hamarinn – fyrrum námusvæði.

„Hamarinn var friðlýstur sem náttúruvætti árið 1984. Á Hamrinum eru jökulminjar. Hann setur mikinn svip á miðbæ Hafnarfjarðar og nýtur vinsælda sem útivistarsvæði. Hamrinum tengjast sögur um álfa og huldufólk. Stærð náttúruvættisins er 2,1 ha.“

Í auglýsingu um friðlýsingu Hamarsins í Hafnarfirði frá árinu 1984 segir:

Hamarinn

Hamarinn – „Hvers konar mannvirkjagerð eða jarðrask sem breytt getur útliti eða eðli svæðisins eru óheimil“.

„Samkvæmt heimild í 22. gr. laga um náttúruvernd nr. 47/1971 hefur [Umhverfisstofnun] að tillögu bæjarstjórnar Hafnarfjarðar samþykkt fyrir sitt leyti að friðlýsa Hamarinn í Hafnarfirði sem náttúruvætti.
Mörk hins friðlýsta svæðis eru sem hér greinir:
Mörkin fylgja hnitapunktum í hnitakerfi Reykjavíkur frá árinu 1951 og eru beinar línur milli eftirtalinna punkta:

Hamarinn

Hamarinn – útsýni yfir Austurgötu.

Frá punkti merktum nr. 1 á uppdrætti norðvestur hússins nr. 22A við Öldugötu (x=22922.71, y=9011.07) liggja mörkin til suðvesturs að punkti nr. 2 (x=22949.18, y=8969.19). Þaðan liggja þau til vesturs að punkti nr. 3 norðan Flensborgarskóla (x=23102,05, y=8984.12), og áfram til vestur að punkti nr. 4 norðan Flensborgarskóla (x=23122.15, y=8990.52). Þar beygja mörkin til norðurs að punkti nr. 5 sunnan hússins nr. 8 við Lækjargötu (x=23093.32, y=9102.42), og síðan til norðausturs að punkti nr. 6 sunnan hússins nr. 18 við Lækjargötu (x=22998.06, y=9125.53). Þaðan til suðausturs að punkti nr. 1.

Hamarskot

Hamarskot – tilgáta.

Eftirfarandi reglur gilda um svæðið:
1. Varðveita skal jarðmyndanir og lífríki svæðisins í núverandi mynd. Hvers konar mannvirkjagerð eða jarðrask sem breytt getur útliti eða eðli svæðisins eru óheimil, nema til komi sérstakt leyfi [Umhverfisstofnunar]. Þó er bæjarstjórn heimilt, í samræmi við skipulag Hamarssvæðisins og í samráði við [Náttúruvernd ríkisins], að láta planta trjágróðri, leggja gangstíga og setja upp bekki og annan búnað í þágu útivistar á svæðinu.
2. Svæðið er einungis opið gangandi fólki og skal það gæta góðrar umgengni.
3. Náttúruverndarnefnd Hafnarfjarðar hefur eftirlit með framkvæmd friðlýsingar í umboði [Umhverfisstofnunar] og bæjarstjórnar.

Hamarinn

Hamarinn – náttúruvætti; kort.

Til undanþágu frá reglum þessum þarf leyfi [Umhverfisstofnunar] og náttúruverndarnefndar Hafnarfjarðar. Um viðurlög vegna brota á reglum þessum fer eftir ákvæðum náttúruverndarlaga.
Ráðuneytið er samþykkt friðlýsingunni, sem tekur gildi við birtingu þessar auglýsingar í Stjórnartíðindum.“

Menntamálaráðuneytið, 10. apríl 1984 – Ragnhildur Helgadóttir.

Heimild:
-https://ust.is/nattura/natturuverndarsvaedi/fridlyst-svaedi/sudvesturland/hamarinn-hafnarfirdi/
-Stj.tíð B, nr. 188/1984. Sérpr. nr. 454.

Hamarinn

Hamarinn – Flensborgarskóli.

Vatn

Farið var með heimildarmanni, Jóni Péturssyni frá Eyrarhrauni, að Kaldadý, sem vera átti upp af og til hliðar við hús nr. 53a við Suðurgötu.

Kaldadý

Kaldadý – steypt brunnlok.

Kaldadý er merkileg fyrir það að hafa verið fyrsta neysluvatnsveita Hafnfirðinga. Hún var „virkjuð“ um 1904 og þá af einkaaðilum undir heitinu Vatnsveitufélag Hafnarfjarðar. Félagið lét grafa brunninn og lögðu frá honum pípur vestur eftir bænum. Hér mun hafa verið um að ræða ein fyrstu vatnsveitu á landinu, sem í ár verður aldargömul. Vatnsveita Hafnarfjarðar keypti síðan holuna er byrjað var að reyna að leiða vatn úr Kaldárbotnum og sækja vatnið í Lækjarbotna.

Kaldadý

Kaldadý árið 2022.

Til langs tíma mátti sjá leifar Kaldadýjar. Steypt var ferningslaga þró umhverfis hana og bárujárnsplata sett yfir. Loks var holan fyllt upp til að minnka líkur á að einhver færi sér að voða í holunni. Nú stendur bílskúrinn að Suðurgötu 53a yfir Kaldadý. Tekinn var GPS-punktur.
Fólk sótti vatn í brunnholur og jafnvel í Lækinn. Það þótti hins vegar ekki gott vatn – mórautt. Einn góður brunnur var skammt frá Selvogsgötu, sem kallaður var Góðhola. Nú er búið að steypa hús á henni.
Haldið var út að Eyrarhrauni á Mölum. Hafnarfjarðarbær er nýbúinn að kaupa húsið, sem var byggt skömmu fyrir aldamótin 1900, og verður það rifið næstu daga. Umhverfis eru miklir grjótgarðar.

Eyrarhraunsbrunnur

Eyrarhraunsbrunnur. Jón Pétursson.

Framan við húsið er Eyrarhraunsvarðan. Á hana er markaður bókstafurinn E til minningar um Engeljón Sigurjónsson er byggði húsið upphaflega. Varðan, sem stendur á hraunhól, var hlaðin af Engeljóni, en hefur nú verið klædd steinsteypu.

Genginn var brunnstígurinn að brunninum í hraunhvilft norðan við bæinn. Hann var fallega hlaðinn – um þriggja metra djúpur. Fyllt var upp í hann með grjóti svo enginn færi sér þar að voða. Mosagróið er yfir grjótið. Auðvelt væri að fjarlægja það og opinbera brunninn. Tekinn var GPS-punktur og mynd af brunnstæðinu.

Allians

Allians-fiskreitur við Hrafnistu. Var eyðilagður er viðbygging var gerð.

Í kringum Eyrarhraun eru fallega hlaðnir garðar. Þar er og nafnlaus skúti, sem reyndist ungum uppalingum notadrjúgur fyrrum.
Nefndir voru nálægir fiskreitir, s.s. Allians reiturinn þar sem nú er nýbygging Hrafnistu (var mokað burt á einum degi fyrir skömmu). Á bakkanum voru hlaðnir garðar og eftir þeim gengu vagnar á teinum. Hefur líklega verið fögur sjón á þeim tíma.

Kaldadý

Kaldadý var aftan við þennan skúr við Suðurgötu.

Almenningur

Ætlunin var að skoða þann hluta Hrauntungustígsins, sem liggur um trjáræktarsvæði Skógræktar ríkisins við Brunntorfur (Brundtorfur/Brunatorfur) norður undir Almenningi. Þarna ofan við hraunrönd hins mosavaxna Nýjahrauns (Kapelluhrauns), í gróður- og kjarrríkt Hrútargjárdyngjuhraunið, hefur verið plantað miklu magni af greni- og furutrjám.

Bruninn

Birkið hefur náð sér vel á strik í skjóli þeirra og er orðið allhátt. Vaxið hefur upp á örfáum áratugum myndarlegur skógur í bollóttum og hólóttum hlíðunum. Þegar trjánum var plantað á sínum tíma var þess, eins og svo víða annars staðar, ekki gætt að hlífa hinum gömlu götum um hraunlænurnar heldur trjám stungið niður hvar sem skjól var að finna. Ekki er víst að skógræktarfólkið hafi haft auga fyrir götunum eða það metið þær nokkurs. Fólk getur engu að síður blindast af litlum trjáplöntum en stórum. Reyndar ætti að vera í lagi að setja niður skóg í lægðum sem þarna eru, en gæta þarf þess vel að halda honum á takmörkuðum svæðum. Ísland er nú svo fallegt land að það er óþarfi að hindra útsýnið til dýrðarinnar. Svæði þessu var úthlutað til áhugasamra einstaklinga um skógrækt á sínum tíma.
Hrauntungustígurinn liggur frá Áslandi um Hádegisskarð með Hamranesi og suður yfir Brunann að Hrauntungum. Þar hefur stígurinn vikið á löngum kafla fyrir efnisnámum Skógræktarinnar. Bera þær með sér einstakan vitnisburð hins einsleita gildismats. Fallegt nútímahraunið (rann 1151) fékk að fjúka til að hægt væri að ná inn aurum fyrir nokkrum trjáplöntum. Nú eru þarna stór sár, sem aldrei verða söm sem fyrr.

Hrauntungustígur

Úr Hrauntungunum liggur leiðin milli Gjásels og Fornasels, hjá Hafurbjarnarholti upp í hæsta hluta Almennings og að Sauðabrekkum. Þá er farið yfir Sauðabrekkugjá um Mosa vestan við Fjallið eina að Hrútagjárdyngju. Stefnan er síðan á Hrúthólma og farið um nokkuð slétt helluhraun að Hrútafelli. Þá er stutt yfir á Ketilsstíginn, sem liggur yfir hálsinn til Krýsuvíkur.
Það var sem sagt leiðin frá Hrauntungunum og upp á milli Fornasels og Gjásels, að Stóra-Steini, sem ætlunin var að rekja að þessu sinni – í gegnum skógræktina og upp fyrir hana, austur fyrir Hafurbjarnarholt.
Gatan sést vel þar sem hún fer í gegnum Hrauntungurnar og undir girðingu Skógræktarinnar. Príla er á girðingunni skammt norðar. Þarna er mosinn ráðandi og hefur hann náð að afmá götuna á körflum. En ef vörðunum er fylgt af nákvæmni má rekja götuna í gegnum og upp grónar hraunkvosir, undir hraunhólahlíðum og áfram áleiðis upp norðurhlíð Almennings.
Í rauninni er hægt að velja um þrjár leiðir þegar komið er spölkorn upp í skóginn. Hér á eftir verða tvær raktar upp eftir (til suðurs) og ein síðan til baka (til norðurs). Gatnamótin eru þar sem lækkunin er hvað mest í skógræktinni, en erfitt er að kom auga á þau vegna trjánna.
Áður en komið er að Fornaseli greinist fyrsta gatan, sú austasta, í tvennt; annars vegar áfram til suðausturs að Fornaseli, og hins vegar upp nokkuð þægilega gróna lægð norðvestan þess. Ef götunni upp í selið er fylgt kemur hún að við vörðu skammt norðvestan við það. Frá vörðunni sést gróið selið og umhverfi þess mjög vel, einkum selsvarðan austan þess. Áfram liggur gatan síðan til suðausturs og beygir síðan til suðurs austan við kúptlagaðan (ávalan) hraunhól.

Í Almenningi

Ofan hans eru gatamót þeirrar götu og götunnar, sem greindist af henni neðan Fornasels. Ef henni er fylgt upp eftir kemur hún vestan við þennan ávala hól. Sú leið er greiðfærust og þægilegust allra gatnanna, hvergi klöngu, einungis aflíðandi gangur. Báðar leiðirnar eru varðaðar með litlum vörðum. Á þeim báðum koma fram stærri vörður svolítið utan við þær, en þar er um að ræða landamerkjavörður Þorbjarnarstaða. Línan liggur úr vörður á Hafurbjarnarholti til norðausturs yfir hraunhlíðina. Við leiðirnar má sjá a.m.k. þrjár þeirra. Tvær varðanna eru stærri en gengur og gerist með vörður við Hrauntungustíginn.
Þegar komið er upp fyrir ávala hólinn sameinast göturnar á ný. Þá liggur gatan í krókum upp hlíðina uns hún beygir til vesturs og síaðn aftur til suðurs á hábrúninni. Þaðan sést í vörður við Stóra-Stein og aðra ofar. Gatan liggur síðan með hraunhólnunum upp að Fjallsgrensvörðu þar sem hún beygir til austurs, eins og áður hefur verið lýst (Hrauntungustígur – norðan Sauðabrekkugjár).
Þá var gatan rakin til baka, að gatnamótum þess stígs sem vestast liggur niður í Hrauntungur. Farið var að halla að ljósakiptum. Ljósir sveppirnir urðu skyndilega áberandi í landslaginu. Lyngið og kjarrið runnu saman í eitt.
VarðaGatan liggur til norður vestan við ávala hraunhólinn og er augljós í gróningunum. Vörður eru á stangli. Þegar komið var niður á holtið austan Gjásels fór gatan yfir hina augljósu götu milli seljanna, Gjásels og Fornasels. Nútímamenn hafa gengið til nýrri götu suðvestan skógræktargirðingarinnar, en ef gömlu götunni er fylgt á milli seljanna þarf að fara inn fyrir girðinguna og í lægð á milli hraunhóla. Þaðan liðast hún um hvylftir milli hraunhóla. Litlar vörður eru á þeim. Trén hindra að vísu eðlilega leið, en þó óverulega.
Þegar gatan fyrrnefnda er rakin áfram niður að Hrauntungum þarf að hafa augu vel opin. Á kafla virðast tré hafa vaxið yfir leiðina, en hægt er að feta sig framhjá og meðfram þeim inn á götuna að nýju. Með góðu móti er þannig hægt að rekja hana alla leið niður að fyrstnefndu gatnamótunum þar sem jafnsléttan er hvað mest undir hlíðunum. Í rauninni þyrfti bæði að merkja þau gatnamót sem og þau efri. Fyrir þá sem vilja ganga styttri götu en allan liðlangan Hrauntungustíginn væri kjörið að ganga vestustu götuna upp fyrir ávala hólinn (réttast væri að nefna hann Vegamótahól) og síðan til baka um austustu götuna með viðkomu í Fornaseli. Um er að ræða bæði fallega og fjölbreytilega leið, ca. 1 1/2 – 2 km).

Varða

Skógræktarfélag Íslands hefur nú gefið út leiðbeiningar hvernig og hvað skógræktarfólks þurfi að varast þegar fornminjar eru annars vegar. Þar segir m.a.: „Skógrækt í nágrenni fornleifa þarf að skipuleggja þannig að þær spillist ekki. Slikum minjum á að reyna að gera hátt undir höfði á ræktunarsvæðunum, enda eykur vitneskja um þær fjölbreytileika svæðanna. Til fornleifa teljast hvers kyns leifar fornra mannvirkja og annarra staðbundinna minja sem menn hafa gert eða mannaverk eru á. Minjar 100 ára og eldri teljast til fornleifa, en heimilt er þó að friðlýsa yngri minjar.
Hér á eftir eru listaðar helstu tegundir fornleifa, sem búast má við að finna á Íslandi en ekki má þó líta á þennan lista sem tæmandi upptalningu allra fornleifa: Búsetuminjar, vinnustaðir, samgöngumannvirki (Gamlir vegir, stíflur, brýr, vatnsvöð, varir, hafnir og bátalægi, slippir, ferjustaðir, kláfar, vörður og vitar og önnur vega- og siglingarmerki ásamt kennileitum þeirra), varnarmannvirki, áletranir og fleira.

Hrauntungur

Eftirtalin atriði þarf að varast þegar skógrækt er undirbúin nærri fornleifum:
1. Mikilvægt er skógræktin sé skipulögð þannig að hún falli sem best að slíkum minjum í landinu. Ekki síst á það við um skógarjaðarinn næst minjunum. Einnig fer oft betur að hafa meira en 20 m radíus í kringum minjarnar. Fornminjasvæði auka mjög á útivistargildi viðkomandi skógræktarsvæða og gera þau áhugaverðari.
2. Ekki skal jarðvinna með vélum á svæðum þar sem talið er að fornminjar séu í jörðu.
3. Oft eru fleiri einstakar fornminjar nálægar og mynda heild. Þá skal opið, skóglaust svæði vera nægjanlega stórt umhverfis þær allar.
4. Þess skal gætt að girðingar, vegir og slóðar liggi ekki þvert yfir fornminjarnar.“
Að öllu jöfnu eiga allir að forðast að skemma verðmæti sem fyrir eru s.s. fornminjar og útsýni. Hafa ber í huga að hinar gömlu götur eru fornminjar. Í rauninni er sárgrætilegt að sjá nýlega gróðursettar plöntur í fornum tóftum, t.a.m. seljum – nú þegar skilningurinn ætti að vera miklu mun meiri en raun ber vitni.

Hrauntungustígur

Hvað um það – Hrauntungustígurinn er ekki einn. Hann liggur um Almenning á fleiri en einum stað, enda má ætla að kunnugir hafi farið þar sínar eigin götur, allt eftir því á hvaða leið þeir voru og hverra erinda.
Víða eru litlar vörður við hraunker og klofninga. Þær hafa leitarmenn hlaðið til að auðvelda þeim sín verk. Vörður við leiðir hafa ferðamenn hlaðið til að gera þeim kleift að fara auðveldustu, og jafnvel stystu leiðina á langri leið – og svona mætti halda lengi áfram.
Sameiginlegt með þessum leiðum er að þær liggja um tilkomumikið, fjölbreytilegt og gróið hraunsvæði, sem nútímamanninum ætti að vera kærkomið tækifæri til útivistar.
Sjá MYNDIR.
Frábært veður.

Þorbjarnarstaðaborg

Þorbjarnarstaðaborg.

Krýsuvíkurkirkja

Eftirfarandi frásögn Þórðar Jónssonar frá Eyrarbakka um „Ferð til Krýsuvíkur“ birtist í Heimilisblaðinu árið 1945:
krysuvik-323„Ég hafði margheitið því að fara til Krýsuvíkur undir eins og þangað væri komin bílfær vegur.
Hinn nýi Krýsuvíkurvegur er einhver fallegasti og bezt gerði vegur, sem ég hef séð. Að þeirri vegabyggingu hafa áreiðanlega unnið þeir menn, sem verkinu voru vaxnir. Vegkantar og uppfylling á jafn ósléttu landi eru snilldarverk. Það er ekki sök þeirra, sem hlaðið hafa þennan fallega veg, þótt hann sé með sama miðaldalaginu og aðrir vegir sem lagðir hafa verið á landi hér síðustu áratugina, að engin leið er nútíma flutningatækjum að mætast á þeim nema á vissum stöðum — útskotunum svonefndum — þar sem hve verður að bíða eftir öðrum. Sjá allir, hvers ramgallað slíkt fyrirkomulag er. Það er skiljanlegt, að allt á þetta að vera til sparnaðar. En það vita þeir, sem við veglagningar hafa unnið, að vegkantarnir eru víðast hvar langdýrasti hluti vegarins, en minnstu munar, ef efni til uppfyllingar til staðarins, hvort vegurinn er nokkrum sentimetrum breiðari.

krysuvikurkirkja-344

Þetta fyrirkomulag á hinum nýju vegum sem hér er drepið á, er áreiðanlega vafasöm búhyggindi. Næstu kynslóðir munu ekki sætta sig við svona vegi með sífellt stækkandi flutningatæki, og endirinn verður að óhjákvæmilegt verður að endurbyggja alla þessa vegi, og það jafnvel áður en langt um líður.
Það er ekkert undarlegt, þótt mönnum verði tíðrætt um Krýsuvík. Mönnum er ljóst að Krýsuvík á sína sögu engu síður en aðrir landshlutar þessa lands. Þar sem bæirnir hafa staðið, sjást tóftarbrot hálf- og alfallin, og eru nú grasi vaxin. Aðeins kirkjan er eftir og sætir furðu, að hún skuli hafa staðið af sér alla storma eyðileggingarinnar. Að kirkjunni vík ég síðar.
Eins og kunnugt er, hefur einn maður af síðustu kynslóð Krýsuvíkurbyggðar aldrei yfirgefið þetta byggðarlag. Hann virðist hafa verið bundinn þessu byggðarlagi órjúfandi böndum tryggðar og vináttu. Þessi aldraði merkismaður heitir Magnús Ólafsson. Hann er nú — að mig minnir — 73 ára að aldri og hefur átt heima í Krýsuvík óslitið í 55 ár að undanteknum nokkrum vikum úr sumum þessum árum. Eftir að öll hús byggðarinnar voru fallin og rifin flutti hann sig í gömlu kirkjuna og hefur búið þar síðan, og má vel vera að sú sé orsökin, að kirkjan hefur ekki hlotið sömu örlög og önnur hús á þessum stað.

magnus olafsson-231

Þarna vorum við félagar þá komnir heim á hið forna höfðingjasetur Krýsuvík eftir röskan klukkustundar akstur frá Reykjavík, það sem áður var margra klukkustunda ferð. Nei, það var engin lygi, að það væri búið að færa þessa sveit nær menningunni.
Úti fyrir kirkjudyrum sat hinn aldraði húsbóndi og tók,mjög vingjarnlega kveðju okkar ferðalanganna. Ég fór að telja á fingrum mér hve mörg ár væru nú liðin síðan ég kom þarna síðast, síðan í febrúar 1896 (ég var þá á sextánda ári). Vildi þá útkoman verða nálægt fjörutíu og níu og hálft ár. Jú, það skeður nú margt á skemmri tíma. Mér varð hugsað til þessarar fyrri komu minnar samanborið við þessa komu mína á þennan stað. Nú var sólbjartur sumardagur, en þá hörku norðanbylur og snjór í hné eða meir. Ég strákhnokki með allan minn veraldarauð í strigapoka á bakinu og að auki rúma krónu í buddunni sem farareyri og gat naumast staðið uppréttur undir þeim ofurþunga. En hvernig voru nú ástæðurnar? Bezt að koma öllum þessum reikningum á hreint. Nú var ég þó létt klæddur með hendur í vösum, en annað setzt á bak mér engu léttara en pokinn í fyrri daga. Gamla konan Elli var nú farin að gerast áleitin en frábitin öllum ástaratlotum og lagaskilnaði, og þó ekki um annað að gera en lúta valdi hennar — gömlu konunnar. Þegar öllu var á botninn hvolft var þá líklega pokinn með tilheyrandi öllu viðkunnanlegri en slíkt konuríki. Að öllu þessu fljótlega athuguðu settist ég hjá gamla manninum við kirkjudyrnar og tók að spyrja hann spjörunum úr. Mér varð fljótt ljóst, að þarna var maður, sem vert var að kynnast og tala við, bráðgreindur maður og alúðlegur, sem þekkti sögu þessarar sveitar langt aftur í tímann eins og fingur sína. Það hefði vissulega verið gaman og gagnlegt að mega tala við Magnús í ró og næði og jafnvel ferðast með honum þarna um nágrennið.

krysuvik-354

En tími okkar félaga var naumur og nokkuð áliðið dags. Ég labbaði um kirkjugarðinn með Magnúsi. Hann benti mér á leiði, sem hann sagði, að síðast hefði verið jarðað í. Austan undir kirkjugaflinum varð mér starsýnt á eitt leiði sökum þess að það var eina leiðið í kirkjugarðinum, sem á var lítilsháttar minnismerki. Er það þó ekki annað en trégirðing komin að falli. Magnús sagði mér, að þarna væri jarðaður Árni sýslumaður Gíslason, en hann bjó í Krýsuvík um nokkurra ára skeið, sem kunnugt er, og var hann þar húsbóndi, er mig bar að garði, sem fyrr segir.
Og nutum við, ég og félagar mínir, krysuvik-371hinnar mestu gestrisni og höfðingsskapar, sem Árni sýslumaður var kunnur fyrir á sinni tíð. Svona eru örlögin. Nú var ég allt í einu staddur við legstað míns forna gestgjafa og ég hörfaði skref aftur á bak. Þarna mátti ég ekki stíga með skó á fótum á jafn helgan stað og bæla græna grasið umhverfis leiðið hans, ef til vill raskaði ég með því grafarró hins mæta manns.
Ég bað Magnús að lofa okkur að sjá kirkjuna, sem nú er íbúðarhús hans, og var það auðsótt. Þarna var þá rúm hans við austurgafl framan verðan. Það var þá ekki annað en húsgaflinn, sem aðskildi höfðalagið og leiði hans forna húsbónda, Árna sýslumanns. Það er ekkert ýkja langt frá veruleikanum, að þar hvíli húsbóndinn og þjónninn við sama höfðalagið, þótt annar sé lífs en hinn liðinn. Sjaldgæft er þetta, en Magnús hefur tekið ástfóstri við kirkju og kirkjugarðinn og allt annað í Krýsuvík.
Mér er í barnsminni, að ég heyrði talað um hinn stórbrotna búferlaflutning Árna sýslumanns austan frá Kirkjubæjarklaustri og til Krýsuvíkur. Hann var sýslumaður Skaftfellinga og bjó stórbúi á Kirkjubæjarklaustri.
Það má nærri geta að slíkir krysuvik-432búferlaflutningur á þeirri tíð var engum heiglum hent öll þessi vegalengd og allar þær stórár, og allt varð að flytja á hestum (á klökkum) sundleggja hestana og ferja á smábát allan farangur yfir stórvötnin. Hvernig mundi nú tímakynslóðinni geðjast að slíkum vinnubrögðum?
Ég heyrði talað um, að sauðfé Árna sýslumanns hefði verið um 1200 talsins, er hann fluttist að Krýsuvík. Ef það væri satt, hafa eflaust ekki margir bændur á Íslandi verið fjárfleiri en hann á þeirri tíð.
Mér er sagt, að nú sé Hafnarjarðarbær eigandi Krýsuvíkur. Er það vel farið, að það land lenti hjá því bæjarfélagi, úr því að íslenzka ríkið var ekki svo framtakssamt að eignast það. Það er sagt að Hafnfirðingar hafi í huga stór áform í Krýsuvík, enda eru þar margbrotnir ræktunarmöguleikar. Hafnfirðingar eru líka allra mannna líklegastir til þess að bæta þessum eyðijörðum í Krýsuvík upp giftuleysi liðinna ára.
Ég get ekki lokið svo við þessar hugleiðingar mínar um Krýsuvík, að ég minnist ekki ofurlítið frekar á kirkjuna og kirkjugarðinn þar. Kirkjan þar og kirkjugarðurinn eru í mínum augum helgir dómar, og þessa helgu dóma má með engu móti eyðileggja. Kirkjugarðinn verður að girða og breyta í trjá- og skrúðgarð og vanda þar allt til sem bezt. Kirkjuna verður að byggja að nýju í sama formi og hún er, og á sama stað.
Kirkjan á „sjálf víst ekki grænan eyri til endurbyggingar, Krysuvikurkirkja-371en hvað munar menn og ríkið um slíka smámuni? Það er verið reisa úr rústum gamlar kofarústir inn um alla afrétti og við skömmum liðnar kynslóðir fyrir trassaskap og vanrækslu í meðferð verðmæta – sem við köllum svo — hví skilum við þá á þessari mennta- og menningaröld fara að eyðileggja allar menjar um forna frægð Krýsuvíkur? Ég á vont með að trúa því, að nokkur Íslendingur nú á tímum væri svo auðvirðilega nískur að telja eftir nokkrar krónur til endurbyggingar á kirkjunni í Krýsuvík, þótt sú kirkja yrði aldrei notuð til messugjörða. Það er heldur vissulega ekki meining mín.
Að endingu þetta: Það verður líka að byggja sómasamlegt hús í Krýsuvík handa hinum aldraða Magnúsi Ólafssyni, ef hann æskir þess að fá að vera þar það sem eftir er lífdaganna, gamla manninum, sem sýnt hefur þessu plássi hina frábæru tryggð.
Ég þakka svo Magnúsi Ólafssyni fyrir vinarþel og kurteisi og ef til vill á ég eftir að hitta hann aftur í Krýsuvík, mér til ánægju og fróðleiks.“

Heimild:
-Heimilisblaðið 34. árg., 9.-10. tbl. 1945, bls. 172-174 og 193.

Krýsuvík

Bleikhóll í Krýsuvík.

Katlahraun

Jón Jónsson og Dagur Jónsson skrifuðu eftirfarandi grein um „Hraunborgir og gervigíga“ í Náttúrufræðinginn 1992:
„Hraunborgir er orð sem óvíst er hvort áður hefur verið notað í þeirri merkingu sem við gerum hér. Seinni lið orðsins kannast þó allir við úr örnefninu Dimmuborgir.

Gervigígar við Helgafell
Litluborgir-207Árið 1991 fann annar okkar (D.J.) gígasvæði austan við Helgafell við Hafnarfjörð. Okkar á milli höfum við gefið því nafnið Litluborgir án þess að ætlast til að það festist sem örnefni. Við höfum skoðað þennan stað nokkrum sinnum, saman eða hvor fyrir sig, og freistum þess nú að gera nokkra grein fyrir því sem þar er að sjá, því ekki er vitað um aðra þvílíka myndun hér í nágrenninu. Svæðið er lítið, mesta lengd þess norður-suður er um 300 m og mesta breidd 250 m. Það er umkringt yngri hraunum og ekki áberandi í landslagi. Ljóst er að þetta hefur orðið til í vatni og við töldum fyrst að þar hefði gosið, en síðar hefur komið í ljós að í heild mun um gervimyndun að ræða, hraun hefur þarna runnið út í stöðuvatn.
Nyrst á svæðinu eru dæmigerðir gervigígir, flöt gjall- eða kleprahraun, flygsuhrúgöld með meira eða Litluborgir-208minna óljósa gíglögun. Hæsti gígurinn á svæðinu er rösklega 3 m há gjall- og kleprastrýta með kísilgúrklessu við toppinn. Annar um 2,5 m hár gígur gæti útlitsins vegna allt eins verið hraungígur en dæmist út sökum umhverfisins. Hrært innan um gjallið er örfínt efni sem sýnir sig vera kísilgúr. Auðvelt er að ákvarða í þessu mikinn fjölda skelja kísilþörunga. Um er að ræða hreina ferskvatnsmyndun. Meðal þörunganna eru Cymatopleura solea, sem er meðal einkennistegunda í Mývatni, en þar er líka Surirella caproni, sem einn mesti sérfræðingur á þessu sviði, F. Hustedt (1930), telur að einkum sé að finna í botnseti stórra stöðuvatna („im Grundschlamm grösserer Seen“). Víst er þó að sú tegund lifir líka í Vífilsstaðavatni og önnur náskyld hefur fundist í lækjarsytru norðan við Leiðólfsfell á Síðu, við rönd Skaftáreldahrauns.

litluborgir-209

Þörungaflóran þykir benda til þess að þarna hafi verið stöðuvatn og á botni þess ekki óverulegt lag af kísilgúr, vatnið ekki djúpt, fremur kalt, hreint og líklega sæmilega næringarríkt. Það hefur verið í dal sem takmarkast hefur annars vegar af Helgafelli en hins vegar af Kaplató og líklega náð suður og vestur að Undirhlíðum þar sem nú er hraunslétta. Það mikið er þarna af kísilgúr að ætla má að vatnið hafi verið þarna nokkuð lengi, e.t.v. nokkrar aldir. Þess má geta að gasblöðrur í hrauninu, sem sumar eru 2-4 cm í þvermál, eru sumar fylltar fannhvítum, hreinum kísilgúr sem hlýtur að hafa lokast þar inni um leið og hraunið rann.

Hraunborgir
litluborgir-210Súlur afmarka misvíðar rásir, hella, sem sums staðar eru á tveim hæðum. Þakið yfir rásunum er um 35-40 cm þykkt, fyrir kemur að það sé tvöfalt. Yfirborð hraunsins er slétt. Súlurnar eru misgildar, holar innan, hraðkældar en ekki glerjaðar. Veggir þeirra eru misþykkir en mest 15-20 cm. Innanmál þeirra er mest um 12-20 cm en fjarar út þegar upp að þakinu kemur. Við teljum súlurnar vera myndaðar kringum gasstraum, væntanlega einkum vatnsgufu, sem frá botni hraunsins hefur ruðst upp gegnum hraunkvikuna. Við það varð svo mikil kæling að rásin stóð eftir sem strompur. Margar súlnanna hafa aldrei náð alveg upp en standa eftir innan um niðurfallið þakið og eru að utan alsettar skriðrákum. Hraunið hefur runnið eftir vatnsbotninum, þar verður kröftug gufumyndun, gufan ryðst upp gegnum hraunkvikuna og þannig verða súlurnar eða stromparnir til eins og áður segir. Hrauntjörn sem fyrst varð til í vatni hefur tæmst að lokum af hrauni, en vatnið hefur væntanlega að mestu eða öllu verið gufað upp um það leyti. Ljóst er að hraunkvikan hefur nánast frá upphafi streymt eftir misvíðum rásum undir yfirborði út frá einni hrauntjörn, sem virðist í fyrstu að miklu leyti hafa verið undir þaki. Þegar svo lækkaði í hrauntjörninni féll þakið niður en eftir stóðu stöplar efst með leifar af þakinu eins og barðastóran hatt. Yfir þröngum rásum hélst þakið.

Dropsteinar
Dropsteinn-221Eins og áður segir bera sumar súlurnar leifar af þakinu en neðan í þeim hanga dropsteinar og þykir það benda til þess að snögglega hafi lækkað í hrauntjörninni. Sums staðar hefur bráðin smitað út úr hrauninu og klætt veggi þrengstu rásanna, eða hangir niður úr þakinu sem mjög snotrir dropsteinar. Í þaki stærstu rásanna eru óverulegar dropsteinamyndanir, sem ná lítið eitt niður eftir veggjum. Gæti þar verið fremur um endurbræðslu að ræða þar eð þakið er mjög þunnt. Gasstraumur yfir rennandi hrauni í þröngum helli gæti nægt til þess.
Það er með hálfum huga að við nefnum þetta, en höldum í vonina að þeir einir heimsæki svæðið sem hafa tilfinningu fyrir og bera virðingu fyrir fínum smíðisgripum náttúrunnar og gera sér ljóst að þeir sóma sér betur á sínum stað en inni í stofum. 

Katlahraun
Á ströndinni suður af Núpshlíð á Reykjanesskaga eru stórskomar hraunborgir sem við ætlum að séu myndaðar á sama hátt og okkar Litluborgir, aðeins í miklu stærri mælikvarða. Þar hefur hraun runnið ofan af landi, út í líklega fremur grunna vík. Talið var, með fyrirvara þó, að hraun þetta væri úr Höfðagígum komið (Jón Jónsson 1978) en fullt svo líklegt sýnist nú að það sé úr Moshólum. Svo mikil eldvirkni hefur í aldanna rás verið á svæðinu þarna ofanvið að ekki er auðvelt að greina milli einstakra hrauna. Verður það spursmál ekki nánar rakið hér. Þarna eru feiknastórar hraunborgir, niðurföll, hraunrásir og hellar.

katlahraun-229

Þverskurður af einni borginni sýnir einkar vel innri gerð hennar. Til beggja hliða eru þétt lóðrétt hraunlög, með vott af láréttri stuðlamyndun, en milli þeirra rás fyllt af losaralega samanruddu grjóti, sem ekki ber merki snöggrar kælingar. Þarna virðist gufa neðanfrá hafa tætt sundur hraunið og hrifið með sér grjótið sem í lokin varð eftir í rásinni. Ofaná eru sundurtættar leifar af þakinu.“

Heimild:
-Náttúrufræðingurinn, 62. árg., 3.-4. tbl. 1992, bls. 145-149.

Litluborgir

Litluborgir – gervigígur.