Tag Archive for: Hafnarfjörður

Kapella

Flestar minjar á Reykjanesskaganum eru ómerktar og lítt aðgengilegar. Við Kapelluna í Kapelluhrauni standa hins vegar tvö upplýsingaskilti, reyndar með misvísandi fróðleik. Skiltin voru þrjú, en eitt hefur verið fjarlægt.
SkiltiÁ öðru skiltinu, frá Byggðasafni Hafnarfjarðar, stendur m.a.: „Snemma á 13. öld var höfðingi í borginni Nikómedíu í Litlu-Asíu, þar sem nú er Izmid í Tyrklandi. Átti hann forkunnarfríða dóttur er Barbara hét. Hún var í æsku lokuð inni í turni einum til að forðast biðla en þrátt fyrir einangrunina tókst Origeneses kirkjuföður að komast inn til hennar og fyrir fortölur hans tók hún kristna trú. Barbara lét aldrei af trú sinni, þrátt fyrir pyntingar sem að stærstum hluta voru gerðar að kröfu föður hennar, sem vildi snúa henni aftur til heiðinnar trúar. Að lokum var hún leidd fyrir dómara og dæmd til lífláts í ofsóknum á kristna menn.
Hún varð snemma kaþólskur dýrlingur, aðallega ákölluð við óvænta hættu, eldsvoða, sprengingar og þess háttar. Hérlendis lá því beint við að ákalla hana í sambandi við jarðelda og hraunflóð.
Kapella þessi er á skrá yfir friðlýstar fornminjar og er talið að hún sé frá kaþólskum tíma en ekki hefur hún verið aldursgreind nánar. Hraunið umhverfis kapelluna hefur verið kallað Kapelluhraun eða Nýjahraun og er talið að það hafi runnið einhvern tímann á tímabilinu 1100-1300. Kapellan er rétt við gamla krákustíginn, sem ruddur var fljótlega eftir að hraunið rann og hefur verið alfaraleið út á nes öldum saman.
KapellanÁrið 1950 var rústin rannsökuð af þeim dr. Kristjáni Eldjárn, þjóðminjaverði, Gísla Gestssyni, safnverði, Jóhanni Briem, listmálara, og dr. Jóni Jóhannessyni. Fundust þá nokkrir munir í rústinni og ber þar helst að nefna hluta af líkneski heilagrar Barböru. Líkneskið var úr grágulum leirsetini og var einungis um3.3 cm á hæð, en hefur líklega verið um 5.5 cm heilt. Þar sem hraunið sem kapellan stendur er yngra en landnám var það vel við hæfi að einmitt heilög Barbara fannst þarna, sem e.t.v. stendur í sambandi við bæn um það, að svona hrikalegt hraunrennsli endurtaki sig ekki. Styttan sem fannst við rannsóknina er varðveitt í Þjóðminjasafni Íslands, en þessi hérna er eftirlíking, svipuð en lítið eitt stærri.
Kapella þessi er alveg við gamla veginn og hefur því líklega einnig verið eins konar sæluhús. Menn hafa farið inn til að biðja bæn sína, en líka til að hvílast eða leita skjóls í vondum veðrum.“
Á hinu skiltinu er svipaður texti, styttri. Þar segir að hraunið hafi runnið á 14. öld, en nú hefur verið staðfest skv. áreiðanlegustu aldursgreiningum að hraunið rann árið 1151.
Á bls. 7 í 32. tbl. Fjarðarpóstsins, 24. árg. 2006 (www.fjardarposturinn.is) er fjallað um „Menningardag Evrópu“, sunnudaginn 3. september. Áætlað er skv. umfjölluninni að hafa dagskrá við „kapelluna“ í Kapelluhrauni kl. 14.00 þennan tiltekna dag. Í umfjölluninni segir m.a.:
„Álverið í Straumsvík stendur á hrauni sem ber nafnið Kapelluhraun. Hraunið á upptök sín í gígaröð meðfram Undirhlíðum og hefur runnið þaðan allt norður í sjó. Talið er að hraunið hafi komið upp í eldgosi árið 1151, svokölluðum Krýsuvíkureldum.
Hraunið dregur nafn sitt af Kapellunni, rúst af litlu húsi skammt suður af Reykjanesbraut gegnt álverinu. Kristján Eldjárn rannsakaði kapelluna árið 1950 ásamt fleirum. Kapellutóftin snýr því sem næst í austur-vestur og er 240 cm löng og um 220 cm breið. Húsið hefur verið reist við götu sem rudd var gegnum hraunið og lá út á Reykjanes. Vegna mikillar efnistöku í kringum kapelluna er gatan nú að mestu horfin í nágrenni kapellunnar en smá bútur sést þó sunnan rústarinnar. Í kapellunni fundust nokkrir gripir. Þar á meðal brot af rafperlu, leirkersbrot, látúnslauf, kríptarpípuleggur, skeifubrot og naglar. Merkasti fundurinn var þó líkneski af heilagri Barböru. Staðsetning rústarinnar við veginn og fundur líkneskisins í rústinni benti að mati Kristjáns Eldjárns til þess að þarna hefði staðið vegakapella á kaþólskum tíma.
Líkneskið er tálgað úr grágulum leirsteini. Aðeins efri hluti þess fannst og er sá hluti 3,3 Kapellacm á hæð en talið að líkneskið haf upphaflega verið um 5,5 cm. Andlit heilagrar Barböru er nokkuð máð en hún er með mikið hrokkið hár niður á herðar og sveigur er um yfir ennið. Í vinstri endi heldur Barbara á einkenni sínu, turninum, og hvílir hann við vinstri öxl og upp með vinstri vanga hennar. Gott þótti að heita á Barböru í háska af eldi, húsbruna, sprengingum og þess háttar. Hún var verndardýrlingur stórkotaliðs, ferðamanna og síðar málmiðnaðarmanna. Barbara kann því að hafa þótt duga vel gegn háska af völdum jarðelds og hraunbruna. Þá er athyglisverð sú staðreynd að álver skyldi byggt við hlið kapellu verndardýrlings málmiðnaðarmanna.Â
Í ýmsum kristnum löndum eru enn til smákapellur, sem reistar hafa verið við vegi á miðöldum, ætluðum vegfarendum til bænagerðar. Krossar hafa verið reistir á víðavangi í sama tigangi. Í Njarðvíkurskriðum, milli Njarðvíkna og Borgarfjarðar eystri, stóð lengi kross þars em menn, sem áttu leið um skriðurnar, áttu að lesa faðirvorið.“
Í lok greinarskrifanna er lýst hinum „evrópska menningardegi“ sem og tilgangi hans, sem reyndar skiptir kapelluna í Nýjahrauni litlu máli.

Stytta

Málið er að saga og hlutverk kapellunnar í Kapelluhrauni (Nýjahrauni) ofan við Straumsvík er mikilvæg, bæði vegna staðsetningarinnar og þeir atburða er síðar gerðust í nágrenni við hana (hefndin á drápi Jóns Arasonar Hólabiskupi við Skálholt árið 1550). Þá er hún ekki síður vitnisburður og staðfesting á hinni fornu leið, sem um hana lá yfir hraunið, frá Vestari-Brunabrúninni að hinni Austari, eins og segir í örnefnalýsingum. U.þ.b. 10 metra millikafli leiðarinnar sést enn suðvestan við kapelluna. Hins vegar er kapellan sjálf tiltölulega nýtt mannvirki, reist á gömlum grunni. Af myndum og uppdrttum Kristján Eldjárns (frá 1950) að dæma var kapellan, ferköntuð, niðurgrafin og hálffallin í kafi í mosavöxnu hrauninu.
Núverandi kapella er endurhlaðin með breyttu lagi (sporöskulaga), en á sama gólffleti og sú sem þar var fyrir. Best hefði farið á því að láta þessa tilteknu kapellutóft óhreyfða, eins og hún var, en ekki endurhlaða hana með þessu hæpna tilgátulagi. Með því varð, og verður, hún í augum „meðvitaðra“ óekta og miklu mun minna áhugaverðari en ella.
Hvort þessi tilltekna nútímalega (frá sjöunda áratug 20. aldar) „kapelluuppgerð“ getur talist sannur táknrænn vitnisburður um sögulega „menningararfleifð“ á evrópskan mælikvarða skal ósagt látið. Líklegra hefði hin sandorpna kapella á Hraunssandi, frá sama tíma, er Kristján Eldjárn og félagar grófu upp skömmu fyrir 1950, orðið miklu mun áhugaverðari minnisvarði (óhreyfður) um það sem var og þjónað miklu mun betur betur tilgangi tilefnisins. Hún er einnig táknræn fyrir það virðingarleysi, sem fornleifunum hefur til langs tíma verið sýnt.
Efni greinarinnar framangreindu er bæði áhugavert og erindissinnað og er því birt hér bæði til fróðleiks og uppfyllingar öðrum lýsingum á sömu mannvistarleifum á vefsíðunni.

Heimild:
-Fjarðarpósturinn, 32. tbl. 24. árg 2006, bls. 7. Grein Kristins Magnússonar, fornleifafræðings.

Kapella

Kapellan í Kapelluhrauni og kafli Alfaraleiðarinnar.

Arnarfell
FERLIR átti leið um Krýsuvíkursvæðið eins og svo oft áður. Um var að ræða 900. FERLIRsferðina. Nú átti kvikmyndatöku myndarinnar FooF (Flags of our Fathers) að vera lokið við Arnarfell. Tækifærið var notað til að gaumgæfa svæðið betur og í rólegheitum – og það með nákvæmari rannsóknaraugum en áður hafði gefist tóm til.
ArnarfellÞegar komið var á svæðið birtist vörður, annar enn og aftur, en sennilega í síðasta sinn. Hann gerði komumönnum kunnugt um að ekki mætti ganga um Arnarfellssvæðið og það þótt kvikmyndatökum væri lokið og búið að flytja mest af hafurtaskinu, sem henni fylgdi, á brott. Auk þess væri ekkert merkilegt að sjá á svæðinu. FERLIRsþátttakendum var skemmt, en stóðust ekki mátið, skiptust á lögmætum og réttlátum skoðunum við vörðinn, sem að lokum gafst upp, sneri sér undan, bandaði frá sér með hendinni og sagði: „Farið’i þá að fuckings fjallinu“.

Arnarfell

Búðir við Arnarfell.

Vörðurinn hafði þá a.m.k. lært eitthvað af útlendingunum, þótt ekki væri nema eitt notadrjúgt orð.
Hinum nýlagða vegslóða var fylgt að Arnarfelli. Í honum er talsvert efni, sem þarf að fjarlægja, sem og í athafnaplaninu við þjóðveginn. Forvitnilegt var að sjá „álagasteininn“, sem minnst hefur verið á áður, er jarðýtan bilaði þegar komið var að honum. Hann stendur upp úr planinu að norðvestanverðu og er hann það eina sem minnnir á, og mun minna á umhverfið, sem þarna var. Munnmæli herma að þarna undir steininum hafi andast vegfarandi er leið átti þar um fyrr á öldum. Auðvitað ber eftirlifendum að sína slíkum stöðum virðingu, og það jafnvel þótt þeir sjái oft sjálfir um að minna á sig þegar ástæða þykir til.
ArnarfellÁlagasteinn þessi var við gömlu þjóðleiðina milli Krýsuvíkur og Herdísarvíkur, er tekin var undir planið einhverra hluta vegna því það hefði mátt að ósekju vel vera skammt austar við veginn. Þá hefði þjóðleiðin gamla fengið að halda sér. Eflaust hefur bæjarstjóri Hafnfirðinga gefið henni auga er hann átti erindi í Krýsuvík nýlega.
Þegar komið var á athafnasvæðið kom í ljós að undir það síðasta hafði neðrihluti norðausturhlíðarinnar verið grafin meira og minna út með skotgröfum. Allt gróðurendið var orpið holum og náðu þær upp á fellsöxlina að austanverðu. Gróðurinn hafði verið sviðinn, en þó ekki það mikið að hann gæti náð sér upp að nýju þarna í skjólinu neðst í fellinu, en uppgröfturinn gerir það að verkum að svæðið verður aldrei samt á eftir. Og það jafnvel þótt torfbútar væru til staðar til yfirlagningar. Þarna þarf að slétta út hlíðina að hluta og sá í hana að nýju. Við það mun hún fá annað útlit en verið hefur. Áður hafði FERLIR verið kynnt að ekki yrði grafið með slíkum hætti í umhverfið svo sú yfirlýsing gekk a.m.k. ekki eftir.
Ofar í hlíðinni, þar sem skotbyrgðið var og nú hafði verið fjarlægt, utan steypusletta og -brota hingað og þangað, var mikið traðk á umtalsverðu svæði.
Arnarfell
Stígur hafði verið gerður upp fellsöxlina og sumsstaðar höggvið í bergið til að auðvelda gönguna. Efst var mikið traðk, einkum þar sem gróðurinn er viðkvæmastur. Búð var að flytja svolítinn áburð upp á toppinn, en greinilega átti eftir að lagfæra umtalsvert rask á miðju fellinu. Eríksvarðan hafði verið látin í friði – að mestu.
Ljóst er að talsverð vinna verður að koma svæðinu í samt lag á nýjan leik. Hins vegar má segja að raskið hefði getað verið meira og verra í svo umfangsmiklu verki sem kvikmyndatakan var því ef hún hefði átt að endurskapa raunveruleikann væri svæðið í heild alls ekki svipur hjá sjón.
FERLIR tók myndir af Arnarfellssvæðinu áður en kvikmyndatakan hófst. Það eru því til ágætar heimildir um hvernig svæðið leit út áður. Nú voru teknar myndir af svæðunum, sem verst urðu úti – áhorfendum til fróðleiks. Þær má einnig sjá á myndarsíðu vefsíðunnar.
Frábært veður í fögru og sagnaríku umhverfi.

Arnarfellsrétt

Arnarfellsrétt.

Krýsuvík

Í Fjarðarpóstinum 24. ágúst 2022, bls. 10, er fjallað um „Ævintýrið í Krýsuvík„:

Krýsuvík

Krýsuvík – starfsmannahúsið.

„Árið 1935 var ákveðið að leggja Suðurlandsbraut um Krýsuvík til að fá snjóléttan vetrarveg milli Árnessýslu og Reykjavíkur. Árið 1945 var lagningu vegar fyrir Kleifarvatn lokið og árið eftir hófst borun eftir jarðhita í Krýsuvík. Gróðurhús voru reist og tekin í notkun í mars 1949 ásamt húsi fyrir starfsfólk. Tveimur árum síðar hófst bygging bústjórahúss og 130 gripa fjóss sem aldrei var lokið því 1950 var framkvæmdafé á þrotum. Þá hafði ræst úr mjólkurskorti bæjarbúa með bættum samgöngum við Suðurland. Framkvæmdir hófust að nýju í Krýsuvík 1954 er 15 hektarar voru teknir í fulla ræktun. Keypt voru 100 gimbralömb og flest varð féð um 650 áður en þessum rekstri var hætt nokkrum árum síðar. Fjósið skýldi fjárstofninum um tíma.

Krýsuvík

Krýsuvík – bústjórahúsið.

Gróðrarstöðin og búskapurinn gengu ekki vel og illa hélst á starfsfólki. Var búrekstri af hálfu bæjarins hætt í Krýsuvík 1960.
Árið 1953 kom Hafnarfjarðarbær á fót vinnuskóla í Krýsuvík fyrir drengi á aldrinum 10-13 ára. Dvöldust um 40-50 drengir í Krýsuvík frá júníbyrjun til ágústloka en fóru heim til sín aðra hverja helgi. Bjuggu þeir í húsi því sem reist hafði verið byggt til handa fyrirhuguðu starfsfólki mjólkurbúsins fyrirhugaða. Það hýsti einnig um tíma starfmann gróðrarstöðvarinnar og fjölskyldu hans. Drengirnir unnu ýmis störf meðan á sumardvölinni stóð, fóru í leiki, stunduðu íþróttir og fóru í gönguferðir um nágrennið. Árið 1960 var tekið við drengjum frá 8-12 ára og dvölinni skipt upp í tvö fimm vikna holl. piltar í hvoru holli og var nú meiri áhersla lögð á léttari störf og leiki ýmiskonar. Lauk þessari starfsemi árið 1964.“

Sjá má t.d. meira um framkvæmdir í Krýsuvík HÉR, HÉR, HÉR, HÉR, HÉR og HÉR.

Heimild:
-https://www.fjardarfrettir.is/wp-content/uploads/pdf/FF-2022-09-vef.pdf

Krýsuvík

Krýsuvík – fjósið er nú (2022) notað fyrir kvikmyndatöku.

Brunntorfur

Gengið var að Þorbjarnarstaðaborginni í Kapelluhrauni, austast í Almenningum.

Þorbjarnarstaðaborg

Í Þorbjarnarstaðaborginni.

Þegar komið var að borginni léku sólstafir um hana þannig að hún líktist fremur musteri en fjárborg. Börn hjónanna Þorkels Árnasonar og Ingveldar Jónsdóttur á Þorbjarnarstöðum í Hraunum hlóðu borgina skömmu fyrir aldarmótin 1900. Í útliti minnir borgin á merki Skjás eins því í miðjum hringnum er hlaðinn beinn veggur. Sennilega hafa börnin ætlað að topphlaða borgina líkt og Djúpudalaborgin í Selvogi (Þorkell Árnason var einmitt frá Guðnabæ í Selvogi), en hætt við það af einhverri ástæðu.
Gengið var upp í Almenninga og síðan austur með hraunkantinum inn í Brunntorfur með kvöldsólina í bakið. Mörg falleg furu-, leki- og grenitré hafa verið gróðursett við hraunröndina og marka skörp skil á milli nýrra og eldra hrauns. Eitt trjánna er þó sérstæðast, en það er lágt og “feitt” rauðgreni, sem breiðir úr sér í jarðfalli og fyllir svo til alveg út í það.

Krækiber

Krækiber.

Komið var að fallegum trjálundi með hávöxnum grenitrjám. Hljómfagur fuglasöngur og sumarangan. Ef aldingarðurinn Eden hefði verið til á Íslandi þá væri hann þarna – mosahraunið á aðra höndina og kjarrivaxnar brekkur á hinar með öllum sínum litatilbrigðum. Í svona landslagi eru ávextirnir aukaatriði, en þeir voru nú samt þarna sbr. meðfylgjandi mynd. Lundurinn myndar algert skjól og útsýnið þaðan gerist vart fegurra, a.m.k. ekki í augum listmálara.
Á leiðinni fylgdust nokkrir “hraunkarlar” með ferðalöngunum árvökulum augum.
Veðrið var frábært – sól og lygna nákvæmlega klukkustundina á meðan gengið var.

Þorbjarnastaðarborg

Þorbjarnastaðarborg.

Seltún

Ólafur Þorvaldsson var vel kunnugur örnefnum í Krýsuvík. Sumarið 1968 aðstoðaði hann við að staðsetja og merkja örnefni svæðisins inn á meðfylgjandi kort. Meðfylgjandi fylgdi eftirfarandi texti: „Skrá þessi um örnefni í Krýsuvík á við kort 1:50.000, Blað 1512 I og 1612 IV, þar sem númerin eru færð inn. Skrásetning á kortin er gerð með aðstoð Ólafs Þorvaldssonar sumarið 1968. Nánari heimild um örnefnin er spjaldskrá um Krýsuvík – 30.7. 1968. S.S.“
Ólafur ÞorvaldssonFERLIR fékk gögnin frá Örnefnastofnun eða Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum eins og hún nefnist í dag (2022).
Á einu kortanna er skráð leiðrétting um staðsetningu Búðarvatnsstæðisins eftir Gunnar Sæmundsson. Skv. því liggja landamerki Vatnsleysustrandarhrepps og Hafnarfjarðar í Markhelluhól við Búðarvatnsstæðið (á hólnum er mosavaxin varða) en ekki í Markhelluna eins og nú er, en hún er allnokkru austar en merkin sýndu áður.
Þegar örnefnalistinn er skoðaður kemur ýmislegt annað áhugavert í ljós. Má þar t.d. nefna að Eiríksvarðan á Arnarfelli er nefnd „Arnarfellsvarða“ (7) og Stínuskúti í norðaustanverðu fellinu er nefndur „Arnarfellshellir“ (4).

Húshólmi

Beinteinsbúð í Húshólma.

Örnefnið „Beinteinsbúð“ (16) er staðsett ofan við Svörtuloft á milli „Útheiðar“ (140) og Húshólmafjöru (70). Þar eru að vísu gróinn óbrinnishólmi í vik neðst í Ögmundarhrauni, en engar greinanlegar tóftir. Líklegra að átt sé við sjóbúðartóftina ofan Hólmastígs í neðanverðum Húshólma, en þaðan gerðu Arnarfellsbændur út allt ársins 1913. Minjarnar þar eru enn óskráðar (líkt og svo margar aðrar). Ekki er minnst á sundvörðuna á hraunbrúninni skammt austar.

Drumbdalastígur

Drumbdalastígur.

Á kortinu er getið um „Engjafjallsveg“ (35), sem var syðri hluti „Dalaleiðar“ (26) sunnan Kleifarvatns. Þá er getið um Engjafjall (34), en það er ekki merkt sem slíkt. Getið er um „Eldborgarhelli“ (31), en hann er ekki heldur merktur, sem og „Krýsuvíkurhellir“ (95), „Bálkahellir“ (15), „Gvendarhellir (57) og „Lambhagahellir“ (100). Ekki er Lambhagaréttar getið í örnefnaupptalningunni.
„Miðdalavegur“ (28) er staðsettur milli Vigdísarvalla og „Drumbdalastígs“ (28) vestan „Drumbsdals“ (29). „Breiðugötur“ (22) eru staðsettar vestan við Deildarháls ofan Stóru-Eldborgar og Krýsuvíkurbæjanna. „Fagradalsstígs“ (42) er getið í upptalningunni, en hann er ekki merktur á kortið. Líklega er þar um að ræða götu upp frá Dalaleið inn í Fagradal, upp á ofanvert Vatnshlíðarhorn og yfir í Hvamma austan Kleifarvatns. Spákonuvatn ofan við Sogin er nefnt „Smákonuvatn“ (125).
„Jónsvörður“ (81) eru merktar á „Miðheiðinni“ (106), en Jónsbúðar er ekki getið. Fleira áhugavert mætti nefna ef grannt er skoðað – sjá meðfylgjandi örnefnalista:

Örnefni í Krýsuvík:
1 Afvatnabrekkur
2 Ál(f)steigar
3 Arnarfellsbær
4 Arnarfellshellir
5 Arnarfellstagl
6 Arnarfellstjörn

Krýsuvík

Eiríksvarða á Arnarfelli (Arnarfellsvarða).

7 Arnarfellsvarða
8 Arnarsetur
9 Ásar
10 Augu(n)
11 Austurengjar
12 Austurengjavegur
12a Austurlækjarvað
13 Baðstofubrekka
14 Bali

Bálkahellir

Í Bálkahelli.

15 Bálkahellir
16 Beinteinsbúð
17 Bergsendi eystri
18 Bergsendi vestri
19 Bleiksflöt
20 Blettahraun
21 Breiðdalsvatnsstæði
22 Breiðugötur

Seltún

Seltún – minjar brennisteinsvinnslunnar.

23 Brennisteinshúsatættur
24 Bæjarfellshellir
25 Bæjarhals
26 Dalaleið
27 Dalirnir
28 Drumbsdalastígur
29 Drumbsdalur
30 Dýjakrokar

Krýsuvík

Krýsvík – Ólafur Þorvaldsson; örnefni og kort I.

31 Eldborgarhellir
32 Eldborgarskarð
33 Eldborgarhraun
34 Engjafjall
35 Engjafjallsvegur
36 Engjaháls
37 Engjalækur
38 Engjar
39 Eystra-Hlíðarhorn
40 Eystrigjá
41 Fagradalsmúlavatnsstæði
42 Fagradalsstígur
43 Fíflavellir

Fitjar

Fitjar.

44 Fit(j)ar
45 Fjárskjólshraun
46 Flatengi
47 Flóðin
48 Geststaðir
49 Giltungur
50 Eystrigjá
51 Vestrigjá
53 Grásteinn
54 Grásteinsmýri
55 Grjóthóll
56 Grænavatnsmelar

Gvendarhellir

Í Gvendarhelli (Arngrímshelli).

57 Gvendarhellir
59 Hafliðastekkur
60 Hálsendi
61 Hamradalir
62 Hattshverir
63 Heimaberg
64 Herdís
65 Hermannshilla
66 Hettumýri

Hetturvegur

Hettuvegur.

67 Hettuvegur
68 Hnaus
69 Hrossabrekkur
70 Húshólmafjara
71 Húshólmabruni
72 Hvalbásar
73 Hveradalabarð

Krýsuvík

Hverafjall, Hveradalur og Baðstofa efst.

74 Hveradalir
75 Hverafjall
76 Hæll
77 Hælsheiði
78 Höfðamýri
79 Höfði
80 Jónsmessufönn

Jónsbúð

Jónsbúð á Krýsuvíkurheiði.

81 Jónsvörður
82 Kaldrani
83 Kálfadalahnúkur
84 Kálfadalir
85 Katlahraun
86 Katlar
87 Ker(ið)
88 Kerlingadalur
89 Kirkjuflöt

Húshólmi

Húshólmi – minjasvæðið. Kirkjulágar fremst.

90 Kirkjulágar
91 Klettur
92 Klofningar
93 Kotaberg
94 Kringlumýri
64 Krýs
95 Krýsuvíkurhellir
96 Krýsuvíkurhraun
97 Krókamýri
98 Kúablettur
99 Lambhagaflöt

Lambhagarétt

Lambhagarétt. „Lambhagahellir (100) er efst v.m.

100 Lambhagahellir
101 Látur eystri og vestri
102 Lækjarvellir
103 Lönguhlíðarhorn
104 Máfafláar
28 Miðdalavegur
105 Miðdalir
106 Miðheiði

Mígandagróf

Mígandagröf.

107 Mígandagröf (-gróf)
107a Móholt
108 Mosalágar
109 Mosar
110 Möngulag
110a Nýibær
111 Ós(inn)
112 Rauðhólsmýri
113 Ræningjastígur
114 Selalón

Selatangar

Selatangar – sjóbúð.

115 Selatangabúðir
116 Selbrekkur
117 Selhella
118 Selhóll
119 Seljabótarklettar
120 Seljabótarnef
121 Seltúnsbörð
122 Skál
123 Skyggnisþúfa
124 Slysadalur

Spákonuvatn

Spákonuvatn og Keilir.

125 Smákonuvatn
126 Smalaskáli
127 Smali
128 Sog
129 Steinabrekkur
130 Steinbogi
131 Stekkjarmýri
132 Stórabrú
133 Stóri-Skógarhvammur
134 Stórkonugil

Krýsuvík

Strákar í Selöldu.

135 Strákar
136 Strandarbergskriki
137 Syðstiskalli
138 Sýslusteinn
52 Teigar

Krýsuvík

Krýsuvík – Ólafur Þorvaldsson; örnefni og kort II.

139 Urðarfell(in)
140 Útheiði
141 Vaðlar
142 Vatnsskarðsháls
147 Vestrigjá

Krýsuvík

Krýsuvík; örnefni og kort – Ólafur Þorvaldsson III.

143 Vigdísarvallagil
144 Víti
145 Yrphóll
146 Ytra-Hlíðarhorn
148 Þúfnadalir
149 Ögmundardys

Hér á neðan má sjá framangreind örnefni í samantektinni  hafa verið færð yfir á loftmynd af svæðinu til að auðvelda yfirsýn. Taka ber viljan fyrir verkið…

Heimild:
-Krýsuvík; örnefni og kort – Ólafur Þorvaldsson 1968.

Krýsuvík

Örnefni úr samantekt Ólafs Þorvaldssonar – gullituð.

Vegfarendur um Lækinn í Hafnarfirði hafa á síðustu árum séð hvítar gæsir auk hinna hefðbundnu og í sumar hefur hvítflekkóttri gæs borið þar fyrir. Um tilvist aligæsanna hvítu vita fáir.

Laekurinn-21Sá sem sleppti þeim á Lækinn fyrir nokkrum árum var Ingi Gunnlaugsson, Hafnfirðingur og tannlæknir. Hann hafði fengið aligæsaunga hjá Hermanni í Stakkavík (Grindavík) fyrir hátt í tveimur áratugum síðan, alið þá upp undir húsveggnum hjá sér í Setbergshverfinu, börnum hans til mikillar ánægju. Fyrir nokkrum árum ákvað Ingi að sleppa gæsunum á Lækinn og hann hefur fylgst með þeim síðan. Síðastliðið sumar paraði aligæs sig t.d. við grágæsarstegg, hún verpti þremur eggjum og tveir ungar komust á legg, annar fannst síðar dauður en hinn unir sér vel eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – Lækurinn.

 

Helgadalur

Gengið var frá Kaldá til austurs, yfir hlaðna vatnsstokkinn frá fyrstu tímum vatnsveitunnar skömmu eftir þarsíðustu aldarmót (1916), framhjá opi Níutíumetrahellisins og áfram ofan barms Helgadalsgjár að fallegum reglulega lögðum klettum mitt á milli Búrfellsgjáar og Helgadals.

helgafellshellar-221

Í Rauðshelli.

Frá þeim sést gamla Selvogsgatan mjög vel þar sem hún liggur vestan Smyrlabúðar og á ská til suðurs yfir Mosana að Helgadal. Þar liggur hún niður með austasta Kaldárhnúknum og síðan áfram á ská upp gróna hlíðina í suðaustanverðum dalnum. Þar liggur gatan svo til alveg við forna tótt, sem þar er uppi í hlíðinni. Önnur gata hefur myndast síðar austan dalsins, en hún liggur austur fyrir Helgadalshæðir og áfram áleiðis upp í Valaból og Mygludali. Frá klettunum var líka stórkostlegt útsýni að Búrfelli, sem glitraði í kvöldsólinni.
Fyrir neðan klettana er hlaðinn stekkur, greinilega mjög gamall. Hann er ekki til, þ.e. hans hefur hvergi verið getið. Skammt sunnan við stekkinn er op Rauðshellis og skammt austar op Hundraðametrahellisins. Ekki var farið inn í hellana að þessu sinni, enda veðrið utan þeirra frábært.
Á meðan áð var í hlíðinni ofan við hellana kom þar að hópur fólks, greinilega mikið útivistarfólk í grænum, gulum, bláum og rauðum rándýrum úlpum, vatnsþolnum göngubuxum, gönguskóm af dýrustu gerð og göngustöfum í stíl við fatnaðinn. Það hlaut þó hafa fengið tilboð í bakpokana því þeir voru allir eins. Fólkið virtist hvorki hafa áhuga á hinum fornu tóttum í Helgadal né hellunum skammt frá. Kannski vissi það ekki af hvorutveggja. Það hafði elt göngustíginn.
“Heyrðu!”, sagði sá sem fremstur gekk við einn í hópnum. “Veist´u hvað þetta fjall heitir?”, og benti á Helgafell.
“Gott kvöld”, svaraði sá, sem ávarpaður var. Honum var litið niður á gallabuxurnar og strigaskóna sína. Og íslenska lopapeysan hans virtist alveg út úr kortinu þessa stundina. “Þetta fjall…”, svaraði hann, leit upp og horfði á manninn. “Þetta litla fjall getur nú ekki heitið mikið”. FERLIRsþátttakandinn leit á einn félaga sinn og brosti. Hann hafði greinilega heyrt þennan einhvers staðar áður.

Raudshellir-221

Í Rauðshelli

“Veit eitthvert ykkar hvað þetta fjall heitir?”, spurði þá maðurinn og snéri sér að öðrum FERLIRsþátttakendum.
“Nei, við vorum að koma”, svaraði ein í hópnum. “Ég er úr Reykjavík, sjáðu til. Ég veit bara að þetta er ekki Hekla”, bætti hún við. “Hvaðan eruð þið?”, spurði hún síðan.
“Við erum úr Hafnarfirði”, svaraði einn úr hinum hópnum.
“Hafið þið búið það lengi”, var þá spurt.
“Þessi hjón hafa búið það í þrettán ár”, svarað

i foringinn og benti á par í stíl, “en við hin höfum bara búið þar í ellefu ár”, bætti hann við. “Við ákváðum nýlega að byrja að hreyfa okkur svolítið og höfum gengið um svæðið þarna”. Hann benti á Kaldársel. “Og svo höfum við gengið upp gjá einhvers staðar þarna”, sagði hann og benti í áttina að Búrfellsgjá. Aðrir snéru sér eftir því sem maðurinn benti.
Búnaður fólksins var greinilega góður, en nöfnin á landslaginu yrði því bara byrði.
“Hvert eruð þið að fara?”, spurði FERLIRsþátttakandinn.
“Þangað”, svaraði maðurinn og benti í átt að Valahnúkum.
“Í Músarhelli?”
“Eru mýs þarna”, spurði þá ein í hópnum. Angistin skein úr augum hennar.
“Eða ætlið þið kannski að skoða tröllin”?, spurði annar.
Fólkið leit hvert á annað. “Eigum við ekki bara að fara til baka”, spurði sá yngsti í hópnum og leit á foringjann.

Valahnúkar

Tröllin á Valahnúkum.

“Hafið þið reynt að skoða landakort”?, spurði þá einn FERLIRsþátttakandi og vildi greinilega reyna að gera gott úr öllu saman. Óþarfi að hræða byrjendur. “Það, sko, er alltaf betra að vita hvar maður er staddur”, bætti hann við og brosti.
Hin litu hvert á annað. Síðast sást til ofurútbúna fólksins þar sem það beygði vestur með vatnsverndargirðingunni, stystu og öruggustu leið að bílunum. Þau hafa sennilega ætlað að ná sér í landakort.
“Það mun líklega enginn trúa okkur ef við segjumst hafa séð álfa í þessari ferð”, varð einum að orði.
FERLIRsþáttakendur gengu hins vegar áleiðis að Valahnúkum, komu við í Valabóli og gengu síðan upp skarðið að Tröllunum, háum grannskornum berggangi þvert í gegnum hnúkana. Tröllafjölskyldan tók sig einstaklega vel út sem hún stóð þarna hnarrreist. Hrafnshreiður er í hæsta Hnúknum. Krunkið í krumma bergmálaði í kyrrðinni. Helgafell baðaði sig í kvöldsólinni.
“Það þarf eiginlega að merkja þetta betur”, varð einum að orði. “Hér er ekkert skilti sem segir hvað fellið heitir”. Brúnsvört lopapeysan hans féll vel inn í landslagið.
Gengið var eftir vegarslóða niður að Kaldárbotnum og að upphafsstað.
Gangan tók rúmlega klukkustund. Veður var frábært – eins og áður hefur komið fram.

Helgafell

Helgafell – séð frá Valahnúkum.

Krýsuvík

Einungis ein heimild virðist vera til um eyðibýlið Nös í Krýsuvík. Líklegt má því telja að í kotinu hafi einungis verið búið stuttan  tíma, svo stuttan að ekki hafi verið talin ástæða til að geta þess í jarðabókum, manntölum eða sóknarlýsingum.
Nos-1Heimildin um Nös er að finna á uppkasti af dönsku herforingjaráðs-kortunum, sem síðan voru gefin út á fyrsta áratug 20. aldar. Kortin eru að jafnaði nokkuð nákvæm þótt vissulega megi finna í þeim villur eða misvísanir. Ekki er getið heimildarmanns eða -manna, en ólíklegt er að nafnið hafi verið ritað á uppkastið án tilefnis. Það er þó ekki að sjá í prentuðu útgáfunni. Það er þó ekki einsdæmi því á það vantar fjölmargt, sem skráð var á uppkastið. Uppkastið var þannig að inn á uppdráttinn voru skrifuð númer með rauðu bleki. Út á spássíuna voru síðan númerin skráð og aftan við þau viðkomandi heiti, örnefni eða tegund. Þar stendur: 52: „NÖS“ (eyðibær). Talan 52 er skráð við hlið 48, sem stendur fyrir „Lækur“ (eyðibær). Auk framangreindra númera og bæja má sjá á uppkastinu tölurnar 43: Arnarfell (eyðibær), 45: Krýsuvík, 47: Suðurkot (eyðibær), 49: Norðurkot (eyðibær), 53: Stóri-Nýjabær, 50: Snorrakot (eyðibær), 55: Gestsstaðir (eyðibær) og 54: Litli-Nýjabær (eyðibær).
nos-2Þegar svæðið austan Vestari-lækjar í Krýsuvík er skoðað; neðan og austan við Krýsuvíkurkirkju, má sjá þar greinilegar tóftir Lækjar, sem byggt var þar á 19. öld; bæjarhús, útihús og garða. Bærinn og tengdar minjar hafa greinilega verið byggðar í og utan um mun eldri minjar, hugsanlega eldra kotbýli eða jafnvel útihús frá Krýsuvík. Þar má greinilega sjá eldri túngarð og jarðlægari minjar. Ekki er ólíklegt, reyndar vel mögulegt, að þar kunni að leynast leifar Nasar, en þó er einn hængur þar á.
„Það var sú tíðin, að Krýsuvík var stórbýli, og framfleytti fjölda fólks. Var eigi aðeins stórbú á höfuðbólinu, heldur voru þar einnig margar hjáleigur, svo sem Arnarfell, Lækur, Suðurkot, Norðurkot, Snorrakot, Hnaus, Litli-Nýibær og Stóri-Nýibær. Enn fremur er getið um Gestsstaði, en langt mun síðan að þeir fóru í eyði. Við manntalið 1. nóvember 1903 voru 42 sálir í Krýsuvíkur kirkjusókn, 11 í Krýsuvík, 10 í Suðurkoti, 9 í Stóra-Nýabæ, 4 í Litla-Nýjabæ og 8 á Vígdísarvöllum, sem eru vestan Sveifluháls.“

Krýsuvík

Hnaus(ar) í Krýsuvík.

Hér að framan er getið um bæinn „Hnaus“. Þess bæjar (eyðibæjar) er ekki getið á uppkasti dönsku herforingjanna. Á seinni tíma kortum hefur bærinn sá af einhverjum ástæðum verið staðsettur upp við norðausturhorn Krýsuvíkurkirkju. Þar má nú sjá leifar útihúsa Krýsuvíkurbæjarins. Mjög líklegt má telja að Danirnir hafi þarna verið að kortleggja bæinn „Hnaus“, en orðið er nokkuð samhljóma orðinu „Nös“. Þeir skrá t.d. ekki orðrétt „Snorrakot“ á uppkastið, heldur „Snúrrakot“.
„Sé Stóri-Nýibær talinn tvíbýlisjörð, eins og oftast mun verið hafa fram undir síðastliðin aldamót, og því ennfremur trúaö að einhvern tíma hafi verið byggð á Kaldrana, verða hjáleigur Krýsuvíkur 14 að tölu, þær sem menn vita nú um að byggðar hafi verið. Heita þær svo: Stóri-Nýibær (austurbærinn), Stóri-Nýibær (vesturbærinn), Litli-Nýibær, Norðurkot, Suðurkot, Lækur, Snorrakot, Hnaus, Arnarfell, Fitjar, Gestsstaðir, Vigdísarstaðir, Hali og Kaldrani.“
nos-3Hér er bærinn „Hnaus“ nefndur sem og bærinn Hali. Tóftir hans má sjá í gróinni kvos ofan (norðan) við eystri Auga.
„Óvíst er og jafnvel ekki líklegt að hjáleigur þessar hafi á nokkrum tíma verið allar í byggð samtímis. Þeir Árni Magnússon og Páll lögmaður Vídalín nefna Norðurhjáleigu og Suðurhjáleigu og má telja vafalítíð að það séu sömu hjáleigurnar og nú kallast Norðurkot og Suðurkot. Einnig nefna þeir Austurhús og Vesturhús og er hugsanlegt að Austurhús hafi verið þar sem nú er Lækur, en engum getum skal að því leitt hér hvar Vesturhús hafi verið.
Í Jarðabók sinni, telja þeir Árni Magnússon og Páll Vídalín, að árið 1703 hafi 7 af hjáleigunum verið byggðar og er þá tvíbýli í Stóra-Nýjabæ. Þá geta þeir og þess, að Krýsuvíkin sé eign dómkirkjunnar í Skálholti og að kirkjan í Krýsuvík sé annexía frá Selvogsþingum; telja þeir, að 41 sála sé í söfnuðinum; en þess má geta hér, að um miðbik 19, aldar voru um 70 manns í Krýsuvíkursókn. Ef treysta má því að þeim Páli og Árna hafi verið rétt skýrt frá sauðfjáreign þeirra sem hér eru fyrst taldar, hafa átt rétt til fuglatekju í bjarginu, og þó aðeins í þeim hluta þess, sem kallaður er Kotaberg. Er það miðhluti bjargsins; austan heimabergsins en vestan Strandarbergs. Þó leyfðist hverri hjáleigu ekki, að taka fleiri egg en 150 og ekki að veiða meir en 300 fugla(svartfugl, álku og lunda). Ekki fylgdu heldur neinar engjar öðrum hjáleigum en þessum sex og hafði hver þeirra nokkrar skákir, ýmist á Vesturengjum eða Austurengjum.
nos-4Á flestum þessara 6 býla mátti fóðra tvær kýr, hesta eftir þörfum og um sauðfjáreign, munu engin ákvæði hafa verið, né þótt þurfa. Þegar Nýjalöndin (hið innra og fremra) lágu ekki undir vatni, úr Kleifarvatni, áttu og þessar sex hjáleigur (en ekki aðrar) tilkall til heyskapar þar. Átti þar höfuðbólið helming, en  hver hjáleiga einn tólfta hluta. í góðu grasári, gat hver hjáleiga fengið í sinn hlut, af hvoru Nýjalandi, um 50 hestburði, af nautgæfu heyi.
Vigdísarvellir og Bali höfðu sínar eigin engjar og nærtækar, er og um nokkuð langan veg og einkar torsóttan að sækja, þaðan á Krýsuvíkurengjar. Langt mun nú síðan Geststaðir voru byggðir, en vel má það vera, að ábúandinn þar hafi átt útslægjur, bæði í Rauðhólsmýri og Hveradölum. Árni Magnússon getur þessarar hjáleigu í handriti þeirra Páls lögmanns, en lauslega nokkuð.
Snorrakot og Hnaus hafa verið smábýli ein, eða næstum því tómthús. Hið svokallaða Snorrakotstún, er aðeins horn af Norðurkotstúni og skilur túnin smálækur einn. Getur horn þetta vart gefið meira af sér en 3 til 4 töðukapla, þegar bezt lætur. Í Arnarfelli mun hafa verið búið fram um, eða fram yfír 1870, en túnið þar, var jafnan slegið, frá höfuðbólinu, fram undir 1890 og þá er túnið í rækt, var talið að það gæfí af sér eitt kýrfóður. Má og vel vera að ábúandi Arnarfells hafí fengið leyfi til að nos-5heyja eitthvað á mýrum þeim, sem kringum fellið eru (Stekkjarmýri, Bleiksmýri og Kúabletti).
Á Fitum voru nokkuð stæðilegar bæjartóptir fam yfir síðastliðin aldamót, þar var og safngryfja, sem óvíða sáust merki til, annars staðar í hverfinu. Túnstæði er nokkuð vítt á Fitjum og útslægjur hefði mátt hafa þaðan: Á Efri Fitum, á Lundatorfu, eða Selbrekkum; eigi var og heldur heybandsvegur þaðan á Trygghólamýrina. Utan þessa svæðis, sem hér er nefnt, má telja til gróðurlendis hin svonefhdu Klofninga í Krýsuvíkurhrauni; þar er sauðfjárbeit góð. Þá er Fjárskjólshraun sunnan í Geitahlíð, austarlega, og hólmarnir tveir í Ögmundarhrauni, þeir Húshólmi og Óbrennishólmi. Er á öllum þessum stöðum lynggróður mikill og dálítið kjarr, sprottið upp úr gömlum hraunum. Þá eru hjáleigurnar tvær, austan við Núphlíðarháls, Vigdísarvellir og Bali, með túnstæðum sínum og mýrarskikum í nágrenninu, og svo að lokum, „Dalirnir“ og  valllendisflatirnar fyrir Kleyfarvatn, ásamt grasbrekkum nokkrum, sem ganga þar upp í hlíðarnar.“
Af framangreindu óbirtu uppkasti dönsku herforingjaráðsins, einu heimildinni um staðsetningu eyðibæjarins „Nös“ í Krýsuvíkurtorfunni og niðurstöðu vettvangsskoðunar má telja líklegt að bæði hafi verið um að ræða sama bæjarnafnið og „Hnaus“ (spurningin er bara um hvort nafnið hafið verið að ræða) og að nýbýlið Lækur hafi verið byggður upp úr fyrrum landi „Nasar“/“Hnauss“.

Heimildir m.a.:
-Herforingjakort nr. 27, 1908, uppkast.
-Lesbók Morgunblaðsins 21. júlí 1940, bls. 231.
-Dagblaðið Vísir 31. júlí 1989, bls. 18.
-Lesbók Morgunblaðsins 7. mars 1987, bls. 5.

Krýsuvík

Bærinn „Hnaus“ í Krýsuvík.

Hnaus

Í örnefnalýsingu Þorsteins Bjarnasonar frá Háholti, sem hann safnaði og skráði um Krýsuvík, segir m.a. um bæina Hnausa og Garðshorn:

Krýsuvík

Hnausar.

„Norður frá Krýsuvík var býlið Snorrakot. Skammt frá því var Hnausakot, öðru nafni Hnaus. Landnorður frá Krýsuvík voru bæirnir Stóri-Nýjabær og Litli-Nýjabær. Upp frá þeim eru hæðirnar Hryggir. Í þeim eru Miðauga og Efraauga. Fyrir austan Krísivík var bærinn Lækur. Vestan í Arnarfelli var bærinn Arnafell. Bærinn Fitjar stóð vestan undir Selöldu. Bærinn Bali var hjá Vigdísarvöllum. Fell (hefir verið nálægt Nýjabæjunum. Hvar Austurhús og Garðshorn hafa staðið mun óvíst.“

Krýsuvík

Krýsuvík – Garðshorn.

Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar um Krýsuvík er getið um bæina: „Traðirnar láu frá austurvegg bæjarins bak við Kirkjugarðinn og síðan til suðurs og niður að Læknum. Norðurtúnið lá allt að Norðurkoti, sem virðist hafa verið eitt af aðalhjáleigunum. Eiginlega stóð Norðurkotsbærinn utan túns. Norðurkotstraðir láu úr túninu heim að bænum og framhjá honum. Norðurkotsrústirnar, eru gleggstu rústirnar sem enn eru sjáanlegar í Krýsuvíkurhverfinu. Úr tröðunum liggur stígur yfir að Snorrakoti rétt norðan við Norðurkot og lengra út á mýrinni er Garðshorn, sem einnig var nefnt Hnaus.“

Sjá meira um bæinn Hnaus og aðra Krýsuvíkurbæi HÉR.

Heimildir:
-Örnefnalýsing Þorsteins Bjarnasonar frá Háholti fyrir Krýsuvík.
-Örnefnalýsing Gísla Sigurðssonar fyrir Krýsuvík.

Krýsuvík

Krýsuvík seinni tíma – uppdráttur ÓSÁ.

Krýsuvík

Í „Fornleifaskrá Hafnarfjarðar XI I – Krýsuvík“ frá árinu 2021 má m.a. lesa eftirfarandi um sögu Krýsuvíkur:

Krýsuvík

Krýsuvík – kirkjan, Hnausar h.m. og leifar Krýsuvíkurbæjarins h.m. og ofan kirkjuna (bæjarhóllinn var sléttaður út með jarðýtu árið 1964).

„Elstu heimildir um Krýsuvík má finna í Hauksbók Landnámu, þar sagði að Þórir haustmyrkur hafi numið Selvog og Krýsuvík. Þarna er þó verið að tala um Gömlu-Krýsuvík sem líklega hefur staðið í Húshólma en þar má sjá fornar tóftir innan um hraunið sem hefur runnið yfir þær.

Gestsstaðir

Gestsstaðir sunnan Gestsstaðavatns – skáli.

Ein kenningin er að eftir að Ögmundarhraun rann yfir Gömlu-Krýsuvík hafi bærinn verið fluttur þar sem Krýsuvíkurkirkja stendur enn í dag, inn á land Gestsstaða, sem var þá í eigu Krýsuvíkurkirkju. Við það hafi nytjar Gestsstaða rýrnað eftir því sem Krýsuvík þurfti meira land undir sinn búskap og Gestsstaðir á endanum lagst í eyði.

Sogasel

Sogasel – fyrrum sel frá Krýsuvík „millum oc hellis firer austan riett til marks vid strandar land“.

Næst var minnst á Krýsuvík í kirknaskrá Páls biskups Jónssonar, sem er frá því um 1200, og sagt að kirkja hafi verið í Krýsuvík. Krýsuvík var einnig nefnd í máldögum Viðeyjarklausturs árin 1234 og 1284 í sambandi við hvalreka, ef hvalreka varð vart í Krýsuvík ætti að festa hvalinn þannig að hann ræki ekki aftur út og senda orð um rekan til Viðeyjar innan þriggja daga.

Herdísarvíkurbjarg

Herdísarvíkurbjarg – rekaítak Krýsuvíkurkirkju.

Í rekaskrá Strandakirkju 1275 var sagt: „fra mijgander grof og til bergs enda eiga strendur allan reka ad helminge vid stadenn j krijsevijk: Sa ger mældage æ herdijsarvijkur fiorum ad stadur j skalhollte a halfann vidreka. allan annan enn auxar talgu vid j millum Selstada oc hellis firer austan riett til marks vid strandar land. Stadur j skalhollte og herdijsarvijk eigu iiij vættar huals og skal vega enu fiordu med brioske og beine: enn þridiung i öllum ef meire kiemur. Enn strandarmenn tuo hlute. Skalhollt oc krijsevijk æ halfann allann reka under fuglberge vi strandar land. Millum wogs og hellis ´strandur land iiij vætter en ef meire er þa æ skalhollt oc krijsevijk flordung j öllum hval. Enn firer austan wog til vindass æ stadur j skalhollte oc krijsevijk halfan tolftung i hual ef meire er enn iiij vætter enn ecke ellegar.“

Húshólmi

Húshólmi – gamla Krýsuvík – minjar í Ögmundarhrauni (rann 1151).

Svo sagði í máldaga Maríukirkju í Krýsuvík: „Maríu kirja í Krýsuvík á heimaland allt. Herdísarvík. ix. mæla land á Þórkötlustöðum. Hálfan hvalreka í Raunnesi millum Rangagjögurs og marks við Bedstædinga [Bessastaðamenn] og eingja grasnautn með. Þrjá hluta hvals enn Viðeyingar fjórðung. Enn frá migandi gröf til kirkju fjöru eiga staðir í Skáholti og Krýsuvík helming hvals og viðar og alla grasnautn. Krýsuvík á allan reka á kirkjufjöru. Enn frá kirkjufjöru og til marks við Herdísarvík hálfan hval og viðreka og alla grasnautn. Enn í Herdísarvík á staðurinn í Skálholti helming viðar við Krýsuvík. Þriðjung hvalreka eigu staðir báðir saman til marks við Strandarmenn. Enn fjórðung hvals við Strandamenn til Vogs. Hálfan tólftung hvals á Krýsuvík í Strandar hluta. Ein messuklæði, kaleik, klukkur, ij bjöllur, ij glodarkier, altaraklæði, iij kross steindur, sacrarium, munnlaug, paxspjald, vij kýr, xvj ær og xx iij hross. Kúgildi viijc, j metfie, iij merkur vax, c vadmála, item iiij ær.“

Keflavík

Keflavík – rekaítak Krýsuvíkurkirkju.

Í bréfi dagsettu 13. maí 1367, sem voru vitnisburðir Þorbjarnar Högnasonar um máldaga og eignir Strandarkirkju í Selvogi, var einnig talað um hvalreka sem var í eigu Krýsuvíkur og Skálholts. Og í máldaga Þorlákskirkju á Skeggjastöðum á Ströndum frá sama ári var sagt að Maríukirkja í Krýsuvík ætti heima land allt „herdijsarvijk, ix mæaland á þorkotlustodum.“
1397 reiknaðist kirkjunnar góss í Krýsuvík „að auk fornra máldaga, vc, portio vmm, ij, är hälf, viiij alin.“ Einnig var sagt í máldaga Viðeyjarklausturs árið 1413 að staðurinn í Viðey ætti fjórðung í hvalreka í Krýsuvík.

Kvennagöngubásar

Hraunsnes (Raunsnes) – rekaítök Krýsuvíkurkirkju austan Ísólfsskála.

Í máldaga Maríukirkju í Krýsuvík frá 1477 var sagt að kirkjan ætti heimaland allt Herdísarvík, ix mæla land á Þórkötlustöðum, hálfan hvalreka í Raunnesi milli Rangagjögurs og mark við Bessastaðamenn, svo voru eigur kirkjunnar taldar upp. Í bréfi frá 1479, sem var vitnisburður Arngerðar Halldórsdóttur um ítök upp í Vatnsleysu á Vatnsleysuströnd, var sagt að kirkjan í Krýsuvík ætti þar j x hrundruð í jörðinni. 1487 var svo gerður vitnisburður um reka Viðeyjarklausturs á Krýsuvíkurfjörum og var hann svipaður og áður.

Keflavík

Geldingasteinn ofan Keflavíkur.

Í máldaga Kaldaðarneskirkju í Flóa frá 1491-1518 sagði að viðarhögg í Geldingasteini, fjöru í Keflavík að helmingi við Krýsuvíkurstað að öllum reka. Sauðhöfn í Krýsuvík og húsrúm manna í að geyma þar sauðfé.42 Biskup var svo fenginn til að meta kirkjuna í Krýsuvík árið 1496 og virtist honum kirkjan x hundruðir og staðin allan með hjáleiguhúsum innan garða xv hundruðir. Árið 1525 sagði Ögmundur biskup að Viðeyjarklaustur skyldi eignast þann part í Vatnsleysulandi sem Krýsuvíkurkirkja hafði átt. Í bréfabók Gizurar frá 1539 stóð að vitrir menn hafi sagt að sigla skyldi í suðvestur undan Krýsuvíkurbergi til að komast til Nýjalands. Ekki er víst hvaða land er átt við en ein kenning er að Nýjaland hafi verið partur af austurströnd Grænlands.

Túnakort

Krýsuvík – túnakort 1918.

Í máldaga Kaldaðarneskirkju í Flóa var sagt það sama og í máldaganum 1491-1518, og máldagi Maríukirkju í Krýsuvík var mjög svipaður máldaganum 1477. Árið 1563 var sóknarkirkjan í Krýsuvík lögð niður af hirðstjóra eftir beiðni Gísla biskups Jónssonar: „Það með kennumst ég Páll Stígsson kongleg Maiestatis Bidalningzmann yfir öllu Íslandi, að á Bessastöðum um haustið mánudaginn næstan fyrir Michaelsmessu, kom fyrir mig herra Gísli Jónsson Superintendes Skálholts Sticktis. Spurði mig ráða og tillagna hver nauðsyn mér þætti á þeirri kirkju sem haldin hafði verið í Krýsuvík. Þá tók ég með mér þessa heiðurs dánimenn Jón Bjarnason, Loft Narfason og Jón Loftsson prestmenn. Item Orm bónda Jónsson Gísla, Sveinsson og Níels skrifar Ólafsson. Þótti mér með þessum fyrrnefndum dánimönnum í fyrstu engin þörf eða nauðsyn vera eður verið hafa að í þessari nefndri Krýsuvík alkirkja væri. Því það má enginn sóknarkirkja kallast sem engin samkunda til liggur. Því leist oss svo best fara og sannlega staðfestum að þessi Krýsuvíkurkirkja aflagðist enn lægi til Strandar kirkju bæði tolla og tíundir og alla aðra rentu svo sem aðrir almenningsbæir skyldugir eru sínum sóknarkirkjum að veita.

Herforingjakort

Herforingjarðaskort 198 – Krýsuvík og nágrenni.

Enn umboðsmenn dómkirkjunnar í Skálholti skyldu Krýsuvík byggja til fulls landgildis og aftekta Skálholts dómkirkju vegna. Svo og líka Herdísarvík og annað það fleira sem þessum Krýsuvíkur stað hefur fylgt. Enn sökum þess að þessi oftnefnda Krýsuvík liggur nokkuð í fjarska að vegalengd til Strandarkirkju þá þótti oss vel fara þó í Krýsuvík stæði lítið húskorn Guðs vegna og þess heimilisfólks sem þar kann að vera sjúkt eða gamalt: Og herra Gísli skyldi nokkur kúgildi til leggja svo að Guðs orðs þjénari mætti þar huld nætur saka hafa þá hann þar kæmi eða þyrfti að koma Guðlegrar hjarðar að vitja. Skyldi þetta vort álit og gjörningur óbregðanlega standa hér eftir.“

Selalda

Minjar við Selöldu; Krýsuvíkursel og bærinn Eyri – Uppdráttur ÓSÁ.

1627 áttu hin svokölluðu Tyrkjarán sér stað. Eiga þeir að hafa komið á land í Krýsuvík og sagt var frá því í Þjóðsögum Jóns Árnasonar hvernig séra Eiríkur í Vogósum, sem sagður var göldróttur, hrakti þá í burt: „Annað sinn komu Tyrkjar undir Krýsuvíkurberg og gengu upp þar sem síðar heitir Ræningjastígur. Þá var sel hjá Selöldu og fóru Tyrkjar þangað, drápu matseljuna, en eltu smalann heim að Krýsuvík. Það var sunnudagur og var Eiríkur prestur að messa í Krýsuvíkurkirkju. Segja sumir að hann væri fyrir altarinu, en hitt mun sannara að hann væri í ræðustól er smalinn kom hlaupandi inn og mælti hátt: „Tyrkjar komu og drápu matseljuna og eltu mig hingað.“ Prestur mælti: „Viljið þið ekki lofa mér að ganga fram í dyrnar góðir menn?“ Menn játtu því. Eiríkur gengur fram í dyr og lítur út og sér Tyrkja koma á túninu. Hann mælti til þeirra: „Farið nú ekki lengra! Drepið þarna hvur annan! Væri annar dagur eða ég öðruvís búinn, mundu þið éta hvur annan.“ Þar börðust þeir og drápust niður, og heitir þar síðan Orrustuhóll eða Ræningjahóll er þeir börðust, en Ræningjaþúfur þar sem þeir eru dysjaðir. Þar eftir hlóð Eiríkur vörðu á Arnarfelli og mælti fyrir henni sem hinni að meðan hún stæði skyldu Tyrkjar aldrei granda Krýsuvík. Sú varða stendur enn nú (1859).“

Selalda

Eyri, Krýsuvíkursel og nágrenni undir Selöldu – uppdráttur ÓSÁ.

Eitt sel var skráð í suðaustur hlíðum Selöldunnar, ekki skal fullyrt um að Tyrkir hafi drepið þar matseljuna en þjóðsagan virðist staðfesta selið. Einnig stendur Eiríksvarða enn á Arnarfelli, þó hún hefur verið bætt á seinni tíð.

Krýsuvík

Krýsuvík – uppdráttur ÓSÁ.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 var Krýsuvík sögð kirkjustaður og var hún annekteruð til Selvogsþinga. Jarðardýrleikinn var óviss og eigandinn dómkirkjan í Skálholti. Landskuldin var i hundraðir þrjátíu álnir og borgaðist með fiski ef hann var til, annars með peningum eða landaurum upp á danskan taxta. Ábúandi átti rekavið frjálsan til uppbóta á húsum nema ef um stór tré var að ræða, þá tók dómkirkjan í Skálholti helminginn. Þá sagði Jarðabókin einnig frá sex hjáleigum, Nýjabæ, Litla Nýjabæ, Norðurhjáleigu (seinna Norðurkot), Suðurhjáleigu (seinna Suðurkot) Austurhús og Vesturhús.

Krýsuvík

Seltún – hluti úr Herforingjaráðskorti 1908.

Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson voru á ferð um Krýsuvík á árunum 1752–1757 og sögðu að Krýsuvík væri kunn á Íslandi og meira að segja erlendis vegna brennisteinsins sem hafði verið safnað þar til útflutnings og gerðu þeir greinagóða lýsingu á hverasvæðinu í Seltúni.

Krýsuvíkurkirkja

Innansmíð Krýsurvíkurkirkju teiknað árið 1810 – Henry Holland.

Henry Holland kom til Krýsuvíkur árið 1810 og lýsti staðarhaldi þar sem heldur slæmri upplifun: „Til Krýsuvíkur komum við kl. 5. Þetta er ömurlegur staður, sex eða átta kofar standa þar á víð og dreif á ósléttu svæði við ræturnar á stakri hæð. Stolt og prjál staðarins er timburkirkja, 18 fet á lengd og 8 á breidd, en hæðin er 5 fet og 8 þumlungar undir bita. Við höfðum ráðgert að búa í kirkjunni, meðan við dveldumst í Krýsuvík, og í því skyni fengum við kirkjulykilinn léðan. En við höfðum naumast litið inn í hana, er við hurfum frá því ráði. Svo mátti heita, að þar kæmu saman öll þau ógeðugheit, sem framast væri að hugsa sér, skítur, myrkur og óþefur af fiski á öllum mögulegum herzlustigum o.s.frv. Gólfið var óslétt, að við hefðum naumast getað skorað tjaldsængina okkar þar, og ofan á allt annað var svo hið litla gólfrými fyllt með kössum, timbri og alls konar skrani.“

Húshólmi

Húshólmi – uppdráttur ÓSÁ.

Árið 1818 svaraði séra Jón Vestmann, prestur í Selvogi, bréfi konunglegu nefndarinnar, Commissionen for oldsagers opbevaring, sem hafði sent fyrirspurn um fornleifar í landinu. Þar skrifar hann um þær fornminjar sem hann þekkir en nefnir engar í núverandi landi Krýsuvíkur. Þó minnist hann á fornminjar í Ögmundarhrauni: „Húshólmi niður við sjóinn í hama hrauni; hefur þar verið mikil byggð áður en brann, sem sést af húsa tófta brotum, að hvar um hraunið gengið hefur, að norðan – vestan – sunnan, og næstum saman að austan-verðu; er þar 1t tóftarform 12 feta breitt, og 24 feta langt, innan niður fallinna veggja rústa; húsið hefur snúið líkt og kirkjur vorar, meinast gamalt goða-hof; fundið hafa menn þar nokkuð smávegis af Eyrtægi; þar er tvísett túngarðs form með 20 faðma millibili, hvar nú er lyng mói; enn graslendi innan innri garðs, austanvert við hraunið.“

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja 2022.

Krýsuvíkurkirkja brann til grunna eftir íkveikju þann 2. janúar 2010 og í framhaldi á því fór fram fornleifarannsókn á kirkjugrunninum vegna undirbúnings fyrir nýju kirkjuna sem Iðnskólinn í Hafnarfirði smíðaði og stendur sú kirkja þar í dag.“

Krýsuvík

Krýsuvík – stíflugarðar. Bærinn Lækur fjær.

Því sem Jón Vestmann lýsir sem „tvísettum túngarði“ austan bæjar voru í raun stíflugarðar er mynduðu tjörn í Vestari-læk (leifar stíflu sést syðst). Í afrennsli hennar var mylla þannig að garðarnir þjónuðu a.m.k. tvíþættum tilgangi. Það kemur reyndar ekki fram í framangreindri fornleifaskráningu, sem ber reyndar sem slíka að taka með fyrirvara.

Heimildir:
-Fornleifaskrá Hafnarfjarðar XI I – Krýsuvík 2021.
-Landnámabók I-III. Hausbók. Sturlubók. Melabók, 1900, bls. 123-124.
-Brynjólfur Jónsson, 1903, bls. 50.
-Jón Árnason, 2003, bls. 562.
-Árni Magnússon og Páll Vídalín, 1924, bls. 3-7.
-Eggert Ólafsson, 1981, bls. 178-179.
-Henry Holland, 1992, bls. 60.

Krýsuvík

Bærinn Arnarfell í Krýsuvík.