Tag Archive for: Hafnarfjörður

Grindaskörð

Haldið var upp eftir Selvogsgötunni frá Bláfjallavegi í átt að Grindaskörðum. Ætlunin var að skoða tótt skiptistöðvar brennisteinsmanna þar undir skörðunum. Á leiðinni var komið við í helli, sem nefndur hefur verið Elgurinn. Um er að ræða tiltölulega lítið jarðfall. Reipi þarf til að komast niður. Hins vegar einfaldaði hár snjóskafl neðan við opið niðurgönguna að þessu sinni.

Selvogsgötuhellar

Í Rósaloftshelli.

Rás liggur um 30 metra til norðurs. Fremst eru nokkuð fallegar hraunmyndanir. Á botni rásarinnar er brúnt hraun, en rásin er annars dökkleit. Út úr veggnum hægra megin kemur steinn, sem lítur út eins og elgshaus. Til suðurs er hellirinn um 70 metrar. Fremst er fallega brúnt gólfið og fallegar myndanir í lofti.
Ofar í hlíðinni er mikið og djúpt jarðfall. Ekki verður komist niður í það nema á reipi. Inngangur virðist vera í norðanverðu jarðfallinu. Það var hins vegar ekki skoðað að þessu sinni.
Farið var í Rósaloftshellir. Hann er fremur stuttur, en rás liggur upp hann vinstra megin. Ef loftið er skoðað með góðu ljósi sést hversu stórbrotið rósamynstrið þar er. Þátttakendur hafa ekki séð slíkt í öðrum helli.

Spenastofuhellir

Í Spenastofuhelli.

Skammt ofar er Spenastofuhellir. Í honum innanverðum er litadýrð með fallegum sléttum jarðmyndunum.

Kristjánsdalir

Tóft í Kristjánsdölum.

Tótt af skiptistöð brennisteinsmanna er austan við Selvogsgötuna undir hlíðum Grindaskarða. Gengið var austur og niður með hlíðunum. Ofan frá þeim mátti sjá móta fyrir gamalli þvergötu úr austri inn á Selvogsgötuna neðar.
Í Kristjánsdölum er ein tótt af húsi og einnig sést móta fyrir öðru. Það hefur líklega verið timburhús og nokkuð stórt. Hitt er hlaðið úr torfi og grjóti.
Á leiðinni til baka var gengið á ská yfir Tvíbollahraunið og þar rakin gömul leið spölkorn í hrauninu. Sést vel móta fyrir henni á klapparhæð þar sem hún er mörkuð í bergið. Leiðin er frá Selvogsgötunni þar sem hún mætir Bláfjallavegi og í ská upp að vatnsstæðunum vestan Kristjánsdala. Þar virðist vera gömul leið upp með fjallsöxlinni, sem er nokkuð gróin, og beygir hún síðan upp með Tvíbolla.
Frábært veður – 8°C hiti og nánast logn.

Grindaskörð

Tóft undir Grindaskörðum.

Þorbjarnastaðarauðamelur

„Ekki alllangt sunnan við Straum í Garðahreppi [svæðið tilheyrði ekki Hafnarfirði fyrr en 1967] og skammt vestan við Kapelluhraun eru forn eldvörp. Þar hefur Vegagerð ríkisins tekið rauðamöl til ofaníburðar í vegi, og það er mest þeirri starfsemi að þakka, að hægt er nú að fullyrða að hér er um eldvörp að ræða.
Thorbjarnarstadaraudamelur-2014-21Ekki er mér kunnugt um, hvernig þarna leit út áður en byrjað var að taka þar efni, en svo lítið ber á þeim hluta gíganna, sem enn er eftir óhreyfður, að líklegt má teljast, að þeim hefði alls ekki verið veitt eftirtekt, hefði þarna ekki verið grafið með stórvirkum tækjum. Nú er þarna umrót mikið og ýmislegt fróðlegt að sjá. Gígir þeir, sem hér er um að ræða, eru á línu með stefnu NA—SV, eins og gígaraðir á Reykjanesi yfirleitt eru.

Yngri hraun hylja nú þetta svæði nær alveg, og hafa þau fært hina fornu gígaröð að mestu í kaf. Þau hraun eru komin sunnan að af svæðinu milli Sveifluháls og Vesturháls [Núpshlíðarháls]. Af því að yngri hraun hafa runnið yfir umhverfi gíganna, verður ekki með vissu sagt, hversu mikið hraun hefur frá þeim komið. Það er þó ljóst að eitthvað hraun hefur runnið í þessu gosi, og er það auðþekkt frá hraununum í kring.
Mikill fjöldi hnyðlinga er í þessu hrauni og sumir þeirra nokkuð stórir, eða um 5—7 cm í þvermál. Þeir virðast líkir þeim, sem áður hefur verið getið í þessu riti (Jónsson 1963). Slíkir hnyðlingar hafa nú fundizt víða um land, m. a. í Skaftáreldahrauni frá 1783, Fonti á Tungnáröræfum (heimild Elsa Vilmundardóttir), í Þórsmörk, við Grindavík og nú alveg nýlega fann Jens Tómasson, jarðfræðingur, hnyðlinga í Surtsey.
Thorbjarnarstadaraudamelur-2014-22Í gígnum í Selhrauni fannst ennfremur um fimm cm stór feltspatkristall, sem reyndist vera ólígóklas (An 30). Hann var mjög illa farinn, sennilega mest vegna hita, og liggja jafnvel hárfínar basaltæðar í gegnum hann. Oligóklas á ekki heima í basalthrauni eins og þessu og verður því að telja líklegast, að um sé að ræða kristall, sem brotnað hefur úr eldra bergi nokkuð ólíku þessu að samsetningu og borizt með hrauninu á leið þess upp á yfirborð. Þess má geta að Jens Tómasson fann líka einn ólígóklaskristall í Surtsey.

Hraunið, sem runnið hefur umhverfis gígina og að nokkru leyti yfir þá, hefur ékki runnið fyrr en nokkru eftir, kannske löngu eftir að þeir gusu, því sums staðar má sjá að gjallið í þeim hefur verið farið að veðrast dálítið.
Telja má víst, að þeir hafi verið orðnir mosagrónir, og á einstaka stað vottar fyrir jarðvegsmyndun. Víða í hólunum má greinilega sjá að hraunið hefur orðið fyrir snöggri kælingu, t. d. finnur maður á nokkrum stöðum þunnar basaltæðar í gjallinu og eru þær með svartri glerhúð. Einnig vottar fyrir hólstramyndun á stöku stað. Þetta vekur grun um, að hér hafi gosið í vatni, og við nánari athugun kemur í ljós að svo hefur verið. Á a.m.k. tveim stöðum í stálinu má sjá að hraunið hefur brotist upp í gegnum leirlög, sem nú eru sem vænta má mjög umturnuð og brennd hið næsta hrauninu, er brotizt hefur í gegnum þau. Aragrúi af skeljum hefur verið í leirnum og tekur það af allan efa um að hér hefur gosið í sjó. Sjálfar eru skeljarnar farnar veg allrar veraldar, en mótin eftir þær eru afar greinileg. Það er augljóst, að um allmargar mismunandi tegundir hefur verið að ræða, en mjög erfitt er nú að greina þær með vissu, því allt er þarna í einum hrærigraut og svo laust í sér að það fellur sundur ef við er komið.
Thorbjarnarstadaraudamelur-2014-245Örugglega má þó þarna greina leifar af hrúðurkörlum (Balanus). Smyrslingur (Mya truncata) er þarna líka og líklega rataskel (Saxicava arctica), og nokkrar fleiri tegundir. Diatomeur (kísilþörunga) má og finna í leirnum, en sama máli gegnir um þá, að skeljarnar eru mjög illa farnar og örðugt að ákvarða þær með vissu. Aðeins sárafáar heilar skeljar hefur tekizt að finna. Langmest ber á brotum úr Coscinodiscus og nokkrum öðrum sjávartegundum. Örugglega má ákvarða Biddulphia aurita og Navicula peregrina, en báðar lifa í söltu vatni. Af ferskvatnstegundum reyndist mögulegt að ákvarða Eunotia sp., Pinnularia
sp. og Tabellaria feneslrata.
Það virðist því líklegt, að þarna hafi gosið í sjó, en líklega hefur það verið nálægt strönd og hafa ferskvatnstegundirnar borizt út í sjó með lækjum.
Skammt vestan við Straum er Rauðimelur, en þar hefur rauðamöl verið tekin í mörg ár, og er nú búið að grafa þar niður fyrir grunnvatnsborð. Vafalaust er Rauðimelur leifar af eldvarpi, sem líka hefur myndazt í sjó á sama hátt og e. t. v. á svipuðum tíma og eldvörpin í Selhrauni.“
Raunar sleppir Jón hér tveimur mikilvægum, enn ósnertum sambærilegum gersemum; Litla-Rauðamel norðan hins raskaða Rauðamels og Litla-Þorbjarnarstaðarauðamel skammt sunnan þess aðalumnefnda.
Hafa ber í huga að ef verulega vel væri á málum haldið – og enn verulegri áhugi væri fyrir hendi – myndi umhverfisnefnd Hafnarfjarðar fyrir löngu síðan hafa látið hreinsa Þorbjarnarstaðarauðmelinn af rusli svo nýta mætti svæðið fyrir áhugasama ferðamenn um jarðfræði Íslands. Þarna má nú t.d. sjá fornar gígmyndanir, bergganga, gígtappa, hraun og gjóskumyndanir í sjó, skeljaleifar sem og landmótunina fyrir tugþúsundunum ára.

Heimildarrit – References Jónsson, Jón. Hnyðlingar íslenzku bergi. Náttúrufræðingurinn 88. árg. bls. 9-22.
Tröger IV. E. 1959. Tabellcn zur optischen Bestimmung der gesteinbildenden Mineralen, Stuttgart.

Heimild:
Náttúrufræðingurinn. 35. árg. 1965-1966, 1. tbl. bls. 1-4.

Rauðamelur

Í Þorbjarnastaðarauðamel.

Hreiðrið

Haldið var að Kaldárseli. Hraunið, þar sem það er hæst, á milli vegarins með Sléttuhlíð og með Fremstahöfða, heitir Gjár. Vestarlega í því er Gjáahellir. Gengið var að honum. Opið er nokkuð rúmgott. Fyrir innan blasir við rúmgóð hraunrás. Hún lækkar svolítið eftir að komið er inn, en hækkar og vítkar síðan á ný, uns hún endar. Þessi hluti rásarinnar er um 15 metrar. Mold er í botninum og grjótið hefur verið lagað til innan við munnann. Líklegt er að hellir þessi hafi um tíma verið notaður sem fjárskjól. Tiltölulega stutt er í fjárhellana í Kaldárseli, en þeir eru þarna austan við. Hálfhlaðið fjárhús undir Fremstahöfða er einnig þarna skammt suðvestar.

Kaldársel

Gerði í Gjánum ofan Kaldárssels.

Beðið var í nátthaganum norðan Kaldársels uns Þórarinn Björnsson, guð- og hellafræðingur, bættist í hópinn. Leiddi hann hópinn fyrst að náttúrulegum hraunkofa ofarlega á hraunhrygg norðvestan við Kaldársel. Kofinn er í rauninni toppurinn á lóðréttri hraunrás. Dyragat þess snýr á móti suðri, eins og góð dyragöt eiga að gera. Falleg náttúrusmíð.
Þá var haldið til vesturs að Kaðalhelli. Hann er í nokkuð stóru jarðfalli er hallar niður til norðvesturs. Þar uppi í bergveggnum er lág hraunrás, sem nefnd er þessu nafni. Krakkar á vegum KFUMogK í Kaldárseli höfðu þarna afdrep og nefndu hellinn. Kaðal þarf til að komast upp í rásina. Hún er 5-6 metra löng. Ef farið er með hraunveggnum til austurs er komið inn í rúmgóðan sal. Þar uppi er sylla og lág rás, fremur stutt. Ef hins vegar er farið vestur með hraunveggnum er komið inn í skúta. Úr honum liggja göng niður á við og síðan spölkorn inn undir hraunið. Neðst í honum er kristaltær ís, sem aldrei þiðnar fullkomlega. Myndast í honum regluleg og falleg ljósbrot.

Hreiðrið

Í Hreiðrinu.

Loks var haldið áfram til vesturs. Þar í miðri hraunbreiðunni er lítið gat, ca. 60 c, í þvermál, beint niður á við. Hrunið hefur þarna niður í hraunrás. Dýpið er um mannhæð. Þórarinn fann helli þennan á sínum tíma og nefndi hann Hreiðrið. Fleiri virðast ekki hafa komið þar niður ef marka má heilan mosann á börmunum og sporlausa moldina á botninum.
Rásin er alveg heil og liggur bæði til norðurs og suðurs. Norðurleiðin, um 15 metrar, er nokkuð þröng með mold á botni. Suðurleiðin er hins vegar eins og kona – góð á milli. Hún lækkar, en hækkar síðan aftur eftir u.þ.b. 10 metra. Botninn er grófur sem og barmarnir. Rauðleitt grjótið er hrjúft og því þörf að vera með bæði vettlinga og hnjáhlífar.

Hreiðrið

Í Hreiðrinu.

Þegar komið er vel innfyrir birtist gildi hellisins. Á steinum, í lofti og á víðar má sjá mikið af misstórum gasbólum, nokkurs konar eggjum. Bólurnar eru gráleitar og virðast hafa sprottið út úr berginu. Fyrirbæri þetta má sjá í öðrum hellum, en varla í þessum mæli á einum stað. Hægt væri að skríða innar því hraunið virðist vera lagskipt. Botninn er hins vegar mjög grófur. Ætla má að Hreiðrið geti verið um 100 metrar. Hellirinn er vandfundinn. Tekinn var punktur á hann til öryggis.
Þegar út var komið blasti við stjörnubjartur himininn, norðurljós og sindrandi máninn yfir Helgafelli. Blankalogn. Fegurra getur það varla orðið.

Hreiðrið

Jarðmyndanir í Hreiðrinu.

Gísli á Hörðuvöllum

Björn Þorsteinsson, sagnfræðingur, skrifaði um „Mjóa veginn“ – veginn milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur“, í Alþýðublað Hafnarfjarðar árið 1962:
hafnarfjordur-231„Síðastliðið ár ferðuðust með strætisvögnum milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur rúmlega 900 þúsundir manna. (Áætluð tala eftir farmiðum: 915.829.) Sama ár fóru um 10 þúsund bifreiðir til jafnaðar á dag yfir brúna á Fossvogslæk. Mest umferð var um verzlunarmannahelgina í byrjun ágúst, en þá fóru um 15.600 bifreiðir á dag yfir lækinn. Um þann hluta vegarins hafa því farið rúmlega hálffjórða milljón ökutækja á árinu eða a.m.k. rúmlega 7 milljónir manna, ef gert er ráð fyrir, að hvert farartæki hafi a.m.k. tvo menn innanborðs, ekil og farþega, en það mun vera allt of lág tala. Strætisvagnarnir fara 50 ferðir fram og aftur alla virka daga, en þar við bætast aukavagnar kvölds og morgna. Þeir munu því fara um 100 einstakar ferðir milli borganna á hverjum sólarhring. Samkvæmt farmiðasölunni ættu að vera um 25 menn í hverjum vagni til jafnaðar. Þeir, sem fara um Fossvogsbrúna, eru auðvitað ekki nærri allir einungis á ferðalagi milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar. Leið margra liggur í Kópavog, suður á Álftanes, og býsna margir sækja á Suðurnesin, en þeir, sem að sunnan koma, eru sumir að koma úr Kópavogi. Samt sem áður mun það ekki of í lagt, að milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur ferðist rúmlega milljón manna á ári, eða nær sexföld tala allra Íslendinga.
reykjavik-245Vegurinn, sem á að anna allri þessari umferð, er fyrir löngu orðinn allt of mjór, auk þess sem hann er bæði holóttur, óþarflega hlykkjóttur og bráðhættulegur í frosti, snjó og regni. Það ætti alls ekki að taka yfir 12 til 15 mínútur að komast milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar á okkar dögum, en ferðalagið tekur venjulega um 25 mínútur og oft talsvert lengri tíma. Um milljón manns eyðir því um 10.000.000 mínútum eða 16.666 klst. og 40 mín, eða rúmum 20.833 átta stunda vinnudögum á ári í óþarfa silagang á þessari leið. Ef einhver heldur, að hér sé um hæpna útreikninga að ræða, þá er þess að minnast, að það er ekki ein milljón, heldur a. m. k. 7 milljónir, sem leggja að einhverju leyti leið sína um Hafnarfjarðarveginn, meðan jörðin er að silast sporbaug sinn í kringum sólina.
Slæmir vegir í þéttbýli eru dýrir á okkar tímum. Í hvert sinn, sem við silumst milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur, erum við að greiða vegatoll hinnar ólögðu brautar, án þess að þau útgjöld komi að nokkru gagni. En seinagangur er ekki að öllu leyti neikvæður. Hann gefur ferðamönnum m. a. tóm til þess að athuga umhverfið, þegar sessunauturinn er ekki allt of skemmtilegur og aðlaðandi.
vegur i hrauni-234Leiðin liggur úr Hafnarfirði, einhverju sérkennilegasta bæjarstæði hér á landi. Náttúran hefur gert frumdrætti að dálitlu listaverki upp frá höfninni, og það er vandmeðfarið eins og öll verk sinnar tegundar. Helztu hlutar þess eru hraun, lækur og hamar. Hvert þeirra býr yfir sérstökum töfrum, sem mannanna verk eiga að lúta, en ekki eyðileggja. Það er hægt að ganga þannig frá hlutunum í þessum bæ, að hraundrangarnir séu aðeins ljótir og leiðir farartálmar, sem skaga svartir og hálfbrotnir út í göturnar, gjóturnar séu óþverraholur, og lækurinn falli í óyndislegum sementsstokk til sævar. Þótt Hafnfirðingar kannist við slík fyrirbrigði og þekki hverfi, þar sem hverju húsinu er troðið að öðru, svo að eitt rekur sig á annars horn, og göturnar eru furðulegir krákustígir, þá blasir víðar við sjónum smekkvísi og umhyggja fyrir verkum skaparans. En bærinn á eftir að vaxa mikið. Það er ekki of í lagt, að á svæðinu Hafnarfjörður — Reykjavík muni búa um 180 þús. manns árið 2000, ef engin sérstök ógæfa sækir okkur heim. Það er jafnvel sennilegra, að um aldamótin muni búa á þessu svæði rúmlega 200 þúsundir manna. Hafnarfjörður mun eflaust eiga eftir að gera betur en tvöfaldast að íbúatölu á næstu 38 árum. Framtíðaráætlanir um skipulag bæjarins verður að gera á grundvelli þess, að hér rísi upp stórborg einhvern tíma. Hún mun m. a. teygja sig yfir hraunið meðfram nýja veginum, upp Setbergshlíðina og inn hraundalinn. Þar á lækurinn og umhverfi hans að vera mesta borgarprýðin, tjarnir og trjágarðar. — Einnig mun byggð þéttast um Jófríðarstaðaland frá Skuld og suður og austur dalinn meðfram Grænugrófarlæk.
hafnarfjordur-237Hér er ekki ætlunin að dveljast einkum við framtíðina, heldur hyggja lítið eitt að fortíðinni. Hafnarfjörður er með elztu verzlunarhöfnum á landi hér. Fjörðurinn verður aðalhöfn landsins á 15. öld og heldur því sæti að mestu fram á daga Skúla Magnússonar. Skúli gamli bjó í Viðey og vildi hafa innréttingarnar sínar, nýsköpunarfyrirtækin, sem hann stofnaði, sem næst sér. Það var upphaf Reykjavíkur. Við verðum að fyrirgefa honum staðarvalið, af því að honum gekk gott eitt tíl.
Hér í firðinum mun lútherskt kirkjuhald eiga upphaf sitt á Íslandi, hér sló fyrsti íslenzki kaupmaðurinn tjöldum og hér hófst rafvæðingin á Íslandi hjá honum Reykdal. Þótt Hafnarfjörður væri svo mikilvægur verzlunarstaður á 15. og 16. öld.
En Skálholtsstaður var höfuðsetur Íslands, meðan hér bjó frumstæð landbúnaðarþjóð í atvinnuefnum, en ekki stundinni lengur. Hefði biskupsstóllinn hins vegar staðið hér á Innnesjunum í landnámi Ingólfs, hefði hann orðið grundvöllur þeirrar borgar, sem Ísland skorti langan aldur. En stóllinn stóð á sínum stað, og það þurfti eitt mesta eldgos veraldarsögunnar að viðbættum ógurlegum jarðskjálftum til þess að hrekja hann til strandar, og á leiðinni liðaðist hann nær algjörlega í sundur.
maegnadys-231Hafnarfjörður var löngum verzlunarstaður án þess að vera svo mikið sem þorp, og hingað lágu koppagötur úr ýmsum áttum yfir hraunin allt til ársins 1873. Að innan lágu Gömlufjarðargötur, troðningar frá túngarðshorni á Hraunsholti að Sjónarhóli, og þaðan niður um Háaklif hjá hliðinu á Hellisgerði. Þar stendur nú hálfbrotinn klettur, Svensensklettur. Kletturinn er kenndur við skipstjóra, Svensen, sem lengi sigldi upp Hafnarfjörð á vegum Knudtzons. Þangað gekk hann til þess að skyggnast til veðurs og gá til skipa.
Þá var Kristinn Zimsen verzlunarstjóri hjá Knudtzon hér í Firðinum. Hann gekkst fyrir því, að vegur var lagður frá Sjónarhóli yfir Flatahraun inn í Engidal. Þetta varð svo konunglegur vegur, að hér eftir var talið 10 mínútna skokk milli fyrrgreindra bæja.
Kóngurinn kom í Fjörðinn ári síðar, en Hafnfirðingar reyndust mjög tómlátir, þótt hans hátign birtist á Mölinni. Yfir Háaklif var lagt siglutré milli kletta, skreytt birki og lyngi. Klettarnir voru svo háir, að það var vel reitt undir „lauftréð“. Kóngur hafði orð á því, að honum fannst sem hann hrapaði ofan í bæinn, þegar hann fór niður Háaklif.
dys arnarnesi-231Niðri á Mölunum var fólk í óðaönn að taka saman fisk. Kóngur gekk um sjávargötuna frá Linnetskletti og vestur að húsi Kristins Zimsens, sem eitt sinn var hús Bjarna Sívertsens. Við götu hans var engin skrúðfylking glápandi þegna, horfandi höggdofa á, hvernig kóngurinn hreyfði sig. Þó voru það ýmsir, sem veittu honum óskipta athygli. Börnin hættu leikjum sínum og fylgdust álengdar með hverju fótmáli hans. Meðal þeirra var Nielsina Abigael Ólafsdóttir, þá á 5. ári, en hún sagði löngu síðar Gísla Sigurðssyni frá konungskomunni til Hafnarfjarðar og hann mér. Níelsína giftist Daníel Daníelssyni dyraverði í stjórnarráðinu.
Á stakkstæðunum héldu menn áfram að rogast með börur sínar og taka saman fiskinn, rétt eins og ekkert væri um að vera í plássinu. Þó er þetta ekki öldungis rétt, því að maður nokkur vék af einu stakkstæðinu rétt hjá Knudtzonsbryggju, gekk í veg fyrir konung og bauð uann velkominn í plássið. Nafn þessa konungdjarfa Hafnfirðings mun með öllu gleymt, og ræðan var aldrei skráð. Hún var þýdd fyrir konung, og hann gaf þessum fullrúa hafnfirzkrar sjómannastéttar gullpening fyrir kveðjuna, en hann heigði sig og gekk aftur til vinnu sinnar við fiskinn.
Kristinn Zimsen bauð konungi inn, og Katinka, dóttir hans, færði honum blómvönd úr garðinum bak viðð húsið. Kóngur þáði glas af léttu öli. það voru veitingarnar, og tók stúlkuna á kné sér og þakkaði henni móttökurnar.
Konungur hvarf á braut upp Háaklif og hélt með föruneyti sínu n n veginn frá Sjónarhóli. Hann hafði öldungis óviljandi orðið til þess, að Hafnfirðingar kynntust vegabótum.
arnarneslaekur-231Hafnfirðingar voru svo hrifnir af nýja veginum, að á næsta ári höfðu þeir uppi allmikil áform um vegabætur. Þann 12. apríl kemur hreppsnefnd Álftaneshrepps til aukafundar, og segir svo m. a. í fundargerðarbókinni: „Á fundinum var fyrst rætt, hverjar uppástungur skyldi gjöra um, hvað vinna skyldi að þjóðveginum á næsta sumri. Var samþykkt af öllum nefndarmönnum, að góður vegur skuli lagður frá hinum nýja vegi, sem liggur ofan í Hafnarfjörð og suður undir Hvaleyri, og ætlar nefndin til þess 800 kr. þurfi, en skyldi upphæð þessi ekki fást öll, álítur nefndin óumflýjanlegt að gjöra við kafla þann, sem kallast Hamar, og nú til þess ætla 400 krónur. Einnig álítur nefndin mjög nauðsynlegt að leggja brú yfir mýrina frá trébrúnni á Hraunsholtslæk inn að Arnarneslæk, og ætlar nefndin, að til þess að gjöra góða brú mundi þurfa 1000 krónur, en að mikið megi bæta mýrina með 400—500 krónum. Var oddvita falið að semja uppástungu um þetta.“ Af fundargerðinni sést, að brýnustu vegabæturnar voru að ryðja braut yfir Vestur-Hamarinn, þar sem Vélsmiðja Hafnarfjarðar stendur, og „brúa“ Austurmýrina, sem nú kallast Hofstaðamýri. Að brúa merkir að gera veg, bera a. m. k. ofan í verstu svakkana í mýrinni. Talað er um trébrú á Hraunsholtslæk, en hvenær hún var gerð, er mér ókunnugt. Menn ætla að ráðast í talsvert og eru allbjartsýnir.
Alþingi fékk nokkurt fjárforræði með stjórnarskránni 1874, en afl þeirra hluta, sem gera skal, var þó af býsna skornum skammti. Hafnarfjardarhraun-234Lán voru ekki auðfengin, og lítið varð oft úr framkvæmdum, þótt viljinn væri góður. Árið eftir berst hreppsnefndinni beiðni frá Reykvíkingum um styrk til brúargerðar á Elliðaárnar. Hafnarfjörður hafði verið helzta verzlunarhöfn við Faxaflóa, og þangað höfðu bændur sótt í kaupstað hundruðum saman austan úr sveitum, þótt tekið væri að byggja upp Reykjavík. Brúargerð á Elliðaárnar var fyrirboði þess, að viðskiptaleið bænda mundi breytast, og hreppsnefndin synjaði um styrkinn. Þegar þetta mál er til umræðna, kemur fram, að Konungsvegurinn yfir Flatahraun liggi undir skemmdum. Veittar eru 300—400 kr. til þess að láta bera ofan í hann. Brúargerðin yfir Austurmýrina hefur auðsæilega strandað á féleysi, en margt kallar að. Álftnesingar þurfa að komast yfir mýrarfenin undan túninu á Selskarði, en þar „er ófær vegur“, og 400 kr. eru veittar til „brúargerðar“ þar. „Ef mögulegt væri að fá meira fé“, ákveður nefndin að ráðast á Hraunsholtið , láta ryðja þar „vegarbreidd og gjöra skurð við hlíðarnar“.
Til þess ætlar hún 200 kr., ef hægt er á einhvern hátt að höndla þá fjárhæð.
Voluleidi-231Árin líða, og lítið er hægt að framkvæma sökum fátæktarinnar. í 1000 ár höfðu menn búið á Íslandi án þess að leggja nokkurn vegarspotta, svo teljandi sé. Menn höfðu slarkað einhvern veginn yfir ófærurnar eða orðið til í þeim. Menn björguðust eða fórust; það er hið endalausa efni íslenzkra ferðasagna í gamla daga. Hver kaupstaðarferð var svaðilför víðast á landinu. Og menn þurftu ekki að leggja í langferðir til þess að lenda í lífsháskum. Féleysi, þróttleysi, klæðleysi, vegaleysi og allsleysi varð mörgum að fjörtjóni milli bæja, ef nokkuð varð að veðri, en mórum, skottum og illum vættum var kennt um ófarirnar. Álfhóll heitir klapparhóll á Digraneshalsi. Við hann er kennd Álfhólsbraut. Það er dálítill hlykkur á götunni hjá hólnum, af því að Finnbogi Rútur bannaði vegagerðarmönnum að brjóta byggð álfanna. Rétt sunnan við hólinn innan girðingar eru tættur sennilega af stekk. Þar í urðinni á að vera huslaður maður, sem varð úti á leiðinni milli Bústaða og Digraness. Þetta á að hafa verið ekki mjög merkilegur borgari á sinni tíð, og þess vegna var ekki fengizt um hann frekar.
Hábunga Garðaholts heitir Völuleiði. Undan útnorðurhorni girðingar á háholtinu vestan vegar er dys. Ekki á völva að hafa verið heygð þar að fornu, heldur mæðgur tvær, sem urðu þar úti á leið frá Bessastöðum að Görðum. Sagt er, að konan hafi farið að Bessaslöðum með unga dóttur sína, sem hún kenndi einum manni yfirvaldsins, en sá vildi ekki við kannast. Af þeim sökum féll sá grunur á, að móðirin hefði fargað barni sínu og sér sjálfri á þessum stað, lagzt fyrir og hætt að þreyta göngur milli góðbúanna.
Um 1912 verður maður úti frá Lásakoti í Skógtjarnarhverfi á leið austur með Völuleiði. Hjörleifur, faðir Ingimundar Hjörleifssonar í Ásbúðartröð 3, verður úti í Garðahrauni veturinn 1909—10.
gardar-231Það þurftu margir að greiða dýran vegatoll, af því að hér voru hvorki til brýr né vegir. Verstu mýrarsvakkarnir út á Álftanesið voru brúaðir á árunum eftir 1876, en árið 1879 er fyrst ráðizt í vegagerð yfir Hraunsholtið. Á næstu árum geisa fádæma harðindi hér á landi, en allt um það eru Garðhreppingar, sem voru orðnir sérstakt hreppsfélag, allathafnasamir við vegagerð. Árið 1881 kemst vegur yfir Hraunsholtið, og þá og á næsta ári munu gerðar brýr yfir Austurmýrina og upp Arnarnesið. Sá vegarkafli að Arnarneslæk var löngum nefndur „Mýrarbrú“. Arnarneslækurinn var þó óbrúaður enn um skeið.
Árið 1883 er tekið að leggja veg frá Hamrinum suður á Hvaleyri og hugsa fyrir brú á Kópavogslæk. Sú brú mun hafa komizt á 1884 eða 1885, og hefur sennilega einungis verið göngubrú í fyrstu. Um þær mundir eignast Garðahreppur nýja stétt embættismanna, vegabætarana, og bera þeir Magnús Brynjólfsson á Dysjum og Þorgils Halldórsson í Miðengi fyrstir þann titil. Hreppnum var skipt í umdæmi milli þeirra. Skyldi Magnús sjá um vegagerðina í Hafnarfjarðarhraunum, en Þorgils í Garðahverfi og uppbæjum.
Ekki urðu neinar stórbreytingar á vegamálum hreppsins við tilkomu þessara embættismanna. Af samgöngubótum fara heldur fáar sögur næsta áratuginn. Verkfærakostur manna var af mjög skornum skammti, venjulega ekki annað en skófla, járnkarl, haki eða mölbrjótur og handbörur. Árið 1899 samþykkir hreppsnefndin að kaupa Landssjóðsverkfæri fyrir kr. 17,50. — sautján krónur og fímmtíu aura — til hreppsvegasjóðs. Þá var „kirkjuvegurinn með sjónum fram að Görðum orðinn bráðófær“ og skyldi ráðizt í endurbætur á honum með 300 kr. lántöku.
Lítið var fengizt um vega- og gatnagerð í þorpinu sjálfu. Brú var gerð á Bruarhraunsklettur-231lækinn um 1785, að því er Gísli Sigurðsson telur. Sú brú var sunnan við Brúarhraunsklett. Annar brúarsporðurinn stóð á Brúarklöppinni, en hinn á eyraroddanum. Þetta mannvirki kom helzt að gagni á fjöru, því að á flóðinu var það umflotið sjó. Síðar er brúin færð, og stendur hún þá um skeið fram undan þeim stað, þar sem búð Olivers er nú. Þessar brýr voru gerðar og kostaðar af kaupmönnum. Í þriðja sinn er henni fundinn staður undan Einarsbúð, og það er sá brúarflutningur, sem vofir yfir 1902. Þegar brúin var færð, fylgdi því m. a. sá kostnaður að teygja veginn að henni. Hreppsnefndin leitaði til sýslunefndar um fjárstyrk til framkvæmda og fékk 500 kr. til vegagerðar niður í Hafnarfjörð, um þorpið og til búargerðar gegn tvöfaldri upphæð til sömu framkvæmda annars staðar frá. Það fé lagði hreppsnefndin til, og þá um vorið var í fyrsta sinn lagður „viðunanlegur akvegur“ ofan í Hafnarfjörð.
Sumarið 1902 var í fyrsta sinn hægt að komast með vagna niður í verzlunarstaðinn Hafnarfjörð, en ekki í gegnum þorpið. Á næsta ári var nýja brúin byggð á lækinn og hafizt handa um vegagerð í þorpinu. Þá varð það, að búendur í Brekkunni sunnan lækjar báðu hreppinn að leggja til land undir veg, sem þeir ráðgera að leggja beint upp Brekkuna (Illubrekku) milli sýslumannshússins og barnaskólans, „þar sem nú er mjór gangstígur“. Einnig báðu þeir um fjárstyrk til vegagerðarinnar. Þeir fengu landið, ræmu af lóð barnaskólans, og var heitið 20 króna virði í vinnu, sem hreppurinn útvegaði. Með þennan bakhjarl var einnig tekið að leggja Suðurgötuna. Þar með opnaðist akfær leið gegnum Hafnarfjörð, og árið eftir veitti landssjóður 2.800 kr. til vegagerðar milli Hafnarfjarðar og Vogastapa. Sá vegur átti langt í land, en þó var áfanga náð; Hafnarfjörður var kominn í vegasamband við umhverfið. Hitt var annað mál, að vegakerfið beindi brautir manna til Reykjavíkur, en ekki hinnar fornu hafnar við Faxaflóa.
Helztu heimildarmenn mínir eru þeir Gísli Sigurðsson lögregluþjónn og Adolf J. E. Petersen verkstjóri. – B. P.“

Heimild:
-Alþýðublað Hafnarfjarðar, 21. árg., jólablað, 1962, bls. 6-8.

Garðahverfi

Engidalsvegur aftan Fjarðarkaupa.

Straumssel

Gengið var um þvottastíginn að tóttum Þorbjarnastaða (fóru í eyði um 1939) og þaðan að Þorbjarnastaðaréttinni undir hraunhól sunnan við bæinn. Um er að ræða stóra hlaðna rúningsrétt. Í henni er heilleg lambakró.

Straumsselsstígur

Straumsselsstígur – Fornasels- og Gjáselsstígur.

Gengið var um Kúadal og áfram inn á eystri Straumsselsstíg (sem er reyndar eldri selstígur að Gjáseli og Fornaseli frá Þorbjarnastöðum).
Um miðja vegu að selinu var ákveðið að halda til vesturs út af honum og kanna hraunsvæðið. Þar inn á milli hólahyrpingar var komið að stórumhlöðnum nátthaga – Toppuklettum (Tobbuklettum). Eftir að punktur hafði verið tekinn þar var haldið í selið um Flárnar. Upp frá því var leitað Neðri-Straumsselshella. Þeir eru nokkuð sunnan selsins, hlaðinn gangur og nokkuð stór fjárhellir.
Eftir að hafa skoðað hellinn var Efri-Straumsselshella leitað og fundust þeir enn á ný nokkur ofar. Þeir eru þarna í lægð í Almenningum og er stór fjárhellir innan af henni. Hlaðið er í kringum opið, auk þess sem fyllt er að bakdyrum. Í kringum lægðina er hlaðinn garður. Upp af honum að norðanverðu er hlaðið byrgi, sem Jónas Bjarnason hlóð er hann var á refaveiðum á þessu svæði. Efri-Straumsselshellar voru notaðir sem nátthagi og síðan rétt undir hið síðasta og bera hleðslunar þess glögg merki.

Straumsselshellar

Í Efri-Straumselsshellum.

Þegar FERLIR kom síðast í Efri-Straumsselshella var þar greinilegt krafs eftir ref. Haldið var áfram norðvestur að Stóra-Fjárskjóli. Þar er hlaðið fyrir aflangan skúta. Þá var gengið að Óttastaðaseli og umhverfi þess skoðað áður en haldið var til norðurs eftir hrauninu. Á leiðinni var m.a. skoðað hlaðið refaskyttuskjól á neðsta hluta Straumsselsstígs.
Frábært veður.

Straumssel

Straumssel.

 

Seltúnssel

M.a. var litið á „trúlegt sel“ á Seltúni, sem þar mun hafa verið skv. Jarðarbókinni 1703, þ.e. sel frá Krýsuvík. Eftir endurtekna leit á svæðinu fundust  tóftir er gætu verið eftir sel á tveimur stöðum, beggja vegna þjóðvegarins.

Seltún

Seltúnsselið sést á þessari mynd Sigfúsar Eymundssonar frá 1884 – myndin er tekin frá Lambafelli að Seltúni.

Annars vegar er um að ræða jarðlægar tóftir, sem sléttaðar voru út við túnræktina á svæðinu um 1960. Sú tóft sést vel á ljósmynd Sigfúsar Eymundssonar, sem tekin var frá Lambafelli að Seltúni árið 1884. Hins vegar er  um að ræða tvær tóftir, önnur nú fótum troðin af hestum Hafnfirðinga og hin hringlaga gerði skammt sunnar, einnig illa farin af ágangi hrossa. Þessar minjar hafa ekki verið skráðar sem slíkar – svo vitað sé.
Ofan við Seltúnið er lítil ferkantlaga tóft á grasbala sunnan við hverasvæðið. Hún gæti hafa tengst athöfnum námumanna á hverasvæðinu á sínum tíma. Sjáanlegar leifar námuvinnslunnar er hluti einnar stíflunnar austan þjóðvegarins. Hana má m.a. sjá á ljósmynd, sem Englendingar tóku í þeim tilgangi að selja hlutabréf í námuvinnslufyrirtækinu erlendis. Þá eru norðan við Seltúnið a.m.k. þrjár tóftir og gerði er tengdust brennisteinsvinnslunni á sínum tíma. Sagt er frá þessum minjum annars staðar á vefsíðunni, auk þess sem brennisteinsvinnslunni er gerð góð skil.

Krýsuvík

Fell – tóftir.

Kíkt var á „hugsanlega sel eða mögulega hjáleiguna Fell“ sunnan Grænavatns. Tóftir bæjarins kúra í dalkvos skammt sunnan við vatnið. Hann ku hafa verið í ábúð einungis skamman tíma.
Litið var á „afar fallegan brunn“ við Litla-Nýjabæ suðvestan við Augun og síðan var gengið frá Ræningjahól og þaðan að „vel farinni og fallegri rétt“ sunnan Arnarfells. Um er að ræða nokkuð stóra og heillega rétt í slakka í beina línu á milli Krýsuvíkurkirkju og vörðu á nyrsta Trygghólnum, svo til miðja vegu milli hans og Arnarfells.

Arnarfellsrétt

Arnarfellsrétt.

Réttin er svonefnd Arnarfellsrétt. Um er að ræða almenning og níu misstóra dilka. Frá henni sér í Bæjarfellsréttina í norðvestri.

Bæjarfellsrétt.

Bæjarfellsrétt í Krýsuvík.

Gengið var upp að Bæjarfellsréttinni (Krýsuvíkurrétt), norður með austanverðu Bæjarfelli og að svonefndum Hafliðastekk norðan undir Bæjarfelli. Hann er þar hlaðinn undir stórum steini. Tóft er þar hjá.

Hafliðastekkur

Hafliðastekkur – uppdráttur ÓSÁ.

Á leiðinni var gengið framhjá nokkrum gömlum tóftum í norðurhlíðum Bæjarfells. Guðað var eftir Drumbsdalaveginum vestan Bæjarfells yfir Sveifluhálsinn við Drumb. Augljóst er þaðan sést hvar vegurinn hefur legið yfir melana vestan sunnanvert Bæjarfell og áfram yfir sunnanverðan hálsinn.

Til gamans má velta fyrir sér hvernig nafnið Krýsuvík er til komið. Áður hefur heyrst og verið skráð að um hefði verið að ræða svonefnda „Krýsa“ er byggt hafi Krýsuvík þar sem Húshólmi er nú. Þá hefur verið skráð að nafnið væri komið af „Krossavík“. Ekki er ólíklegra að álykta að nafnið „krýsa“ sé til komið vegna deilna, sem sprottið hafa, hugsanlega milli frumbyggja og síðari tilkomandi norrænna manna. Skýringin á nafninu Krýsuvík væri því einfaldlega „Deiluvík“. Sennilegast er þó orðskýringin „krýsa“, sem er gamalt orð yfir grunna vík eða fjörð, sbr. grunn skora, t.d. í ask.
Sól, lygnt og roðagylltur himinn.

Krýsuvík

Krýsuvík – uppdráttur ÓSÁ.

Óbrinnishólar

Jón Jónsson skrifaði grein (efni frá 1972) um Óbrinnishóla fyrir ofan Hafnarfjörð í Náttúrufræðinginn 1974-1975. Þar segir m.a.:
obrinnisholar-2„Undirhlíðar nefnast einu nafni hæðadrög þau, sem eru í beinu framhaldi af Sveifluhálsi frá Vatnsskarði norður að Kaldárbotnum. Hæðirnar eru að mestu leyti úr bólstrabergi, bólstrabreksíu og móbergsþursa af mismunandi gerð og útliti. Eftir Undirhlíðum liggja misgengi og verður af þeim sökum sigdalur eftir þeim endilöngum frá Leirdalshöfða og norður á móts við suðurenda Helgafells. Hluti af þeim sigdal ber nafnið Slysadalir. Dalurinn er víða grasi gróinn og hið fegursta útivistarsvæði.
Eldstöðvar eru á Undirhlíðum sjálfum, nyrzt í sigdalnum og á þrem stöðum vestur af Helgafelli. Þær eru sýnilega tengdar misgenginu, en það liggur um Kaldárbotna, myndar vesturbrún Helgadals og klýfur loks Búrfell um þvert og hverfur svo undir ung hraun nokkru norðar. Flestar eldstöðvarnar eru þó vestan undir Undirhlíðum og má heita að þær myndi nokkuð samfellda röð frá því vestan við Sveifluháls norðanverðan og norður að Kaldárbotnum. Svo að segja óslitið hraunhaf er frá Undirhlíðum norður og vestur að Faxaflóa. Hraunin eru mörg og frá mismunandi tímum. Yngstu eldstöðvarnar á þessu svæði eru gígaraðir tvær suður við Vatnsskarð, báðum megin við Krýsuvíkurveg, en úr þeim er Kapelluhraun komið.

obrinnisholar-3

Svæðið allt er rist að endilöngu af fjölda mörgum sprungum og gjám, sem rekja má allar götur suður í Móhálsa og norður að Mosfellsdal. Mest áberandi eru misgengin á Hjallasvæðinu milli Elliðavatns og Kaldárbotna. Þegar suður fyrir Kaldársel kemur eru flestar sprungurnar huldar yngri hraunum, en koma fram í hólmum, sem þau hafa ekki náð að renna yfir. Einn slíkur hólmi er dálítil hæð, sem stendur upp úr hraunhafinu um 700 m vestan við Undirhlíðar og tæpum 2 km sunnan við Kaldársel. Austan í þeirri hæð er röð eldgíga, sem Óbrinnishólar nefnast. Hólaröðin sjálf er rösklega 900 m á lengd. Hæsti gígurinn er eða öllu heldur var um 44 m hár yfir næsta umhverfi og um 124 m yfir sjó. Venja er að rita nafnið Óbrinnishólar og svo er gert á flestum kortum. Á það hefur verið bent, að nafnið sé hliðstætt við nafn á hólma, sem Ögmundarhraun rann í kringum og síðan ber nafnið Óbrennishólmi. Virðist þetta vera aðgengileg skýring og mætti því ætla að nafnið væri frá þeim tíma er gosið, sem myndaði Kapelluhraun, var mönnum ennþá í fersku minni.

obrinnisholar-4

Hæð sú, sem Óbrinnishólar eru á, er að mestu úr bólstrabergi og grágrýti. Eftir hæðinni endilangri er sigdalur (Graben) aðeins um 50 m breiður og með stefnu norðaustur-suðvestur. Aðeins austan við dalinn er þröng gjá og djúp, sem stefnir eins og hann, en sést ekki nema á nokkrum stöðum. Rétt austan við sigdalinn rísa gígirnir og stefnir röðin eins og dalurinn. Þessi sigdalur er athyglisverður vegna þess, að í misgenginu, sem takmarkar hann að austan, má sjá að spildan, sem sigið hefur milli sprungnanna, hefur ekki sigið lóðrétt heldur allmikið á ská og sýnir það ótvírætt, að ekki hefur einvörðungu verið um lóðrétta hreyfingu að ræða. Skriðrákir á bergfleti í misgenginu sýna þetta ljóslega. Þeim hallar um nálægt 45°.
obrinnisholar-5

Hvað viðvíkur gosstöðvunum sjálfum eru hólarnir fjórir og eru tveir þeirra, sem eru í miðju þeirra, hæstir. Regluleg gígskál er, eða réttara sagt var, í syðsta og nyrzta hólinn. Í hinum tveim hafa eldvörpin verið austan megin og þar hefur hraun runnið út úr þeim, en gígveggir byggzt upp aðeins á einn veg, þ. e. að vestan. Gígirnir verða því í laginu sem tveir hálfmánar hvor við annars hlið. Aðalhraunrennslið heftir komið úr syðsta gígnum og var gígskálin nærri fyllt hrauni. Þaðan hefur hraunstraumur fallið fyrst austur í stefnu á Undirhlíðar, en brátt beygt norður á við og loks vestur, er komið var norður fyrir nyrzta gíginn. Hluta úr þessum gíg hefur hraunáin rifið með sér og flutt langt vestur á hraun og standa þeir þar eftir sem gjall og hraunklebrastabbar og ber hátt yfir megin hraunflötinn. Nyrzti gígurinn var regluleg gjallkeila, sem hraun virðist ekki hafa runnið frá svo teljandi sé.

obrinnisholar-6

Það eru nú allmörg ár síðan að farið var að taka hraungjall úr Óbrinnishólum og hefur sú starfsemi aukizt mjög hin síðari ár. Er nú svo komið, að lítið er eftir af hinum forna svip hólanna, og virðist mega gera ráð fyrir að þeir hverfi alveg áður langt líður. Þessi starfsemi hefur orðið til þess, að áðurnefnt misgengi, sem kannski mætti nefna sniðgengi, er nú orðið vel sýnilegt, en auk þess hefur hún haft í för með sér, að fram hefur komið að þarna hefur gosið tvisvar á sama stað.
Fljótlega eftir að gjallnámið hófst hefur verið grafið til reynslu inn í hæsta hólinn að vestanverðu. Kom þá í ljós, að hann var ekki allur þar sem hann var séður, því undir tæplega metraþykku gjalli neðst í honum kom fram moldarlag, víðast hvar aðeins 5—8 cm þykkt, en undir því tók aftur við gjall. Þegar nánar var að hugað, kom í ljós, að efst í moldarlaginu eru leifar af gróðri, sem eyðst hefur, þegar gígirnir tóku að ausa yfir hann glóandi gjalli og vikri.

obrinnisholar-7

Þarna var hægt að tína kolaðar greinar og stofna, sem nota mátti til að ákvarða þann tíma, sem liðinn er frá því að gróðurinn eyddist, þ. e. frá því er þarna gaus síðast. Neðan við moldar- og gróðurleifalagið er aftur hraungjall, sem nær niður að jökulurð og föstu bergi.
Nokkur jarðvegur hefur verið kominn ofan á bólstrabergið, sem þarna myndar berggrunninn og jökulurðina, áður en þarna gaus fyrst, því greina má moldarlag undir eldri gosmölinni. Engar gróðurleifar hafa þó fundizt þar og verður því ekki ráðið í aldur þessara gíga að svo komnu máli. Ekki hefur heldur verið hægt að rekja nokkurt hraun með vissu til þeirra. Þó rennir mann í grun, að aldursmunur sé verulegur á eldri gosstöðvunum og þeim yngri, og má ráða það af eftirfarandi: Ljóst er, að næstsyðsti gígurinn tilheyrir fyrra gosinu og hefur hraun úr síðara gosinu runnið inn í hann að austan og myndað þar dálitla hrauntjörn. í gjallstálinu sunnan í þessum gíg má (eða mátti) vel greina sprungur, með nokkru misgengi, sem náðu upp í gegnum gjallið, en ekki sáust á yfirborði. Þessar sprungur stefna samsíða sigdalnum, sem áður er nefndur. Ekki sést votta fyrir slíkum sprungum í yngri gígunum.

obrinnisholar-8

Þetta sýnir, að sprungur hafa náð að brjóta þessa eldri gígi áður en síðara gosið hófst. Einnig sýna gróðurleifar þær, er síðar verður getið, að nokkur tími hefur liðið milli gosa. Svo aftur sé vikið að eldri gosmyndunum má geta þess, að ljóst er að það gos hefur byrjað sem öskugos. Þetta má sjá af um 0.65—0.80 m þykku lagi, sem liggur ofan á áðurnefndu moldarlagi og undir gjallinu. Það lag samanstendur af lítið eitt grænleitum, fremur fínum vikri, og innan um hann er firnin öll af örfínum hárum úr gleri. Þessi hár eru nefnd Peles-hár og er það nafn komið frá Hawaiieyjum og kennt við eldgyðjuna Pele. Ekki er mér kunnugt um, að getið sé um þess konar myndanir nema á þrem stöðum í hérlendum heimildum. Fyrst er þess getið í lýsingu séra Jóns Steingrímssonar á Skaftáreldum. Þar segir svo: ,,14. (júní 1783) var logn, dreif hjer þá miklum sandi yfir allt með enn meiri hárum, en vart var við í fyrra regninu, þann 9., þau voru svartblá og íglittin að lengd og digurð sem selshár; þau urðu ein breiða yfir jörðina og þar þau féllu á eyðisanda og vindur komst undir þau, samanvöfðust þau í aflanga hola ströngla“.

obrinnisholar-9

Þannig farast séra Jóni orð. Af lýsingu hans er ljóst, að þarna var um Peles-hár að ræða. Thoroddsen (1925) getur þess, að í Öskjugosinu mikla 1875 hafi á Grímsstöðum fallið aska með „eine Menge ineinandergewickelter brauner Glasfáden, die auf dem Wasser schwammen, fast eine Elle lang waren und groben Pherdehaar glichen“. Naumast verður á greinilegri lýsingu kosið og alls enginn efi getur verið á því, við hvað er átt. Loks kom þetta fyrir í Surtseyjargosinu, aðallega síðasta fasa þess í ágúst 1967 (Thorarinsson 1967).
Svo aftur sé vikið að Óbrinnishólum má geta þess, að nákvæm athugun á ljósbroti í glerþráðunum sýndi 1.578, er ákvarðað var í einlitu ljósi (nD 1.578). Oftast eru hárin 3—4 cm löng og sum svo fín, að þau sjást varla með berum augum. Hefur því orðið að nota stækkunargler við að safna þeim úr gjallstálinu.

obrinnisholar-10

Stundum ganga þræðirnir út frá dropalagaðri myndun úr sama efni. Þetta mun vera það, sem nefnt er Pelestár á Hawaiieyjum. Ekki er mér kunnugt um hérlent nafn á þessum hlutum, en ef til vill mætti nefna þá nornaþráð, nornaþræði og nornatár. Væri þá haldið að nokkru samræmi við þjóðtrúna frá Hawaii.
Hraun frá fyrra gosinu í Óbrinnishólum hef ég ekki fundið í næsta nágrenni þeirra, en um 1—2 km vestur af hólunum eru hólmar tveir, sem yngra hraunið hefur ekki runnið yfir. Vel má vera að eldra hraunið komi þar fram, en ekki hef ég haft tækifæri til að athuga það. Næst syðsti gígurinn í Óbrinnishólum er frá fyrra gosinu og eftir nokkra leit fannst þar allþétt hraunlag inni í gjallinu. Kom þá í ljós, að hraun það, er komið hefur í fyrra gosinu, er mjög ólíkt hrauninu úr því síðara. Aftur á móti er það svo líkt Búrfellshrauni, að það verður naumast frá því skilið. Kemur þetta vað greinilegast fram, þegar taldar hafa verið steintegundir á báðum hraunum.

obrinnisholar-11

Um aldur fyrra gossins í Óbrinnishólum er ekki vitað. Nokkur jarðvegur hefur verið kominn ofan á jökulurðina, þegar það skeði, en svo fátæklegur er jarðvegurinn þar sums staðar enn í dag, að slíkt gefur ekki miklar upplýsingar. Samkvæmt rannsóknum Guðmundar Kjartanssonar (1972) er aldur Búrfellshrauns um 7200 C14 ár. Vel gæti fyrra gosið í Óbrinnishólum hafa orðið á sama tíma. Vaknar því sú spurning: Er það tilviljun ein að hraunin eru svona lík að gerð eða er það kannski vegna þess, að samtímis gaus á báðum stöðum? Ekki verður með vissu sagt, hvað margir gígir hafa myndast í fyrra gosinu á þessum stað, en þrír hafa þeir verið a. m. k. Af þeim hafa tveir algerlega horfið undir gjall frá síðara gosinu.
Ofan á gjalli eldri giganna er moldarlag nokkuð mismunandi þykkt, eins og áður segir, en víðast 5—8 cm. Þó er það á stöku stað 10—15 cm. Efsti hluti moldarlagsins er svartur af koluðum gróðurleifum. Virðist það að verulegu leyti hafa verið mosi, enda má víða greina heillega mosa í þessu. För eftir birkistofna og greinar sjást víða og hafa stofnarnir sums staðar náð 15—20 cm upp í gjallið. Víða er sjálfur stofninn horfinn með öllu en eftir stendur börkurinn sem hólkur upp í gjallið. Gjallið hefur sums staðar verið svo heitt, að viðurinn hefur kolast algerlega og má því finna mikið af mjóum greinum og stofnum, sem eru kolaðir í gegn. Flestir eru slíkir stofnar eða greinar um 6 mm í þvermál og þaðan af mjórri. Vel gæti þetta hafa verið lyng, fjalldrapi eða víðir eins og birki. Sverari stofnar og greinar eru oftast kolaðir aðeins þeim megin, sem að gjallinu snýr, en fúnir eða horfnir með öllu nema börkurinn hinum megin: Norðan við syðsta gíghólinn, en úr honum var aðal hraunrennslið, fann ég allmarga stofna, sem voru alveg heil legir og 10—15 cm í þvermál. Þeir voru mjúkir og héldu formi á meðan þeir voru blautir, en urðu harðir sem grjót, þegar þeir höfðu þornað. Svo virðist sem hríslurnar hafi þarna vaxið í mosa líkt og birkihríslurnar, sem ennþá vaxa sunnan í nyrsta gíghólnum og á víð og dreif í hrauninu. 

obrinnisholar-12

Þegar stofninn lagðist til jarðar undir ofurþunga gosefnanna, pressaðist hann niður í mjúkan mosann og liefur varðveitzt þar, en mosinn einangrað hann það vel frá hitanum, að kolnun hefur ekki átt sér stað nema rétt þar sem hin heita gosmöl lagðist beint ofan á stofninn. Leifar af þessum forna birkiskógi hef ég sent til aldursákvörðunar á rannsóknastofu háskólans í Uppsölum, þar sem dr. Ingrid U. Olsson hefur gert á þeim C14 aldursákvörðun. Voru gerðar tvær ákvarðanir, eftir að efnið hafði fyrst verið meðhöndlað á mismunandi hátt. Útkoman varð þessi:
Sýni nr. U-2268 – 2370 ± 70 C1* ár
Sýni nr. U-2269 – 2100 ± 80 C14 ár
Með þeirri óvissu, sem við þessar ákvarðanir loðir enn, má telja að síðara gosið í Óbrinnishólum hafi því orðið um 650 árum f. Kr.
Bæði gosin í Óbrinnishólum hafa verið hraungos með kvikustrókavirkni, eins og flest sprungugosin á Reykjanesskaga. Fína gosmöl eins og þá, sem hefur verið svo áberandi í fyrsta þætti fyrra gossins, vantar í það síðara. Aftur á móti mætti segja, að síðara gosið hafi einkennst af því, hvað mikið hefur verið af hraunkúlum (bombum) í því. Þær eru af öllum stærðum frá því um 35—40 cm í þvermál allt niður í kúlur á stærð við krækiber eða ennþá minni. Oft eru þær mjög reglulegar og fullkomlega hnöttóttar. Hraun úr þessu gosi hefur aðallega komið úr syðsta gígnum. Það hefur runnið austur í átt að Undirhlíðum og svo norður á við, langleiðina norður að Kaldárseli. Svo beygir það vestur og hefur að öllum líkindum náð út í sjó við Straumsvík, en nokkru austar hverfur það undir Kapelluhraun.

obrinnisholar-13

Óbrinnishólahraun og Kapelluhraun eru svo lík, að vart verða þau aðgreind með berum augum eða í smásjá. Í sambandi við framkvæmdirnar við Straumsvík voru boraðar allmargar holur til rannsóknar á grunni þeim, sem álverksmiðjan stendur á, en hún stendur á nyrsta tanga Kapelluhrauns.
Við þær athuganir kom í ljós, að undir Kapelluhrauni er annað hraun mjög líkt því. Hraun þessi hafa verið nefnd Ka (= Kapelluhraun) og Kb (Tómasson og Tómasson 1966). Milli þessara hrauna er aðeins gjalllag, en undir Kb sums staðar sandlag. Tel ég nærri fullvíst, að hraun Kb sé úr síðasta gosi í Óbrinnishólum og því um 2140 ára gamalt. Þetta sama hraun kemur fram austan við Kapelluhraun skammt sunnan við gamla Reykjanesveginn og má rekja það þaðan suður og austur eftir norðan Kapelluhrauns, en það nafn er hér eingöngu notað um yngsta hraunstrauminn á þessu svæði, þann er álverksmiðjan stendur á.“

Heimild:
-Náttúrfræðingurinn, Jón Jónsson, Óbrinnishólar, 1974-1975, bls. 109-110.

Óbrinnishólar

Óbrinnishólar eru nú nánast óþekkjanlegri frá fyrri tíð vegna gífulegrar efnistöku.

Helgadalur

Gengið var frá Kaldárseli að hellunum austan Kaldársels, s.s. 90 metra helli, Vatnshelli, Gjáhelli, Rauðshelli, 100 m helli, Fosshelli o.fl. Á leiðinni var gamla vatssleiðsluhleðslan skoðuð. Frá hellunum var gengið yfir að Rjúpnadalahrauni og refagildran undir norðurhorni Húsfells skoðuð. Þá var leitað að gömlu fjárskjóli í Húsfelli, sem sagnir eru til um. Það fannst eftir nokkra leit. Framan við það eru gamlar hleðslur. Frá fjárskjólinu var gengið um gjárnar norðvestan Húsfells, um Mygludali og í Valaból.

Helgadalur

Helgadalur – tóftir.

Þegar komið var niður í Helgadal var ætlað bæjarstæði fornbýlis, sem þar á að vera, skoðað í dalnum. Ekki er ólíklegt er að þarna sé komið bæjarstæði það sem lengi hefur verið leitað að og heimildir kveða á um. Á landnámsmaður að hafa byggt sér bæ í Helgadal, en þrátt fyrir leitir hafa leifar hans ekki fundist. Hér gæti einnig verið um hina fornu Skúlastaði að ræða, en þeir eiga skv. sögunni að vera næstelsta bæjarstæði norrænna manna hér á landi. Við þetta ætlaða bæjarstæði liggur gömul þjóðleið. Fróðlegt væri að fá við tækifæri áhugasaman fræðing til að kíkja á aðstæður þarna.

Kaldá

Kaldá.

Framangreint eru nú einungis vangaveltur um hugsanlega möguleika því ekki er vitað til þess að svæðið eða þessi staður í Helgadal hafi verið skoðaður sérstaklega m.t.t. þessa.
Gengið var á Kaldárhnjúka og Kaldárbotnar skoðaðir áður en ferðin endaði við Kaldá.
Ferðin tók nákvæmlega 2 klst í ágætu veðri.

Helgadalur

Í Rauðshelli.

Magnús Ólafsson

Krýsuvík er sennilega landnámsjörð. Segir Landnáma að Þórir haustmyrkur hafi numið Selvog og Krýsuvík. Eftir að kristni var lögtekin var þarnar kirkja, og helguð Maríu mey. Voru prestar búsettir í Krýsuvík fram yfir 1600, séra Eiríkur í Vogósum þjónaði Krýsuvíkur prestakalli (margar sögur fara af síra Eiríki í Vogósum og göldrum hans).

Krýsuvík

Krýsuvík.

Stóri Nýibær lagðist síðastur í eyði í Krýsuvík og var það árið 1938, en eftir það var ekki mannlaust þarna. Einn maður varð eftir og bjó í kirkjunni í Krýsuvík þegar allir höfðu flúið af hólmi. Með órjúfandi tryggð við staðinn gafst hann aldrei upp þraukaði fjarri mannabyggðum aleinn og ósveigjanlegur og barðist þar áfram með hinn einstöku íslensku seiglu. Þessi maður var Magnús Ólafsson.

Magnús Ólafsson var nauðugur sendur í vist 18 ára gamall til Árna sýslumanns Gíslasonar, í kringum 1895 (bærinn lagðist í eyði 1938). Ætlunin var að senda Magnús í verbúiðir sem Árni sýslumaður átti í Herdísarvík. Enn Magnúsi var ekki um sjóinn gefið og vonaðist eftir starfi í Krýsuvík. Betur fór en á horfðist og fékk Magnús fjárhirðastöðu í Krýsuvík á Nýjabæ.

Magnús bjó í kirkjunni í Krýsuvik sem var úr timbri og óþétt, svo óþétt að skór hans frusu oft á köldum vetrarnóttum. Kirkjan var 22×14 fet og svo lág að ekki var manngengt undir bita. Ekkert tróð var í veggjum, gólfið sigið og gisið.

Spurður hvers vegna hann hafi ekki flutt til Hafnarfjarðar eftir að búskapur lagðist af á Nýjabæ svararði hann: “ Vinnan var stopul í Hafnarfirði og ég hafði meiri löngun til þess að hugsa um kindur heldur en að snapa eftir vinnu þar.“ Eitt sinn var Magnús spurður hvort ekki væri hann myrkfælinn á því að búa í kirkju og hafa kirkjugarð sem sinn næsta garð.

Magnús Ólafsson

Magnús Ólafsson.

„Myrkfælinn, – nei ég veit ekki hvað það er. Og óþarfi að óttast þá, sem hér liggja. Sumt af þessu hefur verið kunningjafólk mitt. Þeir gera engum manni mein, og ég hef aldrei orðið var við neina reimleika. Þeir dauðu liggja kyrrir.“

Magnús vann sem fjárhirðir hjá Árna sýslumanni og bjó í vestri enda bæjarins. Eftir að hann kvæntist Þóru Þorvarðardóttur, bjuggu þau bæði í vestri enda húsins ásamt öðru vinnufólki. Eftir að þau eignuðust börn, var þröngt í búi og bjuggu þau í Krýsuvík á Nýjabæ þar til elsta barnið var komið á skólaaldur og flutti þá frú Þóra Þorvarðardóttir til Hafnarfjarðar með börnin.

Magnús átti erfitt með að aðlagast bæjarlífinu í Hafnarfirði og flutti aftur í Krýsuvík, þar sem hann dvaldi í 50 ár í og mestan hluta þeirra sem einbúi.

Þóra bjó með Magnúsi í vestri enda Nýjabæja ásamt öðru vinnufólki á bænum. Þegar elsta barn (Ólafur Magnússon) þeirra hjóna var komið á skólaaldur flutti Þóra búferlum til Hafnarfjarðar. Magnús unni sér hins vegar ekki í Hafnarfirði og flutti aftur í Krýsuvík. Þóra bjó eftir sem áður í Hafnarfirði og heimsótti hún ásamt börnum sínum Magnús í Krýsuvík. Hún var atorkusöm kona sem bjó við lítil efni, en kom börnum sínum í gegnum skólagöngu og til mennta með sóma.

Þóra var dugleg kona og nýtin, börn þeirra hjóna komust vel á legg og skorti ekki andlega næringu né líkamlega. Hún kenndi börnum sínum að njóta lífsins án þess að þurfa mikið af veraldlegum gæðum. Frú Þóra gat gert veislumat úr hverju sem var og var þakklát fyrir góða heilsu og þá reynslu sem að lífið gaf henni. Gestir voru ævinlega velkomnir og bauð frú Þóra ævinlega til borðs er gesti bar að garði þótt efni hafi verið lítil.

Þóra Þorvarðardóttir

Þóra Þorvarðardóttir.

Sonur þeirra hjóna, sem er yngstur, Þorvarður Magnússon, varð húsasmiðameistari í Hafnarfirði og kvæntist Áslaugu Einarsdóttur klæðskeradóttur í Hafnarfirði.

Þorvarður Magnússon, sonur Magnúsar einbúans í Krýsuvík. Hann vinnur sem húsasmíðameistari í Hafnarfirði.

Þorvarður kveðst ekki hafa búið með foreldrum sínum á Nýjabæ enda yngstur systkina sinna sem komin voru á skólaaldur er hann fæddist. Hann heimsótti þó föður sinn í Krýsuvík þegar að hann bjó á bænum og einnig í kirkjunni. Þorvarður man ekki mikið frá Nýjabæ enda var hann kornungur þegar faðir hans bjó enn þar. Bærinn lagðist í eyði árið 1938 og var Þorvarður einunigs 11 ára gamall þá.

Hann heimsótti hins vegar föður sinn í kirkjuna í Krýsuvík og man eftir henni og hvernig faðir hans bjó. Einsetumaðurinn í Krýsuvík var því fjölskyldumaður þó svo að hann hafi kosið að búa fjarri mannabyggðum. Þorvarður man eftir fátæktinni sem var á þessum árum, atvinnuleysinu og hvað húsakostur var misjafn eftir efnum manna. Faðir hans var vinnumaður allt sitt líf og þekkti ekki annað.

Húsasmíðameistarinn í Hafnarfirði, Þorvarður Magnússon, segir frásögnina rétta sem er í bókinni „Landið er fagurt og frítt“, sem að var gefinn út árið 1944 og er rituð af Árna Óla og gefin út Bókafellsútgáfunni. Í bókinni er viðtal við einbúan í Krýsuvík.
Sjá meira HÉR.

Heimildir m.a.:
-http://nemendur.khi.is/annaher/index.htm

Krýsuvík

Krýsuvíkurtorfan – uppdráttur.

Alfaraleiðin

„Byggðin í Hraununum var ekki aðeins við alfaraleiðina suður með sjó heldur í næsta nágrenni við mesta þéttbýli á landinu. Samt leið hún undir lok. Hér verður reynt að bregða ljósi á búskapinn í Hraununum og litið á einstakar jarðir. 

Hraunin-231

Þarna mætti lifa á fegurðinni, sagði hrifnæmur maður eftir gönguför á fallegum degi suður í Hraun. Þeim Hraunamönnum hefði þótt það skrýtin og fjarstæðukennd ályktun, enda hefði fegurðin ein verið létt í maga í þurrabúðum og kotum Hraunanna á liðnum öldum. Húsgangurinn fyrrnefndi, sem segir að Hraunamennirnir gapi og góni, það er að þeir hafi verið eitthvað slakari sjósóknarar en Garðhverfingar. En Hraunamenn voru seigir og það er í rauninni ótrúlegt hversu lengi ábúð hélzt á smákotum og hjáleigum í þessu plássi. Búskapurinn á Hraunajörðunum lognaðist að mestu útaf á kreppuárunum eftir 1930; þó var búið á Óttarsstöðum vestri til 1966, en kindabúskap var eitthvað haldið áfram eftir að fólkið á bæjunum var flutt í burtu.
Þegar ég leitaði upplýsinga um endalok búskapar á Hraunajörðunum virtist sem vitneskja um þessa byggð væri mjög á hverfanda hveli í Hafnarfirði, þar sem eðlilegast var þó að leita fyrir sér. Engir frægðarmenn höfðu brugðið ljóma á Hraunin og markverð afrek virðast ekki hafa verið unnin þar, önnur en þau að lifa af á smáum efnum og koma mörgum börnum til manns. Við þessa samantekt hef ég reynt að styðjast við minni ýmissa fullorðinna Hafnfirðinga, en flestum er þeim sameiginlegt að vita frekar takmarkað um þessa nágrannabyggð fortíðarinnar. Undantekning er Ragnheiður Guðmundsóttir, sem nú er 84 ára, skýr kona og skilmerkileg. Hún ólst upp hjá foreldrum sínum á Óttarsstöðum vestri. Við þessa samantekt hefur ég einnig getað stuðzt við óútgefnar heimildir frá alnafna mínum, Gísla Sigurðssyni, lögregluþjóni í Hafnarfirði, sem var vandaður fræðimaður og óþreytandi skrásetjari. Allur sá fróðleikur er varðveittur í handritum í bókasafni Hafnarfjarðar sem veitti góðfúslega aðgang að þeim. Á þessum heimildum er hinsvegar sú gloppa að nafna mínum hefur ekki enzt aldur til að skrá hinar afdrifaríku breytingar á Hraunabæjunum þegar kemur fram á 20. öldina.

Lónakot
lonakot-232Eins og tekið var fram í fyrri hluta greinarinnar var byggðin í Hraununum að stærstum hluta í hnapp á graslendinu kringum Óttarsstaðabæina. Lónakot skar sig úr; bærinn stóð einn sér við ströndina, 2-3 km vestur frá Óttarsstöðum. Alfaraleið í Lónakot hefur að líkindum legið með ströndinni þar sem nú er merkt gönguleið. Annar stígur lá þangað sunnan að og verður síðar vikið að honum.
Bærinn stóð á fallegum stað uppi á hraunhóli sem hefur verið talsvert sprunginn og ekki stærri en svo að ofanverðu að bæjarhúsin hafa orðið að vera afar fyrirferðarlítil. Þetta undarlega bæjarstæði á sér þá líklegu skýringu, að 

Lónakotsbærinn hafi áður staðið lægra, en að mikið sjávarflóð eftir 1700 hafi eytt honum. Tóftirnar standa merkilega vel ennþá, enda hlaðnar úr úrvals hraungrjóti, en vitna um mikið þröngbýli á mælikvarða nútíðar. Þarna er fallegur útsýnisstaður og sést annars vegar vestur yfir fjöruna og malarkambinn upp af henni, svo og túnið sem nú er víða þakið rusli og rekaviðarsprekum, en mest er þar þó af lábörðum hnullungum úr fjörunni. Sá ágangur hefur ugglaust alltaf verið fyrir hendi, en þá hefur grjótið verið fjarlægt jafnóðum. Út yfir tók í flóði og stórsjó 1958; þá brast varnargarður og eftir það seig á ógæfuhliðina. Hinsvegar sést af bæjarhólnum austur yfir hraunin og lónin sem bærinn dregur nafn sitt af. Eitt þeirra, Suðurtjörnin, er alveg við bæjarhólinn og merkilegt er að brunnur bæjarins var niðurgrafinn í tjörnina. Annað lón er lengra inni í hrauninu, Þessi hraunalón, svo og Brunntjörnin hjá Straumi, sem er samskonar náttúrufyrirbæri, eru undursamlega falleg og í þeim er merkilegt lífríki segja náttúrufræðingar. Á lognkyrrum degi speglast hraunhólar í miklum fjölbreytileika í lónunum og gegnum spegilmyndina sést botninn langar leiðir.
Hraunin-241Lónin þarna og við Straum eiga sér þá skýringu, að undir öllu hrauninu og raunar undir mestöllum Reykjanesskaga mun vera jarðsjór á talsverðu dýpi. Ofan á jarðsjónum flýtur ferskt jarðvatn, sem er eðlisléttara og blandast mjög takmarkað jarðsjónum. í lónunum gætir sjávarfalla. Jarðvatnið hækkar þegar fellur að og sjávarstraumur flæðir inn undir hraunin. Þessvegna hækkar í lónunum á flóði, en vatnið er samt alltaf ferskt. Sum lón verða þurr á fjöru en geta orðið tveggja metra djúp á flóði, til dæmis Jónsbúðartjörn út með Straumsvíkinni.
Lónakot er nefnt eftir lónunum sem ná drjúgan spöl taldar svo sér á parti sem náttúrufyrirbæri að þær eiga ekki sinn líka, hvorki hér né erlendis.
Ég kom fyrst að Lónakoti 1975 og málaði þá mynd af því sem eftir var af bænum, en sú mynd virðist vera glötuð. Eina myndin sem til er af Lónakotsbænum er líklega sú sem hér birtist; málverk Jóhanns Björnssonar, sem því miður er ekki ársett. Bærinn á mynd Jóhanns var naumast þekkjanlegur fyrir aldarfjórðungi; járn að hluta fokið af þökum og sperrur brotna. Nú er ekkert eftir af yfirgerðinni; öll hefur hún eyðst og fokið burt. Vestar á túninu var fjárhús; einnig það er fallið niður og tóftin full af spýtnabraki. Austar og innar í hrauninu standa grjótgarðar, en ekki er ljóst hvort þar voru túnblettir, eða einungis gerði, sem voru algeng og til þess ætiuð áður en girðingar komu til sögunnar að halda fénaði heima við. Austur af bænum, innan túngarðs, er sérkennilega sprunginn hraunhóll sem heitir Krumfótur. Fyrrum lá stígur suður í Lónakotssel og var hluti af samgöngukerfi Hraunanna. Nú liggur vegarslóði, fær aldrifsbílum, austur úr túninu og þræðir milli hraunhóla 2-3 km leið unz komið er á Keflavíkurveginn, en þar er þessum slóða lokað með keðju. Þetta er samt ágæt gönguleið og þá er farið framhjá allstórri hlöðu og fjárhúsum. Kornelíus Jónsson, þekktur úra- og skartgripakaupmaður við Skólavörðustíg, hefur átt helming Lónakots síðan um 1950 og rekið þar fjárbúskap ásamt fjölskyldu sinni. Nú eru þar nokkrar ær og fáeinir hestar á fóðrum, en heyja er ekki hægt að afla í Lónakoti og verður að kaupa fóðrið. Á sumrin er ánum sleppt í hraunið, en Lónakotsland er eins og fleygur: breiðast neðst, en mjókkar inn eftir og endar í Mið-Krossstapa.
Hraunin-239Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 segir að jarðardýrleiki Lónakots sé óviss, en eigandinn er „Kongl. Majestat“. Leiguliði kóngsins heitir Sigurður Oddleifsson og er eftirtektarvert, að landskuldin, xl álnir, skal greiðast í 8 kolatunnum heim til Bessastaða. Það eru sem sagt viðarkol sem Bessastaðavaldið heimtar í afgjald og fyrir utan alla vinnuna við kolagerðina má ætla að drjúgri spildu með kjarri hafi verið eytt árlega vegna þessa.
Þar kom að ábúandinn kvartaði um að skógurinn í Almenningi væri svo foreyddur, „að hann ei til treystist þar að safna kosti til landskuldargjaldsins.“ Þá var það gefið eftir að landskuldin mætti betalast með II vættum fiska, en leigur af leigukúgildum skyldu betalast í smjöri heim til Bessastaða. Auk þess fylgdu jörðinni kvaðir um mannslán til Bessastaða og skyldi bóndi fæða verkamanninn. Allt er þetta í samræmi við þá ánauð sem lögð var á leiguliða í næsta nágrenni Bessastaða og nefnir Jarðabókin fleira. Þar á meðal eru hríshestar „þegar kallaðir eru“, svo og „skipaferðir“. En manntalsárið 1703 eru sex manns í heimili í Lónakoti.
Um hlunnindi jarðarinnar segir í Jarðabókinni: „skógur hefur til forna verið, og er nú meira hrísríf, það brúkarjörðin til kolagjörðar og eldiviðar og stundum til að bjarga sauðpeningi í heyskorti.“ Bústofninn er 2 kýr, 2 kvígur, 21 ær, 5 sauðir, 7 lömb og 2 hross. Á heyfeng má fóðra 3 kýr, segir þar. Rekavon er sögð lítil, en sölvafjara er „hjálpleg fyrir heimamenn“, sömuleiðis hrognkelsafjara, en „heimræði má ekki kallast að sé hér, því lending er engin nema við voveiflega sjávarkletta…“ Hinsvegar fær ábúandi Lónakots að nota uppsátur á Óttarsstöðum þó það sé óþénugt. Engjar eru öngvar og ekki kemur það á óvart. Af virðingargerð um Lónakot 60 árum síðar, anno 1763, má ráða að kotið hafi heldur lasnast; þar séu bæjardyr með fornfálegu þili, en gat er fallið á göngin milli búrdyra og baðstofu. Veggir utan eru víða fallnir. Með sjónum er túngarður, mjögfallinn. „Þannig er Kongs-jörðin Lónakot af oss undirskrifuðum úttekin og álitin, eftir göfugs sýslumannsins befaling“, skrifa virðingarmennirnir Páll Þorleifsson og Guðmundur Ólafsson.

Straumur
straumur-232Af Hraunabæjunum er Straumur kunnastur og helgast einkum af því að glæsilegt timburhús í burstabæjarstíl hefur staðið þar í meira en hálfa öld og blasir við af Keflavikurveginum hjá Straumsvík. Þrátt fyrir álverið austan víkurinnar, aðeins snertuspöl frá, er Straumsvík með því fegurra í ríki náttúrunnar við Faxaflóa. Hún lætur samt ekki mikið yfir sér víkin sú arna; þar eru hvorki sjávarhamrar eða skriður í sjó fram né neitt það sem kalla má stórbrotið. Það er hin smágerða fegurð sem þarna á sitt konungsríki og hún er aldrei eins frá degi til dags og síbreytileg frá morgni til kvölds vegna þess að birtan ræður úrslitum um það hvernig hún nýtur sín, svo og munurinn á flóði og fjöru. Menn hafa að sönnu lítinn tíma til að gaumgæfa þetta á fullri ferð um Keflavíkurveginn, en það er meira en ómaksins virði að staldra við, leggja bílnum og ganga niður að víkinni þar sem húsin í Straumi speglast oft á lognkyrrum dögum og hraunið gengur í samband við vatnið. Það er ótrúlegt, en samt satt, að stórhuga menn höfðu einhverntíma í hyggju að gera uppfyllingu í víkina; eyða henni og byggja þar þilplötuverksmiðju.
Straumur-531Umhverfi Straums er þó ef til vill ævintýralegast við Brunntjörn, lítið eitt vestar, þar sem bröttum hraunhóli með fallegum hraunreipum snarhallar niður að vatninu og speglast í því á lygnum degi. Hafa lærðar ritgerðir verið skrifaðar um sérkennilegt lífríki í Brunntjörn, til að mynda dvergbleikju, sem ekki er til annars staðar en í lónunum þarna og virðist ganga milli þeirra, enda mikill vatnsgangur undir hrauninu. Dvergbleikjan er sérkennileg í útlití og ekki beint gáfuleg. En hún plumar sig við þessar aðstæður og segir svo í samantekt þriggja náttúrufræðinga sem birtist í Náttúrfræðingnum 1998: „Það að dvergbleikja skyldi finnast þar er eitt og sér markvert í ljósi þess hve fátítt þetta bleikjuafbrigði er í vatnakerfum landsins. Einnig kemur þar tál að lífshættir bleikjunnar á þessu svæði eru einstakir, því ekki er vitað til þess annars staðar að dvergbleikjur nýti sér í senn umhverfi ferskvatns og sjávar.“
Í tjörnunum við Straumsvík verður verulegur munur á vatnshæð eftir sjávarföllum eins og í lónunum við Lónakot. Á útfiri verður stríður straumur milli tjarnanna og kemur í ljós að lækir og jafnvel miðlungsstór á sprettur fram undan hrauninu. Sumpart gæti það verið Kaldá sem rennur á víð og dreif undir hraunin allar götur vestur í Straumsvík og sumpart neðanhraunsvötn með upptök sunnar við fjallgarðinn.
Straumur er stór jörð sem bezt sést af því að hún á land til móts við Krýsuvík. Austanmegin er land Þorbjarnarstaða, en land Óttarsstaða að vestan. Straumur hafði hinsvegar þann annmarka sem bújörð, að þar er nánast ekkert tún og heima við er varla hægt að tala um ræktanlegt land. Ekki lét Bjarni Bjarnason, síðar skólastjóri á Laugarvatni, það aftra sér frá því að hefja fjárbúskap í stórum stíl í Straumi þegar hann var skólastjóri í Hafnarfirði. Hann hefur ekki fundið kröftum sínum fullt viðnám við kennslu og skólastjórn svo kappsfullur og átakamikill sem hann var. Bjarni eignaðist Straum og hóf búskap þar 1918, þá ókvæntur. Fallegur burstabær sem fyrir var á jörðinni brann til kaldra kola 1926, segir Ragnhildur Guðmundsdóttir frá Óttarsstöðum, sem horfði á eldsvoðann. En Bjarni hefur ekki látið þetta áfall draga úr sér kjarkinn, heldur snúið sér að því á næsta ári að koma upp nýju húsi.
Með fullu starfi varð Bjarni að byggja búskapinn í Straumi á aðkeyptu vinnuafli og ólíklegt að nokkur maður hafi rekið stærra bú í Hraunum fyrr eða síðar. Ég hef fyrir því orð Þorkels sonar hans á Laugarvatni, að Bjarni hafi haft 400 fjár í Straumi, en Þorkell fæddist í Straumi 1929, sama ár og Bjarni flutti austur að Laugarvatni. Búskap hans í Straumi lauk þó ekki fyrr en 1930. Nærri má geta að mjög hefur verið treyst á vetrarbeit, en samt verður ekki hjá því komizt að eiga allverulegan heyfeng handa 400 fjár, ef jarðbönn verða. Þeirra heyja varð aðeins aflað að litlu leyti í Straumi og mun Bjarni hafa heyjað austur í Árnessýslu.
Alfaraleid-741Lítið eða ekki neitt sést nú eftir af fjárhúsunum, en eins og áður var vikið að, byggði Bjarni af verulegum stórhug hús í burstabæjarstíl, ólíkt þeim lágreistu byggingum sem fyrir voru á Hraunabæjunum. Húsið í Straumi stendur enn; það er staðarprýði og fellur ákaflega vel að umhverfinu.
Ekki kemur á óvart að höfundur hússins er Guðjón Samúelsson, arkitekt og húsameistari ríldsins, og hefur hann þá teiknað húsið um líkt leyti og Laugarvatnsskólann. Teikningin er til og merkt manni sem að líkindum hefur starfað hjá Guðjóni, en Þorkell Bjarnason á Laugarvatni segir, og hefur það eftir fóður sínum, að Guðjón sé arkitektinn. Það er einnig staðfest á minningarskildi sem upp var settur í Straumi. Ýmisskonar búskapur var um árabil í Straumi, þar á meðal svínabú. í meira en 20 ár bjó enginn í húsinu og það var að grotna niður, bæði að innan og utan. Sáu sumir þann kost vænstan að rífa húsið, en ekki varð þó af því og Hafnfirðingar sýndu þann metnað að vilja varðveita það.
Sett var á laggirnar menningarmiðstöð í Straumi með vinnuaðstöðu fyrir listamenn. Sverrir Ólafsson myndhöggvari hefur frá upphafi verið forstöðumaður listamiðstöðvarinnar, auk þess sem hann hefur eigin vinnustofu í Straumi. Það kom í hans hlut að endurgera húsið að innan og utan með fulltingi Hafnarfjarðarbæjar og styrk frá Álverinu og einstaklingum.
Alfaraleid-921Hlöðunni hefur verið breytt í 150 fermetra sýningarsal eða vinnustofu sem fær birtu frá þrem kvistgluggum á framhliðinni. Þar fyrir aftan er stór vinnustofa með þakglugga og birtu eins og allir myndlistarmenn sækjast eftir. Á þeim áratug sem listamiðstöðin í Straumi hefur starfað hafa um 1000 listamenn dvalið í Straumi; fólk úr öllum listgreinum og frá 32 þjóðlöndum. Í þeim hópi eru rithöfundar, kvikmyndagerðar-menn, tónlistarfólk, arkitektar, hönnuðir, málarar, myndhöggvarar og leirlistafólk. Í íbúðarhúsinu eru íbúðir fyrir listamenn; þar geta búið 5 í einu. Mikil spurn er eftir vinnustofum í Straumi, sem menningarmálanefnd Hafnarfjarðar og forstöðumaðurinn ráðstafa, enda eru allskonar verkfæri látin í té.

Straumsland náði lítið eitt út með Straumsvíkinni að norðan en fyrst og fremst er það í hrauninu fyrir sunnan. Bæjarstæðið í Straumi var fyrr á tímum á sama stað, en túnin voru ekki annað en smáblettir og hefur líklega munað mest um Lambhúsgerði sem þekkist af hlöðnum grjótgarði lítið eitt vestan við Straum. Við bæinn var sjálft Straumstúnið, sem aðeins var smáskiki, og sunnan við Keflavíkurveginn var ein skák til viðbótar og grjótgarður í kring; þar hét Fagrivöllur.
Þar sem Keflavíkurvegurinn liggur fyrir botni Straumsvíkur stóð áður hjáleigan Péturskot og eru Péturskotsvör og Straumstjarnir þar niður af. Austan við Ósinn var býlið Litli-Lambhagi en sunnar, undir brún Kapelluhrauns, var hjáleigan Gerði. Þar er nú sumarbústaður.

Þorbjarnarstaðir
Thorbjarnarstadir-941Svo að segja beint suður af Straumsvík, snertuspöl handan við Keflavíkurveginn, eru rústir bæjarins á Þorbjarnarstöðum. Ekki ber mikið á þeim; grasbeðjan miskunnar sig yfir þessi fátæklegu mannanna verk. Um búskap og mannlíf á Þorbjarnarstöðum er næsta lítið að finna í rituðum heimildum, en búsetu þar lauk eftir 1930. Svo er að sjá af tóftunum að þarna hafi alla tíð verið torfbær. Í kring er talsvert graslendi sem verið hefur tún. Hlaðnir túngarðar standa enn uppi, svo og Þorbjarnarstaðarétt. Einn af mörgum fallegum blettum í landi Þorbjarnarstaða, sem nú er í eigu Hafnarfjarðar, er við tjarnirnar sem verða inn af Straumsvík. Þar eru silfurtærar upppsprettur undan hrauninu, vatnsból sem ekki hefur brugðist. Bærinn fór í eyði um 1930.

Þýzkubúð – þar sem þýzkir höndluðu

thyskabud-232

Steinsteypuöldin náði ekki til Hraunabæjanna svo teljandi væri; þó á að heita svo að standi uppi íbúðarhúsið Þýzkubúð. Hvort þessi hjáleiga frá Straumi hefur einhverntíma verið nefnd Þýzkabúð er ekki vitað. En samkvæmt talshætti í Hraununum heitir húsið Þýzkubúð og er nafnið rakið til þess að Straumsvík var verzlunarstaður frá árinu 1400 og fram yfir 1600, en þá vöndu þýzkir og enskir kaupmenn komur sínar til landsins. Þá voru verzlunarbúðir þýzkra höndlara settar upp við varir út með Straumsvíkinni og þótt aldir hafi liðið eru nöfnin enn við lýði: Þýzkubúð og Þýzkubúðarvarir syðri og nyrðri.
Nú stendur íbúðarhúsið í Þýzkubúð eitt til minningar um verzlunarstaðinn og hjáleiguna sem síðan reis þar. Húsið er af sér gengið, opið fyrir veðrum og vindi, hryggðarmynd. Samt var þetta steinsteypt hús, en hvenær það reis virðist enginn vita með vissu; það var snemma á öldinni. Síðar var byggt við það einhverskonar bíslag sem hangir uppi. Á barnsaldri átti Eiríkur Smith listmálari heima um tíma í Þýzkubúð.

Jónsbúð
Lítið eitt utar með víkinni og örskammt frá sjávarkambinum og Jónsbúðartjörn var þurrabúðin eða hjáleigan Jónsbúð á örlitlum túnbletti. Grjótgarður í kring, hraunhólar og grasigrónir þollar. Jónsbúðarvör er beint niður Hraunin-254af bænum og skaga Skötuklettar út í Straumsvíkina sunnan við vörina. Tvær samliggjandi tóftir sýna hvernig bærinn hefur verið. Grafnar voru í Jónsbúð prufuholur og Fornleifafræðistofan hefur staðið að samantekt þar sem sjá má niðurstöður Bjarna F. Einarssonar fornleifafræðings. Líklega var ekki eftir neinu stórkostlegu að slægjast, enda fátt markvert sem kom í ljós. Þó voru rústir bæjarins nær óspilltar; ekkert jarðrask hafði átt sér stað þar. Ástæða er til þess að vekja athygli á þessum stað vegna þess að að minjar af þessu tagi eru hvergi sýnilegar lengur á höfuðborgarsvæðinu. Staðurinn geymir allar þær minjar sem við má búast að sjáist eftir þurrabúð eða hjáleigu; þar á meðal bæjarhús, túngarð, skepnuhús, vör, vörslugarð, hjall, sólþurrkunarreit og vatnsból.
Jonsbud-541Tvær prufuholur sem grafnar voru í gólf bæjarhúsanna leiddu í ljós brennd og óbrennd bein fiska, fugla og spendýra. Kindakjöt, fiskur og fugl hefur verið á borðum í Jónsbúð og svartfugl gæti hafa verið veiddur til matar. Þrátt fyrir túna- og slægjuleysi hefur einhvern veginn verið aflað heyja handa einni kú. Önnur tóftin leiðir í ljós að þar hefur verið heilþil og bæjardyr, en jafnframt fjós, og sást það á flórnum. Frá fjósinu hefur síðan verið gengið lítið eitt upp í baðstofuna, enda var sú skipan vel þekkt og hugsuð til að nýta hitann frá blessaðri skepnunni.
Á baðstofunni hefur verið hálfþil og gluggi. Það er þurrabúðargerð hin yngri, sem svo er nefnd, en eldri gerðin var alveg án þilja, glugga og bursta; þesskonar bæir urðu nánast eins og hverjir aðrir grasi grónir hólar í landslaginu. Ekki er vitað um upphaf Jónsbúðar en búið var þar á 19. öldinni og eitthvað fram á þá 20. Tvö steinhlaðin mannvirki vekja athygli þegar ekið er eftir vegarspottanum vestur frá Straumi. Annarsvegar er mannhæðarhá tóft úr tilhöggnu og steinlímdu grjóti. Hún heitir Gíslatóft og var í henni útieldhús frá Óttarsstöðum eystri.Vestar er Eyðikot, sem nú er sumarbústaður í burstabæjarstíl og með fagurlega hlöðnum veggum úr hraungrjóti og veruleg prýði er að grjótgarði framan við húsin. Þarna stóð áður hjáleiga með sama nafni; einnig nefnd Óttarsstaðagerði, sem Stefán Rafn byggingameistari eignaðist og eiga hann og Eirfkur bróðir Thorolfs Smith fréttamanns heiðurinn af bænum eða sumarbústaðnum eins og hann er nú.

Óttarsstaðir eystri
ottarsstadir-232Umhverfi Óttarsstaðabæjanna er búsældarlegt á móti því sem menn hafa þurft að búa við á öðrum Hraunabæjum. Þarna eru grasgefið og ræktarleg tún sem hestamenn virðast nýta til beitar.
Í Jarðabókinni frá því skömmu eftir 1700 er einungis nefnd ein jörð sem heitir Óttarstaðir, en að auki þrjár hjáleigur; Eyðikotið var eitt af þeim. Jarðardýrleikinn er óviss, segir Jarðabókin og jafn óvisst er hvort átt sé við báðar Óttarsstaðajarðirnar, en kóngurinn á slotið og leigur betalast í smjöri heim til Bessastaða. Auk þess eru kvaðir um mannlán á vertíð, „item tveir hríshestar“ sem taka á í Almenningi og „leverast in natura“ heim til Bessastaða.
En það er sama sagan og í Lónakoti og áður var nefnt: Ábúandinn kvartar yfir því við Bessastaðavaldið „að ærið bágt sé orðið hrís að útvega og meinar sér léttara vera fyrir þessa tvo hríshesta að betala tíu fiska, þá guð gefur Sskinn afsjónum“.
Fimm kýrfóður á túnið að gefa af sér og hefur þótt ekki lítil búsæld í Hraunum. Af hlunnindum nefnir Jarðabókin útigang „þá mestu hörkuvetur ei inn falla“, hrognkelsatekja er í lónum þegar fjarar, heimræði er árið um kring, lending í meðallagi, en lítil rekavon. Gallar jarðarinnar eru hinsvegar að engjar eru ekki til, að gripir farast stundum í gjám þegar snjóar yfir liggja og afleitt er það líka að torfstunga, þ.e. torfrista, er nánast engin.
ottarsstadir-233Vatn var sótt í djúpan brunn í túninu á aðfallinu, en vatnið í honum var alltaf ferskt. Þar gilti sama lögmál og í lónunum sem áður voru nefnd. Þessi brunnur er með grjóthleðslu að innanverðu, en því miður hálffullur af plasti og öðru sem fokið hefur í hann.
Gamalt íbúðarhús er á Óttarsstöðum eystri, en það er ónýtt vegna hirðuleysis. Í gegnum brotna glugga og opnar dyr eiga snjór, regn og vindar greiða leið, en á hlaðinu skartar vörubílshræ. Annað bílhræ er í fallega hlaðinni tóft lítið eitt sunnar.
Óttarsstaðahúsið er samt sögulega merkilegt. Upphaf þess má rekja til skipsstrands sem varð við Þórshöfn, skammt sunnan við Stafnes árið 1881. Þá rak kaupfarið Jamestown mannlaust að landi og var bjargað úr því góðum feng af dýrindis húsaviði, um 100 þúsund plönkum. Þótti þetta mikil himnasending í timburskortinum og risu af þessum viðum mörg ný hús suður með sjó og þetta eina hús í Hraununum, á Óttarstöðum eystri. Húsið var síðar bárujárnsklætt. Áður hafði bærinn á Óttarsstöðum eystri verið vestar, uppi í brekkunni hjá vesturbænum. Fátt er þar til minja um hann annað en hlöðuveggir sem hafa verið fágætlega vel hlaðnir og standa enn.
Síðustu ábúendur á jörðinni, hjónin Guðrún Bergsteinsdóttir og Sigurður Kristinn Sigurðsson hættu búskap þar 1952. Síðasti maður sem hafði fasta búsetu í Hraunum var hinsvegar Guðmundur sonur þeirra. Hann var bátasmiður og byggði sér hús niðri við fjörukambinn, en það er nú horfið. Guðmundur bátasmiður lézt 1985. Þennan jarðarpart, sem talinn var 5 ha, á fjölskyldan þó ekki lengur. Guðni Ívar Oddsson keypti hann 1979 og flutti síðan til Ameríku. Hann er dáinn en sonur hans, Paul I. Oddsson, erfði jörðina og hefur hann aldrei til Íslands komið.

Óttarsstaðir vestri
ottarsstadir-234Spölkorni vestar og uppi á hæð stendur bærinn á Óttarsstöðum vestri, fallega varðveittur timburbær, bárujárnsklæddur, og gefur góða hugmynd um útlit bæja snemma á öldinni áður en steinsteypuöld hófst. Þarna er fallegt bæjarstæði og lfklega það elzta í Hraunum, einkum er víðsýnt út yfir Norðurtúnið, Langabakka og flóann til norðurs. Til suðurs sést minna en ætla mætti, því hraunbrúnin þar er há. Vestur af bænum hefur myndast hryggur tignarlegra hraunhóla og eftir honum endilöngum er frábærlega fallega hlaðinn grjótgarður. Austan við bæinn, þar sem eru grasi grónar lautir, er merkilegur hraunhóll í einni lautinni. Hann er svo sprunginn að hann er ekki kallaður hóll, heldur Hrafnagjá, enda hægt að ganga á jafnsléttu í gegnum hann á ýmsa vegu. Munnmæli herma að kirkjugarður hafi verið hjá Óttarsstöðum og hefur verið talið að enn móti fyrir honum. Þar eru og leifar af bænahúsi.
Síðustu ábúendur á Óttarsstöðum vestri voru hjónin Áslaug Jónsdóttir og Guðmundur Ingvarsson frá Ketilvöllum í Laugardal. Þau hófu búskap þar 1918, keyptu jörðina þá og bjuggu þar til 1966, en dóu þá með þriggja vikna millibili.
Þau Óttarsstaðahjón áttu tvær dætur, Jónínu og Ragnheiði, sem er 84 ára og lét greinarhöfundi ýmislegt gagnlegt í té. Hún minnist þess úr föðurhúsum að faðir hennar sló allt túnið með orfi og ljá, enda var það ekki véltækt. Bústofninn var um 100 kindur þegar mest var, einn hestur og tvær kýr. Síðustu fimm árin bjuggu þau aðeins með kindur.
Ragnheiður minnist þess að fénu var haldið að fjörubeit og þá staðið yfir því, en langmest var þó beitt á hraunið. Faðir hennar og Sigurður bóndi á Óttarsstöðum eystri reru saman til fiskjar þegar gaf á sjó, en þeir fóru aðeins skammt út fyrir og aldrei var vél í bátnum. Vestur með sjónum voru fiskbyrgi, sem enn sjást. Þar var fiskurinn þurrkaður. Börn Ragnheiðar og Jónínu eru núverandi eigendur jarðarinnar og þau eiga heiðurinn af því að halda bænum í góðu horfi.
ottarsstadir-rett-stekkurVestur frá Óttarsstaðavör er malarkamburinn næstum þakinn lábörðum steinum, sem einu sinni voru hraunklappir og hafrótið braut upp. Það kom í ljós í Surtsey að brimið við ströndina þurfti ekki ýkja langan tíma til þess að gera lábarinn hnullung úr hrjúfum hraunsteini. En vörin hefur myndazt með því að hraunrani, sem oft flæðir yfir, girðir fyrir að norðanverðu. Þar fyrir utan snardýpkar skyndilega, sögðu mér kafarar sem voru að skoða sig um á botninum.
En nú ýtir enginn lengur úr Óttarsstaðavör til að draga fisk úr sjó og eiga eitthvað í soðið. Og enginn horfir lengur út á flóann og hefur áhyggjur af því að Garðhverfingar séu rónir á undan Hraunamönnum eins og segir í húsganginum.
Fátt stendur eftir annað en náttúran í allri sinni dýrð og fegurðin. Þeir sem fara með skipulagsmál í Hafnarfirði virðast ekki gefa mikið fyrir þesskonar landkosti. Að minnsta kosti var búið að gera ráð fyrir því á aðalskipulagi frá 1997 að allt svæðið frá Straumsvík og vestur fyrir Óttarsstaði yrði gert að iðnaðar- og athafnasvæði í tengslum við nýja höfn. Síðar hefur því lítillega verið breytt; meðal annars vegna verndaðra fornminja á Óttarstöðum. Eftir stendur að megnið af svæðinu á að eyðileggja; nútíminn mun um síðir senda sínar jarðýtur á hraunið nema einhver hulinn verndarkraftur komi í veg fyrir það.“

Helstu heimildir:
-Óprentuð örnefnaskrá Gísla Sigurðssonar lögregluþjóns í Hafnarfirði.
-Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns.
-Hraunin við Straumsvík, Kynningarbæklingur um útivistarsvæði í Hraununum. Útg. af Umhverfis- og útivistarfélagi Hafnarfjarðar.
-Jónatan Garðarsson: útivistarperlan í Hraunum.
-Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson: Hraun í nágrenni Straumsvíkur, Náttúrufræðingurinn, 67. árg. 3.-4. hefti, 1998.
-Jóhannes Sturiaugsson, Ingi Rúnar Jónsson,
-Stefán Eiríkur Stefánsson og Sigurður Guðjónsson: Dvergbleikja á mótum ferskvatns og sjávar.
-Náttúrufræðingurinn, 67. árg. 3.-4. hefti, 1998.
-Arnar Ingólfsson: Lífríki í tjörnum við Straumsvík. Náttúrufræðingurinn, 67. árg. 3.-4. hefti, 1998.
-Munnlegar heimildir: Ragnheiður Guðmundsdóttir frá Óttarsstöðum.

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, 18. mars 2000, bls. 10-12.
-Lesbók Morgunblaðsins, 25. mars 2000, bls. 4-6.

Jónsbúð

Jónsbúð – tilgáta ÓSÁ.