Í Sjómannadagsblaðinu 1992 eru greinar um tilurð, upphaf og þróunar byggðar í Hafnarfirði, m.a. undir fyrirsögninni „Miklar hamfarir og erfið fæðing„:
„Það var ekki lítið, sem gekk á fyrir máttarvöldunum að búa til Hafnarfjörð. Í sinni eigin sköpun gekk það svo til fyrir hólmanum, sem fékk nafnið Ísland að á einu sínu aldursstigi var yfir honum blágrýtishella, sem síðan lagðist yfir ís, og ísinn bráðnaði og hólminn varð blómum skreyttur, og enn kom ísinn og lagðist yfir blómin, en ísinn átti sér svarinn óvin. Hann var eldurinn, sem braust um undir blágrýtishellunum og ísnum eins og tröll í fjötrum, og tók að sprengja helluna og bræða ísinn og þá tók hraunið að renna og hraunin kólnuðu í gjallhrúgur og hraunið rann í sjó fram og það tóku að myndast skagar útúr hólmanum og víkur inn í hann.
Hafnarfjörður skömmu fyrir 1900 – mynd í eigu Byggðasafns Hafnarfjarðar.
Allt gekk þetta með miklum seinagangi, því að í þennan tíma var ekki til mannskepnan, sem sífellt er að flýta sér og mælir allan tíma í hænufetum, sem hún kallar ár. Hún gefur og öllu sín nöfn, þessi mannskepna. Og þegar gjallhringarnir kólnuðu og urðu blágrýtis- og móbergshrúgur kallaði hún þau fjöll, og eitt fjallið nefndi hún Vífilsfell, en skagann, sem runnið hafði fram úr því fjalli eða þeim fjallaklasa og storknaði í hraunhellu, var gefið nafnið Romshvalanes, og hefur það nafn trúlega tekið til þess skaga alls, sem nú er nefndur Reykjanesskagi.
Vífilfell var heitið eftir fóthvötum náunga, sem bjó á Vífilsstöðum. Sá hafði hlaupið eftir endilangri suðurströnd hólmans í leit að framtíðar búsetursstað fyrir sinn húsbónda. Kannski vilja Hafnfirðingar sem minnst um þennan mann tala. Það var nefnilega hann sem fann Reykjavík. Vífill var svo fótfrár, að þegar hann vildi róa til fiskjar, hljóp hann frá bústað sínum uppá þetta fjall að gá til veðurs áður en hann reri. Hann rann þetta sem hind á sléttum velli, þó á 700 metra bratta væri að sækja og spottinn 10 km. eða svo í loftlínu. Síðan hljóp hann til skips að róa eða heim í rúm til kellu sinnar aftur. Margt barnið hefur orðið til um aldirnar, þegar menn hættu við að róa.
Hvaleyrarbærinn 1772 (settur í nútíma samhengi). Varða til minningar um Flóka Valgarðsson, þess er elst er getið, í forgrunni.
Í fyrrgreindum gauragangi í jarðskorpunni hafði Hafnarfjörður myndast, af Hvaleyrarhöfða á annan veginn, en Álftanesinu á hinn veginn, og varð hin mesta völundarsmíð af firði.
Menn vita að vísu hvernig nafnið Hvaleyri varð til. Þeirri eyri gaf nafn hinn fyrsti fiskimaður hólmans, svo ákafur til veiðanna, að hann gætti ekki að afla heyja, og festist þessi veiðiáhugi með þeim, sem fylgdu í fótspor þessa náunga. Hann hafði í hrakningum rekizt inn á hinn skjólgóða fjörð og fundið þar hval rekinn á eyri, sem hann gaf þá nafnið Hvaleyri. En þótt vitað sé gerla, hvernig nafnið Hvaleyri er tilkomið veit enginn hver gaf firðinum nafnið Hafnarfjörður, en fjörðurinn ber nafn sitt með sóma, hann er lífhöfn í öllum veðrum með góðri skipgengri rennu inná öruggt skipalægi. Það mun áreiðanlega rétt, sem séra Árni Helgason segir að nafngiftin hefir upphaflega átt við fjörðinn milli Hraunsness og Melshöfða.
Það er ólíklegt að víkin eða reyndar bara vogurinn milli Hvaleyrarhöfða og Skerseyrar hefði verið kölluð fjörður, á tíma íslenzku nafngiftarinnar. Það hefur gerzt hið sama með Hafnarfjörð og ísafjörð. Kaupstaðir tóku nöfn sín af fjörðum, sem þeir stóðu við. Fjarðarnafnið festist á þessum vog, þar sem kaupstaðurinn reis. Sigurður Skúlason segir að „gamlar skoðanir séu lítils virði í þessu efni“. Það er undarleg ályktun.
Nafninu bregður fyrir í Hauksbókarhandriti um 1300 í sambandi við nafngift Flóka á Hvaleyri, en síðan ekki fyrr en í annálum á 15.du öld.
Heitið „Fjörðurinn“ er síðara tíma heiti á Hafnarfirði í máli manna, og einkum bæjarbúa sjálfra og Reykvíkinga, og líklega eru engir landsmenn í vafa um um við hvað sé átt þegar sagt er að maður eigi heima í „Firðinum“, það á enginn fjörður nema Hafnarfjörður. Líkt og það tók tímann að búa til Hafnarfjörð, reyndust seint búnir til Gaflarar, enda umhugsunarefni.
Hafnarfjörður 1902 – herforingjaráðskort með örnefnum.
Átti yfirleitt að búa til Krata. Það varð að ráði til jafnvægis í náttúrunni. Það er bókstaflega ekkert vitað, hvort í þessum forláta firði var nokkur sála búsett svo öldum skipti.
Hvaleyri er, sem fyrr er lýst, nefnd í Landnámu, og því nafni bregður fyrir, segir Sigurður Skúlason í sinni Hafnarfjarðarsögu, þrisvar sinnum á 14du öld, og þá fyrst árið 1343 í sambandi við skipsskaða. „Kristínarsúðin“ er sögð hafa brotnað við eyrina. Þar næst í kirkjugerningi 1391 og 1394 er sagt í annál að norskt skip hafi tekið þar land af hafi.
Nú er það ekki að efa að skipaferðir hafa verið um fjörðinn frá fyrstu tíð landnáms og eitthvert fólk þó nafnlaust sé, bollokað með rolluskjátur, lagt net í Hvaleyrartjörn og dorgað í firðinum fyrir fisk, en það er ekki svo mjög undarlegt að við fjörðinn festist engin byggð, sem sögur fari af fyrr en það verður að útlendingar gera garðinn frægan.
Fjörðurinn var einangraður, umkringdur hraunkarganum illum yfirferðar og engar búsældarlegar sveitir á næstu grösum og því um langan veg og torfæran að sækja kaupstefnur, ef skip hefði komið af hafi með varning, siglingamenn hylltust til að taka hafnir þar sem þeir lágu fyrir fjölmennum sveitum. Þá hefur og verið svo fámennt við fjörðinn að ekki hefur verið leitað þangað í liðsafnaði og hetjur ekki riðið þar um héruð til mannvíga.
Það urðu sem sé útlendingar, sem leystu Hafnarfjörð úr álögum einangrunar og færðu staðinn inní landsöguna. Útlendingar hafa alla tíð verið hrifnir af þessarri höfn og komið mikið við sögu staðarins. Þegar útlendingum verður leyft að landa hér afla, væri það ekki undrunarefni að þeir sæktu mikið til Hafnarfjarðar.
Hafnarfjörður.
Það er um það löng saga í Sögu Hafnarfjarðar hinni fyrri, þegar Ríkharður hinn enski valdi sér Hafnarfjörð fyrstur manna svo sögur fari af sem verzlunarstað 1412, en einmitt það ár hófust siglingar Breta hingað til kaupskapar og fiskveiða.
„Sumarið 1415 var mikil erlend sigling til Hafnarfjarðar. Þangað sigldi þá knör sá, er Árni Ólafsson Skálholtsbiskup hafði látið gera erlendis og komið síðan á út hingað. En þetta sumar er einnig sagt, að 6 skip frá Englandi hafi legið í Hafnarfirði. Gæti það bent til þess, að staðurinn hafi þá þegar verið orðinn miðstöð enskra siglinga hér við land.
Skipverjar á einu þessarra ensku skipa rændu nokkurri skreið bæði á Romshvalanesi og í Vestmannaeyjum og var slíkt ekki eindæma um Englendinga, sem hingað komu á þessum tíma. Með einu þessarra skipa sigldi Vigfús Ívarsson, fyrrverandi hriðstjóri til Englands.“ Vigfús sigldi með fullt skip skreiðar en skreiðarverð var þá hátt í Englandi.
En Englendingum reyndist ekki lengi friðsamt í Hafnarfirði. Bæði Hansakaupmenn og Hollendingar tóku að leita eftir bækistöð uppúr 1471. Stríðið um Hafnarfjörð stóð þá mest milli Þjóðverja og Englendinga og fóru Englendingar mjög halloka í þeim viðskiptum, en létu sig þó ekki, þeirri þjóð er ósýnt en að láta sig, og héldu Englendingar áfram að auka sókn sína hingað til lands og voru fjölmennir víða sunnanlands og vestan allt norður í Jökulfirði og suður í Vestmannaeyjar.
Og ekki hefur Þjóðverjum tekizt að hrekja þá með öllu úr Firðinum fyrr en kom fram undir 1520. Eftir það sátu Þjóðverjarnir að höfninni og bjuggu vel um sig á Óseyri. Alls sóttu Þjóðverjar á 39 hafnir hér við land og er af því mikil saga hversu valdamiklir þeir voru orðnir á 16. öldinni og jafnvel svo að þeir létu orðið til sín taka störf og samþykktir Alþingis. Allt framferði Þjóðverjanna féll landsmönnum miklu betur en Englendinga og miklu betra skipulag var á verzlunarháttum, og var Hafnarfjörður þeirra aðal bækistöð, og þar fastir kaupmenn, sem reistu hús myndarleg og kirkju. Veldi Hamborgara stóð með miklum blóma allt til 1543 að Danakonungur lét gera upptæka alla þýzka fiskibáta 40-50 skip, sem gengu frá Suðurnesjum og aðrar eignir Þjóðverja þar.
Veldi Hamborgara fór að hnigna eftir þetta og með Einokun 1602, misstu Þjóðverjar verzlunarleyfi sitt (1603) í Hafnarfirði. En ekki var að fullu slitið sambandi Hamborgara og Hafnafjarðar fyrr en á þriðja tug 17du aldar.“
Í framhaldinu tók danska einokunarverslunin við frá 1602-1787. Sigurður Skúlason, skrásetjari, kveður Konungsverzlun með þessum orðum:
„Með þessum hætti varð Hafnarfjörður mesta fiskihöfn Íslands í lok
einokunartímabilsins. Hafngæði og lega fjarðarins gerðu hann enn á ný að þýðingarmestu verzlunar- og fiskistöð landsins. Á uppdrætti af firðinum, sem gerður var um þessar mundir, sjást auk verzlunarhúsanna í Akurgerði, verzlunarhúsið á Langeyri, íbúðarhús stýrimanna og geymsluhús (Fiske Jagternes Huus) á Hvaleyri. Í Hvaleyrartjörn lágu fiskijaktirnar að vetrarlagi, en aðalsaltfiskverkunin fór fram á Langeyri, norðan fjarðarins. Þar lögðust fiskihúkkorturnar fyrir akkerum, meðan skipað var upp úr þeim, en ekki máttu þær liggja utar en svo, að Keili bæri beint yfir Hvaleyrarhöfða, vegna grýtts sjávarbotns.
Þegar kóngur hafði tapað í fimm árin, 1781-86 á Íslandsverzlun sinni ákvað hann að tapa ekki meiru. Honum þótti nú flest fullreynt um þessa Íslandsverzlun og sá þann kostinn vænstan að gefa hana frjálsa. Ekki tókst þó vel til um byrjunina fyrir Hafnarfjörð sem verzlunarstað.
Hafnarfjörður.
Þann 6. júní 1787 var auglýst með tilskipun að verzlunin væri gefin frjáls við alla þegna Danakonungs, en um haustið (17. nóv.) var einnig gefin út tilskipun um kaupstaði í landinu, og fengu þá nokkrir verzlunarstaðir kaupstaðarréttindi, og urðu höfuðverzlunarstaðir í verzlunarumdæmum eða kaupsviðum og hétu þetta „autoseraðir útliggjarastaðir“. Þeir voru: Reykjavík, Vestmannaeyjar, Eskifjörður, Eyjafjörður, Ísafjörður og Grundarfjörður.
Hafnarfjörður varð þarna útundan. Hann var aðeins „autoriseraður höndlunarstaður“ í umdæmi Reykjavíkur, en kaupsvið Reykjavíkur ákveðið Gullbringu- og Kjósarsýsla og Borgarfjarðar- og Mýrasýsla vestur að Hítará.
Með þessari tilskipan var það staðfest af stjórnarvöldum að Reykjavík skyldi sitja yfir hlut Hafnarfjarðar sem verzlunarstaður.
Það átti ekki af Hafnarfirði að ganga, að ráðamenn hefðu litla trú á staðnum sem framtíðar verzlunarstað.
Árið 1850 hafði danska innanríkisráðuneytið spurzt fyrir um það hjá stiftamtmanninum hvort Hafnarfjörður ætti að telja til þeirra hafna, sem væru hentugar til að vera meiriháttar verzlunarstaðir, þar sem kaupskip gætu lagzt svo, að vörum yrði skipað upp.
Stiftamtmaðurinn snéri sér til sýslumanns Gullbringu- og Kjósarsýslu og fól honum að gefa svarið.
í stuttu máli sagt taldi sýslumaður allt úr um Hafnarfjörð, sem gerlegt væri að byggja upp sem stóra verzlunarhöfn. Byggingarsvæðið í Hafnarfirði væri orðið svo þröngt að eins og sakir stæðu væri naumast hægt að reisa þar sæmileg verzlunarhús, hvað þá heldur mörg. Verzlanir þær, sem fyrir eru á staðnum geti ekki látið neitt af sínum lóðum. Ekki sé hægt að knýja Knudtzon stórkaupmann til að láta neitt af sínu landi, sem hann eigi með fullum rétti og samkvæmt eldri ályktun. (Hér mun átt við Akurgerði, eða landið vestan við fjörðinn). Hamarskot mátti heita fullbyggt, þar stæðu tvær verzlanir og búið að úthluta lóð fyrir þriðju verzlunina. í Hamarskotslandi sé því ekki lengur um neina verzlunarlóð að ræða sem geti náð til sjávar, svo sem sjálfgert sé að verði að vera.
Í Ófriðarstaðalandi sé óbyggð landræma meðfram sjónum, að vísu mætti reisa þar nokkrar byggingar eða tvær verzlanir, en slíkt yrði kostnaðarsamt, þar sem landið væri lágt, og verja yrði húsin fyrir sjógangi og ofan við þessa landræmu væri mýri. Loks er það að norðan við verzlunarstaðinn nái hraunið „svo gersamlega niður að sjó, að þar er ekki um neinar byggingarlóðir að ræða“.
Lausakaupmönnum var loks bannað að verzla í Firðinum, en það var um seinan fyrir Hafnarfjarðarkaupmanninn. Hann fór á hausinn í sama mund.
Á rústum þessa þrotabús Hafnarfjarðarverzlunarinnar reisti Bjarni Sívertsen verzlun sína, og í sama mund (1797) verzlun í Reykjavík, reisti þar verzlunarhús sem nefnt var Sívertsenshús. Þar var prestaskólinn síðar til húsa.
Árið 1804 keypti Bjarni bæði Hvaleyri og Akurgerði og 1816 keypti hann Ófriðarstaði og átti þá orðið verzlunarlóðirnar við fjörðinn nema Flensborg.
Árið 1835 keypti Peter Christian Kudtzon, stórkaupmaður í Kaupmannahöfn allar fasteignir af dánarbúi Bjarna Sívertsen í Akurgerðislandi á uppboði í Kaupmannahöfn
fyrir 3900 rd. í reiðu silfri.
Árið 1869 fluttist Þorsteinn Egilsson til Hafnarfjarðar og settist að í húsi Matthíasar J. Matthisen, kaupmanns, sem hann hafði reist á Hamarskotsmöl fyrstur manna á því verzlunarsvæði 1841.
Þarna hóf svo Þorsteinn verzlun sína. Hann komst í samband við Norsk-íslenzka Verzlunarfélagið, sem sjálfur Jón Sigurðsson hafði átt aðild að í félagi við norska Íslandsvini. Þorsteinn brá sér til Björgvinjar, og hafði þá orðið að fá lánað fyrir farinu, ekki var auður í garði hjá kaupmanninum, og hann kom upp aftur sem verzlunarstjóri hins nýstofnaða félags í Reykjavík. Hann kom á skonnortu hlaðinni vörum sem sigldi eftir skamma dvöl út aftur og einnig hlaðin vörum og sigldi þá úr fiskhöfninni Hafnarfirði.
Segir nú ekki af þessu félagi annað, en það reisti sér hurðarás um öxl með kaupum á gufuskipi, og ýms dýr mistök urðu í rekstri skipsins og félagið lagði upp laupana 1873. Þá réðst Þorsteinn hið sama ár til verzlunarfélags Álftaness og Vatnsleysustrandarhrepps. Það félag hætti eftir aflaleysisárið 1776.
Samtímamaður Þorsteins í Hafnarfirði var maður, sem þekktur er í landssögunni, sem einn af merkustu mönnum síns tíma, Þórarinn Böðvarsson, sem fyrst var prestur í Vatnsfirði, en síðar í Görðum frá 1868 til dauðadags 1895. Hann var prófastur í Kjalarnesþingi í 21 ár og alþingismaður Gullbringu- og Kjósarsýslu í 23 ár. Séra Þórarinn kom víða við í félags- og framkvæmdasögu Hafnarfjarðar á sinni tíð og var einnig frumkvöðull þar í útgerð. Segja mætti að engin ráð væru nema séra Þórarinn kæmi þar til.
Áður hefur það verið rakið hér í sögunni, að þrisvar sinnum kom það til að stjórnvöld gerðu uppá milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar, og héldu fram hag Reykjavíkur og mestu máli skipti í þeim hlutaskiptum að Innréttingarnar voru settar niður í Reykjavík 1752.
Ágúst Flygenring kemur til sögunnar í Firðinum sem skipstjóri. Hann kom til Hafnarfjarðar 1888 til að taka við skipstjórn á litlum kútter, Svend, sem séra Þórarinn átti og var með hann í 8 ár. Þá fer Ágúst til Noregs að kaupa stærra skip fyrir Þórarinn og keypti þá kútterinn Himalaya 1892, og var skipstjóri á því skipi til ársins 1900, að hann hætti skipstjórn og hóf útgerð og verzlun.
Einar Þorgilsson varð aftur á móti fyrstur manna til að bregðast við í verzlunarmálinu, þegar verzlanirnar, Knudtzonaverzlun og Linnetsverzlun voru að hætta rekstri.
Einar stofnaði þá 1895 Pöntunarfélag í Firðinum og veitti því forstöðu í tíu ár, en sjálfur byrjaði hann að verzla á Óseyri, sem hann hafði keypt árið 1900.
Árið 1897 varð Einar hreppstjóri Garðahrepps og þar með Hafnfirðinga og gekkst þá fyrir stofnun útgerðarfélags, þilskipafélags Garðhverfinga, til kaupa á kútter, svo að segja má að Einar brigði hart við, þegar hann sá hvað var að gerast í Reykjavík.
Rétt sem jarlarnir tveir og Pétur J. Thorsteinsson hafa snúið þróuninni í Hafnarfirði við og fólk fór á á ný að flytjast í þennan stað, reis hvert stórfyrirtæki útlendra manna af öðru á staðnum, Brydeverzlun hóf 1902 kútteraútgerð frá Hafnarfirði með fjórum kútterum, þá næst skaut sér inn Íslendingurinn Sigfús Sveinsson með 3 kúttera jafnt og hann reisti fiskverkunarstöðina Svendborg.
Falck konsúll, Norðmaður frá Stavanger kom með tvo litla togara, Atlas og Albatross 1903^4 og það var hann, sem með útgerð þeirra skipa frá Hafnarfirði hóf síldveiðar með herpinót fyrstur manna hér við land og er það ekki lítill atburður í íslenzku fiskveiðisögunni. Enn er að nefna Norðmanninn H.W. Friis, en hann hóf útgerð lóðabáta, og þeir urðu einir fimm um skeið. Og 1904 keypti Ágúst Flygenring gufubátinn Leslie og gerði hann fyrstur Íslendinga út til veiða með herpinót fyrir Norðurlandi.
Coot.
Þá er það næst að telja að hinn jarlinn, Einar Þorgilsson, tók að gera út frá Hafnarfirði fyrsta íslenzka togarann sem kom til landsins 6. marz 1905, og tæpum tveimur árum áður en fyrsti togarinn, Jón forseti kom til Reykjavíkur. Coot-útgerðin í Hafnarfirði var hins vegar fyrsta togaraútgerðartilraunin, sem lánaðist hérlendis.
Báðir ráku jarlarnir jafnt þessu kútteraútgerð sína 3-4 kúttera hvor og juku fiskkaup sín. Menn í nærliggjandi plássum allt suður til Keflavíkur tóku að verzla við þá og verzlanir þeirra urðu þær stærstu í bænum.
Báðir munu jarlarnir hafa lánað mönnum efni til húsbygginga og gerðu fólki kleyft að koma sér upp ódýrum timburhúsum, járnklæddum, sem kostuðu fyrir fyrri heimsstyrjöldina 700-1200 krónur. Fólk greiddi þessi lán með vinnu sinni.“
Heimild:
-Sjómannadagsblaðið, 1. tbl. 01.06.1992, Miklar hamfarir og erfið fæðing – Hafnarfjörður, bls. 59-61.
Hafnarfjörður 2018. Hér má sjá (gul lína) strandlínuna árið 1903.