Freyja Jónsdóttir ritaði um „Kirkjuvogskirkju í Höfnum“ í Dag árið 1999:
„Hafnir eru á vestanverðu Reykjanesi, sunnan Miðness. Í bókinni „Landið þitt Ísland“, eftir Þorstein Jósepsson og Steindór Steindórsson segir að Hafnir skiptist í þrjú hverfi, Kirkjuvogshverfi, Merkineshverfi og Kalmanstjarnarhverfi. Einnig segir í sömu bók að stórbýli sveitarinnar hafi verið þrjú, Kirkjuvogur, Kotvogur og Kalmanstjörn. Sandhöfn og Kirkjuhöfn voru einnig stórbýli á árum áður og mun nafnið Hafnir vera dregið af þeim.
Vitað er að kirkja var í Kirkjuhöfn um 1350 en talið er að hún hafi lagst af nokkru síðar. Þá er getið um hálfkirkju að Glámatjörn. Síðar var sóknarkirkja Hafnanna að Vogi. Þegar Svarti dauði geisaði 1402 var kirkja í Vogi. Heimildir herma að kirkjan hafi verið flutt að Kirkjuvogi laust fyrir 1575 en frá því ári eru heimildir um að Gísli biskup hafi vísiterað þar. Þegar kirkjan var flutt frá Vogi að Kirkjuvogi voru bein flutt frá Kirkjuhöfn í Kirkjuvogsgarð.
Þegar Brynjólfur biskup í Skálholti vísiteraði í Höfnum árið 1642 segir hann að kirkjan í Kirkjuvogi sé að mestu ný, með sex stafgólfum og kapellu inn af. Þá áttu sókn að kirkjunni nokkur stórbýli sem mest hlunnindin höfðu eins og Vogar, Ytri-Njarðvík, Innri-Njarðvík, Narfakot, Merkines, Gálmatjörn, Sandhöfn og Kirkjuhöfn. Þá er þess getið að kirkjan hafi fengið stórar gjafir frá Hákoni Brandssyni, sem gaf kirkjunni læsta kistu, og Erlendi Hjaltasyni sem gaf kaleik og messuklæði.
Brandur Guðmundsson hreppstjóri, sem þá bjó í Kirkjuvogi, ritaði sóknarlýsingu Kirkjuvogssóknar árið 1840 eftir beiðni séra Sigurðar Sívertsen á Útskálum. Brandur var fæddur á Rangárvöllum 1771. Faðir hans var Guðmundur Brandsson, bóndi á Brekku á Rangárvölum, sonarsonur Bjarna Halldórssonar á Víkingalæk. Guðmundur flutti suður að Kirkjuvogi og drukknaði á góu árið 1801. Brandur sonur hans þótti siðavandur, smiður góður og smíðaði fjölda skipa, bæði stór og smá. Hann andaðist í Kirkjuvogi, 74 ára gamall. Gróa Hafliðadóttir hét kona hans, orðlögð fyrir heppni í starfi en hún var ljósmóðir. Gróa lést árið 1855.
Hákon Vilhjálmsson fæddist í Kotvogi árið 1753, sonur Vilhjálms Hákonarsonar og Ingiríðar Tómasdóttur sem ólst upp í Miðbænum í Kirkjuvogi. Hann var hreppstjóri og hafnsögumaður á Básendum. Hann byggði nýja kirkju í Kirkjuvogi árið 1805 fyrir 239 ríkisdali. Í ofsaveðrinu mikla 1799 þegar Bátsendakaupstað tók af, skemmdist kirkjan í Kotvogi mikið sem líklega hefur orðið til þess að ný kirkja var reist. Hákon gaf nýja söngtöflu í kirkjuna og var fjárhaldsmaður hennar alla sína tíð. Hákon Vilhjálmsson lést 1820. Ketill Jónsson (elsti Ketill í Kotvogi) og Guðni Ólafsson í Merkinesi gáfu kirkjunni nýja prestshempu og hökul af rauðu flaueli með gullnum krossi og knipplingum umhverfis.
Ketill Jónsson sem tók við kirkjunni eftir að Hákon lést, lét endurbæta kirkjuna árin 1844, 1848 og 1851. Hann lét einnig steypa silfurkaleik og gaf kirkjunni til minningar um konu sína, Önnu Jónsdóttur. Árið 1859 afsalar Ketill Jónsson sér kirkjunni til Vilhjálms Hákonarsonar, en Vilhjálmur byggði hana í þeirri mynd sem hún er nú. Tómas faðir Ingigerðar konu Vilhjálms Hákonarsonar byggði Kirkjuvogsbrunninn sem lengi var vatnsból byggðarinnar. Brunnurinn er nú aflagður og búið að fylla hann af grjóti, þó enn sjáist vel hvar hann var.
Kirkjan í Höfnum var annexía frá Útskálum, áður lá hún til Hvalsnesprestakalls. Prófasturinn á Kjalarnesi skoðaði kirkjuna 24. ágúst árið 1862. Þá er byggingu hennar lokið og tekið fram að hún sé öll máluð að innan. Í húsvitjunarbókum frá árinu 1865 sem prófasturinn í Kjalarnesþingi skráði, þegar hann vísiteraði í Höfnum í byrjun septembermánaðar, segir að kirkjan sé í prýðisástandi eins og hirðing hennar til sóma. Þá skuldaði kirkjan 685 ríkisdali sem þótti ekki mikið vegna byggingar hennar því talið er að bygging kirkjunnar hafi kostað 1800 ríkisdali. Stefán Sveinsson á Kalmarstjörn gaf kirkjunni nýja kirkjuklukku. Kaupmaður P. Duus í Keflavík gaf kirkjunni glerhjálm og Vilhjálmur Kristinn Hjálmarsson gaf nýtt altarisklæði, gert af rauðu silkiflosi með gullnum krossi og leggingum, einnig gaf hann hvítan altarisdúk með blúndu í kring. Gjöfin var talin afar höfðingleg og tekið er fram að hún hafi kostað yfir 50 ríkisdali.
Prófastur endar lýsingu á heimsókn sinni í hið veglega guðshús með því að þakka höfðinglegar gjafir. Þá er tekið fram að sóknarbörn munu taka að sér að halda við hurð og dyraumbúnaði á kirkjunni og sáluhliði. Árið 1866 lét Vilhjálmur byggja kór og fordyri við kirkjuna. Kostnaðurinn við bygginguna varð rúmlega 605 ríkisdalir. Vilhjálmur gaf altaristöfluna sem enn er í kirkjunni og máluð af Sigurði Guðmundssyni málara. Einnig gaf hann kaleik og stærri kirkjuklukkuna og flest það sem kirkjuna vanhagaði um. Vilhjálmur var kirkjuhaldari til dauðadags. Hann andaðist í Kirkjuvogi 20. september 1874. Vilhjálmur hafði tvívegis fengið heiðursmerki, frá Danakonungi árið 1852 fyrir giftusamlega björgun sjómanna, og heiðursmerki frá Napoleon Frakklandskeisara. Danebroksmaður varð hann 1869. Eftirlifandi kona hans, Þórunn Brynjólfsdóttir, tók við kirkjunni og stjórnaði henni af mikilli rausn. Hún greiddi niður skuldir kirkjunnar og stjórnaði öllu með miklum skörungsskap í þrettán ár. Steinunn, dóttir Vilhjálms og Þórunnar, tók við stjóminni af móður sinni til ársins 1890. Steinunn gaf kirkjunni stórfé og varð kirkjan skuldlaus í hennar tíð.
Kirkjuvogskirkju var fyrst þjónað frá Hvalsnesi, síðan Útskálum og frá 1907 frá Grindavíkurprestakalli. Íbúar í Höfnum hafa alltaf verið stoltir af sóknarkirkju sinni og hugsað vel um hana enda er hún ákaflega falleg bygging. Helmingur loftsins er með hvolfþaki sem prýtt er með hundrað og einni stjörnu. Hinn hluti loftsins er með bitum. Kirkjan tekur sjötíu manns í sæti og er með fjórtán bekkjum. Í gegnum árin hafa sóknarbörnin gefið kirkjunni flestar eigur hennar, eins og skírnarfont sem séra Jón Thorarensen gaf, maðurinn sem hefur skrifað mest af öllum mönnum um sögu Hafnanna. Jón var alinn þar upp hjá Hildi Jónsdóttur Thorarensen, föðursystur sinni og manni hennar Katli Ketilssyni (yngsti Ketill) í Kotvogi. Ketill var fæddur á Hvalsnesi en faðir hans átti jörðina og byggði þar tvær kirkjur.
Á kirkjuturninum er járnstöng, efst á henni er plata með fangamarki Vilhjálms Kristins Hákonarsonar og ártalinu 1861. Kirkjan er dökkmáluð með rauðu þaki og hvítmáluðum gluggakörmum, dyraumbúnaði og hurð. Hún stendur á hæð í vel grónu túni. Í kringum hana er vel hirtur garður með hvítri girðingu. Í austurhluta garðsins er leiði þeirra Vilhjálms Kristins Hákonarsonar og Þórunnar Brynjólfsdóttur. Í kringum það eru fagurlega smíðaðar grindur.
Heimildir eru úr Suðumesjaannál, Jarðahók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns, Blöndu II, Lýsingum Skúla Magnússonar á Gullbringu- og Kjósarsýslu og viðtal við Borgar Jónsson í Höfnum.“
Tag Archive for: Hafnir
Í Sjómannablaðinu Víkingur 1973 er fjallar Skúli Magnússon um „Skipsstrand við Básenda árið 1881„:
„Flestir hafa hugmynd um að strönd Reykjanesskaga er mjög skerjótt og hættuleg skipum. Þau hafa ekki svo fá farist við þessa strönd þar sem úthafsaldan brotnar án afláts. Hér á eftir mun fara frásögn af einu skipsstrandinu er átti sér stað á Reykjanesskaga, nánar tiltekið skammt sunnan við Básenda, nálægt Þórshöfn, sem er smá vík eða vogur er skerst inn í landið, rétt utan við Ósabotna, þar sem þorpið Hafnir er.
Um Básenda er það að segja að þar var til forna kaupstaður og sér þess enn sæmileg merki. Smá tanga er þar skagar út í sjóinn eru búðatóftir og forn garðbrot, þar munu húsin í verzlunarstaðnum hafa staðið. Ennfremur má sjá einn járnpolla allmikinn og sveran þar sem hann stendur uppúr klöppinni og kemur á þurrt við fjöru. Annar slíkur mun hafa verið hinum megin við víkina en nú sjást engin merki eftir hann lengur. Um Básenda hefur margt verið skráð og skilmerkilegust er frásögn sú er á sínum tíma birtist í Blöndu, tímariti Sögufélagsins. Þar segir gjörla frá ofviðri því er grandaði kaupstaðnum að fullu og öllu. Átti þetta sér stað í janúarbyrjun árið 1799. Eftir þetta hófst aldrei framar verzlun á þessum sögufræga stað, Keflavík varð aðalverzlunarstaður okkar Suðurnesjamanna og hefur verið alla tíð síðan.
Víkin Þórshöfn var einnig notuð til kaupskapar. Hennar er getið í sögu einokunarverzlunarinnr eftir Jón Aðils. Var verzlað þar á tímum hinnar illræmdu umdæmaverzlunar eða jafnvel fyrr, um 1500 eða þar um bil. Hafa þar vafalaust verið Þjóðverjar á ferð eða Englendingar.
Sama er uppá teningnum um Keflavík, þar hófst verzlun sennilega um svipað leyti, kannski fyrr, en um það höfum við nú engar áreiðanlegar heimildir. Þó er til eitt örnefni á Vatnsnesi við Keflavík, er það Þýzkavör, og liggur hún í Vatnsnesvík, sem er suður af sjálfri Keflavíkinni, en Vatnsnes liggur á milli. Höfnin er í dag í Vatnsnesvík.
Árin um og eftir 1880 munu verða minnisstæð í Íslandssögunni fyrir þrennt, hallæri, ísa og Vesturheimsferðir. Sumir lögðu árar í bát og létu ginnast af gylliboðum hinna kanadísku agenta, um allslags dásemdir í Vesturheimi, hinni nýju og framfarasinnuðu veröld, því þar hafði hvorki verið aðall, kóngar, né kirkjuveldi til að drepa niður framfaraviðleitni samfélagsins. En margir þraukuðu samt enn á gamla Fróni og aðrir sneru úr dýrðinni vestra og settust aftur að í landinu.
Fáir munu hafa farið vestur úr Keflavík og frá Suðurnesjum, það var sjávarútvegurinn sem hélt líftórunni í mönnum, og sem dæmi um það má nefna að í hallærum inni í landi streymdi fólk til sjávarbyggðanna í leit að mat og skjóli. Hér má því segja að sjórinn hafi gefið vel þó hins verði ekki síður getið að hann tók sinn skatt af auðæfum sínum.
Eftirfarandi ritar merkisklerkurinn og fræðimaðurinn sr. Sigurður Br. Sívertsen í Suðurnesjaannál sinn árið 1881: „Fór nú sjóinn óðum að leggja, með því líka, að stórar íshellur bárust að landi að ofan og innan. Var nú gengið yfir Stakksfjörð fyrir utan Keflavík og inn að Keilisnesi á Vatnsleysuströnd, og hefi ég ekki lesið, að slíkt hafi viðborið, síðan árið 1699. Sjófuglar fundust dauðir með sjónum.
Ekki veit ég hvort nógar matvörur hafi flutzt til landsins, a.m.k. var svo á Norðurlandi, að þangað barst lítil sem engin björg frá útlöndum enda allt ófært af hafís, sem lá inn á fjörðum fram eftir öllu sumri. Sama hlýtur að hafa verið hér Sunnanlands, eftir því sem annállinn segir. Og um timburflutninginn veit ég lítið með vissu, en allavega skeði nú atburður, sem átti eftir að hleypa mönnum nokkuð upp hér á Rosmhvalanesi, en það var skipsstrand. Mun ég hér eftir tína sitthvað uppúr Suðurnesjaannál varðandi strand þetta, því það er merkilegt fyrir byggingasögu okkar Suðurnesjamanna.
Árið 1881 segir sr. Sigurður í annál sínum (Suðurnesjaannáli er prentaður í Rauðskinnu VII-VIII heftum og kom út 1953):
„Með stórtíðindum má á þessu ári telja þann viðburð, að sunnudagsmorguninn 26. júní, rak að landi afarstórt farmskip, hlaðið af trjáviði, nálægt Þórshöfn á Suðurnesjum (skammt sunnan við Básenda) og stóð þar á flúð eða skeri, mannlaust, þrímastrað með þrem þilförum. Hafði þriðja mastrið verið höggvið í sundur áður en skipsfólkið hafði farið af því, að líkindum um leið og það hefir á hliðina farið, en svo var allt stórkostlegt á tröllskipi þessu, að allri furðu gengndi, og svo að menn höfðu eigið trúað,
ef menn hefðu eigi séð. Eftir því sem ég hefi komizt næst, var lengd þessa skips 128 álnir, og á breidd 27 álnir (allt að 30 álnir).
Möstrin tveir feðmingar að digurð, akkerin á að gizka, hver af þremur 1000 skippund, eða 3000.
Hið fjórða var lítið. Hver hlekkur í akkeriskeðjunni var 1 fjórðungur. Káetan á efsta þilfari var svo stór, að rúmað gat 200 manns tilborðs. Mátti sjá, að húsið hefir í upphafi verið mjög skrautlegt, en rúið og ruplað hefir það verið af öllum húsbúnaði að innan. Aðeins mátti sjá, að í því hafi verið 12 smærri herbergi, en milligjörð öll brotin. Dýpt skipsins frá efsta þilfari allt að 20 álnir. Segl voru engin, en þau slitur af þeim, sem fundust, og kaðlar, var allt fúið.
S
amt er óvíst, hve lengi það hefur verið í sjó eða hvenær því hefur borist á. En að því var komist, að skipið hefir verið frá Boston í Ameríku, og heitir það „James Town“, sem líka er staðarnafn all nærri Boston. Skipið var fermt eintómum plönkum af allri lengd, en svo vel var í það raðað eða frá gengið og skorðað, að járnkarla þurfti að nota til að losa um það.
Þegar þetta tröllskip barst þarna að landi, þar sem svo var brimasamt og illt við að eiga, hugðu menn úr þessum og nærliggjandi hreppum, að óhugsandi og ógjörlegt væri að eiga nokkuð við uppskipun og björgun að svo stöddu, og gerðu sér líka þær vonir, að sýslumaður mundi í einu boði, selja þetta mikla rekald.
Fyrir því að þetta mætti álítast vonarpening, hugðu margir að geta hlotið hin beztu kaup, ef allir fjórir næstu hreppar gengju í félag undir eins manns ábyrgð, og var af öllum kosinn til þess kaupmaður Duus í Keflavík. En nú brást þeim illa sú ætlun sín, og máttu þó sjálfum sér um kenna eða hreppstjóranum, eftir áeggjan annarra, því þegar vandræði eða ráðaleysi viðkomanda bárust héðan, hófst félag eitt í Reykjavík, og tókst á hendur að fengnu einkaleyfi frá amtmanni, að bjarga eða skipa upp svo miklu af trjáfarmi þessum, sem framast væri þeim mögulegt, mót 2/3 fyrir fyrirhöfn og ómak.
Tóku þeir þegar til óspilltra mála, sem svo ágætlega vel hepnaðist þeim, að þeir, eftir hart nær þriggja vikna vinnu, voru búnir að skipa í land mest öllum farmi af efsta þilfari sem eftir ágizkun mun hafa orðið 15.000 plankar.
Frá upphafi og leikslokum með fleiru hér að lútandi skal seinna verða nákvæmar sagt.
Þegar seinna var brotið upp milliþilfarið, sem innihélt ekki minni trjávið en hið efra, og ekki þótti sjá högg á vatni, þó haldið væri með kappi áfram uppskipunni, var enn að nýju fengið amtsleyfi fyrir héraðsmenn að skipa nú upp til helminga, en þó að margar hendur ynnu hér að úr fjórum nærliggjandi hreppum, var ekki búið að ljúka uppskipuninni af milliþilfari, þegar sýslumaður hélt uppboð, miðvikudaginn þann 10. ágúst.
Varð hið vægasta verð að kalla mátti gjafverð á öllum plönkum og timbri. Taldist svo til, að hver planki seldist á 50 aura, 6 álna, eða 8 aura alinin, en þó tók út yfir góðkaupin, þegar skipið með fullri hleðslu á neðsta þilfari með fullum farmi o.s.frv. seldist fyrir 330 krónur, en fyrir þá skuld var ekki boðið hærra, að hlutaðeigandi félagsmenn voru búnir að semja sín á milli, ekki aðeins að ljúka ekki upp munni sínum, heldur stuðla til með samtökum, og sjá um, að aðrir spilltu ekki góðum málum. Varð svo herra Duus hæstbjóðandi eftir áðurgjörðum samningi.
Hér á eftir fóru menn úr öllum áttum á skipum, og í flotum að ná heim til sín hinu keypta timbri, en þó að veðurblíðan héldist áfram, var þó minna en helmingur ósóttur. Því næst fóru allir úr öllum hreppum að vinna að uppskipun á því, sem hafði orðið eftir á miðþilfari, en þó að allvel gengi, hugðu flestir, að ekki væri hugsandi að halda áfram með neðsta þilfar, ef veður breyttist. En þá bar svo við, að mánudaginn þann 9. sept. gekk í landsunnan sterkviðri og stórbrim um stórstraumsflóð, svo að allur skipsskrokkurinn liðaðist í sundur á þremur tímum, og bárust að landi plankar og skipsflekar. Var það ógrynni og feikn saman komið, að meira var en nokkurn tíma fyrir uppboðið.
Eins og þetta mikla strand er og verður fáheyrt, ekki aðeins hér sunnanlands, heldur í landssögunni, að annað eins timbur hafi komið á einn stað af einu skipi, eins og þetta, má kalla hið mesta happ fyrir öll Suðurnes og nærliggjandi hreppa, sem Drottinn allsherjar rétt hefir mönnum upp í hendur án mikillar fyrirhafnar eða kostnaðar, og án þess að neinar slysfarir hafi þar af orsakast eða tjón. Eins yrði það
óafmáanlegur blettur eða svívirðing í sögu Suðurnesja, ef menn skyldu á endanum ekki koma sér saman um réttsýn skipti meðal félagsmanna sín á milli“.
Þetta hefur sr. Sigurður að segja um þessa stóru skútu. Síðar við sama ár í annál sínum (1881) segir klerkur:
„Eftir að félagsmenn hins strandaða skips, James Town, höfðu lengi verið búnir að vinna að uppburði timbursins af skipinu, voru þá í nóvember tekin fyrir skiptin í 4 aðalhluti eins og til stóð og fóru þó ekki eins og til var ætlast skiptin fram á þeim helmingi skipsins, sem þessum hrepp var fyrirhugað, því að vissir menn vildu þar öllu ráða, svo að óánægja varð af, þó að allt væri íátið kyrrt liggja, með því að allir félagsmenn, fengu svo mikið í sinn hlut, að þeim mátti nægja, og ekki fyrir neinn ójöfnuð annarra þess vert að láta verða úr misklíð. Plankarnir töldust í allt rúm 16000, svo að í hvern fjórða part komu 4000. Skipsflekum var eigi skipt, sem mjög mikill slægur var í, en voru þó komnir uppá þurrt land, og einn þeirra, önnur hliðin, var mæld 40 fet á lengd.“ Það kom sér mjög vel fyrir alþýðu manna, hve ódýrt timbur var úr skipinu, eða 50 aura plankinn. Með því móti gátu margir fengið gnótt viðar og notað til margs konar smíða og bygginga.
T.d. getur prestur þess í annálum, að timbrið hafi mjög víða verið notað í húsbyggingar. Og víst er, að mörg hús hér í Keflavík voru byggð úr timbrinu úr James Town. Sum þeirra eru nú horfin af sjónarsviðinu, önnur allmikið breytt frá fyrri tíð.
Meðal húsa hér að lútandi má nefna Þorvarðarhús, sem stendur svo til óbreytt hið ytra. Hús Þórðar héraðslæknis Thoroddsen (sem stóð hér við Hafnargötu) var víst líka byggt úr timbri hins strandaða skips. Þórður var fyrsti læknir sem settist að hér í Keflavík og var upphafsmaður að mörgu, t. d. aðaldriffjöðrin í stúkunni Vonin nr 15, stofnaði Kaupfélag Rosmhvalaneshrepps árið 1889, stofnaði sparisjóð Rosmhvalaneshvepps um 1890. Á Thoroddsensheimilinu ríkti mikill menningarbragur. Því má við bæta að Emil pianóleikari er einmitt sonur Þórðar, og er fæddur hér í Keflavík. Sjálft Thoroddsenshús mun hafa verið rifið að mestu um 1930 er Eyjólfur Ásberg byggði hús sitt á sama stað við Hafnargötu. Þar varð síðar greiðasala, verzlun og bakarí.
En það var ýmislegt fleira, er leiddi af strandi James Town, en annállinn fræðir okkur um. Um það mál fáum við nokkra vitneskju í blaðinu Þjóðólfi, vorið og sumarið 1884, en þá var Jón Ólafsson, alþingismaður, ritstjóri blaðsins.
Svo er mál með vexti, að í 7. og 8. tölublöðum Þjóðólfs þetta ár, ræðir Guðmundur Guðmundsson, bóndi og hreppstjóri í Landakoti á Vatnsleysuströnd um fiskveiðasamþykktina fyrir Faxaflóa. Þeir Útskálafélagar, prestarnir Sigurður og Helgi Sívertsen, senda Guðmundi síðan svargrein í 9. tbl. sama blaðs. Ekki ætla ég samt að ræða það mál nánar hér, enda er það tómt persónulegt pex. (Síðar getur samt svo verið að ég muni gera hér fiskveiðasamþykktir að umtalsefni, en ennþá hef ég þó ekki nægar heimildir undir höndum varðandi það efni). En málið var þar með ekki úr sögunni.
Í 11. tölubl. Suðra, sem Gestur Pálsson var ritstjóri fyrir, svara „nokkrir íbúar Rosmhvalaneshrepps“ greinum Guðmundar, svo hann neyðist til að taka aftur til pennans og svara, enda var dróttað að honum persónulega í grein þessari. Við skulum nú grípa niður í svargreinar Guðmundar frá Landakoti, en þær birtust í 20. og 33. tbl. Þjóðólfs. Ræðir þar um strand skipsins James Town.
Í 20. tbl. er inngangur eftir ritstjórann (J.Ó.) með fyrirsögninni: „Uppljóstur á stórþjófnaði“. Ræðir þar um fyrri greinar Guðmundar og þeirra Útskálafeðga og allt það persónulega pex, sem þar birtist. Síðan segir: „Þegar vér nú tökum eftirfylgjandi svargrein frá hr. Guðmundi Guðmundsyni, þá er það af því, að hér er orðið um alveg nýtt mál að ræða — það mál, sem ekki má þegjandi niður falla.
Þegar eins merkur maður og hr. Guðmundur ber fram svo stórvægilega sakargift um stórþjófnað, þá er sú sakargift svo vaxin, að yfirvöld geta ekki og mega ekki ganga þegjandi fram hjá henni — og gjöra það nú vonandi því síður, sem orðrómurinn um þetta athæfi er fyrir löngu hljóðbær orðinn“.
Þá kemur grein Guðmundar sem hefur að inngangi: „Þann ég kalla að þekkja lítt þekkir ei sjálfan sig“. Hann skýrir nú frá því, að „nokkrir íbúar Rosmhvalaneshrepps“ hafi í Suðra svarað greinum sínum er birtust í Þjóðólfi. Síðan segir orðrétt: „Þeir minnast, þessir göfugu greinasmiðir, á félagseignina í James Fown (?) er þeir nefna svo, það er líklega timbrið á Stafnesfjörum, sem þeir meina, þó skipsnafnið sé ekki sem allra réttast (okkur mun vera hollast að gefa okkur ekki mikið út í það að rita ensku, samt hafa aðrir sett ,,T“, þar sem þeir setja „F“ í skipsnafnið) og lítur helzt út fyrir að þeir vilji telja lesendum Suðra trú um, að ég hafi við það tækifæri sýnt mig í óráðvendni, og jafnvel komið einhverjum kunningjum mínum til að vera mér til aðstoðar í því. Þessu ætla ég ekki að svara með öðru en því, að segja söguna svo sanna og rétta, sem mér er unnt, en sannanir fyrir henni mun ég geta framlagt síðar, ef með þarf, þó ég, að líkindum ekki sæki þær í uppboðsbók Rosmhvalaneshrepps….“ .
Þá getur Guðmundur um það, að menn úr Höfnum hafi verið viðstaddir er hann kom að ná í sinn ákveðin timburpart og hafi hann sagt á þá leið við þá, að þeir vissu að hann ætlaði að taka nokkrar spýtur til að fylla þilskip sitt er hann var þangað (að Þórshöfn) kominn á. Hann skyldi greiða andvirði þeirra seinna við tækifæri. Þetta tóku allir gott og gilt og Guðmundur hélt heim með farminn.
Eftir þessa frásögn sína segir Guðmundur: „En ef íbúar Rosmhvalaneshrepps (að undanskildum Keflavíkurmönnum) eiga jafnhægt með að gjöra grein fyrir, að allar aðferðir þeirra á Stafnesfjörum þessi ár hafi verið leyfilegar og lögmætar, eins og mér veitir hægt að sanna framanritaða sögu mína, þá er of miklu upp á þá logið. Að þessir piltar skuli vera svo fífldjarfir að minnast á samvizku í plankamálinu, það er hrein furða, hún hefur þó að líkindum ekki ónáðað þá eða sveitunga þeirra suma hverja í undanfarin 2 ár, en máske hún sé að bregða blundi hjá einhverjum þeirra. Gott ef svo væri“.
Og litlu síðar kemur þetta:
„Skal ég þá leyfa mér að spyrja þá (þ. e. íbúa Rosmhvalaneshrepps) að, hverja skilagrein þeir hafi gjört fyrir koparhúð þeirri sem þeir heimildarlaust bæði nótt og dag rifu utan af skipsflekunum? Hafa þeir samkvæmt áskorun og skipun þeirra manna, sem áttu koparinn með þeim, skilað honum á þá staði, sem þeim var boðið?“
Guðmundur getur þess að þeir Strandarmenn hafi ekkert fengið af koparnum, sem þeir þó áttu að fá í sinn hlut, svo sem aðrir þeir, er unnu að björgun timbursins úr skipinu.
Enn segir Guðmundur: Timburhvarfið ætla ég sem minnst að minnast að tala um í þetta sinn, það tekur svo út yfir allan ósóma, að flestir, sem kunnugir eru því máli, þykjast vissir um, að síðan Suðurland byggist muni ekki hér í sýslu hafa verið framin annar eins stórþjófnaður og sá, sem þessi ár hefir átt sér stað þar syðra, og ef íbúar Rosmhvalaneshrepps vilja brýna okkur Strandarmenn, þá er ekki víst að við þurfum að hafa fyrir að tína saman tvo eða þrjá gemsa þaðan úr hreppnum, sem yfirvaldið þyrfti og ætti að ná í lagðinn á, það er ekki ómögulegt, úr því tveir eða þrír væru handsamaðir, að hópurinn kynni að stækka“.
Og að endingu segir Guðmundur þessi orð í grein sinni: Vilji íbúar Rosmhvalaneshrepps róta betur upp í þeim saur, sem þeir eru nú byrjaðir að moka, þá vildi ég með aðstoð kunnugra manna vera þeim til liðveizlu, en ekki get ég að því gjört, þó af honum leggi fýlu.“
Enn er málinu þó ekki lokið, því í Þjóðólfi, 12. júlí 1884, ymprar ritstjórinn, Jón Ólafsson, enn á því að rannsókn þurfi endilega að fara fram á málinu. En Guðmundur í Landakoti ritar ein grein enn og er það svar við grein sem Jón ritaði í blað sitt 12. ágúst þar sem hann segir að Guðmundur sé of hægur á sér að birta ástæðurnar fyrir þjófnaðium. Guðmundur tekur það fram eins og til að forða frekari misskilningi að þeir Útskálafeðgar, Helgi Sívertsen og faðir hans, sr. Sigurður, séu ekkert við málið riðnir, og sömuleiðis Keflvíkingar en það tekur hann reyndar fram áður.. .
Guðmundur segir svo í grein sinni (12. júlí í 33. tbl.): „Síðasta og 3. ástæðan (þ.e. fyrir því að hann birtir ekki sannanir fyrr í málinu) er sú, að ég vissi til þess, að einn heiðvirðasti maðurinn þar í Rosmhvalaneshreppi, sá, sem mest hafði að segja yfir félagseigninni, lét í fyrra sumar semja kæru eður kvörtun til sýslumanns út af timbur- og koparmissinum, bjóst ég því við að réttarrannsókn yrði þá og þegar hafin, og að opinber málssókn mundi, þegar minnst varði, gjósa upp, en verkanirnar af áminnstri kæru hefi ég ekki orðið var við. Ég held helzt að hún hafi aldrei komizt til sýslumannsins“.
Og að endingu segir Guðmundur: „Aðaltilgangur minn var aldrei sá, að verða þess valdandi að nokkur maður þar syðra yrði sakfelldur, en ég þykist hafa unnið Rosmhvalahreppi gott verk og þarft, ef þeir menn, sem oftast hafa unnið sér óráðvendisorð við hvert strand, sem þar hefur komið fyrir, bæta nú svo ráð sitt, fyrir þá hreyfingu, sem komin er á málið út af grein minni, að þeir framvegis leitist við að sýna sig, sem heiðvirða og vandaða menn við slík tækifæri. Þá hefi ég náð tilgangi mínum, og þá vona ég að allir þar í hreppi, sem nokkurs meta gott mannorð, þakki mér fyrir þetta nauðsynlega og holla læknislyf, þó sumum þyki það súrt á bragðið“. Svo mörg voru orð Guðmundar í Landakoti.
Lýkur hér með að segja frá strandi þessu þó hins vegar viðbúið sé að hér hafi ekki öll kurl um þetta mál til grafar komið.“
Í Eyjafréttum 2017 tók Ómar Garðarsson viðtal við Theódór Ólafsson undir fyrirsögninni „Akkeriskeðjur úr bandarísku skipi sem rak á land enduðu sem legufæri í Eyjum„:
„Þann níunda september 1919 skrifar Þorvaldur Bjarnason, Höfnum á Reykjanesi bréf til hafnarnefndar Vestmannaeyja og segist hafa til sölu akkeri og keðjur sem séu mjög hentug sem öflug legufæri. „Keðjan er að stærð, hver hlekkur tólf þumlungar að lengd og sjö að breidd og lengd keðjunnar er ellefu liðir,“ segir í bréfinu þar sem kemur fram að akkerið sé um tvö tonn að þyngd. Verðið er 450 krónur á lið eða 5950 krónur þar sem keðjan var niðurkomin við Hafnir. Eftir bréfa- og skeytasendingar var niðurstaðan sú að keðjan var keypt til Eyja og var hún notuð sem legufæri í áratugi en akkerið var ekki keypt.
Þetta á sér merkilega forsögu því keðjan er úr bandarísku skipi sem rak mannlaust um Norður Atlantshaf og strandaði að lokum þann 26. júní 1881 á milli Hestakletts og Þórshafnar í Rosmhvalaneshreppi, síðar Miðneshreppi á Suðurnesjum. Það var, samkvæmt seinni tíma mælingum um fjögur þúsund tonn og að líkindum meðal stærstu skipa sem komið höfðu til Íslands á þeim tíma.
Áhugi Theódórs vaknar
Þessa sögu þekkja fáir betur en Theódór Ólafsson, vélstjóri og fyrrum útgerðarmaður á Sæbjörgu VE. Hefur Theódór aflað sér gagna um skipið, sögu þess og örlög. Líka hvað varð um akkeriskeðjurnar sem hafa enst ótrúlega vel. Skipið flutti verðmætan timburfarm frá Bandaríkjunum sem átti að fara til Liverpool á Englandi en lenti í aftakaveðri undan vesturströnd Írlands. Skemmdist mikið og var skipverjum bjargað um borð í annað skip og settir á land í Glasgow í Skotlandi. Jamestown rak stjórnlaust um Norður Atlantshafið í fjóra mánuði þangað til það strandaði við Ísland.
Ein ástæðan fyrir áhuga Theódórs á Jamestown er tenging hans við Stafnes og að hluti akkeriskeðjunnar hafnaði í Vestmannaeyjum.
„Teddi hefur ekki setið auðum höndum þótt hann sé hættur að vinna. Hann hefur lagst í ýmiss konar grúsk,“ segir Sigurgeir Jónsson um Theódór í viðtali sem hann tók við hann og birtist í Fréttum. Þá hafði hann barist við krabbamein í tvö ár. Lýsir hann því einnig hvernig kona hans, Margrét Sigurbjörnsdóttir sem er frá Stafnesi, stóð við hlið hans í veikindunum og greinilegt að hann kann að meta það. Tilheyrði fjaran þar sem Jamestown strandaði Stafnesbæjunum og er Margrét frá Vestur Stafnesi.
Jamestown var alvöru skip
„Í þessum veikindum mínum átti ég oft erfitt með svefn og fór þá að láta hugann reika, ekki síst að hugsa um þau skipsströnd sem ég hef sjálfur lent í og kannski ekki síður öðrum skipsströndum. Fór síðan að lesa mér til um hin ýmsu strönd. Þar á meðal skipsströnd við Stafnesið, úti fyrir æskuheimili Margrétar. Þar strandaði t.d. Jón forseti, fyrsti togarinn í eigu Íslendinga og fórust fimmtán skipverjar en tíu tókst að bjarga. Sigurbjörn, faðir Margrétar, var einn af björgunarmönnum þar,“ segir Theódór.
En svo var það eitt skipsstrand sem vakti sérstaka athygli mína. Það var þegar ameríska skútan Jamestown strandaði ekki langt frá Stafnesi árið 1881. Þessar amerísku skútur voru flutningaskip, stærstu skútur í heimi og hétu allar eftir bandarískum borgum. Þessi skúta var, samkvæmt okkar mælingum í dag, um 2000 tonn, var hundrað metra löng og 16 metra breið. Í henni voru fjögur þilför og fjögur möstur, sem sagt alvöru skip.
Jamestown fór frá Bandaríkjunum á leið til Englands, fullhlaðið af smíðatimbri sem átti að fara í undirstöður fyrir járnbrautarteina.
Áður hafði skipið verið ballestað með silfurgrýti. Þegar skipið átti eftir um 600 mílur í Írland lenti það í ofsaveðri og stýrisbúnaður þess brotnaði. Lítið gufuskip gerði tilraunir til að taka Jamestown í tog en þær tilraunir mistókust þar sem tógið slitnaði alltaf. Þá var ákveðið að áhöfnin yfirgæfi skipið. Þetta gerðist í mars 1881 og síðan rak skipið stjórnlaust norður eftir Atlantshafi, upp að Íslandsströndum, fyrir Reykjanes og strandaði.“
Meira að segja Eyjamenn nutu góðs af rekanum. Þannig lýsir Theódór þessari síðustu ferð þessa glæsilega skips, Jamestown sem strandaði á Hestakletti þann 17. júní 1881, mannlaust. Varð að vonum uppi fótur og fit á Stafnesbæjunum. Hafist var handa við að koma timbrinu í land og gekk það vel um sumarið eða þar til gerði stórviðri um haustið og skipið brotnaði. Mikið af timbri rak á land víðs vegar um land, m.a. í Vestmannaeyjum og Þorsteinn Jónsson í Laufási minnist í bók sinni á plankarekadaginn mikla. „Ég held að flest hús í Sandgerði á þessum tíma hafi verið byggð úr timbri úr Jamestown og mörg hús í öðrum byggðarlögum. Og þegar ráðist var í endurbætur á Menntaskólanum í Reykjavík, árið 1883, þá var notað timbur úr þessum farmi,“ segir Teddi.
Mikil vinna
Landeigendur vildu eigna sér strandið og stóðu forráðamenn hreppsins fyrir því en landsstjórnin var á öðru máli og yfirtók skipið og það sem í því var. „Hún útvegaði menn, vélstjóra, vélsmið og mann sem sá um peningamálin og þrír komu af svæðinu. Þeir leigðu litla skútu og vildu fá fleira fólk í nágrenninu til að koma að verkinu með sér. Það var ekki tilbúið fyrr en því var lofað vikulegri greiðslu í gulli í hverri viku. Þá slógu menn til, enda ekki algengt að fá greitt í peningum á þessu árum,“ segir Theódór.
Skútan er fyllt af viði og siglt til Reykjavíkur en verkinu er haldið áfram og því sem kom úr skipinu staflað í stæður uppi á landi. „Þannig gekk þetta en að lokum voru stæðurnar boðnar upp og gat hver sem er keypt. Það nýttu sér margir sem þarna bjuggu.“
Þarna er akkerið og keðjurnar komnar við sögu því eitt þeirra var fest í landi og keðjan strekt til að varna því að skipið losnaði af strandstað. Það hafði þó lítið að segja í stórviðrinu þegar það brotnaði um haustið.
Það er svo 38 árum síðar að maður sem var unglingur þegar Jamestown strandaði sagðist muna hvar keðjan lá og vildi ná henni upp. Hann hafði ekki leyfi en keypti keðjurnar í sjónum á tvær krónur af ríkisstjórninni. „Hann hét Sigurður og smíðaður var fleki sem notaður var við að ná keðjunum upp. Á hverri stórstraumsfjöru var farið niður að keðjunni og hún fest við flekann sem var svo dreginn á land á flóðinu. Þannig tóku þeir einn og einn lið í einu,“ segir Theódór.
Keðjurnar góðu
Það líða fjörtíu ár og aftur kemur Jamestown við sögu í Vestmannaeyjum og nú eru það akkeriskeðjan sem Vestmannaeyjahöfn keypti. Mikil vandræði voru með báta í höfninni og oft skaðar þegar aldan gekk óbrotin inn höfnina. Þorsteinn í Laufási var þá í hafnarstjórn og frétti að því að akkeriskeðjan úr Jamestown væri enn um borð í skipinu á strandstað. Hann fór til Sandgerðis og keypti keðjurnar en ekki akkerið sem heimamenn vildu einnig selja Eyjamönnum. Minna akkerið stendur nú við kirkjuna í Höfnum en stóra akkerið er í Sandgerði.
En aðalerindi Þorsteins var að festa kaup á akkeriskeðjunni úr Jamestown sem hann gerði. Dugði hún í þrjár lagnir og gátu 50 til 60 bátar legið við hana.
Hluti af sögunni
Keðjurnar luku sínu hlutverki og Theódór Ólafsson, vélstjóri og fyrrum útgerðarmaður lagðist í grúsk þegar hann kom í land.
Þegar dýpkun hófst í höfninni voru þær teknar upp. Ekki var hugað að því að hér væru merkar sögulegar minjar og lágu keðjurnar lengi vel uppi við Sorpu. Þær týndu tölunni þegar útgerðarmenn fóru að nota hlekkina til að þyngja flottroll. Eftir að Theódór fór að kanna sögu þeirra fann hann þrjá hlekki við FES-ið sem eru til skrauts í garði hans í Bessahrauninu.
„Þetta er stokkakeðja og hlekkirnir eru sjö kg að þyngd. Aftur á móti voru endahlekkirnir mun stærri og þyngri, eða um 50 kg. Hvað merkilegast finnst mér, hvað þeir eru enn heillegir og óskemmdir, eftir að hafa legið í 40 ár í sjó við Stafnesið og síðan í 50 ár í höfninni í Vestmannaeyjum. En ég vil endilega að þeir sem enn eru með þessa hlekki í fórum sínum sjái um að koma þeim á viðeigandi stað. Þeir eiga heima í Sandgerði, til minja um þetta strand og svo auðvitað líka á Byggðasafninu í Vestmannaeyjum, en ekki í ruslahaugum einhvers staðar,“ segir Teddi um þetta áhugamál sitt og greinilegt að hugur fylgir máli. Sérstaka athygli hans hefur vakið endingin á keðjunni og að þeir skuli enn vera heilir og engin tæring sjáanleg.
Mikill happafengur
Skipið þótti mikill happafengur á Íslandi enda erfitt að verða sér úti um timbur hérlendis. Voru plankarnir notaðir í brúargerð og húsagerð og enn stendur að minnsta kosti eitt hús sem smíðað er úr viði úr Jamestown, húsið Efra Sandgerði, heimili Lionsklúbbsins í Sandgerði. Einnig var „gamla“ húsið að Krókskoti í Sandgerði byggt úr Jamestown timbri. Timbrið úr því húsi var síðan notað í „nýja“ húsið að Krókskoti og stendur það enn þá.
Árið 2002 fannst annað akkeri skipsins undan Höfnum, og hinn 24. júní 2008 var það híft upp af meðlimum umhverfisverndarsamtakanna Blái Herinn og því komið fyrir við húsið Efra Sandgerði. Áður hafði hitt akkerið fundist og er það fyrir utan kirkjuna í Höfnum. Þetta kemur fram í grein eftir Leó M. Jónsson sem birtist upphaflega í tímaritinu Skildi 2001. Segir að við nánari skoðun kom í ljós að skipið, sem mun hafa verið um 4000 tonn á núverandi mælikvarða og því engin smásmíði, – líklega með allra stærstu skipum sem til Íslands höfðu komið fram að því.
Með stærstu seglskipum
Í annálum er Jamestown talið amerískt skip, sagt vera líklegast frá Boston. Af lýsingu á stærð þess að dæma hefur það verið með stærstu seglskipum á sinni tíð, um eða yfir 100 m á lengd og um 16 m á breidd, til samanburðar má hafa að venjulegur fótboltavöllur mun vera 90 til 100 m á lengd.
Jamestown var smíðað í Richmond og hleypt af stokkunum í nóvember 1879 og, að sögn Dan Conlin, er það horfið af skránni yfir amerísk og erlend skip upp úr 1880 og fyrir 1884. Hann segir að fjöldi smærri seglskipa hafi borið nafnið Jamestown eða James Town og verið á skrá um þetta leyti en hægt sé að útiloka þau öll þar sem ekkert þeirra hafi verið yfir 200 tonnum að stærð og öll styttri en 100 fet. Dan sagðist einnig hafa athugað skipaskrá Lloyds (Lloyd’s Register of Shipping) frá þessum tíma og ekki fundið þar neitt annað skip jafnstórt og Jamestown frá Richmond.
Glæsilegustu skipin á höfunum
Stóru seglskipin sem voru í langferðum á milli heimsálfa á 19. öld og fram yfir 1900 voru tilkomumikil sjón á höfunum þar sem þau skriðu undir fullum seglum, iðulega framúr gufuskipum. Frægust langferðaskipanna voru bresku Cutty Sark og Thermopylae (sem fór á 28 dögum frá Newcastle á Englandi til Shanghai í Kína – met sem stóð lengi) en þau voru rétt innan við 1000 tonn að stærð (þess tíma mæling) og þau amerísku ,,Yankee clippers“ á borð við Young America og hið fræga breska Lightning (kennt við Macey) sem fór reglulega með póst á milli Bretlands og Ástralíu árum saman.“
Í Útvarpinu, Sumarmálum á Rás 1 árið 2020, er fjallað um „Mörg hús á Íslandi smíðuð úr mannlausu draugaskipi“ í viðtali við Tómas Knútsson:
„Ferðin átti að vera sú síðasta sem skipstjórinn færi með skipinu og tók hann því dóttur sína með sér. Lokaferðin reyndist mikil sneypuför. „Þetta var svona Titanic-dæmi,“ segir Tómas Knútsson um Jamestown-strandið. Mannlaust skipið rak á land við Hafnir á Reykjanesskaga árið 1881.
Þann 26. júní árið 1881 varð sá óvenjulegi atburður í Höfnum á Reykjanesskaga stórt og voldugt seglskip rak þar á land í aftakaveðri. Jamestown hafði rekið um höfin í fjóra mánuði og var mannlaust. Það reyndist að miklu leyti gæfa fyrir Íslendinga að skipið skyldi reka á fjörur landsins því það var smekkfullt af brúklegum harðviði sem átti eftir að nýtast landsmönnum til bygginga næstu árin.
„Þetta er guðsgjöf, allt þetta timbur“
Jamestown var með stærri seglskipum sem smíðuð höfðu verið á þessum tíma. Það var drekkhlaðið af viði og var á leið til Englands til að setja viðinn undir járnbrautarteina. Skipið lagði af stað með farminn frá Ameríku og var búið að vera í vandræðum þegar það lendir í miklu óviðri á Norður-Atlantshafi með þeim afleiðingum að stýrið brotnar. „Þá kemur skip og bjargar áhöfninni en svo er meiningin að bjarga skipinu en þá finnur enginn skipið,“ segir Tómas Knútsson sem er í hópi áhugafólks um Jamestown-strandið. Þegar skipið loks fannst við Íslandsstrendur hafði það eigrað stefnu- og mannlaust um höfin mánuðum saman. „Svo gerir suðvestan hvell og skipið mölbrotnar og rekur á land svo það var hægt að bjarga öllu úr skipinu sem var nýtt til agna,“ segir Tómas. „Þetta var náttúrulega guðsgjöf, allt þetta timbur.“
Dóttir skipstjórans með í för
Skipið var mannlaust því áhöfninni var bjargað við illan leik. Ferðin átti að vera sú síðasta sem skipstjórinn færi með skipinu og tók hann dóttur sína með sér. Lokaferðin reyndist svo mun ævintýralegri en skipstjórinn hafði viljað. „Þetta var svona Titanic-dæmi. Þetta voru endalokin hjá þessu stóra mikla fyrirtæki sem skipstjórinn hafði unnið fyrir alla sína ævi og þá fer hann í svona sneypuför,“ segir Tómas.
Svíta skipstjórans varð predikunarstóll í Hvalneskirkju
Áhugahópurinn sem hefur einbeitt sér að örlögum skipsins síðustu ár hittist tvisvar, þrisvar á ári og hefur haldið tvær sýningar þar sem munir úr skipinu sem fundist hafa í hafinu eru til sýnis. „Við höfum látið Byggðasafnið hafa þetta allt saman eins og til dæmis seglvindu, svaka flott hjól og svo er akkerið.“
Hópurinn hefur staðið í ströngu við það síðustu ár að kortleggja þau hús á Íslandi sem byggð hafa verið úr timbri úr skipinu. „Gröndalshús í Reykjavík er eitt og brúargólfið í Elliðárbrúnni,“ segir Tómas. „Þetta fór um allt Suðurland og Suðurnes, það eru nokkur hús í Keflavík, nokkur í Sandgerði, eitt hús í Höfnum, einhver í Hafnarfirði, Vatnleysuströnd og það er eitthvað í Grindavík líka. Predikunarstóllinn í Hvalsneskirkju er úr mahóní sem kom úr svítu skipstjórans.“
Heimildir:
-Sjómannablaðið Víkingur, 3. tbl. 01.03.1973, Skipsstrand við Básenda árið 1881 – Skúli Magnússon, bls. 68-71.
-Eyjafréttir, 23. tbl. 08.06.2017, Akkeriskeðjur úr bandarísku skipi sem rak á land enduðu sem legufæri í Eyjum – viðtal við Theódór Ólafsson, bls. 22-23.
-https://www.ruv.is/frett/2020/08/09/morg-hus-a-islandi-smidud-ur-mannlausu-draugaskipi
Sveitarfélögin Keflavík, Njarðvík og Hafnir runnu saman í eitt sveitarfélag og nefnast nú einu nafni Reykjanesbær. Byggð í Keflavík og Njarðvík hefur lengi legið saman og voru bæjarmörk ekki ljós, nema tekið væri eftir skiltum við vegarbrúnir, sem gáfu þau til kynna.
Keflavík
Mikil verslun var stunduð í Keflavík sem gerði hana að stærsta þorpinu á Suðurnesjum. Má rekja verslunarsögu Keflavíkur allt til upphafs 16. aldar og er vitað um þýska kaupmenn þar árið 1518. Undir lok 16. aldar komu Hamborgarkaupmenn til Keflavíkur en þegar Danir settu einokunarverslunina á 1602 féll Keflavík í hendur Kaupmannahafnar. Þessi dönsku áhrif í verslun í bænum héldust svo alveg fram á 20. öld, þó svo að Einokunarverslunin hafi um síðir liðið undir lok.
Þekktasti kaupmaðurinn á árum áður var H. P. Duus og stendur enn hluti af húsum hans, svokölluð Duushús. Þar er nú mjög góður veitingastaður við smábátahöfnina með bergið andstpænis upplýst, þegar dimma tekur á kvöldin. Mikil útgerð og öflug fiskvinnsla var í Keflavík um áraraðir en nú er þjónusta og iðnaður burðarás atvinnulífs staðarins. Keflavík er nú hluti af sameinuðu sveitarfélagi, Reykjanesbæ.
Ekki er vitað hvenær byggð hófst í Keflavík en fyrstu vitneskju um að byggð sé þar er að finna í annálum, þar sem segir frá Grími Bergssyni, sem vað þar bráðkvaddur árið 1649, en hann bjó þá í Ytri-Njarðvík. Talið er að verzlun hafi verið í Keflavík frá því um 1500, en árið 1518 er talað um þýzka kaupmenn þar. Hansarkaupmenn settust þar að 1579 og sama ár gaf Danakonungur út fyrsta verzlunarleyfið fyrir staðinn.
Við upphaf einokunarverslunar á Íslandi árið 1602 var kaupmönnum í Kaupmannahöfn afhent Keflavík og mynduðu þeir samlög um verzlunina. Fyrsti togarinn var keyptur til Keflavíkur árið 1944. Hét hann Hafsteinn. Hann var gerður út frá Hafnarfirði, vegna slæmra hafnarskilyrða í Keflavík.
Fyrsta íshúsið var byggt árið 1897 og fyrsta frystihúsið 1929.
Hröð aukning hefur verið í ferðaþjónustu og eru þar nú hótel í háum gæðaflokki og úrvals veitingastaðir sem og önnur gisting og tjaldsvæði. Keflavík hefur löngum verið nefndur bítlabærinn en þar má segja að sé vagga rokksins og bítlaæðisins hérlendis. Ein fyrsta, og vinsælasta, rokkhljómsveit landsins, Hljómar, var stofnuð í Keflavík og er ávallt kennd við staðinn. Hin árlega Ljósanótt í Reykjanesbæ nýtur sívaxandi vinsælda.
Keflavíkurhreppur var stofnaður 1908 og þann 22. mars 1949 fékk Keflavík kaupstaðaréttindi.
Í Keflavík má m.a. sjá minnismerki um Stjána blá, eftir Erling Jónsson. Við Vatnsnes er samnefnt hús í eigu Byggðasafnsins. Bjarnfríður Sigurðardóttir gaf húseigina til eflingar safns á svæðinu og þar innan dyra er nú nokkuð hefðbundið byggðasafn með margvíslegum gripum. Gamli skólinn hýsir nú Miðstöð símenntunarr á Suðurnesjum. Við bygginguna er listaverkið Laxnesfjöðurin eftir Erling Jónsson. Í skrúðgarðinum er sérstakur skúlptúr er kallast “Hvorki fugl né fiskur”, eftir Erling Jónsson, þar sem greipt eru nöfn þeirra sem hafa hlotið menningarverðlaun Reykjanesbæjar.
Við Hafnargötuna er minnismerki íslenskra sjómanna eftir Ásmund Seinsson. Beint upp af minnismerkinu er Keflavíkurkirkja, vígð árið 1915. Rögnvaldur Ólafsson teiknaði hana. Við enda Hafnargötunnar er Grófin og jafnframt elsti hluti Keflavíkur. Hér má sjá nokkur merkileg hús. Fyrst er að telja hús byggt 1971, sem hlotið hefur nafnið Svarta Pakkhúsið. Það er skýrt í höfuðið á enn eldra húsi, sem var á þessum slóðum og minnir á þá tíð þegar pakkhús og bryggjur kaupmannanna í Keflavík einkenndu víkina auk stakkstæða til saltfiskþurrkunnar.
Leifar síðustu bryggjunnar má enn sjá beint framundan, og heitir sú bryggja Miðbryggja. Næst er svokallað Fischerhús, sem reist var árið 1881, sem verslunar- og íbúðarhús Fischers kaupmanns. Á hluta fyrstu hæðar hefur hópur handverksfólks hreiðrað um sig og rekur þar Galerý Björg.
Handan götunnar er lítið hús sem kallast Gamla búð, sem byggð var árið 1871 af Duus kaupmanni. Þar beint á móti er síðan Duushúsalengjan. Bryggjuhúsið var fyrst reist 1877 af sama manni, Bíósalurinn er byggður við og reistur 1890, en sagnir erum að þat hafi verið bíósýningar þegar um aldamót. Síðan er byggt við þessi hús upp úr 1950 þrjár einingar sem fiskverkunarhús. Búið er að gera upp tvær þeirra og eru þetta nú sýningarsalir.
Ofan við Duushúsin eru tóftir gamla Keflavíkurbæjarins. Jörðin Keflavík var konungseign, en var rýr bújörð og búskapur á jörðinni var alltaf smár. Upphaflega mun jörð þessi eða kot hafa verið í eigu Skálholtsstóls. Við siðaskiptin um 1550 verður hún eign konungsins eins og aðrar jarðir biskupsstóls.
Ekki er vitað hvenær búskapur hefst í Keflavík, en hann er örugglega hafinn á 16. öld því árið 1587 greiðir bóndinn landsskuld sína til Bessastaða. Kvaðir á bóndann áttu að vera mannslán til Bessastaðavaldins, en féll niður, vegna bónar kaupmannsins í Keflavík, fyrir vöktun búðanna. Búskapur á jörðinni leggst niður fyrir 1780. Bæjarhúsin voru jöfnuð út rétt fyrir aldamótin 1900.
Í landi jarðarinnar eru eftirtaldar minjar friðlýstar ákvörðun þjóðminjavarðar árið 1987: Hið gamla bæjarstæði jarðarinnar Keflavík, sem afmarkast af Grófinni að norðan, af Duusgötu og lóð Duusgötu 5 að austan, af Vesturbraut að sunnan og lóðunum Vesturbraut 6 og Grófinni 5 að vestan. Ber eigendum að sjá til þess að ábúanda sé jafnan kunnugt um friðlýsinguna.
Fjölmörgu öðru má geta um Keflavík fyrrum, sem síðar verður lýst á vefnum.
Keflavík byggðist upp við Grófina. Upp frá henni liggja gamlar leiðir til nágrannabyggðalaganna vestan og norðan á Nesinu. Ofan við Grófina er Keflavíkurborgin og Rósasel við Rósaselsvötn.
Sorphirðustöð Reykjanesbæjar heitir Kalka eftir kalkaðri vörðu, sem stóð utan í stórum fallegum eldgíg efst á Háaleiti. Þegar Keflavíkurflugvöllur var lagður var gígurinn flattur út, líkt og svo margt annað á þeim tíma.
Njarðvík
Njarðvík var fyrrum hluti af Vatnsleysustrandarhreppi en fékk sjálfstæði sem sveitarfélag 1889. 1908 rann Keflavík saman við Njarðvík undir merkjum Keflavíkurhrepps en Njarðvíkingar klufu sig frá á ný 1942 og tóku á ný að starfa sem sjálfstætt sveitarfélag og fékk Njarðvík kaupstaðarréttindi 1. jan 1976.
Sveitarfélögin Njarðvík, Keflavík og Hafnir runnu saman í eitt sveitarfélag og nefnast nú einu nafni Reykjanesbær. Njarðvík var áður skipt í Innri- og Ytri Njarðvík, sem seinna mynduðu eitt sveitarfélag. Byggðin í Njarðvík og Keflavík hefur lengi legið saman og voru bæjarmörk ekki sjáanleg nema tekið væri eftir skiltum við vegarbrúnir, sem gáfu það til kynna. Aðalatvinnuvegur Njarðvíkinga hefur löngum verið sjósókn og fiskvinnsla en iðnaður hefur vaxið mjög sem og þjónusta við Keflavíkurflugvöll, stærsta flugvöll á landinu. Njarðvík er breið vík sem gengur til suðurs úr Stakksfirði. Byggðin í Njarðvík skiptist í Ytri – og Innri-Njarðvík. Ekki er ljóst hvenær sú skipting varð en það var snemma á öldum.
Talið er að kirkja hafi verið reist í Njarðvík á 11. öld. Eftir það var víkin kölluð Kirkju-Njarðvík.
Fram til 1515 var Njarðvík í bændaeign en eftir það í eigu konungs að minnsta kosti til loka 18. aldar. Sveinbjörn Egilsson rektor bjó í Innri-Njarðvík. Fram til 1889 var Njarðvík hluti Vatnsleysustrandahrepps, en varð þá sjálfstætt sveitarfélag.
Árið 1908 var Njarðvíkurhreppur sameinaður Keflavíkurkauptúni, enda var þar hluti verzlunarlóðar Keflavíkur innan Njarðvíkurhrepps. Njarðvíkurnar fengu þá sjálfkrafa verzlunarréttindi og hreppurinn fékk nafnið Keflavíkurhreppur. Árið 1942 var hreppunum skipt og Njarðvík varð aftur sjálfstætt sveitarfélag. Í Njarðvík er byggðasafn staðarins og þar hefur þurrabúðin Stekkjarkot verið endurbyggð.
Hallgrímur Pétursson, prestur í Hvalsnesi, bjó um tíma á Bolafæti þar sem nú er skipasmíðastöðin. Öllum minjum þar hefur verið spillt. Í Reykjanesbæ er mikil körfuboltaiðkun og lið Njarðvíkinga er talið eitt hið bezta á landinu og keppir nær alltaf um Íslandsmeitaratitilinn, oftast við sveitunga sína frá Keflavík og Grindavík. Ferðaþjónusta er mjög vaxandi og stærsta verzlun á Suðurnesjum er í Njarðvík. Vegalengdin frá Reykjavík er 47 km.
Stekkjarkot er tilgátuhús, byggt eftir tilsögn konu, sem bjó þar í kringum 1920. En kotið er að stofninum til frá 19. Öld. Þetta er eitt af hinum fjölmörgu smákotum, sjávarbýlum, sem einkenndu byggðina hér áður fyrr. Kotbúar lifðu aðallega á sjósókn sinni, en flestir stunduðu einhvern búskap samhliða þótt eflaust hafi einnig verið svokallaðar þurrabúðir þar sem eingöngu var lifað af því sem sjórinn gaf.
Fitjarnar eru að ganga í gegnum umbreytingu þar sem stefnt er að gera þær aðlaðandi til útivistar og í framtíðinni mun Naust Íslendings rísa á þessum slóðum. En það er stefna bæjaryfirvalda að þessi staður verði fyrsti og síðasti viðkomustaður ferðamanna sem fara um leifsstöð.
Hafnir
Hafnir byggðust upp í kringum mikið útræði. Hefur byggðin nafn sitt af tveimur fyrrum stórbýlum, Sandhöfn og Kirkjuhöfn, sem nú eru í eyði. Var fjölmenn byggð í Höfnum og útræði mikið á stórum bátum allt fram til aldamótanna 1900.
Hafnir, Keflavík og Njarðvík runnu saman í eitt sveitarfélag og nefnast nú einu nafni Reykjanesbær. Hafnir eru annað landstærsta sveitarfélagið á Reykjanesi en byggð þar er fámenn nú miðað við það sem áður var. Árið 1881 (26. júní) rak timburskip, Jamestown, upp við við Hvalsnes á milli Hestakletts og Þórshafnar í Ósunum gegnt Kotvogi (sjá nánar). Það var mannlaust og virtist hafa verið lengi á reki, því að reiði og seglbúnaður var horfinn.
Fjölmargir húsbyggjendur á Suðvesturlandi nutu góðs af timburfarmi skipsins (sjá Sandgerði) og akkeri skipsins er nú varðveitt framan við fyrrum sæfiskasafn í Höfnum við Nesveg.
Hafnaberg er suður af Höfnum og er þar skemmtileg og vel vörðuð gönguleið en þar eru nokkrir af beztu stöðum til fuglaskoðunar á landinu. Frá Hafnabergi má einnig oft sjá smáhveli í ætisleit rétt við landsteina.
Kirkjuvogshverfið nefnist Hafnir í daglegu tali en þar hafa búið 80-120 manns sl. 2 áratugi. Fyrr á öldum voru Hafnir ein af stærstu verstöðvum landsins en þær eru samheiti fyrir 3 hverfi (lendingar), þ.e. Kalmanstjörn, Merkines og Kirkjuvog. Nú er byggðin öll í gamla Kirkjuvogshverfinu auk íbúðarhúss í Merkinesi og í Junkaragerði.
Á 19. öld var Kotvogur í Höfnum eitt stærsta býli landsins. Þar bjuggu m.a. 3 forríkir útvegsbændur mann fram af manni, þeir hétu allir Ketill og eru oftast nefndir Katlarnir þrír.
Annað stórbýli var Kirkjuvogur í Höfnum þar sem búið hafa margir höfðingjar. Á 19. öldinni bjó í Kirkjuvogi dannebrogsmaðurinn Wilhjálmur (Christinn) Hákonarson (1812-1871), en þannig er nafn hans stafað á leiði hans í Kirkjuvogskirkjugarði. Vilhjálmur átti 2 dætur. Önnur þeirra hét Anna. Heimiliskennari í Kirkjuvogi var þá ungur menntamaður, Oddur V. Gíslason, og felldu þau Anna hugi saman. Þegar ungi maðurinn bað um hönd dótturinnar brást faðir hennar hinn versti við og þvertók fyrir ráðahaginn. Afleiðingin varð eitt frægasta og æsilegasta brúðarrán Íslandssögunnar. Sættir tókust þó síðar. Oddur varð prestur í Grindavík við mikinn orðstír og var m.a. upphafsmaður að sjóslysavörnum á Íslandi. Af honum er mikil saga sem endar í Bandaríkjunum.
Vilhjálmur Kr. Hákonarson reisti þá kirkju sem nú stendur í Höfnum. Hún er úr timbri og var vígð árið 1861. Vilhjálmur lést 10 árum seinna 59 ára að aldri. Ekkert er eftir af Kirkjuvogsbænum en kirkjan stendur nánast á bæjarhlaðinu enda nefnist hún Kirkjuvogskirkja og sóknin Kirkjuvogssókn. Ketill Ketilsson (1823-1902) dannebrogsmaður og útvegsbóndi í Kotvogi, stundum nefndur Mið-Ketill vegna þess að hann tók við búi af föður sínum og Ketill sonur hans tók svo við búi af honum, hefur ekki viljað vera minni maður en Vilhjálmur í Kirkjuvogi og byggði kirkju úr timbri á Hvalsnesi í Miðneshreppi, en þá jörð átti hann. Kirkjuna lét hann síðar rífa og byggja aðra stærri og íburðarmeiri úr tilhöggnu grjóti. Sú kirkja var vígð 1887 og stendur enn.
Sem dæmi um stærð Kotvogs á dögum Mið-Ketils á 19. öld má nefna að þá var bærinn alls 16 hús og mörg þeirra stór, 38 hurðir á lömum og 72 í heimili á vertíðinni. Bærinn í Kotvogi var enn reisulegur og stór um aldamótin 1899/1900. Hinn 3. apríl 1939 brann íbúðarhúsið og fórst þrennt í brunanum. Pakkhús úr timbri var austast og fjærst eldinum og skemmdist því ekki . Því var breytt í íbúðarhús og notað sem slíkt til 1984. Það stendur enn ásamt nokkrum útihúsum en allt er það illa farið og ekki svipur hjá sjón (stendur á kampinum strax vestan við Sæfiskasafnið). Stór grasi vaxinn hóll rétt hjá Kotvogi hægra megin götunnar þegar horft er í vestur nefnist Virkishóll.
Gamli Hafnahreppur var stærsta sveitarfélagið á Suðurnesjum mælt í ferkílómetrum – víðáttumikil hraunúfin flatneskja og sandflæmi að stórum hluta. Nyrðri hluti landsins er nokkuð gróið hraun en syðri hlutinn eldbrunnið, uppblásið og hrikalegt svæði. Strandlengjan er einn stærsti skipalegstaður landsins, hrikalegir klettar, sker og boðar þar sem þung úthafsaldan myndar oft tilkomumikið og rosalegt brim.
Á sl. 25 árum hefur hraunið ofan við Hafnir tekið stakkaskiptum vegna aukins grasvaxtar sem er árangur landgræðslu sem stunduð hefur verið með flugvélum á Reykjanesskaganum auk þess sem sáð hefur verið í vegkanta af starfsmönnum Vegagerðar ríkisins. Í hrauninu upp af Ósum má enn sjá leifar landgræðslugirðingar sem mun hafa verið lokið við um 1939 en hún skipti Reykjanesskaganum í 2 svæði. Girðingin lá eftir hrauninu og niður í Merkinesvör og hefur verið mikið mannvirki á sínum tíma. Sunnan hennar var sauðfé bannað. Síðar var svæðið stækkað með því að sett var horn á girðinguna uppi í hrauninu og girt norður að Ósum og sá hluti girðingarinnar sem lá fram í sjó að vestanverðu var lagður niður.
Mikið og fjölbreytt fuglalíf er í hrauninu, m.a. talsvert af rjúpu í góðum árum, talsvert af kjóa og einstaka smyrill. Nokkuð er um æðarfugl við Ósa en æðarvarp er ekki svipur hjá sjón eftir að minnkurinn kom á svæðið. Mikið er um sjófugl og mest byggð í Hafnabergi og Eldey.
Hafnir eru eitt af mestu veðravítum landsins og þar er sjaldan logn. Hvöss austanátt með rigningu getur staðið svo dögum og vikum skiptir, einkum á haustin og eirir engu sökum vindálags. Oft bresta stórviðri á fyrirvaralaust eins og hendi sé veifað. Mest og hættulegust veður nefna Hafnamenn ,,aftakastórveltu af suðvestri“ (í einni slíkri eyðulögðust tún að vestanverðu í Kirkjuvogshverfi og í Merkinesi). Hríðarbyljir og skafrenningur eru algengir að vetri – snjói á annað borð. Og þótt ekki séu nema 9 km frá Höfnum til Njarðvíkna er veðurfar gjörólíkt.
Kirkjuvogskirkja í Höfnum var vígð 1861. Á túninu fyrir aftan kirkjuna hafa nú fyrir skömmu fundist elstu mannvistarleifar bæjarfélagsins. Það er skáli (íbúðarhús). Við aldursgreiningu kom í ljós að skálinn er ekki yngri en frá árinu 900.
Nýr uppbyggður vegur var lagður frá Höfnum út á Reykjanes um miðjan 9. áratug nýliðinnar aldar. Það tekur einungis um 10 mínútur að ganga yfir holtið frá bílastæðinu ofan Laxeldisstöðvarinnar og niður á gamla veginn skammt sunnan Kalmanstjarnartúns. Af gamla veginum þar sjást 5 áberandi stórir grasi vaxnir hólar. Þessir hólar koma við sögu í bókum Sr. Jóns Thorarensens, (Litla skinnið, Rauðskinna, Marína ofl.) en sögusvið þeirra er Hafnir (Jón var ættaður og ólst upp í Kotvogi). Nyrstur og næst Kalmanstjörn er Stekkhóll hægra megin vegarins. Annar stærri hóll er sunnar, einnig hægra megin vegarins. Sá heitir Kirkjuhafnarhóll. Vinstra megin vegarins er lægri hóll og sést garðhleðsla í jöðrum hans að norðan- og austanverðu. Þetta er talinn vera gamall kirkjugarður Kirkjuhafnar og mun hann hafa lagst af um miðja 14. öld. Suðvestan Kirkjuhafnarhóls, nær sjó, eru 2 graxi vaxnir hólar og eru sýnilegar rústir í syðri hólnum. Hólarnir nefnast Sandhafnarhólar. Sandhöfn og Kirkjuhöfn voru fyrr á öldum þekkt stórbýli og helsta útræði í Höfnum. Talið er að býlin hafi farið í eyði á 17. öld.
Til eru heimildir um stærð Kirkjuhafnar sem segja að þar hafi verið miklar byggingar, m.a. 50 hurðir á hjörum, en sá mælikvarði var algengur áður. Umhverfis Sandhafnarhóla, en þar munu hús einnig hafa verið mörg og stór, eru bæði hleðslur og rústir.
Mikill útvegur var frá Höfnum. Fjöldi vermanna kom víðs vegar að af landinu á vetrarvertíð, sem hófst snemma árs á hverju ári um aldir. Verstöðvarnar voru fjölmargar á svæðinu öllu, en þar skipti mestu máli nálægðin við hin gjöfulu fiskimið.
Hafnahreppi er að venju skipt í þrjú svæði; Kirkjuvogshverfið, Merkineshverfið og Kalmannstjarnarhverfið. Sú skiptin markast af gömlu lögbýlunum. Þeim fylgdi síðan fjöldi hjáleiga, sem sumar hverjar áttu stutta lífdaga, en aðrar uxu höfuðbýlinu yfir höfuð, eins og t.d. Kotvogur. Það var talið fullvíst að lögbýlin hafi verið fleiri, enda mörg örnefni sem benda til þess að svo hafi verið. En með Reykjaneseldum á 13. öld eyddist byggðin sunnan Kalmannstjarnar.
Heimildir m.a.:
-www.nat.is
-www.leoemm.com
-Sigrún Ásta Jónsdóttir, Byggðasafni Reykjanesbæjar.
Ólafur Sigurgeirsson skrifaði á mbl.is. árið 1999 stutta grein; „Gengið um gömlu þjóðleiðina milli Hafna og Grindavíkur„.
„Gengið verður um gömlu þjóðleiðina milli Hafna og Grindavíkur. Hafnir voru fyrr á öldum, segir Ólafur Sigurgeirsson, blómlegur útgerðarstaður. FÍ efnir á sunnudaginn, 18. apríl, til gönguferðar um gömlu þjóðleiðina milli Hafna og Grindavíkur. Þegar leiðin er farin úr Höfnum liggur hún frá Kalmanstjörn um Hafnarsand fyrir norðan Presthól og um Kinn þar sem farið er ofan í sigdalinn upp af Stóru- Sandvík, þaðan hjá Haugum og yfir Haugsvörðugjá og síðan með rótum Sandfellshæðar og fylgir gatan þar hraunjaðri Eldvarpahraunsins. Þar verður á vegi okkar nýlegur vegarslóði sem er tilkominn vegna lagningar ljósleiðarans mikla. Þegar kemur á móts við Rauðhól er farið yfir hraunhaft að hólnum og síðan hjá Eldvörpum og yfir Hrafnagjá að Húsatóftum í Staðarhverfi. Öll þessi leið er vel vörðuð og ber þess merki að þar hefur verið fjölfarið um aldir, víða sést hvar umferðin hefir markað alldjúpar götur í hraunið og lausagrjót hefir verið tínt úr götunni og lagt til hliðar. Þetta var aðalleið vermanna af Suðurlandi sem sóttu sjó frá Höfnum og af Rosmhvalanesi, þar hafa skreiðarlestir verið á ferð.
Eins hafa Grindvíkingar lagt leið sína þar um á þeim tíma sem þeir þurftu að sækja verslun til Básenda, þótt þeir hafi einnig farið sjóleiðina, en á sautjándu og átjándu öld urðu þeir að sæta því í nokkra áratugi að sækja verslun þangað, sökum þess að kaupmenn treystu sér ekki til að sigla til Grindavíkur vegna skipsskaða sem urðu þar á fyrri hluta sautjándu aldar. Þá hefur Sigvaldi Sæmundsson póstur verið þarna á ferð, á leið sinni milli Básenda og Grindavíkur, en hann var fyrsti póstur sem ráðinn var með skriflegum samningi til póstferða árið 1785. Hafnir voru fyrr á öldum blómlegur útgerðarstaður og var þar stundaður umfangsmikill búskapur bæði til lands og sjávar. Vermenn fjölmenntu þangað á vertíðum og eru sagnir til um stórfellda útgerð Ketils Ketilssonar í Kotvogi, en hann gerði út þrjú skip, á árunum 18701880, og voru þá um 50 sjómenn á hans vegum auk 22 annarra heimilismanna.
Ketill var meðal auðugustu manna landsins á sínum tíma, hann byggði steinkirkju þá á Hvalsnesi sem enn stendur, en Ketill átti meðal annars alla Hvalsnestorfuna og Járngerðarstaði í Grindavík. Landkostum hefur á síðari öldum hrakað mjög í Höfnum vegna sandágangs og margir bæir farið í eyði af þeim sökum, þar á meðal Haugsendar sem snemma fóru í eyði, en Haugsendar voru á milli Kirkjuvogs og Merkiness, voru tún þar mikil, vegleg húsaskipan og myndarlega búið. Sagnir um mannlíf þar lifa í gömlum húsgangi: Á Haugsendum er húsavist sem höldar lofa. Þar hefur margur glaður gist, og gleymt að sofa. Ég hefi stundum heyrt þessa fornu þjóðleið nefnda Prestastíg en hvergi hefi ég fundið það nafn í þeim bókum sem ég hefi séð. Þó má geta þess að með prestakallalögum frá 1907 var Kirkjuvogssókn í Höfnum lögð til Staðarprestakalls í Grindavík og hefur því Staðarprestur oft átt erindi um þessa fornu leið þar til Staðarprestsetur var lagt af 1928 og Kirkjuvogskirkja lögð til Grindavíkurprests. Geir Bachmann lýsir þeim þjóðleiðum sem frá Grindavík liggja í sóknarlýsingu frá 1840. Hann nefnir með nafni fyrstu þrjá aðalvegi yfir hraunin en segir svo: „Sá fjórði og síðasti vegur sem úr sókninni liggur og alþjóðarvegur má kallast liggur upp frá Húsatóttum í útnorður ofan í Hafnirnar og er hann sá eini sem héðan farinn verður þangað.“ Þetta er eini vegurinn frá Grindavík sem Geir nefnir ekki með nafni.“
Heimild:
-Mbl.is, 17. apríl 1999.
Í bókinni „Sjómannasaga“ eftir Vilhjálm Þ. Gíslason, segir m.a. frá Oddi V. Gíslasyni: „Enginn maður ljet meira til sín taka öryggismál sjómanna á erfuðustu árum þilskipanna en sjera Oddur V. Gíslason að Stað í Grindavík (f. 8. apríl 1836, d. 10. jan. 1911).
Oddur var einkennilega samsettur maður, ákafamaður og brennandi í andanum, síleitandi og reynandi nýjar úrlausnir. Hann var sjómaður og prestur og rithöfundur í senn. Eftir að hann hafði lokið embættisprófi í guðfræði gerðist hann ekki prestur, heldur sjómaður í fimmtán ár og reri kappsamlega, enda var hann karlmenni að burðum. Hann fjekst þá við ýmsar tilraunir til nýrra vinnubragða og vöruvöndunar á sjávarafurðum. Þannig fór hann að gufubræða þorskalýsi suður í Kirkjuvogi, hjá Vilhjálmi Hákonarsyni. Hann varð tengdafaðir Odds. Þau eignuðust fimmtán börn, hann og Anna í Kirkjuvogi. Þorskalýsi sitt sendi Oddur til Boulogne og fjekk verðlaun fyrir. Hann gerði fleiri tilraunir til umbóta á fiskimálum. Hann skrifaði t.d. um nauðsyn þangbrennslu. Hann skrifaði um nýjar veiðiaðferðir og verkunaraðferðir og brýnir fyrir mönnum vöruvöndun. En fyrst og fremst var hann talsmaður aukins öryggis á sjó og slysavarna og brautryðjandi þeirra mála. Hann fór verstöð úr verstöð til þess að tala við sjómenn um þessi mál og hann var þrumandi ræðumaður. Hann gaf af fátækt sinni út blöð og bæklinga um hagsmunamál sjómanna. Hann talaði og skrifaði, hvort sem menn vildu á hann hlýða eða ekki. Sumir yptu öxlum, aðrir reyndu ráð hans og gafst vel. Landssjóður gaf út ágrip sumra erinda hans. Menn gengu í fjelögin, sem hann kom á í verunum, bjargráðanefndirnar, sem hann stofnaði til þess að beita sjer fyrir slysavörnum. Þær áttu að kenna mönnum að hafa góða áttavita, lýsispoka, bárufleyga og kjalfestu. Rit hans voru tvennskonar, fræðirit og hvatningar. Hann skrifaði ritling um „Leiðir og lendingar í fiskiverum Íslands“ (1890). Hann samdi dálitla kenslubók í ensku (1863), einhverja þá fyrstu, sem hjer var samnin, en hann var góður enskumaður og fylgdarmaður enskra ferðamanna. Þá skrifaði hann smáritasafn um „Fiskiveiðamál“, um síld til beitu og fæðu, um lóðir, sem væru landsstoð, en heimska að afnema þær. Þá skrifaði hann um „Líf og lífsvon sjómanna“. Þar talar hann um lýsið sem bjargráð í sjáfarháska, um áttavita og loftþyngdarmæli, skiftispjöld, andþófsstjóra og kjalfestupoka og um formensku og í ofanálag um saltfiskverkun.
Um þessi mál og önnur áþekk gaf hann einnig út tímarit, „Sæbjörgu“, en hafði ekki bolmagn til að halda því úti nema eitt ár (1892). Hann var trúhneigður maður og komst snemma í kynni við enska kristilega sjómannastarfssemi. Þaðan mun hann hafa fengið einhverjar hugmyndir sínar. Á vegum ensks smáritafjelags gaf hann út ritlingana; „Hjálpræðisorð“. Löngu seinna þegar hann var kominn til Ameríku, fór hann að lækna með yfirlagningu handa. Hann hafði alla tíð áhuga á lækningum og fór að lesa læknisfræði á gamals aldri vestanhafs, og varð þar læknir, skömmu áður en hann dó. Hann hafði farið þangað á hálfgerðum flótta undan vonbrigðum og fátækt, og gerst prestur í Nýja Íslandi 1894. Er hann undi ekki hafti embættisstarfanna þar fremur en heima og gerðist farandpredrikari og læknir.
Sjera Oddur kom ýmsu góðu til leiðar með starfsemi sini hjer heima, enda naut hann ýmislegrar aðstoðar góðra manna, þó að aðrir tækju honum fálega. Í Sæbjörgu stendur á einum stað, að nokkrir menn höfðu „orðið til þess að spilla fyrir viðleitni“ sjera Odds „og tekist það furðanlega. Þessir menn náðu samt ekki stjórn úr hendi hans, sem öllu ræður, og sem leyfði sjera Oddi að komast allra sinna ferða“. Sjera Oddur talaðai og lifði í trausti trúarinnar. Hann var snortinn af enskum trúboðsanda og naut mikils stuðnings í starfi sínu frá enskum skoðanabræðrum. Hjer heima fjekk hann einnig styrk og aðstoð, einkum frá kaupmönnum. Helsti styrktarmaður hans var H. Th. Thomsen og minnist Oddur hans með virðingu og þakklæti. Duus hjálpaði honum einnig og um skeið naut hann ofurlítilla amtsstyrkja. 1890 ljetu ýmsir kaupmenn hann fá þúsund krónur í farareyri um fiskiverin. Skyldi hann einkum hvetja menn til framfara í fiskverkun og gerði hann það ætíð.
Embætti sínu mun sjera Oddur hafa gegnt af alúð, fyrst í Lundi í Borgarfirði, síðan í Grindavík frá 1878 til ’94. Grindavík var þá lítið og fremur fátækt fiskiver. Útvegsbændur voru þar (1892) átján og ýmsir ágætir sjósóknarar. Búðir voru þar fjórtán. Sjera Oddur mældi þær og komst að því, að sú minsta var 411 tengingsfet. Þar voru fjórir menn, eða húsrúmið var 102 tengigsfet á mann. Stærsta búðin var 1620 tengingsfet og voru þar fimm menn og var því meira en þrisvar sinnum rýmra þar en í minstu búðinni. Fjórir útvegsbændur höfðu sjómenn í heimahúsum sínum, tveir í timburhúsum og tveir í baðstofum. Prestsetrið mun þá hafa verið heldur lítið og ljelegt. Sjera Oddur stundaði sjó jafnframt prestskap sínum og var duglegasti formaður, áræðinn og ærðulaus.
Sagan segir, að einlægt sneri hann hiklaust heim úr róðri og tafarlaust ef til hans var leitað um embættisverk. Var þá breidd hvít voð á þekjuna á bænum og sást af sjó, þegar gestur kom og vitjaði prests. Hann þótti snajll ræðumaður, vel orði farinn og heitmál,,, enda ákafamaður að hverju sem hann gekk og einlægur, en kvikur nokkuð.
Líf hans var einkennilegt sambland sjósóknarerfiði og basli og þrá til andlegs lífs, sambland af guðrækni og áróðri. Þegar hann skrifar á móti afnámi lóðanotkunar, biður hann menn að hugsa þetta mál samviskusamlega, „hvort þjer aftakið nú ýsulóðina“, og „biðjið guð að leiðbeina yður, eins og hann gefur veiðina, eins gefur hann líka vitið ef hann er beðinn“. Blað sitt, Sæbjörgu, sem hann kallar bjargráðarblað fyrir sjómenn, lætur hann „leggja upp í Jesúnafni til framsóknar og varnar bjargráðamálum sjómanna á Íslandi“…
Sjera Oddur í Grindavík gat talað eins og sjómaður við sjómann. Hannn varð fyrir áhuga og sjerkennilegan persónuleik ímynd nýrra fjelagsmálahreifinga og framfara. Hann hugsaði ekki einungis um stofnun bjargráðanefndanna, en ráðgerði einnig stofnun sjómannafjelaga til að „tryggja líf og atvinnu sjómanna á allan hátt“. Í þeim tilgangi mælti hann með notkun þilskipa og skrofaði um það, að bátarnir væru og litlir. Hann gerði einnig ráð fyrir því að stofna sjómannaráð fyrir alt Ísland. Frumvarp til laga um þetta er birt í Sæbjörgu…
Sjera Oddur í Grindavík stóð ekki einn uppi með þessi áhugamál sín. Sumum þeirra hreyfðu aðrir samhliða honum eða jafnvel á undan honum. Tryggvi Gunnarsson hafði skrifað um gildi lýsisins til bjargráða 1882…
Bárufleygur var, eftir lýsingu sjera Odds sjálfs, holbauja, líkust sykurtopp í lögun, og tók 8 til 10 potta af lýsi. Í botninum voru eitt til fjögur smágöt, auk sponsgats. Þessir bárufleygar voru gerðir úr trje, járni eða blikki, Önnur samskonar lýsistæki til að lægja sjó, voru ilir og lábrjótur. Ilinn (borðili og stafnili) var þríhyrndur strigapoki, sem tók 2 til 4 potta af lýsi. Lábrjótur var sveigur, mettaður lýsi, eða tappalausar flöskur, fyltar lýsi. Tækjum þessum kom sjera Oddur á ýms skip og útskýrði notkun þeirra, s.s. það, hvernig bárufleyginn skyldi nota í undanhaldi, mótróðri, flatskellu og beitivindi. en það var gömul reynsla, sem sjera Oddur nefnir, að þegar lifur brákaði á sjó, lægði öldur. Höfðu hvalveiðimenn helst hagnýtt sjer þetta.
Upp úr þeirri hreifingu, sem sjera Oddur vakti, spruttu smásaman með atbeina annarra, ýmsar umbætur í öryggis- og tryggingarmálum. Hún varð einnig vísir að öðru, því að upp fóru að rísa stjettasamtök eða fjelög um hagsmunamál þeirra, sem að útvegi unnu, einkum í bæjunum. Ýmiskonar fjelagslíf þróaðist því meira, sem margmennið óx í bæjunum…“
Heimild:
Vilhjálmur Þ. Gíslason, Sjómannasaga, 1945, bls. 382-388.
Ekki er minnst á Hafnarétt í örnefnalýsingum, en hún er þó augljós á loftmyndum frá árinu 1954, auk þess sem minjar hennar sjás enn vel í dag norðvestan við Réttargötu í Höfnum.
Byggð hefur lagst þétt að réttinni, en þess hefur verið gætt að forða henni frá eyðileggingu. Sjórinn er þó smám saman að eta landið undan henni.
Jökull Jakobsson gengur með sr. Jóni Thorarensen um Hafnir á Suðurnesjum. Fyrri hluti – frá 28. apríl 1973. Hér að neðan er viðtalið endurritað að hluta.
Sr. Jón Thorarensen var alinn upp í Höfnum hjá frænku sinni Hildi Thorarensen og Katli Ketilssyni, kallaður mið-Ketillinn. Margar sögur skrifaði Jón um lífið í Höfnum. Má þar nefna bækurnar Útnesjamenn og Litla skinnið. Einnig tók Jón saman þjóðsögur bæði af Suðurnesjunum og af landinu öllu í hefti sem kallað hefur verið Rauðskinna, mörg bindi.
„Við erum komnir suður í Hafnir og ætlum okkur að ganga hér götur með séra Jóni Thorarensen. Séra Jón er ekki fæddur hér. Þú sagðir mér aðþú hefði komið hér fimm ára gamall, séra Jón, og það lætur því nærri að liðin eru 65 ár síðan þú komst hingað fyrst, í Hafnir. Mig langar til að spyrja þig áður en við göngum hér götur í Höfnum; hvernig var fyrsti dagurinn þinn hér?“
„Ég kom hér um sumar með föður mínum og ég man það er ég kom að Kotvogi, sem varð æskuheimili mitt, að puntstráin náðu mér í mitti. Annað man ég óglöggt.“
Hafnirnar hafa mikið breyst þótt puntstráin séu þau sömu. Hafnir voru mikið sjósóknarpláss. Getur þú lýst fyrir okkur þorpsbragnum eins og hann var á þínum uppvaxtarárum.“
„Það var mikil útgerð þá, hér, í þessu plássi og feikilegur fjöldi vermanna kom hingað í vertíðarbyrjun. Sjómennrinir voru úr Dalasýslu, Húnavatnssýslu og Skagafirði, auk þess að sunnan; Rangáringar, Árnesingar og jafnvel austan úr Skaftafellssýslu. Sjósóknin var mikil, mörg stórskip gengu, þau voru nú yfirleitt áttæringar á meðan ég man eftir, en áður voru það teinræingar sem höfðu 19 manna skipshöfn og skipt í 22 staði, en eftir að ég man voru það áttæringar. Þeir voru mjög margir. Sjósóknin var árið um kring, sérstaklega frá 2. febrúar (kyndilmessu) til 11. maí. Nú þá fóru sjómennirnir heim og þá byrjuðu sumarróðarnir frá 11. maí til jónsmessu. Það var kallað vorvertíð. Svo var nú sjálft sumarið. Þá var nú róið dálítið, en ekki mikið, alltaf eitthvað.
En aftur um haustið, á Mikjálsmessu. Þann 29. september þá byrjaði haustvertíðin, sem stóð til Þorláksmessu, 23. desember. Þá var yfirleitt róið á fjögurramanna og aðallega sexmannaförum. Þetta var svona yfirleitt árið um kring. Þegar fiskur gekk inn á grunnið var róið meira en venjulega.
Ég var 9 ára þegar ég fór fyrst á sjó svona fyrir alvöru. Það var 18. maí, bjartur vormorgun. Þá fór ég með formanninum í Kotvogi sem var Bjarni Guðnason. Ég dró 17 ýsur. Fyrsti ýsan sem ég dró var Maríufiskurinn minn, sem ég skar í báðar kinnar krossmark og setti á sérstakan stað því þetta var heilagur fiskur. Þegar ég kom í land sagði formaðurinn mér að fara með fiskinn heim í Vesturbæ. Þar var gömul kona í kör sem hét Ingigerður Ketilsdóttir. Ég labbaði með ýsuna formálalaust inn til hennar, alveg inn að rúmi, og sagði henni að ég væri að koma með Maríufiskinn minn. Hún reis upp í rúminu og lagði hendurnar báðar yfir höfuð mér og bað Guð fyrir mér að ég yrði fengsæll og lánsamur sjómaður og yfirleitt á öllum lífsleiðum mínum. Mér þótti þetta mjög hátíðleg stund.“
„Var þetta gamall siður?“
„Siðurinn var sá fyrrum að gefa alltaf kirkjunni fyrsta fiskinn, sem var Maríufiskur. Þegar var komið að því að ég man eftir var alltaf sú regla höfð að gefa fiskinn elstu konunni í sveitinni.“
„Ef við kannski byrjum hér á fyrsta húsinu. Það stendur að vísu ekki lengur, sést einungis móta fyrir rústum þess…“.
„Hér bjó, hér austast í þorpinu, Ólafur Ormsson og kona hans hét Guðrún Ólafsdóttir. Bærinn eða parturinn þeirra var kallaður Hjalli. Þetta var hluti úr kirkjujörðinni. Ólafur þessi fluttist austan úr Skaftafells´sylum að mig minnir og hann var hér um nokkurt skeið í Höfnum. Hann var fyrir þeirri miklu reynslu að hann missti konuna s´na snemma þegar inflúensa gekk hér í Höfnunum. Hann fluttist síðan til Keflavíkur. Hann er forfaðir hinna frægu Ormsbræðra í Reykjavík. Ólafur hafði mikið yndi af bókum og bókmenntum og fylgdist vel með öllu. Hann hafði mikla tilfinningu fyrir góðu og hreinu íslensku máli.
Skammt frá Ólafi Ormssyni, á býli hér fram á bakkanum, sjávarbakkanum, bjó Magnús Ketilsson, útvegsbóndi. Hann var frá Vesturbæ hér í hverfinu. Faðir hans var Ketill Magnússon og móðir hans var Sigríður Björnsdóttir. Magnús þessi var kvæntur Guðbjörgu Friðriksdóttur frá Reykjavík, sem lifir enn og er búsett í Keflavík. Magnús þessi var snemma mjög duglegur og kappsamur og hann fór snemmma að stnda sjó og var formaður og formennskan fórst honum mjög vel úr hendi. Hann var fyrsti maður hér í hreppi sem fór að nota vélar í bátana, trillubátana. Hann sótti sjóinn mjög vel og var ákaflega heppinn og fylginn sér við allt sem hann gerði. Hann var glöggur maður og skynsamur. Hann var eiginlega af gömlum höfðingjaættum hér í sveitinni. Ingigerður, amma hans, var sú kona sem hann vék að Maríufiskinn, var dóttir Jóns Ketilssonar og faðir hans var elsti Ketillinn í Kotvogi. Magnús Ketilsson bjó síðast í Keflavík.
Þá kemur næsta býli, sem var nálægt Magnúsi Ketilssyni…“
„Það sést nú ekkert af þessum býlum lengur, þau eru öll horfin…“
„Nei, það var Búðarbakki. Það var sömuleiðis þurrabúð. Þetta voru þurrabúðir, nema Ólafur Ormsson var grasbýlisbóndi. Í Búðarbakka bjó Þorsteinn Árnson. Kona hans hét Gíslína Gísladóttir. Þorsteinn Árnason var gríðarstór maður og mikið karlmenni. Kona hans var í meðallagi há og lagleg kona. Þau áttu mörg börn og ég kom oft að Búðarbakka. Ég var eiginlega alveg hissa hvað þau umbáru okkur þegar við komum með ærslum og látum. Þorsteinn þessi var formaður og ágætur sjómaður. Hann var hagur á tré og járn og mjög laginn við allt sem hann gerði. Hann var mikið karlmenni og sterkur maður. Ég man eftir því einu sinni að hann átti þurrkaðan labra niður á sjávarbakka. Hann hélt að sjórinn myndi fara yfir fiskstakkinn sinn svo hann stökk til og tók hann í fangið í tveimur ferðum og kom honum öllum á land. Hann gerði þetta allt svo léttilega.
Næst fyrir sunnan Búðarbakka, sem stóð í laut hér í inntúninu, var svo hóll fyrir framan eða sunnan. Þar var Staðarhóll. Þar bjó Magnús Pálsson, hreppsstjóri sveitarinnar.
Kona hans hét Kristín Jópsepsdóttir og var ljósmóðir sveitarinnar. Magnús þessi var mikill merkismaður, dugnaðargarpur og ágætur sjósóknari, snilldarlegur sláttumaður með vinnulagni og þrek. Kristín var hin prúðasta og elskulegasta kona. Þau bjuggu þarna lengi. Magnús ver gefinn fyrir söng. Þau hjónin áttu tvær dætur, önnur búsett í Reykjavík og hin í Keflavík. Ég reri hjá Magnúsi eina haustvertíð. Eitt reri há honum sá frægi maður, Stjáni blái.“
„Mannst þú eftir Stána bláa?“
„Ég man vel eftir honum. Hann var hár og grannur, klæddur í blá nankinsföt. Mér fannst honum alltaf vera hálfkalt því það var sultardropi í nefi hans. Eitt sinn voru þeir félagar að skemmta sér, höfðu náð í víntár í Keflavík og það var einhver maður með smáskeyting við Stjána. Hann hafði engin orð við það heldur tók manninn og stakk þumalfingur í vinstra munnvikið á honum og tók með puttunum fyrir kjálkabarðið og sneri hann niður…“
„Við höldum áfram röltinu um götuna í Höfnum. Nú eru við á móts við kirkjugarðinn (norðan ef ég þekki áttir rétt). Hér sést aðeins móta fyrir dálitum rústum.“
„Hér stóð stórt stórt timburhús sem hét Norðurhús. Hér bjó Friðrik Gunnlaugsson, útvegsbóndi. Foreldrar hans voru hér í Hólshúsum nokkru sunnar hér í sveitinni. Þeir hétu Gunnlaugur og Fríður. Friðrik var stór maður, hár og grannur, mjög myndarlegur maður. Kona hans hét Sigurveig Ketilsdóttir, myndarkona og ágæt í öllum húsfreyjustörfum. Friðrik gerði út áttæring og var mjög lánsamur og fiskisæll.“
„Við röltum í landsuður, segir séra Jón mér, frá kirkjugarðinum. Við komum að litlu og lágreistu býli, grænmáluðu og stendur stutt frá veginum. Það heitir Garðbær. Hér eru hjólbörur á hvolfi og tvær pútur að kroppa hér.“
„Hér bjó á sínum tíma Ólafur Einarsson, útvegsbóndi, og kona hans Gróa. Mér er það minnistætt að það var alltaf vaninn hjá Gróu að hún gaf mér alltaf rauðan kandísmola. Ólafur Einarsson var ágætur formaður. Hann stundaði sjóinn árið um kring og reri venjulega á sexmannafari. Þessi hjón voru ákaflega samtaka í allri lífsbaráttu. Ólafur var fámáll og fáskiptin, en honum féll aldrei verk úr hendi.“
„Við röltum aftur til baka, áleiðis að kirkjunni. Hér staðnæmust við andspænis kirkjudyrunum. Hér sést móta fyrir grasi grónum rústum.“
„Nú erum við komin að Kirkjuvogi, sem er höfuðbólið og aðaljörð sveitarinnar. Hann skiptist í Austurbæ, Miðbæ, vesturbæ og Kotvog. Hann fóðraði, torfan, 20 kýr þegar mest var. Hér hafa verið höfðingar á fyrri tíð og hér er margs að minnast. Nú eru hér grasi grónar rústir og byggingar horfnar. Hér var frægur maður, Hákon Vilhjálmsson, Hann var fæddur 1751, lögréttumaður og lögsagnari sýslumanna. Hann var hér útvegsbóndi, mikilsháttar maður. Hann giftist 1784 Ingveldi Guðnadóttur, sem var sýslumannsdóttir frá Stafnesi. Hákon komst í sögurnar árið 1809. Jörundur hundadagakonungur tók völdin og gerðist hæstráðandi til sjós og lands. Sumarið 1809 fór Jörundur með lífverði sínum suður til Keflavík að gera upptækar eignir danskra kaupmanna. Hákon frétti af þessu og reið til móts við hátignina.
Erindið var að biðja Jörund um leyfi að mega eiga Önnu dóttir Jóns Sighvatssonar hins ríka, dannebrogsmanns, í Njarðvík án þess að skilja við eiginkonu sína. Hann veitti honum leyfið en gaf svo stuttu seinna út leyfsibréf til almúgans á Íslandi sem sagði að þótt hann hafi veitt þessum heiðursmanni þetta leyfi myndi hann ekki veita slíkt leyfi aftur því vafamál væri að breyta þeim hjúskaparböndum sem einu sinni væru vígð fyrir ásýnd Guðs. Hákon flutti Önnu sína heim að Kirkjuvogi. Hér var haldin veisla og sögusagnir segja nú að Ingveldur hafi stjórnað veislunni, kona nr. eitt. Þegar þau giftust var Anna 18 ára en Hákon 58 ára. Með Önnu eignaðist Hákon son sem hét Vilhjálmur Christian Hákonarson. Hann tók hér við búi eftir föður sinn, uppgangsmaður. Hann var ákaflega góður formaður. Hákon dío 1821. Anna lifði hann. Hún giftist síðan 1822 Halldóri Gunnarssyni, grepsstjóra í Höfnum. Loks giftist hún í þriðja skiptið Katli Jónssyni í Kotvogi, 1831. Þá var hún orðin eldri en brúðguminn. Allt bendir til þess að hún hafi bæði verið falleg og mikilfengleg kona.
Vilhjálmur var myndarlegur maður í sjón og að sama skapi ákaflega virtu maður. Hann var góður formaður og sjósóknari. Hann reri á stórskipum, teinæringum, á vetrarvertíð. Það þótti fínt hjá merkismönnum að koma ekki nálægt sjó nema á vetrarvertíðum. Hann komst snemma í góðar álnir, erfði m.a. föður sinn.
Hann fékk orðu frá Danakonungi fyrir að bjarga sjómönnum og aðra frá Napóleoni Frakkakóngi. Með konu sinni eignaðist hann tvær dætur, Steinunni og Önnu. Hann byggði kirkjuna hér í Kirkjuvogi. Hann lagði til hennar sem svaraði 300 kýrverð.
Þegar ég var að alast hér upp bjó hér bróðir fóstra míns í Kotvogi, Vilhjálmur Christen Ketilsson. Hann skipti jörðinni og þá kom hingað maður, Ingibergur Þorkelson, trésmíðameistari úr Reykjavík. Kona hans hét Sigurdís, indælishjón.
Vilhjálmur Christen Ketilsson var idealisti frekar en búmaður. Hann var ljóðelskur og hafði gaman af söng. Hann var mikill húmanisti og mikill skepnuvinur. Seinasta árið sem ég var í barnaskóla kenndi Vilhjálmur mér. Það var í fyrsta skipið sem ég fékk nasasjón af bókmenntum. Hann var ágætur kennari, hann var stærðfræðingur og kenndi bæði dönsku og ensku….“
Sjá einnig seinni hlutann.
(Áhugavert væri að merkja öll gömlu bæjarstæðin í Höfnum og opinbera þannig sögu byggðalagsins öllu áhugasömu fólki.)
Heimild:
-ruv.is 2. jan. 2010 – Jökull Jakobsson gengur með sr. Jóni Thorarensen um Hafnir á Suðurnesjum. Fyrri hluti. Frá 28. apríl 1973.
Jökull Jakobsson gengur með Sr. Jóni Thorarensen um Hafnir á Suðurnesjum. Seinni hluti – frá 28. apríl 1973.
„…Og við göngum yfir túnið og í átt til sjávar að dálítilli húsaþyrpingu sem stendur fremst á sjávarklöppunum. Og hér eru rústirnar að hinu forna Kotvogi. Það er lítið eftir hér nema rústirnar, en allt ber þess vott að hér hafi verið stórbýli, fallegar hleðslur og grónar þekjur. Stærstu húsin, timburhúsin, sem hér voru, eru þó horfi. Einhverju sinni hefur nú verið búsældarlegra hér, séra Jón?“
„Já, það má nú segja. Ég vil byrja með því að tala um elsta Ketil, sem var hér óðalsbóndi í Kotvogi. Hann var fæddur 1793. Hann var giftur Herdísi Steingrímsdóttur frá Álftanesi. Með hann átti hann son, Ketil og Jón. Seinni kona Ketils hét Anna Jónsdóttir og var hann þriðji maður hennar. Fyrsti maður hennar var Hákon Vilhjálmsson, lögréttumaður. Annar maður hennar var Halldór Gunnarsson, hrepsstjóri og síðasti maður hennar var Ketill elsti. Ketill Jónsson var indæll maður, skemmtilegur maður, glaðsinna, útvegsbóndi eins og þeir voru allir. Hann auðgaðist, ekki síst eftir að hann giftist Önnu. Þá fóru þeir að vinna fyrir hann bæði Vilhjálmur Hákonarson, sem þá var stjúpsonur hans, og Ketill sem hann átti með fyrri konu sinni.
Þetta voru báðir miklir menn og ágætir formenn. Hann dó 1869. Sonur, elsti Ketill, hét Ketill Ketilsson. Hann var fæddur 1823. Hann dó 1902. Þessi miðketill var ágætur formaður, mikill söngmaður og t.d. Finnur á Kjörseyri og fleiri nafnkunnir menn sögðu hann hefi haft fallegustu karlmannsrödd sem hann hafði heyrt. Þessi Ketill bjó fyrst á Hvalsnesi og byggði þar timburkirkju. Honum líkaði hún ekki og lét rífa hana. Þá byggði hann steinkirkju þá sem stendur þar enn og mun lengi standa. Hún er tákn um höfðingsskap hans og stórhug. Mér er sagt, ég veit það ekki, að hún hafi kosta 3000 ríksidali. Hann byggði hana að mestu leyti sjálfur. Reikninga hef ég hvergi séð um þessa kirkju.
Það er sagt eftir Katli Ketilssyni, eftir að hann hafði byggt Hvalsneskirkju, hefði honum orðið allt til fjár. Hann var nær orðinn öreigi við byggingu kirkjunnar, en eftir það hafi honum orð allt til láns og allt til peninga sem hann snerti. Hann varð ákaflega ríkur maður. Kona hans hét Vilborg Eiríksdóttir frá Litlalandi í Ölfusi. Það er til rómatísk saga er hann fór austur til að ná í hana og biðja hennar. Hann kom að Litlalandi í útsinnings rudda og krapahryðjum og það var stúlka úti á engjum sem var að raka ljá. Hún var í skinnstakk. Það var köld tíð. Hann fór til hennar, heilsaði henni og spurði hvað hún héti. Hún sagðist heita Vilborg. Hann spurði hvort faðir hennar væri heima. Hann fór síðan heim á bæinn. Þar tók Eiríkur á Litlalandi á móti honum vel, bauð honum til stofu og veittar velgjörðir. Þar gengu um beina tvær dætur Eiríks, voru þá búnar að búa sig upp á.
Sagan segir að Ketill hafi spurt Eirík hvort hann ætti ekki fleiri dætur. Þá eyddi Eiríkur því. Ketill bar upp bónorð sitt. Þá vildi gamli maðurinn halda eldri dætur sína fram, en Ketill vildi biðja sér Vilborgu. Hann fékk hennar. Vilborg þessi var lítil kona, fíngerð með hvítt hár, elskuleg. Bestu kökupartar sem ég fékk á æfinni fékk ég frá henni. Ketill gaf henni 200 ríksidali í morgungjöf. Það þótti nú dálaglegur skildingur á þeim tíma. Þá fluttist hann að Kotvogi og byggði upp þennan mikla bæ. Þá rak hér skip. Jamestown, hlaðið úrvalstimbri. Það fór frá Bostin og átti að fara til Liverpool, átti að byggja þar járnbræðslu. en það lenti nú hér í Ósunum í stað þess að fara til Liverpool. Úr því byggði Ketill m.a. bæ sinn hér í Kotvogi, úr úrvals rauðavið, kvistalausum.
Þá voru hér 16 hús, allt í allt. Hér var geysilegur fjöldi af vermönnum. Ketill gerði út á árunum 1870-1880 tvo teinæringa og einn áttærin. Það voru 19 manns á einum teinræðing og 14 manns á áttæringi. Þetta voru 50 sjómenn alls, fyrir utan heimilsfólk. Þau hjónin eignuðust 6 börn, Ketil, sem var elsti sonur þeirra, fæddur 1860. Hann var bóndi hér í Kotvogi. Hann tók við af föður sínum. Hann giftist föðursystir minni, Hildi Jónsdóttir prests í Stórholti Dalasýslu. Þau ólu mig upp. Ég er fóstursonur þeirra.
Hér var róið á vertíð. heyskapur var aldrei mikill, tvær kýr og á annað hundrað fjár – allt byggðist á sjósókn. Róið var allan ársins hring nema kannski á sumrin. Á haustin var skorið þang, áll og blaðka borið upp á tún og látið rigna og rifjað eins og hey og flutt heim. Skornir voru svona 300 hestar á hverju hausti.
Það var náttúrulega á haustin, þegar ekki var róið, allskonar veiðarfæri gerð; línur og svo netin bætt og lóðarásar og netaásar og steinaásar lagaðir.
Svo var lesið, aðallega Vídalínspostula. Svo var Hallgrímur, Passíusálmar, lesnir á föstunni og á kvöldvökum á vetur þegar ekki var róið var alltaf vanur maður látinn lesa Þjóðsögur Jóns Árnasonar, Njálu, Grettissögu og Eyrbyggju. Kristín Gísladóttir hét kona sem las Guðsorð og gerði það snilldarlega, en það voru alltaf karlmenn sem lásu sögur..
Þegar Ketill, fósturfaðir minn, tók við var þetta ósköp líkt.“
„Þetta virðist hafa verið fremur fast skorðað samfélag hér á tiltölulega þröngum bletti. Var engin stéttarmunur hér áberandi…?“
„Hér voru ríkismenn og hér var fátækt fólk, en það var svo einkennilegt að á þessum árum fór þetta ákaflega saman. Þetta var allt rólegt og gott og ég held að bæði fóstri menn og aðrir menn hafi hjálpað oft. Ef einhver gat leyst úr vandkvæðum þá var það gert. Mér fannst fólkið hér í Höfnum ákaflega gott fólk og friðsælt. Ef eitthvað kom upp þá hjaðnaði það yfirleitt niður fljótt.
Hérna kom Símon Dalaskáld. Það rann upp úr honum kveðskapurinn. Hann sagði t.d. við eina vinnukonuna: „Helst vildi ég nú lúra hjá þér í nótt og fá hlýju frá þér. Ég held að ég yrði miklu betra skáld á eftir.“ Það var ekki látið eftir honum. Vinnukonan varð ókvæða við og vildi ekkert með hann hafa.
Svo var Guðmundur [Gvendur] dúllari. Hann kom og dúllaði. Það var ákaflega einkennlega persóna. Hann kvað m.a. dúllaði þetta lag m.a.: „Margt er skrýtið í náttúrunnar ríki, eins og t.d. með spóann – að hann skuli geta lifað eins og manni sýnist hann nú hafa mjóar fætur“.
„Hvað er þetta dúll? Hvað var að dúlla?“.
„Hann stakk fingrinum upp í vinstri hlustina og hristi hann svo, hristi hendina svona: „dú, dú, dú, dúddúddúúú.“ Hann dúllaði og seldi þetta, ég held að það hafi verið fyrir 5 aura fyrir lagið. Hann ferðaðist og hafði mikla ánægju af þessu.
Og svo var það versti förumaðurinn. Það var Guðmundur kíkir. Það var ekki gott með blessaðan karlinn því það fylgdi fötunum hans svo illur yndi. Hann kom hingað oft, sagði að tekið væri svo vel á móti sér, aumingja karlinn.
Ég man eftir að Stjáni blái kom hingað oft, settist hér í baðstofuna og fór að leika við okkur krakkana. Hann tók með tveimur fingrum annað hvort í kinnina eða hnén og þá æpti ég. „Það er ekki gott með meyjarholdin þegar þau eru svona mjúk“, sagði hann þá. Hann var grínisti og barngóður, en ef hann fékk sér í staupinu þá náttúrulega gat hann verið mjög harðskeyttur. Þá hljóp í hann svokallaður grunnstingull og hann var ekki við alþýðuskap. Ef hann þurfti að slást var hann bæði snarhendur, handviss, fljótur, bæði að gefa högg og tögl. Það var ekki fyrir neinn að eiga við hann því hann var bæði karlmannlega liðugur og handviss.“
„Við göngum stéttina hér í Kotvogi og yfirgefum rústirnar, göngum hér yfir vel sprottið túnið. Hér erum við komnir upp á aðalgötun aftur, að litlu húsi. Þú kannt nú skil á þessu, séra Jón?“.
„Þetta eru Hólshús. Hér var einn grásbýlisbóndinn áður. Hann hét Gunnlaugur og konan hans hét Fríður.“
„Við höldum áfram spölkorn til suðurs eftir mjóum stígnum hér á grasi grónu túninu og komum að…“
„…Garðhúsum. Þegar ég var að alast upp hér var bóndi hér Magnús Gunnlaugsson og konan hét Guðný Þórðardóttir. Magnús þessi var lítil maður en þrekinn. Hann var ágætur sjómaður og formaður um langa tíð. Merkilegast fannst mér hvað hann var mikill listamaður við sláttinn. Það var hreinasta listaverk að sjá hann slá. Hann sagði að það væri einkamál og tilfinningamál að brýna ljáinn, fara þyrfti að fara með ljáinn eins og lifandi skepnu. Hann gat dansað ágætlega, en hann var eins og flestir menn hér, sívinnandi.“
„Þá erum við komnir á leiðarenda, við enda byggðarinnar. Hér eru fáeinar rústir og hús í kringum okkur og skulum við biðja Jón að segja okkur deili á þeim.“
„Hér rétt fyrir aftan okkur voru Ragnheiðarstaðir. Þar bjó Guðmundur Salómonsson og kona hans Sigurlaug Þórðardóttir. Hann var ákafalega mikið karlmenni og besti maður sem hægt var að fá í skipsrúm, hafði ákaflega mikla krafta, skyldi alla sjávarhætti. Hann var auk þess merkur maður af öðru, hann vart.d. einn besti skinnklæðasaumari í þátíð, þekkti þetta eins og fingurnar á sér. Hann var meðhjálpari í Kirkjuvogskirkju alla tíð meðan hans naut við. Mér er minnistætt hversu vel hann gat lesið bænina, bæði á undan og eftir messu. Stundum var það eftir jól að krakkar komu til hans í kirkjuna þegar hann var að taka til að hann gaf þeim kertastubbana.“
„Þá höfum við lokið göngunni um Hafnir og ekki annað eftir en að þakka fyrir sig og kveðja séra Jón Thorarensen, sem gengið hefur hér með okkur um götu bernsku sinnar.“
Sjá einnig fyrri hlutann.
Heimild:
-ruv.is – Jökull Jakobsson gengur með Sr. Jóni Thorarensen um Hafnir á Suðurnesjum. Seinni hluti frá 28. apríl 1973.
Við kirkjugarðsvegg Kirkjuvosgkirkju að vestanverðu er skilti. Á því er Höfnum og kirkjum byggðalagsins lýst í máli og myndum:
Hafnir
Elstu ritheimild um byggð í Höfnum er að finna í landnámu þar sem greint er frá því að Ingólfur Arnarson hafi gefið Herjólfi Bárðarsyni, frænda sínum og fóstbróður, land á milli Vágs og reykjaness. landssvæði sem er líklega nálægt stærð gamla Hafnahrepps. Herjólfur var langafi Bjarna Herjólfssonar, sæfaranda, sem talið er að hafi ásamt áhöfn sinni, fyrstur Evrópumanna, litið meginland Norður-Ameríku augum. Fjölskylda Bjarna á Íslandi hafði flutt að Drepstokku við Eyrarbakka og þaðan til grænlands og var ástæða ferða Bjarna sú að hann var að heimsækja foreldra sína, en villtist af leið.
Ávallt hefur verið talið að landnámsbýlið Vogur hafi verið norðan Ósa, þar sem heitir Gamli Kirkjuvogyr. Þegar skáli með landnámslagi fannst í túninu fyrir aftan Kirkjuvogskirkju kom fram sú tilgáta að þar væru að finna landnámsbæinn og fékk hann því nafnið Vogur.
Við fornleifarannsóknir hafa hins vegar vaknað efasemdir um að skálarústin sé bændabýli og hefur sú tilgáta verið sett fram að um sé að ræða rústir útstöðvar eins konar könnunarbúða líkt og á L’Anse aux Meadows á Nýfundnalandi.
Hafnir eru taldar hafa nafn sitt af tveimur fyrrum stórbýlum, Kirkjuhöfn og Sandhöfn, sem stóðu talsvert sunnar en núverandi byggð, en þar var búseta fram á 17. öld. Á síðari tímum hafa Hafnir verið samheiti fyrir 3 hverfi, þ.e. Kalmanstjörn, Merkines og Kirkjuvogshverfi. Byggðin í Höfnum hefur mótast mjög af erfiðum náttúruskilyrðum en þó er líklegt að fyrstu árhundruðin hafi verið búsældarlegra um að litast.
Í kjölfar Reykjaneselda, mikillar jarðeldahrinu á Reykjanesi á 13. öld, tók land að eyðast vegna sandfosk. Byggðin hefur hopað og nú er svo komið að byggð er fyrst og fremst í Kirkjuvogshverfinu auk Merkiness. Eftir því sem landgæði rýrnuðu fór vegur sjávarútvegs vaxandi og varð helsti bjargræðiskostur Hafnamanna. Fiskimiðin voru svo gjöful að efnamenn sóttust mjög eftir jörðum í hreppnum og í gegnum aldirnar voru Hafnir ein af stærstu verstöðvum landsins.
Á 18. öld fór íbúum í þéttbýliskjarnanum í Kirkjuvogshverfi að fjölga og var mikill vöxtur fram á 20. öld. Þá var rekin mikil útgerð stórra áraskipa, bæði frá Kotvogi og Kirkjuvogi. Á 19. öld þótti Kotvogur eitt reisulegasta býli landsins. Blómaskeiðið tók enda er vélbátar fóru að ryðja sér til rúms og fjarlægð á mið fór að skipta minna máli og krafa jókst um bætt hafnarskilyrði.
Nú er byggðin að mestu í gamla Kirkjuvogshverfinu sem nefnist Hafnir í daglegu tali en þar hafa búið 80-120 manns undanfarna áratugi.
Kirkjur í Höfnum
Kirkja hefur verið [í] Hafnahreppi að minnsta kosti frá 14. öld, en fyrstu sagnir um kirkju eru frá árinu 1332. Miðaldakirkjan stóð hins vegar norðan Ósa en afar lítið er vitað um sögu hennar. Enn má sjá móta fyrir rústum bæjar- og kirkjustæðis og leifum sem gæti verið kirkjugarður og mögulega kæmi fram ný þekking ef rústir Gamla-Kirkjuvogs yrðu rannsakaðar. heimildir eru um að mannabein hafi verið flutt þaðan að Kirkjuvogi eftir uppblástur allt fram að aldamótum 1800. Þessarar gömlu jarðar er getið í Jarðarbók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 en kirkjan hafði verið flutt á núverandi stað árið 1575.
Núverandi kirkja, Kirkjuvosgkirkja, var vígð 26. nóvember 1861. Fordyr og kór var bætt við nokkrum árum síðar. Árið 1970 var ákveðið að fara í viðarmiklar viðgerðir á kirkjunni en í ljós kom að byggingin var í afar slæmu ástandi. Að tilstuðlan Þórs Magnússonar, þjóðminjavarðar, voru Hörður Ágústsson og Þorsteinn Gunnarsson fengnir til að stýra verkinu með það að markmiði að færa kirkjuna nær því sem hún var á 19. öld. Söfnuðurinn var fámennur en með útsjónasemi tókst að ljúka viðgerðum og endurvígði dr. Sigurbjörn Einarsson biskup kirkjuna 10. desember 1972. Á þessum tíma var húsfriðunarsjóður að taka sín fyrstu skref og sást mjög glögglega hve mikil þörf var á þeim sjóði í þess konar verkefni.
Kirkjuhöfn er bær sem stóð aðeins sunnar en Kalmanstjörn. Nafnið bendir til að þar hafi verið kirkja en heimildir eru fátæklegar. Þegar Árni Magnússon skráði efni í jarðarbókina árið 1703, kemur fram að jörðin hafi verið í eyði í um 40 ár. Nokkur ummerki eru um byggð á þeim slóðum sem bærinn mun hafa staðið og talið er að þar hafi einnig verið kirkjugarður en sagnir eru um að bein hafi verið flutt þaðan í kirkjugarðinn í Kirkjuvosghverfinu.
Léo M. Jónsson í Höfnum skrifaði grein í Faxa árið 2008, sem hann nefndi „Ökuferð um Hafnarhrepp„. Í henni fjallar Léo m.a. um staðhætti, örnefni og sagnir á „hinu eiginlega Reykjanesi“ og nágrenni:
„Þegar haldið er lengra suður eftir veginum er komið á hæð þar sem vegurinn sveigir til austurs. Beint af augum er gamalt eldfjall, Sýrfell, en á milli þess og Reykjanessvita, sem stendur á hinu 50 m háa Vatnsfelli, í suðvestri, en fellið heitir eftir stórri tjörn sem er við það, eru Rauðhólar og Sýrfellsdrög. Vitinn er 28 m a hæð og því 78 m yfir sjávarmáli. Mannvirkin norðvestan við Rauðhóla er Sjóefnavinnslan (oft ranglega nefnd Saltverksmiðjan). Einnig blasir við nýreist Reykjanesvirkjun. Hér blasir hið raunverulega Reykjanes við augum sem Reykjanesskaginnerkenndurvið. Sérkennilegi hnjúkurinn með u-laga skarði í, sem sést héðan vestan vitans, nefnist Valahnjúkur. Lengst til hægri sést strýtan á móbergsdrangi sem nefnist Karl en hann stendur í sjónum skammt suður af vestasta tanga Reykjanessins sem nefnist Önglabrjótsnef og teygir sig út í sjóinn í átt til Eldeyjar. Þjóðsagan segir að tröllkarl og kerling, sem bjuggu í Eldey hafi vaðið til lands og haldið á kú að leiða til nauts. Tókst ekki betur til en svo að vegna tafa dagaði þau uppi og urðu að steini. Karlinn stendur þarna enn úti í sjó en Kerling, hátt eldvarp, sem stóð sunnar uppi á landi, brotnaði niður fyrir löngu.
Eldey
Eldey er sérkennileg 77 m há þverhnípt klettsey sem liggur tæpa 15 km frá landi og er talin m.a. vera mesta súlubyggð Evrópu (alfriðuð). Milli Eldeyjar og Reykjaness er Húllið – fjölfarin siglingaleið.
Vegarslóði á hægri hönd liggur niður í Stóru-Sandvík og að gamla Reykjanessveginum þar sem heitir Skjótastaðir en það er hár höfði norðan við víkina og mun þar hafa verið byggð fyrr á öldum. Annar vegarslóði liggur í Stóru-Sandvík niðri í dalverpinu framundan. Frá útskoti (6,7) við enda beygjunnar til austurs sést ofan í Stóru-Sandvík vaxna melgresi. Handan hennar í suðri tekur við talsvert hraun, kolsvart og sviðið með foksand í flákum. Stamparnir þrír, sem blasa við framundan handan víkurinnar, eru sérkennilegir eldgígar og eftir þeim nefnist hraunið Stampahraun og nær fram í sjó. (Hér voru reist háspennumöstur, þrátt fyrir að upphaflega hafi verið gert ráð fyrir jarðstreng frá virkjuninni að Sýrfelli. Sú breyting er vondur vitnisburður um menningarstig Suðurnesjamanna að mati höfundar!).
Eldgígarnir tveir sem sjást suðvestar, lengra til hægri og utar á nesinu, nefnast Eldborgir. Eins og við er að búast eru þessir upptyppingar notaðir sem mið til staðsetningar fiskiskipa úti á Eldeyjarbanka.
Sú Eldborganna sem sést af grynnra vatni nefnist Eldborg grynnri og stendur sunnar og nær sjó. Eldborg dýpri nefnist sú sem sést af dýpra vatni. Er hún stærri og stendur vestar. Þar heitir Eldborgahraun. Fjær til norðausturs eru mikil ummerki eldsumbrota. Eru það nefnd Eldvörp. Hafnamenn nefna það einnig í daglegu tali hörzl, þ.e. ójöfnur. Stamparnir, Eldborgirnar og aðrar eldstöðvar, eru eins og misstórir hnútar á svörtu bandi í landslaginu og setja ógnþrunginn svip á umhverfið, jafnvel svo að sumt fólk verður hrætt og þorir ekki að dvelja lengi á svæðinu af ótta við eldgos – enda er hér eldur undir, sem sést m.a. á hverasvæðinu, gufuaflsvirkjuninni og blásandi borholum austan Reykjanesvita.
Mönguselsgjá
Þar sem vegurinn sveigir aftur til suðurs gengur stór gjá upp frá sjó og inn í landið. Hún nefnist Mönguselsgjá og liggur nyrst upp úr Stóru-Sandvík. Gjáin er ein af mörgum sem mynda sprungubelti.
Jarðskorpan gliðnar hér á miklum hrygg og jarðeldasvæði sem liggur í miðju Atlantshafi frá suðri til norðurs. Landsig sést greinilega þegar horft er um öxl til Mönguselsgjár eftir að komið er upp á Stampahraun. Yfir Mönguselsgjá (ekki Tjaldstaðagjá sem er stærri og sunnar) hafa lafafrakkamenn, úr Keflavík, byggt brú til að drýgja tekjur sínar af erlendum ferðamönnum með því að telja þeim trú um að þarna séu meginlandaflekar Ameríku og Evrópu að reka hvor frá öðrum. Greinarhöfundur er einn þeirra Hafnabúa sem hafa skömm á tiltækinu og líta á þetta sem pretti – í skásta falli fiflagang og Suðurnesjamönnum til vansæmdar enda hafa jarðvísindamenn bent á og staðfest að landrekið kemur ekki fram á þessum stað heldur miklu austar (nánar tiltekið austur í Hreppum).
Tjörn gerð af mannavöldum
Nú komum við að syðri troðningnum sem liggur niður í Stóru-Sandvík. Hér var melgresi sáð um 1950 til að hefta sandfok. Eins og sjá má hefur það tekist vel. Tjörnin sem prýðir svæðið og laðar að sjó og vaðfugla í stórum flokkum, myndaðist ekki fyrr en melgresið hafði stöðvað fokið. Hún er því gerð af mannavöldum! Afleiðingar hrikalegra náttúruhamfara blasa við í Stampahrauni í suðvestri og Eldvörpum í austri. Ævagamlar heimildir segja að árið 1000 hafi mest allt Reykjanes sokkið í sjó og Geirfuglasker komið upp. Þá átti landið að hafa legið Iangt út fyrir Eldey í norðvestur en Eldey og drangar við hana hafi áður verið fjöll á Reykjanesskaganum. Til að girða fyrir misskilning skal aftur ítrekað að Reykjanesskagi og Reykjanes er tvennt ólíkt þótt skaginn dragi nafn af þessu litla nesi yst á honum.
Heimildir um landskjálfta
Annálar greina frá eldsumbrotum með stuttum hléum á og úti fyrir Reykjanesi á 12. og 13. öld. Samkvæmt þeim hefur gosið á Reykjanesi árið 1118, og a.m.k. 13 sinnum á 13. öld. Sagt er að sumum eldgosum hafi fylgt miklir landskjálftar og þess getið að svartamyrkur hafi verið um annars hábjartan dag (1226) og að Reykjanesið hafi brunnið (1210 og 1211). Í hamförum á fyrri hluta 13. aldar er talið að byggð hafi eyðst á Reykjanesi en merki um hana sjást m.a. við Skjótastaði norðan Stóru-Sandvíkur.
Í annál er þess getið að 18 manns hafi farist á Reykjanesi í landskjálfta og eldi árið 1118. Næsta lítið er vitað um sögu Hafna á 14. og fram á síðari hluta 16. aldar eins og margra annarra staða á landinu, m.a. vegna þess að kirkjubækur, sem geymdar voru í Viðey, eyðilögðust í bruna. Þó munu vera til heimildir um mikinn landsskjálfta 1389 og að 1390 hafi hálft Reykjanesið brunnið. Til mun vera heimild um að eldur hafi komið upp í hafi fyrir Reykjanesi 1420 og að þá hafi skotið upp landi. Einnig er getið um eld fyrir Reykjanesi 1422 og aftur 1584. í annál er greint frá eldi í „Grindavíkurfjöllum“ árið 1661 oghafi séstoft, fyrir og eftir jól, á Norðurlandi. Til er heimild um að árið 1706 hafi komið upp eldur í sjó fyrir Reykjanesi og einnig 1783 fyrir sunnan Geirfuglasker. Kom þá upp land sem sökk aftur (Nýey). Síðasta gos sem minnst er á í annálum, á eða fyrir Reykjanesi, á að hafa verið árið 1830 en þá sigu Geirfuglasker í sjó. Síðustu eldsumbrot sem heyrst hefur um fyrir Reykjanesi eiga að hafa átt sér stað í kringum 1930. Á þá að hafa gosið á sjávarbotni nálægt Eldey. (Athygli er vakin á því að í ljósi niðurstaðna jarðfræðirannsóknir á svæðinu, m.a. á vegum HÍ, hafa tímasetningar eldsumbrota verið endurskoðaðar 2005).
Forsetahóll
Á mótum vegar að Reykjanessvita eru um 11 km frá syðri hraðahindruninni í Kirkjuvogshverfi. Vegurinn liggur fyrst í vestur að Sjóefnaverksmiðjunni, síðan í norðvestur fram hjá gúanóverksmiðju en skammt þaðan er vinkilbeygja til vinstri á veginum að vitanum og út að Valahnjúki.
Þessar verksmiðjur eru hér vegna jarðhita sem fæst úr borholum en þær eru með öflugustu borholum landsins um og yfir 10 megavött hver. Spölkorn frá kröppu beygjunni er grasi vaxinn hóll eða fell á vinstri hönd sem nefnist Litlafell og einnig Forsetahóll (en þennan hól gáfu bræðurnir Ketill og Oddur Ólafssynir frá Kalmanstjörn forsetaembættinu í tíð Sveins Björnssonar, að hans raði (en ekki Hafnamenn sem þakklæti fyrir veg út á Reykjanes eins og ég hafði áður haldið fram og haft ákveðna heimildarmenn að) – til að forsetinn gæti aðstoðað þá við að fá ruddan slóða út á Reykjanes – sjá bréf Marons heitins Vilhjálmssonar frá Merkinesi sem birt er hér aftan við greinina). Suðaustan við Litlafell, í hvarfi frá veginum, er mjög fallegt stórt blátt lón. Sé gengið upp á Litlafell blasir lónið við og hverasvæði upp af því, að sunnanverðu.
Ekið er um hlað vitavarðarhússins (þar er snyrtiaðstaða fyrir ferðafólk) og áfram út að Valahnjúki. Við strönd Reykjaness og báðu megin nessins hafa orðið mörg og mikil sjóslys á þessari öld. (Greinarhöfundur hefur skrifað sögu Björgunarsveitarinnar Eldeyjar í Höfnum. Þar er m.a. fjallað nokkuð ítarlega um stærri sjóslys á þessu svæði. Greinin er einnig birt á vefsíðu höfundar www.leoemm.com). Við Reykjanes strandaði m.a. eitt af stærstu skipum sem strandað hefur við Ísland, olíuskipið Clam. Það var 28. febrúar 1950. Skipið varð vélarvana eftir að hafa rekið upp í fjöru í Reykjavík og á leið til útlanda dregið af dráttarbáti, sem það slitnaði frá í ofsaveðri. Um borð voru 50 skipverjar. Hvers vegna 50 manns voru um borð í vélarvana skipi sem draga átti til útlanda af dráttarbáti bíður sagnfræðinga að rannsaka. Þarna fórust 27 manns en 23 tókst að bjarga.
Niðurlag
Mörkin á milli gamla Hafnahrepps (nú Reykjanessbæjar) og Grindavíkur liggja á Reykjanesi í línu frá tindi Sýrfells í þúfu í Valbjargargjá strax sunnan Valahnjúks og þaðan í kamb Valahnjúksmalar. (Eftir þinglýstu skjali nr. 240479 dags. 16/1/79).
Ástæða er til að geta þess að í þessari grein er stuðst við upplýsingar staðfróðra heimamanna í Höfnum um örnefni. Mest munar þar um örnefnasafn og lýsingu Hinriks í Merkinesi á staðháttum í gamla Hafnahreppi sem hann vann fyrir Örnefnastofnun 1978. Á nokkrum stöðum eru önnur heiti notuð á sumura kortum Landmælinga ríkisins en í þessari grein. Þau eru eftirfarandi: Á korti stendur Valahnjúkar. Í Höfnum er aðeins talað um einn Valahnjúk. Á korti eru 5 Stampar sagðir í Stampahrauni. Í Höfnum eru 3 gígar næst vegi nr. 425 nefndir Stampar. Þeir tveir sem eru sunnar á nesinu nefnast Eldborg grynnri og Eldborg dýpri og þar er Eldborgahraun. Á korti stendur Eldvarpahraun. Í Höfnum er talað um Eldvörp á þeim stað. Norðarlega upp af Hafnabergi er hóll sem nefndur er Berghóll á korti. Í Höfnum heitir þessi hóll Bjarghóll (hann er við Sigið (á Siginu) þar sem sigið var í bjargið). Á korti er hluti strandarinnar undir Valahnjúki nefnd Miðgarðamöl. Í Höfnum heitir þessi staður Valahnjúksmöl (eins og er á a.m.k. einu kortanna í mkv. 1:100.000). Gjáin sem gengur upp úr Stóru Sandvík (sú sem hefur verið brúuð við hlið vegarins!) nefnist Mönguselsgjá eftir Möngu frá Kalmanstjörn sem var selsstúlka fyrrum en ummerki selsins er að finna austarlega í gjánni. Þessi gjá hefur ranglega verið nefnd Tjaldstæðagjá í fréttatilkynningum frá Ferðamálaskrifstofu Reykjanesbæjar. Sú gjá nefnist réttu nafni Tjaldstaðagjá. Hún er breiðari en Mönguselsgjá og liggur spölkorn sunnar.“
Með greininni fylgir bréf frá Ron (maron) frá Cooktown í Ástralíu:
Bréf frá Astralíu: Cooktown 15.3.04
Blessaður Leó!
Þú ert kannski hálfundrandi á að fá bréf á íslensku frá Ástralíu. Í eina tíð hét ég Maron í Merkinesi, fæddur þar og uppalinn.
Ástæðan fyrir þessu bréfkorni er Leiðarlýsing þín um Hafnir. Ég er þér sammála um flest eins og t.d. „skrímslið“ en hugmynd þín um Forsetahólinn er alröng. Mundu að ég þekkti Kedda Ólafs (Ketil Ólafsson frá Kalmanstjörn) frá barnæsku. Sagan er sú – beint frá Kedda – að hann var búinn að klára allan sandinn í Hundadalnum og vantaði leið suður eftir. Hann (Keddi) og Oddur voru búnir að ræða við Vegamálastjóra, ýmsa ráðherra og embættismenn um akfæra braut svo hægt væri að koma liði og tækjum nálægt strandstað en ekkert gekk; þeir vísuðu hver á annan, eins og embættismanna er vandi, þangað til hraut út úr Kedda:
„Andskotinn, – við verðum víst að tala við forsetann sjálfan“! Oddur þagði smástund og svaraði svo: „Já, við erum búnir að tala við alla aðra.“ Þeir tóku strikið út á Álftanes og knúðu dyra á Bessastöðum. Sveinn Björnsson tók vingjarnlega á móti þeim og hlustaði á mál þeirra. (Oddur var talsmaðurinn). Forsetinn íhugaði málið um stund en sagði svo: „Já, þetta er greinilega ábyrgðarmál en sjálfur get ég ekkert gert, ég er bara forseti. Skiljið þetta eftir hjá mér og ég skal athuga hvort ég eigi ekki hönk upp í bakið á einhverjum þessarra svokölluðu ráðamanna.“
Stuttur tími leið þangað til forsetinn hringdi í Odd á Reykjalundi og sagði honum „það er engin leið að fá neitt af viti frá þessum pólitískusum, einfaldasta bakferlið er að þið gefið forsetaembættinu sumarbústaðarland á Reykjanesi.“ Bræðurair voru til í það og gáfu hólinn, sem nú er kallaður „Forsetahóll“. Það var góður slóði frá Kistu til vitans en hin hraunin þurfti að ryðja. Eftir að embættið hafði þegið gjöfina gat Sveinn forseti farið fram á að slóðinn yrði ruddur. Vegurinn kom nokkrum árum seinna og vann ég við hann, þrettán ára að aldri, en það er allt önnur saga.
Sem sagt, forseti fékk hólinn í gegn um „bakdyramakk“ en fékk hann ekki í þakklætisskyni.
Kveðjur,
Ron:
Heimild:
-Faxi, 1. tbl. 01.02.2008, Ökuferð um Hafnarhrepp – Leó M. Jónsson, bls. 9-11.