Tag Archive for: Hraun

Strýthólahraun.

Gengið var að gömlu hliði, sem enn sést móta fyrir, á Hraunsgarði vestan við Hraun. Um hann lá Hraunsgatan vestur yfir í Þórkötlustaðahverfi og síðan áfram út á Þórkötlustaðanes, en Hraunsmenn nýttu Nesið fyrrum m.a. til útgerðar. Þeir réru t.a.m. þaðan fyrir tíma útgerðar Þórkötlustaðabænda og héldu því áfram eftir að byggt var í Nesinu.

Hraun

Hraun í Grindavík.

Enn má sjá hluta að gömlu hlöðnu görðunum á Hrauni, en fyrir þá fékk Jón bóndi Dannebrogsorðuna á sínum tíma. Norðan vegarins er hóll og á honum hleðsla; Hraunsdysin. Þar segja kunnugir að hafi verið dysjaður drengur er „Tyrkir“ drápu er þeir stigu á land í Hrólfsvíkinni 1627. Sagan segir að strákur hafi reynt að komast undan á rauðri meri, eltur af tveimur tyrkjum. Merin hafi náð að sparka í og drepa annan þeirra, en hinn hefði náð stráksa af baki og vegið hann. Sumir hafa sagst hafa séð honum bregða fyrir á dysinni, einkum eftir að rökkva tekur.

Slok

Slok – Brennivínshóll.

Garðinum var fylgt til suðurs og var þá komið inn í Slokahraun vestan við túngarðinn. Í hrauninu eru margir og miklir þurrkgarðar. Haldið var á Sögunarhól þar sem bændur unnu rekavið og áfram yfir á „Brennivínshól“. (Við hann földu Grindjánar vínföng sín í þá gömlu daga. Fóru þeir þangað, einkum að kvöldlagi, til að fá að vera í friði með drykkjuna fyrir spúsum sínum, því ólíklegt var að þær leggðu í úfið hraunið til að leita þeirra). Eftir stutta leit fannst ein faska, rúmlega hálffull. Á henni var handunninn merkimiði er á stóð m.a.: Grindarvigsbrennevin – 1889 – með kongen´s fuldmagt – Einarsbutik – den enesete ene, upp á dönsku, enda Grindavík danskur bær á þeim tíma eins og aðrir bæir á landinu. Vínbragð var af innihaldinu. Hvort sem það var vegna innihaldsins eða einhvers annars, virtust sumir þátttakenda sjá hvíta vofu á Hraunsdysinni í fjarnorðri.

Þórkötlustaðanes

Ískofi á Þórkötlustaðanesi.

Gengið var áfram vestur yfir hraunið, í gegnum mikla þurrkgarða, sem þar eru, vent til hægri og stefnt að tóttum Hraunskots, innan garðs. Mikill hlaðinn garður umlykur Þórkötlustaðabæina að austan- og norðanverðu. Hann hefur staðið af sér öll veður, en jarðskjálftar hafa hrist úr honum af og til. Það hefur þó verið lagfært jafnóðum. Hluti garðsins sunnan Hraunkots er öðruvísi fallega hlaðinn og úr annars konar grjóti en afgangurinn. Grjótið hefur verið tekið úr eldra hrauni, sem hið yngra rann yfir, en það kemur þarna undan hraunkantinum á kafla.

Hraunkot

Hraunkot.

Tóttir og fallegar hleðslur eru í Hraunkoti. Heimtröðin er sérstaklega verkleg, sbr. meðfylgjandi mynd. Gengið var yfir á Klappartúnið og það síðan til vesturs, að tóttum gamla Klapparbæjarins. Þaðan var haldið suður austustu sjávargötuna af þremur í Þórkötlustaðahverfi, niður að Buðlungavör, litið á skiptivöllinn og síðan haldið upp að göngum Klapparbæjarins utan girðingar, fast við fjárhús Stakkavíkurmanna í Buðlungu. Göngin eru þarna nokkuð heilleg, en þau komu í ljós eftir eftir að gamalt bárujárnshús hafði verið fjarlægt frá þeim fyrir nokkru.

Þórkötlustaðir

Einland í Grindavík.

Gengið var upp að Einlandi, litið á gömlu tóttirnar norðan hússins og skyggnst yfir að tóttum Móa, sem eru þarna upp á túninu. Loks var litið á hugsanlega staðsetningu Þórkötlustaðabrunnarins undir veginum gegnt Valhöll áður en hús var tekið á Helga Andersen í Miðbæ og hans hustru. Hún bauð upp á útistandandi kaffi í veðurblíðunni á meðan Helgi sagði frá því er hann fékk því áorkað að öskudagurinn var gerður að frídegi öskukarla í Grindavík, líkt og sjómannadagurinn varð frídagur sjómanna.

Að kaffidrykkju lokinni var kíkt á Heródes, álagastein við Vesturbæ. Snyrt hafði verið umhverfis hann og því erfiðara en áður að berja rúnarletrið á austurhlið hans augum.

Þórkötlusdys

Þórkötludys.

Gengið var upp að Þórkötludys á túninu austan við Hof, rifjuð upp þjóðsagan og tengsl fundin við fyrrum gegna tíð. Sagan segir að Þórkatla hafi mælst svo fyrir um að hún yrði dysjuð þar sem hún sæi yfir Bótina og jafnframt að engin skyldi farast á rétt siglu sundinu. Þarna sér vel yfir Þórkötlustaðabótina.
Staðnæmst var við staðsetningu gamla barnskólahússins við verbúðina, gengið framhjá hlöðnu réttinni og staðnæmst gegnt þeim stað er foreldrar Guðbergs Bergssonar, skáls, bjuggu fyrrum, Hjarðarholti. Húsið var síðar flutt vestur í Járngerðarstaðahverfi. Ofar er Auðsholt. Verbúðin var nefnd Bjarnarhöfn. Í suðausturhluta þess hús sem hefur verið tengt saman og kallast nú Bjarnarborg (verbúð HÞ). „Marel Guðmundsson byggði þar hús yfir fjölskyldu sína 1930.

Brautarholt

Brautarholt.

Eftir að hann dó úr berklum var húsið rifið af lánadrottni Marels (Einari kaupmanni í Garðhúsum). Síðar var sett þak á steyptan grunn hússins og gert að barnaskóla. Þar var hafður barnaskóli í Þórkötlustaðahverfi þar til nýr barnaskóli tók til starfa í Járngerðarstaðahverfi árið 1948. Brautarholt er norðan Hraðfrystihúss Þórkötlustaða. Húsið var byggt árið 1934. „Þetta hús byggðu hjónin Júlíus Daníelsson og Sigríður Þorleifsdóttir 1934 og bjuggu þar til 1956“. Húsið var byggt sem íbúðarhús en síðar var þar vog fyrir Hraðfrystihúsið.

Þórkötlustaðanes

Minjar í Þórkötlustaðanesi – uppdráttur ÓSÁ.

Gengið var suður götuna út á Þórkötlustaðanes, en á leiðinni var staðnæmst í Kóngum, hraunslengju, sem aðskilur austurhverfið frá gömlu útgerðaraðstöðuna ofan við gömlu bryggjuna skammt sunnar.

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes – minjar á Kóngum.

(Þarna hefur lengi verið kjörlendi sandfuglsins. Mjög erfitt er að koma auga á hann. Til að finna hreiður hans er helst að leita spora eftir fuglinn. Eftir stutta leit fundust spor. Grafið var í sandinn og þá komu tvö gulleit egg í ljós – egg sandfuglsins. Þess var vel gætt að skilja við þau án þess að ummerki sæjust).
Þá var gengið um gamla útgerðarstaðinn ofan við bryggjuna í Þórkötlustaðanesi, litið á bæjarstæði Hafnar, Arnarhvols og Þórshamars, lifrabræðsluna, ískofana, salthúsin, sökklana undir beitningaskúrana, spilið, stýrikengina, staðsetningu gamla brunnsins og bryggjuna. Rifjuð var upp útgerðarsagan eins og hún kemur fyrir í lýsingu Péturs Guðjónssonar í nýjasta Sjómannablaði Grindavíkur.

Grindavík

Grindavík – dys við Hraun.

Gengið var til suðurs austan Flæðitjarnarinnar. Þá var komið að manngerðum hól. Í honum er fornt fjárskjól og austan í honum er gömul tótt. Gerði liggur umhverfis skjólið. Sunnar eru hlaðin fjárhús og gerði. Enn sunnar er skrautgarður Þórshamarsfólksins, en allt í kring eru garðar og tóttir. Litið var inn í Þórshamar og sagan um Jóhann Pétursson, vitavörð, rifjuð upp, einkum er hann slasaðist við breytingar á húsinu, komst út við illan leik og lá þar vel á annan sólarhring í kulda og snjó áður en honum var bjargað. Enok og frú bjuggu áður í Þórshamri.

Strýthólahraun

Strýthólahraun – fiskibyrgi.

Gengið var til suðurs inn í Strýthólahraun. Í suðaustri mátti sjá Leiftrunarhól og Strýthóla austari og vestari í suðri. Í hrauninu eru þurrkgarðar og fiskbyrgi líkt og við Ísólfsskála og á Selatöngum. Ofar í Nesinu eru einnig margir þurrkgarðar.
Haldið var áfram eftir veginum, framhjá vitanum, sem byggður var skömmu eftir aldarmótin 1900, og rifjuð upp saga af ströndum og mannsköðum við Nesið. Skilti, uppsett af Slysavarnarfélaginu, eru þar við með helstu upplýsingum.
Gengið var framhjá vörðufæti Siggu og áfram út að Nesi, en þar stóð húsið Nes. Enn má sjá þar sjóbúð, bátarétt og fleiri mannvirki.

Sigga

Sigga.

Litið var á Goðatóttina við gömlu bæjar- og útihúsin á Hópi og skyggnst yfir túnið, en þar má sjá, ef vel er að gáð, jarðlæga tótt og bogadregna garða. Ofar á túninu, upp undir Sjónarhól, eru einnig tóttir, sem vert væri að rannsaka. Gamla leiðin á milli hverfa lá rétt ofan við Sjónarhól.
Gangan endaði við Íþróttahúsið þremur tímum frá upphafsreit.
Eða eins og bæjarstjórinn sagði dimmum rómi: „Það er gott að ganga um Grindavík“, og leit á lúinn hund sinn (sjá mynd).

Þórkötlustaðanes

Á Þórkötlustaðanesi.

Grindavík

Grinda­vík hlaut kaupstaðarrétt­indi 10. apríl 1974. Saga Grindavíkur sem byggðar er þó mun lengri.
Í Fornleifaskráningu í Grindavík – 3. áfanga, má lesa eftirfarandi yfirlit um „Þróun byggðar í Grindavík“ í sögulegu samhengi. Taka þarf þó skráninguna með hæfilegum fyrirvara.

Grindavík

Grindavík – umdæmi.

„Grindavíkurhreppur liggur með suðurströnd Reykjaness frá Valahnúk að vestan, sem skilur land og reka Grindavíkur og Hafna, austur að Seljabót, en þar austan við tekur við Selvogshreppur (nú Ölfus). Að norðan eiga Grindavíkingar hreppamörk á móts við Hafnamenn, Njarðvíkinga, Garðahrepp og Vatnsleysustrandarhrepp.

Geldingadalir

Geldingadalir – eldgos.

Náttúrufar í hreppnum einkennist af þeim miklu eldsumbrotum sem þar hafa orðið á nútíma og sögulegum tíma og er stór hluti svæðisins óbyggilegur af þeim sökum. Víða meðfram ströndinni og á milli hraunbreiðanna eru þó fagurgrænir og búsældarlegir vellir þar sem byggð hefur staðið öldum saman. En það eru ekki aðeins eldsumbrot sem ógna landi og lífi á þessum slóðum. Landbrot sjávar hefur verið, og er, mjög mikið og færist strandlínan ört upp í landið. Auk þess hefur uppblástur verið mikið vandamál og hafa þannig áður gróin og nýtileg svæði orðið að örfoka melum.

Staðarberg

Staðarberg.

Hér verður fyrst gerð grein fyrir landnámi í Grindavíkurhreppi eins og því er lýst í Landnámabók, en á grunni þess og staðsetningu kirkna og kumla má oft setja fram tilgátur um hvaða jarðir byggðust fyrstar. Kuml eru auðsjáanlega vísbending um búsetu fyrir árið 1000, en kirkjur og bænhús eru yfirleitt talin vera reist skömmu eftir kristnitöku.

Hóp

Hóp – minjar gamla bæjarins, þ.á.m. hofstóft.

Nærtækasta skýringin á hinum mikla fjölda guðshúsa almennt er sú að þau hafi upphaflega verið reist við heimagrafreiti, sem voru líklega við hvern bæ líkt og kumlateigar í heiðni. Sé svo má nota bænhús eða kirkjur sem vísbendingu um að viðkomandi bær hafi verið kominn í byggð á fyrri hluta 11. aldar. Jarðir þar sem kirkjur eða bænhús hafa verið eru einnig að jafnaði stærri og dýrari en þær sem ekki höfð slíkum húsum á að skipa og getur því verið freistandi að álykta að hinar síðarnefndu séu seinna til komnar, eða hafi að minnsta kosti ekki verið orðnar sjálfstæð býli á fyrri hluta 11. aldar. Lögbýli á skráningarsvæðinu, átta talsins, eru ef talið er frá vestri til austurs: Staður, Húsatóptir, Járngerðarstaðir, Hóp, Þórkötlustaðir, Hraun, Ísólfsskáli og Krýsuvík.

Grindavík

Útsýni til sjávar frá Grindavík.

Samkvæmt Landnámabók voru landnámsmenn í Grindavíkurhreppi tveir. Annars vegar Molda-Gnúpur Hrólfsson sem nam land í Grindavík, og hins vegar Þórir haustmyrkur Vígbjóðsson sem nam Krýsuvík og Selvog. Molda-Gnúpur var sonur Hrólfs höggvanda sem bjó á bænum Moldatúni á Norðurmæri í Noregi, en bróðir hans Vémundr. Gnúpur fór til Íslands fyrir vígasakir þeirra bræðra og nam land milli Kúðafljóts og Eyjaár. Þar bjó hann þar til landið spilltist af jarðeldum og hann flúði vestur til Höfðabrekku. Vémundur Sigmundarsonar kleykis, sem þar átti land, meinaði honum hins vegar dvöl þar og flutti Gnúpur sig þá í Hrossagarð þar sem hann var um veturinn.

Núpshlíð

Núpshlíðarhorn.

Þegar hér er komið sögu ber Hauksbók og Sturlubók Landnámu ekki saman um örlög Molda-Gnúps eða sona hans. Samkvæmt Hauksbók féll Molda-Gnúpur ásamt tveimur sona sinna í Hrossagarði, en Björn sonur hans (og e.t.v. einnig Gnúpur) fór til Grindavíkur og staðfestist þar. Sturlubók segir hins vegar að vegna ófriðar og vígafars í Hrossagarði hafi þeir feðgar allir farið til Grindavíkur og numið þar land. Hvorug bókanna nefnir nöfn landnámsjarða í Grindavík og verður því ekki af Landnámu einni séð hvaða bæir byggðust þar fyrstir.

Húshólmi

Húshólmi – tóftir í Ögmundarhrauni.

Um landnám í Krýsuvík eru Sturlubók og Hauksbók sammála og segja: „Þórir haustmyrkr nam Selvág ok Krýsuvík, en Heggr son hans bjó at Vági.“ Af því má áætla að Þórir hafi sjálfur búið í Krýsuvík. Um tímasetningu landnáms í Grindavík og Krýsuvík er ekkert vitað með vissu. Rannsóknir jarðfræðinga hafa þó bent til þess að frásögn Landnámu af jarðeldum í Skaftafellssýslu eigi við rök að styðjast og hafi þeir líklega átt sér stað á 4. áratug 10. aldar. Sé það rétt, og sögurnar jafnframt taldar trúverðugar, má hafa það sem vísbendingu um tímasetningu landnáms í Grindavík. Segja má að Grindavík hafi horfið af kortinu á 13. og 14. öld. Ástæðan var ítrekuð eldgos. Um þetta verður þó ekkert fullyrt.

Grindavík

Járngerðarstaðir – gömlu húsin færð í nútímann.

Hvenær Þórir haustmyrkur kom í Krýsuvík og Selvog er hins vegar ekki hægt að lesa úr frásögn Landnámu. Hvergi er heldur talað um hversu margir fylgdu þeim Þóri eða Molda-Gnúp að landnámum þeirra á Suðurströndinni. Staðsetning allra lögbýlanna í hreppnum er kunn, enda var búið á þeim öllum fram á 20. öld. Enn er búið á Járngerðarstöðum, Hópi, Þórkötlustöðum og Hrauni, þótt búskapur sé þar ekki mikill.

Staður

Staður 1960. Kirkjugarðurinn fjær.

Staður fór í eyði árið 1964, og hafa flestöll hús þar verið rifin og tún að miklu leyti sléttuð. Þar er þó enn kirkjugarður Grindvíkinga, þótt sóknarkirkja hafi ekki verið þar síðan 1909.

Húsatóftir

Húsatóftir.

Á Húsatóptum hefur ekki verið búið síðan 1946 en þar er nú Golfvöllur Grindvíkinga og er heimatúnið því meira og minna rennislétt. Síðasta íbúðarhúsið á Tóptum, reist 1930, er nú klúbbshús golfklúbbsins en nýtt íbúðarhús hefur verið reist í túninu norðaustan þess. Þar er þó enginn búskapur. Ísólfsskáli og Krýsuvík fóru í eyði um eða eftir miðja 20. öld. Á Ísólfsskála stendur íbúðarhús frá 1929 enn ásamt tveimur sumarbústöðum. Að öðru leyti eru þar engin hús og túnin meira og minna sléttuð. Í Krýsuvík hafa hús verið rifin, nema kirkjan frá árinu 1857 sem enn stendur. Ólíkt hinum jörðunum hafa tún þar hins vegar ekki verið sléttuð nema að litlu leyti.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – gamli bærinn.

Tveir bæjanna hafa verið fluttir til svo vitað sé. Annars vegar Ísólfsskáli, en árið 1916 var bærinn fluttur, eftir að hafa verið í eyði í þrjú ár. Bærinn var byggður frá stofni um 150 m norðan við eldra bæjarstæði í túninu, en landbrot sjávar er mikið vandamál á þessum slóðum. Hins vegar Krýsuvík, en talið er að upprunalega hafi bærinn staðið þar mun sunnar, enda er nafngiftin einkennileg fyrir bæ sem stendur svo langt inn í landi. Austast í Ögmundarhrauni eru hólmar tveir í hrauninu og heitir sá eystri Húshólmi. Í honum eru rústir bæjar og kirkju og hafa þær verið nefndar Gamla-Krýsuvík. Munnmæli herma að þar hafi bærinn staðið áður en hraunið rann. Þótt ekkert sé vitað með vissu um það er víst að í hólmanum eru greinilegar tóftir sem benda til þess að þar hafi verið bær. Örnefnið Húshólmi kemur fyrst fyrir í trjáreikningi frá 1609.

Húshólmi

Húshólmi – tilgáta.

Í Ferðabók Eggerts og Bjarna, sem lýsir ferðum þeirra árin 1752-57, segir ennfremur: „Eldflóðið féll í sjó niður og eyddi nokkrum bæjum á því svæði, sem nú heitir Ögmundarhraun. Meðal þeirra var kirkjustaður, sem Hólmastaður hét, og sjást þar enn minjar kirkjugarðsins og húsatóttanna.“ Örnefnið „Hólmastaður“ er þó líklega til komið eftir að hraunið rann og má því ímynda sér að þar hafi bærinn í Krýsuvík áður verið. Haukur Jóhannesson jarðfræðingur gróf tvö snið í Húshólma, annað í gegnum torfgarð sem þar er og hitt í vegghleðslu fjárborgar nyrst í hólmanum. Bæði sniðin bentu til þess að mannvirkin hefðu verið reist áður en landnámslagið féll, eða fyrir árið 900. Hins vegar lá miðaldalagið upp að hleðslunum beggja vegna sem bendir til þess að verulega hafi verið fokið að þeim þegar það féll 1226/27.

Þórkötlusdys

Þórkötludys.

Ekki hefur fundist heillegt kuml á skráningarsvæðinu svo vitað sé, en kuml eru sjálfstæður vitnisburður um byggð fyrir 1000. Sögusagnir herma þó að Járngerðarleiði og Þórkötluleiði sé að finna í túnum samnefndra bæja. Brynjúlfur Jónsson lét grafa í leiði Járngerðar sumarið 1902 og reyndist það vera öskuhaugur.

Kerlingadalur

Dysjar Herdísar og Krýsu ofan Kerlingahvamms. Dys smalans fremst.

Í landi Krýsuvíkur eru auk þess heimildir um fjórar steindysjar og eru tvær þeirra friðlýstar síðan 1964. Þar eiga að vera dysjaðar fornkonur tvær, þær Krýs og Herdís, en bæir þeirra, Krýsuvík og Herdísarvík, drógu nafn af þeim. Kerlingarnar greindi á um landamerki og mættust á Deildarhálsi og vildi hvorug gefa eftir. Lauk svo með þeim að hvor drap aðra og voru þær síðan dysjaðar í svonefndum Kerlingadal austan við hálsinn. Auk þeirra mun þar vera dysjaður smali sem einnig féll í átökum kvennanna. Hin fjórða dys í Krýsuvíkurlandi er svokallað Ögmundarleiði. Mun þar vera dysjaður Ögmundur sá er Ögmundarhraun dregur nafn sitt af og myrtur var eftir að hafa rutt braut í gegnum hraunið. Ekki hefur verið grafið í dysjar þessar svo vitað sé. Að lokum herma sögusagnir að í Geldingadölum í Hraunslandi sé þúst þar sem Ísólfur á Skála sé grafinn, en hún hefur ekki verið rannsökuð.

Dágon

Dágon á Selatöngum – í fjöruborðinu. Nú horfinn.

Frá fornu fari og allt til ársins 1946, þegar hluti Krýsuvíkurlands var innlimaður í lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar, náði Grindavíkurhreppur yfir tvær kirkjusóknir. Þetta voru Staðarsókn að vestan og Krýsuvíkursókn að austan. Staðarsókn, eða Grindavíkursókn eins og hún var einnig nefnd, teygði sig á milli Valahnúks að vestan að Selatöngum að austan. Miðuðust sóknarmörkin við klett í fjöruborðinu sem nefndur var Dágon, og náði Krýsuvíkursókn frá honum og austur að Seljabótarnefi.14 Allir bæirnir nema Krýsuvík, þ.e. Húsatóptir, Járngerðarstaðir, Hóp, Þórkötlustaðir, Hraun og Ísólfsskáli ásamt hjáleigum áttu kirkjusókn að Stað. Var því um langan kirkjuveg að fara, sérstaklega fyrir austustu bæina, Ísólfsskála og Hraun. Krýsuvík þjónaði heimilisfólki sínu og hjáleigum auk þeirra sem dvöldu í verstöðinni á Selastöngum.

Staður

Staður fyrrum.

Í dag er sóknarkirkja Grindvíkinga í Járngerðarstaðahverfi (Grindavíkurkaupstað), en kirkjugarður sóknarinnar er að Stað í Staðarhverfi, þar sem sóknarkirkja var til ársins 1909. Aðeins er ein önnur uppistandandi kirkja í hreppnum og er sú í Krýsuvík. Öruggar heimildir eru um kirkjur að Stað, á Hrauni og í Krýsuvík frá fornu fari, en hugsanlega hafa þær verið fleiri. Páll Jónsson biskup í Skálholti lét í sinni biskupstíð gera skrá yfir kirkjur í umdæmi Skálholtsstóls. Hann var biskup frá 1195 til 1211 og er skráin yfirleitt talin vera frá því um 1200. Kirknaskrá Páls greinir frá tveimur kirkjum í Grindavíkurhreppi. Annars vegar er sögð prestskyld kirkja að Stað í Grindavík og hins vegar í Krýsuvík.

Húshólmi

Húshólmi – kirkjutóft.

Eins og áður segir herma munnmæli að bærinn í Krýsuvík hafi í upphafi verið þar sem nú heitir Húshólmi í Ögmundarhrauni og telja menn að þar megi sjá bæði bæjartóftir og kirkjutóft. Ögmundarhraun er talið hafa runnið 1151 og ætti því sú kirkja sem nefnd er í kirknaskrá Páls að vera sú sem reist var eftir að bærinn var fluttur, en ekki sú í hólmanum. Það verður þó ekki fullyrt og telja sumir að svo sé einmitt ekki, heldur hafi kirkjan í Ögmundarhrauni verið í notkun í allt að fjórar aldir eftir að hraunið rann og þannig sé til komið nafnið „Hólmastaður“.18 Er sú tilgáta meðal annars reist á því að kirkjutóftin í Húshólma þykir mun heillegri en aðrar tóftir sem þar eru. Auk þess hefur kirkjan verið miðsvæðis, þ.e. á milli Krýsuvíkur og Selatanga. Að lokum er svo sú staðreynd að Krýsuvíkurprestakall var afnumið með hirðstjórabréfi árið 1563, fjórum öldum eftir að hraunið rann, vegna þess hve fámennt það var orðið. Guðshús fékk þó að standa þar áfram vegna þess heimilisfólks sem þó var þar.19 Ekkert af þessu eru óyggjandi rök fyrir því að meint kirkja í Húshólma hafi ekki lagst af um leið og byggðin þar.

Staður

Staður. Kirkjan stóð á hólnum nær. Gröf sjómannanna af Anlaby er vinstra megin ofanvert.

Hin kirkjan sem nefnd var í kirknaskrá Páls Jónssonar var sú að Stað í Grindavík, en þar var sóknarkirkja Grindvíkinga frá fornu fari til ársins 1909. Gömul munnmæli herma hins vegar að kirkja hafi einnig verið á Skarfasetri vestast á Reykjanesi. Árni Magnússon greinir frá munnmælum þessum í Chorographica Islandica og segist hafa þau eftir Eyjólfi Jónssyni og öðrum gömlum Grindvíkingum. Samkvæmt þeim var Staður áður í miðri sveit og sóttu Grindvíkingar kirkju að Hrauni þar til nesið brann og kirkjan var flutt frá Skarfasetri að Stað. Sjö bæir áttu þá að hafa verið vestan Staðar: Rafnkelsstaðir, Mölvík, Sandvík, Háleyjar, Krossvík, Herkistaðir og kirkjustaðurinn Skarfasetur. Engar heimildir styðja þessa frásögn né hrekja, en margir jarðfræðingar munu þó telja ólíklegt að þetta svæði hafi nokkurn tíma verið gróið og byggilegt. Sem fyrr er þó ekkert hægt að fullyrða í þessum efnum. Mögulega hefur kirkjan á Skarfasetri verið einhverskonar útkirkja, en höfuðkirkja Grindvíkinga, þá sem síðar, verið að Stað. Að minnsta kosti á það við svo langt sem öruggar heimildir ná. Reykjaneseldar eru taldir hefjast eftir 1210 og standa með hléum til um 1240 og því hefði Skarfasetur samkvæmt munnmælunum átt að vera í byggð þegar kirknaskrá Páls biskups var tekin saman. Ef þar hefði verið kirkja með prestskyldu hefði það átt að koma fram í skránni.

Grindavík

Grindavíkurkirkja.

Sóknarkirkja var að Stað til ársins 1909 er hún var aflögð og önnur kirkja vígð í Járngerðarstaðahverfi, þ.e. núverandi Grindavíkurkaupstað. Kirkjugarður Grindvíkinga er hins vegar enn að Stað og því hefur aldrei verið grafið við Grindavíkurkirkju. Bænhús og útkirkjur voru algeng á Íslandi og voru oft á öðrum til þriðja hverjum bæ, þótt heimildir séu ekki alltaf tiltækar um þau. Í bréfi um byggingu jarða Skálholtsstóls í Grindavík frá 1563 er boðið að breyta bænhúskúgildum á Hrauni, Þórkötlustöðum og Hópi í leigukúgildi og gæti það verið vísbending um bænhús á þessum stöðum. Engar aðrar heimildir minnast á bænhús á Þórkötlustöðum eða Hópi, en á Hrauni var sem áður segir.

Hraun

Hraun – forn signingafontur frá fv. kirkju nær.

Samkvæmt munnmælum, sem áður er greint frá, áttu Grindvíkingar að hafa sótt kirkju að Hrauni áður en Reykjaneseldar brunnu og kirkjan var flutt frá Skarfasetri að Stað. Þetta er fremur ólíklegt þar sem Hraunskirkju er ekki getið í kirknaskrá Páls Jónssonar biskups frá því um 1200. Hins vegar er enginn vafi á að kirkja var á Hrauni á miðöldum. Engar heimildir minnast á kirkju á Hrauni á 15. eða 16. öld, og er fyrstu beinu heimildina um hana að finna í Fitjaannál fyrir árið 1602. Þar segir: „Þá drukknuðu á stóra farmaskipi Skálholtsstaðar 24 manneskjur með einni stúlku, fyrir framan Þorkötlustaði í Grindavík … og voru þeir flestir jarðaðir í bænhúsinu í Grindavík á Hrauni.“ Skömmu síðar hefur kirkjan líklega verið aflögð, en í Chorographica Islandica, sem rituð var um 1700, segir Árni Magnússon kirkjuna aflagða fyrir um 100 árum. Í máldaga Staðarkirkju frá 1642 kemur auk þess fram að klukka í eigu hennar sé komin frá Hrauni. Að öðru leyti er lítið vitað með vissu um guðshús þetta. Líklega hefur það verið annaðhvort bænhús eða hálfkirkja, og þá vafalítið þjónað frá Stað. Við kirkjuna hefur verið kirkjugarður þar sem greftraðir hafa verið heimamenn og e.t.v. menn úr Þórkötlustaða- og Járngerðarstaðahverfum.

Hraun

Hraun.

Í Vilkinsmáldaga frá 1397 kveður á um kirkjutíundargreiðslur, legkaup og legsöngskaup Járngerðarstaðamanna, og ber Járngerðarstaðamönnum samkvæmt því að greiða legsöngskaup til Staðar en ekkert legkaup. Þetta gæti bent til þess að á Járngerðarstöðum hafi verið bænhús eða útkirkja, en um það eru engar frekari heimildir. Líklegra er hins vegar að þetta sé vísbending um að grafreitur Járngerðarstaðamanna, og þá væntanlega Þórkötlustaðamanna einnig, hafi verið á Hrauni en presturinn setið að Stað.

Staðarhverfi

Staðarhverfi. 

Í áðurnefndum Vilkinsmáldaga frá 1397 er eftirfarandi klausa: „Hún [kirkjan að Stað] á fjórðung úr Lónalandi, og skal sá hafa leigu af þeim sem kirkju varðveitir slíka sem settist við þann er þar býr.“ Þessi klausa hefur þótt torskilin þar sem jörð með þessu nafni hefur aldrei verið í Grindavík svo vitað sé. Í riti sínu Saga Grindavíkur. Frá landnámi til 1800 gerir Jón Þ. Þór ráð fyrir því að um misritun sé að ræða og í stað „Lónalands“ eigi þar að standa „Hraunsland“. Ennfremur leggur hann þann skilning í ofangreinda klausu að leiga af jarðarpartinum í Lónalandi skyldi renna til Staðar eftir því sem um semdist milli kirkjuhaldara á Lónalandi og ábúanda þar. Á þessum grunni telur hann hugsanlegt að kirkja á Hrauni sé risin 1397, þegar Vilkinsmáldagi er gerður. Hér er hins vegar um misskilning að ræða. Það sem átt er við með ofangreindri klausu er að leiga af eignarhlut Staðarkirkju í Lónalandi skyldi renna til kirkjunnar, þ.e. Staðarkirkju, eftir því sem um semdist við ábúanda á Lónalandi. Það er því auðséð að ekki má af þessu draga neinar ályktanir um kirkju á Hrauni.

Grindavík

Grindavík – Rafnkelsstaðir í Járngerðarstaðahverfi.

Örnefni, eins og t.d. bæjarnöfn, hafa mikið verið rannsökuð í gegnum tíðina og geta þau oft gefið einhverjar vísbendingar um aldur byggðar. Bæjarnöfn sem eru ósamsett náttúrunöfn eru yfirleitt talin til marks um elsta stig búsetu. Algengustu liðir í bæjarnöfnum í Landnámu eru fell, dalur, holt, nes vík, hóll, á og eyri, og flest þeirra ósamsett. Ósamsett náttúrunöfn í Grindavíkurhreppi eru tvö, Hraun og Hóp. Ein jörð, Krýsuvík, ber samsett náttúrunafn, og er í Landnámu sögð numin um leið og Selvogur, sem einnig er samsett náttúrunafn. Bæjarnöfn sem enda á –staðir eru yfirleitt talin tilheyra síðari stigum landnáms. Tvö lögbýli bera slík nöfn, Þórkötlustaðir og Járngerðarstaðir (og eyðijörðin Gestsstaðir í landi Krýsuvíkur), auk þess sem hugsanlega mætti telja Stað til þessa flokks.

Hóp

Hóp – tóftir gamla bæjarins.

Miðað við þessar vísbendingar einar mætti ætla að Hraun og Hóp hafi verið þær jarðir sem fyrstar byggðust í Grindavík. Sé hins vegar litið til áðurgreindra jarðfræðirannsókna á eldsumbrotum í Skaftafellssýslu, má e.t.v. samkvæmt þeim rekja landnám í Grindavík til 4. áratugar 10. aldar (en engan veginn er hægt að fullyrða um það). Það verður að teljast til síðari stiga landnáms, enda hafði Ari Þorgilsson, ritari Íslendingabókar, það eftir spökum mönnum „…at á sex tegum vetra yrði Ísland albyggt…“. Samkvæmt því væri eðlilegt að þær jarðir sem fyrstar byggðust í Grindavík hafi borið nöfn með endingunni –staðir. Auk þess má benda á að byggð í Grindavík skiptist í þrjú hverfi sem bera nafn af jörðunum Stað, Járngerðarstöðum og Þórkötlustöðum, þ.e. þeim jörðum sem samkvæmt nafnakenningunni teljast til síðari stiga landnáms. Í öllum hverfunum eru þó tvö lögbýli, Staður og Húsatóptir í Staðarhverfi, Járngerðarstaðir og Hóp í Járngerðarstaðahverfi og Þórkötlustaðir og Hraun í Þórkötlustaðahverfi.

Hraun

Hraun – Þórkötlustaðagata fremst.

Ef áðurnefnd kenning um náttúrunöfn ætti að standast í þessu tilviki og Hraun og Hóp væru þær jarðir sem fyrstar byggðust hefði verið eðlilegra að hverfin drægju nafn af þessum fyrstu lögbýlum, þ.e. „Hraunshverfi“ og „Hópshverfi“. En Jón Þ. Þór segir í Sögu Grindavíkur að líklega megi rekja hverfaskiptinguna allt aftur til landnámsaldar. Ef litið er á landfræðilega dreifingu jarðanna má einnig sjá að dreifing jarðanna Staðar, Járngerðarstaða og Þórkötlustaða er mun jafnari ( þ.e. fjarlægð á milli bæjanna er mjög svipuð) en Staðar, Hóps og Hrauns. Hafi landnámsmenn þá viljað skipta landinu bróðurlega á milli sín hefði því verið hyggilegra að velja fyrri kostinn. Þetta eru hins vegar aðeins getgátur einar og ekkert hægt að fullyrða um þessi efni. Standist þessar örnefnakenningar hins vegar má hugsa sér að landnám í Krýsuvík (og Selvogi) hafi orðið fyrr en í Grindavík.

Stóra-Gerði

Stóra-Gerði í Staðarhverfi.

Dýrleiki jarða getur oft gefið vísbendingar um byggðaþróun þar sem ætla má að dýrustu jarðirnar hafi byggst fyrstar. Dýrleikinn var fasteignamat sem virðist hafa verið fastsett mjög snemma, a.m.k. þegar á 12. öld og má því hafa hann sem vísbendingu um misjöfn gæði jarðanna. Dýrleiki flestra jarðanna helst sá sami milli 1695 og 1847. Ísólfsskáli, Hraun og Hóp lækka hins vegar verulega í dýrleika á tímabilinu og er líklegt að landbrot sjávar og uppblástur lands séu helstu orsakir þess. Eins og sést er Staður sagður vera í konungseign árið 1847. Neðanmáls í Jarðatali Johnsens segir hins vegar: „Sýslumaður, og eins jb. [jarðabók] 1803, telur jörð þessa konúngs eign, en jb. 1760 og en prentaða stólsjarðabók, með hér greindum dýrleika og lsk., meðal stólsjarða. “Líklega hefur Stað þarna verið ruglað saman við Húsatóptir, sem voru í konungseign (til 1837) og er getið meðal seldra konungsjarða frá 1760 til ársloka 1846 í jarðatali Johnsens. Staðar er hins vegar ekki getið meðal seldra jarða Skálholtsstóls í fyrrgreindu jarðatali og ætti því réttilega að teljast eign Skálholtsstóls en ekki konungs árið 1847.

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi.

Í Grindavíkurhreppi var margbýlt á flestum jörðum, og hjáleigur og tómthús voru nokkuð mörg, enda ekki síður treyst á sjósókn en búskap í þessari sjávarsveit. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 eru byggðar hjáleigur 27 talsins. Í Jarðatali Johnsens 150 árum síðar eru þær 23. Búseta á hjáleigum og afbýlum fór þó mjög eftir árferði, spratt upp í góðærum en dróst saman þegar harðnaði í ári, og hefur því verið mjög breytileg í gegnum aldirnar.

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi – Túnakort 1918.

Bygging hjáleiga og þurrabúða var að mestu hætt þegar kom fram á 20. öld, en í staðinn var tekið að reisa nýbýli, oft í landi eldri bújarða. Fiskneysla jókst til muna á 12. og 13. öld og sjávarútvegur fór að fá aukið vægi. Ástæða þess er m.a. kólnandi veðurfar, samdráttur í landbúnaði, vaxandi fólksfjöldi, aukin byggð við sjávarsíðuna og tilkoma föstunnar. Verstöðvar tóku þá að spretta upp í Grindavík sem annars staðar þar sem stutt var á miðin og ný stétt manna, búðsetufólk og þurrabúðarfólk, varð til. Það er ljóst að sjávarútvegur hefur leikið stórt hlutverk í Grindavíkurhreppi frá öndverðu og svæðið fljótlega orðið mikilvægt að því leyti. Landgæði eru ekki mikil í byggðarlaginu og hafa í gegnum aldirnar spillst mjög af eldsumbrotum, uppblæstri og ágangi sjávar. Það verður því að teljast einsýnt að í byggðarlaginu hafi menn þurft að reiða sig á sjósókn samhliða búskapnum þar sem landbúnaðurinn einn hafi ekki staðið undir viðurværi manna.

Seltangar

Selatangar – vestasta sjóbúðin.

Verstöðvar voru á tveimur stöðum í Grindavíkurhreppi, í Grindavík og á Selatöngum. Á Selatöngum var útver með nokkrum verbúðum en aldrei föst búseta. Frá Selatöngum var einkum útræði Krýsuvíkurmanna og var síðast róið þaðan 1884. Þar var aldrei stórt útver, en til er gömul þula sem telur 73 menn við róðra þar. Í Grindavík var dæmigert „blandað ver“, þar sem var í senn heimaver, útver og viðleguver.

Keflavík

Keflavík – rekaítak Krýsuvíkurkirkju.

Þegar á 13. öld áttu Viðeyjarklaustur og Skálholtsstaður rekaítök í Grindavík og þótt þess sé ekki getið sérstaklega er líklegt að þessir staðir hafi þá þegar haft skipstöðu þar. Að minnsta kosti varð Grindavík, ásamt Þorlákshöfn, aðalverstöð Skálholtsstóls, enda átti biskupsstóllinn þar allar jarðir nema Húsatóptir þegar komið er fram á 17. öld. Það var jafnan margt aðkomu vermanna í Grindavík en bátafjöldinn var löngum breytilegur eftir árferði. Sem dæmi reru 26 skip þaðan á vetrarvertíð árið 1703, en árið 1767 eru taldir þar 75 bátar. Um 1870 voru 12 skip gerð út frá Grindavík og um aldamótin 1900 voru þau 30. Sögu Grindavíkur sem árabátaverstöðvar lauk ekki fyrr en á þriðja áratug síðustu aldar.

Grindavík

Grindavík – Gerðavellir fremst. Forn verslunarstaður.

Grindavík var einnig verslunarstaður og komu þangað erlend kaupskip allt frá miðöldum fram á 18. öld. Lengi vel, eða fram á 14. öld, sóttu Grindvíkingar líklegast verslun til Eyrarbakka, en fyrst er getið um komu kauskips til Grindavíkur í lok þeirrar aldar. Með vaxandi skreiðarútflutningi varð vægi kauphafnarinnar í Grindavík meira og benda tiltækar heimildir til þess að umsvifin hafi verið orðin þó nokkur á 15. öld. Englendingar og Hansakaupmenn komu mjög við sögu Grindavíkur á 15. og 16. öld, eins og landsins alls. Fyrsta koma ensks skips hingað til lands, sem heimildir greina frá, var árið 1412, en siglingar Englendinga jukust svo á næstu árum. Umsvif þeirra urðu mest á suður- og vesturlandi og Grindavík varð ein helsta bækistöð þeirra ásamt Básendum, Vestmannaeyjum, Hafnarfirði, Rifi og Flatey á Breiðafirði.

Virki

Virkið Jóhanns breiða ofan við Stórubót.

Aðsetur Englendinga í Grindavík mun hafa verið þar sem heitir „á Hellum“ í Járngerðarstaðahverfi, lítið eitt utan við aðalbyggðina þar. Þegar leið á 2. áratug 16. aldar fór að halla undan fæti hjá enskum kaupmönnum hér við land um leið og vegur Hansakaupmanna fór vaxandi. Um 1520 var svo komið að Englendingar höfðu hvergi fasta bækistöð nema í Grindavík og Vestmannaeyjum. Sögu þeirra í Grindavík lauk svo að fullu með „Grindavíkurstríðinu“ árið 1532 þegar Jóhann Breiði og menn hans voru drepnir í búðum sínum, og síðan dysjaðir þar sem síðan heitir Engelska lág. Eftir þetta komst útgerð í Grindavík að fullu í hendur heimamanna, konungs og kirkju, en Þjóðverjar tóku við versluninni og síðar þegnar Danakonungs. „Enska öldin“ í sögu Grindavíkur hefur því ekki staðið nema í um 14 ár, og samskipti þeirra við heimamenn því e.t.v. ekki verið gríðarleg.

Junkaragerði

Garður í Junkeragerði á Gerðavöllum – uppdráttur ÓSÁ.

Eftir brotthvarf Englendinga úr Íslandsversluninni færðust Þjóðverjar mjög í aukana og sátu þeir nánast einir að henni í um sjö áratuga skeið. Þessi útgerð og verslun Hansamanna hér við land var konungsvaldinu mikill þyrnir í augum enda stefndi það dönskum yfirráðum beinlínis í hættu. Samtímaheimildir greina ekki frá því hvort Hansakaupmenn stunduðu útgerð frá Grindavík, en það er þó ekki ólíklegt þar sem aðalbækistöðvar þeirra voru á Básendum og í Höfnum. Munnmæli herma að aðsetur þeirra í Víkinni hafi verið á Gerðavöllum í Járngerðarstaðahverfi. Eftir að svonefndur Skipadómur var dæmdur árið 1545 versnaði staða Þjóðverja hér við land til muna. Þeir héldu versluninni þó áfram út öldina en samkeppnin við Dani óx jafnt og þétt.

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir – bæir og sögusvið „Tyrkjaránsins“ – uppdráttur ÓSÁ.

Með opnu bréfi Kristjáns konungs IV, dagsettu þann 20. apríl 1602, var borgurum í Kaupmannahöfn, Málmeyjum og Helsingjaeyri veittur einkaréttur á allri Íslandsverslun. Lét konungur skipta kauphöfnum hér á landi á milli borganna þriggja og kom Grindavíkurhöfn í hlut Kaupmannahafnar. Hvar í Víkinni verslunin hefur verið er ekki vitað með vissu, en heimildir um Tyrkjaránið árið 1627 herma að danska kaupskipið hafi þá legið á Járngerðarstaðasundi. Hefur verslunin líklega haft bækistöðvar sínar þar til ársins 1639 þegar kaupmenn hættu að sigla til Grindavíkur vegna slæmrar hafnaraðstöðu þar. Urðu Grindvíkingar þá að sækja alla sína verslun að Básendum eða Eyrarbakka.

Húsatóftir

Húsatóftir.

Verslun í Grindavík hófst að nýju 1665 eftir að Skálholtsbiskup hafði hvatt til þess í bréfi. Að þessu sinni fór hún hins vegar ekki fram í Járngerðarstaðahverfi heldur voru verslunarbúðir reistar í Arfadalsvík í Staðarhverfi. Þangað sigldu kaupmenn til ársins 1745 að skyndilega var hætt að sigla þangað og báru kaupmenn fyrir sig að hafnaraðstaðan hefði spillst af sandi. Verslunin lagðist þó ekki af með öllu því nokkurskonar útibúi var haldið úti í Arfadal, þar sem undirkaupmaður frá Básendum sá um móttöku og afhendingu varnings. Grindvíkingar önnuðust sjálfir allan flutning á milli Grindavíkur og Básenda en þáðu kaup fyrir.

Húsatóptir

Kort Kristófers Klog frá 1751 af verslunarstaðnum á Húsatóftum og Stað.

Með konungstilskipun og lögum sem gefin voru út 13. júní 1787 var tekin upp svokölluð fríhöndlun á Íslandi, þ.e. öllum þegnum Danakonungs var frjálst að versla á Íslandi. Með lögunum voru stofnaðir sex kaupstaðir og landinu skipt í kaupsvið. Innan kaupsviðanna voru nokkrar úthafnir þar sem sjálfstæðir kaupmenn störfuðu. Með þessu lenti Grindavík, ásamt öðrum höfnum á Suðurnesjum, innan kaupsviðs Reykjavíkur. Eignir konungs á Búðasandi í Arfadal voru boðnar upp en kaupandinn, Árni Jónsson undirkaupmaður á Eyrarbakka, reyndist ekki farsæll í starfi og var versluninni brátt lokað. Næstu öldina urðu Grindvíkingar því að sækja verslun til Keflavíkur.

Hóp

Hóp í Grindavík – uppdráttur ÓSÁ.

Af dreifingu byggðar í Grindavíkurhreppi má greina þrjá byggðarkjarna eða „hverfi“, Staðarhverfi vestast, þá Járngerðarstaðahverfi og loks Þórkötlustaðahverfi. Raunar mætti með nokkrum rökum tala um Krýsuvík og hjáleigur hennar sem hið fjórða hverfi, en byggð þar er skýrt afmörkuð frá annarri byggð í hreppnum. Í heimildum frá 19. öld kemur einnig fram að Grindvíkingar litu margir hverjir á Krýsuvík sem „hverfi“ töluðu gjarnan um Krýsuvíkurhverfi. Ekkert er vitað með vissu um upphaf hverfanna en þó er líklegt að þau hafi tekið að myndast þegar á landnámsöld. Sé frásögn Sturlubókar Landnámu tekin fram yfir Hauksbók, og gert ráð fyrir að allir fjórir synir Molda-Gnúps hafi numið land í Grindavík, má telja hugsanlegt að þeir hafi byggt bæina Stað, Járngerðarstaði og Þórkötlustaði, án þess að hægt sé að fullyrða nokkuð um það. Þá má einnig ætla að einhverjir úr fylgdarliði þeirra hafi fengið land til búskapar á Húsatóptum og Hrauni. Þessar jarðir auk Hóps hafa svo orðið að lögbýlum sem hjáleigur eða önnur afbýli byggðust útfrá og þannig hafa hverfin smám saman orðið til.

Þórkötlustaðanes

Örnefni ofan bryggjunnar í Þórkötlustaðanesi – uppdráttur ÓSÁ.

Sú staðreynd að sjósókn hefur löngum verið stunduð jafnhliða landbúnaði á svæðinu hefur án efa einnig ráðið nokkru um tilurð og viðhald hverfanna. Um aldamótin 1800 var byggð í Grindavík með sama sniði og þá hafði verið um aldir. Fjölmennast var í hverfunum þremur og Járngerðarstaðahverfi þeirra stærst og þéttbýlast með 59 íbúa. Alla 19. öldina hélt byggðin í Járngerðarstaðahverfi áfram að vaxa og styrkjast og við upphaf 20. aldar var þar orðið til þorp, við og umhverfis Hópið.

Grindavík

Grindavík, Járngerðarstaðahverfi, 1963.

Margt hefur valdið því að þéttbýlisþróunin varð á þennan veg. Járngerðarstaðahverfi lá miðsvæðis í sveitinni og leiðin þangað frá öðrum vaxandi þéttbýliskjörnum á Reykjanesi og við Faxaflóa var bæði skemmri og greiðari en t.d. að Þórkötlustöðum. Auk þess voru skilyrði til lendingar og útróðra betri í Járngerðarstaðahverfi en á Þórkötlustöðum. Síðast en ekki síst tók fyrsta verslun svæðisins til starfa í Járngerðarstaðahverfi um aldamótin 1900, þ.e. sú fyrsta frá því verslun í Grindavík lagðist af í lok 18. aldar eins og áður greinir. Þessi þéttbýliskjarni, einkum vestan megin Hópsins, í Járngerðarstaðahverfi, varð þungamiðja Grindavíkurkauptúns sem síðan hlaut kaupstaðarréttindi árið 1947.“

Heimild:
-Fornleifaskráning í Grindavík – 3. áfangi, Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2004.

Grindavík

Grindavík, Járngerðarstaðahverfi, 1958.

Jón Jónsson

Jón Jónsson, jarðfræðingur, skrifaði um „Eldvirkni á nútíma á Reykjanesskaga“ í rit um Skipulagsmál höfuðborgarsvæðisins árið 1981:

SkiplagsmálÍ inngangi segir m.a.: „Við allt nútíma skipulag og áætlanagerð og þá ákvarðanatöku sem því er tengd er aðgangur að og notkun ákveðinna upplýsinga algert grundvallaratriði. Einn mikilvægasti lærdómur sem við getum dregið af skipulagsstarfi liðinna áratuga er einnig sá, að ráðast ekki í að leysa vandamál fyrr en við vitum nokkurn veginn hvort um sé að ræða vandamál eða ekki – og hvert það sé. Við lifum einnig á tímum mikilla breytinga og því þurfa þeir sem fara með þessi mál einnig að fá sem fyrst upplýsingar um þá þætti sem eru að breytast, hvar þessar breytingar eru að eiga sér stað og hve miklar þær eru, til þess að sem fyrst sé hægt að gera nauðsynlegar breytingar og þá hugsanlega endurskoða skipulagið.“

Eldvirkni á nútíma á Reykjanesskaga

Reykjanesskagi - jarðfræði

Kort Jóns Jónssonar.

„Á Reykjanesskaga hefur á nútíma verið mikil eldvirkni, enda er skaginn hluti af sjálfu gosbeltinu, sem liggur um landið þvert. Þegar talað er um nútíma í jarðfræðilegu samhengi er átt við tímann, sem hann er frá því að jökla síðasta kuldaskeiðs leysti af landinu, en talið er að svo hafi orðið fyrir um 10.000 – 12.000 árum.
Í næsta nágrenni höfuðborgarsvæðisins hafa orðið allmörg gos á þessu tímabili og nokkur á þeim tíma, sem telst sögulegur, eða eftir að norrænt landnám hófst hér árið 874.
Aldursákvarðanir með svo nefndri geislakolsaðferð eða C*4- aðferð hafa gert mögulegt að finna aldur einstakra jarðlaga, sem innihalda gróðurleifar. Á þann hátt má finna aldur hrauns, takist að ná í leifar gróðurs, sem það hefur runnið yfir, en gróðurinn við það kolast, orðið að viðar- mó- eða mosakolum.
Á sama hátt má og finna aldur öskulaga í jarðvegi en þau má síðan oft rekja yfir stór svæði.
Verða nú talin nokkur eldgos, sem orðið hafa á höfuðborgarsvæðinu á umliðnum öldum og sem hafa verið aldursákvörðuð eftir þessum leiðum.

Búrfellshraun við Hafnarfjörð (H-105)

Hraunflæði

Búrfellshraun.

Upptök þessa hrauns er í einstökum gíg, Búrfelli, norðaustur af Kaldárbotnum um 7 km austan við Hafnarfjörð. Það hefur runnið í tveim megin kvíslum allt í sjó út í Hafnarfjörð og sunnanverðan Arnarnesvog. Auk þess hverfur hluti af því inn undir yngri hraun vestur af Kaldárseli. Aldur þessa hrauns er um 7.200 C14 ár (7.240 +_ 130 Cl4 ár). Meginbyggð Hafnarfjarðarbæjar stendur á þessu hrauni.

Leitahraun (D-25)

Hraunflæði

Leitarhraun.

Upptök þessa hrauns er austanundir Bláfjöllum í gíg, sem nefndur er Leitin. Það hefur runnið i mjóum taumum niður um Sandskeið, Fossvelli og alla leið út í Elliðavog. Í þessu hrauni eru Rauðhólar við Elliáavatn. Aldur Leitahrauns er um 4.600 ár (4.630 +_ 90 C^4 ár) . Hólmshraunin fimm (H-156, D-24, H-155, H-153, H-150). Mikill hraunabunki er suður af Elliðavatni og Heiðmörk, og meðal þeirra eru fimm mismunandi hraunstraumar, sem komið hafa frá eldvörpum á svæðinu vestan við Bláfjöll, hlaðist hafa hvert ofan á annað og náð út á Leitahraun. Þau eru því öll yngri en það, þ.e. yngri en 4.600 ára það elsta þessara hrauna hefur náð langleiðina þvert yfir Leitahraun vestan við Hólm. Yngst í þessum hraunbunka er hrauntunga, sem fallið hefur austur með Selgjalli að norðan og niður í Lækjarbotna. Þykir næsta líklegt að hraun það sé frá sögulegum tíma, en komið er það úr Eldborg við Bláfjöll.

Óbrinnishólar (H-99)

Hraunflæði

Óbrinnishólahraun.

Óbrinnishólar vestan undir Undirhlíðum hafa gosið tvisvar og hefur a.m.k. yngra hraunið runnið í sjó út þar sem nú er álverið. Fjórar aldursákvarðanir á því gáfu um 2.140 ár (2.142 +_ 77 cl4 ár) .

Nýjahraun (Kapelluhraun) (H-97)
Þetta hraun er komið úr gígaröð eða gígaröðum vestan við Undirhliðar og Vatnsskarð. Af upprunanlegu nafni þess, sem hér er notað er ljóst að það er frá sögulegum tíma. Hraunið hefur runnið í sjó út við Straumsvík og stendur álverið í heild nú á því þar. Aldur þess er um 910 ár (910 +_ 56 C14 ár).

Gvendarselshraun (H-103)

Gvendarselsgígar

Gvendarselsgígaröðin og Gvendarselshraun.

Þetta hraun er komið úr gígum, sem byggst hafa upp á misgengi því, sem liggur um Búrfell, Helgadal og Undirhlíðar. Gígaröðin er austan í Gvendarselshæð beint vestur af Helgafelli. Hraunið er lítið, nær aðeins yfir svæðið vestan við Helgafell og lítið eitt vestur fyrir Kaldársel. Aldur þess er 875 ár (875 + 75 Cl4 ár).

Tvíbollahraun (H-139)

Tvíbollahraun

Tvíbollahraun.

Eins og nafnið bendir til er hraun þetta komið úr gígum tveim, sem samvaxnir eru og standa á hálendisbrúninni við Grindaskörð. Hraunið hefur fallið norður og hverfur undir Gvendarselshraun við vesturenda Helgafells. Aldur þess er um 1.075 ár (1.075 +_ 60 C^4 ár) .

Breiðadalshraun (H-129)
Þetta hraun hefur komið upp í Brennisteinsfjöllum og runnið bæði norður og suður af. Að norðan hefur það endað í Breiðdal austan undir Undirhlíðum. Aldur er um 1.040 ár (1.040 +_ 75 C*4 ár). Kolaðar viðarleifar undir þessu hrauni liggja í landnámslaginu, sem áður hefur verið talið vera frá því um 900.

Rjúpnadyngnahraun (H-154)
HúsfellsbruniÞetta hraun er komið úr Rjúpnadyngjum beint suður af Heiðmörk. Það hefur fallið norðvestur og endar í allhárri brún rétt austan við Búrfell. Það fellur út á Tvíbollahraun og er því yngra en það. Undir því er landnáms lagið en ofan á svart öskulag frá Kötlu, sem fallið hefur um eða laust fyrir 1500 (1485, 1495). Þarna hefur því gosið einhvern tíma á þessu tímabili.

Kóngsfellshraun (H-149)
Þetta hraun er komið úr gígaröð vestan við Stóra Kóngsfell. Það hefur runnið báðum megin við fellið og svo norður. Það hefur runnið út á Rjúpnadyngnahraun og er því yngra en það. Meira er ekki um aldur þess vitað nú.
HúsfellsbruniLíklegt sýnist að Eldborg við Bláfjöll hafi gosið um líkt leiti og síðast talin eldvörp, en sannanir fyrir þvi vantar. Þau ártöl, sem hér eru gefin upp eru öll miðuð við 1950, þ.e. talin fyrir það ár.
Því má bæta hér við að mörg hraun á þessu svæði eru óbeint aldursákvörðuð, þ.e. lágmarksaldur þeirra er þekktur af því að þau hafa runnið yfir aldursákvörðuð hraun og eru því yngri. – Jón Jónsson, jarðfræðingur

Heimild:
-Skipulagsmál höfuðborgarsvæðisins, 4. tbl., 2. árg. desember 1981, „Eldvirkni á nútíma á Reykjanesskaga“, Jón Jónsson, bls. 19-20.

Reykjanesskagi - jarðfræðikort.

Reykjanesskagi – jarðfræðikort; Jón Jónsson.

Jarðfræðikort

Í Morgunblaðinu 1978 er viðtal við Jón Jónsson jarðfræðing um aldursákvarðanir á hraunum á Reykjanesskaga (niðurstöðurnar þarf að taka með fyrirvara því ýmiss þróun við áldursákvarðanir hefur orðið síðan viðtalið var birt) undir fyrirsögninni:“Litlar dyngjur virðast elstar eldstöðvanna á Reykjanesskaga„:

Jón Jónsson„Jón Jónsson jarðfræðingur fékk í júní s.l. 200 þúsund króna styrk úr Vísindasjóði vegna kostnaðar við aldursákvarðanir á hraunum á Reykjanesskaga. Til þess að forvítnast nánar um störf Jóns og rannsóknir átti Mbl. viðtal við hann á skrifstofu hans hjá Orkustofnun í vikunni.
Í byrjun kvaðst Jón hafa átt við rannsóknir sínar á Reykjanesskaga að meira eða minna leyti frá árinu 1960, en þó hafi þær fyrstu 5—6 árin verið hrein ígripavinna hjá sér. Ennfremur hefði hann í tvö ár af þessum tíma verið staddur í Mið-Ameríku á vegum Sameinuðu þjóðanna við jarðhitarannsóknir, fyrst í El Salvador og síðan í Nicaragúa. og í þann tíma ekki hafa getað sinnt þessu starfi.
Á vegg í skrifstofu hans er geysistórt kort af Reykjanesskaganum og aðspurður sagði Jón að hann hefði unnið það eftir loftmyndum, en hreinteikningu þess hefðu jarðfræöingarnir Jón Eiríksson og Sigmundur Einarsson unnið. Slíkt kort hefur ekki áður verið gert af Reykjanesskaga né öðru svæði á Íslandi. En núna næstu daga lýkur prentun á skýrslu Jóns um rannsóknir hans, en skýrslan er kostuð og gefin út af Orkustofnun og er í tveimur heftum.
Gígaröð
„Ég hef merkt inn á loftmyndir hvern einasta hraunstraum og hverja eldstöð vestan frá Reykjanestá og austur undir Hellisheiði og þá kortlagt bæði eldri hraunmyndanir og yngri, og hef þá sérstaklega lagt áherzlu á eldstöðvar og hraun sem orðið hafa til eftir að ísöld lauk, þ.e. á síðast liðnum 10—12 þúsund árum. Og það kemur í ljós að ef talið er utan af Reykjanestá og að Hellisheiði þá nálgast eldstöðvarnar töluna 200. Hugsanlega hefur mér einhversstaðar yfirsézt, en ég á orðið mörg sporin á Reykjanesskaganum og held að það geti ekki verið mikið ef eitthvað er. Á þessum tíma, sem ég nefndi áðan, hefur um 42 rúmkílómetrar af hrauni komið upp.“
— Nei, hrauntegundirnar eru ekki þær sömu á þessu svæði. Þeim er skipt í þrjá meginflokka, þ.e. litlar dyngjur, sem gosið hafa því sem við köllum pikrít-basalt og þær virðast vera elztar eldstöðvanna á skaganum eftir að ísöld lauk.

Háleyjabunga

Háleyjabunga.

Sem dæmi um litlar dyngjur get ég nefnt Háleygjabungu, vestast á Reykjanesinu, Lágafell, Vatnsheiði hjá Grindavík, Búrfell í Ölfusi og Dimmadalshæð rétt fyrir ofan Hlíðardal.
— Næst koma svo stórar dyngjur í aldursröð og stærst þeirra er Heiðin há suð-vestur undir Bláfjöllum og er hún nokkuð yfir 60 tengiskílómetra. Önnur stór dyngja er Þráinsskjöldur, sem er gamalt nafn sem ég hef vakið upp á ný og er úr Ferðabók Eggerts og Bjarna, en Þráinsskjaldarhraun þekur alla Vatnsleysuströndina.

Vatnsheiði

Vatnsheiði.

Stóru dyngjurnar á Reykjanesskaga hafa lagt til um 70% af hraununum og hafa gosið hrauni sem við köllum olivin þoleít.
— Þriðji og síðasti meginflokkurinn er sprungugosin og má þar nefna sem dæmi gígaraðirnar sitt hvoru megin við Vesturháls.
— Samanlagt er hraunflöturinn 1064 ferkílómetrar og rúmtakið 42 km. Ef þessari framleiðslu er jafnað niður á 10 þúsund ár, þá gerir það 4.2 rúmkílómetra á hverjum þúsund árum.
— Eftir að landnám hófst, þá virðast hafa komið upp hraun sem ná yfir 94 ferkílómetra svæði, að rúmmáli um 1.8 rúmkílómetra. — Í þessum tölum eru reiknuð hraun sem örugglega hafa runnið mjög stuttu fyrir landnám.

Allmörg hraun runnið eftir landnám

Tvíbollahraun

Tvíbollahraun.

— Það getum við ráðið af einu ljósu öskulagi, sem kallað hefur verið landnámslagið og hefur fallið um árið 900, en það fann Sigurður Þórarinsson fyrst austur í Þjórsárdal og reiknar hann aldur þess út frá rústunum sem þar finnast. Þetta lag er að finna víðsvegar á Reykjanesskaga en í því fann ég kolaðar viðarleifar og við aldursákvörðun þeirra fékkst árið 910 og þá eru skekkjumöguleikar ekki teknir með. Það sýnir að hraun, sem yfir lagið hefur runnið, hlýtur að vera yngra.
Tvíbollahraun— Í ljós hefur komið, að allmörg hraun hafa runnið eftir að landnám hófst og má þá telja Tvíbollahraun um 875, Rjúpnadyngnahraun um 900, Breiðdalshraun um 910, Nýjahraun eða Kapelluhraun um 1010, Ögmundarhraun um 1340 og Selvogshraun um 1340, en fasta aldursákvörðun hef ég ekki á því. Ögmundarhraun er því yngst og virðist ekki hafa gosið frá því að það kom upp.
Af eldri hraunum má telja Leitahraun sem upp hefur komið fyrir um 4600 árum, og er sú aldursákvörðun fengin með geislakolsrannsóknum eða C14 ákvörðun. Sandfellsklofahraun er um 3000 ára, en það er við vesturenda Sveifluháls, Sundhnjúkahraun við Grindavík um 2400 ára og Óbrynnishólar yngri sem eru um 2100 ára.
— Reykjafellshraun, sem ég leyfi mér að kalla svo en sumir kalla Kristnitökuhraun, reynist vera um 1800 ára, en í þessum tölum tek ég skekkjumöguleika ekki með.

Styrkurinn hrekkur ekki til

Strompahraun

Strompahraun.

— Ég veit um kolaðar gróðurleifar undir nokkrum hraunum og það er til aldursákvörðunar á þeim sem ég ætla styrkinn ur Vísindasjóði. Það er hraun úr Stóru-Eldborg undir Geitarhlíð austan við Krýsuvík og Litlu-Eldborg á sama stað. Þ.e. Ögmundarhraun og eldra hraun undir Ögmundarhrauni og svo hraun sem ég kalla Strompahraun, og það nafn hefur Örnefnanefnd samþykkt svo að það er löglegt að setja það á kort.

Stóra-Eldborg

Stóra-Eldborg.

— Nei, það er sýnilegt að styrkurinn hrekkur ekki til þessara rannsókna og því til stuðnings get ég talið til að hver aldursákvörðun kostar um 800 sænskar krónur, sem er þó nokkur fjárhæð. Við sendum sýnin út til aldursákvörðunar, en til þess þarf í raun heila rannsóknarstofu.
Tækjakosturinn minn? Ég nota aðeins smásjá, en til ákvörðunar á bergtegundum geri ég þunnsneiðar af berginu og í smásjánni má greina flest alla kristallana í því, nema málma sem eru um 10% af því.

Leiti

Leiti.

— Ég hef hlerað það að þeir í Háskólanum hafi áhuga á að koma upp rannsóknastofu þar sem m.a. mætti aldursgreina bergmyndanir og nota til rannsókna varðandi fornfræði og fleira, en slíkt fyrirtæki er mjög kostnaðarsamt og landið okkar er lítið.

Jarðskjálftar

Jarðskjálftar á Reykjanesi í júlí 2004.

— Nei, það er rétt að ekkert annað svæði á Íslandi hefur verið tekið fyrir á þennan hátt. Það sem er áhugavert við Reykjanesskagann er að hann er hluti af Reykjaneshryggnum eða Mið-Atlantshafshryggnum sem nær eftir Atlantshafinu endilöngu. — Og á þessum hrygg eiga nær allir jarðskjálftar upptök sín, en þessi hryggur liggur um Ísland þvert og það er raunar þetta sem við köllum gosbeltið. Á því eru allar eldstöðvar sem virkar hafa verið eftir að ísöld lauk og öll hájarðhitasvæðin. Atlantshafshryggurinn hefur vakið athygli jarðvísindamanna á síðustu áratugum og Reykjanesskaginn er eitt af þeim fáu svæðum sem er ofan sjávar og sá eini sem hefur í heild verið kortlagður eins nákvæmlega og nú hefur verið gert.

Reykjanes

Reykjanes – jarðfræðikort. Dyngjurnar eru gullitaðar.

— Ég tel að með þessari vinnu minni sé lagður grundvöllur fyrir jarðfræðinga, efnafræðinga og jarðeðlisfræðinga til frekari rannsókna og fjölþættari en ég hef þegar gert. Ég vonast sem sagt til þess að þetta verði sæmilega traustur grundvöllur fyrir aðra að byggja á og ef sú verður raunin þá er ég ánægður.“ – ÁJR

Hafa ber í huga að framangreint viðtal við Jón var tekið árið 1978.

Heimild:
-Morgunblaðið, 184. tbl. 26.08.1978, „Litlar dyngjur virðast elstar eldstöðvanna á Reykjanesskaga“ – Rœtt við Jón Jónsson jarðfrœðing um aldursákvarðanir á hraunum á Reykjanesskaga, bls. 8-9.

Jarðfræðikort

Jarðfræðikort ÍSOR af Reykjanesskaga.

Húsfell

Á Vísindavefnum má lesa eftirfarandi fróðleik Sigurðar Steinþórssonar, prófessor emeritusum, „Virkar eldstöðvar í kringum höfuðborgarsvæðið„:

Reykjanesskagi

Eldstöðvakerfi á Reykjanesskaga (bleik). Jarðskjálftabelti liggur eftir skaganum og markar flekaskilin (rauð). Jarðhitasvæði eru einnig sýnd (gul). Sprungusveimar Hengils til norðausturs og Reykjaness til suðvesturs eru svartir.

„Þegar spurt er hversu margar eldstöðvar séu á Íslandi kann jarðfræðingum að vefjast tunga um tönn — á til dæmis að telja einstakan gíg sérstaka eldstöð eða goshrinur eins og Kröfluelda 1974-85 eitt eða mörg eldgos. Þess vegna var kringum 1970 tekið upp hugtakið eldstöðvakerfi sem tekur til allra þeirra eldstöðva sem teljast vera samstofna; yfirleitt tengjast þær einni megineldstöð. Á Íslandi eru um 30 slík eldstöðvakerfi, þar af fimm á Reykjanesskaga.
Á Suðvesturlandi liggja mót Evrasíu- og Norður-Ameríkuflekanna, eins og þau koma fram í jarðskjálftaupptökum neðan þriggja km dýpis, frá Reykjanestá austur um Suðurland í átt að Heklu. Eftir flekamótunum raðast sprungur á yfirborði í fimm sprungusveima (sprungureinar) með NA-SV-stefnu (sjá mynd hér fyrir neðan).

Húsfell

Húsfell og Húsfellsbruni.

Þar sem sprungusveimur og flekamótin skerast eru merki um mesta eldvirkni á sprungusveimnum — þar er megineldstöð þess sprungusveims, og til samans mynda megineldstöðin og sprungusveimurinn sem hana sker eldstöðvakerfið. Virkum megineldstöðvum tengjast gjarnan háhitakerfi, og eftir þeim eru eldstöðvakerfin fimm nefnd, talið frá vestri til austurs, Reykjanes, Svartsengi, Krýsuvík, Brennisteinsfjöll og Hengill. Fyrstnefndu kerfin tvö eru gjarnan talin sem eitt, enda sameinast norðurhlutar sprungusveima þeirra sunnan við Voga á Vatnsleysuströnd. Tvö eldstöðvakerfi, Krýsuvíkur- og Brennisteinsfjallakerfi, hafa lagt til hraun í námunda við Reykjavík.

Á höfuðborgarsvæðinu eru einkum áberandi tvö nútímahraun (það er sem runnið hafa eftir ísöld) og kallast annað þeirra Búrfellshraun einu nafni en hitt Leitahraun. Hið fyrrnefnda rann úr gígnum Búrfelli sunnan við Heiðmörk fyrir um 7300 árum. Ýmsir hlutar þess bera sérstök nöfn, Gálgahraun, Garðahraun, Hafnarfjarðarhraun, Vífilsstaðahraun, Urriðakotshraun, Gráhelluhraun, Smyrlabúðarhraun. Búrfell er í Krýsuvíkurkerfi.

Hraunflæði

Leitarhraun.

Leitahraunið mun vera meðal rúmmálsmestu hrauna sem runnið hafa frá Brennisteinsfjallakerfinu eftir ísöld. Það rann fyrir um 5200 árum frá eldstöð þar sem heita Leitin á Hellisheiði, suðvestan við Eldborgir sem gusu Svínahraunsbruna (Kristnitökuhraun) árið 1000. Frá Leitum rann hraunið annars vegar til suðurs langleiðina til sjávar við Þorlákshöfn; í því hrauni er Raufarhólshellir. Hins vegar rann álma til norðvesturs til sjávar í Elliðavogi. Á þeirri leið myndaði hraunrennslið gervigígaþyrpinguna Rauðhóla og hraunstrompana (hornito) Tröllabörn hjá Lækjarbotnum. Meðal kunnra sérnafna hluta Leitahrauns eru Elliðavogshraun, neðsti hluti Hólmshrauna, Svínahraun (að hluta undir Kristnitökuhrauni), Lambafellshraun, og niðri í Ölfusi Hraunsheiði og Grímslækjarhraun.

Bláfjöll

Stóra-Kóngsfell, gígur vestan fellsins.

Frá eldstöð nærri Stóra-Kóngsfelli hjá Bláfjöllum (Brennisteinsfjallakerfi) hafa runnið fimm hraun sem nefnast Húsfellsbruni hið efra en Hólmshraun neðar—Heiðmörk er á þeim hraunum. Hið elsta þeirra er eldra en Leitahraun en hin fjögur þó öll forsöguleg.
Einu hraunin sem segja mætti að nálgast hafi höfuðborgarsvæðið á sögulegum tíma eru sunnan við Hafnarfjörð og komu úr Krýsuvíkurkerfi: Afstapahraun um 900, Hvaleyrarhraun kringum 1000 og Kapelluhraun árið 1151. Hengilskerfi hefur ekki látið á sér kræla í 2000 ár en á hinum fjórum hafa mislangar goshrinur hafist á um það bil 1000 ára fresti, fyrst austast (Brennisteinsfjöll) og færst síðan vestur skagann. Hin síðasta hófst fyrir um 1100 árum. Grindavík mun vera sú byggð, sem helst væri ógnað af næstu hrinu.

Klambrahraun

Klambrahraun.

Yfirleitt eru þær eldstöðvar kallaðar „virkar“ sem gosið hafa eftir ísöld, það er síðastliðin 10.000 ár eða svo. Á þeim tíma hafa aðeins þrjár sent hraun í námunda við Reykjavík, Búrfell austan við Hafnarfjörð, eldstöð hjá Stóra-Kóngsfelli hjá Bláfjöllum og Leitin á Hellisheiði.“
Húsfellsbruni er að mestu Klambrahraun. Þau myndast þegar efri skorpa helluhrauna brotnar upp og myndar yfirborðsbreksíu við skyndilega aukinn straumþunga hraunsins eða þegar það flæðir upp að fyrirstöðu sem aftrar framrás þess um tíma. Þótt ásýnd klumpahrauna sé talsvert frábrugðin dæmigerðum helluhraunum, er flutningur kviku eftir lokuðum rásum, myndun hraunsepa og hraunbelging lykilþáttur í myndun þeirra. Vegna yfirborðsbreksíunnar hafa þau oftar en ekki verið flokkuð sem apalhraun, sem hefur leitt til mistúlkunar á flæðiferlum og eðli þessara hrauna.

Heimild:
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=62126

Hraunflæði

Hraunakort

Söguleg hraun á höfuðborgarsvæðinu
„Byrjað verður á hraununum á vatnasviði Vallahverfisins. Aldur hvers hrauns er í sviga á eftir nafni þeirra í titli ásamt eldstöðvakerfinu sem það kom frá.

Kapelluhraun (861 ár; Krýsuvíkurkerfið)

Nútímahraun

Nútímahraun.

Kapelluhraun er úfið apalhraun sem rann úr gígum hjá Vatnsskarði. Hefur það runnið til sjávar í Straumsvík eftir dæld milli Eldra Hellnahrauns og Hrútagjárdyngju (Haukur Jóhannesson & Sigmundur Einarsson, 1998). Hraunið rann á sögulegum tíma og benda örnefnin „Nýjahraun“, „Nýibruni“ og „Bruninn“ til þess að menn hafi horft upp á hraunið renna. Samtímis eldgosinu áttu sér einnig stað miklir jarðskjálftar sem er getið í Flateyjarbók (Sigmundur Einarsson, Árný Erla Sveinbjörnsdóttir & Haukur Jóhannesson, 1991). Ljóst er því að mikið hefur gengið á þegar Kapelluhraun rann og eldgosið því ekki farið fram hjá mörgum á svæðinu.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – jarðfræðikort; nútímahraun.

Kapelluhraun er um 10 kílómetra langt þar sem það er lengst en alls þekur það 13,7 km2. Ef reiknað er með 5 metra meðalþykkt er rúmmál þess um 0,07 km3 (Sigmundur Einarsson o.fl., 1991). Hraunið er því um það bil af svipaðri stærð og meðalbasalthraun á Íslandi (Páll Imsland, 1998).
Krýsuvíkureldar brunnu, að talið er, í nokkra áratugi á 12. öld (Haukur Jóhannesson & Sigmundur Einarsson, 1998). Kapelluhraun er hluti þessarar goshrinu en gossprungan, sé hún talin sem ein heild, nær frá austurhlíð Núpshlíðarháls í suðvestri til austanverðs hluta Undirhlíða í norðaustri. Vegalengdin endanna á milli er um 25 kílómetrar en 8 kílómetra löng eyða er á gossprungunni. Syðri hluti gossprungunnar er um 10,5 kílómetrar að lengd en nyrðri hlutinn, þaðan sem Kapelluhraun rann, er um 6,5 kílómetrar að lengd. Flatarmál hraunanna úr þessum eldum er 36,5 km2 og áætlað rúmmál þess mun vera 0,22 km3. Runnu þá einnig Ögmundarhraun í suðri við Krýsuvík og Mávahlíðarhraun norðaustur af Trölladyngju (Sigmundur Einarsson o.fl., 1991).

Kapeluhraun

Kapelluhraun – jarðfræðikort.

Mestur hluti Kapelluhrauns rann frá gígum við Vatnsskarð, rétt neðan vesturhluta Undirhlíða, og til sjávar í Straumsvík. Því miður eru þessir gígar nú horfnir að mestu sökum gjallvinnslu (Haukur Jóhannesson & Sigmundur Einarsson, 1998). Ná þessir gígar yfir tvo syðstu kílómetra gossprungunnar í Undirhlíðum en mest gaus úr syðsta og vestasta gígnum. Næst þessum gíg hefur hraunið runnið eftir hrauntröð og þaðan stefnt í norðvesturátt til sjávar. Þess ber að geta að hraunin í Krýsuvíkureldunum hafa yfirleitt verið þunnfljótandi og gasrík og því hafa myndast þunn helluhraun næst gígunum í þessum eldum. Þegar hraunin hafa farið nokkur hundruð metra hefur gasið að miklu leyti horfið úr þeim, þau orðið seigari og smám saman breyst í apalhraun. Er þetta ástæðan fyrir því að apalhraunin úr eldunum eru yfirleitt úfnara eftir því sem fjær dregur upptökunum enda er Kapelluhraunið mjög úfið næst Straumsvík en sléttara nær upptökum (Sigmundur Einarsson o.fl., 1991).

Hraunhóll

Hraunhóll undir Vatnsskarði.

Þegar Kapelluhraun rann voru gígarnir við Vatnsskarð ekki einu upptökin. Enduðu hraunin þar að auki ekki öll sem úfin apalhraun fjær upptökum þeirra. Úr öðrum hlutum 6,5 kílómetra langrar gossprungunnar runnu að mestu leyti þunnfljótandi helluhraun en þau náðu þó ekki jafn mikilli útbreiðslu og meginstraumurinn sem rann niður í Straumsvík. Sem dæmi má nefna hraunin sem runnu til vesturs og norðurs úr Kerunum norðan við Bláfjallaveg en hraunið norðan við þessa litlu gíga eru mjög slétt (Sigmundur Einarsson o.fl., 1991). Slétt helluhraun hefur einnig runnið frá Gvendarselsgígum austan í Gvendarselshæð í norðurenda Undirhlíða. Hraun þetta þekur allt svæðið milli Gvendarselshæðarinnar, Valahnúka og Helgafells en það hefur einnig runnið niður í norðausturhluta Kaldárbotna í nokkuð mjórri totu. Einnig hefur örmjór hraunstraumur runnið niður Kýrskarð og myndað lítinn hraunfláka ofan á Óbrinnishólahrauni og undir Gvendarselshæðinni. Þykkt þessara sléttu helluhrauna sem talin hafa verið upp hér að ofan, og teljast sem hluti af Kapelluhrauni, er frekar lítil en víðast virðist hún vera um 1 metri eða minni (Jón Jónsson, 1983; Sigmundur Einarsson o.fl., 1991).

Tvíbollahraun (1.112 ár; Brennisteinsfjallakerfi)

Tvíbollahraun

Tvíbollahraun.

Hraunið sem er í daglegu tali nefnt Hellnahraun er í raun tvö hraun sem hér eftir verða kölluð Tvíbollahraun (Yngra Hellnahraun) og Skúlatúnshraun (Eldra Hellnahraun). Tvíbollahraun er dæmigert helluhraun með sprungnum og ávölum hraunkollum (Sigmundur Einarsson o.fl., 1991). Það hefur runnið sunnan úr Tvíbollum sem eru tveir gígar, um það bil 20 og 60 metra háir, við Grindaskörð en í þessum skörðum hefur verið mikil eldvirkni á nútíma. Hefur hraunflæðið verið að mestu um undirgöng (Jón Jónsson, 1983). Sé hraunið rakið alla leið til byggðar hefur það runnið frá fyrrnefndum Tvíbollum, austur með Helgafelli og suður fyrir það, norðaustur með Gvendarselshæð, vestur með Kaldárseli, meðfram Stórhöfða og Hamranesi, undir núverandi íbúabyggð í Vallahverfinu og loks hefur það stöðvast hjá Hvaleyrarholti (Kristján Sæmundsson o.fl., 2010) um 300 metrum frá sjó.

Bollar

Tvíbollar.

Hefur Tvíbollahraun runnið nánast sömu leið og Skúlatúnshraun rann (Haukur Jóhannesson & Sigmundur Einarsson, 1998) um 900 árum fyrr. Tvíbollahraun er þó mun minna um sig á þessum slóðum en Skúlatúnshraunið en fjallað verður um það síðarnefnda á næstu síðum.
Tvíbollahraun og Skúlatúnshraun eru einsdæmi á Reykjanesinu. Hafa bæði hraunin runnið frá Brennisteinsfjallakerfinu, þvert yfir Krýsuvíkurkerfið og endað í nokkurra kílómetra fjarlægð frá austustu sprungunum í Reykjaneskerfinu. Þau hafa því runnið úr einu kerfi, þverað það næsta og endað skömmu frá því þriðja (Sigmundur Einarsson o.fl., 1991).

Lýsingar á öðrum nútíma Lýsingar á öðrum nútímahraunum á höfuðborgarsvæðinu. Aldur hraunanna er í sviga á eftir nafni þeirra í titli ásamt eldstöðvakerfinu sem það kom frá.

Óbrinnishólabruni ( 2.203 ár; Krýsuvíkurkerfið)

Óbrinnishólabruni

Óbrinnishólabruni.

Fyrir um 2100 árum (Kristján Sæmundsson o.fl., 2010) gaus í Krýsuvíkurreininni. Nyrstu gosstöðvarnar voru á svipuðum slóðum og gosstöðvarnar sem mynduðu Kapelluhraunið eða nánar tiltekið í Óbrinnishólum við Bláfjallaveg. Frá þessum gígum rann Óbrinnishólabruni. Því miður eru gígar þessir að mestu horfnir í dag en þeir hafa verið grafnir út í grjótnámi. (Haukur Jóhannesson & Sigmundur Einarsson, 1998). Nafn hólanna er talið þýða að á þeim hafi ekki brunnið þegar Kapelluhraun rann yfir Óbrinnishólabrunann (Jón Jónsson, 1974).
Í austanverðum Óbrinnishólunum er um 900 metra löng gígaröð en hún er nú ekki svipur hjá sjón. Hæsti gígurinn þar náði um 44 metra hæð yfir nánasta umhverfi.

Óbrinnishólar

Óbrinnishólar eru nú nánast óþekkjanlegri frá fyrri tíð vegna gífulegrar efnistöku.

Hraunflæðið hefur að mestu komið úr syðsta gígnum en þaðan hefur runnið fyrst í austurátt til Undirhlíða en svo hefur hraunflæðið beygt í norður, runnið langleiðina að Kaldárseli og svo í vestur í átt til sjávar þar sem það hefur líklega náð út í sjó. Er hraunið apalhraun að mestu leyti (Jón Jónsson, 1974). Hraunið er þó ekki á yfirborði við ströndina enda runnu Skúlatúnshraun og Kapelluhraun þar yfir um það bil 200 og 1340 árum síðar (Kristján Sæmundsson o.fl., 2010).

Jarðfræðikort

Jarðfræðikort – Óbrinnishólar; Jón Jónsson.

Fáar greinar eru tiltækar um Óbrinnishólabruna og styðjast þær sem til eru oftast við grein Jóns Jónssonar frá 1974, Óbrinnishóla.

Jón telur að tvö hraun hafi runnið frá Óbrinnishólum og að fyrra hraunið hafi þá runnið frá næst syðsta gígnum. Við könnun á hraunlögum undir og við hlið yngri Óbrinnishólabruna (hafi gosið tvisvar) fannst hraunlag sem er svo líkt Búrfellshrauni að varla má greina á milli þeirra. Telur Jón því að fyrra gosið í Óbrinnishólum hafi jafnvel orðið á sama tíma og gosið í Búrfelli (Jón Jónsson, 1974). Líkt og kemur fram í umfjöllun um Búrfellshraun hér á eftir er talið að hraun þetta sé jafnvel komið alla leið frá Búrfelli. Getur því verið að hraunið undir Óbrinnishólabruna því ekki bara líkt Búrfellshrauni heldur sé einfaldlega um sama hraun að ræða (Sigurður Steinþórsson, 2012).

Skúlatúnshraun (u.þ.b. 2.000 ár; Brennisteinsfjallakerfið)

Skúlatúnshraun

Skúlatúnshraun.

Skúlatúnshraun (Eldra Hellnahraun) og Tvíbollahraun (Yngra Hellnahraun) eru mjög lík í ásýndum og lengi hefur þótt erfitt að greina þau að. Líkt og áður hefur komið fram er Skúlatúnshraunið, líkt og Tvíbollahraunið, komið úr Brennisteinsfjallakerfinu og hefur það runnið svipaða leið til sjávar (Sigmundur Einarsson o.fl., 1991). Er hraunið komið suðaustan úr Stórabolla sem er, líkt og Tvíbollar, í Grindaskörðum. Breiddi hraunið mjög úr sér sunnan og austan við Helgafell og rann svo sömu leið og Tvíbollahraunið suður fyrir Helgafell, í norðvesturátt með Gvendarselshæð, vestur með Kaldárseli (falið undir neðra vinstra horni myndarinnar af byggðinni) og til sjávar í Hraunavík. Er hraunið nú undir nýrri hraunum að miklu leyti en kemur fram á nokkrum stöðum, til dæmis við Hvaleyrarvatn, Ástjörn og við sjóinn vestan Hvaleyrarholts (Haukur Jóhannesson & Sigmundur Einarsson, 1998; Kristján Sæmundsson o.fl., 2010).

Hellnahraun

Jarðfræðikort ÍSOR. Eldra Hellnahraun er merkt SKÚ (Skúlatúnshraun/Stórabollahraun).

Skúlatúnshraun hefur verið þunnfljótandi helluhraun og myndaði það ströndina milli Hvaleyrarhöfða og Álversins í Straumsvík en þar tók Kapelluhraunið við strandmynduninni síðar meir. Hefur Skúlatúnshraunið einnig runnið fyrir mynni kvosarinnar milli Vatnshlíðar og Selhöfða og myndað þannig Hvaleyrarvatn og einnig runnið fyrir mynni kvosarinnar milli Grísaness og Hvaleyrarholts og myndað þannig Ástjörn (Árni Hjartarson, 2010; Landmælingar Íslands, 2011; Haukur Jóhannesson & Sigmundur Einarsson, 1998). Nær Skúlatúnshraunið því yfir stærra svæði nærri byggð en Tvíbollahraunið.
Nokkrir gervígígar í Skúlatúnshrauni sýna hvar ströndin hefur legið þegar fyrri hraun runnu út í sjó. Þessir gervigígar eru taldir myndaðir eftir ísöld og eldri en hraunin í kring, þar með talin Skúlatúnshraun og Tvíbollahraun (Haukur Jóhannesson & Sigmundur Einarsson, 1998).

Litluborgir

Gervigígur í Skúlatúnshrauni.

Gervigígarnir eru til marks um að fyrir tíma Skúlatúnshrauns og Tvíbollahrauns hafa hraun runnið sömu leið til sjávar en líkt og sjá má í umfjöllun um gervigíga fyrr í ritgerðinni þeytast meðal annars upp hraun og setlög þegar þeir myndast. Er þetta ástæðan fyrir því að í fyrrnefndum gervigígum í Skúlatúnshrauni megi meðal annars finna skeljar í bland við klepra og gjall en skeljarnar hafa verið undan ströndinni sem hraunið rann yfir (Haukur Jóhannesson & Sigmundur Einarsson, 1998; Jón Jónsson, 1971).

Búrfellshraun ( 8.151 ár; Krýsuvíkurkerfið)

Búrfellshraun

Búrfellshraun – kort.

Búrfellshraun heita þau hraun sem runnið hafa niður í mið- og norðurhluta Hafnarfjarðar og suður af Garðarbæ fyrir rúmum 8.000 árum síðan (Kristján Sæmundsson o.fl., 2010). Nafnið er samheiti yfir nokkur hraun og má til dæmis nefna Hafnarfjarðarhraun, Garðahraun, Gálgahraun, Lækjarbotnahraun, Smyrlabúðarhraun, Gráhelluhraun og Urriðakotshraun en það síðastnefnda stíflar upp Urriðakotsvatn. Hraunin breiða úr sér alla leið norðvestur til sjávar í Hafnarfirði og Skerjafirði (Ingibjörg Kaldal, 2001) og þekja þau stór svæði sem nú eru undir byggð (Kristján Sæmundsson o.fl., 2010). Þess ber að geta að þegar hraunin runnu var sjávarstaðan mun lægri og því hafa hraunin að einhverju leyti myndað þá strandlínu sem nú afmarkar firðina. Hafa firðirnir tveir því væntanlega náð talsvert lengra inn í landið en þekkist nú (Guðmundur Kjartansson, 1973).
Búrfellshraun er talið hafa runnið úr einu og sama gosinu úr Búrfelli sem er um 7,5 kílómetrum suðaustur af miðbæ Hafnarfjarðar.

Búrfell

Gígur Búrfells.

Búrfell er kambur sem er samsettur úr hraunkleprum og gjalli utan um eldgíginn Búrfellsgíg en hann er um 140 metrar að þvermáli og um 26 til 58 metra djúpur. Þessi gígur er um margt frábrugðinn þeim gígum og gossprungum sem finna má á öðrum stöðum á Reykjanesi en hann virðist hafa verið eina virka eldvarpið á tiltölulega stóru svæði en oftast hafa gos byrjað á sprungum á skaganum og gígarnir raðað sér þéttar saman. Einnig liggur hann ekki í stefnu annarra sprungna á nesinu heldur er hann næstum því kringlóttur. Því liggur fyrir að Búrfell hefur einungis gosið einu sinni (Guðmundur Kjartansson, 1973).

Búrfellshraun

Búrfellshraun.

Fræðimenn greinir á um hvort Búrfell hafi verið eitt að verki í þessari goshrinu því fram hafa komið kenningar um að á sama tíma hafi hraun runnið úr Hraunhól allt norður til sjávar í Straumsvík eftir dældinni austan Hrútagjárdyngju (Haukur Jóhannesson & Sigmundur Einarsson, 1998). Hraunhóll er við suðvesturjaðar Kapelluhrauns (Kristján Sæmundsson o.fl., 2010) og því er stóran hluta hraunsins, sé þetta rétt, að finna undir Kapelluhrauni sem rann eftir sömu dæld.
Búrfellshraun er í stærra lagi sé miðað við nýlegri gos úr Krýsuvíkurkerfinu en rúmmál þess er um 0,36 km3 sé miðað við áætlaða 20 metra áætlaða meðalþykkt og það 18 km2 svæði sem hraunið þekur (Ingibjörg Kaldal, 2001). Hraunið rann að mestu leyti í tveimur meginkvíslum í norðvesturátt frá gígnum og rann önnur vestur af Kaldárseli en hin hjá Gjáarrétt. Vegna landslagsins norðaustan og austan gígsins rann hraunið nánast ekkert í þær áttir og komst það einnig skammt í suður- og suðausturátt en þó að rótum Húsafells, Valahnúka og Kaldárhnúka. Er suðurhraunið frekar lítið miðað við hin hraunin. Í vestri hverfur Búrfellshraun undir nýrri hraunlög um 1 til 2 kílómetrum frá upptökum í Búrfelli (Guðmundur Kjartansson, 1973).

Búrfellshraun

Búrfellshraun.

Að mati Árna Hjartarsonar hefur Búrfellshraun einnig runnið til sjávar í Straumsvík en hann telur að það hafi gerst á fyrstu stigum gossins og séu þau hraun nú grafin undir yngri hraunum. Aðeins er eftir smá hluti þess sem nefnist nú Selhraun. Næst hafi hraunið runnið til sjávar í Hafnarfirði yfir það svæði þar sem nú er Gráhelluhraun. Þar næst hafi hraunið runnið til sjávar í Skerjafirði, milli Álftaness og Arnarness, yfir það svæði þar sem nú eru meðal annars Urriðakotshraun, Vífilsstaðahraun og Gálgahraun. Að lokum hafi hraunið svo runnið til suðurs (Sigurður Steinþórsson, 2012). Er talið að hraunið hafi byrjað að renna til suðurs vegna þess að gat brast neðarlega á suðurvegg gígsins. Hrauntjörnin, sem fyllti áður gíginn, leitaði því út um þetta gat enda var það tugum metrum neðar en útfall hraunsins niður í hrauntröðina til norðvesturs. Vegna lækkunarinnar í tjörninni gat hraunið ekki runnið aftur í norðvesturátt (Guðmundur Kjartansson, 1973).

Búrfell

Búrfellsgjá.

Þegar hraunið rann allt til Skerjafjarðar myndaðist hrauntröðin sem nefnd var að ofan og liggur í norðvesturátt. Er þessi hrauntröð betur þekkt sem Búrfellsgjá og er hún um 3,5 kílómetrar að lengd. Er hrauntröðin nokkuð kröpp og U-laga næst upptökum í Búrfelli en þegar neðar dregur er hún grynnri og fyllt hrauni. Hrauntröðin hefur varðveist á svo stórum kafla vegna þess að hraunið hefur skyndilega hætt að renna um hana. Hefur hún þá tæmst nokkuð snögglega efst en neðar hefur hraunið setið eftir og storknað. Önnur hrauntröð myndaðist einnig fyrr í gosinu en hún stefnir í vesturátt frá Búrfelli og liggur nálægt Kaldárseli. Hefur hún fyllst af hrauni síðar í gosinu og því er lítið eftir af henni (Guðmundur Kjartansson, 1973).

Leitahraun (5.3165.316 ár; Brennisteinsfjallakerfið)

Leitarhraun

Leitarhraun.

Leitahraunið er upprunnið í dyngjugígnum Leiti sem er í miðjum austanverðum Bláfjallahryggnum og skammt vestan Syðri-Eldborgar (Kristján Sæmundsson o.fl., 2010; Jón Jónsson, 1971). Nær hraunið allt suður til Þorlákshafnar og norður til Elliðaárvogs í norðri (Kristján Sæmundsson, o.fl., 2010).
Lega Leitahraunsins í Elliðaárvogi merkir að það hafi runnið þangað um 28 kílómetra langa leið frá gígnum í Leitum. Hraunið er dæmigert helluhraun og hefur það verið mjög heitt, þunnfljótandi og runnið nánast eins og vatn. Dæmi sem styðja þá fullyrðingu má sjá á nokkrum stöðum en þar hefur hraunið fyllt hverja glufu í klettum sem það hefur runnið utan í. Má einnig sjá merki þess hversu þunnfljótandi hraunið hefur verið í því hversu þunnt það er sums staðar en á vissum stöðum getur þykktin verið einungis 0,6 til 0,75 metrar (Jón Jónsson, 1971).

Leitarhraun

Leitarhraun í Elliðaárdal.

Fulllangt yrði að fjalla ítarlega um alla þá leið sem Leitahraun hefur runnið til norðvesturs í átt að Reykjavík en í grófum dráttum hefur hraunið breitt úr sér á flatlendum svæðum, runnið í þröngum fossum og er sums staðar einungis nokkurra metra breitt þar sem hallinn er hvað mestur. Norðurjaðar hraunsins er skýr enda engin nýrri hraun sem runnið hafa að honum að norðan. Suðurjaðar hraunsins er aftur á móti óskýrari en ýmis nýrri hraun hafa runnið að honum að sunnan, til dæmis nokkur Hólmshraun. Gervígígaþyrpingar hafa myndast þar sem Leitahraunið rann yfir votlendi og af þeim má til dæmis nefna Tröllabörn vestan við Lækjarbotna og Rauðhóla austan við Elliðavatn (Jón Jónsson, 1971).“

Heimild:
-Daníel Páll Jónasson, 2012 -Hraunflæði á höfuðborgarsvæðinu: Saga hraunflæðis á svæðinu á nútíma og kortlagning mögulegra farvega til byggða – lokaritgerð í HÍ.
-http://hdl.handle.net/1946/11887

Nútímahraun

Nútímahraun.

K-9

Í Örnefnalýsingum er sagt frá vatnsstæði á Vatnsheiði.

Hraunkotsgata

Hraun – Hraunkotsgata. Siglubergsháls fjær t.h.

Ætlunin var að ganga frá Hrauni um Siglubergsháls, að Móklettum, landamerkjum Hrauns og Ísólfsskála, niður með Hrafnshlíð, með gígtoppunum þremur er mynda Vatnsheiðina, Vatnsheiðahnúkana, vestan Fiskidalsfjalls og Húsafjalls og skyggnast eftir vatnsstæðinu. Jafnframt að líta eftir hugsanlegum götum að austan, ofan við Siglubergsháls og fellin til Grindavíkur (inn á Skógfellaveginn). Þá var líka ætlunin að kíkja á K9 í leiðinni, “Tyrkjahellinn” svonefnda undir Húsafjalli, á krossrefagildruna ofan við Sandleyni og í Guðbjargarhelli ofan við Hraun.

Sigurður Gíslason

Sigurður Gíslason við hrossabyrgi við Húsfell.

Byrjað var á því að taka hús á Sigurði Gíslasyni á Hrauni. Hann var spurður um það hvort draumur eins FERLIRsfélagans um helli í túninu á Hrauni gæti átt við rök að styðjast. Siggi kvað það svo sem líklegt. Vestan í túninu væri hellir, að vísu lítill, en hann hefði sett lok yfir gatið því tvö lömb frá honum hefðu ratað niður í hann, en ekki komist upp aftur. Vísaði hann á hellisopið. Þegar lokið var fjarlægt sáust bein lambanna þar niður í. Sagði Siggi að hægt væri að skríða þarna inn undir hraunið, en rásin væri lág og erfið. Nokkrir litlir skútar væru og í túninu á Hrauni þar sem lágin mætti hraunkantinum.

Vatnagarður

Vatnagarður.

Sunnar á túninu eru miklar tóftir. Þær munu vera af háleigunni Vatnagarði, sem hafi verið í byggð a.m.k. árið 1703. Þá hefði búið þar ekkja, Drysíana Eyjólfsdóttir að nafni ásamt fimm börnum sínum. Konan leigði þá Hraunsbónda slægjuna, en líklega hafi verið um tómthús að ræða. Ekki er útilokð að bóndi Drysíönu hafi drukknað í róðri eins og svo títt var með útvegsbændur í þá daga. Sex nautgripir hefðu þó verið á fóðrum í Vatnagarði. Bakki hafi verið bær ofan við Hraun, skammt utan við túngarðinn. Þar má enn sjá tóftir. Þriðja hjáleigan á Hrauni hét Garðhús, en hún stóð einungis í skamman tíma. Hraunið vestan við bæinn heitir Slokahraun. Þar eru enn óraskaðir fjölmargir þurrkgarðar frá fyrri tíð. Girðing var ekki fyrir löngu sett upp niður í hraunið og var þá einhverjum garðanna rutt um koll. – því miður.

Hraun

Hraun – Gamli brunnur.

Skoðaður var brunnurinn sunnan Hrauns. Stór hella er yfir brunninum, en annars er hann fallega hlaðinn niður. Þá var litið á “skírnarforntinn”, sem kom upp nýlega við hrólf í tóft austan við bæinn. Þar segir sagan að hafi verið kirkja eða bænahús forðum. Steinninn gæti einnig hafa verið signingasteinn í kaþólsku, líkt og utan við kirkjuna á Kálfatjörn, eða hreinlega verið notaður undir stoð í húsinu, sem þar stóð. Síðastnefnda skýringin er jafnframt sú liklegasta. Steinninn er mjög líkur stoðsteininum í gamla bænum í Herdísarvík nema hvað innnmálið á þessum er margfalt stærra. Kirkja var á Hrauni allt fram yfir 1600, jafnvel frá a.m.k. 1397, og gæti það skýrt að nokkru tilurð steinsins.

Hraun

Hraun – tóft við garðinn.

Gengið var austur með ströndinni ofan við Hraunsvík. Utan girðingar, sjávarmegin, er heilleg tóft. Ströndin hefur breyst mikið þarna á tiltölulega skömmum tíma. Áður náði hún mun lengra út líkt og annars staðar með ströndum Reykjanesskagans. Enn mótar fyrir miklum görðum við Hraun. Bóndinn þar, Jón Jónsson, fékk m.a. Dannebrogsorðuna fyrir garðhleðslu á þeim tímum er konungur vildi hvetja bændur til garð- og vegghleðslu, ræktunar og uppbyggingar á bæjum sínum.
Skyggnst var eftir Gamlabrunni á grónum sandflötum austan Hrauns. Hann fannst eftir stutta leit. Um er að ræða fallega hlaðinn brunn, en nú er að mestu gróið yfir hann og sandur fyllt hann að nokkru. Vel sést þó móta fyrir hleðslunum. Í þennan brunn sóttu Þorkötlustaðabúar vatn áður fyrr, ef þurfa þótti.

Hrólfsvík

Hrólfsvík.

Í Hraunsvíkinni eru hnyðlingar, en slíkir eru brot úr framandbergi sem berst upp með kvikunni og því ekki eiginleg gosefni. Brotin eru líklegast úr gígrásinni eða úr þaki kvikuþróarinnar. Oft eru slík brot úr grófkornóttu djúpbergi og skera sig því greinilega úr fín- eða dulkornóttum bergmassa hraunsins. Þetta sést vel í Hrólfsvíkinni. Hnyðlingarnir þeytast oft hátt upp úr gígnum og lenda síðan hjúpaðir storku kvikunnar. Slíkir hnyðlingar eru algengir umhverfis sprengigíginn Grænavatn við sunnanvert Kleifarvatn í Krýsuvík.

Hraun

Kapellutóft í Kapellulág austan við Hraun.

Skálavegur

Gamli vegurinn að Skála um Siglubergsháls – nú horfinn vegna framkvæmda.

Gengið var upp Kapellulágina og upp að kapellunni. Við hana er merki um friðlýstar minjar. Annars er járnadrasl þar í varpanum sem og all í kring. Kristján Eldjárn og fleiri grófu upp kapelluna á sjötta áratug síðustu aldar og fundu í henni bæði muni og minjar. Hún var síðan verpt sandi. Talið er að þarna hafi verið kapella eða bænahús frá því á 14. öld. Gera þarf vegsemd hennar meir en nú er. Segir sagan og að á þriðja tug manna hafi verið grafnir í Kapelluláginni sunnan undir kapellunni. Aðrar heimildir segja að það hafi verið við bænahúsið á Hrauni. Í annálum 1602 (Fitjaannáli) segir m.a.: „Þá drukknuðu ástóra farmaskipi Skálholtsstaðar 24 manneskjur með einni stúlku, fyrir framan Þorkötlustaðií Grindavík… og voru þeir flestir jarðaðir í bænhúsinu í Grindavík á Hrauni.
Skammt austan kapellunnar, vestan þjóðvegarins, sést enn gamla Ísólfsskálagatan áleiðis upp á Siglubergsháls. Húsafjall er þá á vinstri hönd, aftar, og Fiskidalsfjall. Í því er áberandi gil er nefnist Skökugil.

Festarfjall

Festarfjall og Hraunsvík.

Á hægri hönd var Festarfjall. Þjóðsagan segir að neðan undir felli þessu sé hátt blágrýtisstandberg og ægisandur undir sem ganga má þurrum fótum með lágum sjó. Frá Hrauni blasir við í miðju berginu grá rák sem gengur þráðbeint upp í gegnum bergið og nefnist Festin. Sagan segir að rák þessi sé silfurfesti sem tröllkona ein hafi einhvern tíma í fyrndinni hengt fram af berginu með þeim ummælum að þá er dóttir bóndans á Hrauni, sú sem bæri nafn hennar, gengi þar neðan undir þá skyldi festin detta niður og verða eign stúlkunnar. Því miður lét tröllkonan ekki nafns síns getið svo að ekki hefir verið auðvelt að láta heita eftir henni, enda hangir festin óhreyfð enn í dag.

Siglubergsháls

Gamli vegurinn um Siglubergsháls.

Götunni var fylgt þangað til nýi vegurinn fór yfir hana upp hálsinn um Skökugil. Uppi á hálsinum, vinstra megin við veginn, sést gamla gatan enn og var henni fylgt áfram upp, yfir nýja þjóðveginn og upp á þann gamla er liggur fast upp með Festarfjallinu. Hann liggur svo beint niður að Móklettum, vestanverðum. Af Siglubergshálsi er fallegt útsýni yfir Hrólfsvíkina og Hraunsvíkina sem og yfir Þorkötlustaðahverfið.

Í austanverðum Móklettum eru höggvin landamerki Ísólfsskála og Hrauns. Sjá má þar ártalið 1890 og merkið V undir því.

Móklettar

Móklettar – áletrun (landamerki).

Haldið var norður með austanverðum Móklettum og beygt til vesturs yfir Bleikshól (-háls). Framundan voru fallegar brekkur og nokkuð há hlíð á vinstri hönd. Nefnist hún Hrafnshlíð.
Neðan við hana voru fallegar hraunkúlur. Þegar kvikuflygsur þeytast hátt í loft upp snúast þær jafnframt um sjálfar sig þannig að þær verða kúlulaga. Á fluginu storknar yfirborð þeirra en kjarninn helst oft bráðinn, einkum hjá þeim stærri, uns þær lenda og fletjast út eða splundrast. Slíkar hraunkúlur eru ávallt með glerjuðu yfirborði en blöðróttar að innan og oft mótar fyrir stuðlun út frá miðju. Þessar hraunkúlur og brot úr þeim má mjög oft sjá í rofnu móbergi t.d. í Sveifluhálsi. Þarna var talsvert á þeim og sjaldan hafa þær sést fallegri.

Vatnshæð

Vatnsstæði á Vatnsheiði.

Vesturhlíð Fiskidalsfjalls var fylgt til suðurs. Á hægri hönd var Beinvörðuhraun. Mátti sjá vesturhlið Fagradalsfjalls (Borgafell, Einbúa, Görnina og Kastið), Sundhnúkagígaröðina, Sundhnúka, Svartsengisfjall og Hagafell. Framundan blöstu tvær dyngjur Vatnsheiðarinnar við. Þegar komið var á móts við Svartakrók við Fiskidalsfjall var stefnan tekin á hálsinn vestan við fjallið. Þar í lægð birtist hið ágætasta vatnsstæði. Að vísu hefur landi verið raskað þarna með efnistöku, en vatnsstæðið hefur fengið að vera í friði. Líklegt má telja að þarna hafi myndast góð tjörn á vorin eftir leysingar í hárri fjallshlíðinni og af heiðinni. Hefur vatnið að öllum líkindum dugað fram eftir sumri.

Vatnsheiði

Í Vatnsheiði.

Gangan með vestanverðu Fiskidalsfjalli er mjög auðveld. Reykjavegurinn liggur þar um.
Stefnan var tekin á syðstu dyngjuna á Vatnsheiðinni. Uppi í henni er stór gat, u.þ.b. 20 metra djúpt. Myndaðist það er Catepillar jarðýtu var ekið þar um fyrir nokkrum árum. Hrundi undan ýtunni, en stjórnandunum tókst að koma henni frá án skaða.
Gengið var niður að vesturöxl Húsafjalls og kíkt þar á op “Tyrkjahellisins” svonefnda, en sagnir segja að í hann hafi austanverðir Grindvíkingar ætlað að flýja ef Tyrkir létu sjá sig á ný við Grindavík. Norðurjarðri hraunsins var fylgt til suðurs vestan hæðarinnar og gengið að krossrefagildru þar í hrauninu skammt ofan við Sandleyni. Enn má sjá þrjá arma gildrunar heila. Þetta hefur verið mikil smíð á sínum tíma og væntanlega þjónað sínum tilgangi.

Hraun

Hraun – refagildra.

Skammt sunnar eru leifar af annarri refagildru, minni. Enn sunnar, skammt ofan við þjóðveginn við Hraun er hlaðin dys á hól. Segir sagan að þar hafi Tyrkir þeir tveir, er Rauðka drengsins frá Skála, hafi gefið undir sinnhvorn og drepið er þeir sóttu að honum.
Kíkt var á op Guðbjargarhellis ofan við Hraun. Þar á samnefnd kona frá Hrauni að hafa flúið er hún vildi fá að vera í friði fyrir öðrum. Opið er skammt ofan við garðana ofan við þjóðveginn.
Frábært veður – gangan tók 4 klst og 4 mín.

K-9

Op K-9.

Tyrkjahellir

Heimamönnum var mætt við sundlaugina og gengið þaðan undir leiðsögn þeirra austur með Stamphólsgjá.

Grindavíkurhellir

Grindavíkurhellir.

Að sögn Erlings Einarssonar mun gjáin áður fyrr hafa náð svo til upp í gegnum Járngerðarstaðahverfið. Hún hafi verið fyllt meira og minna, enda komin undir íbúðarbyggð, en áður fyrr hafi hún verið með þaki hluta leiðarinnar. Í botni gjárinnar hafi verið vatn á köflum. Skoðað var gat efst í gjánni. Þar niðri er hægt að komast niður í hana og eftir henni, bæði til vesturs og austurs. Ekki er ólíklegt að ætla að Grindavíkurhellir hafi verið í Stamhólsgjá, jafnvel þarna sem gatið er núna. Það verður kannað betur síðar. Tiltölulega auðvelt er að komast þarna niður með aðstoð bands, en rusl hefur safnast fyrir á botninum og við opið.

Frá gjánni var gengið upp á Hópsheiðina eftir hluta Skipsstígs, sem leggur frá Njarðvíkum til Grindavíkur. Þarna er leiðin austur að Þórkötlustöðum. Tvær fallnar vörður á er á þessum kafla, austan og ofan við íþróttasvæðið.

Stamphólsgjá

Grindavíkurhellir í Stamphólsgjá.

Skammt sunnar kemur stígurinn inn á Skógfellaveginn, sem liggur að Vogum. Honum var fylgt spölkorn til norðurs og síðan beygt af honum til austurs að Hópsvörðunni, stóra og mikla vörðu efst á heiðinni. Hún hefur augsýnilega verið mið inn í Hópið því hún er í beina línu við Hópsvörðurnar austan og suðaustan við Hóp. Haldið var áfram upp á Vatnsheiði. Á heiðinni eru a.m.k. þrjár hæðir (dyngjur). Úr þeim rann hraunið, sem myndaði Hópsnesið og Þórkötlustaðanesið auk hraunanna austan Grindavíkur. Uppi á syðstu hæðinni er gat ofan í jörðina, um 12 metra djúpt. Það varð til er Catepillar 9 jarðýtu var ekið þarna vestur yfir hæðina. Ökumaðurinn fann að hún var farin að síga ískyggilega að aftan svo hann jók hraðann. Fyrir aftan jarðýtuna myndaðist gatið. Þarna er nú gjallgígop, nefnt Nían eða K-9. Niður í gígnum má sjá hraunrás liggja úr honum til vesturs.

Tyrkjahellir

Í Tyrkjahelli (á Efri-hellu).

Austan í hæðinni var leitað að kvarnarsteini, sem þar átti að vera. Grindvíkingar munu hafa hoggið sína kvarnasteina þarna áður fyrr, en brotnað hafði úr þessum þegar verið var að gera miðjugatið. Brotið fannst, en ekki það sem eftir var af steininum.
Þá var haldið niður að Húshelli vestan Húsafjalls. Erfitt er að finna opið á hellinum, enda ætluðu Grindvíkingar að flýja þangað ef Tyrkirnir létu sjá sig á ný í þorpinu. Eftir það mun hellirinn fallið í gleymsku og týnst. Norðaustan við opið er hlaðið byrgi. Hægt er að ganga í gegnum hellinn, þ.e. fara ofan í hann á einum stað og upp úr honum á öðrum. Hellirinn er u.þ.b. 30 metra langur. Hann er ekki hár, en í honum hafa verið pláss fyrir mörg bæli. Sandur hefur fokið niður í hellinn, en talsvert landrof er allt í kring.

Hraun

Refagildra við Hraun. Sigurður Gíslason vísaði FERLIRsfélög á gildruna.

Haldið var niður í hraunið vestan Hrauns. Þar, skammt ofan Sanddals, er all sérstök refagildra, hlaðin krossgildra, þ.e. með fjórum inngöngum. Sigurður Gíslason á Hrauni sýndi FERLIR gildru þessa fyrir nokkrum misserum síðan. Þegar gengið var niður Sanddalinn rak einn þátttakenda augun í gamla hleðslu. Við nánari skoðun reyndist það vera gömul refagildra, sú 23. sem FERLIR skoðar á Reykjanesi. Haldið var yfir í gömlu garðana vestan Hrauns með viðkomu í Guðbjargarhelli. Í hann flýði Guðbjörg á Hrauni jafnan fyrr á öldum er hún vildi fá að vera í friði. Erfitt er að finna hellinn, en Sigurður Gíslason hafði áður sýnt FERLIR hann eftir nokkra leit á sínum tíma. Nú var hægt að ganga að opi hans vísu.

Sloki

Fiskgarðar í Slokahrauni.

Tekið var hús á Sigurði og síðan gengið þaðan með ströndinni yfir í Slokahraun. Í hrauninu eru langir herðslugarðar og heilleg fiskibyrgi, líkt og á Selatöngum og austan við Ísólfsskála. Litið var á Sögurnarhól, en á honum var rekaviður sagaður fyrrum. Þaðan var haldið yfir að Hraunkoti, fallegu bæjarstæði austast í Þórkötlustaðahverfi. Mjög vel hlaðin heimtröð ásamt verklegum hleðslum eru þar allt í kring. Gömlu steingarðanir standa enn.
Tekið var hús á Stakkavíkurfólkinu í Buðlungu og Buðlunguvörin síðan skoðuð. Þá var leitað að dys Þórkötlu, en sagan segir að hún hafi mælt svo fyrir að hún yrði dysjuð þar sem hún sæi út yfir Þórkötlustaðarbótina. Ólafur Gamalíasson vísaði hópnum á dysina, en hún er í túninu austan við Hof.
Frábært veður.

Tyrkjahellir

Op Tyrkjahellis ofan Hrauns.

Slok

Slokahraun er angi af Sundhnúkahrauni sem rann úr gígaröð ofan Grindavíkur . Önnur nafngreind hraun í sama gosi eru Blettahraun og Klifhólahraun.
Slokanafninu hefur jafnan verið gefinn sá hluti hraunsins, sem rann Slokitil suðausturs niður sunnanverða Hópsheiðina og í sjó fram austan Þórkötlustaða.  Sundvörðugígagosið er talið hafa myndast fyrir um 2400 árum, eða hálfu fyrr en fyrstu lndnámsmennirnir voru að tygja sig til landsins. Þá myndaðist Þórkötlustaðaneið sem og hafnarlagið umhverfis Hópið. Í dag er Slokahraunið mosavaxið með graslænum á millum. Neðst í því eru miklir fiskgarðar frá útgerðinni fyrr á öldum, svonefndir Hraungarðar frá Hrauni og Slokagarðar frá Þórkötlustöðum. Þessara garða er ekki getið í örnefnaskrám.

Slokahraun

Slokahraun – fiskgarðar.

Í örnefnalýsingu Lofts Jónssonar fyrir svæðið segir m.a.: „Austast á merkjum móti Hrauni, niður við sjóinn, er bás inn í klettana, og heitir hann Markabás. Utar er tangi fram í sjóinn, sem heitir Slok, og upp af honum er hraunspildan nefnd Slokahraun. Upp af Markabás er hóll milli bæjanna, Markhóll. Er hann upphlaðinn þar á hryggnum, sem nefndur er Leiti.“ Vestur frá Markabás eru smáhvilftir og kvosir með sjó, sem heita einu nafni Básar. Ná þeir vestur að svonefndri Stóruklöpp. Vestan hennar er aðallendingin, sem nefnd er Buðlungavör. Sunnan þessara boða og víkin öll er nefnd Þorkötlustaðabót, en Þorkötlustaðasund er sunnan boðanna.
SlokiKlofi út í Svalbarða skiptir reka og þangfjöru á milli Buðlungu og Þórkötlustaða. Fyrir ofan Buðlunguvör er slétt klöpp kölluð Skiptivöllur. Þaravaxin klöpp vestan og utan við vörina er kölluð Þangklöpp. Austan við vörina er Stóraklöpp og þar fram af er Vararsker. Það kemur upp á stórstreymisfjöru. Norðaustan við vörina er túnið í Buðlungu og kallað Buðlungudalur. Í suðvesturhorni þess er sundvarða og átti hún að bera í þríhyrnu á svonefndri Brunnskák þegar róið var inn sundið.

SlokiAustur af Stóruklöpp eru básar; Vestastibás, Þvottabás, Miðbás og Malarbás. Síðan taka við Slok og er austast Slokatá. Slokin draga nafn af áberandi soghljóði, sérstaklega undir austanátt.
Vestan Slokatáarinnar er Lágafjara og síðan Vestrimölin og þar ofan kampsins er Klapparmói. Eystrimöl er neðan við kampinn að austan, ofan við Slokatá. Upp af Slokatánni ofan kampsins eru Hrossbeinalágar, nú komnar að mestu undir kampinn. Austan á Slokunum er bás sem heitir Markabás. Hann skiptir löndum og reka á milli Hrauns og Þórkötlustaða. Upp af honum ofan kamps er hraunhóll með grasþúfu í toppinn. Hann heitir Markhóll.
SlokiRandeiðarstígur er gata á milli Hrauns og Þórkötlustaða og var hann farinn áður fyrr er aðalumferðargatan lá fyrir neðan Þórkötlustaði og var þar komið á Eyrargötuna. Eystraleiti (í daglegu tali nefnt Leiti) er smábunga á milli bæjanna. Vestraleiti er aftur önnur bunga í vestur þar sem skiptast lönd Þórkötlustaða og Hóps. Vestan undir há-Leiti er Kúakrókur, nú tún.
Ofan við byggðina er geil í hraunið og byrjar þar gamli vegurinn frá Þórkötlustöðum til Voga og Hafnarfjarðar. Þar heitir Leynir (Þórkötlustaðaleynir til aðgreiningar frá Hraunsleyni) og nær hann inn á móts við Vatnsheiði. Gatan liggur samhliða hraunrima. Efst í Leyninum og austan við götuna er grasivaxinn hóll með hraunklöppum umhverfis og heitir hann Grenhóll. Norð-norðvestan við Grenhól við götuna er skjólsamt fyrir sauðfé og heitir þar Skítastaður.

Sloki

Sloki – uppdráttur ÓSÁ.

Slokahraun rann í mjórri ræmu til suðsuðausturs frá gígunum sunnan Sundhnúks, milli Vatnsheiðar og Hópsheiðar. Getið er um Slok í tveimur örnefnaskrám Þórkötlustaða í Grindavík:  „Utar er tangi fram í sjóinn, sem heitir Slok, og upp af honum er hraunspildan nefnd Slokahraun“ og „síðan taka við Slok og er austast Slokatá. Slokin draga nafn af áberandi soghljóði, sérstaklega undir austanátt.“ Innfæddir Grindvíkingar austanverðir þekkja hljóðið. Þegar aldan skellur undir hraunhellunni slokrar í henni svo um munar.

Slokahraun

Slokahraun – minjar; uppdráttur ÓSÁ.

Að austanverðu eru mörk hraunsins við ströndina við vesturtúngarðinn á Hrauni. Garðurinn liggur uppi á hraunbrúninni, sem nú er gróin að innanverðu. Sigurður Gíslason, bóndi á Hrauni, sagði hraunið, séð frá bænum, jafnan hafa verið nefnt Hraunið. Um það hefðu legið þrjár götur fyrrum, áður en akvegirnir voru lagðir yfir það, fyrst með ströndinni og síðar um Tíðarhliðið á norðvestanverðum túngarðinum. Enn mótar fyrir síðarnefnda veginum, bæði innan garðs og utan. Hann lá yfir að Hvammi og þar áfram til vesturs. Sjást leifar hans bæði austan við Hvamm og vestan við Efra-Land. Um hinar göturnar þrjár verður nánar fjallað um hér á eftir. Þeirra er hvorki getið í örnefnalýsingum né fornleifaskráningarskýrslum.

Í Sögu Grindavíkur segir að Slokin séu “austan við Buðlungavör; út af þeim samnefndur skerjatangi, sem gengur vestur og út í Þórkötlustaðavík, og er sundið inn í víkina á milli þessara tanga og þeirra, sem liggja út frá Leiftrunarhól [á Þórkötlustaðanesi].

Sloki

Slokahraun – örnefni.

Þarna á Slokunum er álitið að eitt af stóru slysunum hafi orðið. Það var nóttina áður en mb. Aldan frá Vestmannaeyjum rak upp í Nesið að vestanverðu… að annan vélbát frá Vestamannaeyjum, Þuríði formann, sem einnig varð fyrir vélarbilun í sama veðrinu, rak þar upp. En þar tóku höfuðskepnurnar öðru vísi á hlutunum. Þegar fólk kom á fætur á Þórkötlustöðum, varð það vart við óeðlilega mikið brak í fjörunni, og þótt allt væri mjög maskað niður, sást þó, að þarna hafði Þuríði formann rekið upp og hún farizt með allri áhöfn.

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi. Slokahraun er h.m. fyrir miðri mynd.

Hinn 8. desember 1923 gerðist það í austan veðri og snjókomu, að þýskur togari strandaði einhvers staðar hjá Grindavík, að því er skipstjórinn hélt. Togarinn losnaði sjálfur fljótlega úr strandinu, en hafi laskazt svo mikið, að hann fór fljótlega að síga niður og sökk svo eftir lítinn tíma. Áhöfnin komst í björgunarbátinn og hélt síðan undan sjó og vindi, þar til þá allt í einu bar að landi og upp í stórgrýtiskamp. Mennirnir komust allir ómeiddir í land…
Skiptar eru skoðanir manna um, hvar togari þessi hafi strandað, en Þórkötlustaðamenn töldu, að eftir strand þetta hafi komið festa á veiðarfæri þeirra, sem ekki hafði verið þar áður, á leirbotni skammt út af víkinni, og veiðarfærin oft ryðlituð, er þau komu upp. Því er gizkað á, að togarinn hafi lent annaðhvort á Slokunum eða nálægt Leiftrunarhól, þ.e. öðru hvoru megin við Þórkötlustaðavíkina.”

Þórkötlustaðagata

Þórkötlustaðagata.

Vertíðir settu löngum svip á atvinnulífið í Grindavík. Tvær verbúðir voru um tíma í Þórkötlustaðalandi, ein á Ísólfsskála og fleiri í Járngerðarstaðalandi. Hraunsmenn gerðu út á Þórkötlustaðanesi og gengu á milli. Þá var Eyrargatan jafnan farin, en hún lá með ströndinni, í gegnum Slokahraun framhjá Sögunarhól og eftir fjörunni neðan við Klöpp, Buðlungu og Þórkötlustaði. Ströndin var þá sandfjara líkt og enn má sjá að hluta innst í Bótinni. Sandurinn náði dágóðan spöl út. Þar voru góðar lendingar fyrrnefndra bæja. Vestan Þórkötlustaða, þar sem nú er Sólbakki, kom gatan upp á bakkann við bæ, sem hét Skarð og þar var. Síðan liðaðist hún ofan strandarinnar, yfir Kónga og að naustunum vestan þeirra. Eyrargatan sést enn í hrauninu innan landamerkja Þórkötlustaðahverfis. Austar hefur sjórinn kastað grjóti yfir hana, auk þess sem vegur var lagður að hluta til yfir hana. Nánar er sagt frá Eyrargötunni annars staðar á vefsíðunni.

Hrauntúnsgata

Hrauntúnsgata.

Önnur gatan hét Hrauntúnsgata. Hún lá upp frá austanverðri hraunbrúninni, í gegnum túngarðinn á Hrauni og svo til beina stefnu yfir það til vesturs, að Hraunkoti, sem var austast bæja (kota) í Þórkötlustaðahverfi. Stór gróinn hraunklettur er norðan götunnar skammt frá Hraunstúngarðinum. Þessi gata sést enn mjög vel, enda gróin. Sigurður sagði það varla geta talist undarlegt því þessa götu hefðu vermennirnir gengið til baka með fiskinn á bakinu. Áburðurinn hafi því verið ágætur og nyti gatan góðs af því enn í dag.
Þriðja gatan, sem enn sést, er Þórkötlustaðagata. Hún liggur, líkt og Hrauntúnsgatan, í gegnum hlaðinn túngarðinn á Hrauni, um hlið þar sem sem garðurinn myndar 90° horn. Gatan, sem er sú nyrsta þeirra þriggja, liggur nú um gróið hraunið, en hinar fyrrnefndu liggja enn um úfið mosavaxið apalhraunið. Lítill hraunhóll er norðan götunnar.
Frá Slokahraunhonum beygir gatan lítillega í átt að norðurtúngarðshorni Hraunkots. Þar lá hún samhliða garðinum með svo til beina stefnu á Þórkötlustaði. Enn sést móta fyrir honum á sléttuðu túninu sem þar tekur nú við.
Þegar bátar komu úr róðri var aflinn færður á skiptivöll, þar sem skipt var í hluti. [Einn slíkan má enn sjá neðan við Klöpp]. Því næst var gert að, á skiptivellinum ef aðstæður þar leyfðu, annars á öðrum hentugum stað. Í Grindavík mun víðast hafa verið gert að á skiptivelli. Á vetrarvertíð, þegar ekki var þerrisvon, var fiskurinn lagður í kös, eða kasaður sem kallað var. Það var gert eftir sérstökum reglum. Fiskurinn var lagður þannig í kösina, að dálkurinn sneri niður, svo að blóð sem síga kynni úr honum færi síður í hinn helminginn; fiskurinn var kýttur, en það var gert með því móti að beygja hann saman í hnakkann, svo að fiskurinn fyrir framan dálk myndaði ¼ úr hring.

Slokahraun

Slokahraun – Slokagarðar.

Næsta lag var svo sett ofan á það, sem fyrir var, þannig að hnakkinn af þeim fiski læki móts við gotraufina á þeim, sem undir var, og með sama hætti koll af kolli. Helzt þurfti kösin að vera á sléttum halla, svo að ekki sæti vatn í henni. Að lokum myndaðist hringur og komu sporðar allra neðstu fiskanna saman. Kösin stóð misjafnlega lengi, stundum svo vikum skipti, þar sem sjaldnast viðraði vel fyrr en undir vor. Í frosti skemmdist kasarfiskurinn ekki að ráði, en ef skiptist á vætutíð og frost vildi hann vera maltur, jafnvel grútmaltur.

Þegar komið var fram á vor og veður fór batnandi, var fiskurinn tekinn úr kösinni og byrjað að þurrka hann. Fyrst var hann þveginn og himnudreginn, en síðan breiddur á garða, möl eða grjótghryggi, og var roðinu snúið niður á daginn en upp á nóttunni. Á meðan á þurrkuninni stóð, var fiskinum snúið hvað eftir annað, en er hann þótti orðinn hæfilega þurr, var honum hlaðið í stakka og þeir fergðir, svo að sléttaðist úr fiskinum.

Garðar

Þegar þurrkur var, var fiskurinn síðan breiddur úr stökkunum, uns hann var orðinn sprekaður, en þá þótti loks fært að vigta hann og flytja.
Nokkur tími gat jafnan liðið frá því fiskur var fullþurrkaður og þar til hægt var að flytja hann, og reið þá á miklu í stórum verstöðvum, þar sem margir gerðu út, að ekki ruglaðist fiskurinn. Af þeim sökum höfðu menn sérstök fiskmerki, og umsvifamiklir aðilar höfðu sérstakt brennimark.
Á meðan fiskurinn beið flutnings, var hann tíðast geymdur í fiskbyrgjum. Þau voru hlaðin úr grjóti, strýtu- eða stróklaga, en þannig var best að verja fiskinn gegn vætu. Á sumum jörðum í Grindavík munu einnig hafa verið sérstök fiskgeymsluhús, en ekki er ljóst hvernig þau voru byggð. Frá Markhóll17. öld eru heimildir um slík hús frá Hópi, sem voru í eigu Skálholtsstaðar. Þá var hús á Þórkötlustöðum, sem gekk undir nafninu “staðarhúsið”, og var það sýnilega fiskgeymsluhús í eigu Skálholtsstóls. Hugmyndir eru uppi um að einu fiskgeymsluhúsin, sem varðveist hafa í Grindavík, megi finna undir rótum Sundvörðuhrauns, svonefnd “tyrkjabyrgi”. Fleiri slík byrgi má finna í upplandi bæjarins, ósnert með öllu. Staðsetning kemur vel heim og saman við heimildir þess efnis að annar aðalútflutningsstaður Grindvíkinga um tíma var frá Básendum.

Sloki

Fiskgarðar í Slokahrauni – Slokagarðar.

Að sögn Sigurðar Gíslasonar eru greinast Leitin í Fremra-Leiti og Efra-Leiti. Hið síðarnefnda er þar sem akvegurinn fer yfir milli Hrauns og Þórkötlustaðahverfis, en hið fyrrnefnda er þar
sem Þórkötlustaðagatan fer yfir Slokahraunið.

Sloki

Slokahraun – Randeiðarstígur.

Garðanna í Slokahrauni er getið í „Fornleifaskráning í Grindavík 2. áfangi“ frá árinu 2002. Þar segir: „“Herslugarður“ – Slokahraun er á merkjum Þórkötlustaðahverfis og Hrauns, þar eru leifar fiskgarða. Ef gengið er austur með sjávarkampinum frá Þórkötlustöðum í átt að Hrauni er komið í Slokahraun fast austan við túngarðinn. Slokahraun er mosagróið apalhraun og liggja
landamerkin um mitt hraunið. Garðarnir eru hlaðnir úr hraungrýti og liggja þvers og kruss um hraunið án þess að mynda ákveðið munstur. Þeir eru mosagrónir en misvel standandi, hleðsluhæðin er milli 0,5-1 m. Umför eru allt að tíu. Garðarnir teygja sig allt austur fyrir Markhól, en eru þá í Hraunslandi. Svæðið er um 100×100 m.“
Fornleifanna í Slokahrauni er hnins vegar ekki getið í skráningunni „Fornleifar í Þórkötlustaðahverfi – verndarsvæði í byggð“ frá árinu 2018.

Frábært veður. Gangan tók 1. klst og 11 mín.

Heimildir m.a.:
-Sigurður Gíslason, bóndi á Hrauni.
-Örnefnaskrá Þórkötlustaða.
-Örnefnaskrá Hrauns.
-Saga Grindavíkur. J.Þ.Þ 1994.
-Sigurður Gíslason, bóndi á Hrauni.
-Örnefnaskrá Þórkötlustaða.
-Örnefnaskrá Hrauns.
-Saga Grindavíkur. J.Þ.Þ 1994.
-Fornleifaskráning í Grindavík 2. áfangi, Þóra Pétursdóttir, Reykjavík 2002.
-Fornleifar í Þórkötlustaðahverfi – verndarsvæði í byggð, Reykjavík 2018.

Sloki

Fiskgarðar á Sloka – Hraungarðar.

Grindavík

Jón Jónsson, jarðfræðingur, fjallaði í Náttúrufræðingnum 1974 um „Sundhnúkahraun við Grindavík„:

Jarðfræðikort

Jarðfræðikort af Reykjanesskaga – Jón Jónsson.

Á Reykjanesskaga er mikill fjöldi eldstöðva og hrauna. Mörg þeirra hafa ekki nafn, svo vitað sé. Vafalaust hafa ýms örnefni fallið í gleymsku hin síðari ár og önnur brenglazt. Hraun eru allt umhverfis Grindavík, þorpið stendur á hrauni og á beinlínis hrauni tilveru sína að þakka. Hraunin hafa orðið til á alllöngum tíma. Elst eru dyngjurnar, s.s. Sandfellshæð, Lágafell, Vatnsheiði, Lyngfell og Fagradalsfjall. Yngri eru úr stökum gígum, s.s. sunnan Þórðafells og Kálffell og loks eru þau yngstu úr gígaröðunum, s.s. Eldvarparhraunin, Illahraun og Sundhnúkahraun, sem margar hafa kaffært þau eldri. Hraunmyndanir þessar hafa orðið til í áralöngum goshrinatímabilum í gegnum aldirnar. T.d. er saga Grindavíkur gloppótt á 12. og 13. öld þegar ein goshrinan réð þar ríkjum.
Enn, nú á 21. öld, er ummyndun hraunanna í gangi ofan Grindavíkur, í og við Fagradalsfjall, sbr. rangnefnið Fagradalshraun.

Sundhnúkur og Sundhnúkagígaröðin

Sundhnúkahraun

Grindavík ofanverð.

Gígaröð sú, sem Sundhnúkahraun er komið úr, byrjar suðvestan undir Hagafelli. Þar eru nokkrir gígir í röð, og er, eða öllu heldur var, einn þeirra mestur, því að nú hefur hann verið um langan tíma notaður sem náma fyrir rauðamöl, og er því farinn að láta á sjá. Þaðan liggur svo röð af smágígum upp suðvesturhlíðina á Hagafelli og eru þar snotrar hrauntraðir, sem sýna, að þarna hefur verið hraunfoss. Úr ofangreindum gígum er meginhluti þess hrauns kominn, sem á kortinu ber nafnið Klifhólahraun. Gígaröðin er svo lítt áberandi á kafla norðan undir Gálgaklettum, en þeir eru misgengi, sem stefnir eins og gígaröðin frá suðvestri til norðausturs. Hún er þar á kafla tvískipt og stefna hennar lítið eitt óregluleg, gígirnir smáir og hraunhellan, sem myndazt hefur kringum þá á sléttunni norðan við Gálgakletta, vafalaust þunn. Frá þessum gígum hefur hraun runnið í þrjár áttir, til austurs norðan við Gálgakletta, til suðvesturs eins og áður er nefnt og loks til norðvesturs og norðurs. Örmjór hraunfoss hefur fallið niður á Selháls, þar sem vegurinn liggur nú, en numið þar staðar.

Sundhnúkahraun

Sundhnúkahraun.

Hefur hraunið runnið þar út á jarðhitasvæði, sem virkt hefur verið, þegar hraunið rann og væntanlega nokkru eftir það. Verður vikið að því síðar. Allbreiður hraunfoss hefur svo fallið norður af fellinu og runnið út á forna gjallgígi, sem þar eru fyrir. Er vegurinn skorinn gegnum nyrzta hluta þessarar hrauntungu.
Nokkurn spöl norðaustur af Hagafelli verður gígaröðin öllu fyrirferðarmeiri. Rísa þar háir gígir og nefnist Sundhnúkur sá þeirra, er hæst ber. Frá þessari gígaþyrpingu hefur meginhraunfióð það, er til suðurs rann, komið.

Sundhnúkahraun

Sundhnúkahraun.

Það hefur fallið eftir dalnum, sem verður milli Vatnsheiðar, sem er dyngja, og Hagafells. Það hefur fyllt dalinn hlíða milli og fallið beint í sjó fram og myndar þar um 2 km langan og rúmlega 1 km breiðan tanga, Þórkötlustaðanes, en vestan undir honum er vík sú, er Grindavík heitir og hefur frá fyrstu tíð verið ein mesta verstöð þessa lands. Tilveru sína á víkin hrauninu að þakka, því að án þess væru þar engin hafnarskilyrði. Svo vikið sé að nafninu Sundhnúkur, hefur Ísleifur Jónsson, verkfræðingur, bent mér á, að nafnið muni vera komið af því, að hnúkurinn hafi verið notaður sem leiðarmerki fyrir siglingu inn sundið inn á höfnina í Grindavík.

Sundhnúkar

Sundhnúkagígaröðin.

Nokkru norðan við Sundhnúk verður skarð í gígaröðina á ný, en norðar tekur hún sig upp aftur og heldur eftir það beinu striki að heita má austur að Stóra-Skógfelli. Þessi kafli gígaraðarinnar er annar sá mesti hvað hraunrennsli snertir. Er ljóst, að hraunrennsli hefur að mestu verið bundið við ákveðna kafla gígaraðarinnar, og hefur hún því naumast verið virk öll nema rétt í byrjun gossins og sennilega um mjög stuttan tíma. Virðist þetta eiga almennt við um sprungugos (Jónsson 1970).

Sundhnúkur

Skúti við Sundhnúk.

Frá þessum kafla gígaraðarinnar — kannski væri réttara að kalla það gígaraðir — hafa hraunstraumar fallið til norðurs og austurs, auk þess sem þaðan hafa hraun runnið niður í áðurnefndan dal milli Hagafells og Vatnsheiðar saman við hraunin úr Sundhnúkagígunum. Mikill hraunstraumur hefur fallið til norðurs frá þessum gígum, runnið vestur með Svartsengisfelli að norðan, og þekur allstórt svæði vestur af því, langleiðina norður að Eldvörpum. Þar hverfur það undir Illahraun, sem því er yngra.

Gígur

Gígur sunnan Þórðarfells.

Hraunin úr Eldvörpum, Illahraun og hraun úr stórum nafnlausum gíg suðvestur af Þórðarfelli eru samtímamyndun, en ekki verða hér raktar sannanir fyrir því. Þessi hraunstraumur hefur fyllt skarðið milli Svartsengisfells og Stóra-Skógfells. Virðist hraunið þar mjög þykkt, enda er sýnilegt, að hver straumurinn hefur þar hlaðizt ofan á annan. Geta má þess, að þrjár gossprungur eru í Stóra-Skógfelli og stefna allar eins. Sjálft fellið er úr bólstrabergi.

Vatnsheiði

Vatnsheiði.

Til suðurs og suðausturs hefur hraunið náð lengst í mjóum tanga, sem liggur meðfram Vatnsheiðardyngjunni að austan. Mikill hraunfláki er milli ofangreindrar gígaraðar, Vatnsheiðar og Fagradalsfjalls. Ganga þau hraun undir nafninu Dalahraun (Bárðarson 1929), en aðeins lítill hluti þeirra er kominn úr því gosi, sem hér um ræðir. Það er hins vegar ljóst, að áður hefur gosið á sprungu, sem er lítið eitt til hliðar við Sundhnúkasprunguna. Sumt af þessum hraunum á rætur að rekja til hennar, nokkuð til Vatnsheiðardyngjunnar og enn nokkur hluti til fornra eldstöðva norðaustan undir Hrafnshlíð.

Kálffell

Í Kálffelli.

Loks má vel vera, að fleiri eldstöðvar séu faldar undir þessum hraunum. Það er greinilegt, að þarna hafa mörg gos átt sér stað frá því að ísöld lauk. Yngsta hraunið á þessu svæði er það, sem komið er úr Sundhnúkagígnum, en það þekur ekki stórt svæði þarna austan til og hefur víðast hvar ekki runnið langt til suðurs frá eldvörpunum. Það er því mun minna, en virðast kann við fyrstu sýn.
Í heild er gígaröðin um 8,5 km á lengd. Nokkru norðan við austurenda gíganna er Kálffell. Það eru gígahrúgöld, ekki sérlega stór, og hefur hraun frá þeim runnið norðvestur og norður. Þessi eldvörp eru eldri en Sundhnúkahraun.

Eldri gígaröð

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – þverskorinn gígur ofan Fagradals.

Engum efa er það bundið, að áður hefur gosið svo til á sömu sprungu. Gígir eru suðvestan í Hagafelli aðeins austan við Sundhnúkagígina, og stefnir sú gígaröð alveg eins og þeir.
Suðaustur af Stóra Skógfelli sér á stóran gjallgíg, sem opinn hefur verið til suðausturs. Hann er lítið eitt austan við Sundhnúkagígina og einmitt þar, sem sú gígaröð hreytir nokkuð um stefnu. Um 1,5 km austar er svo annar stór ösku- og gjallgígur og er gígaröðin fast við hann að norðan.

Rauðhóll

Rauðhóll í Sundhnúkahrauni.

Gígur [Rauðhóll] þessi er líka eldri. Báðir eru þeir að nokkru leyti færðir í kaf í yngri hraun. Hraunflákinn vestur af Fagradalsfjalli virðist að mestu leyti vera kominn úr þessari eldri gígaröð, en þó eru þar fleiri eldstöðvar. Hraunin á þessu svæði ganga undir nafninu Dalahraun. Hraun frá Vatnsheiðardyngjunni hafa og náð alllangt þarna austur, því að þau koma fram í bollum í yngri hraununum, þar sem þau hafa ekki náð að renna yfir. Eftir þessu að dæma eru bæði gosin á Sundhnúkasprungunum yngri en dyngjugosin, sem skópu Vatnsheiði og Fagradalsdyngju. Loks endar þessi eldri gígaröð í litlum gjall- og klepragígum utan í vesturhlíð Fagradalsdyngju nokkur hundruð metrum sunnar en austustu gígirnir í Sundhnúkaröndinni, sem áður er
getið.

Hvenœr rann hraunið?

Melhóll

Hrauntröð suðvestan Hagafells.

Þess er getið hér að framan, að hraunfoss frá gígnum vestan við Gálgakletta hafi fallið vestur, eða réttara norðvestur af Hagafelli. Blasir þessi hraunfoss við, þegar komið er suður yfir hraunið við vesturhornið á Svartsengisfelli. Þessi hraunspýja hefur runnið út á forna gjallhóla vestan undir fellinu. Þar er það mjög þunnt, og hefur það verið skorið sundur við rauðmalarnám og vegagerð. Kemur þá í ljós, að hólar þessir hafa verið grónir, þegar hraunið rann. Leifar þess gróðurs má nú finna sem viðarkol undir hrauninu. Þessar jurtaleifar hafa nú verið aldursákvarðaðar með C14-aðferð. Hefur dr. Ingrid U. Olsson á Rannsóknarstofnun Uppsalaháskóla gert það. Samkvæmt niðurstöðum af þeirri rannsókn eru jurtaleifarnar 2420 ± 100 C1 4 ára gamlar, talið frá árinu 1950, og hraunið hefur því runnið tæpum 500 árum fyrir upphaf okkar tímatals.

Bergsprungur

Þorbjarnarfell

Þorbjarnarfell (Þorbjörn).

Í hraunum kringum Grindavík er mikið um sprungur og gjár, en einkum eru þær áberandi í hinum eldri hraunum og í móbergsfjöllunum. Er Þorbjarnarfell ljósasta dæmið um það. í Sundhnúkahraununum ber lítið á sprungum yfirleitt og bendir það til, að fremur hægfara breytingar séu þar eða þá, og það virðist fullt eins líklegt, að þær séu bundnar ákveðnum tímabilum. Má telja sennilegt, að hreyfingar þessar eigi sér aðallega stað samfara jarðskjálftum.
Vestur af Svartsengisfelli má, ef vel er að gætt, sjá fyrir sprungum í þessu tiltölulega unga hrauni. Þær eru í beinu framhaldi af sprungum, er ganga í gegnum Þorbjarnarfell. Rétt við eina þeirra er jarðhitastaður sá, sem jafnan er kenndur við Svartsengi.

Ummyndun og jarðhiti

Svartsengi

Svartsengi.

Eins og áður var getið um, er jarðhiti í hrauninu vestur af Svartsengisfelli. Þar hefur mælzt yfir 60° hiti. Engum efa er bundið, að allstór hver hlýtur að vera þarna undir hrauninu, því líklegt má telja, að vart séu minna en 20—30 m niður á grunnvatnsborð á þessum stað. Við hagstæð veðurskilyrði, logn og nálægt 0° C má sjá gufur leggja upp úr hraununum víðs vegar á þessu svæði. Eru þær í áberandi beinum línum, sem sýnir, að þær eru bundnar við sprungur í berggrunni þeim, sem Sundhnúkahraun og önnur hraun hafa runnið yfir.

Heimild:
-Náttúrufræðingurinn 3.-4. tbl. 01.02.1974, Sundhnúkahraun við Grindavík, Jón Jónsson, bls. 145-153.

Grindavík

Gengið um Grindavík og nágrenni – í Sundvörðuhrauni.