Tag Archive for: jarðfræði

Jarðskjálfti

Jarðskjálftar á Íslandi verða á brotabelti á flekaskilum. Tvö slík belti eru á landinu: Á Suðurlandi, frá Ölfusi til Landssveitar og á Norðurlandi, kennt við Tjörnes. Öflugustu jarðskjálftar á Íslandi eru um 7 að stærð og geta valdið töluverðu tjóni. Þeir eru tíðir undir brotabeltunum og undir megineldstöðvum.

Ebenezer Henderson

Bók Ebenezers Hendersons um ferðalag hans á Íslandi – útg. 1818.

Enskur ferðamaður var hér á landi í byrjun 19. aldar og skrifaði um ýmislegt áhugavert, sem hann bæði heyrði og bar augum. Skrif hans birtust í framhaldinu í bókinni „Iceland; or the Journal of a Resicence in that Island, during the years 1814 and 1815″ eftir Ebenezer Henderson, London 1818. Á bls. 235-239 skrifar hann um jarðskjálfta  á Íslandi eftir að hafa fundið fyrir einum slíkum er hann var við Geysi í Haukadal í lok ferðar sinnar um landið.

„Fyrstu jarðskjálftarnir, sem vitað er um, urðu á árunum 1181 og 1812; en við vitum ekki um afleiðingar þeirra. Árið 1211 er fyrst getið um jarðhræringar í neðansjávareldfjalli nálægt Reykjanesi og fjöldi jarðskjálfta fylgdu í kjölfarið og nokkrir létust og hús víða um Ísland hrundur gjörsamlega til grunna. Á árunum 1260 og 1261 varð vart við harða skjálfta í Flatey á Breiðafirði. Árið 1294 skalf jörð í Rangárvallasýslu; Rangá breytti um farveg og margir bæir snerust á hvolf, og í átta daga urðu allir hverir hvítir sem mjólk. Árið 1300 gaus Hekla og miklar jarðhræringar fylgdu í kjölfarið á Suðurlandi og mötg hús hrundu. Skjálftahrina fygldi í kjölfarið átta árum síðar. Þá eyðilöguðust átján bæir og menn og skepnur dóu.

Ebenezer Henderson

Ebenezer Henderson fæddist 17. nóvember 1784 í litlum bæ í Dunfermline-héraði í Skotlandi og lést 17. maí 1858 skammt þar frá. Bók sem hann skrifaði um dvöl sína á Íslandi 1814-1815 er talin með merkari ferðabókum þar sem öllu er lýst mjög nákvæmlega, einkum jarðfræðitengdum fyrirbærum og hún er skrifuð í Reykjavík að stóru leyti.

Árið 1311 varð skelfilegur jarðskjálfti þar sem ekki færri en fimmtíu og einn bær hrundu og dró fyrir sólu þegar aska og sandur voru ýft upp af eldfjöllum svo ómögulegt var að ferðast frá einum hluta landsins til annars. Árið 1313 eyddust átján hús í miklum jarðskjálfta. Árið 1339 fundust nokkir skjálftar á Suðurlandi, útihýs hrundu og nautgripir lyftust frá jörðu, nokkur fjöll skriði, sprungur og hverir mynduðust. Árið 1370 hrundu tólf bæir í jarðskjálfta í Ölfusi.

Geysir

Mynd af Geysi í bók Ebenezers.

Á árunum 1390 og 1391 urðu fjöldi jarðskjálfta, einkum síðarnefnda árið; fjórtán bæir eyðilögðust í Grímsnesi, Flóa og Ölfusi og fólk grófst undir rústunum. Jörð breyttist; sjóðandi vatn spratt upp, og áhrifa skjálftans fannst alla leið upp á Holtavörðuheiði.

Grindavík

Þórkötlustaðaréttin í Grindavík eftir jarðskjálfta 31. júlí 2022.

Árið 1552 urðu nokkrir stórir jarðskjálftar, en engar skemmdir urðu á mannvirkjum; og árið 1554 héldu skjáltarnir slíkt áfram að fólk dirfiðist ekki að vera innan dyra í húsum sínum heldur héldu til í tjöldum. Nokkrir jarðskjálftar urðu 1578; og árið 1597 olli skjálfti allmiklum skemmdum á bæjum í Ölfusi. Árið 1614 varð endurtekin skjálftahrina allt haustið og nokkrir bæir hrundu. Um veturinn 1633 eyddust bæir í Ölfusi og áhrifin voru svo mikil að í mörgum kirkjum varð engin þjónusta það sem eftir lifði vetri. Árin 1657 og 1661 urðu nokkuð harðir jarðskjálftar á mismunandi stöðum í Fljótshlíð, suðaustan Heklu, og nokkur hús jöfnuðust við jörðu.

Arnarbæli

Arnarbæli eftir jarðskjálfta 1896.

Alvarlegastu jarðskjálftarnir fundust í Ölfusi og í Flóa 28. janúar, 1. apríl og þann 20. árið 1706. Ekki færri en tuttu og fjórir bæir eyðilögðust, fjölmargir urðu fyrir skemmdum og nautgripir drápust. Skjálftunum fylgdu aðrir stórir og smáir um vorið, og voru raktir til heklu og nágrennis.

Jarðskjálfti

Þann 26. ágúst 1896 hófust á Suðurlandi einhverjir mestu jarðskjálftar, sem sögur fara af hér á landi. Fyrsti kippurinn var snarpastur í Rangárvallasýslu og í Eystri hrepp í Árnessýslu, þar sem fjölmargir bæir hrundu til grunna. Næsta morgun kom annar kippur og virtist hann hafa verið snarpastur í Hrunamannahreppi, en þar féllu nokkrir bæir. Að kvöldi 5. september kom enn mjög snarpur kippur, sem olli miklu tjóni í Holtum, Skeið og Flóa.
Fólk var komið í háttinn þegar skjálfti 7,5 á Richter reið yfir. Síðan um 1700 hafa 7 jarðskjálftar verið á Suðurlandi og hafa haft styrkleika >VIII (1706, 1734, 1752, 1784, 1789, 1896 og 1912).
Svipað er að segja um Rangárvelli. Þar hafa bæir örugglega fallið 12 sinnum, líklega 17 sinnum, og þar hafa að minnsta kosti 5 jarðskjálftar siðan 1700 haft styrkleika >VIII eða 1725, 1732, 1784, 1896 og 1912. Aðeins einu sinni er vitað með vissu, að jarðskjálftar samfara byrjun Heklugoss hafi orðið svo sterkir, að bæir hafa hrunið, en líklegt, að það hafi skeð tvisvar eða þrisvar sinnum.

Líkt og jarðhræringar í Skaptáreldum voru hinar hræðilegustu skráðum í annála Íslands, urðu jarðskjálftarnir sem 14. og 16. ágúst 1784 þeir afdrifaríkustu, sem orðið höfðu fyrir íbúa landsins. Þeir munu hafa orðið á svæði vestan Heklu og fundust um land allt. Í Snæfellssýslu og Ísafirði fundust þeir greinilega. Í Árnessýslu einni hrundu ekki færri en þrjú hundruð og sjötíu og tveir bæir; sextíu og níu gereyðilögðust. Fjöldi húsa er skemmdust í landinu urðu eitt þúsund fjögur hundruð og fimmtíu og níu. Nítján kirkjur skemmdust og fjórar algerlega.
Til viðbótar skemmdum á húsum spilltust hagar, ár breyttu um farvegi og mikil grjóthrun varð í hlíðum fjalla. Margir sjóðandi hverir hurfu og aðrir nýir spruttu upp. Við Geysi nálægt Haukadal birtust ekki ekki færri en þrjátíu og fimm nýir hverir á svæðinu.
Árið 1789 varð enn einn afdrifaríkur jarðskjálfti. Í fyrstu varði hann í u.þ.b. tíu mínútur, en varð síðan viðvarandi af og til það hluta sumarsins. Áhrif skjálftans urðu mest í kringum Þingvallavatn. Botn vatnsins sökk til norðausturs, víða flæddi yfir gamlar leiðir og til suðvesturs og þornaði vatnið upp á allt að fjóra faðma dýpi (haft eftir biskupi Finnssyni).
Árið 1808 reið harður jarðskjálfti yfir sem hafði áhrif á háhitasvæði landsins. Síðasti skjálftinn var í júni 1815, en hann var vægur og fannst einungis í norðurhluta landsins.“

Sjá meira um jarðskjálfta á Reykjanesskaga.

Heimild:
-Iceland; or the Journal of a Resicence in that Island, during the years 1814 and 1815 by Ebenezer Henderson, London 1818, bls. 235-239.

Ebenezer Henderson

Ebenezer Henderson var skoskur guðfræðingur og ritaði gagnmerka bók um ferðir sínar, land og þjóð. Bókinni fylgir kort af Íslandi, gert að fyrirsögn höfundarins af feðgunum Daniel og William Home Lizars. Undirstaðan eru kort af Knoff-gerð, sérstaklega þau sem Jón Eiríksson átti hlut að. Helsta nýmælið á kortinu er að búið er að kippa norðanverðum Vestfjörðum suður fyrir heimskautsbaug. Annars er það í svo litlum mælikvarða að lítið af athugunum Hendersons kemst til skila.

Rauðhólar

Rauðhólar voru friðlýstir sem náttúruvætti á árinu 1961 vegna jarðminja en einnig landsslags, lífríkis og útivistargildis, og sem fólkvangur frá árinu 1974.

Rauðhólar

Rauðhólar – kort er fylgdi friðlýsingunni 1974.

Stærð hins friðlýsta svæðis er um 45 ha og er afmörkun þess sýnd á uppdrættinum. Fólkvangar eru útivistarsvæði í umsjón sveitarfélaga þar sem reynt er að auðvelda aðgang almennings án þess að náttúran bíði tjón af. Efnisnámi hefur verið hætt í Rauðhólum, nema til að snyrta efnistökusvæðið. Um helmingur hólanna er raskaður og þar er jafnframt víða hægt að skoða innviði rofinna gervigíga.

Í „Stj.tíð. B, nr. 185/1974“ segir í „Auglýsingu um fólkvang í Rauðhólum“:
„[Umhverfisstofnun] hefur fyrir sitt leyti samþykkt stofnun fólkvangs í Rauðhólum við Reykjavík og tjáð ráðuneytinu, að frestur til að gera athugasemdir við stofnun fólkvangsins sé útrunninn, og hafi engar athugasemdir borist.
RauðhólarRáðuneytið er samþykkt ákvörðun [Umhverfisstofnunar] og með skírskotun til laga nr. 47/1971, um náttúruvernd, tekur stofnun fólkvangsins gildi við birtingu þessarar auglýsingar í Stjórnartíðindum. Reglur um fólkvanginn eru í meðfylgjandi fylgiskjali.“ – Í menntamálaráðuneytinu, 12. mars 1974; Magnús T. Ólafsson.

Fylgiskjal – Auglýsing frá [Umhverfisstofnun] um fólkvang í Rauðhólum.
„Að tillögu náttúruverndarnefndar Reykjavíkur og að fengnu samþykki borgarstjórnar Reykjavíkur, hefur [Umhverfisstofnun] ákveðið að lýsa Rauðhóla og nágrenni þeirra fólkvang, samkvæmt 26.gr. laga nr. 47/1971.

Rauðhólar

Í Rauðhólum.

Takmörk þess svæðis, sem náttúruverndarnefnd Reykjavíkur ákvarðar til fólkvangsfriðunar á, eru sem hér segir, sbr. meðfylgjandi uppdrátt:
Brotin lína frá punkti 1 í miðri Hólmsá, þar sem brúin á gamla veginum var, ákvarðast hún af punktunum 1-2-3-4 og 5, frá punkti 5 ræður miður farvegur lækjar þess, sem rennur úr Hrauntúnstjörn í Helluvatn að punkti 6, þaðan brotna línan sem ákvarðast af punktunum 6-7 og 8, þaðan bogin lína, sem ákvarðast af punktunum 9-10-11-12-13-14 og 15, þaðan bogin lína, sem liggur fyrst um 5 m frá norðurbrún vegar að vesturenda Sundhóls og og þaðan áfram vestan sumarbústaða (Litla-Hvamms) suðvestan í Sundhól, sem uppdráttur sýnir, að punkti 16, þaðan brotin lína, sem ákvarðast af punktunum 16-17-18 og 19, þaðan miður farvegur Hólmsár að punkti 1.

Rauðhólar

Í Rauðhólum.

Reglur þessar gildi um fólkvanginn
1. Fótgangandi fólki er heimil för um allr svæðið og óheimilt er að reisa þar girðingar eða annars konar tálmanir, á þann veg að umferð fólks torveldist.
2. Óheimilt er að gera á svæðinu mannvirki né gera jarðrask, nema leyfi [Umhverfisstofnunar] komi til.
Eftirlit með fólkvanginum er í höndum náttúruverndarnefndar Reykjavíkur.“

Rauðhólar

Kort af Rauðhólum sbemma á 20. öld (von Komorowicz 1912).

Maríuhellar

Við bifreiðastæði við Heiðmerkurveg sunnan Maríuhella er skilti með eftirfarandi upplýsingum:

Maríuhellar

Maríuhellar – skilti.

„Maríuhellar er samheiti á þremur hellum á landamerkjum Urriðavatns og Vífilsstaða, Vífilsstaðahelli, Urriðakotshelli og Draugahelli.
Tveir fyrstnefndu hennarnir voru áður fyrr notaðir sem fjárhellarr en víða í Búrfellshrauni er að finna hella og skúta sem voru fjárskjól. Fjárhellar eru fornleifar og friðaðir samkvæmt þjóðminjalögnum.
Maríuhellar eru líklega kenndir við Maríu guðsmóður. Í landamerkjalýsingu Urriðakots frá 1890 er talað um „Fjárhellra mót Vífilsstöðum sem fyrrum hjetu Maríuhellar“. Ef til vill var talið gæfulegt fyrir féð að kenna fjárhellana við hana.

Draugahellir er vestastur Maríuhella, um 65-70 m langur inn í botn en er mjög lágur innst. Inngangurinn í hann er um þrönga gjótu sem liggur niður með vegg hraunrásarinnar og stórgrýtis úr hrundu loftinu.

Maríuhellar

Maríuhellar – skilti.

Urriðakotshellir er sá hellir sem mest ber á, opin hraunrás í miklu jarðfalli, 24 m. á lengd. Gengið er ofan í hann að vestanverðu og niður nálega 20 m langa rás uns komið er í grasi gróið jarðfallið. Í framhaldi af því heldur rásin áfram inn í sal og er gat í háu loftinu þar sem sér til himins. Fremst í hellismunnanum eru hleðslur og gólfin bera merki þess að þarna var fé geymt. Í jarðfallinu fyrir framan skútann mótar fyrir hleðslum. Virðist vera hús þar og ef til vill kví.

Vífilsstaðahellir er nyrstur Maríuhella. Hann er í hraunkatli, kanturinn liggur norðvestur og austur og er 19 m langur. Hægt er að ganga beint inn í hann til norðurs í stóru jarðfalli og einnig beggja vegna í kantinum. Þegar farið er inn í eystri rásina er gengið utan í hrauni annars vegar og rásveggnum hins vegar. Á gólfinu í hellinum sést að hann hefur verið fjárskjól. Hleðslur eru ekki greinilegar við opið og þar hefur orðið mikið hrun.

Urriðakotshellir

Urriðakotshellir.

Jónshellar eru þrír skútar og ekki hluti af maríuhellum. Þá er að finna rétt norðan við Draugahelli. Enn skútinn er sýnu mestur, um 50 m langur, og annar hefur greinilega verið fjárskjól. Hleðsla er fremst í þeim skútanum en fyrir innan er slétt moldargólf.

Margir hraunhellar eru þekktir í Búrfellshrauni, s.s. Hundrametrahellir (Fosshellir) (102 m), Níutíumetrahellir (93m), Rauðshellir (65 m), Ketshellir (22 m), Kershellir (34 m), Hvatshellir (50 m), Sauðahellir syðri (Þorsteinshellir) (43 m), Sauðahellir nyrðri (32 m), Skátahellir syðri (237 m), Skátahellir nyrðri (127 m), Hraunsholtshellir (23 m), Vatnshellir (23 m), Sauðaskjólið (12 m), Selgjárhellir syðri (8 m) og Selgjárhellir eystri (11 m).“

Skammt norðan við Urriðakotshelli er forn gróinn stekkur.

Urriðakotshellir

Urriðakotshellir (Maríuhellar).

Rauðhólar

Við bifreiðastæði við Heiðmerkurveg sunnan Rauðhóla er skilti. Á því má lesa eftirfarandi:

Gervigígar

Rauðhólar

Rauðhólar – skilti.

Rauðhólar eru gervigígar. Þeir myndast þegar hraun rennur yfir grunn stöðuvötn, votlendi eða í árfarvegi.
Gervigígar eru jafnan í óreglulegum þyrpingum. Oft má styðjast við skipulagsleysið og legu í dældum eða dölum til að greina gervigíga frá eldgígum.

Myndunarsaga Rauðhóla
Fyrir fimm þúsund árum varð eldgos í gígnum Leiti, sem er suðaustan í Bláfjöllum. Hraunið nefnist Leitarhraun. Hraunstraumurinn rann niður Sandskeið og þaðan með farvegum Hólmsár og síðan Elliðaáa allt í sjó fram í Elliðavogi.
RauðhólarÞegar hraunkvikan rann yfir hið forna Elliðavatn snöggkólnaði hún og dró í sig vatn í gufuformi. Gufan kom af stað ólgu og suðu í kvikunni svo hún tættist í sundur og varð að gjalli. Við þetta hlóðust upp um 80 gjallgígar, sem mynda Rauðhólana.

Norðaustan í Rauðhólunum var stór og merkilegur gígur, sem hét Kastali og er hann mikið skemmdur. Þar vestur af var Stóri-Rauðhóll, en af honum sést ekki urmull og þar suðaustur af Miðaftanshóll, sem nú er óþekkjanlegur.
Á árinu 1949 flutti Sigurður Þórarinsson jarðfræðingur erindi um náttúrvernd. Þar fjallaði hann m.a. um eyðileggingu Rauðhóla og taldi að þeim yrði ekki bjargað. Erindið vakti mikla athygli og hafði m.a. áhrif til að flýta gildistöku náttúrverndarlaga á Íslandi.

Rauðhólar

Rauðhólar – friðlýsing.

Rauðhólar voru friðlýstir sem náttúruvætti á árinu 1961 og sem fólkvangur á árinu 1974. Stærð hins friðlýsta svæðis er um 45 ha og er afmörkun þess sýnd á uppdrættinum. Fólkvangar eru útivistarsvæði í umsjón sveitarfélaga þar sem reynt er að auðvelda aðgang almennings án þess að náttúran bíði tjón af. Efnisnámi hefur verið hætt í Rauðhólum, nema til að snyrta efnistökusvæðið. Um helmingur hólanna er raskaður og þar er jafnframt víða hægt að skoða innviði rofinna gervigíga.“

Rauðhólar

Í Rauðhólum.

Eldgos

Daníel Páll Jónasson skrifaði um „Hraunflæði á höfuðborgarsvæðinu – Saga hraunflæðis á svæðinu á nútíma og kortlagning mögulegra farvega til byggða“ í ritgerð sinni við Háskóla Íslands árið 2012. Ritgerðin var hluti af Baccalaureus Scientiarum gráðu í landfræði. Þar skrifar hann m.a. jarðfræði Reykjanesskagans og yfirlit um jarðfræði svæðisins þótt megininntakið felist í titli ritgerðarinnar.

Daníel Páll Jónasson

Daníel Páll Jónasson.

„Vel er hægt að ímynda sér einhvern af forfeðrum Íslendinga, eftir miðja 12. öld, standandi uppi á hæð nærri Hafnarfirði og horfandi hughrifinn á úfið Kapelluhraunið þar sem það skreið í sjó fram hjá Straumsvík. Hefur hann hugsanlega, á svipaðan hátt og Vésteinn Vésteinsson mælti um vatnasvið Dýrafjarðar, muldrað þessi fleygu orð: „Öll hraun renna til Hafnarfjarðar“ enda voru forfeður Íslendinga upp til hópa orðheppnir, að minnsta kosti ef miðað er við Íslendingasögurnar. Sá hefur þó líklega gleymt blekinu og kálfskinninu heima því engin slík fleyg setning hefur varðveist í bókmenntaarfi Íslendinga.
HraunÍ staðinn hafa ummerki þessa atburða varðveist og nú byggist stór hluti Vallahverfisins skammt austan þessa úfna hrauns sem í daglegu tali nefnist Kapelluhraun. Örnefnin í vestanverðum Hafnarfirði bera líka enn merki af brennandi áhuga forfeðra Íslendinga af eldsumbrotum en sem dæmi um örnefni sem lýsa vel eldrænu landslagi á svæðisin má nefna „Óbrinnishóla“, Háabruna“, „Hraunhól“ og „Brennu“.
Ef litið er lengra aftur en til þess tíma þegar Kapelluhraun rann, má sjá að hraun hafa runnið alloft um Reykjanes á síðustu öldum og árþúsundum. Eru þessi hraun til marks um að Reykjanesið er virkt svæði þar sem enn má búast við eldsumbrotum.
ReykjanesskagiReykjanesskagi er hluti af gosbeltinu, sem liggur um Ísland þvert og er í beinu framhaldi af Reykjaneshryggnum, sem neðansjávar teygir sig langt suðvestur í haf og raunar er hluti af Atlantshafshryggnum mikla. Frá því að síðasta kuldaskeiði lauk hefur mikil eldvirkni verið á þessu svæði bæði ofansjávar og í hafi. Sú eldvirkni hefur á umliðnum öldum byggt upp Reykjanesskaga og verður ekki enn séð nokkurt lát á þeirri starfsemi.
Reykjanes er það svæði þar sem Reykjaneshryggurinn nær yfirborði en fyrir suðvestan skagann er hryggurinn undir sjávarmáli. Jarðfræðileg lega skagans nær frá Reykjanestá í suðvestri og að þrígreiningu plötuskilanna fyrir sunnan Hengilinn en á því svæði mætast Reykjanesgosbeltið, Suðurlandsbrotabeltið og Vesturgosbeltið.
FlekaskilÁ skaganum er sniðrekbelti og fer gliðnunin fram í eldstöðvakerfum sem liggja frá suðvestri til norðausturs. Heildarlengd þessa rekbeltis á skaganum eru um 65 kílómetrar. Allt eldgosaberg á yfirborði skagans er yngra en 700.000 ára. Stór hluti yfirborðs Reykjaness er þakið hraunum frá nútíma. Hraunin eru ýmist úr dyngjugosum eða sprungugosum en móberg frá fyrri og seinni hluta síðasta jökulskeiðs mynda fjallgarða og hryggi á skaganum auk móbergs frá eldri jökulskeiðum Brunhes. Síðasta jökulskeið, Weichsel, er almennt talið hafa náð frá því fyrir um 10.000 til 100.000 árum en segulskeið Brunhes, sem nær yfir önnur jökulskeið, byrjaði fyrir um 780.000 árum.

Jarðfræðikort

Ísland jarðfræðikort ISOR.

Sé Ísland skoðað í heild hafa samtals komið upp 369 km3 basalts í 457 hraungosum á nútíma, eða eftir hvarf Ísaldarjökulsins fyrir um 11.000 árum. Eru þessi 457 gos rúmlega 90% þeirra 501 hraungosa sem samtals hafa komið upp á Íslandi á nútíma en 56 þeirra hafa orðið eftir landnám. Komu 111 km3 (30%) upp á síðustu 5.000 árum, eða að meðaltali um 22,2 km3 á hverju árþúsundi, og um 188 km3 fyrir 5.000 til 10.000 árum, eða að meðaltali 37,6 km3 á hverju árþúsundi. Dreifðust rúmmálin nokkuð jafnt á hvort tímabil fyrir sig en þó var mjög lítil eldvirkni á tímabilinu fyrir um 2.000 til 3.000 árum síðan.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – jarðfræðikort ISOR.

Á tímabilinu fyrir 10.000 til 11.000 árum síðan gaus 70 km3 basalts, tvöfalt meira hraunmagn á árþúsundi en árþúsundin á eftir, og hefur basalthraunflæði samkvæmt þessum tölum því að jafnaði minnkað á nútíma á Íslandi.
Talið hefur verið að þetta mikla rúmmál hrauns, sem og annarra gosefna, sé rakið til hraðrar upplyftingar landsins eftir að síðustu ísöld lauk en þá komu upp flestar þær rúmmálsmiklu dyngjur sem til dæmis má sjá á Reykjanesi.
Líkt og á Íslandi öllu kemur nær eingöngu upp basaltkvika á Reykjanesi. Á skaganum hafa basalthraungos samtals verið um 111 á nútíma, og þar af 15 á sögulegum tíma, og 33 sprengigos.

Jarðfræðikort

Ísland – jarðfræðikort.

Úr öllum þessum gosum hafa samtals myndast 26 km3 af hrauni og 7 km3 af gjósku eða sem samsvarar 29 km3 af föstu bergi. Sé gengið um Reykjanes sjást ummerki þessarar eldvirkni afar vel og mörg eldvörp eru í steinsnar frá byggð og samgöngum. Eru þessi eldvörp enn greinanleg meðal annars sökum þess að eftir að ísaldarjökullinn hvarf hefur rof á skaganum minnkað verulega. Mörg ummerki eldvirkni eru einnig undir nýrri hraunum sem sífellt mynda ný lög ofan á skaganum en sem dæmi má nefna að síendurtekin hraunflæði hafa fært ströndina í Straumsvík fram um 1,5 til 2 kílómetra frá ísaldarlokum. Þar að auki eru fjöldi hrauna grafin undir yngri hraunum og sjást þau því ekki á yfirborði en þeirra verður aftur á móti vart í borholum.“
Sjá meira HÉR.

Í frétt mbl.is árið 2023 er stutt viðtal við Daníel Pál eftir göngu við gosstöðvarnar í Fagradalsfjalli þar sem hann taldi sig hafa funið „minnsta hraun í heimi“:

Fagradalsfjall

„Minnsta hraunbreiða í heimi“ – Litli-Keilir fjær. Ljósm DPJ

„Daníel Páll Jónasson landfræðingur fann minnstu hraunbreiðu í heimi við gosstöðvarnar við Litla-Hrút þegar hann gekk umhverfis þær á sunnudag. Daníel, sem vinnur nú að útgáfu bókar um síðustu þrjú eldgos á Reykjanesskaga, var í sinni fertugustu ferð að gosstöðvunum þegar hann kom auga á hraunið litla. Hraunið er norðan við gíg­ana sem gaus úr við Litla-Hrút nú í sumar.
„Ég ákvað að labba hringinn í kringum hraunið og þá tók ég eftir þessari litlu klessu. Ég sá að það voru tvö lítil hraun sem voru ekki tengd við stóra hraunið og svo þessi litla klessa,“ segir Daníel í samtali við mbl.is.
Hann birti mynd af klessunni í Iceland Geologyhópnum á Facebook og stakk upp á því að þetta væri minnsta hraunbreiða í heimi. Fékk hann góðar undirtektir og var húmorinn ekki langt undan hjá öðrum notendum sem spurðu í góðu gamni hvort best væri að fylgja leið A eða B að hrauninu.“

Heimildir:
-Hraunflæði á höfuðborgarsvæðinu – Saga hraunflæðis á svæðinu á nútíma og kortlagning mögulegra farvega til byggða, Daníel Páll Jónasson, Háskóli Íslands 2012.
-https://www.mbl.is/frettir/innlent/2023/08/15/fann_minnsta_hraun_i_heimi/

Eldgos

Eldgos á Reykjanesskaganum.

Háuhnúkar

Háuhnúkar eru efstu móbergshæðir Undirhlíða. Undirhlíðar eru framhald á Sveifluhálsi til norðurs, norðan Vatnsskarðs.

Sveifluháls

Sveifluháls.

Sveifluháls eða Austurháls er 395 m hár móbergshryggur í Reykjanesfjallgarði, vestan við Kleifarvatn. Brattir hamrar eru niður að Kleifarvatni. Sunnan og austan í hálsinum er mikill jarðhiti. Það hverasvæði er kennt við Krýsuvík. Hæstu tindar á Sveifluhálsi eru Hellutindar (364 m.), Stapatindar (395 m.) og Miðdegishnúkar. Sveifluháls (Austurháls) er 395 m hár móbergshryggur í Reykjanesfjallgarði, vestan við Kleifarvatn. Brattir hamrar eru niður að Kleifarvatni. Efst á hálsinum miðjum er Miðdegishnúkur (Hádegishnúkur).

Sveifluháls

Sveifluháls – Miðdegishnúkur efst.

Á Sveifluhálsi er móbergið megin bergtegundin. það verður til við gos undir jökli eða vatni þar sem gosopið er nálægt eða rétt undir yfirborðinu, öfugt við bólstraberg, sem myndast djúpt undir vatni. Rétt undir yfirborðinu er þrýstingurinn ekki nægur til að halda kvikunni niðri heldur brýst hún upp á yfirborðið í gufusprengingum og verður að gosösku, sem er glersalli. Oft hefjast neðansjávargos eða gos undir jökli með bólstrabergsmyndun ef gosopið er á nægilegu dýpi en þegar á líður grynnkast á opinu og gufusprengingar hefjast með samfarandi gjóskumyndun.

Móberg

Móberg – skessukatlar.

Í móberginu má gjarnan finna bólstrabergsbrot eða framandsteina, sem kvikan hefur hrifið með sér á leið upp á yfirborðið. Ef gosopið kemst upp úr vatninu, þannig að gufuspreningum lýkur, hefst hraunrennsli og myndast þá stapar með hraunlagi ofan á móbergsmynduninni.

„Löngu áður en Ísland byggðist og saga þess hefst hafa afar mikil eldsumbrot orðið á Reykjanesskaganum, og má svo heita að allur vesturhluti hans sé hraunstorkið flatlendi, sem er þó svo gamalt að ógjörlegt er að segja, hvenær það hafi brunnið eða hvaðan það hafi runnið. Upp úr hraunbreiðu þessari standa þó einstakir móbergshnúkar og eldvörp, sem allt eru gamlar eldstöðvar en þó mjög misgamlar.

Sveifluháls

Sveifluháls – móbergsfjallgarður.

Þessi samfellda fjallatunga nær allt vestur á miðjan skagann eða vestur á móts við Grindavík og er mjög eldbrunnin, enda er þar hinn mesti urmull af eldgígum og öðrum gosstöðvum, bæði frá mismunandi ísaldaskeiðum og nútíma.
Þó að langmestur hluti hinna víðáttumiklu hrauna á Reykjanesskaganum hafi runnið áður en sögur hefjast, og engar sagnir séu til af þeim náttúruhamförum, sem myndað hafa undirstöðu skagans, þá er málum þó ekki svo farið, að engin gos hafi orðið eða engin hraun runnið svo að sögur fari af.

Háuhnúkar

Háuhnúkar.

Undirhlíðarnar eru af að mörgu leyti af sama meiði og Sveifluháls. Þó er sá stigsmunur á þessum samfellda ási að í Undirhlíðum er grágrýti og brotaberg meira áberandi samhliða móbergsásunum, s.s. Háuhnúkum. Grágrýtisberggangar, uppsprettur hraunanna, eru þar víða áberandi og má segja að einn tilkomumesta bergganginn megi berja augum efst á hnúkunum.

Háuhnúkar

Háuhnúkar.

Í Örnefnalýsingu Ara Gíslasonar um „Garða – Garðakirkjuland“ segir: „Þá eru Undirhlíðarnar. Norðan við Vatnsskarð rís upp allhár hnúkur, sem heitir Háuhnúkar. Þetta er móberg, en upp úr því kemur eins og garður. Nokkuð norðar, vestan undir hlíðunum, er allmikill hvammur, sem heitir Stóri-Skógarhvammur, vestur af Slysadölum. Þá lækka hlíðarnar, og þar norður af er önnur hæð, sem heitir Gvendarselshæð.“ Í örnefnalýsingunni er ekki getið um Móskarðshnúka, sem bendir til þess að örnefnið sé tiltölulega ný til komið.

Háuhnúkar

Háuhnúkar – berggangur.

Í skrá um „Örnefni í óbyggðinni suður og inn frá Hafnarfirði“, segir: „Inn með Lönguhlíð að vestan eru Undirhlíðar. Austan í þeim er Leirdalur,
Breiðdalur og Slysadalur. Austan við Leirdal er Leirdalshöfði. Uppi á Undirhlíðum er Gvendarsel og Háuhnúkar.“

Háuhnúkar, móbergsstaparnir, eru hæstu ásar Undirhlíða suðvestan Markrakagils og skammt frá Vatnsskarði, allt að 263 metra háir sem fyrr segir. Bergtegundir veðrast mjög mishratt. Þegar móbergið sem kemst í snertingu við gufuhvolfið veðrast það auðveldlega. Vindur og vatn eru mikilvægir þættir veðrunar. Glögg ummerki þessa má glögglega sjá hér í Háuhnúkum.

Berggangur

Berggangur.

Þarna er um er að ræða mótun landsins, allt frá því um a.m.k. ellefu þúsund árum, þegar eldgos voru tíð undir jökli á síðasta ísaldarskeiði.

Auðvelt er að ganga að Háuhnúkum frá Bláfjallavegi ofan við aflagða malarnámuna, upp á hæðina sunnanverða og fylgja henni og nöfnum hennar að hnúkunum.

Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsing Ara Gíslasonar um „Garða – Garðakirkjuland“.
-Örnefni í óbyggðinni suður og inn frá Hafnarfirði – Þorsteinn Bjarnason.

Háuhnúkar

Háuhnúkar (Móskarðshnúkar). Horft frá Krýsuvíkurvegi.

Skógfellavegur

FERLIRsfélagar gengu suður Skógfellaveg um og eftir miðjan júlímánuð 2025. Á opinberum vefmiðlum var stikuð gatan sögð 15 km löng millum Voga og Grindavíkur.

Skógfelavegur

Skógfellavegur – vegvísir.

Gangan hófst, sem fyrr segir, austan Stapans. Ofan rafveituskúrs er skilti er bendir til vesturs). Á því stendur: Skógfellavegur – 15 km. Frá vegvísunum er greið gönguleið um undirgöng undir Reykjanesbrautina. Handan þeirra lútir handunnið timburskilti með vegvísi; Skógfellavegur – 16 km, en þessi vegvísir bendir nú til vesturs, í átt að Stapagötunni. A.m.k. tvær grímur gætu runnið á óstaðkunnugra við lestur á framangreindar ábendingar.

Skógfellavegur

Skógfellavegur.

FERIRsfélagar vissu hins vegar betur og héldu göngu sinni áfram með vísan á tilfallandi ábendingar og tilvísanir á nálægum holtum til suðausturs, í átt að Litla-Skógfelli.

Í bókinni „Örnefni og gönguleiðir í vatnsleysustrandarhreppi (ofan Gamla-Keflavíkurvegar)“ lýsir Sesselja Guðmundsdóttir Skógfellaveginum frá Stapanum og áfram til Grindavíkur.

„Skógfellavegur er hluti gömlu þóðleiðarinnar til Grindavíkur frá Vogum, Strönd og Hafnarfirði og dregur nafn sitt af tveimur fellum, Litla- og Stóra-Skógfelli sem standa rétt við götuna með nokkru millibili um miðja vegur til Grindavíkur. Nafn götunnar hefur breyst í tímans rás því áður hét hún Sandakravegur, þ.e. sá hluti sem liggur frá Stapahorni og langleiðina að Stóra-Skógfelli en þar eru vegamót. Sandakravegur heldur svo áfram í átt að kasti í Fagradalsfjalli en Skógfellavegur til Grindavíkur.

Skógfellavegur

Skógfellavegur.

Í sóknarlýsingu séra Péturs Jónssonar á Kálfatjörn frá árinu 1840 segir: „Norðan til við Stapann liggur vegur upp í heiðina austur, er kallast Sandakravegur. Á þeim vegi mætir ofan Stapans, 3 tjarnir, sem heita Snorrastaðatjarnir…“
Séra Geir Bachmann á Stað í Grindavík segir í lýsingu sinni: „Yfir þau [hraunin út frá Grindavík] liggja 4 aðalvegir, þrír þeirra til Keflavíkurkaupstaðar og einn til hafnanna. Sá norðasti kallast Sandakravegur; liggur hann í norður útnorður út úr þeim eina alfaravegi austanmanna, sem frá Ölfusinu og Selvogi er hingað, skammt fyrir austan og ofan Hraun (bær í grindavík), fram hjá Fiskidalsfjalli og Skógfellunum, sem öll eru að vestanverðu við veginn, og kemur maður af honum ofan á Vogastapa.“

Skógfellavegur

Skógfellavegur.

Nafnið Skógfellavegur er fullgilt í dag og hefur skapað sér sess í tugi ára meðal Suðurnesjamanna og útivistarfólks. Vegurinn lagðist af um 1920 þegar akvegur var lagður frá Stapanum til Grindavíkur.
Mikil umferð hefur verið um þess götu fyrrum því djúp hófför sjástí klöppum og hún hefur verið vel vörðuð þó vörðurnar séu nú [margar] hrundar.
Við hefjum gönguna umSkógfellaveg rétt ofan Reykjanesbrautar við austasta hluta Stapans en þar er vegvísir á götuna. Þegar þetta er skrifað er ekki fyrirséð hvernig aðgengi frá Reykjanesbraut verður inn á leiðina sem hefur verið stikuð alla leið til Grindavíkur.
Gatan er nokkuð óljós framan af og vörður fáar og ógreinilegar og því var það þarft verk að stika þennan hluta leiðarinnar svo gatan tapaðist ekki alfarið.

Skógfellavegur

Skógfellavegur.

Við fylgjum stikunum og komum fljótlega að okkuð löngu grágrýtisholti, Nýjaselsbjalla, og um það austarlega liggur gatan en holtið er suðaustur af Snorrastaðatjörnum. Undir Nýjaselsbjalla austan götunnar eru litlar seltóftir undir lágum hamri sem snýr til norðurs og dregur bjallinn nafn sitt af selinu.
Nokkrar gjár eru á leiðinni en þær verða okkur ekki til trafala enda auðveldar yfirferðar og snúa hamraveggir þeirr allra til strandar. Fyrsta gjáin sem eitthvað kveður að er Huldugjá en þar sem gatan liggur yfir gjána er sagt að Huldugjárvarða hafi staðið. Á þessum slóðum liggur mörkuð leið nálægt austurjarðri Skógfellahrauns.
Á milli Huldugár og næstu gjár sem heitir Litla-Aragjá er gatan nokkuð óljós en greinileg þar sem hún liggur yfir Aragjána. Þar er tæpt til beggja handa en stór varða stendur á efri gjárbarminum.

Skógfellavegur

Skógfellavegur – endamörkin að norðanverðu.

Þegar líður á gönguna verður gatan greinilegri og næsta gjá sem eitthvað kveður að er Stóra-Aragjá. Grótfylling og hleðsla er í Stóru-Aragjá þar sem leiðin liggur yfir hana og þar stendur myndarleg varða sem heitir Aragjárvarða. Þarna við vörðuna heitir gjáin Brandsgjá en saga hennar er sögð í örnefnefnalýsingu.
Fyrir ofan Stóru-Aragjá tekur fljótlega við helluhraun sem nær langleiðina að Litla-Skógfelli og er vegurinn vel varðaður á þessum slóðum…“.

Ups…
U.þ.b. 50 metrum fyrir ofan Skógfellaveginn ofan Stóru-Aragjár, þar sem leiðin hafði allt frá landnámi liðið um annars slétt helluhraunið, sagði nýrunnin svartlitaður úfin hraunkanturinn, u.þ.b. 6-7 metra hár: „Hingað og ekki lengra!“.

Eldgosahrindan ofan Grindavíkur er sú níunda frá því að eldgosið á og við Sundhnúksgígaröðina ofan Grindavíkur hófst í desember árið 2023. Líklega er þó hér um eitt og sama gosið að ræða – með hléum?

Skógfellavegur

Skógfellavegur – ásýndin að eldvirkninni ofanverðri.

Skógfellavegurinn er nú horfinn með öllu ofan Stóru-Aragjár, allt til Grindavíkur, að undanskildum frá því u.þ.b. fimmtíu metrum ofan vörðurnar tvær ofan gjárinnar. Það má því segja að 3/4 af 15 km veginum sé nú horfið með öllu sem og Sandakravegurinn að mestu.

Fátt er þó svo með öllu illt; enn má sjá fyrrum umfjöllun um Skógfella- og Sandakraveg sem og myndir á vefsíðum FERLIRs – sjá m.a. HÉR, HÉR, HÉR, HÉR, HÉR, HÉR, HÉR, HÉR, HÉR, HÉR, HÉR og HÉR.

Heimildir m.a.:
-Örnefni og gönguleiðir í vatnsleysustrandarhreppi (ofan Gamla-Keflavíkurvegar), Sesselja Guðmundsdóttir 2007, bls. 153-155.

Skógfellavegur

Skógfellavegur – lítið blóm horfir á hraunkantinn.

Sundhnúkagígaröðin

Níunda eldgosið á og við Sundhnúksgígaröðina ofan Grindavíkur hófst 16. apríl 2025 kl. 03:55 að undangenginni skammvinnri jarðskjálftahrinu. Áður höfðu þrjú gos brotist út í eldstöðvakerfinu sem kennt er við Fagradalsfjall. Þetta er því tólfta hrinan í röð eldgosa á sama sveimi síðan 2021, en það níunda í röð eldgosa á Sundhnúkagígaröðinni síðan í desember árið 2023. Líklega er þó hér um eitt og sama gosið að ræða – með hléum?

Sundhnúkagígaröðin

Eldgos á Sundhnúksgígaröðinni 16. júlí 2025.

Gosið hófst að þessu sinni af talsverðum krafti á sprungureininni við Sundhnúk til norðurs millum Stóra-Skógfells áleiðis að Kálffelli, sunnan Litla-Skógfells, á u.þ.b. 2,5 km löngum kafla. Hraunrennslið lá til suðurs og suðausturs í átt að Slögu í Fagradalsfjalli. Talsverður gosmökkur fylgdi í kjölfarið með stefnu á Njarðvíkur og Keflavík.

Fyrri gosuppsprettur á sprungureininni hafa jafnan byrjað með skammvinnum látum, en væntanlega mun, líkt og reynslan gefur til kynna, draga úr gosinu fljótlega og ljúka eftir ca. 12 – 20 daga.

Sundhnúkagígaröðin

Eldgis á Sundhnúksgígaröðinni 16. júlí 2025.

Fyrsta eldgosalotan ofan Grindavíkur var 18. desember 2023, önnur 14. janúar 2024, þriðja 8. febrúar 2024, fjórða 16. mars 2024, fimmta 29. maí, sjötta 22. ágúst, áttunda 20. nóv. og loks þetta níunda 1. apríl 2025 sem fyrr sagði. Fyrstu goshrinurnar þrjár voru skammvinnar, vöruðu einungis í rúman sólarhring, sú fjórða varði í u.þ.b. tvo mánuði – lauk þann 9. maí sama ár, eftir 54 daga dugnað og sú fimmta tuttugu dögum síðar, eða þann 29. maí. Stærsta goshrinan að magni til varð hins vegar 22. ágúst 2024.

Sundhnúksgígaröðin

Eldgos á Sundhnúksgígaröðinni 16. júlí 2025.

Ætla má að þessi hrina verði skammlíf, í tíma talið, líkt og þau fyrri. Eitt er þó víst – von er á nýju áhugaverðu landslagi ofan Grindavíkur með nýjum ófyrirséðum framtíðarmöguleikum. Náttúruöflin eru jú ólíkindatól. Þótt þetta eldgosin virðast óálitlegt tilsýndar munu þau bjóða upp á nýja og spennandi tækifæri – til lengri framtíðar litið. Spurningin er bara að reyna að hugsa til lengri framtíðar og nýta það sem í boði verður. Jarðaröflunum verður ekki stjórnað, en hægt verður að nýta þau þá og þegar svo ber undir, líkt og mannkynið hefur gert í árþúsundir.

Sundhnúksgígaröðin

Eldgos á Sundhnúksgígaröðinni 16. júlí 2025.

Kvikuvirknin virðist skv. mælingum hafa teigt sig lengra til norðurs og er nú mest ofan Voga, sem kemur reyndar ekki á óvart að teknu tilliti til landshátta; gífurlegs landsigs millum Þráinsskjaldardyngjunnar og Hrafnagjár.

Eldsumbrot á þessu svæði ætti ekki að hafa komið nokkrum á óvart í ljósi sögunnar – með Dyngjuna Þráinsskjöld í austri, dyngjuna Fagradalsfjall í suðaustri, dyngjuna Vatnsheiði í suðri og dyngjuna Lágafell í suðvestri og dyngjuna Sandfellshæð í vestri.

Sundhnúksgígaröðin

Eldgos á Sundhnúksgígaröðinni 16. júlí 2025.

Gosið er nokkurn veginn á sömu slóðum og fyrri gos á þekktri sprungurein er liggur áleiðis að Kálffelli. Það ætti að þykja heppileg staðsetning m.t.t. byggðarinnar í Grindavík og að merkilegri megininnviðum standi tiltölulega lítil ógn af gosinu. Ólíklegt er að reyna muni á vatnargarðanna ofan Grindavíkur að þessu sinni.

Eldgosið að þessu sinni, líkt og hin fyrri, undirstrikar hversu litla þekkingu jarðfræðingar og jarðeðlisfræðingar virðast hafa á náttúrufyrirbærum sem þessum.

Sundhnúksgígaröðin

Eldgos á Sundhnúksgígaröðinni 16. júlí 2025.

Jörðin, og þar með umhverfið, hefur verið að breytast allt frá því að hún varð til. Slíkar breytingar, smærri sem stærri, munu eiga sér stað á meðan Jörðin lifir, en reynslan hefur sýnt að þær munu eftir sem áður koma venjulegu núlifandi fólki og sérfæðingum alltaf jafn mikið á óvart.
Sem betur fer verða jarðeldarnir ofan Grindavíkur að teljast léttvægir að teknu tilliti til alltumliggjandi atburða sögunnar.

Sundhnúksgígaröðin

Eldgos á Sundhnúksgígaröðinni 16. júlí 2025.

Áhugavert er að engin gögn hafi borist sem sýna að landið hafi sigið eftir að umrætt gos hófst. Engin merki landsigs liggja fyrir. Það beri þess merki að breytingar hafi orðið á eldstöðvarkerfinu í kjölfar gossins í apríl s.l. Enn er þó óljóst hverjar þær breytingar séu eða hvaða afleiðingar þær gætu hafi í för með sér. Líklegt má telja að núverandi goshrina geti verið sú síðusta í Sundhnúksferlinu.

Þessari hrinu eldgossins í Sundhnúkaröðinni lauk 5. ágúst.

Sjá MYNDIR úr eldgosunum átta við Sundhnúkagígaröðina ofan Grindavíkur sem og hrinunum í Geldingadölum, Meradölum og við Litla-Hrút í og við Fagradalsfjall.

Sundhnúksgígaröðin

Eldgos á Sundhnúksgígaröðinni 16. júlí 2015.

Straumsvík

Í Náttúrufræðingnum árið 1998 fjallar Páll Imsland  „Um náttúruvár á Straumsvíkursvæðinu„.

Náttúrufræðingurinn 1998

Náttúrufræðingurinn 1998 – forsíða.

„Ekkert mat á umhverfisáhrifum mannvirkja eða framkvæmda var komið til þegar undirbúningur og bygging álvers við Straum átti sér stað á sjöunda áratug 20. aldar og þá var heldur ekki farið að huga í mikilli alvöru að mögulegum áhrifum náttúrunnar á byggingar eða starfsemi slíkra iðjuvera. Það má því segja að álverið sé við Straum þrátt fyrir að starfsemi þess beri í sér möguleikana á óheillavænlegum áhrifum á umhverfið og þó að þar lúri vár í náttúrunni sem gætu orðið starfseminni til óþurftar. Hér verður ekki fjallað um áhrif álversins á umhverfið heldur reynt að gefa einfalda mynd af því hvernig álverið er í sveit sett með tilliti til náttúruváa. Ekki hefur verið gerð sérstök og magnbundin úttekt á náttúruvám með beinni hliðsjón af mögulegum áhrifum þeirra á álverið, en sitthvað er vitað almenns eðlis um náttúru svæðisins, þær vár sem þar gætu komið upp og hver almenn áhrif þeirra yrðu.

Páll Imsland

Páll Imsland (f. 1943) lauk B.S.-prófi í jarðfræði frá Háskóla íslands 1973 og doktorsprófi frá sama skóla 1985. Páll hefur m.a. unnið að rannsóknum á jarðfræði Jan Mayen og náttúruvám. Páll er fyrrverandi ritstjóri Náttúrufræðingsins.

Þessi umfjöllun er á þeim almennu nótum. Á mjög einfaldan hátt má gefa várnar til kynna með því að lýsa staðsetningu álversins í landinu í ljósi náttúrufars þar: Álverið stendur á opinni ströndu sem liggur í fjölfarinni braut orkuríkra veðurkerfa skammt frá eldvirku landrekssvæði. Með öðrum orðum þýðir þetta að þarna megi vænta náttúruváa sem eiga sér orsakir í hafrænum, jarðlægum og veðurfarslegum ferlum eða í samspili þeirra. Þau jarðlægu öfl sem þarna eru virk tengjast flest landrekinu. Undir Reykjanesskaganum liggja mörkin milli þeirra tveggja jarðskorpufleka sem mynda jarðskorpu Norður-Atlantshafsins mestan hluta norðurhvels og jarðar, Evrasíuflekans og Norður-Ameríkuflekans, og þar verða flekarnir til við gliðnun og eldvirkni. Því eru sterk tengsl milli nokkurra þeirra ferla sem geta valdið ólíkunr vám á þessu svæði, og ef eitt þeirra fer að gera vart við sig má vænta þess að önnur fylgi í kjölfarið.
Skal nú vikið að hverri þessara náttúruváa og reynt að hafa Straumsvík í huga. Þær náttúruvár sem eru líklegastar til að gera verulegan usla á svæðinu eru: ofviðri, strandflóð, jarðskjálftar, sprungumyndun í yfirborði jarðar, eldvirkni, landsig og landbrot við ströndina. Yfirlit yfir náttúruvár á Straumsvíkursvæðinu er gefið á 1. mynd.

Ofviðri

Páll Imsland

1. mynd. Kortskissa af Suðvesturlandi sem sýnir helstu þætti náttúruhamfara á svœðinu og hvernig þeitn er fyrirkomið í jörð og andrúmslofti með tilliti til Straums. R stendur fyrir Reykjanes-, G fyrir Grindavíkur-, K fyrir Krýsuvíkur-, B fyrir Brennisteinsfjalla- og H fyrir Hengilssprungurein.

Óveður ganga undir ýmsum nöfnum, svo sem illviðri, ofviðri, aftakaveður, fárviðri o.fl. Hér verða einkum notuð orðin ofviðri og aftakaveður. Ofviðri einkennast af sterkum vindi, sem hér á landi er oftast samfara úrkomu. Venjulegast er að miða við 9 vindstig eða meira. Þá fer hlutum að verða hætt við foki og fólk á í erfiðleikum með að ráða sér úti við. Trausti Jónsson (1980 og 1981) hefur fjallað um ofviðri hér á landi. Hann skilgreinir ofviðri þannig að á fjórðungi veðurathugunarstöðva í landinu mælist 9 vindstig eða meira eða að á 10% stöðvanna mælist 10 vindstig eða meira. Mælist 10 vindstig eða meira á 45% stöðvanna kallast veðrið aftakaveður.
Áhrif af ofviðrum eru gífurlega margvísleg og því ógerlegt að tíunda þau öll. Það sem einkum getur orðið fyrir skakkaföllum í ofviðrum, ef við reynum að einfalda yfirlitið, eru fyrst og fremst lausir hlutir, sem vindurinn tekur og feykir, eða hlutir og byggingar sem lausir hlutir fjúka á og skemma. Sjaldgæfara er að heilar byggingar og aðrir fastir hlutir eða þungir fjúki, nema elli og viðhaldsleysi sé farið að setja mark sitt á þá. Þó er plötufok algengt hér á landi. Einkum eru það þakplötur sem vindur nær sér undir og losar og feykir síðan.

Foktjón

Foktjón.

Af slíku foki er tvöfaldur skaði algengur, þ.e.a.s. affoksskaðinn og síðan einnig áfoksskaði annars staðar. Þessu á yfirleitt að vera auðvelt að sjá við og gera ráðstafanir í tæka tíð ef eftirlit er haft með ástandi bygginga. Þar sem sjór gengur á land í óveðrum geta skakkaföllin magnast verulega. Einnig geta fylgt svona veðrum ýmis fyrirbæri sem valda skaða. Má þar t.d. nefna seltu af sjávardrifi, sem getur haft mikil áhrif á flutningsgetu raflína í lofti, og ísingu, sem á það til að sliga slíkar lagnir.
Hér á landi eru illviðri af þessu tagi svo algeng og geta komið svo skyndilega að engan veginn er ráðlegt að skilja eftir létta, lausa hluti óvarða utandyra, að minnsta kosti að vetri til.

Aftakaveður

Aftakaveður.

Samkvæmt samantekt Trausta Jónssonar (1981) voru ofviðri á Íslandi rúmlega 9 á ári að meðaltali á 68 ára tímabili, 1912-1980. Á sama tímabili voru aftakaveður um eitt og hálft á ári að jafnaði. Þessi veður eru langalgengust í NA-, S- og SV-áttum. Ekki liggur fyrir könnun á dreifingu þeirra eða áhrifum þeirra um landið, að öðru leyti en því að hvert veður nær gjarnan yfir stórt landsvæði, eins og fjöldi veðurathugunarstöðvanna í skilgreiningu þeirra gefur til kynna. Þau eru því alls ekki staðbundin fyrirbæri að jafnaði. Eins segja vindáttirnar sem veðrinu fylgja nokkuð um líkur á dreifingu áhrifanna, einkum varðandi sjávaráhrifin, flóð, landbrot og skaða í höfnum og á halfnarmannvirkjum.

Straumsvík

Straumsvíkursvæðið – álverið.

Veðuráhrif eru þó mjög gjarnan staðbundin, þar sem landslag stjórnar vindi á hverjum stað að verulegu leyti, og við slíkar aðstæður geta þung áhrif hitt fyrir ýmis svæði, jafnt við ströndu sem að fjallabaki. Ekki liggur fyrir skýrsla eða samantekt um áhrif ofviðra á Straumsvíkursvæðinu sjálfu, en sterkar S- og SV-áttir eru þar tíðar, einkum að vetrarlagi. Nátengd ofviðrum eru svonefnd strandflóð, sem fjallað er um hér á eftir.

Strandflóð

Strandflóð

2. mynd. Flest strandflóð hérlendis verða i svartasta skammdeginu. Vegna myrkurs og
veðurofsa er erfitt að mynda atburðina sjálfa. Afleiðingarnar er hins vegar auðveldara að
mynda. Strandflóðið 14. okt. 1977 var eitt hinna mestu á síðustu áratugum. Á Stokkseyri mátti sjá mikilfenglegar afleiðingar þess. Þar rak flóðið fjóra fiskibáta á land. Eins og myndin sýnir er einn þeirra alveg uppi á bryggju en hinir uppi á malarkambinum.
Fiskibátar þessir, Bakkavík, sem er uppi á bryggjunni, Hásteinn, Jósep Geir og Vigfús
Þórðarson voru um og yftr 50 tonn að burðargetu. Tveir þeir fyrsttöldu fóru aldrei á sjó
aftur.

Strandflóð eru flókin fyrirbæri sem eiga sér orsök í samspili landslags, áhrifa himintungla og hafrænna og veðurfarslegra ferla. Þær aðstæður sem helst þurfa að vera til staðar í landslaginu til þess að strandflóðahætta skapist eru flatlend og láglend strandsvæði. Gerð strandbergsins og þau rofform sem í því finnast, langt út fyrir fjöruborð, ásamt gerð og magni strandsets, hafa veruleg áhrif á framvindu strandflóða.
Strandflóða gætir mun meir þar sem beinar strendur eru fyrir opnu hafi en þar sem eyjar, sker og skerjagarðar verja ströndina eða þar sem vogar og víkur draga úr ölduhraða og stuðla að öldusveigju. Þá skiptir aðdýpi og grunnsævi fyrir ströndinni og ekki síst ölduaðdragandi (fetch) miklu máli um hæð strandflóða og sjávarmagn sem tekur þátt í flóðinu. Strendur fyrir opnu, víðáttumiklu úthafi verða mun verr fyrir barðinu á slíkum flóðum en strendur innhafa eða þar sem stutt er milli landa og mesti mögulegi ölduaðdragandi því stuttur.
Þau áhrif himintungla sem mestu máli skipta eru togkraftar sólar og tungls. Þannig gætir strandflóða því meir sem þau eiga sér stað nær stórstraumi og þeim mun stærri sem straumurinn er.

Grindavíkurbrim

Brim haföldunnar.

Hafræn og veðurfarsleg ferli, eins og stormur og ölduhæð, krappleiki öldunnar og hraði stormsins og fleira slíkt, eru afgerandi þættir. Í stuttu máli má segja að því meiri sem stormurinn er, því hraðar sem lægðin, sem hann fylgir, fer yfir og því hraðar sem hún dýpkar, þeim mun hærri og krappari verður aldan. För lægðarinnar yfir hafflötinn og lækkandi loftþrýstingi fylgir ris sjávarborðsins, sem verður þeim mun hærra sem loftþrýstingur lækkar meir. Þetta sjávarborðsris myndar bungu á yfirborði sjávar sem eltir lægðina, og mætti kalla hana sjávarskafl (storm surge). Eftir því sem sjávarskaflinn er hærri og meiri um sig, þeim mun meiri verða áhrif hans þegar hann berst upp að ströndu og þeim mun verri verða strandflóðin.

Grindavíkurbrim

Brot haföldunnar.

Veðurlag dægrin á undan lægðinni, sem sjávarskaflinn og flóðið fylgja, skiptir einnig máli, einkum þegar svo háttar til að veðrin valda áhlaðanda, upphleðslu sjávar við ströndina, þ.e.a.s. veðrin hafa blásið sjó að ströndinni svo hann stendur þar hærra en ella. Einnig getur eldra veður, nýlega gengið yfir, haft veruleg áhrif á ölduhæð og öldumynstur á sjónum.
Af þessu ætti að vera ljóst að strandflóðin eru margræð fyrirbæri og þar af leiðandi eru þau einnig æði misjöfn. Hér við land eru strandflóð tíð, enda djúpar, hraðfara lægðir algengar, einkum að vetri, og ölduaðdragandi hér almennt langur.

Grindavíkurbrim

Hafaldan.

Algengast er að lægðirnar komi úr suðvestri og strandflóðin hér fylgi suðvest-, suð- og suðaustlægum stormum. Tíðust eru þau við suður- og suð-vesturströndina. Þessar strendur eru í farvegi lægðanna og suðurströndin er auk þess flöt, lítt vogskorin og að mestu leyti óvarin af eyjum og skerjum.
Svo vill til að Reykjanesskagi ver sunnanverðan Faxaflóa fyrir áhrifum lægðanna, þannig að hinir stóru sjávarskaflar sunnan úr hafi berast þar sjaldan ótruflaðir að ströndu. Í vestlægri öldu er ölduaðdragandi í Faxaflóa tiltölulega stuttur vegna nálægðar Grænlands, og vestanáttir eru sjaldgæfastar allra stífra vindátta hér á landi. Seltjarnarnes og Álftanes verja hluta af sunnanverðum Faxaflóa fyrir norðvestlægum öldum, einkum Hafnarfjörð og Straumsvíkursvæðið. Af þessu leiðir að við sunnanverðan Faxaflóa gætir strandflóða yfirleitt mun minna en veðurfarsleg efni annars standa til.

Grindavíkurbrim

Hafaldan brotnar.

Ströndin við Straum er á svæði þar sem strandflóð eru almennt tíð, en hún er frá náttúrunnar hendi vel varin fyrir áhrifum þeirra, þótt hún sé fremur opin fyrir og ekki varin af skerjagarði.
Á síðustu 200 árum hafa hátt í 60 strandflóð orðið við Suðvesturland, sem í þessu tilviki er talið frá Dyrhólaey vestur um til Skipaskaga. Þetta þýðar að meðaltímalengd milli strandflóða á svæðinu er um 3,3 ár. Ekki gætir þó allra þessara flóða í Faxaflóa, þar eð þau eru að mestu leyti fylgifiskur suðaust-, suð- og suðvestlægra átta og Faxaflói, einkum að sunnanverðu, nýtur skjóls af Reykjanesskaga í þess konar flóðum, eins og áður kom fram. Strandflóðin eru fyrst og fremst vetrarfyrirbæri. (2. mynd).

Jarðskjálftar og sprungumyndun

Sprungumyndun

3. mynd. Við Grindavík,
nánar tiltekið við suður-
endann á annarri þeirra
sprungureina sem valdið
geta sprungum í yfirborði
jarðar á Straumsvíkur-
svœðinu. A myndinni er
horft til NA, sunnan frá sjó
upp til bæjarins. Sprungan
teygist í lítið eitt hliðruðum
sprungubútum alla leið inn
að bœnum. Sprungukerfið
heldur áfram inn undir
byggðina, kemur síðan í
ljós aftur norðan hennar og
teygist þaðan norður eftir
heiðunum og allt að
Straumi.

Það er ekki einfalt mál að gera grein fyrir jarðskjálftavirkni og áhrifum jarðskjálfta þannig að umfangið verði augljóst. Jarðskjálftar eru afar breytilegir að stærð og áhrif þeirra eru því mismunandi. Áhrifin eru ekki einungis misjöfn á upptakasvæðinu og eftir stærð skjálftanna heldur breytast þau líka með fjarlægð og það misjafnlega, í samræmi við byggingu jarðskorpunnar. Því er ekki unnt að gera neina einfalda grein fyrir áhrifum jarðskjálfta á tiltekin svæði, t.d. Straumsvíkursvæðið. Áhrifin fara eftir því hvar upptakasvæði skjálftanna eru, hversu stórir skjálftarnir eru og um hvers konar jarðlög þeir berast.
Þau upptakasvæði jarðskjálfta sem líklegust eru til að hafa áhrif á Straumsvíkursvæðinu eru flekaskil jarðskorpunnar undir Reykjanesskaga, allt austur undir Ölfus, og einnig vestasti hluti þvergengisbeltisins sem liggur um Suðurland. Jarðskjálftar á þessum svæðum hafa tilhneigingu til að koma í hrinum, sem standa vikum, mánuðum eða jafnvel árum saman, með hundruðum og oftast þúsundum einstakra skjálfta. Flestir eru þessir skjálftar svo litlir að þeir finnast ekki, mælast aðeins á jarðskjálftamælum, og hafa því lítil sem engin áhrif á yfirborði. Skjálftunum fækkar yfirleitt jafnt og þétt með stærð. Stærð skjálftanna er gefin í stigum á Richter-kvarða. Kvarðinn er lógariþmískur; þannig er skjálfti upp á 4 stig tíu sinnum öflugri en skjálfti upp á 3 stig o.s.frv. Kvarðinn gefur til kynna orkulosun í upptökum skjálftans en segir ekkert um áhrifm af skjálftanum á mismunandi stöðum. Til þess að lýsa áhrifum jarðskjálfta á tilgreindum stöðum er notaður annar kvarði, Mercalli-kvarðinn, sem er gjörólíkur og minnir meir á stigakvarðann sem notaður er um vindstyrk. Skjálftahrina gekk yfir Reykjanesskagann á ámnum 1971 og 1972 og var hún vel rannsökuð (F.W. Klein o.Il. 1973). Hún einkenndist af einstökum, tiltölulega lillum hrinum og minni virkni þeirra á milli. Í stærstu hrinunni, sem stóð í um 8 sólarhringa, mældust um 14.600 kippir. Skjálftahrina þessi, 1971-1972, varð á flekaskilunum undir Reykjanesskaga og mátti af skjálftunum kortleggja skilin í fyrsta sinn. Síðan hafa fleiri slíkar hrinur komið og er ein slík, að vísu flóknari, í gangi nú og hefur verið undanfarin ár austar á flekaskilunum, á Hengilssvæðinu.

Grindavík

Grindavík – jarðskjálftar í nóv. 2023.

Það er yfirleitt ekki fyrr en skjálftarnir ná 3-4 stigum á Richter-kvarða að verulega áþreifanlegra áhrifa af þeim fer að gæta á yfirborði. Það er hins vegar háð gerð og byggingu jarðskorpunnar, spennuástandi hennar og upptakadýpi skjálftanna hver og hve mikil áhrifin verða. Ef skjálftarnir verða stærri en þetta fer áhrifanna að gæta mun meir, og skjálfti af stærðinni 7 hefur venjulega áhrif svo tugum kílómetra skiptir út fyrir upptakasvæðið. Á plötuskilunum á Reykjanesskaga má vænta stærstu skjálfta í kringum 6 stig, stækkandi austur á bóginn (Páll Halldórsson 1992). líkir skjálftar gætu haft þó nokkuð mikil áhrif á Straumsvíkursvæðinu, en þó varla til mikils skaða.

Jarðskálfti

Þann 26. ágúst 1896 hófust á Suðurlandi einhverjir mestu jarðskjálftar, sem sögur fara af hér á landi. Fyrsti kippurinn var snarpastur í Rangárvallasýslu og í Eystri hrepp í Árnessýslu, þar sem fjölmargir bæir hrundu til grunna. Næsta morgun kom annar kippur og virtist hann hafa verið snarpastur í Hrunamannahreppi, en þar féllu nokkrir bæir. Að kvöldi 5. september kom enn mjög snarpur kippur, sem olli miklu tjóni í Holtum, Skeið og Flóa.

Stærstu skjálftar, sem menn búast við á Suðurlandsþvergengisbeltinu, gætu farið eitthvað yfir 7 stig á Richter-kvarða. Slíkur skjálfti sem ætti upptök vestast á svæðinu, t.d. í Ölfusi eða undir Hellisheiði, mundi að líkindum hafa veruleg áhrif víða vestanfjalls og valda þar þó nokkru tjóni.
Líkur eru fyrir því að auk skjáfta á þessum alþekktu skjálftabeltum, þar sem jarðskorpuflekar snertast, komi öðru hverju skjálftar sem eiga upptök sín utan skjálftabeltanna. Slíkir skjálftar kallast gjaman innflekaskjálftar, til aðgreiningar frá flekajaðraskjálftum. Þeir verða vegna þess að spennubreytingar verða í skorpunni innan flekanna sjálfra, fjarri flekajöðrum, sem afleiðing af spennulosun í jarðskjálftum hingað og þangað við flekaskilin. Þessar spennubreytingar geta leitt til skjálfta, sem eiga sér upptök innan flekans, og virðast slíkir skjálftar geta orðið allsterkir.

Jarðskjálfti

Þann 26. ágúst 1896 hófust á Suðurlandi einhverjir mestu jarðskjálftar, sem sögur fara af hér á landi. Fyrsti kippurinn var snarpastur í Rangárvallasýslu og í Eystri hrepp í Árnessýslu, þar sem fjölmargir bæir hrundu til grunna. Næsta morgun kom annar kippur og virtist hann hafa verið snarpastur í Hrunamannahreppi, en þar féllu nokkrir bæir. Að kvöldi 5. september kom enn mjög snarpur kippur, sem olli miklu tjóni í Holtum, Skeið og Flóa.
Fólk var komið í háttinn þegar skjálfti 7,5 á Richter reið yfir. Síðan um 1700 hafa 7 jarðskjálftar verið á Suðurlandi og hafa haft styrkleika >VIII (1706, 1734, 1752, 1784, 1789, 1896 og 1912).
Svipað er að segja um Rangárvelli. Þar hafa bæir örugglega fallið 12 sinnum, líklega 17 sinnum, og þar hafa að minnsta kosti 5 jarðskjálftar siðan 1700 haft styrkleika >VIII eða 1725, 1732, 1784, 1896 og 1912. Aðeins einu sinni er vitað með vissu, að jarðskjálftar samfara byrjun Heklugoss hafi orðið svo sterkir, að bæir hafa hrunið, en líklegt, að það hafi skeð tvisvar eða þrisvar sinnum.

Upplýsingar um slíka skjálfta eru nokkuð af skornum skammti og við þeim er ennþá aðeins eitt ráð tiltækt: að byggja vel og gera miklar kröfur um styrkleika viðkvæmra mannvirkja. Slfkir skjálftar eru tíðari nærri flekaskilum en fjær þeim og því má ekki útiloka slíka skjálfta á Straumsvíkursvæðinu. Áhrif þeirragætu orðið mikil.
Augljósustu ummerki eftir jarðskjálfta í landslagi eru sprungur og misgengi. Reykjanesskagi einkennist mjög af sprungnum berggrunni og eftir skaganum liggja nokkrar mjög áberandi, samsíða sprungureinar frá suðvestri til norðausturs og sjást þær glöggt á jarðfræðikortum (Kristján Sæmundsson og Sigmundur Einarssson 1980). Á þeim eiga landsrekshreyfingarnar sér fyrst og fremst stað og þær einkennast af þrem megingerðum sprungna: opnum gjám (verða til við gliðnunartilfærslu), misgengjum (verða til við lóðréttar tilfærslur) og gosgígaröðum (sem eru yfirborðsmyndir sprungna sem flytja bergkviku að neðan og upp til yfirborðs). Vestast þessara reina liggur Reykjanessprungureinin, sem nær utan af Reykjaneshrygg um Reykjanes og norðaustur eftir Strandarheiði og Elliðavatni og allt upp í Mosfellssveit (Páll Imsland 1985). Vesturhluti hennar lendir í sjó við Stóru-Vatnsleysu, en eystri hlutinn fylgir þurrlendinu áfram norðaustur á bóginn og stefnir á Straumsvík og Hafnarfjörð.
SprungurÚr sjó stefnir sprungureinin aftur á land á innanverðu Álftanesi fyrir mynni Hafnarfjarðar. Sums staðar er þessi rein mjög áberandi í landinu, einkum á hraununumsem runnið hafa eftir að ísaldarjökulinn leysti af landinu fyrir um 10.000 árum. Þó hafa yngstu hraunin sums staðar runnið yfir sprungurnar og hulið þær. Þannig háttar til við Straum. Sprungur eru þar ekki áberandi í landinu, enda þekja ung hraun svæðið. Sprungureinin liggur samt sem áður undir þessum ungu hraunum og einnig úti fyrir ströndinni, og hún er sá hluti svæðisins sem líklegast er að hreyfist í jarðskjálftum í framtíðinni. Telja má að áhrif af jarðskjálftum á svæðinu í framtíðinni geti einkum orðið í fyrsta lagi má vænta þess að barmar sprungna í berginu gjögti vegna bylgjuhreyfinga sem fara um berggrunninn frá skjálftum á og utan svæðisins. Þetta gjögt getur haft margvísleg minni háttar áhrif á berggrunninn jafnt sem byggingar og önnur mannvirki sem liggja yfir sprungur.

Sprungur

Sprungur í nágrenni Reykjavíkur. Uppdráttur Jóns Jónssonar, jarðfræðings.

Í öðru lagi má vænta þess að á sumum þessara sprungna, á nokkru dýpi, brotni jörðin á ný og hreyfing verði á sprunguflötunum. Þar hliðrast þá barmarnir til og gjár opnast eða lokast, ganga á mis í lóðrétta eða lárétta stefnu. Sambland einhverra eða allra þessara hreyfingarþátta getur einnig átt sér stað. Slíkar hreyfingar gætu einnig átt sér stað við myndun nýrra sprungna á svæðinu, sjá 3. mynd. Myndun nýrra sprungna og hreyfing gamalla eins og hér var lýst er líkleg til að rjúfa vegi, lagnir í jörð og línur í lofti. Hún getur einnig raskað byggingum eða brotið þær illilega.
Í þriðja lagi er ekki ástæðulaust að ætla að misgengishreyfingar á sprungum á sjávarbotni úti fyrir ströndinni geti valdið flóðöldum af þeirri gerð sem kallast tsunami (sjávarskriða), þótt við þekkjum ekki dæmi þess héðan, en aðstæður til slíks eru fyrir hendi á Straumsvíkursvæðinu.
Tíðni sprunguhreyfinga og sprungumyndunar á þessu svæði er óþekkt, eins og raunar víðast hvar. Eðli slíkra atburða er margrætt og litlar tilraunir hafa verið gerðar til að slá tölu á þá.

Eldvirkni og hraunrennsli

Jarðfræðikort

Jarðfræðikort ISOR af Reykjanesskaga (Jón Jónsson og Kristján Sæmundsson).

Eins og lesa má af jarðfræðikortum (Kristján Sæmundsson og Sigmundur Einarsson 1980) er Straumsvíkursvæðið allt á ungum hraunum sem runnið hafa eftir að ísöld lauk. Austan svæðisins eru móbergshálsar sem orðið hafa til í eldgosum undir jöklum ísaldar. Rétt norðan við svæðið taka við grágrýtisholt mynduð við hraunrennsli á síðustu hlýskeiðum ísaldar. Eldsumbrot hafa því ekki aðeins sett svip sinn á svæðið heldur myndað það allt. Eldvirknin sem hér á hlut að máli er svokölluð rekeldvirkni, en það þýðir að bergkvikan kemur upp á sprungum sem tengjast andrekshreyfingum jarðskorpunnar. Kvika þessi er í nær öllum tilvikum basaltkvika, yfirleitt þunnlljótandi og heit og hefur því litla tilhneigingu til sprenginga.

Eldgos

Eldgos á Reykjanesskaga 2024.

Einkennandi fyrir hana eru þunn hraun sem ná mikilli útbreiðslu. Ekki hefur gosið á þessu svæði síðustu aldirnar.
Yngsta hraunið á Straumsvíkursvæðinu er venjulega kallað Kapelluhraun og er talið vera sama hraun og heitir í fornum heimildum Nýjahraun. Það rann skömmu eftir landnám. Nýlega hafa Sigmundur Einarsson o.fl. (1991) gert grein fyrir þessu hrauni. Kapelluhraun er hluti af hraunaklasa, sem þeir telja hafa runnið í hrinu sprungueldgosa, Krísuvíkureldum, sem stóðu á svæðinu líklegast í nokkra áratugi á 12. öld. Gossprungan, sem var virk í þessari hrinu, náði sunnan frá Latsfjalli við suðurenda Móhálsadals og norður á bóginn undir vesturhlíðum Undirhlíða, allt norður undir Helgafell. Hún er á Krýsuvíkursprungureininni, sem er næsta rein austan við Reykjanessprungureinina.

Helgafell

Austasti gígurinn á Ögmundarhraunsgígaröðinni 1151.

Hraun frá sprungunni runnu í þessum eldum í sjó beggja vegna á Reykjanesskaga, bæði við Krýsuvík hina fornu og Straum. Samkvæmt kolefnisaldursgreiningum rann Kapelluhraun á elleftu eða tólftu öld. Það er í góðu samræmi við hinar fornu heimildir um Nýjahraun. Nafnið Nýjahraun telja menn merki þess að hraunið hafi runnið eftir að menn komu til landsins og það er frá því fyrir árið 1343, því þá braut þar skip, eða eins og segir í Annál Flateyjarbókar (Storm 1888) við árið 1343: „…braut Katrínarsúðina við Nýjahraun…“

Hraunhóll

Hraunhóll undir Vatnsskarði. Upptök Kapelluhrauns.

Á þessu um það bil 850 ára gamla hrauni stendur álverið við Straum. Hraunið kom upp á gossprungu innan Krýsuvíkursprungureinarinnar en hefur runnið út úr henni til norðvesturs og inn yfir norðurhluta Reykjanessprungureinarinnar. Svo norðarlega á Reykjanesreininni hafa ekki komið upp nein eldgos svo vitað sé. Virkni hennar þar einkennist af tiltölulega grunnum jarðskjálftum og sprungumyndun. Það er því fyrst og fremst virkni á Krýsuvíkursprungureininni norðanverðri sem er líkleg til að ógna Straumsvíkursvæðinu með hraunrennsli.

Bollar

Bollagígar austan Lönguhlíðar.

Gosstöðvar eu líklegastar í Undirhlíðum eða vestanundir þeim. Eftir Krýsuvíkurelda á 13. öld hafa ekki komið upp hraun í nágrenni Straumsvíkursvæðisins. Landslagi er þannig háttað að hraun sem koma upp vestanundir Undirhlíðum eiga ekki annarra kosta völ en að renna út á hraunflákana til vesturs og norðurs og leita undan halla og þrýstingi frá kvikunni sem flæðir úr gígunum í átt til strandar, í átt að Straumsvík.

Straumslína

Straumslína frá Hamranesi.

Áður en að álverinu sjálfu kemur eru raflagnir, spennuvirki, þjóðvegur og fleira slíkt í rennslisleiðum hrauna; mannvirki sem skipta verulegu máli, bæði fyrir starfrækslu álversins og alla byggð sunnar á skaganum. Það er því ljóst að hraunflóðahætta er þarna til staðar, en ekkert er þekkt sem bendir til yfirvofandi hæltu. Náttúran á svæðinu hefur ekki sýnt nein þekkjanleg merki þess að þarna séu eldgos í uppsiglingu. Á hitt ber samt að líta að þetta er afkastamikið, virkt eldgosasvæði þar sem ekki hefur gosið í um 850 ár, og til eru vísbendingar um að virknin á Reykjanesskaganum gangi í hrinum með nokkurra alda aðgerðalitlum hléum. Hrinur þessar einkennast af jarðskjálftum, spmngumyndun og eldgosum.

Landsig og strandrof

Hvaleyri

Hvaleyrarfjara.

Ströndin á Suðvesturlandi er almennt að síga, en þó er á því viss óregla. Þetta er hægfara og lítið landsig, sem tengist annars vegar landrekshreyfingum og hins vegar eldvirkni svæðisins. Þessir tveir þættir vinna þannig: Höggunarhreyfingar landreksins valda því að stöku sinnum hrökkva til berggrunnsblokkir sem eru afmarkaðar af sprungum. Þær síga eða lyftast eftir atvikum og getur þá munað miklu, mörgum metrum, á hæðarstöðu þeirra fyrir og eftir. Skrið jarðskorpuflekanna burt frá landreksásnum stefnir þeim út á meira dýpi, í átt að kólnandi umhverfi, og hvort tveggja veldur örlitlu landsigi, millimetrabrotum á ári.

Reykjanesskagi - jarðfræði

Kort Jóns Jónssonar – Eldvirkni á nútíma.

Meginþáttur landsigsins er hins vegar jafnan talinn vera tengdur eldvirkninni. Því háttar þannig til að þegar bergkvikan berst upp á yfirborðið og hleðst þar upp sem hraun eða móbergsfjöll veldur hún auknu fargi á skorpuflekann. Uppbygging jarðlagastaflans hefur þannig tilhneigingu til að pressa flekana niður, þar eð þeir eru stinnir og á floti á seigfljótandi undirlagi. Nánar má lesa um orsakir þessar í áðurtilvitnaðri grein. Þessi síðasti þáttur gæti á Straumsvíkursvæðinu numið 1-3 mm á ári að jafnaði, eða um 2 cm á 10 árum, 20 cm á öld o.s.frv.
Af þessu sést að ekki er líklegt að landsig á Straumsvíkursvæðinu valdi miklum vandamálum. Hinu má samt ekki gleyma að landsigið hefur afleiðingar sem í samspili við sigið sjálft gætu aukið á áhrifin. Þessar afleiðingar eru aukin áhrif strandrofs. Þar sem ströndin sígur á sjórinn smám saman greiðari leið inn á landið og hefur meiri möguleika á að valda rofi og öðrum usla á strandsvæðinu. Engin töluleg gögn liggja fyrir um afköst strandrofs á svæðinu. Hin hljóða vá á ströndinni er greinilega til staðar á Straumsvíkursvæðinu, en í óþekktum mæli.“

Heimild:
-Náttúrufræðingurinn, 3.-4. tbl. 1998, Páll Imsland – Um náttúruvár á Straumsvíkursvæðinu, bls. 263-272.

Straumsvík

Straumsvík 1978 – loftmynd.

Krýsuvík

Jarðfræðifyrirbærið „Sprengigígur“ er gígur þar sem sprengigos (gjóska) hefur komið upp. Gosefnin þeytast langt og hátt upp í loftið, en skilja lítið af jarðefnum eftir sig.

Sprengigígar

Sprengigígar – myndun.

Sprengigígar eins og Víti við Kröflu verða til við sprengivirk gos í megineldstöðvum eða (sjaldnar) á jöðrum eldstöðvakerfa. Gígar af þessu tagi kallast sprengigígar á íslensku, en hins vegar kallast þeir „maar“ í mörgum erlendum tungumálum. Það orð kemur úr þýsku, af því að mjög margir sprengigígar eru til á Eifelsvæðinu í Þýskalandi og eru kallaðir “Maare”.

Gígarnir eru í flestum tilvikum lágir, stundum með engum gígbörmum og oftast fullir af vatni. Gosopið líkist djúpu gati í jarðskorpunni og mest af rúmmáli gígsins er neðan þess. Aðeins lágir rimar úr gjósku ná að hlaðast upp á börmunum. Þar sem sprengigígarnir ná niður úr grunnvatnsfleti, safnast vatn fyrir í gígskálinni. Þvermál flestra sprengigíga á Íslandi er 50-500 m, en dýpið frá brún 10-100 m.

Sprengigígar

Sprengigígar – skýringar.

Gosvirknin verður þegar kvikuþrýstingur í eldstöð er mjög hár, eða kvikan inniheldur mjög mikið af lofttegundum og/eða vatnsgufu. Þá verða öflugar sprengingar. Þetta getur leitt til þess að hlutar eldstöðvanna hverfa í hamaganginum og lítið sést til eiginlegra gosopa eða gíga að gosi loknu. Í flestum tilfellum eru sprengivirk gos þó ekki svo öflug og stendur þá eftir greinilegur gígur eða gígar. Stundum eru þau þó allöflug, en yfirleitt stutt, gjóskugos. Hins vegar kemur fyrir að vatn í miklum mæli kemst að kvikunni og þá verður stutt en öflugt þeytigos með mikilli vatnsgufu, sem skilar einnig af sér lágum eða engum gígbörmum, sem fyrr sagði. Gjóskuframleiðslan getur verið frekar lítil, en brot úr berggrunninum berast upp í sprengingum og þeytast um allt umhverfið.

Sprengigígar

Grænavatn

Grænavatn í Krýsuvík.

Sprengigígur (e. maar) er eins og nafnið bendir til gígur sem verður til í sprengingu. Sprengingin verður oftast

vegna þess að kvika kemst í snertingu við vatn skammt undir yfirborðinu eða að gasrík kvika springur við yfirborðið.
Stórir sprengigígar eru til í Veiðivatnakerfinu eins og Ljótipollur og Hnausapollur. Fleiri dæmi eru líka þekkt eins og Víti við Öskju og Grænavatn við Krýsuvík.

Sprengigjá

Sprengigígar

Sprengigígar (-gjá) – Valagjá.

Sprengigjá (e. explosion fissure) er aflangur sprengigígur sem verður til þegar sprengingar verða á stuttri sprungu.

Valagjá norðaustan Heklu er tengt fyrirbæri, þar hafa a.m.k. þrír gígar tengst saman og úr orðið einhvers konar sprengigjá.

Sprengigos

Sprengigígar

Sprengigígar – sprengjugos.

Sprengigos (e. explosive eruption) teljast hvers konar gos þar sem kvika tætist í sundur í sprengingum. Oftast er það snerting við vatn sem veldur sprengingunum en stundum er spennu í sjálfri kvikunni um að kenna. Spennan stafar þá af gosgufum sem þurfa rými.

Víti í Kröflu og Víti í Öskju myndast sennilega við gufusprengingar. Sprengigos í Víti árið 1724 markaði upphaf stórrar hrinu eldsumbrota hjá Kröflu sem kölluð hefur verið Mývatnseldar.

Sprungugos
Sprungugos (e. fissure eruption) er eins og nafnið bendir til eldgos á sprungu.

Gosgígar
Gosgígar sem þróast hafa í sprengigíga koma fyrir á nokkrum háhitasvæðum. Þeir eiga rætur að rekja til eldgosa þar sem vatn úr jarðhitakerfi hefur leitað í gosrásina og soðið upp úr henni.

Sprengigígar

Sprengigígar (gos-) – Innstidalur.

Þar sem gossprungur liggja yfir háhitasvæði koma fyrir sprengigígar og meira gjall í gígum en utan við. Vatn úr jarðhitakerfi er þar einnig orsökin. Skýrust dæmi eru í Trölladyngju og Krýsuvík en það sama sést einnig í Innstadal í Hengli, Bjarnarflagi og e.t.v. víðar. Dæmin sem hér að framar er vitnað til eru öll frá nútíma, þ.e. eftir lok ísaldar. Á nokkrum háhitasvæðanna eru sprengigígar og jafnvel þyrpingar sprengigíga frá ísöld eða ísaldarlokum, t.d í Kröflu, Trölladyngju, Hengli og Kverkfjöllum. Þeir kunna að hafa myndast þegar þrýstiástand fór úr jafnvægi við hlaup eða við snögga lækkun grunnvatnsborðs í ísaldarlokin.

Minniháttar hverasprengigígar

Austurengjahver

Austurengjahver.

Minniháttar hverasprengigígar eru nokkuð algengir á háhitasvæðum. Þeir verða til þegar vatn hvellsýður á litlu dýpi. Hverabollarnir eru fáeinir metrar á dýpt og 30 til vel yfir 50 m í þvermál þeir stærstu. Nokkur nýleg dæmi eru um hverasprengingar sem allar hafa orðið í tengslum við jarðskjálfta (Hveragerði og Reykjakot þar ofan við, Austurengjahver í Krýsuvík) og þá á upptakasprungunum.

Kolsýrusprengigígar

Sprengigígar

Sprengigígar (kolsýru) – Súlufell.

Kolsýrusprengigígar eru sprengigígar af óvissum uppruna og koma fyrir á Hengilssvæðinu. Þeir eru í móbergsfjöllum norðaustur af Ölkelduhálsi og miklu yngri en fjöllin sjálf (Smjördalur í Súlufelli og Kattatjarnir). Gígarnir eru nokkur hundruð metrar í þvermál, kringlóttir, nema þar sem þeir grípa hver í annan, en ekkert úrkast verður rakið til þeirra. Bólstrabergshryggir mynduðust á eftir gígunum, líklega í sama gosi. Mikil kolsýra er í hverum á Ölkelduhálsi.

Krýsuvík

Krýsuvík – sprengigígar.

Þeir sprengigígar sem helst líkjast loftsteinsgígum eru öskugígar eða „hverfjöll“ (eftir samnefndu felli í Mývatnssveit), en slíkir gígar myndast við það að bergkvikan kemst í snertingu við grunnvatn á leið sinni til yfirborðsins, hún freyðir og sundrast í smáar agnir; ekkert hraun myndast heldur einungis gjóska (aska og vikur). Séu gosin kraftlítil hlaðast gosefnin upp í kringum gosopið og myndast þá öskugígur. Efnið í gígnum er þá hraðkæld bergbráð sem á fræðimáli nefnist „hýalóklastít“, sambreyskja úr eldfjallagleri. Hér á landi liggja slíkir gígar á gossprungum.

Grænavatn

Grænavatn á Núpshlíðarhálsi.

Loftsteinsgígar tengjast auðvitað ekki sprungum (nema þá fyrir tilviljun), efnið í þeim er að vísu glerjað, en það er uppbrætt bergið sem loftsteinninn féll í. Kristallar í berginu, bæði í gígnum sjálfum og umhverfis, sýna oft merki um höggbylgju sem fór um efnið þegar loftsteininum laust til jarðar.
Meginmunurinn er samt sá, að gagnstætt loftsteinsgígum hafa eldgígar „rætur“, það er aðfærsluæð eða -æðar sem fluttu bergbráðina til yfirborðsins. Í annan stað eru loftsteinsgígar sjaldnast úr storkubergi, heldur myndast þeir í setbergi eða myndbreyttu bergi.

Grænavatnseggjar

Sprengigígar – Grænavatnseggjar (Grænavatn fremst, Djúpavatn t.h. og Spákonuvatn efst).

Landslag á Reykjanesskaga, einkum þó í Krýsuvík, er mótað af umbrotum og jarðeldum. Grænavatn, Gestsstaðavatn og Augun eru sprengigígar sem myndast hafa við sprengigos á ýmsum tímum. Grænavatn er stærst, um 46 m djúpt. Vatnið fær lit sinn af hveraþörungum og kristöllum sem draga grænan lit sólarinnar í sig. Gestsstaðavatn heitir eftir fornu býli sem fór í eyði á miðöldum. Augun eru lítil gígvötn beggja vegna þjóðvegarins. Í öllum þessum gígum er vatn. Sunnan við Grænavatn eru hins vegar tveir vatnslausir sprengigígar, Stampar (Litli-Stampur og Stóri-Stampur).

Sjaldgæft er að sprengigígar gjósi oftar en einu sinni. Þeir eru oft það djúpir að þeir ná niður fyrir grunnvatnsborð. Í sprengigosum er megingosefnið stundum aðallega vatnsgufa og gastegundir, en lítið af gjósku.

Sprengigígar

Sprengigígar í Grafningi (Álftatjörn, Litla-Kattartjörn, Stóra-Kattatjörn og Djáknapollur efst).

Kattartjarnir eru í Hryggjunum, suðvestan til í Grafningi. Neðri-Kattartjörn (Nyrðri-), Stóra-Kattartjörn er norður af Kyllisfelli, en Efri-Kattartjörn (Syðri-), Litla-Kattartjörn er norður og/eða norðvestur af fellinu. Tjarnir þessar hafa stundum verið nefndar Katlatjarnir (Neðri-Katlatjörn, Efri-Katlatjörn og eru nefndar svo í sameiginlegri skrá Hagavíkur-, Ölfusvatns- og Krókslanda, eftir Svein Benediktsson. Það er sennilega líkinganafn. Tjarnirnar eru mjög djúpar (gamlir sprengigígar) og dimmbláar og líkjast e.t.v. kattaraugum; það er sem maður líti í djúpblá kattaraugu, svo mikil er dýptin. Nafnið hefur líklega breytzt í Katlatjarnir, vegna þess að tjarnirnar eru gamlir gígar, katlar.

Önnur dæmi um sprengigíga á Reykjanesskaganum eru Grænavatn á Núpshlíðarhálsi, Djúpavatn, Spákonuvatn, Arnarvatn og Austurengjahver.

Heimildir:
-https://is.wikipedia.org/wiki/Sprengig%C3%ADgur
-https://isor.is/jardhiti/hahiti/sprengigigar/
-https://jardfraedi.vefbok.idnu.is/?id=32&tx_systimeglossary_pi1%5Bcharacter%5D=s&cHash=8bf0fc14952fadd54c0faf1ba759395c#c6
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=1208

Arnarvatn

Arnarvatn á Sveifluhálsi.