Tag Archive for: Kaldársel

Búrfell
Gengið var um Lambagjá, en hún hefur verið friðuð. Með í för voru skiptinemar á vegum Lionshreyfingarinnar, annar frá Króatíu og hinn frá Slóvaníu.
Rauðshellir

Rauðshellir.

Ætlunin var m.a. að gefa þeim innsýn í myndun landsins og sýna þeim hrauntraðir, hraunhella og eldgíga.
Í Lambagjá eru hlaðnar þverfyrirhleðslur á a.m.k. tveimur stöðum og einnig er hlaðið fyrir þar sem auðvelt hefur verið að komast upp úr gjánni miðsvæðis. Líklegt má telja að gjáin hafi verið notuð sem aðhald eða jafnvel nátthagi um tíma. Hraunhaft er í hrauntröðinni, en gengið var undir það. Þar niðri var fallegt þrastarhreiður og í því þrjú egg. Þrösturinn hafði greinilega verpt í það öðru sinni í sumar. Skammt ofar var annað þrastarhreiður, yfirgefið. Gengið var áfram upp að opi Níutíumetrahellis. Frá því var haldið upp að Selvogsgötu þar sem hún liggur niður í Helgadal og kíkt í Vatnshelli áður en haldið var upp með misgenginu að Rauðshelli. Við op hans var einnig þrastarhreiður á sillu með fjórum eggjum í.

Rauðshellir

Hleðslur í Rauðshelli.

Farið var inn í hellinn og m.a. skoðuð hlaðin fyrirhleðsla, sem þar er. Misvísandi lýsingar eru á Rauðshelli. Til er gömul lýsing, sem mun vera rétt, en einnig hefur verið giskað á að um Hundraðmetrahellinn gæti verið að ræða, en slíkt passar ekki við gömlu lýsinguna. Náttúrulegur bekkur hefur verið þarna þvert yfir hellinn, sem bæði hefur verið hægt að komast yfir og undir. Hún er nú fallin, en rauður liturinn í hellinum er enn áberandi. Hleðslur eru í jarðfallinu og án efa einnig undir gróðurþekjunni, sem þar er. Forn stekkur er skammt norðar.
Þá var gengið upp í Fosshelli og haldið í gegnum hann. Sást vel hversu fallegur hraunfossinn er sem og flórinn í efri hluta hellisins.

Búrfellsgjá

Hlaðið fyrir helli í Búrfellsgjá.

Gengið var yfir að Búrfelli. Í hrauntröðinni er m.a. skúti með fyrirhleðslu. Haldið var upp eftir tröðinni og litið niður í gíginn, sem er ótrúlega tilkomumikill. Háir veggir traðarinnar geyma ótrúlegar hraunmyndarnir, ef vel er að gáð.
Búrfell er eldborg. Frá henni rann hraun niður í Hafnarfjörð og Skerjafjörð. Heildarflatarmálið er u.þ.b. 18 ferkílómetrar. Hraunið er talið vera í kringum 7200 ára.
Búrfellið tilheyrir eldstöðvakerfi kennt við Krísuvík. Búrfell er hringlaga gígur úr hraunkleprum. Gígurinn er 179 metrar yfir sjó þar sem hann er hæstur og 140 metrar að þvermáli milli barmanna. Dýptin hefur mælst 58 metrar frá hæsta og 26 metrar frá lægsta barmi. Mismunurinn á barmi gígsins stafar af misgengi sem átti sér stað eftir að eldvarpið hlóðst upp.

Búrfellsgjá

Búrfellsgjá.

Búrfell gaus einu sinni, það var flæðigos og framleiðslan var fyrst og fremst Búrfellshraun. Meginuppistaðan í eldvarpinu eru kleprar, þeir eru lagskiptir og hallar lögunum bratt niður í gíginn. Rofist hefur ofan og utan úr Búrfelli og hefur myndast hvasst egg á toppi fjallsins sem er úr lausri gosmöl.
Búrfellshraun er innan marka Garðabæjar og Hafnarfjarðarbæjar. Tveir megin hraunstraumar hafa komið frá Búrfelli. Það sem aðgreinir þessar kvíslir er Helgadalshraun.

Búrfellshraun

Búrfellshraunin.

Búrfellið gengur undir ýmsum nöfnum eftir því hvar það er. Sá hraunstraumur sem er Hafnarfjarðarmegin hefur eftirfarandi nöfn: Næst Búrfelli er Smyrlabúðahraun (kennt við fuglinn smyril sem gerði sér hreiður þarna), Gráhelluhraun, Lækjarbotnahraun, Stekkjarhraun, Sjávarhraun, Arnarhraun og vestar heitir það Flatarhraun. Garðabæjarmegin er fyrst Garðahraun, Urriðakotshraun, Vífilstaðahraun, Hraunholtshraun, Gálgahraun og Balahraun. Hraunið er stórbrotið apalhraun og meðalþykkt þess er ekki undir 20 metrum.
Sá hraunstraumur sem runnið hefur í Heiðmörk og niður í Garðabæ hefur runnið eftir Búrfellsgjá. Búrfellsgjá þykir með fallegri hrauntröðum landsins. Gjáin er 3,5 km á lengd með meginstefnu í norðvestur. Búrfellsgjá er mjóst upp við gíginn eða um 20-30 metrar milli barma en breikkar þegar lengra dregur og verður mest 300 metrar. Í hrauninu út með Vífilsstaðahlíð grynnkar hrauntröðin og hverfur, sá endi Búrfellsgjár nefnist Selgjá. Á köflum eru gjárveggirnir þverhníptir og mynda sums staðar grunna hellisskúta sem eru með snarhöllu þaki. Barmar, veggir og botn hrauntraðarinnar er allt úr Búrfellshrauni.

Búrfellsrétt

Búrfellsrétt. Gerðið fjær.

Gengið var niður gjána og að Gjáarrétt. Réttin var skoðuð sem og Gerðið. Innst í því, undir slútandi klettaveggnum er hlaðið hús, nokkuð heillegt.

Gjáarrétt

Gjáarrétt og nágrenni.

Gjáarrétt hefur sennilega verið lögrétt Garðhreppinga, Bessataðahreppsbúa og Hafnfirðinga í nokkur hundruð ár (Ól. Þorvaldsson). Sigurður í Görðunum segir í minningum sínum: „Réttin okkar var í hrauninu, skammt fyrir sunnan Vatnsenda. Hygg ég, að það hafi verið ein sérkennilegasta rétt á landinu. Hún hét Gjárétt, enda var hún í gjá. Skammt frá eru víðir og fagrir vellir og þar var oft leikið sér og ekki sízt sprett úr spori bæði þegar komið var í réttina og eins þegar réttardeginum var lokið.“

Gjáarrétt

Gjáarrétt – uppdráttur ÓSÁ.

Gjáarrétt (Gjárétt) var fjallskilarétt (lögrétt) til 1920, en þá var hún flutt niður í Gráhelluhraun og nefndist Hraunrétt. Dilkar voru 12 talsins uns einum dilk Selvogsmanna var bætt við suðaustast í réttinni. Árið 1955 var gerð rétt við Kaldársel. Gjáarrétt var friðlýst að tilstuðlan þjóðminjavarðar 1964.
Frábært veður – hlýtt og stillt. Gangan tók 3 klst og 30 mín.

Upplýsingar um Búrfellshraun er m.a. fengið af http://www.flensborg.is/sisi/hafnarfj/burfellshraun.htm

Búrfell

Gígur Búrfells – upptök Búrfellshrauns.

Rauðshellir

Ákveðið var að að taka hellahring í Kaldárseli.

Kétshellir

Ketshellir / Setbergsselsfjárhellir.

Byrjað var á að kíkja á Hamarkotsselshelli (Selhellir) og Setbergsselshelli (Ketshellir) undir Setbergshlíð. Hellirinn er um 15 metra langur og opnast í báða enda. Hleðslur eru fyrir opum, einkum Setbergsselshellismegin. Þverhleðsla skiptir hellinum fyrir miðju. Stórar hraunhellur hafa fallið úr þaki inngangsins að norðanverðu, en hellirinn sjálfur hefur veitt fé (og reyndar geitumundir það síðasta, gott skjól á meðan var. Gróið er í kringum Setbergsselið og fallegur stekkur er þar sem Selvogsgatan liðast upp hálsinn, í átt að Kershelli og Smyrlabúðahrauni. Selið er undir hæðinni, utan í Gráhelluhrauninu, en innan við hraunkantinn er enn eitt hellisopið.

Kershellir

Kershellir.

Kershellir er bæði aðgengilegur og rúmgóður. Hann opnast innan úr keri efst á hraunbrún. Ofan við opið er stór varða. Innan úr Kershelli er Hvatshellir, sá sem drengir Friðiks Friðrikssonar söfnuðust saman í á leið þeirra í Kaldársel. Síðar var lagður vegur að búðum KFUM er reistar voru þar. Gamla Kaldársel er undir suðurvegg búðanna (hússins).
Þá voru skoðaðir Kaldárselsfjárhellarnir er FERLIR opnaði fyrir u.þ.b. þremur árum. Þá voru engin spor við munnana og alls engin innan þeirra. Greinilegt er að margir hafa litið þarna við síðan þá.

Helgadalur

Helgadalur – stekkur.

Ummerki eftir heykuml er miðsvæðis, en í nyrsta fjárskjólinu er hlaðinn miðgarður. Syðsta fjárskjólið er stærst og aðgengilegast. Við munnann hafði þröstur verpt fjórum eggjum í hreiður á syllu við innganginn. Fylgdist hann vel með mannaferðum og lét í sér heyra.
Lokst var strikið tekið til austurs áleiðis að Helgadalshellunum; Hundraðmetrahelli og Rauðshelli. Gengið var eftir hleðslunni undir gömlu vatnsleiðsluna úr Kaldárbotnum, henni fylgt áleiðis til suðausturs yfir Lambagjá og síðan vent til austurs að Helgadal. Greinilegt var að einhverjir hafa verið duglegir að hirða grjót úr hleðslunni á köflum. Á leiðinni mátti sjá falleg hraunreipi í helluhrauninu. Ekki var litið inn í Níutíumetrahellinn að þessu sinn, en höfðinu hins vegarstungið niður í Vatnshelli. heyra mátti tónlist vatnsins er dropar þess lentu á sléttum tærum vatnsfletinum og bergmáluðu inni í holrúminu.

Rauðshellir

Rauðshellir.

Þegar komið var að Rauðshelli skein sólin á munnann og hleðslurnar þar fyrir. Einhverjir hafa í seinni tíð nefnt hellinn Pólverjahelli, en þegar hann er skoðaður gaumgæfilega fer hin gamla nafngift ekki á milli mála. Víða í hellinum hefur rauðleitt hraunið runnið upp á veggina og makað hann litskrúðugan. Hleðslurnar fyrir opum og gróið jarðfallið benda til þess að þarna hafi einhvern tímann verið selstaða. Þá staðfestir forn stekkur norðan við það þá kenningu. Misgengi liggur með norðanverðum Helgadal til austurs og vesturs. Undir því á einum stað sést móta fyrir hleðslum.

Helgadalur

Op Hundraðmetrahellisins.

Farið var inn í Hundarmetrahellinn og skoðaðir raunbekkirnir með veggum og einnig litið á hraunfossinn inn undir jarðfallinu við enda hans. Ofan við hraunfossin er rás upp úr hrauninu sunnan við og undir sauðfjárveikigirðinguna, sem þarna er.
Helgafell skartaði sínu fegursta í kvöldsólinni, sem og Valahnúkar og Kaldárbotnar.

Frábært veður.

Helgadalur

Hleðslur í Rauðshelli.

Kaldársel

Gengið var frá húsi K.F.U.M. og K. Ætlunin var að ganga til suðurs að Kaldá, þar sem hún rennur neðan við húsið, og yfir göngubrú, sem þar er á henni með stefnu eftir Kúastígnum að Kýrgili.

Kaldársel

Kaldárssel – uppdráttur ÓSÁ.

Kaldá rennur þar á mótum tveggja hrauna. Annað hraunið rann úr suðri um 1151, en hitt rann úr Búrfelli löngu fyrr eða fyrir u.þ.b. 4750 árum, norðaustan af Kaldárseli. Tóftir selsins voru nokkurn veginn þar sem viðbygging Kaldársels er nú svo og sunnan hennar, ofan árbakkann. Þar má enn sjá móta fyrir garðhleðslum. Sunnan árinnar, á hægri hönd þegar farið er yfir Kaldá, má einnig og sjá tótt á árbakkanum. Eftir stutta göngu að girðingu framundan er komið inn á hluta gömlu Krýsuvíkurleiðanna; Dalaleiðar er lá upp um Kýrgil og áfram til suðurs austan Undirhlíða, og Undirhlíðarvegar er lá áfram til suðurs vestan Undirhlíða, allt að Ketilsstíg yfir Sveifluháls. Sameiginlegi hlutinn er augljós í Kaldárhrauninu og auðvelt að fylgja honum í átt að Kaldárselshnjúkum. Við hnjúkana greindist Krýsuvíkurvegurinn, sem fyrr segir, annar lá upp fyrir Undirhlíðar, Dalaleiðin, og hinn út með Hlíðunum.

Kaldársel

Kaldárssel; hús KFUM og selsrústirnar.

Gamli bærinn í Kaldárseli stóð á túnblettinum, sem núverandi hús stendur á, þ.e. suðaustan við eldra húsið, á móts við miðju þess nýrra er snýr að árbakkanum. Áður tilheyrði landið Garðakirkju og hafði hún þar í seli fram til ársins 1836. Frá árinu 1873 hafði Hvaley þar leigusel. Sel Garða voru flest í Selgjá vestan Búrfellsgjár. Enn sjást þar tóttir selja með hraunbarminum beggja vegna, einkum að sunnanverðu, svo og fallegir fjárhellar, bæði í gjánni og efst í Urriðavatnshrauni. Hafnarfjarðarbær keypti árið 1912 allmikinn hluta af Garðakirkjulandi, Kaldársel þar með.

Kaldársel

Tóftir Kaldársels framan við núverandi hús.

Elsta heimild um Kaldársel er í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703. Þar segir að Hvaleyri eigi selstöð þar sem heitir Hvaleyrarsel suður af Hvaleyrarvatni í Selshöfða, auk selstöðvar í Kaldárseli. Aðrir munu ekki hafa nýtt það sel. Þegar Hvaleyrarbóndi hætti selförum að Kaldárseli lagðist selstöð þar niður með öllu, annað hvort 1865 eða 1866.

Í húsvitjunarbók Garða má sjá að árið 1867 er kominn ábúandi í Kaldársel. Hann hét Jón Jónsson, en hann var þar stutt. Eftir það lagðist búskapur niður um nokkur ár.

Selgjá

Selgjárhellir. Einnig nefndur Þorsteinshellir.

Árið 1876 kom þangað Þorsteinn Þorsteinsson eða Þorsteinn í Selinu, eins og hann var jafnan nefndur. Enn er efst í Heiðmörkinni fallegur fjárhellir, Þorsteinshellir, sem lengi var talinn týndur. Þorsteinn var nokkuð sérkennilegur í háttum. Á hans tíma voru í Kaldárseli nokkar byggingar, matjurtargarður, sem lá frá bænum niður að ánni mót suðri og vörslugarður. Bæjarhús voru lítil en snoturlega byggð. Í því var baðstofa, búr, eldhús og bæjardyr. Tætturnar voru allar vel hlaðnar úr sléttum og þykkum hraunhellum, en hvergi mold eða torf á milli, svo sem venja var.

 

Kaldársel

Tóft vestan við núverandi hús í Kaldárseli.

Jón Guðmundsson á Setbergi keypti húsin í Kaldárseli sem og kindur. Þau voru öll rifin, nema baðstofan, sem stóð uppi fram undir aldamót. Hún var einkum notuð sem sæluhús fyrir fjármenn Setbergsbænda, sem þá fengu þar afdrep á ferðum sínum.  Haustleitarmenn Grindvíkinga leituðu alla leið að Kaldá og höfðu náttstað í Kaldárselisínu, einkum sauðum, víðs vegar þar í högum. Einnig var gott fyrir Krýsvíkinga að hafa þarna afdrep. Þá var mikil umferð útlendra ferðamanna til Krýsuvíkur, einkum til að skoða hinar nýyfirgefnu brennisteinsnámur, sem þar voru. Þeir gistu margir í Kaldárseli. Baðstofan bar þess merki. Í sperrur og súð voru skorin ófá mannanöfn af ýmsum þjóðernum.

Kaldársel

Kaldársel – fyrsti skáli K.F.U.M. Kaldársel sést aftan við húsið.

Að liðnum aldamótum 1900 var ekkert hús lengur í Kaldárseli. Ferðum útlendinga fækkaði, Krýsvíkingar týndu ört tölunni, fjallleitir Grindjána styttust og hið stóra Setbergsheimili tvístraðist. Og fénaðurinn hvarf úr högunum.
Árin 1906-1908 fékk Kristmundur Þorláksson Kaldársel til afnota, síðar stórbóndi í Stakkavík. Hann kom upp smáheyhlöðu í Kaldárseli fyrir sínar 50 kindur með því að byggja yfir hina gömlu baðstofutótt, sem þá stóð enn ófallinn. Þá byggði hann þar lambahús. Ekki hafði hann not af gömlu tóttunum að öðru leyti en því að hann gat nýtt úr þeim hraunhellurnar, sem hann gerði af miklum dugnaði. Kristmundur lá við í Hafnarfirði, en fór fótgangandi um veturinn beitarhúsaveginn í Kaldársel í myrkri kvölds og morgna.

Kaldársel

Kaldársel – fjárskjól.

Ærnar hafði hann við gömlu hellana, sem eru skammt norður af Selinu. Lömbin voru í húsi, en músin vildi leggjast á þau. Kristmundur flutti loks fé sitt í Hvassahraun þar sem honum bauðst vist. Hann var því síðasti bóndinn í Kaldárseli.
Framundan eru Kaldárhnjúkar Syðri. Hlíðin á vinstri hönd og hraunið á þá hægri. Eftir stutta göngu er gengið framhjá Kúadal, en talið er að selssmalinn hafi rölt kvölds og morgna um þessa sömu götutroðninga með kýr úr og í haga. Vestan Kúadals taka Undirhlíðarnar við. Gengið er framhjá Kýrskarði og áfram útfyrir Múla á hægri hönd. Þar á horninu er hellisskúti er nefnist Árnahellir, kenndur við Árna Gíslason í Brekkubæ í Hafnarfirði.

Kaldársel

Kaldársel – fjárborg; ljósmynd Daniels Bruun.

Með Hlíðunum eru tré, sem plantað var af Skógræktarfélagi Hafnarfjarðar, sum fyrir áratugum síðan. Þar er minnisvarði um fyrsta formann Skógfræktarfélagsins, Ingvar Gunnarsson. Afturhlíðar Undirhlíða heita Bakhlíðar eða Gvendarselshæð. Þar er Gvendarsel vestan í hlíðinni. Sjást tóttir selsins og hlaðinn stekkur framan þess.

Kaldársel

Kaldársel – tilgáta ÓSÁ.

Framundan undir Hlíðunum, sem áður nefndust Gvendarselshlíðar, eru Kerin. Þau eru fallegir tvíburagígar. Hægt er að ganga upp í efri gíginn úr þeim neðri um gat á milli þeirra, en þar uppi er tilvalinn, skjólgóður, áningastaður.
Sjá meira um Kaldársel HÉR, HÉR, HÉR, HÉR, HÉR og HÉR. Og er þá um fátt getið…
Frábært veður.

Kaldársel

Teikning Daniels Bruun af baðstofunni í Kaldárseli.

 

Kaldársel

Eftirfarandi er úr bókinni „Íslenskir sagnaþættir og þjóðsögur XII„, Reykjavík 1957, safnað hefur Guðni Jónsson“

Kaldársel

Heykuml við Kaldársel.

„Í suðaustur frá Hafnarfirði er staður sá, sem heitir Kaldársel. Er það nokkur nær Hafnarfirði en Helgafell, en þó mun vera þangað fullur stundargangur, jafnvel þótt hart sé farið. Nú er að sumarlagi unnt að komast í bíl mest af leiðinni. Fyrir nokkrum áratugum var búið í Kaldárseli, ei eigi að staðaldri, heldur 2-3 ár í senn, því fremur hefir það verið lítil og léleg jörð. Túnið var lítið og hefir verið fátt nautgripa, en fjárbeit hefir sennilega verið þar góð.
Sigríður Jónsdóttir húsfreyja í Hafnarfirði, kona Helga Sigurðssonar, hefir sagt frá því, sem hér er ritað, um dvöl sína í Kaldárseli. er frásögn hennar á þessa leið:

Kaldársel

Gengið um Kaldárselssvæðið.

Ég er upp vaxinn á Setbergi við Hafnarfjörð. Bjuggu þar foreldrar mínir, Jón Guðmundsson og Vilborg Jónsdóttir. Þegar ég var 13 ára gömul, bjuggu hjón í Kaldárseli, er hétu Jón Jónsson og Sigríður Ásgrímsdóttir. Höfðu þau búið þar 2-3 ár. Eftir nýár 1873 var ég lánuð í Kaldársel húsfreyju til aðstoðar, og dvaldi ég þar til vors eða þangað til á venjulegum vinnuhjúaskildaga. Áttu þau hjón eina kú og nokkrar kindur. Stóð kýrin geld frá því um nýár og þar til vika var af góu, þá bar kýrin.
Þegar hún er um það bil fullgrædd, þá er það eitt kvöld að loknum mjöltum, að húsfreyja gengur inn í búrið og verður litið á búrhilluna. Kemur hún auga á tveggja marka ask, mjallahvítan, er stendur tómur á búrhillunni, og þekkti hún þegar, að hann var eigi til á heimilinu. Kemur hún inn og segir: „Verði mér aldrei verra við, Sigga. Frammi á búrhillu stendur tómur askur, sem ég ekki kannast við“. Þá segi ég: „Ef þetta hefði komið fyrir hjá henni mömmu, þá veit ég, hvað hún hefði gert. Hún hefði látið mjólk í hann“.

Kaldársel

Kaldársel – fjárhellir.

Húsfreyja lét að orðum mínum og hellti askinn fullan af mjólk. Næsta morgun var askurinn horfinn, en kvöldið eftir um mjaltatíma er askurinn kominn aftur og er þá tómur, og gekk þetta svo á hverju kvöldi, þar til vika var af sumri. Lét húsfreyja jafnan mjólk í askinn á hverju kvöldi, og var hann ætíð horfinn næsta dag. Þá dreymir húsfreyju eina nótt, að kona kemur til hennar og segir: „Mikið á ég þér að þakka, og þinnar hjálpsemi og hjartagæzku skal ég lengi minnast. Maðurinn minn hefir legið sjúkur um langan tíma, og hefir þú haldið lífinu í honum með gjöfum þínum og litlu barni, sem við eigum. Vildi ég fegin sýna einhvern lit á að endugjalda þér það, sem þú hefir gjört fyrir mig og mína, en hagur minn leyfir ekki að launa þér þetta, eins og vera bæri. En þegar þú býrð um rúmið þitt, þá muntu finna nokkuð undir neðsta stykkinu, sem þú átt að eiga. Nú þarf ég eigi lengur að mér góðsemi þína“.

Kaldársel

Borgarstandur við Kaldársel.

Konan hvarf síðan burtu, og sá húsfreyja hana ganga norður í klettabyrgi nokkurt, sem er þar fast við túnið. Húsfreyja virtist leggja lítið upp úr þessum draum og vildi láta sem minnst á þessu bera. Ég sagði ýmsum drauminn, en húsfreyja var þá vön að þagga niður í mér og sagði: „Vertu ekki að þessu, Sigga. Þetta er eintóm vitleysa“.
Jón og Sigríður höfðu ákveðið að flytja sig um vorið frá Kaldárseli og niður að Ási. Á krossmessudaginn komu foreldrar mínir bæði upp í Kaldársel til þess að hjálpa þeim með flutninginn. Slær nú mamma upp á glensi við Sigríði og segir: „Nú held ég, að glaðni yfir þér, þegar þú fer að taka upp úr rúminu þínu. Það verður líklega eitthvað fémætt, sem þú finnur“. En húsfreyja vildi eigi láta á það minnast með einu orði.

Fremstihöfði

Hálfhlaðið fjárhús undir Fremstahöfða.

Mamma fer nú að taka fötin úr rúmi Sigríðar og tínir upp hverja spjör, þar til komið er niður á bálkinn. Þá verður henni litið nær höfðalaginu og kemur auga á svarta smátusku á stærð við hundseyra. Dregur hún það upp, og smástækkar það. Flettir hún því í sundur, og kemur þá innan í því stórt og fagurraut alklæðispils, sýnilega nýtt, og var það hinn bezti gripur. Voru á því þrjár leggingar grænar með eitthvað þumlungs millibili og kantabryddað með sama lit. Mamma réttir húsfreyju pilsið, en hún segir: „Æ, blessuð Vilborg, taktu það. Ég hefi ekkert við það að gera“. Mamma svarar þá: „Ekki tek ég pilsið handa mér eða mínum. Þér er ætlað það, og ættir þú sjálf þes að njóta. En viljir þú það ekki, þá skal ég taka pilsið heim til mín og gera úr því föt handa Halldóru dóttur þinni. Hún á að fermast næsta vor“. Þegar hér var komið, kallar pabbi til þeirra og kveðst vera tilbúinn og vill fara að halda af stað. Bað þá húsfreyjan hann að doka við litla stund, fannst henni hún þurfa að kveðja nábúa sína, áður en hún flytti burt fyrir fullt og allt. Mun hafa hreyft sér hjá henni vinarþel og þakklátssemi við hina huldu grannkonu sína, þótt hún léti það lítt uppi.

Kaldársel

Borgarstandur – garður og stekkur.

Gekk nú Sigríður norður í byrgi það, sem fyrr um getur. Féll hún á kné frammi fyrir klettunum, en hvað hún sagði eða hugsaði, fæ ég eigi frá skýrt. Var þetta kveðja henna, þegar hún yfirgaf Kaldársel.“

Selfarir voru lengi tíðkaðar við Kaldá og voru hjónin Jón Hjartarson og Þórunn Sigurðardóttir á Hvaleyri síðust til að hafa þar í seli. Selförum var hætt í Kaldárseli árið 1865 eða 1866 og lögðust þar með af í Álftaneshreppi og líkast til á öllu Reykjanesi. Eftir það var reynd búseta í Kaldárseli sem lagðist fljótlega af vegna rýrra landkosta og músagangs.

-http://tradisjoner.no/text91.html

Kaldársel

Kaldárssel – uppdráttur ÓSÁ.

Valahnúkar

Gengið var frá Kaldárseli á Helgafell, um Valahnúka með viðkomu í Valabóli og síðan stolist um Kaldárhnúka á leiðinni til baka.

Helgafell

Helgafell – steinbogi.

Selfarir voru lengi tíðkaðar við Kaldá og voru hjónin Jón Hjartarson og Þórunn Sigurðardóttir á Hvaleyri síðust til að hafa þar í seli. Selförum var hætt í Kaldárseli árið 1865 eða 1866 og ekki leið á löngu áður en þær lögðust af í Álftaneshreppi og síðan á öllu Reykjanesi. Eftir það var reynd búseta í Kaldárseli sem lagðist fljótlega af vegna rýrra landkosta. Við Kaldársel eru m.a. bæjarrústir, fjárhústóft og gerði sem eru friðlýstar fornminjar.

Þegar gengið er áleiðis á Helgafell er komið að nyrsta hluta Gvendaselsgíga. Gígarnir standa upp úr hrauninu efst á brúninni, sá nyrsti stærstur.
Flestir, sem halda á Helgafell, ganga norður fyrir fjallið og síðan auglýsta gönguleið upp skriðuna.

Gvendarselshæðargígar

Nyrstu Gvendarselshæðargígarnir norðvestan Helgafells.

Mun auðveldari gönguleið er upp móbergsgil skammt vestar á norðanverðu fjallinu. Þá er komið upp í sléttan dal og þaðan er auðvelt að ganga upp slétthallandi móbergið, áleiðis upp á öxlina og síðan á toppinn. Fjallið er 340 m.y.s.

Ein sjö Helgafell eru til í landinu; þetta suður af Hafnarfirði, í Mosfellssveit, á Þórsnesi á Snæfellsnesi, yst sunnan Dýrafjarðar, í Strandasýslu vestan Hrútafjarðar, í Þistilfjarðarfjallgarði norðaustan Öxarfjarðarheiðar og í Vestmannaeyjum.

Helgafell

Helgafell – móbergsfjall.

Hugsanlega er nafnið tengt lögun þessara fjalla, en þau eru að minnsta kosti sum hver regluleg eða heilleg að útliti. Af einhverjum ástæðum var talin helgi á Helgafelli á Snæfellsnesi.
Orðið helgur er samandregin mynd úr heilagur, sem er skylt orðinu heill. Örnefni með Helga- að fyrra lið geta einnig verið dregin af mannsnafninu Helgi.

Helgafell

Áð efst á Helgafelli.

Ágætt útsýni er af Helgafelli í góðu skyggni. Að þessu sinni var haldið suður fyrir fjallið og niður og í gegnum gataklett, sem þar er. Niðurgangurinn er auðveldur. Þegar komið var niður á jafnsléttu var gengið til austurs með sunnanverðu fjallinu, upp á Valahnúka þar sem heilsað var upp á tröllin, og niður að Valabóli þar sem áð var um stund. Valaból er fallegur trjálundur. Við hann er Músarhellir.

Frá Valabóli var gengið niður í Helgadal, sem áður var vinsæll útivistarstaður, einkum af hálfu skátanna, upp á Kaldárhnúka og komið niður í Kaldárbotnum þar sem vatnsveita Hafnarfjarðar er með vatnsból sín og tekur ferskvatn fyrir bæjarbúa. Venjulega er svæðið girt af, en vegna mikilla snjóa var girðingin á kafi og leiðin því greið um hnúkana.

Valaból

Valaból.

Fyrrnefnd friðlýsing nær einnig yfir hleðslu undir vatnsveitustokk sem lagður var frá Kaldárbonum áleiðis til Hafnarfjarðar 1917 – 1918. Var 1600 m löng trérenna látin flytja vatnið og því sleppt niður í Gráhelluhraun við Sléttuhlíð. Það rann síðan um 3 km neðanjarðar og kom upp í Lækjarbotninum við norðurenda hraunsins.
Neðar sprettur Kaldá fram undar Kaldárhöfða og streymir um 1100 m leið ofanjarðrar áður en hún hverfur ofan í gljúpt hraunið. Talið er að hún renni í sjó fram við Straumsvík og hraunin sunnan Hafnarfjarðar. Við Karlársel eru Gjárnar, allmerkileg náttúrusmíð.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Helgafell

Helgafell og nágrenni – örnefni og leiðir – ÓSÁ.

Kaldársel

Voru Steinhús gamalt sel? Eða bara hús úr steini?
Á gömlum kortum er örnefnið Steinhús sunnan Kaldár, skammt sunnan Kaldársels. Samkvæmt landamerkjalýsingum Garðabæjar, gömul mörk, er Steinhús (Steinhes) sögð vestan Kaldársels og sunnan Efstahöfða (Fremstahöfða). Af þessu að dæma getur staðsetning Steinhúsa skipt máli. Og ekki bara það heldur er örnefnið sjálft einkar áhugavert.
En til þess að geta skoðað staðinn þurfti að finna hann.

Steinhes

Steinhes. Helgafell fjær.

Steinhúsa er ekki getið í seinni tíma gögnum. Vitnað er til þess í örnefnalýsingu að þar hafi verið sel, væntanlega Kaldársel. Það nafn virðist yngra. Örnefnið vakti forvitni FERLIRs, ekki einungis vegna misvísandi upplýsinga um það heldur og vegna nafnsins.
Þegar gengið var um svæðið voru rifjaðar upp gamlar heimildir um viðfangsefnið.
Í Landnámu er tveggja jarða getið innan þess svæðis sem Garðabær nær til. Ásbjörn Özurarson, bróðursonur Ingólfs Arnarsonar, er sagður hafa búið á Skúlastöðum, en nam land milli Hraunsholtslækjar og Hvassahrauns og Álftanes allt. Eru munnmæli um að Skúlastaðir hafi verið þar sem Skúlastaðahraun er, sem er norðan við Lönguhlíðarhorn, innan Almenningsskóga Álftaneshrepps. Hin jörðin er Vífilsstaðir, eða Vífilstóftir, sem þó telst ekki til hinna eiginlegu landnámsjarða, en hún var byggð af Vífli, húskarli Ingólfs Arnarssonar. Vífilsstaðir munu fljótlega eftir landnám hafa komist í eigu kirkjunnar, fyrst Viðeyjarklausturs, en árið 1558 eignaðist Garðakirkja jörðina. Talið er að kirkja hafi verið að Görðum á Álftanesi allt frá því að kristni var lögtekin á Íslandi árið 1000. Hvar Garðar voru er hvergi getið. Þjóðsagnaskýring hefur varðveist þess efnis að Garður hafi fyrrum verið þar sem Garðaflatir eru nú, ofan Búrfellsgjár.

Garðakirkja

Garðakirkja 1956.

Garðakirkju er fyrst getið í heimildum um 1200 í kirknamáldaga Páls biskups Jónssonar. Á þjóðveldis- og Sturlungaöld eru litlar heimildir um íbúa Álftaness og þar í kring. Eftir að hreppskipan komst á, á þjóðveldisöld, tilheyrðu núverandi landsvæði Garðabæjar Álftaneshreppi og einnig bæði höfuðbólin Garðar og Bessastaðir. Afréttarland Álftaneshrepps hafði ýmist nöfnin Garðaland, Garðakirkjuland eða Garðastaðarland. Hreppamörk Álftaneshrepps vestan og suðvestan féllu saman við landamerki Hvassahrauns og Lónakots og Straumstorfunnar, í suðri land að mörkum Grindavíkurhrepps um vestanverð Brennisteinsfjöll austur að sýslumörkum Gullbringu- og Kjósarsýslu og Árnessýslu, en að norðan við landamerki jarðanna Arnarness og Vífilsstaða. Álftaneshreppi var skipt upp árið 1878, í Garðahrepp og Bessastaðahrepp. Var Álftaneshreppur þá lagður niður samhliða. Með úrskurði landshöfðingja dags. 17. sept. 1878 var áðurnefnd tvískipting ákveðin. Eftir skiptinguna 1878 tilheyrði byggðin suður fyrir Hafnarfjörð Garðahreppi. Sú skipting hélst þar til Hafnarfjörður fékk kaupstaðarréttindi árið 1908. Eftir það og fram til ársins 1959 náði lögsaga Garðahrepps beggja vegna við Hafnarfjörð, en þá var mörkum sveitarfélaganna breytt. Garðahreppur fékk kaupstaðarréttindi og sérstakt lögsagnarumdæmi með lögum nr. 83/1975, en skv. þeim skyldi umdæmið ná yfir allan fyrrum Garðahrepp.

Steinhes

Steinhes.

Samkvæmt framangreindu voru fyrrum mörk Garðarhrepps í Arnarbæli og úr Arnarbæli (Arnarstapa) lá línan í Hnífhól, þaðan í Húsfell. Úr Húsfelli lá línan í Þríhnúka, og þaðan í suðurenda Bláfjalla (Bláfjallahorn). Úr Bláfjallahorni í Kistufelli, þaðan í syðra horni á Fagradalsbrún, þaðan í Vatnsskarði(Melrakkaskarð), í Fjallið eina og svo í Markhelluhól. Úr Markhelluhól fór línan í Búðarvatnsstæði, þaðan í Steinhús, og þaðan í miðjan Ketshelli. Úr Ketshelli lá línan svo og endaði aftur í Arnarbæli (Arnarstapa).
Ef byggt er á merkjalýsingu Garðakirkjulands samkvæmt landamerkjabréfi nr. 154, sem Þórarinn Böðvarsson prófastur í Görðum undirritaði 7. júní 1890, er Garðakirkjulandinu m.a. lýst svo: „…beina línu í suður landsuður í Arnarbæli, þaðan austur í landsuður upp í Hnífhól, þaðan til austurs landsuðurs í mitt Húsfell, úr miðju Húsfelli beint til suðurs í efri Strandartorfu, þaðan beint í (suður) í Markraka í Dauðadölum, þaðan til vesturs í Markrakagil í Undirhlíðum, sem er norðanvert við Fjallið Eina, þaðan til norðurs ofanvert við Hvaleyrar og Ás lönd í Steinhús, sem er við neðri Kaldárbotna….“.
Svæðið að norðanverðu, milli Arnarbælis, Kethellis og Steinhúss, er einnig getið í lýsingu í eiginhandarbréfi séra Árna Helgasonar í Görðum til sýslumanns, dags. í Görðum 13. janúar 1848, sem inniheldur svofellda lýsingu á Garðakirkjulandi: „Á sydri hraunbrúnina hjá Nordurhellrum og so sudur eptir Smillubúdar hraunsjadri og I midjan Kjötshellir og so hraunid allt fram ad Steinhusinu, og so beint ur steinhusinu og upp sydri Kaldárbotna; þadan, og allt Helgafell, I Markraka, úr Markraka og í Daudadali úr Daudadölum og í Strandartorfu, úr Strandartorfu rettsýnis í Húsfell, so úr Husfelli og I Hnífhól úr Hnífhól og heim í Arnarbæli“.

Kaldársel

Hálkarað fjárhús skammt frá Kaldárseli.

Landinu er lýst í merkjalýsingu sem var þinglýst á manntalsþingi í Görðum á Álftanesi 22. júní 1849: „Fyrst milli Garðakirkju fjalllands, úr Steinhúsi suður í Markagil (Marakka) eða Undirhlíðum, þaðan í Hæðstaholt á Dauðadölum á annan veg úr Dauðadölum norður í Húsfell, af Húsfelli upp í þríhnjúka, þaðan á suðurenda Bláfells á milli afrétta Álftanes- og Seltjarnarneshrepps. Á milli Gullbringu- og Árnessýslu af Bláfjöllum vestur á Kistufell. Á milli Álftaneshrepps og almennings og Krýsuvíkur landa af Kistufelli niður í syðra horn á Fagradalsbrún, þaðan í Marakkagil, svo í þúfu á Fjallinu Eina. Þaðan í Helguflöt norðan á Búðarhólum. Á milli jarðanna Heimalands og afréttar af Búðarhólum eptir Búðarhólagjá, þaðan aptur í Steinshús“. Mun Búðarvatnsstæði vera þar sem Helguflöt norðan á Búðarhólum er, sbr. kort af Almenningsskógi Álftaneshrepps, dags. 20. apríl 2004.
Afréttarland Álftaneshrepps var áður ýmist nefnt Garðaland, Garðakirkjuland eða Garðastaðarland. Sama land heyrði eftir skiptingu Álftaneshrepps árið 1878 undir Garðahrepp, sbr. einnig síðar lög nr. 83/1975 um kaupstaðarréttindi til handa Garðahreppi. Garðakirkjulandi er lýst í eiginhandarbréfi séra Árna Helgasonar í Görðum til sýslumanns, dags. í Görðum 13. janúar 1848, sem virðist vera svar prests við fyrirspurn sýslumanns um skóglendi í landi Garðakirkju: „Þetta Land hefir þessi ummerki. „Á sydri hraunbrúnina hjá Nordurhellrum og so sudur eptir smillubúdar hraunsjadri og I midjan Kjötshellir og so hraunid allt fram ad Steinhusinu, og so beint ur steinhusinu og upp sydri Kaldárbotna; þadan, og allt helgafell, I markraka, úr markraka og í daudadali úr daudadölum og í strandartorfu, úr strandartorfu rettsýnis í húsfell, so úr husfelli og I hnífhól úr hnífhól og heim í Arnarbæli. Þetta vidurkenna allir ad til heyri Gardakirkiu, brukad hefi eg þad, nockur ár fyrir selstödu, hvar til þad væri hentugt, ef ei være so lángt í burtu, nu er þad leigt bondanum Jóne Hjörtssyne á Hvaleyri, sem betur getur notad en eg, so sem búandi miklu nær þessu Landi.“

Hamarskotssel

Hamarskotssel/Setbergssel – markavarðan.

Samsvarandi lýsingu á Garðakirkjulandi var að finna í eldri merkjalýsingu, því í biskupsvísitasíu hinn 19. september 1661 er lögð fram lögfesta séra Þorkels Arngrímssonar, gerð á Bessastöðum á Jónsmessu 1661. Mun aðalefni hennar hafa verið innfært í Vísitasíubókina, en finnst einnig í Kirknaskjölum í endurriti séra Árna Helgasonar úr skjalabók Garðakirkju frá 1701. Er endurrit hans dagsett 4. ágúst 1839. Landamerki Garðakirkjulandsins eru skv. þeirri merkjalýsingu talin vera: „Á syðri hraunsbrún hjá Norður hellum og svo suður eftir Smyrlabúðarhraunsjaðri og í miðjan Ketshelli og svo hraunið allt fram að Steinhesi. Svo beint úr Steinhesinu og upp í syðri Kaldárbotna, og allt Helgafell og í Strandartorfu og í Húsfell. Úr Húsfelli og í Hnífhól, og Hnífhól og heim í Arnarbæli.“ Merkjalýsing Garðakirkjulands samkvæmt landamerkjabréfi nr. 154, er gerð rúmum 40 árum síðar. Þórarinn Böðvarsson prófastur undirritar hana í Görðum 7. júní 1890 og er merkjalýsingin þinglesin á manntalsþingi í Görðum hinn 9. júní 1890. Eru lýsingarnar sammála um merkin úr Arnarbæli í Markraka í Dauðadölum: „…beina línu í suður landsuður í Arnarbæli, þaðan austur í landsuður upp í Hnífhól…, sem er norðanvert við Fjallið Eina, þaðan til norðurs ofanvert við Hvaleyrar og Ás lönd í Steinhús, sem er við neðri Kaldárbotna….“.

Kaldársel

Kaldársel.

Í allar landamerkjavörður var steypt á áttunda áratug síðustu aldar, sbr. vörðurnar við Bala, í Engidal, á Miðdegishól og við Ketshelli.
Í örnefnalýsingy fyrir Hafnarfjörð eftir Guðlaug R. Guðmundsson er Steinhús (eða Steinhes) nefnt. Staðsetning er þannig að það sé “hornmark Hvaleyrarlands syðst á Fremstahöfða”. Í annarri lýsingu er Fremstihöfði nefndur Efstihöfði. Guðlaugur vitnar í skrif Gísla Sig. um þjóðhætti (ljósrit í Hafnarfjarðardeild Bókasafns Hafnarfjarðar), um að Steinhes muni vera eldra nafn. Staðsetning Steinhúss er yfirleitt heldur snubbótt í lýsingum þar sem það er nefnt, en í Örnefnastofnun er loftmynd af svæðinu (“orthomynd”) sem Svanur Pálsson merkti örnefni inn á 1980. Þar er Steinhús merkt. Í kaflanum um Kaldársel í skrá G.R.G. er vitnað í Fornleifaskrá 1990 um friðlýstar fornleifar í Kaldárseli en þar er Steinhús ekki nefnt. Í lýsingum Hvaleyrar og Garðakirkjulands er nefnt Steinhús en engin staðsetning að gagni, aðeins að lína liggi úr því eða um það…

Steinhús

Steinhús.

Í auglýsingu um fólkvang á Reykjanesi í Stjórnartíðindum B 1975 segir m.a. um mörkin: „Lína dregin.. á mörkum Garðahrepps og Hafnarfjarðar við Kershelli. Þaðan eftir þeim mörkum inn fyrir sumarbústaðahverfi í Sléttuhlíð á hæð er Klifsholt heitir, þaðan beint í Steinshús, sem er glöggt og gamalt eyktamark. Frá Steinshúsi liggur línan…..“
Skýringin á Steinshúsi er sem sagt að það sé “þekkt eyktarmark”. Þarna er það þá komið. Hús úr steini – holur hraunhóll á þeim stað, sem hornmarkið er tilgreint vestan Kaldársels. Skammt frá hraunhólnum, sem er eins og hús í laginu efst á holtinu, eru gamlar hleðslur af húsi, syðst á Efstahöfða (Fremstahöfða). Það er því hraunhóllinn sem örnefnið er kennt við, en ekki húsið, enda er það forgengilegt, en hóllinn ekki. Hann er því öllu sennilegra hornmark landamerkjanna. Þetta örnefni virðist hafa horfið af landakortum í seinni tíð, en á eldri kortum er örnefnið sett sunnan við Kaldársel, sunnan Kaldár. Þar er ekkert er gefur tilefni til slíks. Líklega hefur örnefnið verið tekið út af kortum vegna þess hve fáir vissu hvað eða hvar það var í raun og veru.

Heimildir m.a.:
-http://www.obyggd.stjr.is/svland/53.pdf
-Örnefnalýsing Hafnarfjarðar – Guðlaugur R. Guðmundsson – ÖÍ.
-Gísli Sigurðsson. Þjóðhættir í Hafnarfirði. Handrit í Bókasafni Hafnarfjarðar.
-Örnefnalýsing fyrir Hvaleyri. Ari Gíslason skráði – ÖÍ.
-Stjórnartíðindi B. 1975, nr. 520.
-Jónína Hafsteinsdóttir- ÖÍ.
-Jón Sigurðsson, hrdl.

Kaldársel

Kaldársel – minjar. ÓSÁ.

Kaldársel

Eftirfarandi frásögn um upphaf Kaldársel (sumarbúðanna) birtist í Bjarma árið 1967:
kaldarsel-990„Að aflokinni messu á Bessastöðum á annan hvítasunnudag árið 1921, var haldinn stuttur K.F.U.M.-fundur þar í kirkjunni. Þá var stofnaður sjóður, sem hafa skyldi þann tilgang að koma upp sumarbúðum fyrir K.F.U.M. Það voru tveir félagar úr K.F.U.M. í Hafnarfirði, sem lögðu fram hundrað krónur. Seinna mynduðu nokkrir félagsmenn í Hafnarfirði og Reykjavík samtök um þetta mál. Var ákveðið að koma saman fyrsta föstudag hvers mánaðar, annan hvern mánuð í Reykjavík en hinn í Hafnarfirði. Fundir þessir voru bænafundir, þar sem beðið var fyrir málefninu, og að því loknu var lögð fram fórn til sjóðsins. Allt fór þetta fram í mestu kyrrþey. Vorið 1925 var sjóðurinn orðinn nær fjögur þúsund krónur. Var þá farið að hugsa til framkvæmda og lét bæjarstjórn Hafnarfjarðar félaginu í té eignarhald á túninu umhverfis eyðibýlið Kaldársel.

Kaldársel 1930

Kaldársel 1930. Seltóftirnar hægra megin.

Þetta sama vor var hafizt handa um að byggja skálann. Minnast ýmsir þess enn í dag, er við hin erfiðustu skilyrði varð að bera efnivið allan yfir hraunhálsinn þaðan, sem bifreiðir komust lengst, og upp að Kaldárseli. Um miðjan júní var unnt að vígja skálann. Var þá í honum svefnsalur með 24 rúmum, auk þess lítið herbergi og eldhús. Síðar var hann stækkaður um helming, með því að byggð var fyrir vestan skálann álma til norðurs. Nú fyrir fjórum árum var enn hafizt handa um stækkun skálans, og eru vonir til, að henni verði nokkurn veginn lokið í sumar.
Skálinn var fyrst sameign félaganna í Reykjavík og Hafnarfirði, en eftir nokkur ár varð hann einkaeign kaldarsel-991Hafnarfjarðarfélagsins.
Fyrst framan af var skálinn mikið notaður í sambandi við útilegur um helgar. Snemma var farið að nota hann til dvalar flokka, og síðari árin hefur hann verið í látlausri notkun þrjá sumarmánuði. Skiptast K.F.U.M. og K.F.U.K. í Hafnarfirði á að nota skálann, og hafa drengjaflokkar heldur lengri tíma til umráða.
Aðsókn hefur undanfarin ár verið ákaflega góð að sumarstarfinu í Kaldárseli. Benedikt Arnkelsson, guðfræðingur, hefur veitt drengjastarf inu forstöðu mörg undanfarin sumur. Margar konur og stúlkur hafa skipzt á um að stjórna starfinu meðal stúlknanna.
Kaldárselsskálinn stendur í mikilli hraunbreiðu skammt frá Helgafelli. Þar er ákaflega mikil náttúrufegurð. Sérstaklega er kvöldfegurðin rómuð. Einkanlega þó síðari hluta sumars. Aðstaða er þarna mjög góð til útiveru og fjallgöngu. Margs konar náttúrufyrirbrigði er þarna að skoða, eins og yfirleitt er í brunalandi.“

Heimildir:
-Bjarmi, 61. árg. 1967, bls. 32.

Kaldársel

Kaldársel.

Helgafell

Gengið var frá Kaldárseli um Gvendarselsgíga, upp með Kastala og þaðan í Kaplatór (Minni-Dimmuborgir/Litluborgir), sem eru einstakt náttúrufyrirbæri.

Litluborgir

Í Litluborgum.

Í bakaleiðinni var komið við hjá Tröllunum á Valahnjúkum, í Músarhelli í Valabóli og í Kaldárbotnum.

Þetta svæði er einstaklega hentugt til gönguferða að vetrarlagi, tiltölulega greiðfært og fögur fjallasýn. Stutt er í áhugaverða skoðunarstaði og auðvelt að snúa við eða hagræða göngunni m.t.t. getu og tíma hvers og eins. Nægilegt er að kynna sér svæðið áður og stefna síðan á það sem áhugavert kann að þykja.

Valaból

Valaból að vetrarlagi.

Þessi ferð var gengin nálægt áramótum, skömmu eftir að sólin tekur að feta sig upp á við, en birtan við slík skilyrði er í rauninni engu lík. Því ætti áhugasamt fólk um útivist að nýta sér þessa miklu nálægð. Tilvalið er t.d. að leggja af stað síðdegis eftir vinnu, ganga frá Kadárseli og umhverfis Helgafell. Á leiðinni er fjölmargt að sjá. Þessi ganga þarf ekki að taka lengri tíma en t.d. 2 klst.

Í bakaleiðinni var komið við í Gvendarseli í Gvendarselshæð, kíkt á Gvendarselsgígaröðina og nyrsta gíg gígaraðar Ögmundarhrauns frá árinu 1151.

Þá er alltaf áhugavert að staldra við jarðmyndanir Kaldárhnúkanna í Kaldárbotnum.

Valahnúkar

Tröllin á Valanúk.

Kaldársel

Leitað var fjárhella í Kaldárseli, en gamlar sagnir eru til af hellum þessum norðan selsins. Þrátt fyrir mikla leit höfðu þeir ekki fundist, en þeir voru síðast notaðir árið 1908.

Kaldársel

Kaldársel – fjárhellir.

Hellarnir, 6 talsins, fundust á svæði utan gönguleiða. Um er að ræða mjög fallega fjárhella. Miðsvæðis er tóft utan um skúta. Eftir að fallið mosavaxið grjótið hafði verið fjarlægt frá opnum kom í ljós að enginn hafði komið þarna inn í allnokkurn tíma. Mold var á gólfi, en ekki eitt spor.
Í nyrsta fjárhellinum er hlaðinn garður í honum miðjum. Stærsti hellirinn er syðst. Gengið er niður í hann um hlaðinn gang og er þá komið inn í rúmgóðan sal með sléttu gólfi.

Kaldársel

Kaldársel – fjárskjól.

Önnur mannvirki tengd selstöðunni og búskap í Kaldárseli má sjá nálægt fjárhellunum, s.s. aðra eftirlifandi fjárborgina af tveimur upp á Borgarstandi, fjárhústóft norðan undir honum, gerði eða stekk við hana, nátthagann í Nátthaga og gömlu Kaldárselsgötuna klappaða í bergið.
Í Helgadal eru og minjar. Kaldárselið sjálft var sunnan við núverandi hús KFUMogK á norðurbakka Kaldár.

Sjá meira um Kaldársel HÉR.
Kaldársel

Kaldársel og nágrenni – uppdráttur ÓSÁ.

Helgadalur

Farið var með Þórarni Björnssyni, guð- og hellafræðingi, um hellasvæðið austan Kaldársels og Helgadals. Skoðaðir voru nokkir hellar og litið á hraunmyndamerkingar. Leitað var að hugsanlegu bæjarstæði fornbæjarins í Helgadal og liggja nú fyrir ákveðnar grunsemdir um hvar hann hafði staðið, en það er nokkuð frá því sem hingað til hefur verið álitið.

Þorsteinshellir

Þorsteinshellir.

Þá voru allir Maríuhellarnir skoðaðir og haldið að Þorsteinshelli í Urriðavatnshrauni. Hleðslurnar niður um hellisgöngin tóku sig alveg sérstaklega vel út við þær aðstæður sem þessi snjóugi sunnudagur bauð upp á. Auk þess var slitið á fjárhellirinn nyrst í Norðurhellagjá og ennfremur skoðaður langur hellir norðvestan hans.
Sunnudagurinn skartaði fallegu veðri og hinu ágætasta til hellaskoðunar, því eins og svo oft áður lýsti snjórinn upp innviði hellana.

Þórarinn Björnsson

Þórarinn Björnsson.

Þórarinn er nú í Edinborg. Á aðfangadag sendi hann FERLIR eftirfarandi vefpóst:
Sæll Ómar og til hamingju með aldeilis frábæra heimasíðu Ferlis. Frétti fyrst af henni í gær og á örugglega eftir að fylgjast með ferlum ykkar í framtíðinni og vonandi taka þátt í fleiri ferðum með ykkur þegar ég kem heim til Íslands á ný. Við hjónakornin erum hér í Edinborg (síðan í sept) og verðum trúlega í eitt ár eða svo, konan í námi við Edinborgarháskóla í heimspeki en ég að vinna hjá KFUM meðal heimilislausra í Edinborg. Ég óska Ferlisfélögum alls hins besta í framtíðinni.

Kær kveðja:
-Þórarinn Björnsson, 39/12 Comely Bank, EH4 1AG Edinborg, Skotlandi.

Þorsteinshellir

Fjárskjól við Selgjá (Þorsteinshellir).