Tag Archive for: Kjalarnes

Ártún

Í Fornleifaskráningu jarðarinnar Ártúns á Kjalarnesi, sem unnin var af Minjasafni Reykjavíkur árið 2010, má lesa eftirfarandi um Ártúnsrétt. Réttin, sem er orðin nokkur gróin, sést enn nokkuð vel ofan Ártúnsár (en svo nefnist Blikadalsáin neðan Mannskaðafoss) að norðanverðu.

Ártúnsrétt

Ártúnsrétt.

„Tóftir Ártúnsréttar eru 210 m norðaustur af bæjarhól Ártúns. Neðanvið tóftirnar eru einnig stríðsminjar, leifar stöðvar fyrir loftvarnarbyssu.

Rústirnar eru grasivaxnar. Stórt hólf, 12×12 m, sem opnast í suður með grjóthlöðnum veggjum, hæst 1,5 m. Austan við hólfið eru tvö minni, það efra er 7×7 m með grjóthlöðnum veggjum, hæst 1 m, ekkert sjáanlegt op. Hitt hólfið er 7×3 m, hæst 1 m, og opnast í vestur. Á milli þeirra gæti hafa verið eitt rými. Fyrir neðan og austan eru tveir grjóthringir en þeim hefur verið raðað saman með einfaldri steinaröð. Kristrún Ósk Kalmansdóttir man vel eftir lítilli rétt með þremur hólfum og almenningi fyrir kannski þrjátíu kindur en réttin var ekki notuð í hennar tíð. Minnst er á Ártúnsrétt árið 1842 í þinglesinni tilkynningu frá Runólfi Þórðarsyni í Saurbæ sem varðaði upprekstur búfjár á Bleikdal/Blikdal. Hlutverk hennar hefur án efa breyst í gegnum tíðina.
Rústirnar gætu hafa raskast eitthvað þegar herinn gerði stæði fyrir loftvarnarbyssur við réttina á heimsstyrjaldarárunum síðari.“

Heimkild:
-Fornleifaskráning jarðarinnar Ártúns á Kjalarnesi, Minjasafn Reykjavíkur 2010.

Ártún

Ártúnsrétt – uppdráttur ÓSÁ.

Kjalarnes

Í Fornleifaskráningu Borgarsögusafns Reykjavíkur vegna deiliskipulags Vesturlandsvegar frá Leirvogsá að Hvalfirði árið 2018 er m.a. fjallað um sögu, minjar og örnefni bæjar, sem land eiga að nýju vegastæði í gegnum Kjalarnes:

Fitjakot

Kjalarnes

Kjalarnes – bæir.

Fitjakot er á norðanverðum bökkum Leirvogsár. Jörðin á mörk á móti Varmadal að austan en Víðinesi og Álfsnesi að vestan. Gamli bærinn í Fitjakoti stóð á Brunnhól um 70 metra suðaustan við núverandi íbúðarhús. Síðast stóð þar timburhús sem reist var um 1930 og þá lá þjóðvegurinn um hlaðið. Núverandi íbúðarhús, sem var byggt 1950, stendur aðeins vestar, á Húsaflötum, en þar voru áður fjárhús. Þar var Kaupfélag Kjalarnesþings stofnað 15. október 1950 og var þar fyrst til húsa. Athafnamennirnir Sturlubræður áttu Fitjakot um tíma og notuðu jörðina til sumarbeitar.

Fitjakot

Fitjakot.

Fitjakot var áður nefnt Fitjar og var í eigu Viðeyjarklausturs 1395. Jörðin kemur fram undir eldra nafninu Fitjar, í skrá um kvikfé og leigumála á jörðum Viðeyjarklausturs 1395, en yngra nafninu Fitjakot í fógetareikningum frá 1548 til 1551.
Jörðin var ein af jörðum Viðeyjarkirkju 1686 metin á 15 hundruð en á 10 hundruð 1695. Þegar Jarðabók Árna og Páls var gerð 1704 var jörðin í eigu konungs en dýrleiki óviss. Ábúandi var einn. Kvaðir voru meðal annars um mannslán á vertíð. Hægt var að fóðra þar fimm kýr og tíu lömb. Torfrista, stunga og mótak til eldiviðar var sæmilegt. Leirvogsá var bæði til gagns og ógagns. Þar var hægt að veiða bæði lax og silung en hún spillti engjum og braut af túni. Stórviðri brutu stundum hey og hús. Þegar Jarðatal Johnsens var gert 1847 var Fitjakot í eigu konungs metið á 10 hundruð. Árið 1855 var jörðin konungseign metin á 10 hundruð.
Samkvæmt manntölum frá 1703 var einn ábúandi í Fitjakoti nema 1850 voru tveir.

Kollafjörður

Kollafjörður

Kollafjörður – minjar.

Jörðin Kollafjörður er skammt upp frá fjarðarbotni Kollafjarðar. Bærinn stóð við samnefndan læk sem nefnist Kollafjarðará. Bæjarstæði síðasta torfbæjarins er sunnan undir Kollsgili en var jafnað við jörðu. Við vettvangskönnun 2001 var talið líklegt að bærinn hefði staðið á þeim stað að minnsta kosti frá því á miðöldum og líklegt að minjar leynist þar undir sverði því greina mátti litar breytingar á gróðri, sem er vísbending um minjar.
Landbúnaðarráðuneytið keypti jörðina 1961 fyrir tilraunastöð fyrir klak og eldi laxfiska.

Kjalarnes

Kjalarnes – herforingjaráðskort.

Kollafjörður kemur fyrir í Kjalnesinga sögu, sem talin er rituð á síðustu áratugum 13. aldar. Þar segir frá því að skip kom á Leiruvog með írskum mönnum,þar á meðal Andríður ungur og ólofaður, mikill og sterkur, ekkjan Esja og maður sem nefndur var Kolli. Landnámsmaðurinn Helgi bjóla tók við þeim öllum og setti Kolla niður í Kollafjörð.

Kollafjörður

Kollafjörður 1906. Mynd frá dönsku mælingamönnunum.

Kollafjörður er talinn upp í fjarðatali 1312. Jarðarinnar er hinsvegar ekki getið fyrr en í fógetareikningum 1547 til 1553 en búseta hefur sennilega hafist þar fyrr.
Á árunum 1686 og 1695 var jörðin í eigu konungs og metin á 20 hundruð.

Kollafjörður

Kollafjörður.

Þegar Jarðabók Árna og Páls var gerð 1704 var jörðin konungseign en dýrleiki óviss. Kollafjörður var þá ein af umboðsjörðum sem Margrét Pétursdóttir á Vallá, ekkja Daða Jónssonar sýslumanns, hélt ásamt Völlum og Gröf. Einn ábúandi var á heimajörðinni, tveimur þriðjungum, en einn þriðjungur nefndist Litli- Kollafjörður. Kvaðir voru um tvö mannslán í 5 ár, manns- og bátslán í 3 ár. Kostir voru fáir en torfrista og stunga var sæmileg. Mótak til eldiviðar var erfitt, silungsveiðivon lítil, rekavon nær engin, skelfiskfjara lítil og varla hægt að tala um heimræði því ekki var hægt að lenda nema á flóði. Landþröng var mikil, mikið af foræðum og skriður spilltu engjum.
Kaupverð Kollafjarðar var 804 ríkisdalir þegar jörðin var seld úr eigu konungs 1839.

Kollafjörður

Kollafjörður.

Þegar jarðatal Johnsen var tekið saman 1847 var jörðin í bændaeign, með einum ábúanda, metin á 20 hundruð með Litla-Kollafirði.
Skriðuföll úr Esjunni hafa verið tíð og eftir aftaka rigningu 2. september 1886 urðu mikil skriðuföll á níu bæjum á Kjalarnesi eftir úrhellið. Í blaðagrein skömmu síðar var greint frá vatnsveðrinu og þeim skaða sem hlaust af því, þar segir um tjón á jörðinni: „Kollafjörður, kýrvöllur farinn af túninu, í bráð að minnsta kosti, og nokkuð af engjum. Sextíu hestar af heyi á engjum urðu undir skriðu. Eyrarnar niður frá bænum allar huldar skriðu.“

Kollafjörður

Kollafjörður – naust.

Mannvirki sem teiknuð voru á túnakort Kollafjarðar 1916 hafa flest horfið vegna túnasléttunar eða undir yngri mannvirki.
Litli- Kollafjörður var þriðjungur af heimajörðinni Kollafirði 1704.

Kollafjörður

Kollafjarðarrétt.

Árið 1916 var komið útihús þar sem bærinn Litli- Kollafjörður stóð áður sunnan Kollafjarðarár. Kolbeinn Kolbeinsson sem fæddur var í Kollafirði 1918 og var bóndi þar í nokkur ár, segir í örnefnalýsingu að hann muni eftir tóftum þar sem Litli- Kollafjörður stóð. Við vettvangskönnun 2002 var ekki hægt að sjá neinar bæjarleifar á staðnum. Þar stendur nú hús sem byggt er í gamla bæjarhólinn og var í fyrstu notað sem sumarhús en er nú heilsárshús, Arnarhóll.
Þegar Jarðatal Árna og Páls var gert 1704 var Litli Kollafjörður byggður sér með einum ábúanda. Þar voru kvaðir um eitt mannslán á vertíð. Þá var hægt að fóðra tvær kýr, 10 lömb og einn hest.
Hættur voru eins og á heimajörðinni en við bættist að áin gróf undan húsunum og beitarátroðningur olli miklum skaða.

Mógilsá

Mógilsá

Mógilsá – túnakort 1916.

Mógilsá er við Esjurætur innst í Kollafirði, við norðurhorn fjarðarins. Jörðin dregur nafn sitt af samnefndri bergvatnsá sem rennur vestan við bæinn. Kalksteinn var fluttur frá Mógilsá um 1870 og flutt til Reykjavíkur þar sem það var brennt í kalkofni við „Batteríið“. Kalk þaðan var notað sem bindiefni á Lækjargötu 10 í Reykjavík.
Árið 1963 keypti íslenska ríkið jörðina og þar hefur Rannsóknarstöð Skógræktar ríkisins verið síðan en hún var byggð upp fyrir þjóðargjöf Norðmanna, 1 milljón norskra króna, sem Ólafur V Noregskonungur afhenti. Bæjarstæðið var um 60 metra suðaustur af þjónustumiðstöð við Esjurætur. Við vettvangskönnun 2002 voru engar greinilegar leifar af bæjarstæðinu sem hafði verið sléttað og trjárækt á svæðinu en þó mátti greina vísbendingar um mannvist á litabreytingum í túninu.

Mógilsá

Mólgilsá – minjar.

Áin Mógilsá kemur nokkrum sinnum fyrir í Landnámu sem landamerki þegar sagt er frá landnámi Halls goðlausa, Helga bjólu Ketilssonar og Örlygs Hrappssonar. Hallur goðlausi nam land að ráði Ingólfs frá Leiruvogi til Mógilsár og bjó í Múla. Helgi bjóla Ketilsson nam einnig land að ráði Ingólfs, „…Kjalarnes allt millim Mógilsár og Mýdalsár…“ og bjó að Hofi. Helgi bjóla gaf síðan frænda sínum Örlygi Hrappssyni hluta af landnámi sínu, frá Mógilsá að Ósvífslæk en ekki er vitað hvaða lækur það er.

Mógilsá

Mógilsá – athöfn við vígslu aðstöðu Skógræktarinnar.

Jörðin var í eigu Viðeyjarklausturs 1395 og kemur þá fram í skrá um kvikfé og leigumála jarða klaustursins. Jörðin hefur orðið konungseign við siðaskipti og er hennar getið í fógetareikningum frá 1547 til 1552 varðandi landskuld og leigu.
Árið 1581 var Mógilsá lénsjörð fátækra presta í Skálholtsbiskupsdæmi. Jörðin var kirkjujörð Viðeyjarklausturs 1686-1695, metin á 15 hundruð og 13 hundruð og 80 álnir.
Mógilsá.
Þegar Jarðabók Árna og Páls var gerð 1704 var jarðadýrleiki og jörðin í eigu konungs sem hafði lagt hana til uppihalds presti á Mosfelli. Þá virðast gæði jarðarinnar hafa rýrnað frá því sem áður var og landskuld lækkað úr einu hundraði í 48 álnir. Skriður frá ánni Þverá og lækjum höfðu eyðilagt tún jarðarinnar. Kvaðir voru um eitt mannslán á vertíð en höfðu verið tvær tveimur árum áður og dagslættir tveir ef ábúendur voru tveir en þrír ef þeir voru þrír. Jörðin gat fóðrað sex kýr, tíu lömb og einn hest. Upprekstur geldnauta og hesta var frír á Hvannavöllum á Mosfellsheiði. Torfrista og stunga var léleg og ekkert mótak var í landi jarðarinnar en mótak hafði verið nýtt í landi eyðijarðarinnar Háheiðar sem lá undir Álfsnesi. Lítil von var um selveiði og reka.
Mógilsá
Sölvafjara var engin og lítil hrognkelsafjara en skelfiskfjara var frí á grandanum Leiðvelli og hafði verið lengi eins og fleiri jarðir í Kjalarneshreppi. Heimræði var ef fiskgengd var á sundin en aldrei verstaða fyrir aðkomufólk. Selstaða var í heimalandi. Vetrarþungt og veðrasamt var á Mógilsá.
Þegar Jarðatal Johnsen var gert 1847 var Mógilsá í eigu kirkjunnar með einum ábúanda og dýrleiki 13⅔ hundruð en neðanmáls er þess getið að mat sýslumanns sé 15 hundruð.
Árið 1855 var Mógilsá metin á 15 hundruð og var nyrsta kirkjujörð Mosfells.

Esjuberg

Esjuberg

Esjuberg – minjar.

Bærinn á Esjubergi stendur á skriðuvæng upp undir rótum Esju. Mörk jarðarinnar eru á móti Skrauthólum að vestan og Mógilsá að austan. Á Esjubergi voru áður fyrr samþykktir og kveðnir upp dómar. Finna má dóm í Íslensku fornbréfasafni sem kveðinn var upp 1480 og þar var þingstaður 1541 og 1746 þegar Jón Oddsson Hjaltalín gerði Lýsingu Kjósarsýslu.
Örnefnin Leiðhamar og Leiðvöllur, sem eru á mörkum Mógilsár og Esjubergs, benda til þess að þar hafi verið haldin leiðmót, leiðarþing eða héraðsþing sem haldið var að afloknu Alþingi þar sem greint var frá störfum þess og birtar tilkynningar. Fyrsta símstöðin í Kjalarneshreppi var á Esjubergi, sennilega komin 1912.

Esjuberg

Esjuberg – Leiðvöllur 1946.

Esjuberg var landnámsjörð Örlygs gamla Hrappssonar Bjarnarsonar bunu. Landnámabók segir frá því að Helgi bjóla Ketilsson hafi gefið frænda sínum, bræðrungi, Örlygi Hrappssyni hluta af landnámi sínu, frá Mógilsá að Ósvífslæk. Landnáma getur þess einnig að Örlygur hafi búið á Esjubergi og látið gera þar kirkju sem fóstri hans Patrekur biskup í Suðureyjum hafði sagt fyrir um, en Patrekur hafði sent hann með kirkjuviði, járnklukku, plenáinum og vígða mold til að setja undir hornstafina. Kirkjan gæti hafa verið tileinkuð heilögum Kolumba.
Kirkja Örlygs er talin vera fyrsta kirkjan á Íslandi. Kirkjunnar er einungis getið í kirkjuskrá Páls biskups frá því um 1200.

Leiðvöllur

Leiðvöllur.

Reyndar segir frá kirkjunni í Kjalnesinga sögu sem er talin rituð á tímabilinu 1300-1320. Þar segir frá því að Helga Þorgrímsdóttir, eiginkona aðalsöguhetjunnar Búa, hafi látið grafa hann undir syðri kirkjuveggnum og segir „[þ]á stóð enn kirkja sú at Esjubergi, er Örlygr hafði látit gera“. Eftir þessu að dæma hefur kirkjan ekki verið uppistandandi á ritunartíma sögunnar um 1300 og gæti hafa verið niðurlögð á fyrri hluta 13. aldar. Hvers vegna er ekki vitað og margt getur komið til greina. Kirkjur voru stöðutákn svo höfðingi gæti hafa dáið eða misst stöðu sína til annars. Kirkjan gæti líka hafa verið lögð niður vegna skriðufalla.
Jarðarinnar er getið nokkrum sinnum í skjölum sem varða hvalreka Viðeyjarklausturs á milli Esjubergs og Valagnúpa, fyrst í skrá varðandi hvalskipti á Rosmhvalanesi um 1270, svo um 1270 í bréfi Runólfs ábóta í Viðey um hvalrekann, og aftur 1285 um skipti á hvalreka á milli Valagnúpa og Esjubergs. Esjuberg kemur fram í skrá um kvikfé og leigumála á jörðum Viðeyjarklausturs frá árinu 1395.

Esjuberg

Esjuberg.

Esjuberg kemur fram í skýrslu Hannesar Pálssonar umboðsmanns og kapelláns Danakonungs, um allskonar óskunda og yfirgang, rán, vígaferli og löglausa verslun Englendinga á Íslandi á árunum 1420-1425.
Árið 1480 var úrskurðað í Esjubergsdómi í eignarmálum Soffíu Loftsdóttur og Gunnlaugs Teitssonar. Árið 1497 gaf Böðvar prestur Jónsson vitnisburð um reka Viðeyjarklausturs á milli Klaufar og Esjubergs. Á Esjubergsþingi þann 30. september 1541 var felldur dómur um lögmæti bréfs Alexíusar ábóta í Viðey um jarðirnar Skrauthóla og Bakka í Brautarholtssókn. Þá kemur jörðin fram í fógetareikningum 1547-1552. Á Esjubergi voru kveðnir upp dómar um beit og fjárrekstur 1565-1566.

Esjuberg

Esjuberg.

Jarðarinnar er getið á minnisblöðum Vigfúsar Jónssonar sýslumanns Kjalarnesþings árið 1569 og þjófnaðardómur var kveðinn upp þar 14. janúar 1657.
Jörðin var ein af jörðum Viðeyjarklausturs 1686-1695 og þá metin á 40 hundruð.
Þegar Jarðabók Árna og Páls var gerð 1704 var Esjuberg í eigu konungs en jarðardýrleiki óviss. Kvaðir voru meðal annarra um mannslán á vertíð suður á Stafnes. Þá var hægt að fórðra sjö kýr, tólf lömb og þrjá hesta. Jörðin hafði þá haft til langs tíma fría afrétt fyrir hesta og geldnaut á Mosfellsheiði. Torfrista og stunga var góð en mótak til eldiviðar slæmt. Silungsveiði hafði jörðin í Leirvogsá lengst af. Rekavon var nokkur og skelfiskfjara var á Leiðvallargranda. Selstöðu átti jörðin undir Svínaskarði að sunnan og þar var berjalestur nokkur. Helstu ókostir voru að úthey voru lítil og skriður ógnuðu bæði mönnum, húsum og skepnum. Stórviðrasamt var á Esjubergi og stóð mönnum og skepnum ógn af skriðum sem ollu þar tjóni.

Esjuberg

Esjuberg – fótur undan loftvarnarbyssu við Leiðhamra.

Tvær hjáleigur voru þá á Esjubergi. Litla Esjuberg sagt afbýli heima við bæ og Árvöllur önnur hjáleiga og reiknaðist jarðardýrleiki beggja með heimajörðinni.
Þegar Jón Oddson Hjaltalín gerði lýsingu Kjósarsýslu 1746 var þingstaður á Esjubergi.
Kaupverð Esjubergs með Grund (Austurbæ) og Árvöllum árið 1816 þegar jörðin var seld úr eigu konungs var 2100 ríkisdalir.

Esjuberg

Esjuberg – byssustæði.

Þegar Jarðatal Johnsens var tekið saman 1847 var Esjuberg í bændaeigu, metið á 40 hundruð og með einum ábúanda. Í neðanmálsgrein er sagt að jarðabækurnar geti ekki um hjáleigurnar nema árið 1802, en þá er getið Austurbæjar sem er líklega sama hjáleiga og sýslumaður og prestur kalla Grund.

Jörðin var metin á 40 forn hundruð í Jarðarmati á Íslandi 1849-50. Hjáleigurnar lögðust báðar af eftir mikið ofanflóðaveður 2. september 1886.
Innan úttektarsvæðisins sem skráð er undir Esjuberg er einstakur minjastaður sem var þingstaður en hann er horfinn. Aðrar minjar eru herminjar á Leiðhömrum.

Móar

Móar

Móar – minjar.

Bærinn Móar stendur sunnan við Vesturlandsvegar og neðan við Esjuberg. Á Móum bjó Sr. Matthías Jochumsson (1835-1920) þjóðskáld í sex ár. Það voru honum þungbær ár því á þeim tíma missti hann tvær eiginkonur í blóma lífsins. Hann flutti að Móum í júní 1867 með Elínu konu sinni sem lést einu og hálfu ári síðar á annan dag jóla 1868. Tveimur árum eftir það, 1870 gekk hann að eiga Ingveldi Ólafsdóttur en hjónaband þeirra varð mjög skammvinnt því hún dó úr lungnabólgu á annan í hvítasunnu 1871. Þriðja og síðasta eiginkona Mattíasar var ung heimasæta í Saurbæ Guðrún Runólfsdóttir sem hann giftist árið1875 og lifði hún mann sinn. Á þeim tíma sem þau voru að draga sig saman var hún selráðskona í Saurbæjarseli á Blikdal sumarið 1872 en tóftir selsins standa vel ennþá. Þaðan sendi hún honum ber í fötu og nokkrar línur með. Hann brást við hin glaðasti og reið fram á dal til að þakka henni fyrir sendinguna.

Móar

Móar – túnakort 1916.

Á Móum bjuggu hjónin Teitur Guðmundsson og Unnur Ólöf Andrésdóttir, frá 1950 til 1985. Þau voru í forystu í alifuglarækt á landinu og ráku þar stórt kjúklingabú. Þau vélvæddu fóðrun fugla í varpi og uppeldi og komu sér upp aðstöðu og vélakosti til slátrunar. Búið er elsta hænsnabú á Kjalarnesi og eitt af stærstu búum á landinu. Á bæjarstæðinu stendur eitt af elstu íbúðarhúsum á nesinu sem Sigríður Jónsdóttir byggði 1910 að því er kemur fram í bókinni Kjalnesingum og því væntanlega sama hús og teiknað er á túnakort 1916.
Móar voru í eigu Viðeyjarklausturs árið 1395, þá getið í skrá um kvikfé og leigu mála klaustursins. Þeir komust síðar í eigu konungs og eru í fógetareikningum frá 1547-1552. Jörðin var ein af jörðum Viðeyjarklausturs á árunum 1686 og 1695 metin á 20 hundruð.

Móar

Móar.

Árið 1703 fékk Niels lögmaður Kier konungsbréf um að mega fá Kjósarsýslu eftir Jón Eyjólfsson tengdaföður sinn og fjórar jarðir sem Jón hafði haft frá 1684, Hrísbrú, Varmadal, Móa og Saltvík.
Þegar Jarðabók Árna og Páls var gerð 1704 var jörðin í eigu konungs og var leigð til sýslumannsins Jóns Eyjólfssonar, dýrleiki var óviss. Þá var tvíbýli á jörðinni til helminga. Kvaðir voru um tvö mannslán á vertíð árlega frá því Jón Eyjólfsson tók við (1684) en hafði verið eitt áður ásamt öðrum kvöðum sem Jón hafði ekki kallað eftir. Á jörðinni var hægt að fóðra sex kýr, tíu lömb og tvo hesta. Upprekstur geldnauta og fjár var á Hvannavelli á Mosfellsheiði. Mótak til eldiviðar frá Esjubergi minnkandi notað. Nokkur von var um reka, hrognkelsa- og skelfiskfjöru. Heimræði var allt árið en verstaða hafði aldrei verið. Mjög stórviðrasamt var sem spillti túnum ásamt vatni. Selstöðu hafði jörðin hjá Esjubergsseli að eign eða láni.
Með konungsúrskurði 26. apríl 1756 fékk Þórður Þórhallsson prestur í Saurbæ og Brautarholti Móa frítt til búsetu í staðinn fyrir Skrauthóla sem urðu fyrir stórskaða af skriðu 1748.
Þegar Jarðatal Johnsen var gert 1847 var jörðin enn lénsjörð fyrir prestinn, metin á 20 hundruð.

Sjávarhólar

Sjávarhólar

Sjávarhólar – minjar.

Bærinn á Sjávarhólum stendur um 200 m ofan við austanverða Hofsvík á einu af þremur berghlaupum á Kjalarnesi, Sjávarhólshlaupinu sem féll úr Esjunni fram í Hofsvík á tímabilinu 9000 – 5000 f. Kr. Jörðin dregur nafn sitt af urðarhólum við ströndina og á nafnið vel við landslagið á þessum slóðum.120 Núverandi íbúðarhús var byggt 1923 á bæjarstæðinu.
Sjávarhólar koma fyrir í Kjalnesingasögu undir nafninu Hólar. Sögupersónan Búi kom þar á leið sinni heim á Esjuberg eftir að hafa vegið Þorstein á Hofi og lagt eld að hofinu og lýsti þar víginu á hendur sér.

Sjávarhólar

Sjávarhólar – túnakort 1916.

Árið 1536 voru gerð arfskipti eftir séra Brynjólf Gizurarson og erfðu fjórar systur hans sex hundruð og áttatíu álnir í jörðinni, sem Alexíus ábóti í Viðey keypti. Í Sjávarhólabréfi frá 1537/8 er greint frá kaupum Alexíusar ábóta í Viðey á parti í Sjávarhólum. Klaustrið hefur selt jörðina fyrir siðaskipti því hún kemur ekki fyrir í fógetareikningum. Á Esjubergsþingi 1541 var útnefndur dómur af Pétri Einarssyni umboðsmanni konungs í Kjalarnesþingi um bréf Viðeyjarklausturs fyrir jörðunum Skrauthólum, Bakka og Sjávarhólum. Niðurstaða dómsins var að bréf Alexíusar fyrir jörðunum voru lögleg og gild. Jörðin var í einkaeign metin á 20 hundruð 1686 en 10 hundruð 1695.
Þegar Jarðabók Árna og Páls var gerð 1704 var jörðin metin á 10 hundruð með einum ábúanda, eigandanum Þórunni Sigurðardóttur prestsekkju. Kvaðir voru þá engar en áður, þegar jörðin var leigð, var eitt mannslán á vertíð eða tvö ef ábúendur voru tveir. Þá var hægt að fóðra sex kýr, eitt ungneyti, tíu lömb og einn hest á jörðinni. Torfrista var lítil en mótak til eldiviðar nægilegt. Rekavon var nokkur svo og hrognkelsafjara en skelfiskfjara var að mestu eydd en sölvatekja var næg fyrir heimamenn. Heimræði var allt árið en verstaða hafði aldrei verið fyrir aðkomuskip eða sjófólk nema stundum tveggja manna far frá Öfugskeldu sjálfskyldu frítt. Talið var að veiða mætti sel ef vildi. Landþröng var mikil og fé var mjög flæðihætt. Stórviðrasamt og lækjarskriða grandaði engjum.

Sjávarhólar

Sjávarhólar.

Í maí 1748 féll mikil aurskriða úr Esjunni sem aftók mikinn part af landi Öfugskeldu og Sjávarhóla. Eggert og Bjarni voru á ferð á Kjalarnesi 1752 og nefna skriðuhlaupið og segjast þá hafa séð birkilurka sem voru sverari en stærstu tré í Húsafells- og Fnjóskadalsskógum. Talið er að skriðan hafi átt upptök neðan undir Gleið og fallið fram á milli Skrauthóla og Sjávarhóla. Mestu skriðuföll sem heimildir eru um á svæðinu urðu eftir úrhelli sem varði í rúmar þrjár klukkustundir 2. september 1886. Blaðið Ísafold greindi frá tjóni sem skriðan olli rúmri viku síðar: „Sjávarhólar (19.1 hdr. Jörð). Þriðjungur af túninu undir skriðu eða leir og 2/5 af engjum.“
Sjávarhólakot var hjáleiga Sjávarhóla 1704 en aðrar heimildir geta ekki um kotið. Kotið hefur sennilega verið niður við sjóinn þar sem sjór braut af túninu 1704 svo það gæti hafa verið þar sem voru útihús frá Sjávarhólum 1916.
Þegar Jarðabókin var gerð 1704 reiknaðist jarðadýrleiki með heimajörðinni. Landskuld átti að greiðast með því sem ábúandi megnaði að gjalda og skyldi jarðeigandi leggja að mestu leyti við til húsabóta. Þá var hægt að fóðra þar eina kú og torfrista, stunga og eldiviðartak var í heimalandi en sjór braut af túninu. Kvaðir voru engar og mátti ábúandinn fleyta hálfum báti sínum að vild.

Sjávarhólar

Sjávarhólar.

Öfugskelda var býli sem var sennilega um 30 metra suðaustur af Skrauthólum III og um 570 m norðaustur af Sjávarhólum. Þar er túnblettur sem nefnist Öfugskelda sem hafði fylgt Sjávarhólum en var lagður til Skrauthóla 1918.131 Þar eru minjar sem talið er að gætu hafa verið hluti af býlinu skráðar undir Sjávarhóla, rúst, gerði og hlaðinn garður að lítilli keldu sem kallast Ófeigskelda. Býlið tók af í skriðuföllum 1748 og var sennilega ekki byggt upp aftur eftir það. Samkvæmt bréfi sem séra Þórður Þórhallsson prestur í Saurbæ og Brautarholti sendi konungi 1754 segir að skriða 1748 hafi skemmt hús og tún svo mikið í Öfugskeldu að ekki sé hægt að byggja þar upp aftur. Býlið tók af í skriðuföllum 1748 Jarðarinnar er getið 1510 í dómi um eignaskipti Gríms Pálssonar og Þorvarðs Erlendssonar lögmanns þar sem Grímur selur Þorvarði meðal annars fjórar jarðir á Kjalarnesi. Í Sáttarbréfi bænda 1515 kemur fram að Grímur og Þorleifur sonur hans eiga Arnarholt og Öfugskeldu. Í júlí sama ár kemur fram að þeir feðgar fá Öfugskeldu og Arnarholt af Hólmfríði Erlendsdóttur í skiptum fyrir Sandgerði á Miðnesi.

Sjávarhólar

Sjávarhólar.

Árið 1549 var kveðinn upp alþingisdómur og Sandgerði var dæmt eign Þorleifs Grímssonar en Öfugskelda og Arnarholt dæmd af honum. Jörðin var í einkaeigu metin á 15 hundruð 1686 en 10 hundruð 1695.
Öfugskelda var bújörð 1704 metin á 10 hundruð og var í eigu fimm aðila. Þórunn Sigurðardóttir prestsekkja á Sjávarhólum átti mest, þrjú hundruð og fjörutíu álnir en hinir eitt hundrað og áttatíu álnir hver. Ábúandi var einn og var eigandi að einum lægri hlutanna. Þá var þar hægt að fóðra þar sex kýr, tvö ungnaut, tíu lömb og einn hest. Kvaðir voru engar. Torfrista og stunga voru sæmilegar en mótak þurfti að kaupa annars staðar. Landþröng var mikil og skriða spillti túnum og engjum.

Sjávarhólar

Sjávarhólar – útihús.

Öfugskelda hefur sennilega farið í eyði eftir skriðufall 1748. Ölfusvatnsannáll 1747 segir frá því að fallið hafi mikilfengleg skriða eða jarðarumrótan úr Esjunni sem tók af mikinn part af landi Öfugskeldu og Sjávarhóla en af bréfum frá þessum tíma kemur fram að skriðan hefur fallið í maí 1748 frekar en 1747. Fram kemur í bónarbréfi séra Þórðar Þórhallssonar í Saurbæ til konungs frá 10. júlí 1754 að „skriðan hafi skemmt hús og tún á Öfugskeldu, svo þar megi ekki aftur upp byggja, og að skriðan hafi stórskemmt tún og úthaga bæði á Skrauthólum og Sjávarhólum.“
Öfugskeldu er ekki getið í Jarðatali Johnsens 1847 en í neðanmálsgrein við Sjávarhóla kemur fram að jarðabækur nefni jörðina en hennar sé ekki getið í jarðabók 1802 og virðist hún þá hafa verið orðin partur af Sjávarhólum. Jarðadýrleiki hennar var 10 hundruð eins og Sjávarhóla.

Vallá

Vallá

Vallá – minjar.

Vallá er austan og ofan við Hofsvík. Lögbýli um aldir og þar voru ýmist eitt eða tvö býli fram til 1800, sem voru aðgreind með austur, vestur, eystri, vestri, stóra, minni, innri, ytri og Syðsta Vallá kemur einnig fyrir. Bæði býlin eru skráð undir Vallá. Samkvæmt túnakorti frá 1916 var bæjarstæði Vallár vestri þar sem nú stendur bygging, tvær hæðir og ris með þremur kvistum, sem byggð var 1958 við steinsteypt íbúðarhús sem reist var um 1923. Bæjarstæði Vallár eystri var samkvæmt túnakorti og örnefnalýsingu í suðaustur frá því vestara, steinsnar austan við eldri farveg Vallárlækjar á milli bæjanna sem var þá á mörkum jarðanna. Vallá eystri fór í eyði um aldamótin 1800 og var pörtuð niður. Túnið gekk þá undir heimajörðina en annað var keypt af bændum í Hofshverfi.

Vallá

Vallá og Litla-Vallá – túnakort 1916.

Farvegi Vallárlækjar var breytt einhvern tíma á milli 1900 og 1916 af Benedikt Magnússyni bónda á Vallá og eftir það rann lækurinn norðan og vestan við bæinn. Þegar Guðrún Bjarnadóttir, sem bjó á Vallá frá 1925-1957, skráði örnefni fyrir Vallá, sennilega á tímabilinu 1950-57, hét ávöl bunga suðaustur heiman frá „Gamli bær“ og þá hafði sést móta fyrir bæjarrústum til skamms tíma. Vitað er um tvö önnur býli byggð í landi jarðarinnar, hjáleigan Grund var byggð frá því um 1684 fram undir 1704 og býlið Litla Vallá var byggt úr landi jarðarinnar nokkru fyrir aldamótin 1900.

Vallá

Vallá – leifar rafstöðvar.

Fyrsta rafstöðin í Kjalarneshreppi var reist á Vallá þegar Vallárlækur var virkjaður 1930. Stöðin var eingöngu notuð til ljósa og sá hún þremur bæjum fyrir rafmagni, Vallá, Litlu Vallá og Skrauthólum ásamt skólanum á Klébergi. Stöðvarhúsið stóð við lækinn fyrir austan Fólkvang, því hefur verið rutt um koll einhvern tíma og sjá má steypuleifar hússins á lækjarbakkanum.
Benedikt Steinar Magnússon (1929-1970) stofnandi steypustöðvarinnar B. M. Vallá í Reykjavík var fæddur og uppalinn á Vallá. Hann lagði grunninn að fyrirtæki sínu í fjörunni á Vallá þar sem hann mokaði upp steypuefni. Síðar flutti hann inn tæki og stofnaði fyrirtækið Steypumöl hf. til malarnáms í Álfsnesi. Steypuverksmiðjan B. M. Vallá reis svo í Krossamýri við Elliðavog.
Vallá
Vallá er í landnámi Helga bjólu en ekki er vitað hvenær jörðin byggðist en Vallá er til umfjöllunar í bréfi frá 5. maí árið 1377 þegar Brynjólfur Bjarnason seldi Valgarði Loftssyni jörðina „Syðstu- Vallá“ á Kjalarnesi. Þremur árum síðar, í júlí 1380, lét Valgarður Pál ábóta í Viðey hafa jörðina gegn því að hann kenndi syni hans í sex ár. Í skrá frá 1395 um kvikfé og leigumál á jörðum klaustursins eru tveir bæir á Vallá. Frá sama ári er skrá yfir jarðir sem fóru undir Viðeyjarklaustur frá því að Páll ábóti kom þangað og þar er Vallá talin upp og metin á 20 hundruð.
Vallá
Í Fógetareikningum frá 1547 til 1552 er talað um Stóru- Minni, Innri- og Ytri Vallá. „Sterrewalde og Minnewalde, Stere Walde og Mijnder Walde, Sterre Waldo og Mijnde Waldo, Inderreuattle og Ittherwasde“ varðandi landskuld. Eystri og Vestri Vallá voru báðar metnar á 20 hundruð á árunum 1686 og 1695 í einkaeigu og konungs.
Þegar Árni Magnússon og Páll Vídalín unnu að gerð Jarðabókarinnar sumarið 1704 voru þeir í tjöldum á Vallá dagana 26.-28. júní. Þá voru tvö býli á jörðinni, Eystri- og Vestri Vallá hvort um sig metið á 20 hundruð. Kvaðir voru um eitt mannslán á vertíð af allri jörðinni. Þá var hægt að fóðra sjö kýr, tíu lömb og einn hest á allri jörðinni sem hafði haft fría hesta- og nautagöngu á sumrin á Hvannavöllum á Mosfellsheiði. Torfristu og stunga höfðu býlin í sínu landi en mótak var í landi Vestri Vallár. Þá var nokkur rekavon. Heimræði var allt árið og gengu skip heimamanna eftir hentugleikum en engin verstaða hafði verið fyrir aðkomufólk. Landþröng mikil og hætt við skriðum og vatnságangi á tún.

Grund

Grund.

Vallá var í bændaeign þegar Jarðatal Johnsen 1847 var tekið saman með einum ábúanda, metin á 20 hundruð. Neðanmáls segir að sýslumaður telji jörðina aðeins 12 hundruð. Í viðauka er eyðihjáleigan Grund sögð með Vallá.
Grund hafði verið hjáleiga Vallár vestri í nokkur ár 1704, þegar Jarðabók Árna og Páls var gerð. Hún hafði þá byggst fyrst rúmum tuttugu árum áður, eða um 1684, og var byggð í nokkur ár en var farin í eyði þegar Jarðabókin var gerð og ekki var talið að hægt væri að byggja hana aftur nema til skaða fyrir heimajörðina.
Hjáleigan virðist ekki hafa verið byggð aftur.

Grund

Grund.

Í örnefnalýsingu Vallár segir að „Í norður frá bænum í um 500 m fjarlægð er slétt flöt harðlend, ílöng frá austri til vesturs. Hún nefnist Grundir. Þar var býli fyrir löngu. Garðlag heita vel sjáanlegar túngarðsleifar vestarlega á Grundunum.“ Grundir er enn örnefni á túni austan við íbúðarhúsið Gil en leifar túngarðs voru ekki sjáanlegar. Engar fornleifar eru skráðar undir býlið sem, ásamt túngarði, er skráð sem fornleifar undir Vallá.
Litla- Vallá var byggð rétt fyrir aldamótin 1900 á Hjallhól, um 200 m norðvestan við eldra bæjarstæðið á Vallá.
Á túnakorti kemur fram að: „Litla Vallá [var] byggð fyrst nokkru fyrir aldamótin að sögn. Afgirti bletturinn tekin til ræktunar og sléttaður að nokkru af húsmanni þeim sem þar er enn. Slægjur víða umhverfis.“162 Býlið var sameinað heimajörðinni þegar ábúð lauk þar 1960 en húsin seld, ásamt 1 hektara lands, sem sumarbústaður. Þar standa nú (2018) íbúðarhús og hlaða frá 1936 á bæjarstæðinu. Engar fornleifar eru skráðar undir býlið sjálft sem er, ásamt kálgarði og útihúsum, skráð eftir túnakorti sem fornleifar undir Vallá.

Arnarholt

Arnarholt

Arnarholt – minjar.

Jörðin Arnarholt á land upp í Esjuhlíðar og gamla bæjarstæðið var undir Bergi, að nokkru leyti á Krosshól sem er stór hóll með pöllum, líkt og tröppum. Býlið Brekka var þar norðvestan í hólnum og niður af bænum voru bakkar með sjónum sem hétu Húsabakkar. Arnarholt var komið í eyði 1908 þegar gerð var bæjateikning af Brautarholtshverfi sem taldi þá tíu bæi.

Brautarholt

Brautarholtshverfi 1906.

Á túnakorti frá 1916 kemur fram að jörðin hafi verið lögð undir Brautarholt 10-20 árum fyrr og að þar sé hvorki kálgarður né bæjarhús eftir. Samt sem áður eru þar teiknuð fimm hús, tvö voru orðin tóftir, þrjú með veggjum af grjóti og torfi þar af eitt með standþili. Hefðbundinni búsetu á gamla bæjarstæðinu virðist hafa lokið 1906 þegar Sturlubræður eignuðust jörðina en þeir voru einnig eigendur að Brautarholti þar sem þeir ráku stórt kúabú og fluttu mjólkina sjóleiðis til Reykjavíkur og eftir það fylgdi Arnarholt Brautarholti þar til 1927 að Thor Jensen stórkaupmaður keypti Arnarholt, Brekku og Holt af Ólafi Bjarnasyni í Brautarholti.

Arnarholt

Arnarholt – túnakort 1916.

Thor nýtti landið til sumarbeitar fyrir nautgripi sína og byggði mikið fjós og íbúðarhús á Árnamel. Þegar hernámsliðið nam hér land hreiðruðu þeir um sig í fjósinu og innréttuðu það sem klúbb og mötuneyti og reistu skálahverfi norðan við byggingar í Arnarholti á Árnamel. Þegar skipti urðu á herliði 26. janúar settust 485 menn úr fótgönguliðssveit Bandaríkjahers að í Arnarholti.
Árið 1943 keypti Reykjavíkurbær jarðirnar af Thor Jensen og kom á fót vistheimili fyrir skjólstæðinga sína.
Arnarholt
Arnarholt kemur fyrst fyrir í máldaga Brautarholtskirkju 1491 varðandi jarðamörk og næst í jarðaskiptabréfi Þorvarðs lögmanns Erlendssonar og Gríms bónda Pálssonar á Möðruvöllum árið 1501 þar sem Grímur lét meðal annars eftirtaldar jarðir á Kjalarnesi, Hof á 60 hundruð, Arnarholt fyrir 40 hundruð, Skrauthóla fyrir 20 hundruð og Öfugskeldu fyrir 10 hundruð.
Árið 1506 seldi Stefán Jónson biskup Bjarna Jónssyni Bæ í Lóni fyrir Arnarholt á Kjalarnesi.
Sumarið 1510 var jörðin til umfjöllunar í Tylftardómi vegna eignaskipta Gríms Pálssonar og Þorvardz Erlendssonar.

Arnarholt

Arnarhamarsrétt.

Árið 1515 kemur jörðin fram í sáttargjörðarbréfi bænda þar sem fram kemur að Grímur bóndi Pálsson og sonur hans Þorleifur eigi Arnarholt og Ögurskeldu á Kjalarnesi. Síðan kemur Arnarholt fram í fógetareikningum frá 1547 til 1550 varðandi landsskuld og leigukúgildi.
Konungur fékk einn þriðja af Arnarholti 1641 og á árunum 1686 til 1695 var það í eigu konungs og einkaaðila metið á 40 hundruð.
Þegar Jarðabók Árna og Páls var gerð 1705 var jarðardýrleiki Arnarholts 40 hundruð með þremur ábúendum. Eigandinn bjó á stærsta partinum tuttugu og sjö og hálfu hundraði, annar ábúandi á sjö og hálfu hundraði og sá þriðji bjó á parti sem metinn var á fimm hundruð, hjáleiga kölluð Sigurðarhús.

Arnarholt

Arnarholt Camp – uppdráttur.

Kvaðir voru um skipsróður allt árið af hverjum ábúanda og ef einhver þeirra væri hæfur sem formaður átti hann að vera það kauplaust. Á tveimur fyrrnefndu pörtunum var hægt að fóðra átta kýr, tólf lömb, fimmtíu ásauði og geldfé, og fimmtán hesta. Fjárupprekstur var átölulaus og frír upp á Esju ásamt öðrum jörðum á Kjalarnesi. Útigangur á vetrum var góður og brást yfirleitt ekki. Skógarítak í Stórabotnsskógi við Hvalfjörð til raftviðar og kolgjörðar uppá þrjá hesta til samans árlega sem Sigurður Núpsson hafði gefið til jarðarinnar 1690.

Arnarholt

Arnarholt – herminjar.

Torfrista og stunga var jörðinni hjálpleg og reiðingsrista var góð. Móskurður til eldiviðar var nægur og góður sem leiguliðar gátu brúkað að vild. Sölva- og hrognkelsafjara var lítil en þangtekja var talin næg til eldiviðar en lítið notuð. Rekavon var góð fyrir landi jarðarinnar. Skipsuppsátur var gott og heimræði var árið um kring og lending var óbrigðul á meðan útsjór er fær. Engjar voru litlar og snöggar, vatnsból var slæmt og þraut oft. Þá braut sjór smám saman land af túninu.

Arnarholt

Arnarholt – herminjar.

Hjáleigur Arnarholts voru fjórar 1705 samkvæmt Jarðabókinni. Fyrrnefnt Sigurðarhús var fyrsta hjáleigan sem hafði þá verið byggð í langan tíma, önnur var Brekka sem byggð var fyrst 30 árum áður, um 1675, þriðja var Hryggur „Hriggur“ sem byggðist eitthvað fyrr en Brekka og fjórða var Á Bergi sem byggðist fyrst ellefu árum fyrir skráningu jarðabókarinnar, um 1694. Eitt tómthús var á Arnarholti „Naudveria“ öðru nafni Sigvatshús sem hafði verið þá verið byggt í 40 ár eða frá 1665.
Þegar Jarðatal Johnsens var tekið saman 1847 var Arnarholt í bændaeign, dýrleiki hafði þá lækkað um nærri helming og var hún metin á 23 hundruð en sýslumaður mat hana aðeins á 20 hundruð.

Ártún

Ártún

Ártún – fornleifar.

Tóftir síðasta torfbæjarins í Ártúni standa á bæjarhól skammt ofan við Vesturlandsveg vestan Blikdalsár. Búið var í bænum fram til ársins 1956 en þá fór jörðin í eyði. Jörðin nær frá mynni Blikdals í sjó fram. Mörk jarðarinnar að norðan eru við jörðina Dalsmynni og landspildurnar Melagerði og Melavelli sem voru seldar út úr jörðinni 1975 og 1979. Að sunnan eru mörkin á móti jörðinni Bakka og ræður Ártúnsá frá sjó að Blikdalsmynni.
Ártúns er getið í máldaga Saurbæjarkirkju 1575, var þá annað af tveimur kotum í eigu kirkjunnar. Jörðin var í eigu Saurbæjarkirkju og metin á 15 hundruð 1695.
Þegar Jarðatal Johnsens var tekið saman 1847 var jörðin enn í eigu kirkjunnar, metin á 15 hundruð. Í landamerkjabréfi fyrir Saurbæ 1890 kemur fram að Ártún átti óskipta beit á Blikdal og slægjur fyrir neðan götu frá Selgilslæk að Heygilslæk.

Ártún

Ártún – túnakort 1916.

Þegar Jarðabók Árna og Páls var gerð 1705 var Ártún kirkjujörð Saurbæjarkirkju í eigu Sigurðar Björnssonar lögmanns með einum ábúanda, metin á 15 hundruð. Kvaðir voru um mannslán allt árið heim á Saurbæ eða fram á Kjalarnes. Á jörðinni mátti fóðra fjórar kýr, einn kálf, tíu lömb og hægt var að hafa þrjátíu sauði og tvö hross í útigangi. Selstöðu og beit hafði jörðin fría allt árið á Blikdal í landi Saurbæjar. Torfrista og stunga var bjargleg en reiðingsrista lítil. Móskurður til eldiviðar, sölvafjara og fjörugrös voru í landi Saurbæjar. Þang til eldunar var nægilegt og rekavon nokkur. Stórviðrasamt svo hætt var bæði húsum og heyjum. Vatnsból var erfitt á vetrum og sauðfé var hætt fyrir flóðum. Skipsuppsátur var ekkert og engin lending.

Ártún

Ártún – bæjarhóll – uppdráttur.

Í Ártúni er að finna einstaka minjaheild. Búsetulandslag og minjar hafa ekki orðið fyrir miklu raski eftir að búskapur lagðist af á jörðinni 1956 og eru gott dæmi um búsetu á svæðinu. Bæjarhóllinn er í góðu ásigkomulagi með tóftum síðasta bæjarins og útihúsum með kartöflugarði fyrir framan. Búið var í bænum fram til ársins 1955 en eftir það hefur vegfarendum gefist kostur á því að fylgjast með hnignum bæjarhúsanna á bæjarhólnum þar sem þau hafa með tímanum breyst í rúst. Bæjarhóllinn hefur mikið sjónrænt gildi því auðvelt er að gera sér í hugarlund hvernig þarna hefur verið umhorfs á meðan búið var þar. Skammt norðaustur af bæjarhólnum er greinileg fjárhústóft með heygarð í miðjunni sem rúmaði 50 kindur. Þá eru einnig töluverð ummerki eru eftir veru hersins innan jarðarinnar og þar eru skráðar allmargar herminjar. Flestar eru norðan og ofan við bæinn, svæði eða holur sem rutt hefur verið uppúr til hliðanna.

Ártún

Ártún – skotbyrgi.

Að sögn Kristrúnar Óskar Kalmansdóttur sem var ein af síðustu íbúum voru svæðin notuð sem stæði fyrir loftvarnarbyssur og í tveimur þeirra eru steyptar undirstöður um 50 x 50 cm með járnhring í miðjunni. Hermennirnir notuðu minni holurnar til að leynast í og strengdu græn net yfir. Ártún hefur einstakt gildi fyrir sögu kvikmyndagerðar á Íslandi en það var mikið notað sem kvikmyndaver á árdögum hennar um miðja síðustu öld. Loftur Guðmundsson (1892-1952) ljósmyndari og kvikmyndagerðarmaður tengdist staðnum og átti sumarbústað sem stóð ofan við bæinn. Hann gerði fyrstu íslensku kvikmyndina í fullri lengd 1949 „Milli fjalls og fjöru“ sem var jafnframt fyrsta íslenska talmyndin. Í þeirri mynd var „bærinn“ í myndinni torfbærinn í Ártúni en hann kom einnig við sögu 1950 í „Síðasti bærinn í dalnum“ og þar bjuggu Bakkabræður 1951 í „Reykjavíkurævintýri Bakkabræðra“. Þá kom Ártún lítillega við sögu 1954 í „Sölku Völku“ og 1957 eldaði tröllskessan „Gilitrutt“ matinn í Ártúni. Við skráningu 2010 gaf Kristrún Ósk Kalmansdóttir greinagóðar upplýsingar um minjar á jörðinni og því er vitað um síðasta hlutverk flestallra minjanna.

Saurbær

Saurbær

Saurbær – minjar.

Saurbær á Kjalarnesi er fornt höfuðból og kirkjustaður á sjávarbakka sunnan Hvalfjarðar. Þar hefur verið kirkja frá því um 1200 sem hefur átt margt góðra gripa í gegnum tíðina. Árið 1856 var byggð þar timburkirkja sem var svipuð Brautarholtskirkju sem reist var 1857 og var yfirsmiður beggja Eyjólfur Þorvarðarson snikkari á Bakka. Kirkjan sú fauk af grunni sínum 14. nóvember 1902 nálægt miðnætti og fór yfir sig heila veltu. Tveimur árum síðar 1904 var vígð ný steinsteypt kirkja sem Eyjólfur Runólfsson kirkjueigandi í Saurbæ lét reisa og er nú ein af friðuðum kirkjum í Kjalarnesprófastdæmi.195 Eyjólfur Runólfsson var þekktur fyrir lækningar sem hómópati og ljósfaðir og tók á móti um 600 börnum á Kjalarnesi og í Kjós.

Saurbær

Saurbær.

Í Saurbæ hafa búið nafntogaðir menn og talið er að snemma á 13. öld hafi Árni „óreiða“ Magnússon skáld og goðorðsmaður búið þar. Árni, sem nefndur er í Sturlungu, var giftur Hallberu dóttur Snorra Sturlusonar og fékk með henni Brautarholt og mikið annað fé. Árni skildi síðar við Hallberu og keypti þá Saurbæ á Kjalarnesi og bjó þar.
Enskir sjóræningjar eru sagðir hafa komið að Saurbæ árið 1424 og látið ófriðlega, réðust inní kirkjuna og handtóku umboðsmann Dana, sem hafði leitað þar hælis, og rændu meðal annars vopnum og hestum.
Sigurður lögmaður Björnsson (1643-1723) bjó í Saurbæ frá 1687 til æviloka 1723. Hann var fyrst landskrifari í sjö ár síðan lögmaður sunnan og austan frá 1677 til 1705 og sýslumaður Kjósarsýslu, fékk veitingabréf fyrir henni 1683.199 Sigurður er talinn hafa verið fyrirmynd Halldórs Laxness að Eydalín lögmanni í Íslandsklukkunni. Í hans tíð eignaðist kirkjan merka gripi þar á meðal altariskertastjaka, hurðarhring og kirkjuklukkur. Í manntali 1703 er jörðin nefnd Stóri Saurbær og 30 manneskjur skráðar þar.
Úr landi jarðarinnar voru byggðar jarðirnar Ártún og Hjarðarnes, afbýlið Litli- Saurbær og hjáleigan Stekkjarkot. Jörðinni var síðan skipt upp á milli erfingja 1930 í tvær jarðir og nefnist vestari helmingurinn Dalsmynni.

Saurbær

Saurbær – braggaleifar.

Á stríðsárunum var herinn með töluverð umsvif í kringum Saurbæ og þegar herliðið fór eignaðist Ólafur í Saurbæ nokkuð af bröggum og öðru dóti á vægu verði. Í Dalsmynni reisti hernámslið Breta herstöð, skálahverfi fyrir ofan túngarðinn vestan við núverandi vegarstæði, fallbyssuvígi fyrir neðan túnið ásamt því að reisa líka nokkra skála og vegartálma í Tíðaskarði. Herstöðin í Dalsmynni var kennd við Saurbæ „Camp Saurbær“. Bandaríkjaher tók síðan við af Bretum 26. janúar 1940 og þá settist 240 manna flokkur að íDalsmynni og 30 í Tíðaskarði.
Síðasti torfbærinn í Saurbæ, sem var að hluta til úr timbri, var reistur 1896 og stóð þar til hann brann árið 1966 en þá hafði ekki verið búið í honum í fjögur ár.204 Þegar túnakort frá 1916 var strekkt yfir nýlega loftmynd má sjá að bærinn var norðan við kirkjuna og lá bæjarhúsaröðin í austur, vestur. Þar er nú afgirtur skrúðgarður á lágum hól og sennilega eru leifar bæjarhúsa þar undir sverði. Núverandi íbúðarhús er um 20 metrum norðaustan við kirkjuna og þar var áður skemma og smiðja samkvæmt túnakortinu.

Saurbær

Saurbæjarkirkja.

Kirkju í Saurbæ er fyrst getið um 1200 í kirknaskrá Páls biskups. Elsti máldagi Saurbæjarkirkju, sem Magnús biskup Gissurarson setti, er talinn vera frá því um 1220. Þá átti kirkjan margt góðra gripa þar á meðal tvo glerglugga, til kirkjunnar lágu „X. hundruð þriggia alna aura“ í heimajörðinni og þar skyldi vera prestur og messa alla löghelga daga. Í máldaganum er í fyrsta skipti kveðið á um að brú skyldi halda á Blikdalsá sem átti að geta borið meðalmann með hálfa vætt á baki sér í logni. Í máldaga Maríukirkjunnar í Mýdal (Miðdal) frá haustinu 1269 er kveðið á um þjónustu prests frá Saurbæ. Þá kemur fram í bréfi Runólfs ábóta í Viðey um 1270 að hann telur að kirkjan í Saurbæ eigi hluta í hvalreka á milli Valagnúpa og Esjubergs.
Saurbær kemur fyrir í Kjalnesingasögu sem talin er rituð um 1300, þar sem segir frá því þegar Helgasynir bjólu, Þorgrímur og Arngrímur, skipta með sér föðurarfi og Arngrímur reisti bæ við Hvalfjörð sem hann nefndi Saurbæ.

Saurbær

Saurbær – braggaleifar.

Í máldaga Eyrarkirkju í Kjós sem er talinn vera frá 1315 eru Saurbæjarkirkju lagðar til 12 ær. Máldagi Nesjasýslu í Hítardalsbók frá 1367 greinir frá því að Péturskirkjan í Saurbæ á Kjalarnesi eigi tíu kýr, fimmtán ær og griðung.
Það er í fyrsta skipti sem verndardýrlings er getið og telur Jón Þ. Þór að Pétri, sem var verndardýrlingur sæfarenda, hafi verið helguð kirkjan vegna vaxandi gengis sjávarútvegs á þessum tíma.213 Samkvæmt máldaga kirkjunnar frá 1379 sem Oddgeir biskup Þorsteinsson setti átti hún 30 hundruð í heimajörðinni og þar er einnig að finna ákvæðið um að brú skyldi halda á Blikdalsá á milli fjalls og fjöru. Kirkjan átti enn 30 hundruð í heimajörðinni samkvæmt máldaga frá 1397 og meðal eigna er talinn upp glergluggi en þeir höfðu verið tveir 1220. Ákvæði um brú á Blikdalsá er þar líka og hvernig skuli fjármagna viðhald á henni.
Í máldaga kirkjunnar frá 1477 kemur fram að hún eigi 30 hundruð í heimajörð og jörðina Hjarðarnes auk annars. Árið 1503 var skrifað kaupbréf í Saurbæ fyrir Ölvisholt og árið 1507 var kveðinn upp dómur þar. Árið 1508 er Saurbæjar getið í kaupmálabréfum.

Saurbær

Saurbær – braggaleifar.

Saurbæjarsókn kemur fram í bréfi frá árinu 1517 þegar Erlendur Jónson gerir próventusamning við Ögmund ábóta í Viðey og síðar. Í festingabréfi frá árinu 1561 kemur fram að Halldór Ormsson gefi Þórdísi Eyjólfsdóttur tuttugu hundruð í Saurbæ.221 Þá kemur bæjarnafnið fyrir 1569 á minnismiða Vigfúsar Jónssonar sýslumanns í Kjalarnesþingi. Þegar máldagi kirkjunnar var gerður 1575 átti hún 30 hundruð í heimalandi og jarðirnar Ártún og Hjarðarnes en ekki var getið um að halda skyldi brú á Blikdalsá.
Saurbær var í einkaeign árin 1686 og 1695 metinn á 60 hundruð.

Ölfus

Litli-Saurbær, túnakort 1918.

Þegar Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns var gerð 1705 var kirkjan orðin annexía frá Brautarholtskirkju og Saurbær metinn á 60 hundruð með Ártúni og Hjarðarnesi. Eigandi var Sigurður Björnsson lögmaður og ábúandi á 50 hundruðum en annar ábúandi var á tíu hundruðum, Litla Saurbæ. Þá var hægt að fóðra tólf kýr, einn eldishest og tvo sem vel var gefið, einn griðung, þrjátíu ær, tíu lömb og þrjá kálfa. Fjárupprekstur, hestagöngu og selstöðu hafði jörðin í sínu landi á Blikdal. Torfrista og stunga til húsabótar hjálpleg, móskurður til eldiviðar nægur og til sölu ef vildi. Hvanna- og rótartekja voru litlar og nýta mátti sölvafjöru og fjörugrös. Hægt var að veiða sel og hafði svo verið gert en lítið var um hrognkelsi. Rekaþöngla og þang mátti brúka til eldiviðar og rekavon var nokkur.

Saurbær

Saurbær og Stekkjarkot – túnakort 1916.

Heimræði var allt árið og gengu skip eigenda eftir hentugleikum en lending var brimsöm og gat brugðist. Selvegur þótti langur og erfiður og sumarhögum var hætt við skriðum. Sauðfé og hestum stóð ógn af sjávarflóðum á vetrum og af foruðum og dýjum. Stórviðrasamt og sjávargangur braut af túnum. Þá var Litli Saurbær afbýli og Stekkjarkot/ Bjarg hjáleiga af jörðinni og dýrleiki þeirra talinn með heimajörðinni og tómthúsmaður var í heimajarðarhúsum sem stóðu á Litla Saurbæ. Saurbæjarkirkja var annexsía frá Brautarholti 1748.
Eigandi Saurbæjar seldi kaupmanni í Reykjavík rétt til vinnslu jarðefna á jörðum sem hann átti, Saurbæ, Hjarðarnesi, Ártúni og Bjargi (Stekkjarkoti).

Saurbær

Saurbær.

Litli Saurbær var afbýli af heimajörðinni 1705 metinn á 10 hundruð en talinn með heimajörðinni. Kvaðir höfðu áður verið um mannslán allt árið annaðhvort heima eða frammi á Kjalarnesi en höfðu verið feldar niður vegna góðvilja en dagsláttur hafði stundum verið kallaður. Hægt var að fóðra þrjár kýr, tuttugu ær og eitt ungneyti á partinum. Kostir og lestir voru þeir sömu og heimajarðarinnar nema heldur braut meira af túninu og lending var betri. Tómthúsmaður var í heimajarðarhúsum sem stóðu á Litla Saurbæ 1705 og greiddi hann 25 álnir í húsaleigu til landdrottins. Kvaðir voru á hann um skipsróður utan sláttar sem skyldi gjaldast með formennsku. Eldiviðartak var frítt og eigandi viðhélt húsinu. Tómthúsið hafði þá stundum verið byggt með grasnyt eða ekki og stundum fylgt Litla Saurbæ þegar meirihluti jarðarinnar var nytjaður.

Heimild:
-Fornleifaskráning vegna deiliskipulags Vesturlandsvegar frá Leirvogsá að Hvalfirði – Reykjavík 2018, Borgarsögusafn Reykjavíkur.

Ártún

Ártún 1930-1940.

 

Kjalarnes

Í upphafi Kjalnesinga sögu segir frá frumbýlingum á Kjalarnesi:
„Helgi bjóla, son Ketils flatnefs, nam Kjalarnes millum Leiruvogs ok Botnsár, ok bjó at Hofi á Kjalarnesi. Hann var nýtmenni mikit í fornum sið, blótmaðr lítill, spakr ok hægr við alla. Helgi átti Þórnýju, dóttur Ingólfs í Vík, er fyrst bygði Ísland. Þeirra synir voru þeir Þorgrímr ok Arngrímr; þeir voru báðir miklir ok sterkir, ok hinir vaskligustu menn. Helgi skipaði skipverjum sínum lönd þau, sem hann hafði numit; hann fékk Þrándi á þrándarstöðum, Eilífi í Eilífsdal, Hækingi í Hækingsdal, Tind á kjalarnes - ornefniTindsstöðum, ok þar hverjum sem honum þótti fallit vera. Maðr hét Örlygr; hann var írskur at allri ætt; í þann tíma var Írland kristið; þar réð fyrir [Konufögr Írakonungr. Þessi fyrnefndr maðr varð fyrir konungs reiði; hann fór at finna Patrek biskup, frænda sinn; en hann bað hann sigla til Íslands: því at þangat er nú, sagði hann, mikil sigling ríkra manna; en ek vil þat leggja til með þér, at þú hafir iij hluti: þat er vígð mold, at þú látir undir hornstafi kirkjunnar, [ok plenarium ok járnklukku vígða. Þú munt koma sunnan at Íslandi; þá skaltu sigla vestr fyrir, þartil er fjörðr mikill gengr vestan í landit; þú munt sjá í fjörðinn inn iij fjöll há, ok dali í öllum“; þú skalt stefna inn fyrir hit synnsta fjall; þar muntu fá góða hafn, ok þar er spakr formaðr, er heitir Helgi bjóla; hann mun við þér taka, því hann er lítill blótmaðr, ok hann mun fá þér bústað sunnan undir því fjalli, er fyr sagði ek þér frá; þar skaltu láta kirkju gjöra’, ok gefa [hinum heilaga Kolúmba. Far nú vel, sagði biskup, ok geym trú þinnar sem bezt, þótt þú verðir með heiðnum. Eptir þat býr Örlygr ferð sína, ok er frá ferð hans þat fyrst at segja, at allt gekk eptir því sem biskup sagði. Hann tók í Þerneyjarsundi höfn; síðan fór hann at finna Helga bjólu, ok tók hann vel við honum; reisti Örlvgr þar nú hú ok kirkju, ok bjó þar síðan til elli.
Esja-233Á ofanverðum dögum Konufögrs kom skip í Leiruvog; þar voru á írskir menn. Maðr hét
Andríðr, ungr ok ókvongaðr, mikill ok sterkr. Þar var þá kona sú, er hét Esja, ekkja ok mjok auðig. Sá maðr er nefndr Kolli, er þar var á skipi með þeim. Helgi tók við þeim öllum; Kolla setti hann niðr í Kollafjörð; en með því at Örlygr var gamall ok barnlauss, þá gaf hann upp land ok bú, ok tók Esja við; settist hún þá at Esjubergi. Allir þessir menn voru kallaðir skírðir; en þó var þat margra manna mál, at Esja væri [forn í brögðum. Andríðr fór um vetrinn til vistar til Hofs; var þar þá fóstbræðralag ok með sonum Helga. Andríðr bað Helga fá ser bústað ok kvonfang; Hann hafði auð fjár. Þá var skógi vaxit allt Kjalarnes, svo at þar at eins [var rjóðr, er menn ruddu til bæja eða vega. Braut mikil var rudd eptir holtinu frá Hofi; þangat riðu þeir Helgi ok Andríðr um vorit; ok er þeir komu út á holtið, þá mælti Helgi: ber vil ek, Andríðr, sagði bann, gefa þér jörð, ok at þú reisir þér bæ; mér þykkir sem þeir synir mínir vilji, at þér sitið nær. Eptir þat reisti Andríðr bæ í brautinni ok kallaði Brautarholt, því at skógrinn var svo þykkr, at honum þótti allt annat starfameira; Andríðr setti þar reisuligt bú saman.
Kjalarnes-239Maðr hét Þormóðr, hann bjó í Þormóðsdal; með honum var systir hans, er Þuríðr het; hun var fríð sjónum ok auðig at fe. Þessar konu bað Helgi til banda Andríði, ok þessi konu var honum heitið. Þetta sumar var ok heitið Þorgrími Helgasyni Arndísi, dóttir Þórðar skeggja af Skeggjastöðum, ok voru brullaupin bæði saman at Hofi, ok var veitt með hinu mesta kappi; var þar ok allfjölmennt. Eptir boðit fór Þuríðr í Brautarholt, ok tók við [búi fyrir innan stokk; var þat brátt auðsætt, at hon var mikill skörungr. Þau höfðu margt gangandi fjár, ok gekk allt nær sjálfala úti í skóginum um nesið. Þetta haust [var honum vant kvígu þrévetrar, myrkrar; hon hét Mús. Þessi kvíga fannst [þrem vetrum síðar á nesi því, er liggr til vestrs undan Brautarholti, ok hafði hon þá með sér ij dilka, annann vetrgamlan, en annann sumargamlan; því kölluðu þeir þat Músarnes. Þann vetr, er Andríðr bjó fyrstan í Brautarholti, andaðist Helgi bjóla; þat þótti mönnum hinn mesti skaði, því at hann var hinn vinsælasti maðr. Um vorit skiptu þeir bræðr föðrarfi sínum, hafði þorgrímr föðrleifð þeirra ok mannaforráð, því at hann var eldri, en Arngrímr utjarðir. Hann reisti bæ við fjörðinn, er hann kallaði Saurbæ…“

Heimild:
-Íslendinga sögur, Kjalnesinga saga,1843, bls. 397-401.

Esja

Esja á Kjalarnesi.

Þerneyjarsel

Þrjú sel eru innan og ofan við Tröllafoss í Leirvogsá. Varmársel er efst. Skammt þar frá er Þerneyjarsel. Esjubergssel er ofan við Rauhólsgil, innan við Esjubergsflóa. Þar er hæðin Skopra. Tóftir eru greinilegar.

Tröllafoss

Tröllafoss.

Gengið var upp með norðanverðri Leirvogsá áleiðis að framangreindum seljum. Einnig var ætlunin að skoða tóftir Sámsstaða og jafnvel leifar bæjar Halls goðlausa Helgasonar er nam land að ráði Ingólfs millum Mógilsár og Leirvogsár og bjó í Múla.
Esjubergsflói er dalverpi sem skilur að Haukafjöll og Stardalshnúka. Vestan við flóann eru þrír stakir grágrýtishnúkar í Haukafjöllum og nefnast Þríhnúkar. Esjubergsflói hefur nafn sitt af því að forðum var þangað selför frá Esjubergi á Kjalarnesi; má enn líta tóftir selsins austast í honum undir strýtumynduðum hnúk sem heitir Skopra. Úr flóanum fellur lækur suður til Leirvogsáar um svonefnt Rauðhólsgil.
Stefnan var tekin upp Rauðhólsgil. Gilið er djúpt neðst, en lagast vel að landinu ofar. Haldið var upp í Esjubergsflóa og þaðan í Svartaflóa. Mikið gras er þarna og mýrlendi. Útsýnið er fallegt yfir hæðir og hnúka. Esjubergssel kúrir þarna undir nefndri klettahæð norðan við Esjubergsflóa. Sér í vesturöxl Skálafells til austurs.
Haldið var yfir að Stiftamti neðan við Amtið (eða Ömtin), sem er áberandi stuðlabergshæð, einkum mót suðri. Undir hæðinni hefur verið gerð tilraun til ræktunar og þar er gamalt sumarhús, eyðilegt. Þetta er örskammt norðan við vegslóða og vað á Leirvogsá. Þarna rís lág klettarhæð eins og hús að líta frá götunni. Hún heitir Rípur. Neðan (suðvestan) við Ríp, rétt ofan við Leirvogsá, eru miklar tóftir.
Norðan við Ríp gnæfir Stiftamtið fyrrnefnda með lóðréttum hamraveggjum eins og gríðarstór bergkastali. Vestan við það er hnúkaþyrping sem nefnist Amtið. Í því má vel sjá ummerki eftir jökulinn, sem hefur skafið svo duglega ofan af stuðlabergsendunum þarna í hæðunum. Í giljum má sjá fallega bólsta og aðrar kvikustorknunarmyndir jarðsögunnar.

Varmársel

Varmársel.

Þarna fyrir austan er skarð inn í hnjúkaþyrpinguna, sem heitir Sámsstaðaklauf, en neðan hennar sér enn þá tún og rústir gamals eyðibýlis, sem heitir Sámsstaðir.
Tóftin er vestast í túnbleðli við lítinn sumarbústað. Í tóftunum er staur með málmplötu á. Líklega hefur einhvern tímann staðið þar: „Friðlýstar fornleifar“. Fyrir áhugasamt fólk segir áletrunin ekki neitt, ekki einu sinni að þarna séu friðlýstar minjar. Munnmæli eru um að þarna hafi fyrrum verið kirkjustaður en legið í auðn síðan drepsótt var hér á landi, þ.e. Plágan mikla 1402, eða svo er hermt eftir elstu mönnum í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín. Um eigendur þeirrar kirkjujarðar vissi enginn neitt að segja enda vart von á því þeirrar kirkju getur hvergi í skjölum. Nafnið bendir til þess að þarna hafi fremur verið bær en selstaða. Þarna er hlýlegt og skjól fyrir flestum áttum.
Ef „bæjarstæðið“ er skoðað mætti ætla að þarna hafi verið sel, a.m.k. eru tóftirnar „seljalegar“; tvö til þrjú hús að svipaðri stærð og sjá má í seljum á þessu svæði. Vitað er að margir bæir í Kjósinni áttu fyrrum selstöðu í núverandi Stardalslandi. Tóftirnar miklu suðvestan undir Ríp gætu hugsanlega hafa tengst einhverjum bæjanna, Sámstöðum, Múla eða Rauðhólum, sem þarna áttu að hafa verið.

Stardalsmúli

Stardalhnúkur.

Stardalshnúkur er áberandi kennileiti til norðurausturs. Hann myndaðist við að hraunkvika tróðst upp í móberg inni í í Stardalsöskjunni. Móbergið er enn hægt að skoða í giljum upp af Sámsstöðum, sem koma niður úr fyrrnefndu skarði, Sámsstaðaklauf, austan við Stiftamt og Ríp.
Víða er fallegt stuðlaberg á þessu svæði og há lóðrétt bergþil. Basaltinnskotið var lengi að kólna þarna og náði því að mynda gilda stuðla.
Stuðlaberg er notað um storkuberg þar sem stuðlar blasa við; [columnar basalt]. Stuðlar í bergi myndast við storknun þegar bergið dregst saman við að kólna og myndar margstrenda stuðla hornrétt á kólnunarflötinn. Stuðlað storkuberg verður til þegar kvika storknar og kólnar minnkar rúmtak efnisins. Kraftarnir, sem myndast við þessar rúmmálsbreytingar, losna á auðveldastan hátt með því að mynda marghyrnt sprungumynstur, oftast sex- eða fimmhyrnt. Neðst í hraununum eru stuðlarnir sem myndast á þennan hátt reglulegir og ávallt hornréttir á kólnunarflötinn. Ofar og nær yfirborði hraunanna er lag smágerðra óreglulegra stuðla sem mynda kubbaberg.  Þetta óreglulega lag er víða horfið á gömlum hraunum vegna rofs, samanber Kirkjugólfið á Kirkjubæjarklaustri.

Sámsstaðir

Sámsstaðir.

Víða sjást mjög sérkennilegar myndanir stuðla eins og til dæmis í gömlum gígfyllingum þar sem gjallkápa gígsins hefur máðst burtu við rof eins og t.d. í Hljóðaklettum. Þekktar stuðlabergsmyndanir hérlendis eru t.d.: Gerðuberg í Hnappadal, Kirkjugólfið að Klaustri, Dverghamrar á Síðu, við Svartafoss í Skaftafelli og við Litlanefsfoss í Hengifossá í Fljótsdal.

Í landnámsbókum er greint frá manni sem hét Hallur goðlausi Helgason og sagður venslaður eða skyldur ýmsum kunnum landnámsmönnum, t.a.m. Þórði skeggja, sem nam Skeggjastaði, og Ketilbirni gamla að Mosfelli í Grímsnesi. Hallur nam land að ráði Ingólfs í Reykjavík allt millum Mógilsár og Leirvogsár og bjó í Múla. Bæjarnafnið Múli er nú týnt og kann enginn að segja hvar sá bær hefur staðið. Í túni núverandi býlis Stardals undir Múlanum eru margar rústir eftir forna byggð, segja heimildir a.m.k.
Hús var tekið á Magnúsi bónda í Stardal. Hann tók vel á móti göngufólkinu, benti m.a. á hinn gamla bæjarhól Stardals norðan núverandi húss. Þar má enn sjá leifar hlaðinna túngarða. Magnús sagði að þar hafi jafnan verið snjóþungt og því hafi húsin verið færð svolítið lengra til suðurs. Ekki kannaðist hann við leifar fornra bæjarstæða undir Múlanum, en hann væri þó eina örnefnið með því nafni á þessum slóðum. Magnús sagði að Esjubergsselið væri enn greinilegt undir Skopru. Hann hefði sjálfur margoft komið í þessi sel við leitir. Þá væru hin tvö augljós, 30-40 metrum ofan við norðurbakka Leirvogsár, skammt ofan við Tröllafoss.
Haldið var niður með Leirvogsá, áleiðis niður að Tröllagljúfrum.

Þerneyjarsel

Þerneyjarsel.

Á leiðinni var komið við í einni seltóftinni, Varmárseli. Hún er skammt ofan við bakka árinnar að norðanverðu, í fallegu gróðurverpi. Gömul reiðgata liggur svo til alveg við tóftirnar. Þær eru dæmigerðar fyrir sel á Reykjanesskagagnum; tvö rými saman og eitt til hliðar (eldhúsið).
Gerð var leit að annarri tóft, Þerneyjarseli, sem átti að vera þarna nálægt, en hún vildi ekki láta sjá sig í fyrstu atrennu. Hún mun örugglega koma í ljós síðar.
Í Tröllagljúfrum er sérkennilegt landslag berghóla með grösugum lægðum á milli og heita þær Tröllalágar. Þar segir sagan að enn megi sjá rústir fornra selja sem nefnast Varmársel og Þerneyjarsel. Segja nöfnin til um hvaða bæir áttu þangað selför. Líklegt er að selið, sem skoðað var hafi verið Varmársel.
Tröllafoss setur mikinn svip á gljúfrin. Skammt neðar er miklu mun minni foss, nafnlaus.
Tröllalágar bera nafn með réttu. Í gilinu neðan við Tröllafoss eru hrikaleg ummerki vatnsgraftar í 11000 ár.

Svæðið er vel fallið til gönguferða. Gömul reiðleið liggur norðan með ánni og er ákjósanlegast að fylgja henni. Af götunni er hið fegursta útsýni og alltaf tekur við ný sýn á landið umhverfis. Rétt er að njóta þess áður en áin verður virkjuð varanlega.
Móskarðshnúkar „brostu“ sínu bjartasta, hnúkarnir lögðu sig fram við að sýna kolla sína og stuðlabergsdranga og Skálafell vildi alls ekki verða neinn eftirbátur þeirra. Lognið og blíðan í febrúar undirstrikuðu gildi svæðisins til útvistar.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 33. mín.

Heimild m.a.:
-Árbók FÍ 1985.
-http://www.ismennt.is/not/gk/jfr/ordskyr/

Esjubergssel-401

Esjubergssel.

 

Kjalarnes

Í Fréttabréfi Ættfræðifélagsins árið 2000 má lesa eftirfarandi frásögn um „Kjalarnes og Kjós„:
„Esjan er fjall sem allir Reykvíkingar og fleiri hafa fyrir sjónum nær alla daga.Uppi í hlíðum þess var unnið kalk og flutt til Reykjavíkur. Brennsluofhinn stóð þar sem nú heitir Kalkofnsvegur og eru enn til hús sem kalkið var notað í. Á Esjuna eru margar góðar og frekar auðveldar gönguleiðir, t.d á Þverfellshorn, um Gunnlaugsskarð, úr Blikdal og margar fleiri. Á Esjubergi var fyrsta kirkja á Íslandi reist og þar bjó Búi Andríðsson, aðalsöguhetja Kjalnesingasögu.
Esja-221Á Móum bjó séra Matthías Jochumsson þegar hann var prestur í Saurbæ á Kjalarnesi 1867-73 og þar þýddi hann leikritin Hamlet, Othello og Rómeó og Júlíu.
Um Brautarholt segir í Kjalnesingasögu að Helgi bjóla, sem nam land á Kjalarnesi fengi Andríði, írskum manni, bústað. Þar fæddist Bjarni Thorarensen, 1786-1841, skáld og amtmaður. Helgi bjóla bjó á Hofi, en Þorgrímur goði reisti þar hof mikið.
Saurbær á Kjalarnesi er kirkjustaður og höfuðból. Árið 1424 rændu enskir víkingar staðinn og stálu vopnum, hestum og fleiru.
Tíðaskarð innan við Saurbæ heitir svo því að þar fóru kirkjugestir um á leið til tíða og þegar til þeirra sást, þótti tími til að hringja til tíða. Fyrir um 15-20 árum var farið að brotna mikið úr sjávarbakkanum fyrir neðan kirkjugarðinn og komu þá í ljós bein úr garðinum.
Hvalfjarðareyri, löng og flöt eyri er gengur út í Hvalfjörðinn. Þar var verslunarstaður um tíma á seinni hluta 17. aldar eftir að Maríuhöfn eyðilagðist. Rétt innan eyrarinnar heitir Naust. Þaðan gekk ferja um tíma yfir að Katanesi. Þar er og elsti vegarkafli í Kjósinni, sem enn er notaður.
Laxárvogur (Laxvogur) er grunnur en þótti góður beitutínslustaður.
mariuhofn-221Maríuhöfn var verslunarstaður á miðöldum og sjást þar rústir, sem eru að mestu ókannaðar. Árið 1402 kom Hval-Einar Herjólfsson skipi sínu í Maríuhöfn og flutti með sér svarta dauða, mannskæðustu drepsótt er hingað hefur komið. Þegar Alexíus prestur Svarthöfðason á Saurbæ reið frá skipi, komst hann ekki nema í Botnsdal og andaðist hann þar og sjö fylgdarmenn hans. Svo bráð var sóttin.
Árið 1387 kom Björn Einarsson Jórsalafari skipi sínu í Hvalfjörð.
Hvammur, þar bjó Hvamm-Þórir er land nam milli Laxár og Fossár.
Steðji, Karlinn í Skeiðhól, Staupasteinn, sem allt eru nöfn á sama steininum, en þar er forn áningarstaður.
glymur-221Í Landnámu segir að Ávangur hinn írski hafi reist bú að Botni. Um Botnsdalinn rennur Botnsá, en hún skiptir löndum milli Kjósarsýslu og Borgarfjarðarsýslu. Í henni er Glymur, 198 m hár, talinn hæsti foss á Íslandi. Botnsá fellur úr Hvalvatni, sem er næst dýpsta vatn landsins, um 160 m djúpt. Inn af dalnum er Hvalfell, móbergsfjall, sem hlóðst upp í gosi undir jökli síðla á ísöld. Grágrýtiskollur er á fjallinu, sem bendir til að gosið hafi náð upp úr jöklinum. Sagt er að Arnes Pálsson hafi hafst við í hellisskúta við vatnið á árunum 1750-57.
Botnssúlur, einstakir tindar, sá hæsti 1095 m. talið er að um gamla eldstöð sé að ræða og tindarnir séu rústir af gömlum gíg. Þyrill er 358 m hátt hömrum girt fjall úr basalti, þar finnast margar tegundir sjaldgæfra geislasteina. Nafnið mun vera dregið af þyrilvindum þeim, sem eru svo algengir fyrir botni Hvalfjarðar. Í Þyrli er klauf, Helguskarð, sem sagan segir að Helga jarlsdóttir klifi upp með syni sína, Björn og Grímkel, á flótta eftir víg Hólmverja á leið sinni yfir að Indriðastöðum í Skorradal.
Í Geirshólma höfðust við Hólmverjar undir forustu Harðar Grímkelssonar, sem frá segir í Harðar sögu og Hólmverja. Þar hafðist við flokkur Sturlu Sighvatssonar undir forustu Svarthöfða Dufgussonar og fóru með ránum þaðan um hríð.
Bessastaðir, kirkjustaður og fornt höfuðból á Álftanesi. Bessastaða er fyrst getið í Íslendingasögu Sturlu Þórðarsonar og eru þá í eigu Snorra Sturlusonar. Eftir dráp Snorra sló Noregskonungur eign sinni á Bessastaði og eru þeir fyrsta jörðin í konungseign á íslandi. Frá 1867 voru Bessastaðir í eigu Gríms Thomsen, en faðir hans bjó bar áður. Grímur var fæddur á Bessastöðum 1820. Á Bessastöðum fæddist einnig skáldið Benedikt Sveinbjarnarson Gröndal 1826. Þar var Bessastaðaskóli, arftaki Hólavallaskóla, frá 1805 og í um 40 ár. Þá var hann fluttur til Reykjavíkur aftur og nefndist þá Lærði skóli og síðar Menntaskólinn í Reykjavík. Bessastaðir voru gefnir íslenska ríkinu 1941, með því skilyrði að þar yrði setur ríkisstjóra og forseta. Gefandinn var Björgúlfur Ólafsson, læknir á Bessastöðum og síðar í Kópavogi. Hús þar eru í elstu röð húsa í landinu, reist á árunum 1761-66 sem amtmannssetur. Kirkja var reist þar á árunum 1777-1823. Þar var gert virki á 17. öld, Skansinn, til varnar sjóræningjum og óvinaherjum.“

Heimild:
-Fréttabréf Ættfræðifélagsins, 18. árg. 2000, 4. tbl., bls. 1 og 3.

Esjuberg

Esjuberg á Kjalarnesi.

Esjuberg

Í skýrslu um „Breikkun Vesturlandsvegar á Kjalarnesi milli Varmhóla og vegamóta Hvalfjarðarvegar“ árið 2020 eru fornleifalýsingar. Ein þeirra getur um Esjuberg, sbr. eftirfarandi:

Esjuberg

Esjuberg – meintur kirkjugarður.

„Bærinn á Esjubergi stendur á skriðuvæng upp undir rótum Esju. Mörk jarðarinnar eru á móti Skrauthólum að vestan og Mógilsá að austan. Á Esjubergi voru áður fyrr samþykktir og kveðnir upp dómar. Finna má dóm í Íslensku fornbréfasafni sem kveðinn var upp 1480 og þar var þingstaður 1541 og 1746 þegar Jón Oddsson Hjaltalín gerði Lýsingu Kjósarsýslu.
Örnefnin Leiðhamar og Leiðvöllur, sem eru á mörkum Mógilsár og Esjubergs, benda til þess að þar hafi verið haldin leiðmót, leiðarþing eða héraðsþing sem haldið var að afloknu Alþingi þar sem greint var frá störfum þess og birtar tilkynningar. Fyrsta símstöðin í Kjalarneshreppi var á Esjubergi, sennilega komin 1912.

Esjuberg

Esjuberg – tóft á Bænhúshól.

Esjuberg var landnámsjörð Örlygs gamla Hrappssonar Bjarnarsonar bunu. Landnámabók segir frá því að Helgi bjóla Ketilsson hafi gefið frænda sínum, bræðrungi, Örlygi Hrappssyni hluta af landnámi sínu, frá Mógilsá að Ósvífslæk. Landnáma getur þess einnig að Örlygur hafi búið á Esjubergi og látið gera þar kirkju sem fóstri hans Patrekur biskup í Suðureyjum hafði sagt fyrir um, en Patrekur hafði sent hann með kirkjuviði, járnklukku, plenáinum og vígða mold til að setja undir hornstafina. Kirkjan gæti hafa verið tileinkuð heilögum Kolumba.
Kirkja Örlygs er talin vera fyrsta kirkjan á Íslandi. Kirkjunnar er einungis getið í kirkjuskrá Páls biskups frá því um 1200.
Esjuberg
Reyndar segir frá kirkjunni í Kjalnesingasögu sem er talin rituð á tímabilinu 1300-1320. Þar segir frá því að Helga Þorgrímsdóttir, eiginkona aðalsöguhetjunnar Búa, hafi látið grafa hann undir syðri kirkjuveggnum og segir „[þ]á stóð enn kirkja sú at Esjubergi, er Örlygr hafði látit gera“. Eftir þessu að dæma hefur kirkjan ekki verið uppistandandi á ritunartíma sögunnar um 1300 og gæti hafa verið niðurlögð á fyrri hluta 13. aldar. Hvers vegna er ekki vitað og margt getur komið til greina. Kirkjur voru stöðutákn svo höfðingi gæti hafa dáið eða misst stöðu sína til annars. Kirkjan gæti líka hafa verið lögð niður vegna skriðufalla.

Esjuberg

Esjuberg – meint kirkjutóft sunnan við bæinn.

Jarðarinnar er getið nokkrum sinnum í skjölum sem varða hvalreka Viðeyjarklausturs á milli Esjubergs og Valagnúpa, fyrst í skrá varðandi hvalskipti á Rosmhvalanesi um 1270, svo um 1270 í bréfi Runólfs ábóta í Viðey um hvalrekann, og aftur 1285 um skipti á hvalreka á milli Valagnúpa og Esjubergs. Esjuberg kemur fram í skrá um kvikfé og leigumála á jörðum Viðeyjarklausturs frá árinu 1395.
Esjuberg kemur fram í skýrslu Hannesar Pálssonar umboðsmanns og kapelláns Danakonungs, um allskonar óskunda og yfirgang, rán, vígaferli og löglausa verslun Englendinga á Íslandi á árunum 1420-1425.
Árið 1480 var úrskurðað í Esjubergsdómi í eignarmálum Soffíu Loftsdóttur og Gunnlaugs Teitssonar. Árið 1497 gaf Böðvar prestur Jónsson vitnisburð um reka Viðeyjarklausturs á milli Klaufar og Esjubergs. Á Esjubergsþingi þann 30. september 1541 var felldur dómur um lögmæti bréfs Alexíusar ábóta í Viðey um jarðirnar Skrauthóla og Bakka í Brautarholtssókn. Þá kemur jörðin fram í fógetareikningum 1547-1552. Á Esjubergi voru kveðnir upp dómar um beit og fjárrekstur 1565-1566.

Esjuberg

Esjuberg, kort frá 1908.

Jarðarinnar er getið á minnisblöðum Vigfúsar Jónssonar sýslumanns Kjalarnesþings árið 1569 og þjófnaðardómur var kveðinn upp þar 14. janúar 1657.
Jörðin var ein af jörðum Viðeyjarklausturs 1686-1695 og þá metin á 40 hundruð. Þegar Jarðabók Árna og Páls var gerð 1704 var Esjuberg í eigu konungs en jarðardýrleiki óviss. Kvaðir voru meðal annarra um mannslán á vertíð suður á Stafnes. Þá var hægt að fórðra sjö kýr, tólf lömb og þrjá hesta. Jörðin hafði þá haft til langs tíma fría afrétt fyrir hesta og geldnaut á Mosfellsheiði. Torfrista og stunga var góð en mótak til eldiviðar slæmt. Silungsveiði hafði jörðin í Leirvogsá lengst af. Rekavon var nokkur og skelfiskfjara var á Leiðvallargranda. Selstöðu átti jörðin undir Svínaskarði að sunnan og þar var berjalestur nokkur. Helstu ókostir voru að úthey voru lítil og skriður ógnuðu bæði mönnum, húsum og skepnum. Stórviðrasamt var á Esjubergi og stóð mönnum og skepnum ógn af skriðum sem ollu þar tjóni.

Esjuberg

Esjuberg – örnefni.

Tvær hjáleigur voru þá á Esjubergi. Litla Esjuberg sagt afbýli heima við bæ og Árvöllur önnur hjáleiga og reiknaðist jarðardýrleiki beggja með heimajörðinni. Þegar Jón Oddson Hjaltalín gerði lýsingu Kjósarsýslu 1746 var þingstaður á Esjubergi. Kaupverð Esjubergs með Grund (Austurbæ) og Árvöllum árið 1816 þegar jörðin var seld úr eigu konungs var 2100 ríkisdalir.

Esja

Meintur kirkjuhóll á „Kirkjuflöt“ ofan Leiðvalla.

Þegar Jarðatal Johnsens var tekið saman 1847 var Esjuberg í bændaeigu, metið á 40 hundruð og með einum ábúanda. Í neðanmálsgrein er sagt að jarðabækurnar geti ekki um hjáleigurnar nema árið 1802, en þá er getið Austurbæjar sem er líklega sama hjáleiga og sýslumaður og prestur kalla Grund. Jörðin var metin á 40 forn hundruð í Jarðarmati á Íslandi 1849-50. Hjáleigurnar lögðust báðar af eftir mikið ofanflóðaveður 2. september 1886.
Innan úttektarsvæðisins sem skráð er undir Esjuberg er einstakur minjastaður sem var þingstaður en hann er horfinn. Aðrar minjar eru herminjar á Leiðhömrum, ekki er talið líklegt að þær verði fyrir áhrifum framkvæmdarinnar.
Leiðvöllur er örnefni sem var á malarkambi við Kollafjörð norðanverðan. Ef loftljósmynd frá 1946 er borin saman við nýlegar loftmyndir má sjá að á svæðinu hafa orðið miklar breytingar vegna landsigs, sandnáms og vegagerðar. Vegna þessara þátta hafa grjóteyrin og tjörnin horfið.

Esjuberg
Staðhættir
: „Vestar er Leiðvöllur, sem talinn er vera hinn gamli þingstaður Kjalarnesþings. Nú er þar aðeins malareyri, sem fellur yfir í flóðum. Ofar var Leiðtjörn, en sandnámið hefur nú eyðilagt hana nema austast. Í hana rann Markagil.“ Leiðvöllur er örnefni sem var á malarkambi niður við sjó út með Kollafirði norðanverðum, á mörkum jarðanna Esjubergs og Mógilsár.

Esjuberg

Forn gata ofan Leiðvalla að Esjubergi.

Örnefnið bendir til þess að þarna hafi verið haldin héraðsþing að loknu alþingi. Ofar var Leiðtjörn og kirkjuflöt var ofan við hana en þar var sagt að hefði verið bænhús eða kirkja og viðirnir í hana verið fluttir um Leiðvöll. En talið hefur verið líklegra að sagnir eigi við um kirkjuna á Esjubergi.

Örnefnin Leiðvöllur, Leiðtjörn og Leiðhamrar sem þarna eru gefa vísbendingar um að þarna hafi verið haldin leiðamót, leiðaþing eða héraðsþing. Leiðvöllur er fornt nafn og merkir „völlur þar sem haldin eru leiðamót“. Staðurinn gæti því hafa dregið nafn sitt af leiðaþingi sem haldið var að loknu Alþingi til að greina frá störfum þess og birta tilkynningar.
Lengi hefur verið talið að Kjalarnesþing, sem var sett á fyrir stofnun Alþingis um 930, og talið undanfari þess, hafi fyrst verið á Leiðvelli. Fram kemur í Íslendingabók að fyrir stofnun Alþingis að áður „… vas þing á Kjalarnesi, þat es Þorsteinn Ingólfsson landnámamanns, faðir Þorkels mána lögsögumanns, hafði þar ok höfðingjar þeir es at því hurfu.“

Esja

Esja – stekkur ofan Leiðvalla.

Í Landnámu er tekið í sama streng og staðkunnugur höfundur Kjalnesinga sögu virðist hafa horft á tóftir búðanna sem sáust enn suður við sjóinn um 1300. Þorsteinn Ingólfsson var útnefndur allsherjargoði á Alþingi og báru afkomendur hans titilinn eftir það svo það er ekki ólíklegt að hann hafi sett það. Þegar kristni var lögfest árið 1000 var Þormóður Þorkelsson sonarsonur hans allsherjargoði.
Þegar Kristian Kålund kom á Leiðvöll 1873 taldi hann staðinn svara til lýsinga í Kjalnesinga sögu um Kjalnesingaþing, flöt og löng grasræma á norðurströnd Kollafjarðar. Eyrin var þá að mestu þakin sjávarmöl og sjór gekk stundum yfir hana. Kålund taldi lítil og óglögg merki búðartófta að sjá þar, helst vestast og innst á eyrinni undir hallanum. Þar voru ef til vill nokkrar lágar upphækkanir sem gátu líka verið grónar skriður eða þúfur.
Sigurður Vigfússon forngripavörður kom á Leiðvöll 20. júlí 1880. Þá blasti við honum breið grjóteyri sem gekk út í sjó með malarkamb fyrir framan og langs fyrir ofan eyrina lá síki. Austan og uppaf því var lítil graseyri sem hét Kirkjuflöt og þar sáust leifar af lítilli tóft. Það var eina mannvirkið sem hann fann þrátt fyrir mikla leit.“

Heimild:
-Breikkun Vesturlandsvegar á Kjalarnesi milli Varmhóla og vegamóta Hvalfjarðarvegar – fornleifalýsing; Esjuberg, 2020.

Esjuberg

Esjuberg neðan við Grund – útialtari; til minningar um fyrstu kirkjuna hér á landi.

Esjuberg

Fyrir neðan bæinn Grund á Kjalarnesi, vestan Esjubergs, er „útialtari„. Á skilti við altarið má lesa eftirfarandi texta, auk svilitlum viðbótafróðleik:

„Þá stóð enn kirkja sú að Esjubergi er Örlygur hafði látið gera“.

Esjuberg

Esjuberg, kort frá 1908.

Hér í landi Esjubergs verður reist útialtari sem minnismerki um merkan kristinn kirkjustað. Sagnir herma að fyrsta kirkja á Íslandi fyrir kristnitöku hafi verið reist á Esjubergi á Kjalarnesi. Mun það hafa verið um árið 900. Ekki er vitað hvar í landi Esjubergs kirkjan stóð. Næsta líklegt er að skriðuföll í Esju hafi spill vegsummerkjum eftir hana en þau breyttu ásýnd jarðarinnar og huldu flestar minjar á Esjubergi sem þar höfðu staðið um aldir og m.a. svonefnda kirkjurúst.

Esjuberg

Esjuber – meint kirkjutóft sunnan við bæinn.

Fornleifarannsókn fór fram árið 1981 á þeim stað á Esjubergi þar sem menn töldu að kirkja hefði staðið og kirkjugarður. Ekkert fannst sem gat staðfest að kirkja hefði staðið á þeim stað.

Í Landnámu (Sturlubók) segir að Örlygur Hrappsson hafi fengið frá Patreki Suðureyjarbiskupi „kirkjuvið ok járnklukku ok penárium ok mold vígða“ til að nota í kirkju sem reisa skyldi þar [sem] hann næmi land og eigna hinum helga Kolumba. örlygur reisti kirkju á Esjubergi.

Esjuberg

Esjuberg – örnefni.

[Í 1, kafla Kjalnesingasögu segir: „Maður hét Örlygur. Hann var írskur að allri ætt. Í þann tíma var Írland kristið. Þar réð fyrir Konofogor Írakonungur. Þessi fyrrnefndur maður varð fyrir konungs reiði.

Esjuberg

Esjuberg – tóft á Bænhúshól.

Hann fór að finna Patrek biskup frænda sinn en hann bað hann sigla til Íslands „því að þangað er nú,“ sagði hann, „mikil sigling ríkra manna. En eg vil það leggja til með þér að þú hafir þrjá hluti. Það er vígð mold að þú látir undir hornstafi kirkjunnar og plenarium og járnklukku vígða. Þú munt koma sunnan að Íslandi. Þá skaltu sigla vestur fyrir þar til er fjörður mikill gengur vestan í landið. Þú munt sjá í fjörðinn inn þrjú fjöll há og dali í öllum. Þú skalt stefna inn fyrir hið synnsta fjall. Þar muntu fá góða höfn og þar er spakur formaður er heitir Helgi bjóla. Hann mun við þér taka því að hann er lítill blótmaður og hann mun fá þér bústað sunnan undir því fjalli er fyrr sagði eg þér frá. Þar skaltu láta kirkju gera og gefa hinum heilaga Kolumba. Far nú vel,“ sagði biskup, „og geym trú þinnar sem best þóttú verðir með heiðnum.“

Eftir það býr Örlygur ferð sína og er frá ferð hans það fyrst að segja að allt gekk eftir því sem biskup sagði. Hann tók í Þerneyjarsundi höfn. Síðan fór hann að finna Helga bjólu og tók hann vel við honum. Reisti Örlygur þar nú bú og kirkju og bjó þar síðan til elli.“]

Esjuberg

Esjuberg – uppfærð örnefni.

Í kirknaskrá Páls Jónssonar, biskups, frá 1200, er getið kirkju á Esjubergi: „Kirkja at Esjubergi.

Þá er og getið um kirkju á Esjubergi í Kjalnesingasögu frá 14. öld: „Þá stóð enn kirkja sú að Esjubergi er Örlygur hafði látið gera. Gaf þá engi maður gaum að henni.

Þrátt fyrir áþreifanleg ummerki um kirkju á Esjubergi hafi ekki enn fundist á Esjubergi hafa Kjalnesingar hin síðari ár haft um hönd helgihald á staðnum í júnímánuði ár hvert.

Tilgangurinn með uppsetningu útialtaris og minnismerkis í landi Esjuergs er að vekja verðskuldaða athygli á merkum kristnum sögustað. Útilaltarið verður notað við kristið helgihald og ýmsar athafnir eons og brúðkaup pg skírnir.

Esjuberg

Esjuberg – útialtari.

Fyrsta skóflustunga var tekin að altarinu 8. maí 2016 af biskupi Íslands, prófasti Kjalarnesprófastsdæmis, formanni Sögufélagsins Steina, formanni sóknarnefndar Brautarholtssóknar og einu fermingarbarni vorsins 2016.

Esjuberg

Esjuberg – útialtari.

[Biskup Íslands, frú Agnes M. Sigurðardóttir tók þar skóflustungu að útialtari ásamt sr. Þórhildi Ólafs. prófasti Kjalarnessprófastsdæmis, Hrefnu Sigríði formanni Sögufélagsins Steina, Birni Jónssyni formanni sóknarnefndar Brautarholtskirkju og fermingarbarninu Benedikti Torfa Ólafssyni.
Prófasturinn sr. Þórhildur Ólafs, leiddi helgistundina að keltneskum sið.]

Altarið sjálft verður sótt í Esjubergsnámur og upp úr því mun standa um tveggja metra hár keltneskur kross.

Sögufélagið Steini á Kjalarnesi hefur haft forystu í máli þessu í samvinnu við ýmsa aðila.

[Guðni Ársæll Indriðason smíðaði mót fyrir krossinn sem rísa mun í miðju útialtarisins. Ákveðið er að hafa þrenningartákn, keltneska fléttu öðru megin og þrjá fiska hinu megin. Bjarni hefur verið í sambandi við Steinsmiðjuna S. Helgason sem ætla að sjá um smíðina á plötunum sem síðan verða festar á krossinn.]

Þetta söguskilti er sett upp hér til bráðabirgða en veglegra skilti verður síðar komið fyrir.

Esjuberg
[Kirkja Örlygs hefur sennilega aldrei verið við bæinn Esjuberg, miklu frekar í landi Esjubergs, er náði allt vestur í Kolafjörð. Þegar möguleg staðsetning framangreindrar kirkju gæti hafa verið þarf því að líta gagnrýnum augum í fyrirliggjandi örnefnalýsingar m.t.t. áttalýsinga, og horfa sérstaklega til örnefnanna „Leiðhamar“ og „Leiðvöllur“, sbr.:

Esja

Meintur kirkjuhóll á „Kirkjuflöt“ ofan Leiðvalla.

Vesturmörkin [austurmörkin], milli Esjubergs og Skrauthóla, eru um Gvendarbrunn í Flóðará og beint upp Esju. Milli Móa og Saltvíkur eru merkin Móalækur um Gvendarbrunn og upp í há-Esju um Laugarnípu, sem er há nípa upp af Árvelli. Leiðvöllur hefur verið nefndur fyrr. Það er malarkambur niður við sjóinn. Áður var þar tjörn fyrir innan, en nú er þar sandnám. Vestan [austan] hans taka við hamrar, sem nefndir eru Leiðhamrar. Þeir eru þrír talsins. Austasti hluti þeirra tilheyrir Esjubergi, en hitt Móum. Úr honum er línan í Varmhóla, þar sem þeir eru hæstir, en það er hólaþyrping hér upp af. Upp af Leiðhömrum er mýri, þar sem tekinn var upp mór frá Esjubergi. Upp af Leiðvelli er flöt, er nefnist Kirkjuflöt. Þar var sagt, að hefði verið bænhús eða kirkja. Viðurinn í hana átti að hafa verið fluttur um Leiðvöll.)

Upp af Leiðvelli var Kirkjuflöt. Þar er líklegt að kirkja Örlygs hafi verið reist í árdaga, þ.e. á Kirkjuflöt. Nánast öllu svæðinu ofan Leiðvallar hefur nú verið raskað með námugreftri. Upp af  Kirkjuflöt var Kirkjunýpa, gamalt örnefni, sem nú virðist vera horfið.
Esjuberg

Kjalarnes

FERLIR skoðaði Esjuberg og nágrenni m.t.t. mögulegra sögulegra minja, s.s. fyrrum fyrstu kirkju á Íslandi árið 910 og þingstað Kjalnesinga:

Esjuberg – sagan

Esjuberg

Esjuberg á Kjalarnesi.

Bærinn á Esjubergi stendur á skriðuvæng upp undir rótum Esju. Mörk jarðarinnar eru á móti Skrauthólum að vestan og Mógilsá að austan. Á Esjubergi voru áður fyrr samþykktir og kveðnir upp dómar. Í Íslensku fornbréfasafni má finna dóm sem var kveðin upp 1480 og þar var þingstaður 1541 og 1746 þegar Jón Oddsson Hjaltalín gerði Lýsingu Kjósarsýslu. Örnefnin Leiðhamar og Leiðvöllur, sem er á mörkum Mógilsár og Esjubergs, benda til að þar hafi verið haldin leiðmót, leiðarþing eða héraðsþing sem haldið var að afloknu Alþingi þar sem greint var frá störfum þess og birtar tilkynningar. Þá var fyrsta símstöðin í Kjalarneshreppi á Esjubergi, sennilega 1912.

Esjuberg

Esjuberg.

Esjuberg var landnámsjörð Örlygs gamla Hrappssonar Bjarnasonar bunu. Landnámabóksegir frá því að Helgi bjóla Ketilsson hafi gefið frænda sínum, bræðrungi, Örlygi Hrappssyni hluta af landnámi sínu, frá Mógilsá að Ósvífslæk. Landnáma getur þess einnig að Örlygur hafi búið á Esjubergi og látið gera þar kirkju sem fóstri hans Patrekur biskup í Suðureyjum hafði sagt fyrir um, og að Patrekur hafi sent hann með kirkjuviði, járnklukku, plenáinum og vígða mold til að setja undir hornstafina. Kirkjan gæti hafa verið tileinkuð Kolumba en Örlygur og frændur hans trúðu á hann. Kirkja Örlygs er talin vera sú fyrsta á Íslandi. Kirkjunnar er einungis getið í kirkjuskrá Páls biskups frá því um 1200.

Esjuberg

Margt er á huldu á og við Esjuberg.

Reyndar segir frá kirkjunni í Kjalnesingasögu sem er talin rituð 1300-1320. Þar segir frá því að Helga Þorgrímsdóttir, eiginkona aðalsöguhetjunnar Búa, hafi látið grafa hann undir syðri kirkjuveggnum og „[þ]á stóð enn kirkja sú at Esjubergi, er Örlygr hafði látit gera“. Eftir þessu að dæma hefur kirkjan ekki verið uppistandandi á ritunartíma sögunnar um 1300 og gæti hafa verið niðurlögð á fyrri hluta 13. aldar. Hvers vegna er ekki vitað og margt getur komið til greina.

Valahnúkur

Valahnúkar og Valahnúkamöl.

Kirkjur voru stöðutákn svo höfðingi gæti hafa dáið eða misst stöðu sína til annars. Kirkjan gæti líka hafa verið niðurlögð vegna skriðufalla?
Jarðarinnar er getið nokkrum sinnum í skjölum sem varða hvalreka Viðeyjarklausturs á milli Esjubergs og Valagnúpa, fyrst í skrá varðandi hvalskipti á Rosmhvalanesi um 1270, aftur um 1270 í bréfi Runólfs ábóta í Viðey um hvalrekann, og aftur 1285 um skipti á hvalreka á milli Valagnúpa og Esjubergs. Esjuberg er í skrá um kvikfé og leigumála á jörðum Viðeyjarklausturs frá árinu 1395.
Nafnið kemur fram í skýrslu Hannesar Pálssonar umboðsmanns og kapelláns Danakonungs, um allskonar óskunda og yfirgang, rán, vígaferli og löglausa verslun Englendinga á Íslandi á árunum 1420-1425.
Árið 1480 var úrskurðað í Esjubergsdómi í eignarmálum Soffíu Loftsdóttur og Gunnlaugs Teitssonar. Árið 1497 gaf Böðvar prestur Jónsson vitnisburð um reka Viðeyjarklausturs á milli Klaufar og Esjubergs.

Esjubergssel

Esjubergssel – uppdráttur ÓSÁ.

Á Esjubergsþingi þann 30. september 1541 var felldur dómur um lögmæti bréfs Alexíusar ábóta í Viðey um jarðirnar Skrauthóla og Bakka í Brautarholtssókn. Þá kemur jörðin fram í fógetareikningum 1547-1552. Á Esjubergi voru kveðnir upp dómar um beit og fjárrekstur 1565-1566.
Jarðarinnar er getið á minnisblöðum Vigfúsar Jónssonar sýslumanns Kjalarnesþings árið 1569 og þjófnaðardómur var kveðinn upp þar 14. janúar 1657.
Jörðin var ein af jörðum Viðeyjarklausturs 1686-1695 og þá metin á 40 hundruð.

Esjuberg

Esjuberg – tóft á Bænhúshól.

Þegar Jarðabók Árna og Páls var gerð 1704 var Esjuberg í eigu konungs en jarðardýrleiki óviss. Kvaðir voru meðal annarra um mannslán á vertíð suður á Stafnes. Þá var hægt að fórðra sjö kýr, tólf lömb og þrjá hesta. Jörðin hafði þá haft til langs tíma fría afrétt fyrir hesta og geldnaut á Mosfellsheiði. Torfrista og stunga var góð en mótak til eldiviðar slæmt. Silungsveiði hafði jörðin í Leirvogsá lengst af. Rekavon var nokkur og skelfiskfjara var á Leiðvallargranda. Selstöðu átti jörðin undir Svínaskarði að sunnan og þar var berjalestur nokkur. Helstu ókostir voru að úthey voru lítil og skriður ógnuðu bæði mönnum, húsum og skepnum. Stórviðrasamt var á Esjubergi og stóð mönnum og skepnum ógn af skriðum sem ollu þar tjóni. Tvær hjáleigur voru þá á Esjubergi. Litla-Esjuberg sagt afbýli heima við bæ og Árvöllur önnur hjáleiga og reiknast jarðardýrleiki beggja í heimajörðinni.

Esjuberg

Esjuberg – meint kirkjutóft sunnan við bæinn.

Þegar Jón Oddson Hjaltalín gerir lýsingu Kjósarsýslu 1746 þingstaður á Esjubergi 1746. Kaupverð Esjubergs með Grund (Austurbæ) og Árvöllum var 2100 ríkisdalir þegar jörðin var seld úr eigu konungs 1816. Þegar Jarðartal Johnsens var tekið saman 1847 var Esjuberg í bændaeigu, metið á 40 hundruð og með einum ábúanda. Í neðanmálsgrein er sagt að jarðabækurnar geti ekki um hjáleigurnar nema árið 1802, en þá er getið Austurbæjar sem er líklega sama hjáleiga og sýslumaður og prestur kalla Grund. Sú hjáleiga var nefnd Litla-Esjuberg 1704. Jörðin var metin á 40 forn hundruð í Jarðarmati á Íslandi 1849-50. Hjáleigurnar lögðust báðar af eftir mikið ofanflóðaveður 2. september 1886.

Esjuberg

Esja – skriða ofan Leiðhamra.

Umhverfi við Esjuberg ber með sér merki um skriðuföll sem valdið hafa nokkrum búsifjum. Fitjaannáll 1662 segir frá því að í kjölfar mikils regns hafi miklar skriður hlaupið fram víða, bæði á tún, engjar og úthaga. Þrjár jarðir fóru sérstaklega illa út úr þessu vatnsveðri: Esjuberg, þar sem mikið tók af túninu og Vellir og Mógilsá, þar sem tók af þriðjung túna. Haustið 1668 greinir Fitjaannáll frá því að haustið hafi verið venju fremur rigningarsamt. Þá féllu víða skriður á tún og haga, sérstaklega á Esjubergi, svo bóndinn Sigurður Núpsson flutti sig þaðan í burtu. Jarðabók Árna og Páls segir frá skriðum 1704 sem „fordjarfa, engjar og úthaga merkilega, so að hætt er bæði mönnum, húsum og fjenaði.“

Esja

Esja ofan Leiðvalla.

Blaðið Norðanfari sagði frá skriðu sem hljóp úr Esju 4. júlí 1871 og tók af mestan part af túninu á Esjubergi og gerði usla á engi.

Esjuberg

Esjuberg – meintur kirkjugarður.

Þann 2. september 1886 gerði aftakarigningu sem olli miklum skriðuföllum. Þá urðu níu jarðir á Kjalarnesi fyrir stórskemmdum og ein jörð í Mosfellssveit. Á Esjubergi fór skriða yfir hluta túnsins og 60-70 hesta af heyi. Einnig fór sandur og leir yfir mestanpart og besta part engjanna og restin varð óslæg vegna leirs í rót. Þá féll skriða á bæjarhús hjáleigunnar Grundar sem fór í eyði eftir þetta.
Litla Esjuberg var afbýli heima við bæinn þegar Jarðabók Árna og Páls var gerð 1704, er ekki getið í öðrum heimildum. Dýrleikin reiknaðist með heimajörðinni. Kvaðir voru um skipsáróður allt árið utan sláttar. Hægt var að fóðra eina kú og fimm lömb. Afbýlið hafði torfskurð og eldiviðartak í heimalandinu.

Esjuberg
Í Örnefnalýsingu Ara Gíslasonar um Esjuberg segir m.a.: „Jörð í Kjalarneshreppi, næst vestan við Mógilsá. Merkin móti Mógilsá eru frá Leiðvelli beint við vesturhorn á sléttri flöt upp í Markagil, (Stangargil eða Festargil. Vestan við Fálkaklett eftir miðju gilinu um Skarðsdali efri og Skarðsdali neðri, eins og lækurinn ræður, upp í Þverfell.

Esjuberg

Esjuberg – túnakort 1916.

Móti Móum er varða á landsuðurhorni Varmhóla, síðan vestur þá og í vörðu hæst á þeim, beina sjónhendingu í Brautarholtsborg eða beint í Villingavað á Móalæk. Þetta voru gömlu merkin. En nú ræður vegurinn milli Saltvíkur og Esjubergs. Melur er norður af Varmhólum, milli þeirra og Dyngjuholts, sem heitir Varmhólamelur.
Vesturmörkin, milli Esjubergs og Skrauthóla, eru um Gvendarbrunn í Flóðará og beint upp Esju. Milli Móa og Saltvíkur eru merkin Móalækur um Gvendarbrunn og upp í há-Esju um Laugarnípu, sem er há nípa upp af Árvelli. Leiðvöllur hefur verið nefndur fyrr. Það er malarkambur niður við sjóinn. Áður var þar tjörn fyrir innan, en nú er þar sandnám. Vestan hans taka við hamrar, sem nefndir eru Leiðhamrar. Þeir eru þrír talsins. Austasti hluti þeirra tilheyrir Esjubergi,en hitt Móum. Úr honum er línan í Varmhóla, þar sem þeir eru hæstir, en það er hólaþyrping hér upp af. Upp af Leiðhömrum er mýri, þar sem tekinn var upp mór frá Esjubergi. Upp af Leiðvelli er flöt, er nefnist Kirkjuflöt. Þar var sagt, að hefði verið bænhús eða kirkja. Viðurinn í hana átti að hafa verið fluttur um Leiðvöll.“

Í Wikipedia.org segir um Kjalarnesþing:

Esja

Mögulegur þingstaður fyrrum Kjalarnesþings ofan Leiðvalla.

„Kjalarnesþing var staðbundið þing sem starfaði fyrir stofnun Alþingis og var að einhverju leyti undanfari þess. Það hefur sennilega upphaflega verið á Kjalarnesi en var lengst af haldið á Þingnesi við Elliðavatn.

Þingnes

Þingnes.

Þinghald tíðkaðist meðal germanskra þjóða löngu fyrir landnám Íslands, þar á meðal í Noregi, og landnámsmenn hafa því þekkt það úr heimalöndum sínum og fljótlega séð nauðsyn þess að hafa einhvers konar sameiginlegar reglur og dómstóla. Heimildir geta um tvö staðbundin þing fyrir stofnun Alþingis, Kjalarnesþing og Þórsnesþing, en þau kunna að hafa verið fleiri. Ari fróði segir í Íslendingabók að Þorsteinn, sonur Ingólfs Arnarsonar, hafi stofnað þingið: „áðr var þing á Kjalarnesi, þat er Þorsteinn Ingólfssonr landnámamanns, faðir Þorkels mána lögsögumanns, hafði þar ok höfðingjar þeir, er at því hurfu.“

Esjuberg

Esjuberg, kort frá 1908.

Ekki er ljóst hve stórt þingsvæði Kjalarnessþings var en það kann að hafa náð austur að Ölfusá. Sumir telja að Alþingi sé stofnað út frá Kjalarnesþingi. Þorsteinn Ingólfsson helgaði hið fyrsta Alþingi og var útnefndur allsherjargoði og þann titil báru afkomendur hans síðan.

Jónas Hallgrímsson skáld og náttúrufræðingur gróf í búðarústirnar á Þingnesi 1841 og aðrir rannsökuðu þær síðar en 1981 hófst þar uppgröftur á vegum Þjóðminjasafnsins og var þá grafinn upp fjöldi búðarústa, dómhringur (lögrétta) og fleira. Elstu rústirnar voru frá því um 900 en þær yngstu líklega frá því um 1200, enda hefur Kjalarnesþing áfram verið héraðsþing þrátt fyrir stofnun Alþingis.“

Í Vinnuskýrslu fornleifa 2004 lýsir Guðmundur Ólafsson, fornleifafræðingur, Kjalarnesþingi (Rannsóknarsaga 1841-2003):
Leiðvöllur
„Á Þingnesi við Elliðavatn er dálítil þyrping fornra rústa sem lætur ekki mikið yfir sér þegar gengið er um staðinn. Til skamms tíma var staðurinn einnig ómerktur og áttu margir jafnvel erfitt að átta sig á hvar minjarnar væru, þó að þeir gengju um svæðið.

Esjuberg

Esjuberg – Leiðvöllur 1946.

Margt bendir til þess að þessar minjar séu hins vegar með merkustu minjum landsins, og að þarna séu hugsanlega leifar Kjalarnessþingstaðar, sem var fyrsti þingstaður landsins og líklega settur á fót rétt fyrir eða um 900.
Þrátt fyrir mikilvægi Kjalarnessþings féll staðurinn algerlega í gleymsku, eins og flestir hinna fornu héraðsþingstaða og í dag er ekki vitað með vissu hvar þingið var haldið.
Með vaknandi þjóðerniskennd á 18. og 19. öld fóru ýmsir að svipast um eftir frægum stöðum sem nefndir voru í Fornsögum, þar á meðal Kjalarnesþingi. Nafnið „Kjalarnesþing” bendir óneitanlega til þess að það hafi staðið á Kjalarnesi, og þar hófu menn fyrst leit að staðnum.
Þingnes
Á 18. öld getur Árni Magnússon um örnefnið „Þingeyri” í Kollafirði. Um 1880 virðist Þingeyri týnd en í staðinn talar Sigurður Vigfússon um „Leiðvöll” á Kjalarnesi. Af lýsingunni að dæma virðist um sama stað að ræða. E.t.v. eru þessi örnefni (Þingeyri og Leiðvöllur) aðeins tilraunir viðkomandi fræðimanna á 18. og 19. öld til þess að finna Kjalarnesþingi líklegan stað og varasamt að byggja of mikið á þeim.
Spyrja má hvernig mönnum datt í hug að tengja Kjalarnesþing við stað eins og Þingnes sem er augljóslega ekki á Kjalarnesi. Meginástæðan fyrir því að farið var að leita að öðrum stöðum sem bent gætu til þinghalds á svæðinu kring um Faxaflóa er væntanlega sú að á Kjalarnesi hafa ekki fundist eða varðveist minjar sem bent gætu til þingstaðar.
Jónas Hallgrímsson, skáld og náttúrufræðingur, vakti fyrstur athygli manna á búðarústum í Þingnesi við Elliðavatn, og getur sér til að þar sé fundinn hinn forni Kjalarnesþingstaður, sem svo lengi hafði verið týndur.

Þingnes
Í kjölfar þessa spunnust næstu áratugina miklar umræður um staðsetningu Kjalarnessþings meðal fræðimanna og stóð sú umræða meir og minna yfir fram yfir aldamótin 1900. Þá höfðu margir innlendir og erlendir fornfræðingar þess tíma heimsótt staðinn, mælt hann upp og lýst honum og sumir jafnvel grafið í rústirnar í rannsóknarskyni, eins og greint verður nánar frá hér á eftir. Rannsóknarsaga Þingness er því lengri og fjölbreyttari en en flestra annara minjastaða á Íslandi.
Allir sem könnuðu staðinn voru sammála um að þar væru um 15 – 20 rústir í þyrpingu, hringlaga mannvirki á miðju svæðinu, og að staðurinn væri líklega þingstaður. Árið 2003 hófust á nýjan leik rannsóknir á Þingnesi á vegum Þjóðminjasafns og Háskóla Íslands, sem liður í verklegri kennslu í fornleifafræði.

Þingnes
Í þessari ritgerð er safnað saman á einn stað helstu ritheimildum um Kjalarnesþing og Þingnes og hin merkilega rannsóknarsaga staðarins rakin frá upphafi. Til þess að gefa sem besta innsýn í umræðuna og leifa röksemdum sem notaðar voru í umræðunni að njóta sín, eru hér endurbirtar helstu greinar þeirra fræðimanna sem mest létu sig þetta mál varða. Gerð er grein fyrir hverju mannvirki fyrir sig sem rannsakað var á árunum 1981 – 2003. Rætt er um niðurstöður rannsókna í ljósi núverandi vitneskju, aldur og hugsanlegt hlutverk minjanna á Þingnesi.

Þingnes

Þingnes – upplýsingaskilti.

Í þeirri umræðu sem átti sér stað á síðari hluta 19. aldar og fyrri hluta 20. aldar um Kjalarnessþing og Þingnes komu fram flest þau rök sem halda að mestu enn í dag. Umræðurnar eru bæði skemmtilegar og áhugaverðar og mikilvægt innlegg í rannsóknarsögu staðarins. Ástæðan fyrir því að þetta mál komst yfirleitt á dagskrá á sínum tíma er sú að Kjalarnessþings er getið í Íslenskum fornritum sem hins fyrsta þingstaðar á Íslandi.

Samkvæmt frásögn Landnámu og Íslendingabókar á Þorsteinn Ingólfsson, sonur Ingólfs Arnarsonar, að hafa stofnað til þings áður en Alþingi var stofnað á Þingvöllum árið 930. Stofnun Kjalarnessþings er sennilega einn af merkustu atburðum landnámsaldar. Þá er mönnum greinilega orðið ljóst að ekki verði búið í landinu án þess að sett séu almenn lög og samskiptareglur og helstu höfðingjar virðast taka höndum saman um að koma á fót þessum fyrstu drögum að þinghaldi í landinu.

Leiðvöllur

Leiðvöllur á Kjalarnesi.

Um þennan atburð segir svo í þriðja kafla Íslendingabókar: ,,Alþingi var sett að ráði Úlfljóts og allra landsmanna þar sem nú er, en áður var þing á Kjalarnesi, það sem Þorsteinn Ingólfssonur landnámsmanns, faðir Þorkels mána lögsögumanns, hafði þar og höfðingjar þeir er að því hurfu.”
Í neðanmálsgrein um þessa frásögn segir Jakob Benediktsson að ágreiningur hafi verið meðal fræðimanna hvort að Kjalarnesþing hafi verið héraðsþing eða vísir að allsherjarþingi. Hann tekur ekki afstöðu til þess, hvort sé rétt, en telur líklegt að á Kjalarnesþingi hafi farið fram undirbúningur að stofnun Alþingis.

Þingnes
Í Landnámabók er frásögnin með svipuðum hætti: „Ingólfur átti Hallveigu Fróðadóttur, systur Lopts ins gamla. Þeirra sonur var Þorstein, er lét setja þing á Kjalarnesi, áður Alþingi var sett”. Í Þórðarbók stendur ekki á Kjalarnesi, heldur „á Krossnesi”, sem talið er að Þórður hafi bætt inn í handritið. Í neðanmálsgrein greinir Jakob Benediktsson frá því að í viðbæti Þórðarbókar standi eftirfarandi klausa úr Melabók: ,,Þorsteinn Ingólfsson lét setja fyrstur manna þing á Kjalarnesi, áður alþingi var sett, við ráð Helga bjólu og Örlygs að Esjubergi og annarra viturra manna, og fylgir þar enn sökum (þess) því goðorði alþingishelgun”.

Þinganes

Fornleifauppgröftur á Þingnesi.

Kjalnesinga sögu, sem er reyndar ekki talin með áreiðanlegustu sögum, ber ekki saman við þessar frásagnir um stofnun Kjalarnesþings. Þar segir: „Þorgrímr (sonur Helga Bjólu landnámsmanns) lét setja várþing á Kjalarnesi suðr við sjóinn; enn sér stað búðanna; þar skyldi öll mál sækja og þau ein til alþingis leggja, er þar yrði eigi sótt eða stærst væri”.
Litlum sögum fer af þessu merka þingi. Aðeins eru tvær frásagnir varðveittar um mál sem borin voru upp á Kjalarnesþingi. Annars vegar er frásögn í Kjalnesinga sögu um að Þorsteinn Þorgrímsson á Hofi á Kjalarnesi, stefndi Búa Andríðssyni um rangan átrúnað til Kjalarnessþings og lét varða skóggang. Sótti hann málið og varð Búi sekur skógarmaður. Segir sagan, að hann hafi þá verið 12 vetra. Hins vegar er um að ræða vígamál sem spunnust út af deilum Ófeigs grettis og Þorbjarnar jarlakappa, sem lauk með því að Þorbjörn felldi Ófeig í Grettisgeil hjá Hæli.
Leitað var til Önundar tréfóts til þess að reifa málið. Hann fékk til liðs við sig Ólaf feilan, sonarson Auðar djúpúðgu. Í Grettissögu er frásögnin af málinu á þessa leið „og reið Ólafur suður með honum, og er Önundur hitti vini sína og mága, þá buðu þeir honum til sín. Var þá talað um málin og lögð til Kjalarnessþings, því að þá var enn eigi sett alþingi. Síðan voru málin lögð í gjörð, og komu miklar bætur fyrir vígin, en Þorbjörn jarlakappi var sekur gjörr”. Þessir atburðir munu líklega hafa átt sér stað um 906 – 908.

Þingnes

Þingnes – Uppdráttur G.Ó.

Þegar fornritum sleppir er elstu vísbendingu fyrir því að þingstaður hafi getað verið á Kjalarnesi, líklega að finna hjá Árna Magnússyni, handritasafnara. Í riti sínu Chorographica Islandica sem er tekið er saman á löngu árabili í upphafi 18. aldar birtir hann lauslega afstöðumynd af nokkrum örnefnum í Kollafirði. Þar er örnefnið Þingeyri merkt við nes á kortinu sem gengur út í miðjan Kollafjörð að norðanveru. Í athugasemd nefnir Árni m.a. að í landi Esjubergs sé enn sýndur fyrsti þingstaður á Sandeyri í Kollafirði.

LandnámKort Árna Magnússonar af Kollafirði þar sem skráð eru örnefnin: Helguskier, ÞingEyre, Kollafiörður, og áttavísanirnar suður og austur. Engar minjar hafa fundist á þessu svæði sem bent gætu til þingstaðar.

Jónas Hallgrímsson, skáld og náttúrufræðingur fékk áhuga á að finna Kjalarnesþing hið forna. Þegar hann hefur rannsóknir sínar virðist almennt hafa verið talið að þingstaðinn væri að finna á Kjalarnesi sjálfu, en að enginn vissi nákvæmlega hvar. Honum var sagt að vestan við bæinn Móa á Kjalarnesi væru leifar þingstaðar niður við sjó, en að þar væru engar sýnilegar minjar. Það eina sem þar minni á þingstað sé örnefnið Leiðvöllur. Hann fékk síðan upplýsingar um minjasvæðið við Elliðavatn og gerði út leiðangur til þess að rannsaka staðinn árið 1841 og fann þá 18 – 20 búðir og dómhring. Rannsókn hans er afar merkileg og með nokkrum sanni má segja að þessi rannsókn marki upphaf fræðilegra rannsókna á Íslandi, þó að frumstæð sé. Mér er ekki kunnugt um aðrar eldri rannsóknir á fornleifum sem gerðar hafa verið á Íslandi af fræðimönnum.

Esja

Meintur kirkjuhóll á „Kirkjuflöt“ ofan Leiðvalla.

Niðurstöður Jónasar birtust í Rit eftir Jónas Hallgrímsson III. Dagbækur, yfirlitsgreinar og fleira. Annars vegar undir fyrirsögninni: ,,Tvær litlar rannsóknarferðir: 1. Þingnes í Elliðavatni”, og hins vegar ,,Uddrag af dagböger fra en rejse i Island Sommaren 1841, for saa vidt angaar Antikvariske iagttagelser”.
ÞingnesFrásagnirnar eru mjög svipaðar en til þess að halda saman öllu sem Jónas skrifaði um rannsóknina eru þær báðar birtar hér eins og þær birtust á dönsku í dagbókum hans: „Da jeg i næstafvigte Vinter for Alvor begyndte at forespørge mig om Stedet, hvor det gamle Kjalarnesþing havde staaet, saa var der ingen, som kunde give mig nogen Oplysning derom. Vel sagde man, at etsteds paa Kjalarnæsset, vesten for Gaarden Moar, ved Stranden, nok var Levninger af et Tingsted, men at man ikke saa der nogen Budetomter. Stedet kaldes desuden, vel at mærke, Leiðvöllur. Dette førte mig naturligvis til den Tanke, at Kjalnæsingerne vel i sin Tid havde holdt det aarlige »leiðarþing« paa dette Sted, men at det derfor ikke var afgjort, at Herredstinget nogen Sinde havde været der. Omtrent til samme Tid fik jeg at vide, at ved Elliðavatn, – en fiskerig Indsø, der ligger oven for Seltjarnarneset, paa de gamle Grænser af Kjosar- og Guldbringe-Sysseler og midt i Herredet Kjalarnessþing —, skulde der findes mange og anselige Tomter i et Næs, der gaar ud i bemeldte Indsø, midt i mellem Gaardene Vatns-endi og Vatn. Efter en foreløbig Undersøgelse tog jeg fra Reikevig til dette Sted om Aftenen den 20. Juni, da jeg næste Dag agtede at foretage der en Del Eftergravninger, i Haab om paa denne Maade at komme til et Resultat med Hensyn til bemeldte Tomters tidligere Bestemmelse.

Esja

Esja – stekkur ofan Leiðvalla.

Niðurstöður Jónasar hleyptu af stað miklum vangaveltum og nokkrum deilum um staðsetningu Kjalarnessþings sem stóðu fram yfir aldamótin 1900, en lognuðust svo útaf vegna skorts á frekari sönnunargögnum. Það kann að þykja einkennilegt að ekki hafi fundist nein ný sönnunargögn sem skorið gætu úr þessari deilu þegar þess er gætt að enginn staður á Íslandi hefur verið rannsakaður jafn oft og rústirnar í Þingnesi.
ÞingnesÞarna grófu nefnilega bæði íslenskir og erlendir fornfræðingar þess tíma hver á fætur öðrum án þess að takast að ráða gátu staðarins. Ástæða þess er sú að hann er óvenju erfitt viðfangsefni, eins og vikið verður að síðar. Af helstu fræðimönnum sem þarna grófu auk Jónasar má nefna Angus Smith, skoskan fornfræðing sem rannsakaði staðinn árið 1872; Sigurð Vigfússon árið 1889; Daniel Bruun og Björn M. Olsen árin 1896 – 1897.
Að auki könnuðu allir helstu fornfræðingar landsins staðinn og gerðu athuganir á honum. Þar á meðal Kristian Kaalund, Sigurður Guðmundsson, Sigurður Vigfússon og Brynjúlfur frá Minna Núpi.
Sú umræða um Kjalarnesþing sem spratt af rannsóknum Jónasar er mjög skemmtileg og er afar áhugavert að kynnast hugmyndum og sjónarmiðum þesarra fræðimanna sem um hann fjölluðu fyrir rúmum hundrað árum.
Þrátt fyrir að ályktanir og niðurstöður taki gjarnan mið af því að verið er að reyna að útskýra hvernig Kjalarnesþing sé upp við Þingnes en ekki á Kjalarnesi, er engin ástæða til að rengja glöggskyggni rannsóknarmanna í lýsingum sínum á sjálfum minjunum.“

Esja

Minjakort Minjasafns Reykjavíkur. Hér er Kirkjuflöt ranglega staðsett.

Af framangreindu mætti ætla, í fljótu bragði, að kirkja Örlygs gamla hafi verið á Esjubergi. Ef betur er lesið er ljóst að hún var á flöt; Kirkjuflöt „ofan við Leiðvöll“ í Kollafirði.
Á örnefnamynd Minjasafns Reykjavíkur er Kirkjuflöt staðsett beint ofan við Leiðvöll, þar sem nú eru malargryfjur. Ljóst má þó vera að þar hafi aldrei verið flöt sú, sem fjallað er um. „Ofan við Leiðvöll“ hefur miklu líklegra verið á reiðleiðinni þaðan áleiðis að Esjubergi. Þar ofan við er sléttur gróinn melur, skammt ofan Leiðhamra. Á flötum melnum er aflangur gróinn hóll, sem snýr frá austri til vesturs. Ekki mótar fyrir veggjum í hólnum. Skammt norðan við hann eru tóftir fjárhúss (heykuml, hús og gerði).

Esjuberg

Forn gata ofan Leiðvalla að Esjubergi.

Telja má ólíklegt að Örlygur gamli hafi ráðið að reisa fyrstu kristnu kirkjuna heima við bæ sinn á Esjubergi þrátt fyrir almenna stundarsátt millum trúarbragða á þeim tíma. Slík framkvæmd gat boðið hættunni heim. Hafa ber í huga að Ísland var heiðið á þessum tíma og þótt kristið fólk hafi sest hér að, ekki síst á Kjalarnesi, verður að teljast hæpið að hann hafi viljað storka örlögunum með svo augljósum hætti, en afráðið þess í stað að láta reyna á þolgæði samlandanna og reist hið táknræna trúboð við alfaraleið á ystu mörkum landnámsins þar sem ólíkar hefðir blönduðust sameiginlegum hagsmunum, þ.e. mikilvægum siglingum millum anda. Örlygur hefur ólíklega afráðið að reisa kirkjuna á meintum stað Kjalarnesþings ofan Leiðvalla, sem stofnað hafði verið nokkrum árum fyrr. Minjastaður meintar kirkju er í skjóli fyrir erfiðum vindáttum ofan af Esjunni. Skammt sunnan við meintan minjastað er orpinn hóll, mögulega dys. Kjalnesingasaga segir að Búi hafi verið grafinn sunnan við kirkjuna, sem þá hafði verið aflögð.
Í Esjunni ofan við meint kirkjustæði er örnefnið „Kirkjunýpa“, sem hingað til hefur ekki ratað í nútíma örnefnalýsingar einhverra hluta vegna.

Telja má sennilegt að kirkjan á Kirkjuflöt ofan Leiðvalla hafi síðar verið flutt að bænum Esjubergi, líkt og lesa má í síðari heimildum.  Þar fór fram fornleifauppgröftur fyrir nokkrum árum, en skilaði ekki tilhlíðanlegum árangri. Sú, eða þær kirkjur, sem nálægt bænum kunna að finnast, geta því varla talist til elstu kirkju landsins.
EsjubergVitað er að hvorki timburkirkjur né torfkirkjur hafi varað til eillífðar, heldur þvert á móti; þær hefur þurft að endurbyggja með reglulegu millibili, mögulega á 20-50 ára fresti.
Skammt sunnar í hlíðinni, allnokkuð ofan Leiðvallar, er óglöggt minjasvæði. Sést þar móta fyrir veggjum.

Heimildir:
-Bæir á Kjalarnesi – ritgerð.
-https://is.wikipedia.org/wiki/Kjalarnes%C3%BEing
-Vinnuskýrsla fornleifa 2004 lýsir Guðmundur Ólafsson, fornleifafræðingur, Kjalarnesþingi (Rannsóknarsaga 1841-2003).
-Gamli Kjalarnesvegur – Minjasafn Reykjavíkur.
-Örnefnalýsing Ara Gíslasonar um Esjuberg.

Esja

Esjan ofan Leiðvallar. Svæðinu neðanverðu hefur verið mikið raskað í gegnum tíðina.