Tag Archive for: Kópavogur

Árnakrókur

Gengið var um svæði Elliðakots í vestri og Lyklafells í austri. Getgátur hafa verið um selstóftir. Ætlunin var að gaumgæfa svæðið. Farið var upp frá Fossvöllum í Lækjarbotnum með stefnuna til norðurs niður og inn með Lönguhlíðum (Elliðakotsbrekkum) milli Selfjalls og Selvatns. Kíkja átti á (Reykja)Víkurselið norðaustan við vatnið sem og

Lækjarbotnar

Árnakróksrétt og halda síðan til baka um Leirdal, Lækjarbotna og Fossvelli, yfir gömlu Hellisheiðargötuna.
Tilgangur ferðarinnar var ekki síst sá að athuga hvort hægt væri að koma auga á leifar tveggja selja, sem áttu að hafa verið á þessu svæði, þ.e. auk Örfiriseyjarsels undir Selfjalli. Bæði Viðey og Lambastaðir munu hafa haft selstöður þarna efra þótt staðsetning þeirra hafi ekki legið ljós fyrir. Jafnan hefur verið gengið út frá því sem vísu að öll selin væru í Örfiriseyjarselsstað.
Í Jarðabókinni 1703 segir að Erfersey hafi haft selstöðu undir Selfjalli þar sem heitir Erferseyjarsel. Tóftir við skátaskálann sem þar er syðst í Botnunum munu að öllum líkindum vera leifar þess, sem og seinni tíma búskapar (beitarhús).
Í örnefnaskrá fyrir Lækjarbotna eftir Guðlaugur R. Guðmundsson kemur m.a. fram að „býlið [Lækjarbotnar] stóð á hólnum, Bæjarhólnum, sem er til hægri, þegar þjóðvegurinn er ekinn þá í austurátt. Hóllinn reyndist það hár, þegar bílöld gekk í garð, að erfiðleikum var háð fyrir bóndann að aka upp á hólinn og leggja veg að bænum. Þar af leiðandi færði bóndinn býlið, 1907, yfir hinum megin, þar sem land var lægra, og reisti þar nýjan bæ. Hann nefndi húsið Lögberg. Þar bjó Guðmundur til dauðadags 1957.
Lækjarbotnar Bóndinn treysti því og, að vatnsból gott væri rétt hjá Lögbergi, en vatnsmagn er þar mjög breytilegt í Fossvallaá og Fossvallaklifið oft þurrt. Karl segir, að aðeins árin 1921 og 1976 hafi runnið allt sumarið í ánni.
Undir Selfjalli eru Selhólar. Þar fyrir framan er Gráhóll og Pálspyttur við hann, þar sem Páll hefur líklegast farið undir ís.
Sel frá Viðey var inn með Gömlubotnum.“ Í athugasemdir og viðbætur við Lækjarbotnaörnefnalýsinguna skráði Sigríður Jóhannsdóttir eftir Jóni I. Bjarnasyni að „Fossvallaklifið [hafi] oftast [verið] þurrt; þar rennur aldrei vatn; klifið er, þar sem gamli vegurinn var, og hraðbrautin liggur núna um klifið upp á Fossvogsvellina. Þar hefur aldrei runnið nein á. Lækurinn og pytturinn nú orðnir þurrir, síðan nýi vegurinn var lagður.
Jörðin Örfirisey var landlítil; átti selstöðu undir Selfjalli, ekki Viðey. Af því dregur fjallið nafn. Þar sem selið var, heita Selhólar; sjást rústir ennþá, nú reyndar mjög sokknar.“
LækjarbotnarUm selstöðu Reykjavíkurbæjarins segir að jörðinni hafi verið eignuð slík „þar sem heitir Víkursel undir Undirhlíðum; sumir kalla það gamla Víkursel; þar hefur jörðin brúkað hrís til eldiviðar fyrir selsins nauðsyn.“ Og þar sem Langahlíð var í sunnanverðri Öskjuhlíð var jafnvel talið að Víkursel hafi verið þar sem nú má sjá leifar. Skammt frá eru merki eftir sel frá Hlíðarhúsum.
Í Sögu Reykjavíkur eftir Klemens Jónsson segir: „Að búskapur hefur verið mikill, má meðal annars sjá af því, að jörðin átti sel, Víkursel, er var notað með vissu ennþá um 1600, en hvar það sel hafi verið, er óljóst.“
Um selstöðu Lambastaða segi

r Jarðabókin að „selstöðu þykjast nokkrir heyrt hafa jörðinni eignaða þar sem heitir undir Selfjalli og kallað er Lambastaðasel.“
Í lýsingu Viðeyjar segir „selstaða er á fastalandi þar sem heitir Viðeyjarsel, og hefur það verið brúkað frá Bessastöðum.“
Örlygur Hálfdánarson, sem manna gerst þekkir til siða og venja Viðeyinga sagðist aðspurður ekki hafa heyrt hvar Viðeyjarsel hafi verið, en fé og jafnvel kýr hafi fyrrum verið flutt úr eyjunni og í haga uppi á fastalandinu að sumarlagi. Skepnum hafi verið skipað í land í viki sunnan við Fjósaklettana utan við Gufunes. Þar hafi verið stór hellir, sem skepnunum var haldið í. Austan við vikið er höfði sem nefndur var Akurinn. Sunnan við það er ný bryggjan í Gufunesi. Ekki vissi Örlygur hvort hellir þessi væri enn til þarna, en tenging hans við flutningana og klettana væri athyglisverð.
LækjarbotnarÍ lýsingu fyirr Bessastaði er ekki minnst á selstöðu í Jarðabókinni 1703.
Guðjón Jensson, margfróður Mosfellingur, hefur talið einn möguleikann á að Viðeyjarsel hafi verið þar sem Kambsréttin í Seljadal er núna. “Þarna í Dalnum var sel frá Viðeyjarklaustri og ég hef verið mikið að velta fyrir mér gegnum tíðina hvar það hafi verið. Klaustrið var rænt skömmu fyrir miðja 16. öld. Síðasti kaþólski biskupinn í Skálholti, Ögmundur Pálsson, endurreisti klaustrið og lagði lykkju á leið sína á flóttanum þaðan er hann frétti að kóngsmenn hyggðust ná honum. Ögmundur kom við í Viðeyjarseli. Hann var handsamaður nokkru síðar af Hjalla í Ölfusi sem kunnugt er. Viðey nánast hverfur úr sögunni næstu tvær aldirnar. Ég hef leyft mér að draga eftirfarandi ályktun:  Undir Viðeyjarklaustur voru 132 jarðir sem kóngsmenn sölsuðu undir sig við siðskipti. Allar þessar jarðir voru leigðar út og var mikið kapp á að fá sem hæsta leigu út úr bændum, leiguafgjöld auk þess sem lagt var á karlana ýmsar óbærilegar kvaðir í þágu Bessastaðamanna. Nú varð ekki lengur jafn mikil þörf hjá leiguliðanum og kotungaanum í Viðey að koma lítilfjörlegum búsmala sínum frá sér og allar götur upp í Seljadal. Þar haslaði hins vegar bóndinn í Nesi, sbr. Nessel og í Örnefnalýsingu Þormóðsdals er sagt að þar í Dalnum hafi verið selför frá Gufunesi.
LækjarbotnarEftir að starfsemin í Viðey leggst af er þörfin á hinum miklu umsvifum klaustursins um vestanverða Mosfellsheiðina engin. Kóngsmenn hafa látið afskiptalaust þó bændur, leiguliðarnir byggðu sér fjárrétt úr grjótinu og einhver þægindi þarna í Dalnum, enda hefði það aftur betri möguleika að standa
í skilum með afgjald jarðanna.
Mér finnst líklegt að Viðeyjarsel hafi fyrrum verið þar sem nú eru rústirnar af Kambsréttinni. Þar er t.d. mjög stutt í rennandi vatn en seljabúskapur byggðist á greiðum aðgangi að góðu vatni til að tryggja gæði afurðanna.“
Haldið var inn með Lækjarbotnum norðanverðum. Þegar ganga á inn með hlíðunum þarf að ákveða strax hvorum megin við ána, sem verður til undir þeim miðsvæðis, ætlunin er að ganga. Annars er hætta á að lenda í sjálfheldu.
Fossvallaá rennur þarna niður, þ.e.a.s. þegar eitthvert vatn er efra, en farvegi hennar hefur verið breytt oftar en einu sinni. Varnargarður hefur verið gerður syðst á Fossvallabrúnum til að beina vatnsflaumi frá Lækjarbotnum. Mikið gil er í hlíðinni þar sem áin rann áður. Á því sést vel hversu mikill vatnsflaumurinn getur orðið. Nú er þarna fallegt náttúrufyrirbæri – á þurru.  Einhvern tíma hefur verið fallegur foss efst í gilinu Fossvallafoss). Foss þessi, sem og öll Fossvallaáin efra, hefur ákvarðað núverandi mörk Kópavogsbæjar annars vegar og Mosfellsbæjar hins vegar.

Lækjarbotnar

Í örnefnalýsingu fyrir Elliðakot eftir Tryggva Einarsson frá Miðdal segir að þarna hafi Fossvallaá runnið. „Dregur [hún] nafn af fallegum fossi, þar sem áin rennur niður í Nátthaga. Svo áfram niður í vesturenda Nátthagavatns. Úr Nátthagavatni ræður Hólmsá mörkum, þar til Dugguós og Hólmsá mætast.“
Hús er í Lækjarbotnum í Suðurbrekku, forskallað og að falli komið. Skammt frá því eru miklar vatnsuppsprettur. Segja má að líkt sé að hlíðin öll leki á kafla. Nýlegar vilpur er nálægt húsinu, en þarna má einnig sjá eldri mannvirki – hlaðið umhverfis lænur og myndanir á vatnsstæðum og brunni.
Ef svæðið er skoðað vel og vandlega er ljóst að þarna hefur verið kjörin selsstaða; ágætt skjól fyrir austanáttinni, nóg vatn, ágæt beit, auðvelt aðhald og stutt í meginþjóðleið því gamla gatan austur fyrir fjall lá þarna skammt suðaustar.

Lítill trjálundur með hávöxnum grenitrjám er þarna skammt frá. Hið kynlega við lundinn er sá að honum hefur verið plantað þvert fyrir gróna skeifulaga kvos í hlíðinni. Trén skyggja á miðdegissólina í þessu annars ágæta skjóli. Þegar stofnar trjánna voru skoðaðir betur mátti sjá móta fyrir líkt og veggjum og rýmum. Lundurinn er nægilega stór til að geta hulið seltóftir. Trén virðast vera um um 60-80 ára og því væntanlega eldri en húsið, sem þarna „stendur“. Ekki kæmi á óvart að þarna kunni að leynast Viðeyjarselið. Ef svo er virðist eðlilegt að Ögmundur Pálsson, biskup, hafi komið við í Viðeyjarseli á leið hans að Hjalla í Ölfusi á 16. öld.
Lækjarbotnar Í örnefnaskrá fyrir Elliðakot eru hlíðarnar nefndar Elliðakotsbrúnir, sem verður að teljast eðlilegt frá bænum séð. Þær mynda sýnileg nýtingarmörk jarðarinnar í austri. Þær eru þó greindar í nafnkenndar brekkur, eins og á eftir verður lýst. Nátthagavatn er suðaustan við Elliðakot. Náthaginn er/var vestan við norðanvert vatnið. Þar er nú sumarhús. Skammt austan við vatnið mótar fyrir gömlum vegi. Hlaðið hefur verið þvert ána til að auðvelda akstur yfir hana. Norðan við vaðið eru tvö gömul bílhræ, annað sennilega frá stríðsárunum, en þarna var víða aðstaða hernámsliðsins. Vaðið hefur því ekki verið auðveldara en svo a.m.k. tvö ökutæki hafa gefið þar upp öndina.
Vilborgarkot var þar sem nú er sumarbústaður norðvestan við Nátthagavatn. Nátthaginn sjálfur var og er suðaustan við vatnið. Í honum miðjum er Grindarhóll. Þessar uppplýsingar komu frá Guðlaugi R. Guðmundssyni. Hann sagði miklar upplýsingar liggja fyrir í Skjalasafni Reykjavíkur um þetta svæði frá tímum þrætumála um eign á landinu um 1891, m.a. nákvæmir uppdrættir og aðrar upplýsingar.
Skammt norðaustar er hlaðin ferhyrnd rétt (4x12m) eða gerði. Í fyrstu gæti verið um húsgrunn að ræða, svo vandlegar eru hleðslur, en réttin er hlaðin utan í hæðina og hleðslur vantar norðaustast í henni. Grjótið hefur væntanlega verið sótt í grjótnámuna við Elliðakot, sem þarna er í sjónfæri til vesturs. Bærinn sjálfur var hlaðinn úr grjóti úr námunni, auk fleiri mannvirkja. Líklegt má telja að þarna geti verið um að ræða hestarétt við gömlu þjóðleiðirnar um Hellisheiði og til Þingvalla. Guðlaugur taldi þetta vera svonefnda Fossklúku, aðhald fyrir fé. Op er til vesturs og vísar að þjóðleiðinni. Hæðin ofan við réttina heitir Dyngja. Skarð er í henni skammt norðvestar. Ofan við það eru leiðir varðaðar áfram upp á Mosfellsheiði, áleiðis að Þingvöllum annars vegar, og áleiðis að Hellisskarði hins vegar. Vörðurnar standa enn, stórar og stæðilegar, enda varla eldri en frá því á fyrstu áratugum 20. aldar.
Ofar er Miðdalsheiði. Frá brúnunum er ágætt útsýni yfir Nátthagavatn, Lækjarbotna og brekkurnar í Elliðakotsbrúnum (Lönguhlíðum).
Lækjarbotnar Í örnefnalýsingunni segir að „frá Fossvallafossi og norður að Dugguósi eru samfelldar heiðarbrúnir. Heiðin upp af brúnunum heitir Elliðakotsheiði. [Hér er Elliðakotsheitið komið á a.m.k. hluta Miðdalsheiðarinnar]. Þar er allstór hvilft suðvestur í heiðinni, sem Leirdalur heitir. Áðurnefndar heiðarbrúnir heita Elliðakotsbrúnir. [Hér eru Fossvallabrúnir nefndar Elliðakotsbrúnir]. Vestan undir brúnunum eru grasigrónar brekkur, þær heita, frá Fossvallafossi, Suðurbrekkur, Miðbrekkur og Norðurbrekkur. Vestan undir Suðurbrekkum eru miklar vatnsuppsprettur (veit ekki, hvort þær bera nafn). Mynda þær árspotta með alldjúpum hyljum niður í Nátthagavatn.“

Skammt norðvestan við réttina er gróin ílöng þríhólfa tóft neðst í grónum bala. Ofar í balanum hefur verið reistur sumarbústaður, sem nú er horfinn.
Rústin hefur öll einkenni selstöðu. Rýmin eru þrú, þar af tvö með sameiginlegum inngangi. Þar sem einungis vantar eitt af seljunum, Lambastaðasel, má ætla að þarna hafi það verið – þótt ekkert sé öruggt í þeim efnum. A.m.k. er þarna um að ræða tóftir, nánlast jarðlægar, sem hvergi hefur verið getið um, hvorki í örnefnalýsingum né fornleifaskráningu af svæðinu. Erfitt er að koma auga á tóftirnar. Í fyrsta þarf að hafa þjálfað auga til að greina þær – og auk þess þarf að nálgast þær úr austri.
Tóftirnar sem og landssvæðið allt tilheyrði fyrrum Seltjarnarnesi hinu forna.
Byggð á Seltjarnarnesi er vafalaust frá þjóðveldisöld, en athafna manna í Seltjarnarneshreppi hinum forna er fyrst getið árið 1581. Þann 15. nóvember það ár var gerð svokölluð Seltjerningasamþykkt. Hún fjallaði um tillag húsmanna og hjáleigumanna til hreppsþarfa. Segir í henni, að hreppstjórarnir í Seltjarnarneshreppi hafi komið saman í Reykjavík og rætt nauðsynjamál hreppsins. Samþykktin er merkileg fyrir tvennt. Að vera fyrsta heimild um Seltjarnarnes hinn forna og fyrir að vera gerð í Reykjavík, sem var þá einstök jörð í hreppnum. Kópavogur kemur svo til sögunnar við staðfestingu Seltjerningasamþykktar, en þar var þingstaður Seltjarnarness langt fram eftir 18. öld.
Lækjarbotnar Seltjarnarneshreppur hinn forni náði yfir allt Nesið, sem liggur á milli Kollafjarðar og Skerjafjarðar og allt til fjalla. Austasta jörðin var Kópavogur, en austan Kópavogslækjar tók við Arnarnes í Álftaneshreppi. Elliðaárnar mörkuðu skil við Mosfellssveit. Í upphreppnum voru jarðirnar Hólmur, Elliðavatn, Vatnsendi, Breiðholt, Hvammkot, Digranes, Bústaðir og Kópavogur. Margar þessara jarða voru svo smám saman teknar undan hreppnum og fyrsta jörðin var Reykjavík, ásamt Arnarhól og Örfirisey. Það var Rentukamerið í Kaupmannahöfn, sem fól Vigfúsi Þórarinssyni sýslumanni árið 1786 að láta mæla út svæði fyrir kaupstaðinn nýja. Reykjavík varð þó ekki sérstakt lögsagnarumdæmi fyrr en 1803.
Landamörk og lögsaga Reykjavíkur fór þannig ekki saman á árunum 1786 til 1803. Fyrstu sveitarstjórnarlög á Íslandi voru sett 1872, en fyrsta hreppsnefnd Seltjarnarneshrepps var þó ekki valin fyrr en á hreppaskilaþingi í júní 1875. Þann 20. júní 1923 voru samþykkt lög á Alþingi um stækkun lögsagnarumdæmis Reykjavíkur, sem skyldi nú ná yfir jarðirnar Bústaði, Breiðholt og Eiði, en lög frá árinu 1894 tóku Laugarnes og Klepp af Seltirningum. Skildinganes var svo tekið 1932.
Eftir þennan aðskilnað var Seltjarnarnes enn að mestu sveitarhreppur og fjallskil og umstang með búfénað voru meðal verkefna hreppsnefndar. Árið 1943 voru jarðirnar Elliðavatn og Hólmur og spilda úr Vatnsendalandi teknar undir Reykjavík.
Við hreppsnefndarkosningu 7. júlí 1946 fékk listi Framfarafélagsins Kópavogur hreinan meirihluta.. Eftir það voru flestir fundir á þessu Kópavogstímabili haldnir á heimili oddvita að Kópavogsbraut 19. Það dró að sambandslitum milli Kópavogs og Seltjarnarness, því sumarið 1947 gengu undirskriftarlistar um Nesið, þar sem farið var fram á skiptingu hreppsins. Mál þetta fór í þann farveg, sem meirihlutinn vildi, þ.e. skiptingu. Kom sér illa fyrir Seltirninga að vera í minnihluta, því Kópavogsbúar vildu fá allan Upphreppinn, en Seltirningar vildu halda a.m.k. Lækjarbotnum, Gunnarshólma og Vatnsenda, auk afréttarlanda.

LækjarbotnarSvo fór þó ekki og hafði Kópavogur sín mál fram. Einn hreppsnefndarmaður vildi að afrétturinn allur yrði áfram í eigu Seltjarnarneshrepps hins nýja, en Kópavogsbúar skyldu fá afnotarétt. Niðurstaðan varð óljós sameiginlegur afnotaréttur. Í ársbyrjun 1948 er hinn nýi Seltjarnarneshreppur orðinn til. Þann 8. júní 1973 var haldinn sérstakur hátíðarfundur á Seltjarnarnesi og lá fyrir sú tillaga að óska eftir kaupstaðarréttindum.
Kópavogur fékk svo kaupstaðaréttindi með lögum nr. 30 frá 11. maí 1955. Í 1. gr. laganna segir: “Kópavogskaupstaður nær yfir allan Kópavogshrepp.”
Á árinu 1989 barst Kópavogskaupstað bréf frá Félagsmálaráðuneytinu, þar sem spurt var um afrétt Kópavogs. Sigurður Björnsson, bæjarverkfræðingur svaraði spurningum ráðuneytisins með bréfi dags. 28/3 1989. Hann segir að meðan búskapur hafi verið stundaður í Kópavogi hafi bændur átt upprekstararrétt í þann afrétt, sem áður var afréttur Seltjarnarneshrepps. Bent er á að í samningi um skipti sveitarfélaganna 1948 hafi sagt, “að fjallskil og refaeyðing á afrétti skuli vera sameiginleg, þar til hreppsnefndir ákveða annað með samþykki sýslunefndar Kjósarsýslu. Bent er á það að það sé stefna sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu að leggja af allan fjárbúskap og friða afréttinn og þar með banna allan upprekstur. Spurningunni um hvort sveitarfélögin hafi komið sér saman um til hvors þeirra afrétturinn skuli teljast svarar Sigurður á þá lund, að bæjaryfirvöld í Kópavogi hafi talið að við skiptin 1948 hafi afrétturinn átt að falla til Kópavogs.
Þótt Kópavogsbær byggir kröfur sínar á því að Lækjarbotnar sé fullkomið eignarland Kópavogsbæjar samkvæmt þinglýstum eignarheimildum. Í þinglýstum heimildum er „jörðin Lækjarbotnar nýbýli og var Þorsteini Þorsteinssyni veittur nýbýlisréttur fyrir jörðinni þann 11. febrúar 1868. Nýbýlaleyfið var gefið út af Hilmari Steindór Finsen stiftamtmanni yfir Íslandi og amtmanni yfir suðuramti, með vísan til nýbýlatilskipunar frá 15. apríl 1776. Í nýbýlabréfinu kemur fram að þann 22. júlí 1865 hafi Þorsteini Þorsteinssyni verið útnefnt landi því, er hann kallar að Lækjarbotnum og útnefningin hafi verið staðfest með úrskurði héraðsréttar Gullbringu- og Kjósarsýslu 4. des. 1866. Mörk Lækjarbotnalandsins er lýst með eftirfarandi hætti í nýbýlisbréfinu:
Lækjarbotnar „Að norðaustanverðu syðsta kvíslin af Fossvallaós frá Lækjarmóti sem rennur frá honum, upp að þúfu sem stendur í Holtstanga fyrir neðan Neðri-vötn þaðan til úrsuðurs í mógrýtisklett með rauf í, er snýr í suður, svo sömu stefnu eptir langri brekku alla leið að Sandfellshnúk, sem það nær langt til norðurs. Þaðan til norðvesturs í suðvesturhorn á Selfjalli. Þaðan suður-austurhlið brunahraunsins fyrir norðan Selfjallið niður fyrir bæ að læknum og eptir honum norður í á, hvert land hefur verið álitið 6H að dýrleika.”
Bréfið var lesið á manntalsþingi á Mýrarhúsum 3. júní 1882 og innfært í afsals- og veðmálabók Kjósar- og Gullbringusýslu.

Með afsali dagsettu 8. október 1947 afsalaði Guðmundur Sigurðsson bóndi, Lækjarbotnum, eignarjörð sinni Lækjarbotnum til Seltjarnarneshrepps með öllum gögnum og gæðum. Í afsali er vísað til kaupsamnings sem gerður var á milli Guðmundar Sigurðssonar og Benedikts Elfars, kaupmanns um sömu jörð. Seltjarnarneshreppur neytti forkaupsréttar sem leiddi síðar til málaferla. Úr varð að Seltjarnarneshreppi var afsalað Lækjarbotnalandinu sbr. fyrrnefnt afsal.
Með bréfi félagsmálaráðuneytisins dagsettu 10. desember 1949 var Seltjarnarneshrepp skipt í tvö hreppsfélög, Seltjarnarneshrepp og Kópavogshrepp. Í lið 8 í bréfi ráðuneytisins kemur fram að jörðin Lækjarbotnar skuli vera eign Kópavogshrepps. Jafnframt er kveðið svo á um að Lækjabotnalandið skuli vera innan lögsögu hreppsins. Ákvæði þessi um eignarétt Kópavogshrepps yfir Lækjarbotnum voru færð inn í veðmálabók Kjósarsýslu þann 6. apríl 1949. Með vísan til þessara heimilda er augljóst að Kópavogsbær er eigandi Lækjarbotnalandsins, eins og það er afmarkað fyrr í kröfugerð þessari.
Dyngjan, ásinn austan Elliðakots, var yfirgefin og haldið yfir að Selvatni. Ásarnir bera jökulskriði glöggt vitni. Jökulrispaðar klappir (hvalbök) eru víða og má sjá hvar jökullinn hefur skriðið fast og ákveðið fram frá austri til vesturs.
Lækjabotnar Tvö sel eru jafnan sýnd á landakortum við austanvert Selvatn, Litlasel og Stórasel. Litlasel var þar sem nú er bústaður fyrrum eiganda Gunnarshólma. Hann upplýsti FERLIR á sýnum tíma að þar hafi verið vegghleðslur áður en hann ruddi svæðið fyrir bústaðinn. Stóraselsnafnið, skammt norðar, er sennilega sama nafnið og Víkurselsnafnið, bara ranglega merkt inn á landakort.
Víkurselið er norðan við Selbúð, nánast jarðlægt orðið. Það er á milli Sellækjar og Urðarlágarlækjar. Varla er hægt að greina rýmisskipan í dag, en þó má sjá á gróðri í tóftinni að hann er annar en umhverfis.
Skammt vestan við tóftina er önnur, minni, fast vestan við Sellæk. Líklega er þarna um að ræða hluta af mannvirkjum selsins, en ekki er hægt í dag að glöggva sig á hvað þarna er undir. Nýlegir bústaðir eru allt í kring og svo virðist, af nýlegum vegi að dæma, að byggja eigi hús þar sem Víkurselið er nú – eða var.
Efstu, stöðugu upptök Elliðaánna eru við Selvatn og í Lækjarbotnum við Nátthagavatn.
Haldið var austur fyrir Selvatn, upp í Árnakrók. Í honum er Árnakróksréttin, ein friðlýstra minja Mosfellssveitar.
Í örnefnalýsingu Elliðakots segir m.a. að „nokkru ofar við vatnið er Árnakrókslækur. Austan við Sellækjarupptök er allstór klettahóll, sem Árnakrókshóll heitir. Austur af Árnakrókshól er allstór valllendiskriki, sem Árnakrókur heitir. Á klapparsvæði norður af Árnakrók er Árnakróksrétt (að mestu uppi standandi), var skilarétt Mosfellinga. Var flutt að Hafravatni um síðustu aldamót. Heitir nú Hafravatnsrétt. Árnakróksrétt var annáluð fyrir brennivínsþamb og hæfileg slagsmál. Sótti þar að fjölmenni úr Reykjavík og nágrenni og var vakað alla réttanóttina.“

Selvatn

Árnakrókur – Selvatn ofar.

Árnakróksréttin var hlaðin um 1850 eftir að Kambsrétt í Seljadal var lögð af. Réttin var brúkuð fram til aldamóta 1900 er ný rétt var hlaðin við Hafravatn.
Haldið var áfram til suðurs yfir heiðina með viðkomu í Leirdal. Grunur var um að þar kynnu að leynast í honum suðaustanverðum tóftir, en ekki gafst tími til að skoða svæðið að nákvæmni að þessu sinni. Það verður gert síðar.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mínútur.

Heimildir m.a.:
-http://www.obyggd.stjr.is/svland/57.pdf
-http://www.obyggd.stjr.is/sv2.pdf
-http://www.kopavogur.is/upload/files/skyrsla(1).pdf
-Örnefnalýsing fyrir Elliðakot – Tryggvi Einarsson.
-Örnefnalýsing fyrir Lækjarbotn.
-Saga Reykjavíkur – Klemens Jónsson.
-Guðlaugur R. Guðmundsson (68 ára).

Skófir

Heiðarvegur

Gengið var frá Bláfjöllum í vesturátt. Eftir að hafa gengið tæpan kílómetra á helluhrauni og á jeppaslóð, var komið að hraunhól sem á var varða.

Heiðarvegur

Heiðarvegur.

Sprunga er í hólnum með gras í botni og líklega gott skjól í henni. Að vestan er líkt og dyraop og er hægtað ganga á jafnsléttu inn í sprunguna. Punktur tekinn. Áfram var gengið í vesturátt í stefnu á Grindaskörð, á helluhrauni nokkuð grónu, með leirsléttum. Á vinstri hönd er eldborg og gróft hraun í kring, á hægri hönd er Strompahraunið og er um 300 metrar á milli hraunanna. Að gengnum 1.655 metrum (í beina loftlínu) var komið að tveimur vörðum sín á hvorum hólnum og er slakki á milli hólanna. Greinileg gata var á milli hólanna. Þegar horft var til baka sást á áframhaldandi vörðu í austurátt. Á leiðinni eftir jeppaslóðinni, var varðaða leiðin á vinstri hönd suður). Varða er einnig sjáanleg héðan í vestur átt og voru tekin hnit á hana. Næsta varða þar á eftir er að mestu hrunin en sést þó enn.

Heiðarvegur

Heiðarvegur.

Komið var að hraunbrún. Framundan er úfnara hraun, en mjög stutt er yfir það að hlíðum (Stórkonufells?). Í suður í átt að Litla-Kóngsfelli og var stæðileg varða í þá áttina. Hún gæti verið við vegamót. Önnur leiðin liggur þá suður með hraunbrúninni og suður fyrir Stórkonugjá við Litla-Kóngsfell og hin leiðin liggur áfram í stefnu yfir hraunhaftið.

Gengið var áfram í sömu stefnu yfir hraunhaftið, nokkra tugi metra og kom á Reykjaveginn við hlíðar Stórkonufells og síðan yfir nyrðri enda Stórkonugjár og er greinileg gata þar og nokkuð breið. (Reykjavegurinn stefnir vestur yfir og suður með Stórkonugjá í stefnu á veg í Kerlingaskarð). Síðan var gengið norðvestur með hlíðunum í átt að skarðinu norðan við Stórabolla.
Þegar komið er að þar sem farið er upp í skarðið norðan við Stórabolla er myndarleg varða þar, niður undir jafnsléttu og hálfhruninn varða er rétt þar neðar í stefnu á hraunbrún á hrauninu sem er sunnan við bollana. Þegar horft er úr brekkunni undir Stórabolla og vörðurnar bera hver í aðra, má sjá góðan veg með hraunbrúninni.

Heiðarvegur

Heiðarvegur – varða.

Þegar komið var neðarlega í brekkurnar norðan skarðs og gengið eftir jeppaslóða, var fyrir varða í 336 m hæð. Punktur tekinn.
Neðst í brekkunum komu saman jeppaslóðinn og reiðvegur og eða fjárgata í 276 metra hæð. Þegar gengið var áfram með hlíðum undir Kristjánsdalahorni, sást greinileg gata upp og bak við smá hnjúk sem sker sig frá fjalllendinu. Þegar komið var norður fyrir hnjúkinn sást gatan greinilega þar sem hún skáskar brekkuna niður á jafnsléttu. Neðar eru vatnsstæði.
Aftur var farið upp að Bláfjöllum og gengið frá þeim í suður. Eftir að hafa gengið um 800 metra frá horninu, var komið að vörðu. Þaðan var gengið í norðvestur og eftir að hafa gengið um 500 metra sást hraunhóll og var steinn á toppi hans.

Heiðarvegur

Heiðarvegur – vörður.

Hóllinn er holur að innan og er þar sæmilegur skúti og geta nokkrir menn haft þar skjól. Svo virðist sem brotið hafi verið úr munanum niður við jörð og er hægt að ganga inn líkt og um dyraop. Punktur tekinn. Skúti þessi er í beinni línu við næstu vörðu sem komið var að. Um 500 metrar eru frá skútanum að henni. Vestan við vörðuna er grasivaxin dæld og þegar horft er í norðvestur á næstu vörðu blasir við greinileg gata í grasinu, nokkra tugi metra. Þessi gata er ekki fjárgata, einn og hálfur til tveir metrar á breidd þar sem hún er breiðust.

Heiðavegur

Varða á Heiðarveginum.

Síðan var gengið að næstu vörðu sem blasti við. Eru um 220 metrar að henni. Hæð y.s.m. eru 515 m. Þegar nær var komið sást að vörðurnar eru tvær. Sú sem fyrr er komið að, er hálf hruninn en nokkrum metrum frá er stæðileg varða. Vörðurnar eiga líklega að bera hvor í aðra til að fá stefnu á næstu vörðu. (Eða að vísa á sprungna hraunhólinn með vörðunni sem sást í fyrri ferð í um 20-30 metra fjarlægð).
Ekki sást til næstu vörðu í norðvestur eða vesturátt en í vestur er varða sem áður hafði verið komið að og er um 1.600 metrar í hana. Enn styttra er að aðra vörðuna.

Heiðarvegur

Heiðarvegur – Geitafell fjær.

Hér er ágætis útsýni yfir landið frammundan, það fer lækkandi í norðvestur og vestur og er vegur ágætur um helluhraun.
Í vestur er nokkuð stór nafnlaus eldborg sem áður er getið með grófu hrauni umhverfis en hraunið úr henni nær ekki langt norður fyrir hana. Heiðarvegurinn liggur því norðan við eldborgina, um nokkurskonar hlið á milli úfinna hrauna.
Því miður var ekki hægt að skoða meira í bili en klára þarf að staðsetja vörður á 1.600 metra kafla og athuga hvort gatan greinist austan við Stórkonugjá. Þá er eftir að staðsetja vörður austur um heiðina niður Hrossahryggi eða um Guðrúnarbotna að Ólafsskarðsvegi.
Frábært veður í frábæru landslagi.

Heiðarvegur

Varða á Heiðarveginum – Geitafell framundan.

Kópavogur

Hér er getið um nokkrar menningarminjar og þjóðsögulega staði í Kópavogi.

„Einbúi“

Einbúi

Einbúi.

Austarlega í Fossvogsdal, miðja vegu milli gróðrarstöðvarinnar Merkur og Smiðjuvegar, gefur að líta sérkennilegar grjóthrúgur. Við nánari skoðun sést að steinarnir eru kantaðir og hafa verið klofnir með fleygum og höggnir til. Þetta eru minjar um tíma þegar hugmyndir voru stórar en atvinna lítil. Upp úr 1930 hafði heimskeppan mikil áhrif á Íslandi og margir misstu vinnu sína. Ríki og sveitarfélög réði þá menn í s.k. atvinnubótavinnu, einkum að vetrarlagi. Á þessum tíma voru uppi hugmyndir um að leggja járnbraut milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar, á svipuðum slóðum og Reykjanesbrautin liggur nú. Steinunum var ætlað að vera undirstöður fyrir járnbrautarteinana sem aldrei voru lagðir. Sambærilegt grjótnám fór fram við Einbúa við Skemmuveg, en atvinnubótavinnunni var hætt árið 1936.

Hádegishólar
HádegishólarHádegishólar eru tveir grágrýtishólar með áberandi hvalbökum og jökulrákum. Bergið í klöppunum tilheyrir svokölluðu Breiðholtsgrágrýti, sem liggur ofan á grágrýtinu sem Kópavogur stendur að mestu á. Hádegishólar eru því yngri en Víghólar. Af hvalbökum og jökulrákum má ráða að jökullinn sem síðast gekk yfir Kópavog hafði stefnuna NV- SA. Nafn hólanna er dregið af því að eystri hóllinn var eyktarmark frá bænum Fífuhvammi, en frá bænum bar sól yfir hólinn á hádegi. Á stærri hólnum stendur stúba búddatrúarmanna.

Álfhóll
ÁlfhóllÁlfhóll er jökulsorfinn klapparhóll sem nýtur bæjarverndar sem bústaður álfa. Hóllinn er dæmi um þjóðtrú Íslendinga og hve sterk hún hefur verið allt fram á þennan dag. Því er haldið fram að álfar hafi fjórum sinnum haft áhrif á framkvæmdir við hólinn. Er Álfhólsvegur var lagður seint á fjórða áratug 20. aldar, gengu framkvæmdir vel allt að Álfhól. Þegar átti að sprengja í hólinn kom í ljós að allt framkvæmdafé var uppurið og því var framkvæmdum hætt að sinni. Áratug síðar hófust framkvæmdir að nýju og átti þá að ryðja burt hólnum. Vildi þá svo til að vinnuvélar biluðu og verkfæri skemmdust eða hurfu og var því lagður hlykkur á veginn fram hjá hólnum. Í lok níunda áratugar var vegurinn endurbættur. Þegar kom að því að fjarlægja hluta hólsins og leggja malbik upp að honum, brotnuðu öflugir steinfleygar sem til þess voru notaðir. Var vegaskipulaginu því breytt og er nú þarna þrenging og hraðahindrun. Talið er að áhrifa álfa hafi einnig gætt við uppbyggingu lóðarinnar nr. 102 við Álfhólsveg en hún liggur næst hólnum. Eigandi lóðarinnar skilaði lóðinni og vildi ekki byggja þar og fellur lóðin ásamt hólnum nú undir bæjarvernd.

Borgarholt
BorgarholtBorgarholt, einnig kallað Borgir, var friðlýst sem náttúruvætti árið 1981. Þar gefur að líta óvenju glöggar menjar um sjávarstöðu á höfuðborgarsvæðinu eins og hún var skömmu eftir lok síðustu ísaldar. Grágrýtishnullungar einkenna holtið og hin forna sjávarstaða sést við neðri mörk hnullunganna á holtinu. Fyrir um tíu þúsund árum, eftir að ísaldarjökulinn hopaði, stóð holtið mun lægra en nú og var þá sker umlukið sjó. Brimið mæddi á skerinu og svarf strandgrýtið. Smágrýti hefur skolast burt en eftir stóðu hnullungarnir sem nú blasa við. Frá lokum ísaldar hefur land á höfuðborgarsvæðinu lengst af risið og nú stendur Borgarholt í um 43 m hæð yfir sjó. Gróðurfar á Borgarholti er ekki síður athyglisvert en jarðfræðiminjarnar. Holtið er enn að mestu gróið villtum tegundum þrátt fyrir nábýli við útlendan garðagróður í um hálfa öld.

Höfði

Höfði

Höfði.

Norðurströnd Kársness er um 2 km löng. Henni hefur svo til allri verið raskað á undanförnum áratugum með landfyllingum. Þó er lítill tangi vestan Siglingastofnunar (áður Vita- og hafnamál) sem sker sig úr því hann er lítið raskaður. Ekki er vitað til að tangi þessi beri nafn, en í Aðalskipulagi Kópavogs er hann nefndur Höfði. Þarna er óvenju stórgrýtt fjara að norðanverðu og eru slík björg aðeins að finna á þessum slóðum og hins vegar á Borgarholtinu. Í vík sem snýr til vesturs er aftur á móti sandfjara. Á árum seinni heimstyrjaldarinnar mun herinn hafa verið með loftvarnarbyssu þarna vegna nálægðar við Reykjavíkurflugvöll. Enn sést móta fyrir undirstöðum byssunnar.

Þinghóll
ÞinghóllKópavogur var einn af fjórum þingstöðum Gullbringusýslu og fyrir margar sakir þeirra frægastur. Mikill fjöldi mála voru tekin fyrir á Kópavogsþingi og dómar felldir. Mun nálægð við Bessastaðavaldið hafa ráðið þar miklu um. Elstu varðveittu rituðu heimildirnar um þing í Kópavogi eru frá 1523. Árið 1574 gaf Friðrik II Danakonungur út tilskipun þess efnis að Alþingi skyldi flutt í Kópavog en til þess kom þó aldrei. Merkasti atburður sem tengist þingstaðnum er erfðahyllingin 28. júlí 1662. Þá neyddi danski höfuðsmaðurinn Hinrik Bjelke íslenska forystumenn til að undirrita einveldisskuldbindingu og að sverja Friðriki III Danakonungi hollustueiða meðan hermenn hans hátignar stóðu yfir þeim alvopnaðir. Síðasta aftakan sem fór fram á þinginu í Kópavogi var þann 15. nóvember 1704. Þá voru Sigurður Arason og Steinunn Guðmundsdóttir frá Árbæ tekin af lífi fyrir morð. Var hann höggvinn skammt norðan við þinghúsið en henni drekkt í Kópavogslæk. Árið 1753 var þinghald aflagt í Kópavogi.

VíghólarVíghólar voru friðlýstir sem náttúruvætti árið 1983. Þeir eru í um 70 m hæð yfir sjó og er víðsýnt af þeim. Víghólar eru jökulsorfnar grágrýtisklappir með ávölum hvalbökum og jökulrákum sem bera vitni um legu og skriðstefnu jökulsins sem lá yfir Kópavogi fyrir um tíu þúsund árum. Bergið tilheyrir yngri grágrýtismyndun Íslands, en þær jarðmyndanir runnu einkum sem dyngjuhraun á hlýskeiðum ísaldar fyrir um 100.000– 700.000 árum. Upptök grágrýtisins í Víghólum eru óviss, en gætu verið á Mosfellsheiði. Aldurinn er líklega 300.000–400.000 ár. Af hvalbökum og jökulrákum á Víghólum má ráða að jökullinn sem síðast gekk yfir Kópavog hafði stefnuna NV-SA. Líklega hafa ísaskil jökulsins legið austan Bláfjalla og skriðjöklar gengið frá honum bæði út í Faxaflóa og niður í Ölfus.

Sel í landi Fífuhvamms
FífuhvammsselÍ norðurhlíðum Rjúpnahæðar ofan golfvallar eru menjar gamals sels. Selið var verndað með bæjarvernd í tengslum við framkvæmdir sem áætlaðar voru á svæðinu. Framkvæmdir þessar voru Landgræðsluskógrækt, lagning reiðstíga og gerð golfvallar.

Gömlubotnar
Árið 1868 var gefið út nýbýlaleyfi fyrir landinu Lækjarbotnum undir Selfjalli. Fjallið dregur nafn sitt af seli jarðarinnar Örfiriseyjar á Seltjarnarnesi. Örfirisey átti selstöðu þar og hafði í seli og hefur svo verið vegna landleysis jarðarinnar. Selið var líklega aflagt árið 1799, þegar byggð í Örfirisey fór í eyði eftir Básendaflóðið. Lækjarbotnar var efsta byggða ból vestan Hellisheiðar og í þjóðbraut, því þarna inn við Selfjallið lá gamla leiðin um Lækjarbotna.

Gömlubotnar

Þetta nýbýli var því vinsæll áningarstaður bænda úr austursveitum á kaupstaðarferð til Reykjavíkur og ekki síður á austurleið. Guðmundur H. Sigurðsson bóndi í Lækjarbotnum flutti húsið á árunum 1904-1910 að þjóðveginum sem lá um Fossvallaklif og rak þar greiðasölu. Í manntalinu 1910 er býlið nefnt Lögberg Lækjarbotnar og er líklegt að þá hafi verið farið að nefna eldra bæjarstæðið Gömlubotna. Guðmundur gaf Skátasambandi Reykjavíkur land í Gömlubotnum og reistu þeir þar árið 1929 fyrsta útivistarskálann á Íslandi. Hann var nefndur Væringjaskálinn og var fluttur á Árbæjarsafn árið 1962 og endurbyggður þar. Fimm fornminjar eru skráðar í Gömlubotnum: Fjárhús, rétt, sel, fjárból og rúst.

Túnhóll
TúnhóllÁ árunum 1904–1910 flutti Guðmundur H. Sigurðsson bóndi í Lækjarbotnum býli sitt frá Gömlubotnum við Selfjall að þjóðveginum undir Fossvallaklifi, sem nú er oft kallað Lögbergsbrekka. Þarna hafði Guðmundur greiðasölu og gistingu ásamt bústýru sinni, Guðfinnu Karlsdóttur, og nefndi býlið Lögberg. Húsið var rifið þegar Suðurlandsvegurinn var lagður á sjöunda áratug 20. aldar. Á ás sunnan vegarins er gamla túnið á Lögbergi, Túnhóllinn. Þar eru bæjarstæði og fleiri rústir ásamt grafreit, en þar hvílir Guðmundur bóndi og veitingamaður.

Engjaborg
EngjaborgEngjaborg við Fífuhvammsveg var landamerki milli jarðanna Kópavogs, Digraness, Fífuhvamms og Arnarness. Nafnið Engjaborg bendir til þess að fjárborg og/eða beitarhús hafi staðið þar. Hringlaga rúst með um 2–3 m breiðum veggjum er á staðnum og út frá henni ganga leifar gerðis sem er um 1 m á breidd og 0,3 m á hæð.“

Heimild:
-kopavogur.isFjárhústóft við Vatnsvik

Kópavogsdysjar

Í bókinni „Rannsókn á Kópavogsþingstað“ eftir Guðrúnu Sveinbjarnardóttur er fjallað um fornleifauppgröft á þingstaðnum 1973-1976. Í inngangi eru raktar heimildir um svæðið sem og helstu minjar. Þar er m.a. minnst á fjögur kuml nálægt þingstaðnum, þ.e. Hjónadysjar, Systkinaleiði, Þorgarðsdys og Kuledys.
Kopavogsdysjar„Þingstaðurinn í Kópavogi er einn af þekktari þingstöðum landsins, og þá aðallega fyrir Kópavogseiðana svonefndu, sem þar voru unnir árið 1662. Talsverðar rústaleifar eru sjáanlegar á staðnum fyrir uppgröft, en að auki minna dysjar umhverfis staðinn á aftökur þær, sem þar áttu sér stað. Hjónadysjar eru enn allmikil þúst rétt austan við Hafnarfjarðarveginn. Vegavinnumenn rákust á dysina árið 1938, og fundu hauskúpu með miklu hári og aðra beinagrind hauslausa. Huldu þeir dysina aftur og var hún ekki rannsökuð frekar. Systkinaleiði munu nú vera undir Fífuhvammsveginum. Þorgarðsdys er rétt við gamla götuslóðann upp Arnarnesið, og efst á því er Kulesdys, dys Þjóðverja, sem dæmdur var til dauða fyrir manndráp.
Í AI V, bls. 56-7 segir: „Þann 23. febrúar 1582 var kveðinn upp dauðadómur á Kópavogsþingi yfir þýskum manni, Hinrik Kules, sem hafði vegið Bjarna Eíriksson á Bessastöðum. Sést dys hans, Kulesdys, enn efst á Arnarnesinu.“
Kopavogsdysjar-2Hinn 25. júní 1841 kom Jónas Hallgrímsson skáld við í Kópavogi á ferð sinni suður á Vatnsleysuströnd. Sýndi bóndinn þar, Árni Pétursson, honumgamla þingstaðinn, sem hann sagði vera í túninu og nefndi Þinggerði. Þá benti hann Jónasi á dysjar þeirra, sem teknir höfðu verið af lífi og var fróður um afdrif þess fólks.
Matthías Þórðarson krifaði grein um Kópavogsminjar í Árbók fornleifafélagsins 1929, en hann var þá þjóðminjavörður. „Suðaustan þjóðvegarins, rétt við Kópavogslækinn, hafa fundist fjórar dysjar, tvær og tvær saman. Eru þær nefndar hjónadysjar, sem er nær þingstaðnum (nr. 3 á uppdrætti Matthíasar) og systkinaleiði (nr. 4 á uppdrættinum) Þær síðarnefndu hafa nú horfið undir veginn.
Kopavogsdysjar-3Um Kule segir Matthías: „En hinn var dauðadómur yfir þýzkum manni, er Hinrik Kules hét. Var sá dómur kveðinn upp af sex mönnum, og samþyktur af Þórði lögmanni, 23. febr. 1582 »á almennilegu þriggja hreppa þingi« í Kópavogi. Þessi Hinrik Kules hafði vegið íslenzkan mann, Bjarna Eiríksson, á Bessastöðum sjálfa jólanóttina og ekki lýst víginu að lögum, svo það var dæmt morð og níðingsverk. En því er þessa dóms minnst hér, að sagt hefur verið, að dys sú, sem er efst á Arnarneshálsi, vestan við gamla veginn, sé dys dansks manns, er tekinn hafi verið af fyrir einhvern glæp. Skiljanlegt er að þjóðerni mannsins hafi skolast í frásögnunum, mann fram af manni í 3 aldir, og er ekki ólíklegt að þarna liggi Hinrik Kules. Dys þessi er nú að mestu grasi gróin.
Kopavogsdysjar-4Fleiri dysja verður vart í Kópavogi og sennilega eru þar nokkrar að auki, sem ekki eru kunnar nú. Verður sakmálasaga þessa þingstaðar ekki rakin hér, en getið nokkurra mála, sem kunn eru af annálum og dómabókum.“
Þá segir: „Árni prófessor Magnússon hefur getið þess í syrpu sinni, er hann nefnir Chorographica Islandica (213 svo í handrs. hans), að í Hraunhelli, er svo heitir, »fyrir sunnan Efferseyjarsel gamla«, hafi legið »þjófar (maður og kona) circa 1677, eða nokkru fyrr, hver þar fyrir ströffuð urðu á Kópavogsþingi 1677, þann 3. decembris«. Þau hafa sjálfsagt verið tekin af lífi þann dag samkvæmt dómi, dæmdum þar áður, líklega samdægurs, en af því er segir í Valla-annál og síðar skal tekið fram, er óvíst að aftaka þeirra hafi farið fram á sjálfum þingstaðnum. Hins vegar er þó líklegt, að dysjar tvær við Kópavogslæk séu leiði þeirra, því að þær eru nefndar »hjónadysjarnar«. Skal þeirra getið síðar.“
Kopavogsdysjar-5Í skýrslu frú Þuríðar Mathiesen segir m.a.: „Hún sagði mér af munnmælunum um dysina við veginn gamla efst á Arnarnesshálsi, sem getið er um hér að framan.
Neðar, á norðanverðum hálsinum, kvað hún vera dys Þorgarðs, sem svo miklar þjóðsögur gengu um, sbr. Þjóðs. Jóns Árnas., I, 388—91. Mun sú dys þó frá fyrri tímum en Þorgarður á að hafa verið á, eftir þjóðsögunum. Annars er svo að sjá sem sumt í þeim, einkum frásögnin um glæp þann er Þorgarður á að hafa verið drepinn fyrir, stafi frá máli Sigurðar á Árbæ. En hvað sem um það er, þá er líklegast að þessi dys sé yfir einhverjum, sem hafi verið líflátinn hér skammt frá eftir dómi á Kópavogsþingi. Ögmundur skólastjóri Sigurðsson hefir sagt mér, að Filippus heitinn Filippusson, sem ólst upp í Arnarnesi, hafi skýrt svo frá, að þetta væri dys Steinunnar frá Árbæ. Ekki er það fortaks-mál, þótt það komi ekki heim við frásögn Þuríðar. Dysin er úr grjóti og allstór. Að norðanverðu hefir henni verið rótað mikið upp, fyrir nokkrum árum, og kann þá að hafa verið tekið nokkuð grjót úr henni. Hún er að austanverðu við gamla veginn, skammt suður frá Litla-Arnarnesi, er Þuríður kvað svo heita. Þar sjást enn á flöt niður við voginn, norðan gamla vegarins, litlar og óglöggar tóftir eftir kot, sem var þar fyrrum.“
Þegar litið var eftir dysjunum árið 2011 voru þær allar horfnar nema Kulesdysin efst á Arnarsneshæðinni.

Heimild:
-Rannsókn á Kópavogsþingstað, Guðrún Sveinbjarnardóttir, 1986.
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1929, Matthías Þórðason, Kópavogsminjar, bls. 3-4 og 29-30.

Kópavogur

Frá Kópavogi.

Suðurnesjavegur

Sýsluvegurinn frá Reykjavík suður að Vogastapa.
Hér er ritað um sýsluveginn frá Reykjavík suður í sýsluna. „Ég ætla þá að fara úr Reykjavík suður eftir, og geta um ýmislegt, sem fyrir augun ber, hvað veginn snertir.
Foss-202 Þegar maður kemur niður í Fossvog, verða fyrir manni rásirnar þar. Þær eru að vísu þannig á sumrum, að fáum ókunnugum mundi til hugar koma, að við þær væri neitt að athuga; en á vetrum í leysingum verða þær lítt færar eða stundum ófærar.
Þá kemur Fossvogslækur, lækur þessi, sem er á sumrum ekki nema ofurlítil spræna, verður stundum á vetrum svo, að naumast verður yfir hann komist, og það ber við, að hann verður með öllu ófær.
Vegurinn upp Kópavogsháls er óhæfilega brattur, lítt fær með vagn, en vagnvegur á vegurinn milli Rvíkur og Hafnarfjarðar að verða úr þessu. Með því að sneiða hálsins lítið eitt utar, má fá hann mjög hallalítinn.
Þegar kemur suður að Kópavogi, kemur ein torfæran, þótt stutt sé; hún er rétt við landnorðurhornið á túngarðinum í Kópavogi; þar eru götutroðningar, djúpir mjög, og verður þar á vetrum kafhlaup, þegar snjóþyngsli eru. Þá kemur brúin yfir Kópavogslæk. Að henni er mesta vegarbót, og er furða, að hún skyldi ekki vera á komin fyrir mörgum tugum ára; en trén í henni eru mikils til of veik; brúin skelfur undan gangandi manni, hvað þá heldur þegar hún er riðin.
foss-203 Þá er nú úr því brýr yfir lækina, og vegur all góður þangað til kemur suður í Hafnarfjörð.
Þar er vegurinn lagður yfir Hamarinn hér um bil þar sem hann er brattastur; en auk þess er vegur þessi óruddur, ekkert í hann borið, og er hann fullur af lausu grjóti, og má það kallast hættulegt að ríða hann ofan að norðanverðu; í sunnanverðum Hamrinum neðst er sjórinn búinn að taka burtu hleðsluna úr veginum, og er honum því einnig hætta búin úr þeirri átt. Svo er þess að gæta, að rétt við endann á veginum er skipa-uppsátur þeirra manna, er búa þar í grennd. Af því, að sjórinn gengur þar rétt upp að veginum, standa skipin svo hátt, að ókunnugum mönnum, sem í myrkri fara um veginn, getur verið af þeim hætta búin; skipa-uppsátur er ekkert annað til þar í grennd.
Svo kemur nú suður undir Flensborg. Þar standa þilskip, og liggja járnkeðjur af þeim yfir þveran veginn, og er furða, að ekki skuli oft hafa hlotist slys af þeim. En þess ber að geta, að þar er enginn vegur lagður, nema hvað hrossin hafa unnið þar að vegavinnu. Flensborgarskóli á þar lóðina, sem skipin standa á, og leigir þar uppsátrið, og tekur 10 kr. fyrir hvert skip yfir veturinn. Ef skipin mega ekki hafa þar landfestar, þá er ekki til neins að ljá manni uppsátur; hafa þar að undanförnu legið 4 skip á vetrum; gjaldið eftir þau eru þá 40 kr., eður sama sem að skólaeignin sé 1000 kr. meira virði en ella. Eitt af tvennu er: annaðhvort verður að banna að hafa þar skipauppsátur, eða að leggja veginn annarsstaðar.

foss-204

Um stórstraumsflóð flæðir alveg upp undir túngarðinn í Flensborg, og verða menn þá að ríða sjóinn fram með garðinum, oft talsvert djúpt, og auk þess er þar mjög grýtt, svo að þar er mjög illt yfirferðar.
En þá tekur ekki betra við, þegar Ásbúðarmegin kemur; þar er hár bakki, sem upp verður að klöngrast; vinnist sú þraut, þá tekur við dý, sem hver hestur liggur í.
Þegar búið er að draga þá upp úr því, er haldið suður Hvaleyrarholt. Þetta holt hefur ekki verið rutt í ár, og er það mjög seinfarið. En þegar kemur suður fyrir Sandskörðin sunnanvert við Hvaleyrartjörn, þá liggur vegurinn svo lágt, að þar flóir yfir í stórstraumum.
Svo koma nú Hraunin, þ. e. Gráhelluhraun, Kapelluhraun, Almenningur og Afstapahraun. Um veginn gegnum þau ætla ég ekki að tala; hann er alkunnur, og líklega ekki þeirrar núlifandi kynslóðar meðfæri að bæta hann svo, að nokkru nemi; þó ætti það að vera vinnandi vegur, að ryðja veginn gegnum þau árlega; þegar það er gjört, er þó ólíku betra að fara yfir þau, heldur en þegar vegurinn er fullur af lausu grjóti og steinvölum.
Þegar Hraununum sleppir, kemur Vatnsleysuheiði. Yfir hana mestalla hefir verið lagður upphækkaður vegur, en hann er nú orðinn því nær ófarandi, og miklum mun verri en gamli vegurinn var. Þessi upphækkaði vegur er í daglegu tal oft kallaður Vatnleysu(heiðar)brú, en af sumum „Svívirðingin“, og þykir bera það nafn með rentu; það er sama smiðs-markið á henni og Svínahraunsveginum gamla, og þarf þá ekki lengra til að jafna.
Þessi upphækkaði vegur stefnir frá Kúagerði til Kálfatjarnar, og er honum sleppir, þá tekur við hfoss-205inn gamli vegur suður með bæjunum á Vatnsleysuströnd; þessi gamli vegur er allgóður á sumrum, enda er hann oftast vel ruddur; en á vorum og haustum, þegar bleyta og leysingar eru, er hann mjög illur yfirferðar, liggur sá vegur allt suður að Vogastapa og lengra ætla ég ekki að fara að sinni.
Hvað skal nú gjöra við þennan veg? Eins og er, er illa við hann unandi.
Í Fossvogi má ef til vill leggja veginn fyrir ofan rásirnar allar, nema hina syðstu; hana þarf að brúa.
Fossvogslæk ber brýna nauðsyn til að brúa, og það sem allra fyrst, og væri það lítill kostnaður.
Götutroðningana við Kópavogstún verður að brúa, og virðist það auðgjört.
Kópavogslækjarbrúna þarf að athuga; það er of seint að gjöra það eftir að slys er búið að hljótast af því, hversu veikgjörð hún er. Í öllu falli væri nauðsynlegt að láta áreiðanlega menn, sem vita hafa á því, dæma um það, hvort henni sé treystandi eins og hún er.
Veginn yfir Hamarinn í Hafnarfirði, þar sem hann er, ætti alveg að leggja niður. Þar sem hann liggur upp Hamarinn, er mikils til of bratt; það er ógjörningur, og líklega heldur engin lagaheimild til, að vísa mönnum burtu með skip sín, sem uppsátur hafa rétt fyrir sunnan Hamarinn, en skipa-uppsátur þar og vegur geta ekki samrýmst. Sama er að segja um þilskipa-uppsátrið hjá Flensborg; annaðhvort er, að banna skólanum að hafa þar uppsátur, eða að leggja af sýsluveginn þar fram hjá. Og þegar þess er gætt, að vegurinn þar er afar-illa lagður, þ. e. undirorpinn sjávargangi, og menn verða að sæta sjávarföllum til að komast hann, þá virðist lítil eftirsjón í honum þar sem hann er.
En hvar ætti þá að leggja hann?

foss-206

Hann ætti að leggjast sunnar upp Hamarinn en nú er, fyrir ofan bæinn „á Hamri“ neðan til í Jófríðarstaðaholti, fyrir sunnan Ásbúð og svo suður Hvaleyrarholt hér um bil beina stefnu á Hjörskot. Það, sem ynnist við að leggja veginn þannig, hjá því sem nú er, mundi verða: vegurinn upp Hamarinn yrði ekki eins brattur, hann yrði ekki undirorpinn sjávargangi; vegfarendum yrði engin hætta búin af bátum, sem nú standa því nær yfir þveran veginn; skólaeigninni í Flensborg yrði ekki meinað að hafa þann hag af þilskipa-uppsátri, sem hingað til hefir oftast samsvarað vöxtum af 1000 krónum; menn kæmust hjá hinni afarillu torfæru hjá Ásbúð, og um stórstraumsflóð þyrfti ekki að klifra upp sandskörðin hjá Hvaleyri.
Veginn suður Hraunin ætti sannarlega að ryðja á hverju ári; minna má það ekki vera; hann er full-illur samt.
Af hinum upphækkaða vegi suður Strandarheiði (eða Vatnsleysu-heiði), þar sem hann nú er, ætti sýslunefndin alls ekki að skipta sér. Sá vegur liggur vestur Ströndina, og ef menn ætla t. a. m. suður í Voga eða þaðan af lengra, þá er það sá afarkrókur, að ríða niður á Ströndina, að ég er viss um, að það nemur fullum þriðjungi, móti því að fara beint úr Kúagerði á Reiðskarð (upp Vogastapa). Strandarmenn mundu þá halda við gamla veginum sem hreppsvegi. En eigi að halda við hinum gamla vegi sem sýsluvegi, þá mundi sú aðgjörð, sem hann þarfnast, ef hann á að geta kallast viðunanlegur, dragast að verðinu til hátt upp í það, sem nýr vegur, beint frá Kúagerði á Reiðskarð, mundi kosta.
Sumir berja því við, að með slíku fyrirkomulagi þyrfti svo víða að leggja vegi frá Ströndinni upp á sýsluveginn. Þetta fæ ég ekki séð að sé nauðsynlegt. Sá, sem ætlar að koma við á Ströndinni, ríður hreppsveginn; en ætli maður beint frá Kúagerði suður, án þess að eiga erindi á Ströndina, þá fer maður sýsluveginn.
Ritað á Fidesmessu 1890.
Vegfarandi.“

Ísafold, 26. apríl 1899, 26. árg., 26. tbl., bls. 103:

Almenningsvegur

Gengið um Almenningsveginn ofan Vatnsleysustrandar.

„Sumrin 1897 og 1898 lét sýslunefnd Kjósar- og Gullbringusýslu leggja mikið laglegan vagnveg milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur, frá Fossvogi, en þangað hafði bæjarstjórn Reykjavíkur lagt áður og hefir þessa ekki enn verið getið í blöðum vorum.
Vegur sá er sýslan lét byggja af nýju, er rúmar 5 rastir á lengd, einnig var borið ofan í og endurbættur gamall vegur (Hafnarfjarðarhraun) rúml. 1 ½ röst á lengd. Hver röst er 531 faðmur. Brýr voru gerðar yfir fjóra læki, og er ein þeirra þrjátíu áln. Lengd, með 50 álna löngum stöplum (þeir eru þrír) og 5 áln. Háum á fullum helmingi. Hinar eru 5-8 álna langar.
Til vinnu þessarar var varið 9.600 kr.
Brýrnar allar kostuðu 1.800 krónur. Aðgerð við gamla veginn um 800 kr. Kostar þá her um bil kr. 2,80 faðmurinn í hinum nýja vegi. Í gegnum veginn eru 16 rennur gerðar úr grjóti 50×100 cm., utan ein úr timbri 3×2½ alin. Mold og möl höfð undir í öllum veginum með torf og grjót á hliðunum, nema um 150 faðmar eru eingöngu úr grjóti (púkkvegur). Ofaníburður allstaðar frá 8-12 þuml. á þykkt. Við vinnuna voru 12 menn fyrra sumarið með 4 hestum, en 15 til 18 hið síðara með 6 og 8 hestum. Verkstjóri var bæði sumrin Sigurgeir Gíslason í Hafnarfirði.
Það var myndarlega til ráðist af sýslunefnd Kjósar- og Gullbringusýslu að leggja veg þennan, og væri óskandi að hún fengi styrk til þess að geta gert meira í líka átt sem þetta. Hefir talsverð vagnaferð verið eftir vegi þessum síðan hann var fullger, en talsverð óþægindi eru að því, að ógert er enn við hallann ofan í Hafnarfjörð, því þar er vegurinn mikils til of brattur fyrir vagna, og er vonandi að ekki bíði mjög lengi svo búið.“

Heimildir:
-Ísafold, 11. okt. 1890, 17. árg., 82. tbl., forsíða.
-Ísafold, 26. apríl 1899, 26. árg., 26. tbl., bls. 103.

Keflavíkurvegur

Hleðslur við gamla Keflavíkurveginn.

Þjófadalir

Ákveðið hafði verið að líta á helli í brún Þríhnúkahrauns ofan við Þjófadali, en gengið hafði verið fram á opið á sínum tíma á leið ofan af Þríhnúkum (FERLIR-398). Opið er utan í mikilli hraunrás talsvert norðan við hnúkana. Rásin sjálf er fallin og liggur til norðurs frá stóra gígnum. Í henni er mikið og líklega um 12 metra ókannað djúpt jarðfall. Ekki verður komist niður nema á bandi. Snjór er á botninum. Fallna rásin lokast síðan með hafti uns hún beygir til norðvesturs. Mikill geymur hefur verið í beygjunni áður en þakið féll niður.
Haldið var því á ská upp hlíðina þangað til komið var í nýrra hraun ofan við hana. Í því eru miklir hraunhólar fremst á brúninni. Skjól var á milli hólanna og svo til alveg að hellisgatinu. Það er uppi og utan í norðurbrún föllnu hraunrásarinnar. Opið er u.þ.b. mannhæðar hátt og snýr á móti suðri. Grófur brúnleitur hraunlækur hefur runnið niður rásina og myndar hann gólfið. Frauðkennt hraunið lét undan þegar stigið var í það svo ljóst er að þarna hefur ekki verið mikil umferð.

Þjófadalir

Þjófadalahellar.

Rásin sjálf er nokkuð slétt. Hún hallar niður á við og beygir aflíðandi til vinstri. Fallegar bergmyndanir eru í henni. Eftir u.þ.b. 100 metra lækkar rásin en hækkar síðan á ný.

Ekki var farið lengra að þessu sinni, enda þyrfti góðan galla til að koma í veg fyrir að koma ekki allur rifinn og tættur út aftur. Á leiðinni var komið við í fallegri hraunrás undir nýja hraunkantinum í Þjófadölum. Rásin er greinilega endinn á hraunrás, sem komið hefur niður hlíðina því nokkur jarðföll eru á henni á leiðinni niður. Veggirnir eru rauðleitir og fallegir. Rásinni var fylgt u.þ.b. 60 metra, en þá var snúið við. Hún virðist beygja áfram til norðvesturs undan hallanum. Þetta er falleg rás, sem vert væri að skoða nánar.
Gangan tók 2 klst og 21 mín. Frábært veður.

Þjófadalir

Í einum Þjófadalahellanna.

Heiðmörk

Í Vikunni árið 1951 var m.a. fjallað um formlega opnun Heiðmerkur: „Heiðmörk var formlega opnuð Reykvíkingum með liátíðlegri athöfn, sem fram fór á Mörkinni um Jónsmessuna í fyrra. Ræður voru fluttar, lúðrar þeyttir og ættjarðarljóð sungin. Borgarstjórinn í Reykjavík flutti vígsluræðu og gróðursetti eina Sitkagrenisplöntu nálægt ræðustólnum, til merkis um það, að Reykvíkingum væri ætlað að skrýða Heiðmörk vænum skógi. Sjálf var Heiðmörkin í fögrum sumarskrúða og veður hið ákjósanlegasta.
heidmork-222Senn munu Reykvíkingar flykkjast inn á Heiðmörk í mörgum hópum til skógræktarstarfa — í annað sinn.
Tuttugu og átta félög Reykvíkinga námu land á Heiðmörk í fyrra vor, spildur frá fjórum upp í tuttugu hektara að stærð, sem félögin hafa eignað sér. Vafalaust hugsa allir Heiðmerkurlandnemar gott til þess, að eiga margar ánægjustundir þar efra á ókomnum árum. En Heiðmerkurlandnemar búa jafnframt í haginn fyrir ókomnar kynslóðir Reykvíkinga með því að planta skógi á Mörkinni. Í fyrra voru gróðursettar á Heiðmörk rúmlega 50 þúsund plöntur, mestmegnis fura, og í vor er ráðgert að gróðursetja þar um 100 þúsund plöntur, aðallega furu og greni, enda munu væntanlega 10 til 15 félög bætast við landnemahópinn í vor. Heiðmörk er eign Reykjavíkurbæjar, en í umsjá Skógræktarfélags Reykjavíkur, sem jafnframt hefur forustu um skógræktarframkvæmdir á Mörkinni.
Reykjavíkurbær veitir Skógræktarfélagi Reykjavíkur ríflegan styrk til starfsemi sinnar, og veitir auk þess fé til skógræktar og annarra framkvæmda á Heiðmörk. Þannig er því varið, að Skógræktarfélag Reykjavíkur getur látið Heiðmerkurlandnemum í té ókeypis plöntur til gróðursetningar. Mestur hluti þeirra plantna sem gróðursettar eru á Heiðmörk eru uppaldar í Fossvogi, en þar eru nú yfir hálf milljón plantna í uppeldi.
heidmork-treSkógræktarfélag Reykjavíkur verður fimm ára í október næstkomandi. Stjórn þess er þannig skipuð: Formaður: Guðmundur Marteinsson verkfræðingur. Varaformaður: Helgi Tómasson dr. med. Ritar: Ingólfur Davíðsson magister Gjaldkeri: Jón Loftsson stórkaupmaður. Meðstjórnandi: Sveinbjörn Jónsson hæstaréttarlögmaður. Framkvæmdarstjóri félagsins er Einar S. E. Sæmundsen skógræktarfræðingur. Fyrir tveimur árum voru tiltölulega mjög fáir Reykvíkingar sem nokkurntíma höfðu ferðazt um landssvæði það sem kallað er Heiðmörk, eða vissu nokkur veruleg deili á því, en á síðasta ári varð á þessu gerbreyting. Mikill fjöldi Reykvíkinga lagði leið sína inn á Heiðmörk allt sumarið og fram á haust, og allir sem þangað koma undrast og dáðst að því hve þarna er fallegt og viðkunnanlegt. Mikill meirihluti þeirra sem á Heiðmörk komu í fyrra sumar munu þó aðeins hafa farið um takmarkaðan hluta hennar, en vafalaust læra Reykvíkingar smám saman færa sér í nyt og meta að verðleikum þessa víðáttumiklu og vingjarnlegu landareign sína.“

Heimild:
-Vikan, 14. árg. 1951, 19. tbl, bls. 1 og 3.

Heiðmörk

Heiðmörk – tóft.

Klifhæð

FERLIR hefur áður skoðað fornar leiðir upp frá Elliðakoti að Hellisskarði, bæði norðan og sunnan Lyklafells,sem og Dyraveg að Nesjavöllu.
Við þá skoðun kom í ljós augljós vörðuð leið frá Lyklafelli að VarðaDraugatjörn nokkru sunnar en gamla reiðleiðin lá að Húsmúla og með honum sunnanverðum áleiðis að Hellisskarði. Þessi leið mun hafa verið vetrarleið frá Hellisskarði og áleiðis að Lyklafelli. Suðaustan þess greindist leiðin; annars vegar áfram að fellinu þar sem hægt var að velja um a.m.k. tvær hinna framangreindu leiða niður að Elliðakoti og hins vegar leið um Bolavelli áleiðis niður í Lækjarbotna þar sem hún sameinaðist annarri leið ofan úr Ólafsskarði. Sú leið lá um Sandskeið, Jósepsdal og greinist efra við Leiti; annars vegar ofan við hraunkantinn að Geitafelli og áfram niður í Ölfus og hins vegar yfir hraunið niður með Sandfelli og um vestanverð Krossfjöll að Breiðabólstað í Ölfusi. Neðan við Sandskeið (Neðri-Fóelluvötn) eru tóftir af sæluhúsi á klapparhól.
GatanHér er athyglinni beint að leiðinni um Lækjarbotna, Lakheiði og Bolöldur áleiðis að Draugatjörn. Ofan við Lækjarbotna er fyrrnefnd Lakheiði. Austar eru Fossvellir. Um þá rennur Fossvallaá ofan af Vatnavöllum. Forn leið lá fyrrum um Lækjarbotna og áfram um Bolöldur frá Ölduhorni til norðausturs áleiðis að Lyklafelli. Þessi leið var vörðuð að hluta á 19. öld suðvestan Húsmúla að Draugatjörn. Þaðan lá leiðin áfram um vellina að Kolviðarhóli og í Hellisskarð þar sem hún sameinaðist Hellisheiðarvegi. Einn FERLIRsfélaga (nú er svo komið að allnokkrir félaganna eru orðnir þrautþjálfaðir og þar með sjálfbærir), Jón Svanþórsson og félagar hans, hafa að undanförnu gengið þessar leiðir, hnitað inn vörður og önnur mannvirki og lagt mat á aðstæður. Auk þess hefur Jón tekið fjölda mynda og sent á vefsíðuna. Hér er afrakstur einnar slíkrar ferðar.
Varða„Sendi þér nokkrar myndir sem ég tók á sunnudaginn. Þær eru af letursteini ofan við Fossvelli (vegendi 1887). Stóra varðan á brúninni er Landmælingavarða frá 1959. Gata ofan Lögbergs. Grunnar húsana á Lögbergi og hleðslur fyrir ofan þær (frá stríðsárunum?). Einnig eru síðustu myndirnar þaðan af djúpri rás sem E.J.Stardal heldur að sé eftir hesthófa (Árbók FÍ Þættir um Nágrenni Reykjavíkur 1985 bls 139.): „Við Lækjarbotna sunnan við Nátthagavatn stóð lengi vel veitingahús sem nefndist Lögberg. Ofan við húsið í Lækjarbotnum lá þjóðgatan yfir og utan í klapparhól þar sem hófar lestarhesta liðinna alda hafa barið sex til átta þumlunga djúpa slóð niður í stálhart bergið. –
Ummerki þessi eru örskammt norðan við núverandi hraðbraut Suðurlandsvegar.“
MannvirkiSvo eru myndir frá göngu minni frá veginum undir Húsmúla í vörðuleiðina. (Tókst að finna tvær vörður til að loka því.)
Athyglivert er að lesa í Árbók FÍ 1936 bls.87:  „Landið stígur nú snögglega og allt verður hrjóstugra. Ofan við brúnina eru Fossvellir og Fossvallaklif þar fyrir ofan. Í klifinu er steinn með ártalinu 1887 sem sýnir hvenær vegurinn var lagður.“ Auk þess: „Mosfellsveit er nú lokað land fyrir göngumenn, því dómsmálaráðuneytið hefir fyrir nokkrum árum staðfest samþykkt sem leggur allt að 1000 kr.sekt við því, að ganga þar utan vega „án leyfis landráðanda“ Gildir það jafnt uppi á heiði sem niðri í byggð og jafnt á sumri sem vetri.“
Ég kem svo og tala betur við þig og læt þig hafa hitin á vörðurnar og annað er fyrir augu bar.
Frábært veður.

Kveðja.
Jón Sv.“

Heimildir m.a.:
-Árbók FÍ 1936 bls.87
-Árbók FÍ Þættir um Nágrenni Reykjavíkur 1985 bls 139.

Lækjarbotnar

Á ferð um Lækjarbotna 1905.

 

Lækjarbotnar

Í Gömlubotnum (Lækjarbotna) er m. a. að finna tóftir bæjar Hallberu Jónsdóttur, en hún bjó skv. heimildum í Lækjarbotnum um 1870, auk Hallberuhellis. Þá er þar ekki síst að finna leifar tveggja selja; Örfiriseyjarsels og Viðeyjarsels (Bessastaðasels). Þess síðarnefnda er þó hvergi getið í fornleifaskráningum þrátt fyrir merkilegheitin – ekki einu sinni í skýrslu um „Rannsóknir á seljum í Reykjavík“ (bls. 25). – http://borgarsogusafn.is/sites/borgarsogusafn.is/files/atoms/files/skyrsla_159.pdf

Viðeyjarsel

Viðeyjarsel.

Árið 1868 var Þorsteini Þorsteinssyni gefið út nýbýlaleyfi fyrir landinu Lækjarbotnum undir Selfjalli. Fjallið dregur nafn sitt af seli jarðarinnar Örfiriseyjar á Seltjarnarnesi. Um 1870 eftirlét hann Hallberu Jónsdóttur helming jarðarinnar. Hún lenti síðan í dómsmálum við Benedikt Sveinsson á Elliðahvammi, föður Einars Bendiktssonar, eftir að Þorsteinn hafði selt honum Gömlubotna. Hallbera neitaði að greiða Benedikt leigu af jörðinni, en í undirrétti var honum dæmd jörðin öll. Yfirréttur sneri dómnum við og taldi sannað að Hallbera ætti helminginn. Eftir sem áður þurfti hún að greiða bóndanum á Elliðahvammi leigu af hálfri jörðinni – þeim helmingi er var í hans eigu.
Örfirisey átti selstöðu þar og hafði í seli og hefur svo verið vegna landleysis jarðarinnar. Selið var líklega aflagt árið 1799, þegar byggð í Örfirisey fór í eyði eftir Básendaflóðið. Lækjarbotnar var efsta byggða ból vestan Hellisheiðar og í þjóðbraut, því þarna inn við Selfjallið lá gamla leiðin um Lækjarbotna. Þetta nýbýli var því vinsæll áningarstaður bænda úr austursveitum á kaupstaðarferð til Reykjavíkur og ekki síður á austurleið. Guðmundur H. Sigurðsson bóndi í Lækjarbotnum (1876-1957) flutti húsið á árunum 1904-1910 að þjóðveginum sem lá um Fossvallaklif og rak þar greiðasölu. Í manntalinu 1910 er býlið nefnt Lögberg Lækjarbotnar og er líklegt að þá hafi verið farið að nefna eldra bæjarstæðið Gömlubotna. Guðmundur gaf Skátasambandi Reykjavíkur land í Gömlubotnum og reistu þeir þar árið 1929 fyrsta útivistarskálann á Íslandi. Hann var nefndur Væringjaskálinn og var fluttur á Árbæjarsafn árið 1962 og endurbyggður þar. Fimm fornminjar eru skráðar í Gömlubotnum: Fjárhús, rétt, sel, fjárból og rúst.

Viðeyjarsel

Viðeyjarsel (Bessastaðasel) – uppdráttur ÓSÁ.

Á Lögbergi hafði Guðmundur greiðasölu og gistingu ásamt bústýru sinni, Guðfinnu Karlsdóttur, og nefndi býlið Lögberg. Húsið var rifið þegar Suðurlandsvegurinn var lagður á sjöunda áratug 20. aldar. Á ás sunnan vegarins er gamla túnið á Lögbergi, Túnhóllinn. Þar eru bæjarstæði og fleiri rústir ásamt grafreit, en þar hvílir Guðmundur bóndi og veitingamaður, Svavar Guðmundsson. Norðan við grafreitin má sjá leifar útihúss með hlöðu í suðurenda.

Viðeyjarsel

Viðeyjar (Bessastaðasel).

Tilgangur einnar FERLIRsferðarinnar af u.þ.b. 1000 talsins var ekki síst sá að athuga hvort hægt væri að koma auga á leifar tveggja selja, sem áttu að hafa verið á þessu svæði, þ.e. auk Örfiriseyjarsels undir Selfjalli. Bæði Viðey og Lambastaðir munu hafa haft selstöður þarna efra þótt staðsetning þeirra hafi ekki legið ljós fyrir. Jafnan hefur verið gengið út frá því sem vísu að öll selin væru í Örfiriseyjarselsstað.
Í Jarðabókinni 1703 segir að Erfersey hafi haft selstöðu undir Selfjalli þar sem heitir Erferseyjarsel. Tóftir við skátaskálann sem þar er syðst í Botnunum munu að öllum líkindum vera leifar þess, sem og seinni tíma bæjarstæði, auk búskapar (beitarhús) frá Lögbergi.
Í örnefnaskrá fyrir Lækjarbotna eftir Guðlaugur R. Guðmundsson kemur m.a. fram að „býlið [Lækjarbotnar] stóð á hólnum, Bæjarhólnum, sem er til hægri, þegar þjóðvegurinn er ekinn þá í austurátt. Hóllinn reyndist það hár, þegar bílöld gekk í garð, að erfiðleikum var háð fyrir bóndann að aka upp á hólinn og leggja veg að bænum. Þar af leiðandi færði bóndinn býlið, 1907, yfir hinum megin, þar sem land var lægra, og reisti þar nýjan bæ. Hann nefndi húsið Lögberg. Þar bjó Guðmundur til dauðadags 1957.
Bóndinn treysti því og, að vatnsból gott væri rétt hjá Lögbergi, en vatnsmagn er þar mjög breytilegt í Fossvallaá og Fossvallaklifið oft þurrt. Karl segir, að aðeins árin 1921 og 1976 hafi runnið allt sumarið í ánni.
Undir Selfjalli eru Selhólar. Þar fyrir framan er Gráhóll og Pálspyttur við hann, þar sem Páll hefur líklegast farið undir ís.
Viðeyjarsel / Bessastaðasel / Örfiriseyjarsel / GömlubotnarSel frá Viðey var inn með Gömlubotnum.“ Í athugasemdir og viðbætur við Lækjarbotnaörnefnalýsinguna skráði Sigríður Jóhannsdóttir eftir Jóni I. Bjarnasyni að „Fossvallaklifið [hafi] oftast [verið] þurrt; þar rennur aldrei vatn; klifið er, þar sem gamli vegurinn var, og hraðbrautin liggur núna um klifið upp á Fossvogsvellina. Þar hefur aldrei runnið nein á. Lækurinn og pytturinn nú orðnir þurrir, síðan nýi vegurinn var lagður.
Jörðin Örfirisey var landlítil; átti selstöðu undir Selfjalli, ekki Viðey. Af því dregur fjallið nafn. Þar sem selið var, heita Selhólar; sjást rústir ennþá, nú reyndar mjög sokknar.“
Um selstöðu Reykjavíkurbæjarins segir að jörðinni hafi verið eignuð slík „þar sem heitir Víkursel undir Undirhlíðum; sumir kalla það gamla Víkursel; þar hefur jörðin brúkað hrís til eldiviðar fyrir selsins nauðsyn.“ Og þar sem Langahlíð var í sunnanverðri Öskjuhlíð var jafnvel talið að Víkursel hafi verið þar sem nú má sjá leifar. Skammt frá eru merki eftir sel frá Hlíðarhúsum.
Selstígur Viðeyjarsels og ÖrfiriseyjarselsÍ Sögu Reykjavíkur eftir Klemens Jónsson segir: „Að búskapur hefur verið mikill, má meðal annars sjá af því, að jörðin átti sel, Víkursel, er var notað með vissu ennþá um 1600, en hvar það sel hafi verið, er óljóst.“
Um selstöðu Lambastaða segir Jarðabókin að „selstöðu þykjast nokkrir heyrt hafa jörðinni eignaða þar sem heitir undir Selfjalli og kallað er Lambastaðasel.“
Í lýsingu Viðeyjar segir „selstaða er á fastalandi þar sem heitir Viðeyjarsel, og hefur það verið brúkað frá Bessastöðum.“ Í lýsingu fyrir Bessastaði er ekki minnst á selstöðu í Jarðabókinni 1703.

Meðfylgjandi er m.a. uppdráttur af minjunum í Lækjarbotnum af Viðeyjarseli (Bessastaðaseli) og Örfiriseyjarseli, auk uppdráttar af selstígnum, en þeirra er ógjarnan getið í einstökum fornleifaskráningum þegar slíkra minja er getið.

Viðeyjarsel

Viðeyjarsel (Bessastaðasel).

Vatna-Sæluhús

Eftirfarandi upplýsingar bárust FERLIR í tölvupósti: „Ég fann tvær rústir á Sandskeiðinu  þ.e. við austur endann. Þetta virðast vera hlaðnir brunnar rétt við þar sem gamla þjóðleiðin lá upp á Bolaöldurnar. Ef þið hafið áhuga á að skoða þetta, þá hefði ég ánægju af að sýna ykkur staðinn.“
HleðslurGengið var að framangreindum hleðslum skv. ábendingum viðkomandi. Þær eru á grónum mel skammt frá uppþornaðri stórri tjörn er gæti hafa tilheyrt Fóelluvatnasvæðinu, undir svonefndu Ölduhorni. Gamli akvegurinn liggur þar skáhallt upp Ölduna. Nýrri vegur hefur síðan verið gerður upp hana svolítið vestar. Aðrir vegir eru þarna, en þeir hafa verið hluti af braggahverfi, sem þarna var á stríðsárunum og tengdust Sandskeiði. Varðturn var þarna ofar við veginn og hlið.
Fyrirhuguð er stækkun á flugvallarsvæðinu á Sandskeiði til austurs. Framangreindar hleðslur eru skammt innan þess svæðis.
Þarna gæti hafa verið gömul þjóðleið  vestan við vatnasvæðið, framhjá sæluhúsi, sem er á klapparhól þar nokkru norðar. Hún gæti líka hafa legið á millum vatnanna, ofan við Neðri-Fóelluvötun að vestanverðu og síðan vestan með Efri-Fóelluvötnum og þá nokkuð austar.

Hleðsla

Hleðslurnar sjást, en eru jarðlægar. Önnur virðist hringlaga, en óreglulegri lögun á hinni. Eitt hleðslufar virðist hafa verið um að ræða. Bil milli þeirra er ca. 12 metrar. Hugsanlega gæti þarna hafa verið mörkuð brunnsvæði fyrir menn og skepnur á leið um þjóðleiðina, en hafa ber í huga að stutt hefur verið í dýpra vatn skammt austar, auk þess lækir millum vatnanna hafa verið þarna skammhendis.
Hleðslurnar eru í línu milli braggasvæðis á Ölduhorni og mannvirkjanna á Sandskeiði. Líklegt má telja að þarna hafi verið stauralína á stríðsárunum. Púkkað og hlaðið hefur verið utan um staura þarna á melnum, enda meira en tveggja metra djúp mold undir ef tekið er mið af nálægum skurði. Þegar staurarnir hafa verið fjarlægðir hefur grjótið færst til og jafnvel sigið að hluta vegna frostverkunnar og þannig smám saman myndað „brunnlaga“ hleðslu.
Þegar umhverfið var skoðað nánar beindist athyglin ekki síst að sæluhúsatóftinni fyrrenfndu.

Sandskeið

Í landamerkjalýsingu Elliðakots (Helliskots) frá Guðmundi Magnússyni, bónda þar, segir m.a.: „Að austanverðu: frá árfarinu til suðurs eptir nefndri stefnu beint í Vífilfell. Að sunnanverðu: frá Vífilsfelli niður Sandskeiðið niður fyrir Vatna-Sæluhús og svo eptir árfarinu fyrir sunnan neðri–Vötnin að þúfu, sem stendur á holtstanga fyrir neðan neðri–Vötn; þaðan eins og ræður syðsta kvíslin af Fossvallaánni…“
Hér er getið um „Vatna-Sæluhús“ á nefndum stað. Á öðrum stað er sagt frá Vatnasæluhúsinu, sbr. umfjöllun um Fóelluvötnin: „Efri- og Neðri-Fóelluvötn eru sunnan við Lyklafell og austan við Vatnaás í núverandi landi Kópavogs, samsafn smátjarna og polla í grennd við Sandskeið, kringum þjóðveg 1 ofan við Reykjavík.

Sæluhúsið

Vatnasvæðið virðist hafa tilheyrt Vilborgarkoti og Helliskoti (Elliðakoti) samkvæmt Jarðabók Árna og Páls en báðar þessar jarðir eru þar skráðar í Mosfellssveit. Í Jarðabókinni er talað um óvissu í þessum efnum, sérstaklega varðandi Vilborgarkot sem þá, í byrjun 18. aldar, hafði lengi verið í eyði. Ábúendur Helliskots (Hellirskots) í Mosfellssveit og Hólms í Seltjarnarneshreppi höfðu þá lengi nýtt land Vilborgarkots. Frá þessum tíma er því ruglingurinn kominn um nýtingu Vilborgarkotslands. Í Jarðabókinni er sagt að jörðin Vilborgarkot gæti aftur byggst upp og þyrfti þá greinilega að skoðast hve vítt landeign þessarar jarðar verið hefði sem kunnugir menn meina að ekki hafi verið alllítið (Jarðabók III:287-288).
Þorvaldur Thoroddsen nefnir vötnin Fóelluvötn. Hann segir malar- og grjótfleti þar myndaða af vatnsrásum frá Lyklafelli. Fóelluvötn flæða yfir stórt svæði í leysingum en á sumrin er þar oftast þurrt. Sæluhús var byggt við Fóelluvötn um 1835 af Jóni hreppstjóra á Elliðavatni upp á eigin kostnað en síðan var skotið saman 50 ríkisdölum því til viðhalds (Þorvaldur Thoroddsen 1958 I:125). Tryggvi Einarsson frá Miðdal nefnir vatnið Tóhelluvatn (sjá örnefnalýsingu Elliðakots í Örnefnastofnun Íslands).
Í Jarðabók Árna og Páls er Fóhölluvot nefnd (ritháttur óviss). Þar segir að engjar séu nær engar heima við bæinn Hólm í Seltjarnarneshreppi en útheyjaslægjur brúkaðar þar sem heita Fóhölluvot (Jarðabók III: 283). Aftur á móti nefnir Hálfdán Jónsson Fóelluvötn í lýsingu Ölfushrepps 1703. (Sjá meira hér um sæluhús við Efri-Fóelluvötn. Einnig HÉR og enn meira HÉR. Fjallað verður nánar um sæluhúsin á þessu svæði síðar.)
Fóella er fuglsheiti, oftast kölluð hávella (Clangula Fóellahyemalis). Þessi mynd orðsins kemur fyrst fyrir á 17. öld í fuglaþulu: „Fóellan og hænan, hafa öndina væna.“ (Íslenzkar gátur, skemtanir vikivakar og þulur IV 1898:243). Aðrar myndir þessa orðs eru fóerla (Jónas Hallgrímsson), fóvella (Skýrslur Náttúrufræðifélagsins) og e.t.v. fleiri af svipuðum toga. Uppruni er óljós, e.t.v. ummyndun á hávella. Hugsanlegur er einnig skyldleiki við fó- eins og í fóarn. Kjörlendi fóellunnar er votlendissvæði og heiðavötn. Líklegt er því að vötnin séu kennd við fuglinn þótt hann sé þar ekki áberandi lengur. Myndin Tóhelluvatn er að líkindum afbökun, tilkomin sem skýringartilraun á nafni sem hefur annars þótt torkennilegt. Sömu sögu er að segja um Fóhölluvot.
Sú þjóðtrú er enn lifandi að há vatnsstaða í Fóelluvötnum að vori boði mikið rigningasumar. Einnig er til sú sögn að til forna hafi runnið á mikil úr Þingvallavatni og hafi hún átt leið um þar sem Fóelluvötn eru nú og náð sjó á Reykjanesi. Kaldá mun eiga að vera leif af þeirri á.
Fóellutjörn er einnig til í Selvoginum.“
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Heimild m.a.
-óbyggðanefnd – úrskurður (Stór-Reykjavík).
-Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum – örnefni.

Sæluhús