Tag Archive for: Kópavogur

Klifhæð
Norðan við gamla þjóðveginn (Suðurlandsveg), svo til efst á Klifhæð, er sæmilega stór steinn. Á hann er klappað formfagurlega ártalið 1887 og eru stafirnir rauðlitaðir. Áletrunin er að öllum líkindum frá þeim tíma er vegurinn var fyrst lagður í þetta vegstæði, en gamla leiðin upp úr Lækjarbotnum er ekki allfjarri. Suðurlandsvegur lá einnig upp úr Lækjarbotnum áður en hann var færður í núverandi vegarstæði nokkru norðar, og yfir Klifhæð.
Þann 1. mars árið 1895, 47. árg., 10. tbl. er ritað um þetta vegstæði Suðurlandsvegar.

“Vanhugsuð vegarlagning“.
SuðurlandsvegurUm það hvar vegurinn liggur frá Árbæ upp að Hólmi, skal ekki farið mörgum orðum, því að líkindum verður honum aldrei breytt á þeirri leið og virðist þess heldur ekki þörf, jafnvel þó hann hefði þar átt að hafa aðra stefnu frá byrjun, sem sé, fyrir norðan Rauðavatn, en um það er nú ekki mikið að fást. En úr því kemur upp fyrir Hólm; fer að verða skoðunarmál, hvort hann hefur verið lagður á sem bestum stað, eða ekki. Skal hér því stuttlega lýsa landslagi á því svæði og hvernig ár og rásir falla, sem bæði hafa valdið honum stórskemmdum og munu eins hér eftir, jafnvel þó varið hafi verið töluverðu fé honum til viðhalds, sem hefur verið brýn þörf, ætti hann að vera fær.

Suðurlandsvegur

Letur á klöpp við brúarstæði Hólmsár.

Eins og kunnugt er, liggur vegurinn yfir Hólmsá, skammt fyrir austan Hólm. Hefur þar orðið að brúa hana tvisvar með ærnum kostnaði og óvíst að enn dugi. Þaðan upp að Lækjarbotnum, er sléttlent – Hólmarnir, – sem áin flæðir yfir í leysingum og hefur vegurinn þar umrótast fleirum sinnum og sjálfsagt verður honum þar aldrei óhætt. Á þeirri leið eru tvær brýr, er báðar hafa flotið burt með stöplum, en sú þriðja er nú nýgerð. Fyrir ofan Lækjarbotna, liggur vegurinn um svo kallaða Fossvelli, er áin rennur yfir, og hefur hún þar oft gert usla. Svo liggur hann upp Lakheiði, en þar er ekki annað að óttast en þverrásir, sem stundum hafa orðið nokkuð dýrar.

Suðurlandsvegur

Fyrsti Suðurlandsvegurinn 1887.

En þegar kemur upp undir Arnaþúfu, fer heldur að versna sagan. Þar liggur vegurinn á parti fram með ánum, fyrir sunnan neðri vötnin – svo er Fóelluvötnum skipt – enda flýtur hann þar burtu árlega, sem þó er enn verra, er kemur upp á Sandskeiðið. Þar má segja, að komi vatn úr hverri átt og það eigi lítið. Renna þar saman allar leysingakvíslir, er koma sunnan með öllum Bláfjöllum og hraunum og heiðum þar í kring, einnig með Vífilfelli að austan og norðan. Verður þá yfir allt Sandskeiðið og Fóelluvötnin einn hafsjór, enda sýndi það sig best, veturinn eftir að vegurinn var þar lagður, því þá gersópaðist hann svo burtu, að eftir voru kafhlaup, þar sem hann var áður.

Suðurlandsvegur

Elsta leiðin upp frá Reykjavík til austurs (blá brotalína).

Síðan hefur þar ekki verið vegur lagður og var það hyggilegt. Að vísu er þar allgóður vegur í þurrkatíð um hásumarið, en fram eftir öllu vori er þar oft lítt fært. Fyrir ofan Sandskeiðið taka öldurnar við og er þar ekki slæmt vegstæði í sjálfu sér, en þar er svo mikið aðrennsli, sunnan úr Sauðadölum og fjöllum þar í grennd, að vegurinn hefur orðið þar fyrir miklum áföllum og er nú svo eyðilagður, að víða er hann verri en enginn vegur. En síðast og ekki síst kemur Svínahraun, er staðið hefur eins og „þrándur í götu“ fyrir allri vegasmíð á þessari suður-vegsleið, með alla sína lögnu og flóknu vegargerðasögu, er væri nóg í stóra bók, og verður henni því sleppt hér.

Svínahraun

Vegurinn um Svínahraun.

Í fáum orðum sagt, virðist vegurinn frá Hólmi upp að Kolviðarhól vera lagður um þær verstu torfærur, er voru á þessari leið og er það hrapalegt, um hinn fjölfarnasta veg upp frá sjálfum höfuðstaðnum. Þetta sýnist nú því verra, þar eð fenginn var útlendur vegfræðingur til að leggja veginn, en ætli hann hafi eða verið þá skipað að skoða, hvort ekki væri hentugra vegstæði á öðrum stað, en eitt má telja víst, að hefði vegurinn verið fyrst lagður frá Reykjavík, að þá hefði aldrei verið farið með hann suður fyrir ár, og upp í Fóelluvötn, sem nú er líka dálaglegur krókur.

Svínahraun

Varða við veginn um Svínahraun.

Hér skal því benda á, hvar vegurinn hefði átt að liggja, eða öllu heldur, hvar hann nú ætti að leggjast, því ótrúlegt er að hann, þar, sem hann nú er líti dagsljós tuttugustu aldarinnar, og það því heldur, sem við nú höfum vegfræðing við hendina, og erum búnir að fá dálitla reynslu í vegasmíði.
Eins og áður hefur verið drepið á í blöðunum, er það nyrðri leiðin, sem af sumum hefur verið álitin betri til vegalagningar, enda er þeim óðum að fjölga, er sannfærast um, að þar hefði hann orðið að mun styttri, ódýrari og varanlegri, því á leiðinni frá Árbæ og upp að Húsmúla, eru bara tvær leysingavatns-rásir og lækurinn milli Vilborgarkost og Elliðakots, er bæði væri hægt að brúa, og eins að fara fyrir upptök hans, ef það þætti betra, en það mætti með því móti að skilja ekki suðurveginn frá Mosfellsheiðarveginum fyr en fyrir ofan Sólheimatjörn.

Lyklafell

Lyklafell.

Leysingarásirnar eru, önnur fyrir vestan Lyklafell, sem sjaldan rennur og þá örlítil, en hin fyrir austan fellið og er hún nokkuð meiri, en þó hverfandi á móti öllu því vatni, er kemur úr suðurfjallinu, er nú stendur mest hætta af, hvað veginn áhrærir. Að nyrðri leiðin sé styttri, getur hver meðalgreindur maður séð og þó ekki sé mælingafróður, því frá Árbæ upp í Hellisskarð, er línan hér um bil um Elliðakot, Lyklafell og norðan til á öldunum, en bein lína milli tveggja punkta er þó stysti vegur.

Hellisheiðarvegur

Hellisheiðarvegur ofan Hveragerðis.

Væri nú ekki ráðlegt, að þingið léti vegfr. Sigurð Thoroddsen rannsaka vegarstæði á nyrðri leiðinni, áður en veitt væri stórfé til viðgerðar suðurveginum enn á ný, því þó gert væri við hann all-rækilega síðastl. sumar á pörtum, þá er þó efri hlutinn í mesta óstandi, helst öldurnar, er ekki mundi veita af nokkrum þúsundum krónum til viðreisnar. Sumum þótti nú kannske nokkuð í ráðist, að hætta nú við suðurveginn, en slíkt er þó varla áhorfsmál, því þó búið sé að verja til hans allmiklu fé, þá er því þó alls ekki á glæ kastað. Fyrst hefur vegurinn verið til mikils hægðarauka og að öðru leyti hefur féð að mestu leyti runnið í hendur landsmanna sjálfra. En úr því við höfum ekki peninga til vegabóta, nema af skornum skammti, ætti þeim helst að vera varið þar, er traustast yrði með framtíðinni, en ekki fleygt út til eins fávíslegrar vegagerðar, eins og suðurvegurinn er, því á þeim stað, sem hann er nú, verður hann fyr eða síðar dæmdur ófær.”

Lögberg

Grafreitur á Lögbergi.

Á árunum 1904–1910 flutti Guðmundur H. Sigurðsson bóndi í Lækjarbotnum býli sitt frá Gömlubotnum við Selfjall að þjóðveginum undir Fossvallaklifi, sem nú er oft kallað Lögbergsbrekka. Þarna hafði Guðmundur greiðasölu og gistingu ásamt bústýru sinni, Guðfinnu Karlsdóttur, og nefndi býlið Lögberg. Húsið var rifið þegar Suðurlandsvegurinn var lagður á sjöunda áratug 20. aldar. Hægt er m.a. að sjá minjar þessa búskapar á hólnum sunnan vegarins neðan brekkunnar.

Tröllabörn

Eitt Tröllabarna.

Enn neðar er merkilegt náttúrufyrirbæri, “Tröllabörnin í Lækjarbotnum”. Þetta eru sérkennileg hraundrýli (hornító) sem hafa verið notuð sem fjárskýli og jafnvel sem sæluhús. Þau voru friðlýst árið 1983. Þegar gosgufurnar koma úr útstreymisopum brenna þær við hátt hitastig þegar þær sameinast súrefni loftsins. Þá hlaðast upp litlar en brattar strýtur úr kleprum sem gosgufurnar rífa með sér. Strýtur sem þessar, eða hraundríli, eru einkum algengar á hraundyngjum.
Svipuð jarðfræðifyrirbæri, þó ekki eins í útliti, má sjá í Hnúkunum og á Strokkamelum í Hvassahrauni (Hvassahraunsgígar). Þar eru nokkur hraundríli eða hraunkatla eins og þeir eru nefndir í Náttúruminjaskrá.

Tröllabörn

Tröllabörn.

Katlarnir eru mjög sýnilegir frá Reykjanesbrautinni og aðeins örfáum metrum ofan við nýtt vegstæði. Merkileg náttúrufyrirbæri sem líkjast einna helst gömlum strokkum. Nokkurs konar strompar sem hafa hleypt upp lofti/gastegundum þegar hraun rann um svæðið en um leið hefur hlaðist utan á þá og þeir stækkað. Í miðju þeirra er op sem nær niður í hraunhelluna.
Hraundrýlið í Hnúkunum er hæst þessara drýla og ekki síst.Fróðleikur um vegagerðina:
www.vegagerdin.is

Fróðleikur um hraundrýli:
http://www.ust.is/Frodleikur/Fridlystsvaedi/nr/1139

Lakheiði

Sæluhústóft ofan við Lakheiði.

Hernám

Eftirfarandi fróðleik um kampa (herskálasvæði) og örnefni þeim tengdum á árunum 1940-1945 má lesa á vef Árnastofnunar:

Hernám

Hermenn í Reykjavíkurhöfn.

„Árið 1940 var upphaf eins merkasta tímabils í sögu Íslands, en 10. maí það ár var landið hernumið af Bretum. Styrjöld hafði hafist í Evrópu með innrás Þjóðverja í Pólland 1. september 1939 og stríðsyfirlýsingum Breta og Frakka gegn Þjóðverjum. Í lok apríl 1940 höfðu Þjóðverjar lagt undir sig Danmörku og Noreg og sóttu fram á öllum vesturvígstöðvunum, var aðeins tímaspursmál hvenær Frakkland, Belgía og Holland féllu. Stríðið um Atlantshafið var þá hafið og töldu Bretar sér stafa ógn af staðsetningu Íslands ef það lenti í óvinahöndum. En Winston S. Churchill hafði vitnað í eftirfarandi sem haft var eftir Karli Haushofer: „Hver sá sem ræður Íslandi beinir byssu að Englandi, Ameríku og Kanada.“ Þessi ummæli töldu Bretar m.a. réttlæta hernám Íslands.

Hernámið

Njarðvík

Á fyrstu dögum hernámsins.

Þegar breskur her, landgöngusveitir flotans eða Royal Marines, gekk hér á land 10. maí 1940 var lítið um varnir. Hluti af landhernum fylgdi svo í kjölfarið viku síðar eða 17. maí, yfirstjórn hersins undir stjórn Henrys O. Curtis hershöfðingja kom 26. maí og síðan hver deildin af annarri næstu vikurnar á eftir. Breski herinn lagði strax undir sig það húsnæði sem hann taldi sig þurfa á að halda til að hýsa sína menn og starfsemi, þar má nefna ÍR húsið við Landakot, KR húsið sem stóð þar sem ráðhús Reykjavíkur er í dag, Austurbæjarbarnaskólann, Miðbæjarbarnaskólann, Menntaskólann í Reykjavík sem var gerður að aðalstöðvum hersins, Hafnarhúsið og Hótel Borg o.fl.

Hernámið

Hernámið.

Þar sem nægjanlegt húsnæði fyrir þann fjölda hermanna sem settist að í og við Reykjavík var ekki fyrir hendi reisti herinn í fyrstu tjaldbúðir. Síðan var hafist handa við að reisa hermannaskála eða svokallaða bragga, og á skömmum tíma risu upp braggahverfi víðsvegar í Reykjavík og nágrenni.

Hermennirnir fluttu jafnóðum úr því húsnæði sem þeir höfðu lagt undir sig við hernámið í braggahverfin. Í framhaldi af því var farið að gefa hverfunum nöfn. Má geta þess að aðalstöðvar hersins, sem höfðu verið í Menntaskólanum í Reykjavík við Lækjargötu, voru fluttar í hverfi inn við Elliðaár er hlaut nafnið Camp Alabaster. Alabaster var dulnefni sem Bretar notuðu yfir áætlun og framkvæmd á hertöku Íslands og var liðið sem sent var til landsins kallað Alabaster Force.

Hernám

Braggahverfi við Gamla-Garð.

Kamparnir eða braggahverfin í Reykjavík urðu um 80 talsins en hverfanöfnin um 100 þar sem skipt var um nöfn á sumum kömpum og það oftar en einu sinni, í einstaka tilfellum. Hér verður aðeins drepið á nokkur þessara nafna og getið uppruna þeirra; auk þess verður aðeins getið um ensk og bandarísk götu- og staðarheiti í og við Reykjavík frá sama tímabili, þ.e. 1940-1945. (Sjá kort.)

Breskir kampar

Hernám

Kampurinn á Skólavörðuholti.

Flestir bresku hermannanna komu frá Norður-Englandi, t.d. Yorkshire, og kölluðu þeir sína kampa yfirleitt eftir bæjarnöfnum í heimahéruðum sínum eða þá stöku stað víðsvegar um Bretland. Má hér til dæmis nefna að á Skólavörðuholti, þar sem Hallgrímskirkja stendur nú, var braggahverfi sem kallað var Camp Skipton. (Sjá mynd.) Kampurinn var nefndur eftir bæ í Norður- Yorkshire sem er nokkuð miðsvæðis í Yorkshire. Í augum Breta er bærinn The Gateway to the Dales eða Hliðið að dölunum. Áður fyrr fóru bændur í Yorkshiredölum með sláturfé og nautgripi um Skipton. Þangað komu sérstakar lestir eftir búpeningnum og fluttu til slöktunar. Camp Skipton er líklega einn fyrsti kampurinn ef ekki sá fyrsti sem Bretar reistu í Reykjavík. Skólavörðuholt var eiginlega miðpunktur Reykjavíkur á þessum tíma og áður hafði aðalleiðin út úr bænum legið um holtið svo það er sennilega engin tilviljun að þessi kampur hlaut nafnið Skipton.

Nokkur önnur braggahverfi reist af Bretum báru nöfn sem rekja má til Yorkshire eins og hér má sjá:

Valhúsahæð

Herminjar, Camp Keighley, ofan við kirkjuna á Valhúsahæð.

Camp Bingley, var vestan við Smyrilsveg á horni Smyrilsvegar og Hjarðarhaga.
Camp Bradford, var austan við Langholtsveg á horni Holtavegar og þar sem nú er Efstasund. Holtavegur lá á þeim tíma yfir á Suðurlandsbraut og kölluðu þeir hann Bradford Road.
Camp Harrogate, var vestan við Sundlaugaveg og afmarkaðist af Sundlaugavegi, Gullteig og Hraunteig.
Camp Keighley, var á Valhúsahæð en hæðina kölluðu Bretar Keighley Hill. Til gamans má geta þess að skammt sunnan við Keighley bjuggu þær frægu Bronté-systur, rithöfundarnir Emily Jane, Charlotte og Anne.
Camp Ripon var í Sogamýri við Tunguveg, hér er einnig um heiti á smábæ í Norður-Yorkshire að ræða.

Camp Pershing

Camp Pershing 1942.

Selby Camp, var í Sogamýri sunnan við Sogaveg og austan Réttarholtsvegar.
Camp Tadcaster, var þar sem nú er eystri göngubrúin yfir Miklubraut norðan við Rauðagerði. Eftir að Bandaríkjamenn tóku við hervörnum landsins voru aðalstöðvar þeirra fluttar í Tadcaster. Fljótlega breyttu þeir nafninu í Camp Pershing. Síðar fluttu þeir í fyrrum aðalstöðvar breska hersins í Camp Alabaster inn við Ártúnsbrekku og breyttu því nafni í Camp Pershing en Camp Pershing, áður Camp Tadcaster, í Camp Curtis til heiðurs breska yfirhershöfðingjanum Henry O. Curtis sem var að fara af landi brott.

Kaninn kemur

Hernám

Júlí 1941 – Bandarískur óbreyttur hermaður, Robert C. Fowler, boðinn velkominn af óbreyttum Bretanum Gunner Harold Ricardi.

Árið 1941 var gerður sérstakur samningur milli Íslendinga, Breta og Bandaríkjamanna um að Bandaríkjamenn tækju við vörnum landsins á meðan ríkjandi ástand varði. Þetta var gert til að losa um breska hermenn, sem hér voru, og þörf var á vegna hernaðarátaka, m.a. í Norður-Afríku og Asíu. Bandarískir landgönguliðar flotans, United States Marines, voru fyrstu bandarísku hermennirnir sem stigu hér á land, 7. júlí 1941. Breski herinn rýmdi bragga og braggahverfi fyrir landgönguliðana svo þeir þurftu ekki að byrja á því að hírast í tjöldum eða leggja undir sig íþrótta- eða skólahús. Í kjölfar landgönguliðanna kom svo landherinn, U.S. Army. Brátt fóru Bretarnir að hverfa á brott og halda heim á leið, en Bandaríkjamönnum fór fjölgandi. Í lok desember 1942 voru um það bil 38.000 bandarískir hermenn á Íslandi, sem höfðu aðsetur í um 300 kömpum víðsvegar um landið. Bandaríkjamennirnir ýmist fluttu inn í bresku kampana eða byggðu nýja. Í mörgum tilfellum breyttu þeir nöfnum bresku kampanna og gáfu nýju hverfunum nöfn.

Bandarískir kampar

Hernám

Camp-Hálogaland.

Það var nokkur munur á nafngiftum Breta og Bandaríkjamanna á kömpunum. Bretar eins og áður hefur komið fram leituðu til heimahéraða sinna, bæði eftir bæjar- og staðarnöfnum. Nafngiftir Bandaríkjamanna virðast allar tengdar hernaðarsögu þeirra og voru þau breytileg eftir því hver átti í hlut, landgönguliðið, flotinn, landherinn eða flugher landhersins.

Landgöngulið flotans, U.S.M.C., nefndi sína kampa eftir frægum stöðum þar sem þeir höfðu háð orrustur og má hér nefna:

Hernám

Camp Tripoli.

Tripoli Camp. Þegar Bandaríkjamenn tóku við vörnum landsins sameinuðu þeir tvo breska kampa vestur á Melum, þá Camp Camberley og Crownhill Camp, í einn og kölluðu hann Tripoli Camp. Camp Camberley var kallaður eftir bæ í Surrey á Suður-Englandi, sem er á milli Ascot og Farnbourough, en Crownhill er hinsvegar nafn á strandvirki við hafnarborgina Plymouth á Suður- Englandi. Árin 1801-1805 áttu Bandaríkjamenn í stríði við sjóræningja frá borginni Tripoli í Líbíu í Norður-Afríku.

Hernám

Camp Tripoli.

Camp Montezuma var uppi við Úlfarsfell þar sem Skyggnir er nú. Árin 1842-1847 áttu Bandaríkjamenn í stríði við Mexikó. Landgöngusveitir flotans tóku undir lok þess stríðs Þjóðarhöllina í Mexikóborg en hún mun standa á sama stað og höll Montezuma síðasta konungs Azteka, sem var drepinn 1520.
Bæði þessi nöfn koma fyrir í fyrsta erindi lofsöngs bandarísku landgönguliðanna:

The Marines Hymn:

From the halls of Montezuma
To the shores of Tripoli,
We fight our country’s battles
On the land as on the sea.
First to fight for right and freedom
And to keep our honor clean;
We are proud to claim the title of
United States Marines

Keflavíkurflugvöllur

Braggahverfi á sunnanverðu Keflavíkurflugvallasvæðinu.

Til gamans má geta þess að þegar landgönguliðarnir komu hér fyrstir bandarískra hermanna 7. júlí 1941 bættu þeir inn í lofsönginn þessu erindi:

Again in nineteen forty one
We sailed a northern course
And found beneath the Midnight Sun
The Viking and the Norse
This old Icelandic nation
We’ll defend by every means
And uphold the reputation
of The United States Marines

Camp Corregidor var vestan við Brautarholt á Kjalarnesi. Kampurinn var kenndur við síðasta vígi Bandaríkjamanna, sem féll í hendur Japana, á Filippseyjum í seinni heimsstyrjöldinni er var á eynni Corregidor í mynni Manilaflóa.

Hernám

Camp Tientsin ofan Úlfarsárdals.

Camp Tientsin var vestan við Úlfarsfell við Leirtjörn, sem landgönguliðarnir kölluðu Tientsin Lake. Tientsin þýðir bókstaflega „Hið himneska vað“ en það er nafn á hafnarborg í Kína sem stendur við Hai Ho fljót og er um 56 kílómetra inni í landi frá Bo Hai flóa. Þessi staður kom mjög við sögu í hinu svokallaða Boxarastríði árið 1900 þegar fjölþjóðlegur her lenti þar og marseraði til Peking (Beijing) til að leysa sendiráð vestrænna ríkja úr umsátri sem stóð í 55 daga. Fjölmennasti herinn var úr landgönguliði bandaríska flotans eins og svo oft áður.

Varnarsvæði

Varnarsvæðið á Miðnesheiði – einstök hverfi (campar).

Kampar flotans voru víða en hér er aðeins getið um tvo þeirra:

Camp Bunker Hill. Í þessum kampi voru aðalstöðvar flugdeildar bandaríska sjóhersins og strandvarna eða „coastal artillery“. Kampurinn var sunnan við Bústaðaveg, nánast þar sem brúin yfir Kringlumýrarbraut er nú. Bunker Hill er algengt í bandarískri hernaðarsögu og hefur fylgt bandaríska hernum nánast hvar sem hann hefur haft herstöðvar eða átt í hernaðarátökum. Nafnið kemur frá samnefndum stað við Boston í Massachusetts, þar sem frelsisher Bandaríkjanna háði sína fyrstu stórorrustu gegn breska hernum 17. júní 1775.

Herkampur var í Urriðaholti, nefndur Camp Russel.

Camp Russel

Kamp Russel – kort.

Tveir kampar voru í Garðaholti, Camp Gardar og Camp Tilloi. Þá var loftskeytastöð á Álftanesi; Camp Jörfi. Kampabyggðin í Hafnarfirði þjónaði m.a. varðstöðu á Ásfjalli og nálægum svæðum. Hvaleyrarkampur annaðist varnir við innsiglinguna í Hafnarfjörð.

Á Garðaholti er skilti með upplýsingum um herkampana Camp Gardar og Camp Tilloi, sem þar voru þar á stríðsárunum. Í texta á skiltinu segir: “Sumarið 940, í beinu framhaldi af hertöku landsins, hóf breski herinn varnarviðbúnað með ströndinni frá Kjalarnesi og suður á Hvaleyri í Hafnarfirði og einnig á helstu hæðum á höfuðborgarsvæðinu og austan þess. Fótgöngulið sem gætti strandlengjunnar á Álftanesi, kom sér fyrir á austanverðu Garðaholti og stórkostaliðsflokkur setti þar upp tvær stórar loftvarnarbyssur. Á Garðaholti og beggja vegna Garðaholtsvegar, sem breski herinn lagði upphaflega, má sjá ummerki eftir hersetuna.

Hernám

Camp Knox.

Camp Knox var við Kaplaskjól, milli Reynimels, Kaplaskjólsvegar og Hofsvallagötu, nánast á svæði Sundlaugar Vesturbæjar. Þar var aðsetur bandaríska sjóhersins á Íslandi. Þetta er einn þekktasti kampurinn í sögu Reykjavíkur. Hann var nefndur eftir Frank Knox, sem var flotamálaráðherra 1940–1944 eða í seinni stjórn Franklín D. Roosvelts forseta. Hann barðist á Kúbu í liði Theodor Roosvelts í spánsk-ameríska stríðinu 1898 og síðar í Frakklandi, í fyrri heimsstyrjöldinni.

Hernám

Í Camp Knox um 1960.

Í Camp Knox var öllum sjóliðum bandaríska flotans, sem höfðu orðið skipreika og bjargað, komið fyrir til aðhlynningar. Skipreika menn úr kaupskipaflotanum voru hinsvegar hýstir í Camp Caledonia, er var betur þekktur sem Múlakampur. Hann var vestan við Suðurlandsbraut, á móts við Múla, en nú má miða við Laugardalshöllina þar sem Múli er horfinn.

Landherinn kenndi marga af sínum kömpum í og við Reykjavík við fræga hershöfðingja úr sinni sögu:

Camp Pershing, sem fjallað er um hér að framan, var kenndur við John J. Pershing, sem var yfirhershöfðingi bandaríska hersins í Frakklandi í fyrri heimsstyrjöldinni.

Hernám

Kampar í Reykjavík og nágrenni.

Camp Sheridan var rétt norðan við Bráðræði, milli Seilugranda og Frostaskjóls.
Sheridan er nafn á einum frægasta hershöfðingja norðanmanna í borgarastyrjöldinni í Bandaríkjunum 1861-1865. Er honum jafnað við hershöfðingjana Grant og Sherman.
Camp MacArthur var í Mosfellssveit og var kenndur við Douglas MacArthur einn frægasta hershöfðingja Bandaríkjanna í seinni heimsstyrjöldinni.
Flugdeild landhersins, „U.S. Army Airforce“, nefndi nokkra af sínum kömpum og flugvöllum eftir flugmönnum, sem látist höfðu af slysförum.

Meeks Camp var við Meeks Field, sem seinna hlaut nafnið Keflavíkurflugvöllur.

Keflavíkurflugvöllur

Keflavíkurflugvöllur.

Kampurinn og flugvöllurinn var kallaður eftir fyrsta bandaríska herflugmanninum sem fórst á Íslandi, George Meeks. Það gerðist fyrir hádegi 19. ágúst 1941. George Meeks var að koma á orrustuflugvél sinni inn til lendingar á Reykjavíkurflugvelli, frá norðri. Hermaður mun hafa hjólað út á flugbrautina og flugmaðurinn þá fengið merki um að taka upp aftur. Hann var í lágflugi. Í stað þess að halda áfram í beinni stefnu eftir brautinni þá beygði hann til vinstri með þeim afleiðingum að hann flaug á loftnetsvírstreng, sem var strengdur á milli tveggja mastra. Annað mastrið brotnaði og hluti af öðrum væng vélarinnar. Vírdræsa vafðist um skrúfu vélarinnar og hún steyptist stjórnlaus í Skerjafjörðinn við Nauthólsvík. Flugmaðurinn mun hafa látist samstundis.

Hernám

Kampur í Nauthólsvík – Camp Kwitcherbelliakin.

Eitt undarlegasta nafn á braggahverfi, sem hér var, var Camp Kwitcherbelliakin (Quit-Your-Belly-Aching), sem mun þýða „hættu þessu nöldri“. Þessi kampur tilheyrði flugdeild bandaríska sjóhersins og var staðsettur við Nauthólsvík. Yfirmaður flugdeildarinnar, Dan Gallery kapteinn, var um margt sérstakur maður en nafngift kampsins er hans. Hann varð frægur fyrir stjórn á töku þýsks kafbáts, U-505, 4. júní 1944, en þá var hann kapteinn á flugmóðurskipinu USS Guadalcanal. U-505 er nú sýningargripur í Chicago. Dan Gallery varð síðar aðmíráll. Eftir heimsstyjöldina skrifaði hann nokkrar greinar í Saturday Evening Post um reynslu sína á stríðsárunum, m.a. um dvöl sína á Íslandi. Það er ekki hægt að segja að hann hafi skrifað neitt jákvætt um landið eða dvölina hér.

Íslensk kampanöfn

Hernám

Camp Leynimýri.

Bretar og Bandaríkjamenn gáfu nokkrum kömpum íslensk nöfn eða höfðuðu til íslenskra staðhátta. Verður nokkurra þeirra getið hér:

Camp Leynimýri var á svæðinu við Bústaðaveg þar sem Veðurstofa Íslands er.
Camp Fossvogur var þar sem Nesti í Fossvogi er nú.
Camp Ártún var við bæinn Ártún í Elliðaárdal.

Hernám

Camp Hálogaland – Í styrjaldarlok keypti Íþróttabandalag Reykjavíkur skálann af setuliðinu og
var hann eftir það kallaður Hálogaland. Húsið varð nú miðstöð handknattleiks
í landinu og vettvangur allra helstu kappleikja innahúss fram á 7. áratuginn,
þegar Laugardalshöll tók við því hlutverki. Á tímabili var Hálogaland einnig
íþróttahús Vogaskóla og notað undir guðsþjónustur fyrir Langholtssöfnuð.
Skálinn var rifinn árið 1970.

Camp Hálogaland var kenndur við samnefndan bæ og var á svæðinu sem markast af Suðurlandsbraut, Skeiðarvogi og Gnoðarvogi.
Camp Langholt var austan við Langholtsveg rétt við Skeiðarvog.

Herskóla Camp var þar sem hús Landssímans er við Suðurlandsbraut. Margir kölluðu þennan kamp „Herskálakamp“ það mun hafa komið til af því hve orðin herskóli og herskáli eru lík í framburði. Þarna ráku Bretar herskóla sem mun hafa verið sá fyrsti í seinni heimsstyrjöldinni, sem kenndi vetrarhernað.
Laugarnes Camp var á samnefndu svæði norðaustan við Kirkjusand.
Camp Defensor var við samnefnt hús við Borgartún; Balbo Camp nefndur eftir Balbo, ítalska flugkappanum, en kampurinn var uppi á hæð norðan við Vatnagarða og austan við Kleppsveg (Sæbraut).

Elliðaárdalur

Camp Ártún.

Camp Ingolfs var við Ingólfsstræti þar sem Hallveigarstaðir eru nú; Camp National Theatre, þetta var kampur við Þjóðleikhúsið.
Stadium Camp var við gamla íþróttavöllinn á Melunum eða Melavöllinn þar sem Þjóðarbókhlaðan er.
Camp Tower Hill var vestan við Sjómannaskólann og fékk nafnið af vatnstankinum sem þar er.

Eftirtaldir þrír kampar voru allir á Kjalarnesi og voru við þá staði, sem þeir eru kenndir við:

HernámCamp Arnholt (Arnarholt).
Camp Brautarholt.
Camp Saurbær, sá kampur var upp við þjóðveginn en ekki niður við kirkjustaðinn.

„Örnefni“
Bretar og Bandaríkjamenn áttu oft í mesta basli við að bera fram íslensk staðarnöfn og gripu þá til þeirra ráða að nefna staði enskum eða bandarískum nöfnum eftir því sem hentaði. Það virðist samt svo að Bretar hafi verið duglegri við þetta, að minnsta kosti í Reykjavík. Verður hér getið örfárra staða, sem hlutu þessi örlög.

Álftanes:
Bless Bay (Bessastaðatjörn); Deilit (Deild); Spidnholt (Sviðholt); Bottle Neck Bay (Skógtjörn) og Lamb Bay (Lambhúsatjörn).

Hernám

Eftir heimsstyrjöldina 1939 til 1945 stóðu borgaryfirvöld í Reykjavík frammi fyrir miklum húsnæðisvanda. Fólki fjölgaði ört og fjöldi flutti til borgarinnar af landsbyggðinni í von um betra líf. Uppbygging húsnæðis hafði verið hæg og ekki gert ráð fyrir þeim fólksflutningum sem hafinn var. Eitt neyðarráð borgarinnar kom þó upp í hendurnar á henni við lok styrjaldarinnar og var óspart notað. Á styrjaldarárunum byggðu Bretar og einkum Bandaríkjamenn mikinn fjölda hermannaskála eða bragga víðs vegar um landið til að hýsa þann mikla fjölda hermanna sem hingað kom á stríðsárunum. Þessir skálar mynduðu oftast þyrpingar eða hverfi sem kölluð voru kampar sem dregið er af enska orðinu camps. Í Reykjavík voru reist um 80 braggahverfi með hátt í sex þúsund bröggum. Stærsti bragga-kampurinn í Reykjavík var í Vesturbænum, kallaðist Kamp Knox og stóð á svæðinu milli Kaplaskjólsvegar og Hofsvallagötu þar sem Hagamelur og Grenimelur eru í dag. Kampurinn var fyrst og fremst svefnstaður hermanna en nokkur þjónusta varð til í kringum þessa byggð. Höfuðstöðvar bandaríska setuliðsins voru staðsettar í Camp Knox á stríðsárunum. 2300 íbúar í 543 bröggum Við stríðslok 1945 hurfu hermennirnir á braut og braggarnir stóðu auðir eftir. Í húsnæðisneyðinni gripu borgaryfirvöld til þess ráðs að kaupa bragga af Bandaríkjamönnum til að leigja efnalitlu fólki. Árið 1947 keyptu borgaryfirvöld Camp Knox fyrir 415 þúsund krónur. Í fyrstu var litið á þetta sem skammtímalausn á ört vaxandi húsnæðisvanda en raunin varð allt önnur. Braggalausnin varð mun lífseigari en til stóð. Í september 1944 bjuggu um 800 Reykvíkingar í bröggum og rúmum áratug síðar eða árið 1955 bjuggu 2300 bæjarbúar í 543 bröggum. Taldi Camp Knox þá 165 skála, stóra og smáa. Að geta fengið inni í bragga var skárra en ekkert. Braggarnir í Camp Knox voru notaðir undir leiguhúsnæði allt til ársins 1966 eða í nær tvo áratugi.

Arnarnes og austan við það:

Puffin Bay (Arnarnesvogur); Puffin Point (Arnarnestá), þetta getur aðeins þýtt það að þarna hafi verið eitthvað um lunda; Gala Hill (Hnoðraholt) og Hawick Hill (Selhryggur). Hawick er bær i Skotlandi rétt norðan við landamæri Englands og Skotlands. Nafnið kemur trúlega þaðan.

Kópavogur:
Hilton Road, lá frá Hafnarfjarðarvegi næst Kópavogslæk eða þar sem Fífuhvammur er nú. Hilton Flats, Smárinn eða flatirnar þar sem íþróttasvæði Kópavogs er nú.

Reykjavík:
Baldurshagi Hill, þ.e. Breiðholtshvarf, en Baldurshagi Hill var kallað svo eftir Camp Baldurshagi, sem var þar sem nú er skeiðvöllurinn austan við Elliðaár.

Consul Point. Klettarnir sem voru fyrir norðan Höfða en á þessum tíma hafði ræðismaður Breta aðsetur í Höfða.

Howitzer Hill eða Fallbyssuhæð. Bretar kölluðu Öskjuhlíðina Howitzer Hill en þar höfðu þeir komið fyrir fjölda fallbyssna auk vélbyssna til varnar flugvellinum. Það má enn sjá skotbyrgi eða vélbyssuhreiður á Howitzer Hill frá þessum tíma.

Park Lane Road. Njarðargata frá Hringbraut suður að þar sem nú er Skerplugata. Það er nokkuð augljóst að nafnið kemur frá Hljómskálagarðinum.

Tower Hill Road. Þessi gata lá frá vatnsgeyminum við Sjómannaskólann, til austurs yfir þar sem nú er Álftamýrin og allt austur að Elliðaám. Gatan var betur þekkt meðal Íslendinga sem Sogavegur.

Wellington Road eða Kringlumýrarvegur. Nafnið kemur frá herdeildinni Duke of Wellingtons Regiment, sem hér var. Vegurinn lá rétt frá mótum Laugavegar og Suðurlandsbrautar eða rétt vestan við þar sem Kringlumýrarbrautin var síðar lögð og suður að að Bústaðavegi.

Lokaorð

Hernám

Winston Churchill heimsótti Ísland 16. ágúst 1941 á heimferð sinni í sögulegri heimsókn til Roosevelt forseta Bandaríkjanna. Hér skoðar hann hervörð í Reykjavík. 

Hér hefur verið stiklað á stóru um sérstakt efni og í rauninni merkilegan þátt í sögu hernáms og hersetu Íslands 1940-1945. Ekki eru öll kurl komin til grafar enn. Það sem hér hefur verið skráð er hreint ekki tæmandi og margt er enn hulið. Smátt og smátt bætast þó við nýjar upplýsingar, sem fylla í skörðin, og vonandi kemur að því áður en mjög langt um líður að nokkuð heildstæð mynd skapist um þetta efni.

Sjá nánar Eggert Þór Bernharðsson: Undir bárujárnsboga. Braggalíf í Reykjavík 1940–1970. JPV Forlag. Reykjavík 2000.“

Heimild:
-https://arnastofnun.is/is/utgafa-og-gagnasofn/pistlar/kampanofn-og-ornefni-tengd-hersetu-islandi-1940-1945
Hernám

Rauðavatn

Ætlunin var að skoða og staðsetja fjárborg sunnan við Rauðavatn sem og tóft af sauðahúsi þar skammt austar. Einnig var og ætlunin að skoða minjar Örfiriseyjarsels í Lækjarbotnum undir Selfjalli.

Lækjarbotnar

Aðsetur útilegumanna fyrrum – Hellisopið.

Lækjarbotnar voru efsta byggða ból vestan Hellisheiðar og þar lá þjóðleiðin um áður. Útilegumenn bjuggu í helli í gili skammt ofan við Botnana. Guðmundur H. Sigurðsson, bóndi í Lækjarbotnum, færði bæ sinn á árunum 1904-1910 að Suðurlandsvegi og nefndi Lögberg. Þá var gamli bærinn nefndur Gömlubotnar. Sjá má leifar af gamla túninu á Lögbergi sunnan þjóðvegarins, en bæjarstæðið hvarf undir veginn. Tröllakatlarnir neðan Lögbergsbrekku eru fallegir gervigígar líkt og hraunkatlarnir á Strokkamelum við Hvassahraun og stóru hraunkatlarnir í Hnúkunum.

Rauðavatn

Rauðavatn – fjárborg.

Í Rauðavatnsskógi eru bæði góðir göngustígar og nægt rými. Umhverfið er hið fallegasta. Umfeðmingur, blágresi og smjörgras ásamt fleir blómategunum vaxa þar utan barr- og birkitrjáa.
Skógræktarfélag Reykjavíkur var stofnað var 1946, en undanfari þess var Skógræktarfélag Íslands, stofnað 1930, sem þá breyttist í landssamtök skógræktarfélaga. Fyrsta skógræktarfélagið var raunar stofnað upp úr aldamótum en starfsemi þess lognaðist út af nokkrum árum síðar, þótt brautryðjendastarf frumherjanna gleðji nú gest og gangandi við Rauðavatn.

Rauðavatn

Rauðavatn – rétt.

Rauðberjalyng (Vaccinium vitis-idaea) er mjög sjaldgæft á Íslandi, þótt það sé með algengasta berjalynginu í Noregi og Svíþjóð (Sæ: tyttebær). Það líkist nokkuð sortulyngi, en blöðin eru ofurlítið tennt, þynnri en á sortulyngi og með niðurorpnum röndum. Berin eru rauð og safarík. Heimkynni rauðberjalyngsins á Íslandi eru á Austfjörðum, en einnig vex það á þrem stöðum í Öxarfirði. Á síðari árum hefur það einnig fundizt í Þrastarskógi og í furulundinum við Rauðavatn, og gæti það á báðum þeim stöðum verið aðflutt með skógrækt.
Leitað var að sauðakofatóftinni. Leitarþjálfun undanfarinna ára kom nú í góðar þarfir.

Rauðavatn

Rauðavatn – letursteinn.

Gengið var upp á hæsta móholtið sunnan Rauðavatns og línan síðan tekin til vesturs. Þá var gengið svo til beint á tóftina, sem er vestan undir hæðinni, svo til alveg í skógarmörkunum. Tóftin er með hlöðu í endann. Vel sést móta fyrir henni í hlíðinni. Neðan hennar, inni í skóginum eru greinilegir hlaðnir garðar er mynda ferköntuð gerði.

Í framhaldi af samþykkt bæjarstjórnar Reykjavíkur þann 26. september 1918 bentu verkfræðingarnir Jón Þorláksson og Guðmundur Hlíðdal á tvær virkjunarleiðir í Reykjavík, annars vegar að virkja nýtanlega fallhæð í ánum í tveimur rafstöðum sem byggðar yrðu við árnar, hin neðri við Ártún og hin efri ofan við Árbæ, og hins vegar að nota alla fallhæðina í einni stöð sem staðsett yrði í Grafarvogi.

Skyggnir

Skyggnir.

Bæjarstjórn ákvað að stöðin yrði sett við Grafarvog, svo framarlega sem engir óvæntir erfiðleikar kæmu í ljós við fullnaðarrannsókn á virkjunaraðstæðum. Ætlunin var að stífla Elliðaárnar við hólinn Skyggni, neðan við Elliðavatnsengjar, veita ánum þar úr farvegi sínum í Rauðavatn eftir Margróf og nýta alla fallhæðina þaðan til sjávar um 74 metra fall, í einni stöð við Grafarvog.
Niðurstaðan úr rannsóknum sem fram fóru sumarið 19191 leiddu til þess að horfið var frá þessari tilhögun á virkjun ánna og ákvað bæjarstjórn hinn 6. desember 1919 að byggja 1000 hestafla rafstöð við Ártún.

Borgarholtsbrekkur

Fjárborg.

Á móhól skammt sunnan við Rauðavatn er fjárborgin. Vel sést móta fyrir henni á hólnum. Hún hefur verið gerð úr nokkuð stórum steinum neðst, en síðan hefur hún verið tyrfð. Borgin er á fallegum stað, en líklega vita fáir, sem þarna eiga leið um, hvaða mannvirki þetta gæti hafa verið.

Þá var haldið upp í Lækjarbotna með viðkomu í hraunkötlunum, klepragígum í Leitarhrauni undir Lögbergsbrekku, Tröllabörnum. Þrír katlanna eru stærstir. Hægt er að fara ofan í tvo þeirra, en þeir hafa myndast vegna gasuppstreymis úr hrauninu á sínum tíma. Fallegt náttúrufyrirbæri við fjölfarna leið, sem óhætt væri að gera hærra undir höfði en nú er. Tröllabörn (Tröllabolar) eru friðlýst náttúruvætti síðan 1983. Þau eru tíu talsins, um 4.500 ára gömul.

Laekjarbotnar-2

Tóft í Lækjarbotnum.

Í Lækjarbotnum, nálægt skátaskála Væringja, eru tóftir Örfiriseyjasels, auk tófta frá Lækjarbotnum.
Árið 1868 var gefið út nýbýlaleyfi fyrir landinu Lækjarbotnum undir Selfjalli. Fjallið dregur nafn sitt af seli jarðarinnar Örfiriseyjar á Seltjarnarnesi. Örfirisey átti selstöðu þar og hafði í seli og hefur svo verið vegna landleysis jarðarinnar. Selið var líklega aflagt árið 1799, þegar byggð í Örfirisey fór í eyði eftir Básendaflóðið. Lækjarbotnar var efsta byggða ból vestan Hellisheiðar og í þjóðbraut, því þarna inn við Selfjallið lá gamla leiðin um Lækjarbotna. Þetta nýbýli var því vinsæll áningarstaður bænda úr austursveitum á kaupstaðarferð til Reykjavíkur og ekki síður á austurleið.

Lögberg

Lögberg.

Guðmundur H. Sigurðsson bóndi í Lækjarbotnum (1876-1957) flutti húsið á árunum 1904-1910 að þjóðveginum sem lá um Fossvallaklif og rak þar greiðasölu. Í manntalinu 1910 er býlið nefnt Lögberg Lækjarbotnar og er líklegt að þá hafi verið farið að nefna eldra bæjarstæðið Gömlubotna. Guðmundur gaf Skátasambandi Reykjavíkur land í Gömlubotnum og reistu þeir þar árið 1929 fyrsta útivistarskálann á Íslandi. Hann var nefndur Væringjaskálinn og var fluttur á Árbæjarsafn árið 1962 og endurbyggður þar. Fimm fornminjar eru skráðar í Gömlubotnum: Fjárhús, rétt, sel, fjárból og rúst.

Lögberg

Leiði Guðmundar á Lögbergshólnum.

Á Lögbergi hafði Guðmundur greiðasölu og gistingu ásamt bústýru sinni, Guðfinnu Karlsdóttur, og nefndi býlið Lögberg. Húsið var rifið þegar Suðurlandsvegurinn var lagður á sjöunda áratug 20. aldar. Á ás sunnan vegarins er gamla túnið á Lögbergi, Túnhóllinn. Þar eru bæjarstæði og fleiri rústir ásamt grafreit, en þar hvílir Guðmundur bóndi og veitingamaður, Svavar Guðmundsson. Norðan við grafreitin má sjá leifar útihúss með hlöðu í suðurenda.

Upphaf byggðar í Kópavogi var í landi jarðanna Kópavogs og Digraness sem voru í eigu ríkisins en búskap á þeim var hætt skömmu eftir 1930. Í sveitarstjórnarkosningum sumarið 1946 náðu íbúar Kópavogs meirihluta í hreppsnefnd Seltjarnarneshrepps og öll stjórnsýsla fluttist til Kópavogs.

Lögberg

Tóft á túnhólmum við Lögberg.

Íbúar Seltjarnarness knúðu á að eigum Seltjarnarneshrepps yrði skipt upp. Skipting sveitarfélagsins fór fram um áramótin 1947-48 og efnt var til kosninga í hinum nýja Kópavogshreppi í janúar 1948. Sama ár var reytum Seltjarnarneshrepps skipt. Jarðirnar Kópavogur, Digranes, Hvammkot (Fífuhvammur), Vatnsendi, Geirland, Gunnarshólmi og Lögberg (Lækjarbotnar) voru lagðar undir Kópavogshrepp.
Í gili ofan við Lækjarbotna er hellir og skjól þeirra Eyvindar og Margrétar Símonardóttur úr Ölfusi.
Frábært veður – stilla og hiti. Ferðin tók 1 klst og 1 mín.

Laekjarbotnar-1

Hellir Margrétar og Eyvindar ofan Lækjarbotna.

Fífuhvammssel

 Ætlunin var að leita að og skoða gamla fjárborg frá Fífuhvammi, steininn Lat og Fífuhvammssel norðan í Rjúpnahæð.

Engjaborg

Engjaborg.

Engjaborg við Fífuhvammsveg var landamerki jarðanna Kópavogs, Digraness, Fífuhvamms og Arnarness. Nafnið Engjaborg bendir til þess að fjárborg og/eða beitarhús hafi staðið þarna. Hún er hringlaga rúst með um 2-3 m breiðum veggjum. Borgin stendur nú á hól inni í miðju íbúðarhverfi. Vel virðist fara um hana, en líklega vita fáir íbúanna um minjarnar á hólnum eða hafa áhuga á þeim tengslum sem þær hafa óneitanlega við landið og sögu svæðisins.

Þinghóll

Minnismerki um erfðahyllinguna á Þinghól.

Bærinn Kópavogur dregur nafn af voginum sunnan Kársness og samnefndu býli sem stóð norðan Þinghóls þar sem var annar af tveimur þingstöðum í heimalandi Kópavogsbæjar. Ekki er vitað til að þar hafi verið þinghald á þjóðveldisöld en þar fór erfðahyllingin fram 1662. Á gamla þingstaðnum er friðlýst þinghústótt og skammt frá henni er minningarsteinn um erfðahyllinguna, reistur 1962.
Fyrr á öldum var eiginlega ekkert í Kópavogi nema hólar, mýrar, klettar, lækir og lyng. Þá voru þrír bóndabæir, Kópavogur, Digranes og Fífuhvammur.
Fífuhvammur, bújörð, húsið var byggt að hluta fyrir aldamótin 1900 af Þorláki Guðmundssyni alþingismanni. Síðan byggði Bernhöft tannlæknir stofu og forstofu norðan við en Ísak Bjarnason síðan austan og sunnan við. Til hægri voru skúrar, geymslur og peningshús. Húsið var rifið að fullu sumarið 1983. Þorlákur í Hvammkoti gaf jörðinni nýtt heiti því að hann vildi ekki að bærinn hans væri kallaður kot, Fífuhvamm. Hann er fyrsti Kópvogsbúinn sem sat á Alþingi svo vitað sé.

Kópavogur

Fífuhvammur.

Talið er að jörðin hafi heitið Fífuhvammur til forna. Í Fífuhvammslandi er mjög fallegt votlendi. Þar vaxa ýmsar jurtir, t.d. hofsóleyjar, holblaðka, engjarós, hrafnsklukka, vatnsharfagras, fífur, sefbrúður og stjörnusteinbrjótur. Á horni Fífuhvammsvegar og Reykjavíkurvegar fundust tvær grafir. Rétt hjá Fífuhvammi er álfhóll sem hvorki má slá eða raska. Sagt er að bóndi einn í Fífuhvammi hafi slegið hólinn og þá misst 8 kýr það ár.

Latur

Latur.

Fátt skráðra minja er eftir í Fífuhvammslandi enda hefur því nú öllu verið raskað meira og minna. Engjaborgin og landamerkjasteinn með áletrun vestar í hlíðinni (sjá aðra FERLIRslýsingu) eru nú svo til einu ummerkin, sem eftir eru.

Latur er og nokkuð stór steinn í sunnanverðum Digraneshálsi þar sem nú liggur gatan Hlíðarhjalli. Stendur steinninn enn óhreyfður innst í einum af botnlöngum Hlíðarhjalla en áður mun Digranesbærinn hafa verið skammt norðan við steininn. Sagnir um stein þennan tengjast fremur Jóni Guðmundssyni bónda í Digranesi en álfum en sagt er að á steininum hafi Jón hvílt sig á ferðum sínum um jarðeignina. Þá mun Jón einnig hafa setið eða staðið á steininum og sungið allt hvað af tók er hann var drukkinn sem oft kom fyrir.

Fífuhvammssel

Fífuhvammssel.

Gamlar sagnir eru til um að steinninn Latur hafi verið álfabústaður og mun það sérstaklega hafa verið á vitorði manna er bjuggu í Fífuhvammslandi. Eitt sinn gerðist það að börn, sem voru á ferð við steininn, sáu huldukonu þar á sveimi en er hún varð þeirra vör hvarf hún þeim sjónum við steininn.
Þá var haldið upp að Rjúpnahæð. Þar í norðanverðri hæðinni eru menjar gamals sels. Selið nýtur nú verndar. Um er að ræða tvö hús og bakhús. Lag og gerð húsanna bendir til þess að selinu hafði verið breytt í beitarhús undir það síðasta. Tóftirnar eru fast við girðinguna, sem umlykur loftskeytastöðina og rétt fyrir ofan nýlegan reiðstíg. Ekki er ólíklegt, ef leitað er vel, að leifar eftir stekk og/eða kví kunni að finnast þarna skammt frá. Neðan við tóftirnar er nú verið að gera golfvöll og útivistarsvæði.

Frábært veður – sól og hiti. Ferðin tók 2 klst og 12 mín.

Upplýsingar m.a. fengnar af http://www.ismennt.is/not/ggg/saga.htm og http://www.hjallaskoli.kopavogur.is/throun/fortid/islenska/hvammkot.htm

Latur

Latur – álfasteinn.

Arnarþúfa

Skoðaðar voru rústir eftir Bretana frá stríðsárunum vestan undir hólum vestan Arnarþúfu vestan Sandskeiðs.

Arnarþúfur

Skjól í Arnarþúfum.

Vestan við hólana eru miklar rústir eftir, s.s. skotbyrgi, vegir, varnarveggir og önnur mannvirki. Nyrst undir vestanverðum hólunum eru einnig tvær, sem virðast vera eldri en aðrar rústir á svæðinu. Önnur er hlaðið hús úr móbergssteinum. Norðan við tóttina er sorpbrennsluofn frá Bretanum. Tóttin er nokkuð heilleg. Í einn steininn inni í henni eru ritaðir stafirnir R.B. Þarna gæti verið um gamalt sæluhús að ræða, en það er, líkt og svo magrar aðrar tóttir á Reykjanesi, í skjóli fyrir austanáttinni. Skammt sunnan við tóttina er önnur graslæg. Þar virðist hafa verið brunnur og er allgróið í kringum hann. Gamla þjóðleiðin austur er þarna skammt austar. Ekki langt frá, á klapparhól skammt vestan við Sandskeið, er tótt hlaðins sæluhús. Það sæluhús er annað tveggja, sem vitað er um nálægt Fóelluvötunum. Hitt er svo til miðja vegu á milli þessa húss og Lyklafells, þar vestan undir smáhæð. Þar eru a.m.k. tvær tóttir.

Arnarþúfur

Áletrun í Arnarþúfum.

Hólmsborg

Samningar tókust við veðurguðina um gott gönguveður á Heiðmerkursvæðinu um laugardagsfyrirmiðdag.

Dimmir

Við op Dimmis.

Gengið var að Hólmsborginni, sem var endurhlaðinn árið 1918. Hún stendur svo til óröskuð inni í hrauninu. Sagnir eru um tvo hella skammt ofan við. Þeir eiga að heita Þorsteinshellir og Dimma. Gerð var nokkur leit að þeim, en án árangurs í fyrst, enda tekið mið af fyrirliggjandi lýsingu.
Gengið var framá einmanna eini á mosabreiðu og hlaðinni fjárhústótt (beitarhúsi) undir klapparholti. Hlaðin var hlaða innst í tóttinni. Sennilega útihús frá Hólmi.

Þorsteinshellir

Í Þorsteinshelli.

Gengið var niður með hraunbreiðunni og inn með tjörnunum við Silungapoll. Sunnan við þær liggur gömul hestagata austur um heiðina. Hraunkantinum var fylgt undir holtunum áleiðis að Selfjalli. Þegar farið var að nálgast malarnámur norðan fjallsins fóru skynjunarviðbrögðin að gera vart við sig. Staðnæmst var stutta stund á hraunhól og litið yfir nágrennið. Eftir mat á umhverfinu var stefnan tekin til austurs, beint á munna Þorsteinshellis. Við hann var lítið skilti frá borgarminjavörlsunni, vandlega falið. Op Dimmis fannst fljótlega undir hraunbrekku skammt norðaustar. (Sjá meira HÉR).
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 53 mín.

Hólmsborg

Hólmsborg.

Þrínúkar

Haldið var á Þríhnúka. Efst á austasta hnúknum er gígop, um 10 metrar í þvermál. Frá brún og niður á hellisgólf eru um 121 metri.

Þríhnúkahellir

Sigið í Þríhnúkahelli.

Beint undir opinu er söðullaga hryggur sem gengur þvert yfir hellinn þannig að hann dýptkar út til hliðanna. Þar liggja einnig gangar til austurs, en þeir þrengjast þó fljótlega og lokast síðan í aðra áttina, en í hina liggja göng niður á allt að 200 dýpi uns þau lokast einnig.
Sigið var á tveimur línum, tengdum saman til öryggis. Sigið var í lausu lofti eftir að börmunum sleppti, þ.e. mestan part leiðarinnar. Mjög fallegt er niður í hellinum. Bergið allt í kring er rauðleitt og efst í geyminum glitrar á holufyllingakristalla. Hellisrásin sjálf hallar lengra niður uns hún lokast alveg. (Sjá meira undir Þríhellir – Þríhnúkahellir – Þríhnúkarásarhellir).
Um klukkustund tók að „júmma“ liðið upp aftur, en hver og einn þurfti að fara upp á eigin afli.
Nær svarta myrkur er ofan í hellinum, líkt og í öðrum hellum, en birtu bregður á bergið ofanfrá. Ógleymanlegt er að fara ofan í helli þennan, ekki bara vegna þess að síga þarf ofan í hann, heldur og ekki síður vegna þess að það er engin leið önnur út úr honum nema sömu leið til baka – og það er þrautinni þyngri.

Þríhnúkar

Þríhnúkagígur – þverskurður.

Þrínúkar

Farið var í hellana í Þríhnúkahrauni og Húsfellsbruna upp úr Þjófakrikum undir hlíðunum vestan við Eyra.

Þríhnúkar

Í Þríhnúkum.

Eyra er lítill gígur utan í hlíðinni. Hellarnir eru þarna í sléttu helluhrauni, en Húsfellsbruni hefur runnið yfir þá að hluta þannig að a.m.k. tveir hellanna liggja undir hann.

Haldið var upp hlíðina og þá komið að fallegum litskrúðugum uppstreymisgíg á brúninni. Frá því sést vel í Þríhnúka nokkru sunnar. Austar eru miklar hrauntraðir, sem ætlunin var að skoða í bakaleiðinni. Gengið var því beint á hæstu hæð, sem hefur að geyma hinn þekkta Þríhnúkahelli.

Þríhnúkagígur

Þríhnúkagígur – op.

Þríhnúkar eru þrjú eldvörp ásamt hraunum á lögsagnarmörkum Kópavogs og Garðabæjar í Bláfjallafólkvangi. Þríhnúkar eru meðal sérstæðustu eldstöðva á Íslandi. Tveir austari hnúkarnir eru eldgígar frá nútíma, en þriðji gígurinn og sá vestasti er úr móbergi frá ísöld. Í austasta gígnum, Þríhnúkagíg, sem er innan Kópavogslands, er geysistór, tómur gígketill, um 120 m djúpur. Þetta er dýpsti lóðrétti hraunhellirinn á Íslandi sem vitað er um og jafnvel þótt víðar væri leitað. Á gígbotninum tekur við um 115 m langur hellir með 50° halla. Gígketillinn er einstaklega fallegur, botnsléttur og litadýr. Gott útsýni er frá Þríhnúkum til allra átta.

Sunnan við gígana er hraunbóla með hurð fyrir, en skammt norðvestan við hana er fallegt uppstreymisop. Gengið var austan við sunnanverða Þríhnúka, að mikilli hrauntröð, sem þar er. Fyrst var fyrir djúp gjá. Í hana verður ekki farið nema á bandi. Fróðlegt væri að vita hvað hún hefur að geyma.

Þríhnúkar

Skilti við Þríhnúka.

Hraunhaft er austan gjárinnar, en síðan tekur við opin hrauntröð er sveigist til norðurs undan hallanum og fram af brúninni þar sem áður var komið upp. Í tröðinni eru brýr og brúnir. Nyrst utan í rásinni, áður en hún fer fram af hlíðinni, er fallegur hellir.
Blanka logn og hiti. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Heimild m.a.
-http://www.kopavogur.is/displayer.asp?cat_id=418

Eyra

Eyra.

Nessel

Gengið var austur með Smalaholtinu, sem er í raun vesturhlíð Rjúpnahæðar, ofan við Leirdal og að Selshrygg norðan hlíðarinnar. Þar eru tóftir undir hlíðinni. Þær munu hafa verið notaðar sem beitarhús frá Fífuhvammi, en nafnið bendir til þess að þarna gæti fyrrum hafa verið selsstaða frá þeim bæ. Fyrir miðjum Selshrygg heitir Selsvellir. Þar er vatn og ógreinilegar tóftir, óskráðar. Líklega er þar um að ræða gamla selstaðan frá Fífuhvammi.

Fifuhvammssel

Fífuhvammssel.

Úr bókinni “Viðeyjarklaustur” eftir Árna Óla: “Samkvæmt máldaga klaustursins 1234 hefir það eignast selför í Þormóðsdal efri. Mun þar sennilega átt við þann dal, sem nú kallast Seljadalur, og hefir sennilega fengið það nafn af seli klaustursins. En hve lengi klaustrið hefir haft þar í seli, er ekki vitað, en seinna hafði það í seli undir Selfjalli, skammt frá Lækjarbotnum.

[S.G.] “Nesselið er eitt flottasta ef ekki flottasta selstæði sem ég hef séð. Var spöl fyrir innan það litla sem ég fann í gær, þ.e. nær Grímarsfellinu, inn í dalbotni sem snýr í suður, lokaður af af hálsum á þrjá kanta, kaldavermsl í bæjarhlaðinu, góður bæjarhóll og líklega stór hringlaga stekkur aðeins austan við, ekki þó fullvíst er svo vallgróinn. Stekkurinn óvenjustór, minnir frekar á fjárborg. Mannvirkin þarna að mestu úr torfi enda varla grjót að fá.

Mosfellsbær

Kambsrétt.

Talaði við Guðjón Jensson í Mos. og hann sagði að við Nessel séu miklar tóftir á hól og hefði þar verið lögrétt Mosfellinga, kölluð Kambsrétt, lögð af upp úr 1850, þá flutt í Árnakrók austan við Selvatn fram til aldamóta 1900 og svo byggð við Hafravatn. Hann taldi jafnvel að þar sem Kambsrétt stóð hafi verið selstaðan frá Viðey verið áður en hún var flutt undir Selfjall”.
Frábært veður.

Nessel

Nessel – uppdráttur ÓSÁ.

Hjartartröð

Gengið var eftir Hjartartröðinni í Stórabollahrauni og skoðaðir hellastubbarnir á leiðinni. Úr vestasta niðurfallinu heldur rásin, víð og breið, áfram til vesturs undir nýrra hraun. Innan í henni er mikið hrun, en hægt er að komast áfram hægra megin í rásinni, fast við hellisvegginn. Þar fyrir innan er nokkurt hrun, en ef vilji er fyrir hendi er hægt að halda áfram yfir það og innar í rásina.

Þríhnúkar

Þrihnúkar – skjól.

Í Kristjánsdölum fannst hlaðið refabyrgi og greni þar nálægt. Gengið var á hraunrás undir Lönguhlíðum inn af Þjófadölum. Í henni er rás, nokkuð mjó, en mjög falleg. Hún var skoðuð lítillega. Þá var haldið á Þríhnúka og litið ofan í dýpsta helli á landinu, Þríhnúkahelli. Aðalgígur Þríhnúka er á milli hnúkanna, fallega sléttur hraundalur. Sunnan undir austasta hnúknum er hraunhóll, holur að innan og er hurð fyrir opinu. Inni var steinbekkur og borð. Yfir hólinn hafði verið lagður dúkur og hann hulinn. Einnig var hraunhóllinn klæddur plastdúk að innan. Svo virðist sem einhver, eða einhverjir, hafi notað stað þennan sem skjól um tíma. Norðan hólsins er mjög fallegur gervigígur.

Þríhnúkahellir

Sigið í Þríhnúkahelli.

Haldið var austur með sunnanverðu Þríhnúkahrauni, norðan Stórkonugjár, að mjög djúpu jarðfalli við enda mikillar hrauntraðar, milli hennar og Þríhnúkahellis. Ekki er hægt að komast þar niður nema á bandi. Þarna niðri gætu leynst göng til vesturs, í átt að hellinum. Við austurenda hrauntraðainnar er mikill gígur. Norður af honum liggur hrikaleg gjá. Við enda hennar, austanmegin, er hellisop; falleg hraunrás er liggur í beygju til vinstri og hallar niður með hlíðinni. Hún var skoðuð að hluta. Gólfið er grófur brúnleitur hraunfoss.
Á leið niður hlíðina vestan við Eyra var litið á Kristjánsdalahellana. Einn þeirra, sá austasti undir hraunbrún, er sá fallegasti af þeim. Hinir eru fremur lágir.
Dýrindisveður, logn og sól og útsýnið eftir því.

Hjartartröð

Hjartartröð.