Tag Archive for: Krýsuvíkurhraun

Í Bálkahelli

Gengið var niður Klofninga í Krýsuvíkurhrauni með það fyrir augum að skoða Bálkahelli og Arngrímshelli (Gvendarhelli). Þá var gengið upp vestanvert hraunið áleiðis að Stóru-Eldborg, upp í Kerlingadal og staldrað við um stund hjá dysjum þeirra Herdísar og Krýsu.

Gvendarhellir

Gvendarhellir – tóft.

Arngrímshellis er getið í gamalli lýsingu. Þar segir að Arngrímur á Læk í Krýsuvík hafi hafi fé í helli í Klofningum undir aldamótin 1700. Þar hafi hann haft 99 ær og að auki eina frá systur sinni. Sú, þ.e. ærin, nefndist Grákolla. Fénu beitti hann m.a. í fjöruna neðan við bergið. Um veturinn gerði aftakaveður og fannfergi. Varð það svo slæmt að féð hraktist fram af berginu og drapst. Grákolla lifði hins vegar af hrakningarnar og er talið að allt fé Krýsuvíkurbænda sé frá henni komið.
Arngrímur var við annan mann við sölvatekju undir bjarginu skömmu eftir aldamótin 1700 og féll þá sylla á hann með þeim afleiðingum að hann lést.

Arngrímshellir

Í Arngrímshelli.

Um 130 árum síðar mun Krýsuvíkur-Gvendur hafa haft fé í fjárhellinum. Nefndist hann þá Gvendarhellir. Tóft er við munnann. Er sagt að þar hafi verið hús úr timbri og hafi það talist til frásagnar að gler hafi verið þar í gluggum. Við og inni í hellinum eru hleðslur.
Bálkahellir er skammt austar. Þegar komið er niður úr efsta opi hans má sjá hraunbálka beggja vegna. Annars er hellirinn um 450 metra langur.

Stóra-Eldborg

Stóra-Eldborg vestast undir Geitahlíð.

Neðan við Deildarháls ofan Stóru-Eldborgar, er dregur nafn sitt af deilum Herdísar Í Herdísarvík og Krýsu í Krýsuvík, er Kerlingadalur. Neðst í honum eru dysjar kerlinganna, auk smala Herdísar. Þjóðsagan segir að Krýs og Herdís hafi verið grannkonur og “var nábúakritur megn á milli þeirra; því hvor öfundaði aðra af landgæðum þeim er hin þóttist ekki hafa, Krýs Herdísi af beitilandinu, en Herdís Krýs aftur af enginu. Svo hafði lengi gengið að hvor veitti annari þungar búsifjar; rak Krýs sauðfénað sinn í land Herdísar, en Herdís vildi aftur ná í engið, og beittust svo þessu á víxl með því landamerki virðast annaðhvort hafa verið óglögg eða engin í það mund.

Bálkahellir

Við Bálkahelli.

Þegar þær grannkonurnar eltust meir fóru þær síður að hafa fylgi á framkvæmdum til að ásælast hvor aðra, en ekki var skap þeirra að minna eða vægara fyrir það. Bar þá svo við einhverju sinni að Herdís hafði gengið út í hraun og síðan út með Geitahlíð svo sem leið liggur út í Krýsuvík. En utarlega undir hlíðinni ganga úr henni hæðir nokkrar fram að hrauninu og eru þær kallaðar Eldborgir. Yfir þessar hæðir liggur vegurinn. Þann sama dag er Herdís tókst þessa göngu á hendur fór og Krýs að heiman.

Krýsuvík

Breiðivegur vestan Stóru-Eldborgar.

Í suður frá Krýsuvík er slétt melgata (Breiðivegur); er hún nokkuð langur skeiðsprettur suður undir hornið á Geitahlíð, en þegar komið er fyrir það horn blasa Eldborgir við sunnar með hlíðinni og er allskammt þangað undan hlíðarhorninu. Gamla þjóðleiðin lá hins vegar upp á hálsinn milli Geitahlíðar og Stóru-Eldborgar og síðan um Kerlingadal.
Nú segir ekki af ferðum þeirra grannkvennanna fyrr en Krýs kemur þar á götunni sem hún liggur yfir hina nyrztu Eldborgina, þá kemur Herdís í flasið á henni að sunnan. Þegar þær hittust varð fátt af kveðjum, en því fleira af illyrðum á milli þeirra er hvor um sig þóttist eiga land það er þær stóðu á.

Dysjar

Dysjar Herdísar, Krýsu og smalans í Kerlingadal.

Ekki er þess að vísu getið hvernig hvorri um sig hafi farizt orð, en svo lauk að hvor hézt við aðra vegna landadeildarinnar. Lagði þá Krýs það á Herdísi að allur ætur silungur skyldi hverfa úr veiðitjörn hennar, en verða aftur full af loðsilungi, sumir segja öfugugga. En Herdís lagði það aftur á Krýs að allur silungur í veiðivötnum hennar skyldi verða að hornsílum. Enn lagði Krýs það á Herdísarvík að þaðan skyldi týnast tvær eða þrjár skipshafnir. Herdís mælti aftur það um fyrir Krýsuvík að starengið þar skyldi smásökkva á hverjum 20 árum, en koma upp á jafnlöngum tíma. Eftir þessi ummæli sprungu þær báðar þar sem þær stóðu og eru þær dysjaðar báðar til vinstri handar við götuna þegar riðið er út í Krýsuvík norðan til á Eldborginni nyrztu, og sér dysirnar þar enn; dys Krýsar er það sem nær er Krýsuvík, en Herdísar hitt sem fjær er.

Dysjar

Dysjar Krýsu, Herdísar og smalans neðst.

Meðan þær voru að mæla hvor um fyrir annari kom að þeim smalinn úr Krýsuvík, en svo brá honum við heitingar þeirra að hann féll þegar dauður niður og er hann dysjaður hægra megin við götuna þar upp undan sem þeirra dys er niður undan svo ekki skilur nema gatan ein. Dys þeirra grannkonanna eru enn kölluð Krýs og Herdís og þar með eru þau kölluð sýsluskil Gullbringusýslu og Árnessýslu, svo eru þau og talin landamerki milli Krýsuvíkur og Herdísarvíkur.”
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Heimild m.a.:
-http://bokasafn.rnb.is/default.asp?cat_id=200

Kerlingadalur

Dysjar Herdísar og Krýsu.

Gvendarsel

Í „Byggðasögu Grafnings og Grímsness“ eftir Sigurð Kristinn Hermundarson segir m.a. eftirfarandi um Guðmund Bjarnason, svonefndan Krýsuvíkur-Guðmund:

Gljúfur

Gljúfur

„Guðmundur hét maður Bjarnason, er bjó á Gljúfri í Ölfusi, en var síðar nefndur Krýsuvíkur-Guðmundur  (Krýsuvíkur-Gvendur). Hann var bæði stór vexti og sterkur, hagur til smíða og starfsmaður mikill. Gæfur var hann í byggðalagi, óáleitinn við aðra menn og kom sér í hvívetna vel við alla. Hann var fremur fátækur og var eins og margir aðrir, að hann þurfti að hafa sig allan við að vinna fyrir sér og hyski sínu.

Blóðberg

Blóðberg á fjalli.

Þá var títt, að menn fóru til afrétta að afla sér fjallagrasa, færu á grasafjall, sem kallað var. Voru það helst skæðagrös, sem sóst var eftir, eða þá klóungur; hann var smávaxnari og þótti ekki eins góð vara, en var þó notaður til grautargerðar og annars fleira.
Sumar það, sem nú var sagt frá, nálægt sláttulokum, fór Guðmundur að heiman í grasaferð og unglingspiltur með honum. Þeir voru báðir ríðandi og höfðu auk þess einn hest með reiðingi, er þeir ætluðu að bera klyfjar á. Fylgdarmaður Guðmundar var lítilsigldur og veikbyggður, einfaldur og áræðalítill, en trúr og vinnuþarfur húsbónda sínum í öllu, sem hann mátti við koma. En til harðræðna var hann ekki vel fallinn.

Hverahlíð

Hverahlíð.

Þeir Guðmundur riðu nú að heiman snemma morguns, og var veður hið besta. Fara þeir sem leið liggur og ætla vestur í Hverahlíð. En er þeir koma upp á Kambabrún eða í Hurðarásvötn, fór veður að þykkna og gerði kalsaslyddu, svo að háfjöll urðu gráhvít. Fylgdarmaður Guðmundar vildi þá snúa aftur, sagði, að ferða þeirra myndi ekki verða til neins gagns, ef þannig færi að veðri. Guðmundur kvað veður ef til vill batna, þegar fram á daginn kæmi, og héldu þeir því áfram ferðinni og allt suður fyrir Reykjafell. Gerði þá sólskin og logn og hið besta veður.
Í framhaldinu sagði frá viðureign Guðmundar og Fjalla-Margrétar, útilegukerlingar í Henglinum, þegar hún ásældist nestið hans, sem endaði með því að Guðmundur beit í sundur á henni barkann. Bein Margrétar fann Sogns-Gísli síðar umorpið grjóti í Svínahrauni – að talið er.

Krýsuvík

Krýsuvík – Lækur.

Guðmundur Bjarnason var ættaður af Fellsströnd í Dalasýslu og fæddur þar um 1765. Á yngri árum sínum var hann um eitthvert skeið í Helgafellssveit, því að þar gerðist saga sú, er hér fer á eftir, er sýnir að snemma var Guðmundur kjarkmikill og áræðinn.

Krýsuvík

Krýsuvík – tóftir Lækjar. Arnarfell fjær.

Þar í sveitinni hafðist við grimmur útileguköttur, sem reif sig inn í hús og hjalla og skemmdi og sleit það, sem hann náði til. Vildu menn gjarna losna við ávætti þessa, en fáir treystust til þess að ganga í berhögg við köttinn, svo grimmur og villtur sem hann var orðinn. Einu sinni var þess vart, að hann hafðist við í fjjárhúsi einu. Fóru einhverjir þá til og lokuðu dyrunum og byrgðu glugga alla vandlega, en enginn þorði að fara inn til högnans. Guðmundur lét þá sauma margfalda ullarflóka um höfuð sér og fór í þykk og sterk föt. Hann tók sér í hönd smíðatöng eina mikla og réðst síðan inn í húsið. Högninn sat þá innst í húsinu fyrir miðju gaflhlaði og horfði til dyra.

Krýsuvík

Krýsuvík – Lækur.

En jafnskjótt og Guðmundur kom inn úr dyrunum, hljóp kötturinn í einu bogakasti og upp á höfuð Guðmundar og læsti að honum með klóm og kjafti af mikilli grimmd. Guðmundur tók þá til smíðatangarinnar og brá munna hennar um háls högnans og lagði fast að. Varð það hans bani. Svo hafði Guðmundur sagt frá síðar, að hann fynndi til klónna á kettinum í gegnum alla ullarflókanna, sem voru þó vel þykkir.

Ekki er nú kunnugt, hvenær Guðmundur fluttist suður á land, en á Gljúfri í Ölfusi býr hann á árabilinu 1805-1815 og þó sennilega ekki allt það tímabil. Á þeim árum varð viðureign hans við Margréti, sem fyrr er sagt frá. Árið 1816 býr hann á Miðfelli í Þingvallasveit, en farinn er hann þaðan 1820. Mun hann þá hafa flust að Ási fyrir sunnan Hafnarfjörð, en þar bjó hann í fáein ár.

Gvendarhellir

Í Gvendarhelli (Arngrímshelli).

Um það, sem Guðmundur hafðist að, er hann fór frá Ási, er til glögg og gagnorð frásögn síra Jóns Westmann prest í Selvogsþingum, og er hún á þessa leið: „Árið 1827 kom gamall bóndi til Krýsuvíkursóknar, Guðmundur Bjarnason, byggði nýbýlið Læk aldeilis að stofni, átti margt fé, hélt því við áðurnefndan helli [Gvendarhelli í Klofningi í Krýsuvíkurhrauni, sbr. þjóðsöguna], en þar eð honum þótti langt að hirða það þar, byggði hann þar annan bæ, dásnotran sem hinn, með glergluggum, sængurhúsi af- og alþiljuðu með tveim rúmum, í hinum karminum geymsluhús.

Gvendarhellir

Hústóft framan við Gvendarhelli.

Byggði hann hús þetta framan við hellisdyrnar og rak féð gegnum göngin út úr og inn í hellinn, hlóð að honum þvervegg, bjó til lambastíu með öðrum, gaf þeim þar, þá henta þótti, bjó til étur úr tilfengnum hellum allt í kring í stærri parti hellisins, gaf þar fullorðna fénu í innistöðum, sem verið mun hafa allt að tveimur hundruðum eftir ágiskun manna, flutti þangað talsvert hey og smiðju sína og mun hafa starfað þetta að mestu, ef ei öllu leyti, aleinn á einu ári. Þarna var hann 10 vetur samfellt yfir kindum sínum aleinn, en á sumrum heima. Loks gafst hann upp yfir sjötugt og sagðist hafa verið smali, síðan hann hafði 6 ár að baki.“

Gvendarsel

Gvendarsel í Gvendarselshæðum ofan Kaldársels.

Eftir dvöl sína í Krýsuvíkurhverfi fluttist Guðmundur inn á Hraunabæi í Garðasókn, en eftir það var hann venjulega kallaður Krýsuvíkur-Guðmundur, og undir því nafni hefur hann gengið síðan. Á elliárum sínum var hann einhvern tíma í Straumi eða Straumsseli. Var hann þá orðinn allhrumur og staulaðist á milli bæja sér til skemmtunar, þegar gott var veður. Hafði hann jafnan prik í hendi og fór mjög hægt. Mannýg kýr, hvít að lit, var þar á næsta bæ. Lagði hún stundum í fullorðna menn og þótti allhvimleið. Einu sinni, þegar Guðmundur fór næja á milli, kom hvíta kýrin að honum að óvörum. Velti hún honum brátt um, og fékk hann ekki rönd við reist, náði þó taki á eyra hennar og gat rekið prik sitt upp í aðra nös kýrinnar. Hljóp hún á burt, en Guðmundur skreið heim. Um kvöldið fannst kýrin með prikið í nösinni. Eftir það fara engar sögur af Guðmundi. Síðast átti hann heima í Lambhaga í Hraunum, og þar dó hann 3. maí 1948, kominn á níræðisaldur.

Tjörvagerði

Tjörvagerði við Straum.

Tvo sonu átti Guðmundur Bjarnason, er ég heyrði nefnda, og hét hvortveggi Guðmundur. Var annar faðir Guðmundar Tjörva, sem margir kannast við, en hinn átti þrjá sonu; Halldór bónda í Mjósundi í Flóa, er var á lífi fram yfir 1880, og Ólafa tvo. Ólafur eldri bjó á Gamlahliði á Álftanesi. Hann var skurðhagur og skar meðal annars út mörg nafnspjöld á skip fyrir ýmsa menn, og þótti prýðisvel gert. Hann skar t.d. nafnspjald á teinæringinn á Hliði, sem fórst veturinn 1884. Hann hét „Sigurvaldi“. Það skip var aðeins tveggja ára gamalt, og var eigandi þess Þórður Þórðarson á Hliði, sjálfur formaður á því, er það fórst. Ólafur yngri var húsmaður á Hliði. Síðustu ár ævi sinnar var hann húsmaður í Haukshúsum, og þar andaðist hann, að mig minnir 1883. Þóra hét koma hans. Hún var dóttir Einars skans; var hann svo nefndur að því að hann bjó í Bessastaðaskansi. Þau Ólafur og Þóra áttu fjögur börn og voru mjög fátæk.
Ólafur þessi yngri sagði mér söguna um Helgafellsköttinn og hvítu kúna í Straumi. Hann sagði mér líka söguna um viðureign Guðmundar, afa síns, við Margréti.“

(Byggt á handriti Þórðar Sigurðssonar á Tannastöðum – Íslenskir sagnaþættir og þjóðsögur III, 1942)

Í Blöndu, 6. bindi 1936-1939, er fjallað um nefndan Krýsuvíkur-Guðmund. Frásögnunum ber að vísu ekki að öllu leyti saman:

Búrfellsgjá

Athvarf Guðmundar í Búrfellsgjá. Hústóft fremst.

Krýsuvíkur Guðmundur – eftir Friðrik Bjarnason, kennara.
„Guðmundur hét maður og var Bjarnason, ættaður úr Breiðafirði. Hann felldi ástarhug til stúlku einnar, er hann fékk ekki að eiga, og fór þá suður á land og létti eigi fyrri en suður kom í Gullbringusýslu, en þar hafðist hann við alla æfi upp frá því á ýmsum stöðum, lengst af í Krýsuvíkursókn.
Ekki er víst, hvenær Guðmundur kom fyrst suður, en í Krýsuvíkursókn mun hann hafa komið árið 1827. Þar byggði hann nýbýlið Læk frá stofni. Einnig bjó hann í Garðshorni nokkur ár. Á vetrum gætti hann fjár síns við helli einn í Klofningahrauni, Gvendarhelli, og hélt því mjög til beitar. Framan við hellinn byggði hann skemmu með opi á miðju, og sést hún enn þá. Rétt inn af skemmunni afgirti hann skáp úr hellinum og geymdi þar lömbin, ef illt var veður og þörf var á að gefa þeim. Þar hafði hann og rúm sitt, er hann hlóð upp úr grjóti og hakti svo með gæruskinnum, er hann lá á. (Um Guðmund sbr. einnig Lýsingu Selvogsþinga 1840 eftir síra Jón Vestmann (Landnám Ingólfs III, 99—100).

Gvendarhellir

Gvendarhellir og húsið framan við hellisopið.

Út frá hellinum var veðursæld mikil og hagar fyrir sauðfé svo góðir, að aldrei brugðust.
Eitt sinn, er Guðmundur var í hellinum, kom til hans maður, a nafni Einar og var Sæmundsson, úr Biskupstungum, sem var að fara í verið til Grindavíkur. Guðmundur tók vel á móti Einari og veitti honum hangikjöt og brennivín. Einari leizt vel á fénaðinn og þótti vel um gengið í skemmu hans og helli. — Um þessar mundir flutti Einar að Stóra-Nýjabæ við Krýsuvík, og voru þeir Guðmundur því nágrannar lengi síðan.
Þegar Guðmundur bjó í Garðshorni, færði hann frá ám sínum á vori hverju og flutti lömbin eftir fráfærur inn í Lambatanga við Kleifarvatn. Eitt sinn eftir fráfærurnar sluppu ærnar í þoku og komust inn undir Lambatanga, þar sem lömbin voru. Þau heyrðu þá jarminn í ánum og fóru öll, öll að tölu, út í vatnið og drápust þar öll og rak þau síðan upp úr vatninu. Guðmundur reiddi lambskrokkana heim í Garðshorn, rak í þau fótinn, þar sem þau lagu á túninu og sagði: „Þar fóru þið að fara hægara, nú ræð ég við ykkur.“

Gvendarhellir

Í Gvendarhelli.

Það er enn sagt af Guðmundi, þegar hann bjó í Garðshorni, að hann batt ullina, óþvegna, í bagga og flutti hana þannig til kaupstaðar.
Úr Krýsuvíkurhverfi mun Guðmundur hafa farið inn í Garðahrepp, líklega að Setbergi, því öllum ber saman um það, að hann hafi haldizt við í Gjáarrétt með fé sitt, og sér enn merki þess. Einnig var hann um tíma með féð uppi í Bakhlíðum, og sér þar votta fyrir byrgi, sem við hann er kennt, Gvendarbyrgi. Og enn er þess að geta, að Guðmundur var um stundarsakir í Straumsseli í Hraunum, þá líklega búlaus. Þaðan seldi hann sauði sína í Bessastaðaskóla.
Guðmundur Bjarnason var talinn sérkennilegur í mörgu: einrænn og dulur í skapi, en kjarkmaður og einbeittur, skýr í hugsun og þrekmikill, og sumir töldu hann fjölkunnugan.
Hér kemur að lokum saga, sem sög er af Guðmundi. Kona nokkur [Fjalla-Margrét] hélzt við í Ólafsskarði og á Svínahraunsvegi og stundum í Jósefsdal; þar sást bæli hennar til skamms tíma, segja sumir. Hún; var mannskæð og réðst á ferðamenn, er um veginn fóru og rænti þá, því er þeir höfðu meferðis. Þessu framferði kunnu menn illa, og af því að nauðsyn þótti til að ráða hana af dögum, en enginn vildi reyna, var Guðmundur Bjarnason fenginn og fór hann við annan mann upp að Ólafsskarði. En er þangað kom, legst Guðmundur í leyni, en lætur fylgdarmanninn halda áfram eftir veginum, þar sem illkvendið var vant að hafast við. Að litlum tíma liðnum kom kerling, ræðst á manninn, en þá kom Guðmundur honum til hjálpar, vegur að henni, og varð þa hennar bani. Aðrir segja, að Guðmundur hafi ekki drepið flagðkonuna, en í þess stað afhent hana yfirvöldunum.“

Sjá meira um Blöndufrásögnina HÉR.

Heimildir:
-Grafningur og Grímsnes – Byggðasaga, Sigurður Kristinn Hermundarson, 2014, bls. 38-39.
-Blanda, Krýsuvíkur-Guðmundur, Friðrik Bjarnason, 6. bindi 1936-1939, bls. 187-189.

Gvendarhellir

Í Gvendarhelli.

 

Krýsuvíkurhellir

Farið var frá Bergsendum eystri að Krýsuvíkurhelli neðan Klofninga.

Krýsuvíkurhellir

Við Krýsuvíkurhelli.

Mannvistarleifar eru bæði ofan við hellisopið og niðri í hellinum sjálfum. Þar er hlaðið skjól. Innan við það liggur rás út að gömlu bjargbrúninni og opnast þar út. Rásin er um 30 metra löng. Út um gatið er hægt að skoða bergið og nýrra hraun fyrir neðan. Til hliðar, innan við opið, er önnur rás, sem liggur um hraunssúlu og opnast yfir í hina efst í henni. Mikill steinbekkur er framan við súluna, sem skipt hefur hraunstraumnum um rásirnar.
Jarðfall norðan við Krýsuvíkurhelli var kannað, en einungis var hægt að komast stutt þar inn á hvorn veginn sem var. Mögulegt væri að forfæra gjót í hruni innan við eitt opið, en það myndi kosta talsverða vinnu. Rás gæti legið þaðan og upp í gegnum hraunið.

Bálkahellir

Við Bálkahelli.

Bálkahellir var nú skoðaður að nýju. Kom sú skoðun mjög á óvart. Fyrst var farið niður um neðsta jarðfallið og niður í hellinn. Farið var með jarðfallinu vinstra megin, en þar lækkað rásin nokkuð en hækkar að nýju uns gólf og loft koma alveg saman. Þarna undir vegg eru tvö stór hraundríli. Farið var til baka og niður aðalgönginn. Þau beygja fyrst til hægri og síðan aftur til vinstri. Þessi göng eru um 200 metra löng og ekkert hrun nema svolítið fyrst.

Hellirinn er mjög breiður og þarna á gólfum eru fjölmargir dropasteinar og hraunstrá hanga í loftum. Fara þarf varlega um göngin. Hraunnálar eru í lofti. Þessi hluti hellisins hefur varðveist mjög vel og full ástæða til að fara þarna mjög varlega. Um er að ræða einn fallegasta helli á Reykjanesi. Neðst beygir hann enn til hægri og þrengist síðan. Í þrengslunum tekur við samfelld dropasteinabreiða.

Bálkahellir

Í Bálkahelli.

Skoðað var að nýju upp rásina í neðsta jarðfallinu. Hún er víð og há uns hún lækkar og þrengist. Loks koma gólf og loft saman. Þessi hluti er um 40 metrar. Þá var haldið niður í miðrásina, á móti þeirri, sem skoðuð var áður. Hún lokast loks í þrengslum, en mikið er um fallega dropasteina og hraunnálar. Alls er þessi hluti hellisins um 100 metrar.
Loks var gengið upp úr miðjarðfallinu og upp aðalhellinn. Hann er víður og hár. Skammt fyrir ofan opið skiptist hellirinn í tvennt og hægt að fara umhverfis tvær breiðar hraunsúlur, en meginrásin er til hægri. Ekki er hægt að villast í Bálkahelli.

FERLIR

FERLIRsfélagar í Bálkahelli. (Ljósm. Júlíus)

Haldið var áfram upp rásina og yfir hrun, sem þar er ofarlega. Þá sést í efsta opið og bálkana beggja vegna, en af þeim mun hellirinn draga nafn sitt. Samtals er Bálkahellir um 450 metra langur, fyrst hár og víður, en nokkuð hrun, síðan hraunsúlur og syllur, dropsteinar og hraunstrá. Neðsti hluti hans þó sýnum fallegastur.
Að lokum var Arngrímshellir (Gvendarhellir) skoðaður, en frásagnir eru til um hellinn er hann var notaður sem fjárhellir á 17., 18. og 19. öld. Gamlar sagnir eru til af því. Hleðslur eru fyrir opum og er tótt framan við stærsta opið, það nyrsta. Inni í hellinum eru allmiklar hleðslur. Hellirinn er bjartur og auðvelt að skoða sig um þar inni, jafnvel ljóslaus.

Bálkahellir

Í Bjössabólum.

Á bakaleiðinni var skoðað ofan í nokkrar rásir. Ein var þeirra stærst, en rásin endaði í þrengslum. Önnur var yfir 300 m löng og er enn ókönnuð.
Ekki er vitað nákvæmlega um aldur þessara hrauna. Samkv. upplýsingum Kristjáns Sæmundssonar, jarðfræðings, er hraunið úr úr Stóru-Eldborg frá fyrri hluta nútíma, þ.e. töluvert eldra en 5000-6000 ára. Hitt úr Litlu-Eldborg er yngra. Það gæti verið kringum 5000-6000 ára.

Frábært veður.

Bálkahellir

Bálkahellir – uppdráttur ÓSÁ.

Stóra-Eldborg

Gengið var um Krýsvíkur- og Fjárskjólshraun vestan Herdísarvíkurhrauns.

Krýsuvíkurhraun

Krýsuvíkurhraun – herforingjaráðskort.

Krýsuvíkurhraun neðan Eldborganna, Litlu- og Stóru-Eldborg, hefur margra hrauna nefnur. Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar má lesa eftirfarandi:
„Hér blasir Eldborgin við, Stóra-Eldborg. Milli hennar og Geitahlíðar er skarð, nefnt Deildarháls. Þegar komið er fram úr skarðinu blasir við Hvítskeggshvammur er skerst inn og upp í Geitahlíðina. Þá blasir við hraunbunga með smá strýtum á. Þarna eru Dysjarnar. Þarna mættust þær eitt sinn þær maddömurnar. Krýsa úr Krýsuvík og Herdís úr Herdísarvík með smölum sínum og hundum þeirra. Deildu þær um beit, veiði í Kleifarvatni og fleira. Urðu báðar reiðar. Drap þá Dísa smalamann Krýsu. Krýsa drap þegar í stað hinn smalann. Þá sló í svo harða brýnu milli þeirra og heitingar, að báðar létur þarna líf sitt og hundarnir.

Dysjar

Dysjar Krýsu, Herdísar og smalans neðst.

Síðan eru þarna Kerlingadysjar, Smaladysjar og Hundadysjar, Krýsudys og Dísudys. Neðan við bunguna er Kerlingahvammur. Síðan heldur leiðin áfram um Geitahlíðardal, austur milli hrauns og hlíðar. Þegar austar kemur með hlíðinni er Sláttudalur skarð upp í henni. Upp hann liggur Sláttudalsstígur. Af Breiðgötum syðst lá stígur niður með Vesturbrún hraunsins, sem runnið hefur frá Eldborgunum. Eldborg stóru, sem áður er á minnst, og Eldborg litlu, sem er aðeins neðar og liggur Akvegurinn milli þeirra. Krýsuvíkurhraun kallast allt hraunið, en niður af Eldborgunum er Klofningur eða Klofningshraun. Milli Eldborganna er reyndar talað um Eldborgahraun. Neðst á Klofningi er Kletturinn og þar rétt hjá er Klettsgreni.

Keflavík

Hellnastígur milli Bergsenda og Keflavíkur.

Stígurinn sem liggur af Breiðgötum nefnist Bergsendastígur. Neðan við Klett spölkorn liggur stígur upp á hraunið og austur um það, nefnist Hellnastígur. Í austur frá honum þar sem hann beygir niður og í suðurátt blasir við Hellnahæð, og á henni Hellnahæðarvarða. Þar spölkorn neðar á sléttu klapparhrauni eru hellar. Gvendarhellir er þeirra merkastur, tekur móti 200 fjár. Hellir þessi var áður nefndur Arngrímshellir eftir samnefndum manni frá Læk í Krýsuvík. Hann lést er sylla undir berginu féll á hann um 1700. Arngrímur kemur við sögu í þjóðsögunni um Grákollu (Mókollu). Frá fjárskjólinu liggur stígur til vesturs um Klofningahraun og áfram að Krýsuvík framhjá Jónsbúð. Annar stígur liggur til norðurs um Eldborgarhraun að Eldborgunum sunnanverðum.

Gvendarhellir

Í Gvendarhelli / Arngrímshelli.

Nokkru neðar er svo Bjálkahellir, og austur frá þessum hellum er svo Krýsuvíkurhellir og enn austar er Fjárskjólshellir í Fjárskjólshrauni.
Guðmundur sá er byggði Lækjarbæinn hafði fé sitt í Gvendarhelli. Hann byggði sér skýli allgott við Hellismunnann. Að sunnan var íbúðarkompa hans, en að ofan var geymsla. Þar á milli var gangur, þar um fór féð í hellirinn. Við þetta bjó Guðmundur nokkra vetur: Þótti honum langt að fara að fé daglega heima frá Læk austur í hraunið.

Fjárskjólshraunshellir

Fjárskjólshraunshellir (Krýsuvíkur(hrauns)hellir.

Klettstrýta er hér ekki langt frá Hellunum, nefnist hún Arnarsetur. Héðan er skammt niður í Keflavík. Austur af Fjárskjólshrauni er Háahraun. Í því er Háahraunsskógur. Þar var gert til kola frá Krýsuvík. Tvær hraunnybbur eru þarna á hrauninu, nefnast, önnur Skyggnisþúfa, hin Hraunþúfa. Er þá komið á Austurbrún hraunsins.
Í austur frá Krýsuvík blasir við fallegt fjall, heitir Geitahlíð. Uppi á fjalli þessu eru þúfur. Nefnast Ásubúðir eða Æsubúðir. Hlíð sú er í norður snýr, nefnist Hálaugshlíð. Nyrst í vesturhlíðum fjallsins eru klettabelti, nefnast Veggir. Suður og upp frá eru Skálarnar, Neðri-Skál og Efri-Skál.

Breiðivegur

Breiðivegur (Breiðgötur).

Þá er upp frá Breiðgötum austast Geitahlíðarhorn vestra og nær allt inn að Hvítskeggshvammi. Herdísarvíkurvegur nefnist vegurinn og liggur um dalkvos milli hrauns og hlíðar, nefnist Geitahlíðardalur. Hér upp á brún hlíðarinnar er klettastallur, nefnist Hnúka. Um Sláttudal hefur Sláttudalshraun runnið. Skammt hér austar er Geitahlíðarhorn eystra. Hér tekur við úfið hraun, er nefnist allt Herdísarvíkurhraun. Á hæstu bungu þess er Sýslusteinn. Þar eru jarða-, hreppa- og sýslumörk. Alfaraleiðin lá upp með horninu og ofar en vegurinn liggur nú út á hraunið. Neðan við Sýslustein er Vondaklif, Illaklif eða Háaklif. Úr Sýslusteini liggur línan í Skjöld öðru nafni Lyngskjöld sem er breið bunga vestast í Herdísarvíkurfjalli. Úr Lyngskildi miðjum lá L.M. línan um Lyngskjaldarbruna uppi á fjalli og um Stein á Fjalli, eins og segir í gömlum bréfum.“

Bálkahellir

Í Bálkahelli.

Í örnefnalýsingu Ara Gíslasonar um sama svæði segir: „Skreppum nú austur á merki, austur að Seljabótarnefi, og höldum þaðan vestureftir. Vestan við nefið heita Seljabótarflatir. Vestur og upp frá þeim er allmikið hraunsvæði, sem heitir einu nafni Krýsuvíkurhraun. Norður af því uppi við veg, sitt hvoru megin hans, er svo Litla-Eldborg og Stóra-Eldborg. Líkjast þær nokkuð að lögun Eldborg í Hítardal, en frá Eldborgum og heim að bæ í Krýsuvík eru 3-4 km, og mundi þá haldið í vestur. Í Krýsuvíkurhrauni eru gróðurblettir, góðir sauðhagar, þar sem heitir Eystri-Klofningar upp af Seljabót, en Vestri-Klofningar eru upp af Keflavík, er síðar getur. Í Klofningum eru tveir hellar. Annar er Gvendarhellir, sem ber nafn Guðmundar nokkurs Bjarnasonar, er bjó þar einn á vetrum með sauðfé sitt um 1840. Hellir þessi er víðáttumikill og lágur. Bálkahellir heitir hinn. Hann er lítt kannaður, en nafn sitt hefur hann af því, að þegar litið er inn í hann, virðist sem bálkur sé með hvorum vegg, eins og í fjárhúsi. Nálægt Seljabót er svo einn hellir enn, sem heitir Krýsuvíkur[hrauns]hellir. En í Klofningum er Klettagren.

Lyngskjöldur

Lyngskjöldur – þrætugrenið við Steininn.

Beint upp af Stóru-Eldborg og austur af bæ er allhátt fell, sem heitir Geitahlíð. Milli Eldborgar og Geitahlíðar er Eldborgarskarð, en litlu austar er Deildarháls; um hann lá vegurinn áður. Beint upp af Stóru-Eldborg er hvammur, sem Krýsvíkingar kalla Hvítskeggshvamm, en annarstaðar heitir Hvítserkshvammur eða jafnvel Hvítskeifuhvammur. Hvítskeggshvammur er hann nefndur í Landfr. s. Ísl II, 312, þar sem sagt er frá því, að þar hafi fundizt fleiri lækningajurtir en á nokkrum öðrum stað. Austan við hvamminn og hálsinn eru þrjú dys, austust er Herdís, svo er Krýs og loks Smalinn. Er hann ofan götunnar, en þær neðan; má um þetta lesa í þjóðs. J. Á. En eitthvað hafa merki færzt til síðan, ef þetta hefur verið á merkjum áður fyrr. Austast í Geitahlíð er dalur, er liggur inn í hlíðina, og heitir hann Sláttudalur.

Keflavík

Keflavík.

Nú bregðum við okkur aftur til sjávar. Vestarlega undir Krýsuvíkurhrauni gengur inn vík ekki kröpp, sem heitir Keflavík. Vestan við víkina fer landið aftur að ganga meira til suðurs. Tekur þar við berg, sem heitir einu nafni Krýsuvíkurbjarg.“

Í skráningunum segir ýmist: „Í Klofningum Krýsuvíkurhrauns er Gvendarhellir (Arngrímshellir) vestastur, þá Bálkahellir skammt austar, þá Krýsuvíkurhellir  og Fjárskjólshraunshellir þaðan til suðausturs neðar í hrauninu“ eða „Krýsuvíkurhellir er austur af Bálkahelli, nær Seljabót“. Þar er einmitt „Fjárskjólshelli“ að finna. Nefndur „Krýsuvíkurhellir er því annað hvort neðra op (miðop) Bálkahellis (ofan við opið er gömul varða) eða annað nafn á „Fjárskjólshelli“.

Frábært veður. Gangan tók 3. klst og 3. mín.

Krýsuvíkurhraun

Krýsuvíkurhraun – herforingjaráðskot.

Krýsuvíkurbjarg

Haldið var niður í Krýsuvíkurhraun. Ætlunin var að skoða ströndina vestan Seljabótar, en hún er ein sú fáfarnasta á landinu, þrátt fyrir nálægðina við höfðuborgarsvæðið.

Krýsuvíkurbjarg

Krýsuvíkurbjarg (-berg).

Þegar gangan var farin voru samningar lögreglumanna lausir og lítið dregið saman með aðilum. Umhverfið minnti þátttakendur á launasamninganefnd ríkisins og fulltrúa Landssambandsins. Hafið, óráðið og óendanlegt, ólagandi og óviðræðuhæft annars vegar og stórbrotnir klettarnir með ströndinni hins vegar, standandi vörð um landið, óhagganlegir, áreiðanlegir, en vanmetnir.

Krýsuvíkurbjarg

Krýsuvíkurberg (-bjarg).

Ströndin er fjölbreytileg og útsýni með henni víða mjög fagurt. Sjá mátti berar hraunæðar, sem sjórinn hafði sorfið, djúpa svelgi og mikla hraunhella inn undir bjargið. Hrauná rann fram af því á einum stað og annars staðar mátti sjá skrautlegt hraungrýti sem myndi sóma sér vel sem stáss í hvaða stofu sem er.
Veður var með ágætum þrátt fyrir þungan himninn með fjöllunum. Leiðin niður að ströndinni er 2.2 km um rollulaust hraunið, sem allt er að koma til eftir ofbeit liðinna ára.

Krysuvikurbjarg-802

Krýsuvíkurbjarg.

Bálkahellir

Haldið var ásamt hellarannsóknarmönnum úr Hellarannsóknarfélaginu í Klofninga til að skoða Bálkahelli, sem FERLIRsfólk endurfann þar s.l. vetur. Þegar þátttaekndur stigu út úr farkostum sínum í upphafi ferðar undir Geitahlíð skalf jörðin líkt og venja er í FERLIRsferðum. Skjálftinn mældist að þessu sinni um 4° á Richter. Sumum varð ekki um sel.

FERLIR

FERLIRsþátttakendur í Bálkahelli.

Um tuttugu mínútur tekur að ganga frá veginum niður í Bálkahelli eftir tiltölulega greiðfærum slóða. Hann er ekki auðfundinn þrátt fyrir stærð, en komið hefur verið fyrir litlum vörðum við opin.
Bálkahellir er um 450 metra langur. Um miðbik efsta hlutans greinist hann í tvennt, en rásirnar koma saman að nýju nokkru neðar. Að jafnaði er hellirinn um 6 metra breiður og 3-5 metrar á hæð og eftir því auðgenginn. Hrun er í efri hluta efsta hluta, en það hættir um miðbik hans. Í loftinu eru fallegar hraunnálar og á gólfinu eru dropasteinar, þ.e. í neðsta hlutanum.
Bálkahellis er getið í gamalli frásögn í umfjöllun um Arngrímshelli, síðar nefndur Gvendarhellir.

Arngrímshellir

Í Arngrímshelli.

Að lokinni skoðun var haldið í Arngrímshelli, hinn fallega fjárhelli með miklum mannvistarleifum, bæði utanhellis og innan, og loks voru skoðuð þrjú önnur jarðföll, sem FERLIR hafði gengið fram á veturinn fyrrum.
Í einu þeirra leyndist nokkur hundruð metra hellir og í öðru urðu rannsóknarmenn frá að hverfa því sá hellir virtist endalaus. Ætlunin er að fara þangað aftur síðar til skoðunar.

Arngrímshellir

Í Arngrímshelli.

Ofangreindir hellar eru líklega með þeim fallegri í nágrenni höfðuborgarinnar. Þeir eru aðgengilegir og auðvelt að ganga að þeim. Staðsetningin er og verður þó að mestu í vitund þess FERLIRsfólks og hellarannsóknarmanna, sem lagt hafa á sig að skoða náttúrugersamirnar.
Veður var frábært (en hvaða máli skiptir það niður í hellum þar sem myrkur ríkir 364 daga á ári (að nýársnótt undanskilinni)).
Gangan og helladvölin tók 4 klst og 4 mín.

Bálkahellir

Bálkahellir – uppdráttur ÓSÁ.

Bálkahellir

Stefnan var tekin á Bálkahelli í Eldborgarhaunum sunnan Geitahlíðar millum Krýsuvíkur og Herdísarvíkur, austan Stóru- og Litlu-Eldborgar. Þar undir hlíðinni, efst í hrauninu, eru dysjar þeirra Herdísar og Krýsu sjá meira HÉR), afkomenda frumbyggja strandbæjanna tveggja.
Í TryggvahelliTilefni ferðarinnar var að áratugur var liðinn síðan Bálkahellir endurfannst eftir að hafa legið í þagnargildi í u.þ.b. 170 ár.
Í helluhraunum er að finna tilkomumikla hraunhella, s.s. Tryggvahelli/Bjössabólur, Bálkahelli og Arngrímshelli/Gvendarhelli, auk fleiri seinna fundinna hraunrása. Hér er ætlunin að lýsa enn einni ferðinni í Bálkahelli, en hellir sá endurfannst af tilviljun, eftir markvissa leit, af FERLIRsfélögum fyrir u.þ.b. áratug síðan.
En fyrst svolítið um jarðfræðina, sem Bálkahellir fæddist í. „Stóra-Eldborg undir Geitahlíð (180 m.y.s.) er nafn á reglulegum gíg, þeim stærsta í stuttri gígaröð, sunnan undir Geitahlíð (386 m.y.s.) og austan Krýsuvíkur (sjá meira HÉR). Gígurinn fellur vel að skilgreiningu eldborgar. [Sýnileg] gígagröðin öll hefur verið virk í upphafi gossins en mjög fljótlega hefur öll eldvirknin færst yfir í Stóru-Eldborg. Þá hlóðst gígurinn upp en hann er um 50 metra hár og yfir 30 metra djópur. Meginhraunrennslið hefur verið um þrjú op undan borginni og liggja hrauntraðir frá hverju þeirra. Hraunið rann að mestu til suðurs og austurs, einkum með Geitahlíð og fram af sjávarhömrum. Hraunið frá Stóru-Eldborg er um 12 ferkílómetrar.“
Komið í efsta hluta BálkahellisÞegar gengið var niður í Eldborgarhraunin frá Herdísarvíkurvegi mátti glögglega sjá skilin á afurðum Litlu-Eldborgar og Stóru-Eldborgar. Sú fyrrnefnda, afurð gígaþyrpingar á stuttri gígaröð, er eldra og greiðfærara. Stóru-Eldvarparspýjurnar ganga síðan yfir eldra hraunið misjafnlega langar. Sú sem rann til suðurs, beina leið til sjávar er bæði breiðust og lengst. Hún markar svonefnda Klofninga í þessum hraunum, sem gjarnan hefur verið nefnt Krýsuvíkurhraun til mótvægis við Herdísarvíkurhraunið austar. Þau eru reyndar fleiri en eitt, líkt og systkini þeirra í vestri, því austan Eldborgahraunanna eru t.d. hraun, sem kom niður Sláttudal úr eldborgum ofan Geitahlíðar. Um aldur þessara hrauna er ekki glögglega vitað, en ætla má (miðað við gróningana) að þau séu frá tímabilinu frá því fyrir 1200 árum og fyrr. Líklega eru Eldborgirnar sunnan Geitahlíðar hluti af eldborgaþyrpingunni norðaustan hennar svo báðar hafa gosið á sama tíma. Þessi gígaröð hefur náð upp í gegnum Miðbolla, Þríhnúka og Stóra-Kóngsfell norðvestan Bláfjalla, sem og gíg suðaustan Drottningar. Virkni gossins virðist því hafa verið meiri en við fyrstu sýn.
BálkahellirÍ stað þess að fylgja hefðbundinni leið niður á hellasvæðið var sú stysta fetuð í gegnum hraunið. Ekki liðu nema 12 mínútur uns komið var niður á hellaop suðaustan Litlu-Eldborgar.
Í Litla-Eldborgarhrauni, milli tveggja anga Stóra-Eldborgarhrauns, eru þrjú niðurföll. Þegar FERLIR gekk fram á þau veturinn fyrir árið 2000 voru þau staðsett, en ekki skoðuð nánar því verið var að koma úr mikilli helllaferð í Bálkahelli. Þó var skoðað upp í göng úr efsta jarðfallinu, ca. 50 metra, sem við síðari mælingu reyndust vera u.þ.b. 100 metra löng. Þá nefndur FETLIRsfélagar hellinn „Bjössabólur“ eftir einum félaganna (Einarssyni), sem þá var með í för.
„Niður frá miðniðurfallinu liggja falleg göng. Eru þau vel manngeng í fyrstu en síðan lækkar smátt og smátt til lofts. Göngin eru lítið hrunin og lagleg. Þegar komið er um 20 metra inn í hellinn eru göng á veggnum hægra megin. Þau kvíslast síðan þegar innar dregur og er þessi afhellir um 80 metra langur. Hrun er neðarlega í meginrásinni og má komast leiðina áfram beggja megin við það. Frá því hlykkjast margslungin göng langa vegu. Heildarlengd hellisins út frá miðgatinu er um 380 metrar.
BálkahelliFrá neðsta og stærsta niðurfallinu liggja ekki miklir hellar, mesta rásin liggur upp eftir og er hátt í 50 metra löng og liggur nánast að hellinum út frá miðniðurfallinu þótt leiðin þar á milli sé ekki opin. Heildarlengd hellisins er yfir 500 metrar.
Ingi Óskarsson hellamaður nefndi hellinn Tryggvahelli eftir syni sínum en þeir feðgar gengu fram á hann árið 2000.“
Bjössabólur eða Tryggvahellir er hluti af hraunrás Bálkahellis, sem er skammt sunnar í Litla-Eldborgarhrauni. Á yfirborðinu skilur hraunspýja úr Stóru-Eldorg svæðin að.
Um Bálkahellir segir Björn Hróarsson í stórvirkinu „Íslenskir hellar“: „Samtals er Bálkahellir um 450 metra langur og er í hrauninu um kílómetra fyrir neðan þjóðveginn [Herdísarvíkurveg]. Í hellinum eru fallegir dropsteinar, dellur og önnur hraunvirki sem erfitt er að lýsa. Hraunstráargrysjur eru í loftum og á kafla má sjá hvar brúnleitt þunnfljótandi hraunið hefur runnið upp með veggum rásarinnar sem er allvíð á kafla.
Skammt innan við efsta og nyrsta hellismunnannn er mikil storkuborð eða bálkar beggja vegna og af þeim dregur hellirinn nafn sitt. Þar fyrir neðan er hellirinn hvað stærstur. Hann skiptist í tvennt og í honum tvær breiðar hraunsúlur. Komið er út í niðurfalli en sunnanvert í því heldur hellirinn áfram.
Miðhluti hlellisins er um 100 metra langur. Þar er töluvert um dropsteina og hraunstrá en að endingu þrengist hellirinn þannig að ekki verður áfram komist.

Bálkahellir

Frá neðsta niðurfallinu má halda um 40 metra upp á við til móts við göngin sem lýst er hér að framan. Til suðurs frá niðurfallinu liggja mjög heilleg göng um 220 metra. Hellirinn er breiður og á gólfum eru dropsteinar og hraunstrá hanga í loftum. Þessi hluti hellisins hefur varðveist mjög vel og full ástæða er til að fara mjög varlega þarna.“
Þegar FERLIR endurfann Bálkahellir fyrir u.þ.b. 10 árum síðan varð það fyrir hreina tilviljun. Leitað var eftir þjóðsögn um Arngrímshelli er var í notkun í Klofningum (Krýsuvíkurhrauni) í lok 18. aldar. Í þeirri frásögn er ein setning um tilvist Bálkahellis; „þar skammt frá er Bálkahellir“. Leitin fór fram að vetrarlagi. Leitarfólk var dreift og búið var að leita um svo til alla Klofninga þegar einn leitarmanna hvarf niður í snjóinn. Í ljós kom að hann hafði fallið niður í jarðfall er hafði að geyma efsta op Bálkahellis, þess er hafði gefið honum nafn. Bálkarnir voru augljósir beggja vegna í rásinni er niður var komið. Efsti hluti hellisins var skoðaður í það skiptið með lélegum ljósum.
Þegar heim var komið var haft við Björn Hróarsson, HERFÍS-félaga, og honum tilkynnt um fundinn. Í framhaldi af því var gerður úr leiðangur á svæðið, efsti hlutinn kannaður betur, sem og aðrir hlutar hans. Þegar staðnæmst var við neðsta opið var tekið til við nestið. Björn hvarf þó um stund niður (suður) undir jarðfallið. Þegar Björn kom aftur var hann spurður tíðinda. Fátt var um svör en blik í augum gaf von. Stuttu seinna var gerður út leiðangur hellamanna á svæðið og þá var neðsti hluti Bálkahellis skoðaður með góðum ljósum og af varkárni.
Í ljós Dropsteinar í Bálkahellikomu fram heilleg hraunrás, breið og yfir mannhæða há, með fjölmörgum dropsteinum og viðkvæmum hraunstráum. Lagðir voru út gulir borðar á gólfið til að afmarka fótgöngurás fyrir þá sem á eftir kæmu (svo koma mætti í veg fyrir skemmdir).
Það er ekki að ástæðulausu að Björn gefur ekki upp hnit á Bálkahelli í stórvirki sínu. FERLIR gaf þó upp hnitin á eldri vefsíðu sinni, en gætti þess að hafa þau það ónákvæm að einungis æfðustu hellaleitamenn ættu möguleika á að finna opin.
Haldið var niður í Bálkahelli. Þoka umlukti yfirborðið og hafði það sitt að segja í undirlendinu. Ofan við efsta jarðfallið eru fallegir steinbogar (-brýr). Í því efra er þrastarhreiður. Aðgengi niður í hellarásina til suðurs er auðvelt. Gólfið er lítið grjótáfallið, en þegar innar dregur þarf að fara yfir stutt en léttvægt hrun. Þar fyrir neðan greinist rásin.
Í Gvendarhelli

Greiðfærara er að fara til vinstri, en komið er skammt neðar að framhaldsrásinni hvor leiðin sem valin er. Þar eru myndræn gangnamót. Neðar er rásin heil utan einnar fellu, sem komið hefur úr loftinu í stóra jarðskjálftanum 2008. Auðveldur uppgangur er úr rásinni. Eins og Björn lýsir er hægt að halda áfram til suðurs undir yfirborðið. Þar tekur við heilleg hraunrás, en lokast síðan. Fallegir dropsteinar eru þar. Fara þarf til baka og halda síðan lengra niður eftir til suðurs í hrauninu, þangað til komið er að þriðaj og síðasta jarðfallinu á Bálkahelli. Ef haldið er upp eftir rásinni þar til norðurs er komið að lokuninni fyrrnefndu á u.þ.b 1/3 leiðarinnar. Þarna er rásin alveg heil og falleg.
Þá er að fara niður í neðsta ráshlutanna. Hér hafa áhugasamir hellamenn kvartað yfir tvennu; annars vegar ónákvæmum hnitum og hins vegar að finna ekki leiðina inn í rásina. Auðveldast er að fara niður í ráshlutann hægra megin, en þar er ekkert framhald. Ef farið er niður í hana vinstra megin má sjá rásina liggja upp til hægri (farið er aftur á bak niður). Þar er stór dropsteinn. Halda þarf þarna niður (til suðurs), fara um lítið op á milli steins og veggjarins.

Í Gvendarhelli

Þá tekur við lág renna sem bogra þarf í gegnum. Þá beygir rásin til hægri og aftur til vinstri. Þar hækkar rásin og breikkar. Eftir það er leiðin greið niður á við, en óþarfi er að flýta sér. Hraunstrá og dropsteinar eru víða á leiðinni, enda rásin alheil alla leið að endamörkum. Skammt ofan þeirra er dropsteinabreiða, sem ekki má fara yfir, enda mikil hætta á skemmdum.
Samtals er þessir hlutar Bálkahellis um 450 metra langir, en ef taldir væru með rásir „Tryggvahellis/Bjössabóla“ væri hellirinn u.þ.b. kílómetrers langur, eða svipaður að lengd og Búri í Leitarhrauni.
Þegar hraunið sunnan við neðsta jarðfallið á Bálkahelli var kannað á sínum tíma fundust ekki fleiri op, en skammt sunnar er brekka á hraunbreiðunni og eftir það hallar jafnt og þétt til strandar. Líklegt má telja að rásin, eins stór og mikil hún er, eigi sér framhald í og ofan brekkunnar.
Þá var gengið upp að Arngrímshelli/Gvendarhelli í Klofningum. Þjóðsagan segir að Arngrímur á Læk í Krýsuvík hafi haldið 99 grákollóttar ær á auk einnar grákollóttrar, sem systir hans átti, nefnd Grákolla. Þetta var um aldamótin 1700.

Gatan í gegnum Klofninga

Óveður geisaði og hraktist féð fram af Krýsuvíkurbjargi, allt nema Grákolla. Er talið að allt fé Krýsuvíkurbænda sé frá henni komið. Arngrímur lést síðan skömmu eftir aldamótin (1724) er hann var við sölvatekju undir bjarginu með öðrum. Silla féll úr bjarginu og varð hann og tveir aðrir undir henni. Mörðust þeir til bana. Einn maður bjargaðist og varð til frásagnar um atburðinn. Um 130 árum síðar er getið um að nefndur Gvendur Bjarnason nokkur frá Krýsuvík hafi haft fé í hellinum. Hlóð hann þvervegg sem og stíur. Byggði hann og hús fyrir opið. Helst þótti til tíðinda að gler var í gluggum þess. Sjá má tóftir hússins vestan við hellismunnann Innangegnt hefur verið úr húsinu í fjárskjólið, sem rúmað hefur geta á a.m.k. annað hundrað fjár. Fjárhúsopið, fyrirhlaðið, er sunnan í hellinum. Þar innan við er gólfið flórað. Hlaðið er um „stromt“ þar sem líklegt eldstæði hefur verið undir. Fyrirhleðsta er innar. Innan hennar, beint niður af inngönguopinu úr húsinu, er gólfið einnig flórað. Hlaðin stía, sennilega fyrir sauði, er innar og hlaðið er fyrir efsta hluta rásarinnar til að forða því að féð kæmist innar í hana.
Skammt sunnan við tóftina og hellinn er rás. Þegar FERLIR skoðaði hana fyrir nokkrum árum fundust í henni nokkrir rekaviðarraftar. Líklega hefur þar verið eldiviðargeymsla fyrrum staðarhaldara. Ekkert af þessu hefur virðist hafa hlotið náð fornminjavörslunnar í landinu.
Allnokkru suðaustan við fjárskjólið er Fjárskjólið í Fjárskjólshrauni.
Frá fjárskjólinu var gata rakin til vesturs, yfir á vestanverða brún Klofninga (Krýsuvíkurhrauns). Hún bar merki þess að hafa bæði verið fjárgata sem og meginleiðin að og frá skjólinu. Vörður voru á brúnum. Þær gætu hafa verið eftir refaveiðimenn er síðar komu í Klofningana, enda munu þar hafa verið allnokkur greni – og eru enn. Ofar í Klofningum má sjá ummerki eftir þær.

Litla-Eldborg

Allnokkru suðvestan við hraunbrúnina eru talsverðar minjar; skjól, rétt og hús. Á korti hefur þeim stað verið gefið nafnið „Gvendarhellir“. Ástæðan gæti verið af þrennum toga; ókunnugleika þess eða þeirra er staðsettu nafnið þarna, umhverfi og aðstæður þar eru ekki ólíkar því sem gerist í Klofningum og minjarnar gætu átt við þær. Hins vegar er ekki vitað um heimildir er kveða á um notkun þessara minja, sem eflaust hafa verið notaðar til hjásetu um tíma, auk þess sem réttin og húsið gefa tilefni til að ætla að þar hafi verið fráfærur sem og/eða starfsstöð til vetrarbeitar niður um Bergsenda. Krýsuvíkurhellir er skammt austar.
Fallegar hrauntraðir Klofninganna liðast niður frá Eldborgunum, með misjöfnum slétt- og gróningum þó. Skil hraunanna eru augljós.
Kíkt var á leifar Litlu-Eldborgar, en meginhluti hennar hefur verið tekinn undir vegstæði þjóðvegarins. Ekki er óraunhæft að ætla að gígurinn verði endurgerður nú þegar verktakar þurfa að losa sig við efnisúrgang líkt og á Hellisheiðinni. Ósnertur gígur er stutt suðvestan við megingígin (raskaða), sem nýrra hraunið hefur umlukið. Norðaustar eru tveir gígar og hefur þeim suðvestari verið raskað. Umleikis eru fallegar hrauntraðir, að ofanverðu frá Stóru-Eldborg og að neðanverðu frá þeirri Litlu. (Sjá myndband úr Bálkahelli.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Heimild m.a.:
-Björn Hróarsson – Íslenskir hellar, 2006.

Bálkahellir

Gvendarhellir

Í Lesbók Morgunblaðsins árið 1954 má lesa eftirfarandi um hraunin við Herdísarvík og Krýsuvík undir fyrirsögninni „Aldargömul Íslandslýsing„.

Jónas Hallgrímsson

Jónas Hallgrímsson.

„Hinn 25. ág. 1838 skrifaði Jónas Hallgrímsson stjórn Bókmenntafjelagsins í kaupmannahöfn og stakk upp á því að fjelagið kysi nefnd manna til þess „að safna öllum fáanlegum skýrslum, fornum og nýjum, sem lýsi Íslandi eða einstökum hjeruðum þess, og undirbúa svo til prentunar nýja og nákvæma lýsing á íslandi, en síðan verði prentuð út af fyrir sig á fjelagsins kostnað“. Sama dag var þetta samþykkt á fundi Hafnardeildar Bókmenntafjelagsins og nefnd kosin 21. sept. s.á. Um veturinn sendi nefndin brjef til allra presta og sýslumanna. Fylgdu brjefunum til prestanna 70 spurningar og til sýslumanna fylgdu 12 spurningar. Jafnframt var biskupi, stiftamtmanni og amtmönnum skrifað og þeir beðnir um að lá málinu fylgi.
Ekki verður annað sagt, en að prestar og sýslumenn hafi brugðist vel við þessari málaleitan. Allar lýsingarnar eru geymdar í Landsbókasafninu, fjögur bindi í folio. Er hjer um að ræða eitt hið merkasta heimildarrit, eigi aðeins um landfræði Íslands, heldur einnig um búskaparháttu, atvinnuvegi, hlunnindi, tíðarfar, þjóðháttu, heilsufar, menningu o.s.frv.
Að vísu eru ekki allar lýsingarnar jafn fullkomnar eins og vænta má, og skara ýsmir prestar fram úr ís kilningi á því, hvernig svörin ættu að vera. Hjer skulu nú birtir stuttir útdrættir úr þessum sóknarlýsingum, sem sýnihorn af þessu handritasafni.

Úr sóknarlýsingu síra Jóns Vestmanns, Vogsósum:

Nes er austanvert við Selvog. Þar á stendur bær með sama nafni. Vestan til við voginn er annað nes. kallað Alnbogi, líkt bognum handlegg hvar Herdísarvík t.a.m. skyldi vera í alnbogabótinni og bærinn með sama nafni við víkurbotninn. Á milli tjeðra nesja er breið sjávarbugt, kölluð Selvogur, en stuttleiks vegna má hún ei fjörður nefnast.

Þau merkilegustu eldhraun eru:

Mosaskarð

Mosaskarð ofan Herdísarvíkur.

a) Stakkavíkurhraun [kom] upp í gosi upp úr Kongsfelli (sem hefir nafn af því, að fjallkóngur í Selvogi skifti þar á haustum fólki í fjárleitir); er Kongsfell kringótt eldborg, með háum börmum og djúpri gjótu innanvert, samanluktri í botninn, svo þar er þó ekki gjá, en grjótið brunnið í sand og vikur, sumt útlits sem sindur. Þaðan liggur hraun þetta þvert um fjallið til útsuðurs og ofan yfir Stakkavíkur landeign, en stansaði rjett fyrir ofan sjálft túnið; er þó upp gróið með góðum högum, smáskógi, beiti- og sortulyngi. Á fjallinu framarlega hefir hraunrenslið skift sjer við grjóthæð nokkra og hlaupið fram af fjallsbrún þar sem heitir Mosaskarð og lýsir nafnið þess útliti. Þessi tangi hraunsins er svartur og gróðurlaus þegar frá fjalli dregst alt fram í sjó.

Sængurkonuhellir

Herdísarvíkurhraun – Sængurkonuhellir.

b) Herdísarvíkurhraun kemur úr Brennisteinsfjöllunum og fram af fjallsbrún beggja megin Lyngskjaldar, en hefir runnið saman aftur á láglendinn fyrir neðan. Þetla hraun er sumsstaðar upp gróið með lyng, litlum skóg, gras, og góða haga í lágum og gjótum. Sums staðar er það svart og ávaxtarlaust, með gjám og stöndum og grámosabreiðum. Engir eru þar hellar eða stórgjár; þó er þar hellir kallaður Sængurkonuhellir, því kvenpersóna hafði einhvern tíma alið þar barn. Hellir þessi er annars ekki stór.

Stóra-Eldborg

Stóra-Eldborg.

e) Krýsuvíkurhraun [kom] upp í gosi úr Eldborginni í Deildarhálsi, austan til við Krýsuvík. Eldborg þessi er alt eins útlits og Kongsfell. Hraunið er upp gróið með gras, lyng og smáskóg í lautum og brekkum, en grámosaskóm, gjám og stöndum yfir alt þar sem hærra liggur.

Vestan undir Krýsuvíkurhrauni er stór hellir og besta hagaland í kring, í og með hrauninu, samt víðar út um heiðina,“ svo alltíð má beita fje undir vind af hverri átt sem hann er. Hellir þessi er langt frá bæjum, er því erfitt að nota hann í vetrarharðindum.

Arngrímshellir

Arngrímshellir.

Fyrir hjer um bil 100 árum, eða máske nokkuð meir, var bóndi í Krýsuvík að nafni Arngrímur, mig minnir Jónsson. Hann tíundaði jafnan 50 hundruð. Hann hafði fje sitt við helli þenna, en skyldi hafa átt 99 ær grá kollóttar. Systir hans átti eina á einslita, og hætti hann ei fyr að fala hana af systur sinni, en hún yfirljet honum ána sárnauðug. Sama veturinn seint gerði áhlaupabyl, sem stóð 6 dægur. Hrakti þá alt hans fje fram af Krýsuvíkurbergi hjer og þar til dauðs og algjörs taps, því sjórinn tók við fyrir neðan bergið en vindurinn rak til hafs. Í hengisfönninni framan í bergsbrúninni stóð grákolla alein er hann fjekk hjá systur sinni, þegar hann eftir bylinn fór að leita að fjenu. Tekur hann ána þá og reynir í 3gang að kasta henni fram af berginu, en gat aldrei kastað henni svo langt, að hún fœri niður fyrir. Og jafnótt og hann losnaði í hvert sinn við hendur hans, brölti hún upp að knjám honum. Loksins gaf hann frá sjer, og skal hafa sagt löngu seinna, að út af þessari á hefði hann eignast 100 fjár. Þetta hef jeg af sögusögn og gef það ei út sem áreiðanlegan sannleik. Ævilok Arngríms urðu þau, að steinn datt á hann úr Krýsuvíkurbergi og marði hann í sundur og 2 manneskjur aðrar. Þetta er víst.

Arngrímshellir

Gvendarhellir í Krýsuvíkurhrauni.

Árið 1827 kom gamall bóndi til Krýsuvíkursóknar, Guðmundur Bjarnason, bygði nýbýlið Læk aldeilis að stofni, átti margt fje, helt því við áðurnefndan helli. En þar honum þótti langt að hirða það þar, bygði hann þar annan bæ dásnotran sem hinn, með glergluggum, sængurhúsi alþiljuðu með 2 rúmum; í hinum karminum geymsluhús. Bygði hann hús þetta framan við hellisdyrnar og rak fjeð gegnum göngin út úr og inn í hellinn, hlóð af honnm þvervegg, bjó til lambastíu, gaf þeim þar þá henta þótti, bjó til jötur úr tilfengnum hellum alt í kring. Í stærra parti hellisins gaf hann fullorðna fjenu í innistöðum (sem verið mun hafa alt að 200 eftir ágiskun manna), flutti þangað talsvert hey og smiðju sína, og mun hafa starfað þetta að mestu, ef ei öllu leyti, aleinn á einu ári. Þarna var hann 10 vetur samfelt yfir kindum sínum aleinn, en á sumrum heima. Loks gafst hann upp yfir sjötugt og sagðist hafa verið smali síðan hann hafði 6 ár á baki.

Gvendarhellir

Gvendarhellir og húsið framan við hellisopið.

Frá landnámstíð hafa menn engar sögur um breytingar á landslagi alt til l367 að Oddgeir biskup í Skálholti visiteraði kirkjuna á Strönd. Telst hún þar eiga 30 hndr. í heimalandi. Þaðan frá hafa menn enga vissu hjer um fyrri en um daga Erlends lögmanns Þorvarðssonar, sem eftir Árbókum Esphólíns bjó mektarbúi á Strönd í full 30 ár fyrir um og eftir trúarbragðaendurbótina. En hjer uum bil 1700 telur sveitarbragur Jóns bónda Jónssonar í Nesi 7 búendur á Strönd meinast þar sjálfsagt með hjáleigu býli. 1749 er hún (þessi jörð) með öllum sínum afhýlum öldungis eyðilögð „af sandfoki og þá þó fyrir nokkrum árum.

Æsubúðir

Geitahlíð.

Þar sem ekki er sandágangurinn, þar eru skriðuföll, blástrar; þar að lýtur saga Árna Þorsteinssonar, merkisbónda í Herdísarvík, og þannig hljóðar: ..Þegar jeg var 8 ára fór jeg fyrst með föður mínum út með Geitahlíð og sá jeg þá í einum stað eitt lítið flag blásið í aur hjertta austast í hlíðarhorninu en hvergi annarsstaðar, heldur einlægt graslendi og blóma yfir alt að líta“. Þessa sögu sagði hann mjer þá við eitt sinn urðum samferða með nefndri hlíð, af forundran yfir því hversu hrörleg hún var þá orðin er hann var sjötugur. Sáust þá í henni fáienir grasgeirar hjer og hvar að neðanverðu og einstakir fáir grasblettir einasta þar, sem hlje var við landnyrðingi. —

Strandarkirkja

Kirkjan á Strönd.

Kirkjan á Strönd í Selvogi er kölluð heimakirkja; hún er enn á sama stað, einmana á eyðisandi, þar sem Strandarbær var meðan jörð þessi var bygð. — Hjer var þingabrauð þar til árið 1749 að ekkjufrú biskups Jóns Árnasonar keypti, eður þó hann áður andaðist, eyðijarðirnar Strönd og Vindás og gáfu til Selvogs prestakalls. Síðan hafa prestarnir verið kirknanna forsvarsmenn, en Vogósar hafa ætíð, eftir sem áður, verið prestsetur, en Krýsuvík annexia.

Húshólmi

Húshólmastígur um Ögmundarhraun.

d) Ögmundarhraun; lítið fyrir vestan Krýsuvík runnið vestan úr Amenningi, sem allar er líka hraun en þó grasi og skógi vaxið — er hann stórt óskipt landspláss hvar Krýsuvík á líka skógarítak. Ögmundarhraun er ekki upp gróið, heldur svart og ljótt útlits: gengur það heilt fram í sjó rjett fyrir austan Selatanga. Austan til við hraun þetta er kallaður Hríshólmi. Þar eru stórar húsatóttir niður sokknar og ein þeirra snýr eins og kirkjur vanalega; hefir það verið vel stórt hús; þó sjást ei tóftirnar allar því hraunið hefir hlaupið yfir þær að vestanverðu, hvað mikið veit maður ekki, þó til að geta eftir sjón á því sjáanlega, yfir fullan helming, því þar hefir vafalaust verið stórbygging. Þar eru 2 túngarðshringar; og hjer um bil 20 faðmar milli þeirra.

Húshólmi

Húshólmi – Kirkjulágar.

Meina menn að Krýsuvík hafi þar verið áður hraunið hljóp þar yfir, en við það tilfelli verið flutt upp í fjallavikið, sem þar er þó töluvert langt frá. Við sjóinn er vík, sem bærinn gat nafn af tekið, nl. Hælsvík nú nefnd.

Óbrennishólmi

Óbrennishólmi – fjárborg.

Í hrauni þessu, spölkorn hjer frá, er og óbrunninn hólmi og ófært; hraun alt um kring nema einn lítill stígur, sem síðar hefir verið ruddur. Hólmi þessi nefnist Óbrennishólmi. Þar er sagt smalinn hafi verið með heimilisfjeð meðan hraunið hljóp fram yfir heila plássið (þar eru og 2 misstórar fjárborgarústir) og að hann hafi ekki getað komist undan því annað en á hól þennan, sem hraunið umkringdi.

Eiríksvarða

Eiríksvarða á Svörtubjörgum.

Eiríksvarða; þó Eiríksvarða sje ekki frá forntíð, er það samt ekki ómerkilegt að hún skuli enn nú standa óröskuð eftir svo langa tíð. – Hún er einhlaðin, á mjög hárri fjallsbrún, 1 fet er fyrir framan hana að skörpustu brúninni. Hún er 1 faðmur að neðan, úr einhlöðnum steingarðsparti, er svo hver steinn lagður yfir annan; flatir og ílangir eru þeir; allir snúa endar þeirra til beggja hliða; allir eru þeir smáir sem lítilfjörlegir utan veggs hleðslusteinar. Hún er smáaðdregin frá báðum endum, ávöl að ofan og á hæð meðalmanni neðanvert á síðu, snýr austur og vestur til endanna, en flöt að norðan og sunnan. Þessi Eiríkur Magnússon var lengi prestur í Selvogi, þótti skrítinn í ýmsu, og dó 1716. Af hans langa prestskap má ráða að hann hafi aldraður orðið, og skyldi menn setja að hann hefði vörðuna hlaðið 6 árum fyrir afgang sinn, þá er hún búin að standa 123 ár.

Krýsuvíkurberg 1972

Krýsuvíkurberg.

Arngrímur Bjarnason, sonarsonur Arngríms lærða, og hafði lengi verið ráðsmaður í Skálholti.
Hinn 9. ágúst 1724 fór hann á báti í sölvafjöru undir Krýsuvíkurbergi „og með honum karlmaður einn og kvenmenn tveir. Og er þau voru farin til að taka sölin, sprakk hella mikil fram úr berginu og kom á þau, svo að hún laust Arngrím í höfuðið til bana, og undir henni varð karlmaðurinn er honum fylgdi og önnur konan, en önnur komst lífs undan; tók hellan þó hælinn af öðrum fæti hennar, og skaðaði hana ekki að öðru. Var hella þessi 13 faðma löng og 11 faðma breið. Náðust lík allra þeirra þriggja, er ljetust“ (Vallaannáll). Öðrum annálum ber saman um hve margir hafi farist þarna, en Hítardalsannáll segir: —
„Vinnukona hans mjög lömuð komst af og aðrir tveir sem af ofboði hlupu fram í sjó og náðu til skipsins“.

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, 49. tbl. 23.12.1954, Aldargömul Íslandslýsing, bls. 642-645.

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg.

Arngrímshellir

Gengið var niður í Fjárskjólshraunshelli í Krýsuvíkurhrauni (Fjárskjólshrauni) undir mosaþverskorinni Geitahlíð og áfram niður hraunið að Keflavík þar sem tilkomumikill gataklettur var skoðaður utan í Krýsuvíkurbergi, sem og gamla bergið þar sem á trjóna svonefndir Geldingasteinar. Haldið var vestur með bjarginu og síðan beygt til norðurs upp í Bálkahelli og loks farið í Arngrímshelli. Á göngunni var m.a. rætt um austurlandamerki Krýsuvíkur, sem eru þarna eða svolítið austar; allt eftir því við hvaða gögn er stuðst.

Fjárskjólshraun

Í Fjárskjóslhrauni.

Þegar gengið var frá opi Litlu Eldborgar, niður Eldborgarhraunin, lagðist regnbogi yfir þau þannig að göngufólkið gekk undir annan enda hans. Sjaldgæf sjón – og ósktæk.
FERLIR skoðaði Fjárskjólshelli árið 2004. Um er að ræða u.þ.b. 60 metra helli með sléttu gólfi. Innst lokast hann með fallegum hraungúlpi, sem virðist kom upp úr gólfinu. Að þessu sinni skartaði hellirinn hinum fegurstu grýlukertum og klakahnúðlum.
Niðri í Fjárskjólshrauni er fornt hlaðið fjárskjól. Líklega dregur hraunið nafn sitt af því týnda skjóli.
Opið á Fjárskjólshraunshelli er í stóru grónu jarðfalli. Nyrst í því er hægt að komast niður í stóra hraunrás, slétta í botninn. Rásin liggur til norðurs. Stutt rás liggur til hægri. Fremst er einnig stór hraungúlpur, sem virðist hafa komið upp úr gólfinu. Um er að ræða fallegt jarfræðifyrirbæri.

Bálkahellir

Bálkahellir – op.

Á leiðinni niður í Keflavík var komið við á Skyggnisþúfu. Hún er þar sem hraunið ofan við Krýsuvíkurberg ber hæst mót Herdísarvík. Á þúfunni er varða, Skilaboðavarða. Í hana voru sett boð, sem menn vildu að bærust á milli bæjanna.
Í Kirkjufjöru í Keflavík má sjá hluta af gamla Krýsuvíkurbjargi og fagurt útsýni er úr víkinni austur eftir berginu. Víkin dregur nafn sitt af keflunum, sem nóg virðist vera af, auk plastbelgja. Gatklettur stendur út af berginu að austanverðu. Svonefndir Geldingasteinar eru efst á bjargbrúninni, gulir af fuglaglæðu og öðrum grófari féttum.
Á kortum er Keflavík notað fyrir allt svæðið framan við og vestan og austan við Bergsenda. Af brún bjargsins ofan við víkina liggur gömul rekagata niður í hana. Götunni var fylgt niður. Niðri er skjólgott undir háum grágrýtisveggjunum. Framar er stóreflis lágbarið strandargrjótið. Útsýnið þarna eftir berginu er einstaklega fallegt.

Bálkahellir

Í Bálkahelli.

FERLIR leitaði að og fann Bálkahelli árið 2000. Hans er þó getið í gamalli sögn um þjóðsöguna af Grákollu og Arngrímshelli, sem er þar skammt vestar. Neðsti hluti Bálkahellis (um 150 m langur) er með sléttu gólfi, vítt til veggja og hátt til lofts. Dropsteinar og hraunstrá eru í þessum hluta. Nauðsynlegt er að hafa með sér góð ljós þegar hellirinn er skoðaður til að draga úr líkum á skemmdum. Hiti var í hellinum svo ekki sáust klakamyndanir.
Haldið var upp í gegnum efsta hlutann. Botninn er sléttur í fyrstu, en þegar komið er að stórri steinsúlu þarf að fara yfir hraun. Það er þó ekki ógreiðfært, en nauðsynlegt er að hafa góð ljós í Bálkahelli. Þegar komið var út úr þessum efsta huta hellisins mátti vel sjá af hverju hann dregur nafn sitt; steinbálkum beggja vegna. Líklegt er að sá er leit hellinn augum hafi nafngreint hann eftir fyrrnefndum bálkum.

Bálkahellir

Í Bálkahelli.

Gengið var í gegnum efsta hluta Bálkahellis (120 m). Klakasúla var næst innganginum. Gólfið er slétt í fyrstu, en þegar komið er að mikilli hraunsúlu tekur við hrun, sem þó er tiltölulega auðvelt yfirferðar. Efst í efsta hlutanum eru bálkar, sem hellirinn ber nafn sitt af. Þar er þrastarhreiður.
Arngrímshellir er með miklum mannvistarleifum. Við hann gerðist þjóðsagan af Grákollu. Þar segir af Arngrími á Læk um og eftir 1700 og (130 árum síðar) Krýsuvíkur-Gvendi Bjarnasyni, sem héldu fé sínu í hellinum. Gólfið er flórað að hluta, hleðslur eru við op og inni í hellinum, auk tóftar, sem gamlar sagnir eru um.
Þetta svæði er varla til í augum og hugum landans, hvað þá annarra. Um er að ræða nokkur hraun, bæði úr Eldborgum og eldvörpum ofan við Sláttudal og Brennisteinsfjöllum. Þau eru misjafnlega vel gróin og eru misgreið yfirferðar. Miðjan er þó vel greiðfær með lyngi og kjarri í brekkum.

Gvendarhellir

Í Gvendarhelli (Arngrímshelli).

Þjóðsagan segir að Arngrímur á Læk í Krýsuvík hafi haldið 99 grákollóttar ær á auk einnar grákollóttrar, sem systir hans átti, nefnd Grákolla. Þetta var um aldamótin 1700. Óveður geisaði og hraktist féð fram af Krýsuvíkurbjargi, allt nema Grákolla. Er talið að allt fé Krýsuvíkurbænda sé frá henni komið. Arngrímur lést síðan skömmu eftir aldamótin (1724) er hann var við sölvatekju undir bjarginu með öðrum. Silla féll úr bjarginu og varð hann og tveir aðrir undir henni. Mörðust þeir til bana. Einn maður bjargaðist og varð til frásagnar um atburðinn.
Um 130 árum síðar er getið um að nefndur Gvendur Bjarnason nokkur frá Krýsuvík hafi haft fé í hellinum. Hlóð hann þvervegg sem og stíur. Byggði hann og hús fyrir opið. Helst þótti til tíðinda að gler var í gluggum þess. Tóftir þess sjást enn, auk annarra nefndra minja í hellinum. Líta verður á minjar þessar sem fornleifar og varðar röskun refsingu.

Keflavík

Keflavík – rekagatan.

Þegar FERLIR gaumgæfði hellinn vel og vandlega kom í ljós ýmislegt er nefndur Gvendur virðist hafa skilið eftir sig, s.s. hangiketsleifar og brennivínstár, sem honum hafði ekki unnist tími til að ýta að gestum. Ketið virtist vel ætilegt eftir allan þennan tíma og ekki var loku fyrir það skotið að brennivínið væri jafnvel betra, en hefði það nýsoðið verið.

Þegar staðið var utan við tóftina lagði sólin geisla sína á hana svo hún yrði vel myndtæk.
Hraunið ofan við bergið er í umdæmi Grindavíkur, en skammt vestar er spilda umdæmisins, sem skv. afsalsbréfi tilheyrir Hafnarfirði. Hún sker í sundur Grindarvíkurlandið, sem nær austast að mörkum Herdísarvíkur/Selvogs/Árnessýslu (úr Seljabót í Sýslustein).
Þann 29. september 1941 afsalaði landbúnaðarráðuneytið f.h. ríkissjóðs til sýslunefndar Gullbringusýslu f.h. sýslusjóðs öllu tiltæku ræktanlegu beitilandi jarðanna Krýsuvíkur og Stóra-Nýjabæjar (Krýsuvíkurtorfunnar) í Grindavíkurhreppi í Gullbringusýslu, til sumarbeitar fyrir búfé.

Sveitarfélagsmörk

Sveitafélagsmörk.

Var þá undanskilið úr jörðunum það land, sem með afsalsbréfi ráðuneytisins dags. 20. febrúar 1941 var afsalað til Hafnarfjarðarkaupstaðar.
Krýsuvíkurland þetta er, skv. skilgreiningunni, “að vestan, beina stefnu í norður úr Hælsvík í Borgarhól, þar sem hann er hæstur, úr Borgarhóli eftri Sveifluhálsi vestustu vík Kleifarvatns, að bera í ysta odda Hvammholtstanga. Að norðan ræður Kleifarvatn, í syðsta odda víkur þeirrar, er gengur úr vatninu vestan við Geithöfða og að austan þaðan beina stefnu í réttvísandi suður til sjávar í Keflavík. Að sunnan ræður sjór..”.

Skyggnisþúfa

Skyggnisþúfa.

Af afsali þessu sést glöggt, að Gullbringusýsla öðlast beitarrétt með afsalinu, en grunnréttur til landsins er áfram í hendi ríkisins. Landspilda Krýsuvíkur er í landi Grindavíkurumdæmis, sbr. land bæði vestan og austan hennar. Alþingismaðurinn, er beitti sér fyrir málinu f.h. Hafnarfjarðar á Alþingi sem fulltrúi ríkisstjórnarinnar, var jafnframt bæjarfulltrúi í Hafnarfirði og síðar ráðherra. Slíkt myndi ekki samrýmast góðum stjórnsýsluháttum nútímans. Í ljósi þess, sem og eðlilegum sanngirnissjónarmiðum, ættu Hafnfirðingar þegar í stað, virðingu sinnar og sóma vegna, að afhenda Grindvíkingum landsumdæmi sitt á nýjan leik. Ekki síst í ljósi þess að veruleg villa er í framangreindri landamerkjalýsingu.
Deilur voru einnig um mörk Krýsuvíkurlands á 17. öld. Í byrjun aldarinnar virðist hafa koma upp vafi um mörkin. Fyrst austurmörk og svo vesturmörk. Um þetta málefni fjallar Magnús Már Lárusson um í ritgerð 1961. Þar segir m.a. að til séu 6 frumbréf Skálholtsstóls um austur landamerki Krýsuvíkur frá árunum 1603 og 1604 og Telur MML að varðveisla þeirra til þessa dags með stólsskjölum gefi til kynna, að bréf þessu geymi þau merki, sem talin hafi verið rétt.

Keflavík

Geldingasteinn ofan Keflavíkur.

Upp úr 1650 verður deila um rekarétt milli Krýsuvíkur og Ísólfsskála og eru allmargir vitnisburðir vegna merkja Krýsuvíkur að vestanverðu skjalfestir í bréfabók Þórðar biskups Þorlákssonar. Einn vitnisburðurinn segir Krísuvík eiga allt land austur á eystri hraunbrún á hrauni því, sem liggur fyrir austan Eilífðarhorn (á við Geitahlíð). Eitt segir að Krýsuvík eigi austur frá sér land allt að Skildi og þaðan sjónhending suður í sjó. Enn fremur segir, að Krísuvík eigi allt land austur yfir Háahraun, er liggur fyrir austan Geitahlíð. Annað segir að Krýsuvík eigi allt land að þeim steini, er stendur á Fjalli hjá Skildi.

Lyngskjöldur

Lyngskjöldur – loftmynd.

(Lyngskjöldur). Þrír vitnisburðir til viðbótar segja að Krýsuvík eigi allt land að steininum hjá Skildi. Þessar merkjalýsingar voru sá grundvöllur, sem stóllinn gat byggt á, ef merki Krýsuvíkur yrðu véfengd.
Árið 1786 keypti Jón Ingimundarson jörðina og leitaði hann vitnisburðar um merki hennar og meðal kirkjuskjala er frumrit vitnisburða þriggja manna um landamerki Krýsuvíkur. Þá bendir MML að lokum á að eftirtektarvert sé, að í sóknarlýsingu Jóns Vestmanns fyrir Krýsuvíkursókn sé þessi lýsing: “Vestari partur Brennisteinsfjalla allt vestur í Kleifar, norðan við Kleifarvatn, þaðan til sjávar á Selatöngum. Samkvæmt þessari lýsingu telst allstór þríhyrna ekki til Krýsuvíkursóknar.

Gvendarhellir

Gvendarhellir – Hús Krýsuvíkur-Gvendar framan við hellismunnann.

Þjóðsagan segir hins vegar að hin gömlu landamörk Krýsuvíkur og Herdísarvíkur liggja á milli dysja þeirra Krýsu og Herdísar, sem enduðu ævina með deilum um þau neðst í Kerlingardal austan við Deildarháls. Sagan segir að „Krýsuvík er austastur bær í Gullbringusýslu með sjávarsíðunni, en Herdísarvík er vestastur bær í Árnessýslu; hvort tveggja er landnámsjörð og svo að ráða sem sín konan hafi gefið hvorri nafn er þar bjuggu lengi, og hét sú Krýs er byggði Krýsuvík, en Herdís sú er setti bú í Herdísarvík.
Var nábúakritur megn á milli þeirra; því hvor öfundaði aðra af landgæðum þeim er hin þóttist ekki hafa, Krýs Herdísi af beitilandinu, en Herdís Krýs aftur af enginu. Svo hafði lengi gengið að hvor veitti annari þungar búsifjar; rak Krýs sauðfénað sinn í land Herdísar, en Herdís vildi aftur ná í engið, og beittust svo þessu á víxl með því landamerki virðast annaðhvort hafa verið óglögg eða engin í það mund.

Krýsa og Herdís

Dysjar Krýsu og Herdísar. Dys smalans er neðst á myndinni.

Þegar þær konur hittu hvora aðra fyrir þar á götunni sem hún liggur yfir hina nyrztu Eldborgina, þá kemur Herdís í flasið á henni að sunnan. Þegar þær hittust varð fátt af kveðjum, en því fleira af illyrðum á milli þeirra er hvor um sig þóttist eiga land það er þær stóðu á. Ekki er þess að vísu getið hvernig hvorri um sig hafi farizt orð, en svo lauk að hvor hézt við aðra vegna landadeildarinnar. Lagði þá Krýs það á Herdísi að allur ætur silungur skyldi hverfa úr veiðitjörn hennar, en verða aftur full af loðsilungi, sumir segja öfugugga. En Herdís lagði það aftur á Krýs að allur silungur í veiðivötnum hennar skyldi verða að hornsílum.

Bálkahellir

Í Bálkahelli.

Enn lagði Krýs það á Herdísarvík að þaðan skyldi týnast tvær eða þrjár skipshafnir. Herdís mælti aftur það um fyrir Krýsuvík að starengið þar skyldi smásökkva á hverjum 20 árum, en koma upp á jafnlöngum tíma.

Eftir þessi ummæli sprungu þær báðar þar sem þær stóðu og eru þær dysjaðar báðar til vinstri handar við götuna þegar riðið er út í Krýsuvík norðan til á Eldborginni nyrztu, og sér dysirnar þar enn; dys Krýsar er það sem nær er Krýsuvík, en Herdísar hitt sem fjær er. Dys þeirra grannkonanna eru enn kölluð Krýs og Herdís og þar með eru þau kölluð sýsluskil Gullbringusýslu og Árnessýslu, svo eru þau og talin landamerki milli Krýsuvíkur og Herdísarvíkur.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Heimildir m.a.:
-http://bokasafn.rnb.is/default.asp?cat_id=200
-Magnús Már Lárusson – ritgerð 1961.

Fjárskjólshraunshellir

Í Fjárskjólshraunshelli.

Krýsuvíkurbjarg

Í Morgunblaðinu 1951 skrifar Kjartan Sveinsson minningarorð um Ingibjörgu Sigurðardóttur. Ingibjörg bjó ásamt eiginmanni sínum, Jóni Magnússyni, í Krýsuvík á árunum 1907-1914. Of sjaldan hefur kvennanna fyrrum verið minnst með svo sanngjörnum hætti.
Hér á eftir verður í framhaldinu endurbirtar lýsingar tveggja manna á ferðum þeirra um Krýsuvíkurberg (-bjarg) eftir miðja síðustu öld. Lýsingarnar þarf að skoða á takmörkuðum áhuga á huldum minjum fyrri tíða, en þess meiri á sögnum og upplifun ferðalangsins á náttúru svæðisins.

Krýsuvík

Krýsuvíkurbærinn 1909. Bæjarfell fjær.

„Góð kona er horfin úr þessum bæ, frú Ingibjörg Sigurðardóttir. Hún var í heiminn borin 13. mars 1877 að Esjubergi á Kjalarnesi.
Ingibjörg var elsta barn foreldra sinna og var vart meir en unglingur að árum, þegar lífið lagði á hana hinar fyrstu kvaðir. Móðir hennar missti heilsu á besta aldri og lá oft rúmföst og þjáð síðustu sex árin er hún lifði, Og kom því aðallega í hlut Ingibjargar að stunda hana og jafnframt að standa fyrir búi föður síns. Ingibjörgu vannst þó tími til skólagöngu í hinum íslenska kvennaskóla.
Árið 1903 þann 31. maí giftist hún Jóni Magnússyni, ættuðum frá Syðra-Langholti, sem nú er nær 87 ára að aldri. Hófu þau þá búskap á eignarjörð sinni, Reykjum í Mosfellssveit. Árið 1907 fluttu þau búferlum til Krýsuvíkur og bjuggu þar til 1914 að þau fluttu alfarin til Reykjavíkur. Þeim varð sex barna auðið og eru fjögur þeirra á lífi.

Krýsuvík

Krýsuvíkurbærinn um 1910.

Krýsuvík var stór jörð og erfið. Þá var um átta stunda lestagangur til Reykjavíkur og yfir fjall að fara, en nú má aka þessa leið á 2—3 stundarfjórðungum. Þau hjón ráku þarna búskap með hinum mesta myndarbrag, og jafnvel hið erfiða Krýsuvíkurbjarg var nytjað hvert vor. Þar við bættist að fjöldi ferðamanna erlendra og innlendra sótti staðinn heim, þó sú leið væri hvorki greiðfær nje góðviðrasöm, að mestu hraun og öræfi. Og mitt í þessari auðn reis Krýsuvík sem hof íslenskrar gestrisni, enda kom það sjer betur, því þarna var ekki um aðra gististaði að ræða.
Það beit sig í mig atvik frá tímum, sem eru löngu liðnir. Jeg var staddur hjá tveim kunningjum mínum í gamla skálanum á Þingvöllum og hjá þeim sat síðskeggjaður þýskur háskólakennari. Hann var að teigja ýmsar ferðaminningar sínar frá Íslandi.

Krýsuvík

Krýsuvík 1923.

Eitt sinn hafði hann á leið frá Heklu, komið til Krýsuvíkur í haustmyrkri og óveðri og „Þá var jeg bæði þreyttur og svangur“, bætti hann við. Það kom bókstaflega einhver andakt yfir þetta gamla andlit þegar hann minntist á móttökurnar þar. Svona var landkynning þeirra tíma. Mjer varð það ljósara en áður, vegna hvers þessi útlendingur hafði tekið slíka tryggð við land og þjóð.
En í Krýsuvík átti frú Ingibjörg marga ónæðisama nótt við að hlynna að þreyttum ferðamönnum, jafnframt því sem hin venjulegu skyldustörf kölluðu að morgni. — Þannig var öllum tekið, sem til Krýsuvíkur komu, með djörfung og hjartahlýju, hvort heldur gesturinn var þýskur fræðaþulur, íslenskt skáld, enskur náttúrufræðingur eða göngumóður fjárleitarmaður úr Grindavík.

Krýsuvík

Krýsuvíkurkirkja brann á nýársnótt 2910. Legsteinn Árna Gíslasonar, sýslumanns.

Einn skugga bar á líf þessara hjóna í Krýsuvík. Þar misstu þau ungan dreng, einkar efnilegan, og var hann þeim harmdauði alla tíð. Hann var jarðsettur hjá leiði Árna sýslumanns við austurgafl á kirkjuhrófi því, sem enn stendur þar uppi. Og jeg held jeg megi segja, að þegar frú Ingibjörg flutti alfarin frá Krýsuvík, þá hafi hugur hennar orðið eftir hjá þessari þúfu. Hún kvartaði aldrei yfir missi þessa drengs, hún kvartaði aldrei yfir neinu.
Það var jafnan hljótt um þessa konu. Hún kunni kyrrðinni best, því þar var hvorki hugað nje spurt til launa. Heimilið, stundum mannmargt og ávallt gestkvæmt, var fyrst og fremst hennar starfssvið. Að því vann hún vakin og sofin meðan kraftar entust hvern dag allan ársins hring, með stöðugri umhyggju með öllum og öllu, sem lifði og lífsanda dró. Jeg skildi það aldrei til fulls hvernig henni vannst tími til allra sinna starfa og að rækja þau jafnvel og raun varð á, ekki síst uppeldi barna sinna.
Jeg skal hreinskilningslega játa, að það er sannfæring mín, að Ingibjörg Sigurðardóttir hafi skipað sess með hinum bestu konum þessa lands, bæði fyr og síðar, þeim sem hafa hlúð að nýgræðingnum í þessu landi, líknað og lýst í kringum sig á alla vegu og byggt upp þessa þjóð í meir en þúsund ár. – Í því ljósi hverfur þessi kona, ástsæl og jafnan mikils metin af öllum sem henni kynntust, vanmetin af engum nema þá helst af sjálfri sjer.“ – Kjartan Sveinsson.

Í Vísi 1962 er eftirfarandi lýsing Sv. Þ.; Undir Krýsuvíkurbergi:

Eldborgarrétt

Gamla Krýsuvíkurréttin (Eldborgarrétt).

„Góður vinur minn, stangaveiðimaður oo náttúruskoðari mikill bauð mér í ágústmánuði. Í sumar er leið í stutta skemmtiferð suður á Krýsuvíkurbjarg. Ég þykist vita, að þú hafir aldrei komið fram á bergið, en þar er margt merkilegt að sjá, sagði hann. Eg myndi vilja opna Krýsuvíkurbjarg, sem ferðamannaatraksjón, bætti hann við. Það er rétt að blaðamenn veki á þessu athygli, ef þeir telja þetta mál til sín taka, athuguðu allar hliðar þess vandlega.
Ég kem á bílnum á eftir og við skulum skjótast, því nú er veðrið svo gott. Og að lítilli stundu liðinni voru við lagðir af stað. Það bar margt á góma í þessari ferð suður á bjargið. Vinur minn, kom með marga athyglisverðar ábendingar um þetta mál og hann nam stöku sinni staðar við sögu sögusviðsins, á langri göngu okkar þennan sólfagra dag.
Um daginn fór ég að rifja þetta ferðalag upp aftur. Það er eftirtektarvert, að þúsundir manna skuli á hverju sumri aka eftir Krýsuvíkurveginum, án þess að vita það, að hálftímagang frá þessum vegi er eitt af mestu náttúruundrum landsins.

Eystri-Bergsendi

Horft vestur yfir krýsuvíkurbjarg frá Eystri-Bergsenda.

Fyrir neðan Eldborg, austan við Krýsuvík er fjárrétt, en þaðan liggur vegslóði í suðaustur, í átt til strandarinnar nokkuð niður eftir. — Frá þjóðveginum og niður á Krýsuvíkurbjarg er aðeins hálftíma hægur gangur.
Þarna koma menn að austurenda bergsins, þar sem komast má niður að sjó og sjá bergið opnast. Um varptímann er þarna ótrúlegt ævintýraland, hundruð þúsunda af lunda, álku og langvíu verpa þarna á sillum og skútum í berginu. Fuglinn er spakur á þessum slóðum, svo víða má komast næstum því að efstu hreiðrunum, enda má heita að bjargið hafi verið í friðun allt að því hálfa öld. Bjargið er hátt og tilbreytingamikið. Höfðar og snasir skaga fram, en milli þeirra beygja hamravíkur sig inn.

skarfur

Skafur neðan Krýsuvíkurbjargs.

Beint niður af hinni fornu Krýsuvík er lítil eyja framan við bergið, er nefnist Fuglasteinn, og það er næsta ótrúlegt hvílík mergð fugla getur þar rúmast. — Um fjöru koma flasir og klappir sumstaðar upp. Þar má sjá skarfa í stórhópum baða vængum, til að þurrka þá.
Frá hinni fornu Krýsuvík, þar sem kirkjuhrófið stendur eitt eftir, má líka ganga niður í bjarg, og liggur skemmsta leiðin milli tveggja hóla, sem sjá má niðri á sléttunni, sú ferð er klukkustundargangur.
Við vesturenda bjargsins eru Selatangar, forn veiðistöð, en þangað er stundargangur frá austustu byggð í Grindavík. Verstöðin í Selatöngum lagðist niður af mögnuðum draugagangi. — Fróðir menn telja að þar hafi verið sjódraugar á ferð.
Krýsuvíkurbjarg
Ferðafélag Íslands þarf þegar á næsta vori að hefjast handa og hlutast til um að nefndur vegslóði, frá Eldborg og niður að bjargi, verði gerður greiðfærari og skilti sett við veginn til þess að vísa ókunnugum á rétta leið.
Svo mátti heita, að Krýsuvík væri í eyði um langan tíma. Síðasti bóndinn bjó þar rausnarbúi frá 1907—1914. En jörðin var fólksfrek til fullrar nýtingar. Sérstakur bjargmaður var sóttur austur í Mýrdal á hverju vori. Gerði hann ekkert annað en stunda bjargið, safna eggjum framan af sumri, en síðan veiða fugl. Vann hann þar einn á daginn, en var á kvöldin sóttur niður á bjarg, eggjakassar og fuglakippur dregnar upp á vaði og reiddar heim. — Á hverjum stað er síga varð í bjargið, hringaði sigmaðurinn enda vaðsins á bjargbrúnina og kastaði nokkrum steinvölum yfir, rakti síðan vaðinn fram af brúninni og las sig niður. Þessar steinahrúgur liggja þarna enn og eru þær ótrúlega léttar. —

Krýsuvíkurbjarg

Sigið í Krýsuvíkurbjarg 1983.

Eggjatekjan fór allt upp í tíu þúsund á vori. Voru þau þvegin og aðgætt og reidd á klökkum til Hafnarfjarðar og seld á 10 aura stykkið. Eri leiðin frá Krýsuvík, eftir Ketilsstíg sunnan við hverina, yfir Sveifluháls til Hafnarfjarðar, var þá um það bil 8 tíma lestargangur.
Mikill straumur erlendra ferðamanna lagði á þessum árum leið sína til Krýsuvíkur og niður á bjarg, og ekki dró það úr, að Krýsuvíkurheimilið var annálað fyrir gestrisni og höfðingsskap.“ – Sv. Þ.

Í Morgunblaðinu 1982 er lýsing Tómasar Einarssonar „Á ferð um Krýsuvíkurbjarg„:

Litla-Hraun

Krýsuvíkursel í Litla-Hrauni ofan Krýsuvíkurbjargs.

„Mörgum þykir gaman að ganga með sjó til að fylgjast með hreyfingum úthafsöldunnar. Heyra öldugjálfrið við fjörusteininn eða hlusta á brimniðinn og sjá öldufaldana þeytast hátt í loft upp eftir fangabrögðin við hina brimsorfnu kletta. Við slíkar sýnir er unnt að dvelja löngum stundum. Þeim fylgir einhver seiðandi kraftur sem iætur fáa ósnortna, sem hafinu kynnast á annað borð.
Í nágrenni höfuðborgarinnar er víða unnt að kynnast hafinu á þennan hátt en samt er óhætt að fullyrða að sá staður er vandfundinn þar sem leikur þess er stórkostlegri en undir Krýsuvíkurbjargi. Í þessum pistli leggjum við leið okkar á þær slóðir.

Krýsuvíkurheiði

Jónsbúð á krýsuvíkurheiði. Geitahlíð fjær.

Fyrir sunnan byggðina í Krýsuvík er landið flatt og greiðfært yfirferðar. Það nefnist Krýsuvíkurheiði og liggur hún milli Ögmundarhrauns að vestan og Krýsuvíkurhrauns að austan. Syðsti hluti heiðarinnar nær fram að sjó. Þar endar hún í þverhníptu bjargi sem víða er allt að 40 m hátt.

Krýsuvíkurheiði

Athvarf í Krýsuvíkurheiði.

Við yfirgefum bílinn hjá gamalli fjárrétt, sem er neðan við veginn gegnt Geitahlíð og tökum stefnuna niður á bjarg. Réttarsvæðið er athyglisvert, því frá Stóru-Eldborg, sem er þar fyrir ofan, liggur eldtröð niður fyrir veg. Í enda traðarinnar hefur þessi rétt verið gerð og mynda traðarbarmarnir réttarveggina að nokkru leyti. Við höfum Krýsuvíkurhraunið á vinstri hönd. Þí.ð hefur komið frá eldvörpunum sunnan undir Geitahlíð, bæði Stóru- og Litlu-Eldborg og mun vera nokkur þúsund ára gamalt. Það hefur runnið í sjó fram við Keflavík og þar fyrir austan og myndað landauka í seinni tíð.

Krýsuvíkurbjarg

Krýsuvíkurbjarg – loftmynd.

Þegar komið er fram á bjargbrún tökum við stefnuna til hægri og höldum vestur eftir. Brún bjargsins er grasi gróin og mjög greiðfær yfirferðar. Ætti gangan því að sækjast greitt, en hætt er við að hún verði nokkuð tafsöm, því það er svo ótal margt sem vekur forvitni og krefst nánari skoðunar. Fyrri hluta sumars er bjargið kvikt af fugli og bera syllurnar þess glögg merki. Þar er svartfuglinn mest áberandi og svo ritan. Þá er þröng á þingi og þegar garg þessara bjargbúa blandast við sjávarniðinn hljómar svo sannarlega stef úr „Íslandslagi“. En lögun og gerð bjargsins er ekki síður athyglisverð því þar liggur hvert grágrýtislagið ofan á öðru og gefa þau glöggt til kynna gerð þess og myndun. En það hefur gerst fyrir mörg þúsund árum.

Eystri-lækur

Eystri-lækur.

Margir halda að vatn sé ekki að finna á bjarginu, en það er rangt, því brátt verður Eystri-lækur á leið okkar. Hann á upptök sín í Bleiksmýri austan undir Arnarfelli og fellur fram af bjargbrúninni beint ofan í sjó í fallegum, lóðréttum fossi. Er sá foss sannarlega augnayndi.

Krýsuvíkurbjarg

Við vitann á Krýsuvíkurbjargi.

Nokkru vestan við lækinn komum við að litlum vita er stendur frammi við bjargbrún. Þar er tilvalið að setjast niður um stund og fá sér bita af nestinu, því drjúgur spölur er enn eftir af göngunni.
En svo breytir bjargið um svip. Hin lagskiptu berglög hverfa um stund en slétt berg með rauðum gjalllögum á milli tekur við. Þetta er suðurhluti Skriðunnar, en svo nefnist smáhæð sem gengur fram að sjó nokkru fyrir vestan vitann.
Skriðan er forn eldstöð, sem hafaldan hefur sorfið og fægt þeim megin er að sjónum snýr. Og þar á einum stað er unnt að ganga alla leið niður í fjöru. Er þá farið skáhallt eftir syllum utan í bjarginu. Nefnist þessi gata Ræningjastígur. Segir þjóðsagan að forðum daga hafi Tyrkir komið þar að landi og gengið upp á brún eftir þessum stíg. Síðan sóttu þeir heim að Krýsuvíkurbæ og hugðust vinna þar á fólki og ræna. En svo vel vildi til, að galdraklerkurinn kunni, séra Eiríkur í Vogsósum var þar staddur. Er hann sá þennan voða nálgast beitti hann kunnáttu sinni með þeim afleiðingum, að Tyrkirnir réðust hver á annan og drápust þeir þar allir. Nú liggur kaðall niður stíginn þeim til styrktar er hyggja á fjöruferð.

Krýsuvíkurbjarg

Krýsuvíkurbjarg – horft frá Skriðunni til vesturs.

Vestan við Skriðuna er Hælsvík og þar fyrir ofan er Selalda og Strákar. Selalda er eldstöð eins og Skriðan, en Strákar eru veðraðir bergdrangar sérkennilegir að gerð. Á sléttum bala vestan undir Strákum eru rústir af eyðibýlinu Fitjum. Standa veggir þess furðu vel og er fróðlegt að virða þar fyrir sér húsaskipan á kotbýli fyrri tíma.

Krýsuvíkurvegur

Krýsuvíkurvegurinn 1961.

Við Fitjar lýkur þessari leiðarlýsingu. Að vísu er bjargið vestan Hælsvíkur skoðunarvert og ekki myndi það spilla að skreppa að Húshólmanum í Ögmundarhrauni og virða fyrir sér rústirnar af býlinu sem þar var einu sinni en mun hafa eyðst þegar Ögmunarhraun brann. En fyrir ókunnuga er það nokkrum erfiðleikum háð að finna rústirnar og svo lengir krókurinn þangað gönguna allmikið. Því er best að snúa við hjá Fitjum og ganga frá Strákum beinustu leið yfir Krýsuvíkurheiðina að bílnum er bíður hjá gömlu réttinni neðan undir Stóru-Eldborg.
Þangað verður svo komið aftur eftir 5—6 klst. rólega gönguferð.“ – Tómas Einarsson.

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg (Hælsvík/Heiðnaberg).

Reyndar vantar talsvert upp á að Krýsuvíkurbjargi (-bergi) sé gerð tæmandi skil í framangreindum lýsingum. Mögulega stafar það af ókunnugleik hlutaðeigandi eða takmörkuðu ritplássi. Vestan við Eystri-Bergsenda, austasta hluta Krýsuvíkurbjargs, er t.d. Litla-Hraun. Í því er að finna minjar sels frá Krýsuvík, réttar, fjárhúss og athvarfs þar sem stundaðar hafa verið bæði refa- og fuglaveiðar. Ofar í heiðinni er Jónsbúð, fjárhús frá bænum.

Selalda

Minjar við Selöldu; Krýsuvíkursel og bærinn Eyri – Uppdráttur ÓSÁ.

Ofan Skriðu eru minjar Eyris, bæjar frá 17. öld, og hið gamla Krýsuvíkursel er segir frá í þjóðsögum af Tyrkjum er komu upp frá Heiðnabergi (Hælsvík) – svo fátt eitt annað sé nefnt.

Heimildir:
-Morgunblaðið, 80. tbl. 11.04.1951, Ingibjörg Sigurðardóttir – minningarorð, Kjartan Sveinsson, bls. 2 og 7.
-Vísir, 18. tbl. 21.01.1962, Undir Krýsuvíkurbergi, Sv. Þ., bls. 9 og 10.
-Morgunblaðið, 182. tbl. 21.08.1982, Á ferð um Krýsuvíkurbjarg, Tómas Einarsson, bls. 31.

Krýsuvíkurbjarg

Krýsuvíkurbjarg – horft frá Bergsenda vestari til austurs. Reynir Sveinsson skreytir forgrunninn.