Færslur

Gjár

Ómar Smári Ármannsson skrifaði um “Kaldársel og nágrenni” í Fjarðarpóstinn árið 2002:

Kaldársel og nágrenni

Kaldársel

Kaldársel og nágrenni – uppdráttur ÓSÁ.

“Gamli bærinn í Kaldárseli stóð á túnblettinum, sem núverandi hús stendur á, þ.e. á móts við miðju þess er snýr að árbakkanum.

Kaldársel

Kaldársel – Teikning Daniels Bruun frá lokum 19. aldar. Inn á teikninguna er felld inn líkleg upphaflegu selshúsin áður en bætt við þau til búsetu.

Áður tilheyrði landið Garðakirkju og hafði hún þar í seli fram til ársins 1836. Frá árinu 1873 hafði Hvaleyri þar leigusel. Sel Garða voru flest í Selgjá vestan Búrfellsgjár. Enn sjást þar tóttir selja með hraunbarminum beggja vegna, einkum að sunnanverðu, svo og fallegir fjárhellar, bæði í gjánni og efst í Urriðavatnshrauni. Hafnarfjarðarbær keypti árið 1912 allmikinn hluta af Garðakirkjulandi og Kaldársel þar með.

Heimildir frá 1703
Elsta heimild um Kaldársel er í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703. Þar segir að Hvaleyri eigi selstöð þar sem heitir Hvaleyrarsel suður af Hvaleyrarvatni í Selshöfða, auk selstöðvar í Kaldárseli. Aðrir munu ekki hafa nýtt það sel. Þegar Hvaleyrarbóndi hætti selförum að Kaldárseli lagðist selstöð þar niður með öllu, annað hvort 1865 eða 1866.

Kaldársel

Gengið um Kaldársel og nágrenni.

Útlendir ferðamenn

Kaldársel

Teikning Daniels Bruun af baðstofunni í Kaldárseli 1882.

Í húsvitjunarbók Garðaprestakalls má sjá að árið 1867 er kominn ábúandi í Kaldársel. Hann hét Jón Jónsson, en hann var þar stutt. Eftir það lagðist búskapur niður um nokkur ár. Árið 1876 kom þangað Þorsteinn Þorsteinsson eða Þorsteinn í Selinu, eins og hann var jafnan nefndur. Enn er efst í Heiðmörkinni fallegur fjárhellir, Þorsteinshellir, sem lengi var talinn týndur. Þorsteinn var nokkuð sérkennilegur í háttum. A hans tíma voru í Kaldárseli nokkrar byggingar, matjurtagarður, sem lá frá bænum niður að ánni mót suðri og vörslugarður. Bæjarhús voru lítil en snoturlega byggð. Í því var baðstofa, búr, eldhús og bæjardyr.

Kaldársel

Kaldársel eftir uppdrætti Daniels Bruun – teikning ÓSÁ.

Tætturnar voru allar vel hlaðnar úr sléttum og þykkum hraunhellum, en hvergi mold eða torf á milli, svo sem venja var.
Jón Guðmundsson á Setbergi keypti húsin í Kaldárseli sem og kindur. Þau voru öll rifin, nema baðstofan, sem stóð uppi fram undir aldamót. Hún var einkum notuð sem sæluhús fyrir fjármenn Setbergsbænda, sem þá héldu fé sínu, einkum sauðum, víðs vegar þar í högum.

Einnig var gott fyrir Krýsvíkinga að hafa þarna afdrep á ferðum sínum. Haustleitarmenn Grindvíkinga leituðu alla leið að Kaldá og höfðu náttstað í Kaldárseli.

Kaldársel

Í tóftum Kaldársels 1934.

Þá var mikil umferð útlendra ferðamanna til Krýsuvíkur, einkum til að skoða hinar nýyfirgefnu brennisteinsnámur, sem þar voru. Þeir gistu margir í Kaldárseli. Baðstofan bar þess merki. Í sperrur og súð voru skorin ófá mannanöfn af ýmsum þjóðernum.
Að liðnum aldamótum 1900 var ekkert hús lengur í Kaldárseli. Ferðum útlendinga fækkaði, Krýsvíkingar týndu ört tölunni, fjallleitir Grindjána styttust og hið stóra Setbergsheimili tvístraðist. Og fénaðurinn hvarf úr högunum.

Síðasti bóndinn í Kaldárseli
Árin 1906-1908 fékk Kristmundur Þorláksson Kaldársel til afnota, síðar stórbóndi í Stakkavík. Hann kom upp smáheyhlöðu í Kaldárseli fyrir sínar 50 kindur með því að byggja yfir hina gömlu baðstofutótt, sem þá stóð enn ófallinn. Þá byggði hann þar lambahús. Ekki hafði hann not af gömlu tóttunum að öðru leyti en því að hann gat nýtt úr þeim hraunhellurnar, sem hann gerði af miklum dugnaði. Kristmundur lá við í Hafnarfirði, en fór fótgangandi um veturinn beitarhúsaveginn í Kaldársel í myrkri kvölds og morgna. Ærnar hafði hann við gömlu hellana, sem eru skammt norður af Selinu. Lömbin voru í húsi, en músin vildi leggjast á þau. Kristmundur flutti loks fé sitt í Hvassahraun þar sem honum bauðst vist. Hann var því síðasti bóndinn í Kaldárseli.

Kaldársel

Gengið um Kaldársel og nágrenni.

Letursteinar KFUM-K

Kaldársel

Kaldársel – einn letursteinanna.

Eins og sjá má á uppdrættinum er margt að skoða í nágrenni við Kaldársel. Vestan við Kaldá, fast við árbakkann, eru letursteinar frá upphafi veru KFUM  og K á staðnum. Efst á Borgarstandi er fjárborgin og undir honum að norðanverðu eru tóttir gamals stekkjar og fjárhýsisins. Enn norðar eru hleðslur í Nátthaganum. Austan hans eru fjárhellarnir og hleðslurnar í kringum op þeirra. í einum hellanna er hlaðinn garður eftir honum miðjum.

Stærsti hellirinn er sá syðsti. Í honum er gott rými. Vatnsleiðslan gamla er austan Kaldárselsvegar og er forvitnilegt að sjá hvar hún hefur komið yfir Lambagjá, en í gjánni er mikil hleðsla undir hana. Sú hleðsla mun hafa að nokkru leiti hafa verið tekin úr austari fjárborginni á Borgarstandi.

Kaldársel 1932

Kaldársel 1932. Tóftir selsins hægra megin.

Í Gjám enn norðar eru hellar, hleðslur og hellisop. Austan við gamla veginn að Kaldárseli má enn sjá elstu götuna til og frá selinu, klappaða í bergið. Enn vestar, austan Fremstahöfða, er hálfhlaðið hús, líkt því sem sjá má á gömlu ljósmyndum frá 1892, að gamla selið í Kaldárseli hefur litið út.
Eins og sjá má þarf ekki að ganga alla leið á Helgafell til að finna tilefni til gönguferða í kringum Kaldársel.”

Sjá meira um Kaldársel og  nágrenni m.a. HÉR, HÉR, HÉR, HÉR, HÉR, HÉR og HÉR.

Heimild:
-Fjarðarpósturinn – 42. tölublað (31.10.2002), Ómar Smári Ármannsson, Kaldársel og nágrenni, bls. 4.

Lambagjá

Hleðslur undir vatnsleiðsluna um Lambagjá.

Lambafellsklofi

Gengið var að Lambafelli frá Eldborg ofan við Höskuldarvelli.

Lambafellsklofi

Lambafellsklofi.

Fylgt var gömlum stíg í gegnum hraunið sunnan og austan fellsins. Hann liggur síðan áfram inn í hraunið til austurs austan þess. Lambafellsklofi er alltaf jafn áhrifamikill heimsóknar. Klofinn er misgengi í gegnum fellið, stundum nefndur Lambagjá. Þjófagjáin í Þorbjarnarfelli er af sama meiði. Glögglega má sjá heila bólstra í berginu þegar farið er í gegnum og upp úr gjánni um mitt fellið. Einstaklega fallegur brólstri er í gjárbarminum þegar upp er komið. Annars er Lambafellið þrjú fell, sem hraun hafa runnið umhverfis. Austasti hlutinn er skilinn frá hinum með Dyngnahrauni, sem runnið hefur úr nokkrum gígum austan Grænudyngju. Sjá má misgengið ganga áfram í gegnum það. Norðvestan við Lambafell er Snókafell, samskonar jarðfræðifyrirbæri, líkt og Oddafellið vestar. Vestan Lambafells liðast Afstapahraunið áleiðis niður í Kúagerði. Norðan þess er Gamla Afstapahraun er liggur allt niður í Selhraun ofan Þorbjarnarstaða í Hraunum. Austar eru hraun frá Mávahlíðum um Einihlíðar.

Lambafell

Lambafell.

Frá Lambafelli sést vel yfir að Mávahlíðum í suðaustri, dyngjunum; Grænudyngju og Trölladyngju í suðri og Keili í vestri.
Frábært veður. Gangan tók klukkustund og eina mínútu.

Lambafellsklofi

Lambafellsklofi.

Kaldársel

Á vef Umhverfisstofnunar má lesa eftirfarndi um friðlýsingu Kaldárhrauns og Gjárna, þ.m.t. Lambagjá.

Kaldársel

Kaldárhraun – Gjár.

Kaldárhraun og Gjárnar í Hafnarfirði voru friðlýst sem náttúruvætti árið 2009. Markmið með friðlýsingu Kaldárhrauns og Gjánna er að vernda helluhraunsmyndun og fagrar klettamyndanir í vestari hrauntröðinni frá hinni kunnu eldstöð Búrfelli.

Kaldárhraun er heillegt og óraskað helluhraun á vinsælu útivistarsvæði við Helgafell, en upptök hraunsins eru í gígum austan við norðurenda Gvendarselshæðar. Kaldárhraun er eitt síðasta dæmið um heillegt og óraskað helluhraun í landi Hafnarfjarðar og er fræðslu- og útivistargildi svæðisins metið hátt. Á svæðinu eru fornminjar sem tengjast selbúskap, m.a. gömul gata, Kaldárstígur.

Stærð hins friðlýsta svæðis er 208,9 ha.

Í auglýsingu um “náttúruvættið Kaldárhraun og Gjárnar í upplandi Hafnarfjarðar” – nr. 396/2009 3. apríl 2009, segir:

1. gr.

Kaldársel

Gjár.

Um friðlýsinguna.
Umhverfisráðherra hefur ákveðið að tillögu Umhverfisstofnunar og Náttúrufræðistofnunar Íslands og með samþykki bæjarstjórnar Hafnarfjarðarkaupstaðar, sem landeiganda og sveitarstjórnar, að friðlýsa Kaldárhraun og Gjárnar, þ.e. Norðurgjá, Suðurgjá og Lambagjá, sem náttúruvætti, skv. 2. tölulið 53. gr. laga um náttúruvernd, nr. 44/1999.
Kaldárhraun er heillegt og óraskað helluhraun á vinsælu útivistarsvæði við Helgafell, en upptök hraunsins eru í gígum austan við norðurenda Gvendarselshæðar. Kaldárhraun er eitt síðasta dæmið um heillegt og óraskað helluhraun í landi Hafnarfjarðar og er fræðslu- og útivistargildi svæðisins metið hátt. Á svæðinu eru fornminjar sem tengjast selbúskap, m.a. gömul gata, Kaldárstígur. Stærð hins friðlýsta svæðis er 207,1 hektari.

2. gr.

Lambagjá

Hleðslur undir vatnsleiðsluna um Lambagjá frá 1919.

Markmið friðlýsingarinnar.
Markmið með friðlýsingu Kaldárhrauns og Gjánna sem náttúruvættis er að vernda helluhraunsmyndun og fagrar klettamyndanir í vestari hrauntröðinni frá hinni kunnu eldstöð Búrfelli.

3. gr.
Mörk náttúruvættisins.
Mörk náttúruvættisins afmarkast af eftirfarandi ISN-93 hnitum og eru sýnd á meðfylgjandi uppdrætti.
Lóð frístundahúss sem er innan útmarka náttúruvættisins er undanskilin friðlýsingunni.

4. gr.

Lambagjá

Lambagjá.

Umsjón náttúruvættisins.
Umsjón og rekstur náttúruvættisins skal vera í höndum umhverfisnefndar Hafnarfjarðarkaupstaðar, samkvæmt samningi Umhverfisstofnunar og Hafnarfjarðarkaupstaðar sem
umhverfisráðherra staðfestir. Umhverfisstofnun skal sjá um gerð verndaráætlunar fyrir náttúruvættið í samráði við Hafnarfjarðarkaupstað, sbr. d-lið 6. gr. laga um náttúruvernd, nr.
44/1999.

5. gr.
KaldárhraunUmferð um náttúruvættið.
Almenningi er heimil för um náttúruvættið, enda sé gætt góðrar umgengni. Í samræmi við samþykkt um hundahald er óheimilt að hafa hunda í náttúruvættinu án fylgdar og tryggrar stjórnar. Akstur vélknúinna farartækja utan akvega er óheimill í náttúruvættinu.

6. gr.
Verndun jarðmyndana, gróðurs, dýralífs og menningarminja.
Óheimilt er að hrófla við eða skemma á annan hátt jarðmyndanir í náttúruvættinu. Einnig er þar óheimilt að spilla gróðri og trufla dýralíf og eru skotveiðar bannaðar. Óheimilt er að hrófla við eða skemma á annan hátt menningarminjar á hinu friðlýsta svæði.

7. gr.

Kaldárhraun

Kaldárhraun – friðlýsing.

Landnotkun og mannvirkjagerð.
Allar framkvæmdir innan náttúruvættisins eru háðar leyfi Hafnarfjarðarkaupstaðar og Umhverfisstofnunar, sbr. 38. gr. laga um náttúruvernd, nr. 44/1999. Framkvæmdir skulu vera í samræmi við samþykkt skipulag og verndaráætlun. Gert er ráð fyrir að gömlum stígum og vegum verði viðhaldið sem gönguleiðum og einnig að fjölga merktum og stikuðum gönguleiðum og stígum um svæðið sem tengst geta öðrum gönguleiðum um uppland Hafnarfjarðar.

8. gr.

Kaldársel

Kaldárhraun og nágrenni – loftmynd.

Undanþágur.
Umhverfisráðherra getur, að fenginni umsögn Umhverfisstofnunar og umhverfisnefndar Hafnarfjarðarkaupstaðar, veitt heimild til þess að vikið verði frá reglum þessum í einstökum
tilfellum gangi það ekki gegn markmiðum friðlýsingarinnar.

9. gr.
Refsiákvæði.
Brot gegn friðlýsingu þessari varðar sektum eða fangelsi allt að tveimur árum, skv. 75. og 76. gr. laga um náttúruvernd, nr. 44/1999.

10. gr.
Gildistaka.
Friðlýsingin öðlast þegar gildi.
Umhverfisráðuneytinu, 3. apríl 2009.
Kolbrún Halldórsdóttir.
Steinunn Fjóla Sigurðardóttir

Kaldársel

Kaldársel – fjárborg á Borgarstandi.

Í Skrá um friðlýstar fornleifar, fyrsta útgáfa 1990, segir m.a. um minjar á hinu friðlýsa svæði: “Kaldársel. 1. Bæjarrústir, rétt sunnan við skála KFUM, svo og aðrar rústir í hinu gamla túni. 2. Fjárborg, nú hrunin, þar sem hæst ber á svonefndum Standi, skammt fyrir norðan bæjarrústirnar.
3. Fjárhústóft og gerði, rétt hjá borginni, þeim megin sem frá bæjarrústunum veit. 4. Hleðsla undir gamla vatnsveitustokkinn til Hafnarfjarðar, þvert yfir gjá. Skjal undirritað af KE 30.04.1964.
Þinglýst 05.05.1964.

Heimild:
-https://ust.is/nattura/natturuverndarsvaedi/fridlyst-svaedi/sudvesturland/kaldarhraun-og-gjarnar/
-Skrá um friðlýstar fornleifar, fyrsta útgáfa 1990.

Kaldárhraun

Kaldárhraun – samningur um náttúruvættið milli Ríkis og Hafnarfjarðarbæjar til 10 ára.

Búrfell
Gengið var um Lambagjá, en hún hefur verið friðuð. Með í för voru skiptinemar á vegum Lionshreyfingarinnar, annar frá Króatíu og hinn frá Slóvaníu.
Rauðshellir

Rauðshellir.

Ætlunin var m.a. að gefa þeim innsýn í myndun landsins og sýna þeim hrauntraðir, hraunhella og eldgíga.
Í Lambagjá eru hlaðnar þverfyrirhleðslur á a.m.k. tveimur stöðum og einnig er hlaðið fyrir þar sem auðvelt hefur verið að komast upp úr gjánni miðsvæðis. Líklegt má telja að gjáin hafi verið notuð sem aðhald eða jafnvel nátthagi um tíma. Hraunhaft er í hrauntröðinni, en gengið var undir það. Þar niðri var fallegt þrastarhreiður og í því þrjú egg. Þrösturinn hafði greinilega verpt í það öðru sinni í sumar. Skammt ofar var annað þrastarhreiður, yfirgefið. Gengið var áfram upp að opi Níutíumetrahellis. Frá því var haldið upp að Selvogsgötu þar sem hún liggur niður í Helgadal og kíkt í Vatnshelli áður en haldið var upp með misgenginu að Rauðshelli. Við op hans var einnig þrastarhreiður á sillu með fjórum eggjum í.

Rauðshellir

Hleðslur í Rauðshelli.

Farið var inn í hellinn og m.a. skoðuð hlaðin fyrirhleðsla, sem þar er. Misvísandi lýsingar eru á Rauðshelli. Til er gömul lýsing, sem mun vera rétt, en einnig hefur verið giskað á að um Hundraðmetrahellinn gæti verið að ræða, en slíkt passar ekki við gömlu lýsinguna. Náttúrulegur bekkur hefur verið þarna þvert yfir hellinn, sem bæði hefur verið hægt að komast yfir og undir. Hún er nú fallin, en rauður liturinn í hellinum er enn áberandi. Hleðslur eru í jarðfallinu og án efa einnig undir gróðurþekjunni, sem þar er. Forn stekkur er skammt norðar.
Þá var gengið upp í Fosshelli og haldið í gegnum hann. Sást vel hversu fallegur hraunfossinn er sem og flórinn í efri hluta hellisins.

Búrfellsgjá

Hlaðið fyrir helli í Búrfellsgjá.

Gengið var yfir að Búrfelli. Í hrauntröðinni er m.a. skúti með fyrirhleðslu. Haldið var upp eftir tröðinni og litið niður í gíginn, sem er ótrúlega tilkomumikill. Háir veggir traðarinnar geyma ótrúlegar hraunmyndarnir, ef vel er að gáð.
Búrfell er eldborg. Frá henni rann hraun niður í Hafnarfjörð og Skerjafjörð. Heildarflatarmálið er u.þ.b. 18 ferkílómetrar. Hraunið er talið vera í kringum 7200 ára.
Búrfellið tilheyrir eldstöðvakerfi kennt við Krísuvík. Búrfell er hringlaga gígur úr hraunkleprum. Gígurinn er 179 metrar yfir sjó þar sem hann er hæstur og 140 metrar að þvermáli milli barmanna. Dýptin hefur mælst 58 metrar frá hæsta og 26 metrar frá lægsta barmi. Mismunurinn á barmi gígsins stafar af misgengi sem átti sér stað eftir að eldvarpið hlóðst upp.

Búrfellsgjá

Búrfellsgjá.

Búrfell gaus einu sinni, það var flæðigos og framleiðslan var fyrst og fremst Búrfellshraun. Meginuppistaðan í eldvarpinu eru kleprar, þeir eru lagskiptir og hallar lögunum bratt niður í gíginn. Rofist hefur ofan og utan úr Búrfelli og hefur myndast hvasst egg á toppi fjallsins sem er úr lausri gosmöl.
Búrfellshraun er innan marka Garðabæjar og Hafnarfjarðarbæjar. Tveir megin hraunstraumar hafa komið frá Búrfelli. Það sem aðgreinir þessar kvíslir er Helgadalshraun.

Búrfellshraun

Búrfellshraunin.

Búrfellið gengur undir ýmsum nöfnum eftir því hvar það er. Sá hraunstraumur sem er Hafnarfjarðarmegin hefur eftirfarandi nöfn: Næst Búrfelli er Smyrlabúðahraun (kennt við fuglinn smyril sem gerði sér hreiður þarna), Gráhelluhraun, Lækjarbotnahraun, Stekkjarhraun, Sjávarhraun, Arnarhraun og vestar heitir það Flatarhraun. Garðabæjarmegin er fyrst Garðahraun, Urriðakotshraun, Vífilstaðahraun, Hraunholtshraun, Gálgahraun og Balahraun. Hraunið er stórbrotið apalhraun og meðalþykkt þess er ekki undir 20 metrum.
Sá hraunstraumur sem runnið hefur í Heiðmörk og niður í Garðabæ hefur runnið eftir Búrfellsgjá. Búrfellsgjá þykir með fallegri hrauntröðum landsins. Gjáin er 3,5 km á lengd með meginstefnu í norðvestur. Búrfellsgjá er mjóst upp við gíginn eða um 20-30 metrar milli barma en breikkar þegar lengra dregur og verður mest 300 metrar. Í hrauninu út með Vífilsstaðahlíð grynnkar hrauntröðin og hverfur, sá endi Búrfellsgjár nefnist Selgjá. Á köflum eru gjárveggirnir þverhníptir og mynda sums staðar grunna hellisskúta sem eru með snarhöllu þaki. Barmar, veggir og botn hrauntraðarinnar er allt úr Búrfellshrauni.

Búrfellsrétt

Búrfellsrétt. Gerðið fjær.

Gengið var niður gjána og að Gjáarrétt. Réttin var skoðuð sem og Gerðið. Innst í því, undir slútandi klettaveggnum er hlaðið hús, nokkuð heillegt.

Gjáarrétt

Gjáarrétt og nágrenni.

Gjáarrétt hefur sennilega verið lögrétt Garðhreppinga, Bessataðahreppsbúa og Hafnfirðinga í nokkur hundruð ár (Ól. Þorvaldsson). Sigurður í Görðunum segir í minningum sínum: “Réttin okkar var í hrauninu, skammt fyrir sunnan Vatnsenda. Hygg ég, að það hafi verið ein sérkennilegasta rétt á landinu. Hún hét Gjárétt, enda var hún í gjá. Skammt frá eru víðir og fagrir vellir og þar var oft leikið sér og ekki sízt sprett úr spori bæði þegar komið var í réttina og eins þegar réttardeginum var lokið.”

Gjáarrétt

Gjáarrétt – uppdráttur ÓSÁ.

Gjáarrétt (Gjárétt) var fjallskilarétt (lögrétt) til 1920, en þá var hún flutt niður í Gráhelluhraun og nefndist Hraunrétt. Dilkar voru 12 talsins uns einum dilk Selvogsmanna var bætt við suðaustast í réttinni. Árið 1955 var gerð rétt við Kaldársel. Gjáarrétt var friðlýst að tilstuðlan þjóðminjavarðar 1964.
Frábært veður – hlýtt og stillt. Gangan tók 3 klst og 30 mín.

Upplýsingar um Búrfellshraun er m.a. fengið af http://www.flensborg.is/sisi/hafnarfj/burfellshraun.htm

Búrfell

Gígur Búrfells – upptök Búrfellshrauns.

Lambafellsklofi

Gengið var frá Eldborg austan við Höskuldarvelli að Lambafelli. Ætlunin var að fara um Lambafellsklofa, misgengi og gjá svo til í gegnum fellið.

Eldborg

Eldborg undir Dyngju.

Eldborgin er ein hinna fallegu gíga á Reykjanesi, sem hafa orðið efnisflutningum að bráð. Aðrir slíkir eru t.d. Moshóll, sem Ísólfsskálavegur liggur nú þvert í gegnum sunnan Núpshlíðarhorns, Litla-Eldborg undir Geitahlíð og Rauðhóll norðn við Stampana á Reykjanesi. Einnig mætti nefna Rauðhól undir Sandfellshæðum norðan Vatnsskarðs, Óbrinnishólagíginn og Rauðhóla norðan Elliðavatns.
Ef þessi merkilegu og tignarleg jarðfræðifyrirbæri hefðu verið látin óhreyfð væri Reykjanesskaginn enn verðmætari fyrir bragðið. En því miður er nú of seint að snúa ofan af því, en hins vegar ættu þessar skemmdir að geta orðið áminning til framtíðar.

Lambafellsklofi

Í Lambafellsklofa.

Um 15 mín. gangur er að Lambafellsklofa (sem sumir kalla Lambagjá). Þegar komið er að honum neðan frá opnast gjáin skyndilega og inn eftir henni sést í mjóan gang með háa hamraveggi á báðar hendur. Tófugras vex á brotabergsbörmum og þegar stillt er í veðri í ágústmánuði er gjáin venjulega full af fiðrildum.
Gengið var eftir gjánni og upp úr henni að sunnanverðu. Nokkuð bratt er upp en tiltölulega auðvelt ef rólega er farið. Uppi er fallegt útsýni yfir Dyngnahraunið og yfir að Trölladyngju (380 m.ys.). Sennilega er eitt fallegasta sjónarhornið að henni frá þessum stað.
Gengið var yfir Lambafellið, yfir úfið hraun sunnan þess og inn á jarðhitasvæði norðan Eldborgar. Þar eru hleðslur á einum stað. Munu þær eiga að vera skjól við gufubað í einu gufuuppstreyminu.

Sogin

Sogin. Trölladyngja og Grænadyngja fjær.

Haldið var eftir slóða austur fyrir Trölladyngju og síðan beygt til hægri inn kvos á milli hennar og Grænudyngju. Kvosinni var fylgt upp aflíðandi hlíðina milli dyngnanna. Þegar upp var komið tók við grasi gróin skjólsæl laut, sennilega hluti af hinum forna gíg, en dyngjunar eru að mestu móbergsfjöll. Jökullinn hefur síðan sorfið sig niður milli kollana.

Sunnan Grænudyngju er einstaklega fallegt klettabelti, sem auðvelt er að ganga upp með þegar komið er upp frá Lækjarvöllum norðan Djúpavatns. Frá því er fallegt útsýni yfir Sogin, Fíflavallafjall, Hörðuvallaklof og Hörðuvelli, Hrútafell og Sveifluháls. Tiltölulega auðvelt er að ganga niður með norðanverðri Grænudyngju og í kvosina, sem fyrr var nefnd.

Sog

Í Sogum.

Gengið var áfram niður hlíðina til vesturs, að Sogaselsgíg. Fallegt útsýni er á Söðul, upp Sogin þar sem litadýrðin ræður ríkjum, yfir að fagurlituðu Oddafellinu, sem myndar þarna sérstæðan forgrunn fyrir Keili, sem og yfir að Selsvöllum vestan við Núpshlíðarháls. Í Sogunum er jarðhiti og eftir Sogadal rennur lækur. Höskuldavellir og Sóleyjarkriki eru meira og minna mynduð úr jarðvegi þaðan úr hlíðunum. Í læknum má finna litskrúðuga smásteina, hvíta, rauða og græna, ef vel er að gáð.
Í Sogaseli eru tóftir þriggja seljahúsa og a.m.k. tveir stekkir. Auk þess er ein tóft utan gígsins.
Slóða var fylgt niður með Trölladyngju og að Eldborg.
Veður var frábært – sól og hiti. Gangan tók 3 klst og 2 mín.

Grænadyngja

Grænadyngja. Sogin framar.

Kaldársel

Gengið var upp með Lambagjá frá gamla Kaldárselsveginum. Gjáin, sem reyndar er hrauntröð, er bæði löng og breið. Til marks um mikilfeng hennar má geta þess að hún er nú friðlýst sem náttúruvætti.

Lambagjá

Vatnsleiðsluundirhleðsla yfir Lambagjá.

Hér er um að ræða eina af hrauntröðum Búrfells, en Búrfellshraun kemur úr gíg þess þarna skammt norðaustar. Búrfell tilheyrir eldstöðvakerfi kennt við Krísuvík. Búrfell er hringlaga gígur úr hraunkleprum og er gígurinn 179 metrar yfir sjó þar sem hann er hæstur og 140 metrar að þvermáli milli barmanna. Dýptin hefur mælst 58 metrar frá hæsta og 26 metrar frá lægsta barmi. Mismunurinn á barmi gígsins stafar af misgengi sem átti sér stað eftir að eldvarpið hlóðst upp. Sama fyrirbærið er ástæðan fyrir því að Lambagjá virðist standa hærra en hraunið austan við hana. Kvikan hefur runnið um rás frá Búrfelli áleiðis að Kaldárseli. Þar sem op Níutíumetrahellisins er nú opnaðist rásin að hluta og kvikan streymdi í farvegi líkt og fljót. Þakið á efsta hluta hennar storknaði, en eftir að forðinn tæmdist, og þar með rásin, féll þakið niður og mundaði smafelldari tröð.
Búrfell gaus einu sinni, það var flæðigos og framleiðslan var fyrst og fremst þetta Búrfellshraun.
Hleðslan undir fyrstu vatnsleiðslunaBúrfellshraun er innan marka Garðabæjar og Hafnarfjarðarbæjar. Tveir megin hraunstraumar hafa komið frá Búrfelli. Það sem aðgreinir þessar kvíslir er Helgadalshraun, en í því er Lambagjáin. Búrfellið gengur undir ýmsum nöfnum eftir því hvar það er. Sá hraunstraumur sem er Hafnarfjarðarmegin hefur eftirfarandi nöfn: Næst Búrfelli er Smyrlabúðahraun (kennt við fuglinn smyril sem gerði sér hreiður þarna), Gráhelluhraun, Lækjarbotnahraun, Stekkjarhraun, Sjávarhraun, Arnarhraun og vestar heitir það Flatarhraun. Garðabæjarmegin er fyrst Garðahraun, Urriðakotshraun, Vífilstaðahraun, Hraunholtshraun, Gálgahraun og Balahraun. Hraunið er stórbrotið apalhraun og meðalþykkt þess er ekki undir 20 metrum. Samkvæmt aldursákvörðun á mó sem kom í ljós hjá Bala á Álftanesi er það um 7240±130 C14 ára.

Misgengið í Helgadal - Búrfell fjær

Áberandi mannvirki liggur þvert á Lambagjá vestarlega og er allnokkuð hátt. Þetta eru leifar af undirhleðslu fyrsta vatnsstokksins úr Kaldárbotnum um 1919. Vatninu var fleytt yfir Lambagjána og áfram yfir í Gjáahraunið og Gráhelluhraun þar sem það rann með undir hrauninu uns það kom upp í Lækjarbotnum. Þótt leiðslan sé löngu aflögð og að mestu horfin má enn sjá undirhleðsluna frá Lækjarbotnum yfir að ofanverðri Sléttuhlíð.
“Fyrr á tímum þegar engin vatnsveita var í Hafnarfirði sótti fólk vatn í Hamarkotslæk. Þessu fylgdi mikil óhollusta vegna óþrifnaðar og sýkingarhættu. Eftir að Vatnsveitufélag Hafnarfjarðar var stofnað árið 1904 var grafinn brunnur vestan í Jófríðarstaðaholtinu, þar sem svonefnt Kaldadý var. Frá honum voru lagðar pípur um bæinn. Þessi vatnsveita var ein af fyrstu vatnsveitum á landinu. Árið 1908 geisaði taugaveiki upp í Hafnarfirði og töldu menn að rekja mætti orsök hennar til vatnsveitunnar. Þá var hún orðin ófullnægjandi og ákveðið var að leggja vatnsveitu frá Lækjarbotnum þar sem hluti af vatni því sem myndar Hamarkotslæk er. Þar koma lindir framundan hrauninu. Stuttu eftir það komust menn að því að uppsprettan í Lækjarbotnum var ekki næg. Þá fóru menn að huga að því að leggja vatnsæð frá Kaldá til bæjarins. Svo var ákveðið að veita vatni úr Kaldá yfir á aðalrennslissvæði Lækjarbotna til að tryggja Op Níutíumetrahellisinsvatnsveitunni og rafstöð bæjarins nægilegt vatn.
Vatnið úr Kaldá var leitt mestan hluta leiðarinnar í opinni trérennu. Trérennan var lögð yfir Hjallamisgengið og hraunið en vatninu var síðan  sleppt við suðurenda Setbergshlíðar [Setbergshlíð endar við Þverhlíð, hér á því að standa “Sléttuhlíðar”] þar sem hraunið byrjar að falla að Lækjarbotnum í þeirri von um að jarðlög undir hrauninu skiluðu vatninu í Lækjarbotna sem það og gerði eftir nokkra daga. Þegar þetta var ekki fullnægjandi var lögð breiðari pípa. Við þá aukningu höfðu flestar götur bæjarins nægilegt vatn. Það dugði samt ekki lengi því að eftir nokkur ár fór svo aftur að bera á vatnsskorti. Ástæðan fyrir því var m.a. sú að rennan úr Kaldá gekk smá saman úr sér og úreltist og þá minnkaði stöðugt vatnsmagnið sem hún gat flutt. Einnig var þetta vegna þess að þrýstingurinn í vatnsleiðslunum í bænum var ófullnægjandi og náði vatnið þá ekki upp í þau hús sem hæst stóðu.
Þá  var ákveðið að leggja vatnsæð úr Kaldárbotnum. Nokkrar endurbætur voru svo gerðar á henni þegar húsum í bænum fór að fjölga. Þegar grunnvatnsyfirborðið fór að lækka ört vegna minnkunar á úrkomu, voru nokkrar holur boraðar við Kaldárbotna og þær tengdar við vantsveituna. Orsakir hinnar miklu vatnsnotkunar í Hafnarfirði voru taldar vera vegna mikils fjölda fiskvinnslustöðva, göllum í gatnakerfi bæjarins, óhóflegrar vatnsnotkunar og vegna skemmda og bilana á heimilislögnum. Árið 1967 rættist svo úr þessu. Vatnsmagnið í vatnsbólinu í Kaldárbotnum jókst vegna aukinnar úrkomu og ýmsar endurbætur voru gerðar á vatnsveitunni.”
Á leiðinni var m.a. kíkt á Níutíumetrahellinn við endann á Lambagjá.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Heimildir m.a.:
-Úr sögu Vatnsveitu Hafnarfjarðar.

Kaldársel - vatnsleiðsla

Kaldársel – hleðsla undir vatnsleiðsluna úr Kaldárbotnum.

Níutíumetrahellir

Gengið var frá Kaldá að Níutíumetrahellinum. Nokkrir duglegir krakkar voru með í för. Þótt opið gefi ekki til kynna að þarna sé langur hellir er hann nú samt sem áður jafn langur og nafnið gefur til kynna.

Helgadalshellar

Í Fosshelli.

Fyrst er komið niður í nokkurs konar lágan forsal, sem þrengist síðan smám saman uns fara þarf niður á fjóra fætur. Sem betur fer var moldin á botninum frosin svoauðveldara var að feta sig áfram inn eftir hellinum. Eftir spölkorn vítkar hann á ný, en þó aldrei verulega. Svo virðist sem hellirinn beygi í áttina að Lambagjá, sem er þarna norðvestan við opið. Sennilega er þessi rás ein af nokkrum, sem runnið hafa í gjána á sínum tíma og myndað þá miklu hraunelfur, sem runnið hefur niður hana til norðvesturs og síðan til vesturs í átt að Kaldárseli.
Þá var haldið niður í Helgadal við horn vatnsverndargirðingarinnar. Þar í brekkunni er Vatnshellir, op niður í misgengi, hægra megin við stíginn. Annað op á helli, ofan í sama misgengið. Gæta þarf sín vel þegar farið er ofan í Vatnshelli. Opið er tiltölulega lítið, en þegar komið er niður virðist leiðin greið til vesturs. Svo er þó ekki því kristaltært vatnið er þarna alldjúp. Það sést hins vegar ekki fyrr en stigið er í það. Ef komast á áfram þarf bát. Það fer þó eftir vatnshæðinni, en vatnið í Kaldárbotnum stöðvast þarna við misgengið á leið sinni til sjávar. Það er ástæðan fyrir tilvist vatnsbóls Hafnfirðinga þarna skammt vestar, undir Kaldárhnúkum.

Helgadalshellar

Í Rauðshelli.

Áður en haldið var inn í Hundraðmetrahellinn, sem opnast innan úr sprungu, var gengið að Rauðshelli, sem er þar skammt norðvestar. Einhvern tímann hefur hluti hellisins verið notaður sem fjárskjól, a.m.k. gróið jarðfallið við annað op hans. Gömul sögn er til af Rauðshelli, en hellirinn fékk síðar nafnið Pólverjahellir eftir að skipshöfn leitaði þar skjóls. Sjá má bælið við stærra opið. Hellirinn sjálfur er rúmgóður og lítið sem ekkert hrun í honum. Hægt er að ganga svo til uppréttur inn eftir honum, en í heildina er hellirinn hátt í hundrað metra langur. Hann beygir til hægri þegar inn er komið og síðan til vinstri. Fremst í hellinum eru fallegar hraunsyllur. Skammt norðar er forn stekkur. Hann er ekki á fornminjaskrá.

Vatnshellir

Í Vatnshelli.

Þegar komið er niður í sprunguna þar sem Hundraðmetrahellirinn er sést op til norðvesturs. Sá hluti nær einungis nokkra metra. Fallegir steinbekkir eftir storknaðan flór er með veggjum rásinnar er liggur til suðausturs. Hún þrengist smám saman og lækkar uns skríða þarf áfram. Loks lokast hellirinn svo til alveg. Hrunið hefur úr loftinu. Áður fyrr var hægt að skríða áfram og koma upp á milli steina í jarðfalli nokkru austar, en nú þarf grannan mann til ef það á að vera hægt. Mjög erfitt er að finna leiðina í hellinn þeim megin.

Helgadalur

Op Hundraðmetrahellisins.

Þá var haldið inn í stóra rás við eystri op Hundraðmetrahellis, sem er í rauninni hluti af þeirri fyrri, og inn í Fosshellinn. Í geyminum áður en komið er að fossinum er komið að miklu hruni. Ekki er óhugsandi að rás kunni að leynast efst og norðvestast í hruninu ef nokkrir steinar væru færðir til. Fossinn kemur úr rás í u.þ.b. þriggja metra hæð. Hefur hann storknað þar í þessari fallegu hraunmyndun. Farið var upp í rásina. Fallegur flór sést þar í henni. Gengið var upp eftir honum og áfram út úr rásinni skammt austan fjárgirðingar, sem þar er. Annað op er skammt vestar, en ekki var farið inn í það að þessu sinni. Fosshellirinn gæti verið um 40 metra langur.

Músarhellir

Í Músarhelli.

Frá Fosshelli var gengið upp í Valaból og komið við í Músarhelli. Hann er í rauninni rúmgóður skúti, sem hlaðið hefur verið framan við og gert rammað hurðargat á. Bekkur er þar inni og gestabók. Farfuglar gerðu afdrep þetta á sínum tíma, en síðan hafa skátar og fleiri nýtt sér það af og til. Í Valabóli er fallegur og skjólsæll trjálundur með sléttum grasblettum. Valahnúkar gnæfa yfir með fallegum bergmyndunum.
Veður var ágætt – lygnt, en fremur skuggsýnt. Það kom þó ekki að sök því góð leiðarljós lýstu veginn.
Gangan tók um 2 klst. Frábært veður.

Valaból

Valaból.

Kaldársel

Gengið var um Kaldársel. Skoðað var gamla sel- og bæjarstæðið ofan við bakka Kaldár og síðan haldið yfir að Borgarstandi þar sem fjárborgin, stekkurinn og fjárskjólin voru skoðuð. Þá var haldið um Lambagjá upp í Helgadal þar sem nokkrir hellar voru barðir augum. Loks var gengið upp í Valaból og síðan um Valahnúka niður að Kaldárseli.

Kaldárssel

Í fjárskjól við Kaldársel.

Kaldársselssvæðið er nokkuð sérstakt, þótt ekki sé fyrir annað að það er bæði á vatnsverndarsvæði höfuðborgarsvæðisins og innan Reykjanesfólksvangs. Auk þess er það eitt helsta útivistarsvæði Hafnfirðinga.

Lengi vel mátti sjá leifar veggja tóftanna í Kaldárseli, allt þangað til fólk fór að sækja í þá reglulegt grjótið og nota í annað. Loks voru þær sléttaðar út. Húsaskipanina mátti rekja greinilega fram eftir 20. öld. Vegginir voru þegjandi vitni þess, að þar hefði fólk búið endur fyrir löngu, stundum við misjafnar aðstæður.
Kaldársel átti sér ekki langa sögu sem fastur bústaður og saga þess er svipaður sögum smábýla á þeim tíma. En sögu á þetta fona býli samt – “sigurljóð og raunabögu”. Kaldársel dregur nafn sitt af litlu ánni, sem rennur fast sunnan við hið forna tún. Bærinn stóð sem næst á miðjum túnbletti, örfáa metra frá Kaldá.
Árið 1929 kom út í Reykjavík lítil bók með þremur kvæðum eftir séra Friðrik Friðriksson. Kver þetta nefnist “Útilegumenn”, og heitir annað aðalkvæðið “Kaldársel”. Friðrik var síðasti landnámsmaðurinn í Kaldárseli þar sem fyrir eru sumarbúðir KFUM og K. Kvæðið er svona:

Kaldársel

Kaldársel – Helgafell fjær.

”Eitt sinn ég kom
að Kaldárseli,
eyðistað
í ógna hrauni,
gömlu býli
og bæjarrústum:
einmana tóttir
eftir stóðu.

Reikaði ég einn
um rústir þessar, ríkti þar yfir
ró og friður,
unaðskyrrð djúp
við elfu niðinn
svölum gaf sál
og sæla gleði.”

Kaldársel

Op fjárskjóls.

Elstu heimild um Kaldársel er líklega að finna í Jarðabók þeirra Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1703. Þar segir í sambandi við lýsingu Garða á Álftanesi: “Selstöð á staðurinn þar sem heitir við Kaldá, þar eru bæði hagar og vatnsból gott”. Þetta telur Jarðabókin ein af hlunnindum Garðastaðar og er augljóst að staðurinn hafi átt landið, eða allt þar til Hafnarfjarðarbær kaupir það árið 1912.

Þótt Kaldársel hafi um aldir verið eign Garðakirkju, ásamt miklu landflæmi til suðurs, austurs og norðurs frá Kaldárseli, er með öllu óvíst, hvort Garðaprestar hafi nokkru sinni haft þangað selfarir. Hitt er vitað, að þar var haft í seli frá Hvaleyri á síðasta fjórðungi síðustu aldar (skrifað 1968), en leiguselstöð hlýtur það að hafa verið, þar eð elstu landamerki, sem vitað er um, liggja í a.m.k. eins km vegalengd vestur frá Kaldárseli. Meðan selfarir voru mikið tíðkaðar, urðu landlitlir bændur oft að fá leigt land undir sel sín hjá landríkum bændum, svo að einsdæmi hefði ekki verið, þótt Hvaleyrarbóndinn leigði selstöð í Garðakirkjulandi.
Hvenær þessi selstöð hafi fyrst verið notuð frá Hvaleyri, er með öllu óljóst. Þegar litið er á bændatal Hvaleyrar um árið 1700 og það ástand, sem þar var í búskap manna, þegar jarðamat fór fram 1703, sést, að bændur hafa allir búið svo smátt, að varla er hugsanlegt, að selfarir hafi haft og síst svo langt í burtu sem í Kaldárseli, þar eð allgott selland og nóg vatn var helmingi nær Hvaleyri og auk þess í heimalandi, þar sem selstöðin við Hvaleyrarvatn.
Það eina, sem nú er vitað með vissu um selfarir í Kaldárseli, er, að hjónin Jón Hjartarson og Þórunn Sigurðardóttir höfðu þar í seli. Jón keypti Hvaleyrina 1842. Hann mun vera ríkasti bóndi, sem nokkru sinni hefur setið Hvaleyri. Jón dó árið 1866. Bjó Þórunn eftir það á Hvaleyri til 1873.

Kaldársel

Op fjárskjóls.

Þegar Þórunn dvaldist í “Selinu” á sumrin, sem var þó ekki nema við og við, fór hún stundum með orf sitt og hrífu upp með Kaldá og sló þar á hólmum, það sem slægt var, einnig smámýrarbletti milli kvíslanna í Kaldárbotnum. Þegar Þórunn á Hvaleyri hætti selförum að Kaldárseli, lagðist selstöð þar niður með öllu, og má ætla, eftir því sem síðar kemur fram, að það hafi verið 1865 eða 1866.
Í húsvitjunarbók Garðaprestakalls sést, að ábúandi er kominn í Kaldársel árið 1867, og er svo að sjá sem það sé fyrsta árið, sem fólk sé þar til ársdvalar. Þessi ábúandi var Jón Jónsson, kona hans og tvö börn. Þau munu hafa verið þar tvö eða þrjú ár. Fátæk voru hjón þessi og bústofn þeirra mjög lítill. Hjálparstelpa var hjá þeim, Sigríður Jónsdóttir frá Setbergi. Jón flutti síðan með fjölskyldu sína að Ási. Við brottförina lagðist búskapur niður í Kaldárseli um nokkur ár.
Árið 1867 er manntal tekið í Kaldárseli, og er það sennilega fyrsta árið, sem það er í byggð eftir brottför Jóns. Sá, sem þá er orðinn ábúandi, er Þorsteinn Þorsteinsson, upprunninn í Ölfusi. Þetta ár telur húsvitjunarbókin þar þrjár manneskjur í heimili, bóndann, ráðskonu og tökubarn. Árið eftir, 1877, eru þar fjórir í heimili og hefur þá bæst við vinnukona. Árið 1883 er Þorsteinn orðinn einn í Kaldárseli. Hann dó þar þremur árum seinna.
Þegar Þorsteinn fellur frá eru í Kaldárseli nokkra byggingar og önnur mannvirki.

Helgadalur

Í Rauðshelli.

Aðalbústofn Þorsteins var sauðfé og eitt eða tvö hross, kú mun hann aldrei hafa haft þar. Að mestu mun Þorsteinn hafa haft fullorðna féð á útigangi, þar eð heyfengur var þar lítill. Fjárhús með jötu við annan vegg var norðvestan við bæjarhúsin, og mun hann hafa haft lömb sín þar. Fullorðna féð hafði hann við hella, sem voru skammt norður frá bænum, eða þá í fjárborgum uppi á Standinum, sem er nokkru nær. Önnur þeirra er nú horfin með öllu. Þá hafi hann fé sitt við helli í Heiðmörk, svonefndum Þorsteinshelli.
Þegar flytja átti Þorstein látinn til greftrunar að Görðum höfðu burðarmenn á orði að óþarfi væri að fara með karlfauskinn alla leið þangað og stungu upp á því að hola honum þess í stað niður einhvers staðar á leiðinni. Að Görðum varð hann þó færður að lokum og jarðsettur þar af séra Þórarni Böðvarssyni.
Árin 1906 til 1908 var enn gerð tilraun til búsetu í Kaldárseli. Kristmundur Þorláksson frá Stakkavík í Selvogi fékk það til afnota og hélt hann þar afskekktri útigangshjörð sinni til haga og gjafar. Beitahúsavegur Kristmundar var langur þar sem hann var búsettur í Hafnarfirði og árferði óvenjuslæmt.
Saga Kaldársels er hvorki löng né viðburðarrík, en saga er það samt.

Rauðshellir

Í Rauðshelli.

Hús öll í Kaldárseli keypti Jón Guðmundsson bóndi að Setbergi svo og flestar kindurnar. Bæjarhús voru lítil en snoturlega byggð, og voru baðstofa, búr, eldhús og bæjardyr. Allar voru tætturnar vel hlaðnar úr sléttum, en nokkuð þykkum brunahellum og hvergi mold né torf á milli, svo sem venja var til um flestar byggingar þess tíma.

Húsin voru öll rifin, nema baðstofan, sem stóð uppi fram undir aldamótin 1900. Hún var einkum notuð sem sæluhús fyrir fjármenn Setbergsbænda, sem þá heldu fé sínu, einkum sauðum, víðs vegar þar í högum. Einnig var gott fyrir Krýsvíkinga að hafa þarna afdrep á ferðum sínum. Haustleitarmenn Grindvíkinga leituðu alla leið að Kaldá og höfðu náttstað í Kaldárseli. Þá var mikil umferð útlendra ferðamanna til Krýsuvíkur, einkum til að skoða hinar nýyfirgefnu brennisteinsnámur, sem þar voru. Þeir gistu margir í Kaldárseli. Baðstofan bar þess merki. Í sperrur og súð voru skorin ófá mannanöfn af ýmsum þjóðernum.
Að liðnum aldamótum 1900 var ekkert heillegt hús lengur í Kaldárseli. Ferðum útlendinga fækkaði, Krýsvíkingar týndu ört tölunni, fjallleitir Grindjána styttust og hið stóra Setbergsheimili tvístraðist. Og fénaðurinn hvarf úr högunum.

Danski höfuðsmaðurinn Daniel Bruun kom í Kaldársel árið 1897. Lýsir hann allvel Kaldárseli og umhverfi þar. Hann segir m.a. um húsatætturnar, að þær séu frábrugðnar flestum, ef ekki öllum þess konar byggingum hér á landi, þar sem þær séu byggðar úr grjóti einu saman.

Valahnúkar

Tröllin á Valahnúkum.

Árin 1906-1908 fékk Kristmundur Þorláksson Kaldársel til afnota, síðar stórbóndi í Stakkavík. Hann kom upp smáheyhlöðu í Kaldárseli fyrir sínar 50 kindur með því að byggja yfir hina gömlu baðstofutótt, sem þá stóð enn ófallinn. Þá byggði hann þar lambahús. Ekki hafði hann not af gömlu tóttunum að öðru leyti en því að hann gat nýtt úr þeim hraunhellurnar, sem hann gerði af miklum dugnaði. Kristmundur lá við í Hafnarfirði, en fór fótgangandi um veturinn beitarhúsaveginn í Kaldársel í myrkri kvölds og morgna. Ærnar hafði hann við gömlu hellana, sem eru skammt norður af Selinu. Lömbin voru í húsi, en músin vildi leggjast á þau. Kristmundur flutti loks fé sitt í Hvassahraun þar sem honum bauðst vist. Hann var því síðasti bóndinn í Kaldárseli.

Margt er að skoða í nágrenni við Kaldársel. Vestan við Kaldá, fast við árbakkann, eru letursteinar frá upphafi veru félagsmanna KFUM og K á staðnum. Efst á Borgarstandi er fjárborgin og undir honum að norðanverðu eru tóttir gamals stekkjar og fjárhýsins. Enn norðar eru hleðslur í Nátthaganum. Austan hans eru fjárhellarnir og hleðslurnar í kringum op þeirra. Í einum hellanna er hlaðinn garður eftir honum miðjum. Stærsti hellirinn er sá syðsti. Í honum er gott rými. Vatnsleiðslan gamla er austan Kaldárselsvegar og er forvitnilegt að sjá hvar hún hefur komið yfirl Lambagjá, en í gjánni er mikil hleðsla undir hana. Sú hleðsla mun hafa að nokkru leiti hafa verið tekin úr austari fjárborginni á Borgarstandi. Í Gjám enn norðar eru hellar, hleðslur og hellisop.
Austan við gamla veginn að Kaldárseli má enn sjá elstu götuna til og frá selinu, klappaða í bergið. Enn vestar, austan Fremstahöfða, er hálfhlaðið hús, líkt því sem sjá má á gömlum ljósmyndum Daniel Bruun frá 1892, að gamla selið í Kaldárseli hefur litið út.

Valaból

Músarhellir í Valabóli.

Út frá Kaldráseli eru margar greiðfærar og skemmtilegar gönguleiðir. Til dæmis er hægt að leggja af stað frá húsi K.F.U.M. og K., ganga til suðurs að Kaldá, þar sem hún rennur neðan við húsið, og yfir göngubrú, sem þar er á henni. Kaldá rennur á mótum tveggja hrauna. Annað rann úr suðri, en hitt rann úr Búrfelli, suðaustur af Kaldárseli. Að sunnanverðu, á hægri hönd þegar farið er yfir, má enn sjá tótt á árbakkanum. Eftir stutta göngu að girðingu framundan er komið inn á hluta gömlu Krýsuvíkurleiðarinnar. Hún er augljós í Kaldárhrauninu og auðvelt að fylgja henni í átt að Kaldárselshnjúkum. Við hnjúkana greindist Krýsuvíkurvegurinn, annar lá upp fyrir Undirhlíðar, Dalaleiðin, og hinn út með Hlíðunum.

Framundan til suðausturs eru Kaldárhnjúkar Syðri. Hlíðin á vinstri hönd og hraunið á þá hægri. Eftir stutta göngu er gengið framhjá Kúadal, en talið er að selssmalinn hafi rölt kvölds og morgna um þessa sömu götutroðninga með kýr úr og í haga. Vestan Kúadals taka Undirhlíðarnar við. Gengið er framhjá Kýrskarði og áfram útfyrir Múla á hægri hönd. Þar á horninu er hellisskúti er nefnist Árnahellir, kenndur við Árna Gíslason í Brekkubæ í Hafnarfirði.
Með Hlíðunum eru tré, sem plantað var af Skógræktarfélagi Hafnarfjarðar, sum fyrir áratugum síðan. Þar er minnisvarði um fyrsta formann Skógfræktarfélagsins, Ingvar Gunnarsson. Afturhlíðar Undirhlíða heita Bakhlíðar eða Gvendarselshæð. Þar er Gvendarsel vestan í hlíðinni. Sjást tóttir selsins og hlaðinn stekkur framan þess.
Framundan undir Hlíðunum, sem áður nefndust Gvendarselshlíðar, eru Kerin. Þau eru fallegir tvíburagígar. Hægt er að ganga upp í efri gíginn úr þeim neðri um gat á milli þeirra, en þar uppi er tilvalinn, skjólgóður áningastaður.

Kaldá

Kaldá í Kaldárbotnum.

Gamli bærinn í Kaldárseli stóð á túnblettinum, sem núverandi hús stendur á, þ.e. á móts við miðju þess er snýr að árbakkanum. Útihúsin voru til hliða og framundan húsunum sunnanverðum, en þau hurfu ekki svo til alveg fyrr en KFUM og K húsið hafði risið í Kaldárseli árið 1925. Þegar síðan var byggt við litla húsið voru útihúsin sléttuð.
Sem fyrr sagði tilheyrði landið áður Garðakirkju og hafði hún þar í seli fram til ársins 1836. Frá árinu 1873 hafði Hvaleyri þar leigusel. Sel Garða voru flest í Selgjá vestan Búrfellsgjár. Enn sjást þar tóttir selja með hraunbarminum beggja vegna, einkum að sunnanverðu, svo og fallegir fjárhellar, bæði í gjánni og efst í Urriðavatnshrauni. Hafnarfjarðarbær keypti árið 1912 allmikinn hluta af Garðakirkjulandi, Kaldársel þar með.

Gengið var að fjárhellunum norðan Kaldársels. Á Standinum er fjárborg, önnur af tevimur, sem þar voru. Hin, sú eystri, var fjarlægð á sínum tíma, sennilega verið notuð undir vatnsstokkinn. Gamlar sagnir eru til af hellum þessum. Þeir voru síðast notaðir árið 1908.

Kaldársel

Fjárhús undir Fremstahöfða.

Hellarnir, 6 talsins, fundust aftur tiltölulega nýlega á svæði utan gönguleiða. Um er að ræða mjög fallega fjárhella. Miðsvæðis er tóft utan um skúta. Eftir að fallið mosavaxið grjótið hafði verið fjarlægt frá opnum kom í ljós að enginn hafði komið þarna inn í allnokkurn tíma. Mold var á gólfi, en ekki eitt spor.
Í nyrsta fjárhellinum er hlaðinn garður í honum miðjum. Stærsti hellirinn er syðst. Gengið er niður í hann um hlaðinn gang og er þá komið inn í rúmgóðan sal með sléttu gólfi.

Önnur mannvirki tengd selstöðunni og búskap í Kaldárseli má sjá nálægt fjárhellunum, s.s. aðra eftirlifandi fjárborgina af tveimur upp á Borgarstandi, fjárhústóft norðan undir honum, gerði eða stekk við hana, nátthagann í Nátthaga og gömlu Kaldárselsgötuna klappaða í bergið.

Gengið var um Lambagjá, en hún hefur verið friðuð. Hraunið, sem kom úr Búrfelli, er um 7.000 ára. Fyrrnefnd friðlýsing nær einnig yfir hleðslu undir vatnsveitustokk sem lagður var frá Kaldárbotnum áleiðis til Hafnarfjarðar 1917 – 1918. Var 1600 m löng trérenna látin flytja vatnið og því sleppt niður í Gráhelluhraun við Sléttuhlíð. Það rann síðan um 3 km neðanjarðar og kom upp í Lækjarbotninum við norðurenda hraunsins. Í Lambagjá eru hlaðnar þverfyrirhleðslur á a.m.k. tveimur stöðum og einnig er hlaðið fyrir þar sem auðvelt hefur verið að komast upp úr gjánni miðsvæðis. Líklegt má telja að gjáin hafi verið notuð sem aðhald eða jafnvel nátthagi um tíma. Hraunhaft er í hrauntröðinni, en gengið var undir það. Þar niðri var fallegt þrastarhreiður. Í vor voru í því þrjú egg. Þrösturinn hafði greinilega verpt í það öðru sinni í sumar. Skammt ofar var annað þrastarhreiður, yfirgefið.

Kaldársel

Hleðsla undir vatnsleiðsluna.

Gengið var áfram upp að opi Níutíumetrahellis. Frá því var haldið upp að Selvogsgötu þar sem hún liggur niður í Helgadal. Frá brúninni sjást nokkur misgengi. Eitt er t.d. eftir endirlangri Smyrlabúð og áfram út með Hjöllunum. Annað er í norðurbrún Helgadals og liggur í átt að Búrfelli. Kíkt var í Vatnshelli áður en haldið var upp með misgenginu að Rauðshelli. Við op hans voru í vor og síðan aftur í sumar þrastarhreiður á sillu með fjórum eggjum í. Farið var inn í hellinn og m.a. skoðuð hlaðin fyrirhleðsla, sem þar er. Misvísandi lýsingar eru á Rauðshelli. Til er gömul lýsing, sem mun vera rétt, en einnig hefur verið giskað á að um Hundraðmetrahellinn gæti verið að ræða, en slíkt passar ekki við gömlu lýsinguna. Náttúrulegur bekkur hefur verið þarna þvert yfir hellinn, sem bæði hefur verið hægt að komast yfir og undir. Hún er nú fallin, en rauður liturinn í hellinum er enn áberandi. Hleðslur eru í jarðfallinu og án efa einnig undir gróðurþekjunni, sem þar er. Forn stekkur er skammt norðar.

Tvö nöfn eru á Rauðshelli; gamla nafnið er dregur nafn sitt af litnum, og einnig nafnið Pólverjahellir. Sumir hafa talið að hann væri svo nefndur eftir Pólverjum á skipi í Hafnarfjarðarhöfn, sem gist hafði í hellinum því hún fékk ekki inni í Hafnarfirði, en hið rétta er að ungir drengir úr Pólunum í Reykjavík, nefndir Pólverjar, dvöldu þarna um tíma.
Svo óheppilega vildi til að þegar hópurinn hafði komið sér fyrir innst í Rauðshelli heyrðust armæður og kvenstafir frá pari, sem lagst hafði til hvílu á bak við stóra steina í hellinum. Þar reyndust vera komin frú grýla og herra leppaúði. Báru þau sig illa yfir rúmraskinu og var því ákveðið að hverfa út úr hellinum svo þau gætu a.m.k. sofið þar enn um sinn.

Kíkt var í opið á Hundraðmetrahelli og síðan gengið upp í Fosshelli og haldið í gegnum hann. Sást vel hversu fallegur hraunfossinn er sem og flórinn í efri hluta hellisins. Þegar gengið var upp í gegnum hellinn var enn einn úr jólafjölskyldunni vakinn; kertasníkir. Hafði hann lagt sig yst í Fosshelli, en vaknað við umgang fólksins. Lét hann í sér heyra, en lagðist síðan til hvílu á ný, enda enn langt til jóla.

Kaldársel

Gengið um Kaldársel.

Frá Helgadal sést vel yfir að Búreflli í austri. Búrfell er eldborg. Frá henni rann hraun niður í Hafnarfjörð og Skerjafjörð. Heildarflatarmálið er u.þ.b. 18 ferkílómetrar. Hraunið er talið vera í kringum 7200 ára.

Þegar gengið er niður í Helgadal sét vel í ætlað bæjarstæði fornbýlis, sem þar á að vera, upp í austanverðri hlíðinni. Ekki er ólíklegt er að þarna sé komið bæjarstæði það sem lengi hefur verið leitað að og heimildir kveða á um. Á landnámsmaður að hafa byggt sér bæ í Helgadal, en þrátt fyrir leitir hafa leifar hans ekki fundist. Hér gæti einnig verið um hina fornu Skúlastaði að ræða, en þeir eiga skv. sögunni að vera næstelsta bæjarstæði norrænna manna hér á landi. Við þetta ætlaða bæjarstæði liggur gömul þjóðleið. Fróðlegt væri að fá við tækifæri áhugasaman fræðing til að kíkja á aðstæður þarna.
Framangreint eru nú einungis vangaveltur um hugsanlega möguleika því ekki er vitað til þess að svæðið eða þessi staður í Helgadal hafi verið skoðaður sérstaklega m.t.t. þessa.
Þegar komið var á jafnsléttu var gengið til suðurs með austanverðuverðu fjallinu, upp í Valaból. Valaból er fallegur trjálundur. Við hann er Músarhellir. Á Valahnúkum eru steingerð töll – í alvöru.

Kaldársel

Jólasveinn í einum fjárhellanna.

Búrfellið tilheyrir eldstöðvakerfi kennt við Krísuvík. Búrfell er hringlaga gígur úr hraunkleprum. Gígurinn er 179 metrar yfir sjó þar sem hann er hæstur og 140 metrar að þvermáli milli barmanna. Dýptin hefur mælst 58 metrar frá hæsta og 26 metrar frá lægsta barmi. Mismunurinn á barmi gígsins stafar af misgengi sem átti sér stað eftir að eldvarpið hlóðst upp.
Búrfell gaus einu sinni, það var flæðigos og framleiðslan var fyrst og fremst Búrfellshraun. Meginuppistaðan í eldvarpinu eru kleprar, þeir eru lagskiptir og hallar lögunum bratt niður í gíginn. Rofist hefur ofan og utan úr Búrfelli og hefur myndast hvasst egg á toppi fjallsins sem er úr lausri gosmöl.
Búrfellshraun er innan marka Garðabæjar og Hafnarfjarðarbæjar.

Tveir megin hraunstraumar hafa komið frá Búrfelli. Það sem aðgreinir þessar kvíslir er Helgadalshraun. Búrfellið gengur undir ýmsum nöfnum eftir því hvar það er. Sá hraunstraumur sem er Hafnarfjarðarmegin hefur eftirfarandi nöfn: Næst Búrfelli er Smyrlabúðahraun (kennt við fuglinn smyril sem gerði sér hreiður þarna), Gráhelluhraun, Lækjarbotnahraun, Stekkjarhraun, Sjávarhraun, Arnarhraun og vestar heitir það Flatarhraun. Garðabæjarmegin er fyrst Garðahraun, Urriðakotshraun, Vífilstaðahraun, Hraunholtshraun, Gálgahraun og Balahraun. Hraunið er stórbrotið apalhraun og meðalþykkt þess er ekki undir 20 metrum.

Kaldársel

Forynjur í einu fjárskjólanna.

Sá hraunstraumur sem runnið hefur í Heiðmörk og niður í Garðabæ hefur runnið eftir Búrfellsgjá. Búrfellsgjá þykir með fallegri hrauntröðum landsins. Gjáin er 3,5 km á lengd með meginstefnu í norðvestur. Búrfellsgjá er mjóst upp við gíginn eða um 20-30 metrar milli barma en breikkar þegar lengra dregur og verður mest 300 metrar. Í hrauninu út með Vífilsstaðahlíð grynnkar hrauntröðin og hverfur, sá endi Búrfellsgjár nefnist Selgjá. Á köflum eru gjárveggirnir þverhníptir og mynda sums staðar grunna hellisskúta sem eru með snarhöllu þaki. Barmar, veggir og botn hrauntraðarinnar er allt úr Búrfellshrauni.
Gengið var niður gjána og að Gjáarrétt. Réttin var skoðuð sem og Gerðið. Innst í því, undir slútandi kletaveggnum er hlaðið hús, nokkuð heillegt.

Gjáarrétt hefur sennilega verið lögrétt Garðhreppinga, Bessataðahreppsbúa og Hafnfirðinga í nokkur hundruð ár (Ól. Þorvaldsson). Sigurður í Görðunum segir í minningum sínum: “Réttin okkar var í hrauninu, skammt fyrir sunnan Vatnsenda. Hygg ég, að það hafi verið ein sérkennilegasta rétt á landinu. Hún hét Gjárétt, enda var hún í gjá. Skammt frá eru víðir og fagrir vellir og þar var oft leikið sér og ekki sízt sprett úr spori bæði þegar komið var í réttina og eins þegar réttardeginum var lokið.” Gjáarrétt (Gjárétt) var fjallskilarétt (lögrétt) til 1920, en þá var hún flutt niður í Gráhelluhraun og nefndist Hraunrétt. Dilkar voru 12 talsins uns einum dilk Selvogsmanna var bætt við suðaustast í réttinni. Árið 1955 var gerð rétt við Kaldársel. Gjáarrétt var friðlýst að tilstuðlan þjóðminjavarðar 1964.

Allnokkru ofan við hellana í Helgadal er Rjúpnadalahraun. Í því, norðan við Húsafell, er hlaðin refagildra. Fjárskjól er í norðvestanverðu í Húsfelli og eru sagnir eru til um það. Framan við það eru gamlar hleðslur.

Frá Valabóli var gengið áleiis niður í Kaldárbotna þar sem vatnsveita Hafnarfjarðar er með vatnsból sín og tekur ferskvatn fyrir bæjarbúa.

Valaból

Í Valabóli.

Þegar gengið er áleiðis á Helgafell er komið að nyrsta hluta Gvendaselsgíga. Gígarnir standa upp úr hrauninu efst á brúninni, sá nyrsti stærstur.
Flestir, sem halda á Helgafell, ganga norður fyrir fjallið og síðan auglýsta gönguleið upp skriðuna. Mun auðveldari gönguleið er upp móbergsgil skammt vestar á norðanverðu fjallinu. Þá er komið upp í sléttan dal og þaðan er auðvelt að ganga upp slétthallandi móbergið, áleiðis upp á öxlina og síðan á toppinn. Fjallið er 340 m.y.s.
Ein sjö Helgafell eru til í landinu; þetta suður af Hafnarfirði, í Mosfellssveit, á Þórsnesi á Snæfellsnesi, yst sunnan Dýrafjarðar, í Strandasýslu vestan Hrútafjarðar, í Þistilfjarðarfjallgarði norðaustan Öxarfjarðarheiðar og í Vestmannaeyjum. Hugsanlega er nafnið tengt lögun þessara fjalla, en þau eru að minnsta kosti sum hver regluleg eða heilleg að útliti. Af einhverjum ástæðum var talin helgi á Helgafelli á Snæfellsnesi.
Orðið helgur er samandregin mynd úr heilagur, sem er skylt orðinu heill. Örnefni með Helga- að fyrra lið geta einnig verið dregin af mannsnafninu Helgi. Ágætt útsýni er af Helgafelli í góðu skyggni.
Kaldá sprettur fram undar Kaldárhöfða og streymir um 1100 m leið ofanjarðar áður en hún hverfur ofan í gljúpt hraunið. Talið er að hún renni í sjó fram við Straumsvík og hraunin sunnan Hafnarfjarðar. Við Karlársel eru Gjárnar, merkileg náttúrusmíð.
Kaldárstraumur á upptök í sunnanverðum Bláfjöllum og Lönguhlíð. Hann streymir þaðan til norðvesturs um Húsfellsbruna og Heiðmörk. Grunnvatnsskil liggja frá Straumsvík og í vesturenda Lönguhlíðar. Berggrunnurinn er úr hraunum, grágrýti og móbergsmyndunum. Þótt hraunin þeki víðáttumilkil svæði á þessum slóðum liggja þau að mestu yfir grunnvatnsborði. Sprungur auka mjög vatnsleiðni og hafa afgerandi áhrif á grunnvatnsstreymið. Sprungurnar eru hluti af sprunguskara sem kenndur hefur verið við Krýsuvík. Þær beina grunnvatninu úr sunnanverðri Heiðmörk til suðvesturs í átt til Kaldárbotna.

Hundraðmetrahellir

Hundraðmetrahellir.

Athyglisvert er að fyrir vikið streymir grunnvatnið á þessum slóðum ekki hornrétt á grunnvatnshæðarlínur, eins og algengast er, heldur skálægt á þær. Straumþunginn fylgir því sprunguskaranum. Í Kaldárbotnum sést örlítið brot af því vatni sem þarna er á ferð. Meðalrennsli Kaldár skammt neðan upptakanna er 800 l/s samkvæmt mælingum í vatnshæðarmælinum vhm 124, en sveiflur eru miklar í rennslinu. Kaldá er einskonar yfirfall úr grunnvatnsstraumnum. Einum kílómetra neðar er hún öll horfin til grunnvatnsins á ný. Neðan við Undirhlíðar sveigir grunnvatnið út úr sprunguskaranum og flæðir um hraunin til norðvesturs uns það birtist í fjörulindum í Straumsvík og í Hraunsvík, en svo nefnist bugurinn milli Hvaleyrarholts og Straumsvíkur. Þar upp af ströndinni eru vatnsból Álversins. Sennilegt er að einungis minnihluti lindarennslisins komi í ljós í fjörulindum þegar lágt stendur í sjó en að meirihluti þess sé jafnan í flæðarmálinu sjálfu eða neðan þess. Kaldárstraumur er langmesti grunnvatnsstraumurinn á höfuðborgarsvæðinu.
Þjóðsagan segir að fyrrum hafi Kaldá komið úr Þingvallavatni en eftir að Ingólfur landnámsmaður gróf Soginu farveg úr því, þar sem síðan heitir Grafningur, hafi Kaldá þorrið. Önnur saga segir að tveir synir fjölkunnugs karls nokkurs hafi drukknað í ánni og eftir það hafi hann kveðið hana niður. Þriðja sagan segir að hún hafi þornað eftir mikið eldgos.

Kaldársel

Kaldársel – tilgáta ÓSÁ.

Í dag nýtur Kaldársel ýmissa forréttinda. Í fyrsta lagi nýtur svæðið verndunar þar sem það er innan Reykjanesfólksvangs og hefur verið það í um 30 ára skeið. Í öðru lagi er Kaldársel innan vatnsverndar höfuðuborgarsvæðisins og í þriðja lagi nýtur Kaldársel og nágrenni sérstakrar verndar skv. þjóðminja- og náttúruverndarlögum.

Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimild m.a.:
-Ólafur Þorvaldsson – Áður en fífan fýkur – 1968.
-Jarðabók þeirra Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1703 – III. bindi, bls. 180.
-Úr “Sögu Hafnarfjarðar”, handskrifuðum Minningum Sigurðar Þorleifssonar og handriti Gísla Sigurðssonar á Bókasafni Hafnarfjarðar).

Kaldársel

Kaldársel.

Lambagjá

Farið var í hellana sunnan Þverhlíðar norðan Sléttuhlíðar, haldið í Náttaga norðan Kaldársels og þaðan austur yfir hraunið í Kaldárselsfjárhellana gegnt Smalaskála.

Fosshellir

Í Fosshelli.

Gengið var um Lambagjá, skoðuð hleðslan undir vatnsleiðsluna frá Kaldárbotnum. Farið var undir haftið í Lambagjá og upp í Áttatíumetrahellirinn, litið í hellana í norðanverðum Helgadal (Vatnshelli) og síðan gengið að Hundraðmetrahellinum og hann skoðaður. Ekki var farið í Rauðshelli að þessu sinni, en skammt frá honum er forn hlaðinn stekkur. Líklegt er að Rauðshellir hafi verið notaður sem aðhald eða jafnvel selstaða fyrrum. Hleðslur eru bæði fyrir opum hans og inni í honum. Vel gróið á milli opa. Kæmi ekki á óvart ef þar leyndust minjar undir. Gengið var í gegnum Fosshellirinn, en hann er einn sá allra fallegasti á svæðinu. Í bakaleiðinni var litið aftur í Rauðshelli og skoðuð bælin, sem þar eru og áletrun á norðanverðum barmi opsins. Þá var gamla Selvogsgatan gengin niður að Kershelli og Hvatshelli. Þeir hellar voru skoðaðir, auk þess sem gengið var um Setbergs-og Hamarkotssel og farið í gegnum Ketshelli áður en hringnum var lokað.
Gangan tók 2 ½ klst. Frábært veður.

Helgadalshellar

Rauðshellir.

Lambahraun

Bergið yst á Reykjanesi er að hluta til undirstaða úr gíg utan við Nesið (Valahnúk).
Um nokkur Lambagjá og nágrennihraun er þar um að ræða, bæði frá fyrra hlýskeiði (~>16.000 ára) og síðustu ísöld (>12.000 ára). Sýrfellið er líklega um ~11.500 ára og Sandfellshæðin (dyngja) er ~10.000 BP. Dyngjurnar á Berghólum og Langholti eru frá svipuðum tíma. Skil þeirra eru óljós. Staðarhverfi er staðsett á Sandsfellshæðar-hrauninu. Eitt er það þó hraunið á þessu svæði, skammt ofan við Staðarhverfið, sem vakið hefur forvitnan því það er yngra en Sandfellshæðin og eldra en öll nútímahraunin. Ekki er að sjá hvar upptökin hafa verið, en hraunið er greinanlegt í litlum óbrennishólmum, bæði inni í og við jaðar Lynghólshrauns og inni í Eldvarpahrauni. Lambagjáin er í suðausturjaðrinum á hrauninu, en það hefur ekki fengið nafn. Skal það hér nefnt Lambahraun eftir gjánni, enda gefur hún hrauninu rismestan svipinn. Hraunafurð Lynghólshraunsins hefur runnið í og fyllt Lambagjána að mestu, en einungis skilið eftir ca. 60 m minnisvarða um gjána. Í hana ofanverða hefur verið sótt kalt vatn fyrir fiskeldi nær ströndinni.
LambagjáEldvarpahraunið síðasta (~1226) hefur bætt um betur og nánast afmáð Lambahraunið ofanvert. Þessi miklu framangreindu hraun hafa náð að kaffæra gosstöðvar Lambahrauns svo nú mun vera erfitt að staðsetja þær. Líklegt má þó telja að þarna hafi verið röð lágra gjallgíga sem nú má sjá í hærra mæli í Eldvörpum. Ekki er ólíklegt að ætla að Lambahraunið hafi verið forverið Eldvarpahraunanna, þ.e. myndað undirstöðu þeirra ásamt Sandfellshæðinni. Þótt Lambahraunið sé ekki umfangsmikið, þ.e. sá hluti þess sem enn sést, er það gróið grasi og lyngi og tilkomumikið á að líta með fjölda formfagurra strýtna. Þá má finna bæði mannvistarleifar og áhugaverð jarðminjar í Lambahrauni, þ.e. í báðum óbrennishólmunum.
Jón Jónsson, jarðfræðingur, skrifaði grein í Náttúrufræðinginn 1986, Hraunið við Lambagjá. Þar segir hann:

Inngangur
StrýtaÍ riti mínu „Jarðfræðikort af Reykjanesskaga” (OS JHD 78311978) og korti, sem því fylgir eru sýnd fjögur mismunandi hraun vestan við Stað í Grindavík. Elst þeirra eru hraun frá Sandfellshæð (merkt D-6) en þau eru óslitið með sjó fram frá Bergsenda (Staðarbergs) og austur fyrir Húsatóttir, en kom auk þess fram vestan við byggð í Grindavík. Öll byggð í Staðarhverfi er á þessu hrauni. Næst þessu, hvað aldur varðar, er það hraun, sem hér er gert að umtalsefni. Ofan á það leggst svo það, sem nefnt er Berghraun og myndar Staðarberg, en það er raunar sama og Klofningahraun, og ættu þeir, sem ritið og kortin hafa undir höndum að leiðrétta villuna á kortinu (H-17 og H-15 er eitt og sama hraun). Verða þessi hraun hér eftir kölluð Rauðhólshraun, því komin eru þau úr einstökum gíg, Rauðhól, suðvestan við Sandfellshæð og skammt norðan við Eldvörp. Hraunið, sem hér um ræðir vantar á kortið. Aldursröð hraunanna verður þessi: Sandfellshæðar-hraun, hraunið við Lambagjá, Rauðhólshraun og Eldvarpahraun, en það síðast nefnda er samkvæmt aldursákvörðun um 2150 C14 ára, og ætti því að hafa runnið um 200 árum fyrir upphaf okkar tímatals.

HRAUNIÐ
LambahraunÞað þessara hrauna, sem er næst elst kemur fram í viki því er verður milli Eldvarpahrauns að austan og Rauðhólshrauns vestan við Grænabergsgjá í landi Staðar, en auk þess í óbrennishólmum þar norður af. Ekki mun það hafa sérstakt nafn en vikið milli áður nefndra hrauna mun heita Moldarlág.
Hraun þetta er afar sérstætt að útliti. Það er nú talsvert gróið en sendinn jarðvegur og foksandslag í öllum lægðum. Aldur hraunsins má nokkuð marka af því að það er brotið um þvert af gjám og sprungum, og hefur því verið til áður en þær mynduðust. Sprungurnar sjást aðeins í tveim elstu hraununum þarna, en hvorki í Rauðhólshrauni né Eldvarpahrauni. Jafnframt er svo að sjá sem litlar eða engar hreyfingar hafi á þessu svæði orðið frá því að Rauðhólshraun rann.
Varða í LambahrauniÞað sem vekur undrun er ytra útlit þessa hrauns, en því verður trauðla með orðum lýst og jafnvel góðar ljósmyndir gera því ekki full skil. Það er þunnt, varla nema 5 – 6 m og auðvelt hefur reynst að grafa gegnum það, en þéttan bergkjarna virðist víðast hvar vanta. Þó sést hann á kafla ofan við Lambagjá. Hraunið samanstendur af misstórum og alla vega löguðum bergbrotum, flestum hellulaga, mest 15-25 cm þykkum og afar blöðróttum.
Víða má greina opnar rásir eftir hraunlænur eða gas. Nú horfa þær í allar áttir „eins og andarvana auga í sjálfs sín tómleik rýni”. Svo hefur þetta ekist saman í hrauka og hóla, sem sumir eru nokkurra metra háir og óreglulega dreifðir um svæðið. Eina skýringin sem mér er tiltæk á þessu útliti hraunsins er eitthvað á þessa leið: Hraunið hefur verið mjög heitt, þunnfljótandi, gasmikið og hefur runnið hratt.
JarðminjarEftir fyrstu og hörðustu goshrinu hefur nokkurt hlé orðið, nóg til þess að skorpa hefur náð að myndast á hrauninu, en það hefur að nokkru leyti runnið í rásum undir yfirborði. Næsta hrina í eldvarpinu verður til þess að skorpan brotnar upp og ýtist saman í hóla og hrúgöld. Sums staðar getur að líta hvernig hraunið úr síðari hrinunni (?) hefur vafist utan um brotin úr fyrstu skorpunni. Í heild er þessi myndun hin furðulegasta, og hef ég engan hennar líka séð. Upptök hraunsins eru ófundin, en hljóta að vera á því svæði, sem nú er hulið Eldvarpahrauni og/eða Rauðhólshrauni og geta ekki verið fjarri.
Í LambahrauniNyrst sést það í óbrennishólmum röskum kílómetra ofan við Lambagjá. Þar er það stórbrotnast og raunar ekki útilokað að þar séu upptök þess enda þótt ekki séu þar neinir dæmigerðir gígir. Athyglisvert er að gjár, sem eru margra metra breiðar ganga gegnum þetta hraun, en næst undir því er hraun úr Sandfellshæð, eins og áður segir. Virðist því aldursmunur þessara tveggja hrauna ekki vera ýkja mikill. Í vestari óbrennishólmanum er Sandfellshæðarhraunið yfir 20 metra þykkt og grófstuðlað. Gegnum bæði hraunin gengur gjá, margra metra breið. Ég hef leyft mér að kalla hana Brúargjá sökum þess að yfir hana hefur myndast brú, steinbogi, úr Rauðhólshrauni.

Úlfur

Að dæma af þeim staðreyndum, sem hér má lesa í landslaginu hafa gjárnar orðið til á tímabilinu frá því að Sandfellshæð var virk eldstöð til þess að Rauðhóll gaus. Aldursákvörðun þessara eldstöðva getur því varpað ljósi á hvenær gjárnar mynduðust á þessu svæði. Að samsetningu er hraunið dæmigert þóleiíthraun með ámóta miklu af plagíóklasi og pýroxeni, 4% ólivín og aðeins um 1% plagíóklasdíla.”
Til frekari fróðleiks má geta, sem fyrr sagði, að Sandfellshæðin er talin <10.000 BP og Rauðhólshraunin eru talin 2000-3000 ára. Eldvarpahraunin yngri eru talin vera frá Reykjaneseldunum 1226, en þau eldri frá því um 600 e.Kr. Flótlega er ætlunin að berja steinbogann yfir Brúargjá auga og mun mynd af honum þá birtast hér.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Heimild:
-Jón Jónsson: Hraunið við Lambagjá, Náttúrufræðingurinn – 56. árg., 4. tbl. 1986, bls. 209-211.

Grænabergsgjá

Grænabergsgjá.