Tag Archive for: letursteinn

Kaldársel

Farið var með Þórarni Björnssyni um Kaldársel, en hann er að vinna drög að bók um sögu staðarins. Þórarinn sýndi þátttakendum það sem hann hafði grafið upp um staðinn og FERLIRsfólk sýndi honum annað, s.s. Gvendarsel undir Gvendarselshæð, fjárhellana norðan við Borgarstand, Nátthagann í Nátthaga, Þorsteinshelli vestan Selgjár o.fl.

Kaldársel

Kaldársel – áletrun.

Þórarinn benti m.a. á letursteinana við Kaldá, en á nokkra þeirra eru klappaðar sálmatilvitnanir. Á einu er vísað í Davíðssálma þar sem segir að það tré, sem gróðursett er við lind og fær næga næringu, dafnar vel. Þetta mun hafa verið sett á steinana á 5. áratug 20. aldar af aðstandendum KFUMogK í Kaldárseli.
Kaðalhellir er þarna skammt norðvestar sem og Hreiðrið. Gamla gatan frá Kaldárseli til Hafnarfjarðar er mörkuð í klöppina á kafla sem og gamla gatan frá Kaldárseli til Krýsuvíkur.
Þetta var róleg ferð, en fróðleg. Nokkrir aðrir áhugasamir slógust í hópinn. Veður var frábært.

Kaldársel

Kaldársel – uppdráttur ÓSÁ.

Þórkötlustaðir

Álagasteinninn Heródes er vestan traðanna, innan garðs Vestari-Vesturbæjar í Þórkötlustaðahverfi.

Heródes

Áletrun á Heródesi.

Sagnir eru um að steininn egi hvorki færa né raska honum á nokkurn hátt. Talið var að fornar rúnir væru markaðar á hlið steinsins, en ef vel er að gáð í réttri birtu má sjá þar klappað á bókstafinn „S“, ferkantaðan.
Sú sögn hefur gengið mann af manni að þennan stein beri að umgangast af varfærni. Dæmi er um að illa hafi verið hirt um steininn og hefur þá hinum sama bæði liðið illa og gengið brösulega uns úr var bætt. Nú er löngu gleymt hvers vegna, en þó er ekki útilokað að einhver búi enn yfir þeirri vitneskju.Álagasteinar eru víða til og engin ástæða til annars en að taka ábendingar um þá alvarlega. Eflaust er einhver ástæða fyrir ábendingunni, s.s. grafstaður, staður þar sem sýn hefur birst, annað hvort í sjón eða draumi, sóttarstaður eða jafnvel tilbúningur. Hvað sem öllu líður er ekki hægt að útiloka að ábendingin sé af alvarlegum toga og því full ástæða til að fara varlega. Mörg dæmi eru þekkt þar sem menn hafa gengið gegn álögum og hlotið skaða af, einkum frá álfum.
Sjávargöturnar í Þórkötlustaðahverfi voru þrjár. Steinninn er skammt frá Mið-götunni. Ekki er ólíklegt að ætla að þar hafi sjómenn fyrrum gengið framhjá og signt sig á leið til skips, líkt og við Járngerðarleiðið við sjávargötuna milli Járngerðarstaða og Fornuvarar. Skammt neðar lá gamla gatan milli Hrauns og Ness (Þórkötlustaðaness).

Heródes

Heródes.

Flekkuvík

Brunnar eru bæði vestan og norðan við Flekkuvíkurhúsið. Nyrðri brunnurinn er sjávarmegin við húsið. Hann er dýpri og virðist nýrri.

Flekkuvík

Flekkuleiði.

Hinn brunnurinn er suðaustan við húsið, í túninu nálægt gömlu heimreiðinni. Túnið er að mestu sunnan og ofan við húsið. Syðst í því, svo til alveg undir túngarðinum ofanverðum er Flekkuleiði; lágur gróinn hóll, einn af nokkrum. Á leiðinu er “rúnasteinn”, sem segir að þar “Hvíli Flekka”. Í raun er um 16. eða 17 aldar leturstein að ræða skv. áliti sérfræðinga. Sagan segir að Flekka, norsk landnámskona, sem áður byggði Flekkuvík, hafi viljað láta grafa sig í jarðri túnsins þar sem hún hefði útsýni yfir innsiglinguna að bænum. Þar mun hún hvíla, blessunin.
Ekki er ólíklegt að ætla að Flekka hafi verið grafinn á ystu mörkum hins ræktaða lands á þeim tíma, m.a. til að vernda það fyrir hugsanlegum yfirgangi þeirra, sem á eftir kynnu að koma, en miklir fólksflutningar voru til landsins á landnámsöld og landamörk því fljót að breytast.
Rúnasteinn Flekku er einn af a.m.k. þremur á Reykjanesskaganum.
Árni Óla (1961) fjallar m.a. um letursteininn á Flekkuleiði „Rúnasteinn í Flekkuvík„, í bókinni Strönd og Vogar. Úr sögu einnar sveitar í landnámi Ingólfs Arnarsonar, Reykjavík, bls. 207-215.

Flekkuvík

Brunnur í Flekkuvík.

Kistugerði

Vestan við Rafnkelsstaði í Garði er Kisturgerði.

Kistugerði

Kistugerði.

Þar segir þjóðsagan að sé fornmanngröf og í henni gullkista. Gerðið er í rauninni pollur undir klapparvegg, grænlitur. Reyndar eru áhöld um að staðsetningu gerðisins. Sumir telja það uppi á klöppunum og skammt utar, en skv. sögunni á að vera letursteinn með rúnum við það. Sá steinn er nokkru neðar og norðar, við gerðið undir berghömrunum. Þjóðsagan segir að fjársjóður Rafnkels hafi verið grafinn með honum þarna í gerðinu. Reyni einhver að grafa hann upp mun þeim hinum sama sýnast bærinn standa í ljósum logum. Sagan er svipuð sögunni um fjársjóðinn í Silfru við Járngerðarstaði í Grindavík og fleiri álíka.
Einhverjir munu hafa viljað leita fjársjóðsins fyrir nokkrum árum með stórtækum tækjum. Við það valt letursteinninn, sem verið hafði við gröfina, niður hallann og staðnæmst þar sem hann nú er, skammt ofan við ströndina.
Erfitt er að lesa út úr rúnunum á steininum, en þær eru svipaðar og á álagsteininum Heródesi við Grindavík.

Kistugerði

Letursteinn við Kistugerði.

Prestsvarðan

Í Rauðskinnu segir frá Prestsvörðunni: „Í heiðinni skammt fyrir ofan Leiru er mannhæðar há grjótvarða sem alltaf var nefnd Prestsvarða. Sagt var, að síra PrestsvarðaSigurður Sívertsen (1808-1887), sem prestur var á Útskálum fyrrum, hafi einhverju sinni verið þarna á ferð að vetrarlagi. Kom hann úr Keflavík og ætlaði heim til sín að Útskálum. Talið var að leiðin væri tveggja tíma gangur eða meira eftir þeim vegi sem þá var farinn. En við lestagang voru allar vegalengdir miðaðar á þeim tímum. Þegar prestur kom út á móts við miðja Leiru villtist hann af leið. Fannst honum líðan sín þannig að hann treystist ekki til þess að halda áfram ferðinni. Prestur tók það ráð að leggjast fyrir og vera kyrr alla nóttina. Nokkru síðar lét síra Sigurður hlaða upp vörðu á þessum stað. Var hún ferstrend eins og margar grjótvörður. En eitt var það, sem gerði hana frábrugðna öðrum vörðum. Á hlið þeirri sem að austri snéri var allstór flöt hella sem á var höggvið sálmavers.“
Varðan var hlaðin upp fyrir stuttu, letursteinninn hreinsaður og honum komið aftur fyrir á sínum stað við vörðuna – þar sem hann er í dag.
Sálmaversið á hellunni er 4. Davíðs Sálmur 8. vers. („Í friði leggst ég til hvíldar og sofna, því að þú, Drottinn, lætur mig búa óhultan í náðum“). Ártalið er 1876.

-Rauðskinna II 295.

Prestsvarða

Prestsvarða.

Kálfatjörn

Árna Óla fjallar um leturstein í bók sinni „Strönd og Vogar“ (1961) í hlaðinni brú gamla Kirkjuveginum vestan Kálfatjarnar (bls. 230-232). Þar segir hann m.a.: „Fyrir sunnan eða vestan Kálfatjörn er farvegur, sem nefnist Rás…

Kálfatjörn

Kirkjubrúin við Kálfatjörn.

Yfir Rásina hefur verið hlaðin göngubrú úr grjóti, svo að menn gæti komizt þar yfir þurrum fótum. Sjálfsagt hefir brú þessi fyrst og fremst verið gerð sem kirkjuvegur, enda var hún oft farin allt fram að þeim tíma er þjóðvegurinn kom. En svo mjó er brúin, að ólíklegt er, að hægt hafi verið að bera líkkistu þar yfir. – Á einn allstóran stein í brú þessari er höggvið ártalið 1790, og má telja víst, að brúin hafi verið gerð það árið. Má þá vera að Bjarni Eyjólfsson hafi líka höggvið þetta ártal“ (sjá: Stóra-Knarrarnes – letursteinn).

Kálfatjörn

Kálfatjörn – letursteinn í brúnni.

FERLIR skoðaði nefndan ártalsstein í brúnni. Hún hefur greinilega verið hluti af gamalli götu frá Kálfatjörn að vesturbæjunum og öfugt. Gengið er yfir brúna suðaustan við Hlið, um garðana þar. Svo virtist sem letursteinnin geti verið „hornsteinn“ í brúna, en einnig hefur verið talið að steinninn hafi síðan verið notaður sem „skósteinn“, þ.e. kirkjugestir hafi skipt þar um skó á leið sinni að og frá kirkju; farið þar í betri skóna og úr þeim aftur að lokinni messu. Sambærileg frásögn er til um „skóstein“ eða „skóklöpp“ við Strandarkirkju, nánar tiltekið við gömlu kirkjugötuna að Vogsósum. Enn sést móta fyrir þeirri götu, auk þess sem hún er vörðuð vestan „Strandargarðs“ eða „Fornagarðs“, eins og hann hefur jafnan verið nefndur í seinni tíð. Talið er að garðurinn sé frá því um 1000.

Kálfatjörn

Ártal í steini á Kirkjubrú Kálfartjarnarkirkju.

Ártalssteinninn í gömlu brúnni við Kálfatjörn virðist, ef vel er að gáð, hafa áletrunina A° 1790. Svo er að sjá að næst aftasti tölustafurinn sé 9 og virðist hann greinilegur og, ef vel er gaumgæft, vera stærri en hinir.
Þarna utan garðs á Kálfatjörn er því að finna enn eina fornleifina á Reykjanesskaganum.
Áhugavert væri að gera uppdrátt af öllum minjum á Kálfatjarnarsvæðinu og staðsetja hann síðan á aðgengilegum stað á svæðinu.

Kálfatjörn

Kirkjubrúin við Kálfatjörn.

Stóra-Knarrarnes
Í bók Árna Óla, „Strönd og Vogar„, úgt. 1961, er m.a. fjallað um leturstein hjá Stóra-Knarrarnesi á Vatnseysuströnd (bls. 216-229). Benjamín Halldórsson benti Árna Óla á steinninn í samtali, sem þeir áttu saman í herbergi 402 á Hrafnistu, dvalaraheimili aldraðra sjómanna, þ.e. „grágrýtisstein með áletrun“.

Knarrarnes

Árni Óla heimsótti síðan Ólaf Pétursson, bónda á Stóra-Knarrarnesi, sem vísaði á steininn við garðshliðið. Um var að ræða jarðfastan grágrýtisstein, um metri á lengd og toppmyndaður. Steinninn var allur þakinn skófum, sem voru samlitar honum. „Með aðgæzlu mátti þó lesa upphaf fyrstu línu: „17 HVNDRVD…“ og svo nafnið „HIARNE EIOLFSSON“ í neðstu línu. En þar á milli sá aðeins móta fyrir staf og staf“.
Í manntalinu 1703 er Bjarnir Eyjólfsson sagður búa að Stóra-Knarrarnesi, sem þá var einbýli.
Árni taldi sig loks hefa getað lesið eftirfarandi áletrun af steininum:

Knarrarnessteinninn17 HVNDRVD SEIAST
AR SEN ÞO FIOGUR RI
ETT I VON SO ÞA CIORDE
SEM HIER STAAR SA HIET
BIARNE EIOLFSSON.

Gísli Sigurðsson í Minni-Knarrarnesi hafði heyrt þetta vers í æsku sinni (f. 1850-60). Vísan hafi verið svona:

17 hundruð segjast ár,
senn þó fjögur rétt í von,
svo þá gjörði sem hér stár
sá hét Bjarni Eyjólfsson.

Áletrun þessi mun því vera um 300 ára gömul. Árið 1707 bjó Bjarni þessi enn á Stóra-Knarrarnesi, skv. þinggjaldabók, og ekki er ólíklegt að hann hafi einnig búið þar árið sem ártalið var klappað í „brúarsteininn“ (1790) á gamla kirkjuveginum vestan Kálfatjarnar (sjá Kálfatjörn – letursteinn (A°1790)).

Stóra-Knarrarnes

Stóra-Knarrarnes.

 

Fuglavík

Í Árbók Hins íslenska Fornleifafélags (1903), fyrir nálægt einni öld síðan, segir Brynjúlfur Jónsson m.a. frá letursteini í Fuglavík (bls. 38). Brynjúlfur frá Minna-Núpi ferðaðist um Reykjanesskagann fyrir og um aldamótin 1900 og skráði og skoðaði það sem teljast mátti til fornleifa. Þessi steinn var ein þeirra.

Fuglavík

Fuglavíkursteinninn í stéttinni.

Í 17. lið upptalningar hans segir m.a.: „Í Fuglavík er brunnur með fersku vatni, og er það fágætt á Suðurnesjum, að vatn hafi ekki sjókeim, eða smakki af seltu. Brunnurinn var áður á hlaðinu, en er nú innanbæjar, síðan timburhús var byggt og sett framar en bærinn var áður. Brunninum fylgir sú sögn, að útlendur maður, Pípin að nafni, hafi grafið hann, og höggvið ártalið á hellustein, sem hann setti hjá brunninum. Steinninn er nú í bæjarstéttinni, og sér enn gjörla á honum ártalið 1538.“
FERLIR hafði samband við Sigurður Eiríksson í Norðurkoti. Hann sagðist ekki hafa heyrt um stein þennan en myndi setja sig í samband við nágranna sinn og húsráðanda í Fuglavík, Jónínu Bergmann.

Fuglavík

Fuglavíkursteinninn.

Jónína hafði ekki heyrt um steininn, en var reiðubúin til að skyggnast eftir honum. Henni fannst þetta mjög áhugavert. Eftir þrjár vikur hafði Sigurður samband og kvað Jónínu hafa fundið steininn.
FERLIR fór umsvifalaust á staðinn. Jónína sagðist hafa leitað að steininum af og til. Hún hefði sópað stéttina norðvestan við húsið og jafnvel reynt að moka ofan af einhverjum steinanna. En þegar hún hafi komið út þennan morgun hafi hún rekið tá í ójöfnu í gömlu bæjarstéttinni. Reyndist þar undir vera steinn. Jónína sópaði af steininum og viti menn – í ljós kom áletrun; ártal. Við nánari skoðun sáust vel tölustafirnir 158, en aftasti tölustafurinn var óljós. Hann gæti þess vegna verið 1 eða 4 – og allt þar á milli. Þarna var þó að öllum líkindum kominn fyrrnefndur steinn, sem tekinn hafði verið úr brunninum og komið fyrir í stéttinni, með u.þ.b. 420 ára gamalli áletruninni. Hér er því um að ræða elsta einstaka ártalsletursteininn, sem enn er vitað um á Reykjanesskaganum. Til eru þó eldri áletranir á klöppum, s.s. við Básenda.
Letursteinninn var tekinn upp úr stéttinni, sem hefur reyndar undanfarin ár þjónað sem bílastæði við nýja húsið, og færður til hliðar við hana, örskammt þar frá, sem hann fannst. Þar er hann aðgengilegur og minnir á uppruna sinn.

Fuglavík

Fuglavíkurhverfi – örnefnakort Sigurðar Eiríkssonar.

Stóra-Vatnsleysa

Tekið var hús á Sæmundi bónda á Stóru-Vatnsleysu á Vatnseysuströnd. Hann var úti við þegar FERLIR bar að garði. Sæmundur hafði beðið FERLIR um að reyna að leysa þá torráðnu gátu að lesa úr fornri áletrun á stökum steini í túninu, en það hafði engum tekist til þessa (svo hann vissi til a.m.k.).

Stóra-Vatnsleysa

Letursteinn við Stóru-Vatnsleysu.

Byrjað var að skoða letursteininn, sem er í túninu suðaustan við bæinn. Í fyrstu virtist áletrunin torráðin og í rauninni óskiljanleg, en þegar gengið var handan við steininn, varð lausnin augljós. Steininum virtist hafa verið velt um koll og áletrunin því óljós. Að þessu staðfestu komu í ljós klappaðir stafir; GI er sameinast með krossmarki að ofanverðu. Til hliðar, hægra megin að ofan, er ártalið 1643 eða 1649. Enn hefur ekki verið fundið út hvert tilefni áletrunarinnar var. Þetta gæti verið legsteinn. Sæmundur sagði að þarna hefði fyrrum verið kirkja (kirkja allrarheilagrarmessu), sem getið er um í annálum árið 1262. Henni hafi verið þjónað frá Kálfatjörn og bar prestinum að messa þar annan hvern helgidag – að minnsta kosti.

Vatnsleysa

Grafsteinn við Stóru-Vatnsleysu, skammt austan við fyrrum sögusviðið. Búið að velta steininum. Sæmundur fylgist með.

Sæmundur dró fram gögn máli sínu til stuðnings. Hann sagði bæ hafa verið byggðan á rústum kirkjunnar, en sagan segir að þar hafi fólki ekki orðið vært vegna draugagangs. Kvað svo rammt að honum að hurðir hafi ekki tollað á hjörum. Bærinn var yfirgefinn og hann síðan rifinn. Ekki væri ólíklegt að þarna væri grafreitur og að steinninn voru einu sýnilegu ummerkin eftir hann.
Sæmundur kvaðst muna að þegar grafið var fyrir núverandi húsi hafi verið komið niður á hlaðinn kjallara, u.þ.b. 130 cm háan, en húsið hafi þá verið byggt nálægt fimm metrum norðar. Það stæði á ísaldarkampinum og þá hafi grafreiturinn og kirkjan einnig verið á honum þarna suður af húsinu. Hvað væri undir veginum að bænum vissi enginn, en hann hefði að hluta verið lagður ofan á jarðveginn, sem þá var.

Vatnsleysa

Áletrun á steininum.

Sæmundur var með gömul landamerkjakort. Kort frá 1906 sýndi landamerki Stóru-Vatnsleysu í Markhelluhól, sem er um 900 metrum ofan við Markhelluna við Búðarvatnsstæðið. Á Markhelluhól væru áletranir þriggja jarða, sem þar koma saman, en einhverra hluta hefðu landamerkin verið færð ofar. Sá, sem skráði lýsinguna, virðist þó hafa reiknað með “Markhellunni við Búðavatnsstæðið” (klettur, sem girðingarhornið kemur saman í við Búðarvatnsstæðið) því þannig eru mörkin skráð. Frá Markhelluhól liggja mörkin, skv. kortinu um Hörðuvallaklofa og um Grænavatnseggjar og áfram um Núpshlíðarhálsinn að Selvsvallafjalli. Þar mun hafa verið varða, en einhver ýtt henni fram af brúninni. Sjá mætti ummerki eftir hana ef vel væri að gáð.

Litla-Vatnsleysa

Stórgripagirðing við Litlu-Vatnsleysu.

Bað Sæmundur FERLIR um að líta eftir ummerkjunum næst þegar farið væri á Selsvallafjall. Þarna hafi verið gömul leið, sem þeir hafi oft farið fyrrum, eða a.m.k. tvisvar á ári, þ.e. upp með Sogseli, upp með Spákonuvatni og eftir hálsinum. Ofan við Spákonuvatn væri nær tveggja metra há klettur og væri hann á landamerkjunum. Önnur kort, s.s. frá 1892, kveða á um mörkin í Trölladyngjuöxlinni og þaðan yfir á Selsvallafjall, en einhverra hluta vegna hefði komist inn lýsing einhvers staðar, sennilega frá Kálfatjörn, að mörkin væru í vörðu á Oddafelli og eftir götu á fellinu. Þar væri um misskilning að ræða. Fremrahorn (Fremstahorn) á Selsvalafjalli hafi verið nefnt Vesturhorn frá Vigdísarvöllum, en ofan við það hafi varðan átt að vera,
Sæmundur sagði Stóru-Vatnsleysu hafa haft í seli í Rauðhól, en Minni-Vatnsleysa hafi haft í seli undir Oddafelli. Þar hefði verið vatn úr Sogalæk, en vatnsskortur hefði háð selsstöðunni við Rauðhól.

Vatnsleysa

Stóra-Vatnsleysa. Tóftir kirkju og kotbýlis.

Aðspurður kvaðst hann ekki hafa orðið var við skúta í Skógarnefi og hefði hann þó gengið nokkrum sinnum um það svæði við leitir. Greni væru hins vegar nokkur þarna í hraununum.
Sæmundur sagði að Akurgerði hafi verið hjáleiga í Kúagerði frá Stóru-Vatnsleysu. Afstaðahraunið hafi runnið yfir jörðina og bæinn skömmu eftir fyrstu árþúsundamótin. Þarna hlyti að áður að hafa verið sléttlent og talsverður gróður.
Skoðuð var áletrun (SJ-1888-ME) í Hrafnagjá norðvestan við Stóru-Vatnsleysuhúsið. Áletrunin er til minningar um Magnús nokkrun frá Stóru-Vatnsleysu er þarna hafði jafnan afdrep við drykkju sína. Segir sagan að þar hafi og barn komið undir, eins og svo víða annar staðar í sveitinni. Hið sérstæða við staðinn er að hann er á innanverðum gjárbakka, en ekki utanverðum.

Magnúsarsæti

Magnúsarsæti.

Hvalsneskirkja

Í Alþýðublaðinu 13. október 1964 birtist eftirfarandi frétt eftir OÓ: „Fundinn er við Hvalsnesskirkju legsteinn Steinunnar dóttur Hallgríms Péturssonar. Steinn þessi hefur verið týndur í hátt á aðra öld, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til að hafa upp á honum.“
HvalsneskirkjaSíðan segir frá því hvernig bóndinn á Bala, Guðmundur Guðmundsson, formaður sóknarnefndar Hvalsnessóknar hafi verið að vinna við að steypa stétt upp að kirkjunni og ætlað að fjarlægja steina sem standa myndu upp úr steypunni. Byrjar hann á steini sem stóð við norð(vestur)- horn kirkjunnar og ætlar að velta honum við og nota í uppfyllingu undir steypuna. Kemur þá í ljós, að letur var á steininum, vel læsilegt. Lét hann Gísla [Guðmundson] kirkjuhaldara þegar vita af fundinum, sem við nánari athugun sá að hér var um að ræða legstein Steinunnar Hallgrímsdóttur“.
Steinn SteinunnarÍ greininni kemur fram að menn hafi vitað um tilvist þessa steins því um hann hafi verið heimildir í gömlum skrifum en þó var ekki vitað hvar hann var fyrr en hann kom upp í tengslum við kirkjubyggingu í Hvalsnesi árið 1820. Síðan hafi hann glatast á ný og hvorki Brynjólfur Jónsson frá Minna-Núpi, né Matthías Þórðarson þjóðminjavörður fundið hann þrátt fyrir ítrekaða leit í byrjun þessarar aldar. ãÁreiðanlega hafa þeir báðir gengið á honum“ segir svo, „því hann er búinn að liggja á hvolfi fyrir utan kirkjudyrnar síðan hún var byggð fyrir 77 árum [1887].“ Síðan heldur greinarhöfundur áfram: „Legsteinninn er gerður úr sléttri grásteinshellu sem sennilega hefur verið um 70 sm. á kant en höggvið hefur verið utan af honum svo hann félli betur í hleðsluna sem hann var notaður í. Við þessar lagfæringar skemmdist letur steinsins nokkuð, en enn er vel læsilegt:
STEINU
HALLGRIM
DOTTI
164…“
Niðurlag greinarinnar er eftirfarandi: „Talið er líklegt að séra Hallgrímur hafi sjálfur höggvið þennan stein. Hann þjónaði í Hvalsnesi í 7 ár, frá 1644 til «51, hefur Steinunn því bæði fæðst og látist þar, en hún var þriggja og hálfs árs gömul er hún dó. Var hún mjög efnilegt barn og tregaði faðir hennar hana mikið og orti eftir hana tvenn eftirmæli.“

Hvalsneskirkja

Það er þyngd steinsins og stafagerðin sem grípa mann sterkustum tökum. Er það á eins manns færi að lyfta honum?
Vegna þeirrar greinar sem hér birtist hafði ég samband við Sigurbjörn Stefánsson bónda í Nesjum í Hvalsneshverfi til þess að kanna hvort fyrir lægju upplýsingar um þyngd steinsins. Þær voru ekki haldbærar en sóknarnefndarformaðurinn, Reynir Sveinsson, bauðst til þess að ganga úr skugga um það. Hann fór síðan með baðvigtina sína til kirkju og lyfti steininum með aðstoð Bryndísar Gunnarsdóttur sóknarnefndarkonu upp á vogina. Steinninn reyndist vera 110 kg. Og þyngri var hann, áður en höggvið var af honum til þess að hann yrði þénugri sem gangstéttarhella.
Hallgrímur PéturssonÞað var víst enginn aukvisi sem valdi þessa voldugu grjóthellu og bar heim í smiðju og síðan að gröf barnsins eftir að hafa meitlað í hana nafn litlu dóttur sinnar og dánarár. STEINUNN HALLGRÍMSDÓTTIR 1649. Það er eins og heljarafl sorgarinnar hafi gert manninn tröllsterkan. Hallgrímur hefur verið um það bil 35 ára og heimildir segja að hann hafi verið stór vexti. Því má vel hugsa sér að þessi fyrrverandi járnsmíðanemi og sjómaður hafi verið rammur að afli. Gróf stafagerðin er síðan til vitnis um að þarna var ekki vanur steinsmiður að verki heldur faðir barnsins að tjá sorg sína og missi í vanmætti sínum.
Maður sér fyrir sér frumstæð verkfæri hins fátæka prests, heyrir glamur af hamri og meitli, sér tár hrökkva í grátt rykið, sér hann hagræða hellunni á gröf síns eftirlætis og yndis, og ljóðið og steinninn verða eitt, allt eins og Snorri orðaði það. Ljóðið munu margir lesendur Bautasteins kannast við. 

Steinunn

Eftirmælin, sem í raun eru tvenn og vefast saman í eitt máttugt harmljóð, dótturtorrek, eftir þessa litlu stúlku sem Hallgrímur segir með eigin orðum að hafi verið svo næm skynsöm, ljúf í lyndi.
Steinunn mín litla hvílist nú, skrifar hann til að sefa sorg sína.
Og úr ljóði Hallgríms fást þær upplýsingar að hún hafi aðeins verið þriggja og hálfs árs þegar hún dó. Hálft fjórða ár alls var ævi, eigi þó fullkomin, segir pabbi hennar.
Það er mikið haft við svo lítið barn að yrkja eftir það dýr ljóð og leggja stein á gröf þess á tímum, þegar barnadauði var daglegt brauð hinna fátæku og sneyddi ekki heldur hjá húsum hinna ríku. Það bendir til þess að Steinunn Hallgrímsdóttir hafi verið einstaklega efnilegt og heillandi barn ellegar faðir hennar óvenjulegur maður. Og auðvitað var umræddur faðir óvenjulegur maður. Og konan hans, móðir barnsins, átti að baki óvenjulega ævi. Hún hafði lent í herleiðingunni miklu til Alsír 1627 í Tyrkjaráninu svokallaða og var ein örfárra sem áttu afturkvæmt. Fundum þeirra bar saman í Kaupmannahöfn haustið 1636 og er ekki ætlunin að rekja langa sögu þeirra hér. Þó er rétt að minna á að fyrstu sjö búskaparár sín bjuggu þau við fátækt og allsleysi á Suðurnesjum þar til Hallgrímur var vígður til prests í Hvalsnesi þrítugur að aldri.

Heimild:
-Steinunn Jóhannesdóttir, rithöfundur.

Hvalsneskirkja