Tag Archive for: Maístjarnan

Hrútagjárdyngja

Gengið var frá Djúpavatnsvegi vestast í Hrútagjárdyngju. Rétt eftir að lagt var af stað fannst hlaðin refagildra neðan við hraunkant. Gengið var yfir mosahraun í norður. Þá var komið inn á gamla leið er liggur niður norðvestanverðan hraunkant dyngjunnar og með honum í báðar áttir. Reykjavegurinn liggur einnig þarna um.

Húshellir

Í Húshelli.

Áður en farið var ofan dyngjunnar blasti við mikill hraunbolli í austri. Gæti verið einn aðalgígur sjálfrar Hrútagjárdyngju. Fallegur staður. Þar vestan afvar komið að tveimur holum ofan í jörðina, gömlum gígrásum. Þær eru 5-6 metra djúpar. Hægt er að fara ofan í þá vestari. Það var gert og kíkt inn. Þröngur gangur gæti legið þar inn undir hraunið. Hellarannsóknarfélaginu verður eftirlátið að skoða það nánar. Vinnuheiti þessarar holu verður “Kokið”.

Híðið

Í Híðinu.

Skoðað var í Híðið, um 140 metra langan helli, sem er í Hrútadyngjuhrauni skammt sunnan við fjallið, í hæðinni sem þar er. Inngangurinn er lágur. Þegar inn er komið þarf að fara til vinstri. Þar er lágt gat, en fyrir innan það tekur meginrásin við. Mjög fallegir dropasteinar og strá eru í hellinum. Fara þarf varlega þarna um til að skemma ekki neitt. Híðið er með fallegustu hraunhellum landsins. Leggja þarf hverja leið vel á minnið til að minka líkur á að villast í hellinum. Ekki var farið alla leið í botn að þessu sinni því talsvert er um að skríða þurfi hér og þar.

Í suður frá Híðinu er Húshellirinn. Inngangur hans er í vestanverðri fallinnar hraunbólu. Þegar inn er komið blasir við mikill geymur og eru gangar í allar áttir. Á miðju gólfinu er hlaðið hús, ca. 2×2 metrar í ummál. Bein eru í einum gangnanna, þeim er liggur í suður. Ekki er vitað af hverju beinin kunna að vera.

Maístjarnan

Í Maístjörnunni.

Ekki er heldur vitað hvers vegna húsið var hlaðið í hellinum. Þarna gætu hreindýraveiðimenn hafa haft aðstöðu um tíma, eða einhverjir aðrir, einhverra hluta vegna. Húsið er sennilega hlaðið til að halda hita á þeim er þar gistu svo og forðast vatn er lekur úr loftum eftir rigningar. Botn hússins hefur verið fóðraður með mosa.

Maístjarnan

Í Maístjörnunni.

Maístjarnan er í vestur frá Húshelli. Opið snýr á móti suðaustri. Á milli þessarra hella er a.m.k. þrír aðrir hellar, þar af tveir nokkur hundruð metra langir. Annað opið er á milli Húshellis og Maístjörnunnar, en hitt er norður af Húshelli. Þegar komið er niður blasir “augað” við, hringlaga slétt op, rúmlega meters langt. Innan opsins er komið í hraunrás er liggur þvert á opið. Að ofanverðu eru margir dropasteinar á gólfi. Ofan þeirra er þverrás, mjög falleg. Þegar gengið er niður rásina og litið aftur sést í þrjú op. Leggja þarf rétta opið á minnið.

Maístjarnan

Í Maístjörnunni.

Mikil litadýrð er í hellinum, fallegir dropasteinar og ýmis jarðfræðifyrirbrigði. Í Maístjörnunni eru svo til öll fyrirbrigði er prýða hraunhella á Íslandi. Skammt neðan við opið var farið niður eftir hraunrás. Á hana kemur þverrás, um 60 cm neðar en hin. Haldið var áfram og var þá komið í geymi, en engin rás virðist vera úr honum. Haldið var spölkorn til baka, að þverrásinni, og síðan til vinstri upp eftir henni. Hún þrengist en ef haldið er áfram er komið að opi Maístjörnunnar, utan við “augað”. Hægt er að fara fram og aftur um hellinn eftir ýmsum rásum, en gæta þarf vel að því að villast ekki í göngunum.
Neyðarútgöngudyrahellirinn var skoðaður, en hann er um 90 metra langur, víð hraunrás er liggur í hálfboga og opnast síðan að nýju.
Frábært veður.

Neyðarútgöngudyrahellir

Neyðarútgöngudyrahellir.

Húshellir

Gengið var upp með Fjallsgjá að Fjallinu eina og inn á hellasvæðið norðan Hrútagjárdyngju. Ætlunin var að skoða nokkra hella, s.s. Steinbogahelli, Híðið, Húshelli og Maístjörnuna. Nokkrir aðrir hellar eru þarna á svæðinu og sumir nokkuð langir.

Hrútagjárdyngja

Jarðmyndun í Hrútargjárdyngjuhelli.

Op Híðisins lætur lítið yfir sér. Þegar inn var komið sést einungis í fljótu bragði lág hraunbóla með sléttu gólfi. Hægt er þó að halda áfram niður í meginrásina á tveimur stöðum. Auðveldara var að fara til vinstri þegar inn var komið og láta sig síðan síga á aftur bak niður í rásins. Þá tók við greið leið til suðurs, með beygjum og bugðum, dropsteinum, hraunstráum og öðrum fallegum hraunmyndunum. Hellirinn lækkar og hækkar, stuttir hliðargangar liggja út frá meginrásinni og stundum þurfti að skríða á maganum um tíma. Híðið er alllangt með viðkvæmum helladýrgripum.
Húshellir er skammt ofar. Þegar inn var komið tók við stór salur með stuttum rásum til tveggja átta. Á miðju gólfi var hlaðið byrgi. Bein lágu á gólfinu. Erfitt reyndist að ákvarða úr hvaða skepnu þau gætu hafa verið. Jafnvel var talið að þau hafi verið úr hreindýrskálfi. Húshellir hefur alla burði til að geta talist til tímabundinna mannabústaða.

Híðið

Í Híðinu.

Gömul þjóðleið lá upp með Fjallinu eina og skammt frá opi hellisins áleiðis að norðurbrún Hrútagjárdyngju. Sagnir eru af útilegumönnum á þessum slóðum, en í þeim frásögnum er ýmist getið um Hverinn eina eða Fjallið eina. Ein sagan segir að þeir hafi fundið skúta “skammt sunnan Selsvöllu og hreiðrað þar um sig. Er nú ekki gott að segja, hvort þeir hafa verið staðháttum þarna kunnugir, en heldur var óvarlegt að setjast þarna að, því að staðurinn var á alfaraleið á þeim dögum. Má þó vera, að þeir hafi valdið hann af ásettu ráði til þess að eiga hægara með að sitja fyrir ferðamönnum, eins og síðar kom fram.
Ekki höfðu þeir hafst lengi við þarna, er Hallur Sigmundsson bóndi á Ísólfsskála varð þeirra var. Þeim útilegumönnum mun nú ekki hafa litist á að vera þarna lengur, því að vel gat svo farið, að Hallur vísaði á felustað þeirra. Tóku þeir sig því upp og fluttu sig lengra norður með fjallinu og settust að í helli, sem var skammt frá Hvernum eina.” Þar voru þeir handteknir og dæmdir á Bessastöðum.

Hverinn eini

Hverinn eini.

Sunnan við Selsvelli er hellir, en ekki er fulljóst hvar nefndur hellir hafi verið nálægt Hvernum eina. Þó er þar nálægt gróið jarðfall með lóðréttum veggjum. Auðvelt hefði verið að refta yfir það og fá þannig hið ákjósanlegasta skjól. Þrátt fyrir sagnir af útilegumönnunum við Selsvelli er alls ekki útilokað að útilegumenn hafi hafst við annars staðar í hraununum í skamman tíma, s.s. í Húshelli. Þá gætu refaveiðimenn hafa haft þar skjól, en a.m.k. tvær hlaðnar refagildrur eru í Hrútargjárdyngju skammt ofar.
Samkvæmt lögum þjóðveldisins forna var skóggangur þyngsta refsing sem sakamaður gat fengið. Skóggangur var ævilangur og voru sakamenn þessir gerðir útlægir úr samfélaginu og voru réttdræpir ef til þeirra sást. Þeir leituðu því oftast skjóls í óbyggðum þar sem enginn varð þeirra var.

Húshellir

Við Húshelli.

Sumir útilegumenn áttu að búa í hellum uppi í óbyggðum við frekar kröpp kjör. Líf þessara manna var erfitt og þar eð þeir gátu ekki lifað einungis á náttúrunnar gæðum þá neyddust þeir oft til þess að stunda gripdeildir í byggð. Og þá var ekki verra að vera tiltölulega nálægt henni, en þó í öruggri fjarlægð.
Maístjarnan er með fallegri hellum. Inngangan í hana er áhrifarík, eða í gegnum auga. Hellirinn er viðkvæmur; mikið af dropsteinum og hraunstráum. Litadýrðin er allnokkur og súlnaverkið skrautlegt. Steinbogahellir er hins vegar æskilegri umgangs. Opið er stórt og hellirinn víður. Hrun er inni í rásinni, en hægt er að fara yfir það og áfram niður rásina. Hellirinn er nefndur eftir steinboga, sem er yfir jarðfallinu þar sem opið er.
Frábært veður. Gangan og skoðunin tók 5 klst og 5 mín.

Híðið

Híðið – op.

Maístjarnan

Gengið var um Sandfellsklofa, með Sandfelli, yfir norðuröx Hrútfells og að Hrútagjárdyngju.

Fjallið eina

Fjallið eina.

Norðan hennar var staðnæmst og litið yfir hraunin og höfuðborgarsvæðið áður en horfið var niður í Húshelli. Í hellinum, sem fannst 1968, eru húshleðslur og bein. Hann er mjög rúmgóður og alveg sléttur í botninn. Ekkert hrun er í hellinum.
Snjór þakti jörð. Kynntir voru aðrir hellar á svæðinu, s.s. Steinbogahellirinn, Híðið, Langihellir og Maístjarnan, en ekki var farið í þá að þessu sinni því markmiðið er að takmarka umferð í þá svo sem kostur er.
Með í för var m.a. geðþekki ráðherrann, Halldór Ásgrímsson og Örlygur Sigurðsson, blaðamaður MBL o.fl.
Fjallið eina teigði sig upp úr fannbreiðunni og lagði við koll.
Veður var skínandi gott til gönguferðar þennan nýársdagsmorgun.

Húshellir

Í Húshelli.

Hrútagjárdyngja

Gengið var um meginhrauntröð Hrútagjárdyngju, gígtappi dyngjunnar barinn augum og ályktað um jarðfræði myndunarinnar. Ætlunin var að kíkja inn í Steinbogahelli, líta í Húshelli og í Maístjörnuna, Aðventuna og auk þess renna eftir tveimur langrásum nokkur hundruð metra inn undir yfirborðið. Í lokin var svo dáðst að útsýninu að Fjallinu eina og að Sauðabrekkum áður en haldið var til baka um Stórhöfðastíg milli Sandfells og Hrútargjárdyngjubarms.

Fjallið eina

Hrútagjá er sigdalur sem liggur í norðvesturjaðri eldstöðvarinnar Hrútagjárdyngju í Móhálsadal sunnan við Fjallið eina. Gjáin sjálf líkist tröð með mosagrónum hraunbotni á milli klofinna hraunhryggja. Allt svæðið er í umdæmi Grindavíkur.
Eitt af stærstu hraununum í kringum Hafnarfjörð er komið úr Hrútagjárdyngju. Upptök þess eru nyrst í Móhálsdal. Á gígsvæðinu er allmikil gjá sem heitir Hrútagjá og við hana er dyngjan kennd. Hraunið hefur að mestu runnið til norðurs og til sjávar og hefur myndað ströndina milli Vatnleysuvíkur og Straumsvíkur. Í daglegu tali gengur stærsti hluti hraunsins undir nafninu Almenningur. Öskulög í jarðvegi ofan á hrauninu benda til að hún hafi myndast fyrir 4000- 5000 árum (leiðréttur aldur ~ 4500). Hraunin ná yfir 80 km2 svæði.
Ef hraungosunum er skipt upp í sprungugos og dyngjugos kemur fram athyglisverður munur á goshegðuninni. Nánast öll hin stærri dyngjugos urðu strax á síðjökultíma í kjölsogi jökulleysingarinnar og framleiðni þeirra var í hámarki fyrir meira en 11.000 árum. Síðan dvínaði hún og á síðustu 4000 árum hafa einungis orðið þrjú dyngjugos.
OpDyngjutímabilið hófst fyrir um 14000 árum spannaði því 10.000 ár. Engin stór sprungugos eru þekkt frá síðjökultíma. Hins vegar komu upp mikil hraun snemma á nútíma og þá náði framleiðni gossprungnanna hámarki. Á tímabili um miðbik nútímans, frá því fyrir 6000 árum og þar til fyrir 4000 árum, urðu engin stór sprungugos en síðan fór eldvirkni og hraunaframleiðsla vaxandi og náði nýju hámarki á sögulegum tíma. Svipað mynstur sést í tíðni súrra, plíniskra gjóskugosa. Á fyrstu árþúsundunum eftir að ísa leysti er vitað um fjögur slík gos. Um miðbik nútímans varð lengsta goshléið en síðan jókst gosvirknin og hefur hún verið mikil á sögulegum tíma.
Meginhrauntröð Hrútagjárdyngjunnar var fylgt að gígrótunum, fallegum hringlaga tappa í henni miðri. Þá var hrauntröðinni fylgt áfram til norðurs út úr „upprisu“ hraunsins í kringum og út frá gígnum. Landið hefur risið þarna allnokkuð vegna þrýstings kvikuhólfsins undir niðri og sést það berlega á „upphluta“ hennar á jöðrunum.
Þegar komið var út úr tröðinni blasti höfuðborgarsvæðið við – sólbaðað. Fjallið eina var í forgrunni – formlagað sem fyrr.
Hellasvæðið norðan Hrútagjárdyngju tekur við rétt handan við meginformið. Næst er Steinbogahellir. Hann ber nafn sitt af steinboga, sem enn stendur yfir jarðfallinu, sem opið er í. Niðri er hin myndarlegasta rás, en fremur stutt. Hún endar í hruni.
MaistjarnanÞá var litið á op Neyðarútgöngudyrahellis áður en stefnan var tekin á Maístjörnuna. Þegar komið var að opinu sást vel hversu mikinn varma hellar sem þessi geyma í sér fram eftir vetri. Úti var -9°C, en þegar inn var komið var hitinn milli + 10°C-15°C. Hitinn hafði brætt af sér snjóinn fyrir opinu svo inngangan var auðveld. „Augað“ í Maístjörninni er alltaf jafn áhrifamikið. Um er að ræða tiltölulega þrönga rás, sléttbotna. Fyrir innan taka við rásir til beggja handa. Þegar farið er til hægri er um formfagra rás að ræða. Hún skiptist fljótlega í tvennt. Sé farið niður eftir vinstri rásinni skiptist hún í tvennt – og þrengist beggja vegna.
Hægri rásin liggur að þverrás, lægri. Ef henni er fylgt til hægri er komið upp þar sem farið er inn í „augað“. Ef haldið er áfram er komið inn í litskrúðugan hraunsal. Úr honum má vel leita leiða til annarra átta. Það var hins vegar ekki gert að þessu sinni.
Þegar haldið er til vinstri er komið er inn úr „auganu“ taka við dropsteinar. Sæta þarf lagni til að komast framhjá þeim án þess að valda skemmdum. Ofan við er komið inn í rás. Hún liggur annars vegar upp á við og skiptist þar í tvennt. ÞverhellirSé haldið til hægri niður rás er komið niður í fyrrnefnda rás. Hún leiðir viðkomandi áfram niður einstaklega fallega formmyndun. Í henni er m.a. litskrúðugur flór. Þegar horft er til baka frá þessum stað er að sjá tvískipta rás. Þetta sjónarhorn getur ruglað margan nýliðann í rýminu. Hvaðan kom ég? Hvert á ég eiginlega að fara til að komast til baka? Augnabliks hræðsla getur gripið um sig – en það er óþarfi. Með því að fara til baka með rásvegginn á vinstri hönd er auðvelt að finna útgönguleiðina.
Formfegurðin þarna í rásum Maístjörnunnar er óvíða meiri. Litadýrðin er engu öðru lík. Í rauninni er um slíka gersemi að ræða að sem fyrr er ástæða til að takmarka aðgengi að hellinum. Því miður er reynslan sú að fólk kann yfirleitt ekki að umgangast gersemar sem þessar eins og ætlast er til.
Næst var leitað að helli, sem FERLIR fann fyrir nokkrum árum og var gefið númer í samræmi við hellaskráningarkerfi HRFÍ. Um er að ræða myndarlegt op. Þegar komið er inn tekur við nokkuð víð rás, en stutt. Þarna er galdurinn að fara til hægri um leið og inn er komið. Þar liggur um 400 metra löng rás til norðurs. Henni var fylgt nokkurn spöl. Að þessu sinni settu ljósgráir dropsteinar umluktir svarleitu klakaumleitan skemmtilegan svip á rásina. Gólfið er ljósbrúnt svo gráir veggirnir njóta sín vel í slíku umhverfi. Og ekki skemmdu hin fallegu grýlukerti fyrir stemmingunni.

Húshellir

Í Húshelli.

Kíkt var á opið á Híðinu, einum af fallegustu hellum svæðisins. Þrátt fyrir lengdina er hann fremur lágur og þarf að hafa góðar hnéhlífar við skoðun hans.
Húshellir var næstur. Einnig þar hafði undirliggjandi hitinn brætt snjóinn frá opinu svo inngangan var greið. Hlaðið hús úr grjóti er innan við innganginn. Rásir liggja til beggja hliða. Loftin eru heil og ekkert hrun er á gólfi. Bein eru í vinstri rásinni, bæði kindabein og stórgipabein, líklega af hreindýri.
Við skoðun á mannvirkinu var að sjá sem það hafi verið hlaðið af gefnu tilefni. Stórir steinar, a.m.k. þriggja mann tak, eru neðst. Það grjót hefur væntanlega verið sótt í munnann. Síðan hefur verið hlaðið ofan á með hraunhellum fengnum utan við hellinn.
Ljóst er að húsið hefur ekki verið hlaðið af refaskyttum eða hreindýraveiðimönnum. Líklegasta skýringin er sú að útilegumenn, eða einhverjir aðrir, sem hafa þurft að dvelja þarna um lengri tíma, hafi komið að verkinu. A.m.k. er um að ræða hina vandlegustu hleðslu er standa hefur átt til lengri tíma.
Tjaldað hefur verið yfir veggina og mosi verið settur í gólfið. Fróðlegt væri að aldursgreina beinin og jafnvel athuga nánar gólflagið í húsinu. Þarna er um að ræða eina af óleystum ráðgátum Reykjanesskagans – sem fáir sérfræðingar og fjárveitingahaldsmenn virðast hafa haft áhuga á fram að þessu.
Allt þetta svæði er í umdæmi Grindavíkur – jafnvel þótt sumir vildu staðsetja það annars staðar. Húshellir er algerlega óhreyfður. Loft eru heil og gólf slétt. Stærð hans er umtalsverð í rúmmetrum.
Að þessu búnu var haldið yfir á Stórhöfðastíg og honum fylgt upp með Sandfelli og milli Hrútfells og Hrútagjárdyngju. Stígurinn hefur verið merktur, en stikurnar á honum sunnanverðum hafa eitthvað verið aflagaðar. Þær eiga að vera svolítið vestar og koma inn á Undirhlíðaveginn skammt vestan núverandi staðsetningar. Þar er gatan augljós. Vonandi verður þetta lagað.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Heimildir m.a.:
-www.isor.is

Hrútagjárdyngja

Maístjarnan
Ætlunin var að ganga inn á hellasvæðið norðvestan í Hrútagjárdyngju og skoða Steinbogahelli (Hellinn eina), Húshelli og Maístjörnuna. Skv. upplýsingum Björns Hróarssonar, hellafræðings, eru a.m.k. þrjú op á síðastnefnda hellinum. Innviðir þess hluta, sem ekki hefur verið skoðaður fyrr, ku gefa hinum lítt eftir – og er þá mikið sagt.
Í HúshelliÍ stórvirkinu „Íslenskir hellar“ fjallar Björn Hróarsson m.a. um Maístjörnuna sem og aðra hella á Hrútagjárdyngjusvæðinu: „Hrútagjárdyngja (215 m.y.s.) er mikil dyngja með hvirfil sunnan Sandfells, sunnan við Fjallið eina. Umhverfis hið eiginlega gígsvæði er mikil gjá sem nefnist Hrútagjá og eftir henni var dyngjan nefnd Hrútagjárdyngja. Hraunið er um 80 ferkílómetrar og umfangið er 2-3 rúmkílómetrar. Hraun frá dyngjunni hafa runnið að Hvaleyrarholti, vestur að Vatnsleysuvík, austur að Undirhlíðum og niður í Sandfellsklofa (Jón Jónsson, 1978). Til suðurs hafa einnig runnið hraun frá dyngjunni, nú að mestu þakin yngri hraunum.
Eldvarpið er sérstakt og hafa margir velt vöngum yfir myndunarsögunni.“
Nokkrir hellar eru við norðanverða dyngjuna. Má þar t.d. nefna Hellirinn eina (Steinbogahelli), Litla-Rauð, Ranann, Húshelli, Maístjörnuna, Neyðarútgöngudyrahelli og Híðið. Í Híðunu er að finna stjórfenglegustu dropsteina landsins. Auk þessa er þarna á hellasvæðinu t.d. ónefndur u.þ.b. 500 metra langur „stórskemmtilegur“ hraunhellir.
Augað í MaístjörnunniUm Hellinn eina segir Björn m.a.: „Hellirinn gengur inn frá stóru niðurfalli eða hrauntröð og er  steinbogi yfir niðurfalið. Hellirinn sem er um 170 metra langur er manngengur lengst af en verulega lækkar til lofts innst. Sérkennilegir spenar eru við hellsimunnann og þar skammt innan við eru dropsteinar og hraunstrá. Í hellinum eru þó hvergi margir né stórir dropsteinar en töluvert um hraunstrá. Nokkrar miklar sprungur skerast þvert á hellinn og þær stærstu um 30 cm á breidd og mynda jafnvel litla afhella. Aðeins hefur hrunið við sprungurnar sem annars hafa skemmt hellinn furðu lítið. ekki er vitað um annan hraunrásarhelli hér á landi sem er skorinn af jafn mörgum og stórum sprungum. Hraunspýja hefur flætt inn í hellinn eftir myndun hans og storknun hins upprunalega gólfs. Nálægt miðjum hellinum endar þessi pýja í hraunkanti eða tungu. Slík fyrirbæri eru sjáldgæf í hraunhellum. Innarlega í Hellinum eina eru falleg bogadreginn göng. Þau eru skrýdd mikilli litadýrð.“
Dropsteinar í MaístjörnunniUm Maístjörnuna segir Björn: „Maístjörnuna fundur þeir Júlíus Guðmundsson og Einar Júlíusson 1. maí 1991. Hellirinn sem er um 480 metra langur er mjög margskiptur og teygir arma sína víða. Nokkuð er um dropsteina og hraunstrá. Skraut þetta er ekki stórvaxið ern er á víð og dreif um hellinn. Illa er innangengt í efri hluta hellisins en þangað liggja þröng göng inn úr hrauntröð. Þar er nokkuð um skraut en hellirinn margskiptur og þar kvíslast fjölmargar minni rásir sem ævintýranlegt er að fara um. Erfitt er að lýsa Maístjörnunni með orðum… Um er að ræða einn af skemmtilegri hellum á Íslandi.“
Þegar gengið var um Hrútagjárdyngjuna og hrauntröðinni miklu fylgt inn á hellasvæðið mátti lesa úr landslaginu þá ógnarkrafta er þarna hafa ráðið ríkjum fyrir u.þ.b. 4500 árum, þ.e. alllöngu fyrir okkar daga. Gígopið er nokkru sunnar. Svo er að sjá sem upphleypt dyngjuskálin hafi geymt kvikufóðrið um skeið, en síðan hafi það náð að bræða sér leið úr úr henni til norðurs. Gífurlegt kvikumagn hefur runnið úr skálinni og þá m.a. myndað hraunrásir er geyma fyrrnefnda hella – neðanjarðarár hraunkvikunnar. Hluti þunnfljótandi kvikunnar hefur síðan runnið til baka að gígopinu þegar gosinu létti og fyllt það að mestu. Þó má vel sjá móta fyrir því ef vel er að gáð.
Byrjað var á því að skoða Steinbogahelli. Inngangurinn er tilkomumikill og myndrænn. Þar sem steinboginn liggur yfir rásina eru gróningar undir. Auðvelt var að fylgja rásinni niður og síða inn undir yfirborðið. Við tók klöngur yfir hrun og fimurfærin fótabrögð. Innferðin var þó vel þess virði því alltaf bar eitthvað áhugavert fyrir augu.

Maístjarnan

Í Húshelli var gengið að „húsinu“ og það ljósmyndað á bak og fyrir. Hraunbólan og tengdar rásir höfðu svo oft verið skoðaðar og metnar að ekki var á bætandi. Fyrir nýinnkomna er „bólan“ þó alltaf jafn áhugaverð, ekki síst „forsöguleg“ beinin, sem hún hefur að geyma.
Áður en haldið var niður í meginop Maístjörnunnar var skoðað niður í tvö önnur nálæg op, suðaustan og norðaustan við það. Fyrrnefnda opið er í jarðfalli. Þegar komið var niður gafst einungis lítið svigrúm til athafna. Síðarnefnda opið er í gróinni hraunrás. Þar inni bíður góðgæti þeim er vilja og nenna að leita. Eftir að hafa fetað rásina inn var komið að þverrás. Þar fyrir innan lá rás til beggja handa. Hún greinist svo í aðrar fleiri. Rásirnar eru þröngar og erfitt að ljósmynda þar nema við kjöraðstæður (þurrt og afslappað).
Þá var haldið inn í meginhluta Maístjörnunnar. Þegar komið var niður í torfundið jarðfallið og Augað barið augum var um tvær leiðir að velja (reyndar þrjár því hægt var að fara til baka).
Þegar inn í rásina innan við Augað var komið var stefnan tekin til vinstri, í gegnum dropsteinabreiðu. Feta þurfti rásina varlega því þarna var allt að mestu óskemmt. Um var að ræða eina myndrænustu dropsteinabreiðu er um getur (ef frá eru taldar slíkar í Híðinu þarna skammt frá og í Árnahelli í Ölfusi).

Náttúruhraunmyndun í Maístjörnu

Þegar inn í þverrás var komið tók við silfurleit ásýnd á veggjum. Um er að ræða útfellingar liðinna árþúsunda, sem ástæðulaust var að fara höndum um. Á gólfi var rauðleit hraunspýja. Þessi hluti hellisins greinist í nokkrar stuttar fallegar rásir. Fyrir ókunnuga mætti ætla að þarna væri völundarhús, en kunnugir feta þær af ákveðni. Ef skoðað er í gólf og veggi má víða sjá fallegar gosnýmyndanir með miklu litskrúði.
Haldið var til baka um dropsteinabreiðuna og framhjá Auganu. Þá greindist rásin í tvennt. Sú vinstri virtist áhugaverðari, en hún þrengdist fljótlega og varð ófær. Sú hægri leiddi leitendur áfram niður í rauðleitan hraunsal. Miðja vegu var farið yfir lægri þverrás. Þegar komið var til baka var þverrásin fetuð til vinstri. Rásin lækkaði smám saman og loks kom að því að leggjast varð á fjóra fætur og skríða þurfti áfram á hvössum harðsteinsnibbum.
Erfiðið og áþjánin skilaði þóÂ tilætluðum árangri því loks var komist að upphafsreit – í jarðfallinu utan við Augað.
Frábært veður. Ferðin tók 3 klst og 3 mín.

Heimild m.a.:
-Björn Hróarsson – Íslenskir hellar I – 2006.

Maístjarnan

Maístjarnan

Það var vel við hæfi að kíkja í Maístjörnuna í byrjun maímánuðar. Gengið var…… (má ekki segja því um er að ræða einn af fegurstu, en jafnframt viðkvæmustu hraunhellum landsins). Fyrst var þó komið við í Húshelli til að afhræða þátttakendur.

Húshellir

Í Húshelli.

Húshellir er bæði víður og hár hellir með a.m.k. tveimur breiðum hliðarrásum og því tilfallinn til að draga hugsanlegan skrekk úr fólki áður en haldið er inn í þrengri hella á svæðinu. Á miðju gólfi hellisins er hlaðið stórt byrgi. Í annarri hliðarrásinni eru bein, sem ekki hafa verið aldursgreind, en ekki er talið ólíklegt að þar geti verið um bein úr hreindýri að ræða. Til eru gamlar sagnir um útilegumenn á Selsvöllum, “sem færðu sig norður með fjöllunum” þegar að þeim var sótt. FERLIR hefur fundið álitlegt skjól við Selsvelli, sem gæti hafa verið fyrra athvarf útilegumannanna, en ekki er óhugsandi að þeir hafi hafst um tíma við í Húshelli eða allt þar til þeir voru handteknir og færðir yfirvaldinu á Bessastöðum. A.m.k. eru miklar heillegar mannvistarleifar í hellinum. Skjólið í hellinum gæti einnig hafa verið athvarf hreindýra- og/eða rjúpnaveiðimanna fyrrum.

Þá var haldið í Maístjörnuna. Hellirinn er tvískiptur og óaðgengilegur á millum. Að þessu sinni var skriðið inn um “augað” í vestari rásinni. Þá var komið í rúmgóða þverrás. Að ofanverðu var dropasteinabreiða á gólfinu og hraunnálar í lofti. Niður liggur rás, sem skiptist síðan í tvennt. Haldið var upp eftir hellinu og fetað varlega í gegnum dropasteinana. Þá var komið í rúmbetri þverrás, sem skiptist síðan í nokkrar aðrar. Litatilbrigðin eru mikil, sem og hraunmyndanir þar sem gangar og op opnast í allar áttir.

Maístjarnan.

Augað í Maístjörnunni.

Rás liggur upp á við, en hún lokast síðan með hruni. Rásin liggur talsverðan spotta niður á við. Þar er fallegur rauðlitaður flór. Rásin þrengist síðan uns loft og gólf koma saman. Fetið var tekið til baka að “auganu” og síðan haldið niður þá rás. Vinstri rásin þrengist og lokast, en sú hægri liggur áfram niður eftir. Á hana kemur þverrás, nokkru lægri. Rásinni var fylgt yfir hana. Hún þrengist svolítið, en opnast síðan aftur í stórum litskrúðugum geimi. Haldið var til baka upp rásina, hoppað niður í þverrásina og henni fylgt til vinstri. Þá var komið út í opnu hellisins utan við “augað”. Þar hafði verið útbúið kertasett veisluborð í tilefni 500. FERLIRsgöngunnar – lifrapylsa og hákarl. Þjóðlegra gerist það nú varla undir yfirborði jarðar. Hvernig verður dagamunurinn í tilefni af 600. göngunni?
Til baka var gengið um tröllvaxið landslag. Þegar gengið var framhjá einum hraunhólnum virtist sem raulað væri inni í honum. Lagt var við hlustir og þegar betur var að gáð heyrði fleiri en einn að kveðið var lágri, en dimmri röddu: “Hóhó og hananú, Halldor ei falli. Híhí og snusnu, Solrun af stalli”. Þetta var endurtekið aftur og aftur. Hvort eða hvað þetta kann að boða verður bara að koma í ljós. (Ferðin var farin viku fyrir alþingiskosningarnar 2002).

Í göngunni fannst enn ein hlaðin refagildra, sú 70. sem vitað er um á Reykjanesi.
Gangan tók um tvær klukkustundir.
Veður var frábært – lygnt og hlýtt.

Maístjarnan

Maístjarnan – uppdráttur ÓSÁ.

Maístjarnan

Haldið var í Maístjörnuna norðan við Hrútagjárdyngju.
Í stórvirkinu „Íslenskir hellar“ segir Björn Hróarsson m.a. um Maístjörnuna.
Í Maístjörnunni„Maístjörnuna fundur þeir Júlíus Guðmundsson og einar Júlíusson 1. maí 1991. Hellirinn sem er um 480 metra langur er mjög margskiptur og teygir arma sína víða. Nokkuð er um dropsteina og hraunstrá. Skraut þetta er ekki stórvaxið ern er á víð og dreif um hellinn. Illa er innangengt í efri hluta hellisins en þangað liggja þröng göng inn úr hrauntröð. Þar er nokkuð um skraut en hellirinn margskiptur og þar kvíslast fjölmargar minni rásir sem ævintýranlegt er að fara um. Erfitt er að lýsa Maístjörnunni með orðum… Um er að ræða einn af skemmtilegri hellum á Íslandi.“
Í rauninni eru þrjú op á Maístjörnunni; meginopið með „Auganu“ innanvert, lítið op skammt austar og það þriðja skammt suðaustar (sunnan við litla opið). Innan við litla opið er rás. Úr henni er hægt að komast í greinótta þverrás, sem síðan greinist á nokkra vegu líkt og stjarna.
Hér kemur lýsing á því sem er innan við stærsta opið (augað).
Skriðið var inn um “augað”. Þá var komið í rúmgóða þverrás. Að ofanverðu var dropasteinabreiða á gólfinu og hraunnálar í lofti. Niður liggur rás, sem skiptist síðan í tvennt. Haldið var upp eftir hellinu og fetað varlega í gegnum dropasteinana. Þá var komið í rúmbetri þverrás, sem skiptist síðan í nokkrar aðrar. Litatilbrigðin eru mikil, sem og hraunmyndanir þar sem gangar og op opnast í allar áttir. Rás liggur upp á við, en hún lokast síðan með hruni. Rásin liggur talsverðan spotta niður á við. Þar er fallegur rauðlitaður flór. Rásin þrengist síðan uns loft og gólf koma saman. Fetið var tekið til baka að “auganu” og síðan haldið niður þá rás. Vinstri rásin þrengist og lokast, en sú hægri liggur áfram niður eftir. Á hana kemur þverrás, nokkru lægri. Rásinni var fylgt yfir hana. Hún þrengist svolítið, en opnast síðan aftur í stórum litskrúðugum geimi. Haldið var til baka upp rásina, hoppað niður í þverrásina og henni fylgt til vinstri. Þá var komið út í opnu hellisins utan við “augað”.
Ekki var að sjá að hellirinn hafi látið á sjá eftir jarðskjálftana undanfarið (2008). Þrátt fyrir að hellinum hafi verið haldið sæmilega vel leyndum hafa hraunstrá í loftum verið brotin á nokkrum stöðum.

Heimild:
Björn Hróarsson, Íslenkir hellar – 2006.

Dropsteinn í Maístjörnunni

Maístjarnan er einn dýrmætasti hraunhellir landsins. Hann er í Hrútagjárhrauni. Hvort sem litið er til staðsetningar og þeirra náttúru(jarðmyndana)-fyrirbæra er hann geymir er nauðsynlegt að varðveita hann til langar framtíðar. Þegar 

Maistjarnan-21

Í Maístjörnunni.

FERLIR heimsótti hellinn fyrir skömmu þakti snjór jörð og frost beit í kinn. Inni var hins vegar bæði hlýtt og hljótt. Ljóst var að umferð um hellinn að undanförnu hafði leitt af sér brotna dropsteina og fallin hraunstrá. Hvorutveggja verður erfitt að bæta eftir tæplega 6000 ára friðveislu.
Eftir stutta dvöl í kyrrðinni mátti heyra eftirfarandi, líkt og hvísl, ef mjög gaumgæfilega var lagt við eyru. Það var endurtekið aftur og aftur: 

Maistjarnan-22

Í Maístjörnunni.

Ó, hve létt er þitt skóhljóð.
Það er vetrarhret úti,
napur vindur sem hvín.
En ég veit aðra stjörnu
aðra stjörnu sem skín.
Það eru erfiðir tímar,
það er hrunaþref.
Í kvöld lýkur vetri
sérhvers vinnandi manns,
og á morgun skín maísól.
Það er maísólin mín,
Fyrir þér ber ég fána
þessa framtíðarlands.

Textinn var ekki nákvæmlega eins og í ljóði Halldórs Laxness um „Maístjarnan„. Sá texti hefur reyndar bæði verið fluttur af ýmsum í mismunandi útfærðum útgáfum og vitað er að Halldór sótti jafnan efni og hugmyndir í verk sín til annarra. Þannig telja jafnvel sumir að ljóðið og/eða lagið eigi uppruna að leita til verka Friedricks Hendels.
Sammerkt er þó með „Maístjörnunum“ tveimur, ljóðinu og hellinum, að hvorutveggja vekur hrifningu þess er nýtur á hverjum tíma.

 

Maístjarnan

Maístjarnan – op.

Hrútargjá

Hríðarbylur var þegar lagt var af stað í fylgd jeppamanna á stórum dekkjum um Djúpavatnsveg að Hrútargjárdyngju.

Húshellir

Við Húshelli.

Ætlunin var að skoða Húshelli og Maístjörnuna, tvo af fallegri hellunum hér á landi. Talsverður snjór var á veginum sem og mikill skafrenningur til að byrja með. Reyndar sást enginn vegur. Ekið var þar um sem vegstæðið hafði verið síðast þegar vottaði fyrir því. Þurftu jeppamennirnir að hafa mikið fyrir því að komast hvert hið stysta fet því fyrir sérhver tvö áfram þurfti að aka eitt aftur á bak; eitthvað sem fótgangendur áttu ekki vana til, nema kannski í bröttustu skriðum.

Annars er betra að nefna ökutæki þessi meirivagna, en ökumennina jeppa, sbr. seppa, serpa eða lappa. Þaðan gæti verið, við seinni tíma skýringar, komið orðatiltækið “menn að meiri”. Við slíkar aðstæðir jeppast þeir áfram, beintengjast bæði vél og vagni – verða hluti af farartækinu – allt verður að einni samstæðu. Minnivagnar eru þá hinir dæmigerðu fólksbílar. Annars skiptir stærð ökutækisins engu máli. Það eina, sem skiptir máli, er hvaða augum eigandinn lítur á það og hverju það getur áorkað að hans áeggjan.

Húshellir

Í Húshelli.

Miklu máli skiptir þó að búa meirivagnanna nægilega stórum dekkjum, bæði til þess að hægt sé að hleypa úr þeim notuðu lofti og til að bæta í þau nýju þegar komið er í ómengað umhverfið. Allt er þetta spurning um heilsusamlegt og náttúrulegt líferni, bæði fyrir mann og meirivagn.
FERLIRsfólkið tók lífið með stóískri ró meðan jepparnir lifðu sig inn í tækið og tæknina, það naut umhverfisins – lágrenningsins og órjúfanlegt samspils fannar og fjalla. Það tók fram stellið, hellti kaffi í bolla, hallaði sér aftur, nartaði í nestið og skiptist á upplýsingum. Jepparnir voru á meðan ýmist að festa eða losa, úti eða inni, slíta tóg eða hleypa út notuðu lofti. En þrátt fyrir fyrirhöfnina virtust jepparnir alls ekki síður hafa gaman að því sem þeir voru að gera.

Húshellir

Í Húshelli.

Þegar komið var á áfangastað brast skyndilega á hið ákjósanlegasta gönguveður, eins og lofað hafði verið – sól og stilla. Gengið var niður með dyngjunni austanverðri og til norðurs milli gjáa hennar og Sandfells. Stefnan var tekin á Fjallið eina. Þegar komið var út fyrir dyngjuna var stefnan tekin til norðvesturs. Snjór hafði fokið í öll op og sprungur, en ekkert þeirra gat leynst fyrir GPS-tækinu.

Jepparnir voru orðnir þreyttir eftir u.þ.b. 17 mín. langa göngu, enda á ómynstruðum skóm og í ofurkuldasamfestingum í hitanum.

Maístjarnan

Op Maístjörnunnar.

Minnsti maðurinn, sem átti stærsta meirivagninn, hafði líka gengið nokkrum sinnum upp úr skónum sínum á leiðinni. Reyndust þeir alltof stórir – til gönu a.m.k. Svo heppilega vildi til að annar jeppi var í skóm nokkrum númerum of litlum. Hann hafði fjárfest í nr. 38, sömu stærð og dekkinn voru í tommum undir meirivagninum hans. Munurinn var bara sá að ekki var hægt að rýmka skóna með loftdælingu. Hann hafði talið þetta númer henta honum best við þessar aðstæður, líkt og dekkin, en féllst nú á, að fenginni reynslu, að skipta á sínum skóm við minni manninn á stærri skónum. Að því búnu var hægt að hefjast handa við að moka hópinn niður í jörðina.

Maístjarnan

Í Maístjörnunni.

Eftir stutt stund var leiðin inn í hellana greið. Þegar inn var komið voru jepparnir á heimavelli – útsýnið þar var mun skárra en í svartasta hríðarkófi upp á jökli. Þeir voru góðir í að þrengja sér um torfærur, þrengsli og hliðarrásir, en áttu erfitt með að taka því þegar hverfa þurfi frá vegna hruns eða allt varð ófært framundan. Og fyrst skoðunin gekk svo vel sem raun ber vitni var ákveðið að kíkja einnig í Aðventuna. Öllum þessum hellum er lýst í öðrum FERLIRslýsingum svo það verður eigi gert hér.
Í ferðinni kom berlega ljós hversu jepparnir geta verið margbrotnir, enda komu fáir þeirra alveg óbrotnir til baka. Þurfti að styðja suma, en aðrir voru bara látnir liggja – eftir að bíllyklarnir höfðu verið teknir af þeim. Þeir verða sóttir næsta vor.
Frábært veður. Gangan tók 34 mín, en skoðunin heldur lengri tíma.

Maístjarnan

Í Maístjörnunni.

Tag Archive for: Maístjarnan