Færslur

Konungsvegurinn

Í Fréttablaðiðinu 31. júlí 2018 er stutt umfjöllun um komu Friðrik VIII, Danakonungs, til landsins árið 1907:
“Friðrik áttundi Danakonungur gekk á land í Reykjavík þann 30. júlí 1907. Nákvæmlega 33 árum áður hafði faðir hans, Kristján níundi, sótt Ísland heim fyrstur ríkjandi Danakonunga þegar hann færði Íslendingum stjórnarskrá.

Friðrik VIII

Konungskomuna 1907 má rekja til þess að árið áður hafði öllum alþingismönnum verið boðið til Danmerkur og vildu þeir endurgjalda gestrisnina með því að bjóða konungi og nokkrum fjölda danskra þingmanna til Íslands.
Heimsóknin vakti gríðarlega athygli og segir í samtíma frásögnum að aldrei fyrr hafi Reykjavík verið jafn fánum skrýdd og aldrei jafn mikil viðhöfn sést.
Konungur og föruneyti hans heimsóttu meðal annars Þingvelli, Gullfoss og Geysi. Á heimleiðinni hafði konungur svo viðkomu á Ísafirði, Akureyri og í Seyðisfirði.
Ákveðið var að ráðast í miklar vegaframkvæmdir fyrir konungskomuna og var kostnaður vegna þeirra um 14 prósent af útgjöldum ríkissjóðs það árið.”!

Í riti, útg. árið 2007, sem ber fyrirsögnina; “Aukinn skilning mun hún færa oss, þessi Íslandsferð” – Heimsókn Friðriks VIII Danakoungs til Íslands 1907, í tilefni að öld var liðin frá komu hans til Íslands, fjallar Emelía Sigmarsdóttir um aðdraganda og annað henni tengdri. Þar segir m.a.:
“Leiðin lá upp hjá Rauðavatni og Geithálsi og síðan Hafravatnsveg í Djúpadal á Mosfellsheiði en þar byrjaði hinn eiginlegi Þingvallavegur. Ýmsar vegabætur höfðu farið fram á fyrirhugaðri leið konungs. Lagður hafði verið vagnfær vegur til Þingvalla og þaðan austur að Geysi og áfram í Þjórsártún. Menn höfðu búist við að konungur myndi ferðast um í vagni en hann vildi miklu frekar fara ríðandi á hestbaki. Friðriki VIII voru ætlaðir fjórir hvítir gæðingar, honum líkaði vel við tvo þeirra og reið þeim til skiptis. Við hlið hans var Hannes Hafstein, oftast á rauðskjóttum hesti sínum, Glæsi…

Konungsvegur…Mánudagskvöldið 5. ágúst komu konungur og fylgdarlið að Þjórsárbrú. Þar stóð stór tjaldborg en fjöldi bænda hafði stefnt þangað á konungsfund.
Þegar lagt var stað til Reykjavíkur eftir hádegi 6. ágúst riðu konungur og Hannes Hafstein í fararbroddi hlið við hlið. Þegar fylkingar fóru yfir hengibrúna á Þjórsá þurfti að gæta varúðar en svo hleyptu menn á sprett eftir rennisléttum þjóðvegi sem lá beint í vestur í áttina til Reykjavíkur. Stefnan var tekin á Ingólfsfjall. Eftir tveggja stunda ferð kom konungsfylgdin að brúnni á Ölfusá við Selfoss. Gist var á bökkum Ölfusár við Arnarbæli.

Kolviðarhóll

Konungur við Kolviðarhól 1907.

Daginn eftir var lagt á Hellisheiði. Áð var á Kolviðarhóli en frá honum til Reykjavíkur er fimm klukkustunda reið. Á Kolviðarhóli hélt Friðrik VIII ræðu þar sem hann sagði meðal annars: „Látum þessa ferð tengja fast band milli hinnar íslenzku og hinnar dönsku þjóðar og mín! Markmið mitt er sannleikur og réttlæti báðum ríkjum mínum til handa.“ Orð konungs um „bæði ríkin sín“ vöktu mikla athygli meðal Dana og Íslendinga. Eftir heimkomuna til Danmerkur tók forsætisráðherra málið upp og hótaði að fara frá völdum nema konungur ómerkti orð sín. Konungur varð við því og sagðist hafa mismælt sig, hann hafi ætlað að segja „bæði löndin mín“.

Vegagerð við erfiðar aðstæður
Konungsvegur
Þegar ákveðið var að konungur myndi leggja land undir fót í Íslandsheimsókn sinni 1907 var ljóst að gera þyrfti stórátak í vegamálum landsins. Hluti leiðarinnar sem fyrirhugað var að fara var ekkert nema þröngar og ógreiðfærar reiðgötur. Ýmsar vegabætur þurftu því að fara fram. Vegagerðin fyrir konungskomuna var mikið framtak því ekki var hægt að notast við annað en handaflið. Skóflur og hakar voru helstu verkfærin sem notuð voru til að ryðja leið gegnum hraun og kjarrlendi. Kostnaður vegna vegagerðarinnar var um 14% af ársútgjöldum ríkissjóðs.
Sigurður Kristmann Pálsson var einn af vegagerðarmönnunum. Hann fæddist 13. febrúar 1886 og lést 6. janúar 1950. Hann lét eftir sig handrit þar sem hann lýsir vegagerðinni. Hér á eftir eru birt brot úr því með góðfúslegu leyfi ættingja Sigurðar.

Konungsvegur

Konungsvegur að Skógarkoti um Þingvallahraun.

Vorið 1907 réði eg mig til vegagjörðarvinnu í Þingvallahrauni; hugði eg gott til fararinnar á margan hátt; einkum þráði eg að kynnast betur hinum forna sögustað landsins.
Þar vissi eg og að andrúmsloftið var óspilt af kolareyk og hlandforarólyfjan, eins og nú tíðkast það í höfuðstað vorum, og þótt þessi daunillu efni séu blönduð öðrum ilmríkari efnum, er gjöra bæjarlífið svo aðlaðandi fyrir þorra manna, þá bætir það lítið úr skák.
Þá þótti mér verkið og göfugs eðlis, þareð það var hvorki meira né minna en greiða götu konungs vors, er þetta sumar skyldi heimsækja landið; og þótt hann hafi ekki, það eg til veit, greitt götu mína í lífsbaráttunni, að neinu leyti, enn sem komið er þá fann eg þó skyldu mína í þessu efni sem aðrir góðir menn er götu hans greiddu að einhverju leyti.
Sögukorn þetta mun ekki verða auðugt af stórhrikalegum viðburðum, en það fylgir jafnan þeim sögum er sannar eru.

Konungsvegur

Konungsvegur í Þingvallahrauni við Skógarkot.

Um 6 tugir manna voru í Þingvallahrauni, þá er flestir voru. Var þeim skift í flokka, og hafði hver flokkur sína búð. Eigi voru jafnmargir í flokki. Voru flestir 7 en fæstir 3. Als voru þar 9 búðir, auk einnar er geymd voru í vopn og annar útbúnaður, er þurfti til að ryðja úr vegi björgum og blágrýti, og öðru illþýði, er þar var nóg af.

Hrafnagjá

Vagnvegurinn um Hrafnagjá.

Yfir hvern flokk var settur foringi eða flokkstjóri. Hann skyldi stjórna atlögum öllum úr sínum flokki; svo og hrópa heróp manna, en það var það sama yfir allan herinn, og var: „Klukkan.“
Guðjón Bachmann … var til þess kjörinn af aðalhöfðingja verklegra framkvæmda í landssjóðsþarfir, Jóni Þorlákssyni, að mæla veginn frá Þingvöllum að Brúarhlöðum við Hvítá. Þar að auki skyldi hann setja upp steina við hverja 5 kílómetra (kílómetrasteina). Sér til aðstoðar þurfti hann einn mann. Var af hans hendi útvalinn Sigurður Pálsson, skýjaglópurinn, sem fyr var nefndur og höfundur sögu þessarar. …

Þegar að Hrafnagjá var komið byrjaði mælingin, og fórum við þá með sæmilegum hraða yfir landið; sem ég skal nú skýra betur.
Annar okkar sté nú af baki, en hinn tók við reiðhesti hans og klyfjahestinum. Þarnæst tók sá fyrrnefndi mælistikuna í hönd sér og tók að mæla. Mælistikan var þannig útbúin: að skeyttar voru saman tvær grannar tréálmur þannig að bilið á milli þeirra neðst var 2 metrar. Mjókkaði það stöðugt er ofar dró, þar til það hvarf í odda þeim er þær voru skeyttar saman í. Uppaf samskeytunum var sívöl spýta eða handfang.

Hrafnagjá

Hrafnagjá – reiðgatan.

Var nú stikunni snúið í hendi sér, líkt og þegar hringmáli er snúið (cirkli). Taldi sá er gekk metrana, þar til komnir voru 50. Lét hann þá uppi töluna við þann er á eftir var með hestana, og færði hann hana samstundis í bók er hann hélt á. Hann varð því ávalt að vera á hælum þess er mældi, en aldrei fara á undan.
Er nú auðskilið að hægt hefir verið farið, og að vinnan var fremur hæg fyrir þann er sat, og hestana. Hvarflaði þá oft hugur minn til félaganna í Þingvallarhrauni, er nú urðu að þola hinn brennandi sólarhita við erfiða vinnu, en ég gat notið góðviðrisins á hinn þægilegasta hátt.”

Í Morgunblaðiðinu 4. ágúst 2007 segir frá konungsheimsókninni:

Frá Reykjavík til Þingvalla

Konungsvegur

Konungsvegurinn á Mosfellsheiði.

“Miðað við þau frumstæðu skilyrði til ferðalaga sem voru á Íslandi á þessum tíma var enginn hægðarleikur að skipuleggja vikulanga ferð um 200 manna riddaraliðs með konung í fararbroddi. Það þurfti að útvega nokkur hundruð hesta til að flytja menn og farangur. Einnig kerrur fyrir tjöld og matföng, hnakka, klyfsöðla, beisli og ferðakoffort. Það voru Axel Tulinius, sýslumaður Suður-Múlasýslu, og móttökunefndin sem sáu að mestu um undirbúning ferðarinnar. Leiðsögumenn voru meðal annars þeir Guðmundur Björnsson landlæknir og Jón Magnússon, síðar forsætisráðherra.

Konungsvegur

Sæluhús við Konungsveginn á Mosfellsheiði.

Árla morguns fimmtudaginn 1. ágúst var lagt af stað. Konungur og Haraldur prins stigu á bak reiðskjótum sínum við latínuskólann. Konungur klæddist bláum búningi sjóliðsforingja, bar derhúfu á höfði og gekk í hnéháum reiðstígvélum. Á meðan gerðu ríkisþingmenn sig ferðbúna fyrir framan Hótel Reykjavík. Sérhver þeirra hafði fengið að gjöf frá alþingi svipu og ferðabikar til að hafa í ól um axlir. Ýmsir hinna eldri meðal þingmanna fengu sæti á léttivögnum á tveimur hjólum.

Konungsvegur

Brú á Konungsveginum á Mosfellsheiði.

Það voru ekki bara konungur og ríkisþingmenn og föruneyti þeirra sem lögðu af stað til Þingvalla þennan fimmtudagsmorgun, stór hluti bæjarbúa hugsaði sér til hreyfings. Þegar konungur reið um götur bæjarins í austurátt fylgdi í kjölfarið 3-4 þúsund manna hópur ásamt hestum, kerrum og trússi. Víða á leiðinni til Þingvalla slógust ríðandi hópar bænda með í konungsfylgdina. Á hinn forna þingstað hafði aldrei haldið jafnstór fylking síðan á söguöld.

KonungsvegurLeiðin lá upp hjá Rauðavatni og Geithálsi og síðan Hafravatnsveg í Djúpadal á Mosfellsheiði en þar byrjaði hinn eiginlegi Þingvallavegur. Ýmsar vegabætur höfðu farið fram á fyrirhugaðri leið konungs. Lagður hafði verið vagnfær vegur til Þingvalla og þaðan austur að Geysi og áfram í Þjórsártún. Menn höfðu búist við að konungur myndi ferðast um í vagni en hann vildi miklu frekar fara ríðandi á hestbaki. Friðriki VIII. voru ætlaðir fjórir hvítir gæðingar, honum líkaði vel við tvo þeirra og reið þeim til skiptis. Við hlið hans var Hannes Hafstein, oftast á rauðskjóttum hesti sínum, Glæsi.

Þjóðhátíð á Þingvöllum

Konungsvegur

Konungur og föruneyti á Þingvöllum.

Eftir átta stunda ferðalag um sjöleytið hinn 1. ágúst kom konungsfylgdin til Þingvalla sem skörtuðu sínu fegursta. Þegar konungur reið niður Almannagjá höfðu fylkingar Dana og Íslendinga skipað sér í óslitna röð hægra megin vegarins. Síðan kallaði mannfjöldinn: “Lengi lifi konungur vor, Friðrik hinn áttundi!” Og á eftir fylgdi nífalt húrra.
Á Þingvöllum voru risnar tjaldborgir, við Valhöll mátti sjá stór tjöld til borðhalds og vistar fyrir marga tugi gesta en þar norður af voru tíu tjöld alveg eins í laginu og voru þau ætluð fyrir fólk úr fylgdarliði konungs. Þá var búið að reisa tvö timburhús, annað mun minna. Litla timburhúsið var konungsskáli, íbúðarhús konungs, en það stærra gildaskáli sem nota átti til veisluhalda og sem næturstað fyrir ríkisþingmenn og nánasta föruneyti konungs.

Konungsvegur
Næsta morgun var farið að rigna en það aftraði konungi ekki frá því að ganga um Þingvelli í fylgd Björns M. Ólsens prófessors sem fræddi gestina um sögu staðarins.
Að loknum hádegisverði var blásið til mannsafnaðar. Þá átti þingheimur, hátt á sjötta þúsund manns, að raða sér í eina fylkingu og fara í Lögbergsgöngu í upphafi þjóðhátíðarhalda. Þegar konungur kom á Lögberg hófst þjóðhátíðin með ræðum og söng. Upphaf máls frá Lögbergi á þessari hátíðarstundu var konungsminni Hannesar Hafsteins. Síðan flutti konungur ræðu. Á milli ræðuhalda söng kór ný kvæði eftir Matthías Jochumsson og Steingrím Thorsteinsson. Kappglíma helstu glímumanna landsins þótti hinum erlendu gestum afar skemmtilegt innskot í hátíðahöldin. Um kvöldið var hátíðarverður í gildaskálanum. Fyrir miðju borði sat konungur í hásæti og hafði hann J.C. Christensen forsætisráðherra sér til hægri handar en Hannes Hafstein til vinstri. Ragnheiður Stefánsdóttir Hafstein var eina konan sem sat veisluna.

Geysir og Gullfoss
konungsvegur

Snemma morguns 3. ágúst lagði konungsfylgdin, um tvö hundruð ríðandi menn, af stað frá Þingvöllum. Fjöldi lausra hesta fór á eftir hópnum enda þurfti oft að skipta um á langri leið. Tvær konur voru með í för, það voru Ragnheiður Hafstein og ung dóttir Klemensar Jónssonar landritara. Farangur hafði farið á undan um nóttina ásamt matarbirgðum.

Konungsvegur

Lagt af stað frá Þingvöllum.

Það voru fleiri sem byrjuðu þennan morgun á því að tygja sig til brottferðar. Mannfjöldinn mikli sem sótti þjóðhátíðina á Þingvöllum hélt heim á leið til Reykjavíkur, ýmist fótgangandi eða á hestbaki. Nokkrir dönsku gestanna, sem treystu sér ekki til að sitja á hestbaki næstu daga, slógust í för með honum suður.

Konungsfylgdin reið um Skógarkotsveg og Gjábakkastíg. Áð var á Laugarvatnsvöllum undir Kálfstindum.
Við Geysi í Haukadal hafði stór skáli verið reistur handa ríkisþingmönnum inni á miðju hverasvæðinu. Aðeins ofar bjuggu konungur og Haraldur prins í minna húsi. Stórt tjald fyrir veisluhöld var á flötinni hjá Geysi, ekki langt frá sjálfum skálarbarminum.

Konungsvegur

Minningarsteinn við Geysi í tilefni komu Friðriks VIII.

Daginn eftir, eða 4. ágúst, gaus Geysir loks fyrir konung eftir að hundrað pund af Marseille-sápu höfðu verið sett í hann og þótti hinum erlendu gestum það tignarleg sjón. Eftir gosið flutti Þorvaldur Thoroddsen fyrirlestur um hin ýmsu náttúruundur Íslands.
Klukkan eitt þennan sama dag var blásið til brottferðar að Gullfossi og haldið af stað á góðum spretti. Eftir rúma klukkustundarferð kom konungsfylgdin að fossinum enda stutt leið frá Geysi að Gullfossi. Vegurinn að fossinum var aðeins mjóir troðningar eftir hesta og farið var yfir Tungufljót á bráðabirgðabrú.
Eftir að hafa skoðað Gullfoss lá leiðin aftur að Geysi. Þar áttu menn að hvíla sig vel áður en lagt væri í langt ferðalag næsta dag suður á bóginn að Þjórsárbrú.

Búfjársýning við Þjórsárbrú

Konungsvegur

Konungur á Þjórsárbökkum 1907.

Þegar konungur var að kveðja hverasvæðið að morgni 5. ágúst gaus Strokkur skyndilega eftir 11 ára dvala og þóttu mönnum það mjög merkileg tíðindi.
Leiðin lá yfir nýja brú á Hvítá og eftir eystri bakka árinnar um nýruddan veg meðfram hæðadrögum. Frá Geysi að Þjórsárbrú átti að fara á einum degi, lengsta áfanga ferðalagsins. Frá Þjórsárbrú liggur síðan þjóðbraut vestur til Reykjavíkur en þá leið skyldi konungsfylgdin fara síðasta dag ferðarinnar.
Á leiðinni átti að skoða sveitabæi og kynnast búskaparháttum bænda við akuryrkju og kvikfjárrækt á einu mesta landbúnaðarsvæði Íslands. Bærinn Skipholt var meðal annars skoðaður en hann var nýtísku sveitabær með reisulegum timburhúsum. Heldur þótti hinum erlendu ferðamönnum íslenskur landbúnaður skammt á veg kominn. Sömuleiðis þótti sérstakt í meira lagi að plógar, herfi, rakstrarvélar og önnur álíka hjálpartæki voru óþekkt hugtök í kolli ýmissa bænda.

Mánudagskvöldið 5. ágúst komu konungur og fylgdarlið að Þjórsárbrú. Þar stóð stór tjaldborg en fjöldi bænda hafði stefnt þangað á konungsfund og jafnframt til að skoða búfjársýningu sem halda átti næsta dag. Á sýningunni fékk konungur að skoða sauðfé, nautpening og hesta auk þess sem íslensk smjörframleiðsla var kynnt fyrir honum.
Konungsvegur
Þegar lagt var stað til Reykjavíkur eftir hádegi 6. ágúst riðu konungur og Hannes Hafstein í fararbroddi hlið við hlið. Þegar fylkingar fóru yfir hengibrúna á Þjórsá þurfti að gæta varúðar en svo hleyptu menn á sprett eftir rennisléttum þjóðvegi sem lá beint í vestur í áttina til Reykjavíkur. Stefnan var tekin á Ingólfsfjall. Eftir tveggja stunda ferð kom konungsfylgdin að brúnni á Ölfusá við Selfoss. Gist var á bökkum Ölfusár við Arnarbæli.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll 1907.

Daginn eftir var lagt á Hellisheiði. Áð var á Kolviðarhóli en frá honum til Reykjavíkur er fimm klukkustunda reið. Á Kolviðarhóli hélt Friðrik VIII. ræðu þar sem hann sagði meðal annars: “Látum þessa ferð tengja fast band milli hinnar íslenzku og hinnar dönsku þjóðar og mín! Markmið mitt er sannleikur og réttlæti báðum ríkjum mínum til handa.” Orð konungs um “bæði ríkin sín” vöktu mikla athygli meðal Dana og Íslendinga. Eftir heimkomuna til Danmerkur tók forsætisráðherra málið upp og hótaði að fara frá völdum nema konungur ómerkti orð sín. Konungur varð við því og sagðist hafa mismælt sig, hann hafi ætlað að segja “bæði löndin mín”.

Aftur í Reykjavík

Konungskoman

Samkoma við Konungshúsið á Þingvöllum 1907.

Reykvíkingar tóku vel á móti konungi og föruneyti hans þegar hann kom aftur til bæjarins miðvikudaginn 7. ágúst eftir viku ferðalag um landið. Sægur karla og kvenna á hestbaki slóst í för með konungsfylgdinni síðasta spölinn. Það má segja að ferðamennirnir hafi litið út eins og flakkaralýður því sumir þeirra voru að nokkru leyti óþekkjanlegir af völdum ryks og óhreininda eftir langa reið.
Daginn eftir komuna til Reykjavíkur fór konungur í skoðunarferð í dómkirkjuna, ýmsa spítala bæjarins og hegningarhúsið. Á síðastnefnda staðnum náðaði hann unga stúlku, Jónu Ágústu Jónsdóttur, sem hafði fyrirfarið barni sínu og átti að fara að afplána 4 ára betrunarvist. Að lokum var farið í heimsókn til elsta íbúa Reykjavíkur, Páls Melsteð, 95 ára að aldri. Gladdi þessi virðingarvottur gamla manninn svo mjög að hann kyssti hönd konungs hvað eftir annað.

Konungsvegur
Loks rann upp síðasti dagur Reykjavíkurdvalar konungs, föstudagurinn 9. ágúst. Í síðasta veislufagnaðinum áður en Friðrik VIII. yfirgaf bæinn hélt hann ræðu þar sem hann bað viðstadda að minnast þingmannafararinnar árið áður. Með henni hefðu myndast meiri tengsl milli Íslendinga og Dana en mörg undanfarin ár hefðu megnað að skapa. Konungur sagði einnig:
Að svo tókst til um betri kynni, þakka ég þremur merkisatburðum, en það eru alþingismannaförin til Danmerkur, lagning sæsímans til Seyðisfjarðar og loks heimsókn ríkisþingmanna og mín til Íslands nú í ár. Það er von mín innileg, að þessir samfundir efli möguleika á samstarfi í sambandslaganefndinni, sem sett var á laggirnar til að ryðja úr vegi hugsanlegum misskilningi og búa í haginn fyrir framtíðina. Megi störf sambandslaganefndarinnar verða mínu ástkæra Íslandi og ríkisheildinni til blessunar. Ísland lifi!”

Gísli Sigurðsson skrifaði um Konungsveginn í Lesbók Morgunblaðsins 1978:
Konungsvegur
“Konungsvegurinn var lagður frá Þingvöllum að Geysi og Gullfossi og þótti merk framkvæmd og afrek til samgöngubóta fyrir 70 árum. Nú sést næsta lítið eftir af þessum minjum um hestvagnaöldina utan grónir troðningar, sem jafnvel kúasmalar nota ekki lengur.
Fyrst var hann konungsvegur, síðan vagnvegur og reiðvegur; loks voru það einkum kýrnar, sem gert höfðu götur i hjólförunum og mjökuðust þar hátiðlega á leið heim í mjaltir. Síðan komu til sögunnar jarðýtur og þurrkuðu burtu ásýnd hans af landinu, þegar nýr vegur var lagður. Eftir eru aðeins meira og minna uppgrónir götuslóðar, sem hægt er að fylgja austast úr Laugardal, upp með Hlíðum að Geysi.
Konungsvegur
Þegar hans hátign, Friðrik konungur áttundi, af guðs náð konungur Íslands og Danmerkur, efndi til Íslandsfarar sumarið 1907, var honum tekið með kostum og kynjum og þótti sjálfsagt að konungurinn og fylgdarlið hans riði með pomp og pragt austur að Geysi og Gullfossi. Þá var upp runnin hestvagnaöld á Íslandi; merkilegur millikafli í samgöngumálum og átti eftir að standa allt til síðari stríðsáranna eftir 1940. En menn voru þess vanbúnir að taka við hestvagninum. Aðeins voru þá reiðgötur fyrir. Hér varð að vinna stórvirki með skólfum og hökum. Þegar hér var komið sögu, þótti ekki vagnfært frá Þingvöllum austur að Geysi og var nú ráðizt í að ryðja þá braut með handafli, sem lengi síðan var kölluð einu nafni Konungsvegurinn. Þeir menn eru trúlega allir komnir undir græna torfu, sem svitnuðu við skófluna og hakann í þessari vegargerð og voru orðnir verkfærir menn árið 1907. Aðeins einn maður austur í sveitum gat komið til greina: Kristján Loftsson á Felli, sem er liðlega níræður og manna elztur í Biskupstungum. Þó hann ætti um tíma heima í Haukadal, hafði hann ekki unnið við gerð Konungsvegarins, en Helgi Ágústsson frá Birtingaholti, sem lézt nú í vetur, kvaðst ungur að árum hafa verið lánaður austan úr Hrepp að vinna í veginum. Þar var unninn langur vinnudagur, sagði Helgi, enda voru menn því vanastir á þeim árum að vinna myrkranna á milli og þótti ekkert sérstakt við það.

Sigurður Greipsson

Sigurður Greipsson.

Meðal fárra núlifandi manna, sem vel muna eftir konungskomunni 1907, er Sigurður Greipsson, fyrrum glímukóngur og skólastjóri í Haukadal. Hann varð áttræður á síðasta ári, — og þó ungur væri árið 1907, hafði hann veður af tilurð Konungsvegarins og hann fylgdist gerla með þeim undirbúningi, sem fram fór við Geysi. Guðjón Helgason í Laxnesi, faðir Halldórs Laxness, var þá vegavinnuverkstjóri á Þingvallaveginum og Sigurður minnist þess, að hann kom austur að Haukadal, gisti þar og átti lengi tal við Greip bónda. Telur Sigurður, að Guðjón í Laxnesi hafi verið verkstjóri við gerð Konungsvegarins. Nokkru áður, annaðhvort 1901 eða 1902 var byggð timburbrúin á Brúará, þar sem steinboginn hafði áður staðið og brytinn í Skálholti lét fella eftir sögn. Áður hafði aðeins verið brúarfleki yfir gjána, sem skerst inn í fossinn ofan við brúna og þótti erlendum ferðamönnum eftirminnilegt að fara þar yfir. En gamla brúin, sem löngum er nefnd svo, stendur enn og er hluti Konungsvegarins.
Konungsvegur
Önnur brúargerð var nauðsynleg til þess að konungur kæmist án mannrauna að Gullfossi. Leiðin liggur yfir Tungufljót austan við Haukadal og fljótið er ekki árennilegt þar. Guðmundur Einarsson múrari úr Reykjavík var fenginn til að hlaða stöpla úr tilhöggnu grjóti og síðan komið upp timburbrú sumarið 1907. Hún stóð til 1929, að jökulhlaup í fljótinu varð henni ofraun. Skammt frá brúarstaðnum stendur enn steinn, sem þá var reistur og á hann letrað 105 km. Þess konar steinar voru víðar meðfram Konungsveginum og talan sýndi vegalengdina úr Reykjavík. Sigurður Greipsson telur, að Guðjón í Laxnesi hafi mælt leiðina og látið setja upp steinana.
Þó ekki komi það Konungsveginum beinlínis við, að var ráðizt á þá framkvæmd sumarið 1907 að reisa tvö hús á hverasvæðinu við Geysi. Var það annarsvegar stór skáli handa dönsku ríkisþingmönnunum og hins vegar hús handa konungi. Þingmannaskálinn var rifinn og seldur á uppboði haustið eftir, en Konungshúsið stóð lengi; var notað til greiðasölu á sumrin, en flutt að Laugarási sem læknisbústaður 1923.

Konungsvegur

Konungsvegur að Skógarkoti um Þingvallahraun.

Verkstjóri og yfirsmiður við þessar húsbyggingar hjá Geysi, var Bjarni Jónsson úr Reykjavík og er Bjarnaborgin við hann kennd. Bjarni gegndi líka því hlutverki að vera einskonar siðameistari á staðnum; hann undirbjó heimafólk undir þann vanda að heilsa konungi þegar hann riði í hlað og kveðst Sigurður Greipsson hafa skemmt sér vel við þá tilburði. Og um vegagerðina segir hann: „Sjálfur var ég lítill karl, en tíndi þó nokkra steina úr götunni frá Múla að Geysi”. Það var nefnilega búizt við því, að konungur kysi sér fremur þau þægindi að sitja í kerru en ferðast ríðandi. Raunar voru margir hinna erlendu gesta alsendis óvanir því að ferðast ríðandi um langa vegu. Því var það að nokkrar sérsmiðaðar kerrur voru fluttar inn frá Englandi til þessara nota; þar á meðal var sérstakur vagn handa konungi. Þaulvanur ökumaður, Guðmundur Hávarðsson, sem bjó í Norðurpólnum í Reykjavík, hafði verið valinn ökumaður konungs og hefur vafalaust þótt töluverð upphefð. En svo fór, að konungur steig aldrei upp í vagninn; hann fékk úrvals reiðhesta og kaus að ferðast ríðandi. Um þetta var kveðið:

Gvendur með kóngsvagninn setti undan sól
á svipstundu komst hann langt út fyrir Pól,
en hann var nú banginn og helzt útaf því
að hátignin fannst hvergi vagninum í.

Konungsvegur

Konungsvegurinn um Brekku- og Miðhúsaskóg.

Hestar til fararinnar komu víðsvegar að af landinu, en kerrurnar voru hafðar með í förinni, ef óhapp bæri að höndum. Allt gekk þó slysalaust. Stöku sinnum duttu hestar og menn ultu af baki; meðal þeirra var Hannes Hafstein ráðherra. Christensen forsætisráðherra Dana brosti og sagði, að við þessu mættu þeir ráðherrarnir alltaf búast, — að falla. Einhvern tíma heyrði ég, að þeir Böðvar á Laugarvatni og Páll skáld á Hjálmstöðum hefðu tekið að sér að flytja farangur kóngsfylgdarinnar frá Þingvöllum að Geysi, — og verið vel við skál allan tímann, enda gleðimenn. En á þessu hef ég ekki getað fengið staðfestingu.
Vegurinn lá og liggur enn austur um Gjábakkahraun og hefur aldrei nálægt Lyngdalsheiði komið, en hún sést af honum í suðri. Yfir Gjábakkahraun og aftur austan við Brúará, þurfti að ryðja brautina á hrauni, sem þar að auki var kjarri vaxið og seinunnið með handverkfærum. Þessi braut varð strax niðurgrafin og verður þá um leið farvegur fyrir vatn, sem grefur sig niður á köflum, þar sem mold er og sandur, en eftir standa berar klappir. Var framundir 1950 varið einhverri upphæð til þess af vegafé, að nema á brott stórgrýti og bera ofan í — með hestvögnum — þar sem mikið hafði runnið úr. Síðasti „vegamálastjóri” á Konungsveginum var Jón eldri Jónsson á Laug í Tungum og virtist höfundi þessa pistils hann réttilega líta á það sem virðulegt embætti. Síðustu árin var þetta orðið einhverskonar formsatriði og „yfirreið” og hætt að hreyfa við grjótinu, sem sífellt stakk upp kollinum. Umdæmi Jóns á Laug var frá Múla í Tungum og út að Brúará.

Konungsvegur

Konungsvegurinn um Brekku- og Miðhúsaskóg.

Alltaf voru áhöld um, hvort Konungsvegurinn væri bílfær. Ýmist var brúin á Brúará að niðurfalli komin, ellegar einhversstaðar hafði runnið svo mjög úr veginum, að hann var tilsýndar líkastur djúpum skurði. Vörubílar voru að vísu látnir þrælast út með Hlíðum, en sátu títt fastir í hinum konunglegu skorningum. Um árabil átti greinarhöfundur mörg spor á þessari grýttu slóð; ýmist að flytja mjólk ellegar að reka heim kýr. Varð mikil músik þegar skrönglast var yfir klappirnar með tómu brúsana, en á köflum þungfær aurvilpa, þegar klakinn var að fara úr á vorin. Aftur á móti var ekki teljandi slit á þessum vegi að vetrarlagi, hann fylltist þegar í fyrstu snjóum og var uppfrá því ófær til vors.
Í aldarfjórðung eða fram yfir 1930 að upphleyptur vegur var lagður upp Grímsnes og Tungur að Geysi, var Kongungsvegurinn sjálfur þjóðvegurinn á þessari fjölförnu slóð. Þar mátti sjá hestvagnalestir í vor- og haustferðum; þar var sláturfé rekið til slögtunar allar götur suður til Reykjavíkur og á sumrin komu skarar reiðmanna með töskuhesta. Þá stóð jóreykurinn hátt til lofts, þegar moldin þornaði og hófaskellirnir heyrðust um langa vegu, þegar kom á hraunið og harðar klappirnar undir fæti.
Mig rétt rámar í þetta tímabil áður en bílar urðu alls ráðandi í mannflutningum. Þá þótti ævintýralegt að sjá skara reiðmanna fara um veginn á fallegum sumardegi, en nú líta krakkarnir ekki einu sinni upp, þegar bílarnir fara um þjóðveginn. Stundum voru þeir menn á ferðinni á Konungsveginum, sem báru allt sitt á bakinu og fóru um fótgangandi. Þesskonar ferðalagar eru nefndir þumalputtaferðamenn núna, en í þann tíð urðu þeir einvörðungu að treysta á fæturna.

Konungsvegur

Konungsvegurinn á Mosfellsheiði að Þingvöllum.

Konungsvegurinn var án efa skemmtilegur reiðvegur og eftirminnleg gönguslóð. Þar voru og eru fallegir kaflar með fjölbreyttum gróðri og fögru útsýni: Austur yfir Gjábakkahraun, yfir Reyðarbarm og Laugarvatnsvelli, hlíðarnar niður að Laugarvatni, inn í „Krók” og raunar Laugardalurinn allur, austur yfir Brúará og Miðhúsahraun, ofan við Úthlíð, gegnum Hrauntúnsskóg og svo framvegis. Einkum og sér í lagi var Konungsvegurinn rómantískur á stöku stað í Laugardal og ofan við Hrauntún, þar sem birkihríslurnar seildust yfir hann.
En rómantíkin fór af á vorin, þegar menn voru að flytja áburð, fóðurbæti eða aðra þungavöru á hestvögnum og vagnarnir brotnuðu undan álaginu. Ég man enn hvað hestarnir svitnuðu og mæddust og lögðust í aktygin, — og sigu með hægð upp Hrauntúnsbrekkuna, sem var einna erfiðust. Sumarið 1952 fór ég þar í síðasta sinn með æki; þá var upp runnin öld traktoranna og í þetta sinn var verið á heimleið með hlaðinn heyvagn. En traktorinn lagðist ekki í aktygin með sama lagi og klárarnir höfðu gert; hann spólaði bara þar sem brattast var og ég varð að taka megnið af vagninum og bera baggana sjálfur upp brekkuna.
Konungskoman 1907Síðar hef ég komið þar og gengið um sem gestur og fylgzt með því, hvernig vegurinn grær upp frá ári til árs. Nú liggja sumsstaðar girðingar þvert á hann og á leiðinni frá Gjábakka að Laugarvatni hefur nýr vegur verið ruddur svo að segja í sömu slóðina. Kýrnar nota hann ekki lengur; þeim er nú orðið haldið sumar langt á túnum, en á kaflanum frá Brúará og austur til byggðar í Tungum hafa myndast fjárgötur í hjólförunum.
Konungsvegurinn var á sinni tíð fjölfarnastur ferðamannavegur á Íslandi, þegar frá er talinn vegurinn úr Reykjavík til Þingvalla. Öll fyrirgreiðsla við ferðamenn var þá frumstæð, enda ekki einu sinni sími til að láta vita um komur ferðamanna. Var það til dæmis eitt sinn, að fólkið á Laug hafði verið beðið að hafa til niðursoðinn mat handa farþegum af millilandaskipinu Ceres, sem einhverntíma var von á. Eina leiðin var að vera sífellt á vakt og huga að mannaferðum á Konungsveginum vestur með Bjarnarfelli. Svo er það eitt sinn, að mikil þyrping birtist þar á veginum og Jón heitinn á Laug kemur með írafári inn í bæ og segir: „Stína, skerðu strax upp lambatungudósirnar, — Ceres er að koma.” Nú var gengið í að hafa til matinn, en hópurinn þótti lengi síðasta spölinn og þegar betur var að gáð, voru það raunar kýrnar frá Múla, sem þarna voru á ferðinni.
KonungsvegurNútíminn var eins og dagrenning á austurhimni, þegar Friðrik konungur áttundi reið austur til Geysis með fríðu föruneyti í ágúst 1907; landsmenn búnir að fá sinn eigin ráðherra fyrir þremur árum og mikil bjartsýni ríkjandi. En þróunin fór sér hægt og nútíminn og vélamenningin komu ekki fyrr en rúmum þrjátíu árum síðar.
Eftir hugnæmar ræður á Þingvöllum þar sem sjóli lands vors var beðinn að stíga heilum fæti á helgan völl, lagði konungsfylgdin af stað til Gullfoss og Geysis og segir svo frá ferðinni í Lögrjettu þann 12. ágúst 1907.
„Veðrið var yndislegt allan laugardaginn, sólskin með skýjaskuggum á strjálingi. Komið var á Laugarvatnsvelli kl. 10 3/4. Þegar þangað kom voru þar tjöld fyrir, matreiðslumenn og stúlkurnar (30) er fylgja oss alla leið og ganga um beina. Umbúnaður allur var sem í Djúpadal, (áningarstaður á leið konungs til Þingvalla) borðað standandi í stóru tjaldi. Allir hafa dáðst að því, hvernig matreiðslufólk og þjónustufólk hefur leyst starf sitt af hendi; stúlkurnar virðast þurfa minni svefn en fugl, eru alltaf jafn kvikar og röskar í störfum sínum, svo ánægja er á að horfa. Hvar sem kemur fáfangastað eru þær fyrir og veit enginn hvenær þær sofa, eða hvernig þær komast leiðar sinnar á undan öllum, þó þær séu með hinum síðustu úr hlaði. Við morgunverð var þess minnst, að Hákon Noregskonungur átti þennan dag afmæli. Áður en riðið var af stað, fór konungur upp að Laugarvatnshelli til þess að skoða hann. Veður var indælt austur í Laugardal og þótti ferðamönnum fagurt að líta yfir „engjanna grasflæmi geysivítt þönd, með glampandi silfurskær vatnanna bönd, og bláfjöll og blómgaða velli”.
Til Geysis var komið kl. 6 1/2. Þar var allt í bestu reglu. Jón Magnússon skrifstofustjóri hafði riðið þangað deginum áður til að líta eftir öllu og sá þess ljós merki.
Konungur bjó í húsi því, er honum var búið, en dönsku þingmennirnir, útlendu blaðamennirnir og nokkrir ísl. þingmenn í skála miklum, er þar hefur verið reistur. Hinir í tjöldum. Borð var í stóru tjaldi á flötinni hjá Geysi. Sváfu menn vel um nóttina.”
Ísafold og Reykjavíkin segja frá konungsförinni á svipaðan hátt; ekki er þar minnst einu orði á veginn og framtak þeirra, sem búnir voru að gera þessa erfiðu leið vagnfæra.
Trúlega væri minna afrek að leggja malbikaðan veg þarna austur um þessar mundir og verður að telja fréttamennsku blaðanna harla glompótta á því herrans ári 1907.
Konungskoman 1907 hefur annars margoft verið upp rifjuð, enda góðar heimildir um hana í blöðum þessa tíma og ekki ástæða til að tíunda hana frekar í smáatriðum. Eftir dagsför til Gullfoss, var riðið austur yfir Hvítá á Brúarhlöðum, niður Hrunamannahrepp, áð á Álfaskeiði og skoðaður bærinn að Reykjum á Skeiðum. Þaðan lá leiðin niður með Þjórsá á fund Rangvellinga við Þjórsárbrú, en haldið þaðan til Arnarbælis í Ölfusi og gist þar. Síðan var riðið suður sem leið liggur upp Kamba, dagverður snæddur á Kolviðarhóli og „komu allir suður svartir í framan eins og sótarar” segir í Lögrjettu, því svo mikið var rykið á reiðveginum. Hannes Hafstein skáld og ráðherra reið með konungi og var kvæðið Gullfoss eftir Hannes lesið upp á Kambabrún og skál skáldsins drukkin.
Mikill ljóðalestur virðist hafa einkennt þessa heimsókn og ort í þeim anda, sem nú þætti full hástemmdur og jafnvel barnalegur. Í lokahófi las séra Matthías Jochumsson upp kveðjukvæði til konungs. Þar er allt á hástemmdum nótum eins og þetta erindi sýnir:

„Vor göfuga saga gullin-óðvor guðleg tunga Háva-ljóð
þeim virta fylki færi.
Hans koma táknar tímamót —
hún táknar nýja siðabót,
sem allir strengir stæri!
Berfaldinn hátt, legg fjöll í krans.
ó fóstra vor, og konung lands
kveð svo það hjörtum hræri!”

Konungskoman
Friðrik áttundi hefur verið duglegur ferðamaður, en andagiftin líklega ekki að sama skapi og engum sögum fer af því hvernig honum líkaði danska þýðingin á hinni mærðarfullu samsetningu séra Matthíasar, sem forsætisráðherrann tók að sér að lesa upp.
Konungur gerði heiðarlegar tilraunir til þess að vera alþýðlegur og talaði svolítið einstaka sinnum við blessaða alþýðuna. Gaf hann fé blindum karli í fjósi í Skipholti og þáði (ílenzkan blómvönd af konu við Efra-Langholt.
Samkvæmt fornsögum þóttu Íslendingar „djarfmæltir við tigna menn” á dögum Egils Skallagrímssonar. En nú var það allt fyrir bí og alþýðumenn með skottið milli fótanna og litt upplitsdjarfir. Reykjavíkin gerir þetta að umtalsefni 10. ágúst 1907: „Annars kunni fólk sig lítt þar sem konungur fór hjá, konurstóðu eins og dæmdar og karlmennirnir að vanda þegjandi með hendur í vösum. Er það ljótur siður og leiðinlegur”.
Það var helst á mölinni, að menn reyndu að tileinka sér hið ljúfa líf samkvæmt erlendum fyrirmyndum. Í þessum sömu blöðum Ísafoldar, Lögrjettu og Reykjavíkur, auglýsir Karl Peterson & Co vindil Friðriks konungs „með Havanna og Brasilíutóbaksblöðum, með rósflúruðum umbúðum og hring með mynd af Hans Hátign”. Thomsens Magasín auglýsir veðreiðar á Melunum og engin hætta að ekki verði allt með tilhlýðilegum elegans eins og á veðreiðunum í Derby, því Verzlunin Edinborg auglýsir í sama blaði stráhattana „marg-eftirspurðu”.
Konungsvegur
Þeir sem héldu áfram að nota Konungsveginn voru aftur á móti sárasjaldan með stráhatta og yfirhöfuð lítill glæsibragur á ferðinni, þegar menn voru í misjafnri færð og veðrum að brjótast áfram með nauðsynjar, — stundum með sameinuðu vöðvaafli manna og hesta. Nú grær grasið yfir þessi spor og fólkið, sem fer í sunnudagsbíltúrana hefur ekki hugboð um troðningana, sem liggja einatt í allskonar krókum og stundum uppi í hlíðum. Eitt er þó sameiginlegt með ferðum þeirra, sem áður héldu Konungsveginn og þeirra, sem nú aka þjóðveginn austur að Geysi. Ryk- og molarmökkurinn, sem upp stígur um leið og þornar af steini og minnir okkur á eftir sjötíu ár, að vanþróunarbragurinn á fjölförnustu vegum okkar er ekki minni en hann var þá.”

Heimilir:
-Fréttablaðið – https://www.frettabladid.is/timamot/fririk-attundi-gengur-a-land-reykjavik/ – Sighvatur Arnmundsson, þriðjudagur 31. júlí 2018.
-“Aukinn skilning mun hæun færa oss, þessi Íslandsferð” – Heimsókn Friðriks VIII Danakoungs til Íslands 1907. Emelía Sigmarsdóttir f/Landsbókasafnið, 2007.
-Morgunblaðið 4. ágúst 2007 – https://www.mbl.is/greinasafn/grein/1158434/
-Lesbók Morgunblaðsins, 11. tbl. 02.04.1978, Konungsvegurinn, Gísli Sigurðsson, bls. 8-11.

Konungsvegur

Konungsvegurinn liggur undir nýrri veg á Þingvöllum.

Árið 2018 fór fram fornleifarannsókn vegna framkvæmda við bílaplan við Mosfellskirkju. Í framhaldinu var skrifuð skýrsla; “Mosfell í Mosfellsdal – Framkvæmdir við bílaplan austan við kirkjuna“. Höfundur var Ragnheiður Traustadóttir.

Saga Mosfells

Mosfell

Í skýrslunni “Skráning fornleifa í Mosfellsbæ”, sem var gefin út árið 2006 er rakin saga Mosfells og er bæjarstæðið skráð ásamt kirkjunni sem stóð þar. Þessi skýrsla var unnin upp úreldri skráningargögnum. Skipuleg skráning fornleifa í Mosfellsbæ hófst árið 1980 og var það fyrsta skráning sinnar tegundar á Íslandi. Í skýrslunni er að finna góðar lýsingar á fornleifum í sveitarfélaginu en hún er háð þeim takmörkunum að minjar voru ekki allar settar á kort og þær sem hafa ratað inn á vefsjá sveitarfélagsins eru oft ekki nákvæmt staðsettar enda voru mælingartæki á þeim tíma ekki jafn nákvæm og þau eru í dag. Lýsingar úr fornleifaskráningunni á bæjarstæðinu og kirkjunni er að finna í skýrslunni:

Magnús Grímsson segir í athugasemdum við Egilssögu: „Bærinn á Mosfelli stendr á 122 austr-hala hóls þess, sem kirkjan stendr á. Hóll þessi er hæstr að vestan, næst Merkrvallargili, og að sunnan, sem fram veit að Köldukvísl; þar er brekka framan í honum, há og allfögur tilsýndar.

Mosfell

Mosfell – Gamli preststaðurinn á uppgraftarsvæðinu.

Fellsmegin við hól þenna er landslag nokkru lægra. Hæstr er hóllinn þar, sem kirkjan nú stendrá honum, og þar norðan undir er lægðin milli hans og fjallsins mest, þar sem kirkjan stóð áður. Austr af hólnum er jafnaflíðandi, og þar er nú bærinn; ætla eg að hann hafi þar staðið síðanhann var fluttur af Hrísbrú, því engar rústir eru þær þar nærlendis, sem bendi á annað, enda eru og hér öskuhaugar miklir og fornir. Eru þeir hér, eins og á Hrísbrú, beint fram undan bæjardyrum og skammt frá þeim, svo stórir, eins og smáhólar. En að Minna-Mosfell sé laungu síðarbyggt, byggi eg meðal annars á því, að þar eru engir fornir öskuhaugar að sjá. En það bregzt sjaldan að þeir sé til, jafnvel grasi vaxnir hólar, á fornum stórbæjum á Íslandi, og eins við fornarbæjarrústir, optast nær beint framundan bænum. Gæti þeir opt verið til góðs leiðarvísis, ef uppskyldi grafa slíkar rústir, sem á mörgum stöðum væri án efa vel gjörandi. Eitt það, sem eg byggi áætlan mína um það er þegar sagt er, um bæjarflutninginn frá Hrísbrú að Mosfelli …“.

Sigurður Vigfússon segir svo um öskuhauga: „…enn á Mosfelli veit eg að það hefir prófazt viðhúsbyggingar og umrót; þar fannst mikil aska, bæði undir bænum og í kálgörðunum fram undan bænum“.

Mosfell
Í Lýsingu Mosfells- og Gufunessókna segir svo: „Mosfell (Stóra Mosfell) stendr á hæð lítilli, sunnan undir Mosfelli (Mosfellsfjalli), norðanvert í Mosfellsdal“ .

Seinna var bærinn fluttur: „Mosfell, prestssetrið, var sunnan í fellinu, en nú er bærinn fluttur suður yfir Köldukvísl á Víðinn, til að geta hitað húsin með hveravatni frá Norður Reykjum…“.

Mosfell

Bæjarhúsin skv. túnakortinu 1916 sett inn á uppgraftarsvæðið.

Á Túnakorti frá 1916 sést bærinn rétt austan við grafreitinn. Bæjarhúsin samanstanda af íbúðarhúsi úr timbri, eldhúsi úr torfi og skemmu úr torfi með timburþili. Þessi bæjarhús eru nú líklega að einhverju leyti horfin undir núverandi kirkju og kirkjugarð.

Nokkur orð um Mosfellsprestakall: Kirkja var fyrst reist að Hrísbrú þegar kristni var lögtekin á Íslandi. Sú kirkja var seinna flutt að Mosfelli. Getið er kirkna að Varmá, í Þerney, talað var um bænhús að Lágafelli fyrir 1700, kirkja var að Suður-Reykjum og var hún lögð niður 1765. Kirkjan að Varmá er með vissu niðurlögð fyrir 1600 (sbr. síðar). Með konungsbréfi 6/1 1774 var skipað að setja kirkju á Lágafelli og leggja þangað Mosfells- og Gufunessóknir, en það var afturkallað með kgbr. 7/6 1776. Viðey var lögð til Mosfells 1847. Árið 1880 er Brautarholtssókn lögð undir Mosfell. Með landshöfðingjabréfi 21/9 1886 eru Mosfells- og Gufunessóknir sameinaðar og ákveðið að reisa eina kirkju fyrir báðar að Lágafelli. Árið 1901 er Mosfellsprestakall lagt niður og Lágafells- og Viðeyjarsóknir lagðar undir Reykjavík en Brautarholtssókn til Reynivalla. Þetta kom þó aldrei til framkvæmda og 1927 er Mosfellsprestakall tekið upp á ný,óbreytt.

Í Egilssögu er getið um að kirkja sem reist var á Hrísbrú, er kristni var lögtekin, hafi verið flutt að Mosfelli.

Segir dr. Jón Þorkelsson að kirkjuflutningurinn hafi líklega verið á árunum 1130-1160. Segir Sigurður Vigfússon það eftir honum í grein sinni „Rannsókn í Borgarfirði 1884“.

Sama kemur fram í Prestatali og prófasta og er líklega einnig haft eftir Jóni Þorkelssyni. Nokkrar umræður urðu um staðsetningu hinnar fyrstu kirkju og bæjarins að Mosfelli. Vildu sumir meina að bæði kirkja og bær hafi verið flutt fráHrísbrú og að Mosfelli. Jafnframt hafi nafnið flust (þ.e. Hrísbrú hafi upphaflega heitið Mosfell). Helstutalsmenn þessarar kenningar voru Magnús Grímsson og Kålund.

Á annarri skoðun eru t.d. SigurðurVigfússon í grein sem hann birti í Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1884-1885 og Sigurður Nordal íútgáfu sinni að Egilssögu 1933, þ. e. að einungis hafi verið að ræða um flutning kirkjunnar.Í Prestatali og prófasta eru taldir upp allir prestar á Mosfelli frá upphafi. Skafti Þórarinsson er fyrsti prestur þar, sem heimildir geta um. Hann var prestur að Mosfelli fyrir 1121 og til um 1143 en þá tekur næsti prestur við og þjónaði hann til um 1180. Kirkju er getið að Mosfelli í kirknaskrá Páls biskups frá um 1200 yfir kirkjur í Skálholtsbiskupsdæmi, sem presta vantaði að.
Af heimildum að dæma leggst kirkjan á Mosfelli niður snemma á miðöldum og er jörðin komin í eigu leikmanna á 15. öld.

Mosfell

Mosfell – framkvæmdarsvæðið.

Næst er kirkja reist að Mosfelli á fyrri hluta 16. aldar, ef marka má heimildir, og er prests getið þar um 1536 .
Er nú kirkja samfellt að Mosfelli fram til ársins 1888 að hún er rifin og ný kirkja reist að Lágafelli.
Kirkja var vígð að Mosfelli 4. apríl 1965 og stendur sú kirkja enn.
Úttekt var gerð á Mosfellskirkju árið 1887 að skipan prófastsins í Görðum og er úttektarskjalið til enn. Segir í því, að kirkjan hafi verið 11 álnir og 11 þumlungar að lengd innan gafla, en það mun vera um 7metrar. Breiddin var 9 álnir og 12 þumlungar, innan veggja, en það er um 5,7 metrar. Kirkjan hefur því verið rétt tæpir 40 fermetrar.

Um staðsetningu kirkjunnar segir Magnús Grímsson: „Kirkjan stendr enn í dag á Mosfelli, en ekki er hún þar nú í sama stað og hún hefir fyrst verið sett á. Kirkjan stendr nú á háum hól fyrir vestan bæinn. Áðr hefir hún staðið norðanvert við hól þenna, eðr í norðrjaðri hans. Norðanvert við kirkjugarðinn, sem nú er á Mosfelli, sér enn til kirkjugarðsrústar innar fornu… Kirkjan sjálf hefir staðið austast í garðinum, og verðr ekkert ráðið í um stærð hennar, því rúst hennar er, eins og garðsins alls, og öllu fremr, gjörfallin og grasi vaxin… Hafi bærinn á Mosfelli staðið þar, sem nú er hann, sem ekki er ólíklegt, þegar kirkjan var hingað flutt, þá hefir kirkjan verið sett viðlíka lángt frá bænum og öldúngis í sömu átt frá honum, eins og kirkja Gríms áðr á Hrísbrú, og er það ekki með öllu óeptirtektan vert… Enga veit eg ástæðu til þess, hví kirkjan og kirkjugarðurinn hafa hér verið færð úr stað, né heldr nær það hefir verið gjört. En rústin sýnir að lángt muni vera síðan… Vera má hið forna kirkju stæði ekki þótt fagrt, því það liggr heldr lágt, og miklu hrósar kirkjan sér betr uppi á hólnum þar sem nú er hún.“

Um staðsetningu kirkjunnar segir Kålund: „Nu står kirken – som sædvanligt midt i kirkegården – på enhøj, der falder temmelig brat af mod mosen, men tidligare har kirken og kirkegården, af hvilken endnulævninger ses, været lidt nordligere umiddelbart nord for den nuvær ende“.

Mosfell
Í Örnefnalýsingu Mosfells segir: „Stór hóll var þar sem kirkjan var, og heitir hann Kirkjuhóll“.
„Norðanvert við kirkjugarðinn, sem nú er á Mosfelli, sér enn til kirkjugarðsrústarinnar fornu; er hún auðséð að vestan, norðan og austanverðu, en að sunnanverðu hefir garðrinn gengið að eða inn í kirkjugarðinn, sem nú er, og sést því ekki til hans þar; ætla ég, að þessi kirkjugarðr hafi verið ferskeyttr, hérum-bil 18 eðr 20 faðmar á lengd austr og vestr, en 12 eðr 14 faðma breiðr norðr og suðr. Kirkjan sjálf hefir staðið austast í garðinum, og verðr ekkert ráðið í um stærð hennar, því rúst hennar er, eins og garðsins alls, og öllu fremr, gjörfallin og grasi vaxin. Í þessum garði sjást enn glögg merki til leiða, sem snúa í austr og vestr, sumstaðar í skipulegum röðum. Enginn steinn sést hér neinstaðar, nema einn eða tveir hleðslusteinar norðanvert í garðsrústinni. Gata vestr úr túninu á Mosfelli liggr nú sunnan til um garð þenna, norðan undir hinum nýja kirkju garði… Enga veit eg ástæðu til þess, hví kirkjan og kirkju garðurinn hafa hér verið færð úr stað, né heldr nær það hefir verið gjört. En rústin sýnir, að lángt muni vera síðan.Mjög eru og bæði leiði og gröptur forn orðinn í þeim kirkjugarði, sem nú er, og sá garðr mjög útgrafinn; er hann þó allstór (hérumbil 72 faðmar umhverfis í átthyrningsmynd). Vera má hið forna kirkjustæði ekki þótt fagrt, því það liggr heldr lágt, og miklu hrósar kirkjan sér betr uppi á hólnum þar sem nú er hún. Svolítr og út, sem hinn forni kirkjugarður hafi verið mjög útgrafinn orðinn, og má vera, að hann hafi verið fluttr af því, að þar hafi ekki orðið jarðsett lengr“.

Mosfell

Mosfell – fyrirhugað rannsóknarsvæði eftir að hafa verið raskað með stórtækum vinnuvélum.

Magnús ræðir nokkuð hvar bein Egils Skalla-Grímssonar hafi verið lögð niður eftir að þau voru tekin úr haugi hans. Munnmæli um að þau séu í kirkjugarðinum „sem nú er“ telur hann ósennileg. Síðar segir hann: „Þó er ekki svo vel, að munnmæli þessi sé öldúngis viss í, hvar helzt á hólnum leiði Egils muni vera, hvort heldr undir kirkjunni, sem nú er, eðr skammt suðr frá henni. Er þar og ekkert að sjá, sem á þetta bendi með vissu, hvorki í hinum forna kirkjugarði, né hinum nýja; því hin fornu leiði eru hvort öðru lík, en engir eru steinar neinstaðar ofanjarðar, sem neina upplýsing gefi“.

Í Mosfellskirkjugarði eru þrír legsteinar frá 17. öld, legsteinn Jarþrúðar Þórólfsdóttur, dáin 1606 og legsteinn bróður hennar Þorvarðar Þórólfssonar, auk legsteins Arnórs Jónssonar.

Þar er einnig legsteinn Magnúsar Grímssonar, dáinn 1860 (Morgunblaðið, 4. nóvember 1962, einnig er steinsins getið í Innansveitarkroniku Halldórs Laxness). Í sömu grein í Morgunblaðinu, og áðan var vitnað til, er einnig getið um, að á Mosfelli hafi fundist steinkola árið 1962. Ekki er sagt neitt frá kringumstæðum, nema að kolan hafi verið grafin úr jörðu.”

Þess má geta að framangreind framkvæmd, þ.e. að kalla á fornleifafræðinga eftir að fyrirhuguðu rannsóknarsvæði hefur verið raskað með stórtækum vinnuvélum, verður að telja lítt til eftirbreytni.

Heimild:
-Mosfell í Mosfellsdal – Framkvæmdir við bílaplan austan við kirkjuna; Ragnheiður Traustadóttir, 2018.

Mosfell

Minna-Mosfell

Á Mosfelli bjó að sögn Egils sögu höfðinginn Grímur Svertingsson, kvæntur Þórdísi stjúpdóttur Egils Skalla-Grímssonar og bróðurdóttur. Egill fluttist þangað eftir dauða konu sinnar, varð gamall maður og síðast með öllu blindur.

Mosfell

Mosfellskirkja.

Sagan segir (297-98), að eitt sinn þegar Grímur var á Alþingi og Þórdís í seli sínu, skipaði Egill kveld eitt tveimur þrælum sínum að fylgja sér til laugar; þeir fengu honum hest. Menn sáu, að Egill tók með sér silfurkistur sínar, sem Aðalsteinn konungur hafði gefið honum, og fór ásamt þrælunum niður túnið og hvarf bak við hæð sem þar er. Næsta morgun sáu menn að Egill hvarflaði á holtinu fyrir austan túnið (eiginlega; gerðið) og teymdi hestinn. Menn fylgdu honum heim; hann sagði að hann hefði drepið þrælana og falið kisturnar, en meira sagði hann engum. Margar ágiskanir komu síðar fram, segir sagan, hvar Egill hefði falið fé sitt. Austan við túnið á Mosfelli liggur gil mikið niður úr fjallinu; þar hafa fundist enskir peningar, er hljóp úr gilinu eftir mikla leysingu; því giska sumir á þann stað. Fyrir neðan túnið á Mosfelli eru stór og mjög djúp fen, og halda margir, að Egill hafi kastað þar í fé sínu. Sunnan við ána eru “laugar” og skammt frá djúpar jarðholur, og ætla sumir, að þar hafi Egill falið fé sitt, því oft hefur sést þar haugaeldur.

Margir hafa velt fyrir sér hvar Egill hafi fólgið fé sitt, og auðvitað er það vafamál. Giskað hefur verið á (Magnús Grímsson prestur á Mosfelli hefur skrifað ritgerð; “Athugasemdir við Egils sögu Skallagrímssonar”, er hún í Safni til sögu Íslands II. Er stuðst við frásögn hans í lýsingunni hér á staðháttum í Mosfellsdalnum), að Egill hafi fyrst farið venjulega leið til laugar og þegar hann á heimleið hafi komið að “jarðholnum” við ána, hafi hann kastað kistunum þar niður og ef til vill múta þrælunum til að þegja og síðan haldið ferð áfram, þar til hann kom að Köldukvísl, en síðan farið upp eftir árbakkanum, milli hennar og mýrarinnar blautu, sem fyrr er nefnd, þar til niðurinn í Kýrgilinu heyrist; þar er um það bil niður af Minna-Mosfelli mikill og djúpur forarpyttur, er nefnist Þrælapyttur, og segja munnmæli, að þar hafi þrælarnir fundist – en ekki er það nefnt í sögunni. Hafi Egill drepið þrælana þarna, hefur hann auðveldlega getað komist þaðan að gilinu – er þá gert ráð fyrir, að vatn hafi verið í því – og síðan upp með því.

Sjá meira HÉR.

Bjarki Bjarnason

Bjarki Bjarnason.

Vefsíðuritari FERLIRs sendi Bjarka Bjarnasyni, hinum mætasta vísi Mosfellinga, eftirfarandi fyrirspurn:

“Sæll Bjarki;
Getur þú bent mér á hvar örnefnið „Þrælapyttur“ er í landi Minna-Mosfells?”

Bjarki svaraði:
“Sæll og blessaður.
Já, ég kannast vel við örnefnið en heyrði það þó ekki í mínum uppvexti á Mosfelli. Kynntist því ekki fyrr en ég las það í heimildum eftir að ég komst til vits og ára.
Séra Magnús Grímsson, sem var prestur á Mosfelli 1855-1860 skrifaði: “Þrælapyttur er á barði nálægt Kýrgili „… býsna stór og furðu djúpr, með forarleðju í botninum. …er mælt að þar hafi seinna
fundist í þrælarnir, sem Egill drap, eðr bein þeirra.”

Staðsetning Þrælapytts virðist hafa verið ljós á tímum séra Magnúsar en síðan virðist fjara undan því og það einfaldlega týnst. Ég hafði samband við Sigurð Skarphéðinsson (f. 1939) sem er alinn upp á Minna-Mosfelli. Hann kannaðist ekki við örnefnið þannig að það virðist ekki hafa verið lifandi í munni manna, amk. eftir miðja síðustu öld.

Minna-Mosfell

Minna-Mosfell. Tjörnin fyrrum, áður en hún var framræst.

Hinsvegar sagði Sigurður mér þá sögu að fyrir neðan bæinn á Minna-Mosfelli hafi verið hringlaga og nafnlaus tjörn, 5-8 metrar í þvermál. Var haft á orði að silfur Egils væri fólgið þar.
Þegar tjörnin var ræst fram var fylgst vel með því hvort einhver ummerki um silfrið kæmu í ljós.”

Vefsíðuritari fór í framhaldinu á vettvang og knúði dyra hjá Bjarka og þakkaði honum svarið. Hann hafði greinilega haft fyrir því að grúska bæði í minni og gömlum heimildum, auk þess sem hann hafi leitað til annarra er gerst þekkja til staðhátta. Í samræðum kom fram að landshagir væru verulega breyttir frá því sem áður var. Í stað mýra neðan bæjanna á Mosfelli væru nú gróin tún. Engin þekkt vilpa, sem ætti við lýsingu Magnúsar, sem var prestur á Mosfelli í fimm ár, væri nú á bökkum Kýrgils, enda væru þar nú engin mýrardrög. Benti Bjarki á fyrrnefndan Sigurð, sem væri einstök sagnarkista og byggi nú þar skammt austar við Minna-Mosfell, á bæ nefndum Sigtún.

Minna-Mosfell

Minna-Mosfell. Fyrrum tjarnarstæði “Þrælapytts”,

Ritari heimsótti Sigurð, vingjarnlegan eldri mann. Hann sagðist vel muna eftir pyttinum djúpa beint niður af Minna-Mosfelli þar sem hann var uppalinn. Líkt og Bjarki sagði hann umhverfið neðan Mosfells, sem börnin frá Hrísbrú vildu nefna Hrísbrúarfjall, væri mikið breytt frá því sem áður var. Í stað mýranna væru nú komin framræst tún. Einhvern tíma hafi hann minnst jarðfræðing segja frá því að neðanjarðará, aðra en Kaldá, rynni um dalinn. A.m.k. hafi hann fyrrum jafnan sótt rennandi vatn í vilpu neðst í honum. Vilpuna þá lagði aldrei, jafnvel í miklum frostum. Þegar miklir þurrkar urðu á níunda áratug síðustu aldar og flestir lækir þornuðu upp, var alltaf hægt að sækja vatn í vilpuna. En þetta er nú útúrdúr.
Sigurður sagði að beint niður af bænum Minna-Mosfelli hafi verið fyrrnefnd tjörn í mýrinni. Orð hafi verið haft á að þar hafi þrælarnir, er getið er um í Egils-sögu, fundist. Tjörnin hafi verið ræst fram fyrir mörgum árum og sést frárennslisskurðurinn vel. Nú hafi verið grafin rotþró frá bænum skammt austan við tjarnarstæðið. Í hans minni hafi þetta verið eina vilpan á þessu svæði, í hvarfi frá Hrísbrú, þar sem hóllinn, sem Mosfellskirkja stendur nú á – er getið um í Egils-sögu.
Sigurður vildi þó ekki bera ábyrgð á að um sömu vilpu væri að ræða og séra Magnús skrifaði um á sínum tíma.
Frábært veður.

Hrísbrú

Mosfellsdalur – Hrísbrú fremst.

Egill Skalla-Grímsson

Kristian Kaalund eða Kristian Kålund, fullu nafni Peter Erasmus Kristian Kaalund (19. ágúst 1844 – 4. júlí 1919) var danskur textafræðingur, lengst af bókavörður við Árnasafn (Den Arnamagnæanske Samling) í Kaupmannahöfn.

Kristian kålund

P.E. Kristian Kålund.

Kristian Kaalund fæddist í Søllested á Lálandi. Foreldrar hans voru Caspar Ernst Kaalund (1806–1853), sóknarprestur í Søllested, og kona hans Anna Helene Riedewaldt (1817–1888).
Kaalund var 9 ára þegar hann missti föður sinn. Hann varð stúdent frá Herlúfshólmsskólanum 1863, fór svo í Háskólann í Kaupmannahöfn og tók meistarapróf í norrænni textafræði 1869, með ritgerðinni: „Familielivet paa Island i den første sagaperiode (indtil 1030)“, sem birtist í Árbókum Fornfræðafélagsins 1870. Haustið 1872 fór Kaalund til Íslands og dvaldist þar í tvö ár. Hann ferðaðist um mestan hluta landsins sumrin 1873 og 1874 til þess að kynna sér sögustaði fornritanna. Þessar rannsóknir, sem hann jók síðar með viðbótarefni úr prentuðum og óprentuðum ritum, birtust síðar í tveggja binda riti: Bidrag til en historisk-topografisk beskrivelse af Island, 1877–1882. Það er enn talið undirstöðurit um íslenskar fornleifar og ómissandi handbók fyrir þá sem lesa Íslendingasögurnar, vegna ítarlegra upplýsinga, sem hann fékk m.a. hjá staðkunnugu fólki. Ritið kom út í íslenskri þýðingu 1984–1986, undir heitinu Íslenskir sögustaðir 1–4.

Kjósarsýsla – Egill Skalla-Grímsson

Kålund

Rit Kålunds.

Kjósarsýsla hefur allt annað yfirbragð en Gullbringusýsla, og inn í hana liggur leiðin af Seltjarnarnesi. Þegar komið er yfir Elliðaár, blasir við mikill hluti Mosfellssveitar; eru þar einnig grýtt holt og ógrónir melar, en mestur hluti landsins er þó grösugur, sums staðar þýfðar mýrar eða engjadrög, en bæir með græn tún liggja dreift þar sem hærra er og þurrara, en smáfjöll og hæðir skipta bygðinni í daladrög og smábyggðir. Í fiskibyggðum er algengt, að bæir og hús standi saman í þyrpingum næstum eins og sveitaþorp í Danmörku, en upp til landsins er annar háttur á; aðeins hér og þar má sjá stóran bæ, þar sem landi hefur verið skipt og mynduð svokölluð hverfi eða þorp, heldur liggur hver bær venjulega út af fyrir sig mitt í landareign sinni.

Hrísbrú

Mosfellsdalur – Hrísbrú fremst.

En tvímælalaust er Mosfellsdalurinn, sem liggur nyrst, merkilegastur dalur í Mosfellssveit. Hann er þeirra stærstur og einnig merkilegur sögulega, því að þar dvaldist Egill Skalla-Grímsson síðustu æviár sín. Hann nær upp frá Leirvognum frá vestri til austurs. Norðan við hann er Mosfell, aflangt hvelft fjall, liggur í sömu stefnu og dalurinn, og hallast jafnt niður til austurs, nær í fremur lága heiði. Undir eða í suðurbrekku Mosfells eru þrír bæir, Hrísbrú, Mosfell og Minna-Mosfell. –

Mosfell

Mosfell.

Mosfell er myndarlegur bær, prestsetur og kirkjustaður, í miðið, Minna Mosfell. Á Mosfelli bjó að sögn Egils sögu höfðinginn Grímur Svertingsson, kvæntur Þórdísi stjúpdóttur Egils Skalla-Grímssonar og bróðurdóttur. Egill fluttist þangað eftir dauða konu sinnar, varð gamall maður og síðast með öllu blindur.
Sagan segir (297-98), að eitt sinn þegar Grímur var á Alþingi og Þórdís í seli sínu, skipaði Egill kveld eitt tveimur þrælum sínum að fylgja sér til laugar; þeir fengu honum hest. Menn sáu, að Egill tók með sér silfurkistur sínar, sem Aðalsteinn konungur hafði gefið honum, og fór ásamt þrælunum niður túnið og hvarf bak við hæð sem þar er. Næsta morgun sáu menn að Egill hvarflaði á holtinu fyrir austan túnið (eiginlega; gerðið) og teymdi hestinn. Menn fylgdu honum heim; hann sagði að hann hefði drepið þrælana og falið kisturnar, en meira sagði hann engum. Margar ágiskanir komu síðar fram, segir sagan, hvar Egill hefði falið fé sitt. Austan við túnið á Mosfelli liggur gil mikið niður úr fjallinu; þar hafa fundist enskir peningar, er hljóp úr gilinu eftir mikla leysingu; því giska sumir á þann stað. Fyrir neðan túnið á Mosfelli eru stór og mjög djúp fen, og halda margir, að Egill hafi kastað þar í fé sínu. Sunnan við ána eru “laugar” og skammt frá djúpar jarðholur, og ætla sumir, að þar hafi Egill falið fé sitt, því oft hefur sést þar haugaeldur. Egill lést skömmu síðar og var fluttur niður í Tjaldarnes og orpinn haugur yfir hann. En þegar Grímur á Mosfelli var skírður, lét hann reisa þar kirkju (þ.e. á Mosfelli). Er sagt, að Þórdís hafi þá látið flytja bein Egils til kirkjunnar. Til þess bendir, “að síðan er kirkja var gerð á Mosfelli, en ofan tekin á Hrísbrú sú kirkja, er Grímur hafði gera látið, þá var þar grafinn kirkjugarður”, og þá fundust undir altarinu mjög stór mannabein, sem að sögn gamalla manna voru bein Egils. Bein Egils voru lögð niður í utanverðum kirkjugarðinum á Mosfelli. (Eg.s. 298-99). Meðal þeirra sem voru viðstaddir þegar þetta gerðist nefnir sagan Skafta prest Þórarinsson, en hann er telinn sá sem nefndur er lifandi árið 1143, og hafa menn því ætlað að kirkjan hafi verið flutt um miðja 12. öld.

Samkvæmt Gunnlaugs sögu (61) bjó höfðinginn Önundur nokkru síðar á Mosfelli, sem hafði goðorð “suður um nesin”, sonur hans var Hrafn, er fær að konu Helgu hinnar fögru í fjarveru sambiðils síns, Gunnlaugs ormstungu. Eftir að Gunnlaugur og Hrafn höfðu fellt hvor annan í hólmgöngu í Noregi, ríður Illugi, faðir Gunnlaugs með 30 menn til Mosfells. Önundur og synir hans komust í kirkju, en Illugi náði tveimur frændum hans og lét drepa anna, en fóthöggva hinn (Gunnlaugs saga 105).

Kýrgil

Kýrgil – uppdráttur ÓSÁ.

Sjá má á frásögn Egils sögu, að kirkja sú er Grímur reisti, hefur staðið við Hrísbrú, en hún hefur ekki getað verið sjálfstæð jörð, því sagan segir, að kirkjan hafi verið á Mosfelli, en segir sjálf síðar, að hún hafi verið að Hrísbrú. Í samræmi við þetta er það, að rétt við bæinn Hrísbrú nokkur skref til útnorðurs, er hóll, Kirkjuhóll, þar sem gamla kirkjan á að hafa staðið. En bærinn hlýtur næstum að hafa staðið þar sem kirkjan var upphaflega reist. Svo sem áður hefur verið tekið fram, má það heita föst reglu á íslenskum kirkjustöðum, að kirkjan er upphaflega sett annaðhvort gagnvart eða fast við bæjarhús, fyrirkomulag sem var mjög hagkvæmt, svo sem sjá má af tilvitnunni í Gunnlaugs sögu, að kirkjuna mátti nota sem nokkurn veginn öruggt hæli, ef óvinir sóttu að. Ekkert er það heldur sem mælir á mót, að bærinn á Mosfelli hafi upphaflega staðið þar sem Hrísbrú er nú, og þessi staður hefði vel getað þótt heppilegastur fyrir fyrsta ábúanda; hér er fjallshlíðin hæst og graslendið breiðast þaðan og fram að mýrinni, og miðað við þann mikla búrekstur sem einkenndi höfuðbólin í fornöld er ekkert óeðlilegt að hugsa sér, að túnið hafi náð langt austur á við og jafnvel yfir tún Mosfells og Minna-Mosfells. Bærinn hefur auðvitað ekki breytt um nafn, þó að hann væri fluttur, aftur á móti hlaut bærinn, sem byggður var úr Mosfells landi og reistur var annað hvort samstundis eða síðar á gamla bæjarstæðinu, að fá nýtt nafn, og það kann að hafa legið beint við, þar sem Hrísbrú var, því að bærinn hefur verið nefndur eftir vegi, sem var lagður hrísi, og kann að hafa verið þess ærinn þörf á leið yfir mýrina fyrir neðan bæinn.

Kýrgil

Tóft í Kýrgili.

Gilið sem sagan minnist á, þar sem Egill kynni að hafa falið fé sitt, er vafalaust Kýrgil, sem svo er nefnt; það liggur austan túns á Minna-Mosfelli; þar nær efst ofan úr fjalli niður í rætur og er alldjúpt, og rennur lítill lækur eftir botni þess. Auk þess eru tvö önnur gil, en miklu minni, í fjallinu milli Hrísbrúar og Mosfells.
Margir hafa velt fyrir sér hvar Egill hafi fólgið fé sitt, og auðvitað er það vafamál. Giskað hefur verið á (Magnús Grímsson prestur á Mosfelli hefur skrifað ritgerð; “Athugasemdir við Egils sögu Skallagrímssonar”, er hún í Safni til sögu Íslands II. Er stuðst við frásögn hans í lýsingunni hér á staðháttum í Mosfellsdalnum), að Egill hafi fyrst farið venjulega leið til laugar og þegar hann á heimleið hafi komið að “jarðholnum” við ána, hafi hann kastað kistunum þar niður og ef til vill múta þrælunum til að þegja og síðan haldið ferð áfram, þar til hann kom að Köldukvísl, en síðan farið upp eftir árbakkanum, milli hennar og mýrarinnar blautu, sem fyrr er nefnd, þar til niðurinn í Kýrgilinu heyrist; þar er um það bil niður af Minna-Mosfelli mikill og djúpur forarpyttur, er nefnist Þrælapyttur, og segja munnmæli, að þar hafi þrælarnir fundist – en ekki er það nefnt í sögunni. Hafi Egill drepið þrælana þarna, hefur hann auðveldlega getað komist þaðan að gilinu – er þá gert ráð fyrir, að vatn hafi verið í því – og síðan upp með því.
Sjá meira um Kýrgil og Þrælapytt HÉR.
Jón Ólafsson frá Grunnavík segir svo frá í stuttri íslenski ritgerð um fornminjar fundnar víðs vegar á Íslandi utan hauga” (Addit, 44 fol.), að Erlendur bróðir hans – sýslumaður í Ísafjarðarsýslu – hefði sagt honum, að um 1725 þegar hann var á unga aldri var í þjónustu skólameistara í Skálholti, hefðu eitt sinn nokkru af földu fé Egils skolað fram í vatnavöxtum; hefðu um 3 peningar fundist, hefði hann séð einn þeirra og hefði hann verið á stærð sem tískildingur (“tískildingr heill vorra tíma”); á honum hefði verið ógreinileg áletrun ef til vill ANSLAFR eða eitthvað þess háttar. Magnús Grímsson greinir frá munnmælum um, að fátækur bóndi eigi að hafa fundið fé Egils í Kýrgili, leynt fundinum, en allt að einu orðið auðugur maður.

Hrísbrúarsel

Hrísbrúarsel ofan við Selás.

Ekki er ljóst, hvar selið hefur verið þar sem Þórdís dvaldist, meðan Egill kom áformi sínu fram. Norðan við Mosfell er dálítið hæðardrag, sem heitir Selás, og telja flestir að þar sé staðurinn. Nú eru selfarir sjaldgæfar á Íslandi, til þeirra þarf mikinn mannafla, en áhöfn sjaldan svo stór, að slíkt borgi sig. Mosfell er þó einn þeirra bæja, þar sem það hefur jafnan verið stundað, en á síðari tímum hefur seljalandið verið í hallanum í Mosfellsheiði niður í Mosfellsdalinn, þar sem heita Gullbringur.

Egill Skalla-Grímsson

Höfuðkúpa Egils Skalla-Grímssonar?

Örnefnið Tjaldanes þekkist nú ekki, en lítill oddi, Víðiroddi (eftir nafni slétturnar Víðir), er þar sem árnar tvær renna saman, um 7-800 faðma suðvestan við Hrísbrú; liggur þarna yfir alfaraleið meðfram Köldukvísl, en einmitt oddinn á á vera áfangastaður sá sem nafnið Tjaldanes bendir á, og orð sögunnar “ofan í Tjaldanes” eiga vel við staðinn; í oddanum er lítil hæð, sem gæti verið leifar af haug. Staðurinn er fallegur, og ef Egill hefur verið jarðsettur þar, hefur sannarlega verið vel valið.”

Í “Skráning fornleifa í Mosfellsbæ” 2006 segir m.a. um Hrísbrú:
“Í Örnefnalýsingu Hrísbrúar getur um stæði kirkjunnar, sem þar var talin hafa verið: „Vestur af bæ er stór hóll, sem heitir Kirkjuhóll. Hann er norðvestur frá bæ; þar stóð kirkjan áður fyrr, og kirkjugarður var hér ofan við tröðina“ (Ari Gíslason). Svo segir Magnús Grímsson: „Þess er þegar getið, að þegar kristni var í lög leidd á Íslandi var Grímr að Mosfelli skírðr, og lét þar kirkju gjöra. En sú kirkja stóð á Hrísbrú. Er eptir því alllíklegt, að bær Gríms, sem þá var hinn eini undir fellinu, hafi staðið þar, sem Hrísbrú er nú, og skal þar um tala síðar betr. Grímr hefir byggt sína kirkju eptir árið 1000, líklega stuttu eptir, en hún stóð á sama stað þángað til í tíð Skapta prests Þór-arinssonar, eðr þángað til um miðja tólftu öld. Þessi Skapti prestr Þórarinsson er að ætlan manna sá, sem talinn er meðal nokkurra presta, kynborinna íslenzkra, er uppi voru árið 1143. Og í formálanum fyrir Egils sögu (Rvík 1856, vi bls.) byggir Jón Þorkelsson á því þá ætlan sína, að kirkjuflutningurinn hafi farið fram einhvern tíma á árunum 1130-1160. Hefir því kirkjan staðið á Hrísbrú hérumbil … 150 ár“ (bls. 255). Talsverðar vangaveltur eru um hvar hinn fyrsti bær að Mosfelli hafi staðið. Kålund álítur að hann hafi upphaflega staðið á Hrísbrú ásamt kirkjunni. Síðan hafi bærinn verið fluttur að Mosfelli og kirkjan á eftir (Kålund, bls. 50). Sigurður Vigfússon ræðir þetta mál einnig en kemst að annarri niður-stöðu en Kålund. Álítur hann frásögn Egils sögu um kirkju á Hrísbrú, sem seinna var flutt að Mosfelli, rétta. Um bæjarflutning og þar með nafnbreytingu var ekki að ræða. Álítur Sigurður að kirkjan á Hrísbrú hafi verið flutt að Mosfelli á árabilinu 1130-1160 (Sigurður Vigfússon, bls. 62-74). Í útgáfu sinni að Egils sögu telur Sigurður Nordal líklegast að kirkjan hafi fyrst verið byggð fjarri bænum að Mosfelli en seinna verið flutt að bænum og hjáleigan Hrísbrú byggð á gamla kirkjustaðnum (Egils saga, bls. 298 n.m.).

Hrísbrú

Uppgröftur á Hrísbrú.

Sunnan við Köldukvísl er hluti af stykki því, sem nefnt er Víðir og er í eigu Hrísbrúar. Neðsti oddinn á Víðinum nefnist Tjaldanes en á nesi því var Egill Skalla-Grímsson heygður (Ari Gíslason). Haugurinn liggur fast við ána (Köldukvísl) að sunnanverðu, um 100 m frá oddanum, þar sem Suðurá og Kaldakvísl mætast. Um 50 m neðan (N) þjóðvegarins upp Mosfellsdal. Haugurinn er um 7,70 m langur í vestur og um 5 m í norður. Hann er á árbakkanum og sýnilegt er að áin hefur brotið talsvert af honum. Auðsætt er, að haugurinn hefur einhvern tíma náð talsvert lengra í norður, eða alveg að farveg árinnar nú. Upphafleg stærð hans hefur mjög líklega verið um 7,70 m í norður og vestur, sem jafnframt hefur verið þvermál hans í báðar áttir. Enn sést greinilega að haugur þessi, sem svo er kallaður, hefur verið hringlaga. Sker hann sig vel frá umhverfinu og sést nokkuð langt að, sjái maður oddann á annað borð. Haugurinn er hæstur um miðjuna um 0,5 m, en er aflíðandi í suður. Norðan miðju er hann mikið skemmdur, örugglega af vatnagangi árinnar, sem framhjá rennur. Fáeinar þúfnamyndanir eru utan á haugnum. Til að sjá er haugurinn eins og lág bunga eða upphækkun fremst á bakka Köldukvíslar. Nú er girðing yfir hann endilangan frá austri til vesturs. Land það, sem hann stendur á er nú notað til hestabeitar og er allt afgirt. Haugurinn er líkastur því, sem um náttúrumyndun sé að ræða, en skal þó ekkert fullyrt í þeim efnum. Engar hleðslur eru heldur sjáanlegar þar. Um 14 m sunnan við hauginn eru undirstöður stálgrindahúss eða bragga. Vestan við haug þennan er smáþýfi, um 20-50 m, og eilítið grænna. Líklega er þetta svona frá náttúrunnar hendi, e.t.v. getur lítil tóft eða tóftir leynst þarna þótt ótrúlegt sé (Ágúst Ó. Georgsson). Í Víðisoddanum er sagt að verið hafi áningarstaður ferðamanna fyrr á tímum.”

Heimild:
-Íslenskir Sögustaðir Bidrag til en historisk-topografisk Beskrivelse af Island – 1877), P.E. Kristian Kålund, Sunnlendingafjórðungur I, Bókaútgáfan Örn og Örlygur Hf, 1984, bls. 31-37.
-Skráning fornleifa í Mosfellsbæ, Þjóðminjasafnið 2006.

Hrísbrú

Hrísbrú – uppgröftur – skáli.

Helgafell

Í Mosfellsblaðiðnu árið 2001 er m.a. fjallað um “Fornleifaskráningu í Mosfellsbæ”, s.s. Hraðaleiði, Hafravatnsrétt o.fl. Auk þess má þar lesa um Æsuleiði.

Mosfellsbær

Mosfellsbær – bæjarmerkið: Höf. Kristín Þorkelsdóttir – TÁKN;  A) Tilvísun til silfurs Egils Skallagrímssonar Dóttir Egils, Þórdís, bjó að Mosfelli og dvaldi hann hjá henni síðustu árin. Í nágrenni Mosfells á Egill að hafa falið silfursjóð sem Aðalsteinn hinn sigursæli Englakonungur gaf honum. Táknið er stílfærð mynd af þremur skjöldum sem prýddu bakhlið penings sem var í umferð á tíma Aðalsteins hins sigursæla. B) Þrír skildir fléttast saman og mynda samstöðu, sbr. þrjá byggðarkjarna fyrrum Mosfellshrepps: Mosfellsdalur, Reykjahverfi og „niðursveitin“.

“Á síðasta ári gerðu Mosfellsbær og Þjóðminjasafn Íslands með sér samning um skráningu fornleifa í landi Mosfellsbæjar. Skráningin er unnin í tengslum við vinnu við aðalskipulag bæjarins. Samkvæmt Þjóðminjalögum er skylt að skrá fornleifar á skipulagsskyldum Jarðatali J. Johnsens frá 1847. Samkvæmt Jarðatalinu voru 25 jarðir innan þess svæðis sem tilheyrir Mosfellsbæ í dag.
Jörðum hefur verið skipt upp og aðrar sameinaðar á þeim tíma sem liðinn er frá 1847. Sem dæmi má nefna jörðina Seljabrekku sem ekki verður tekin svæðum áður en gengið er frá skipulagi eða endurskoðun þess. Eitt af markmiðum fornleifaskráningar er að sporna við því að minjar verði fyrir skemmdum af gáleysi eða að nauðsynjalausu.

Hafravatnsrétt

Fornleifaskráning kemur að notum í minjavörslu þegar ákvarðanir eru teknar um aðgerðir til verndar einstökum minjastöðum eða minjasvæðum. Auk þess kemur hún að gagni í rannsóknum og kynningu. Það er einnig hagur þeirra sem stýra hvers konar framkvæmdum að eiga aðgang að yfírliti um fornleifar á tilteknu svæði. Segja má að við það vinnist tvennt. Unnt er að taka tillit til minjanna við skipulagsvinnu og nýta þær til að varðveita sögu staðarins í landslaginu. Einnig má minnka stórlega líkur á að finnist, öllum að óvörum, fornleifar sem nauðsynlegt verður að rannsaka. Auk kostnaðar við fornleifarannsóknir geta tafir á framkvæmdum haft mikinn kostnað í för með sér.
Skráning fornleifa í Mosfellsbæ hófst árið 1980. Þetta var fyrsta skrá sinnar tegundar sem gerð var á Íslandi. Vinnubrögð við fornleifaskráningu hafa breyst mikið á þeim tíma sem liðinn er frá því að skráningin fór fram árið 1980 þó svo að hún standi ennþá vel fyrir sínu og verði notuð sem grunnur fyrir þá vinnu sem nú er hafin. Í fornleifaskráningu Þjóðminjasafns Íslands eru minjar skráðar í nýtt skráningarkerfi sem fengið hefur nafnið Sarpur. Fornleifar eru flokkaðar eftir jörðum og miðað bæði við opinbera fasteignaskrá og jarðaskiptingu eins og hún kemur fyrir í sem sérstök jörð í fornleifaskráningunni því árið 1847 tilheyrði hún landi Mosfells. Mannvirki sem eru 100 ára eða eldri eru skilgreind sem fornleifar. Því er eðlilegt að miða fornleifaskrána við jarðaskiptingu eins og hún var fyrir rúmum 100 árum.

Hraðaleiði

Hraðaleiði.

Það eru ekki einungis leifar mannvirkja sem orðnar eru eldri en 100 ára sem eru skráðar. Þannig eru stríðsminjar teknar með í þessari skráningu. Og skráningin nær einnig út fyrir eiginleg mannvirki svo sem til álagabletta og annarra staða og kennileita sem tengjast siðum, venjum, þjóðtrú eða þjóðsagnarhefð.
Vinnu við fornleifaskráningu má í stórum dráttum skipta í tvennt. Fyrri áfanginn felur í sér gagnaöflun. Farið er í gegnum ritaðar heimildir, bækur er fjalla um sögu svæðisins, jarðabækur, fornbréfasafn, örnefnalýsingar, túnakort o.fl. Allt er tínt til sem gæti bent til fornleifa. Örnefni geta t.d. falið í sér vísbendingu um að þar hafi staðið mannvirki.
Í Mosfellbæ eru til mörg slík örnefni, t.d. Rögnvaldarstekkur, Stekkjarmýri, Miðdalskot, Kvíaból, Keldnasel, Rikkudys, Reykjalaug, Skólavarða, Jónssel, Markasteinn, Skiphóll, Hraðaleiði, Lambalækur, Móholt, Blikastaðavað og Hafravatnsrétt. Þessum fyrri áfanga fornleifaskráningarinnar í Mosfellsbæ er nú lokið. Heimildum hefur verið safnað um 626 fornleifar í landi bæjarins. Í síðari áfanganum felst að farið er á vettvang og athugað hvort enn finnist leifar þeirra mannvirkja sem gagnasöfnunin leiddi í ljós að verið hefðu á svæðinu i eina tíð. Ástand fornleifanna er metið og staðsetning þeirra færð inn á kort. Vettvangsvinnan verður unnin í sumar. Gefin verður út skýrsla með skrá yfir allar fornleifar í Mosfellsbæ. Eins og áður segir er fornleifaskráningin unnin í tengslum við vinnu við aðalskipulag bæjarins. Vonandi verður fornleifaskráin þó gefin út þannig að hún verði öllum aðgengileg. Vönduð útgáfa fornleifaskráningar í Mosfellsbæ ætti að geta nýst mjög mörgum, t.d. fræðimönnum til rannsóknarstarfa, skólar bæjarins geta unnið verkefni upp úr henni fyrir nemendur sína, bæjaryfirvöld geta notað hana í kynningu bæjarins út á við og síðast en síst getur fólk sem nýtur útivistar í bæjarfélaginu kryddað göngutúra og reiðtúra með fróðleik úr henni um umhverfi sitt.

Æsuleiði

Æsuleiði – Bjarki Bjarnason stendur á leiðinu.

Þegar farið er að glugga í gamlar heimildir er ótrúlega margt sem kemur á óvart og aðeins virðist á fárra vitorði. Þessu til staðfestingar skulu tekin hér nokkur dæmi úr áfangaskýrslu Þjóðminjasafns Íslands. Býlið Hamrahlíð var við rætur samnefndrar hlíðar og mun hafa staðið fyrir neðan veginn á móts við hlið á girðingu Skógræktarfélags Mosfellssveitar. Var hjáleiga frá Blikastöðum. Byggð um 1850 og búið á henni að minnsta kosti til 1890. Rústir býlisins sást enn. Um 150 m norðnorðaustan bæjarins á Helgafelli er í brekkunni hóllinn Hjálmur. Sagnir eru um að í Hjálmi væri bústaður álfa.
Á landamerkjum Mosfells og Hraðastaða um 20-30 m norðan við Köldukvísl er hóll sem nefndur hefur verið Hraðaleiði. Í Lýsingu Mosfells- og Gufunessóknar frá 1855 segir: Það er mælt, að Hraði hafi verið þræll í fornöld, er hafí fengið frelsi, og hafi hann þá reist bæ sinn þar, er enn kallast Hraðastaðir, og sé þessi haugur yfir hann orpinn og við hann kenndur.
Í Bjarnavatni, þar sem Varmá á upptök sín, segir þjóðsagan að búið hafi nykur. Nykur var talin vera skepna af öðrum heimi og líktist hesti, steingráum. Þessa skepnu mátti vart þekkja frá hesti nema á hófunum sem snéru öfugt. Nykrar höfðu þá ónáttúru að ef maður settist á bak límdist maður við bakið og skepnan stormaði beint í vatnið sitt og heimkynni með mann á baki og voru það hans endalok.
Brauðhver var austast í landi garðyrkjubýlisins Bjargs við Skammadalsveg. Eins og nafnið ber með sér var bakað í honum brauð. Á Suður-Reykjum var kirkja. Ekki er vitað hvar kirkjan stóð en talið er að hún hafi verið austan og sunnan við núverandi íbúðarhús Jóns M. Guðmundssonar. Kirkjunnar er fyrst getið í máldaga Þorláks biskups Þórhallssonar frá um 1180. Hún var lögð af með konungsbréfi 1765.

Helgusel

Helgusel.

Norðan undir Grímmannsfelli, undir hárri og fagurri brekku niðri við Köldukvísl, á norðurbakka hennar, eru rústir hins svo kallaða Helgusels. Sagt er að Helga, dóttir Bárðar Snæfellsáss, hafi hafst þar við um hríð og við hana sé selið kennt.
Innan Mosfellsbæjar eru friðlýstar fornleifar á fjórum stöðum. Hafravatnsrétt er þar á meðal. Í þjóðminjalögum stendur m.a.: Friðlýstar fornleifar skal þinglýsa sem kvöð á landareign þá sem í hlut á. Þeim minjum, sem friðlýstar eru, skal fylgja 20 metra friðhelgað svæði út frá ystu sýnilegu mörkum fornleifa og umhverfis nema kveðið sé á um annað. Því miður hefur Hafravatnsrétt ekki notið þeirrar friðhelgi sem lögin kveða á um. Eins og sést á þeim tveimur myndum af réttinni sem fylgja þessari grein þá hefur hún látið mikið á sjá á síðustu 20 árum. Nauðsynlegt er að ráðist verði í viðgerð á réttinni sem fyrst svo að hún fái aftur það tignarlega útlit sem hún hafði áður.” – Agnes Stefánsdóttir og Kristinn Magnússon, fornleifafræðingar.

Í Selfossi í desember 2014, er m.a. fjallað um Hraðastaði og sýnd mynd af bænum.

Hraðastaðir

Hraðastaðir fyrrum.

“Síðasta bæjarmynd reyndist vera af Hraðastöðum í Mosfellssveit (Mosfellsbæ). Guðbrandur Jóhannesson segist hafa alist upp á bænum og þar búa foreldrar hans núna. Eins og sjá má er ekki komið rafmagn í bæinn þegar myndin er tekin. Auk húss er fjós og hlaða á myndinni. Gamla bæinn vildi heimafólk gefa sveitarfélaginu en það þáði ekki. Morgunblaðið segir frá þvi 10. desember 1988 en þá leit bærinn út eins og þessi mynd ber með sér. Fyrirsögnin var: Sögulegt gildi Hraðastaða ekki talið vera 3 m. kr. virði – segir Páll Guðjónsson bæjarstjóri. Það var sem sé talið að það myndi kosta þetta mikið að endurbyggja.
Sigurður Vigfússon rannsakar fornleifar í Borgarfirði 1884 og segir um Hraðastaði í Árbók fornleifafélagsins 1884: Hraðastaðir sýnast vera landnámsjörð og snemma bygðir; eru þeir líklega kendir við Hraða þann, er Landn. nefnir bls. 53, sem fyrr segir. Hraðastaðir eru fyrir sunnan ána, er rennur fyrir sunnan Mosfell, enn standa nokkuð ofar undir Grímmannsfelli (Grrímarsfelli réttara). Skammt fyrir neðan Hraðastaði, suður viðs yðri ána, er dálítill hóll, sem kallaður er Hraðaleiði. Hraðablettur er og kallaðr fyrir ofan Hraðastaði upp með Grímmannsfelli.”

Í Alþýðublaðinu í maí 1964 fjallar Ragnar Lár m.a. um Æsu og Hraða, auk Egils Skallagrímsson:
“Mörg vötn hafa runnið til sjávar síðan, en dalurinn er sjálfum sér líkur, þó nokkuð hafi hann að sjálfsögðu breytt um svip, með tilkomu nýrra bygginga og ræktunarframkvæmda. Hér stendur Mosfell þar sem Egill Skallagrímsson lifði seinustu ár ævi sinnar og í þessum dal er gullið hans fólgið, en hvar, veit enginn.
Þarna eru Æsustaðir, en þar bjó Æsa, tröllkona, forðum, og sér ennþá móta fyrir leiði hennar í túninu. Æsa lézt af sárum, er hún hlaut í bardaga við Hlaðgerði í Hlaðgerðarkoti, en þær áttu í erjum og gengu loks hvor af annarri dauðri í bardaga. — Nú er mæðraheimili í Hlaðgerðarkoti, en þar koma mæður á sumrin til að hvíla sig, en heimilið er rekið af Mæðrastyrksnefnd. Þarna eru

Æsustaðir

Æsustaðir.

Hraðastaðir, en þar bjó Hraði sá, er þræll var — en fékk land og frelsi.
Fyrir nokkrum áratugum var kirkja lögð niður að Mosfelli, en flutt að Lágafelli. Þetta þótti mörgum miður og þá sérstaklega „dalbúum,” enda sjónarsviptir fyrir þá. Einn bóndinn í dalnum gerði sér lítis fyrir og náði í kirkjuklukkuna og kvaðst ætla að varðveita hana, þar til kirkja yrði reist á Mosfelli að nýju.
Þegar við ökum í borgina á ný, og virðum fyrir okkur þéttbýli sveitarinnar kemur okkur í huga hversu langt þess verði að bíða að engin Mosfellssveit verði til lengur — aðeins Reykjavík. En nú þegar hefur hún teygt umráðasvæði sitt upp að Korpúlfsstöðum, en sú var tíðin að Mosfellssveit átti land niður að Elliðaám.”

Í Dagblaðinu Vísir í júní 1986 er “Gengið á Helgafellið að austanverðu”. Þar er m.a. getið um hólinn Hjálm á Helgafelli og Biskupsklett í Skammadal.

Biskupsklettur

Biskupsklettur í Skammadal.

“Við höfum áður athugað gönguleiðina á Úlfarsfell og farið með fjörum í Mosfellssveitinni. Í dag skulum við stefna á „auðvelda” gönguleið og veljum Helgafellið. Á Íslandi eru mörg fjöll eða fell sem heita þessu nafni og þau eru hvert öðru lík. Helgafell í Mosfellssveit blasir við byggðinni og er freistandi að ganga á það og er það tiltölulega auðvelt.
Gott er að fara austur fyrir fellið og koma að því leiðina úr Mosfellsdalnum. Beygt er til suðurs af veginum þar sem fólk úr Reykjavík fer til þess að sinna kartöflugörðum sínum sem eru þarna á fellsöxlinni í litlu dalverpi. Takið fyrsta afleggjarann til hægri þegar ekið er austur Mosfellsdal.
Þegar komið er upp er komið að svonefndum Stórhól sem er klettarani austur úr Helgafelli. Skarð er í fellið á þessu svæði en það skilur á milli hólsins og fellsins og heitir þar Stekkjarmýri. Síðan er haldið á fellið. Sé staldrað við og litið um öxl blasir við Skammidalur og eiga ýmsar jarðir þar land auk Helgafells. Að norðanverðu er Hlaðgerðarkot eða Reykjahlíð, eins og það er nú kallað. Þessi jörð er í eigu Reykjavíkurborgar. Þá koma Norður-Reykir sem eru í eigu Mosfellshrepps. Þar austur af er land Æsustaða og Æsustaðafell lokar dalnum að norðaustan og við tekur Vetrarmýrarháls. Þar mætast landamerki jarðanna Æsustaða, Suður-Reykja og Helgadals að hluta.

Skammidalur

Skammidalur.

Skammidalur er í raun tvískiptur í fremri og innri Skammadal. Klettur sá er dalnum skiptir heitir Biskupsklettur. Reykjabunga eða Reykjafell eins og margir kalla það, blasir við til suðurs en norðurhlíðar þessu eru brattar og grýttar. Biskupsklettur hefur ugglaust fengið nafn sitt af því að þar má greinilega sjá mannsmynd ef skoðað er frá gömlu mógröfunum á Reykjum sem eru í hinum svokallaða fremri Skammadal.
Er komið er upp á Helgafellið liggur svonefnd Langatorfa suður og ofan af því á móts við bæinn að Helgafell. Að norðvestan er örnefnið Hjálmur við vesturhornið og Hjálmsmýri þar norður af. Norðan við fellið er skriða niður á jafnsléttu en þar tekur við gróinn mýrarfláki, sem heitir Langamýri og er sunnan þjóðvegarins, norðan Helgafells.
Útsýni af fellinu er ekki veruleg en þaðan sést byggðin í Mosfellssveit frá nýju sjónarhorni.
Leiðin vestur af og heim á leið blasir nú við og er auðveld og komið er niður í íbúðarhverfi þar sem götunöfnin enda á -fell.” – Unnið úr leiðarlýsingum eftir Jón M. Guðmundsson. -A.B

Heimildir:
-Mosfellsblaðið, Fornleifaskráning í Mosfellsbæ, 6. tbl. 01.06.2001, bls. 15.
-Selfoss, 23. tbl., 04.12.2014, bls. 14.
-Alþýðublaðið, Dagstund í sveitasælu, Ragnar Lár, 109. tbl. 16.05.1964, bls. 4-5.
-Dagblaðið Vísir, Gengið á Helgafellið að austanverðu, 138. tbl. 21.06.1986, bls. 8.

Helgafell

Helgafell – örnefni.

Gamli Þingvallavegur

Var fyrir stundu að grúska í hinum fjölmörgu gömlu uppdráttum mínum, sem ég hef aflað, ásamt félögum mínum,  á vettvangi í gegnum tíðina, með skýrskotun til gamalla skriflegra heimilda um fornar leiðir til og frá Reykjavík fyrrum. Skriflegar heimildir eru eitt; áþreifanlegar og sýnilegar minjar á vettvangi eru annað. Þess vegna fara “heimildirnar” ekki alltaf saman við vettvangsstaðreyndirnar. Opinberar skráningar fornminja hafa hingað til alls ekki verið sérstaklega nákvæmar. Að ekki sé talað um fornar leiðir; þær hafa sjaldnast verið rétt skráðar af neinu viti í opinberum fornleifaskráningum.

Þingvallaleiðir

Þingvallaleiðirnar fyrrum og nálægar leiðir út frá Reykjavík til austurs…

Hafði gengið allar leiðirnar margsinnis, rissað upp jafnhraðan og sett jafnóðum í sérstakan rissbunka – til geymslu.
Niðurstaðan varð meðfylgjandi loftmynd af leiðunum (áður en ég þurfti að henda þeim í ruslið til að skapa rými fyrir nýjar áhugaverðari athuganir)… – ÓSÁ.

Gamli Þingvallavegur

Ræsi á Gamla Þingvallaveginum, sem er þó ekki eldri en elsti Þingvallavegurinn.

Mosfell

Í Mosfellingi árið 2006 er fjallað um “Kirkjuna á Hrísbrú”. Ekki er úr vegi, að því tilefni, að fjalla svolítið um einn þekktasta íbúann þar sem og spurninguni hvað varð um silfursjóð hans á gamals aldri.

Kirkjan á Hrísbrú

Hrísbrú

Mosfellsdalur – Hrísbrú fremst.

“Undanfarin ár hefur staðið yfir fornleifauppgröftur að Hrísbrú í Mosfellsdal. Rannsóknin hefur leitt margt merkilegt í ljós m.a. um kirkju á Hrísbrú. Hrísbrú er ein af fimm jörðum í Mosfellsbæ þar sem heimildir eru fyrir að kirkja hafi staðið. Á tveimur jörðum stendur kirkja enn þann dag í dag, á Lágafelli og á Mosfelli. Hinar jarðirnar eru Suður-Reykir og Varmá.
Í Egilssögu segir að kirkja sem reist var á Hrísbrú er kristni var lögtekin hafi verið flutt að Mosfelli.
Í gegnum tíðina hafa verið nokkrar vangaveltur um hvar fyrsti bærinn á Mosfelli stóð. Kristian Kålund segir í verki sínu Bidrag til en historisktopografi sk Beskrivelse af Island, sem gefin var út 1877 að hann álíti að bærinn hafi upphaflega staðið á Hrísbrú ásamt kirkjunni. Síðan hafi bærinn verið fluttur að Mosfelli og kirkja á eftir. Sigurður Vigfússon ræðir þetta mál einnig í Árbók hins íslenska fornleifafélags 1884-1885, en kemst að annarri niðurstöðu en Kålund. Álítur hann, frásögn Egilssögu um kirkju á Hrísbrú, sem seinna var flutt að Mosfelli, rétta.
Um bæjarflutning og þar með nafnbreytingu var ekki að ræða. Í útgáfu sinni að Egils sögu (Rvk. 1933) telur Sigurður Nordal líklegast, að kirkjan hafi fyrst verið byggð fjarri bænum að Mosfelli, en seinna verið flutt að bænum og hjáleigan Hrísbrú byggð á gamla kirkjustaðnum.
Menn hafa leitt að því líkur að kirkja hafi staðið á Hrísbrú í um 150 ár. Hún var reist er kristni var lögtekin, þ.e. í kringum árið 1000.
Hrísbrú
Kirkja var hins vegar risin á Mosfelli í tíð Skapta prests Þórarinssonar sem uppi var um miðja 12. öld og því hafa menn ályktað sem svo að þá hafi verið búið að flytja kirkjuna frá Hrísbrú. Talsvert hefur verið skrifað um staðsetningu hinnar fornu Hrísbrúarkirkju. Um þetta segir Magnús Grímsson í Safni til sögu Íslands og íslenzkra bók mennta að fornu og nýju, sem gefin var út í Kaupmannahöfn og Reykjavík árið 1886: „Það er varla von, að nein viss merki sjáist nú Hrísbrúarkirkju, eptir hérumbil 700 ára tíma. En þó eru þar nokkur vegsummerki enn, sem styðja söguna. Skammt útnorðr frá bænum á Hrísbrú, norðan til við götu þá, er vestr liggur um túnið, er hólvera ein, hvorki há né mikil um sig. Það er nú kallaðr Kirkjuhóll. Stendur nú fjárhús við götuna, landsunnan megin í hóljaðri þessum. Þegar menn athuga hól þenna lítr svo út, sem umhverfis hann að vestan, norðan og austan, sé þúfnakerfi nokkuð, frábrugðið öðrum þúfum þar í nánd. Þetta þúfnakerfi á að vera leifar kirkjugarðsins (því kirkjan á að hafa staðið á hólnum) og er það alllíkt fornum garðarústum. Innan í miðju þúfnakerfi þessu á kirkjan sjálf að hafa staðið, og þar er varla efunarmál, að þar hafi til forna eitthvert hús verið. Eigi er hægt að ætla neitt á um stærð rústar þessarar …
Tveir steinar sáust uppi á hólnum, sokknir í jörð að mestu; voru þeir teknir upp haustið 1857, og líta út fyrir að hafa verið undirstöðusteinar, óvandaðir og óhöggnir, en ekki alllitlir; má vera að þeir hafi verið í kirkjunni. Við upptekníng steina þessara sýndist svo, sem moldin í hólnum væri lausari og mýkri,(?) en í túninu fyrir utan hólinn. Það mun því efalaust, að kirkja Gríms Svertíngssonar hafi hér staðið. Annarsstaðar getr hún varla hafa verið á Hrísbrú, enda bendir og nafnið, Kirkjuhóll, á að svo hafi verið. Hefir þar og verið kirkjustæði allfagrt, en ekki mjög hátt.“
Á árunum upp úr 1980 fór fram fornleifaskráning í Mosfellsbæ á vegum Þjóðminjasafns Íslands. Þar er sagt frá einni sporöskjulaga rúst og tveimur ferhyrningslaga tóftum á Kirkjuhóli. Allar eru tóftirnar þó ógreinilegar. Um það segir skrásetjari: „Almennt má segja um Kirkjuhól, að hann er mjög rústalegur að sjá. Mjög erfitt er samt að koma öllu heim og saman. Er hólkollurinn allþýfður og eflaust má sjá það út úr þessu, sem menn langar helst til.“
Nú er sem sagt fengin niðurstaða í málinu. Þær fornleifarannsóknir sem stundaðar hafa verið á Hrísbrú undir stjórn Jesse Byock á undanförnum árum hafa leitt í ljós að kirkja var reist á Hrísbrú í frumkristni og að hún stóð á Kirkjuhóli.” – Kristinn Magnússon, fornleifafræðingur.

Í Mosfellingi árið 2005 er fjallað um fornleifauppgröftinn að Hrísbrú:
Hrísbrú
“Margir hafa velt vöngum um afdrif beina Egils.
Egilssaga fjallar um þetta og víðar hefur það verið gert. Halldór Laxness stúderaði sögu Mosfellsdals á sínum tíma og færði í frásögn með sínum hætti í Innansveitarkróniku: „Kirkja hafði að öndverðu verið reist undir Mosfelli á þeim stað sem síðar hefur heitið Hrísbrú, og stóð þar uns skriða hljóp á túnið á 12tu öld; var þá flutt á hól einn leingra inn með fjallinu, Mosfellsstað sem nú heitir. Hrísbrú varð leigukot í Mosfellstúni vestan skriðunnar. Þegar kirkjan var flutt fundust, að því er skrifað er, mannabein undir altarisstað í Hrísbrúarkirkju hinni fornu; voru þau miklu meiri en annarra manna bein og fluttu Mosdælir þau til Mosfells ásamt með kirkjunni og þóttust gamlir menn kenna þar bein Egils Skallagrímssonar.“

Eins og flestir vita hefur staðið yfir á Hrísbrú í Mosfellsdal stórmerkur fornleifauppgröftur undanfarin sumur. Uppgreftrinum hefur verið stjórnað af fornleifafræðingnum Jesse Byock. Jesse er prófessor í norrænum fræðum við Kaliforníuháskóla og kom til íslands í fyrsta skipti fyrir um það bil 30 árum. Þess má geta að á síðasta ári veitti Alþingi honum íslenskan ríkisborgararétt.
Mosfellingur náði tali af Jesse á Brúarlandi þar sem fornleifafræðingarnir hafa haft aðsetur undanfarin sumur.

Hvenær hófst þú störf við uppgröftin á Hrísbrú?
Hrísbrú
„Árið 1995 gerði ég forkönnun að Mosfelli og á fleiri stöðum í Dalnum. Það var svo árið 2001 sem starfið hófst að fullum krafti á Hrísbrú með aðkomu og stuðningi Mosfellsbæjar að verkefninu”.
Ert þú ánægður með þann árangur sem hefur náðst fram að þessu?
„Það er óhætt að segja að hann sé framar björtustu vonum. Síðastliðiðið sumar fannst kirkja sem að öllu líkindum er reist skömmu eftir Kristnitöku árið 1000. Um er að ræða stafkirkju, einstaka að því leyti að varðveist hafa betur en áður hefur sést stólpar og grunntré hússins, ásamt hleðslum. Þessi fundur er verulegur hvalreki fyrir byggingarsögu íslands, enda kemur í ljós að frágangur og vinnubrögð við byggingu benda til séríslenskra úrlausna við bygginguna sem ekki þekkjast á Norðurlöndum frá sama tímabili. Það er því Ijóst að fundur stafkirkjunnar er stórmerkur. Þá er ljóst að kirkjan hefur verið staðsett á stað sem fyrir kristnitöku hefur verið notaður við greftranir eða brennu látinna, því þar hefur fundist eina brunagröfin sem fundist hefur á Íslandi. Niðurstöður rannsókna sýna með óyggjandi hætti að maður hefur verið brendur á Hulduhól, skipslöguðum hóli sem liggur skammt frá kirkjugarðinum. Það er ekki ólíklegt að einn af fyrstu höfðingjum Mosfellsbæjar hafi verið brendur þarna.
Í garðinum kringum kirkjuna hefur fundist fjöldi beinagrinda. Frá því uppgröftur hófst höfum við fundið 22 beinagrindur sem m.a. hafa gefið okkur margvíslegar vísbendingar um lifnaðarhætti fólksins, það er t.d. um: næringu, sjúkdóma, ofbeldi og hvar fólkið er fætt, enda beinist rannsóknin ekki síst að lífsskilyrðum og siðum fyrir og eftir Kristnitöku.
Með því að beita hátæknilegum mælingum á ísótópum, sem er ný greiningartækni í fornleifafræði, er hægt að mæla í beinum og tönnum hlutfall næringar á fyrstu æviárum einstaklinga. Niðurstaða hefur leitt í ljós að sjávarnitjar voru greinilega mikil uppistaða í fæðu á þessum tíma í kringum 1000. Við höfum einnig getað rakið sjúkdóma eins og berkla og krabbamein frá þessum tíma og við höfum séð merki mikils ofbeldis. Þar vegur þyngst fundur okkar í fyrrasumar af hauskúpu sem bar greinileg einkenni þess að hafa orðið fyrir þungu höggi eggvopns. Enn fremur hefur verið rannsakað hvort einstaklingar eru fæddir hérlendis eða erlendis. Niðurstaðan er sú að að svo virðist sem að allir þeir sem bera bein sín í kirkjugarðinum á Hrísbrú hafi verið fæddir hérlendis.
Með samvinnu fjölda vísindamanna úr margvíslegum fræðigreinum, svo sem almennri líffræði, frjókornafræði, réttarlæknisfræði, sagnfræði, fornleifafræði, jarð- og landafræði hefur verið leitað eftir upplýsingum svo hægt sé að draga heildarmynd af búsetuskilyrðum frá þessum tíma, en það er meginmarkmið rannsóknarinnar.
Rannsóknir síðastliðinna fimm ára eru líka farnar að skila verulegum árangri, sem styrkir þekkingu manna á smáatriðum og heildarmynd af lífi á íslandi á landnámsöld. í sumum tilfellum er um að ræða þekkingu sem ekki hefur komið fram áður.“

Eigum við eftir að finna silfur Egils?
Hrísbrú„Það er eðlilegt að spurningar sem tengjast Agli Skallagrímssyni og Egilssögu komi upp. Vísindamenn vilja gjarnan víkja sér undan óyggjandi svörum um slíkt, en samsvörun fundar á kirkju og kirkjugarði við stóra kafla í Egilssögu eru sláandi, því er ekki að neita. Nú í sumar var farið undir kirkjugólfið og þar finnst gröf, en kistan hafði verið fjarlægð, enda finnast leifar hennar. Sá sem í gröfinni hefur legið hefur greinilega verið stór og mikill eins og fram kemur í öllum lýsingum, enda gröfin sú stærsta af þeim sem við höfum fundið á Hrísbrú.“

Fundur skálans hefur vafalaust verið skemmtilegur endir á vinnu sumarsins?
„Það var ánægjulegt að finna þetta og án vafa er þessi viðbótarfundur til að styrkja þá skoðun mína að hér sé um einn merkasta fornleifafund seinni tíma að ræða, þegar horft er til þessa tímabils, ekki bara eftir íslenskum mælikvarða heldur einnig þegar horft er til heiminum. Það dæmi ég alla vega af viðbrögðum kollega minna víða úr heiminum. Þetta gerðist þannig að við vorum að fara að ganga frá eftir vinnu sumarsins þegar þessi bygging kom í Ijós. Ljóst er að hún hefur varðveist svo vel vegna skriðunnar sem féll á hana. Það hefur verið ótrúlegt að finna þetta allt og sjá á einum stað og ég tel það einstakt.“

Koma fleiri en fornleifafræðingar að þessum rannsóknum?
„Að þessum rannsóknum hefur hópur vísindamanna komið frá fjölda landa og má til gamans geta þess að nú eru þegar fjórir af þeim að gera doktorsritgerð vegna þessa verkefnis við Háskólann í Kaliforníu. Þessi hópur hefur verið afar samstilltur og frábært að vinna með. Af þessu leiðir að um er að ræða margþættar rannsóknir svo hægt sé að ná þeim árangri að varpa ljósi á líf og lifnaðarhætti á landnámsöld, á mörkum kristni og heiðni og rannsóknin skipar sér þar með í hóp með stærri fornleifauppgröftum.”

Í Ólafíu, riti Fornleifafræðingafélags Íslands árið 2007, er fjallað um “Valdamiðstöðina í Mosfellssdal – Rannsóknir á fornleifum frá tímum víkinga að Hrísbrú að Mosfelli”:

Niðurstöður:

Hrísbrú

Hrísbrú – uppgröftur – skáli.

Landslag frá heiðni til kristni Fornleifarannsóknir í Mosfellsdal hafa leitt í ljós verulegar sannanir á því að umtalsverð byggð hefur verið þar frá landnámsöld fram yfir kristnitöku, og áfram allt fram á 12. öld. Með rannsóknarniðurstöðunum er að myndast vel skrásett mynd af flókinni sambúð og samskiptum heiðinna manna og kristinna á fyrstu öldum Íslandsbyggðar. Á Hrísbrú hafa fornleifafræði og fornar ritheimildir hjálpast að við að sýna fram á mikilvægi staðbundinna minja, sem og rannsóknir á áþreifanlegum minjum í nánum tengslum við ritaðar miðaldaheimildir.
Mikilvægur þáttur í rannsóknunum á Hrísbrú hefur falist í því að skoða og skilja hvernig greftrunarsiðir og trúarbrögð hafa blandast við kristnitöku.

Uppi hafa verið margar tilgátur í víkingaaldarfræðum um hætti, menningarleg gildi og trúarhegðun Norðurlandabúa á þeim tíma þegar skipt var frá heiðnum sið til kristni. Margt bendir til þess að breyting hafi átt sér stað frá heiðni til kristni á sérstökum helgistöðum en lítið er um skýrar fornleifafræðilegar sannanir þessu til staðfestingar. Niðurstöður okkar á Mosfelli gætu skipt máli í tengslum við þessa alþjóðlegu umræðu.

Hrísbrú

Hrísbrú – fornleifauppgröftur.

Nálægð heiðinnar líkbrennslu á Hulduhól við kristna kirkju og kirkjugarð á Kirkjuhól sýnir einstaklega heillega mynd af trúarlegum greftrunarstað og veitir okkur tækifæri til að skoða hvernig eitt ákveðið samfélag á víkingaöld kristnaðist. Sú staðreynd að kirkjan á Kirkjuhóli hafi verið byggð svo nálægt hinni heiðnu hæð á Hulduhóli segir okkur margt um félagslega og menningarlega hætti á þessum tíma og það er afar sjaldgæft í dag að finna minjastað með tveimur jafnvel varðveittum grafhaugum. Rannsóknarniðurstöðurnar benda til þess að heiðið og kristið samfélag hafi búið hlið við hlið á tímum kristnitökunnar.
Fornleifarnar á Mosfelli/Hrísbrú eru sérstaklega mikilvægar í sambandi við túlkun á Íslandssögunni vegna þess að fyrir rannsóknina höfðu aðeins verið til ritaðar heimildir um fólkið sem þar bjó.
Grímur Svertingsson er gott dæmi um þetta. Hann bjó þar við kristnitöku og var lögsögumaður á árunum strax eftir hana. Grímur var giftur Þórdísi, dóttur voldugs höfðingja frá Borg í Borgarfirði, og var einn af áhrifamestu mönnum á Íslandi á þeim tíma. Margir sagnfræðingar hafa lengi haldið því fram, og byggt það á rituðum heimildum, að margir voldugir höfðingjar á Íslandi, og þar á meðal Grímur, hafi tekið kristni til þess að halda völdum. Vegna þessa hafi margir höfðingjar reist kirkjur á jörðum sínum um árið 1000 til þess að fá vígða jörð á landareign sinni. En eru einhverjar sannanir fyrir þessu?
HrísbrúNiðurstöður fornleifarannsókna á Hrísbrú benda til þess að á landnámsöld hafi staðurinn verið bústaður höfðingja og staðsetning hans áhrifamikil í samfélagi og menningu íbúa Mosfellsdals.
Egils saga segir frá því að Grímur Svertingsson hafi reist sér eigin kirkju og kirkjugarð að Hrísbrú í kjölfar kristnitökunnar. Áþreifanlegar fornleifar sem fundist hafa í rannsóknunum styðja þetta. Með byggingu kirkjunnar eftir kristnitöku staðfestu Mosfellingar, sú fjölskylda sem mestu réði á þeim tíma í dalnum, eignarhald sitt á landinu, sjálfsmynd sína og stöðu. Steinar og grafir að Hrísbrú sýna fram á miðpunkt í menningarlegu og raunverulegu landslagi á meðan áþreifanlegar minjar úr gröfunum veita okkur upplýsingar um heilsu og lifnaðarhætti, auk þess að staðfesta ofbeldi í samfélagi íbúanna á Mosfelli/Hrísbrú. Þessar áþreifanlegu minjar eru vitnisburður um tilraun voldugrar höfðingjaættar til þess að koma sér vel fyrir í breyttu trúarlegu og félagslegu umhverfi fyrstu tvö hundruð ár landnáms á Íslandi. Rannsóknir okkar benda til þess að landsvæðið hafi verið notað í trúarlegum tilgangi og til greftrunar bæði fyrir og eftir kristnitöku; bæði heiðnir og kristnir hafi viljað hafa forfeður sína nálægt sér.”

Í Árbók Hins íslenska fornleifafélags árið 1884 skrifar Sigurður Vigfússon um “Rannsókn í Borgarfirði 1884”. Þar fjallar hann m.a. um Mosfell:

Hrísbrú“Þriðjudaginn, 2. sept., fór eg af stað úr Reykjavík, síðara hluta dags, og upp að Mosfelli, var þar um nóttina. Hér kemr stax til Egils s. Skallagrímssonar, og síðan til landnáms pórðar Skeggja. Þetta þurfti eg að athuga betr. Grímr Svertingsson bjó að Mosfelli víst mestallan siðara hluta 10. aldar, og fram yfir 1000. Hann var ættstór maðr og göfugr og lögsögumaðr um hríð ; hann átti Þórdísi Þórólfsdóttur Skallagrímssonar; þegar Egill seldi af höndum bú að borg, fór hann suðr til Mosfells til pórdisar bróðurdóttur sinnar og var þar i elli sinni og andaðist þar, og hér fal Egill fé og koma hér fram í sögunni ýmsar staðlegar lýsingar.

Hrísbrú

Hrísbrú – fornleifauppgröftur.

Síra Magnús heitinn Grímsson, sem var prestr á Mosfelli, hefir skrifað ritgerð um þetta efni, „Athugasemdir við Egils sögu” í Safni til sögu Íslands, Kaupmh. 1861, II. bl. 251—76. Ritgerð þessi er mikið fróðleg og skemmtilega skrifuð, og vel lýst mörgu landslagi á Mosfelli og þar í kring; þarf eg því ekki svo mjög að tala um það. Síra Magnús heldr, að bœrinn Mosfell hafi í fyrstu staðið þar sem Hrísbrú nú er, sem er lítilfjörlegt kot, skamt fyrir utan túnið á Mosfelli, og að Grímr Svertingsson hafi búið þar; hann ímyndar sér, að bœrinn hafi verið fluttr — líklega einhvern tíma fyrir miðja 12. öld — frá Hrísbrú og þangað sem hann nú stendr, og hafi þá nafnið flutzt á þenna nýja bœ, enn nafnið Hrísbrú verið gefið þeim stað, þar sem hið forna Mosfell stóð; meðal annars um þetta bls. 255 og 260—261. Allar þessar getgátur byggir höfundurinn einkannlega á því, sem stendr í Egils s. Reykjavíkr útg. um flutning á kirkju þeirri, er Grímr Svertingsson lét byggja að Mosfelli, eða sem stóð þar sem síðar hét á Hrísbrú, og flutt var síðar heim að bœnum. Eg get nú ekki vel fallizt á alt þetta.
Mosfell hefir snemma bygzt, sem eðlilegt er, því að uppi í Mosfellsdalnum hefir verið mjög byggilegt. Landn. segir, bls. 53 : „Fiðr enn auðgi Halldórsson, Högnasonar, fór úr Stafangri til Íslands; hann átti Þórvöru dóttur Þorbjarnar frá Mosfelli Hraðasonar; hann nam land” o.s.frv. Það má ætla, að bœrinn Mosfell hafi verið bygðr ekki miklu eftir 1000, þar sem landnámsmaðr átti dóttur Þorbjarnar, sem þar er fyrst getið, enn ekki sést það, hvort hann hefir fyrst bygt þar, svo að Mosfell getr verið enn eldra. Grímr Svertingsson að Mosfelli er oft nefndr, fyrst í Íslendingabók, og oft í Landnámu og Egils s. og ávalt er hann kallaðr „Grímr at Mosfelli”, þegar nefnt er, hvar hann hafi búið; Landn. mundi vissulega geta um það, hefði Mosfellsbœrinn fyrst staðið úti á Hrísbrú og það í hálfa þriðju öld, og síðan verið fluttr þangað, sem hann nú er.

Mosfell

Mosfell – Kýrgil fjær.

Öllum handritum ber saman um, að við þenna kirkjuflutning á Mosfelli hafi verið staddr Skafti prestr Þórarinsson, og öllum ber þeim líka saman um, að kirkjan, sem var ofan tekin, hafi verið sú kirkja, er Grímr Svertingsson lét byggja; þar af er þá ljóst, að kirkja Gríms hefir þá enn staðið, og hefir hún þá orðið um 150 ára gömul. Það má finna mörg dæmi þess, hvað hús stóðu ákaflega lengi bæði í fornöld og á miðöldunum. Þetta er og eðlilegt, þvíað annaðhvort bygðu menn af rekaviði, sem endist svo lengi, eins og kunnugt er, eða menn gátu valið viðinn í Noregi, þ.e. sóttu hann þangað ; þá voru ekki mjög sparaðir skógarnir ; menn bygðu og sterkt, þegar menn vildu vanda eitthvert hús. Það sýna þær leifar, sem bæði eg og aðrir hafa séð, og eins má sýna viðargœðin.

Kýrgil

Tóft ofan við Kýrgil.

Eg hefi verið nokkuð langorðr um þetta efni, því að mér þótti þess þurfa sögunnar vegna, og mætti þó fleira tilfœra; enn eg skal vera því stuttorðari um, hvar Egill hafi fólgið fé sitt, og lofa einum sem öðrum að hafa sínar ímyndanir, getgátur og munnmælasögur. Þær geta verið mikið góðar, þar sem þær eiga heima, enn eg er þeirrar meiningar, að ekki verði á þeim bygt, þegar um rannsókn er að rœða. Höfundar Egils s. vita sjálfir einu sinni ekki, hvar Egill muni hafa fólgið féð, og vóru þeir þó nær því enn vér; enn þess er ekki von, því að Egill sagði það engum manni.
Sá, sem ritað hefir það handrit, sem liggr til grundvallar fyrir Kh.útg.=Rv.útg., getr til á þremr stöðum bls. 228. Eg skal geta þess hér, að hvorki Hrappseyjarútg. né handr. geta neitt um það, þegar Egill ætlaði að sá silfrinu að lögbergi; þau sleppa alveg þeim kafla ; eg verð að taka hér þenna stað einungis til þess að sýna, hvað öllu er hér rétt lýst, og sem sýnir hvað ritari sðgunnar hefir verið kunnugr, bls. 227—8: „Þat var eitt kveld, er menn bjuggust til rekkna at Mosfelli, at Egill kallaði til sín þræla tvá, er Grímr átti. Hann bað þá taka sér hest. „Vil ek fara til laugar, ok skulu þér fara með mér”, segir hann. Ok er Egill var búinn, gekk hann út ok hafði með sér silfrkistur sínar. Hann steig á hest.
Fóru þeir síðan ofan eptir túninu, ok fyrir brekku þá, er þar verðr,er menn sá síðast. En um morguninn, er menn risu upp, þá sjá þeir, at Egill hvarflaði á holtinu fyrir austan garð, ok leiddi eptir sér hestinn. Fara þeir þá til hans og fluttu hann heim. En hvártki komu aptr síðan þrælarnir né kisturnar, ok eru þar margar getur at, hvar Egill hafi fólgið fé sitt.”

Skv. framansögðu hafa margir ætlað, með allskyns margflóknum ályktunum að Egill hafi falið silfur sitt í nágrenninu og drepið þrælana tvo, en fáir virðast hins vegar gera ráð fyrir þeim möguleika, sem eðlilegri má telja; að þrælarnir (yngri og betur á sig komnir) hafi áttað sig á aðstæðum, stolið silfrinu, hrakið gamla manninn frá með svo niðurlægjandi hætti að hann hafi ekki viljað viðurkenna mistök sín, og þeir síðan látið sig hverfa með allt heila klabbið, bæði fjársjóðinn og farskjótana. A.m.k. virðist enginn hafa haft rænu á að leita, hvorki farskjótana þriggja og þrælanna í framhaldinu. Nýlega teknar grafir eða önnur ummerki í og með Mosfelli hefðu án efa vakið alveg sérstaka athygli á þeim tíma – ekki síst í ljósi þessa merka atburðar; (ályktun ritstjóra FERLIRs). Hvers vegna fór ekki fram rannsókn í framhaldinu, eða a.m.k. athugun, á atburðinum. Gallinn við frásagnar”sérfræðinga” seinni tíma er að þeir voru svo meðvirkir sagnaskýringunum fyrrum að þeir sáu ekki til sólar. Meðaumkunin var öll Egils. Hér virðist vera um eitt merkilegasta óleysta sakamál Íslandssögunnar að ræða.

Hrísbrú

Ólafur Magnússon, bóndi á Hrísbrú.

Merkisbóndinn Ólafur Magnússon og Finnbjörg, eiginkona hans, bjuggu á Hrísbrú. Ólafur barðist hatramlega gegn niðurrifi kirkjunnar að Mosfelli, eins og fyrr er getið, en varð að lúta í lægra haldi fyrir yfirvöldum árið 1888. Hann tók gömlu klukkuna úr kirkjunni til varðveislu og var hún geymd á Hrísbrú í meira en mannsaldur eða þangað til henni var komið fyrir í Mosfellskirkju sem vígð var árið 1965.
Eyjólfur Guðmundsson frá Hvoli lýsir Hrísbrúarhjónunum þannig í endurminningum sínum: „Hvergi í Mosfellsdal hafði ég meira gaman af að koma en að Hrísbrú. Hjónin þar hétu Ólafur og Finnbjörg, kona roskin. Fyrst í stað voru þau nokkuð gróf og forneskjuleg, en glöð og gestrisin, þegar marka mátti. Það var ánægjulegt að bíða þar, meðan Finnbjörg hitaði ketilinn, og hlusta á Ólaf gamla. Var þá jafnan tilfyndnast það sem húsmóðirin lagði til málanna. Ekki var orðræðan hefluð né blíð, heldur oft stóryrt og krydduð velvöldum fornyrðum, stundum klúr.”
Ólafur og Finnbjörg voru hluti af aðalsögupersónum í bók Halldórs Laxness, Innansveitarkróniku.
Myndin af Ólafi er líklega tekin í kaupstaðaferð í Reykjavík kringum aldamótin 1900. Ekki er vitað til að mynd hafi varðveist af Finnbjörgu.

Heimild:
-Mosfellingur, Kirkjan á Hrísbrú, 12. tbl. 08.09.2006, Kristinn Magnússon, bls. 10.
-Mosfellingur, 10. tbl. 19.08.2005, Fornleifauppgröfturinn að Hrísbrú, bls. 12-13.
-Ólafía; rit Fornleifafræðingafélags Íslands, 2. árg. 01.05.2007, Valdamiðstöð í Mosfellssdal – Rannsóknir á fornleifum frá tímum víkinga að Hrísbrú að Mosfelli, bls. 84-105.
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 01.01.1884, Rannsókn í Borgarfirði 1884, Sigurður Vigfússon, Mosfell, bls. 62-74.
-http://www.hermos.is/forsida/frettir/frett/2017/09/25/Olafur-Magnusson-1831-1915-fra-Hrisbru/

Hrísbrú

Hrísbrú – uppgröftur – skáli.

Leiruvogur

Í fornleifaskráningu um Skiphól og Varmárbakka 2020 vegna deiliskipulagsbreytinga má lesa eftirfarandi um Skiphól og Hestaþinghól, auk bæjarrins Varmár í Mosfellsbæ.

Varmá

Varmá

Varmá – túnakort 1916

Jörðin Varmá kemur fyrir í heimildum þegar á 14. öld og var þar þá kirkja en hún lagðist af skömmu fyrir 1600. Jörðin er síðan nefnd í Fógetareikningum frá 1547-1552 og þá sem konungseign.

Varmá

Varmá – bæjarhóll.

Varmá var þingstaður og er fyrst getið sem slíks árið 1505.
Jörðin var áfram í konungseign við jarðaskráningu árin 1704 og 1847 og ábúendur tveir.

Varmá var svo lögð undir Lágafell um 1900.
Af Fasteignabókum má sjá að jörðin var ekki lengur í ábúð árin 1922-1932 og hefur ekki verið það síðan. Rústir gamla bæjarins eru greinilegar um 40-50 metra suðaustan og austan við Varmárskóla.

Varmá – Kirkja

Varmá

Varmá – uppgröftur kirkjutóftar.

Árin 1968 og 1969 fór fram fornleifauppgröftur að Varmá. Elsta tóftin, sem kom fram við uppgröftinn, var af lítilli kirkja úr kaþólsku. Þar var líklega vallgróin tóft 1721 en skömmu síðar er reist smiðja á staðnum.
Á nítjándu öld virðist hún fallin og er litlum kofa þá fundinn staður í tóftinni. Af rituðum heimildum er vitað um kirkju að Varmá á 14. öld. Messuhaldi er hætt þar á árunum 1554-1584. Að öðru leyti vísast til greinar Sveinbjarnar Rafnssonar „Kirkja frá síðmiðöldum að Varmá“.

Varmá

Varmá – uppgröftur kirkjutóftar.

Skv. ábendingu Hauks Níelssonar, bónda að Helgafelli, á kirkjan að hafa staðið um 5-7 m V við bæinn. Borið saman við mynd þá, sem birt er í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1970, bls. 32, virðist staðsetning Hauks nokkurn veginn rétt. Við byggingu skólans, sem er þarna vestan við, hefur verið ýtt fram mikilli möl og mold, þannig að nú er allhár bakki vestan við rústirnar. Líklega er kirkjan öll eða að hluta komin undir þennan bakka (Ágúst Ó. Georgsson).

Leiðir
Varmá
Á Herforingjaráðskortinu er að finna leið sunnan megin við hafnarsvæðið sem hefur verið sunnan Leiruvogs en er nú sunnan Köldukvíslar. Þessi leið hefur legið út í Langatanga og fram hjá Skiphól og komið þar sem eru krossgötur á austurbakka Varmár. Þessi leið hefur líka verið farin út að Hestaþingshól. Loks hefur legið leið niður að Skiphól frá bænum Varmá og sést hún líka á kortinu.

Skiphóll

Leiruvogur

Siglingar um Norður-Atlantshafið fyrrum.

Kålund nefnir Skiphól þegar árið 1877: „Nord for Guvenæs skærer sig Lervågene (Leiruvogur) eller som i oldskrifterne udtrykke sig Lerevågen (Leiruvágr) sig ind i landet; nu bruges ordet sædvanlig i flt., på grund af den huk Skibshol, som adskiller dem.“ Við örnefnaskráningu í Varmárlandi sagði Ari Gíslason: „Merkin móti Lágfelli eru frá Lækjarfarveg við sjó […]. Ef við höldum með sjó inn, þá er þar tangi fram í sjóinn og voginn. Þar eru tveir hólar. Heitir sá neðri Skiphóll, en sá, sem er ofar, er með þúfu á, og heitir hann Hestaþingshóll. Bendir nafn hans á forn hestaöt þarna niður við sjóinn. Hóll þessi er á tanganum, og ef vel er að gáð virðist þarna vera um gamalt mannvirki að gera.“ Árni Jónsson gerði athugasemdir við skráningu Ara og taldi að Skiphóll væri ofar: „Farið er út með Varmá að Skiphól ekki inn með. Skiphóll er ofar, Hestaþingshóll neðar.“

Skiphóll

Skiphóll.

Eins þarna kemur fram voru áður tveir hólar á svæðinu og nokkuð á reiki hvor hóllinn var Skiphóll. Samkvæmt Hauki Níelssyni, bónda á Helgafelli og heimildamanni við fornleifaskráningu árið 1980, var hóllinn næst Varmá nefndur Hestaþingshóll þótt sjálfur teldi hann líklegra, að það væri Skiphóll því þar væri betra skipalægi. Annar heimildamaður árið 1980, Einar Björnsson á Litla-Landi, var sömu skoðunar og sagði hólinn á Varmárbakka heita Skiphól. Einar ólst upp í Norður-Gröf í Kjalarneshreppi og var fyrrverandi bóndi á Skeggjastöðum og seinna Laxnesi og því mjög kunnugur staðháttum á svæðinu. Að hans sögn var byggingarefni fyrir Álafossverksmiðjuna skipað upp við Skipshól. Þar var líka skipað út heyi sem fór til Reykjavíkur og var notað sem fóður fyrir hesta. Einar taldi þó örnefnið vera eldra.

Skiphóll

Skiphóll.

Í „Lýsingu Mosfells- og Gufunessókna“ 1855 er fjallað um lendingar við Leiruvog: „Lendingar eru hér víðast góðar, því vogar þeir, er áður eru nefndir, skerast langt inn, svo að brimsjóir af hafi ganga sjaldan inn í þá, og eyjar þar, er einnig eru nefndar, eru til hlífðar við sjógangi. Í Þerney og Kollafirði eru góðar lendingar, sömuleiðis í Viðey og Gufunesi. Í Leiruvogum eru sléttar leirur og útgrynni mikið, en ekki sker eða boðar.“ Á fyrri öldum er eins og þarna stundum talað um Leiruvoga í fleirtölu; sjórinn virðist áður hafi teygt sig lengra inn og þá hefur mótað betur fyrir tveimur vogum við mynni ánna, Köldukvíslar og Varmár sunnar en Leirvogsár norðar. Landsvæðið á milli ánna nefnist Leirvogstunga. Vogarnir hafa hins vegar grynnkað með árframburði í aldanna rás og fleirtölumyndin Leiruvogar þá horfið úr málinu. Þegar nýleg kort af svæðinu eru borin saman við Herforingjaráðskort Dana frá árinu 1909 sést greinilega að landið nær lengra út nú en áður.
Í Landnámu og Íslendinga sögum er margsinnis getið um skipakomur í Leiruvog fyrir sunnan land eða neðan Heiði og er þá átt við Mosfellsheiði. Þarna hefur verið siglingastaður og ein mikilvægasta höfnin á suðvesturhorni landsins. Skjól var fyrir brimi og vindi af landi og hafnarskilyrði góð fyrir grunnrist skip. Á flóði hefur Leiruvogur verið skipgengur allt upp fyrir Hestaþingshól og að Skiphóli. Ætla má að skipum hafi verið lent við Skiphól allt frá þjóðveldisöld og þannig hefur örnefnið orðið til. Jafnframt er líklegt að þar hafi verið haldnar kaupstefnur þar sem skipt var á varningi sem skip komu með að utan og vörum heimamanna úr nærliggjandi sveitum.

Skiphóll

Skiphóll.

Skiphóll er lágur grasi vaxinn hóll á suðurbakka Köldukvíslar, skammt vestan við Varmá sem sameinast Köldukvísl rétt áður en hún rennur fram hjá hólnum. Hann er um 10 m sunnan árbakkans og um 20 m norðan við austasta hesthúsið. Hóllinn er sa. 26 x 21 m að stærð og 2,5 m á hæð. Birkitré hafa nú verið sett niður í hálfhring um hólinn eins og skjólveggur vestan, sunnan og austan við hann. Austan og vestan hans eru mýrarsund og sunnan megin eru hesthús.
Engin ummerki eru lengur um höfnina við Skiphól og engar rústir sjáanlegar, hvorki á hólnum eða við hann. Þegar rætt var við Hauk á Helgafelli kvaðst hann þó hafa séð hleðslur úr torfi á honum og sýndist honum það vera tóft eða tóftir. Á þeim tíma sást að grafið hafði verið í systa hluta hólsins og mátti þá sjá að hann var úr mold. Haukur minntist einnig á hróf og varir við hólinn. Þessar minjar eru horfnar en við fornleifakönnun og jarðsjármælingar árin 2012-2014 fundust minjar. Í könnunarskurði í hólnum sjálfum komu í ljós torfhleðslur og skurðir og virtist jafnvel mega greina skurð með skipslögun innan í hólnum auk þess fannst bátasaumur. Þessar minjar eru líklega frá því skömmu eftir 871 en ekki yngri en 1226. Tveir litlir skurðir voru teknir nokkru vestan við Skiphóll en engar mannvistarleifar fundust þar. En vel má vera að mannvistarleifar leynist vestan við hann og þarf að fara gætilega á því svæði en aðeins lítill hluti af svæðinu var kannaður.

Skiphóll

Fræðsluskilti við Skiphól; -Skiphóll er gamalt skipalægi við ísa Varmár en á flóði var hægt að sigla skipum alla leið að hólnum. Lengi mátti sjá tvö skipshróf (eins konar naust) hér við Skiphól en þau eru nú horfin. Í fornum sögum er getið um skipaferðir hér í Leiruvogi og stundum talað um að skip hafi komið út í Leiruvog fyrir neðan heiði, þ.e. Hellisheiði. Í Hallferðar sögu er sagt frá viðskiptum Hallfreðar vandræðaskálds og Mosfellinga eftir að hann hafði lent skipi sínu á þessum slóðum.- “Og að sumri fór Hallfreður út til Íslands og kom skipi sínu í Leiruvog fyrir sunnan land. Þá bjó Önundur að Mosfelli. Hallfreður átti að gjalda hálfa mörk silfurs húskarli Önundar og svaraði heldur harðlega. Kom húskarlinn heim og sagði sín vandræði. Hrafn kvað slíks von að hann mundi lægra hlut bera í þeirra skiptum. Og um morguninn eftir reið Hrafn til skips og ætlaði að höggva strengina og stöðva brottferð þeirra Hallfreðar. Síðan áttu menn hlut í að sætta þá og var gjaldið hálfu meira en húskarl átti og skildu að því.” (Úr Hallfreðar sögu)

Í örnefnalýsingu Ara Gíslasonar af Varmá segir m.a.: “Ef við höldum með sjó inn, þá er þar tangi fram í sjóinn og voginn. Þar eru tveir hólar. Heitir sá neðri Skiphóll, en sá sem er ofar, er með þúfu á, og heitir hann Hestaþingshóll. Bendir nafn hans á forn hestaöt þarna niður við sjóinn. Hóll þessi er á tanganum, og ef vel er að gáð, virðist vera þarna um gamalt mannvirki að gera.”
Í athugasemdum við örnefalýsinguna segir: “Skiphóll er seinasta leiti á mörkum milli Helgafells og Varmár. Skip gátu komizt þar upp um flóð og tóku hey úr Skaftatungu.”
Lágur grasivaxinn hóll á suðurbakka Leirvogsár, skammt þar frá, sem Varmá og Leirvogsá mætast. Hóllinn er um 10 m sunnan árbakkans og um 10-15 m norðan við austasta hesthúsið. Hóll þessi er ýmist kallaður Skipshóll eða Hestaþingshóll.
Engar rústir sjánlegar á eða við hólinn.
Mýrarsund eru austan og vestan við. Haukur Níelsson, bóndi á Helgafelli segir, að hóll þessi heiti Hestaþingshóll. Telur hann þó líklegra, að réttnefni sé Skipshóll. Þar sé betra skipalægi en neðar við ána (þar sem hann segir að Skipshóll sé).
Sem sagt: Munnmæli þau sem Haukur hefur heyrt segja, að Hestaþingshóll sé ofar við ána, en Skipshóll neðar. Haukur, sem pælir í Íslendingasögum, vill hins vegar ætla Skipshól stað ofar við ána.
Syðsti hluti hólsins er nú skemmdur. Hefur verið grafið þar í hann. Sýnir sárið að hóllinn er úr mold.
Á Hestaþingshól kveðst Haukur hafa séð einhverjar hleðslur, úr torfi einungis. Var því líkast sem um einhverjar tóftir eða tóft væri að ræða.
Einar Björnsson, Litla-Landi, uppalinn í Norður-Gröf, Kjalarneshr. og f.v. bóndi á Skeggjastöðum og seinna í Laxnesi, segir hól þennan heita Skiphól. Byggingarefni í Álafossverksmiðjuna hafi verið skipað upp við Skipshól. Þó telur Einar örnefni þetta vera eldra, en frá þessum tíma. Þarna var líka skipað út heyi, sem fór til Rvk og var notað sem fóður fyrir hesta.
17/9 1980 (Ágúst Ólafur Georgsson)

Hestþinghóll

Hestþinghóll

Hestþinghóll.

Auk Skiphóls var svonefndur Hest[a]þingshóll á þessu svæði. Honum er lýst í landamerkjalýsingu frá árinu 1889:
”1. Á suðursíðuna milli Varmár og Reykjahverfis: Úr Markarlæksfossi við ána Varmá ræður lækurinn upp að næsta krók á honum, og þaðan eptir beinni stefnu á Stórahnjúk allt að Lágafellslandi eptir svokallaðri Markakeldu.
2. Á vestursíðunni frá Markakeldu um Svartaklett og syðri Urðarþúfu, þaðan í stærstu steinana á svokölluðu Markholti og þaðan í beina línu í lækjarfarveg niður við sjó, þaðan ræður sjórinn merkjum að Hestaþingshól.
3. Á norður og suðursíðuna, frá nefndum Hestaþingshól, ræður áin Varmá merkjum milli Leirvogstungu og Helgafells alla leið upp að fyrstnefndum Markalæksfossi.“
Miðað við þessa lýsingu liggja merkin frá Hestaþingshól eftir Varmá og hljómar það eins og þarna sé átt við hólinn við bakka Varmár sem oftast hefur verið nefndur Skiphóll. En eins og komið hefur fram eru heimildir ekki samsagna um það hvor hóllinn hafi verið ofar með Köldukvísl og hvor þeirra utar. Ljóst er að þeir voru tveir en sá ytri er horfinn. Hann hefur verið úti á tanga sem nú er búið að ýta til og raska.
Nafnið Hestaþingshóll bendir til að þar hafi verið haldin hestaþing eða hestaöt og má ætla að efnt hafi verið til þeirra í tengslum við kaupstefnur við Skiphól. Á hestaþingum skemmtu menn sér við að etja saman stóðhestum og fara sögur af slíku allt frá landnámi. Siðurinn hefur flust hingað frá Noregi og hélst fram eftir öldum. Hestaöt virðast að lokum hafa lagst af á 16. og 17. öld í kjölfar þess að kirkjunnar menn fóru að amast við þeim eftir siðskiptin.
Leirurnar við Leiruvog hafa verið vinsælar meðal ríðandi fólks. Þar hefur verið hægt að spretta úr spori og enn í dag er þarna útivistarsvæði hestamanna og hesthúsahverfi reis sunnan Skiphóls á síðari hluta 20. aldar.

Heimild:
-Skiphóll og Varmárbakkar; Fornleifaskráning vegna deiliskipulags breytingar, Ragnheiður Traustadóttir og Rúna K. Tetzschner – ANTIKVA EHF 2020.
-Agnes Stefánsdóttir, Rúna K. Tetzschner o.fl., Skráning fornleifa í Mosfellsbæ, 2006.
-Ari Gíslason. Varmá. Örnefnastofnun Íslands. ópr.
-Ágúst Ólafur Georgsson. Fornleifaskráning í Mosfellssveit 1980. Skráningarbók 1604-100.
-Árni Jónsson frá Varmá. Athugasemdir við handrit Ara Gíslasonar. Örnefnastofnun Íslands. ópr.
-Stefán Þorvaldsson. „Lýsing Mosfells- og Gufunessókna“. Sýslulýsingar og sóknalýsingar. Landnám Ingólfs. Safn til sögu þess III. Félagið Ingólfur gaf út. Reykjavík 1937-1939.

Leiruvogur

Leiruvogur – loftmynd.

Stardalur

Margrét Björk Magnúsdóttir skrifaði skýrslu um “Rannsóknir á seljum í Reykjavík” fyrir Minjasafn reykjavíkur árið 2011. Þar fjallaði hún m.a. um selin ellefu í Stardal og nágrenni:

Stardalur – Selstöður sunnan undir Svínaskarði (Stardal)

Stardalur

Sel í Stardal og nágrenni.

Sunnan undir Svínaskarði á jörðunum Stardal, Sámsstöðum og Hrafnhólum var höfð selstaða frá ellefu bæjum samkvæmt Jarðabók Árna og Páls sem sjá má í töflu 1. Selstöður gætu hafa verið fleiri því á svæðinu er að finna mikið og gott beitiland. Bærinn Stardalur stendur við mynni samnefnds dals, norðanvert við Leirvogsá, suðaustan undir Skálafelli. Sámstaðir eru um 1,5 km neðar með Leirvogsá neðan við klettabeltinu Stiftamt. Hrafnhólar eru svo um 2,5 km neðar einnig norðan við Leirvogsá sunnan undir Haukafjöllum á móts við Skeggjastaði uppá hól, en bærinn stóð áður aðeins ofar með ánni undir brekkunum.

Stardalur

Sel í Stardal og nágrenni.

Heimildir eru um 11 selstöður bæja undir Svínaskarði en flestir voru í Mosfellssveit eða 7 talsins og 4 í Kjalarneshrepp. Árið 2010 tilheyra 7 af þessum bæjum Reykjavík, en 4 í Mosfellsbæ eins og sjá má í töflu 5. Af þeim 11 selstöðum sem heimildir eru fyrir eru nú aðeins þrjár sjáanlegar og fylgja þeim enn örnefni bæjanna sem nýttu þau, en þetta eru Þerneyjarsel, Varmársel og Esjubergssel.

Stardalur

Stardalur.

Stardalur var framan af í eigu Brautarholtskirkju og Þerneyjarkirkju. Fram kemur í máldaga Brautarholtskirkju frá 1497-1518 að hún eigi hálfan Stardal. Í máldaga Þerneyjarkirkju til ársins 1269 segir að kirkjan eigi helming í selför í Stardal og afrétt. Samkvæmt Jarðabókinni var Stardalur ekki byggður fyrr en um 1674 en þar segir; „Nýlega uppbyggð fyrir þrjátíi árum, og kemur hjer sá enginn fram. Sem þykist vita að þar hafi fyrri nokkurn tíma bygt ból verið.“… „Hitter almennilega kunnugt úngum og gömlum, að þar sem nú er þessi nýi bær, Stardalur, hafa um lánga æfi selstöður verið frá mörgum bæjum í Mosfellssveit, sem Jarðabókin í þeirri sveit vottar, og so frá Þerney, sem hjer er áður getið.“ Árið 1704 er Stardalur í konungs og tveir ábúendur eru á jörðinni.“

Sámsstaðir
Hrafnhólar voru líka eyðijörð þegar Jarðabók Árna og Páls er gerð og þar er jörðin nefnd „…Hafnhoolar, sumir kalla Hafnabjörg, og segja það nafn eldra.” Þá er jörðin sögð forn eyðijörð og veit engin hversu lengi þar til sextán árum áður að byggður var nýr bær fram á fardaga 1703 að jörðin lagðist aftur í eyði. Jörðin var í konungseign þegar Jarðabókin var gerð sumarið 1704 og dýrleiki hennar óviss.

Tóftir Sámsstaða.

Sámsstaðir eru forn eyðijörð á milli Hrafnhóla og Stardals sem heyrir nú undir Stardal. Við gerð Jarðarbókarinnar 1704 voru Sámsstaðir eign konungs og brúka ábúendur konungsjarða alla grasnaut og talað er um eina selstöðu á jörðinni Esjubergssel.

Blikastaðir standa á láglendu mýrlendi skammt norðan Lágafellshamra, austan við Korpúlfsstaðaá, sunnan við Leiruvoga á móti Víðinesi. Í Jarðabók Árna og Páls segir; „Selstaða hefur til forna brúkuð verið í Stardal.“ Þá er jörðin í eigu konungs.

Esjuberg stendur á skriðuvæng uppi undir rótum Esju og uppaf bænum er Gljúfurdalur. Í Jarðabók Árna og Páls segir; „Selstöðu á jörðin undir Svínaskarði að sunnan, og er þar berjalestur nokkur.“ Þá er jörðin í eigu konungs. Í Jarðabókinni kemur einnig fram þar sem fjallað er um Sámstaði að Esjubergssel var talið í landi þeirra ….„sem þessari jörðu halda menn tilheyrt hafa,…“. En Sámsstaðir var talin forn eyðijörð sem engin vissi hver hafði verið eigandi að og konungur hafði eignað sér og nýtt „…um langa æfi…“.

Þerneyjarsel - uppdráttur

Þerneyjarsel – uppdráttur.

Gufunes stendur skammt vestan við bæinn Eiði á litlu flatlendu nesi á milli Geldinganess og Gufuneshöfða. Gufuness er getið í Landnámu og virðist snemma hafa orðið sjálfstæð jörð. Þar var komin kirkja um 1150 og var þar til 1886 þegar hún var lögð niður. Gufunes varð eign Viðeyjarklausturs eftir 1313 og varð konungseign við siðaskipti. Gufunes var keypt af bæjarsjóð Reykjavíkur árið 1924 ásamt Eiði, Knútskoti og Geldinganesi. Í Jarðabók Árna og Páls segir; „Selstaða hefur til forna brúkuð verið í Stardal, þar sem nú stendur býli það, er Stardalur kallast, eftir sögn þeirra manna, er að undirrjettingu foreldra sinna vita til yfir hundrað ár.“ Þá er jörðin í eigu konungs.

Helgafell stendur undir útsuðurhorni Helgafells. Í Jarðabók Árna og Páls segir; „Landþröng er mikil, og hafði jörðin áður í lánga tíma selstöðu í Stardal frí, en nú verða ábúendur hana út að kaupa.“ Þá er jörðin í eigu konungs.

Varmársel

Varmársel – uppdráttur.

Korpúlfsstaðir standa á sléttum melum skammt í suðvestur frá Blikastöðum, vestan við Korpúlfsstaðaá. Korpúlfstaða er fyrst getið í Kjalnesingasögu. Þeir voru sjálfstæð jörð árið 1234, þá orðnir eign Viðeyjarklausturs, og urðu konungseign um siðaskipti. Reykjavíkurbær keypti jörðina árið 1942. Í Jarðabók segir; „Selstöðu hefur jörðin til forna brúkað í Stardal.“ Þá er jörðin í eigu konungs.

Lambhagi er jörð suðvestan undir rótum Hamrahlíðar, austan við Korpúlfsá þar sem hún fellur í bug og fer að stefna norður. Lambhagi hefur orðið eign Viðeyjarklausturs á tímabilinu 1378-1395 og konungseign við siðaskipti. Reykjavíkurbær keypti jörðina árið 1942. Í Jarðabók Árna og Páls segir; „Selstöðu hafði jörðin að fornu í Stardal.“ Þá er jörðin í eigu konungs.

Lágafell stendur vestan undir Lágafelli. Í Jarðabók segir; „Selstöðu hefur jörðin áður brúkað í Stardal.“ Þá er jörðin í eigu konungs.

Esjubergssel

Esjubergssel – uppdráttur.

Móar standa á flatlendi neðan þjóðvegar, sunnan frá Esjubergi nær sjó. Í Jarðabók Árna og Páls segir; „Selstaða hefur hjeðan brúkast hjá Esjubergsseli og vita menn ei hvort að láni Esjubergsmanna eður eign þessarar jarðar.“ Þá er jörðin í eigu konungs.

Varmá stóð skammt í vestur frá Helgafelli, vestan Varmár, skammt í landsuður upp frá Leiruvogum, austan við núverandi Gagnfræðaskóla Mosfellsbæjar. Í Jarðabókinni er ekki getið um sel eða selstöðu en erþess getið í Örnefnalýsingu fyrir Stardal; „Austan við Tröllalága er Varmársel og sést vel fyrir því.“ Þá er jörðin í eigu konungs.

Skrauthólar standa hátt nálægt Esju, austan Vallár. Í Jarðabók Árna og Páls segir; „Selstaða er, hefur hjeðan lengi brúkuð verið frí þar sem heitir undir Haukafjöllum, nálægt Hrafnhólum.“ Þá er jörðin í eigu konunds.

Þerney er í vestur frá Álfsnesi ekki stór en grasivaxin. Í Jarðabók Árna og Páls segir; „Selstöðu hefur jörðin til forna um lánga æfi brúkað í Stardal, og fæst hún nú ekki síðan þar var bygð sett.“ Þá er jörðin í eigu konungs. Máldagi kirkjunnar í Þerney með sundum í Kjalarnesþingi, sem Magnús biskup Gissurarson setti um 1220 segir svo; „Kirkia a at helmingi selfor j Stardal ok sva afreit. Ok sva þess hlutar fiorv j krossa vik er þerney fylger, halft þriðia kvgilldi bvfiar.“ Í máldaga Þerneyjarkirkju sem Árni biskup Þorláksson setti haustið 1269 segir; „Kirkia a helming j selfor j Starrdal: og svo afret.“

Stardalur

Sel við Stardal og nágrenni.

Af þessum máldögum og síðar má sjá að ekki hefur verið búið í Stardal fyrrum.

Á þessu landsvæði sunnan undir Svínaskarði eru nú þrjár sýnilegar selstöður. Tvær þeirra Varmársel og Þerneyjarsel eru norðan við Leirvogsá austan við Tröllalágar. Esjubergssel er töluvert ofar og nær Svínaskarði á rana út frá Skopru sem gengur útí Esjubergsflóa. Tóftirnar eru allar grasi og mosavaxnar.
Af þessari samantekt má sjá að töluverður efniviður er til staðar til frekari rannsókna á seljum og selstöðum. Tóftir seljanna eru mikilvægar menningarminjar og vitnisburður um þátt í atvinnusögu okkar allt frá landnámi framá 20. öld. Það er því mikilvægt að gerðar verði nákvæmar athuganir á þeim, en frekari rannsóknir geta gefið svör við ýmsum spurningum.
Náttúrufegurð er mikil á öllum selstöðusvæðunum innan borgarmarkanna og eru þau kjörin til útivistar. Þar sem tóftir selja eru enn vel greinanlegar auka þær á upplifun landsins þar sem þær kúra að því er virðist samvaxnar landinu.

Sjá meira um Rannsókn á seljum í Reykjavík HÉR og HÉR.

Sjá skýrsluna HÉR.

Heimild:
-Margrét Björk Magnúsdóttir, Rannsókn á seljum í Reykjavík – Reykjavík 2011, Minjasafn Reykjavíkur – Skýrsla nr. 159, bls. 15-19.

Esjubergssel

Esjubergssel – uppdráttur ÓSÁ.

Skálafell

Skála Ingólfs Arnarssonar í Skálafelli er bæði getið í Íslendingabók Ara fróða og í Landnámu.

Íslendingabók

Skálafell

Tóftin í Skálafelli.

„Ari hinn fróði Þorgilsson Gellissonar ritaði fyrstur manna hér á landi að norrænu máli fræði bæði forna og nýja,“ segir Snorri Sturluson í Heimskringlu. „Þykir mér hans frásögn öll merkilegust.“ Í formála kveðst Ari fyrst hafa gert Íslendingabók að frumkvæði biskupanna Þorláks Runólfssonar og Ketils Þorsteinssonar og einnig sýnt hana Sæmundi presti hinum fróða. Hafi hann síðan endurskrifað bókina, en sleppt úr henni „áttartölu og konungaævi“, þ.e. íslenskum ættartölum og ævisögum Noregskonunga.

Skálafell

Tóftin í Skálafelli.

Fyrri gerð bókarinnar er glötuð, en Snorri hefur hagnýtt „konungaævina“ í Heimskringlu. En yngri gerðin hefur varðveist vel. Hún er samin um 1130 og geymir sögu Íslands frá landnámi fram til dauða Gissurar biskups Ísleifssonar 1118. Þetta er stutt en frábærlega traust heimilda­r­rit. Ari styðst við frásagnir manna sem hann vissi að voru spakir og „langt mundu fram“. Hann kann að telja alla lögsögumenn frá Hrafni Hængssyni sem tók lögsögu 1030 og skorðar tímatal atburða við embættisár þeirra. En mesta áherslu leggur hann á kristnitökuna árið 1000 og sögu fyrstu biskupanna í Skálholti, Ísleifs Gissurarsonar og Gissurar sonar hans.

Skálafell

Tóftin í Skálafelli.

Í Íslendingabók segir um skála Ingólfs í Skálafelli: “Ingólfr [við Hjöleifshöfða] vetr annann en um sumarit eptir fór hann vestr með sjó hann var hinn þriðja vetr undir Ingólfsfelli fur vestan Ölfusá þau misseri fundu þeir Vífill ok Karli öndvegissúlur hans við Arnarhvol fur neðan heiði 8 Ingólfr fór um vorit ofan um heiði hann tók sér bústað þar sem öndvegissúlur hans höfðu á land komit hann bjó í Reykjarvík þar eru enn öndvegissúlur þær í eldhúsi En Ingólfr nam land millum Ölvusár ok Hvalfjarðar fur utan Brynjudalsá milli ok Öxarár ok öll nes út þá mælti Karli til ills fórum vèr um góð heröð er vèr skulum byggja útnes þetta hann hvarf á brott ok ambátt með honum Vífli gaf Ingólfr frelsi ók bygði hann á Vífilsstöðum við hann er kendt Vífilsfelt þar bjó hann lengi ok var skilríkr maðr Ingólfr lèt gera skála á Skálafelli þaðan sá hann reyki við Ölvusvatn ok fann þar Karla.”

Landnámabók

Skálafell

Tóftin í Skálafelli.

Landnáma telur helstu landnámsmenn Íslands, segir hvar þeir námu land og greinir nokkuð frá uppruna þeirra og afkomendum. Bókin var sett saman á fyrra hluta 12. aldar, og mun Ari fróði hafa verið riðinn við hina fyrstu gerð, en hún er nú löngu glötuð. Elstu varðveittar gerðir Landnámu eru frá síðara hluta 13. aldar og frá 14. öld, en þær eru mjög auknar með nýjum ættartölum og frásögnum af ýmsu tagi. Elst er Sturlubók, sett saman af Sturlu Þórðarsyni lögmanni (d. 1284). Næst er Hauksbók, gerð af Hauki lögmanni Erlendssyni (d. 1334). Kveðst Haukur hafa ritað sína Landnámabók „eftir þeirri bók sem ritað hafði herra Sturla lögmaður […] og eftir þeirri bók annarri er ritað hafði Styrmir hinn fróði“. Styrmir lést 1245, en Landnámabók hans er glötuð. Þriðja forna gerðin, Melabók, er aðeins varð­veitt í brotum, og er það mikið mein því að hún hefur að mörgu leyti staðið næst frumtext­anum.

Skálafell

Tóftin í Skálafelli.

– Sumt af viðaukum Sturlubókar (og Hauksbókar) er sótt í kunnar heimildir, til að mynda Íslendingasögur (Egils sögu, Eyrbyggju, Vatnsdælu o.fl.). En hin upprunalega Land­náma hefur verið gagnorð og traust heimild í líkingu við Íslendingabók. Sagt hefur verið, að þótt frumtextinn sé víða óvís eða glataður með öllu, séu þær gerðir Landnáma­bókar sem enn eru til merkustu heimildir sem nokkur þjóð á um uppruna sinn.

Í Landnámsbók segir: “Ingólfur fór um vorið ofan um heiði; hann tók sér bústað þar sem öndvegissúlur hans höfðu á land komið; hann bjó í Reykjarvík; þar eru enn öndugissúlur þær í eldhúsi. En Ingólfur nam land milli Ölfusár og Hvalfjarðar fyrir utan Brynjudalsá, milli og Öxarár, og öll nes út.
Þá mælti Karli: „Til ills fóru vér um góð héruð, er vér skulum byggja útnes þetta.“
Hann hvarf á brutt og ambátt með honum.
Vífli gaf Ingólfur frelsi, og byggði hann að Vífilstóftum; við hann er kennt Vífilsfell; þar bjó (hann) lengi, varð skilríkur maður.
Ingólfur lét gera skála á Skálafelli; þaðan sá hann reyki við Ölfusvatn og fann þar Karla.”

FERLIR skoðaði meintan skála Ingólfs í Skálafelli, sbr. meðfylgjandi myndir. Auk tóftarinnar má greina fleirri tóftir skammt frá henni.

Heimildir:
-Landnáma – 8. kafli.
-Íslendingabók, bls. 33.

Skálafell

Tóftin í Skálafelli.