Tag Archive for: Ölfus

Keflavík

Ætlunin var að ganga til suðurs um Fjárskjólshraun undir Geitarhlíð við Krýsuvík með viðkomu í Fjárskjólshraunshelli og Fjárskjólshraunsfjárskjólinu, sem hraunið mun draga nafn sitt af, en halda síðan niður í hina skjólgóðu Keflavík og berja gatklettinn augum. Á loftmynd mátti sjá djúpan gíg norðaustan við Keflavíkina. Austan hennar virðist vera hrauntjörn. Svo var að sjá að hún væri í stefnu neðanvert við enda Bálkahellis, sem gat gefið enn eina von um óvænta aðkomu.

Krýsuvíkurhraun

Krýsuvíkurhraun.

Til baka var ætlunin að ganga um Klofninga með viðkomu í Bjálkahelli og hinum þjóðsagnakennda Arngrímshelli (Gvendarhelli).
Hraunssvæðið/-in, sem hér um ræðir, hafa freistað fárra, enda á fárra vitorði öll merkilegheitin er berja má augum. Ekki eiungis er svæðið sérstak (séríslenskt) heldur felur það í sér minjar og sögur liðinna alda – ef grannt er skoðað. Eru hvorutveggja ágæt dæmi um hvernig landsmenn nýttu sér efni og aðstæður til að þrauka til núlifandi kynslóða. Hversu lítillátt fólk kann að vera nú til dags verður þetta afrek forfeðra og -mæðra okkar að teljast einhverrar viðurkenningar verðar. Þessi ferð var m.a. liður í slíkri viðurkenningu – síðasti hefðbundi göngudagurinn fyrir jólahátíðina 2007. Hafa ber þó í huga að „jólin“ sem slík hafa gjarnan verið ígildi hátíðar eða veislu af fleiru en einu tilefni.
Ferðin var líka kjörið tækifæri til að léttast svolítið fyrir væntanlegt þungmeti jólahátíðarinnar og líta fyrstu geisla hækkandi sólar augum.
Þegar gengið er um hraunssvæðið kemur fljótt í ljós að afurðirnar, sem myndað hefur það, eru nokkrar. Miðjan er bæði tiltölulega slétt og gróin. Þar er eldra hraunið, sem myndar undirstöður annarra hrauna, en flest eiga þau uppruna sinn í Stór og Litlu-Eldborg, auk gíga ofan Sláttudals í Geitahlíð.

Fjárskjólshraun

Fjárskjólið í Fjárskjólshrauni.

Þegar komið var niður niður í Fjárskjólshraun var gengið að opi Fjárskjólshraunshellis, sem þar leynist í grónu jarðfalli. Erfitt er að koma auga á það í víðfeðmninu. Það sést ekki nema staðið sé á brún þess. Niðri er komið í skúta undir berghellunni, en með því að fara til vinstri var komið niður í rúmgóða mannhæðaháa hraunrás. Rásin var alveg heil. Hún er lág í fyrstu, en breið, og um 100 metra löng og endar í fallegum hraungúlp, sem hefur runnið þarna niður í rásina og storknað. Svo virðist sem gúlpurinn hafi bæði þrengt sér upp úr gólfinu og komið út úr veggnum að ofan. Sérkennilegt jarðfræðifyrirbrigði. Gólfið er alveg slétt. Rásin lækkar á tveimur stöðum, en hægt er að ganga hálfboginn þar um. Breidd rásarinnar er um 6 metrar og jafnvel meira á köflum. Neðst er op til hægri. Þegar komið er inn fyrir hana tekur við lágur salur. Rás liggur inn úr honum, tvískipt. Þessi rás er um 40 metra löng. Í heild er hellirinn því um 140 metra langur. Litlir dropsteinar sáust, en að öðru leyti virðist vera lítið um skraut í hellinnum. Flögur eru utan á veggnumá einum stað, líkt og í Leiðarenda. Neðst, þar sem hliðarrásin er, er mikill hraungúlpur, líkur þeim, sem er efst í hellinum. Þetta er fallegur hellir og vel þess virði að skoða hann. Hellir, sem ekki er hægt að skemma og því tilvalinn fyrir áhugafólk.

Gatkletturinn

Leitað var að opum bæði ofan og neðan við jarðfallið. Neðan við það er annað jarðfall, sennilega hluti af sömu rás. Farið var þar inn og reyndist vera um gamalt greni að ræða. Þarna eru nokkur gömul greni á tiltölulega afmörkuðu svæði.
Gengið var áfram niður Fjárskjólshraunið. Sunnan undir lágum hraunhól eru mjög fornar grónar hleðslur fyrir fjárskjóli í hrauninu. Þetta eru í raun miklar hleðslur fyrir rúmgóðum skúta, en vel sést móta fyrir hlöðnum innganginum, sem er alllangur. Hellirinn sjálfur hefur hýst hátt í hundrað kindur. Fyrirhleðslur eru inni í hellinum á þremur stöðum. Mold er í gólfi. Við fyrirhleðsluna, vinstra megin við innganginn er inn er komið hefur verið hleðsla er líkist bæli eða klefa. Þar gæti hugsanlega hafa verið skjól fyrir þann eða þá er sátu yfir ánum í hrauninu. Ekki er ósennilegt að fjárskjólið sé það er hraunið hefur dregið nafn sitt af – Fjárskjólshraun. Ofan við fjárskjólið var vörðubrot.
Þegar fjárskjólið var skoðað betur mátti sjá mjóa fæðurásina innst í því miðju. Hlaðið hafði verið litlum steinum til að varna því að fé færi þar inn. Þar sem gólfið var bæði blaut og þakið mold var ekki ráðlegt að skríða þar inn til að athuga með framhaldið. Þessi hellir hefur orðið til líkt og Strandarhellir og Bjargarhellir í Strandarhæð. Glóandi hraunkvika í lokaðri rás hefur mætt fyrirstöðu um stund, en vegna þrýstings hefur hún hlaðist upp og þakið storknað áður en hún fann sér leið áfram og tæmdi rýmið.

Keflavík

Bergið við Keflavík.

Samkvæmt loftmynd átti að vera gígur nokkru suðvestar. Þrátt fyrir nokkra leit fannst opið ekki, en þess verður leitað aftur síðar.
Á leiðinni niður í Keflavík mátti sjá Skyggnisþúfu nokkru austar. Hún er þar sem hraunið ofan við Krýsuvíkurberg ber hæst mót Herdísarvík. Á þúfunni er varða, Skilaboðavarða. Í hana voru sett boð, sem menn vildu að bærust á milli bæjanna.

Bálkahellir

Í Bálkahelli.

Af bjargbrúninni austan við Keflavík blasti við mikill gatklettur, sem skagar út frá því. Brimið lék sér við hann, auk þess sem sólargeislar þessa stysta dags ársins spegluðu sig í haffletinum.
Hraunkaflinn ofan við Keflavíkina er allúfinn. Engu líkara er að þarna hafi verið grunnir pollar ofan á eldra bergi, en þegar hraunið rann þar yfir ýfðist kvikan og safnaðist í hrauka. Fjárgata liggur í gegnum hraunið ofan við bergið. Skammt áður en komið er í Keflavík mátti sjá gróna götu liggja annars vegar upp hraunið og hins vegar áfram að ofanverðri víkinni, sem einnig var nefnd Kirkjufjara.
Keflum hafði verið safnað í hrauk uppi á bjargbrúninni.

Í Bálkahelli

Í Bálkahelli.

Í Kirkjufjöru í Keflavík má sjá hluta af gamla Krýsuvíkurbjargi og fagurt útsýni er úr víkinni austur eftir berginu. Víkin dregur nafn sitt af keflunum, sem nóg virðist vera af, auk plastbelgja. Gatkletturinn sést vel frá víkinni þar sem hann stendur út af berginu að austanverðu. Svonefndir Geldingasteinar eru efst á bjargbrúninni, gulir af fuglaglæðu og öðrum grófari féttum. Vestan þeirra lækkar nýrra hraunið og stallast. (Sjá meira undir Keflavík).
Þá var haldið til baka upp og yfir grófa hraunkaflann. Ofan hans tekur gróna hraunsvæðið við, auðvelt yfirferðar. Stefnan var tekin á Bálkahelli.
Engar sagnir eru til af Bálkahelli aðrar en þær að hann er nefndur nafni sínu í sögunni um Grákollu. Hellirinn fannst þegar einn FERLIRsfélaginn segja má datt niður um eitt snjóþakið opið. Niðri reyndist vera um 250 metra langur hellir, vel manngengur, tvískiptur og dulúðlegur. Dropasteinar á gólfum og hraunstrá í loftum. Hraunbálkar eru með veggjum innan við efsta og stærsta opið. Hellirinn er um 450 metra langur.
Neðsti hluti Bálkahellis er hvað heillegastur. Í henni lækkað rásin nokkuð en hækkar að nýju uns gólf og loft koma alveg saman. Þarna undir vegg eru tvö stór hraundríli. Farið var til baka og niður aðalgönginn. Þau beygja fyrst til hægri og síðan aftur til vinstri. Þessi göng eru um 200 metra löng og ekkert hrun nema svolítið fyrst.

Arngrímshellir

Í Arngríms- / Gvendarhelli.

Hellirinn er mjög breiður og þarna á gólfum eru fjölmargir dropasteinar og hraunstrá hanga í loftum. Fara þarf varlega um göngin. Hraunnálar eru í lofti. Þessi hluti hellisins hefur varðveist mjög vel og full ástæða til að fara þarna mjög varlega. Um er að ræða einn fallegasta helli á Reykjanesi. Neðst beygir hann enn til hægri og þrengist síðan. Í þrengslunum tekur við samfelld dropasteinabreiða.
Skoðað var að nýju upp rásina í neðsta jarðfallinu. Hún er víð og há uns hún lækkar og þrengist. Loks koma gólf og loft saman. Þessi hluti er um 40 metrar. Þá var haldið niður í miðrásina, á móti þeirri, sem skoðuð var áður. Hún lokast loks í þrengslum, en mikið er um fallega dropasteina og hraunnálar. Alls er þessi hluti hellisins um 100 metrar.

Hleðsla við op Gvendarhellis/Arngrímshellis

Op Gvendar- / Arngrímshellis.

Loks var gengið upp úr miðjarðfallinu og upp aðalhellinn. Hann er víður og hár. Skammt fyrir ofan opið skiptist hellirinn í tvennt og hægt að fara umhverfis tvær breiðar hraunsúlur, en meginrásin er til hægri. Ekki er hægt að villast í Bálkahelli.  Haldið var áfram upp rásina og yfir hrun, sem þar er ofarlega. Þá sést í efsta opið og bálkana beggja vegna, en af þeim mun hellirinn draga nafn sitt. Samtals er Bálkahellir um 450 metra langur, sem fyrr sagði, fyrst hár og víður, en nokkuð hrun, síðan hraunsúlur og syllur, dropsteinar og hraunstrá. Neðsti hluti hans þó sýnum fallegastur.

Bálkahellir

Í Bálkahelli.

Að lokum var Arngrímshellir (Gvendarhellir) skoðaður, en frásagnir eru til um hellinn er hann var notaður sem fjárhellir á 17., 18. og 19. öld. Gamlar sagnir eru til af því. Hleðslur eru fyrir opum og er tótt framan við stærsta opið, það nyrsta. Inni í hellinum eru allmiklar hleðslur. Hellirinn er bjartur og auðvelt að skoða sig um þar inni, jafnvel ljóslaus.
Sagan segir að Arngrímur frá Læk í Krýsuvík hafði fyrir aldamótin 1700 fé sitt í helli í Klofningum í Krýsuvíkurhrauni. Við hellisopið byggði hann lítið fallegt hús úr rekaviði. Var það talið sérstaklega til frásagnar að rúðugler var í gluggum hússins. Fénu beitti Arngrímur í Klofningana sem og í fjöruna, sem þó er all stórbrotin neðan þeirra. Í hrauninu skammt ofan brúnar gamla bergsins má einnig sjá mannvistarleifar í helli. Arngrímur hélt 99 ær og eina að auki frá systur sinni. Sú kind var grákollótt og nefnd Grákolla. Um jólaleytið gerði mikið óveður á þessum slóðum og hraktist féð fram af berginu. Arngrímur gafst upp á að reyna að bjarga fénu. Grákolla barðist þó gegn óveðrinu og reyndi Arngrímur þrívegis að kasta henni fram af bjarginu eftir hinu fénu. Jafnoft tókst henni að krafla sig upp aftur í snjónum og ákvað Arngrímur þá að láta þar við sitja. Komust þau bæði við illan leik í hellinn. Síðan er sagt að allt fé Krýsuvíkurbænda hafi verið af nefndri Grákollu komið.
Eftir aldamótin var Arngrímur við sölvatöku í berginu undan Klofningum er jarðskjálfti reið yfir Suðurland. Féll bjarg á hann og lét hann lífið. Annar maður, sem með honum var, slapp og varð til frásagnar. Sá stökk undan fellunni í sjóinn og gat bjargað sér.

Gvendarhellir

Tóft við Gvendar- / Arngrímshelli.

Enn er hægt að greina tóftina af húsi Arngríms við hellisopið, sem og hleðslur inni í honum. Engar sagnir eru hins vegar til af Bálkahelli, sem er þar austar í hrauninu, önnur en sú, sem um getur í þessari frásögn af Grákollu. Er hann sagður þar skammt frá og að nafn sitt dragi hellirinn af bálkum innan við opið.
Í Blöndu VI 187 segir um þennan sama helli að Guðmundur nokkur hafi gætt á vetrum fjár síns við helli einn í Klofningahrauni, Gvendarhelli, og hélt því mjög til beitar. Framan við hellinn byggði hann skemmu með opi á miðju og sést hún enn þá. Rétt inn af skemmunni afgirti hann skáp úr hellinum og geymdi þar lömbin, ef illt var veður og þörf var á að gefa þeim. Þar hafði hann og rúm sitt, er hann hlóð upp úr grjóti og þakti svo með gæruskinnum, er hann lá á. Út frá hellinum var veðursæld mikil og hagar fyrir sauðfé svo góðir að aldrei brugðust. Guðmundur var þarna um 1830.
Hellirinn hefur fengið að vera nokkurn veginn í friði. Í honum má enn sjá hleðslur fyrir munna, tóft við meginopið, flórað gólfið að hluta, hlaðna stíu og fyrirhleðslur. Stígur liggur frá hellinum vestur yfir hraunið, áleiðis til Krýsuvíkur.
Ekki er vitað nákvæmlega um aldur þessara hrauna. Samkv. upplýsingum Kristjáns Sæmundssonar, jarðfræðings, er hraunið úr úr Stóru-Eldborg frá fyrri hluta nútíma, þ.e. töluvert eldra en 5000-6000 ára. Hitt úr Litlu-Eldborg er yngra. Það gæti verið kringum 5000-6000 ára.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Arngrímshellir

Í Arngrímshelli.

 

Nessel

Við Hnúka í Selvogsheiði er margt að sjá, bæði mannvistarleifar og jarð- og náttúrufyrirbæri.

Hnúkar

Hnúkar.

Þrátt fyrir hellirigningu í bænum var bjart og blíðviðri þegar komið var á vettvang. Byrjað var á því að skoða skúta norðan við Hnúkana. Reyndist hann um 30 metra langur, en fremur lágur. Í göngunni fundust margar yfirborðsrásir, en þær voru allar fremur stuttar. Þó er ljóst að víða eru göt og stutt í rásir. Sem dæmi má nefna gat suðvestan við vatnsstæðið, sem síðar verður minnst á. Það liggur niður á við og virðist vænlegt. Ekki var farið niður í það að þessu sinni því til þess þarf hinn góða hlífðarfatnað hellamanna. Opið var sett á minnisspjaldið.
Leitað var tóftar norðaustan í Hnúkunum. Gekk greiðlega að finna hana. Tóftin er austan við holan hraunhól, sem er sléttur í botninn. Greinilegt er að einhvern tímann hefur grjót, sem í honum er, verð notað í einhverjum tilgangi. Enn sést móta fyrir hringhleðslu. Tóftin framan við munnan er greinilega gömul. Við skoðun á svæðinu fannst önnur tóft norðaustan við hólinn. Þá sést vel móta fyrir stvískiptum hlöðnum stekk eða kví norðan við hólinn. Þarna norðvestan við er gróin hraunrás. Norðvestast íhenni er vatnsstæði. Ekki er ólíklegt er hér sé um að ræða gamalt sel frá Nesi í Selvogi, en svæðið er innan landamarka þess. Nes er fyrrum stórbýli.

Hnúkar

Hnúkar – sel.

Vestan við tóftina er nokkurra mannhæða hátt hraundrýli, holt að innan, einstaklega formfagurt. Dýptin, niður á botn, virðist vera um fimm metrar. Ekki er gott að segja hvort þá taki við rás. Hraundríli eða hraunkatlar eru merkileg náttúrufyrirbæri sem líkjast einna helst gömlum strokkum. Nokkurs konar strompar sem hafa hleypt upp lofti/gastegundum þegar hraun rann um svæðið en um leið hefur hlaðist utan á þá og þeir stækkað. Í miðju þeirra er op sem nær niður í hraunhelluna.
Efst vestan undir hæðinnni sunnan vatnsstæðisins er gat. Færa þarf til einn eða tvo steina til að komast niður. Ekki var farið niður að þessu sinni – til þess þarf góðan hlífðarfatnað. Undirlagningin er óljóst.

Hnúkar

Hnúkar – hellir.

Eftir að hafa skoðað í kringum vatnsstæðið var haldið vestur með Hnúkunum, sem virðast vera um 10 talsins. Vestast í þeim er hellir, sem FERLIR hafði áður komið við í á ferð sinni um Selvogsheiðina. Um er að ræða rúmgóðan helli, um 40 metra að lengd og um 15 metra á breidd. Hann er sléttur í botninn, en innan við munnann virðast vera hleðslur. Hellirinn hefur myndast er stór hraunbóla hefur gliðnað. Hinn hluti hellisins er mun minni að vestanverðu. Þarna var haldið upp á fjögurra ára afmæli FERLIRs með slátri, reyktum rauðmaga og harðfisk. Erfitt er að koma auga á opið, en hellirinn hefur verið nefndur Afmælishellir í tilefni dagsins. Frá honum sést ágætlega yfir Selvogsréttina austan við Svörtubjörg.
Gengið var til baka til suðausturs með sunnanverðum Hnúkunum og þeir barðir augum í kvöldsólinni. Utan í einum hólnum var hlaðið byrgi refaskyttu. Frá byrginu sást vel yfir neðanverða heiðina.
Tækifærið var notað og Hnúkasvæðið rissað upp.

Hnúkar

Tóftir í Hnúkum.

Höfði

Illugi Jökulsson tók eftirfarandi saman um Einar Benediktsson. Frásögnin birtist í Vísi árið 1980:
„Einar Benediktsson hefur alla tíð verið umdeildur, jafnt sem skáld og sem manneskja. Nú, 40 árum eftir dauða sinn, er honum enn í lófa lagið að vekja upp heitar deilur og óvægnar, rétt eins og meðan hann var í fullu fjöri. Aldrei verður honum borið á brýn að hafa verið meðalmenni, hversu sem mönnum þykir annars til um hann.
Einar-25Einar Benediktsson fæddist á Elliðavatni 31. október 1864, af merku foreldri. Faðir hans var Benedikt Sveinsson, dómari í Landsyfirréttinum og skörungur í stjórnmálum, og móðir hans Katrín Einarsdóttir. Þau skildu er Einar var barn að aldri og bjó Einar lengst af hjá föður sínum. Hann varð síðan stúdent frá lærða skóla Reykjavíkur 1884 og sigldi til Kaupmannahafnar til náms í lögfræði. Námsferill hans varð slitróttur vegna veikinda og lauk hann ekki námi fyrr en árið 1892.
Vegna ýmissa áhugamála hans utan lögfræðinnar og svo talsverðrar hneigðar til að njóta lystisemda Hafnarlífsins náði hann aðeins 2. einkunn og kom honum það í koll síðar er hann fór að leita embættis. Telur Sigurður Nordal það hafa haft sín áhrif á örlög hans. Síðan segir Sigurður: „Eins og að líkum lætur, kom Einar til Reykjavíkur haustið 1894 með tvær hendur tómar. Faðir hans hafði gert vel að kosta hann til náms og var ekki aflögufær fram yfir það, enda Einar kominn á þann aldur, að honum var ætlandi að sjá sér farboða. En höfuðstaðurinn var líka fátækur og allt annað en vænlegur vettvangur embættislausum lögfræðingi. Var fram að þessu eins dæmi að nokkur lögfræðingur reyndi að draga fram lífið í Reykjavík án málaflutningsréttinda við yfirréttinn, eða nokkurrar fastar stöðu, eins og Einar færðist í fang. Hann sótti um ýmis sýslumannsembætti árangurslaust en fékk loks málflutningsréttindin 1898, eftir fjögurra ára dvöl í Reykjavík.
Vitað er, að Einar fór, undir eins og hann var kominn til Reykjavíkur, að fást við þau lögfræðistörf, sem honum var heimilt að stunda og munu hafa verið fábreytt og lítt févænleg, en auk þess kaup og sölu fasteigna. Annars fara meiri sögur af öðrum störfum hans en brauðstritinu. Samt er haft eftir honum, að árstekjur hans á Reykjavíkurárunum hafi komist upp í 25 þúsund krónur. Þetta var þá mikið fé, eins og ráða má af því, að 1902 seldi Einar stórhýsið í Glasgow fyrir einmitt þessa upphæð og árslaun ráðherra íslands, frá 1904, voru alls 12000 kr. En jafnvel þótt þessi sögusögn um tekjur Einars kunni að vera eitthvað orðum aukin, er áreiðanlegt, að síðari ár sín í Reykjavík hafði hann allgóð fjárráð og fór ekki dult með. Þegar hann kvæntist, 1899, stofnaði hann ríkmannlegt heimili eftir því sem þá gerðist hér á landi. Hann fór í kostnaðarsöm ferðalög, bæði utan lands og innan, ýmist einn eða með konu sína, og barst yfirleitt allmikið á. Það var því alls ekki til þess að bæta afkomu sína, sem hann sótti um Rangárvallasýslu 1904 og fékk veitingu fyrir henni. Enda lét hann þá svo um mælt, að embættislaunin væru sér ekki meira en hæfilegir vasapeningar“.
Einar-26Nú er nauðsynlegt að fara býsna fljótt yfir sögu. Einar var umsvifamikill í Rangárvallasýslu en lét af sýslumannsembættinu þegar árið 1907, vegna þess að hann meiddist fæti og þoldi því ekki þau miklu ferðalög á hestum sem embættinu voru nauðsynleg. Hann fluttist því aftur til Reykjavíkur sem á þessum árum var ört vaxandi bær og var það mjög að skapi Einars sem hugði á stórar framkvæmdir. Sigurður Nordal segir: „Ekki er að efa, að hann hafi ætlað sér að bera þar ríflegri hlut frá borði en tiltök voru hér heima. En hitt er jafnvíst, að nú hugsaði hann um annað og meira: að færa Íslendingum heim í garð það stórfé, sem eitt gat dugað þjóðinni til viðreisnar. Aðstaða til að hrinda þessu áleiðis var allt of óhæg með búsetu á Íslandi. Einar fluttist þegar haustið 1907 til Edinborgar og átti síðan fjórtán ár lengstum heimili erlendis“.
Nú er þess að geta að Einar gat lítils stuðnings vænst af valdsmönnum á Íslandi. Hann hafði litla stjórnarhylli og hafði snemma vakiö tortryggni og fjandskap þegar fyrsti orðrómur gekk um fossakaup hans. Flýtti Alþingi sér þá að gera ráðstafanir til að takmarka leigu og sölu fallvatna. Þó hann hefði einatt mikið fé umleikis var fjárhagur hans ekki traustari en svo að áföll fyrirtækja hans snertu hann illa. Nordal segir: „Hann átti sér í rauninni ekki annan bakhjall en trúna á stórfellda framtíðarmöguleika Íslands, gáfur sinar og persónutöfra“.
Einar Benediktsson mæddist í mörgu. Hann hugði á stórframkvæmdir en lítið eða ekkert tókst honum. Hann stóð í blaðamennsku um tíma og kostaði ýmis blöð, hann drap niður fæti í pólitík og tók upp merki föður síns í baráttunni gegn Valtýskunni, og telja má hann einn aðalstofnanda Landvarnarflokksins. Hann barðist ötulega fyrir sjálfstæði en mun þó hvorki hafa verið skilnaðar- né lýðveldissinni og þótti nokkuð til um sinn kóng. Þá vildi hann beita sér fyrir því að Íslendingar tækju upp loftskeytatækni Marconis og fékk stuðning til þess erlendis frá. Að vísu varð Stóra norræna ritsímafélagið ofan á en Sigurður Nordal telur að öll þessi umsvif og trúnaður sá og rausn, sem hið auðuga Marconifélag sýndi honum, hafi átt sinn þátt í því að koma róti á hann, sannfæra hann um, hverju hann gæti orkað einn síns liðs, og ýta svo undir hann að leggja á tæpari vöð.
Valgerdur-25Efalítið er Einar Benediktsson einna kunnastur nú fyrir fossamálið en linnulaust frá 1906 til 1925 reyndi hann að vekja athygli Íslendinga á þeim möguleikum sem í vatnsorkunni fælust og sýndi þar stórhug svo undrum sætir. Hann vildi hefja orkuframleiðslu úr fallvötnunum og var árið 1914 stofnað hlutafélagið Titan til virkjunar Þjórsár. Það var gert í samvinnu við Norðmenn og var fyrirtæki þetta þvílíkrar stærðar að erfitt er að henda reiður á, jafnvel nú. Ýmissa orsaka vegna fóru öll þessi tröllauknu áform út um þúfur, m.a. vegna kreppu sem skall á í Noregi eftir fyrri heimsstyrjöldina. Voru það ekki fyrstu vonbrigði Einars, né hin síðustu. Loks stóð svo Einar um margra ára skeið í allslags fyrirtækjamakki við Breta, hann leitaði að gulli hér á landi og vildi leggja Grænland undir íslensk yfirráð. Alls staðar var sama sagan: Vonbrigði. Enda má leiða að því rök að hreint og klárt fjármálavit Einars hafi ekki verib nándar nærri ámóta og hugsjónir hans. Eins og gefur að skilja fjallar bók Sigurðar Nordals að miklu leyti um kvæði Einars, enda þau líklega óbrotgjarnasti minnisvarðinn um hann. Um þau eru ekki tök á að margræða hér. En gefum nú Sigurði Nordal seint og um síðir orðið:
„Einar Benediktsson kvæntist árið 1899, þá tæplega hálffertugur, en Valgerður kona hans réttra átján ára. Einar og Valgerður eignuðust sex börn og lifðu fimm þeirra föður sinn.
Frú Valgerður var glæsileg kona og sómdi sér vel við hlið manns síns. Þótt Einar væri umhyggjusamur heimilisfaðir, var staða hennar oft allerfið vegna tíðra búferlaflutninga og mikilla fjarvista húsbóndans. Annars ferðuðust þau hjónin líka talsvert saman, og á utanvistarárunum komu þau stundum með alla fjölskylduna heim til Íslands.
Um áramótin 1921-22, þegar telja má að Einar væri alkominn heim, settist hann að í Þrúðvangi við Laufásveg en það hús átti tengdamóðir hans. Þar stóð heimilið nokkur ár með miklum brag rausnar og híbýlaprýði. En smám saman tóku hagir Einars að þrengjast, og þegar tengdamóðir hans þurfti sjálf á húsi sínu að halda haustið 1927, urðu þau Valgerður í bili að flytjast í lítið leiguhúsnæði. Þau fóru bæði til Noregs undir árslokin, og varð Valgerður þar eftir, þegar Einar hvarf heim til Íslands. Voru þau þá skilin að samvistum, þótt lögskilnaður þeirra væri ekki gerður fyrr en síðar.
Katrin-25Frá 1928 til- 1930 var Einar áfram í Reykjavík og bjó við heldur órífleg kjör. En nú var komin til sögu sú kona, sem átti eftir að verða stoð hans og stytta til æviloka, frú Hlín Johnson. Hún hafði um fermingaraldur heyrt og séð Einar Benediktsson fyrir norðan, hann jafnan síðan verið henni hugfólgnari en aðrir menn og skáldskapur hans að sama skapi. En þau hittust ekki að máli fyrr en því nær 40 árum síðar. Þá hafði Hlín átt mikil örlög, verið gift og eignast átta börn, misst mann sinn, dvalist nokkur ár í Kanada, tekið sér ferð á hendur til Argentínu og unnið fyrir sér og börnum sínum af óbilandi kjarki og dugnaði. En upp úr 1930 voru þau uppkomin, og frá þeim tíma helgaði hún Einari líf sitt og starf.
Í árslok 1930 fóru þau Einar og Hlín utan, alla leið suður til Túnis, og komu úr því ferðalagi vorið 1932. Þá réb Einar því, að þau settust að á hinu forna stórbýli, Herdísarvik, sem ásamt Krýsuvík, var eignarjörð hans. Þar komu þau sér upp litlu og vistlegu húsi og höfðu nokkurn búskap. Þó að Einari væri á seinustu Reykjavíkurárum sínum stundum svo fátt skotsilfurs, að hann seldi smám saman þær bækur sínar, sem honum var ekki fast í hendi með, átti hann lengi nokkrar fasteignir, og kom það honum í góðar þarfir síðar. Árið 1935 gaf Einar Háskóla Íslands jörðina Herdísarvík, bækur sínar og húsgögn til minningar um föður sinn.
Herdísarvík var á þessum tíma mjög afskekkt, langt til næstu bæja og vegir þangað ógreiðfærir.
Fyrstu ár sín í Herdísarvík kom Einar stöku sinnum til Reykjavíkur, og um sjötugsafmæli sitt fór hann síðustu utanför sína, til Hafnar, og var þá enn hinn ernasti. En eftir þetta fór kröftum hans smáhnignandi, án þess að hann þjáðist né legðist rúmfastur. Mátti heita, að dauðinn, sem honum hafði staðið svo mikill beygur af á fyrri árum, sýndi skáldinu það tillæti að nálgast hægt og hljóðlega. Hann andaðist 12. janúar 1940, liðlega hálfáttræður.“

Heimild:
-Vísir 12. apríl 1980, bls. 4-5.

Herdísarvík

Herdísarvík – yngri bærinn.

Þorkell Kristmundsson

Þorkell Kristmundsson lést á Landsspítalanum 24. apríl 2003 eftir slys, sem hann varð fyrir þann 30. mars.
Þorkell fæddist í Stakkavík í Selvogi 12. september 1925. Foreldrar hans voru Kristmundur Þorláksson, bóndi í Stakkavík, og Lára Elín Sceving Gísladóttir, frá Ertu í Selvogi. Systkini Þorkels eru Gísli, f. 1918, Eggert, f: 1919, Elín Kristin, f: 1923, Anna Sigríður, f: 1924, og Lárus Ellert, f: 1931. Valgeir , f: 1921, lést 2001.

Þorkell

Þorkell Kristmundsson

Fimmtudaginn 6. mars 2003, eða rúmlega þremur vikum áður en slysið varð, fór FERLIR að Herdísarvík og Stakkavík í fylgd Þorkels – í frábæru veðri. Þorkell var í Stakkavík fram til 1943, eða þangað til hann fluttist að Brunnastöðum á Vatnsleysuströnd. Hér á eftir verður getið um hluta af því sem bar á góma í þessari síðustu ferð Þorkels í heimahagana.

Ekið var um Krýsuvíkurveg. Þegar komið var upp úr Vatnsskarði með útsýni inn í Fagradal sagði Þorkell að áður fyrr hefðu þeir bræður farið upp Mosaskarð á Stakkavíkurfjalli ef þeir ætluðu til Hafnarfjarðar með rjúpur eða endur, sem skotnar höfðu verið, áfram upp á fjöllin, framhjá Eldborg og komið niður Fagradalsmúlann, einkum að vetrarlagi. Sú ganga hafi jafnan tekið fimm klst. í stað átta, sem hefði tekið þá að fara Selvogsgötuna. Þegar hún var farinn var venjulega komið niður í Kerlingaskarðið, þar sem Selvogsgatan liggur um í dag, en ekki Grindarskörðin, sem eru þar skammt austar. Hann var aldrei með drykk með sér, treysti t.d. á að drykkjarsteininn við Selvogsgötuna væri með vatni.

Krýsuvíkurkirkja á þessum tíma

Krýsuvíkurkirkja.

Þegar farið var á milli Stakkavíkur og Grindavíkur var oft gist í Krýsuvíkurkirkju hjá Magnúsi Ólafssyni. Það gat þó orðið köld vistarvera þegar hætt var að kynda ofninn á kvöldin því reynt var að fara sparlega með rekaspýturnar sem notaðar voru til upphitunar. Magnús var lítt hrifinn af því er ofninn varð kynntur rauðglóandi. Það var þó oft gott að geta gist þarna á löngu ferðum.
Nokkrar góðar sögur fylgdu í kjölfarið. M.a. þegar fara þurfti með 300 sauði til slátruna til Einars ríka í Grindavík eftir að fé þeirra var tekið í Ölfusréttir þar sem upp kom riðuveiki. Hann hefði sofið með Ísólfi á Skála í hellinum við Lat. Ísólfur var þá með fjárhús úr járni skammt frá vegamótunum að Selatöngum. Þangað var gott að koma með féð sem þá var orðið uppgefið eftir að hafa verið rekið alla leiðina að austan.
Þorkell sagði frá smala, sem týndist í þoku í Krýsuvík, en kom fram daginn eftir. Hann var allur blóðugur í hvítri úlpu og sagðist hafa orðið að slátra 18 sauðum vegna riðu. Smalinn var vitlaus og gólaði og var það til vitnis um að óveður væri í nánd. Til Krýsuvíkur frá Hafnarfirði var venjulega farið upp með Undirhlíðum og austur fyrir Kleifarvatn. Vatnið náði þá upp undir fjósið, sem nú er. Ný tún mynduðust þegar lækkaði í vatninu. Þegar Magnús í Krýsuvík var ungur hélt Árni sýslumaður Gíslason honum við sauðahúsið á Krýsuvíkurheiði (Jónsbúð) og þaðan mátti hann ekki víkja. (Gæti verið skýringin á hlaðna húsinu sunnan undir heiðinni). Magnús nýtti síðar Arngrímshelli í Klofningum sem fjárskjól.

Stakkavík

Stakkavík – álfakirkjan.

Ekið var framhjá hlöðnu skjóli utan í Fjárskjólshrauni. Þorkell sagði það t.a.m. hafa verið notað yfir fé. Hann taldi þó að skjólið hafi oftast verið notað af ferðamönnum. Ekki hafi verið þak yfir því.

Þorkell var í skóla í Torfabæ í Selvogi þar sem kennt var í litlu herbergi í kjallaranum. Það hafi kennt Þórður frá Hveragerði, einfættur.

Þegar ekið var eftir Herdísarvíkurvegi var komið að tveimur hlöðnum vörðum beggja vegna vegarins skömmu áður en komið var að Herdísarvík. Þær voru hlaðnar þarna þegar vegirnir mættust, annars vegar að vestan og hins vegar að austan. Menn voru heilt sumar að gera veg við Krýsuvík. Þeir voru að hlaða upp kanta með lélegum verkfærum. Í ágúst komu tvær jarðýtur og voru menn þá sendir heim. Ýtunar fóru á tveimur dögum frá Krýsuvík og að Herdísarvík og ruddu þar með veginn.

Grænaflöt er upp undir Herdísarvíkurfjalli. Þar sagði Þorkell að hann hefði verið viðstaddur þegar tveir hestar voru skotnir á Grænuflöt. Annar var reiðhestur Einars, „Brúnn“, og hinn hestur Hlínar sem hún keypti fyrir son sinn austur í sveitum. Sá var leirljós og mjög viljugur. Hestarnir voru orðnir gamlir. Hann aðstoðaði síðan Hlín við að dysja hestana í miðju túninu og var gerður kross, c.a. einn metri, úr steinum, yfir dysinni. Hann á að vera um miðja flöt.

Stakkavík

Stakkavíkurborg.

Þá var komið að Herdísarvík. Þorkell sagðist minnast vondra veðra. Hlín hafi t.d. flúið með Einar Ben. vafinn í teppi þegar gerði ofsaveður af suðvestri. Bærinn varð þá umflotinn og þurftu

þau að hafast við um hríð í hellisskúta ofar í hrauninu. Sonur Hlínar átti bát með vél. Utan við víkina lágu stundum tugir skútna. Hann minntist þess að hann hafi, ásamt dóttur Hlínar og Kela, farið á páskadag út í skútur, færeyskar, í góðu veðri. Skútusjómennirnir komu oft til Herdísarvíkur og náðu í ís í bergið. Þeir voru að spara hafnargjöld. Þeir fóru þá gangandi upp í Mosaskarð og náðu í snjó sem þeir báru síðan á bakinu niður í Herdísarvík. Eitt sinn hafi hann horft á bát vera með yfirfull net alveg upp undir tanganum við Herdísarvík. Svo mikill var fiskurinn að þeir voru nærri reknir upp á fjöru. Hann sagðist telja að Hlín hefði ekki efnast mikið á sölu til skútumanna úr íshúsi sínu. Sagðist minnast þess enn hve kjötið hafi verið gott úr reykhúsi Hlínar og því reykurinn hafi verið orðinn svo kaldur þegar hann hafði farið eftir stokknum inn í reykhúsið. Hann vissi til þess að Kristján Eldjárn hafi skoðað fiskigarðana við Herdísarvík, sem eru þarna nokkrir kílómetrar að lengd í það heila tekið.

Haldið var inn í Gerðið austan Herdísarvíkur. Þar er vel gróið, bæði í kringum sjóbúðirnar og fjárhúsin skammt austar. Þorkell sagði að þarna hefði áður verið brunahraun líkt of ofar. Sjómennirnir hefðu hins vegar borið slor á hraunið og því hafi það gróið svona vel upp. Garðana hlóðu sjómennirnir í landlegum. Hann nefndi sjóbúðirnar og sagði að þar vestar hafi verið bátarétt. Hún er nú kominn undir kampinn. Neðan hennar var lendingin. Hann sagði fjárborgirnar tvær hafa verið austast á túnin þar sem fjárhúsin Þversum og Langsum eru nú. Fyrrum hafi þau verið hlaðnar fjárborgir, en síðar verið reft yfir.
Þorkell lýsti staðháttum Hann sagði m.a. að klettabelti (dökkur blettur) beint upp af og austan við Mosaskarð nefndist Hamragerði. Þar austan við eru Mjóigeiri og Breiðigeiri. Þá tekur Nátthagaskarðið við, en neðan þess og vestan við er Flatiskógur. Austan við skarðið er Lyngskjöldur.

Álfakirkja

Haldið var um Stakkavíkursvæðið. Litið var á Stakkavíkurborg, en Þorkell sagði að götóttur hraunklettur sem þar er skammt austan við hefði ranglega verið nefnd Álfakirkja. Hann fylgdi okkur að hinni eiginlegu Álfakirkju síðar. Réttarnes er þarna neðar og á henni Réttin. Sagði hann frá er hann þurfti að eltast þar við ólman sauð í ull. Var hann í vandræðum með að að handsama sauðinn, en gat loks króað hann af í réttinni á Nesinu, en hrúturinn hafi verið orðinn svo vitlaus að hann stökk yfir vegginn og út í vatnið. Þorkell sagðist hafa séð á eftir hrútnum langt út á vatn þar sem hann hafi synt í nokkra hringi og sokkið síðan. Inn í vík einni þarna skammt frá hafi snjóhengja fallið yfir 16 kindur eitt vorið og kæft þær allar. Bóndi missti eitt sinn 300 fjár þegar vatnið lagði og féð fór yfir að nóttu til og flæddi í skerjum. Svona hafi nú lífið verið í þá daga.

Neðan við Selsstíg heitir Höfði. Þar eru tvær stórar útihúsatóttir frá Stakkavík neðan við veginn. Í austanverðum Höfðanum er hin rétta Álfakirkja, kletthóll með glugga að því er virðist. Þorkell sagði að Gísli, bróðir hans, hafi eitt sinn smíðað og reist kross upp á hólnum. Um nóttina dreymdi hann að álfkona kæmi til hans og skipaði honum að fjarlægja krossinn, ella myndi hann hafa verra af. Daginn eftir lá krossinn við hlið kirkjunnar í fjórum pörtum.

Ekið var niður að Stakkavíkurbænum. Á leiðinni eru tvö hlaðin gerði við veginn. Sjá má móta vel fyrir gamalli ruddri götu í gegnum hraunið. Gerðin sagði Þorkell að hefðu verið kálgarðar. Þegar komið er að Stakkavík er þar fyrir hlaðin rétt, hvammur niður við vatnið, hrútakofi, kartöflukofi, lambús og bæjarhúsinn þar sem steyptir gaflarnir eru fallnir út. Þorkell sagði að eldri bærinn hafi verið þar sem norðvesturhornið á húsinu er nú. Enn eldri bær var þar sem nú er stór hólmi í suðri út í vatninu, en hann lagðist af þegar hækkaði í vatninu. Þorkell sagði að Eggert bróðir hans hefði eitt sinn verið við hvamminn, en í honum var báturinn jafnan geymdur, þegar hann hafi séð huldudrengi vera að leika sér þar. Þeir hefðu verið í litskrúðugum peysum og með skrautlegar húfur. Þetta hafi enst um stund, en þeir síðan horfið sjónum hans. Þorkell sagðist lítt hafa trúað að álfa- og draugasögur. Hann hefði þó einu sinni séð draug, en það var ofan við bæinn Hlíð. Þar hefði hann séð mann, sem nokkru áður hafði drekkt sér í Hlíðarvatni. Söng hefði hann hins vegar aðeins einu sinni heyrt úr klettum. Það var í Hafnarfjarðarhrauni þegar hann var þar á ferð. Talaði hann um hve mikið hefði verið eyðilagt af fallegum stöðum í hrauninu, klettum og hraunbollum.

Breiðabás

Í Breiðabás.

Þá var haldið í Breiðabás. Ætlunin var að reyna að staðsetja opið á Breiðabáshelli. Eftir að Þorkell hafði litast þar um stutta stund, tekið mið og kannað kennileiti, s.s. gömlu fjárgötuna ofan úr hrauninu, gekk hann að tilteknum stað á kampinum, gegnt götunni, staðnæmdist, benti niður fyrir sig og sagði: „Hér er opið – gæti skeikað tveimur til þremur metrum“. Áður hafði verið leitað að opinu á þessu svæði, en á röngum stað og munaði þar allnokkru. Þorkell sagði að áður fyrr hafi varða verið ofan við opið, sem kampurinn hefur nú algerlega hulið. Opið hafði snúið út að sjó. Þurfti að loka hellinum þegar óveður gekk yfir til að koma í veg fyrir að fé flæddi inni í honum. En þarna væri opið undir.
Sögn er til að smali hafi verið heilan dag í villu í hellinum. Þorkell sagðist muna að hæðin á opinu hafi verið í axlarhæð. Inni hafi verið salur og í honum þröngt op inn úr. Þegar komið var inn fyrir þrenginguna tók við víð rás. Sjálfur hafi hann aldrei farið þar inn, enda lítt hrifinn af hellum. Í sumum hellum höfðust villikettir við í, illir viðureignar. Einn félagi hans varð t.d. eitt sinn fyrir alvarlegri árás villikattar. Honum hafi verið komið til bjargar þegar kötturinn var rifinn af honum. Bar hann merki eftir viðureignina alla ævi.

Í spjalli við Þorkel kom fram að foreldrar hans hefðu verið það gott vinafólk fólksins í Guðnabæ í Selvogi að við fæðingu hafi hann verið skírður í höfuðið á Þorkeli Árnason, sem síðar bjó á Þorbjarnarstöðum í Hraunum, langafa eins þeirra, sem var með í þessari fróðlegu síðdegisferð í Herdísarvík og Stakkavík.

Líf Þorkels snérist um fé, bæði á meðan hann var í Stakkavík og á Brunnastöðum.
“Ég vildi aldrei vera annað en fjármaður”, sagði hann skömmu áður en hann kvaddi samferðamenn sína með virtum á hlaðinu á Brunnastöðum. Nokkrum mánuðum varð hann undir heyrúllu og lést skömmu síðar.

Minningin um Þorkel Kristmundsson mun lifa.

Ómar Smári Ármannsson og Jóhann Davíðsson skráðu.

Stakkavík

Stakkavíkurborg.

Vörðufell

Á leið að Strandarhæð var komið við í tóttum bæjarins Fell í Krýsuvík. Tóttirnar eru í gróinni kvos skammt sunnan við Grænavatn, í hæðinni þar sem hún halar til vesturs.

Strandarhellir

Strandarhellir.

Á Strandarhæð var byrjað á því að skoða Bjargarhelli, helli þann er Selvogsbúar ætluðu að dyljast fyrir Tyrkjum, ef þeir snéru aftur. Skammt austan hans er Gapið, rúmgóður fjárhellir. Umhverfis hann er gerði, Gapstekkur, en umhverfis gerðið er annað ytra gerði. Frá Gapinu var gömlu þjóðleiðinni fylgt þangað til komið var á móts við Strandarhelli. Hann er í norður frá götunni. Hellirinn er gamall fjárhellir, stærstur þeirra, í stóru fjarðfalli. Umhverfis jarðfallið hafa verið hlaðnar miklar hleðslur og umhverfis þær eru vítt hlaðið gerði. Þegar komið er ofan í gróið jarðfallið eru hleðslur fyrir hellismunnanum. Skammt norðan af hellinum er hlaðið stórt gerði umhverfis hól. Þaðan blasir Vörðufellið við. Haldið var í átt að því, en skammt sunnan fellsins er Ólafarsel, mjög gamalt sel í grónum hraunkrika Vörðufellshrauns. Skammt austan við selið er hlaðinn stekkur utan í kletti.

Selvogsheiði

Selvogsheiði – sel. Uppdráttur ÓSÁ.

Á Vörðufelli er Markavarða, landamerkjavarða. Undan henni er fornt krossmark á jarðföstum steini. Marks þessa er getið í mjög gömlum heimildum, en þá sem stafurinn „M“. Ástæðan er sprungur í steininum beggja vegna krossins. Ofar eru Smalavörðurnar, en þeim fylgdi sú þjóðtrú að hlæði smali vörðu á fellinu myndi hann umsvifalaust finna það sem týnt væri.
Á Vörðufelli er líka stór hlaðinn rétt, Vörufellsrétt. Norðan út af henni er hlaðinn leiðigarður. Réttin var lögð af seint á fjórð áratug 20. aldar og önnur nýrri þá hlaðinn ofan við Hellsholtið nokkru ofar í heiðinni.

Eimiból

Eimuból – hleðslu í helli.

Austan við Vörðufell eru þrjú sel. Fyrst er komið að Vindásseli, miklum tóttum á hól. Ofar er Eimuból á bakka jarðfalls. Hefur hellir, sem þar er verið nýttur sem fjárhellir, enda má sjá hringlaga hleðslur á og ofan við opið. Skammt sunnar, í grónu ílöngu jarðfalli, er forn tóft. Við það er fjárhellir. Í honum er hlaðinn stekkur.
Skammt austar er Skyrhellir í hraunhól, en þar var skyr seljafólks geymt fyrrum.
Frábært veður.

Vörðufellsrétt

Vörðufellsrétt – uppdráttur ÓSÁ.

Heiðarvegur

Gengið var frá Bláfjöllum í vesturátt. Eftir að hafa gengið tæpan kílómetra á helluhrauni og á jeppaslóð, var komið að hraunhól sem á var varða.

Heiðarvegur

Heiðarvegur.

Sprunga er í hólnum með gras í botni og líklega gott skjól í henni. Að vestan er líkt og dyraop og er hægtað ganga á jafnsléttu inn í sprunguna. Punktur tekinn. Áfram var gengið í vesturátt í stefnu á Grindaskörð, á helluhrauni nokkuð grónu, með leirsléttum. Á vinstri hönd er eldborg og gróft hraun í kring, á hægri hönd er Strompahraunið og er um 300 metrar á milli hraunanna. Að gengnum 1.655 metrum (í beina loftlínu) var komið að tveimur vörðum sín á hvorum hólnum og er slakki á milli hólanna. Greinileg gata var á milli hólanna. Þegar horft var til baka sást á áframhaldandi vörðu í austurátt. Á leiðinni eftir jeppaslóðinni, var varðaða leiðin á vinstri hönd suður). Varða er einnig sjáanleg héðan í vestur átt og voru tekin hnit á hana. Næsta varða þar á eftir er að mestu hrunin en sést þó enn.

Heiðarvegur

Heiðarvegur.

Komið var að hraunbrún. Framundan er úfnara hraun, en mjög stutt er yfir það að hlíðum (Stórkonufells?). Í suður í átt að Litla-Kóngsfelli og var stæðileg varða í þá áttina. Hún gæti verið við vegamót. Önnur leiðin liggur þá suður með hraunbrúninni og suður fyrir Stórkonugjá við Litla-Kóngsfell og hin leiðin liggur áfram í stefnu yfir hraunhaftið.

Gengið var áfram í sömu stefnu yfir hraunhaftið, nokkra tugi metra og kom á Reykjaveginn við hlíðar Stórkonufells og síðan yfir nyrðri enda Stórkonugjár og er greinileg gata þar og nokkuð breið. (Reykjavegurinn stefnir vestur yfir og suður með Stórkonugjá í stefnu á veg í Kerlingaskarð). Síðan var gengið norðvestur með hlíðunum í átt að skarðinu norðan við Stórabolla.
Þegar komið er að þar sem farið er upp í skarðið norðan við Stórabolla er myndarleg varða þar, niður undir jafnsléttu og hálfhruninn varða er rétt þar neðar í stefnu á hraunbrún á hrauninu sem er sunnan við bollana. Þegar horft er úr brekkunni undir Stórabolla og vörðurnar bera hver í aðra, má sjá góðan veg með hraunbrúninni.

Heiðarvegur

Heiðarvegur – varða.

Þegar komið var neðarlega í brekkurnar norðan skarðs og gengið eftir jeppaslóða, var fyrir varða í 336 m hæð. Punktur tekinn.
Neðst í brekkunum komu saman jeppaslóðinn og reiðvegur og eða fjárgata í 276 metra hæð. Þegar gengið var áfram með hlíðum undir Kristjánsdalahorni, sást greinileg gata upp og bak við smá hnjúk sem sker sig frá fjalllendinu. Þegar komið var norður fyrir hnjúkinn sást gatan greinilega þar sem hún skáskar brekkuna niður á jafnsléttu. Neðar eru vatnsstæði.
Aftur var farið upp að Bláfjöllum og gengið frá þeim í suður. Eftir að hafa gengið um 800 metra frá horninu, var komið að vörðu. Þaðan var gengið í norðvestur og eftir að hafa gengið um 500 metra sást hraunhóll og var steinn á toppi hans.

Heiðarvegur

Heiðarvegur – vörður.

Hóllinn er holur að innan og er þar sæmilegur skúti og geta nokkrir menn haft þar skjól. Svo virðist sem brotið hafi verið úr munanum niður við jörð og er hægt að ganga inn líkt og um dyraop. Punktur tekinn. Skúti þessi er í beinni línu við næstu vörðu sem komið var að. Um 500 metrar eru frá skútanum að henni. Vestan við vörðuna er grasivaxin dæld og þegar horft er í norðvestur á næstu vörðu blasir við greinileg gata í grasinu, nokkra tugi metra. Þessi gata er ekki fjárgata, einn og hálfur til tveir metrar á breidd þar sem hún er breiðust.

Heiðavegur

Varða á Heiðarveginum.

Síðan var gengið að næstu vörðu sem blasti við. Eru um 220 metrar að henni. Hæð y.s.m. eru 515 m. Þegar nær var komið sást að vörðurnar eru tvær. Sú sem fyrr er komið að, er hálf hruninn en nokkrum metrum frá er stæðileg varða. Vörðurnar eiga líklega að bera hvor í aðra til að fá stefnu á næstu vörðu. (Eða að vísa á sprungna hraunhólinn með vörðunni sem sást í fyrri ferð í um 20-30 metra fjarlægð).
Ekki sást til næstu vörðu í norðvestur eða vesturátt en í vestur er varða sem áður hafði verið komið að og er um 1.600 metrar í hana. Enn styttra er að aðra vörðuna.

Heiðarvegur

Heiðarvegur – Geitafell fjær.

Hér er ágætis útsýni yfir landið frammundan, það fer lækkandi í norðvestur og vestur og er vegur ágætur um helluhraun.
Í vestur er nokkuð stór nafnlaus eldborg sem áður er getið með grófu hrauni umhverfis en hraunið úr henni nær ekki langt norður fyrir hana. Heiðarvegurinn liggur því norðan við eldborgina, um nokkurskonar hlið á milli úfinna hrauna.
Því miður var ekki hægt að skoða meira í bili en klára þarf að staðsetja vörður á 1.600 metra kafla og athuga hvort gatan greinist austan við Stórkonugjá. Þá er eftir að staðsetja vörður austur um heiðina niður Hrossahryggi eða um Guðrúnarbotna að Ólafsskarðsvegi.
Frábært veður í frábæru landslagi.

Heiðarvegur

Varða á Heiðarveginum – Geitafell framundan.

Strandarkirkja

Sveinn Sigurðsson fjallaði um heimsókn í Selvog í Eimreiðinni árið 1948 undir fyrirsögninni „Heimsókn á helgan stað“.
Strandarkirkja-251„Helgisögnin um verndarengil sjómannanna, þann er birtist á ströndinni í Selvogi, er ævagömul. Enginn veit, hve gömul hún er. En eina dimma ofviðrisnótt á hafinu rak skip fyrir stormi og stórsjó upp að þessari strönd. Skipverjar vissu ekki, hvar þeir voru, en þeir treystu guði og báðu hann verndar, í skilyrðislausu trúnaðartrausti, eins og börn. Foringinn hét að láta reisa þar kirkju sem þá bæri að landi, ef þeir fengju að halda lífi. Og sjá! Framundan rofaði til, frá einhverri annarlegri og undursamlegri birtu. Þeir sáu land fyrir stafni. Og engill stóð á ströndu í ljómandi birtu þess bliks, sem af honum stafaði. Það blik vísaði sjómönnunum leiðina gegnum brim og boða — og þeir komust heilu og höldnu til lands. En á hólnum ofan við víkina, þar sem engillinn birtist, var síðan reist kirkjan til dýrðar honum, sem leitt hafði sjómennina hrjáðu og hröktu heila að landi — og í þakklætisskyni fyrir bænheyrsluna og verndina. En víkin, þar sem bjarta veran birtist, neðan Strandarkirkju, heitir síðan Engilsvík.
Strandarkirkja-552Eitthvað á þessa leið er helgisögnin um það, hvernig Strandarkirkja í Selvogi varð til. Um aldir hefur verið heitið á þessa kirkju, þegar hætta var á ferðum. Þau áheit voru og eru gerð af farmönnum og fiskimönnum, sem um höfin fara, og einnig af öðrum, sem á landi lifa og sjaldan eða aldrei koma á sjó. Menn og konur úr öllum stéttum heita á Strandarkirkju. Og mjög er sú trú útbreidd og almenn, að gott sé á hana að heita. Enda nema áheitin orðið mikilli upphæð á íslenzkan mælikvarða. Og nú er Strandarkirkjuhóllinn að verða fjölsóttur staður. Menn fara þangað pílagrímsferðir á öllum árstímum, en einkum þó á sumrin. Og þær ferðir munu aukast mjög, þegar vegurinn um Krýsuvík og Selvog er fullgerður.
Ég kom í Strandarkirkju 8. ágúst, á þessu sumri, í fyrsta sinn. Við vorum sjö í hóp — og veðrið var fagurt. Einn úr hópnum var fæddur á Vogsósum og hafði alizt þar upp bernskuárin, en farið ungur utan og ekki vitjað þessara bernskustöðva í hálfa öld — fyrr en nú. Ferðin varð honum því sannnefnd pílagrímsför — en okkur hinum einnig. Það varð ekki komizt hjá því, að Við yrðum þess vör, er við nálguðumst hólinn, þar sem kirkjan stendur hvít og látlaus — og einmanaleg, — að við vorum að koma á helgan stað. Og þegar inn í kirkjuna kom, varð þessi helgikennd enn ákveðnari. Strandarkirkja-553
Altaristaflan í Strandarkirkju er eftirmynd altaristöflunnar í Reykjavíkurdómkirkju, og stendur á henni ártalið 1865. Í horni töflunnar standa stafirnir S. G., en Sigurður Guðmundsson málari gerði myndina. Á silfurskjöld, sem festur er á umgerð myndarinnar, standa þessi orð á latínu: »Sit tibi nomen Jesu pectori infixum“, að því er bezt varð séð, e n letrið er ekki vel skýrt. Sé rétt lesið, myndu orðin út leggjast eitthvað á þessa leið: „Nafn Jesú sé greypt í brjóst þér “ eða „nafn Jesú sé þér fast í huga“. Er taflan falleg, þó að myndin sé ekki tiltakanlega vel máluð, enda ef til vill eitthvað máð af raka, sem gætir nokkuð í kirkjunni, svo sem bezt mátti sjá í gluggakistúm. Á kirkjulofti fundum við gamla hreppsnefndargerðabók frá árunum 1885—’89, með margskonar fróðleik, og ætti bók sú heima Þjóðskjalasafninu, og verður vafalaust þangað send úr kirkjunni áður en langt um líður. Þá höfðu og leiðin í kirkjugarðimim á hólnum, þar sem kirkjan stendur, sína sögu að segja, þó að leiðarvísar um þau væru alltof fáir.
Bílvegurinn í Selvog, um Ölfus og vestur Selvogsheiði, var greiðfær í sumar nema síðasti kaflinn, stuttur spölur, sem vafalaust verður fullgerður á þessu hausti. Frá endimörkum vegarins á Nesi er aðeins um tíu mínútna gangur að Strandarkirkju. Heim að Vogsósum er einnig bílfært svo að segja alla leið. Bærinn stendur við Hlíðarvatn og ósinn, sem skiptir sveitinni í tvennt. Vestan óssins og vatnsins, yzt í sveitinni, er hið forna stórbýli Herdísarvík, þar sem Einar skáld Benediktsson lifði síðustu ár ævi sinnar. Austan óssins og vatnsins stendur Vogsósabærinn og byggðin á Strönd og Nesi. Frá Vogsósum séð ber Strandarkirkju við hafsbrún í suðri. Þar stendur hún hvítmáluð og snotur til að sjá, en eyðisandar umhverfis, sem nú hafa verið græddir upp að nokkru fyrir fé úr hennar eigin sjóði, hinum langstærsta, sem til er í eigu nokkurrar einnar kirkju á landinu. Sjóður þessi nemur nú um 600 þúsund krónum. Svo er áheitunum fyrir að þakka.
Hlidarvatn-221Silungsveiði var mikil í Hlíðarvatni áður fyrr — og fuglalíf- varp var þar í hólma til skamms tíma, og sagði okkur bóndinn á Vogsósum, að fyrir ári síðan hefðu í hólmanum verið mörg æðarhreiður. En í vor, þegar gætt var í hólmann, sást þar ekki einn einasti fugl á lífi. Afklipptir vængir, fuglshausar og -lappir lágu þar á víð og dreif. Hefur minkur grandað fuglinum og lagt varpið í auðn. Sömu söguna er allsstaðar að heyra af þeim vágesti, þar sem hann hefur náð að setjast að villtur og auka kyn sitt.
„Þórir haustmyrkur nam Selvog og Krýsuvík, en Heggur, sonur hans, bjó að Vogi“, segir í Landnámu. Ýmsar ósamhljóða sagnir eru til um það, hvenær kirkja var fyrst sett á Strönd. Ein sögnin er sú, að Gizur hvíti hafi fyrstur reist þar kirkju, samkvæmt heiti, er hann vann í sjávarháska um að gera þar kirkju sem hann næði landi heill á húfi. önnur sögn er, að kirkjan á Strönd hafi fyrst verið reist í tíð Árna biskups Þorlákssonar (Staða-Árna, 1269—1298), og vegna áheita skipbrotsmanna, sem náðu landi í Selvogi að tilvísan hvítklædds manns, er stóð á ströndu og benti þeim réttu leiðina í land. Segja sumar sagnir, að formaður skipbrotsmanna hafi verið Árni biskup Þorláksson sjálfur. Sagan er ekki líkleg, því á dögum Staða-Árna átti Erlendur lögmaður sterki Ólafsson Strönd, ásamt fleiri jörðum í Selvogi, og er ósennilegt að þeir hafi átt nokkra samvinnu um að reisa þar kirkju, þar sem þeir voru andstæðingar miklir í staðamálum. Enda er til vitnisburður Þorbjarnar Högnasonar, út gefinn á Strönd 13. maí 1367, fyrir því, að kirkja muni hafa verið sett þar fyrir löngu. Segist Þorbjörn fyrir 60 vetrum og áður oft hafa lesið og heyrt lesinn máldaga Strandarkirkju, sem hafi þá verið orðin svo rík, að hún átti 30 hundraða í heimalandi og „alla veiði i fuglbergi“, o. fl. Vel má vera, að upphaf Strandarkirkju sé að rekja alla leið til papa, þó að ekki verði nú færðar sönnur á þá tilgátu.
Selvogur-551Jörðin Strönd var í fjórar aldir, eða frá 1300 og fram um 1700, eitt af höfuðbólum sömu höfðingjaættarinnar. Var það ætt Erlends lögmanns sterka, en hann andaðist árið 1312, og er að líkindum grafinn á Strönd. Einn afkomenda hans og þeirra aðsópsmestur var Erlendur, lögmaður sunnan og austan, Þorvarðarson. Hann varð lögmaður 1521, rak stórbú á Strönd, bjó þar sjálfur öðru hvoru, lézt þar árið 1575 og er grafinn í Strandarkirkjugarði. Byggð var fjölmenn í Selvogi um margar aldir. Á árunum 1677—1680 eru þar 42 búendur, en eftir 1700 tekur heldur að fækka fólki þar. Séra Eiríkur á Vogsósum, hinn fjölkunnugi, Magnússon, var þar prestur frá 1667—1716, og hafa sögurnar um hann gert garðinn frægan. Um annan Vogsósaklerk, sem uppi var löngu síðar, séra Eggert Vigfússon (1840—1908), eru og ýmsar sögur, þó 30 ekki væri hann fjölkunnugur talinn sem séra Eiríkur, fyrirrennari hans.
Fyrstu skjalfestu sannanirnar fyrir því, að mjög snemma á öldinni hafi verið tekið að heita á Strandarkirkju, eru í Vilchinsmáldaga frá 1397. Þar er tekið fram, að Halla Jónsdóttir hafi gefið kirkjunni „tvö hundruð og fimm aura fyrir skreiðartíund, sérdeilis fyrir heitfiska, svo margir sem þeir verða“. Elzta lýsing á kirkjunni, sem nú er til, er frá dögum Odds biskups Einarssonar, eftir að Grímur Einarsson hafði látið byggja hana upp árið 1624. Árið 1696 leggst jörðin Strönd í eyði, en kirkjan stóð ein eftir á sandinum. Árið 1703 skipar Jón biskup Vídalín að byggja upp kirkjuna, sem orðin sé þá hrörleg mjög. Frá vísitazíuferð Jóns biskups Árnasonar til Strandarkirkju, 15. júní 1736, er til lýsing hans á kirkjunni, þá nýlega endurbyggðri. Sjálfur verður Jón biskup eigandi jarðarinnar Strönd um þessar mundir. En með gjafabréfi ekkju hans frá 15. júlí 1749 er Strönd gerð að ævinlegu „beneficio“ Selvogsprestum til uppeldis.
Strandarkirkja-555Oft hafa verið gerðar tilraunir til að fá kirkjuna flutta frá Strönd, en allar hafa þær tilraunir mistekizt. Um miðja 18. öld verður séra Einar Jónsson prestur í Selvogsþingum. Vill hann láta flytja kirkjuna og ritar um það bréf Pingel amtmanni og Ólafi biskupi Gíslasyni. Í bréfinu, sem er sent með vilja og vitund Illuga prófasts Jónssonar, lýsir séra Einar því, hversu óheppilegt sé að hafa kirkjuna þar sem hún stendur, á eyðisandi og langt frá bæjum. Féllust ráðamenn algerlega á tillögu Einars um að láta flytja kirkjuna, og skipaði biskup svo fyrir, að verkið skyldi hafið vorið 1752. En hér fór öðruvísi en ætlað var. Séra Einar flosnaði upp frá prestsskap, biskup lifði stutt eftir að hann hafði fyrirskipað kirkjuflutninginn, Illugi prófastur Jónsson, sem mælt hafði eindregið með flutningunum við biskup, lézt skömmu síðar — og Pingel amtmaður missti embættið vegna vanskila 8. maí 1752. Allir þeir, sem að því unnu að fá kirkjuna flutta, urðu þannig í vitund almennings fyrir refsivendi máttarvaldanna, en kirkjan stóð sem áður óhagganleg á Strandarsandi. Aftur átti að flytja kirkjuna að boði Finns biskups sumarið 1756, en úr framkvæmdum varð aldrei neitt. Aftur á móti var gert við kirkjuna, þar sem hun stóð, bæði 1758 og aftur 1763. Þannig var haldið áfram að halda kirkjunni við á sama staðnum, því sóknarmenn vildu ekki hlýðnast skipunum valdamanna um að færa hana úr stað. Stóð sama kirkjan á Strönd, með mörgum umbótum, í 113 ár, frá 1735 og til 1848, að séra Þorsteinn Jónsson lét rífa hana og reisa timburkirkju í staðinn.
Eftir það hættu allar tilraunir til að Strandarkirkja-556láta flytja kirkjuna, enda höfðu þær jafnan mistekizt. Með flestum menningarþjóðum mundi fornfrægt guðshús sem Strandarkirkja vera undir stöðugri gæzlu kirkjuvarðar og kirkjunni haldið sem bezt við, en þess þó jafnframt gætt að varðveita sem bezt gömul einkenni hennar. Hvergi er önnur eins vernd um þjóðfræga staði og sagnríka sem í Englandi. Slíkir staðir eru í opinberri gæzlu, og allt er gert til að friða um þá og varðveita frá glötun. Í Westminster Abbey eru verðir þann tíma, sem kirkjan er opin almenningi, en það er venjulega frá kl. 10—6 daglega. Þessi fræga kirkja, full af sögulegum minjum, er talin upp runnin frá aldamótunum 500—600 e. Kr. Helgisögn er til um það, að sjálfur Pétur postuli hafi vígt hina fyrstu kirkju þarna á Tempsároakkanum, þar sem Westminster Abbey nú stendur. St. Páls dómkirkjan í London er opin almenningi daglega, en leiðsögu veita verðir, ef óskað er. Sagan segir, að Díönuhof hafi verið á staðnum löngu áður en kristnin kom til sögunnar. En snemma a 7. öld lætur Aðalbert konungur í Kent reisa þarna guðsbús, og til þeirra tíma er rakinn uppruni kirkjunnar. Í báðum þessum kirkjum eru varðveittar leifar margra beztu sona þjóðarinnar og minningar um þá.
Kirkjugarðurinn umhverfis Strandarkirkju geymir leifar margra merkismanna, svo sem Erlends lögmanns og Eiríks prests hins fróða, sem einna vinsælastur mun, úr þjóðsögum, allra íslenzkra kunnáttumanna fyrr og síðar. Litlar eða engar upplýsingar eru nú til um legstaði merkra manna í garðinum. Kirkjan sjálf er að vísu snotur, bæði innan og utan, en henni mætti halda betur við. Gluggakistur eru votar af sagga, og málningu þyrfti að endurnýja. Ýmislegt mætti gera til að auka prýði kirkjunnar og umhverfis hennar. Einnig þyrfti að koma fyrir í kirkjudyrum áheitaskríni, hvar í menn gætu lagt skerfi sína án þess að þurfa að leita uppi hlutaðeigandi kirkjuyfirvöld. Því áheitin á Strandarkirkju munu halda áfram. Þau hafa jafnvel aukizt undanfarinar – Margra alda reynsla kynslóðanna fyrir því, að áheitin verði til gæfu og óskir og þrár þeirra uppfyllist, sem á náðir hins helga verndarengile kirkjunnar á Strönd leita, hefur látið eftir sig glögg merki. Frásagnirnar um tákn þau og stórmerki, sem tengd eru Strandarkirkju og áheitunum á hana, myndu fylla margra binda bók, ef saman væru komnar í eina heild. Og þó yrði alltaf margfalt meira eftir, sem engar sagnir eru um og enginn kynni frá að greina. Strandarkirkja er fyrir löngu orðin í vitund íslenzkrar alþýðu helgur jarðteiknastaður, þar sem dásamlegir hlutir gerast. Því á að sýna henni alla þá lotningu og ræktarsemi, sem henni ber. Látum hana njóta þess friðar og þeirrar fegurðar, sem í mannanna valdi stendur að veita og með öðru getur stuðlað að því, að vitranir geti gerzt og hlið himinsins megi opnast yfir vorri ófullkomnu jörð.
Strandarkirkja-557En til þess að friðað verði áfram um Strandarkirkju, ekki síður en verið hefur allan þann tíma, sem hún hefur staðið einmana á afskekktri strönd, er nauðsynlegt að hafa um hana alla þá gæzlu, er firri hana átroðningi og skemmdum. Vegurinn um Krýsuvík og Selvog er nú langt kominn. Gert er jafnvel ráð fyrir, að honum verði lokið á þessu ári. Enginn vafi er á því, að mikið af þeirri gífurlegu umferð, sem nú er um Hellisheiði, færist þá yfir á þenna veg. Að minnsta kosti verður svo yfir vetrartímann.
Þá verður fjölsótt að Strandarkirkju og fullrar gæzlu og leiðsagnar þörf á þeim fjÖlsótta stað. Og einhverntíma kemur að því, að vegleg ný kirkja verði reist á hólnum, í stað þeirrar litlu og lágu, sem nú er þar. Það verður þegar Ísland er orðið þess megnugt að eiga sér háreist musteri. Hingað til hafa landsmenn verið of fátækir af jarðneskum auði til að reisa slík sýnileg tákn um lotningu sína og þökk til hins æðsta. En að koma til Strandarkirkju er að lifa upp í anda kvöl kynslóðanna og leit þeirra að líkn og náð. Það er sem maður skynji umkomuleysi þeirra, en jafnframt vonarneistann, sem lýsti í myrkrinu og hefur bjargað lífi þjóðarinnar til þessa dags.
Að koma til Strandarkirkju er að sjá sögu lands og þjóðar í leiftursýn líðandi stundar. – Sveinn Sigurðsson“

Heimild:
-Eimreiðin, 54. árg. 1948, 3-4. hefti, bls. 252-258.

Strandarkirkja

Klukka Strandarkirkju.

Sýslusteinn

Gengið var frá Sýslusteini í Seljabót, um 20 mínútna gang eftir greiðfærri götu í gegnum Herdísarvíkurhraun, niður með sýslugirðingunni. Hún er á mörkum Gullbringusýslu og Árnessýslu í línu úr Seljabót um Sýslustein og áfram upp að Kóngsfelli. Í örnefnalýsingu fyrir Herdísarvík segir m.a.: „Á Seljabót eru landa- og sýslumörk. Landamörk milli Herdísarvíkur og Krýsuvíkur og sýslumörk milli Gullbringusýslu og Árnessýslu. Seljabótarnef er þessi staður nefndur. Þarna má sjá selrústir gamlar…“

Herdísarvíkursel

Herdísarvíkursel.

Í Bótinni var gamla réttin skoðuð og síðan gengið upp í Herdísarvíkursel, sem liggur undir hraunkantinum u.þ.b. 5 mínútum ofan við ströndina í austnorðaustur. Selið er þrjú hús og lambastekkur framar. Hreyfing var á logninu, en þegar komið var undir hraunkantinn varð hreyfingin að engu.
Í örnefnalýsingunni segir að „Gamlivegur er götuslóði, er liggur upp á Seljabót, upp undir austurhorn Geitahlíðar.“ Gamlavegi var fylgt upp hraunið að upphafsstað.

Herdísarvík

Herdísarvíkurvegir – uppdráttur ÓSÁ.

Þá var gengið upp Selstíg ofan við Hlíðarvatn. Haldið var upp í Selbrekkur, en þar má enn sjá tóttir Stakkavíkurselsins.

Til að nota góða veðrið var ákveðið að halda áfram upp Stakkavíkurveginn, yfir Dýjabrekkur, að Vestur-Ásum og að Hvalskarði þar sem hann og Selvogsgatan koma saman. Þá var haldið niður Stakkavíkurveginn til baka og komið við í tóftum fjárhúss í Stakkavíkurhrauni skammt fyrir neðan þjóðveginn.
Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Stakkavík

Stakkavík – uppdráttur ÓSÁ.

Krýsuvíkurhellir

Gengið var frá Sýslusteini að Herdísarvíkurseli og þaðan í Seljabót. Síðan var gengið vestur með ströndinni. Um er að ræða magnaða leið.

Krýsuvíkurbjarg

Krýsuvíkurbjarg.

Fjölbreytilegt ber fyrir augu, hvort sem um er að ræða stórbrotið útsýni eða merkileg náttúrfyrirbæri. Leitað var að Skyggnisþúfu. Hún fannst nokkurn veginn miðja vegu á milli Seljabótar og Keflavíkur. Á henni er varða og í vörðunni er hólf sem skilaboð á milli bæja voru látin í. Skammt vestan hennar er stórbrotinn djúpur svelgur ofan í jörðina og sér út á hafið í gegnum stórt gat á honum. Nokkru vestan var gengið ofan í Keflavík eftir stíg. Þar er gróið undir bjarginu, en framar eru lábarðir steinar. Af þeim, horft til austurs með berginu, er hár og fallegur gatklettur út í sjó – stórbrotið útsýni.

Keflavík

Keflavík í Krýsuvík – einnig nefnd Kirkjufjara. Þangað áttu kirkjur norðan Reykjanesskaga rekaítök fyrrum.

Vestan Keflavíkur eru leyfarnar af gamla Krýsuvíkurbjarginu, en hraun hefur síðan runnið allt um kring og út í sjó. Sjá má gömlu hamrana standa tígurlega upp úr á smá kafla. Á þeim eru svonefndir Geldingasteinar, mosavaxnir gulbrúnir steinar, en grasi gróið í kringum þá. Liggur rekagata vestur með ströndinni frá þeim, neðan gamla bergsins, sem nýtt hraun hefur runnið fram af og framlengt ströndina sunnan þeirra.

Krýsuvíkurhellir

Krýsuvíkurhellir.

Gengið var ofan gömlu hamrana, yfir mosahraun og var þá komið að helli er gæti verið hinn týndi Krýsuvíkurhellir. Snjór var framan við opið og var að sjá hleðslur ofan þess. Tekinn var punktur og verður hellirinn skoðaður betur við tækifæri. Neðan hellisins er nýja bergið og liggur gömul gata efst á því. Honum var fylgt til vesturs og opnaðist þá stórkostlega sýn vestur Krýsvíkurbjargið, hátt og tignarlegt. Fram af því steyptist Eystri-lækur og hefur hann varla í annan tíma sést jafn vel og núna. Frábært myndefni – með hæstu fossum á landinu.

Eystri-Bergsendi

Horft vestur yfir krýsuvíkurbjarg frá Eystri-Bergsenda.

Þegar komið var út á Bergsenda var strikið tekið að Sundvörðunni ofan við bjargbrúnina skammt vestar, síðan upp í fjárhellir í Litlahrauni og loks komið við í réttinni og fjárhústóttinni ofan hans áður en haldið var að Krýsuvíkurrétt undir Eldborgum.
Þessi gönguleið er ein sú stórbrotnasta, sem hægt er að fara á Reykjanesi og ættu sem flestir að nýta sér það tækifæri í góðu veðri.

Keflavík

Keflavík.

Gapi

Gengið var á Strandarhæð ofan við Selvog að Gaphelli. Heimildir herma að hann hafi rúmað sex tugi fjár. Framan við hann er Gapstekkur. Þaðan var haldið að Strandarhelli austan í hæðinni.

Ólafarsel

Ólafarsel.

Í hellinum, sem er vel rúmur að innanmáli, var haldið fé á öldum fyrrum. Sunnar er Bjargarhellir.
Þá var gengið mót Vörðufelli. Á fellinu er gamla lögrétt Selvogsbúa, Vörðurétt eða Selvogsrétt. Hún er fallega hlaðin, almenningur austast, innan dráttur og dilkar um kring. Notkun hennar var hætt árið 1924. Syðst á fellinu er Markavarða og undan henni klöpp með áklöppuðu krossmarki.

Vörðufell

Vörðufell – LM/krossmark?

Í örnefnaskrá Ölfushrepps er sagt að þar eigi að vera stafurinn M, en um krossmarkið eru greinilegar gamlar sprungur beggja vegna. Efsti hluti steinsins hefur brotnað frá. Krossinn er greinilega áklappaður. Á fellinu eru einnig urmull smávarða, en sagt er að smalar hefðu hlaðið vörðurnar og áttu þær að uppskera fundvísi að launum. Víðsýnt er af fellinu þótt það sé ekki hátt.
Suðaustan við Vörðufell er sel. Það er, skv. gömlum heimildum, Ólafarsel. Tóttirnar er mjög vel greinilegar. Stekkur er austan við tóftirnar. Enn austar eru tóftir Eimubóls og hellar. Hlaðið er fyrir op þeirra. Í einu jarðfallinu eru greinilegar gamlar tóttir tveggja húsa, sennilega eldri en selstóttirnar ofan þeirra. Hægt er að ganga í gegnum og á milli hellanna.

Vindássel

Vindássel í Strandarheiði.

Vestar eru tóftir Vindássels. Norðar er Hellholt. Efst á því er fallegur hellir, stór og mikill. Utan í holtinu eru margir aðrir hellar. Vestan við holtið, suðaustan Svörtubjarga, eru greinilegar tóttir tveggja selja eða heiðarbæjar. Utan í hól eru a.m.k. þrjú fjárhús og annað langhús að auki. Ekki eru til heimildir um sel eða bæ þennan, en líklegt má telja að þarna hafi verið selstaða frá Strönd eða Strandarbæjunum (Strandarsel/Staðarsel).

Eiríksvarða

Eiríksvarða á Svörtubjörgum.

Útsýni vestur með Svörtubjörgum og áfram með Herdísarvíkurhlíðum er ægifagurt. Í hæðinni suðvestan undan selinu eru fallegir hellar og ofan á Svörtubjörgum trjónir Eiríksvarða, reist af Eiríki, presti og galdramanni, í Vogsósum árið 1710. Hann lést árið 1716. Á meðan hún stendur á Selvogi að vera óhætt fyrir ránsmönnum. Varðan er fjórar steinaraðir, fallega hlaðin og stendur reisuleg fremst á björgunum.

Girðingarrétt

Girðingarrétt.

Sunnan við selið er hellir með miklum hleðslum. Ofan við opið er hlaðin stekkur. Austan hans má sjá móta fyrir tóft undir hraunhól. Suðaustar í heiðinni er Girðingarréttin, öðru nafni Selvogsréttin eldri eða Gamlarétt.
Á bakaleiðinni sást til refa við leik á Selvogsheiðinni. Heiðin lætur ekki mikið yfir sér, en í henni má finna fjölmargar minjar, sem áhugavert er að halda til haga.
Frábært veður – Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Girdingarrett-1

FERLIRsfélagar í Girðingarrétt með Þórarni Snorrasyni.