Eftirfarandi grein birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins árið 1985. Efnið er að miklu leiti byggt á upplýsingum frá Rafni Bjarnasyni, kirkjuverði, frá Þorkelsgerði í Selvogi. Hann lést ári seinna, eða 31. ágúst 1986.
„Út við ysta haf, þar sem kaldar bárur kveða við grátt fjörugrjótið, stendur kirkja sem sögð er reist að tilvísun yfirnáttúrulegra afla. Allar götur síðan kirkjan var reist fyrir árhundruðum hafa heitar bænir stigið upp af hrjáðum brjóstum og menn boðið gull og gersemar gegn því að kirkjan á Strönd komi til móts við óskir þeirra, verði vel við áheitum, kyrri úfinn sjó, bjargi fjárhag heimila, lækni sjúka, veki ást í köldum hjörtum og láti óbyrjum fæðast börn, svo eitthvað sé nefnt af því sem menn hafa heitið á Strandarkirkju í Selvogi að rættist.
Hvað veldur þessari bjargföstu trú fólks á þessari kirkju? Er það þörfin fyrir sterka forsjón sem glepur mönnum sýn eða getur einu guðshúsi verið gefinn slíkur máttur — máttur til að hnika til forlögum og snúa illu til góðs. Það veit enginn en hitt er ljóst að margur telur sig hafa verið bænheyrðan, það geta áheitin sem renna til kirkjunnar borið vitni um.
Sögusagnir um tilurð kirkjunnar vekja spurningar hjá þeim sem eiga viðdvöl í Strandarkirkju, nöturlegt umhverfið eykur fremur á þessa spurn en hitt. Stöku melgrasskúfar gera örvæntingarfulla tilraun til að hemja gráan sandinn sem þyrlast um í vindinum, meðan hvítt brimið lemur fjörugrjótið með þungum ekkasogum. Þarna verða menn að geta í eyðurnar. Skip var að koma úr hafi. Veður höfðu verið válynd, vistir skipverja þrotnar og vatn gengið til þurrðar. Hagir skipverja hörmulegir. Þeir höfðu mátt velkjast lengi í hafi, komu frá Noregi með tilhögginn við í Skálholtsbæ. Nú var ekki annað sýnna en skip, áhöfn og viður mundi þá og þegar skolast niður í grængolandi Atlantshafið. Skipstjórinn kvað sér hljóðs og stakk upp á að menn hétu því að byggja kirkju á þeim stað sem þá bæri að landi, auðnaðist þeim að ná landi. Menn bundu þetta fastmælum.
Skömmu síðar sigla þeir upp undir land í Selvogi en óttuðust strand og freistuðu þess að venda skipinu frá. Þá sjá þeir skínandi hvíta veru með krossmark í hendi gera þeim bendingu að lenda á ströndinni. Þeir fóru eftir bendingu verunnar og náðu landi heilu og höldnu. Þar sem þeir lentu heitir síðan Engiisvík. Veran hvarf þeim sjónum en þeir komust að því að þeir höfðu lent í landi Strandar í Selvogi. Skipverjar byggðu þar síðan kirkju beint upp af Engilsvík að fengnu leyfi Árna Þorlákssonar biskups i Skálholti. Hann gaf leyfi sitt til kirkjubyggingarinnar með því skilyrði að hin nýja kirkja yrði sóknarkirkja en áður hafði kirkjan i Nesi gegnt því hlutverki. Varð vegur hennar eftir þetta æ minni þar til að hún var aflögð á átjándu öld. Kirkjan á Strönd hefur verið sóknarkirkja í Selvogshreppi síðan þessir atburðir gerðust.
Þessi sögn um tilurð Strandarkirkju hefur gengið mann fram af manni í Selvogi og alla tíð hefur kirkjan sú þótt góð til áheita. Áheit fóru að berast strax frá upphafi, einkanlega frá sjómönnum og Norðmönnum. Munir og fé, ekki síður munir, þvi almenningur hafði ekki mikið fé handbært á þeim tíma. Skógarhögg átti kirkjan í Noregi i langan tíma auk ýmiskonar annarra hlunninda sem voru áheit til kirkjunnar.
Jörðin Strönd í Selvogi var eitt sinn höfuðból og sátu hana lögmenn af kyni Erlendar ólafssonar sterka sem var norskur að ætterni. Sátu ættmenn Erlendar Strönd í 400 ár eða 14 ættliðir. Sonur hans var Haukur lögmaður, sá er ritaði Hauksbók.
Höfuðbólið Strönd varð sandinum að bráð. Sandurinn berst með suðurströndinni austan frá jöklum, hleðst upp í víkum og vogum og fer að fjúka þegar mikið er orðið af honum. Strönd fór í eyði um 1700 vegna sandfoksins. Þegar Brynjólfur biskup Sveinsson vísiterar að Strönd haustið 1670 gerir biskup sóknarmönnum að skyldu að halda vel uppi kirkjugarði „eftir skyldu sinni, eftir því sem saman kemur, að kirkjan verjist fyrir sandfjúki“.
Þó sandurinn eirði engu stóð Strandarkirkja af sér áhlaup hans, en árið 1749 kom ungur prestur að Selvogi, Einar Jónsson. Tveimur árum síðar vísiterar Ólafur biskup Gíslason Strandarkirkju. Hún er þá 15 ára gömul en biskup segir að súðin og grind sé víða fúin. „Húsið stendur á eyðisandi, svo hér er mikið bágt að fremja guðsþjónustur í stormum og stórviðrum. Er því mikið nauðsynlegt að hún sé flutt í annan hentugri stað.“ Prestur bað þessu næst biskup og Pingel stiftamtmann leyfis að flytja kirkjuna að Vogsósum og sendi með beiðninni meðmæli Illuga Jónssonar prófasts. Segir þar ennfremur að „stundum nái sandskaflarnir upp á miðja veggi kirkjunnar. Þarna sé ekkert afdrep og fólk kveinki sér við því að sækja kirkju sé nokkuð að veðri“. Var ákveðið að kirkjan skyldi flutt til Vogsósa innan tveggja ára.
Selvogsmenn voru þessari ráðstöfun mjög mótfallnir og töldu að kirkjan mundi glata helgi sinni ef hún fengi ekki að standa á þeim stað er forsjónin hafði valið henni. Endalok þessa máls urðu þau að prestur flosnaði frá prestskap í Selvogi tveimur árum eftir að beiðnin um flutning Strandarkirkju kom fram. Ólafur biskup andaðist ári eftir að hann fyrirskipaði kirkjuflutninginn. Pingel stiftamtmaður hrökklaðist frá embætti nokkru seinna og Illugi prófastur andaðist um svipað leyti. Taldi almenningur að þeim hefði hefnst fyrir — Strandarkirkja borgaði alltaf fyrir sig.
Sóknarmenn Strandarkirkju hafa staðfastlega trúað því að hún myndi glata helgi sinni yrði hún færð og hafa staðið sem klettur gegn öllum slíkum fyrirætlunum og þess vegna stendur kirkjan enn á sama stað.
Fyrsta kirkjan á Strönd var úr norsku timbri eins og fyrr sagði. Margrét frá Öxnafelli hefur oft komið í Strandarkirkju og hún lætur hafa eftir sér á einum stað að hún hafi, þegar hún stóð eitt sinn í fjftrunni fyrir neðan kirkjuna, séð skip Norðmannanna koma að landi og mennina bera viðinn í hlaða. Gat hún lýst mönnunum nákvæmlega, útliti og búningi. Kvað hún þá vera fimmtán eða sextán. Seinna voru torfkirkjur byggðar á Strönd. Elsta lýsing á slíkri kirkju á Strönd er frá árinu 1624: „Kirkjan nýsmíðuð, fimm bitar á lofti auk stafnbitanna, kórinn alþiljaður, lasinn predikunarstóll. Öll óþiljuð undir bitana bæði í kórnum og framkirkjunni. Einnig fyrir altarinu, utan kjórþilið.“ Torfkirkjur stóðu að jafnaði í um 30 ár og ekki er að sjá að hin miklu auðæfi Strandarkirkju hafi verið auðsæ af gerð hennar eða búnaði.
Árið 1735 skipar Jón biskup Árnason að reisa þar nýja kirkju. Er hún komin upp ári seinna og sögð væn og vel standandi og svo um hana búið að utanverðu að sandurinn gengur ekki inn í hana. „Hennar grundvöllur hefir ogso verið mikið hækkaður að hún verst langtum betur en áður sandinum að utanverðu.“
Þorvaldur Thoroddsen kemur að Strandarkirkju sumarið 1883. Segir hann að Strandarkirkja, sem svo margir heiti á, standi nú ein fjarri byggð á kringlóttum grasfleti (kirkjugarði) sem vindurinn hefir rifið sandinn frá, svo hátt sé niður af honum til allra hliða en enginn garður í kring.
Það var kvöld eitt fyrir skömmu að blaðamaður Morgunblaðsins og ljósmyndari tóku sér ferð á hendur suður í Selvog til að skoða hina fornfrægu Strandarkirkju. Rafn Bjarnason bóndi i Þorkelsgerði I, sem er annar bær frá kirkjunni, er meðhjálpari í kirkjunni og manna fróðastur um hana. Hann hafði lofað að sýna kirkjuna og spjalla við blaðamann.
Rafn kannast við gefið loforð og býður komumönnum í bæinn. Í stofunni eru tvær stórar myndir af Strandarkirkju og gamalt orgel úr kirkjunni. Rafn tekur aðra myndina ofan af veggnum og segir okkur að timburkirkju þessa hafi ömmubróðir sinn, Sigurður Arnórsson snikkari, smíðað árið 1887 með aðstoð eins lærlings. Þeir félagar héldu til í skúr meðan á smiðinni stóð. Bróðir Sigurðar, Árni, bjó þá í Þorkelsgerði I. Hann átti rennibekk og var það mikið hagræði fyrir kirkjusmiðinn að geta notað hann. Timbrið fékk hann beint frá Noregi, það kom á skútu og var orgel frá Vestur-Þýskalandi. Róbert A. Ottósson hafði veg og vanda af orgelsmíðinni erlendis, tók sjálfur nákvæmt mál af þvi rúmi sem orgelinu var ætlað.
Rafn Bjarnason leggur á það mikla áherslu að það væri óframkvæmanlegt fyrir fámennan söfnuð eins og nú er í Selvogshreppi, um 14 manns, að halda kirkjunni sómasamlega við ef ekki kæmi til áheitaféð. Árið 1887 voru í Selvogshreppi rúmt hundrað manns svo fólki þar hefur fækkað mikið. Strandarkirkja hefur og stöndum norpandi á kirkjutröppunum á meðan í kuldastrekkingnum, horfum á dökk rigningarský og hlustum á beljandi hafið. „Það er sjaldan hljótt við ströndina,“ segir Rafn um leið og hann opnar kirkjudyrnar.
Það er hljótt inni i guðshúsinu og ósjálfrátt stigur maður varlega niður á rautt gólfteppið. Í fordyri kirkjunnar er innrömmuð bæn eftir Sigurð Pálsson vígslubiskup, skrautrituð af kaþólskum nunnum og hefst svo: Þetta er ekkert venjulegt hús, heldur himinn á jörðu. Því Drottinn himnanna býr hér.
Rafn leiðir okkur inn i helgidóminn. Altaristaflan er eftir Sigurð Guðmundsson málara frá árinu 1865. Litirnir eru þó enn bjartir og skírir. Númerataflan er einnig frá 1865. Hún hangir á vegg í horninu til vinstri handar þegar inn er komið. Þar stóð áður kórinn og söng. 1968 var byggt söngloft. Kirkjan er öll þiljuð með við en í gömlu kirkjunni var að sögn Rafns blá hvelfing með gylltum stjörnum sem honum fannst mikill sjónarsviptir að. Í lofti hanga þrjár ljósakrónur. Sú i miðið er úr skornu gleri, keypt i Þýskalandi og er eitthvað á annað hundrað ára gömul. Kirkjan á einnig kaleik frá þrettándu öld, geflnn af Ivari Hólm Vigfússyni, góðan og veglegan grip. Kaleikurinn er talinn vera þýskur og fundist hefur þar í landi kaleikur sem steyptur er í sama mót og kaleikur Strandarkirkju.
Í skrúðhúsi hanga á vegg sérkennilegir kransar tveir, gerðir úr glerperlum þræddum á band svo þær mynda ýmiskonar mynstur. Slíkir kransar voru lagðir á leiði fyrirmanna fyrri tíma og mundi Rafn eftir þremur slikum frá því hann var barn. Annar kransinn í skrúðhúsinu var lagður á leiði séra Eggerts Sigfússonar sem var prestur í Vogsósum og dó 1908. Eftir dauða hans tilheyrði Strandarkirkja Arnarbælisprestakalli. Séra Tómas Guðmundsson í Hveragerði þjónar kirkjunni nú. Þegar séra Eggert dó höfðu myndast um hann margar sagnir. Sumt af því er skráð í Austantórum Jóns Pálssonar. Sem prestur var séra Eggert skyldurækinn með afbrigðum en hann var sjaldan „biblíufastur“ og fór ekki ávallt stranglega eftir fyrirmælum kirkjunnar né kennidómsins. Því sagði hann einhverju sinni: „Þegar ég skíri barn, gifti hjón eða jarða framliðna sleppi ég ölium kjánaskap úr handbókinni.“ Var hann þá spurður: „Hvaða kjánaskapur er það?“ „Kjánaskapur,“ sagði séra Eggert. „Hvort það er. Eða hvað er þetta til dæmis, sem ætlast er til að lesið sé yfir brúðhjónunum: „Með sótt skaltu börn þín fæða o.s.frv.? Þarf að segja nokkurri konu það að hún muni verða eitthvað lasin um það leyti, sem hún elur barn? Ætli hún megi ekki búast við því, eins og aðrar konur. Og hvað þýðir að segja næturgömlu barni, að það sé fætt i synd eða dauðum manni, að hann verði að mold, er eigi upp að rísa?
En svona eru nú fyrirskipanir kirkjunnar. Margar þeirra eru kjánaskapur, og því fer sem fer um trúna.“
Séra Eggert var lærður maður. Einhverju sinni kom til hans þýsksur prófessor að Vogsósum og áttu þeir tal saman á latinu. „En hann flaskaði einu sinni á því,“ sagði séra Eggert, „að nota þolfall i stað þágufalls. Ekki var það gott.“
Annar nafntogaður klerkur sat á Vogsósum, séra Eiríkur Magnússon, sem kallaður var galdramaður og af fara margar sögur. Hann dó 1716. Rafn Bjarnason segir okkur að hann sé fimmti maður frá séra Eiriki og hann kann af þessum forfoður sínum margar sögur. Eitt sinn komu Tyrkir í Selvog. Eiríkur var þá staddur í verslun í Hafnarfirði. Hann bað búðarpiltinn að vera fljótan að afgreiða sig, það væru komnir gestir í Selvog. Leið hans heim lá vestan við Svörtubjörg sem kölluð eru. Hann hlóð vörðu fram á Svörtubjörgum, fremst á bjarginu og mælti svo um að meðan steinn standi yfir steini í vörðunni muni ekki ófriður granda Selvogi. Kvaðst Rafn muna eftir jarðskjálfta þegar flestir hlaðnir veggir hrundu en varðan stóð það af sér. Rafn kvað gámalt fólk hafa sagt sér að varðan haf i ekki breyst neitt frá því það mundi fyrst eftir. Hleðslur eru þó yfirleitt fljótar að hrynja í jarðskjálftum, sérstaklega við fjöll. Í síðasta jarðskjálfta sagði Rafn að allar vegghleðslur í Herdisarvík hafi hrunið og einnig hrunið úr fjallinu en varðan hans Eiríks hafi ekki haggast. Hún er nú orðin a.m.k. þrjú hundruð ára.
Fólk úr söfnuði séra Eiríks hafði áhyggjur af sáluhjálp hans eftir dauðann, þar sem hann var þekktur fyrir fjölkynngi. En Eiríkur sagði að þeir gætu séð það hvort hann færi vel eða illa við jarðarförina. Ef hann færi vel ætti að vera heiðskírt veður og gera skúr á meðan athöfnin stæði yfir. Svo áttu að koma tveir fuglar og setjast á kirkjuburstina meðan á athöfninni stæði og þeir myndu rífast. Ef sá svarti hefði betur færi hann illa en vel ef sá hvíti hefði betur. Þetta gekk allt eftir og sóknarbörnum séra Eiríks til mikillar gleði hafði hvíti fuglinn betur.
Eitt sinn komu tveir strákar til séra Eiríks og báðu hann að kenna sér galdur. Fór hann þá með þá út í fjós, þar sem gömul kona, hálfblind og vesöl, var fyrir. Hann hvíslaði að þeim að hann skyldi kenna þeim galdur ef þeir dræpu kerlinguna. Þá sagði annar að það væri nú ekki mikið, þetta væri hrörlegt gamalmenni. Hinn sagðist ekki vinna það fyrir galdur að drepa konuna. Þá sagði séra Eiríkur: „Þér kenni ég en hinum ekki, hann svifst einskis.“ Rafn lét það fylgja sögunum að séra Eiríkur væri grafinn fyrir framan altarið í Strandarkirkju. Má hafa það til marks um vinsældir séra Eiríks.
Áheit til Strandarkirkju berast ýmist til biskupsskrifstofu, til sóknarnefndarformanns, Rafns Bjarnasonar, til prófasts og vígslubiskups og í fleiri staði. Hæsta áheit sem Rafn vissi til að kirkjunni hefði borist var 60 þúsund krónur árið 1968 en sú upphæð er a.m.k. 120 þúsund krónur samkvæmt núgildandi verðlagi.
Rafn segir að kirkjunni berist árlega mikið fé vegna áheita frá útlendingum, einkanlega frá Norðurlöndum. Strandarkirkja mun enda vera ein mesta áheitakirkja Norðurlanda og þó víðar væri leitað.
Rafn segir okkur einnig að það komi oft fyrir að fólk komi utan af landi og láti gifta sig í Strandarkirkju, ekki síst sjómenn. „Þeir hafa oft kynnst kirkjunni ungir,“ segir Rafn, „það sagði mér eitt sinn skipstjóri að háseti hjá honum hefði heitið á kirkjuna ef það gerði þrjá landlegudaga. Það gekk eftir. Þetta urðu hans fyrstu kynni af Strandarkirkju, dóttir þessa skipstjóra var gift í kirkjunni. Það sagði mér merkur maður ekki fyrir löngu,“ heldur Rafn áfram, „að hann hafi verið að koma frá Vestmannaeyjum. Ætlunin var að skipið kæmi við á Eyrarbakka og skilaði þar af sér mönnum. Þegar komið er að sundinu við Eyrarbakka sjá þeir að búið er að flagga frá, sundið var ófært. Þarna var einn maður um borð sem þurfti endilega inn á Bakkann og hann heitir á Strandarkirkju ef þeir komist inn. Þeir hinkra aðeins við utan við sundið, þá gerist það allt í einu að sundið lygnir og þeir keyra inn fyrir. Þegar þeir líta til baka þá brýtur yfir aftur. Þeir komust ekki til baka að sinni en maðurinn komst sinna erinda.“
Kristín hét kona Kristjánsen frá Skarðshömrum í Borgarfirði. Hún var lengi hjúkrunarkona í Ameríku. Hún var skyggn kona. Hún sagði Rafni svofellda sögu: „Ég hafði höggvið mig í fótinn og það kom dauði í fótinn á mér.
Læknarnir sögðu að þeir gætu ekki bjargað mér nema taka fótinn af en það gat ég ekki hugsað mér. Svo var það eitt sinn að ég sé í herberginu hjá mér altaristöflu með mynd af upprisunni og stendur gullnum stöfum „Strandarkirkja“ fyrir neðan. Mér fannst eins og hvislað að mér að ég skuli heita á Strandarkirkju að ég fái að halda fætinum. Ég gerði það og uppúr því fór fóturinn á mér að smá hvítna. Læknarnir botnuðu ekkert í þessum bata en fætinum hélt ég.“ Rafn kvað Kristínu hafa komið að Strandarkirkju fjögur sumur í röð og ævinlega gekk hún óhölt.
Rafn heldur áfram að segja sögur af Strandarkirkju: „Hann sagði mér, Sigurður Nordal, sem var svo merkur maður, gáfaðasti maður landsins á sinni tíð, að hann hafi haldið mikið upp á Strandarkirkju, hann hét oft á hana. Hann var einu sinni á leið til Danmerkur og kunningjar hans fleiri. Þegar þeir koma inn á ytri höfnina í Kaupmannahöfn þá setur yfir svarta þoku. Þá lagðist skipið við akkeri. Þegar svo var komið segir Sigurður við kunningja sína að hann þurfi að vera kominn fyrir vissan tíma erinda sinna í Kaupmannahöfn og það líti ekki vel út með það vegna þokunnar svo nú þurfi hann að heita á Strandarkirkju. Þeir brostu að þessu hjá honum. Hann sagði mér að það hefðu liðið svo sem tíu mínútur, þá létti þokunni og hann komst í tæka tíð inn í borgina. Þegar kunningjar hans sáu að þokunni var að létta hrópuðu þeir: „Við viljum vera með í áheitinu.“
Þegar séra Matthías Jochumsson sat í Odda var hann eitt sinn sem oftar að hlaða heyi í heygarð. Þá týnir hann gullhring sem vinur hans gaf honum í Danmörku og þótti honum sárt að týna hringnum. Þá heitir hann á Strandarkirkju að hringurinn finnist. Eftir það var haldið áfram að leita og gullhringurinn góði kom í leitirnar. Þarna var ung stúlka hjá Matthíasi og varð henni þetta minnisstætt. Hafði hún aldrei fyrr heyrt Strandarkirkju nefnda en Matthías hafði mikla trú á Strandarkirkju.
Það voru oft miklir skipskaðar á hafinu undan Selvoginum. Rafn sagðist muna eftir einni skútu sem strandaði beint fyrir neðan kirkjuna. Það björguðust allir af henni. Enskur togari fórst á sama stað, þá björguðust allir nema einn. Menn tóluðu um að hann hafi ekki viljað bjargast, honum hafi verið send taug en hann hafi sleppt henni.
Þegar út er komið horfir styttan Landsýn þögul og dökk til hafs og kríur garga yfir henni ógnandi. Styttan er eftir Gunnfríði Jónsdóttur og var komið fyrir á hól við kirkjuna árið 1950, hún á að tákna engilinn sem vísaði leiðina. Þegar við göngum frá kirkjunni nemur Rafn staðar um stund, lætur kirkjulyklana ofan í vasa sinn, horfir yfir dimman sandinn og segir svo: „Hér voru 18 hurðir á járnum hjá Erlendi lögmanni.“ Og heldur svo áfram: „Bræður mínir fundu hér gullhringa í hólum þar sem bærinn Strönd stóð. Hringarnir eru nú á Þjóðminjasafninu.“
Þegar við erum sest inn í bílinn segir Rafn okkur að erfitt sé að taka grafir i Strandarkirkjugarði, það verði að nota sérstaka grafkassa sem rennt er niður í jörðina jafnóðum og grafið er, sandurinn sé svo laus. „En þær varðveitast vel kisturnar í þessum garði,“ heldur hann áfram, „það sér ekki á málningu eftir tíu ár.“
Heimild:
-Morgunblaðið, sunnudagsblað, 18. ágúst 1985, bls. 4-7.
Strandarkirkja – altaristaflan.