Tag Archive for: Ölfus

Brennisteinsfjöll

Ætlunin var að ganga upp Fagradal og inn í Brennisteinsfjöll. Tilgangurinn var að skoða bæði Kistuhella og Kistufellshella, og jafnvel Eldborgarhella. Í Kistuhrauni eru þekktir á þriðja tug hella eins og KIS-24 (yfir 1000m langur), Snjólfur fullan af dropsteinum, KIS-21, KIS-07, KIS-09, KST-07, KST-06 og hellirinn KIS-09 er sérlega áhugaverður hellir og þar er margt að skoða. Í Kistufelli eru rúmur tugur hella og það stórir, líkt og KST-05 (Loftgeimur), KST-06 (Kistufellsgeimur), KST-07 (Jökulgeimur) og KST-08 (Ískjallarann). Í Eldborgarhrauni er vitað um á annan tug hella, margir af þeim smáir, en þó einnig stórir s.s. FERLIR(enn ókannaður að hluta) og Lýðveldishellir.
útsýniSvæðið á Brennisteinsfjöllum (Kistufell, Kista og Eldborg) er ótrúlegur undraheimur … ósnertir litskrúðugir hellar og einstök náttúrufyrirbæri … og því nauðsynlegt að standa vörð um þessa einstöku veröld.
Upp úr Hvammadal var fylgt gömlum stíg upp hraunfoss, sem kemur þar niður hlíðina að sunnanverðu. Þennan stíg var m.a. farið á milli Kaldársels og Krýsuvíkur, en í seinni tíð einkum af rjúpnaveiðimönnum og göngufólki. Þegar upp á brúnina var komið var beygt til vinstri því ætlunin var að fylgja stíg austur með brúninni yfir á slétta hraunshellu Kistuhrauns, sem liggur þar milli Kistufellshraunsins í austri og Eldborgarhraunsins í vestri. Undir hinu síðarnefnda og vestar sjást fleiri Eldborgarhraun.
Á leið upp á brúnina kom í ljós stórt gat niður í u.þ.b. 30 m rás. Neðri hlutinn endar þar sem koma saman gólf og loft. Hafri er í gólfi. Efri hlutinn endar í hruni, en annað minna op er ofar. Eflaust væri hægt að fara lengra inn og áfram undir hraunið með viðeigandi búnaði. Rásin var nefnd Hvammabrúnshellir.

Hvamma

Eftir að gengið hafi verið fyrir gróft apalhraunið ofan brúnarinnar var komið inn á slétt og bert helluhraunið. Að spölkorn genginni var komið var upp á brúnina. Þaðan blasti við hið fallegasta útsýni; Kistufell lengst til vinstri (602 m.y.s), Kistugígarnir í miðið og Eldborg (570 m.y.s.) (Eldborgir) lengst til hægri. Auðvelt var að sjá hvernig landið lá framundan. Handyrtur þátttakandi festi útsýnið á blað, enda ekki hægt að taka mynd af því á eitt myndskeið. Við þessa mikilfenglegu sýn hallaði einn leiðangursmanna sér að öðrum og sagði: „Veistu hvenær þú ert kominn á leiðarenda?'“ „Við dauðann“, svaraði hinn að bragði. „Nei“, ekki alveg, dauðinn er einungis lokaáfanginn. Þú ert loksins kominn á leiðarenda þegar þú getur snert sjóndeildarhringinn. Sjáðu“, sagði hann, og teygði fram höndina mót fjallahringnum þar sem himinn og jörð runnu saman.

Brennisteinsfjöll

Ofan Fagradals.

Á leiðinni upp eftir komu í ljós nokkur falleg vatnsstæði í grónum bollum grunnra hraunrása. Í einni þeirra voru op inn í sæmilegar rásir. Tekin voru hnit, en rásirnar ekki skoðaðar að þessu sinni.
Þegar komið var undir brúnir Kistu var haldið upp eftir vestanverðum hlíðunum og staðnæmst við op Lýðveldishellis (KIS-30). Hellir þessi er skammt neðan (suðaustan) undir lítilli eldborg austan undir brúnum Háborgar (Eldborgar þeirrar er stendur hæst á brúnum Brennisteinsfjalla, en Eldborgin sjálf er skammt norðar, mjög umfangsmikil, en stendur lágt í hrauninu. Hæst ber norðurbrún hennar). Guðmundur Löve og Þröstur Jónsson fundu þennan helli árið 1994, þann 17. júní. Þeir voru þá á ferð þarna í mikilli þoku og rigningu þegar þeir svo til duttu niður um opið á þessum 200 metra helli. FERLIR leitaði hans á sínum tíma og uppgötvaði þá Þjóðhátíðarhelli Norðamanna (HVM-07), en þann dag bar einmitt upp á 17. maí. Hellisopin eru ekki langt frá hvoru öðru, en reyndar í sitt hvoru hrauninu.

17. maíÞá var stefnan tekin á FERLIR suðvestan undir Háborginni. Hellirinn, sem er með þeim litskrúðugri á landinu, var skoðaður hátt og lágt. Í fyrstu virtist hluti neðri rásarinnar hafa hrunið að hluta því hinn fallegi og einstaki grænleiti hraunfoss fannst ekki við fyrstu sín. Þegar reyndari hellamenn fóru síðan um rásirnar og beygðu inn í þær á réttum stöðum kom hann í ljós, á sínum stað og óskemmdur.
Næst var tekið hús á Kistuhellunum nokkur austar. Kistuhraun er suðsuðvestan við Kistufell, nær miðja vegu milli Kistufells og Eldborgar í Brennisteinsfjöllum. Efst á brúnum er mikil hraunbunga sem nefnd hefur verið Kista. Eldstöðin samanstendur einkum af tveim stórum gígum. Gígarnir eru báðir sporöskjulaga og hvor um sig um 150 metrar á lengd. Kringum eldvörpin sem hafa verið virk samtímis hefur hlaðist upp mikil hraunbunga. Svo virðist sem hrauntjörn hafi verið í gígunum um tíma og þá haft afrennsli um hraunhella.
Hraunið leggst ofan á Kistufellshraun í norðri og Hvammahraun í suðri og því yngra en þau enda talið runnið nálægt árinu 1000 eða um það leyti sem íslenskir ráðamenn voru keyptir til þess af norsku hirðinni að taka upp kristna trú og má því með sanni kalla kristnitökuhraun. Hraunið er hér nefnt Kistuhraun í heild sinni en sumstaðar er sá hluti þess sem rann niður af Lönguhlíð ofan Breiðdals nefnt Breiðdalshraun.

JökulgeimirÍ nóvember 2002 héldu Björn Símonarson, James Begley og Jakob Þór Guðbjartsson til hellaleitar í Brennisteinsfjöll. Var gengið í átt að Kistufelli. Í hrauninu milli Kistufells og Eldborgar á Brennisteinsfjöllum skráðu þeir félagar 16 hella. Þeir tilheyra flestir sama kerfi og eru því göt í sama hraunstraumi. Heildarlengd hraunrásarkerfisins er um 600 metrar, þ.e. vegalengdin frá upptökum að þeim stað sem nýrri hraun renna yfir er um 600 metrar. Kerfið er nokkuð flókið og rennur í mörgum samsíða hraunrásum. Rásirna eru frá 10 m á lengd og upp í 1000m. Þarna eru m.a. tveir hellar hlið við hlið (KIS-5) með fallegum flórum. í KIS-07 renna þrjár rásir saman og mynda fallega og stóra rás. Góð lofthæð, rennslisform, fallegir bekkir og gljáandi veggir. Heildarlengd hellisins er um 130 metrar. Um nokkuð flókinn helli er að ræða með nokkrum hellismunnum. Í KIS-09, sem er um 130 metrar á lengd, er um að ræða flókið kerfi sem liggur í a.m.k. tveim samsíða rásum sem tengjast með þröngum göngum. Í hellinum eru fallegir hraunfossar og ísmyndanir. KIS-24 er mikill og glæsilegur hellir með mörgum fallegum göngum. Þunnfljótandi hraunlag hefur slétt út gólfin og myndað þunna skán. Afhellar eru hingað og þangað. Ein rásin liggur þvert á meginrás og úr henni nokkrar aðrar. Fallegir bálkar með veggjum og litadýrð. Gljáfægðir separ í loftum, hraunsúlur og svo mætti lengi telja. Nokkrar 100 metra rásir eru þarna og fjölmargar styttri eða hringrásir. Þarna væri hægt að dvelja klukkustundum, eða jafnvel dögum saman og alltaf finna eitthvað nýtt.

Í BrennisteinsfjallahellumHellirinn er langt í frá fullkannaður en heildarlengd hans hefur verið áætluð 800 metrar. Þá má nefna KIS-27, sem einnig hefur verið nefndur Sá græni. Þessi hellir sem fékk viðurnefnið „Sá græni“ er um 240 metra langur. Niðurfallið er djúpt og í því gróður sem hellirinn dregur nafn sitt af. Þaðan eru um 40 metra löng göng upp eftir rennslisstefnu hraunsins og tvenn göng niðureftir, önnur um 60 metrar og hin um 140 metra löng. Fremur þröngt er víðast í hellinum og á sumum stöðum skiptast göngin í þrenn göng sem sameinast síðan aftur.
Þá var haldið yfir að hraunróti norðaustan hellasvæðis Kistu. Á leiðinni var gengið fram á tvö op. Undir því fyrra var um 100m rás. Hafraður hraunflór var í botninum. Þegar gengið var upp eftir rásinni var hægt að komast upp um op þar. Skammt norðar var lítið gat niður í jörðina og grönn rás. Hún var ekki könnuð að þessu sinni. Hæðin, sem myndar undirstöðu Kistunnar er mun eldra, líklega frá sama tíma og Kistufellið. Gróið er í sauminn svo auðvelt var að fylgja honum upp í Kistuna. Kistan er, eins og fram hefur komið, tvö eldvörp, um 120m hvort. Út frá þeim liggja fallegar hrauntraðir, bæði til suðurs og norðurs.
Í BrennisteinsfjöllumÞegar komið var niður að hinum stóru Kistufellshellum var ákveðið að fara einungis inn í einn þeirra að þessu sinni, Jökulgeimi. Snjór var framan við opið, en þegar inn var komið blasti við hvítt jökulgólfið, grýlukerti úr loftum og fallegir „ísdropsteinar“ á gólfi. Hitastigið inni var rétt um frostmark og það í júlí. Ekki var haldið inn yfir hrunið og inn í rásina að þessu sinni.
Skammt norðvestan við hellasvæðið var myndarlegt vatnsból. Þegar komið var inn á slétt Eldborgarhraunið á nýjan leik með stefnu niður að Fagradalsbrún kom í ljós op. Inn undir þar var u.þ.b. 30m löng rás, alveg heil, sem opnaðist í hinn endann. Botninn er sléttur, hæðin um 2m og breiddin um 5 m. Henni var gefið nafnið Opið. Erfitt er að koma auga á það í annars sléttri hraunhellunni, en við það eru tveir steinar, annar ofan í hinum.

Ferðin niður að Fagradalsbrún gekk vel, sem og niðurgangan. Útsýni er fallegt ofan af brúninni yfir Breiðdal, Undirhlíðar, Háuhnúka, Móskarðshnúka og yfir nánast allt höfðuborgarsvæðið að handan.
Björn Hróarsson hafði fyrir skömmu farið á þær hellaslóðir, sem lýst hefur verið. Hann flaug þangað með þyrlu. Sú ferð tók hann 12 mín. Hann lenti þá við Lýðveldishellinn og varð þar eftir með öllum búnaði. Að því búnu heimsótti hann 18 hella og fann einn nýjan fullan af dropsteinum er hann nefndi Snjólf. Sá hellir fannst ekki í þessari FERLIRsferð.

ÚtsýniVið athugun Björn kom í ljós að Lýðveldishellirinn er í Kistuhrauni en ekki í hraunum Eldborgar. Þá gekk hann á Eldborg, skoðaði gatið við Eldborgina (HVM-19), þá yfir í Þokuslæðing (Áttatíumetrahelli) og þaðan í Þjóðhátíðardagshelli Norðmanna, í Ferlir og dvaldi þar um stund, þá inn fyrir fimm hellismunna í KIS-24 og þvældist þar lengi … „Báða þessa hella þarf að kortleggja en það kæmi mér ekki á óvart þótt þær væru yfir kílómetri hvor um sig“ … gekk þá upp Kistuhraunið að meintum helli við hraundrýli (KIS-15) en var ekki markvert, gekk þá um eldvörp Kistunnar og fann þar hellinn Snjólf fullan af dropsteinum, þaðan var haldið í hellana vestur frá Kistu og margir þeirra skoðaðir og myndaðir, svo sem þessir og fleiri, KIS-21, KIS-07, KIS-09, KST-07, KST-06, hellirinn KIS-09 er sérlega áhugaverður hellir og þar margt að skoða … „Þá var gengið að Kistufellshellunum … og þar sem annars staðar á svæðinu tókst mér að laga lýsingar verulega“ … dvaldi hvað lengst í KST-05 (Loftgeimur) en einnig í KST-06 (Kistufellsgeim), KST-07 (Jökulgeim) og KST-08 (Ískjallarann) … gekk þaðan að gígnum og síðan töluvert á einhverja vitlausa punkta … og þaðan að götunum sem við tókum punkta á í snjónum (fyrir ári)… með mikilli leit í og með að götunum tveim … þau fundust ekki … og annað gatið sem við tókum punkt af í snjónum var ekki neitt…
Kistufell En hitt alveg geggjað … það er um 7 metra djúp gjóta og mér tókst að klifra þangað niður (og upp aftur) við illan leik … á botni þessarar 7 metra djúpu gjótu sést niður í hellisrás milli tveggja grjóthnullunga sem varna för niður í hellinn … Þarna þarf sem sagt vaska menn með járnkarla …. til að opna niður og um að gera að benda þeim á sem næst verða þarna á ferðinni með járnkarla í hendi að fara niður og færa til grjótið …. hafa þarf þó línu því það er ekki á allra færi að klifra niður og upp úr holunni … þaðan var gengið fram á brún Kerlingargils og niður það við illan leik … enda byrðin mikil og þreytan enn meiri … úrvinda komum við niður að bifreið sem beið okkar neðan Kerlingargils …. þá var klukkan korter yfir eitt eitt eftir miðnætti … og tók ferðin þvi 17 klukkustundir … og mátti ekki lengri vera … en hefði tekið um 20 klukkustundir ef ekki hefði verið notast við þyrlu … en var held ek vel varið … í það minnsta batnaði lýsingin á svæðinu og hellum þess verulega.“
Lokaorðin verða Björns og er óhætt að taka undir sérhvert orð með honum: „Svæðið þarna uppi á Brennisteinsfjöllum (Kistufell, Kista og Eldborg) er ótrúlegur undraheimur … og ósnertur … við þurfum að standa vörð um þessa einstöku veröld.“
Ferðin, sem tók 12 klst, var í einu orði einstök – enda gengið um einstakt svæði. Af því var gengið í 5 klst og 45 mín. Frábært veður.

Í Brennisteinsfjöllum

Í Brennisteinsfjöllum.

Torfdalur

Torfdalur er ofan Breiðabólstaðar í Ölfusi. Ofan hans eru Krossfjöll. Fyrir nokkru var skoðuð þar tóft, sem reyndar er merkt inn á kort.

Torfdalur

Annars er Torfdalsnafnið þekkt víðar um land, s.s. vestur í Grímarsfelli, suðaustan Reykjafells. Líklegt hefur verið talið að nafnið sé til komið vegna torfristu og/eða mótekju fyrrum, sbr. eftirfarandi örnefnalýsingu Ölfuss; „Torfdalur – örnefni, rista – dæld í hraunið, vestan engjagötunnar, blautur, góður torfvöllur. Þar var skorið mikið torf til einangrunnar á Hitaveitu Reykjavíkur 1939.“ Hér er átt við Núpa undir Núpafjalli sunnan Kamba í Ölfusi. Víða eru og til sambærileg heiti, s.s. Torfufell, Torfufellsdalur, Torfastaðir o.s.frv.
Þegar haldið var á ný í Torfdal fyrir skömmu fundust tvær aðrar tóftir, og jafnvel sú fjórða.
Fyrsta myndin sýnir vörðu á hjallanum ofan dalsins og niður á gatnamót þar en um dalinn liggur gömul gata (götur), sem kemur úr Krossfjöllunum. Í þeim eru margar þjóðgötur og krossgötur og telja má líklegt að nafn fjallsins sé tilkomið af þeim.
Í örnefnalýsingu fyrir Breiðabólstað kemur m.a. eftirfarandi fram um nýtingu og minjar í dalnum: „Mómýri – heimild um mógrafir;
Suður frá Krossfjöllum austanverðum, austan Ása er allstór dalur. Innsti hluti hans heitir Torfdalur. Innst í honum er mýri sem heitir Mómýri. Þar var tekinn mór.“ Einnig er til önnur heimild í nefndri örnefnaskrá um nýtingu dalsins, sbr. eftirfarandi: „Mókofi – heimild um mókofa; Sunnan við Mómýri er dálítil slétt vallendisflöt, sem heitir Torfdalsflöt. Á henni miðju eru rústir, sennilega mókofarústir.“
Torfdalur Til að fá meiri heimildir um Torfdalsnafnið var Örnefnastofnun rituð beiðni um frekari upplýsingar og útskýringar á því. Ekki stóð á svari stofnunarinnar að venju: „Þegar leitað var í Sarpi komu upp komu 93 skjöl (og síðan 2 til viðbótar) þar sem Torfdal er að finna. Að vísu eru dalirnir ekki alveg svona margir því að stundum eru fleiri en eitt og jafnvel fleiri en tvö skjöl um sömu jörð, en margir eru þeir, og þar sem ekki nærri allt örnefnasafnið er í Sarpi má vel margfalda þessa tölu með tveimur. Leitað var í margar þessar skrár – ekki þó allar því að það er seinlegt að leita í kerfinu – og mjög víða er ekkert minnst á torfristu eða annað sem skýrir nafnið. En þrátt fyrir það fundust mörg dæmi þar sem tekið er fram að í Torfdal sé torfrista eða -skurður. Má í því sambandi nefna bæi s.s. Svínhagi á Rangárvöllum, Brandsstaðir í Blöndudal, Hellisholt og Núpstún í Hrunamannahreppi, Grashóll á Sléttu, Feigsdalur í Arnarfirði, Bjarg í Miðfirði, Hróardalur í Skagafirði, Helgadalur í Mosfellssveit (Grímansfell), Torfastaðir í Grafningi og loks Núpar í Ölfusi þar sem skorið var torf til einangrunar fyrir Hitaveitu Reykjavíkur 1939. Af þessu má e.t.v. draga þá ályktun að Torfdalur dragi langoftast – ef ekki alltaf – nafn af torfskurði, hugsanlega mótaki því að torf merkir að fornu bæði grastorf og mór („elditorf“). Í landi Breiðabólstaðar í Ölfusi er einmitt Mómýri í Torfdal en það þarf þó alls ekki að vera að dalurinn hafi fengið nafn af mónum, þar gat líka verið torfrista þó þess sé ekki getið. Fyrir kemur orðmyndin Tordalur en telja má að það sé aðeins framburðaratriði, „f“ hefur tilhneigingu til að detta út í þessari stöðu.

Torfdalur Í gamallli örnefnaskrá Núpstúns í Hrunamannahreppi er því haldið fram að nafn dalsins, Tordals, sé af því að torvelt hafi verið að komast með hesta niður í hann, en bóndi sem þar er fæddur og uppalinn og hefur búið alla sína tíð hrekur þá kenningu í nýrri skrá. Stundum er tekið fram að slægjur séu í Torfdal eða eitthvað sagt um gróðurfar, og á einum stað – í Botni í Tálknafirði – er skógur í Torfdal. Að lokum má benda á grein um Torfa- og Torfustaði sem Þórhallur Vilmundarson skrifar í Grímni 1 (1980).“
Framangreint er hið ágætasta svar og útskýrir nafngiftina prýðilega út frá nýtingu og örðum nytjum.
Á annarri mynd sést niður á flötina þar sem tvær tóftir eru í Torfdal neðan Krossfjalla, önnur er með grjóti í, þessi nær en hin er mestmegnis úr torfi og er að sjá vinstra megin við grjóttóftina alveg við rof sem er þarna fyrir framan lækinn. Einn steinn sést í þeirri tóft.
Á þriðju myndinni sést enn eldri tóft, sem er ofar í dalnum með rofi umhverfis og er staf stungi niður í hana. Þar nálægt er ferköntuð gröf, trúlega mógröf. Við neðri tóftirnar er vatnslögn sem kemur úr gilinu efst en ólíklegt er að þessar tóftir tengist henni eitthvað. Athugandi er að gaumgæfa þetta svæði betur við tækifæri.
Að lokum má geta þess að í leiðinni var gengið fram á 10 urtandaregg í hreiðri, sem næstum var búi að stíga ofan á. En það kom nú öndinni til góða að þjálfaðir sjáendur eru með jafnan með augun allsstaðar, einnig næst sér.

Heimildir m.a.:
-Ö-Breiðabólsstaður.
-Ö-Núpar.
-Örnefnastofun – Jónína Hafsteinsdóttir.

Urtönd

Urtönd.

Miðdalur

Ætlunin var að ganga um Miðdal frá Fremstadal og inn í Innstadal. Þar átti að skoða betur aðstöðu útilegumanna, sem höfðust við í dalnum um miðja 18. öld. Enn má sjá minjar í og undir hamri norðan í dalnum, auk þess sem óvíða er litadýrðin meiri en í nálægu Hveragili.
ÖlkeldanDalir þessir hafa einnig verið nefndir Hengladalir. Um þá rennur Hengladalaáin. Dalir þessir hafa einnig verið nefndir Hengladalir. Í Miðdal (Þrengslum) er Ölkelda. Sagt er að hver sá sem laugar lasinn líkamshluta í keldunni muni alheill verða.

Fyrsta hindrunin var skapillur starfsmaður Orkuveitunnar. Sagði hann FERLIRsþátttakendur ekkert eiga með það að gera að fara um svæðið – þetta væri vinnusvæði. Ekki var þó að sjá að maðurinn væri að vinna, einungis að leggja sig fram við að brúka kjaft við saklausa skoðendur. Til þess hafði hann bæði ökutæki og búnað frá Orkuveitunni – og eflaust á fullu kaupi. Ef þetta er dæmigert viðmót starfsfólks orkuversins á Hellisheiði gagnvart áhugasömu göngufólki um Hengilssvæðið þá þarf það hið sama að endurmeta afstöðu sína til umgengisréttarins við landið. Virkjunarheimild felur ekki í sér rétt til að rífa kjaft við allt og alla.

Litskrúð

Hengill er eitt svipmestu fjöllum í grennd við Reykjavík. Hengill telst til stapafjalla en er mjög sprunginn og hagaður. Hæstur er hann að norðanvestanverðu þar sem heitir Skeggi eða Vörðu Skeggi (803m yfir sjávarmáli). Hengill er aðallega úr móbergi en grágrýtishrúður er uppi á honum. Í sleggju sem gengur uppi á fjallinu er líparít. Jarðhiti er utan í Hengli á nokkrum stöðum. Sunnan við Hengil eru þrjú dalverpi. Vestastur er innsti dalur, þá Miðdalur en Fremstidalur er austastur. Úr þeim fellur Hengladalaá. Í innsta dal, sem liggur milli Hengils og Skarðsmýrarfjalls (597 m.y.s.), er einn mesti gufuhver landsins.
Í ÞrengslumVíðar er jarðhiti í Hengladölum. Þar er einnig ölkelda, sem fyrr sagði. Örskammt norðvestur af gufuhvernum í Innstadal er hár móbergsklettur og ofarlega í honum hellirinn sem í eru mannvistarleifar. En ekki er fært í hann nema góðum klettamönnum. Ýmsar sagnir eru til um útilegumenn í Henglinum fyrr á öldum (sjá meira HÉR).

Þegar komið er fyrir Litla Skarðsmýrarfjall er komið inn í Fremstadal, flatlendan og grösugan. Haldið var upp með ánni og þar til heldur þrengist um og var þá komið í Miðdal. Þar inn af er skarð er Þrengsli heita. Í Þrengslunum er ölkeldan. Þegar að henni var komið var að henni mátti sjá að um var að ræða hverauga með um 100° heitu vatni. Út frá því og umhverfis höfðu orðið til stallaðar og sepalaga kísilmyndanir í ýmsum litum. Þegar vatn úr keldunni var borið við augun varð sá hinn sami alsjáandi. Annar bar vatn úr henni á enni sér og mundi hann samstundist hvað hafði gerst fyrir a.m.k. tveimur dögum síðan. Það er því ljóst að sögur af heilsusamleika ölkelduvatnsins eru meira en bara orðin tóm.

Hengill

Slóðin heldur áfram með suðurhlið dalsins sem er grasi gróinn og sléttur, girtur fjöllum allan hringinn, Hengillinn í allri sinni dýrð til norðurs. Til norðvesturs gengur gil upp í Hengilinn með tignarlegum klettabeltum þar má ganga á Vörðu-Skeggja þó ekki sé það stikuð leið. Að austanverðu er gróið hraun, þar þrengist dalurinn. Lækur rennur eftir dalnum sem verður að Hengladalsá og síðar Varmá, lækjarvatnið er gott til að fylla á drykkjarílát. Í hrauninu er vegprestur sem skiptir leiðum, önnur áfram til austurs yfir á Ölkelduháls, hin til norðurs upp á Vörðu-Skeggja.

Lækur

Áður en farið er í Þrengslin þarf að komast yfir ánna, annað hvort með því að stikla hana eða vaða. Ef menn eru í góðum gönguskóm má víða fara hana á ferðinni og í stóru skrefi án þess að verða svo mikið sem rakir í fæturnar. Þetta er ekki meira vatnsfall en svo. Best er að fara um Þrengslin norðan árinnar vegna þess að hinu megin eru klettar og brattir melar, auk þess minna að sjá.

Í ÞrengslunumEftir að hafa hækkað sig eilítið í Þrengslunum er komið upp í Innstadal og þar gæti þurft enn og aftur að komast yfir Hengladalaánna, á sama hátt og áður en þarna er nokkuð auðvelt að stikla hana. Þarna í Þrengslunum er mikil litadýrð norðan árinnar. Þar er önnur ölkelda og lindaraugu líkt og víða í dölunum.

Hengilssvæðið er á miðju vestra gosbelti landsins, sem nær frá Reykjanesi að Langjökli. Berggrunnur er að mestu móberg sem myndast hefur í gosum undir jökli á síðustu jökulskeiðum ísaldar. Grafningsmegin á svæðinu er röð móbergshryggja sem fylgja ríkjandi sprungustefnu NASV og ganga út í Þingvallavatn.
GígurÁ Hengilssvæðinu eru þrjú eldstöðvakerfi með megineldstöðvum, hverum og laugum. Þetta eru Hveragerðiseldstöð, Hrómundartindskerfi og Hengilskerfi sem er yngst og virkast. Eftir ísöld eru þekkt fjögur til fimm sprungugos á svæðinu. Síðast gaus fyrir um 2.000 árum á 30 km langri sprungu sem náði frá Þrengslum, um Hellisheiði, Innstadal og í Sandey í Þingvallavatni. Þá rann yngsta hraunið á Hellisheiði og Nesjahraun í Grafningi.
Síðast voru umbrot í Hengilskerfinu árið 1789. Þá gliðnaði og seig spilda á sprungubelti sem liggur yfir Dyrafjöll og Hestvík og norður yfir Þingvallavatn milli Almannagjár og Hrafnagjár.
Þá seig land um einn til tvo metra. Hverir og laugar finnast í öllum eldstöðvakerfunum, en þó mest í Hengilskerfinu. Þekktustu hverasvæðin eru í Reykjadal, á Ölkelduhálsi, ofan við Nesjavelli og í Innstadal.

Litadýrð

Kristján hóf störf hjá Jarðhitadeild Orkustofnunar, forvera ÍSOR, árið 1960. Hann lauk doktorsprófi í jarðfræði frá Háskólanum í Köln árið 1966 og var aðalviðfangsefni hans var kortlagning á jarðfræði Hengilsins. Kristján hefur verði með afkastamestu jarðfræðingum landsins. Hann hefur kortlagt drjúgan hluta þess í meiri smáatriðum en áður hafði verið gert og með vísindastörfum sínum lagt þung lóð á vogarskálar nútímaskilnings á jarðfræði landsins og þeim öflum sem móta hana. Megináherslan í starfi Kristjáns hefur þó falist jarðhitaleit vítt og breitt um land. Er óhætt að segja að enginn einn maður hafi átt jafndrjúgan þátt í þeim mikla árangri sem náðst hefur á því sviði á Íslandi og Kristján. Fáar eru þær hitaveitur þar sem hann hefur ekki komið að málum.

Fyrir landnám óx birkiskógur með fjölbreyttum undirgróðri upp í 3-400 metra yfir sjávarmáli á svæðinu. Ofar tók við harðgerður og lágvaxinn fjallagróður og samfelld gróðurþekja náði upp í 5-600 metra hæð. Smám saman breyttist gróðurfar í kjölfar kólnandi veðurfars, skógarnytja og búsetu. Nú er samfellt birkikjarr á afmörkuðum svæðum upp af Þingvallavatni. Birkistofninn er kræklóttur og lágvaxinn en getur þó náð tveggja metra hæð. Fjölbreytni í gróðri er allmikil, en grasaættin er einkennandi og útbreiddust. Margar gerðir mólendis eru á svæðinu, en það er mest áberandi í Grafningi. Í Ölfusi er land grösugra, en graslendi nær þó sjaldnast yfir stór samfelld svæði. Á láglendi eru stærstu votlendissvæðin við Villingavatn, Króksmýri og í Dælum austan við Úlfljótsvatnsfjall, auk minni mýrlenda við tjarnir og læki. Allstórt og fjölbreytt flóasvæði er í Fremstadal.
VetrarblómMýrastör er jafnan ríkjandi tegund í mýrum. Strjáll bersvæðisgróður vex á melum, en tegundafjöldi er þó mikill. Þar má nefna geldingahnapp, lambagras, blávingul, blóðberg, músareyra, holurt og holtasóley. Í Nesjahrauni er samfelld breiða af gamburmosa, sem er landnámsplanta á hraunum. Mosinn myndar jarðveg fyrir aðrar tegundir og þar dafna krækilyng, bláberjalyng, blávingull, kornsúra, móasef, túnvingull, hvítmaðra, grávíðir og fleiri tegundir.

Ölkelda (úr öl + kelda sem þýðir í fornnorsku „uppspretta“ eða „lind“) er uppspretta vatns sem inniheldur koltvísýring, en hann á uppruna sinn í storknandi kviku í iðrum Jarðar. Koldíoxíði kemur úr storknandi kviku í iðrum jarðar. Ef menn taka vatn með sér úr ölkeldu dofnar kolsýran fljótt ef vatnið er ekki geymt í lofttæmdum umbúðum. Vatnið úr ölkeldum þykir hressandi drukkið á staðnum og er vatnið ýmist heitt eða kalt. Ölkeldur finnast um allan heim og eru sumar þeirra þekktar sem heilsulindir (Sigurður Þórarinsson, 1978).

Ölkeldur eru kaldar eða rétt volgar uppsprettur sem finnast á háhitasvæðum og oft í jöðrum þeirra. Yfirleitt eru þær járnmengaðar og bragðvondar og vatnið rauðbrúnleitt, jafnvel svo liti heilu lækina. Vatn úr þeim köldustu sem mest ólga af kolsýrunni er drekkandi þótt brúnleitt sé.

Lóuegg

Í Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar frá 18. öld, er fjallað um ölkeldur á Snæfellsnesi. Þar telja þeir ölkeldur bæta Snæfellsnesi þann missi að hafa ekki neitt heitt vatn. Í ferðabókinni eru ölkeldur skilgreindar sem „uppsprettur sem eru auðugar af málmsöltum og með bragðmiklu vatni“. Eggert og Bjarni reyndu að flytja ölkelduvatn með sér til Kaupmannahafnar en vatnið skemmdist á leiðinni. Þeir félagar álitu að ölkeldur gætu orðið til mikilla hagsbóta fyrir Íslendinga því í öðrum löndum væru hressingarhæli oft byggð nálægt ölkeldum. Enn hefur þó lítið verið gert til að nýta það ölkelduvatn sem finnst á Íslandi.

Í HveragiliGufu- og leirhverir finnast aðeins á háhitasvæðum. Í raun er um samskonar hveri að ræða og því eru þeir oft flokkaðir saman. Í leirhverum nær vatnið upp í hvernum en í gufuhverum er svo djúpt á grunnvatnið að ekkert vatn er sýnilegt. Í gufuhverum leitar vatn yfir suðumarki til yfirborðsins og streymir þar út sem gufa. Í raun getur sami hverinn verið bæði gufu- og leirhver, bara ekki á sama tíma. Í miklum þurrkum getur leirhver þornað upp og orðið að gufuhver. Leir hveranna samanstendur af vatni og soðnu umbreyttu bergi.
Vatnshverir eru einkennandi fyrir lághitasvæði en finnast líka í einhverju mæli á háhitasvæðum. Vatnshverir á sama jarðhitasvæðinu liggja oftast nær í beinni línu eða í þyrpingum sem ná frá tugum til hundruð metra í lengd. Venjulega má þá finna sprungu undir hveraröðinni sem gefur til kynna að heita vatnið eigi upptök sín þar.

SkjólHellir útilegumannanna var skoðaður sem og undirliggjandi minjar. Undir stórum steini mátti sjá votta fyrir hleðslum. Bæði höfðu þær fallið inn á gólfið og regnvatn hafði fært sand og möl inn í skúta sem þar er. Staðurinn hefur verið hið ágætasta afdrep fyrir þá sem vildu leynast fyrir ferðum fólks um Innstadal því ekkert af því hefði átt erindi þangað að hömrunum.
Til baka var gengið frá upprunalindum Hengladalaárinnar og meðfram henni að upphafsstað.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.
Ölkeldan

Innstidalur

Stefnan var tekin á Innstadal í Hengli. Ekki var genginn hinn hefðbundni stígur upp Sleggjubeinsskarð syðst í dalinn heldur haldið niður af norðvesturbrúnum (Vesturása) Skarðsmýrarfjalls, um gönguskarð, sem þar er og fáir fara að jafnaði um. Þaðan er hið ágætasta yfirsýn yfir gjörvallan dalinn sem og umlykjandi fjöll, auk þess sem ekki tekur ekki nema nokkrar mínútur að snerta dalbotninn.
GöngusvæðiðÞegar niður var komið var gengið um grasgróninga til norðurs, áleiðis að Lindarbæ, skála nyst í dalnum, skammt neðan við Hveragilið. Það sem vakti sérstaka athygli á leiðinni var a.m.k. tvennt; annars vegar greinilega fjölfarin hestagata langsum eftir dalnum upp úr Grafningi (Miðdal og Fremstadal) og hins vegar nýlegri hraunmyndun. Svo virðist sem lítið gos hafi komið upp í dalnum löngu eftir myndunina (sjá meira um jarðfræðina hér á eftir), sennilega u.þ.b. þúsund árum fyrir norrænt landnám.
ReiðgatanÁ leiðinni var gengið fram á tvær grafir, greinilega teknar af jarðfræðingum er hafa verið að skoða góskulög í dalnum. Grafirnar voru í lægð á milli barða, en ekki utan í börðunum, sem eðlilegra væri, vildu þeir sjá tímabilið allt. En hvað um það; landnámsöskulagið var greinilegt í sniðunu á u.þ.b. 40 cm dýpi eða á rúmlega metersdýpi að börðunum meðtöldum. Segir það nokkuð til um nýmyndunina í dalnum, en af umhverfinu mátti ljóst vera að lækir hafa runnið um hann úr nálægum hlíðum og flutt niður með sér mikið magn jarðvegs. Grónir farvegir eru víða um dalinn svo sjá má að núverandi lækir hafa áður leikið sér annars staðar en nú gerist.
LambhóllÍ örnefnalýsingu Þorsteins Bjarnasonar frá Háholti um „Örnefni í Henglinum og hálendinu, sem er áfast við hann“, segir m.a. um Innstadal: „Sunnan í Henglinum eru þessir dalir; Innstidalur, og austur frá honum Miðdalur og Fremstidalur. Milli dalanna eru Þrengslin og inni í þeim er Lambhóll. Úr þesum dölum rennur Hengladalaá, en við ána er Smjörþýfi. Skarðamýrar eru áfastar við Fremstadal, og sunnan við Skarðsmýrar er Skarðsmýrarfjall.“

Mikill jarðhiti er í Innstadal. Mikið er um hveri, gíga og heitt vatn í dalnum. Og einn mesti gufuhver landsins er í Innstadal. Stefnan var m.a. tekin á gilið er hýsir hverinn, en áður var huga beint að bæði jarðfræðinni og fyrrum útilegumannahelli innst í Innstadal.

Jarðvegssnið„Hengill er eitt svipmestu fjöllum í grennd við Reykjavík. Hengill telst til stapafjalla en er mjög sprunginn og hagaður. Hæstur er hann að norðanvestanverðu þar sem heitir Skeggi eða Vörðu Skeggi (803m yfir sjávarmáli). Hengill er aðallega úr móbergi en grágrýtishrúður er uppi á honum. Í sleggju sem gengur uppi á fjallinu er líparít. Jarðhiti er utan í Hengli á nokkrum stöðum. Sunnan við Hengil eru þrjú dalverpi. Vestastur er Innstidalur, þá Miðdalur en Fremstidalur er austastur. Úr þeim fellur Hengladalaá. Í Innstadal, sem liggur milli Hengils og Skarðsmýrarfjalls (597 m.y.s.), er einn mesti gufuhver landsins. Víðar er jarðhiti í Hengladölum. Þar er einnig ölkelda [norðan í Miðdal]. Örskammt norðvestur af gufuhvernum í Innstadal er hár móbergsklettur og ofarlega í honum hellir sem í eru mannvistarleifar. [Reyndar er ekki um kletta að ræða heldur standberg. Margir klettar eru undir því.] En ekki er fært í hann nema góðum klettamönnum. Ýmsar sagnir eru til um útilegumenn í Henglinum fyrr á öldum.

Innstidalur

Hengilssvæði nær yfir tvær megineldstöðvar og nágrenni þeirra. Önnur, Hveragerðieldstöðin, er útdauð og sundurgrafin. Hin er virk og nær yfir Hengil og Hrómundartind. Hún skiptist í tvær gosreinar. Önnur liggur gegnum Henglafjöll, hin um Hrómundartind. Gosmyndanir á Hengilssvæðinu spanna um 800.000 ár í aldri. Elstu jarðlögin er að finna í ásunum suðaustan við Hveragerði, en yngst eru hraunin sem flætt hafa frá gosreininni gegnum Hengil. Þar á milli skipar sér fjölbreytt jarðlagsyrpa þar sem skiptast á móberg frá jökulskeiðum og hraunlög frá hlýskeiðum. Berggrunnur Hengilssvæðisins er að mestu úr móbergi. Um 500 metrum undir móberginu eru basalthraunlög. 

Hveragil

Grafningsmegin á svæðinu má finna röð móbergshryggja sem fylgja sprungustefnu. Í jörðum svæðisins kemur grágrýti fram undan móberginu. Jarðskorpuhreyfingar í gliðnunarbelti eins og verið hefur á hengilssvæðum allan þann tíma sem jarðsaga þess spannar sýna sig í gjám og misgengjum og hallandi jarðlögum á jaðarsvæðunum. Skjálftabelti Suðurlands gengur austan frá inn í Hengilssvæðið. Sprungur tengdar því eru þekktar í Fram-Grafningi, um alla Hveragerðiseldstöðina og vestur á Hálsa við Skálafell. Jarðskjálftar eru tíðir, en smáir á þessu svæði, nema þegar suðurlandsskjálftar ganga yfir. Um 24.000 jarðskjálftar af stærðinni 0.5 (á Richter) eða stærri voru mældir á árunum 1993 til 1997. Sá stærsti var 4.1 á Richter.

Brennisteinn

Gosmyndanir á Hengilssvæðinu eru fjölbreyttar og byggist á því hvort og hversu þykkur Jökull lá yfir svæðinu þegar gosinn urðu. Aðalgerðir eldstöðvana eru þó einugis tvær, tengdar sprungugosum og dyngjugosum. Á vestanverðu Hengilssvæðinu er landslagið mótað af gosmyndunum sem þar hafa hlaðist upp á síðasta jökulskeiði og á nútíma (þ.e. eftir ísöld). Austan til hafa roföflin hins vegar mótað það. Úrkoma á Hengilssvæðunum er mikil, raunar með því mesta sem hefur mælst á landinu. Á austanverðu Hengilssvæðinu eru stöðugar lindir og lækir einugis þar sem jarðlögin eru svo ummynduð að þau haldi vatni. Annars sígur þar allt vatn í jörð eða rennur stuttan tíma í leysingum. Á austanverðu svæðinu renna ár og lækir allt árið um kring. Í sumum er lindaþátturinn stór, en allar mega þær þó fremur teljast dragár. Heita vatnið á Hengilssvæðinu er álitið vera á eins til þriggja km dýpi. Á mörgum stöðum á svæðinu nær þessi hiti að komast upp á yfirborðið. Þekktustu hverasvæðin eru í Reykjadal, á Ölkelduhálsi, ofan við Nesjavelli og í Innstadal. Hengilsvæðið er með þeim stærstu jarðhitasvæðum á landinu, eða um 100 ferkílómetrar. það er þó ekki allt sami suðupotturinn heldur er það a.m.k þrískipt: Hveragerðaeldstöðin, Ölkelduhálsvæðið og jarðhitasvæðið í Henglafjöllum. Boranir og virkjanir eiga sér stað á Nesjavöllum sem eru á vegum Orkuveitunnar. Einnig standa yfir miklar framkvæmdir á Hellisheiðarvirkjun, sem er á landi Kolviðarhóls. Þær framkvæmdir eru einnig á vegum Orkuveitu Reykjavíkur. Mikill jarðhiti eru í þessum jarðlögum. Regnvatn sem seytlar niður í berggrunninn og kemst í snertingu við heitt bergið þrýstist sjóðandi upp um sprungur og misgengi. En innskot frá kviku verða algengari því neðar sem dregur.“
HveragilslækurHér að framan er reyndar ekki minnst á hraunmyndunina í Innstadal, enda væri þar um að ræða nánari jarðfræðilega úttekt í dalnum og svæðinu umleikis. Eitt er það, sem vakti sérstaka athygli FERLIRs á þessari göngu, voru fagurmyndaðar og stórar hraunbombur er finna mátti í austanverðum dalnum. Benda þær til þess að þarna hafi um tíma verið kröftugt gjóskugos – þótt hraunmassinn frá því hafi ekki verið verulegur.
Eftir að hafa barið litadýrð Hveragils auga (ein ljósmynd segir meira en þúsund orð) var haldið upp og til vesturs með ofanverðum hömrunum, yfir gil og gjár. Upptök Hengladalsárinnar er þarna með öllum sínum grænsafaríku dýjamosum. Litskrúðið þar gefur Hveragilinu lítið eftir.

Hengladalsáin

Sagnir eru til um það að í helli í Innstadal hefðu verið menn sem komu sunnan úr Höfnum. Þeir hefðu verið áhafnar meðlimir af einhverju skipi en verið brottviknir fyrir einhver níðingsverk. Ekki bera heimildum saman um hversu lengi þeir höfðust við í þessum helli, sumir sögðu eitt sumar aðrir tvö ár. Það er ekki vitað með vissu. Talið er að þeir hafi verið 6 til 7 karlmenn og tvær hlutakonur. Þau lifðu á saufé sem þeir stálu frá bændum í Grafningi og Ölfusi. Bændur sátu síðan fyrir þeim og drápu, en ekki fyrr en eftir miklar eltingar. „Þjófahlaup“ í Henglinum er skýrt eftir þessar eftirfarir. Útilegumennirnir voru drepnir ýmist vestan í Henglinum eða á Mosfellsheiðinni. Konurnar voru fangaðar eftir mikið viðnám. Ekki er heldur vitað með vissu hvaða ár þetta var en talið er að það hafi verið í kringum 1700.   

Hellir þessi átti að hafa verið, sem fyrr segir, í Innstadal.
Heimildir skýra svo frá; „Norðan við sléttuna í dalsbotninum sé einn af mestu gufuhverum landsins, en örskammt norðvestur af honum er hár móbergsklettur. Ofarlega í þessum kletti er hellir og grastó fyrir framan hann. Hellismunninn sést strax og komið er yfir Sleggjuháls. Móbergið fyrir framan hellinn er mjög bratt og illkleift á tveggja til þriggja mannhæða kafla.

Syllan

Lýður Björnsson, sagnfræðingur, fór í þennan helli 1978. Hann skýrir svo frá að hellir þessi sé um 2 til 3 metra langur inn í botn og manngengur að framanverðu. Breiddin er um 2 metrar. Hlaðið hefur verið fyrir hellismunann en hleðslan er nær hrunin, fallin bæði inn og út. Talsvert var af beinum undir hellum í hellinum, mest stórgripabein. Engar leifar sáust af eldstæði eða ösku.
Eins og heimildir greina frá þá er verulega erfitt að klífa upp í þennan helli. Alls ekki ráðlagt fyrir fólk að reyna uppgöngu án sérhæfðar búnaðar og kunnáttu. Bergið fyrir framan hellinn er bæði mjög bratt og laust í sér.“

Heimildir eru að finna m.a. í lesbók MBL frá 1939, grein sem Þórður Sigurðsson „Tannastöðum“ skrifaði, Útilegumenn í Henglinum og endalok þeirra. Þar segir:

Útilegumenn í Henglinum og endalok þeirra

Hellirinn

Í annálum er þess getið, að útileguþjófar hjeldu til í henglafjöllum. Ekki er þó tekið til hvar í fjöllunum þeir hafi verið, en yfirleitt er afrjettur Grafningasmanna og Ölfusinga nefndur Henglafjöll í fyrri tíðar ritum. Þeirra er getið tvisvar að mig minnir, og að hafa að líkindum verið oftar, þó það sje ekki í frásögur fært. Í Nesjum í Grafningi höfðu þeir eini sinni vetursetu sína, en voru teknir og þeim refsað.
Þegar jeg var unglingur heyrði jeg sagt frá því, að útilegumenn hefðu verið í Henglinum; þeir hefðu haldið til í stórum helli og engin leið hafði verið að komast að þeim. Sagt var, að þeir hefðu komið sunnan úr Höfnum og væru þeir skipshöfn, sem hefði gert einhver níðingsverk, en aldrei heyrði jeg hver þau hefðu átt að vera.
Tóku þeir sjer nú stöðu í þessum helli og höfðust þar við, sumir sögðu í tvö ár, en aðrir aðeins eitt sumar, en hvort sannara er verður ekki vitað. Og ekki vissu menn heldur, hve margir þeir voru – jafnvel 6 eða 7, og tvær hlutakonur voru með þeim, og eru ef til vill líkur fyrir því.
Þeir höfðu með sjer langan kaðal eða stjórafæri og drógu konurnar upp í hellirinn og föng sín jafnóðum og þeir öfluðu þeirra, en það var mest sauðfje Ölfusinga og Grafningsmanna.
AðhaldNú þótti sveitamönnum hart á barið að verða að þola slíka óhæfu, en fengu ekki að gert um sinn. Er frá leið þá gerðu þeir ráð sitt og tóku sig saman eitt haust litlu fyrir fjallreið og lögðust í leyni margir saman úr báðum sveitum, Ölfusi og Grafningi – sem að vísu var þá sama þingsóknin – og bíða þess að hellisbúar færu úr hellinum í smalatúr og ætluðu þeim svo syndirnar og var þess skamt að bíða. Fóru nú allir úr hellinum, en sveitamenn skipuðu sjer sem fljótast fyrir hellisbergið að neðan og komu hellismenn innan skamms með fjárhóp. En nú var ekki greitt aðgöngu og enginn vegur að ná hellinum. Sveitamenn veittu strax svo harða aðsókn, að hinir hjeldust ekki við, enda var liðsmunur ákaflegur, því sveitamenn höfðu verið milli 50 og 60. Fjárrekstur útilegumanna tvístraðist brátt, enda gáfu menn þá engan gaum að fjenu.
SkessuketillHellsimenn tóku nú að flýja hver sem best mátti, en sveitamenn eltu þá af hinum mesta ákafa og mest þeir, sem fótfrástir voru. Allir komust hellismenn nokkuð langt undan og  vestan í Henglinum urðu mestar eltingar. Þar eru melar og skriður, segja kunnugir menn; eru þar kölluð „Þjófahlaupin“ enn í dag sem örnefni síðan. Allir voru hellsimenn drepnir, ýmist vestan í Henglinum, eða niður á Mosfellsheiði, því undan hlupu þeir slíku ofurefli meðan þeir gátu uppi staðið sökum mæði.
Nú voru hellismenn allir unnir, en fylgdarkonur þeirra voru enn í hellinum. Þær höfðu veitt hart viðnám, og svo er haft eftir þeim mönnum, sem í atförinni voru, að svo ilt sem hefði verið að sigra hellisbúa, þá hefði þó hálfu verra verið að vinna fylgikonur þeirra. En samt að lokum urðu þær teknar og fluttar burtu, og er ekki getið að þær sýndu neinn mótþróa eftir að þær komu undir annara manna hendur.
Jón hjet maður, sem kallaður var „yddú“, Jónsson ins harða í Ossabæ, Sigurðssonar Þorkelssonar Jónssonar.
HellisopiðJón var fæddur 1777. Hann var hverjum manni flínkari, ófyrirleitinn og harðfengur í meira lagi, nokkuð ertinn og kappsfullur, starfsmaður mikill og þrekmaður hinn mesti. Ekki fara sögur af honum í æsku. Hefir hann líklega alist upp hjá foreldrum sínum. Þegar hann var um tvítugsaldur var hann vinnmaður í Reykjakoti. Þá var það eitt sinn í fjallgöngum, að Jón kleif upp í þennan umtalaða hellir útilegumannanna. Ekki getur þess, að Jón fyndi þar neitt merkilegt, en öskuleifar litlar voru í einum stað utan við hellisopið, enda hefir alt verið tekið burt þaðan, hafi nokkuð verið að taka, þegar útilegumenn voru unnir.
InnstidalurNú var Jón í hellinum og hafði tvisvar gert tilraun að komast niður, en hikað við. Sá Jón nú, að ekki dugði, að vera þar til lengdar og rjeð því til enn að nýju og komst með naumindum alla leið niður fyrir hellisbergið og ómeiddur að öllu leyti. Hafði hann svo sagt, að ekki mundi hann leggja upp í aðra för í þann hellir. Hefir þetta verið kringum aldarmótin 1800, eftir því sem næst verður komist, og vita menn hjer ekki til að síðan hafi neinn maður farið upp í þennan hellir.
Það er og haft eftir Jóni „yddú“, að þegar útilegumennirnir komu með fjárhópinn, að þá hafi sveitarmenn skipað sjer í kring og slegið hring um þá, en þó sluppu þeir allir til að byrja með, og byrjuðu þá strax eltingar. Það hafði og verið mestur tálmi hjá hellismönnum, að þeir voru illa skóaðir, en sveitamenn betur búnir til handa og fóta, og mest höfðu hellismenn fallið fyrir grjótkasti og bareflum, er hinir höfu, en eiginlg vopn voru fá eða engin.
KjóiSögu þessa hafði Jón „yddú“ eftir Jóni harða föður sínum og Sigurði Þorkelssyni afa sínum, en Jón „yddú“ sagði aftur Hávarði gamla Andrjessyni, en þeir voru samtíða á Völlum meir en 20 ár, en Hávarður sagði oft gömlum karli, sem enn er á lífi. Jón „yddú“ var hrekkjóttur í uppvexti, en svi fimur, að til þess var tekið. Hann var og ágætur vinnumaður til hvers er taka þurfti, og eru fáeinar smásagnir til um hann.“
Þessi sama frásögn birtist síðan í Lögbergi 2. mars 1939, bls. 4-5.
Þegar skoðað var neðanvert umhverfi „útilegumannahellisins“ mátti sjá að milli stórra steina undir honum mátti greina aflagaða hleðslu. Við endann á henni að sunnanverðu var skúti undir stórum steinum. Ofanvert var náttúrulegt aðhald. Þarna hefði mátt geyma fé án þess að til þess sæist úr dalnum. Tvö bein lágu þar við skútann.
KjóinnÞrátt fyrir framangeinda lýsingu er ekki ókleift upp í hellinn. Hins vegar þarf að fara varlega, bæði upp  og niður. Sennilega á lýsing Jóns við um helli skammt norðar í berginu. Þar er aflöng sylla, líklegasta hellisstæðið þegar horft er upp í hamarinn. Til að komast þangað þarf að fara með erfiðsmunum upp móbergsbrúnir, en öllu erfiðara er að komast niður aftur. Freistingin gæti þó auðveldlega leitt áhugasama þangað upp, en uppgötvunin hlýtur ávallt að valda vonbrigðum. Þrátt fyrir álitlegan helli neðanvert séð er um að ræða slétta og grunna stétt í berginu. Af ummerkjum að dæma (göt í berginu) má ætla að margir hafi lagt leið sína á þessan stað í vissu um að hann væri sá er leitað væri að.
Innstidalur„Útilegumannahellirinn“ umræddi er skammt sunnar. Hann er, sem fyrr sagði, tiltölulega auðveldur uppgöngu. Þegar þangað upp var komið mátti sjá leifar af fyrirhleðslu. Innar var grjót er gæti verið leifa af beðum. Tveir leggir lágu undir vegg. (Næst verður málmleitartæki með í för.) Útsýni úr hellinum er frábært yfir Innstadal og Miðdal. Enginn maður hefði getað óséður komist að hellinum án þess að vistverjendur hefðu áður komið auga á hann.
DaggardroparUndir hellinum eru skjól undir klettum. Líklegt er, ef einhverjir hafi hafst þarna við um tíma, að þeir hafi nýtt sér aðstöðuna þar. Hleðsla hefur verið fyrir opi að norðanverðu, en hún fallið inn. Op er milli steina að austanverðu – sem sagt hið ágætasta skjól og vandfundið. Þá er og bæði kalt vatn til svölunnar og heitt í grenndinni soðningar. Sérstaka athygli þátttkenda vöktu skessukatlar undir hellinum. Í þá hefur ávallt verið hægt að sækja drykkjarvatn að sumarlagi, auk þess sem Hengladalsáin kemur upp svo til undir hellismunnanum. 

Tveir einkaskálar eru í Innstadal, annar er staðsettur austast í dalnum (Hreysi), en hinn er norðan meginn fyrir miðju við Hengilinn (Lindabær). Þessir skálar eru lokaðir almenningi.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Heimildir m.a.:
-Lesbók Morgunblaðsins, Þórður Sigurðsson, Tannastöðum, „Útilegumenn í Henglinum og endalok þeirra“, 29. jan. 1939, bls. 30-31.
-www.wikipedia

Hveragil

Herdísarvík

Ólafur Þorvaldsson ritaði m.a. um gestakomur í Herdísarvík, „Gestir af hafi“, í Sjómannablaðið Víking árið 1953:
olafur thorvaldsson„Á þeim árum, sem ég bjó í Herdisarvík, vorum við hjónin oft spurð að því, hvort ekki væri ákaflega leiðinlegt að búa þar, hvort ekki væri þar voðalega afskekkt og einangrað, hvort nokkum tíma sæist þar maður. Tveimur fyrri spurningunum svöruðum við, einkum þó ég, á þá leið, að ekki væri leiðinlegt að búa í Herdisarvík, heldur þvert á móti skemmtilegt, þótt nokkuð mætti teljast þar afskekkt og þótt ekki væri hægt að segja, að hún lægi nú lengur í þeirri þjóðbraut, sem áður á árum, þegar menn úr austursveitum og sýslum fóru sínar skreiðar- og lestaferðir út með sjó, svo og meðan vermenn úr þessum sömu sýslum gengu þar um til vers og úr veri, en hvort tveggja þetta mun hafa lagzt niður um svipað leyti, og mun það hafa verið á tveim fyrstu tugum þessarar aldar. Þriðju spurningunni munum við oftast hafa svarað á þá leið, að fleiri gesti bæri að garði í Herdísarvík heldur en við hefðum þorað að gera okkur vonir um í upphafi, enda þótt ég vissi áður nokkuð um, að ekki var alltaf mannlaust þar.
Það er eitt og annað í sambandi við gesti okkar í Herdísarvík, sem æðimargir urðu í þessi sex ár, sem við bjuggum þar, sem ég ætla að rifja upp fyrir sjálfum mér, þar eð flestra gesta okkar þar minnist ég enn með ánægju. Heldur mun ég fara fljótt yfir sögu hvað snertir hina almennu gestakomu, þ.e. þeirra gesta, sem vænta mátti hvenær sem var, þekktra gesta eða óþekktra, sem ýmist dvöldu næturlangt eða allt að viku, og annarra, granna eða langferðamanna, sem með garði fóru, en litu í bæinn, okkur til mikillar ánægju og sjálfum þeim til hvíldar og hressingar.

Herdísarvík

Herdísarvíkurbærinn yngri.

Svo sem að framan getur, þá var á þessum árum (1928—33) tími skreiðarferða og vermanna liðinn, og var því aldrei þessara manna von. Samt sem áður voru ekki allir hættir að ferðast þessa leið. Þegar kom fram á vorið og sumarið og hagar voru komnir fyrir hesta, fór að lifna yfir umferðinni. Framan af sumri voru það einkum menn utan frá sjó, Grindavík og Suðurnesjum, sem komu til fjárleita og fóru þá oft allt til Selvogs. Oft voru menn þessir nokkrir saman og voru marga daga í þessum ferðum. Alltaf komu þeir við í Herdísarvík og gistu stundum. Um hásumarið komu oft stórir eða smáir hópar fólks. Einkum var þetta fólk frá Hafnarfirði og Reykjavík. Allt var þetta fólk á hestum, því enginn var þá bílvegur kominn um þær slóðir. Oft gistu hópar þessir, og var stundum þröngt á því þingi, þar eð húsakosturinn var ekki mikill, fimm rúm i tvískiptri baðstofu auk gestarúms í frammistofu. Helzt var fólk þetta á ferð um helgar, og var þá flest að fara hringinn, svo sem nú er sagt, þegar farið er um Krýsuvík til Selvogs og Ölfuss, en lengri tíma tók það þá heldur en nú.

Herdísarvík

Herdísarvík.

Fyrir kom það, að menn kæmu gangandi, einn eða fleiri saman. Ýmist komu menn þessir beint yfir fjallið frá Hafnarfirði, og lá þá leiðin langt austan Kleifarvatns, — eða þeir komu um Krýsuvík. Sumir þessara manna voru vinir okkar og þá í skyndiheimsókn, aðrir okkur lítt eða ekkert þekktir, svo sem bóksölumenn, trúboðar o. fl. Eitt sumarið kom til okkar Árni Óla blaðamaður og gisti hjá okkur. Var hann þá að ganga hringinn og mun hafa verið að safna efni í bókina „Landið er fagurt og frítt“. Höfðum við mikla ánægju af heimsókn hans. Eitt sumarið dvaldist próf. Guðmundur Bárðarson náttúrufræðingur, ásamt þýzkum stúdent, um vikutíma hjá okkur. Voru þeir með fjóra hesta og nokkurn farangur. Mest voru þeir við rannsóknir hrauna og eldgíga uppi á fjalli og komu venjulega ekki heim fyrr en á kvöldin. Þágu þeir þá stundum kvöldmat í bænum. Svona mætti lengi telja gestina. Ég skil nú við sumargestina, en minnist lítillega aðal haustgestanna.

Herdísarvík

Vinnufólk í Herdísarvík.

Á hausti hverju var nokkur gestakoma, einkum var það kringum réttir og oft nokkuð þar fram yfir. Til Selvogs- og Ölfusrétta sóttu menn úr Garðahreppi og Hafnarfirði. Þeir, sem af Suðurnesjum komu, fóru um í Herdísarvik og stöku sinnum Hafnfirðingar. Þótti þeim betri reiðvegur um Krýsuvík heldur en fara austur yfir fjall um Kerlingarskarð. Urðu þeir að nátta sig í Selvogi og ríða svo upp í réttir að morgni, vildu þá eins vel gista í Herdísarvík, enda voru þetta þá oftast gamlir kunningjar okkar og þóttust slá tvær flugur í einu höggi með því að gista hjá okkur. Það var stundum þröngt þessar nætur í bænum í Herdísarvík; gekk heimafólk flest úr rúmum og lá þá í flatsængum í framgöngum. Oft urðu þrír að hafast við í einu rúmi eða ætluðu að gera það, en stundum var einum sparkað út úr hreiðrinu, og vaknaði sá þá stundum liggjandi á gólfinu. Allt fór þetta fram í mesta bróðerni, og var oft glatt á hjalla. Stundum var spilað lengi nætur. Venjulega voru það sömu mennirnir haust eftir haust, sem þessar útréttir sóttu, og voru þvi okkur vel kunnir og velkomnir gestir, sem og allir, sem komu. Þessir menn þekktu vel húsakost okkar, en gerðu sér allt að góðu, sem fyrir þá var gert.

Herdísarvík

Herdísarvík.

Um og eftir síðustu réttir var stundum fallinn það mikill snjór á Kerlingarskarð og fjallið þar austur af, að bændur úr Selvogi, sem áttu órekinn sauðarekstur og mylkar ær til slátrunar, treystust ekki að reka féð þá leið og urðu í þess stað að reka um Herdísarvík og Krýsuvík, þar eð sú leið gat verið snjólaus með öllu, þótt dyngja væri komin á fjallið. Þegar svona bar undir, fór það eftir því, hve snemmbúnir þeir urðu heiman að, hvort þeir heldur náttuðu sig í Herdísarvík eða Krýsuvík. Þessir sauðarekstrar voru æðifjármargir, þar eð allir bændur úr Selvogi áttu þar sauði og annað síðheimt förgunarfé og Selvogsbændur sauðamargir í þá daga. Margir menn fylgdu þessum rekstrum, og var þá sungið og kveðið fram eftir vökunni, þegar þeir gistu í Herdísarvík, og svo kann víðar að hafa verið.

Herdíarvíkurgata

Herdísarvíkurgata.

Ég hef hér að framan nokkuð dvalið við vor- og sumargesti, sem til Herdísarvíkur komu og gátu komið hvenær sem vera vildi. Líka hef ég minnzt á haustgestina, sem margir voru nokkuð tíma- og árvissir, — en það komu fleiri gestir en þeir framan töldu. Við komu þessara gesta mun ég einnig nokkuð dvelja í þessum minningum, svo hugstæðir eru mér margir þeirra. Ekki komu gestir þessir daglega, og aldrei þurfti að vonast eftir þeim i níu til tíu mánuði af árinu. Hvorki komu þeir ríðandi né gangandi. Þeir komu af sjó. Gestir þessir voru Færeyingar.
Þegar kom fram um mánaðamótin febrúar —marz, fórum við að huga að gestakomu á ný.
Ekki þurfti að horfa til austurs né vesturs eftir gestum þeim, sem nú var helzt að vænta. Þeir komu allir af hafi. Þetta voru færeysku fiskimennirnir, sem sóttu á Íslandsmið á skútum sínum. Flestar lögðu þessar skútur úr heimahöfn í febrúar og fyrst í marz. Allar voru þær með handfæri einvörðungu. Flestar munu skútur þessar hafa verið um 150, sem hingað sóttu. Eftir að skúturnar voru komnar vestur með landinu, sást oft heiman frá Herdísarvík, eftir að dimmt var orðið, svo að segja ljós við ljós fyrir allri víkinni.
Herdisarvik 1930Hvaða erindi áttu svo öll þessi erlendu skip til þessarar afskekktu víkur? Vil ég nú skýra það nokkuð. Flest skipanna komu þangað til þess að afla sér vatns eða íss, annars eða hvors tveggja. Mörg voru þau búin að vera svo vikum skipti í sjó og þessar nauðsynjar ýmist að mestu þrotnar eða svo á þær gengið, að viðbótar var talin þörf. — Herdísarvík var eini staðurinn frá Vestmannaeyjum allt vestur fyrir Reykjanes, þar sem mögulegt var fyrir skip að afla sér þessara nauðsynja. Ég held, að Færeyingar hafi litið á Herdísarvíkina sem nokkurs konar Færeyingahöfn fyrir suðvesturlandinu, og þannig heyrði ég orð falla milli tveggja skipstjóra. Svo mikils virði var þeim að geta fengið þarna ótakmarkað vatn — og venjulega ís eða snjó eftir þörfum — móts við það að þurfa að öðrum kosti að sækja þetta — helzt annaðhvort til Hafnarfjarðar eða Reykjavíkur og þurfa þar að borga það með peningum.

Herdísarvíkurbjarg

Herdísarvíkurbjarg.

Svo sem fyrr er sagt, var erindi flestra skipanna það, að fá neyzluvatn, ís eða snjáur, eða eins og sumir sögðu kava, sbr. kava-rok, skafbyl, sem við segjum. Ísinn og snjóinn notuðu þeir að sjálfsögðu í frosthólf skipsins til varðveizlu beitu. Ekki voru öll skipin, sem upp á vikina komu, í framangreindum erindum. Það var á þeim tíma, sem hér um ræðir, ófrávíkjanleg regla Færeyinga að fiska ekki á sunnudögum eða öðrum helgidögum. Þá daga slöguðu skipin fram og aftur eða héldu sér við á vélinni um miðin, þar til aftur var farið að fiska. Þegar Færeyingarnir voru á fiski út af Herdísarvík eða vestur með Krýsuvíkurbergi, sem varað gat svo vikum skipti, komu mörg þessara skipa upp á Víkina og lögðust þar fyrir akkeri og voru þar til sunnudagskvölds. Þetta var þó því aðeins, að stillur væru eða vindur stæði af landi.

Herdísarvíkurgötur

Herdísarvíkurgötur.

Svo sem fyrr segir, þá var erindi flestra skipanna að fá vatn eða ís, og oft sama skipið hvort tveggja. Væri ekki ís á tjörninni, þá tóku þeir snjó, væri hann fyrir hendi. Þegar fram á vertíðina kom og snjór horfinn neðanfjalls, leyndist hann stundum í djúpum kerum í hrauninu. Af þessum stöðum vissi ég, og Færeyingarnir vissu, að ég vissi. Þegar allur snjór var uppurinn neðan fjalls, voru oft skaflar efst í fjallinu. Þá klungruðust þeir eftir honum þangað og báru hann á bakinu og höfðinu til sjávar. Var þetta löng leið og erfið mönnum i sjóstökkum og fullháum vaðstígvélum, en hér var mikið í húfi, beitan lá undir skemmdum, og henni varð að bjarga. Ég sagði áðan, að þeir hefðu borið á bakinu og höfðinu, og vil ég skýra þetta nánar. Þegar komið var i pokann það, sem þeir gátu mest farið með, var bundið fyrir op hans. Síðan var kaðli brugðið um pokann nálægt miðju og bundið að; þó var ekki nær bundið en svo, að maðurinn gat brugðið kaðlinum fram um enni sér, þegar pokinn var kominn á bak hans. Þannig báru þeir oft langa leið og vonda án þess að hafa hendur á bandinu, létu bara hausinn hafa það. Ég lét stundum í ljós undrun yfir, hve sterkir þeir voru í hausnum og þó einkum hálsinum. „Já, svona berum við torfið, blessaður“, var svarið, sem ég fékk, og mun ég víkja lítillega að þessu síðar.

Herdísarvíkurtjörn

Herdísarvíkurtjörn.

Þegar þykkur ís var á tjörninni, brutu þeir hann upp með járnum eða öxum og roguðust svo með jakann í fanginu, á bakinu eða á milli sín ofan í bátinn, sem alltaf varð að halda á floti, vegna þess að oftast var einhver lá í Bótinni. Stundum tók hvert skip ís í 2—3 báta, einkum þau stærri, sem stórar ísgeymslur höfðu. Einhverju sinni — það mun hafa verið komið fram í apríl og allan snjó löngu tekið upp neðanfjalls — var barið á stafnglugga baðstofunnar og það allharkalega; þeir hafa víst haldið, að fast væri sofið. Þegar ég leit út, sá ég að hópur manna stóð fyrir utan, voru sumir með stór vasaljós í höndum, en aðrir báru ljósker. Ég bjóst við, að hér væru komnir strandmenn, en svo var nú ekki. Einn hefur strax orð fyrir og segir: „Veiztu nokkurs staðar af snjáur, blessaður?“ Ég klæddist í skyndi og gekk út. Þarna var kominn skipstjóri með sína vakt af kútter „Harry“, einu hinna gömlu Reykjavíkurskipa. Skip þetta hafði fengið síld senda að heiman til Vestmannaeyja daginn áður, og þar sem þeir gátu þá ekki fengið ís í Vestmannaeyjum, lá síldin undir skemmdum. Hann sagðist þá hafa sett til öll segl og vélina á fulla ferð og stefnt vestur til Herdísarvíkur í von um, að þar væri snjó að fá. Ég sagði skipstjóranum, að allur snjór væri þorrinn ofanjarðar, en snjór mundi vera í djúpum kerum uppi við fjall, en óvíst, hvort ég hitti á þau nú í myrkrinu, og þótt svo yrði, þá þyrfti að síga ofan í kerin og hala snjóinn upp. Ekki setti skipstjóri neitt af þessu fyrir sig, enda mun mörgum Færeyingnum hafa boðizt brattara sig heldur en hér gat orðið um að gera.

Herdísarvíkurfjall

Herdísarvíkurfjall.

Var svo lagt af stað og stefnt til fjalls. Lestuðu menn sig um hraunið, og vildi sumum verða hnotgjarnt í myrkrinu, enda heldur stirt búnir til gangs. Ljósin báru þeir, sem á eftir gengu, því að ég treysti mér betur til að finna kerin í myrkri heldur en við ljós, því að það gerði dimmra út frá sér. Kerin fundum við, og ofan var sigið með ljós. „Já, já, nógur snjóur, gamli“, var kallað upp af þeim, sem fyrstur fór niður. Þarna var tekinn snjór í tvo báta.
Þegar Færeyingar tóku vatn eða ís fyrsta sinni, vildu flestir skipstjórarnir borga eða buðu borgun fyrir. Ég sagði öllum það sama, að ég seldi hvorki vatn né ís og væri þeim heimil taka þessara nauðsynja hvenær sem væri. Þeir vildu borga samt, þótt ég vildi ekki við peningum taka, — og gerðu það líka.

Herdísarvík

Herdísarvíkurgata til austurs.

Það var föst venja okkar hjóna að ná sem flestum heim og gera þeim eitthvað gott. Urðu þeir venjulega að skiptast á um að koma heim, þar eð bátar máttu ekki mannlausir vera, væri verið að taka vatn eða ís. Flestum þótti skyr mjög gott, svo var það mjólk eða kaffi, eftir því sem þeir æsktu. Oft var fata með mjólk í send út á skip til þeirra, sem ekki gátu í land komið. Fyrir þessa smáaðhlynningu — svo og vatnið og ísinn — virtust allir mjög þakklátir. Oft höfðu þeir með í land í fyrstu ferðinni ýmislegt, sem þeir vissu, að hvert heimili hafði not fyrir. Bar þar mest á kexi. Voru það heldur smáar kökur, ýmist sætt eða ósætt. Voru sumir skipstjórar þar svo stórtækir, að fyrir kom, að þeir komu með eða sendu í land óuppteknar kextunnur eða kassa, sem í var frá 25—40 kg. Náðu þessar kexbirgðir stundum saman hjá okkur. Þess utan komu þeir með kaffi, sykur, smjörlíki, kartöflur, fiskilínur, blýlóð og öngla. Þeim þótti lína sú, sem ég notaði i handfæri, — en það var 4 lbs lína, — of sver, og sagði einn skipstjóri, sem sá hana, við mig: „Þetta er ófiskilegt, gamli; ég skal senda þér betri línu“, — og var það 2 lbs lína. Salt mátti ég fá hjá þeim, meira en ég hafði not fyrir. Oft komu þeir í land með nýjan fisk, svo og stóra slatta af nýjum þorskhausum, sem ég svo herti. Eitt er ótalið enn, sem sízt var við neglur skorið, en það var reyktóbak. Ekki var tóbak þeirra að sama skapi gott, en vel var ég farinn að sætta mig við það. Þetta tóbak reyktu þeir jafnt og tuggðu.“

Heimild:
-Sjómannablaðið Víkingur, 15. árg. 1953, bls. 295-302 og 317-318.

Herdísarvík

Herdísarvík – uppdráttur ÓSÁ.

Einar Benediktsson

Gjafabréf Einars Benediktssonar vegna Herdísarvíkur.

Skjal, sem stimplað var í fjármálaráðuneytinu 19. ágúst 1939, kveður á um gjöf Einars Einar Ben-gjafarbrefBenediktssonar, skálds, á Herdísarvíkurlandi til handa Háskóla Íslands. Húsið í Herdísarvíkur er þar undan skilið, skv. skjalinu:
„Jeg undirritaður Einar Benediktsson prófessor gef hjermeð Háskóla Íslands jörðina Herdísarvík í Selvogshreppi í Árnessýslu ásamt öllum gögnum og gæðum, þar með húsum, öðrum en íbúðarhúsi, sem ríkið þegar á, ennfremur húsgögnum, sem í íbúðarhúsinu eru og bókasafni mínu sem þar er geymt.
Gjöfin er gefin í minningu um föður minn Benedikt sýslumann Sveinsson. Gjöfin er bundin því skilyrði, að núverandi ábúandi jarðarinnar frú Hlín Johnson hafi afgjaldalausa ábúð á jörðinni meðan hún lifir eða esvo lengi sem hún óskar, en hún skal þó greiða skatta og skyldur af jörðinni.
Gjafarbrjef þetta er gefið út í tveimur samhljóða frumritum.
Herdísarvík 28. september 1935“
Vottar: Bjarni Jónsson – Guðni Gestsson.
Undirritun: Einar Benediktsson

Undir bréfið er skrifað eftirfarandi og vottað hreppsstjóra, Þórarni Snorrasyni: „Jeg undirritaður hreppsstjóri Selvogshrepps Þórarinn Snorrason vottar hjer með að Einar Benediktsson prófessor Herdísarvík hefur í dag ritað nafn sitt undir þetta skjal með fullu ráði og frjálsum vilja í viðurvist míns og tveggja vitundarvotta. Til staðfestu er nafn mitt. P.t. Herdísarvík 28/9 1935 – Þórarinn Snorrason“.

Heimild:
-Stimplað gjafabréf EB.

Herdísarvík

Herdísarvík.

 

Hlíð

Refagildrur eru nokkuð misjafnar að gerð en oftast grjóthlaðnir stokkar eða kassar sem hellur hafa verið lagðar yfir og grjóti jafnvel hlaðið þar ofan á. Agn var látið inn í gildruna og tófan þannig tæld inn en þá lokaðist stokkurinn með þar til gerðum lokubúnaði.
RefagildraTalið er að fyrstu gerð refagildra hafi komið með norrænum landnámsmönnum frá Noregi. Þar hafa fundist sambærilegar gildrur og hér á landi.
Refagildrurnar voru hlaðnar úr hellum þannig að þegar tófan ætlaði að sækja agn sem var inni í gildrunni féll dyrahellan aftur og lokaði dýrið inni.
Fyrir u.þ.b. 30 árum þótti það sérstökum tíðindum sæta að hlaðin refagildra fannst á Norð-Austurlandi. Embættismenn úr Reykjavík gerðu sér ferð norður til að líta fyrirbærið augum. Eftir miklar vangaveltur og pælingar kom út skýrsla um þessar svo merkilegu mannvistarleifar.
RefagildranÁ sama tíma mátti  lesa í örnefnalýsingum bæja á Reykjanesskaganum að þar hefðu verið til sambærilegar mannvistarleifar frá löngu liðnum tíma. Fáir virtust hafa sérstakan áhuga á því.
Eftir að FERLIR fór að leita skipulega að mannvistarleifum á Reykjanesskaganum hafa verið staðsettar um 90 hlaðnar refagildur í misjöfnu ástandi. Sumar eru alveg heilar og nánast ósnertar á meðan öðrum hefur verið raskað. Nýjasta refagildran (og varla sú yngsta) fannst nýlega austan við Hlíð í Selvogi. Hún er á lágu klapparholti og snýr opið til norðurs. Gildran, sem er mjög heilleg, fellur mjög vel inn í umhverfið. Nú er hún orðin bæði mosa- og skófvaxin svo mjög erfitt er að koma auga á hana í landinu.

Heimildir m.a.:
-www.instarch.is/instarch

Hlíð

Hlíð – uppdráttur.

Anson

Á Núpafjalli eru margar herminjar. Fjallið stendur á hálendisbrúninni fyrir ofan Ölfusið 313 metra yfir sjávarmáli, en rís einungis um 50 metra yfir heiðina og er því mun myndarlegra austan frá séð og mikill útsýnisstaður. Fljótlega er komið að vegamótum. Liggur vegur til hægri en rofnar fljótlega og er þar alveg ófært. Vegur þessi lá vestur af fjallinu, niður í dalkvos. Sjást þar leifar af mörgum byggingum. Þarna var herkampur á stríðsárunum. Hermennirnir höfðu eftirlit með veginum yfir Hellisheiði en á fjallinu voru loftvarnabyssur til að verja flugvöllinn í Kaldaðarnesi.

Anson

Anson.

Núpafjall er í raunini brött hlíðarbrekka austan í Hellisheiði, vestan við Hveragerði. Hafa hraunflóð runnið þar niður um nær 240 m háa hlíðina. Kambavegur þótti fyrrum allglæfralegur. Fyrst var lagður vegur um Kamba árið 1879 en núverandi vegur var opnaður 1972. Suður frá Kömbum er þverhnípt hamrabrún, Núpafjall. Kambabrún er nyrst í því. Af brúninni er víð og fögur útsýn austur yfir Suðurlandsundirlendið og til Vestmannaeyja. Þar er hringsjá.
Samkvæmt nákvæmum upplýsingum átti flak C64 herflugvélar að vera 3 km suðvestan við Núpafjall. Sú vél var sögð hafa verið á leið frá Vestmannaeyjum er hún hvarf. Þrátt fyrir leitir og eftirgrennslan fundust engin ummerki flugvélaflaks á þeim slóðum. Fræðimenn könnuðust heldur ekki við slysið. Það er hins vegar skráð í bækur ameríska hersins þann 22. okt. 1944 um kl. 15:00. Fjórir farþegar og flugmaður fórust.

Skálafell

Skálafell – kort.

Vestan við Núpafjall á hins vegar að vera flak, við rætur Skálafells, sunnan Hverahlíðar (Tröllahlíðar). Í Mbl. 9. mars 1948 er sagt frá hvarfi Anson-flugvélar í eigu Loftleiða er var á leið frá Vestmannaeykum til Reykjavíkur. Tveimur dögum síðar fannst flakið með dularfullum hætti. Flugvélin mun hafa borið einkennisstafina TF-RVL og var með sjólendingarbúnað.
Ferlir hefur varið nokkrum tíma að leita að flugvélaflaki suðvestan við Núpafjall. Sagan segir að herflugvél hafi hrapað „tvær mílur frá Núpafjalli“. Samkvæmt flugslysaskýrslu átti þar að hafa verið um C-64 vél að ræða og allir í áhöfninni, flugmaður og fjórir farþegar, farist. Þrátt fyrir eftirgrennslan um brak á þessu svæði fannst lítið af því. Menn, kunnugir á svæðinu, könnuðust heldur ekki við brak á svæðinu suðvestan við Núpafjallið. Vænlegast var talið að leita á svæðinu suðvestur af fjallinu, en þar hefði einhverju sinni sést brak úr flugvél.

HverahlidLeitað var til Björns Pálssonar, héraðsskjalavarðar á Sefossi. Hann vísaði á Tómas Jónsson, fyrrverandi lögreglumann á Selfossi. Tómas er frá Þóroddsstöðum sem ætti að vera skammt frá uppgefnum slysstað.
Tómas sagðist hafa haft mikinn áhuga á flugsögunni. Ef einhver flugvél hafi farið niður á umræddu svæði hefði það varla farið framhjá honum. Hins vegar hefði Anson flugvél frá Flugfélagi Íslands farist að vetrarlagi, sennilega árið 1947, í Tröllahlíð syðst í Hverahlíð skammt ofan við Kambana. Sá staður er vestur frá Núpafjalli.

Anson

Anson – frétt í mbl. 9. mars 1948.

Flugvélin, sem var níu manna, var að koma frá Vestmannaeyjum. Allir í vélinni fórust.
Ekkert hafði spurst til flugvélarinnar í 2-3 daga þegar mjólkurbílsstjóri, taldi sig knúinn til að stöðva við vegbrúnina af einhverri ástæðu, sennilega vegna þreytu eða syfju. Hann gekk spölkorn frá bílnum í svarta þoku – og kom þá beint að vélinni. Flugfélagið hefði átt tvær svona vélar á þessum tíma.

Þá var farið að gramsa í gömlum gögnum. Fyrst varð fyrir leiðari MBL frá 30. janúar 1947 er bar yfirskriftina „Flugslysin“. Í honum segir m.a. að „hin tíðu flugslys, sem orðið hafa víðsvegar um heim undanfarið hafa vakið mikla athygli hjer á landi sem annarsstaðar. leið menn getum að, hvað valdi þessum óhöppum, en eiga að sjálfsögðu erfitt með að komast að niðurstöðu um orsakirnar.

Skálafell

Skálafell.

Sennilega hefur tækninni ekki fleygt eins örhratt fram á nokkru sviði og í flugmálunum á styrjaldarárunum. Í þeime fnum hefir orðið hrein bylting. Flugtækin hafa stækkað, orðið hraðgengari og búin hinum fullkomnustu tækjum. En þrátt fyrir hin fullkomnu tæki geta slysin hent. Þarf raunar engan að undra þess. Fáir geta víst gert sjer von um að þeirri fullkomnan verði náð í smíði eða stjórn farartækja, hvort sem er á láði, legi eða í lofti að öll slysahætta verið útilokuð.
Hjer á landi hafa miklar framfarir orðið í flugmálunum síðustu árin.

Hverahlid-2

Á slysstað.

Landsmenn hafa eignast 20 flugvjelar og marga ágæta flugmenn. hefur samgöngum þjóðarinnar orðið mikil bót að hinum aukna flugvjelakosti.
Þróun íslenskra flugmála hefir verið traust og örugg. Mjög fá slys hafa orðið á flugvjelum og örfá á farþegum þeirra… Reynsla Íslendinga í flugmálunum er orðin nokkur. Á grundvelli hennar má búast við miklum umbrótum og auknu öryggi á næstu árum.“
Í Mbl. þann 9. mars 1948 er svo fréttin af hvarfi Anson flugvélarinnar fyrrnefndu. Fyrirsögnin er þessi: „Flugvjelar með fjórum mönnum saknað frá því á sunnudag. Árangurslaus leit í allan gærdag.“

Hverahlid-4

Á slysstað.

Í fréttinni kemur fram að „farþegaflugvjel, frá Loftleiðum, sem var á leið frá Vestmanneyjum til Reykjavíkur s.l. sunnudag hefur ekki komið fram. Var vjelarinnar leitað í allan gærdag af leitarmönnum sem fóru um Reykjanesfjallgarð, Henglafjöll og víðar. Ennfremur var leitað í flugvjelum og skip fyrir suðurströndinni leituðu einnig árangurslaust. – Í vjelinni voru þrír farþegar, Þorvaldur Hlíðdal verkfræðingur hjá Landssímanum, Árni Sigfússon útgerðarmaður í Vestmannaeyjum og Jóhannes Long verkstjóri frá Vestmannaeyjum. Flugmaður var Gústaf A. Jónsson hjeðan frá Reykjavík.

Hverahlid-3

Á slysstað.

Flugmaðurinn hafði talstöðvarsamband við flugturninn hjer á Reykjavíkurflugvelli laust eftir að hann fór frá Vestamannaeyjum, en það var rjett fyrir klukkan 6 e.h. á sunnudag. Var vjelin þá stödd við Þjórsárósa og flaug í 1500 feta hæð. Flugmanninum var sagt, að hjer í Reykjavík væri skyggni sæmilegt. Sagðist hann myndi fljúga yfir skýjum til Reykjavíkur í 3000 feta hæð og fara yfir Hellisheiði. Var flugvjelin stödd við Eyrarbakka er flugmaðurinn hafði síðast talsamband við flugstjórnina í turninum.
Vjelin hafði bensín til fjögra klukkustunda flugs og hefði því getað verið á flugi til klukkan tæplega 10 eða þar um bil.

Hverahlid-5

Á slysstað.

Eftir það heyrðist ekkert til hennar, en það þykir fullvíst, að einhverra hluta vegna hafi flugmaðurinn hætt við þá ákvörðun að fljúga vestur yfir Hellisheiði og snúið við til að fara um Þingvelli og Mosfellsheiði. sennilega talið, að þar myndi verða bjartara.
En það, sem undarlegt er við það, er að flugmaðurinn skuli ekki hafa tilkynnt flugturninum slíka breytingu á áætlun sinni.

Það styrkir þessa hugmynd, að um 6 leytið sást flugvjelin yfir Ölfusi og stefndi hún þá í áttina að Ingólfsfjalli, eða norðaustur. Sáu menn, sem voru efst í Kömbum, neðst í þeim og frá bæ í Ölfusi flugvjelina á þessum sama tíma.
þegar flugvjelin kom ekki fram er líða tók á kvöldið var við og við skotið ljósblysum hjer á vellinum til þess, að beina flugmanni á völlinn ef ske kynni að hann væri á sveimi yfir Reykjavík og sæi ekki til að lenda. Um leið var haldið uppi spurnum um vjelina í austursveitum.

Hverahlid-6

Á slysstað.

Um klukkan 9.30 bárust frjettir frá Hvolsvelli um, að þaðan sæjust ljós í suðurátt, annað hvort á Landeyjarsandi, eða úti á sjó. Var þá hringt til bæjar, sem Hali heitir og menn fengnir til að leita með ströndinni. Þeir töldu sig einnig sjá ljós til hafsins. Var varðskipið Ægir þá fengið til að leita með ströndinni, en ekki bar sú leit neinn árangur.
Strax í birtingu í gærmorgun fóru flugvjelar hjeðan frá Reykjavíkurflugvelli og björgunarflugvjel frá Keflavík til að leita. Var sú leit erfið vegna dimmviðris…

Eins og áður er sagt, er flugvjelin sem saknað er af Avro-Anson gerð. Keypt hingað frá Kanada og hefir verið í eigu Loftleiða um eitt ár. Er þetta yngri flugvjelin af tveimur af sömu gerð. Flugvjelin hefir tvo hreyfla.“

Skálafell

Skálafell – slysstaðurinn.

Í Mbl. þann 11. mars birtist eftirfarandi fyrirsögn: „Flugvjelarfalkið fannst í Skálafelli – Mennirnir í henni fórust við áreksturinn. Í fréttinni kemur fram að „laust eftir hádegi í gær, fannst flak Anson flugvjelarinar, sem hvarf s.l. sunnudag á leiðinni frá Vestamannaeyjum til Reykjavíkur. Flakið var við rætur Skálafells á Hellisheiði. Í um það bil kílómeters fjarlægð frá veginum. Sprenging hefur ekki orðið er flugvjelin rakst á fellið. Við áreksturinn hefur hún mölbrotnað og allir, sem í henni voru látist samstundis.
Það var Sigmundur Karlsson bílstjóri hjá Mjólkurbúi Flóamanna, sem fann flakið. Sigmundur var á leið austur er hann gekk upp að stað þeim í Skálafelli, sem flak flugvjelarinnar var.

Hverahlid-7

Á slysstað.

Sigmundur hélt til bílsins og ók sem mest hann mátti niður í Hveragerði. Þar gerði hann Herbert Jónssyni símstöðvarstjóra aðvart. Herbert tilkynnti þegar um fund flaksins til Reykjavíkur.
Einnig gerði Herbert leitarflokki símamanna aðvart, en þeir voru að leita í sunnanverðu Skálafelli.
Það tekur um það bil 20 mínútur að ganga frá þjóðveginum og að slysstað. Tíðindarmaður blaðsins, er kom á slysstaðinn í gær lýsir því svo, hvernig þar var umhorfs.

Anson

Slysstaðurinn.

Þar sem flugvjelin hefur farist, þekur allskonar brak úr henni um það bil hektara svæði. Mest ber á hreyflum flugvjelarinnar, stýri og hluta af farþegarúmi. Annað hefur molast. Það má sjá þess greinileg merki, að vinstri vængur flugvjelarinnar hefur fyrst snert jörðina. Hefur hann rist jarðveginn upp á dálitlum kafla. – Síðan hefur skrúfan á vinstri hreyfli stungist í jörðina um það bil 50 cm niður og situr þar föst. Flugvjelin hefur svo endasenst upp eftir fjallshlíðinni og efst í henni liggur hluti af farþegaskýlinu. Rjett við það voru lík þeirra fjögurra manna, sem í flugvjelinni voru. Þau voru mikið sködduð, en öll þekkjanleg. Er talið að þeir muni allir hafa látist samstundis.“

Hverahlid-8

Á slysstað.

Viðtal var tekið við fyrrnefndan bílstjóra. „Það er næstum óskiljanlegt hvernig á því stóð, að Sigmundur Karlsson, bílstjóri, fann flugvjelina. – Tíðindarmaður blaðsins spurði Sigmund eftir þessu í gær og sagði hann svo frá:

– Svo bar til í fyrradag, er hann var á leið til Selfoss, og kominn á móts við þann stað, sem skemst var að flakinu, þá setti skyndilega að honum mikinn kulda og líkast því sem að líða mundi yfir hann. Þá einhvern veginn greip það hann, að þaðan myndi skamt að leita flugvjelarinnar. Ekki leitaði hann hennar í það skifti. En í gærdag er hann var á leið austur, og samstarfsmaður hans var með honum, þá bað hann þennan fjelaga sinn að ganga með sjer upp að fjallinu. Hinum fanst það einkennilegt því ekki gat hann frekar en aðrir sjeð neitt er bent gæti til þess að flugvjel væri í Skálafelli. En maðurinn fjellst svo á að ganga með Sigmundi. Gengu þeir beint á þennan stað, sem Sigmundur vildi kanna, en þar var flak flugvjelarinnar.“

Hverahlid-9

Á slysstað.

Eftir framangreinda rannsókn og efnisöflun var um fátt um annað að ræða fyrir FERLIR en að fara á staðinn og reyna að leita flaksins við rætur Skálafells.
Í fræðilegri útlenskri lýsingu af Avron-Anson flugvélinni (kanadísku útgáfunni) kemur m.a. eftirfarandi fram: „Avro Anson var sú flugvél sem mest var notuð af Konunglega kanadíska flughernum. Alls voru 4413 með því nafni notaðar á tímabilinu frá 1941 til 1954. Anson flugvélar á vegum einkaaðila voru mikið notaðar í norður Kanada til léttari flutninga og kannana, allt til 1969.
Flugvélin var upphaflega hönnuð fyrir sex farþega snemma á þriðja áratug aldarinnar. Árið 1936 var vélin notuð til að leita uppi kafbáta og fékk þá viðurnafnið „Faithful Annie“. Þegar Síðari heimstyrjöldin braust út var Avro Anson aðallega notuð til æfinga og þjálfunar.

Anson

Avro Anson 1943.

Árið 1939 var Avro Anson valin af BCATP (British Commonwealth Air Training Plan) sem besta tveggja hreyfla flugvélin. Það leiddi til mestu fjöldaframleiðslu flugvélar í Kanada fyrr og síðar. Avro Ansonin var án þæginda. Hún var hægleyg, köld og hávaðasöm.“
Þegar komið var á vettvanginn í Tröllahlíð 58 árum síðar bar fátt fyrir sjónir nema niðdimm þoka og skemmtilega lárétt rigning. Það birti þó fljótlega og rigningin hvarf á braut. Við tók fagurt útsýni (þegar ekki var horft í áttina að rafmagnsmöstrunum á Hellisheiði) með dularfullu birtuívafi.
Gengið var með allri Hverahlíðinni, en ekki sást tangur né tetur af flugvélinni. Líklega er hennar annað hvort að leita á hraunsléttunni milli gamla vegarins og hlíðarinnar eða uppi í hlíðum Skálafells. E
f einhver, sem þetta les, veit hvar leifarnar er að finna, væru upplýsingar um staðsetninguna vel þegnar (ferlir@ferlir.is).

Hellisheiði

Hellisheiði – skjól refaskyttu.

Í göngunni var komið að hlöðnu skjóli refagildru í Orrustuhólshrauni og í ljós kom að Skógarvegur er ranglega teiknaður inn á landakort. Hann var gengin frá Hverahlíðarendanum (Hlíðarhorni) austanverðum upp fyrir gamla þjóðveginn á Hellisheiði. Á a.m.k. tveimur stöðum er gamla gatan mörkuð í slétta hraunhelluna, en mosinn hefur víða náð að þekja hana.
Skógarvegur gekk líka undir nafninu „Skógarmannavegur, frá þeim tíma, er Hjallamenn sóttu skógarnytjar í Nesjaskóg í Grafningi. Einnig hefur hann verið nefndur Suðurferðagata.
Gangan tók 3 klst og 3 mín. 

Hverahlid-11

Slysstaðurinn úr fjarlægð.

Eftir að framangreint birtist á vefsíðunni barst FERLIR eftirfarandi skeyti: „Halló Ferlirsfólk. Ég var að lesa grein frá ykkur um gönguferðir um Hverahlíð sunnan Hellisheiðar og leit að flugvélarflökum þar. Þegar ég var strákur í Hveragerði þá fór maður í gönguferðir um Hellisheiði og nágrenni og þekkti þar nánast hverja þúfu.
Ansonvélin sem fórst austarlega í Hverahlíðinni ætti líka að vera auðfundin. Hún er um 15 mínútna gang frá gamla þjóðveginum. Þegar búið var að rannsaka þar allt sem þurfa þótti fóru menn frá Flugmálastjórn á slysstaðinn og tíndu saman allt brakið (vélin var með trégrind og dúkklædd) og kveiktu í því öllu nema hreyflunum, þeir töldust of þungir til að velta þeim á bálið enda líklega 60 – 80 metrar á milli þeirra. Svo merkilega vildi til að við vorum 2 strákar að fara að flakinu í annað sinn þegar þetta var. Grunnurinn í Hverahlíðinni er frá skíðaskála sem stóð þarna líklega um 1950.
Góða skemmtun í gönguferðunum, ég er orðinn svo gamall að ég er að mestu hættur f

Anson

Avro Anson farþegavél.

jallaferðum á björtum sumarnóttum en þær voru mitt yndi fyrrum.“
Undir þetta ritaði „
Dagbjartur frá Hveragerði“. Þegar haft var samband við Dagbjart bauðst hann til að fylgja FERLIR á slysstaðinn. Sagðist hann hafa verið 15 ára í Hveragerði þegar fréttin barst af flugvélafundinum. Hann og félagar hans hefðu þá farið gangandi á vettvang og séð aðkomuna. Flugvélin virtist hafa verið á leið til baka til suðurs þegar annar vængurinn rakst í Hverahlíðina. Hreyfillinn rifnaði af og skaust til vesturs. Hinn hreyfillinn kastaðist til austurs og brakið af flugvélaskokknum dreifðist upp brattann.
Simbi mjólkurbílstjóri hefði einnig verið leigubílsstjóri. Eftir þetta hefði hann ekki þorað að aka einn yfir heiðina í myrkri.“
Frábært veður fundardaginn. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Heimildir m.a.:
-Tómas Jónsson – Selfossi.
-Sævar Þorbjörn Jóhannesson – Reykjavík.
-http://www.rafmuseum.org.uk/avro-anson-1.htm
-http://www.bcam.net/ac_rest/anson.htm
-Mbl. 30. jan. 1947.
-Mbl. 09. mars. 1948.
-Mbl. 11. mars 1948.
-Smári Karlsson.
-Dagbjartur Sigursteinsson frá Hveragerði, f: ’34.

Anson

Anson.

 

Hwellukofinn

Í Morgunblaðinu 1980 fjallar Tómas Einarsson um  „Gömlu götuna á Hellisheiði„:

Hellisheiði
„Frá upphafi Íslandsbyggðar hefur Hellisheiði verið fjölförnust allra fjallvega á Íslandi. Það er því vel við hæfi að eyða dagsstund til þess að ganga þessar gömlu götur, sem blasir við sjónum, þegar ekið er yfir heiðina, en svo fáir þekkja af raun. Þegar komið er upp á heiðina nokkru fyrir austan Skíðaskálann í Hveragerði kemur í ljós, vestast á heiðinni, fyrir norðan Stóra-Reykjafell, röð af vörðum, sem liggja í beinni röð austur á bóginn. Þessar vörður fylgja gömlu götunni yfir heiðina. Þeim munum við kynnast betur í ferðinni.
Við ökum austur á Hellisheiðina, allt þar til við erum komin á móts við Hurðarás eða Urðarás eins og stendur á kortinu, förum þar út úr bílnum og fylgjum síðan alla leið vestur í Hellisskarð, sem er fyrir ofan Kolviðarhól, en þann stað þekkja flestir. Á meðan við göngum leiðina, skulum við rifja upp brot af þeirri vitneskju, sem kunn er um þessa leið.

Hellisheiði

Hellisheiði – vörður.

Árið 1703 ritaði Hálfdan Jónsson lögréttumaður að Reykjum Ölfusi grein um Ölfushrepp og þar stendur þetta um Hellisheiði: “Vestan Varmár liggur almenningsvegur yfir fjallgarðinn, á Suðurnes og í Kjalarnesþing, síðan vestur yfir Hellisheiði, hver að austanverðu hefur mikla mosa með mjög litlu grasi, allt þar til Þrívörður heita og heiðin sjálf meinast mið vera, en hennar vestari partur er víða með sléttum hellum og hraungrjóti, án gatna, nema þar sem hestanna járn hafa gjört, og auðsjáanlegt er, þeim athuga. Þessar sléttu hellur ná allt vestur að Biskupsvörðu. Fleiri vörður eru og víða við veginn, hlaðnar til leiðarvísis”.

Hellisheiði

Gatan um Hellisheiði fyrrum.

Þannig hljóðar þessi lýsing, sem rituð var fyrir 277 árum. Við þræðum nú slóðina meðfram vörðunum. Þær standa margar mjög vel, þrátt fyrir lítið sem ekkert viðhald á þessari öld. Ekki er vitað hver var upphafsmaður að þessari vörðuhleðslu, eða hver hlóð fyrstu vörðuna, en líklega hefur það gerst löngu áður en Hálfdan Jónsson ritaði fyrrnefnda lýsingu.
Er vestar kemur á heiðina minnkar mosinn því þar er hún.. “víða með sléttum hellum og hraungrjóti, án gatna nema þar sem hestanna járn hafa gjört…”. Þar liggja sönnunargögnin er sýna hversu fjölfarin heiðin hefur verið, því víða sjást djúpar götur markaðar ofan í stálharða klöppina, og eru þær dýpstu allt að ökkla djúpar. Þetta er rannsóknarefni sem forvitnilegt er að skoða. En brátt ber okkur að sérkennilegri byggingu, sem stendur á hæð skammt frá götunni hægra megin. Þetta er hellukofinn, gamla sæluhúsið á heiðinni. Hann ber við loft í skarðinu milli Stórareykjafells og Skarðsmýrarfjalls þegar ekið er eftir þjóðveginum og er til að sjá eins og kúptur, stór steinn.

Hellisheiði

Hellisheiði – Hellukofinn.

Hellukofinn var gerður á árunum milli 1830 og 1840 og stendur skammt þar frá, sem Biskupsvarðan fyrrnefnda stóð. Var grjótið úr vörðunni notað í kofann. Þórður Erlendsson, sem síðar bjó að Tannastöðum í Ölfusi hlóð kofann og ber hann meistara sínum fagurt vitni. Kofinn er ferhyrndur að lögun, 1.85 m á hvern veg og hæðin upp í mæni um 2 m. Hann er einvörðungu byggður úr hraunhellum. Eftir að fullri veggjarhæð er náð dregst hleðslan saman og myndar þakið. Eru sömu vinnubrögð viðhöfð og Grænlendingar nota, þegar þeir byggja snjóhús. Efst er stór hraunhella sem lokar opinu. Dyrnar eru um 60 cm á breidd og 1 m á hæð. Til að þétta veggina var mosa troðið í glufurnar. Kofinn stendur nærri 45. vörðu. Talið austanfrá. Hann veitti oft hröktum mönnum skjól og til er rituð frásögn, er greinir frá því að veturinn 1884 hafi gist þar 6 ferðamenn nótt eina í hríðarbil. Er tekið fram að þeim hafi liðið ágætlega.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll – horft frá Hellisskarði 2010.

Frá Hellukofanum hallar vestur af og innan stundar stöndum við á efstu brún Hellisskarðs (eða Uxaskarðs smbr. Kjalnesingasögu). Þaðan sjáum við heim að Kolviðarhóli. Er þá ekki annað eftir en rölta niður brekkuna ofan úr skarðinu heim að Hólnum. Þar endar þessi gönguferð.“

Heimild:
-Morgunblaðið, 141. tbl. 26.06.1980. Gamla gatan á Hellisheiði, Tómas Einarsson, bls. 22.
-https://www.fi.is/static/files/gongur/a_slodum_tomas_einarsson/gamla-gatna-yfir-hellisheidi.pdf
Hellisheiði

Ölfus

Í Andvara 1936 fjallar Hálfdán Jónsson um „Lýsingu Ölveshrepps 1703„. Lýsingin er ekki síst áhugaverð hvað örnefni varðar:

„Lýsing Ölveshrepps, sem hér fer á eftir, er prentuð eftir AM. 767 4to. Er það lítið kver, 52 blöð í ekki stóru broti. Í kveri þessu eru tvö handrit af lýsingunni, og er hið síðara afrit af hinu fyrra. Ber þar ekki á milli, enda er hér ekkert tillit tekið til afrits þessa.

Reykir í Ölfusi

Reykir í Ölfusi 1949.

Um handrit það, sem hér er farið eftir, er það að segja, að um það hefir Árni Magnússon gert svo fellda athugasemd á smámiða, er nú fylgir kverinu: „Fra Haldane Jonssyne á Reykium i Ölvese og er hn author þessa ut puto“. Þykist sá, sem þetta ritar, hafa gengið úr skugga um það, að handritið sé með eiginhendi Hálfdanar Jónssonar [Hálfdan Jónsson, [1659-1707]. Hitt er vafalaust, að lýsingin er samin af Hálfdani, þótt Árni Magnússon kveði ekki fastara að orði en þetta, að hann ætli, að Hálfdan sé höfundurinn. Sonarsonur Hálfdans Jónssonar, meistari Hálfdan Einarsson, segir í Sciographia sinni, að afi sinn hafi ritað lýsingu Ölveshrepps að bón Árna Magnússonar og að hans dæmi hafi faðir sinn, séra Einar Hálfdanarson á Prestsbakka, ritað um Skaftafellssýslu. Á hann hér við ritgjörð séra Einars, er nefnd hefir verið Útmálun yfir Skaftafellssýslu. — Afrif það, er fyrr um getur, er með hendi Styrs Þorvaldssonar, er margt hefir afritað fyrir Árna Magnússon, og hefir hann ritað á smáseðil, er einnig fylgir nú með handritinu: „Þetta skrifað eptir kveri Haldánar Jónssonar á Reykjum í Ölvesi“. — Kunnugt er, að Árni Magnússon hafði mikinn hug á staðalýsingum og söfnun örnefna, sem víða má sjá merki í safni hans og frá hans eigin hendi. En þetta er þó eina héraðslýsingin, er með vissu má telja, að rituð sé að hans hvötum. Líkur benda þó til, að lýsing Vestmannaeyja, er eignuð er séra Gissuri Péturssyni, er prestur var að Ofanleiti 1689— 1713, sé af sömu rótum runnin og þessi, en frumritið er nú glatað, að því er frekast er kunnugt, og verður tæplega neitt um þetta sannað. En hitt dylst engum, er þessi rit les, að þau eru mjög að einu ráði saman sett.

Descriptio Ölveshrepps anno 1703

Ölfushreppur

Ölfushreppur.

Aulfvus eður Ölveshreppur hefur sitt nafn dregið af Alfi, fyrsta landnámamanni þess héraðs. Hreppur þessi liggur í Sunnlendingafjórðungi og Árnessýslu, fyrir vestan Ölvesá, nálægasta sveit að austanverðu við þann fjallgarð, er aðgreinir Árnessýslu og Kjalarnesþing. Þingstaður héraðsins er að Bakkarholti. Þangað sækja Grímsness og Selvogs innbyggjarar, þá þriggja hreppa þing haldast.
Í nefndri sveit eru kirkjur 5: /1 að Arnarbæli, sem tekja er á þessum fjörum góð, en ei mjög mikil. En landið allt austur með sjónum undir Selvogsheiði, þaðan austur í Óseyri og til Hrauns, er af sandi blásið og að mestu graslaust, fyrir utan Þorlákshafnartún með litlu graslendi þar um kring. Örnefni þar: Prestvarða, Miðalda, Prestvörðualda, Veiðimelur, Heyhóll, Rifjabrekkur, Djúpadalshraun. — Stórtrjáreki og hvala á Skeiði heyrir til að þrem pörtum dómkirkjunni í Skálholti og kirkjunni að Þorlákshöfn, en fjórðungur Arnarbæliskirkju. En Hraun á fimm álna löng tré og styttri á þeim parti fjörunnar, er Hraunsskeið nefnist.

Þorlákshöfn

Þorlákshöfn – loftmynd.

Þorlákshöfn hefur sitt nafn af Þorláki biskupi Þórhallssyni hinum helga í Skálholti, er þar meinast fyrst hafi á land gengið eftir sína biskupslega vígslu. Þar heitir og enn nú að framan verðu við bæinn Þorláksvör, Þorlákssker, og Þorlákshóll þar túnið er hæst. Í þessari veiðistöðu ganga árlega um vertíðartímann frá Kyndilmessu og í fjórtán vikur þar eftir (hvar um Alþingissamþykkt hljóðar, dateruð 1700) yfir fjörutíu skip, stór og smá. Mörg þeirra heyra til biskupsstólnum í Skálholti. En Árnessýslu innbyggjarar eru eignarmenn flestallra annara þar til sjós gangandi. Utan vertíðar er í þessari veiðistöðu mjög lítil fiskiafli, en á sumum árum alls enginn. Skipastöður með frí fyrir eitt skip hafa þessar jarðir í Þorlákshöfn: Breiðibólstaður fyrir selstöðu, Hjalli fyrir hrossabeit, Arnarbæli fyrir engi. Á Þorlákshafnarvík liggur oft Eyrarbakkakaupfar, þá ei fær byr að sigla inn á Einarshafnarsund. — Ölves liggur til Eyrarbakkakaupstaðar, sem og til Hafnarfjarðar, eftir innbyggjaranna frívilja þeirra höndlun að brúka í nefndum kaupstöðum.

Skálafell

Ölfus; Þurárhraun – loftmynd.

Þegar áður greindar sanda auðnur (með sjávarsíðunni kringum Þorlákshöfn og undir Selvogsheiði sig útstrekkjandi) minnka, tekur til meginbyggðin með fjallgarðshlíðunum í röð austur eftir sveitinni, allt til Þurrárhrauns.
Á þessum fjallgarði, er fyrir norðan þessa byggð sveitarinnar liggur, eru þrír vegir vestur á Suðurnes, nefnilega Ólafsskarð, Lágaskarð og Sanddalavegur, hverir allir saman koma í einn veg á vestanverðu fjallinu, þá byggðar lönd taka til Suðurnesja jarða.
Sérlegustu örnefni á þessum fjallgarði teljast: Geitafell, Lambafell, Vífilfell, Lyklafell, Reykjafell, Vestri-Meitill, Austari-Meitill, Sanddalir, Langahlíð, Skóghlíð, Hverahlíð, Lakar, Skálafellshálsar, Kellingarberg, Kálfsberg, Hestur etc.

Ölfus

Ölfus; Lambafell – loftmynd.

Þessi hér skrifaði hreppsins partur hefur til fjalls á sumrum víða lyngi vaxið haglendi, en um vetrartímann oft byrgt af snjó. Engjaplássið er í mýrum, þeim liggja í suður frá bæjunum, allt á Ölvesárbakka og að vestanverðu við Þorleifslæk. Þar vex mikið stargresi, gott fyrir málnytu, þá vel verkast og þornar, en þess er mjög torvelt til gagnsmuna að afla. Fyrst vegna fens foræða og torfæru með erfiðissamri brúargjörð. Þar næst liggur þetta gjörvalt engjapláss, með öðru mýrlendi, undir stórkostlegu Ölvesárflóði, nær stórstraumar eru við sjóinn, og vindarnir af suðri, landsuðri og útsuðri blása, gjörandi oft stóran skaða, einkum um sumartímann, heyshapnum og brúargjörðinni. En þá vindarnir eru við norðurátt, verður nægð heybjargar.

Ölfus

Ölfus; Breiðabólstaður – loftmynd.

Fyrrnefnt Þurrárhraun hefur að vestanverðu Þurrárhnúk með hömrum. Þar kemur rennandi ofan lítil á, er Þurrá kallast. Síðan að austan verðu við hnúkinn heitir Vatnsskarð, sem almennilega er talað, að Kaldá hafi runnið fyrr um, og nú sést merki til hennar farvegs uppi á fjallinu. En fyrir austan þetta skarð nefnist Valhnúkur. Um fyrrnefnt Vatnsskarð, milli hnúkanna, hefur jarðeldur ofan af fjallinu fram á mýrina hleypt Þurrárhrauni, hvort að er án grass, með mosum, um hvers eldsuppkomu í Ölvesi lesa má í Kristindómssögu, þegar á Alþingi talað var um kristniboðan hér á landi. Með títt nefndu Þurrárhrauni aðskiljast Hjalla og Reykjakirkju sóknir.

Ölfus

Ölfus; Núpar – loftmynd.

Fyrir austan Valhnúk er strax Gnúpahnúkur, með miklum hömrum, nær því allt að Gnúpastíg, hver eð liggur fyrir ofan Gnúpatún upp á fjallið, brattur yfirferðar, og samtengist við almenningsveginn á sunnanverðri Hellisheiði, þar Hurðarásvötn heita.
Landnáma greinir, að Álfur (hvar af eg meina allt héraðið dragi sitt nafn og fyrrum er á vikið) hafi numið land í Ölvesi, kom skipi sínu inn Ölvesármynni, upp eftir Þorleifslæk, í Álfsós, og bjó að Gnúpum. Ós þessi liggur að austanverðu nær því við Þurrárhraun. En frá Álfsós og vestur að hrauninu og til Sandár (hver sín upptök hefur þar við heiðina og rennur í ósinn), þaðan undir Gnúpatún, er mýrlendi með keldum og litlum lækjum. En sú mýri nálægt fjallinu, er að austan og sunnanverðu undir Gnúpahnúk liggur, nefnist Gnúpabringur, torsóttar vegna foraðs yfirferðar.

Ölfus

Ölfus; Hveragerði- loftmynd.

Fyrir norðan Gnúpastíg og bæinn tekur til aftur fjallið með stórum. og háum hömrum, í hverjum er hellir, sem er arnanna híbýli árlega og ómögulegt er, að rannsakaður verði. En þar þessir háu hamrar minnka og fjallið lækkar, taka til Kambar. Undan Kömbum til suðurs, milli Varmár og Sandár, með litlum brúnum, liggur heiði, ei stórum grösug, heldur blásin, þó með nokkru lyngi. Nefnd heiði endast með mýrum að sunnanverðu, ei alllangt frá Álfsós. Með jaðri heiðar þessarar, við mýrlendið, standa sex jarðir, hver nálægt annari, er kallast almennilega Bæjaþorp. Engjatakmark eður slægjuland nefndra Bæjaþorpsjarða tekur til við túnin í suður eftir mýrunum, með fínum heykost [en þó beztum að norðanverðu á Álfsósbökkum]. Varmá hefur nú fyrir fáum árum brotið sér farveg um þessar mýrar og engjapláss, því spillandi, hvar um síðar skal um geta.
Næst fyrir sunnan Bæjaþorpsjarða lönd og engjar liggur Reykjaslægjuland, er í Reykjakirkjumáldögum kallast Kirkjuhólmar. Þessu næst með vestanverðum Varmár forna farveg, þó ei á sjálfum bökkunum, strekkir sig út Arnarbælisstaðar slægjuland, allt suður að staðar túninu og að austan við Þingholt.

Ölfus

Ölfus; Arnarbæli – loftmynd.

Arnarbælisstaður, á einum hól með öllum sínum hjáleigum og hjábýlum, stendur á Ölvesárbakka, hafandi vestur með árbakkanum slægjuland, allt að Hólmsósum [Þorleifslækjar mynni]. En að vestan verðu við lækjarósinn liggur Ósgerðishólmi, en fyrir vestan hólminn strekkir sig fram í Ölvesá Nauteyrarós. Þar liggja í grennd Nauteyrar, og er þetta allt Arnarbælis engjar, með miklu stargresi, að fráteknum Þorlákshafnar og Þorkelsgerðis engjaítökum, fyrir skipstöðu kemur. En vestar á Ölvesárbökkum liggja Lambeyrar og Lambeyrarós. Þessar eyrar heyra til Hrauni til litlra slægna, þó með [nokkrum] ítökum, er aðrar jarðir líka eiga. Þessar eyrar og greint engjapláss liggur undir Ölvesárflóði um stórstrauma. Fyrir vestan staðinn, í túninu, hefur býli verið, nú fyrir nokkrum árum í eyði, er Búlkhús var kallað. Þar var farmur tekinn af því skipi og öðrum fleirum, er Ögmundur biskup lét til Noregs sækja timbur á. Í útnorður og norður frá staðnum er mýrlendi með keldum og flóðum, allt að austanverðu á Þorleifslækjarbakka og að sunnan að Álfsós, hvert bæði er slegið og fyrir beitarland brúkað, og kallast allt þetta pláss Botnsmýri. Hér nefnt Arnarbælisland liggur nær því árlega um vetrartímann undir ís og snjó, hefur þar fyrir yfirgnæfanlegt stargresi um sumartímann.

Ölfus

Ölfus; Hellisheiði – loftmynd.

Fyrir austan áðurnefndar Bæjaþorpsjarðir, en vestan Varmá, liggur almennings vegur yfir fjallgarðinn á Suðurnes og í Kjalarnesþing, fyrst upp á Kamba áðurnefnda, síðan vestur yfir Hellisheiði, hver að austanverðu hefur mikla mosa, með mjög litlu grasi, allt þar til Þrívörður heita og heiðin sjálf meinast mið vera, en hennar vestri partur er víða með sléttum hellum af hraungrjóti, án gatna, nema þær hestanna járn hafa gjört og auðsjáanlegt er þeim athuga. Þessar sléttu hellur ná allt vestur að Biskupsvörðu. Fleiri vörður eru og við veginn hlaðnar til leiðarvísis. — Fyrir sunnan heiðarhraunið liggur áðurnefnd Hverahlíð með mosum og grasi. Upp á hlíðinni er hátt fell, mjög blásið, þó án hamra, er Skálafell nefnist, með vatnsstæði. Á þessu felli var skáli Ingólfs Arnarsonar, fyrsta landnáma manns, hvar af þetta fell hefur sitt nafn dregið, sem Landnáma ávíkur. Af þessu téðu felli er víðsýnt um Árnessýslu, Rangárþing item Vestmannaeyja og Gullbringusýslu.

Ölfus

Ölfus; Bolavellir – loftmynd.

Vestur af Hellisheiði liggur almennings vegurinn ofan Hellisskarð, vestur yfir Hvannavelli, um endilangt Svínahraun og á Bolavelli, þaðan fyrir sunnan Lyklafell og vestan til í Fóelluvötnum, síðan með þeirri á, er úr vötnunum rennur, allt á Fossvelli og að Tröll[a]börnum etc. Upp í hnúknum fyrir norðan fyrrnefnt Hellisskarð er sá stóri steinn einstakur, er Búasteinn kallast, við hvern stein varðist Búi Esjufóstri, sem saga hans tilvísar. Sama saga nefnir Hellisskarð Öxnaskarð, og mun þá hafa sitt nafn öðlazt af nautarekstrum Ölves innbyggara vestur yfir heiðina. — Á norðanverðum Hvannavöllum, er strax taka til fyrir neðan skarðið, stendur sælhús (ei langt frá veginum) so kallað, hverju allt til þessa tíma Ölves innbyggjarar hafa uppi haldið vegfarandi fólki harla nauðsynleg á vetrartímanum til innvistar. Er og lofsvert, að þetta sælhús ei niður falli. Fyrir sunnan Húsmúlann, er liggur í útsuður undan Hengilsfjallinu, en fyrir norðan Hellisskarð, liggja Sleggjubeinsdalir. Þar er náttstaður vesturleitarmanna úr Ölvesi, þá afréttinn á haustin leita. Í vestur og útnorður frá sælhúsi og með Húsmúlanum liggja miklir grasvellir, nefndir Norðurvellir, og strekkja sig út allt suður undir Svínahraun, nær því undir Bolavelli, en endast þó þar Uxabrekkur heita.

Ölfus

Ölfus; Hengill – loftmynd.

Inn með Hengilsfjallinu liggur dalur og fyrir norðan Húsmúlann, er Engidalur kallast. Úr honum rennur lítil á vestur eftir Norðurvöllunum, fyrir norðan Bolavelli en austan Lyklafell, og fellur síðan í Fóelluvötn. Ei alllangt frá Engidal eru almennar nautaréttir Ölvesinga og Kjalarnesþingsmanna, er árlega haldast þann þriðja dag Oktobris mánaðar, ef ei er helgur, annars næsta dag fyrir. Þessi fjallgarður brúkast almennilega fyrir nauta og hrossa afrétt. Skammt fyrir sunnan réttirnar, við Engidalsá, standa tveir klettar, sinn hvoru megin árinnar, og nefnist bilið á milli þeirra Þjófahlaup — er þó ei sannferðugt, hvar fyrir so kallast. Í austur frá Engidal, upp á Henglinum, stendur þúfa, er enn nú nefnist Strendurþúfa, þangað eiga Strendurmenn í Selvogi með frí lambarekstra árlega. Frá þessari þúfu í útsuður hallar fjallinu, með stórum giljum og brekkum, allt ofan í Hengladali, hverir eru so sem þrír, hvor austur af öðrum. Þessir dalir eru grasi uaxnir með valllendi og mýrlendi, hafa fyrir sunnan sig Skarðsmýrarfjöll, graslaus, og liggja að norðanverðu við Hellisheiðar hraunið. Undir þessum fjöllum og um Hengladali síðan vestur á Hellisskarð liggur vegur Grafningsmanna á Suðurnes, er kallast Milli hrauns og hlíðar.

Ölfus

Ölfus; Reykjadalur – loftmynd.

Úr Hengladölum renna margir smálækir, þar til í eitt saman koma, og so fram eftir dölunum vestur undir Hellisheiðarhraunið. Fyrir austan Skarðsmýrarfjöllin er kallaður Orustuhóll og þó fyrir vestan ána, er úr Hengladölum fram rennur. Þar undir hrauninu sjást enn í dag glögg merki til fjárrétta, er menn heyrt hafa brúkað hafi í fyrri tíð Ölves innbyggjarar og Suðurnesjamenn þá saman og til afréttarins hvorutveggja rekið höfðu, og hafi á milli þessara óeining komið, hvar af Orustuhóll mun nafn sitt draga.
Frá nefndum hól rennur áður téð á til landsuðurs og austurs með hrauninu en fyrir vestan og sunnan Smjörþýfi, hvert eð liggur norður með Svínahlíð og er so áfast við Hengladali. Þessi títtnefnd á kallast þá nálægist byggðina Kaldá. Þar á henni heitir Lambavað. Hún er sagt runnið hafi fyrr meir fram eftir Gnúpafjalli og ofan Vatnsskarð (sem hér fyrir framan er á minnst). Nefnd á, þar hún nú rennur í nokkrum gljúfrum, hefur hún fyrir sunnan sig Saurbæjarhraun so kallað, hvert liggur til norðurs frá Kömbum, en að norðanverðu liggur Árstaðafjall. Þar við ána í fjallinu er gat á berginu og kallast Raufarberg hvar með Reykjaland aðgreinist frá afréttinum. Þetta Árstaðafjall hefur upp á sér grösugan dal, er Fífudalur kallast. Fjallið er og sjálft allvíða grasi vaxið, með góðu haglendi. Í norður frá fjallinu heita Molddalir og þar nærri eru Hverakjálkar. En heiðin þar fyrir vestan, allt á Svínahlíð, er kölluð Bytra.

Ölfus

Ölfus; Grændalur – loftmynd.

Hér nefndir Hverakjálkar hafa í sér hveri með deigulmó og litlum læk, er rennur í austur, allt ofan í Reykjadal. Þessi dalur hefur mýrlendi og valllendi, mjög grösugur, með volgri á, sem orsakast af mörgum hverum, er víða í dalnum eru. Hér nefnd Reykjadalsá rennur í suður og ofan í Djúpagil so kallað, síðan í Kaldá.
Örnefni í þessum dal og kringum hann eru þessi sérlegustu: Klambragil, Fálkaklettar, Dalaskarð, Dalafell, Rjúpnabrekkur efri og neðri etc, Fyrir austan þessi örnefni liggur Grænsdalur, beitarland og slægna frá Reykjakoti, víða grasi vaxinn með valllendisbrekkum og mýri, einnig með hverum og mörgum smágiljum, er gjöra með sinni saman rennslu eina á eftir þessum miðjum dal, hver eð rennur til útsuðurs í þráttnefnda Kaldá. Örnefni í og kringum Grænsdal eru þessi helztu: Grænsdalseggjar, Þrengsli, Langamýri, Engjamúli, Nóngil, Vesturfossar, Ófærugil, Vestastaengi, Miðengi, Austastaengi, Kapladalur, Snókatorfa, Þvergil, Jarðföll, Brennisteinshver etc. En til austurs frá Grænsdal taka til Klóarmelar, aldeilis graslausir.

Ölfus

Ölfus; Sogn – loftmynd.

Plássið þar fyrir austan er selhagar frá Reykjum og það pláss kallað Reykjafjall, þó lágt liggi sem annar dalur. Þetta takmark er með grasi víða, so valllendi sem mýrum, gott til haglendis en undirlagt af snjóum á vetrartímanum, sem og einnig í sama máta fyrrskrifaðir dalir. Af mörgum smágiljum þar saman rennandi í eitt orðsakast ein lítil á, er Sauðá kallast, hver eð rennur til útsuðurs og allt í Kaldá. Í kringum og í þessu Reykjafjalli eru þessi minnilegust örnefni: Sökkatindur, Sauðatindar, Efri- og Neðri-Tindamýrar, Klóarmelahver, Klóarmýri, Kló, Klóarbugar, Votamýri, Kapladalur, Stóratorfa, Austurhvammar, Álútur, Hrossaflöt, Geldingadalur, Bolatjörn, Boli (so kallaður hver), Bolabrekkur, Nátthagi, Selhæð etc. etc. Þegar hér oftnefnd Kaldá með öðrum ám og lækjum, sem hér umgetur í hana renni, beygist og rennur rétt til suðurs fyrir neðan fjallgarðinn, þá er hún Varmá kölluð, og dregur sitt nafn af því varma vatni þar á allar síður. Í hana renna ei allfáir vellandi hveralækir, ásamt volgar vatnslindir, so og eru í árinnar sjálfrar farveg vellandi hverir, er sig auglýsa þá hún vatnslítil er. Í nefndri á er foss fyrir vestan túnið á Reykjum, sem net er í dregið en veiði þó alllítil af sjóbirtingi á öndverðum sumartíma.

Ölfus

Ölfus; Varmá – loftmynd.

Varmá hefur fyrir nokkrum árum runnið til suðurs allt í Ölvesá fyrir austan Arnarbælis stað, en nú hefur hún brotið sér farveg um miðjar engjar Bæjaþorpsjarða til vesturs, allt í Álfsós, berandi uppá kringum liggjandi mýrlendi aur, leir og sand, slægjulandinu til spillingar (sem áður er um getið). En sá forni farvegur er þurr orðinn.
Ei er gleymandi að skrifa nokkuð um það varma vatn og vellandi hveri, er nálægt Varmá liggja. Fyrir vestan Reykjafoss kallast Hveragerði. Í því plássi eru margir hverir, sumir með miklu djúpi og þó vellandi. Einn þessara liggur hérum einn faðm frá almenningsveginum, er liggur vestur Hellisheiði, og er með bergi að austanverðu, en sandmel annars staðar, hér við tveggja álna hátt að vatni, nær því kringlóttur og víður sem lítið hús. Hann er vellandi með smásuðu en ei stórkostlegri, mjög djúpur og dimmur að sjá. Á hér téðu hver keri hafa skilríkir og sannorðir menn (hverjir enn nú eru á lífi, og sumir sálaðir) séð, þá veginn hafa ferðazt, tvo fugla synda, að vexti sem litlar andir með fölsvörtum lit, og hvítum baugum, eður so sem hringum kringum augum. Þá þessir fuglar hafa um lítinn tíma synt á hvernum, hafa þeir sér í vatnið stungið og ei úr vatninu upp aftur komið, þó menn hafi nokkra stund þar dvalið, væntandi þeirra aftur komu. Hér um hafa allir, er þetta séð hafa, sama sagt.

Ölfus

Ölfus; hverasvæði við Reyki – loftmynd.

Annar hver í útsuður frá þessum, lítill vexti, spýtir upp úr sér vatni með miklum reyk þykkum og svælu hátt í loftið, þá veðrátta tekur til að ganga rosasöm, og það á öllum ársins tímum. En þegar þurrviðri, frost og úrkomulítið loft er, gefur hann ei frá sér nema vanalegan reyk, hvar af marka má veðráttufar, þeir eftir taka kunna. Örnefni þessi eru fyrir norðan Hveragerði og undir Kamba minnisstæðust: Sandskeiði, Hamarinn, Volgulækir, Völlurinn, Árhólmar etc.

Hveragerði

Hveragerði – Reykir; loftmynd.

Sá þriðji heitir Baðstofuhver, og liggur að austanverðu við Varmá, fyrir norðan Reykjafoss, með miklum undirgangi upp úr holu eður gjá, hér um tveggja faðma víður. Hann gýs hátt upp í loftið um lítinn tíma vellandi vatni með reyk og svælu stórkostlegri, so furða er að líta. Þegar hverinn er að spýta og frá sér gefa vatnið, þá rennur lækur þaðan fram í ána. Þá so þetta hefur litla stund varað, sýgur gjáin allt gjörvalt vatnið í sig aftur, so illa nóg sést til þess, þar til í nefndri gjá vatnið aftur vex, og gýs so með sama hætti og hér er áður um talað. Ei mun þessi hver minna gjósa með stórstraum við sjóinn, heldur meira.

Hveragerði

Hveragerði – Grýla 1973.

Fjórði hver er upp undir fjallinu, fyrir ofan Reykjatún, nefndur Geysir, hvers ógnarlega hljóð, nú fyrir nokkrum árum, skriða úr fjallinu með sínu hlaupi hefur stillt. Hjá þessum hver og líka annars staðar er að finna álún og marglitaðan, feitan deigulmó.

Hveragerði

Hveragerði – Hverasvæðið.

Fimmti er fyrir vestan Reykjatún, hér um þriggja álna víður í kring, vellandi með hreinu vatni, hver í sig sígur tuttugu álna langt vaðmál rétt til enda og sendir það so aftur upp í einum böggli, þá hann gýs. Ei má því sleppa, því þá er óvíst, hvort aftur næst. Margir aðrir hverir eru og nálægt Reykjum og Reykjaseli (og víða um þeirrar jarðar land), hvar mat má á kokka, einnig lita vaðmál, eður hvað annað þesskonar til þarfinda að brúka þörf gjörist. Járnpottar eru hentugastir hér til, en eirkatlar foreyðast fljótara en yfir eldi. Allur sá þeirra partur, er upp úr hverunum stendur, gatbrennur, en botninn bilar trauðlega. Sé lagt í þessa hveralæki, eður þeirra úrrenslur, ógyllt silfur, þá kemur á það roði, sem strax af strýkst. Sé ull eður önnur þesskonar lin materia lögð í þessa hveralæki, verður hún með langsemi að steini, eður hörðum mó, þó með sama formi og hluturinn þangað lagður er í fyrstu. Sumir smáhverir eru og þeir, sem spýta deigulmó so þykkum sem graut. Hveravatn þrálega drukkið meina menn sé þeim mönnum gott, er brjóstveikir eru.

Ölfus

Ölfus; Grafningur – loftmynd.

Fyrir landsunnan og austan Reykjatún er kallað Stórkonugil. Síðan er mýrlendi allt til Vallnamúla, þar er með fjallinu er Skjólklettur nefndur. Sérlegustu örnefni á Reykjafjalli, er liggur til austurs allt til byggðar í Grafningi, teljast þessi: Efjumýrar (í hverjum er landamerkjaþúfa milli Reykja og Grafningsjarða), Geldingadalseggjar, Lambhagi, Húsatorfur, Stekkjardalur, Sognsbotnar, Sognin, Klyptartungur, Sognssel, Selás, Kringluvatnsdalur, Hlíðarfjall, Hálsfjall etc. Að austanverðu við Varmárfarveg þann forna liggja bæir í röð, með sínum hjáleigum, suður eftir miðri sveitinni, fimm að tölu, allt að Ölvesá. Í þessari tölu er Reykjakirkju jörð, Vellir, hvar Reykjakirkja stóð í þrjátíu ár og nú sjást enn glögg merki til tóttar, kirkjugarðs og leiða framliðinna manna. En að Völlum var kirkjan flutt þangað (eftir því sem sannorðir menn sagt hafa) að hver hafði upp komið innan kirkju á Reykjum, en biskupinn, herra Oddur Einarsson, befalaði Álfi Gíslasyni líttnefnda kirkju til Reykja aftur að flytja, hvar hún hefur síðan staðið.

Ölfus

Ölfus; Glúfurá – loftmynd.

Örnefni fyrir ofan og austan Velli eru þessi: Torfeyri, Músarhólar, Krossklettar, Vallnamúli, Vallnagil, Sognseinbúi, Rauðilækur, Hellnaholt. — Austur með fjallshlíðinni liggja og þrír bæir, beggja megin þess vegar, er Grafningsháls kallast og aðskilur frá öðrum fjöllum að norðan verðu Ingólfsfell, þar nálægt liggjandi. Milli þessara bæja hlaupa fram í sveitina ár tvær litlar. Kallast sú vestri bæði Gljúfursá, einnig Gljúfrarholtsá, og svo líka Sandá. En sú eystri Hvammsá og líka Bakkarholtsá. Þessar báðar strekkja sig út til útsuðursáttar og komast so loksins í þann forna Varmárfarveg og þaðan í Ölvesá, milli Arnarbælis og Auðsholts. Hvammsá aðgreinir með fjallbyggðinni Reykja- og Arnarbæliskirkjusóknir. Ei alllangt frá þessari á, undir Ingólfsfelli, eru almennilegar sauðaréttir Ölvesinga á hverju ári haldnar þann 21. dag septembrismánaðar, ef sá dagur, eður sá fjallleitina á ber, er ei löghelgur. Annars eru réttirnar haldnar eftir hreppstjóra ráði og tilsögn.
Fyrir framan Ingólfsfell og með því að sunnan og austanverðu og allt að Ölvesá liggur byggðin, hvar eð skiptast að austan undir miðju fjallinu Arnarbælis og Úlfljótsvatns kirkjusóknir. Mesti partur þessara jarða landa, eður búfjárhagar (er fyrir austan Varmár gamla farveg liggja) er mýrlendi með holtum, með heyskap ei mjög miklum og kostalitlum einkum á þeim jörðum, er ei eiga engi á Varmárbökkum, hvar betri heykostur er.

Ingólfsfjall

Gengið á Ingólfsfjall.

Minnilegust örnefni um þetta pláss allt reiknast þessi hér: Eskholt, Hvammslambhagi, Hólstaðir, Gálgaklettar (hvar að stórbrotamönnum er réttað), Márstígur, Auðholtsskygnir, Völur, Kögunarhóll etc. Þessu næst er að geta Ingólfsfells. Það liggur til norðurs og suðurs í hreppnum, ei alllangt frá því vafnsfalli, er Sog nefnist og fyrir austan fjallið rennur. Þetta fjall hefur hamra og eggjar allt um kring, háfar og miklar að sínum þremur köntum, að vestan, sunnan og austan, en að norðanverðu er það með stórskörðum og giljum. Það er mjög graslítið, svo upp á því, fyrir ofan hamrana, sem neðan. Þar fjallið er hæst, þó nokkuð norðar en á því miðju, er haugur Ingólfs Arnarsonar, fyrsta landnámamanns, mældur við jarðveginn tvö hundruð faðmar í kring, nú graslaus með stórum hellum og mel, sums staðar mosavaxinn. Haugurinn sést á allar síður á fjallinu, nema að norðan. Magister Brynjólfur Sveinsson reið þangað eitt sinn norðan á fjallið að skoða hauginn, hvorn hann lét þá mæla. — Örnefni þessi eru á Ingólfsfelli svo kölluð: Kagi, Kagagil, Leirdalur, Dagmálagil, Hólstaðagil, Tannastaðadalir, Alviðrueggjar, Djúpidalur etc. í landnorður undan Ingólfsfelli og upp með Soginu eru mýrar, þar til byggðin í þeim kjálka sveitarinnar til tekur, er Grafningur kallast. En í vestur yfir Álftavatn og fyrir norðan Ingólfsfjall liggur vegur fram Grafningshálsinn og í Ölvesið, Á þeim vegi nefnast þessi örnefni: Djúpigrafningur, Æðargil, Bjarnarfell, Kaldbak etc.

Ölfus

Ölfus að Grímsnes- og Grafningshreppi.

Fyrir sunnan Tungá (en í Landnámu kallað er Þverá) eru fjórar jarðir með graslendi góðu, lyngi vaxið, en fyrir ofan eður norðan ána er Bíldfellsfjall lyngi og skógi vaxið, sem og góðir hagar á vetur. Þar norður með vatninu er kallað Land, allt þar til tekur Úlfljótsvatns slægjuland, kallað Dælar. Síðan tekur til (Úfljótsvatnsfjall og fyrir austan það Dráttarhlíð, svo kölluð vegna þess á því plássi er net dregið til silungs veiði. Það er slægjupláss frá Úlfljótsvatni með svo góðum heykosti sem töðu. Upp á þessari hlíð eru þrír fornmannahaugar, hver skammt frá öðrum, grasi vaxnir, þar menn segja í séu heygðir þeir fyrri menn á haugaldartíð, er þessar jarðir, Úlfljótsvatn, Villingavatn og Ölversvatn hafa sitt nafn af dregið. Norðan til í hlíðarberginu er stór hellir, kallaður Skinnhúfuhellir. Haglendi þessara jarða er gott með lyngi, viði og góðu grasi víða vaxið og ei stórlega blásið. Lítil á rennur að vestan úr fjallinu fyrir sunnan Ölversvatnstún og austur í Þingvallavatn. Slægjuland þessarar jarðar er fyrir austan bæinn. Vestan bæinn í túninu er kallað Grímkelsgerði og þar er leiði Grímkels goða Bjarnarsonar, 15 álna langt.

Kattartjarnir

Kattartjarnir.

Örnefni nálægt Ölversvatni: Lambhagi, Álftalautir, Stigadalur, Líkatjörn, Líkatjarnarháls etc. Norður betur með vatninu skerst inn vík, kölluð Hagavík. Þar enn til norðurs Hagavíkurhraun, nú með litlum skógi. Örnefni þar nálægt: Sandfell, Leirdalur, Lómatjörn, Lómatjarnarháls, Ölversvatnsvellir, Hvíthlíð (Reykjakirkju skógarítak), Stangarháls (Arnarbæliskirkju skógarítak), Rauðhóll, Grámelur etc. Þessu næst er að minnast örnefna, er fjallgarðinum til heyra, þó byggðalönd séu Grafningsjarða og kallast so þau nafnfrægustu: Háafell, Dagmálafjall, Súlufell, Kyllisfell, Stapafell, Mælifell, Krossfjöll, Hrómundartindur Villingavatns-Seljadalur, Laxárdalur, Stóri- og Litli-, Smjördalur, Úlfljótsvatnsbotnar, Villingavatns-Seljabotnar, Álftartjarnir, Kattartjarnir, Djáknapollur, Mælifellsflatir, Lakar, Ölkelduháls, Brúnkollublettur.) Raufarberg sem er landamerki milli Ölversvatns og Reykja, Þverárdalur, Söðlahóll, Kýrgil með hverum og hömrum og liggur undan Henglinum að sunnanverðu.

Grafningur

Ölfusvatnslaugar.

Þar norður með Hengisfjallinu eru kallaðar Ölversvatnslaugar. Þar fyrir norðan Nesjalaugar. Frá þeim til austurs eru Nesjavellir, slægjuland frá Nesjum. — Það þráttnefnda fjall Hengill er stórt og hátt og liggur til austurs og vesturs, að ofanverðu blásið með mosum, en til hliðanna, einkum að sunnan og austanverðu, með grasbrekkum. En á vestri síðuna hefur það stórgil og hamra. Það er kallaður Vörðuskeggi þar fjallið er hæst, að austan. Þaðan segja menn að sjáist glögglega hver ein vík og annes á Þingvallavatni, en ei af öðrum fjöllum. Þetta fjall með kringum liggjandi á allar síður fellum, hálsum, ásamt dölum og völlum, er afrétt Ölvesinga fyrir sauðfé, naut og einnig hross. Þennan afrétt munu og Suðurnesjamenn brúkað hafa í fyrri tíð, er hér að framan um getur.

Marardalur

Marardalur.

Örnefni fyrir vestan og norðan Hengilinn þessi: Marardalur, Grashólar, Skublungar, Dýrunsfjöll, Folaldadalir, Vegghamrar, Rauðuflög etc. í austur og landnorður undan Henglinum er Jórutindur, er so nefnist af Jórunni, er trylltist á Flóamanna hestaþingi og Ólafur konungur lét vinna, sem um getur í söguþætti hennar. Fyrir neðan tindinn tekur til Jórukleif og eftir kleifinni kallast Jórugil, er liggur í Þingvallavatn. Þetta pláss er skógi vaxið og kallast Nesjaskógur. í suður frá Jórutind er nefnd Hjallatorfa, Hjallakirkju skógarítak, nú mjög gagnlítið. Jórukleif hefur að norðanverðu hamra, en fram við Þingvallavatn liggur vegur til Alþingis Ölvesinga. Um þessarar kleifar nyrðri síðu aðskiljast Ölves eður Grafnings jarða lönd og Þingvallahreppsins.

Þingvallavatn

Þingvallavatn.

Þingvallavatn er það stærsta stöðuvatn á þessu landi. Í því er silungur, hver í kringum það veiðist með lagnetum og krækifærum á bátum, einnig á ísum á vetrardaginn. Út í því liggja eyjar tvær. Önnur kölluð Nesjaey, há sem lítill hóll, með litlu grasi en varpi engu. Hún heyrir til Nesjum. Hin eyjan, sú eystri, kallast Sandey, so sem lítið fell, sums staðar grasi vaxin en í sumum stöðum blásin. Hún hefur varp nokkurt af svartbak. Þessi heyrir til Ölversvatni. Hestaganga er þar góð fyrir fáeina á vetrartímanum, þá vatnið er ísi þakið og hefur hestheldan ís. Það er almennilega haldið, að vatnið frá Ölversvatni og norður í Sandey svari að lengd sem tveimur vikum sjávar, og úr eynni jafnlangt til Þingvalla. Milli eyja þessara er lítill hólmi, sem elftur verpa í.

Grafningur

Úlfljótsvatn fyrrum.

Í útsuður frá Sandey hafa sannorðir menn séð í hlýju morgunveðri reyk eður blástur upp úr vatninu um lítinn tíma, líkastan stórfiska blæstri.
Fyrir norðan áðurnefnda Dráttarhlíð, skerst fram úr Þingvallavatni það mikla vatnsfall Sog, er sitt nafn tekur af þess súg eður hastugri rennslu fyrir hlíðartaglið. Anno 1632 þornaði þetta Sog upp, so silungar voru á þurru úr því teknir. Þegar nú þetta Sog linar sinn straum, strekkir það sig út í eitt ei alllítið vatn, er nefnist Úlfljótsvatn, sem með silung er jafnan, og dráttarnet með bát brúkast þar á sumrum. Upp úr þessu vatni, þá vorar að, rekur í kringum það hrönn með smá punga, hvar úr menn hyggja það mý koma, er við nefnt vatn á sumrin, þá hitar og vætuhæg veðrátta gengur, er so þykkt í loftinu, að varla sést til sólar í heiðríku veðri.
Í miðju þessu vatni er ein ey, kölluð Hrútey, með mjög litlu varpi, hafandi hvannir, er tíðum slegin. En sunnan til í nefndu vatni eru tvö eylönd. Nefnist önnur eyjan Flatey, og heyrir til Úlfljótsvatni, með góðu grasi og hvönnum, en hin kallast Brúarey, með viðlíkum hætti og Flatey. Í nefndar þessar eyjar verður að fara á skipi, sem og milli þeirra, þó ei langt sé. Brúarey heyrir til Efri-Brú í Grímsnesi.

Sogið

Sogið.

Þegar Sogið úr vatninu tekur til aftur, kemur stór foss, nefndur Ljósifoss. Þar fyrir neðan er annar, kallast Ýrufoss. Þar eftir liggja hólmar í Soginu, í hverja reitt er að vestanverðu, hvar vex einir og ber á, sem og annað lyng. Fyrir sunnan nefnda hólma er sá þriðji foss, er Kistufoss heitir. Undir þann foss fer selur, en ei lengra. Eftir þetta hleypur Sogið fram með byggðinni Grafningsins að austanverðu, allt að Tunguármynni. Þar er ferjustaðurinn yfir Sogið. Síðan koma enn nokkrir smáhólmar, er Torfastaðahólmar eru kallaðir, með varpi nokkru. Þar brúkast og ferjustaður frá Torfastöðum. Fyrir sunnan téða hólma slær Sogið sér út og breikkar, so lítill straumur verður í því, með sléttum sandi á botninum. Þar er vað, sem oftast nær brúkast árið um kring, nema þá stærstu vatnavextir eru.
Þetta vatn kallast Álftavatn. Sunnarlega í því er hólmi stór með bergi í kring, hvar arnir verpa tíðum. Þegar Álftavatn tekur að mjókka er enn kallað Sog, hvort rennur enn til suðurs að austan verðu við Ingólfsfjall (á móti Alviðru er og líka ferja höfð) og allt í Hvítá.

Sogið

Sogið.

Títt nefnt Sog aðskilur Grafning frá Grímsnesi. Þegar í einn farveg er komið Sogið og Hvítá, þá nefnist og kallast vatnsfallið til samans Ölvesá, hver móða rennur til útsuðurs og aðgreinir Hraungerðinga og Kaldnesinga hreppa frá Ölvesi. Fyrir framan ármótin eru smáhólmar með varpi litlu. Síðan er Laugardælaferja. Í ánni fyrir útsunnan ferjustaðinn er eyland, er Laugardælastað tilheyrir.
Fyrir norðan Selfosstún eru þrír klettar fyrir ofan hávaðana, en þó langt á milli þeirra, er í ánni standa. Þessir steinar kallast Meyjarhlaup, hvar yfir um fór Jórunn af hestaþingi í Flóa, þá trylltist, og lagðist þar eftir í Jórutind, sem hér er áður á minnst. Hún ein hefur gengið á stíflu yfir Ölvesá, þá ófrosin verið hefur. Fyrir neðan nefnda háfaða kemur vík, kölluð Fossvík. Þar fyrir vestan er einn ferjustaður, kallaður Kotferja. Þar Ölvesá rennur fyrir vestan Kaldaðarnes er ey í ánni með æðarfuglsvarpi, er þangað heyrir, til gagnsmuna. En þegar nefnt vatnsfall tekur að útstrekkjast, hefur það eyrar með stórum og djúpum álum og mikilli víðáttu vestur undir Hamarenda. Arnarbælisstað tilheyra þrjú eylönd, er að vestanverðu liggja í ánni og slegnar eru, er so nefnast: Garðey, Hrútey, Lambey.

Ölfus

Ölfus; Selfoss – loftmynd.

Fyrir sunnan Hamarenda tekur árinnar breidd að mjókka, so hún fellur í eitt, án eyra og grynninga, og til landsuðurs. Þar er ferjustaður, sem í Óseyri kallast. Þar verður að sæta sjávarföllum til flutnings og er ærið langt sund. Á þessum ferjustað, sem öðrum öllum í Árnessýslu, er á Alþingi ályktuð ein alin í ferjutoll undir mann og hest, til og frá, item sama gjald er undir klyfjaðan hest hvern. En þegar kúgildi eitt er flutt, þá er fimm álna ferjutollur fyrir það. Þessari Óseyrarferju halda uppi búendur í Ferjunesi (sem Landnáma kallar Framnes), og meðtaka ferjutollana. Þar verða að brúkast á ánni tvö skip í senn um sumartímann, vegna fólksfjölda. Ei alllangt fyrir framan ferjustaðinn fellur áin í sjó, þó í tveimur kvíslum, önnur til austurs með landinu, en hin vestur með Skeiðinu. En vegna þess Hásteinar liggja rétt í miðju gapi árinnar, þá orsakast þessi yatnsins sundurskipti. Hásteinar er stórgrýti, þurt um fjöruna, en um flóð í kafi og brýtur á sem boða öðrum. Fyrir vestan Hásteina er kallað Hásteinasund, sem með farmaskip er inn róið. Mikill fjöldi af sel er í árinnar mynni, sem og í henni sjálfri. Silungsveiði með báti og dráttarneti brúkast í Óseyri frá Hrauni í Ölvesi, um sumartímann, og er það sjóbirtingur, sem þar næst. Nú eru hér upp talin flest öll byggðarlög, landspláss og örnefni í Ölvessveit, er nú kallast á þessum tíðum.
NB. Á Reykjum í Ölvesi hefur í fyrri tíð búið Gissur jarl og Oddur Gottskálksson lögmaður (þar út lögð píningar historian og um Jerúsalems eyðileggingu A- 1545).

Laufdælingavegur

Laufdælingavegur.

Þessi eru haldin sýslumót milli Árnessýslu og Kjalarnesþings, fyrst er Vilborgarkelda, er liggur á Mosfellsheiði, fyrir vestan Heiðarbæ. Þaðan ræður Laufdælingastígur í vestur liggjandi eftir heiðinni allt í nyrðri Lyklafellsenda. Síðan í þann einstaka stein, er stendur við Hellisheiðarveginn á melnum fyrir sunnan Lyklafell, er kallast Sýslusteinn. Þaðan í það stóra bjarg, er liggur við veginn í Ólafsskarði. Síðan sjónhending í Hvítskeggshvamm, fyrir sunnan Geitahlíð, milli Herdísarvíkur og Krýsuvíkur.
Anno 1703 voru og töldust búendur í Ölvesi, er tíund gjörðu frá níu hundruðum og þaðan af frekara seytján; en frá fjórum hundruðum til tíu hundraða þrjátíu og einn. En þeir minna tíunda en fjögur hundruð eru fimmtíu og einn.
Reiknast lausafjártíundir allar í Ölvesi á ofanskrifuðu ári fimm hundruð hundraða, sjötíu og átta hundruð betur. Tala heimilisfastra manna, ríkra og óríkra, á sama hér téðu ári, í þrátt nefndum hrepp, er fimm hundruð sjötíu og sex menn, en fátækir umferðamenn sveitarinnar teljast þrjátíu og einn. Summa alls fólksins fimm hundruð tíutíu og sjö menn.“

Heimild:
-Andvari, 1. tbl. 01.91.1936, Lýsing Ölveshrepps 1703 – Hálfdán Jónsson, bls. 57-78.

Sýslusteinn

Sýslusteinn suðaustan Lyklafells.