Búrfell eru 39 talsins, nokkuð há stapafjöll með klettum ofantil. En hvers vegna heita öll þessi fjöll á landinu „Búrfell“?
Búrfell landsins eru mörg og finnast um allt land. Að auki eru fjölmörg örnefni dregin af því, nefna má ár, dali, flóa, drög, heiðar, hraun, hyrnur, hálsa og margt fleira. Einnig bera níu bæir nafnið.
Búrfell í Garðabæ.
Þrjátíu og níu fell eða fjöll bera nafnið Búrfell [fjögur fellanna eru á Reykjanesskaga; í fyrrum landnámi Ingólfs, þ.e.]:
-Búrfell við Hafravatn í Mosfellsbæ, 81 m
-Búrfell í Heiðmörk, Garðabæ, 179 m
-Búrfell, norðvestan Þingvalla, 782 m
-Búrfell norðvestan við Þorlákshöfn, 200 m
Af þessum fjórum Búrfellum á Reykjanesskaga eru tvær eldborgir (í Garðabæ og í Ölfusi (Þorlákshöfn)) og tvö eru móbergs og basaltfjöll (við Þingvelli og í Mosfellsbæ).
Sigurður Sigurðsson.
Sigurður Sigurðsson birti fróðlega umfjöllun og vangaveltur um „Búrfell“ á bloggsíðu sinni sigsig.blog.is árið 2013:
„Að einhverju leiti getur verið að útlit fjalla með nafninu „Búrfell“ ráði því að þau fengu nafnið. Ekki veit ég orðið „búr“ merkir upphaflega, ef til vill er það hið sama og nú til dags sem er matargeymsla.
Mér finnst frekar óljóst er af hverju nafn fjallanna er dregið og þess vegna fór ég í dálitla heimildavinnu. Hún dróst dálítið á langinn, endaði í vikuvinnu. Leiddi þar hvað af öðru. Sem betur fer glataði ég tvisvar sinnum því sem ég hafði skrifað. Þá þurfti ég að byrja aftur og þó ég hafi bölvað missinum er ég nú þeirri skoðunar að ritgerðin hafi batnað eftir því sem ég skrifaði hana oftar. Ég vara þó lesandann við, ég er enginn sérfræðingur.
Hvaða búr er um að ræða?
Bær og útibúr.
Á Vísindavef Háskóla Íslands segir:
Forliður nafnsins Búrfell er líklega dreginn af hinum fornu útibúrum, sem stóðu ein sér og í voru geymd matvæli, dýrir munir og svo framvegis. Þau gátu staðið nokkuð frá jörð svo að skepnur kæmust ekki í þau.
Búrfell standa oft stök og skera sig úr að lögun, og minna sum þeirra á hús.
Þetta skýrir ekki málið neitt sérstaklega og er heldur einföld skýring.
Búrfell í Garðabæ.
Á hinum ágæta vef ferlir.is er fjallað um gíginn Búrfell í Heiðmörk og vitnað í vef Örnefnastofnunar um nafnið. Örnefnastofnun er nú ekki lengur til sem slík heldur var gerð að deild innan Árnastofnunar og vefurinn ekki lengur finnanlegur. En á Ferli segir eftirfarandi:
En hvers vegna ætli fjöll heiti Búrfell? Það fyrsta sem kemur væntanlega upp í hugann er búrhvalur því ef litið er á mynd af slíku dýri þá eru ákveðin líkindi með útliti hvalsins og sumum Búrfellum einkum þeim sem eru stapar.
Þar sem fjöllin þykja oft lík að lögun hefur stundum verið talað um Búrfellslag eða Búrfellslögun fjalla.
Hjallur.
Það er til önnur skýring á nafninu og hún er sú að það tengist matargeymslu og þá helst stokkabúr, sem voru reist á lóðréttum bjálkum upp frá jörð svo að dýr kæmust ekki í þau, öðru nafni stafbúr.“
Sum Búrfellin eru kölluð Matarfell af sjó svo sem Búrfell á Snæfellsnesi og Búrfell í Reykjarfirði á Ströndum en Búrfell á Gnúpverjaafrétti er kallað „fjallið fyrir innan Heklu“ og Búrfell á Tjörnesi er kallað Kistufell. Ástæða þess er sú að sjómenn trúðu því að ef þeir nefndu Búrfell á nafn gætu þeir egnt á sig búrhvalinn. Þetta voru því svokölluð varúðarnöfn.
Hyggjum nú aðeins að þessu. Á Vísindavefnum er getið um „hin fornu útibúr“. Líklega hafa þau verið geymslur, byggðar til að geyma matvöru og hugsanlega byggð þannig að vindur blási um þau eins og hjallar þar sem fiskur er þurrkaður.
Búr og kjölur
Búr.
Voru „búr“ kölluð svo eftir fjöllunum eða fengu fjöllin nafnið af útibúrunum? Þetta er ansi góð spurning, þó ég segi sjálfur frá og eftir svarinu fór ég að leita.
Gæti verið að orðið „búr“ hafi haft aðra merkingu en í dag, jafnvel að það hafi verið einskonar útlitslegt orð, ef ég má orða það þannig. Um leið kemur orðið „kjölur“ upp í hugann. Það var áður haft um ásinn, tréstykkið, sem er frá stefni og í skut. Síðar hefur orðið færst yfir á allan þann hluta bátsins eða skips sem er í sjó enda víst að kjölur, slíkur þeim sem hér hefur verið lýst, er ekki til á stálskipum.
Hugsanlega eru „kjölur“ og „búr“ andheiti. Hið fyrrnefnda gæti átt við kjalarásinn en hið síðara um það sem snéri inn í bátinn … Jafnvel gæti „búr“ verið einhvers konar mænir á húsi, það sem hæst ber.
Orðsifjafræðin
Búrhvalur.
Hvers vegna er hvalur kenndur við „búr“? Er það vegna þess að hvalurinn var notaður í fæðu eða var það vegna útlitsins? Líklega er ágætt að verja dálitlum tíma í að kanna þetta.
Í Orðsifjabók Ásgeirs Blöndal Magnússonar segir:
Búrhvalur
Búrhvalur k., búrhveli h., búri k. ´sérstök tannhvalategund (physeter macrocephalus)´; sbr. nno. [miðnorska] burkval um óvissa hvalatengund. Uppruni óljós. Oftast talið leitt af búr og sé þá átt við lýsisforðann í höfði hvalsins.
Þó tilvitnanir í Orðsifjabókina sé eflaust dálítið flóknar finnst mér engin goðgá að álykta af þessu að orðið „búr“ merki eitthvað stórt.
Í sömu bók segir:
Langreyður.
1 Buri eða Búri k. goðsögul. Nafn á föður Bors eða Burs, föður Óðins. Uppruni óviss. Oftast lesið Buri og þá talið merkja þann sem eignast afkvæmi eða son, sbr. bur. Aðrir ætla að orðið sé sk. fi. [fornindverska] bhuri- ´stór´eða mno. [miðnorska] bura ´öskra´, sbr. að Buri eða Búri var risaættar, af Ými kominn. Ath. búrhvalur.
Þarna fannst mér ég vera kominn í feitt þangað til ég rakst á eftirfarandi:
2. Buri eða Búri k. dvergsheiti. E.t.v. sk. búri.
Komum síðar að nöfnum sem tengjast Búra. Af þessu má draga þá ályktun að „búri“ geti þýtt hvort tveggja, stórt og lítið, sbr. risa eða dverg. Það kann þó að vera misskilningur.
Sandreyður.
Loks er ástæða til að tiltaka þriðju tilvitnunina í Orðsifjabókina. Hún er svona:
1. búri k. ´ruddi, dóni, durgur; aðsjáll maður, nirfill; íbúi (verslunar)borgar´. To. [tökuorð] úr mlþ. [nýlágþýsku] bure ´bóndi´, sk. [skylt] búr og búa.
Er eitthvað hér sem hönd á festir? Hugsanlega má telja að „búr“ sé eitthvað stórt eða það merki hús eða matargeymslu. Engin af ofangreindum tilvitnunum tekur til útlits, ekkert skýrir almennilega „búrfellslagið“.
Ég leyfi mér þó að draga þá ályktun aftur að „búr“ merki eitthvað sem er stórt. Hins vegar verður að hafa það í huga að Búrfell landsins eru afar mismunandi í útliti og stærð og jarðfræðilega eru þau ekki eins.
Fornritin
Sæl væri eg
ef sjá mættag
Búrfell og Bala,
báða Lóndranga,
Aðalþegnshóla
og Öndvertnes,
Heiðarkollu
og Hreggnasa,
Dritvík og möl
fyrir dyrum fóstra.
Steypireyður.
Þetta fallega kvæði er úr Bárðar sögu Snæfellsáss. Helga Bárðardóttir orti það er hún kom til Grænlands eftir að hafa hrakist þangað frá Íslandi. Hún var komin með heimþrá og saknaði heimahaganna. Í sögunni segir: „Þessi örnefni öll eru á Snjófellsnesi“.
Af þessu má draga þá álykta að snemma eftir landnám hafi örnefni myndast og þar með að fjall á Snæfellsnesi fékk nafnið „Búrfell“. Í þessu sambandi má geta þess að Grímur Rögnvaldsson sá sem nam Grímsnes bjó að Búrfelli. Líklega var bærinn samnefndur fjallinu fyrir ofan.
Búrfell í Rogan.
Þetta var mér hvatning til að fletta í gegnum önnur fornrit þó svo að ég minnist þess ekki að hafa séð orðið „búr“ í þeim. Enda varla von, flestir leikmenn lesa vegna söguþráðarins og smáatriðin hverfa.
Ég fór því í gegnum Fornaldarsögur Norðurlanda, Gylfaginningu, Heimskringlu, Íslendingasögur, Landnámubók og Jómsvíkingasögu. Leitaði að öllu því sem tengst gæti búri, Búrfelli eða fólki sem ber nafnið Búri. Margt merkilegt fannst í þessum ritum.
Líklega er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því að málið hefur breyst talsvert frá því að fornsögurnar voru ritaðar. Ekki er víst að ég átti mig á öllum blæbrigðum sem málfræðingar og fornritaspekingar koma glöggt auga á.
Við skulum líka hafa hugfast að matur er viðkvæmur og það hafa fornmenn án efa vitað. Þar af leiðir að þeir leituðu ýmissa ráða til að gera hann sem lengst neysluhæfan. Án efa vissu þeir að kæling hjálpar til. Því gátu búr verið stök hús, staðsett annað hvort þar sem um gustaði um eða að þau voru grafin í jörð.
Að öðru leyti er gott ráð að nota hugarflugið þegar eftirfarandi tilvitnanir í fornritin eru skoðaðar. Í þeim er oftlega getið um „búr“ og „útibúr“.
Burfjell í Noregi
Búrfell í Fusa.
Ég er langt frá því sérfræðingur í orðsifjafræði þarlendra. Hitt veit ég í gegnum hann Gúgöl vin minn, að það eru að minnsta kosti tvö Búrfjöll eru þarna fyrir austan og bæði með þessu líka laglega búrfellslagi. Hið fyrra er Burfjell í Fusa og hið seinna er Burfjell í Rogan. Merkilegt er að skoða myndir af þessum tveimur fjöllum. Eru þau með „Búrfellslagi“? Mér finnst nokkur líkindi með því.
Stapi
Fjallið eina – dæmigerður stapi.
Mörg Búrfellin eru keimlík í laginu og ekki síst þau sem jarðfræðilega bera heitið stapi eins og Búrfell við Þjórsárdal, Búrfell austan Mývatns og ábyggilega fleiri.
Hvað er þá stapi, svona jarðfræðilega séð. Hann myndast í upphafi þegar eldgos verður undir jökli. Þá hlaðast upp gosefni í plássið sem eldgosið bræðir í jöklinum. Um leið og glóandi kvika snertir vatnið springur hún og myndar smágerð gosefni, en vegna þess að jökullinn virkar sem mót dreifast þau ekki heldur hlaðast smám saman upp. Þegar svo mikil gosefni hafa hlaðist upp að eldvirknin nær upp fyrir vatnsborðið rennur loksins hraun. Eftir að gosi lýkur heldur jökullinn að fjallinu, rétt eins og mót og með tímanum, og vegna hita og þrýstings, verður til móberg úr lausu gosefnunum.
Þetta gerðist margoft hér á landi á ísöld og þegar jökullinn hvarf urðu eftir svokallaðir stapar. Þeir er oftast hringlaga eða jafnvel ílangir. Efst er oft hraunskjöldur, dyngja, en undir er móberg.
Niðurstaða
Búrfell í Ölfusi – loftmynd.
Ég held að nú megi slá því föstu að búr sé ekki aðeins matargeymsla heldur hafi líka ýmislegt annað verið geymt í þeim. Mörg dæmi eru til í fornritum um að búr hafi verið notuð sem íverustaðir. Búr sem matargeymslur hafa líklega staðið þar sem gustar um enda hafi tilgangur verið að halda matvöru kaldri svo hún geymdist sem lengst. Einnig er til að búr hafi verið grafin í jörðu í sama tilgangi.
Óljóst er hins vegar hvernig búr hafa litið út. Draga má þá ályktun af helstu fjöllum sem heita Búrfell að þau hafi verið með frekar flötu þaki, að minnsta kosti ekki bröttu. Þakið kann einnig að hafa verið ílangt.
Orðið „búr“ merkti líklega til forna eitthvað sem var stórt og mikið um sig og þá hefur hugsanlega ekki verið miðað við hús sem var matargeymsla. Orðið hafi einfaldlega verið heiti á stóru húsi eða nafn á stórum manni. Þess vegna er stórt fjall nefnt Búrfell í vegna þess að það er einfaldlega stórt fjall, jafnvel stórt stakt fjall.
Búrfell í Mosfellsbæ – loftmynd.
Hvalurinn hefur þar af leiðandi verið nefndur Búrhvalur vegna þess að hann er stærri og meiri um sig en flestir aðrir hvalir en ekki vegna lýsis eða kjöts.
Hitt er svo til umræðu hvers vegna stórt fjall er nefnt fell. Í Noregi eru eins og áður sagði að minnsta kosti tvö fjöll sem heita Burfjell. Á íslensku örnefnunum kann að vera málfræðileg skýring sem er sennilegri en aðrar, til dæmis náttúruleg.“
Brynjólfur Þorvarðsson fjallar um framangreint og skrifar m.a.:
Búrfell við Þingvelli.
„Sæll Sigurður og takk fyrir skemmtilega ritgerð.
Það er afskaplega erfitt að rekja orðsifjafræði stuttra orða með fjölbreytta merkingu. En mér sýnist þú ekki taka eina algeng merkingu orðsins „búr“ í daglegu máli, þ.e. aflæst hirsla með rimlum. Nú veit ég ekki hversu gömul sú málnotkun er, en rimlar heita „bars“ á ensku og „barer“ á dönsku. Samkvæmt enskum orðsifjum er þetta tekið úr síð-latnesku „barra“.
Búrfell í Mosfellsbæ – kort 1903.
Ennfremur finn ég fornnorræna orðið „burr“, enn notað í ensku, sem merkir fræhylki með litlum þyrnum sem festast í fatnaði. Önnur heimild talar um „borr“ eða „borre“ í fornnorrænu.
Loks finn ég „búrr“ notað sem kenningu um son í Eddukvæðum: „Óðins búrr“. Einhverjir tengja orðin búrr, búri, bör í Eddukvæðum við „að framfæra“ sem aftur er augljóslega skylt sögninni að bera, öll orðin ur Sanskrít „bâras“.
FERLIR spyr: Hvers vegna eru engin fjöll nefnd eftir Langreyð, Sandreyð eða Steypireyð. Allir þeir hvalirnir eru ekki ólíkir Búrhvalnum. Og hvernig er örnefnið „Kistufell“ tilkomið? Gæti það verið hliðstæða við örnefnið „Búrfell“ líkt og örnefnið „Húsfell“?!? Búr var jafnan einungis hluti bæja eða selja. „Bæjarfellin“ eru allnokkur. Undir þeim flestum kúra bæir eða bæjatóftir, sbr. Bæjarfell í Krýsuvík og við Vigdísarvelli. Þar liggja fyrir augljósar skýringar á örnefninu. Bæirnir Búrfell og Búrfellskot voru undir Búrfelli í Mosfellsbæ. Hvers vegna var fellið ekki nefnt Bæjarfell til samræmis?…
Heimild:
-https://sigsig.blog.is/blog/sigsig/entry/1328331/
Búrfellin – kort.