Tag Archive for: Ölfus

Handrit

Fjörbaugsgarður“ fólst í því að misindismönnum var útskúfað úr samfélaginu og gert að ferðast til útlanda og dvelja utan í a.m.k. þrjú ár til að hugsa ráð sitt.
„Eitt sérkennilegasta ákvæði íslenskra laga er án ef ákvæði Grágásar um fjörbaugsgarð. Handrit-332Fjörbaugsgarður er í sem stystu máli tímabundin útilokun frá samfélaginu, útilokun sem þó gerir ráð fyrir að brotamaðurinn geti aftur komist inn í mannlegt samfélag. Ekki er vitað um sambærileg ákvæði í lögum frá Skandinavíu og það sama er reyndar upp á teningnum hvað keltnesk lög varðar enda er þar ekki að finna aðrar refsingar fyrir afbrot en fébætur. Þó tíðkuðust meðal Íra siðir sem líktust að sumu leyti fjörbaugsgarði.
Eins og fram hefur komið var ættin grunneining írsks samfélags, ættin í heild var bótaskyld ef einhver ættingi braut af sér. Ættin varð því að eiga í bakhöndinni ráð til að losna við vandræðamenn sem ekki fylgdu settum reglum og ollu ættingjum sínum fjárútlátum. Slíka menn var hægt að afsegja úr ættinni og greiða konunginum og kirkjunni ákveðna upphæð til að tryggja sig fyrir frekari misgjörðum óhappamannsins. Ef þeir bættu ráð sitt var hægt að taka aftur við þeim með því að gefa þeim hnefafylli af korni, hníf eða leyfa þeim að spretta af hesti á jörð ættarinnar.
Handrit-333Þar sem uppbygging keltnesku kirkjunnar var í samræmi við ættasamfélagið giltu innan hennar svipaðar reglur og í samfélaginu. Ein af þeim refsingum sem heilagur Columbanus setti munkum sínum var 10 ára útlegð úr klaustrinu en sú refsing var einungis notuð ef
munkur framdi morð. Fleiri heimildir eru til um að kirkjunnar menn hafi verið sendir í útlegð í lengri eða skemmri tíma.
Til eru heimildir frá eldri tímum um svipaðar refsingar. Júlíus Caesar segir frá því í Gallastríðunum að þeir sem ekki fóru eftir reglum ættarinnar hafi átt á hættu að vera útilokaðir frá trúarathöfnum. Þetta þótti þung refsing því þeir sem ekki fengu að taka þátt í trúarathöfnum voru taldir óhreinir og enginn vildi umgangast þá. Þeir gátu því ekki haft samskipti við annað fólk. Einnig gátu menn misst réttindi án þess að skyldum væri létt af þeim.
Allt er þetta sprottið af svipuðum meiði og fjörbaugsgarðurinn og markmiðið það sama, að losa samfélagið og ættina við þá einstaklinga sem voru til vandræða en þó þannig að þeir hefðu tækifæri til að bæta ráð sitt og komast aftur inn í mannlegt samfélag.“

Heimild:
-Saga, Guðmundur J. Guðmundsson, 31. árg. 1993, 1. tbl., bls. 115-116.

Engidalur

Tóft útilegumanna í Engidal.

 

Selvogur

Uppi á fjörukambinum skammt austan við Selvogsvita má enn sjá leifar hluta trébáts, sem þar fórst á sínum tíma. „Báturinn hét Vörður RE 295,  er hann rak á land með bilaða vél austan við Selvogsvita, 9. mars 1956, með fullfermi af loðnu. Með bátnum fórst öll áhöfnin samtals 5 manns.
Vordur-21Bátur þessi var kantsettur tvísöfnungur smíðaður af Þórði Jónssyni frá Bergi í Vestmannaeyjum árið 1913 og átti hann bátinn sjálfur og réri á honum fyrstu árin. Báturinn var eini báturinn sem Þórður smíðaði.  Umb. 1937.
Bátur þessi er sagður hafa verið með fullfermi af loðnu sem er nokkuð framúrstefnuleg, en nokkrum árum áður eða 1954, var hann gerður út á humarveiðar frá Grindavík og var skipstjóri þá Jón Eiríksson og lagði hann hjá frystihúsinu í Höfnum.
Nöfn: Enok VE 164, Enok II VE 164, Ingólfur Arnarson VE 187, Ingólfur Arnarson GK 187, Stuðlafoss SU 550, Vörður SU 550 og Vörður RE 295.“

Heimild:
-emilpall.123.is/blog/yearmonth/2010/04/18/

Vordur-22

Strandarkirkja

Eftirfarandi upplýsingar um Strandarkirkju var tekinn saman af Gunnari Markússyni árið 1991:
„Dr. Jón Helgason, biskup, ritaði grein í Lesbók Mbl. 17. janúar 1926 og nefndi hana Um Strönd og Strandakirkju.
Tæpum tveim árum síðar, eða 2. október 1927 kom svo í sama riti greinin: „Erindi um Strandakirkju“ eftir séra Ólaf Ólafsson, sem þar hóf prestskap sinn.-
Séra Helgi Sveinsson, sem einnig þjónaði Strandarkirkju, skrifaði í 18. árgang Kirkjuritsins grein, sem hann nefndi „Engilsvík“.
Strandarkirkja-901Allir koma þessir þjónar kirkjunnar inn á tilurð Strandarkirkju, en hver með sínum hætti.
Séra Helgi endursegir söguna um skipbrotsmennina, sem engillinn leiddi í örugga höfn, en gerir enga tilraun til þess að tímasetja hana.
Séra Ólafur segir í sinni grein: „Strandarkirkja er orðin ævagömul. Hinn rétta aldur hennar þekkir enginn, sumir ætla hana byggða við upphaf kristninnar hér á landi, á dögum Gissurar hvíta, en aðrir á dögum Staða-Árna, en enginn veit neitt með vissu. Ég hallast lang mest að þeirri gömlu þjóðsögu, að hún sé upphaflega og það snemma á tímum til orðin fyrir áheit manna í sjávarháska, áheitendurnir komust á land og björguðust á Strandarsundi, rétt fyrir vestan það er nefnilega hin alkunna Engilsvík. Ég styrktist í þessari trú við þá staðreynd að nú á okkar dögum hefur heil skipshöfn bjargast úr sjávarháska einmitt á þessum svæðum. Síðan eru um 30 ár.“
Dr. Jón hefur mál sitt á vísu eftir Grím Thomsen þar sem hann telur Gissur hvíta hafa reist fyrstu Strandarkirkjuna. Síðan segir biskupinn: „Hefi ég ekki annarsstaðar, það ég man, rekið mig á þá sögn að Gissur hvíti hafi fyrstu gert kirkju á Strönd í Selvogi. Vitanlega er ekkert því til fyrirstöðu að þetta sé rétt hermt þó söguleg rök vanti fyrir því.“
Nokkru síðan í sömu grein segir hann: „Hið sannasta, sem sagt verður um uppruna Strandarkirkju er að vér vitum ekkert um hann með vissu. Má vel vera að hún hafi verið reist þegar í fyrstu kristni og eins má vel vera, að hún hafi ekki verið reist fyrr en í tíð Árna biskups á síðari hluta 13. aldar.
Allir hafa þessir heiðursmenn ausið af sama gnægtarbrunni um sögu Selvogs og Strandarkirkju, en það eru vísur eftir séra Jón Vestmann, er prestur var í Selvogsþingum 1811-42 og inngangsritgerð við þær eftir dr. Jón Þorkelsson, þjóðskjalavörð, en það eru bestu heimildirnar, sem mér eru kunnar um þessi efni.
Herdís Andrésdóttir kvað: „Kirkjan suður á sandinum –  situr ein og hljóð.  En stormurinn kveður þar – sinn kalda vetraróð.“
En hver setti hana þarna, hvenær og hversvegna?
Eða væri e.t.v. hyggilegra að huga fyrst að því hverjir þeirra, sem nefndir hafa verið til þessarar sögu, komi alls ekki til greina?
F
yrstan í þeim flokki, vil ég nefna Gissur hvíta.
Strandarkirkja-902Mér telst svo til, að í Íslendingasögum, Biskupasögum, Sturlungu, Heimskringlu og Flateyjarbók sé talað um hana á samtals rúmelga 100 blaðsíðum án þess að ég finni nokkuð, sem bendi til þessarar kirkjubyggingar og ég er algjörlega ósammála þeim rökum dr. Jóns Helgasonar, biskups, að það sé alveg jafngóð sagnfræði þótt enginn flugufótur finnist fyrir þeim kenningum, sem hún setur fram.
Þá er það Árni biskup Þorláksson (Staða-Árni, 1269-98). Er líklegt að hann hafi lent í því hafvolki, að þar sé að leita upphafsins að Strandarkirkju – og er sennilegt, að hann og landeigandinn á Strönd hafi staðið saman að byggingu þessarar kirkju?
Fyrri spurningunni er hægt að svara hiklaust neitandi því að í sögu hans segir: „Eftir það er Árni biskup hafði skilið við virðulegan herra Jón erkibiskup…….. sigldu þeir í haf, og greiddist þeirra ferð vel og ekki allskjótt. Komu þeir skipi sínu í Eyjafjörð.“
En hver var þá eigandi Strandar á þessum tíma og hvernig var samkomulag hans og biskups?
“ Á dögum Árna biskups Þorlákssonar………. átti Erlendur sterki Ólafsson (d. 1312), Strönd, Nes, og sjálfsagt fleiri jarðir í Selvogi. Biskup og hann stóðu mjög öndverðir í staðamálum og eru lítil líkindi til að Erlendur hafi farið „með fulltingi“ Árna biskups að reisa kirkju frá stofni á Strönd enda má sjá það á vitnisburði Þorbjarnar Högnasonar útgefnum á Strönd 13. maí 1367 að kirkja muni hafa verið sett þar fyrir löngu.“
Það má raunar segja, að Erlendur lögmaður hafi verið höfuð andstæðingur Árna biskups í staðamálum. Honum nægði meira að segja ekki að berjast við biskup hér innan lands heldur lagði á sig ferð til Noregs til þess að geta á þinginu í Niðarósi 1282 greitt atkvæði með útlegðardómi yfir Jóni erkibiskupi – vígsluföður Árna biskups.
M
ér finnst það meira en furðulegt ef þessir erkifjendur í staðamálum hefðu getað sameinast um að gera nýja kirkju á jörð Erlends og það með þeim glæsibrag, að á aðeins 5-6 árum var hún orðin ein af ríkustu kirkjum landsins.
„Elsta „Strendur-máldaga“ er nú þekkist hafa menn heimfært til tíma Árna biskups Þorlákssonar eða hér um bil 1275…….. og er Strönd þá svo stórauðug að rekum að hún togast á við Hjallamenn, Krýsvíkinga og sjálfan Skálholtsstól.“
Nú er það staðreynd að „kirkjan suður á sandinum situr ein og hljóð“ svo einhver hlýtur að hafa byggt hana og einhverntíma. En hver og hvenær?
Árni Óla er einn þeirra, sem skrifað hafa um Strandarkirkju. Eftir að hafa rætt nokkuð um upphaf hennar segir hann: „En sé nú gert ráð fyrir því að Strandarkirkja hafi verið reist áður en Árni varð biskup og ennfremur hitt, að munnmælasagan hermi rétt að það hafi verið biskup, sem heitið gerði um kirkjubygginguna. Þá gæti skeð að það hefði verið Þorlákur biskup helgi.“
strandarkirkja-904Þarna hygg ég að naglinn hafi verið hittur beint á höfuðið. En af hverju Þorlákur biskup Þórhallsson öðrum biskupum fremur?
Til þess að svara þeirri spurningu þarf að leggja nokkra lykkju á leið sína – eða er það ef til vill bein lína að settu marki?
Það þarf ekki að horfa lengi á Íslandskort til þess að sjá, að hafnir eru ekki höfuðprýði Suðurlandsins. Hinu má svo ekki gleyma, að eldsumbrot, jökulhlaup, hafís og hafrót hafa í aldanna rás gnauðað þar á ströndinni og því er ekki ólíklegt að það hafi í raun og veru verið allt önnur strönd, sem blasti við augum þeirra fóstbræðra Ingólfs og Hjörleifs er þeir komu af hafi, en sú sem við horfum á í dag.
Það skal látið liggja á milli hluta hér hvort Hjörleifur sigldi inn fjörð til þess að taka land við Hjörleifshöfða.
Á hitt skal aftur á móti bent að „Rangá mun hafa verið hafskipahöfn í tíð Sæmundar fróða“ og að „Rangá og Holtsósar eru dæmi um hafnir, sem lögðust niður.“
Svo er það Strandarsund í Selvogi, „Strandarsund, sem er suður og austur af kirkjunni, hefur sjálfsagt frá ómunatíð, allt þar til það tók að fylla af sandi á síðari öldum, verið einhver öruggast lendingarhöfn fyrir öllu Suðurlandi. Segja kunnugir menn, að enn sé oft kyrrt á Strandarsundi þó að allur Selvogssjór sé í einnu veltu. Er það gamalt mál, að aldrei berist skipi á á Strandarsundi „rétt förnu“….. Ýmsar sagnir hafa gengið um sundið. Sögðu sumir að jafnan væri lag á Strandarsundi á nóni dags.“
En hvað er þá orðið um Strandarsund?
Í ágúst 1706 voru þeir Jarðabókarmenn í Selvogi og var þá sagt að jörðin „Strönd“ sé fyrir 10 árum í auðn komin. Einnig segir: „Heimræði hefur hér verið ár um kring, sem nú er fordjarfað síðan hafís rak hér inn í sundið, svo þaðan í frá er ófært nema í blíðviðrum og láleysu.“
Hvað var það, sem gerðist þarna í Selvogi á árunum 1694-96 og varð þess valdandi að í fardögum ´96 flýr síðasti maðurinn stórbýlið Strönd? Hvað fordjarfaði svo Strandarsund, að þar er síðan ólendandi nema í besta og blíðasta veðri?
Í Fitjaannnál segir um árið 1695: „Kom hafís fyrir norðan á jólum einnin fyrir Austfirði og seint á einmánuði fyrir Eyrarbakka og í Þorlákshöfn, svo þar varð ekki á sjó komist um nokkra daga, færðist svo vestur fyrir Reykjanes og öll Suðurnes. Þann 19. apríl rak hann inn fyrir Garð og svo meir og meir, Akranes, Mýrar og undir Snæfellsjökul.“
Það þarf varla nokkur að velkjast í vafa um að hafís, sem náði að fylla nær alla firði við Faxaflóa hefir í leiðinni mokað svo rækilega upp í mynni Strandarsunds, að það hefir verið létt verk fyrir foksandinn, sem þegar var farinn að granda túnum sveitarinnar, að fylla upp afganginn.
En hvað kemur þetta Þorláki Þórhallssyni við?
Strandarkirkja-905Nákvæmlega ekki neitt ef svo hefði ekki viljað til að faðir hans var Þórhallur FARMAÐUR.
Það mætti furðulegt heita ef skammdegiskvöldin á Hlíðarenda hefðu ekki einhverntíma verið stytt með sögum og samræðum um ferðir húsbóndans og jafn skrýtið gæti það talist ef aldrei hefði borið á góma þar á bæ, að úti í Selvogi væri höfn þar sem hægt væri að lenda a.m.k. tvisvar á dag nánast hvernig sem viðraði.
Munnmælin herma að Strandarsund hafi ávallt verið fært á nóni. Það fær ekki staðist, en hitt gæti meira en verið, að sundið hefði oftast verið fært á öðrum hvorum liggjandanum eða á hálfföllnum sjó.
En einu gildir hvort munnmælin hafa hallvikað hér strangasta sannleika eitthvað lítillega eða ekki, Þorláki hlýtur að hafa verið ljóst strax í bernsku, að á einum stað á Suðurlandi mátti taka land í svo til hvernig veðri sem var, bara ef rétt var að verki staðið.
Þá er það sagan um hann Árna, sem fór til Noregs til þess að sækja húsavið. Þar hygg ég að þjóðsagan hafi ofið skemmtilega voð þar sem uppistaðan er frásögn yngri gerðar Þorlákssögu af heimför biskupsins úr vígsluför sinni til Noregs, en fegurðarskynið eitt látið ráð hvar ívafið var tekið.
Besta gerð þeirrar sögu, sem ég hefi séð er skráð af Konráði Bjarnasyni, fræðimanni frá Þorkelsgerði í Selvogi, en hann hefir söguna eftir Guðrúnu Jónsdóttur, sem gift var Árna Árnasyni, uppeldissyni Kristínar Jónsdóttur Vestmanns.
Bæði Þorlákssaga og þjóðsagan geta um skip, sem býst frá Noregi hlaðið húsaviði og í báðum endar ferðin í óveðri við Íslandsstrendur og mestur hluti viðarins tapast fyrir borð áður en landi er náð, en það tekst giftusamlega eftir að viss heit hafa verið gerð.
En hver var svo hlutur farmannssonarins í landtökunni í byrjun ágúst 1178. Hver var hlutur þessa skarpgáfaða en ráðríka manns, sem áreiðanlega þekkti Suðurland frá Vatnajökli og vestur úr eins og fingurna á sér? Hafði grillt svo í land að hann vissi upp á hár hvar hann var staddur? Hvers vegna vildi hann ekki heita fyrr en rutt var af skipinu öllu því, sem hann við brottför hafði talið ofhleðslu? Var það vegna þess að honum fannst að skipstjórnarmenn hefðu gott af refsingu fyrir mótþróa við biskupinn eða var það af þeirri einföldu ástæðu að hann vissi að svo hlaðið, sem skipið var, mundi það aldrei fljóta inn Strandarsund?

Strandarkirkja

Strandarkirkja 1930.

Þannig má leika sér að spurningum næstum í það óendanlega. En svör við þeim finnst engin. Á hinu tel ég ekki leika nokkurn vafa, að það voru gömul ráð Þórhalls farmanns, sem komu syni hans heilum í höfn úr vígsluförinni og urðu um leið til þess að hin fyrsta Strandarkirkja var byggð. Ég er heldur ekki í neinum vafa um að það er helgi Þorláks og áheit á hann, sem valda því að um öld eftir að hann lét reisa kirkju að Strönd var hún þegar orðin ein af ríkustu kirkjum landsins.
Og það er fleira en hugdettur minar, sem styða þá kenningu, að margnefnd kirkja hafi verið byggð á dögum heilags Þoláks því að kirknatal Páls biskups Jónssonar enda upptalningu sína á kirkjum í Árnesþingi með kirkjunni á Strönd í Selvogi.
Auðvitað er mér fulljóst , að frumritið af þeirri skrá er ekki til og ekki er hægt að útiloka að einhverjum vini Strandarkirkju, sem var að afrita skrána hafi þótt svo sjálfsagt, að hennar nafn stæði þar, að hann hafi bætt því við, en ég tel þann möguleika miklum mun minni en þann, að Erlendur lögmaður Ólafsson hafi farið að aðstoða Staða-Árna við að ná einu af tekjuhæstu óðulum sínum undir kirkjuna.“ 

Tekið saman af Gunnari Markússyni í september 1991.
(sjá olfus.is)

Strandarkirkja

Kirkjan á Strönd.

Herdísarvík

Herdísarvík í Selvogi er vestasta jörð og samnefnd vík í Árnessýslu í landi Sveitarfélagsins Ölfuss.
Herdisarvik-334Einar Benediktsson skáld bjó í Herdísarvík í um áratug en nú er jörðin í eyði. Hús skálsins, sem hann reisti þar, er núna í eigu Háskóla Íslands. Hamrar Herdísarvíkurfjalls eru 329 m háir og gnæfa upp yfir víkinni til norðurs. Herdísarvík er eyðilegur staður en þar er fjölskrúðugt dýralíf.
Jörðin Herdísarvík státar af þúsund ára búsetu en nú stendur þar lítið annað en hús Einars Benediktssonar sem hann reisti eftir að hann flutti á jörðina. Hlaðnir túngarða og veggir frá fyrri tíð eru þar á jörðinni og hluti af þeim er húsið sem Einar bjó í þegar hann fluttist fyrst í Herdísarvík. Ólafur Þorvaldsson, þingvörður, var bóndi að Herdísarvík um tíma. Hann var gildur bóndi, átti til dæmis þúsund fjár á fjalli seinasta árið sem hann bjó í Herdísarvík. Það var fardagaárið 1932 – 1933. Landsdrottinn Ólafs þar var Einar sem fluttist þangað 1932 og var því samtímis Ólafi í eitt ár. Einar bjó í Herdísarvík þar til hann lést árið 1940.
Herdisarvik-335Einar Benediktsson fluttist til Herdísarvíkur með Hlín Johnson sem annaðist hann þar þegar ellin tók að herja á Einar. Þegar Einar lést arfleiddi hann Háskóla Íslands að jörðinni, húsinu og bókasafni sínu. Herdísarvík er 4.218 ha land sem hefur verið friðlýst og á lista yfir friðlýst svæði á Íslandi frá árinu 1988.[1]
Árið 1952 var fé sett til höfuðs Herdísarvíkur-Surtlu sem varð frægasta og dýrasta sauðkind landsins. Kind þessi var í eigu Hlínar Johnson og sú síðasta í þúsund ára sauðfjárstofni Grunur um mæðiveiki olli því að fella varð allt fé á suðurlandi. Fjölda manna Herdisarvik-356leitaði að Surtlu í langan tíma áður en hún náðist.
Einhverjir töldu að Surtla hefði ekki getað verið sýkt vegna þess þreks sem hún sýndi í eltingaleiknum sem stóð yfir í meira en eitt ár. Í dag prýðir hauskúpa Surtlu vegg í Tilraunastöðinni á Keldum til minningar og sem fulltrúi þessa harðgera sauðkindastofns.
Víkin ber nafn sitt af munnmælasögu af Herdísi tröllskessu sem var systir Krýsu og segir sagan að ófriðurinn á milli þeirra hafi bitnað á landgæðum sveitanna í kringum Krýsuvík og Herdísarvík.
Í Herdísarvík var áður bær á flöt við tjarnarbakkann og var viðarverkið í bænum unnið úr rekaviði úr fjörunni, Bærinn var svo nálægt sjó að stundum flæddi inn í bæinn. Það gerðist veturinn 1925. Þá gerði storm af hafi í stórstraum. Flóðið kom inn í bæinn og varð fólkið að flýja upp í hlöðu uppi á túninu sem stóð hærra en bærinn. Það eru tvö tún í Herdísarvík og fékkst af þeim 179 hestar af heyi í meðalári á fyrstu áratugum tuttugustu aldar.
Herdisarvik-367Í Herdísarvík eru fornleifar frá þeim tímum er útgerð var stunduð þar í stórum stíl. Þar eru leifar sjóbúða og óteljandi hraungarða hlaðnir af mannahöndum sem voru þurrkreitir þar sem fiskurinn var hertur. Herdísarvík þótti gott fiskver og var róið út á víkina og fékkst oft góður afli. Seinna var farið að róa í Selvogssjó. Fiskgöngur koma þarna oftast nær beint af hafi. Eftir sumarmál fór fiskur á svonefndar „Forir“ og aflaðist oft vel þar í vertíðarlok. Útgerð lagðist að mestu af í Herdísarvík um tíma en fyrir aldamótin 1900 hófst útgerð þar aftur og veturinn 1896 gengu þaðan átta skip. Þá var farið að salta allan fisk. Nýjar sjóbúðir risu. Þá var róið þarna á tíæringum.

Heimildir m.a.:
-Gísli Sigurðsson. Seiður lands og sagna III; Áfangastaðir Suðvestanlands. Skrudda. Reykjavík (2004): bls. 8.
-Árni Óla. Landið er fagurt og frítt. Bókfellsútgáfan. Reykjavík(1944): bls. 59-64.

Herdísarvík

Herdísarvík – sjóbúðir.

Selvogsgata

Lagt var af stað eftir Selvogsgötu (Suðurfararvegi) til norðurs frá Útvogsskála[vörðu] vestan við Strandarhæð. Varðan er vandlega hlaðin, ferköntuð, enda ætlað að verða ferðafólki áreiðandi leiðarmerki á ferð um þessa gömlu þjóðleið.

Selvogsgatan neðanverð

Ætlunin var að fylgja götunni upp Selvosgheiði, um Strandardal, Hlíðardal, Litla-Leirdal og allt upp að Hvalsskarði í Hvalhnúk. Þaðan var ætlunin að ganga til vesturs með sunnanverðum Austurásum og yfir að Vesturásum þar sem eru gatnamót Stakkavíkurvegar og Hlíðarvegar skammt austar. Af þeim tvennum átti að þessu sinni setja meginstefnuna á fyrrnefnda stíginn, niður í Selsskarð og eftir Selsstíg áleiðis niður að Stakkavík. Til eru greinargóðar lýsingar á stígum þessum og verður helstu kennileita á þeim getið hér á eftir – eftir því sem fætur um þær leiðir liggja. Og auðvitað, líkt og venjulega, urðu nokkrar óvænta, og áður óþekktar, uppgötvanir á leiðinni.
Eftirfarandi er hluti lýsingar Konráðs Bjarnasonar af kaupstaðaleið Selvogsmanna frá Torfabæjarhliði um Grindarskörð til Hafnarfjarðar.
“Þetta var gamla lestamannaleiðin um aldir og allt fram undir 1940 á meðan henni var haldið við ruðningi sem sýsluvegi.
Vorsmalamennsku og rúningi var lokið og ull fullverkuð, þurrkuð, sekkjuð og bundin til klakks, sem hestaburður á mörgum hestum. Góðveðursdagur var valinn, hestar heima við vel járnaðir og lagt af stað í fulla dagleið klukkan sjö að morgni.
Þorkelsgerði var um aldir ein jörð; lögbýli með bændakirkju á 15. og 16 öld og varð um skeið eign höfðingjanna á höfuðbólinu Strönd, en deildist síðar, einkum milli fjögurra búsetumanna, undir heitunum Austurbær, Miðbær, Vesturbær og Torfabær, eftir að Torfi Erlendsson, sýslumaður, náði þar búsetu ásamt Stafnesi. Hann kom þangað um 1656 og dó þar. Hin fjórskipta búseta á Þorkelsgerðisjörðinni er bókfest: 1681, 1703 (Jarðabók Á.M. og P.V.), 1706, 129 og 1735. Eftir 1760 varð samruni í Austurbæ og Miðbæ til bújarðarinnar Þorkelsgerðis I og æ síðan. Þá kemur fram í þinglesinni landamerkjaskrá 12.06.1890, að hún er gildandi fyrir Þorkelsgerði I, Vesturbæ og Torfabæ.
Gerði neðan StrandarmannahliðsHestalest Þorkelsgerðismanna lagði upp frá heimtröðinni austur í Moldu og þar norður og vestur með túngörðum, uns hún beygði á götuna upp Flögin á móts við áðurnefnt hlið. Gatan var vel rudd og eftir tæpan stundarfjórðung er lestin komin móts við Útvogsvörðu á hægri hönd. Mikil varða, þykk, ferköntuð með strýtu upp úr miðju og þar upp úr sundmerki, af tré í þríkant, enda mikilvægt tákn, vegna Stokksvíkurssunds til Þorkelsgerðislendingarvara.
Þá liggur gatan nokkuð greið eftir sandeyðingum, þar til hún nær grasflötum neðan Dalhólalágar. Rétt áður á vinstri hönd fórum við framhjá vörðubroti á lágum hól, Hrossabeinavörðu. Þar sá ég á æskudögum hvíttærð hrossabein þeirra er fallið höfðu í harðræði. Þar skammt ofar á vinstri hönd er Dauðhóll, einn vitnisburður um búgripafelli.
Nú erum við komin upp í Dalhólalágina, gróna vallendis snögggróðri. Austan við hana lá Bjarnastaðavegur í átt til sýsluvegar upp Selvogsheiði til Ölfuss.
Selvogsgata ofan HlíðardalsLestargatan úr Útvogi, er við fylgjum upp úr Dalhólalág, liggur fast að Útvogsskála, þykkhlaðinni ferkantaðri vörðu með strút efst og var allvíðsýnt frá henni, einkum inn í vesturheiði, allt til Hlíðarvatns og fjallgarðsins þar upp af. Við Skálavörðuna var fyrrum stekkur, er vel sást fyrir í umdæmi mínu.
Austur af Útvogsskála voru Dalhólar og á einum stóð Árnavarða. Í norðaustur af henni sést til Bjargarhellis með vörðu á grónum hellishól. All nokkur austar af Bjargarhelli, eru sandkenndar grasflatir, er tóku við í suðvestur af Hásteinaflagi og sveigjast til suðvesturs, sem snögggróið valllendi vestan við hið mikla sandflæmi til austurs. Þar í sandjarðri eru Fornugötur, er liggja niður að Digruvörðu og framhjá henni til Nes og túngarðshliða Bjarnastaða.
Frá Útvogsskála lá lestargatan eftir snögggrónum vallargróðri, er náði inn að Kökuhól, en vestan við hann lá gatan inn á Rof með stefnu á Katlahraun, vestan Urðarfella. Ekki var löng leið frá Útvogsskálavörðu að Kökuhól, en rétt áður en við höfum náð til hans förum við yfir þjóðleiðina fornu úr Ölfusi framhjá Vogsósum til Útnesja.
Varða við Selvogsgötu við Litla-LeirdalKökuhóll er vestasti hluti lágheiðararms þess, er liggur til vesturs frá suðurhluta Standarhæðar. Nokkru austar af honum fast við þjóðleiðina er fjárhellirinn Gapi. Framan við hann var fjárrétt vel hlaðin og stendur hún enn með lágum veggjum vegna þess hvað gróinn jarðvegur hefur hækkað innan hennar, svo og í hellinum, sem var fyrr hár til lofts og rúmgóður. Sagt var í honum hefðu fyrr á tímum hafst við næturlangt langferðamenn til Útnesja. Suður af honum var smáhellir með vörðubroti, en nú með gleymdu nafni. Nokkru austar og norður af Gapa, er allvíð hæð er ber hátt yfir umhverfi sitt og allvel gróið lyngi áður fyrr. Þar var venja að svipast um í hestaleit miðheiðar. Á hábungu hæðarinnar er hringlaga jarðfall, grasi gróið í botni og með góðum niðurgangi fyrir menn og skepnur. Þetta er Kerið á Strandarhæð með stórhelli einkum í norður, er hýsti um 200 fjár. Strandarhellir, sem er sögulegur og verður því ekki komist hjá því að staðfesta það frekar:
Þorvarður og sonur hans Erlendur, lögmenn sunnan og austan sátu höfuðbólið Strönd í Selvogi á 15. og 16 öld og náðu undir það í krafti stórveldis síns, nærliggjandi jörðum. Erlendur fór að vísu offari og tapaði stóreign sinni til Konungs um 5 ára skeið, en fékk svo aftur 1558 og varð þá stórbú hans mest, allt til æviloka 1576, þá um áttrætt.
Sú saga er sögð og fyrir löngu skráð, að Erlendur átti 600 ásauði og af þeim gengu 200 með sjó á vetrum og höfðu þar fjárborg, og geymdi þeirra einn maður. Önnur 200 gengu upp á völlunum við Strandarborgir (Borgirnar þrjár) og geymdi þeirra annar maður. Þriðju 200 gengu á Strandarhæð við Strandarhellir, og geymdi þeirra hinn þriðji maður.
Sú saga er sögð af fjárgæslumanni Erlendar við Strandarhelli, sem hafði ströng fyrirmæli frá Erlendi, sem og hinir, að týna engri kind úr hjörðinni og að líf smalamanns gæti legið við.

Varða við Stakkavíkurveg millum Ása

Þá bar það til einn vetur, að fjármaður við Hlíðarendahelli í Ölfusi (um 12 km fjarlægð) fann 2 kindur með marki Erlendar á Strönd í fjárbyrgi sínu og voru Erlendi send boð þar um. Erlendur kallaði þá fjárgæslumann inn við Strandarhelli fyrir sig og var þungbúinn mjög og sagði að upp væri komið, að hann hefði týnt úr hjörð sinni og hverju hann svaraði til. Sauðfjámaður harðneitaði að hafa týnt úr hjörð sinni og sagði að kindur þessar hefðu geta komist neðanjarðar í Hlíðarendahelli, því enginn hafði komist svo langt inn í Strandar- eða Hlíðarendahelli að endir hafi fundist. Við þessu átti Erlendur engan mótleik og lét kyrrt liggja, því hann var mikill lögmaður og mat að verðleikum réttmæt gagnrök og viðurkenndi eigin rökþrot.
Við erum nú komin drjúgan spöl framhjá Kökuhól in á heiðina og áfram eftir hinu fjölgróna Katlahrauni, sem kemur niður austanvert af Hlíðarfjallsbrekkum og verður að Katlabrekkum í halla sínum. En þar sem lestargatan liggur yfir það í átt til Hlíðardals, er það milt og vinalegt í fjöljurtagróðri sínum. Austur af eru Svörtubjörg. Þar stendur Eiríksvarða í fullri reisn sinni svo tæpt á bjargsbrún að ekki fýsir menn að ganga framan við hana. Í munnlegri geymd er talið fullvíst að séra Eírikur Magnússon, hinn fjölfróði, hafi staðið fyrir byggingu vörunnar og valið henni stað.

StakkavíkurvegurTilgangur vörðubyggingarinnar hefur vafalaust verið að slá á þann stöðuga ótta er fólkið á úthafsströndinni bjó við, einkum frá landgöngu víkinganna voðalegu frá Algeirsborg, er gengu á land í Grindavík 20. júní 1627, nokkru vestar á sömu úthafsströnd.
Nú er lestin komin langleiðina yfir Katlahraun. Nú blasa við augum á hægri hönd Strandardalabrekkur allbrattar og vel grösugar að efstu brún. Kálfsgil, er liggur frá Stakafelli, klífur Strandardalinn nær miðju og endar innri hluti hans í hvammi undir bergvegg, sem gengur út í Katlahraun og verður að öxl þeirri er skilur að Strandar- og Hlíðardal. Úr bergöxl þessari sprettur silfurtær vatnslind, Sælubuna, sem er ómetanleg fyrir heyskapafólk í nefndum dölum. [Bunan sæla var reyndar þurr í þetta sinnið.]
Nú erum við lestarmenn í nokkrum halla á fótinn að komast framhjá bergöxlinni með sælubuninni sinni og þar með erum við komin á undirlendi Hlíðardals. Hann stendur Strandardal ofar mót hækkandi heiðlendi. Hann er hvammslaga og vel grösugur upp á brún. Efst í dalnum stóð eitt sinn bær Indriða lögréttumanns, Jónssonar. Hann var þar á fyrri hluta 17. aldar, merkur maður, góður skrifari og smiður.
Lestargatan frá Urðarfellum til Litla-Leirdals liggur yfir einskonar hraunmóa, ávallt vel rudd á tímum lestarmanaferða. Nú fara að koma í ljós þokkafullir hraunhólar á hægri hönd með nokkrum brekkuhalla frá þeim niður í dæld þar sem stargresi vex út í snoturt vatnsstæði, Rituvatnsstæðið, sem kom sér vel fyrir sauðféð í sumarhögum og heyskapamenn á fjalli. Ofan við vatnsstæðið beygði gatan í norðaustur upp grasbrekkuhalla. Þegar upp var komið blasti Litli-Leirdalur við, alllangur í sömu átt. Í suðausturhorni hans, nú á hægri hönd, er fallegur hraunhelluhóll með fallegri grasflöt er leggst upp að honum vestanverðum. Dalur þessi var allvel grösugur fyrr og sleginn ásamt brekkum og grasgeirum austan og innan við hann.
Gatan upp úr dalnum liggur eftir lágbrekkuhalla og sveigist brátt í norðvestur yfir hraunmóa með grasdrögum Varða við Stakkavíkurveghér og þar, einnig með klifum sem voru á tímum lestarferðanna þannig gerðar að þær yrðu hestum sem best færar. Hinir mörgu svigar á vegferð þessari voru vegna hraunhólanna þar til komið var upp að Hvalskarðsbrekkum. Þá liggur gatan eftir mjúkri moldargötu neðanvert brekkum þessum þar til komið er að Hvalskarði, sem er allskörp klauf milli Hvalshnúks Eystri og Vestri. Sá Eystri verður því á hægri hönd og sveigist allhátt til norðurs, en sá Vestri á vinstri hönd upp skarðið og er alllangur í vestur, fer hækkandi frá Hvalskarði uns hann hækkar nokkuð við vesturhluta sinn.
Þegar kaupstaðalestin kemur að Hvalskarði blasir lestargatan við sem afbragðslestargata, sneiðskorin austan í rauðamelsskriðu Hvalshnúks Vestri og endar í rúmri góðgötu á hálsinum upp af skarðsgilinu og liggur þaðan örstutta leið ofan í suðurhluta Stóra-Leirdals, sem liggur fast upp að Hvalhnúk Eystri. Graslendi hans er breiðast og best syðst. Þar mátti sjá á sumardögum á beit 50-100 sauðfjár, en að þar hafa verið heyjaðir hundruð hestburðar verður að teljast vafasamt.
Hestar lestarinnar verða léttari í spori niður á grasvöll Stakkavíkurvegurdalsins, enda hefðarlöggiltur áningastaður á hinni löngu lestarleið yfir Grindarskörð. Hér eru hestburðir ofan teknir og hestar leystir úr lestarbandi og þeim leyft að grípa niður með reiðing sínum og beisli um háls. Þar spenntu lestarmenn töskur sínar frá hnakki og tóku fram nesti sitt. Klukkan var um 11 f.h. og hafði því lestargangur í Stóra-Leirdal verið 4 klukkustundir á fótinn.
Á heimleið úr kaupstað var hér gjarnan tekinn tappi úr flösku sem gekk milli manna og dreypt var á af háttvísi. Því fylgdi eftir ættjarðarsöngur sem fór vel í fjallasal þessum.
Var nú haldið norður eftir dalnum og um sinn eftir leirflagi (sístækkandi) framhjá hraunbrún hins víðáttumikla Skarðahrauns á vinstri hönd. Við norðurenda dalsins var farið framhjá lágbungu þeirri er tengist Hvalhnúk Eystri og þá á hægri hönd. Þarna gæti verið Sæmundarmelur sá er sumir nefna.  Norðan við lágbungu Hvalhnúks Eystri tók við vesturjarðar Heiðarinnar háu sem verður með lágbrekkusniði á hægri hönd milli skarða. Að götunni vestan megin liggur hið mikla Skarðahraun fast upp að götunni og sumsstaðar yfir hana en það liggur fast að Hvalhnúk Vestri í suðri og til Draugahlíðar og Kerlingarskarðs í norðri en í vestur allt til Brennisteinsfjalla.“
Áður hafði FERLIR gengið Selvogsgötu frá Bláfjallavegi um Grindarskörð til suðurs, upp fyrir Hvalsskarð sem og götuna upp að Hvalskarði í tvígang. Í fyrstnefndu ferðinni var „Selvogsgötunni Vestari“ (Stakkavíkurstígnum) fylgt upp að gatnamótum hans og Selvogsgötu Eystri sunnan undan Kerlingarskarði (sjá HÉR). Lóu- og þúfutittlingshreiður voru nokkur skoðuð á leiðinni. Þegar komið var upp undir Hvalskarð var Vestri Hvalhnúk fylgt til vesturs, yfir á Stakkavíkurveg við austanverða Vesturása. Þar liggur gatan ofan frá gróningum neðan við slétt helluhraun (Selvogsgatan Vestari) og niður með austanverðum ásunum. Á skammleiðinni við hornið eru tvær vörður með stuttu millibili. Þaðan fylgir gatan undirhlíðum Vesturása, þ.e. misgengi sunnan þeirra. Suðvestar eru klettaborgir. Liggur gatan millum þeirra og niður með einni þeirra í sneiðing að norðanverðu. Varða er neðar og önnur nokkru sunnar.
Eftir það liðast hún niður á við í gróningum undir Stakkavíkurvegurhlíðum, fyrst í Dýjabrekum, og allt fram á brún Stakkavíkurfjalls, þar sem Selstígur liggur niður heim að bæ. Á nokkurm stöðum er búið að raska götunni vegna girðingarvinnu (beitarhólfið). Er það í rauninni leitt því sumstaðar hefði með svolítilli hugsun einungis þurft að færa girðinguna um nokkra metra til að hlífa götunni svo hún hefði verið óröskuð alla leiðina. Sjálfsagt er þetta all gjört með fullri heimild Fornleifarverndar ríksins.
Þegar komið var niður á Selsskarðsstígsbrúnina var kjörið að rifja upp örnefnalýsingar, bæði af Stakkavíkurveginum og Hlíðarveginum:  „Stakkavíkurstígur lá heiman frá húsi, austur yfir hraunið yfir að Botnaviki, um Flötina upp um Lyngskjöld í Selstíg. Stígur þessi var kaupstaðarleið Stakksvíkinga til Hafnarfjarðar og Reykjavíkur.“ Þá segir ennfremur í annarri örnefnalýsingu: „Í Selskarði er Selskarðsstígur; ekkert hraun hefir runnið þar fram. Það er grasi gróið og fyrir neðan það. Selstígur heitir upp á fjallinu; liggur hann í Stakkavíkursel, sem er þar norðar á fjallinu. Brekkurnar neðst í fjallinu heita einu nafni Stakkavíkurfjallsskriður, en í daglegu tali voru þær greindar í þrennt, þannig frá vestri til austurs: Selstígsbrekkur við Selskarð, skammt austar Snataklettsbrekkur; þá taka við austast Urðar-brekkur.“
Í lýsingu af Stakkavíkurveginum áðurgengna segir í upptalningu örnefnanna: „Stakkavíkurvegur; 1. Stakkavík: Heim við tún byrjaði vegurinn og lá upp. 2. Stakkavíkurhraun:  Í austur neðanvert við Fjárborgina. 3. Flötin: Úr hrauninu lá vegurinn um flöt ofan við Botnavik. 4. Lyngskjöld: Sem er hraunbrekka ofan og austan Flata. 5. Selskarðsstígur: Heitir vegurinn eiginlega heiman frá bæ þá leið sem þegar er lýst upp í 6. Selskarð: Sem er í Stakkavíkurfjallsbrún. 7. Stakkavíkurfjall: Er þá komið upp á Stakkavíkurfjall, eða Fjallið.

Þúfutittlingsegg við Stakkavíkurveg

8. Stakkavíkursel: Spölkorn ofan brína [?] er þetta sel. 9. Leirdalur: Er þar nokkru ofar. 10. Helgadalur: Dalur þessi eða hvammur er þar enn ofar. 11. Langhólar: Þeir eru þar enn ofar og liggja í Hlíðarveg. 12. Brekkurnar: Þær eru nokkrar með sérnöfnum. 13. Dýjabrekkur 3: Þær eru allt upp undir Ása. 14. Dýjabrekkuhóll: Hann er á hægri hönd við Veginn. 15. Ásarnir: Taka svo við og liggja á beggja megin vegar. 16. Svörtu-Ásar: Liggja á vinstri hönd. 17 .Vesturásar: Þar norðar og á vinstri hönd. 18. Austurásar: Beint á mót á hægri hönd. 19. Hvalhnúkur vestari: Hann hefur blasað við alla leiðina. 20. Hvalhnúkatagl: Um það liggur vegurinn og beygir til hægri. 21. Skarðshraun: Inn og austur eftir hrauni þessu, sem mun vera kennt við Grindaskörð. 22. Skarðahraunsvörður: Allur er vegurinn varðaður þessum vörðum. 23. Tvívörður: Upp í þessar vörður sem standa með nokkurra metra millibili. Þar um liggur svo 24. Suðurferðaleið: Sem áður er lýst. 25. Vetrarvegur: Vegur þessi var farinn á vetrum. Þótti hann öruggari en Suðurferðaleiðin.“
Áður en haldið var niður um Selskarð var enn og aftur rifjuð upp sú gata er gangið hafði verið yfir milli Selvogsgötu og Stakkavíkurvegar, þ.e. Hlíðarvegurinn. Í örnefnalýsingu fyrir veginn segir (og er þá miðað við að hann sé genginn heiman frá Hlíð og upp á milli Vesturása og Austurása áleiðis til Hafnarfjarðar: „Hlíðarvegur; l. Hlíðartún: Heiman frá bæ lá vegurinn um túnið. 2. Skjólabrekka: Um brekkur þessa. 3. Hlíðarskarðsstíg: Sem hefst neðst í 4. Hlíðarskarði. Sem eiginlega er gil og er þar bratt upp. 5. Hlíðarfjall: Ofan brúna er Fjallið, Hlíðarfjall. 6. Teigarnir: Uppi á Fjallinu voru teigar þessir. 7. Ytri-Teigar: Voru neðar. Þangað var farið til slægna. 8. Innri-Teigar: Ofar voru þeir á Fjallinu. 9. Langhólar: Þeir teygðu sig austur fyrir veginn.

Við neðanvert Stakkavíkursel

10. Dýjabrekkur: Um þær lá vegurinn. 11. Ásarnir:  Milli Ásanna sameinuðust Hlíðarvegur og Stakkavíkurvegur. 12. Vetrarvegur: Var vegurinn kallaður. 13. Sjávarvörður: Voru vörðurnar kallaðar, þar sem steinn í vörðunni sneri við suðri.“
Ljóst er af framangreindri vinnu að hin forna Selvogsgata er enn glögg millum Útvogsskála við Strandarheiði og Lækjarbotna í Hafnarfirði. Stakkavíkurvegur er að mestu glöggur frá Selskarði upp að Tvívörðum sunnan Kerlingarskarðs og Hlíðarvegur (Vetrarvegur) sést glögglega (enda vel varðaður) frá Tvívörðum að Hlíðarskarði ofan við Hlíð. Sennilega hefur Stakkavíkurvegur verið greiðfærasta lestargatan fyrrum af þessum þremur leiðum að dæma (a.m.k. er hún nú ein sú áhugaverðasta).
Frábært veður. Gangan tók 6 klst og 6 mín. Gengnir voru 21.3 km.
Sjá MYNDIR.

Heimildir m.a.:
-Konráð Bjarnason, 1993, leiðarlýsing á kaupstaðaleið Selvogsbúa – Selvogsgötunni.
-Örnefnalýsingar fyrir Stakkavík.

Í Selskarði

Reykjadalir

Gengið var upp Djúpagil áleiðis upp í Reykjadali ofan Hveragerðis. Grændalur og Reykjadalir (Reykjadalur) liggja þar hlið við hlið. Grændalur sem er næst ósnortinn lokast til norðurs og er Ölkelduháls norðvestan hans.
Meiri umferð hefur verið um Reykjadali, sem sumir nefna Reykjadal, en Svædidþeir eru fleiri en einn og fleiri en tveir. Einn hefur t.d. verið nefndur Gjósta, virkt hverasvæði. Dalirnir eru hluti af eldstöð sem kennd er við Hengil og nær eldstöðin frá Hveragerði til Nesjavalla, vestur fyrir Hengil og suður í Hverahlíð. Landslag svæðisins einkennist af jarðhita og er þar fjöldi hvera og lauga, berggangar, brot og framhlaup. Á svæðinu eru góðar opnur sem eru mikilvægar til rannsókna og fræðslu.
Einkennandi eru lækjarsitrur sem seitla niður hlíðar dalsins. Þær eru sérstæðar á landsvísu enda hafa þær mikið að segja til um lífríki hveranna.
Innri hluti Reykjadals ásamt Klambragili er mjög votlendur og undirlagður heitum hverum og laugum. Volgar ár og lækir eru algengir. Votlendi er að mestu óvenjublautt mýrlendi. Þar eru ríkjandi gróðurfélög annars vegar mýrastör og mýrelfting en hins vegar mýrastör og tjarnastör. Mikið er um hitakærar plöntur svo sem laugadeplu, laugabrúðu og blákollu. Reykjadalur, líkt og Grændalur, er á Náttúruminjaskrá.
Grændalur er allur undirlagður af hverum, laugum, volgum lækjum, ársprænum og hitakærum plöntum frá dalsmynni inn í botn. Hvergi á kortlagða svæðinu sem kennt er við Hellisheiði og Hengil er útbreiðsla jarðhitakærra plantna meiri. Auk laugasefs, laugadeplu og blákollu sem víða eru áberandi, finnst þar naðurtunga sem er á válista.
Björn Pálsson gerði athugasemd við matsáætlun um fyrirhugaðar orkurannsóknir í dölunum og á Reykjadalur-22Hengilssvæðinu: „Mitt mat er að þetta svæði búi yfir einstakri fjölbreytni og fegurð, sem nauðsynlegt er að varðveita í nútíð og framtíð.  Þrátt fyrir næsta nágrenni við þéttbýlasta svæði landsins, býður það upp á svæði þar sem ferðamaður getur notið öræfakyrrðar. Þar á ég ekki síst við dalina norður af Hveragerði og austan, vestan og sunnan Hengils. Ef horft er til dalanna norður af Hveragerði og svæðisins austur af Hengli er Ölkelduháls þar eins og Miðgarður í heimi ásatrúar. Mín skoðun er sú að þetta svæði, Ölkelduháls og umhverfi, eigi að friðlýsa. Þar á ég við Þverárdal, Reykjadal og Græn(s)dal, Kattatjarnir og umhverfi, austurhlíðar Hengils með giljum og aðlægum svæðum s.s. Hagavíkurlaugum. Auk þess vil ég nefna Innstadal, Engidal og Marardal.“
Reykjadalur-23Hengilssvæðið er á miðju vestra gosbelti landsins, sem nær frá Reykjanesi að Langjökli. Berggrunnur er að mestu móberg sem myndast hefur í gosum undir jökli á síðustu jökulskeiðum ísaldar. Grafningsmegin á svæðinu er röð móbergshryggja sem fylgja ríkjandi sprungustefnu NASV og ganga út í Þingvallavatn.
Á Hengilssvæðinu eru þrjú eldstöðvakerfi með megineldstöðvum, hverum og laugum. Þetta eru Hveragerðiseldstöð, Hrómundartindskerfi og Hengilskerfi sem er yngst og virkast. Eftir ísöld eru þekkt fjögur til fimm sprungugos á svæðinu. Síðast gaus fyrir um 2.000 árum á 30 km langri sprungu sem náði frá Þrengslum, um Hellisheiði, Innstadal og í Sandey í Þingvallavatni. Þá rann yngsta hraunið á Hellisheiði og Nesjahraun í Grafningi.

Reykjadalur-24

Síðast voru umbrot í Hengilskerfinu árið 1789. Þá gliðnaði og seig spilda á sprungubelti sem liggur yfir Dyrafjöll og Hestvík og norður yfir Þingvallavatn milli Almannagjár og Hrafnagjár. Þá seig land um einn til tvo metra. Hverir og laugar finnast í öllum eldstöðvakerfunum, en þó mest í Hengilskerfinu. Þekktustu hverasvæðin eru í Reykjadal, á Ölkelduhálsi, ofan við Nesjavelli og í Innstadal.
Laugadepla vex víða í Reykjadölum og Grændal, m.a. í Klambragili í Reykjadal. Á Íslandi er laugadepla afar sjaldgæf og finnst aðeins á suðvesturlandi og þá aðeins við laugar og í volgum lækjum.
Jarðhitagróður er mjög sérstæður fyrir Ísland. Fjölbreytni hans er mikil ekki síður en fjölbreytni jarðhitasvæðanna. Á mörgum jarðhitasvæðum er lítið um gróður annan en örverur. Til þess að annar gróður geti þrifist, þarf hóflegur hiti að leika um land sem hefur sæmilegan jarðveg. Blómplöntur, byrkningar eða mosar þola tæplega jarðvegshita sem fer yfir 45° C. Nokkrar plöntur á Íslandi vaxa eingöngu í volgum jarðvegi, t.d. naðurtunga, laugadepla, grámygla og vatnsnafli.

Reykjadalur-25

Aðrar hafa sterka tilhneigingu til að vaxa í volgum jarðvegi en vaxa einnig í köldum jarðvegi. Í þeim hópi eru græðisúra, klappadúnurt, blóðberg, blákolla og skarifífill. Mikill mismunur er oft á gróðri jarðhitasvæðanna eftir landshlutum svo og eftir mismunandi aðstæðum á hverasvæðunum.
Sjá fleiri myndir úr Reykjadal HÉR. Það óhapp varð í ferðinni að þegar ljósmyndara FERLIRs skrikaði fótur í Reykjadalsá í Djúpagili féll myndavélin í ána og eyðilagðist. Þrátt fyrir að hann hafi kastað sér á eftir myndavélinni og náð henni eftir skamm stund, dugði það ekki til að koma í veg fyrir skemmdirnar.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Heimildir m.a.:
-floraislands.is
-Björn Pálsson.

Reykjadalur

Reykjadalur.

 

Þorlákshöfn

Til að hefta sandfokið nálægt Þorlákshöfn var landið friðað fyrir búfjárbeit 1935 og girt af. Girðingin er 21,8 km löng og telst þetta með stærri landgræðslusvæðum um 7.550 ha.
Þorlakshofn-sandgraedslan-1Svæðið nær frá Ölfusá og að Nesvita í Selvogi, en sjórinn afmarkar svæðið að sunnan allt austur að Hamarendum sunnan við Hraun í Ölfusi og neðan við Vindheima, Breiðabólsstað, Litlaland, Hlíðarenda yfir Selvogsheiði og allt til sjávar austanvert við Nes í Selvogi.
Sandgræðslan keypti lönd frá Nesi í Selvogi, Hlíðarenda, Litlalandi, Breiðabólstað og Vindheimum í Ölfushreppi. Seinna var eigendum Hrauns Í Ölfusi afhent það land er þeir áttu innan girðingarinnar.
Landgræðslan á núna allt land innan girðingar nema Þorlákshafnarland.
Eftir að girðingin var komin var reynt að vinna að sandgræðslu eftir því sem fjármagn og geta leyfði en fyrstu 30 árin var lítill sem enginn árangur.
Þorlakshofn-sandgraedslan-2Í bókinni „Græðum Ísland – landgræðslan 1988” er eftirfarandi haldið fram: „Sjómenn hafa haldið því fram að aðalástæða fyrir því að fiskigöngur hurfu þarna skyndilega af landgrunninu hafi verið sandfok ofan af landinu. Hinir tíðu norðaustanvindar, sem bera sandinn í sjó fram, hafa einnig iðulega gert mönnum erfitt fyrir að stunda fiskvinnslu í Þorlákshöfn enda vart hægt að hugsa sér óeðlilegri og óæskilegri aðstæður við fiskvinnslu en sandfok”. (Bls. 146-147).
Í samvinnu við fólkið í þorpinu hóf Sandgræðslan (nafninu var síðar breytt í Landgræðslan) að gera stórátak í að hefta sandfokið með því að sá melgresi.
Landslagið innan landgræðslusvæðisins er hraun sem er erfitt viðureignar, þar skiptast á hraunhólar og lægðir sem eru fullar af sandi og þegar blæs þyrlast sandurinn upp. Landslagið gerir það einnig að verkum að það getur verið erfitt að nota vélar við sáningu. Þá hefur oft á tíðum þurft að grípa til þess að sá og slétta úr sandhólunum með berum höndum.
Þorlakshofn-sandgraedslan-3Erfitt er að eiga við sjávarsandinn í flæðarmálinu, því hann skolar upp á háflóði og þegar hann þornar fýkur hann og það sama gerist með framburðinn úr Ölfusá. Þetta ástand er verst alveg við þorpið í Skötubótinni. Eftir að höfnin var stækkuð 1974-1976 safnast sandurinn að hafnargarðinum og þar getur orðið upphaf sandfoks.
Fyrstu stóru landgræðsluframkvæmdirnar voru gerðar 1958 þegar byggðir voru sandvarnargarðar á leirunum austan við þorpið. Hælar voru reknir niður í sandinn og negld vour á þá tvö 6 tommu borð. Milli garða voru hafðir 100 m en alls voru notuð í þá rúmlega 17 km af borðum. Melgresi var sáð beggja megin garðanna. Garðarnir drógu verulega úr sandskriði og sandurinn færði garðana í kaf.
Í kjölfar landgræðsluframkvæmdanna myndaðist sjávarkambur sem hefur hækkað mjög vegna áfoks sands.
Þorlakshofn-sandgraedslan-4Kamburinn er án efa merkasti melgresissjóvarnar-garður hér á landi. Til glöggvunar má nefna að fyrsti síminn var lagður á þessu svæði 1920 eftir innanverðum kambnum. Nú eru nokkrir símastauranna komnir í kaf í sandinn.
Árið 1958 var byrjað að dreifa fræi og áburði úr flugvél í Þorlákshöfn. Í fyrstu var notuð lítil flugvél til dreifingar og hörð leira notuð sem lendingarstaður en hún var í fjöruborði við Ölfusá vestan Hamarenda, sunnan Hrauns í Ölflusi. Þetta gaf svo góða raun að hafist var handa við byggingu flugbrautar við Hafnarnes 1968 sem notuð var í nokkur ár þar til að farið var að nota áburðarflugvélina Páll Sveinsson. Með til komu áburðarvélarinnar margfaldaðist afkastagetan við styrkingu gróðurs innan landgræðslugirðingarinnar.
Helstu markmið Landgræðslunnar í Þorlákshöfn er að verja byggðina fyrir sandfoki með landgræðslu sem fellst í því að sá fræjum, gróðursetja plöntur og bera áburð á svæðið. Landgræðslan vaktar ástand á gróðri og jarðvegi og gerir framkvæmdaáætlanir með tilliti til árangurs og framvindu gróðurs.

Heimild:
-ismennt.is/not/siggud/landgr/girding.htm

Þorlákshöfn

Þorlákshöfn – Skötubót.

Selvogsgata

Gengið var áleiðis upp Grindarskörð millum Kristjánsdalahorns og Kerlingarhnúka (Kerlingarskarðs).
Ætlunin var að ganga gömlu Selvogsgötuna (Suðurfararveginn) milli Selvogs og Hafnarfjarðar. Ferðafélög og leiðsögumenn síðustu Selvogsgata um Grindarskörðáratuga hafa gjarnan fetað aðra götu upp Kerlingarskarð og síðan fylgt vörðum frá því á sjötta áratug síðustu aldar niður að Hlíðarskarði – og kynnt þá leið sem hina einu sönnu „Selvogsgötu“. Í rauninni eru nú um þrjár götur að velja og er „túrhestagatan“ nýjust, eins og síðar á eftir að minnast á. „Túrhestagatan“ er seinni tíma „gata“, beinvörðuð. Um var að ræða vetrarsýsluveg Selvogsmanna um þann mund er fyrri tíma þjóðleiðir voru að leggjast af (um 1940). Vörður við leiðina hafa síðan verið endurhlaðnar og virðist leiðin þess vegna við fyrstu sýn „sú eina“ millum Selvogs og Hafnarfjarðar. Raunin er hins vegar allt önnur.
Að baki var úfnasti hlutu Hellnanna. Líklega það sem kallað var Flár. Þar er víðsjál vegferð með bröttum klifum niður í svonefnda Mosa, einnig ótrygg vegferð. Að baki voru sjálfar Hellurnar með vel ruddri og varðaðri hestagötu í beinstefnu ofan við Strandartorfur. Þegar komið var upp Hellurnar sást vel til hinna grösugu Kristjánsdala er liggja norðan undir fjallshlíðum þeim er sveigjast í suðaustur frá Kerlingarskarði í átt að Kristjánsdalahorni.
Tvær vörðuleifar eru á þessum hluta Selvogsgötu (Eystri), en annars er yfir slétt helluhraun að fara. Leiðin er nokkuð eðlileg, bæði með hliðsjón af lestarferðum og vatnsöflun. Undir Grindarskörðum er öllu jafnan ágætt vatnsstæði. Nú var það þurrt líkt og öll önnur vatnsból við götuna, önnur en Rituvatnsstæðið millum Litla-Leirdals og Hliðardals.
Gatan upp Grindarskörðin er augljós þar sem hún liggur í sneiðinga. Vörðubrot eru á stefnumiðum. Þrátt fyrir þarf að lesa hlíðina vel, nú tæplega 70 árum eftir að síðasta lestarferðin var farin þessa leið milli Selvogs og Hafnarfjarðar. Bæði hefur vatn fært jarðveginn til á köflum og gróðureyðingin sett svip sinn á leiðina. Með góðri athygli má þó sjá hvernig lestarstjórarnir hafa leitt stóð sín ákveðið og óhikað upp sneiðingana, allt upp á efstu brún á hálsinum. Þar er varða og augljóst hvar gatan hefur legið vestan hennar.
Efst í GrindarskörðumÞegar lestirnar komu frá Selvogi fram á norðurbrún Grindarskarða blasti við augum víð og fögur sýn allt til þéttbýliskjarna á strönd hins fagurbláa Faxaflóa og til Akrafjalls og Esju í norðri, nær okkur Helgafell og Húsfell. Á háskarðinu höfðu lestirnar jafnan verið um 5 klukkustundir á ferð úr heimabyggð í Selvogi. Ferðin frá Mosum og upp á skarðsbrúnina hafði tekið um þrjá stundarfjórðunga (án lestarinnar).
Frá brúninni liggur gatan á ská niður hálsinn (Grindarskörðin) og þaðan svo til beint að augum. Tvær vörður eru áberandi framundan. Fyrri varðan vitnar um gatnamót; annars vegar Selvogsgötu og hins vegar Heiðarvegar niður  að Hrauni í Ölfusi. Næsta varða er á þeirri leið, upp á og niður með Heiðinni há. Við fyrri vörðuna var beygt til hægri og stefnan tekin milli gígs á vinstri hönd og hraunbrúnar á þá hægri. Framundan voru vörðubrot við götuna, sem annars virðist augljós. Þegar komið var að gatnamótum norðvestan við Litla-Kóngsfell var staðnæsmt um stund. Í norðvestri blöstu Stóri-Bolli, Miðbolli, Kerlingahnúkar og Syðstu Bollar við. Norðaustan við Kelringahnúka er Kerlingarskarð, sem leið FERLIRsferðalanganna átti síðar eftir að liggja um.
Dæmigert vörðubrot við SelvogsgötunaHér reis slétt hraunhella upp úr móðurhrauninu; táknræn varða. Skammt sunnar voru tvö vörðubrot sitt hvoru megin götunnar. Vestar voru vörður og síðan tvær beggja vegna götu er lá millum þessarar og „Selvogsgötu Vestari“ og Hlíðarvegar (hinna beinvörðuðu vetrarleiðar). Gatan lá yfir að „Hliðinu“ á sýslugirðingunni, sem lá þarna upp að sunnanverðum Grindarskörðum. Leifar hennar sjást enn vel.
Gömlu Selvogsgötunni var fylgt um Grafninga neiður með Litla-Kóngsfelli og áfram niður í Stóra-Leirdal. Á leiðinni verður fyrir þurr foss á vinstri hönd og uppþornaður lækjarfarvegur, sem stundum fyrrum hefur þótt óárennilegur. Þess vegna liggur gatan yfir hann (en ekki eftir) og upp á hraunbrúnina að vestanverðu. Þar liðast gatan skamman veg niður af henni aftur að austanverðu. Eftir það liggur gatan um Stóra-Leirdal, vel gróinn slátturdal ofan við Hvalskarð. Þar mátti sjá á sumardögum á beit 50-100 sauðfjár, en að þar hafi verið heyjaðir hundruð hestburðar, eins og sagnir eru til um, verður að teljast vafasamt. Hestar lestanna fyrrum urðu hér léttari í spori niður á grasvöll dalsins, enda hefðarlöggiltur áningastaður á hinni löngu lestarleið yfir Grindarskörð. Hér eru hestburðir ofan teknir og hestar leystir úr lestarbandi og þeim leyft að grípa niður með reiðing sínum og beisli um háls. Þar spenntu lestarmenn töskur sínar frá hnakki og tóku fram nesti sitt.
„Lestargatan milli skarða var allgóður lestarvegur með árlegu viðhaldi í ruðningi á árum áður, einnig í skorningunum milli hrauns og hlíðar er Grafningar nefndust. Sumsstaðar var sýnt að gamalt hraun ofan af heiðinni hafði hnigið undir vegferð lestargötunnar. Þarna gæti veri það sem kallað hefur verið Hrauntraðir. Ferð lestarinnar milli skarða miðar vel og er komin um hálftíma ferð frá Stóra-Leirdal norður úr Grafningum og að beygja sunnan við Litla-Kóngsfell“.
„Lestargangur í Stóra-Leirdal var um 4 klukkustundir á fótinn frá Selvogi. Sunnan við dalinn liggur gatan í sneiðing upp Vestari leiðinlágt skarðið. Þegar upp er komið blasir vitinn í Nesi við sem og Selvogur vestan hans. Hér er leiðin tæplega hálfnuð (gengnir höfðu verið 14 km) niður á Strandarhæð (og er þó Selvogsheiðin eftir).
Handan Hvalskarðins liggur gatan eftir lágbrekkuhalla og sveigist brátt í suðaustur að hraunmóa með grasdrögum hér og þar, einnig með klifum sem voru á tímum lestarferðanna þannig gerðar að þær yrðu hestum sem best færar. Hinir mörgu svigar á vegferð þessari eru vegna hraunhólanna neðan við Hvalskarðsbrekkur.“
Þegar komið var niður fyrir Hvalskarð var látið staðar numið. Héðan er gatan augljós niður í Litla-Leirdal, Hlíðardal, Strandardal og um Standarmannahliðið að Selvogsheiði, allt niður á Strandarhæð (Útvogsskála[vörðu]).
Staldrað var við í aðalbláberjahvammi og horft var eftir Hvalhnúk og Austurási, allt vestur að Vesturási. Kjói lét öllum illum látum. Líklega var hreiðurstæði hans í nánd. Sólin baðaði allt og alla og lognið umlék þátttakendur á alla vegu. Í dag var 17. júní, þjóðhátíðardagurinn sjálfur. Líklega var hvergi betra að vera en einmitt hér í tilefni dagsins. Fánar blöktu við götuna á hverjum bakpoka í tilefni af merkilegheitum dagsins.
Eftir stutta hvíld var gengið vestur með Hvalhnúk og vestur fyrir Austurása. Líklega eru nafngiftirnar augljósari en einmitt sunnan við fellin. Ásarnir; Austurás og Vesturás, eru móbergshæðir á sprungureinum (gos undir jökli), en Hvalfell er grágrýtisbrotafell frá upphaf nútíma (í lok ísaldar). Með fellunum eru, þrátt fyrir gróðureyðingu síðustu áratuga, fjölbreytilegt blómaskrúð.

Drykkjarsteinn í Kerlingarskarði

Milli hnúkanna eru gatnamót; annars vegar Hlíðarvegar og hins vegar Stakkavíkurvegar. Þrjár vörður (og vörðubrot) á hraunbrúninni undirstrika það. Hér var stefnan tekin til baka upp Hlíðarveginn velvarðaða. Selvogsgatan Vestri er skammt vestar. Þar liggur hún upp úfið apalhraun. Eftir skamma göngu eftir slóða austan við „Hlíðarveginn“ lá gata inn á úfið hraunið. Yfir stutt hraunhaft var að fara. Þegar þeirri götu var fylgt áleiðis að vörðunum þráðbeinu var komið inn á Vestari leiðina. Hún liggur upp frá Vesturásum, inn á hraunbreiðuna og upp fyrir hans. Hér var hægt að velja um tvennt; annars vegar að fylgja Hlíðarvegnum með vörðunum eða beygja af og fylgja „Selvogsgötunni Vestri“. Í raun er hér ekki um Selvogsgötu að ræða. Selvogsgatan er þar sem fyrstneftnt var lýst; upp Grindarskörð og niður með Litla-Kóngsfelli, um Grafninga, Stóra Leirdal, Hvalskarð og dalina áleiðis að Strandarheiðinni.
Ákveðið var að fylga „Vestri“ leiðinni. Hún er öllu greinilegri og fótmeðfærilegri en „túrhestagatan“. Fallnar vörður eru við götuna. Ofan við og móts við Gráhnúk sker hún Hlíðarveginn og liggur svo til beint upp að hinum tveimur vörður á millileiðinni er fyrr var minnst á. Annars vegur liggur leiðin til hægri að Selvogsgötunni um Grindarskörð, er fyrr hefur verið lýst, eða til vinstri, að Kerlingarskörðum.
„Ekki var nú lestarferð löng vestur að uppgöngu austanmegin Kerlingarskarðs. En rétt austan við uppgönguna fórum við yfir örmjóa apalhrauntungu er runnið hefur niður Skarðahraun. Þar standa Tvívörður við vegferð og frá þeim í beinlínu eru hinar vel hlöðnu vetravegsvörður í stefnu á vesturenda Hvalhnúks Vestri. Þær höfðu þann kost að út úr sérhverri þeirra stóð steinn í átt þeirrar næstu sem var mikið öryggi þegar hin svarta þoka lá yfir Skarðahrauni sem oft var. Nefndust steinar þessir Vegvísir.
Vestan við apalhrauntunguna lá vegurinn upp á Kerlingarskarð í allsnörpum halla, vel ruddur á tímum lestarferðanna sem og vegurinn yfir nefnda hrauntungu. Þá verður að taka fram að girðing sú sem títt er nefnd í nútíma var enn í þekkt á tímum lestarferðanna því hún var uppsett vegna mæðiveikivarna á stríðsáratugnum. Þá verður að minnast þess að hér skárust saman í sömu uppgöngu á Kerlingarskarð, Eystri leið eftir Katlahrauni og Vestri leið upp Selsstíg frá Herdísarvík og Stakkavík. En rétt áður en við beygðum upp á Skarðið blöstu við á vinstri hönd Draugahlíð og framhjá þeim í vestur sér til Eldborgar. En nær nefndri hlíð er að finna leifar af brennisteinsvinnslu Breta á púðurskots- og hernaðarárum þeirra.“
Gengið um SelvogsgötuAf ummerkjum að dæma má telja líklegt að „Vestri“ leiðin hafði verið framhald af Stakkavíkurselstígnum, enda mjög svipuð leið og önnur leið þess fólks um Brennisteinsfjöll framhjá Eldborg, vetrarleið þess til Hafnarfjarðar. Hvorugur stígurinn er varðaður, en þó hafa einhverjir á seinni tímum lagt sig fram við að rekja þá og merkja með litlum vörðum er það bara hið besta mál.
Líklegt má telja að frá hraunbrúninni við Vesturása hafi sameinast Stakkarvíkurstíg fyrrum Hlíðarvegur áleiðis niður að Hlíðarskarði ofan við Hlíð við Híðarvatn. Umferðin um þær götur hafa varla verið jafnmikil og um sjálfa Selvogsgötuna (Eystri).
„Vestri“ leiðin liggur um slétt helluhraun og er auðfarin. Á einstaka stað hefur gatan verið unnin, sem verður að teljast óvenjulegt, því hvergi er gatan mörkuð í hraunhelluna. Það staðfestir fyrrnefna ályktun. Það er ekki fyrr en upp undir gatnamótunum „tvívörðuðu“ að forn gata fær staðfestu. Þar eru greinileg gatnamót; annars vegar um Grindarskörð og hins vegar um Kerlingarskarð.
„Að götunni vestan megin liggur hið mikla Skarðahraun fast upp að götunni og sumsstaðar yfir hana en það liggur fast að Hvalhnúk Vestri í suðri og til Draugahlíðar og Kerlingarskarðs í norðri en í vestur allt til Brennisteinsfjalla.
Með beygju þessari mildast vegferðin með snögggrónum lautum, ásamt pollum í dældum. Hér verður þessari vegferð lestarinnar í vesturátt til Grindarskarða en hið einkarfallega hringlaga fell Litla-Kóngsfell á hægri hönd. Það er borglaga gígsfell hæst á suðurbarmi og með grasgeira neðantil. Norðaustur af því er gjá mikil, Stórkonugjá. Það er talið að fjall þetta sá á markalínu Gullbringu- og Árnessýslna með stefnu á Vílfilsfell, enda var Jósepsdalir sunnan þess smalaðar á haustdögum sem afréttarland Selvogshrepps um aldir.“
Í þessari lýsingu kemur m.a. fram að Litla-Kóngsfell sé á markalínu. Í dag er Stóra-Kóngsfell, allnokkru norðaustar, notað sem slíkt viðmið. Verður það að teljast athyglisvert í ljósi þessa (sem og annarra vitnisburða).
Gengið var niður Kerlingarskarð, framhjá drykkjarsteininum sögufræga og niður að Mosum – þar sem gangan endaði (eftir 24 km).
Sjá lýsingu af leiðinni (frá suðri til norðurs) HÉR.
Frábært veður. Gangan tók 8 klst og 8 mín.
Sjá MYNDIR.

Heimild:
-Byggt á heimild Konráðs Bjarnasonar um Selvogsgötuna til norðurs – 1993.

Miðbolli og Litla-Kóngsfell

Grændalur

Gengið var um Grændal ofan Hveragerðis. Dalirnir uppaf Ölfusdal heita Reykjadalur og Grænsdalur (Grændalur). Gufudalur er nafn á býli austast í Ölfusdalnum en uppaf því eru dalverpi með skemmtilegum gönguleiðum. Volgar laugar og litrík hverasvæði gera landsvæðið að einstakri náttúruperlu.
Grændalur-2Í nýlegri Rammaáætlun um vernd og nýtingu náttúrusvæða fékk Grændalur hæstu einkunn af jarðhitasvæðum fyrir náttúruverðmæti í jarðminjum, vatnafari og vistgerðum. Ef vernda ætti eitthvert jarðhitasvæðanna á Hengilssvæði ósnortið kæmi Grændalur þar fyrst til greina. Þrátt fyrir það hefur ásókn orkufyrirtækja til tilraunaborana í dalnum verið linnulítil. Fjallað verður um það hér á eftir.
Grensdalur liggur norðan Hveragerðis. Úr honum kemur Grensdalsá sem rennur í Varmá. Dalurinn er, sem fyrr sagði, þröngur neðst og ekki áberandi en víkkar er innar er komið og er nokkuð víðáttumikill. Dalafell er hömrum girt vestan í dalnum og virðulegur Álútur að austanverðu. Í dalnum er mikill fjöldi hvera, lauga og volgra og er fjölbreytni vistkerfa þeirra með því mesta sem þekkist. 
Grændalsnafnið á vel við þar sem dalurinn er gróinn og gróðurinn sérlega grænn.
Grændalur-3Ummerki jarðhiti eru mjög víða, m.a. eftir báðum hlíðum endilöngum og í dalbotninum. Berggrunnurinn er þéttur þannig að vatn sígur lítið niður í hann en gömul framhlaup eru í hlíðunum og þar spretta upp lindir. Jarðhitinn í Grændal  er óvenjulega fjölbreyttur… Gufuhverir eru áberandi en þar finnast líka leirhverir, litlir sprengigígar, heitar skellur, vatnshverir, og heitar og volgar lindir og lækir sem sitra niður hallann. Grændalur er eitt af stærstu ósnortnu hvera- og laugasvæðum landsins í nánd við byggð. Gróskan er mikil og í dalnum vaxa nokkrar sjaldgæfar plöntutegundir, sem hér á landi finnast aðeins við jarðhita. Lífríki hveranna er talið einstaklega fjölbreytt. 

Grændalur-4

Náttúrufræðistofnun Íslands og Umhverfisstofnun hafa lagt til að Grændalur verði friðlýstur. Auðvelt er að komast að Grændal með því að aka í gegnum Hveragerði og áfram til norðurs þar til vegurinn endar við bílastæðið á bökkum Reykjadalsár.
Orkufyrirtæki hafa sóst eftir að virkja í Grændal. Árið 2001 lagðist Skipulagsstofnun gegn áformum Sunnlenskrar orku um rannsóknaborun í botni Grændals og vegagerð um 3 km leið inn eftir dalnum. 

Skipulagsstofnun féllst á borun rannsóknarholu í mynni dalsins með einu skilyrði. Fyrirtækið kærði úrskurðinn til umhverfisráðherra sem felldi hann úr gildi.
Grændalur-5Ráðherra samþykkti borstað norðan dalsins og veg að honum úr norðri frá línuvegi Búrfellslínu en féllst ekki á meginkröfu Sunnlenskrar orku um borstað og veg inn í dalnum sjálfum. Til fróðleiks má geta þess að í mati á umhverfisáhrifum um niðurstöðum frumathugunar og úrskurð skipulagsstjóra ríkisins um borun rannsóknarholu í Grændal, lagningu vegar o.fl. árið 2000 er fjallað um menningarminjar, en engra getið. Einungis að fulltrúi Þjóðminjasafnsins muni fara um svæðið þegar tækifæri gefst. Gefur þessi afstaða og ákvarðanataka án nauðsynlegra upplýsinga hugsunarleysi hlutaðeigandi aðila yfirdrifið til kynna.
Grændalur-6Grændalur sem er næst ósnortinn lokast til norðurs og er Ölkelduháls norðvestan hans. Dalirnir eru hluti af eldstöð sem kennd er við Hengil og nær eldstöðin frá Hveragerði til Nesjavalla, vestur fyrir Hengil og suður í Hverahlíð. Landslag svæðisins einkennist af jarðhita og er þar fjöldi hvera og lauga, berggangar, brot og framhlaup. Á svæðinu eru góðar opnur sem eru mikilvægar til rannsókna og fræðslu. Einkennandi eru lækjarsitrur sem seitla niður hlíðar dalsins. Þær eru sérstæðar á landsvísu enda hafa þær mikið að segja til um lífríki hveranna.
Í fyrrgreindu mati á umhverfisáhrifum og úrskurði 
Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum fundust ekki sýnilegar fornleifar við athugun í Grændal.
Í athugasemd Björns Pálssonar ofl. er vísað í heimildir og bent á að samkvæmt þeim hafa verið hjáleiga á flötunum framan við Þrengslin og sauðhús vestan Grændalsár, sennilega nærri áætlaðri vegleið. Innan Þrengsla séu ýmis örnefni er vitna um slægnanot og þar séu einnig örnefnin Nóngiljalækur og Húsmúli sem kunni að benda á hvar bær var í dalnum, sem nefndur er í örnefnaskrá. Þá er einnig bent á að leita hefði átt ummerkja um heybandsgötur sem sjást í Þrengslunum. Hlaðið aðhald sé við Grændalsá, við áætlað vatnstökusvæði, en það hafi ekki verið kannað. Einnig kemur
fram að fundist hafi tóttir fyrir botni dalsins.
Í þessari FERLIRsferð, sem var sú fyrsta og alls ekki sú síðasta, í Grændal, fundust grónar tóftir á a.m.k. þremur stöðum ofarlega í dalnum. Greinilegt er að slægjulönd hafa þar verið mikil fyrrum og fólk hefur hafst þar við hluta af sumri. Gerði bendir til þess að hestar hafi verið geymdir þar og húsasamstæður gefa til kynna tímabundna viðveru fólks.
Grændalur-7FERLIR er hins vegar ekki í vinnu hjá þjóðminjavörslu þessa lands, sem getur bara unnið sína vinnu eins og ætlast er til reglum samkvæmt.
Heybandsgöturnar, sem Björn Pálsson, minnist á, sjást vel í dalnum beggja vegna árinnar. Af þeim má ráða hvar mannvistarleifar megi leita í efstverðum Grændal.
Grændalur er í fáum orðum sagt stórkostlegt útivistarsvæði. Náttúrufegurðin í nágrenni þéttbýlis er óvíða meiri hér á landi. Hverasvæðin í dalnum gefa tilefni til að fara varlega, en ef götum er fylgt ætti hættan að vera sáralítil. Litadýrðin er stórbrotin og veðursældin í ofanverðum grösugum dalnum er einstök. Þaðan er stutt upp í Dalaskarð, leið yfir í ofanverðan Reykjadal. Slægjulönd voru í ofanverðum Grændal. Umbreytingar hafa orðið víða í dalnum. Bera kulnuð og ný jarðhitasvæði þess glögg merki. Í honum miðjum, að vestanverðu, þar sem áður var gróin Bóndabrekkan, er nú hverasvæði er varð nýlega virkt í kjölfar jarðskjálfta á Suðurlandi.
Ef skynsemi ræður ríkjum ætti að taka Hveragerðisdalina frá til útivistar og ferðamennsku. Verðmætin til slíkrar framtíðar versus tímabundin orkunýting með allri þeirri röskun er henni fylgir eru án efa margföld.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Grændalur

Grændalur.

 

Þorlákshöfn

 „Þorlákshöfn er kennd við Þorlák biskup helga.  Sögn er, að Þorlákur biskup hafi stigið þar á land, er hann kom frá biskupsvígslu 1178, af því sé nafnið komið.  Hálfdán Jónsson lögréttumaður á Reykjum í Ölfusi ritaði þetta um Þorlákshöfn:
Thorlakshofn-215Þorlákshöfn hefir sitt nafn af Þorláki biskupi Þórhallssyni hinum helga í Skálholti, er þar meinast fyrst hafi á land gengið eftir sína biskupslegu vígslu.  Þar heitir og enn nú að framanverðu við bæinn Þorláksvör, Þorlákssker og Þorlákshóll, þar túnið er hæst.  Í þessari veiðistöðu ganga árlega um vertíðartímann frá kyndilmessu og í 14 vikur þar eftir yfir fjörutíu skip stór og smá; mörg þeirra heyra til biskupsstólnum í Skálholti.
Önnur sögn er, að eigandi jarðarinnar hafi í sjávarháska heitið á Þorlák sér til liðsinnis og svo gefið Skálholti jörðina. Talið er að áður hafi hún heitið Elliðahöfn.  Það er staðfest með dómi 1774.  En samkvæmt dómnum mun höfnin hafa heitið  Elliðahöfn í fyrstu, eða eftir að hún var mönnum byggð, og máski fram yfir lát Þorláks biskups helga 1193. – Næstum sex öldum síðar er enn fólk í Ölfusi og Flóa, sem kannast viðhið forna heiti Elliðahöfn.
Thorlakshofn-211Þorlákshöfn var að fornu fari ein af hinum mestu hlunnindajörðun Árnessýslu. Í jarðabók Árna Magnússonar Páls Vídalíns 1708 segir m.a.: “Rekavon er hér góð af viðum og hvölum á Þorlákshafnarskeiði”. Þá var þar sölvatekja mikil, er sveitamenn fyrr á tímum sóttu þangað, stundum um langa leið. Gamlar sagnir herma, að á hallæristímum, td. Eftir móðuharðindin, hafi það gerst, að Skagfirðingar hafi komið suður yfir fjöll til sölvakaupa í Þorlákshöfn. Sölin í Þorlákshöfn voru talin mikið góð, jafnvel betri en annars staðar austanfjalls. Mikið að Þorlákshafnarsölvunum var flutt í sjálft staðarbúið í Skálholti. Þar voru þau sem annars staðar notuð til matar og manneldis.
Thorlakshofn-212Trjárekinn var löngum mikill í Þorlákshöfn. Svo lengi, sem biskupsstóllinn átti jörðina, má sjá það af heimildum frá 16., 17. og 18. öld, hve viðarrekinn var oft feikimikill og löngum fluttur upp að Skálholti. Þar var hann notaður til húsagerðar, viðhalds húsa og búsmuna og annarra smíða. Einnig var rekaviðurinn oft seldur sveitamönnum, þegar biskupsstóllinn áleit sig aflögufæran þeim nytjagögnum.
Það voru lítil skilyrði til búsetu fyrir sjómennina í Þorlákshöfn. Túnið sjálft og suður af því, svo nefnt Þorlákshafnarnes var eina gróna landið um langan aldur og höfðu heimabændur það fyrir búpening sinn. Utan þess svæðis og ofan við það var næsta nágrennið mestmegnis foksandur með melgrastoppum, klappir og hraun.
Thorlakshofn-213Það voru því aðrar ástæður en landbúskapur, sem lágu til þess, að sókn sjómanna til Þorlákshafnar var meiri en annarra verstöða. Ástæðurnar voru einkum tvær, önnur var sú að lendingarnar voru taldar þar betri en alls staðar annars staðar á nærliggjandi svæðum.  Var því oftar mögulegt að komast til róðra á næstu fiskimið.  Þar af leiðandi urðu þar að jafnaði betri hluti en í öðrum verstöðvum austan fjalls, enda segir í Jarðabók Árna og Páls 1708, að þar sé “verstaða merkilega góð”. Hin ástæðan var sú, að þar var langöruggasta landtakan og hættuminnst mönnum, skipum og afla.  Stundum kom það fyrir að með öllu var ólendandi við Loftstaðasand, Stokkseyri og Eyrarbakka, svo að menn urðu frá að hverfa og var þá oft eina lífsvonin að leita til Þorlákshafnar. Margar sögur eru til af því að opnu skipin austan Ölfusár leituðu til Þorlákshafnar, þegar ólendandi var í heimaverstöðvunum og náðu á slysalaust landi í Þorlákshöfn. Var hún í slíkum tilfellum stundum nefnd þrautalending eða “lífhöfn” hinum sjóhröktu mönnum.“

Heimild:
-Saga Þorlákshafnar.
-olfus.is
-ismennt.is/not/siggud/heimabaer/ljod.htm

Þorlákshöfn

Þorlákshöfn.