Tag Archive for: Ölfus

Kistufell
Fregnir höfðu borist af a.m.k. tveimur álitlegum og áður ómeðvituðum götum í Kistu í Brennisteinsfjöllum.
Stefnan var því tekin síðdegis upp úr Fagradal, út (austur) með hraunbrúninni ofan hans og inn á slétt helluhraun Eldborgar. Kistan blasti við í langri fjarlægð, mitt á milli Kistufells í norðri og Eldborgar í suðri. Þátttakendur voru léttbyrgðir, enda farið hratt yfir. Þarna hefðu reiðhjól komið sér vel til að flýta för því hraunhellan var næsta slétt alla leið upp að fjallsrótum Kistu.
Síðdegissólin var byrjuð að gylla fjöllin, sem færðust óðfluga nær. Þessi nálgun Brennisteinsfjalla er ein sú tilkomumesta; fallegt útsýni með rauðleitum eldborgum nánast alla leiðina, ólík hraunsvæði á báðar hendur, „svartur“ helluhraunsdregill Kistuhrauns fyrir fótum undirvert og heiðblár himininn ofanvert. Brennisteinsfjallasvæðið hefur hingað til ekki verið aflögufært með vatn, en á þessari leið eru vatnsstæðin í grónum hraunbollum allnokkur.
Brennisteinsfjöllin eru með áhugaverðari útivistarsvæðum landsins. Sem dæmi um áhugaleysið, sem þeim hefur verið sýnd, má benda á kort af svæðinu, en á þeim virðast fjöllin vera eyðimörk. Fjölbreytni jarðmyndana, gróðurbreytingar og formfegurð náttúrunnar eru þó óvíða meiri en einmitt þarna. Þá hefur jafnan verið haldið fram að Brennisteinsfjöll væru erfið yfirferðar vegna vatnsskorts, en það er nú öðru nær. Auðvelt er að nálgast vatn í fjöllunum, hvort sem um er að ræða ofan jarðar eða neðan.
Í þessari ferð uppgötvuðust m.a. tvær rásir með nokkrum jarðföllum, önnur nálægt 3 km löng úr vestari Kistugígnum og hin til hliðar við meginrás Kistufells hrauntraðarinnar. Reyndar eru hrauntraðir Kistufellsgígsins tvær. Sú vestari er vel gróin, en stutt, en sú austari er mikilfengleg eftir að hún opnast á hraunsléttunni norðvestan fellsins. Af stærðinni að dæma má ljóst vera að þarna hafi farið um mikill hraunmassi í fljótandi formi. En meira um það síðar.
Auk þessa uppgötvuðust nokkur op á mismunandi stórum hellum. Allt var þetta skráð samviskusamlega og fært í „hellaskrána“, sem nú telur rúmlega 400 hella á Reykjanesskaganum.
Eftir þessa ferð í Brennisteinsfjöll er ljóst að fjallgarðurinn beggja vegna er líkur götóttum osti. Ef vel er gáð má finna op niður í rásir hvar sem stigið er niður. Stærstar eru rásirnar norðvestan Kistufells, en þar eru hellarnir líka stystir, en umfangsmiklir. Lengstar eru rásirnar úr vestanverðum Kistugígnum, eða um 3 km eins og áður sagði. Rásin er hins vegar á svæði, sem hvað „afskekktast“ er í Brennisteinsfjöllum. Hliðarrásin í meginrás Kistufellsgígs er geysistór, en ókönnuð. Vatn er á gólfi hennar fremst svo vaða þarf inn í hana. Engin op er að sjá á henni norðan meginopsins.
Skemmtilegasta atvikið, og það er sannfærði leiðangursmenn um að þarna hefðu verið menn fyrrum, var innan við eitt af stærstu opum Kistuhraunshellanna (3 km). Undir hellisveggnum var rautt bitabox, bambusstafur og nokkrar stuttar fjalir. Þegar bitaboxið var opnað komu í ljós nokkrir litlir timburstafir, sérhver merktur með tölustöfum sem og tveir tússpennar (sjá mynd). Líklega hafa einhverjir verið að merkja jarðföllin í rásinni og annaðhvort gleymt kassanum og öðru, sem þarna var, eða ákveðið að geyma það þarna. Fróðlegt væri að fá upplýsingar um tilganginn og annað er laut að framkvæmdinni. Við boxið var lítil þrýhyrnd seglveifa. Skammt ofar í rásinni var hið gerðalegasta vatnsstæði.
 Rásinni var fylgt upp hraunið, alla leið að rótum Kistuhrauns. Á henni eru fjölmörg op og víða hrun í rásum svo ekki er hægt að tala um samfelldan helli frá fyrsta jarðfalli til upphafsins, en rásin er í heildina a.m.k. 3 km sem fyrr er á um kveðið.
Þegar upp í vestanverða Kistu var komið var punktur tekinn á Snjólf. Fyrst var þó talin ástæða til að koma við í eldborginni norðan undir hlíðum Háborgarinnar (þeirrar er trjónir hæst), austan Eldborgar í Brennisteinsfjöllum, sem lætur minna fyrir sér fara, en hefur gefið hvað mest fóður af sér.
Frá brún eldborgar sést vel til Vestmannaeyja og Eyjafellsjökuls í austri og Hálsanna (Sveifluháls (Austurháls) og Núpshlíðarháls (Vesturháls) í vestri. Í raun má segja að þarna sé eitt stórbrotnasta útsýni sem hugsast getur (í góðu skyggni).
Þá var kíkt á og niður í Lýðveldishelli. Rásin ofanverð er bæði heilleg og auðvel uppgöngu. Í heild er hellirinn um 200 metrar. Skammt austan við opið er annað op á annarri samhliða rás. Hún var ekki skoðuð að þessu sinni, heldur var stefnan tekin á Snjólf. Opið er þarna skammt norðar. Það lætur lítið yfir sér, er bæði lágt og lítið. En þegar farið er undir hraunbrúnina að sunnanverðu og vent til austurs koma í ljós fallegar rásir, bæði til austurs og norðvesturs. Dropsteinar eru á gólfum, einkum í vestlægari rásinni. Einn er t.a.m. ca. 40cm hár og nokkrir aðrir standa þar þétt við hann. Dropsteinshellar eru sjaldgæfir í Brennisteinsfjöllum og því er þessi litli, en netti, hellir kærkominn – þar sem hann er. Hraunstrá eru í loftum.
Leitað var að tveimur opum í Kistu, sem spurnir höfðu borist af. Annað reyndist nánast efsti hlutinn af fyrrgreindri 3 km rás úr vestari hluta Kistu og hitt reyndist vera nánast efsti hluti af rás úr austari hluta Kistu. Hið síðarnefnda var op niður í stóra rás, en stutta (vegna hruns). Rásinni var fylgt spölkorn til norðvesturs og má telja nokkur lítil op á henni. Hún er þó í heildina fremur stutt (á Brennisteinsfjallamælikvarða).

Þegar rás var rakin upp til rótar vestari Kistugígs komu í ljós nokkur op. Eitt af þeim efri var sérstaklega áhugavert. Greinilegt var að enginn hafði farið þangað inn áður. Einstaklega fagurrauðir separ voru í loftum og rásin reyndist öll hin rauðasta. Þessi hluti var nefndur „Fagurrauður“. Hann er skammt neðan við KIS-04, en ekki er samgangur þarna á milli. Fagurrauður gæti því verð rás til hliðar við KIS-04. Þegar sá hellir var skoðaður komu í ljós einir tilkomumestu „hraunsveppir“ er um getur.
Stefnan var tekin á Kistufellshella. Til að komast þangað var að fara yfir norðaustanvert Kistuhraunið og síðan yfir vestari hrauntröð Kistufellsgígsins. Hún er vel gróin. Kistufellshellarnir eru í geysistórum jarðföllum, sem þó mynda hvergi ákveðna heild. Um er að ræða grágrýtishella, stóra, en án sérstakra myndana. Mikið hrun er í mörgum þeirra. Áhugaverðastur af þeim er Jökulgeimur, íshellirinn, en ekki var farið niður í hann að þessu sinni. Sennilega er myndun hans komin af því að opið snýr mót norðri svo sólin nær ekki að skína inn um það og verma innvolsið. Snjóskafl var enn við opið – og það í júlí.
Leitað var tveggja opa á sléttri hraunhellu skammt frá austari hrauntröð Kistufellsgígsins. Þessi op, tveggja ferfaðma að stærð með ca. 15-20 metra niðurhali, fundust í einni FERLIRsferðinni fyrir nokkrum árum (fyrir tíma GPS-tækjanotkunar), en þrátt fyrir leit á líklegum stöðum endurfundust þau ekki að þessu sinni.
Hrauntröðinni var fylgt til vesturs. Í fyrstu er hún lítil og gróin í botninn, en skyndilega stækkar hún til muna. Austan stækkunarinnar fundust nokkur op á myndarlegum rásum. Ein þeirra var sérstaklega áhugaverð. Þar var tekinn GPS-punktur. Hliðarrás opnast og innan við opið er stór og mikil rás. Vatn er á gólfi svo henni var ekki fylgt inn eftir að þessu sinni. En það mun verða gert innan ekki langs tíma.
Í BrennisteinsfjöllumLjóst er að hliðarrásinar hafa loks runnið saman þar sem megin hrauntröðin opnast. Þar hefur farið um gríðarlegur hraunkvikumassi. Hraunbrú er yfir tröðina nálægt þar sem hún opnast og nokkur hellisop má sjá við brúarskil neðar. Forvitnilegt er að horfa eftir endaþarmi rásarinnar þar sem Kistuhraunið (sem er nýrra) hefur náð að renna að henni og færa hluta þess undir sig.
Þokuslæðingur hafði færst yfir Fjöllin og gerði hið smæsta dulúðlegt við hina minnstu ásýnd. Haldið var niður eftir hinu slétta Kistuhrauni uns komi var að brún Fagradals. Fótur var þræddur niður mosavaxna suðurhlíða hans og gamalli götu síðan fylgt að upphafsstap.
Á göngunni mátti greina grópaðan götustubb á einum stað í Kistuhrauni. Gæti þar verið um að ræða hina gömlu leið Stakkavíkurbræðra með rjúpnafeng sinn til sölu í Hafnarfirði er Þorkell og Eggert Kristmundssynir lýstu á sínum tíma. Þá var farið upp með Eldborginni, er blasir við, og niður Fagradalsmúla. Þessi götustubbur er einmitt á þeirri leið.
Segja má með góðri samvisku að enginn hafi í raun komið í Brennisteinsfjöll hafi hann ekki farið um Fagradal og Kistuhraun.
Gangan tók 6 klst og 60 mín. Meðalhraðinn var 3.2, en á göngu 3.9. Samtals voru gengnir 21.5 km, sem verður að teljast nokkuð gott á 7 klst. Frábært veður – og birtan einstök.

Hellir

Dyravegur

Dyravegur var genginn frá Lyklafelli um Brekkuna, Dyradal og Sporhellu að Nesjavöllum, 18.6 km. Alls er vegurinn frá Elliðakoti að Nesjavöllum um 26 km ef farið er norður fyrir Lyklafell, en um 27 km ef farið er sunnan við Lyklafell. 

Dyravegur

Dyravegur lá að sjálfsögðu áfram til austurs. Að öllum um líkindum var hér um að ræða fyrstu ferð núlifandi Íslendinga um þessa fornu þjóðleið á þessum langa kafla. Hafa ber í huga að vegurinn er alls ekki auðrakinn þrátt fyrir mikla umferð fyrrum. Líklegt má telja að leiðin hafi nánast einungis verið farin að sumarlagi því rekja hefur þurft hana frá upphafi til enda eftir legu hennar. Einungis nokkrar vörður og vörðubrot eru á leiðinni, auk þess sem nokkur gatnamót, ef grannt er skoðað. Eitt vörðubrotið er t.d. við lækjarfarveg austan Lyklafells. Vörður eru á aflöngu holti miðja vegu og síðan er varða á öxl er nálgast tekur Hengilinn vestan við Dyradal. Vatnsstæði er nánast á miðri leið og má sjá hleðslur í því. Leifar af tóft eru þar hjá. Alls staðar er gatan þó vel greinileg, en mikilvægt er að hafa augun opin fyrir óvæntum stefnubreytingum. Ferðin var notuð til að hnitsetja götuna.
Austan Lyklafells greinast Dyravegur og Hellisheiðarvegur með glöggum skilum. Sá síðanefndi liggur síðan áfram til austurs upp með Múla, Kolviðarhóli og um Hellisskarð.
DyravegurDyravegur liggur frá Elliðakoti norðan við Nátthagavatn, austur yfir Mosfellsheiði norðan Lyklafells, um Dyradal og Rauðuflög og komið niður hjá Nesjavöllum. Þetta var aðalvegur þeirra sem bjuggu í uppsveitum Árnessýslu.
Í MBL 1991 er fjallað um „Dyraveginn“ undir fyrirsögninni „Á leið um Dyraveg“.
„Allt til þessa dags hefur þeim leiðum, sem forfeður okkar, mann fram af manni, fetuðu eftir í aldaraðir, verið lítill sómi sýndur. Við leggjum mikla áherslu á söfnun gamalla muna og varðveislu fornra bygginga og er það vel, en er það nokkur fjarstæða að viðhalda á sama hátt þessum gömlu götum, sem nú víða eru horfnar með öllu, en bera á sinn hátt þögult vitni um þá hörðu baráttu, sem þjóðin háði fyrir tilveru sinni? Í þeim flokki er Dyravegur. Frá fornu fari lá leiðin frá Þingvöllum suður með vatninu að vestan til Nesjavalla. 

Dyravegur

Þeir sem bjuggu austan við Sogið komu einnig að Nesjavöllum, eftir að hafa sundlagt hestana og farið á ferju yfir fljótið fyrir neðan Dráttarhlíð, þar sem Steingrímsstöð er nú. Þessa leið fóru Skálholtsmenn fyrrum, þegar þeir fluttu vistir að og frá biskupsstólnum, en sá staður þurfti mikils við, þegar umsvifin þar voru sem mest. Enda hlaut þessi leið nafnið Skálholts-mannavegur. Þegar þessar tvær leiðir höfðu sameinast á Nesjavöllum, lá hún vestur yfir Dyrafjöllin, Varðaþvert yfir Sporhelludal og Dyradal. Við Húsmúla greindist leiðin aftur. Þeir sem ætluðu til Reykjavíkur og Hafnarfjarðar tóku stefnuna á Lyklafellið, en þeir sem ætluðu í Selvog eða á sunnanvert Reykjanes héldu suður með Húsmúlanum og stefndu á Lágaskarð austan við Stórameitil. Í þessari ferð skulum við kynnast Dyraveginum nokkru nánar.
Við yfirgefum bílinn sunnan undir Húsmúlanum og göngum eftir Bolavöllum, sem eru að vestan við hann. Þar komum við fljótlega á grasivaxna götutroðninga, sýnileg merki þeirrar umferðar sem hér var fyrr á tímum. Troðningarnir eru skýrir og auðvelt að fylgja þeim, sem við gerum að sjálfsögðu. Brátt komum við inn í Engidal. Eftir honum fellur Engidalsáin, sem myndast úr smá lænum og uppsprettum er koma úr vesturhlíðum Hengilsins. Lengsta kvísl hennar kemur frá Marardal. Þangað liggur götuslóði, en annars er gamla gatan vestan við Marardalinn, en við tökum á okkur krók og heimsækjum dalinn. Það er þess virði.
DyravegurMarardalur er sigdæld, neðanundir Skeggja, en svo nefnist hæsti tindur Hengilsins. Brattar hlíðar liggja að honum á alla vegu, botn hans er rennisléttur og um grundirnar liðast fagurtær lækur. Smá skarð í dalsbrúnina er í suðvesturhlið hans. Um það rennur lækurinn. Skarðið er svo mjótt, að menn verða að ganga þar inn í einfaldri röð. Merki um grjótgarðshleðslu er þar, því áður fyrr voru naut og önnur geldneyti höfð þar að sumarlagi og lokuð þar inni með þessum grjótgarði. Við höldum inn eftir dalnum og fikrum okkur svo upp bratta brekkuna og upp á norðurbrún hans. Þar blasir við allbreitt vik eða dalskvompa sem gengur inn í fjallið. Þar komum við aftur á gömlu götuna og henni fylgjum við eftir það.
DyravegurÚr þessu hækkar gatan og liggur upp brekkurnar til austurs og upp á vesturbrún Dyradalsins. Hann er ekki ósvipaður Marardal, hlíðabrattur og rennsléttur í botninn. Hér er gatan skýr og glögg, sem einkum skal þakka sauðkindinni, sem ræður hér ríkjum í sumarhögunum. Gatan liggur þvert yfir dalinn og stefnir í skarð, milli tveggja kletta, í austurhlið hans. Þar komum við að hinum nafnkenndu dyrum, sem þessi leið er kennd við. Smálækur fellur um um Dyrnar, sem eru ekki nema ca. 2 m á breidd. 

Líklega á hann einhvern þátt í myndun Dyranna, en annars eru öll fjöll hér um slóðir mynduð úr móbergi, sem vatn og vindar vinna á jafnt og þétt.

VörðuleifarTafsamt hefur verið að koma hestalestunum í gegn um dyrnar. Menn hafa orðið að taka klyfjarnar ofan, teyma hestana síðan í gegn um skarðið og láta svo aftur upp. En um það var ekki að fást, þetta var hluti af striti dagsins. Austan við Dyrnar eru einir þrír smádalir með bröttum hálsum á milli. Yfir þá liggur leiðin og hefur margur klyfjahesturinn trúlega svitnað ærlega á þeirri leið. En er þeir eru að baki opnast skyndilega nýtt útsýni. Þar blasa Nesjavellir við augum, Þingvallavatn og fjallahringurinn í norðri og austri. En sunnar bera hverareykir Hengilssvæðisins við loft.
Lesandi góður. Hér hefur verið reynt að lýsa undurfagurri og fjölbreyttri gönguleið, en sjón er sögu ríkari. Ef þú hefur í hyggju að ganga Dyraveginn á góðum degi, skalt þú ætla þér heilan dag til þess, svo marga skoðunarverða og fjölbreytta staði er um að velja. En með eðlilegum gönguhraða og skynsamlegum hvíldum má ganga götuna á 5-6 klst. hið minnsta.“

Dyravegur

Hér var leið lýst vestan Hengilsins inn á Dyraveginn um Dyrafjöllin. Vegurinn á að vera stikaður frá Dyradal um Sporhellu að Nesjavöllum, en hann víða á leiðinni er farið út af gömlu götunni. Má t.d. nefna er komið er upp úr Dyrunum er þar tilbúinn stígur. Ef grannt er skoðað liggur gamla gatan ofar og beygir síðan til vinstri áleiðis að Sporhellunni. Þar hefur skriða fallið yfir götuna, en auðveldlega hefði verið hægt að bæta um betur. Áður en komið er að Sporhellunni millum Sporhelludala hefur verið lagður nýr stígur þar upp í stað þess að fylgja gömlu götunni til hægri. Ofar greinist gatan og hefur styttri hlutinn verið stikaður. Sá lengri er hins vegar miklu mun fallegri. Þegar hallar niður að Nesjavöllum leiðbeina stikur vegfarendum svo til beint niður hlíðina, en að sjálfsögðu fór hún þar í sneiðinga fyrrum.
DyradalurVestar, áður en komið er niður í Dyradal, er gamla gatan einnig sniðgengin, því hún er þar greinileg suðvestast í dalnum, en Reykjavegurinn hefur hins vegar verið stikuð sunnan hennar – að óþörfu.
Í þessari ferð var Dyravegurinn genginn „nánast sanni“ frá Lyklafelli og ekki alltaf í förum stikaðrar leiðar um Dyrafjöllin.

Hengill

Hengilssvæðið – kort.

Í tímaritinu Mána árið 1880 segir m.a. um austurvegina: „„Yfir Reykjanesfjallgarðinn liggja 7 alfaravegir, nyrðstur er Kaldadalsvegur milli fingvallasveitar og Kalmannstungu, þá Mosfellsheiði milli Kárastaða í Þingvallasveit og Mýdals [Miðdals] í Mosfellssveit; þá Dyravegur suður um Henglafjöll milli Grímsness og Mosfellssveitar, þá Hellisheiði frá Reykjum i Ölvesi að Lækjarbotni í Mosfellssveit, þá Lágaskarð frá Hrauni í Ölvesi að Lækjarbotni, þá Ólafsskarð frá Breiðabólstað í Ölvesi að Lækjarbotni, þá Grindaskörð milli Ölvess og Selvogs að austan og Kaldársels að sunnan, þá Sandakravegur milli Krýsarvíkur og Kvíguvoga. Allir voru vegir þessir yfir Reykjanesfjallgarð mjög farnir á vetur.“
Til gamans má geta þess að FERLIR reyndi að vekja athygli OR á möguleika þess að merkja og stika þessa leið, annars vegar milli Nesjavalla að Lyklafelli og hins vegar milli Kolviðarhóls að Elliðakoti, en áhuginn var enginn.
Frábært veður. Gangan tók 6 klst og 6 mín.

Heimild:
-Mbl. 25. júlí 1981.
-Máni , 4.-5. tölublað – laugardagur, 31. janúar 1880 , bls. 33-34.

Dyravegur

Stakkavíkurvegur

Ætlunin var að ganga um Selvogsgötu og Hlíðarveg að Stakkavíkurvegi undir Vesturhnúkum. Vegurinn var síðan fetaður um Ása (Svörtu-Ása og Urðarás), niður Dýjabrekkur að Stakkavíkurseli ofan við Selbrekkur. Frá því var selstígurinn genginn um Einstigið niður að Stakkavík.

Stakkavikurvegur-203

Stakkavíkurvegurinn nær frá Stakkavík í Selvogi langleiðina upp undir Kóngsfell í Grindarsköðrum. Þar mætir vegurinn þvervegi; annars vegar að Kerlingarskarði í norðvestri og hins vegar að Grindaskörðum í norðaustri. Þaðan niður eftir liggur einnig Hlíðarvegurinn, sem flest göngufólk fer þegar það telur sig vera að ganga Selvogsgötuna. Leiðin sú var vörðuð um 1892 er ætlunin var að leggja vagnfæran veg frá Hafnarfirði í Selvog. Hugmyndin var að vegagerðin myndi nýtast brennisteins-vinnslunni neðan Námuhvams í Brennisteinsfjöllum. Gatan var aldrei lögð, einungis vörðurnar voru hlaðnar. Neðsti (syðsti) hluti Stakkavíkurvegar var jafnframt Selstígurinn milli Stakkavíkursels og bæjar.
Ólafur Þorvaldsson lýsir í Árbók Hins íslenska fornleifafélags Stakkavíkurveginum á eftirfarandi hátt: „Leiðin milli Hafnarfjarðar og Selvogshrepps í Árnessýslu gekk venjulega undir nafninu Grindaskarða- eða Kerlingarskarðsvegur. Leið þessi mun vera jafngömul fyrstu byggð í Selvogi, enda aðallega af Selvogsmönnum farin, þar eð lega hreppsins er þannig, að fáir aðrir áttu þar leið um. Að vísu gat það hent, að Selvogsmenn færu um Krýsuvík, varla þó nema lausríðandi, og þá annaðhvort af því, að snjór var svo mikill á fjallinu, að ófært var talið, eða þeir áttu sérstakt erindi við Krýsvíkinga.
Vegur sá, sem nú um langt árabil hefur verið farinn þarna yfir fjallið, liggur um Kerlingarskarð. Annar slóði er nokkru norðar og var nefndur Grindaskarðavegur. Fyrir löngu mun vera hætt að fara þann veg nema helzt lausgangandi menn að vetri til, ef harðfenni var mikið í brún Kerlingarskarðs, því að þar eru hærri og skarpari brúnir en á nyrðri slóðinni.

Stakkavikurvegur-6

Þegar upp á brún er komið, eru þrír hnjúkar til hægri handar, skammt frá vegi, kúlumyndaðir og allir svipaðir að stærð. Hnjúkar þessir eru á uppdrætti herforingjaráðsins nefndir Grindaskarðahnjúkar, aðrir nefna þá Bolla einu nafni, sennilega eftir lagi bolla á hvolfi. Nokkurn spöl norðan gamla Grindaskarðavegar er allstór hnjúkur, sem á korti frá 1908 er nefndur Kóngsfell, en á korti frá 1932 Bolli.“
Efst í Kerlingarskarði er rétt að rifja svolítið upp jarðfræðina: „Við Grindaskörð eru gígaraðir á sprungubelti og hefur þar verið mikil eldvirkni. Meðal þessara gíga eru Tvíbollar, en það eru gígir tveir, sem gnæfa á norðurbrún fjallsins og hef ég áður fjallað um þá (Jón Jónsson 1977a). Eins og nafnið bendir til eru gígir þessir samvaxnir og sést það vel neðan úr byggð. Aðalgígurinn er 4 0 – 60 m hár en minni gígurinn tæplega þriðjungur þess.
Gígirnir eru hlaðnir úr gjalli og hraunkleprum og hraunstraumurinn hefur fallið norður og mest um undirgöng, sem enn má sjá. Lengst norður nær hraun þetta að Helgafelli og hefur runnið í örþunnum straumi vestur með því að sunnan en hverfur loks undir Gvendarselshraun við suðvesturhornið á fellinu.

Stakkavikurvegur-203

Rétt þar hjá hefur leysingavatn grafið fornan jarðveg undan hrauninu svo það hefur á kafla fallið niður. Kemur við það í ljós jarðvegslag, sem er rösklega 1,2 m þykkt og í því m. a. eitt ljóst öskulag, sem talið er að sé H3 (frá Heklu fyrir 2.800 árum), en næst hrauninu eru kolaðar gróðurleifar, sem aldursákvarðaðar hafa verið og reynst 1075±60 C’4 ár, (Jón Jónsson 1977a) en það þýðir að hraunið gæti hafa runnið árið 875 og er því frá sögulegum tíma. Jafnframt fannst landnámslagið undir þessu hrauni, aðeins ofan við áðurnefnt niðurfall. Þrjú hraun hafa síðar runnið út á þetta hraun og eru því yngri, en þau eru Rjúpnadyngnahraun, Kóngsfellshraun Stakkavikurvegur-202og Gvendarselshraun.
Á Draugahlíðum er hár og brattur gígur, sem ég í dagbókum mínum hef nefnt Gráfeld. Hljóti það nafn viðurkenningu, skal hraun þetta Gráfeldshraun heita, en fram til þess nota ég hitt nafnið enda hef ég áður notað það, [þ.e. Selvogshraun] (Jón Jónsson 1978). Þessi gígur er á sprungu og smágígir eru vestan við hann. Auðsætt er að hann hefur þegar í upphafi tekið völdin og sent hraunflóð mikið niður í dalinn, þar sem fleiri hraun voru þegar fyrir og fylla hann nú fjalla milli. Meðal þeirra er áðurnefnt Breiðdalshraun, sem hverfur inn undir þetta hraun, sem þannig örugglega er yngra, enda yngst í dalnum og samkvæmt þessu frá sögulegum tíma. Annálar geta þess að hraun hafi runnið niður í Selvog 1340 og 1389 (Þorvaldur Thoroddsen 1925, bls. 188-189).
Mjög trúlegt sýnist að Selvogshraun sé frá öðru hvoru Stakkavikurvegur-204þessu gosi, en vel gætu hafa orðið enn fleiri gos í Brennisteinsfjöllum á sögulegum tíma og vafalaust hafa bæði þessi gos orðið þar, en tímasetning er óljós. Hraunið hefur fallið fram af Herdísarvíkurfjalli við Hlíðarvatn, en staðnæmst neðan við brekkurætur aðeins norðan við núverandi þjóðveg. Hraun það er fallið hefur niður í Kleifarvatn sunnanvert og Hvammahraun nefnist er mjög ungt og gæti jafnvel verið frá sögulegum tíma.

„Leiðin til Stakkavíkur og Herdísarvíkur liggur frá fyrrnefndum vörðum, suðaustur á slétt hraun, og eru smávörður með fram veginum yfir hraunið. Þegar á mitt hraunið kemur, er úfinn bruni suðvestan vegar, og er farið yfir mjóít haft af honum við suðurtagl Hvalhnjúks. Þegar austur fyrir Hvalhnjúk kemur, taka við Vestur-Ásar. Fyrst til hægri handar nokkrir gróðurlausir og dökkir hólar, Svörtu-Ásar.
Nokkru suðaustur af Stakkavikurvegur-205þeim úti við brunann er Urðarás, og er hann auðþekktur af mikilli grágrýtisurð sunnan megin. Neðarlega í Ásunum eru austan vegar grasbrekkur allstórar, og heita þær Dýjabrekkur. Þar sér enn leifar þess, að þar hefur fyrir löngu verið leitað eftir mó, en ekki mun það hafa þótt svara kostnaði. Litlu neðar eru Selbrekkur. Þar hefur, þegar það tíðkaðist almennt, verið haft í seli frá Stakkavík. Úr Selbrekkum er stutt fram á fjallsbrún. Þegar á brún kemur, hýrnar svipur útsýnisins og breytist nokkuð. Það hefur líka hýrnað yfir mörgum vegfaranda þarna, sem kemur úr svartaþoku eða vondu veðri af fjallinu, því að oft er mikill munur veðurfars uppi á fjalli og neðan fjalls. Á brúninni stingum við því við fótum og rennum augum yfir það helzta, sem við blasir.

Stakkavikurvegur-206

Fyrst skulum við líta niður fyrir fætur okkar, svo að við blátt áfram dettum ekki fram af fjallinu, svo er það snarbratt. Af brúninni blasir við hafið, svo langt sem augað eygir til austurs, suðurs og nokkuð til vesturs, og sjaldan er sjór svo kyrr hér, að ekki kögri hvítu við sanda og hleinar. Héðan sjáum við til Selvogs, og ber þar hæst á vitanum á Selvogstöngum, og kirkjunni á Strönd — Strandarkirkju. Neðan fjallsins er allstórt vatn, Hlíðarvatn. Við austurenda þess, uppi við fjallið, er jörðin Hlíð, bær Þóris haustmyrkurs, þess er nam Selvog. Fyrir nokkrum árum var Hlíð lögð undir Stakkavík, en nú eru báðar í eyði, sorgleg saga, sem gerist víða nú. Við vesturenda Hlíðarvatns er Stakkavík. Þar sem hús og tún jarðarinnar var fyrir 70—80 árum, er nú allt í vatni, og sést aðeins smáhólmi, þar sem bærinn stóð. Nú stendur bærinn í hraunjaðrinum við vatnið og má heita túnlaus.“
Lára Gísladóttir bjó ásamt manni sínum, Kristmundi Þorlákssyni, í Stakkavík. Lara Gisladottir„Hún fæddist árið 1889 í litlu hjáleigukoti sem tilheyrði eignarjörð stórbóndans í Nesi í Selvogi. Þetta kot hét Erta. Foreldrar hennar fluttust að Stakkavík sem var erfið jörð en gaf dugandi fólki mikla möguleika til fjárræktar. Þau Kristmundur giftust 1918. Hann var ættaður úr Hafnarfirði. Þau tóku þá við búinu í Stakkavík. Kristmundur var harðfengur maður og lét sér ekki allt fyrir brjósti brenna enda þótt fjöllin og hafið biðu hættunni heim þar sem hann þurfti að gæta hjarðar sinnar.
Hún Lára var heldur enginn veifiskati. Á tuttugu árum ól hún honum Kristmundi tíu börn og þurfti í eitt skipti þegar það bar að höndum að gegna sjálf nærkonu hlutverkinu. Einn drengurinn hennar, sjö ára gamall, var hjá henni og gat náð í skærin. Allt fór vel, þegar Kristmundur kom heim frá fjárgæslu brosti konan hans við honum og nærði við brjóst sitt nýfæddan son. Þetta er aðeins ein af mörgum lífsmyndum sem vitna um hetjuhug húsfreyjunnar í Stakkavík. En þrátt fyrir einangrun og margháttaða erfiðleika undi hún vel hag sínum og fannst hún eiga þar sæla daga.
En svo kom vágestur í byggðina. Mæðiveikin felldi fjárstofninn og fjölskyldan flutti að Brunnastöðum á Vatnsleysuströnd eftir að hafa búið í Stakkavík í 27 ár. Þar var Lára síðan húsfreyja í nær fjóra áratugi eða þangað til hann Kristmundur hennar kvaddi þennan heim og börnin tóku við.“ Við jörðinni tók Kjartan Sveinsson, þjóðskjalavörður.

Stakkavikurvegur-207

Hér má lesa frásögn í Tímanum 1982 um „Sprittlogann í Stakkavík“: „Fyrir um það bil hálfum öðrum áratug, eða tveim, var ég oft gestur Kjartans Sveinssonar, bónda og skjalavarðar í Stakkavík, sem er við Hlíðarvatn. Kjartan hafði þau álög á jörð sinni, kominn úr stjórnarráðinu, að hann mátti ekki hafa fé eða önnur venjuleg húsdýr, sem þarna lifðu á skreið og hrísi, og höfðu gjört um aldir. Birkikjarrið var álitið verðmætara en búvörur, sem þarna mátti framleiða.
Á hinn bóginn mátti Kjartan veiða silung í Hlíðarvatni að vild sinni og hann mátti ganga á reka. Kjartan sinnti þessum hlunnindum vel. Silungur var til matar og gnægð var af rekaviði til að kynda gisið íbúðarhúsið.

Hvalspik

Það var eitt sinn á síðsumardegi eða í byrjun vetrar, að ég fór eina ferð í Stakkavík.
Það rigndi og svört og draugaleg skýin sigldu frá hafinu inn yfir hamrana og fjöruna og regnið streymdi úr himninum og stormurinn vældi.
Nú verður kalt í Stakkavík, sagði ég, ef ekki verður þeim mun meira kynt.
– Hafðu ekki áhyggjur vinur sagði Kjartan þá glettnislega. Nú er nægur hiti í Stakkavík. Ég er með hvalspik.
Ég man nú ekki hverju ég svaraði. En var vanur þeim sérkennilega yl og ilmi er fylgir því að brenna vatnssósa eik og öðrum sætrjám. Og nú átti að brenna spiki, eða lýsi. Mér leist satt að segja ekki eins vel á þetta og rekaviðinn.
Ef til vill hefur Kjartan lesið einhverja vantrú úr augum mínum, en hann sagði: Það rak hérna hval í Stakkavikurvegur-208vor, eða vetur, og enginn hirti um hann. Ég skar spik, því hvalspik er fyrirtaks eldsneyti, skal ég segja þér. Um það hafði ég lesið í bókum Eskimóa og fleiri. Ég skar mér því í eldinn, og svo sögðum við ekki meira, en ókum hlykkjóttan, grýttan veginn og síðan troðninginn niður að Stakkavík, sem stendur á hæðarbrún, þar sem sést vel til sjávar og fyrir neðan túnið er svo Hlíðarvatn,fullt af silungi og draumum. Þegar inn var komið og búið að bera lundapottinn inn og annan farangur, líka sósur og annan mat, fór Kjartan að kveikja upp. Hann brenndi hvalspiki. Hann hafði skorið spikið í stykki sem voru á stærð við sígarettukarton, eða rúgbrauð og nú skeðu mikil undur.
Hvalspikið logaði glatt og það átti ekkert skylt við grútarlampa forníslendinga, sem gerðu þá svarta og sjónlausa. Hvalspik logar, eða brennur nefnilega með sprittloga, alveg eins og kósangas. Lyktarlaust var það með öllu og sem hitagjafi hafði það vel við suðaustan í gisnu og gömlu húsi. Þetta var dularfullt kvöld og hlýtt með afbrigðum, og vefurinn í spikinu, skammtaði eldinn. Þetta fuðraði ekki, heldur brann meö hæfilegum hraða, uns stykkið var allt brunnið, en það tók langan tíma.

Stakkavikurvegur-209

Og nú spyr ég, er hvalspik ekki hugsanlegur orkugjafi, t.d. í iðnaði eða til húshitunar á stöðum þar sem ekki finnst heitt vatn í jörðu?
Ég veit að hvalspik er notað í hvallýsi, sem síðan er notað í smjörlíki og fl. Til þess að sjóða hvallýsi þarf mikla orku, sem mun fengin með svartolíu. Ef unnt væri að selja hvalspikið sem eldsneyti til heimabrúks, myndi mikil olía sparast við lýsisgerð, og olíukyndingar til húshitunar myndu syngja sitt síðasta á mörgum stöðum.
Stakkavikurvegur-210Ég sá það einhvers staðar í fréttum nýverið, að iðnaðarríkin hefðu minnkað olíunotkun sína um 10%, sem er hreint ekki svo lítið. Þetta gjörðu þjóðirnar, með því að nýta orkuna betur og með því að nota aðra orkugjafa en olíu. Það er því mikið hugsað í þessa veru. Að vísu veit ég ekki hvort hvalspik er, eða hefur verið notað sem eldsneyti hér, nema í Stakkavík. En víst er að hvalspik er fyrirtaks eldsneyti og hitagjafi. Laust við alla mengun. Þá er ég líka minnugur þess, er ég sigldi á olíuskipum sem ungur maður, að við fluttum heilu lýsisfarmana úr hvalstöðinni í Hvalfirði, þannig að nokkrir skipsfarmar eru til staðar af hvalspiki á þessum stað og verða það, þegar búið er að koma vitinu fyrir þá, sem drepa dýr eftir greind og vitsmunum, og leggja sér til munns.“

Heimild:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, Ólafur Þorvaldsson, Grindaskarðavegur, 49. árg. 1943-1948, bls. 99-100.
-Náttúrufræðingurinn, 52. árg. 1983, Jón Jónsson, 1.-4. tbl. bls. 131-132.
-Morgunblaðið, 22. janúar 1986, bls. 44.
-Tíminn, 17. ágúst 1982, Jónas Guðmundsson, Sprittloginn í Stakkavík, bls. 8-9.

Stakkavíkuselsstígur

Stakkavíkurselsstígur.

Kistufellsgígur

Ætlunin var að leita að hyldýpum þeim er fundust og týndust aftur norðvestan Kistufells í Brennisteinsfjöllum. Opin eru skammt suðaustan við sjálfstæð eldvörp. Þau eru a.m.k. tvö, lítil umleikis, en undir sléttri hraunhellunni virtist einungis vera svart myrkrið.

Kistufell (neðst t.h.) og hrauntraðir

Gengið var upp Kerlingargil á Lönguhlíð, haldið upp rofsléttu og inn í „eldvörp“ norðvestan mikillar hrauntraðar frá Kistufellsgígnum. Þaðan reyndist vera hið ágætasta útsýni að Kistufelli og Kistufellshellunum.
Forsagan er sú að þegar FERLIRsfélagi var á gangi á þessum slóðum á óhefðbundinni leið inn að Kistufelli fyrir u.þ.b. hálfum áratug síðan kom hann að litlu opi, u.þ.b. 2 metrar í þvermál. Opið var á sléttri hraunhellu eldra hrauns milli Kistufellshraunanna, norðvestan gígsins, milli hrauntraðanna tveggja, heldur þó nær þeirri austari. Þegar hann lagðist á magann og horfði niður í myrkrið sá hann að hvorki sáust veggir né botn. Kalt loft kom upp um opið, enda snemmsumar. Skammt frá þessu opi var annað, svolítið minna, einnig á sléttu helluhrauni. Þar undir sást ekki heldur til botns. Og þar sem ferðalangurinn var einungis á leið inn að Kistufellsgígnum hafði hann þá engan sérstakan áhuga á götunum – hvorki merkti þau með vörðum né lagði staðsetninguna sérstaklega á minnið – og hélt því ferð sinni áfram. Það var ekki fyrr en seinna að ferðalagið rifjaðist upp og götin þóttu einkar athyglisverð. Sérstök ferð var síðar farin með Birni Hróarssyni, jarð- og hellafræðingi, sömu leið með það fyrir augum að endurfinna götin. Þau fundust ekki, en hins vegar fannst vænlegt op nokkru norðvestar, fullt af snjó.

Kerlingargil

Gangan upp um Kerlingargil tók um 50 mín. Um er að ræða auðvelda leið upp á Lönguhlíðar. Gengið er í urð lækjarfarvegs alveg upp í „fóðurkistuna“ efra. Ljós rák leysingarvatnsins, sem nú var löngu uppþornað, á steinunum rekja leiðina. Í þeim farvegi er grjótið fast fyrir og traust undir fót. Ef hins vegar staldrað var við miðleiðis og lagt við hlustir mátti heyra steinvölur skoppa niður hlíðarnar áleiðis að gilbotninum. Þarna voru greinilega stöðugar umhverfisbreytingar í gangi, með góðri aðstoð veðra, vatns og vinda.

Þegar upp úr gilinu var komið tók við flatlend „vatnsfóður“skál. Myndarleg varða trjónir efst á brúninni. Ástæða er til að leggja hana á minnið. Hún verður einkar hjálpleg þegar ganga þarf til baka því þá verður hún eina virkilega kennileitið og getur sparað verulegan tíma.
Hrauntröð KistufellsgígsSkálinni var fylgt upp með hamrabrúnum og síðan haldið upp fyrir þær. Þá tók við berangurslegur klapparmói. Einkennisplanta efribrúna Lönguhlíða upp að Brennisteinsfjöllum er smjörvíðirinn. Aðgengilegast er að rekja fóðurskál gilsins áfram upp á brúnirnar ofan við Urðalágar, en það nafn á tveimur grunntjörnum undir klapparholti. Ofar tekur við urðarangur. Báðar tjarnirnar voru nú þurrskroppa með vatn og þurrtíglar byrjaðir að myndast í moldarbotnum þeirra.
Hér efra tók söngur lóunnar að vekja sérstaka athygli, en þögnin hafði einkennt neðrihlutann. Rjúpnavængur, eggjaskurn og fleira gáfu til kynna hver sökudólgurinn væri. Hann lét þó ekki á sér kræla að þessu sinni.
Hrauntröðsendi KistufellsgígsinsÞá var komið að góðgætinu; hraunleifum Kistufellshrauns. Þær birtust sem útvörður sem dagað hafði upp – þvert á leiðina. Þegar meðfylgjandi loftmynd var skoðuð mátti sjá hvar mikil hrauntröð hafði komið úr Kistufellsgígnum, runnið til norðurs, en síðan beygt til norðvesturs. Á leið hans hafði tröð myndast til vesturs, en meginstraumurinn eftir sem áður fylgt meginhrauntröðinni lengra til norðvesturs. Þar við endimörk klofnaði hraunstraumurinn. Suðaustari hrauntröðin endar í myndarlegri hraunskál, gróinni líkt og tröðin í heild. 

Í norðvestari hrauntröðinni má sjá hvar endi hennar hefur aðskilist með hraunbrú eins og umhverfis og líkist hann stakri gígskál. Þarna hefur fyrrum verið minni rás á milli, en lokast.
Um 30 metrum suðaustan við austari hrauntröðina er gat í hraunið, um 10 metra djúpt og um 5 metrar í þvermál. Ekki verður komist niður í gatið nema með aðstoð kaðalstiga, kaðals eða 6 m stiga. Hægt væri að láta stigann nema við brún neðra og forfæra hann síðan niður á við. Ómögulegt er að svo komnu máli að segja til um hvað þar kann að leynast.

KistufellsgatiðHaldið var áfram yfir þennan annars meginhraunstraum Kistufellsgígsins yfir á eldra og sléttara helluhraun. Gengið var um fyrrnefnda hraunhelluna, en segja verður eins og er að þar er saman að líkja nálinni og heystaknum. Í minni ferðalangsins „gekk hann fram á opinn, án þess að sjá þau úr fjarlægð“.
Þótt svæðið sé ekki yfirþyrmandi þarf að gefa sér góðan tíma til að skoða það allt. Það verður gert enn á ný í sumar.
Þegar haldið var til baka lagðist loka skyndilega yfir svæðið. Hún lagðist þó aldrei yfir gönguleiðina. Þéttur þokuveggurinn lá með henni, svo þykkur að þegar göngustaf var stungið inn í hann, hvarf endinn sjónum. Handan veggjarins réði birtan ríkjum og framundan mátti sjá vörðuna ofan Kerlingargils. Stefnan var tekin á hana og brúnum fylgt að gilinu.
Þegar holan var borin undir Björn kom í ljós að hann hafði þegar klifrað niður í hana. „En það þarf járnkarla og verkfæri til að færa til grjót neðst í holunni til að komast inn í rásina“, að hans sögn.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Kistufellsgígur

Kistufellsgígur.

 

Herdísarvík

Siglt var um Herdísarvíkurtjörn.
Í þjóðsögunni um Krýs og Herdísi segir m.a. um tjörnina: „
Lagði þá Herd-301Krýs það á Herdísi, að allur ætur silungur skyldi hverfa úr veiðitjörn hennar, en verða aptur full af loðsilungi, sumir segja Öfugugga. En Herdís lagði það aptur á Krýs, að allur silúngur í veiðivötnum hennar skyldi verða að hornsílum. Af ummælum þeirra er það að segja, að í veiðivötnum Krýsuvíkur hefir einginn silungur feingizt, svo menn viti, nokkurn tíma síðan, en fult er þar af hornsílum, og í Herdísarvíkurtjörn hefir ekki heldur orðið silungs vart; en loðsilungar ætla menn bar bafi verið, þótt ekki sé þess getið, að neinn hafi af því bana beðið. Aptur var það einn vetur eptir þetta, er sjómenn geingu til sjávar snemma morguns frá Herdísarvík, en skemst leið er að gánga til sjávar þaðan yfir tjörnina, þegar hún liggur, að þeir fórust allir í tjörninni ofan um hestís, og segja menn þeir hafi verið 24 að tölu.“
Herd-302Í Lesbók Morgunblaðsins 1951 segir m.a. um silung í Herdísarvíkurtjörn: „Árið 1861 var silungur fluttur úr Hlíðarvatni í Ölfusi í tjörnina hjá Herdísarvík. Silungarnir voru fluttir í opnu íláti og tókst það svo vel, að eftir 5 ár fór silungur að veiðast í tjörninni og hefir veiðst þar meira og minna á hverju ári síðan.“
Ólafur Þorvaldsson lýsir Herdísarvíkurtjörn í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1943-1948: „Jörðin Herdísarvík er vestasti bær í Selvogshreppi og þar með vestasti bær í Árnessýslu með sjó fram. Jörðin liggur fyrir botni samnefndrar víkur, og er hún vestast í vogi þeim, er Selvogur heitir, allvíður og bogamyndaður, gengur inn í landið frá suðri. Takmörk hans eru: Selvogstangar að austan, en Olnbogi, austan Háabergs í Herdísarvíkurlandi, að vestan. Tún jarðarinnar er í suðurjaðri Herdísarvíkurhrauns, hólótt og dældótt, jarðvegur grunnur því að víðast er grunnt á hrauni. Með beztu umhirðu gefur túnið (heimatúnið) af sér um tvö kýrfóður, ca 80 hesta.

Herd-303

Fyrir öllu túninu að sunnan er smátjörn, og er dálítil silungsveiði í henni, fáu fólki til smekkbætis og nokkurra búdrýginda, en skynsamlega verður að fara að þeirri ve;ði, ef ekki á að uppræta stofninn, þar sem líka utanaðkomandi, óviðráðanleg atvik geta stórfækkað silungnum á nokkrum klukkutímum, og er það þegar stórflóð koma í tjörnina af völdum stórviðra af hafi, en þeim fylgir þá ævinlega stórbrim. Annars er saga Herdísarvíkursilungsins þannig: Fyrir um sjötíu árum lét Árni Gíslason, fyrrv. sýslumaður í Skaftafellssýslum, sem þá bjó í Krýsuvík og átti báðar jarðirnar, flytja um eða innan við 100 silunga, fullþroskaða, sem hann fékk úr Hlíðarvatni, út í Herdísarvíkurtjörn.
Voru þeir bornir í bala og Herd-304fötum með vatni í. Flestir munu þessir silungar hafa komizt lifandi í tjörnina, og kona, sem þá var unglingur í Herdísarvík, sagði þeim, er þetta ritar, að morguninn eftir hefðu nokkrir silungar legið dauðir við landið, þar sem þeim var sleppt í tjörnina, en hinir verið horfnir út í vatnið. Eftir nokkur ár fór að veiðast þarna við og við silungur til matar fyrir heimafólk. Þegar fram liðu stundir, kom í ljós, að þarna náði silungurinn miklu meiri þroska en hann nær yfirleitt í Hlíðarvatni, og mun aðalorsök þess vera meira og betra æti, t. d. er þar um mikla marfló að ræða, svo og mikinn botngróður.
Spölkorn fyrir austan túnið var áður fyrr hjáleiga, Herdísarvíkurgerði, og sjást nú íáar minjar þess, að þar hafi bær verið, en tún er þar nokkurt enn; þó hefur sjór brotið eitthvað af því. Tún þetta mun aðallega hafa gróið upp undan sjófangi; fiskur borinn þangað upp til skipta, kasaður þar áður en upp var borinn til herzlu; þorskhöfuð og hryggir þurrkaðir þar, og öðrum fiskúrgangi kastað þar út, — en undan honum grær jörð fljótast.

Herd-305

Útræði var mikið úr Herdísarvík og hafði verið öldum saman, og var talið með beztu verstöðvum austanfjalls, og við og við var gert út þaðan fram á þriðja tug tuttugustu aldar. Fiskisælt var þar í bezta lagi og lending góð; þó var oft nokkur lá í bótinni, þar sem lent var, þótt útsjór væri allgóður. Fiskurinn var yfirleitt hertur til útflutnings, og má enn sjá þurrkgarða á allstóru svæði í brunabelti uppi undir fjalli. Var fiskurinn, eftir að hafa legið í kös, jafnvel í fleiri vikur, borinn á bakinu eða í laupum eða kláfum til þurrkgarða. Þetta, að kasa fisk undir herzlu, var talsvert vandaverk, enda formenn vandlátir þar um, því að ef illa var gert, gat meira eða minna af fiski, sem í kösinni var, stórskemmzt, en þetta er önnur saga og því ekki sögð nánar hér.

Herd-306

Landi í Herdísarvík má skipta í tvennt, er lýsa á. Fjallinu með sínu upplandi og landi neðan fjalls. Neðan fjalls er landið allt brunnið, — hraun eldri og yngri. Eldri hraunin mikið gróin og fjárbeit þar með ágætum. Fjallið er allt að kalla skriðurunnið hið neðra, en háir og fagrir hamrar hið efra. Þó eru nokkrar grónar brekkur í fjallinu vestanverðu, og er þar dálítið viðarkjarr. Fjallið má teljast allt jafnhátt og brúnir þess sléttar og reglulegar.
Hlunnindi Herdísarvíkur voru talin: Sauðfjárbeit góð, svo að af bar, bæði til fjalls og fjöru. Útræði ágætt, og er þá aðallega átt við góða lendingu og fiskisæld. Viðarreki var, þegar reka-ár komu, oft allmikill, og nú, um síðastliðin 50—60 ár, silungsveiði til skemmtunar og nokkuð til búdrýginda.
Fiski og hrognkelsum skolaði þar stundum á land til muna seinni part vetrar, þegar fiskur Herd-307var í göngu. Flæðihætta við sjó engin fyrir sauðfé, og er það mjög mikill kostur, þar sem fé gekk svo mikið sjálfala allan ársins hring. Fjöruskjögur í unglömbum þekktist ekki, og mun þar um valda, að fjaran er ekki mjög sölt sökum vatna, sem um hana renna, — en sér í lagi þó kjarnamikill gróður til landsins, strax upp frá fjörunni, og í þriðja lagi mætti nefna, að fjörubeitin er fyrir það mesta bitfjara, en ekki rekafjara. Til galla má helzt telja, að mjög sterk veður af norðri koma þar stundum, og kom fyrir, að skaði hlytist af, ef hey voru á túnum, og máttu búendur illa við, þar eð heyskapur er enginn utan túns, en þau heldur lítil.“
Nú hefur sjórinn rofið eiðið sem aðskildi tjörnina frá opnu hafinu og náð að nánast þurrka út bæði gamla bæjarstæðið og útihúsin (smiðjuna og geymsluna) er stöðu þeim næst.
Tilgangurinn með ferðinni var að mæla dýpið í Herdísarvíkurtjörninni. Háflóð var. Dýpið mældist 2.5 m næst landi og 3.5 m fjær, en tjörnin grynntist síðan eftir því sem nær rifinu dró. Á stuttum köflum náði dýpið allt að 7 metrum, en þar eru sennilega gjár undir. Talsverð lóðning var af fiski í tjörninni.
Frábært veður. Ferðin tók 1 klst og 1 mín.

Heimild:
-Íslenskar þjóðsögur og æfintýri, Jón Árnason, 1862, 1. b. bls. 476-477.
-Lesbók Morgunblaðsins, 18. nóvember 1951, bls. 548.
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, Ólafur Þorvaldsson, Herdísarvík,  49. árg. 1943-1948, bls. 129-130.

Herdísarvík

Herdísarvíkurtjörn.

Selvogsgata

Gengið var upp Selvogsheiði. Gamla Suðurfararveginum (Selvogsgötunni) var fylgt upp heiðina og upp í Strandardal. Þar var ætlunin að kíkja í Kálfsgil og athuga hvort ekki sæist í a.m.k. eitt horn hinnar fornu Gullskinnu, mestu galdrabók allra tíma, sem séra Eiríkur á Vogsósum er sagður hafa grafið þar svo bókin sú arna yrði ekki til fleiri rauna en hún hafði þegar orðið.
vordufell-991Götunni var fylgt upp heiðina. Á henni miðri, skammt vestan og ofan við Vörðufell, var gengið fram á gróna kofatóft. Skammt suðvestan hennar var fallega hlaðið gerði á hól. Húsið var stakt, sem bendir til þess að þar hafi verið sæluhús á heiðinni. Á Vörðufelli er gömul hlaðin fjárrétt Selvogsmanna. Þar eru einnig Smalavörðurnar, en þjóðsagan segir að smalar, sem týnt hefðu einhverjum hlut, hefðu þá hlaðið litla vörðu á fellinu og skipti þá engum togum – þeir fundu hann skömmu síðar. Syðst á fellinu er markavarða. Krossmark er á jarðfastri klöpp sunnan og neðan við hana.
Haldið var áfram upp í Strandardal og stefnan tekin á Kálfsgil. Efst í dalnum er Sælubúna, gömul lind, sem kemur undan hlíðinni. Hana þrýtur aldrei og gat fólk fyrrum jafnan treyst á vatnið úr henni þegar það var við heyaðdrætti í Strandardal og Hlíðardal þar ofan við.

Strandardalur

Strandardalur.

Kálfsgilið var þurrt. Þegar gengið var upp það miðja vegu mátti, ef vel var að gáð, sjá glitta í skinnpjötlu, nær samlitu grjótinu. Nú var hver sekúnda dýrmæt. Þegar reynt var að nálgast staðinn var sem jörðin opnaðist skyndilega á svolitlu svæði og grjót tók að hrinja úr gilinu. Við það hrúgaðist að staðnum svo pjatlan varð næstum því utan seilingar. Þvílík tilviljun að jarðskjálfti skuli endilega þurfa að hrista gilið þegar einungis vantaði herslumuninn að tækist að krækja í Gullskinnu. En skjálftinn kom aðeins of seint til að hylja bókina. Hún var rifin upp, pakkað í skyndi og er nú í öruggri vörslu og bíður opnunar. Hvort í henni megi finna lýsingu á upphafi landnáms hér á landi eða galdraþulur skal ósagt látið – að sinni. Í öllum látunum hvarf myndavélin niður um gatið, sem myndast hafði. Það kom ekki að sök hvað Gullskinnu snerti, enda ekki unnist tími til að taka kyrrstöðumynd af henni í látunum. Engar myndir fylgja því þessari lýsingu.
strandardalur-991Skuggi segir frá Gullskinnu, eða Gullbringu eins og hann nefnir hana einnig, í riti sínu um Brísingamenn Freyju. Ritið kom út 1948 og kallaði á mikil skoðanaskipti. Þar er því haldið fram að Gullskinna hafi verið með fyrstu Landnámsbókunum, en aðrar verið byggðar á henni, þótt ýmsu hafi þá verið sleppt. Hún segir t.a.m. frá Krýsum í Gömlu Krýsuvík, aðförinni að þeim og yfirtöku Dana, sem síðar voru nefndir hinir fyrstu Landnámsmenn. Þeir komu frá Noregi.
disurett-991Í sögnum af galdraprestinum Eiríki frá Vogsósum segir af Gullskinnu. Hún var mikil galdrabók, sem fór víða og margir vildu eiga. Hún barst hingað til lands með útlensku skipi. Það fórst, en maður kom henni í land í Selvogi við illan leik. Eiríki áskotnaðist bókin og notaði hann hana þegar þurfa þurfti. Öfl reyndu að nálgast bókina og taldi Eirkur vænlegast að láta hana hverfa. Segir sagan að hann hafi grafið hana í Kálfsgili. Þar hefur sést til hennar endrum og eins, en ávallt við tilteknar aðstæður, líkt og nú voru. Í bókinni er, skv. sögunum, m.a. kveðið á um hvernig eigi að magna upp óveður, fægja lágþoku og leita regns.

Strandardalur

Strandardalur – hellir.

Gengið var með Katlahlíð yfir að Katlahrauni, þvert á Hlíðargil. Þar er Dísurétt í hraunkvos, fallega hlaðin og hefur haldið sér nokkuð vel frá árinu 1938. Erfitt er þó að finna réttina vegna legu hennar í hrauninu, en hún er mun nær Strandardalnum en áður var talið. Þá var komið að réttinni að vetrarlagi úr vestri, en nú var komið að henni að sumarlagi úr austri. Frá henni er ágætt útsýni upp Strandardal og yfir víðan Hlíðardalinn vestan Svörtubjarga.
Gengið var að nýfundum helli og síðan niður geldingahnappsþakta heiðina vestan Suðurfararvegar. Þá var komið að tóftum Hlíðarsels og Valgarðsborg skoðuð áður en haldið var áfram niður heiðina og að upphafsstað. Á leiðinni var gengið fram á merkt greni og hlaðið byrgi grenjaskyttu.
Fá framangreindra mannvirkja hafa verið skráð.

Strandardalur

Varða ofan Sælubunu efst í Strandardal.

Reykjadalur

Þann 23. júní 2014 var afhjúpað upplýsingaskilti um náttúru Reykjadals sem sett var upp við Rjúpnabrekkur inn í Ölfusdal ofan við Hveragerði. Skiltið var unnið af Landvernd í samstarfi við Náttúrufræðistofnun Íslands, Ferðafélag Íslands, Slysavarnarfélagið Landsbjörgu, Safe Travel, Hveragerðisbæ, Sveitarfélagið Ölfus, Ferðafélag Íslands, Eldhesta og Landbúnaðarháskóla Íslands að Reykjum í Ölfusi.  Á upplýsingaskiltinu má lesa eftirfarandi fróðleik:

Jarðhiti

Reykjadalur

Reykjadalur – afhjúpun skiltisins 2014.

Jarðhiti í Reykjadal og Hveragerði er í rótum útkulnaðrar eldstöðvar sem var virk fyrir um 120.000 árum í rekbeltinu á svipuðum slóðum og Hengill er í dag. Eldstöðina hefur rekið til austurs frá miðju rekbeltisins og jöklar hafa sorfið hana niður. Eldstöðinni fylgir sprungu- og eldstöðvakerfi sem nær frá sjó í Selvogi, norðaustur um Hengilssvæðið um Nesjavelli til Þingvalla. Á stærstum hluta Hengilssvæðisins er að finna móberg og móbergsset frá ísöld en einnig basalthraun sem runnu eftir að henni lauk.

Reykjadalur

Reykjadalur – jarðhiti.

Jarðhiti á svæðinu einkennist af leirugum vatnshverum og kolsýruhverum og víða eru merki um aukna virkni í seinni tíð. Í Klambragili eru fjölmargir kolsýruhverir og laugar með miklu rennsli, sem gefa megnið af hita Reykjadalsár. Mörg þessara fyrirbæra njóta sérstakrar verndar samkvæmt náttúruverndarlögum.

Náttúrufar

Reykjadalur

Reykjadalur – laug.

Jarðhitinn hefur víða áhrif á gróður svæðisins og felst sérkenni hveragróðurs einkum í gróskumiklum votlendissamfélögum við heita læki og laugar og moslendi þar sem þurrara er. Ýmsar hitakærar tegundir jurta vaxa á svæðinu og má þar nefna laugadeplu (Veronica anagallisaquatica) og naðurtungu (Ophioglossum azoricum). Báðar þessar jurtir eiga undir högg að sækja og eru því á válista háplantna. Ennfremur finnast ýmsar hitakærar tegundir mosa og smádýra, sumar hverjar á válista. Litríkar og fjölbreyttar hveraörverur setja svip sinn á svæðið. Þær flokkast sem bakteríur og fornbakteríur og eru margar afar fágætar.

Hverafuglar og aðrar sögur

Grafningur

Ölfusvatnslaugar.

Reykjadalur hefur löngum verið nýttur til beitar og vegna jarðhitans gat fé gengið þar lengur að grænum gróðri en annarsstaðar.
Í þjóðsögum er getið um svokallaða „hverafugla“ í hverum á Ölkelduhálsi og Hagavíkurlaugum. Þeir voru sagðir litlir vexti, dökkleitir og taldir synda í bullandi hverum. Sagt var að ekki þýddi að sjóða þá en ef þeir væru látnir í kalt vatn bragðist þeir sem soðnir væru.
Þá segir í Landnámabók að Ingólfur Arnarson landnámsmaður hafi búið hin síðustu ár ævi sinnar á Reykjum í Ölfusi, þá blindur orðinn.

Verndum viðkvæma náttúru Reykjadals

Reykjadalur

Reykjadalur – Klambragil.

Reykjadalur er einn fjölsóttasti náttúrulegi baðstaður landsins í afar fögru og friðsælu umhverfi. Það einkennir Reykjadal, líkt og önnur jarðhitasvæði, hve viðkvæmt svæðið er fyrir átroðningi og umferð.
Setjum vernd svæðisins ávallt í fyrsta sæti, fylgjum merktum stígum og hverfum frá ef aðstæður, t.d. árstími eða tíðarfar, leyfa ekki umferð. Þannig getum við og komandi kynslóðir áfram notið þessa einstaka svæðis. Njótið svæðisins!
Reykjadalur

Reykjadalur – Upplýsingaskilti.

 

Lýðveldishellir

Lagt af stað kl. 8.00 að morgni í göngu á Brennisteinsfjöll í blíðskapar veðri með tjöld, svefnpoka og vistir til tveggja daga.

Brennisteinsfjöll

Í námum Brennisteinsfjalla.

Bílnum lagt við Bláfjallaveg og haldið upp Grindaskörð, Draugahlíðum fylgt austan megin og stefnan tekin á Gráfeld. Gráfeldur er fallegur rauðleitur gígur við vesturenda Draugahlíða, úr honum er Selvogshraun runnið, yngsta hraunið á þessu svæði, runnið eftir landnám en fyrir 1226. Gráfeldur er 543m h.y.s. og þaðan er gott útsýni. Af Gráfeld var haldið niður í búðir við Brennisteinsnámur, þar var slegið upp tjöldum, námurnar skoðaðar og göngunni haldið áfram. Brennisteinsvinnsla var þarna síðast á síðari hluta 19. aldar. Þá var haldið á Kistufell 602m stór og tilkomu mikil gígur. Þar var mikið dáðst að útsýni enda himin nánast alveg heiður, sást alveg austur til Heklu, á Jarlhettur, Skjaldbreið, Esju o.fl. ofl. Snæfellsjökul og Reykjanesskaginn allur lá eins og útbreidd landakort. Vel mátti m.a. sjá Eldey.

Kistufell

Brak í Kistufelli.

Eftir gott stop og nesti var haldið niður að flugvélaflaki í suðurhlíðum Kistufells. Þar fórst Hudson l/251, tveggja hreyfla kafbátaleitarvél frá breska flughernum 27. mars árið 1945. Með vélinni fórust fimm menn. Brak var þar á víð og dreif fyrir neðan.
Enn var nóg eftir af deginum og því haldið áfram í vesturátt. Gengið um Kistu, fallega en margslungna eldstöð, milli Kistufells og Eldborgar. Kíkt í op Lýðveldishellis en ekki farið inn að þessu sinni enda átti það ekki við í svo mikilli sól og blíðu og stuttbuxum.

Kistufellsgígur

Kistufellsgígur.

Gengið á Eldborg og um sléttar og fallegar hrauntjarnir þar í kring en svo snúið við. Haldið var inn í Kistufellsgíginn á bakaleið, nú skein síðdeginssólin inn í gíginn og naut hann sín til fullnustu. Haldið til baka í tjaldbúðir og súpan hituð í einum af hverunum ofan við brennisteinsnámurnar. Þá mátti sjá einn lítil mórauðan tófuyrðling skjótast þar milli steina.

Brennisteinsfjöll

Gengið um Brennisteinsfjöll.

Vaknað árla morguns næsta dag eftir góðan nætursvefn og enn skein sólin en þoka lagðist þó brátt að. Tjöld tekin saman og byrðirnar axlaðar og stefnan tekin á Hvirfil 621m. Þaðan er mjög gott útsýni þó það nyti sýn ekki að þessu sinni. Þess í stað mátti njóta dulúðugst ævintýrablæs þessarar fornu eldstöðvar í þokunni. Þá var haldið áleiðis niður í Grindaskörð aftur og létti þokunni þá mikið. Gengið upp á Tvíbolla áður en haldið var niður. Til byggða komu þrír þreyttir og sólbrunnir göngugarpar en sælir og ánægðir eftir um það bil 30 km göngu á tveim dögum.

Sjá MYNDIR.

-JG – VG.

Í Brennisteinsfjöllum

Í Brennisteinsfjöllum.

Ölkeldurháls

Í Sæmundi Fróða árið 1874 er m.a. fjallað um ölkeldur undir fyrirsögninni „Húsaapótek fyrir Íslendinga„:
„Í Henglafjöllum eru margar ölkeldur; þær eru ljúffengar, en eigi mjög sterkar; flestar þeirra eru heitari en ölkeldurnar fyrir vestan, að undanteknum þeim við Lýshól í Staðarsveit, sem hafa rjett mátulegan baðhita, og mynda ágætt ag olkelduhals-991styrkjandi bað; er hörmung til þess að vita, að slíkt bað með þess ágætu áhrifum eigi er við haft sem skyldi, þar sem þó án efa margir heilsuleysingjar gætu haft hið mest gagn af því, og það þykist jeg sannfærður um, að væri slíkt bað sem það við Lýshól til erlendis, nálægt fjölbyggðum borgum, mundi það mikil auðsuppspretta. Ölkeldurnar á Ölkelduhálsi, suðaustanvert við Henglafjöll, hafa í sjer talsvert kolasúrt natron og kali, og mundu því einkar góðar gegn magnleysisgigt, enda hef jeg heldur sjeð góð áhrif af því vatni gegn veiklun í mænukerfinu.“
Jón Hjaltalín ritaði Jóni Sigurðssyni „Bréf frá Íslandi“ er birtist í Nýjum félagsritum árið 1853. Þar fjallar hann m.a. um ölkelduvatn til lækninga:
„Á fyrri tímum notuðu forfeður vorir hvera-vatnið í laugar sínar, og var það samkvæmt þeirra siðvenju um öll lönd; nú þykir löndum vorum það ekki ómaksins vert að lauga sig, heldur láta þeir skarnið sitja utan á sér alla æfi sína, eins og það væri einhver dýrgripur, sem maður mætti ekki án vera. Rétt fyrir utan höfuðbæ vorn liggur einhver hin ágætasta laug, en ekki er mér það kunnugt, að Reykvíkingar noti hana til að gjöra þar baðstofur, og enginn umbúnaður sæist þar til þess, þó að allir megi sjá, að nátttúran hefir lagt þar allt upp í hendurnar á mönnum, og hvers getur þá verið að vænta hjá kotúngunum, þegar þeir sem búa í höfuðbænum hirða ekki um slíka hluti, því það lítur þó svo út, sem þeim bæri að ganga á undan öðrum með góðum fyrirdæmum, bæði í þessu og öðru.

olkelduhals-996

Það þyrfti heldur ekki að kosta bæjarmenn mikið, að láta byggja laugahús inni við Laugarnes, og lángtum minni vorkun er þeim á því, en einstaka bændum uppí sveitum, sem bæði vantar efni og samtök til slíkra hluta; en það er á hinn bóginn eins þarflegt fyrir Reykvíkinga, eins og alla menn í heimi, sem vilja vernda heilsu sína, að lauga sig með jafnaði, og er vonanda, að höfuðbær vor fari að fylgja allra mentaðra manna siðum í þessu efni sem bráðast.
Fyrst eg er nú að hugsa um hverana, þá þykir mér tilhlýðilegt að fara nokkrum orðum um ölkeldurnar hjá okkur, því það sýnist nú að vera komið að því, að menn ætli að fara að nota þær sem almennt læknismeðal. Mér var sagt í Reykjavík, að Skapti Skaptason léti fólk fyrir austan fjall drekka ölkelduvatn nokkuð frá Ölkelduhálsi fyrir ofan Reykjakot; eg sendi þá boð eptir Skapta, og töluðum við saman um þennan hlut og kom okkur báðum saman um, að Skapti talaði bæði greinilega og skynsamlega um þetta efni. Skapti sagði mér, að á Ölkelduhálsi væri ein góð Ölkelda og hefði hann látið ýmsa fyrir austan fjall drekka vatnið úr henni sem læknismeðal; hann kvaðst jafnan hafa látið fólk byrja með lítinn skamt af vatninu í senn, en þá lét hann drekka meira þegar frammí sótti og menn voru farnir að venjast við það. Hann talaði eins greinilega og skilmerkilega um allt, sem þetta áhrærði, svo að báðum okkur læknunum fannst um, hversu nærgætnislega hann skýrði frá ýmsum hlutum þetta efni áhrærandi.
olkelduhals-995Eg fór síðan fleirum sinnum uppá þennan svokallaða Ölkelduháls, og fann eg þar ýmsar ölkeldur, sem fyrrum hafa verið ókunnar, var ein þeirra álíka og stór laug og býsna heit; hjá ölkeldu þeirri, er Skapti hafði látið sækja í, var hlaðin varða og liggur hún nærfellt á miðjum hálsinum, norðanvert við veginn, þegar farið er ofan að Reykjakoti. Eg lét tvisvar sinnum sækja ölkelduvatn í hana og var eg fyrst sjálfur með að fylla flöskurnar og lakka fyrir þær, og tókum við þá hátt á annað hundrað flöskur, sem eg hafði handa veikum og gafst mér vatn þetta einkar vel, en þó er það ekki nærri eins megnt og ölkelduvatnið í Rauðamels-ölkeldu, enda hygg eg hana bera af öllum ölkeldum á Íslandi, og mun hún jafnvel sterkari en flestar ölkeldur á þjóðverjalandi. Eg talaði við ýmsa sjúklinga, sem drukkið höfðu ökelduvatnið frá Ölkelduhálsi, og bar öllum saman um, að þeim hefði orðið léttara við það, og var þó öll von að vatnið hefði mist hið mesta af afli sínu hjá þessum sjúklingum, því þeir höfðu látið sækja það á leiglum, en slík vötn má ekki láta á tré-ílát, ef þau eiga að halda sér. Það er vonanda, að fyrst að menn eru farnir að komast uppá, að drekka ölkelduvatn og hveravötn sér til heilsubótar, þá muni þessu fara fram þegar tímar líða, ef menn vantaði ekki áræði og fyrirsögn, sem altend þarf með, ef allt á að fara í góðu lagi.“

Heimild:
-Sæmundur Fróði, 1. árg. 1874, 12. tbl., bls. 188.
-Ný félagsrit, 13. árg. 1853, bls. 6 og 11-13.

Ölfusölkelda

Ölfusvatnsölkelda.

Hellisheiðarvegur

Í „Lýsingu Ölveshrepps 1703“ eftir Hálfdan Jónsson er m.a. getið um nokkrar leiðir í hreppnum:
hellisheidarvegur-779„[Lýsing Ölveshrepps, sem hér fer á eftir, er prenfuð eftir AM. 767 4fo. Er það lítið kver, 52 blöð í ekki stóru broti. Í kveri þessu eru tvö handrit af lýsingunni, og er hið síðara afrit af hinu fyrra. Ber þar ekki á milli, enda er hér ekkert tillit tekið til afrits þessa. Um handrit það, sem hér er farið eftir, er það að segja, að um það hefir Árni Magnússon gert svo fellda athugasemd á smámiða, er nú fylgir kverinu: „Fva Haldane Jonssyne á Reykium i Olvese og er hn author þessa ut puto“. Þykist sá, sem þetta ritar, hafa gengið úr skugga um það, að handritið sé með eiginhendi Hálfdanar Jónssonar. Hitt er vafalaust, að lýsingin er samin af Hálfdani, þótt Arni Magnússon kveði ekki fastara að orði en þetta, að hann ætli, að Hálfdan sé höfundurinn].
Þegar áður greindar sanda auðnur (með sjávarsíðunni kringum Þorlákshöfn og undir Selvogsheiði sig útstrekkjandi) minnka, tekur til megin byggðin með fjallgarðshlíðunum í röð austur eftir sveitinni, allt til Þurrárhrauns. Á þessum fjallgarði, er fyrir norðan þessa byggð sveitarinnar liggur, eru þrír vegir vestur á Suðurnes, nefnilega Ólafsskarð, Lágaskarð og Sanddalavegur, hverir allir saman koma í einn veg á vestanverðu fjallinu, þá byggðar lönd taka til Suðurnesja jarða.
Fyrir austan Valhnúk er strax Gnúpahnúkur, með miklum hömrum, nær því allt að Gnúpastíg, hver eð liggur fyrir ofan Gnúpatún upp á fjallið, brattur yfirferðar, og samtengist við almenningsveginn á sunnanverðri Hellisheiði, þar Hurðarásvötn heita.
Fyrir austan áðurnefndar Bæjaþorpsjarðir, en vestan Varmá, liggur almennings vegur yfir fjallgarðinn á Suðurnes og í Kjalarnesþing, fyrst upp á Kamba áðurnefnda, síðan vestur yfir Hellisheiði, hver að austanverðu hefur mikla mosa, með mjög litlu grasi, allt þar til Þrívörður heita og heiðin sjálf meinast mið vera, en hennar vestri partur er víða með sléttum hellum af hraungrjóti, án gatna, nema þær hestanna járn hafa gjört og auðsjáanlegt er þeim athuga. Þessar sléttu hellur ná allt vestur að Biskupsvörðu. Fleiri vörður eru og við veginn hlaðnar til leiðarvísis. — Fyrir sunnan heiðarhraunið liggur áðurnefnd Hverahlíð með mosum og grasi. Upp á hlíðinni er hátt fell, mjög blásið, þó án hamra, er Skálafell nefnist, með vatnsstæði. Á þessu felli var skáli Ingólfs Arnarsonar, fyrsta landnáma manns, hvar af þetta fell hefur sitt nafn dregið, sem Landnáma ávíkur.
Af þessu téðu felli er víðsýnt um Árnessýslu, hellisheidi-779Rangárþing item Vestmannaeyja og Gullbringusýslu. Vestur af Hellisheiði liggur almennings vegurinn ofan Hellisskarð, vestur yfir Hvannavelli, um endilangt Svínahraun og á Bolavelli, þaðan fyrir sunnan Lyklafell og vestan til í Fóelluvötnum, síðan með þeirri á, er úr vötnunum rennur, allt á Fossvelli og að Tröllbörnum etc.

Upp í hnúknum fyrir norðan fyrrnefnt Hellisskarð er sá stóri steinn einstakur, er Búasteinn kallast, við hvern stein varðist Búi Esjufóstri, sem saga hans tilvísar. Sama saga nefnir Hellisskarð Öxnaskarð, og mun þá hafa sitt nafn öðlast af nautarekstrum Ölves innbyggara vestur yfir heiðina. — Á norðanverðum Hvannavöllum, er strax taka til fyrir neðan skarðið, stendur sælhús (ei langt frá veginum) so kallað, hverju allt til þessa tíma Ölves innbyggjarar hafa uppi haldið vegfarandi fólki harla nauðsynleg á vetrartímanum tii innvistar. Er og lofsvert, að þetta sælhús ei niður falli. Fyrir sunnan Húsmúlann, er liggur í útsuður undan Hengilsfjallinu, en fyrir norðan Hellisskarð, liggja Sleggjubeinsdalir. Þar er náttstaður vesturleitarmanna úr Ölvesi, þá afréttinn á haustin leita. I vestur og útnorður frá sælhúsi og með Húsmúlanum liggja miklir grasvellir, nefndir Norðurvellir, og strekkja sig út allt suður undir Svínahraun, nær því undir Bolavelli, en endast þó þar Uxabrekkur heita. Inn með Hengilsfjallinu liggur dalur og fyrir norðan Húsmúlann, er Engidalur kallast. Úr honum rennur lítil á vestur eftir Norðurvöllunum, fyrir norðan Bolavelli en austan Lyklafell, og fellur síðan í Fóelluvötn.
Þessi eru haldin sýslumót milli Árnessýslu og Kjalarnesþings, fyrst er Vilborgarkelda, er liggur á Mosfellsheiði, fyrir vestan Heiðarbæ. Þaðan ræður Laufdælingastígur í vestur liggjandi eftir heiðinni allt í nyrðri Lyklafellsenda. Síðan í þann einstaka stein, er stendur við Hellisheiðarveginn á melnum fyrir sunnan Lyklafell, er kallast Sýslusteinn.“

Heimild:
-Andvari, 61. árg. 1936, 1. tbl., bls. 57-78.

Núpastígur

Núpastígur.