Tag Archive for: Ölfus

Stakkavíkurselsstígur

Haldið var upp í Stakkavíkursel á Stakkavíkurfjalli; um Selskarðsstíginn ofan Hlíðarvatns og síðan Selstíginn í selið.
Sigurjón Sigurðsson í Traðarkoti skráði heimildir um Stakkavík í febrúar 1982. Eggert Kristmundsson, Brunnastöðum, er heimildarmaður. Hann er fæddur 1919 í Stakkavík og alinn þar upp; var í Stakkavík til 1942. Móðir hans, Lára, 94 ára, ættuð úr Selvogi, kom ung að Stakkavík og bjó þar í 28 ár.

Selskarðsstígur

Selskarðsstígur.

„Í Selskarði er Selskarðsstígur; ekkert hraun hefir runnið þar fram. Það er grasi gróið og fyrir neðan það. Selstígur heitir upp á fjallinu; liggur hann í Stakkavíkursel, sem er þar norðar á fjallinu.
Brekkurnar neðst í fjallinu heita einu nafni Stakkavíkurfjallsskriður, en í daglegu tali voru þær greindar í þrennt, þannig frá vestri til austurs: Selstígsbrekkur við Selskarð, skammt austar Snataklettsbrekkur; þá taka við austast Urðarbrekkur.“

Gísli Sigurðsson gerði örnefnalýsingu fyrir Stakkavík. Hann minnist á Selsskarðsstíginn, en ekki á Stakkavíkurselið.
„Þá kom lægð í hraunið upp af Botnaviki, er hét Flöt. Þá komu Höfðar, og þar voru fjárhúsin, lágu upp frá Austurnesi. Um Flötina lá Selstígurinn, og var þetta brött leið. Stakkavíkurfjall eða Útfjallið var fjallið nefnt vestan úr Mosaskarði að Nátthagaskarði, og var fjallið afar bratt. Þar voru Brekkurnar eða Stakkavíkurfjallsbrekkur, Skriðurnar eða Stakkavíkurfjallsskriður.
Í Mosaskarði var Hamragerði, og lá þar um landamerkjalínan milli Stakkavíkur og Herdísarvíkur. Þar litlu austar var svo Mjóigeiri og enn austar Breiðigeiri. Geirar þessir eru gróðurtorfur, sem liggja upp skriðurnar; þá kom ónafnkenndur partur og síðan Hrísbrekkur upp af Flataskógi og Nátthaganum.

Stakkavíkursel

Stakkavíkursel.

Þá kom Nátthagaskarð; hefur þar runnið niður mikill hraunfoss. Vestan til við hraunfossinn liggur svo Nátthagaskarðsstígur upp á fjallið.
Austar er svo Selskarð, og þar um liggur Selskarðsstígur og síðan norður fjallið. Litlu austar eru svo Kleifar og Kleifarvallaskarð. Enn austar er Urðarskarð eða Urðarvallaskarð.
Efstu brúnir fjallsins eru nefndar Stakkavíkurfjallsbrúnir. Í Brúnunum austan til við Kleifarvallaskarð eru hellisskútar þrír, nefndir Músarhellir, Pínir og Sveltir. Hellar þessir voru hættulegir fé. Það fennti þarna, og vegna harðfennis varð því ekki bjargað. Þar af koma nöfnin.“

Stakkavíkursel

Í Stakkavíkurseli.

Í Jarðabókinni 1703 segir um Stakkavík: „Selstöðu á jörðin yfrið erfiða, so valla er hestum fært á fjöll upp, þarf og vatn til að flytja, nema votviðri gángi því meiri, og er hún fyrir þessara ókosta sakir í margt ár ekki brúkuð“:

Stakkavíkursel

Selstígurinn – Hlíðarvatn fjær.

Selskarðsstígur er greinilegur frá litlu bílastæði skammt ofan við fjárhúsin í Höfðum. Lítil varða er við Selskarðið. Ofar er girðing um beitarhólf. Yfir hana er tréstigi. Skammt austar er myndarleg varða og önnur norðar, fast við Selstíginn. Hann liggur að hlið á girðingunni skammt norðaustar og síðan upp með henni til norðurs. Við horn á girðingunni heldur Selstígurinn áfram upp fjallið áleiðis að selinu, en Stakkavíkurgatan heldur áfram upp með henni áleiðis að Vesturásum. Framundan gnæfir selsvarðan yfir grónu selinu í suðurbrúnum fjallsins, þar sem það er hæst. Við selið eru hleðslur eftir refaveiðimenn á a.m.k. tveimur stöðum.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Heimildir:
-Stakkavík – Svör við spurningum. Sigurjón Sigurðsson í Traðarkoti skráði í febrúar 1982.
-Stakkavík – Gísli Sigurðsson skráði.

Stakkavíkursel

Stakkavíkursel – uppdráttur ÓSÁ.

Grindarskörð

Eftirfarandi lýsing á Grindarskarðsvegi (Selvogsleið) eftir Ólaf Þorvaldsson birtist í Árbók Hins íslenska fornleifafélags árið 1943-1948:
Grindarskord-223„Leiðin milli Hafnarfjarðar og Selvogshrepps í Árnessýslu gekk venjulega undir nafninu Grindaskarða- eða Kerlingarskarðsvegur. Leið þessi mun vera jafngömul fyrstu byggð í Selvogi, enda aðallega af Selvogsmönnum farin, þar eð lega hreppsins er þannig, að fáir aðrir áttu þar leið um. Legg ég svo upp frá Hafnarfirði.
Þegar upp að fjalli er komið, eru til norðurs með fjallinu grasflatir allstórar, sem heita Kristjánsdalir. Norðan þeirra gengur hæðarskagi fram úr fjallinu: Kristjánsdalahorn.
Upp af kerlingarskard-221Kristjánsdölum rís landið sem í öldum, og heitir þar Kristjánsdalabrúnir. Norðaustur af þeim eru Þríhnjúkar. Til suðurs sér alllangt með Lönguhlíð og til Dauðadala. Upp fjallið liggur vegurinn í krókum og sneiðingum, unz upp er komið á Kerlingarskarð. Allbratt er upp að fara, einkum neðst og efst. Þegar komið er undir efstu brekkuna, er dalverpi litið í fjallið norðan götu. Þar sést enn kofarúst, leifar af skýli, sem byggt var í tíð brennisteins-vinnslunnar í Brennisteinsfjöllum, og var „sæluhús“ þeirra, sem fluttu brennisteininn á hestum til Hafnarfjarðar. Vegur sá, sem nú um langt árabil hefur verið farinn þarna yfir fjallið, liggur um Kerlingarskarð. Annar slóði er nokkru norðar og var nefndur Grindaskarðavegur. Fyrir löngu mun vera hætt að fara þann veg nema helzt lausgangandi menn að vetri til, ef harðfenni var mikið í brún Kerlingarskarðs, því að þar eru hærri og skarpari brúnir en á nyrðri slóðinni. Þegar upp á brún er komið, eru þrír hnjúkar til hægri handar, skammt frá vegi, kúlumyndaðir og allir svipaðir að stærð. Hnjúkar þessir eru á uppdrætti herforingjaráðsins nefndir Grindaskarðahnjúkar, aðrir nefna þá Bolla einu nafni, sennilega eftir lagi bolla á hvolfi. Nokkurn spöl norðan gamla Grindaskarðavegar er allstór hnjúkur, sem á korti frá 1908 er nefndur Kóngsfell, en á korti frá 1932 Bolli.

Selvogsgata-618

Alþekkt fiskimið frá tíð áraskipanna við Faxaflóa er Bollasvið eða Bollaslóð. Þá voru Bollarnir, syðsti, mið- og nyrzti, yfirmið, en Helgafell undirmið. Vitneskju hef ég reynt að afla mér frá gömlum sjó- og formönnum, sem sóttu mikið á þessar slóðir, en ekki ber þeim að öllu leyti saman um Bollana. Nokkrir þeirra telja þá alla sunnan Kerlingarskarðs, en aðrir beggja megin, og er ekki óhugsandi, að þessi sagnamunur stafi af því, að margir af þessum mönnum eru algjörlega ókunnugir á landi þar um slóðir. Allir þessir menn þekkja eflaust Bollana af sjó, en ef til vill gera þeir sér ekki grein fyrir þeim af landi eða þegar nær er komið, þar sem ýmis kennileiti taka breytingum í augum manna, eftir því hvaðan horft er og úr hvaða fjarlægð. Hæsti hryggur fjallsins er mjór, og fer rétt strax að halla austur af, en ekki er það undanhald langt, svo sem hálfrar stundar gangur, þar til landið liggur jafnhátt, og nær það að Hvalhnjúk og Ásum. Á háfjallinu norðan vegar er Stórkonugjá.
Er það Selvogsgata-616hraungjá mikil, sem hraun hefur runnið eftir frá gömlum eldgíg þar uppi. Austur af Stórkonugjá, skammt fyrir norðan veginn, er Kóngsfell. Þar koma saman lönd Gullbringusýslu og Árnessýslu. Þegar komið er austur af fjallshryggnum, er komið að afarstórri hraunbreiðu. Tvær vörður eru þar við götuna, og skiptast þar leiðir, liggur austasta leiðin til Selvogs, miðleiðin til Stakkavíkur og Herdísarvíkur, en sú þriðja, sem nú er sjaldan farin, liggur til Brennisteinsfjalla, suður með Draugahlíð. Var það leið þeirra manna, sem brennisteinsnám stunduðu í Brennisteinsfjöllum, þegar þeir fóru um helgar til Hafnarfjarðar, því að flestir af þeim áttu þar heima, en mest var þessi leið farin af þeim, sem fluttu brennisteininn til Hafnarfjarðar, og var hann fluttur á klökkum. Hafnfirðingum, sem hesta áttu, svo og bændum þar í grennd, var að einhverju leyti gefinn kostur á þessum flutningum, og skyldu þeir fá eina krónu á hestburðinn í flutningsgjald. Ferðin mun hafa tekið 12-14 klst. Eitthvað mun þessu hafa verið sinnt, þrátt fyrir þetta lága gjald, sem að lokum reyndist samt félaginu ofvaxið. Þetta var á síðari hluta nítjándu aldar.
Leiðin til Stakkavíkur og Herdísarvíkur liggur frá fyrrnefndum vörðum, suðaustur á slétt hraun, og eru smávörður með fram veginum yfir hraunið. Þegar á mitt hraunið kemur, er úfinn bruni suðvestan vegar, og er farið yfir mjótt haft af honum við suðurtagl Hvalhnjúks. Þegar austur fyrir Hvalhnjúk kemur, taka við Vestur-Ásar. Fyrst til hægri handar nokkrir gróðurlausir og dökkir hólar, Svörtu-Ásar. Nokkru suðaustur af þeim úti við brunann er Urðarás, og er hann auðþekktur af mikilli grágrýtisurð sunnan megin. Neðarlega í Ásunum eru austan vegar grasbrekkur allstórar, og heita þær Dýjabrekkur. Þar sér enn leifar þess, að þar heíur fyrir löngu verið leitað eftir mó, en ekki mun það hafa þótt svara kostnaði. Litlu neðar eru Selbrekkur. Þar hefur, þegar það tíðkaðist almennt, verið haft í seli frá Stakkavík. Úr Selbrekkum er stutt fram á fjallsbrún. Þegar á brún kemur, hýrnar svipur útsýnisins og breytist nokkuð.
Það hefur líka hýrnað Selvogsgata-619yfir mörgum vegfaranda þarna, sem kemur úr svartaþoku eða vondu veðri af fjallinu, því að oft er mikill munur veðurfars uppi á fjalli og neðan fjalls. Á brúninni stingum við því við fótum og rennum augum yfir það helzta, sem við blasir. Fyrst skulum við líta niður fyrir fætur okkar, svo að við blátt áfram dettum ekki fram af fjallinu, svo er það snarbratt. Af brúninni blasir við hafið, svo langt sem augað eygir til austurs, suðurs og nokkuð til vesturs, og sjaldan er sjór svo kyrr hér, að ekki kögri hvítu við sanda og hleinar. Héðan sjáum við til Selvogs, og ber þar hæst á vitanum á Selvogstöngum, og kirkjunni á Strönd — Strandarkirkju. Neðan fjallsins er allstórt vatn, Hlíðarvatn. Við austurenda þess, uppi við fjallið, er jörðin Hlíð, bær Þóris haustmyrkurs, þess er nam Selvog. Fyrir nokkrum árum var Hlíð lögð undir Stakkavík, en nú eru báðar í eyði, sorgleg saga, sem gerist víða nú.

Selvogsgata-620

Við vesturenda Hlíðarvatns er Stakkavík. Þar sem hús og tún jarðarinnar var fyrir 70—80 árum, er nú allt í vatni, og sést aðeins smáhólmi, þar sem bærinn stóð. Nú stendur bærinn í hraunjaðrinum við vatnið og má heita túnlaus. Þess vegna var Hlíðin lögð undir Stakkavíkina, því að allgott tún er í Hlíð, en sami eigandi að báðum jörðunum, sem sé Strandarkirkja. Úr vatninu rennur ós til sjávar, Vogsósaós. Í Hlíðarvatni er allmikil silungsveiði, og eru það Hlíð og Stakkavík, sem eiga beztu lagnirnar. Af brúninni sjáum við ekki til Herdísarvíkur, þar eð Stakkavíkurfjall byrgir útsýn þangað. Ef við ætlum okkur heim á annan hvorn víkurbæinn, förum við að feta okkur niður stíginn, sem liggur í mörgum krókum og sveigum niður fjallið og heitir Selstígur. Frá fjallinu er aðeins steinsnar heim að Stakkavík.
Vestur að Herdísarvík er um Stakkavikurvegur-212þriggja stundarfjórðunga gangur frá Stakkavík. Hefur nú verið lýst leið hinna svonefndu útbæja í Selvogi, og hverfum við nú aftur norður undir „Skarð“, að vörðunum tveim, og förum þaðan austustu leiðina, sem liggur til Vogsósa og Selvogshverfis.
Vegurinn til Selvogs liggur frá vörðunum austur milli hrauns og hlíða. Er lág heiði með giljum og skorningum á vinstri hönd, en braunið á hægri, og nær það alveg upp að þessum heiðadrögum, og er þessi kafli vegarins nefndur Grafningur. Þegar austur úr honum kemur, er komið í Stóra-Leirdal, það er allstór sléttur grasdalur. Í Stóra-Leirdal var ófrávíkjanleg regla að æja, taka ofan af hestum, ef undir áburði voru, hvort heldur var verið á austur- eða vesturleið.

Selvogsgata-621

Þarna tóku menn til nestis síns, bæði matar og drykkjar, ef eitthvað var fljótandi í ferðinni, og var þá ekki ósjaldan, ef verið var að koma úr kaupstað, stundum í misjöfnu veðri, þegar menn voru búnir að hressa sig á mat, hver við sinn farangur, að menn færðu sig þá saman, og einhver þá ef til vill með ábæti, aðallega af farangri fararstjórans, því að venjulega hafði einhver einn forystu í ferðinni. En oftast var þetta þegjandi samkomulag, og sungu menn nokkur lög, áður farið var að hafa saman hesta til áframhalds ferðinni. Söngurinn, ásamt yljandi hressingu, færði fjör og hita í menn, sem þeir svo bjuggu að næsta áfanga.
Þegar lagt er upp úr Stóra-Leirdal, er strax farið upp allbrattan háls, með nokkrum aðdraganda austur af. Er þetta Hvalskarð. Suðvestur af Hvalskarði er Hvalhnjúkur, mjór og allhár, en frekar þunnur.

Selvogsgata-622

Ekki þætti mér ólíklegt, að nafnið sé dregið af lögun hnjúksins, svo mjög minnir hann á bak stórhvelis að allri lögun. Annars segir þjóðsagan, að tröllkona norðan af fjalli hafi farið til fanga í Selvog og komið þar á hvalfjöru og haft þaðan með sér það, sem hún treysti sér til að komast með, en til hennar sást og hún elt. Varð henni allerfið undankoman, og náðist hún í skarði því, sem síðan er nefnt Hvalskarð og hnjúkurinn þar suður af Hvalhnjúkur, sem fyrr er getið. Þegar austur úr Hvalskarði er komið, taka við Hvalskarðsbrekkur til vinstri handar, en Lágahraun, með háum, strjálum hólum, til hægri handar. Hvalskarðsbrekkur liggja í suður- og suðvesturdrögum víðáttumikillar heiðarbungu, er nefnist Heiðin há. Ekki er mikill gróður uppi á Heiðinni há. Grámosi er þar fyrirferðarmestur, og liggur hann yfir hálfbrenndum grjóturðum. Mishæðalaus má heiðin teljast, en dregst að toppi á alla vegu, og heitir efsti toppur hennar Kerlingarhnjúkur og er 626 m hár.

Selvogsgata-623

Útsýni í björtu er allmikið og oft fagurt af heiðartoppnum, en þó sést ekki það fegursta, sem Heiðin há hefur að bjóða, — en menn vita aðeins af því kringum sig — það er nafn heiðarinnar, það er einkennilega fagurt, í senn fornlegt og skáldlegt. Að velja einmitt þetta nafn, en ekki t. d. Háaheiði eða eitthvað þvílíkt, lýsir því, hvað sá, sem skírði, hefur verið mikill snillingur í nafngiftum á örnefni, og sennilegt er, að fleiri fögur og sérkennileg örnefnaheiti um þessar slóðir eigi til sama manns að telja. Má þar nefna Fjallið eina, sem sver sig greinilega í sömu ætt. Þegar Hvalskarðsbrekkum sleppir og komið er nokkuð austur með heiðarbrekkunum, er stór, stakur hraunhóll vestur við veginn, Þorvaldshóll.

Eiriksvarda-23

Litlu austar, þegar brekkunum sleppir, eða þær lækka svo, að útsýn opnast til norðausturs, blasir við í þeirri átt allstórt fell, Urðarfell. Norðaustur af því eru grasbrekkur og lautir, Fornutorfur, var þar oft slegið frá Hlíð og Vogsósum allmikið af finnungi.
Nokkru austan Þorvaldsháls er komið í Litla-Leirdal. Þaðan er smáspölur þar til talið er, að komið sé ofan af fjallinu. Þá er komið ofan í Katlabrekkur, og er þá Hlíðarfjall til vesturs, en Svörtubjörg til austurs. Þar uppi er Eiríksvarða, og á Eiríkur á Vogsósum að hafa hlaðið hana til verndar Selvogi fyrir sjóránsmönnum, svo sem Tyrkjum. Kippkorn vestur með Hlíðarfjalli skagar smáháls fram úr fjallinu, Sjónarháls. Af honum er stutt heim að Hlíð, sem nú er í eyði og hefur verið um 40 ár. Hlíð er við austurenda Hlíðarvatns, og er þar dágóð silungsveiði.
Rið ágætt á svonefndri Bunu. Beljar þar vatn undan fjallinu, en hæfilega stór möl í botni sem hrygningarstaður.
Að Hlíð bjó Þórir haustmyrkur, sá er nam Vordufellsrett-21Selvog og Krýsuvík, sem fyrr segir. Vogsósar standa á sléttum völlum sunnar með vatninu. Úr Katlabrekkum sér til Selvogsbyggðar, nema útbæjanna, Stakkavíkur og Herdísarvíkur. Liggur nú leiðin til suðurs eða suðausturs, niður vestur- og suðvesturdrög Selvogsheiðar. Þegar nokkuð niður í heiðina kemur, er farið í gegnum svonefnd Rof. Litlu neðar er farið vestan undir smáhraunhæð, sem Vörðufell heitir. Við Vörðufell stóð nokkuð fram yfir síðustu aldamót lögrétt Selvogsmanna, Vörðufellsrétt. Nú eru réttir þeirra norðaustur af Svörtubjörgum.
Ég get ekki gengið fram hjá án þess að drepa á eins konar helgisögn í sambandi við Vörðufell, og er átrúnaður þessi, eða hvað sem menn vilja kalla það, efalaust runninn frá Eiríki á Vogsósum, en sögnin er í fám orðum þessi: Selvogsheiði er, sem kallað er á smalamáli, mjög leitótt, og tefst því oft fyrir mönnum að finna gripi, sem að er leitað, þoka gerir leitina stundum erfiða.

vordufell-22

Ef leitarmann ber nú að Vörðufelli, þá skal hann ganga á fellið, leggja þar einn stein í vörðu eða undirstöðu að annarri, ef þær sem fyrir eru, eru nógu háar orðnar, og mun hann þá bráðlega finna það, sem eftir er leitað. Ekki get ég af eigin reynslu sagt neitt um áhrif þessara verka, en það get ég sagt, að Vörðufell er að ofan alþakið vörðum, stærri og smærri, og jafnvel er þessu eitthvað haldið við enn, eítir því sem greinagóður maður hefur tjáð mér nýlega. Ekki hefur mér tekizt að fá nógu áreiðanlegar sagnir um það, hvað liggi hér til grundvallar, hvaða fórn hér sé verið að færa fellinu eða hverjum; en talið er vafalaust, að ummæli Eiríks á Vogsósum, þess spaka manns, liggi hér á bak við og séu enn í góðu gildi.

Selvogsgata-617

Nokkru suðaustur frá Vörðufelli er Strandarhæð. Suðvestur í henni er stór hellir, Strandarhellir. Framan til er hann hár og falleg boghvelfing yfir, en sandur er í botni, og getur þar verið inni fé, svo að hundruðum skiptir, án þrengsla. Suður af hellinum eru sléttar grasdældir, Dalalágar. Þegar hér er komið, er steinsnar til bæja í Selvogi, og þá venjulega komið að túnhliði, ýmist frá Bjarnastöðum eða Nesi, eftir því sem hverjum hentar, eða þá að utustu bæjum í hverfinu, Þorkelsgerði eða Torfabæ.
Á vetrum, þegar Selvogsmenn fóru gangandi vestur yfir fjall, styttu þeir sér oft leið með því að fara Hlíðarskarð í Hlíðarfjalli, vestur með Langhólum í Austur-Ásum, á veginn sunnan undir Hvalhnjúk, Stakkavíkurveginn. Er nú lýst leiðum Selvogsmanna til Hafnarfjarðar.“

Suðurferðavegur

Suðurferðavegur næst Selvogi.

Heimild:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 49, árg.1943-1948, Selvogsleiðir, Ólafur Þorvaldsson, bls. 96-104.

Selvogur

Minja- og örnefnaskilti var afhjúpað við Strandarkirkju í blíðskaparveðri í dag að viðstöddum sóknarbörnum og fróðleiksfúsum ferðamönnum.

Strandarkirkja

Kirkjan á Strönd.

Um var að ræða skilti þar er gefur að líta bæjarnöfn, örnefni og minjar í Selvogi. Kortið var gert með dyggri aðstoð heimamanna, þeirra Þórðar Sveinssonar, Þórarins Snorrasonar og Kristófers Bjarnasonar heitins og endurspeglar sögu þessa fjölmenna og merka útvegsbændasamfélags í gegnum aldirnar. Öll vinna var endurgjaldslaus, en Sveitarfélagið Ölfus greiddi fyrir prentun uppdráttarins og Biskupsstofa kostaði gerð skiltisins.

Selvogur - skilti-III

Strandarkirkja og skiltið góða – Askur, eins árs, virðist ánægður með árangurinn.

Á myndinni hér á ofan, sem tekin var við vígsluna, má sjá (frá vinstri) Ómar Smára Ármannsson, teiknara og utanumhaldsmann, Ask Emil Jónsson, sérlegan aðstoðarmann, Þórð Sveinsson frá Bjargi í Selvogi, Þórarinn Snorrason bónda á Vogsósum í Selvogi, Jóhann Davíðsson FERLIRsfélaga og sérlegan aðstoðarmann og Jón Ragnarsson, settan prest í Strandarkirkju, fulltrúa sóknarnefndar Selvogs og Biskupsstofu. Á myndina vantar Ólaf Örn Ólafsson, bæjarstjóra Sveitarfélagsins Ölfuss, sem veitti verkefninu ómetanlegt brautargengi. Þegar myndin var tekin var hann upptekinn í viðræðum við bæjarbúa og aðkomandi gesti.
Skiltastandurinn var hannaður og smíðaður hjá Martak h/f í Grindavík og skiltaplatan prentuð á plasthjúpaða álplötu hjá Stapaprent h/f í Reykjanesbæ. Það var síðan afhjúpað kl. 14:00 á laugardeginum, sem fyrr sagði. Í kjölfarið var boðið upp á leiðsögn um Selvoginn undir handleiðslu Þórarins Snorrasonar og Jóhanns Davíðssonar. Tilgangurinn með gerð uppdráttarins var að festa á blað tilvist og staðsetningar örnefna á þessum merkilega, en gleymda, útvegsbæ á meðan enn voru til menn er mundu hvorutveggja – komandi kynslóðum til ánægju og fróðleiks.
Frábært veður.

Ölfus

Selvogur – Minja- og örnefnaskilti (ÓSÁ).

 

Selvogsleiðin gamla

Eftirfarandi grein um „Selvog og umhverfi“ birtist í Lesbók Morgunblaðsins árið 1938:
Selvogsvegir-551„Í góðviðriskaflanum í sept. 1.1.fór jeg til Selvogs, í erindum fyrir fjelag hjer. í Reykjavík. Jeg fór með bíl, sem leið liggur að Hveragerði í Ölfusi. Þaðan hafði jeg hugsað mjer að flytjast á hinum meðfæddu flutningatækjum. Heiðríkja og blíðskaparveður var þá, og alla dagana er jeg var í ferðinni. Frá Hveragerði fór jeg eftir hinum nýja vegi, sem verið er að leggja út Ölfushrepp, og er hann kominn út á móts við Þóroddsstaði. Þaðan er slarkfær bílvegur út að Hraunum. Þegar þangað kemur beygist vegurinn dálítið til norðurs, út með fjallinu, áleiðis til Selvogsheiðar, og liggur vegurinn þar um helluhraun og aurflög, og er ekki fær bílum í rigningartíð. Tveir bæir eru þar út með fjallinu, og liggja þeir allfjarri hvor öðrum, og er þangað nær tveggja tíma gangur frá næstu bæjum í Ölfusi. Sá þeirra, er liggur næst Selvogsheiði, og er ysti bær í Ölfushrepp, heitir Hlíðarendi, og gisti jeg þar um nóttina. Morguninn eftir, um kl. 9, lagði jeg á Selvogsheiði, áleiðis til Selvogs. Vegurinn liggur fyrst út með alllöngu hamrabelti, og verður hann víða að liggja í gegnum slæm aurflög, eða um helluhraun, eða laust hraungrjót. Heiðin smálækkar nokkuð vestur fyrir miðju, og liggur vegurinn á þeim kafla víða um mýrlendi og móa, og víðast mjög lágt, og er vegurinn ófær bílum á austanverðri heiðinni í rigningartíð, en hinsvegar myndi ekki þurfa að kosta mjög mikið fje að gera þar allgóðan sumarveg fyrir bíla. Þar á austurheiðinni er kjarngott beitiland, enda var þar allmargt sauðfje á víð og dreif.

Nes-551

Þegar komið er um 1/2 vegar innanfrá, eða hæst á heiðina — en hún er hvergi há — sjest Selvogsþorp, og ber þar mest á vitanum og hinni oftnefndu Strandarkirkju.
Leiðin lækkar fljótara og með jafnari halla að vestanverðu og er þar landslag fallegt, víða hallandi vegir, og því að miklu leyti sjálfgerður bílvegur, þar til fer að nálgast þorpið, þá fer að bera allmikið á foksandi og uppblæstri, og hefir foksandurinn gert Selvogsbúum mikið tjón, og sjást sandskaflar þar víða, t. d. er allhár grjótgarður um austanvert túnið í Nesi, og náðu þó sandskaflarnir upp fyrir miðju á honum, en samt sem áður hlífir garðurinn túninu mikið. Jeg kom í Selvog eftir 4 tíma gang yfir heiðina. Jeg var þar öllum ókunnur, og ákvað að finna fyrst vitavörðinn að máli, og bað hann um gistingu meðan jeg dveldi í þorpinu, og var það strax til reiðu.

Strandarkirkja-1928-2

Guðmundur Jónsson vitavörður er vel greindur maður, fróður og athugull um margt í fortíð og nútíð, og dugnaðarmaður í búskap og hvívetna. Þegar jeg hafði lokið erindi mínu, fór jeg að skoða hina nafnkendu Strandarkirkju, sem svo margra hugur virðist hvarfla til í andstreymi lífsins. Kirkjan er utanvert við þorpið, og nálægt sjó. Það er lagleg og vel hirt timburkirkja, og stendur hún, og grafreitur umhverfis, á sandhól. Stormarnir hafa um aldaraðir sorfið úr hólnum, en til þess að stöðva það hefir verið hlaðinn allhár grjótgarður, að miklu leyti umhverfis hólinn, en hann er nú farinn að hrörna, og ætti að sjálfsögðu, að steypa þarna varnargarð um kirkju og grafreit, enda hefir Strandarkirkja ærið fje til að hlúa að sjer og sóknarbörnum sínum, lífs og liðnum.

fornigardur-551

Talsvert hefir verið unnið að því að græða upp land kirkjunnar með góðum árangri. Mjer fanst eins og yfir þessari yfirlætislausu, snotru timburkirkju hvíla þögul, tignarleg ró. Má vera að það hafi verið af því, að jeg vissi, að samstiltur hugur margra Íslendinga hefir oft kvarflað til hennar til áheita í mótblæstri lífsins, og hinar miklu gjafir til hennar sýna, að oft hefir mönnum orðið að ósk sinni í því sambandi. Jeg ætla ekki að fara fleiri orðum um þessa hlið málsins, en ,,ef þjer hafið trúna, megnið þjer fjöllin úr stað að færa“, og „harla margt er á himni og jörð, er heimspekina dreymir ei um“.
Strandarkirkja hvað eiga í sjóði um 150 þús. kr„ er gera verður ráð fyrir að sje í reiðu fje. Þetta er meira fje en kirkjan þarf sjer til viðhalds. Mjer finst, að kirkjan — eða forráðendur hennar, sem hvað vera hlutaðeigandi sóknarnefnd, ríkisstjórn og biskup — ættu að verja nokkru af fje hennar til andlegra og líkamlegra hagsbóta fyrir sóknarbörn kirkjunnar. Jeg vjek dálítið að þessu máli við Guðmund vitavörð. Hann sagði að sú hugsun hefði gert vart við sig þar, að gera Selvog að sjerstöku prestakalli. Kirkjan ætti að nokkru eða öllu leyti að leggja fram fje til þess að jafntímis yrði reist hæfilegt skólahús fyrir barna- og unglingakenslu, og íbúð fyrir prestinn, sem jafnframt væri aðalkennari.

Selvogur-551

Líklegt þykir mjer að Selvogsbúar myndu sjá um, að í þann starfa slysaðist ekki hempukommúnisti, heldur maður, sem hefði áhuga fyrir að þroska ungmenni andlega og líkamlega á þjóðræðisgrundvelli. Margt fleira mætti nefna, er ætti vel við að kirkjan legði fje fyrir sóknarbórusíu, svo sem til bókasafns o. fl.
Húsakynni í Selvogi eru yfirleitt góð, þar eru nokkur mjög snotur íbúðarhús úr timbri og steini. Garðrækt er þar töluverð, enda góð skilyrði fyrir henni. Tún eru furðanlega grasgefin, þrátt fyrir sandfok. Nautgriparækt getur ekki orðið þar mikil, en aftur á móti hafa Selvogsbúar allmargt sauðfjár, enda er þar snjóljett, og kjarngóð beit á heiðunum.

selvogur-552

Guðm. vitavörður í Nesi hefir, að sögn, um 800 sauðfjár, og mun það vera langflest hjá honum, enda er Nes aðaljörðin. Í jarðamatinu frá 1860 er Nes metið 55 hundruð.
Íbúar þorpsins virðast, að framkomu og yfirbragði, ekki standa að baki annara í kauptúnum og kaupstöðum. Menn skiftast, þar sem annarsstaðar, í pólitíska flokka. Þó heyrði jeg þess ekki getið, að einræðis- og kúgunarstefna kommúnista — og hinna dulbúnu fylgjenda þeirra — væri farin að gera vart við sig. Það ber vott um mikið andlegt þroskaleysi hjá þjóðinni, og andvaraleysi með frelsi sitt, ef hún uggir ekki að sjer fyr en hún hefir verið hnept í fjötra ófrelsis og kúgunar, ef til vill undir yfirstjórn erlendrar harðstjórnar. Blóðferill komiminismans — bæði beint og óbeint — er að verða drepsóttum verri í heiminum. 

Selvogsviti - gamli

Nú á þjóðin engan Einar Þveræing, og því síður nokkurn Jón Sigurðsson.
Þjóðin sjer, og horfir með kvíða á hættuna, en hefst ekki að. Sumir af sinnuleysi. Nokkrir trúa, ef til vill, ekki að hætta sje á ferðum. Aðrir ef til vill af því, að þeir vænta sjer hagnaðs af því að  viðhafa „hin þöglu svik, að þegja við öllu röngu“.
Guðmundur vitavörður álítur, að ekki muni verða ábyggilegur bílvegur suðurleiðina sakir snjóþyngsla er oft komi bæði á svæðinu frá Krýsuvík að Selvogi, og engu síður á austanverðri Selvogsheiði, sem liggur víðast mjög lágt, og virðist mjer það mjög líklegt, en sumarveg fyrir bíla má gera um heiðina, til Selvogs, með fremur litlum kostnaði. Vetrarvegur frá Reykjavík, um Krýsuvíkurheiði og Selvogsheiði, mun ekki reynast ábyggilegri, sjerstaklega í suðvestan snjó komu, en Hellisheiði. Ef Hellisheiðarvegurinn væri endurbættur, þannig, að hækka hann mjög víða upp, og færa hann upp úr lautunum (t.d. skamt frá Kolviðarhóli), er ástæða til að ætla, að hann yrði engu síður ábyggilegur en hinn, en svo miklum mun styttri og því ódýrari til notkunar. En Íslendingar þurfa að muna það, og vera við því búnir, að oft hafa komið þau fannalög, að bílvegir myndu hafa farið í kaf allvíða, og til þess að rökstyðja það, þarf ekki lengra aftur í tímann, en um og eftir síðustu aldamót.
Selvogsgata-551Frá Selvogi ákvað eg að fara skemstu leið til Hafnarfjarðar, og er það rúmir 40 km., og liggur leiðin yfir háa heiði, og mun hún vera um 20 km., og endar að norðanverðu í Grindaskörðum.
Jeg lagði af stað frá Selvogi. Þegar maður er staddur á fjöllum uppi, verður maður best var við alvöru- og tignarsvip náttúrunnar, og þar „þagnar dagur þras og rígur“, og eins og Gestur Pálsson segir: „Rekur sig þar ekki á nein mannaverk“, og jeg vil bæta við: Þar blasa við stórvirki náttúrunnar, er Jónas Hallgrímsson minnist á í hinu lotningarfulla erindi: „Hver vann hjer svo að með orku“.
Vegurinn um heiðina er slæmur, lítið annað en margra alda hestatroðnigar, víða með lausu hraungrjóthröngli, og lítur út fyrir, að þar hafi ekki verið hreinsuð gata á þessari öld, og er vegurinn þó líklega í tölu fjallvega. Um eitt er ferð um þessa heiði varhugaverð að sumarlagi. Það er vatnsleysið. Jeg varð ekki var við nokkurt vatn frá því jeg lagði á heiðina, og þar til jeg kom niður undir Hafnarfjörð, að vatnslæk bæjarins, er kemur undan hrauninu. Jeg bjóst við vatnsleysi á þessari leið, þar sem þetta er alt brunnið land, er gleypir fljótlega alt yfirborðsvatn. Til þess að mig þyrsti síður, borðaði jeg einungis skyr og mjólk áður en jeg lagði á heiðina, og nesti þorði jeg ekki að smakka fyr en við Hafnarfjarðarlækinn, af sömu ástæðu, enda bar þetta hvorttveggja tilætlaðan árangur.
A norðurbrún heiðarinnar eru Grindaskörð. Um för Repps um Grindaskörð 1867 orti Kristján Jónsson skopkvæði, og þar meðal annars þetta: Yfir geigvænleg Grindaskörð geystist fárramur ofurhugi; með galdrakynpri og gneistaflugi dundi á jöklum hríðin hörð. Höfuðskepnurnar hömuðust, hamaðist Repp þó engru miður. Alteins og háreist bæjarbust er bugast ei neina storma viður.
Þegar komið er fram að Grindaskörðum, á norðurbrún heiðarinnar, opnast fljótlega fagurt útsýni. Fyrir neðan heiðina liggur víðáttumikið mosavaxið helluhraun.
Niður við sjóinn sjest Reykjavík, og sýnist hún liggja allnærri, af því að hæð fjallsins dregur eins og að sjer. Víðáttumikið útsýni er yfir Faxaflóann. Í þetta sinn lagði inneftir honum dálitla útrænu. Þá er fjallahálfhringurinn svipmikill, einkum Akrafjall, Hafnarfjall og Esjan, sem framverðir, og Snæfellsfjallgarðurinn með hinn tignarlega útvörð, Snæfellsjökul.

selvogur-554

Þegar komið er niður af heiðinni, liggur vegslóðinn um helluhraun, vaxið grámosa á alllöngu svæði, og er mosalagið víða um 30 sm. á þykt, og var mýkri en nokkur fjaðrasófi að leggjast á. Leiðin frá heiðinni til Hafnarfjarðar mun vera um 20 km., og er um helmingurinn flatneskja, og því mjög villugjarnt í dimmviðri. Vegarslóðinn hefir, fyrir löngu síðan, verið varðaður, en vörðurnar eru að mestu hrundar, og því ekki vegvísir þegar þeirra er þörf. Sumsstaðar sjest fyrir götunni á þann hátt, að laut er troðin í hraunhellurnar eftir hestafætur, og hefir það sína sögu að segja. Þegar komið er niður fyrir Hafnarfjarðargirðingu, liggur vegurinn eftir þröngum skorningum um hraunið, og er mjög vont yfirferðar, gatan mjög víða þakin af hraunmulning, og væri full þörf á, og kostnaðarlítið, að hreinsa götuna, þótt líklega sje þar ekki fjölfarið.“

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, Selvogur og umhverfi hans eftir Ólaf Jóhannsson frá Ólafsey, 23. janúar 1938, bls. 17-19.

Selvogsgata

Selvogsgata – kort ÓSÁ.

Herdísarvíkurbjarg

Eftirfarandi frásögn um sjóróðra frá Herdísarvík birtist í Alþýðublaðinu 1946:
Herdisarvik-503„Vetrarvertíðina 1919 var ég ráðinn til sjóróðra í Herdísarvík. Þar sem ég hafði aldrei farið til sjávar fyrr, beið ég þess með mikilli eftirvæntingu að komast í verið, enda svo litið á almennt, að þá fyrst væri hægt að telja unglingana menn með mönnum, er þeir voru orðnir hlutgengir í skiprúm. Frá sjónarmiði unglingsins var útræði í fyrsta skipti ekki einvörðungu tengt v
ið atvinnuna eða von um tekjur, heldur var hún að vissu leyti svölun á ævintýraþrá og eins konar prófraun.
Í byrjun góu lagði ég af stað í verið. Var ég þá hjá foreldrum mínum í Gljúfurárholti í Ölfusi. Nikulás, sonur Jóns í Vorsabæ í sömu sveit, var ráðinn á sama skip og ég, og urðum við samferða. Við vorum báðir fótgangandi og reiddum færur okkar á sínum hestinum hvor. Það var norðankæla og gott færi.
Okkur sóttist ferðin Herdisarvik-502greiðlega. Við vorum léttir í spori og höfðum röska og trausta hesta undir klyfjunum. Við fórum sem leið liggur út Ölfus og fórum fyxsta daginn út á Hliðarbæi, gistum á Breiðabólsstöðum hjá Ingimundi Ögmundssyni og Sigurlínu systur hans, en þau voru systkini Jóns, föður Nikulásar. Fengum við þar hinar beztu viðtökur. Var svo förinni haldið áfram daginn eftir, sem leið liggur út Selvogsheiði. Var veður hið ákjósanlegasta og hjarn yfir allt. Þegar við vorum staddir utan til á há Selvogsheiði, sáum við tvö seglbúin skip skammt undan landi. Virtust þau mjög tíguleg, og hugðum við þetta skútur vera, en seinna komumst við að raun um, að þetta voru opin áraskip á leið til Herdísarvíkur. Höfðu þau farið leiði frá Eyrarbakka þennan dag.
Við létum nú lítið yfir þessari ágizkun okkar með Hlodunes-205skúturnar, en það vildi ég segja, að tígulegir og fallegir voru teinæringarnir gömlu með fullum seglum (framsegli, aftursegli, safnrokku og klýfir) og alveg ótrúlegt, hversu góðir þeir voru í sjó að leggja, þegar þeim var vel stjórnað.
Að Vogsósum komum við síðla dags og fengum þar fylgd yfir Hlíðarvatn. Það var ísi lagt, en vandratað yfir það. Fylgdi okkur piltur, sonur Vilhjálms bónda á Vogsósum, er Jakob kvaðst heita, rösklegur og myndarlegur piltur. Frá Hlíðarvatni að Herdísarvík er yfir hraun að fara, en í gegnum það er ruddur vegur, sem er góður yfirferðar með baggahesta.
Þegar við komum til Herdísarvíkur, var þar fyrir hópur manna, sem farið hafði heiði um daginn, og voru þeir að koma föggum sínum fyrir og búa um sig. Ég tók að mér að fara með hestana upp í Ölfus aftur.

Herdisarvik-504

Ég var beðinn fyrir nokkra fleiri hesta frá Ölfusingum, er fluttu sig þennan dag. Í  för  með mér slóst maður af Eyrarbakka, sem hjálpað hafði til við flutningana út eftir þá um daginn. Hét hann Guðmundur Steinsson. Ætlaði hann austur að Nesi i Selvogi um kvöldið, til Páls Grímssonar, en hann kvaðst vera háseti hjá Páli, en Páll var þá og hafði verið um langan tíma heppnis- og myndarformaður í Þorlákshöfn.
Er við lögðum af stað úr Herdísarvík, var komið dagsetur, tunglskinslaust, en heiður himinn og stjörnubjart. Ferðin gekk greiðlega, en er við vorum komnir út í Hlíðarvatn, brestur ásinn undan hestunum. Við höfðum farið af réttri leið og lent niður undir Vogsósaós, þar sem ísinn var ótryggur.
Vatnið náði þarna hestunum nærri i kvið og var því að vísu engin hætta á ferðura. En Herdisarvik-505hestunum kom ég ekki áfram, hvernig sem ég reyndi, og varð ég því neyddur til að fara af baki, og varð ég að brjóta ísinn, sem þarna var mjög veikur, og váða á undan hestunum til lands.
Fór ég nú heim að Vogsósum og baðst gistingar, en Vilhjálmur kvaðst því miður ekki geta hýst hestana né gefið þeim hey, þar sem allar skepnur væru i húsi og hey farin að ganga til þurrðar, þar eð veturinn hefði verið mjög harður og gjafasamur. Það varð því úr, að ég héldi áfram upp í Ölfus, eftir að ég hafði þegið góðgerðir á Vogsósum, og fylgdi Vilhjálmur mér langt á leið.
Herdisarvik-506Er mér það mjög í minni, hversu Vilhjálmur var vinsamlegur við mig, barmaði sér sáran yfir því, að hafa ekki getað hýst mig, og gaf mér ýmsar leiðbeiningar varðandi leiðina yfir Selvogsheiði. Er hann kvaddi mig, bað hann vel fyrir mér og lét svo um mælt, að frá sér hefði aldrei farið neinn í meiri tvísýnu, og bað mig mjög eindregið um það, að koma við hjá sér, er ég færi út um daginn eftir. Ég þakkaði svo fylgdina og fórum við sinn í hvora áttina. Mér fannst, satt að segja, engin hætta á ferðum, og mig furðaði á því, hvers vegna Vilhjálmur var svona óttasleginn yfir þessu ferðalagi mínu, en ég fékk á honum mjög góðan þokka vegna þess, hversu annt mér fannst honum vera um mig. En ég leyndi hann því, að ég var rennvotur upp fyrir hné. Svona geta unglingar verið kærulausir. Vilhjálmur hefði verið fljótur að láta mig hafa þurra sokka og föt, ef hann hefði vitað þetta.
Herdisarvik-507Stinningskaldi var á norðan, en ekki mikið frost. Tunglskinslaust, en heiður himinn. Ég rak klárana og lét þá brokka. Ég varð að hlaupa til að geta haldið á mér hita, þvi að mér fannst nöpur kólgan á Selvogsheiði um lágnættið. Ég hafði vindstöðuna fyrir vegvísir og löngu eftir að ég; skildi við Vilhjálm, sá ég að Kvennagönguhóla bar við himin á vinstri hönd, og vissi ég þá, að ég var á réttri leið, en hrautina okkar frá því um daginn fann ég ekki, og hvergi sá á dökkan díl. Ferðin gekk viðstöðu- og tafarlaust, og að Breiðabólsstöðum kom ég um nóttina og fékk þar góðar viðtökur. Hjá þeim systkinunum, Ingimundi og Sigurhnu á Breiðabólsstöðum, hafði ég áður dvalið, og eru þau með merkasta fólki, er ég hef kynnzt, sakir prúðmennsku sinnar og mannkosta. Dagin eftir fór Ingimundur með hestana áleiðis upp Ölfus, en ég sný við til Herdisarvik-508Herdísarvíkur. Ég kom að Vogsósum í úteftirleiðinni, eins og ég hafði lofað Vilhjálmi.
Herdísarvík er vestasti bær í Árnessýslu og er í Selvogshreppi. Frá Herdísarvík að sýslumörkum Árnessýslu og Gullbringusýslu mun vera um hálfs annars tíma lestaferð og út til Krýsuvíkur þriggja tíma ferð. Næsti bær við Herdísarvík að austan er Stakkavík, og mun þangað vera um klukkutíma ferð. Herdísarvík er því mjög afskekkt og stendur fyrir botni samnefndrar víkur. Umhverfið er óblítt en tilkomumikið. Risavaxið fjall skamt frá í norðri, Herdísarvíkurfjall, með svörtum skriðum og háum eggjum.

Herdisarvik-509

Milli fjalls og fjöru úfið hraun, sem runnið hefur fram af fjallinu um skarð, er kallast Mosaskarð. Það hafa verið hrikalegar náttúruhamfarir, er hraun þetta fossaði fram af fjallinu og í sjó fram. Ég hef hvergi séð risavaxnari né tígulegri öldur en brotsjóina á hólminum út af Selvogi, séð úr Herdísarvík. Það má með sanni segja að þar skálmi boðarnir í lest.
Herdísarvík var mjög fiskisæl verstöð og stutt á miðin. Þessa vertíð, 1919, voru fimm skip gerð út frá Herdísarvík. Skipshafnirnar lágu í sjóbúðum, sem voru skammt austur af bænum, og voru 12 og 13 menn á hverju skipi. Í þessari litlu og afskekktu verstöð voru því saman komnir yfir 60 sjómenn úr Árness- og Rángárvallasýslu, Formenn á skipunum voru: Símon Simonarson yngri frá Bjarnastöðum í Ölfusi, Halldór Magnússon frá Klöpp í Selvogi,
Gísli Herdisarvik-509Scheving Gíslason frá Stakkavík, Ívar Geirsson frá Eyrarbakka og Ársæll frá Álfhólum í Landeyjum. Ég réri hjá Símoni, og voru skipverjar þessir, auk formannsins: Guðmundur Jónsson frá Stóra-Nýjabæ í Krýsuvík, hafði áður verið heppnis formaður í Herdísarvík, Bjarni, sonur hans, Páll og Torfi, bræður, synir Jóns á Ægissíðu í Holtum, Björgvin Magnússon frá Klausturhólum í Grímsnesi, Elías Símonarson frá Núpum í Ölfusi, bróðir formannsins, Ari Þorsteinsson frá Eyvindartungu í Laugardal, Jón Þorsteinsson frá Miðdal í Laugardal, Árni Árnason frá Hjalla i Landmannahreppi, Nikulás Jónsson frá Vorsabæ í Ölfusi og ég, er þéssar linur rita. Sjóbúðin okkar var með beztu verbúðum. Veggirnir hlaðnir úr tilhöggnu grjóti, sem lagt var í sement. Þakið járnvarið og klætt innan á sperrurnar með panel. Þrjú rúmstæði voru meðfram hvorum vegg, og voru tveir menn í hverju rúmi og lágu þeir andfætis. (Í einu rúminu vorum við þrír unglingar, og var það kallað strákarúmið). — Gólfið millirúmanna var um einn og hálfur metri á breidd.

Herdisarvik-510

Var það steypt, en í flestum sjóbúðum þá vou moldargólf, eða réttara sagt sands- og malargólf, og var búðin þrifin með því að moka gólfið. Inn af sjóbúðinni okkar var geymsla, þar sem geymd voru matvæli, fatnaður, skinnklæði og veiðarfæri. Fyrir ofan sig í rúmunum höfðu menn matarskrínur sínar, og snéru menn sér til veggjar og hölluðu sér að skrínunni sinni, er þeir mötuðust. Matarforðinn yfir vertíðina, eða útgerðin, eins og það var kallað, var tveir fjórðungar af smjöri, og var því drepið í annan enda skrínunnar, tveir sauðir, annar í hangikjöti og hinn i kæfu, og var kæfunni repið í hinn enda skrínunnar á haustin um leið og kæfan var soðin. Auk þess lifðu menn á harðfiski og rúgbrauðum.

Herdisarvik-511

Að sjálfsögðu var útgerð manna nokkuð misjöfn, og misjafnt entist mönnum forðinn, en það algenga var, að menn lifðu á þeim fæðutegundum, sem ég nú hef nefnt, þ. e. lifðu á skrínukosti, eins og kallað er, smökkuðu aldrei heitan mat eða neina vökvun aðra en svart kaffi og „munaðaraukinn eini og bezti, ögn af sykri“ í sjóvettlingi, sem venjulegast var geymdur í órónum sjóvettlingum.

Herdisarvik-512

Í sjóbúðinni okkar var hlýtt og notalegt, þótt ekkert væri eldfærið til að hlýja upp með, og útveggir óeinangraðir, enda voru menn engu góðu vanir hvað híbýli snerti og upphitun í húsum þekktist naumast. En ekki er því að leyna, að mataræðið og fatnaðurinn, ullarfötin, hömluðu mjög á móti kuldanum.
Jú, ég man eftir einu eldfæri, sem átti það tíl að vekja menn eldsnemma á morgnana, þegar ræði var, með sínum sterku drunum og hvissi. Það var prímusinn. Það var Páll á Ægissíðu, sem venjulega hitaði morgunkaffið, eftir bendingu frá formanninum, og lét prímusinn gefa til kynna, að nú skyldu menn vakna, rísa upp við dogg að skrínum sínum, taka sér bita eftir því sem lystin leyfði, og fara svo að tígja sig. Formaðurinn tók alltaf fyrstur skinnklæðin. Sótti þau inn í geymslu og gaf með því til kynna, að nú skyldi róið. Hásetarnir fóru að dæmi hans, sóttu hver sín bösl, þegjandi og íbyggnir. Það var oft hráslagalegt að fara í skinnklæðin, og sjóveikir menn fengu velgju, því að af skinnklæðunum lagði venjulega sterkan grútarþef.

Herdisarvik-513

Skinnklæði voru verkuð með því móti, að maka þau í grút eða lýsi. Bar það vott um hirðusemi og snyrtimennskú að hirða skinnklæði sín vel, þurrka þau vel eftir róður, þegar hægt var, og bera á þau lýsi eða fernisolíu. Þegar skinnklæði voru vel hirt; voru þau pottheld og mjúk og ekki stirt að vinna í þeim. Menn skinnklædu sig hljóðlega; það hvíldi: yfir því alvara og lotning. Menn smeygðu fótunum til botns í brókina, löguðu framleistinn, bundu á sig sjóskóna; það var lítt nettur skófatnaður, teigðu brókina upp undir hendur, reirðu hana að sér eftir kúnstarinnar reglum.

Herdisarvik-514

Sumir signdu sig, áður en þeir smeygðu skinnstaknum yfir höfuð sér, vöfðu ermar að úlnlið, drógu saman í hálsmál, bundu um sig mittisbandið, settu á sig sjóhatt og sjóvettlinga. Skinnklæddur maður var karlmannlegur og fyrirferðarmikill. -Skinnklæddur maður var friðhelgur.
Formaður fór fyrir til skips. Hann gengur að afturstafni skipsins, sem snýr að sjó. Hásetarnir raða sér að skipshliðunum, stjórnborðshlið, bakborðshlið, hver áð sínum keip. Skorður eru losaðar, skipsmenn taka ofan, signa sig og gera krossmark fyrir rúmi sínu. Þá er hlunnað og skipið sett fram, numið staðar í flæðarmáli, ef lág var; formaðurinn velur lag og kallar snjallt og ákveðið: „Ýtið.“ Nú þarf allt að gerast i skjótri svipan, ýta á flot, komast upp í skipið, setjast undir árar og taka í og róa sprettróður út fyrir landboðana.
Herdisarvik-515Nú er skipinu snúið, því skutur gengur á undan þegar ýtt er. Hásetar leggjast á árar og fá skrið á skipið. Ef skipi var vel róið, sýndist ein ár á borð, þegar séð var íraman á skipið, þótt fimm eða sex menn reru. Nú sameinast skipverjar allir í hljóðlátri bæn; það er yfirlætislaus en hátíðleg helgiathöfn. Menn lægja róðurinn, taka ofah, drjúpa höfði og lesa sjóferðarbæn og „faðir vor“ og signa sig að bæninni lokinni. Þetta var gert í hverjum róðri, og eins þótt tví- eða þríróið væri! sama daginn. Þessi þagnar- og tilbeiðslustund skipshafnarinnar var þrungin innleik og hátíðablæ og alvöru.
Við róum í hálftíma, klukkutíma. Formaðurinn stýrir. Hann ratar að netatrossunni, því að hann þekkir miðin. Framámennirnir grípa belginn, og stjórafærið er dregið inn.
Það er oft erfitt að Herdisarvik-516toga upp stjóranum. Allir toga í stjórafærið, sem liggur eftir endilöngu skipinu, og formaðurinn er endamaðurinn og tekur af slakann. Netin eru dregin inn, allt á handafli, auðvitað. Tveir draga netin, sinn hvorn tein, steinatein kúlnatein. Aðrir skipverjar bera í, greiða úr, blóðga, greiða netin og leggja þau greið niður í barkann, andæfa. Það var stundum erfitt að vera í andófi; þessi látlausi róður, þar sem menn voru alltaf að snúa hver á annan. Skipinu áttu andófsmenn að halda beint í vindinn og sjá um að hafa beina niðurstöðu á netunum. Þetta var nokkuð vandasamt, ef strekkingur var, og þá var alltaf verið að rexa í andófsmönnunum: „betur á stjórn og báðir áfram“. Þegar búið var að taka trossuna, voru netin róin út, og var skipinu þá róið aftur á.
Herdisarvik-517Oft var vindstaða hagstæð; var þó siglt og var það kærkomið. Þá urðu menn glaðir og gamansamir, sungu eða kváðu: „Sigla á fríðum súðahænig segja lýðir yndi. Blakk að ríða og búa í sæng baugahlínar undir væng.“ eða: „Sigla fleyi og sofa í meyjarfaðmi ítar segja yndi mest og að teygja vakran hest.“
„Í Herdísarvík var landtaka ekki góð. Það varð oftast að seila út á vegna þess, að skipinu var ekki haldandi í vörinni fyrir brimi. Voru seilarólarnar svo bundnar saman og fest í þær færi og þær látnar fljótta að boðabaki, meðan hleypt var að og skipið sett.
Skipin voru venjulega sett aðeins Herdisarvik-519upp fyrir flæðarmál, en í naust, ef talið var að fárviðri væri í aðsigi. Nú voru seilarnar dregnar að landi á færinu, er fest hafði verið í þoer. Þá var fiskurinn þræddur af seilarólinni á birgðarólarnar og borinn á bakinu upp á völl. Er því var lokið, labba menn til búðar. Hafði róðurinn þá staðið yfir frá kl. 6 að morgni til kl. 1—2 eða jafnvel 3—4 að deginum, og höfðu menn á þeim tíma sjaldnast notið nokkurrar hvíldar né smakkað vott eða þurrt. Menn tóku því venjulega hraustlega hraustlega
til matar síns. Gert var að fiskinum á aðgerðarvellinum og vár hann saltaður í bingi. Meðan fiskur var hertur, þótti Herdísarvík góður herzlustaður vegna hraunsins, og sáust greinilega er fiskurinn var hertur á?
Herdisarvik-518Þegar vel fiskaðist var kominn dagur að kvöldi, þegar búið var að gera að; voru menn þá orðnir hvíldarþurfi, og tóku á sig náðir. Er menn höfðu gengið til hvílu, var lesinn húslestur, Passíusálmar eða Péturshugvekjur. Ari Þorsteinsson las lesturinn. Það urðu stundum fáir til að þakka fyrir lesturinn. Svefninn hafði seytt þá.
Landlegur voru nokkuð tíðar. Þegar hafátt var, þá var ekki róandi fyrír brimi, og ekki mátti vera hvasst á norðan svo róandi væri. Menn voru oft á báðum átttum með, hvort róið skyldi, og var það kallað, að standa í vomum.

Herdisarvik-520

Það var formaðurinn, sem gerði það upp við sig, hvort róið skyldi eða ekki og aldrei heyrði ég neinn malda i móinn yfir ákvörðun formanns, né mögla yfir því, sem gera skyldi. — Í landlegum var oft glatt á hjalla í búðinni. Menn spiluðu, flugust á, tefldu, sungu. Ekkert útvarp, ekkert bókasafn, engin blöð, enginn sími, samgöngur mjög litlar eða engar. Menn urðu að búa að sínu. Það voru sagðir brandarar, og mikið hlegið, og svo sungið við raust, margraddað, sópran, prímóbassi, bassi, án hljóðfæris, án sönigstjóra, og aldrei farið út af laginu. Búðarlífið var verulega skemmtilegt, og þar sem ég þekkti til, ríkti syo heilbrigður og drengilegur andi í þessum félagsskap, að til fyrirmyndar er.
Ég man ekki eftir að menn yrðu sumdurorða, eða tækjust á í illu, en þarna sást ekki áfengi, nema á sumardaginn Herdisarvik-521fyrsta, þá urðu allir að finna á sér, þá urðu menn góðglaðir og hlógu að fyndninni hver hjá öðrum, og þeim, sem mjöðurinn sveif mest á.
Þórarinn Árnason, sýslumanns frá Krýsuvík, var ábúandi Herdísarvíkur. Hann átti mjög margt sauðfé. Þórarinn hafði engin afskipti af sjómönnunum eða samskipti. Ég sá hann aldrei nema tilsýndar. Það var eins og hann forðaðist okkur. Konu hans, Ólöfu, sá ég einu sinni. Var hún fríð sýnum og fyrirmannleg.

Herdisarvik-522

Þessa vertíð gerðist ekkert markvert sérstaklega. Veðráttan var mjög köld, fiskirí sæmilegt, þegar gaf, og aflinn í vertíðarlok í góðu meðallagi. Einu sinni urðum við að hleypa austur í Selvog vegna útnyrðings. Landtaka í Selvogi er slæm; þar hef ég orðið hræddastur um líf mitt. Ég held að margur hafi hlotið að biðja vel fyrir sér á sundinu í Selvogi.
Um lokin tvístrast menn og kveðjast með kossi. Menn halda heim til sín með lýsi, matfisk, skreið, sundmaga o. fl. Hluturinn er gerður upp, þegar aflinn hefur verið seldur.
Áraskipin eru horfin af sjónarsviðinu, og þeirra tími kemur aldrei aftur. Róðurinn er ekki lengur hið lífsnauðsynlega starf, heldur er hann nú stundaður sem íþrótt. Hesturinn, sem rogaðist með byrgðar sínar, færur, skreið, lýsiskvartél o. fl. o. fl. um óbyggðir og vegleysur, er nú ekki lengur þarfasti þjónninn. Það hafa orðið framfarir, og framförunum fögnum við; en vissan bjarma leggur frá því sem var. Bráðum þeysum við í bílum austur Herdísarvíkurhraun, og austur Selvogsheiðar.“

Heimild:
Alþýðublaðið 24. des. 1946, bl.s 37-45.

Herdísarvík

Herdísarvík – uppdráttur ÓSÁ.

Kistufell

Eftir ferð FERLIRs upp í Brennisteinsfjöll um Fagradal á dögunum kom í ljós að hellarás sú, sem skoðuð var í leiðinni, gæti verið með þeim lengstu á landinu, eða u.þ.b. tveggja til þriggja km löng.
Enn og aftur var haldið eftir gömlu götunni í vestanverðum Fagradal, gengið upp hraunsneiðinginn innst í dalnum og upp á brún hans að vestanverðu. Með í för var Björn Símonarson frá Hellarannsóknarfélaginu, en hann var einmitt með í för hóps er fann og rannsakaði efsta hluta hellakerfis Kistuhraunshellanna árið 2002. Hópurinn skoðaði þá op og rásir næst Kistugígnum, en fylgdi ekki rásinni niður Kistuhraunið, enda ekki hægt að gera allt á einum degi þegar Brennisteinsfjöllin eru annars vegar. Þá bættist við í hópinn Óskar Sævarsson, forstöðumaður Saltfiskseturs Íslands og útvörður Grindvíkinga ásamt húsfrú þarna á ystu mörkum bæjarfélagsins. Þarna er vel fylgst með öllu – utan sem innan.
Haldið var eftir götu austur með sunnanverðri brúninni uns komið var inn í slétt ómosavaxið helluhraun. Jón Jónsson, jarðfræðingur nefndi þetta hraun Kistuhraun, en þessi hluti þess hefur einnig verið nefnt Breiðdalshraun því endi þess rann niður að Breiðdal um Fagradal. Líkt og áður var haldið upp eftir sléttu helluhrauninu. Það hefur runnið að Kistufellshrauninu að austanverðu, en vestan þess hefur Eldborgarhraun runnið að því. Undir því er eldra Eldborgarhraun úr hinni eiginlegu ELDBORG Brennisteinsfjallanna. Sú eldborg er skammt norðan þeirrar eldborgar er hæst stendur á hryggnum og sést víðast hvar frá.
Nú sem fyrr var haldið lengra til vesturs að Eldborgarhraunskantinum. Þegar upp á neðstu brún hraunsins var komið, þriðjungi leiðarinnar ófarinnar, birtist skyndilega Brennisteinsfjallsgarðurinn framundan; Vörufell vestast, Eldborgir, Kista og Kisturfells austast. Enn austar mátti sjá Hvirfil, hæstu brún fjallgarðsins. Fögur sjón í stórkostlegu veðri. Frá þessum stað má virða fyrir sér flest þau kennileiti er prýða norðanverð Fjöllin.
Eftir göngu upp slétt helluhraunið kom neðsta opið á rásinni, sem ætla mætti að gæti verið samfelld rás ofan frá vestari gíg Kistu.
Byrjað var þó að kíkja inn í stutta, en heila, rásina skammt ofar. Þar inni í henni var box það sem áður var, í fyrri ferð, barið augum. Í því voru nokkrir númeraðir trékubbar og tveir tússpennar. Bamburstafur lá þar hjá ásamt grænni þríhyrndri veifu. Þrjár þunnar tréfjallir með áletrunum stóðu þar hjá. Svo virtist sem þar hafi þeir, eða þau, er þangað rötuðu, að skrifa númer og nafn sitt til staðfestingar einhverju. Líklega eru þetta leifar af ratleik skáta frá fyrri tíð, sem af einhverri ástæðu hefur dagað þarna uppi. Þessi hluti rásarinnar er heilleg og vel manngang. Utan í veggjum er dropsteinar.
Skammt neðar eru gróin jarðföll í rásinni. Beggja vegna í henni eru hliðarrásir; sú vestari u.þ.b. 10 metra löng og sú eystri u.þ.b. 50 metra löng.
Rásinni var fylgt niður á við til að byrja með. Við neðsta opið er rásin tvískipt, en hún rennur saman í eina um 100 metrum neðar. Í báðum hlutunum eru fallegir dropsteinar og hraunstrá og loftum. Eystri rásin greinist í tvennt. Efri hlutinn er þakinn dropsteinum svo ekki verður komist þar inn fyrir nema eyðileggja hluta þeirra. Neðri hlutinn er einnig þakin dropsteinum, en fara má með gát áfram niður rásina án þess að valda skaða. Þar rennur hún saman við vestari hlutann.
Í vestari rásinni eru einstaklega fallegir dropsteinar, flóknari og litskrúðugri en gengur og kynjamyndarlegri. Við efri enda hans eru nokkrir dropsteinar á stalli – vel við hæfi.
Ekki var að sjá að nokkur hafi komið þangað inn á undan forsporendum dagsins því forfæra þurfti grjóf við opið svo manngengt yrði.
Þegar gengið var upp eftir rásinni virtist hraunið tiltölulega þunnt, en rásinn stækkaði eftir því sem ofar dró. Nokkur op eru á henni neðarlega með grónum jarðföllum á milli.
Ofan við „boxhluta“ rásarinnar eru nokkur op á rásinni, en frá efsta opinu tók við alllöng hraunhella. Þegar farið var inn um eitt opið skammt ofar tók við löng heilleg rás. Ofarlega greindist hún í tvennt; annars vegar áfram upp á við. Þar þrengdist húnverulega svo skríða þyrfti á maganum áfram upp eftir henni. Það var ekki gert að þessu sinni. Hins vegar tók við hliðarrás til vinstri. Áður en að mótunum kom, eftir u.þ.b. 120 metra, sáust merkilegar „dellulengjur“ á gólfinu. Slíkt hefur ekki sést í hellum hérlendis áður. Um var að ræða „festislega“ röð af bólum af ætt dropsteina. Slík fyrirbæri voru víðar í rásinni. Í hliðarrásinni voru strýtulaga hraukar, einnig af ætt dropsteina. Þessar strýtur voru mjög svipaðar þeim er áður hafa fundist í innri hluta Bjargarhellis á Strandarhæð.
Einstaklega fallegar hraunmyndanir. Rásin beygði 90°, en eftir að hafa fylgt henni u.þ.b. 120 metra til hliðar og austan við fyrri rásina var ákveðið að bíða með frekari undirheimakannanir á þeirri leið.
Gengið var eftir yfirborðinu og reynt að fylgja rásinni áleiðis upp að Kistu. Neðan hennar eru nokkur op og rásin bæði stór og stutt milli jarðfalla. Hún liðast síðan upp með hlíðinni, upp á stall með nokkrum opum þar sem fyrir eru fallegir ráshlutar, jafnvel tvískiptir.
Efsta opið var einungis nokkra tugi metra frá vestari gíg Kistu. Svo virðist sem skoðað hafi verið heilstætt hellakerfi er ákvarðast af tiltekinni hraunrás úr Kistu, tveggja til þriggja km langt. Kerfið hefur ekki verið skoðað að fullu. Það verkefni bíður því annars leiðangurs.
Þegar neðri hluti rásarinnar var borinn saman við efri hlutann má með nokkrum sanni segja að þarna sé um einu og sömu hraunrásina að ræða. Ef satt er gæti þarna verið um eina lengstu slíka að ræða hér á landi.
Þá var stefnan tekin á hraunrásir austan við meginhrauntröð Kistufellshraunsrásarinnar – hinnar miklu. Austari hluti meginrásarinnar er gróin, en vestari hlutinn er hrikalegur, bæði djúpur og breiður. Við skoðun á hraunsvæðinu norðaustan hennar komu í ljós þrjú hellakerfi með mörgum opum og stuttum samfelldum rásum millum. Tvær syðri rásirnar hafa verið skoðaðar áður svo athyglinni var beint að nyrstu rásinni. Í henni, líkt og í hinum, komu í ljós stuttir ráshlutar með gróningum á millum. Allar virðast þessar rásir stefna í átt að meginhrauntröðinni miklu – nema sú nyrsta. Hún virtist hafa leikið sér að framhjáhaldinu.
Snyrtilegt op fannst á henni norðan vesturendar hrauntraðarinnar. Rásin virðist heilleg til austurs, en hrun hindrar umferð um hana til vesturs. Austurhlutinn, sem er vel manngengur, er enn ókannaður svo þar er og verður um að ræða enn eitt verkefnið fyrir FERLIR. Tröðinni var fylgt til vesturs og síðan til norðurs. Nokkur op eru á henni, en rásir stuttar.
Gengið var niður slétt austanvert helluhraun Kistu og kíkt í nokkra möguleika. Þeir reyndust takmarkaðir. Hins vegar var yfirborð hraunsins því áhugaverðara því einstakar hraunreipamyndanir leyndust þar á nokkrum stöðum. Sjámátti m.a. „kaðalmynstur“, „myndlistarmynstur“, „hringamynstur“, „litamynstur“ þar sem hús- og fuglaglæða léku sér að sjáaldrinu. Auk þess brá þar fyrir annað það kynjamynstur, sem augað gat greint í kvöldhúminu.
Kisturhraun-58(Árinu síðar var haldið upp Vatnshlíðina ofan Kleifarvatns og opnaður nyrsti hluti rásarinnar. Þar, líkt og fyrrum, blöstu við dropsteinar og falleg hraunstrá. Augljóslega mátti þó sjá að rásin langa var þarna að „syngja sitt síðasta“.)
Þegar komið var niður að brún Fagradals var stefnan tekin niður austlæga hlíðina og gengin sneiðingur niður mosabrúnina uns komið var niður á gömlu götuna, sem fyrrum var uppgengin. Útsýnið var bæði einstakt og litskúðugt.
Ljóst er að Brennisteinsfjallasvæðið býður upp á óendanlega möguleika til landkkönnunar – nú rúmlega 1100 árum eftir að fyrsti norræni landnámsmaðurinn, að talið er, settist að á svæðinu.
Til upplýsinga skal þess getið að um framangreint svæði er ætlunin, skv. áætlunum Hitaveitu Suðurnesja, að leggja veg til tilraunaborana í Brennisteinsfjöllum. Því mun fylgja ýmis konar rask á svæðinu öllu og umhverfi – sem og áður órannsökuðum náttúruminjum. Ef einhvern tímann hefur verið þörf fyrir umhverfisverndarsinna sem og meðvitund valdhafa um verðmæti náttúruverðmæta þá er það hér og nú. 

Kistuhraunshellir

„Almættið“ forði alvaldinu slíkt rask á annar ómetanlegum jarð- og náttúruverðmætum landsins.
Sérhver ferð sem farin hefur verið upp í Brennisteinsfjöll að undanförnu, án þátttöku launaðra opinberra starfsmanna, hefur falið í sér opinberun áður ómetviðra verðmætra. Engra þeirra er þó sérstaklega getið í lærðum skýrslum „sérfræðinga“ um svæðið.
Annars er fróðlegt að skoða aðgengi að svæðinu m.t.t. fótgangandi, sem í dag virðist mjög takmörkunum háð, en ætti í raun að vera þveröfugt…
Frábært veður – Gangan tók 6 klst og 6 mín.

Kistuhraunsrásin

Kistuhraunsrásin.

Brennisteinsfjöll

Þegar horft er til Brennisteinsfjalla (sem sjást vel víðasthvar af Reykjanesskaganum) má með sanni segja að sjaldan hafi jafn merkilegu svæði verið jafn lítill gaumur gefinn. Á svæðinu er að finna merkar gosminjar sem nánast eru ósnortnar, t.d. gígar, hraun, sprungur og hellar.
Í Brennisteinsfjöllum er háhitasvæði sem er nánast ósnortið. Náttúrustofa Íslands telur að á svæðinu megi “rekja opnar jarðskjálftasprungur og misgengi. Eldvirkt svæði nær frá sjó norður í Rauðuhálsa ofan við Sandskeið. Víðáttumikil dyngjuhraun eru á svæðinu. Frá gíg sunnan í Draugahlíðum hefur runnið hraun niður að Hlíðarvatni. Gos hafa orðið þarna á sögulegum tíma, sbr. Kistuhraunið og Draugahlíðagígshraunið, sem neðst hefur fengið nafnið Stakkavíkurhraun. Stærð þessa svæðis er um 198,7 km.” Drög hafa verið lögð að því að friðlýsa hluta Brennisteinsfjallasvæðisins.
Á Brennisteinsfjallasvæðinu eru nánast ósnortnar og merkar eldgosaminjar, jarðskjálftasprungur og misgengi. Þar er og háhitasvæði. Það mun hafa alþjóðlegt náttúruverndargildi. Fjölbreyttur gróður er og á svæðinu. Eldgosaminjar eru og miklar í Brennisteinsfjöllum, s.s. opnar jarðskjálftasprungur og misgengi. Eldvirki hlutinn nær frá sjó og norður í Rauðuhálsa ofan við Sandskeið. Oft hefur gosið á þessari sprungurein og hafa hraunin runnið niður í Heiðmörk í vestri, á Sandskeið í norðri og suður til Herdísarvíkur. Austurhlutinn er markaður af Bláfjöllum og Vífilsfelli sem mynduðustu við gos á ísöld. Á heildarsvæðinu eru ummerki um 3-4 eldgos á sögulegum tíma. Mikið er um hrauntraðir, hrauntjarnir, niðurföll, hraunfossa, hraunhella og aðrar jarðminjar í eldstöðvakerfinu.
Kistufellsgígurinn er sérkennilegur, girtur háum hömrum og liggja nokkrar hrauntraðir frá honum til vesturs. Eldborg á Brennisteinsfjöllum er hæsti gígurinn í gígaröð sem kemur í beinu framhaldi af Kistufelli til suðvesturs. [Hér er reyndar um misvísun að ræða. Augað blekkir. Elborgargígurinn svonefndi stendur hæst eldborganna í Brennisteinsfjöllum, en Eldborgin (drottningin) sjálf er skammt vestan hennar, rislítil en með drjúgum stærri gígskál. Úr henni hefur meginhraunið runnið til vesturs].
Háhitasvæði í Brennisteinsfjöllum er nánast ósnortið. Merki um háhitann sjást ekki mikið á yfirborði. Umhverfið er þó stórbrotið, með ósnortnum gígum, eldhraunum og opnum sprungum. Leifar námuvinnslu eru enn til staðar, ef vel er að gáð. Ofninn í brennisteinsnámunum er falinn undir moldarbakka. Einungis þarf að skafa ofan af ofninum og þá kemur hann í ljós. Búðir námumann voru skammt ofar og sjást tóftir þeirra enn.
Ein af sérstökum plöntum Brennisteinsfjalla er Botrychium simplex. Hún er háplanta og mjög sjaldgæf. Vorstör er þarna (Carex caryophyllea), einnig sjaldgæf. Sandlæðingur hefur ekki fundist annar staðar en í Brennisteinsfjöllum. Vatnalaukur hefur og fundist í Fjöllunum, sem fyrr sagði.
Á vefsíðunni http://www.os.is/page/ald/orkuaudlindir má sjá umfjöllun um háhita. Þar segir m.a. um svæði í rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma og helstu virkjunarkosti á Reykjanesi: “Brennisteinsfjallasvæðið er fremur lítið og afmarkað.”
Náttúrufræðistofnun Íslands hefur fjallað um Brennisteinsfjöll í tengslum við Herdísarvíkurfriðland. Þar segir m.a. “Á svæðinu eru háhitasvæði í Svartsengi, Krýsuvík, Brennisteinsfjöllum og Hengli. Innan þeirra er mikil eldvirkni og háhitasvæði tilheyrir hverri rein. Brennisteinsfjöll eru eina sprungureinin og háhitasvæðið sem enn er að mestu er ósnortið – öllum hinum hefur verið raskað að meira eða minna leyti vegna jarðhitanýtingar.
Í Brennisteinsfjöllum og nærliggjandi Í Brennisteinsfjöllumsvæði eru einstakar gos- og jarðminjar, þar á meðal stakir eldgígar (t.d. gígurinn í Þríhnjúkum), gígaraðir, dyngjugígar, eldborgir og a.m.k. níu nútímahraun oft með fallegum hrauntröðum og einstökum hraunfossum þar sem hraunin hafa flætt fram af fjöllunum til suðurs.
Brennisteinsfjöll og svæðið þar í kring eru síðasta ósnortna víðernið á Reykjanesi þangað sem þéttbýlisbúar á SV-horninu o.fl. geta sótt afdrep, innblástur og menntun – verðmæti ósnortinna útivistarsvæða sem þessa munu vafalítið aukast á næstu árum og áratugum. Umrætt svæði er nú þegar friðað að stærstum hluta innan Herdísarvíkurfriðlands. Í tillögum Umhverfisstofnunar að náttúruverndaráætlun 2004-2008 er lagt til að Herdísarvíkurfriðland verði stækkað verulega til vesturs og austurs til að tryggja vernd mikilvægra jarðminja og landslags.”
Náttúrufræðistofnun Íslands gerir ekki lítið úr gildi rannsókna en bendir á að fyrirhugaðar jarðhitarannsóknir í Brennisteinsfjöllum, eins og þeim er lýst í greinargerð, munu skaða náttúruminjar og ímynd hins ósnortna svæðis verulega. Við fyrirhugaðar rannsóknir, sem byggja á borunum, þarf að leggja vegi og slóða um úfin nútímahraun inn á svæðið, byggja 2–3 borplön (hvert um sig u.þ.b. 1 ha), bora eftir grunnvatni til skolunar því ekkert yfirborðsvatn er á svæðinu, farga skolvatni, flytja inn eða taka efni úr gígum og hraunum á svæðinu til ofaníburðar og byggingar borpalla.
Ef virkjanlegur jarðhiti finnst er stefnt að því að fjölnýta svæðið svipað og gert er í Svartsengi og á Nesjavöllum til framleiðslu á rafmagni, hitaveituvatni, grunnvatni, iðnaðargufu og til útivistar. Slík fjölnýting kallar á enn meiri mannvirki svo sem varanlega vegi og byggingar, hitaveituleiðslur og raflínur. Að mati Náttúrufræðistofnunar Íslands hafa Brennisteinsfjöll og nærliggjandi svæði mikið verndargildi og eru til langs tíma mun verðmætari þjóðinni og þéttbýlinu á SV-landi ósnortin en sem fjölnýtt orkuvinnslusvæði. Í því sambandi má benda á að innan seilingar verða a.m.k. þrjú fjölnýtt orkuvinnslusvæði, þ.e. Svartsengi, Nesjavellir og Hengilssvæðið.
Eftir jarðhitarannsóknir, eins og fyrirhugaðar eru í Brennisteinsfjöllum, verður svæðið ekki lengur ósnortið og forsendur fyrir frekari vernd þess breyttar að sama skapi.
Rannsóknaleyfi jafngildir því stefnumörkun um framtíðarnýtingu. Þess vegna er brýnt, áður en farið er í að breyta friðlýsingu Herdísarvíkurfriðlands, að umhverfisyfirvöld marki stefnu um framtíð svæðisins m.a. hvort ástæða sé til að taka frá og friða a.m.k. eina sprungurein og háhitasvæði í vestra gosbeltinu.

Í Brennisteinsfjöllum

Í samtölum Náttúrufræðistofnunar Íslands og umhverfisráðuneytis haustið 2003 í aðdraganda að gerð þingsályktunartillögu um náttúruverndaráætlun 2004–2008 var spurt um forsendur fyrir vali á jarðfræðisvæðum á Reykjanesi – m.a. hvers vegna ákveðið hefði verið að velja Reykjanes fremur en Brennisteinsfjöll. Í svari ráðuneytisins kom m.a. fram að orkuvinnsla í Brennisteinsfjöllum væri framtíðarmál og nægur tími til ákvarðanatöku varðandi landnýtingu þar. Í ljósi þessa telur Náttúrufræðistofnun Íslands ekki tímabært að breyta friðlýsingu Herdísarvíkurfriðlands í þá veru að leyfa umræddar jarðhitarannsóknir.”
Í ritgerð fyrir meistaranám í umhverfis- og auðlindafræðum, Háskóla Íslands, er fjallað um Reykjanesskagann og Brenisteinsfjöll. “Reykjanesskagi er eldbrunninn og hrjóstrugur með fjölbreyttu landslagi sem minnir um margt á miðhálendið. Þar eru hraun, sandar, vötn, hverasvæði, móbergshryggir og stök fjöll en fuglabjörg við sjóinn. Landið er lítt til ræktunar fallið og byggð að mestu bundin við sjávarsíðuna. Stór hluti skagans er án mannvirkja s.s. uppbyggðra vega, bygginga eða háspennulína. Á skaganum eru tvö friðlýst útivistarsvæði, Bláfjallafólkvangur (84 km²) sem fyrst og fremst þjónar sem skíðaland höfuðborgarsvæðisins, og Reykjanesfólkvangur (300 km²). Reykjanesfólkvangur tekur m.a. yfir Kleifarvatn, Brennisteinsfjöll, Ögmundarhraun, Krýsuvík og Krýsuvíkurberg. Þrátt fyrir nálægð við mesta þéttbýli landsins eru víðáttumikil lítt snortin svæði innan fólkvangsins en Brennisteinsfjöll og nágrenni eru stærsta óbyggða víðernið á suðvesturhorni landsins.

Aðdráttarafl Reykjanesfólkvangs liggur ekki síst í fjölbreyttu og sérstæðu landslagi en lega fólkvangsins í útjaðri höfuðborgarsvæðisins eykur útivistargildi hans. Hvort tveggja gerir svæðið að áhugaverðum efnivið til rannsókna á landslagi. Landslag hefur á undanförnum áratugum fengið síaukið vægi í þjóðmálaumræðu og sem viðfangsefni rannsókna. Fimmtán þjóðir, þar á meðal allar Norðurlandaþjóðirnar nema Íslendingar, hafa undirritað evrópska landslagssáttmálann (frá árinu 2000) og þannig viðurkennt mikilvægi landslags sem þjóðararfleifðar og sem uppsprettu lífsgæða fyrir almenning. Kannanir sýna að sérstök og óspillt náttúra landsins, einkum í óbyggðum, er það sem dregur langflesta erlenda ferðamenn til landsins. Ákaflega litlar rannsóknir hafa þó enn farið fram á íslensku landslagi, einkennum þess og verðmætum.
Rannsóknum á landslagi má skipta í þær sem taka til náttúrufars (eðlisrænna þátta) annars vegar og upplifunar hins vegar. Kerfi til flokkunar á landslagi byggja fyrst og fremst á eðlisrænum þáttum en matskerfi þurfa að taka tillit til samspils eðlisrænna og huglægra þátta. Mörg flokkunarkerfi fyrir landslag eru til erlendis en fæst þeirra henta fyrir íslenskt landslag vegna þess hve óvenjulegt það er. Lítið hefur verið reynt að aðlaga þessi kerfi að íslensku landslagi eða vinna fræðilegan grunn að íslensku matskerfi. Slík vinna er þó brýn, m.a. til að meta verndargildi svæða, fyrir skipulagsvinnu tengda stórframkvæmdum, og vegna hagsmuna útivistar. Markmið þessarar rannsóknar er að greina og flokka helstu drætti og breytileika í landslagi innan Reykjanesfólkvangs. Byrjað verður á því að skilgreina helstu landslagsgerðir út frá kortum en sérkennum hverrar gerðar verða síðan lýst að loknum rannsóknum á vettvangi. Að lokum verður beitt mismunandi flokkunarkerfum (áströlsku, ensku, norsku, svo og matskerfi Rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma) til að flokka helstu landslagsgerðir en slík vinna gæti nýst sem grunnur að almennu kerfi sem hentar íslensku landslagi.”

Á 126. löggjafarþingi (2000–2001) er m.a. fjallað um Brennisteinsfjöll (Þskj. 816 — 520. mál). Þar segir m.a: að markmið Hitaveitu Suðurnesja er að: „– að stuðla að nýtingu jarðhitaauðlinda á Reykjanesskaga, þar með talið í Krýsuvík, við Trölladyngju, Brennisteinsfjöll og eftir atvikum víðar á landinu.“
Varabæjarfulltrúi í Reykjavík, Dofri Hermannsson, hefur fjallað einn fárra um Brennisteinsfjöll. Yfirskriftin er „Einkavædd stóriðjustefna“. „Inni á borði nýja ráðherrans bíða umsóknir um rannsóknarleyfi á 13 stöðum á landinu [m.a. í Brennisteinsfjöllum]. Þessir staðir bíða þess að ráðherra gefi leyfi til orkurannsókna. Einn hinna stóru banka hefur nýverið ráðið sér fyrrverandi ráðherra sem sérfræðiráðgjafa á sviði orkufjárfestinga. Hann kann þá list að krækja í álver en hann aðstoðaði þarsíðasta iðnaðarráðherra við að landa samningum við Alcoa fyrir austan.
Það er ljóst að margir bíða spenntir eftir að láta greipar sópa. Stóriðjustefnan hefur skotið rótum fyrir utan veggi ráðuneytisins og lifir nú sjálfstæðu lífi á hinum frjálsa markaði. Lagaramminn sem vernda á náttúruperlur Íslands er hins vegar engan veginn tilbúinn fyrir frelsið. Hann er líka ófær um að segja stopp vegna skuldbindinga Íslands um losun gróðurhúsalofttegunda. Það er ekki heldur kominn lagarammi sem kveður á um afnotagjald þeirra sem vinna orkuauðlindabingó ríkisstjórnarinnar.“ Orkuveitan reiknað með því að orka fáist í fyrsta lagi úr Brennisteinsfjöllum árið 2010, sbr. árskýrslu hennar árið 2002.

Í Brennisteinsfjöllum

Helgi Torfason og Magnús Á. Sigurgeirsson gerðu eftirfarandi grein fyrir svæðinu árið 2001: „Jarðhitasvæðið í Brennisteinsfjöllum liggur í 40–500 m hæð yfir sjó. Virkur jarðhiti kemur fram sem gufur í um 450 m hæð, en köld ummyndun er á fjórum stöðum og vitnar um meiri virkni á fyrri tíð. Jarðhiti á yfirborði er óverulegur og miðað við útbreiðslu jarðhita og ummyndunar er svæðið um 3 km2. Viðnámsmælingar benda til þess að svæðið sé um 18 km2 á 700 m dýpi undir sjávarmáli, um 1200 m undir yfirborði þar sem jarðhita verður vart. Háhitasvæðið í Brennisteinsfjöllum liggur í samnefndri sprungurein og hefur gosið þar a.m.k. 30–40 sinnum eftir að ísöld lauk. Brotalínur eru ungar á svæðinu frá sjó og norður á Mosfellsheiði og verða oft jarðskjálftar á um 5 km breiðu og um 40 km löngu belti. Jarðskjálftar í Brennisteinsfjöllum geta orðið nokkuð stórir. Megingerð jarðlaga er móberg, og þar sem gosstöðvar hafa náð upp úr jökli hafa runnið hraun og myndast stapar eða hraunahryggir. Allar bergmyndanir eru basalt og ekkert súrt eða ísúrt berg hefur fundist á yfirborði.“
Ljóst er að Brennisteinsfjöllin búa yfir miklum verðmætum, ekki síst náttúruverðmætum. En reynslan hefur sýnt að þegar ásókn í jarðvarma og von um arðsemi fjármagns er annars vegar mega gildi náttúruverðmætanna sín lítils.
Sjá meira um Brennisteinsfjöll HÉR, HÉR, HÉR, HÉR og HÉR.
Sjá MYNDIR.

Í Brennisteinsfjöllum

Brennisteinsfjöll.

Brennisteinsfjöll

Nafnið Brennisteinsfjöll er tiltölulega ungt eða frá því á 18. öld. Áður var hryggurinn, sem myndar þau, nefndur Fjallaháls og jafnvel fleiri nöfnum. Hann er myndaður á sprungurein (oft talað um Brennisteinsfjallareinina) líkt og Sveifluháls (Austurháls) og Núpshlíðarháls (Vesturháls) undir jökli að hluta, en síðan gosið víða eftir honum á nútíma eins og sjá má hinum mörgu eldborgum og gígum. Kistufellsgígurinn er sá stærsti. Miklar hrauntraðir liggja frá gígunum og víða eru langar rásir undir hlaunhellunni. Vitað er að gos varð í Kistu árið 1000, en síðast er talið að hafi gosið í Brennisteinsfjöllum um 1340 Draugahlíðagígs- / Stakkavíkurhraunið).
Aðkoman að Brennisteinsfjöllum fer eftir því hvað á að skoða hverju sinni. Ef fara á beint að „kjarnanum“ miðsvæðis til að skoða vestursvæðið er best að ganga upp úr Fagradal með beina stefnu á Kistu, sem er á milli Eldborgar í suðri og Kistufells í norðri. Gangan þangað tekur u.þ.b. 3 klst með stoppi. Leiðin upp eftir er um slétta hraunbreiðu.
Ef halda á í Brennisteinsnámurnar austur undir Kistufelli (sunnan Draugahlíða) er styst að fara um Kerlingarskarð, beygja suður með vestanverðum Draugahlíðum og til austurs sunnan þeirra. Lítið vatn í gíg er við leiðina. Vel er gróið ofan við námurnar. Þar er tóft af húsi námumanna og lækur. Þessi leið er greiðfær. einnig er hægt að fara upp Kerlingargil með beina stefnu á Kistufell og ganga síðan vinstra megin niður með því – í námurnar.
Ef skoða á Vörðufellsborgir í sunnanverðum Fjöllunum er farið upp frá Lyngskyldi innan við Sýslustein, um Fálkagilsskarð í BrennisteinsfjöllHerdísarvíkurfjalli eða upp frá Gullbringu austan við Kleifarvatn. Allar þessar leiðir eru nokkuð greiðfærar. Eldborgir Vörðufells eru sjón að sjá.
Ef skoða á austanverð Fjöllin er styst að fara upp Nátthagaskarð eða Mosaskarð á Herdísarvíkurfjalli. Þegar komið er upp á brún liggja gamlar götur upp í gegnum hraunin, inn á óbrennishólma og áfram upp eftir. Leiðir eru tiltölulega greiðar, en betra að hafa kunnugan með í för til að spara tíma.
Þá er hægt að ganga í norðanverð Brennisteinsfjöll frá Bláfjöllum, en þá þarf ekki að fást við hæðamismun strax í upphafi ferðar. Hæðin á brúnum er jafnan nálægt 300 m.y.s. Hæsta fjallið er Hvyrfill (621), þá Kistufell (602), Eldborg (570) og Vörðufell (524). Reyndar er Eldborgin sjálf (drottningin) mun lægri því hún er neðar í hrauninu en háborgin á brúninni.

Brennisteinsfjöll

Í Brennisteinsfjöllum.

Að jafnaði þarf að gera ráð fyrir 3 klst hvora leið og síðan viðbótartíma eftir því hvað ætlunin er að skoða. Gönguferð í Brennisteinsfjöll tekur sjaldan styttri tíma en 9-12 klst. Hafa ber í huga að mörgum finnst niðurgangan erfiðasti hluti ferðarinnar, en þá getur reynt verulega á hnén. Það er því rétt að spara orkuna fyrri hluta ferðarinnar og nýta vel það sem eftir er í lokaáfangann.
Þoka getur skollið á fyrirvaralítið í Brennisteinsfjöllum og þá er betra að hafa vant fólk með í för. Fjölmörg skjól er þó að finna á svæðinu, m.a. tugi hella. Í bartviðri er hins vegar óvíða fallegra útsýni hér á landi en einmitt frá Brennisteinsfjöllum.

Brennisteinsfjöll

Brennisteinsfjöll – Kistufellsgígur.

Selvogsheiði

Þegar gengið er um Selvogsheiði ofan gömlu Fornugötu má sjá a.m.k. 15 selstöður í 25 seljum. Selstöðurnar eru greinilega mismunandi gamlar. Í þremur seljum eru nokkrar kynslóðir selja, allt frá fyrstu til loka seljabúskaparins í lok 19. aldar. Nokkrar eru óþekktar.
gotusel-21Í örnefnalýsingu fyrir Bjarnastaði segir m.a.: „Fyrir ofan þjóðveg: Austur af Strandarhæð, sem er norður af vegamótunum, eru miklar lægðir, sem heita Djúpudalir og tilheyra Útvogi. Þeir eru við mörk Götu og Útvogs.  Austur og upp af þeim eru þrír lágir hólar, sem heita Karlshólar og eru fyrir ofan Fornugötu. Fremsti-Karlshóll er næstur þjóðvegi, þá Mið-Karlshóll og loks Efsti-Karlshóll.
Norður eða norðvestur af klöppinni Fótalaus í Neslandi er Bjarnastaðaból eða -sel. Það er austur af Stebbasteini (sjá Þorkelsgerði). Uppi í heiðinni voru sel eða ból frá flestum bæjum. Mörkin móti Nesi eru alveg við bólið.  Hásteinar eru þrír hraunhólar við þjóðveginn. Fyrir ofan veg er Stóri-Hásteinn, og liggja mörk Ness og Bjarnastaða um hann, alveg vestan við Kárabrekkuhól í Neslandi.“
Hér að framan er ekki getið um litla selstöðu undir Hásteini. Hún gæti hafa verið frá Götu, en í Jarðarbókinni 1703 er þess getið að Gata hafi átt selstöðu í Bjarnastaðamannalandi án skatta og skyldna. Hins vegar liggja mörk götu vestar en Bjarnastaðaland með sameiginleg mörk alla leið í Kálfahvamm í Geitafelli.
gotusel-uppdratturÍ örnefnalýsingu fyrir Götu segir m.a.: „Mörkin milli Útvogs og Götu eru úr Markhól austan Stóraklifs í Þorkelsgerðislandi í miðjan Gjáardal, sem er kringlótt ker ofan við ferðamannaveginn [Fornugötu] út að Vogsósum, austur af Bjargarhelli. Milli Gjáardals og Torfdals er mjótt haft, líklega tíu metrar. Þar er Miðvogsstekkur í Götulandi. Línan liggur úr Gjáardal um þúfu á Götugjá. Götugjá er ein af mörgum gjám, sem eru milli Hnúka og Geitafells. Hún kemur upp aftur niðri í heiði, og er sagt, að hún liggi niður í Götutún. Þaðan er línan í Svarthól, sem er einstakur hóll úti í svonefndum Móa (eða Móum) suðaustur frá Vörðufelli. Mörk Götulands að austan eru 40 faðma fyrir austan Svarthól, en ekkert merki er þar. Í landamerkjaskrá segir, að þau séu í vörðu 40 faðma fyrir austan Svarthól.“
Hér er getið um Svarthól. Þegar FERLIR skoðaði hólinn eftir vísan Kristófers Bjarnasonar heitins, en hann hafði í fyrri ferðum um svæðið bent á þar væru mannvistarleifar, komu í ljós selsminjar; þrjú rými og stekkur, auk vörðu. Tóftirnar eru heillegar, veggir fallnir og grónir. Þó má lesa rýmin; stakt eldhús og sameiginlegur inngangur í baðstofu og búr.

skyrhellir-21

Tóftin er ekki stór, en þó engu minni en nánast helmingur af 310 selstöðum, sem FERLIR hefur skoðað á Reykjanes-skaganum. Líklegt má telja að selstaða þessi hafi verið frá Götu, sennilega á 15. öld. Hugsanlega hefur þá kastast í kekki með Bjarnastaðamönnum og Götufólkinu á einhverju tímaskeiði, líkt og þekkist, og selstaðan þá orðið til.
Í örnefnalýsingu fyrir Þorkelsgerði, sem á land vestan við Götu segir m.a.: „Austan við Strandarhæð eru miklar lægðir, kallaðar Djúpudalir, og tilheyra Útvogi. Norðaustur af þeim er Þorkelsgerðisból eða -sel. Við það er Skyrhóll, hellisskúti, þar sem skyrið átti að hafa verið geymt. Neðar er Þorkelsgerðisvatnsstæði. Vatn er í því lengi vel fram eftir vori. Bólið er inn af því, vestar en Hásteinar, en austur af Vörðufelli.“
skyrhellir-22Skyrhellir er reyndar ekki við selið, en þó ekki langt frá. Hellirinn er í raun skúti, sem hægt er að fara niður í. Á „hellisgólfinu“ eru beinaleifar. Framan við opið á hólnum er stök tóft. Hún gæti þó reynst stærri ef staðurinn yrði rannsakaður betur. Ferhyrnt gróið gerði er einnig í hólnum svo ekki er ólíklegt að þarna hafi fyrrum verið lítil selstaða.
Þá segir ennfremur til nánari upplýsinga í örnefnalýsingu fyrir Þorkelsgerði: „Hrakningshæð er hæðardrag í Vörðufellshrauni í suðaustur frá Vörðufelli. Ef fé hrakti  undan veðrum, hafði það afdrep undir hæðinni. Hæðin er líklega í Eimulandi eða við mörkin. Brekkuhalli er upp undir Hnúkana. Þær brekkur heita Hallandar. Í Eimulandi er Eimuhallandi og þar í Eimuhallandasteinn. Það er töluvert stór steinn, vænt Grettistak. Austan til við hann er Stebbasteinn, ekki stór steinn, stakur. Hann er fyrir ofan Móana. Brekkur eru í hallandanum fyrir neðan. Stebbasteinn dregur nafn af Stefáni í Götu, sem tyllti sér við steininn í smalamennskum og hætti til að sitja of lengi og dragast aftur úr.  Hér er heiðin farin að hækka. Leynir er lægð austan Hellholta og liggur niður með Hallanda, alla leið niður að Eimuhallandasteini. Leynir er gott beitiland, ekki uppblásið. Hann er austan við Eimuból. Fram af Eimuhallandasteini er Leturhóll. Um hann liggur merkjalínan milli gata - markavarðaÞorkelsgerðis og Eimu. Þaðan er bein lína í Kálfahvamm.
Austan við Leyni, vestur og fram (þ.e. suður) af Vesturhnúkum (í Neslandi) eru Hrómundartindar (112), einstakir klettar. Ekki er kunn nein sögn um nafnið. Þar eru góðar brekkur, sem slegnar voru frá bæjum í Útvogi.“
Landamerkjavörður
má sjá víða í Selvogsheiðinni.
Frábært veður.

Heimildir:
-Örnefnalýsing fyrir Bjarnastaði – ÖÍ.
-Örnefnalýsing fyrir Götu – ÖÍ.
-Örnefnalýsing fyrir Þorkelsgerði – ÖÍ.
-Jarðabókin 1703.
-Kristófer Bjarnason.

Strandarhellir

Í Strandarhelli.

Selvogsgata

Í tilefni af því að FERLIRsferðirnar náðu tölunni 1800 laugardaginn 14. júlí var gamla Selvogsleiðin gengin frá Bláfjallavegi í Selvog. Leiðin er um 24 km.
Selvogsgata-603Eftirfarandi lýsing Gísla Sigurðssonar um gömlu Selvogsleiðina birtist í Þjóðviljanum árið 1973:
„Áður fyrr var álgengt, að farið væri í kaupstaðarferð til Hafnarfjarðar úr Selvogi. Gísli Sigurðsson, umsjónarmaður Minjasafns Hafnarfjarðar, fylgir okkur suður í Selvog eftir velheppnaða verzlunarferð í Firðinum. Gísli Sigurðsson, fyrrverandi lögregluþjónn, er margfróður um sögu Hafnarfjarðar og Reykjaness. Hann þekkir gamlar slóðir um Reykjanes eins vel og lófann á sér, og hefur gengið þær flestar margoft. Það er þess vegna ærin upplyfting að fara með honum í gönguför suður í Selvog. Seinna geta svo lesendur farið sjálfir af stað og látið þessa leiðarlýsingu Gísla vísa sér veginn.

Lagt af stað úr Firðinum Ein er sú gönguleið, sem ég tel með þeim skemmtilegri hér í nágrenni við höfuðborgina, það er Selvogsgatan eða Selvogsgata-604Selvogsleiðin, sem ég ætla að fara með ykkur um, og við skulum fylgja lestum þeirra Selvogsinga. Þeir hafa verið í kaupstaðarferð. Hafa búið vel upp á hesta sína. Þeir leggja upp frá plássinu, Akurgerði, og leiðin liggur suður yfir Hamarskotslæk suður á Mölina upp í Illubrekku, og sveigir til austurs neðan undir Austurhamri. Og þvi er nú til Selvogsgata í Hafnarfirði, að Selvogsingar fóru þessa leið. Við förum með lækjarsytru sem rennur með Hamarskotstúngarði upp á öldurnar þar ofan. Á leiðinni verða fyrir okkur nokkur móabörð og austasta barðið heitir Moldarbarð og er þar nú kirkjugarðurinn.
Mosahlíðin blasir nú við okkur, og við förum upp á Hrygginn, þaðan liggur leiðin niður undir Hraunið og yfir hraunrimann, og höfum við þá Lækjarbotnana á hvora hönd. A vinstri hönd eru Neðri-Lækjarbotnar þar sem tekið var vatnið i fyrstu Selvogsgata-605vatnsleiðsluna til Hafnarfjarðar.
En á hægri hönd eru Efri-Lækjarbotnar, nokkrar lautir i hrauninu með tæru vatni og fersku. Þegar yfir Hraunrimann er komið, er þar lækjarfarvegur, venjulega þurr nema á vetrum, og er þá Svinholt á vinstri hönd, en Gráhelluhraunið á hægri. Nokkru sunnar eru Moldir og er þá Setbergshlíð á vinstri hönd, allhá hlíð vaxin birkikjarri. Innar gengur fram svo kallað Háanef, en fyrir innan það hallar landinu móti okkur og er þar upp hraunbrekku að fara. Þar komum við að helli, sem heitir Kethellir. Suður af honum er hellir, sem mun hafa verið bæði í landi Setbergs og Hamarskots. Þarna var í eina tíð sel, að líkindum frá báðum þessum bæjum. Á tímum hraungosanna miklu úr Búrfelli hefur um þessa brekku runnið mikill hraunfoss. Við færumst fet fyrir fet upp brekkuna, en á brúninni komum við á grágrýtisklappir. Sléttuhlíðarhorn, og niður af þeim er þá Sléttahliðin á hægri hönd en Smyrilbúðarhraun á vinstri.

Selvogsgata-606

Svæðið, sem leiðin liggur um, kalla Selvogsingar Torfur og ná þær allt að gjá þeirri, sem er framhald af Hjöllunum. Gjáin er mjó en á þó sína sögu. Maður nokkur Kristján að nafni var þarna á ferð með folaldsmeri. Hann missti folaldið í gjána. Varð hann að fara til Hafnarfjarðar eftir mannhjálp til að ná folaldinu upp úr gjánni. Því kölluðu Hafnfirðingar gjána Folaldagjá, en Selvogsingar Stjánagjá. Frá Gjánni liggur leiðin suður eftir sléttu hrauni, sem heitir Helluhraun allt að okkar fagra Helgadal. Þar er gjá yfir að fara niður í dalinn. Leiðin upp úr dalnum liggur í troðningum tveim megin við rúst, sem ég hygg að sé fjárhúsarúst. Hún stendur nú undir vernd fornminjavarðar, allt frá því að Brynjólfur fræðimaður Jónsson frá Minna-Núpi var hér á ferð 1897.
En hraunriminn austur frá Helgadal geymir sína sögu. Í Setbergsannál segir svo frá við árið 1427: „Voru 12 þjófar í einu teknir syðra í helli einum í fjalli einu eða felli, þar sem nefnt er Húsfell. Voru allir hengdir um sumarið“. Í hraunrima þessum er hellir, og hygg ég, að þar sé hellir sá, sem um getur í annálum. Kannske getum við giskað á, hvar þjófar þessir voru réttaðir þegar við komum lengra.
Við höldum svo yfir Helgadalsás og niður af honum og austur um og förum þar eftir móbergsklöppum, og erum við þá komnir að Valahnúkum, norð-austan við Helgafell, okkar tignasta fell, sem ég trúi að margur Hafnfirðingur óski sér að deyja í og sitja þar að sumri og skrafa saman við langelda. Í Valahnúkum er Músarhellir. Þar sváfu eina nótt fjárleitarmenn á haustum, þeir sem smöluðu Norðurfjallið. Nú hefur helli þessum verið annað nafn gefið, heitir Valaból.
Og áfram höldum við og komum i grunnar dalkvosir sem heita Migludalir. Líklega hefur einhver áð þar á gæðing sínum, henni Miglu, sem skeiðaði allra hrossa mest. Nú liggur leiðin upp yfir hraunrima allbreiðan og er þar í gjá, sem nefnist Húsfellsgjá.

Selvogsgata-609

Þegar kemur upp fyrir hraunið taka við melhæðir með hraunrimum á milli. Svæði þetta heitir Strandartorfur, og segja munnmælin, að þar hafi Strandarkirkja átt skógaritak. Þar fer nú lítið fyrir skógi eða kjarri. Siðar hefur svæði þetta fengið nafnið Kaplatóur.
Þegar kemur suður fyrir taka við Hellurnar; er það helluhraun mikið og liggur upp undir Grindarskörð, sem blasað hafa við sjónum allt frá því, að við vorum hjá Músarhelli. Hér má sjá að um hafa farið langar lestir hesta, því víða eru gótur sorfnar í klappirnar. Hér hefur líka verið farið með rekstra, ekki sízt þegar aðalsláturhöfnin var i Hafnarfirði. Þegar við höfum farið um 10 mín. gang upp Hellurnar eru á hægri hönd klettar sem heita Gálgaklettar.
Mér er að detta í hug, að þegar Álftnesingar hafi verið búnir að fanga útileguþjófana í heimahögum sínum hafi þeir farið með þá að klettum þessum og hengt þá þar.

Selvogsgata-608

Þegar komið er eftir hellunum upp þar sem aðalbrekkan byrjar, er þar jarðafall mikið, þar í eru hellar nokkrir. 1927 eða 8 var einn þessara hella notaður af rjúpnaskyttum, sem stunduðu veiði upp um fjöllin og lágu þarna við nokkrar nætur. Þórðarhelli kalla ég þennan helli og kenni hann við Þórð nokkur Eyjólfsson, sem bjó á Brúsastöðum.
Þegar hér er komið taka við Mosarnir, og nokkru ofar er svæðið nefnt Flá, og er þá komið að örðugasta hjallanum, Kerlingarskarði. Þarna deildust vegir. Stígur lá upp hraunbungu á vinstri hönd, Grindarskarðastígur. Lá hann suður um austurenda Stórkonugjár upp að Heiðartoppi á Heiðinni há og austur áfram að Vindheimum í ölfusi.
Við höldum nú upp þennan örðuga hjalla. Brekkan er svo brött að kunnugir segja mér, að þeir hafi Selvogsgata-607orðið að hvila hestana minnsta kosti einu sinni áður en upp var komið. Svo komumst við á brekkubrúnina. Þá höfum við austan okkur Mið-Bolla, sem eru tveir, og vestan eru svo Þríbollar, sem Selvogsingar kalla Kerlingahnúka. Við hnúk næsta tökum við eftir stlg sem liggur yestur. Þetta er Námastigurinn og liggur vestur í Brennisteinsnámur. En við höldum áfram og liggur leiðin um austurenda Draugahliðar. Þar hefur bæði verið ruddur vegur og hlaðinn. Þegar niður kemur liggur leiðin yfir hraun, sem nefnist Skarðahraun, kennt við Grindaskörð. Þar förum við gegnum girðingarhlið og litið eitt austar eru svo tvær vörður, sem við köllum Tvívörður. Liggur nú leiðin austur og upp undir Kóngsfellið litla.
Í hrauntröðum, sem þar eru, blasir við okkur lítill skúti. Hann er kallaður Dauðsmannsskúti. Þar varð úti maður um 1860. Selvogsgata-441Skörðin búa yfir mikilli dul, þvi 1633 hvarf þarna maður og hefur ekkert af honum fengizt. Haldið var að tröll hafi heillað hann. Þorstanum svalað í Sælubunu Nú tekur leiðin á sig hlykk og stefnir vestur og liggur þar um svonefndan Grafning. Við Þrívörður eru vegamót. Þar niður eftir sléttu klapparhrauni liggur Stakkavíkurvegur, fyrir endann á vestari Hvalhnúk og slðan niður Fjallið niður um Selstig að Stakkavik og vestur að Herdísarvík. Annar stigur liggur nokkru austar niður Fjallið og heitir hann Hlíðarvegur, liggur í Hlíðarskarð og niður skarðið að Hlíð. Þessir vegir eru nú sjaldan farnir.
Þegar komið er niður úr Grafningi er komið I fagran dal, sem heitir Stóri-Leirdalur. Þar er grösugt og sléttar flatir norður með Hvalhnúknum. Úr Leirdal liggur leiðin upp í Hvalhnúkaskarð og niður úr því sunnan við gil, sem þar er.
Blasir nú við Fjallið, sem þeir kalla sSelvogsgata-442vo Selvogsingar, Herdísavíkurfjall, Stakkavíkurfjall og Hlíðarfjall,og er þetta afréttur þessara bæja í Selvogi. Þegar kemur fram úr Hvalhnúkaskarði liggur leiðin vestur undir hliðartöglum Heiðarinnar háu, er þar víða grösugt, og heita á vinstri hönd Hvalhnúkabrekkur.
Góðan spöl suður frá Skarðinu er hraunhóll mikill og heitir Þorvaldshóll. Þegar honum sleppir taka við móar og er gatan heldur ógreið um þá. Þá er komið í Litla-Leirdal, sem eiginlega er slakki utan í Heiðinni. Þar nokkru neðar er svo uppspretta og kringum hana flöt, og er þetta kallað Rituvatnsstæði. Nokkru neðar verða á vinstri hönd við okkur fell, sem heita Urðarfell. Þau eru tvö, Urðarfellið stóra og Urðarfellið minna. Þau eru aðskilin af gili er nefnist Kálfsgil. Í því er uppspretta nefnd Sælubuna. Gott vatn ungum sem gömlum.
Utan í Urðarfelli stóra er Strandardalur, en í Urðarfelli litla eru Hliðardalirnir tveir. Þá komum við i Katlana og Katlahraun. Við sniðskerum það vestur á við og erum þá komnir á fjallsbrúnina. Heita Selvogsgata-610hér Katlabrekkur þar sem leiðin liggur niður af fjallinu. Þar í grasivaxinni laut eru vegamót. Liggur ein leiðin þaðan út með Hlíðarfjalli og heitir þar Hlíðarvegur. Önnur leið er þarna og heitir Vogsósaleið. Liggur hún niður svæði sem kallast Rofin um Aldindal og Stekkjardali í Hlaupandahóla heim til Vogsósa.
Hópurinn dreifist En við skulum halda áfram ogstefna á byggðina. Leiðin liggur um Austur-Rofin,og sunnar er fell á vinstri hönd, sem heitir Vörðufell. Þar voru lögréttir þeirra Selvogsinga. En fell þetta er einnig frægt fyrir sinar mörgu vörður. Svo er mál með vexti, að þegar unglingar voru sendir að leita fjár eða annars búpenings, þá kom oft fyrir, að þeir fundu ekki gripina. Fóru þeir þá á Vörðufell, og ef þeir hlóðu vörðu brást það ekki að þeir fundu gripina.
Leiðin liggur þarna upp svo nefndar Eymu-Illhæðir eða Eymu-Hellhæðir, og svo er komið að Selvogsgata-611Kökhól og Skálinn er þar ekki langt frá. Austan leiðarinnar eru nokkrarhæðir, svo sem Strandarhæð og Strandarhellir, og þar skammt frá e r hellirinn Gapi, og enn sunnar er Bjarnarhellir. Á þessum stöðum eru rúmgóðir fjárhellar.
Nú erum við komnir niður á þjóðveginn og þar hittum við á vegamót. Við höldum svo niður í Klifið og eru þá Dalhólalágar á hægri hönd, en nokkru neðar á vinstri hönd eru Bjarnastaðahólar. Þeir sem byggja Þorkelsgerði fara nú í suð-vestur, en Bjarnastaðamenn og Nesmenn halda niður undir túngarð. Þar skilja enn leiðir, og halda Bjarnastaðamenn suður og heim, en Nesmenn austur með garði um slétta velli, sem heita Flatir, síðan í túngarðshliðið og heim til bæjar.
Við köllum þetta Selvogsleið eða Selvogsveg, en Selvogsingar kalla hana Suðurferðaleið, og er það einkennilegt, þvi leiðin liggur þvi sem næst i norður.

Selvogsgata-612

Þessi leið sem við höfum nú farið er ágæt gönguleið að sumri til. Tekur 6 klukkustundir að ganga hana þegar rólega er farið. Ráðlegg ég öllum sem vilja halda sér ungum að ganga hana tvisvar til þrisvar á sumri.“ Gísli Sigurðsson
Taka má undir orð Gísla að leiðin heldur eldrendum yngri. Sá hluti er nú var genginn, frá Bláfjallavegi í Selvog um Grindaskörð, er sem fyrr sagði, 24 km löng. Hér er Kerlingarskarðsleiðin látin liggja á milli hluta, hvort sem um er að ræða annan hluta Selvogsgötunnar eða tvískiptar götur Hlíðarvegar og Stakkavíkurvegar.
Selvogsgata-613Tvær vörður segja til um leiðina norðan Kerlingarskarðs-leiðarinnar.
Þær leiða göngufólk að neðanverðum Skörðunum. Neðarlega í þeim er leiðin nokkuð augljós. Úrbætur hafa verið gerðar á nokkrum stöðum á leið upp í öxlina norðan Konungsfells. Á seinni tímum hefur fellið fengið örnefnið „Stóri-Bolli“, en það stafar líklega af ókunnugleika. Samnefndur bolli er norðvestan í fellinu, all mikilfenglegar, en jafnframt mörgum duldar jarðminjar.
Þegar komið er yfir Skörðin skiptist Selvogsleiðin gamla í tvær leiðir, eða reyndar þrjár að meðtöldum Heiðarvegi. Tvær vörður gefa vísbendingu um gatnamótin. Heiðarvegurinn liggur þaðan að vestanverðum Bláfjallaenda, áfram niður með Kerlingarhnúk og niður í Ölfus. Frá Endanum er gatan vörðuð að mestu.
Hinar tvær leiðir Selvogsgötunnar eru annars vegar til vinstri niður með hraunbrúninni og hins vegar upp á hana og yfir. Leiðirnar koma saman skammt sunnar, milli Konungsfells og Litla-Kóngsfells. Vörður vísa leiðina. Síðarnefndin er öllu greiðfærari um slétt helluhraun.
Að þessu slepptu skýrir gatan sig nokkuð vel þegar gatnamótum (tvær vörður) Grindaskarðsleiðar annars vegar og Kerlingarskarðsleiðar hins vegar sleppir. Gatan getur að vísu verið torráðin á köflum, s.s. neðan Fossagils, neðan Hvalshnúkaskarðs og sunnan við Strandarmannahliðið. Að öðru leiti ætti leiðin að vera auðrakin þeim er kunna að lesa landið. Aðrir gætu lent í vanda á þessari leið.
Þess má geta að jafnan þegar auglýstar eru ferðir um „Selvogsgötuna fornu“, jafnvel af virtum ferðafélögum, er Hlíðarvegurinn jafnan genginn um Kerlingarskarð að Hlíðarskarði. Það verður að teljast alveg sérstaklega ódýr biti í hundskjaft, ekki síst ef tekið er tillit til hinnar sögulegu notkunar og þróunnar vega (leiða) millum Selvogs og Hafnarfjarðar. Minna má á, ekki síst vegna þessara leiða, að mikil makatengsl lágu fyrrum milli þessara byggðalaga og eiga afkomendurnir þeim miklar þakkir skyldar.
Frábært veður. Gangan tók 7 klst og 7 mín.

Heimild:
-Þjóðviljinn, 15. júlí 1973, Gísli Sigurðsson, Gamla Selvogsleiðin, bls. 6-7Selvogsgata-602