Gengið var upp Djúpagil áleiðis upp í Reykjadali ofan Hveragerðis. Grændalur og Reykjadalir (Reykjadalur) liggja þar hlið við hlið. Grændalur sem er næst ósnortinn lokast til norðurs og er Ölkelduháls norðvestan hans.
Meiri umferð hefur verið um Reykjadali, sem sumir nefna Reykjadal, en þeir eru fleiri en einn og fleiri en tveir. Einn hefur t.d. verið nefndur Gjósta, virkt hverasvæði. Dalirnir eru hluti af eldstöð sem kennd er við Hengil og nær eldstöðin frá Hveragerði til Nesjavalla, vestur fyrir Hengil og suður í Hverahlíð. Landslag svæðisins einkennist af jarðhita og er þar fjöldi hvera og lauga, berggangar, brot og framhlaup. Á svæðinu eru góðar opnur sem eru mikilvægar til rannsókna og fræðslu.
Einkennandi eru lækjarsitrur sem seitla niður hlíðar dalsins. Þær eru sérstæðar á landsvísu enda hafa þær mikið að segja til um lífríki hveranna.
Innri hluti Reykjadals ásamt Klambragili er mjög votlendur og undirlagður heitum hverum og laugum. Volgar ár og lækir eru algengir. Votlendi er að mestu óvenjublautt mýrlendi. Þar eru ríkjandi gróðurfélög annars vegar mýrastör og mýrelfting en hins vegar mýrastör og tjarnastör. Mikið er um hitakærar plöntur svo sem laugadeplu, laugabrúðu og blákollu. Reykjadalur, líkt og Grændalur, er á Náttúruminjaskrá.
Grændalur er allur undirlagður af hverum, laugum, volgum lækjum, ársprænum og hitakærum plöntum frá dalsmynni inn í botn. Hvergi á kortlagða svæðinu sem kennt er við Hellisheiði og Hengil er útbreiðsla jarðhitakærra plantna meiri. Auk laugasefs, laugadeplu og blákollu sem víða eru áberandi, finnst þar naðurtunga sem er á válista.
Björn Pálsson gerði athugasemd við matsáætlun um fyrirhugaðar orkurannsóknir í dölunum og á Hengilssvæðinu: “Mitt mat er að þetta svæði búi yfir einstakri fjölbreytni og fegurð, sem nauðsynlegt er að varðveita í nútíð og framtíð. Þrátt fyrir næsta nágrenni við þéttbýlasta svæði landsins, býður það upp á svæði þar sem ferðamaður getur notið öræfakyrrðar. Þar á ég ekki síst við dalina norður af Hveragerði og austan, vestan og sunnan Hengils. Ef horft er til dalanna norður af Hveragerði og svæðisins austur af Hengli er Ölkelduháls þar eins og Miðgarður í heimi ásatrúar. Mín skoðun er sú að þetta svæði, Ölkelduháls og umhverfi, eigi að friðlýsa. Þar á ég við Þverárdal, Reykjadal og Græn(s)dal, Kattatjarnir og umhverfi, austurhlíðar Hengils með giljum og aðlægum svæðum s.s. Hagavíkurlaugum. Auk þess vil ég nefna Innstadal, Engidal og Marardal.”
Hengilssvæðið er á miðju vestra gosbelti landsins, sem nær frá Reykjanesi að Langjökli. Berggrunnur er að mestu móberg sem myndast hefur í gosum undir jökli á síðustu jökulskeiðum ísaldar. Grafningsmegin á svæðinu er röð móbergshryggja sem fylgja ríkjandi sprungustefnu NASV og ganga út í Þingvallavatn.
Á Hengilssvæðinu eru þrjú eldstöðvakerfi með megineldstöðvum, hverum og laugum. Þetta eru Hveragerðiseldstöð, Hrómundartindskerfi og Hengilskerfi sem er yngst og virkast. Eftir ísöld eru þekkt fjögur til fimm sprungugos á svæðinu. Síðast gaus fyrir um 2.000 árum á 30 km langri sprungu sem náði frá Þrengslum, um Hellisheiði, Innstadal og í Sandey í Þingvallavatni. Þá rann yngsta hraunið á Hellisheiði og Nesjahraun í Grafningi.
Síðast voru umbrot í Hengilskerfinu árið 1789. Þá gliðnaði og seig spilda á sprungubelti sem liggur yfir Dyrafjöll og Hestvík og norður yfir Þingvallavatn milli Almannagjár og Hrafnagjár. Þá seig land um einn til tvo metra. Hverir og laugar finnast í öllum eldstöðvakerfunum, en þó mest í Hengilskerfinu. Þekktustu hverasvæðin eru í Reykjadal, á Ölkelduhálsi, ofan við Nesjavelli og í Innstadal.
Laugadepla vex víða í Reykjadölum og Grændal, m.a. í Klambragili í Reykjadal. Á Íslandi er laugadepla afar sjaldgæf og finnst aðeins á suðvesturlandi og þá aðeins við laugar og í volgum lækjum.
Jarðhitagróður er mjög sérstæður fyrir Ísland. Fjölbreytni hans er mikil ekki síður en fjölbreytni jarðhitasvæðanna. Á mörgum jarðhitasvæðum er lítið um gróður annan en örverur. Til þess að annar gróður geti þrifist, þarf hóflegur hiti að leika um land sem hefur sæmilegan jarðveg. Blómplöntur, byrkningar eða mosar þola tæplega jarðvegshita sem fer yfir 45° C. Nokkrar plöntur á Íslandi vaxa eingöngu í volgum jarðvegi, t.d. naðurtunga, laugadepla, grámygla og vatnsnafli.
Aðrar hafa sterka tilhneigingu til að vaxa í volgum jarðvegi en vaxa einnig í köldum jarðvegi. Í þeim hópi eru græðisúra, klappadúnurt, blóðberg, blákolla og skarifífill. Mikill mismunur er oft á gróðri jarðhitasvæðanna eftir landshlutum svo og eftir mismunandi aðstæðum á hverasvæðunum.
Sjá fleiri myndir úr Reykjadal HÉR. Það óhapp varð í ferðinni að þegar ljósmyndara FERLIRs skrikaði fótur í Reykjadalsá í Djúpagili féll myndavélin í ána og eyðilagðist. Þrátt fyrir að hann hafi kastað sér á eftir myndavélinni og náð henni eftir skamm stund, dugði það ekki til að koma í veg fyrir skemmdirnar.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.
Heimildir m.a.:
-floraislands.is
-Björn Pálsson.