Tag Archive for: Ölfus

Kistufell

Eftir ferð FERLIRs upp í Brennisteinsfjöll um Fagradal á dögunum kom í ljós að hellarás sú, sem skoðuð var í leiðinni, gæti verið með þeim lengstu á landinu, eða u.þ.b. tveggja til þriggja km löng.
Enn og aftur var haldið eftir gömlu götunni í vestanverðum Fagradal, gengið upp hraunsneiðinginn innst í dalnum og upp á brún hans að vestanverðu. Með í för var Björn Símonarson frá Hellarannsóknarfélaginu, en hann var einmitt með í för hóps er fann og rannsakaði efsta hluta hellakerfis Kistuhraunshellanna árið 2002. Hópurinn skoðaði þá op og rásir næst Kistugígnum, en fylgdi ekki rásinni niður Kistuhraunið, enda ekki hægt að gera allt á einum degi þegar Brennisteinsfjöllin eru annars vegar. Þá bættist við í hópinn Óskar Sævarsson, forstöðumaður Saltfiskseturs Íslands og útvörður Grindvíkinga ásamt húsfrú þarna á ystu mörkum bæjarfélagsins. Þarna er vel fylgst með öllu – utan sem innan.
Haldið var eftir götu austur með sunnanverðri brúninni uns komið var inn í slétt ómosavaxið helluhraun. Jón Jónsson, jarðfræðingur nefndi þetta hraun Kistuhraun, en þessi hluti þess hefur einnig verið nefnt Breiðdalshraun því endi þess rann niður að Breiðdal um Fagradal. Líkt og áður var haldið upp eftir sléttu helluhrauninu. Það hefur runnið að Kistufellshrauninu að austanverðu, en vestan þess hefur Eldborgarhraun runnið að því. Undir því er eldra Eldborgarhraun úr hinni eiginlegu ELDBORG Brennisteinsfjallanna. Sú eldborg er skammt norðan þeirrar eldborgar er hæst stendur á hryggnum og sést víðast hvar frá.
Nú sem fyrr var haldið lengra til vesturs að Eldborgarhraunskantinum. Þegar upp á neðstu brún hraunsins var komið, þriðjungi leiðarinnar ófarinnar, birtist skyndilega Brennisteinsfjallsgarðurinn framundan; Vörufell vestast, Eldborgir, Kista og Kisturfells austast. Enn austar mátti sjá Hvirfil, hæstu brún fjallgarðsins. Fögur sjón í stórkostlegu veðri. Frá þessum stað má virða fyrir sér flest þau kennileiti er prýða norðanverð Fjöllin.
Eftir göngu upp slétt helluhraunið kom neðsta opið á rásinni, sem ætla mætti að gæti verið samfelld rás ofan frá vestari gíg Kistu.
Byrjað var þó að kíkja inn í stutta, en heila, rásina skammt ofar. Þar inni í henni var box það sem áður var, í fyrri ferð, barið augum. Í því voru nokkrir númeraðir trékubbar og tveir tússpennar. Bamburstafur lá þar hjá ásamt grænni þríhyrndri veifu. Þrjár þunnar tréfjallir með áletrunum stóðu þar hjá. Svo virtist sem þar hafi þeir, eða þau, er þangað rötuðu, að skrifa númer og nafn sitt til staðfestingar einhverju. Líklega eru þetta leifar af ratleik skáta frá fyrri tíð, sem af einhverri ástæðu hefur dagað þarna uppi. Þessi hluti rásarinnar er heilleg og vel manngang. Utan í veggjum er dropsteinar.
Skammt neðar eru gróin jarðföll í rásinni. Beggja vegna í henni eru hliðarrásir; sú vestari u.þ.b. 10 metra löng og sú eystri u.þ.b. 50 metra löng.
Rásinni var fylgt niður á við til að byrja með. Við neðsta opið er rásin tvískipt, en hún rennur saman í eina um 100 metrum neðar. Í báðum hlutunum eru fallegir dropsteinar og hraunstrá og loftum. Eystri rásin greinist í tvennt. Efri hlutinn er þakinn dropsteinum svo ekki verður komist þar inn fyrir nema eyðileggja hluta þeirra. Neðri hlutinn er einnig þakin dropsteinum, en fara má með gát áfram niður rásina án þess að valda skaða. Þar rennur hún saman við vestari hlutann.
Í vestari rásinni eru einstaklega fallegir dropsteinar, flóknari og litskrúðugri en gengur og kynjamyndarlegri. Við efri enda hans eru nokkrir dropsteinar á stalli – vel við hæfi.
Ekki var að sjá að nokkur hafi komið þangað inn á undan forsporendum dagsins því forfæra þurfti grjóf við opið svo manngengt yrði.
Þegar gengið var upp eftir rásinni virtist hraunið tiltölulega þunnt, en rásinn stækkaði eftir því sem ofar dró. Nokkur op eru á henni neðarlega með grónum jarðföllum á milli.
Ofan við „boxhluta“ rásarinnar eru nokkur op á rásinni, en frá efsta opinu tók við alllöng hraunhella. Þegar farið var inn um eitt opið skammt ofar tók við löng heilleg rás. Ofarlega greindist hún í tvennt; annars vegar áfram upp á við. Þar þrengdist húnverulega svo skríða þyrfti á maganum áfram upp eftir henni. Það var ekki gert að þessu sinni. Hins vegar tók við hliðarrás til vinstri. Áður en að mótunum kom, eftir u.þ.b. 120 metra, sáust merkilegar „dellulengjur“ á gólfinu. Slíkt hefur ekki sést í hellum hérlendis áður. Um var að ræða „festislega“ röð af bólum af ætt dropsteina. Slík fyrirbæri voru víðar í rásinni. Í hliðarrásinni voru strýtulaga hraukar, einnig af ætt dropsteina. Þessar strýtur voru mjög svipaðar þeim er áður hafa fundist í innri hluta Bjargarhellis á Strandarhæð.
Einstaklega fallegar hraunmyndanir. Rásin beygði 90°, en eftir að hafa fylgt henni u.þ.b. 120 metra til hliðar og austan við fyrri rásina var ákveðið að bíða með frekari undirheimakannanir á þeirri leið.
Gengið var eftir yfirborðinu og reynt að fylgja rásinni áleiðis upp að Kistu. Neðan hennar eru nokkur op og rásin bæði stór og stutt milli jarðfalla. Hún liðast síðan upp með hlíðinni, upp á stall með nokkrum opum þar sem fyrir eru fallegir ráshlutar, jafnvel tvískiptir.
Efsta opið var einungis nokkra tugi metra frá vestari gíg Kistu. Svo virðist sem skoðað hafi verið heilstætt hellakerfi er ákvarðast af tiltekinni hraunrás úr Kistu, tveggja til þriggja km langt. Kerfið hefur ekki verið skoðað að fullu. Það verkefni bíður því annars leiðangurs.
Þegar neðri hluti rásarinnar var borinn saman við efri hlutann má með nokkrum sanni segja að þarna sé um einu og sömu hraunrásina að ræða. Ef satt er gæti þarna verið um eina lengstu slíka að ræða hér á landi.
Þá var stefnan tekin á hraunrásir austan við meginhrauntröð Kistufellshraunsrásarinnar – hinnar miklu. Austari hluti meginrásarinnar er gróin, en vestari hlutinn er hrikalegur, bæði djúpur og breiður. Við skoðun á hraunsvæðinu norðaustan hennar komu í ljós þrjú hellakerfi með mörgum opum og stuttum samfelldum rásum millum. Tvær syðri rásirnar hafa verið skoðaðar áður svo athyglinni var beint að nyrstu rásinni. Í henni, líkt og í hinum, komu í ljós stuttir ráshlutar með gróningum á millum. Allar virðast þessar rásir stefna í átt að meginhrauntröðinni miklu – nema sú nyrsta. Hún virtist hafa leikið sér að framhjáhaldinu.
Snyrtilegt op fannst á henni norðan vesturendar hrauntraðarinnar. Rásin virðist heilleg til austurs, en hrun hindrar umferð um hana til vesturs. Austurhlutinn, sem er vel manngengur, er enn ókannaður svo þar er og verður um að ræða enn eitt verkefnið fyrir FERLIR. Tröðinni var fylgt til vesturs og síðan til norðurs. Nokkur op eru á henni, en rásir stuttar.
Gengið var niður slétt austanvert helluhraun Kistu og kíkt í nokkra möguleika. Þeir reyndust takmarkaðir. Hins vegar var yfirborð hraunsins því áhugaverðara því einstakar hraunreipamyndanir leyndust þar á nokkrum stöðum. Sjámátti m.a. „kaðalmynstur“, „myndlistarmynstur“, „hringamynstur“, „litamynstur“ þar sem hús- og fuglaglæða léku sér að sjáaldrinu. Auk þess brá þar fyrir annað það kynjamynstur, sem augað gat greint í kvöldhúminu.
Kisturhraun-58(Árinu síðar var haldið upp Vatnshlíðina ofan Kleifarvatns og opnaður nyrsti hluti rásarinnar. Þar, líkt og fyrrum, blöstu við dropsteinar og falleg hraunstrá. Augljóslega mátti þó sjá að rásin langa var þarna að „syngja sitt síðasta“.)
Þegar komið var niður að brún Fagradals var stefnan tekin niður austlæga hlíðina og gengin sneiðingur niður mosabrúnina uns komið var niður á gömlu götuna, sem fyrrum var uppgengin. Útsýnið var bæði einstakt og litskúðugt.
Ljóst er að Brennisteinsfjallasvæðið býður upp á óendanlega möguleika til landkkönnunar – nú rúmlega 1100 árum eftir að fyrsti norræni landnámsmaðurinn, að talið er, settist að á svæðinu.
Til upplýsinga skal þess getið að um framangreint svæði er ætlunin, skv. áætlunum Hitaveitu Suðurnesja, að leggja veg til tilraunaborana í Brennisteinsfjöllum. Því mun fylgja ýmis konar rask á svæðinu öllu og umhverfi – sem og áður órannsökuðum náttúruminjum. Ef einhvern tímann hefur verið þörf fyrir umhverfisverndarsinna sem og meðvitund valdhafa um verðmæti náttúruverðmæta þá er það hér og nú. 

Kistuhraunshellir

„Almættið“ forði alvaldinu slíkt rask á annar ómetanlegum jarð- og náttúruverðmætum landsins.
Sérhver ferð sem farin hefur verið upp í Brennisteinsfjöll að undanförnu, án þátttöku launaðra opinberra starfsmanna, hefur falið í sér opinberun áður ómetviðra verðmætra. Engra þeirra er þó sérstaklega getið í lærðum skýrslum „sérfræðinga“ um svæðið.
Annars er fróðlegt að skoða aðgengi að svæðinu m.t.t. fótgangandi, sem í dag virðist mjög takmörkunum háð, en ætti í raun að vera þveröfugt…
Frábært veður – Gangan tók 6 klst og 6 mín.

Kistuhraunsrásin

Kistuhraunsrásin.

Brennisteinsfjöll

Þegar horft er til Brennisteinsfjalla (sem sjást vel víðasthvar af Reykjanesskaganum) má með sanni segja að sjaldan hafi jafn merkilegu svæði verið jafn lítill gaumur gefinn. Á svæðinu er að finna merkar gosminjar sem nánast eru ósnortnar, t.d. gígar, hraun, sprungur og hellar.
Í Brennisteinsfjöllum er háhitasvæði sem er nánast ósnortið. Náttúrustofa Íslands telur að á svæðinu megi “rekja opnar jarðskjálftasprungur og misgengi. Eldvirkt svæði nær frá sjó norður í Rauðuhálsa ofan við Sandskeið. Víðáttumikil dyngjuhraun eru á svæðinu. Frá gíg sunnan í Draugahlíðum hefur runnið hraun niður að Hlíðarvatni. Gos hafa orðið þarna á sögulegum tíma, sbr. Kistuhraunið og Draugahlíðagígshraunið, sem neðst hefur fengið nafnið Stakkavíkurhraun. Stærð þessa svæðis er um 198,7 km.” Drög hafa verið lögð að því að friðlýsa hluta Brennisteinsfjallasvæðisins.
Á Brennisteinsfjallasvæðinu eru nánast ósnortnar og merkar eldgosaminjar, jarðskjálftasprungur og misgengi. Þar er og háhitasvæði. Það mun hafa alþjóðlegt náttúruverndargildi. Fjölbreyttur gróður er og á svæðinu. Eldgosaminjar eru og miklar í Brennisteinsfjöllum, s.s. opnar jarðskjálftasprungur og misgengi. Eldvirki hlutinn nær frá sjó og norður í Rauðuhálsa ofan við Sandskeið. Oft hefur gosið á þessari sprungurein og hafa hraunin runnið niður í Heiðmörk í vestri, á Sandskeið í norðri og suður til Herdísarvíkur. Austurhlutinn er markaður af Bláfjöllum og Vífilsfelli sem mynduðustu við gos á ísöld. Á heildarsvæðinu eru ummerki um 3-4 eldgos á sögulegum tíma. Mikið er um hrauntraðir, hrauntjarnir, niðurföll, hraunfossa, hraunhella og aðrar jarðminjar í eldstöðvakerfinu.
Kistufellsgígurinn er sérkennilegur, girtur háum hömrum og liggja nokkrar hrauntraðir frá honum til vesturs. Eldborg á Brennisteinsfjöllum er hæsti gígurinn í gígaröð sem kemur í beinu framhaldi af Kistufelli til suðvesturs. [Hér er reyndar um misvísun að ræða. Augað blekkir. Elborgargígurinn svonefndi stendur hæst eldborganna í Brennisteinsfjöllum, en Eldborgin (drottningin) sjálf er skammt vestan hennar, rislítil en með drjúgum stærri gígskál. Úr henni hefur meginhraunið runnið til vesturs].
Háhitasvæði í Brennisteinsfjöllum er nánast ósnortið. Merki um háhitann sjást ekki mikið á yfirborði. Umhverfið er þó stórbrotið, með ósnortnum gígum, eldhraunum og opnum sprungum. Leifar námuvinnslu eru enn til staðar, ef vel er að gáð. Ofninn í brennisteinsnámunum er falinn undir moldarbakka. Einungis þarf að skafa ofan af ofninum og þá kemur hann í ljós. Búðir námumann voru skammt ofar og sjást tóftir þeirra enn.
Ein af sérstökum plöntum Brennisteinsfjalla er Botrychium simplex. Hún er háplanta og mjög sjaldgæf. Vorstör er þarna (Carex caryophyllea), einnig sjaldgæf. Sandlæðingur hefur ekki fundist annar staðar en í Brennisteinsfjöllum. Vatnalaukur hefur og fundist í Fjöllunum, sem fyrr sagði.
Á vefsíðunni http://www.os.is/page/ald/orkuaudlindir má sjá umfjöllun um háhita. Þar segir m.a. um svæði í rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma og helstu virkjunarkosti á Reykjanesi: “Brennisteinsfjallasvæðið er fremur lítið og afmarkað.”
Náttúrufræðistofnun Íslands hefur fjallað um Brennisteinsfjöll í tengslum við Herdísarvíkurfriðland. Þar segir m.a. “Á svæðinu eru háhitasvæði í Svartsengi, Krýsuvík, Brennisteinsfjöllum og Hengli. Innan þeirra er mikil eldvirkni og háhitasvæði tilheyrir hverri rein. Brennisteinsfjöll eru eina sprungureinin og háhitasvæðið sem enn er að mestu er ósnortið – öllum hinum hefur verið raskað að meira eða minna leyti vegna jarðhitanýtingar.
Í Brennisteinsfjöllum og nærliggjandi Í Brennisteinsfjöllumsvæði eru einstakar gos- og jarðminjar, þar á meðal stakir eldgígar (t.d. gígurinn í Þríhnjúkum), gígaraðir, dyngjugígar, eldborgir og a.m.k. níu nútímahraun oft með fallegum hrauntröðum og einstökum hraunfossum þar sem hraunin hafa flætt fram af fjöllunum til suðurs.
Brennisteinsfjöll og svæðið þar í kring eru síðasta ósnortna víðernið á Reykjanesi þangað sem þéttbýlisbúar á SV-horninu o.fl. geta sótt afdrep, innblástur og menntun – verðmæti ósnortinna útivistarsvæða sem þessa munu vafalítið aukast á næstu árum og áratugum. Umrætt svæði er nú þegar friðað að stærstum hluta innan Herdísarvíkurfriðlands. Í tillögum Umhverfisstofnunar að náttúruverndaráætlun 2004-2008 er lagt til að Herdísarvíkurfriðland verði stækkað verulega til vesturs og austurs til að tryggja vernd mikilvægra jarðminja og landslags.”
Náttúrufræðistofnun Íslands gerir ekki lítið úr gildi rannsókna en bendir á að fyrirhugaðar jarðhitarannsóknir í Brennisteinsfjöllum, eins og þeim er lýst í greinargerð, munu skaða náttúruminjar og ímynd hins ósnortna svæðis verulega. Við fyrirhugaðar rannsóknir, sem byggja á borunum, þarf að leggja vegi og slóða um úfin nútímahraun inn á svæðið, byggja 2–3 borplön (hvert um sig u.þ.b. 1 ha), bora eftir grunnvatni til skolunar því ekkert yfirborðsvatn er á svæðinu, farga skolvatni, flytja inn eða taka efni úr gígum og hraunum á svæðinu til ofaníburðar og byggingar borpalla.
Ef virkjanlegur jarðhiti finnst er stefnt að því að fjölnýta svæðið svipað og gert er í Svartsengi og á Nesjavöllum til framleiðslu á rafmagni, hitaveituvatni, grunnvatni, iðnaðargufu og til útivistar. Slík fjölnýting kallar á enn meiri mannvirki svo sem varanlega vegi og byggingar, hitaveituleiðslur og raflínur. Að mati Náttúrufræðistofnunar Íslands hafa Brennisteinsfjöll og nærliggjandi svæði mikið verndargildi og eru til langs tíma mun verðmætari þjóðinni og þéttbýlinu á SV-landi ósnortin en sem fjölnýtt orkuvinnslusvæði. Í því sambandi má benda á að innan seilingar verða a.m.k. þrjú fjölnýtt orkuvinnslusvæði, þ.e. Svartsengi, Nesjavellir og Hengilssvæðið.
Eftir jarðhitarannsóknir, eins og fyrirhugaðar eru í Brennisteinsfjöllum, verður svæðið ekki lengur ósnortið og forsendur fyrir frekari vernd þess breyttar að sama skapi.
Rannsóknaleyfi jafngildir því stefnumörkun um framtíðarnýtingu. Þess vegna er brýnt, áður en farið er í að breyta friðlýsingu Herdísarvíkurfriðlands, að umhverfisyfirvöld marki stefnu um framtíð svæðisins m.a. hvort ástæða sé til að taka frá og friða a.m.k. eina sprungurein og háhitasvæði í vestra gosbeltinu.

Í Brennisteinsfjöllum

Í samtölum Náttúrufræðistofnunar Íslands og umhverfisráðuneytis haustið 2003 í aðdraganda að gerð þingsályktunartillögu um náttúruverndaráætlun 2004–2008 var spurt um forsendur fyrir vali á jarðfræðisvæðum á Reykjanesi – m.a. hvers vegna ákveðið hefði verið að velja Reykjanes fremur en Brennisteinsfjöll. Í svari ráðuneytisins kom m.a. fram að orkuvinnsla í Brennisteinsfjöllum væri framtíðarmál og nægur tími til ákvarðanatöku varðandi landnýtingu þar. Í ljósi þessa telur Náttúrufræðistofnun Íslands ekki tímabært að breyta friðlýsingu Herdísarvíkurfriðlands í þá veru að leyfa umræddar jarðhitarannsóknir.”
Í ritgerð fyrir meistaranám í umhverfis- og auðlindafræðum, Háskóla Íslands, er fjallað um Reykjanesskagann og Brenisteinsfjöll. “Reykjanesskagi er eldbrunninn og hrjóstrugur með fjölbreyttu landslagi sem minnir um margt á miðhálendið. Þar eru hraun, sandar, vötn, hverasvæði, móbergshryggir og stök fjöll en fuglabjörg við sjóinn. Landið er lítt til ræktunar fallið og byggð að mestu bundin við sjávarsíðuna. Stór hluti skagans er án mannvirkja s.s. uppbyggðra vega, bygginga eða háspennulína. Á skaganum eru tvö friðlýst útivistarsvæði, Bláfjallafólkvangur (84 km²) sem fyrst og fremst þjónar sem skíðaland höfuðborgarsvæðisins, og Reykjanesfólkvangur (300 km²). Reykjanesfólkvangur tekur m.a. yfir Kleifarvatn, Brennisteinsfjöll, Ögmundarhraun, Krýsuvík og Krýsuvíkurberg. Þrátt fyrir nálægð við mesta þéttbýli landsins eru víðáttumikil lítt snortin svæði innan fólkvangsins en Brennisteinsfjöll og nágrenni eru stærsta óbyggða víðernið á suðvesturhorni landsins.

Aðdráttarafl Reykjanesfólkvangs liggur ekki síst í fjölbreyttu og sérstæðu landslagi en lega fólkvangsins í útjaðri höfuðborgarsvæðisins eykur útivistargildi hans. Hvort tveggja gerir svæðið að áhugaverðum efnivið til rannsókna á landslagi. Landslag hefur á undanförnum áratugum fengið síaukið vægi í þjóðmálaumræðu og sem viðfangsefni rannsókna. Fimmtán þjóðir, þar á meðal allar Norðurlandaþjóðirnar nema Íslendingar, hafa undirritað evrópska landslagssáttmálann (frá árinu 2000) og þannig viðurkennt mikilvægi landslags sem þjóðararfleifðar og sem uppsprettu lífsgæða fyrir almenning. Kannanir sýna að sérstök og óspillt náttúra landsins, einkum í óbyggðum, er það sem dregur langflesta erlenda ferðamenn til landsins. Ákaflega litlar rannsóknir hafa þó enn farið fram á íslensku landslagi, einkennum þess og verðmætum.
Rannsóknum á landslagi má skipta í þær sem taka til náttúrufars (eðlisrænna þátta) annars vegar og upplifunar hins vegar. Kerfi til flokkunar á landslagi byggja fyrst og fremst á eðlisrænum þáttum en matskerfi þurfa að taka tillit til samspils eðlisrænna og huglægra þátta. Mörg flokkunarkerfi fyrir landslag eru til erlendis en fæst þeirra henta fyrir íslenskt landslag vegna þess hve óvenjulegt það er. Lítið hefur verið reynt að aðlaga þessi kerfi að íslensku landslagi eða vinna fræðilegan grunn að íslensku matskerfi. Slík vinna er þó brýn, m.a. til að meta verndargildi svæða, fyrir skipulagsvinnu tengda stórframkvæmdum, og vegna hagsmuna útivistar. Markmið þessarar rannsóknar er að greina og flokka helstu drætti og breytileika í landslagi innan Reykjanesfólkvangs. Byrjað verður á því að skilgreina helstu landslagsgerðir út frá kortum en sérkennum hverrar gerðar verða síðan lýst að loknum rannsóknum á vettvangi. Að lokum verður beitt mismunandi flokkunarkerfum (áströlsku, ensku, norsku, svo og matskerfi Rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma) til að flokka helstu landslagsgerðir en slík vinna gæti nýst sem grunnur að almennu kerfi sem hentar íslensku landslagi.”

Á 126. löggjafarþingi (2000–2001) er m.a. fjallað um Brennisteinsfjöll (Þskj. 816 — 520. mál). Þar segir m.a: að markmið Hitaveitu Suðurnesja er að: „– að stuðla að nýtingu jarðhitaauðlinda á Reykjanesskaga, þar með talið í Krýsuvík, við Trölladyngju, Brennisteinsfjöll og eftir atvikum víðar á landinu.“
Varabæjarfulltrúi í Reykjavík, Dofri Hermannsson, hefur fjallað einn fárra um Brennisteinsfjöll. Yfirskriftin er „Einkavædd stóriðjustefna“. „Inni á borði nýja ráðherrans bíða umsóknir um rannsóknarleyfi á 13 stöðum á landinu [m.a. í Brennisteinsfjöllum]. Þessir staðir bíða þess að ráðherra gefi leyfi til orkurannsókna. Einn hinna stóru banka hefur nýverið ráðið sér fyrrverandi ráðherra sem sérfræðiráðgjafa á sviði orkufjárfestinga. Hann kann þá list að krækja í álver en hann aðstoðaði þarsíðasta iðnaðarráðherra við að landa samningum við Alcoa fyrir austan.
Það er ljóst að margir bíða spenntir eftir að láta greipar sópa. Stóriðjustefnan hefur skotið rótum fyrir utan veggi ráðuneytisins og lifir nú sjálfstæðu lífi á hinum frjálsa markaði. Lagaramminn sem vernda á náttúruperlur Íslands er hins vegar engan veginn tilbúinn fyrir frelsið. Hann er líka ófær um að segja stopp vegna skuldbindinga Íslands um losun gróðurhúsalofttegunda. Það er ekki heldur kominn lagarammi sem kveður á um afnotagjald þeirra sem vinna orkuauðlindabingó ríkisstjórnarinnar.“ Orkuveitan reiknað með því að orka fáist í fyrsta lagi úr Brennisteinsfjöllum árið 2010, sbr. árskýrslu hennar árið 2002.

Í Brennisteinsfjöllum

Helgi Torfason og Magnús Á. Sigurgeirsson gerðu eftirfarandi grein fyrir svæðinu árið 2001: „Jarðhitasvæðið í Brennisteinsfjöllum liggur í 40–500 m hæð yfir sjó. Virkur jarðhiti kemur fram sem gufur í um 450 m hæð, en köld ummyndun er á fjórum stöðum og vitnar um meiri virkni á fyrri tíð. Jarðhiti á yfirborði er óverulegur og miðað við útbreiðslu jarðhita og ummyndunar er svæðið um 3 km2. Viðnámsmælingar benda til þess að svæðið sé um 18 km2 á 700 m dýpi undir sjávarmáli, um 1200 m undir yfirborði þar sem jarðhita verður vart. Háhitasvæðið í Brennisteinsfjöllum liggur í samnefndri sprungurein og hefur gosið þar a.m.k. 30–40 sinnum eftir að ísöld lauk. Brotalínur eru ungar á svæðinu frá sjó og norður á Mosfellsheiði og verða oft jarðskjálftar á um 5 km breiðu og um 40 km löngu belti. Jarðskjálftar í Brennisteinsfjöllum geta orðið nokkuð stórir. Megingerð jarðlaga er móberg, og þar sem gosstöðvar hafa náð upp úr jökli hafa runnið hraun og myndast stapar eða hraunahryggir. Allar bergmyndanir eru basalt og ekkert súrt eða ísúrt berg hefur fundist á yfirborði.“
Ljóst er að Brennisteinsfjöllin búa yfir miklum verðmætum, ekki síst náttúruverðmætum. En reynslan hefur sýnt að þegar ásókn í jarðvarma og von um arðsemi fjármagns er annars vegar mega gildi náttúruverðmætanna sín lítils.
Sjá meira um Brennisteinsfjöll HÉR, HÉR, HÉR, HÉR og HÉR.
Sjá MYNDIR.

Í Brennisteinsfjöllum

Brennisteinsfjöll.

Brennisteinsfjöll

Nafnið Brennisteinsfjöll er tiltölulega ungt eða frá því á 18. öld. Áður var hryggurinn, sem myndar þau, nefndur Fjallaháls og jafnvel fleiri nöfnum. Hann er myndaður á sprungurein (oft talað um Brennisteinsfjallareinina) líkt og Sveifluháls (Austurháls) og Núpshlíðarháls (Vesturháls) undir jökli að hluta, en síðan gosið víða eftir honum á nútíma eins og sjá má hinum mörgu eldborgum og gígum. Kistufellsgígurinn er sá stærsti. Miklar hrauntraðir liggja frá gígunum og víða eru langar rásir undir hlaunhellunni. Vitað er að gos varð í Kistu árið 1000, en síðast er talið að hafi gosið í Brennisteinsfjöllum um 1340 Draugahlíðagígs- / Stakkavíkurhraunið).
Aðkoman að Brennisteinsfjöllum fer eftir því hvað á að skoða hverju sinni. Ef fara á beint að „kjarnanum“ miðsvæðis til að skoða vestursvæðið er best að ganga upp úr Fagradal með beina stefnu á Kistu, sem er á milli Eldborgar í suðri og Kistufells í norðri. Gangan þangað tekur u.þ.b. 3 klst með stoppi. Leiðin upp eftir er um slétta hraunbreiðu.
Ef halda á í Brennisteinsnámurnar austur undir Kistufelli (sunnan Draugahlíða) er styst að fara um Kerlingarskarð, beygja suður með vestanverðum Draugahlíðum og til austurs sunnan þeirra. Lítið vatn í gíg er við leiðina. Vel er gróið ofan við námurnar. Þar er tóft af húsi námumanna og lækur. Þessi leið er greiðfær. einnig er hægt að fara upp Kerlingargil með beina stefnu á Kistufell og ganga síðan vinstra megin niður með því – í námurnar.
Ef skoða á Vörðufellsborgir í sunnanverðum Fjöllunum er farið upp frá Lyngskyldi innan við Sýslustein, um Fálkagilsskarð í BrennisteinsfjöllHerdísarvíkurfjalli eða upp frá Gullbringu austan við Kleifarvatn. Allar þessar leiðir eru nokkuð greiðfærar. Eldborgir Vörðufells eru sjón að sjá.
Ef skoða á austanverð Fjöllin er styst að fara upp Nátthagaskarð eða Mosaskarð á Herdísarvíkurfjalli. Þegar komið er upp á brún liggja gamlar götur upp í gegnum hraunin, inn á óbrennishólma og áfram upp eftir. Leiðir eru tiltölulega greiðar, en betra að hafa kunnugan með í för til að spara tíma.
Þá er hægt að ganga í norðanverð Brennisteinsfjöll frá Bláfjöllum, en þá þarf ekki að fást við hæðamismun strax í upphafi ferðar. Hæðin á brúnum er jafnan nálægt 300 m.y.s. Hæsta fjallið er Hvyrfill (621), þá Kistufell (602), Eldborg (570) og Vörðufell (524). Reyndar er Eldborgin sjálf (drottningin) mun lægri því hún er neðar í hrauninu en háborgin á brúninni.

Brennisteinsfjöll

Í Brennisteinsfjöllum.

Að jafnaði þarf að gera ráð fyrir 3 klst hvora leið og síðan viðbótartíma eftir því hvað ætlunin er að skoða. Gönguferð í Brennisteinsfjöll tekur sjaldan styttri tíma en 9-12 klst. Hafa ber í huga að mörgum finnst niðurgangan erfiðasti hluti ferðarinnar, en þá getur reynt verulega á hnén. Það er því rétt að spara orkuna fyrri hluta ferðarinnar og nýta vel það sem eftir er í lokaáfangann.
Þoka getur skollið á fyrirvaralítið í Brennisteinsfjöllum og þá er betra að hafa vant fólk með í för. Fjölmörg skjól er þó að finna á svæðinu, m.a. tugi hella. Í bartviðri er hins vegar óvíða fallegra útsýni hér á landi en einmitt frá Brennisteinsfjöllum.

Brennisteinsfjöll

Brennisteinsfjöll – Kistufellsgígur.

Selvogsheiði

Þegar gengið er um Selvogsheiði ofan gömlu Fornugötu má sjá a.m.k. 15 selstöður í 25 seljum. Selstöðurnar eru greinilega mismunandi gamlar. Í þremur seljum eru nokkrar kynslóðir selja, allt frá fyrstu til loka seljabúskaparins í lok 19. aldar. Nokkrar eru óþekktar.
gotusel-21Í örnefnalýsingu fyrir Bjarnastaði segir m.a.: „Fyrir ofan þjóðveg: Austur af Strandarhæð, sem er norður af vegamótunum, eru miklar lægðir, sem heita Djúpudalir og tilheyra Útvogi. Þeir eru við mörk Götu og Útvogs.  Austur og upp af þeim eru þrír lágir hólar, sem heita Karlshólar og eru fyrir ofan Fornugötu. Fremsti-Karlshóll er næstur þjóðvegi, þá Mið-Karlshóll og loks Efsti-Karlshóll.
Norður eða norðvestur af klöppinni Fótalaus í Neslandi er Bjarnastaðaból eða -sel. Það er austur af Stebbasteini (sjá Þorkelsgerði). Uppi í heiðinni voru sel eða ból frá flestum bæjum. Mörkin móti Nesi eru alveg við bólið.  Hásteinar eru þrír hraunhólar við þjóðveginn. Fyrir ofan veg er Stóri-Hásteinn, og liggja mörk Ness og Bjarnastaða um hann, alveg vestan við Kárabrekkuhól í Neslandi.“
Hér að framan er ekki getið um litla selstöðu undir Hásteini. Hún gæti hafa verið frá Götu, en í Jarðarbókinni 1703 er þess getið að Gata hafi átt selstöðu í Bjarnastaðamannalandi án skatta og skyldna. Hins vegar liggja mörk götu vestar en Bjarnastaðaland með sameiginleg mörk alla leið í Kálfahvamm í Geitafelli.
gotusel-uppdratturÍ örnefnalýsingu fyrir Götu segir m.a.: „Mörkin milli Útvogs og Götu eru úr Markhól austan Stóraklifs í Þorkelsgerðislandi í miðjan Gjáardal, sem er kringlótt ker ofan við ferðamannaveginn [Fornugötu] út að Vogsósum, austur af Bjargarhelli. Milli Gjáardals og Torfdals er mjótt haft, líklega tíu metrar. Þar er Miðvogsstekkur í Götulandi. Línan liggur úr Gjáardal um þúfu á Götugjá. Götugjá er ein af mörgum gjám, sem eru milli Hnúka og Geitafells. Hún kemur upp aftur niðri í heiði, og er sagt, að hún liggi niður í Götutún. Þaðan er línan í Svarthól, sem er einstakur hóll úti í svonefndum Móa (eða Móum) suðaustur frá Vörðufelli. Mörk Götulands að austan eru 40 faðma fyrir austan Svarthól, en ekkert merki er þar. Í landamerkjaskrá segir, að þau séu í vörðu 40 faðma fyrir austan Svarthól.“
Hér er getið um Svarthól. Þegar FERLIR skoðaði hólinn eftir vísan Kristófers Bjarnasonar heitins, en hann hafði í fyrri ferðum um svæðið bent á þar væru mannvistarleifar, komu í ljós selsminjar; þrjú rými og stekkur, auk vörðu. Tóftirnar eru heillegar, veggir fallnir og grónir. Þó má lesa rýmin; stakt eldhús og sameiginlegur inngangur í baðstofu og búr.

skyrhellir-21

Tóftin er ekki stór, en þó engu minni en nánast helmingur af 310 selstöðum, sem FERLIR hefur skoðað á Reykjanes-skaganum. Líklegt má telja að selstaða þessi hafi verið frá Götu, sennilega á 15. öld. Hugsanlega hefur þá kastast í kekki með Bjarnastaðamönnum og Götufólkinu á einhverju tímaskeiði, líkt og þekkist, og selstaðan þá orðið til.
Í örnefnalýsingu fyrir Þorkelsgerði, sem á land vestan við Götu segir m.a.: „Austan við Strandarhæð eru miklar lægðir, kallaðar Djúpudalir, og tilheyra Útvogi. Norðaustur af þeim er Þorkelsgerðisból eða -sel. Við það er Skyrhóll, hellisskúti, þar sem skyrið átti að hafa verið geymt. Neðar er Þorkelsgerðisvatnsstæði. Vatn er í því lengi vel fram eftir vori. Bólið er inn af því, vestar en Hásteinar, en austur af Vörðufelli.“
skyrhellir-22Skyrhellir er reyndar ekki við selið, en þó ekki langt frá. Hellirinn er í raun skúti, sem hægt er að fara niður í. Á „hellisgólfinu“ eru beinaleifar. Framan við opið á hólnum er stök tóft. Hún gæti þó reynst stærri ef staðurinn yrði rannsakaður betur. Ferhyrnt gróið gerði er einnig í hólnum svo ekki er ólíklegt að þarna hafi fyrrum verið lítil selstaða.
Þá segir ennfremur til nánari upplýsinga í örnefnalýsingu fyrir Þorkelsgerði: „Hrakningshæð er hæðardrag í Vörðufellshrauni í suðaustur frá Vörðufelli. Ef fé hrakti  undan veðrum, hafði það afdrep undir hæðinni. Hæðin er líklega í Eimulandi eða við mörkin. Brekkuhalli er upp undir Hnúkana. Þær brekkur heita Hallandar. Í Eimulandi er Eimuhallandi og þar í Eimuhallandasteinn. Það er töluvert stór steinn, vænt Grettistak. Austan til við hann er Stebbasteinn, ekki stór steinn, stakur. Hann er fyrir ofan Móana. Brekkur eru í hallandanum fyrir neðan. Stebbasteinn dregur nafn af Stefáni í Götu, sem tyllti sér við steininn í smalamennskum og hætti til að sitja of lengi og dragast aftur úr.  Hér er heiðin farin að hækka. Leynir er lægð austan Hellholta og liggur niður með Hallanda, alla leið niður að Eimuhallandasteini. Leynir er gott beitiland, ekki uppblásið. Hann er austan við Eimuból. Fram af Eimuhallandasteini er Leturhóll. Um hann liggur merkjalínan milli gata - markavarðaÞorkelsgerðis og Eimu. Þaðan er bein lína í Kálfahvamm.
Austan við Leyni, vestur og fram (þ.e. suður) af Vesturhnúkum (í Neslandi) eru Hrómundartindar (112), einstakir klettar. Ekki er kunn nein sögn um nafnið. Þar eru góðar brekkur, sem slegnar voru frá bæjum í Útvogi.“
Landamerkjavörður
má sjá víða í Selvogsheiðinni.
Frábært veður.

Heimildir:
-Örnefnalýsing fyrir Bjarnastaði – ÖÍ.
-Örnefnalýsing fyrir Götu – ÖÍ.
-Örnefnalýsing fyrir Þorkelsgerði – ÖÍ.
-Jarðabókin 1703.
-Kristófer Bjarnason.

Strandarhellir

Í Strandarhelli.

Selvogsgata

Í tilefni af því að FERLIRsferðirnar náðu tölunni 1800 laugardaginn 14. júlí var gamla Selvogsleiðin gengin frá Bláfjallavegi í Selvog. Leiðin er um 24 km.
Selvogsgata-603Eftirfarandi lýsing Gísla Sigurðssonar um gömlu Selvogsleiðina birtist í Þjóðviljanum árið 1973:
„Áður fyrr var álgengt, að farið væri í kaupstaðarferð til Hafnarfjarðar úr Selvogi. Gísli Sigurðsson, umsjónarmaður Minjasafns Hafnarfjarðar, fylgir okkur suður í Selvog eftir velheppnaða verzlunarferð í Firðinum. Gísli Sigurðsson, fyrrverandi lögregluþjónn, er margfróður um sögu Hafnarfjarðar og Reykjaness. Hann þekkir gamlar slóðir um Reykjanes eins vel og lófann á sér, og hefur gengið þær flestar margoft. Það er þess vegna ærin upplyfting að fara með honum í gönguför suður í Selvog. Seinna geta svo lesendur farið sjálfir af stað og látið þessa leiðarlýsingu Gísla vísa sér veginn.

Lagt af stað úr Firðinum Ein er sú gönguleið, sem ég tel með þeim skemmtilegri hér í nágrenni við höfuðborgina, það er Selvogsgatan eða Selvogsgata-604Selvogsleiðin, sem ég ætla að fara með ykkur um, og við skulum fylgja lestum þeirra Selvogsinga. Þeir hafa verið í kaupstaðarferð. Hafa búið vel upp á hesta sína. Þeir leggja upp frá plássinu, Akurgerði, og leiðin liggur suður yfir Hamarskotslæk suður á Mölina upp í Illubrekku, og sveigir til austurs neðan undir Austurhamri. Og þvi er nú til Selvogsgata í Hafnarfirði, að Selvogsingar fóru þessa leið. Við förum með lækjarsytru sem rennur með Hamarskotstúngarði upp á öldurnar þar ofan. Á leiðinni verða fyrir okkur nokkur móabörð og austasta barðið heitir Moldarbarð og er þar nú kirkjugarðurinn.
Mosahlíðin blasir nú við okkur, og við förum upp á Hrygginn, þaðan liggur leiðin niður undir Hraunið og yfir hraunrimann, og höfum við þá Lækjarbotnana á hvora hönd. A vinstri hönd eru Neðri-Lækjarbotnar þar sem tekið var vatnið i fyrstu Selvogsgata-605vatnsleiðsluna til Hafnarfjarðar.
En á hægri hönd eru Efri-Lækjarbotnar, nokkrar lautir i hrauninu með tæru vatni og fersku. Þegar yfir Hraunrimann er komið, er þar lækjarfarvegur, venjulega þurr nema á vetrum, og er þá Svinholt á vinstri hönd, en Gráhelluhraunið á hægri. Nokkru sunnar eru Moldir og er þá Setbergshlíð á vinstri hönd, allhá hlíð vaxin birkikjarri. Innar gengur fram svo kallað Háanef, en fyrir innan það hallar landinu móti okkur og er þar upp hraunbrekku að fara. Þar komum við að helli, sem heitir Kethellir. Suður af honum er hellir, sem mun hafa verið bæði í landi Setbergs og Hamarskots. Þarna var í eina tíð sel, að líkindum frá báðum þessum bæjum. Á tímum hraungosanna miklu úr Búrfelli hefur um þessa brekku runnið mikill hraunfoss. Við færumst fet fyrir fet upp brekkuna, en á brúninni komum við á grágrýtisklappir. Sléttuhlíðarhorn, og niður af þeim er þá Sléttahliðin á hægri hönd en Smyrilbúðarhraun á vinstri.

Selvogsgata-606

Svæðið, sem leiðin liggur um, kalla Selvogsingar Torfur og ná þær allt að gjá þeirri, sem er framhald af Hjöllunum. Gjáin er mjó en á þó sína sögu. Maður nokkur Kristján að nafni var þarna á ferð með folaldsmeri. Hann missti folaldið í gjána. Varð hann að fara til Hafnarfjarðar eftir mannhjálp til að ná folaldinu upp úr gjánni. Því kölluðu Hafnfirðingar gjána Folaldagjá, en Selvogsingar Stjánagjá. Frá Gjánni liggur leiðin suður eftir sléttu hrauni, sem heitir Helluhraun allt að okkar fagra Helgadal. Þar er gjá yfir að fara niður í dalinn. Leiðin upp úr dalnum liggur í troðningum tveim megin við rúst, sem ég hygg að sé fjárhúsarúst. Hún stendur nú undir vernd fornminjavarðar, allt frá því að Brynjólfur fræðimaður Jónsson frá Minna-Núpi var hér á ferð 1897.
En hraunriminn austur frá Helgadal geymir sína sögu. Í Setbergsannál segir svo frá við árið 1427: „Voru 12 þjófar í einu teknir syðra í helli einum í fjalli einu eða felli, þar sem nefnt er Húsfell. Voru allir hengdir um sumarið“. Í hraunrima þessum er hellir, og hygg ég, að þar sé hellir sá, sem um getur í annálum. Kannske getum við giskað á, hvar þjófar þessir voru réttaðir þegar við komum lengra.
Við höldum svo yfir Helgadalsás og niður af honum og austur um og förum þar eftir móbergsklöppum, og erum við þá komnir að Valahnúkum, norð-austan við Helgafell, okkar tignasta fell, sem ég trúi að margur Hafnfirðingur óski sér að deyja í og sitja þar að sumri og skrafa saman við langelda. Í Valahnúkum er Músarhellir. Þar sváfu eina nótt fjárleitarmenn á haustum, þeir sem smöluðu Norðurfjallið. Nú hefur helli þessum verið annað nafn gefið, heitir Valaból.
Og áfram höldum við og komum i grunnar dalkvosir sem heita Migludalir. Líklega hefur einhver áð þar á gæðing sínum, henni Miglu, sem skeiðaði allra hrossa mest. Nú liggur leiðin upp yfir hraunrima allbreiðan og er þar í gjá, sem nefnist Húsfellsgjá.

Selvogsgata-609

Þegar kemur upp fyrir hraunið taka við melhæðir með hraunrimum á milli. Svæði þetta heitir Strandartorfur, og segja munnmælin, að þar hafi Strandarkirkja átt skógaritak. Þar fer nú lítið fyrir skógi eða kjarri. Siðar hefur svæði þetta fengið nafnið Kaplatóur.
Þegar kemur suður fyrir taka við Hellurnar; er það helluhraun mikið og liggur upp undir Grindarskörð, sem blasað hafa við sjónum allt frá því, að við vorum hjá Músarhelli. Hér má sjá að um hafa farið langar lestir hesta, því víða eru gótur sorfnar í klappirnar. Hér hefur líka verið farið með rekstra, ekki sízt þegar aðalsláturhöfnin var i Hafnarfirði. Þegar við höfum farið um 10 mín. gang upp Hellurnar eru á hægri hönd klettar sem heita Gálgaklettar.
Mér er að detta í hug, að þegar Álftnesingar hafi verið búnir að fanga útileguþjófana í heimahögum sínum hafi þeir farið með þá að klettum þessum og hengt þá þar.

Selvogsgata-608

Þegar komið er eftir hellunum upp þar sem aðalbrekkan byrjar, er þar jarðafall mikið, þar í eru hellar nokkrir. 1927 eða 8 var einn þessara hella notaður af rjúpnaskyttum, sem stunduðu veiði upp um fjöllin og lágu þarna við nokkrar nætur. Þórðarhelli kalla ég þennan helli og kenni hann við Þórð nokkur Eyjólfsson, sem bjó á Brúsastöðum.
Þegar hér er komið taka við Mosarnir, og nokkru ofar er svæðið nefnt Flá, og er þá komið að örðugasta hjallanum, Kerlingarskarði. Þarna deildust vegir. Stígur lá upp hraunbungu á vinstri hönd, Grindarskarðastígur. Lá hann suður um austurenda Stórkonugjár upp að Heiðartoppi á Heiðinni há og austur áfram að Vindheimum í ölfusi.
Við höldum nú upp þennan örðuga hjalla. Brekkan er svo brött að kunnugir segja mér, að þeir hafi Selvogsgata-607orðið að hvila hestana minnsta kosti einu sinni áður en upp var komið. Svo komumst við á brekkubrúnina. Þá höfum við austan okkur Mið-Bolla, sem eru tveir, og vestan eru svo Þríbollar, sem Selvogsingar kalla Kerlingahnúka. Við hnúk næsta tökum við eftir stlg sem liggur yestur. Þetta er Námastigurinn og liggur vestur í Brennisteinsnámur. En við höldum áfram og liggur leiðin um austurenda Draugahliðar. Þar hefur bæði verið ruddur vegur og hlaðinn. Þegar niður kemur liggur leiðin yfir hraun, sem nefnist Skarðahraun, kennt við Grindaskörð. Þar förum við gegnum girðingarhlið og litið eitt austar eru svo tvær vörður, sem við köllum Tvívörður. Liggur nú leiðin austur og upp undir Kóngsfellið litla.
Í hrauntröðum, sem þar eru, blasir við okkur lítill skúti. Hann er kallaður Dauðsmannsskúti. Þar varð úti maður um 1860. Selvogsgata-441Skörðin búa yfir mikilli dul, þvi 1633 hvarf þarna maður og hefur ekkert af honum fengizt. Haldið var að tröll hafi heillað hann. Þorstanum svalað í Sælubunu Nú tekur leiðin á sig hlykk og stefnir vestur og liggur þar um svonefndan Grafning. Við Þrívörður eru vegamót. Þar niður eftir sléttu klapparhrauni liggur Stakkavíkurvegur, fyrir endann á vestari Hvalhnúk og slðan niður Fjallið niður um Selstig að Stakkavik og vestur að Herdísarvík. Annar stigur liggur nokkru austar niður Fjallið og heitir hann Hlíðarvegur, liggur í Hlíðarskarð og niður skarðið að Hlíð. Þessir vegir eru nú sjaldan farnir.
Þegar komið er niður úr Grafningi er komið I fagran dal, sem heitir Stóri-Leirdalur. Þar er grösugt og sléttar flatir norður með Hvalhnúknum. Úr Leirdal liggur leiðin upp í Hvalhnúkaskarð og niður úr því sunnan við gil, sem þar er.
Blasir nú við Fjallið, sem þeir kalla sSelvogsgata-442vo Selvogsingar, Herdísavíkurfjall, Stakkavíkurfjall og Hlíðarfjall,og er þetta afréttur þessara bæja í Selvogi. Þegar kemur fram úr Hvalhnúkaskarði liggur leiðin vestur undir hliðartöglum Heiðarinnar háu, er þar víða grösugt, og heita á vinstri hönd Hvalhnúkabrekkur.
Góðan spöl suður frá Skarðinu er hraunhóll mikill og heitir Þorvaldshóll. Þegar honum sleppir taka við móar og er gatan heldur ógreið um þá. Þá er komið í Litla-Leirdal, sem eiginlega er slakki utan í Heiðinni. Þar nokkru neðar er svo uppspretta og kringum hana flöt, og er þetta kallað Rituvatnsstæði. Nokkru neðar verða á vinstri hönd við okkur fell, sem heita Urðarfell. Þau eru tvö, Urðarfellið stóra og Urðarfellið minna. Þau eru aðskilin af gili er nefnist Kálfsgil. Í því er uppspretta nefnd Sælubuna. Gott vatn ungum sem gömlum.
Utan í Urðarfelli stóra er Strandardalur, en í Urðarfelli litla eru Hliðardalirnir tveir. Þá komum við i Katlana og Katlahraun. Við sniðskerum það vestur á við og erum þá komnir á fjallsbrúnina. Heita Selvogsgata-610hér Katlabrekkur þar sem leiðin liggur niður af fjallinu. Þar í grasivaxinni laut eru vegamót. Liggur ein leiðin þaðan út með Hlíðarfjalli og heitir þar Hlíðarvegur. Önnur leið er þarna og heitir Vogsósaleið. Liggur hún niður svæði sem kallast Rofin um Aldindal og Stekkjardali í Hlaupandahóla heim til Vogsósa.
Hópurinn dreifist En við skulum halda áfram ogstefna á byggðina. Leiðin liggur um Austur-Rofin,og sunnar er fell á vinstri hönd, sem heitir Vörðufell. Þar voru lögréttir þeirra Selvogsinga. En fell þetta er einnig frægt fyrir sinar mörgu vörður. Svo er mál með vexti, að þegar unglingar voru sendir að leita fjár eða annars búpenings, þá kom oft fyrir, að þeir fundu ekki gripina. Fóru þeir þá á Vörðufell, og ef þeir hlóðu vörðu brást það ekki að þeir fundu gripina.
Leiðin liggur þarna upp svo nefndar Eymu-Illhæðir eða Eymu-Hellhæðir, og svo er komið að Selvogsgata-611Kökhól og Skálinn er þar ekki langt frá. Austan leiðarinnar eru nokkrarhæðir, svo sem Strandarhæð og Strandarhellir, og þar skammt frá e r hellirinn Gapi, og enn sunnar er Bjarnarhellir. Á þessum stöðum eru rúmgóðir fjárhellar.
Nú erum við komnir niður á þjóðveginn og þar hittum við á vegamót. Við höldum svo niður í Klifið og eru þá Dalhólalágar á hægri hönd, en nokkru neðar á vinstri hönd eru Bjarnastaðahólar. Þeir sem byggja Þorkelsgerði fara nú í suð-vestur, en Bjarnastaðamenn og Nesmenn halda niður undir túngarð. Þar skilja enn leiðir, og halda Bjarnastaðamenn suður og heim, en Nesmenn austur með garði um slétta velli, sem heita Flatir, síðan í túngarðshliðið og heim til bæjar.
Við köllum þetta Selvogsleið eða Selvogsveg, en Selvogsingar kalla hana Suðurferðaleið, og er það einkennilegt, þvi leiðin liggur þvi sem næst i norður.

Selvogsgata-612

Þessi leið sem við höfum nú farið er ágæt gönguleið að sumri til. Tekur 6 klukkustundir að ganga hana þegar rólega er farið. Ráðlegg ég öllum sem vilja halda sér ungum að ganga hana tvisvar til þrisvar á sumri.“ Gísli Sigurðsson
Taka má undir orð Gísla að leiðin heldur eldrendum yngri. Sá hluti er nú var genginn, frá Bláfjallavegi í Selvog um Grindaskörð, er sem fyrr sagði, 24 km löng. Hér er Kerlingarskarðsleiðin látin liggja á milli hluta, hvort sem um er að ræða annan hluta Selvogsgötunnar eða tvískiptar götur Hlíðarvegar og Stakkavíkurvegar.
Selvogsgata-613Tvær vörður segja til um leiðina norðan Kerlingarskarðs-leiðarinnar.
Þær leiða göngufólk að neðanverðum Skörðunum. Neðarlega í þeim er leiðin nokkuð augljós. Úrbætur hafa verið gerðar á nokkrum stöðum á leið upp í öxlina norðan Konungsfells. Á seinni tímum hefur fellið fengið örnefnið „Stóri-Bolli“, en það stafar líklega af ókunnugleika. Samnefndur bolli er norðvestan í fellinu, all mikilfenglegar, en jafnframt mörgum duldar jarðminjar.
Þegar komið er yfir Skörðin skiptist Selvogsleiðin gamla í tvær leiðir, eða reyndar þrjár að meðtöldum Heiðarvegi. Tvær vörður gefa vísbendingu um gatnamótin. Heiðarvegurinn liggur þaðan að vestanverðum Bláfjallaenda, áfram niður með Kerlingarhnúk og niður í Ölfus. Frá Endanum er gatan vörðuð að mestu.
Hinar tvær leiðir Selvogsgötunnar eru annars vegar til vinstri niður með hraunbrúninni og hins vegar upp á hana og yfir. Leiðirnar koma saman skammt sunnar, milli Konungsfells og Litla-Kóngsfells. Vörður vísa leiðina. Síðarnefndin er öllu greiðfærari um slétt helluhraun.
Að þessu slepptu skýrir gatan sig nokkuð vel þegar gatnamótum (tvær vörður) Grindaskarðsleiðar annars vegar og Kerlingarskarðsleiðar hins vegar sleppir. Gatan getur að vísu verið torráðin á köflum, s.s. neðan Fossagils, neðan Hvalshnúkaskarðs og sunnan við Strandarmannahliðið. Að öðru leiti ætti leiðin að vera auðrakin þeim er kunna að lesa landið. Aðrir gætu lent í vanda á þessari leið.
Þess má geta að jafnan þegar auglýstar eru ferðir um „Selvogsgötuna fornu“, jafnvel af virtum ferðafélögum, er Hlíðarvegurinn jafnan genginn um Kerlingarskarð að Hlíðarskarði. Það verður að teljast alveg sérstaklega ódýr biti í hundskjaft, ekki síst ef tekið er tillit til hinnar sögulegu notkunar og þróunnar vega (leiða) millum Selvogs og Hafnarfjarðar. Minna má á, ekki síst vegna þessara leiða, að mikil makatengsl lágu fyrrum milli þessara byggðalaga og eiga afkomendurnir þeim miklar þakkir skyldar.
Frábært veður. Gangan tók 7 klst og 7 mín.

Heimild:
-Þjóðviljinn, 15. júlí 1973, Gísli Sigurðsson, Gamla Selvogsleiðin, bls. 6-7Selvogsgata-602

Kistufell
Fregnir höfðu borist af a.m.k. tveimur álitlegum og áður ómeðvituðum götum í Kistu í Brennisteinsfjöllum.
Stefnan var því tekin síðdegis upp úr Fagradal, út (austur) með hraunbrúninni ofan hans og inn á slétt helluhraun Eldborgar. Kistan blasti við í langri fjarlægð, mitt á milli Kistufells í norðri og Eldborgar í suðri. Þátttakendur voru léttbyrgðir, enda farið hratt yfir. Þarna hefðu reiðhjól komið sér vel til að flýta för því hraunhellan var næsta slétt alla leið upp að fjallsrótum Kistu.
Síðdegissólin var byrjuð að gylla fjöllin, sem færðust óðfluga nær. Þessi nálgun Brennisteinsfjalla er ein sú tilkomumesta; fallegt útsýni með rauðleitum eldborgum nánast alla leiðina, ólík hraunsvæði á báðar hendur, „svartur“ helluhraunsdregill Kistuhrauns fyrir fótum undirvert og heiðblár himininn ofanvert. Brennisteinsfjallasvæðið hefur hingað til ekki verið aflögufært með vatn, en á þessari leið eru vatnsstæðin í grónum hraunbollum allnokkur.
Brennisteinsfjöllin eru með áhugaverðari útivistarsvæðum landsins. Sem dæmi um áhugaleysið, sem þeim hefur verið sýnd, má benda á kort af svæðinu, en á þeim virðast fjöllin vera eyðimörk. Fjölbreytni jarðmyndana, gróðurbreytingar og formfegurð náttúrunnar eru þó óvíða meiri en einmitt þarna. Þá hefur jafnan verið haldið fram að Brennisteinsfjöll væru erfið yfirferðar vegna vatnsskorts, en það er nú öðru nær. Auðvelt er að nálgast vatn í fjöllunum, hvort sem um er að ræða ofan jarðar eða neðan.
Í þessari ferð uppgötvuðust m.a. tvær rásir með nokkrum jarðföllum, önnur nálægt 3 km löng úr vestari Kistugígnum og hin til hliðar við meginrás Kistufells hrauntraðarinnar. Reyndar eru hrauntraðir Kistufellsgígsins tvær. Sú vestari er vel gróin, en stutt, en sú austari er mikilfengleg eftir að hún opnast á hraunsléttunni norðvestan fellsins. Af stærðinni að dæma má ljóst vera að þarna hafi farið um mikill hraunmassi í fljótandi formi. En meira um það síðar.
Auk þessa uppgötvuðust nokkur op á mismunandi stórum hellum. Allt var þetta skráð samviskusamlega og fært í „hellaskrána“, sem nú telur rúmlega 400 hella á Reykjanesskaganum.
Eftir þessa ferð í Brennisteinsfjöll er ljóst að fjallgarðurinn beggja vegna er líkur götóttum osti. Ef vel er gáð má finna op niður í rásir hvar sem stigið er niður. Stærstar eru rásirnar norðvestan Kistufells, en þar eru hellarnir líka stystir, en umfangsmiklir. Lengstar eru rásirnar úr vestanverðum Kistugígnum, eða um 3 km eins og áður sagði. Rásin er hins vegar á svæði, sem hvað „afskekktast“ er í Brennisteinsfjöllum. Hliðarrásin í meginrás Kistufellsgígs er geysistór, en ókönnuð. Vatn er á gólfi hennar fremst svo vaða þarf inn í hana. Engin op er að sjá á henni norðan meginopsins.
Skemmtilegasta atvikið, og það er sannfærði leiðangursmenn um að þarna hefðu verið menn fyrrum, var innan við eitt af stærstu opum Kistuhraunshellanna (3 km). Undir hellisveggnum var rautt bitabox, bambusstafur og nokkrar stuttar fjalir. Þegar bitaboxið var opnað komu í ljós nokkrir litlir timburstafir, sérhver merktur með tölustöfum sem og tveir tússpennar (sjá mynd). Líklega hafa einhverjir verið að merkja jarðföllin í rásinni og annaðhvort gleymt kassanum og öðru, sem þarna var, eða ákveðið að geyma það þarna. Fróðlegt væri að fá upplýsingar um tilganginn og annað er laut að framkvæmdinni. Við boxið var lítil þrýhyrnd seglveifa. Skammt ofar í rásinni var hið gerðalegasta vatnsstæði.
 Rásinni var fylgt upp hraunið, alla leið að rótum Kistuhrauns. Á henni eru fjölmörg op og víða hrun í rásum svo ekki er hægt að tala um samfelldan helli frá fyrsta jarðfalli til upphafsins, en rásin er í heildina a.m.k. 3 km sem fyrr er á um kveðið.
Þegar upp í vestanverða Kistu var komið var punktur tekinn á Snjólf. Fyrst var þó talin ástæða til að koma við í eldborginni norðan undir hlíðum Háborgarinnar (þeirrar er trjónir hæst), austan Eldborgar í Brennisteinsfjöllum, sem lætur minna fyrir sér fara, en hefur gefið hvað mest fóður af sér.
Frá brún eldborgar sést vel til Vestmannaeyja og Eyjafellsjökuls í austri og Hálsanna (Sveifluháls (Austurháls) og Núpshlíðarháls (Vesturháls) í vestri. Í raun má segja að þarna sé eitt stórbrotnasta útsýni sem hugsast getur (í góðu skyggni).
Þá var kíkt á og niður í Lýðveldishelli. Rásin ofanverð er bæði heilleg og auðvel uppgöngu. Í heild er hellirinn um 200 metrar. Skammt austan við opið er annað op á annarri samhliða rás. Hún var ekki skoðuð að þessu sinni, heldur var stefnan tekin á Snjólf. Opið er þarna skammt norðar. Það lætur lítið yfir sér, er bæði lágt og lítið. En þegar farið er undir hraunbrúnina að sunnanverðu og vent til austurs koma í ljós fallegar rásir, bæði til austurs og norðvesturs. Dropsteinar eru á gólfum, einkum í vestlægari rásinni. Einn er t.a.m. ca. 40cm hár og nokkrir aðrir standa þar þétt við hann. Dropsteinshellar eru sjaldgæfir í Brennisteinsfjöllum og því er þessi litli, en netti, hellir kærkominn – þar sem hann er. Hraunstrá eru í loftum.
Leitað var að tveimur opum í Kistu, sem spurnir höfðu borist af. Annað reyndist nánast efsti hlutinn af fyrrgreindri 3 km rás úr vestari hluta Kistu og hitt reyndist vera nánast efsti hluti af rás úr austari hluta Kistu. Hið síðarnefnda var op niður í stóra rás, en stutta (vegna hruns). Rásinni var fylgt spölkorn til norðvesturs og má telja nokkur lítil op á henni. Hún er þó í heildina fremur stutt (á Brennisteinsfjallamælikvarða).

Þegar rás var rakin upp til rótar vestari Kistugígs komu í ljós nokkur op. Eitt af þeim efri var sérstaklega áhugavert. Greinilegt var að enginn hafði farið þangað inn áður. Einstaklega fagurrauðir separ voru í loftum og rásin reyndist öll hin rauðasta. Þessi hluti var nefndur „Fagurrauður“. Hann er skammt neðan við KIS-04, en ekki er samgangur þarna á milli. Fagurrauður gæti því verð rás til hliðar við KIS-04. Þegar sá hellir var skoðaður komu í ljós einir tilkomumestu „hraunsveppir“ er um getur.
Stefnan var tekin á Kistufellshella. Til að komast þangað var að fara yfir norðaustanvert Kistuhraunið og síðan yfir vestari hrauntröð Kistufellsgígsins. Hún er vel gróin. Kistufellshellarnir eru í geysistórum jarðföllum, sem þó mynda hvergi ákveðna heild. Um er að ræða grágrýtishella, stóra, en án sérstakra myndana. Mikið hrun er í mörgum þeirra. Áhugaverðastur af þeim er Jökulgeimur, íshellirinn, en ekki var farið niður í hann að þessu sinni. Sennilega er myndun hans komin af því að opið snýr mót norðri svo sólin nær ekki að skína inn um það og verma innvolsið. Snjóskafl var enn við opið – og það í júlí.
Leitað var tveggja opa á sléttri hraunhellu skammt frá austari hrauntröð Kistufellsgígsins. Þessi op, tveggja ferfaðma að stærð með ca. 15-20 metra niðurhali, fundust í einni FERLIRsferðinni fyrir nokkrum árum (fyrir tíma GPS-tækjanotkunar), en þrátt fyrir leit á líklegum stöðum endurfundust þau ekki að þessu sinni.
Hrauntröðinni var fylgt til vesturs. Í fyrstu er hún lítil og gróin í botninn, en skyndilega stækkar hún til muna. Austan stækkunarinnar fundust nokkur op á myndarlegum rásum. Ein þeirra var sérstaklega áhugaverð. Þar var tekinn GPS-punktur. Hliðarrás opnast og innan við opið er stór og mikil rás. Vatn er á gólfi svo henni var ekki fylgt inn eftir að þessu sinni. En það mun verða gert innan ekki langs tíma.
Í BrennisteinsfjöllumLjóst er að hliðarrásinar hafa loks runnið saman þar sem megin hrauntröðin opnast. Þar hefur farið um gríðarlegur hraunkvikumassi. Hraunbrú er yfir tröðina nálægt þar sem hún opnast og nokkur hellisop má sjá við brúarskil neðar. Forvitnilegt er að horfa eftir endaþarmi rásarinnar þar sem Kistuhraunið (sem er nýrra) hefur náð að renna að henni og færa hluta þess undir sig.
Þokuslæðingur hafði færst yfir Fjöllin og gerði hið smæsta dulúðlegt við hina minnstu ásýnd. Haldið var niður eftir hinu slétta Kistuhrauni uns komi var að brún Fagradals. Fótur var þræddur niður mosavaxna suðurhlíða hans og gamalli götu síðan fylgt að upphafsstap.
Á göngunni mátti greina grópaðan götustubb á einum stað í Kistuhrauni. Gæti þar verið um að ræða hina gömlu leið Stakkavíkurbræðra með rjúpnafeng sinn til sölu í Hafnarfirði er Þorkell og Eggert Kristmundssynir lýstu á sínum tíma. Þá var farið upp með Eldborginni, er blasir við, og niður Fagradalsmúla. Þessi götustubbur er einmitt á þeirri leið.
Segja má með góðri samvisku að enginn hafi í raun komið í Brennisteinsfjöll hafi hann ekki farið um Fagradal og Kistuhraun.
Gangan tók 6 klst og 60 mín. Meðalhraðinn var 3.2, en á göngu 3.9. Samtals voru gengnir 21.5 km, sem verður að teljast nokkuð gott á 7 klst. Frábært veður – og birtan einstök.

Hellir

Dyravegur

Dyravegur var genginn frá Lyklafelli um Brekkuna, Dyradal og Sporhellu að Nesjavöllum, 18.6 km. Alls er vegurinn frá Elliðakoti að Nesjavöllum um 26 km ef farið er norður fyrir Lyklafell, en um 27 km ef farið er sunnan við Lyklafell. 

Dyravegur

Dyravegur lá að sjálfsögðu áfram til austurs. Að öllum um líkindum var hér um að ræða fyrstu ferð núlifandi Íslendinga um þessa fornu þjóðleið á þessum langa kafla. Hafa ber í huga að vegurinn er alls ekki auðrakinn þrátt fyrir mikla umferð fyrrum. Líklegt má telja að leiðin hafi nánast einungis verið farin að sumarlagi því rekja hefur þurft hana frá upphafi til enda eftir legu hennar. Einungis nokkrar vörður og vörðubrot eru á leiðinni, auk þess sem nokkur gatnamót, ef grannt er skoðað. Eitt vörðubrotið er t.d. við lækjarfarveg austan Lyklafells. Vörður eru á aflöngu holti miðja vegu og síðan er varða á öxl er nálgast tekur Hengilinn vestan við Dyradal. Vatnsstæði er nánast á miðri leið og má sjá hleðslur í því. Leifar af tóft eru þar hjá. Alls staðar er gatan þó vel greinileg, en mikilvægt er að hafa augun opin fyrir óvæntum stefnubreytingum. Ferðin var notuð til að hnitsetja götuna.
Austan Lyklafells greinast Dyravegur og Hellisheiðarvegur með glöggum skilum. Sá síðanefndi liggur síðan áfram til austurs upp með Múla, Kolviðarhóli og um Hellisskarð.
DyravegurDyravegur liggur frá Elliðakoti norðan við Nátthagavatn, austur yfir Mosfellsheiði norðan Lyklafells, um Dyradal og Rauðuflög og komið niður hjá Nesjavöllum. Þetta var aðalvegur þeirra sem bjuggu í uppsveitum Árnessýslu.
Í MBL 1991 er fjallað um „Dyraveginn“ undir fyrirsögninni „Á leið um Dyraveg“.
„Allt til þessa dags hefur þeim leiðum, sem forfeður okkar, mann fram af manni, fetuðu eftir í aldaraðir, verið lítill sómi sýndur. Við leggjum mikla áherslu á söfnun gamalla muna og varðveislu fornra bygginga og er það vel, en er það nokkur fjarstæða að viðhalda á sama hátt þessum gömlu götum, sem nú víða eru horfnar með öllu, en bera á sinn hátt þögult vitni um þá hörðu baráttu, sem þjóðin háði fyrir tilveru sinni? Í þeim flokki er Dyravegur. Frá fornu fari lá leiðin frá Þingvöllum suður með vatninu að vestan til Nesjavalla. 

Dyravegur

Þeir sem bjuggu austan við Sogið komu einnig að Nesjavöllum, eftir að hafa sundlagt hestana og farið á ferju yfir fljótið fyrir neðan Dráttarhlíð, þar sem Steingrímsstöð er nú. Þessa leið fóru Skálholtsmenn fyrrum, þegar þeir fluttu vistir að og frá biskupsstólnum, en sá staður þurfti mikils við, þegar umsvifin þar voru sem mest. Enda hlaut þessi leið nafnið Skálholts-mannavegur. Þegar þessar tvær leiðir höfðu sameinast á Nesjavöllum, lá hún vestur yfir Dyrafjöllin, Varðaþvert yfir Sporhelludal og Dyradal. Við Húsmúla greindist leiðin aftur. Þeir sem ætluðu til Reykjavíkur og Hafnarfjarðar tóku stefnuna á Lyklafellið, en þeir sem ætluðu í Selvog eða á sunnanvert Reykjanes héldu suður með Húsmúlanum og stefndu á Lágaskarð austan við Stórameitil. Í þessari ferð skulum við kynnast Dyraveginum nokkru nánar.
Við yfirgefum bílinn sunnan undir Húsmúlanum og göngum eftir Bolavöllum, sem eru að vestan við hann. Þar komum við fljótlega á grasivaxna götutroðninga, sýnileg merki þeirrar umferðar sem hér var fyrr á tímum. Troðningarnir eru skýrir og auðvelt að fylgja þeim, sem við gerum að sjálfsögðu. Brátt komum við inn í Engidal. Eftir honum fellur Engidalsáin, sem myndast úr smá lænum og uppsprettum er koma úr vesturhlíðum Hengilsins. Lengsta kvísl hennar kemur frá Marardal. Þangað liggur götuslóði, en annars er gamla gatan vestan við Marardalinn, en við tökum á okkur krók og heimsækjum dalinn. Það er þess virði.
DyravegurMarardalur er sigdæld, neðanundir Skeggja, en svo nefnist hæsti tindur Hengilsins. Brattar hlíðar liggja að honum á alla vegu, botn hans er rennisléttur og um grundirnar liðast fagurtær lækur. Smá skarð í dalsbrúnina er í suðvesturhlið hans. Um það rennur lækurinn. Skarðið er svo mjótt, að menn verða að ganga þar inn í einfaldri röð. Merki um grjótgarðshleðslu er þar, því áður fyrr voru naut og önnur geldneyti höfð þar að sumarlagi og lokuð þar inni með þessum grjótgarði. Við höldum inn eftir dalnum og fikrum okkur svo upp bratta brekkuna og upp á norðurbrún hans. Þar blasir við allbreitt vik eða dalskvompa sem gengur inn í fjallið. Þar komum við aftur á gömlu götuna og henni fylgjum við eftir það.
DyravegurÚr þessu hækkar gatan og liggur upp brekkurnar til austurs og upp á vesturbrún Dyradalsins. Hann er ekki ósvipaður Marardal, hlíðabrattur og rennsléttur í botninn. Hér er gatan skýr og glögg, sem einkum skal þakka sauðkindinni, sem ræður hér ríkjum í sumarhögunum. Gatan liggur þvert yfir dalinn og stefnir í skarð, milli tveggja kletta, í austurhlið hans. Þar komum við að hinum nafnkenndu dyrum, sem þessi leið er kennd við. Smálækur fellur um um Dyrnar, sem eru ekki nema ca. 2 m á breidd. 

Líklega á hann einhvern þátt í myndun Dyranna, en annars eru öll fjöll hér um slóðir mynduð úr móbergi, sem vatn og vindar vinna á jafnt og þétt.

VörðuleifarTafsamt hefur verið að koma hestalestunum í gegn um dyrnar. Menn hafa orðið að taka klyfjarnar ofan, teyma hestana síðan í gegn um skarðið og láta svo aftur upp. En um það var ekki að fást, þetta var hluti af striti dagsins. Austan við Dyrnar eru einir þrír smádalir með bröttum hálsum á milli. Yfir þá liggur leiðin og hefur margur klyfjahesturinn trúlega svitnað ærlega á þeirri leið. En er þeir eru að baki opnast skyndilega nýtt útsýni. Þar blasa Nesjavellir við augum, Þingvallavatn og fjallahringurinn í norðri og austri. En sunnar bera hverareykir Hengilssvæðisins við loft.
Lesandi góður. Hér hefur verið reynt að lýsa undurfagurri og fjölbreyttri gönguleið, en sjón er sögu ríkari. Ef þú hefur í hyggju að ganga Dyraveginn á góðum degi, skalt þú ætla þér heilan dag til þess, svo marga skoðunarverða og fjölbreytta staði er um að velja. En með eðlilegum gönguhraða og skynsamlegum hvíldum má ganga götuna á 5-6 klst. hið minnsta.“

Dyravegur

Hér var leið lýst vestan Hengilsins inn á Dyraveginn um Dyrafjöllin. Vegurinn á að vera stikaður frá Dyradal um Sporhellu að Nesjavöllum, en hann víða á leiðinni er farið út af gömlu götunni. Má t.d. nefna er komið er upp úr Dyrunum er þar tilbúinn stígur. Ef grannt er skoðað liggur gamla gatan ofar og beygir síðan til vinstri áleiðis að Sporhellunni. Þar hefur skriða fallið yfir götuna, en auðveldlega hefði verið hægt að bæta um betur. Áður en komið er að Sporhellunni millum Sporhelludala hefur verið lagður nýr stígur þar upp í stað þess að fylgja gömlu götunni til hægri. Ofar greinist gatan og hefur styttri hlutinn verið stikaður. Sá lengri er hins vegar miklu mun fallegri. Þegar hallar niður að Nesjavöllum leiðbeina stikur vegfarendum svo til beint niður hlíðina, en að sjálfsögðu fór hún þar í sneiðinga fyrrum.
DyradalurVestar, áður en komið er niður í Dyradal, er gamla gatan einnig sniðgengin, því hún er þar greinileg suðvestast í dalnum, en Reykjavegurinn hefur hins vegar verið stikuð sunnan hennar – að óþörfu.
Í þessari ferð var Dyravegurinn genginn „nánast sanni“ frá Lyklafelli og ekki alltaf í förum stikaðrar leiðar um Dyrafjöllin.

Hengill

Hengilssvæðið – kort.

Í tímaritinu Mána árið 1880 segir m.a. um austurvegina: „„Yfir Reykjanesfjallgarðinn liggja 7 alfaravegir, nyrðstur er Kaldadalsvegur milli fingvallasveitar og Kalmannstungu, þá Mosfellsheiði milli Kárastaða í Þingvallasveit og Mýdals [Miðdals] í Mosfellssveit; þá Dyravegur suður um Henglafjöll milli Grímsness og Mosfellssveitar, þá Hellisheiði frá Reykjum i Ölvesi að Lækjarbotni í Mosfellssveit, þá Lágaskarð frá Hrauni í Ölvesi að Lækjarbotni, þá Ólafsskarð frá Breiðabólstað í Ölvesi að Lækjarbotni, þá Grindaskörð milli Ölvess og Selvogs að austan og Kaldársels að sunnan, þá Sandakravegur milli Krýsarvíkur og Kvíguvoga. Allir voru vegir þessir yfir Reykjanesfjallgarð mjög farnir á vetur.“
Til gamans má geta þess að FERLIR reyndi að vekja athygli OR á möguleika þess að merkja og stika þessa leið, annars vegar milli Nesjavalla að Lyklafelli og hins vegar milli Kolviðarhóls að Elliðakoti, en áhuginn var enginn.
Frábært veður. Gangan tók 6 klst og 6 mín.

Heimild:
-Mbl. 25. júlí 1981.
-Máni , 4.-5. tölublað – laugardagur, 31. janúar 1880 , bls. 33-34.

Dyravegur

Stakkavíkurvegur

Ætlunin var að ganga um Selvogsgötu og Hlíðarveg að Stakkavíkurvegi undir Vesturhnúkum. Vegurinn var síðan fetaður um Ása (Svörtu-Ása og Urðarás), niður Dýjabrekkur að Stakkavíkurseli ofan við Selbrekkur. Frá því var selstígurinn genginn um Einstigið niður að Stakkavík.

Stakkavikurvegur-203

Stakkavíkurvegurinn nær frá Stakkavík í Selvogi langleiðina upp undir Kóngsfell í Grindarsköðrum. Þar mætir vegurinn þvervegi; annars vegar að Kerlingarskarði í norðvestri og hins vegar að Grindaskörðum í norðaustri. Þaðan niður eftir liggur einnig Hlíðarvegurinn, sem flest göngufólk fer þegar það telur sig vera að ganga Selvogsgötuna. Leiðin sú var vörðuð um 1892 er ætlunin var að leggja vagnfæran veg frá Hafnarfirði í Selvog. Hugmyndin var að vegagerðin myndi nýtast brennisteins-vinnslunni neðan Námuhvams í Brennisteinsfjöllum. Gatan var aldrei lögð, einungis vörðurnar voru hlaðnar. Neðsti (syðsti) hluti Stakkavíkurvegar var jafnframt Selstígurinn milli Stakkavíkursels og bæjar.
Ólafur Þorvaldsson lýsir í Árbók Hins íslenska fornleifafélags Stakkavíkurveginum á eftirfarandi hátt: „Leiðin milli Hafnarfjarðar og Selvogshrepps í Árnessýslu gekk venjulega undir nafninu Grindaskarða- eða Kerlingarskarðsvegur. Leið þessi mun vera jafngömul fyrstu byggð í Selvogi, enda aðallega af Selvogsmönnum farin, þar eð lega hreppsins er þannig, að fáir aðrir áttu þar leið um. Að vísu gat það hent, að Selvogsmenn færu um Krýsuvík, varla þó nema lausríðandi, og þá annaðhvort af því, að snjór var svo mikill á fjallinu, að ófært var talið, eða þeir áttu sérstakt erindi við Krýsvíkinga.
Vegur sá, sem nú um langt árabil hefur verið farinn þarna yfir fjallið, liggur um Kerlingarskarð. Annar slóði er nokkru norðar og var nefndur Grindaskarðavegur. Fyrir löngu mun vera hætt að fara þann veg nema helzt lausgangandi menn að vetri til, ef harðfenni var mikið í brún Kerlingarskarðs, því að þar eru hærri og skarpari brúnir en á nyrðri slóðinni.

Stakkavikurvegur-6

Þegar upp á brún er komið, eru þrír hnjúkar til hægri handar, skammt frá vegi, kúlumyndaðir og allir svipaðir að stærð. Hnjúkar þessir eru á uppdrætti herforingjaráðsins nefndir Grindaskarðahnjúkar, aðrir nefna þá Bolla einu nafni, sennilega eftir lagi bolla á hvolfi. Nokkurn spöl norðan gamla Grindaskarðavegar er allstór hnjúkur, sem á korti frá 1908 er nefndur Kóngsfell, en á korti frá 1932 Bolli.“
Efst í Kerlingarskarði er rétt að rifja svolítið upp jarðfræðina: „Við Grindaskörð eru gígaraðir á sprungubelti og hefur þar verið mikil eldvirkni. Meðal þessara gíga eru Tvíbollar, en það eru gígir tveir, sem gnæfa á norðurbrún fjallsins og hef ég áður fjallað um þá (Jón Jónsson 1977a). Eins og nafnið bendir til eru gígir þessir samvaxnir og sést það vel neðan úr byggð. Aðalgígurinn er 4 0 – 60 m hár en minni gígurinn tæplega þriðjungur þess.
Gígirnir eru hlaðnir úr gjalli og hraunkleprum og hraunstraumurinn hefur fallið norður og mest um undirgöng, sem enn má sjá. Lengst norður nær hraun þetta að Helgafelli og hefur runnið í örþunnum straumi vestur með því að sunnan en hverfur loks undir Gvendarselshraun við suðvesturhornið á fellinu.

Stakkavikurvegur-203

Rétt þar hjá hefur leysingavatn grafið fornan jarðveg undan hrauninu svo það hefur á kafla fallið niður. Kemur við það í ljós jarðvegslag, sem er rösklega 1,2 m þykkt og í því m. a. eitt ljóst öskulag, sem talið er að sé H3 (frá Heklu fyrir 2.800 árum), en næst hrauninu eru kolaðar gróðurleifar, sem aldursákvarðaðar hafa verið og reynst 1075±60 C’4 ár, (Jón Jónsson 1977a) en það þýðir að hraunið gæti hafa runnið árið 875 og er því frá sögulegum tíma. Jafnframt fannst landnámslagið undir þessu hrauni, aðeins ofan við áðurnefnt niðurfall. Þrjú hraun hafa síðar runnið út á þetta hraun og eru því yngri, en þau eru Rjúpnadyngnahraun, Kóngsfellshraun Stakkavikurvegur-202og Gvendarselshraun.
Á Draugahlíðum er hár og brattur gígur, sem ég í dagbókum mínum hef nefnt Gráfeld. Hljóti það nafn viðurkenningu, skal hraun þetta Gráfeldshraun heita, en fram til þess nota ég hitt nafnið enda hef ég áður notað það, [þ.e. Selvogshraun] (Jón Jónsson 1978). Þessi gígur er á sprungu og smágígir eru vestan við hann. Auðsætt er að hann hefur þegar í upphafi tekið völdin og sent hraunflóð mikið niður í dalinn, þar sem fleiri hraun voru þegar fyrir og fylla hann nú fjalla milli. Meðal þeirra er áðurnefnt Breiðdalshraun, sem hverfur inn undir þetta hraun, sem þannig örugglega er yngra, enda yngst í dalnum og samkvæmt þessu frá sögulegum tíma. Annálar geta þess að hraun hafi runnið niður í Selvog 1340 og 1389 (Þorvaldur Thoroddsen 1925, bls. 188-189).
Mjög trúlegt sýnist að Selvogshraun sé frá öðru hvoru Stakkavikurvegur-204þessu gosi, en vel gætu hafa orðið enn fleiri gos í Brennisteinsfjöllum á sögulegum tíma og vafalaust hafa bæði þessi gos orðið þar, en tímasetning er óljós. Hraunið hefur fallið fram af Herdísarvíkurfjalli við Hlíðarvatn, en staðnæmst neðan við brekkurætur aðeins norðan við núverandi þjóðveg. Hraun það er fallið hefur niður í Kleifarvatn sunnanvert og Hvammahraun nefnist er mjög ungt og gæti jafnvel verið frá sögulegum tíma.

„Leiðin til Stakkavíkur og Herdísarvíkur liggur frá fyrrnefndum vörðum, suðaustur á slétt hraun, og eru smávörður með fram veginum yfir hraunið. Þegar á mitt hraunið kemur, er úfinn bruni suðvestan vegar, og er farið yfir mjóít haft af honum við suðurtagl Hvalhnjúks. Þegar austur fyrir Hvalhnjúk kemur, taka við Vestur-Ásar. Fyrst til hægri handar nokkrir gróðurlausir og dökkir hólar, Svörtu-Ásar.
Nokkru suðaustur af Stakkavikurvegur-205þeim úti við brunann er Urðarás, og er hann auðþekktur af mikilli grágrýtisurð sunnan megin. Neðarlega í Ásunum eru austan vegar grasbrekkur allstórar, og heita þær Dýjabrekkur. Þar sér enn leifar þess, að þar hefur fyrir löngu verið leitað eftir mó, en ekki mun það hafa þótt svara kostnaði. Litlu neðar eru Selbrekkur. Þar hefur, þegar það tíðkaðist almennt, verið haft í seli frá Stakkavík. Úr Selbrekkum er stutt fram á fjallsbrún. Þegar á brún kemur, hýrnar svipur útsýnisins og breytist nokkuð. Það hefur líka hýrnað yfir mörgum vegfaranda þarna, sem kemur úr svartaþoku eða vondu veðri af fjallinu, því að oft er mikill munur veðurfars uppi á fjalli og neðan fjalls. Á brúninni stingum við því við fótum og rennum augum yfir það helzta, sem við blasir.

Stakkavikurvegur-206

Fyrst skulum við líta niður fyrir fætur okkar, svo að við blátt áfram dettum ekki fram af fjallinu, svo er það snarbratt. Af brúninni blasir við hafið, svo langt sem augað eygir til austurs, suðurs og nokkuð til vesturs, og sjaldan er sjór svo kyrr hér, að ekki kögri hvítu við sanda og hleinar. Héðan sjáum við til Selvogs, og ber þar hæst á vitanum á Selvogstöngum, og kirkjunni á Strönd — Strandarkirkju. Neðan fjallsins er allstórt vatn, Hlíðarvatn. Við austurenda þess, uppi við fjallið, er jörðin Hlíð, bær Þóris haustmyrkurs, þess er nam Selvog. Fyrir nokkrum árum var Hlíð lögð undir Stakkavík, en nú eru báðar í eyði, sorgleg saga, sem gerist víða nú. Við vesturenda Hlíðarvatns er Stakkavík. Þar sem hús og tún jarðarinnar var fyrir 70—80 árum, er nú allt í vatni, og sést aðeins smáhólmi, þar sem bærinn stóð. Nú stendur bærinn í hraunjaðrinum við vatnið og má heita túnlaus.“
Lára Gísladóttir bjó ásamt manni sínum, Kristmundi Þorlákssyni, í Stakkavík. Lara Gisladottir„Hún fæddist árið 1889 í litlu hjáleigukoti sem tilheyrði eignarjörð stórbóndans í Nesi í Selvogi. Þetta kot hét Erta. Foreldrar hennar fluttust að Stakkavík sem var erfið jörð en gaf dugandi fólki mikla möguleika til fjárræktar. Þau Kristmundur giftust 1918. Hann var ættaður úr Hafnarfirði. Þau tóku þá við búinu í Stakkavík. Kristmundur var harðfengur maður og lét sér ekki allt fyrir brjósti brenna enda þótt fjöllin og hafið biðu hættunni heim þar sem hann þurfti að gæta hjarðar sinnar.
Hún Lára var heldur enginn veifiskati. Á tuttugu árum ól hún honum Kristmundi tíu börn og þurfti í eitt skipti þegar það bar að höndum að gegna sjálf nærkonu hlutverkinu. Einn drengurinn hennar, sjö ára gamall, var hjá henni og gat náð í skærin. Allt fór vel, þegar Kristmundur kom heim frá fjárgæslu brosti konan hans við honum og nærði við brjóst sitt nýfæddan son. Þetta er aðeins ein af mörgum lífsmyndum sem vitna um hetjuhug húsfreyjunnar í Stakkavík. En þrátt fyrir einangrun og margháttaða erfiðleika undi hún vel hag sínum og fannst hún eiga þar sæla daga.
En svo kom vágestur í byggðina. Mæðiveikin felldi fjárstofninn og fjölskyldan flutti að Brunnastöðum á Vatnsleysuströnd eftir að hafa búið í Stakkavík í 27 ár. Þar var Lára síðan húsfreyja í nær fjóra áratugi eða þangað til hann Kristmundur hennar kvaddi þennan heim og börnin tóku við.“ Við jörðinni tók Kjartan Sveinsson, þjóðskjalavörður.

Stakkavikurvegur-207

Hér má lesa frásögn í Tímanum 1982 um „Sprittlogann í Stakkavík“: „Fyrir um það bil hálfum öðrum áratug, eða tveim, var ég oft gestur Kjartans Sveinssonar, bónda og skjalavarðar í Stakkavík, sem er við Hlíðarvatn. Kjartan hafði þau álög á jörð sinni, kominn úr stjórnarráðinu, að hann mátti ekki hafa fé eða önnur venjuleg húsdýr, sem þarna lifðu á skreið og hrísi, og höfðu gjört um aldir. Birkikjarrið var álitið verðmætara en búvörur, sem þarna mátti framleiða.
Á hinn bóginn mátti Kjartan veiða silung í Hlíðarvatni að vild sinni og hann mátti ganga á reka. Kjartan sinnti þessum hlunnindum vel. Silungur var til matar og gnægð var af rekaviði til að kynda gisið íbúðarhúsið.

Hvalspik

Það var eitt sinn á síðsumardegi eða í byrjun vetrar, að ég fór eina ferð í Stakkavík.
Það rigndi og svört og draugaleg skýin sigldu frá hafinu inn yfir hamrana og fjöruna og regnið streymdi úr himninum og stormurinn vældi.
Nú verður kalt í Stakkavík, sagði ég, ef ekki verður þeim mun meira kynt.
– Hafðu ekki áhyggjur vinur sagði Kjartan þá glettnislega. Nú er nægur hiti í Stakkavík. Ég er með hvalspik.
Ég man nú ekki hverju ég svaraði. En var vanur þeim sérkennilega yl og ilmi er fylgir því að brenna vatnssósa eik og öðrum sætrjám. Og nú átti að brenna spiki, eða lýsi. Mér leist satt að segja ekki eins vel á þetta og rekaviðinn.
Ef til vill hefur Kjartan lesið einhverja vantrú úr augum mínum, en hann sagði: Það rak hérna hval í Stakkavikurvegur-208vor, eða vetur, og enginn hirti um hann. Ég skar spik, því hvalspik er fyrirtaks eldsneyti, skal ég segja þér. Um það hafði ég lesið í bókum Eskimóa og fleiri. Ég skar mér því í eldinn, og svo sögðum við ekki meira, en ókum hlykkjóttan, grýttan veginn og síðan troðninginn niður að Stakkavík, sem stendur á hæðarbrún, þar sem sést vel til sjávar og fyrir neðan túnið er svo Hlíðarvatn,fullt af silungi og draumum. Þegar inn var komið og búið að bera lundapottinn inn og annan farangur, líka sósur og annan mat, fór Kjartan að kveikja upp. Hann brenndi hvalspiki. Hann hafði skorið spikið í stykki sem voru á stærð við sígarettukarton, eða rúgbrauð og nú skeðu mikil undur.
Hvalspikið logaði glatt og það átti ekkert skylt við grútarlampa forníslendinga, sem gerðu þá svarta og sjónlausa. Hvalspik logar, eða brennur nefnilega með sprittloga, alveg eins og kósangas. Lyktarlaust var það með öllu og sem hitagjafi hafði það vel við suðaustan í gisnu og gömlu húsi. Þetta var dularfullt kvöld og hlýtt með afbrigðum, og vefurinn í spikinu, skammtaði eldinn. Þetta fuðraði ekki, heldur brann meö hæfilegum hraða, uns stykkið var allt brunnið, en það tók langan tíma.

Stakkavikurvegur-209

Og nú spyr ég, er hvalspik ekki hugsanlegur orkugjafi, t.d. í iðnaði eða til húshitunar á stöðum þar sem ekki finnst heitt vatn í jörðu?
Ég veit að hvalspik er notað í hvallýsi, sem síðan er notað í smjörlíki og fl. Til þess að sjóða hvallýsi þarf mikla orku, sem mun fengin með svartolíu. Ef unnt væri að selja hvalspikið sem eldsneyti til heimabrúks, myndi mikil olía sparast við lýsisgerð, og olíukyndingar til húshitunar myndu syngja sitt síðasta á mörgum stöðum.
Stakkavikurvegur-210Ég sá það einhvers staðar í fréttum nýverið, að iðnaðarríkin hefðu minnkað olíunotkun sína um 10%, sem er hreint ekki svo lítið. Þetta gjörðu þjóðirnar, með því að nýta orkuna betur og með því að nota aðra orkugjafa en olíu. Það er því mikið hugsað í þessa veru. Að vísu veit ég ekki hvort hvalspik er, eða hefur verið notað sem eldsneyti hér, nema í Stakkavík. En víst er að hvalspik er fyrirtaks eldsneyti og hitagjafi. Laust við alla mengun. Þá er ég líka minnugur þess, er ég sigldi á olíuskipum sem ungur maður, að við fluttum heilu lýsisfarmana úr hvalstöðinni í Hvalfirði, þannig að nokkrir skipsfarmar eru til staðar af hvalspiki á þessum stað og verða það, þegar búið er að koma vitinu fyrir þá, sem drepa dýr eftir greind og vitsmunum, og leggja sér til munns.“

Heimild:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, Ólafur Þorvaldsson, Grindaskarðavegur, 49. árg. 1943-1948, bls. 99-100.
-Náttúrufræðingurinn, 52. árg. 1983, Jón Jónsson, 1.-4. tbl. bls. 131-132.
-Morgunblaðið, 22. janúar 1986, bls. 44.
-Tíminn, 17. ágúst 1982, Jónas Guðmundsson, Sprittloginn í Stakkavík, bls. 8-9.

Stakkavíkuselsstígur

Stakkavíkurselsstígur.

Kistufellsgígur

Ætlunin var að leita að hyldýpum þeim er fundust og týndust aftur norðvestan Kistufells í Brennisteinsfjöllum. Opin eru skammt suðaustan við sjálfstæð eldvörp. Þau eru a.m.k. tvö, lítil umleikis, en undir sléttri hraunhellunni virtist einungis vera svart myrkrið.

Kistufell (neðst t.h.) og hrauntraðir

Gengið var upp Kerlingargil á Lönguhlíð, haldið upp rofsléttu og inn í „eldvörp“ norðvestan mikillar hrauntraðar frá Kistufellsgígnum. Þaðan reyndist vera hið ágætasta útsýni að Kistufelli og Kistufellshellunum.
Forsagan er sú að þegar FERLIRsfélagi var á gangi á þessum slóðum á óhefðbundinni leið inn að Kistufelli fyrir u.þ.b. hálfum áratug síðan kom hann að litlu opi, u.þ.b. 2 metrar í þvermál. Opið var á sléttri hraunhellu eldra hrauns milli Kistufellshraunanna, norðvestan gígsins, milli hrauntraðanna tveggja, heldur þó nær þeirri austari. Þegar hann lagðist á magann og horfði niður í myrkrið sá hann að hvorki sáust veggir né botn. Kalt loft kom upp um opið, enda snemmsumar. Skammt frá þessu opi var annað, svolítið minna, einnig á sléttu helluhrauni. Þar undir sást ekki heldur til botns. Og þar sem ferðalangurinn var einungis á leið inn að Kistufellsgígnum hafði hann þá engan sérstakan áhuga á götunum – hvorki merkti þau með vörðum né lagði staðsetninguna sérstaklega á minnið – og hélt því ferð sinni áfram. Það var ekki fyrr en seinna að ferðalagið rifjaðist upp og götin þóttu einkar athyglisverð. Sérstök ferð var síðar farin með Birni Hróarssyni, jarð- og hellafræðingi, sömu leið með það fyrir augum að endurfinna götin. Þau fundust ekki, en hins vegar fannst vænlegt op nokkru norðvestar, fullt af snjó.

Kerlingargil

Gangan upp um Kerlingargil tók um 50 mín. Um er að ræða auðvelda leið upp á Lönguhlíðar. Gengið er í urð lækjarfarvegs alveg upp í „fóðurkistuna“ efra. Ljós rák leysingarvatnsins, sem nú var löngu uppþornað, á steinunum rekja leiðina. Í þeim farvegi er grjótið fast fyrir og traust undir fót. Ef hins vegar staldrað var við miðleiðis og lagt við hlustir mátti heyra steinvölur skoppa niður hlíðarnar áleiðis að gilbotninum. Þarna voru greinilega stöðugar umhverfisbreytingar í gangi, með góðri aðstoð veðra, vatns og vinda.

Þegar upp úr gilinu var komið tók við flatlend „vatnsfóður“skál. Myndarleg varða trjónir efst á brúninni. Ástæða er til að leggja hana á minnið. Hún verður einkar hjálpleg þegar ganga þarf til baka því þá verður hún eina virkilega kennileitið og getur sparað verulegan tíma.
Hrauntröð KistufellsgígsSkálinni var fylgt upp með hamrabrúnum og síðan haldið upp fyrir þær. Þá tók við berangurslegur klapparmói. Einkennisplanta efribrúna Lönguhlíða upp að Brennisteinsfjöllum er smjörvíðirinn. Aðgengilegast er að rekja fóðurskál gilsins áfram upp á brúnirnar ofan við Urðalágar, en það nafn á tveimur grunntjörnum undir klapparholti. Ofar tekur við urðarangur. Báðar tjarnirnar voru nú þurrskroppa með vatn og þurrtíglar byrjaðir að myndast í moldarbotnum þeirra.
Hér efra tók söngur lóunnar að vekja sérstaka athygli, en þögnin hafði einkennt neðrihlutann. Rjúpnavængur, eggjaskurn og fleira gáfu til kynna hver sökudólgurinn væri. Hann lét þó ekki á sér kræla að þessu sinni.
Hrauntröðsendi KistufellsgígsinsÞá var komið að góðgætinu; hraunleifum Kistufellshrauns. Þær birtust sem útvörður sem dagað hafði upp – þvert á leiðina. Þegar meðfylgjandi loftmynd var skoðuð mátti sjá hvar mikil hrauntröð hafði komið úr Kistufellsgígnum, runnið til norðurs, en síðan beygt til norðvesturs. Á leið hans hafði tröð myndast til vesturs, en meginstraumurinn eftir sem áður fylgt meginhrauntröðinni lengra til norðvesturs. Þar við endimörk klofnaði hraunstraumurinn. Suðaustari hrauntröðin endar í myndarlegri hraunskál, gróinni líkt og tröðin í heild. 

Í norðvestari hrauntröðinni má sjá hvar endi hennar hefur aðskilist með hraunbrú eins og umhverfis og líkist hann stakri gígskál. Þarna hefur fyrrum verið minni rás á milli, en lokast.
Um 30 metrum suðaustan við austari hrauntröðina er gat í hraunið, um 10 metra djúpt og um 5 metrar í þvermál. Ekki verður komist niður í gatið nema með aðstoð kaðalstiga, kaðals eða 6 m stiga. Hægt væri að láta stigann nema við brún neðra og forfæra hann síðan niður á við. Ómögulegt er að svo komnu máli að segja til um hvað þar kann að leynast.

KistufellsgatiðHaldið var áfram yfir þennan annars meginhraunstraum Kistufellsgígsins yfir á eldra og sléttara helluhraun. Gengið var um fyrrnefnda hraunhelluna, en segja verður eins og er að þar er saman að líkja nálinni og heystaknum. Í minni ferðalangsins „gekk hann fram á opinn, án þess að sjá þau úr fjarlægð“.
Þótt svæðið sé ekki yfirþyrmandi þarf að gefa sér góðan tíma til að skoða það allt. Það verður gert enn á ný í sumar.
Þegar haldið var til baka lagðist loka skyndilega yfir svæðið. Hún lagðist þó aldrei yfir gönguleiðina. Þéttur þokuveggurinn lá með henni, svo þykkur að þegar göngustaf var stungið inn í hann, hvarf endinn sjónum. Handan veggjarins réði birtan ríkjum og framundan mátti sjá vörðuna ofan Kerlingargils. Stefnan var tekin á hana og brúnum fylgt að gilinu.
Þegar holan var borin undir Björn kom í ljós að hann hafði þegar klifrað niður í hana. „En það þarf járnkarla og verkfæri til að færa til grjót neðst í holunni til að komast inn í rásina“, að hans sögn.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Kistufellsgígur

Kistufellsgígur.

 

Herdísarvík

Siglt var um Herdísarvíkurtjörn.
Í þjóðsögunni um Krýs og Herdísi segir m.a. um tjörnina: „
Lagði þá Herd-301Krýs það á Herdísi, að allur ætur silungur skyldi hverfa úr veiðitjörn hennar, en verða aptur full af loðsilungi, sumir segja Öfugugga. En Herdís lagði það aptur á Krýs, að allur silúngur í veiðivötnum hennar skyldi verða að hornsílum. Af ummælum þeirra er það að segja, að í veiðivötnum Krýsuvíkur hefir einginn silungur feingizt, svo menn viti, nokkurn tíma síðan, en fult er þar af hornsílum, og í Herdísarvíkurtjörn hefir ekki heldur orðið silungs vart; en loðsilungar ætla menn bar bafi verið, þótt ekki sé þess getið, að neinn hafi af því bana beðið. Aptur var það einn vetur eptir þetta, er sjómenn geingu til sjávar snemma morguns frá Herdísarvík, en skemst leið er að gánga til sjávar þaðan yfir tjörnina, þegar hún liggur, að þeir fórust allir í tjörninni ofan um hestís, og segja menn þeir hafi verið 24 að tölu.“
Herd-302Í Lesbók Morgunblaðsins 1951 segir m.a. um silung í Herdísarvíkurtjörn: „Árið 1861 var silungur fluttur úr Hlíðarvatni í Ölfusi í tjörnina hjá Herdísarvík. Silungarnir voru fluttir í opnu íláti og tókst það svo vel, að eftir 5 ár fór silungur að veiðast í tjörninni og hefir veiðst þar meira og minna á hverju ári síðan.“
Ólafur Þorvaldsson lýsir Herdísarvíkurtjörn í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1943-1948: „Jörðin Herdísarvík er vestasti bær í Selvogshreppi og þar með vestasti bær í Árnessýslu með sjó fram. Jörðin liggur fyrir botni samnefndrar víkur, og er hún vestast í vogi þeim, er Selvogur heitir, allvíður og bogamyndaður, gengur inn í landið frá suðri. Takmörk hans eru: Selvogstangar að austan, en Olnbogi, austan Háabergs í Herdísarvíkurlandi, að vestan. Tún jarðarinnar er í suðurjaðri Herdísarvíkurhrauns, hólótt og dældótt, jarðvegur grunnur því að víðast er grunnt á hrauni. Með beztu umhirðu gefur túnið (heimatúnið) af sér um tvö kýrfóður, ca 80 hesta.

Herd-303

Fyrir öllu túninu að sunnan er smátjörn, og er dálítil silungsveiði í henni, fáu fólki til smekkbætis og nokkurra búdrýginda, en skynsamlega verður að fara að þeirri ve;ði, ef ekki á að uppræta stofninn, þar sem líka utanaðkomandi, óviðráðanleg atvik geta stórfækkað silungnum á nokkrum klukkutímum, og er það þegar stórflóð koma í tjörnina af völdum stórviðra af hafi, en þeim fylgir þá ævinlega stórbrim. Annars er saga Herdísarvíkursilungsins þannig: Fyrir um sjötíu árum lét Árni Gíslason, fyrrv. sýslumaður í Skaftafellssýslum, sem þá bjó í Krýsuvík og átti báðar jarðirnar, flytja um eða innan við 100 silunga, fullþroskaða, sem hann fékk úr Hlíðarvatni, út í Herdísarvíkurtjörn.
Voru þeir bornir í bala og Herd-304fötum með vatni í. Flestir munu þessir silungar hafa komizt lifandi í tjörnina, og kona, sem þá var unglingur í Herdísarvík, sagði þeim, er þetta ritar, að morguninn eftir hefðu nokkrir silungar legið dauðir við landið, þar sem þeim var sleppt í tjörnina, en hinir verið horfnir út í vatnið. Eftir nokkur ár fór að veiðast þarna við og við silungur til matar fyrir heimafólk. Þegar fram liðu stundir, kom í ljós, að þarna náði silungurinn miklu meiri þroska en hann nær yfirleitt í Hlíðarvatni, og mun aðalorsök þess vera meira og betra æti, t. d. er þar um mikla marfló að ræða, svo og mikinn botngróður.
Spölkorn fyrir austan túnið var áður fyrr hjáleiga, Herdísarvíkurgerði, og sjást nú íáar minjar þess, að þar hafi bær verið, en tún er þar nokkurt enn; þó hefur sjór brotið eitthvað af því. Tún þetta mun aðallega hafa gróið upp undan sjófangi; fiskur borinn þangað upp til skipta, kasaður þar áður en upp var borinn til herzlu; þorskhöfuð og hryggir þurrkaðir þar, og öðrum fiskúrgangi kastað þar út, — en undan honum grær jörð fljótast.

Herd-305

Útræði var mikið úr Herdísarvík og hafði verið öldum saman, og var talið með beztu verstöðvum austanfjalls, og við og við var gert út þaðan fram á þriðja tug tuttugustu aldar. Fiskisælt var þar í bezta lagi og lending góð; þó var oft nokkur lá í bótinni, þar sem lent var, þótt útsjór væri allgóður. Fiskurinn var yfirleitt hertur til útflutnings, og má enn sjá þurrkgarða á allstóru svæði í brunabelti uppi undir fjalli. Var fiskurinn, eftir að hafa legið í kös, jafnvel í fleiri vikur, borinn á bakinu eða í laupum eða kláfum til þurrkgarða. Þetta, að kasa fisk undir herzlu, var talsvert vandaverk, enda formenn vandlátir þar um, því að ef illa var gert, gat meira eða minna af fiski, sem í kösinni var, stórskemmzt, en þetta er önnur saga og því ekki sögð nánar hér.

Herd-306

Landi í Herdísarvík má skipta í tvennt, er lýsa á. Fjallinu með sínu upplandi og landi neðan fjalls. Neðan fjalls er landið allt brunnið, — hraun eldri og yngri. Eldri hraunin mikið gróin og fjárbeit þar með ágætum. Fjallið er allt að kalla skriðurunnið hið neðra, en háir og fagrir hamrar hið efra. Þó eru nokkrar grónar brekkur í fjallinu vestanverðu, og er þar dálítið viðarkjarr. Fjallið má teljast allt jafnhátt og brúnir þess sléttar og reglulegar.
Hlunnindi Herdísarvíkur voru talin: Sauðfjárbeit góð, svo að af bar, bæði til fjalls og fjöru. Útræði ágætt, og er þá aðallega átt við góða lendingu og fiskisæld. Viðarreki var, þegar reka-ár komu, oft allmikill, og nú, um síðastliðin 50—60 ár, silungsveiði til skemmtunar og nokkuð til búdrýginda.
Fiski og hrognkelsum skolaði þar stundum á land til muna seinni part vetrar, þegar fiskur Herd-307var í göngu. Flæðihætta við sjó engin fyrir sauðfé, og er það mjög mikill kostur, þar sem fé gekk svo mikið sjálfala allan ársins hring. Fjöruskjögur í unglömbum þekktist ekki, og mun þar um valda, að fjaran er ekki mjög sölt sökum vatna, sem um hana renna, — en sér í lagi þó kjarnamikill gróður til landsins, strax upp frá fjörunni, og í þriðja lagi mætti nefna, að fjörubeitin er fyrir það mesta bitfjara, en ekki rekafjara. Til galla má helzt telja, að mjög sterk veður af norðri koma þar stundum, og kom fyrir, að skaði hlytist af, ef hey voru á túnum, og máttu búendur illa við, þar eð heyskapur er enginn utan túns, en þau heldur lítil.“
Nú hefur sjórinn rofið eiðið sem aðskildi tjörnina frá opnu hafinu og náð að nánast þurrka út bæði gamla bæjarstæðið og útihúsin (smiðjuna og geymsluna) er stöðu þeim næst.
Tilgangurinn með ferðinni var að mæla dýpið í Herdísarvíkurtjörninni. Háflóð var. Dýpið mældist 2.5 m næst landi og 3.5 m fjær, en tjörnin grynntist síðan eftir því sem nær rifinu dró. Á stuttum köflum náði dýpið allt að 7 metrum, en þar eru sennilega gjár undir. Talsverð lóðning var af fiski í tjörninni.
Frábært veður. Ferðin tók 1 klst og 1 mín.

Heimild:
-Íslenskar þjóðsögur og æfintýri, Jón Árnason, 1862, 1. b. bls. 476-477.
-Lesbók Morgunblaðsins, 18. nóvember 1951, bls. 548.
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, Ólafur Þorvaldsson, Herdísarvík,  49. árg. 1943-1948, bls. 129-130.

Herdísarvík

Herdísarvíkurtjörn.